Föstudagur 15. nóvember, 2024
0.3 C
Reykjavik

Cleveland – græna stálborgin

Á dögunum ferðaðist ég til borgarinnar Cleveland og átti ekki von á að þessi gamla iðnaðarborg í miðríkjum Bandaríkjanna myndi heilla mig upp úr skónum.

Cleveland er borg í Norður-Ohio-ríki og liggur við strönd stöðuvatnsins Erie sem þó er svo víðfemt að horfi maður út á það væri auðvelt að ímynda sér það sem opið haf. Hinum megin við vatnið er Kanada og á vorin fyllast græn svæði borgarinnar af farfuglum sem nýta sér þau sem áningarstað áður en þeir fljúga langa og strembna ferð yfir Erie á sumarvarpstöðvar sínar í norðri. Borgin er byggð með fram hlykkjóttri á sem nefnist Cuyahoga en talið er að nafnið sé komið frá móhíkönum og þýði snúið fljót. Cuyahoga-áin var forsenda þess að borgin þróaðist úr litlu sveitaþorpi þar sem hún tengdist með manngerðum skurðum og fljótum við Atlantshafið og Mexíkóflóa, með því móti var þetta litla svæði í Bandaríkjunum orðið að ákjósanlegum stað fyrir viðskipti og vöruflutninga sem stækkaði enn frekar með tilkomu járnbrautarlestarinnar.

Borgin státar af skemmtilegum hverfum, fjölbreyttri þjónustu og söfnum, íþróttaliðum í úrvalsflokki, útisvæðum, leikhúsum og nánast endalausum viðburðum allt árið um kring.

Cleveland verður borg iðnaðar
Árið 1870 stofnaði John D. Rockefeller iðnaðarveldi sitt undir nafninu Standard Oil í Cleveland og lagði þar með grunninn að ótrúlegri auðlegð Rockefeller-fjölskyldunnar. Hann flutti seinna höfuðstöðvar sínar til New York-borgar sem þá var orðin þungamiðja viðskipta í landinu. Í byrjun 20. aldar flykktust þó fleiri fyrirtæki að borginni og Cleveland varð þekkt fyrir stáliðnað sem og bílaframleiðslu. Sumir bílaframleiðendurnir voru mjög framúrstefnulegir og voru á þessum tíma að reyna að þróa bíla sem gengu fyrir gufu eða rafmagni. Þessi mikli uppgangur laðaði að sér fólk sem settist að í borginni og vann iðnaðarstörf og gætir menningaráhrifa þess enn í dag. Þetta voru aðallega innflytjendur frá Suður- og Austur-Evrópu ásamt fólki af öðrum uppruna frá Suðurríkjum Bandaríkjanna í leit að atvinnu og betra lífi.

Cleveland er borg í Norður-Ohio-ríki og liggur við strönd stöðuvatnsins Erie sem þó er svo víðfemt að horfi maður út á það væri auðvelt að ímynda sér það sem opið haf.

Blómlegt listalíf
Borgin þandist út á þessum tíma og var í byrjun 20. aldar fimmta stærsta borg Bandaríkjanna. Hluti af nýjum íbúum Cleveland voru listamenn og tónlistarfólk. Stór hópur innfluttra var frá New Orleans og færði með sér líflega djasssenu, djassklúbbarnir þóttu á tímabili svo góðir að frægir tónlistarmenn, eins og Miles Davis og Duke Ellington, lögðu reglulega leið sína þangað. Uppgangurinn í iðnaðinum og ofgnótt verkamanna gerði það einnig að verkum að byggðar voru tilkomumiklar byggingar í miðborginni og ríkari stétt samfélagsins gerðist bakhjarlar listamanna. Þetta tímabil lista er þekkt sem Cleveland-skólinn og er sérstaklega þekkt fyrir fallegar vatnslitamyndir ásamt prentverkum og skúlptúrum. Sum þessara verka má finna á listasafni borgarinnar sem fjallað er um hér til hliðar.

Mengunarslys veldur byltingu í umhverfisvernd
Allur þessi uppgangur, þensla í iðnaði og sístækkandi hópur innflytjenda hafði þó einnig neikvæð áhrif. Mengun frá iðnaði borgarinnar, skordýraeitur og áburður flæddi óáreitt út í Cuyahoga-ána og stöðuvatnið Erie ásamt skólpi og rusli íbúanna. Þetta hafði þau áhrif að reglulega var strandlengja vatnsins full af dauðum fiskum sem lifðu ekki af mengunina í vatninu. Áin var oft þakin olíubrák og það gerðist oftar en einu sinni að eldur geisaði í ánni. Straumhvörf urðu árið 1969 þegar áin stóð í ljósum logum og olli töluverðum spjöllum. Í kjölfarið var sett fræg löggjöf (the clean water initiative) sem á við um öll ríki Bandaríkjana og setur takmarkanir á úrgangslosun í vötn og ár. Í krafti löggjafarinnar var ráðist í hreinsunarstarf í ánni og stöðuvatninu sem tekist hefur einstaklega vel. Fallegir og grænir almenningsgarðar liggja nú með fram ánni og laða að sér unga sem aldna í ýmis konar útivist, fuglaskoðun og fiskveiðar. Ferskvatnsuppspretta borgarbúa er nú í stöðuvatninu og á því má sjá fiskibáta, kajakræðara og fjölbreytt dýralíf.

Frjálslynd borg í uppsveiflu
Breytingar á iðnaðarháttum og verksmiðjuframleiðslu hefur breytt Cleveland á undanförnum áratugum. Borgin býr nú við mun blandaðra hagkerfi en var áður og öllu hefur verið kappkostað til að styrkja innviði borgarinnar bæði fyrir íbúa hennar og þá sem hana heimsækja, en margir brottfluttir Cleveland-búar eru farnir að sækja aftur í heimahagana. Í dag eru flestir sem sækja borgina heim aðrir Bandaríkjamenn eða Kanadabúar en borgin er í mikilli sókn og úr ótalmörgu að velja fyrir veraldarvana ferðalanga. Borgin státar af skemmtilegum hverfum, fjölbreyttri þjónustu og söfnum, íþróttaliðum í úrvalsflokki, útisvæðum, leikhúsum og nánast endalausum viðburðum allt árið um kring. Gestir borgarinnar geta hlaðið niður Destination Cleveland-smáforritinu í símann sinn til að skipuleggja ferðalag sitt og fylgjast með því sem er á döfinni.

________________________________________________________________

Fjölbreytt afþreying í Cleveland

Rock and Roll Hall of Fame
Eitt aðalaðdráttarafl ferðamanna til Cleveland er rokksafnið Rock and Roll Hall of Fame. Safnið er við strönd vatnsins Erie og var teiknað af sama arkitekt og hannaði pýramídana við Louvre-safnið í París. Safnið er mjög stórt með bæði föstum sýningum og breytilegum sem spanna sögu rokktónlistarinnar í gegnum margmiðlunarsýningar, búninga og hljóðfæri tónlistarmanna og texta. Auðvelt er að verja heilum degi á safninu en þar má einnig finna veitingastað og bar til að fylla á tankinn milli þess sem skoðað er. Vefsíða: https://www.rockhall.com

Cleveland Museum of Art
Listasafn Cleveland er staðsett í hinu sjarmerandi University Circle-hverfi en þar má einnig finna dýragarð, grasagarð, tónleikahús og nútímalistasafn. Ókeypis aðgangur er að safninu og þar kennir ýmissa grasa. Það á gott safn verka impressjónistanna ásamt skemmtilegum nútímaverkum eftir bandaríska listamenn en þó er safnið þekkt fyrir stórt safn egypskra og suðaustur-asíska verka. Safnið er í gullfallegri byggingu með yfirbyggðu torgi í miðju safnsins og á fyrstu hæðinni má finna afþreyingarherbergi með gagnvirku efni fyrir yngstu kynslóðina. Vefsíða: http://www.clevelandart.org/

The Cleveland Orchestra
Forfallnir aðdáendur klassískrar tónlistar vilja margir meina að sinfóníuhljómsveit Cleveland sé sú besta í Bandaríkjunum. Hljómsveitin ferðast mikið bæði um Bandaríkin og önnur lönd en á þó heimili sitt í Severance Hall, fallegri byggingu frá árinu 1931 sem ber eftirnafn velunnara síns, John Severance, en hann lét reisa tónlistarhúsið í minningu heittelskaðrar eiginkonu sinnar. Finna má dagskrá og fréttir hljómsveitarinnar á heimasíðu hennar. Vefsíða: https://www.clevelandorchestra.com

Cleveland Cavaliers og Cleveland Indians
Óhætt er að segja að Cleveland-búar séu forfallnir áhugamenn um körfubolta enda er lið þeirra, Cavaliers, með þeim bestu í NBA-deildinni og keppir nú um meistaratitill deildarinnar. Frægasti leikmaður liðsins, LeBron James, er frá svæðinu og nýtur mikillar hylli. Þegar heimaleikir eru fyllist miðborgin af stuðningsmönnum liðsins og barir eru þéttsetnir af þeim sem ekki náðu miða á leikinn sjálfan. Borgin er einnig þekkt fyrir hafnaboltalið sitt, Indians, sem einnig nær ávallt langt í sinni leikjatíð og laðar að sér stóran hóp áhangenda. Gaman er að vera hluti af stemningunni sem myndast í miðbænum þegar leikir eru en einnig er hægt að kynna sér leikjatíðina og kaupa sér miða til að upplifa hughrifin og spennuna í beinni. Vefsíða Cavaliers.
Vefsíða Indians: https://www.mlb.com/indians

 

Skeljungsfléttan sem gerði fimm einstaklinga ofurríka

|
|

Embætti héraðssaksóknara réðst í umfangsmiklar aðgerðir í síðustu viku vegna Skeljungsmálsins svokallaða. Fléttan sem ofin var í málinu er talin hafa falið í sér sölu hlut á undirverði, ólögmæta nýtingu á fjármunum Skeljungs, þynningu á veði kröfuhafa og um 850 milljóna króna greiðslu til hvers þeirra þriggja starfsmanna banka sem seldu nýjum eigendum Skeljung.

Fimmtudaginn 31. maí réðst embætti héraðssaksóknara í umfangsmiklar aðgerðir vegna máls sem hafði verið til skoðunar þar frá miðju ári 2016. Málið snérist um meint umboðsvik, meint skilasvik, möguleg mútubrot og mögulegt brot á lögum um peningaþvætti þegar olíufélagið Skeljungur og tengd félög voru keypt og seld á árunum 2008 til 2013. Við brotunum getur legið allt að sex ára fangelsisvist.

Fimm einstaklingar eru með stöðu sakbornings við rannsókn málsins. Tvö þeirra, hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Þórðarson, voru handtekinn á fimmtudag. Hin þrjú; Einar Örn Ólafsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Kári Guðjónsson, sem unnu saman í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis fyrir um áratug, voru boðuð til skýrslutöku sama dag.

Fólkið er grunað um að hafa misnotað aðstöðu sína til að koma eignum út úr banka á undirverði, að hafa nýtt sameiginlegar eignir Skeljungs og bankans til að greiða fyrir kaup í félaginu, að hafa viljandi rýrt eignir Íslandsbanka og að hafa gert með sér samkomulag þar sem Svanhildur Nanna og Guðmundur afhentu hinum þremur sem seldu þeim Skeljung yfir 800 milljónir króna hverju fyrir sig fyrir þeirra aðkomu að málinu.

Á sama tíma og handtökurnar áttu sér stað fóru fram húsleitir víða um höfuðborgarsvæðið í tengslum við rannsókn málsins. Engar eignir voru þó kyrrsettar á þessu stigi málsins, en fólkið hefur allt efnast mjög hratt á síðustu árum. Og öll þau umsvif hófust með Skeljungsviðskiptunum sem nú þykir rökstuddur grunur um að hafi ekki staðist lög.

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir er í dag í stjórn VÍS, en hún og eiginmaður hennar eru stórir hluthafar í félaginu. Hún sagði af sér stjórnarformennsku fyrir viku síðan í kjölfar þess að hún var handtekin af embætti héraðssaksóknara.

Bestu og verstu viðskiptin

Salan á Skeljungi og P/F Magn vöktu eðlilega mikla athygli í lok árs 2013. Þau voru valin bestu viðskipti ársins 2013 af Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti. Í rökstuðningi dómnefndarmanna sagði m.a. „Ef rétt er að þau [hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson] hafi fengið tíu milljarða króna fyrir félagið (með skuldum) eru þau réttnefndir snillingar!“ og „Eigendur Skeljungs koma vel frá borði — fengu ríflega greitt fyrir sinn hlut.“

Viðskiptin voru líka ofarlega á blaði yfir verstu viðskipti ársins, en í þeim flokki lentu þau í öðru sæti. Þar var þó átt við að viðskiptin hefði verið léleg fyrir kaupendurna, sem að mestu voru lífeyrissjóðir. Í umsögn sagði að félagið hafi verið lítils virði nokkrum árum áður, en niðurfellingar skulda og kaupgleði fagfjárfesta hefði gert eigendum félagsins kleift að ná fram einum bestu viðskiptum síðustu ára. „Lífeyrissjóðirnir eru stútfullir af peningum og virðast vera að kaupa Skeljung á allt of mikið“ var haft eftir einum dómnefndarmanni Markaðarins.

Kjarninn fer ítarlega yfir fléttuna í fjórum skrefum í Mannlífi sem kom út föstudaginn 8. júní og á vef sínum.

Ný lög auðvelda allt ferli í kringum líffæragjafir

|
|

Alþingi samþykkti í vikunni ætlað samþykki líffæragjafa en það var þingmannsfrumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur og Willums Þórs Willumssonar sem lagt var fram á Alþingi.
Mikill skortur er á líffærum í heiminum og hafa því margar þjóðir farið þessa leið en árið 2013 hafnaði Alþingi frumvarpi um ætlað samþykki. Þetta frumvarp mun því hafa töluverðar breytingar í för með sér.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Silja Dögg segir að mikil fræðsla og umræða í samfélaginu hafi haft þarna töluvert að segja um breytta afstöðu til frumvarpsins en hún var formaður í þverpólitískum hópi sem skipaður var á sínum tíma af Kristjáni Júlíussyni, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, um líffæragjafir og vann ötullega að málinu ásamt fleirum. Tíð stjórnarskipti hafi þó haft áhrif á að málið fékk ekki framgöngu á þingi. Silja tekur fram að það þurfi að halda áfram að fræða fólk um líffæragjafir, upp koma ýmsar spurningar sem varði siðferð og trú og menningarlegur bakgrunnur hefur áhrif á afstöðu fólks til líffæragjafa. Hún segir að í Noregi sé sérstök skrifstofa sem sjái um fræðslu líffæragjafa. „Ég myndi kjósa að það yrði einn starfsmaður hjá Embætti landlæknis sem myndi hafa fræðslu og um líffæragjafir á sínum höndum. Við þurfum að halda áfram að fræða fólk og fara í skóla þó að lögin séu til staðar nú og fólk þarf að geta rætt þetta og afskráð sig, óski það ekki eftir að gefa líffæri við andlát. Svo þarf einnig að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í sambandi við allt ferli um líffæragjafir,“ segir Silja Dögg.

Löggjöfin mætir skorti á líffærum
En hvaða þýðingu hefur slík löggjöf fyrir almenning? „Samkvæmt rannsóknum hjá starfshópnum þá léttir slík lögleiðing mikið á bæði aðstandendum og auðveldar allt ferlið í kringum líffæragjöf, en það gildir líka um heilbrigðisstarfsfólk. Löggjöfin mun hafa miklar breytingar í för með sér til að mæta skorti á líffærum sem stöðugt eykst með hækkandi aldri þjóðarinnar,“ segir Silja Dögg.

„Við þurfum að halda áfram að fræða fólk og fara í skóla þó að lögin séu til staðar nú og fólk þarf að geta rætt þetta og afskráð sig, óski það ekki eftir að gefa líffæri við andlát. Svo þarf einnig að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í sambandi við allt ferli um líffæragjafir.“

Löggjöfin um ætlað samþykki var samþykkt af 52 þingmönnum en 2 sátu hjá. Lög frá 1991 byggðust á upplýstu samþykki, þ.e. að hinn látni hefði verið andvígur líffæragjöf nema hann hefði áður lýst yfir vilja til að gefa líffæri sín.

Í ljós hefur komið að meginþorri þjóðarinnar er hlynntur ætluðu samþykki. Íslendingar hafa hingað til fengið líffæri úr sameiginlegum líffærabanka Norðurlandaþjóða, en líffæragjafir okkar hafa lengst af verið fáar í samanburði við aðra. Fjöldi líffæragjafa hefur aukist verulega síðastliðin þrjú ár og mikilvægt að viðhalda því til frambúðar en það er talið m.a. stafa af aukinni umræðu og fræðslu um líffæragjafir.

______________________________________________________________

– Mikill skortur er á líffærum í heiminum.
– Löggjöf frá 1991 gengur út frá að hinn látni hafi verið andvígur líffæragjöf.
– Nýju lögin ganga út frá að hinn látni gefi líffæri sín við andlát nema hann hafi komið annarri skoðun sinni áleiðis.
– Rannsóknir hafa sýnt að meginþorri þjóðarinnar er hlynntur því að gefa líffæri.
– Nýju lögin auðvelda bæði aðstandendum og heilbrigðisstarfsfólki allt ferli í kringum líffæragjöf.
– Með fram nýju lögunum verður bæði almenningur fræddur og heilbrigðisstarfsfólk þjálfað.
– Æskilegt er að Embætti landlæknis muni sjá um upplýsingar um líffæragjafir og þá sem eru andvígir.

Hér á landi getur fólk skráð vilja sinn ef það vill ekki gefa líffæri á vef Embættis landlæknis og á www.heilsuvera.is.

Fá ekki að spila tónlist á pósthúsum: „Ég hef ekki heyrt af óánægju“

Við á Mannlífi tókum Twitter-færslu Brynjars til okkar og völdum þessa fallegu mynd af honum

Það hefur verið sannað í mýmörgum rannsóknum um heim allan að tónlist hefur áhrif á kaupvenjur fólks og að hægt sé að hvetja til aukinna kaupa með ákveðinni tegund af músík. Það vekur því athygli að engin tónlist er spiluð á pósthúsum landsins. Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts, segir það helgast af því að ekki sé hægt að spila tónlist á pósthúsunum.

„Það er í raun enginn búnaður til að spila tónlist í afgreiðslum Póstsins sem er ein stærsta ástæða þess að ekki hefur verið ákveðið að fara í þessa átt. Bakrými eru svo annað mál og starfsmenn hlusta eflaust á tónlist og/eða útvarp þar,“ segir Brynjar en samkvæmt samtölum við starfsmenn pósthúsa fékk blaðamaður þær upplýsingar að Pósturinn vildi ekki greiða stefgjöld. Er það rétt?

„Stefgjöld eru ekki það sem er að koma í veg fyrir að tónlist sé spiluð á pósthúsum, alla vega ekki þegar þetta var skoðað síðast,“ segir Brynjar og útilokar ekki að þetta verði endurskoðað einhvern tíma í framtíðinni.

„Við höfum skoðað þetta en síðast var ákveðið að spila ekki tónlist í afgreiðslum, eitthvað sem getur auðvitað breyst, það hefur hins vegar ekki verið tekin nein ákvörðun um það að svo stöddu. Þetta getur að sjálfsögðu breyst í framtíðinni. Við erum ekki með þetta til skoðunar í augnablikinu en að sjálfsögðu er vert að endurskoða þetta eins og annað.“

Blaðamaður Mannlífs fór á stúfana og talaði við starfsmenn pósthúsa víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Töldu einhverjir það miður að ekki væri hægt að spila tónlist á vinnustaðnum á meðan öðrum fannst það kærkomið. Hefur Brynjar orðið var við óánægju meðal starfsfólk vegna þessa fyrirkomulags?

„Ég hef ekki heyrt af óánægju með þetta, hvorki hjá starfsmönnum né viðskiptavinum, en ég vil hvetja fólk að heyra í okkur ef það telur að við getum bætt okkur þegar kemur að þessu eða einhverju öðru.“

Aðalmynd / Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts.

Út fyrir þægindarammann

|
|

Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir, sem kitluðu hláturtaugar landsmanna með sketsaþættinum Þær Tvær um árið, eru með splunkunýja gamanseríu í smíðum.

Sjónvarp Símans kemur að nýju þáttunum sem þær Vala Kristín og Júlíana eru að vinna að ásamt Fannari Sveinssyni.

„Þetta er sex þátta sería, framhaldsþættir, með gamansömum tón,“ lýsir Júlíana, en að hennar sögn fjalla þeir um ungar konur sem hafa verið vinkonur frá því í leiklistarskóla. „Önnur er orðin húsmóðir sem er gift delluóðum manni og löngu búin að gefa upp von um líf í leiklistinni en hin enn þá að elta leikaradrauminn í örvæntingu. Dag einn fá þær tækifæri lífsins þegar þeim er boðið að vera með sjónvarpsþátt á besta tíma. Óvæntir hlutir gerast og húsmóðirin slær í gegn á meðan hin klúðrar stóra tækifærinu.“

Vala segir að þau séu þrjú að skrifa seríuna, þær tvær og Fannar Sveinsson sem mun einnig leikstýra. Samstarfið hafi gengið vel og þau séu nú að móta hvaða stefnu þau vilji taka. „Þá verðum við öll á sömu blaðsíðu þegar við hefjum tökur, en Fannar stýrir skipinu og við Júlíana getum þá bara einbeitt okkur af því að leika þessar persónur,“ segir hún og viðurkennir að það geti verið örlítið kaótískt að skrifa og vera með annan fótinn í framleiðslunni því þá hafi maður skoðanir og áhyggjur af öllu. „En eina ráðið við því er að ráða í lið með sér fólk sem maður treystir og leyfa því að vinna sína vinnu.“

„Við erum að fara langt út fyrir okkar þægindaramma. Inn á ótroðnar slóðir.“

Spurðar hvort nýju þættirnir verði í svipuðum stíl og Þær Tvær segja þær að þeir verði gamansamir líka. Helsti munur sé kannski sá að meðan Þær Tvær hafi verið sketsaþáttur, sem byggðist upp á stuttum fyndum sögum sem tengdust ekki innbyrðist, þá verði tveimur persónum fylgt eftir allan tímann í gegnum nýju seríuna og þeirra saga sögð. „Í Þær Tvær var spurningin fyrir okkur alltaf bara sú hvort okkur þættu hugmyndirnar fyndnar,“ segir Vala. „Nú reynir meira á að gera persónur sem eru sannar og áhorfendur geta samsamað sig með, en setja þær síðan í aðstæður sem eru fyndnar.“

Þær játa að mun flóknara ferli sé að skrifa samhangandi sögu en sketsa. Persónur og aðstæður verði að vera trúverðugar og það þurfi að huga að mörgum smáatriðum í sögunni til að atburðarásin gangi upp. „Við erum að fara langt út fyrir okkar þægindaramma,“ segir Vala „Inn á ótroðnar slóðir.“

Sem stendur eru þremenningarnir að vinna að handritinu. Vinkonurnar reikna með að þeirri vinnu ljúki í júní og þá taki framleiðslan við. „Draumurinn er svo að serían fari í loftið í haust,“ segja þær. Þó sé of snemmt að slá því á fast.

Gott rúm er gulli betra

Halldór Þ. Snæland er fæddur 1946 og er lyfjafræðingur en hann útskrifaðist frá HÍ, 1973. Hann ólst upp og hefur starfað við svampvinnslu og dýnuframreiðslu frá barnsaldri en hann er sonur Péturs V. Snæland og Ágústu Pétursdóttur Snæland, stofnenda og eigenda fyrirtækisins Péturs Snæland hf., sem stofnað var árið 1949.

Halldór Þ. Snæland.

,,Árið 1949 gangsettu foreldra mínir framleiðslu á náttúrulegum latexsvampi og var þessi verksmiðja ein af fyrstu latexverksmiðjum í Evrópu. Árið 1968 hófu þau framleiðslu á polyuretan-svampi og voru sömuleiðis meðal þeirra fyrstu í Evrópu sem það gerðu.“

Nú hefur þú upplifað tímana tvenna og fylgt fyrirtækinu eftir í áranna rás og fylgst með því vaxa og dafna. Getur sagt okkur aðeins frá þróun og vexti fyrirtækisins?

Miklar breytingar á rekstri fyrirtækisins hafa átt sér stað í áranna rás. Í upphafi var salan aðallega á hráefni til húsgagnaiðnaðarins sem var mjög blómlegur á þeim tíma og sala á tilbúnum dýnum til húsgagnaverslana, inn á sjúkrastofnanir og í fiskiskip. Minna var selt beint í almennri sölu til viðskiptavina. Síðar jókst sala til einstaklinga til mikilla muna þar sem margir voru að smíða sín eigin húsgögn bæði til nota inn á heimilum sem og í sumarbústöðum.“

Hefur margt breyst á þessum árum? 

„Eftir því sem tíminn leið fór samkeppnin á markaðinum að aukast með meiri innflutningi á tilbúnum húsgögnum og með inngöngu í EFTA átti sér stað mikið hrun í íslenskum húsgagnaiðnaði. Á árunum 1980-1995 hættu mörg góð bólsturfyrirtæki  og húsgangaverslanir rekstri. Þessar breytingar á markaðinum höfðu auðvitað mikil áhrif á okkar fyrirtæki þannig að breytinga var þörf. Árið 1991 sameinuðumst við Lystadún sem verið hafði í samskonar rekstri og Pétur Snæland hf. og úr varð Lystadún–Snæland ehf. með aðsetur í Skútuvogi. Þar var starfrækt svampframleiðsla, skurðarverkstæði, saumastofa og verslun þar sem seldar voru dýnur, rúm og svamphúsgögn og fleiri svampvörur.“

Kjarninn af fyrirtækjum sem myndar Vogue fyrir heimilið

„Árið 2000 keypti fyrirtækið verslunina Marco sem staðsett var í Mörkinni 8 og flutti fyrirtækið þangað með allan sinn rekstur. Þarna fékkst loksins gott verslunarhúsnæði þar sem betra var að markaðssetja vörur okkar til almennings. Valdimar Grímsson keypti Lystadún–Snæland og Marco árið 2001 og bætti síðan Vogue í safnið árið 2002. Þarna var kominn kjarninn af fyrirtækjunum sem mynda Vogue fyrir heimilið.“

Svampur er ekki bara svampur

„Ég hefði ekki starfað svona lengi hjá þessum fyrirtækjum ef ég mér þætti það ekki skemmtilegt. Svampur er ekki bara svampur eins og margir halda. Hann er til af ótrúlega mörgum gerðum og hægt er að nýta hann á ótal vegu enda er hann notaður í flest húsgögn, rúmdýnur, leikföng og margar hönnunarvörur.  Í verslunina koma mörg skemmtileg verkefni sem gaman er að glíma við. Í rauninni er mottóið hjá okkur það að ekkert sé ómögulegt fyrr en búið er að sannreyna að svo sé.“

Klæðskeraframleidd rúm og dýnur

„Þar sem mikil samkeppni er í sölu á rúmum og rúmdýnum höfum við kosið að velja okkur stað á markaðnum sem hentar okkur og okkar viðskiptavinum mjög vel. Þar á ég við „klæðskeraframleidd“ rúm og dýnur. Við höfum frá stofnun fyrirtækisins framleitt rúm og dýnur þar sem farið er í einu og öllu eftir þörfum viðskiptavina. Rúm sem við framleiðum eru ekki til á lager heldur er stuðst er við þarfir og óskir viðskiptavina hvaða efnisgerð er valin, það er að segja latex, kaldsvampur eða pokagormar og hvað varðar stífleika, stærð og útlit.“ Í dag á þetta enn betur við en áður, þar sem ný og betri efni til dýnugerðar eru komin á markað auk þess sem þekking manna á uppbyggingu góðrar dýnu er meiri. „Oft reynist það mönnum erfitt að velja réttan stíleika og gerð af dýnu í versluninni. Við gerum ráð fyrir þessu í framleiðslu okkar á dýnunum, þannig að það sé auðvelt að breyta þeim eftir á.“

Segðu okkur aðeins frá rúmunum, dýnunum sem þið eruð að selja, skiptir máli hvernig rúm/dýnu maður velur?

Þegar maður velur sér nýtt rúm þarf að vanda valið vel. Maður þarf að hugsa vel fram í tímann og reyna að ímynda sér hvernig rúmið reynist manni í náinni framtíð. Gott er að velja dýnu sem hægt er að breyta eftir að þú er búinn að kaupa hana og prófa í nokkra daga.“

Það sem ber að hafa í huga við val á dýnum:

  • Alltaf velja eins stífa dýnu og líkaminn þolir (án verkja).
  • Of stífum dýnum er oftast hægt að bjarga með mjúkri yfirdýnu.
  • Öll rúm mýkjast við notkun og því mýkra sem það er í upphafi þeim mun fyrr verður það e.t.v. orðið of mjúkt.
  • Svæðaskiptur stífleiki nýtist öllum mjög vel.
  • Gott er að dýnuver séu með rennilásum, þannig að hægt sé að taka dýnuver af og þvo og viðgerðir á dýnum eru auðveldari.
  • Ekki ákveða fyrir fram hvaða dýnu þú ætlar að kaupa.
  • Engin dýna er best fyrr en þú ert búinn að ganga úr skugga um að hún henti ÞÉR.
  • Dýna sem hentar frænda þínum er ekki endilega sú besta fyrir þig.
  • Dýrasta dýnan í búðinni er ekki alltaf sú sem hentar þér best.

„Að lokum segi ég þetta: „gott rúm er gulli betra“.  Þá er ég að tala um heilsurúmið þitt, sem þú velur sjálfur og líkama þínum líður vel á. Fátt er betra en að vakna úthvíldur að morgni, tilbúinn til að takast á við nýjan dag.“

 

Dreymir um að eignast ákveðna týpu af sérhæð eftir Kjartan Sveinsson arkitekt

Ólafur H. Guðgeirsson er löggiltur fasteignsali hjá Stakfell fasteignasölu, menntaður í almannatengslum og markaðsfræðum og með MBA-gráðu til viðbótar. Hann býr yfir áratuga reynslu af markaðsmálum og rekstrarráðgjöf, á þrjú börn og eina stjúpdóttur á aldrinum 14, 16, 23 og 25.  Hann er í sambúð með Kristínu Þórisdóttur, viðskiptafræðingi í fjárreiðudeild Símans. Bjó sjálfur í úthverfi Reykjavíkur í áratugi en er nýlega fluttur til Kristínar í Vesturbæinn þar sem hann kann vel við sig.

Hvað heillar þig mest við starfið?
„Má segja að það sé tvennt: Annars vegar það að starfið krefst náinna persónulegra samskipta við fólk sem statt er á öllum mögulegum stöðum í lífinu. Oft þarf að nálgast úrlausn mála af mikilli varfærni og yfirvegun, en einnig þarf maður að vera hugmyndaríkur og reyndur til að gera þetta vel.

Hins vegar þá er þetta starfsumhverfi nátengt ástandinu í hagkerfinu og við verðum vör við breytingar í efnahagsmálum á undan flestum öðrum. Ef eitthvað kemur upp sem skapar óöryggi á markaðnum, til dæmis kosningar, umtal um samdrátt í ferðaþjónustu eða breytt gengi krónunnar, þá finnum við strax breytingar, þannig að það ýmist hægist á eftirspurn eða hún herðir á sér. Fyrir mig sem rekstrarhagfræðing þá er þetta mjög spennandi.“

Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?
„Yfirleitt reyni ég að vera mættur um klukkan átta, byrja á að fara yfir verkefni vikunnar og hvernig þeim hefur miðað áfram. Fer í að fylgja málum eftir, en ég skipulegg verkefnin eftir því hvort hvort um er að ræða söluverkefni, öflun eigna í sölu, eftirfylgni kaupsamninga eða markaðssetningu. Fæstir dagar hins vegar fara eins og lagt var upp með heldur gerist alltaf eitthvað nýtt og óvænt.“

„Fyrir mig persónulega skiptir síðan máli að hafa bílskúr þar sem ég get dundað mér í jeppanum og skrifborð fyrir tölvuna og myndavélarnar, en jeppar og ljósmyndun hafa fylgt mér frá unglingsárum.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili?
„Mér finnst heimili þurfa að vera þannig að fólk geti gleymt skólatösku á ganginum, hengt jakka á stól eða skilið eftir peysu í sófanum án þess að allt liti út fyrir að vera á öðrum endanum. Það sem ég á kannski við er að heimili megi að mínu viti ekki vera yfirhönnuð og stíliseruð. Fyrir mig persónulega skiptir síðan máli að hafa bílskúr þar sem ég get dundað mér í jeppanum og skrifborð fyrir tölvuna og myndavélarnar, en jeppar og ljósmyndun hafa fylgt mér frá unglingsárum.“

Getur þú líst þínum stíl?
„Á erfitt með það en gallabuxur, skyrta og jakki er það sem ég vel mér helst ef það segir eitthvað.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt?
„Uppáhaldsarkitektinn minn er Kjartan Sveinsson, af nokkrum ástæðum. Eignir eftir hann eru yfirleitt einfaldar, hann raðar saman stofum og eldhúsi þannig að það er auðvelt að breyta eftir kröfum nútímans og hann er snillingur í að leyfa birtu að njóta sín sem allra best. Arkitektar í dag nýta vissulega plássið betur en Kjartan gerði, en mig dreymir engu að síður um að eignast ákveðna týpu af sérhæð eftir hann.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð?
„Ég held mjög upp á danska hönnuði eins og Börge Mogensen og Lois Poulsen. Ég á sófa eftir Börge Mogensen, en ég á reyndar líka tvo íslenska stóla frá því um, 1970 sem ég lét gera upp fyrir nokkrum árum. Veit því miður ekki hver hannaði þá en myndi gjarnan vilja komast að því.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?
„Mig langar í stóla sem heita Mogensen 2204, en veit ekki hvort ég kem nokkurn tíma til með að vera í húsnæði þar sem hægt væri að koma slíkum gripum fyrir svo vel færi.“

Uppáhaldsliturinn þinn?
„Mér finnst bláir tónar yfirleitt fallegir, samanber sixties-stólana mína, en ég held líka mjög upp á litinn sem er á vel notuðu brúnu leðri.“

Ólafur H. Guðgeirsson er löggiltur fasteignsali hjá Stakfell fasteignasölu.

Hvar líður þér best?
„Það væri undir stýri á jeppanum, með útilegudót og útivistarföt, í ferðalagi með fjölskyldunni.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?
Margir fínir veitingastaðir hafa sprottið upp á undanförnum árum, en ég borðaði í gær í Englendingavík í Borgarnesi. Fékk þar einhvern þann fallegasta mat sem ég hef borðað, sérlega gott sjávarréttapasta, en svo er birtan og útsýnið á staðnum þannig að maður vill helst ekki standa upp og fara.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar? 
„Klárlega sixties-stíll eins og frá Kjartani Sveinssyni og Sigvalda Thordarsyni. Þó að þeir séu ólíkir þá eru þeir báðir gott dæmi um það tímabil sem mér finnst flottast í byggingum hér á landi.“

Að lifa lífinu lifandi er að … hafa gaman af því sem maður er að gera, vera með gott fólk í kringum sig og reyna að vera sæmilega góð fyrirmynd fyrir krakkana sína.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

 

Geta ekki útskrifað sjúklinga af Kleppi

|
|

Öryggis- og réttargeðdeildin á Kleppi getur ekki útskrifað fólk sem hefur lokið meðferð vegna skorts á félagslegu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Á meðan er ekki hægt að taka við nýjum sjúklingum. Algjört ófremdarástand segir sálfræðingur á Kleppi.

Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur á öryggis- og réttargeðdeildinni á Kleppi.

„Við getum ekki tekið við nýjum sjúklingum og ekki heldur útskrifað fólk sem hefur lokið meðferð hjá okkur vegna skorts á félagslegu húsnæði í Reykjavík og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur á öryggis- og réttargeðdeildinni á Kleppi.

Hún segir þetta skapa ófremdarástand fyrir fólk sem er með geðraskanir og hefur lokið meðferð á öryggisgeðdeild og réttargeðdeild og þarf á öruggu húsnæði að halda til að fóta sig í samfélaginu á nýjan leik.

Á öryggisgeðdeildinni á Kleppi geta verið átta sjúklingar. Þar eru nú sjö. Af þeim eru fjórir sem hægt er að útskrifa og bíða þeir búsetuúrræða. Á réttargeðdeildinni á Kleppi eru fjórir einstaklingar og eru þrír þeirra útskriftarhæfir. Allir eru sjúklingarnir á milli tvítugs og fertugs. Sótt var um húsnæði fyrir einn þremenninganna á réttargeðdeildinni í vikunni en hinir tveir hafa beðið eftir húsnæði síðan í nóvember og byrjun árs. Elsa segir einstaklingana þurfa mismikla þjónustu, sumir þeirra geti séð um sig sjálfir en aðrir þurfi hvatningu við daglegar athafnir og allt upp í sólarhringsþjónustu.

„Okkar fólk er í viðkvæmustu stöðunni. Það er galið að ekki sé hægt að hjálpa því.“

„Einn þeirra sem bíður eftir húsnæði hjá okkur er nýkominn með fulla vinnu. En hann getur ekki flutt út frá okkur og þarf að sofa á réttargeðdeildinni hjá okkur eins og aðrir sjúklingar. Það er skammarlegt,“ segir Elsa Bára og rifjar upp að fyrir nokkru hafi einn sjúklingur þurft að bíða í tvö ár eftir að fá húsnæði. Hún óttast að þeir sem eru útskriftarhæfir á báðum deildum Klepps, sem hún vinnur á, geti líka þurft að bíða í tvö ár eftir húsnæði.

„Fólk hefur beðið í mjög langan tíma eftir húsnæði. Á meðan við getum ekki útskrifað fólk þá getum við ekki tekið við öðrum,“ segir Elsa og bendir á að eitt málið hafi strandað á því í tvö ár að ríki og borg gátu ekki komið sér saman um hvor eigi að borga fyrir búsetuúrræðið.

Elsa hóf störf á Kleppi fyrir fjórum árum. Þá var sama staða uppi og nú. Hún segir þörfina eftir þjónustu vegna geðheilbrigðisvanda aðeins aukast og séu nú mörg hundruð manns á biðlista eftir félagslegum íbúðum. Fjölgun úrræða í félagslega íbúðakerfinu helst hins vegar ekki í hendur við það eftirspurnina.

„Okkar fólk er í viðkvæmustu stöðunni. Það er galið að ekki sé hægt að hjálpa því,“ segir Elsa Bára.

Mikið um innköllun á matvælum

Innköllun á matvælum hefur stóraukist upp á síðkastið.

Krónan í samráði við matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur innkallaði um mánaðamótin kjúklingalasagne um allt land. Í vörunni var að finna egg, sellerí og sinnep án þess að þess væri getið á lista yfir innihaldsefni á umbúðum vörunnar. Afurðirnar eru á lista yfir ofnæmis- og óþolsvalda en ekki tilgreindar á umbúðum vörunnar. Af þessum sökum varaði Matvælastofnun neytendur við neyslu vörunnar.

Innköllun á matvælum hefur stóraukist upp á síðkastið en það sem af er ári hefur Matvælastofnun innkallað matvæli í fjórtán skipti. Til samanburðar voru matvæli innkölluð í sjö skipti á fyrri hluta síðasta árs og í níu skipti á sama tíma fyrir tveimur árum. Fáheyrt er að matvæli séu innkölluð jafnoft og nú.

Herdís M. Guðjónsdóttir hjá Matvælastofnun segir fjölgun innköllunar á matvælum einkum skýrast af vanmerkingum á ofnæmis- og óþolsvöldum.  „Aukin tíðni innkallana vegna þessa er að öllum líkindum til komin vegna skýrari reglna um tilgreiningu á ofnæmisvöldum en þó líklega enn fremur vegna aukinnar áherslu á þessi mál í eftirliti.  Ekki kemur til innkallana ef feitletrun vantar, eingöngu ef ofnæmis-/óþolsvaldur er ekki tilgreindur í listanum yfir innihaldsefnin eða á umbúðum í tilfelli matvæla þar sem ekki er krafa um innihaldslista.“

Vörur sem þarf að innkalla finnast oftast í markaðseftirliti heilbrigðiseftirlitsins, eftirliti Matvælastofnunar, frá neytendum eða viðvörunarkerfi Evrópu (RASFF) um hættuleg matvæli og fóður.

Á vef RASFF má m.a. sjá að í Evrópu eru innkölluð ýmis konar matvæli á degi hverjum.

Rúmlega 200 prósent aukning í athöfnum hjá Siðmennt

||||
||||

Aðsókn í athafnastjóranám hjá lífsskoðunarfélaginu Siðmennt hefur aukist til muna með tilkomu aukins áhuga á athöfnum á vegum félagsins. Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir það hugnast fólki að hafa val á stærstu stundunum í lífi sínu. Þá sé starf athafnastjóra vinsælt meðal listamanna.

„Fólki sem sýnir áhuga er boðið að vera á lista hinna áhugasömu, eins og við köllum hann. Í vetur, þegar um þrjátíu manns voru komnir á listann, var ákveðið að bjóða upp á námskeið í athafnastjórnun og fimmtán voru loks valdir inn á námskeiðið,“ segir Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar, félag siðrænna húmanista á Íslandi. Athafnastjórar Siðmenntar framkvæma athafnir eins og giftingar, jarðarfarir og nafnagjafir, en ekki kemst hver sem er í gegnum nálarauga félagsins.

„Við setjum ákveðnar kríteríur á fólk til að komast inn í námið. Fólk þarf að deila með okkur lífsskoðun, geta átt góð samskipti við fólk, skrifa góðan texta og, síðast en ekki síst, geta flutt texta. Það er töluvert af leikurum og vel þjálfuðu fólki í framkomu sem hefur sóst í þetta,“ segir Bjarni.

Gifti fyrrum nemanda sinn

Margrét Gauja.

Meðal starfandi athafnastjóra er leiðsögumaðurinn og stjórnmálakonan Margrét Gauja Magnúsdóttir. „Allar athafnarnir eru eftirminnilegar, engin er eins og allar jafndásamlegar. Auðvitað er mín fyrsta giftingarathöfn sú sem fer efst í minningabunkann. Þau báðu sérstaklega um mig og treystu mér algerlega fyrir þessum stóra degi vitandi að þetta var mín fyrsta giftingarathöfn. Ég var að fríka út af stressi en undirbúningurinn og athöfnin sjálf voru svo dásamleg að ég sveif um á bleiku skýi í viku á eftir,“ segir Margrét og brosir og rifjar upp aðra ógleymanlega stund. „Svo hef ég gift fyrrum nemanda minn. Það var dásamlegt þar sem athöfnin var leyndarmál og ég faldi mig inni í þvottahúsi þar sem ég setti slörið í brúðina sem ég hafði kennt kynfræðslu nokkrum árum fyrr.“

Margrét bjó á Höfn þegar hún tók ákvörðun um að læra að verða athafnastjóri, þar sem gríðarleg þörf hafði myndast fyrir austan fyrir slíka þjónustu. Hún mælir með starfinu og segir það krefjandi. „Að fá að kynnast fólki og fjölskyldum þeirra á svo stórum tímamótum er ómetanleg reynsla, hvort sem það eru giftingar eða nafnagjafir. Ég fæ að nota peysufötin mín reglulega sem ég saumaði þegar ég bjó á Höfn og ég er farin að hafa það sem hefð að biðja móður brúðarinnar eða brúðgumans að aðstoða mig við að setja upp slaufuna. Mér finnst þetta bara hrikalega gaman en ég tek þessu mjög alvarlega því passa ég mig á því að taka ekki að mér fleiri en tvær athafnir í mánuði.“

Metfjöldi athafna í fyrra

Svavar Pétur.

Siðmennt fékk skráningu sem lífsskoðunarfélag árið 2013 og í kjölfarið vígsluréttindi. Árið 2014 voru framkvæmdar 114 athafnir á vegum félagsins en í fyrra var þessi tala komin upp í 356. Það er rúmlega 200% aukning. Nú eru tæplega fimmtíu athafnastjórar starfandi um land allt og líður að útskrift þeirra fimmtán sem hófu nám í athafnastjórnun í vetur. Meðal þeirra er tónlistarmaðurinn og bóndinn Svavar Pétur Eysteinsson.

„Sú saga fór á kreik að ég gæti gefið saman fólk og til þess að verða við kallinu ákvað ég að ná mér í réttindi til þess,“ segir Svavar aðspurður um hans ástæðu fyrir að skella sér í námið. Hann hefur ekki enn fengið tækifæri til að klára starfsnámið vegna anna en hefur nú þegar fengið bókanir fram í tímann. „Ég vona að ég nái ágætu andlegu jafnvægi og verði hæfilega stressaður fyrir mína fyrstu athöfn.“

Samræður besta geðlyfið

Björg.

Annar tilvonandi athafnastjóri er fjölmiðlakonan og rithöfundurinn Björg Magnúsdóttir. Hún hafði gengið lengi með þann draum í maganum að gerast athafnastjóri og segir námið hafa komið sér á óvart.

„Ég get alveg viðurkennt að ég hafði ekki nákvæma hugmynd um það í hverju ég væri lent þegar ég mætti fyrsta kvöldið eftir langan vinnudag. En það, að sitja með góðu fólki og fræðast um og pæla í húmanisma og bara lífinu á breiðum grundvelli, er eitthvað sem höfðaði mjög til mín. Það er svo sem ekkert nýtt að góðar samræður um lífsins málefni séu besta geðlyfið, en þó eitthvað sem er gott að vera minnt á reglulega,“ segir Björg og brosir, en fyrsta athöfnin sem hún framkvæmir verður í ágúst á þessu ári.

Anna Brynja.

Anna Brynja Baldursdóttir, samskiptastjóri hjá Alfreð og menntuð leikkona, er einnig með þeim Svavari og Björgu í útskriftarhópi.

„Ég hef aldrei fundið mig innan neinna trúarbragða og þau hef ég skoðað á alla kanta. Þegar ég uppgötvaði Siðmennt sá ég húmanískt félag sem tekur öllum opnum örmum, óháð lífsskoðunum, og leitast við að útrýma umburðarleysi með þekkingu og eflingu á siðferðisvitund. Ég vil leggja mitt af mörkum og ákvað að gerast athafnastjóri til að geta aðstoðað þá sem vilja athöfn sem er óháð trúarsetningum. Fókusinn verður því á heimspekilegri nótunum og á hið sammannlega.“

Meðal annarra þekktra einstaklinga sem útskrifast von bráðar úr náminu er Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður, og leik- og söngkonan Selma Björnsdóttir. Bjarni hlakkar til að útskrifa hópinn en telur ólíklegt að námskeiðið verði haldið aftur að ári.

„Við köllum þetta jákvætt vandamál,“ segir Bjarni hlæjandi um aðsóknina í námið. „Við höfum tekið inn stjóra í skömmtum og ég býst ekki við því að við gerum það á næsta ári. En ég er strax kominn með vænan lista yfir þá áhugasömu.“

Fjöldi athafna hjá Siðmennt:

2014 – 114 athafnir
2015 – 199 athafnir
2016 – 267 athafnir
2017 – 356 athafnir
Fyrstu fimm mánuði ársins 2018 – 240 athafnir.

Fornfræg náttúruparadís, eyjan Vigur – Drottning Vestfjarða skartar sínu fegursta

Þessi einstaka náttúruparadís og sögufræga eyja skartar sínu fegursta allan ársins hrings og hefur upp á margt að bjóða. Umhverfið og afþreyingin allt í kring laðar að. Það er ótrúleg upplifun að koma í Vigur.

Nálægðin við náttúruna er mjög sterk. Strax þegar gengið er af bryggjunni blasir við selalátur þar sem þeir liggja makindalega og fylgjast með mannlífinu. Á morgnana og svo aftur síðdegis mæta teisturnar og vappa í kringum húsin og fjöruborðið. Það er ótrúlega gaman að fylgjast með teistunni og hún er mjög spök í Vigur þannig að maður kemst í mikið návígi við hana. Síðan verður maður að gæta að hverju fótmáli á vorin því að þarna verpa æðakollur við göngustíga og á milli húsa. Svo er mikið lundavarp í Vigur.  Sjávarniðurinn, fuglahljóðin og að vera innan um þessi fornfrægu hús er einstök upplifun.

 

Umhverfið til fyrirmyndar og stutt í helstu þéttbýliskjarna
Það er öllu haldið ótrúlega vel við á eyjunni. Húsin snyrtileg og allt umhverfið hreint til fyrirmyndar. Eyjan er mjög gróin og hefur mikið undirlendi. Eyjan býður upp á marga möguleika og hægt að hafa af henni mikil nyt. Svo er hún alveg einstaklega vel staðsett þegar horft er til helstu þéttbýliskjarna Vestfjarða.

Það er um fimmtán mínútna sigling til Súðavíkur á hraðbát og um fjörtíu mínútur til Ísafjarðar í góðu veðri.

 

Viktoríuhús byggt af Sumarliða Sumarliðasyni gullsmið
Eins og fyrr segir er öllu mjög vel við haldið. Húsin eru sum mjög gömul. Þarna er til dæmis Viktoríuhús sem var byggt af Sumarliða Sumarliðasyni gullsmið í kringum 1860. Búið er að byggja við húsið mjög fallega þjónustumiðstöð þar sem hægt er að hafa fullbúið kaffihús. Svo er það myllan fræga sem er eina varðveitta kornmyllan úr timbri á Íslandi. Hún var byggð um 1860. Myllan og Viktoríuhús eru í eigu Þjóðminjasafns Íslands.

Þarna er svo helst að nefna íbúðarhús með um tíu svefnherbergjum og svo er búið að breyta fjósinu í áttatíu sæta veitingasal með fullbúnu eldhúsi. Þar er stór og mikill pallur fyrir utan og hægt að njóta veitinga og njóta stórbrotins útsýnis. Svo eru fjárhús, hlaða, verkstæði og vélageymsla eins og nauðsynlegt er í svona rekstri.

 

Tíu kindur á beit
Mikil gróska hefur verið í landbúnaði á eyjunni en hefur farið minnkandi með árunum. Það var kúabú í Vigur en í dag eru eftir um tíu kindur og þær ætla að vera þarna áfram að eigin sögn. Hins vegar er vel mögulegt að vera með veturbeit hrossa þarna ef áhugi er fyrir því.

Dúntekja fer fram á Vigur
Fuglalíf er afar fjölskrúðugt á Vigur og gaman að njóta þessa að horfa á fuglana í sínu náttúrulega umhverfi. Fuglalíf er afar fjölskrúðugt á Vigur og gaman að njóta þessa að horfa á fuglana í sínu náttúrulega umhverfi. Það eru yfir 3000 æðarhreiður í Vigur þar sem dúntekja fer fram. Æðarvarpið gefur í kringum fimmtíu til sextíu kíló ári af hreinsuðum dún eftir því hvernig árar.

Vigur laðar að ferðamenn og býður upp á nánd við náttúruna
Nándin við náttúruna. Fuglar eru mjög spakir og hægt að komast í návígi við seli. Svo eru það gömlu húsin sem laða að og ekki má gleyma Vigur Breið sem er elsti bátur landsins og liggur þarna í fjöruborðinu. Hann skríður mjög vel og þegar hann fer á fljúgandi siglingu klýfur hann svartfugla í tvennt á milli augnanna. Eða svo segja elstu menn. Þetta er hreint ótrúleg upplifun. Á eyjunni er friðland fugla og gömlu húsin eru friðuð. Annars eru engar kvaðir á eyjunni.

Sjálfbærni og menningin í fyrirrúmi

Fasteignasalinn Davíð Ólafsson, hjá Borg fasteignasölu, er með þessa eign til sölu.

Það er rafmagnsstrengur úr landi sem liggur út í eyju. Allt vatn fæst úr uppsprettu nálægt bænum. Það eru miklir möguleikar í sjálfbærri og menningartengdri ferðamennsku í Vigur, þar væri meðal annars hægt að setja upp setur fræða og lista. Svo má að sjálfsögðu hefja þarna búskap að nýju eins og gert hefur verið um aldir. . Svo má að sjálfsögðu hefja þarna búskap að nýju eins og gert hefur verið um aldir. Eyjan er 45 hektarar og ræktuð tún um 10 hektarar. Húsakostur er vel yfir 700 fermetrar að stærð.

Þessi einstaka náttúruperla er til sölu hjá Borg fasteignasölu og er þetta einstakt tækifæri til að eignast eina fegurstu eyju landsins sem öllu því sem henni fylgir. Fasteignasalinn Davíð Ólafsson, hjá Borg fasteignasölu, er með þessa eign til sölu og gefur allar nánari upplýsingar í síma:  897 1533 eða hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið: [email protected]

Skildi hluta af hjartanu eftir á Balí

Linda Sæberg hefur einstaka hæfileika til að njóta augnabliksins, grípa tækifærið og meta litlu hlutina í lífinu. Í henni blundar mikil ævintýraþrá en hún eyddi fæðingarorlofinu á ferðalagi um Balí ásamt fjölskyldu sinni. Fegurðin, menningin og íbúar landsins hittu hana í hjartastað og það voru þung spor að snúa til baka til Íslands.

Í haust fluttist Linda til Egilsstaða með unnusta sínum, Steinari Inga, sem er þaðan. Fyrir áttu þau hvort sína dótturina, Önju Sæberg og Móeiði, en saman eignuðust þau Esjar Sæberg fyrir einu og hálfu ári. Linda er heima með Esjar eins og er, þar sem hún sinnir ýmsum verkefnum sem hún tekur að sér ásamt því að reka og dekra við vefverslunina Unalome. Þegar Linda varð ólétt af Esjari kom í ljós að hún var sett á tíu ára afmælisdag dóttur sinnar, Önju, þann 21. nóvember.

„Ég mundi eftir því að hafa verið frekar mikið innilokuð yfir þessa erfiðu vetrarmánuði þegar ég var í fæðingarorlofi með hana, svo ég sagði snemma við manninn minn að ég vildi endilega létta á þessum dimmu mánuðum með því að fara aðeins erlendis í sólina. Hann tók strax vel í það og vorum við þá helst að hugsa um Suður-Evrópu og kannski 3-4 vikur. Við ferðuðumst um sveitir Suður-Frakklands þegar ég var ólétt og vorum algjörlega kolfallin fyrir þeim, en það var ekki nógu heitt fyrir okkur yfir vetrartímann þar svo við leituðum lengra og á stað þar sem var einstaklega ódýrt að lifa. Útreikningur fæðingarorlofs sýndi lága tölu og sáum við fram á að maðurinn minn gæti ekki verið heima með okkur lengur en fyrsta mánuðinn og fæðingarorlofið yrði mikið basl. Okkur fannst það virkilega lítið heillandi tilhugsun.“

 Héldu til Balí með one-way-ticket í vasanum

Eftir nokkra útreikninga kom í ljós að það myndi ganga upp að ferðast til Asíu og lifa á fæðingarorlofi Lindu og námslánum Steinars, þar sem hann var í fjarnámi við Háskóla Íslands. Mæðgurnar Linda og Anja höfðu lengi verið dolfallnar yfir Balí og smituðu Steinar af því þegar hann kom í líf þeirra, svo Balí var á ofarlega á lista fjölskyldunnar yfir staði sem hún vildi heimsækja. Linda segir að í miðju skipulagi og í æsingnum hafi upphaflega áætlunin breyst og stefnan var sett á Balí í óákveðinn tíma í stað þess sem átti að vera 3-4 vikna ferðalag um Suður Frakkland.

„Eftir að hafa ráðfært okkur við lækninn okkar og fengið að flýta þriggja mánaða bólusetningu Esjars um tvær vikur, pakkað búslóðinni okkar og leigt út íbúðina, lögðum við af stað til Balí, með one-way-ticket í vasanum, nokkrum dögum áður en Esjar varð þriggja mánaða. Ég var óstjórnlega stressuð að fara út með hann svona lítinn og spurði sjálfa mig margoft á leiðinni hvað í ósköpunum ég væri að gera.“

/ Lestu allt um Balí ævintýrið og ítarlegra viðtal við Lindu í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Myndir: Hallur Karlsson

Önnur konan af þremur stígur fram

14. tbl. 2018

Kiana Sif Limehouse prýðir forsíðu 14. tölublaðs Mannlífs sem kemur út á morgun, föstudaginn 8. júní. Kiana var barn þegar brotið var ítrekað á henni kynferðislega, að hennar sögn. Meintur gerandi var þáverandi stjúpfaðir hennar, sá hinn sami og Helga Elín sagði í 12. tölublaði Mannlífs hafa misnotað sig kynferðislega í sumarbústað þegar hún var tíu ára gömul. Kiana og Helga eru tvær af þremur stúlkum sem sökuðu manninn, sem er lögreglumaður, um kynferðisbrot en málin voru felld niður. Maðurinn starfar enn í lögreglunni.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“.

„Ímynda ég mér stundum hvernig lífið hefði verið öðruvísi ef þetta hefði ekki gerst? Já, algjörlega. En maður lifir bara með því sem hendir mann. Föðurættin mín er mjög trúuð og hefur föðuramma mín talað um að Guð sendi einungis það til manns sem maður getur tekist á við. Ég er ekki eins trúuð og hún og get því miður ekki fundið neina réttlætingu á því sem gerðist,“ segir Kiana. Hún á bandarískan föður og íslenska móður sem skildu þegar hún var þriggja ára gömul. Þá byrjaði móðir hennar að vera með manni sem Kiana segir að hafi brotið á sér kynferðislega.

„Ég svaf alltaf uppi í rúmi hjá mömmu þegar hann var að vinna. Þegar hann færði mig á milli rúma man ég eftir að hann byrjaði að þukla brjóstin á mér. Ég var vakandi en lét sem ég svæfi. Ég vissi að þetta var ekki rétt en ég sagði ekki neitt. Ég var lítil og hafði ekki vit á því að þetta væri óeðlilegt.

Síðan fór þetta að vinda upp á sig. Hann bauð mér að smakka áfengi og einhverju síðar man ég eftir honum standandi í dyrunum á herberginu mínu þegar ég var sofandi. Þá hafði hann verið að drekka og þuklaði á sjálfum sér. Eitt kvöldið tók hann það skref að koma inn í herbergið mitt og snerta mig,“ segir Kiana.

Þjökuð af samviskubiti

Mæðgurnar Helga Elín og Halldóra Baldursdóttir sögðu, eins og fyrr segir, sögu sína í 12. tölublaði Mannlífs. Þær sögðu frá meintri misnotkun á Helgu Elínu sem átti sér stað í sumarbústaðarferð, að þeirra sögn. Sumarbústaðarferð sem Kiana, ein af hennar bestu vinkonum, hafði boðið henni í. Í kjölfar ferðarinnar slitnaði upp úr vinskapnum en fyrir nokkrum árum náðu þær að dusta rykið af kunningsskapnum. Kiana var lengi vel þjökuð af samviskubiti yfir því sem gerðist í sumarbústaðaferðinni en skilur í dag að atburðarrásin þar var ekki henni að kenna.

Kiönu blöskrar að meintur gerandi sinn vinni enn innan veggja lögreglunnar. Lesa má nánar um málið í Mannlífi á morgun og hér á vefnum.

Sjá einnig: „Hann sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu“.

Málið í hnotskurn

Lögreglumaðurinn sem þrjár stúlkur sökuðu um kynferðisbrot starfaði áfram meðan á rannsókn allra málanna þriggja stóð. Málin voru ekki rannsökuð saman. Eftir að málin voru felld niður hélt lögreglumaðurinn starfinu. Í máli Helgu Elínar liggja fyrir skýrslur frá sérfræðingum í Barnahúsi sem staðfestu að Helga Elín hefði orðið fyrir miklum skaða í umtalaðri sumarbústaðarferð.

Eins og hefur komið fram voru vinur lögreglumannsins, sem er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera, og eiginkona hans með í sumarbústaðarferðinni. Að sögn Halldóru Baldursdóttur, móður Helgu Elínar, tók skýrslutaka yfir vinahjónunum aðeins örfáar mínútur og fór fram á skrifstofu embættismannsins. Þau hjónin og eiginkona sakbornings báru fyrir sig minnisleysi vegna áfengisdrykkju og niðurfelling málsins var meðal annars byggð á þeirra vitnisburði. Við rannsókn málsins kom fram að klámefni hafði verið haft fyrir börnunum í umræddri sumarbústaðaferð. Umrædd vinahjón voru aldrei spurð út í klámmyndaáhorfið og tölva sakbornings var ekki skoðuð. Þegar lögregla skoðaði sumarbústaðinn fór hinn meinti kynferðisafbrotamaður með á vettvang.

Sjá einnig: Segist ekki hafa brugðist dóttur Halldóru.

Að sögn Halldóru kemur fram í rannsóknargögnum að lögreglumaðurinn hafi sakað stelpurnar þrjár um samsæri gegn sér og að ekkert hafi verið gert til að hrekja slíkt. Halldóra hefur óskað eftir því við Nefnd um eftirlit með lögreglu að málsmeðferðin verði skoðuð. Eitt að því sem hún gagnrýndi harðlega var að þrátt fyrir að þrjár stúlkur hefðu kært lögreglumanninn hefðu málin ekki verið rannsökuð saman og ekkert brugðist við fullyrðingum lögreglumannsins um að stúlkurnar þrjár hefðu uppi samsæri gegn sér.

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Tók einn og hálfan dag að fullkomna goth-kjól

|||
|||

Við sögðum frá brúðkaupsveislu Kat Von D og Rafael Reyes á dögunum, en brúðkaupið þeirra var allt í goth-stíl. Í kjölfarið var okkur bent á að í versluninni Rokk & Rómantík í miðbæ Reykjavíkur væri hægt að fá einstakan kjól fyrir þá sem vilja hafa brúðkaupið dálítið goth.

Anna Kristín Magnúsdóttir rekur verslunina og segir að einn og hálfan dag hafi tekið að sauma kjólinn, sem er kolbikasvartur. Vinsældirnar létu ekki á sér standa.

Kjóllinn er afar sérstakur og fallegur.

„Hann er seldur, en það er reyndar annar í vinnslu,“ segir Anna og bætir við að kjóllinn sé seldur á rétt tæplega fimmtíu þúsund krónur.

En af hverju goth?

Hugsað út í smáatriðin.

„Af hverju hvítur?“ segir Anna og hlær. „Það er bara svo frábært að fjölbreytileikinn sé í boði.“

Anna rekur einnig verslunina Kjólar & Konfekt og finnur mikið fyrir því að brúðir vilji fara óhefðbundnar leiðir á stóra daginn. Það er því aldrei að vita hvers konar brúðarkjóll kemur úr smiðju hennar á næstu misserum.

Allt svart.

Harissa-kjúklingaleggir með perlukúskúsi

01. tbl. 2017
|

Kjúklingabringur njóta alltaf mikilla vinsælda en þó þykja mér kjúklingaleggir og læri mættu fá meiri athygli en þau gera. Kjötið á þeim er dekkra og bragðmeira og minni líkur á að kjötið eldist of mikið þannig að það verður þurrt og óspennandi. Leggir og læri eru sérstaklega vel til þess fallin að elda í ofni.

Þessi réttur nýtur alltaf mikilla vinsælda og er ljúffeng blanda af krydduðum kjúklingi, kaldri jógúrtsósu og kúskúsi með sætum þurrkuðum ávöxtum. Það má auðvitað skipta út perlukúskúsinu fyrir fíngerðara kúskús sem auðveldara er að nálgast en ég er sérstaklega hrifin af þessum stærri tyggilegri perlum.

Kjúklingur
1.5-2 kg kjúkingalæri og leggir, með beini
4 msk. harissa
½ tsk. kummin
3 msk. ólífuolía
1½-2 tsk. salt
½ tsk. pipar

Þerrið kjúklingabitana með eldhúspappír og setjið til hliðar. Hrærið saman harissa, kummin, ólífuolíu, salti og pipar. Veltið kjúklingnum upp úr kryddleginum og setjið til hliðar í 30 mínútur. Einnig má setja kjúklingabitana í rennilásapoka, þrýsta sem mestu lofti úr og geyma í kæli í sólarhring (þá þarf að taka kjúklinginn tímanlega út og láta standa við stofuhita í 30 mínútur áður en hann er eldaður). Hitið ofninn í 200°C. Dreifið kjúklingnum á ofnplötu og setjið inn í miðjan ofn. Bakið þar til kjúklingurinn hefur eldast í gegn, u.þ.b. 40-50 mín. Berið fram með kúskúsi og jógúrtsósu og ferskum kryddjurtum ef til eru.

Marokkóskt perlukúskús
safi úr ½ sítrónu
3 msk. ólífuolía
½ tsk. salt
¼ tsk. pipar
½ dl fersk steinselja, söxuð
2 msk. mynta, söxuð
80 g þurrkaðir ávextir, saxaðir (t.d. þurrkuð trönuber, þurrkaðar apríkósur, þurrkaðar rúsínur, þurrkaðar döðlur)
1 dl pístasíuhnetur, gróft skornar
200 g perlukúskús (stórt kúskús)

Hrærið saman sítrónusafa og ólífuolíu, bragðbætið með salti og pipar. Setjið til hliðar. Setjið steinselju, myntu, þurrkaða ávexti og pístasíuhnetur í stóra skál. Sjóðið kúskús í söltu vatni samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Hellið vatninu frá og setjið í skálina. Hellið ólífuolíublöndunni yfir og veltið öllu vel saman. Bragðbætið með salti og pipar ef þarf.

Jógúrtsósa
1/3 bolli hreint jógúrt
1 lítill hvítlauksgeiri
1 tsk. kummin
salt og pipar

Þrýstið hvítlauksgeiranum í gegnum pressu ofan í jógúrtið. Hrærið saman við ásamt kummin. Bragðbætið með salti og pipar.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Folda Guðlaugsdóttir

125 milljónir settar á hús Magnúsar og Ingibjargar

|||||||||||
|||||||||||

Hjónin Magnús Geir Þórðarson og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir eru búin að setja hús sitt að Birkigrund 49 í Kópavogi á sölu. Um er að ræða tíu herbergja hús, þar af sex svefnherbergi og tvær stofur, og er ásett verð 125 milljónir króna.

Ingibjörg og Magnús.
Á planinu að framan er hægt að leggja 3-4 bílum.

Húsið telur 286 fermetra og er búið þremur baðherbergjum. Er því ljóst að húsið hentar einkar vel stórum fjölskyldum, enda stutt í skóla og leikskóla.

Stílhreint baðherbergi.

Heimilið var tekið í gegn að innan fyrir fimm árum síðan en breytingarnar voru hannaðar af hinum vinsæla innanhúsarkitekt Rut Káradóttur.

Bjart og fallegt rými.

Á neðstu hæð í húsinu er búið að koma fyrir sjónvarpsherbergi, baðherbergi og tveimur stórum svefnherbergjum, en sérinngangur er á þá hæð og því hægt að búa þar til séríbúð.

Nóg af plássi í þessu húsi.

Planið fyrir framan húsið er upphitað og garðurinn er vel hirtur og fallegur. Svo ekki sé talað um nágrennið, en húsið er staðsett steinsnar frá Fossvogsdalnum, Kópavogsmegin, sem er vinsæl útivistarparadís. Hér fyrir neðan má sjá fleiri myndir af eigninni:

 

Ritskoðuð í Íran en sýnir nú á Listahátíð í Reykjavík

||
||

„Ég hef fengið sterk viðbrögð frá áhorfendum þar sem ég hef sýnt verkið hingað til, en ég hef þegar sýnt yfir 30 sýningar í ólíkum löndum. Það er ótrúlega gaman og mikill heiður að vera boðið að sýna á Listahátíð í Reykjavík. Ég tel að verkið eigi ekki síður erindi til Íslendinga frekar en annarra. Viðfangsefnið snertir okkur öll og ég hlakka til þess að heyra viðbrögðin hér,“ segir dansarinn og danshöfunurinn Bára Sigfúsdóttir. Hún sýnir verkið The Lover á Listahátíð í Reykjavík dagana 7. og 8. júní í Tjarnarbíói.

„The Lover er sjónrænt verk þar sem hreyfingar, ljósmyndir, lýsing og tónlist tvinnast saman í heildræna upplifun. Verkið er hugleiðing um samband mannsins og náttúrunnar, hvernig manneskjan býr í náttúrunni og hvernig náttúran býr í mannskepnunni. Hvernig maðurinn og jörðin bæði skapa og eyða,“ segir Bára, sem raðar í kringum sig fagmönnum til að gera sýninguna sem áhrifamesta.

„Ég er ein á sviðinu ásamt mikilfenglegri sviðsmynd sem að umbreytist á táknrænan hátt á meðan á verkinu stendur. Sviðsmyndin er unnin af franska ljósmyndaranum Noémie Goudal og belgíska arkitektnum Jeroen Verrecht/ 88888. Tónlistin er samin af íslenska tónlistarmanninum Borko.“

Hlaut Circuit X verðlaunin

The Lover var upphaflega frumsýnt á fimmtíu ára afmælishátíð Beursschouwburg leikhússins í Brussel á PERFORMATIK tvíæringnum í mars árið 2015. Í framhaldinu hefur Bára flakkað um heiminn og sýnt verkið til að mynda í Hollandi, Tékklandi, Danmörku og Belgíu, en Bára hefur verið búsett í síðastnefnda landinu síðustu tíu árin. Þá hlaut The Lover Circuit X verðlaunin í Belgíu og Hollandi árið 2015 og var tilnefnt til hinna virtu Roel Vernier verðlauna fyrir sviðslistir í Belgíu. Bára er glöð með þessar góðu viðtökur.

„Það er mjög gaman þegar að gengur vel því þá gefast fleiri tækifæri til þess að sýna verkið. Circuit X verðlaunin veittu sýningunni til dæmis tækifæri á því að ferðast mikið í Belgíu og Hollandi. Maður veit aldrei hvernig mun ganga þegar að maður byrjar að vinna að nýju verkefni, enda held ég að velgengni ætti ekkert endilega að vera markmið í sjálfu sér þó að auðvitað vilji maður vinna hlutina vel. Mikilvægast er að finna hugmyndinni þann farveg sem að hún krefst. Við sköpun The Lover þá gekk það farsællega, en auðvitað liggur samt sem áður margra mánaða vinna að baki í sköpunarferlinu,“ segir Bára.

Þurfti að breyta nafninu á The Lover

Þessi hæfileikaríki dansari hefur verið viðloðinn írönsku danssenuna síðan árið 2014 og hefur meðal annars sýnt The Lover í Íran.

„Mér var upphaflega boðið að sýna verk á „underground“ samtímadanshátíð í Tehran sumarið 2014. Í þeirri ferð kynntist ég bæði yndislegu og áhugaverðu fólki sem er ástæðan fyrir því að ég varð síðar meir hluti af danssenunni þar,“ segir Bára en danssenan í Íran er mjög frábrugðin því sem við Íslendingar eigum að venjast.

Bára ásamt dönsurunum Masoumeh Jalalieh og Alireza Mirmohammadi í Íran.

„Danslist í Íran hefur verið opinberlega bönnuð síðan 1979 þegar íranska byltingin átti sér stað. Danslistamenn þar tala reyndar oftast um að vinna með „hreyfingar“ frekar en „dans“, sem ég hef sjálf byrjað að gera í auknum mæli því þegar maður talar um dans þá hefur fólk oft takmarkaðar hugmyndir um hvað maður sé að vinna við. Dans getur verið svo rosalega margt og listformið er mjög fjölbreytilegt. Dans í Íran fer yfirleitt fram fyrir huldum dyrum. Þegar maður vill sýna opinberlega þá þurfa verk að ganga í gegnum ritskoðun,“ segir hún. En hefur hún sjálf lent í ritskoðun á sínum verkum?

„Ég hef þrisvar sýnt opinberlega, og meðal þeirra verka er The Lover, en þá þurfti ég til dæmis að breyta titlinum á verkinu í Náttúra.“

Bára er nýkomin heim frá Íran þar sem hún frumsýndi tvö ný verk og segir lærdómsríkt að hafa kynnst menningu og listum í landinu.

„Það er oftast uppselt á bæði dans- og leiklistarsýningar í Tehran og færri sem komast að en vilja. Listasenan sem slík er mjög áhugaverð og fer vaxandi. Í fyrra vann ég verk með tveimur írönskum dönsurum, Masoumeh Jalalieh og Alireza Mirmohammadi. Við ákváðum meðal annars að rannsaka hreyfiefni líkamans innan ríkjandi ritskoðunar og úr varð áhugavert vinnuferli sem við lærðum öll mikið af. Við vorum einmitt að frumsýna það verk í Íran í Tehran og Sari núna í Maí. Það gekk vel og við fengum góð viðbrögð hjá áhorfendum. Fréttir í fjölmiðlum um aðra heimshluta, og í rauninni alls staðar, eru einungis brot af þeim raunveruleika sem á sér stað. Ég tel mikilvægt að vera meðvituð um hversu mikið við erum öll lituð af eigin forsendum og væntinum. Það hefur verið lærdómsríkt að fá snefilþef af því hvernig það er að koma frá landi sem er stöðugt málað sem framandi í okkar Vestur-Evrópsku menningu. Ekkert er einungis svart og hvítt.“

Einbeitir sér að vinnu á listamannalaunum

Eins og áður segir hefur Bára verið búsett í Belgíu í áratug og unnið sem dansari og danshöfundur. Hún unir sér vel þar og segir starfsumhverfi fyrir dansara betra þar en á Íslandi.

„Sviðslistasenan í Belgíu er spennandi og fjölbreytileg. Þar eru mörg leikhús og listamennirnir sem starfa þar koma alls staðar að úr heiminum. Ég hef hlotið listamannalaun þar til lengri tíma, en slíkt fyrirkomulag er til dæmis ekki í boði á Íslandi. Í Belgíu fæ ég einnig greidd laun fyrir þá daga mánaðarins sem að ég er ekki þegar á launum í vinnustofum, eða við sýningar. Það er gríðarlega mikil vinna og langur tími sem fer í hugmyndavinnu, umsóknarferli og svo allt skipulagið í kringum bæði vinnustofur og sýningar. Listamannalaunin gera mér kleift að einbeita mér 100% að minni vinnu og koma mun meiru í verk en annars væri mögulegt,“ segir hún og bætir við að hún sjái ekki fyrir sér að flytja aftur til Íslands í bráð.

The Lover er sjónrænt verk þar sem hreyfingar, ljósmyndir, lýsing og tónlist tvinnast saman í heildræna upplifun.

„Í augnablikinu kemur það ekki til greina. Það er dýrt að búa á Íslandi í dag og ég veit hreinlega ekki hvernig ég ætti að fara að því að starfa við það sem ég geri ásamt því að ná endum saman í hverjum mánuði. En það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég held tengingunni við landið í gegnum fjölskyldu, vini, fréttir, listir og hlaðvörp. Ég elska að hlusta á íslenskt útvarp í eldhúsinu mínu úti í Brussel, en þættirnir Í ljósi sögunnar, Segðu mér og Aðförin eru í miklu uppáhaldi.“

Draumurinn að minnka vistsporið

Bára hefur afrekað margt á ferlinum þannig að það liggur beinast við að spyrja hver draumurinn sé í dag. Það stendur ekki á svörunum hjá okkar konu.

„Draumurinn minn í dag er að vinna meira staðbundið og minnka vistsporið mitt. Ég hef helgað þetta ár í rannsóknarvinnu fyrir ný verkefni, þó ég haldi einnig áfram að sýna eldri verk. Því fylgir ábyrgð að ferðast. Ég vil í rauninni ferðast minna og frekar dveljast lengur þangað sem ég fer, til dæmis með því að reyna að samtvinna sýningar með vinnustofum, kennslu og/eða fyrirlestrum. Ég er meðvituð um að annað sé ekki sjálfbært til framtíðar í stærra samhengi þar sem loftslagsbreytingar í heiminum eru staðreynd sem við þurfum að takast á við í sameiningu.“

Aðalmynd / Jolien Naeyaert
Mynd úr The Lover / Leif Firnhaber
Mynd frá Íran / Úr einkasafni

Fullt af flottum innlitum í glænýju blaði

Júníblað Húsa og híbýla var að koma út og er sérlega fallegt og litríkt.

Blaðið er smekkfullt af æðislegum innlitum og smart vörum fyrir heimilið. Nýr veitingastaður í Hafnarfirði prýðir líka síður blaðsins og Ýr Þrastardóttir fatahönnuður sem hannaði föt íslenska Eurovision hópsins ljóstar upp óskalistanum sínum. Mynd eftir hönnuð eða listamann fylgir alltaf Hús og híbýli og að þessu sinni var það Sigga Rún teiknari sem gerði mynd af svartþresti sem er að vekja mikla lukku.

Ljósmyndarar blaðsins taka ógrynni ljósmynda fyrir blaðið og þar sem þær komast ekki allar í blaðið er tilvalið að birta nokkar þeirra hér á mannlífsvefnum.

Við heimsóttum myndlistarkonuna Áslaugu Írisi Katrínu Friðjónsdóttur sem býr í rótgrónu hverfi í Kópavogi með útsýni yfir Öskuhlíðina.

Við kíktum líka á vinnustofuna til Áslaugar og fengum að mynda verk í vinnslu sem var áhugavert.

Við tjörnina í Reykjavík standa nokkur, gömul, sjarmerandi hús og eitt þeirra var nýlega endurgert. Þetta reisulega timburhús sem birtist í júníblaði Húsa og híbýla var byggt árið 1907, það var stækkað og því breytt árið 1953 og núna nýlega var það endurgert af Gláma Kím arkitektum. Eldhúsinnréttingin er fagurblá á litinn, stofuveggirnir eru í gulum tón og allt húsið er ofboðslega fallegt og vel heppnað.

Tinna Gilbertsdóttir sölustjóri hjá Iceland Seafood og Vilhjálmur Svan verslunarstjóri Herragarðsins eiga mjög smart heimili á besta stað í bænum. Við mynduðum þetta skemmtilega heimili en Tinna segir að hönnun þess sé skemmtilegt eilífaðar verkefni.

Við heimsóttum Birgittu Líf Björnsdóttur sem á töff íbúð í skuggahverfinu.

Kíktum líka á Sigurbjörgu Pálsdóttur sem býr í gamalli vindlaverksmiðju í Belgíu og ljósmyndarann Kára Sverrisson sem býr í tveimur löndum.

Ekki missa af þessu flotta blaði!

Myndir: Aldís Pálsdóttir, Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir, Nanne Springer

Þessi flotta mynd var tekin heima hjá Hönnu Stínu innanhússarkitekt sem býr í geggjuðu húsi í Hafnarfirði. Litríkt og öðrvísi heimili sem gaman var að heimsækja.

Spurðu Pamelu Anderson ráða um kynlíf og sambönd

Leikkonan og aðgerðarsinninn Pamela Anderson er búin að söðla um, ef svo má segja, og er byrjuð með sérstakan dálk í vefritinu Dazed. Pamela er gestapenni hjá ritinu og ætlar að svara öllum spurningum lesenda um kynlíf og sambönd og veita þeim góð ráð.

Eins og segir í frétt Dazed um þessa nýjustu viðbót á miðlinum er Pamela tveggja barna móðir og því þaulvön að miðla ráðum til yngra fólks. Þá segir ritstjórn Dazed að vandamál lesenda séu í góðum höndum og vísar í viðtal Dazed við kynbombuna:

„Mig hefur alltaf langað til að skrifa erótískar smásögur. Fólk segir mér að ég ætti að gera það. Allir segja að ég sé nokkuð lunkin að segja sexí sögur!“

Þeir sem vilja senda Pamelu spurningar geta sent tölvupóst á [email protected] með nafni, aldri og búsetu. Allar spurningar verða áframsendar til Pamelu en þær bestu, eins og ritstjórn Dazed orðar það, verða birtar á vefritinu.

Átta konur sem sjá eftir brjóstastækkun

||||||||
||||||||

Útlitsdýrkun virðist vera mikil í stjörnuheimum, og hefur verið það um áratugaskeið, bæði meðal karla og kvenna. Einhverjar konur hafa talað mjög opinskátt um þær aðgerðir sem þær hafa farið í til að breyta útliti sínu, en hér fyrir neðan eru átta konur sem hafa látið stækka brjóst sín og séð eftir því.

Melissa Gilbert

Leikkonan lét fjarlægja brjóstapúða árið 2015 og hefur sagt að það sé það gáfaðasta sem hún hefur gert. Þá er Melissa líka hætt í Botox-sprautum og að láta lita hár sitt.

Hún hefur einnig látið hafa eftir sér að viðhorf hennar til öldrunar hafi breyst þegar hún varð ástfangin af eiginmanni sínum, Timothy Busfield, en þau tvö gengu í það heilaga árið 2013. Þá hafi hún fundið hugrekki til að vera hún sjálf. Hún var einnig hrædd um að brjóstapúðarnir myndu byrja að leka og því lét hún fjarlægja þá.

Crystal Hefner

Ekkja Playboy-kóngsins Hugh Hefner lét fjarlægja brjóstapúða átta árum eftir að hún lét setja þá í. Púðarnir voru farnir að valda henni ýmsum kvillum, svo sem verkjum, sársauka í þvagblöðru og þreytu. Þetta útskýrði Crystal á Facebook- síðu sinni og sagði að púðarnir hefðu hægt og bítandi verið að eitra fyrir henni.

„Ég tók strax eftir því að verkir í hálsi og öxlum hurfu og ég náði betur að draga andann,“ skrifaði Crystal og bætt við:

„Ég veit að ég verð ekki 100% betri yfir nóttu. Það tók púðana átta ár að gera mig svona veika og ég veit að það tekur tíma að ganga til baka.“

Kourtney Kardashian

Raunveruleikastjarnan var 22ja ára þegar hún fór í brjóstastækkun og sér eftir því í dag.

„Ég myndi ekki gera þetta ef ég gæti farið til baka. Ég var svo sæt fyrir stækkunina,“ sagði Kourtney í viðtali við Showbiz Spy árið 2011.

„Ég geri mér grein fyrir að ég á að líta út á vissan hátt frá náttúrunnar hendi og ég er að íhuga það að láta fjarlægja púðana.“

Pamela Anderson

Pamela hefur sagt opinberlega að brjóstastækkunin sé hennar helsta eftirsjá. Hún lét taka púðana úr árið 1999 og var hæstánægð með þá ákvörðun.

Tori Spelling

Leikkonan lét stækka brjóst sín þegar hún var rúmlega tvítug og sagði í viðtali við Good Morning America árið 2011 að það hefði ekki verið hennar besta ákvörðun.

„Ef ég hefði vitað að það gæti hugsanlega haft áhrif á mjólkurmyndun þá hefði ég ekki gert þetta,“ sagði Tori þá. Þremur árum síðar lét hún taka púðana úr.

Victoria Beckham

Þegar Kryddpíurnar voru sem vinsælastar lét Victoria Beckham stækka brjóst sín. Hún hefur ekki mikið tjáð sig um fegrunaraðgerðir en sagði í viðtali við Allure árið 2014 að hún hefði látið fjarlægja púðana.

Heather Morris

Glee-stjarnan sá mikið eftir því að hafa farið í brjóststækkun, eitthvað sem hafði verið draumur síðan hún var ung.

„Það var erfitt að hreyfa sig því mér var alltaf illt í brjóstunum. Þetta var mikill sársauki og mig langaði ekki að líða illa þannig að þau þurftu að fara,“ sagði Heather í viðtali við Fitness árið 2011.

Karen McDougal

Fyrrverandi Playboy-fyrirsætan fór í brjóstastækkun árið 1996 til að auka sjálfstraust sitt en sjö árum síðar fór hún að finna fyrir ýmsum kvillum, svo sem ofnæmi og verkjum í skjaldkirtli.

„Ég varð veik á nokkurra mánaða fresti og var lasin í sex til átta vikur í senn,“ sagði hún í viðtali við PEOPLE. Karen lét fjarlægja brjóstapúðana árið 2016.

Cleveland – græna stálborgin

Á dögunum ferðaðist ég til borgarinnar Cleveland og átti ekki von á að þessi gamla iðnaðarborg í miðríkjum Bandaríkjanna myndi heilla mig upp úr skónum.

Cleveland er borg í Norður-Ohio-ríki og liggur við strönd stöðuvatnsins Erie sem þó er svo víðfemt að horfi maður út á það væri auðvelt að ímynda sér það sem opið haf. Hinum megin við vatnið er Kanada og á vorin fyllast græn svæði borgarinnar af farfuglum sem nýta sér þau sem áningarstað áður en þeir fljúga langa og strembna ferð yfir Erie á sumarvarpstöðvar sínar í norðri. Borgin er byggð með fram hlykkjóttri á sem nefnist Cuyahoga en talið er að nafnið sé komið frá móhíkönum og þýði snúið fljót. Cuyahoga-áin var forsenda þess að borgin þróaðist úr litlu sveitaþorpi þar sem hún tengdist með manngerðum skurðum og fljótum við Atlantshafið og Mexíkóflóa, með því móti var þetta litla svæði í Bandaríkjunum orðið að ákjósanlegum stað fyrir viðskipti og vöruflutninga sem stækkaði enn frekar með tilkomu járnbrautarlestarinnar.

Borgin státar af skemmtilegum hverfum, fjölbreyttri þjónustu og söfnum, íþróttaliðum í úrvalsflokki, útisvæðum, leikhúsum og nánast endalausum viðburðum allt árið um kring.

Cleveland verður borg iðnaðar
Árið 1870 stofnaði John D. Rockefeller iðnaðarveldi sitt undir nafninu Standard Oil í Cleveland og lagði þar með grunninn að ótrúlegri auðlegð Rockefeller-fjölskyldunnar. Hann flutti seinna höfuðstöðvar sínar til New York-borgar sem þá var orðin þungamiðja viðskipta í landinu. Í byrjun 20. aldar flykktust þó fleiri fyrirtæki að borginni og Cleveland varð þekkt fyrir stáliðnað sem og bílaframleiðslu. Sumir bílaframleiðendurnir voru mjög framúrstefnulegir og voru á þessum tíma að reyna að þróa bíla sem gengu fyrir gufu eða rafmagni. Þessi mikli uppgangur laðaði að sér fólk sem settist að í borginni og vann iðnaðarstörf og gætir menningaráhrifa þess enn í dag. Þetta voru aðallega innflytjendur frá Suður- og Austur-Evrópu ásamt fólki af öðrum uppruna frá Suðurríkjum Bandaríkjanna í leit að atvinnu og betra lífi.

Cleveland er borg í Norður-Ohio-ríki og liggur við strönd stöðuvatnsins Erie sem þó er svo víðfemt að horfi maður út á það væri auðvelt að ímynda sér það sem opið haf.

Blómlegt listalíf
Borgin þandist út á þessum tíma og var í byrjun 20. aldar fimmta stærsta borg Bandaríkjanna. Hluti af nýjum íbúum Cleveland voru listamenn og tónlistarfólk. Stór hópur innfluttra var frá New Orleans og færði með sér líflega djasssenu, djassklúbbarnir þóttu á tímabili svo góðir að frægir tónlistarmenn, eins og Miles Davis og Duke Ellington, lögðu reglulega leið sína þangað. Uppgangurinn í iðnaðinum og ofgnótt verkamanna gerði það einnig að verkum að byggðar voru tilkomumiklar byggingar í miðborginni og ríkari stétt samfélagsins gerðist bakhjarlar listamanna. Þetta tímabil lista er þekkt sem Cleveland-skólinn og er sérstaklega þekkt fyrir fallegar vatnslitamyndir ásamt prentverkum og skúlptúrum. Sum þessara verka má finna á listasafni borgarinnar sem fjallað er um hér til hliðar.

Mengunarslys veldur byltingu í umhverfisvernd
Allur þessi uppgangur, þensla í iðnaði og sístækkandi hópur innflytjenda hafði þó einnig neikvæð áhrif. Mengun frá iðnaði borgarinnar, skordýraeitur og áburður flæddi óáreitt út í Cuyahoga-ána og stöðuvatnið Erie ásamt skólpi og rusli íbúanna. Þetta hafði þau áhrif að reglulega var strandlengja vatnsins full af dauðum fiskum sem lifðu ekki af mengunina í vatninu. Áin var oft þakin olíubrák og það gerðist oftar en einu sinni að eldur geisaði í ánni. Straumhvörf urðu árið 1969 þegar áin stóð í ljósum logum og olli töluverðum spjöllum. Í kjölfarið var sett fræg löggjöf (the clean water initiative) sem á við um öll ríki Bandaríkjana og setur takmarkanir á úrgangslosun í vötn og ár. Í krafti löggjafarinnar var ráðist í hreinsunarstarf í ánni og stöðuvatninu sem tekist hefur einstaklega vel. Fallegir og grænir almenningsgarðar liggja nú með fram ánni og laða að sér unga sem aldna í ýmis konar útivist, fuglaskoðun og fiskveiðar. Ferskvatnsuppspretta borgarbúa er nú í stöðuvatninu og á því má sjá fiskibáta, kajakræðara og fjölbreytt dýralíf.

Frjálslynd borg í uppsveiflu
Breytingar á iðnaðarháttum og verksmiðjuframleiðslu hefur breytt Cleveland á undanförnum áratugum. Borgin býr nú við mun blandaðra hagkerfi en var áður og öllu hefur verið kappkostað til að styrkja innviði borgarinnar bæði fyrir íbúa hennar og þá sem hana heimsækja, en margir brottfluttir Cleveland-búar eru farnir að sækja aftur í heimahagana. Í dag eru flestir sem sækja borgina heim aðrir Bandaríkjamenn eða Kanadabúar en borgin er í mikilli sókn og úr ótalmörgu að velja fyrir veraldarvana ferðalanga. Borgin státar af skemmtilegum hverfum, fjölbreyttri þjónustu og söfnum, íþróttaliðum í úrvalsflokki, útisvæðum, leikhúsum og nánast endalausum viðburðum allt árið um kring. Gestir borgarinnar geta hlaðið niður Destination Cleveland-smáforritinu í símann sinn til að skipuleggja ferðalag sitt og fylgjast með því sem er á döfinni.

________________________________________________________________

Fjölbreytt afþreying í Cleveland

Rock and Roll Hall of Fame
Eitt aðalaðdráttarafl ferðamanna til Cleveland er rokksafnið Rock and Roll Hall of Fame. Safnið er við strönd vatnsins Erie og var teiknað af sama arkitekt og hannaði pýramídana við Louvre-safnið í París. Safnið er mjög stórt með bæði föstum sýningum og breytilegum sem spanna sögu rokktónlistarinnar í gegnum margmiðlunarsýningar, búninga og hljóðfæri tónlistarmanna og texta. Auðvelt er að verja heilum degi á safninu en þar má einnig finna veitingastað og bar til að fylla á tankinn milli þess sem skoðað er. Vefsíða: https://www.rockhall.com

Cleveland Museum of Art
Listasafn Cleveland er staðsett í hinu sjarmerandi University Circle-hverfi en þar má einnig finna dýragarð, grasagarð, tónleikahús og nútímalistasafn. Ókeypis aðgangur er að safninu og þar kennir ýmissa grasa. Það á gott safn verka impressjónistanna ásamt skemmtilegum nútímaverkum eftir bandaríska listamenn en þó er safnið þekkt fyrir stórt safn egypskra og suðaustur-asíska verka. Safnið er í gullfallegri byggingu með yfirbyggðu torgi í miðju safnsins og á fyrstu hæðinni má finna afþreyingarherbergi með gagnvirku efni fyrir yngstu kynslóðina. Vefsíða: http://www.clevelandart.org/

The Cleveland Orchestra
Forfallnir aðdáendur klassískrar tónlistar vilja margir meina að sinfóníuhljómsveit Cleveland sé sú besta í Bandaríkjunum. Hljómsveitin ferðast mikið bæði um Bandaríkin og önnur lönd en á þó heimili sitt í Severance Hall, fallegri byggingu frá árinu 1931 sem ber eftirnafn velunnara síns, John Severance, en hann lét reisa tónlistarhúsið í minningu heittelskaðrar eiginkonu sinnar. Finna má dagskrá og fréttir hljómsveitarinnar á heimasíðu hennar. Vefsíða: https://www.clevelandorchestra.com

Cleveland Cavaliers og Cleveland Indians
Óhætt er að segja að Cleveland-búar séu forfallnir áhugamenn um körfubolta enda er lið þeirra, Cavaliers, með þeim bestu í NBA-deildinni og keppir nú um meistaratitill deildarinnar. Frægasti leikmaður liðsins, LeBron James, er frá svæðinu og nýtur mikillar hylli. Þegar heimaleikir eru fyllist miðborgin af stuðningsmönnum liðsins og barir eru þéttsetnir af þeim sem ekki náðu miða á leikinn sjálfan. Borgin er einnig þekkt fyrir hafnaboltalið sitt, Indians, sem einnig nær ávallt langt í sinni leikjatíð og laðar að sér stóran hóp áhangenda. Gaman er að vera hluti af stemningunni sem myndast í miðbænum þegar leikir eru en einnig er hægt að kynna sér leikjatíðina og kaupa sér miða til að upplifa hughrifin og spennuna í beinni. Vefsíða Cavaliers.
Vefsíða Indians: https://www.mlb.com/indians

 

Skeljungsfléttan sem gerði fimm einstaklinga ofurríka

|
|

Embætti héraðssaksóknara réðst í umfangsmiklar aðgerðir í síðustu viku vegna Skeljungsmálsins svokallaða. Fléttan sem ofin var í málinu er talin hafa falið í sér sölu hlut á undirverði, ólögmæta nýtingu á fjármunum Skeljungs, þynningu á veði kröfuhafa og um 850 milljóna króna greiðslu til hvers þeirra þriggja starfsmanna banka sem seldu nýjum eigendum Skeljung.

Fimmtudaginn 31. maí réðst embætti héraðssaksóknara í umfangsmiklar aðgerðir vegna máls sem hafði verið til skoðunar þar frá miðju ári 2016. Málið snérist um meint umboðsvik, meint skilasvik, möguleg mútubrot og mögulegt brot á lögum um peningaþvætti þegar olíufélagið Skeljungur og tengd félög voru keypt og seld á árunum 2008 til 2013. Við brotunum getur legið allt að sex ára fangelsisvist.

Fimm einstaklingar eru með stöðu sakbornings við rannsókn málsins. Tvö þeirra, hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Þórðarson, voru handtekinn á fimmtudag. Hin þrjú; Einar Örn Ólafsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Kári Guðjónsson, sem unnu saman í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis fyrir um áratug, voru boðuð til skýrslutöku sama dag.

Fólkið er grunað um að hafa misnotað aðstöðu sína til að koma eignum út úr banka á undirverði, að hafa nýtt sameiginlegar eignir Skeljungs og bankans til að greiða fyrir kaup í félaginu, að hafa viljandi rýrt eignir Íslandsbanka og að hafa gert með sér samkomulag þar sem Svanhildur Nanna og Guðmundur afhentu hinum þremur sem seldu þeim Skeljung yfir 800 milljónir króna hverju fyrir sig fyrir þeirra aðkomu að málinu.

Á sama tíma og handtökurnar áttu sér stað fóru fram húsleitir víða um höfuðborgarsvæðið í tengslum við rannsókn málsins. Engar eignir voru þó kyrrsettar á þessu stigi málsins, en fólkið hefur allt efnast mjög hratt á síðustu árum. Og öll þau umsvif hófust með Skeljungsviðskiptunum sem nú þykir rökstuddur grunur um að hafi ekki staðist lög.

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir er í dag í stjórn VÍS, en hún og eiginmaður hennar eru stórir hluthafar í félaginu. Hún sagði af sér stjórnarformennsku fyrir viku síðan í kjölfar þess að hún var handtekin af embætti héraðssaksóknara.

Bestu og verstu viðskiptin

Salan á Skeljungi og P/F Magn vöktu eðlilega mikla athygli í lok árs 2013. Þau voru valin bestu viðskipti ársins 2013 af Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti. Í rökstuðningi dómnefndarmanna sagði m.a. „Ef rétt er að þau [hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson] hafi fengið tíu milljarða króna fyrir félagið (með skuldum) eru þau réttnefndir snillingar!“ og „Eigendur Skeljungs koma vel frá borði — fengu ríflega greitt fyrir sinn hlut.“

Viðskiptin voru líka ofarlega á blaði yfir verstu viðskipti ársins, en í þeim flokki lentu þau í öðru sæti. Þar var þó átt við að viðskiptin hefði verið léleg fyrir kaupendurna, sem að mestu voru lífeyrissjóðir. Í umsögn sagði að félagið hafi verið lítils virði nokkrum árum áður, en niðurfellingar skulda og kaupgleði fagfjárfesta hefði gert eigendum félagsins kleift að ná fram einum bestu viðskiptum síðustu ára. „Lífeyrissjóðirnir eru stútfullir af peningum og virðast vera að kaupa Skeljung á allt of mikið“ var haft eftir einum dómnefndarmanni Markaðarins.

Kjarninn fer ítarlega yfir fléttuna í fjórum skrefum í Mannlífi sem kom út föstudaginn 8. júní og á vef sínum.

Ný lög auðvelda allt ferli í kringum líffæragjafir

|
|

Alþingi samþykkti í vikunni ætlað samþykki líffæragjafa en það var þingmannsfrumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur og Willums Þórs Willumssonar sem lagt var fram á Alþingi.
Mikill skortur er á líffærum í heiminum og hafa því margar þjóðir farið þessa leið en árið 2013 hafnaði Alþingi frumvarpi um ætlað samþykki. Þetta frumvarp mun því hafa töluverðar breytingar í för með sér.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Silja Dögg segir að mikil fræðsla og umræða í samfélaginu hafi haft þarna töluvert að segja um breytta afstöðu til frumvarpsins en hún var formaður í þverpólitískum hópi sem skipaður var á sínum tíma af Kristjáni Júlíussyni, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, um líffæragjafir og vann ötullega að málinu ásamt fleirum. Tíð stjórnarskipti hafi þó haft áhrif á að málið fékk ekki framgöngu á þingi. Silja tekur fram að það þurfi að halda áfram að fræða fólk um líffæragjafir, upp koma ýmsar spurningar sem varði siðferð og trú og menningarlegur bakgrunnur hefur áhrif á afstöðu fólks til líffæragjafa. Hún segir að í Noregi sé sérstök skrifstofa sem sjái um fræðslu líffæragjafa. „Ég myndi kjósa að það yrði einn starfsmaður hjá Embætti landlæknis sem myndi hafa fræðslu og um líffæragjafir á sínum höndum. Við þurfum að halda áfram að fræða fólk og fara í skóla þó að lögin séu til staðar nú og fólk þarf að geta rætt þetta og afskráð sig, óski það ekki eftir að gefa líffæri við andlát. Svo þarf einnig að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í sambandi við allt ferli um líffæragjafir,“ segir Silja Dögg.

Löggjöfin mætir skorti á líffærum
En hvaða þýðingu hefur slík löggjöf fyrir almenning? „Samkvæmt rannsóknum hjá starfshópnum þá léttir slík lögleiðing mikið á bæði aðstandendum og auðveldar allt ferlið í kringum líffæragjöf, en það gildir líka um heilbrigðisstarfsfólk. Löggjöfin mun hafa miklar breytingar í för með sér til að mæta skorti á líffærum sem stöðugt eykst með hækkandi aldri þjóðarinnar,“ segir Silja Dögg.

„Við þurfum að halda áfram að fræða fólk og fara í skóla þó að lögin séu til staðar nú og fólk þarf að geta rætt þetta og afskráð sig, óski það ekki eftir að gefa líffæri við andlát. Svo þarf einnig að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í sambandi við allt ferli um líffæragjafir.“

Löggjöfin um ætlað samþykki var samþykkt af 52 þingmönnum en 2 sátu hjá. Lög frá 1991 byggðust á upplýstu samþykki, þ.e. að hinn látni hefði verið andvígur líffæragjöf nema hann hefði áður lýst yfir vilja til að gefa líffæri sín.

Í ljós hefur komið að meginþorri þjóðarinnar er hlynntur ætluðu samþykki. Íslendingar hafa hingað til fengið líffæri úr sameiginlegum líffærabanka Norðurlandaþjóða, en líffæragjafir okkar hafa lengst af verið fáar í samanburði við aðra. Fjöldi líffæragjafa hefur aukist verulega síðastliðin þrjú ár og mikilvægt að viðhalda því til frambúðar en það er talið m.a. stafa af aukinni umræðu og fræðslu um líffæragjafir.

______________________________________________________________

– Mikill skortur er á líffærum í heiminum.
– Löggjöf frá 1991 gengur út frá að hinn látni hafi verið andvígur líffæragjöf.
– Nýju lögin ganga út frá að hinn látni gefi líffæri sín við andlát nema hann hafi komið annarri skoðun sinni áleiðis.
– Rannsóknir hafa sýnt að meginþorri þjóðarinnar er hlynntur því að gefa líffæri.
– Nýju lögin auðvelda bæði aðstandendum og heilbrigðisstarfsfólki allt ferli í kringum líffæragjöf.
– Með fram nýju lögunum verður bæði almenningur fræddur og heilbrigðisstarfsfólk þjálfað.
– Æskilegt er að Embætti landlæknis muni sjá um upplýsingar um líffæragjafir og þá sem eru andvígir.

Hér á landi getur fólk skráð vilja sinn ef það vill ekki gefa líffæri á vef Embættis landlæknis og á www.heilsuvera.is.

Fá ekki að spila tónlist á pósthúsum: „Ég hef ekki heyrt af óánægju“

Við á Mannlífi tókum Twitter-færslu Brynjars til okkar og völdum þessa fallegu mynd af honum

Það hefur verið sannað í mýmörgum rannsóknum um heim allan að tónlist hefur áhrif á kaupvenjur fólks og að hægt sé að hvetja til aukinna kaupa með ákveðinni tegund af músík. Það vekur því athygli að engin tónlist er spiluð á pósthúsum landsins. Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts, segir það helgast af því að ekki sé hægt að spila tónlist á pósthúsunum.

„Það er í raun enginn búnaður til að spila tónlist í afgreiðslum Póstsins sem er ein stærsta ástæða þess að ekki hefur verið ákveðið að fara í þessa átt. Bakrými eru svo annað mál og starfsmenn hlusta eflaust á tónlist og/eða útvarp þar,“ segir Brynjar en samkvæmt samtölum við starfsmenn pósthúsa fékk blaðamaður þær upplýsingar að Pósturinn vildi ekki greiða stefgjöld. Er það rétt?

„Stefgjöld eru ekki það sem er að koma í veg fyrir að tónlist sé spiluð á pósthúsum, alla vega ekki þegar þetta var skoðað síðast,“ segir Brynjar og útilokar ekki að þetta verði endurskoðað einhvern tíma í framtíðinni.

„Við höfum skoðað þetta en síðast var ákveðið að spila ekki tónlist í afgreiðslum, eitthvað sem getur auðvitað breyst, það hefur hins vegar ekki verið tekin nein ákvörðun um það að svo stöddu. Þetta getur að sjálfsögðu breyst í framtíðinni. Við erum ekki með þetta til skoðunar í augnablikinu en að sjálfsögðu er vert að endurskoða þetta eins og annað.“

Blaðamaður Mannlífs fór á stúfana og talaði við starfsmenn pósthúsa víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Töldu einhverjir það miður að ekki væri hægt að spila tónlist á vinnustaðnum á meðan öðrum fannst það kærkomið. Hefur Brynjar orðið var við óánægju meðal starfsfólk vegna þessa fyrirkomulags?

„Ég hef ekki heyrt af óánægju með þetta, hvorki hjá starfsmönnum né viðskiptavinum, en ég vil hvetja fólk að heyra í okkur ef það telur að við getum bætt okkur þegar kemur að þessu eða einhverju öðru.“

Aðalmynd / Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts.

Út fyrir þægindarammann

|
|

Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir, sem kitluðu hláturtaugar landsmanna með sketsaþættinum Þær Tvær um árið, eru með splunkunýja gamanseríu í smíðum.

Sjónvarp Símans kemur að nýju þáttunum sem þær Vala Kristín og Júlíana eru að vinna að ásamt Fannari Sveinssyni.

„Þetta er sex þátta sería, framhaldsþættir, með gamansömum tón,“ lýsir Júlíana, en að hennar sögn fjalla þeir um ungar konur sem hafa verið vinkonur frá því í leiklistarskóla. „Önnur er orðin húsmóðir sem er gift delluóðum manni og löngu búin að gefa upp von um líf í leiklistinni en hin enn þá að elta leikaradrauminn í örvæntingu. Dag einn fá þær tækifæri lífsins þegar þeim er boðið að vera með sjónvarpsþátt á besta tíma. Óvæntir hlutir gerast og húsmóðirin slær í gegn á meðan hin klúðrar stóra tækifærinu.“

Vala segir að þau séu þrjú að skrifa seríuna, þær tvær og Fannar Sveinsson sem mun einnig leikstýra. Samstarfið hafi gengið vel og þau séu nú að móta hvaða stefnu þau vilji taka. „Þá verðum við öll á sömu blaðsíðu þegar við hefjum tökur, en Fannar stýrir skipinu og við Júlíana getum þá bara einbeitt okkur af því að leika þessar persónur,“ segir hún og viðurkennir að það geti verið örlítið kaótískt að skrifa og vera með annan fótinn í framleiðslunni því þá hafi maður skoðanir og áhyggjur af öllu. „En eina ráðið við því er að ráða í lið með sér fólk sem maður treystir og leyfa því að vinna sína vinnu.“

„Við erum að fara langt út fyrir okkar þægindaramma. Inn á ótroðnar slóðir.“

Spurðar hvort nýju þættirnir verði í svipuðum stíl og Þær Tvær segja þær að þeir verði gamansamir líka. Helsti munur sé kannski sá að meðan Þær Tvær hafi verið sketsaþáttur, sem byggðist upp á stuttum fyndum sögum sem tengdust ekki innbyrðist, þá verði tveimur persónum fylgt eftir allan tímann í gegnum nýju seríuna og þeirra saga sögð. „Í Þær Tvær var spurningin fyrir okkur alltaf bara sú hvort okkur þættu hugmyndirnar fyndnar,“ segir Vala. „Nú reynir meira á að gera persónur sem eru sannar og áhorfendur geta samsamað sig með, en setja þær síðan í aðstæður sem eru fyndnar.“

Þær játa að mun flóknara ferli sé að skrifa samhangandi sögu en sketsa. Persónur og aðstæður verði að vera trúverðugar og það þurfi að huga að mörgum smáatriðum í sögunni til að atburðarásin gangi upp. „Við erum að fara langt út fyrir okkar þægindaramma,“ segir Vala „Inn á ótroðnar slóðir.“

Sem stendur eru þremenningarnir að vinna að handritinu. Vinkonurnar reikna með að þeirri vinnu ljúki í júní og þá taki framleiðslan við. „Draumurinn er svo að serían fari í loftið í haust,“ segja þær. Þó sé of snemmt að slá því á fast.

Gott rúm er gulli betra

Halldór Þ. Snæland er fæddur 1946 og er lyfjafræðingur en hann útskrifaðist frá HÍ, 1973. Hann ólst upp og hefur starfað við svampvinnslu og dýnuframreiðslu frá barnsaldri en hann er sonur Péturs V. Snæland og Ágústu Pétursdóttur Snæland, stofnenda og eigenda fyrirtækisins Péturs Snæland hf., sem stofnað var árið 1949.

Halldór Þ. Snæland.

,,Árið 1949 gangsettu foreldra mínir framleiðslu á náttúrulegum latexsvampi og var þessi verksmiðja ein af fyrstu latexverksmiðjum í Evrópu. Árið 1968 hófu þau framleiðslu á polyuretan-svampi og voru sömuleiðis meðal þeirra fyrstu í Evrópu sem það gerðu.“

Nú hefur þú upplifað tímana tvenna og fylgt fyrirtækinu eftir í áranna rás og fylgst með því vaxa og dafna. Getur sagt okkur aðeins frá þróun og vexti fyrirtækisins?

Miklar breytingar á rekstri fyrirtækisins hafa átt sér stað í áranna rás. Í upphafi var salan aðallega á hráefni til húsgagnaiðnaðarins sem var mjög blómlegur á þeim tíma og sala á tilbúnum dýnum til húsgagnaverslana, inn á sjúkrastofnanir og í fiskiskip. Minna var selt beint í almennri sölu til viðskiptavina. Síðar jókst sala til einstaklinga til mikilla muna þar sem margir voru að smíða sín eigin húsgögn bæði til nota inn á heimilum sem og í sumarbústöðum.“

Hefur margt breyst á þessum árum? 

„Eftir því sem tíminn leið fór samkeppnin á markaðinum að aukast með meiri innflutningi á tilbúnum húsgögnum og með inngöngu í EFTA átti sér stað mikið hrun í íslenskum húsgagnaiðnaði. Á árunum 1980-1995 hættu mörg góð bólsturfyrirtæki  og húsgangaverslanir rekstri. Þessar breytingar á markaðinum höfðu auðvitað mikil áhrif á okkar fyrirtæki þannig að breytinga var þörf. Árið 1991 sameinuðumst við Lystadún sem verið hafði í samskonar rekstri og Pétur Snæland hf. og úr varð Lystadún–Snæland ehf. með aðsetur í Skútuvogi. Þar var starfrækt svampframleiðsla, skurðarverkstæði, saumastofa og verslun þar sem seldar voru dýnur, rúm og svamphúsgögn og fleiri svampvörur.“

Kjarninn af fyrirtækjum sem myndar Vogue fyrir heimilið

„Árið 2000 keypti fyrirtækið verslunina Marco sem staðsett var í Mörkinni 8 og flutti fyrirtækið þangað með allan sinn rekstur. Þarna fékkst loksins gott verslunarhúsnæði þar sem betra var að markaðssetja vörur okkar til almennings. Valdimar Grímsson keypti Lystadún–Snæland og Marco árið 2001 og bætti síðan Vogue í safnið árið 2002. Þarna var kominn kjarninn af fyrirtækjunum sem mynda Vogue fyrir heimilið.“

Svampur er ekki bara svampur

„Ég hefði ekki starfað svona lengi hjá þessum fyrirtækjum ef ég mér þætti það ekki skemmtilegt. Svampur er ekki bara svampur eins og margir halda. Hann er til af ótrúlega mörgum gerðum og hægt er að nýta hann á ótal vegu enda er hann notaður í flest húsgögn, rúmdýnur, leikföng og margar hönnunarvörur.  Í verslunina koma mörg skemmtileg verkefni sem gaman er að glíma við. Í rauninni er mottóið hjá okkur það að ekkert sé ómögulegt fyrr en búið er að sannreyna að svo sé.“

Klæðskeraframleidd rúm og dýnur

„Þar sem mikil samkeppni er í sölu á rúmum og rúmdýnum höfum við kosið að velja okkur stað á markaðnum sem hentar okkur og okkar viðskiptavinum mjög vel. Þar á ég við „klæðskeraframleidd“ rúm og dýnur. Við höfum frá stofnun fyrirtækisins framleitt rúm og dýnur þar sem farið er í einu og öllu eftir þörfum viðskiptavina. Rúm sem við framleiðum eru ekki til á lager heldur er stuðst er við þarfir og óskir viðskiptavina hvaða efnisgerð er valin, það er að segja latex, kaldsvampur eða pokagormar og hvað varðar stífleika, stærð og útlit.“ Í dag á þetta enn betur við en áður, þar sem ný og betri efni til dýnugerðar eru komin á markað auk þess sem þekking manna á uppbyggingu góðrar dýnu er meiri. „Oft reynist það mönnum erfitt að velja réttan stíleika og gerð af dýnu í versluninni. Við gerum ráð fyrir þessu í framleiðslu okkar á dýnunum, þannig að það sé auðvelt að breyta þeim eftir á.“

Segðu okkur aðeins frá rúmunum, dýnunum sem þið eruð að selja, skiptir máli hvernig rúm/dýnu maður velur?

Þegar maður velur sér nýtt rúm þarf að vanda valið vel. Maður þarf að hugsa vel fram í tímann og reyna að ímynda sér hvernig rúmið reynist manni í náinni framtíð. Gott er að velja dýnu sem hægt er að breyta eftir að þú er búinn að kaupa hana og prófa í nokkra daga.“

Það sem ber að hafa í huga við val á dýnum:

  • Alltaf velja eins stífa dýnu og líkaminn þolir (án verkja).
  • Of stífum dýnum er oftast hægt að bjarga með mjúkri yfirdýnu.
  • Öll rúm mýkjast við notkun og því mýkra sem það er í upphafi þeim mun fyrr verður það e.t.v. orðið of mjúkt.
  • Svæðaskiptur stífleiki nýtist öllum mjög vel.
  • Gott er að dýnuver séu með rennilásum, þannig að hægt sé að taka dýnuver af og þvo og viðgerðir á dýnum eru auðveldari.
  • Ekki ákveða fyrir fram hvaða dýnu þú ætlar að kaupa.
  • Engin dýna er best fyrr en þú ert búinn að ganga úr skugga um að hún henti ÞÉR.
  • Dýna sem hentar frænda þínum er ekki endilega sú besta fyrir þig.
  • Dýrasta dýnan í búðinni er ekki alltaf sú sem hentar þér best.

„Að lokum segi ég þetta: „gott rúm er gulli betra“.  Þá er ég að tala um heilsurúmið þitt, sem þú velur sjálfur og líkama þínum líður vel á. Fátt er betra en að vakna úthvíldur að morgni, tilbúinn til að takast á við nýjan dag.“

 

Dreymir um að eignast ákveðna týpu af sérhæð eftir Kjartan Sveinsson arkitekt

Ólafur H. Guðgeirsson er löggiltur fasteignsali hjá Stakfell fasteignasölu, menntaður í almannatengslum og markaðsfræðum og með MBA-gráðu til viðbótar. Hann býr yfir áratuga reynslu af markaðsmálum og rekstrarráðgjöf, á þrjú börn og eina stjúpdóttur á aldrinum 14, 16, 23 og 25.  Hann er í sambúð með Kristínu Þórisdóttur, viðskiptafræðingi í fjárreiðudeild Símans. Bjó sjálfur í úthverfi Reykjavíkur í áratugi en er nýlega fluttur til Kristínar í Vesturbæinn þar sem hann kann vel við sig.

Hvað heillar þig mest við starfið?
„Má segja að það sé tvennt: Annars vegar það að starfið krefst náinna persónulegra samskipta við fólk sem statt er á öllum mögulegum stöðum í lífinu. Oft þarf að nálgast úrlausn mála af mikilli varfærni og yfirvegun, en einnig þarf maður að vera hugmyndaríkur og reyndur til að gera þetta vel.

Hins vegar þá er þetta starfsumhverfi nátengt ástandinu í hagkerfinu og við verðum vör við breytingar í efnahagsmálum á undan flestum öðrum. Ef eitthvað kemur upp sem skapar óöryggi á markaðnum, til dæmis kosningar, umtal um samdrátt í ferðaþjónustu eða breytt gengi krónunnar, þá finnum við strax breytingar, þannig að það ýmist hægist á eftirspurn eða hún herðir á sér. Fyrir mig sem rekstrarhagfræðing þá er þetta mjög spennandi.“

Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?
„Yfirleitt reyni ég að vera mættur um klukkan átta, byrja á að fara yfir verkefni vikunnar og hvernig þeim hefur miðað áfram. Fer í að fylgja málum eftir, en ég skipulegg verkefnin eftir því hvort hvort um er að ræða söluverkefni, öflun eigna í sölu, eftirfylgni kaupsamninga eða markaðssetningu. Fæstir dagar hins vegar fara eins og lagt var upp með heldur gerist alltaf eitthvað nýtt og óvænt.“

„Fyrir mig persónulega skiptir síðan máli að hafa bílskúr þar sem ég get dundað mér í jeppanum og skrifborð fyrir tölvuna og myndavélarnar, en jeppar og ljósmyndun hafa fylgt mér frá unglingsárum.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili?
„Mér finnst heimili þurfa að vera þannig að fólk geti gleymt skólatösku á ganginum, hengt jakka á stól eða skilið eftir peysu í sófanum án þess að allt liti út fyrir að vera á öðrum endanum. Það sem ég á kannski við er að heimili megi að mínu viti ekki vera yfirhönnuð og stíliseruð. Fyrir mig persónulega skiptir síðan máli að hafa bílskúr þar sem ég get dundað mér í jeppanum og skrifborð fyrir tölvuna og myndavélarnar, en jeppar og ljósmyndun hafa fylgt mér frá unglingsárum.“

Getur þú líst þínum stíl?
„Á erfitt með það en gallabuxur, skyrta og jakki er það sem ég vel mér helst ef það segir eitthvað.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt?
„Uppáhaldsarkitektinn minn er Kjartan Sveinsson, af nokkrum ástæðum. Eignir eftir hann eru yfirleitt einfaldar, hann raðar saman stofum og eldhúsi þannig að það er auðvelt að breyta eftir kröfum nútímans og hann er snillingur í að leyfa birtu að njóta sín sem allra best. Arkitektar í dag nýta vissulega plássið betur en Kjartan gerði, en mig dreymir engu að síður um að eignast ákveðna týpu af sérhæð eftir hann.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð?
„Ég held mjög upp á danska hönnuði eins og Börge Mogensen og Lois Poulsen. Ég á sófa eftir Börge Mogensen, en ég á reyndar líka tvo íslenska stóla frá því um, 1970 sem ég lét gera upp fyrir nokkrum árum. Veit því miður ekki hver hannaði þá en myndi gjarnan vilja komast að því.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?
„Mig langar í stóla sem heita Mogensen 2204, en veit ekki hvort ég kem nokkurn tíma til með að vera í húsnæði þar sem hægt væri að koma slíkum gripum fyrir svo vel færi.“

Uppáhaldsliturinn þinn?
„Mér finnst bláir tónar yfirleitt fallegir, samanber sixties-stólana mína, en ég held líka mjög upp á litinn sem er á vel notuðu brúnu leðri.“

Ólafur H. Guðgeirsson er löggiltur fasteignsali hjá Stakfell fasteignasölu.

Hvar líður þér best?
„Það væri undir stýri á jeppanum, með útilegudót og útivistarföt, í ferðalagi með fjölskyldunni.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?
Margir fínir veitingastaðir hafa sprottið upp á undanförnum árum, en ég borðaði í gær í Englendingavík í Borgarnesi. Fékk þar einhvern þann fallegasta mat sem ég hef borðað, sérlega gott sjávarréttapasta, en svo er birtan og útsýnið á staðnum þannig að maður vill helst ekki standa upp og fara.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar? 
„Klárlega sixties-stíll eins og frá Kjartani Sveinssyni og Sigvalda Thordarsyni. Þó að þeir séu ólíkir þá eru þeir báðir gott dæmi um það tímabil sem mér finnst flottast í byggingum hér á landi.“

Að lifa lífinu lifandi er að … hafa gaman af því sem maður er að gera, vera með gott fólk í kringum sig og reyna að vera sæmilega góð fyrirmynd fyrir krakkana sína.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

 

Geta ekki útskrifað sjúklinga af Kleppi

|
|

Öryggis- og réttargeðdeildin á Kleppi getur ekki útskrifað fólk sem hefur lokið meðferð vegna skorts á félagslegu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Á meðan er ekki hægt að taka við nýjum sjúklingum. Algjört ófremdarástand segir sálfræðingur á Kleppi.

Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur á öryggis- og réttargeðdeildinni á Kleppi.

„Við getum ekki tekið við nýjum sjúklingum og ekki heldur útskrifað fólk sem hefur lokið meðferð hjá okkur vegna skorts á félagslegu húsnæði í Reykjavík og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur á öryggis- og réttargeðdeildinni á Kleppi.

Hún segir þetta skapa ófremdarástand fyrir fólk sem er með geðraskanir og hefur lokið meðferð á öryggisgeðdeild og réttargeðdeild og þarf á öruggu húsnæði að halda til að fóta sig í samfélaginu á nýjan leik.

Á öryggisgeðdeildinni á Kleppi geta verið átta sjúklingar. Þar eru nú sjö. Af þeim eru fjórir sem hægt er að útskrifa og bíða þeir búsetuúrræða. Á réttargeðdeildinni á Kleppi eru fjórir einstaklingar og eru þrír þeirra útskriftarhæfir. Allir eru sjúklingarnir á milli tvítugs og fertugs. Sótt var um húsnæði fyrir einn þremenninganna á réttargeðdeildinni í vikunni en hinir tveir hafa beðið eftir húsnæði síðan í nóvember og byrjun árs. Elsa segir einstaklingana þurfa mismikla þjónustu, sumir þeirra geti séð um sig sjálfir en aðrir þurfi hvatningu við daglegar athafnir og allt upp í sólarhringsþjónustu.

„Okkar fólk er í viðkvæmustu stöðunni. Það er galið að ekki sé hægt að hjálpa því.“

„Einn þeirra sem bíður eftir húsnæði hjá okkur er nýkominn með fulla vinnu. En hann getur ekki flutt út frá okkur og þarf að sofa á réttargeðdeildinni hjá okkur eins og aðrir sjúklingar. Það er skammarlegt,“ segir Elsa Bára og rifjar upp að fyrir nokkru hafi einn sjúklingur þurft að bíða í tvö ár eftir að fá húsnæði. Hún óttast að þeir sem eru útskriftarhæfir á báðum deildum Klepps, sem hún vinnur á, geti líka þurft að bíða í tvö ár eftir húsnæði.

„Fólk hefur beðið í mjög langan tíma eftir húsnæði. Á meðan við getum ekki útskrifað fólk þá getum við ekki tekið við öðrum,“ segir Elsa og bendir á að eitt málið hafi strandað á því í tvö ár að ríki og borg gátu ekki komið sér saman um hvor eigi að borga fyrir búsetuúrræðið.

Elsa hóf störf á Kleppi fyrir fjórum árum. Þá var sama staða uppi og nú. Hún segir þörfina eftir þjónustu vegna geðheilbrigðisvanda aðeins aukast og séu nú mörg hundruð manns á biðlista eftir félagslegum íbúðum. Fjölgun úrræða í félagslega íbúðakerfinu helst hins vegar ekki í hendur við það eftirspurnina.

„Okkar fólk er í viðkvæmustu stöðunni. Það er galið að ekki sé hægt að hjálpa því,“ segir Elsa Bára.

Mikið um innköllun á matvælum

Innköllun á matvælum hefur stóraukist upp á síðkastið.

Krónan í samráði við matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur innkallaði um mánaðamótin kjúklingalasagne um allt land. Í vörunni var að finna egg, sellerí og sinnep án þess að þess væri getið á lista yfir innihaldsefni á umbúðum vörunnar. Afurðirnar eru á lista yfir ofnæmis- og óþolsvalda en ekki tilgreindar á umbúðum vörunnar. Af þessum sökum varaði Matvælastofnun neytendur við neyslu vörunnar.

Innköllun á matvælum hefur stóraukist upp á síðkastið en það sem af er ári hefur Matvælastofnun innkallað matvæli í fjórtán skipti. Til samanburðar voru matvæli innkölluð í sjö skipti á fyrri hluta síðasta árs og í níu skipti á sama tíma fyrir tveimur árum. Fáheyrt er að matvæli séu innkölluð jafnoft og nú.

Herdís M. Guðjónsdóttir hjá Matvælastofnun segir fjölgun innköllunar á matvælum einkum skýrast af vanmerkingum á ofnæmis- og óþolsvöldum.  „Aukin tíðni innkallana vegna þessa er að öllum líkindum til komin vegna skýrari reglna um tilgreiningu á ofnæmisvöldum en þó líklega enn fremur vegna aukinnar áherslu á þessi mál í eftirliti.  Ekki kemur til innkallana ef feitletrun vantar, eingöngu ef ofnæmis-/óþolsvaldur er ekki tilgreindur í listanum yfir innihaldsefnin eða á umbúðum í tilfelli matvæla þar sem ekki er krafa um innihaldslista.“

Vörur sem þarf að innkalla finnast oftast í markaðseftirliti heilbrigðiseftirlitsins, eftirliti Matvælastofnunar, frá neytendum eða viðvörunarkerfi Evrópu (RASFF) um hættuleg matvæli og fóður.

Á vef RASFF má m.a. sjá að í Evrópu eru innkölluð ýmis konar matvæli á degi hverjum.

Rúmlega 200 prósent aukning í athöfnum hjá Siðmennt

||||
||||

Aðsókn í athafnastjóranám hjá lífsskoðunarfélaginu Siðmennt hefur aukist til muna með tilkomu aukins áhuga á athöfnum á vegum félagsins. Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir það hugnast fólki að hafa val á stærstu stundunum í lífi sínu. Þá sé starf athafnastjóra vinsælt meðal listamanna.

„Fólki sem sýnir áhuga er boðið að vera á lista hinna áhugasömu, eins og við köllum hann. Í vetur, þegar um þrjátíu manns voru komnir á listann, var ákveðið að bjóða upp á námskeið í athafnastjórnun og fimmtán voru loks valdir inn á námskeiðið,“ segir Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar, félag siðrænna húmanista á Íslandi. Athafnastjórar Siðmenntar framkvæma athafnir eins og giftingar, jarðarfarir og nafnagjafir, en ekki kemst hver sem er í gegnum nálarauga félagsins.

„Við setjum ákveðnar kríteríur á fólk til að komast inn í námið. Fólk þarf að deila með okkur lífsskoðun, geta átt góð samskipti við fólk, skrifa góðan texta og, síðast en ekki síst, geta flutt texta. Það er töluvert af leikurum og vel þjálfuðu fólki í framkomu sem hefur sóst í þetta,“ segir Bjarni.

Gifti fyrrum nemanda sinn

Margrét Gauja.

Meðal starfandi athafnastjóra er leiðsögumaðurinn og stjórnmálakonan Margrét Gauja Magnúsdóttir. „Allar athafnarnir eru eftirminnilegar, engin er eins og allar jafndásamlegar. Auðvitað er mín fyrsta giftingarathöfn sú sem fer efst í minningabunkann. Þau báðu sérstaklega um mig og treystu mér algerlega fyrir þessum stóra degi vitandi að þetta var mín fyrsta giftingarathöfn. Ég var að fríka út af stressi en undirbúningurinn og athöfnin sjálf voru svo dásamleg að ég sveif um á bleiku skýi í viku á eftir,“ segir Margrét og brosir og rifjar upp aðra ógleymanlega stund. „Svo hef ég gift fyrrum nemanda minn. Það var dásamlegt þar sem athöfnin var leyndarmál og ég faldi mig inni í þvottahúsi þar sem ég setti slörið í brúðina sem ég hafði kennt kynfræðslu nokkrum árum fyrr.“

Margrét bjó á Höfn þegar hún tók ákvörðun um að læra að verða athafnastjóri, þar sem gríðarleg þörf hafði myndast fyrir austan fyrir slíka þjónustu. Hún mælir með starfinu og segir það krefjandi. „Að fá að kynnast fólki og fjölskyldum þeirra á svo stórum tímamótum er ómetanleg reynsla, hvort sem það eru giftingar eða nafnagjafir. Ég fæ að nota peysufötin mín reglulega sem ég saumaði þegar ég bjó á Höfn og ég er farin að hafa það sem hefð að biðja móður brúðarinnar eða brúðgumans að aðstoða mig við að setja upp slaufuna. Mér finnst þetta bara hrikalega gaman en ég tek þessu mjög alvarlega því passa ég mig á því að taka ekki að mér fleiri en tvær athafnir í mánuði.“

Metfjöldi athafna í fyrra

Svavar Pétur.

Siðmennt fékk skráningu sem lífsskoðunarfélag árið 2013 og í kjölfarið vígsluréttindi. Árið 2014 voru framkvæmdar 114 athafnir á vegum félagsins en í fyrra var þessi tala komin upp í 356. Það er rúmlega 200% aukning. Nú eru tæplega fimmtíu athafnastjórar starfandi um land allt og líður að útskrift þeirra fimmtán sem hófu nám í athafnastjórnun í vetur. Meðal þeirra er tónlistarmaðurinn og bóndinn Svavar Pétur Eysteinsson.

„Sú saga fór á kreik að ég gæti gefið saman fólk og til þess að verða við kallinu ákvað ég að ná mér í réttindi til þess,“ segir Svavar aðspurður um hans ástæðu fyrir að skella sér í námið. Hann hefur ekki enn fengið tækifæri til að klára starfsnámið vegna anna en hefur nú þegar fengið bókanir fram í tímann. „Ég vona að ég nái ágætu andlegu jafnvægi og verði hæfilega stressaður fyrir mína fyrstu athöfn.“

Samræður besta geðlyfið

Björg.

Annar tilvonandi athafnastjóri er fjölmiðlakonan og rithöfundurinn Björg Magnúsdóttir. Hún hafði gengið lengi með þann draum í maganum að gerast athafnastjóri og segir námið hafa komið sér á óvart.

„Ég get alveg viðurkennt að ég hafði ekki nákvæma hugmynd um það í hverju ég væri lent þegar ég mætti fyrsta kvöldið eftir langan vinnudag. En það, að sitja með góðu fólki og fræðast um og pæla í húmanisma og bara lífinu á breiðum grundvelli, er eitthvað sem höfðaði mjög til mín. Það er svo sem ekkert nýtt að góðar samræður um lífsins málefni séu besta geðlyfið, en þó eitthvað sem er gott að vera minnt á reglulega,“ segir Björg og brosir, en fyrsta athöfnin sem hún framkvæmir verður í ágúst á þessu ári.

Anna Brynja.

Anna Brynja Baldursdóttir, samskiptastjóri hjá Alfreð og menntuð leikkona, er einnig með þeim Svavari og Björgu í útskriftarhópi.

„Ég hef aldrei fundið mig innan neinna trúarbragða og þau hef ég skoðað á alla kanta. Þegar ég uppgötvaði Siðmennt sá ég húmanískt félag sem tekur öllum opnum örmum, óháð lífsskoðunum, og leitast við að útrýma umburðarleysi með þekkingu og eflingu á siðferðisvitund. Ég vil leggja mitt af mörkum og ákvað að gerast athafnastjóri til að geta aðstoðað þá sem vilja athöfn sem er óháð trúarsetningum. Fókusinn verður því á heimspekilegri nótunum og á hið sammannlega.“

Meðal annarra þekktra einstaklinga sem útskrifast von bráðar úr náminu er Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður, og leik- og söngkonan Selma Björnsdóttir. Bjarni hlakkar til að útskrifa hópinn en telur ólíklegt að námskeiðið verði haldið aftur að ári.

„Við köllum þetta jákvætt vandamál,“ segir Bjarni hlæjandi um aðsóknina í námið. „Við höfum tekið inn stjóra í skömmtum og ég býst ekki við því að við gerum það á næsta ári. En ég er strax kominn með vænan lista yfir þá áhugasömu.“

Fjöldi athafna hjá Siðmennt:

2014 – 114 athafnir
2015 – 199 athafnir
2016 – 267 athafnir
2017 – 356 athafnir
Fyrstu fimm mánuði ársins 2018 – 240 athafnir.

Fornfræg náttúruparadís, eyjan Vigur – Drottning Vestfjarða skartar sínu fegursta

Þessi einstaka náttúruparadís og sögufræga eyja skartar sínu fegursta allan ársins hrings og hefur upp á margt að bjóða. Umhverfið og afþreyingin allt í kring laðar að. Það er ótrúleg upplifun að koma í Vigur.

Nálægðin við náttúruna er mjög sterk. Strax þegar gengið er af bryggjunni blasir við selalátur þar sem þeir liggja makindalega og fylgjast með mannlífinu. Á morgnana og svo aftur síðdegis mæta teisturnar og vappa í kringum húsin og fjöruborðið. Það er ótrúlega gaman að fylgjast með teistunni og hún er mjög spök í Vigur þannig að maður kemst í mikið návígi við hana. Síðan verður maður að gæta að hverju fótmáli á vorin því að þarna verpa æðakollur við göngustíga og á milli húsa. Svo er mikið lundavarp í Vigur.  Sjávarniðurinn, fuglahljóðin og að vera innan um þessi fornfrægu hús er einstök upplifun.

 

Umhverfið til fyrirmyndar og stutt í helstu þéttbýliskjarna
Það er öllu haldið ótrúlega vel við á eyjunni. Húsin snyrtileg og allt umhverfið hreint til fyrirmyndar. Eyjan er mjög gróin og hefur mikið undirlendi. Eyjan býður upp á marga möguleika og hægt að hafa af henni mikil nyt. Svo er hún alveg einstaklega vel staðsett þegar horft er til helstu þéttbýliskjarna Vestfjarða.

Það er um fimmtán mínútna sigling til Súðavíkur á hraðbát og um fjörtíu mínútur til Ísafjarðar í góðu veðri.

 

Viktoríuhús byggt af Sumarliða Sumarliðasyni gullsmið
Eins og fyrr segir er öllu mjög vel við haldið. Húsin eru sum mjög gömul. Þarna er til dæmis Viktoríuhús sem var byggt af Sumarliða Sumarliðasyni gullsmið í kringum 1860. Búið er að byggja við húsið mjög fallega þjónustumiðstöð þar sem hægt er að hafa fullbúið kaffihús. Svo er það myllan fræga sem er eina varðveitta kornmyllan úr timbri á Íslandi. Hún var byggð um 1860. Myllan og Viktoríuhús eru í eigu Þjóðminjasafns Íslands.

Þarna er svo helst að nefna íbúðarhús með um tíu svefnherbergjum og svo er búið að breyta fjósinu í áttatíu sæta veitingasal með fullbúnu eldhúsi. Þar er stór og mikill pallur fyrir utan og hægt að njóta veitinga og njóta stórbrotins útsýnis. Svo eru fjárhús, hlaða, verkstæði og vélageymsla eins og nauðsynlegt er í svona rekstri.

 

Tíu kindur á beit
Mikil gróska hefur verið í landbúnaði á eyjunni en hefur farið minnkandi með árunum. Það var kúabú í Vigur en í dag eru eftir um tíu kindur og þær ætla að vera þarna áfram að eigin sögn. Hins vegar er vel mögulegt að vera með veturbeit hrossa þarna ef áhugi er fyrir því.

Dúntekja fer fram á Vigur
Fuglalíf er afar fjölskrúðugt á Vigur og gaman að njóta þessa að horfa á fuglana í sínu náttúrulega umhverfi. Fuglalíf er afar fjölskrúðugt á Vigur og gaman að njóta þessa að horfa á fuglana í sínu náttúrulega umhverfi. Það eru yfir 3000 æðarhreiður í Vigur þar sem dúntekja fer fram. Æðarvarpið gefur í kringum fimmtíu til sextíu kíló ári af hreinsuðum dún eftir því hvernig árar.

Vigur laðar að ferðamenn og býður upp á nánd við náttúruna
Nándin við náttúruna. Fuglar eru mjög spakir og hægt að komast í návígi við seli. Svo eru það gömlu húsin sem laða að og ekki má gleyma Vigur Breið sem er elsti bátur landsins og liggur þarna í fjöruborðinu. Hann skríður mjög vel og þegar hann fer á fljúgandi siglingu klýfur hann svartfugla í tvennt á milli augnanna. Eða svo segja elstu menn. Þetta er hreint ótrúleg upplifun. Á eyjunni er friðland fugla og gömlu húsin eru friðuð. Annars eru engar kvaðir á eyjunni.

Sjálfbærni og menningin í fyrirrúmi

Fasteignasalinn Davíð Ólafsson, hjá Borg fasteignasölu, er með þessa eign til sölu.

Það er rafmagnsstrengur úr landi sem liggur út í eyju. Allt vatn fæst úr uppsprettu nálægt bænum. Það eru miklir möguleikar í sjálfbærri og menningartengdri ferðamennsku í Vigur, þar væri meðal annars hægt að setja upp setur fræða og lista. Svo má að sjálfsögðu hefja þarna búskap að nýju eins og gert hefur verið um aldir. . Svo má að sjálfsögðu hefja þarna búskap að nýju eins og gert hefur verið um aldir. Eyjan er 45 hektarar og ræktuð tún um 10 hektarar. Húsakostur er vel yfir 700 fermetrar að stærð.

Þessi einstaka náttúruperla er til sölu hjá Borg fasteignasölu og er þetta einstakt tækifæri til að eignast eina fegurstu eyju landsins sem öllu því sem henni fylgir. Fasteignasalinn Davíð Ólafsson, hjá Borg fasteignasölu, er með þessa eign til sölu og gefur allar nánari upplýsingar í síma:  897 1533 eða hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið: [email protected]

Skildi hluta af hjartanu eftir á Balí

Linda Sæberg hefur einstaka hæfileika til að njóta augnabliksins, grípa tækifærið og meta litlu hlutina í lífinu. Í henni blundar mikil ævintýraþrá en hún eyddi fæðingarorlofinu á ferðalagi um Balí ásamt fjölskyldu sinni. Fegurðin, menningin og íbúar landsins hittu hana í hjartastað og það voru þung spor að snúa til baka til Íslands.

Í haust fluttist Linda til Egilsstaða með unnusta sínum, Steinari Inga, sem er þaðan. Fyrir áttu þau hvort sína dótturina, Önju Sæberg og Móeiði, en saman eignuðust þau Esjar Sæberg fyrir einu og hálfu ári. Linda er heima með Esjar eins og er, þar sem hún sinnir ýmsum verkefnum sem hún tekur að sér ásamt því að reka og dekra við vefverslunina Unalome. Þegar Linda varð ólétt af Esjari kom í ljós að hún var sett á tíu ára afmælisdag dóttur sinnar, Önju, þann 21. nóvember.

„Ég mundi eftir því að hafa verið frekar mikið innilokuð yfir þessa erfiðu vetrarmánuði þegar ég var í fæðingarorlofi með hana, svo ég sagði snemma við manninn minn að ég vildi endilega létta á þessum dimmu mánuðum með því að fara aðeins erlendis í sólina. Hann tók strax vel í það og vorum við þá helst að hugsa um Suður-Evrópu og kannski 3-4 vikur. Við ferðuðumst um sveitir Suður-Frakklands þegar ég var ólétt og vorum algjörlega kolfallin fyrir þeim, en það var ekki nógu heitt fyrir okkur yfir vetrartímann þar svo við leituðum lengra og á stað þar sem var einstaklega ódýrt að lifa. Útreikningur fæðingarorlofs sýndi lága tölu og sáum við fram á að maðurinn minn gæti ekki verið heima með okkur lengur en fyrsta mánuðinn og fæðingarorlofið yrði mikið basl. Okkur fannst það virkilega lítið heillandi tilhugsun.“

 Héldu til Balí með one-way-ticket í vasanum

Eftir nokkra útreikninga kom í ljós að það myndi ganga upp að ferðast til Asíu og lifa á fæðingarorlofi Lindu og námslánum Steinars, þar sem hann var í fjarnámi við Háskóla Íslands. Mæðgurnar Linda og Anja höfðu lengi verið dolfallnar yfir Balí og smituðu Steinar af því þegar hann kom í líf þeirra, svo Balí var á ofarlega á lista fjölskyldunnar yfir staði sem hún vildi heimsækja. Linda segir að í miðju skipulagi og í æsingnum hafi upphaflega áætlunin breyst og stefnan var sett á Balí í óákveðinn tíma í stað þess sem átti að vera 3-4 vikna ferðalag um Suður Frakkland.

„Eftir að hafa ráðfært okkur við lækninn okkar og fengið að flýta þriggja mánaða bólusetningu Esjars um tvær vikur, pakkað búslóðinni okkar og leigt út íbúðina, lögðum við af stað til Balí, með one-way-ticket í vasanum, nokkrum dögum áður en Esjar varð þriggja mánaða. Ég var óstjórnlega stressuð að fara út með hann svona lítinn og spurði sjálfa mig margoft á leiðinni hvað í ósköpunum ég væri að gera.“

/ Lestu allt um Balí ævintýrið og ítarlegra viðtal við Lindu í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Myndir: Hallur Karlsson

Önnur konan af þremur stígur fram

14. tbl. 2018

Kiana Sif Limehouse prýðir forsíðu 14. tölublaðs Mannlífs sem kemur út á morgun, föstudaginn 8. júní. Kiana var barn þegar brotið var ítrekað á henni kynferðislega, að hennar sögn. Meintur gerandi var þáverandi stjúpfaðir hennar, sá hinn sami og Helga Elín sagði í 12. tölublaði Mannlífs hafa misnotað sig kynferðislega í sumarbústað þegar hún var tíu ára gömul. Kiana og Helga eru tvær af þremur stúlkum sem sökuðu manninn, sem er lögreglumaður, um kynferðisbrot en málin voru felld niður. Maðurinn starfar enn í lögreglunni.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“.

„Ímynda ég mér stundum hvernig lífið hefði verið öðruvísi ef þetta hefði ekki gerst? Já, algjörlega. En maður lifir bara með því sem hendir mann. Föðurættin mín er mjög trúuð og hefur föðuramma mín talað um að Guð sendi einungis það til manns sem maður getur tekist á við. Ég er ekki eins trúuð og hún og get því miður ekki fundið neina réttlætingu á því sem gerðist,“ segir Kiana. Hún á bandarískan föður og íslenska móður sem skildu þegar hún var þriggja ára gömul. Þá byrjaði móðir hennar að vera með manni sem Kiana segir að hafi brotið á sér kynferðislega.

„Ég svaf alltaf uppi í rúmi hjá mömmu þegar hann var að vinna. Þegar hann færði mig á milli rúma man ég eftir að hann byrjaði að þukla brjóstin á mér. Ég var vakandi en lét sem ég svæfi. Ég vissi að þetta var ekki rétt en ég sagði ekki neitt. Ég var lítil og hafði ekki vit á því að þetta væri óeðlilegt.

Síðan fór þetta að vinda upp á sig. Hann bauð mér að smakka áfengi og einhverju síðar man ég eftir honum standandi í dyrunum á herberginu mínu þegar ég var sofandi. Þá hafði hann verið að drekka og þuklaði á sjálfum sér. Eitt kvöldið tók hann það skref að koma inn í herbergið mitt og snerta mig,“ segir Kiana.

Þjökuð af samviskubiti

Mæðgurnar Helga Elín og Halldóra Baldursdóttir sögðu, eins og fyrr segir, sögu sína í 12. tölublaði Mannlífs. Þær sögðu frá meintri misnotkun á Helgu Elínu sem átti sér stað í sumarbústaðarferð, að þeirra sögn. Sumarbústaðarferð sem Kiana, ein af hennar bestu vinkonum, hafði boðið henni í. Í kjölfar ferðarinnar slitnaði upp úr vinskapnum en fyrir nokkrum árum náðu þær að dusta rykið af kunningsskapnum. Kiana var lengi vel þjökuð af samviskubiti yfir því sem gerðist í sumarbústaðaferðinni en skilur í dag að atburðarrásin þar var ekki henni að kenna.

Kiönu blöskrar að meintur gerandi sinn vinni enn innan veggja lögreglunnar. Lesa má nánar um málið í Mannlífi á morgun og hér á vefnum.

Sjá einnig: „Hann sýndi að mínu mati ekki kjark og þor til að standa með barninu mínu“.

Málið í hnotskurn

Lögreglumaðurinn sem þrjár stúlkur sökuðu um kynferðisbrot starfaði áfram meðan á rannsókn allra málanna þriggja stóð. Málin voru ekki rannsökuð saman. Eftir að málin voru felld niður hélt lögreglumaðurinn starfinu. Í máli Helgu Elínar liggja fyrir skýrslur frá sérfræðingum í Barnahúsi sem staðfestu að Helga Elín hefði orðið fyrir miklum skaða í umtalaðri sumarbústaðarferð.

Eins og hefur komið fram voru vinur lögreglumannsins, sem er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera, og eiginkona hans með í sumarbústaðarferðinni. Að sögn Halldóru Baldursdóttur, móður Helgu Elínar, tók skýrslutaka yfir vinahjónunum aðeins örfáar mínútur og fór fram á skrifstofu embættismannsins. Þau hjónin og eiginkona sakbornings báru fyrir sig minnisleysi vegna áfengisdrykkju og niðurfelling málsins var meðal annars byggð á þeirra vitnisburði. Við rannsókn málsins kom fram að klámefni hafði verið haft fyrir börnunum í umræddri sumarbústaðaferð. Umrædd vinahjón voru aldrei spurð út í klámmyndaáhorfið og tölva sakbornings var ekki skoðuð. Þegar lögregla skoðaði sumarbústaðinn fór hinn meinti kynferðisafbrotamaður með á vettvang.

Sjá einnig: Segist ekki hafa brugðist dóttur Halldóru.

Að sögn Halldóru kemur fram í rannsóknargögnum að lögreglumaðurinn hafi sakað stelpurnar þrjár um samsæri gegn sér og að ekkert hafi verið gert til að hrekja slíkt. Halldóra hefur óskað eftir því við Nefnd um eftirlit með lögreglu að málsmeðferðin verði skoðuð. Eitt að því sem hún gagnrýndi harðlega var að þrátt fyrir að þrjár stúlkur hefðu kært lögreglumanninn hefðu málin ekki verið rannsökuð saman og ekkert brugðist við fullyrðingum lögreglumannsins um að stúlkurnar þrjár hefðu uppi samsæri gegn sér.

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Tók einn og hálfan dag að fullkomna goth-kjól

|||
|||

Við sögðum frá brúðkaupsveislu Kat Von D og Rafael Reyes á dögunum, en brúðkaupið þeirra var allt í goth-stíl. Í kjölfarið var okkur bent á að í versluninni Rokk & Rómantík í miðbæ Reykjavíkur væri hægt að fá einstakan kjól fyrir þá sem vilja hafa brúðkaupið dálítið goth.

Anna Kristín Magnúsdóttir rekur verslunina og segir að einn og hálfan dag hafi tekið að sauma kjólinn, sem er kolbikasvartur. Vinsældirnar létu ekki á sér standa.

Kjóllinn er afar sérstakur og fallegur.

„Hann er seldur, en það er reyndar annar í vinnslu,“ segir Anna og bætir við að kjóllinn sé seldur á rétt tæplega fimmtíu þúsund krónur.

En af hverju goth?

Hugsað út í smáatriðin.

„Af hverju hvítur?“ segir Anna og hlær. „Það er bara svo frábært að fjölbreytileikinn sé í boði.“

Anna rekur einnig verslunina Kjólar & Konfekt og finnur mikið fyrir því að brúðir vilji fara óhefðbundnar leiðir á stóra daginn. Það er því aldrei að vita hvers konar brúðarkjóll kemur úr smiðju hennar á næstu misserum.

Allt svart.

Harissa-kjúklingaleggir með perlukúskúsi

01. tbl. 2017
|

Kjúklingabringur njóta alltaf mikilla vinsælda en þó þykja mér kjúklingaleggir og læri mættu fá meiri athygli en þau gera. Kjötið á þeim er dekkra og bragðmeira og minni líkur á að kjötið eldist of mikið þannig að það verður þurrt og óspennandi. Leggir og læri eru sérstaklega vel til þess fallin að elda í ofni.

Þessi réttur nýtur alltaf mikilla vinsælda og er ljúffeng blanda af krydduðum kjúklingi, kaldri jógúrtsósu og kúskúsi með sætum þurrkuðum ávöxtum. Það má auðvitað skipta út perlukúskúsinu fyrir fíngerðara kúskús sem auðveldara er að nálgast en ég er sérstaklega hrifin af þessum stærri tyggilegri perlum.

Kjúklingur
1.5-2 kg kjúkingalæri og leggir, með beini
4 msk. harissa
½ tsk. kummin
3 msk. ólífuolía
1½-2 tsk. salt
½ tsk. pipar

Þerrið kjúklingabitana með eldhúspappír og setjið til hliðar. Hrærið saman harissa, kummin, ólífuolíu, salti og pipar. Veltið kjúklingnum upp úr kryddleginum og setjið til hliðar í 30 mínútur. Einnig má setja kjúklingabitana í rennilásapoka, þrýsta sem mestu lofti úr og geyma í kæli í sólarhring (þá þarf að taka kjúklinginn tímanlega út og láta standa við stofuhita í 30 mínútur áður en hann er eldaður). Hitið ofninn í 200°C. Dreifið kjúklingnum á ofnplötu og setjið inn í miðjan ofn. Bakið þar til kjúklingurinn hefur eldast í gegn, u.þ.b. 40-50 mín. Berið fram með kúskúsi og jógúrtsósu og ferskum kryddjurtum ef til eru.

Marokkóskt perlukúskús
safi úr ½ sítrónu
3 msk. ólífuolía
½ tsk. salt
¼ tsk. pipar
½ dl fersk steinselja, söxuð
2 msk. mynta, söxuð
80 g þurrkaðir ávextir, saxaðir (t.d. þurrkuð trönuber, þurrkaðar apríkósur, þurrkaðar rúsínur, þurrkaðar döðlur)
1 dl pístasíuhnetur, gróft skornar
200 g perlukúskús (stórt kúskús)

Hrærið saman sítrónusafa og ólífuolíu, bragðbætið með salti og pipar. Setjið til hliðar. Setjið steinselju, myntu, þurrkaða ávexti og pístasíuhnetur í stóra skál. Sjóðið kúskús í söltu vatni samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Hellið vatninu frá og setjið í skálina. Hellið ólífuolíublöndunni yfir og veltið öllu vel saman. Bragðbætið með salti og pipar ef þarf.

Jógúrtsósa
1/3 bolli hreint jógúrt
1 lítill hvítlauksgeiri
1 tsk. kummin
salt og pipar

Þrýstið hvítlauksgeiranum í gegnum pressu ofan í jógúrtið. Hrærið saman við ásamt kummin. Bragðbætið með salti og pipar.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Folda Guðlaugsdóttir

125 milljónir settar á hús Magnúsar og Ingibjargar

|||||||||||
|||||||||||

Hjónin Magnús Geir Þórðarson og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir eru búin að setja hús sitt að Birkigrund 49 í Kópavogi á sölu. Um er að ræða tíu herbergja hús, þar af sex svefnherbergi og tvær stofur, og er ásett verð 125 milljónir króna.

Ingibjörg og Magnús.
Á planinu að framan er hægt að leggja 3-4 bílum.

Húsið telur 286 fermetra og er búið þremur baðherbergjum. Er því ljóst að húsið hentar einkar vel stórum fjölskyldum, enda stutt í skóla og leikskóla.

Stílhreint baðherbergi.

Heimilið var tekið í gegn að innan fyrir fimm árum síðan en breytingarnar voru hannaðar af hinum vinsæla innanhúsarkitekt Rut Káradóttur.

Bjart og fallegt rými.

Á neðstu hæð í húsinu er búið að koma fyrir sjónvarpsherbergi, baðherbergi og tveimur stórum svefnherbergjum, en sérinngangur er á þá hæð og því hægt að búa þar til séríbúð.

Nóg af plássi í þessu húsi.

Planið fyrir framan húsið er upphitað og garðurinn er vel hirtur og fallegur. Svo ekki sé talað um nágrennið, en húsið er staðsett steinsnar frá Fossvogsdalnum, Kópavogsmegin, sem er vinsæl útivistarparadís. Hér fyrir neðan má sjá fleiri myndir af eigninni:

 

Ritskoðuð í Íran en sýnir nú á Listahátíð í Reykjavík

||
||

„Ég hef fengið sterk viðbrögð frá áhorfendum þar sem ég hef sýnt verkið hingað til, en ég hef þegar sýnt yfir 30 sýningar í ólíkum löndum. Það er ótrúlega gaman og mikill heiður að vera boðið að sýna á Listahátíð í Reykjavík. Ég tel að verkið eigi ekki síður erindi til Íslendinga frekar en annarra. Viðfangsefnið snertir okkur öll og ég hlakka til þess að heyra viðbrögðin hér,“ segir dansarinn og danshöfunurinn Bára Sigfúsdóttir. Hún sýnir verkið The Lover á Listahátíð í Reykjavík dagana 7. og 8. júní í Tjarnarbíói.

„The Lover er sjónrænt verk þar sem hreyfingar, ljósmyndir, lýsing og tónlist tvinnast saman í heildræna upplifun. Verkið er hugleiðing um samband mannsins og náttúrunnar, hvernig manneskjan býr í náttúrunni og hvernig náttúran býr í mannskepnunni. Hvernig maðurinn og jörðin bæði skapa og eyða,“ segir Bára, sem raðar í kringum sig fagmönnum til að gera sýninguna sem áhrifamesta.

„Ég er ein á sviðinu ásamt mikilfenglegri sviðsmynd sem að umbreytist á táknrænan hátt á meðan á verkinu stendur. Sviðsmyndin er unnin af franska ljósmyndaranum Noémie Goudal og belgíska arkitektnum Jeroen Verrecht/ 88888. Tónlistin er samin af íslenska tónlistarmanninum Borko.“

Hlaut Circuit X verðlaunin

The Lover var upphaflega frumsýnt á fimmtíu ára afmælishátíð Beursschouwburg leikhússins í Brussel á PERFORMATIK tvíæringnum í mars árið 2015. Í framhaldinu hefur Bára flakkað um heiminn og sýnt verkið til að mynda í Hollandi, Tékklandi, Danmörku og Belgíu, en Bára hefur verið búsett í síðastnefnda landinu síðustu tíu árin. Þá hlaut The Lover Circuit X verðlaunin í Belgíu og Hollandi árið 2015 og var tilnefnt til hinna virtu Roel Vernier verðlauna fyrir sviðslistir í Belgíu. Bára er glöð með þessar góðu viðtökur.

„Það er mjög gaman þegar að gengur vel því þá gefast fleiri tækifæri til þess að sýna verkið. Circuit X verðlaunin veittu sýningunni til dæmis tækifæri á því að ferðast mikið í Belgíu og Hollandi. Maður veit aldrei hvernig mun ganga þegar að maður byrjar að vinna að nýju verkefni, enda held ég að velgengni ætti ekkert endilega að vera markmið í sjálfu sér þó að auðvitað vilji maður vinna hlutina vel. Mikilvægast er að finna hugmyndinni þann farveg sem að hún krefst. Við sköpun The Lover þá gekk það farsællega, en auðvitað liggur samt sem áður margra mánaða vinna að baki í sköpunarferlinu,“ segir Bára.

Þurfti að breyta nafninu á The Lover

Þessi hæfileikaríki dansari hefur verið viðloðinn írönsku danssenuna síðan árið 2014 og hefur meðal annars sýnt The Lover í Íran.

„Mér var upphaflega boðið að sýna verk á „underground“ samtímadanshátíð í Tehran sumarið 2014. Í þeirri ferð kynntist ég bæði yndislegu og áhugaverðu fólki sem er ástæðan fyrir því að ég varð síðar meir hluti af danssenunni þar,“ segir Bára en danssenan í Íran er mjög frábrugðin því sem við Íslendingar eigum að venjast.

Bára ásamt dönsurunum Masoumeh Jalalieh og Alireza Mirmohammadi í Íran.

„Danslist í Íran hefur verið opinberlega bönnuð síðan 1979 þegar íranska byltingin átti sér stað. Danslistamenn þar tala reyndar oftast um að vinna með „hreyfingar“ frekar en „dans“, sem ég hef sjálf byrjað að gera í auknum mæli því þegar maður talar um dans þá hefur fólk oft takmarkaðar hugmyndir um hvað maður sé að vinna við. Dans getur verið svo rosalega margt og listformið er mjög fjölbreytilegt. Dans í Íran fer yfirleitt fram fyrir huldum dyrum. Þegar maður vill sýna opinberlega þá þurfa verk að ganga í gegnum ritskoðun,“ segir hún. En hefur hún sjálf lent í ritskoðun á sínum verkum?

„Ég hef þrisvar sýnt opinberlega, og meðal þeirra verka er The Lover, en þá þurfti ég til dæmis að breyta titlinum á verkinu í Náttúra.“

Bára er nýkomin heim frá Íran þar sem hún frumsýndi tvö ný verk og segir lærdómsríkt að hafa kynnst menningu og listum í landinu.

„Það er oftast uppselt á bæði dans- og leiklistarsýningar í Tehran og færri sem komast að en vilja. Listasenan sem slík er mjög áhugaverð og fer vaxandi. Í fyrra vann ég verk með tveimur írönskum dönsurum, Masoumeh Jalalieh og Alireza Mirmohammadi. Við ákváðum meðal annars að rannsaka hreyfiefni líkamans innan ríkjandi ritskoðunar og úr varð áhugavert vinnuferli sem við lærðum öll mikið af. Við vorum einmitt að frumsýna það verk í Íran í Tehran og Sari núna í Maí. Það gekk vel og við fengum góð viðbrögð hjá áhorfendum. Fréttir í fjölmiðlum um aðra heimshluta, og í rauninni alls staðar, eru einungis brot af þeim raunveruleika sem á sér stað. Ég tel mikilvægt að vera meðvituð um hversu mikið við erum öll lituð af eigin forsendum og væntinum. Það hefur verið lærdómsríkt að fá snefilþef af því hvernig það er að koma frá landi sem er stöðugt málað sem framandi í okkar Vestur-Evrópsku menningu. Ekkert er einungis svart og hvítt.“

Einbeitir sér að vinnu á listamannalaunum

Eins og áður segir hefur Bára verið búsett í Belgíu í áratug og unnið sem dansari og danshöfundur. Hún unir sér vel þar og segir starfsumhverfi fyrir dansara betra þar en á Íslandi.

„Sviðslistasenan í Belgíu er spennandi og fjölbreytileg. Þar eru mörg leikhús og listamennirnir sem starfa þar koma alls staðar að úr heiminum. Ég hef hlotið listamannalaun þar til lengri tíma, en slíkt fyrirkomulag er til dæmis ekki í boði á Íslandi. Í Belgíu fæ ég einnig greidd laun fyrir þá daga mánaðarins sem að ég er ekki þegar á launum í vinnustofum, eða við sýningar. Það er gríðarlega mikil vinna og langur tími sem fer í hugmyndavinnu, umsóknarferli og svo allt skipulagið í kringum bæði vinnustofur og sýningar. Listamannalaunin gera mér kleift að einbeita mér 100% að minni vinnu og koma mun meiru í verk en annars væri mögulegt,“ segir hún og bætir við að hún sjái ekki fyrir sér að flytja aftur til Íslands í bráð.

The Lover er sjónrænt verk þar sem hreyfingar, ljósmyndir, lýsing og tónlist tvinnast saman í heildræna upplifun.

„Í augnablikinu kemur það ekki til greina. Það er dýrt að búa á Íslandi í dag og ég veit hreinlega ekki hvernig ég ætti að fara að því að starfa við það sem ég geri ásamt því að ná endum saman í hverjum mánuði. En það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég held tengingunni við landið í gegnum fjölskyldu, vini, fréttir, listir og hlaðvörp. Ég elska að hlusta á íslenskt útvarp í eldhúsinu mínu úti í Brussel, en þættirnir Í ljósi sögunnar, Segðu mér og Aðförin eru í miklu uppáhaldi.“

Draumurinn að minnka vistsporið

Bára hefur afrekað margt á ferlinum þannig að það liggur beinast við að spyrja hver draumurinn sé í dag. Það stendur ekki á svörunum hjá okkar konu.

„Draumurinn minn í dag er að vinna meira staðbundið og minnka vistsporið mitt. Ég hef helgað þetta ár í rannsóknarvinnu fyrir ný verkefni, þó ég haldi einnig áfram að sýna eldri verk. Því fylgir ábyrgð að ferðast. Ég vil í rauninni ferðast minna og frekar dveljast lengur þangað sem ég fer, til dæmis með því að reyna að samtvinna sýningar með vinnustofum, kennslu og/eða fyrirlestrum. Ég er meðvituð um að annað sé ekki sjálfbært til framtíðar í stærra samhengi þar sem loftslagsbreytingar í heiminum eru staðreynd sem við þurfum að takast á við í sameiningu.“

Aðalmynd / Jolien Naeyaert
Mynd úr The Lover / Leif Firnhaber
Mynd frá Íran / Úr einkasafni

Fullt af flottum innlitum í glænýju blaði

Júníblað Húsa og híbýla var að koma út og er sérlega fallegt og litríkt.

Blaðið er smekkfullt af æðislegum innlitum og smart vörum fyrir heimilið. Nýr veitingastaður í Hafnarfirði prýðir líka síður blaðsins og Ýr Þrastardóttir fatahönnuður sem hannaði föt íslenska Eurovision hópsins ljóstar upp óskalistanum sínum. Mynd eftir hönnuð eða listamann fylgir alltaf Hús og híbýli og að þessu sinni var það Sigga Rún teiknari sem gerði mynd af svartþresti sem er að vekja mikla lukku.

Ljósmyndarar blaðsins taka ógrynni ljósmynda fyrir blaðið og þar sem þær komast ekki allar í blaðið er tilvalið að birta nokkar þeirra hér á mannlífsvefnum.

Við heimsóttum myndlistarkonuna Áslaugu Írisi Katrínu Friðjónsdóttur sem býr í rótgrónu hverfi í Kópavogi með útsýni yfir Öskuhlíðina.

Við kíktum líka á vinnustofuna til Áslaugar og fengum að mynda verk í vinnslu sem var áhugavert.

Við tjörnina í Reykjavík standa nokkur, gömul, sjarmerandi hús og eitt þeirra var nýlega endurgert. Þetta reisulega timburhús sem birtist í júníblaði Húsa og híbýla var byggt árið 1907, það var stækkað og því breytt árið 1953 og núna nýlega var það endurgert af Gláma Kím arkitektum. Eldhúsinnréttingin er fagurblá á litinn, stofuveggirnir eru í gulum tón og allt húsið er ofboðslega fallegt og vel heppnað.

Tinna Gilbertsdóttir sölustjóri hjá Iceland Seafood og Vilhjálmur Svan verslunarstjóri Herragarðsins eiga mjög smart heimili á besta stað í bænum. Við mynduðum þetta skemmtilega heimili en Tinna segir að hönnun þess sé skemmtilegt eilífaðar verkefni.

Við heimsóttum Birgittu Líf Björnsdóttur sem á töff íbúð í skuggahverfinu.

Kíktum líka á Sigurbjörgu Pálsdóttur sem býr í gamalli vindlaverksmiðju í Belgíu og ljósmyndarann Kára Sverrisson sem býr í tveimur löndum.

Ekki missa af þessu flotta blaði!

Myndir: Aldís Pálsdóttir, Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir, Nanne Springer

Þessi flotta mynd var tekin heima hjá Hönnu Stínu innanhússarkitekt sem býr í geggjuðu húsi í Hafnarfirði. Litríkt og öðrvísi heimili sem gaman var að heimsækja.

Spurðu Pamelu Anderson ráða um kynlíf og sambönd

Leikkonan og aðgerðarsinninn Pamela Anderson er búin að söðla um, ef svo má segja, og er byrjuð með sérstakan dálk í vefritinu Dazed. Pamela er gestapenni hjá ritinu og ætlar að svara öllum spurningum lesenda um kynlíf og sambönd og veita þeim góð ráð.

Eins og segir í frétt Dazed um þessa nýjustu viðbót á miðlinum er Pamela tveggja barna móðir og því þaulvön að miðla ráðum til yngra fólks. Þá segir ritstjórn Dazed að vandamál lesenda séu í góðum höndum og vísar í viðtal Dazed við kynbombuna:

„Mig hefur alltaf langað til að skrifa erótískar smásögur. Fólk segir mér að ég ætti að gera það. Allir segja að ég sé nokkuð lunkin að segja sexí sögur!“

Þeir sem vilja senda Pamelu spurningar geta sent tölvupóst á [email protected] með nafni, aldri og búsetu. Allar spurningar verða áframsendar til Pamelu en þær bestu, eins og ritstjórn Dazed orðar það, verða birtar á vefritinu.

Átta konur sem sjá eftir brjóstastækkun

||||||||
||||||||

Útlitsdýrkun virðist vera mikil í stjörnuheimum, og hefur verið það um áratugaskeið, bæði meðal karla og kvenna. Einhverjar konur hafa talað mjög opinskátt um þær aðgerðir sem þær hafa farið í til að breyta útliti sínu, en hér fyrir neðan eru átta konur sem hafa látið stækka brjóst sín og séð eftir því.

Melissa Gilbert

Leikkonan lét fjarlægja brjóstapúða árið 2015 og hefur sagt að það sé það gáfaðasta sem hún hefur gert. Þá er Melissa líka hætt í Botox-sprautum og að láta lita hár sitt.

Hún hefur einnig látið hafa eftir sér að viðhorf hennar til öldrunar hafi breyst þegar hún varð ástfangin af eiginmanni sínum, Timothy Busfield, en þau tvö gengu í það heilaga árið 2013. Þá hafi hún fundið hugrekki til að vera hún sjálf. Hún var einnig hrædd um að brjóstapúðarnir myndu byrja að leka og því lét hún fjarlægja þá.

Crystal Hefner

Ekkja Playboy-kóngsins Hugh Hefner lét fjarlægja brjóstapúða átta árum eftir að hún lét setja þá í. Púðarnir voru farnir að valda henni ýmsum kvillum, svo sem verkjum, sársauka í þvagblöðru og þreytu. Þetta útskýrði Crystal á Facebook- síðu sinni og sagði að púðarnir hefðu hægt og bítandi verið að eitra fyrir henni.

„Ég tók strax eftir því að verkir í hálsi og öxlum hurfu og ég náði betur að draga andann,“ skrifaði Crystal og bætt við:

„Ég veit að ég verð ekki 100% betri yfir nóttu. Það tók púðana átta ár að gera mig svona veika og ég veit að það tekur tíma að ganga til baka.“

Kourtney Kardashian

Raunveruleikastjarnan var 22ja ára þegar hún fór í brjóstastækkun og sér eftir því í dag.

„Ég myndi ekki gera þetta ef ég gæti farið til baka. Ég var svo sæt fyrir stækkunina,“ sagði Kourtney í viðtali við Showbiz Spy árið 2011.

„Ég geri mér grein fyrir að ég á að líta út á vissan hátt frá náttúrunnar hendi og ég er að íhuga það að láta fjarlægja púðana.“

Pamela Anderson

Pamela hefur sagt opinberlega að brjóstastækkunin sé hennar helsta eftirsjá. Hún lét taka púðana úr árið 1999 og var hæstánægð með þá ákvörðun.

Tori Spelling

Leikkonan lét stækka brjóst sín þegar hún var rúmlega tvítug og sagði í viðtali við Good Morning America árið 2011 að það hefði ekki verið hennar besta ákvörðun.

„Ef ég hefði vitað að það gæti hugsanlega haft áhrif á mjólkurmyndun þá hefði ég ekki gert þetta,“ sagði Tori þá. Þremur árum síðar lét hún taka púðana úr.

Victoria Beckham

Þegar Kryddpíurnar voru sem vinsælastar lét Victoria Beckham stækka brjóst sín. Hún hefur ekki mikið tjáð sig um fegrunaraðgerðir en sagði í viðtali við Allure árið 2014 að hún hefði látið fjarlægja púðana.

Heather Morris

Glee-stjarnan sá mikið eftir því að hafa farið í brjóststækkun, eitthvað sem hafði verið draumur síðan hún var ung.

„Það var erfitt að hreyfa sig því mér var alltaf illt í brjóstunum. Þetta var mikill sársauki og mig langaði ekki að líða illa þannig að þau þurftu að fara,“ sagði Heather í viðtali við Fitness árið 2011.

Karen McDougal

Fyrrverandi Playboy-fyrirsætan fór í brjóstastækkun árið 1996 til að auka sjálfstraust sitt en sjö árum síðar fór hún að finna fyrir ýmsum kvillum, svo sem ofnæmi og verkjum í skjaldkirtli.

„Ég varð veik á nokkurra mánaða fresti og var lasin í sex til átta vikur í senn,“ sagði hún í viðtali við PEOPLE. Karen lét fjarlægja brjóstapúðana árið 2016.

Raddir