Það er hin bandaríska Carla Rhodes sem kennir búktalstæknina en hún byrjaði að æfa sig í þessari ævafornu list þegar hún var níu ára gömul. Í dag er hún einn vinsælasti búktalari New York-borgar og var meðal annars tilnefnd til Andy Kaufman-grínverðlaunanna árið 2012.
Námskeiðið fer því fram á ensku en Margrét Erla sér um að túlka jafnóðum.
Á námskeiðinu verður farið í grunntækni búktals og eru krakkar hvattir til að koma með eigin bangsa, brúðu eða jafnvel bara sokk. Það má segja að búktal sé orðið vinsælt aftur, eftir nokkurn tíma í dvala, eftir að hin ellefu ára gamla Darci Lynne hrósaði sigri í hæfileikakeppninni America’s Got Talent síðastliðið haust en hæfileiki hennar var einmitt búktal.
Til að bæta á búktalarafjörið er vert að minnast á að Konni og ferðataskan hans eru á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins um þessar mundir en frægasta búktalaratvíeyki Íslands er án efa Baldur og Konni sem voru upp á sitt besta um miðbik síðustu aldar.
Velska söngdívan Bonnie Tyler stígur á sviðið Valhöll á tónlistarhátíðinni Secret Solstice annað kvöld klukkan 22.30, en það er óhætt að segja að margir Íslendingar hafi beðið með eftirvæntingu eftir að sjá dívuna þenja raddböndin.
Bonnie á aragrúa af þekktum lögum og er hvað þekktust fyrir stórar og miklar kraftballöður. Hún á þó líka sínar mjúku hliðar, en ef listar yfir lög sem hún hefur tekið á tónleikaferðalagi á þessu ári eru skoðaðir er mjög líklegt að við fáum að heyra þessi lög:
Have You Ever Seen the Rain?
Bonnie byrjar rólega með ábreiðu af þessu þekkta lagi sem Creedence Clearwater Revival gerði frægt.
It’s a Heartache
Annað rólegt lag, sem margir kannast við, sem Bonnie tekur yfirleitt í fyrri hluta tónleika sinna.
Total Eclipse of the Heart
Ekki búast við því að Bonnie byrji á þessum þrumusmelli en líklegt er að þetta epíska lag komi um miðbik tónleikanna til að keyra stemninguna upp.
Faster Than the Speed of Night
Það eru fá lög sem geta komið á eftir Total Eclipse of the Heart en þetta er eitt af þeim.
River Deep, Mountain High
Ábreiða Ike og Tinu Turner-smellsins passar vel rétt áður en Bonnie vindur sér í eitt af sínum þekktustu lögum.
Holding Out for a Hero
Þetta truflaða lag úr kvikmyndinni Footloose er auðvitað síðast á dagskrá. Geggjaður slagari sem á eftir að senda alla í sæluvímu út í nóttina.
Tónlistarhátíðin Secret Solstice hefst með pompi og prakt á morgun, fimmtudaginn 21. júní, í Laugardalnum í Reykjavík. Meðal helstu listamanna sem troða upp eru Bonnie Tyler, Slayer, Stormzy og Gucci Mane, en tónlistarveislan stendur alveg fram á sunnudag. Dagskrána má sjá hér.
Það var mikil veðurblíða á höfuðborgarsvæðinu í dag og því fengu skipuleggjendur Secret Solstice fullkomið veður til að leggja lokahönd á tónleikasvæðið.
Ljósmyndari Mannlífs fékk að rölta um svæðið og taka myndir af því sem bar fyrir augu, en af myndunum að dæma verður nóg um að vera á hátíðinni. Ætli sé ekki best að leyfa þeim að tala sínu máli…
Einhverjir ættu að kannast við rússneska íþróttafréttamanninn Vasily Utkin eftir að DV birti frétt um þrumuræðu hans um íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu. Vasily var ekki ánægður með frammistöðu liðsins gegn Argentínu á HM og fann sig knúinn til að segja um það nokkur vel valin orð á YouTube-rás sinni.
„Þeir komu hingað til að eyðileggja fótboltann,“ segir hann til dæmis í nýju myndbandi á rásinni samkvæmt frétt DV, en myndbandið er á rússnesku.
„Þeir geta varist loftárásum en hver getur dáðst að því? Af hverju eruð þið að trufla okkur þegar við viljum horfa á fótbolta? Því fyrr sem þið pakkið niður og fljúgið heim á eldfjallið ykkar, því betra,“ bætir hann við.
Horft hefur verið á myndbandið rúmlega 83 þúsund sinnum þegar þetta er skrifað og hafa tæplega þrjú þúsund manns gefið því þumalinn upp á meðan tæplega 2500 manns hafa gefið því þumalinn niður. Það eru því ekki allir sammála Vasily um landsliðið okkar, enda sýndu strákarnir okkar frábæra takta í 1-1 jafntefli gegn goðsagnakenndu liði Argentínu.
Vanur því að valda usla
Þetta er langt frá því að vera í fyrsta sinn sem Vasily veldur usla. Hann er afar umdeildur í heimalandi sínu og segir nákvæmlega það sem hann hugsar, sem hefur oft komið honum í klandur. En það eru ekki aðeins orðin sem hann notar sem hafa bakað honum vandræði því líkamlegir kvillar hafa einnig sett sitt mark á feril hans. Í desember árið 2015 sofnaði hann þegar hann var að lýsa leik Barcelona og Bayer Leverkusen í Meistaradeildinni fyrir sjónvarpsstöðina Match TV sem var stofnuð af Vladimir Putin. Vasily sofnaði rétt fyrir hálfleik og var í kjölfarið sendur í leyfi frá störfum. Sagðist hann þá þjást af svefnvandamálum, en ekki bætti úr skák að Vasily byrjaði að tala hátt og skýrt upp úr svefni í beinni útsendingu.
Í fyrra kom líkaminn honum aftur í bobba þegar hann ræddi um leikform liðsins FC Lokomotiv Moskva á rússnesku útvarpsstöðinni Sport FM. Vasily, sem er um 150 kíló, hallaði sér aðeins of mikið aftur í stólnum með þeim afleiðingum að stóllinn brotnaði og Vasily féll á gólfið. Hann virtist ekki taka þetta alltof nærri sér og lét hafa eftir sér að hann hefði brotið fullt af stólum um ævina.
„Það er auðvitað stórmerkilegt og afar gleðilegt að sjá hvernig matarþorpið á Secret Solstice myndast og hvernig það hefur stækkað og dafnað í sögu hátíðarinnar,“ segir Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice þegar við spyrjum hann út í matarmenninguna á hátíðinni, sem fer fram í Laugardalnum næstu helgi.
Þess má til gamans geta að Björn er einnig matargagnrýnandi Reykjavík Grapevine, og því afar fróður um mat og drykk. Hann segir þá matarmenningu sem hafi skapast á Secret Solstice síðustu ár vissulega hafa haft sín áhrif á matarmenningu almennt í Reykjavík.
„Í dag sjáum við mikla „Street Food“-menningu í Reykjavík. Þar reið Hlemmur mathöll á vaðið og nú er komin önnur mathöll við Granda sem og Box í Skeifunni. Segja má að Solstice hafi verið fyrst vísirinn að þessari blómstrandi menningu en í ár verða alls fjórtán aðilar að selja mat og drykk á svæðinu,“ segir hann og bætir við:
„Úrvalið hefur aldrei verið betra og það er sérstaklega gaman að segja frá því að nú fáum við þrjá fulltrúa frá Hlemmi Mathöll til að taka þátt. Má kannski segja að þessi „Street Food“-menning sé þar með komin í heilan hring.“
Draga sem mest úr vistspori sínu
Úrval af valkostum í mat hefur stækkað jafnt og þétt á hátíðinni síðustu ár, en Björn segir að tónleikahaldarar séu í góðum tengslum við sína gesti, sem sumir komi ár eftir ár, og reyni að hafa úrvalið fjölbreytt til að höfða til sem flestra.
„Hátíðargestir er jafnan kröfuharðir og mjög meðvitaðir um umhverfi sitt. Það rímar vel við markmið hátíðarinnar að draga sem mest úr vistspori og hluti af því er að bjóða upp á vegan valkosti sem við höfum gert frá upphafi. Í ár er engin breyting þar á. Að því sögðu þá dæmum við heldur ekki fólk sem vill gæða sér á góðum borgara eða kjúklingavængjum. Við reynum að koma til móts við alla gesti og það hefur verið mikil og skiljanleg ánægja með úrvalið.“
En hver ætli sé vinsælasti matarvagninn á svæðinu?
„Það er ef til vill týpískt að segja frá því að vinsælasti vagninn er líklega Bæjarins bestu. Mikill fjöldi hátíðargesta kemur erlendis frá og fólk hefur heyrt talað um þessa blessuðu pylsu löngu áður en til Íslands er komið,“ segir Björn og hlær.
„Ég er persónulega ánægður með allt úrvalið, sérstaklega að fá vagn frá Rabbarbaranum og La Poblana, þar sem ég borða ekki kjöt sjálfur. Svo fá gestir þetta klassíska, Búllan er á staðnum, Laxavagn, Rvk Chips… listinn heldur áfram. Það verður enginn svangur á þessari hátíð, svo mikið er víst!“
Mexíkóska útgáfan af tímaritinu Glamour er búin að velja 24 kynþokkafyllstu leikmennina á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem fram fer um þessar mundir í Rússlandi.
Listinn er ekki tæmandi og gæti vel bæst í hann á næstu dögum, en við Íslendingar eigum tvo fulltrúa á listanum – þá Rúrik Gíslason og Ragnar Sigurðsson. Sá fyrrnefndi hefur reyndar verið mjög vinsæll meðal aðdáenda og bætti við sig rúmlega hundrað þúsund fylgjendum á Instagram á fyrstu klukkustundunum eftir leik Íslands og Argentínu á laugardaginn.
Blaðamenn Glamour segja að þessir 24 menn hækki hitastigið í Rússlandi með kynþokka sínum og hvetja fólk til að missa ekki af einum einasta leik þeirra á mótinu.
Með Rúrik og Ragnari á listanum eru heimsþekktir knattspyrnumenn, svo sem Cristiano Ronaldo og Sergio Ramos, en hér fyrir neðan má sjá nokkra af þeim mönnum sem blaðamenn Glamour eru hrifinir af.
Framhaldsmynd teiknimyndarinnar vinsælu mögulega í bígerð.
Íslenska teiknimyndin Lói – þú flýgur aldrei einn, sem var frumsýnd hérlendis í febrúarmánuði, hefur notið mikilla vinsælda víðsvegar um heim það sem af er árs og í ljósi þess íhuga aðstandendur hennar nú að gera framhald. „Það ræðst einfaldlega með haustinu þegar hún hefur verið tekin til sýninga á stærstu evrópsku mörkuðunum,“ staðfestir Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm, sem er annar framleiðandi myndarinnar, í samtali við Mannlíf. „En jú, við erum að skoða möguleikana á því að gera Lóa 2.“
Að sögn Hilmars hefur myndin þegar verið tekin til almennra sýninga á tíu mörkuðum. „Og eitthvað fleiri löndum, því til dæmis eru skráningar í Rússlandi yfir öll fyrrum ríki Sovétríkjanna,“ bendir hann á. Í öllum tilfellum hefur myndin verið á meðal tíu aðsóknarmestu mynda á frumsýningarhelgi og í átta af tíu hefur hún verið á lista yfir tíu aðsóknarmestu myndirnar fyrstu þrjár vikur sýningartímans. Meðal þeirra landa sem myndin hefur komið út í má nefna Mexíkó, Tyrkland, Argentínu, Úkraínu og Slóveníu. En samtals er búið að selja bíómiða á myndina fyrir um 2,4 milljónir Bandaríkjadala eða sem samsvarar 254.175.000 íslensku krónum og því óhætt að segja að myndin sé búin að gera það gott í miðasölunni.
„… myndin virðist heilla áhorfendur óháð landamærum og ganga vel upp, ekki síst í þeim löndum þar sem hún hefur verið talsett. Almennt heyrum við að hún sé heillandi og hlý.“
„Við erum mjög þakklát fyrir að myndin sé að gera sig í kvikmyndahúsum erlendis og ekki síður hér heima þar sem tæplega 24.000 manns hafa séð hana í kvikmyndahúsum,“ segir Hilmar. „Það er auðvitað hluti af því að ráðast í svo viðamikið verkefni að það falli í kramið og við erum þakklát fyrir móttökurnar.“
Hann kveðst ekki síður vera ánægður með að myndin skuli hafa unnið aðalverðlaunin á barnakvik-myndahátíðinni í Kristiansand í Noregi á dögunum. „Okkur fannst umsögn dómnefndarinnar mjög skemmtileg en í henni sagði eitthvað á þá leið að Lói væri einskonar Pixar-mynd með íslensku ívafi, en myndin virðist heilla áhorfendur óháð landamærum og ganga vel upp, ekki síst í þeim löndum þar sem hún hefur verið talsett. Almennt heyrum við að hún sé heillandi og hlý.“
Fyrir utan mögulega framhaldsmynd segir Hilmar framleiðslufyrirtækið GunHil, sem er hluti af Sagafilm-samsteypunni, vera að þróa teiknimyndaþáttaröð fyrir sjónvarp sem verður kynnt á Cartoon Forum í Frakklandi í haust. „Þáttaröðin gerist á Paradísarvöllum sem við þekkjum úr myndinni um Lóa, þótt hann sé ekki í þáttaröðinni. Þarna verða þó allar skemmtilegu aukapersónurnar, auk annarra nýrra.“
Myndin sjálf verður síðan frumsýnd í Póllandi um næstu helgi og sýnd víðar í sumar, meðal annars í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu, Hollandi, Búlgaríu, Rúmeníu, Malasíu, Víetnam, Singapore, Tékklandi og á Spáni en alls hefur myndin hefur verið seld til kvikmyndasýninga í yfir 50 löndum. Þá segir Hilmar að myndin verði sýnd á fjölda kvikmyndahátíða á næstu misserum.
Vindurinn leikur um hárið, sólin kyssir kinn og uppáhaldstónlistin hljómar í útvarpinu. Þetta er hinn ljúfi draumur bílstjóra blæjubílsins. Raunveruleikinn á Íslandi er því miður nær því að vera frostbit, kalsár, rennandi blautt áklæði og hlæjandi vegfarendur.
Þeir eru fáir blæjubílarnir á Íslandi en vekja ávallt mikla athygli þá sjaldan er nógu vel viðrar til að fara í bíltúr.
Fyrstu bílarnir frá aldamótunum 1900 voru í raun allir blæjubílar. Ekki í nútímaskilningi orðsins heldur vegna þess einfaldlega að þeir voru ekki með neitt þak. Í besta falli voru þeir með blæju sem hönnuð var eftir blæjum hestvagna.
Á þriðja áratug síðustu aldar hafði Henry Ford gjörbreytt bílaiðnaðinum með færibandaverksmiðjum sínum og bílar með stálgrind- og yfirbyggingu voru skyndilega fáanlegir á viðráðanlegu verði fyrir almenning.
Þar sem það rignir í meirihluta heimsins, í allrabesta falli svona við og við, þá urðu þeir fljótt ofan á. Sér í lagi í ljósi þess að þeir voru töluvert öruggari.
„Það þarf ekki að fara lengra en á hitting hjá Krúsera klúbbnum hér í Reykjavík til að sjá sýnishorn af því besta frá tímabilinu. Óhætt er að mæla með því að spóka sig um á góðviðris fimmtudags-kvöldum í miðbænum til að berja herlegheitin augum.“
Hraðinn í umferðinni jókst stöðugt með betri bílvélum og þar af leiðandi urðu árekstrar harðari. Þess vegna varð ofan á að hafa bíla yfirbyggða og í raun var svo komið á fjórða áratugnum að einu bílarnir með blæjur voru, rétt eins og í dag, dýrari sportbílar fyrir þá ríku.
Hámark í fágun og glæsileika
Það voru helst Bretarnir sem héldu í hefðina, á meðan Ameríkanarnir vildu hafa þak yfir höfuðið. Þetta breyttist í síðari heimsstyrjöldinni þegar amerískir hermenn á frívakt kynntust smærri sport-blæjubílum á enskum sveitavegum.
MG Midget og Triumph Roadster voru þar í fararbroddi og má segja að út frá fagurfræðilegum hönnunarsjónarmiðum hafi bílaiðnaðurinn þar náð hámarki í fágun og glæsileika.
Eftirspurnin eftir slíkum bílum í iðnstórveldinu Bandaríkjunum jókst er hermennirnir snéru sigurreifir heim og í anda lögmála um framboð og eftirspurn fór maskínan á fullt að anna þessari eftirspurn.
Sjötti og sjöundi áratugurinn voru gullöld blæjubílsins í Ameríku og rafdrifnar blæjur, jafnvel úr harðri skel, rafdrifnar rúður, stereo-útvörp og ameríski draumurinn fylgdi hverju eintaki. Það þarf ekki að fara lengra en á hitting hjá Krúsera klúbbnum hér í Reykjavík til að sjá sýnishorn af því besta frá tímabilinu. Óhætt er að mæla með því að spóka sig um á fimmtudagskvöldum þegar vel viðrar í miðbænum til að berja herlegheitin augum.
Níundi áratugurinn markaði ákveðna lægð í flokki blæjubíla. Nær allir framleiðendur spreyttu sig á forminu með misjöfnum árangri. Flestir bjuggu til blæjuútgáfu af vinsælum týpum, að því er virðist bara af gamni sínu, en fáar útgáfur voru búnar til sérstaklega með hlisjón af bæjuinni.
Það er að tveimur bílum undanskildum. Annars vegar Jeep Wrangler, sem vissulega má deila um hvort sé í raun blæjubíll en vinsæll var hann svo sannarlega, og svo ókrýndur konungur flokksins, Mazda MX-5, hinsvegar.
Enn þann dag í dag skilur enginn, ekki einu sinni hönnuðurnir, af hverju MX-5 er svona frábær bíll. Hann hefur nær ekkert breyst. Kannski komið aux tengi og bakkmyndavél í stað kasettutækis, en hann er enn einn allra best heppnaði bíll sögunnar, bæði er kemur að persónuleika og aksturseiginleiku.
Á við aksturseiginleika skúringafötu
Á tíunda áratugnum reyndi BMW sem mest fyrirtækið mátti að gera Z3 bíl sinn að einhverju sem almennt þótti töff, en mistókst einhverra hluta vegna (hér á landi má auðvitað kenna veðurfarinu um en frosin blæja og hrímaðir gluggar eru ekki heillandi eiginleikar).
Það sama á við um Audi TT. Ef til vill má um kenna að akstureiginleikar fyrstu útgáfu bílsins voru á við akstureiginleika skúringafötu. Enda sjást sárafáir slíkir á götunum hérlendis í dag, þrátt fyrir ágætis sölu til að byrja með. Skiptir þá engu stórbætt önnur kynslóð bílsins, skaðinn var skeður.
Það má því segja að við séum enn í lægð, allsstaðar annarsstaðar en í Los Angeles. Það eru nefnilega bíómyndirnar sem gefa okkur þess fallegu mynd af blæjubílnum. Þessi mynd er því miður flopp í miðsölunni hérlendis og miðað við vorið í ár skal ekki búist við björgun hérlendis. Ekki nema á Húsavík, þar er ef til vill orðið nógu hlýtt.
Blæjubíllinn heldur því áfram að vera fallegur en um leið óraunhæfur draumur í okkar norðlæga veruleika.
„Nú eru allir lífeyrissjóðir að breyta samþykktum sínum og auka sveigjanleika með heimild til töku á hálfum lífeyri frá 60 ára aldri. Heimildinni er ætlað að auka möguleika fólks til að minnka við sig vinnu um sextugt,“ segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.
Meirihluti sjóðsfélaga í Eftirlaunasjóði Félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) samþykkti í vikunni að heimila töku lífeyris í 50% hlutfalli frá 60 ára aldri ásamt því að fresta töku hálfs lífeyris til að allt að 80 ára aldurs. Fleiri lífeyrissjóðir hafa samþykkt svipuð skref.
Samkvæmt nýlegum breytingum á almannatryggingalöggjöfinni er heimilt að hefja töku á hálfum lífeyri sem skerðist ekki vegna tekna. Úrræðið er háð því að samhliða sé hafin taka á hálfum lífeyri frá lífeyrissjóðum og að sú fjárhæð nái ákveðnum fjárhæðarmörkum.
Þessi möguleiki er þó ekki alveg í hendi því stefnt er að gildistöku breytinga á samþykktum lífeyrissjóðanna 1. september að undangenginni staðfestingu fjármála- og efnahagsráðherra.
Polenta er nafn á grófmöluðum maís en var upprunalega heiti yfir algengan rétt á Norður-Ítalíu sem er einskonar grautur sem svipar til kartöflustöppu. Þegar polentu-mjöl kólnar verður það þéttara í sér og minnir á brauð, þá er það gjarnan skorið í bita sem eru steiktir og verða þá stökkir og góðir.
Polenta er bragðlítil og á þess vegna vel við bragðsterkan mat. Hún er t.d. borðuð með smjöri og osti eða höfð með pottréttum úr kjöti eða fiski. Grunnurinn er alltaf að bæta vökva saman við mjölið og svo er það hitað í potti. Hrært er stöðugt í blöndunni þar til einskonar deig myndast sem er tilbúið þegar það loðir ekki lengur við hliðar pottsins. Þá er annaðhvort kryddi eða smjöri eða osti blandað saman við og hún borðuð heit sem meðlæti eða sett í eldfast mót og látin stífna. Þegar hún kólnar er hún skorin í sneiðar, bökuð, grilluð eða steikt.
Í Bandaríkjunum, sérstaklega í Suðurríkjunum, er gjarnan borið fram svokallað „cornbread“ með mat. Brauðinu er dýft í sósur og pottrétti og þykir mörgum það ómissandi með Suðurríkjamat. Það er fljótlegt að baka slíkt brauð enda er lyftiduft yfirleitt notað í stað gers. Notað er grófmalað maísmjöl sem er í raun mjög svipað og polentu-mjölið.
Hér er hún notuð í pítsubotn sem kom ljómandi vel út. Sniðugt fyrir þá sem eru með glútenóþol eða vilja sneiða hjá hveiti.
Polentu-pítsa með sveppum, timían og hvítlauk
fyrir 4-6
170 g polentu-mjöl
4 dl mjólk
50 g pecorino-ostur (má nota annan bragðmikinn harðan ost)
1 tsk. salt
50 g smjör
4 hvítlauksgeirar, sneiddir
200 g sveppir að eigin vali
3 msk. ferskt timían, saxað
200 g mozzarella-ostur
salt og pipar eftir smekk
Hitið ofn í 200°C. Hrærið polentu-mjölið, mjólk, rifinn pecorino-ost og salt saman með sleif. Hnoðið deigið létt með höndunum. Það á að vera hægt að fletja það út með kökukefli en einnig er hægt að nota fingurna og dreifa úr því á smjörpappírinn þannig að úr verði hringlaga kaka, um það bil 1 ½ cm þykk.
Hitið smjörið á pönnu og steikið hvítlauk við vægan hita í nokkrar mínútur og bætið svo sveppunum út í og steikið áfram í nokkrar mínútur í viðbót eða þar til sveppirnir hafa náð að steikjast aðeins og dökkna. Bragðbætið með timíani, salti og pipar. Setjið hluta af mozzarella-ostinum á polentu-botninn, síðan steiktu sveppina og dreifið að lokum afganginum af ostinum yfir. Bakið í 10 mínútur eða þar til osturinn hefur fengið fallegan lit. Gott að bera fram með hvítlauksolíu.
Pecorino-ostur er bragðmikill, harður ítalskur ostur úr sauðamjólk. Nafnið er dregið af ítalska orðinu pecora sem þýðir sauðfé.
Ekki liggur fyrir hvort lögregla verði vopnuð á hátíðahöldum í miðborginni í Reykjavík á 17. júní.
„Lögreglan upplýsir ekki um öryggisráðstafanir á stórum viðburðurm, svo sem 17. Júní, fyrirfram. En sérsveit og lögreglan hafa alltaf aðgang að vopnum og hafa alltaf haft,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í skriflegu svari til blaðamanns Mannlífs, aðspurður um öryggisráðstafanir í tengslum við hátíðahöldin í borginni á þjóðhátíðardag.
Sérsveit lögreglustjóra var ekki vopnuð í borginni á síðasta ári í tengslum við þjóðarhátíðardaginn, þrátt fyrir heilmiklar varúðarráðstafanir. Athygli vakti þegar hún var sýnilega vopnuð þegar Color Run fór fram 10. júní í fyrra. Á meðan á hlaupinu stóð var mörgum götum jafnframt lokað og til þess notaðir stórir flutningabílar svo önnur ökutæki kæmust ekki fram hjá.
Landsmenn eru óvanir því að sjá vopnum búna lögreglumenn á Íslandi og mörgum var því brugðið. Ríkislögreglustjóri sagði í fyrra að gripið hafi verið til þessara varúðarráðstafana í kjölfars nýs áhættumats greiningardeildar ríkislögreglustjóra vegna hryðjuverkaárása í Manchester og í London í Bretlandi í fyrra.
Árásin í Manchester var gerð á tónleikum söngkonunnar Ariönu Grande í maí þegar maður sprengdi sig í loft upp. Í árásinni létust 22 tónleikagestir og tugir særðust. Í júní óku svo þrír menn sendiferðabíl á gangandi vegfarendur á London Bridge á 80 kílómetra hraða. Þegar yfir brúna var komið fóru þeir út úr bílnum og réðust á fólk við Borough Market. Sjö létust í árásinni og 48 særðust.
„Lögreglan upplýsir ekki um öryggisráðstafanir á stórum viðburðum, svo sem 17. júní, fyrirfram. En sérsveit og lögreglan hafa alltaf aðgang að vopnum og hafa alltaf haft.“
Í kjölfarið var gripið til varúðarráðstafana í mörgum Evrópuríkjum og gerði greiningardeild ríkislögreglustjóra nýtt áhættumat í skugga ofbeldisins. Þjóðáröryggisráðið kom saman hér og ræddi um viðbúnað og vopnaburð lögreglu á fjöldasamkomum. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sagði í samtali við RÚV á sínum tíma að ekki væri verið að auka vopnaburð lögreglu heldur gera sérsveit ríkislögreglustjóra sýnilegri á stórum samkomum. Ekki náðist í Harald í tengslum við vinnslu þessarar fréttar.
Áhættumatið sem gert var eftir árásirnar í Bretlandi náði yfir viðburði í miðborginni og á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur verið uppfært síðan þá. Ásgeir Þór segir í raun ekkert hafa breyst í þeim efnum frá því í fyrra en vill ekki segja nákvæmlega í hverju það felst.
Biðinni löngu lýkur senn. HM 2018 í knattspyrnu hófst formlega í gær í Rússlandi en hjá Íslendingum byrjar mótið í raun á morgun þegar landsliðið tekur á móti Argentínu í fyrsta leik í D-riðli.
Hvernig spilast leikurinn, hvaða þýðingu hefur hann og hvar er ákjósanlegast að horfa á strákana okkar spila? Mannlíf ræddi við valinkunna andans menn og konu um morgundaginn sem margir hafa beðið eftir.
Hvaða þýðingu hefur leikurinn?
Ekki bara fyrir Ísland
„Þegar Heimir landsliðsþjálfari tilkynnti hvaða 23 leikmenn færu á HM sagði hann eitthvað á þá leið að þessir leikmenn sem hann hefði valið væru ekki bara fulltrúar Íslands á HM heldur líka allra þjóðanna sem komust ekki á HM. Þessi orð Heimis hafa setið dálítið í mér og ég held að þetta sé hárrétt,“ segir Bergur Ebbi Benediktsson. „Maður hefur til dæmis heyrt af því að margir Ítalir og Bandaríkjamenn ætli að halda með Íslandi og það er auðvitað ekkert skrýtið að stórar þjóðir sem komust ekki á HM en telja sig eiga skilið að vera á HM styðji frekar litlu liðin en þau stóru. Og svo eru það allar litlu þjóðirnar sem samsömuðu sig kannski áður við önnur lítil lönd, eins og Bosníu eða Danmörku, sem hafa gert góða hluti á knattspyrnusviðinu, en samsama sig við okkur núna. Maður hefur sjálfur stutt svona dvergþjóðir á stórmótum í gegnum tíðina og ég myndi halda að Ísland ætti vinninginn í þeirri keppni á HM í ár.“
Bergur Ebbi lítur á þátttöku Íslands á HM Rússlandi sem sannarlega mikilvægt augnablik í íslenskri íþróttasögu, en ekki síður í sögu heimsmeistaramótsins í knattspyrnu.
„Ég er dálítill nörd og mikill áhugamaður um sögu HM. Þegar maður fer yfir þá sögu er einna skemmtilegast að sjá svona litlar þjóðir reka inn nefið hér og þar. Norður-Írland, El Salvador, Kosta Ríka og fleiri, og svo auðvitað Úrúgvæ sem eru tvöfaldir heimsmeistarar þrátt fyrir að telja aðeins um þrjár og hálfa milljón íbúa. Þetta eru sögurnar sem standa upp úr og það verður spurt um þátttöku Íslands á HM í Rússlandi í pöbb-kvissum svo áratugum skiptir,“ segir Bergur en hann er einn þeirra heppnu sem verða á Spartak-vellinum í Moskvu á morgun þegar þessi mikilvægi leikur fer fram.
„Þetta verður endurtekning á Englandsúrslitunum. Mér dettur ekki í hug að spá neinu öðru.“
„Ég hef hugsað mikið um leikinn og öðru hvoru klárast bara orkan og ég er eiginlega bara dofinn núna. Það er ýmislegt sem þarf að græja og gera fyrir ferðina og ég er mjög feginn því að verða líkamlega staddur á leiknum en ekki að horfa heima í stofu. Þegar ég horfði á fyrsta leik Íslands gegn Portúgal á EM 2016 leið mér hreinlega illa og fannst eins og ég væri að ganga í gegnum einhver mjög alvarleg persónuleg mál.“
Hann segist vonast til þess að íslenskir áhorfendur nái upp góðri stemningu á Spartak-vellinum og hann komi vissulega til með að taka þátt í víkingaklappinu fræga. „Ég læt mig bara berast með stemningunni. Auðvitað er mögulegt að ofgera víkingaklappinu ef það er tekið úr sínu rétta samhengi en á stórum leikvangi þar sem Ísland er að keppa í stórleik finnst mér það alveg geðveikt,“ útskýrir Bergur Ebbi og spáir að lokum 2-1 sigri Íslands á Argentínu á morgun. „Þetta verður endurtekning á Englandsúrslitunum. Mér dettur ekki í hug að spá neinu öðru.“
Hvernig spilast leikurinn?
Argentína gæti misst hausinn
„Þetta verður erfiður leikur, enda Argentínumenn ein mesta fótboltaþjóð veraldar og því við ramman reip að draga. En íslenska liðið hefur ítrekað sýnt það og sannað að það spilar jafnan best þegar mest er undir og getur því valdið hverjum sem er áhyggjum, hvort sem þeir heita Messi, Ronaldo eða Janus Guðlaugsson,“ segir Anna Svava Knútsdóttir og bætir við að mikið muni velta á því hvernig fyrstu 20 til 25 mínútur leiksins spilast. „Ef við náum að halda aftur af Argentínu framan af fyrri hálfleik er allt eins líklegt að stjörnuleikmennirnir þeirra stressist upp og gleymi undirstöðuatriðum knattspyrnunnar, eins og gerðist með Englendinga þegar við slógum þá út úr EM í Frakklandi fyrir tveimur árum. Þegar þeir missa hausinn verðum við að vera tilbúin til að láta til skarar skríða. Pressan á Messi að vinna HM áður en hann leggur skóna á hilluna ætti með réttu að vinna með okkur og gegn Argentínumönnum. Að því sögðu þá væri jafntefli alls ekki slæm úrslit fyrir okkur, en mig grunar að Heimir komi til með að senda liðið út á völlinn með það eitt að markmiði að sigra.“
„Þetta verður erfiður leikur, enda Argentínumenn ein mesta fótboltaþjóð veraldar og því við ramman reip að draga.“
Anna Svava segist spennt að sjá hvernig Heimir Hallgrímsson stillir byrjunarliðinu upp. „Hannes Þór Halldórsson, vinur minn, er mikilvægasti leikmaður liðsins að mínu mati og ég bið til guðs að hann haldist heill. Eins vona ég að Aron Einar byrji leikinn, leiðtogahæfileikar hans og geta til að stýra leik liðsins eru ómetanlegir þættir. Fyrirliðinn verður þó að meta það sjálfur ásamt sjúkraþjálfurum hvort hugsanlega væri betra að sleppa þessum leik og vera frekar klár fyrir leikinn gegn Nígeríu. Margir spá því að við komum til með að spila leikkerfið 4-5-1, þá væntanlega með Jón Daða Böðvarsson einan frammi, en eitthvað segir mér að við neglum í eitt strangheiðarlegt 4-4-2 og treystum á hina klassísku samvinnu litla og stóra frammi, Jóns Daða og Alfreðs Finnbogasonar markamaskínu. Ísland er kannski ekki með leiknustu leikmenn í heimi, en við getum hæglega sýnt mestu grimmdina, baráttuna og viljann og verið bestir í föstum leikatriðum,“ segir Anna Svava spennt.
Hún spáir því að Ísland sigri Argentínu með einu marki gegn engu. „Gylfi Sigurðsson skorar markið sem ræður úrslitum seint í síðari hálfleik.“
Hvar á að horfa á leikinn?
Dreymir um HM-stofu á pallinum heima
„Ég er með mikil plön og stóra drauma um þennan dag, en ég veit ekki enn hvort það verður af þeim. Mig langar nefnilega rosalega mikið til að byggja mína eigin HM-stofu á pallinum heima, flytja 65 tommu sjónvarpið út í garð og tengja alvörusánd í það. Sándið er lykilatriði þar sem ég bý við Hringbraut og umferðarniðurinn getur verið mikill. Svo myndi ég fleygja einhverju lystugu á grillið og allt yrði gjörsamlega geggjað. Þetta er draumurinn, en kannski enda ég bara einn niðri í kjallara að horfa á leikinn eins og gerðist fyrir tveimur árum þegar Ísland spilaði við Austurríki. Þá stóð ég einn öskrandi fyrir framan sjónvarpið og það var ágætt. En ef allt fer að óskum og spáin verður þokkaleg verður það HM-stofa úti í garði og allir velkomnir. Því fleiri, því betra,“ segir Sóli Hólm.
Áður en íslenska liðið hélt utan til Rússlands áttu liðsmenn notalega kvöldstund ásamt fjölskyldumeðlimum sínum og Sóla, sem hélt rúmlega klukkustundarlangt uppistand fyrir mannskapinn. „Að sjálfsögðu vil ég standa mig vel á öllum mínum „giggum“ en þetta var eitt af þeim sem ég vildi alls ekki klúðra, því þótt strákarnir séu nánast allir yngri en ég lít ég samt upp til þeirra. Það gekk eftir og stemningin var geggjuð. Mér sýndust landsliðsstrákarnir vera mjög slakir og yfirvegaðir miðað við aðstæður og það besta var að ég heyrði af því að andinn á æfingunni daginn eftir uppistandið hefði verið léttari en daginn áður og að menn hefðu jafnvel verið að vitna í góðar línur frá mér. Það eitt og sér er næg umbun fyrir mig,“ segir Sóli sem var leystur út með forláta treyju, áritaðri af öllum í landsliðinu.
Sóli vill þó ekki skrifa undir þá uppástungu blaðamanns að ef Ísland vinnur Argentínu sé það að miklum hluta honum sjálfum að þakka. „Nei, alls ekki, því það þýðir að það verður líka mér að kenna að við töpum. Ég ber enga ábyrgð á gengi liðsins, en ég trúi því að við getum unnið. Leikurinn fer 1-0 fyrir okkur.“
Heimildarmyndin Síðasta áminningin er ný íslensk kvikmynd sem Hafsteinn Gunnar Sigurðsson gerði í samvinnu við Guðmund Björn Þorbjörnsson og frumsýnd var í vikunni. Þar velta þeir félagar fyrir sér tengslum íslenska þjóðsöngsins og árangurs íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og komast, að sögn Hafsteins, að óvæntri niðurstöðu.
„Þetta byrjaði þannig að ég fékk símtal í janúar frá Sigurjóni Sighvatssyni framleiðanda þar sem hann setti fram hugmynd um að gera eitthvað út frá þessu fótboltadæmi en beina samt fókusnum meira að samfélaginu út frá þessari Öskubuskusögu sem árangur íslenska landsliðsins í fótbolta er,“ segir Hafsteinn Gunnar Sigurðsson kvikmyndaleikstjóri um tilurð heimildamyndarinnar Síðasta áminningin sem nú er sýnd í Bíó Paradís.
„Ég var nýbúinn að hlusta á þættina hans Guðmundar á Rás 1, Markmannshanskarnir hans Alberts Camus, og datt í hug að það gæti verið sniðugt að fá hann til samstarfs við mig við gerð myndarinnar, því ég veit í raun og veru ekkert um fótbolta,“ útskýrir Hafsteinn. „Ég horfi bara á stórmótin og hef enga þekkingu á því hvernig þetta virkar, ég er betri í að búa til bíómyndir.“
Boðar auðmýkt og lítilæti
Spurður um grunnkonseptið að baki myndinni segir Hafsteinn að þeir hafi lagt út frá þjóðsöng Íslendinga sem er það síðasta sem leikmennirnir heyra áður en þeir hefja leik á fótboltavellinum og þaðan sé nafn myndarinnar, Síðasta áminningin, dregið.
„Þjóðsöngur okkar er ólíkur flestum öðrum þjóðsöngvum þar sem hann er byggður á sálmi,“ segir Hafsteinn. „Flestir aðrir þjóðsöngvar eru einhvers konar ættjarðarsöngvar þar sem verið er að upphefja föðurlandið og þjóðina sem þar býr, eða þá stríðsmarsar þar sem menn eru hreinlega hvattir til þess að fara út á vígvöllinn og drepa andstæðinginn. Okkar þjóðsöngur hins vegar boðar auðmýkt og lítilæti og minnir manneskjuna á hversu lítil hún er gagnvart sköpunarverkinu. Við fórum að velta því fyrir okkur hvort það fælist ekki þversögn í því að þetta væri síðasta áminningin sem leikmenn íslenska liðsins fá áður en þeir fara út á völlinn að reyna sig við útlendinga sem eru mjög oft miklu betri en þeir í fótbolta. Við fórum að skoða þetta betur og í framhaldi af því verður myndin ferðalag þar sem við skoðum íslenskt samfélag og hugarfar út frá þessu og hvort Íslendingar hafi nokkurn tímann tileinkað sér þessa auðmýkt og lítilæti sem þjóðsöngurinn boðar.
Hugsanlega komumst við að þeirri niðurstöðu að kannski eru meðlimir landsliðsins þeir einu sem hafa raunverulega gert það. Hvort það sem hafi komið þeim áfram sé að þeir þekki sín takmörk,“ segir Hafsteinn dularfullur.
Ýttu leikmönnum út fyrir rammann
Í myndinni er rætt við þrjá liðsmenn landsliðsins auk nokkurra þjóðþekktra einstaklinga sem sumir tengjast knattspyrnu en aðrir alls ekki.
„Við fylgjum þessum þremur leikmönnum, sem kannski eru ekkert endilega alltaf mest í sviðsljósinu,“ segir Hafsteinn. „Einn þeirra spilar í Tyrklandi, annar hér heima á Íslandi, sá eini sem spilar hér reyndar, og sá þriðji spilar í Englandi. Hugmyndin var að fá þá til að velta vöngum yfir íslensku þjóðfélagi og fá þá til að tala um hluti sem þeir eru ekki endilega alltaf að ræða í þessum viðtölum sem þeir fara í, þetta eru oft dálítið stöðluð viðtöl sem birtast í íþróttatengdu efni, þannig að við reyndum svolítið að ýta þeim út fyrir það svið og fá að sjá aðrar hliðar á þeim en við gerum venjulega. Síðan vorum við með sjö aðra viðmælendur sem eru þjóðþekktir einstaklingar sem tengjast fótbolta nánast ekki neitt, eða jú, sumir eitthvað en aðrir ekki.“
Flestir, ef ekki allir, viðmælendur voru spenntir fyrir heimsmeistaramótinu.
„Ég held það sé einhver ógurlegur fiðringur í flestum gagnvart þessu.“
Ekki að skoða þjóðrembu
Spurður hvort myndin komi eitthvað inn á það hvernig þessi árangur landsliðsins ýti undir þjóðrembu Íslendinga dregur Hafsteinn við sig svarið.
„Já og nei,“ svarar hann véfréttarlega og heldur áfram. „Einn viðmælandinn nefnir að í kringum íþróttir skapist eini vettvangurinn þar sem það þyki í lagi að vera þjóðveldissinni að einhverju leyti og leyfa stórkarlalegum hugmyndum um samfélagið að brjótast fram, en við köfum ekki djúpt í tengsl þjóðerniskenndar og íþrótta í þessari mynd.“
Sitt af hverju, eins og óvænt tengsl, kom á óvart við gerð Síðustu áminningarinnar.
„Já, kannski bara þessi niðurstaða sem við komumst að í myndinni um tengsl þjóðsöngsins og þessarar taktíkur sem liðið spilar,“ segir Hafsteinn. „Það komu óvænt tengsl þar upp sem ég vil ekki uppljóstra um hér, enga spoilera, takk. En þetta var mjög skemmtilegt ferðalag og líka skemmtilegt að það skuli vera hundrað ára afmæli fullveldisins sem er gott augnablik til að líta í spegilinn, dvelja aðeins við og hugsa um hver við erum og hvert við viljum stefna.“
„Hugmyndin var að fá þá til að velta vöngum yfir íslensku þjóðfélagi og fá þá til að tala um hluti sem þeir eru ekki endilega alltaf að ræða í þessum viðtölum sem þeir fara í, þetta eru oft dálítið stöðluð viðtöl sem birtast í íþróttatengdu efni, þannig að við reyndum svolítið að ýta þeim út fyrir það svið og fá að sjá aðrar hliðar á þeim en við gerum venjulega.“
Lætur heillast í augnablikinu
Hafsteinn ætlar að sjálfsögðu að fylgjast með leikjum landsliðsins á HM.
„Ég segi nú ekki að ég muni setja upp víkingahjálminn, en þetta er spennandi móment sem maður fylgist auðvitað með. Ég á reyndar ekki landsliðstreyju, því miður, en þegar við fórum til Tyrklands að heimsækja Theodór Elmar keyptum við okkur allir tyrkneska upphitunargallann og ég verð kannski bara í honum,“ bætir hann við og glottir.
Ef við gefum okkur að Íslendingar komist ekki í úrslit þarf Hafsteinn að finna sér annað lið til að halda með því hann á ekkert sérstakt uppáhaldslið.
„Yfirleitt gerist það eftir að ég fer að fylgjast með þessum stórmótum að ég verð ástfanginn af einhverju liði í augnablikinu og læt það heilla mig til fylgilags svo það fær mitt atkvæði þegar upp er staðið. Ég verð bara að sjá til eftir að mótið byrjar hvaða liði tekst það í þetta sinn.“
Síðasta áminningin var frumsýnd í Bíó Paradís í vikunni og er nú þar í almennum sýningum en verður einnig sýnd í sjónvarpi, bæði hér heima og erlendis fljótlega.
„Hún verður sýnd á RÚV síðar og það er líka búið að selja hana til bæði dönsku og norsku ríkisstöðvanna, þar sem hún verður sýnd á næstu dögum,“ segir Hafsteinn. „Þannig að þetta er allt að fara af stað.“
Aðalmynd / Hafsteinn Gunnar Sigurðsson kvikmyndaleikstjóri gerði myndina í samvinnu við Guðmund Björn Þorbjörnsson.
Handritshöfundar kvikmyndarinnar Kona fer í stríð heiðraðir á sérstakri hátíðarsýningu í París.
Íslenska kvikmyndin Kona fer í stríð hlaut eins og kunnugt er SACD-verðlaunin, verðlaun Sambands franskra handritshöfunda, á kvikmyndahátíðinni í Cannes á dögunum. Í tilefni af því hafa franskir handritshöfundar blásið til sérstakrar heiðurssýningar á kvikmyndinni í París í Frakklandi. Mannlíf náði tali af Ólafi Egilssyni sem var í miðjum klíðum að finna sparijakkafötin fyrir yfirvofandi Frakklandsferð.
„Við Benedikt Erlingsson vorum boðaðir til þess að vera viðstaddir sýningu á myndinni,“ útskýrir Ólafur, en þeir félagar skrifuðu handritið að henni í samvinnu eftir hugmynd Benedikts, sem leikstýrir einnig myndinni.
Kona fer í stríð fjallar um Höllu, kórstýru á fimmtugsaldri, sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn stóriðju í landinu. Myndin hefur hlotið bæði góða aðsókn hérlendis og lofsamlega dóma, meðal annars í virtum kvikmyndatímaritum á borð við Screen International sem setti hana á lista yfir 20 áhugaverðustu kvikmyndirnar á Cannes þar sem hún hlaut fyrrnefnd verðalaun. Ólafur segir að í kjölfar hátíðarsýningarinnar í París standi til að frumsýna kvikmyndina víðsvegar um heim.
„Dreifingaraðilar hafa slegist um myndina og hún er uppseld skilst mér, á heimsvísu, sem er einstakt.“
„Dreifingaraðilar hafa slegist um myndina og hún er uppseld skilst mér, á heimsvísu, sem er einstakt,“ segir hann og er auðheyrilega í skýjunum með góðar viðtökur. „Þessi velgengni Konu fer í stríð er auðvitað algjörlega frábær, ekki bara í sjálfu sér heldur líka vegna umfjöllunarefnis myndarinnar,“ bendir hann á. „Því þetta er hugvekja um umhverfisvernd sem á erindi við allan heiminn.“
Spurður hvort þeir Benedikt séu með fleiri verkefni á teikniborðinu gefur Ólafur ekkert út á það en segist vera með mörg járn í eldinum. „Í augnablikinu er ég að klára voræfingar á einleiknum „Allt sem er frábært“ sem Valur Freyr Einarsson leikur og verður frumsýndur á litla sviðinu næsta haust og svo er ég að undirbúa aðra sýningu á litla sviðinu, Tvískinnung, eftir Jón Magnús Arnarsson, rappara og „slam“-ljóðskáld sem fer líka upp í Borgarleikhúsinu næsta vetur.“
Aðallega segist hann þó vera að gera upp hús með öllu sem því fylgir og að reyna að grafa upp jakkafötin til þess að pakka fyrir fyrirhugaða ferð til Frakklands „Það er eins gott að finna þennan blessaða kassa með sparifötunum. Ætli þau verði ekki viðruð dálítið hér og hvar um heiminn á næstunni, svona miðað við hvernig planið lítur út,“ segir hann glaður og hlær.
Nú eru allir komnir í spilastuð fyrir HM í fótbolta.
Nýjasta spilið frá Monopoly HM karla í knattspyrnu í Rússlandi: 2018 FIFA World Cup Russia.
Skemmtileg safnútgáfa af hinu sígilda og sívinsæla Monopoly, tileinkuð heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu 2018 sem fer fram í Rússlandi og eins og flestir vita er Ísland meðal keppnisþjóða.
Spilið virkar á allan hátt eins og hefðbundið Monopoly nema í stað þess að leikmenn eigi í fasteignaviðskiptum, kaupa þeir og selja fótboltaliðin sem keppa á HM og byggja sér bása og leikvelli og leikpeðin eru fótboltatengd.
Frábær skemmtun og afþreying fyrir alla fjölskylduna og tilvalið að spila á milli leikja á HM 2018. Styttir biðina og eykur spennuna.
Umsögn um spilið frá leikmanni, Jóna Guðrún Kristinsdóttir:
,,Við hjónin og börnin okkar fjögur sem eru á aldrinum fimm til þrettán ára höfum spilað þetta spil öll saman og haft gaman af. Þrátt fyrir að spilið sé gefið upp fyrir átta ára og eldri hefur sú yngsta sem er fimm ára vel getað spilað með okkur með okkar hjálp og haft mjög gaman af. Fjölskyldan keppist um að eignast verðmætustu löndin og byggja þar upp stóra leikvanga svo hægt sé að rukka sem mest þegar aðrir leikmenn stoppa við. Leikmenn nota misjafna taktík, sumir kaupa allt sem þeir stoppa á og freista þess að selja það svo á hærra verði þegar líður á spilið á meðan aðrir leggja áherslu á að safna bara einhverjum ákveðnum liðum. Frábær skemmtun sem kemur allri fjölskyldunni í HM-gírinn.“
Heitur pottur á veröndina í garðinn og sumarbústaðinn.
Þeir félagarnir Kristján Berg og Hafsteinn Kristinsson hjá heitirpottar.is búa yfir mikilli reynslu á hitaveituskeljum og eru búnir að veita kaupendum sínum ráðgjöf yfir tólf ára skeið. Í forgrunni hjá þeim er að veita góða og persónulega þjónustu og viðskiptavinurinn er ávallt númer eitt. Við hittum þá og tókum stöðuna á heitu pottunum og hvað sé það heitasta í dag.
Getið þið sagt okkur hvað er það nýjasta í dag?
„Það nýjasta í dag eru PLUG&PLAY-hitaveituskeljar. Þá koma skeljarnar tilbúnar. Það er að segja með klæðningu, yfirfalli og niðurfalli ásamt vönduðu handfangi. Hitaveituskeljarnar eru einangraðar og tilbúnar til tengingar fyrir píparann. Þær koma því tilbúnar til þess að setja beint á pallinn og þarf ekki að smíða í kringum þær. Sem spara bæði tíma og fjármuni ásamt því að vera mjög fljótlegt í uppsetningu.“
Eru þið með margar tegundir í boði af hitaveituskeljum?
„Margir litir eru í boði og þrír litir eru á klæðningum. Til dæmis cedrus-viður og svo erum við með 100% viðhaldsfríar klæðningar, þannig að það þarf aldrei að bera á pottinn.“
Með hverju mælið með varðandi vatnsnotkun í heitu pottanna?
„Kaupendur eru farnir að hafa sírennsli í pottinum. Það er að segja að það er alltaf vatn í hitaveituskelinni og hún tilbúin til notkunar. Kostnaður á heitu vatni á svona skel fyrir hvern mánuð miðað við að hafa sírennsli og lok og góða hitastýrisgrind frá Danfoss er í kringum tvö þúsund krónur. Er þá miðað við að það sé alltaf 39 gráðu heitt vatn í pottinum og potturinn ávallt tilbúinn til notkunar.“
Allar nánari upplýsingar er hægt að fá hjá þeim í verslun þeirra heitirpottar.is að Höfðabakka 1, 110 Reykjavík, eða þá í síma 777 2000. Þeir hjá heitirpottar.is leggja ávallt áherslu á að reyna veita persónulega og góða þjónustu.
Á barnum er hægt að blanda sér litríkan kokteil úr glimmeri, límmiðum og skrautsteinum svo fátt eitt sé nefnt. Tara segir að glimmerið höfði til fólks á öllum aldri, bæði karla og kvenna.
„Þetta er í raun eins og nammibar, nema þetta er glimmerbar,“ segir förðunarfræðingurinn Tara Brekkan Pétursdóttir. Tara hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum síðustu ár undir vörumerkinu Törutrix, þar sem hún kennir áhugasömum að mála sig á einfaldan hátt. Þá kennir hún einnig förðun og framleiðir snyrtivörur undir eigin nafni. Nýjasta uppátæki Töru er að bjóða upp á fyrrnefndan glimmerbar, sérbúinn vagn með glimmeri, steinum, límmiðum og ýmsu skrauti sem hún getur flakkað með á milli viðburða.
Þekktur glimmerbrjálæðingur
„Ég er þekkt fyrir að vera glimmerbrjálæðingur,“ segir Tara og hlær.
„Ef vinir mínir sjá flott glimmer einhvers staðar þá senda þeir strax myndir á mig. Ég fann hins vegar aldrei glimmer sem mér fannst nógu flott þannig að ég hannaði mitt eigið. Ég legg mikið upp úr því að vörur frá mér séu vandaðar þannig að glimmerið, og allt annað skraut í glimmerbarnum, er án eiturefna og umhverfisvænt. Síðan fannst mér hugmyndin um að vera með barinn á vagni sem ég gæti farið með í partí sniðug þannig að ég lét slag standa,“ bætir hún við.
Verið er að leggja lokahöndina á fyrrnefndan glimmervagn en Tara ætlar ekki að láta staðar numið þar. „Í framhaldinu langar mig að útbúa sérstakan glimmerbíl, með glimmerstöfum og neon-skiltum. Þá er hugmyndin að fólk geti komið við í bílnum og látið mála sig. Ég ætla að búa til eitthvað skemmtilegt í kringum bílinn og ég er mjög spennt fyrir því. Ég hef aldrei séð neitt líkt því sem ég er að plana.“
Íslendingar þurfa glimmer í lífið
Fyrir stuttu opnaði Tara sína fyrstu Törutrix-verslun á Laugavegi 51, en verslunin er inni í 24 Iceland og Massän-versluninni. Eins og með glimmerbarinn er Tara með stóra viðskiptadrauma.
„Mig langar í framtíðinni að opna verslanir um allt land,“ segir Tara en eiginmaður hennar, Hlynur Örn Kjartansson, er einnig viðskiptafélagi hennar. „Hann er með mér í öllu. Hann gerir heimasíðuna og hannar allt í kringum þetta. Við getum gert allt saman og það er svo þægilegt. Við þurfum engan annan,“ segir Tara og bætir við að hún elski að vinna fyrir sig sjálfa. „Ef maður vinnur við það sem maður elskar þá vinnur maður aldrei neitt því það er alltaf gaman.“
Þó að aðeins nokkrir dagar séu síðan Tara byrjaði að auglýsa glimmerbarinn á samfélagsmiðlum hafa pantanir og fyrirspurnir hrúgast inn. Á þjóðhátíðardeginum,17. júní, ætlar Tara að vera með einhvers konar útgáfu af barnum fyrir utan verslunina á Laugaveginum og stefnir enn fremur að því að vera á einhverjum útihátíðum í sumar, þar á meðal Þjóðhátíð í Eyjum. En telur hún að Íslendingar þurfi allt þetta glimmer í líf sitt?
„Já, þetta er svo gaman. Ég held að glimmer geri lífið betra. Það verða allir svo glaðir og flippaðir þegar þeir eru komnir með smávegis glimmer á sig,“ segir Tara og bætir við að glimmeráhuginn einskorðist ekki bara við kvenfólk. „Ó nei, strákarnir eru alveg jafnvitlausir í glimmer og stelpurnar. Og bara fólk á öllum aldri.“
Ár er liðið síðan leikarinn Bergur Þór Ingólfsson og fjölskylda hans höfðu hátt vegna uppreistar æru tveggja dæmdra barnaníðinga. Bergur Þór segir margt svipað í sínu máli og máli stúlknanna sem hafa sakað lögreglumann um kynferðisbrot. Hann segir ljóst að rannsaka þurfi rannsókn mála stúlknanna en spyr sig hvort einhver sé hæfur til þess á landinu.
„Þetta ætti að vera risastórt mál, bæði fyrir stjórnvöld og lögregluna. Hvar sem er í heiminum lægi heiður yfirvalda undir.
Ég hef enga ástæðu til að vefengja frásögn Helgu og Kiönu. Ég trúi líka á réttarkerfið en ekki gagnrýnislaust. Ef rannsókn málsins var jafnábótavant og komið hefur fram í fjölmiðlum grefur það undan öllu trausti. Var 11 ára barn ekki sent í læknisskoðun eftir að það segir frá kynferðislegri misnotkun af hendi stjúpforeldris? Var meintur gerandi sem starfar í lögreglunni hugsanlega ráðgefandi á vettvangi við rannsókn málsins? Hvers vegna var honum ekki vikið frá á meðan á rannsókn stóð? Hvers vegna er frásögn barns í Barnahúsi ekki tekin gild? Hvaða ástæður liggja að baki því að þrjár ásakanir um kynferðislega misnotkun lögreglumanns á börnum eru ekki rannsakaðar sem eitt mál? Var heimatilbúið Excel-skjal tekið gilt sem fjarvistarsönnun? Ég held að Halldóra Baldursdóttir, móðir meints brotaþola, sé ekki eina foreldrið sem vilji fá svör við þessum spurningum. Ég held að allir foreldrar landsins vilji fá að vita hvernig tekið verður á móti þeim komi þau til með að standa í hennar sporum,“ segir leikarinn Bergur Þór Ingólfsson um mál kvennanna tveggja, Helgu Elínar og Kiönu Sifjar, sem hafa stigið fram í Mannlífi og sakað lögreglumann um kynferðisbrot þegar þær voru á barnsaldri. Alls voru þrjár stúlkur sem sökuðu manninn um kynferðisbrot en málin voru látin niður falla vegna ónægra sannanna.
Bergur Þór og fjölskylda hans hafði svo sannarlega hátt á síðasta ári í kjölfarið á þeim fréttum að Robert Downey, dæmdur barnaníðingur sem hafði meðal annars brotið gróflega á dóttur Bergs, hefði fengið uppreist æru og lögmannsréttindi sín aftur. Á sama tíma fékk annar dæmdur barnaníðingur, Hjalti Sigurjón Hauksson, uppreist æru. Bergur Þór, fjölskylda hans og nokkrir brotaþolar Roberts, linntu ekki látunum og skók málið samfélagið, ekki síst þegar upp komst að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, hafði veitt fyrrnefndum Hjalta góða umsögn þegar hann sótti um uppreist æru. Afleiðingar þessarar miklu baráttu var að ákvæði um uppreist æru var fellt úr almennum hegningarlögum og Björt framtíð ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu við Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn og þar með féll ríkisstjórnin.
Á laugardaginn verður eitt ár síðan að Bergur Þór, hans nánustu og brotaþolar Roberts Downey byrjuðu að hafa hátt. Hann segir mál Helgu Elínar og Kiönu Sifjar minna um margt á sína eigin baráttu.
„Þeim virðist vera gert jafn erfitt fyrir og okkur að láta rödd sína berast. Ég veit ekki hvað skal kalla þetta, hvort þetta er afskiptaleysi, áhugaleysi eða samtrygging. Það er eins og sumt fólk tengi hreinlega ekki við þetta eða óttist að tala um þetta. Í okkar máli byrjuðum við á að spyrja forsetann, sem benti á stjórnarskrána, sem benti á ríkisráð, sem benti á forsætisráðherra, sem benti á dómsmálaráðherra, sem benti á persónuverndarlög og svo framvegis. Endalaust. Þetta virðist vera aðferðin sem notuð er til að þagga mál niður. Að lokum reis forsetinn upp úr þessu rugli og gaf út yfirlýsingu vegna málsins með afgerandi hætti en ég veit ekki af hverju aðra æðstu ráðamenn skorti hugrekki til að taka af skarið. Þegar við erum að fjalla um börn ættum við að rísa upp á afturlappirnar og veita þeim vernd. Kiana og Helga hafa gengið í gegnum það sama og við en á miklu lengri tíma. Þær eru ótrúlega hugrakkar og búa yfir þvílíkum styrk að hafa haldið þetta út. Þær eiga það skilið, sem og börn framtíðarinnar, að þetta sé gert upp og að þetta sé hreinsað. Ef þeim hefur dottið í hug að skálda þetta upp ellefu ára gömlum, þyrfti einmitt líka að rannsaka hvaðan hugmyndir um kynlíf fullorðinna með börnum eru fengnar,“ segir Bergur.
Í viðtali við Mannlíf benti Halldóra Baldursdóttir, móðir Helgu Elínar, á ýmsa vankanta á rannsókn máls dóttur sinnar. Til dæmis að sakborningur hafi farið með rannsakendum á vettvang þegar sumarbústaður þar sem brotin áttu að hafa átt sér stað var rannsakaður. Einnig sagði hún að málið hefði verið látið niður falla meðal annars vegna vitnisburða vinahjóna sakbornings sem voru með í för í bústaðnum. Báru þau við minnisleysi vegna drykkju. Sakborningi var ekki vísað úr starfi á meðan málin voru rannsökuð og starfar hann enn innan lögreglunnar. Þá hefur Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, ekki viljað tjá sig um málið. Embætti ríkislögreglustjóra hefur bent á að ekki hafi verið unnt að vísa sakborningi úr starfi á meðan á rannsókn stóð vegna þess að ríkissaksóknari hafi neitað embættinu um nauðsynleg gögn. Það er hins vegar mat innanríkisráðuneytis að ríkislögreglustjóri hafi ekki þurft þessi gögn til að leggja mat á hvort rétt væri að vísa manninum úr starfi um stundarsakir.
Bergur Þór segir ljóst að það þurfi að rannsaka hvernig staðið var að rannsókninni á sínum tíma.
„Réttvísin á að vera blind en ekki á þann hátt að hún loki augunum fyrir öllu óþægilegu. Réttlætisgyðjan er með bundið fyrir augun svo hún fari ekki í manngreinarálit. Það á ekki að skipta máli í hvaða stjórnmálaflokki þú ert eða í hvaða íþróttaklúbbi, hver hörundslitur þinn er eða trú. Fólk sem hefur menntað sig í lögum og reglum á ekki að njóta neinna sérkjara liggi það undir grun. Hvernig þetta mál virðist hafa verið unnið er ekki til að auka traust almennings á lögregluna. Rannsóknina þarf að rannsaka. Best væri ef málið yrði tekið upp aftur,“ segir Bergur Þór og bætir við að hann kannist vel við það sem stúlkurnar séu að lenda í – að hvert embætti bendi á annað.
„Það er nákvæmlega það sama og við stóðum frammi fyrir. Þetta virðist vera tækni og þessi tækni heitir þöggun. Að þegja. Að svara ekki. Að takast ekki á við þetta. Að benda hver á annan. Að reiðast pínulítið. Að vitna í gömul lög og hefðir, helst þannig að almenningur skilji alls ekki neitt. Þetta virðist vera skilyrt og lærð leið til að takast á við svona leiðindi. Það getur verið að þetta sé ómeðvitað en þetta heitir ekkert annað en þöggun.“
Viðbrögð stjórnvalda viðhéldu ofbeldinu
Að mati Bergs Þórs, hvað geta þær Kiana og Helga, og ef til vill þriðja stúlkan, gert í málinu eins og sakir standa?
„Það sem þær eru að gera núna er í raun eina leiðin. Þær hafa í rauninni engu að tapa og hafa gert þetta algjörlega frábærlega. Þær hafa bent á vankantana og hafa staðið í þessari baráttu mjög skynsamlega finnst mér. Mér finnst þær vera hetjur,“ segir Bergur Þór.
Er hann lítur yfir síðasta árið segist hann enn vera að vinna úr þessari háværu baráttu sem tók sinn toll af fjölskyldunni. Hann gleðst samt yfir því að aðrir sem hafi svipaða sögu að segja treysti sér til að opna sig.
„Við sögðum um áramótin: Gleðilegt nýtt ár og fari 2017 fjandans til,“ segir Bergur Þór, staldrar við eitt augnablik og heldur svo áfram. „Við erum öll að vinna úr þessu enn þá. Þessi viðbrögð sem við fengum frá stjórnvöldum endurvörpuðu ofbeldinu og viðhéldu því. Í kjölfarið blossaði #metoo-byltingin upp þannig að þetta er ekki búið. Bara að þessar konur séu að stíga fram núna, eftir að móðir annarrar þeirra hafi hrópað út í tómið í átta ár, sýnir okkur það. Auðvitað erum við ánægð með að það sé komin leið til að ræða þetta. En þetta situr náttúrlega í okkur. Það tekur tíma að vinda ofan af þessu öllu saman, ekki síst þöggunartilburðum stjórnvalda. Það virðist eins og allt kerfið vinni á móti fólki í svona málum. Í okkar máli var eins og hefðir og úrelt lög væru ofar skynsemi og manngildum. Við erum heldur alls ekki ánægð með hvernig lögunum um uppreist æru var bara kippt úr sambandi án alls samhengis eða annarra úrræða. Enn mega margdæmdir barnaníðingar aka skólabílum og mæta sem lögmenn í Barnahús lögum samkvæmt,“ segir Bergur Þór.
Var baráttan þess virði?
„Að sjálfsögðu var þetta allt þess virði. Ég vil til dæmis benda á það að Anna Katrín Snorradóttir fékk viðurkenningu frá lögreglunni um að frásögn hennar væri tekin trúanleg þótt málið teldist fyrnt. Það er allavega hálfur sigur. Fjölmiðlar stóðu sig mjög vel og við vorum heppin að við höfðum hátt að sumri til því þá var ekkert Alþingi eða veiðigjaldafrumvarp til að aftengja umræðuna. Ef þetta verður ekki lagað verða einungis fréttir af svona málum þegar þingið fer í sumarfrí sem er sorglegt.“
Þorsteinn B. Friðriksson varð augasteinn þjóðarinnar á nánast einni nóttu þegar leikurinn QuizUp, sem fyrirtæki hans Plain Vanilla framleiddi, varð vinsælasti tölvuleikur í heimi. Að sama skapi var fólk krítískt þegar selja þurfti leikinn úr landi og loka fyrirtækinu hér. Þorsteinn segir það hafa gengið nærri sér en hann hafi lært af mistökunum og sé tilbúinn að gera betur. Nýtt fyrirtæki hans, Teatime, hefur fengið rífandi start og hann fullyrðir að hugmyndin að baki þess hafi alla burði til að verða miklu útbreiddari en QuizUp var.
Nýtt fyrirtæki Þorsteins og þriggja annarra, Teatime Games, hefur tryggt sér fjármögnun erlendra fjárfesta upp á tæpan milljarð íslenskra króna til að þróa nýjan leikjabúnað fyrir snjallsíma. Í stuttu máli segist hann bara vera ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið þessar góðu undirtektir. „Það þýðir þá kannski að það er eitthvert vit í því sem maður er að gera og þeim hugmyndum sem maður er með. Þegar erlendir sjóðir þar sem eru sérfræðingar í tæknifjárfestingum eru tilbúnir að veðja svona miklu á þennan hest, án þess að við séum í rauninni búnir að framleiða neitt þá fyllist maður auðvitað þakklæti og auðmýkt.“
Spurður hvort það hafi kostað mikla vinnu að fá þessa stóru fjárfesta að borðinu viðurkennir hann að svo sé. „Já, já, það er vinna,“ segir hann hógvær. „En hins vegar finn ég fyrir því að reynslan af Plain Vanilla hefur gert það mun auðveldara núna að fá inn fjármagn. Kannski vegna þess að teymið sem stendur að þessu fyrirtæki, Teatime Games, stóð að framleiðslu QuizUp og hefur sýnt fram á það að við getum framleitt eitthvað sem virkar. Þannig að ef ég ber saman hvernig það var að fá inn fjármagn fyrir Plain Vanilla og Teatime þá er þetta allt annað ferli núna.“
Nýtur góðs af fyrri tengslum
Þorsteinn vill þó ekki kannast við að vera orðinn stórt nafn í þessum geira þegar hann er spurður út í það.
„Nei, nei, en hins vegar er þetta ótrúlega lítill heimur, sem oft er kenndur við Sílíkondalinn, og QuizUp náði þeim hæðum að verða mjög vel þekkt forrit út um allan heim og sérstaklega hjá þeim í Sílíkondalnum sem fylgjast grannt með því sem er að gerast í tækninni og við fundum alveg fyrir því að þegar það gekk sem best með QuizUp þá vildu allir fjárfesta í fyrirtækinu. Þannig að það má segja að ég njóti góðs af þeim tengslum sem mynduðust í gegnum það. Þá kynntist ég þeim helstu í þessum bransa og það er auðveldara að fá áheyrn hjá þeim núna.
Ég man þegar ég flutti til San Francisco og var að fara af stað með Plain Vanilla þá var nánast ómögulegt að fá fundi með þessum stóru sjóðum. En nú er þetta miklu auðveldara þar sem maður þekkir orðið margt af þessu fólki persónulega. En samt sem áður skal ég alveg viðurkenna það að ég átti ekki von á því að það myndi ganga svona hratt og vel að fá fjármagn inn í Teatime.
Sérstaklega þar sem fjárfestar vilja oft helst ekki vera mikið að fjárfesta í fyrirtækjum sem hafa ekki enn gefið út neina vöru. Þeir vilja oft bíða eftir því að það komi eitthvað út og ef það verður vinsælt þá hrúgast þeir inn og vilja setja peninga í það. Þannig að ég held að auk þess sem tengsl okkar inn í Sílíkondalinn skiptu auðvitað máli þá hafi hugmyndin sem Teatime gengur út á alla möguleika á að verða miklu stærri heldur en QuizUp var nokkurn tíma.“
Gæti breytt tölvuleikjaspili til frambúðar
Þorsteinn er tregur til að gefa of mikið upp um það út á hvað hugmyndin gengur en fellst þó á að gefa okkur örlitla innsýn í það. „Við viljum ekki gefa það alveg upp út á hvað hún gengur, einfaldlega af samkeppnisástæðum,“ segir hann. „En sýn Teatime er í stuttu máli sú að leikir yfirhöfuð, það að spila einhver spil, sé eitthvað sem fólk hafi sótt í í þúsundir ára. Það hefur alltaf verið einhver þörf hjá okkur mannfólkinu að spila saman spil. Við lítum svo á að verðmæti þess að spila spil hafi alltaf verið meira fólgin í þessu „sósíal elementi“. Þú spilar ekki olsen olsen við einhvern vegna þess að það sé svo vel hannað spil, heldur vegna þess að það er gaman að eiga stund með einhverri annarri manneskju og spjalla í kringum spilið, vera í samskiptum við annað fólk. Tölvuleikir, eins og Playstation og Nintendo, eru frábærir en samt sem áður var skemmtilegast að spila þá með vinum sínum og spjalla saman á meðan. Svo komu snjallsímarnir sem til er rosalega mikið af leikjum fyrir sem hafa algjörlega slegið í gegn en þeim fylgir sá ókostur að símar eru tæki sem maður notar bara einn, það að spila leik í snjallsíma er meira einangrandi og þannig missir sá sem spilar af þessum miklivæga þætti sem eru samskiptin við annað fólk.
Það sem við erum að byggja í Teatime er ákveðin tækni til þess að leyfa fólki að spila saman leiki í símanum og eiga um leið mjög rík og skemmtileg samskipti hvert við annað. Þetta er leið til að spila við vini eða kynnast nýju fólki á hátt sem hefur ekki verið gerður áður. Þetta virðist vera það góð hugmynd að þessir fjárfestingasjóðir eru tilbúnir til að leggja tæpan milljarð í okkur án þess að við séum búnir setja neitt á markað enn.“
Hitti toppana úr Sílíkondal í Oxford
Spurður hvernig staðið hafi á því að hann lenti inn í tölvuleikjageiranum, segir Þorsteinn að það eigi sér ýmsar skýringar. Hann hafi samt ekki verið neitt sérstakur tölvuleikjanörd þegar hann var strákur, þótt hann hafi auðvitað spilað þá eins og allir krakkar á þeim tíma. Þar að auki sé hann ekki forritari, en hann hafi alltaf verið tækjakall með áhuga á bissness.
„Ég hef alltaf haft áhuga á tölvun en meiri áhuga á viðskiptahliðinni samt,“ útskýrir hann. „Ég fór í viðskiptafræði í Háskólanum og lagði áherslu á markaðsmálin. Svo gerist það þegar iPhoninn kemur að ég heillast alveg af þessari nýju tækni og fer að velta fyrir mér möguleikunum sem hún býður upp á. Á sama tíma er ég að flytja út til Englands og hefja MBA-nám í Oxford-háskóla og þar kviknar þessi neisti og ég átta mig á því hvað heimurinn er að verða spennandi með tilkomu þessara nýju tækja. Í háskólanum í Oxford voru þeir með prógramm sem hét Silicon Valley comes to Oxford og fengu alla helstu toppana úr Sílíkondal, algjöra þungavigtarmenn í bransanum, til að koma og vera með vinnustofur fyrir okkur nemendurna. Ég féll alveg fyrir þessum heimi og þótti sérstaklega áhugavert að með þessum nýju tækjum var búið að brjóta niður öll landamæri þegar kom að dreifingu. Þannig að allt í einu opnaðist sá möguleiki að vera með fyrirtæki á Íslandi sem væri að keppa á alþjóðlegum markaði. Það fannst mér mjög spennandi.“
En þegar þú fórst upphaflega í viðskiptafræðina hvað hafðirðu þá hugsað þér að verða þegar þú yrðir stór?
„Ég bara vissi það ekki,“ segir Þorsteinn og hlær. „Ég hafði ætlað mér að verða leikari þegar ég var lítill og eftir viðskiptafræðina vann ég stutta stund sem fréttamaður, bæði á RÚV og Stöð2, og var að máta mig við alls konar störf. Ég fór eiginlega bara í viðskiptafræðina til að skilja aðeins betur hvernig heimurinn virkar. En eftir þessa reynslu í Oxford voru örlög mín ráðin. Ég stofnaði Plain Vanilla 2010 og fyrsti tölvuleikurinn sem ég bjó til var barnaleikur sem hét Moogies. Hann gekk mjög illa, vægast sagt, en ég hélt ótrauður áfram.“
Nýtt fyrirtæki og ný kærasta á sama tíma
Er þetta ekki brjálæðisleg vinna? Áttu eitthvert einkalíf?
„Ég á tvö börn sem eru núna 13 og 9 ára og ég sinni þeim auðvitað auk þess sem ég er í tiltölulega nýju sambandi og á tvo ketti. Það er ekki mikið meira sem ég kemst yfir,“ segir Þorsteinn. „Ég og barnsmóðir mín skildum fljótlega eftir að við komum heim frá Oxford og eftir það stofnaði ég Plain Vanilla. Það var náttúrlega brjálæðisleg vinna að koma því fyrirtæki á koppinn og ég viðurkenni það alveg að það er ekkert sérstaklega hentugt á þessum fyrstu stigum fyrirtækis að vera í sambandi. Það gafst ekki mikill tími fyrir það.“
Með uppgangi Plain Vanilla varð Þorsteinn skyndilega þjóðareign og allir fylgdust grannt með öllu sem hann tók sér fyrir hendur, hvernig upplifun var það?
„Þegar QuizUp sló í gegn, undir lok árs 2013, þá beindust augu allra Íslendinga að þessu fyrirtæki. QuizUp varð vinsælasti leikur í heiminum á tímabili og ég skil það mjög vel að við sem lítil þjóð eigum það til að verða mjög stolt af því sem Íslendingar eru að gera, sérstaklega á erlendri grundu. Þannig að við urðum svona pínulítið óskabarn þjóðarinnar. Við stækkuðum rosalega hratt og vorum mjög mikið í fjölmiðlum og ég fann auðvitað líka fyrir því að áhugi á mér sem persónu óx. Sem hafði bæði ýmsa kosti og ókosti. Það erfiðasta við það var þegar við síðan lendum í því, í lok árs 2016, að sjá fram á það að þurfa að selja QuizUp úr landi og loka Plain Vanilla-skrifstofunum á Íslandi. Það var sérstaklega erfiður tími fyrir mig. Eftir að hafa í nokkur ár verið óskabarn þjóðarinnar og mikið í umræðunni var það mikið áfall að þurfa að loka og segja upp næstum hundrað manns. Þetta gerðist í byrjun árs 2017, það er bara eitt og hálft ár síðan.
Í gegnum það sem ég hef verið að gera hafa verið margir stórir sigrar en líka svo stórir ósigrar og ég held að það sé eitthvað sem ég þurfi að sætta mig við til að geta haldið áfram með það líf sem ég valdi mér með því að fara út í þetta. Að keppa í tæknibransanum á alþjóðlegu markaðssvæði þýðir að þú ferð ýmist hratt upp eða hratt niður. Og ég viðurkenni það að eins gaman og það er þegar gengur vel, eins og þegar við slógum í gegn með QuizUp, þá er jafnerfitt að standa frammi fyrir því að þurfa að loka fyrirtækinu og um leið að berjast við allar þessar sögusagnir um alls konar ástæður fyrir því. Maður fær yfir sig her af fólki sem vill endilega segja manni hvað maður hefði átt að gera öðruvísi, hvort sem það er á opinberum vettvangi eða fólk á förnum vegi.
Eftir að QuizUp var lokað ákvað ég að taka mér árs frí til að hreinsa hugann, ákveða næstu skref en það gekk ekki betur en svo að tveim eða þrem mánuðum seinna hópuðum við okkur saman fjórir æðstu stjórnendurnir hjá QuizUp og ákváðum að gefast ekki upp og fá okkur aðra vinnu, það er svo gefandi og skemmtilegt að skapa eitthvað svona. Núna vorum við reynslunni ríkari og vissum betur hvað þarf til og við fórum yfir alls konar hugmyndir sem við urðum spenntir fyrir en reyndust kannski ekki sniðugar við nánari skoðun. Svo kom pælingin um Teatime upp síðasta sumar og það er gaman að hugsa til þess hvað hlutirnir hafa breyst hratt.
Fyrir nákvæmlega ári síðan var þessi hugmynd ekki komin upp og ég var dálítið leiður. Ég var ekki í sambandi, ekki með vinnu og dapur yfir því hvernig þetta fór með QuizUp. Svo kom þessi Teatime-hugmynd upp stuttu síðar og þá fór allt af stað. Við fengum strax í september inn 1,6 milljóna dollara fjárfestingu í hugmyndina og mánuði seinna, í október, kynnist ég konu sem er núna kærastan mín sem er það besta sem hefur hent mig í mörg ár.
Þetta er búinn að vera heljarinnar rússíbani. Að fara í gegnum svona áfall sem það var fyrir mig að loka Plain Vanilla og vera svona fljótur að stíga aftur í fæturna og vera ári seinna kominn með fyrirtæki með trygga fjárfestingu og fimmtán starfsmenn sem eru hver öðrum klárari að búa til eitthvað sem ég held að muni breyta því hvernig fólk spilar tölvuleiki næstu áratugi. Þannig að ég hef lært að ef maður einsetur sér að takast á við erfiðleika, reyna að læra af þeim og reyna að nýta styrkleikana í því sem vel var gert og reyna að forðast að endurtaka mistök þá er það bara þannig að svona niðursveiflur eru hluti af þessari lærdómsferð sem felst í því að stofna fyrirtæki. Og ég er ótrúlega þakklátur öllu fólkinu sem ég hef kynnst í gegnum þetta.“
Með stóra skuld á bakinu
Spurður hvort honum hafi aldrei dottið í hug að gefast bara upp og fara að vinna við eitthvað allt annað, viðurkennir Þorsteinn að það hafi hvarflað að honum. „Jú, jú, margoft,“ svarar hann glaðbeittur.
„Ég skil ekki hvers vegna ég er enn þá í þessu, það er eiginlega bara algjört kraftaverk. Eftir Moogies-floppið var ég persónulega með 20 milljóna króna skuld á bakinu og sá ekki hvernig ég ætti nokkurn tíma að geta unnið mig upp úr því. Þú vinnur þig ekkert svo auðveldlega út úr tugmilljóna króna skuld sem launamaður einhvers staðar.
Ég hafði líka alveg áhyggjur af mér eftir Plain Vanilla þar sem það hefur verið svo mikið í kastljósinu á Íslandi. Það er auðvitað allt í lagi, það fylgir þessu bara, en ég er á svo ótrúlega góðum stað núna, bæði með Teatime og einkalífið sem er í góðu jafnvægi og börnin mín eru mínir helstu stuðningsmenn í öllu og maður þarf að muna að njóta stundarinnar þegar allt gengur upp.“
En hvað með önnur áhugamál, tekur vinnan allan þinn tíma? Hvernig nýturðu lífsins þegar þú ert ekki í vinnunni?
„Ég hef ekki áhuga á neinu öðru og á engin áhugamál,“ svarar Þorsteinn glottandi. „Ég hef ekki mikinn tíma til að gera neitt annað en sinna vinnunni og fjölskyldunni. Ég er með konu, tvö börn og tvo ketti og þarf að ferðast alveg gríðarlega mikið út af vinnunni þannig að það að reyna að smeygja inn golfi eða veiði eða einhverju svona sem manni finnst að maður ætti að vera að gera verður því miður bara að bíða þangað til ég er kominn á eftirlaun. Ég held að ein mesta gæfa sem maður getur lent í sé þegar vinnan manns er líka áhugamálið og ég er svo sannarlega á þeim stað. Það sem mér finnst kannski skemmtilegast, þar sem ég sjálfur er hvorki forritari né hönnuður, er að finna „extraordinary“ fólk sem er algjörir snillingar á sínu sviði og sannfæra það um að einhver hugmynd sé góð. Safna því svo saman og sjá hvað gerist þegar þú býrð til fyrirtæki með kláru fólki. Verðmætin sem hægt er að skapa á stuttum tíma með svona blöndu er það sem mér finnst að Ísland ætti að fókusera á í staðinn fyrir að einblína á stóriðju. Þessi mannauður sem við eigum býður upp á svo mikla möguleika. Mér finnst það ótrúlega spennandi og pæli mikið í því hvernig fyrirtæki eiga að virka, hvernig kúltúrinn eigi að vera, hvernig hægt sé að gera þetta öðruvísi en gömlu fyrirtækin og búa til sem mest verðmæti með fólkinu sínu. Það er mitt áhugamál.“
Ekki alltaf bestur eins og mamma sagði
Sérðu fyrir þér að Teatime verði stærra en QuizUp?
„Það er erfitt að segja. Þessi bransi er svo rosalega áhættusamur. Það gæti gerst á morgun að allt í einu poppi upp einhver annar með eitthvað svipað sem myndi minnka okkar möguleika til að ná árangri. Þannig að vinnan mín felst líka í því að vera stöðugt að fylgjast með því hvað er að gerast í bransanum. En ég er hins vegar alveg sanfærður um það að ef við framkvæmum þetta vel þá hefur þetta möguleika á að verða miklu stærra heldur en QuizUp, já. Það er nefnilega svo skemmtilegt með hugmyndir að það er alveg ótrúlega oft sem fólk er haldið þeim misskilningi að það sé nóg að vera með hugmynd. Svo geti maður bara hallað sér aftur og látið einhvern annan sjá um framkvæmdina. Það er rangt. Fyrir utan það að ef þú ert með hugmynd sem er góð þá get ég lofað þér því að það hafa að minnsta kosti þúsund aðrir í heiminum fengið nákvæmlega sömu hugmynd. Það sem skilur á milli er að hafa drifkraftinn til að framkvæma hugmyndirnar vel. Ég held að ein af ástæðunum fyrir því hvað okkur gekk vel að fá fjármagn inn í þetta fyrirtæki núna sé að auk þess að vera með góða hugmynd höfum við sýnt fram á að við erum fær um að framkvæma hana.“
Hefurðu alltaf verið svona stórhuga? Hefurðu alltaf ætlað þér að sigra heiminn?
„Jaaá, ég held það bara,“ segir Þorsteinn hugsi. „Ég var mjög lengi einkabarn og fyrsta barnabarn í báðum ættum, þannig að það getur verið að ég hafi það syndróm í mér að hafa verið hampað of mikið sem barni. Svo uppgötaði ég við mín fyrstu mistök að ég var ekki alltaf bestur, eins og mamma hafði sagt mér. En ég held ég hafi alltaf haft mikinn metnað og það er ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara í Oxford og síðan að gera það sem ég hef verið að gera. Það jókst þegar ég fór að hitta fólk utan Íslands sem var alþjóðlega þenkjandi og leit á heiminn sem eitt stórt markaðssvæði. Ég man að þegar ég var að byrja að tala við hugsanlega samstarfsaðila, þurfti að ná sambandi við einhvern hjá Apple eða Google, til dæmis, þá fannst manni það algjörlega óyfirstíganleg hindrun, hvernig ætti ég að tala við einhvern háttsettan hjá svona stóru bandarísku fyrirtæki? Maður lagði varla í það en svo fattar maður að bak við öll þessi fyrirtæki er bara venjulegt fólk og ef maður leggur sig fram og talar við þetta fólk þá getur maður gert alls konar skemmtilega hluti.“
Tíminn er að hlaupa frá okkur, er eitthvað sem Þorsteini liggur á hjarta og vill koma á framfæri við þjóðina?
„Ég vil bara undirstrika það að þótt maður lendi í erfiðleikum, hvort sem það er að þurfa að loka fyrirtæki eða eitthvað annað, þá getur maður nýtt þá erfiðleika sem eldsneyti í eitthvað stærra og meira. Mér finnst þessi saga mín geta verið vonarneisti fyrir alla þá sem eru í niðursveiflunni í lífsrússíbanananum núna. Á einu ári fór ég frá því að syrgja lokun fyrirtækis sem ég hafði lagt mig fram um að byggja upp í það að fagna velgengni nýs fyrirtæki sem ég er að byggja upp með góðu fólki. Og ég er afskaplega þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri.“
Reiði meðal kvikmyndagerðarmanna vegna ráðningar nýs ráðgjafa hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Mikil óánægja ríkir meðal kvikmyndagerðarmanna vegna ráðningar nýs ráðgjafa hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Felst óánægjan meðal annars í því að starfið skuli ekki hafa verið auglýst laust til umsóknar. Kvikmyndagerðarmaður sem Mannlíf ræddi við og ekki vill láta nafns síns getið segir marga kvikmyndagerðarmenn setja spurningamerki við faglega þekkingu og hæfi Önnu Maríu Karlsdóttur framleiðanda sem var ráðin til að gegna stöðunni. „Hún kemur í stað Martins Schlüter sem hefur farið yfir styrkumsóknir fyrir heimildamyndir,“ segir viðkomandi. „Margir voru ósáttir við að aðili sem hefur ekki víðtækari þekkingu en hún á heimildamyndagerð skuli vera ráðin í þá stöðu að veita ráðgjöf varðandi klippingu og handritagerð slíkra mynda. Þegar athugasemd var gerð við þetta var starfslýsingunni skyndilega breytt og hún einfaldlega titluð sem ráðgjafi og gefið í skyn að fyrirkomulagið væri bara til bráðabrigða til að fylla upp í eyðuna sem varð þegar Martin hætti. Þetta er allt saman stórskrítið, því eins og þetta lítur út núna er eins og þetta sé klíkustarfssemi og fólk er brjálað út af þessu. Það hefði klárlega mátt fyrirbyggja stöðuna sem er komin upp með því að auglýsa starfið laust til umsóknar.“
Misskilningur á ferð
Mannlíf náði sambandi við Laufeyju Guðjónsdóttur, forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, sem segir í skriflegu svari að um sé að ræða tímabundna ráðningu „til sex mánaða og heimilt að ráða þannig án auglýsingar. Sá sem gegndi starfinu þurfti að hætta með mjög stuttum fyrirvara vegna annarra starfa og því töldum við áríðandi að fylla í skarðið sem fyrst. Það er sem sagt millibilsástand núna en má vænta breytinga og verður auglýst eitthvað síðar.“
Laufey segir jafnframt að viðkomandi sem var ráðin búi yfir viðamikilli þekkingu á flestum sviðum kvikmyndagerðar síðastliðin u.þ.b. 25 ár auk þess að vera vel að sér í kvikmyndasögu og menningu. „Reynslan er meðal annars í þróun verkefna, framleiðslu, kynningu og markaðssetningu. Það er rétt að mestanpart hafa það verið leiknar myndir þótt hún hafi líka komið að heimildamyndagerð. Það má vænta þess að bakgrunnur hennar sé þannig að hún hafi forsendur til að vinna á faglegum nótum – þótt vissulega þurfi flestir að taka á þegar fengist er við nýtt starf,“ svarar hún og bendir m.a. á að handrit, efnistök og strúktúr hvers verkefnis sé metið af kvikmyndaráðgjafa auk framleiðslu-, kostnaðar- og dreifingarmáta, o.s.frv. Það gæti því ef til vill smámisskilnings „að viðkomandi eigi að veita rágjöf um klippingu og vinnslu myndarinnar, það er alltaf á höndum hvers leikstjóra eða þeirra sem hann velur með sér til verksins.“
Getur ekki tjáð sig um einstök mál
Mannlíf hafði samband við Margréti Örnólfsdóttur, formann Félags leikskálda og handritshöfunda vegna málsins. Hún sagðist ekki geta tjáð sig um þetta einstaka mál, en það láðist að koma því á framfæri við vinnslu fréttarinnar. Margrét sagði að almennt væri gott ef allir verkferlar væru skýrir til að fyrirbyggja misskilning. „Ég tel mjög mikilvægt að starf ráðgjafa sé auglýst. Að það sé farið eftir verkferlum sem eru gegnsæir,“ segir Margrét. „Þetta er lítill sjóður, fáir ráðgjafar og mikið undir hjá fólki, því ráðgjafarnir hafa úrskurðarvald um framtíð verkefnanna sem fólk er að vinna að. Það er því skiljanlegt að fólki sé ekki sama hvernig staðið er að þessu. Þetta verður að vera faglegt og uppi á borðum og það er slæmt ef einhver vafi leikur á því að þetta sé í lagi,“ bendir hún á. „Ég get ekki tjáð mig um ráðningar einstakra ráðgjafa, en það er mikilvægt að svona ferli séu skýr svo það komi ekki upp einhver misklíð sem fer að beinast að persónum sem eiga í hlut. Því á endanum snýst hlutverk Kvikmyndasjóðs um að styðja við íslenska kvikmyndagerð, svo við höldum áfram að eflast og þroskast sem atvinnugrein.“
Það er hin bandaríska Carla Rhodes sem kennir búktalstæknina en hún byrjaði að æfa sig í þessari ævafornu list þegar hún var níu ára gömul. Í dag er hún einn vinsælasti búktalari New York-borgar og var meðal annars tilnefnd til Andy Kaufman-grínverðlaunanna árið 2012.
Námskeiðið fer því fram á ensku en Margrét Erla sér um að túlka jafnóðum.
Á námskeiðinu verður farið í grunntækni búktals og eru krakkar hvattir til að koma með eigin bangsa, brúðu eða jafnvel bara sokk. Það má segja að búktal sé orðið vinsælt aftur, eftir nokkurn tíma í dvala, eftir að hin ellefu ára gamla Darci Lynne hrósaði sigri í hæfileikakeppninni America’s Got Talent síðastliðið haust en hæfileiki hennar var einmitt búktal.
Til að bæta á búktalarafjörið er vert að minnast á að Konni og ferðataskan hans eru á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins um þessar mundir en frægasta búktalaratvíeyki Íslands er án efa Baldur og Konni sem voru upp á sitt besta um miðbik síðustu aldar.
Velska söngdívan Bonnie Tyler stígur á sviðið Valhöll á tónlistarhátíðinni Secret Solstice annað kvöld klukkan 22.30, en það er óhætt að segja að margir Íslendingar hafi beðið með eftirvæntingu eftir að sjá dívuna þenja raddböndin.
Bonnie á aragrúa af þekktum lögum og er hvað þekktust fyrir stórar og miklar kraftballöður. Hún á þó líka sínar mjúku hliðar, en ef listar yfir lög sem hún hefur tekið á tónleikaferðalagi á þessu ári eru skoðaðir er mjög líklegt að við fáum að heyra þessi lög:
Have You Ever Seen the Rain?
Bonnie byrjar rólega með ábreiðu af þessu þekkta lagi sem Creedence Clearwater Revival gerði frægt.
It’s a Heartache
Annað rólegt lag, sem margir kannast við, sem Bonnie tekur yfirleitt í fyrri hluta tónleika sinna.
Total Eclipse of the Heart
Ekki búast við því að Bonnie byrji á þessum þrumusmelli en líklegt er að þetta epíska lag komi um miðbik tónleikanna til að keyra stemninguna upp.
Faster Than the Speed of Night
Það eru fá lög sem geta komið á eftir Total Eclipse of the Heart en þetta er eitt af þeim.
River Deep, Mountain High
Ábreiða Ike og Tinu Turner-smellsins passar vel rétt áður en Bonnie vindur sér í eitt af sínum þekktustu lögum.
Holding Out for a Hero
Þetta truflaða lag úr kvikmyndinni Footloose er auðvitað síðast á dagskrá. Geggjaður slagari sem á eftir að senda alla í sæluvímu út í nóttina.
Tónlistarhátíðin Secret Solstice hefst með pompi og prakt á morgun, fimmtudaginn 21. júní, í Laugardalnum í Reykjavík. Meðal helstu listamanna sem troða upp eru Bonnie Tyler, Slayer, Stormzy og Gucci Mane, en tónlistarveislan stendur alveg fram á sunnudag. Dagskrána má sjá hér.
Það var mikil veðurblíða á höfuðborgarsvæðinu í dag og því fengu skipuleggjendur Secret Solstice fullkomið veður til að leggja lokahönd á tónleikasvæðið.
Ljósmyndari Mannlífs fékk að rölta um svæðið og taka myndir af því sem bar fyrir augu, en af myndunum að dæma verður nóg um að vera á hátíðinni. Ætli sé ekki best að leyfa þeim að tala sínu máli…
Einhverjir ættu að kannast við rússneska íþróttafréttamanninn Vasily Utkin eftir að DV birti frétt um þrumuræðu hans um íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu. Vasily var ekki ánægður með frammistöðu liðsins gegn Argentínu á HM og fann sig knúinn til að segja um það nokkur vel valin orð á YouTube-rás sinni.
„Þeir komu hingað til að eyðileggja fótboltann,“ segir hann til dæmis í nýju myndbandi á rásinni samkvæmt frétt DV, en myndbandið er á rússnesku.
„Þeir geta varist loftárásum en hver getur dáðst að því? Af hverju eruð þið að trufla okkur þegar við viljum horfa á fótbolta? Því fyrr sem þið pakkið niður og fljúgið heim á eldfjallið ykkar, því betra,“ bætir hann við.
Horft hefur verið á myndbandið rúmlega 83 þúsund sinnum þegar þetta er skrifað og hafa tæplega þrjú þúsund manns gefið því þumalinn upp á meðan tæplega 2500 manns hafa gefið því þumalinn niður. Það eru því ekki allir sammála Vasily um landsliðið okkar, enda sýndu strákarnir okkar frábæra takta í 1-1 jafntefli gegn goðsagnakenndu liði Argentínu.
Vanur því að valda usla
Þetta er langt frá því að vera í fyrsta sinn sem Vasily veldur usla. Hann er afar umdeildur í heimalandi sínu og segir nákvæmlega það sem hann hugsar, sem hefur oft komið honum í klandur. En það eru ekki aðeins orðin sem hann notar sem hafa bakað honum vandræði því líkamlegir kvillar hafa einnig sett sitt mark á feril hans. Í desember árið 2015 sofnaði hann þegar hann var að lýsa leik Barcelona og Bayer Leverkusen í Meistaradeildinni fyrir sjónvarpsstöðina Match TV sem var stofnuð af Vladimir Putin. Vasily sofnaði rétt fyrir hálfleik og var í kjölfarið sendur í leyfi frá störfum. Sagðist hann þá þjást af svefnvandamálum, en ekki bætti úr skák að Vasily byrjaði að tala hátt og skýrt upp úr svefni í beinni útsendingu.
Í fyrra kom líkaminn honum aftur í bobba þegar hann ræddi um leikform liðsins FC Lokomotiv Moskva á rússnesku útvarpsstöðinni Sport FM. Vasily, sem er um 150 kíló, hallaði sér aðeins of mikið aftur í stólnum með þeim afleiðingum að stóllinn brotnaði og Vasily féll á gólfið. Hann virtist ekki taka þetta alltof nærri sér og lét hafa eftir sér að hann hefði brotið fullt af stólum um ævina.
„Það er auðvitað stórmerkilegt og afar gleðilegt að sjá hvernig matarþorpið á Secret Solstice myndast og hvernig það hefur stækkað og dafnað í sögu hátíðarinnar,“ segir Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice þegar við spyrjum hann út í matarmenninguna á hátíðinni, sem fer fram í Laugardalnum næstu helgi.
Þess má til gamans geta að Björn er einnig matargagnrýnandi Reykjavík Grapevine, og því afar fróður um mat og drykk. Hann segir þá matarmenningu sem hafi skapast á Secret Solstice síðustu ár vissulega hafa haft sín áhrif á matarmenningu almennt í Reykjavík.
„Í dag sjáum við mikla „Street Food“-menningu í Reykjavík. Þar reið Hlemmur mathöll á vaðið og nú er komin önnur mathöll við Granda sem og Box í Skeifunni. Segja má að Solstice hafi verið fyrst vísirinn að þessari blómstrandi menningu en í ár verða alls fjórtán aðilar að selja mat og drykk á svæðinu,“ segir hann og bætir við:
„Úrvalið hefur aldrei verið betra og það er sérstaklega gaman að segja frá því að nú fáum við þrjá fulltrúa frá Hlemmi Mathöll til að taka þátt. Má kannski segja að þessi „Street Food“-menning sé þar með komin í heilan hring.“
Draga sem mest úr vistspori sínu
Úrval af valkostum í mat hefur stækkað jafnt og þétt á hátíðinni síðustu ár, en Björn segir að tónleikahaldarar séu í góðum tengslum við sína gesti, sem sumir komi ár eftir ár, og reyni að hafa úrvalið fjölbreytt til að höfða til sem flestra.
„Hátíðargestir er jafnan kröfuharðir og mjög meðvitaðir um umhverfi sitt. Það rímar vel við markmið hátíðarinnar að draga sem mest úr vistspori og hluti af því er að bjóða upp á vegan valkosti sem við höfum gert frá upphafi. Í ár er engin breyting þar á. Að því sögðu þá dæmum við heldur ekki fólk sem vill gæða sér á góðum borgara eða kjúklingavængjum. Við reynum að koma til móts við alla gesti og það hefur verið mikil og skiljanleg ánægja með úrvalið.“
En hver ætli sé vinsælasti matarvagninn á svæðinu?
„Það er ef til vill týpískt að segja frá því að vinsælasti vagninn er líklega Bæjarins bestu. Mikill fjöldi hátíðargesta kemur erlendis frá og fólk hefur heyrt talað um þessa blessuðu pylsu löngu áður en til Íslands er komið,“ segir Björn og hlær.
„Ég er persónulega ánægður með allt úrvalið, sérstaklega að fá vagn frá Rabbarbaranum og La Poblana, þar sem ég borða ekki kjöt sjálfur. Svo fá gestir þetta klassíska, Búllan er á staðnum, Laxavagn, Rvk Chips… listinn heldur áfram. Það verður enginn svangur á þessari hátíð, svo mikið er víst!“
Mexíkóska útgáfan af tímaritinu Glamour er búin að velja 24 kynþokkafyllstu leikmennina á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem fram fer um þessar mundir í Rússlandi.
Listinn er ekki tæmandi og gæti vel bæst í hann á næstu dögum, en við Íslendingar eigum tvo fulltrúa á listanum – þá Rúrik Gíslason og Ragnar Sigurðsson. Sá fyrrnefndi hefur reyndar verið mjög vinsæll meðal aðdáenda og bætti við sig rúmlega hundrað þúsund fylgjendum á Instagram á fyrstu klukkustundunum eftir leik Íslands og Argentínu á laugardaginn.
Blaðamenn Glamour segja að þessir 24 menn hækki hitastigið í Rússlandi með kynþokka sínum og hvetja fólk til að missa ekki af einum einasta leik þeirra á mótinu.
Með Rúrik og Ragnari á listanum eru heimsþekktir knattspyrnumenn, svo sem Cristiano Ronaldo og Sergio Ramos, en hér fyrir neðan má sjá nokkra af þeim mönnum sem blaðamenn Glamour eru hrifinir af.
Framhaldsmynd teiknimyndarinnar vinsælu mögulega í bígerð.
Íslenska teiknimyndin Lói – þú flýgur aldrei einn, sem var frumsýnd hérlendis í febrúarmánuði, hefur notið mikilla vinsælda víðsvegar um heim það sem af er árs og í ljósi þess íhuga aðstandendur hennar nú að gera framhald. „Það ræðst einfaldlega með haustinu þegar hún hefur verið tekin til sýninga á stærstu evrópsku mörkuðunum,“ staðfestir Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm, sem er annar framleiðandi myndarinnar, í samtali við Mannlíf. „En jú, við erum að skoða möguleikana á því að gera Lóa 2.“
Að sögn Hilmars hefur myndin þegar verið tekin til almennra sýninga á tíu mörkuðum. „Og eitthvað fleiri löndum, því til dæmis eru skráningar í Rússlandi yfir öll fyrrum ríki Sovétríkjanna,“ bendir hann á. Í öllum tilfellum hefur myndin verið á meðal tíu aðsóknarmestu mynda á frumsýningarhelgi og í átta af tíu hefur hún verið á lista yfir tíu aðsóknarmestu myndirnar fyrstu þrjár vikur sýningartímans. Meðal þeirra landa sem myndin hefur komið út í má nefna Mexíkó, Tyrkland, Argentínu, Úkraínu og Slóveníu. En samtals er búið að selja bíómiða á myndina fyrir um 2,4 milljónir Bandaríkjadala eða sem samsvarar 254.175.000 íslensku krónum og því óhætt að segja að myndin sé búin að gera það gott í miðasölunni.
„… myndin virðist heilla áhorfendur óháð landamærum og ganga vel upp, ekki síst í þeim löndum þar sem hún hefur verið talsett. Almennt heyrum við að hún sé heillandi og hlý.“
„Við erum mjög þakklát fyrir að myndin sé að gera sig í kvikmyndahúsum erlendis og ekki síður hér heima þar sem tæplega 24.000 manns hafa séð hana í kvikmyndahúsum,“ segir Hilmar. „Það er auðvitað hluti af því að ráðast í svo viðamikið verkefni að það falli í kramið og við erum þakklát fyrir móttökurnar.“
Hann kveðst ekki síður vera ánægður með að myndin skuli hafa unnið aðalverðlaunin á barnakvik-myndahátíðinni í Kristiansand í Noregi á dögunum. „Okkur fannst umsögn dómnefndarinnar mjög skemmtileg en í henni sagði eitthvað á þá leið að Lói væri einskonar Pixar-mynd með íslensku ívafi, en myndin virðist heilla áhorfendur óháð landamærum og ganga vel upp, ekki síst í þeim löndum þar sem hún hefur verið talsett. Almennt heyrum við að hún sé heillandi og hlý.“
Fyrir utan mögulega framhaldsmynd segir Hilmar framleiðslufyrirtækið GunHil, sem er hluti af Sagafilm-samsteypunni, vera að þróa teiknimyndaþáttaröð fyrir sjónvarp sem verður kynnt á Cartoon Forum í Frakklandi í haust. „Þáttaröðin gerist á Paradísarvöllum sem við þekkjum úr myndinni um Lóa, þótt hann sé ekki í þáttaröðinni. Þarna verða þó allar skemmtilegu aukapersónurnar, auk annarra nýrra.“
Myndin sjálf verður síðan frumsýnd í Póllandi um næstu helgi og sýnd víðar í sumar, meðal annars í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu, Hollandi, Búlgaríu, Rúmeníu, Malasíu, Víetnam, Singapore, Tékklandi og á Spáni en alls hefur myndin hefur verið seld til kvikmyndasýninga í yfir 50 löndum. Þá segir Hilmar að myndin verði sýnd á fjölda kvikmyndahátíða á næstu misserum.
Vindurinn leikur um hárið, sólin kyssir kinn og uppáhaldstónlistin hljómar í útvarpinu. Þetta er hinn ljúfi draumur bílstjóra blæjubílsins. Raunveruleikinn á Íslandi er því miður nær því að vera frostbit, kalsár, rennandi blautt áklæði og hlæjandi vegfarendur.
Þeir eru fáir blæjubílarnir á Íslandi en vekja ávallt mikla athygli þá sjaldan er nógu vel viðrar til að fara í bíltúr.
Fyrstu bílarnir frá aldamótunum 1900 voru í raun allir blæjubílar. Ekki í nútímaskilningi orðsins heldur vegna þess einfaldlega að þeir voru ekki með neitt þak. Í besta falli voru þeir með blæju sem hönnuð var eftir blæjum hestvagna.
Á þriðja áratug síðustu aldar hafði Henry Ford gjörbreytt bílaiðnaðinum með færibandaverksmiðjum sínum og bílar með stálgrind- og yfirbyggingu voru skyndilega fáanlegir á viðráðanlegu verði fyrir almenning.
Þar sem það rignir í meirihluta heimsins, í allrabesta falli svona við og við, þá urðu þeir fljótt ofan á. Sér í lagi í ljósi þess að þeir voru töluvert öruggari.
„Það þarf ekki að fara lengra en á hitting hjá Krúsera klúbbnum hér í Reykjavík til að sjá sýnishorn af því besta frá tímabilinu. Óhætt er að mæla með því að spóka sig um á góðviðris fimmtudags-kvöldum í miðbænum til að berja herlegheitin augum.“
Hraðinn í umferðinni jókst stöðugt með betri bílvélum og þar af leiðandi urðu árekstrar harðari. Þess vegna varð ofan á að hafa bíla yfirbyggða og í raun var svo komið á fjórða áratugnum að einu bílarnir með blæjur voru, rétt eins og í dag, dýrari sportbílar fyrir þá ríku.
Hámark í fágun og glæsileika
Það voru helst Bretarnir sem héldu í hefðina, á meðan Ameríkanarnir vildu hafa þak yfir höfuðið. Þetta breyttist í síðari heimsstyrjöldinni þegar amerískir hermenn á frívakt kynntust smærri sport-blæjubílum á enskum sveitavegum.
MG Midget og Triumph Roadster voru þar í fararbroddi og má segja að út frá fagurfræðilegum hönnunarsjónarmiðum hafi bílaiðnaðurinn þar náð hámarki í fágun og glæsileika.
Eftirspurnin eftir slíkum bílum í iðnstórveldinu Bandaríkjunum jókst er hermennirnir snéru sigurreifir heim og í anda lögmála um framboð og eftirspurn fór maskínan á fullt að anna þessari eftirspurn.
Sjötti og sjöundi áratugurinn voru gullöld blæjubílsins í Ameríku og rafdrifnar blæjur, jafnvel úr harðri skel, rafdrifnar rúður, stereo-útvörp og ameríski draumurinn fylgdi hverju eintaki. Það þarf ekki að fara lengra en á hitting hjá Krúsera klúbbnum hér í Reykjavík til að sjá sýnishorn af því besta frá tímabilinu. Óhætt er að mæla með því að spóka sig um á fimmtudagskvöldum þegar vel viðrar í miðbænum til að berja herlegheitin augum.
Níundi áratugurinn markaði ákveðna lægð í flokki blæjubíla. Nær allir framleiðendur spreyttu sig á forminu með misjöfnum árangri. Flestir bjuggu til blæjuútgáfu af vinsælum týpum, að því er virðist bara af gamni sínu, en fáar útgáfur voru búnar til sérstaklega með hlisjón af bæjuinni.
Það er að tveimur bílum undanskildum. Annars vegar Jeep Wrangler, sem vissulega má deila um hvort sé í raun blæjubíll en vinsæll var hann svo sannarlega, og svo ókrýndur konungur flokksins, Mazda MX-5, hinsvegar.
Enn þann dag í dag skilur enginn, ekki einu sinni hönnuðurnir, af hverju MX-5 er svona frábær bíll. Hann hefur nær ekkert breyst. Kannski komið aux tengi og bakkmyndavél í stað kasettutækis, en hann er enn einn allra best heppnaði bíll sögunnar, bæði er kemur að persónuleika og aksturseiginleiku.
Á við aksturseiginleika skúringafötu
Á tíunda áratugnum reyndi BMW sem mest fyrirtækið mátti að gera Z3 bíl sinn að einhverju sem almennt þótti töff, en mistókst einhverra hluta vegna (hér á landi má auðvitað kenna veðurfarinu um en frosin blæja og hrímaðir gluggar eru ekki heillandi eiginleikar).
Það sama á við um Audi TT. Ef til vill má um kenna að akstureiginleikar fyrstu útgáfu bílsins voru á við akstureiginleika skúringafötu. Enda sjást sárafáir slíkir á götunum hérlendis í dag, þrátt fyrir ágætis sölu til að byrja með. Skiptir þá engu stórbætt önnur kynslóð bílsins, skaðinn var skeður.
Það má því segja að við séum enn í lægð, allsstaðar annarsstaðar en í Los Angeles. Það eru nefnilega bíómyndirnar sem gefa okkur þess fallegu mynd af blæjubílnum. Þessi mynd er því miður flopp í miðsölunni hérlendis og miðað við vorið í ár skal ekki búist við björgun hérlendis. Ekki nema á Húsavík, þar er ef til vill orðið nógu hlýtt.
Blæjubíllinn heldur því áfram að vera fallegur en um leið óraunhæfur draumur í okkar norðlæga veruleika.
„Nú eru allir lífeyrissjóðir að breyta samþykktum sínum og auka sveigjanleika með heimild til töku á hálfum lífeyri frá 60 ára aldri. Heimildinni er ætlað að auka möguleika fólks til að minnka við sig vinnu um sextugt,“ segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.
Meirihluti sjóðsfélaga í Eftirlaunasjóði Félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) samþykkti í vikunni að heimila töku lífeyris í 50% hlutfalli frá 60 ára aldri ásamt því að fresta töku hálfs lífeyris til að allt að 80 ára aldurs. Fleiri lífeyrissjóðir hafa samþykkt svipuð skref.
Samkvæmt nýlegum breytingum á almannatryggingalöggjöfinni er heimilt að hefja töku á hálfum lífeyri sem skerðist ekki vegna tekna. Úrræðið er háð því að samhliða sé hafin taka á hálfum lífeyri frá lífeyrissjóðum og að sú fjárhæð nái ákveðnum fjárhæðarmörkum.
Þessi möguleiki er þó ekki alveg í hendi því stefnt er að gildistöku breytinga á samþykktum lífeyrissjóðanna 1. september að undangenginni staðfestingu fjármála- og efnahagsráðherra.
Polenta er nafn á grófmöluðum maís en var upprunalega heiti yfir algengan rétt á Norður-Ítalíu sem er einskonar grautur sem svipar til kartöflustöppu. Þegar polentu-mjöl kólnar verður það þéttara í sér og minnir á brauð, þá er það gjarnan skorið í bita sem eru steiktir og verða þá stökkir og góðir.
Polenta er bragðlítil og á þess vegna vel við bragðsterkan mat. Hún er t.d. borðuð með smjöri og osti eða höfð með pottréttum úr kjöti eða fiski. Grunnurinn er alltaf að bæta vökva saman við mjölið og svo er það hitað í potti. Hrært er stöðugt í blöndunni þar til einskonar deig myndast sem er tilbúið þegar það loðir ekki lengur við hliðar pottsins. Þá er annaðhvort kryddi eða smjöri eða osti blandað saman við og hún borðuð heit sem meðlæti eða sett í eldfast mót og látin stífna. Þegar hún kólnar er hún skorin í sneiðar, bökuð, grilluð eða steikt.
Í Bandaríkjunum, sérstaklega í Suðurríkjunum, er gjarnan borið fram svokallað „cornbread“ með mat. Brauðinu er dýft í sósur og pottrétti og þykir mörgum það ómissandi með Suðurríkjamat. Það er fljótlegt að baka slíkt brauð enda er lyftiduft yfirleitt notað í stað gers. Notað er grófmalað maísmjöl sem er í raun mjög svipað og polentu-mjölið.
Hér er hún notuð í pítsubotn sem kom ljómandi vel út. Sniðugt fyrir þá sem eru með glútenóþol eða vilja sneiða hjá hveiti.
Polentu-pítsa með sveppum, timían og hvítlauk
fyrir 4-6
170 g polentu-mjöl
4 dl mjólk
50 g pecorino-ostur (má nota annan bragðmikinn harðan ost)
1 tsk. salt
50 g smjör
4 hvítlauksgeirar, sneiddir
200 g sveppir að eigin vali
3 msk. ferskt timían, saxað
200 g mozzarella-ostur
salt og pipar eftir smekk
Hitið ofn í 200°C. Hrærið polentu-mjölið, mjólk, rifinn pecorino-ost og salt saman með sleif. Hnoðið deigið létt með höndunum. Það á að vera hægt að fletja það út með kökukefli en einnig er hægt að nota fingurna og dreifa úr því á smjörpappírinn þannig að úr verði hringlaga kaka, um það bil 1 ½ cm þykk.
Hitið smjörið á pönnu og steikið hvítlauk við vægan hita í nokkrar mínútur og bætið svo sveppunum út í og steikið áfram í nokkrar mínútur í viðbót eða þar til sveppirnir hafa náð að steikjast aðeins og dökkna. Bragðbætið með timíani, salti og pipar. Setjið hluta af mozzarella-ostinum á polentu-botninn, síðan steiktu sveppina og dreifið að lokum afganginum af ostinum yfir. Bakið í 10 mínútur eða þar til osturinn hefur fengið fallegan lit. Gott að bera fram með hvítlauksolíu.
Pecorino-ostur er bragðmikill, harður ítalskur ostur úr sauðamjólk. Nafnið er dregið af ítalska orðinu pecora sem þýðir sauðfé.
Ekki liggur fyrir hvort lögregla verði vopnuð á hátíðahöldum í miðborginni í Reykjavík á 17. júní.
„Lögreglan upplýsir ekki um öryggisráðstafanir á stórum viðburðurm, svo sem 17. Júní, fyrirfram. En sérsveit og lögreglan hafa alltaf aðgang að vopnum og hafa alltaf haft,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í skriflegu svari til blaðamanns Mannlífs, aðspurður um öryggisráðstafanir í tengslum við hátíðahöldin í borginni á þjóðhátíðardag.
Sérsveit lögreglustjóra var ekki vopnuð í borginni á síðasta ári í tengslum við þjóðarhátíðardaginn, þrátt fyrir heilmiklar varúðarráðstafanir. Athygli vakti þegar hún var sýnilega vopnuð þegar Color Run fór fram 10. júní í fyrra. Á meðan á hlaupinu stóð var mörgum götum jafnframt lokað og til þess notaðir stórir flutningabílar svo önnur ökutæki kæmust ekki fram hjá.
Landsmenn eru óvanir því að sjá vopnum búna lögreglumenn á Íslandi og mörgum var því brugðið. Ríkislögreglustjóri sagði í fyrra að gripið hafi verið til þessara varúðarráðstafana í kjölfars nýs áhættumats greiningardeildar ríkislögreglustjóra vegna hryðjuverkaárása í Manchester og í London í Bretlandi í fyrra.
Árásin í Manchester var gerð á tónleikum söngkonunnar Ariönu Grande í maí þegar maður sprengdi sig í loft upp. Í árásinni létust 22 tónleikagestir og tugir særðust. Í júní óku svo þrír menn sendiferðabíl á gangandi vegfarendur á London Bridge á 80 kílómetra hraða. Þegar yfir brúna var komið fóru þeir út úr bílnum og réðust á fólk við Borough Market. Sjö létust í árásinni og 48 særðust.
„Lögreglan upplýsir ekki um öryggisráðstafanir á stórum viðburðum, svo sem 17. júní, fyrirfram. En sérsveit og lögreglan hafa alltaf aðgang að vopnum og hafa alltaf haft.“
Í kjölfarið var gripið til varúðarráðstafana í mörgum Evrópuríkjum og gerði greiningardeild ríkislögreglustjóra nýtt áhættumat í skugga ofbeldisins. Þjóðáröryggisráðið kom saman hér og ræddi um viðbúnað og vopnaburð lögreglu á fjöldasamkomum. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sagði í samtali við RÚV á sínum tíma að ekki væri verið að auka vopnaburð lögreglu heldur gera sérsveit ríkislögreglustjóra sýnilegri á stórum samkomum. Ekki náðist í Harald í tengslum við vinnslu þessarar fréttar.
Áhættumatið sem gert var eftir árásirnar í Bretlandi náði yfir viðburði í miðborginni og á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur verið uppfært síðan þá. Ásgeir Þór segir í raun ekkert hafa breyst í þeim efnum frá því í fyrra en vill ekki segja nákvæmlega í hverju það felst.
Biðinni löngu lýkur senn. HM 2018 í knattspyrnu hófst formlega í gær í Rússlandi en hjá Íslendingum byrjar mótið í raun á morgun þegar landsliðið tekur á móti Argentínu í fyrsta leik í D-riðli.
Hvernig spilast leikurinn, hvaða þýðingu hefur hann og hvar er ákjósanlegast að horfa á strákana okkar spila? Mannlíf ræddi við valinkunna andans menn og konu um morgundaginn sem margir hafa beðið eftir.
Hvaða þýðingu hefur leikurinn?
Ekki bara fyrir Ísland
„Þegar Heimir landsliðsþjálfari tilkynnti hvaða 23 leikmenn færu á HM sagði hann eitthvað á þá leið að þessir leikmenn sem hann hefði valið væru ekki bara fulltrúar Íslands á HM heldur líka allra þjóðanna sem komust ekki á HM. Þessi orð Heimis hafa setið dálítið í mér og ég held að þetta sé hárrétt,“ segir Bergur Ebbi Benediktsson. „Maður hefur til dæmis heyrt af því að margir Ítalir og Bandaríkjamenn ætli að halda með Íslandi og það er auðvitað ekkert skrýtið að stórar þjóðir sem komust ekki á HM en telja sig eiga skilið að vera á HM styðji frekar litlu liðin en þau stóru. Og svo eru það allar litlu þjóðirnar sem samsömuðu sig kannski áður við önnur lítil lönd, eins og Bosníu eða Danmörku, sem hafa gert góða hluti á knattspyrnusviðinu, en samsama sig við okkur núna. Maður hefur sjálfur stutt svona dvergþjóðir á stórmótum í gegnum tíðina og ég myndi halda að Ísland ætti vinninginn í þeirri keppni á HM í ár.“
Bergur Ebbi lítur á þátttöku Íslands á HM Rússlandi sem sannarlega mikilvægt augnablik í íslenskri íþróttasögu, en ekki síður í sögu heimsmeistaramótsins í knattspyrnu.
„Ég er dálítill nörd og mikill áhugamaður um sögu HM. Þegar maður fer yfir þá sögu er einna skemmtilegast að sjá svona litlar þjóðir reka inn nefið hér og þar. Norður-Írland, El Salvador, Kosta Ríka og fleiri, og svo auðvitað Úrúgvæ sem eru tvöfaldir heimsmeistarar þrátt fyrir að telja aðeins um þrjár og hálfa milljón íbúa. Þetta eru sögurnar sem standa upp úr og það verður spurt um þátttöku Íslands á HM í Rússlandi í pöbb-kvissum svo áratugum skiptir,“ segir Bergur en hann er einn þeirra heppnu sem verða á Spartak-vellinum í Moskvu á morgun þegar þessi mikilvægi leikur fer fram.
„Þetta verður endurtekning á Englandsúrslitunum. Mér dettur ekki í hug að spá neinu öðru.“
„Ég hef hugsað mikið um leikinn og öðru hvoru klárast bara orkan og ég er eiginlega bara dofinn núna. Það er ýmislegt sem þarf að græja og gera fyrir ferðina og ég er mjög feginn því að verða líkamlega staddur á leiknum en ekki að horfa heima í stofu. Þegar ég horfði á fyrsta leik Íslands gegn Portúgal á EM 2016 leið mér hreinlega illa og fannst eins og ég væri að ganga í gegnum einhver mjög alvarleg persónuleg mál.“
Hann segist vonast til þess að íslenskir áhorfendur nái upp góðri stemningu á Spartak-vellinum og hann komi vissulega til með að taka þátt í víkingaklappinu fræga. „Ég læt mig bara berast með stemningunni. Auðvitað er mögulegt að ofgera víkingaklappinu ef það er tekið úr sínu rétta samhengi en á stórum leikvangi þar sem Ísland er að keppa í stórleik finnst mér það alveg geðveikt,“ útskýrir Bergur Ebbi og spáir að lokum 2-1 sigri Íslands á Argentínu á morgun. „Þetta verður endurtekning á Englandsúrslitunum. Mér dettur ekki í hug að spá neinu öðru.“
Hvernig spilast leikurinn?
Argentína gæti misst hausinn
„Þetta verður erfiður leikur, enda Argentínumenn ein mesta fótboltaþjóð veraldar og því við ramman reip að draga. En íslenska liðið hefur ítrekað sýnt það og sannað að það spilar jafnan best þegar mest er undir og getur því valdið hverjum sem er áhyggjum, hvort sem þeir heita Messi, Ronaldo eða Janus Guðlaugsson,“ segir Anna Svava Knútsdóttir og bætir við að mikið muni velta á því hvernig fyrstu 20 til 25 mínútur leiksins spilast. „Ef við náum að halda aftur af Argentínu framan af fyrri hálfleik er allt eins líklegt að stjörnuleikmennirnir þeirra stressist upp og gleymi undirstöðuatriðum knattspyrnunnar, eins og gerðist með Englendinga þegar við slógum þá út úr EM í Frakklandi fyrir tveimur árum. Þegar þeir missa hausinn verðum við að vera tilbúin til að láta til skarar skríða. Pressan á Messi að vinna HM áður en hann leggur skóna á hilluna ætti með réttu að vinna með okkur og gegn Argentínumönnum. Að því sögðu þá væri jafntefli alls ekki slæm úrslit fyrir okkur, en mig grunar að Heimir komi til með að senda liðið út á völlinn með það eitt að markmiði að sigra.“
„Þetta verður erfiður leikur, enda Argentínumenn ein mesta fótboltaþjóð veraldar og því við ramman reip að draga.“
Anna Svava segist spennt að sjá hvernig Heimir Hallgrímsson stillir byrjunarliðinu upp. „Hannes Þór Halldórsson, vinur minn, er mikilvægasti leikmaður liðsins að mínu mati og ég bið til guðs að hann haldist heill. Eins vona ég að Aron Einar byrji leikinn, leiðtogahæfileikar hans og geta til að stýra leik liðsins eru ómetanlegir þættir. Fyrirliðinn verður þó að meta það sjálfur ásamt sjúkraþjálfurum hvort hugsanlega væri betra að sleppa þessum leik og vera frekar klár fyrir leikinn gegn Nígeríu. Margir spá því að við komum til með að spila leikkerfið 4-5-1, þá væntanlega með Jón Daða Böðvarsson einan frammi, en eitthvað segir mér að við neglum í eitt strangheiðarlegt 4-4-2 og treystum á hina klassísku samvinnu litla og stóra frammi, Jóns Daða og Alfreðs Finnbogasonar markamaskínu. Ísland er kannski ekki með leiknustu leikmenn í heimi, en við getum hæglega sýnt mestu grimmdina, baráttuna og viljann og verið bestir í föstum leikatriðum,“ segir Anna Svava spennt.
Hún spáir því að Ísland sigri Argentínu með einu marki gegn engu. „Gylfi Sigurðsson skorar markið sem ræður úrslitum seint í síðari hálfleik.“
Hvar á að horfa á leikinn?
Dreymir um HM-stofu á pallinum heima
„Ég er með mikil plön og stóra drauma um þennan dag, en ég veit ekki enn hvort það verður af þeim. Mig langar nefnilega rosalega mikið til að byggja mína eigin HM-stofu á pallinum heima, flytja 65 tommu sjónvarpið út í garð og tengja alvörusánd í það. Sándið er lykilatriði þar sem ég bý við Hringbraut og umferðarniðurinn getur verið mikill. Svo myndi ég fleygja einhverju lystugu á grillið og allt yrði gjörsamlega geggjað. Þetta er draumurinn, en kannski enda ég bara einn niðri í kjallara að horfa á leikinn eins og gerðist fyrir tveimur árum þegar Ísland spilaði við Austurríki. Þá stóð ég einn öskrandi fyrir framan sjónvarpið og það var ágætt. En ef allt fer að óskum og spáin verður þokkaleg verður það HM-stofa úti í garði og allir velkomnir. Því fleiri, því betra,“ segir Sóli Hólm.
Áður en íslenska liðið hélt utan til Rússlands áttu liðsmenn notalega kvöldstund ásamt fjölskyldumeðlimum sínum og Sóla, sem hélt rúmlega klukkustundarlangt uppistand fyrir mannskapinn. „Að sjálfsögðu vil ég standa mig vel á öllum mínum „giggum“ en þetta var eitt af þeim sem ég vildi alls ekki klúðra, því þótt strákarnir séu nánast allir yngri en ég lít ég samt upp til þeirra. Það gekk eftir og stemningin var geggjuð. Mér sýndust landsliðsstrákarnir vera mjög slakir og yfirvegaðir miðað við aðstæður og það besta var að ég heyrði af því að andinn á æfingunni daginn eftir uppistandið hefði verið léttari en daginn áður og að menn hefðu jafnvel verið að vitna í góðar línur frá mér. Það eitt og sér er næg umbun fyrir mig,“ segir Sóli sem var leystur út með forláta treyju, áritaðri af öllum í landsliðinu.
Sóli vill þó ekki skrifa undir þá uppástungu blaðamanns að ef Ísland vinnur Argentínu sé það að miklum hluta honum sjálfum að þakka. „Nei, alls ekki, því það þýðir að það verður líka mér að kenna að við töpum. Ég ber enga ábyrgð á gengi liðsins, en ég trúi því að við getum unnið. Leikurinn fer 1-0 fyrir okkur.“
Heimildarmyndin Síðasta áminningin er ný íslensk kvikmynd sem Hafsteinn Gunnar Sigurðsson gerði í samvinnu við Guðmund Björn Þorbjörnsson og frumsýnd var í vikunni. Þar velta þeir félagar fyrir sér tengslum íslenska þjóðsöngsins og árangurs íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og komast, að sögn Hafsteins, að óvæntri niðurstöðu.
„Þetta byrjaði þannig að ég fékk símtal í janúar frá Sigurjóni Sighvatssyni framleiðanda þar sem hann setti fram hugmynd um að gera eitthvað út frá þessu fótboltadæmi en beina samt fókusnum meira að samfélaginu út frá þessari Öskubuskusögu sem árangur íslenska landsliðsins í fótbolta er,“ segir Hafsteinn Gunnar Sigurðsson kvikmyndaleikstjóri um tilurð heimildamyndarinnar Síðasta áminningin sem nú er sýnd í Bíó Paradís.
„Ég var nýbúinn að hlusta á þættina hans Guðmundar á Rás 1, Markmannshanskarnir hans Alberts Camus, og datt í hug að það gæti verið sniðugt að fá hann til samstarfs við mig við gerð myndarinnar, því ég veit í raun og veru ekkert um fótbolta,“ útskýrir Hafsteinn. „Ég horfi bara á stórmótin og hef enga þekkingu á því hvernig þetta virkar, ég er betri í að búa til bíómyndir.“
Boðar auðmýkt og lítilæti
Spurður um grunnkonseptið að baki myndinni segir Hafsteinn að þeir hafi lagt út frá þjóðsöng Íslendinga sem er það síðasta sem leikmennirnir heyra áður en þeir hefja leik á fótboltavellinum og þaðan sé nafn myndarinnar, Síðasta áminningin, dregið.
„Þjóðsöngur okkar er ólíkur flestum öðrum þjóðsöngvum þar sem hann er byggður á sálmi,“ segir Hafsteinn. „Flestir aðrir þjóðsöngvar eru einhvers konar ættjarðarsöngvar þar sem verið er að upphefja föðurlandið og þjóðina sem þar býr, eða þá stríðsmarsar þar sem menn eru hreinlega hvattir til þess að fara út á vígvöllinn og drepa andstæðinginn. Okkar þjóðsöngur hins vegar boðar auðmýkt og lítilæti og minnir manneskjuna á hversu lítil hún er gagnvart sköpunarverkinu. Við fórum að velta því fyrir okkur hvort það fælist ekki þversögn í því að þetta væri síðasta áminningin sem leikmenn íslenska liðsins fá áður en þeir fara út á völlinn að reyna sig við útlendinga sem eru mjög oft miklu betri en þeir í fótbolta. Við fórum að skoða þetta betur og í framhaldi af því verður myndin ferðalag þar sem við skoðum íslenskt samfélag og hugarfar út frá þessu og hvort Íslendingar hafi nokkurn tímann tileinkað sér þessa auðmýkt og lítilæti sem þjóðsöngurinn boðar.
Hugsanlega komumst við að þeirri niðurstöðu að kannski eru meðlimir landsliðsins þeir einu sem hafa raunverulega gert það. Hvort það sem hafi komið þeim áfram sé að þeir þekki sín takmörk,“ segir Hafsteinn dularfullur.
Ýttu leikmönnum út fyrir rammann
Í myndinni er rætt við þrjá liðsmenn landsliðsins auk nokkurra þjóðþekktra einstaklinga sem sumir tengjast knattspyrnu en aðrir alls ekki.
„Við fylgjum þessum þremur leikmönnum, sem kannski eru ekkert endilega alltaf mest í sviðsljósinu,“ segir Hafsteinn. „Einn þeirra spilar í Tyrklandi, annar hér heima á Íslandi, sá eini sem spilar hér reyndar, og sá þriðji spilar í Englandi. Hugmyndin var að fá þá til að velta vöngum yfir íslensku þjóðfélagi og fá þá til að tala um hluti sem þeir eru ekki endilega alltaf að ræða í þessum viðtölum sem þeir fara í, þetta eru oft dálítið stöðluð viðtöl sem birtast í íþróttatengdu efni, þannig að við reyndum svolítið að ýta þeim út fyrir það svið og fá að sjá aðrar hliðar á þeim en við gerum venjulega. Síðan vorum við með sjö aðra viðmælendur sem eru þjóðþekktir einstaklingar sem tengjast fótbolta nánast ekki neitt, eða jú, sumir eitthvað en aðrir ekki.“
Flestir, ef ekki allir, viðmælendur voru spenntir fyrir heimsmeistaramótinu.
„Ég held það sé einhver ógurlegur fiðringur í flestum gagnvart þessu.“
Ekki að skoða þjóðrembu
Spurður hvort myndin komi eitthvað inn á það hvernig þessi árangur landsliðsins ýti undir þjóðrembu Íslendinga dregur Hafsteinn við sig svarið.
„Já og nei,“ svarar hann véfréttarlega og heldur áfram. „Einn viðmælandinn nefnir að í kringum íþróttir skapist eini vettvangurinn þar sem það þyki í lagi að vera þjóðveldissinni að einhverju leyti og leyfa stórkarlalegum hugmyndum um samfélagið að brjótast fram, en við köfum ekki djúpt í tengsl þjóðerniskenndar og íþrótta í þessari mynd.“
Sitt af hverju, eins og óvænt tengsl, kom á óvart við gerð Síðustu áminningarinnar.
„Já, kannski bara þessi niðurstaða sem við komumst að í myndinni um tengsl þjóðsöngsins og þessarar taktíkur sem liðið spilar,“ segir Hafsteinn. „Það komu óvænt tengsl þar upp sem ég vil ekki uppljóstra um hér, enga spoilera, takk. En þetta var mjög skemmtilegt ferðalag og líka skemmtilegt að það skuli vera hundrað ára afmæli fullveldisins sem er gott augnablik til að líta í spegilinn, dvelja aðeins við og hugsa um hver við erum og hvert við viljum stefna.“
„Hugmyndin var að fá þá til að velta vöngum yfir íslensku þjóðfélagi og fá þá til að tala um hluti sem þeir eru ekki endilega alltaf að ræða í þessum viðtölum sem þeir fara í, þetta eru oft dálítið stöðluð viðtöl sem birtast í íþróttatengdu efni, þannig að við reyndum svolítið að ýta þeim út fyrir það svið og fá að sjá aðrar hliðar á þeim en við gerum venjulega.“
Lætur heillast í augnablikinu
Hafsteinn ætlar að sjálfsögðu að fylgjast með leikjum landsliðsins á HM.
„Ég segi nú ekki að ég muni setja upp víkingahjálminn, en þetta er spennandi móment sem maður fylgist auðvitað með. Ég á reyndar ekki landsliðstreyju, því miður, en þegar við fórum til Tyrklands að heimsækja Theodór Elmar keyptum við okkur allir tyrkneska upphitunargallann og ég verð kannski bara í honum,“ bætir hann við og glottir.
Ef við gefum okkur að Íslendingar komist ekki í úrslit þarf Hafsteinn að finna sér annað lið til að halda með því hann á ekkert sérstakt uppáhaldslið.
„Yfirleitt gerist það eftir að ég fer að fylgjast með þessum stórmótum að ég verð ástfanginn af einhverju liði í augnablikinu og læt það heilla mig til fylgilags svo það fær mitt atkvæði þegar upp er staðið. Ég verð bara að sjá til eftir að mótið byrjar hvaða liði tekst það í þetta sinn.“
Síðasta áminningin var frumsýnd í Bíó Paradís í vikunni og er nú þar í almennum sýningum en verður einnig sýnd í sjónvarpi, bæði hér heima og erlendis fljótlega.
„Hún verður sýnd á RÚV síðar og það er líka búið að selja hana til bæði dönsku og norsku ríkisstöðvanna, þar sem hún verður sýnd á næstu dögum,“ segir Hafsteinn. „Þannig að þetta er allt að fara af stað.“
Aðalmynd / Hafsteinn Gunnar Sigurðsson kvikmyndaleikstjóri gerði myndina í samvinnu við Guðmund Björn Þorbjörnsson.
Handritshöfundar kvikmyndarinnar Kona fer í stríð heiðraðir á sérstakri hátíðarsýningu í París.
Íslenska kvikmyndin Kona fer í stríð hlaut eins og kunnugt er SACD-verðlaunin, verðlaun Sambands franskra handritshöfunda, á kvikmyndahátíðinni í Cannes á dögunum. Í tilefni af því hafa franskir handritshöfundar blásið til sérstakrar heiðurssýningar á kvikmyndinni í París í Frakklandi. Mannlíf náði tali af Ólafi Egilssyni sem var í miðjum klíðum að finna sparijakkafötin fyrir yfirvofandi Frakklandsferð.
„Við Benedikt Erlingsson vorum boðaðir til þess að vera viðstaddir sýningu á myndinni,“ útskýrir Ólafur, en þeir félagar skrifuðu handritið að henni í samvinnu eftir hugmynd Benedikts, sem leikstýrir einnig myndinni.
Kona fer í stríð fjallar um Höllu, kórstýru á fimmtugsaldri, sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn stóriðju í landinu. Myndin hefur hlotið bæði góða aðsókn hérlendis og lofsamlega dóma, meðal annars í virtum kvikmyndatímaritum á borð við Screen International sem setti hana á lista yfir 20 áhugaverðustu kvikmyndirnar á Cannes þar sem hún hlaut fyrrnefnd verðalaun. Ólafur segir að í kjölfar hátíðarsýningarinnar í París standi til að frumsýna kvikmyndina víðsvegar um heim.
„Dreifingaraðilar hafa slegist um myndina og hún er uppseld skilst mér, á heimsvísu, sem er einstakt.“
„Dreifingaraðilar hafa slegist um myndina og hún er uppseld skilst mér, á heimsvísu, sem er einstakt,“ segir hann og er auðheyrilega í skýjunum með góðar viðtökur. „Þessi velgengni Konu fer í stríð er auðvitað algjörlega frábær, ekki bara í sjálfu sér heldur líka vegna umfjöllunarefnis myndarinnar,“ bendir hann á. „Því þetta er hugvekja um umhverfisvernd sem á erindi við allan heiminn.“
Spurður hvort þeir Benedikt séu með fleiri verkefni á teikniborðinu gefur Ólafur ekkert út á það en segist vera með mörg járn í eldinum. „Í augnablikinu er ég að klára voræfingar á einleiknum „Allt sem er frábært“ sem Valur Freyr Einarsson leikur og verður frumsýndur á litla sviðinu næsta haust og svo er ég að undirbúa aðra sýningu á litla sviðinu, Tvískinnung, eftir Jón Magnús Arnarsson, rappara og „slam“-ljóðskáld sem fer líka upp í Borgarleikhúsinu næsta vetur.“
Aðallega segist hann þó vera að gera upp hús með öllu sem því fylgir og að reyna að grafa upp jakkafötin til þess að pakka fyrir fyrirhugaða ferð til Frakklands „Það er eins gott að finna þennan blessaða kassa með sparifötunum. Ætli þau verði ekki viðruð dálítið hér og hvar um heiminn á næstunni, svona miðað við hvernig planið lítur út,“ segir hann glaður og hlær.
Nú eru allir komnir í spilastuð fyrir HM í fótbolta.
Nýjasta spilið frá Monopoly HM karla í knattspyrnu í Rússlandi: 2018 FIFA World Cup Russia.
Skemmtileg safnútgáfa af hinu sígilda og sívinsæla Monopoly, tileinkuð heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu 2018 sem fer fram í Rússlandi og eins og flestir vita er Ísland meðal keppnisþjóða.
Spilið virkar á allan hátt eins og hefðbundið Monopoly nema í stað þess að leikmenn eigi í fasteignaviðskiptum, kaupa þeir og selja fótboltaliðin sem keppa á HM og byggja sér bása og leikvelli og leikpeðin eru fótboltatengd.
Frábær skemmtun og afþreying fyrir alla fjölskylduna og tilvalið að spila á milli leikja á HM 2018. Styttir biðina og eykur spennuna.
Umsögn um spilið frá leikmanni, Jóna Guðrún Kristinsdóttir:
,,Við hjónin og börnin okkar fjögur sem eru á aldrinum fimm til þrettán ára höfum spilað þetta spil öll saman og haft gaman af. Þrátt fyrir að spilið sé gefið upp fyrir átta ára og eldri hefur sú yngsta sem er fimm ára vel getað spilað með okkur með okkar hjálp og haft mjög gaman af. Fjölskyldan keppist um að eignast verðmætustu löndin og byggja þar upp stóra leikvanga svo hægt sé að rukka sem mest þegar aðrir leikmenn stoppa við. Leikmenn nota misjafna taktík, sumir kaupa allt sem þeir stoppa á og freista þess að selja það svo á hærra verði þegar líður á spilið á meðan aðrir leggja áherslu á að safna bara einhverjum ákveðnum liðum. Frábær skemmtun sem kemur allri fjölskyldunni í HM-gírinn.“
Heitur pottur á veröndina í garðinn og sumarbústaðinn.
Þeir félagarnir Kristján Berg og Hafsteinn Kristinsson hjá heitirpottar.is búa yfir mikilli reynslu á hitaveituskeljum og eru búnir að veita kaupendum sínum ráðgjöf yfir tólf ára skeið. Í forgrunni hjá þeim er að veita góða og persónulega þjónustu og viðskiptavinurinn er ávallt númer eitt. Við hittum þá og tókum stöðuna á heitu pottunum og hvað sé það heitasta í dag.
Getið þið sagt okkur hvað er það nýjasta í dag?
„Það nýjasta í dag eru PLUG&PLAY-hitaveituskeljar. Þá koma skeljarnar tilbúnar. Það er að segja með klæðningu, yfirfalli og niðurfalli ásamt vönduðu handfangi. Hitaveituskeljarnar eru einangraðar og tilbúnar til tengingar fyrir píparann. Þær koma því tilbúnar til þess að setja beint á pallinn og þarf ekki að smíða í kringum þær. Sem spara bæði tíma og fjármuni ásamt því að vera mjög fljótlegt í uppsetningu.“
Eru þið með margar tegundir í boði af hitaveituskeljum?
„Margir litir eru í boði og þrír litir eru á klæðningum. Til dæmis cedrus-viður og svo erum við með 100% viðhaldsfríar klæðningar, þannig að það þarf aldrei að bera á pottinn.“
Með hverju mælið með varðandi vatnsnotkun í heitu pottanna?
„Kaupendur eru farnir að hafa sírennsli í pottinum. Það er að segja að það er alltaf vatn í hitaveituskelinni og hún tilbúin til notkunar. Kostnaður á heitu vatni á svona skel fyrir hvern mánuð miðað við að hafa sírennsli og lok og góða hitastýrisgrind frá Danfoss er í kringum tvö þúsund krónur. Er þá miðað við að það sé alltaf 39 gráðu heitt vatn í pottinum og potturinn ávallt tilbúinn til notkunar.“
Allar nánari upplýsingar er hægt að fá hjá þeim í verslun þeirra heitirpottar.is að Höfðabakka 1, 110 Reykjavík, eða þá í síma 777 2000. Þeir hjá heitirpottar.is leggja ávallt áherslu á að reyna veita persónulega og góða þjónustu.
Á barnum er hægt að blanda sér litríkan kokteil úr glimmeri, límmiðum og skrautsteinum svo fátt eitt sé nefnt. Tara segir að glimmerið höfði til fólks á öllum aldri, bæði karla og kvenna.
„Þetta er í raun eins og nammibar, nema þetta er glimmerbar,“ segir förðunarfræðingurinn Tara Brekkan Pétursdóttir. Tara hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum síðustu ár undir vörumerkinu Törutrix, þar sem hún kennir áhugasömum að mála sig á einfaldan hátt. Þá kennir hún einnig förðun og framleiðir snyrtivörur undir eigin nafni. Nýjasta uppátæki Töru er að bjóða upp á fyrrnefndan glimmerbar, sérbúinn vagn með glimmeri, steinum, límmiðum og ýmsu skrauti sem hún getur flakkað með á milli viðburða.
Þekktur glimmerbrjálæðingur
„Ég er þekkt fyrir að vera glimmerbrjálæðingur,“ segir Tara og hlær.
„Ef vinir mínir sjá flott glimmer einhvers staðar þá senda þeir strax myndir á mig. Ég fann hins vegar aldrei glimmer sem mér fannst nógu flott þannig að ég hannaði mitt eigið. Ég legg mikið upp úr því að vörur frá mér séu vandaðar þannig að glimmerið, og allt annað skraut í glimmerbarnum, er án eiturefna og umhverfisvænt. Síðan fannst mér hugmyndin um að vera með barinn á vagni sem ég gæti farið með í partí sniðug þannig að ég lét slag standa,“ bætir hún við.
Verið er að leggja lokahöndina á fyrrnefndan glimmervagn en Tara ætlar ekki að láta staðar numið þar. „Í framhaldinu langar mig að útbúa sérstakan glimmerbíl, með glimmerstöfum og neon-skiltum. Þá er hugmyndin að fólk geti komið við í bílnum og látið mála sig. Ég ætla að búa til eitthvað skemmtilegt í kringum bílinn og ég er mjög spennt fyrir því. Ég hef aldrei séð neitt líkt því sem ég er að plana.“
Íslendingar þurfa glimmer í lífið
Fyrir stuttu opnaði Tara sína fyrstu Törutrix-verslun á Laugavegi 51, en verslunin er inni í 24 Iceland og Massän-versluninni. Eins og með glimmerbarinn er Tara með stóra viðskiptadrauma.
„Mig langar í framtíðinni að opna verslanir um allt land,“ segir Tara en eiginmaður hennar, Hlynur Örn Kjartansson, er einnig viðskiptafélagi hennar. „Hann er með mér í öllu. Hann gerir heimasíðuna og hannar allt í kringum þetta. Við getum gert allt saman og það er svo þægilegt. Við þurfum engan annan,“ segir Tara og bætir við að hún elski að vinna fyrir sig sjálfa. „Ef maður vinnur við það sem maður elskar þá vinnur maður aldrei neitt því það er alltaf gaman.“
Þó að aðeins nokkrir dagar séu síðan Tara byrjaði að auglýsa glimmerbarinn á samfélagsmiðlum hafa pantanir og fyrirspurnir hrúgast inn. Á þjóðhátíðardeginum,17. júní, ætlar Tara að vera með einhvers konar útgáfu af barnum fyrir utan verslunina á Laugaveginum og stefnir enn fremur að því að vera á einhverjum útihátíðum í sumar, þar á meðal Þjóðhátíð í Eyjum. En telur hún að Íslendingar þurfi allt þetta glimmer í líf sitt?
„Já, þetta er svo gaman. Ég held að glimmer geri lífið betra. Það verða allir svo glaðir og flippaðir þegar þeir eru komnir með smávegis glimmer á sig,“ segir Tara og bætir við að glimmeráhuginn einskorðist ekki bara við kvenfólk. „Ó nei, strákarnir eru alveg jafnvitlausir í glimmer og stelpurnar. Og bara fólk á öllum aldri.“
Ár er liðið síðan leikarinn Bergur Þór Ingólfsson og fjölskylda hans höfðu hátt vegna uppreistar æru tveggja dæmdra barnaníðinga. Bergur Þór segir margt svipað í sínu máli og máli stúlknanna sem hafa sakað lögreglumann um kynferðisbrot. Hann segir ljóst að rannsaka þurfi rannsókn mála stúlknanna en spyr sig hvort einhver sé hæfur til þess á landinu.
„Þetta ætti að vera risastórt mál, bæði fyrir stjórnvöld og lögregluna. Hvar sem er í heiminum lægi heiður yfirvalda undir.
Ég hef enga ástæðu til að vefengja frásögn Helgu og Kiönu. Ég trúi líka á réttarkerfið en ekki gagnrýnislaust. Ef rannsókn málsins var jafnábótavant og komið hefur fram í fjölmiðlum grefur það undan öllu trausti. Var 11 ára barn ekki sent í læknisskoðun eftir að það segir frá kynferðislegri misnotkun af hendi stjúpforeldris? Var meintur gerandi sem starfar í lögreglunni hugsanlega ráðgefandi á vettvangi við rannsókn málsins? Hvers vegna var honum ekki vikið frá á meðan á rannsókn stóð? Hvers vegna er frásögn barns í Barnahúsi ekki tekin gild? Hvaða ástæður liggja að baki því að þrjár ásakanir um kynferðislega misnotkun lögreglumanns á börnum eru ekki rannsakaðar sem eitt mál? Var heimatilbúið Excel-skjal tekið gilt sem fjarvistarsönnun? Ég held að Halldóra Baldursdóttir, móðir meints brotaþola, sé ekki eina foreldrið sem vilji fá svör við þessum spurningum. Ég held að allir foreldrar landsins vilji fá að vita hvernig tekið verður á móti þeim komi þau til með að standa í hennar sporum,“ segir leikarinn Bergur Þór Ingólfsson um mál kvennanna tveggja, Helgu Elínar og Kiönu Sifjar, sem hafa stigið fram í Mannlífi og sakað lögreglumann um kynferðisbrot þegar þær voru á barnsaldri. Alls voru þrjár stúlkur sem sökuðu manninn um kynferðisbrot en málin voru látin niður falla vegna ónægra sannanna.
Bergur Þór og fjölskylda hans hafði svo sannarlega hátt á síðasta ári í kjölfarið á þeim fréttum að Robert Downey, dæmdur barnaníðingur sem hafði meðal annars brotið gróflega á dóttur Bergs, hefði fengið uppreist æru og lögmannsréttindi sín aftur. Á sama tíma fékk annar dæmdur barnaníðingur, Hjalti Sigurjón Hauksson, uppreist æru. Bergur Þór, fjölskylda hans og nokkrir brotaþolar Roberts, linntu ekki látunum og skók málið samfélagið, ekki síst þegar upp komst að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, hafði veitt fyrrnefndum Hjalta góða umsögn þegar hann sótti um uppreist æru. Afleiðingar þessarar miklu baráttu var að ákvæði um uppreist æru var fellt úr almennum hegningarlögum og Björt framtíð ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu við Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn og þar með féll ríkisstjórnin.
Á laugardaginn verður eitt ár síðan að Bergur Þór, hans nánustu og brotaþolar Roberts Downey byrjuðu að hafa hátt. Hann segir mál Helgu Elínar og Kiönu Sifjar minna um margt á sína eigin baráttu.
„Þeim virðist vera gert jafn erfitt fyrir og okkur að láta rödd sína berast. Ég veit ekki hvað skal kalla þetta, hvort þetta er afskiptaleysi, áhugaleysi eða samtrygging. Það er eins og sumt fólk tengi hreinlega ekki við þetta eða óttist að tala um þetta. Í okkar máli byrjuðum við á að spyrja forsetann, sem benti á stjórnarskrána, sem benti á ríkisráð, sem benti á forsætisráðherra, sem benti á dómsmálaráðherra, sem benti á persónuverndarlög og svo framvegis. Endalaust. Þetta virðist vera aðferðin sem notuð er til að þagga mál niður. Að lokum reis forsetinn upp úr þessu rugli og gaf út yfirlýsingu vegna málsins með afgerandi hætti en ég veit ekki af hverju aðra æðstu ráðamenn skorti hugrekki til að taka af skarið. Þegar við erum að fjalla um börn ættum við að rísa upp á afturlappirnar og veita þeim vernd. Kiana og Helga hafa gengið í gegnum það sama og við en á miklu lengri tíma. Þær eru ótrúlega hugrakkar og búa yfir þvílíkum styrk að hafa haldið þetta út. Þær eiga það skilið, sem og börn framtíðarinnar, að þetta sé gert upp og að þetta sé hreinsað. Ef þeim hefur dottið í hug að skálda þetta upp ellefu ára gömlum, þyrfti einmitt líka að rannsaka hvaðan hugmyndir um kynlíf fullorðinna með börnum eru fengnar,“ segir Bergur.
Í viðtali við Mannlíf benti Halldóra Baldursdóttir, móðir Helgu Elínar, á ýmsa vankanta á rannsókn máls dóttur sinnar. Til dæmis að sakborningur hafi farið með rannsakendum á vettvang þegar sumarbústaður þar sem brotin áttu að hafa átt sér stað var rannsakaður. Einnig sagði hún að málið hefði verið látið niður falla meðal annars vegna vitnisburða vinahjóna sakbornings sem voru með í för í bústaðnum. Báru þau við minnisleysi vegna drykkju. Sakborningi var ekki vísað úr starfi á meðan málin voru rannsökuð og starfar hann enn innan lögreglunnar. Þá hefur Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, ekki viljað tjá sig um málið. Embætti ríkislögreglustjóra hefur bent á að ekki hafi verið unnt að vísa sakborningi úr starfi á meðan á rannsókn stóð vegna þess að ríkissaksóknari hafi neitað embættinu um nauðsynleg gögn. Það er hins vegar mat innanríkisráðuneytis að ríkislögreglustjóri hafi ekki þurft þessi gögn til að leggja mat á hvort rétt væri að vísa manninum úr starfi um stundarsakir.
Bergur Þór segir ljóst að það þurfi að rannsaka hvernig staðið var að rannsókninni á sínum tíma.
„Réttvísin á að vera blind en ekki á þann hátt að hún loki augunum fyrir öllu óþægilegu. Réttlætisgyðjan er með bundið fyrir augun svo hún fari ekki í manngreinarálit. Það á ekki að skipta máli í hvaða stjórnmálaflokki þú ert eða í hvaða íþróttaklúbbi, hver hörundslitur þinn er eða trú. Fólk sem hefur menntað sig í lögum og reglum á ekki að njóta neinna sérkjara liggi það undir grun. Hvernig þetta mál virðist hafa verið unnið er ekki til að auka traust almennings á lögregluna. Rannsóknina þarf að rannsaka. Best væri ef málið yrði tekið upp aftur,“ segir Bergur Þór og bætir við að hann kannist vel við það sem stúlkurnar séu að lenda í – að hvert embætti bendi á annað.
„Það er nákvæmlega það sama og við stóðum frammi fyrir. Þetta virðist vera tækni og þessi tækni heitir þöggun. Að þegja. Að svara ekki. Að takast ekki á við þetta. Að benda hver á annan. Að reiðast pínulítið. Að vitna í gömul lög og hefðir, helst þannig að almenningur skilji alls ekki neitt. Þetta virðist vera skilyrt og lærð leið til að takast á við svona leiðindi. Það getur verið að þetta sé ómeðvitað en þetta heitir ekkert annað en þöggun.“
Viðbrögð stjórnvalda viðhéldu ofbeldinu
Að mati Bergs Þórs, hvað geta þær Kiana og Helga, og ef til vill þriðja stúlkan, gert í málinu eins og sakir standa?
„Það sem þær eru að gera núna er í raun eina leiðin. Þær hafa í rauninni engu að tapa og hafa gert þetta algjörlega frábærlega. Þær hafa bent á vankantana og hafa staðið í þessari baráttu mjög skynsamlega finnst mér. Mér finnst þær vera hetjur,“ segir Bergur Þór.
Er hann lítur yfir síðasta árið segist hann enn vera að vinna úr þessari háværu baráttu sem tók sinn toll af fjölskyldunni. Hann gleðst samt yfir því að aðrir sem hafi svipaða sögu að segja treysti sér til að opna sig.
„Við sögðum um áramótin: Gleðilegt nýtt ár og fari 2017 fjandans til,“ segir Bergur Þór, staldrar við eitt augnablik og heldur svo áfram. „Við erum öll að vinna úr þessu enn þá. Þessi viðbrögð sem við fengum frá stjórnvöldum endurvörpuðu ofbeldinu og viðhéldu því. Í kjölfarið blossaði #metoo-byltingin upp þannig að þetta er ekki búið. Bara að þessar konur séu að stíga fram núna, eftir að móðir annarrar þeirra hafi hrópað út í tómið í átta ár, sýnir okkur það. Auðvitað erum við ánægð með að það sé komin leið til að ræða þetta. En þetta situr náttúrlega í okkur. Það tekur tíma að vinda ofan af þessu öllu saman, ekki síst þöggunartilburðum stjórnvalda. Það virðist eins og allt kerfið vinni á móti fólki í svona málum. Í okkar máli var eins og hefðir og úrelt lög væru ofar skynsemi og manngildum. Við erum heldur alls ekki ánægð með hvernig lögunum um uppreist æru var bara kippt úr sambandi án alls samhengis eða annarra úrræða. Enn mega margdæmdir barnaníðingar aka skólabílum og mæta sem lögmenn í Barnahús lögum samkvæmt,“ segir Bergur Þór.
Var baráttan þess virði?
„Að sjálfsögðu var þetta allt þess virði. Ég vil til dæmis benda á það að Anna Katrín Snorradóttir fékk viðurkenningu frá lögreglunni um að frásögn hennar væri tekin trúanleg þótt málið teldist fyrnt. Það er allavega hálfur sigur. Fjölmiðlar stóðu sig mjög vel og við vorum heppin að við höfðum hátt að sumri til því þá var ekkert Alþingi eða veiðigjaldafrumvarp til að aftengja umræðuna. Ef þetta verður ekki lagað verða einungis fréttir af svona málum þegar þingið fer í sumarfrí sem er sorglegt.“
Þorsteinn B. Friðriksson varð augasteinn þjóðarinnar á nánast einni nóttu þegar leikurinn QuizUp, sem fyrirtæki hans Plain Vanilla framleiddi, varð vinsælasti tölvuleikur í heimi. Að sama skapi var fólk krítískt þegar selja þurfti leikinn úr landi og loka fyrirtækinu hér. Þorsteinn segir það hafa gengið nærri sér en hann hafi lært af mistökunum og sé tilbúinn að gera betur. Nýtt fyrirtæki hans, Teatime, hefur fengið rífandi start og hann fullyrðir að hugmyndin að baki þess hafi alla burði til að verða miklu útbreiddari en QuizUp var.
Nýtt fyrirtæki Þorsteins og þriggja annarra, Teatime Games, hefur tryggt sér fjármögnun erlendra fjárfesta upp á tæpan milljarð íslenskra króna til að þróa nýjan leikjabúnað fyrir snjallsíma. Í stuttu máli segist hann bara vera ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið þessar góðu undirtektir. „Það þýðir þá kannski að það er eitthvert vit í því sem maður er að gera og þeim hugmyndum sem maður er með. Þegar erlendir sjóðir þar sem eru sérfræðingar í tæknifjárfestingum eru tilbúnir að veðja svona miklu á þennan hest, án þess að við séum í rauninni búnir að framleiða neitt þá fyllist maður auðvitað þakklæti og auðmýkt.“
Spurður hvort það hafi kostað mikla vinnu að fá þessa stóru fjárfesta að borðinu viðurkennir hann að svo sé. „Já, já, það er vinna,“ segir hann hógvær. „En hins vegar finn ég fyrir því að reynslan af Plain Vanilla hefur gert það mun auðveldara núna að fá inn fjármagn. Kannski vegna þess að teymið sem stendur að þessu fyrirtæki, Teatime Games, stóð að framleiðslu QuizUp og hefur sýnt fram á það að við getum framleitt eitthvað sem virkar. Þannig að ef ég ber saman hvernig það var að fá inn fjármagn fyrir Plain Vanilla og Teatime þá er þetta allt annað ferli núna.“
Nýtur góðs af fyrri tengslum
Þorsteinn vill þó ekki kannast við að vera orðinn stórt nafn í þessum geira þegar hann er spurður út í það.
„Nei, nei, en hins vegar er þetta ótrúlega lítill heimur, sem oft er kenndur við Sílíkondalinn, og QuizUp náði þeim hæðum að verða mjög vel þekkt forrit út um allan heim og sérstaklega hjá þeim í Sílíkondalnum sem fylgjast grannt með því sem er að gerast í tækninni og við fundum alveg fyrir því að þegar það gekk sem best með QuizUp þá vildu allir fjárfesta í fyrirtækinu. Þannig að það má segja að ég njóti góðs af þeim tengslum sem mynduðust í gegnum það. Þá kynntist ég þeim helstu í þessum bransa og það er auðveldara að fá áheyrn hjá þeim núna.
Ég man þegar ég flutti til San Francisco og var að fara af stað með Plain Vanilla þá var nánast ómögulegt að fá fundi með þessum stóru sjóðum. En nú er þetta miklu auðveldara þar sem maður þekkir orðið margt af þessu fólki persónulega. En samt sem áður skal ég alveg viðurkenna það að ég átti ekki von á því að það myndi ganga svona hratt og vel að fá fjármagn inn í Teatime.
Sérstaklega þar sem fjárfestar vilja oft helst ekki vera mikið að fjárfesta í fyrirtækjum sem hafa ekki enn gefið út neina vöru. Þeir vilja oft bíða eftir því að það komi eitthvað út og ef það verður vinsælt þá hrúgast þeir inn og vilja setja peninga í það. Þannig að ég held að auk þess sem tengsl okkar inn í Sílíkondalinn skiptu auðvitað máli þá hafi hugmyndin sem Teatime gengur út á alla möguleika á að verða miklu stærri heldur en QuizUp var nokkurn tíma.“
Gæti breytt tölvuleikjaspili til frambúðar
Þorsteinn er tregur til að gefa of mikið upp um það út á hvað hugmyndin gengur en fellst þó á að gefa okkur örlitla innsýn í það. „Við viljum ekki gefa það alveg upp út á hvað hún gengur, einfaldlega af samkeppnisástæðum,“ segir hann. „En sýn Teatime er í stuttu máli sú að leikir yfirhöfuð, það að spila einhver spil, sé eitthvað sem fólk hafi sótt í í þúsundir ára. Það hefur alltaf verið einhver þörf hjá okkur mannfólkinu að spila saman spil. Við lítum svo á að verðmæti þess að spila spil hafi alltaf verið meira fólgin í þessu „sósíal elementi“. Þú spilar ekki olsen olsen við einhvern vegna þess að það sé svo vel hannað spil, heldur vegna þess að það er gaman að eiga stund með einhverri annarri manneskju og spjalla í kringum spilið, vera í samskiptum við annað fólk. Tölvuleikir, eins og Playstation og Nintendo, eru frábærir en samt sem áður var skemmtilegast að spila þá með vinum sínum og spjalla saman á meðan. Svo komu snjallsímarnir sem til er rosalega mikið af leikjum fyrir sem hafa algjörlega slegið í gegn en þeim fylgir sá ókostur að símar eru tæki sem maður notar bara einn, það að spila leik í snjallsíma er meira einangrandi og þannig missir sá sem spilar af þessum miklivæga þætti sem eru samskiptin við annað fólk.
Það sem við erum að byggja í Teatime er ákveðin tækni til þess að leyfa fólki að spila saman leiki í símanum og eiga um leið mjög rík og skemmtileg samskipti hvert við annað. Þetta er leið til að spila við vini eða kynnast nýju fólki á hátt sem hefur ekki verið gerður áður. Þetta virðist vera það góð hugmynd að þessir fjárfestingasjóðir eru tilbúnir til að leggja tæpan milljarð í okkur án þess að við séum búnir setja neitt á markað enn.“
Hitti toppana úr Sílíkondal í Oxford
Spurður hvernig staðið hafi á því að hann lenti inn í tölvuleikjageiranum, segir Þorsteinn að það eigi sér ýmsar skýringar. Hann hafi samt ekki verið neitt sérstakur tölvuleikjanörd þegar hann var strákur, þótt hann hafi auðvitað spilað þá eins og allir krakkar á þeim tíma. Þar að auki sé hann ekki forritari, en hann hafi alltaf verið tækjakall með áhuga á bissness.
„Ég hef alltaf haft áhuga á tölvun en meiri áhuga á viðskiptahliðinni samt,“ útskýrir hann. „Ég fór í viðskiptafræði í Háskólanum og lagði áherslu á markaðsmálin. Svo gerist það þegar iPhoninn kemur að ég heillast alveg af þessari nýju tækni og fer að velta fyrir mér möguleikunum sem hún býður upp á. Á sama tíma er ég að flytja út til Englands og hefja MBA-nám í Oxford-háskóla og þar kviknar þessi neisti og ég átta mig á því hvað heimurinn er að verða spennandi með tilkomu þessara nýju tækja. Í háskólanum í Oxford voru þeir með prógramm sem hét Silicon Valley comes to Oxford og fengu alla helstu toppana úr Sílíkondal, algjöra þungavigtarmenn í bransanum, til að koma og vera með vinnustofur fyrir okkur nemendurna. Ég féll alveg fyrir þessum heimi og þótti sérstaklega áhugavert að með þessum nýju tækjum var búið að brjóta niður öll landamæri þegar kom að dreifingu. Þannig að allt í einu opnaðist sá möguleiki að vera með fyrirtæki á Íslandi sem væri að keppa á alþjóðlegum markaði. Það fannst mér mjög spennandi.“
En þegar þú fórst upphaflega í viðskiptafræðina hvað hafðirðu þá hugsað þér að verða þegar þú yrðir stór?
„Ég bara vissi það ekki,“ segir Þorsteinn og hlær. „Ég hafði ætlað mér að verða leikari þegar ég var lítill og eftir viðskiptafræðina vann ég stutta stund sem fréttamaður, bæði á RÚV og Stöð2, og var að máta mig við alls konar störf. Ég fór eiginlega bara í viðskiptafræðina til að skilja aðeins betur hvernig heimurinn virkar. En eftir þessa reynslu í Oxford voru örlög mín ráðin. Ég stofnaði Plain Vanilla 2010 og fyrsti tölvuleikurinn sem ég bjó til var barnaleikur sem hét Moogies. Hann gekk mjög illa, vægast sagt, en ég hélt ótrauður áfram.“
Nýtt fyrirtæki og ný kærasta á sama tíma
Er þetta ekki brjálæðisleg vinna? Áttu eitthvert einkalíf?
„Ég á tvö börn sem eru núna 13 og 9 ára og ég sinni þeim auðvitað auk þess sem ég er í tiltölulega nýju sambandi og á tvo ketti. Það er ekki mikið meira sem ég kemst yfir,“ segir Þorsteinn. „Ég og barnsmóðir mín skildum fljótlega eftir að við komum heim frá Oxford og eftir það stofnaði ég Plain Vanilla. Það var náttúrlega brjálæðisleg vinna að koma því fyrirtæki á koppinn og ég viðurkenni það alveg að það er ekkert sérstaklega hentugt á þessum fyrstu stigum fyrirtækis að vera í sambandi. Það gafst ekki mikill tími fyrir það.“
Með uppgangi Plain Vanilla varð Þorsteinn skyndilega þjóðareign og allir fylgdust grannt með öllu sem hann tók sér fyrir hendur, hvernig upplifun var það?
„Þegar QuizUp sló í gegn, undir lok árs 2013, þá beindust augu allra Íslendinga að þessu fyrirtæki. QuizUp varð vinsælasti leikur í heiminum á tímabili og ég skil það mjög vel að við sem lítil þjóð eigum það til að verða mjög stolt af því sem Íslendingar eru að gera, sérstaklega á erlendri grundu. Þannig að við urðum svona pínulítið óskabarn þjóðarinnar. Við stækkuðum rosalega hratt og vorum mjög mikið í fjölmiðlum og ég fann auðvitað líka fyrir því að áhugi á mér sem persónu óx. Sem hafði bæði ýmsa kosti og ókosti. Það erfiðasta við það var þegar við síðan lendum í því, í lok árs 2016, að sjá fram á það að þurfa að selja QuizUp úr landi og loka Plain Vanilla-skrifstofunum á Íslandi. Það var sérstaklega erfiður tími fyrir mig. Eftir að hafa í nokkur ár verið óskabarn þjóðarinnar og mikið í umræðunni var það mikið áfall að þurfa að loka og segja upp næstum hundrað manns. Þetta gerðist í byrjun árs 2017, það er bara eitt og hálft ár síðan.
Í gegnum það sem ég hef verið að gera hafa verið margir stórir sigrar en líka svo stórir ósigrar og ég held að það sé eitthvað sem ég þurfi að sætta mig við til að geta haldið áfram með það líf sem ég valdi mér með því að fara út í þetta. Að keppa í tæknibransanum á alþjóðlegu markaðssvæði þýðir að þú ferð ýmist hratt upp eða hratt niður. Og ég viðurkenni það að eins gaman og það er þegar gengur vel, eins og þegar við slógum í gegn með QuizUp, þá er jafnerfitt að standa frammi fyrir því að þurfa að loka fyrirtækinu og um leið að berjast við allar þessar sögusagnir um alls konar ástæður fyrir því. Maður fær yfir sig her af fólki sem vill endilega segja manni hvað maður hefði átt að gera öðruvísi, hvort sem það er á opinberum vettvangi eða fólk á förnum vegi.
Eftir að QuizUp var lokað ákvað ég að taka mér árs frí til að hreinsa hugann, ákveða næstu skref en það gekk ekki betur en svo að tveim eða þrem mánuðum seinna hópuðum við okkur saman fjórir æðstu stjórnendurnir hjá QuizUp og ákváðum að gefast ekki upp og fá okkur aðra vinnu, það er svo gefandi og skemmtilegt að skapa eitthvað svona. Núna vorum við reynslunni ríkari og vissum betur hvað þarf til og við fórum yfir alls konar hugmyndir sem við urðum spenntir fyrir en reyndust kannski ekki sniðugar við nánari skoðun. Svo kom pælingin um Teatime upp síðasta sumar og það er gaman að hugsa til þess hvað hlutirnir hafa breyst hratt.
Fyrir nákvæmlega ári síðan var þessi hugmynd ekki komin upp og ég var dálítið leiður. Ég var ekki í sambandi, ekki með vinnu og dapur yfir því hvernig þetta fór með QuizUp. Svo kom þessi Teatime-hugmynd upp stuttu síðar og þá fór allt af stað. Við fengum strax í september inn 1,6 milljóna dollara fjárfestingu í hugmyndina og mánuði seinna, í október, kynnist ég konu sem er núna kærastan mín sem er það besta sem hefur hent mig í mörg ár.
Þetta er búinn að vera heljarinnar rússíbani. Að fara í gegnum svona áfall sem það var fyrir mig að loka Plain Vanilla og vera svona fljótur að stíga aftur í fæturna og vera ári seinna kominn með fyrirtæki með trygga fjárfestingu og fimmtán starfsmenn sem eru hver öðrum klárari að búa til eitthvað sem ég held að muni breyta því hvernig fólk spilar tölvuleiki næstu áratugi. Þannig að ég hef lært að ef maður einsetur sér að takast á við erfiðleika, reyna að læra af þeim og reyna að nýta styrkleikana í því sem vel var gert og reyna að forðast að endurtaka mistök þá er það bara þannig að svona niðursveiflur eru hluti af þessari lærdómsferð sem felst í því að stofna fyrirtæki. Og ég er ótrúlega þakklátur öllu fólkinu sem ég hef kynnst í gegnum þetta.“
Með stóra skuld á bakinu
Spurður hvort honum hafi aldrei dottið í hug að gefast bara upp og fara að vinna við eitthvað allt annað, viðurkennir Þorsteinn að það hafi hvarflað að honum. „Jú, jú, margoft,“ svarar hann glaðbeittur.
„Ég skil ekki hvers vegna ég er enn þá í þessu, það er eiginlega bara algjört kraftaverk. Eftir Moogies-floppið var ég persónulega með 20 milljóna króna skuld á bakinu og sá ekki hvernig ég ætti nokkurn tíma að geta unnið mig upp úr því. Þú vinnur þig ekkert svo auðveldlega út úr tugmilljóna króna skuld sem launamaður einhvers staðar.
Ég hafði líka alveg áhyggjur af mér eftir Plain Vanilla þar sem það hefur verið svo mikið í kastljósinu á Íslandi. Það er auðvitað allt í lagi, það fylgir þessu bara, en ég er á svo ótrúlega góðum stað núna, bæði með Teatime og einkalífið sem er í góðu jafnvægi og börnin mín eru mínir helstu stuðningsmenn í öllu og maður þarf að muna að njóta stundarinnar þegar allt gengur upp.“
En hvað með önnur áhugamál, tekur vinnan allan þinn tíma? Hvernig nýturðu lífsins þegar þú ert ekki í vinnunni?
„Ég hef ekki áhuga á neinu öðru og á engin áhugamál,“ svarar Þorsteinn glottandi. „Ég hef ekki mikinn tíma til að gera neitt annað en sinna vinnunni og fjölskyldunni. Ég er með konu, tvö börn og tvo ketti og þarf að ferðast alveg gríðarlega mikið út af vinnunni þannig að það að reyna að smeygja inn golfi eða veiði eða einhverju svona sem manni finnst að maður ætti að vera að gera verður því miður bara að bíða þangað til ég er kominn á eftirlaun. Ég held að ein mesta gæfa sem maður getur lent í sé þegar vinnan manns er líka áhugamálið og ég er svo sannarlega á þeim stað. Það sem mér finnst kannski skemmtilegast, þar sem ég sjálfur er hvorki forritari né hönnuður, er að finna „extraordinary“ fólk sem er algjörir snillingar á sínu sviði og sannfæra það um að einhver hugmynd sé góð. Safna því svo saman og sjá hvað gerist þegar þú býrð til fyrirtæki með kláru fólki. Verðmætin sem hægt er að skapa á stuttum tíma með svona blöndu er það sem mér finnst að Ísland ætti að fókusera á í staðinn fyrir að einblína á stóriðju. Þessi mannauður sem við eigum býður upp á svo mikla möguleika. Mér finnst það ótrúlega spennandi og pæli mikið í því hvernig fyrirtæki eiga að virka, hvernig kúltúrinn eigi að vera, hvernig hægt sé að gera þetta öðruvísi en gömlu fyrirtækin og búa til sem mest verðmæti með fólkinu sínu. Það er mitt áhugamál.“
Ekki alltaf bestur eins og mamma sagði
Sérðu fyrir þér að Teatime verði stærra en QuizUp?
„Það er erfitt að segja. Þessi bransi er svo rosalega áhættusamur. Það gæti gerst á morgun að allt í einu poppi upp einhver annar með eitthvað svipað sem myndi minnka okkar möguleika til að ná árangri. Þannig að vinnan mín felst líka í því að vera stöðugt að fylgjast með því hvað er að gerast í bransanum. En ég er hins vegar alveg sanfærður um það að ef við framkvæmum þetta vel þá hefur þetta möguleika á að verða miklu stærra heldur en QuizUp, já. Það er nefnilega svo skemmtilegt með hugmyndir að það er alveg ótrúlega oft sem fólk er haldið þeim misskilningi að það sé nóg að vera með hugmynd. Svo geti maður bara hallað sér aftur og látið einhvern annan sjá um framkvæmdina. Það er rangt. Fyrir utan það að ef þú ert með hugmynd sem er góð þá get ég lofað þér því að það hafa að minnsta kosti þúsund aðrir í heiminum fengið nákvæmlega sömu hugmynd. Það sem skilur á milli er að hafa drifkraftinn til að framkvæma hugmyndirnar vel. Ég held að ein af ástæðunum fyrir því hvað okkur gekk vel að fá fjármagn inn í þetta fyrirtæki núna sé að auk þess að vera með góða hugmynd höfum við sýnt fram á að við erum fær um að framkvæma hana.“
Hefurðu alltaf verið svona stórhuga? Hefurðu alltaf ætlað þér að sigra heiminn?
„Jaaá, ég held það bara,“ segir Þorsteinn hugsi. „Ég var mjög lengi einkabarn og fyrsta barnabarn í báðum ættum, þannig að það getur verið að ég hafi það syndróm í mér að hafa verið hampað of mikið sem barni. Svo uppgötaði ég við mín fyrstu mistök að ég var ekki alltaf bestur, eins og mamma hafði sagt mér. En ég held ég hafi alltaf haft mikinn metnað og það er ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara í Oxford og síðan að gera það sem ég hef verið að gera. Það jókst þegar ég fór að hitta fólk utan Íslands sem var alþjóðlega þenkjandi og leit á heiminn sem eitt stórt markaðssvæði. Ég man að þegar ég var að byrja að tala við hugsanlega samstarfsaðila, þurfti að ná sambandi við einhvern hjá Apple eða Google, til dæmis, þá fannst manni það algjörlega óyfirstíganleg hindrun, hvernig ætti ég að tala við einhvern háttsettan hjá svona stóru bandarísku fyrirtæki? Maður lagði varla í það en svo fattar maður að bak við öll þessi fyrirtæki er bara venjulegt fólk og ef maður leggur sig fram og talar við þetta fólk þá getur maður gert alls konar skemmtilega hluti.“
Tíminn er að hlaupa frá okkur, er eitthvað sem Þorsteini liggur á hjarta og vill koma á framfæri við þjóðina?
„Ég vil bara undirstrika það að þótt maður lendi í erfiðleikum, hvort sem það er að þurfa að loka fyrirtæki eða eitthvað annað, þá getur maður nýtt þá erfiðleika sem eldsneyti í eitthvað stærra og meira. Mér finnst þessi saga mín geta verið vonarneisti fyrir alla þá sem eru í niðursveiflunni í lífsrússíbanananum núna. Á einu ári fór ég frá því að syrgja lokun fyrirtækis sem ég hafði lagt mig fram um að byggja upp í það að fagna velgengni nýs fyrirtæki sem ég er að byggja upp með góðu fólki. Og ég er afskaplega þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri.“
Reiði meðal kvikmyndagerðarmanna vegna ráðningar nýs ráðgjafa hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Mikil óánægja ríkir meðal kvikmyndagerðarmanna vegna ráðningar nýs ráðgjafa hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Felst óánægjan meðal annars í því að starfið skuli ekki hafa verið auglýst laust til umsóknar. Kvikmyndagerðarmaður sem Mannlíf ræddi við og ekki vill láta nafns síns getið segir marga kvikmyndagerðarmenn setja spurningamerki við faglega þekkingu og hæfi Önnu Maríu Karlsdóttur framleiðanda sem var ráðin til að gegna stöðunni. „Hún kemur í stað Martins Schlüter sem hefur farið yfir styrkumsóknir fyrir heimildamyndir,“ segir viðkomandi. „Margir voru ósáttir við að aðili sem hefur ekki víðtækari þekkingu en hún á heimildamyndagerð skuli vera ráðin í þá stöðu að veita ráðgjöf varðandi klippingu og handritagerð slíkra mynda. Þegar athugasemd var gerð við þetta var starfslýsingunni skyndilega breytt og hún einfaldlega titluð sem ráðgjafi og gefið í skyn að fyrirkomulagið væri bara til bráðabrigða til að fylla upp í eyðuna sem varð þegar Martin hætti. Þetta er allt saman stórskrítið, því eins og þetta lítur út núna er eins og þetta sé klíkustarfssemi og fólk er brjálað út af þessu. Það hefði klárlega mátt fyrirbyggja stöðuna sem er komin upp með því að auglýsa starfið laust til umsóknar.“
Misskilningur á ferð
Mannlíf náði sambandi við Laufeyju Guðjónsdóttur, forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, sem segir í skriflegu svari að um sé að ræða tímabundna ráðningu „til sex mánaða og heimilt að ráða þannig án auglýsingar. Sá sem gegndi starfinu þurfti að hætta með mjög stuttum fyrirvara vegna annarra starfa og því töldum við áríðandi að fylla í skarðið sem fyrst. Það er sem sagt millibilsástand núna en má vænta breytinga og verður auglýst eitthvað síðar.“
Laufey segir jafnframt að viðkomandi sem var ráðin búi yfir viðamikilli þekkingu á flestum sviðum kvikmyndagerðar síðastliðin u.þ.b. 25 ár auk þess að vera vel að sér í kvikmyndasögu og menningu. „Reynslan er meðal annars í þróun verkefna, framleiðslu, kynningu og markaðssetningu. Það er rétt að mestanpart hafa það verið leiknar myndir þótt hún hafi líka komið að heimildamyndagerð. Það má vænta þess að bakgrunnur hennar sé þannig að hún hafi forsendur til að vinna á faglegum nótum – þótt vissulega þurfi flestir að taka á þegar fengist er við nýtt starf,“ svarar hún og bendir m.a. á að handrit, efnistök og strúktúr hvers verkefnis sé metið af kvikmyndaráðgjafa auk framleiðslu-, kostnaðar- og dreifingarmáta, o.s.frv. Það gæti því ef til vill smámisskilnings „að viðkomandi eigi að veita rágjöf um klippingu og vinnslu myndarinnar, það er alltaf á höndum hvers leikstjóra eða þeirra sem hann velur með sér til verksins.“
Getur ekki tjáð sig um einstök mál
Mannlíf hafði samband við Margréti Örnólfsdóttur, formann Félags leikskálda og handritshöfunda vegna málsins. Hún sagðist ekki geta tjáð sig um þetta einstaka mál, en það láðist að koma því á framfæri við vinnslu fréttarinnar. Margrét sagði að almennt væri gott ef allir verkferlar væru skýrir til að fyrirbyggja misskilning. „Ég tel mjög mikilvægt að starf ráðgjafa sé auglýst. Að það sé farið eftir verkferlum sem eru gegnsæir,“ segir Margrét. „Þetta er lítill sjóður, fáir ráðgjafar og mikið undir hjá fólki, því ráðgjafarnir hafa úrskurðarvald um framtíð verkefnanna sem fólk er að vinna að. Það er því skiljanlegt að fólki sé ekki sama hvernig staðið er að þessu. Þetta verður að vera faglegt og uppi á borðum og það er slæmt ef einhver vafi leikur á því að þetta sé í lagi,“ bendir hún á. „Ég get ekki tjáð mig um ráðningar einstakra ráðgjafa, en það er mikilvægt að svona ferli séu skýr svo það komi ekki upp einhver misklíð sem fer að beinast að persónum sem eiga í hlut. Því á endanum snýst hlutverk Kvikmyndasjóðs um að styðja við íslenska kvikmyndagerð, svo við höldum áfram að eflast og þroskast sem atvinnugrein.“