Rannsóknarstjóri sjóslysa hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa tjáir sig um slys.
„Ég man ekki eftir öðru tilviki og held að þetta sé undantekning,“ segir Jón Arilíus Ingólfsson, rannsóknarstjóri sjóslysa hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, spurður um lélegt eftirlit með ástandi skipa eftir að þau hafi verið seld.
Í júní í fyrra varð slys um borð í Barða NK 120 sem var á togveiðum á Halamiðum. Skipverji ætlaði að taka öryggiskrók úr bakborðshlera. Við það slitnaði togvírinn við svokallað auga með þeim afleiðingum að keðja slóst til og lenti í hægri öxl skipsverjans sem féll við. Mildi var að ekki fór verr því við fallið fór öryggishjálmurinn af skipverjanum. Andartaki síðar slóst keðjuendinn í þilfarið rétt við höfuð hans. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem nýverið kom út er haft eftir skipstjóranum að skipt hafi verið reglulega um togvíra en því verið frestað eftir að skipið var selt.
Tryggvi Snær Hlinason er á fljúgandi ferð upp á stjörnuhimin alþjóðlega körfuboltans.
Tryggvi Snær Hlinason skaust upp á stjörnuhimin alþjóðlegs körfubolta með ógnarhraða og erlendir miðlar halda vart vatni yfir ótrúlegri sögu hans. Bóndasonurinn úr Bárðardal er samningsbundinn körfuboltaliði Valencia á Spáni til fjögurra ára, tók þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar í Bandaríkjunum fyrr í sumar og er undanfarnar vikur búinn að vera heima í sveitinni eftir að hafa leikið með liði Toronto Raptors í sumardeild NBA í Las Vegas og allt þetta aðeins fjórum árum eftir að hann byrjaði að æfa körfubolta norður á Akureyri.
Tryggvi Snær er ekki maður margra orða og lætur sér, að því er virðist, fátt um eigin frama finnast. Hann segir reynsluna af því að spila í sumardeildinni aðallega hafa veitt sér innsýn í hvernig körfuboltinn gengur fyrir sig í Bandaríkjunum.
„Það er í sjálfu sér ekki hægt að bera saman hvernig þetta gengur fyrir sig í Bandaríkjunum og Evrópu,“ segir hann. „En það var gaman að kynnast þessu og ég er spenntur fyrir framhaldinu.“
Spurður hvort hann viti eitthvað hvert það framhald verður segir Tryggvi Snær svo ekki vera, en hann stefni að því að komast inn í NBA-deildina. Hvernig það þróist verði bara að koma í ljós. Honum líði vel í Valencia og liggi ekkert á.
„Valencia er með gott lið, borgin er mjög falleg og veðrið er gott svo ég hef ekki undan neinu að kvarta þar,“ segir hann og hlær.
Ekki hægt að segja nei
Tryggvi Snær hefur oft talað um það í viðtölum að körfuboltaferillinn hafi alls ekki verið það sem hann stefndi að í framtíðinni þegar hann byrjaði að æfa með Þór á Akureyri eftir að hafa byrjað nám í Verkmenntaskólanum þar.
„Ég ætlaði aldrei svona langt inn í þetta,“ segir hann. „Planið var bara að byrja að æfa körfubolta til að halda mér í formi, en það plan breyttist mjög hratt og þetta varð mun stærra í sniðum en ég hafði reiknað með.“
„… það að hafa tekið þátt í nýliðavalinu og spilað í sumardeildinni eru ákveðin þrep á leiðinni upp í deildina og síðan taka bara við samningaviðræður við þau lið sem sýna manni áhuga.“
Var hann aldrei efins um að halda út á þessa braut?
„Það var ekki hægt að segja nei,“ segir hann ákveðinn. „Þetta var svo spennandi og opnaði svo marga glugga að það kom ekki annað til greina en að kýla á það.“
Kærasta Tryggva Snæs, Sunneva Dögg Robertson, er afrekskona í sundi og er á leið í háskólanám í Bandaríkjunum í haust eftir að hafa dvalið með honum í Valencia síðastliðið ár. Það er væntanlega enn einn hvatinn til þess að reyna að komast á samning í Bandaríkjunum, eða hvað?
„Já, ég neita því ekki,“ segir hann. „Það væri allavega ekki verra.“
Reynir að gera sitt besta
Tryggvi Snær vill ekki gera mikið úr þeim breytingum sem orðið hafa á lífi hans síðustu árin, þótt þær hafi vissulega verið róttækar. „Þetta er bara svo skemmtilegt,“ segir hann brosandi. „Ég veit að þetta er tækifæri sem fæst bara einu sinni í lífinu og ég reyni bara að gera mitt besta og standa mig.“
Tryggvi Snær er ekki beint að falla á tíma með að komast áfram í körfuboltaheiminum, hann er ekki nema tvítugur og hann segir að það geti þess vegna verið allt að tuttugu ár eftir hjá honum í þeim heimi. „Það er reyndar mjög bjartsýn spá,“ segir hann og hlær. „En það er alltaf séns.“
Tryggvi Snær er búinn að njóta sumarsins heima í Bárðardal en spurður hvort hann sé ekki nokkurs konar þjóðhetja í dalnum vill hann sem minnst úr því gera. „Nei, ég myndi nú ekki segja það,“ segir hann yfirvegaður. „Auðvitað er maður vel þekktur, en þegar maður kemur heim fer maður bara í gamla gírinn og er fljótur að falla inn í mynstrið sem var manni eðlilegt. Ég hjálpa pabba og mömmu við bústörfin og hitti fólk sem ég þekki og svona. Allt voða rólegt. Það er mjög gott að vera kominn heim aftur og ég ætla mér að njóta þess.“
Stefnir enn að NBA-deildinni
Áður en körfuboltinn tók völdin í lífi hans stefndi Tryggvi Snær að því að verða bóndi og taka við búinu af foreldrum sínum þegar þar að kæmi. Eru þau sátt við að þau plön hafi breyst?
„Þau hafa ekkert endilega breyst,“ fullyrðir hann. „Það er bara ekki tímabært að slá neinu föstu um framtíðina. Ég veit það af eigin reynslu að viðmið manns geta breyst mjög hratt. Það er ekki eins og það sé tímabært að afskrifa foreldra mína strax, þetta er ekkert sem þarf að taka ákvörðun um hér og nú.“
Næstu skref Tryggva Snæs, nú eftir að sumarfríinu í sveitinni lýkur, eru að fara aftur til Valencia og halda áfram að spila í Evrópu, en draumurinn er að komast á samning við bandarískt lið sem leikur í NBA-deildinni og hann segist munu halda áfram að reyna að koma sér á framfæri þar.
„Það er harður heimur, mikil samkeppni og margir sem vilja komast þangað,“ segir hann. „En það að hafa tekið þátt í nýliðavalinu og spilað í sumardeildinni eru ákveðin þrep á leiðinni upp í deildina og síðan taka bara við samningaviðræður við þau lið sem sýna manni áhuga. Það kemur allt í ljós. Eins og er tek ég bara einn dag í einu.“
Rithöfundurinn Óttar M. Norðfjörð hefur lokið við nýja skáldsögu. Sagan kallast Dimmuborgir og er innblásin af óhugnanlegum sannsögulegum atburðum.
„Hún fjallar um strák sem er drepinn í eineltisárás árið 1997 og besta vin hans árið 2018 sem reynir að komast að sannleikanum um hvað gerðist í raun og veru,“ lýsir hann. „Þannig að bókin gerist á þessum tveimur tímasviðum, árið ’96-’97 þegar strákarnir eru að kynnast í 10. bekk og svo árið 2018 þegar nýjar vísbendingar koma fram um dauða annars þeirra sem sýnir að ekki var allt alveg eins og það sýndist.“
Dimmuborgir er fyrsta skálsaga Óttars í fimm ár og segir hann hana að ýmsu leyti frábrugðna fyrri verkum sínum.
„Hún er til dæmis persónulegri því ég staðset strákana í sama grunnskóla og ég var í og á sama tíma og kveikjan er sannsögulegur atburður sem tengist eineltismáli í skólanum. Svo hef ég síðustu ár fengist við skrif kvikmyndahandrit sem kennir manni aðra hugsun, til dæmis þegar kemur að plotti og stíl og það laumaði sér inn í skáldsöguna.“
Að sögn Óttars hófst vinnsla á sögunni fyrir fimm árum. „Já ég byrjaði á henni þá en kláraði aldrei, það var ekki fyrr en nú í feðraorlofinu mínu sem ég gerði það og eiginlega bara alveg óvart,“ segir hann og kveðst vera mjög feginn með að hafa loksins klárað verkið.
En hvenær reiknar hann með að bókin komi út? „Líklegast verður hún ekki með í jólabókaflóðinu í ár. Ég býst frekar við að hún komi út á næsta ári,“ segir hann og því verða aðdáendur höfundarins að bíða þolinmóðir að sinni.
Hinsegin dagar, sem hófust með pomp og prakt í vikunni, hafa fyrir löngu stimplað sig inn sem ein vinsælustu hátíðahöld á Íslandi, ekki síst Gleðigangan sem fer fram á morgun. Að margra áliti er gangan hápunktur hátíðahaldanna en síðustu ár er talið að á bilinu 70-90 þúsund manns hafi lagt leið sína í miðborgina til að taka þátt eða fylgjast með henni, sem gerir gönguna að einum fjölmennasta viðburði í Reykjavík.
Ánægjulegt er að nánast þriðjungur þjóðarinnar skuli taka þátt í hátíðahöldum sem ganga út á að fagna fjölbreytileika mannlífsins, efla samstöðu hinsegin fólks og gleðjast yfir áföngum sem náðst hafa í réttindabaráttu þess á Íslandi síðustu áratugi því þátttakan sýnir ekki aðeins að stór hluti Íslendinga kýs að búa í samfélagi sem er bæði fjölbreytt og réttlátt heldur líka í samfélagi þar sem mannréttindi eru virt.
Á meðan stór hluti þjóðarinnar fagnar gerist það hins vegar nánast undantekningarlaust á hverju ári að fámennur hópur fólks sér ástæðu til agnúast út í þessa hátíð. Skilur ekki tilganginn með henni þar sem fordómar gagnvart hinsegin fólki séu á undanhaldi í samfélaginu. Hátíðin sé í raun og veru bara tímaskekkja.
Á meðan stór hluti þjóðarinnar fagnar gerist það hins vegar nánast undantekninglaust á hverju ári að fámennur hópur fólks sér ástæðu til agnúast út í þessa hátíð.
Vissulega er rétt að réttindabarátta hinsegin fólks hérlendis síðustu áratugi hefur skilað árangri, eins og sést meðal annars á því hvernig viðhorfið í garð þess hefur almennt batnað og sömuleiðis lagaleg staða vissra hópa undir hinni svokölluðu regnhlíf. Forsíðuviðtal Mannlífs í dag sýnir hins vegar rækilega svart á hvítu að enn er langt í land að hinsegin fólk njóti sömu mannréttinda og aðrir á Íslandi.
„Ég var að labba heim að kvöldlagi þegar strákar á vespu keyra alveg upp að mér og reyna að sparka mig niður.“ Þannig lýsir annar viðmælandinn Sæborg Ninja Guðmundsdóttir óhugnanlegu atviki sem átti sér stað í hverfinu sem hún býr í, en umræddir strákar veittust að henni eingöngu vegna þess að hún er trans kona.
Hinn viðmælandinn, Úlfar Viktor Björnsson, hefur upplifað sinn skerf af ofbeldi en í vetur greindi Úlfar frá því á Facebook hvernig ókunnugur maður kýldi hann í miðbæ Reykjavíkur fyrir það eitt að vera hommi. Úlfar segir atvikið hafa verið það fyrsta þar sem hann var beittur líkamlegu ofbeldi en andlegt ofbeldi og áreiti hefur verið nánast daglegt brauð og Sæborg Ninja hefur jafnhrikalega sögu að segja.
Úlfar og Sæborg vona að með því að stíga fram opni þau á nauðsynlega umræðu um fordómana og ofbeldið sem hinsegin fólk verður enn fyrir á Íslandi þrátt fyrir bætta stöðu. Bæði telja þau Hinsegin daga og Gleðigönguna vera nauðsynlega í því samhengi, því hátíðin sé ekki aðeins haldin til að fagna þeim sigrum sem hafa áunnist í réttindabaráttu hinsegin fólks heldur líka til að vekja athygli á því misrétti og aðkasti sem það verður enn fyrir á Íslandi. Nokkuð sem vert er að hafa í huga, bæði þegar tekið er þátt í fagnaðarlátunum og eins þegar farið er að efast um tilverurétt þessarar hátíðar.
Ungur íslenskur dansari, Kristín Marja Ómarsdóttir, hefur verið ráðin að ballettflokknum við Óperuhúsið í Graz. Hún segir mikinn heiður að vinna með flokknum enda hafi margir af fremstu dönsurum heims sýnt með honum í gegnum tíðina.
„Það verður gaman að fá að dansa í þessu sögufræga húsi þar sem margir af fremstu dönsurum hafa stigið sín fyrstu skref. Svo er þetta auðvitað heilmikill heiður líka því eftir því sem ég best veit þá er ég ekki bara sú eina úr minni kynslóð af dönsurum á Íslandi sem hafa dansað með þessum ballettflokki, heldur líka ein fárra á Íslandi sem hafa á síðustu árum fengið tækifæri til að gerast atvinnudansari hjá klassískum ballettdansflokki,“ segir Kristín Marja glöð í bragði.
Fyrsta verkefni Kristínar Marju með ballettflokknum verður uppsetning hans á dansverkinu Sandman eftir Andreas Heise í október. „Verkið byggir á hinni frægu sögu „Der Sandmann“ eftir ETA Hoffmann og er neó-klassískt. En neó-klassík er form sem mér finnst vera mjög heillandi af því að það er mitt á milli þess að vera klassík og nútímadans og ég æfði klassík lengi og langaði prófa eitthvað nýtt án þess þó að vilja víkja alveg frá henni,“ útskýrir hún.
Hefur gengið vel erlendis
Kristín Marja er einungis tvítug að aldri en á engu að síður „langan“ feril að baki sem dansari. Fjögurra ára byrjaði hún að æfa ballett í Ballettskóla Eddu Scheving og fimm árum síðar lá leiðin í Listdansskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist átján ára af klassískri framhaldsbraut. Meðan á náminu í skólanum stóð keppti hún í þrígang fyrir Íslands hönd í ballettkeppni í Svíþjóð og sótti námskeið hjá Konunglega danska ballettinum og í Palluca-dansháskólanum í Dresden í Þýskalandi. Þá var hún í fámennum hópi sem komst inn í Konuglega sænska ballettskólann og hefur eftir nám meðal annars dansað í Óperudraugnum, Rauðu myllunni og á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu.
„Það verður gaman að fá að dansa í þessu sögufræga húsi þar sem margir af fremstu dönsurum hafa stigið sín fyrstu skref.“
Spurð hvað sé ólíkt með dansheiminum hér heima og erlendis segir hún að stærðin sé án efa einn helsti munurinn. „Dansheimurinn er miklu minni á Íslandi. Við erum með einn dansflokk sem leggur áherslu á nútímadans en úti eru alls konar flokkar með ólíkar áherslur. Það sorglega er að danslistin gæti verið miklu stærri á Íslandi ef við settum bara meira fjármagn í hana, því við eigum góða kennara og efnilega dansara sem myndu gjarnan vilja dansa á Íslandi ef aðstæður væru ekki þannig þeir þyrftu að fara út. Ég skil ekki af hverju þetta þarf að vera svona því Íslendingar hafa greinilega áhuga á danslist eins og sést bara af því hvað selst vel á sýningar erlendra dansflokka á Íslandi.“
Harður heimur
En dansheimurinn úti, er hann ekki harður líka? „Jú, rosalega,“ játar hún. „Til dæmis vorum við rúmlega 100 krakkar sem sóttum um að komast í ballettflokkinn við Óperuhúsið í Graz og dansprufan tók tæpa átta tíma. Þegar upp var staðið vorum við ellefu. Þannig að kröfurnar eru strangar og samkeppnin mikil. Maður er alltaf að berjast um besta hlutverkið og stöðuna. Til dæmis veit ég ekkert hvernig hópurinn í Óperuhúsinu í Graz verður, hvort hann verður samheldinn eða ekki. Ég kynntist nokkrum krökkum í prufunni og þau virtust öll vera indæl, en annars á bara eftir að koma í ljós hvernig mórallinn verður. Auðvitað vonar maður samt að hann verði góður.“
Þú virðist ekkert stressuð. „Nei, alls ekki. Það þýðir ekki neitt. Þá skemmir maður bara fyrir sjálfum sér. Ég er búin að fara í svo margar prufur að ég veit núna að eina sem virkar er að reyna að hafa gaman og það ætla ég að reyna að gera eftir fremsta megni í Austurríki og er með góðan stuðning frá vinum og vandamönnum. Svo minni ég mig líka á hvað mig hefur lengi dreymt um að komast inn í dansflokk af þessu tagi og fá að prófa mörg og ólík verk og vonandi dansa út um allan heim. Þannig að núna ég er bara spennt fyrir þessu og að byrja þennan feril,“ segir hún glöð.
Hægt er að fylgjast með ævintýrun Kristínar á Instagram, hún er með notendanafnið kristinmarja
Ágústblað Gestgjafans er nú að finna í helstu verslunum landsins og er sneisafullt af skemmtilegu og safaríku efni.
Uppskeran er farin að láta á sér kræla og við bjóðum upp á ýmsa kræsilega rétti úr henni, finna má uppskriftir að grænmetisréttum, safaríkum salötum, sultum, sveitabökum og hvernig best má nýta nýtínd bláber. Einnig má finna nýstárlegra efni en við ræddum við Vilmund Hansen garðyrkjufræðing sem fræðir lesendur um ætar plöntur og blóm og Guðríður Ragnarsdóttir segir frá reynslu sinni við að tína og nota íslenskar jurtir í matargerð.
Vínsíður Dominique eru á sínum stað þar sem hún segir lesendum frá helstu fréttum úr vínheiminum og mælir með spennandi vínum. Hrefna Sætran bauð í japanska matarveislu og deilir uppskriftum með lesendum og barþjónninn Daníel Michaelsson spjallaði við okkur um kokteila og barmenningu á Íslandi. Þetta og margt margt fleira í nýjasta eintaki Gestgjafans!
Mynd á forsíðu / Aldís Pálsdóttir
Mynd af smákökum / Hallur Karlsson
Hjónin Ágústa Magnúsdóttir og Gústav Jóhannsson kyntust í Danmörku þar sem þau stofnuðu fyrirtæki sitt AGUSTAV sem sérhæfir sig í framleiðslu húsgagna með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
Frá Danmörku fluttu þau til Ítalíu þar sem fyrirtækið blómstraði en þegar börnunum fór að fjölga fluttu þau heim til Íslands, héldu áfram að þróa framleiðslu sína og stefna nú ótrauð að Bandaríkjamarkaði.
„Við stofnuðum fyrirtækið 2011 í Danmörku, fluttum það svo milli landa og komum heim 2014,“ útskýrir Ágústa. „Gústav er húsgagnasmiður og saman hönnum við öll húsgögn AGUSTAV.
Ég vinn svo að markaðshliðinni á meðan Gústav sér um verkstæðið.“
Húsgögn AGUSTAV hafa töluverða sérstöðu einkum hvað varðar áhersluna á umhverfisvæna framleiðslu, um hvað snýst það?
„Það skiptir okkur miklu máli að framleiða vöru með það að leiðarljósi að hún endist,“ segir Ágústa. „Við eigum svolítið erfitt með þá þróun að húsgögn séu að miklu leyti til orðin einnota og að þeim sé skipt út þegar næsti bæklingur kemur út, þannig að við reynum að framleiða húsgögn sem endast og hafa hátt endursölugildi, vilji maður losa sig við þau. Þar að auki nýtum við allan efnivið sem við fáum inn á verkstæðið alveg í þaula og erum komin með línu sem er bara byggð á afgöngum sem falla til á verkstæðinu. Svo gróðursetjum við tré fyrir hverja vöru sem við seljum, ýmist í regnskógum Brasilíu eða hér á Íslandi.“
„Það skiptir okkur miklu máli að framleiða vöru með það að leiðarljósi að hún endist.“
Ágústa og Gústav sérsmíða líka húsgögn eftir óskum viðskiptavina, ýmist í samstarfi við innanhússarkitekta og arkitekta, eða í beinu samstarfi við viðskiptavinina, en þau einskorða sig þó ekki við það.
„Í vor opnuðum við sýningarrými á Funahöfða 3 í Reykjavík þannig að nú er loksins hægt að koma til okkar og skoða húsgögn, fá að prófa þau eða fá lánuð heim til að sjá hvernig þau passa inn í rýmið á heimilinu. Það er innangengt úr sýningarrýminu inn á verkstæðið svo fólk getur líka kynnt sér hvernig varan er búin til og hvaðan efniviðurinn kemur.“
Sérsmíðuðu allt í fyrstu íbúðina
Ágústa og Gústav kynntust þegar þau bjuggu bæði í Danmörku og eiga nú tvö börn, þriggja og sex ára, og það þriðja er á leiðinni. Ágústa segir að augljóslega séu þau of ung til að taka þátt í vinnunni enn sem komið er, en það standi vonandi til bóta. En hvaðan kom hugmyndin að fyrirtækinu?
„Strax og við kynntumst byrjuðum við að innrétta heimilið okkar og þar sem íbúðin sem við bjuggum í á þeim tíma var dálítið undarlega löguð enduðum við á því að sérsmíða allt inn í hana,“ segir Ágústa og hlær. „Bókasnagi sem við smíðuðum þá var fyrsta varan sem við komum út með og viðtökurnar voru vonum framar þannig að þetta vatt mjög hratt upp á sig og varð að þessu fyrirtæki sem það er í dag.“
Ísland opnaði ný tækifæri
Árið 2013 ákváðu þau Gústav og Ágústa að hætta að vinna annars staðar, flytja til Ítalíu og beina öllum sínum kröftum að uppbyggingu fyrirtækisins. Það var kominn tími til að víkka sjóndeildarhringinn og Ítalía hentaði vel því sem þau voru að gera á þeim tíma, að sögn Ágústu, og þau leigðu sér hús uppi í fjöllum á Norður-Ítalíu þar sem pláss var fyrir verkstæðið í kjallaranum og fyrirtækið hélt áfram að blómstra. Þar komust þau líka í beina tenginu við viðinn og komust nær uppruna efniviðarins sem þau nota. En hvernig datt þeim í hug að flytja aftur heim til Íslands?
„Það kom til af því að ég átti von á barni númer tvö og á Ítalíu, alla vega þarna sem við vorum, var litla aðstoð að fá við barnapössun,“ útskýrir Ágústa. „Elsta barnið var þá tveggja og hálfs og við höfðum engin önnur úrræði en að hafa hana með okkur við vinnuna. Ég sá fyrir mér að hafa lítinn tíma til að sinna vinnunni þegar komið væri annað barn og við ákváðum að koma heim þar sem tengslanetið okkar er, ömmur og afar og ættingjar, dagheimilispláss og svo framvegis. Það var algjört lán í óláni að við skyldum enda hér aftur því hér hafa opnast mörg tækifæri sem voru okkur lokuð áður.“
Eru einhverjar nýjungar fram undan hjá fyrirtækinu?
„Það er alltaf eitthvað,“ segir Ágústa leyndardómsfull. „Við erum alltaf með einhverjar nýjar vörur í kollinum sem líta dagsins ljós þegar þeirra tími kemur. Svo fórum við núna í maí á sýningu í New York þar sem við sýndum vörurnar okkar og það gekk alveg rosalega vel. Við hlutum svo styrk úr Hönnunarsjóði til markaðssetningar í Bandaríkjunum sem hjálpar virkilega til við að halda fókus á þann markað það sem eftir er árs. Við fengum mjög góð viðbrögð og mikinn áhuga og erum núna að vinna í því að greiða okkur leið inn á þann markað. Við erum bara mjög spennt fyrir því og höldum ótrauð áfram okkar stefnu.“
Mannlíf leitar að öflugum blaðamanni til að taka þátt í mótun og frekari uppbyggingu vikublaðs sem kemur frítt inn á 80.000 heimili í hverri viku.
Mannlíf hefur á skömmum tíma skipað sér í hóp mest lesnu helgarblaða landsins, með vönduðum viðtölum, greinaskrifum og fréttaskýringum. Í nýlegri könnun mældist blaðið með 23,5% lestur sem sýnir að lesendur kunna að meta þessa nýlegu viðbót við íslenska fjölmiðlaflóru.
Blaðamaður Mannlífs verður hluti af öflugu ritstjórnarteymi Birtíngs og í lykilhlutverki við áframhaldandi uppbyggingu blaðsins. Viðkomandi þarf að hafa frumkvæði og vera sjálfstæður í sínu starfi, vera með góða þekkingu á samfélagsmiðlum og viðtæka reynslu af blaðamennsku. Vandvirkni, geta til að vinna undir tímapressu og góð samskiptahæfni eru einnig mikilvægir eiginleikar.
Við tökum líka við umsóknum frá lausapennum sem hafa brennandi áhuga á Mannlífinu.
Endilega hafðu samband ef þig langar til að bætast í hópinn.
Umsóknir og ferilskrá sendist á framkvæmdastjóra Birtíngs, Sigríði Dagnýju Sigurbjörnsdóttur,[email protected]
Sæborg Ninja Guðmundsdóttir og Úlfar Viktor Björnsson segja enn langt í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir á Íslandi þótt staðan hafi batnað síðustu ár. Sjálf upplifa þau áreiti nánast alla daga ársins og hafa lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera hinsegin.
Hinsegin dagar eru í fullum gangi, bærinn iðar af lífi og litum og allir brosa út að eyrum. Á morgun munu, ef að líkum lætur, þúsundir fólks safnast saman í miðbænum til að fylgjast með Gleðigöngunni árlegu sem orðin er í huga margra að hápunkti sumarsins. En erum við komin eins langt í réttindum hinsegin fólks og gjarna er haldið fram? Svarið við því er blákalt nei samkvæmt viðmælendum Mannlífs, Sæborgu Ninju Guðmundsdóttur og Úlfari Viktori Björnssyni. Sem hinsegin fólk upplifa þau niðrun og áreiti nánast alla daga ársins, bæði hafa þau lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera þau sjálf og þau vilja leggja áherslu á að gangan sé ekki einungis til að fagna áunnum réttindum heldur ekki síður til þess að minna á hve langt er í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir.
Persónuhelgi fólks sem er „öðruvísi“ ekki virt
Sæborg Ninja Guðmundsdóttir kom út sem trans kona fyrir einu og hálfu ári og hefur síðan upplifað hótanir um ofbeldi, ágengar spurningar frá fólki sem hún þekkir ekki neitt, óumbeðnar athugasemdir um útlit sitt, óviðeigandi snertingar og það hefur verið hrópað á eftir henni út á götu. Hún segir trans fóbíu grasserandi í samfélaginu og svo virðist sem fólk almennt virði ekki persónurými trans fólks. Ofbeldið hófst um leið og hún fór að tala um það við þáverandi vin sinn að henni fyndist henni ekki hafa verið úthlutað réttum líkama.
„Þetta byrjaði fyrir nokkrum árum í samræðum við mann sem er ekki lengur vinur minn,“ útskýrir Sæborg. „Við vorum í svona transhúmanískum pælingum og ég lét í ljós þá ósk að fá nýjan líkama sem mér fyndist passa mér. Hann spurði þá strax hvað ég myndi gera ef hann gæfi mér þennan nýja líkama og myndi síðan binda mig niðri í kjallara og nauðga mér? Ég reyndi að komast út úr þessum samræðum, fannst þetta ógeðslegt, en hann hélt áfram að suða og spyrja hvað ég myndi gera í því? Ég var mjög sjokkeruð en þegar ég sleit þessum vinskap og sagði örfáum öðrum vinum frá þessu þá trúðu þeir mér ekki. Þetta varð til þess að ég dró það í ár að koma út úr skápnum.“
Sæborg segist lengi hafa vitað að hún væri ekki í réttu hlutverki en það hafi tekið hana langan tíma að fá leyfi hjá sjálfri sér til að sættast við það og koma út. Það gerði hún loks þegar hún var þrítug og viðbrögð umhverfisins voru ekki jákvæð.
„Ég hef jafnvel lent í því á daginn þegar ég er að ganga niðri í bæ að ókunnugt fólk kemur upp að mér og fer að káfa á mér.“
„Foreldrar mínir hættu eiginlega bara að tala við mig,“ segir hún. „Ég hef ekki farið í heimsókn til þeirra í meira en ár og ekkert heyrt í mömmu en pabbi lætur í sér heyra af og til. Yngri systir mín var hins vegar alveg sátt við þetta og sömuleiðis sonur minn sem er fjórtán ára. Ég var mest stressuð að tala um þetta við hann en hann kippti sér ekkert upp við það, spurði bara hvort við ættum ekki að fara að horfa á DVD.“
Hrædd við að fara út
Sæborg er ekki á því að umræðan um það hvað allt sé æðislegt í málefnum hinsegin fólks á Íslandi eigi við rök að styðjast. Stuttu eftir að hún kom út varð hún til dæmis fyrir tilraun til niðurkeyrslu skammt frá heimili sínu í Breiðholtinu.
„Ég var að ganga heim að kvöldlagi þegar strákar á vespu keyrðu alveg upp að mér og reyndu að sparka mig niður. Sem betur fer hittu þeir ekki almennilega en ég átti mjög erfitt með að fara út á kvöldin lengi eftir þetta. Það er svo erfitt að eiga von á svona árásum frá tilfallandi fólki í nánasta umhverfi manns.“
Sæborg segist líka löngu vera hætt að fara niður í bæ á kvöldin, hvað þá á djammið.
„Meira að segja á skemmtistöðum sem gefa sig út fyrir að vera vinsamlegir hinsegin fólki verður maður fyrir alls kyns óviðeigandi framkomu. Fólk sem kemur upp að manni á barnum og tilkynnir manni að maður sé fáránlegur, eða eitthvað þaðan af verra, upp úr þurru. En það er ekki bara bundið við skemmtistaðina, ég hef jafnvel lent í því á daginn þegar ég er að ganga niðri í bæ að ókunnugt fólk kemur upp að mér og fer að káfa á mér. Það virðir ekki persónuhelgina þegar transfólk á í hlut. Ég var alltaf opin og til í að spjalla við fólk þótt ég þekkti það ekki en núna fer ég ekki út án þess að vera með sólgleraugu og heyrnartól og gefa rækilega til kynna að ég vilji engin samskipti.“
„Fólk vill bara tala um kynfærin á mér“
Stuðningsnetið í kringum Samtökin ’78 hefur reynst Sæborgu vel og hún segist ekki vita hvar hún væri stödd andlega án þess. En vantar ekki meiri fræðslu um málefni trans fólks úti í samfélaginu?
„Ég held að fræðsla eins og í kynjafræði í grunnskólum sé svakalega gott fyrsta skref,“ segir Sæborg. „En því miður finnst mér miðað við mín samskipti við fólk að það bara vilji ekki læra. Það myndi skemma þá afmennskandi umræðu sem er í gangi að kynna sér málið. Það er til dæmis endalaust ergjandi að fyrir stóran hóp fólks virðist það að vera trans eingöngu snúast um kynfæri. Ég veit ekki hversu oft ég hef fengið spurninguna hvað ég ætli að gera við typpið, eins og það sé það eina sem skiptir máli. Fólk spyr mig ekki hvernig mér líði, hvernig hafi gengið, hverju það að koma út hafi breytt fyrir mig, það vill bara tala um kynfærin á mér. Það er svakalega ergjandi og ótrúlega mikil tilfinningaleg orka fer í það eitt að reyna að útskýra hvers vegna þetta er óviðeigandi spurning. Fólk fer í vörn og segist bara vera forvitið, en leiðir ekki hugann að því að það myndi aldrei spyrja sískynja ókunnuga manneskju um kynfærin á henni [innskot blaðamanns: sís er lýsingarorð og forskeyti sem er notað um fólk sem upplifir sig á þann hátt að það tilheyri því kyni sem því var úthlutað við fæðingu, heimild www.otila.is]. Af því að ég er „öðruvísi“ virðast almennar umgengnisvenjur ekki gilda um mig.“
Margir gefast hreinlega upp
Spurð hvernig henni finnist heilbrigðiskerfið standa sig gagnvart transfólki dregur Sæborg við sig svarið.
„Fólkið í trans teymi Landspítalans gerir sitt besta og þar er margt gott fólk, en löggjöfin er enn þá fáránleg. Það er náttúrlega ótrúlegt að það skuli enn þá þurfa að fara í geðmat hjá geðlækni áður en okkur er leyft að hefja meðferð. Það er löngu búið að fjarlægja það úr öllum viðurkenndum læknatímaritum að það að vera trans sé geðsjúkdómur, en það er enn stefnan hérlendis. Það væri mikill munur ef þeim lögum væri breytt. Ég hitti yfirlækninn í trans teyminu tvisvar og spurningarnar sem ég fékk snerust aðallega um nærfötin mín og kynlíf mitt, á meðan hann strauk á sér lærin. Það er engan veginn efst í mínum huga en ég held að þetta sé einhver arfur frá transsexúalismanum sem er auðvitað löngu úrelt viðmið. Ég get auðvitað ekki talað út frá reynslu annars fólks en ég hef heyrt svipaðar sögur frá öðrum. Og til þess að gera þetta enn erfiðara þá þarf þessi sami geðlæknir að gefa sitt samþykki fyrir öllu sem ég fer í gegnum í meðferðinni. Hann er enn hliðvörður kerfisins og getur neitað fólki um meðferð eftir því sem honum sýnist. Það er ógnvekjandi og ég held að þeir sem eru ekki nógu duglegir að berjast fyrir því að fá að halda áfram í ferlinu lendi oft í því að gefast hreinlega upp. Ég hef til dæmis þurft að hringja mörgum sinnum til að ítreka beiðnir um næstu skref í meðferðinni, ef ég hefði ekki gert það væri ég enn á byrjunarreit.“
„Ég ætla ekki að móðga þig en …“
Úlfar Viktor Björnsson hefur, líkt og Sæborg, verið beittur ofbeldi en hann komst í fréttirnar í vetur þegar alls ókunnugur maður barði hann úti á götu fyrir það eitt að vera hommi. Hann var á gangi yfir gangbrautina í Lækjargötu þegar maður sem hann hafði aldrei séð vatt sér að honum og spurði hvort hann væri hommi. Þegar Úlfar svaraði játandi gerði maðurinn sér lítið fyrir og kýldi hann með krepptum hnefa í andliti. Úlfar ákvað að kæra ekki, þessi maður ætti greinilega bágt, en hvernig hefur honum liðið síðan og hver voru viðbrögð umhverfisins við umfjölluninni um ofbeldið? Hafði atburðurinn einhver langvarandi áhrif?
„Nei, ég get ekki sagt það,“ svarar Úlfar, en hugsar sig svo um. „Í svona tvo mánuði eftir á var ég dálítið á varðbergi þegar ég var einn úti að ganga í miðbænum, en það er búið. Ég fékk aðallega góð viðbrögð við umfjölluninni, þótt auðvitað væru alltaf einhverjir inn á milli sem spurðu hvers vegna ég hefði ekki bara mannað mig upp og kýlt hann til baka og að ég væri bara að væla í fjölmiðlum sem væri engin ástæða til af því við værum komin svo langt í réttindamálum hinsegin fólks.“
Úlfar segir ástæðu þess að hann sagði frá þessu í fjömiðlum vera þá að hann hafi langað til að fólk gæti dregið lærdóm af atvikinu.
„Ég hélt sjálfur að svona gerðist ekki í dag og var alls ekki viðbúinn því að lenda í einhverju svona,“ segir hann. „Ég ákvað að kæra manninn ekki, þar sem hann er greinilega á vondum stað í lífinu en ég vildi vekja athygli á því að þetta er veruleiki sem samkynhneigðir á Íslandi búa við enn í dag.“
Alltaf orðið fyrir skítkasti
Úlfar segir atvikið hafa verið það fyrsta þar sem hann var beittur líkamlegu ofbeldi, en andlegt ofbeldi og áreiti hafi alltaf verið nánast daglegt brauð.
„Maður er alltaf að fá eitthvað skítkast frá fólki sem samþykkir mann ekki eins og maður er,“ útskýrir hann rólegur. „Það hefur alltaf verið þannig. Í grunnskóla þurfti maður alltaf að vera með brynju, þótt ég væri ekki kominn út á þeim tíma var engin miskunn gefin. Þar er maður kallaður öllum illum nöfnum fyrir að vera „stelpustrákur“.
Úlfar kom ekki út úr skápnum fyrr en hann var nítján ára, en ástæða þess var meðal annars sú að hann var sem skiptinemi í kaþólskum drengjaskóla í Argentínu og þar var ekkert svigrúm gefið fyrir samkynhneigða.
„Það hefði ekki verið tekið vel í það í því umhverfi,“ segir hann og hlær. „Þannig að ég kom ekki út fyrr en eftir að ég kom aftur heim árið 2012.“
Fékk þau komment að hann ætti ekki skilið að vera til
Spurður hvað honum finnist um frasann vinsæla að Ísland sé komið svo langt í réttindamálum hinsegin fólks að engin ástæða sé fyrir það að kvarta, hristir Úlfar höfuðið.
„Við erum svo föst í því að við séum komin svo langt miðað við aðrar þjóðir að fólk sem er ekki mikið að pæla í þessu sér ekki fordómana sem eru til staðar. Þeir eru svo lúmskir og birtast á stöðum sem almenningur sér ekki. Við erum að dragast aftur úr öðrum þjóðum akkúrat núna og ég held að það sé meðal annars vegna þess að við erum svo gjörn á að leiða hluti hjá okkur. Það eru meira að segja fordómar innan hommasamfélagsins sjálfs. Þegar maður fær þessi endalausu komment um það hvað maður er lítils virði fer maður að trúa því sjálfur og efast um sjálfan sig. Ég get nefnt þér nýlegt dæmi. Ég var að vinna í félagsmiðstöð þar sem einn af drengjunum kom út úr skápnum og er alveg opinn með það en fékk endalaust af niðrandi kommentum og skilaboðum. Hann kannski póstaði mynd af sér máluðum á Instagram og fékk þau komment að hann væri ógeðslegur og ætti að drepa sig, hann ætti ekki skilið að vera til og svo framvegis. Hann sagði við mig að þegar hann fór lengst niður hafi hann verið farinn að trúa því sjálfur að þetta væri satt og hann ætti ekkert erindi í þessum heimi. Hann er þrettán ára gamall og þú getur ímyndað þér hvernig svona komment fara með hann. Þetta er það sem almenningur sér ekki. Við erum vissulega komin langt miðað við hvar við vorum fyrir tíu til tuttugu árum en það eru bara komnir aðrir tímar og fordómarnir birtast á öðrum stöðum en þá. Það er hægt að fela þá í gegnum tölvuna og fólk virðist halda að það geti sagt hvað sem er á meðan tölvuskjárinn skýlir því. Þetta er alls ekkert einsdæmi, þetta er að gerast alls staðar í kringum okkur í dag. Því miður.“
Af hverju er móðgun að vera ég?
Sjálfur segist Úlfar enn verða fyrir niðrandi athugasemdum við öll möguleg tækifæri og allir sem hann þekki í hinsegin samfélaginu hafi sömu sögu að segja.
„Jafnvel velviljaðasta fólk opinberar fordóma sína þegar það setur fyrirvara á spurninguna um það hvort maður sé samkynhneigður. „Ég ætla ekki að móðga þig, en ertu hommi?“ Af hverju ætti þessi spurning að vera móðgandi? Af hverju er það móðgun að vera það sem ég er? Það er þessi fyrirvari sem er móðgandi. Ég fékk þessa spurningu oft áður en ég kom út, en neitaði alltaf, og kannski var þetta viðhorf partur af því hvað ég dró það lengi að koma út úr skápnum. Ég var hræddur við þessa fordæmingu umhverfisins.“
„Ég var að vinna í félagsmiðstöð þar sem einn af drengjunum kom út úr skápnum … Hann póstaði mynd af sér máluðum á Instagram og fékk þau komment að hann væri ógeðslegur og ætti að drepa sig.“
Úlfar vinnur sem þjónn, er í sálfræðinámi í HR, er á leið í nám í förðunarfræðum auk þess að vinna annað slagið á félagsmiðstöðvum fyrir unglinga, bæði í Samtökunum ’78 og annars staðar. Hann segist alltaf vera mjög opinn um samkynhneigð sína og honum finnist eiginlega vanta fleira fólk sem sem vill fræða umheiminum um veröld hinsegin fólks.
„Já, ég held við þurfum miklu meiri fræðslu um þessi mál,“ segir hann ákveðinn. „Ég er alltaf tilbúinn að svara spurningum og deila minni reynslu ef fólk hefur áhuga og ég held við þurfum að vera vakandi fyrir því að umræðan deyi ekki út í þessum draumi um hvað allt sé gott fyrir hinsegin fólk á Íslandi. Það er hættulegast.“
Vonandi staðnar umræðan ekki
Gleðigangan er í augum margra fyrst og fremst fjölskylduhátíð og fögnuður, sem Úlfar segir vera stórkostlegt, en hann er á því að hún þurfi líka að standa fyrir annað og meira.
„Fólk sem ekki er tengt hinsegin samfélaginu áttar sig kannski ekki á því hversu stutt við erum komin í baráttunni, þannig að Hinsegin dagar og Gleðigangan skipta gríðarlegu máli. Við erum að berjast fyrir mannréttindum okkar, að fá þau virt eins og allir aðrir samfélagsþegnar. Það er ekki þannig í raun. Fólk er enn þá slegið úti á götu og úthúðað fyrir að vera ekki gagnkynhneigt, sem er alveg fáránlegt að viðgangist enn árið 2018. Þess vegna er full ástæða til að halda þessa göngu. Við erum ekki bara að fagna því að vera komin þetta langt, við erum líka að vekja athygli á ástæðunum fyrir því að við þurfum þessa göngu. Ég vona að ég lifi þann dag sem við þurfum ekki á þessari göngu að halda og ég er bjartsýnn á það. Vonandi bara staðnar umræðan ekki það mikið að við drögumst enn meira aftur úr, vonandi höldum við áfram að vinda upp á þessa jákvæðu þróun. Við þurfum svo sannarlega á því að halda.“
Sæborg er virk í baráttumálum transfólks, er gjaldkeri TransÍslands, og hún ætlar að sjálfsögðu að taka þátt í Gleðigöngunni. En finnst henni þessi ganga enn þá þjóna tilgangi sínum?
„Ég held það, já,“ segir hún hugsi. „Þessar göngur byrjuðu auðvitað sem mótmæli gegn misrétti sem hinsegin fólk er beitt og það er enn í gangi. Mér finnst líka gott að geta fagnað þeim árangri sem hefur náðst, þrátt fyrir allt. Það er mikilvægt vegna þess að það er svo auðvelt að missa dampinn þegar maður einblínir bara á það sem eftir er að sigrast á, en ég held það sé líka mikilvægt að göngurnar haldi áfram að vera mótmæli og hjálpi til við að vekja athygli á því misrétti sem við verðum enn fyrir. Kerfið á Íslandi er transfóbískt í eðli sínu og við þurfum að gera allt sem við getum til að vekja athygli á því og berjast gegn því.“
________________________________________________________________ Raunveruleg staða Íslands í réttindum hinsegin fólks
Goðsögnin um Ísland sem hinsegin útópíu er lífseig en á hún við rök að styðjast? Á regnbogakorti ársins er Ísland í 18. sæti yfir þau lönd sem best standa sig í að þoka réttindamálum hinsegin fólks áfram og hefur ekki haldið í við nágrannalöndin, ekki síst hvað varðar réttindi transfólks og intersex-fólks.
Ísraelska staðgöngumæðrunarfyrirtækið Tammuz Nordic hyggst frá og með hausti bjóða Íslendingum upp á milligöngu um staðgöngumæðrun. Forsvarsmaður fyrirtækisins, Mikkel Raahede, er staddur hér á landi til að kynna verkefnið og hann fullyrðir að þessi þjónusta stangist ekki á við íslenska löggjöf.
„Staðgöngumæðrun er ólögleg innan Íslands, en það er ekki ólöglegt fyrir Íslendinga að fá staðgöngumæðrun erlendis,“ segir hann. „Ég hef verið í sambandi við íslenska lögfræðinga og þeir fullvissa mig um að þetta sé löglegt.“
Þjónustan stendur bæði gagnkynhneigðum og karlkyns samkynja pörum til boða og sömuleiðis einstæðum körlum. Mikkel segir að samkvæmt íslenskum lögum sé hins vegar flóknara að hjálpa einstæðum konum og lesbíum þar sem barnið yrði skráð barn staðgöngumóðurinnar og því gæti kona lent í vandræðum með að fá að koma með það inn í landið. „Ef faðirinn er íslenskur, eins og þegar um er að ræða gagnkynhneigð pör og tvo karlmenn, er það hins vegar ekkert vandamál,“ segir hann.
Tammuz er í samstarfi við læknastöðvar í Bandaríkjunum og Úkraínu þar sem valið á staðgöngumæðrum fylgir mjög ströngum reglum, að sögn Mikkels. „Þetta er mjög strangt mat,“ segir hann. „Við fáum mjög margar umsóknir frá konum sem vilja verða staðgöngumæður, en við höfnum fleirum en við tökum við. Í fyrsta lagi verða konurnar sem vinna fyrir okkur að vera mæður sjálfar, hafa gengið með og fætt barn áður en þær taka þetta að sér. Þær þurfa að undirgangast stranga læknisskoðun, bæði líkamlega og andlega. Þær mega hvorki drekka né reykja og við leggjum mikla áherslu á að þær hafi sterkt stuðningsnet í kringum sig.“
„Ég hef verið í sambandi við íslenska lögfræðinga og þeir fullvissa mig um að þetta sé löglegt.“
Tammuz hefur starfað í tíu ár og börnin sem hafa fæðst fyrir milligöngu fyrirtækisins skipta þúsundum. Mikkel segir engin vandamál hafa komið upp hjá fyrirtækinu, engar lögsóknir og að fyrirtækið sé eitt hið virtasta í heimi á sínu sviði. Hann leggur áherslu á að í stefnu fyrirtækisins sé áherslan lögð á mannlega þáttinn, það sé stutt vel við bæði staðgöngumæðurnar og væntanlega foreldra, sem að sjálfsögðu fái að fylgjast með meðgöngunni og vera viðstaddir fæðinguna ef er óskað. „Við leggjum mikla áherslu á að styðja við bakið á foreldrunum og hjálpa þeim á allan hátt sem við getum,“ segir hann. „Staðgöngumæðrun hefur sums staðar illt orð á sér fyrir að vera gróðafyrirtæki, eða að ríka fólkið sé að nýta sér neyð fátækra kvenna, sem vissulega er raunin sums staðar, en hjá okkur snýst þetta fyrst og fremst um að hjálpa fólki að verða foreldrar.“
Sjálfur á Mikkel þrjú börn með eiginmanni sínum, sem er af íslenskum ættum, og þau eru öll fædd af staðgöngumóður. „Að vera foreldri er það stórkostlegasta sem nokkur upplifir,“ segir hann. „Ég held að við höfum öll þessa þörf fyrir að eignast eigin afkvæmi og það viljum við hjá Tammuz Nordic hjálpa fólki við.“
En hvernig snúa þeir karlar sem vilja nýta sér þjónustu fyrirtækisins sér í því að útvega eggjagjafa?
„Það er ýmist í gegnum eggjabanka, eins og hjá gagnkynhneigðum pörum þar sem konan er ófrjó, eða að þeir fá konu sem þeir þekkja og treysta til að gefa egg,“ útskýrir Mikkel. „Hvort sem fólk velur erum við til staðar og aðstoðum, við setjum ekki fram neinar kröfur um að eggin komi úr eggjabanka sem við erum í viðskiptum við.“
Mikkel viðurkennir að það sé mjög dýrt að fara í gegnum þetta ferli, en fyrirtækið kappkosti að halda kostnaði eins mikið niðri og kostur sé. „Við erum til dæmis meðal ódýrustu staðgöngumæðrunarfyrirtækja í Bandaríkjunum,“ segir hann. „Þannig að við erum tiltölulega hagkvæmur kostur ef fólk vill fara þessa leið.“
Mikkel er í stuttu stoppi á Íslandi núna til að kanna hvernig landið liggur, en hann kemur aftur í byrjun október og mun þá halda kynningarfyrirlestur fyrir áhugasama um starfsemi fyrirtækisins og þann kost að að eignast barn með staðgöngumæðrun. „En ég er alltaf tilbúinn að ræða við þá sem vilja kynna sér málið og hvet fólk til að vera í sambandi við okkur og spyrja spurninga,“ segir hann.
Hnúðkál flokkast ekki undir rótargrænmeti heldur undir garðkál. Það er skylt blómkáli, brokkólí og grænkáli. Hnúðurinn sem við borðum, eða kálhausinn er hluti af stilknum en ekki rótinni. Stilkurinn getur verið grænn, hvítur eða fjólublár en kjötið er alltaf hvítt.
Hnúðkálið er hálfsérkennilegt í útliti því topphluti stöngulsins myndar hnúð og standa blöðin upp af hnúðnum. Það er talið af ítölskum uppruna og byrjað var að rækta það á Norðulöndunum á 17. öld. Vinsældir hnúðkálsins hafa farið vaxandi í norrænni matargerð síðustu áratugi.
Það má borða blöðin af hnúðkálinu. Best eru þau steikt eða gufusoðin en einnig er hægt að skera þau niður í salat.Það má líka klippa ung blöð af kálinu á meðan það er að vaxa og svipar þeim þá til spínats.
Hnúðkál er mikið notað í Austur-Evrópu og Þýskalandi. Það er oftast notað eins og gulrófur og næpur og þykir bragðið vera áþekkt þeim tegundum en heldur fínlegra.
Hnúðkál er ríkt af C- og B-vítamínum og af steinefnum. Það er mjög trefjaríkt, inniheldur litla fitu og er mjög kaloríusnautt.
Best er að geyma það í kæli. Það þarf ekki að pakka því inn því engin hætta er á vatnstapi. Best er að borða það innan 10 daga frá uppskeru.
Hnúðkálsbollurnar eru hentugur pinnamatur í veislur og smakkast vel hvort sem þær eru heitar eða kaldar og jógúrtsósan er frábær með.
Djúpsteiktar hnúðkálsbollur
fyrir 4
1 hnúðkálshöfuð, afhýtt
½ bökunarkartafla
3 hvítlauksgeirar
1 laukur
1 sítrónugras
4 msk. maísmjöl
2 kúfaðar msk. hnetur að eigin vali, t.d kasjúhnetur eða valhnetur
hnefafylli af ferskri myntu
hnefafylli af ferskri steinselju
1 egg
olía til djúpsteikingar
salt og pipar eftir smekk
Brytjið hnúðkálið, kartöfluna, lauk og hvítlauk í grófa bita og setjið í matvinnsluvél. Bætið afgangnum af hráefninu saman við og látið vélina ganga áfram. Smakkið til með salti og pipar. Maukið á að vera mjög fíngert. Geymið í ísskáp í að minnsta kosti 1 klukkustund. Maukið á að vera nokkuð blautt viðkomu en ef það helst ekki nægilega vel saman má bæta við svolitlu maísmjöli. Búið til litlar kúlur með teskeiðum og djúpsteikið í olíu þar til bollurnar fá gullinbrúnan lit á sig. Notið helst gataspaða til að veiða bollurnar upp úr olíunni og gott er leggja þær á eldhúsþurrkur. Bollurnar eiga að vera um það bil munnbiti að stærð.
Jógúrtsósa:
2 dl grísk jógúrt
1 dl smátt skorin fersk mynta
safi úr einni límónu
½ tsk. salt
nýmalaður pipar
Blandið öllu saman sem á að fara í sósuna. Gott er að láta hana standa örlítið áður en hún er borin fram þá verður hún bragðmeiri.
Unnur Eggertsdóttir var ekki há í loftinu þegar hún tók þá ákvörðun að verða leik- og söngkona. Frá unglingsaldri hefur hún unnið hörðum höndum að því að uppfylla þann draum, og hefur undanfarin ár verið búsett í landi tækifæranna, Bandaríkjunum. Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá útskrift úr virtum leiklistarskóla hafa verkefnin verið fjölmörg. Unnur stendur nú á tímamótum eftir að hafa sagt upp hlutverki sínu í stórum söngleik sem settur var upp í Las Vegas.
Leiðin hefur ekki alltaf verið greið síðustu ár í lífi Unnar, þrátt fyrir að á blaði virðist tækifærin hafi hreinlega dottið upp í hendurnar á henni. Sjálf gefur hún lítið fyrir þá hugmynd að hægt sé að meika það á einni nóttu. „Það er einhver rómantík yfir þeirri hugmynd í Hollywood sem fræga fólkið virðist oft vilja halda í,“ segir hún. „Það hljómar kannski betur að hafa orðið frægur á einni nóttu, því fólk vill ekki segja frá svitanum, grátinum og barningnum sem hefur farið í þessa vegferð á kannski tíu árum, meðan enginn vissi hver þau voru. Það er kannski eitt hlutverk sem gerir þau fræg, en öll vinnan fram að þessu hlutverki, það tala fáir um hana. Sjálfri finnst mér skemmtilegra þegar fólk segir hvað búið er að fara í baráttuna, það gefur mér mikinn innblástur. Það er oft talað um að gullna reglan sé tíu ár. Ef þú gefst ekki upp í áratug og vinnur eins mikið og þú getur, þá verðurðu á góðum stað. Þetta er bara eins og í öðrum greinum – ef þú vilt stjórna stóru fyrirtæki eða vinna þig upp sem læknir, þarftu að leggja alveg jafnmörg ár í það eins og ef þú vilt verða virtur leikari. Margir líta á þetta ferli sem spretthlaup, og bara á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að ég útskrifaðist úr leiklistarnáminu hef ég sé marga gefast upp. Mér finnst mikilvægast að hafa þolinmæði og yfirvegun, og halda í drifkraftinn.“
Unnur hefur síðustu þrjá mánuði leikið hlutverk Jayne Mansfield í söngleik um líf Marilyn Monroe sem settur var upp í Las Vegas. Hlutverkið er það stærsta sem Unnur hefur leikið hingað til, og hafa síðustu mánuðir verið mikil keyrsla. „Það var mögnuð lífsreynsla að búa og vinna í Vegas. Ég hafði fyrst ekki hugmynd um við hverju ég ætti að búast og fannst ég svolítið rugluð að flytja í þessa djammborg. En þetta voru óendanlega skemmtilegir og lærdómsríkir mánuðir. Þarna var ég að vinna með margföldum Broadway-stjörnum og fagfólki með áratuga reynslu í bransanum. Leikhópurinn varð mjög náinn og allir sem komu að sýningunni voru með óbilandi metnað. Við vorum oft á 12 tíma æfingum marga daga í röð, að læra 18 tónlistaratriði með erfiðum dönsum og röddunum. Svo tóku sýningar við og þá sýndum við sex kvöld í viku, aðeins í fríi á mánudögum. Ég lærði svo mikið um sjálfa mig, rödd mína og líkama, hvað ég þurfti að gera til að halda mér í sem bestu formi til að geta sýnt svona erfiða sýningu næstum daglega. Í því fólst að anda að mér gufu í klukkutíma á dag, taka milljón vítamín og drekka kínverskt hunang, hvíla röddina fyrir hádegi, hita hana vel upp, og kæla hana svo niður eftir sýningu. Svo var ég í sjúkraþjálfun þrisvar sinnum í viku því það var mikið álag á bakinu í þessum dönsum sem ég var í. Þetta tók allt þvílíkt á, en alveg klárlega það lærdómsríkasta sem ég hef gert.“
Til stóð að sýningar á söngleiknum stæðu yfir í sex mánuði til að byrja með, en fyrir mánuði tóku framleiðendur sýningarinnar ákvörðun um að skipta um leikhús og gera breytingar á rekstrarumhverfinu. „Vegna þessara breytinga var ákveðið að senda leikarana í sumarfrí, sem mér fannst æðislegt. Ég fór í tvær vikur til New York að leika mér og hitta gamla vini, og er svo búin að eiga tvær dásamlegar vikur hér á Íslandi,“ segir Unnur, en vegna alls þessa þarf að endurnýja samninga við leikarana eftir sumarfríið. Hún hefur hins vegar tekið ákvörðun um að endurnýja ekki sinn samning.
„Í stærra samhenginu held ég að það sé betra fyrir mig og minn feril að endurnýja hann ekki, heldur fara aftur til Los Angeles og einbeita mér að því að finna ný verkefni. Nú þegar þetta er komið í ferilskrána og reynslubankann finnst mér það rétta í stöðunni að skoða ný tækifæri og hlutverk, í staðinn fyrir að vera þarna í ár í viðbót, eins ótrúlega gaman og það samt er. Þetta er auðvitað meiri áhætta, en ég finn innra með mér að þetta er rétt ákvörðun. Á svona stundum þarf að hlusta á innsæið – og það öskrar á mig að ég verði að taka þetta skref, eins hrædd og ég er við það.“
Þetta er aðeins brot út ítarlegu viðtali við Unni. Viðtalið í heild má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.
/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Aldís Pálsdóttir / Aðstoðarljósmyndarar: Unnur Magna og Jökull Sindrason
/Förðun: Björg Alfreðsdóttir
Forseti Íslands telur mikilvægt að halda baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks áfram.
„Í einlægni sagt trúi ég og vona að litið verði á Hinsegin daga sem tákn um mikilvægi frelsis, virðingar og fjölbreytileika í samfélaginu almennt,“ segir Guðni Th. Jóhannesson forseti, um Hinsegin daga sem hófust í vikunni, en venju samkvæmt ætlar forsetinn að halda hátíðlega upp á dagana og verður viðstaddur opnunarhátíðina í Háskólabíó í kvöld.
Þetta kemur fram í viðtali við forsetann á fréttasíðunni GayIceland, en þar segir Guðni jafnframt frá því að sem strákur hafi hann verið kallaður hommi vegna þess að hann bar sama nafn og þáverandi formaður Samtakanna ’78, Guðni Baldursson. Þá hafi hommi verið uppnefni en í dag séu breyttir tímar.
Í viðtalinu kemur forsetinn inn á þátttöku sína í Hinsegin dögum fyrir tveimur árum en þá braut Guðni blað í sögunni þegar hann varð fyrsti forsetinn í heiminum til þess að taka opinberlega þátt í gleðigöngu. „Í mínum huga var það mjög eðlileg og gleðileg ákvörðun að taka þátt í göngunni fyrir tveimur árum. Ég styð mannréttindi, fjölbreytileika, frelsi til að tjá sig, elska og trúa því sem maður vill, eða ekki trúa neinu.“
Hann segist hafa tekið þátt í göngunni áður en hann varð forseti og hafi ekki ætlað að hætta því bara við það eitt að fá nýtt hlutverk. Nú sé hann jafnframt orðinn verndari Samtakanna ’78 og segist taka því hlutverki alvarlega. Hann telur mikilvægt að halda baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks áfram líkt og allri baráttu fyrir mannréttindum. Hann muni tjá sig um þessi málefni erlendis ef hann fær tækifæri til þess.
Sæborg Ninja Guðmundsdóttir og Úlfar Viktor Björnsson hafa verið beitt ofbeldi fyrir að vera hinsegin.
Hinsegin dagar eru í fullum gangi, bærinn iðar af lífi og litum og allir brosa út að eyrum. Á morgun munu, ef að líkum lætur, þúsundir fólks safnast saman í miðbænum til að fylgjast með Gleðigöngunni árlegu sem orðin er í huga margra að hápunkti sumarsins. En erum við komin eins langt í réttindum hinsegin fólks og gjarna er haldið fram?
Svarið við því er blákalt nei samkvæmt Sæborgu Ninju Guðmundsdóttur og Úlfari Viktori Björnssyni, sem eru í viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur út á morgun.
Sem hinsegin fólk upplifa Sæborg og Úlfar niðrun og áreiti nánast alla daga ársins og bæði hafa þau lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera þau sjálf. Í viðtalinu segjast þau vilja leggja áherslu á að gangan sé ekki einungis til að fagna áunnum réttindum heldur ekki síður til þess að minna á hve langt er í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir.
Eldhúsið er hjarta hússins líkt og maginn er leiðin að hjarta mannsins. Skoðum hvað ber hæst í eldhústískunni um þessar mundir.
Grófar marmaraflísar
Eitt heitasta trendið í eldhúsum um þessar mundir er á sama tíma klassískt og trendí. Flísar í marmarastíl hafa verið að skjóta upp kollinum víða upp á síðkastið en mynstrið sjálft er gróft, villt og áberandi.
Gullfallegt að nota þær á milli eldhússkápa eða fyrir ofan neðri skápa og leyfa þeim njóta sín sem best eins og sjá má hér að ofan. Hér eru nokkrar guðdómlegar útfærslur.
Harðviðarval selur geggjaðar flísar í marmarastíl frá ítalska framleiðandanum Marazzi. Þær koma í stærðum frá 30×60 yfir í 120×240 cm en fermetraverðið er frá 9.500 kr.
Dökkblár
Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með í innanhússhönnun að dökkblár litur tröllríður eldhústískunni. Okkur þykir liturinn Votur frá Slippfélaginu sjúklega flottur.
Engir efriskápar
Nú er hámóðins að sleppa efri skápum í eldhúsunum og opnar hillur frekar notaðar til punts og pjatts.
Falinn vaskur
Það þykir ferlega smart í dag að leyfa vaskinum að falla ofan í borðplötuna og nota sama efniviðinn í hvoru tveggja. Myndirnar tala sínu máli en okkur þykir þessi hönnun einstaklega falleg.
Múrsteinar
Hvítur múrveggur er bæði gamaldags og nútímalegur á sama tíma en efniviðurinn ætti ekki að kosta mikið.
Iðnaðarljós
Iðnaðarljós (e. industrial) hafa vaxið mikið í vinsældum síðustu misserin en við elskum ljósahönnun Foscarini fyrir Diesel. Þau fást hjá Lúmex hér á landi.
Þunnar borðplötur
Þunnar borðplötur eru að koma sterkt inn í innanhússhönnunartískunni sem og að nota ýmiskonar viðartegundir í eldhúsborðplötuna.
Að öllum líkindum hafa flest okkar borðað meira af hamborgurum í sumar en við getum talið enda með vinsælli sumarmat á landinu. Þó getur verið gaman að breyta til og prófa sig áfram með annað kjöt á borgarann og þá kemur íslenska lambakjötið sterkt inn.
Lambaborgari
fyrir 4
600 g lambahakk
20 g kryddjurtir, t.d. mynta, basilíka og dill, saxað
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
2 msk. ólífur, saxaðar
1 tsk. salt
½ tsk. pipar
1 krukka glóðaðar paprikur
þeyttur fetaostur
4 hamborgarabrauð
½ rauðlaukur, sneiddur
klettasalat
Hitið grillið í meðal-háan hita. Blandið saman lambahakki, kryddjurtum og hvítlauk. Skiptið kjötinu í fjóra parta (u.þ.b. 150 g hver) og mótið borgarana mjúklega í höndunum, passið að þrýsta kjötinu ekki of fast saman. Þrýstið þumlinum niður á miðju borgarans (þetta kemur í veg fyrir að hann lyftist upp í miðjunni þegar hann er grillaður).
Grillið kjötið í 3-5 mín. á hvorri hlið eða þar til það hefur eldast að utan en er þó ennþá bleikt í miðju. Grillið tómatana á meðan kjötið grillast þar til þeir hafa mýkst. Smyrjið þeyttum fetaosti (sjá uppskrift neðar) á hamborgarabrauð og leggið kjötið, tómatana, rauðlaukssneiðarnar og klettasalatið ofan á.
Þeyttur fetaostur
250 g fetaostur
3 msk. ólífuolía
Setjið hráefni í matvinnsluvél eða blandara og látið vinna þar til allt er orðið kekkjalaust og slétt. Hellið meiri ólífuolíu í blandarann ef osturinn er of kekkjóttur.
Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Virpi Jokinen er ættuð frá Finnlandi en hefur verið búsett hér á landi í aldarfjórðung. Hún hafði starfað sem skipulagsstjóri Íslensku óperunnar í 11 ár, þar til fyrir rúmu ári þegar hún ákvað að venda kvæði sínu í kross og stofna fyrirtækið Á réttri hillu. Skipulagsaðstoðin sem Á réttri hillu býður upp á felst í því að koma til aðstoðar hjá einstaklingum og minni fyrirtækjum þegar skipulagsleysi veldur vanda.
Virpi segir verkefnin mjög mismunandi eftir þörfum viðskiptavina og að starf hennar taki breytingum eftir því hvað hvert verkefni kallar á. „Öll verkefnin byrja á klukkustundar viðtali til að ræða stöðuna, sjá heimilið eða fyrirtækið og setja markmið í samstarfi við viðskiptavininn. Eftir það er svo undir viðskiptavininum komið hvort óskað er eftir að fá mig aftur seinna til að vinna að sjálfu verkinu. Á meðan til dæmis er unnið að meiri háttar tiltekt eða undirbúningi flutninga er hlutverk mitt að vera tímavörður, hvetja viðskiptavininn áfram, finna mögulegar lausnir og koma með tillögur. Ég tek aldrei ákvarðanir um neitt eða mynda mér skoðun á því hvað viðskiptavinurinn á eða á ekki að gera. Markmið starfs míns er að viðskiptavinir annaðhvort nái markmiðum sínum eða komist hægt og rólega af stað í átt að markmiðum sínum“, segir hún.
Ekki alltaf auðvelt að óska eftir aðstoð
„Ég hafði sinnt margvíslegum verkefnum hjá Óperunni og var alltaf með marga bolta á lofti,“ segir Virpi þegar hún útskýrir hvernig hugmyndin að fyrirtækinu hafi komið til. „Í framhaldinu kviknaði þessi hugmynd, að fara af stað með eigin rekstur og að loknu frábæru Brautargengisnámskeiði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands ákvað ég láta slag standa og stofnaði Á réttri hillu í ársbyrjun 2018. Nafnið á fyrirtækinu kom til mín í spjalli við vinkonu á veitingastað þar sem ég var enn eina ferðina að útskýra þessa hugmynd og að ég hefði svo mikla trú á þessu, mér fyndist ég bara vera svo á réttri hillu með þetta. Hún segir að svipurinn á mér hafi verið kostulegur þegar við áttuðum okkur á að þarna væri rétta heitið loksins fundið. Þá var ekki aftur snúið og daginn eftir tók ég frá lénið www.arettrihillu.is.“
Virpi segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar og hún fagnar því hversu margir hafa sett sig í samband við sig. „Það er ekki alltaf auðvelt að óska eftir svona persónulegri þjónustu, hvað þá að fá einhvern gjörókunnugan heim til sín. Ég hugsa að mér sé óhætt að fullyrða að flestum ef ekki öllum viðskiptavinum mínum hingað til hafi þótt þjónustan koma sér vel og að möguleg feimni þeirra við að velja þessa þjónustu hafi snúist í ánægju yfir að hafa áttað sig á þessum möguleika og stigið það erfiða skref að hafa samband. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru breiður hópur fólks, einstaklingar til jafns við fjölskyldur, fólk með eigin rekstur, yngra og eldra fólk. Það sem einna helst einkennir viðskiptavinina er að þeir eru oft á tíðum með mjög skýrar hugmyndir um lokamarkmiðið eða í það minnsta með mjög sterka tilfinningu fyrir þörf á ákveðinni breytingu á nákvæmlega þessum tímapunkti. Út frá því er þjónustan einnig hugsuð. Á réttri hillu er til aðstoðar á þeim tímapunkti í lífinu, verkefninu eða ferlinu þegar hennar er þörf. Að mínu mati er engin skömm að því að óska eftir aðstoð en það er aftur á móti dapurt að neita sér um það ef brýn þörf er fyrir hendi.“
Meginatriði að gefa sér góðan tíma
Hingað til hafa öll verkefni sem Virpi hefur tekið að sér snúist um hluti í eigu einstaklinga og fyrirtækja. Hún aðstoðar við að finna leiðir til að fækka þeim og koma því sem eftir verður betur fyrir. Í samstarfi við viðskiptavini hefur hún meðal annars létt á ýmiss konar hlutum á heimilum, fækkað pappírum, tekið til í bílskúrum, geymslum og háaloftum, undirbúið flutninga og útbúið vinnuherbergi.
Aðspurð um ráð fyrir þá sem vilja taka heimilið sitt í gegn telur Virpi meginatriði að gefa sér góðan tíma. „Að ætla heilt ár í að létta á venjulegu heimili er ekki langur tími, í mörgum tilfellum örugglega bara alveg mátulegur. Í upphafi er nauðsynlegt að sjá lokamarkmiðið fyrir sér og gefa sér góðan tíma til að móta það, jafnvel skrifa það niður. Ef um fjölskyldu er að ræða er mikilvægt að fá sjónarmið allra um það hvað hver og einn telur mikilvægt til að tryggja að útkoman þjóni öllum á heimilinu sem best. Ég tel að það sé lítið gagn að lista sem á stendur allt sem er að, en allt öðru máli gegnir um lista þar sem kemur fram hvernig maður vill hafa ákveðna hluti. Ég á við að í stað þess að hugsa eða skrifa hjá sér „bílskúrinn er fullur af dóti“ væri betra að skrifa „ég vil geta keyrt bílinn inn í bílskúr“ eða „ég vil geta gengið að verkfærunum vísum á sínum stað og í lagi“. Þarna eru komin skýr markmið sem hægt er að fara að vinna að.
Ítarlegra viðtal við Virpi og fleiri góð ráð frá henni má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.
/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
Myndir: Unnur Magna
Grínistinn Jonathan Duffy er farinn af stað með nýjan þátt á Netinu.
Ástralski grínistinn Jonathan Duffy, sem vakti athygli fyrir uppistand sitt I Wouldn’t Date Me Either á hátíðinni Reykjavík Fringe Festival í Tjarnarbíói í síðasta mánuði, er farinn af stað með nýjan þátt á Netinu.
An evening with Jono Duffy kallast herligheitin en um er að ræða spjallþátt með gamansömu ívafi þar sem Jonathan, eða Jono eins og hann er gjarnan kallaður, fær til sín þjóðþekkta íslendinga og aðra gesti og tekur viðtöl og gerir þess á milli óspart grín að öllu milli himins og jarðar, alveg frá „sumrinu“ í ár yfir í ferðaþjónustuna á Íslandi. En eins og þeir vita sem til þekkja er grínstinn ófeiminn við að tækla alls konar mál eins og kynlíf og önnur málefni sem margir veigra sér við að fjalla um.
Jono hefur verið búsettur á Íslandi í nokkur ár og á m.a. að baki sýningarnar Australiana og An Evening With Jono Duffy, auk fyrrnefndar I Wouldn’t Date Me Either. An evening with Jono Duffy er fyrsti íslenski spjallþátturinn sem er framleiddur á ensku og er óhætt að segja að byrjunin lofi góðu.
Anna Eðvaldsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, hefur tekið á móti tæplega 1600 börnum og hefur í gegnum tíðina gefið foreldrum ráð við öllu sem tengist komu nýs einstaklings í heiminn. Nú hefur hún látið gamlan draum rætast þar sem þessi ráð eru nú saman komin í fallegri bók.
„Þessi bók hefur verið í huga mínum í mörg ár. Ég fann fyrir hvað mikil þörf var á að foreldrar, ömmur og afar gætu leitað svara við spurningum sínum. Þar sem öll svör væru til í einni bók. Ég var endalaust að gefa ráð, svara spurningum og fann svo vel fyrir þakklætinu þegar ráðin dugðu. Oftar en ekki sögðu foreldrarnir, „mikið væri nú gott að geta bara flett upp í einni Önnu ljósu í bók“,“ segir Anna. Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifaði bókina sem ber heitið Fyrstu mánuðirnir – ráðin hennar Önnu ljósu. Esther Viktoría Ragnarsdóttir og Ari Arnaldsson teikna myndirnar sem prýða bókina og Bókafélagið gefur hana út.
„Bókin fjallar um öll þau ráð sem ég hef gefið í heimaþjónustu. Þar er talað um undirbúninginn undir fæðinguna, eldri systkini, fyrstu dagana heima, barnið þegar það kemur í heiminn, líðan móður eftir fæðingu, næringu barnsins brjóstagjöf og pelagjöf, meltingu, grát fyrstu dagana, umhirðu barnsins, veikindi barnsins, hitt foreldrið, andvana fæðingu, endurlífgun og margt margt fleira.“
„Sjúkralið gæti ekkert gert á þessu augnabliki sem ég gæti ekki gert. Skelli mér aftur í hanska, laga rauða kjólinn minn og í næstu hríð fæddist spræk og yndisleg stúlka.“
Fæðing í miðju matarboði
Á þessum tíma sem Anna hefur verið ljósmóðir hefur ýmislegt komið upp á. Annar júní 2009 er henni til dæmis minnisstæður. „Ég var með smávegis matarboð heima hjá mér og þegar við vorum að klára að borða hringdi síminn. Þá er það nágrannakona sem býr ská á móti mér. Ég var búin að vera með hana í mæðravernd og hún sagðist vera með einhverja „murnings“ verki, hvort ég gæti skoðað hana því hún nennti ekki niður eftir ef ekkert væri að gerast. Ég skottaðist yfir með töskuna mína í rauðum sumarkjól og rauðum lakkskóm. Eftir skoðun segi ég henni að ef hún ætli ekki að fæða í bílnum þá skuli hún drífa sig á fæðingardeildina því hún sé komin með átta í útvíkkun. Ég sný mér frá henni og fer úr hanskanum. Hún fer að skellihlæja, vatnið fer og kollurinn fæðist. Pabbinn spurði hvort hann ætti að hringja á sjúkrabíl en ég sagði honum að setjast bara hjá konunni sinni og sýna henni stuðning. Sjúkralið gæti ekkert gert á þessu augnabliki sem ég gæti ekki gert. Skelli mér aftur í hanska, laga rauða kjólinn minn og í næstu hríð fæddist spræk og yndisleg stúlka. Eldri bræður hennar þrír höfðu verið sendir í ísbúð með ömmu sinni meðan ég skoðaði mömmu þeirra og það var dásamlegt að upplifa þegar þeir komu til baka og sáu á hverju mamma þeirra hélt þegar þeir komu inn í herbergið. Þegar ég kom aftur heim voru allir í rólegheitum að fá sér kaffi. Ég sagðist aðeins hafa skroppið yfir í næsta hús að taka á móti barni, sagði svo: „Viljið þið meira kaffi“.“
Ljósuhjartað stundum brostið
Og kjarabarátta ljósmæðra hefur ekki farið fram hjá Önnu frekar en öðrum. „Kjarabarátta okkar ljósmæðra er barátta fyrir allar konur. Það var alveg kominn tími til að leiðrétta laun ljósmæðra þannig að nýúrskrifuð ljósmóðir lækki ekki í launum fyrir það eitt að bæta við sig tveimur námsárum eftir fjögurra ára hjúkrunarnám. Þetta er búið að vera erfitt og ljósuhjartað mitt hefur nokkrum sinnum brostið í þessari baráttu. Ég hef aldrei upplifað eins mikla og góða samstöðu okkar ljósmæðra og meðbyrinn í þjóðfélaginu gríðarlegur. Þetta hefur verið erfitt fyrir alla; ljósmæður, samstarfsfólk og verðandi foreldra.“
Listamaðurinn Arngrímur Sigurðsson vinnur að höggmyndum sem verða sýndar í uppboðshúsinu Sotheby‘s í New York. Höggmyndirnar eru af ófreskjum sem eiga rætur að rekja til íslenskra þjóðsagna.
„Ég fór að ímynda mér möguleika erfðafræðinnar og svokallaðrar svartrar líffræði og hvernig það kynni að líta út ef okkur tækist að búa til samblöndu af mannskepnunni og verkfærum mannsins, sérstaklega hvernig stökkbreyttar útgáfur af mönnum og vopnum gætu litið út. Eftir svolitla hugmyndavinnu varð þetta útkoman,“ segir myndlistamaðurinn Arngrímur Sigurðsson um höggmyndir sem hann er að vinna að um þessar mundir á vinnustofu í bænum Carrara á Ítalíu, en þær verða sýndar í apríl á næsta ári í einu elsta og virtasta uppboðshúsi heims, Sotheby‘s í New York.
Höggmyndirnar eru af skrímslum sem Arngrímur byrjaði að þróa meðan hann var við meistaranám í myndlist við New York Academy of Arts og eru hluti af lokaverkefni hans við skólann síðastliðið vor. „Þar bjó ég til samskonar skrímsli úr sílikoni, hreindýrafeldi og hrosshári en erfðafræðilegar tilraunir og allar þessar framfarir sem eru að verða í erfðavísindum urðu kveikjan að þeim,“ útskýrir hann. „Hvernig hægt er að forrita erfðaefni mannsins nánast upp á nýtt. Til dæmis skeyta saman ólíku erfðaefni til að búa til næstum hvað sem er.“
„Að sýna á vegum ABC Stone og í Sotheby‘s á svipuðum tíma, það á eftir að verða mjög skemmtilegt.“
Arngrímur segir að skrímslin séu ákveðið framhald af olíumyndum sem hann málaði fyrir nokkrum árum af íslenskum þjóðsagnaverum út frá lýsingum á fyrirbærum og duldýrum úr þjóðsögum og öðrum fornritum. Myndir af verkunum rötuðu í bók, Duldýrasafnið, sem kom út fyrir fjórum árum og vakti athygli, ekki síst ný og endurbætt útgáfa hennar á ensku sem ferðamenn hafa keypt í bílförmum.
Spurður hvað það sé eiginlega við skrímsli sem heilli hugsar hann sig um og segir: „Mér finnst bara svo áhugavert hvernig þau endurspegla til dæmis alls konar náttúrufyrirbrigði eða samfélagslegar hræringar og hvað þau geta verið skemmtilega margræð.“ Hann segir það vera með ólíkindum að íslenskir listamenn skuli ekki hafa sótt meira í þennan menningararf því hann sé ótrúlega spennandi.
En Sotheby´s, er ekki viss upphefð að sýna í þessu gamla og virta uppboðshúsi? „Algjörlega,“ svarar hann og flýtir sér að bæta við að skúlptúrarnir verði þó ekki eingöngu sýndir þar. Þeir verði líka til sýnis í ABC Stone í Williamsburg. „ABC Stone er fyrirtæki sem er leiðandi í innflutningi og vinnslu á ítölskum marmara í Bandaríkjunum. Ég er einmitt hérna á Ítalíu í boði þess, en þeir bjóða tveimur nemendum frá New York Academy of Art til að nema steinhögg í Carrara á hverju ári. Þannig að sýna bæði á vegum þess og í Sotheby‘s á svipuðum tíma, það á eftir að verða mjög skemmtilegt.“
Rannsóknarstjóri sjóslysa hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa tjáir sig um slys.
„Ég man ekki eftir öðru tilviki og held að þetta sé undantekning,“ segir Jón Arilíus Ingólfsson, rannsóknarstjóri sjóslysa hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, spurður um lélegt eftirlit með ástandi skipa eftir að þau hafi verið seld.
Í júní í fyrra varð slys um borð í Barða NK 120 sem var á togveiðum á Halamiðum. Skipverji ætlaði að taka öryggiskrók úr bakborðshlera. Við það slitnaði togvírinn við svokallað auga með þeim afleiðingum að keðja slóst til og lenti í hægri öxl skipsverjans sem féll við. Mildi var að ekki fór verr því við fallið fór öryggishjálmurinn af skipverjanum. Andartaki síðar slóst keðjuendinn í þilfarið rétt við höfuð hans. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem nýverið kom út er haft eftir skipstjóranum að skipt hafi verið reglulega um togvíra en því verið frestað eftir að skipið var selt.
Tryggvi Snær Hlinason er á fljúgandi ferð upp á stjörnuhimin alþjóðlega körfuboltans.
Tryggvi Snær Hlinason skaust upp á stjörnuhimin alþjóðlegs körfubolta með ógnarhraða og erlendir miðlar halda vart vatni yfir ótrúlegri sögu hans. Bóndasonurinn úr Bárðardal er samningsbundinn körfuboltaliði Valencia á Spáni til fjögurra ára, tók þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar í Bandaríkjunum fyrr í sumar og er undanfarnar vikur búinn að vera heima í sveitinni eftir að hafa leikið með liði Toronto Raptors í sumardeild NBA í Las Vegas og allt þetta aðeins fjórum árum eftir að hann byrjaði að æfa körfubolta norður á Akureyri.
Tryggvi Snær er ekki maður margra orða og lætur sér, að því er virðist, fátt um eigin frama finnast. Hann segir reynsluna af því að spila í sumardeildinni aðallega hafa veitt sér innsýn í hvernig körfuboltinn gengur fyrir sig í Bandaríkjunum.
„Það er í sjálfu sér ekki hægt að bera saman hvernig þetta gengur fyrir sig í Bandaríkjunum og Evrópu,“ segir hann. „En það var gaman að kynnast þessu og ég er spenntur fyrir framhaldinu.“
Spurður hvort hann viti eitthvað hvert það framhald verður segir Tryggvi Snær svo ekki vera, en hann stefni að því að komast inn í NBA-deildina. Hvernig það þróist verði bara að koma í ljós. Honum líði vel í Valencia og liggi ekkert á.
„Valencia er með gott lið, borgin er mjög falleg og veðrið er gott svo ég hef ekki undan neinu að kvarta þar,“ segir hann og hlær.
Ekki hægt að segja nei
Tryggvi Snær hefur oft talað um það í viðtölum að körfuboltaferillinn hafi alls ekki verið það sem hann stefndi að í framtíðinni þegar hann byrjaði að æfa með Þór á Akureyri eftir að hafa byrjað nám í Verkmenntaskólanum þar.
„Ég ætlaði aldrei svona langt inn í þetta,“ segir hann. „Planið var bara að byrja að æfa körfubolta til að halda mér í formi, en það plan breyttist mjög hratt og þetta varð mun stærra í sniðum en ég hafði reiknað með.“
„… það að hafa tekið þátt í nýliðavalinu og spilað í sumardeildinni eru ákveðin þrep á leiðinni upp í deildina og síðan taka bara við samningaviðræður við þau lið sem sýna manni áhuga.“
Var hann aldrei efins um að halda út á þessa braut?
„Það var ekki hægt að segja nei,“ segir hann ákveðinn. „Þetta var svo spennandi og opnaði svo marga glugga að það kom ekki annað til greina en að kýla á það.“
Kærasta Tryggva Snæs, Sunneva Dögg Robertson, er afrekskona í sundi og er á leið í háskólanám í Bandaríkjunum í haust eftir að hafa dvalið með honum í Valencia síðastliðið ár. Það er væntanlega enn einn hvatinn til þess að reyna að komast á samning í Bandaríkjunum, eða hvað?
„Já, ég neita því ekki,“ segir hann. „Það væri allavega ekki verra.“
Reynir að gera sitt besta
Tryggvi Snær vill ekki gera mikið úr þeim breytingum sem orðið hafa á lífi hans síðustu árin, þótt þær hafi vissulega verið róttækar. „Þetta er bara svo skemmtilegt,“ segir hann brosandi. „Ég veit að þetta er tækifæri sem fæst bara einu sinni í lífinu og ég reyni bara að gera mitt besta og standa mig.“
Tryggvi Snær er ekki beint að falla á tíma með að komast áfram í körfuboltaheiminum, hann er ekki nema tvítugur og hann segir að það geti þess vegna verið allt að tuttugu ár eftir hjá honum í þeim heimi. „Það er reyndar mjög bjartsýn spá,“ segir hann og hlær. „En það er alltaf séns.“
Tryggvi Snær er búinn að njóta sumarsins heima í Bárðardal en spurður hvort hann sé ekki nokkurs konar þjóðhetja í dalnum vill hann sem minnst úr því gera. „Nei, ég myndi nú ekki segja það,“ segir hann yfirvegaður. „Auðvitað er maður vel þekktur, en þegar maður kemur heim fer maður bara í gamla gírinn og er fljótur að falla inn í mynstrið sem var manni eðlilegt. Ég hjálpa pabba og mömmu við bústörfin og hitti fólk sem ég þekki og svona. Allt voða rólegt. Það er mjög gott að vera kominn heim aftur og ég ætla mér að njóta þess.“
Stefnir enn að NBA-deildinni
Áður en körfuboltinn tók völdin í lífi hans stefndi Tryggvi Snær að því að verða bóndi og taka við búinu af foreldrum sínum þegar þar að kæmi. Eru þau sátt við að þau plön hafi breyst?
„Þau hafa ekkert endilega breyst,“ fullyrðir hann. „Það er bara ekki tímabært að slá neinu föstu um framtíðina. Ég veit það af eigin reynslu að viðmið manns geta breyst mjög hratt. Það er ekki eins og það sé tímabært að afskrifa foreldra mína strax, þetta er ekkert sem þarf að taka ákvörðun um hér og nú.“
Næstu skref Tryggva Snæs, nú eftir að sumarfríinu í sveitinni lýkur, eru að fara aftur til Valencia og halda áfram að spila í Evrópu, en draumurinn er að komast á samning við bandarískt lið sem leikur í NBA-deildinni og hann segist munu halda áfram að reyna að koma sér á framfæri þar.
„Það er harður heimur, mikil samkeppni og margir sem vilja komast þangað,“ segir hann. „En það að hafa tekið þátt í nýliðavalinu og spilað í sumardeildinni eru ákveðin þrep á leiðinni upp í deildina og síðan taka bara við samningaviðræður við þau lið sem sýna manni áhuga. Það kemur allt í ljós. Eins og er tek ég bara einn dag í einu.“
Rithöfundurinn Óttar M. Norðfjörð hefur lokið við nýja skáldsögu. Sagan kallast Dimmuborgir og er innblásin af óhugnanlegum sannsögulegum atburðum.
„Hún fjallar um strák sem er drepinn í eineltisárás árið 1997 og besta vin hans árið 2018 sem reynir að komast að sannleikanum um hvað gerðist í raun og veru,“ lýsir hann. „Þannig að bókin gerist á þessum tveimur tímasviðum, árið ’96-’97 þegar strákarnir eru að kynnast í 10. bekk og svo árið 2018 þegar nýjar vísbendingar koma fram um dauða annars þeirra sem sýnir að ekki var allt alveg eins og það sýndist.“
Dimmuborgir er fyrsta skálsaga Óttars í fimm ár og segir hann hana að ýmsu leyti frábrugðna fyrri verkum sínum.
„Hún er til dæmis persónulegri því ég staðset strákana í sama grunnskóla og ég var í og á sama tíma og kveikjan er sannsögulegur atburður sem tengist eineltismáli í skólanum. Svo hef ég síðustu ár fengist við skrif kvikmyndahandrit sem kennir manni aðra hugsun, til dæmis þegar kemur að plotti og stíl og það laumaði sér inn í skáldsöguna.“
Að sögn Óttars hófst vinnsla á sögunni fyrir fimm árum. „Já ég byrjaði á henni þá en kláraði aldrei, það var ekki fyrr en nú í feðraorlofinu mínu sem ég gerði það og eiginlega bara alveg óvart,“ segir hann og kveðst vera mjög feginn með að hafa loksins klárað verkið.
En hvenær reiknar hann með að bókin komi út? „Líklegast verður hún ekki með í jólabókaflóðinu í ár. Ég býst frekar við að hún komi út á næsta ári,“ segir hann og því verða aðdáendur höfundarins að bíða þolinmóðir að sinni.
Hinsegin dagar, sem hófust með pomp og prakt í vikunni, hafa fyrir löngu stimplað sig inn sem ein vinsælustu hátíðahöld á Íslandi, ekki síst Gleðigangan sem fer fram á morgun. Að margra áliti er gangan hápunktur hátíðahaldanna en síðustu ár er talið að á bilinu 70-90 þúsund manns hafi lagt leið sína í miðborgina til að taka þátt eða fylgjast með henni, sem gerir gönguna að einum fjölmennasta viðburði í Reykjavík.
Ánægjulegt er að nánast þriðjungur þjóðarinnar skuli taka þátt í hátíðahöldum sem ganga út á að fagna fjölbreytileika mannlífsins, efla samstöðu hinsegin fólks og gleðjast yfir áföngum sem náðst hafa í réttindabaráttu þess á Íslandi síðustu áratugi því þátttakan sýnir ekki aðeins að stór hluti Íslendinga kýs að búa í samfélagi sem er bæði fjölbreytt og réttlátt heldur líka í samfélagi þar sem mannréttindi eru virt.
Á meðan stór hluti þjóðarinnar fagnar gerist það hins vegar nánast undantekningarlaust á hverju ári að fámennur hópur fólks sér ástæðu til agnúast út í þessa hátíð. Skilur ekki tilganginn með henni þar sem fordómar gagnvart hinsegin fólki séu á undanhaldi í samfélaginu. Hátíðin sé í raun og veru bara tímaskekkja.
Á meðan stór hluti þjóðarinnar fagnar gerist það hins vegar nánast undantekninglaust á hverju ári að fámennur hópur fólks sér ástæðu til agnúast út í þessa hátíð.
Vissulega er rétt að réttindabarátta hinsegin fólks hérlendis síðustu áratugi hefur skilað árangri, eins og sést meðal annars á því hvernig viðhorfið í garð þess hefur almennt batnað og sömuleiðis lagaleg staða vissra hópa undir hinni svokölluðu regnhlíf. Forsíðuviðtal Mannlífs í dag sýnir hins vegar rækilega svart á hvítu að enn er langt í land að hinsegin fólk njóti sömu mannréttinda og aðrir á Íslandi.
„Ég var að labba heim að kvöldlagi þegar strákar á vespu keyra alveg upp að mér og reyna að sparka mig niður.“ Þannig lýsir annar viðmælandinn Sæborg Ninja Guðmundsdóttir óhugnanlegu atviki sem átti sér stað í hverfinu sem hún býr í, en umræddir strákar veittust að henni eingöngu vegna þess að hún er trans kona.
Hinn viðmælandinn, Úlfar Viktor Björnsson, hefur upplifað sinn skerf af ofbeldi en í vetur greindi Úlfar frá því á Facebook hvernig ókunnugur maður kýldi hann í miðbæ Reykjavíkur fyrir það eitt að vera hommi. Úlfar segir atvikið hafa verið það fyrsta þar sem hann var beittur líkamlegu ofbeldi en andlegt ofbeldi og áreiti hefur verið nánast daglegt brauð og Sæborg Ninja hefur jafnhrikalega sögu að segja.
Úlfar og Sæborg vona að með því að stíga fram opni þau á nauðsynlega umræðu um fordómana og ofbeldið sem hinsegin fólk verður enn fyrir á Íslandi þrátt fyrir bætta stöðu. Bæði telja þau Hinsegin daga og Gleðigönguna vera nauðsynlega í því samhengi, því hátíðin sé ekki aðeins haldin til að fagna þeim sigrum sem hafa áunnist í réttindabaráttu hinsegin fólks heldur líka til að vekja athygli á því misrétti og aðkasti sem það verður enn fyrir á Íslandi. Nokkuð sem vert er að hafa í huga, bæði þegar tekið er þátt í fagnaðarlátunum og eins þegar farið er að efast um tilverurétt þessarar hátíðar.
Ungur íslenskur dansari, Kristín Marja Ómarsdóttir, hefur verið ráðin að ballettflokknum við Óperuhúsið í Graz. Hún segir mikinn heiður að vinna með flokknum enda hafi margir af fremstu dönsurum heims sýnt með honum í gegnum tíðina.
„Það verður gaman að fá að dansa í þessu sögufræga húsi þar sem margir af fremstu dönsurum hafa stigið sín fyrstu skref. Svo er þetta auðvitað heilmikill heiður líka því eftir því sem ég best veit þá er ég ekki bara sú eina úr minni kynslóð af dönsurum á Íslandi sem hafa dansað með þessum ballettflokki, heldur líka ein fárra á Íslandi sem hafa á síðustu árum fengið tækifæri til að gerast atvinnudansari hjá klassískum ballettdansflokki,“ segir Kristín Marja glöð í bragði.
Fyrsta verkefni Kristínar Marju með ballettflokknum verður uppsetning hans á dansverkinu Sandman eftir Andreas Heise í október. „Verkið byggir á hinni frægu sögu „Der Sandmann“ eftir ETA Hoffmann og er neó-klassískt. En neó-klassík er form sem mér finnst vera mjög heillandi af því að það er mitt á milli þess að vera klassík og nútímadans og ég æfði klassík lengi og langaði prófa eitthvað nýtt án þess þó að vilja víkja alveg frá henni,“ útskýrir hún.
Hefur gengið vel erlendis
Kristín Marja er einungis tvítug að aldri en á engu að síður „langan“ feril að baki sem dansari. Fjögurra ára byrjaði hún að æfa ballett í Ballettskóla Eddu Scheving og fimm árum síðar lá leiðin í Listdansskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist átján ára af klassískri framhaldsbraut. Meðan á náminu í skólanum stóð keppti hún í þrígang fyrir Íslands hönd í ballettkeppni í Svíþjóð og sótti námskeið hjá Konunglega danska ballettinum og í Palluca-dansháskólanum í Dresden í Þýskalandi. Þá var hún í fámennum hópi sem komst inn í Konuglega sænska ballettskólann og hefur eftir nám meðal annars dansað í Óperudraugnum, Rauðu myllunni og á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu.
„Það verður gaman að fá að dansa í þessu sögufræga húsi þar sem margir af fremstu dönsurum hafa stigið sín fyrstu skref.“
Spurð hvað sé ólíkt með dansheiminum hér heima og erlendis segir hún að stærðin sé án efa einn helsti munurinn. „Dansheimurinn er miklu minni á Íslandi. Við erum með einn dansflokk sem leggur áherslu á nútímadans en úti eru alls konar flokkar með ólíkar áherslur. Það sorglega er að danslistin gæti verið miklu stærri á Íslandi ef við settum bara meira fjármagn í hana, því við eigum góða kennara og efnilega dansara sem myndu gjarnan vilja dansa á Íslandi ef aðstæður væru ekki þannig þeir þyrftu að fara út. Ég skil ekki af hverju þetta þarf að vera svona því Íslendingar hafa greinilega áhuga á danslist eins og sést bara af því hvað selst vel á sýningar erlendra dansflokka á Íslandi.“
Harður heimur
En dansheimurinn úti, er hann ekki harður líka? „Jú, rosalega,“ játar hún. „Til dæmis vorum við rúmlega 100 krakkar sem sóttum um að komast í ballettflokkinn við Óperuhúsið í Graz og dansprufan tók tæpa átta tíma. Þegar upp var staðið vorum við ellefu. Þannig að kröfurnar eru strangar og samkeppnin mikil. Maður er alltaf að berjast um besta hlutverkið og stöðuna. Til dæmis veit ég ekkert hvernig hópurinn í Óperuhúsinu í Graz verður, hvort hann verður samheldinn eða ekki. Ég kynntist nokkrum krökkum í prufunni og þau virtust öll vera indæl, en annars á bara eftir að koma í ljós hvernig mórallinn verður. Auðvitað vonar maður samt að hann verði góður.“
Þú virðist ekkert stressuð. „Nei, alls ekki. Það þýðir ekki neitt. Þá skemmir maður bara fyrir sjálfum sér. Ég er búin að fara í svo margar prufur að ég veit núna að eina sem virkar er að reyna að hafa gaman og það ætla ég að reyna að gera eftir fremsta megni í Austurríki og er með góðan stuðning frá vinum og vandamönnum. Svo minni ég mig líka á hvað mig hefur lengi dreymt um að komast inn í dansflokk af þessu tagi og fá að prófa mörg og ólík verk og vonandi dansa út um allan heim. Þannig að núna ég er bara spennt fyrir þessu og að byrja þennan feril,“ segir hún glöð.
Hægt er að fylgjast með ævintýrun Kristínar á Instagram, hún er með notendanafnið kristinmarja
Ágústblað Gestgjafans er nú að finna í helstu verslunum landsins og er sneisafullt af skemmtilegu og safaríku efni.
Uppskeran er farin að láta á sér kræla og við bjóðum upp á ýmsa kræsilega rétti úr henni, finna má uppskriftir að grænmetisréttum, safaríkum salötum, sultum, sveitabökum og hvernig best má nýta nýtínd bláber. Einnig má finna nýstárlegra efni en við ræddum við Vilmund Hansen garðyrkjufræðing sem fræðir lesendur um ætar plöntur og blóm og Guðríður Ragnarsdóttir segir frá reynslu sinni við að tína og nota íslenskar jurtir í matargerð.
Vínsíður Dominique eru á sínum stað þar sem hún segir lesendum frá helstu fréttum úr vínheiminum og mælir með spennandi vínum. Hrefna Sætran bauð í japanska matarveislu og deilir uppskriftum með lesendum og barþjónninn Daníel Michaelsson spjallaði við okkur um kokteila og barmenningu á Íslandi. Þetta og margt margt fleira í nýjasta eintaki Gestgjafans!
Mynd á forsíðu / Aldís Pálsdóttir
Mynd af smákökum / Hallur Karlsson
Hjónin Ágústa Magnúsdóttir og Gústav Jóhannsson kyntust í Danmörku þar sem þau stofnuðu fyrirtæki sitt AGUSTAV sem sérhæfir sig í framleiðslu húsgagna með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
Frá Danmörku fluttu þau til Ítalíu þar sem fyrirtækið blómstraði en þegar börnunum fór að fjölga fluttu þau heim til Íslands, héldu áfram að þróa framleiðslu sína og stefna nú ótrauð að Bandaríkjamarkaði.
„Við stofnuðum fyrirtækið 2011 í Danmörku, fluttum það svo milli landa og komum heim 2014,“ útskýrir Ágústa. „Gústav er húsgagnasmiður og saman hönnum við öll húsgögn AGUSTAV.
Ég vinn svo að markaðshliðinni á meðan Gústav sér um verkstæðið.“
Húsgögn AGUSTAV hafa töluverða sérstöðu einkum hvað varðar áhersluna á umhverfisvæna framleiðslu, um hvað snýst það?
„Það skiptir okkur miklu máli að framleiða vöru með það að leiðarljósi að hún endist,“ segir Ágústa. „Við eigum svolítið erfitt með þá þróun að húsgögn séu að miklu leyti til orðin einnota og að þeim sé skipt út þegar næsti bæklingur kemur út, þannig að við reynum að framleiða húsgögn sem endast og hafa hátt endursölugildi, vilji maður losa sig við þau. Þar að auki nýtum við allan efnivið sem við fáum inn á verkstæðið alveg í þaula og erum komin með línu sem er bara byggð á afgöngum sem falla til á verkstæðinu. Svo gróðursetjum við tré fyrir hverja vöru sem við seljum, ýmist í regnskógum Brasilíu eða hér á Íslandi.“
„Það skiptir okkur miklu máli að framleiða vöru með það að leiðarljósi að hún endist.“
Ágústa og Gústav sérsmíða líka húsgögn eftir óskum viðskiptavina, ýmist í samstarfi við innanhússarkitekta og arkitekta, eða í beinu samstarfi við viðskiptavinina, en þau einskorða sig þó ekki við það.
„Í vor opnuðum við sýningarrými á Funahöfða 3 í Reykjavík þannig að nú er loksins hægt að koma til okkar og skoða húsgögn, fá að prófa þau eða fá lánuð heim til að sjá hvernig þau passa inn í rýmið á heimilinu. Það er innangengt úr sýningarrýminu inn á verkstæðið svo fólk getur líka kynnt sér hvernig varan er búin til og hvaðan efniviðurinn kemur.“
Sérsmíðuðu allt í fyrstu íbúðina
Ágústa og Gústav kynntust þegar þau bjuggu bæði í Danmörku og eiga nú tvö börn, þriggja og sex ára, og það þriðja er á leiðinni. Ágústa segir að augljóslega séu þau of ung til að taka þátt í vinnunni enn sem komið er, en það standi vonandi til bóta. En hvaðan kom hugmyndin að fyrirtækinu?
„Strax og við kynntumst byrjuðum við að innrétta heimilið okkar og þar sem íbúðin sem við bjuggum í á þeim tíma var dálítið undarlega löguð enduðum við á því að sérsmíða allt inn í hana,“ segir Ágústa og hlær. „Bókasnagi sem við smíðuðum þá var fyrsta varan sem við komum út með og viðtökurnar voru vonum framar þannig að þetta vatt mjög hratt upp á sig og varð að þessu fyrirtæki sem það er í dag.“
Ísland opnaði ný tækifæri
Árið 2013 ákváðu þau Gústav og Ágústa að hætta að vinna annars staðar, flytja til Ítalíu og beina öllum sínum kröftum að uppbyggingu fyrirtækisins. Það var kominn tími til að víkka sjóndeildarhringinn og Ítalía hentaði vel því sem þau voru að gera á þeim tíma, að sögn Ágústu, og þau leigðu sér hús uppi í fjöllum á Norður-Ítalíu þar sem pláss var fyrir verkstæðið í kjallaranum og fyrirtækið hélt áfram að blómstra. Þar komust þau líka í beina tenginu við viðinn og komust nær uppruna efniviðarins sem þau nota. En hvernig datt þeim í hug að flytja aftur heim til Íslands?
„Það kom til af því að ég átti von á barni númer tvö og á Ítalíu, alla vega þarna sem við vorum, var litla aðstoð að fá við barnapössun,“ útskýrir Ágústa. „Elsta barnið var þá tveggja og hálfs og við höfðum engin önnur úrræði en að hafa hana með okkur við vinnuna. Ég sá fyrir mér að hafa lítinn tíma til að sinna vinnunni þegar komið væri annað barn og við ákváðum að koma heim þar sem tengslanetið okkar er, ömmur og afar og ættingjar, dagheimilispláss og svo framvegis. Það var algjört lán í óláni að við skyldum enda hér aftur því hér hafa opnast mörg tækifæri sem voru okkur lokuð áður.“
Eru einhverjar nýjungar fram undan hjá fyrirtækinu?
„Það er alltaf eitthvað,“ segir Ágústa leyndardómsfull. „Við erum alltaf með einhverjar nýjar vörur í kollinum sem líta dagsins ljós þegar þeirra tími kemur. Svo fórum við núna í maí á sýningu í New York þar sem við sýndum vörurnar okkar og það gekk alveg rosalega vel. Við hlutum svo styrk úr Hönnunarsjóði til markaðssetningar í Bandaríkjunum sem hjálpar virkilega til við að halda fókus á þann markað það sem eftir er árs. Við fengum mjög góð viðbrögð og mikinn áhuga og erum núna að vinna í því að greiða okkur leið inn á þann markað. Við erum bara mjög spennt fyrir því og höldum ótrauð áfram okkar stefnu.“
Mannlíf leitar að öflugum blaðamanni til að taka þátt í mótun og frekari uppbyggingu vikublaðs sem kemur frítt inn á 80.000 heimili í hverri viku.
Mannlíf hefur á skömmum tíma skipað sér í hóp mest lesnu helgarblaða landsins, með vönduðum viðtölum, greinaskrifum og fréttaskýringum. Í nýlegri könnun mældist blaðið með 23,5% lestur sem sýnir að lesendur kunna að meta þessa nýlegu viðbót við íslenska fjölmiðlaflóru.
Blaðamaður Mannlífs verður hluti af öflugu ritstjórnarteymi Birtíngs og í lykilhlutverki við áframhaldandi uppbyggingu blaðsins. Viðkomandi þarf að hafa frumkvæði og vera sjálfstæður í sínu starfi, vera með góða þekkingu á samfélagsmiðlum og viðtæka reynslu af blaðamennsku. Vandvirkni, geta til að vinna undir tímapressu og góð samskiptahæfni eru einnig mikilvægir eiginleikar.
Við tökum líka við umsóknum frá lausapennum sem hafa brennandi áhuga á Mannlífinu.
Endilega hafðu samband ef þig langar til að bætast í hópinn.
Umsóknir og ferilskrá sendist á framkvæmdastjóra Birtíngs, Sigríði Dagnýju Sigurbjörnsdóttur,[email protected]
Sæborg Ninja Guðmundsdóttir og Úlfar Viktor Björnsson segja enn langt í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir á Íslandi þótt staðan hafi batnað síðustu ár. Sjálf upplifa þau áreiti nánast alla daga ársins og hafa lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera hinsegin.
Hinsegin dagar eru í fullum gangi, bærinn iðar af lífi og litum og allir brosa út að eyrum. Á morgun munu, ef að líkum lætur, þúsundir fólks safnast saman í miðbænum til að fylgjast með Gleðigöngunni árlegu sem orðin er í huga margra að hápunkti sumarsins. En erum við komin eins langt í réttindum hinsegin fólks og gjarna er haldið fram? Svarið við því er blákalt nei samkvæmt viðmælendum Mannlífs, Sæborgu Ninju Guðmundsdóttur og Úlfari Viktori Björnssyni. Sem hinsegin fólk upplifa þau niðrun og áreiti nánast alla daga ársins, bæði hafa þau lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera þau sjálf og þau vilja leggja áherslu á að gangan sé ekki einungis til að fagna áunnum réttindum heldur ekki síður til þess að minna á hve langt er í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir.
Persónuhelgi fólks sem er „öðruvísi“ ekki virt
Sæborg Ninja Guðmundsdóttir kom út sem trans kona fyrir einu og hálfu ári og hefur síðan upplifað hótanir um ofbeldi, ágengar spurningar frá fólki sem hún þekkir ekki neitt, óumbeðnar athugasemdir um útlit sitt, óviðeigandi snertingar og það hefur verið hrópað á eftir henni út á götu. Hún segir trans fóbíu grasserandi í samfélaginu og svo virðist sem fólk almennt virði ekki persónurými trans fólks. Ofbeldið hófst um leið og hún fór að tala um það við þáverandi vin sinn að henni fyndist henni ekki hafa verið úthlutað réttum líkama.
„Þetta byrjaði fyrir nokkrum árum í samræðum við mann sem er ekki lengur vinur minn,“ útskýrir Sæborg. „Við vorum í svona transhúmanískum pælingum og ég lét í ljós þá ósk að fá nýjan líkama sem mér fyndist passa mér. Hann spurði þá strax hvað ég myndi gera ef hann gæfi mér þennan nýja líkama og myndi síðan binda mig niðri í kjallara og nauðga mér? Ég reyndi að komast út úr þessum samræðum, fannst þetta ógeðslegt, en hann hélt áfram að suða og spyrja hvað ég myndi gera í því? Ég var mjög sjokkeruð en þegar ég sleit þessum vinskap og sagði örfáum öðrum vinum frá þessu þá trúðu þeir mér ekki. Þetta varð til þess að ég dró það í ár að koma út úr skápnum.“
Sæborg segist lengi hafa vitað að hún væri ekki í réttu hlutverki en það hafi tekið hana langan tíma að fá leyfi hjá sjálfri sér til að sættast við það og koma út. Það gerði hún loks þegar hún var þrítug og viðbrögð umhverfisins voru ekki jákvæð.
„Ég hef jafnvel lent í því á daginn þegar ég er að ganga niðri í bæ að ókunnugt fólk kemur upp að mér og fer að káfa á mér.“
„Foreldrar mínir hættu eiginlega bara að tala við mig,“ segir hún. „Ég hef ekki farið í heimsókn til þeirra í meira en ár og ekkert heyrt í mömmu en pabbi lætur í sér heyra af og til. Yngri systir mín var hins vegar alveg sátt við þetta og sömuleiðis sonur minn sem er fjórtán ára. Ég var mest stressuð að tala um þetta við hann en hann kippti sér ekkert upp við það, spurði bara hvort við ættum ekki að fara að horfa á DVD.“
Hrædd við að fara út
Sæborg er ekki á því að umræðan um það hvað allt sé æðislegt í málefnum hinsegin fólks á Íslandi eigi við rök að styðjast. Stuttu eftir að hún kom út varð hún til dæmis fyrir tilraun til niðurkeyrslu skammt frá heimili sínu í Breiðholtinu.
„Ég var að ganga heim að kvöldlagi þegar strákar á vespu keyrðu alveg upp að mér og reyndu að sparka mig niður. Sem betur fer hittu þeir ekki almennilega en ég átti mjög erfitt með að fara út á kvöldin lengi eftir þetta. Það er svo erfitt að eiga von á svona árásum frá tilfallandi fólki í nánasta umhverfi manns.“
Sæborg segist líka löngu vera hætt að fara niður í bæ á kvöldin, hvað þá á djammið.
„Meira að segja á skemmtistöðum sem gefa sig út fyrir að vera vinsamlegir hinsegin fólki verður maður fyrir alls kyns óviðeigandi framkomu. Fólk sem kemur upp að manni á barnum og tilkynnir manni að maður sé fáránlegur, eða eitthvað þaðan af verra, upp úr þurru. En það er ekki bara bundið við skemmtistaðina, ég hef jafnvel lent í því á daginn þegar ég er að ganga niðri í bæ að ókunnugt fólk kemur upp að mér og fer að káfa á mér. Það virðir ekki persónuhelgina þegar transfólk á í hlut. Ég var alltaf opin og til í að spjalla við fólk þótt ég þekkti það ekki en núna fer ég ekki út án þess að vera með sólgleraugu og heyrnartól og gefa rækilega til kynna að ég vilji engin samskipti.“
„Fólk vill bara tala um kynfærin á mér“
Stuðningsnetið í kringum Samtökin ’78 hefur reynst Sæborgu vel og hún segist ekki vita hvar hún væri stödd andlega án þess. En vantar ekki meiri fræðslu um málefni trans fólks úti í samfélaginu?
„Ég held að fræðsla eins og í kynjafræði í grunnskólum sé svakalega gott fyrsta skref,“ segir Sæborg. „En því miður finnst mér miðað við mín samskipti við fólk að það bara vilji ekki læra. Það myndi skemma þá afmennskandi umræðu sem er í gangi að kynna sér málið. Það er til dæmis endalaust ergjandi að fyrir stóran hóp fólks virðist það að vera trans eingöngu snúast um kynfæri. Ég veit ekki hversu oft ég hef fengið spurninguna hvað ég ætli að gera við typpið, eins og það sé það eina sem skiptir máli. Fólk spyr mig ekki hvernig mér líði, hvernig hafi gengið, hverju það að koma út hafi breytt fyrir mig, það vill bara tala um kynfærin á mér. Það er svakalega ergjandi og ótrúlega mikil tilfinningaleg orka fer í það eitt að reyna að útskýra hvers vegna þetta er óviðeigandi spurning. Fólk fer í vörn og segist bara vera forvitið, en leiðir ekki hugann að því að það myndi aldrei spyrja sískynja ókunnuga manneskju um kynfærin á henni [innskot blaðamanns: sís er lýsingarorð og forskeyti sem er notað um fólk sem upplifir sig á þann hátt að það tilheyri því kyni sem því var úthlutað við fæðingu, heimild www.otila.is]. Af því að ég er „öðruvísi“ virðast almennar umgengnisvenjur ekki gilda um mig.“
Margir gefast hreinlega upp
Spurð hvernig henni finnist heilbrigðiskerfið standa sig gagnvart transfólki dregur Sæborg við sig svarið.
„Fólkið í trans teymi Landspítalans gerir sitt besta og þar er margt gott fólk, en löggjöfin er enn þá fáránleg. Það er náttúrlega ótrúlegt að það skuli enn þá þurfa að fara í geðmat hjá geðlækni áður en okkur er leyft að hefja meðferð. Það er löngu búið að fjarlægja það úr öllum viðurkenndum læknatímaritum að það að vera trans sé geðsjúkdómur, en það er enn stefnan hérlendis. Það væri mikill munur ef þeim lögum væri breytt. Ég hitti yfirlækninn í trans teyminu tvisvar og spurningarnar sem ég fékk snerust aðallega um nærfötin mín og kynlíf mitt, á meðan hann strauk á sér lærin. Það er engan veginn efst í mínum huga en ég held að þetta sé einhver arfur frá transsexúalismanum sem er auðvitað löngu úrelt viðmið. Ég get auðvitað ekki talað út frá reynslu annars fólks en ég hef heyrt svipaðar sögur frá öðrum. Og til þess að gera þetta enn erfiðara þá þarf þessi sami geðlæknir að gefa sitt samþykki fyrir öllu sem ég fer í gegnum í meðferðinni. Hann er enn hliðvörður kerfisins og getur neitað fólki um meðferð eftir því sem honum sýnist. Það er ógnvekjandi og ég held að þeir sem eru ekki nógu duglegir að berjast fyrir því að fá að halda áfram í ferlinu lendi oft í því að gefast hreinlega upp. Ég hef til dæmis þurft að hringja mörgum sinnum til að ítreka beiðnir um næstu skref í meðferðinni, ef ég hefði ekki gert það væri ég enn á byrjunarreit.“
„Ég ætla ekki að móðga þig en …“
Úlfar Viktor Björnsson hefur, líkt og Sæborg, verið beittur ofbeldi en hann komst í fréttirnar í vetur þegar alls ókunnugur maður barði hann úti á götu fyrir það eitt að vera hommi. Hann var á gangi yfir gangbrautina í Lækjargötu þegar maður sem hann hafði aldrei séð vatt sér að honum og spurði hvort hann væri hommi. Þegar Úlfar svaraði játandi gerði maðurinn sér lítið fyrir og kýldi hann með krepptum hnefa í andliti. Úlfar ákvað að kæra ekki, þessi maður ætti greinilega bágt, en hvernig hefur honum liðið síðan og hver voru viðbrögð umhverfisins við umfjölluninni um ofbeldið? Hafði atburðurinn einhver langvarandi áhrif?
„Nei, ég get ekki sagt það,“ svarar Úlfar, en hugsar sig svo um. „Í svona tvo mánuði eftir á var ég dálítið á varðbergi þegar ég var einn úti að ganga í miðbænum, en það er búið. Ég fékk aðallega góð viðbrögð við umfjölluninni, þótt auðvitað væru alltaf einhverjir inn á milli sem spurðu hvers vegna ég hefði ekki bara mannað mig upp og kýlt hann til baka og að ég væri bara að væla í fjölmiðlum sem væri engin ástæða til af því við værum komin svo langt í réttindamálum hinsegin fólks.“
Úlfar segir ástæðu þess að hann sagði frá þessu í fjömiðlum vera þá að hann hafi langað til að fólk gæti dregið lærdóm af atvikinu.
„Ég hélt sjálfur að svona gerðist ekki í dag og var alls ekki viðbúinn því að lenda í einhverju svona,“ segir hann. „Ég ákvað að kæra manninn ekki, þar sem hann er greinilega á vondum stað í lífinu en ég vildi vekja athygli á því að þetta er veruleiki sem samkynhneigðir á Íslandi búa við enn í dag.“
Alltaf orðið fyrir skítkasti
Úlfar segir atvikið hafa verið það fyrsta þar sem hann var beittur líkamlegu ofbeldi, en andlegt ofbeldi og áreiti hafi alltaf verið nánast daglegt brauð.
„Maður er alltaf að fá eitthvað skítkast frá fólki sem samþykkir mann ekki eins og maður er,“ útskýrir hann rólegur. „Það hefur alltaf verið þannig. Í grunnskóla þurfti maður alltaf að vera með brynju, þótt ég væri ekki kominn út á þeim tíma var engin miskunn gefin. Þar er maður kallaður öllum illum nöfnum fyrir að vera „stelpustrákur“.
Úlfar kom ekki út úr skápnum fyrr en hann var nítján ára, en ástæða þess var meðal annars sú að hann var sem skiptinemi í kaþólskum drengjaskóla í Argentínu og þar var ekkert svigrúm gefið fyrir samkynhneigða.
„Það hefði ekki verið tekið vel í það í því umhverfi,“ segir hann og hlær. „Þannig að ég kom ekki út fyrr en eftir að ég kom aftur heim árið 2012.“
Fékk þau komment að hann ætti ekki skilið að vera til
Spurður hvað honum finnist um frasann vinsæla að Ísland sé komið svo langt í réttindamálum hinsegin fólks að engin ástæða sé fyrir það að kvarta, hristir Úlfar höfuðið.
„Við erum svo föst í því að við séum komin svo langt miðað við aðrar þjóðir að fólk sem er ekki mikið að pæla í þessu sér ekki fordómana sem eru til staðar. Þeir eru svo lúmskir og birtast á stöðum sem almenningur sér ekki. Við erum að dragast aftur úr öðrum þjóðum akkúrat núna og ég held að það sé meðal annars vegna þess að við erum svo gjörn á að leiða hluti hjá okkur. Það eru meira að segja fordómar innan hommasamfélagsins sjálfs. Þegar maður fær þessi endalausu komment um það hvað maður er lítils virði fer maður að trúa því sjálfur og efast um sjálfan sig. Ég get nefnt þér nýlegt dæmi. Ég var að vinna í félagsmiðstöð þar sem einn af drengjunum kom út úr skápnum og er alveg opinn með það en fékk endalaust af niðrandi kommentum og skilaboðum. Hann kannski póstaði mynd af sér máluðum á Instagram og fékk þau komment að hann væri ógeðslegur og ætti að drepa sig, hann ætti ekki skilið að vera til og svo framvegis. Hann sagði við mig að þegar hann fór lengst niður hafi hann verið farinn að trúa því sjálfur að þetta væri satt og hann ætti ekkert erindi í þessum heimi. Hann er þrettán ára gamall og þú getur ímyndað þér hvernig svona komment fara með hann. Þetta er það sem almenningur sér ekki. Við erum vissulega komin langt miðað við hvar við vorum fyrir tíu til tuttugu árum en það eru bara komnir aðrir tímar og fordómarnir birtast á öðrum stöðum en þá. Það er hægt að fela þá í gegnum tölvuna og fólk virðist halda að það geti sagt hvað sem er á meðan tölvuskjárinn skýlir því. Þetta er alls ekkert einsdæmi, þetta er að gerast alls staðar í kringum okkur í dag. Því miður.“
Af hverju er móðgun að vera ég?
Sjálfur segist Úlfar enn verða fyrir niðrandi athugasemdum við öll möguleg tækifæri og allir sem hann þekki í hinsegin samfélaginu hafi sömu sögu að segja.
„Jafnvel velviljaðasta fólk opinberar fordóma sína þegar það setur fyrirvara á spurninguna um það hvort maður sé samkynhneigður. „Ég ætla ekki að móðga þig, en ertu hommi?“ Af hverju ætti þessi spurning að vera móðgandi? Af hverju er það móðgun að vera það sem ég er? Það er þessi fyrirvari sem er móðgandi. Ég fékk þessa spurningu oft áður en ég kom út, en neitaði alltaf, og kannski var þetta viðhorf partur af því hvað ég dró það lengi að koma út úr skápnum. Ég var hræddur við þessa fordæmingu umhverfisins.“
„Ég var að vinna í félagsmiðstöð þar sem einn af drengjunum kom út úr skápnum … Hann póstaði mynd af sér máluðum á Instagram og fékk þau komment að hann væri ógeðslegur og ætti að drepa sig.“
Úlfar vinnur sem þjónn, er í sálfræðinámi í HR, er á leið í nám í förðunarfræðum auk þess að vinna annað slagið á félagsmiðstöðvum fyrir unglinga, bæði í Samtökunum ’78 og annars staðar. Hann segist alltaf vera mjög opinn um samkynhneigð sína og honum finnist eiginlega vanta fleira fólk sem sem vill fræða umheiminum um veröld hinsegin fólks.
„Já, ég held við þurfum miklu meiri fræðslu um þessi mál,“ segir hann ákveðinn. „Ég er alltaf tilbúinn að svara spurningum og deila minni reynslu ef fólk hefur áhuga og ég held við þurfum að vera vakandi fyrir því að umræðan deyi ekki út í þessum draumi um hvað allt sé gott fyrir hinsegin fólk á Íslandi. Það er hættulegast.“
Vonandi staðnar umræðan ekki
Gleðigangan er í augum margra fyrst og fremst fjölskylduhátíð og fögnuður, sem Úlfar segir vera stórkostlegt, en hann er á því að hún þurfi líka að standa fyrir annað og meira.
„Fólk sem ekki er tengt hinsegin samfélaginu áttar sig kannski ekki á því hversu stutt við erum komin í baráttunni, þannig að Hinsegin dagar og Gleðigangan skipta gríðarlegu máli. Við erum að berjast fyrir mannréttindum okkar, að fá þau virt eins og allir aðrir samfélagsþegnar. Það er ekki þannig í raun. Fólk er enn þá slegið úti á götu og úthúðað fyrir að vera ekki gagnkynhneigt, sem er alveg fáránlegt að viðgangist enn árið 2018. Þess vegna er full ástæða til að halda þessa göngu. Við erum ekki bara að fagna því að vera komin þetta langt, við erum líka að vekja athygli á ástæðunum fyrir því að við þurfum þessa göngu. Ég vona að ég lifi þann dag sem við þurfum ekki á þessari göngu að halda og ég er bjartsýnn á það. Vonandi bara staðnar umræðan ekki það mikið að við drögumst enn meira aftur úr, vonandi höldum við áfram að vinda upp á þessa jákvæðu þróun. Við þurfum svo sannarlega á því að halda.“
Sæborg er virk í baráttumálum transfólks, er gjaldkeri TransÍslands, og hún ætlar að sjálfsögðu að taka þátt í Gleðigöngunni. En finnst henni þessi ganga enn þá þjóna tilgangi sínum?
„Ég held það, já,“ segir hún hugsi. „Þessar göngur byrjuðu auðvitað sem mótmæli gegn misrétti sem hinsegin fólk er beitt og það er enn í gangi. Mér finnst líka gott að geta fagnað þeim árangri sem hefur náðst, þrátt fyrir allt. Það er mikilvægt vegna þess að það er svo auðvelt að missa dampinn þegar maður einblínir bara á það sem eftir er að sigrast á, en ég held það sé líka mikilvægt að göngurnar haldi áfram að vera mótmæli og hjálpi til við að vekja athygli á því misrétti sem við verðum enn fyrir. Kerfið á Íslandi er transfóbískt í eðli sínu og við þurfum að gera allt sem við getum til að vekja athygli á því og berjast gegn því.“
________________________________________________________________ Raunveruleg staða Íslands í réttindum hinsegin fólks
Goðsögnin um Ísland sem hinsegin útópíu er lífseig en á hún við rök að styðjast? Á regnbogakorti ársins er Ísland í 18. sæti yfir þau lönd sem best standa sig í að þoka réttindamálum hinsegin fólks áfram og hefur ekki haldið í við nágrannalöndin, ekki síst hvað varðar réttindi transfólks og intersex-fólks.
Ísraelska staðgöngumæðrunarfyrirtækið Tammuz Nordic hyggst frá og með hausti bjóða Íslendingum upp á milligöngu um staðgöngumæðrun. Forsvarsmaður fyrirtækisins, Mikkel Raahede, er staddur hér á landi til að kynna verkefnið og hann fullyrðir að þessi þjónusta stangist ekki á við íslenska löggjöf.
„Staðgöngumæðrun er ólögleg innan Íslands, en það er ekki ólöglegt fyrir Íslendinga að fá staðgöngumæðrun erlendis,“ segir hann. „Ég hef verið í sambandi við íslenska lögfræðinga og þeir fullvissa mig um að þetta sé löglegt.“
Þjónustan stendur bæði gagnkynhneigðum og karlkyns samkynja pörum til boða og sömuleiðis einstæðum körlum. Mikkel segir að samkvæmt íslenskum lögum sé hins vegar flóknara að hjálpa einstæðum konum og lesbíum þar sem barnið yrði skráð barn staðgöngumóðurinnar og því gæti kona lent í vandræðum með að fá að koma með það inn í landið. „Ef faðirinn er íslenskur, eins og þegar um er að ræða gagnkynhneigð pör og tvo karlmenn, er það hins vegar ekkert vandamál,“ segir hann.
Tammuz er í samstarfi við læknastöðvar í Bandaríkjunum og Úkraínu þar sem valið á staðgöngumæðrum fylgir mjög ströngum reglum, að sögn Mikkels. „Þetta er mjög strangt mat,“ segir hann. „Við fáum mjög margar umsóknir frá konum sem vilja verða staðgöngumæður, en við höfnum fleirum en við tökum við. Í fyrsta lagi verða konurnar sem vinna fyrir okkur að vera mæður sjálfar, hafa gengið með og fætt barn áður en þær taka þetta að sér. Þær þurfa að undirgangast stranga læknisskoðun, bæði líkamlega og andlega. Þær mega hvorki drekka né reykja og við leggjum mikla áherslu á að þær hafi sterkt stuðningsnet í kringum sig.“
„Ég hef verið í sambandi við íslenska lögfræðinga og þeir fullvissa mig um að þetta sé löglegt.“
Tammuz hefur starfað í tíu ár og börnin sem hafa fæðst fyrir milligöngu fyrirtækisins skipta þúsundum. Mikkel segir engin vandamál hafa komið upp hjá fyrirtækinu, engar lögsóknir og að fyrirtækið sé eitt hið virtasta í heimi á sínu sviði. Hann leggur áherslu á að í stefnu fyrirtækisins sé áherslan lögð á mannlega þáttinn, það sé stutt vel við bæði staðgöngumæðurnar og væntanlega foreldra, sem að sjálfsögðu fái að fylgjast með meðgöngunni og vera viðstaddir fæðinguna ef er óskað. „Við leggjum mikla áherslu á að styðja við bakið á foreldrunum og hjálpa þeim á allan hátt sem við getum,“ segir hann. „Staðgöngumæðrun hefur sums staðar illt orð á sér fyrir að vera gróðafyrirtæki, eða að ríka fólkið sé að nýta sér neyð fátækra kvenna, sem vissulega er raunin sums staðar, en hjá okkur snýst þetta fyrst og fremst um að hjálpa fólki að verða foreldrar.“
Sjálfur á Mikkel þrjú börn með eiginmanni sínum, sem er af íslenskum ættum, og þau eru öll fædd af staðgöngumóður. „Að vera foreldri er það stórkostlegasta sem nokkur upplifir,“ segir hann. „Ég held að við höfum öll þessa þörf fyrir að eignast eigin afkvæmi og það viljum við hjá Tammuz Nordic hjálpa fólki við.“
En hvernig snúa þeir karlar sem vilja nýta sér þjónustu fyrirtækisins sér í því að útvega eggjagjafa?
„Það er ýmist í gegnum eggjabanka, eins og hjá gagnkynhneigðum pörum þar sem konan er ófrjó, eða að þeir fá konu sem þeir þekkja og treysta til að gefa egg,“ útskýrir Mikkel. „Hvort sem fólk velur erum við til staðar og aðstoðum, við setjum ekki fram neinar kröfur um að eggin komi úr eggjabanka sem við erum í viðskiptum við.“
Mikkel viðurkennir að það sé mjög dýrt að fara í gegnum þetta ferli, en fyrirtækið kappkosti að halda kostnaði eins mikið niðri og kostur sé. „Við erum til dæmis meðal ódýrustu staðgöngumæðrunarfyrirtækja í Bandaríkjunum,“ segir hann. „Þannig að við erum tiltölulega hagkvæmur kostur ef fólk vill fara þessa leið.“
Mikkel er í stuttu stoppi á Íslandi núna til að kanna hvernig landið liggur, en hann kemur aftur í byrjun október og mun þá halda kynningarfyrirlestur fyrir áhugasama um starfsemi fyrirtækisins og þann kost að að eignast barn með staðgöngumæðrun. „En ég er alltaf tilbúinn að ræða við þá sem vilja kynna sér málið og hvet fólk til að vera í sambandi við okkur og spyrja spurninga,“ segir hann.
Hnúðkál flokkast ekki undir rótargrænmeti heldur undir garðkál. Það er skylt blómkáli, brokkólí og grænkáli. Hnúðurinn sem við borðum, eða kálhausinn er hluti af stilknum en ekki rótinni. Stilkurinn getur verið grænn, hvítur eða fjólublár en kjötið er alltaf hvítt.
Hnúðkálið er hálfsérkennilegt í útliti því topphluti stöngulsins myndar hnúð og standa blöðin upp af hnúðnum. Það er talið af ítölskum uppruna og byrjað var að rækta það á Norðulöndunum á 17. öld. Vinsældir hnúðkálsins hafa farið vaxandi í norrænni matargerð síðustu áratugi.
Það má borða blöðin af hnúðkálinu. Best eru þau steikt eða gufusoðin en einnig er hægt að skera þau niður í salat.Það má líka klippa ung blöð af kálinu á meðan það er að vaxa og svipar þeim þá til spínats.
Hnúðkál er mikið notað í Austur-Evrópu og Þýskalandi. Það er oftast notað eins og gulrófur og næpur og þykir bragðið vera áþekkt þeim tegundum en heldur fínlegra.
Hnúðkál er ríkt af C- og B-vítamínum og af steinefnum. Það er mjög trefjaríkt, inniheldur litla fitu og er mjög kaloríusnautt.
Best er að geyma það í kæli. Það þarf ekki að pakka því inn því engin hætta er á vatnstapi. Best er að borða það innan 10 daga frá uppskeru.
Hnúðkálsbollurnar eru hentugur pinnamatur í veislur og smakkast vel hvort sem þær eru heitar eða kaldar og jógúrtsósan er frábær með.
Djúpsteiktar hnúðkálsbollur
fyrir 4
1 hnúðkálshöfuð, afhýtt
½ bökunarkartafla
3 hvítlauksgeirar
1 laukur
1 sítrónugras
4 msk. maísmjöl
2 kúfaðar msk. hnetur að eigin vali, t.d kasjúhnetur eða valhnetur
hnefafylli af ferskri myntu
hnefafylli af ferskri steinselju
1 egg
olía til djúpsteikingar
salt og pipar eftir smekk
Brytjið hnúðkálið, kartöfluna, lauk og hvítlauk í grófa bita og setjið í matvinnsluvél. Bætið afgangnum af hráefninu saman við og látið vélina ganga áfram. Smakkið til með salti og pipar. Maukið á að vera mjög fíngert. Geymið í ísskáp í að minnsta kosti 1 klukkustund. Maukið á að vera nokkuð blautt viðkomu en ef það helst ekki nægilega vel saman má bæta við svolitlu maísmjöli. Búið til litlar kúlur með teskeiðum og djúpsteikið í olíu þar til bollurnar fá gullinbrúnan lit á sig. Notið helst gataspaða til að veiða bollurnar upp úr olíunni og gott er leggja þær á eldhúsþurrkur. Bollurnar eiga að vera um það bil munnbiti að stærð.
Jógúrtsósa:
2 dl grísk jógúrt
1 dl smátt skorin fersk mynta
safi úr einni límónu
½ tsk. salt
nýmalaður pipar
Blandið öllu saman sem á að fara í sósuna. Gott er að láta hana standa örlítið áður en hún er borin fram þá verður hún bragðmeiri.
Unnur Eggertsdóttir var ekki há í loftinu þegar hún tók þá ákvörðun að verða leik- og söngkona. Frá unglingsaldri hefur hún unnið hörðum höndum að því að uppfylla þann draum, og hefur undanfarin ár verið búsett í landi tækifæranna, Bandaríkjunum. Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá útskrift úr virtum leiklistarskóla hafa verkefnin verið fjölmörg. Unnur stendur nú á tímamótum eftir að hafa sagt upp hlutverki sínu í stórum söngleik sem settur var upp í Las Vegas.
Leiðin hefur ekki alltaf verið greið síðustu ár í lífi Unnar, þrátt fyrir að á blaði virðist tækifærin hafi hreinlega dottið upp í hendurnar á henni. Sjálf gefur hún lítið fyrir þá hugmynd að hægt sé að meika það á einni nóttu. „Það er einhver rómantík yfir þeirri hugmynd í Hollywood sem fræga fólkið virðist oft vilja halda í,“ segir hún. „Það hljómar kannski betur að hafa orðið frægur á einni nóttu, því fólk vill ekki segja frá svitanum, grátinum og barningnum sem hefur farið í þessa vegferð á kannski tíu árum, meðan enginn vissi hver þau voru. Það er kannski eitt hlutverk sem gerir þau fræg, en öll vinnan fram að þessu hlutverki, það tala fáir um hana. Sjálfri finnst mér skemmtilegra þegar fólk segir hvað búið er að fara í baráttuna, það gefur mér mikinn innblástur. Það er oft talað um að gullna reglan sé tíu ár. Ef þú gefst ekki upp í áratug og vinnur eins mikið og þú getur, þá verðurðu á góðum stað. Þetta er bara eins og í öðrum greinum – ef þú vilt stjórna stóru fyrirtæki eða vinna þig upp sem læknir, þarftu að leggja alveg jafnmörg ár í það eins og ef þú vilt verða virtur leikari. Margir líta á þetta ferli sem spretthlaup, og bara á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að ég útskrifaðist úr leiklistarnáminu hef ég sé marga gefast upp. Mér finnst mikilvægast að hafa þolinmæði og yfirvegun, og halda í drifkraftinn.“
Unnur hefur síðustu þrjá mánuði leikið hlutverk Jayne Mansfield í söngleik um líf Marilyn Monroe sem settur var upp í Las Vegas. Hlutverkið er það stærsta sem Unnur hefur leikið hingað til, og hafa síðustu mánuðir verið mikil keyrsla. „Það var mögnuð lífsreynsla að búa og vinna í Vegas. Ég hafði fyrst ekki hugmynd um við hverju ég ætti að búast og fannst ég svolítið rugluð að flytja í þessa djammborg. En þetta voru óendanlega skemmtilegir og lærdómsríkir mánuðir. Þarna var ég að vinna með margföldum Broadway-stjörnum og fagfólki með áratuga reynslu í bransanum. Leikhópurinn varð mjög náinn og allir sem komu að sýningunni voru með óbilandi metnað. Við vorum oft á 12 tíma æfingum marga daga í röð, að læra 18 tónlistaratriði með erfiðum dönsum og röddunum. Svo tóku sýningar við og þá sýndum við sex kvöld í viku, aðeins í fríi á mánudögum. Ég lærði svo mikið um sjálfa mig, rödd mína og líkama, hvað ég þurfti að gera til að halda mér í sem bestu formi til að geta sýnt svona erfiða sýningu næstum daglega. Í því fólst að anda að mér gufu í klukkutíma á dag, taka milljón vítamín og drekka kínverskt hunang, hvíla röddina fyrir hádegi, hita hana vel upp, og kæla hana svo niður eftir sýningu. Svo var ég í sjúkraþjálfun þrisvar sinnum í viku því það var mikið álag á bakinu í þessum dönsum sem ég var í. Þetta tók allt þvílíkt á, en alveg klárlega það lærdómsríkasta sem ég hef gert.“
Til stóð að sýningar á söngleiknum stæðu yfir í sex mánuði til að byrja með, en fyrir mánuði tóku framleiðendur sýningarinnar ákvörðun um að skipta um leikhús og gera breytingar á rekstrarumhverfinu. „Vegna þessara breytinga var ákveðið að senda leikarana í sumarfrí, sem mér fannst æðislegt. Ég fór í tvær vikur til New York að leika mér og hitta gamla vini, og er svo búin að eiga tvær dásamlegar vikur hér á Íslandi,“ segir Unnur, en vegna alls þessa þarf að endurnýja samninga við leikarana eftir sumarfríið. Hún hefur hins vegar tekið ákvörðun um að endurnýja ekki sinn samning.
„Í stærra samhenginu held ég að það sé betra fyrir mig og minn feril að endurnýja hann ekki, heldur fara aftur til Los Angeles og einbeita mér að því að finna ný verkefni. Nú þegar þetta er komið í ferilskrána og reynslubankann finnst mér það rétta í stöðunni að skoða ný tækifæri og hlutverk, í staðinn fyrir að vera þarna í ár í viðbót, eins ótrúlega gaman og það samt er. Þetta er auðvitað meiri áhætta, en ég finn innra með mér að þetta er rétt ákvörðun. Á svona stundum þarf að hlusta á innsæið – og það öskrar á mig að ég verði að taka þetta skref, eins hrædd og ég er við það.“
Þetta er aðeins brot út ítarlegu viðtali við Unni. Viðtalið í heild má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.
/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Aldís Pálsdóttir / Aðstoðarljósmyndarar: Unnur Magna og Jökull Sindrason
/Förðun: Björg Alfreðsdóttir
Forseti Íslands telur mikilvægt að halda baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks áfram.
„Í einlægni sagt trúi ég og vona að litið verði á Hinsegin daga sem tákn um mikilvægi frelsis, virðingar og fjölbreytileika í samfélaginu almennt,“ segir Guðni Th. Jóhannesson forseti, um Hinsegin daga sem hófust í vikunni, en venju samkvæmt ætlar forsetinn að halda hátíðlega upp á dagana og verður viðstaddur opnunarhátíðina í Háskólabíó í kvöld.
Þetta kemur fram í viðtali við forsetann á fréttasíðunni GayIceland, en þar segir Guðni jafnframt frá því að sem strákur hafi hann verið kallaður hommi vegna þess að hann bar sama nafn og þáverandi formaður Samtakanna ’78, Guðni Baldursson. Þá hafi hommi verið uppnefni en í dag séu breyttir tímar.
Í viðtalinu kemur forsetinn inn á þátttöku sína í Hinsegin dögum fyrir tveimur árum en þá braut Guðni blað í sögunni þegar hann varð fyrsti forsetinn í heiminum til þess að taka opinberlega þátt í gleðigöngu. „Í mínum huga var það mjög eðlileg og gleðileg ákvörðun að taka þátt í göngunni fyrir tveimur árum. Ég styð mannréttindi, fjölbreytileika, frelsi til að tjá sig, elska og trúa því sem maður vill, eða ekki trúa neinu.“
Hann segist hafa tekið þátt í göngunni áður en hann varð forseti og hafi ekki ætlað að hætta því bara við það eitt að fá nýtt hlutverk. Nú sé hann jafnframt orðinn verndari Samtakanna ’78 og segist taka því hlutverki alvarlega. Hann telur mikilvægt að halda baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks áfram líkt og allri baráttu fyrir mannréttindum. Hann muni tjá sig um þessi málefni erlendis ef hann fær tækifæri til þess.
Sæborg Ninja Guðmundsdóttir og Úlfar Viktor Björnsson hafa verið beitt ofbeldi fyrir að vera hinsegin.
Hinsegin dagar eru í fullum gangi, bærinn iðar af lífi og litum og allir brosa út að eyrum. Á morgun munu, ef að líkum lætur, þúsundir fólks safnast saman í miðbænum til að fylgjast með Gleðigöngunni árlegu sem orðin er í huga margra að hápunkti sumarsins. En erum við komin eins langt í réttindum hinsegin fólks og gjarna er haldið fram?
Svarið við því er blákalt nei samkvæmt Sæborgu Ninju Guðmundsdóttur og Úlfari Viktori Björnssyni, sem eru í viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur út á morgun.
Sem hinsegin fólk upplifa Sæborg og Úlfar niðrun og áreiti nánast alla daga ársins og bæði hafa þau lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera þau sjálf. Í viðtalinu segjast þau vilja leggja áherslu á að gangan sé ekki einungis til að fagna áunnum réttindum heldur ekki síður til þess að minna á hve langt er í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir.
Eldhúsið er hjarta hússins líkt og maginn er leiðin að hjarta mannsins. Skoðum hvað ber hæst í eldhústískunni um þessar mundir.
Grófar marmaraflísar
Eitt heitasta trendið í eldhúsum um þessar mundir er á sama tíma klassískt og trendí. Flísar í marmarastíl hafa verið að skjóta upp kollinum víða upp á síðkastið en mynstrið sjálft er gróft, villt og áberandi.
Gullfallegt að nota þær á milli eldhússkápa eða fyrir ofan neðri skápa og leyfa þeim njóta sín sem best eins og sjá má hér að ofan. Hér eru nokkrar guðdómlegar útfærslur.
Harðviðarval selur geggjaðar flísar í marmarastíl frá ítalska framleiðandanum Marazzi. Þær koma í stærðum frá 30×60 yfir í 120×240 cm en fermetraverðið er frá 9.500 kr.
Dökkblár
Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með í innanhússhönnun að dökkblár litur tröllríður eldhústískunni. Okkur þykir liturinn Votur frá Slippfélaginu sjúklega flottur.
Engir efriskápar
Nú er hámóðins að sleppa efri skápum í eldhúsunum og opnar hillur frekar notaðar til punts og pjatts.
Falinn vaskur
Það þykir ferlega smart í dag að leyfa vaskinum að falla ofan í borðplötuna og nota sama efniviðinn í hvoru tveggja. Myndirnar tala sínu máli en okkur þykir þessi hönnun einstaklega falleg.
Múrsteinar
Hvítur múrveggur er bæði gamaldags og nútímalegur á sama tíma en efniviðurinn ætti ekki að kosta mikið.
Iðnaðarljós
Iðnaðarljós (e. industrial) hafa vaxið mikið í vinsældum síðustu misserin en við elskum ljósahönnun Foscarini fyrir Diesel. Þau fást hjá Lúmex hér á landi.
Þunnar borðplötur
Þunnar borðplötur eru að koma sterkt inn í innanhússhönnunartískunni sem og að nota ýmiskonar viðartegundir í eldhúsborðplötuna.
Að öllum líkindum hafa flest okkar borðað meira af hamborgurum í sumar en við getum talið enda með vinsælli sumarmat á landinu. Þó getur verið gaman að breyta til og prófa sig áfram með annað kjöt á borgarann og þá kemur íslenska lambakjötið sterkt inn.
Lambaborgari
fyrir 4
600 g lambahakk
20 g kryddjurtir, t.d. mynta, basilíka og dill, saxað
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
2 msk. ólífur, saxaðar
1 tsk. salt
½ tsk. pipar
1 krukka glóðaðar paprikur
þeyttur fetaostur
4 hamborgarabrauð
½ rauðlaukur, sneiddur
klettasalat
Hitið grillið í meðal-háan hita. Blandið saman lambahakki, kryddjurtum og hvítlauk. Skiptið kjötinu í fjóra parta (u.þ.b. 150 g hver) og mótið borgarana mjúklega í höndunum, passið að þrýsta kjötinu ekki of fast saman. Þrýstið þumlinum niður á miðju borgarans (þetta kemur í veg fyrir að hann lyftist upp í miðjunni þegar hann er grillaður).
Grillið kjötið í 3-5 mín. á hvorri hlið eða þar til það hefur eldast að utan en er þó ennþá bleikt í miðju. Grillið tómatana á meðan kjötið grillast þar til þeir hafa mýkst. Smyrjið þeyttum fetaosti (sjá uppskrift neðar) á hamborgarabrauð og leggið kjötið, tómatana, rauðlaukssneiðarnar og klettasalatið ofan á.
Þeyttur fetaostur
250 g fetaostur
3 msk. ólífuolía
Setjið hráefni í matvinnsluvél eða blandara og látið vinna þar til allt er orðið kekkjalaust og slétt. Hellið meiri ólífuolíu í blandarann ef osturinn er of kekkjóttur.
Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Virpi Jokinen er ættuð frá Finnlandi en hefur verið búsett hér á landi í aldarfjórðung. Hún hafði starfað sem skipulagsstjóri Íslensku óperunnar í 11 ár, þar til fyrir rúmu ári þegar hún ákvað að venda kvæði sínu í kross og stofna fyrirtækið Á réttri hillu. Skipulagsaðstoðin sem Á réttri hillu býður upp á felst í því að koma til aðstoðar hjá einstaklingum og minni fyrirtækjum þegar skipulagsleysi veldur vanda.
Virpi segir verkefnin mjög mismunandi eftir þörfum viðskiptavina og að starf hennar taki breytingum eftir því hvað hvert verkefni kallar á. „Öll verkefnin byrja á klukkustundar viðtali til að ræða stöðuna, sjá heimilið eða fyrirtækið og setja markmið í samstarfi við viðskiptavininn. Eftir það er svo undir viðskiptavininum komið hvort óskað er eftir að fá mig aftur seinna til að vinna að sjálfu verkinu. Á meðan til dæmis er unnið að meiri háttar tiltekt eða undirbúningi flutninga er hlutverk mitt að vera tímavörður, hvetja viðskiptavininn áfram, finna mögulegar lausnir og koma með tillögur. Ég tek aldrei ákvarðanir um neitt eða mynda mér skoðun á því hvað viðskiptavinurinn á eða á ekki að gera. Markmið starfs míns er að viðskiptavinir annaðhvort nái markmiðum sínum eða komist hægt og rólega af stað í átt að markmiðum sínum“, segir hún.
Ekki alltaf auðvelt að óska eftir aðstoð
„Ég hafði sinnt margvíslegum verkefnum hjá Óperunni og var alltaf með marga bolta á lofti,“ segir Virpi þegar hún útskýrir hvernig hugmyndin að fyrirtækinu hafi komið til. „Í framhaldinu kviknaði þessi hugmynd, að fara af stað með eigin rekstur og að loknu frábæru Brautargengisnámskeiði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands ákvað ég láta slag standa og stofnaði Á réttri hillu í ársbyrjun 2018. Nafnið á fyrirtækinu kom til mín í spjalli við vinkonu á veitingastað þar sem ég var enn eina ferðina að útskýra þessa hugmynd og að ég hefði svo mikla trú á þessu, mér fyndist ég bara vera svo á réttri hillu með þetta. Hún segir að svipurinn á mér hafi verið kostulegur þegar við áttuðum okkur á að þarna væri rétta heitið loksins fundið. Þá var ekki aftur snúið og daginn eftir tók ég frá lénið www.arettrihillu.is.“
Virpi segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar og hún fagnar því hversu margir hafa sett sig í samband við sig. „Það er ekki alltaf auðvelt að óska eftir svona persónulegri þjónustu, hvað þá að fá einhvern gjörókunnugan heim til sín. Ég hugsa að mér sé óhætt að fullyrða að flestum ef ekki öllum viðskiptavinum mínum hingað til hafi þótt þjónustan koma sér vel og að möguleg feimni þeirra við að velja þessa þjónustu hafi snúist í ánægju yfir að hafa áttað sig á þessum möguleika og stigið það erfiða skref að hafa samband. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru breiður hópur fólks, einstaklingar til jafns við fjölskyldur, fólk með eigin rekstur, yngra og eldra fólk. Það sem einna helst einkennir viðskiptavinina er að þeir eru oft á tíðum með mjög skýrar hugmyndir um lokamarkmiðið eða í það minnsta með mjög sterka tilfinningu fyrir þörf á ákveðinni breytingu á nákvæmlega þessum tímapunkti. Út frá því er þjónustan einnig hugsuð. Á réttri hillu er til aðstoðar á þeim tímapunkti í lífinu, verkefninu eða ferlinu þegar hennar er þörf. Að mínu mati er engin skömm að því að óska eftir aðstoð en það er aftur á móti dapurt að neita sér um það ef brýn þörf er fyrir hendi.“
Meginatriði að gefa sér góðan tíma
Hingað til hafa öll verkefni sem Virpi hefur tekið að sér snúist um hluti í eigu einstaklinga og fyrirtækja. Hún aðstoðar við að finna leiðir til að fækka þeim og koma því sem eftir verður betur fyrir. Í samstarfi við viðskiptavini hefur hún meðal annars létt á ýmiss konar hlutum á heimilum, fækkað pappírum, tekið til í bílskúrum, geymslum og háaloftum, undirbúið flutninga og útbúið vinnuherbergi.
Aðspurð um ráð fyrir þá sem vilja taka heimilið sitt í gegn telur Virpi meginatriði að gefa sér góðan tíma. „Að ætla heilt ár í að létta á venjulegu heimili er ekki langur tími, í mörgum tilfellum örugglega bara alveg mátulegur. Í upphafi er nauðsynlegt að sjá lokamarkmiðið fyrir sér og gefa sér góðan tíma til að móta það, jafnvel skrifa það niður. Ef um fjölskyldu er að ræða er mikilvægt að fá sjónarmið allra um það hvað hver og einn telur mikilvægt til að tryggja að útkoman þjóni öllum á heimilinu sem best. Ég tel að það sé lítið gagn að lista sem á stendur allt sem er að, en allt öðru máli gegnir um lista þar sem kemur fram hvernig maður vill hafa ákveðna hluti. Ég á við að í stað þess að hugsa eða skrifa hjá sér „bílskúrinn er fullur af dóti“ væri betra að skrifa „ég vil geta keyrt bílinn inn í bílskúr“ eða „ég vil geta gengið að verkfærunum vísum á sínum stað og í lagi“. Þarna eru komin skýr markmið sem hægt er að fara að vinna að.
Ítarlegra viðtal við Virpi og fleiri góð ráð frá henni má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.
/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
Myndir: Unnur Magna
Grínistinn Jonathan Duffy er farinn af stað með nýjan þátt á Netinu.
Ástralski grínistinn Jonathan Duffy, sem vakti athygli fyrir uppistand sitt I Wouldn’t Date Me Either á hátíðinni Reykjavík Fringe Festival í Tjarnarbíói í síðasta mánuði, er farinn af stað með nýjan þátt á Netinu.
An evening with Jono Duffy kallast herligheitin en um er að ræða spjallþátt með gamansömu ívafi þar sem Jonathan, eða Jono eins og hann er gjarnan kallaður, fær til sín þjóðþekkta íslendinga og aðra gesti og tekur viðtöl og gerir þess á milli óspart grín að öllu milli himins og jarðar, alveg frá „sumrinu“ í ár yfir í ferðaþjónustuna á Íslandi. En eins og þeir vita sem til þekkja er grínstinn ófeiminn við að tækla alls konar mál eins og kynlíf og önnur málefni sem margir veigra sér við að fjalla um.
Jono hefur verið búsettur á Íslandi í nokkur ár og á m.a. að baki sýningarnar Australiana og An Evening With Jono Duffy, auk fyrrnefndar I Wouldn’t Date Me Either. An evening with Jono Duffy er fyrsti íslenski spjallþátturinn sem er framleiddur á ensku og er óhætt að segja að byrjunin lofi góðu.
Anna Eðvaldsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, hefur tekið á móti tæplega 1600 börnum og hefur í gegnum tíðina gefið foreldrum ráð við öllu sem tengist komu nýs einstaklings í heiminn. Nú hefur hún látið gamlan draum rætast þar sem þessi ráð eru nú saman komin í fallegri bók.
„Þessi bók hefur verið í huga mínum í mörg ár. Ég fann fyrir hvað mikil þörf var á að foreldrar, ömmur og afar gætu leitað svara við spurningum sínum. Þar sem öll svör væru til í einni bók. Ég var endalaust að gefa ráð, svara spurningum og fann svo vel fyrir þakklætinu þegar ráðin dugðu. Oftar en ekki sögðu foreldrarnir, „mikið væri nú gott að geta bara flett upp í einni Önnu ljósu í bók“,“ segir Anna. Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifaði bókina sem ber heitið Fyrstu mánuðirnir – ráðin hennar Önnu ljósu. Esther Viktoría Ragnarsdóttir og Ari Arnaldsson teikna myndirnar sem prýða bókina og Bókafélagið gefur hana út.
„Bókin fjallar um öll þau ráð sem ég hef gefið í heimaþjónustu. Þar er talað um undirbúninginn undir fæðinguna, eldri systkini, fyrstu dagana heima, barnið þegar það kemur í heiminn, líðan móður eftir fæðingu, næringu barnsins brjóstagjöf og pelagjöf, meltingu, grát fyrstu dagana, umhirðu barnsins, veikindi barnsins, hitt foreldrið, andvana fæðingu, endurlífgun og margt margt fleira.“
„Sjúkralið gæti ekkert gert á þessu augnabliki sem ég gæti ekki gert. Skelli mér aftur í hanska, laga rauða kjólinn minn og í næstu hríð fæddist spræk og yndisleg stúlka.“
Fæðing í miðju matarboði
Á þessum tíma sem Anna hefur verið ljósmóðir hefur ýmislegt komið upp á. Annar júní 2009 er henni til dæmis minnisstæður. „Ég var með smávegis matarboð heima hjá mér og þegar við vorum að klára að borða hringdi síminn. Þá er það nágrannakona sem býr ská á móti mér. Ég var búin að vera með hana í mæðravernd og hún sagðist vera með einhverja „murnings“ verki, hvort ég gæti skoðað hana því hún nennti ekki niður eftir ef ekkert væri að gerast. Ég skottaðist yfir með töskuna mína í rauðum sumarkjól og rauðum lakkskóm. Eftir skoðun segi ég henni að ef hún ætli ekki að fæða í bílnum þá skuli hún drífa sig á fæðingardeildina því hún sé komin með átta í útvíkkun. Ég sný mér frá henni og fer úr hanskanum. Hún fer að skellihlæja, vatnið fer og kollurinn fæðist. Pabbinn spurði hvort hann ætti að hringja á sjúkrabíl en ég sagði honum að setjast bara hjá konunni sinni og sýna henni stuðning. Sjúkralið gæti ekkert gert á þessu augnabliki sem ég gæti ekki gert. Skelli mér aftur í hanska, laga rauða kjólinn minn og í næstu hríð fæddist spræk og yndisleg stúlka. Eldri bræður hennar þrír höfðu verið sendir í ísbúð með ömmu sinni meðan ég skoðaði mömmu þeirra og það var dásamlegt að upplifa þegar þeir komu til baka og sáu á hverju mamma þeirra hélt þegar þeir komu inn í herbergið. Þegar ég kom aftur heim voru allir í rólegheitum að fá sér kaffi. Ég sagðist aðeins hafa skroppið yfir í næsta hús að taka á móti barni, sagði svo: „Viljið þið meira kaffi“.“
Ljósuhjartað stundum brostið
Og kjarabarátta ljósmæðra hefur ekki farið fram hjá Önnu frekar en öðrum. „Kjarabarátta okkar ljósmæðra er barátta fyrir allar konur. Það var alveg kominn tími til að leiðrétta laun ljósmæðra þannig að nýúrskrifuð ljósmóðir lækki ekki í launum fyrir það eitt að bæta við sig tveimur námsárum eftir fjögurra ára hjúkrunarnám. Þetta er búið að vera erfitt og ljósuhjartað mitt hefur nokkrum sinnum brostið í þessari baráttu. Ég hef aldrei upplifað eins mikla og góða samstöðu okkar ljósmæðra og meðbyrinn í þjóðfélaginu gríðarlegur. Þetta hefur verið erfitt fyrir alla; ljósmæður, samstarfsfólk og verðandi foreldra.“
Listamaðurinn Arngrímur Sigurðsson vinnur að höggmyndum sem verða sýndar í uppboðshúsinu Sotheby‘s í New York. Höggmyndirnar eru af ófreskjum sem eiga rætur að rekja til íslenskra þjóðsagna.
„Ég fór að ímynda mér möguleika erfðafræðinnar og svokallaðrar svartrar líffræði og hvernig það kynni að líta út ef okkur tækist að búa til samblöndu af mannskepnunni og verkfærum mannsins, sérstaklega hvernig stökkbreyttar útgáfur af mönnum og vopnum gætu litið út. Eftir svolitla hugmyndavinnu varð þetta útkoman,“ segir myndlistamaðurinn Arngrímur Sigurðsson um höggmyndir sem hann er að vinna að um þessar mundir á vinnustofu í bænum Carrara á Ítalíu, en þær verða sýndar í apríl á næsta ári í einu elsta og virtasta uppboðshúsi heims, Sotheby‘s í New York.
Höggmyndirnar eru af skrímslum sem Arngrímur byrjaði að þróa meðan hann var við meistaranám í myndlist við New York Academy of Arts og eru hluti af lokaverkefni hans við skólann síðastliðið vor. „Þar bjó ég til samskonar skrímsli úr sílikoni, hreindýrafeldi og hrosshári en erfðafræðilegar tilraunir og allar þessar framfarir sem eru að verða í erfðavísindum urðu kveikjan að þeim,“ útskýrir hann. „Hvernig hægt er að forrita erfðaefni mannsins nánast upp á nýtt. Til dæmis skeyta saman ólíku erfðaefni til að búa til næstum hvað sem er.“
„Að sýna á vegum ABC Stone og í Sotheby‘s á svipuðum tíma, það á eftir að verða mjög skemmtilegt.“
Arngrímur segir að skrímslin séu ákveðið framhald af olíumyndum sem hann málaði fyrir nokkrum árum af íslenskum þjóðsagnaverum út frá lýsingum á fyrirbærum og duldýrum úr þjóðsögum og öðrum fornritum. Myndir af verkunum rötuðu í bók, Duldýrasafnið, sem kom út fyrir fjórum árum og vakti athygli, ekki síst ný og endurbætt útgáfa hennar á ensku sem ferðamenn hafa keypt í bílförmum.
Spurður hvað það sé eiginlega við skrímsli sem heilli hugsar hann sig um og segir: „Mér finnst bara svo áhugavert hvernig þau endurspegla til dæmis alls konar náttúrufyrirbrigði eða samfélagslegar hræringar og hvað þau geta verið skemmtilega margræð.“ Hann segir það vera með ólíkindum að íslenskir listamenn skuli ekki hafa sótt meira í þennan menningararf því hann sé ótrúlega spennandi.
En Sotheby´s, er ekki viss upphefð að sýna í þessu gamla og virta uppboðshúsi? „Algjörlega,“ svarar hann og flýtir sér að bæta við að skúlptúrarnir verði þó ekki eingöngu sýndir þar. Þeir verði líka til sýnis í ABC Stone í Williamsburg. „ABC Stone er fyrirtæki sem er leiðandi í innflutningi og vinnslu á ítölskum marmara í Bandaríkjunum. Ég er einmitt hérna á Ítalíu í boði þess, en þeir bjóða tveimur nemendum frá New York Academy of Art til að nema steinhögg í Carrara á hverju ári. Þannig að sýna bæði á vegum þess og í Sotheby‘s á svipuðum tíma, það á eftir að verða mjög skemmtilegt.“