Fimmtudagur 19. september, 2024
6.6 C
Reykjavik

Furðu mikið að gera og sjá í Óðinsvéum

Sveinn Sigurðsson mælir með áhugaverðum stöðum í Óðinsvéum.

Sveinn Sigurðsson bjó í miðbæ Óðinsvéa árin 2013-2015 þar sem hann var í námi í University of Southern Denmark og útskrifaðist með meistaragráðu í vörumerkjastjórnun og markaðssamskiptum. Hann er nú í atvinnuleit og bloggar um bjór hjá nobsbrewing.com.

„Þrátt fyrir að Óðinsvé sé þriðja stærsta borg Danmerkur með rúmlega 170 þúsund íbúa þá minnir borgin meira á smábæ. Íbúarnir eru virkilega vingjarnlegir og taka sérstaklega vel á móti Íslendingum,“ segir Sveinn sem bjó þar í tvö ár ásamt kærustu sinni, Þóreyju Richardt Úlfarsdóttur, og þar fæddist sonur þeirra, Almar Darri. „Í borginni eru margir viðburðir og hátíðir allan ársins hring, til dæmis H.C. Andersen Festival, Harry Potter-hátíð, Danski bjórdagurinn og tónlistarhátíðin Tinderbox.“

Munke Mose og Eventyrhave
Í miðborg Óðinsvéa eru tveir almenningsgarðar sem eru tengdir saman með göngustíg og þar þótti mér alltaf gaman að koma. Í Munke Mose er gott að setjast niður, fylgjast með mannlífinu og fuglalífinu og jafnvel fara í siglingu upp eftir Óðinsvéánni. Í Eventyrhave sem er í göngufjarlægð frá Munke Mose er fallegur blómagarður og einnig mörg listaverk tengd ævintýrum H.C. Andersen.

„Þrátt fyrir að Óðinsvé sé þriðja stærsta borg Danmerkur með rúmlega 170 þúsund íbúa þá minnir borgin meira á smábæ,“ segir Sveinn

Gamli bærinn
Mér finnst gamli bærinn sérstaklega fallegur og mjög gaman að rölta þar í gegn. Þar er hægt að kíkja í skranbúðir, sjá fæðingarstað H.C. Andersen og H.C. Andersen-safnið en einnig eru þar mörg sögufræg hús og staðir sem gaman er að líta á.

Egeskov-kastalinn
Egeskov-kastalinn er staðsettur í hálftíma akstursfjarlægð frá Óðinsvéum og hefur eitthvað við hæfi allra. Þar er mjög stór blómagarður sem fékk verðlaunin Best European Historic Garden árið 2012. Hægt er að skoða sjálfan kastalann og þar inni eru ýmsir sögulegir munir. Á svæðinu við kastalann er einnig stórt safn með ýmsum farartækjum, mikill fjöldi af mótorhjólum og bílum sem maður hefur ekki oft tækifæri til að sjá.

Markaðurinn á höfninni
Yfir sumartímann er gaman að fara niður á höfn á sunnudögum og skoða markað þar sem fólk kemur og selur notaða hluti. Þar myndast oft skemmtileg stemning og finna má ýmislegt forvitnilegt og skemmtilegt. Einnig er hægt að rölta um hafnarsvæðið og skoða bátana.

Dýragarðurinn
Dýragarðurinn í Óðinsvéum er einstaklega skemmtilegur og hefur fengið verðlaun fyrir að vera besti dýragarður í Evrópu. Þar er hægt að sjá hin ýmsu dýr og smáfólkið getur fengið að klappa dýrum í húsdýragarðinum á svæðinu. Ég mæli sérstaklega með því að taka með nesti og verja heilum degi í að skoða dýrin.

Christian Firtal
Vegna þess að ég er mikill bjóráhugamaður þá get ég ekki sleppt því að minnast á Christian Firtal. Þessi litli staður er staðsettur í göngugötu niðri í bæ og þar er boðið upp á marga af bestu handverksbjórum sem framleiddir eru á Norðurlöndunum. Þar er hægt að fá 20 bjórtegundir á krana og fjöldann allan af bjór á flöskum en einnig eru margar gerðir af viskíi og koníaki.

Umsjón / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Ingibjörg Hilmarsdóttir

Hinn fullkomni morgunmatur

Tillögur að hollum og góðum morgunmat.

Egg eru einstaklega prótínrík og holl fæða sem er tilvalið að neyta á morgnana.

Chia-grautur
Chia-fræ eru einstaklega næringarrík fæða en þau innihalda bæði nóg af kalki og pró­tíni og hafa oftar en ekki verið kölluð ofurfæða. Þau geta dregið í sig allt að tífalda þyngd sína af vökva og eru þannig seðjandi en jafnframt auðmeltanleg. Gott er að undirbúa chia-graut kvöldið áður og setja kúfaða matskeið af chia-fræjum og 100 ml af vökva, hægt að nota vatn, möndlumjólk eða hvað sem þig lystir, í skál eða nestisbox og inn í ískáp. Morguninn eftir munu chia-fræin hafa drukkið í sig mestallan vökvann og þá má bæta við þeim ávöxtum sem eru við höndina.

Hafragrautur
Hafragrautur er ákaflega hollur og saðsamur morgunmatur. Hann inniheldur mikið af trefjum en þær eru ekki meltar eða frásogaðar heldur fara þær í gegnum meltingarkerfið og draga í sig vökva. Hafrar geta ýmist verið litlir og stórir, grófir og fínir, glúteinlausir eða lífrænir, hver og einn verður að velja þá hafra sem hentar honum best. Sumum þykir hafragrauturinn bestur upp á gamla mátann, soðinn með ögn af salti, en einnig er hægt að bæta ávöxtum og skyri saman við eftir að grauturinn er soðinn eða sjóða epli og kanil með höfrunum.

Hristingur
Undanfarin ár hafa vinsældir hristinga og safa aukist til muna og algengt er að fólk fái sér slíkt í morgunmat eða í millimál seinnipart dags. Þó að það sé hægt að kaupa góða hrisitinga í ýmsum verslunum er einnnig auðvelt að gera gómsætan hristing heima, það eina sem til þarf er blandari eða matvinnsluvél. Blandaðu um það bil 300-400 ml af vökva, hægt að nota kókosvatn, möndlumjólk, kranavatn eða safa, og þeim ávöxtum og grænmeti sem þú vilt nota saman í blandara. Ekki sleppa grænmetinu því það gerir hristinginn hollari og næringarríkari, gott er að hafa það fyrir reglu að hafa að minnsta kosti eina tegund grænmetis. Einnig getur verið gott að nota prótínduft eða einhvers konar hnetusmjör út í en þá er betra að bæta dálitlu vatni saman við. Til þess að auka sætu er hægt að nota döðlur eða fljótandi steviu.

Egg
Egg eru einstaklega prótínrík og holl fæða sem er tilvalið að neyta á morgnana. Gerðar hafa verið nokkrar rannsóknir á ávinningi þess að fá sér egg í morgunmat, fram yfir kornmeti, og hafa þær allar sýnt að eggin verða til þess að fólk borðar færri hitaeiningar í hádeginu og það sem eftir er af deginum. Eggin eru einfaldlega svo mettandi að einstaklingar borða minni skammta. Einfalt er að grípa með sér eitt eða tvö harðsoðin egg og borða í morgunmat ásamt einhverju góðu grænmeti, til dæmis avókadó, en einnig er sniðugt að útbúa eggjahræru með því grænmeti og kjöti sem maður vill.

„Þang er ekki bara hippafæða“

Sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver mælir með því að allir borði þang reglulega.

Þang er í raun algjör næringarsprengja að sögn Jamie Oliver.

Sjónvarpskokkurinn frægi Jamie Oliver hefur viðurkennt að hann hafi lengi haldið að þang væri ekkert annað en hippafæða og enn eitt tískufyrirbærið í fæðu. Hann skipti um skoðun og mælir með því að allir borði þang reglulega því það er eitt næringarríkasta grænmeti jarðar. Samkvæmt Jamie er þang í raun algjör næringarsprengja sem inniheldur allt í senn trefjar, næringarefni, vítamín og öll steinefni sem til eru.

Gott fyrir húðina
Í þangi eru ýmis andoxunarefni, ensím og ómega fitusýrur sem hjálpa til við að hreinsa og fegra húðina. Þörunga og þang er að finna í fjölmörgum snyrtivörum nú til dags en það er engu síður gagnlegt fyrir húðina að borða þang.

Vinnur gegn líkamsfitu
Ýmsar rannsóknir hafa bent til þess að þang innihaldi efni sem dragi úr fitusöfnun líkamans og auki jafnframt brennslu. Þó svo að það þurfi að rannsaka þessa eiginleika frekar þá lofar þetta góðu.

Eykur seddu
Þegar við borðum þurrkað þang dregur það í sig vökva í maganum og þenst út þannig að okkur finnst við saddari. Það ásamt því hvað þang er líka hitaeiningasnautt og lágt í kolvetnum gerir það að fullkomnu snarli milli mála.

Grænt og vænt
Rétt eins og plöntur sem vaxa á landi inniheldur þang blaðgrænu sem er sögð hjálpa til við að draga úr bólgum í líkamanum og auka magn rauðra blóðkorna í blóði.

Járnrisi
Þang er ekki aðeins ríkt af járni heldur inniheldur það einnig mikið C-vítamín en það er nauðsynlegt fyrir upptöku líkamans á járni.

Bætir hjartaheilsu
Þang hjálpar til við að draga úr kólestrólmagni, inniheldur efni sem draga úr myndun blóðtappa og er ríkt af kalíni sem minnkar líkurnar á of háum blóðþrýstingi.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Hvetur fólk til að tileinka sér mínímalískan lífsstíl

Japanski tiltektargúrúinn Marie Kondo hvetur fólk til að eiga aðeins hluti sem vekja hjá því gleði.

Marie Kondo hefur helgað líf sitt tiltekt og mínimalískum lífsstíl. Hún rekur fyrirtæki í Tókíó þar sem hún kemur inn á heimili fólks, kennir því að fara í gegnum eigur sínar og losa sig við allan óþarfa.

Hin japanska Marie Kondo hefur helgað líf sitt tiltekt og mínimalískum lífsstíl. Hún rekur fyrirtæki í Tókíó þar sem hún kemur inn á heimili fólks, kennir því að fara í gegnum eigur sínar og losa sig við allan óþarfa. Þessi þjónusta hennar er svo vinsæl að það er þriggja mánaða biðtími. Bók hennar The Life Changing Magic of Tidying Up kom út árið 2014 en nýtur enn hylli og bloggarar um allan heim hafa tileinkað sér KonMari-aðferðina. Þessi aðferð hennar snýst um að eiga aðeins hluti sem vekja hjá þér gleði og það á jafnt við um föt, hluti, bækur og margt fleira. Hún ráðleggur fólki að meta hvern hlut út frá því hvort hann veiti þér gleði og ef ekki þá skaltu losa þig við hann.

Fleiri góð ráð úr smiðju Marie Kondo

Tiltekt er samtal við sjálfan sig. Marie lítur á tiltekt sem nokkurs konar hugleiðslu þar sem hún þarf að hlusta á eigið innsæi. Hún hvetur fólk til að finna friðsæla stund og alls ekki hlusta á tónlist, það sé bara til að flækja hlutina.

Hver hlutur á að eiga sinn ákveðna stað. Marie er þeirrar skoðunar að sem minnst dót og drasl eigi að vera á gólfum eða uppi á borðum. Í hverju rými á að vera að minnsta kosti einn góður skápur eða kommóða þar sem hægt er að geyma hluti sem ekki er prýði af. Inni í skápunum er svo mikilvægt að hafa minni geymslueiningar eins og kassa sem eru vel merktir og hægt er að stafla.

Taktu til eftir flokkum, ekki herbergjum. Marie vill meina að þetta sé gryfja sem margir falli í. Við eigum til að gleyma því að við geymum oft sömu eða svipaða hluti á mörgum stöðum í íbúðinni og erum því að endurtaka sömu tiltektina á nokkrum stöðum. Þetta skapar tiltektarvítahring sem er stundum erfitt að rjúfa. Þess vegna mælir hún með því að ákveða hvaða flokk þú ætlar að taka til í í dag í staðinn fyrir staðsetningu, það er, taka til föt í stað þess að taka til inni í svefnherbergi.

Ekki stafla hlutum. Það segir sig sjálft að hlutir sem eru neðst í stafla eru notaðir sjaldnar, sama hversu hrifin þú ert af þeim hlut. Þessi regla á jafnt við um föt, bækur og snyrtivörur. Marie mælir til dæmis með því að brjóta föt þannig að þau geti staðið upp á rönd, raða þeim þannig í kassa og ofan skúffu.

Sjaldan eða stundum þýðir í raun aldrei. Marie hlustar ekki á neinar afsakanir í þessum efnum. Ef þú klæðist einhverri flík aðeins einu sinni á ári þá er hún bara að taka óþarfa pláss í skápnum þínum restina af árinu.

Hentu öllum pappír. Það er algengur misskilningur að það sé minna um pappíra inni á heimili en á skrifstofu fyrirtækis. Við sönkum að okkur alls kyns óþarfa pappír; kvittunum, reikningum, glósum, úrklippum og þar fram eftir götum. Marie segir að einfaldasta leiðin sé að skipta öllum pappírum niður í geyma og henda en þeir pappírar sem þú geymir eru aðeins algjör nauðsyn. Helst myndi hún þó vilja henda öllum pappírum, því til eru forrit eins og Evernote þar sem þú getur skannað inn pappíra og geymt rafræna útgáfu af þeim.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Áhrifamikil tískuíkon

Nokkur af áhrifamestu tískuíkonum innan bransans í dag.

Tískuíkon dagsins í dag eru endalaus uppspretta innblásturs þegar kemur að því hvernig við klæðum okkur. Hér eru nokkrar af þeim áhrifameiri innan bransans sem eru í uppáhaldi hjá okkur.

Olivia Palermo
Tískudrottninguna Oliviu Palermo þekkja flestir sem hafa áhuga á tískunni. Hún skaust upp á stjörnuhimininn með þátttöku sinni í bandarísku raunveruleikaþáttunum The Hills en hefur síðan komið víða við. Hún var meðal annars lærlingur í kynningarmálum hjá hönnuðinum Diane von Furstenberg og vann í fylgihlutadeild hjá tískutímaritinu Elle en Olivia er þekkt fyrir að vera einstaklega smekkleg þegar kemur að því að nota fylgihluti á ferskan hátt. Olivia hefur verið áberandi í félagslífi þeirra ríku og frægu og er mynduð hvert sem hún fer, enda eitt stærsta tískuíkon samtímans. Það er alltaf hægt að leita til Oliviu að innblæstri, oliviapalermo.com.

______________________________________________________________

Hanneli Mustaparta
Hin norska Hanneli Mustaparta er fyrrverandi fyrirsæta sem fljótlega fann hjá sér mikinn áhuga á því að stílisera. Frá því hún lagði fyrirsætuskóna á hilluna að mestu árið 2008 hefur hún unnið fyrir hin ýmsu tískutímarit og stíliserað fyrir stór fyrirtæki. Áhugi hennar á útliti og stíliseringu þróaðist svo út í það að taka myndir en síðustu árin hafa götutískumyndir eftir hana birst í Vogue og á Vogue.com. Hanneli er með einstakt auga fyrir smáatriðum og ekki skemmir útlit hennar fyrir, að við tölum ekki um hárið, okkur dreymir um að hafa hár eins Hanneli!

______________________________________________________________

Hedvig Opshaug
Norski tískubloggarinn Hedvig Opshaug er konan á bak við the-northernlight.com. Nafnið á blogginu tengist heimaslóðum hennar í Norður-Noregi þar sem norðurljósin eru sýnileg allan veturinn. Hún á stuttan fyrirsætuferil að baki en lærði stærðfræði og vann í banka í Stokkhólmi þegar hún ákvað að breyta til og flytja til London. Hún segir að ferill sinn sem tískubloggari hafi fyrir tilviljun undið upp á sig en var ekki eitthvað sem hún stefndi beinlínis að. Hedvig er alltaf með puttann á tískupúlsinum og gaman að fylgjast með þessari glæsilegu konu.

______________________________________________________________

Miroslava Duma
Miroslava Duma vakti fyrst heimsathygli þegar myndir af henni birtust á þekktustu tískubloggunum eins og The Sartorialist. Hún hefur unnið fyrir mörg af stærstu tímaritum heims en hefur síðustu fimm árin unnið sjálfstætt fyrir Buro247.com en hún er meðstofnandi þeirrar vefsíðu sem fjallar meðal annars um tísku og listir og sendir út fréttir allan sólarhringinn. Það er ekki að undra að Miroslava skuli eiga marga aðdáendur enda alltaf óaðfinnanleg og klæðnaður hennar áhugaverður.

______________________________________________________________

Pernille Teisbaek
Pernille Teisbaek hefur unnið bæði fyrir framan og aftan myndavélarnar. Hún byrjaði feril sinn sem tískustjóri hjá danska tímaritinu Woman en hún hefur einnig unnið fyrir ALT for Damerne og Eurowoman. Í dag vinnur hún í fullu starfi sem stílisti, bloggari og tískusérfræðingur hjá stærstu sjónvarpsstöðvum Danmerkur. Ef þú ert í leit að  skandinavískum stílinnblæstri skaltu kíkja á Pernille, pernilleteisbaek.com.

______________________________________________________________

 

Chiara Ferragni
Hin ítalska Chiara Ferragni er konan á bak við eitt allra stærsta tískublogg heims, The Blonde Salad. Hún hefur unnið til verðlauna fyrir besta tískubloggið mörg ár í röð og birst á lista Forbes yfri ríkasta fólk heims. Hún hefur átt í samstarfi við marga af stærstu tískuhönnuðum samtímans og er talskona fyrir Pantene-hárvörur. Chiara birtist á forsíðu spænska Vogue í apríl í fyrra og er þar með fyrsti tískubloggarinn til að verma forsíðu tískubiblíunnar.

______________________________________________________________

Leandra Medine
Húmorinn skín ávallt í gegn hjá Leöndu Medine, sem heldur úti vefsíðunni The Man Repeller. Hún er einn þekktasti tískubloggari heims og áhrifamikil með meiru innan tískuheimsins. Leandra er þekkt fyrir að blanda saman ólíklegustu flíkum og fylgihlutum og er ávallt uppspretta tískuinnblásturs.

______________________________________________________________

Alexa Chung
Hin kínverk-breska Alexa Chung er eitt áhrifamesta tískuíkon samtímans og hefur alið af sér margar hermikrákur í gegnum tíðina. Hún byrjaði feril sinn sem fyrirsæta og fór þaðan yfir í sjónvarp. Síðustu árin hefur hún sett nafn sitt við ýmsan varning eins og fatnað og snyrtivörur og meðal annars skrifað fyrir breska Vogue. Þá hefur hún einnig veitt mörgum tískuhönnuðum innblástur því stíllinn hennar er svo einstakur. Alexu má oftar en ekki finna á fremsta bekk á tískusýningunum en hún er ein mest ljósmyndaða kona Bretlands.

Texti / Helga Kristjáns

„Sláandi að auglýst sé eftir nektarmyndum af ungum stúlkum“

„Margt vakti óhug við gerð myndarinnar Myndin af mér,“ segir Brynhildur Björnsdóttir leikstjóri hennar.

„Mér finnst helst vera sláandi að það skuli vera lýst eftir myndum af stúlkum á netinu. Að drengir skuli safna þessum myndum og skiptast á þeim og reyna að ná sem flestum í safnið. Að þeir skuli horfa á stúlkurnar á myndunum sem hluti en ekki raunverulegar manneskjur. Þessi skortur á mannvirðingu, það var einna helst það sem sló mig,“ segir Brynhildur Björnsdóttir leikstjóri nýrrar leikinnar stuttmyndar, Myndin af mér, sem fjalla um sex framhaldsskólanema sem upplifa stafrænt kynferðisofbeldi.

Hún segir hátt hlutfall af stafrænu kynferðisofbeldi hjá íslenskum ungmennum sömuleiðis hafa komið á óvart. Þannig virðast að meðaltali 75 prósent barna á aldrinum 12-15 þekkja einhvern á sínum aldri sem hefur ýmist sent eða fengið senda nektarmynd. Þá þekki á bilinu 10-15 prósent barna jafnaldra sem hefur orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi. En tölurnar byggja á upplýsingum sem Þórdís Elva Þorvaldsdóttir handritshöfundur myndarinnar viðaði að sér þegar hún hélt röð fyrirlestra fyrir ungmenni um stafrænt kynferðisofbeldi árið 2015.

Brynhildur segir mikilvægt að foreldrar fylgist með netnotkun barna sinna og tali við þau um ábyrgðina sem fylgi því að vera manneskja í samskiptum við aðra. Þá finnst henni lykilatriði að taka skömmina af því að það séu til nektarmyndir af fólki á Netinu. „Auðvitað er ég ekki þar með að segja að það sé í lagi að dreifa nektarmyndum í óleyfi, hver og einn á rétt yfir sínum líkama og sínu persónulega rými og það er brot gegn friðhelgi að ráðast inn í það. En mér finnst samt mikilvægt að skömmin liggi hjá þeim sem dreifa myndunum. Aldrei hjá þeim sem á myndunum er. Þannig gerum við líka ómögulegt fyrir þá sem dreifa slíkum myndum í kúgunar- eða niðurlægingarskyni að takast ætlunarverk sitt. Og það væri strax mikilvægur áfangasigur í baráttunni.“

Hér að neðan er stikla úr myndinni en hún verður aðgengileg í fjórum hlutum á Facebooksíðu Vodafone og svo birt í heild sinni á vefsíðunni myndinafmer.is á föstudag, 19. janúar. Þar verður líka að finna fræðslu tengda myndinni.

Halloumi og hrísgrjón

|
|

Þessi réttur er algert sælgæti.

Hollur og góður réttur.

Halloumi og hrísgrjón
fyrir 4
2 dl basmati-hrísgrjón, soðin eftir leiðbeiningum á pakkanum
2 msk. olía
2 msk. smjör
2 laukar, skornir í 4 hluta og sneiddir
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 tsk. kummin
1 tsk. kóríanderduft
1 dós hvítar baunir, safi sigtaður frá
2-3 msk. ferskar kryddjurtir, t.d. steinselja og tímían eða basil
80 g furuhnetur eða valhnetur, ristaðar2 msk. olía
225 g halloumi-ostur, skorinn í munnbita

Hitið olíu og smjör á pönnu og steikið laukinn, gott er að hafa háan hita svo hann brúnist vel. Bætið hvítlauk út í í lokin og steikið með smástund. Bætið kummin, kóríander og baunum á pönnuna og hitið vel í gegn. Bætið heitum hrísgrjónum, kryddjurtum og hnetum saman við. Steikið halloumi-ostinn í olíu á pönnu og blandið saman við.  

Texti / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Ernir Eyjólfsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

 

Öðlastu betri heilsu með því að ganga meira

Ein einfaldasta leiðin til að öðlast betri heilsu er að bæta við sig skrefum.

Farðu lengri leiðina
Við stöndum mörgum sinnum upp á hverjum degi, hvort sem það er til að fara á salernið eða til að sækja vatn eða kaffi. Prófaðu að fara lengri leiðina í hverri af þessum ferðum, til dæmis fara á salernið sem er fjær skrifstofu þinni eða einfaldlega taka krók á leiðinni, þetta mun aðeins taka þig örfáum mínútum lengur en skrefin safnast upp.

Símafundir á ferð
Til hvers að sitja kyrr á meðan þú ert í símanum þegar þú getur staðið upp frá skrifborði þínu, fengið ferskt loft og bætt við þig skrefum? Ef þú gengur á jöfnum hraða meðan á tíu mínútna símtali stendur geturðu safnað þúsund skrefum án þess að taka eftir því.

Upp og niður
Það er gamalt og gott ráð að sleppa því að nota lyftur eða rúllustiga. Það segir sig sjálft að þú safnar ekki skrefum með því að standa kyrr í lyftu. Á hverri mínútu sem við göngum upp stiga getum við safnað allt að tvö hundruð og sjötíu skrefum svo það getur fljótt borgað sig.

Með daglegum verkum
Mikið af þeim verkum sem við gerum á hverjum degi framkvæmum við á meðan við stöndum kyrr, en hægt væri að hámarka nýtingu tímans með því að stunda hreyfingu á meðan. Til dæmis er sniðugt að ganga um gólf á meðan þú burstar tennurnar, en það er fjórar mínútur á dag sem getur þýtt allt að fimm hundruð skref. Síðan geturðu gengið um á meðan þú bíður eftir lyftu eða strætó eða hvenær sem er.

Texti /  Hildur Friðriksdóttir

Gulla arkitekt hannar einstaka glæsiíbúð

Gulla arkitekt segist heillast af hógværum glæsileika og arktitektúr með listrænu ívafi.

Guðlaug Jónsdóttir, arkitekt og hönnuður, hefur búið í borg englana, Los Angeles, í næstum þrjátíu ár og getið sér gott orð sem arkitekt. Gulla, eins og hún er alltaf kölluð, hefur hannað tvær sérlega smart húsgagnalínur sem eru einungis seldar í listagalleríum og má segja að þessi húsgögn hennar séu oft meira í ætt við listaverk eða skúlptúr en hefðbundin húsgögn.

Guðlaug Jónsdóttir, arkitekt og hönnuður, hefur búið í borg englana, Los Angeles, í næstum þrjátíu ár og getið sér gott orð sem arkitekt

Gulla hefur líka hannað mörg flott hótel víða um heim og veitingastaði sömuleiðis og nýlega tók hún að sér að hanna glæsiíbúð í hæstu íbúðarbyggingu heims í stórborginni New York, nánar tiltekið 432 Park Avenue-skýjakljúfrinum sem lokið var að byggja í enda árs 2015. Afraksturinn er algjör veisla fyrir augað. Þetta heimili er sannarlega einstakt, fágað og glæsilegt en um leið líka hlýlegt og tímalaust.

Við hittum Gullu þegar hún var stödd hér á landi í jólafríi og spurðum hana út í þessa íðilfögru íbúð en þess má geta að Gulla fékk nýlega hönnunarverðlaun Interior Design Magazin; Best resort design 2017 og voru verðlaunin fyrir lúxushótel sem hún hannaði í Kína en þessi verðlaunin eru eins og Óskarinn í hönnun og því mikill heiður að fá þau. Við óskum Gullu til hamingju með enn eina rósina í hnappagatið því þetta eru aldeilis ekki fyrstu verðlaunin sem hún fær fyrir hönnun sína.

Íbúðin er staðsett í hæstu íbúðabyggingu heims

Íbúðin er eins og fyrr segir í hæsta íbúðarhúsnæði heims og Gulla segir að húsið sé 90 hæðir og 425,5 metra hátt. Og þá langar okkur að vita hversu hátt upp með lyftunni hún hafi farið þegar hún vann að þessu verkefni? ,,Íbúðin er á 55. hæð og hún er um 350 fermetrar,“ segir hún og bætir við að lofthæðin sé tæpir fjórir metrar. „Það eru hjón sem eiga þetta og þau eru til að mynda hvort með sitt baðherbergið.“Hennar baðherbergi er með frístandandi baðkeri sem er staðsett við stóran glugga og það er því einstakt útsýni yfir borgina þegar legið er baði þarna uppi á 55. hæð. Hann er með sturtu á sínu baðherbergi þannig að þau eru ekki eins.

Þarna er stórt opið aðalrými sem telur stofu, borðstofu og eldhúsið, inn af því er annað ,,vinnueldhús“, þvottaherbergi og annar inngangur. Auk þess er líka eitt herbergi sem er sérhannað til að spila backgammon, eða kotru, eins og það heitir á íslensku því herramaðurinn sem þarna býr spilar gjarnan kotru við félaga sína og þá er ekki amalegt að vera með þetta flotta spilarými.

Þessi glæsilega íbúð prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Húsa og híbýla og þar má sjá fleiri fallegar myndir og viðtalið við Gullu í heild sinni.

Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Myndir / Art Gray

Að vinna fyrir Ísland fær hjartað til að slá hraðar

|||
Halla Þórlaug Óskarsdóttir.|Du: dikter för nyfödingar.|Sesselja Agnes - undarleg saga.|Síðasta setning Fermats.

Halla Hrund Logadóttir starfar við kennslu í Harvard-háskóla í Bandaríkjunum þar sem hún stofnaði og stýrir nú fyrsta náms- og rannsóknarvettvangi tengdum Norðurslóðum. Áður hafði Halla byggt upp Íslenska orkuháskólann við Háskólann í Reykjavík. Hún segir áhugann á umhverfismálum hafa fylgt sér frá blautu barnsbeini. „Mér finnst skemmtilegast að byggja hluti sem geta haft jákvæð áhrif á einhvern hátt og nýtast íslensku samfélagi. Það að vinna fyrir Ísland fær hjartað til að slá örar og hvetur mig til að gera mitt allra besta.”

„Ég er oft að sinna mörgum verkefnum í ólíklegustu löndum og reyna á sama tíma að vera frábær mamma en ég held að allar útivinnandi konur tengi við slíkt á einhvern hátt.”

Halla býr ásamt fjölskyldu sinni í Cambridge í Boston, hún segir áherslurnar hafa umbreyst við fæðingu dóttur þeirra. „Ég er oft að sinna mörgum verkefnum í ólíklegustu löndum og reyna á sama tíma að vera frábær mamma en ég held að allar útivinnandi konur tengi við slíkt á einhvern hátt. Ég vil vera dóttur minni góð fyrirmynd í leik og starfi og er dugleg að taka hana með með mér í vinnuna til að sýna henni eitthvað nýtt. Þó finnst mér ég læra mest af henni, hún minnir mig á gildi sem mér finnst skipta máli í fari fólks.”

Ítarlegt viðtal við Höllu má lesa í næsta tölublaði Vikunnar sem kemur út á fimmtudaginn 18.janúar.

Texti / Íris Hauksdóttir

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Förðun / Ástrós Erla Benediktsdóttir

Ekki sleppa morgunmat

Mikilvægasta máltíð dagsins.

Allir hafa heyrt  gömlu tugguna um að morgunmatur sé mikilvægasta máltíð dagsins en margir sleppa honum, hvort sem það er vegna anna eða af annarri ástæðu. Það er þó ýmislegt til í þessari gömlu tuggu.

Á síðastliðnum fimm árum hefur orðið ákveðin vitundarvakning um mikilvægi þess að fasta í ákveðinn tíma á hverjum sólarhring til að gefa líkamanum tækifæri til að taka fótinn af bensíngjöfinni og sinna nauðsynlegu viðhaldi. Ýmsar gerðir föstumataræðis hafa verið í umræðunni, eins 5:2-mataræðið eða 16 tíma fasta, og þær hafa sína kosti og galla. Við getum þó öll tileinkað okkur það að hætta að borða á kvöldin og ná þannig allavega 10 tíma föstu á hverjum degi.

Enska orðið yfir morgunmat, breakfast, þýðir bókstaflega að brjóta föstu. Þannig að um leið og við borðum morgunmat hættum við að fasta, líkaminn vaknar úr ákveðnum hvíldarfasa þannig að meltingin og önnur efnaskifti byrja að vinna aftur á sinn eðlilega hátt.

Líkaminn byrjar þá að brenna hitaeiningum í auknum mæli og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að þeir sem borða morgunmat grennast frekar, og haldast frekar í kjörþyngd, en þeir sem að sleppa morgunmat. Það er þó ekki þar með sagt að það sé algjörlega nauðsynlegt að borða morgunmatinn um leið og maður vaknar heldur er í lagi að bíða, ef til vill til klukkan tíu.

Hvenær svo sem þú borðar morgunverðinn er mikilvægast að hann sé hollur og næringarríkur. Sumir vilja örlítið sætari morgunmat á meðan aðrir geta ekki hugsað sér það.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Ást er ást

Myndir sem sýna lesbísk ástarsambönd á heiðarlegan og fallegan hátt eru fágætar en hafa allar vakið töluverða athygli.

Kvikmyndaiðnaðurinn hefur oft verið gagnrýndur fyrir það að sýna aðeins gagnkynhneigðar ástarsögur og þegar fjallað er um samkynhneigð sambönd er það yfirleitt á mjög steríótýpískan, jafnvel neikvæðan, hátt. Hér eru nokkrar undantekningar sem sýna lesbísk ástarsambönd á heiðarlegan og fallegan hátt, enda hafa þær allar vakið töluverða athygli.

Eitthvað vantaði
La Vie d’Adèle, eða Blue is the Warmest Color eins og hún kallaðist á ensku (sjá mynd hér að ofan), fjallar um ósköp venjulega fimmtán ára stúlku, Adele, sem hefur áhuga á öllu því sem unglingsstúlkur hafa áhuga á; vinum, skóla, tónlist og strákum. Þegar hún byrjar með einum vinsælasta stráknum í skólanum áttar hún sig á að ekki er allt eins og það á að vera. Samkvæmt bekkjarfélögum hennar er hann hinn fullkomni strákur en henni líður sem það vanti eitthvað. Þetta veldur ruglingi hjá henni og hún fer að velta fyrir sér hvað geti verið að. En þegar hún hittir fyrir tilviljun hina bláhærðu Emmu finnur hún það sem hingað til hefur vantað. Hrá og hreinskilin mynd sem vann Gullpálmann í Cannes árið 2013.

Í The Kids are Alright er sagt frá parinu Jules og Nic sem hafa verið saman í næstum tuttugu ár og eiga tvo unglinga.

Framsækin fjölskylda
Í myndinni The Kids are Alright er sagt frá lesbíska parinu Jules og Nic sem hafa verið saman í næstum tuttugu ár og eiga tvo unglinga, Joni og Laser, sem þær eignuðust með hjálp tæknisæðingar. Þær hafa alltaf verið hreinskilnar við börnin sín og sagt þeim hvernig þau komu til. Þær bjuggust þó aldrei við að þau myndu vilja kynnast föður sínum en dag einn ákveða þau að hafa uppi á sæðisgjafanum, Paul,  sem kemur þeim skemmtilega á óvart. Þau stofna til sambands við hann og bjóða honum meðal annars í heimsókn, sem kemur mæðrum þeirra í dálítið uppnám.

________________________________________________________________

My Summer of Love fjallar um afdrifaríkt sumar í lífi tveggja ungra stúlkna, Tamsin og Monu.

Ólíkar en líkar
Eins og titillinn gefur til kynna þá fjallar My Summer of Love um afdrifaríkt sumar í lífi tveggja ungra stúlkna, Tamsin og Monu. Þrátt fyrir að vera úr ólíkum stéttum samfélagsins þá laðast þær strax hvor að annarri. Þær eiga það sameiginlegt að fjölskyldur þeirra eru fremur brotnar, en bróðir Monu er fyrrum afbrotamaður sem snerist til kristni í fangelsi og faðir Tamsin heldur fram hjá móður hennar. Þær byrja að njósna um fjölskyldumeðlimi og komast að ýmsum leyndarmálum en þau leyndarmál binda þær fastar saman. Áhugaverð og falleg mynd sem gerist í sveitum Bretlands en þarna má sjá Emily Blunt unga taka sín fyrstu skref í kvikmyndaleik.

________________________________________________________________

Á milli Carol og Theresu kviknar dálítill neisti.

Af litlum neista
Theresa er ung kona sem fær tímabundna vinnu um jólin 1952 hjá stórverslun á Manhattan en hún er áhugaljósmyndari sem dreymir um að komast að sem atvinnuljósmyndari hjá einhverju traustu tímariti eða dagblaði. Dag einn kemur í verslunina hástéttarkonan Carol og á milli þeirra kviknar dálítill neisti. Eitt leiðir síðan af öðru og smám saman fer samband þeirra að þróast. Það á þó eftir að draga dilk á eftir sér því Carol á í deilu við eiginmann sinn en hann hefur hótað að nota samkynhneigð hennar sem rökstuðning fyrir því að hann eigi að fá fullt forræði yfir börnum þeirra. Carol er glæsileg mynd sem lýsir viðhorfum til samkynhneigðar á þessum tíma. Báðar leikkonurnar, Cate Blanchett og Rooney Mara, eiga stórleik í myndinni.

________________________________________________________________

Kvöld eitt liggja leiðir Elinar og Agnesar saman og upp frá því þróast óvænt samband.

Unglingsárin erfið
Unglingsstúlkurnar Elin og Agnes eru í sama skóla en eiga annars litla sem enga samleið. Elín er hress og vinsæl á meðan Agnes er vinafá og niðurdregin. Þær eru samt báðar komnar með upp í kok á lífi sínu, en Elínu dreymir um að flýja smábæinn Åmål en Agnesi dreymir bara um Elínu. Kvöld eitt liggja leiðir þeirra saman og upp frá því þróast óvænt samband sem gæti reynst lausnin á vanda þeirra beggja. Spurningin er þó hvort þær séu nógu kjarkaðar til að standa uppi í hárinu á vinum sínum og samnemendum. Fucking Åmål var langt á undan samtíð sinni, eins og svo margar skandinavískar myndir eru, og fjallaði opinskátt um samkynhneigð samhliða því að sýna hversu erfitt það er að vera unglingur.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Fljótlegur fiskréttur

|
|Fullkomið með soðnum kartöflum.

Eðalfiskur sem er auðvelt og fljótlegt að elda.

Berið fiskinn fram með soðnum kartöflum

Sítrónufiskur
fyrir 4
1 msk. smjör
700-800 ýsa eða annar fiskur
1 ½ dl rjómi eða matreiðslurjómi
safi úr 1 lítilli sítrónu
2 msk. ferskt fáfnisgras eða kóríander, saxað (má nota 2 tsk. þurrkað)
salt og nýmalaður pipar
1 laukur, sneiddur
1 fenníka, sneidd
2 msk. olía
Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið ofnfast fat með smjöri og raðið fiskinum í fatið.
Blandið saman rjóma, sítrónusafa og estragoni, hellið blöndunni yfir fiskinn, saltið og stráið vel af pipar yfir.
Bakið í ofninum í 20 mín.
Steikið lauk og fenníku í olíu á pönnu og berið fram með fiskinum ásamt soðnum kartöflum.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Óeðlilegt ef æfingarferlið hefði verið auðvelt

Kristín Þóra segir áhorfendur geta búið sig undir mikið sjónarspil.

Leikritið Medea var frumsýnt um helgina í Borgarleikhúsinu en óvænt hlutverkaskipti urðu í verkinu á miðju æfingartímabili.

Kristín Þóra Haraldsdóttir fer með titilhlutverk sýningarinnar og segir hún æfingarferlið hafa verið lærdómsríkt og gefandi. „Verkið er heilmikil áskorun sem einkennist auðvitað einna helst á því hversu krefjandi karakter Medea er. Þetta hefur því eðli málsins samkvæmt tekið aðeins á. Að mínu mati væri óeðlilegt ef æfingarferlið hefði verið auðvelt. Þetta er þannig verk.”

Eins og frægt hefur orðið urðu breytingar innan leikhópsins þegar æfingarferlið var langt komið, en þá steig Hjörtur Jóhann Jónsson inn í annað burðarhlutverk sýningarinnar sem Jason, eiginmaður Medeu. Hlutverkið átti áður að skipa Atla Rafn Sigurðarsyni sem vikið var frá störfum nú fyrir skömmu. Kristín Þóra segir Hjört Jóhann hafa orðið við áskoruninni og gert ákaflega vel úr hlutverkinu á ótrúlega skömmum tíma. „Hjörtur Jóhann kom gríðarlega sterkur inn, lærði textann sinn um jólin og stendur sig með glæsibrag enda magnaður leikari og einstakur listamaður.”

Sjálf segist Kristín Þóra hafa nálgast sinn karakter á sama hátt og með alla aðra karaktera sem hún hefur tekist á við. „Ég hugsa fyrst og fremst, hvað er það sem drífur þessa konu áfram. Ég grúskaði mikið í grískri goðafræði en eins og flestir vita er Evripídes höfundur verksins sem skrifað var fyrir 2400 árum síðan. Ég velti upp stöðu kvenna á þeim tíma sem verkið var skrifað og einnig stöðu kvenna í dag. Einnig hef ég skoðað sorg og áföll hvernig við bregðumst við í slíkum aðstæðum. Medea er í miðju sorgarferli. Hvað gerist hjá okkur þegar við erum stödd í miðjum stormi, líkamlega og tilfinningalega, hvað gerist sem dæmi í heilanum þegar við förum í,,flight mode“. Svo auðvitað læra textann sem er nú engin smábiti og dansa með mótleikurunum og leikstjóranum Hörpu Arnardóttur sem hjálpa mér að komast nær karakternum.”

„Hjörtur Jóhann kom gríðarlega sterkur inn, lærði textann sinn um jólin og stendur sig með glæsibrag enda magnaður leikari og einstakur listamaður.”

Nú þegar frumsýningin er yfirstaðin þar sem fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna er óhætt að segja áhorfendur geti búið sig undir magnað sjónarspil. „Ég held að áhorfendur ættu að hugsa um þetta sem mikið ferðalag. Leikmynd og búningar Filippíu Elísdóttur eru konfekt fyrir augað, lýsing Björns Bergsteins er töfrandi eins og hann er þekktur fyrir. Tónlist Valgeirs Sigurðssonar er algjörlega mögnuð, ein sú flottasta sem ég hef heyrt í leikhúsi. Vonandi náum við leikararnir að segja þessa sögu, sýna mennskuna í þessum karakterum og hreyfa við áhorfendum. Við gerum allavega okkar besta til að svo verði.”

Texti / Íris Hauksdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Útivistarparadísin Hafnarfjörður

Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarpóstsins og innanhússarkitekt, segir frá útivistarperlum í Hafnarfirði.

Hafnarfjörður er svo miklu meira en þyrping húsa en þar má finna eitt stórbrotnasta útivistasvæði landsins. Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarpóstsins og innanhússarkitekt, hefur búið í Hafnarfirði síðan 1962 og þekkir bæinn og umhverfi hans vel. Við fengum hann til að segja okkur frá nokkrum perlum á svæðinu.

Guðni er kvæntur Kristjönu Þórdísi Ásgeirsdóttur og þau eiga sex syni og 5 barnabörn. „Við Kristjana byrjuðum að búa á brúðkaupsnóttinni árið 1978 í gömlu húsi við Suðurgötu. Síðan hefur annað ekki komið til greina en að vera hér enda gott að búa í Hafnarfirði sem státar af gríðarlega fallegu bæjarstæði sem er umvafið af sjávarströnd, fjölbreyttu hrauni og óteljandi náttúrufyrirbrigðum og minjum um byggð fyrri alda. Mannlífið er gott og fjölbreytt félagsstarf og menningarstarfsemi. Þrátt fyrir stærðina er það eins og að búa í þorpi, í besta skilningi þess orðs, að búa í Hafnarfirði.“

Hellisgerði
Milli Skúlaskeiðs og Reykjavíkurvegar er skrúðgarður Hafnfirðinga, einstakur fyrir hraunlandslag sitt. Var farið að nota hann sem áningarstað á 19. öldinni en hann dregur nafn sitt af Fjarðarhelli sem þar er. Formlegur skrúðgarður varð hann árið 1923 og eftir það hófst trjárækt þar og síðar blómarækt. Þarna eru ákjósanlegir staðir til að setjast á teppi með nesti og njóta þessarar náttúruperlu í hjarta Hafnarfjarðar.

Við Hvaleyrarvatn, Höfðaskógur og Helgafell í baksýn. Mynd / Guðni Gíslason

Malirnar
Mikil útgerð hefur verið í Hafnarfirði enda er þar góð höfn frá náttúrunnar hendi. Malirnar er samnefni malarkamba á milli hraunkletta við norðanverðan Hafnarfjörð. Krosseyri var við gamla hafnargarðinn en er nú horfin en utar sjást enn Langeyramalir við Herjólfsgötu og Litlu-Langeyrarmalir undan Brúsastöðum. Skerseyrarmalir liggja milli Brúsastaða og Balaklappar. Frá bílastæði innst við Herjólfsgötu er skemmtileg gönguleið eftir fjörukambinum. Skarf má sjá á klettum í sjónum og þarna má sjá ummerki eftir útgerð fyrri alda.

Hvaleyrarvatn
Jafnt að vetri sem sumri er umhverfi Hvaleyrarvatns, rétt innan byggðar í Hafnarfirði, orðin hreinasta perla. Á sumrin hópast fólk að vatninu á góðviðrisdögum og buslar í vatninu, gengur og hjólar á stígum allt umhverfis vatnið og nýtur lífsins. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur ræktað þar mikinn skóg og lagt stíga og þar má finna svæði með sýnishornum af flestum trjátegundum og einnig er þar að finna nyrsta rósagarð í heimi. Hafnfirsku skátarnir eiga skála við vatnið og hafa komið þar upp útivistarparadís.

Helgafell
Bæjarfell Hafnfirðinga er 338 metra hár móbergsstapi ofan Kaldársels. Fjallið, sem myndaðist við gos undir jökli seint á ísöld, er vinsælt til uppgöngu og ágætlega mörkuð leið er frá Kaldárbotnum, upptökum kalda vatns Hafnfirðinga. Á fjallinu er varða og í henni má finna gestabók. Fjölmargir áhugaverðir staðir eru nálægt Helgafelli og gönguferð í kringum fjallið getur leitt fólk að Litlu-borgum, friðuðum hraunmyndunum S-A fjallsins, Valabóli austan Valahnjúka og fleiri staða.

Fosshellir
Fjölmarga hraunhella má finna í landi Hafnarfjarðar. Ef gengið er til austurs frá bílastæðunum við Kaldárbotna ofan Kaldársels, með fram vatnsverndargirðingunni er komið í Helgadal. Þar er gönguleið á sléttri hraunhellu þar til gönguleiðin snýr til suðurs. Þar í N-A er komið að jarðfalli. Gengið er niður í jarðfallið og til vinstri og er þá komið að hraunfossinum sem hellirinn er nefndur eftir. Þarna þarf vasaljós og ef haldið er upp fossinn má sjá hraunmyndanir sem minna á jötu og eru ummerki hraunstraums. Þá fer að glitta í ljós og þegar út er komið er horft til baka að gönguleiðinni. Líkur eru á að Fosshellir sé hluti 100 m hellis en op inn í hann má finna í hraunsprungu um 100 m N-V af útgönguleiðinni. Skammt þar undan er Rauðshellir sem einnig er áhugaverður.

Gjárnar
Rétt áður en komið er í Kaldársel, þar sem gamli Kaldárselsvegurinn mætir þeim nýja eru einstaklega fallegar hraunmyndanir sem kallast Gjár. Gjárnar eru leifar tæmdrar hrauntjarnar sem myndaðist fyrir u.þ.b. 7000 árum þegar Búrfellsgosi var að ljúka. Sjóðandi heit hrauneðjan kraumaði um stund í tjörninni áður en hraunflaumurinn rann eftir neðanjarðarrásum í átt til sjávar og tjarnarbotninn storknaði. Gjárnar voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Aðalmynd: Guðni við Tröllin í Valahnúkum, Helgafell í bakgrunni. Mynd / Jón Guðnason

Lambalæri með blóðbergi og rótargrænmeti

Ljúffeng steik þar sem lambabragðið fær að njóta sín.

Lambalæri með blóðbergi og rótargrænmeti.

Lambalæri með blóðbergi og rótargrænmeti
1 meðalstórt lambalæri frá Bjarteyjarsandi
ólífuolía
salt og pipar
1 lúka íslenskt garðablóðberg, saxað
1 lúka mynta, fersk, söxuð
5 hvítlauksgeirar, maukaðir
Hitið grill eða pönnu í 300°C, kveikið á ofninum á 140°C. Blandið því næst saman olíunni og öllum kryddunum og makið vel á allt lambið.
Því næst er lambið sett á heitt grillið eða pönnu og eldað í 3 mín. á hvorri hlið, þannig að það „lokist“ vel.
Eftir það er kjötið sett í eldfast mót og inn í ofn í 55-65 mín. eða þar til kjarnhitinn hefur náð 60°C. Þá er kjötið tekið út og látið hvíla uppi á borði með stykki yfir í minnst 10 mín. áður en skorið er í það.


Borið fram með nýuppteknu rótargrænmeti og brúnni sósu.

Umsjón / Hinrink Carl Ellertson
Myndir / Ernir Eyjólfsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

 

Blóðugir glæpir og annar hryllingur

Ekki missa af þessum sjónvarpsþáttum.

Það verður að segjast eins og er, það er skemmtilegast að horfa á glæpaþætti í einum rikk og þurfa ekki að bíða í viku eða meira eftir næsta þætti. Hér eru nokkrir afar spennandi þættir sem eru fáanlegir á Netflix.

Rannsókn raðmorðingja
Mindhunter (sjá mynd að ofan) eru nýlegir þættir framleiddir af Netflix. Þættirnir gerast árið 1977 þegar glæpasálfræði var á frumstigi. FBI-mennirnir Holden Ford og Bill Tech byrja að skoða morðingja sem virðast ekki hafa drepið af hefðbundnum ástæðum, svo sem hefnd eða ástríðu, og hafa jafnframt myrt fleiri en fimm einstaklinga, ýmist í einum rikk eða yfir lengri tíma. Þeir vilja komast að því hvað hvetur þessa menn til að myrða og hvernig megi koma í veg fyrir slíka glæpi. Þættirnir eru sannsögulegir og viðtölin við morðingjana eru byggð á upprunalegum gögnum Ford og Tech auk þess sem þeir eiga heiðurinn af hugtakinu raðmorðingi.

Lucifer sest að í Los Angeles þar sem hann starfar sem ráðgjafi hjá LAPD auk þess að reka næturklúbbinn Lux.

Djöfull og dauði
Bandarísku þættirnir Lucifer fjalla um satan sjálfan, Lucifer Morningstar. Honum leiðist í helvíti og því ákveður hann að yfirgefa krúnu sína að halda upp á yfirborðið. Hann sest að í Los Angeles þar sem hann starfar sem ráðgjafi hjá LAPD auk þess að reka næturklúbbinn Lux. En hvað veit djöfullinn um glæpi – merkilega mikið að því er virðist.

________________________________________________________________

Í þáttunum Luther kynnumst við titilpersónunni John Luther, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar í London, sem sér um alvarlega glæpi.

Skuggalegir glæpir
Bretar kunna svo sannarlega að gera lögguþætti. Í þáttunum Luther kynnumst við titilpersónunni John Luther, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar í London, sem sér um alvarlega glæpi. Vinnan er númer eitt, tvö og þrjú í lífi Luthers og það bitnar bæði á honum og þeim sem standa honum næst. Vegna þess hve skuggalegir glæpirnir sem hann rannsakar eru þá finnst honum stundum sem myrkrið sé að gleypa sig.

________________________________________________________________

Johnny Lee Miller sem Sherlock Holmes og Lucy Liu sem Watson.

Í nýjum búning
Það þekkja flestir einkaspæjarann Sherlock Holmes, enda hafa fjölmargar birtingarmyndir hans komið í sjónvarpi og á hvíta tjaldinu. Elementary eru bandarískir þættir sem setja sögurnar um Sherlock Holmes, sem Arthur Conan Doyle skrifaði, í nýjan búning. Þættirnir gerast í New York, ekki í London, í samtímanum og í þetta skipti er Dr. Watson kona, sem Lucy Liu, leikur. Johnny Lee Miller er einnig frábær í hlutverki Sherlocks og þættirnir eru hreint út sagt ávanabindandi.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Skerum niður hitaeiningar

Hvernig er best að skera niður fjölda hitaeininga?

Einfaldasta leiðin til að léttast er að skera niður hitaeiningar, það vita allir. Hins vegar eru ekki allir klárir á því hvernig þeir eigi að fara að því og hve mikið þeir eigi að skera niður. Með því að innbyrða fimm hundruð hitaeiningum minna á hverjum degi er hægt að léttast um hálft kíló á viku. Hér eru nokkrar góðar leiðir til þess.

Salöt eru oftast holl, en öllu má samt ofgera og eftir því sem lagt er meira í salatið með alls kyns ostum, karamelliseruðum hnetum, avókadó og þvíumlíku þeim mun hitaeiningaríkara verður það.

Varastu heilsufæði
Fólk er síður á varðbergi gagnvart mat sem er stimplaður sem heilsufæði og vanmetur oftar en ekki hitaeiningafjöldann. Þó að matur sé hollur þýðir það ekki endilega að hann sé hitaeiningasnauður, til dæmis er oft mælt með að nota hnetur og þurrkaða ávexti sem nasl en ef þú gætir ekki að þér getur þú óafvitandi innbyrt fimm hundruð hitaeiningar í einu millimáli.

Salat er ekki það sama og salat
Í hugum flestra er salat það hollasta sem maður getur fengið sér. Það má samt öllu ofgera og eftir því sem lagt er meira í salatið með alls kyns ostum, karamelliseruðum hnetum, beikoni, avókadó, brauðteninga og þvíumlíku þeim mun hitaeiningaríkara verður það. Einn stór salatdiskur með öllu getur innihaldið fleiri hitaeiningar en pastaréttur. Ef þú setur aðeins eitt sælkerahráefni í salatið, helmingar dressinguna og hefur fjölbreyttara grænmeti í á móti getur þú fækkað hitaeiningunum um fimm hundruð.

Minni diskar
Besta leiðin til að minnka skammtastærðir er einfaldlega að nota minni diska. Með því einu að skipta þrjátíu sentímetra disknum út fyrir tuttugu og fimm sentímetra disk muntu borða fjórðungi minna, sem þýðir fimm hundruð kaloríur þegar allar máltíðir dagsins eru taldar. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því að verða svöng því rannsóknir hafa sýnt að svengdin verður ekkert meiri.

Borðaðu sjaldnar pasta
Aðeins einn bolli af pasta eru tvö hundruð og tuttugu hitaeiningar en skammtastærðir flestra eru töluvert stærri en einn bolli. Þannig að það er auðvelt að innbyrða næstum því þúsund hitaeiningar í einni pastamáltíð. Reyndu að hafa pasta aðeins einu sinni í viku og haltu þig við tvo bolla af því, það er alltaf hægt að hafa salat með.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Svarthvíta hetjan mín

Það eru ákveðnir töfrar sem fylgja svarthvítum myndum.

Lengi vel voru svarthvítar myndir það eina sem var í boði en jafnvel í dag, mörgum áratugum eftir að litfilmur voru fundnar upp, eru enn til kvikmyndagerðarmenn sem velja að taka myndir upp í svarthvítu.

Datt í lukkupottinn
Í Nebraska (sjá mynd hér að ofan) kynnumst við Woody Grant, öldruðum vélvirkja og fyrrverandi málara, sem ákveður að ferðast frá Montana til Nebraska til að innheimta milljón dollara sem hann heldur að hann hafi unnið í happdrætti. Woody er vegna óhóflegrar áfengisneyslu í gegnum árin orðinn verulega ruglaður ofan í sérviskuna sem hefur alltaf einkennt hann. Þegar hann fær bréf þar sem látið er að því liggja að hann hafi unnið milljón dollara í happdrætti og það eina sem hann þurfi að gera sé að mæta á svæðið og sækja vinninginn. Allir í kringum hann vita að þetta er auglýsingabrella, eða hreinlega svindl, en Woody er harður á því að vinningurinn sé raunverulegur og ákveður að sækja hann.

Schindler var þýskur viðskiptajöfur sem óvænt gerðist bjargvættur mitt í þriðja ríki nasista í Þýskalandi.

Bjargvættur
Óskarsverðlaunamyndin Schindler’s List er byggð á sannri sögu Oskars Schindler. Hann var montinn og gráðugur þýskur viðskiptajöfur sem óvænt gerðist bjargvættur mitt í þriðja ríki nasista í Þýskalandi. Hann ákvað að breyta verksmiðju sinni í flóttamannabúðir fyrir gyðinga og náði þannig að bjarga 1.100 gyðingum frá því að verða sendir í Auschwithz-fangabúðirnar, þar sem gasklefinn beið þeirra.

Myndin Manhattan er talin vera ein af meistaraverkum Allens.

Svört kómedía
Leikstjórinn Woody Allen hefur gaman að því að leika sér með ýmis stílbrigði eins og svarthvíta filmu. Í Manhattan leikur Woody Allen sjálfur Isaac sem er 42 ára og skilinn við Jill. Hún býr nú með annarri konu og er að skrifa bók þar sem hún ætlar að deila persónulegum hlutum úr sambandi þeirra Isaac. Isaac á svo í ástarsambandi við unglingsstúlkuna Tracy þar til hann hittir Mary, hjákonu besta vinar síns og kolfellur fyrir henni.

Frances opnar hjarta sitt fyrir ástinni og dansinum á ný með misgóðum árangri.

Hálffullorðin
Frances Ha í samnefndri kvikmynd er dansari af lífi og sál. Hún starfar hins vegar sem danskennari til að ná endum saman. Hana langar að gera og verða margt en nær árangri í fáu. Mesti sigur hennar hingað til er vinátta hennar og Sophie. Vinkonurnar eru svona semi-hipsterar og hanga saman öllum stundum, en fást við fátt utan þess að gera írónískar athugasemdir um lífið um umhverfið í anda Dorothy Parker. Þegar fólk hefur orð á því að þær séu farnar að minna á lesbískt par sem sé hætt að stunda kynlíf krefst Sophie að þær endurskoði vináttuna. Þannig fer Frances opnar hjarta sitt fyrir ástinni og dansinum á ný með misgóðum árangri.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Fallegt, fjölskylduvænt og öruggt land

Guðrún Helga Jóhannsdóttir býr ásamt fjölskyldu sinni í Senegal.

Guðrún Helga Jóhannsdóttir, doktorsnemi og stundakennari við Háskóla Íslands, býr ásamt fjölskyldu sinni í Senegal. Hún segir að Senegal sé fjölskylduvænt og öruggt land.

Guðrún Helga Jóhannsdóttir býr ásamt manni sínum Yakhya Diop og börnum í Senegal.

„Ég er gift Yakhya Diop, á fjögur börn, þrjú stjúpbörn og eitt á leiðinni. Við fluttum til baka á Klakann í maí síðastliðnum. Höfuðborgin Dakar er frekar þróuð miðað við höfuðborgir nágrannalandanna og þar er allt til alls, hvort sem um er að ræða hágæða læknisþjónustu eða lúxushótel,“ segir Guðrún Helga sem segir okkur hér frá nokkrum áhugaverðum stöðum á svæðinu.

Monument pour la renaissance Africaine
Áhugaverð, falleg og mjög umdeild 50 metra há bronsstytta í Oukam-hverfinu í Dakar. Styttan gnæfir yfir Dakarborg og horfir út á Atlantshafið. Abdoulaye Wade, fyrrum forseti Senegal, lét byggja styttuna og hlaut mikla gagnrýni fyrir þá ákvörðun en styttan kostaði um 2,8 milljarða króna í byggingu. Styttan var vígð á þjóðhátíðardegi Senegals, 4. apríl, árið 2010 en það ár voru 50 ár liðin frá því að landið fékk sjálfstæði frá Frökkum. Styttan er hæsta stytta Afríku og er nauðsynlegt stopp hvers þess sem leggur leið sína til Dakar.

Ile de Ngor
Ile de Ngor er eins og annar heimur. Lítil eyja alveg við Dakar, án rafmagns. Það tekur einungis 10 mínútur að komast þangað með bát. Um það bil 100 íbúar af Lébou-ættbálknum búa á eynni. Eyjan er umlukin fallegum ströndum og er loftslag þar mjög gott allt árið um kring, um það bil 25 gráður. Aðalatvinnuvegur eyjaskeggja eru fiskveiðar og ferðamannaiðnaður en fjöldi ferðamanna sækir eyna heim ár hvert.

Ile de Goree
Falleg eyja með sorglega sögu. Ile de Goree sem hefur 1.680 íbúa er í tveggja kílómetra fjarlægð frá Dakar. Eyjan var útskipunarstaður þræla sem seldir voru til Ameríku. Þar er áhugavert safn um þrælasöguna en einnig eru þar veitingastaðir og fallegar strendur. Eyjan er vinsæll áfangastaður ferðamanna og góð dagsferð frá Dakar.

Að sögn Guðrúnar er Senegal fjölskylduvænt land.

Parc de Bandia
Þetta er einn af fáum stöðum í Senegal þar sem hægt er að upplifa afríska safarístemningu. Garðurinn er í 65 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Dakar, nálægt Saly sem er vinsæll ferðamannastaður. Í garðinum eru gíraffar, sebrahestar, apar, krókódílar, hýenur og nashyrningar auk annarra dýra. Keyrt er um garðinn og dýrin skoðuð í sínu náttúrulega umhverfi innan um aldagömul stórglæsileg baobab-tré.

Lac Rose
Þetta vatn er nauðsynlegur áfangastaður fyrir hvern þann sem heimsækir Senegal. Það er í útjaðri Dakar og auðvelt að taka leigubíl þangað frá höfuðborginni. Vatnið er bleikt á litinn vegna mikils magns salts í því. Á staðnum er hægt að kaupa salt sem unnið er úr vatninu. Við mælum sérstaklega með því að leigja fjórhjól og/eða pallbíl og fara í ferð í kringum vatnið með leiðsögumanni. Það er algjörlega ómissandi og frábær skemmtun, leiðsögumaðurinn keyrir að vatninu og sýnir manni saltvinnsluna og gefur tíma fyrir myndatökur.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Furðu mikið að gera og sjá í Óðinsvéum

Sveinn Sigurðsson mælir með áhugaverðum stöðum í Óðinsvéum.

Sveinn Sigurðsson bjó í miðbæ Óðinsvéa árin 2013-2015 þar sem hann var í námi í University of Southern Denmark og útskrifaðist með meistaragráðu í vörumerkjastjórnun og markaðssamskiptum. Hann er nú í atvinnuleit og bloggar um bjór hjá nobsbrewing.com.

„Þrátt fyrir að Óðinsvé sé þriðja stærsta borg Danmerkur með rúmlega 170 þúsund íbúa þá minnir borgin meira á smábæ. Íbúarnir eru virkilega vingjarnlegir og taka sérstaklega vel á móti Íslendingum,“ segir Sveinn sem bjó þar í tvö ár ásamt kærustu sinni, Þóreyju Richardt Úlfarsdóttur, og þar fæddist sonur þeirra, Almar Darri. „Í borginni eru margir viðburðir og hátíðir allan ársins hring, til dæmis H.C. Andersen Festival, Harry Potter-hátíð, Danski bjórdagurinn og tónlistarhátíðin Tinderbox.“

Munke Mose og Eventyrhave
Í miðborg Óðinsvéa eru tveir almenningsgarðar sem eru tengdir saman með göngustíg og þar þótti mér alltaf gaman að koma. Í Munke Mose er gott að setjast niður, fylgjast með mannlífinu og fuglalífinu og jafnvel fara í siglingu upp eftir Óðinsvéánni. Í Eventyrhave sem er í göngufjarlægð frá Munke Mose er fallegur blómagarður og einnig mörg listaverk tengd ævintýrum H.C. Andersen.

„Þrátt fyrir að Óðinsvé sé þriðja stærsta borg Danmerkur með rúmlega 170 þúsund íbúa þá minnir borgin meira á smábæ,“ segir Sveinn

Gamli bærinn
Mér finnst gamli bærinn sérstaklega fallegur og mjög gaman að rölta þar í gegn. Þar er hægt að kíkja í skranbúðir, sjá fæðingarstað H.C. Andersen og H.C. Andersen-safnið en einnig eru þar mörg sögufræg hús og staðir sem gaman er að líta á.

Egeskov-kastalinn
Egeskov-kastalinn er staðsettur í hálftíma akstursfjarlægð frá Óðinsvéum og hefur eitthvað við hæfi allra. Þar er mjög stór blómagarður sem fékk verðlaunin Best European Historic Garden árið 2012. Hægt er að skoða sjálfan kastalann og þar inni eru ýmsir sögulegir munir. Á svæðinu við kastalann er einnig stórt safn með ýmsum farartækjum, mikill fjöldi af mótorhjólum og bílum sem maður hefur ekki oft tækifæri til að sjá.

Markaðurinn á höfninni
Yfir sumartímann er gaman að fara niður á höfn á sunnudögum og skoða markað þar sem fólk kemur og selur notaða hluti. Þar myndast oft skemmtileg stemning og finna má ýmislegt forvitnilegt og skemmtilegt. Einnig er hægt að rölta um hafnarsvæðið og skoða bátana.

Dýragarðurinn
Dýragarðurinn í Óðinsvéum er einstaklega skemmtilegur og hefur fengið verðlaun fyrir að vera besti dýragarður í Evrópu. Þar er hægt að sjá hin ýmsu dýr og smáfólkið getur fengið að klappa dýrum í húsdýragarðinum á svæðinu. Ég mæli sérstaklega með því að taka með nesti og verja heilum degi í að skoða dýrin.

Christian Firtal
Vegna þess að ég er mikill bjóráhugamaður þá get ég ekki sleppt því að minnast á Christian Firtal. Þessi litli staður er staðsettur í göngugötu niðri í bæ og þar er boðið upp á marga af bestu handverksbjórum sem framleiddir eru á Norðurlöndunum. Þar er hægt að fá 20 bjórtegundir á krana og fjöldann allan af bjór á flöskum en einnig eru margar gerðir af viskíi og koníaki.

Umsjón / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Ingibjörg Hilmarsdóttir

Hinn fullkomni morgunmatur

Tillögur að hollum og góðum morgunmat.

Egg eru einstaklega prótínrík og holl fæða sem er tilvalið að neyta á morgnana.

Chia-grautur
Chia-fræ eru einstaklega næringarrík fæða en þau innihalda bæði nóg af kalki og pró­tíni og hafa oftar en ekki verið kölluð ofurfæða. Þau geta dregið í sig allt að tífalda þyngd sína af vökva og eru þannig seðjandi en jafnframt auðmeltanleg. Gott er að undirbúa chia-graut kvöldið áður og setja kúfaða matskeið af chia-fræjum og 100 ml af vökva, hægt að nota vatn, möndlumjólk eða hvað sem þig lystir, í skál eða nestisbox og inn í ískáp. Morguninn eftir munu chia-fræin hafa drukkið í sig mestallan vökvann og þá má bæta við þeim ávöxtum sem eru við höndina.

Hafragrautur
Hafragrautur er ákaflega hollur og saðsamur morgunmatur. Hann inniheldur mikið af trefjum en þær eru ekki meltar eða frásogaðar heldur fara þær í gegnum meltingarkerfið og draga í sig vökva. Hafrar geta ýmist verið litlir og stórir, grófir og fínir, glúteinlausir eða lífrænir, hver og einn verður að velja þá hafra sem hentar honum best. Sumum þykir hafragrauturinn bestur upp á gamla mátann, soðinn með ögn af salti, en einnig er hægt að bæta ávöxtum og skyri saman við eftir að grauturinn er soðinn eða sjóða epli og kanil með höfrunum.

Hristingur
Undanfarin ár hafa vinsældir hristinga og safa aukist til muna og algengt er að fólk fái sér slíkt í morgunmat eða í millimál seinnipart dags. Þó að það sé hægt að kaupa góða hrisitinga í ýmsum verslunum er einnnig auðvelt að gera gómsætan hristing heima, það eina sem til þarf er blandari eða matvinnsluvél. Blandaðu um það bil 300-400 ml af vökva, hægt að nota kókosvatn, möndlumjólk, kranavatn eða safa, og þeim ávöxtum og grænmeti sem þú vilt nota saman í blandara. Ekki sleppa grænmetinu því það gerir hristinginn hollari og næringarríkari, gott er að hafa það fyrir reglu að hafa að minnsta kosti eina tegund grænmetis. Einnig getur verið gott að nota prótínduft eða einhvers konar hnetusmjör út í en þá er betra að bæta dálitlu vatni saman við. Til þess að auka sætu er hægt að nota döðlur eða fljótandi steviu.

Egg
Egg eru einstaklega prótínrík og holl fæða sem er tilvalið að neyta á morgnana. Gerðar hafa verið nokkrar rannsóknir á ávinningi þess að fá sér egg í morgunmat, fram yfir kornmeti, og hafa þær allar sýnt að eggin verða til þess að fólk borðar færri hitaeiningar í hádeginu og það sem eftir er af deginum. Eggin eru einfaldlega svo mettandi að einstaklingar borða minni skammta. Einfalt er að grípa með sér eitt eða tvö harðsoðin egg og borða í morgunmat ásamt einhverju góðu grænmeti, til dæmis avókadó, en einnig er sniðugt að útbúa eggjahræru með því grænmeti og kjöti sem maður vill.

„Þang er ekki bara hippafæða“

Sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver mælir með því að allir borði þang reglulega.

Þang er í raun algjör næringarsprengja að sögn Jamie Oliver.

Sjónvarpskokkurinn frægi Jamie Oliver hefur viðurkennt að hann hafi lengi haldið að þang væri ekkert annað en hippafæða og enn eitt tískufyrirbærið í fæðu. Hann skipti um skoðun og mælir með því að allir borði þang reglulega því það er eitt næringarríkasta grænmeti jarðar. Samkvæmt Jamie er þang í raun algjör næringarsprengja sem inniheldur allt í senn trefjar, næringarefni, vítamín og öll steinefni sem til eru.

Gott fyrir húðina
Í þangi eru ýmis andoxunarefni, ensím og ómega fitusýrur sem hjálpa til við að hreinsa og fegra húðina. Þörunga og þang er að finna í fjölmörgum snyrtivörum nú til dags en það er engu síður gagnlegt fyrir húðina að borða þang.

Vinnur gegn líkamsfitu
Ýmsar rannsóknir hafa bent til þess að þang innihaldi efni sem dragi úr fitusöfnun líkamans og auki jafnframt brennslu. Þó svo að það þurfi að rannsaka þessa eiginleika frekar þá lofar þetta góðu.

Eykur seddu
Þegar við borðum þurrkað þang dregur það í sig vökva í maganum og þenst út þannig að okkur finnst við saddari. Það ásamt því hvað þang er líka hitaeiningasnautt og lágt í kolvetnum gerir það að fullkomnu snarli milli mála.

Grænt og vænt
Rétt eins og plöntur sem vaxa á landi inniheldur þang blaðgrænu sem er sögð hjálpa til við að draga úr bólgum í líkamanum og auka magn rauðra blóðkorna í blóði.

Járnrisi
Þang er ekki aðeins ríkt af járni heldur inniheldur það einnig mikið C-vítamín en það er nauðsynlegt fyrir upptöku líkamans á járni.

Bætir hjartaheilsu
Þang hjálpar til við að draga úr kólestrólmagni, inniheldur efni sem draga úr myndun blóðtappa og er ríkt af kalíni sem minnkar líkurnar á of háum blóðþrýstingi.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Hvetur fólk til að tileinka sér mínímalískan lífsstíl

Japanski tiltektargúrúinn Marie Kondo hvetur fólk til að eiga aðeins hluti sem vekja hjá því gleði.

Marie Kondo hefur helgað líf sitt tiltekt og mínimalískum lífsstíl. Hún rekur fyrirtæki í Tókíó þar sem hún kemur inn á heimili fólks, kennir því að fara í gegnum eigur sínar og losa sig við allan óþarfa.

Hin japanska Marie Kondo hefur helgað líf sitt tiltekt og mínimalískum lífsstíl. Hún rekur fyrirtæki í Tókíó þar sem hún kemur inn á heimili fólks, kennir því að fara í gegnum eigur sínar og losa sig við allan óþarfa. Þessi þjónusta hennar er svo vinsæl að það er þriggja mánaða biðtími. Bók hennar The Life Changing Magic of Tidying Up kom út árið 2014 en nýtur enn hylli og bloggarar um allan heim hafa tileinkað sér KonMari-aðferðina. Þessi aðferð hennar snýst um að eiga aðeins hluti sem vekja hjá þér gleði og það á jafnt við um föt, hluti, bækur og margt fleira. Hún ráðleggur fólki að meta hvern hlut út frá því hvort hann veiti þér gleði og ef ekki þá skaltu losa þig við hann.

Fleiri góð ráð úr smiðju Marie Kondo

Tiltekt er samtal við sjálfan sig. Marie lítur á tiltekt sem nokkurs konar hugleiðslu þar sem hún þarf að hlusta á eigið innsæi. Hún hvetur fólk til að finna friðsæla stund og alls ekki hlusta á tónlist, það sé bara til að flækja hlutina.

Hver hlutur á að eiga sinn ákveðna stað. Marie er þeirrar skoðunar að sem minnst dót og drasl eigi að vera á gólfum eða uppi á borðum. Í hverju rými á að vera að minnsta kosti einn góður skápur eða kommóða þar sem hægt er að geyma hluti sem ekki er prýði af. Inni í skápunum er svo mikilvægt að hafa minni geymslueiningar eins og kassa sem eru vel merktir og hægt er að stafla.

Taktu til eftir flokkum, ekki herbergjum. Marie vill meina að þetta sé gryfja sem margir falli í. Við eigum til að gleyma því að við geymum oft sömu eða svipaða hluti á mörgum stöðum í íbúðinni og erum því að endurtaka sömu tiltektina á nokkrum stöðum. Þetta skapar tiltektarvítahring sem er stundum erfitt að rjúfa. Þess vegna mælir hún með því að ákveða hvaða flokk þú ætlar að taka til í í dag í staðinn fyrir staðsetningu, það er, taka til föt í stað þess að taka til inni í svefnherbergi.

Ekki stafla hlutum. Það segir sig sjálft að hlutir sem eru neðst í stafla eru notaðir sjaldnar, sama hversu hrifin þú ert af þeim hlut. Þessi regla á jafnt við um föt, bækur og snyrtivörur. Marie mælir til dæmis með því að brjóta föt þannig að þau geti staðið upp á rönd, raða þeim þannig í kassa og ofan skúffu.

Sjaldan eða stundum þýðir í raun aldrei. Marie hlustar ekki á neinar afsakanir í þessum efnum. Ef þú klæðist einhverri flík aðeins einu sinni á ári þá er hún bara að taka óþarfa pláss í skápnum þínum restina af árinu.

Hentu öllum pappír. Það er algengur misskilningur að það sé minna um pappíra inni á heimili en á skrifstofu fyrirtækis. Við sönkum að okkur alls kyns óþarfa pappír; kvittunum, reikningum, glósum, úrklippum og þar fram eftir götum. Marie segir að einfaldasta leiðin sé að skipta öllum pappírum niður í geyma og henda en þeir pappírar sem þú geymir eru aðeins algjör nauðsyn. Helst myndi hún þó vilja henda öllum pappírum, því til eru forrit eins og Evernote þar sem þú getur skannað inn pappíra og geymt rafræna útgáfu af þeim.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Áhrifamikil tískuíkon

Nokkur af áhrifamestu tískuíkonum innan bransans í dag.

Tískuíkon dagsins í dag eru endalaus uppspretta innblásturs þegar kemur að því hvernig við klæðum okkur. Hér eru nokkrar af þeim áhrifameiri innan bransans sem eru í uppáhaldi hjá okkur.

Olivia Palermo
Tískudrottninguna Oliviu Palermo þekkja flestir sem hafa áhuga á tískunni. Hún skaust upp á stjörnuhimininn með þátttöku sinni í bandarísku raunveruleikaþáttunum The Hills en hefur síðan komið víða við. Hún var meðal annars lærlingur í kynningarmálum hjá hönnuðinum Diane von Furstenberg og vann í fylgihlutadeild hjá tískutímaritinu Elle en Olivia er þekkt fyrir að vera einstaklega smekkleg þegar kemur að því að nota fylgihluti á ferskan hátt. Olivia hefur verið áberandi í félagslífi þeirra ríku og frægu og er mynduð hvert sem hún fer, enda eitt stærsta tískuíkon samtímans. Það er alltaf hægt að leita til Oliviu að innblæstri, oliviapalermo.com.

______________________________________________________________

Hanneli Mustaparta
Hin norska Hanneli Mustaparta er fyrrverandi fyrirsæta sem fljótlega fann hjá sér mikinn áhuga á því að stílisera. Frá því hún lagði fyrirsætuskóna á hilluna að mestu árið 2008 hefur hún unnið fyrir hin ýmsu tískutímarit og stíliserað fyrir stór fyrirtæki. Áhugi hennar á útliti og stíliseringu þróaðist svo út í það að taka myndir en síðustu árin hafa götutískumyndir eftir hana birst í Vogue og á Vogue.com. Hanneli er með einstakt auga fyrir smáatriðum og ekki skemmir útlit hennar fyrir, að við tölum ekki um hárið, okkur dreymir um að hafa hár eins Hanneli!

______________________________________________________________

Hedvig Opshaug
Norski tískubloggarinn Hedvig Opshaug er konan á bak við the-northernlight.com. Nafnið á blogginu tengist heimaslóðum hennar í Norður-Noregi þar sem norðurljósin eru sýnileg allan veturinn. Hún á stuttan fyrirsætuferil að baki en lærði stærðfræði og vann í banka í Stokkhólmi þegar hún ákvað að breyta til og flytja til London. Hún segir að ferill sinn sem tískubloggari hafi fyrir tilviljun undið upp á sig en var ekki eitthvað sem hún stefndi beinlínis að. Hedvig er alltaf með puttann á tískupúlsinum og gaman að fylgjast með þessari glæsilegu konu.

______________________________________________________________

Miroslava Duma
Miroslava Duma vakti fyrst heimsathygli þegar myndir af henni birtust á þekktustu tískubloggunum eins og The Sartorialist. Hún hefur unnið fyrir mörg af stærstu tímaritum heims en hefur síðustu fimm árin unnið sjálfstætt fyrir Buro247.com en hún er meðstofnandi þeirrar vefsíðu sem fjallar meðal annars um tísku og listir og sendir út fréttir allan sólarhringinn. Það er ekki að undra að Miroslava skuli eiga marga aðdáendur enda alltaf óaðfinnanleg og klæðnaður hennar áhugaverður.

______________________________________________________________

Pernille Teisbaek
Pernille Teisbaek hefur unnið bæði fyrir framan og aftan myndavélarnar. Hún byrjaði feril sinn sem tískustjóri hjá danska tímaritinu Woman en hún hefur einnig unnið fyrir ALT for Damerne og Eurowoman. Í dag vinnur hún í fullu starfi sem stílisti, bloggari og tískusérfræðingur hjá stærstu sjónvarpsstöðvum Danmerkur. Ef þú ert í leit að  skandinavískum stílinnblæstri skaltu kíkja á Pernille, pernilleteisbaek.com.

______________________________________________________________

 

Chiara Ferragni
Hin ítalska Chiara Ferragni er konan á bak við eitt allra stærsta tískublogg heims, The Blonde Salad. Hún hefur unnið til verðlauna fyrir besta tískubloggið mörg ár í röð og birst á lista Forbes yfri ríkasta fólk heims. Hún hefur átt í samstarfi við marga af stærstu tískuhönnuðum samtímans og er talskona fyrir Pantene-hárvörur. Chiara birtist á forsíðu spænska Vogue í apríl í fyrra og er þar með fyrsti tískubloggarinn til að verma forsíðu tískubiblíunnar.

______________________________________________________________

Leandra Medine
Húmorinn skín ávallt í gegn hjá Leöndu Medine, sem heldur úti vefsíðunni The Man Repeller. Hún er einn þekktasti tískubloggari heims og áhrifamikil með meiru innan tískuheimsins. Leandra er þekkt fyrir að blanda saman ólíklegustu flíkum og fylgihlutum og er ávallt uppspretta tískuinnblásturs.

______________________________________________________________

Alexa Chung
Hin kínverk-breska Alexa Chung er eitt áhrifamesta tískuíkon samtímans og hefur alið af sér margar hermikrákur í gegnum tíðina. Hún byrjaði feril sinn sem fyrirsæta og fór þaðan yfir í sjónvarp. Síðustu árin hefur hún sett nafn sitt við ýmsan varning eins og fatnað og snyrtivörur og meðal annars skrifað fyrir breska Vogue. Þá hefur hún einnig veitt mörgum tískuhönnuðum innblástur því stíllinn hennar er svo einstakur. Alexu má oftar en ekki finna á fremsta bekk á tískusýningunum en hún er ein mest ljósmyndaða kona Bretlands.

Texti / Helga Kristjáns

„Sláandi að auglýst sé eftir nektarmyndum af ungum stúlkum“

„Margt vakti óhug við gerð myndarinnar Myndin af mér,“ segir Brynhildur Björnsdóttir leikstjóri hennar.

„Mér finnst helst vera sláandi að það skuli vera lýst eftir myndum af stúlkum á netinu. Að drengir skuli safna þessum myndum og skiptast á þeim og reyna að ná sem flestum í safnið. Að þeir skuli horfa á stúlkurnar á myndunum sem hluti en ekki raunverulegar manneskjur. Þessi skortur á mannvirðingu, það var einna helst það sem sló mig,“ segir Brynhildur Björnsdóttir leikstjóri nýrrar leikinnar stuttmyndar, Myndin af mér, sem fjalla um sex framhaldsskólanema sem upplifa stafrænt kynferðisofbeldi.

Hún segir hátt hlutfall af stafrænu kynferðisofbeldi hjá íslenskum ungmennum sömuleiðis hafa komið á óvart. Þannig virðast að meðaltali 75 prósent barna á aldrinum 12-15 þekkja einhvern á sínum aldri sem hefur ýmist sent eða fengið senda nektarmynd. Þá þekki á bilinu 10-15 prósent barna jafnaldra sem hefur orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi. En tölurnar byggja á upplýsingum sem Þórdís Elva Þorvaldsdóttir handritshöfundur myndarinnar viðaði að sér þegar hún hélt röð fyrirlestra fyrir ungmenni um stafrænt kynferðisofbeldi árið 2015.

Brynhildur segir mikilvægt að foreldrar fylgist með netnotkun barna sinna og tali við þau um ábyrgðina sem fylgi því að vera manneskja í samskiptum við aðra. Þá finnst henni lykilatriði að taka skömmina af því að það séu til nektarmyndir af fólki á Netinu. „Auðvitað er ég ekki þar með að segja að það sé í lagi að dreifa nektarmyndum í óleyfi, hver og einn á rétt yfir sínum líkama og sínu persónulega rými og það er brot gegn friðhelgi að ráðast inn í það. En mér finnst samt mikilvægt að skömmin liggi hjá þeim sem dreifa myndunum. Aldrei hjá þeim sem á myndunum er. Þannig gerum við líka ómögulegt fyrir þá sem dreifa slíkum myndum í kúgunar- eða niðurlægingarskyni að takast ætlunarverk sitt. Og það væri strax mikilvægur áfangasigur í baráttunni.“

Hér að neðan er stikla úr myndinni en hún verður aðgengileg í fjórum hlutum á Facebooksíðu Vodafone og svo birt í heild sinni á vefsíðunni myndinafmer.is á föstudag, 19. janúar. Þar verður líka að finna fræðslu tengda myndinni.

Halloumi og hrísgrjón

|
|

Þessi réttur er algert sælgæti.

Hollur og góður réttur.

Halloumi og hrísgrjón
fyrir 4
2 dl basmati-hrísgrjón, soðin eftir leiðbeiningum á pakkanum
2 msk. olía
2 msk. smjör
2 laukar, skornir í 4 hluta og sneiddir
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 tsk. kummin
1 tsk. kóríanderduft
1 dós hvítar baunir, safi sigtaður frá
2-3 msk. ferskar kryddjurtir, t.d. steinselja og tímían eða basil
80 g furuhnetur eða valhnetur, ristaðar2 msk. olía
225 g halloumi-ostur, skorinn í munnbita

Hitið olíu og smjör á pönnu og steikið laukinn, gott er að hafa háan hita svo hann brúnist vel. Bætið hvítlauk út í í lokin og steikið með smástund. Bætið kummin, kóríander og baunum á pönnuna og hitið vel í gegn. Bætið heitum hrísgrjónum, kryddjurtum og hnetum saman við. Steikið halloumi-ostinn í olíu á pönnu og blandið saman við.  

Texti / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Ernir Eyjólfsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

 

Öðlastu betri heilsu með því að ganga meira

Ein einfaldasta leiðin til að öðlast betri heilsu er að bæta við sig skrefum.

Farðu lengri leiðina
Við stöndum mörgum sinnum upp á hverjum degi, hvort sem það er til að fara á salernið eða til að sækja vatn eða kaffi. Prófaðu að fara lengri leiðina í hverri af þessum ferðum, til dæmis fara á salernið sem er fjær skrifstofu þinni eða einfaldlega taka krók á leiðinni, þetta mun aðeins taka þig örfáum mínútum lengur en skrefin safnast upp.

Símafundir á ferð
Til hvers að sitja kyrr á meðan þú ert í símanum þegar þú getur staðið upp frá skrifborði þínu, fengið ferskt loft og bætt við þig skrefum? Ef þú gengur á jöfnum hraða meðan á tíu mínútna símtali stendur geturðu safnað þúsund skrefum án þess að taka eftir því.

Upp og niður
Það er gamalt og gott ráð að sleppa því að nota lyftur eða rúllustiga. Það segir sig sjálft að þú safnar ekki skrefum með því að standa kyrr í lyftu. Á hverri mínútu sem við göngum upp stiga getum við safnað allt að tvö hundruð og sjötíu skrefum svo það getur fljótt borgað sig.

Með daglegum verkum
Mikið af þeim verkum sem við gerum á hverjum degi framkvæmum við á meðan við stöndum kyrr, en hægt væri að hámarka nýtingu tímans með því að stunda hreyfingu á meðan. Til dæmis er sniðugt að ganga um gólf á meðan þú burstar tennurnar, en það er fjórar mínútur á dag sem getur þýtt allt að fimm hundruð skref. Síðan geturðu gengið um á meðan þú bíður eftir lyftu eða strætó eða hvenær sem er.

Texti /  Hildur Friðriksdóttir

Gulla arkitekt hannar einstaka glæsiíbúð

Gulla arkitekt segist heillast af hógværum glæsileika og arktitektúr með listrænu ívafi.

Guðlaug Jónsdóttir, arkitekt og hönnuður, hefur búið í borg englana, Los Angeles, í næstum þrjátíu ár og getið sér gott orð sem arkitekt. Gulla, eins og hún er alltaf kölluð, hefur hannað tvær sérlega smart húsgagnalínur sem eru einungis seldar í listagalleríum og má segja að þessi húsgögn hennar séu oft meira í ætt við listaverk eða skúlptúr en hefðbundin húsgögn.

Guðlaug Jónsdóttir, arkitekt og hönnuður, hefur búið í borg englana, Los Angeles, í næstum þrjátíu ár og getið sér gott orð sem arkitekt

Gulla hefur líka hannað mörg flott hótel víða um heim og veitingastaði sömuleiðis og nýlega tók hún að sér að hanna glæsiíbúð í hæstu íbúðarbyggingu heims í stórborginni New York, nánar tiltekið 432 Park Avenue-skýjakljúfrinum sem lokið var að byggja í enda árs 2015. Afraksturinn er algjör veisla fyrir augað. Þetta heimili er sannarlega einstakt, fágað og glæsilegt en um leið líka hlýlegt og tímalaust.

Við hittum Gullu þegar hún var stödd hér á landi í jólafríi og spurðum hana út í þessa íðilfögru íbúð en þess má geta að Gulla fékk nýlega hönnunarverðlaun Interior Design Magazin; Best resort design 2017 og voru verðlaunin fyrir lúxushótel sem hún hannaði í Kína en þessi verðlaunin eru eins og Óskarinn í hönnun og því mikill heiður að fá þau. Við óskum Gullu til hamingju með enn eina rósina í hnappagatið því þetta eru aldeilis ekki fyrstu verðlaunin sem hún fær fyrir hönnun sína.

Íbúðin er staðsett í hæstu íbúðabyggingu heims

Íbúðin er eins og fyrr segir í hæsta íbúðarhúsnæði heims og Gulla segir að húsið sé 90 hæðir og 425,5 metra hátt. Og þá langar okkur að vita hversu hátt upp með lyftunni hún hafi farið þegar hún vann að þessu verkefni? ,,Íbúðin er á 55. hæð og hún er um 350 fermetrar,“ segir hún og bætir við að lofthæðin sé tæpir fjórir metrar. „Það eru hjón sem eiga þetta og þau eru til að mynda hvort með sitt baðherbergið.“Hennar baðherbergi er með frístandandi baðkeri sem er staðsett við stóran glugga og það er því einstakt útsýni yfir borgina þegar legið er baði þarna uppi á 55. hæð. Hann er með sturtu á sínu baðherbergi þannig að þau eru ekki eins.

Þarna er stórt opið aðalrými sem telur stofu, borðstofu og eldhúsið, inn af því er annað ,,vinnueldhús“, þvottaherbergi og annar inngangur. Auk þess er líka eitt herbergi sem er sérhannað til að spila backgammon, eða kotru, eins og það heitir á íslensku því herramaðurinn sem þarna býr spilar gjarnan kotru við félaga sína og þá er ekki amalegt að vera með þetta flotta spilarými.

Þessi glæsilega íbúð prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Húsa og híbýla og þar má sjá fleiri fallegar myndir og viðtalið við Gullu í heild sinni.

Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Myndir / Art Gray

Að vinna fyrir Ísland fær hjartað til að slá hraðar

|||
Halla Þórlaug Óskarsdóttir.|Du: dikter för nyfödingar.|Sesselja Agnes - undarleg saga.|Síðasta setning Fermats.

Halla Hrund Logadóttir starfar við kennslu í Harvard-háskóla í Bandaríkjunum þar sem hún stofnaði og stýrir nú fyrsta náms- og rannsóknarvettvangi tengdum Norðurslóðum. Áður hafði Halla byggt upp Íslenska orkuháskólann við Háskólann í Reykjavík. Hún segir áhugann á umhverfismálum hafa fylgt sér frá blautu barnsbeini. „Mér finnst skemmtilegast að byggja hluti sem geta haft jákvæð áhrif á einhvern hátt og nýtast íslensku samfélagi. Það að vinna fyrir Ísland fær hjartað til að slá örar og hvetur mig til að gera mitt allra besta.”

„Ég er oft að sinna mörgum verkefnum í ólíklegustu löndum og reyna á sama tíma að vera frábær mamma en ég held að allar útivinnandi konur tengi við slíkt á einhvern hátt.”

Halla býr ásamt fjölskyldu sinni í Cambridge í Boston, hún segir áherslurnar hafa umbreyst við fæðingu dóttur þeirra. „Ég er oft að sinna mörgum verkefnum í ólíklegustu löndum og reyna á sama tíma að vera frábær mamma en ég held að allar útivinnandi konur tengi við slíkt á einhvern hátt. Ég vil vera dóttur minni góð fyrirmynd í leik og starfi og er dugleg að taka hana með með mér í vinnuna til að sýna henni eitthvað nýtt. Þó finnst mér ég læra mest af henni, hún minnir mig á gildi sem mér finnst skipta máli í fari fólks.”

Ítarlegt viðtal við Höllu má lesa í næsta tölublaði Vikunnar sem kemur út á fimmtudaginn 18.janúar.

Texti / Íris Hauksdóttir

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Förðun / Ástrós Erla Benediktsdóttir

Ekki sleppa morgunmat

Mikilvægasta máltíð dagsins.

Allir hafa heyrt  gömlu tugguna um að morgunmatur sé mikilvægasta máltíð dagsins en margir sleppa honum, hvort sem það er vegna anna eða af annarri ástæðu. Það er þó ýmislegt til í þessari gömlu tuggu.

Á síðastliðnum fimm árum hefur orðið ákveðin vitundarvakning um mikilvægi þess að fasta í ákveðinn tíma á hverjum sólarhring til að gefa líkamanum tækifæri til að taka fótinn af bensíngjöfinni og sinna nauðsynlegu viðhaldi. Ýmsar gerðir föstumataræðis hafa verið í umræðunni, eins 5:2-mataræðið eða 16 tíma fasta, og þær hafa sína kosti og galla. Við getum þó öll tileinkað okkur það að hætta að borða á kvöldin og ná þannig allavega 10 tíma föstu á hverjum degi.

Enska orðið yfir morgunmat, breakfast, þýðir bókstaflega að brjóta föstu. Þannig að um leið og við borðum morgunmat hættum við að fasta, líkaminn vaknar úr ákveðnum hvíldarfasa þannig að meltingin og önnur efnaskifti byrja að vinna aftur á sinn eðlilega hátt.

Líkaminn byrjar þá að brenna hitaeiningum í auknum mæli og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að þeir sem borða morgunmat grennast frekar, og haldast frekar í kjörþyngd, en þeir sem að sleppa morgunmat. Það er þó ekki þar með sagt að það sé algjörlega nauðsynlegt að borða morgunmatinn um leið og maður vaknar heldur er í lagi að bíða, ef til vill til klukkan tíu.

Hvenær svo sem þú borðar morgunverðinn er mikilvægast að hann sé hollur og næringarríkur. Sumir vilja örlítið sætari morgunmat á meðan aðrir geta ekki hugsað sér það.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Ást er ást

Myndir sem sýna lesbísk ástarsambönd á heiðarlegan og fallegan hátt eru fágætar en hafa allar vakið töluverða athygli.

Kvikmyndaiðnaðurinn hefur oft verið gagnrýndur fyrir það að sýna aðeins gagnkynhneigðar ástarsögur og þegar fjallað er um samkynhneigð sambönd er það yfirleitt á mjög steríótýpískan, jafnvel neikvæðan, hátt. Hér eru nokkrar undantekningar sem sýna lesbísk ástarsambönd á heiðarlegan og fallegan hátt, enda hafa þær allar vakið töluverða athygli.

Eitthvað vantaði
La Vie d’Adèle, eða Blue is the Warmest Color eins og hún kallaðist á ensku (sjá mynd hér að ofan), fjallar um ósköp venjulega fimmtán ára stúlku, Adele, sem hefur áhuga á öllu því sem unglingsstúlkur hafa áhuga á; vinum, skóla, tónlist og strákum. Þegar hún byrjar með einum vinsælasta stráknum í skólanum áttar hún sig á að ekki er allt eins og það á að vera. Samkvæmt bekkjarfélögum hennar er hann hinn fullkomni strákur en henni líður sem það vanti eitthvað. Þetta veldur ruglingi hjá henni og hún fer að velta fyrir sér hvað geti verið að. En þegar hún hittir fyrir tilviljun hina bláhærðu Emmu finnur hún það sem hingað til hefur vantað. Hrá og hreinskilin mynd sem vann Gullpálmann í Cannes árið 2013.

Í The Kids are Alright er sagt frá parinu Jules og Nic sem hafa verið saman í næstum tuttugu ár og eiga tvo unglinga.

Framsækin fjölskylda
Í myndinni The Kids are Alright er sagt frá lesbíska parinu Jules og Nic sem hafa verið saman í næstum tuttugu ár og eiga tvo unglinga, Joni og Laser, sem þær eignuðust með hjálp tæknisæðingar. Þær hafa alltaf verið hreinskilnar við börnin sín og sagt þeim hvernig þau komu til. Þær bjuggust þó aldrei við að þau myndu vilja kynnast föður sínum en dag einn ákveða þau að hafa uppi á sæðisgjafanum, Paul,  sem kemur þeim skemmtilega á óvart. Þau stofna til sambands við hann og bjóða honum meðal annars í heimsókn, sem kemur mæðrum þeirra í dálítið uppnám.

________________________________________________________________

My Summer of Love fjallar um afdrifaríkt sumar í lífi tveggja ungra stúlkna, Tamsin og Monu.

Ólíkar en líkar
Eins og titillinn gefur til kynna þá fjallar My Summer of Love um afdrifaríkt sumar í lífi tveggja ungra stúlkna, Tamsin og Monu. Þrátt fyrir að vera úr ólíkum stéttum samfélagsins þá laðast þær strax hvor að annarri. Þær eiga það sameiginlegt að fjölskyldur þeirra eru fremur brotnar, en bróðir Monu er fyrrum afbrotamaður sem snerist til kristni í fangelsi og faðir Tamsin heldur fram hjá móður hennar. Þær byrja að njósna um fjölskyldumeðlimi og komast að ýmsum leyndarmálum en þau leyndarmál binda þær fastar saman. Áhugaverð og falleg mynd sem gerist í sveitum Bretlands en þarna má sjá Emily Blunt unga taka sín fyrstu skref í kvikmyndaleik.

________________________________________________________________

Á milli Carol og Theresu kviknar dálítill neisti.

Af litlum neista
Theresa er ung kona sem fær tímabundna vinnu um jólin 1952 hjá stórverslun á Manhattan en hún er áhugaljósmyndari sem dreymir um að komast að sem atvinnuljósmyndari hjá einhverju traustu tímariti eða dagblaði. Dag einn kemur í verslunina hástéttarkonan Carol og á milli þeirra kviknar dálítill neisti. Eitt leiðir síðan af öðru og smám saman fer samband þeirra að þróast. Það á þó eftir að draga dilk á eftir sér því Carol á í deilu við eiginmann sinn en hann hefur hótað að nota samkynhneigð hennar sem rökstuðning fyrir því að hann eigi að fá fullt forræði yfir börnum þeirra. Carol er glæsileg mynd sem lýsir viðhorfum til samkynhneigðar á þessum tíma. Báðar leikkonurnar, Cate Blanchett og Rooney Mara, eiga stórleik í myndinni.

________________________________________________________________

Kvöld eitt liggja leiðir Elinar og Agnesar saman og upp frá því þróast óvænt samband.

Unglingsárin erfið
Unglingsstúlkurnar Elin og Agnes eru í sama skóla en eiga annars litla sem enga samleið. Elín er hress og vinsæl á meðan Agnes er vinafá og niðurdregin. Þær eru samt báðar komnar með upp í kok á lífi sínu, en Elínu dreymir um að flýja smábæinn Åmål en Agnesi dreymir bara um Elínu. Kvöld eitt liggja leiðir þeirra saman og upp frá því þróast óvænt samband sem gæti reynst lausnin á vanda þeirra beggja. Spurningin er þó hvort þær séu nógu kjarkaðar til að standa uppi í hárinu á vinum sínum og samnemendum. Fucking Åmål var langt á undan samtíð sinni, eins og svo margar skandinavískar myndir eru, og fjallaði opinskátt um samkynhneigð samhliða því að sýna hversu erfitt það er að vera unglingur.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Fljótlegur fiskréttur

|
|Fullkomið með soðnum kartöflum.

Eðalfiskur sem er auðvelt og fljótlegt að elda.

Berið fiskinn fram með soðnum kartöflum

Sítrónufiskur
fyrir 4
1 msk. smjör
700-800 ýsa eða annar fiskur
1 ½ dl rjómi eða matreiðslurjómi
safi úr 1 lítilli sítrónu
2 msk. ferskt fáfnisgras eða kóríander, saxað (má nota 2 tsk. þurrkað)
salt og nýmalaður pipar
1 laukur, sneiddur
1 fenníka, sneidd
2 msk. olía
Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið ofnfast fat með smjöri og raðið fiskinum í fatið.
Blandið saman rjóma, sítrónusafa og estragoni, hellið blöndunni yfir fiskinn, saltið og stráið vel af pipar yfir.
Bakið í ofninum í 20 mín.
Steikið lauk og fenníku í olíu á pönnu og berið fram með fiskinum ásamt soðnum kartöflum.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Óeðlilegt ef æfingarferlið hefði verið auðvelt

Kristín Þóra segir áhorfendur geta búið sig undir mikið sjónarspil.

Leikritið Medea var frumsýnt um helgina í Borgarleikhúsinu en óvænt hlutverkaskipti urðu í verkinu á miðju æfingartímabili.

Kristín Þóra Haraldsdóttir fer með titilhlutverk sýningarinnar og segir hún æfingarferlið hafa verið lærdómsríkt og gefandi. „Verkið er heilmikil áskorun sem einkennist auðvitað einna helst á því hversu krefjandi karakter Medea er. Þetta hefur því eðli málsins samkvæmt tekið aðeins á. Að mínu mati væri óeðlilegt ef æfingarferlið hefði verið auðvelt. Þetta er þannig verk.”

Eins og frægt hefur orðið urðu breytingar innan leikhópsins þegar æfingarferlið var langt komið, en þá steig Hjörtur Jóhann Jónsson inn í annað burðarhlutverk sýningarinnar sem Jason, eiginmaður Medeu. Hlutverkið átti áður að skipa Atla Rafn Sigurðarsyni sem vikið var frá störfum nú fyrir skömmu. Kristín Þóra segir Hjört Jóhann hafa orðið við áskoruninni og gert ákaflega vel úr hlutverkinu á ótrúlega skömmum tíma. „Hjörtur Jóhann kom gríðarlega sterkur inn, lærði textann sinn um jólin og stendur sig með glæsibrag enda magnaður leikari og einstakur listamaður.”

Sjálf segist Kristín Þóra hafa nálgast sinn karakter á sama hátt og með alla aðra karaktera sem hún hefur tekist á við. „Ég hugsa fyrst og fremst, hvað er það sem drífur þessa konu áfram. Ég grúskaði mikið í grískri goðafræði en eins og flestir vita er Evripídes höfundur verksins sem skrifað var fyrir 2400 árum síðan. Ég velti upp stöðu kvenna á þeim tíma sem verkið var skrifað og einnig stöðu kvenna í dag. Einnig hef ég skoðað sorg og áföll hvernig við bregðumst við í slíkum aðstæðum. Medea er í miðju sorgarferli. Hvað gerist hjá okkur þegar við erum stödd í miðjum stormi, líkamlega og tilfinningalega, hvað gerist sem dæmi í heilanum þegar við förum í,,flight mode“. Svo auðvitað læra textann sem er nú engin smábiti og dansa með mótleikurunum og leikstjóranum Hörpu Arnardóttur sem hjálpa mér að komast nær karakternum.”

„Hjörtur Jóhann kom gríðarlega sterkur inn, lærði textann sinn um jólin og stendur sig með glæsibrag enda magnaður leikari og einstakur listamaður.”

Nú þegar frumsýningin er yfirstaðin þar sem fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna er óhætt að segja áhorfendur geti búið sig undir magnað sjónarspil. „Ég held að áhorfendur ættu að hugsa um þetta sem mikið ferðalag. Leikmynd og búningar Filippíu Elísdóttur eru konfekt fyrir augað, lýsing Björns Bergsteins er töfrandi eins og hann er þekktur fyrir. Tónlist Valgeirs Sigurðssonar er algjörlega mögnuð, ein sú flottasta sem ég hef heyrt í leikhúsi. Vonandi náum við leikararnir að segja þessa sögu, sýna mennskuna í þessum karakterum og hreyfa við áhorfendum. Við gerum allavega okkar besta til að svo verði.”

Texti / Íris Hauksdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Útivistarparadísin Hafnarfjörður

Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarpóstsins og innanhússarkitekt, segir frá útivistarperlum í Hafnarfirði.

Hafnarfjörður er svo miklu meira en þyrping húsa en þar má finna eitt stórbrotnasta útivistasvæði landsins. Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarpóstsins og innanhússarkitekt, hefur búið í Hafnarfirði síðan 1962 og þekkir bæinn og umhverfi hans vel. Við fengum hann til að segja okkur frá nokkrum perlum á svæðinu.

Guðni er kvæntur Kristjönu Þórdísi Ásgeirsdóttur og þau eiga sex syni og 5 barnabörn. „Við Kristjana byrjuðum að búa á brúðkaupsnóttinni árið 1978 í gömlu húsi við Suðurgötu. Síðan hefur annað ekki komið til greina en að vera hér enda gott að búa í Hafnarfirði sem státar af gríðarlega fallegu bæjarstæði sem er umvafið af sjávarströnd, fjölbreyttu hrauni og óteljandi náttúrufyrirbrigðum og minjum um byggð fyrri alda. Mannlífið er gott og fjölbreytt félagsstarf og menningarstarfsemi. Þrátt fyrir stærðina er það eins og að búa í þorpi, í besta skilningi þess orðs, að búa í Hafnarfirði.“

Hellisgerði
Milli Skúlaskeiðs og Reykjavíkurvegar er skrúðgarður Hafnfirðinga, einstakur fyrir hraunlandslag sitt. Var farið að nota hann sem áningarstað á 19. öldinni en hann dregur nafn sitt af Fjarðarhelli sem þar er. Formlegur skrúðgarður varð hann árið 1923 og eftir það hófst trjárækt þar og síðar blómarækt. Þarna eru ákjósanlegir staðir til að setjast á teppi með nesti og njóta þessarar náttúruperlu í hjarta Hafnarfjarðar.

Við Hvaleyrarvatn, Höfðaskógur og Helgafell í baksýn. Mynd / Guðni Gíslason

Malirnar
Mikil útgerð hefur verið í Hafnarfirði enda er þar góð höfn frá náttúrunnar hendi. Malirnar er samnefni malarkamba á milli hraunkletta við norðanverðan Hafnarfjörð. Krosseyri var við gamla hafnargarðinn en er nú horfin en utar sjást enn Langeyramalir við Herjólfsgötu og Litlu-Langeyrarmalir undan Brúsastöðum. Skerseyrarmalir liggja milli Brúsastaða og Balaklappar. Frá bílastæði innst við Herjólfsgötu er skemmtileg gönguleið eftir fjörukambinum. Skarf má sjá á klettum í sjónum og þarna má sjá ummerki eftir útgerð fyrri alda.

Hvaleyrarvatn
Jafnt að vetri sem sumri er umhverfi Hvaleyrarvatns, rétt innan byggðar í Hafnarfirði, orðin hreinasta perla. Á sumrin hópast fólk að vatninu á góðviðrisdögum og buslar í vatninu, gengur og hjólar á stígum allt umhverfis vatnið og nýtur lífsins. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur ræktað þar mikinn skóg og lagt stíga og þar má finna svæði með sýnishornum af flestum trjátegundum og einnig er þar að finna nyrsta rósagarð í heimi. Hafnfirsku skátarnir eiga skála við vatnið og hafa komið þar upp útivistarparadís.

Helgafell
Bæjarfell Hafnfirðinga er 338 metra hár móbergsstapi ofan Kaldársels. Fjallið, sem myndaðist við gos undir jökli seint á ísöld, er vinsælt til uppgöngu og ágætlega mörkuð leið er frá Kaldárbotnum, upptökum kalda vatns Hafnfirðinga. Á fjallinu er varða og í henni má finna gestabók. Fjölmargir áhugaverðir staðir eru nálægt Helgafelli og gönguferð í kringum fjallið getur leitt fólk að Litlu-borgum, friðuðum hraunmyndunum S-A fjallsins, Valabóli austan Valahnjúka og fleiri staða.

Fosshellir
Fjölmarga hraunhella má finna í landi Hafnarfjarðar. Ef gengið er til austurs frá bílastæðunum við Kaldárbotna ofan Kaldársels, með fram vatnsverndargirðingunni er komið í Helgadal. Þar er gönguleið á sléttri hraunhellu þar til gönguleiðin snýr til suðurs. Þar í N-A er komið að jarðfalli. Gengið er niður í jarðfallið og til vinstri og er þá komið að hraunfossinum sem hellirinn er nefndur eftir. Þarna þarf vasaljós og ef haldið er upp fossinn má sjá hraunmyndanir sem minna á jötu og eru ummerki hraunstraums. Þá fer að glitta í ljós og þegar út er komið er horft til baka að gönguleiðinni. Líkur eru á að Fosshellir sé hluti 100 m hellis en op inn í hann má finna í hraunsprungu um 100 m N-V af útgönguleiðinni. Skammt þar undan er Rauðshellir sem einnig er áhugaverður.

Gjárnar
Rétt áður en komið er í Kaldársel, þar sem gamli Kaldárselsvegurinn mætir þeim nýja eru einstaklega fallegar hraunmyndanir sem kallast Gjár. Gjárnar eru leifar tæmdrar hrauntjarnar sem myndaðist fyrir u.þ.b. 7000 árum þegar Búrfellsgosi var að ljúka. Sjóðandi heit hrauneðjan kraumaði um stund í tjörninni áður en hraunflaumurinn rann eftir neðanjarðarrásum í átt til sjávar og tjarnarbotninn storknaði. Gjárnar voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Aðalmynd: Guðni við Tröllin í Valahnúkum, Helgafell í bakgrunni. Mynd / Jón Guðnason

Lambalæri með blóðbergi og rótargrænmeti

Ljúffeng steik þar sem lambabragðið fær að njóta sín.

Lambalæri með blóðbergi og rótargrænmeti.

Lambalæri með blóðbergi og rótargrænmeti
1 meðalstórt lambalæri frá Bjarteyjarsandi
ólífuolía
salt og pipar
1 lúka íslenskt garðablóðberg, saxað
1 lúka mynta, fersk, söxuð
5 hvítlauksgeirar, maukaðir
Hitið grill eða pönnu í 300°C, kveikið á ofninum á 140°C. Blandið því næst saman olíunni og öllum kryddunum og makið vel á allt lambið.
Því næst er lambið sett á heitt grillið eða pönnu og eldað í 3 mín. á hvorri hlið, þannig að það „lokist“ vel.
Eftir það er kjötið sett í eldfast mót og inn í ofn í 55-65 mín. eða þar til kjarnhitinn hefur náð 60°C. Þá er kjötið tekið út og látið hvíla uppi á borði með stykki yfir í minnst 10 mín. áður en skorið er í það.


Borið fram með nýuppteknu rótargrænmeti og brúnni sósu.

Umsjón / Hinrink Carl Ellertson
Myndir / Ernir Eyjólfsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

 

Blóðugir glæpir og annar hryllingur

Ekki missa af þessum sjónvarpsþáttum.

Það verður að segjast eins og er, það er skemmtilegast að horfa á glæpaþætti í einum rikk og þurfa ekki að bíða í viku eða meira eftir næsta þætti. Hér eru nokkrir afar spennandi þættir sem eru fáanlegir á Netflix.

Rannsókn raðmorðingja
Mindhunter (sjá mynd að ofan) eru nýlegir þættir framleiddir af Netflix. Þættirnir gerast árið 1977 þegar glæpasálfræði var á frumstigi. FBI-mennirnir Holden Ford og Bill Tech byrja að skoða morðingja sem virðast ekki hafa drepið af hefðbundnum ástæðum, svo sem hefnd eða ástríðu, og hafa jafnframt myrt fleiri en fimm einstaklinga, ýmist í einum rikk eða yfir lengri tíma. Þeir vilja komast að því hvað hvetur þessa menn til að myrða og hvernig megi koma í veg fyrir slíka glæpi. Þættirnir eru sannsögulegir og viðtölin við morðingjana eru byggð á upprunalegum gögnum Ford og Tech auk þess sem þeir eiga heiðurinn af hugtakinu raðmorðingi.

Lucifer sest að í Los Angeles þar sem hann starfar sem ráðgjafi hjá LAPD auk þess að reka næturklúbbinn Lux.

Djöfull og dauði
Bandarísku þættirnir Lucifer fjalla um satan sjálfan, Lucifer Morningstar. Honum leiðist í helvíti og því ákveður hann að yfirgefa krúnu sína að halda upp á yfirborðið. Hann sest að í Los Angeles þar sem hann starfar sem ráðgjafi hjá LAPD auk þess að reka næturklúbbinn Lux. En hvað veit djöfullinn um glæpi – merkilega mikið að því er virðist.

________________________________________________________________

Í þáttunum Luther kynnumst við titilpersónunni John Luther, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar í London, sem sér um alvarlega glæpi.

Skuggalegir glæpir
Bretar kunna svo sannarlega að gera lögguþætti. Í þáttunum Luther kynnumst við titilpersónunni John Luther, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar í London, sem sér um alvarlega glæpi. Vinnan er númer eitt, tvö og þrjú í lífi Luthers og það bitnar bæði á honum og þeim sem standa honum næst. Vegna þess hve skuggalegir glæpirnir sem hann rannsakar eru þá finnst honum stundum sem myrkrið sé að gleypa sig.

________________________________________________________________

Johnny Lee Miller sem Sherlock Holmes og Lucy Liu sem Watson.

Í nýjum búning
Það þekkja flestir einkaspæjarann Sherlock Holmes, enda hafa fjölmargar birtingarmyndir hans komið í sjónvarpi og á hvíta tjaldinu. Elementary eru bandarískir þættir sem setja sögurnar um Sherlock Holmes, sem Arthur Conan Doyle skrifaði, í nýjan búning. Þættirnir gerast í New York, ekki í London, í samtímanum og í þetta skipti er Dr. Watson kona, sem Lucy Liu, leikur. Johnny Lee Miller er einnig frábær í hlutverki Sherlocks og þættirnir eru hreint út sagt ávanabindandi.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Skerum niður hitaeiningar

Hvernig er best að skera niður fjölda hitaeininga?

Einfaldasta leiðin til að léttast er að skera niður hitaeiningar, það vita allir. Hins vegar eru ekki allir klárir á því hvernig þeir eigi að fara að því og hve mikið þeir eigi að skera niður. Með því að innbyrða fimm hundruð hitaeiningum minna á hverjum degi er hægt að léttast um hálft kíló á viku. Hér eru nokkrar góðar leiðir til þess.

Salöt eru oftast holl, en öllu má samt ofgera og eftir því sem lagt er meira í salatið með alls kyns ostum, karamelliseruðum hnetum, avókadó og þvíumlíku þeim mun hitaeiningaríkara verður það.

Varastu heilsufæði
Fólk er síður á varðbergi gagnvart mat sem er stimplaður sem heilsufæði og vanmetur oftar en ekki hitaeiningafjöldann. Þó að matur sé hollur þýðir það ekki endilega að hann sé hitaeiningasnauður, til dæmis er oft mælt með að nota hnetur og þurrkaða ávexti sem nasl en ef þú gætir ekki að þér getur þú óafvitandi innbyrt fimm hundruð hitaeiningar í einu millimáli.

Salat er ekki það sama og salat
Í hugum flestra er salat það hollasta sem maður getur fengið sér. Það má samt öllu ofgera og eftir því sem lagt er meira í salatið með alls kyns ostum, karamelliseruðum hnetum, beikoni, avókadó, brauðteninga og þvíumlíku þeim mun hitaeiningaríkara verður það. Einn stór salatdiskur með öllu getur innihaldið fleiri hitaeiningar en pastaréttur. Ef þú setur aðeins eitt sælkerahráefni í salatið, helmingar dressinguna og hefur fjölbreyttara grænmeti í á móti getur þú fækkað hitaeiningunum um fimm hundruð.

Minni diskar
Besta leiðin til að minnka skammtastærðir er einfaldlega að nota minni diska. Með því einu að skipta þrjátíu sentímetra disknum út fyrir tuttugu og fimm sentímetra disk muntu borða fjórðungi minna, sem þýðir fimm hundruð kaloríur þegar allar máltíðir dagsins eru taldar. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því að verða svöng því rannsóknir hafa sýnt að svengdin verður ekkert meiri.

Borðaðu sjaldnar pasta
Aðeins einn bolli af pasta eru tvö hundruð og tuttugu hitaeiningar en skammtastærðir flestra eru töluvert stærri en einn bolli. Þannig að það er auðvelt að innbyrða næstum því þúsund hitaeiningar í einni pastamáltíð. Reyndu að hafa pasta aðeins einu sinni í viku og haltu þig við tvo bolla af því, það er alltaf hægt að hafa salat með.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Svarthvíta hetjan mín

Það eru ákveðnir töfrar sem fylgja svarthvítum myndum.

Lengi vel voru svarthvítar myndir það eina sem var í boði en jafnvel í dag, mörgum áratugum eftir að litfilmur voru fundnar upp, eru enn til kvikmyndagerðarmenn sem velja að taka myndir upp í svarthvítu.

Datt í lukkupottinn
Í Nebraska (sjá mynd hér að ofan) kynnumst við Woody Grant, öldruðum vélvirkja og fyrrverandi málara, sem ákveður að ferðast frá Montana til Nebraska til að innheimta milljón dollara sem hann heldur að hann hafi unnið í happdrætti. Woody er vegna óhóflegrar áfengisneyslu í gegnum árin orðinn verulega ruglaður ofan í sérviskuna sem hefur alltaf einkennt hann. Þegar hann fær bréf þar sem látið er að því liggja að hann hafi unnið milljón dollara í happdrætti og það eina sem hann þurfi að gera sé að mæta á svæðið og sækja vinninginn. Allir í kringum hann vita að þetta er auglýsingabrella, eða hreinlega svindl, en Woody er harður á því að vinningurinn sé raunverulegur og ákveður að sækja hann.

Schindler var þýskur viðskiptajöfur sem óvænt gerðist bjargvættur mitt í þriðja ríki nasista í Þýskalandi.

Bjargvættur
Óskarsverðlaunamyndin Schindler’s List er byggð á sannri sögu Oskars Schindler. Hann var montinn og gráðugur þýskur viðskiptajöfur sem óvænt gerðist bjargvættur mitt í þriðja ríki nasista í Þýskalandi. Hann ákvað að breyta verksmiðju sinni í flóttamannabúðir fyrir gyðinga og náði þannig að bjarga 1.100 gyðingum frá því að verða sendir í Auschwithz-fangabúðirnar, þar sem gasklefinn beið þeirra.

Myndin Manhattan er talin vera ein af meistaraverkum Allens.

Svört kómedía
Leikstjórinn Woody Allen hefur gaman að því að leika sér með ýmis stílbrigði eins og svarthvíta filmu. Í Manhattan leikur Woody Allen sjálfur Isaac sem er 42 ára og skilinn við Jill. Hún býr nú með annarri konu og er að skrifa bók þar sem hún ætlar að deila persónulegum hlutum úr sambandi þeirra Isaac. Isaac á svo í ástarsambandi við unglingsstúlkuna Tracy þar til hann hittir Mary, hjákonu besta vinar síns og kolfellur fyrir henni.

Frances opnar hjarta sitt fyrir ástinni og dansinum á ný með misgóðum árangri.

Hálffullorðin
Frances Ha í samnefndri kvikmynd er dansari af lífi og sál. Hún starfar hins vegar sem danskennari til að ná endum saman. Hana langar að gera og verða margt en nær árangri í fáu. Mesti sigur hennar hingað til er vinátta hennar og Sophie. Vinkonurnar eru svona semi-hipsterar og hanga saman öllum stundum, en fást við fátt utan þess að gera írónískar athugasemdir um lífið um umhverfið í anda Dorothy Parker. Þegar fólk hefur orð á því að þær séu farnar að minna á lesbískt par sem sé hætt að stunda kynlíf krefst Sophie að þær endurskoði vináttuna. Þannig fer Frances opnar hjarta sitt fyrir ástinni og dansinum á ný með misgóðum árangri.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Fallegt, fjölskylduvænt og öruggt land

Guðrún Helga Jóhannsdóttir býr ásamt fjölskyldu sinni í Senegal.

Guðrún Helga Jóhannsdóttir, doktorsnemi og stundakennari við Háskóla Íslands, býr ásamt fjölskyldu sinni í Senegal. Hún segir að Senegal sé fjölskylduvænt og öruggt land.

Guðrún Helga Jóhannsdóttir býr ásamt manni sínum Yakhya Diop og börnum í Senegal.

„Ég er gift Yakhya Diop, á fjögur börn, þrjú stjúpbörn og eitt á leiðinni. Við fluttum til baka á Klakann í maí síðastliðnum. Höfuðborgin Dakar er frekar þróuð miðað við höfuðborgir nágrannalandanna og þar er allt til alls, hvort sem um er að ræða hágæða læknisþjónustu eða lúxushótel,“ segir Guðrún Helga sem segir okkur hér frá nokkrum áhugaverðum stöðum á svæðinu.

Monument pour la renaissance Africaine
Áhugaverð, falleg og mjög umdeild 50 metra há bronsstytta í Oukam-hverfinu í Dakar. Styttan gnæfir yfir Dakarborg og horfir út á Atlantshafið. Abdoulaye Wade, fyrrum forseti Senegal, lét byggja styttuna og hlaut mikla gagnrýni fyrir þá ákvörðun en styttan kostaði um 2,8 milljarða króna í byggingu. Styttan var vígð á þjóðhátíðardegi Senegals, 4. apríl, árið 2010 en það ár voru 50 ár liðin frá því að landið fékk sjálfstæði frá Frökkum. Styttan er hæsta stytta Afríku og er nauðsynlegt stopp hvers þess sem leggur leið sína til Dakar.

Ile de Ngor
Ile de Ngor er eins og annar heimur. Lítil eyja alveg við Dakar, án rafmagns. Það tekur einungis 10 mínútur að komast þangað með bát. Um það bil 100 íbúar af Lébou-ættbálknum búa á eynni. Eyjan er umlukin fallegum ströndum og er loftslag þar mjög gott allt árið um kring, um það bil 25 gráður. Aðalatvinnuvegur eyjaskeggja eru fiskveiðar og ferðamannaiðnaður en fjöldi ferðamanna sækir eyna heim ár hvert.

Ile de Goree
Falleg eyja með sorglega sögu. Ile de Goree sem hefur 1.680 íbúa er í tveggja kílómetra fjarlægð frá Dakar. Eyjan var útskipunarstaður þræla sem seldir voru til Ameríku. Þar er áhugavert safn um þrælasöguna en einnig eru þar veitingastaðir og fallegar strendur. Eyjan er vinsæll áfangastaður ferðamanna og góð dagsferð frá Dakar.

Að sögn Guðrúnar er Senegal fjölskylduvænt land.

Parc de Bandia
Þetta er einn af fáum stöðum í Senegal þar sem hægt er að upplifa afríska safarístemningu. Garðurinn er í 65 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Dakar, nálægt Saly sem er vinsæll ferðamannastaður. Í garðinum eru gíraffar, sebrahestar, apar, krókódílar, hýenur og nashyrningar auk annarra dýra. Keyrt er um garðinn og dýrin skoðuð í sínu náttúrulega umhverfi innan um aldagömul stórglæsileg baobab-tré.

Lac Rose
Þetta vatn er nauðsynlegur áfangastaður fyrir hvern þann sem heimsækir Senegal. Það er í útjaðri Dakar og auðvelt að taka leigubíl þangað frá höfuðborginni. Vatnið er bleikt á litinn vegna mikils magns salts í því. Á staðnum er hægt að kaupa salt sem unnið er úr vatninu. Við mælum sérstaklega með því að leigja fjórhjól og/eða pallbíl og fara í ferð í kringum vatnið með leiðsögumanni. Það er algjörlega ómissandi og frábær skemmtun, leiðsögumaðurinn keyrir að vatninu og sýnir manni saltvinnsluna og gefur tíma fyrir myndatökur.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Raddir