Fimmtudagur 19. september, 2024
8 C
Reykjavik

„Mér hefur alltaf verið svo til slétt sama um kynlíf“

|||||
|||||

Sonja Bjarnadóttir hefur aldrei skilgreint sig út frá kynhneigð.

Sonja er eikynhneigð en segir hugtakið vefjast fyrir flestum.

Sonja Bjarnadóttir hafnar því að kynhvöt sé ákvörðun en segist hafa lært að skilgreina sig rétt. Sonja er eikynhneigð en segir hugtakið vefjast fyrir flestum. Hún stígur því fram í opinskáu viðtali og útskýrir sína hlið.

Sonja er 26 ára nemi í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands. Ásamt því treður hún reglulega upp með fjöllistahópnum Drag-Súgi þar sem hún fer með hlutverk hins aumkunarverða en lífsglaða Turner Strait. Sýningarnar fara bæði fram mánaðarlega sem og á Hinsegin dögum og í kringum aðra stóra viðburði. „Turner Strait fékk að malla lengi sem hugmynd í kollinum áður en hann steig á svið. Í fyrstu var karakterinn leiðindagaur en hefur með tímanum þróast yfir í að vera hálfelskulegur bjálfi. Með tímanum fór mér nefnilega að þykja vænt um hann. Hann er ekkert 100% góður og saklaus en hann vill vera elskaður og er að reyna sitt besta.“ Það eru þeir Sigurður Heimir og Hafsteinn Himinljómi, eða Gógó Starr og Ragna Rök, sem halda utan um Drag-Súg og hefur aðsóknin verið slík að hætt er að taka nýja meðlimi inn í hópinn í bili. „Ég komst inn í apríl í fyrra og fíla þetta listform í tætlur, orkan innan hópsins er mikil og stemningin góð. Það er alltaf gaman að stíga á svið en Turner Strait syngur bæði og mæmar auk þess að framkvæma allskonar bjánaskap á sviðinu.“

Tvö ár eru nú síðan Sonja steig fram og tilkynnti sínum nánustu um eikynhneigð sína. En hvað þýðir það að vera eikynhneigður? „Í stuttu máli er eikynhneigð (e. asexuality) það að finna ekki fyrir kynferðislegri aðlöðun (e. sexual attraction). Sumir sem kannski vita minna vilja meina að þetta þýði aðeins að vilja ekki eða nenna ekki að stunda kynlíf, en rótin sem slík er skortur á þessari aðlöðun eða löngun,“ útskýrir Sonja. Ástæða þess að hún komst í kynni við fræðin var netráf. „Mér finnst alltaf svo bjánalegt að segja frá því en ég sá þetta orð og þetta hugtak fyrst á síðunni tumblr. Þar hafði ég líka kynnst manneskju sem ég var með í háskólanum sem kenndi sig sem eikynhneigða og fór í kjölfarið aðeins að grennslast frekar fyrir um þetta. Bæði í gegnum þessa manneskju, frekari tumblr-skoðun og svo loks AVEN (The Asexual Visibility & Education Network) fór ég að sjá fleiri tengsl á milli þessa fyrirbæris og minnar eigin upplifunar.“

Hinsegin flóran fjölbreytt

Eikynhneigðir tóku í fyrsta sinn þátt í Gleðigöngunni fyrr í sumar. Sonja segir þátttöku þeirra hafi vakið misjöfn viðbrögð. „Það voru ekki allir á eitt sáttir um þátttöku okkar og margir af okkar elskulegu virku í athugasemdum lágu ekki á skoðunum sínum. Spurningar á borð við, „þarf að gefa öllu nafn?“ og „hvar endar þetta rugl?“ fengu að fjúka en sumir verða víst að hafa allt á hornum sér. Viðbrögðin voru þó misjöfn og margir sem tóku okkur fagnandi. Það er bara svo oft svona þegar fram koma ný orð, fólk þarf tíma til að aðlagast.“ Sonja segir að það hafi komið sér á óvart hversu margir einkynhneigðir einstaklingar séu hér á landi. „Miðað við hversu fjölbreytt hinsegin flóran getur verið ætti það kannski ekki að koma mér svo mikið á óvart en það gerði það nú samt. Við vorum að vísu frekar fámennur hópur sem tók þátt í göngunni en eflaust eiga fleiri eftir að stíga fram. Það getur nefnilega tekið tíma að átta sig á að skilgreiningin eigi við mann sjálfan og fullvíst að margir þarna úti vita hreinlega ekki um hugtakið eða hafa ekki kafað svo djúpt í sjálfsskoðuninni enn þá en eiga kannski eftir að finna sig sem eikynhneigða síðar meir.“

„Í augnablikinu er ég ekki í sambandi og ekkert sérstaklega að leitast eftir því en trúðu mér ég hef verið skotin, bæði í fólki í kringum mig sem og þekktum einstaklingum sem ég hef dáðst að úr fjarlægð.“

Aðspurð segist Sonja meira verða vör við að stelpur upplifi sig eikynhneigða en stráka og segir hún það að miklu leyti vera tengt við samfélagsgerðina. „Það eru auðvitað alveg til eikynhneigðir strákar en það er minna um að þeir opni sig með það. Samfélagið okkar er svo kyngert og gerir þær kröfur að strákar séu endalaust með kynlíf á heilanum. Umræða sem strákur myndi reyna opna sig með í þessum dúr yrði fljótlega kæfð niður. Það er sorgleg staðreynd en ég trúi því að með auknu upplýsingaflæði og opinni umræðu geti þessi viðhorf breyst.“

Sjálf fann Sonja hvernig hugtakið átti við hana í gegnum lestur og mikla sjálfsskoðun. „Árið 2014 fór að miklu leyti í þetta hjá mér. Að finna út hvers vegna ég fann litla sem enga löngun í kynlíf og að sættast við þáverandi maka, að þetta væri ekki honum að kenna heldur mér, eins mikil klisja og það kann að hljóma. Það tók tíma að sættast við að ég væri ekki eikynhneigð vegna sambandsins heldur væri það einfaldlega vegna þess sem ég er. Fólk á svo auðvelt með að taka slíkum upplýsingum persónulega og halda að það sé við það sjálft að sakast. Þetta var skrítinn tímapunktur í mínu lífi þar sem ég hafði verið kynferðislega virk lengi vel áður en ég gerði mér grein fyrir því að ég hafði í raun litla löngun í það. Á endanum var ég alveg hætt að vilja neitt vita af kynlífi sem slíku. Það var þá sem ég fór að velta fyrir mér hvort þetta væri eitthvað sem ég þyrfti að laga hjá sjálfri mér því ég vissi að það væri ekki við þáverandi maka að sakast. Það var svo í gegnum hinn og þennan lestur um hugtakið sem ég fann samhljómun í eigin tilfinningum. Hægt og bítandi fór svo að renna upp fyrir mér að allt sem ég hafði verið að lesa mér til um ætti við um mig og ég endaði á að geta sagst vera eikynhneigð. Það skref lít ég á sem ákveðinn persónulegan sigur.“

Barneignir ekki fyrir mig

Sonju segist gruna að í sínu tilfelli hafi eikynhneigðin alltaf verið til staðar enda hafi áhugi hennar á kynlífi aldrei verið nokkur. „Þegar ég lít til baka geta ákveðin augnablik allt í einu orðið skiljanleg sem áður voru það ekki. Mér hefur alltaf verið svo til slétt sama um kynlíf og nú þegar ég veit meira um sjálfa mig og hinseginleikann minn hef ég fundið sátt. Lengi vel hélt ég nefnilega bara að ég væri skrítin, sem gæti svo sem alveg verið aukaþáttur en það er annað mál,“ segir Sonja og skellir upp úr. Í dag segist hún spá lítið í kynlífsleysið en segist þakka fyrir að „þurfa“ ekki að gera neitt lengur. „Mér finnst ég ekki vera að missa af neinu og upplifi því hvorki vonbrigði né leiða. Það er hins vegar stór plús að vera ekki lengur í neinu bólfélagaveseni með öllu því drama sem því kann að fylgja. Þetta eilífa nöldur um að hafa sofið hjá aðilla A og nú sé aðilli B brjálaður. Ég myndi segja að tilfinningin sé í dag voða hlutlaus.“

„Mér hefur alltaf verið svo til slétt sama um kynlíf og nú þegar ég veit meira um sjálfa mig og hinseginleikann minn hef ég fundið sátt,“ segir Sonja

Hvað barneignir varðar segist Sonja hafa gert upp hug sinn fyrir löngu. Sú ákvörðun sé í raun ótengd hinseginleika hennar. „Börn eru ekki fyrir mig. Bara tilhugsunin um þungun og allt það ferli finnst mér viðurstyggileg. Ég fæ hreint út sagt ónot í líkamann að leiða hugann að því, með fullri virðingu fyrir þeim sem það kjósa. Ég á líka fullt í fangi með að hugsa um sjálfa mig þótt ég fari ekki að bera ábyrgð á öðrum einstaklingi. Þetta er mín ákvörðun og hefur ekkert að gera með eikynhneigð enda er fullt af eikynhneigðu fólki þarna úti sem þráir að eignast börn, hvort sem þeir hafa líkamlegu starfsemina til þess eða ekki. Ég finn samt vel fyrir pressu samfélagsins, sérstaklega verandi á þessum aldri en ég veit að þetta er ekki fyrir mig og sú skoðun mun ekkert breytast þótt ég eldist eins og svo margir vilja halda fram. Það er svo vont þegar fólk vill hugsa fyrir mann og reyna að breyta viðhorfi en ég segi frábært fyrir þá sem vilja eiga fjölskyldur. „You do you and I do me.“ Eins virðast margir tengja hinseginleikann við skírlífi en það er rangt, skírlífi er ákvörðun sem tekin er í tengslum við trú en ég er ekki trúuð svo ég get fullvissað þig um að þetta hefur ekkert með það að gera. Í grunninn snýst þetta um margvíslega upplifun, og skortinn þar á.“

Þar sem hugtakið er frekar nýtt á íslenskri tungu er auðvelt að gera sér ranghugmyndir um hvað það felur í sér. Sonja segir algengustu spurningarnar vera þær hvort hún hafi aldrei fengið fullnægingu og jafnvel alhæfingar um að hún eigi bara eftir að finna rétta makann. Hún vísar slíkum hugmyndum alfarið á bug en segist þó laðast rómantískt að fólki af báðum kynjum. „Eitt af því sem mér finnst svo frábært við að uppgötva hvað eikynhneigð sé er það að yfirhöfuð sé hægt að skipta aðlöðun niður í rómantíska annars vegar og kynferðislega hins vegar. Um leið og ég fattaði að ég upplifi ekki kynferðislega aðlöðun sá ég að öll þau skot sem ég hafði átt áður og mun eflaust eiga síðar eru rómantísk skot en ekki bara aðdáun á fallegri manneskju. Í augnablikinu er ég ekki í sambandi og ekkert sérstaklega að leitast eftir því en trúðu mér ég hef verið skotin, bæði í fólki í kringum mig sem og þekktum einstaklingum sem ég hef dáðst að úr fjarlægð. Það er svo sem góð leið til að segjast hafa verið skotin í frægu fólki, er það ekki annars? En fólkið sem ég laðast að eru alls konar, karlar, konur og kynsegin fólk. Það er bara svo leiðinlegt að segja alltaf „biromantic asexual“ eða „tvírómantísk“ eikynhneigð og þurfa svo að útskýra hvoru tveggja þegar ég er ekki alltaf í stuði til að vera hinsegin kennari dagsins. Ég sleppi því einfaldlega þangað til ég er spurð, eins og núna.“

„Það eru auðvitað alveg til eikynhneigðir strákar eins og í öllu öðru en það er minna um að þeir opni sig með það. Samfélagið okkar er svo kyngert og gerir þær kröfur á að strákar séu alltaf endalaust með kynlíf á heilanum.“

Margir ímynda sér að eikynhneigðir einstaklingar búi yfir vondri reynslu af kynlífi eða hafi jafnvel lent í kynferðislegu ofbeldi. Í tilfelli Sonju var það ekki raunin. „Vissulega eru til einstaklingar sem skilgreina sig sem eikynhneigða eða finna ekki fyrir kynferðislegri aðlöðun eða löngun af því eitthvað hefur komið fyrir þá áður. En það á ekki við í mínu tilfelli. Að því sögðu er það ekki mitt að ákveða eða segja hverjum og einum hvernig þeir eigi að skilgreina sig. Að mínu mati þarf ekki að uppfylla þessi og þessi áföll til þess að geta sagst vera eins og maður er. Sjálf get ég ekki sagt að neitt hafi beint valdið því að ég skilgreini mig á þennan hátt. Ég einfaldlega sá sjálfa mig í þessu hugtaki og gat loksins tjáð mig um minn hinseiginleika.“

 Örverpi á Akranesi

Sonja er alin upp á Akranesi og segir æsku sína í grunninn hafa verið góða það fylgi því þó bæði kostir og gallar að alast upp í litlu sveitarfélagi þar sem allir þekki alla. „Ég vil persónulega meina að ég hafi átt góða æsku, þó auðvitað með einhverjum erfiðleikum hér og þar. Ég er yngst þriggja systkina en ég fæddist svo löngu á eftir hinum tveimur að þau voru bæði flutt að heiman þegar ég var farin að geta munað almennilega eftir mér. Ég ólst því eiginlega upp sem einkabarn. Það gæti mögulega hafa skemmt eitthvað fyrir mér hvað framtíðina varðar en ég ætla ekki að væla yfir því alveg strax. Ég ætla allavega að reyna að vera fullorðin og sjálfbjarga í einhvern tíma í viðbót áður en ég fer að kenna uppeldinu eða æskunni um eitthvað sem ég ekki kann eða veit.“

Tvö ár eru nú síðan Sonja tilkynnti vinum og fjölskyldu um hinseiginleika sinn. Tilkynninguna birti hún á Facebook-vegg sínum á degi Reykajvík Pride árið 2015. Færslan hljómaði svona:

Sæl öll. fjölskylda, vinir, kunningjar, samstarfsfólk og meira að segja þið ykkar sem ég kann að hafa addað á feisbúkk í annarlegu ástandi og ekki haft samband við ykkur síðan. Mig langar aðeins að spjalla við ykkur um Asexuality (ísl. eikynhneigð (óopinber þýðing)), þó það væri ekki nema bara til þess að fá smá fræðslu frá algjörum amatör svona í tilefni Hinsegin Daga í Reykjavík.

Eins og flestir sem hafa lært grunnatriði í ensku ættu að vita bendir forskeytið „a-“ yfirleitt til þess að það sé skortur til staðar á hinum hluta orðsins, sbr. Amoral (siðblindur), Apathetic (áhugalaus), o.s.frv. Það sama á við hér. Asexual þýðir, mjög lauslega, skortur á nokkru hvað varðar kynhneigð. Ég hef oft borið þetta saman við andstæðuna, þ.e. þegar fólk, hinsegin sem og gagnkynhneigt, sér manneskju sem því þykir aðlaðandi vilji það prófa að sofa hjá því. Það upplifir svokallað kynferðislegt aðdráttarafl (e. Sexual Attraction), ef svo má að orði komast. Asexual fólk finnur ekki fyrir þessu aðdráttarafli frá einum né neinum. Það sér ekki annars aðlaðandi manneskjur og hugsar „vó, ég væri til í að setjast á/setja í þetta!“ (þetta var frekar nasty en þið fattið vonandi hvað ég á við).

Asexual er líka regnhlífarhugtak, eins og svo mörg hugtök innan hinsegin samfélagsins, þar sem ekki allir einstaklingar sem skilgreina sig sem slíkt eru 100% anti-sex. Þvert á móti er vel hægt að vera Asexual en samt stunda kynlíf, ýmist sér til skemmtunar, til að fá einhvers konar útrás, eða jafnvel bara með samráði maka viðkomandi. Einn undirhópur Asexual, Demisexual, er hópur sem finnur enga kynferðislega löngun, en gæti hugsað sér það ef það þekkir hinn aðilann nógu vel og gott traust sé líka með. Og jú, kynhvöt getur alveg verið til staðar hjá Asexual fólki. Líkamleg viðbrögð við örvandi utanaðkomandi afli eru jú náttúruleg, og alls ekkert að því.

Hins vegar er líka hópur Asexual fólks sem finnur hreinlega hvorki þetta aðdráttarafl né löngun í eitthvað kynferðislegt. Enginn er kynferðislega aðlaðandi fyrir þeim, tilhugsunin um það að stunda kynlíf og þá sérstaklega samfarir er ógeðfelld, og löngunin í, hvað þá hrifningin af slíku athæfi er nákvæmlega engin.

Svona eftirá að hyggja þá hefði ég kannski bara átt að mæta á Nú Skal Hinsegja viðburðinn síðastliðinn mánudag. Ekki bara vegna þess að ég er amatör um þetta málefni og gæti hugsanlega hafa prumpað út úr mér einhverjum staðreyndum sem ég þykist vita. Nema jújú, það hefði kannski verið allt í lagi hugmynd út af fyrir sig. En nei, það er ekki ástæðan.

Ástæðan er sú að ég tilheyri þessum hópi.

Og áður en spurt er, nei, þetta kom ekki upp úr þurru. Þetta er heldur ekki eitthvað sem ég bara „ákvað“ núna nýlega. En það var ekki fyrr en fyrir rúmu ári síðan sem ég gat samræmt sjálfa mig við þetta orð og í rauninni þetta konsept. Ég viðurkenni það hér og nú að ég hef alltaf getað séð fegurð og fundið hrifningu til margra kynja, jafnvel þó svo að ég átti að vera gagnkynhneigð kona. Þegar ég hugsa til baka núna get ég klipið í nokkur augnablik þar sem stelpur náðu athygli minni jafn mikið og strákar, og þá sérstaklega á kynþroskaskeiðinu. Þannig að að vissu leyti hefur mig alltaf grunað að ég væri allavega eitthvað hinsegin. „Bi-curious“ var orð sem ég átti til með að skjóta inní hér og þar, en það passaði bara ekki. Samkynhneigð/lesbía passaði mér ekki heldur. Tvíkynhneigð komst mjög nálægt, en að sama skapi fannst mér aldrei vera neitt eitthvað sérstaklega „kyn“-legt við það hvernig mér leið. Mér fannst ég samt alltaf vera að ljúga bæði að öðrum og sjálfri mér ef ég segðist vera Straight, og sömuleiðis ef ég segðist vera Lesbía/Bi.

Það var svo í gegnum elsku bjánalega, barnalega tumblr sem ég sá þetta orð fyrst: Asexual. Ég furðaði mig á þessu í fyrstu, en komst fljótt að því með smá gúggli og meira tumblr-skrolli hvað þetta þýddi. Og í gegnum vinkonu sem einkenndi sig sem slíkt lærði ég meira, og svo smátt og smátt um undirflokkana og hvað þetta allt saman gæti verið. Fljótlega small einhvern veginn allt í höfðinu á mér. Ég var ekki bara löt í kynlíf, það var ekki bara það að ég nennti því ekki; ég hafði bara enga löngun í það. Tilhugsunin var á endanum farin að gefa mér einhverja hrolltilfinningu sem ég mundi ekki eftir að hafa upplifað síðan þessi eilífa pressa um að „missa meydóminn“ byrjaði í unglingadeildinni.

En sem sagt, bara til að taka þetta nokkurn veginn saman: Ég er Asexual. Ég er ekki Hetero þegar kemur að hugsanlegum samböndum; mér finnst stelpur og NB fólk alveg jafn heillandi og strákar. Ég er bara ekki Sexual. Tilhugsunin um kynferðisleg athæfi sem hafa eitthvað að gera með sjálfa mig hrylla mig. Ég kann ekki að horfa á manneskju og hugsaa „mig langar að ríða þessu“, sama hvað kynið heitir. Það er ekkert að mér. Það kom ekkert fyrir mig til að „gera mig svona“. Svona hef ég alltaf verið. Það tók bara smá tíma og auka fræðslu fyrir mig að átta mig á því. Og núna, tæpu einu og hálfu ári eftir að ég fann að ég gat samræmt mig þessu hugtaki, fannst mér gott að koma því á framfæri.

Ég heiti Sonja, og ég er Asexual. Ég er hinsegin.

„Nánustu vinir mínir vissu hvernig ég skilgreindi mig áður en ég kom út opinberlega. Ég reikna ekki með öðru en að þeir hafi bara tekið fréttunum eins og hverju öðru. Ég hefði allt eins getað sagst hafa litað á mér hárið nýlega. Fólk er vissulega forvitið og spurningum rignir reglulega yfir mig en að öðru leyti hefur ekkert breyst. Ég hef alltaf fengið stuðning, bæði frá vinum, kunningjum og ættingjum. Ég var engu að síður mjög fegin að finna stuðning frá pabba og systur minni um leið og þau sáu færsluna frá mér. Síðar meir þegar ég sýndi mömmu og bróður mínum hana höfðu þau ekkert slæmt að segja. Mömmu fannst aðallega leitt að mér fyndist ég þurfa að koma út yfirhöfuð. Af hverju getur fólk ekki bara verið eins og það er og samfélagið sætt sig við það. Ég er í það minnsta þakklát mínu fólki og mjög heppin með það.“

Texti / Íris Hauksdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Helga Þorkelsdóttir

Framúrskarandi, falleg og vönduð hönnun í Hrím

Vöruúrvalið og fjölbreytnin hefur aldrei verið meiri.

,,Við leggjum mikið upp úr íslenskri hönnun,“ segir Tinna.

Verslanirnar Hrím eru orðnar þrjár talsins, ein á Laugaveginum og tvær í Kringlunni. Nýjasta verslunin er á fyrstu hæð Kringlunnar þar sem Mýrin var áður.
Framkvæmdastjóri Hrím, Tinna Brá Baldvinsdóttir er afar stolt af nýjustu versluninni og þeim fjölmörgu nýju vörum sem nú má finna í Hrím.

,,Við erum ótrúlega glöð að hafa loksins opnað stóra og góða verslun í Kringl­unni þar sem við getum verið með breiðara vöruúrval eins og á Laugavegi 25 þar sem við erum nýverið búin að opna upp á aðra hæð.
Eins og ávallt leggjum við mikið upp úr íslenskri hönnun og við erum mjög stolt af þeim nýju merkjum sem bæst hafa við nýlega í Kringlunni. Þar má meðal annars nefna vörur frá Feld, Farmers Market, OrraFInn og As we grow,” segir hún.

,,Við leggjum mikla áherslu á að fólki finnist gaman að koma í Hrím og skoða fjölbreytta og skemmtilega hönnun­ar­vöru. Að okkar mati snýst þetta um heildarupp­lifun viðskiptavinarins, við vöndum okkur við gluggaútstillingar, veljum skemmti­­­lega tónlist í verslunum okkar, notum til að mynda

Designletters svörtu bollarnir eru það heitasta í dag.

sérhannaðan gjafapappír og svona mætti lengi telja,” segir hún og bætir við að mikilvægast af öllu sé auðvitað persónuleg og góð þjónusta frá þeirra frábæra starfsfólki.

,,Nýlega fórum við að hanna og framleiða nokkrar vörur í samstarfi við flott lista­fólk. Þar má til dæmis nefna Regnpokann sem hefur heldur betur slegið í gegn. Að sama skapi erum við ótrúlega stolt af platkötunum okkar sem við köllum Jurtir by Hrím.”

Áhugaverðar vörur

Tinna hannaði þennan regnpoka í samvinnu við Bobby Breiðholt.

Það er ekki úr vegi að biðja Tinnu um að nefna nokkrar áhugaverðar vörur í Hrím. Hún hugsar sig um og nefnir til sögunnar regnpoka sem fæst í búðunum. ,,Þessa vöru hannaði ég ásamt Bobby Breiðholt sem útfærði lógó-ið með mér,” segir hún. ,,Regnpokinn hefur verið mjög vinsæll hjá okkur fyrir útivistarfólk. Svo er fólk líka bara að elska notkunarmöguleikana þeirra og notar þá dagsdaglega í íslensku veðráttunni. Í pokann passar lítill Macbook sem einstaklega hentugt fyrir skólafólk sem og útvistarfólk sem getur án hans verið. Þetta verður jólagjöfin í ár. Frábært verð á þeim.

Þá er As we grow ný lína, falleg íslensk hönnun framleidd úr gæðaefni þar sem fáguð snið er höfð að leiðarljósi. Designletters svörtu bollarnir eru það heitasta í dag, ný lína nýkomin í verslanir. Og svo eru Thermo flöskurnar  ómissandi á hvert heimili og rjúka út líkt og heitar lummur.”

Tinna minnist líka á plakötin ,,Jurtir by Hrím“ sem Hrím framleiðir en Tinnu langaði að gera plaköt af jurtum sem tengja hana við barnæskuna úti í náttúrunni í Stykkishólmi. Jurtir by Hrím verða með samtals tólf jurtum en þrjár nýjar komu á markað fyrir jól.

Nýjasta verslunin er á fyrstu hæð Kringlunnar.

Texti / Sjöfn Þórðardóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

Fjölbreytt umhverfi Nýja-Sjálands

Íris Richter segir frá uppáhaldsstöðunum á Nýja-Sjálandi.

Íris Richter hefur búið á Nýja-Sjálandi síðan 2009, þar kynntist hún breskum eiginmanni sínum og þau eiga tvo syni.

Íris Richter hefur búið á Nýja-Sjálandi síðan 2009, þar kynntist hún breskum eiginmanni sínum og þau eiga tvo syni. Hún rekur þrjú fyrirtæki: er viðskiptaráðgjafi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, businesskitchen.co.nz, rekur lítið gistiheimili, lovetitirangi.com, og er athafnastjóri með leyfi til að gifta fólk, celebrant-iris.co.nz.

„Við búum í úthverfi Auckland þar sem er mjög mikil náttúrufegurð. Við erum hálftíma að keyra til Auckland, borgar í heimsklassa, og hálftíma í hina áttina að keyra á stað með dramatískum og gjörsamlega tómum ströndum. Við fjölskyldan njótum þess að fara í göngutúra um frumskógana hér í kring,“ segir Íris. „Mér finnst erfitt að velja milli staða hér til að segja frá því í hvert einasta skipti sem við förum í ferðalag lýsi ég því yfir að þetta sé fallegasti staður í heimi og ég þurfi ekki að sjá meira. Svo segi ég það sama í næsta ferðalagi.“

Pakiri-ströndin
Við fórum á þessa fallegu hvítu póstkortaströnd um síðustu helgi. Hún er aðeins í einnar og hálfrar stundar akstursfjarlægð fyrir norðan Auckland. Næsti bær við ströndina heitir Matakane og þar er æðislegur helgarmarkaður. Sætt þorp og flottir veitingastaðir.

„Mér finnst erfitt að velja milli staða hér til að segja frá því í hvert einasta skipti sem við förum í ferðalag lýsi ég því yfir að þetta sé fallegasti staður í heimi og ég þurfi ekki að sjá meira. Svo segi ég það sama í næsta ferðalagi.“

Karekare-ströndin
Þessi svarta strönd er aðeins í tuttugu mínútna akstursfjarlægð frá heimili okkar og kvikmyndin The Piano var tekin þar. Mér finnst skemmtilegt að fara þangað í roki og rigningu sem gerir staðinn enn þá dramatískari, eins og í myndinni. Hæð liggur meðfram ströndinni sem hægt er að ganga upp á og útsýnið frá henni er stórkostlegt. Þar er hægt að ganga eins lengi og maður nennir svo snýr maður við og upplifir aðra sýn. Þegar horft er niður á löngu, svörtu ströndina og villta sjóinn er ótrúlegt til þess að hugsa hve stutt þetta er frá borginni.

Í Rotorua er meðal annars að finna nýsjálensku útgáfuna af Bláa lóninu og Geysi.

Rotorua 
Í þessum túristabæ er meðal annars að finna nýsjálensku útgáfuna af Bláa lóninu og Geysi. Bærinn er í tæplega þriggja tíma akstursfjarlægð suður af Auckland. Það sem mér finnst skemmtilegt við Rotorua er að við Íslendingarnir í NZ hittumst þar einu sinni á ári í útilegu og við köllum það ættarmótið okkar.

Waiheke-eyjan
Eyjan er í þrjátíu mínútna siglingu frá miðborg Auckland. Þangað er gaman að fara og njóta fegurðar, strandar og vínbúa. Skemmtileg blanda af fólki býr á eyjunni. Annarsvegar hippar sem vilja forðast borgina og lifa einföldum lífsstíl á yndislega fallegum stað. Við þekkjum fólk sem á lóð með frábæru sjávarútsýni og býr í húsvagni. Hins vegar búa milljónamæringar á eyjunni, ríkt fólk sem áttaði sig á að það sé hægt að byggja hús, jafnvel með lendingarpalli fyrir þyrluna, í þessari stuttu fjarlægð frá vinnunni þeirra í miðborginni.

Við förum oft til Waiheke og njótum æðsilegra veitingastaða og ísbúðin þar er í miklu uppáhaldi hjá okkur.

Mistletoe Bay
Við sjóinn í þessum fallega bæ er einstök náttúrufegurð með fallegum gönguleiðum og skemmtilegu tjaldstæði. Staðurinn er nyrst á Suðureyjunni og þangað tekur um einn og hálfan tíma að fara með flugi.

Karekare-ströndin er aðeins í tuttugu mínútna akstursfjarlægð frá heimili okkar og kvikmyndin The Piano var tekin þar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Völva Vikunnar rýnir í árið 2018

|
|

Vofa lúrir yfir Bjarna Ben. og kvika kraumar undir Kötlu.

Hægt er að nálgast spá Völvunnar í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Völva Vikunnar hefur reynst ótrúlega sannspá undanfarin ár. Hún sá fyrir fall ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs og hneykslismálin í kringum það. Hún spáði ríkisstjórn Bjarna Ben. ekki langlífi og það gekk sannarlega eftir. Hún talaði um alvarlegt mál er upp kæmi og sýndi fram á hve slæmt væri að verja ekki meira fé til löggæslunnar og talaði einkum um miðbæinn í því sambandi. Allir Íslendingar fylgdust svo með leit að ungri konu er hvarf á Laugaveginum í janúar á þessu ári en þá var mjög um það rætt að fjölga þyrfti og bæta öryggismyndavélar og eftirlit í bænum um helgar.

Vegna þessa og fjölmargra annarra spádóma er hafa ræst ríkti mikil spenna á ritstjórnarskrifstofunni þegar völvan settist niður með blaðamanni til að rýna í árið 2018. Henni brást ekki bogalistin og vænta má mikilla tíðinda á næsta ári. Pólitíkin verður áfram lífleg, eldgos verða, ýmsar sviptingar í veðrinu og ástin bankar upp á hjá tveimur íslenskum leikkonum.

Völva Vikunnar hefur reynst ótrúlega sannspá undanfarin ár. Hún sá fyrir fall ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs og hneykslismálin í kringum það. Hún spáði ríkisstjórn Bjarna Ben. ekki langlífi og það gekk sannarlega eftir.

Vikan hafði einnig samband við nokkrar konur er staðið hafa í framarlega í flokki við að hrinda #metoo byltingunni af stað, hver í sinni starfsgrein. Þær spá í framvinduna, bæði þau áhrif er sú hreyfing hefur haft og hvernig tryggja megi að þau verði til frambúðar.  Nú er ljóst að engin stétt er undanskilin áreitni og ofbeldi hefur átt sér stað og liðist alls staðar.

Í þessari síðustu Viku ársins eru einnig viðtöl við rithöfundana Kristínu Steinsdóttur og Jón Sigurð Eyjólfsson. Kristín byrjaði seint að skrifa og hefur valið að fjalla um líf og reynsluheim kvenna. Margar merkar bækur liggja eftir hana til dæmis bókin um Bjarna-Dísu og Ljósu, hvoru tveggja konur sem hefðu hlotið önnur örlög ef þær hefðu verið uppi á öðrum tíma. Nýjasta bók Kristínar, Ekki vera sár, gerist hins vegar í nútímanum. Jón Sigurður er lesendum Fréttablaðsins að góðu kunnur og pistlar hans hafa notið mikilla vinsælda. Í bók sinni rifjar hann upp fimm ára búsetu í Aþenu og starf sitt á menningarsetrinu og kaffihúsinu Tvíflautunni.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Þýskir jólamarkaðir – töfrum líkastir

Töfrum líkast er að fara á þýska jólamarkaði.

Þá finna má stóra og smáa um allt Þýskaland og sem laða að sér fjöldann allan af ferðamönnum ár hvert. Ef þið eruð orðin þreytt á allri markaðshyggjunni í kringum jólin og langar að upplifa rómantíska jólastemningu þá er tilvalið að skella sér til Þýskalands á jólamarkað þar sem finna má vandaðar jólagjafir sem eru ekki fjöldaframleiddar.

Margir eiga erfitt með að standast heita jólaglöggið sem er í boði.

Hægt er að fá allt mögulegt á þessum mörkuðum, allrahanda jólavarning og gjafir, eins og til dæmis leikföng, hluti sem eru útskornir úr tré, kerti, strengjabrúður eða lambskinnsskó.
Margir eiga erfitt með að standast heita jólaglöggið sem boðið er upp á ásamt gómsætum bökuðum eplum sem renna ljúft niður á köldum vetrardögum.
Nóg er af piparkökum fyrir unga fólkið, ásamt marsipankökum og öðru góðgæti.
Jólamarkaðarnir í Þýskalandi skipta tugum ef ekki hundruðum og því getur verið erfiðast við þetta allt saman að ákveða hvert skal haldið.
Besta lausnin er að velja alla vega tvo markaði. Á stórum markaði í einhverri borginni getur þú gert massíf innkaup en farið svo á lítinn markað í litlum bæ eða þorpi til að upplifa meiri rómantík.

Flestir markaðirnir byrja í síðustu vikunni í nóvember og eru fram að jólum. Þeir eru yfirleitt opnir alla daga frá klukkan tíu á morgnana til átta eða níu á kvöldin. Fimmta sunnudag fyrir jól er þó frídagur á mörgum svæðum í Þýskalandi en þá er Remembrance Day haldinn hátíðlegur og margt lokað þennan dag, meðal annars margir markaðir.

Nánar á heimasíðunni germany-christmas-market.org.uk.

Jólamarkaðurinn í Nuremberg í Þýskalandi er 400 ára gamall og alltaf jafnvinsæll. Hann er á aðaltorginu í gamla bænum og þar eru að minnsta kosti 200 básar þar sem boðið er upp á allt milli himins og jarðar. Þar er einnig hringekja og lest fyrir börnin.
Jólamarkaðurinn í Esslingen, skammt frá Stuttgart í Þýskalandi, er afar sjarmerandi. Þar er miðaldaþema og sérstök afþreying fyrir börn, sem tengist þeim tíma. Staðurinn er töfrum líkastur – sérstaklega á kvöldin.
Margir jólamarkaðir eru í Berlín, nánast á hverju götuhorni. Einn þeirra er fyrir framan ráðhúsið og í miðju hans er skautahringur, í kringum Neptune-gosbrunninn. Þaðan er frábært útsýni að sjónvarpsturninum og ráðhúsinu.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / www.pixabay.com

Girnirlegir og einfaldir eftirréttir

|||
|||

Gómsætir eftirréttir gerðir með góðum fyrirvara.

Hér eru uppskriftir að glæsilegum eftirréttum sem má laga með góðum fyrirvara. Er það ekki einmitt það sem við þurfum, að hafa möguleika á að skipuleggja okkur svolítið með góðum fyrirvara og eingöngu þurfa að setja eftirréttinn saman rétt áður en hann er borinn fram.

Ís og eldur
fyrir 8-10

Hér má gera ísinn tilbúinn með nokkurra vikna fyrirvara. Þessi ís á myndinni er ekki með kökubotn en það er líka gott að hafa ljósan eða dökkan kökubotn undir. Væta má í kökubotninum með víni eða ávaxtasafa. Óneitanlega glæsilegur eftirréttur og flott að stinga stjörnuljósum í hann fyrir gamlárskvöld. Þið getið hæglega keypt góðan ís og stytt ykkur leið, ef þið notið tilbúinn ís þarf u.þ.b. 800 ml af jarðarberjaís og 1000-1200 ml af súkkulaðiís eða bara þeim ís sem er að ykkar smekk.

Þessi ís á myndinni er ekki með kökubotn en það er líka gott að hafa ljósan eða dökkan kökubotn undir.

Jarðarberjaís:

3 eggjarauður
4 msk. sykur
1 msk. vanillusykur
300-400 g jarðarber, maukuð í matvinnsluvél
4 dl rjómi, léttþeyttur

Þeytið rauður með sykrinum og vanillusykrinum þar til blandan er létt og loftkennd. Blandið jarðarberjum og þeyttum rjóma varlega saman við og hellið í skál. Frystið.

Súkkulaðiís:

150 g súkkulaði
1 ½ dl mjólk
3 eggjarauður
4 dl rjómi, léttþeyttur

Bræðið súkkulaði og mjólk saman í vatnsbaði. Bætið eggjarauðum út í og þeytið blönduna yfir vatnsbaðinu í 6-8 mín. eða þar til blandan þykknar aðeins. Kælið og blandið þeyttum rjómanum saman við. Hellið ofan á jarðarberjaísinn og frystið.

Marenstoppur:

3 eggjahvítur
90 g sykur
90 g flórsykur

Hitið ofninn á 250°C. Þeytið eggjahvítur þar til þær eru að verða stífar. Blandið sykri saman í skál og bætið út í hvíturnar einni matskeið í einu. Hrærið áfram í 6-8 mín. eða þar til marensinn er stífur. Takið ísinn úr frysti og losið úr skálinni, hvolfið á ofnplötu eða kökubotn. Smyrjið marensinum ofan á allan ísinn. Setjið í ofninn í nokkrar mínútur eða þar til hann er farinn að taka lit. Einnig má fá húð á marensinn með því að nota gasbrennara.

________________________________________________________________

Súkkulaði-marquise með appelsínuþrennu
fyrir 8-10

Súkkulaði-marquise er gott að eiga í ísskáp eða frysti og taka fram eftir þörfum. Hægt er að fá 10-12 sneiðar úr þessari uppskrift en þetta er ríkulegur og saðsamur eftirréttur og ekki þarf mikið magn á hvern disk. Gott er að hafa könnu með heitu vatni og væta hnífinn og þerra til að skera niður fallegar sneiðarnar.

Gott er að hafa könnu með heitu vatni og væta hnífinn og þerra til að skera niður fallegar sneiðarnar.

400 g súkkulaði
200 g smjör
1 dl sykur
1 msk. koníak (má sleppa)
6 egg, aðskilin

Smyrjið jólakökuform, 25 cm langt, með olíu og leggið plastfilmu í það, eina eftir endilöngu og aðra þvert, það þarf að þekja botninn og allar hliðar. Bræðið súkkulaðið með smjörinu í vatnsbaði við vægan hita. Bætið sykrinum og koníakinu út í og hrærið í þar til sykurinn er uppleystur. Takið súkkulaðiblönduna af hitanum og bætið eggjarauðum í, einni í einu, og hrærið vel saman. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær eru stífar. Bætið þeim í súkkulaðiblönduna, fyrst helmingnum og síðan öllu og blandið vel saman. Hellið súkkulaðiblöndunni í formið, það verður alveg fullt og kælið eða setjið í frysti. Berið fram með appelsínuþrennu og kumats í sírópi.

Appelsínuþrenna:

3 matarlímsblöð
1 appelsína
2 blóðappelsínur
3 mandarínur
2 dl hvítvín, eða eplasafi
1 ½ dl sykur

Leggið matarlímsblöðin í ískalt vatn í 5-10 mín. Flysjið appelsínu og blóðappelsínur með hníf og losið laufin varlega frá án þess að himnan fari með. Flysjið mandarínur og fjarlægið mest af himnunni, setjið allt aldinkjötið í skál. Hitið hvítvín eða eplasafa ásamt sykri og leysið sykurinn upp. Bræðið matarlímið í sykursírópinu. Skiptið aldinkjötinu í form, gott að nota múffumót, magnið fer svolítið eftir stærðinni á appelsínum en þið ættuð að ná í a.m.k. 6 skammta. Hellið sykurblöndunni ofan á aldinkjötið. Kælið þar til stíft. Þetta má gera með allt að tveggja daga fyrirvara.

Kumat-síróp:

6-8 kumat, skorið í sneiðar
1 dl vatn
¾ dl sykur

Sjóðið allt saman og kælið aðeins. Geymist í 1-2 daga.

Samsetning:
Setjið 1-2 sneiðar af súkkulaði-marquise á mann og setjið á fallega diska. Losið appelsínuþrennu úr forminu og setjið á diskinn. Raðið nokkrum sneiðum af kumat á diskinn og hellið sírópinu af því í kring. Berið fram með ískaldri grískri jógúrt eða sýrðum rjóma, bragðbættum með smávegis af flórsykri og vanillu eða þeyttum rjóma.

________________________________________________________________

Panna cotta með rauðum toppi
fyrir 4

Hér er jólalegur eftirréttur fyrir fullorðna fólkið, það er að segja þá sem finnst Campari gott. Skipta má Campari út fyrir Ribena. Ég hef ekki of mikið af matarlími í rjómablöndunni, mér finnst betra að hafa búðinginn ekki of stífan þegar hann er í glasi.

Hér er jólalegur eftirréttur fyrir fullorðna fólkið, það er að segja þá sem finnst Campari gott. Skipta má Campari út fyrir Ribena.

3 matarlímsblöð
4 dl rjómi
2 dl mjólk
4-5 msk. sykur
1 vanillustöng
½ tsk. vanilludropar

Leggið matarlímið í bleyti í kalt vatn í 5-10 mín. Setið rjóma og mjólk í pott, setjið sykur, korn af vanillustöng ásamt stönginni út í og hitið þar til sykurinn er uppleystur. Látið blönduna standa í 8-10 mín. svo að rjómablandan taki í sig allt góða bragðið af vanillunni. Leysið matarlímið upp í blöndunni, bætið vanilludropum í, hellið henni í gegnum sigti og skiptið í falleg glös. Kælið þar til blandan fer að stífna.

Rauður toppur:

2 matarlímsblöð
1 dl vatn
1 dl sykur
safi úr 1 sítrónu
2-4 msk. Campari (má sleppa og nota Ribena)

Leggið matarlímsblöðin í bleyti í kalt vatn. Hitið vatn og sykur ásamt sítrónusafa í litlum potti þar til sykurinn er uppleystur. Bætið Campari út í og bragðbætið. Leysið matarlímið upp í blöndunni og hellið ofan á panna cotta þegar það er orðið stíft. Gjarnan má gera eftirréttinn tilbúinn daginn áður.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Kortleggja ilmi í íslenskri náttúru

Sonja Bent og Elín Hrund Þorgeirsdóttir safna og skrá ilmolíur úr íslenskum villtum jurtum.

Sonja Bent og Elín Hrund Þorgeirsdóttir hjá Nordic Angan hafa unnið að rannsóknarverkefni sem felur í sér að kortleggja ilmi í íslenskri náttúru með því að eima jurtir.

Elín Hrund Þorgeirsdóttir og Sonja Bent standa að baki Nordic Angan.

Sonja og Elín Hrund kynntust fyrir nokkrum árum þegar þær voru báðar að selja hönnun sína á pop-up mörkuðum. Sonja er fatahönnuður og hefur starfað sem slíkur undanfarin fimmtán ár. Í nokkur ár hefur hún hins vegar verið að prófa sig áfram með að eima íslenskar jurtir til ilmolíugerðar. Faðir hennar, hafði mjög gaman af því að eima og stundaði það mikið, en hann lærði það af þýskum efnafræðingi þegar hann var staddur úti í Noregi í námi.

„Þannig að ég ólst upp við þetta og fannst þetta spennandi. Pabbi var alltaf að dunda sér við að búa til styrkt vín og snapsa í frítíma sínum. Þó svo að hann hafi verið mest verið að eima vín en ekki jurtir þá eru þetta náskyld ferli. Græjurnar eru líka svipaðar. Við aðlöguðum gamlar brugggræjur sem pabbi átti og þær notaði ég við fyrstu eimingartilraunirnar. Við prófuðum okkur svo áfram og fundum út úr því hvernig væri best að gera þetta. Þó þetta hafi byrjað sem skemmtilegt áhugamál þá varð ég bara spenntari eftir því sem ég eimaði meira.” Fyrir þremur árum ákvað Sonja loks að stofna nýtt vörumerki, Nordic Angan, og árið 2015 kom fyrsta kertið hennar á markað.

Elín Hrund er menntuð í heimspeki, hönnun og menningarmiðlun og undanfarin ár hefur hún komið að skipulagningu og framkvæmd ýmissa hönnunarverkefna ásamt því að hanna og markaðssetja eigin vörur. „Við Sonja náðum strax vel saman og urðum góðar vinkonur. Ég vissi að hún væri að vinna með Nordic Angan og fannst það mjög spennandi. Fyrir um það bil hálfu ári var verkefnið farið að verða of stórt fyrir hana eina og því kom upp sú hugmynd að ég gengi til samstarfs við hana,” segir Elín Hrund.

„Við aðlöguðum gamlar brugggræjur sem pabbi átti og þær notaði ég við fyrstu eimingartilraunirnar. Við prófuðum okkur svo áfram og fundum út úr því hvernig væri best að gera þetta. Þó þetta hafi byrjað sem skemmtilegt áhugamál þá varð ég bara spenntari eftir því sem ég eimaði meira.”

Sonja vill samt meina að Elín Hrund hafi verið viðriðin verkefnið mun fyrr. „Ég bar reglulega hluti undir hana og hún hlustaði alltaf á rausið í mér og kom með góð ráð. Hún hefur líka haft áhuga á jurtum nær allt sitt líf. Þannig að við smullum bara saman og þetta samstarf varð til á mjög lífrænan hátt.”

Þær koma með ólíka styrkleika inn í samstarfið, Sonja er menntaður hönnuður með góðan þekkingargrunn, þökk sé allri tilraunastarfseminni með föður hennar, en Elín Hrund kemur hins vegar úr markaðsmálaumhverfi og þekkir þá hlið mjög vel auk þess að vera líka hönnuður.

Rigningin helsta hindrunin

Saman mótuðu Sonja og Elín Hrund rannsóknarverkefnið sem þær hafa unnið að. Það gengur út á að safna og skrá ilmolíur úr íslenskum villtum jurtum og búa þannig til íslenskan ilmbanka. Þær sóttu um styrki til verkefnisins og fengu úr Hönnunarsjóði Íslands og frá Atvinnumálum kvenna.

„Við söfnum olíunum og skrásetjum allt ferlið, bæði skriflega og með myndum. Helsta hindrunin hefur verðið vætan og íslensk veðrátta. Það er ekki gott að tína í rigningu, hvort sem það er fyrir eimingu eða þurrkun jurta. Jurtirnar gefa einfaldlega ekki jafnmikið af sér því í rigningunni eru þær að einbeita sér að því að taka upp vatn og næringu.

Verkefnið gengur út á að safna og skrá ilmolíur úr íslenskum villtum jurtum og búa þannig til íslenskan ilmbanka.

Einnig höfum við þurft að glíma við heimildaleysi. Það er ekki mikil ilmhefð á Íslandi. Jurtir hafa aðallega verið að notaðar í lækningaskyni, í matargerð og svo framvegis. Þess vegna vantar upplýsingar, bæði um hvaða jurtir innihalda ilmolíur og hvernig sé best að eima þær. Við höfum lent í því að eima jurtir en það kemur engin olía, það er auðvitað svekkjandi en hluti af ferlinu. Þá athugum við hvort það sé hægt að ná ilminum með öðrum aðferðum – við gefumst ekki upp,” segir Elín Hrund.

Þetta er mjög yfirgripsmikið verkefni og Sonja segir að það muni kannski aldrei taka enda. „Það eru yfir átta hundruð mosategundir á landinu, bara svona til dæmis. Þannig að rannsóknarverkefnið hefur að mörgu leyti snúist um að sigta úr og ákveða hverju við viljum byrja á.”

Í dag eru þær búnar að safna tæplega þrjátíu ilmtegundum og hafa tínt út um allt land. „Sumar jurtir vaxa aðeins í ákveðnum landshlutum en ekki í öðrum, eins getur líka verið mikill munur á því hversu mikið er af jurtinni milli landshluta. Við reynum að koma á góðum samböndum við bændur og landeigendur til að fá að koma inn á jarðirnar þeirra til að tína, eða jafnvel fá þá til að tína jurtir og selja okkur,” segir Elín Hrund.

„Það er líka mjög mismunandi á hvaða tímabilum er best að tína jurtir. Sumar höfum við ekki getað tínt fyrr en núna í ágúst og við munum halda áfram út september. Síðan má ekki gleyma öllum barrtrjánum, en við eigum mjög margar tegundir þeirra eftir,” bætir Sonja við.

Þær passa að ganga aldrei á náttúru landsins og hafa meðal annars átt í góðu samstarfi við Skógrækt Íslands. „Nú eru allt í einu vaxnir upp skógar hér á landi sem þarf að grisja og viðhalda þannig að við höfum fengið greinar frá þeim.

Eins með jurtir og blóm þá reynum við að tína bara eins mikið og við þurfum en kannski meira af því sem er mikið af. Ef að planta er sjaldgæf þá er hvort eð er ekki grundvöllur til að nota ilminn úr henni í vörur því það er einfaldlega ekki nóg af henni.”

Hrein náttúra, hreinn ilmur

Það má segja að Sonja og Elín Hrund séu sannkallaðir brautryðjendur. „Það eru auðvitað mörg snyrtivörufyrirtæki að nota íslenskar lækningarjurtir en nota svo erlendar ilmkjarnaolíur því það hefur einfaldlega ekki verið hægt að fá íslenskar. Nú þegar hafa nokkur fyrirtæki haft samband við okkur og sýnt áhuga á samstarfi og við höfum hafið tilraunastarf með nokkrum þeirra,” segir Sonja.

„Íslensk náttúra er enn svo hrein og þar af leiðandi eru olíurnar líka hreinar og hágæða vörur. Við notum líka hreina íslenska vatnið til að eima á meðan erlendis nota þeir oft klórvatn.”

Að sögn Elínar hafa íslenskar jurtir ákveðna sérstöðu og eru að mörgu leyti ólíkar skyldum jurtum erlendis.

Íslenskar jurtir hafa einnig ákveðna sérstöðu og eru að mörgu leyti ólíkar skyldum jurtum erlendis. „Hér eru auðvitað líka jurtir sem finnast annars staðar í heimnum en flestar eru ólík afbrigði og lyktin af þeim getur verið allt öðruvísi. Til dæmis er mikill munur á íslensku blóðbergi og timjani annars staðar, svo eitthvað sé nefnt,” segir Elín Hrund. Það er því ekki að furða að þær hafa fundið fyrir miklum áhuga erlendis frá, til að mynda frá Asíu.

„Við munum svo halda áfram að finna nýjar tegundir íslensks ilms og prófa okkur áfram að nota þær í vörulínu okkar. Það er svo margt hægt að gera, ekki bara kerti og reykelsi. Ég hef til dæmis séð fyrir mér að búa til ilmolíur fyrir gufuböð heilsulinda. Hversu yndislegt væri að sitja í gufubaði umlukin angan íslenskrar náttúru,” segir Sonja.

„Það er ekki mikil ilmhefð á Íslandi. Jurtir hafa aðallega verið að notaðar í lækningaskyni, í matargerð og svo framvegis. Þess vegna vantar upplýsingar, bæði um hvaða jurtir innihalda ilmolíur og hvernig sé best að eima þær.”

„Það er líka annar vinkill á þessu sem okkur þykir spennandi. Skynjun okkar á ilmi er frábrugðin sjónskynjun okkar til dæmis. Það er auðvelt að mæla sjón og hvernig við sjáum hluti. Ilmur hins vegar er svo nátengdur tilfinningum og minni, og er því í raun sterkari en sjónin. Þegar fólk kemur til okkar og þefar af ilmi þá upplifir það ilmtegundir mjög mismunandi og tengir þær oft við eitthvað ákveðið úr sinni fortíð. Þetta er eitthvað sem okkur langar að rannsaka dálítið betur,” bætir Elín Hrund við.

Þær geta þess að þær reyni að setja alltaf myndir og tilkynningar á samfélagsmiðla þegar nýjar jurtir eða nýr ilmur er tilbúinn. „Það er gaman að sjá að sumir koma aftur og aftur,” segir Sonja að lokum.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Dýrustu hótelherbergi í heimi

Gististaðir sem ekki eru á allra færi.

Ferðalög geta verið af ýmsum toga. Margir mikla það ekki fyrir sér að þramma af stað út í óvissuna vopnaðir bakpoka og láta sér tjaldstæði nægja sem næturstað meðan aðrir njóta sín betur innan um punt og prjál fínna hótelherbergja. Eftirtaldir gististaðir eiga það sameiginlegt að vera þeir dýrustu í heimi og því ekki á allra færi að spranga þar um innan um marmara og einkaþjóna.

The Apartment á Hotel Connaught í London
Nóttin á þessu glæsilega hóteli kostar rúma 23.000 dollara en einkaþjónninn sem fylgir herberginu vílar það ekki fyrir sér að þjóta til Parísar eftir skópari, óski hótelgestir eftir slíkri þjónustu. Matseðillinn er heldur ekki af verri endanum en hann er hannaður af Michelin-stjörnukokkinum Helene Darroze. Af hótelsvölunum má svo líta Mayfair-hverfið í London.

Einkaþjónn fylgir herberginu á The Apartment á Hotel Connaught í London.

________________________________________________________________

The Presidential Suite á Hotel Cala di Volpe í Porto Cervo, Ítalíu
Þessi þriggja herbergja forsetasvíta kostar um 26.000 dollara og í henni er einkasundlaug, sólskáli og líkamsræktaraðstaða. Hvert þriggja herbergjanna hefur sinn eigin heita pott og tvöfalt baðherbergisborð.

The Presidential Suite á Hotel Cala di Volpe í Porto Cervo, Ítalíu

________________________________________________________________

The Shangri-La Suite á Shangri-La Bosphorus í Istanbúl
Útsýnið yfir Istanbúl eitt og sér er vel þess virði að gera sér ferð á þetta stórfenglega hótel en nóttin þar nemur um 26.385 dollurum. Ef útsýnið eitt og sér er ekki nóg er tekið fram að á herberginu sé að finna ófá speglasjónvörp, meðal annars á baðherberginu.

Á herberginu er að finna ófá speglasjónvörp, meðal annars á baðherberginu.

________________________________________________________________

The Royal Villa á Grand Resort Lagonissi í Aþenu
Þetta er fyrrum gististaður þeirra Mel Gibsons og Leonardo DiCaprio, þó ekki sömu nóttina. Herbergið hefur að geyma tvö feiknastór svefnherbergi með baðherbergjum, gufubaði, nuddstofu, heitum potti og geysistórum svölum með útsýni yfir alla ströndina auk einkaþjóns að sjálfsögðu. Herlegheitin kosta svo um 35.000 dollara.

The Royal Villa á Grand Resort Lagonissi í Aþenu.

________________________________________________________________

The Hilltop Estate Owner’s Accommodation á Laucala Island Resort á Fídjieyjum
Þetta óðalshótel er í eigu orkudrykkjaframleiðandans Red Bull en hann á jafnframt alla eyjuna þar sem eru 24 villur. Þessi er þó sú fínasta og kostar nóttin þar 40.000 dollara. Hins vegar er sá galli á gjöf Njarðar að óbreyttir hótelgestir geta ekki bókað sér herbergi heldur fara allar bókanir fram í gegnum persónuleg sambönd. Með hótelherberginu fylgir nuddstofa, einkakokkur, þjónar og barnapíur en útsýnið er yfir alla eyjuna. Einkunnarorð hótelsins eru þau að láta ódreymda drauma gesta sinna rætast.

The Hilltop Estate Owner’s Accommodation á Fídjieyjum.

________________________________________________________________

The Ty Warner Penthouse á Four Seasons í New York
Þetta hæsta hótel New York-borgar var ekki nema sjö ár í byggingu en nótt á dýrustu svítu þess nemur um 45.000 dollurum. Herbergið hefur sinn eigin einkadyravörð en inni í því má finna veglegt bókasafn. Hins vegar mega aðeins þrír gista saman í svítunni þrátt fyrir að hún sé rúmgóð í meira lagi.

Í svítunni The Ty Warner Penthouse er meðal annars að finna veglegt bókasafn.

________________________________________________________________

The Sky Villa á Palms Resort í Las Vegas

Til þess að komast í þessa svítu þarf einkalyftu en þar er jafnframt að finna gufubað og að sjálfsögðu einkaþjón. Nóttin kostar 40.000 dollara en herbergið er oft nefnt í sömu andrá og nafn Hugh Hefners og er að sjálfsögðu staðsett í borg óttans, Vegas.

The Sky Villa á Palms Resort í Las Vegas.

________________________________________________________________

The Burj Al Arab í Dubai
Ólíkt flestum hótelum býður þetta hótel einungis upp á lúxussvítur. Allar svíturnar eru tvíbýli og ódýrasta er á 2.000 dollara nóttin, dýrasta er hins vegar á 12.000 dollara. Gestir hafa aðgang að dýrustu bílunum og þyrluferðum hvenær sem þeim hugnast, auk einkabílstjóra og þjóns.

The Burj Al Arab í Dubai.

________________________________________________________________

The Royal Penthouse Suite á Hotel President Wilson í Genf, Sviss
Dýrasta hótel í heimi og jafnframt einn helsti gististaður Bill Gates og Michael Douglas. Öryggiskerfið á þessari svítu er með því fullkomnasta í heimi en nóttin nemur 60.000 dollurum.

The Royal Penthouse Suite á Hotel President Wilson í Genf, Sviss

Fagurkerinn Inga Bryndís

Við Bræðraborgarstíg í miðbæ Reykjavíkur stendur einstaklega fallegt hús sem arkitektinn Ágúst Pálsson teiknaði.

Í stofunni er fallegur sérsmíðaður arinn.

Hjónin Inga Bryndis Jónsdóttir og Birgir Örn Arnarsson hafa búið í húsinu í þrjú ár ásamt fjölskyldu sinni en þau hafa á þeim tíma gert töluverðar endurbætur á húsinu.

Lofthæðin er mikil í þessu smarta húsi og fallegir, stórir gluggar hleypa birtunni inn. Í stofunni er mjög fallegur arinn sem þau létu sérsmíða en fjölskyldan eyðir reglulega góðum tíma fyrir framan hann og hefur það notalegt saman.

Inga Bryndis er mikill fagurkeri og annáluð smekkkona en hún og vinkona hennar, Kristín Sigurðardóttir, eiga fallegu verslunina Magnolia design á Skólavörðustíg.

Þegar blaðamaður og ljósmyndari mættu til Ingu Bryndísar á Bræðraborgarstíginn var hún búin að skreyta heimilið hátt og lágt og dekka upp glæsilegt hátíðarborð en stór viðarhjörtu voru áberandi skraut og settu eilítið rómantískan jólablæ á heimilið.

Inga Bryndís segir að hennar draumaheimili sé þar sem hún búi hverju sinni og aðspurð um jólahefðir fjölskyldunnar svarar hún einlæg: „Rjúpur, jólagrautur, lifandi jólatré, stórfjölskyldan, kossar og knús.“

Og að lokum ef þú mættir óska þér hvers sem er í jólagjöf hvað myndi það vera? „Ást og friður.“

Inga Bryndís var búin að skreyta heimilið hátt og lágt þegar blaðamaður og ljósmyndari mættu á staðinn.

Fleiri myndir frá þessu fallega heimili má sjá í Hátíðarblaði Húsa og híbýla sem fæst á öllum sölustöðum.

Umsjón / Þórunn Högna
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Tökum snjónum fagnandi

Nú þegar snjórinn er farinn að falla er nauðsynlegt að láta hann ekki fara í taugarnar á sér heldur njóta þess besta sem hann hefur upp á að bjóða.

Minna stress
Við verðum að sætta okkur við þann veruleika að við búum á Íslandi og því fyrr sem við gerum það því betra. Ekkert getur komið í veg fyrir að snjónum kyngi niður og því um að gera að taka honum fagnandi. Þetta er tækifæri til að gíra sig niður og staldra við í núinu. Við þurfum ekki alltaf að flýta okkur svona mikið og það er allt í lagi að missa af einhverju. Förum fyrr af stað á morgnana, tökum góðan tíma í að skafa bílinn og njótum þess að fara ofurhægt í vinnuna, jafnvel í langri bílalest.

Farðu út með hundinn.

Út að leika
Snjórinn er endalaus uppspretta skemmtilegra leikja, enda ekki að ástæðulausu sem flest börn elska snjóinn. Klæddu þig vel og skelltu þér út í snjóinn að leika hvort sem þú átt börn eða ekki. Krökkum finnst ekkert skemmtilegra en þegar mamma og pabbi gefa sér tíma til að leika við þau og því getur snjórinn leitt til hinna skemmtilegustu fjölskyldustunda. Það er hægt að búa til snjókarla, byggja snjóhús, renna sér á sleða, snjóþotum, rassaþotum eða jafnvel plastpokum, fara í snjókast, búa til snjóengla, moka bílinn upp, hreinsa stéttina og svo margt fleira. Þá er um að gera að kíkja til ömmu og afa, gamallar frænku eða hvaða vina og vandamanna sem er og moka þau út. Þannig er nánast gulltryggt að þið vinnið ykkur inn fyrir heitu súkkulaði og gómsætu bakkelsi.

Þegar allt er komið á kaf er ekkert eins hressandi og að fara út og moka snjó. Gott er að taka hraustlega á því með því að moka vel frá dyrum, stéttina og bílastæðið.

Líkamsrækt og samkennd
Þegar allt er komið á kaf er ekkert eins hressandi og að fara út og moka snjó. Gott er að taka hraustlega á því með því að moka vel frá dyrum, stéttina og bílastæðið. Þannig hittir maður jafnvel nágrannana sem eru úti í sama tilgangi og getur loksins gefið sér tíma til að spjalla við þá og kynnast þeim aðeins. Ekki hika við að hjálpa nágrönnunum með því að moka fyrir þá líka. Ekki eru allir jafnhraustir, og gömlu hjónin sem búa við hliðina á þér yrðu án efa ákaflega þakklát fyrir viðvikið.

Allir hjálpast að
Sérstök stemning myndast þegar náttúran tekur í taumana og setur allar samgöngur úr skorðum. Það er gaman að sjá hve margir eru tilbúnir til að hjálpa öðrum að ýta bílum sem eru fastir víða og í höfuðborginni myndast svona „úti á landi“ stemning. Fólk er glatt og þakklátt fyrir aðstoðina og það er gaman að geta hjálpað öðrum. Ekki hika við að bjóða fram hjálp þína ef einhver er fastur í skafli, jafnvel þótt þú sért smágerður einstaklingur. Margar hendur vinna létt verk og þú munt án efa framkalla gleði í hjarta bæði hjá sjálfri/sjálfum þér og öðrum.

Myndatökur í ævintýraheimi
Skellið ykkur í gönguferð og njótið þess ævintýralega umhverfis sem snjórinn hefur skapað. Endilega takið myndavélina með og festið dýrðina á „filmu“. Prófið ykkur áfram með alls kyns vinkla, og takið bæði nærmyndir og yfirlitsmyndir. Ef þú átt börn er tilvalið að stilla þeim upp við þessar aðstæður og hver veit nema að þarna sé komin jólakortamyndin í ár. Ekki verra að hafa klárað eitthvað áður en stressið sem oft vill fylgja undirbúningi jólanna tekur völdin. Á svona stundu eru líka allir slakir sem gefur von um einstaklega góða mynd.

Takið myndavélina með og festið dýrðina á „filmu“.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / www.pixabay.com

„Tengist afa og pabba í gegnum skeiðarnar“

Hanna Sigríður Magnúsdóttir er hamingjusöm með að halda gamalli fjölskylduhefð á lofti.

Myndin á skeiðinni er af konu sem starir út á hafið með trú og von í hjarta að bíða þess að ástin hennar skili sér heil heim. Viðfangsefnið er vonin.

Hanna Sigríður Magnúsdóttir, hönnuður og eigandi verslunar Guðlaugs A. Magnússonar, er þriðji ættliðurinn sem hannar jólaskeiðina. Hún segir að saga föðurfjölskyldunnar liggi í skeiðunum og gefi þeim djúpa merkingu.

„Viðfangsefni nýjustu skeiðarinnar er vonin en myndin á skeiðinni er af konu sem starir út á hafið með trú og von í hjarta að bíða þess að ástin hennar skili sér heil heim,“ segir Hanna Sigríður og vitnar í Bubba Morteins: „Vonin, vonin, vonin blíð, vertu mér hjá.“

Í ár bætti hún við vörulínu þar sem munsturhluti skeiðarinnar verður fáanlegur sem hálsmen.

Jólaskeiðin á sér langa sögu, Guðlaugur, afi Hönnu Sigríðar, gerði fyrstu skeiðina árið 1946 og í ár verður gefin út sjötugasta og fyrsta skeiðin frá upphafi. Tólf skeiðar eru í hverri hönnunarlínu og árið 2013 hófst hönnun á sjöundu línunni.

„Viðfangsefni nýjustu skeiðarinnar er vonin en myndin á skeiðinni er af konu sem starir út á hafið með trú og von í hjarta að bíða þess að ástin hennar skili sér heil heim.“

Hanna Sigríður er þriðji ættliður í verslun Guðlaugs A. Magnússonar og þrátt fyrir að hafa lagt stund á viðskiptafræði og mannauðsstjórnun þá heillaði þessi sköpun hana alltaf. „Frá blautu barnsbeini fylgdist ég með af ákafa þegar pabbi velti fyrir sér hvað ætti að vera á næstu skeið. Hann kom að hönnun skeiðanna og var mikill hugmyndasmiður þegar hann rak fyrirtækið frá 1963 til 2004. Eftir að teiknivinnu var lokið, því hann teiknaði ekki sjálfur skeiðarnar, fékk ég að fylgja honum til Kaupmannahafnar þar sem verkfærið var handgrafið eftir teikningunni. Þetta fannst mér stórmerkilegt og ótrúlega spennandi.

Allra fyrsta jólaskeiðin sem Guðlaugur A. Magnússon hannaði og gerði árið 1946.

Þegar ég handfjatlaði glansandi silfurskeiðarnar, sem voru svo margar og ólíkar, áttaði ég mig á að í þeim lá saga föðurfjölskyldu minnar. Það gefur þessum skeiðum svo djúpa merkingu fyrir mig að geta velt fyrir mér hugmyndum bæði afa míns, frá 1946, og síðan hugmyndum föður míns, frá 1963, mótuðum í silfurskeiðar sem munu lifa um aldur og ævi, mann fram af manni. Mér finnst þetta í raun stórkostlegt og er mjög hamingjusöm að fá að halda þessari hefð á lofti af alúð og kærleika. Að sitja með allar skeiðarnar fyrir framan mig snertir mig djúpt og mér finnst ég tengjast afa mínum sem dó 1952 og ég þekkti því aldrei en ekki síður finn ég svo sterkt tenginguna við föður minn sem dó 2013 eftir erfiða baráttu við Alzheimer.“

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd af Hönnu / Heiða Helgadóttir

Páll Óskar gerir upp árið

|
|

Páll Óskar ætlar að enda árið með stórri flugeldasýningu.

Páll Óskar hefur sannarlega haft í nógu að snúast á árinu. Meðal annars leit ný plata dagsins ljós og fram undan eru svo stórir tónleikar í Laugardalshöllinni. Blaðamaður Mannlífs sló á þráðinn til söngvarans og spurði m.a. hvort eitthvað sérstakt standi upp úr á árinu sem er að líða.  

„Ég er ofsalega stoltur. Stoltur yfir því að hafa náð að klára nýja plötu og stoltur af tónleikunum. Þeir eru eitt það fallegasta sem ég hef gert í lífinu,“ segir Páll Óskar, þegar hann er spurður hvernig honum líði með árið sem er að líða.

„Nýja platan og svo tónleikarnir í september,“ svarar hann. „Við fengum rosaleg viðbrögð við þeim, aðallega frá fólki sem komst ekki á þá. Sem er ástæðan fyrir því að við ákváðum að halda aðra tónleika 30. desember. Gott fyrir þá sem misstu af þessu og auðvitað líka þá sem vilja upplifa þetta allt aftur.“

Tónleikarnir 30. desember lenda á laugardegi, er þá ekki viðbúið að þetta verði eitt allsherjar djamm? „Klárlega, segir hann hiklaust. „En ég er svo sem vanur því að halda stór partí á þessum árstíma. Í fyrra tróð ég til dæmis upp á Spot í Kópavogi og þar á undan spilaði ég auðvitað tólf ár í röð á Sjallanum á Akureyri. Þá var bara horft á Áramótaannálinn og Skaupið með öðru auga á meðan maður græjaði sig fyrir ballið og svo stokkið upp á svið. Mínar áramótahefðir eru því fyrst og fremst vinnutengdar.“

Páll Óskar segist fyrir löngu vera búinn að sætta sig við þetta fyrirkomulag. Þ.e. að vinna á tímum sem flestir aðrir eru í fríi. Þó sé einn dagur á ári sem hann passi sig alltaf að vera laus en það er annar í jólum. „Þá hittumst við nefnilega stórfjölskyldan, ég, systkini mín, makar, börn og barnabörn. Með öllum er þetta orðið hátt í fjörtíu manns þannig að stundum höfum við brugðið á það ráð að bóka sal til að koma öllum fyrir,“ segir hann og hlær.

„Ég nota áramótin sem mælistiku á sjálfan mig, til að skoða árangurinn minn, framfarir og afturfarir. Til að staldra aðeins við, athuga hvort ég hef náð að standa við síðustu áramótaheit, athuga á hvaða stað ég er á í dag og fara yfir það hvernig ég ætla að bæta mig á morgun.“

Áttu þá ekki einhverjar skemmtilegar minningar tengdar fjölskyldunni á áramótum? „Ja, ég á mér alla vega eina mjög eftirminnilega minningu frá því að ég var lítill, líklegast frá árinu 1981,“ segir hann hugsi. „En þau áramót enduðum ég og foreldrar mínir ein heima – aldrei þessu vant. Mamma vildi vera inni þannig að ég og pabbi fórum út að sprengja og þetta varð svona móment sem ég gleymi aldrei. Við pabbi einir í garðinum að sprengja og himininn fyrir ofan baðaður í ljósum springandi flugelda.“

Það kemur þögn í símann og blaðamaður ákveður að grípa tækifærið og spyrja hvort áramótin séu kannski sá tími árs sem töffarinn Páll Óskar verði svolítið meyr. „Meyr,“ hváir hann þá. „Öh, já svona álíka meyr og byggingaverktaki sem verður meyr við að taka fram tommustokkinn til að mæla eitthvað!“

Hann hlær stríðnislega. En viðurkennir að áramótin séu aftur á móti ágætur tími til að líta í baksýnisspegilinn. „Ég nota áramótin sem mælistiku á sjálfan mig, til að skoða árangurinn minn, framfarir og afturfarir. Til að staldra aðeins við, athuga hvort ég hef náð að standa við síðustu áramótaheit, athuga á hvaða stað ég er á í dag og fara yfir það hvernig ég ætla að bæta mig á morgun.“

Og hvernig líður þér með árið sem er að líða? „Ég er bara ofsalega stoltur. Stoltur yfir því að hafa náð að klára nýja plötu og stoltur af tónleikunum. Þeir eru eitt það fallegasta sem ég hef gert í lífinu. Og ég hlakka til að endurtaka leikinn í desember. Að ná að enda árið með stórri flugeldasýningu.“

Texti / Roald Eyvindsson
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Í hópnum urðum við heilar á ný

Vinkonur sem deila þeirri erfiðu reynslu að hafa misst maka úr krabbameini.

Í janúar 2014 kynntust þrettán konur í stuðningshópi í húsakynnum Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð. Allar höfðu misst maka sinn skömmu áður og voru komnar til að fá aðstoð og handleiðslu við að vinna úr sorginni. Þær stofnuðu í kjölfarið eigin hóp sem hittist enn í dag. Við ræddum við fjórar þeirra, systurnar Auði Ingu og Guðrúnu Einarsdætur, Ágústu Tómasdóttur og Sigrúnu Gísladóttur, um hvernig hópastarfið hefði hjálpað þeim í gegnum þessa erfiðu reynslu.

Fundu strax að þær áttu góða samleið F.v. Sigrún Gísladóttir, Ágústa Tómasdóttir og systurnar Auður Inga (sitjandi) og Guðrún Einarsdætur.

„Eftir fyrsta fundinn voru flestar að hugsa um að koma ekki aftur, þetta reyndist okkur svo erfitt. En við létum okkur hafa það og eftir því sem við opnuðum okkur meira og töluðum um sorgina varð þetta smám saman auðveldara,“ segir Auður. Fundurinn sem um ræðir var samvinnuverkefni sorgarsamtakanna Nýrrar dögunar og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þar sem boðið var upp á sex vikna námskeið fyrir konur sem höfðu misst maka úr krabbameini.

Þótt það hjálpi vissulega að ræða sín mál fannst konunum ekki síður hjálp í því að hlusta á hinar í hópnum. „Við deilum allar þessari sameiginlegu reynslu, að missa maka okkar, og að hlusta á frásagnir og líðan hinna í hópnum hjálpaði manni að átta sig á eigin tilfinningum. Ég er mjög blátt áfram manneskja og ég man á fyrsta eða öðrum fundi vorum við spurðar hvernig okkur liði þann daginn og ég svarði einfaldlega að ég væri reið en ég vissi ekkert af hverju. Í bílnum á leiðinni heim var ég að drepast úr móral yfir því að hafa ausið þessari neikvæðni yfir þær og ákvað að þegja bara á næsta fundi. En viti menn, á næsta fundi talaði ein úr hópnum um það að hún deildi mínum tilfinningum og væri líka reið,“ segir Sigrún.

Auk þess að ræða erfiða og oft átakanlega hluti var líka farið yfir praktísk atriði sem geta vafist fyrir manni í hversdagslífinu. Sumar konur innan hópsins höfðu til að mynda aldrei dælt bensíni á bíl í sjálfsafgreiðslu því maðurinn þeirra sá alltaf um það. „Eitt sem við áttum allar erfitt með var að skipta um á rúminu. Setur maður hreint á báðum megin jafnvel þó að það hafi aðeins verið sofið öðrum megin?“ segir Ágústa og hinar taka undir það hlæjandi.

„Við ræddum einnig hvenær sé tímabært að fara í gegnum og losa sig við föt og annað dót eiginmannsins. Til dæmis vorum við nokkrar með bílskúr sem eiginmaðurinn hafði lagt undir sig og sitt dót, það verkefni reyndist okkur mjög erfitt en komumst í gegnum það með hjálp hver annarrar,“ segir Sigrún.

„Við deilum allar þessari sameiginlegu reynslu, að missa maka okkar, og að hlusta á frásagnir og líðan hinna í hópnum hjálpaði manni að átta sig á eigin tilfinningum.“ Auður Inga

Auður kinkar kolli og bætir við: „Við getum ekki rætt þessa hluti við vini eða ættingja sem hafa ekki gengið í gegnum makamissi því þótt fólk sé allt af vilja gert þá hefur það ekki skilninginn. Þess vegna er svona hópastarf svo mikilvægt.“

Konurnar fundu strax að þær áttu góða samleið og þegar sex vikna námskeiðinu lauk voru þær alls ekki tilbúnar að sleppa takinu hver á annarri. Þá bauð Sigrún Lillie, formaður Ráðgjafarþjónustunnar, þeim á núvitundarnámskeið sem þær þáðu með þökkum og það þjappaði hópnum enn frekar saman.

Að því loknu stofnuðu þær eigin hóp sem fékk nafnið Ekkjublómin. Þó að nafnið ætti eftir að breytast, meira um það síðar, hittist hópurinn enn mjög reglulega. „Á námskeiðunum fengum við verkfæri í hendurnar og höfum getað notað þau áfram í sorgarúrvinnslunni,“ segir Guðrún.

Hlutirnir gerðust mjög hratt

Auður Inga er starfandi prestur á hjúkrunarheimilinu Grund. Hún á þrjú uppkomin börn og yndislegan hund sem kemur með henni í vinnuna alla daga. Guðmundur, maðurinn hennar, greindist með beinmergsæxli skömmu fyrir jól 2012. Hún þekkti þetta tiltekna krabbamein vel því maður Guðrúnar, systur hennar, hafði barist við það í árabil.

Guðrún er bókasafns- og upplýsingafræðingur að mennt og starfaði lengi á bókasafni Áslandsskóla þar til hún hætti störfum vegna aldurs fyrir ári.

Systurnar Auður Inga og Guðrún Einarsdætur segja hópastarfið hafa hjálpað sér í gegnum erfiða reynslu.

Eiginmaður hennar, Jóhann, greindist með krabbamein sumarið 2008 en hann hafði verið með þráláta bakverki og við rannsókn kom í ljós að hann var með margbrotna hryggjarliði af völdum sjúkdómsins. „Hann fékk í fyrstu hefðbundna lyfjameðferð og síðar háskammtameðferð. Framan af naut hann talsverðra lífsgæða en sjúkdómurinn reyndist erfiður þegar fram í sótti,“ segir hún.

Auður bætir við að þó að þessi tegund krabbameins sé ólæknandi sé hægt að eiga ágætislíf, sér í lagi ef viðkomandi fer í stofnfrumumeðferð.

Báðir mennirnir fóru í slíka meðferð en hún krefst þess að viðkomandi sé í einangrun í fjórar vikur. „Við vorum því staddar uppi á spítala saman en gátum ekki gert miklu meira en að vinka hvor annarri yfir ganginn. Mennirnir okkar töluðu mikið saman í síma, það var mjög gott fyrir þá að hafa hvor annan,“ segir Guðrún.

Í mars hrakaði manni Guðrúnar fremur skyndilega og hann lést. „Það var okkur mikið áfall og Guðmundur tók það mjög nærri sér. Skömmu seinna fékk hann lungnabólgu og var haldið sofandi í öndunarvél í tvær vikur. Þegar hann var vakinn var hann alveg lamaður og dó í kjölfarið 18. maí 2013. Þannig að hlutirnir gerðust mjög hratt í hans tilviki, aðra stundina gekk allt vel og hann á leið í stofnfrumumeðferð og þá næstu var hann dáinn,“ segir Auður.

Hún lagði til að þær systurnar mættu á fund hjá Ráðgjafarþjónustunni. „Mér fannst Guðrún þurfa á þessu að halda en vegna menntunar minnar og starfa hélt ég að ég þarfnaðist þess ekki. Sú var þó alls ekki raunin. Ráðgjafarþjónustan nánast bjargaði minni andlegu heilsu á þessum tíma, reisti mig upp, ef svo má segja. Jafningjafræðslan, stuðningur okkar hver af annarri undir öruggri leiðsögn leiddi okkur saman og hjálpaði okkur ótrúlega í þeirri vegferð sem sorgin er.

Ég er ekki viss um að ég væri jafnvel á veg komin í sorginni ef ég hefði ekki leitað mér hjálpar. Ég myndi því ráðleggjum öllum sem misst hafa maka eða náinn ástvin að leita til Ráðgjafarþjónustunnar eða Nýrrar dögunar til þess að koma heill út úr þeirri erfiðu lífsreynslu sem sá missir er.“

„Hlutirnir gerðust mjög hratt í hans tilviki, aðra stundina gekk allt vel og hann á leið í stofnfrumumeðferð og þá næstu var hann dáinn.“ Guðrún

Guðrún tekur í sama streng. „Ég var nánast dregin nauðug á fyrsta fundinn. Ég taldi mig alveg færa um að vinna sjálf úr mínum málum með börnum mínum, tengdabörnum og barnabörnum. En að missa maka eftir langvarandi alvarleg og átakanleg veikindi eftir nær fimmtíu ára sambúð er mun meira áfall en ég hafði gert mér grein fyrir. Við vorum allar í sárum. Krabbameinsfélagið og Ný dögun búa yfir reynslu, þekkingu og skilningi á því umróti sem fylgja sorginni. Þar var hlúð að okkur og við hvattar til að ræða um sorg okkar og erfiðleika.“

Veikur í fjórtán ár

Sigrún er gagnfræðingur og vann lengst af sem skólaritari. Hún kynntist Ármanni árið 1992 og hélt þá að hún væri búin að kynnast manninum sem hún myndi verja ævinni með. „Við vorum bæði á okkar öðru hjónabandi og áttum stóra fjölskyldu, sex uppkomin börn og barnabörnin byrjuð að koma. Sumarið 1999, þegar við vorum búin að vera gift í þrjú ár, veiktist hann og greindist í framhaldinu með GIST-krabbameinsæxli í smágirninu sem talið var staðbundið. Hann fór í aðgerð og æxlið fjarlægt, engin eftirmeðferð talin nauðsynleg, en ári seinna kom í ljós að hann var með bletti í lifrinni sem reyndust vera krabbameinsæxli af sömu tegund.

,,Ég kem enn í Ráðgjafarþjónustuna á fyrirlestra og á námskeið og mæli með að fólk komi og nýti sér þessa góðu þjónustu,“ segir Sigrún.

Þar með hófst sjúkraganga hans sem stóð næstu þrettán árin. Hann var heppinn að fá lyf í töfluformi sem var nýtt á markaðinum og undanþágulyf á þeim tíma. Það hélt meininu í skefjum lengi vel en árið 2012 fór að halla undan fæti. Hann fór í stóra aðgerð, lyfið hætti að virka og önnur dugðu ekki til. Hann átti misgóða tíma það ár og glímdi við allskonar aukaverkanir þar til hann lést 3. mars 2013.“
Sigrún hefur að eigin sögn alltaf verið óhrædd við að sækja námskeið í því sem hún er að takast á við hverju sinni og segir það hafa hjálpað sér mikið. „Í febrúar 2013 fór ég á námskeið í núvitund í Skógarhlíðinni sem var ætlað krabbameinsgreindum og aðstandendum þeirra. Í kaffistofu Ráðgjafarþjónustunnar sá ég auglýsingu sem vakti áhuga minn þar sem var talið upp það sem væri í boði fyrir aðstandendur. Í ágúst ákvað ég því að leita aftur til þeirra að kanna hvað væri í boði fyrir mig nú þegar ég væri orðin ekkja. Ég fékk einstaklega hlýlegar móttökur, fór í viðtal hjá hjúkrunarfræðingi og í framhaldi af því fór ég til hennar í nokkur skipti í slökun og hugleiðslu. Ég fór einnig að sækja hádegisfyrirlestra og skráði mig svo á þetta sex vikna námskeið sem við kynntumst allar á. Ég kem enn í Ráðgjafarþjónustuna á fyrirlestra og á námskeið og mæli með að fólk komi og nýti sér þessa góðu þjónustu sem og láti vita hvað það sækist eftir. Þetta hjálpaði mér mikið á minni göngu.“

Greindist þrisvar

Ágústa er stúdent úr hagfæðiskori Menntaskólans við Sund og hefur alla tíð unnið viðskiptatengd störf, meðal annars í banka og á ferðaskrifstofu. Síðustu fimmtán ár hefur hún unnið á Hagstofunni í hlutastarfi en var lengi heimavinnandi vegna fötlunar tveggja barna sinna.

Ágústa og Tryggvi, eiginmaður hennar, eignuðust þrjú börn. „Við áttum mjög gott og samhent hjónaband og fjölskyldulíf okkar var gott. Í mörg ár á meðan börnin voru ung ferðuðumst við á hverju ári um landið. Við eignuðumst fellihýsi og vorum í allt að fjórar vikur á flakki,“ segir hún.

„ Ég upplifði mikinn þrýsting frá fjölskyldu og vinum eftir áfallið að halda áfram og komast yfir sorgina. Þú heldur hins vegar ekki áfram nema að vinna þig í gegnum missinn,“ segir Ágústa.

Tryggvi fékk þrisvar krabbamein á lífsleiðinni. „Fyrst greindist hann með Hodgkins-eitlakrabbamein, árið 1997, og fór þá í stranga og erfiða meðferð í eitt ár og læknaðist. Árið 2008 greinist hann svo með blöðrukrabbamein. Undanfari þess voru flensulík einkenni og hann hafði legið heima í tvær vikur. Þvagblaðran var numin brott en ekki var talin þörf á lyfjameðferð. Um haustið 2010 fékk hann svo aftur flensueinkenni og lá heima eins og fyrr. Smám saman gat hann ekki haft hægðir og fór að kasta upp. Þá kom í ljós að þetta sama krabbamein hafði valdið meinvörpum í ristli og þau höfðu lokað ristlinum. Þá var sagt að þetta væri ólæknanlegt en hægt væri að halda því í skefjum með lyfjum. Haustið 2011 fékk hann svo legusár sem olli því að lyfjameðferð var hætt og hann dó svo í mars 2012.“

Eftir andlát Tryggva leitaði Ágústa til sálfræðings á Landspítalanum og hitti hann í nokkur skipti. Sá benti henni á núvitundarnámskeið Ráðgjafarþjónustunnar og hún ákvað að fara á það og svo í framhaldinu á makamissisnámskeiðið. „Það var óskaplega gott að koma þangað. Samskiptin óþvinguð og hrein og bein. Maður finnur fyrir því að geta talað hreint út án þess að vera stoppaður. Það eru nýjar upplifanir á hverjum degi eftir svona missi og mikilvægt að fá stuðning.

Ég upplifði mikinn þrýsting frá fjölskyldu og vinum eftir áfallið að halda áfram og komast yfir sorgina. Þú heldur hins vegar ekki áfram nema að vinna þig í gegnum missinn. Þá koma þessir aðilar hjá Ráðgjafarþjónustunni eða Nýrri dögun sterkir inn og hjálpa manni að ná áttum en hver og einn þarf að finna sinn vitjunartíma.“

Hinum megin við borðið

Krabbamein er afar óvæginn sjúkdómur. Þrjár kvennanna úr hópnum hafa greinst sjálfar með krabbamein á árunum eftir makamissinn. Guðrún greindist með krabbamein í maga rúmu ári eftir að Jóhann féll frá. „Ég var enn þá í svo miklu áfalli að mér var eiginlega alveg sama, það skipti mig litlu hvort ég myndi lifa eða deyja. Börnin mín voru ekki sátt við það viðhorf mitt. Ég fór samt í lyfjameðferð og aðgerð þar sem maginn var fjarlægður. Endurhæfingin var samt líklega erfiðasti hluti bataferlisins, að byrja að borða aftur, en ég var á spítala í sjö vikur og fór síðan á Grensás. En ég á sem betur fer afar gott bakland sem studdi mig í gegnum þetta.“

Nýverið skipti hópurinn um nafn og heitir nú Perlurnar.

Guðrún er einnig afar þakklát Ráðgjafarþjónustunni fyrir að hafa sent hópinn á núvitundarnámskeið. „Ég var tossinn í hópnum en í krabbameinsbaráttunni kom núvitundin heldur betur að gagni. Í dag horfi ég öðrum augum á hlutina og er hamingjusöm og þakklát fyrir að hafa náð heilsu á ný,“ segir hún en fyrr í þessari viku fékk hún niðurstöður rannsókna sem sýndu að hún var laus við krabbamein og almennt við hestaheilsu.

Ágústa greindist nýlega í annað sinn með lungnakrabbamein. Fyrra skiptið var þó fyrir tíu árum, áður en Tryggvi lést. „Þá tók ég þessu bara sem verkefni sem ég þurfti að klára og upplifði ekki miklar lægðir. Tryggvi var þá líka búinn að læknast af sínu krabbameini þannig að ég var nokkuð bjartsýn. Síðan greinist hann aftur og svo í þriðja skipti sem að lokum dró hann til dauða. Í þetta skiptið hefur mér þótt þetta mun erfiðara því ég stend ein og vantar stuðninginn frá honum. Ég hef líka illan bifur á því að fá aftur sama krabbameinið því af minni reynslu er það frekar neikvætt, ekki að það sé nokkurn tímann nokkuð jákvætt við krabbamein. Ég er hræddari og veit ekki hvað ég mun lifa lengi, ég er dálítið að takast á við það um þessar mundir,“ segir hún.

Í fyrrasumar greindist Sigrún með brjóstakrabbamein í kjölfar reglubundinnar skoðunnar. „Í skoðuninni kom fram eitthvað sem þyrfti að skoða betur og það má segja að sumarið hafi farið í sýnatökur. Það tók á endanum marga mánuði að fá greininguna sjálfa. Ég gat ekkert gert, annað en að bíða og það tók rosalega á. Ég var sem sagt með tvö mein, hvort af sinni tegundinni, sitthvorum megin á vinstra brjósti. Ég fór í brjóstnám, þurfti ekki að fara í lyfjameðferð og kaus að fara ekki í uppbyggingu. Þetta gekk allt saman mjög vel og fólk þreyttist ekki á því að segja mér hvað ég var heppin,“ segir hún.

Sigrún fann einnig fyrir vöntun á stuðning í veikindunum. „Ég tala stundum við myndina af honum Ármanni og nú sagði ég: Ég stóð við hliðina á þér og studdi við bakið á þér öll þín veikindi og svo er ég bara skilin hér eftir ein með mín. En svo bað ég hann afsökunnar,“ segir hún og hlær.

Eins og henni einni er lagið þá dreif hún sig á námskeið hjá Ljósinu fyrir konur sem eru nýgreindar með brjóstakrabbamein. „Þar er ég komin með annan góðan hóp kvenna sem ég get leitað til.“

Styðja hverja aðra

Nýverið skipti hópurinn um nafn og heitir nú Perlurnar. „Sorgin er yfirleitt ekki til umræðu lengur, við höfum allar náð tökum á þeim þætti lífsins. Nú ræðum við skemmtilegri málefni en samstaðan, virðingin og vináttan sem myndaðist í hópnum er sú sama og jafndýrmæt,“ segir Guðrún.

Af þrettán meðlimum eru ellefu mjög virkar sem hittast yfirleitt einu sinni í mánuði, jafnvel oftar. Oftar en ekki hittast þær í heimahúsi og eru með svokallað Pálínupartí þar sem allar leggja eitthvað góðgæti á borð. Auk þess eru þær duglegar að fara saman í bíó, leikhús, sumarbústað og jafnvel til útlanda. „Þegar þú ert í hjónabandi ertu vön að hafa alltaf einhvern til að gera hluti með. Þó að þú eigir enn þína vini þá er það ekki eins því þeir eiga sína maka og fjölskyldur. Nú getum við alltaf heyrt í hinum í hópnum ef okkur langar að skreppa í bíó eða leikhús eða þess háttar,“ segir Auður.

„Hópurinn okkar hefur gefið af sér enn þá sterkari konur sem voru þó allar sterkar fyrir.“ Auður

Þær eru allar afar þakklátar Ráðgjafarþjónustunni fyrir að hafa leitt hópinn saman og stutt við bakið á þeim. „Sagt er að þegar við missum maka missum við helminginn af okkur sjálfum. Það tekur tíma að verða heil á ný og flýtir það sannarlega fyrir að fá handleiðslu og jafningjafræðslu á þeirri vegferð. Í þessum hópi höfum við orðið heilar á ný,“ segir Auður. „Hópurinn okkar hefur gefið af sér enn þá sterkari konur sem voru þó allar sterkar fyrir. Að upplifa endurkomuna saman hefur verið ómetanlegt,“ bætir Ágústa við að lokum og það er greinilegt að þarna eru svo sannarlega perluvinkonur á ferð.

Perlurnar þrettán eru: Anna Hugadóttir, Anna Sóley Sveinsdóttir, Diana Sveinsbjörnsdóttir, Auður Inga Einarsdóttir, Guðrún Einarsdóttir, Guðrún Tómasdóttir, Margrét Einarsdóttir, Ágústa Tómasdóttir, Kristín María Magnúsdóttir, Guðný Björg Guðmundsdóttir, Sigrún Sveinsdóttir, Sigrún Gísladóttir og Þórunn Jónsdóttir.

Þeir sem vilja kynna sér starf Ráðgjafarþjónustunnar frekar er bent á vefsíðu Krabbameinsfélagsins, krabb.is.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Hrafnhildur Björk Runólfsdóttir fyrir Urban Decay

Í hólf og á gólf

Hugmyndir fyrir heimilið.

Þegar herbergi er skipulagt hugsa menn oftast fyrst um litinn á veggjunum, húsgögnin og skrautmunina. Gólfið er aukaatriði og sjaldnast er heildarsvipurinn hugsaður út frá því efni sem valið er á það. Þessari hugsun þarf að breyta. Það sem er undir fótum okkar getur nefnilega gert útslagið um hvort herbergi er fallegt eða ljótt.

Í gömlum húsum voru gólfborðin einnig oft máluð í alls konar litum og að undanförnu hefur verið í tísku parket sem er litað með ýmist ljósum eða dökkum litum. Áferðin fer alveg frá að vera nánast hvít eða ljósgrá yfir í brúna eða svarta.

Ljós gólf veita birtunni upp og skapa hlýleika. Ef gluggar eru litlir og lítil dagsbirta berst inn í rýmið er hægt að breyta miklu með hvíttuðu parketi eða hreinlega að mála í ljósum litum. Flotuð gólf gefa þann möguleika að setja lit út í lakkið áður en það er borið á gólfið og gefa þannig steypunni nýja áferð. Þetta er sterkt og endingargott gólfefni og auðvelt að þrífa. Þetta efni á sérlega vel við í forstofu, eldhúsi og barnaherbergjum. Þegar það er notað í dimmum, litlum forstofum gefur það færi á að lýsa rýmið eða gefa því fjörlegan blæ með því að kjósa líflegan lit.

Í barnaherbergi á vel við að leyfa gólfinu að kallast á við litina á veggjunum eða veggskreytingar. Auðvelt er að bæta við skreytingum og vinsælt er að hafa stjörnur, doppur eða annað mynstur á gólfinu. Flot á gólf getur bæði verið matt og glansandi en gæta verður þess að mikil speglun getur myndast af glansandi gólfum og í björtum opnum rýmum verður hún óþægileg.

Þegar valin eru gólfefni þarf ávallt að hafa í huga að þau endast lengst allra innréttinga. Þess vegna kjósa flestir hlutlaust, klassískt efni.

Í gömlum húsum voru gólfborðin einnig oft máluð í alls konar litum og að undanförnu hefur verið í tísku parket sem er litað með ýmist ljósum eða dökkum litum. Áferðin fer alveg frá að vera nánast hvít eða ljósgrá yfir í brúna eða svarta.

Þegar gólf eru máluð

Þegar gólf eru máluð er undirbúningurinn undirstaða þess að vel takist til. Þá skiptir engu hvort verið er að flota steypu eða mála gólfborð. Pússa þarf undirlagið alveg slétt og hreinsa það vel og sjá til þess að hvergi leynist misfellur eða óhreinindi. Sandkorn geta breytt áferðinni og skemmt útlitið.

Ef verið er að mála trégólf eða yfir gólfdúk þarf að velja einstaklega góðan grunn. Hann er borinn á og stundum þarf tvær umferðir til að ná bestu áferðinni og síðan er málað eða lakkað yfir. Til að flota gólf er best að leita til fagmanna nema menn hafi til að bera þekkingu í þessum efnum.

Notið eingöngu bestu fáanleg efni

Ef eingöngu eru notuð bestu fáanleg efni er hægt að tryggja endinguna. Þeir sem kjósa að mála sjálfir ættu að leita álits fagmanna og fá þeirra ráð við efnisvalið.

Leiktu þér

Einn hlutlaus litur er ekki alltaf bestur. Svartur, hvítur, brúnn og grár virka alltaf en það er ekkert að því að bæta í þessa liti marmaraáferð, mynstri eða köflum. Einn af stærstu kostum málaðra gólfa og flotaðra er hversu auðvelt er að breyta þeim ef fólk verður leitt á því sem fyrir er.

Ekki auðvelt að skipta út

Þegar valin eru gólfefni þarf ávallt að hafa í huga að þau endast lengst allra innréttinga. Þess vegna kjósa flestir hlutlaust, klassískt efni. Staðreyndin er sú að flísar í djörfum litum endast ekki sérstaklega vel og hið sama á við um gólfteppi. Linoleum-dúkar hafa notið vaxandi vinsælda að undanförnu en þeir eru skemmtilegir og gefa færi á að skapa fallega áferð og mynstur. Um þá gildir hins vegar það sama og önnur gólfefni sem límd eru niður. Það kostar mikla fyrirhöfn og er dýrt að skipta þeim út þegar þeir fara úr tísku eða skipt er um húsgögn og liti á veggjunum. Þess vegna er mikilvægt að fara varlega þegar valin eru gólfefni af þessu tagi og hugsa fram í tímann.

 

Gaman að upplifa jól og áramót á Íslandi

|
|

Hulda Guðnadóttir segir að ættleiddur sonur sinn geti ekki beðið eftir að upplifa jól og áramót.

Hulda Guðnadóttir og Jón Hafliði Sigurjónsson með börn sín Baldur Hrafn Jhon og Nínu Dýrleifu.

Seint á síðasta ári sóttu hjónin Hulda Guðnadóttir og Jón Hafliði Sigurjónsson ættleiddan son sinn Baldur Hrafn til Kólombíu en fyrir áttu þau eina líffræðilega dóttur. Þau segja að börnin séu full tilhlökkunnar vegna hátíðarhaldanna sem fram undan eru. Baldur geti hreinlega ekki beðið eftir að upplifa íslensk jól og áramót.

„Við erum bara mjög kát,“segir Hulda, spurð að því hvernig jólin og áramótin leggist í fjölskylduna. „Það er kannski ívið meiri spenningur núna en í fyrra, enda báðir krakkarnir orðnir stálpaðri og meðvitaðri um hvað er í gangi. Nína Dýrleif á þriðja aldursári og Baldur Hrafn Jhon nýorðinn fjögurra ára svo að nú eru þau spennt að fá í skóinn, spennt að fá pakka og bara spennt fyrir þessu öllu.“

Að sögn Huldu verða þetta önnur jólin og áramótin sem fjölskyldan ver saman en það var seint í október á síðasta ári sem þau hjónin sóttu Baldur Hrafn til Kólombíu. „Þetta var allt saman mikið ævintýri, bæði erlendis og svo fyrst eftir heimkomu. Til dæmis er ógleymanlegt fyrsta skiptið sem Baldur leit út um gluggann og sá snjó. Augun urðu bara eins og tvær undirskálar. Hann vissi ekkert hvað þetta var.“

„Þetta var allt saman mikið ævintýri, bæði erlendis og svo fyrst eftir heimkomu. Til dæmis er ógleymanlegt fyrsta skiptið sem Baldur leit út um gluggann og sá snjó. Augun urðu bara eins og tvær undirskálar. Hann vissi ekkert hvað þetta var.“

Hulda segir að undrunin hafi ekki orðið minni á jólunum þegar kom að því að opna gjafir. „Það var greinilegt að Baldur hafði ekki fengið marga pakka áður því hann varð mjög æstur og fór svo að gráta þegar hann var búinn að opna síðasta pakkann. Hann skildi bara ekkert í því að þeir skyldu „klárast“.“

Myndirðu segja að líf ykkar hjóna hafi breyst mikið með tilkomu barnanna? „Já. Við vorum búin að vera barnslaus í nokkurn tíma þannig að þetta voru mikil viðbrigði fyrir okkur, til dæmis að upplifa jólin með krökkunum í fyrra. Næstum eins og að verða sjálfur barn á nýjan leik. Að eignast börnin breytti öllu til hins betra.“

Hvernig verður svo hátíðarhöldunum háttað hjá ykkur í ár? „Við ætlum að bjóða nágrönnum og nánustu ættingjum hérna á Reyðarfirði í skötu á Þorláksmessu. Á aðfangadag kemur svo mamma í mat og um áramótin ætlum við með börnin á brennu. Við tókum upp á því eftir að þau komu bæði til sögunnar og þar sem þau eru nú orðin stærri held ég að það verði enn skemmtilegra í ár,“ segir Hulda glaðlega.

Texti / Roald Eyvindsson
Aðalmynd: Systkinin Baldur Hrafn Jhon og Nína Dýrleif.

Út um allar trissur

Gönguhópar spretta nú alls staðar upp eins og gorkúlur og áhuginn á göngum hefur aukist mikið á undanförnum árum.

Margir kjósa að stunda heilsurækt í utanlandsferðum sínum. Því bjóða flestar ferðaskrifstofur upp á spennandi ferðir til útlanda, allt árið um kring, þar sem megintilgangurinn er líkamsrækt og útivist. Ferðirnar eru af ýmsum toga en hér eru nokkur vinsæl dæmi.

Boðið er upp á klassískar skíðaferðir til hinna ýmsu skíðasvæða í Evrópu og Bandaríkjunum eða ferðir helgaðar gönguskíðum sem njóta sífellt meiri vinsælda.

Gaman í brekkunum
Það er draumur margra að skella sér í vetrarfrí á skíði, gista í glæsilegum skíðaskálum, hafa það skemmtilegt í góðum félagsskap og renna sér á skíðum í fallegu umhverfi.

Ýmist er boðið upp á klassískar skíðaferðir til hinna ýmsu skíðasvæða í Evrópu og Bandaríkjunum eða ferðir helgaðar gönguskíðum sem njóta sífellt meiri vinsælda.

Þó svo að um skipulagðar ferðir sé að ræða hefur fólk frjálst val um hvernig það vill haga degi sínum og hversu mikið það vill vera í brekkunum.

Yfirleitt er þó boðið upp á daglegar ferðir með fararstjórum þar sem eitthvað nýtt og skemmtilegt er skoðað.

Innri friður
Fyrir jógaiðkendur jafnast fátt á við það tækifæri að ferðast til Indlands, vöggu jógamenningarinnar.

Undanfarin ár hefur verið hægt að fara í skipulagðar ferðir um Indland þar sem blandað er saman skoðunarferðum og jóga. Ferðirnar eru því hannaðar fyrir þá sem vilja rækta sjálfa sig en jafnframt upplifa ævintýralega fegurð Indlands, sögufræga staði og framandi matargerðarlist.

„ … hefur fólk frjálst val um hvernig það vill haga degi sínum og hversu mikið það vill vera í brekkunum.“

Íslenskir fararstjórar, sem eru líka lærðir jógakennarar, eru með í för og veita leiðsögn og jógakennslu. Einnig er farið í „ashram“ eða jógastöðvar þar sem indverskir gúrúar leiðbeina ferðamönnum og gera þeim kleift að komast upp á næsta stig í sinni iðkun.

Skemmtileg sveifla
Hér á landi eru margir góðir golfvellir sem eru nýttir allt árið um kring. Golfarar sækjast þó einnig mikið í að fara til útlanda og prófa nýja og meira krefjandi golfvelli.

Ferðaskrifstofur hafa lengi boðið upp á ferðir tileinkaðar golfi til áfangastaða bæði nær og fjær, frá Mexíkó til Spánar.

Ferðaskrifstofur hafa lengi boðið upp á ferðir tileinkaðar golfi til áfangastaða bæði nær og fjær, frá Mexíkó til Spánar. Ekki skemmir fyrir að í þeim löndum sem boðið er upp á er oft mun betra veður en hér á landi og því er hægt að spila eins og mann lystir.

Holt og hæðir
Vinsælt hefur verið fyrir útivistarfólk, sem er oft og tíðum búið að fara flestar af vinsælustu gönguleiðum landsins, að halda í ferðir til útlanda sem helgaðar eru gönguferðum. Slíkar ferðir eru frábært tækifæri til að kynnast ákveðnum svæðum mjög vel. Vinsælir staðir eru til dæmis Alparnir, fjöllin í Andalúsíu á Spáni, Toscana-dalurinn á Ítalíu og Klettafjöllin í Kanada.

Ekki er endilega um að ræða erfiðar göngur en þær krefjast engu að síður nokkurs þols því yfirleitt er gengið allan daginn, alla daga.

Flestar ferðaskrifstofur flokka ferðir eftir erfiðleikastigum, þar sem tekið er tillit til þols, þess tíma sem ganga tekur, hækkunar og lækkunar, eðli gönguslóðanna og svo framvegis, því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Ferðir til Indlands eru tilvalnar fyrir þá sem vilja rækta sjálfa sig en jafnframt upplifa ævintýralega fegurð Indlands, sögufræga staði og framandi matargerðarlist.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Hátíðlegt heimili

Eva Sólveig Þórisdóttir og Jónas Einar Thorlacius búa í skemmtilegri íbúð skammt frá Digraneskirkju í Kópavogi.

Dóttirin Sigurrós dáist að trénu.

Það var einstaklega ljúft að mæta í jólainnlit klukkan níu á föstudagsmorgni, rok og rigning úti en þegar inn var komið tóku jólin á móti okkur löngu áður en þau áttu raunverulega hefjast. Fagurlega skreytt jólatré stóð í stofunni og svo var búið að að leggja á hátíðarborð, það vantaði bara jólasteikina!

Eva Sólveig Þórisdóttir og Jónas Einar Thorlacius búa í þessari skemmtilegu íbúð sem er í litlu fjölbýli ekki langt frá Digraneskirkju í Kópavogi. Þau tóku á móti blaðamanni og ljósmyndara með nýbökuðu kaffibrauði og alvörukaffidropum þennan hráslagalega morgun.

Sigurrós dóttir þeirra var komin í jólakjólinn og naut þess að fá að vera heima og handfjatla alvörupakka sem mamma hennar var búin að setja undir jólaskreytta tréð.

Eva lauk námi sem innanhússtílisti við Academy of Colour and Style vorið 2013 og segist hafa einstaklega gaman af því að dúlla við smáatriði og fegra í kringum sig og sína.

„Ég elska að dunda mér við að gera heimilið fallegt og legg mikið upp úr því að hafa huggulegt hjá okkur einfaldlega vegna þess að mér finnst það svo skemmtilegt.“

Nýtt þema á trénu um hver jól

Og hvenær ætli skvísan byrji að jólaskreyta heimilið? „Ég byrja vanalega að skreyta um miðjum desember þar sem mesti álagstíminn er þá í vinnunni, nema núna! Heimilið er næstum klárt fyrir jólin í nóvember af því þið kíktuð í heimsókn og ég get því bara dúllað mér í desember. Ég elska að dunda mér við að gera heimilið fallegt og legg mikið upp úr því að hafa huggulegt hjá okkur einfaldlega vegna þess að mér finnst það svo skemmtilegt.

Eva lagði á hátíðarborð fyrir okkur og bjó til nafnspjöld fyrir gestina sína með stimpli sem hún keypti í Tiger. Diskarnir og glösin eru úr Garðheimum ásamt öllu skrautinu.

Ég fór í innanhússtílistanám til að geta nýtt þennan áhuga minn og ég hef verið að taka að mér að aðstoða fólk við að fegra heimilin sín og skipuleggja rými til hins betra heima hjá sér. Ég vinn sem stílisti í Garðheimum og sé um útlit verslunarinnar sem og útstillingar og uppstillingar upp fyrir auglýsingar. Ég er svo með síðu á Facebook sem heitir Eva-Innanhúsráðgjöf þar sem hægt er að hafa samband við mig,“ útskýrir hún brosandi.

Skreytir þú jólatréð alltaf eins eða aldrei eins fyrir hver jól? „Það er í raun aldrei eins, ég er yfirleitt með einhvers konar þema um hver jól sem sveiflast svolítið með tíðarandanum og hvað er í tísku hverju sinni, mínimalískur stíll er þó alltaf ráðandi hjá mér.“

Verslar mest erlendis

Hvernig myndir þú lýsa stílnum á heimilinu? „Hann er hlýlegur, við heillumst af fallegri hönnun og viljum frekar eiga færri og vandaðari hluti en að drekkhlaða heimilið. Mig var til dæmis lengi búið að langa í Sindrastólinn og þegar ég varð þrítug fékk ég hann í afmælisgjöf frá pabba sem gladdi mig óendanlega mikið.“ Og hvar kaupið þið helst hluti fyrir heimilið? „Maðurinn minn er flugmaður hjá Icelandair og við kaupum flest, bæði föt og hluti fyrir heimilið, erlendis. Við höfum keypt stærri hluti, húsgögn þá sérstaklega, í verslunum hér á landi og hansahillurnar fengum við í Góða hirðinum. Svo kíkjum við í IKEA ef okkur vantar eitthvað,“ segir Eva hress að lokum og við kveðjum jólafínu fjölskylduna og dembum okkur út í rokið og rigninguna.

Pappapokinn svarti á gólfinu er úr netverslun sem heitir mixmix.is og einnig pappapokarnir í hillunni. Hillurnar í veggnum voru sérsmíðaðar hjá Sérsmíði á Skemmuvegi.

Aðalmynd: Borðstofuborðið er úr ILVA en stólarnir eru keyptir í Bretlandi. Ljósið fyrir ofan borðið er úr verslun sem heitir Dwell og er í London. Í bakgrunni sjást hansahillur úr Góða hirðinum og fallegir munir sem fegra heimilið.

Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Tískupönkari sem fer eigin leiðir

Fatahönnuðurinn Vivienne Westwood hefur ávallt farið sínar eigin leiðir.

Vivienne Westwood hóf feril sinn á áttunda áratugnum og tók þátt í því að móta pönktísku þess tíma. Í dag ber hönnun hennar enn keim af pönkinu því hún er óhrædd við að prófa eitthvað nýtt og vísa í það gamla.

Vivienne Westwood og Malcolm McLaren. Vivienne er hér í bol með myndinni sem prýddi hið fræga plötuumslag hljómsveitarinnar Sex Pistols.

Vivienne Isabel Swire fæddist árið 1941 í enskum smábæ í Derbyshire-héraði. Þar var iðnbyltingin allsráðandi og lítið benti til þess að hún myndi seinna leggja listgrein fyrir sig. Faðir hennar var skósmiður og mamma hennar vann í bómullarverksmiðju samhliða heimilisstörfunum. „Ég vissi ekkert um listasöfn og hafði aldrei séð listaverkabók. Ég hafði ekki einu sinni farið í leikhús,” segir hún.

Þegar Vivienne var sautján ára flutti fjölskyldan til Harrow, úthverfi London, og hún hóf kennaranám. Henni þótti alltaf gaman að föndra skartgripi og sauma föt á sjálfa sig. Skömmu seinna kynntist hún fyrsta eiginmanni sínum, Derek Westwood, sem starfaði í Hoover-verksmiðjunni. Þau giftu sig árið 1962, Vivienne saumaði sjálf brúðarkjólinn, og eignuðust son sinn Benjamin ári seinna.

Árið 1971 opnaði Malcolm verslunina Let it Rock á Kings Road og seldi fatnað sem þau hönnuðu í sameiningu en vörumerkið var engu að síður undir hennar nafni, Vivienne Westwood. Innblástur fengu þau úr öllum áttum; vændiskonum, mótorhjólagengjum og blætisklæðnaði.

Vivienne Westwood Red Label S/S 16.

Nokkrum árum eftir brúðkaupið umturnaðist líf hennar þegar hún kynntist listanemanum Malcolm McLaren og varð yfir sig ástfangin. Þau fluttu saman í félagsíbúð í Clapham, London og hún hélt áfram að starfa sem kennari ásamt því að búa til skartgripi sem hún seldi á Portobello-markaðinum um helgar. „Malcolm opnaði ýmsar dyr fyrir mér og virtist vita nákvæmlega hvað ég þurfti þannig að ég hengdi mig á hann,” segir hún. Þau eignuðust soninn Joseph árið 1967.

Árið 1971 opnaði Malcolm verslunina Let it Rock á Kings Road og seldi fatnað sem þau hönnuðu í sameiningu en vörumerkið var engu að síður undir hennar nafni, Vivienne Westwood. Innblástur fengu þau úr öllum áttum; vændiskonum, mótorhjólagengjum og blætisklæðnaði.

Nafn verslunar breyttist reglulega á næstu árum en lengst af var hún þekkt einfaldlega sem SEX. Á þessum Malcolm var einnig umboðsmaður pönksveitarinnar Sex Pistols og þeir klæddust iðulega Vivienne Westwood-hönnun á sviði. Fljótlega byrjuðu fylgjendur hljómsveitarinnar sem og aðrir að flykkjast í verslunina og Vivienne og Malcolm mótuðu tísku pönktímabilsins.

Vivienne Westwood saumaði sinn eigin brúðarkjól í bæði skiptin sem hún gekk í hjónaband en árið 2008 gafst henni tækifæri til að sauma brúðarkjól á eina frægustu sjónvarpspersónu tíunda áratugsins, Carrie Bradshaw úr Sex and the City. Kjóllinn var stórfenglegur að sjá en Carrie komst því miður aldrei alla leið að altarinu í honum.

Vivienne var þó hvergi af baki dottin þegar pönkið leið undir lok, enda vildi hún frekar leiða tískuna en fylgja henni. Þekkt stílbrigði hennar eru til dæmis ókláraðir og tættir faldar, dragtir og jakkaföt, sögulegar skírskotanir og notkun á skosku ullarefni, eða tartan, tjulli, blúndu og leðri.

Fyrst og fremst er Vivienne óttalaus og blátt áfram þegar kemur að hönnun. Í gegnum tíðina hefur hún reglulega valdið usla og hefur látið ýmis málefni sig varða, svo sem mannréttindi, hlýnun jarðar og vatnsskort. Áhrif hennar á breska tískuheiminn og menningarlíf eru hins vegar óneitanleg og hún hefur tvisvar verið valinn hönnuður ársins í Bretlandi og hlaut orðu breska heimsveldisins árið 1992.

Þrátt fyrir þessa velgengni hefur Vivienne búið í sömu litlu íbúðinni í Suður- London í rúm þrjátíu ár og hjólar enn þá í stúdíóið sitt. Árið 1993, tíu árum eftir að hún og Malcolm slitu samvistum, giftist hún í annað sinn og þá aðstoðarmanni sínum, Andreas Kronthaler, sem er tuttugu og fimm árum yngri en hún. Þau eru eru enn hamingjusamlega gift í dag og vinna saman að hönnun merkisins.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

 

Núvitund í hversdagslífinu

Núvitundariðkun reynist vel við ýmsum heilsufarsvandamálum.

Núvitund er aldagömul hugleiðsluaðferð sem á rætur að rekja til búddisma og felst í því að hafa athyglina í núinu á opinn og virkan hátt. Í stað þess að láta lífið líða hjá án þess að lifa því, vöknum við til meðvitundar og upplifum það á virkan hátt. Rannsóknir hafa gefið vísbendingu um að meðferðir sem byggja á núvitundariðkun reynast vel við ýmsum heilsufarsvandamálum, ekki síst við andlegum vandamálum svo sem streitu, þunglyndi og kvíða. Hér eru nokkrar góðar leiðir til að innleiða núvitund í daglega rútínu.

Ekki gera hundrað hluti í einu, sestu niður og njóttu þess að borða matinn í ró.

Borða

Okkur hættir til að fara í gegnum daginn á sjálfstýringu og skófla þá í okkur mat á meðan við horfum á sjónvarpið eða spjöllum við okkar nánustu.

Þannig fer ýmislegt fram hjá okkur, eins og hversu ljúffengur maturinn er á bragðið og við fáum ekki sömu vellíðun út úr máltíðinni.

Ekki gera hundrað hluti í einu, sestu niður og njóttu þess að borða matinn í ró.

Ganga

Þegar þú ert úti að ganga reyndu að finna hvernig fætur þínir koma við jörðina og hvernig þú notar vöðvana í líkamanum. Horfðu svo í kringum þig, taktu eftir hvað er að gerast og hvaða hljóð þú heyrir. Það gæti komið þér á óvart hversu mörgum nýjum hlutum þú tekur eftir í umhverfi þínu.

Anda

Öndun er mikilvægur þáttur í hugleiðslu því hún er okkur svo eðlislæg og taktföst. Þegar þú átt lausa stund ættirðu að lygna aftur augunum og einbeita þér að því að anda. Um leið og við byrjum að einbeita okkur að önduninni færumst við sjálfkrafa úr huganum í líkamann og fáum þannig frí frá öllum hugsunum og áhyggjum.

Finna

Við gleymum stundum að tengjast skynfærum okkar og virkilega skynja umhverfið en það er einmitt lykillinn að því að vera í núinu. Finndu ilminn af kaffinu þínu á morgnana, hvernig fötin snerta húð þína og hlustaðu á fuglasönginn úti. Þannig gefur þú einföldu hlutunum í lífinu gildi og það gefur þér gleði og innri frið.

Bíða

Þegar þú ert úti að ganga reyndu að finna hvernig fætur þínir koma við jörðina og hvernig þú notar vöðvana í líkamanum.

Gefðu þér það svigrúm að bíða aðeins áður en þú hrekkur í framkvæmd. Hugsaðu um hverja pásu sem bókastoð sitthvorum megin við gjörðina og þannig kemur þú fersk inn í þá næstu.

Til dæmis: sittu kyrr og finndu þungann í sætinu þínu í nokkrar mínútur áður en þú leggur af stað heim eftir langan vinnudag.

Hinkraðu svo við með höndina á hurðarhúninum og leyfðu þér að hlakka til að fara inn heima hjá þér.

Hlusta

Við hlustum oft ekki nægilega vel á fólkið í kringum okkur því við erum svo upptekin af því að hugsa um hvað við ætlum að segja næst eða um eitthvað allt annað og ótengt. Þegar þú ert í samræðum gerðu það að markmiði þínu að hlusta vandlega á það sem hin manneskjan er að segja við þig og treystu því að þú munir vita hvað þú ætlir að segja næst án þess að þurfa að leiða hugann sérstaklega að því.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

„Reyndi að sannfæra lækna um að ég væri að fá hjartaáfall“

||||
||||

Skrápurinn hefur harðnað segir snapparinn Guðrún Veiga Guðmundsdóttir.

Guðrún Veiga Guðmundsdóttir deilt sigrum og sorgum með fylgjendum sínum.

Undanfarin tvö ár hefur Guðrún Veiga Guðmundsdóttir deilt sigrum og sorgum með fylgjendum sínum og er þekkt fyrir hreinskilna og óheflaða framkomu.
Þeir sem hafa fylgst með Guðrúnu Veigu á snappinu hennar, gveiga85, þekkja orðið vel helstu persónur og leikendur. Þar verður fyrst að nefna Tuskubrand sem er annað orð yfir eiginmann hennar Guðmund sem er annálaður hreingerningarmaður. Hann er í daglegu tali oftast nefndur Tuski. Sigrún Þórdís fékk síðan viðurnefnið Skítapása fljótlega eftir að hún fæddist og svo birtist Gudda kuti reglulega en hún tekur á málefnum sem Guðrúnu Veigu mislíkar að fólk viðri við hana á miðlinum.

„Það er ótrúlegt hvað getur borist hér í gegn; allt frá athugasemdum um lit í augabrúnunum á mér upp í hvernig ég sinni móðurhlutverkinu. Sumum finnst sjálfsagt að segja hvað sem er við mann.

Ömurleg komment höfðu mikil áhrif á mig til að byrja með og það fyrsta sem ég fékk var eftir að ég hafði keypt mér nokkur naglalökk sem ég sýndi á snappinu. Það hljóðaði svona: „Svona beljur eins og þú sem fæðast með silfurskeið í munninum. Ógeðslega dekurdósin þín sem lætur manninn þinn, sjómanninn, vinna fyrir sér.“

„Svona beljur eins og þú sem fæðast með silfurskeið í munninum. Ógeðslega dekurdósin þín sem lætur manninn þinn, sjómanninn, vinna fyrir sér.“

Ég varð eyðilögð og ætlaði að hætta þessu og helst henda símanum beinustu leið í ruslið en hugsaði svo með mér að ég ætlaði ekki að láta einhvern grautfúlan aðila úti í bæ skemma fyrir mér.

Síðan þá hefur skrápurinn harðnað og ég er nokkuð ónæm fyrir þessu nema þegar kemur að börnunum mínum, ég er viðkvæm fyrir móðurhlutverkinu.

Viðtalið má lesa í heild sinni í glænýju Jólablaði Vikunnar.

Guðrún Veiga hefur glímt við kvíða af og til um árabil en fyrir þremur árum fékk hún fyrsta ofsakvíðakastið. „Þá var mér sagt upp í vinnunni. Ég átti von á því þar sem ég vissi af niðurskurðinum og ég var nýjasti starfsmaðurinn en ég bar mig vel og sagði að mér yrði fokk sama ef til þess kæmi. Þegar að því kom brotnaði ég hins vegar alveg niður. Mér fannst þetta svo mikil höfnun, eins og ég hefði ekki staðið mig og mér leið hræðilega. Ég lá tímunum saman í fósturstellingunni, fannst ég ekki ná andanum, þarmarnir vera að springa og ég ofandaði. Síðan þá hef ég fengið ofsakvíðakast nokkrum sinnum en það kemur helst þegar álagið er of mikið.

Síðasta kast fékk ég í janúar þegar ég áttaði mig á að ég væri að fara að ganga í gegnum það að eiga barn aftur eftir fáeina mánuði.

Ég reyndi þá mikið að sannfæra læknana um að ég væri að fá hjartaáfall en þeir náðu loksins að fullvissa mig um að þetta væri kvíðinn,“ segir hún hlæjandi.

Viðtalið má lesa í heild sinni í glænýju Jólablaði Vikunnar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir með YSL
Fatnaður / AndreA

„Mér hefur alltaf verið svo til slétt sama um kynlíf“

|||||
|||||

Sonja Bjarnadóttir hefur aldrei skilgreint sig út frá kynhneigð.

Sonja er eikynhneigð en segir hugtakið vefjast fyrir flestum.

Sonja Bjarnadóttir hafnar því að kynhvöt sé ákvörðun en segist hafa lært að skilgreina sig rétt. Sonja er eikynhneigð en segir hugtakið vefjast fyrir flestum. Hún stígur því fram í opinskáu viðtali og útskýrir sína hlið.

Sonja er 26 ára nemi í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands. Ásamt því treður hún reglulega upp með fjöllistahópnum Drag-Súgi þar sem hún fer með hlutverk hins aumkunarverða en lífsglaða Turner Strait. Sýningarnar fara bæði fram mánaðarlega sem og á Hinsegin dögum og í kringum aðra stóra viðburði. „Turner Strait fékk að malla lengi sem hugmynd í kollinum áður en hann steig á svið. Í fyrstu var karakterinn leiðindagaur en hefur með tímanum þróast yfir í að vera hálfelskulegur bjálfi. Með tímanum fór mér nefnilega að þykja vænt um hann. Hann er ekkert 100% góður og saklaus en hann vill vera elskaður og er að reyna sitt besta.“ Það eru þeir Sigurður Heimir og Hafsteinn Himinljómi, eða Gógó Starr og Ragna Rök, sem halda utan um Drag-Súg og hefur aðsóknin verið slík að hætt er að taka nýja meðlimi inn í hópinn í bili. „Ég komst inn í apríl í fyrra og fíla þetta listform í tætlur, orkan innan hópsins er mikil og stemningin góð. Það er alltaf gaman að stíga á svið en Turner Strait syngur bæði og mæmar auk þess að framkvæma allskonar bjánaskap á sviðinu.“

Tvö ár eru nú síðan Sonja steig fram og tilkynnti sínum nánustu um eikynhneigð sína. En hvað þýðir það að vera eikynhneigður? „Í stuttu máli er eikynhneigð (e. asexuality) það að finna ekki fyrir kynferðislegri aðlöðun (e. sexual attraction). Sumir sem kannski vita minna vilja meina að þetta þýði aðeins að vilja ekki eða nenna ekki að stunda kynlíf, en rótin sem slík er skortur á þessari aðlöðun eða löngun,“ útskýrir Sonja. Ástæða þess að hún komst í kynni við fræðin var netráf. „Mér finnst alltaf svo bjánalegt að segja frá því en ég sá þetta orð og þetta hugtak fyrst á síðunni tumblr. Þar hafði ég líka kynnst manneskju sem ég var með í háskólanum sem kenndi sig sem eikynhneigða og fór í kjölfarið aðeins að grennslast frekar fyrir um þetta. Bæði í gegnum þessa manneskju, frekari tumblr-skoðun og svo loks AVEN (The Asexual Visibility & Education Network) fór ég að sjá fleiri tengsl á milli þessa fyrirbæris og minnar eigin upplifunar.“

Hinsegin flóran fjölbreytt

Eikynhneigðir tóku í fyrsta sinn þátt í Gleðigöngunni fyrr í sumar. Sonja segir þátttöku þeirra hafi vakið misjöfn viðbrögð. „Það voru ekki allir á eitt sáttir um þátttöku okkar og margir af okkar elskulegu virku í athugasemdum lágu ekki á skoðunum sínum. Spurningar á borð við, „þarf að gefa öllu nafn?“ og „hvar endar þetta rugl?“ fengu að fjúka en sumir verða víst að hafa allt á hornum sér. Viðbrögðin voru þó misjöfn og margir sem tóku okkur fagnandi. Það er bara svo oft svona þegar fram koma ný orð, fólk þarf tíma til að aðlagast.“ Sonja segir að það hafi komið sér á óvart hversu margir einkynhneigðir einstaklingar séu hér á landi. „Miðað við hversu fjölbreytt hinsegin flóran getur verið ætti það kannski ekki að koma mér svo mikið á óvart en það gerði það nú samt. Við vorum að vísu frekar fámennur hópur sem tók þátt í göngunni en eflaust eiga fleiri eftir að stíga fram. Það getur nefnilega tekið tíma að átta sig á að skilgreiningin eigi við mann sjálfan og fullvíst að margir þarna úti vita hreinlega ekki um hugtakið eða hafa ekki kafað svo djúpt í sjálfsskoðuninni enn þá en eiga kannski eftir að finna sig sem eikynhneigða síðar meir.“

„Í augnablikinu er ég ekki í sambandi og ekkert sérstaklega að leitast eftir því en trúðu mér ég hef verið skotin, bæði í fólki í kringum mig sem og þekktum einstaklingum sem ég hef dáðst að úr fjarlægð.“

Aðspurð segist Sonja meira verða vör við að stelpur upplifi sig eikynhneigða en stráka og segir hún það að miklu leyti vera tengt við samfélagsgerðina. „Það eru auðvitað alveg til eikynhneigðir strákar en það er minna um að þeir opni sig með það. Samfélagið okkar er svo kyngert og gerir þær kröfur að strákar séu endalaust með kynlíf á heilanum. Umræða sem strákur myndi reyna opna sig með í þessum dúr yrði fljótlega kæfð niður. Það er sorgleg staðreynd en ég trúi því að með auknu upplýsingaflæði og opinni umræðu geti þessi viðhorf breyst.“

Sjálf fann Sonja hvernig hugtakið átti við hana í gegnum lestur og mikla sjálfsskoðun. „Árið 2014 fór að miklu leyti í þetta hjá mér. Að finna út hvers vegna ég fann litla sem enga löngun í kynlíf og að sættast við þáverandi maka, að þetta væri ekki honum að kenna heldur mér, eins mikil klisja og það kann að hljóma. Það tók tíma að sættast við að ég væri ekki eikynhneigð vegna sambandsins heldur væri það einfaldlega vegna þess sem ég er. Fólk á svo auðvelt með að taka slíkum upplýsingum persónulega og halda að það sé við það sjálft að sakast. Þetta var skrítinn tímapunktur í mínu lífi þar sem ég hafði verið kynferðislega virk lengi vel áður en ég gerði mér grein fyrir því að ég hafði í raun litla löngun í það. Á endanum var ég alveg hætt að vilja neitt vita af kynlífi sem slíku. Það var þá sem ég fór að velta fyrir mér hvort þetta væri eitthvað sem ég þyrfti að laga hjá sjálfri mér því ég vissi að það væri ekki við þáverandi maka að sakast. Það var svo í gegnum hinn og þennan lestur um hugtakið sem ég fann samhljómun í eigin tilfinningum. Hægt og bítandi fór svo að renna upp fyrir mér að allt sem ég hafði verið að lesa mér til um ætti við um mig og ég endaði á að geta sagst vera eikynhneigð. Það skref lít ég á sem ákveðinn persónulegan sigur.“

Barneignir ekki fyrir mig

Sonju segist gruna að í sínu tilfelli hafi eikynhneigðin alltaf verið til staðar enda hafi áhugi hennar á kynlífi aldrei verið nokkur. „Þegar ég lít til baka geta ákveðin augnablik allt í einu orðið skiljanleg sem áður voru það ekki. Mér hefur alltaf verið svo til slétt sama um kynlíf og nú þegar ég veit meira um sjálfa mig og hinseginleikann minn hef ég fundið sátt. Lengi vel hélt ég nefnilega bara að ég væri skrítin, sem gæti svo sem alveg verið aukaþáttur en það er annað mál,“ segir Sonja og skellir upp úr. Í dag segist hún spá lítið í kynlífsleysið en segist þakka fyrir að „þurfa“ ekki að gera neitt lengur. „Mér finnst ég ekki vera að missa af neinu og upplifi því hvorki vonbrigði né leiða. Það er hins vegar stór plús að vera ekki lengur í neinu bólfélagaveseni með öllu því drama sem því kann að fylgja. Þetta eilífa nöldur um að hafa sofið hjá aðilla A og nú sé aðilli B brjálaður. Ég myndi segja að tilfinningin sé í dag voða hlutlaus.“

„Mér hefur alltaf verið svo til slétt sama um kynlíf og nú þegar ég veit meira um sjálfa mig og hinseginleikann minn hef ég fundið sátt,“ segir Sonja

Hvað barneignir varðar segist Sonja hafa gert upp hug sinn fyrir löngu. Sú ákvörðun sé í raun ótengd hinseginleika hennar. „Börn eru ekki fyrir mig. Bara tilhugsunin um þungun og allt það ferli finnst mér viðurstyggileg. Ég fæ hreint út sagt ónot í líkamann að leiða hugann að því, með fullri virðingu fyrir þeim sem það kjósa. Ég á líka fullt í fangi með að hugsa um sjálfa mig þótt ég fari ekki að bera ábyrgð á öðrum einstaklingi. Þetta er mín ákvörðun og hefur ekkert að gera með eikynhneigð enda er fullt af eikynhneigðu fólki þarna úti sem þráir að eignast börn, hvort sem þeir hafa líkamlegu starfsemina til þess eða ekki. Ég finn samt vel fyrir pressu samfélagsins, sérstaklega verandi á þessum aldri en ég veit að þetta er ekki fyrir mig og sú skoðun mun ekkert breytast þótt ég eldist eins og svo margir vilja halda fram. Það er svo vont þegar fólk vill hugsa fyrir mann og reyna að breyta viðhorfi en ég segi frábært fyrir þá sem vilja eiga fjölskyldur. „You do you and I do me.“ Eins virðast margir tengja hinseginleikann við skírlífi en það er rangt, skírlífi er ákvörðun sem tekin er í tengslum við trú en ég er ekki trúuð svo ég get fullvissað þig um að þetta hefur ekkert með það að gera. Í grunninn snýst þetta um margvíslega upplifun, og skortinn þar á.“

Þar sem hugtakið er frekar nýtt á íslenskri tungu er auðvelt að gera sér ranghugmyndir um hvað það felur í sér. Sonja segir algengustu spurningarnar vera þær hvort hún hafi aldrei fengið fullnægingu og jafnvel alhæfingar um að hún eigi bara eftir að finna rétta makann. Hún vísar slíkum hugmyndum alfarið á bug en segist þó laðast rómantískt að fólki af báðum kynjum. „Eitt af því sem mér finnst svo frábært við að uppgötva hvað eikynhneigð sé er það að yfirhöfuð sé hægt að skipta aðlöðun niður í rómantíska annars vegar og kynferðislega hins vegar. Um leið og ég fattaði að ég upplifi ekki kynferðislega aðlöðun sá ég að öll þau skot sem ég hafði átt áður og mun eflaust eiga síðar eru rómantísk skot en ekki bara aðdáun á fallegri manneskju. Í augnablikinu er ég ekki í sambandi og ekkert sérstaklega að leitast eftir því en trúðu mér ég hef verið skotin, bæði í fólki í kringum mig sem og þekktum einstaklingum sem ég hef dáðst að úr fjarlægð. Það er svo sem góð leið til að segjast hafa verið skotin í frægu fólki, er það ekki annars? En fólkið sem ég laðast að eru alls konar, karlar, konur og kynsegin fólk. Það er bara svo leiðinlegt að segja alltaf „biromantic asexual“ eða „tvírómantísk“ eikynhneigð og þurfa svo að útskýra hvoru tveggja þegar ég er ekki alltaf í stuði til að vera hinsegin kennari dagsins. Ég sleppi því einfaldlega þangað til ég er spurð, eins og núna.“

„Það eru auðvitað alveg til eikynhneigðir strákar eins og í öllu öðru en það er minna um að þeir opni sig með það. Samfélagið okkar er svo kyngert og gerir þær kröfur á að strákar séu alltaf endalaust með kynlíf á heilanum.“

Margir ímynda sér að eikynhneigðir einstaklingar búi yfir vondri reynslu af kynlífi eða hafi jafnvel lent í kynferðislegu ofbeldi. Í tilfelli Sonju var það ekki raunin. „Vissulega eru til einstaklingar sem skilgreina sig sem eikynhneigða eða finna ekki fyrir kynferðislegri aðlöðun eða löngun af því eitthvað hefur komið fyrir þá áður. En það á ekki við í mínu tilfelli. Að því sögðu er það ekki mitt að ákveða eða segja hverjum og einum hvernig þeir eigi að skilgreina sig. Að mínu mati þarf ekki að uppfylla þessi og þessi áföll til þess að geta sagst vera eins og maður er. Sjálf get ég ekki sagt að neitt hafi beint valdið því að ég skilgreini mig á þennan hátt. Ég einfaldlega sá sjálfa mig í þessu hugtaki og gat loksins tjáð mig um minn hinseiginleika.“

 Örverpi á Akranesi

Sonja er alin upp á Akranesi og segir æsku sína í grunninn hafa verið góða það fylgi því þó bæði kostir og gallar að alast upp í litlu sveitarfélagi þar sem allir þekki alla. „Ég vil persónulega meina að ég hafi átt góða æsku, þó auðvitað með einhverjum erfiðleikum hér og þar. Ég er yngst þriggja systkina en ég fæddist svo löngu á eftir hinum tveimur að þau voru bæði flutt að heiman þegar ég var farin að geta munað almennilega eftir mér. Ég ólst því eiginlega upp sem einkabarn. Það gæti mögulega hafa skemmt eitthvað fyrir mér hvað framtíðina varðar en ég ætla ekki að væla yfir því alveg strax. Ég ætla allavega að reyna að vera fullorðin og sjálfbjarga í einhvern tíma í viðbót áður en ég fer að kenna uppeldinu eða æskunni um eitthvað sem ég ekki kann eða veit.“

Tvö ár eru nú síðan Sonja tilkynnti vinum og fjölskyldu um hinseiginleika sinn. Tilkynninguna birti hún á Facebook-vegg sínum á degi Reykajvík Pride árið 2015. Færslan hljómaði svona:

Sæl öll. fjölskylda, vinir, kunningjar, samstarfsfólk og meira að segja þið ykkar sem ég kann að hafa addað á feisbúkk í annarlegu ástandi og ekki haft samband við ykkur síðan. Mig langar aðeins að spjalla við ykkur um Asexuality (ísl. eikynhneigð (óopinber þýðing)), þó það væri ekki nema bara til þess að fá smá fræðslu frá algjörum amatör svona í tilefni Hinsegin Daga í Reykjavík.

Eins og flestir sem hafa lært grunnatriði í ensku ættu að vita bendir forskeytið „a-“ yfirleitt til þess að það sé skortur til staðar á hinum hluta orðsins, sbr. Amoral (siðblindur), Apathetic (áhugalaus), o.s.frv. Það sama á við hér. Asexual þýðir, mjög lauslega, skortur á nokkru hvað varðar kynhneigð. Ég hef oft borið þetta saman við andstæðuna, þ.e. þegar fólk, hinsegin sem og gagnkynhneigt, sér manneskju sem því þykir aðlaðandi vilji það prófa að sofa hjá því. Það upplifir svokallað kynferðislegt aðdráttarafl (e. Sexual Attraction), ef svo má að orði komast. Asexual fólk finnur ekki fyrir þessu aðdráttarafli frá einum né neinum. Það sér ekki annars aðlaðandi manneskjur og hugsar „vó, ég væri til í að setjast á/setja í þetta!“ (þetta var frekar nasty en þið fattið vonandi hvað ég á við).

Asexual er líka regnhlífarhugtak, eins og svo mörg hugtök innan hinsegin samfélagsins, þar sem ekki allir einstaklingar sem skilgreina sig sem slíkt eru 100% anti-sex. Þvert á móti er vel hægt að vera Asexual en samt stunda kynlíf, ýmist sér til skemmtunar, til að fá einhvers konar útrás, eða jafnvel bara með samráði maka viðkomandi. Einn undirhópur Asexual, Demisexual, er hópur sem finnur enga kynferðislega löngun, en gæti hugsað sér það ef það þekkir hinn aðilann nógu vel og gott traust sé líka með. Og jú, kynhvöt getur alveg verið til staðar hjá Asexual fólki. Líkamleg viðbrögð við örvandi utanaðkomandi afli eru jú náttúruleg, og alls ekkert að því.

Hins vegar er líka hópur Asexual fólks sem finnur hreinlega hvorki þetta aðdráttarafl né löngun í eitthvað kynferðislegt. Enginn er kynferðislega aðlaðandi fyrir þeim, tilhugsunin um það að stunda kynlíf og þá sérstaklega samfarir er ógeðfelld, og löngunin í, hvað þá hrifningin af slíku athæfi er nákvæmlega engin.

Svona eftirá að hyggja þá hefði ég kannski bara átt að mæta á Nú Skal Hinsegja viðburðinn síðastliðinn mánudag. Ekki bara vegna þess að ég er amatör um þetta málefni og gæti hugsanlega hafa prumpað út úr mér einhverjum staðreyndum sem ég þykist vita. Nema jújú, það hefði kannski verið allt í lagi hugmynd út af fyrir sig. En nei, það er ekki ástæðan.

Ástæðan er sú að ég tilheyri þessum hópi.

Og áður en spurt er, nei, þetta kom ekki upp úr þurru. Þetta er heldur ekki eitthvað sem ég bara „ákvað“ núna nýlega. En það var ekki fyrr en fyrir rúmu ári síðan sem ég gat samræmt sjálfa mig við þetta orð og í rauninni þetta konsept. Ég viðurkenni það hér og nú að ég hef alltaf getað séð fegurð og fundið hrifningu til margra kynja, jafnvel þó svo að ég átti að vera gagnkynhneigð kona. Þegar ég hugsa til baka núna get ég klipið í nokkur augnablik þar sem stelpur náðu athygli minni jafn mikið og strákar, og þá sérstaklega á kynþroskaskeiðinu. Þannig að að vissu leyti hefur mig alltaf grunað að ég væri allavega eitthvað hinsegin. „Bi-curious“ var orð sem ég átti til með að skjóta inní hér og þar, en það passaði bara ekki. Samkynhneigð/lesbía passaði mér ekki heldur. Tvíkynhneigð komst mjög nálægt, en að sama skapi fannst mér aldrei vera neitt eitthvað sérstaklega „kyn“-legt við það hvernig mér leið. Mér fannst ég samt alltaf vera að ljúga bæði að öðrum og sjálfri mér ef ég segðist vera Straight, og sömuleiðis ef ég segðist vera Lesbía/Bi.

Það var svo í gegnum elsku bjánalega, barnalega tumblr sem ég sá þetta orð fyrst: Asexual. Ég furðaði mig á þessu í fyrstu, en komst fljótt að því með smá gúggli og meira tumblr-skrolli hvað þetta þýddi. Og í gegnum vinkonu sem einkenndi sig sem slíkt lærði ég meira, og svo smátt og smátt um undirflokkana og hvað þetta allt saman gæti verið. Fljótlega small einhvern veginn allt í höfðinu á mér. Ég var ekki bara löt í kynlíf, það var ekki bara það að ég nennti því ekki; ég hafði bara enga löngun í það. Tilhugsunin var á endanum farin að gefa mér einhverja hrolltilfinningu sem ég mundi ekki eftir að hafa upplifað síðan þessi eilífa pressa um að „missa meydóminn“ byrjaði í unglingadeildinni.

En sem sagt, bara til að taka þetta nokkurn veginn saman: Ég er Asexual. Ég er ekki Hetero þegar kemur að hugsanlegum samböndum; mér finnst stelpur og NB fólk alveg jafn heillandi og strákar. Ég er bara ekki Sexual. Tilhugsunin um kynferðisleg athæfi sem hafa eitthvað að gera með sjálfa mig hrylla mig. Ég kann ekki að horfa á manneskju og hugsaa „mig langar að ríða þessu“, sama hvað kynið heitir. Það er ekkert að mér. Það kom ekkert fyrir mig til að „gera mig svona“. Svona hef ég alltaf verið. Það tók bara smá tíma og auka fræðslu fyrir mig að átta mig á því. Og núna, tæpu einu og hálfu ári eftir að ég fann að ég gat samræmt mig þessu hugtaki, fannst mér gott að koma því á framfæri.

Ég heiti Sonja, og ég er Asexual. Ég er hinsegin.

„Nánustu vinir mínir vissu hvernig ég skilgreindi mig áður en ég kom út opinberlega. Ég reikna ekki með öðru en að þeir hafi bara tekið fréttunum eins og hverju öðru. Ég hefði allt eins getað sagst hafa litað á mér hárið nýlega. Fólk er vissulega forvitið og spurningum rignir reglulega yfir mig en að öðru leyti hefur ekkert breyst. Ég hef alltaf fengið stuðning, bæði frá vinum, kunningjum og ættingjum. Ég var engu að síður mjög fegin að finna stuðning frá pabba og systur minni um leið og þau sáu færsluna frá mér. Síðar meir þegar ég sýndi mömmu og bróður mínum hana höfðu þau ekkert slæmt að segja. Mömmu fannst aðallega leitt að mér fyndist ég þurfa að koma út yfirhöfuð. Af hverju getur fólk ekki bara verið eins og það er og samfélagið sætt sig við það. Ég er í það minnsta þakklát mínu fólki og mjög heppin með það.“

Texti / Íris Hauksdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Helga Þorkelsdóttir

Framúrskarandi, falleg og vönduð hönnun í Hrím

Vöruúrvalið og fjölbreytnin hefur aldrei verið meiri.

,,Við leggjum mikið upp úr íslenskri hönnun,“ segir Tinna.

Verslanirnar Hrím eru orðnar þrjár talsins, ein á Laugaveginum og tvær í Kringlunni. Nýjasta verslunin er á fyrstu hæð Kringlunnar þar sem Mýrin var áður.
Framkvæmdastjóri Hrím, Tinna Brá Baldvinsdóttir er afar stolt af nýjustu versluninni og þeim fjölmörgu nýju vörum sem nú má finna í Hrím.

,,Við erum ótrúlega glöð að hafa loksins opnað stóra og góða verslun í Kringl­unni þar sem við getum verið með breiðara vöruúrval eins og á Laugavegi 25 þar sem við erum nýverið búin að opna upp á aðra hæð.
Eins og ávallt leggjum við mikið upp úr íslenskri hönnun og við erum mjög stolt af þeim nýju merkjum sem bæst hafa við nýlega í Kringlunni. Þar má meðal annars nefna vörur frá Feld, Farmers Market, OrraFInn og As we grow,” segir hún.

,,Við leggjum mikla áherslu á að fólki finnist gaman að koma í Hrím og skoða fjölbreytta og skemmtilega hönnun­ar­vöru. Að okkar mati snýst þetta um heildarupp­lifun viðskiptavinarins, við vöndum okkur við gluggaútstillingar, veljum skemmti­­­lega tónlist í verslunum okkar, notum til að mynda

Designletters svörtu bollarnir eru það heitasta í dag.

sérhannaðan gjafapappír og svona mætti lengi telja,” segir hún og bætir við að mikilvægast af öllu sé auðvitað persónuleg og góð þjónusta frá þeirra frábæra starfsfólki.

,,Nýlega fórum við að hanna og framleiða nokkrar vörur í samstarfi við flott lista­fólk. Þar má til dæmis nefna Regnpokann sem hefur heldur betur slegið í gegn. Að sama skapi erum við ótrúlega stolt af platkötunum okkar sem við köllum Jurtir by Hrím.”

Áhugaverðar vörur

Tinna hannaði þennan regnpoka í samvinnu við Bobby Breiðholt.

Það er ekki úr vegi að biðja Tinnu um að nefna nokkrar áhugaverðar vörur í Hrím. Hún hugsar sig um og nefnir til sögunnar regnpoka sem fæst í búðunum. ,,Þessa vöru hannaði ég ásamt Bobby Breiðholt sem útfærði lógó-ið með mér,” segir hún. ,,Regnpokinn hefur verið mjög vinsæll hjá okkur fyrir útivistarfólk. Svo er fólk líka bara að elska notkunarmöguleikana þeirra og notar þá dagsdaglega í íslensku veðráttunni. Í pokann passar lítill Macbook sem einstaklega hentugt fyrir skólafólk sem og útvistarfólk sem getur án hans verið. Þetta verður jólagjöfin í ár. Frábært verð á þeim.

Þá er As we grow ný lína, falleg íslensk hönnun framleidd úr gæðaefni þar sem fáguð snið er höfð að leiðarljósi. Designletters svörtu bollarnir eru það heitasta í dag, ný lína nýkomin í verslanir. Og svo eru Thermo flöskurnar  ómissandi á hvert heimili og rjúka út líkt og heitar lummur.”

Tinna minnist líka á plakötin ,,Jurtir by Hrím“ sem Hrím framleiðir en Tinnu langaði að gera plaköt af jurtum sem tengja hana við barnæskuna úti í náttúrunni í Stykkishólmi. Jurtir by Hrím verða með samtals tólf jurtum en þrjár nýjar komu á markað fyrir jól.

Nýjasta verslunin er á fyrstu hæð Kringlunnar.

Texti / Sjöfn Þórðardóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

Fjölbreytt umhverfi Nýja-Sjálands

Íris Richter segir frá uppáhaldsstöðunum á Nýja-Sjálandi.

Íris Richter hefur búið á Nýja-Sjálandi síðan 2009, þar kynntist hún breskum eiginmanni sínum og þau eiga tvo syni.

Íris Richter hefur búið á Nýja-Sjálandi síðan 2009, þar kynntist hún breskum eiginmanni sínum og þau eiga tvo syni. Hún rekur þrjú fyrirtæki: er viðskiptaráðgjafi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, businesskitchen.co.nz, rekur lítið gistiheimili, lovetitirangi.com, og er athafnastjóri með leyfi til að gifta fólk, celebrant-iris.co.nz.

„Við búum í úthverfi Auckland þar sem er mjög mikil náttúrufegurð. Við erum hálftíma að keyra til Auckland, borgar í heimsklassa, og hálftíma í hina áttina að keyra á stað með dramatískum og gjörsamlega tómum ströndum. Við fjölskyldan njótum þess að fara í göngutúra um frumskógana hér í kring,“ segir Íris. „Mér finnst erfitt að velja milli staða hér til að segja frá því í hvert einasta skipti sem við förum í ferðalag lýsi ég því yfir að þetta sé fallegasti staður í heimi og ég þurfi ekki að sjá meira. Svo segi ég það sama í næsta ferðalagi.“

Pakiri-ströndin
Við fórum á þessa fallegu hvítu póstkortaströnd um síðustu helgi. Hún er aðeins í einnar og hálfrar stundar akstursfjarlægð fyrir norðan Auckland. Næsti bær við ströndina heitir Matakane og þar er æðislegur helgarmarkaður. Sætt þorp og flottir veitingastaðir.

„Mér finnst erfitt að velja milli staða hér til að segja frá því í hvert einasta skipti sem við förum í ferðalag lýsi ég því yfir að þetta sé fallegasti staður í heimi og ég þurfi ekki að sjá meira. Svo segi ég það sama í næsta ferðalagi.“

Karekare-ströndin
Þessi svarta strönd er aðeins í tuttugu mínútna akstursfjarlægð frá heimili okkar og kvikmyndin The Piano var tekin þar. Mér finnst skemmtilegt að fara þangað í roki og rigningu sem gerir staðinn enn þá dramatískari, eins og í myndinni. Hæð liggur meðfram ströndinni sem hægt er að ganga upp á og útsýnið frá henni er stórkostlegt. Þar er hægt að ganga eins lengi og maður nennir svo snýr maður við og upplifir aðra sýn. Þegar horft er niður á löngu, svörtu ströndina og villta sjóinn er ótrúlegt til þess að hugsa hve stutt þetta er frá borginni.

Í Rotorua er meðal annars að finna nýsjálensku útgáfuna af Bláa lóninu og Geysi.

Rotorua 
Í þessum túristabæ er meðal annars að finna nýsjálensku útgáfuna af Bláa lóninu og Geysi. Bærinn er í tæplega þriggja tíma akstursfjarlægð suður af Auckland. Það sem mér finnst skemmtilegt við Rotorua er að við Íslendingarnir í NZ hittumst þar einu sinni á ári í útilegu og við köllum það ættarmótið okkar.

Waiheke-eyjan
Eyjan er í þrjátíu mínútna siglingu frá miðborg Auckland. Þangað er gaman að fara og njóta fegurðar, strandar og vínbúa. Skemmtileg blanda af fólki býr á eyjunni. Annarsvegar hippar sem vilja forðast borgina og lifa einföldum lífsstíl á yndislega fallegum stað. Við þekkjum fólk sem á lóð með frábæru sjávarútsýni og býr í húsvagni. Hins vegar búa milljónamæringar á eyjunni, ríkt fólk sem áttaði sig á að það sé hægt að byggja hús, jafnvel með lendingarpalli fyrir þyrluna, í þessari stuttu fjarlægð frá vinnunni þeirra í miðborginni.

Við förum oft til Waiheke og njótum æðsilegra veitingastaða og ísbúðin þar er í miklu uppáhaldi hjá okkur.

Mistletoe Bay
Við sjóinn í þessum fallega bæ er einstök náttúrufegurð með fallegum gönguleiðum og skemmtilegu tjaldstæði. Staðurinn er nyrst á Suðureyjunni og þangað tekur um einn og hálfan tíma að fara með flugi.

Karekare-ströndin er aðeins í tuttugu mínútna akstursfjarlægð frá heimili okkar og kvikmyndin The Piano var tekin þar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Völva Vikunnar rýnir í árið 2018

|
|

Vofa lúrir yfir Bjarna Ben. og kvika kraumar undir Kötlu.

Hægt er að nálgast spá Völvunnar í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Völva Vikunnar hefur reynst ótrúlega sannspá undanfarin ár. Hún sá fyrir fall ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs og hneykslismálin í kringum það. Hún spáði ríkisstjórn Bjarna Ben. ekki langlífi og það gekk sannarlega eftir. Hún talaði um alvarlegt mál er upp kæmi og sýndi fram á hve slæmt væri að verja ekki meira fé til löggæslunnar og talaði einkum um miðbæinn í því sambandi. Allir Íslendingar fylgdust svo með leit að ungri konu er hvarf á Laugaveginum í janúar á þessu ári en þá var mjög um það rætt að fjölga þyrfti og bæta öryggismyndavélar og eftirlit í bænum um helgar.

Vegna þessa og fjölmargra annarra spádóma er hafa ræst ríkti mikil spenna á ritstjórnarskrifstofunni þegar völvan settist niður með blaðamanni til að rýna í árið 2018. Henni brást ekki bogalistin og vænta má mikilla tíðinda á næsta ári. Pólitíkin verður áfram lífleg, eldgos verða, ýmsar sviptingar í veðrinu og ástin bankar upp á hjá tveimur íslenskum leikkonum.

Völva Vikunnar hefur reynst ótrúlega sannspá undanfarin ár. Hún sá fyrir fall ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs og hneykslismálin í kringum það. Hún spáði ríkisstjórn Bjarna Ben. ekki langlífi og það gekk sannarlega eftir.

Vikan hafði einnig samband við nokkrar konur er staðið hafa í framarlega í flokki við að hrinda #metoo byltingunni af stað, hver í sinni starfsgrein. Þær spá í framvinduna, bæði þau áhrif er sú hreyfing hefur haft og hvernig tryggja megi að þau verði til frambúðar.  Nú er ljóst að engin stétt er undanskilin áreitni og ofbeldi hefur átt sér stað og liðist alls staðar.

Í þessari síðustu Viku ársins eru einnig viðtöl við rithöfundana Kristínu Steinsdóttur og Jón Sigurð Eyjólfsson. Kristín byrjaði seint að skrifa og hefur valið að fjalla um líf og reynsluheim kvenna. Margar merkar bækur liggja eftir hana til dæmis bókin um Bjarna-Dísu og Ljósu, hvoru tveggja konur sem hefðu hlotið önnur örlög ef þær hefðu verið uppi á öðrum tíma. Nýjasta bók Kristínar, Ekki vera sár, gerist hins vegar í nútímanum. Jón Sigurður er lesendum Fréttablaðsins að góðu kunnur og pistlar hans hafa notið mikilla vinsælda. Í bók sinni rifjar hann upp fimm ára búsetu í Aþenu og starf sitt á menningarsetrinu og kaffihúsinu Tvíflautunni.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Þýskir jólamarkaðir – töfrum líkastir

Töfrum líkast er að fara á þýska jólamarkaði.

Þá finna má stóra og smáa um allt Þýskaland og sem laða að sér fjöldann allan af ferðamönnum ár hvert. Ef þið eruð orðin þreytt á allri markaðshyggjunni í kringum jólin og langar að upplifa rómantíska jólastemningu þá er tilvalið að skella sér til Þýskalands á jólamarkað þar sem finna má vandaðar jólagjafir sem eru ekki fjöldaframleiddar.

Margir eiga erfitt með að standast heita jólaglöggið sem er í boði.

Hægt er að fá allt mögulegt á þessum mörkuðum, allrahanda jólavarning og gjafir, eins og til dæmis leikföng, hluti sem eru útskornir úr tré, kerti, strengjabrúður eða lambskinnsskó.
Margir eiga erfitt með að standast heita jólaglöggið sem boðið er upp á ásamt gómsætum bökuðum eplum sem renna ljúft niður á köldum vetrardögum.
Nóg er af piparkökum fyrir unga fólkið, ásamt marsipankökum og öðru góðgæti.
Jólamarkaðarnir í Þýskalandi skipta tugum ef ekki hundruðum og því getur verið erfiðast við þetta allt saman að ákveða hvert skal haldið.
Besta lausnin er að velja alla vega tvo markaði. Á stórum markaði í einhverri borginni getur þú gert massíf innkaup en farið svo á lítinn markað í litlum bæ eða þorpi til að upplifa meiri rómantík.

Flestir markaðirnir byrja í síðustu vikunni í nóvember og eru fram að jólum. Þeir eru yfirleitt opnir alla daga frá klukkan tíu á morgnana til átta eða níu á kvöldin. Fimmta sunnudag fyrir jól er þó frídagur á mörgum svæðum í Þýskalandi en þá er Remembrance Day haldinn hátíðlegur og margt lokað þennan dag, meðal annars margir markaðir.

Nánar á heimasíðunni germany-christmas-market.org.uk.

Jólamarkaðurinn í Nuremberg í Þýskalandi er 400 ára gamall og alltaf jafnvinsæll. Hann er á aðaltorginu í gamla bænum og þar eru að minnsta kosti 200 básar þar sem boðið er upp á allt milli himins og jarðar. Þar er einnig hringekja og lest fyrir börnin.
Jólamarkaðurinn í Esslingen, skammt frá Stuttgart í Þýskalandi, er afar sjarmerandi. Þar er miðaldaþema og sérstök afþreying fyrir börn, sem tengist þeim tíma. Staðurinn er töfrum líkastur – sérstaklega á kvöldin.
Margir jólamarkaðir eru í Berlín, nánast á hverju götuhorni. Einn þeirra er fyrir framan ráðhúsið og í miðju hans er skautahringur, í kringum Neptune-gosbrunninn. Þaðan er frábært útsýni að sjónvarpsturninum og ráðhúsinu.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / www.pixabay.com

Girnirlegir og einfaldir eftirréttir

|||
|||

Gómsætir eftirréttir gerðir með góðum fyrirvara.

Hér eru uppskriftir að glæsilegum eftirréttum sem má laga með góðum fyrirvara. Er það ekki einmitt það sem við þurfum, að hafa möguleika á að skipuleggja okkur svolítið með góðum fyrirvara og eingöngu þurfa að setja eftirréttinn saman rétt áður en hann er borinn fram.

Ís og eldur
fyrir 8-10

Hér má gera ísinn tilbúinn með nokkurra vikna fyrirvara. Þessi ís á myndinni er ekki með kökubotn en það er líka gott að hafa ljósan eða dökkan kökubotn undir. Væta má í kökubotninum með víni eða ávaxtasafa. Óneitanlega glæsilegur eftirréttur og flott að stinga stjörnuljósum í hann fyrir gamlárskvöld. Þið getið hæglega keypt góðan ís og stytt ykkur leið, ef þið notið tilbúinn ís þarf u.þ.b. 800 ml af jarðarberjaís og 1000-1200 ml af súkkulaðiís eða bara þeim ís sem er að ykkar smekk.

Þessi ís á myndinni er ekki með kökubotn en það er líka gott að hafa ljósan eða dökkan kökubotn undir.

Jarðarberjaís:

3 eggjarauður
4 msk. sykur
1 msk. vanillusykur
300-400 g jarðarber, maukuð í matvinnsluvél
4 dl rjómi, léttþeyttur

Þeytið rauður með sykrinum og vanillusykrinum þar til blandan er létt og loftkennd. Blandið jarðarberjum og þeyttum rjóma varlega saman við og hellið í skál. Frystið.

Súkkulaðiís:

150 g súkkulaði
1 ½ dl mjólk
3 eggjarauður
4 dl rjómi, léttþeyttur

Bræðið súkkulaði og mjólk saman í vatnsbaði. Bætið eggjarauðum út í og þeytið blönduna yfir vatnsbaðinu í 6-8 mín. eða þar til blandan þykknar aðeins. Kælið og blandið þeyttum rjómanum saman við. Hellið ofan á jarðarberjaísinn og frystið.

Marenstoppur:

3 eggjahvítur
90 g sykur
90 g flórsykur

Hitið ofninn á 250°C. Þeytið eggjahvítur þar til þær eru að verða stífar. Blandið sykri saman í skál og bætið út í hvíturnar einni matskeið í einu. Hrærið áfram í 6-8 mín. eða þar til marensinn er stífur. Takið ísinn úr frysti og losið úr skálinni, hvolfið á ofnplötu eða kökubotn. Smyrjið marensinum ofan á allan ísinn. Setjið í ofninn í nokkrar mínútur eða þar til hann er farinn að taka lit. Einnig má fá húð á marensinn með því að nota gasbrennara.

________________________________________________________________

Súkkulaði-marquise með appelsínuþrennu
fyrir 8-10

Súkkulaði-marquise er gott að eiga í ísskáp eða frysti og taka fram eftir þörfum. Hægt er að fá 10-12 sneiðar úr þessari uppskrift en þetta er ríkulegur og saðsamur eftirréttur og ekki þarf mikið magn á hvern disk. Gott er að hafa könnu með heitu vatni og væta hnífinn og þerra til að skera niður fallegar sneiðarnar.

Gott er að hafa könnu með heitu vatni og væta hnífinn og þerra til að skera niður fallegar sneiðarnar.

400 g súkkulaði
200 g smjör
1 dl sykur
1 msk. koníak (má sleppa)
6 egg, aðskilin

Smyrjið jólakökuform, 25 cm langt, með olíu og leggið plastfilmu í það, eina eftir endilöngu og aðra þvert, það þarf að þekja botninn og allar hliðar. Bræðið súkkulaðið með smjörinu í vatnsbaði við vægan hita. Bætið sykrinum og koníakinu út í og hrærið í þar til sykurinn er uppleystur. Takið súkkulaðiblönduna af hitanum og bætið eggjarauðum í, einni í einu, og hrærið vel saman. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær eru stífar. Bætið þeim í súkkulaðiblönduna, fyrst helmingnum og síðan öllu og blandið vel saman. Hellið súkkulaðiblöndunni í formið, það verður alveg fullt og kælið eða setjið í frysti. Berið fram með appelsínuþrennu og kumats í sírópi.

Appelsínuþrenna:

3 matarlímsblöð
1 appelsína
2 blóðappelsínur
3 mandarínur
2 dl hvítvín, eða eplasafi
1 ½ dl sykur

Leggið matarlímsblöðin í ískalt vatn í 5-10 mín. Flysjið appelsínu og blóðappelsínur með hníf og losið laufin varlega frá án þess að himnan fari með. Flysjið mandarínur og fjarlægið mest af himnunni, setjið allt aldinkjötið í skál. Hitið hvítvín eða eplasafa ásamt sykri og leysið sykurinn upp. Bræðið matarlímið í sykursírópinu. Skiptið aldinkjötinu í form, gott að nota múffumót, magnið fer svolítið eftir stærðinni á appelsínum en þið ættuð að ná í a.m.k. 6 skammta. Hellið sykurblöndunni ofan á aldinkjötið. Kælið þar til stíft. Þetta má gera með allt að tveggja daga fyrirvara.

Kumat-síróp:

6-8 kumat, skorið í sneiðar
1 dl vatn
¾ dl sykur

Sjóðið allt saman og kælið aðeins. Geymist í 1-2 daga.

Samsetning:
Setjið 1-2 sneiðar af súkkulaði-marquise á mann og setjið á fallega diska. Losið appelsínuþrennu úr forminu og setjið á diskinn. Raðið nokkrum sneiðum af kumat á diskinn og hellið sírópinu af því í kring. Berið fram með ískaldri grískri jógúrt eða sýrðum rjóma, bragðbættum með smávegis af flórsykri og vanillu eða þeyttum rjóma.

________________________________________________________________

Panna cotta með rauðum toppi
fyrir 4

Hér er jólalegur eftirréttur fyrir fullorðna fólkið, það er að segja þá sem finnst Campari gott. Skipta má Campari út fyrir Ribena. Ég hef ekki of mikið af matarlími í rjómablöndunni, mér finnst betra að hafa búðinginn ekki of stífan þegar hann er í glasi.

Hér er jólalegur eftirréttur fyrir fullorðna fólkið, það er að segja þá sem finnst Campari gott. Skipta má Campari út fyrir Ribena.

3 matarlímsblöð
4 dl rjómi
2 dl mjólk
4-5 msk. sykur
1 vanillustöng
½ tsk. vanilludropar

Leggið matarlímið í bleyti í kalt vatn í 5-10 mín. Setið rjóma og mjólk í pott, setjið sykur, korn af vanillustöng ásamt stönginni út í og hitið þar til sykurinn er uppleystur. Látið blönduna standa í 8-10 mín. svo að rjómablandan taki í sig allt góða bragðið af vanillunni. Leysið matarlímið upp í blöndunni, bætið vanilludropum í, hellið henni í gegnum sigti og skiptið í falleg glös. Kælið þar til blandan fer að stífna.

Rauður toppur:

2 matarlímsblöð
1 dl vatn
1 dl sykur
safi úr 1 sítrónu
2-4 msk. Campari (má sleppa og nota Ribena)

Leggið matarlímsblöðin í bleyti í kalt vatn. Hitið vatn og sykur ásamt sítrónusafa í litlum potti þar til sykurinn er uppleystur. Bætið Campari út í og bragðbætið. Leysið matarlímið upp í blöndunni og hellið ofan á panna cotta þegar það er orðið stíft. Gjarnan má gera eftirréttinn tilbúinn daginn áður.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Kortleggja ilmi í íslenskri náttúru

Sonja Bent og Elín Hrund Þorgeirsdóttir safna og skrá ilmolíur úr íslenskum villtum jurtum.

Sonja Bent og Elín Hrund Þorgeirsdóttir hjá Nordic Angan hafa unnið að rannsóknarverkefni sem felur í sér að kortleggja ilmi í íslenskri náttúru með því að eima jurtir.

Elín Hrund Þorgeirsdóttir og Sonja Bent standa að baki Nordic Angan.

Sonja og Elín Hrund kynntust fyrir nokkrum árum þegar þær voru báðar að selja hönnun sína á pop-up mörkuðum. Sonja er fatahönnuður og hefur starfað sem slíkur undanfarin fimmtán ár. Í nokkur ár hefur hún hins vegar verið að prófa sig áfram með að eima íslenskar jurtir til ilmolíugerðar. Faðir hennar, hafði mjög gaman af því að eima og stundaði það mikið, en hann lærði það af þýskum efnafræðingi þegar hann var staddur úti í Noregi í námi.

„Þannig að ég ólst upp við þetta og fannst þetta spennandi. Pabbi var alltaf að dunda sér við að búa til styrkt vín og snapsa í frítíma sínum. Þó svo að hann hafi verið mest verið að eima vín en ekki jurtir þá eru þetta náskyld ferli. Græjurnar eru líka svipaðar. Við aðlöguðum gamlar brugggræjur sem pabbi átti og þær notaði ég við fyrstu eimingartilraunirnar. Við prófuðum okkur svo áfram og fundum út úr því hvernig væri best að gera þetta. Þó þetta hafi byrjað sem skemmtilegt áhugamál þá varð ég bara spenntari eftir því sem ég eimaði meira.” Fyrir þremur árum ákvað Sonja loks að stofna nýtt vörumerki, Nordic Angan, og árið 2015 kom fyrsta kertið hennar á markað.

Elín Hrund er menntuð í heimspeki, hönnun og menningarmiðlun og undanfarin ár hefur hún komið að skipulagningu og framkvæmd ýmissa hönnunarverkefna ásamt því að hanna og markaðssetja eigin vörur. „Við Sonja náðum strax vel saman og urðum góðar vinkonur. Ég vissi að hún væri að vinna með Nordic Angan og fannst það mjög spennandi. Fyrir um það bil hálfu ári var verkefnið farið að verða of stórt fyrir hana eina og því kom upp sú hugmynd að ég gengi til samstarfs við hana,” segir Elín Hrund.

„Við aðlöguðum gamlar brugggræjur sem pabbi átti og þær notaði ég við fyrstu eimingartilraunirnar. Við prófuðum okkur svo áfram og fundum út úr því hvernig væri best að gera þetta. Þó þetta hafi byrjað sem skemmtilegt áhugamál þá varð ég bara spenntari eftir því sem ég eimaði meira.”

Sonja vill samt meina að Elín Hrund hafi verið viðriðin verkefnið mun fyrr. „Ég bar reglulega hluti undir hana og hún hlustaði alltaf á rausið í mér og kom með góð ráð. Hún hefur líka haft áhuga á jurtum nær allt sitt líf. Þannig að við smullum bara saman og þetta samstarf varð til á mjög lífrænan hátt.”

Þær koma með ólíka styrkleika inn í samstarfið, Sonja er menntaður hönnuður með góðan þekkingargrunn, þökk sé allri tilraunastarfseminni með föður hennar, en Elín Hrund kemur hins vegar úr markaðsmálaumhverfi og þekkir þá hlið mjög vel auk þess að vera líka hönnuður.

Rigningin helsta hindrunin

Saman mótuðu Sonja og Elín Hrund rannsóknarverkefnið sem þær hafa unnið að. Það gengur út á að safna og skrá ilmolíur úr íslenskum villtum jurtum og búa þannig til íslenskan ilmbanka. Þær sóttu um styrki til verkefnisins og fengu úr Hönnunarsjóði Íslands og frá Atvinnumálum kvenna.

„Við söfnum olíunum og skrásetjum allt ferlið, bæði skriflega og með myndum. Helsta hindrunin hefur verðið vætan og íslensk veðrátta. Það er ekki gott að tína í rigningu, hvort sem það er fyrir eimingu eða þurrkun jurta. Jurtirnar gefa einfaldlega ekki jafnmikið af sér því í rigningunni eru þær að einbeita sér að því að taka upp vatn og næringu.

Verkefnið gengur út á að safna og skrá ilmolíur úr íslenskum villtum jurtum og búa þannig til íslenskan ilmbanka.

Einnig höfum við þurft að glíma við heimildaleysi. Það er ekki mikil ilmhefð á Íslandi. Jurtir hafa aðallega verið að notaðar í lækningaskyni, í matargerð og svo framvegis. Þess vegna vantar upplýsingar, bæði um hvaða jurtir innihalda ilmolíur og hvernig sé best að eima þær. Við höfum lent í því að eima jurtir en það kemur engin olía, það er auðvitað svekkjandi en hluti af ferlinu. Þá athugum við hvort það sé hægt að ná ilminum með öðrum aðferðum – við gefumst ekki upp,” segir Elín Hrund.

Þetta er mjög yfirgripsmikið verkefni og Sonja segir að það muni kannski aldrei taka enda. „Það eru yfir átta hundruð mosategundir á landinu, bara svona til dæmis. Þannig að rannsóknarverkefnið hefur að mörgu leyti snúist um að sigta úr og ákveða hverju við viljum byrja á.”

Í dag eru þær búnar að safna tæplega þrjátíu ilmtegundum og hafa tínt út um allt land. „Sumar jurtir vaxa aðeins í ákveðnum landshlutum en ekki í öðrum, eins getur líka verið mikill munur á því hversu mikið er af jurtinni milli landshluta. Við reynum að koma á góðum samböndum við bændur og landeigendur til að fá að koma inn á jarðirnar þeirra til að tína, eða jafnvel fá þá til að tína jurtir og selja okkur,” segir Elín Hrund.

„Það er líka mjög mismunandi á hvaða tímabilum er best að tína jurtir. Sumar höfum við ekki getað tínt fyrr en núna í ágúst og við munum halda áfram út september. Síðan má ekki gleyma öllum barrtrjánum, en við eigum mjög margar tegundir þeirra eftir,” bætir Sonja við.

Þær passa að ganga aldrei á náttúru landsins og hafa meðal annars átt í góðu samstarfi við Skógrækt Íslands. „Nú eru allt í einu vaxnir upp skógar hér á landi sem þarf að grisja og viðhalda þannig að við höfum fengið greinar frá þeim.

Eins með jurtir og blóm þá reynum við að tína bara eins mikið og við þurfum en kannski meira af því sem er mikið af. Ef að planta er sjaldgæf þá er hvort eð er ekki grundvöllur til að nota ilminn úr henni í vörur því það er einfaldlega ekki nóg af henni.”

Hrein náttúra, hreinn ilmur

Það má segja að Sonja og Elín Hrund séu sannkallaðir brautryðjendur. „Það eru auðvitað mörg snyrtivörufyrirtæki að nota íslenskar lækningarjurtir en nota svo erlendar ilmkjarnaolíur því það hefur einfaldlega ekki verið hægt að fá íslenskar. Nú þegar hafa nokkur fyrirtæki haft samband við okkur og sýnt áhuga á samstarfi og við höfum hafið tilraunastarf með nokkrum þeirra,” segir Sonja.

„Íslensk náttúra er enn svo hrein og þar af leiðandi eru olíurnar líka hreinar og hágæða vörur. Við notum líka hreina íslenska vatnið til að eima á meðan erlendis nota þeir oft klórvatn.”

Að sögn Elínar hafa íslenskar jurtir ákveðna sérstöðu og eru að mörgu leyti ólíkar skyldum jurtum erlendis.

Íslenskar jurtir hafa einnig ákveðna sérstöðu og eru að mörgu leyti ólíkar skyldum jurtum erlendis. „Hér eru auðvitað líka jurtir sem finnast annars staðar í heimnum en flestar eru ólík afbrigði og lyktin af þeim getur verið allt öðruvísi. Til dæmis er mikill munur á íslensku blóðbergi og timjani annars staðar, svo eitthvað sé nefnt,” segir Elín Hrund. Það er því ekki að furða að þær hafa fundið fyrir miklum áhuga erlendis frá, til að mynda frá Asíu.

„Við munum svo halda áfram að finna nýjar tegundir íslensks ilms og prófa okkur áfram að nota þær í vörulínu okkar. Það er svo margt hægt að gera, ekki bara kerti og reykelsi. Ég hef til dæmis séð fyrir mér að búa til ilmolíur fyrir gufuböð heilsulinda. Hversu yndislegt væri að sitja í gufubaði umlukin angan íslenskrar náttúru,” segir Sonja.

„Það er ekki mikil ilmhefð á Íslandi. Jurtir hafa aðallega verið að notaðar í lækningaskyni, í matargerð og svo framvegis. Þess vegna vantar upplýsingar, bæði um hvaða jurtir innihalda ilmolíur og hvernig sé best að eima þær.”

„Það er líka annar vinkill á þessu sem okkur þykir spennandi. Skynjun okkar á ilmi er frábrugðin sjónskynjun okkar til dæmis. Það er auðvelt að mæla sjón og hvernig við sjáum hluti. Ilmur hins vegar er svo nátengdur tilfinningum og minni, og er því í raun sterkari en sjónin. Þegar fólk kemur til okkar og þefar af ilmi þá upplifir það ilmtegundir mjög mismunandi og tengir þær oft við eitthvað ákveðið úr sinni fortíð. Þetta er eitthvað sem okkur langar að rannsaka dálítið betur,” bætir Elín Hrund við.

Þær geta þess að þær reyni að setja alltaf myndir og tilkynningar á samfélagsmiðla þegar nýjar jurtir eða nýr ilmur er tilbúinn. „Það er gaman að sjá að sumir koma aftur og aftur,” segir Sonja að lokum.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Dýrustu hótelherbergi í heimi

Gististaðir sem ekki eru á allra færi.

Ferðalög geta verið af ýmsum toga. Margir mikla það ekki fyrir sér að þramma af stað út í óvissuna vopnaðir bakpoka og láta sér tjaldstæði nægja sem næturstað meðan aðrir njóta sín betur innan um punt og prjál fínna hótelherbergja. Eftirtaldir gististaðir eiga það sameiginlegt að vera þeir dýrustu í heimi og því ekki á allra færi að spranga þar um innan um marmara og einkaþjóna.

The Apartment á Hotel Connaught í London
Nóttin á þessu glæsilega hóteli kostar rúma 23.000 dollara en einkaþjónninn sem fylgir herberginu vílar það ekki fyrir sér að þjóta til Parísar eftir skópari, óski hótelgestir eftir slíkri þjónustu. Matseðillinn er heldur ekki af verri endanum en hann er hannaður af Michelin-stjörnukokkinum Helene Darroze. Af hótelsvölunum má svo líta Mayfair-hverfið í London.

Einkaþjónn fylgir herberginu á The Apartment á Hotel Connaught í London.

________________________________________________________________

The Presidential Suite á Hotel Cala di Volpe í Porto Cervo, Ítalíu
Þessi þriggja herbergja forsetasvíta kostar um 26.000 dollara og í henni er einkasundlaug, sólskáli og líkamsræktaraðstaða. Hvert þriggja herbergjanna hefur sinn eigin heita pott og tvöfalt baðherbergisborð.

The Presidential Suite á Hotel Cala di Volpe í Porto Cervo, Ítalíu

________________________________________________________________

The Shangri-La Suite á Shangri-La Bosphorus í Istanbúl
Útsýnið yfir Istanbúl eitt og sér er vel þess virði að gera sér ferð á þetta stórfenglega hótel en nóttin þar nemur um 26.385 dollurum. Ef útsýnið eitt og sér er ekki nóg er tekið fram að á herberginu sé að finna ófá speglasjónvörp, meðal annars á baðherberginu.

Á herberginu er að finna ófá speglasjónvörp, meðal annars á baðherberginu.

________________________________________________________________

The Royal Villa á Grand Resort Lagonissi í Aþenu
Þetta er fyrrum gististaður þeirra Mel Gibsons og Leonardo DiCaprio, þó ekki sömu nóttina. Herbergið hefur að geyma tvö feiknastór svefnherbergi með baðherbergjum, gufubaði, nuddstofu, heitum potti og geysistórum svölum með útsýni yfir alla ströndina auk einkaþjóns að sjálfsögðu. Herlegheitin kosta svo um 35.000 dollara.

The Royal Villa á Grand Resort Lagonissi í Aþenu.

________________________________________________________________

The Hilltop Estate Owner’s Accommodation á Laucala Island Resort á Fídjieyjum
Þetta óðalshótel er í eigu orkudrykkjaframleiðandans Red Bull en hann á jafnframt alla eyjuna þar sem eru 24 villur. Þessi er þó sú fínasta og kostar nóttin þar 40.000 dollara. Hins vegar er sá galli á gjöf Njarðar að óbreyttir hótelgestir geta ekki bókað sér herbergi heldur fara allar bókanir fram í gegnum persónuleg sambönd. Með hótelherberginu fylgir nuddstofa, einkakokkur, þjónar og barnapíur en útsýnið er yfir alla eyjuna. Einkunnarorð hótelsins eru þau að láta ódreymda drauma gesta sinna rætast.

The Hilltop Estate Owner’s Accommodation á Fídjieyjum.

________________________________________________________________

The Ty Warner Penthouse á Four Seasons í New York
Þetta hæsta hótel New York-borgar var ekki nema sjö ár í byggingu en nótt á dýrustu svítu þess nemur um 45.000 dollurum. Herbergið hefur sinn eigin einkadyravörð en inni í því má finna veglegt bókasafn. Hins vegar mega aðeins þrír gista saman í svítunni þrátt fyrir að hún sé rúmgóð í meira lagi.

Í svítunni The Ty Warner Penthouse er meðal annars að finna veglegt bókasafn.

________________________________________________________________

The Sky Villa á Palms Resort í Las Vegas

Til þess að komast í þessa svítu þarf einkalyftu en þar er jafnframt að finna gufubað og að sjálfsögðu einkaþjón. Nóttin kostar 40.000 dollara en herbergið er oft nefnt í sömu andrá og nafn Hugh Hefners og er að sjálfsögðu staðsett í borg óttans, Vegas.

The Sky Villa á Palms Resort í Las Vegas.

________________________________________________________________

The Burj Al Arab í Dubai
Ólíkt flestum hótelum býður þetta hótel einungis upp á lúxussvítur. Allar svíturnar eru tvíbýli og ódýrasta er á 2.000 dollara nóttin, dýrasta er hins vegar á 12.000 dollara. Gestir hafa aðgang að dýrustu bílunum og þyrluferðum hvenær sem þeim hugnast, auk einkabílstjóra og þjóns.

The Burj Al Arab í Dubai.

________________________________________________________________

The Royal Penthouse Suite á Hotel President Wilson í Genf, Sviss
Dýrasta hótel í heimi og jafnframt einn helsti gististaður Bill Gates og Michael Douglas. Öryggiskerfið á þessari svítu er með því fullkomnasta í heimi en nóttin nemur 60.000 dollurum.

The Royal Penthouse Suite á Hotel President Wilson í Genf, Sviss

Fagurkerinn Inga Bryndís

Við Bræðraborgarstíg í miðbæ Reykjavíkur stendur einstaklega fallegt hús sem arkitektinn Ágúst Pálsson teiknaði.

Í stofunni er fallegur sérsmíðaður arinn.

Hjónin Inga Bryndis Jónsdóttir og Birgir Örn Arnarsson hafa búið í húsinu í þrjú ár ásamt fjölskyldu sinni en þau hafa á þeim tíma gert töluverðar endurbætur á húsinu.

Lofthæðin er mikil í þessu smarta húsi og fallegir, stórir gluggar hleypa birtunni inn. Í stofunni er mjög fallegur arinn sem þau létu sérsmíða en fjölskyldan eyðir reglulega góðum tíma fyrir framan hann og hefur það notalegt saman.

Inga Bryndis er mikill fagurkeri og annáluð smekkkona en hún og vinkona hennar, Kristín Sigurðardóttir, eiga fallegu verslunina Magnolia design á Skólavörðustíg.

Þegar blaðamaður og ljósmyndari mættu til Ingu Bryndísar á Bræðraborgarstíginn var hún búin að skreyta heimilið hátt og lágt og dekka upp glæsilegt hátíðarborð en stór viðarhjörtu voru áberandi skraut og settu eilítið rómantískan jólablæ á heimilið.

Inga Bryndís segir að hennar draumaheimili sé þar sem hún búi hverju sinni og aðspurð um jólahefðir fjölskyldunnar svarar hún einlæg: „Rjúpur, jólagrautur, lifandi jólatré, stórfjölskyldan, kossar og knús.“

Og að lokum ef þú mættir óska þér hvers sem er í jólagjöf hvað myndi það vera? „Ást og friður.“

Inga Bryndís var búin að skreyta heimilið hátt og lágt þegar blaðamaður og ljósmyndari mættu á staðinn.

Fleiri myndir frá þessu fallega heimili má sjá í Hátíðarblaði Húsa og híbýla sem fæst á öllum sölustöðum.

Umsjón / Þórunn Högna
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Tökum snjónum fagnandi

Nú þegar snjórinn er farinn að falla er nauðsynlegt að láta hann ekki fara í taugarnar á sér heldur njóta þess besta sem hann hefur upp á að bjóða.

Minna stress
Við verðum að sætta okkur við þann veruleika að við búum á Íslandi og því fyrr sem við gerum það því betra. Ekkert getur komið í veg fyrir að snjónum kyngi niður og því um að gera að taka honum fagnandi. Þetta er tækifæri til að gíra sig niður og staldra við í núinu. Við þurfum ekki alltaf að flýta okkur svona mikið og það er allt í lagi að missa af einhverju. Förum fyrr af stað á morgnana, tökum góðan tíma í að skafa bílinn og njótum þess að fara ofurhægt í vinnuna, jafnvel í langri bílalest.

Farðu út með hundinn.

Út að leika
Snjórinn er endalaus uppspretta skemmtilegra leikja, enda ekki að ástæðulausu sem flest börn elska snjóinn. Klæddu þig vel og skelltu þér út í snjóinn að leika hvort sem þú átt börn eða ekki. Krökkum finnst ekkert skemmtilegra en þegar mamma og pabbi gefa sér tíma til að leika við þau og því getur snjórinn leitt til hinna skemmtilegustu fjölskyldustunda. Það er hægt að búa til snjókarla, byggja snjóhús, renna sér á sleða, snjóþotum, rassaþotum eða jafnvel plastpokum, fara í snjókast, búa til snjóengla, moka bílinn upp, hreinsa stéttina og svo margt fleira. Þá er um að gera að kíkja til ömmu og afa, gamallar frænku eða hvaða vina og vandamanna sem er og moka þau út. Þannig er nánast gulltryggt að þið vinnið ykkur inn fyrir heitu súkkulaði og gómsætu bakkelsi.

Þegar allt er komið á kaf er ekkert eins hressandi og að fara út og moka snjó. Gott er að taka hraustlega á því með því að moka vel frá dyrum, stéttina og bílastæðið.

Líkamsrækt og samkennd
Þegar allt er komið á kaf er ekkert eins hressandi og að fara út og moka snjó. Gott er að taka hraustlega á því með því að moka vel frá dyrum, stéttina og bílastæðið. Þannig hittir maður jafnvel nágrannana sem eru úti í sama tilgangi og getur loksins gefið sér tíma til að spjalla við þá og kynnast þeim aðeins. Ekki hika við að hjálpa nágrönnunum með því að moka fyrir þá líka. Ekki eru allir jafnhraustir, og gömlu hjónin sem búa við hliðina á þér yrðu án efa ákaflega þakklát fyrir viðvikið.

Allir hjálpast að
Sérstök stemning myndast þegar náttúran tekur í taumana og setur allar samgöngur úr skorðum. Það er gaman að sjá hve margir eru tilbúnir til að hjálpa öðrum að ýta bílum sem eru fastir víða og í höfuðborginni myndast svona „úti á landi“ stemning. Fólk er glatt og þakklátt fyrir aðstoðina og það er gaman að geta hjálpað öðrum. Ekki hika við að bjóða fram hjálp þína ef einhver er fastur í skafli, jafnvel þótt þú sért smágerður einstaklingur. Margar hendur vinna létt verk og þú munt án efa framkalla gleði í hjarta bæði hjá sjálfri/sjálfum þér og öðrum.

Myndatökur í ævintýraheimi
Skellið ykkur í gönguferð og njótið þess ævintýralega umhverfis sem snjórinn hefur skapað. Endilega takið myndavélina með og festið dýrðina á „filmu“. Prófið ykkur áfram með alls kyns vinkla, og takið bæði nærmyndir og yfirlitsmyndir. Ef þú átt börn er tilvalið að stilla þeim upp við þessar aðstæður og hver veit nema að þarna sé komin jólakortamyndin í ár. Ekki verra að hafa klárað eitthvað áður en stressið sem oft vill fylgja undirbúningi jólanna tekur völdin. Á svona stundu eru líka allir slakir sem gefur von um einstaklega góða mynd.

Takið myndavélina með og festið dýrðina á „filmu“.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / www.pixabay.com

„Tengist afa og pabba í gegnum skeiðarnar“

Hanna Sigríður Magnúsdóttir er hamingjusöm með að halda gamalli fjölskylduhefð á lofti.

Myndin á skeiðinni er af konu sem starir út á hafið með trú og von í hjarta að bíða þess að ástin hennar skili sér heil heim. Viðfangsefnið er vonin.

Hanna Sigríður Magnúsdóttir, hönnuður og eigandi verslunar Guðlaugs A. Magnússonar, er þriðji ættliðurinn sem hannar jólaskeiðina. Hún segir að saga föðurfjölskyldunnar liggi í skeiðunum og gefi þeim djúpa merkingu.

„Viðfangsefni nýjustu skeiðarinnar er vonin en myndin á skeiðinni er af konu sem starir út á hafið með trú og von í hjarta að bíða þess að ástin hennar skili sér heil heim,“ segir Hanna Sigríður og vitnar í Bubba Morteins: „Vonin, vonin, vonin blíð, vertu mér hjá.“

Í ár bætti hún við vörulínu þar sem munsturhluti skeiðarinnar verður fáanlegur sem hálsmen.

Jólaskeiðin á sér langa sögu, Guðlaugur, afi Hönnu Sigríðar, gerði fyrstu skeiðina árið 1946 og í ár verður gefin út sjötugasta og fyrsta skeiðin frá upphafi. Tólf skeiðar eru í hverri hönnunarlínu og árið 2013 hófst hönnun á sjöundu línunni.

„Viðfangsefni nýjustu skeiðarinnar er vonin en myndin á skeiðinni er af konu sem starir út á hafið með trú og von í hjarta að bíða þess að ástin hennar skili sér heil heim.“

Hanna Sigríður er þriðji ættliður í verslun Guðlaugs A. Magnússonar og þrátt fyrir að hafa lagt stund á viðskiptafræði og mannauðsstjórnun þá heillaði þessi sköpun hana alltaf. „Frá blautu barnsbeini fylgdist ég með af ákafa þegar pabbi velti fyrir sér hvað ætti að vera á næstu skeið. Hann kom að hönnun skeiðanna og var mikill hugmyndasmiður þegar hann rak fyrirtækið frá 1963 til 2004. Eftir að teiknivinnu var lokið, því hann teiknaði ekki sjálfur skeiðarnar, fékk ég að fylgja honum til Kaupmannahafnar þar sem verkfærið var handgrafið eftir teikningunni. Þetta fannst mér stórmerkilegt og ótrúlega spennandi.

Allra fyrsta jólaskeiðin sem Guðlaugur A. Magnússon hannaði og gerði árið 1946.

Þegar ég handfjatlaði glansandi silfurskeiðarnar, sem voru svo margar og ólíkar, áttaði ég mig á að í þeim lá saga föðurfjölskyldu minnar. Það gefur þessum skeiðum svo djúpa merkingu fyrir mig að geta velt fyrir mér hugmyndum bæði afa míns, frá 1946, og síðan hugmyndum föður míns, frá 1963, mótuðum í silfurskeiðar sem munu lifa um aldur og ævi, mann fram af manni. Mér finnst þetta í raun stórkostlegt og er mjög hamingjusöm að fá að halda þessari hefð á lofti af alúð og kærleika. Að sitja með allar skeiðarnar fyrir framan mig snertir mig djúpt og mér finnst ég tengjast afa mínum sem dó 1952 og ég þekkti því aldrei en ekki síður finn ég svo sterkt tenginguna við föður minn sem dó 2013 eftir erfiða baráttu við Alzheimer.“

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd af Hönnu / Heiða Helgadóttir

Páll Óskar gerir upp árið

|
|

Páll Óskar ætlar að enda árið með stórri flugeldasýningu.

Páll Óskar hefur sannarlega haft í nógu að snúast á árinu. Meðal annars leit ný plata dagsins ljós og fram undan eru svo stórir tónleikar í Laugardalshöllinni. Blaðamaður Mannlífs sló á þráðinn til söngvarans og spurði m.a. hvort eitthvað sérstakt standi upp úr á árinu sem er að líða.  

„Ég er ofsalega stoltur. Stoltur yfir því að hafa náð að klára nýja plötu og stoltur af tónleikunum. Þeir eru eitt það fallegasta sem ég hef gert í lífinu,“ segir Páll Óskar, þegar hann er spurður hvernig honum líði með árið sem er að líða.

„Nýja platan og svo tónleikarnir í september,“ svarar hann. „Við fengum rosaleg viðbrögð við þeim, aðallega frá fólki sem komst ekki á þá. Sem er ástæðan fyrir því að við ákváðum að halda aðra tónleika 30. desember. Gott fyrir þá sem misstu af þessu og auðvitað líka þá sem vilja upplifa þetta allt aftur.“

Tónleikarnir 30. desember lenda á laugardegi, er þá ekki viðbúið að þetta verði eitt allsherjar djamm? „Klárlega, segir hann hiklaust. „En ég er svo sem vanur því að halda stór partí á þessum árstíma. Í fyrra tróð ég til dæmis upp á Spot í Kópavogi og þar á undan spilaði ég auðvitað tólf ár í röð á Sjallanum á Akureyri. Þá var bara horft á Áramótaannálinn og Skaupið með öðru auga á meðan maður græjaði sig fyrir ballið og svo stokkið upp á svið. Mínar áramótahefðir eru því fyrst og fremst vinnutengdar.“

Páll Óskar segist fyrir löngu vera búinn að sætta sig við þetta fyrirkomulag. Þ.e. að vinna á tímum sem flestir aðrir eru í fríi. Þó sé einn dagur á ári sem hann passi sig alltaf að vera laus en það er annar í jólum. „Þá hittumst við nefnilega stórfjölskyldan, ég, systkini mín, makar, börn og barnabörn. Með öllum er þetta orðið hátt í fjörtíu manns þannig að stundum höfum við brugðið á það ráð að bóka sal til að koma öllum fyrir,“ segir hann og hlær.

„Ég nota áramótin sem mælistiku á sjálfan mig, til að skoða árangurinn minn, framfarir og afturfarir. Til að staldra aðeins við, athuga hvort ég hef náð að standa við síðustu áramótaheit, athuga á hvaða stað ég er á í dag og fara yfir það hvernig ég ætla að bæta mig á morgun.“

Áttu þá ekki einhverjar skemmtilegar minningar tengdar fjölskyldunni á áramótum? „Ja, ég á mér alla vega eina mjög eftirminnilega minningu frá því að ég var lítill, líklegast frá árinu 1981,“ segir hann hugsi. „En þau áramót enduðum ég og foreldrar mínir ein heima – aldrei þessu vant. Mamma vildi vera inni þannig að ég og pabbi fórum út að sprengja og þetta varð svona móment sem ég gleymi aldrei. Við pabbi einir í garðinum að sprengja og himininn fyrir ofan baðaður í ljósum springandi flugelda.“

Það kemur þögn í símann og blaðamaður ákveður að grípa tækifærið og spyrja hvort áramótin séu kannski sá tími árs sem töffarinn Páll Óskar verði svolítið meyr. „Meyr,“ hváir hann þá. „Öh, já svona álíka meyr og byggingaverktaki sem verður meyr við að taka fram tommustokkinn til að mæla eitthvað!“

Hann hlær stríðnislega. En viðurkennir að áramótin séu aftur á móti ágætur tími til að líta í baksýnisspegilinn. „Ég nota áramótin sem mælistiku á sjálfan mig, til að skoða árangurinn minn, framfarir og afturfarir. Til að staldra aðeins við, athuga hvort ég hef náð að standa við síðustu áramótaheit, athuga á hvaða stað ég er á í dag og fara yfir það hvernig ég ætla að bæta mig á morgun.“

Og hvernig líður þér með árið sem er að líða? „Ég er bara ofsalega stoltur. Stoltur yfir því að hafa náð að klára nýja plötu og stoltur af tónleikunum. Þeir eru eitt það fallegasta sem ég hef gert í lífinu. Og ég hlakka til að endurtaka leikinn í desember. Að ná að enda árið með stórri flugeldasýningu.“

Texti / Roald Eyvindsson
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Í hópnum urðum við heilar á ný

Vinkonur sem deila þeirri erfiðu reynslu að hafa misst maka úr krabbameini.

Í janúar 2014 kynntust þrettán konur í stuðningshópi í húsakynnum Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð. Allar höfðu misst maka sinn skömmu áður og voru komnar til að fá aðstoð og handleiðslu við að vinna úr sorginni. Þær stofnuðu í kjölfarið eigin hóp sem hittist enn í dag. Við ræddum við fjórar þeirra, systurnar Auði Ingu og Guðrúnu Einarsdætur, Ágústu Tómasdóttur og Sigrúnu Gísladóttur, um hvernig hópastarfið hefði hjálpað þeim í gegnum þessa erfiðu reynslu.

Fundu strax að þær áttu góða samleið F.v. Sigrún Gísladóttir, Ágústa Tómasdóttir og systurnar Auður Inga (sitjandi) og Guðrún Einarsdætur.

„Eftir fyrsta fundinn voru flestar að hugsa um að koma ekki aftur, þetta reyndist okkur svo erfitt. En við létum okkur hafa það og eftir því sem við opnuðum okkur meira og töluðum um sorgina varð þetta smám saman auðveldara,“ segir Auður. Fundurinn sem um ræðir var samvinnuverkefni sorgarsamtakanna Nýrrar dögunar og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þar sem boðið var upp á sex vikna námskeið fyrir konur sem höfðu misst maka úr krabbameini.

Þótt það hjálpi vissulega að ræða sín mál fannst konunum ekki síður hjálp í því að hlusta á hinar í hópnum. „Við deilum allar þessari sameiginlegu reynslu, að missa maka okkar, og að hlusta á frásagnir og líðan hinna í hópnum hjálpaði manni að átta sig á eigin tilfinningum. Ég er mjög blátt áfram manneskja og ég man á fyrsta eða öðrum fundi vorum við spurðar hvernig okkur liði þann daginn og ég svarði einfaldlega að ég væri reið en ég vissi ekkert af hverju. Í bílnum á leiðinni heim var ég að drepast úr móral yfir því að hafa ausið þessari neikvæðni yfir þær og ákvað að þegja bara á næsta fundi. En viti menn, á næsta fundi talaði ein úr hópnum um það að hún deildi mínum tilfinningum og væri líka reið,“ segir Sigrún.

Auk þess að ræða erfiða og oft átakanlega hluti var líka farið yfir praktísk atriði sem geta vafist fyrir manni í hversdagslífinu. Sumar konur innan hópsins höfðu til að mynda aldrei dælt bensíni á bíl í sjálfsafgreiðslu því maðurinn þeirra sá alltaf um það. „Eitt sem við áttum allar erfitt með var að skipta um á rúminu. Setur maður hreint á báðum megin jafnvel þó að það hafi aðeins verið sofið öðrum megin?“ segir Ágústa og hinar taka undir það hlæjandi.

„Við ræddum einnig hvenær sé tímabært að fara í gegnum og losa sig við föt og annað dót eiginmannsins. Til dæmis vorum við nokkrar með bílskúr sem eiginmaðurinn hafði lagt undir sig og sitt dót, það verkefni reyndist okkur mjög erfitt en komumst í gegnum það með hjálp hver annarrar,“ segir Sigrún.

„Við deilum allar þessari sameiginlegu reynslu, að missa maka okkar, og að hlusta á frásagnir og líðan hinna í hópnum hjálpaði manni að átta sig á eigin tilfinningum.“ Auður Inga

Auður kinkar kolli og bætir við: „Við getum ekki rætt þessa hluti við vini eða ættingja sem hafa ekki gengið í gegnum makamissi því þótt fólk sé allt af vilja gert þá hefur það ekki skilninginn. Þess vegna er svona hópastarf svo mikilvægt.“

Konurnar fundu strax að þær áttu góða samleið og þegar sex vikna námskeiðinu lauk voru þær alls ekki tilbúnar að sleppa takinu hver á annarri. Þá bauð Sigrún Lillie, formaður Ráðgjafarþjónustunnar, þeim á núvitundarnámskeið sem þær þáðu með þökkum og það þjappaði hópnum enn frekar saman.

Að því loknu stofnuðu þær eigin hóp sem fékk nafnið Ekkjublómin. Þó að nafnið ætti eftir að breytast, meira um það síðar, hittist hópurinn enn mjög reglulega. „Á námskeiðunum fengum við verkfæri í hendurnar og höfum getað notað þau áfram í sorgarúrvinnslunni,“ segir Guðrún.

Hlutirnir gerðust mjög hratt

Auður Inga er starfandi prestur á hjúkrunarheimilinu Grund. Hún á þrjú uppkomin börn og yndislegan hund sem kemur með henni í vinnuna alla daga. Guðmundur, maðurinn hennar, greindist með beinmergsæxli skömmu fyrir jól 2012. Hún þekkti þetta tiltekna krabbamein vel því maður Guðrúnar, systur hennar, hafði barist við það í árabil.

Guðrún er bókasafns- og upplýsingafræðingur að mennt og starfaði lengi á bókasafni Áslandsskóla þar til hún hætti störfum vegna aldurs fyrir ári.

Systurnar Auður Inga og Guðrún Einarsdætur segja hópastarfið hafa hjálpað sér í gegnum erfiða reynslu.

Eiginmaður hennar, Jóhann, greindist með krabbamein sumarið 2008 en hann hafði verið með þráláta bakverki og við rannsókn kom í ljós að hann var með margbrotna hryggjarliði af völdum sjúkdómsins. „Hann fékk í fyrstu hefðbundna lyfjameðferð og síðar háskammtameðferð. Framan af naut hann talsverðra lífsgæða en sjúkdómurinn reyndist erfiður þegar fram í sótti,“ segir hún.

Auður bætir við að þó að þessi tegund krabbameins sé ólæknandi sé hægt að eiga ágætislíf, sér í lagi ef viðkomandi fer í stofnfrumumeðferð.

Báðir mennirnir fóru í slíka meðferð en hún krefst þess að viðkomandi sé í einangrun í fjórar vikur. „Við vorum því staddar uppi á spítala saman en gátum ekki gert miklu meira en að vinka hvor annarri yfir ganginn. Mennirnir okkar töluðu mikið saman í síma, það var mjög gott fyrir þá að hafa hvor annan,“ segir Guðrún.

Í mars hrakaði manni Guðrúnar fremur skyndilega og hann lést. „Það var okkur mikið áfall og Guðmundur tók það mjög nærri sér. Skömmu seinna fékk hann lungnabólgu og var haldið sofandi í öndunarvél í tvær vikur. Þegar hann var vakinn var hann alveg lamaður og dó í kjölfarið 18. maí 2013. Þannig að hlutirnir gerðust mjög hratt í hans tilviki, aðra stundina gekk allt vel og hann á leið í stofnfrumumeðferð og þá næstu var hann dáinn,“ segir Auður.

Hún lagði til að þær systurnar mættu á fund hjá Ráðgjafarþjónustunni. „Mér fannst Guðrún þurfa á þessu að halda en vegna menntunar minnar og starfa hélt ég að ég þarfnaðist þess ekki. Sú var þó alls ekki raunin. Ráðgjafarþjónustan nánast bjargaði minni andlegu heilsu á þessum tíma, reisti mig upp, ef svo má segja. Jafningjafræðslan, stuðningur okkar hver af annarri undir öruggri leiðsögn leiddi okkur saman og hjálpaði okkur ótrúlega í þeirri vegferð sem sorgin er.

Ég er ekki viss um að ég væri jafnvel á veg komin í sorginni ef ég hefði ekki leitað mér hjálpar. Ég myndi því ráðleggjum öllum sem misst hafa maka eða náinn ástvin að leita til Ráðgjafarþjónustunnar eða Nýrrar dögunar til þess að koma heill út úr þeirri erfiðu lífsreynslu sem sá missir er.“

„Hlutirnir gerðust mjög hratt í hans tilviki, aðra stundina gekk allt vel og hann á leið í stofnfrumumeðferð og þá næstu var hann dáinn.“ Guðrún

Guðrún tekur í sama streng. „Ég var nánast dregin nauðug á fyrsta fundinn. Ég taldi mig alveg færa um að vinna sjálf úr mínum málum með börnum mínum, tengdabörnum og barnabörnum. En að missa maka eftir langvarandi alvarleg og átakanleg veikindi eftir nær fimmtíu ára sambúð er mun meira áfall en ég hafði gert mér grein fyrir. Við vorum allar í sárum. Krabbameinsfélagið og Ný dögun búa yfir reynslu, þekkingu og skilningi á því umróti sem fylgja sorginni. Þar var hlúð að okkur og við hvattar til að ræða um sorg okkar og erfiðleika.“

Veikur í fjórtán ár

Sigrún er gagnfræðingur og vann lengst af sem skólaritari. Hún kynntist Ármanni árið 1992 og hélt þá að hún væri búin að kynnast manninum sem hún myndi verja ævinni með. „Við vorum bæði á okkar öðru hjónabandi og áttum stóra fjölskyldu, sex uppkomin börn og barnabörnin byrjuð að koma. Sumarið 1999, þegar við vorum búin að vera gift í þrjú ár, veiktist hann og greindist í framhaldinu með GIST-krabbameinsæxli í smágirninu sem talið var staðbundið. Hann fór í aðgerð og æxlið fjarlægt, engin eftirmeðferð talin nauðsynleg, en ári seinna kom í ljós að hann var með bletti í lifrinni sem reyndust vera krabbameinsæxli af sömu tegund.

,,Ég kem enn í Ráðgjafarþjónustuna á fyrirlestra og á námskeið og mæli með að fólk komi og nýti sér þessa góðu þjónustu,“ segir Sigrún.

Þar með hófst sjúkraganga hans sem stóð næstu þrettán árin. Hann var heppinn að fá lyf í töfluformi sem var nýtt á markaðinum og undanþágulyf á þeim tíma. Það hélt meininu í skefjum lengi vel en árið 2012 fór að halla undan fæti. Hann fór í stóra aðgerð, lyfið hætti að virka og önnur dugðu ekki til. Hann átti misgóða tíma það ár og glímdi við allskonar aukaverkanir þar til hann lést 3. mars 2013.“
Sigrún hefur að eigin sögn alltaf verið óhrædd við að sækja námskeið í því sem hún er að takast á við hverju sinni og segir það hafa hjálpað sér mikið. „Í febrúar 2013 fór ég á námskeið í núvitund í Skógarhlíðinni sem var ætlað krabbameinsgreindum og aðstandendum þeirra. Í kaffistofu Ráðgjafarþjónustunnar sá ég auglýsingu sem vakti áhuga minn þar sem var talið upp það sem væri í boði fyrir aðstandendur. Í ágúst ákvað ég því að leita aftur til þeirra að kanna hvað væri í boði fyrir mig nú þegar ég væri orðin ekkja. Ég fékk einstaklega hlýlegar móttökur, fór í viðtal hjá hjúkrunarfræðingi og í framhaldi af því fór ég til hennar í nokkur skipti í slökun og hugleiðslu. Ég fór einnig að sækja hádegisfyrirlestra og skráði mig svo á þetta sex vikna námskeið sem við kynntumst allar á. Ég kem enn í Ráðgjafarþjónustuna á fyrirlestra og á námskeið og mæli með að fólk komi og nýti sér þessa góðu þjónustu sem og láti vita hvað það sækist eftir. Þetta hjálpaði mér mikið á minni göngu.“

Greindist þrisvar

Ágústa er stúdent úr hagfæðiskori Menntaskólans við Sund og hefur alla tíð unnið viðskiptatengd störf, meðal annars í banka og á ferðaskrifstofu. Síðustu fimmtán ár hefur hún unnið á Hagstofunni í hlutastarfi en var lengi heimavinnandi vegna fötlunar tveggja barna sinna.

Ágústa og Tryggvi, eiginmaður hennar, eignuðust þrjú börn. „Við áttum mjög gott og samhent hjónaband og fjölskyldulíf okkar var gott. Í mörg ár á meðan börnin voru ung ferðuðumst við á hverju ári um landið. Við eignuðumst fellihýsi og vorum í allt að fjórar vikur á flakki,“ segir hún.

„ Ég upplifði mikinn þrýsting frá fjölskyldu og vinum eftir áfallið að halda áfram og komast yfir sorgina. Þú heldur hins vegar ekki áfram nema að vinna þig í gegnum missinn,“ segir Ágústa.

Tryggvi fékk þrisvar krabbamein á lífsleiðinni. „Fyrst greindist hann með Hodgkins-eitlakrabbamein, árið 1997, og fór þá í stranga og erfiða meðferð í eitt ár og læknaðist. Árið 2008 greinist hann svo með blöðrukrabbamein. Undanfari þess voru flensulík einkenni og hann hafði legið heima í tvær vikur. Þvagblaðran var numin brott en ekki var talin þörf á lyfjameðferð. Um haustið 2010 fékk hann svo aftur flensueinkenni og lá heima eins og fyrr. Smám saman gat hann ekki haft hægðir og fór að kasta upp. Þá kom í ljós að þetta sama krabbamein hafði valdið meinvörpum í ristli og þau höfðu lokað ristlinum. Þá var sagt að þetta væri ólæknanlegt en hægt væri að halda því í skefjum með lyfjum. Haustið 2011 fékk hann svo legusár sem olli því að lyfjameðferð var hætt og hann dó svo í mars 2012.“

Eftir andlát Tryggva leitaði Ágústa til sálfræðings á Landspítalanum og hitti hann í nokkur skipti. Sá benti henni á núvitundarnámskeið Ráðgjafarþjónustunnar og hún ákvað að fara á það og svo í framhaldinu á makamissisnámskeiðið. „Það var óskaplega gott að koma þangað. Samskiptin óþvinguð og hrein og bein. Maður finnur fyrir því að geta talað hreint út án þess að vera stoppaður. Það eru nýjar upplifanir á hverjum degi eftir svona missi og mikilvægt að fá stuðning.

Ég upplifði mikinn þrýsting frá fjölskyldu og vinum eftir áfallið að halda áfram og komast yfir sorgina. Þú heldur hins vegar ekki áfram nema að vinna þig í gegnum missinn. Þá koma þessir aðilar hjá Ráðgjafarþjónustunni eða Nýrri dögun sterkir inn og hjálpa manni að ná áttum en hver og einn þarf að finna sinn vitjunartíma.“

Hinum megin við borðið

Krabbamein er afar óvæginn sjúkdómur. Þrjár kvennanna úr hópnum hafa greinst sjálfar með krabbamein á árunum eftir makamissinn. Guðrún greindist með krabbamein í maga rúmu ári eftir að Jóhann féll frá. „Ég var enn þá í svo miklu áfalli að mér var eiginlega alveg sama, það skipti mig litlu hvort ég myndi lifa eða deyja. Börnin mín voru ekki sátt við það viðhorf mitt. Ég fór samt í lyfjameðferð og aðgerð þar sem maginn var fjarlægður. Endurhæfingin var samt líklega erfiðasti hluti bataferlisins, að byrja að borða aftur, en ég var á spítala í sjö vikur og fór síðan á Grensás. En ég á sem betur fer afar gott bakland sem studdi mig í gegnum þetta.“

Nýverið skipti hópurinn um nafn og heitir nú Perlurnar.

Guðrún er einnig afar þakklát Ráðgjafarþjónustunni fyrir að hafa sent hópinn á núvitundarnámskeið. „Ég var tossinn í hópnum en í krabbameinsbaráttunni kom núvitundin heldur betur að gagni. Í dag horfi ég öðrum augum á hlutina og er hamingjusöm og þakklát fyrir að hafa náð heilsu á ný,“ segir hún en fyrr í þessari viku fékk hún niðurstöður rannsókna sem sýndu að hún var laus við krabbamein og almennt við hestaheilsu.

Ágústa greindist nýlega í annað sinn með lungnakrabbamein. Fyrra skiptið var þó fyrir tíu árum, áður en Tryggvi lést. „Þá tók ég þessu bara sem verkefni sem ég þurfti að klára og upplifði ekki miklar lægðir. Tryggvi var þá líka búinn að læknast af sínu krabbameini þannig að ég var nokkuð bjartsýn. Síðan greinist hann aftur og svo í þriðja skipti sem að lokum dró hann til dauða. Í þetta skiptið hefur mér þótt þetta mun erfiðara því ég stend ein og vantar stuðninginn frá honum. Ég hef líka illan bifur á því að fá aftur sama krabbameinið því af minni reynslu er það frekar neikvætt, ekki að það sé nokkurn tímann nokkuð jákvætt við krabbamein. Ég er hræddari og veit ekki hvað ég mun lifa lengi, ég er dálítið að takast á við það um þessar mundir,“ segir hún.

Í fyrrasumar greindist Sigrún með brjóstakrabbamein í kjölfar reglubundinnar skoðunnar. „Í skoðuninni kom fram eitthvað sem þyrfti að skoða betur og það má segja að sumarið hafi farið í sýnatökur. Það tók á endanum marga mánuði að fá greininguna sjálfa. Ég gat ekkert gert, annað en að bíða og það tók rosalega á. Ég var sem sagt með tvö mein, hvort af sinni tegundinni, sitthvorum megin á vinstra brjósti. Ég fór í brjóstnám, þurfti ekki að fara í lyfjameðferð og kaus að fara ekki í uppbyggingu. Þetta gekk allt saman mjög vel og fólk þreyttist ekki á því að segja mér hvað ég var heppin,“ segir hún.

Sigrún fann einnig fyrir vöntun á stuðning í veikindunum. „Ég tala stundum við myndina af honum Ármanni og nú sagði ég: Ég stóð við hliðina á þér og studdi við bakið á þér öll þín veikindi og svo er ég bara skilin hér eftir ein með mín. En svo bað ég hann afsökunnar,“ segir hún og hlær.

Eins og henni einni er lagið þá dreif hún sig á námskeið hjá Ljósinu fyrir konur sem eru nýgreindar með brjóstakrabbamein. „Þar er ég komin með annan góðan hóp kvenna sem ég get leitað til.“

Styðja hverja aðra

Nýverið skipti hópurinn um nafn og heitir nú Perlurnar. „Sorgin er yfirleitt ekki til umræðu lengur, við höfum allar náð tökum á þeim þætti lífsins. Nú ræðum við skemmtilegri málefni en samstaðan, virðingin og vináttan sem myndaðist í hópnum er sú sama og jafndýrmæt,“ segir Guðrún.

Af þrettán meðlimum eru ellefu mjög virkar sem hittast yfirleitt einu sinni í mánuði, jafnvel oftar. Oftar en ekki hittast þær í heimahúsi og eru með svokallað Pálínupartí þar sem allar leggja eitthvað góðgæti á borð. Auk þess eru þær duglegar að fara saman í bíó, leikhús, sumarbústað og jafnvel til útlanda. „Þegar þú ert í hjónabandi ertu vön að hafa alltaf einhvern til að gera hluti með. Þó að þú eigir enn þína vini þá er það ekki eins því þeir eiga sína maka og fjölskyldur. Nú getum við alltaf heyrt í hinum í hópnum ef okkur langar að skreppa í bíó eða leikhús eða þess háttar,“ segir Auður.

„Hópurinn okkar hefur gefið af sér enn þá sterkari konur sem voru þó allar sterkar fyrir.“ Auður

Þær eru allar afar þakklátar Ráðgjafarþjónustunni fyrir að hafa leitt hópinn saman og stutt við bakið á þeim. „Sagt er að þegar við missum maka missum við helminginn af okkur sjálfum. Það tekur tíma að verða heil á ný og flýtir það sannarlega fyrir að fá handleiðslu og jafningjafræðslu á þeirri vegferð. Í þessum hópi höfum við orðið heilar á ný,“ segir Auður. „Hópurinn okkar hefur gefið af sér enn þá sterkari konur sem voru þó allar sterkar fyrir. Að upplifa endurkomuna saman hefur verið ómetanlegt,“ bætir Ágústa við að lokum og það er greinilegt að þarna eru svo sannarlega perluvinkonur á ferð.

Perlurnar þrettán eru: Anna Hugadóttir, Anna Sóley Sveinsdóttir, Diana Sveinsbjörnsdóttir, Auður Inga Einarsdóttir, Guðrún Einarsdóttir, Guðrún Tómasdóttir, Margrét Einarsdóttir, Ágústa Tómasdóttir, Kristín María Magnúsdóttir, Guðný Björg Guðmundsdóttir, Sigrún Sveinsdóttir, Sigrún Gísladóttir og Þórunn Jónsdóttir.

Þeir sem vilja kynna sér starf Ráðgjafarþjónustunnar frekar er bent á vefsíðu Krabbameinsfélagsins, krabb.is.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Hrafnhildur Björk Runólfsdóttir fyrir Urban Decay

Í hólf og á gólf

Hugmyndir fyrir heimilið.

Þegar herbergi er skipulagt hugsa menn oftast fyrst um litinn á veggjunum, húsgögnin og skrautmunina. Gólfið er aukaatriði og sjaldnast er heildarsvipurinn hugsaður út frá því efni sem valið er á það. Þessari hugsun þarf að breyta. Það sem er undir fótum okkar getur nefnilega gert útslagið um hvort herbergi er fallegt eða ljótt.

Í gömlum húsum voru gólfborðin einnig oft máluð í alls konar litum og að undanförnu hefur verið í tísku parket sem er litað með ýmist ljósum eða dökkum litum. Áferðin fer alveg frá að vera nánast hvít eða ljósgrá yfir í brúna eða svarta.

Ljós gólf veita birtunni upp og skapa hlýleika. Ef gluggar eru litlir og lítil dagsbirta berst inn í rýmið er hægt að breyta miklu með hvíttuðu parketi eða hreinlega að mála í ljósum litum. Flotuð gólf gefa þann möguleika að setja lit út í lakkið áður en það er borið á gólfið og gefa þannig steypunni nýja áferð. Þetta er sterkt og endingargott gólfefni og auðvelt að þrífa. Þetta efni á sérlega vel við í forstofu, eldhúsi og barnaherbergjum. Þegar það er notað í dimmum, litlum forstofum gefur það færi á að lýsa rýmið eða gefa því fjörlegan blæ með því að kjósa líflegan lit.

Í barnaherbergi á vel við að leyfa gólfinu að kallast á við litina á veggjunum eða veggskreytingar. Auðvelt er að bæta við skreytingum og vinsælt er að hafa stjörnur, doppur eða annað mynstur á gólfinu. Flot á gólf getur bæði verið matt og glansandi en gæta verður þess að mikil speglun getur myndast af glansandi gólfum og í björtum opnum rýmum verður hún óþægileg.

Þegar valin eru gólfefni þarf ávallt að hafa í huga að þau endast lengst allra innréttinga. Þess vegna kjósa flestir hlutlaust, klassískt efni.

Í gömlum húsum voru gólfborðin einnig oft máluð í alls konar litum og að undanförnu hefur verið í tísku parket sem er litað með ýmist ljósum eða dökkum litum. Áferðin fer alveg frá að vera nánast hvít eða ljósgrá yfir í brúna eða svarta.

Þegar gólf eru máluð

Þegar gólf eru máluð er undirbúningurinn undirstaða þess að vel takist til. Þá skiptir engu hvort verið er að flota steypu eða mála gólfborð. Pússa þarf undirlagið alveg slétt og hreinsa það vel og sjá til þess að hvergi leynist misfellur eða óhreinindi. Sandkorn geta breytt áferðinni og skemmt útlitið.

Ef verið er að mála trégólf eða yfir gólfdúk þarf að velja einstaklega góðan grunn. Hann er borinn á og stundum þarf tvær umferðir til að ná bestu áferðinni og síðan er málað eða lakkað yfir. Til að flota gólf er best að leita til fagmanna nema menn hafi til að bera þekkingu í þessum efnum.

Notið eingöngu bestu fáanleg efni

Ef eingöngu eru notuð bestu fáanleg efni er hægt að tryggja endinguna. Þeir sem kjósa að mála sjálfir ættu að leita álits fagmanna og fá þeirra ráð við efnisvalið.

Leiktu þér

Einn hlutlaus litur er ekki alltaf bestur. Svartur, hvítur, brúnn og grár virka alltaf en það er ekkert að því að bæta í þessa liti marmaraáferð, mynstri eða köflum. Einn af stærstu kostum málaðra gólfa og flotaðra er hversu auðvelt er að breyta þeim ef fólk verður leitt á því sem fyrir er.

Ekki auðvelt að skipta út

Þegar valin eru gólfefni þarf ávallt að hafa í huga að þau endast lengst allra innréttinga. Þess vegna kjósa flestir hlutlaust, klassískt efni. Staðreyndin er sú að flísar í djörfum litum endast ekki sérstaklega vel og hið sama á við um gólfteppi. Linoleum-dúkar hafa notið vaxandi vinsælda að undanförnu en þeir eru skemmtilegir og gefa færi á að skapa fallega áferð og mynstur. Um þá gildir hins vegar það sama og önnur gólfefni sem límd eru niður. Það kostar mikla fyrirhöfn og er dýrt að skipta þeim út þegar þeir fara úr tísku eða skipt er um húsgögn og liti á veggjunum. Þess vegna er mikilvægt að fara varlega þegar valin eru gólfefni af þessu tagi og hugsa fram í tímann.

 

Gaman að upplifa jól og áramót á Íslandi

|
|

Hulda Guðnadóttir segir að ættleiddur sonur sinn geti ekki beðið eftir að upplifa jól og áramót.

Hulda Guðnadóttir og Jón Hafliði Sigurjónsson með börn sín Baldur Hrafn Jhon og Nínu Dýrleifu.

Seint á síðasta ári sóttu hjónin Hulda Guðnadóttir og Jón Hafliði Sigurjónsson ættleiddan son sinn Baldur Hrafn til Kólombíu en fyrir áttu þau eina líffræðilega dóttur. Þau segja að börnin séu full tilhlökkunnar vegna hátíðarhaldanna sem fram undan eru. Baldur geti hreinlega ekki beðið eftir að upplifa íslensk jól og áramót.

„Við erum bara mjög kát,“segir Hulda, spurð að því hvernig jólin og áramótin leggist í fjölskylduna. „Það er kannski ívið meiri spenningur núna en í fyrra, enda báðir krakkarnir orðnir stálpaðri og meðvitaðri um hvað er í gangi. Nína Dýrleif á þriðja aldursári og Baldur Hrafn Jhon nýorðinn fjögurra ára svo að nú eru þau spennt að fá í skóinn, spennt að fá pakka og bara spennt fyrir þessu öllu.“

Að sögn Huldu verða þetta önnur jólin og áramótin sem fjölskyldan ver saman en það var seint í október á síðasta ári sem þau hjónin sóttu Baldur Hrafn til Kólombíu. „Þetta var allt saman mikið ævintýri, bæði erlendis og svo fyrst eftir heimkomu. Til dæmis er ógleymanlegt fyrsta skiptið sem Baldur leit út um gluggann og sá snjó. Augun urðu bara eins og tvær undirskálar. Hann vissi ekkert hvað þetta var.“

„Þetta var allt saman mikið ævintýri, bæði erlendis og svo fyrst eftir heimkomu. Til dæmis er ógleymanlegt fyrsta skiptið sem Baldur leit út um gluggann og sá snjó. Augun urðu bara eins og tvær undirskálar. Hann vissi ekkert hvað þetta var.“

Hulda segir að undrunin hafi ekki orðið minni á jólunum þegar kom að því að opna gjafir. „Það var greinilegt að Baldur hafði ekki fengið marga pakka áður því hann varð mjög æstur og fór svo að gráta þegar hann var búinn að opna síðasta pakkann. Hann skildi bara ekkert í því að þeir skyldu „klárast“.“

Myndirðu segja að líf ykkar hjóna hafi breyst mikið með tilkomu barnanna? „Já. Við vorum búin að vera barnslaus í nokkurn tíma þannig að þetta voru mikil viðbrigði fyrir okkur, til dæmis að upplifa jólin með krökkunum í fyrra. Næstum eins og að verða sjálfur barn á nýjan leik. Að eignast börnin breytti öllu til hins betra.“

Hvernig verður svo hátíðarhöldunum háttað hjá ykkur í ár? „Við ætlum að bjóða nágrönnum og nánustu ættingjum hérna á Reyðarfirði í skötu á Þorláksmessu. Á aðfangadag kemur svo mamma í mat og um áramótin ætlum við með börnin á brennu. Við tókum upp á því eftir að þau komu bæði til sögunnar og þar sem þau eru nú orðin stærri held ég að það verði enn skemmtilegra í ár,“ segir Hulda glaðlega.

Texti / Roald Eyvindsson
Aðalmynd: Systkinin Baldur Hrafn Jhon og Nína Dýrleif.

Út um allar trissur

Gönguhópar spretta nú alls staðar upp eins og gorkúlur og áhuginn á göngum hefur aukist mikið á undanförnum árum.

Margir kjósa að stunda heilsurækt í utanlandsferðum sínum. Því bjóða flestar ferðaskrifstofur upp á spennandi ferðir til útlanda, allt árið um kring, þar sem megintilgangurinn er líkamsrækt og útivist. Ferðirnar eru af ýmsum toga en hér eru nokkur vinsæl dæmi.

Boðið er upp á klassískar skíðaferðir til hinna ýmsu skíðasvæða í Evrópu og Bandaríkjunum eða ferðir helgaðar gönguskíðum sem njóta sífellt meiri vinsælda.

Gaman í brekkunum
Það er draumur margra að skella sér í vetrarfrí á skíði, gista í glæsilegum skíðaskálum, hafa það skemmtilegt í góðum félagsskap og renna sér á skíðum í fallegu umhverfi.

Ýmist er boðið upp á klassískar skíðaferðir til hinna ýmsu skíðasvæða í Evrópu og Bandaríkjunum eða ferðir helgaðar gönguskíðum sem njóta sífellt meiri vinsælda.

Þó svo að um skipulagðar ferðir sé að ræða hefur fólk frjálst val um hvernig það vill haga degi sínum og hversu mikið það vill vera í brekkunum.

Yfirleitt er þó boðið upp á daglegar ferðir með fararstjórum þar sem eitthvað nýtt og skemmtilegt er skoðað.

Innri friður
Fyrir jógaiðkendur jafnast fátt á við það tækifæri að ferðast til Indlands, vöggu jógamenningarinnar.

Undanfarin ár hefur verið hægt að fara í skipulagðar ferðir um Indland þar sem blandað er saman skoðunarferðum og jóga. Ferðirnar eru því hannaðar fyrir þá sem vilja rækta sjálfa sig en jafnframt upplifa ævintýralega fegurð Indlands, sögufræga staði og framandi matargerðarlist.

„ … hefur fólk frjálst val um hvernig það vill haga degi sínum og hversu mikið það vill vera í brekkunum.“

Íslenskir fararstjórar, sem eru líka lærðir jógakennarar, eru með í för og veita leiðsögn og jógakennslu. Einnig er farið í „ashram“ eða jógastöðvar þar sem indverskir gúrúar leiðbeina ferðamönnum og gera þeim kleift að komast upp á næsta stig í sinni iðkun.

Skemmtileg sveifla
Hér á landi eru margir góðir golfvellir sem eru nýttir allt árið um kring. Golfarar sækjast þó einnig mikið í að fara til útlanda og prófa nýja og meira krefjandi golfvelli.

Ferðaskrifstofur hafa lengi boðið upp á ferðir tileinkaðar golfi til áfangastaða bæði nær og fjær, frá Mexíkó til Spánar.

Ferðaskrifstofur hafa lengi boðið upp á ferðir tileinkaðar golfi til áfangastaða bæði nær og fjær, frá Mexíkó til Spánar. Ekki skemmir fyrir að í þeim löndum sem boðið er upp á er oft mun betra veður en hér á landi og því er hægt að spila eins og mann lystir.

Holt og hæðir
Vinsælt hefur verið fyrir útivistarfólk, sem er oft og tíðum búið að fara flestar af vinsælustu gönguleiðum landsins, að halda í ferðir til útlanda sem helgaðar eru gönguferðum. Slíkar ferðir eru frábært tækifæri til að kynnast ákveðnum svæðum mjög vel. Vinsælir staðir eru til dæmis Alparnir, fjöllin í Andalúsíu á Spáni, Toscana-dalurinn á Ítalíu og Klettafjöllin í Kanada.

Ekki er endilega um að ræða erfiðar göngur en þær krefjast engu að síður nokkurs þols því yfirleitt er gengið allan daginn, alla daga.

Flestar ferðaskrifstofur flokka ferðir eftir erfiðleikastigum, þar sem tekið er tillit til þols, þess tíma sem ganga tekur, hækkunar og lækkunar, eðli gönguslóðanna og svo framvegis, því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Ferðir til Indlands eru tilvalnar fyrir þá sem vilja rækta sjálfa sig en jafnframt upplifa ævintýralega fegurð Indlands, sögufræga staði og framandi matargerðarlist.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Hátíðlegt heimili

Eva Sólveig Þórisdóttir og Jónas Einar Thorlacius búa í skemmtilegri íbúð skammt frá Digraneskirkju í Kópavogi.

Dóttirin Sigurrós dáist að trénu.

Það var einstaklega ljúft að mæta í jólainnlit klukkan níu á föstudagsmorgni, rok og rigning úti en þegar inn var komið tóku jólin á móti okkur löngu áður en þau áttu raunverulega hefjast. Fagurlega skreytt jólatré stóð í stofunni og svo var búið að að leggja á hátíðarborð, það vantaði bara jólasteikina!

Eva Sólveig Þórisdóttir og Jónas Einar Thorlacius búa í þessari skemmtilegu íbúð sem er í litlu fjölbýli ekki langt frá Digraneskirkju í Kópavogi. Þau tóku á móti blaðamanni og ljósmyndara með nýbökuðu kaffibrauði og alvörukaffidropum þennan hráslagalega morgun.

Sigurrós dóttir þeirra var komin í jólakjólinn og naut þess að fá að vera heima og handfjatla alvörupakka sem mamma hennar var búin að setja undir jólaskreytta tréð.

Eva lauk námi sem innanhússtílisti við Academy of Colour and Style vorið 2013 og segist hafa einstaklega gaman af því að dúlla við smáatriði og fegra í kringum sig og sína.

„Ég elska að dunda mér við að gera heimilið fallegt og legg mikið upp úr því að hafa huggulegt hjá okkur einfaldlega vegna þess að mér finnst það svo skemmtilegt.“

Nýtt þema á trénu um hver jól

Og hvenær ætli skvísan byrji að jólaskreyta heimilið? „Ég byrja vanalega að skreyta um miðjum desember þar sem mesti álagstíminn er þá í vinnunni, nema núna! Heimilið er næstum klárt fyrir jólin í nóvember af því þið kíktuð í heimsókn og ég get því bara dúllað mér í desember. Ég elska að dunda mér við að gera heimilið fallegt og legg mikið upp úr því að hafa huggulegt hjá okkur einfaldlega vegna þess að mér finnst það svo skemmtilegt.

Eva lagði á hátíðarborð fyrir okkur og bjó til nafnspjöld fyrir gestina sína með stimpli sem hún keypti í Tiger. Diskarnir og glösin eru úr Garðheimum ásamt öllu skrautinu.

Ég fór í innanhússtílistanám til að geta nýtt þennan áhuga minn og ég hef verið að taka að mér að aðstoða fólk við að fegra heimilin sín og skipuleggja rými til hins betra heima hjá sér. Ég vinn sem stílisti í Garðheimum og sé um útlit verslunarinnar sem og útstillingar og uppstillingar upp fyrir auglýsingar. Ég er svo með síðu á Facebook sem heitir Eva-Innanhúsráðgjöf þar sem hægt er að hafa samband við mig,“ útskýrir hún brosandi.

Skreytir þú jólatréð alltaf eins eða aldrei eins fyrir hver jól? „Það er í raun aldrei eins, ég er yfirleitt með einhvers konar þema um hver jól sem sveiflast svolítið með tíðarandanum og hvað er í tísku hverju sinni, mínimalískur stíll er þó alltaf ráðandi hjá mér.“

Verslar mest erlendis

Hvernig myndir þú lýsa stílnum á heimilinu? „Hann er hlýlegur, við heillumst af fallegri hönnun og viljum frekar eiga færri og vandaðari hluti en að drekkhlaða heimilið. Mig var til dæmis lengi búið að langa í Sindrastólinn og þegar ég varð þrítug fékk ég hann í afmælisgjöf frá pabba sem gladdi mig óendanlega mikið.“ Og hvar kaupið þið helst hluti fyrir heimilið? „Maðurinn minn er flugmaður hjá Icelandair og við kaupum flest, bæði föt og hluti fyrir heimilið, erlendis. Við höfum keypt stærri hluti, húsgögn þá sérstaklega, í verslunum hér á landi og hansahillurnar fengum við í Góða hirðinum. Svo kíkjum við í IKEA ef okkur vantar eitthvað,“ segir Eva hress að lokum og við kveðjum jólafínu fjölskylduna og dembum okkur út í rokið og rigninguna.

Pappapokinn svarti á gólfinu er úr netverslun sem heitir mixmix.is og einnig pappapokarnir í hillunni. Hillurnar í veggnum voru sérsmíðaðar hjá Sérsmíði á Skemmuvegi.

Aðalmynd: Borðstofuborðið er úr ILVA en stólarnir eru keyptir í Bretlandi. Ljósið fyrir ofan borðið er úr verslun sem heitir Dwell og er í London. Í bakgrunni sjást hansahillur úr Góða hirðinum og fallegir munir sem fegra heimilið.

Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Tískupönkari sem fer eigin leiðir

Fatahönnuðurinn Vivienne Westwood hefur ávallt farið sínar eigin leiðir.

Vivienne Westwood hóf feril sinn á áttunda áratugnum og tók þátt í því að móta pönktísku þess tíma. Í dag ber hönnun hennar enn keim af pönkinu því hún er óhrædd við að prófa eitthvað nýtt og vísa í það gamla.

Vivienne Westwood og Malcolm McLaren. Vivienne er hér í bol með myndinni sem prýddi hið fræga plötuumslag hljómsveitarinnar Sex Pistols.

Vivienne Isabel Swire fæddist árið 1941 í enskum smábæ í Derbyshire-héraði. Þar var iðnbyltingin allsráðandi og lítið benti til þess að hún myndi seinna leggja listgrein fyrir sig. Faðir hennar var skósmiður og mamma hennar vann í bómullarverksmiðju samhliða heimilisstörfunum. „Ég vissi ekkert um listasöfn og hafði aldrei séð listaverkabók. Ég hafði ekki einu sinni farið í leikhús,” segir hún.

Þegar Vivienne var sautján ára flutti fjölskyldan til Harrow, úthverfi London, og hún hóf kennaranám. Henni þótti alltaf gaman að föndra skartgripi og sauma föt á sjálfa sig. Skömmu seinna kynntist hún fyrsta eiginmanni sínum, Derek Westwood, sem starfaði í Hoover-verksmiðjunni. Þau giftu sig árið 1962, Vivienne saumaði sjálf brúðarkjólinn, og eignuðust son sinn Benjamin ári seinna.

Árið 1971 opnaði Malcolm verslunina Let it Rock á Kings Road og seldi fatnað sem þau hönnuðu í sameiningu en vörumerkið var engu að síður undir hennar nafni, Vivienne Westwood. Innblástur fengu þau úr öllum áttum; vændiskonum, mótorhjólagengjum og blætisklæðnaði.

Vivienne Westwood Red Label S/S 16.

Nokkrum árum eftir brúðkaupið umturnaðist líf hennar þegar hún kynntist listanemanum Malcolm McLaren og varð yfir sig ástfangin. Þau fluttu saman í félagsíbúð í Clapham, London og hún hélt áfram að starfa sem kennari ásamt því að búa til skartgripi sem hún seldi á Portobello-markaðinum um helgar. „Malcolm opnaði ýmsar dyr fyrir mér og virtist vita nákvæmlega hvað ég þurfti þannig að ég hengdi mig á hann,” segir hún. Þau eignuðust soninn Joseph árið 1967.

Árið 1971 opnaði Malcolm verslunina Let it Rock á Kings Road og seldi fatnað sem þau hönnuðu í sameiningu en vörumerkið var engu að síður undir hennar nafni, Vivienne Westwood. Innblástur fengu þau úr öllum áttum; vændiskonum, mótorhjólagengjum og blætisklæðnaði.

Nafn verslunar breyttist reglulega á næstu árum en lengst af var hún þekkt einfaldlega sem SEX. Á þessum Malcolm var einnig umboðsmaður pönksveitarinnar Sex Pistols og þeir klæddust iðulega Vivienne Westwood-hönnun á sviði. Fljótlega byrjuðu fylgjendur hljómsveitarinnar sem og aðrir að flykkjast í verslunina og Vivienne og Malcolm mótuðu tísku pönktímabilsins.

Vivienne Westwood saumaði sinn eigin brúðarkjól í bæði skiptin sem hún gekk í hjónaband en árið 2008 gafst henni tækifæri til að sauma brúðarkjól á eina frægustu sjónvarpspersónu tíunda áratugsins, Carrie Bradshaw úr Sex and the City. Kjóllinn var stórfenglegur að sjá en Carrie komst því miður aldrei alla leið að altarinu í honum.

Vivienne var þó hvergi af baki dottin þegar pönkið leið undir lok, enda vildi hún frekar leiða tískuna en fylgja henni. Þekkt stílbrigði hennar eru til dæmis ókláraðir og tættir faldar, dragtir og jakkaföt, sögulegar skírskotanir og notkun á skosku ullarefni, eða tartan, tjulli, blúndu og leðri.

Fyrst og fremst er Vivienne óttalaus og blátt áfram þegar kemur að hönnun. Í gegnum tíðina hefur hún reglulega valdið usla og hefur látið ýmis málefni sig varða, svo sem mannréttindi, hlýnun jarðar og vatnsskort. Áhrif hennar á breska tískuheiminn og menningarlíf eru hins vegar óneitanleg og hún hefur tvisvar verið valinn hönnuður ársins í Bretlandi og hlaut orðu breska heimsveldisins árið 1992.

Þrátt fyrir þessa velgengni hefur Vivienne búið í sömu litlu íbúðinni í Suður- London í rúm þrjátíu ár og hjólar enn þá í stúdíóið sitt. Árið 1993, tíu árum eftir að hún og Malcolm slitu samvistum, giftist hún í annað sinn og þá aðstoðarmanni sínum, Andreas Kronthaler, sem er tuttugu og fimm árum yngri en hún. Þau eru eru enn hamingjusamlega gift í dag og vinna saman að hönnun merkisins.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

 

Núvitund í hversdagslífinu

Núvitundariðkun reynist vel við ýmsum heilsufarsvandamálum.

Núvitund er aldagömul hugleiðsluaðferð sem á rætur að rekja til búddisma og felst í því að hafa athyglina í núinu á opinn og virkan hátt. Í stað þess að láta lífið líða hjá án þess að lifa því, vöknum við til meðvitundar og upplifum það á virkan hátt. Rannsóknir hafa gefið vísbendingu um að meðferðir sem byggja á núvitundariðkun reynast vel við ýmsum heilsufarsvandamálum, ekki síst við andlegum vandamálum svo sem streitu, þunglyndi og kvíða. Hér eru nokkrar góðar leiðir til að innleiða núvitund í daglega rútínu.

Ekki gera hundrað hluti í einu, sestu niður og njóttu þess að borða matinn í ró.

Borða

Okkur hættir til að fara í gegnum daginn á sjálfstýringu og skófla þá í okkur mat á meðan við horfum á sjónvarpið eða spjöllum við okkar nánustu.

Þannig fer ýmislegt fram hjá okkur, eins og hversu ljúffengur maturinn er á bragðið og við fáum ekki sömu vellíðun út úr máltíðinni.

Ekki gera hundrað hluti í einu, sestu niður og njóttu þess að borða matinn í ró.

Ganga

Þegar þú ert úti að ganga reyndu að finna hvernig fætur þínir koma við jörðina og hvernig þú notar vöðvana í líkamanum. Horfðu svo í kringum þig, taktu eftir hvað er að gerast og hvaða hljóð þú heyrir. Það gæti komið þér á óvart hversu mörgum nýjum hlutum þú tekur eftir í umhverfi þínu.

Anda

Öndun er mikilvægur þáttur í hugleiðslu því hún er okkur svo eðlislæg og taktföst. Þegar þú átt lausa stund ættirðu að lygna aftur augunum og einbeita þér að því að anda. Um leið og við byrjum að einbeita okkur að önduninni færumst við sjálfkrafa úr huganum í líkamann og fáum þannig frí frá öllum hugsunum og áhyggjum.

Finna

Við gleymum stundum að tengjast skynfærum okkar og virkilega skynja umhverfið en það er einmitt lykillinn að því að vera í núinu. Finndu ilminn af kaffinu þínu á morgnana, hvernig fötin snerta húð þína og hlustaðu á fuglasönginn úti. Þannig gefur þú einföldu hlutunum í lífinu gildi og það gefur þér gleði og innri frið.

Bíða

Þegar þú ert úti að ganga reyndu að finna hvernig fætur þínir koma við jörðina og hvernig þú notar vöðvana í líkamanum.

Gefðu þér það svigrúm að bíða aðeins áður en þú hrekkur í framkvæmd. Hugsaðu um hverja pásu sem bókastoð sitthvorum megin við gjörðina og þannig kemur þú fersk inn í þá næstu.

Til dæmis: sittu kyrr og finndu þungann í sætinu þínu í nokkrar mínútur áður en þú leggur af stað heim eftir langan vinnudag.

Hinkraðu svo við með höndina á hurðarhúninum og leyfðu þér að hlakka til að fara inn heima hjá þér.

Hlusta

Við hlustum oft ekki nægilega vel á fólkið í kringum okkur því við erum svo upptekin af því að hugsa um hvað við ætlum að segja næst eða um eitthvað allt annað og ótengt. Þegar þú ert í samræðum gerðu það að markmiði þínu að hlusta vandlega á það sem hin manneskjan er að segja við þig og treystu því að þú munir vita hvað þú ætlir að segja næst án þess að þurfa að leiða hugann sérstaklega að því.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

„Reyndi að sannfæra lækna um að ég væri að fá hjartaáfall“

||||
||||

Skrápurinn hefur harðnað segir snapparinn Guðrún Veiga Guðmundsdóttir.

Guðrún Veiga Guðmundsdóttir deilt sigrum og sorgum með fylgjendum sínum.

Undanfarin tvö ár hefur Guðrún Veiga Guðmundsdóttir deilt sigrum og sorgum með fylgjendum sínum og er þekkt fyrir hreinskilna og óheflaða framkomu.
Þeir sem hafa fylgst með Guðrúnu Veigu á snappinu hennar, gveiga85, þekkja orðið vel helstu persónur og leikendur. Þar verður fyrst að nefna Tuskubrand sem er annað orð yfir eiginmann hennar Guðmund sem er annálaður hreingerningarmaður. Hann er í daglegu tali oftast nefndur Tuski. Sigrún Þórdís fékk síðan viðurnefnið Skítapása fljótlega eftir að hún fæddist og svo birtist Gudda kuti reglulega en hún tekur á málefnum sem Guðrúnu Veigu mislíkar að fólk viðri við hana á miðlinum.

„Það er ótrúlegt hvað getur borist hér í gegn; allt frá athugasemdum um lit í augabrúnunum á mér upp í hvernig ég sinni móðurhlutverkinu. Sumum finnst sjálfsagt að segja hvað sem er við mann.

Ömurleg komment höfðu mikil áhrif á mig til að byrja með og það fyrsta sem ég fékk var eftir að ég hafði keypt mér nokkur naglalökk sem ég sýndi á snappinu. Það hljóðaði svona: „Svona beljur eins og þú sem fæðast með silfurskeið í munninum. Ógeðslega dekurdósin þín sem lætur manninn þinn, sjómanninn, vinna fyrir sér.“

„Svona beljur eins og þú sem fæðast með silfurskeið í munninum. Ógeðslega dekurdósin þín sem lætur manninn þinn, sjómanninn, vinna fyrir sér.“

Ég varð eyðilögð og ætlaði að hætta þessu og helst henda símanum beinustu leið í ruslið en hugsaði svo með mér að ég ætlaði ekki að láta einhvern grautfúlan aðila úti í bæ skemma fyrir mér.

Síðan þá hefur skrápurinn harðnað og ég er nokkuð ónæm fyrir þessu nema þegar kemur að börnunum mínum, ég er viðkvæm fyrir móðurhlutverkinu.

Viðtalið má lesa í heild sinni í glænýju Jólablaði Vikunnar.

Guðrún Veiga hefur glímt við kvíða af og til um árabil en fyrir þremur árum fékk hún fyrsta ofsakvíðakastið. „Þá var mér sagt upp í vinnunni. Ég átti von á því þar sem ég vissi af niðurskurðinum og ég var nýjasti starfsmaðurinn en ég bar mig vel og sagði að mér yrði fokk sama ef til þess kæmi. Þegar að því kom brotnaði ég hins vegar alveg niður. Mér fannst þetta svo mikil höfnun, eins og ég hefði ekki staðið mig og mér leið hræðilega. Ég lá tímunum saman í fósturstellingunni, fannst ég ekki ná andanum, þarmarnir vera að springa og ég ofandaði. Síðan þá hef ég fengið ofsakvíðakast nokkrum sinnum en það kemur helst þegar álagið er of mikið.

Síðasta kast fékk ég í janúar þegar ég áttaði mig á að ég væri að fara að ganga í gegnum það að eiga barn aftur eftir fáeina mánuði.

Ég reyndi þá mikið að sannfæra læknana um að ég væri að fá hjartaáfall en þeir náðu loksins að fullvissa mig um að þetta væri kvíðinn,“ segir hún hlæjandi.

Viðtalið má lesa í heild sinni í glænýju Jólablaði Vikunnar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir með YSL
Fatnaður / AndreA

Raddir