Fimmtudagur 19. september, 2024
9 C
Reykjavik

„Bismark besta jólasælgætið“

Kökublað Vikunnar er komið í verslanir og inniheldur margar glæsilegar uppskriftir. Hulda Viktorsdóttir hjúkrunarnemi er ein þeirra sem bakaði fyrir blaðið.

Kökublað Vikunnar er stútfullt af spennandi efnum. Hulda Viktorsdóttir hjúkrunarnemi er ein þeirra sem bakaði fyrir blaðið en hún reynir að baka eitthvað alla aðventuna.

„Það hefur verið bakað mikið fyrir jólin frá því ég man eftir mér. Mamma heldur mikið í hefðirnar og bakar nánast alltaf það sama hver jól. Á aðventunni finnst mér bakstur með mömmu ómissandi, ilmandi kertaljós og ljúfir tónar með Michael Bublé.“ segir Hulda. „Ég bakaði fyrir ykkur þessa þriggja laga súkkulaðiköku með Bismark-smjörkremi þar sem Bismark er uppáhaldsjólasælgæti mitt.“

Bismark-súkkulaðikaka

225 g sykur
225 g púðursykur
180 g smjör við stofuhita
3 egg
345 g hveiti
½ tsk. salt
60 g kakó
3 dl mjólk

Smjör, sykur og púðursykur þeytt saman. Eggjunum bætt rólega saman við. Þeytt þar til blandan er orðin loftkennd. Restin af þurrefnum bætt saman við. Sett í þrjú grunn form og bakað við 180°C í um það bil 30 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í kökuna kemur hreinn upp.

Kremið
150 g Philadelphia-rjómaostur
375 g smjör
1 ½-2 pk. flórsykur
3 msk. rjómi
2 tsk. piparmyntu-extract

Rjómaostur og smjör þeytt saman. Rjómanum og flórsykrinum bætt saman við og loks piparmyntudropunum. Það er betra að setja minna en meira af flórsykrinum og bæta frekar jafnóðum við þar til kremið er orðið eins og þú vilt hafa það. Einnig er gott að smakka kremið til og bæta þá við piparmyntudropum ef þess þarf.
Kakan er síðan skreytt með jólastöfum og Bismark-brjóstsykrum.

Umsjón: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir: Hákon Davíð Björnsson

Fjórar frægar skandinavískar hönnunarvörur

adsf

Skandinavísk hönnun er ein sú vinsælasta í heiminum í dag, ekki síst retro-hönnun frá fyrri part síðustu aldar en ekki allir þekkja söguna á bak við munina.

Hér eru nokkrar klassískar hönnunarvörur frá Skandinavíu sem er að finna á fjölmörgum íslenskum heimilum og smáskot um hönnuðina á bak við þær.

Hönnuðurinn Kay Bojesen og Apinn frægi.

Kay Bojesen og Apinn

Hönnuðurinn Kay Bojesen menntaði sig upprunalega sem silfursmiður og var í læri hjá Georg Jensen. Það var ekki fyrr en hann eignaðist fyrsta son sinn, Otto, sem hann sneri sér að viðarleikföngum.

Hann mundi hvað honum þótti gaman í æsku þegar faðir hans tálgaði leikföng úr við fyrir hann. Hann vildi einnig rækta sköpunargáfu barna sinna með leikföngum sem væru frumleg og glaðleg.

Hann er án efa þekktastur fyrir Apann en eftir hann liggja þó yfir 2.000 munir og margir eru enn framleiddir í dag.

Poul Henningsen og PH-ljósin

Poul Henningsen kom fyrst til starfa hjá Louis Poulsen árið 1925 og starfaði þar til dauðadags árið 1967.

Hann hóf strax handa við að hanna ljós fyrir sýningu í París og það reyndist upphafið á PH-vörulínunni.

Helsta markmið hans var að hanna ljós sem voru laus við endurkast þannig að þau veittu þarfa birtu en sköpuðu jafnframt mjúka skugga.

Til eru ýmsar útfærslur á PH-ljósum en vinsælastar eru eflaust hangandi PH 3.5 og PH 5-lampinn.

Til eru ýmsar útfærslur á PH-ljósum Henningsen.

Arne Jacobsen og Eggið

Arkitektinn og hönnuðurinn Arne Jacobsen er flestum kunnur og ekki er hægt að tala um skandinavíska hönnun án þess að minnast á hann. Þegar hann var ungur átti hann sér draum um að verða listmálari en faðir hans fékk hann til að velja frekar arkitektúr því það væri praktískara. Hann hóf samstarf við húsgagnaframleiðandan Fritz Hansen árið 1934 sem enn í dag framleiðir stólana hans. Þótt hann sé ef til vill frægastur fyrir Eggið þá eru ekki allir sem hafa efni á að kaupa sér eitt slíkt. Á mörgum íslenskum heimilum er hins vegar að finna Sjöuna í einum eða fleiri litum.

Stólar eftir Arne Jacobsen.

Alvar Aalto

Finnski arkitektinn og hönnuðurinn Alvar Aalto var sannkallaður þúsundþjalasmiður en hann er þekktur bæði fyrir byggingar, húsgögn, textíl og glermuni. Á flestum íslenskum heimilum er að finna að minnsta kosti einn mun úr vörulínunni sem Alvar Aalto hannaði fyrir finnska fyrirtækið Iittala, hvort sem það er glervasi, kertastjaki, bakki eða eitthvað annað. Aalto sigraði Karhula-Iittala glerhönnunarkeppnina árið 1936 með þeirri línu. Innblásturinn fékk hann frá öldum hafsins og er línan í dag ein þekktasta hönnun Finnlands.

Úr smiðju Alvars Aalto.

Mistökin geta verið algjör snilld

Linda Ben Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Linda Benediktsdóttir er mörgum sælkeranum kunn en hún heldur úti bloggsíðunni lindaben.is.

Í nýjasta tölublaði Vikunnar er Linda með uppskrift að lakkrísostaköku með hvítu súkkulaði, konfektkleinuhringjum og brownies með eggjahvítukremi og súkkuði.

,,Ég legg gríðarlegan metnað í bloggið mitt og hef virkilega gaman að því að skapa efnið sem fer þangað inn. Instagram er líka vettvangur sem mér finnst skemmtilegur og legg ég mikið upp úr þeirri síðu. Mér finnst æðislegt að tengjast lesendum mínum á þennan persónulega hátt.

Áður hafði Linda rekið síðuna makkaronur.is þar sem fólk gat pantað sér makkarónur fyrir hvaða tilefni sem er á netinu. Linda segir það hafa verið skemmtilegt verkefni að reka sína eigin kökubúð. ,,Ég fer oft af stað með einhverja ákveðna útkomu í huga en þegar lengra er komið í ferlinu er niðurstaðan langt í frá sú sem ég ætlaði í upphafi. Frekar en að byrja upp á nýtt læt ég hlutina bara virka.

Mér hefur alltaf þótt gaman að baka og vel köku fram yfir önnur sætindi. En ég passa líka að hafa jafnvægi í matarræðinu. Ég borða holla fæðu dagsdaglega, hreyfi mig þegar ég hef tíma en það hentar mér best að hafa allt í hófi. En svo þegar mig langar í góða köku leyfi ég mér það bara og fæ ekkert samviskubit yfir því.“

,,Ég fer oft af stað með einhverja ákveðna útkomu í huga en þegar lengra er komið í ferlinu er niðurstaðan langt í frá sú sem ég ætlaði í upphafi.“

Hún segir að það besta við baksturinn sé nefnilega útrásin sem maður fær fyrir sköpunargleðinni. ,,Svo er ákveðin spenna fólkin í því að vera gera eitthvað nýtt og sjá hvort það virkilega heppnist, sérstaklega þegar maður er að taka smá séns en mistökin geta sömuleiðis verið algjör snilld.“

Í nýjasta tölublaði Vikunnar er Linda með uppskrift að lakkrísostaköku með hvítu súkkulaði, konfektkleinuhringjum og brownies með eggjahvítukremi og súkkuði. 

Höfundur / Íris Hauksdóttir
Myndir /Heiðbjörg Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hvað felst í vegan-lífsstíl?

Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að fólk velji grænmetisfæði, annað hvort eingöngu eða að mun stærri hluta mataræðis síns.

Algengt er einnig að hluti hópsins gangi lengra og kjósi að gerast vegan, eins og það er kallað. Í því felst að kjósa að borða ekkert sem á rætur að rekja til dýraríkisins. Nota að auki nota engar vörur sem hafa annað hvort verið framleiddar úr afurðum dýra eða þau notuð við prófanir á gæðum þeirra.

Flestir þeir er kjósa þennan lífsstíl gera það af hugsjón. Þeim ofbýður meðferð manna á skepnum og vilja ekki stuðla að því að haldið sé áfram að kvelja skepnur sem eiga jafnmikinn tilverurétt og menn á þessari jörð.

Núorðið bjóða flestar matvöruverslanir upp á gott úrval af því fæði sem vegan-fólk kýs og á mörgum veitingahúsum er ávallt val um rétti sem henta því. Mynd/pexels.com

Rannsóknir hafa einnig sýnt að nútímalandabúnaður á stóran þátt í að út í andrúmsloftið streyma eiturefni er stækka gatið í ósonlaginu og valda loftslagsbreytingum. Vaxtarhormón og fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf er sömuleiðis algengur fylgifiskur verksmiðjubúskapar og ungt fólk um allan heim hefur áhyggjur af þeirri þróun. Ekki liggur fyrir vitneskja um hvaða áhrif þetta muni hafa á menn þegar til lengri tíma er litið né heldur vitað hver áhrif ýmissa aukefna sem blandað er í matvæli eru.

Fjölgun mannkyns er sömuleiðis ör og ef við höldum áfram að velja þau matvæli sem nú eru á borðum flestra munum við ekki geta brauðfætt heiminn innan nokkurra kynslóða. Vísindamenn hafa þess vegna lengi hvatt menn til að huga að því að auka neyslu á mat úr plönturíkinu en að auki leitað að fleiri æskilegum prótíngjöfum og skordýr reynst þar vænlegur kostur.

Valið auðvelt

Velji fólk vegan-lífsstíl neytir það ekki eggja, gelatíns, mjólkurvara og hunangs. Þótt dýr séu ekki drepin við framleiðslu þessara matvæla eru þau haldin á búgörðum við mismunandi aðstæður. Til að mótmæla því kýs vegan-fólk að nota ekki þessar vörur. Baunir og baunaafurðir, eins og tofu og tempeh, eru helstu prótíngjafarnir auk sveppa og hneta. Í raun er fæði þeirra mjög heilsusamlegt og ríkt af margvíslegum næringarefnum. Talið er að í Bandaríkjunum séu um það bil 2,5% íbúa vegan og tala þeirra er aðhyllast þessa stefnu fer ört hækkandi.

Vísindamenn hafa þess vegna lengi hvatt menn til að huga að því að auka neyslu á mat úr plönturíkinu en að auki leitað að fleiri æskilegum prótíngjöfum og skordýr reynst þar vænlegur kostur.

Margir þeirra er taka upp þennan lífsstíl tala um að á óvart hafi komið hversu auðvelt það hafi reynst. Núorðið bjóða flestar matvöruverslanir upp á gott úrval af því fæði sem vegan-fólk kýs og á mörgum veitingahúsum er ávallt val um rétti sem henta því. Þetta er nýlunda því ekki er langt síðan að hér á landi var tæpast um annað að velja fyrir grænkera en salat með nokkrum tegundum grænmetis og því lítið spennandi fyrir þá að fara út að borða með vinum.

Flestir þeir er kjósa þennan lífsstíl gera það af hugsjón. Þeim ofbýður meðferð manna á skepnum og vilja ekki stuðla að því að haldið sé áfram að kvelja skepnur.

Þessi þróun er til marks um hversu hratt þessi lífsstíll hefur unnið á. Þeir sem kjósa hann þurfa þó að vera meðvitaðir um hvað þeir borða og gæta þess að fá nóg af kalki, B12-vítamíni, zinki og járni. Á hinn bóginn njóta þeir þess að fá mun meira af C- og E-vítamínum, potassíum, magnesíum og fólínsýrum en kjötætur og þá skortir aldrei trefjar. Þær eru undirstaða heilbrigðs meltingarkerfis og margar kjötætur finna oft fyrir hægðatregðu, ristilvandamálum og brjóstsviða sem vegan-fólk er laust við.

Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að fæði er byggir að stærstum hluta á afurðum úr plönturíkinu dregur mjög úr líkum á að fólk fái krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma. Grænkerar hafa einnig almennt mun lægri blóðþrýsting og kólesteról í blóði.

Rannsóknir hafa sýnt … að fæði er byggir að stærstum hluta á afurðum úr plönturíkinu dregur úr líkum á krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum.

Auk þess er að ofan var talið hafa rannsóknir sýnt að þeir sem kjósa að borða fyrst og fremst mat úr plönturíkinu eru almennt grennri en hinir, þjást síður af ofnæmi eða óþoli, halda liðleika lengur fram eftir ævi og fá síður sykursýki II. Þeir verða þó að gæta þess vel að neyta nægilegs magns af kalk- og D-vítamínríkri fæðu til að tryggja beinþéttni.

Í 45. tbl. Vikunnar er að finna ítarlega úttekt á hvað felst í vegan-lífsstíl og hver eru heppileg fyrstu skref ef menn hafa áhuga á að tileinka sér hann. Hér er brot úr greininni en þeir sem vilja lesa meira geta nálgast blaðið á næsta sölustað.

Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir

„Til í bardaga“

MMA hefur iðulega verið gagnrýnt fyrir að vera ofbeldisfull íþrótt en Gunnar bendir á að það sé ekki hægt að tala um ofbeldi þegar tveir þrautþjálfaðir einstaklingar takist á í bardaga sem þeir hafi báðir samþykkt.

Bardagakappinn Gunnar Nelson er búinn að jafna sig eftir Ponzinibbio-bardagann en í honum fékk hann í fyrsta skipti á sig rothögg.

„Þetta var helvíti hraður bardagi og hreint út sagt ömurlegur fyrir mig,“ segir Gunnar.

Gunnar er tiltölulega nýfarinn að æfa aftur að ráði en segist tilbúinn í næsta bardaga.

„Við komum báðir út úr hornunum í byrjun og þó að hann pressi aðeins næ ég strax nokkuð góðu „uppercut-höggi“ á hann. Þá kemur hann hins vegar út með útrétta hönd og potar djúpt í bæði augun á mér. Eftir það sé ég tvöfalt, sé bókstaflega tvo gæja fyrir framan mig.“

Ponzibbio potaði svo aftur í augu Gunnars þegar hann var kominn upp við búrið og var að reyna að verja sig og Gunnar var því með lokuð augun þegar Ponzibbio náði rothögginu.

Í viðtölum strax eftir bardagann við Ponzibbio tók Gunnar stóran hlut ábyrgðarinnar á sig og sagði að hann hefði átt að stoppa bardagann strax, en samkvæmt reglum getur aðeins dómari stöðvað bardaga ekki bardagakappi.

Hann segist þó hafa lært lexíu sína og ef hann lendir aftur í svipuðum aðstæðum muni hann reyna að láta dómarann vita svo hann geti stöðvað bardagann. „Maður þarf að fá tækifæri til að jafna sig eftir svona árás, því það er frekar áríðandi að sjá almennilega í bardaga.“

„Það urðu einhveru uppþot í kringum þessi ummæli mín á Netinu. En ég er til í bardaga og Darren tók líka vel í þennan möguleika.“

Gunnar er tiltölulega nýfarinn að æfa aftur að ráði en segist tilbúinn í næsta bardaga. „Síðustu æfingar hafa gengið mjög vel og ég er bara að koma mér aftur í toppform.“

Það vakti athygli nýverið þegar Gunnar virtist kalla eftir bardaga við Darren Till í athugasemd á Instagram. Till kom inn í UFC nýverið með hvelli og sagði að allir væru of hræddir við að berjast við hann. Gunnar svaraði þessari staðhæfingu með orðunum: „Ég er til stóri strákur.“ „Það urðu einhver uppþot í kringum þessi ummæli mín á Netinu. En ég er til í bardaga og Darren tók líka vel í þennan möguleika.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Myndband / Óskar Páll Sveinsson

 

 

Músur sem mótuðu tískuna

Stella segir að fatasmekkur foreldra sinna hafi verið henni innblástur.

Ekki er óalgengt að listamenn eigi sér músur sem þeir sækja andagift sína í.

Fatahönnuðir eiga sér oftar en ekki fleiri en eina músu; sumar hafa tímabundin áhrif og veita innblástur að ákveðinni vörulínu eða tískusýningu á meðan aðrar rista dýpra og hafa mótað hönnuðina og sýn þeirra á tísku.

Samkvæmt Tom Ford er allt tískuvit hans sprottið frá þeim tíma sem hann varði með hönnuðinum Halston þá aðeins sautján ára.

Tom Ford
Táningsárin eru mjög mótandi tími og það á ekki síst við um Tom Ford. Samkvæmt honum er allt tískuvit hans sprottið frá þeim tíma sem hann varði með hönnuðinum Halston þá aðeins sautján ára.

Halston klæddi allt fína og fræga fólkið á þessum tíma, Lizu Minnelli, Elizabeth Taylor og Angelicu Houston.

 „Ég var eins og svampur og saug þetta í mig og mikið af upplifunum mínum frá þessum tíma hafa mótað fagurfræði mína.“

„Ég fór kvöld eitt fullur heim til Halstons og hann eldaði egg handa okkur. Á þessum árum kynntist ég fólki, eins og Biöncu Jagger, sem ég þekki enn í dag og það segir stundum: „Bíddu hvenær kynntist ég þér fyrst?“ Ég var bara sautján ára krakki sem var með vini þeirra.

Ég var eins og svampur og saug þetta í mig og mikið af upplifunum mínum frá þessum tíma hafa mótað fagurfræði mína.“

Rachele Regini er helsti innblástur móður sinnar Mariu Grazia Chiuri, listræns stjórnanda Dior.

Maria Grazia Chiuri

Listrænn stjórnandi Dior, Maria Grazia Chiuri, fetar óhrædd í fótspor heimsfrægra hönnuða. Það kemur því ef til vill einhverjum á óvart að sú sem veitir henni helst innblástur er tvítug dóttir hennar, Rachele Regini. „Að sjálfsögðu er hún músan mín. Ég elska tísku af öllu hjarta og ég veit nákvæmlega hvað ég vil fá út úr henni fyrir sjálfa mig. En ef ég á að vera alveg hreinskilin þá hugsa ég nær aldrei um sjálfa mig í hönnun minni, þú verður að hlusta á hvað yngri kynslóðin vill. Stundum eru það því börnin sem kenna móðurinni.“

 

Karl Lagerfeld, listrænn stjórnandi hjá Chanel og Fendi, sækir enn innblástur í fyrrum unnusta sinn, Jacques De Bascher, sem lést árið 1989.

Karl Lagerfeld

Það eru ekki aðeins lifandi einstaklingar sem eru hönnuðum músur. Einn frægasti fatahönnuður samtímans, Karl Lagerfeld, listrænn stjórnandi hjá Chanel og Fendi, sækir enn innblástur í fyrrum unnusta sinn, Jacques De Bascher, sem lést árið 1989 aðeins þrjátíu og sjö ára. „Ég er mikill fjölskyldumaður en hann var eins og fjölskylda án þeirra skyldna sem fylgja fjölskyldum. Hann hleypti birtu inn í líf mitt á hátt sem engum hefur tekist síðan. Kannski er bara ein slík manneskja á mann og svo ekki meir.“

 

Ævilöng vinátta Huberts de Givenchy og Audrey Hepburn er vel þekkt innan tískubransans. A

Hubert de Givenchy

Ævilöng vinátta Huberts de Givenchy og Audrey Hepburn er vel þekkt innan tískubransans. Audrey Hepburn sagði að fötin hans væru þau einu sem henni liði sem sér sjálfri í. Hubert De Givenchy hannaði eina frægustu flík kvikmyndasögunnar á Audrey, eða svarta kjólinn sem hún klæddist í Breakfast at Tiffany’s. „Ég kann best við persónuleika hennar og sjarma. Stíll hennar skín í gegn í kvikmyndum og í þeim fötum sem hún klæðist. Hún er einstök,“ sagði hann. Enn þann dag í dag sækir tískuhúsið fræga innblástur í Audrey.

Móðir Alessandro Michele er helsti innblásturinn í hönnun hans.

Alessandro Michele

Mömmur eru bestar og það veit Alessandro Michele, listrænn stjórnanadi Gucci, vel. Móðir hans er helsti innblásturinn í hönnun hans og hann lýsir henni sem algjörlega klikkaðri kerlingu sem lifir í stællegum heimi. „Okkur vantar fleiri sérvitringa eins og hana svo ég hef hannað vörulínur mínar og tískusýningar með tilliti til eintaklingsins. Hvernig þú klæðir þig segir heilmikið um það hvernig þér líður, hvernig þú lifir lífinu, hvað þú lest og gildi þín. Það er einmitt það sem ég vildi koma inn hjá Gucci.“

„Hvernig þú klæðir þig segir heilmikið um það hvernig þér líður, hvernig þú lifir lífinu, hvað þú lest og gildi þín. Það er einmitt það sem ég vildi koma inn hjá Gucci.“

Stella segir að fatasmekkur foreldra sinna hafi verið henni innblástur.

Stella McCartney

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni segir máltækið en þó að foreldrar Stellu McCartney, tónlistarfólkið Paul og Linda McCartney, hafi svo sannarlega verið hæfileikaríkir og skapandi þá var fatasmekkur þeirra ekkert til að hrópa húrra fyrir. Stella segir þó að það hafi einmitt verið henni innblástur. „Foreldrar mínir höfðu lítinn áhuga á tísku sem gerði það að verkum að stíll þeirra var aldrei útpældur né ofhugsaður. Það var þeim svo eðlislægt að blanda saman nýju og gömlu, glamúr og klassík. Þau höfðu ómeðvitað mikil áhrif á mig og vörumerki mitt, mig langaði að gera eitthvað meira og stærra en bara að hanna fallega kjóla og sýna þá á tískupöllunum.“

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

 

Geymilegar gersemar

Ýmsar gersemar leynast í geymslum landsins og það á ekki síst við um geymslur Hönnunarsafns Íslands.

Sýningin Geymilegir hlutir hefur staðið yfir frá árinu 2015. Þar má sjá sýnishorn af þeim fjögur þúsund munum sem eru í safneigninni, en sýningin er einmitt hönnuð með það fyrir augum að auðvelt sé að skipta hlutum út og setja nýja inn.

Sýningin Geymilegir hlutir hefur staðið yfir frá árinu 2015. Þar má sjá sýnishorn af þeim fjögur þúsund munum sem eru í safneigninni. Hér er Fundarstóll eftir Gunnar H. Guðmundsson, húsameistara Reykjavíkur, úr fundarsal borgarstjórnar Reykjavíkur að Skúlatúni 2. Einn af þremur misháum stólum úr sömu seríu sem safnið varðveitir. Þessir stólar eru enn í notkun hjá Reykjavíkurborg.

Aðdragandinn að stofnun Hönnunarsafns Íslands var allnokkur en umræðuna um nauðsyn á slíku safni má rekja aftur til ársins 1992 þegar félagið Form Ísland setti saman hóp með fulltrúum hönnuða, menntamálaráðuneytisins, Listasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Reykjavíkurborgar um slíkt safn. Í framhaldinu var þeim tilmælum beint til menntamálaráðuneytisins að skipa nefnd er mæti með hvaða hætti stofna mætti safn er sinnti listiðnaði.

Í byrjun árs 1997 var niðurstaða þeirra nefndar að mikil þörf væri á safni er sinnti listhandverki og iðnhönnun. Árið 1998 gerðu því menntamálaráðuneytið og Garðabær samkomulag um að reka í sameiningu íslenskt hönnunarsafn er safnaði og sýndi listiðnað.

Fyrst um sinn var safnið deild í Þjóðminjasafni Íslands en með nýjum samningi við menntamálaráðuneytið árið 2006 tók Garðabær við rekstri Hönnunarsafns Íslands og starfar safnið sem stofnun á vegum bæjarfélagsins. Þá hafði safnið til afnota lítinn sal við Garðatorg þar sem haldnar voru nokkrar sýningar á ári en skrifstofu og varðveislurými var að finna á öðrum stað.

Árið 2009 var safninu valinn staður við Garðatorg 1 og fluttist öll starfsemi safnsins þangað þegar reglubundið sýningahald safnsins hófst í maí 2010.

Safneign safnsins stækkar jafnt og þétt og telur nú um fjögur þúsund gripi.

Í dag starfa á safninu forstöðumaður og sérfræðingur ásamt gæslu- og afgreiðslufólki. Nýbúið er að útbúa sýningarrými í anddyri safnsins þar sem verða settar upp minni sýningar á verkum eða verkefnum hönnuða.

Gripir safnsins falla í eftirfarandi flokka: húsgagnahönnun, grafísk hönnun, arkitektúr, fatahönnun, vöru- og iðnhönnun, textílhönnun, skartgripahönnun, gull- og silfursmíði, keramík og glerlist.

Safneign safnsins stækkar jafnt og þétt og telur nú um fjögur þúsund gripi. Safnið kaupir reglulega inn gripi í safneignina en einnig berst töluvert af gjöfum til þess. Það er safninu mikils virði að fólk hugsi til þess, hvort sem það vill gefa eða fá hjálp við að greina hluti í sinni eigu.

Sífellt meiri fróðleikur um hönnunarsögu Íslendinga

Nýir gripir sem koma í safnið á hverju ári leggja grunn að efni til rannsókna og þeir eru í sjálfu sér vitnisburður á hverjum tíma um það sem sérfræðingar álíta æskilegt að sé varðveitt í safni. Gildi þeirra hluta sem koma til safnsins breytist, merking getur orðið önnur – og jafnvel meiri.

Árið 1969 var Manfreð Vilhjálmsson fenginn til að hanna húsgögn og innréttingar fyrir nýjan unglingaskemmtistað, Tónabæ, í Skaftahlíð 24. Í Tónabæ vildi Manfreð skapa umhverfi sem reykvískir unglingar ættu ekki að venjast heima hjá sér og með því gera staðinn að þeirra athvarfi.

Undanfarin ár hafa safninu borist nokkrar stórar gjafir sem styrkja safneign þess mjög. Má þar nefna gjöf frá grafíska hönnuðinum Gísla B. Björnssyni á munum frá ævistarfi hans. Gjöf frá Einari Þorsteini Ásgeirssyni arkitekt á gripum sem tengjast vinnu hans og nú síðast gjöf frá Bláa lóninu á stóru keramíksafni sem hefur að geyma afar gott yfirlit yfir íslenska leirlistasögu.

Eitt af hlutverkum Hönnunarsafns Íslands er að stuðla að rannsóknum á íslenskri hönnunarsögu. Með stækkandi safneign safnast sífellt inn meiri fróðleikur um hönnunarsögu Íslendinga.

Safnið hefur fengið hrós fyrir það að hafa örlítið aðra hugsjón en önnur hönnunarsöfn erlendis, það er, á safninu er að finna bæði hversdagslega og hástemda hönnun. Þannig má glöggt sjá hvernig íslensk hönnun hefur haft áhrif á heimili, samfélag og menningu þjóðarinnar – og öfugt.

Breidd safneignarinnar er greinileg á sýningu safnsins Geymilegir hlutir sem nú er í gangi.

Þar eru til sýnis nokkrir af þeim úrvalsmunum sem safnið varðveitir af ýmsum ástæðum – sem dæmi má nefna Don Cano-krumpugalla og fallegt Max-sófasett. Lýsingarorðið geymilegur er lítt þekkt í dag. En gömul merking orðsins var sett í samhengi við gjafmildi og stórhug, eins og vitnað er um í tímaritinu Skírni árið 1913 á eftirfarandi hátt: „… þá verður sá talinn mestur er mest gaf af geymilegum hlutum,“ en í þessari setningu liggur einmitt kjarninn í starfsemi Hönnunarsafnsins.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Felur jólakræsingar í ísskápum nágrannanna

Þúsundþjalasmiðurinn Margrét Erla Maack hlakkar til jóla og segir sérstakan fjölskyldusið alltaf koma sér í jólaskap.

„Það er nokkuð sérstakur siður á mínu æskuheimili sem sumum finnst svolítið erfitt að skilja. En hann gengur sem sagt út á það að við skiptumst á að elda hvert fyrir annað og látum ekki vita hvað er í matinn fyrr en sest er til borðs,“ segir Margrét Erla Maack, fjöllistakona, kabarettdís og skemmtikraftur, og bætir við að í raun sé alltaf miklu meiri spenningur í kringum þetta leynimakk heldur en til dæmis jólagjafirnar.

„Jólastemningin hefst þegar við tilkynnum að við séum búin að kaupa í matinn. Síðan eru kræsingarnar faldar í ísskápum og frystum nágranna og vina þar til að matarboðunum kemur,“ segir hún hress. „Við höfum prófað alls konar mat. Ein jólin vorum við með á boðstólum mat undir inderveskum árhrifum, vindaloo-hreindýr og tandoori-humar, og ég hugsa að það hafi heppnast einna best.“

„Við höfum prófað alls konar mat. Ein jólin vorum við með á boðstólum mat undir inderveskum árhrifum, vindaloo-hreindýr og tandoori-humar, og ég hugsa að það hafi heppnast einna best.“

Þar fyrir utan finnst Margréti Erlu fátt jólalegra en að sinna verslunarstörfum á aðventunni. „Þó að ég sé fullbókuð í veislustjórn, skemmtanir og „plötusnúðamennsku“ allar helgar í desember þá get ég ekki stillt mig um að taka vaktir með vinum mínum í Kormáki og Skildi en þar nær jólastemningin hámarki á tíu klukkustunda löngum innpökkunarvöktum á Þorláksmessu.

Ætli þetta hafi ekki eitthvað með æskuna að gera. Þegar ég var lítil vann mamma mín
allan desember í barnafataversluninni Bangsa í Bankastræti og þá brugðum við
fjölskyldan yfirleitt á það ráð að skreyta heima um miðjan nóvember svo hún upplifði kósí skammdegisjólastemningu með okkur áður en vinnutörnin hófst,“ segir hún og brosir.

Höfundur / Roald Eyvindsson
Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Minn stíll: Forfallinn Asos-aðdáandi

Kristjana Arnarsdóttir hóf störf á íþróttadeildinni RÚV síðastliðinn vetur og kann vel við sig enda hafa íþróttir alltaf verið hennar áhugasvið.

„Mig hafði lengi langað í góðan anorakk og fann einn slíkan, einmitt á Asos. Appelsínurauður Adidas-anorakkur sem er flott og góð viðbót í fataskápinn,“ segir Kristjana.

Hún er með BA-gráðu í mannfræði og fjölmiðlafræði og meistaragráðu í markaðsfræði. Hún hefur alla tíð búið í vesturbæ Kópavogs og getur hvergi annars staðar hugsað sér að vera.

„Minn stíll er ofboðslega afslappaður og kannski frekar hlutlaus,“ segir Kristjana sem klæðir sig yfirleitt eftir skapi.

„Fataskápurinn minn einkennist af svörtu eða röndóttu og ég setti því sjálfa mig í smávegis bann hvað varðar kaup á slíkum flíkum. Annars er ég algjör kuldaskræfa svo ég er oftar en ekki vel dúðuð.“

„Fataskápurinn minn einkennist af svörtu eða röndóttu og ég setti því sjálfa mig í smávegis bann hvað varðar kaup á slíkum flíkum.

Annars er ég algjör kuldaskræfa svo ég er oftar en ekki vel dúðuð. Keypti mér gráar ullarbuxur í fyrra í kanadískri verslun sem heitir Aritizia sem eru í miklu uppáhaldi. Þær hafa komið sér einstaklega vel.

Efst á óskalistanum er þykk og hlý peysa fyrir haustið og svo sá ég sjúklega fallegan hlébarðahlýrabol og buxur í stíl frá Ganni sem ég er búin að vera með á heilanum í nokkra daga núna.

Ég er alveg forfallinn Asos-aðdáandi og á það til að leyfa mér aðeins þar.

„Ég er ein af þeim sem get með engu móti notað skartgripi svo mínir uppáhaldsfylgihlutir eru sólgleraugun mín.“

Annars elskaði ég að versla þegar ég bjó í Köben, þar eru COS og Weekday í mjög miklu uppáhaldi.

Svo ættu allir að eiga góðan samfesting sem auðvelt er að henda sér í þegar fyrirvarinn er skammur.“

Hvaða þekktu einstaklingar veita þér innblástur? „Ég fylgi nokkrum skemmtilegum tískubloggurum á Instagram en annars sæki ég bara innblásturinn til vinkvenna minna.“

Áttu þá uppáhaldsflík? „Mér þykir mjög vænt um camel-lituðu kápuna sem ég keypti í COS í Kaupmannahöfn í fyrra. Mér þykir eiginlega meira vænt um hana eftir að ég fékk hana tandurhreina til baka úr hreinsun en daginn sem ég keypti hana sprakk indverskur tandoori-réttur yfir mig og ég hélt að hún yrði dæmd ónýt samstundis. Svo var þó ekki en ég hef vissulega ekki þorað að snerta tandoori-rétti síðan.

Svo þegar ég hugsa út í hvaða flík hefur mesta tilfinningalega gildið verð ég eiginlega að nefna lopapeysuna sem mamma prjónaði á mig fyrir Þjóðhátíð eitt árið. Henni fannst ómögulegt að ég ætti ekki almennilega lopapeysu og hún skellti því í eina á þremur dögum.“

„Ég er mikil kuldaskræfa og féll fyrir þessari kápu á Asos.com.“

Rammi:
Fullt nafn: Kristjana Arnarsdóttir.
Aldur: 27 ára.
Starfsheiti: Íþróttafréttakona á RÚV.
Stjörnumerki: Ljón.
Áhugamál: Íþróttir, tónlist, líkamsrækt, ferðalög, fjallgöngur og bara almennt öll útivist.
Á döfinni: Næst á dagskrá hjá mér er að skreppa í mjög langþráð frí til Spánar. Þetta er í fyrsta sinn á ævinni sem ég er að leyfa mér þann munað að fara í sumarfrí og nú ætla ég að skella mér, alveg í heila viku.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Áhugavert á Netflix: Eru plöntur málið?

Undanfarin ár hefur sú umræða aukist að við borðum í raun alltof mikið af kjöti og dýraafurðum í vestrænu samfélagi. Á Netflix er að finna nokkrar heimildarmyndir og -þætti sem fjalla einmitt um þetta málefni.

Í þeim eru vandkvæði og gallar kjötneyslu skoðaðir og ýmsum hugmyndum að lausnum er velt upp. Mismikið er um öfgar en allir virðast vera sammála um það að aukin neysla á plöntum sé svarið.

Frumefnin fjögur

Matargerð er skoðuð með frumefnin fjögur, eld, vatn, loft og jörð, til hliðsjónar, í þáttunum Cooked.

Fræðimaðurinn Michael Pollan hefur skrifað ófáar bækur um mat og matargerð. Þættina Cooked gerði hann í samstarfi við Netflix og byggjast þeir á samnefndri bók hans. Matargerð er skoðuð með frumefnin fjögur, eld, vatn, loft og jörð, til hliðsjónar. Stiklað er á stóru í sögu matargerðar og matarmenningar og skoðað er hvaða þýðingu hún hefur í samfélögum heims.

Michael kynnir sér hvernig ýmsar fæðutegundir eru búnar til, brauð, ostur og fleira, og hvernig frumefnin koma þar við sögu. Þessar fæðutegundir eiga það sameiginlegt að við í vestrænu samfélagi erum orðin alltof vön að kaupa þær bara úti í búð, þessu vill hann breyta.

Í heimildarmyndinni Food Choices skoðar Michal Siewierski áhrif fæðu, ekki bara á heilsu okkar heldur einnig heilsu jarðarinnar og heilsu lífveranna sem við deilum henni með  … Myndin veltir upp nýjum og áhugaverðum pælingum og mun án efa breyta því hvernig við horfum á matinn á diskinum.

Öfgar eða sannleikur?

What the Health er heimildarmynd úr smiðju Kips Andersen og Keegans Kuhn sem gerðu Cowspiracy: The Sustainability Secret. Í stiklum er What the Health lýst sem myndinni sem heilsutengdar stofnanir vilja ekki að við sjáum. Hún skoðar heilsuvandamál tengd kjöt- og mjólkuriðnaði, lyfjaiðnaði og ýmsum hagsmunaaðilum auk þess sem hún afhjúpar samráð þessara aðila og bandarísku ríkisstjórnarinnar. Myndin hefur hlotið töluverða gagnrýni fyrir öfgar og ofstæki en í henni er þó að finna nokkur sannleikskorn.

Mikilvægt að velja vel

Í heimildarmyndinni Food Choices skoðar Michal Siewierski áhrif fæðu, ekki bara á heilsu okkar heldur einnig heilsu jarðarinnar og heilsu lífveranna sem við deilum henni með. Hann reynir að afsanna, eða hnekkja, langlífar ranghugmyndir um mat og mataræði og því til stuðnings ræðir hann við fjölda virtra sérfræðinga, þar á meðal lækna, stjórnmálamenn, líffræðinga, næringarfræðinga og fleiri.

Myndin veltir upp nýjum og áhugaverðum pælingum og mun án efa breyta því hvernig við horfum á matinn á diskinum.

Snúið við blaðinu

Í Forks over Knives er heilsuvandi Bandaríkjamanna skoðaður ofan í kjölinn. Myndin byggir á samnefndri bók sem lenti á metsölulista New York Times.

Í Forks over Knives er heilsuvandi Bandaríkjamanna skoðaður ofan í kjölinn. Tveir af hverjum þremur eru í yfirþyngd og lífsstílssjúkdómar á borð við sykursýki II, hjarta- og æðasjúkdóma og fleiri aukast stöðugt.

Teymið sem stendur á bak við myndina heldur því fram að hægt sé að snúa þessari þróun við með því að hætta einfaldlega að borða kjöt og dýraafurðir, sérstaklega unna kjötvöru.

Tveir fræðimenn, Dr. T. Colin Campbell og Dr. Caldwell Esselstyn, segja frá rannsóknum sínum og athugunum en þeir hafa í marga áratugi haft áhyggjur af kjötneyslu samlanda sinna.

Í myndinni eru einnig tekin viðtöl við fólk sem hefur reynt þessa aðferð og snúið við blaðinu þegar kemur að mataræði og bætt heilsu sína.

Orðin sjö

Heimildarmyndin In Defense of Food var upprunalega gerð fyrir PBS-sjónvarpsstöðina í Bandaríkjunum en þar er að finna heilmikið af heimildar- og fréttaskýringarþáttum auk annars efnis sem varðar almenning. Hér er Michael Pollan aftur á ferðinni og í þetta sinn reynir hann að svara spurningunni sem hann fær hvað oftast í starfi sínu: Hvað á ég að borða til þess að halda heilsunni góðri? Hann skoðar þróun vestræns mataræðis og hvernig það hefur haft í för með sér ýmsa lífsstílstengda sjúkdóma. Í myndinni kemur Michael meðal annars með töfraorðin sjö sem eru í raun svarið við spurningunni stóru: Eat food, not too much, mostly plants, eða: Borðaðu mat, ekki of mikið, mest plöntur.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Aðalmynd / Pexels.com

Karl, kona, bæði eða hvorugt

Tískuheimurinn hefur lengi verið opnari og móttækilegri gagnvart hinseginleika en restin af umheiminum.

Trans konan Amanda Lepore hefur verið músa og veitt fjölmörgum tískuhönnuðum innblástur, svo sem Armani og Jason Wu, og sést reglulega á fremsta bekk tískusýninga.

Innan hans hafa hönnuðir og músur þeirra leikið sér með hugmyndir um kyn og kynhlutverk svo lengi sem menn muna. Ákveðin kynbylting átti sér stað á áttunda áratug síðustu aldar en þá byrjuðu að koma fram fyrirsætur, tónlistarfólk og annað listafólk sem var dulkynja og jafnvel kynlaust, þar má til dæmis nefna David Bowie, Grace Jones og fleiri. Tískuheimurinn tók þessum einstaklingum opnum örmum og þeir urðu hönnuðum mikill innblástur. Hér eru nokkrir einstaklingar sem hafa tekið þátt að opna augu fólks í gegnum tísku og fleira. Fögnum fjölbreytileikanum.

Transkonan Amanda Lepore er fastur gestur í næturlífi New York-borgar þar sem hún hefur búið nær alla tíð. Hún hefur verið músa og veitt fjölmörgum tískuhönnuðum innblástur, svo sem Armani og Jason Wu, og sést reglulega á fremsta bekk tískusýninga.

Amanda Lepore er afar umdeild, sérstaklega innan hinsegin samfélagsins sem vill meina að hún sé ekki beint góður málsvari trans einstaklinga, en fólk virðist hafa endalausan áhuga á henni.

Það má segja að hún sé aðallega fræg fyrir ótrúlega fjölda lýtaaðgerða sem hún hefur undirgengist. Hún hefur látið fjarlægja rifbein, stækkað á sér brjóstin þrisvar, sprauta sílíkoni í andlit og rass auk þess sem hún hefur oftar en einu sinni farið í andlitslyftingu. Hún líkist í raun teiknimyndapersónunni Jessicu Rabbit, sem er gott eða slæmt eftir því hvernig þú horfir á það.

Hún er afar umdeild, sérstaklega innan hinsegin samfélagsins sem vill meina að hún sé ekki beint góður málsvari trans einstaklinga, en fólk virðist hafa endalausan áhuga á henni og hún verður að fá kredit fyrir það að tjá sig opinberlega sem trans einstaklingur löngu áður en sú umræða varð almenn.

Casey Legler

Franska sundkonan Casey Legler keppti á Ólympíuleikunum árið 1996 en hún lagði sundbolinn á hilluna tveimur árum síðar. Hún hafði komið út sem lesbía á sama tíma, var hávaxin, sterkbyggð og mögnuð sundkona. Hún upplifði mikla útskúfun frá liðsfélögum og þjálfurum sem báðu hana um að nota klósett

 

Casey hefur alla tíð klæðst karlmannsfötum einfaldlega vegna þess að þau passa á hana, hún er rúmlega 190 cm á hæð.

fatlaðra sem búningsklefa. Casey hefur alla tíð klæðst karlmannsfötum einfaldlega vegna þess að þau passa á hana, hún er rúmlega 190 cm á hæð. Þegar hún komst á skrá hjá Ford-umboðsskrifstofunni árið var það sem karlfyrirsæta.

Hún sat fyrir í herferðum hjá All Saints, Diesel og fleirum. Fyrirsætustörfin hentuðu henni þó ekki og hún var bara á skrá í eitt ár en opnaði augu fólks á þeim tíma fyrir fjölbreytileika fólks.

Lea T

Leandra Medeiros Cerezo, eða Lea T eins og hún er betur þekkt, er brasilísk-ítölsk fyrirsæta. Hún er meðal fyrstu transfyrirsætna og mikill talsmaður LGBTQ. Hún er músa hönnuðarins Ricardo Tisci sem er yfirhönnuður Givenchy-tískuhússins, en t-ið í nafni Leu stendur einmitt fyrir Tisci. Hann gerði hana að andliti Givenchy síðla árs 2010 og hún byrjaði að ganga á tískupöllunum vorið eftir. Hún hefur prýtt síður tímarita á borð við Vogue Paris, Interview og Love, en forsíðan á því síðastnefnda þar sem hún kyssir Kate Moss er víðfræg.

Leandra Medeiros Cerezo, eða Lea T eins og hún er betur þekkt, er brasilísk-ítölsk fyrirsæta.

Ruby Rose

Ástralska fyrirsætan Ruby Rose gekk í gegnum tímabil í æsku þar sem hún vildi vera strákur og leiddi hugann að kynleiðréttingu. Hún segist þó hafa vaxið upp úr þeim hugsunum og þegar hún var táningur kom hún út úr skápnum sem lesbía. Í gegnum fyrirsætustörfin uppgötvaði hún hugtakið dulkynja (e. Androgyny) og hún byrjaði að prófa sig áfram með að sitja fyrir sem bæði kona eða karl – og stundum sem órætt kyn. Hún segir kynvitund sína fljótandi og vaknar upp á hverjum morgni kynlaus, það fer svo eftir skapi hennar þann daginn hvort kynið verður ofan á. Hún gerði stuttmyndina Break Free um þessa upplifun sína og við hvetjum alla til að horfa á hana.

Ástralska fyrirsætan Ruby Rose.

RuPaul

Hún er oft kölluð fyrsta dragsúperstjarnan og það er enginn hálfsannleikur. RuPaul hefur komið dragi inn í almenna umræðu og meginstraum samfélagsins í gegnum sjónvarpsþátt sinn Drag Race. Fyrir það var hún í sjónvarps- og kvikmyndastjarna og heimsþekkt nafn í skemmtanabransanum – Allt í dragi. Hafnar eru tökur á tíundu seríu þáttarins og vinsældirnar eru bara að aukast. Þátttakendur og RuPaul sjálf hafa setið fyrir hjá mörgum frægum tískuhönnuðum svo sem Marc Jacobs, Marco Marco og fleirum.

RuPaul hefur komið dragi inn í almenna umræðu og meginstraum samfélagsins í gegnum sjónvarpsþátt sinn Drag Race.

Grace Jones

Hún er sannkallað kamelljón; á lífsleiðinni hefur Grace Jones starfað sem fyrirsæta, tónlistarkona og leikkona og það sem meira er náð velgengni á öllum sviðum. Hún ólst upp á mjög siðprúðu og trúræknu heimili á Jamaica og í Bandaríkjunum en var ekki lengi að hrista þá hlekki af sér um leið og hún varð átján. Hún var fastagestur á klúbbum samkynhneigðra í New York og París þar sem hún kynntist mörgum áhrifaríkum einstaklingum, svo sem Karl Lagerfeld, Yves Saint Laurent og Helmut Newton, en þeir löðuðust að krafti hennar. Hún hefur alltaf talað fyrir frelsi einstaklingsins til að vera nákvæmlega sá sem hann vill vera – hvort sem það er karl, kona eða eitthvað allt annað.

Grace Jones er sannkallað kamelljón

 

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Stefnumót á Netinu

Það er ekki tekið út með sældinni að vera í makaleit á þessum tímum tækninnar.

Fólk í rómantískum hugleiðgingum notar smáforrit og stefnumótasíður í síauknum mæli til að komast í samband við aðra. Stundum leynast þó maðkar í mysunni. Mynd/Pexels.com

Það er ekki tekið út með sældinni að vera í makaleit á þessum tímum tækninnar. Tinder skók samfélagið þegar það leit fyrst dagsins ljós og nú hafa fjölmörg álíka snjallsímaforrit fylgt í kjölfarið. Gamla góða tuggan segir að það séu alltaf fleiri fiskar í sjónum – en þar eru líka mörg skítseyði. Spurningin er hvort tæknin hygli skítseyðunum frekar en hinum. Hér eru ýmis hugtök yfir lélega hegðun sem á sér stað á Netinu.

Draugur

Talað erum drauga, eða „ghosting“, þegar einstaklingur sem þú hefur átt í einhverjum samskiptum eða sambandi við hverfur út úr lífi þínu fyrirvaralaust.

Hann hættir að svara skilaboðum og símhringingum, er aldrei tengdur þegar þú reynir að tala við hann á samskiptamiðlum eða eyðir þér jafnvel út af vinalistanum sínum. Þetta einskorðast ekki við ástarsambönd því einhverjir hafa lent í því að vinir þeirra verði skyndilega að draugum.

Sumir byrja að líta í kringum sig og daðra á meðan þeir eru enn á föstu, yfirleitt þegar þeir sjá fyrir endann á því sambandi. Rétt eins og útskot á hraðbrautinni gefur þetta þeim smátíma og umhugsunarfrest áður en þeir beygja út úr sambandinu.

Á bekknum

Að setja einhvern á bekkinn er hugtak sem lýsir því þegar einstaklingar vilja halda manni heitum og senda manni skilaboð og líka við myndir á samfélagsmiðlum en gefa lítið út á að stofna til sambands.

Þeir sjarmera þig upp úr skónum en það sem gerir þessa hegðun sérstaklega skítlega er að þeir ætla sér kannski ekki einu sinni að hitta þig. Þeir eru oftar en ekki með marga í takinu og eru bara að draga þig á asnaeyrunum. Þú ert í endalausri biðstöðu og svo þegar þú ert við það að gefast upp á þeim aukast samskiptin, eins og þeir finni það á sér.

Sambandsútskot

Sumir byrja að líta í kringum sig og daðra á meðan þeir eru enn á föstu, yfirleitt þegar þeir sjá fyrir endann á því sambandi.

Rétt eins og útskot á hraðbrautinni gefur þetta þeim smátíma og umhugsunarfrest áður en þeir beygja út úr sambandinu. Það er vert að muna að þeim getur alltaf snúist hugur og beygt aftur inn á beinu brautina.

Það er líka ólíklegt að þeir séu að leita sér að öðru alvarlegu sambandi strax – sem sagt mjög ógáfulegt að bindast þessum týpum einhverjum tilfinningaböndum.

Veiða og sleppa

Hjá sumum er eltingarleikurinn aðalmálið en um leið og þeim finnst þeir hafa „náð“ þér sleppa þeir takinu og láta sig hverfa. Hjá flestum þýðir það eftir fyrsta stefnumót en sumum nægir bara að fá þig til að samþykkja stefnumótið. Þetta er algengara en þig grunar og sérstaklega á smáforritum eins og Tinder.

Það getur verið ferlega svekkjandi að komast að því að maður hefur verið dregin/n á asnaeyrunum. Mynd/pexels.com

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Vinaleg Gautaborg

Birna Ágústsdóttir segir frá flottum stöðum í Gautaborg.

Birna Ágústsdóttir hefur búið í Gautaborg í 36 ár ásamt fjölskyldu sinni.

Birna Ágústsdóttir hefur búið í Gautaborg í 36 ár ásamt fjölskyldu sinni. Birna starfar sem túlkur í Gautaborg og nágrenni auk þess að vinna innan íslensku kirkjunnar í Gautaborg, mest með kirkjuskólann, og er formaður safnaðarnefndar. Hún er gift, á fjögur börn, þrjú barnabörn og nokkur bónusbörn. Það sem henni líkar einna helst við búsetuna ytra er að þar er ekkert lífsgæðakapphlaup, engin verðtryggð lán, vinalegt og hjálpsamt fólk og ekki það stress sem stundum finnst í stórborgum. Við fengum hana til að segja okkur frá nokkrum flottum stöðum á svæðinu.

Liseberg

Tívolíið Liseberg hefur upp á margt að bjóða. Fyrir utan öll tæki sem maður getur farið í þá er þessi garður alveg stórfenglegt listaverk. Þeir sem koma hingað verða að gefa sér tíma til að ganga um allan garðinn og uppgötva allar þær gróðalindir sem eru víðsvegar um garðinn, sérstaklega á „efra“ svæðinu. Það getur verið hrein unun að bara fara inn og fá sér kaffi og með því og njóta umhverfisins. Beint á móti aðalinngangi Liseberg er hótel sem heitir Gothia Towers og í einum af turnunum er veitingahús uppi á 23. hæð sem er með rækjubrauðsneiðar sem eru með þeim bestu sem til eru. Þaðan er líka dásamlegt útsýni.

Botaniska Trädgården

Þessi jurtagarður er stórfenglegur, þar eru plöntur víðsvegar úr heiminum sem búið er að rækta frá grunni svo þær aðlagist sænsku veðurfari. Hver árstími hefur upp á eitthvað sérstakt að bjóða. Þar geta verið listasýningar eða annað bæði í garðinum og gróðurhúsinu, einnig er hægt að fá sýningar með leiðsögumanni. Hinum megin við götuna er Slottskogen þar sem er að finna lítinn dýragarð með sænskum dýrum þar á meðal „barnadýragarð“ þar sem börn geta farið inn og klappað dýrunum. Þar er einnig flottur leikvöllur sem heitir Plikta þar sem börn geta unað sér í langan tíma.

Hér er mikið af smáverslunum, frábærum kaffihúsum og þar á meðal eitt sem er þekkt fyrir stærstu kanilsnúðanna í Gautaborg. Á haustin eru þar bændamarkaðir á laugardögum og í desember eru þar jólamarkaðir.

Saluhallen við Kungstorget

Saluhallen við Kungstorget er stór matarmarkaður. Húsið var tekið í notkun 1889, er 14.000 fermetrar, rýmdi 92 „verslanir“ og er byggt úr járni og gleri. Þarna er hægt að kaupa í matinn frá stórum hluta heimsins, bæði tilbúin mat en líka það sem maður vill laga heima. Fiskur, kjöt, ostar, grænmeti, sælgæti, kaffihús, litlir veitingarstaðir með meiru, allt undir sama þaki. Oft eru líka sölutjöld úti á torginu þar sem bændur frá nágrenninu koma og selja sínar afurðir.

Hverfið Haga

Hér áður þótti ekki fínt að búa í þessu hverfi og var byrjað að rífa það niður í kringum 1980. Þegar uppgötvaðist að borgarmyndin breyttist töluvert var hætt að rífa og sum af húsunum héldu gamla byggingarstílunum. Hér er mikið af smáverslunum, frábærum kaffihúsum og þar á meðal eitt sem er þekkt fyrir stærstu kanilsnúðanna í Gautaborg. Á haustin eru þar bændamarkaðir á laugardögum og í desember eru þar jólamarkaðir.

Skerjagarðurinn

Í Saluhallen við Kungstorget er hægt að kaupa í matinn frá stórum hluta heimsins, bæði tilbúin mat en líka það sem maður vill laga heima. Mynd/W. Bulach

Gaman er að taka strætóbát frá Saltholmen út á eyjarnar, helst að fara alla leið út á Vrångö sem er lengst burtu.

Annars er sama hvaða eyju farið er í land á til að skoða. Það er hægt að kaupa dagskort í strætó og þá getur maður farið á milli og skoðað allar eyjarnar.

Þetta gildir kannski meira á sumrin, það er lítið gaman að flakka þar þegar er rok og rigning.

Vesturströndin

Síðast en ekki síst, ef maður hefur bíl til umráða, þá er frábært að skoða vesturströndina. Þar eru margir skemmtilegir staðir svo sem Nordens Ark-dýragarður þar sem unnið er að vernda dýr í útrýmingarhættu, Smögen sem er lítið fiskiþorp þar sem verbúðunum hefur verið breytt í verslanir og veitingastaði.

Ekki langt þaðan er Fjällbacka sem bækurnar hennar Camilla Läckberg fjalla um og svo er hægt að keyra upp að gömlu Svinesund-brúnni, leggja bílnum og ganga yfir til Noregs. Það þarf bara að fara út á hálfa brúnna, þar er merking sem stendur Svíþjóð og svo Noregur.

Gautaborg er næst stærsta borg Svíþjóðar og stærsta borgin á vesturströndinni. Mynd/commons.wikimedia.org

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

 

Borg með stórt hjarta

Guðrún Ósk Sigurðardóttir flutti á sínum tíma til Torino á Ítalíu til að vera au pair en ílengdist í nokkur ár en ákvað að koma aftur heim eftir að hún eignaðist elstu dóttur sína.

Matarmenningin og góð veðrátta eru helstu kostir þess að búa á Ítalíu, að sögn Guðrúnar.

Guðrún segir að helstu kostir Ítalíu séu matarmenningin og sólin ásamt því sem lífsgæðakapphlaup Ítala sé af öðrum toga en Íslendinga.

„Ég vann meðal annars á kaffi- og veitingahúsum, fór í ferðamálaskóla, vann á ferðaskrifstofu og prófaði að vera leiðsögumaður,“ segir Guðrún sem starfar nú við bókhald hér á Íslandi og á þrjár dætur. „Einnig vann ég við hina árlegu bókasýningu sem haldin er í Torino þar sem saman koma bókaútgefendur og rithöfundar. Endaði samt í veitingahúsarekstri áður en ég kom aftur heim ásamt elstu stelpunni minni. Eftir að hún kom í heiminn togaði Ísland í mig aftur og vildi ég að hún myndi kynnast fjölskyldunni hérna heima og upplifa það „frelsi“ sem íslensk börn alast upp við. Kostir við Ítalíu eru að mínu mati matarmenningin og sólin. Lífsgæðakapphlaup Ítala er öðruvísi en Íslendinga og maður lærir mikla þolinmæði.“

Bogagöng Torino var fyrsta höfuðborg sameiginlegrar Ítalíu árið 1861. Þar eru mjög margar fallegar sögufrægar byggingar sem fáir vita af, heilu hallirnar sem vert er að skoða. Eitt einkenni borgarinnar eru yfir 18 kílómetra löng bogagöng sem liggja um bæinn og gera göngutúrana þægilegri, ekki síst sem skjól fyrir sólinni. Annað sem einkennir borgina eru breiðgöturnar prýddar háum og tignarlegum trjám. Hönnunin er eldri en á samskonar götum í Parísarborg. Torino er einna frægust fyrir FIAT-verksmiðjurnar.

„Lífsgæðakapphlaup Ítala er öðruvísi en Íslendinga og maður lærir mikla þolinmæði.“

Einstakt útsýni Ég mæli fyrst af öllu með því að fara og skoða hina fallegu kirkju Basilica di Superga sem stendur hátt yfir Torino. Þaðan er einstakt útsýni yfir alla borgina. Páfinn Pio XII sagði þetta fallegasta útsýni Evrópu. Kirkjan er byggð í barokkstíl af Filippo Juvarra og var lokið við hana 1731. Innan í henni er marmari frá Carrara og er hún bara ólýsanlega falleg að innan sem utan.

Konungshöll Í hjarta borgarinnar, Piazza Palazzo, má sjá hina fögru konungshöll Palazzo Reale þar sem Carlo Emanuele I bjó. Þar er einnig Palazzo Madama, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Þar bjó Maria Cristina af Savoya-ætt Frakklands og lét hún fegra hana að utan og innan. Nú í dag er þar Civic Museum of Ancient Art sem er alveg þess virði að skoða.

Líkklæði Jesú Stutt frá konungshöllinni er sérstök kapella frá árinu 1694 sem var byggð til að geyma líkklæði Jesú. Það er lakið sem Jesús var settur á þegar hann var tekinn niður af krossinum og lagður í hellinn. Eru þessi klæði auðvitað mjög umdeild og miklar rannsóknir hafa verið gerðir á klæðinu sem ber merki manns sem hefur verið krossfestur. Lakið barst til Torino 1562. Myndin er eins og negatíva af ljósmynd og þykir auðvitað kraftaverk, hvort sem þetta hafi verið Kristur sjálfur eða ekki. Myndin sem birtist af andliti mannsins er það „andlit“ sem við þekkjum af Jesú, skeggjaður maður með sítt hár. Það er mjög sjaldan til sýnis fyrir almenning en ég var svo heppin að fá að berja það augum árið 2000 í sérstakri aldamótasýningu. Mæli hiklaust með að hafa það í huga ef farið er til Torino.

Basilica di Superga stendur hátt yfir Torino. Þaðan er einstakt útsýni yfir alla borgina. Páfinn Pio XII sagði þetta fallegasta útsýni Evrópu.

Söfn og samtímalist Annað mjög frægt safn í Torino er Egypska safnið sem er stærsta egypska safn í heimi, fyrir utan það sem er í sjálfri Kaíró. Þeir sem elska söfn mega ekki missa af þessu sem geymir yfir 8.000 hluti: styttur, papírus, múmíur, leirmuni, mat, áhöld, spegla, skart og snyrtivörur Egypta svo eitthvað sé nefnt.
Torino geymir líka nútímalegri list, eins og húsið með lásnum. Það listaverk er kallað Baci Rubati og er eftir arkitektinn Corrado Levi. Það hangir risalás utan á húsinu sem var settur upp 1996 og átti aðeins að vera tímabundið. Mjög sérstakt er að ganga eina af elstu götum borgarinnar, ekki í alfaraleið, og reka augun í lásinn.

Markaðir Eitt af því skemmtilegasta sem ég gerði í Torino var að þræða markaðina sem eru þar út um allt. Sá frægasti er við Porta Palazzo og er stærsti útimarkaður Evrópu. Hægt er að finna nánast allt á útimörkuðunum en nauðsynlegt að vita hvar þeir eru því þeir flakka á milli borgarhluta. Sumir eru aðeins með mat, aðrir með antík og enn aðrir með tískuvörur og skó, húsgögn, bækur, nýtt og notað. Þar gerði ég alltaf hagstæð kaup. Uppáhaldsmarkaðurinn minn er í Crocetta á sunnudögum frá 8.30-18.45. Þar er allt sem maður gæti girnst: matvara, tískufatnaður, skór, skart, listmunir, metravara, antík og margt fleira. Fyrir þá sem finnast gaman af marköðum mæli ég sérstaklega með þessum.

Eitt sinn hæst í Evrópu Síðast en ekki síst er tákn borgarinnar, la Mole Antonelliana, sem er 167, 5 metra bygging með turni. Þessi bygging var á sínum tíma hæst í Evrópu og þótti mjög mikið afrek. Byrjað var á henni 1863 og árið 1889 varð hún 167,35 metra há. Ásamt stjörnunni sem nú trónir á toppnum er hún 167,5 metrar. Úr turninum er flott útsýni yfir einn af elstu hlutum borgarinnar. Í dag hýsir byggingin safnið Museo Nazionale del Cinema sem geymir sögu kvikmyndarinnar og ýmsa hluti tengda henni.

Kirkjan er byggð í barokkstíl af Filippo Juvarra og var lokið við hana 1731. Innan í henni er marmari frá Carrara og er hún bara ólýsanlega falleg að innan sem utan.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

 

VOGUE FYRIR HEIMILIÐ

Þekking, reynsla og persónuleg þjónusta í fyrirrúmi.

„Góð dýna skiptir gríðalega miklu máli þar sem við eyðum um það bil einum þriðja hluta ævinnar í svefn og hver vill ekki hvílast vel og eigan glaðan dag fram undan,“ segir verslunarstjórinn Kolbrún Birna Halldórsdóttir.

„Vogue fyrir heimilið samanstendur af gamalgrónum traustum fyrirtækjum en þekking og reynsla er eitthvað sem við búum að og leggjum mikið kapp í að þjónusta kúnnann sem best,“ segir Kolbrún Birna Halldórsdóttir verslunarstjóri.

„Við bjóðum upp á vefnaðarvöru, gluggatjöld, húsgögn og rúm. Einnig bjóðum við upp á fallega gjafavöru. Vogue fyrir heimililið hefur lagt áherslu á íslenska framleiðslu og hönnun.Við bjóðum upp á íslenskt heilsurúm og dýnur í miklu úrvali. Einnig framleiðum við svefnsófa og framleiðum og saumum gluggatjöld.“

HEILSUDÝNA KLÆÐSKERASNIÐIN FYRIR HVERN OG EINN

Vogue, áður Lystadún-Snæland, er búið að þróa og hanna heilsudýnu til margra ára í hæsta gæðaflokki sem kallast MEDILINE. Mediline-línan er heilsudýna sem er klæðskerasniðin fyrir hvern og einn. Hver viðskiptavinur fær sinn stífleika og er lagt mikið upp úr því að mæla hann og meta hvaða dýna hentar honum. Hægt er að hafa mismunandi stífleika í sömu dýnunni þannig að hver og einn fær dýnu sem hentar honum.

Mediline-heisludýnan er til í mörgum stífleikum og í mismundandi útgáfum svo sem svæðaskipt pokagormadýna, svæða- og lagskipt svampdýna eða svæðaskipt latexdýna. Á þennan hátt getur Vogue boðið upp á eitt mesta úrval landsins af heilsudýnum.

„Vogue fyrir heimililið hefur lagt áherslu á íslenska framleiðslu og hönnun.Við bjóðum upp á íslenskt heilsurúm og dýnur í miklu úrvali. Einnig framleiðum við svefnsófa og framleiðum og saumum gluggatjöld.“

„Sjúkraþjálfari kemur til okkar alla fimmtudaga milli klukkan 16-18 til að aðstoða fólk við val á dýnum, einnig erum við með frábært starfsfólk með mikla reynslu og kunnáttu á sínu sviði,“ segir Kolbrún Dóra og er afar ánægð með að geta boðið viðskiptavinum upp á úrvalsþjónustu.

„Góð dýna skiptir gríðalega miklu máli þar sem við eyðum um það bil einum þriðja hluta ævinnar í svefn og hver vill ekki hvílast vel og eigan glaðan dag fram undan.“

VAL UM ÁKLÆÐI FYRIR RÚM OG HÖFUÐGAFL

„Útlitið skipir líka máli og getur fólk valið um marga möguleika á áklæðum fyrir rúmið sitt og höfðagafl hvort heldur sem er úr taui eða leðurlíki. Þá bjóðum við fólki einnig upp á sérsaum á púðum, ábreiður og aðrar lausnir sem henta og passa við rúmið þeirra. Þar sem hönnun, þróun og framleiðsla er hér á landi náum við að hafa afhendingartímann 3-5 daga frá pöntun.“

Að sögn Kolbrúnar skiptir útlitið líka máli og getur fólk valið um marga möguleika á áklæðum fyrir rúmið sitt og höfðagafl hvort heldur sem er úr taui eða leðurlíki.

ORRI, NENNASTÓLLINN, LOKI OG HRÚGÖLD

Vogue fyrir heimilið er búið að endurhanna hinar ýmsu vörur sem Lystadún-Snæland bauð upp á. Hver man ekki eftir svamphestinum sem nú ber nafnið Orri og er til í þremur stærðum, Nenna stóllinn er líka kominn í nýjan búning. Þessi hönnun kom fyrst á markað 1968 og verður því fimmtíu ára á næsta ári en þessar vörur njóta mikilla vinsælda enn í dag. Þá hefur svefnstóllinn sem er einnig hönnun frá Snæland fengið nýtt útlit og nafnið Loki. Hann hefur fengið frábærar móttökur. Hrúgöld eru klassík frá Snæland og hafa alltaf verið vinsæl í jólagjöf. Ekki skemmir að hægt er að hanna allar þessar vörur í nánast óteljandi litum þannig að hægt er að finna lit og áklæði sem passa inn á heimili hvers og eins.

Hver man ekki eftir svamphestinum sem nú ber nafnið Orri og er til í þremur stærðum.

SÆDÍSIN SÉRHÖNNUÐ FYRIR SJÓMANNINN

„Þá má ekki gleyma að við bjóðum upp á allar gerðir stuðningspúða og höfum sinnt sjúkrastofnunum okkar í meir en 65 ár með þær vörur. Einstaklingar geta keypt þær beint hjá okkur líka. Þá er Sædísin okkar heilsudýna sem er sérhönnuð fyrir sjómanninn og er nánast í hverju skipi okkar Íslendinga í dag. Við erum stolt af allri þeirri framleiðslu sem fer fram í húsinu.“

„Sjúkraþjálfari kemur til okkar alla fimmtudaga milli klukkan 16-18 til að aðstoða fólk við val á dýnum, einnig erum við með frábært starfsfólk með mikla reynslu og kunnáttu á sínu sviði,“ segir Kolbrún.

Umsjón / Sjöfn Þórðardóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

VOGUE FYRIR HEIMILIÐ
SÍÐMÚLA 30
108 REYKJAVÍK

SÍMI: 553 3500
WWW.VOGUE.IS

VOGUE FYRIR HEIMILIÐ
HOFSBÓT 4
600 AKUREYRI
SÍMI: 462 3504
WWW.VOGUE.IS

 

 

Jólamyndir úr ýmsum áttum

Bing Crosby og Fred Astaire ásamt Marjorie Reynolds í Holiday Inn.

Á mörgum heimilum er hefð fyrir því að skella jólamynd í tækið að minnsta kosti einu sinni á aðventunni. Misjafnt er hverslags myndir verða fyrir valinu, sígildar myndir, gamanmyndir, drama, ævintýri nú eða eða bara hasarmynd. Hér eru dæmi um nokkrar góðar.

Stone-fjölskyldunni líst ekkert á unnustu Everetts.

Sígildar og svarthvítar
Ekkert jafnast á við svarthvítu Hollywood-myndirnar til að ná allri fjölskyldunni saman. Kynslóðirnar saman í jólafíling fyrir framan sjónvarpið: amma og afi, mamma og pabbi og börnin.

Ein klassísk er Holiday Inn sem skartar hvorki meira né minna en tveimur stórstjörnum þessa tíma, Bing Crosby og Fred Astaire, og í henni heyrðist vinsæla jólalagið White Christmas fyrst.

Aðrar sígildar jólamyndir eru: It’s a Wonderful Life, White Christmas og Miracle on 34th Street.

Hlegið og grátið
Sumir vilja horfa á gott fjölskyldudrama um jólin. Aðrir grín. Family Stone er hæfileg blanda af hvorutveggja en þar fylgjumst við með hrakfarajólum Stone-fjölskyldunnar. Elsti sonurinn, Everett, hefur boðið kærustu sinni, Meredith, heim um jólin með það fyrir augum að biðja hennar yfir hátíðarnar með glæsilegum hring. Hún passar þó engan veginn inn í fjölskylduna svo eftir því sem líður á hátíðina renna tvær grímur á Everett og hann er ekki viss hvort hann vilji enn þá giftast Meredith. Af öðrumhrakfara-jólamyndum má nefna Home for the Holidays og National Lampoons Christmas Vacation.

Hasar yfir hátíðarnar
Jóóóóla hvað? Það koma tímar í desember þar sem maður fær alveg nóg af öllu jólastússinu og þá er gott ráð að skella góðri hasarmynd í tækið. Merkilegt nokk eru til þó nokkrar spennumyndir sem gerast á jólunum og hetjurnar þurfa oftar en ekki að bjarga öllu áður en jólabjöllurnar hringja inn hátíðina. Ein þekktasta hasarhetja seinni ára er líklega John McClane úr Die Hard-myndunum og í fyrstu myndinni þarf hann að bjarga jólunum úr klóm fégráð­ ugra hryðjuverkamanna.

Aðrar góðar spennumyndir sem gerast um jólin eru: Lethal Weapon, Kiss Kiss Bang Bang og Batman Returns.

Höfundur: Hildur Friðriksdóttir

Aðalmynd: Bing Crosby og Fred Astaire ásamt Marjorie Reynolds í Holiday Inn.

Fljótlegur forréttur

Hér er uppskrift að einföldum og ljúffengum forrétti sem sómir sér vel á hátíðarborð­inu. Hann er þannig úr garði gerður að hægt er að útbúa flest í hann nokkru áður en hann er snæddur. Þannig að ekki er mikil vinna að koma honum saman. Uppskriftin hentar líka sem snittur í veislur og fyrir kósíkvöld.

Hann er þannig úr garði gerður að hægt er að útbúa flest í hann nokkru áður en hann er snæddur.

REYKTUR LAX MEÐ EPLA- OG FENNÍKUMAUKI
fyrir 4
300 g reyktur lax
1 zip lock-poki (rennilásapoki,
fæst t.d. í IKEA)

Setjið flakið með roði í zip lock-­poka og reynið að lofttæma eins vel og þið getið. Sjóðið hálfan lítra af vatni í potti og kælið það svo með 4 dl af köldu vatni. Vatnið ætti að vera um 60°C. Setjið pokann út í vatnið og látið vera í minnst 20 mínútur með hlemmi.

Með þessari „heima“ sous vide-aðferð haldið þið hámarksbragði af laxinum en eldið hann örlítið. Hann ætti að verða mjúkur eins og smjör og auðvelt að taka hann í sundur án þess að skera með hníf.

Ef þið eigið ekki zip lock-poka getið þið sett laxinn í lofttæmdu pakkningunni beint út í í umbúðunum. Hann er oft með pappaspjaldi á roðhliðinni en það kemur ekki að sök á svona lágum hita í þetta stuttan tíma.

2 msk. ólífuolía
1 fenníka, skorin langsum í þunnar sneiðar
2 græn epli, afhýdd og skorin í bita
3 msk. vatn
safi úr einni límónu
1⁄2 tsk. salt
1⁄2 tsk. nýmalaður svartur pipar

Setjið fenníkuna í pottinn með olíunni og steikið hana þar til hún fer að mýkjast og brúnast lítillega. Bætið þar næst eplabitunum og vatninu saman við og sjóðið saman. Setjið hlemm á pottinn og gufusjóð­ið. Passið að hafa ekki of mikinn hita og ekki hafa pottinn of lengi á hellunni. Eplin eiga að vera byrjuð að detta í sundur en þó ekki að vera ekki maukuð. Setjið límónusafann, salt og pipar saman við. Setjið í ílát og kælið.

2 mandarínur, hlutaðar í lauf

Skerið endana af mandarínunni og sneiðið börkinn af. Takið svo afhýdda mandarínuna í lófann og skerið laufin úr. Safnið þeim í skál og kreistið safann yfir. Það er hægt að geyma laufin í lokuðu ílátið í nokkra daga í kæli. Passið að skera ykkur ekki.

rósapipar til skrauts
steinselja til skrauts

Skerið dökkt súrdeigs – eða snittu brauð í sneiðar, smyrjið með smjöri og steikið eða grillið á pönnu. Það er hæfilegt að hafa tvær sneiðar á mann. Setjið svolítið af mauki á hverja brauðsneið og síðan lax og mandarínulauf.

Umsjón / Gunnar Helgi
Mynd / Rut Sigurðardóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Krásir sem kæta

Þegar hugsað er um jól er matur eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann. Þess vegna er alveg tilvalið að koma færandi hendi og gleðja vini og vandamenn með góðgæti.

Hér kemur hugmynd að bragðgóðri gjöf sem er líkleg til að hitta í mark en fleiri hugmyndir er að finna í öðru tölublaði Mannlífs.

Fíkju-salami
Fíkju-salami á einstaklega vel við allskonar osta. Hér er líka hugmynd að matarjólagjöf fyrir sælkerann.

50 g möndlur, ristaðar
250 g fíkjur
50 g apríkósur, skornar í bita
50 g pekan- eða valhnetur, saxaðar gróft
½ msk. hunang
negull á hnífsoddi

Setjið möndlur í matvinnsluvél, malið fínt og setjið í skál. Skerið harða stilkinn af fíkjunum og maukið þær í matvinnsluvélinni. Setjið þær í skálina með möndlunum. Bætið öllu öðru í skálina og blandið vel saman. Rúllið upp í þykka pylsu og geymið í viku, án þess að pakka henni inn, til þess að pylsan þorni. Setjið bökunarpappír utan um og berið fram með ostum.

Höfundur / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Nýtur þess að dúlla sér í eldhúsinu á aðfangadag

Söngkonan Sigrún Hjálmtýsdóttir, eða Diddú, segir að sér líði yfirleitt vel í sálinni þegar hún tekur sig til við undirbúning jólahátíðarinnar, hvort heldur í leik eða starfi.

Sjálf matargerðin er eitt af því sem henni finnst alltaf koma sér í jólaskap.

„Ég nýt þess út í ystu æsar að dúlla mér allan daginn í eldhúsinu á aðfangadag með fallega tónlist allt um kring og ljósadýrð á meðan bóndinn keyrir út gjafir til ættingja og vina,“ útskýrir hún og getur þess að hún fái að sjá alfarið um eldamennskuna.

Fjölskyldan flutti í Mosfellsdal fyrir rúmum 30 árum og tók þá upp þann jólasið að borða rjúpur á aðfangadag. „Okkur áskotnaðist þessi dýrðarfæða eitt sinn og það var ekki aftur snúið. Þannig að rjúpur skulu það vera, þegar má veiða þær,“ segir hún og hlær. „Ýmist elda ég þær heilar eða úrbeina bringurnar og snöggsteiki. Meðlætið er síbreytilegt frá ári til árs, nema rósakál með kastaníuhnetum, það hef ég alltaf.“

„Okkur áskotnaðist þessi dýrðarfæða eitt sinn og það var ekki aftur snúið. Þannig að rjúpur skulu það vera, þegar má veiða þær.“

Að öðru leyti segir hún fjölskylduna reyna að eiga saman notalegar stundir í aðdraganda jóla. „Svo eru það fjölskylduboðin. Þá er sungið og spilað. Við hittum fjölskyldu bóndans á jóladag og mína fjölskyldu á annan dag jóla.“

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Ljósmyndari / Ernir Eyjólfsson

Skreytir Mariuh Carey fyrir jólin

Eitt það skemmtilegasta sem Gunnar Helgi Guðjónsson gerir hver jól er að ákveða matseðil fjölskyldunnar.

Spurður að því hvað komi honum helst í jólaskap, svarar hann því til að það sé alltaf mikil stemning í kringum það þegar stórfjölskyldan fer saman upp í sumarbústað um miðjan desember til að höggva jólatré. „Þar er svolítil trjárækt í gangi og mjög mikilvægt að grisja skóginn,“ útskýrir hann. Eftir það er borðuð súpa heima hjá foreldrum hans og drukkið heitt súkkulaði.

 

 

 

Gunnar segir fjölskylduna leggja mikið upp úr góðri matargerð um jólin. Sem dæmi um það er matseðill jólanna ákveðinn með góðum fyrirvara og er sú hefð ómissandi í aðdraganda jólanna.

„Við mamma höldum alltaf lítinn fund um jólamatseðilinn, til dæmis hversu langt frá hefðinni við eigum að víkja,“

útskýrir hann en síðustu ár hefur fjölskyldan verið dugleg við að prófa alls kyns nýjungar um jólin, allt frá rjúpu upp í hvítlaukssteiktan humar. Gerð eftirréttarins er yfirleitt í höndum Gunnars en á meðal þess sem hefur verið á matseðlinum má nefna sítrónu-tart, triffli, súkkulaðimús, tiramisu og heimagerðan ís.

En hefurðu sjálfur komið þér upp einhverjum hefðum sem þér finnst ómisssandi?
„Já, ég er til dæmis oftast með tvö jólatré, furu úr sumarbústaðnum og svo annað fjölnota tré sem ég keypti fyrir mörgum árum. Það er neonbleikt og heitir Mariah Carey,“ segir hann kíminn. „Svo finnst mér gott eftir mat á aðfangadag að komast í jólabókina og borða Nóa konfekt. Það er eitthvað svo dásamlegt að sofna út frá lestrinum í morgunsárið með klístraða putta, saddur og sæll eftir góðan og gleðiríkan dag.“

„Bismark besta jólasælgætið“

Kökublað Vikunnar er komið í verslanir og inniheldur margar glæsilegar uppskriftir. Hulda Viktorsdóttir hjúkrunarnemi er ein þeirra sem bakaði fyrir blaðið.

Kökublað Vikunnar er stútfullt af spennandi efnum. Hulda Viktorsdóttir hjúkrunarnemi er ein þeirra sem bakaði fyrir blaðið en hún reynir að baka eitthvað alla aðventuna.

„Það hefur verið bakað mikið fyrir jólin frá því ég man eftir mér. Mamma heldur mikið í hefðirnar og bakar nánast alltaf það sama hver jól. Á aðventunni finnst mér bakstur með mömmu ómissandi, ilmandi kertaljós og ljúfir tónar með Michael Bublé.“ segir Hulda. „Ég bakaði fyrir ykkur þessa þriggja laga súkkulaðiköku með Bismark-smjörkremi þar sem Bismark er uppáhaldsjólasælgæti mitt.“

Bismark-súkkulaðikaka

225 g sykur
225 g púðursykur
180 g smjör við stofuhita
3 egg
345 g hveiti
½ tsk. salt
60 g kakó
3 dl mjólk

Smjör, sykur og púðursykur þeytt saman. Eggjunum bætt rólega saman við. Þeytt þar til blandan er orðin loftkennd. Restin af þurrefnum bætt saman við. Sett í þrjú grunn form og bakað við 180°C í um það bil 30 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í kökuna kemur hreinn upp.

Kremið
150 g Philadelphia-rjómaostur
375 g smjör
1 ½-2 pk. flórsykur
3 msk. rjómi
2 tsk. piparmyntu-extract

Rjómaostur og smjör þeytt saman. Rjómanum og flórsykrinum bætt saman við og loks piparmyntudropunum. Það er betra að setja minna en meira af flórsykrinum og bæta frekar jafnóðum við þar til kremið er orðið eins og þú vilt hafa það. Einnig er gott að smakka kremið til og bæta þá við piparmyntudropum ef þess þarf.
Kakan er síðan skreytt með jólastöfum og Bismark-brjóstsykrum.

Umsjón: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir: Hákon Davíð Björnsson

Fjórar frægar skandinavískar hönnunarvörur

adsf

Skandinavísk hönnun er ein sú vinsælasta í heiminum í dag, ekki síst retro-hönnun frá fyrri part síðustu aldar en ekki allir þekkja söguna á bak við munina.

Hér eru nokkrar klassískar hönnunarvörur frá Skandinavíu sem er að finna á fjölmörgum íslenskum heimilum og smáskot um hönnuðina á bak við þær.

Hönnuðurinn Kay Bojesen og Apinn frægi.

Kay Bojesen og Apinn

Hönnuðurinn Kay Bojesen menntaði sig upprunalega sem silfursmiður og var í læri hjá Georg Jensen. Það var ekki fyrr en hann eignaðist fyrsta son sinn, Otto, sem hann sneri sér að viðarleikföngum.

Hann mundi hvað honum þótti gaman í æsku þegar faðir hans tálgaði leikföng úr við fyrir hann. Hann vildi einnig rækta sköpunargáfu barna sinna með leikföngum sem væru frumleg og glaðleg.

Hann er án efa þekktastur fyrir Apann en eftir hann liggja þó yfir 2.000 munir og margir eru enn framleiddir í dag.

Poul Henningsen og PH-ljósin

Poul Henningsen kom fyrst til starfa hjá Louis Poulsen árið 1925 og starfaði þar til dauðadags árið 1967.

Hann hóf strax handa við að hanna ljós fyrir sýningu í París og það reyndist upphafið á PH-vörulínunni.

Helsta markmið hans var að hanna ljós sem voru laus við endurkast þannig að þau veittu þarfa birtu en sköpuðu jafnframt mjúka skugga.

Til eru ýmsar útfærslur á PH-ljósum en vinsælastar eru eflaust hangandi PH 3.5 og PH 5-lampinn.

Til eru ýmsar útfærslur á PH-ljósum Henningsen.

Arne Jacobsen og Eggið

Arkitektinn og hönnuðurinn Arne Jacobsen er flestum kunnur og ekki er hægt að tala um skandinavíska hönnun án þess að minnast á hann. Þegar hann var ungur átti hann sér draum um að verða listmálari en faðir hans fékk hann til að velja frekar arkitektúr því það væri praktískara. Hann hóf samstarf við húsgagnaframleiðandan Fritz Hansen árið 1934 sem enn í dag framleiðir stólana hans. Þótt hann sé ef til vill frægastur fyrir Eggið þá eru ekki allir sem hafa efni á að kaupa sér eitt slíkt. Á mörgum íslenskum heimilum er hins vegar að finna Sjöuna í einum eða fleiri litum.

Stólar eftir Arne Jacobsen.

Alvar Aalto

Finnski arkitektinn og hönnuðurinn Alvar Aalto var sannkallaður þúsundþjalasmiður en hann er þekktur bæði fyrir byggingar, húsgögn, textíl og glermuni. Á flestum íslenskum heimilum er að finna að minnsta kosti einn mun úr vörulínunni sem Alvar Aalto hannaði fyrir finnska fyrirtækið Iittala, hvort sem það er glervasi, kertastjaki, bakki eða eitthvað annað. Aalto sigraði Karhula-Iittala glerhönnunarkeppnina árið 1936 með þeirri línu. Innblásturinn fékk hann frá öldum hafsins og er línan í dag ein þekktasta hönnun Finnlands.

Úr smiðju Alvars Aalto.

Mistökin geta verið algjör snilld

Linda Ben Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Linda Benediktsdóttir er mörgum sælkeranum kunn en hún heldur úti bloggsíðunni lindaben.is.

Í nýjasta tölublaði Vikunnar er Linda með uppskrift að lakkrísostaköku með hvítu súkkulaði, konfektkleinuhringjum og brownies með eggjahvítukremi og súkkuði.

,,Ég legg gríðarlegan metnað í bloggið mitt og hef virkilega gaman að því að skapa efnið sem fer þangað inn. Instagram er líka vettvangur sem mér finnst skemmtilegur og legg ég mikið upp úr þeirri síðu. Mér finnst æðislegt að tengjast lesendum mínum á þennan persónulega hátt.

Áður hafði Linda rekið síðuna makkaronur.is þar sem fólk gat pantað sér makkarónur fyrir hvaða tilefni sem er á netinu. Linda segir það hafa verið skemmtilegt verkefni að reka sína eigin kökubúð. ,,Ég fer oft af stað með einhverja ákveðna útkomu í huga en þegar lengra er komið í ferlinu er niðurstaðan langt í frá sú sem ég ætlaði í upphafi. Frekar en að byrja upp á nýtt læt ég hlutina bara virka.

Mér hefur alltaf þótt gaman að baka og vel köku fram yfir önnur sætindi. En ég passa líka að hafa jafnvægi í matarræðinu. Ég borða holla fæðu dagsdaglega, hreyfi mig þegar ég hef tíma en það hentar mér best að hafa allt í hófi. En svo þegar mig langar í góða köku leyfi ég mér það bara og fæ ekkert samviskubit yfir því.“

,,Ég fer oft af stað með einhverja ákveðna útkomu í huga en þegar lengra er komið í ferlinu er niðurstaðan langt í frá sú sem ég ætlaði í upphafi.“

Hún segir að það besta við baksturinn sé nefnilega útrásin sem maður fær fyrir sköpunargleðinni. ,,Svo er ákveðin spenna fólkin í því að vera gera eitthvað nýtt og sjá hvort það virkilega heppnist, sérstaklega þegar maður er að taka smá séns en mistökin geta sömuleiðis verið algjör snilld.“

Í nýjasta tölublaði Vikunnar er Linda með uppskrift að lakkrísostaköku með hvítu súkkulaði, konfektkleinuhringjum og brownies með eggjahvítukremi og súkkuði. 

Höfundur / Íris Hauksdóttir
Myndir /Heiðbjörg Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hvað felst í vegan-lífsstíl?

Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að fólk velji grænmetisfæði, annað hvort eingöngu eða að mun stærri hluta mataræðis síns.

Algengt er einnig að hluti hópsins gangi lengra og kjósi að gerast vegan, eins og það er kallað. Í því felst að kjósa að borða ekkert sem á rætur að rekja til dýraríkisins. Nota að auki nota engar vörur sem hafa annað hvort verið framleiddar úr afurðum dýra eða þau notuð við prófanir á gæðum þeirra.

Flestir þeir er kjósa þennan lífsstíl gera það af hugsjón. Þeim ofbýður meðferð manna á skepnum og vilja ekki stuðla að því að haldið sé áfram að kvelja skepnur sem eiga jafnmikinn tilverurétt og menn á þessari jörð.

Núorðið bjóða flestar matvöruverslanir upp á gott úrval af því fæði sem vegan-fólk kýs og á mörgum veitingahúsum er ávallt val um rétti sem henta því. Mynd/pexels.com

Rannsóknir hafa einnig sýnt að nútímalandabúnaður á stóran þátt í að út í andrúmsloftið streyma eiturefni er stækka gatið í ósonlaginu og valda loftslagsbreytingum. Vaxtarhormón og fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf er sömuleiðis algengur fylgifiskur verksmiðjubúskapar og ungt fólk um allan heim hefur áhyggjur af þeirri þróun. Ekki liggur fyrir vitneskja um hvaða áhrif þetta muni hafa á menn þegar til lengri tíma er litið né heldur vitað hver áhrif ýmissa aukefna sem blandað er í matvæli eru.

Fjölgun mannkyns er sömuleiðis ör og ef við höldum áfram að velja þau matvæli sem nú eru á borðum flestra munum við ekki geta brauðfætt heiminn innan nokkurra kynslóða. Vísindamenn hafa þess vegna lengi hvatt menn til að huga að því að auka neyslu á mat úr plönturíkinu en að auki leitað að fleiri æskilegum prótíngjöfum og skordýr reynst þar vænlegur kostur.

Valið auðvelt

Velji fólk vegan-lífsstíl neytir það ekki eggja, gelatíns, mjólkurvara og hunangs. Þótt dýr séu ekki drepin við framleiðslu þessara matvæla eru þau haldin á búgörðum við mismunandi aðstæður. Til að mótmæla því kýs vegan-fólk að nota ekki þessar vörur. Baunir og baunaafurðir, eins og tofu og tempeh, eru helstu prótíngjafarnir auk sveppa og hneta. Í raun er fæði þeirra mjög heilsusamlegt og ríkt af margvíslegum næringarefnum. Talið er að í Bandaríkjunum séu um það bil 2,5% íbúa vegan og tala þeirra er aðhyllast þessa stefnu fer ört hækkandi.

Vísindamenn hafa þess vegna lengi hvatt menn til að huga að því að auka neyslu á mat úr plönturíkinu en að auki leitað að fleiri æskilegum prótíngjöfum og skordýr reynst þar vænlegur kostur.

Margir þeirra er taka upp þennan lífsstíl tala um að á óvart hafi komið hversu auðvelt það hafi reynst. Núorðið bjóða flestar matvöruverslanir upp á gott úrval af því fæði sem vegan-fólk kýs og á mörgum veitingahúsum er ávallt val um rétti sem henta því. Þetta er nýlunda því ekki er langt síðan að hér á landi var tæpast um annað að velja fyrir grænkera en salat með nokkrum tegundum grænmetis og því lítið spennandi fyrir þá að fara út að borða með vinum.

Flestir þeir er kjósa þennan lífsstíl gera það af hugsjón. Þeim ofbýður meðferð manna á skepnum og vilja ekki stuðla að því að haldið sé áfram að kvelja skepnur.

Þessi þróun er til marks um hversu hratt þessi lífsstíll hefur unnið á. Þeir sem kjósa hann þurfa þó að vera meðvitaðir um hvað þeir borða og gæta þess að fá nóg af kalki, B12-vítamíni, zinki og járni. Á hinn bóginn njóta þeir þess að fá mun meira af C- og E-vítamínum, potassíum, magnesíum og fólínsýrum en kjötætur og þá skortir aldrei trefjar. Þær eru undirstaða heilbrigðs meltingarkerfis og margar kjötætur finna oft fyrir hægðatregðu, ristilvandamálum og brjóstsviða sem vegan-fólk er laust við.

Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að fæði er byggir að stærstum hluta á afurðum úr plönturíkinu dregur mjög úr líkum á að fólk fái krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma. Grænkerar hafa einnig almennt mun lægri blóðþrýsting og kólesteról í blóði.

Rannsóknir hafa sýnt … að fæði er byggir að stærstum hluta á afurðum úr plönturíkinu dregur úr líkum á krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum.

Auk þess er að ofan var talið hafa rannsóknir sýnt að þeir sem kjósa að borða fyrst og fremst mat úr plönturíkinu eru almennt grennri en hinir, þjást síður af ofnæmi eða óþoli, halda liðleika lengur fram eftir ævi og fá síður sykursýki II. Þeir verða þó að gæta þess vel að neyta nægilegs magns af kalk- og D-vítamínríkri fæðu til að tryggja beinþéttni.

Í 45. tbl. Vikunnar er að finna ítarlega úttekt á hvað felst í vegan-lífsstíl og hver eru heppileg fyrstu skref ef menn hafa áhuga á að tileinka sér hann. Hér er brot úr greininni en þeir sem vilja lesa meira geta nálgast blaðið á næsta sölustað.

Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir

„Til í bardaga“

MMA hefur iðulega verið gagnrýnt fyrir að vera ofbeldisfull íþrótt en Gunnar bendir á að það sé ekki hægt að tala um ofbeldi þegar tveir þrautþjálfaðir einstaklingar takist á í bardaga sem þeir hafi báðir samþykkt.

Bardagakappinn Gunnar Nelson er búinn að jafna sig eftir Ponzinibbio-bardagann en í honum fékk hann í fyrsta skipti á sig rothögg.

„Þetta var helvíti hraður bardagi og hreint út sagt ömurlegur fyrir mig,“ segir Gunnar.

Gunnar er tiltölulega nýfarinn að æfa aftur að ráði en segist tilbúinn í næsta bardaga.

„Við komum báðir út úr hornunum í byrjun og þó að hann pressi aðeins næ ég strax nokkuð góðu „uppercut-höggi“ á hann. Þá kemur hann hins vegar út með útrétta hönd og potar djúpt í bæði augun á mér. Eftir það sé ég tvöfalt, sé bókstaflega tvo gæja fyrir framan mig.“

Ponzibbio potaði svo aftur í augu Gunnars þegar hann var kominn upp við búrið og var að reyna að verja sig og Gunnar var því með lokuð augun þegar Ponzibbio náði rothögginu.

Í viðtölum strax eftir bardagann við Ponzibbio tók Gunnar stóran hlut ábyrgðarinnar á sig og sagði að hann hefði átt að stoppa bardagann strax, en samkvæmt reglum getur aðeins dómari stöðvað bardaga ekki bardagakappi.

Hann segist þó hafa lært lexíu sína og ef hann lendir aftur í svipuðum aðstæðum muni hann reyna að láta dómarann vita svo hann geti stöðvað bardagann. „Maður þarf að fá tækifæri til að jafna sig eftir svona árás, því það er frekar áríðandi að sjá almennilega í bardaga.“

„Það urðu einhveru uppþot í kringum þessi ummæli mín á Netinu. En ég er til í bardaga og Darren tók líka vel í þennan möguleika.“

Gunnar er tiltölulega nýfarinn að æfa aftur að ráði en segist tilbúinn í næsta bardaga. „Síðustu æfingar hafa gengið mjög vel og ég er bara að koma mér aftur í toppform.“

Það vakti athygli nýverið þegar Gunnar virtist kalla eftir bardaga við Darren Till í athugasemd á Instagram. Till kom inn í UFC nýverið með hvelli og sagði að allir væru of hræddir við að berjast við hann. Gunnar svaraði þessari staðhæfingu með orðunum: „Ég er til stóri strákur.“ „Það urðu einhver uppþot í kringum þessi ummæli mín á Netinu. En ég er til í bardaga og Darren tók líka vel í þennan möguleika.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Myndband / Óskar Páll Sveinsson

 

 

Músur sem mótuðu tískuna

Stella segir að fatasmekkur foreldra sinna hafi verið henni innblástur.

Ekki er óalgengt að listamenn eigi sér músur sem þeir sækja andagift sína í.

Fatahönnuðir eiga sér oftar en ekki fleiri en eina músu; sumar hafa tímabundin áhrif og veita innblástur að ákveðinni vörulínu eða tískusýningu á meðan aðrar rista dýpra og hafa mótað hönnuðina og sýn þeirra á tísku.

Samkvæmt Tom Ford er allt tískuvit hans sprottið frá þeim tíma sem hann varði með hönnuðinum Halston þá aðeins sautján ára.

Tom Ford
Táningsárin eru mjög mótandi tími og það á ekki síst við um Tom Ford. Samkvæmt honum er allt tískuvit hans sprottið frá þeim tíma sem hann varði með hönnuðinum Halston þá aðeins sautján ára.

Halston klæddi allt fína og fræga fólkið á þessum tíma, Lizu Minnelli, Elizabeth Taylor og Angelicu Houston.

 „Ég var eins og svampur og saug þetta í mig og mikið af upplifunum mínum frá þessum tíma hafa mótað fagurfræði mína.“

„Ég fór kvöld eitt fullur heim til Halstons og hann eldaði egg handa okkur. Á þessum árum kynntist ég fólki, eins og Biöncu Jagger, sem ég þekki enn í dag og það segir stundum: „Bíddu hvenær kynntist ég þér fyrst?“ Ég var bara sautján ára krakki sem var með vini þeirra.

Ég var eins og svampur og saug þetta í mig og mikið af upplifunum mínum frá þessum tíma hafa mótað fagurfræði mína.“

Rachele Regini er helsti innblástur móður sinnar Mariu Grazia Chiuri, listræns stjórnanda Dior.

Maria Grazia Chiuri

Listrænn stjórnandi Dior, Maria Grazia Chiuri, fetar óhrædd í fótspor heimsfrægra hönnuða. Það kemur því ef til vill einhverjum á óvart að sú sem veitir henni helst innblástur er tvítug dóttir hennar, Rachele Regini. „Að sjálfsögðu er hún músan mín. Ég elska tísku af öllu hjarta og ég veit nákvæmlega hvað ég vil fá út úr henni fyrir sjálfa mig. En ef ég á að vera alveg hreinskilin þá hugsa ég nær aldrei um sjálfa mig í hönnun minni, þú verður að hlusta á hvað yngri kynslóðin vill. Stundum eru það því börnin sem kenna móðurinni.“

 

Karl Lagerfeld, listrænn stjórnandi hjá Chanel og Fendi, sækir enn innblástur í fyrrum unnusta sinn, Jacques De Bascher, sem lést árið 1989.

Karl Lagerfeld

Það eru ekki aðeins lifandi einstaklingar sem eru hönnuðum músur. Einn frægasti fatahönnuður samtímans, Karl Lagerfeld, listrænn stjórnandi hjá Chanel og Fendi, sækir enn innblástur í fyrrum unnusta sinn, Jacques De Bascher, sem lést árið 1989 aðeins þrjátíu og sjö ára. „Ég er mikill fjölskyldumaður en hann var eins og fjölskylda án þeirra skyldna sem fylgja fjölskyldum. Hann hleypti birtu inn í líf mitt á hátt sem engum hefur tekist síðan. Kannski er bara ein slík manneskja á mann og svo ekki meir.“

 

Ævilöng vinátta Huberts de Givenchy og Audrey Hepburn er vel þekkt innan tískubransans. A

Hubert de Givenchy

Ævilöng vinátta Huberts de Givenchy og Audrey Hepburn er vel þekkt innan tískubransans. Audrey Hepburn sagði að fötin hans væru þau einu sem henni liði sem sér sjálfri í. Hubert De Givenchy hannaði eina frægustu flík kvikmyndasögunnar á Audrey, eða svarta kjólinn sem hún klæddist í Breakfast at Tiffany’s. „Ég kann best við persónuleika hennar og sjarma. Stíll hennar skín í gegn í kvikmyndum og í þeim fötum sem hún klæðist. Hún er einstök,“ sagði hann. Enn þann dag í dag sækir tískuhúsið fræga innblástur í Audrey.

Móðir Alessandro Michele er helsti innblásturinn í hönnun hans.

Alessandro Michele

Mömmur eru bestar og það veit Alessandro Michele, listrænn stjórnanadi Gucci, vel. Móðir hans er helsti innblásturinn í hönnun hans og hann lýsir henni sem algjörlega klikkaðri kerlingu sem lifir í stællegum heimi. „Okkur vantar fleiri sérvitringa eins og hana svo ég hef hannað vörulínur mínar og tískusýningar með tilliti til eintaklingsins. Hvernig þú klæðir þig segir heilmikið um það hvernig þér líður, hvernig þú lifir lífinu, hvað þú lest og gildi þín. Það er einmitt það sem ég vildi koma inn hjá Gucci.“

„Hvernig þú klæðir þig segir heilmikið um það hvernig þér líður, hvernig þú lifir lífinu, hvað þú lest og gildi þín. Það er einmitt það sem ég vildi koma inn hjá Gucci.“

Stella segir að fatasmekkur foreldra sinna hafi verið henni innblástur.

Stella McCartney

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni segir máltækið en þó að foreldrar Stellu McCartney, tónlistarfólkið Paul og Linda McCartney, hafi svo sannarlega verið hæfileikaríkir og skapandi þá var fatasmekkur þeirra ekkert til að hrópa húrra fyrir. Stella segir þó að það hafi einmitt verið henni innblástur. „Foreldrar mínir höfðu lítinn áhuga á tísku sem gerði það að verkum að stíll þeirra var aldrei útpældur né ofhugsaður. Það var þeim svo eðlislægt að blanda saman nýju og gömlu, glamúr og klassík. Þau höfðu ómeðvitað mikil áhrif á mig og vörumerki mitt, mig langaði að gera eitthvað meira og stærra en bara að hanna fallega kjóla og sýna þá á tískupöllunum.“

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

 

Geymilegar gersemar

Ýmsar gersemar leynast í geymslum landsins og það á ekki síst við um geymslur Hönnunarsafns Íslands.

Sýningin Geymilegir hlutir hefur staðið yfir frá árinu 2015. Þar má sjá sýnishorn af þeim fjögur þúsund munum sem eru í safneigninni, en sýningin er einmitt hönnuð með það fyrir augum að auðvelt sé að skipta hlutum út og setja nýja inn.

Sýningin Geymilegir hlutir hefur staðið yfir frá árinu 2015. Þar má sjá sýnishorn af þeim fjögur þúsund munum sem eru í safneigninni. Hér er Fundarstóll eftir Gunnar H. Guðmundsson, húsameistara Reykjavíkur, úr fundarsal borgarstjórnar Reykjavíkur að Skúlatúni 2. Einn af þremur misháum stólum úr sömu seríu sem safnið varðveitir. Þessir stólar eru enn í notkun hjá Reykjavíkurborg.

Aðdragandinn að stofnun Hönnunarsafns Íslands var allnokkur en umræðuna um nauðsyn á slíku safni má rekja aftur til ársins 1992 þegar félagið Form Ísland setti saman hóp með fulltrúum hönnuða, menntamálaráðuneytisins, Listasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Reykjavíkurborgar um slíkt safn. Í framhaldinu var þeim tilmælum beint til menntamálaráðuneytisins að skipa nefnd er mæti með hvaða hætti stofna mætti safn er sinnti listiðnaði.

Í byrjun árs 1997 var niðurstaða þeirra nefndar að mikil þörf væri á safni er sinnti listhandverki og iðnhönnun. Árið 1998 gerðu því menntamálaráðuneytið og Garðabær samkomulag um að reka í sameiningu íslenskt hönnunarsafn er safnaði og sýndi listiðnað.

Fyrst um sinn var safnið deild í Þjóðminjasafni Íslands en með nýjum samningi við menntamálaráðuneytið árið 2006 tók Garðabær við rekstri Hönnunarsafns Íslands og starfar safnið sem stofnun á vegum bæjarfélagsins. Þá hafði safnið til afnota lítinn sal við Garðatorg þar sem haldnar voru nokkrar sýningar á ári en skrifstofu og varðveislurými var að finna á öðrum stað.

Árið 2009 var safninu valinn staður við Garðatorg 1 og fluttist öll starfsemi safnsins þangað þegar reglubundið sýningahald safnsins hófst í maí 2010.

Safneign safnsins stækkar jafnt og þétt og telur nú um fjögur þúsund gripi.

Í dag starfa á safninu forstöðumaður og sérfræðingur ásamt gæslu- og afgreiðslufólki. Nýbúið er að útbúa sýningarrými í anddyri safnsins þar sem verða settar upp minni sýningar á verkum eða verkefnum hönnuða.

Gripir safnsins falla í eftirfarandi flokka: húsgagnahönnun, grafísk hönnun, arkitektúr, fatahönnun, vöru- og iðnhönnun, textílhönnun, skartgripahönnun, gull- og silfursmíði, keramík og glerlist.

Safneign safnsins stækkar jafnt og þétt og telur nú um fjögur þúsund gripi. Safnið kaupir reglulega inn gripi í safneignina en einnig berst töluvert af gjöfum til þess. Það er safninu mikils virði að fólk hugsi til þess, hvort sem það vill gefa eða fá hjálp við að greina hluti í sinni eigu.

Sífellt meiri fróðleikur um hönnunarsögu Íslendinga

Nýir gripir sem koma í safnið á hverju ári leggja grunn að efni til rannsókna og þeir eru í sjálfu sér vitnisburður á hverjum tíma um það sem sérfræðingar álíta æskilegt að sé varðveitt í safni. Gildi þeirra hluta sem koma til safnsins breytist, merking getur orðið önnur – og jafnvel meiri.

Árið 1969 var Manfreð Vilhjálmsson fenginn til að hanna húsgögn og innréttingar fyrir nýjan unglingaskemmtistað, Tónabæ, í Skaftahlíð 24. Í Tónabæ vildi Manfreð skapa umhverfi sem reykvískir unglingar ættu ekki að venjast heima hjá sér og með því gera staðinn að þeirra athvarfi.

Undanfarin ár hafa safninu borist nokkrar stórar gjafir sem styrkja safneign þess mjög. Má þar nefna gjöf frá grafíska hönnuðinum Gísla B. Björnssyni á munum frá ævistarfi hans. Gjöf frá Einari Þorsteini Ásgeirssyni arkitekt á gripum sem tengjast vinnu hans og nú síðast gjöf frá Bláa lóninu á stóru keramíksafni sem hefur að geyma afar gott yfirlit yfir íslenska leirlistasögu.

Eitt af hlutverkum Hönnunarsafns Íslands er að stuðla að rannsóknum á íslenskri hönnunarsögu. Með stækkandi safneign safnast sífellt inn meiri fróðleikur um hönnunarsögu Íslendinga.

Safnið hefur fengið hrós fyrir það að hafa örlítið aðra hugsjón en önnur hönnunarsöfn erlendis, það er, á safninu er að finna bæði hversdagslega og hástemda hönnun. Þannig má glöggt sjá hvernig íslensk hönnun hefur haft áhrif á heimili, samfélag og menningu þjóðarinnar – og öfugt.

Breidd safneignarinnar er greinileg á sýningu safnsins Geymilegir hlutir sem nú er í gangi.

Þar eru til sýnis nokkrir af þeim úrvalsmunum sem safnið varðveitir af ýmsum ástæðum – sem dæmi má nefna Don Cano-krumpugalla og fallegt Max-sófasett. Lýsingarorðið geymilegur er lítt þekkt í dag. En gömul merking orðsins var sett í samhengi við gjafmildi og stórhug, eins og vitnað er um í tímaritinu Skírni árið 1913 á eftirfarandi hátt: „… þá verður sá talinn mestur er mest gaf af geymilegum hlutum,“ en í þessari setningu liggur einmitt kjarninn í starfsemi Hönnunarsafnsins.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Felur jólakræsingar í ísskápum nágrannanna

Þúsundþjalasmiðurinn Margrét Erla Maack hlakkar til jóla og segir sérstakan fjölskyldusið alltaf koma sér í jólaskap.

„Það er nokkuð sérstakur siður á mínu æskuheimili sem sumum finnst svolítið erfitt að skilja. En hann gengur sem sagt út á það að við skiptumst á að elda hvert fyrir annað og látum ekki vita hvað er í matinn fyrr en sest er til borðs,“ segir Margrét Erla Maack, fjöllistakona, kabarettdís og skemmtikraftur, og bætir við að í raun sé alltaf miklu meiri spenningur í kringum þetta leynimakk heldur en til dæmis jólagjafirnar.

„Jólastemningin hefst þegar við tilkynnum að við séum búin að kaupa í matinn. Síðan eru kræsingarnar faldar í ísskápum og frystum nágranna og vina þar til að matarboðunum kemur,“ segir hún hress. „Við höfum prófað alls konar mat. Ein jólin vorum við með á boðstólum mat undir inderveskum árhrifum, vindaloo-hreindýr og tandoori-humar, og ég hugsa að það hafi heppnast einna best.“

„Við höfum prófað alls konar mat. Ein jólin vorum við með á boðstólum mat undir inderveskum árhrifum, vindaloo-hreindýr og tandoori-humar, og ég hugsa að það hafi heppnast einna best.“

Þar fyrir utan finnst Margréti Erlu fátt jólalegra en að sinna verslunarstörfum á aðventunni. „Þó að ég sé fullbókuð í veislustjórn, skemmtanir og „plötusnúðamennsku“ allar helgar í desember þá get ég ekki stillt mig um að taka vaktir með vinum mínum í Kormáki og Skildi en þar nær jólastemningin hámarki á tíu klukkustunda löngum innpökkunarvöktum á Þorláksmessu.

Ætli þetta hafi ekki eitthvað með æskuna að gera. Þegar ég var lítil vann mamma mín
allan desember í barnafataversluninni Bangsa í Bankastræti og þá brugðum við
fjölskyldan yfirleitt á það ráð að skreyta heima um miðjan nóvember svo hún upplifði kósí skammdegisjólastemningu með okkur áður en vinnutörnin hófst,“ segir hún og brosir.

Höfundur / Roald Eyvindsson
Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Minn stíll: Forfallinn Asos-aðdáandi

Kristjana Arnarsdóttir hóf störf á íþróttadeildinni RÚV síðastliðinn vetur og kann vel við sig enda hafa íþróttir alltaf verið hennar áhugasvið.

„Mig hafði lengi langað í góðan anorakk og fann einn slíkan, einmitt á Asos. Appelsínurauður Adidas-anorakkur sem er flott og góð viðbót í fataskápinn,“ segir Kristjana.

Hún er með BA-gráðu í mannfræði og fjölmiðlafræði og meistaragráðu í markaðsfræði. Hún hefur alla tíð búið í vesturbæ Kópavogs og getur hvergi annars staðar hugsað sér að vera.

„Minn stíll er ofboðslega afslappaður og kannski frekar hlutlaus,“ segir Kristjana sem klæðir sig yfirleitt eftir skapi.

„Fataskápurinn minn einkennist af svörtu eða röndóttu og ég setti því sjálfa mig í smávegis bann hvað varðar kaup á slíkum flíkum. Annars er ég algjör kuldaskræfa svo ég er oftar en ekki vel dúðuð.“

„Fataskápurinn minn einkennist af svörtu eða röndóttu og ég setti því sjálfa mig í smávegis bann hvað varðar kaup á slíkum flíkum.

Annars er ég algjör kuldaskræfa svo ég er oftar en ekki vel dúðuð. Keypti mér gráar ullarbuxur í fyrra í kanadískri verslun sem heitir Aritizia sem eru í miklu uppáhaldi. Þær hafa komið sér einstaklega vel.

Efst á óskalistanum er þykk og hlý peysa fyrir haustið og svo sá ég sjúklega fallegan hlébarðahlýrabol og buxur í stíl frá Ganni sem ég er búin að vera með á heilanum í nokkra daga núna.

Ég er alveg forfallinn Asos-aðdáandi og á það til að leyfa mér aðeins þar.

„Ég er ein af þeim sem get með engu móti notað skartgripi svo mínir uppáhaldsfylgihlutir eru sólgleraugun mín.“

Annars elskaði ég að versla þegar ég bjó í Köben, þar eru COS og Weekday í mjög miklu uppáhaldi.

Svo ættu allir að eiga góðan samfesting sem auðvelt er að henda sér í þegar fyrirvarinn er skammur.“

Hvaða þekktu einstaklingar veita þér innblástur? „Ég fylgi nokkrum skemmtilegum tískubloggurum á Instagram en annars sæki ég bara innblásturinn til vinkvenna minna.“

Áttu þá uppáhaldsflík? „Mér þykir mjög vænt um camel-lituðu kápuna sem ég keypti í COS í Kaupmannahöfn í fyrra. Mér þykir eiginlega meira vænt um hana eftir að ég fékk hana tandurhreina til baka úr hreinsun en daginn sem ég keypti hana sprakk indverskur tandoori-réttur yfir mig og ég hélt að hún yrði dæmd ónýt samstundis. Svo var þó ekki en ég hef vissulega ekki þorað að snerta tandoori-rétti síðan.

Svo þegar ég hugsa út í hvaða flík hefur mesta tilfinningalega gildið verð ég eiginlega að nefna lopapeysuna sem mamma prjónaði á mig fyrir Þjóðhátíð eitt árið. Henni fannst ómögulegt að ég ætti ekki almennilega lopapeysu og hún skellti því í eina á þremur dögum.“

„Ég er mikil kuldaskræfa og féll fyrir þessari kápu á Asos.com.“

Rammi:
Fullt nafn: Kristjana Arnarsdóttir.
Aldur: 27 ára.
Starfsheiti: Íþróttafréttakona á RÚV.
Stjörnumerki: Ljón.
Áhugamál: Íþróttir, tónlist, líkamsrækt, ferðalög, fjallgöngur og bara almennt öll útivist.
Á döfinni: Næst á dagskrá hjá mér er að skreppa í mjög langþráð frí til Spánar. Þetta er í fyrsta sinn á ævinni sem ég er að leyfa mér þann munað að fara í sumarfrí og nú ætla ég að skella mér, alveg í heila viku.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Áhugavert á Netflix: Eru plöntur málið?

Undanfarin ár hefur sú umræða aukist að við borðum í raun alltof mikið af kjöti og dýraafurðum í vestrænu samfélagi. Á Netflix er að finna nokkrar heimildarmyndir og -þætti sem fjalla einmitt um þetta málefni.

Í þeim eru vandkvæði og gallar kjötneyslu skoðaðir og ýmsum hugmyndum að lausnum er velt upp. Mismikið er um öfgar en allir virðast vera sammála um það að aukin neysla á plöntum sé svarið.

Frumefnin fjögur

Matargerð er skoðuð með frumefnin fjögur, eld, vatn, loft og jörð, til hliðsjónar, í þáttunum Cooked.

Fræðimaðurinn Michael Pollan hefur skrifað ófáar bækur um mat og matargerð. Þættina Cooked gerði hann í samstarfi við Netflix og byggjast þeir á samnefndri bók hans. Matargerð er skoðuð með frumefnin fjögur, eld, vatn, loft og jörð, til hliðsjónar. Stiklað er á stóru í sögu matargerðar og matarmenningar og skoðað er hvaða þýðingu hún hefur í samfélögum heims.

Michael kynnir sér hvernig ýmsar fæðutegundir eru búnar til, brauð, ostur og fleira, og hvernig frumefnin koma þar við sögu. Þessar fæðutegundir eiga það sameiginlegt að við í vestrænu samfélagi erum orðin alltof vön að kaupa þær bara úti í búð, þessu vill hann breyta.

Í heimildarmyndinni Food Choices skoðar Michal Siewierski áhrif fæðu, ekki bara á heilsu okkar heldur einnig heilsu jarðarinnar og heilsu lífveranna sem við deilum henni með  … Myndin veltir upp nýjum og áhugaverðum pælingum og mun án efa breyta því hvernig við horfum á matinn á diskinum.

Öfgar eða sannleikur?

What the Health er heimildarmynd úr smiðju Kips Andersen og Keegans Kuhn sem gerðu Cowspiracy: The Sustainability Secret. Í stiklum er What the Health lýst sem myndinni sem heilsutengdar stofnanir vilja ekki að við sjáum. Hún skoðar heilsuvandamál tengd kjöt- og mjólkuriðnaði, lyfjaiðnaði og ýmsum hagsmunaaðilum auk þess sem hún afhjúpar samráð þessara aðila og bandarísku ríkisstjórnarinnar. Myndin hefur hlotið töluverða gagnrýni fyrir öfgar og ofstæki en í henni er þó að finna nokkur sannleikskorn.

Mikilvægt að velja vel

Í heimildarmyndinni Food Choices skoðar Michal Siewierski áhrif fæðu, ekki bara á heilsu okkar heldur einnig heilsu jarðarinnar og heilsu lífveranna sem við deilum henni með. Hann reynir að afsanna, eða hnekkja, langlífar ranghugmyndir um mat og mataræði og því til stuðnings ræðir hann við fjölda virtra sérfræðinga, þar á meðal lækna, stjórnmálamenn, líffræðinga, næringarfræðinga og fleiri.

Myndin veltir upp nýjum og áhugaverðum pælingum og mun án efa breyta því hvernig við horfum á matinn á diskinum.

Snúið við blaðinu

Í Forks over Knives er heilsuvandi Bandaríkjamanna skoðaður ofan í kjölinn. Myndin byggir á samnefndri bók sem lenti á metsölulista New York Times.

Í Forks over Knives er heilsuvandi Bandaríkjamanna skoðaður ofan í kjölinn. Tveir af hverjum þremur eru í yfirþyngd og lífsstílssjúkdómar á borð við sykursýki II, hjarta- og æðasjúkdóma og fleiri aukast stöðugt.

Teymið sem stendur á bak við myndina heldur því fram að hægt sé að snúa þessari þróun við með því að hætta einfaldlega að borða kjöt og dýraafurðir, sérstaklega unna kjötvöru.

Tveir fræðimenn, Dr. T. Colin Campbell og Dr. Caldwell Esselstyn, segja frá rannsóknum sínum og athugunum en þeir hafa í marga áratugi haft áhyggjur af kjötneyslu samlanda sinna.

Í myndinni eru einnig tekin viðtöl við fólk sem hefur reynt þessa aðferð og snúið við blaðinu þegar kemur að mataræði og bætt heilsu sína.

Orðin sjö

Heimildarmyndin In Defense of Food var upprunalega gerð fyrir PBS-sjónvarpsstöðina í Bandaríkjunum en þar er að finna heilmikið af heimildar- og fréttaskýringarþáttum auk annars efnis sem varðar almenning. Hér er Michael Pollan aftur á ferðinni og í þetta sinn reynir hann að svara spurningunni sem hann fær hvað oftast í starfi sínu: Hvað á ég að borða til þess að halda heilsunni góðri? Hann skoðar þróun vestræns mataræðis og hvernig það hefur haft í för með sér ýmsa lífsstílstengda sjúkdóma. Í myndinni kemur Michael meðal annars með töfraorðin sjö sem eru í raun svarið við spurningunni stóru: Eat food, not too much, mostly plants, eða: Borðaðu mat, ekki of mikið, mest plöntur.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Aðalmynd / Pexels.com

Karl, kona, bæði eða hvorugt

Tískuheimurinn hefur lengi verið opnari og móttækilegri gagnvart hinseginleika en restin af umheiminum.

Trans konan Amanda Lepore hefur verið músa og veitt fjölmörgum tískuhönnuðum innblástur, svo sem Armani og Jason Wu, og sést reglulega á fremsta bekk tískusýninga.

Innan hans hafa hönnuðir og músur þeirra leikið sér með hugmyndir um kyn og kynhlutverk svo lengi sem menn muna. Ákveðin kynbylting átti sér stað á áttunda áratug síðustu aldar en þá byrjuðu að koma fram fyrirsætur, tónlistarfólk og annað listafólk sem var dulkynja og jafnvel kynlaust, þar má til dæmis nefna David Bowie, Grace Jones og fleiri. Tískuheimurinn tók þessum einstaklingum opnum örmum og þeir urðu hönnuðum mikill innblástur. Hér eru nokkrir einstaklingar sem hafa tekið þátt að opna augu fólks í gegnum tísku og fleira. Fögnum fjölbreytileikanum.

Transkonan Amanda Lepore er fastur gestur í næturlífi New York-borgar þar sem hún hefur búið nær alla tíð. Hún hefur verið músa og veitt fjölmörgum tískuhönnuðum innblástur, svo sem Armani og Jason Wu, og sést reglulega á fremsta bekk tískusýninga.

Amanda Lepore er afar umdeild, sérstaklega innan hinsegin samfélagsins sem vill meina að hún sé ekki beint góður málsvari trans einstaklinga, en fólk virðist hafa endalausan áhuga á henni.

Það má segja að hún sé aðallega fræg fyrir ótrúlega fjölda lýtaaðgerða sem hún hefur undirgengist. Hún hefur látið fjarlægja rifbein, stækkað á sér brjóstin þrisvar, sprauta sílíkoni í andlit og rass auk þess sem hún hefur oftar en einu sinni farið í andlitslyftingu. Hún líkist í raun teiknimyndapersónunni Jessicu Rabbit, sem er gott eða slæmt eftir því hvernig þú horfir á það.

Hún er afar umdeild, sérstaklega innan hinsegin samfélagsins sem vill meina að hún sé ekki beint góður málsvari trans einstaklinga, en fólk virðist hafa endalausan áhuga á henni og hún verður að fá kredit fyrir það að tjá sig opinberlega sem trans einstaklingur löngu áður en sú umræða varð almenn.

Casey Legler

Franska sundkonan Casey Legler keppti á Ólympíuleikunum árið 1996 en hún lagði sundbolinn á hilluna tveimur árum síðar. Hún hafði komið út sem lesbía á sama tíma, var hávaxin, sterkbyggð og mögnuð sundkona. Hún upplifði mikla útskúfun frá liðsfélögum og þjálfurum sem báðu hana um að nota klósett

 

Casey hefur alla tíð klæðst karlmannsfötum einfaldlega vegna þess að þau passa á hana, hún er rúmlega 190 cm á hæð.

fatlaðra sem búningsklefa. Casey hefur alla tíð klæðst karlmannsfötum einfaldlega vegna þess að þau passa á hana, hún er rúmlega 190 cm á hæð. Þegar hún komst á skrá hjá Ford-umboðsskrifstofunni árið var það sem karlfyrirsæta.

Hún sat fyrir í herferðum hjá All Saints, Diesel og fleirum. Fyrirsætustörfin hentuðu henni þó ekki og hún var bara á skrá í eitt ár en opnaði augu fólks á þeim tíma fyrir fjölbreytileika fólks.

Lea T

Leandra Medeiros Cerezo, eða Lea T eins og hún er betur þekkt, er brasilísk-ítölsk fyrirsæta. Hún er meðal fyrstu transfyrirsætna og mikill talsmaður LGBTQ. Hún er músa hönnuðarins Ricardo Tisci sem er yfirhönnuður Givenchy-tískuhússins, en t-ið í nafni Leu stendur einmitt fyrir Tisci. Hann gerði hana að andliti Givenchy síðla árs 2010 og hún byrjaði að ganga á tískupöllunum vorið eftir. Hún hefur prýtt síður tímarita á borð við Vogue Paris, Interview og Love, en forsíðan á því síðastnefnda þar sem hún kyssir Kate Moss er víðfræg.

Leandra Medeiros Cerezo, eða Lea T eins og hún er betur þekkt, er brasilísk-ítölsk fyrirsæta.

Ruby Rose

Ástralska fyrirsætan Ruby Rose gekk í gegnum tímabil í æsku þar sem hún vildi vera strákur og leiddi hugann að kynleiðréttingu. Hún segist þó hafa vaxið upp úr þeim hugsunum og þegar hún var táningur kom hún út úr skápnum sem lesbía. Í gegnum fyrirsætustörfin uppgötvaði hún hugtakið dulkynja (e. Androgyny) og hún byrjaði að prófa sig áfram með að sitja fyrir sem bæði kona eða karl – og stundum sem órætt kyn. Hún segir kynvitund sína fljótandi og vaknar upp á hverjum morgni kynlaus, það fer svo eftir skapi hennar þann daginn hvort kynið verður ofan á. Hún gerði stuttmyndina Break Free um þessa upplifun sína og við hvetjum alla til að horfa á hana.

Ástralska fyrirsætan Ruby Rose.

RuPaul

Hún er oft kölluð fyrsta dragsúperstjarnan og það er enginn hálfsannleikur. RuPaul hefur komið dragi inn í almenna umræðu og meginstraum samfélagsins í gegnum sjónvarpsþátt sinn Drag Race. Fyrir það var hún í sjónvarps- og kvikmyndastjarna og heimsþekkt nafn í skemmtanabransanum – Allt í dragi. Hafnar eru tökur á tíundu seríu þáttarins og vinsældirnar eru bara að aukast. Þátttakendur og RuPaul sjálf hafa setið fyrir hjá mörgum frægum tískuhönnuðum svo sem Marc Jacobs, Marco Marco og fleirum.

RuPaul hefur komið dragi inn í almenna umræðu og meginstraum samfélagsins í gegnum sjónvarpsþátt sinn Drag Race.

Grace Jones

Hún er sannkallað kamelljón; á lífsleiðinni hefur Grace Jones starfað sem fyrirsæta, tónlistarkona og leikkona og það sem meira er náð velgengni á öllum sviðum. Hún ólst upp á mjög siðprúðu og trúræknu heimili á Jamaica og í Bandaríkjunum en var ekki lengi að hrista þá hlekki af sér um leið og hún varð átján. Hún var fastagestur á klúbbum samkynhneigðra í New York og París þar sem hún kynntist mörgum áhrifaríkum einstaklingum, svo sem Karl Lagerfeld, Yves Saint Laurent og Helmut Newton, en þeir löðuðust að krafti hennar. Hún hefur alltaf talað fyrir frelsi einstaklingsins til að vera nákvæmlega sá sem hann vill vera – hvort sem það er karl, kona eða eitthvað allt annað.

Grace Jones er sannkallað kamelljón

 

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Stefnumót á Netinu

Það er ekki tekið út með sældinni að vera í makaleit á þessum tímum tækninnar.

Fólk í rómantískum hugleiðgingum notar smáforrit og stefnumótasíður í síauknum mæli til að komast í samband við aðra. Stundum leynast þó maðkar í mysunni. Mynd/Pexels.com

Það er ekki tekið út með sældinni að vera í makaleit á þessum tímum tækninnar. Tinder skók samfélagið þegar það leit fyrst dagsins ljós og nú hafa fjölmörg álíka snjallsímaforrit fylgt í kjölfarið. Gamla góða tuggan segir að það séu alltaf fleiri fiskar í sjónum – en þar eru líka mörg skítseyði. Spurningin er hvort tæknin hygli skítseyðunum frekar en hinum. Hér eru ýmis hugtök yfir lélega hegðun sem á sér stað á Netinu.

Draugur

Talað erum drauga, eða „ghosting“, þegar einstaklingur sem þú hefur átt í einhverjum samskiptum eða sambandi við hverfur út úr lífi þínu fyrirvaralaust.

Hann hættir að svara skilaboðum og símhringingum, er aldrei tengdur þegar þú reynir að tala við hann á samskiptamiðlum eða eyðir þér jafnvel út af vinalistanum sínum. Þetta einskorðast ekki við ástarsambönd því einhverjir hafa lent í því að vinir þeirra verði skyndilega að draugum.

Sumir byrja að líta í kringum sig og daðra á meðan þeir eru enn á föstu, yfirleitt þegar þeir sjá fyrir endann á því sambandi. Rétt eins og útskot á hraðbrautinni gefur þetta þeim smátíma og umhugsunarfrest áður en þeir beygja út úr sambandinu.

Á bekknum

Að setja einhvern á bekkinn er hugtak sem lýsir því þegar einstaklingar vilja halda manni heitum og senda manni skilaboð og líka við myndir á samfélagsmiðlum en gefa lítið út á að stofna til sambands.

Þeir sjarmera þig upp úr skónum en það sem gerir þessa hegðun sérstaklega skítlega er að þeir ætla sér kannski ekki einu sinni að hitta þig. Þeir eru oftar en ekki með marga í takinu og eru bara að draga þig á asnaeyrunum. Þú ert í endalausri biðstöðu og svo þegar þú ert við það að gefast upp á þeim aukast samskiptin, eins og þeir finni það á sér.

Sambandsútskot

Sumir byrja að líta í kringum sig og daðra á meðan þeir eru enn á föstu, yfirleitt þegar þeir sjá fyrir endann á því sambandi.

Rétt eins og útskot á hraðbrautinni gefur þetta þeim smátíma og umhugsunarfrest áður en þeir beygja út úr sambandinu. Það er vert að muna að þeim getur alltaf snúist hugur og beygt aftur inn á beinu brautina.

Það er líka ólíklegt að þeir séu að leita sér að öðru alvarlegu sambandi strax – sem sagt mjög ógáfulegt að bindast þessum týpum einhverjum tilfinningaböndum.

Veiða og sleppa

Hjá sumum er eltingarleikurinn aðalmálið en um leið og þeim finnst þeir hafa „náð“ þér sleppa þeir takinu og láta sig hverfa. Hjá flestum þýðir það eftir fyrsta stefnumót en sumum nægir bara að fá þig til að samþykkja stefnumótið. Þetta er algengara en þig grunar og sérstaklega á smáforritum eins og Tinder.

Það getur verið ferlega svekkjandi að komast að því að maður hefur verið dregin/n á asnaeyrunum. Mynd/pexels.com

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Vinaleg Gautaborg

Birna Ágústsdóttir segir frá flottum stöðum í Gautaborg.

Birna Ágústsdóttir hefur búið í Gautaborg í 36 ár ásamt fjölskyldu sinni.

Birna Ágústsdóttir hefur búið í Gautaborg í 36 ár ásamt fjölskyldu sinni. Birna starfar sem túlkur í Gautaborg og nágrenni auk þess að vinna innan íslensku kirkjunnar í Gautaborg, mest með kirkjuskólann, og er formaður safnaðarnefndar. Hún er gift, á fjögur börn, þrjú barnabörn og nokkur bónusbörn. Það sem henni líkar einna helst við búsetuna ytra er að þar er ekkert lífsgæðakapphlaup, engin verðtryggð lán, vinalegt og hjálpsamt fólk og ekki það stress sem stundum finnst í stórborgum. Við fengum hana til að segja okkur frá nokkrum flottum stöðum á svæðinu.

Liseberg

Tívolíið Liseberg hefur upp á margt að bjóða. Fyrir utan öll tæki sem maður getur farið í þá er þessi garður alveg stórfenglegt listaverk. Þeir sem koma hingað verða að gefa sér tíma til að ganga um allan garðinn og uppgötva allar þær gróðalindir sem eru víðsvegar um garðinn, sérstaklega á „efra“ svæðinu. Það getur verið hrein unun að bara fara inn og fá sér kaffi og með því og njóta umhverfisins. Beint á móti aðalinngangi Liseberg er hótel sem heitir Gothia Towers og í einum af turnunum er veitingahús uppi á 23. hæð sem er með rækjubrauðsneiðar sem eru með þeim bestu sem til eru. Þaðan er líka dásamlegt útsýni.

Botaniska Trädgården

Þessi jurtagarður er stórfenglegur, þar eru plöntur víðsvegar úr heiminum sem búið er að rækta frá grunni svo þær aðlagist sænsku veðurfari. Hver árstími hefur upp á eitthvað sérstakt að bjóða. Þar geta verið listasýningar eða annað bæði í garðinum og gróðurhúsinu, einnig er hægt að fá sýningar með leiðsögumanni. Hinum megin við götuna er Slottskogen þar sem er að finna lítinn dýragarð með sænskum dýrum þar á meðal „barnadýragarð“ þar sem börn geta farið inn og klappað dýrunum. Þar er einnig flottur leikvöllur sem heitir Plikta þar sem börn geta unað sér í langan tíma.

Hér er mikið af smáverslunum, frábærum kaffihúsum og þar á meðal eitt sem er þekkt fyrir stærstu kanilsnúðanna í Gautaborg. Á haustin eru þar bændamarkaðir á laugardögum og í desember eru þar jólamarkaðir.

Saluhallen við Kungstorget

Saluhallen við Kungstorget er stór matarmarkaður. Húsið var tekið í notkun 1889, er 14.000 fermetrar, rýmdi 92 „verslanir“ og er byggt úr járni og gleri. Þarna er hægt að kaupa í matinn frá stórum hluta heimsins, bæði tilbúin mat en líka það sem maður vill laga heima. Fiskur, kjöt, ostar, grænmeti, sælgæti, kaffihús, litlir veitingarstaðir með meiru, allt undir sama þaki. Oft eru líka sölutjöld úti á torginu þar sem bændur frá nágrenninu koma og selja sínar afurðir.

Hverfið Haga

Hér áður þótti ekki fínt að búa í þessu hverfi og var byrjað að rífa það niður í kringum 1980. Þegar uppgötvaðist að borgarmyndin breyttist töluvert var hætt að rífa og sum af húsunum héldu gamla byggingarstílunum. Hér er mikið af smáverslunum, frábærum kaffihúsum og þar á meðal eitt sem er þekkt fyrir stærstu kanilsnúðanna í Gautaborg. Á haustin eru þar bændamarkaðir á laugardögum og í desember eru þar jólamarkaðir.

Skerjagarðurinn

Í Saluhallen við Kungstorget er hægt að kaupa í matinn frá stórum hluta heimsins, bæði tilbúin mat en líka það sem maður vill laga heima. Mynd/W. Bulach

Gaman er að taka strætóbát frá Saltholmen út á eyjarnar, helst að fara alla leið út á Vrångö sem er lengst burtu.

Annars er sama hvaða eyju farið er í land á til að skoða. Það er hægt að kaupa dagskort í strætó og þá getur maður farið á milli og skoðað allar eyjarnar.

Þetta gildir kannski meira á sumrin, það er lítið gaman að flakka þar þegar er rok og rigning.

Vesturströndin

Síðast en ekki síst, ef maður hefur bíl til umráða, þá er frábært að skoða vesturströndina. Þar eru margir skemmtilegir staðir svo sem Nordens Ark-dýragarður þar sem unnið er að vernda dýr í útrýmingarhættu, Smögen sem er lítið fiskiþorp þar sem verbúðunum hefur verið breytt í verslanir og veitingastaði.

Ekki langt þaðan er Fjällbacka sem bækurnar hennar Camilla Läckberg fjalla um og svo er hægt að keyra upp að gömlu Svinesund-brúnni, leggja bílnum og ganga yfir til Noregs. Það þarf bara að fara út á hálfa brúnna, þar er merking sem stendur Svíþjóð og svo Noregur.

Gautaborg er næst stærsta borg Svíþjóðar og stærsta borgin á vesturströndinni. Mynd/commons.wikimedia.org

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

 

Borg með stórt hjarta

Guðrún Ósk Sigurðardóttir flutti á sínum tíma til Torino á Ítalíu til að vera au pair en ílengdist í nokkur ár en ákvað að koma aftur heim eftir að hún eignaðist elstu dóttur sína.

Matarmenningin og góð veðrátta eru helstu kostir þess að búa á Ítalíu, að sögn Guðrúnar.

Guðrún segir að helstu kostir Ítalíu séu matarmenningin og sólin ásamt því sem lífsgæðakapphlaup Ítala sé af öðrum toga en Íslendinga.

„Ég vann meðal annars á kaffi- og veitingahúsum, fór í ferðamálaskóla, vann á ferðaskrifstofu og prófaði að vera leiðsögumaður,“ segir Guðrún sem starfar nú við bókhald hér á Íslandi og á þrjár dætur. „Einnig vann ég við hina árlegu bókasýningu sem haldin er í Torino þar sem saman koma bókaútgefendur og rithöfundar. Endaði samt í veitingahúsarekstri áður en ég kom aftur heim ásamt elstu stelpunni minni. Eftir að hún kom í heiminn togaði Ísland í mig aftur og vildi ég að hún myndi kynnast fjölskyldunni hérna heima og upplifa það „frelsi“ sem íslensk börn alast upp við. Kostir við Ítalíu eru að mínu mati matarmenningin og sólin. Lífsgæðakapphlaup Ítala er öðruvísi en Íslendinga og maður lærir mikla þolinmæði.“

Bogagöng Torino var fyrsta höfuðborg sameiginlegrar Ítalíu árið 1861. Þar eru mjög margar fallegar sögufrægar byggingar sem fáir vita af, heilu hallirnar sem vert er að skoða. Eitt einkenni borgarinnar eru yfir 18 kílómetra löng bogagöng sem liggja um bæinn og gera göngutúrana þægilegri, ekki síst sem skjól fyrir sólinni. Annað sem einkennir borgina eru breiðgöturnar prýddar háum og tignarlegum trjám. Hönnunin er eldri en á samskonar götum í Parísarborg. Torino er einna frægust fyrir FIAT-verksmiðjurnar.

„Lífsgæðakapphlaup Ítala er öðruvísi en Íslendinga og maður lærir mikla þolinmæði.“

Einstakt útsýni Ég mæli fyrst af öllu með því að fara og skoða hina fallegu kirkju Basilica di Superga sem stendur hátt yfir Torino. Þaðan er einstakt útsýni yfir alla borgina. Páfinn Pio XII sagði þetta fallegasta útsýni Evrópu. Kirkjan er byggð í barokkstíl af Filippo Juvarra og var lokið við hana 1731. Innan í henni er marmari frá Carrara og er hún bara ólýsanlega falleg að innan sem utan.

Konungshöll Í hjarta borgarinnar, Piazza Palazzo, má sjá hina fögru konungshöll Palazzo Reale þar sem Carlo Emanuele I bjó. Þar er einnig Palazzo Madama, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Þar bjó Maria Cristina af Savoya-ætt Frakklands og lét hún fegra hana að utan og innan. Nú í dag er þar Civic Museum of Ancient Art sem er alveg þess virði að skoða.

Líkklæði Jesú Stutt frá konungshöllinni er sérstök kapella frá árinu 1694 sem var byggð til að geyma líkklæði Jesú. Það er lakið sem Jesús var settur á þegar hann var tekinn niður af krossinum og lagður í hellinn. Eru þessi klæði auðvitað mjög umdeild og miklar rannsóknir hafa verið gerðir á klæðinu sem ber merki manns sem hefur verið krossfestur. Lakið barst til Torino 1562. Myndin er eins og negatíva af ljósmynd og þykir auðvitað kraftaverk, hvort sem þetta hafi verið Kristur sjálfur eða ekki. Myndin sem birtist af andliti mannsins er það „andlit“ sem við þekkjum af Jesú, skeggjaður maður með sítt hár. Það er mjög sjaldan til sýnis fyrir almenning en ég var svo heppin að fá að berja það augum árið 2000 í sérstakri aldamótasýningu. Mæli hiklaust með að hafa það í huga ef farið er til Torino.

Basilica di Superga stendur hátt yfir Torino. Þaðan er einstakt útsýni yfir alla borgina. Páfinn Pio XII sagði þetta fallegasta útsýni Evrópu.

Söfn og samtímalist Annað mjög frægt safn í Torino er Egypska safnið sem er stærsta egypska safn í heimi, fyrir utan það sem er í sjálfri Kaíró. Þeir sem elska söfn mega ekki missa af þessu sem geymir yfir 8.000 hluti: styttur, papírus, múmíur, leirmuni, mat, áhöld, spegla, skart og snyrtivörur Egypta svo eitthvað sé nefnt.
Torino geymir líka nútímalegri list, eins og húsið með lásnum. Það listaverk er kallað Baci Rubati og er eftir arkitektinn Corrado Levi. Það hangir risalás utan á húsinu sem var settur upp 1996 og átti aðeins að vera tímabundið. Mjög sérstakt er að ganga eina af elstu götum borgarinnar, ekki í alfaraleið, og reka augun í lásinn.

Markaðir Eitt af því skemmtilegasta sem ég gerði í Torino var að þræða markaðina sem eru þar út um allt. Sá frægasti er við Porta Palazzo og er stærsti útimarkaður Evrópu. Hægt er að finna nánast allt á útimörkuðunum en nauðsynlegt að vita hvar þeir eru því þeir flakka á milli borgarhluta. Sumir eru aðeins með mat, aðrir með antík og enn aðrir með tískuvörur og skó, húsgögn, bækur, nýtt og notað. Þar gerði ég alltaf hagstæð kaup. Uppáhaldsmarkaðurinn minn er í Crocetta á sunnudögum frá 8.30-18.45. Þar er allt sem maður gæti girnst: matvara, tískufatnaður, skór, skart, listmunir, metravara, antík og margt fleira. Fyrir þá sem finnast gaman af marköðum mæli ég sérstaklega með þessum.

Eitt sinn hæst í Evrópu Síðast en ekki síst er tákn borgarinnar, la Mole Antonelliana, sem er 167, 5 metra bygging með turni. Þessi bygging var á sínum tíma hæst í Evrópu og þótti mjög mikið afrek. Byrjað var á henni 1863 og árið 1889 varð hún 167,35 metra há. Ásamt stjörnunni sem nú trónir á toppnum er hún 167,5 metrar. Úr turninum er flott útsýni yfir einn af elstu hlutum borgarinnar. Í dag hýsir byggingin safnið Museo Nazionale del Cinema sem geymir sögu kvikmyndarinnar og ýmsa hluti tengda henni.

Kirkjan er byggð í barokkstíl af Filippo Juvarra og var lokið við hana 1731. Innan í henni er marmari frá Carrara og er hún bara ólýsanlega falleg að innan sem utan.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

 

VOGUE FYRIR HEIMILIÐ

Þekking, reynsla og persónuleg þjónusta í fyrirrúmi.

„Góð dýna skiptir gríðalega miklu máli þar sem við eyðum um það bil einum þriðja hluta ævinnar í svefn og hver vill ekki hvílast vel og eigan glaðan dag fram undan,“ segir verslunarstjórinn Kolbrún Birna Halldórsdóttir.

„Vogue fyrir heimilið samanstendur af gamalgrónum traustum fyrirtækjum en þekking og reynsla er eitthvað sem við búum að og leggjum mikið kapp í að þjónusta kúnnann sem best,“ segir Kolbrún Birna Halldórsdóttir verslunarstjóri.

„Við bjóðum upp á vefnaðarvöru, gluggatjöld, húsgögn og rúm. Einnig bjóðum við upp á fallega gjafavöru. Vogue fyrir heimililið hefur lagt áherslu á íslenska framleiðslu og hönnun.Við bjóðum upp á íslenskt heilsurúm og dýnur í miklu úrvali. Einnig framleiðum við svefnsófa og framleiðum og saumum gluggatjöld.“

HEILSUDÝNA KLÆÐSKERASNIÐIN FYRIR HVERN OG EINN

Vogue, áður Lystadún-Snæland, er búið að þróa og hanna heilsudýnu til margra ára í hæsta gæðaflokki sem kallast MEDILINE. Mediline-línan er heilsudýna sem er klæðskerasniðin fyrir hvern og einn. Hver viðskiptavinur fær sinn stífleika og er lagt mikið upp úr því að mæla hann og meta hvaða dýna hentar honum. Hægt er að hafa mismunandi stífleika í sömu dýnunni þannig að hver og einn fær dýnu sem hentar honum.

Mediline-heisludýnan er til í mörgum stífleikum og í mismundandi útgáfum svo sem svæðaskipt pokagormadýna, svæða- og lagskipt svampdýna eða svæðaskipt latexdýna. Á þennan hátt getur Vogue boðið upp á eitt mesta úrval landsins af heilsudýnum.

„Vogue fyrir heimililið hefur lagt áherslu á íslenska framleiðslu og hönnun.Við bjóðum upp á íslenskt heilsurúm og dýnur í miklu úrvali. Einnig framleiðum við svefnsófa og framleiðum og saumum gluggatjöld.“

„Sjúkraþjálfari kemur til okkar alla fimmtudaga milli klukkan 16-18 til að aðstoða fólk við val á dýnum, einnig erum við með frábært starfsfólk með mikla reynslu og kunnáttu á sínu sviði,“ segir Kolbrún Dóra og er afar ánægð með að geta boðið viðskiptavinum upp á úrvalsþjónustu.

„Góð dýna skiptir gríðalega miklu máli þar sem við eyðum um það bil einum þriðja hluta ævinnar í svefn og hver vill ekki hvílast vel og eigan glaðan dag fram undan.“

VAL UM ÁKLÆÐI FYRIR RÚM OG HÖFUÐGAFL

„Útlitið skipir líka máli og getur fólk valið um marga möguleika á áklæðum fyrir rúmið sitt og höfðagafl hvort heldur sem er úr taui eða leðurlíki. Þá bjóðum við fólki einnig upp á sérsaum á púðum, ábreiður og aðrar lausnir sem henta og passa við rúmið þeirra. Þar sem hönnun, þróun og framleiðsla er hér á landi náum við að hafa afhendingartímann 3-5 daga frá pöntun.“

Að sögn Kolbrúnar skiptir útlitið líka máli og getur fólk valið um marga möguleika á áklæðum fyrir rúmið sitt og höfðagafl hvort heldur sem er úr taui eða leðurlíki.

ORRI, NENNASTÓLLINN, LOKI OG HRÚGÖLD

Vogue fyrir heimilið er búið að endurhanna hinar ýmsu vörur sem Lystadún-Snæland bauð upp á. Hver man ekki eftir svamphestinum sem nú ber nafnið Orri og er til í þremur stærðum, Nenna stóllinn er líka kominn í nýjan búning. Þessi hönnun kom fyrst á markað 1968 og verður því fimmtíu ára á næsta ári en þessar vörur njóta mikilla vinsælda enn í dag. Þá hefur svefnstóllinn sem er einnig hönnun frá Snæland fengið nýtt útlit og nafnið Loki. Hann hefur fengið frábærar móttökur. Hrúgöld eru klassík frá Snæland og hafa alltaf verið vinsæl í jólagjöf. Ekki skemmir að hægt er að hanna allar þessar vörur í nánast óteljandi litum þannig að hægt er að finna lit og áklæði sem passa inn á heimili hvers og eins.

Hver man ekki eftir svamphestinum sem nú ber nafnið Orri og er til í þremur stærðum.

SÆDÍSIN SÉRHÖNNUÐ FYRIR SJÓMANNINN

„Þá má ekki gleyma að við bjóðum upp á allar gerðir stuðningspúða og höfum sinnt sjúkrastofnunum okkar í meir en 65 ár með þær vörur. Einstaklingar geta keypt þær beint hjá okkur líka. Þá er Sædísin okkar heilsudýna sem er sérhönnuð fyrir sjómanninn og er nánast í hverju skipi okkar Íslendinga í dag. Við erum stolt af allri þeirri framleiðslu sem fer fram í húsinu.“

„Sjúkraþjálfari kemur til okkar alla fimmtudaga milli klukkan 16-18 til að aðstoða fólk við val á dýnum, einnig erum við með frábært starfsfólk með mikla reynslu og kunnáttu á sínu sviði,“ segir Kolbrún.

Umsjón / Sjöfn Þórðardóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

VOGUE FYRIR HEIMILIÐ
SÍÐMÚLA 30
108 REYKJAVÍK

SÍMI: 553 3500
WWW.VOGUE.IS

VOGUE FYRIR HEIMILIÐ
HOFSBÓT 4
600 AKUREYRI
SÍMI: 462 3504
WWW.VOGUE.IS

 

 

Jólamyndir úr ýmsum áttum

Bing Crosby og Fred Astaire ásamt Marjorie Reynolds í Holiday Inn.

Á mörgum heimilum er hefð fyrir því að skella jólamynd í tækið að minnsta kosti einu sinni á aðventunni. Misjafnt er hverslags myndir verða fyrir valinu, sígildar myndir, gamanmyndir, drama, ævintýri nú eða eða bara hasarmynd. Hér eru dæmi um nokkrar góðar.

Stone-fjölskyldunni líst ekkert á unnustu Everetts.

Sígildar og svarthvítar
Ekkert jafnast á við svarthvítu Hollywood-myndirnar til að ná allri fjölskyldunni saman. Kynslóðirnar saman í jólafíling fyrir framan sjónvarpið: amma og afi, mamma og pabbi og börnin.

Ein klassísk er Holiday Inn sem skartar hvorki meira né minna en tveimur stórstjörnum þessa tíma, Bing Crosby og Fred Astaire, og í henni heyrðist vinsæla jólalagið White Christmas fyrst.

Aðrar sígildar jólamyndir eru: It’s a Wonderful Life, White Christmas og Miracle on 34th Street.

Hlegið og grátið
Sumir vilja horfa á gott fjölskyldudrama um jólin. Aðrir grín. Family Stone er hæfileg blanda af hvorutveggja en þar fylgjumst við með hrakfarajólum Stone-fjölskyldunnar. Elsti sonurinn, Everett, hefur boðið kærustu sinni, Meredith, heim um jólin með það fyrir augum að biðja hennar yfir hátíðarnar með glæsilegum hring. Hún passar þó engan veginn inn í fjölskylduna svo eftir því sem líður á hátíðina renna tvær grímur á Everett og hann er ekki viss hvort hann vilji enn þá giftast Meredith. Af öðrumhrakfara-jólamyndum má nefna Home for the Holidays og National Lampoons Christmas Vacation.

Hasar yfir hátíðarnar
Jóóóóla hvað? Það koma tímar í desember þar sem maður fær alveg nóg af öllu jólastússinu og þá er gott ráð að skella góðri hasarmynd í tækið. Merkilegt nokk eru til þó nokkrar spennumyndir sem gerast á jólunum og hetjurnar þurfa oftar en ekki að bjarga öllu áður en jólabjöllurnar hringja inn hátíðina. Ein þekktasta hasarhetja seinni ára er líklega John McClane úr Die Hard-myndunum og í fyrstu myndinni þarf hann að bjarga jólunum úr klóm fégráð­ ugra hryðjuverkamanna.

Aðrar góðar spennumyndir sem gerast um jólin eru: Lethal Weapon, Kiss Kiss Bang Bang og Batman Returns.

Höfundur: Hildur Friðriksdóttir

Aðalmynd: Bing Crosby og Fred Astaire ásamt Marjorie Reynolds í Holiday Inn.

Fljótlegur forréttur

Hér er uppskrift að einföldum og ljúffengum forrétti sem sómir sér vel á hátíðarborð­inu. Hann er þannig úr garði gerður að hægt er að útbúa flest í hann nokkru áður en hann er snæddur. Þannig að ekki er mikil vinna að koma honum saman. Uppskriftin hentar líka sem snittur í veislur og fyrir kósíkvöld.

Hann er þannig úr garði gerður að hægt er að útbúa flest í hann nokkru áður en hann er snæddur.

REYKTUR LAX MEÐ EPLA- OG FENNÍKUMAUKI
fyrir 4
300 g reyktur lax
1 zip lock-poki (rennilásapoki,
fæst t.d. í IKEA)

Setjið flakið með roði í zip lock-­poka og reynið að lofttæma eins vel og þið getið. Sjóðið hálfan lítra af vatni í potti og kælið það svo með 4 dl af köldu vatni. Vatnið ætti að vera um 60°C. Setjið pokann út í vatnið og látið vera í minnst 20 mínútur með hlemmi.

Með þessari „heima“ sous vide-aðferð haldið þið hámarksbragði af laxinum en eldið hann örlítið. Hann ætti að verða mjúkur eins og smjör og auðvelt að taka hann í sundur án þess að skera með hníf.

Ef þið eigið ekki zip lock-poka getið þið sett laxinn í lofttæmdu pakkningunni beint út í í umbúðunum. Hann er oft með pappaspjaldi á roðhliðinni en það kemur ekki að sök á svona lágum hita í þetta stuttan tíma.

2 msk. ólífuolía
1 fenníka, skorin langsum í þunnar sneiðar
2 græn epli, afhýdd og skorin í bita
3 msk. vatn
safi úr einni límónu
1⁄2 tsk. salt
1⁄2 tsk. nýmalaður svartur pipar

Setjið fenníkuna í pottinn með olíunni og steikið hana þar til hún fer að mýkjast og brúnast lítillega. Bætið þar næst eplabitunum og vatninu saman við og sjóðið saman. Setjið hlemm á pottinn og gufusjóð­ið. Passið að hafa ekki of mikinn hita og ekki hafa pottinn of lengi á hellunni. Eplin eiga að vera byrjuð að detta í sundur en þó ekki að vera ekki maukuð. Setjið límónusafann, salt og pipar saman við. Setjið í ílát og kælið.

2 mandarínur, hlutaðar í lauf

Skerið endana af mandarínunni og sneiðið börkinn af. Takið svo afhýdda mandarínuna í lófann og skerið laufin úr. Safnið þeim í skál og kreistið safann yfir. Það er hægt að geyma laufin í lokuðu ílátið í nokkra daga í kæli. Passið að skera ykkur ekki.

rósapipar til skrauts
steinselja til skrauts

Skerið dökkt súrdeigs – eða snittu brauð í sneiðar, smyrjið með smjöri og steikið eða grillið á pönnu. Það er hæfilegt að hafa tvær sneiðar á mann. Setjið svolítið af mauki á hverja brauðsneið og síðan lax og mandarínulauf.

Umsjón / Gunnar Helgi
Mynd / Rut Sigurðardóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Krásir sem kæta

Þegar hugsað er um jól er matur eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann. Þess vegna er alveg tilvalið að koma færandi hendi og gleðja vini og vandamenn með góðgæti.

Hér kemur hugmynd að bragðgóðri gjöf sem er líkleg til að hitta í mark en fleiri hugmyndir er að finna í öðru tölublaði Mannlífs.

Fíkju-salami
Fíkju-salami á einstaklega vel við allskonar osta. Hér er líka hugmynd að matarjólagjöf fyrir sælkerann.

50 g möndlur, ristaðar
250 g fíkjur
50 g apríkósur, skornar í bita
50 g pekan- eða valhnetur, saxaðar gróft
½ msk. hunang
negull á hnífsoddi

Setjið möndlur í matvinnsluvél, malið fínt og setjið í skál. Skerið harða stilkinn af fíkjunum og maukið þær í matvinnsluvélinni. Setjið þær í skálina með möndlunum. Bætið öllu öðru í skálina og blandið vel saman. Rúllið upp í þykka pylsu og geymið í viku, án þess að pakka henni inn, til þess að pylsan þorni. Setjið bökunarpappír utan um og berið fram með ostum.

Höfundur / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Nýtur þess að dúlla sér í eldhúsinu á aðfangadag

Söngkonan Sigrún Hjálmtýsdóttir, eða Diddú, segir að sér líði yfirleitt vel í sálinni þegar hún tekur sig til við undirbúning jólahátíðarinnar, hvort heldur í leik eða starfi.

Sjálf matargerðin er eitt af því sem henni finnst alltaf koma sér í jólaskap.

„Ég nýt þess út í ystu æsar að dúlla mér allan daginn í eldhúsinu á aðfangadag með fallega tónlist allt um kring og ljósadýrð á meðan bóndinn keyrir út gjafir til ættingja og vina,“ útskýrir hún og getur þess að hún fái að sjá alfarið um eldamennskuna.

Fjölskyldan flutti í Mosfellsdal fyrir rúmum 30 árum og tók þá upp þann jólasið að borða rjúpur á aðfangadag. „Okkur áskotnaðist þessi dýrðarfæða eitt sinn og það var ekki aftur snúið. Þannig að rjúpur skulu það vera, þegar má veiða þær,“ segir hún og hlær. „Ýmist elda ég þær heilar eða úrbeina bringurnar og snöggsteiki. Meðlætið er síbreytilegt frá ári til árs, nema rósakál með kastaníuhnetum, það hef ég alltaf.“

„Okkur áskotnaðist þessi dýrðarfæða eitt sinn og það var ekki aftur snúið. Þannig að rjúpur skulu það vera, þegar má veiða þær.“

Að öðru leyti segir hún fjölskylduna reyna að eiga saman notalegar stundir í aðdraganda jóla. „Svo eru það fjölskylduboðin. Þá er sungið og spilað. Við hittum fjölskyldu bóndans á jóladag og mína fjölskyldu á annan dag jóla.“

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Ljósmyndari / Ernir Eyjólfsson

Skreytir Mariuh Carey fyrir jólin

Eitt það skemmtilegasta sem Gunnar Helgi Guðjónsson gerir hver jól er að ákveða matseðil fjölskyldunnar.

Spurður að því hvað komi honum helst í jólaskap, svarar hann því til að það sé alltaf mikil stemning í kringum það þegar stórfjölskyldan fer saman upp í sumarbústað um miðjan desember til að höggva jólatré. „Þar er svolítil trjárækt í gangi og mjög mikilvægt að grisja skóginn,“ útskýrir hann. Eftir það er borðuð súpa heima hjá foreldrum hans og drukkið heitt súkkulaði.

 

 

 

Gunnar segir fjölskylduna leggja mikið upp úr góðri matargerð um jólin. Sem dæmi um það er matseðill jólanna ákveðinn með góðum fyrirvara og er sú hefð ómissandi í aðdraganda jólanna.

„Við mamma höldum alltaf lítinn fund um jólamatseðilinn, til dæmis hversu langt frá hefðinni við eigum að víkja,“

útskýrir hann en síðustu ár hefur fjölskyldan verið dugleg við að prófa alls kyns nýjungar um jólin, allt frá rjúpu upp í hvítlaukssteiktan humar. Gerð eftirréttarins er yfirleitt í höndum Gunnars en á meðal þess sem hefur verið á matseðlinum má nefna sítrónu-tart, triffli, súkkulaðimús, tiramisu og heimagerðan ís.

En hefurðu sjálfur komið þér upp einhverjum hefðum sem þér finnst ómisssandi?
„Já, ég er til dæmis oftast með tvö jólatré, furu úr sumarbústaðnum og svo annað fjölnota tré sem ég keypti fyrir mörgum árum. Það er neonbleikt og heitir Mariah Carey,“ segir hann kíminn. „Svo finnst mér gott eftir mat á aðfangadag að komast í jólabókina og borða Nóa konfekt. Það er eitthvað svo dásamlegt að sofna út frá lestrinum í morgunsárið með klístraða putta, saddur og sæll eftir góðan og gleðiríkan dag.“

Raddir