Fimmtudagur 24. október, 2024
6.3 C
Reykjavik

Góðar vinkonur í raun

Í sjálfstæðum bíómyndum er oft að finna raunverulegar lýsingar á vináttu kvenna.

Vinátta kvenna er algengt viðfangsefni kvikmynda en oftar en ekki virðast þær aðeins sýna léttu og ljúfu hliðar hennar. Konur eru flóknar verur og vinátta þeirra á milli getur verið af ýmsum toga. Það er kannski helst að við finnum raunverulegar lýsingar á vináttu í sjálfstæðum bíómyndum. Hér eru nokkur góð dæmi.

Úrhrök samfélagsins
Ghost World fjallar um þær Enid og Rebeccu sumarið eftir að þær klára gagnfræðaskóla. Þær eiga báðar í erfiðleikum með að tengjast fólki og eyða tíma sínum í að slæpast og setja út á fólk sem þeim finnast óspennandi. Þegar þær kynnast Seymour, sem er utangarðs og lifir fyrir það að safna gömlum 78 snúninga hljómplötum, umturnast líf þeirra. Á meðan Enid byrjar að hanga meira með Seymour fer Rebecca að hegða sér eins og venjuleg unglingsstúlka. Hún byrjar að vinna á kaffihúsi og fær meiri áhuga á strákum og tísku. Stelpurnar vaxa meira og meira í sundur þar til það lítur út fyrir að þær muni aldrei ná saman aftur.

Andstæður
Andstæður laðast hvor að annarri og það á svo sannarlega við um vinkonurnar Holly og Marinu í kvikmyndinni Me Without You. Holly er hljóðlát á meðan Marina er frjálsari og villtari. Þær kynnast fyrst þegar þær verða nágrannar tólf ára og verða strax mjög nánar. Vinátta þeirra er þó alls ekki fullkomin og oft á tíðum ekki einu sinni falleg. Þær virðast báðar vera afbrýðissamar hvor út í aðra og sambönd þeirra við karlmenn eru flókin. Þrátt fyrir þetta halda þær áfram að vera vinkonur í gegnum súrt og sætt þangað til Holly slítur sig lausa einn daginn.

Hálffullorðin
Frances í kvikmyndinni Frances Ha er ung kona í New York sem vill helst ekki fullorðnast – hana langar að gera og verða margt en nær árangri í fáu. Mesti sigur hennar hingað til er að hafa vingast við Sophie. Þær búa saman og hanga saman öllum stundum en gera lítið annað en að gera háðslegar athugasemdir um lífið og umhverfið í anda Dorothy Parker. Þegar Sophie fer að sína merki þess að vilja fullorðnast og ákveður að flytja í draumahverfið sitt, Tribeca, tekur Frances því illa. Samband þeirra bíður ákveðna hnekki á meðan Frances fer úr einu í annað í leit að sjálfri sér og ástinni en eins og sannar vinkonur ná þær aftur saman á endanum.

Hipsterar í Brooklyn
Í myndinni Fort Tilden er svokallaðaður „hipstera-húmor“ mjög ríkjandi – þar sem fólk gerir bæði grín að sjálfu sér og öllu öðru. Myndin segir frá vinkonunum Harper og Allie sem búa í Brooklyn. Þær eru mjög kaldhæðnar og jafnvel illkvittnar í ummælum sínum um aðra og eru eiginlega týpur sem margir myndu forðast að umgangast – en þær virðast mjög ánægðar í félagsskap hvor annarrar. Sagan gerist nær öll einn sumardag þegar vinkonurnar reyna að komast hjólandi á strönd í útjaðri New York til að hitta tvo gaura sem þær hittu í partíi kvöldið áður. Á leiðinni fáum við að kynnast stelpunum betur og brátt verða brestirnir í vináttunni sýnilegri.

Ákaft samband
Nýsjálenska kvikmyndin Heavenly Creatures er byggð á sannri sögu af þeim Juliet Hulme og Pauline Parker sem lögðu á ráðin og myrtu mömmu Pauline. Stúlkurnar kynnast þegar Juliet byrjar í sama skóla og Pauline og þær verða fljótt mjög nánar. Þær eiga það sameiginlegt að hafa átt við veikindi að stríða í æsku og upplifað einangrandi spítalavist. Þær deila einnig ástríðu á ævintýrum og bókmenntum og stytta sér stundir með því að semja sögur sem þær dreymir um að selja til Hollywood. Þegar mamma Pauline reynir að binda enda á ákaft og þráhyggjukennt samband vinkvennanna ákveða þær að myrða hana. Um er að ræða fyrsta kvikmyndahlutverk beggja aðalleikvennanna, þeirra Kate Winslet og Melanie Lynskey, en þær vöktu mikla athygli fyrir leik sinn.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

 

Fantasíuheimur sem fólk elskar eða hatar

Áhugaverðar staðreyndir um einn vinsælasta fjölskyldustað í heimi.

Orlando er vinsælasta fjölskylduborg Flórída. Engin önnur bandarísk borg státar af eins elskuðum stað og Disney World er en hann er í raun regnhlífarsamtök yfir ellefu skemmtigarða sem staðsettir eru á sama stað. Garðarnir eiga það sameiginlegt að vera sannkallaðir fantasíuheimar barna og hvort sem þú elskar garðinn eða hatar þá eru staðreyndirnar um hann áhugaverðar.

Gamanleikarinn geðþekki Steve Martin vann í garðinum í átta ár sem töframaður, ásamt öðrum störfum.

Garðurinn opnaði árið 1955 en þá var að finna undirfataverslun á aðalgötunni sem nefndist The Wizard of Bras.

Disney World er stærsti vinnustaður innan Bandaríkjanna þar sem allir starfsmenn stunda iðju sína á sama stað.

Starfsmenn garðsins eru ekki kallaðir vinnuafl heldur leikarar eða liðsmenn. Flestir þeirra geta sagt hvar klósettin er að finna á yfir fjórtán tungumálum.

Magic Kingdom-garðurinn er byggður á annarri hæð. Garðurinn byggist upp á tveimur hæðum en undirgöngin eru á jarðhæð á meðan garðurinn sjálfur liggur ofan á þeim.

Í Disney World er vatnsleikjagarður sem fæstir hafa hugmynd um. Garðurinn var sá fyrsti sinnar tegundar en hann opnaði árið 1976 og lokaði 2001. Engin starfsemi hefur verið síðan þá og er aðgangur að svæðinu stranglega bannaður.

Disney World er einn vinsælasti óskastaður fólks um hinstu hvíld. Þjóðsagan um mömmuna sem vildi að ösku sinni yrði dreift yfir eyru Dúmbó er sönn. Það sama á sér stað nánast á hverjum degi. Garðurinn býður meira að segja upp á sérstakar umbúðir fyrir slíkan viðburð.

Disney World er sjálfseignaborg en svæðið sem tilheyrir garðnum, og veldur því mikla aðdráttarafli sem Flórda hefur, er í einkaeigu.

Söngstirninu síkáta Justin Biber er bannað að koma í Disney World eftir að hafa sparkað milli fóta á Mikka Mús.

Kastali Öskubusku stendur tómur. Fyrir utan gjafavöruverslun og veitingastað í anddyrinu stendur höllin auð. Arkitektinn hannaði glæsilegt herbergi fyrir Walt sjálfan í kastalanum en hann dó áður en en höllin var vígð.

Í sjóræningjaheimi garðsins er hægt að finna alvöruhauskúpur.

Milljón kíló kalkúnaleggja eru snædd í garðinum á ári hverju. Nokkrir fyrrum starfsmenn garðsins fullyrða reyndar að leggirnir séu af strútum en ekki kalkúnum.

Hvorki er hægt að fá bolla, glös né rör innan Animal Kingdom. Starfsmenn garðsins segja það vera til að koma í veg fyrir að dýrin skaði sig á plastumbúðum. Tyggjó er sömuleiðis ófáanlegt í öllum görðunum ellefu, af augljósum ástæðum.

Starfsmenn Disney World mega ekki benda á neitt með einum fingri því sums staðar er það álitið vanvirðing. Þeir vísa því til vegar með því að nota alla höndina eða tvo fingur.

Disney World hefur lokað starfsemi sinni þrisvar sinnum, í öllum tilfellum í kjölfar hamfara. Eftir flóð 1994 og jarðskálfta 1999 og síðan vegna harmleiksins 11. september 2001 en þann dag tók einungis hálftíma að fjarlægja mörg þúsund gesti út úr garðinum.

Í garðinum er að finna eitt dýrasta flöskuvatn innan Bandaríkjanna.

Ef geimfjallið væri raunverulegt væri það þriðja hæsta fjall í Flórída.

Skellibjalla, sem flýgur yfir höllina eftir flugeldasýninguna, er oftast leikin af karlmanni.

Svæðið sem tilheyrir Disney World er á stærð við San Francisco eða tvöfalt stærra en Manhattan.

Allt til árins 2001 var starfsfólki garðsins skipað að klæðast nærfatnaði í eigu fyrirtækisins.

Pípur á aðalgötu Magic Kingdom-garðsins úða vanillulykt út í andrúmsloftið. Í desember má hins vegar anda að sér piparmyntulykt.

Yfir tvö hundruð sólgleraugu týnast í garðinum á hverjum degi.

Styttan af Öskubusku virðist vera leið frá sjónarhorni fullorðinna en brosir í augum barna sem horfa upp til hennar.

Rúmlega tvö hundruð kettir búa í garðinum en svimandi háa „hótelleiguna“ greiða þeir með því að halda músum og rottum í lágmarki.

Doritos-snakkið sívinsæla kom fyrst á markaðinn í Disney World.

Texti / Íris Hauksdóttir

Eldað með bjór

|
|

Smalabaka með bjórsósu.

Smalabaka með bjórsósu.

Úrvalið af íslenskum bjór hefur aukist mikið síðustu ár. Nokkrar tegundir hafa unnið til alþjóðlegra verðlauna og bruggmeistarar geta verið stoltir af þessari flottu framleiðslu. Bjórinn okkar er bragðmikill og frábært að nota hann í matargerð og bakstur. Hér er spennandi uppskrift og ég hvet ykkur til að prófa að nota bjórinn í pottrétti og fleiri rétti þar sem gert er ráð fyrir rauðvíni eða hvítvíni í uppskrift.

SMALABAKA MEÐ BJÓRSÓSU
fyrir 6-8

4 msk. olía
800 g nautagúllas
1 stór laukur, saxaður
3 hvítlauksgeirar, saxaðir
150 g sveppir, skornir í bita
4-5 gulrætur, skornar í bita
1 flaska bjór, t.d. Norðan Kaldi, Boli Premium, Víking Classic.
2 msk. tómat-purée
2 tsk. nautakraftur
salt og pipar

150 g ostur, rifinn til að setja ofan á

Brúnið lauk og hvítlauk í helmingnum af olíunni í þykkbotna potti þar til laukurinn fer að verða glær, setjið til hliðar. Steikið nautakjötsbitana í því sem eftir er af olíunni, gott að gera það í tvennu lagi svo þeir brúnist vel, bætið lauknum út í. Setjið sveppi og gulrætur saman við og steikið áfram í 2-3 mín. Bætið bjór, tómat-purée og nautakrafti saman við, skrapið góðu skófirnar (það sem kemur af kjötinu ef þið eruð með þykkbotna pott) saman við, látið suðuna koma upp og látið allt malla í 1-1 ½ klst. Hitið ofninn í 200°C. Hellið kjötréttinum í ofnfast fat. Dreifið kartöflumúsinni yfir og stráið osti yfir hana. Bakið í 20 mín. eða þar til osturinn er bráðinn.

1 kg kartöflur
½ dl mjólk
salt og pipar

Afhýðið og skerið kartöflur í bita. Sjóðið þær í saltvatni þar til þær eru gegnumsoðnar. Hellið þeim í sigti og setjið aftur í pottinn. Hellið mjólk út í, bragðbætið með salti og pipar og stappið saman með stappara.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

„Ástin er eina aflið sem fær mann til að fljúga”

Frábær fjölskyldumynd.

Íslenska fjölskyldumyndin Lói þú flýgur aldrei einn var forsýnd síðasta fimmtudagskvöld við hátíðlega athöfn í Smárabíói en framleiðendur myndarinnar buðu áhorfendur velkomna í bíó með poppkorni og köldum svaladrykk sem var vel við hæfi enda höfðar myndin til yngstu áhorfendanna.

Myndin segir frá litlum lóu-unga sem verður viðskila við fjölskyldu sína og þarf að komast af veturlangt á Íslandi við harðan kost.

Á vegi hans verða ýmsir fjörlegir fuglar og önnur dýr sem öll hafa þjóðernislega skírskotun enda ber sviðsmyndin þess glögglegt merki að myndin sé ætluð á alþjóðlegan markað þar sem sér-íslensk náttúrueinkenni fá notið sín með túnfífla og aðalbláber í forgrunni.

Engu er til sparað við gerð myndarinnar en sjö ár eru nú síðan handritshöfundurinn, Friðrik Erlingsson kom að máli við þá Gunnar Karlsson og Hilmar Sigurðsson sem framleiddu myndina á fimm árum undir leikstjórn Árna Ólafs Ásgeirssonar. Alls komu 400 listamenn að gerð myndarinnar sem teiknuð er í þrívídd en unnin að hluta til í Belgíu. Myndin er önnur íslenska teiknimyndin í fullri lengd og hentar börnum á öllum aldri. Handritið er fantaflott og munu margar setningar myndarinnar lifa lengi í hjörtum áhorfenda.

„Það var ekki það sem ég sagði, heldur það sem hann heyrði mig segja.”

Tónlist leikur jafnframt veigamikið hlutverk í myndinni en Sinfoníuhljómsveit Norðurlands spilar undir í áhrifaríkum atriðum ásamt þeim Högna Egilssyni og Gretu Salóme sem syngur lokalag myndarinnar.

Talsetningin er líka fyrsta flokks og ber þar helst að nefna hinn unga Mattíhas Mattíhasarson sem ljær útilegufuglinum Lóa rödd sína, en mítan um munaðarleysingjann er sannarlega lífseig meðal barnasagna.

Eina aðfinnslan við myndina var hve lítið fuglsungarnir höfðu stækkað á heilu ári og hvernig hvíti felulitur rjúpunnar hélst óbreyttur yfir sumartímann. Að öðri leiti er Lói litli frábær afþreying og á vonandi eftir að skína skært sem fögur landkynning víða um heim.

Texti / Íris Hauksdóttir

Greindist með krabbamein 32ja ára og lét frysta egg

||||
||||

„Lífið snýst um að læra, læra af sjálfum sér og öðrum. Við vitum aldrei hvaða verkefni við fáum og það skiptir svakalega miklu máli hvernig við tæklum verkefnin. Lífið getur tekið óvæntar beygjur hvenær sem er. Munum að lifa í dag,“ segir hin 36 ára Guðný Ásgeirsdóttir. Guðný er læknir og í sérnámi í heimilislækningum en hún greindist með brjóstakrabbamein fyrir rúmum þremur árum.

Guðný lærði læknisfræði í Danmörku og var 29 ára þegar hún fann fyrst fyrir hnút í brjóstinu.

„Ég lét skoða þetta úti í Danmörku þar sem ég bjó, fór þar í brjóstamyndatöku og ómskoðun og var þetta talið vera góðkynja æxli, sem sagt ekki krabbamein. Ekki þótti þörf á eftirliti. Svo flyt ég heim til Íslands í byrjun árs 2014 og fer þá að vinna á heilsugæslu. Ég fylgist vel með hnútnum og finn að hann er eitthvað að breytast, stækkar og verður harðari, eiginlega eins og bingókúla,“ segir Guðný, sem reyndi fyrst um sinn að hunsa vöxtinn í brjóstinu.

„Ég reyndi fyrst að humma fram af mér að láta skoða þetta því ég hafði jú látið skoða þetta í Danmörku. Ég var þó alltaf að hugsa að þetta væri eitthvað skrítið og gæti alveg eins verið krabbamein, svona miðað við það sem ég hafði lært. Svo kemur til mín ung stúlka á heilsugæsluna með hnút í brjósti. Ég sendi hana áfram í skoðun og fæ svo fréttir af því að hún hefði greinst með brjóstakrabbamein. Það vakti mig til umhugsunar, fyrst hún gat greinst með brjóstakrabbamein svona ung gæti ég það í raun alveg líka. Þá ákvað ég að skella mér í skoðun og reyndist þá grunur minn réttur því miður, ég var líka með brjóstakrabbamein.“

Hér er Guðný með skalla en síðan til hægri er mynd af henni með hárkollu sem hún keypti í London og mörgum fannst raunveruleg.

Mistök þegar átti að tilkynna fréttirnar

En hvernig tilfinning var það að greinast með krabbamein svona ung?

„Það er eiginlega mjög erfitt að lýsa tilfinningunni. Ég var til dæmis fyrst mjög reið, en það var aðallega af því það urðu mistök þegar ég fékk fréttir af þessu í fyrsta skipti. Ég hafði farið niður í Krabbameinsfélag og þar var tekið sýni. Læknirinn sem ég hitti hafði beðið mig um að vera með símann á mér milli klukkan 13 og 14 mánudaginn eftir og svara ef hún myndi hringja. Ég er svo að vinna á heilsugæslunni og er með móttöku þar sem ég tek á móti sjúklingum og er með viðtöl. Ég er með skjólstæðing inni hjá mér þegar síminn hringir og ég afsaka mig og segist þurfa að taka símtalið. Þá er í símanum hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum sem segir mér að ég eigi tíma hjá skurðlækni á morgun og hvort það sé möguleiki að flytja tímann. Ég verð náttlega mjög hissa og skil ekki alveg símtalið þar sem ég hafði jú ekki enn fengið að vita niðurstöðuna úr sýnatökunni. Hún afsakar sig og segist líklega vera að hringja á undan lækninum. Þá fatta ég að þetta þýði líklega að ég er með krabbamein. Ég ákvað að reyna að hugsa ekki um það og bíða eftir að læknirinn myndi hringja. Ég held áfram með viðtalið en er í hálfgerðri geðshræringu og meðtók líklega ekkert það sem skjólstæðingurinn sagði. Læknirinn hringir svo 5 mínútum síðar og segist vilja hitta mig. Ég verð þá svolítið reið og segist alveg vita hvað hún sé að fara að segja við mig. Ég fór svo og hitti lækninn og við fórum yfir málið. Ég hef svo hitt hjúkrunarfræðinginn oft eftir þetta og hún er ekkert nema yndisleg,“ segir Guðný. Hún segir næstu daga hafa liðið hjá í hálfgerðri móðu.

„Eftir þessa reiðitilfinningu man ég eftir hræðslu. En í raun er þetta allt í hálfgerðri móðu. Líklega vegna þess að áfallið var mikið. Ég man samt að ég hugsaði mjög fljótt að ég vildi geta eignast börn þrátt fyrir þetta. Ég hafði ekki enn eignast barn og var bara nýbyrjuð með kærastanum mínum þarna. Ég vildi sko ekki missa möguleikann á því að geta eignast barn síðar meir og var það eitt af því fyrsta sem ég ræddi við skurðlækninn minn.“

Erfið áramót

Guðný greindist með brjóstakrabbamein þann 15. desember 2014, í miðju læknaverkfalli. Jólahátíðin var því frekar skrýtin það árið, en sem betur fer komst Guðný undir hnífinn áður en nýja árið gekk í garð.

„Ég vissi ekkert hvenær ég færi í aðgerð til að fjarlægja meinið en skurðlæknirinn hafði sagt mér að líklega væri það ekkert fyrr en á næsta ári, sem mér fannst fáránlegt. Ég vildi bara losna við krabbameinið strax í dag. Jólin voru frekar dofin. En svo fékk ég símtal frá skurðlækninum milli jóla og nýárs um að hann hefði komið mér að í skurðaðgerð á gamlársdagsmorgun, 31. desember. Ég þáði það með þökkum og endaði því á að eyða áramótunum á Landspítalanum. Ég var reyndar frekar óheppin að eftir aðgerðina, sem var fleygskurður, hafði opnast æð í brjóstinu og blætt mikið inná brjóstið. Ég varð mjög lasin og féll til dæmis mjög mikið í blóðgildinu. Þetta voru því ansi erfið áramót en tilhugsunin að geta byrjað árið 2015 krabbameinsfrí var svakalega góð.“

Bónorð á Flórída.

Notar árið 2018 til að búa til barn

Við tók frjósemismeðferð í Svíþjóð í janúar og síðan lyfjameðferð sem hófst í febrúar.

„Lyfjameðferðin samanstóð af tvenns konar meðferð. Fyrst fékk ég lyf vikulega í tólf vikur og eftir það lyf á þriggja vikna fresti í aðrar tólf vikur. Eftir það fór ég í 33 geislameðferðir, alla virka daga, sem tók sirka sex vikur. Síðan þurfti ég að halda áfram að fá eitt lyf á þriggja vikna fresti en það þurfti ég að fá uppá Landspítala í heilt ár. Eftir þetta hef ég verið í hormónameðferð sem samanstendur af töflum og sprautum sem ég sé um sjálf. Þessi lyf þarf ég að fá næstu tíu árin,“ segir Guðný. Hún fær hins vegar núna að taka sér pásu frá hormónameðferðinni til að reyna við barneignir. í Svíþjóð lét hún frysta ófrjóvguð egg, þar sem meðferðin sem hún fór í getur valdið ófrjósemi.

„Ég hafði kynnst kærastanum mínum, sem nú er unnusti minn, aðeins þremur mánuðum áður en ég greinist. Ég fór í Art Medica og hitti þar lækni sem sagði mér að skynsamlegast væri að frysta ófrjóvguð egg þar sem við hefðum verið svo stutt saman og lögin á Íslandi segja að ég megi ekki nota fósturvísi fyrrverandi maka þó svo að hann gefi fullt leyfi. Allt getur gerst og því var þetta ákveðið. Ég flaug sem sagt út til Svíþjóðar því ekki var hægt að frysta ófrjóvguð egg hérlendis á þessum tíma. Mér skylst að það sé hægt núna hjá IVF klínikkinni. Nú hugsa ég alltaf um eggin mín sem litlu Svíana mína, þar sem eggin hafa „búið” í 3 ár í Svíþjóð,“ segir Guðný og brosir.

„Í rauninni er þetta ferli allt komið af stað og ef allt gengur vel hugsa ég að ég noti árið 2018 í að búa til eins og eitt stykki barn.“

Ekki alslæmt að greinast með krabbamein

Hún segir þetta ferli hafa sína ljósu punkta, þó erfitt sé.

„Kvöldið sem ég rakaði af mér hárið, en þá var ég byrjuð að missa það og fannst betra að hafa stjórnina og sjá um þetta sjálf. Systir mín hjálpaði mér og við prófuðum allskonar klippingar, svona af því við gátum það.“

„Þetta ferli hefur verið langt og strangt en alls ekki alslæmt. Það hefur alveg komið fullt jákvætt útúr þessum veikindum, eins og dýrmæt reynsla. Að prófa að sitja hinumegin við borðið og vera sjúklingur. Þó mér hafi í raun aldrei liðið eins og sjúklingi, þá er ég allavega búin að prófa þetta og skil vonandi skjólstæðingana mína betur. Einnig hef ég kynnst mikið af fólki sem allt hefur kennt mér eitthvað. Og svo er auðvitað mjög dýrmætt að finna stuðning frá ættingjum og vinum. Ég er alveg örugglega búin að breytast að einhverju leyti, það er líklega auðveldara fyrir aðra að dæma um það. Ég tel samt að ég hafi alltaf verið frekar jákvæð manneskja og hefur það alveg örugglega hjálpað mér að tækla þessi veikindi. Ég var líka heppin að ég varð aldrei mjög lasin. Var oft þreytt og uppgefin en aldrei þannig að ég þyrfti að liggja í rúminu heilan dag. Ég reyndi eftir fremsta megni að fara út á meðal fólks á hverjum degi og fór til dæmis mikið í ræktina með Ljósinu og einnig á ýmis námskeið hjá Ljósinu. Ég fór einnig í nokkra sálfræðitíma hjá Krafti og hitti stuðningsfulltrúa í gegnum Kraft sem var ung stelpa sem hafði gengið í gengum svipað ferli,“ segir Guðný. Hún er ekki frá því að hún kunni meira að meta daginn í dag en áður.

„Ég hef alltaf verið dugleg að njóta í núinu en líklega hugsa ég enn meira um það nú. Ekki fresta því sem mig langar til að gera eða upplifa. Reyna að umvefja mig jákvæðu og skemmtilegu fólki og gera meira af því sem mér finnst skemmtilegt. Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er til dæmis að ferðast og hef ég verið dugleg við það síðustu ár. Einnig finnst mér mikilvægt að vera dugleg að heimsækja fjölskyldu og vini þar sem maður veit aldrei hvenær við hittumst í síðasta skipti,“ segir hún.

Guðný í átaki Krafts.

Þiggið alla hjálp sem býðst

Guðný segir stuðning frá fjölskyldu og vinum ómetanlegan, en einnig stuðning frá Krafti, félags ungs fólks sem hefur greinst með krabbamein og aðstandenda þess. Hún segir sögu sína í nýju átaki Krafts, Krabbamein kemur öllum við, sem lýkur á sunnudag 4. febrúar, á alþjóðdegi gegn krabbameini. Þá ætlar Kraftur að setja Íslandsmet í perlun armbanda í Hörpu. En áður en ég kveð þessa jákvæðu, ungu konu verð ég að spyrja hana hvað hún vill segja við þá sem greinast með krabbamein í blóma lífsins?

„Þetta er í flestum tilfellum ekki dauðadómur. Flestir lifa góðu lífi þrátt fyrir greiningu. Reynið að einblína á jákvæðu hliðarnar, það er ekki allt slæmt við að greinast með krabbamein. Gerið meira fyrir ykkur sjálf og þiggið alla þá hjálp og stuðning sem býðst. Mér fannst gott að líta á veikindin sem verkefni. Verkefni sem ég þurfti að gefa allan minn tíma og orku í en svo kláraðist það að lokum. Þetta er oftast bara tímabil sem þarf að komast í gegnum. Það að segja að fólk sé að „berjast“  við krabbamein finnst mér ekki lýsa þessu rétt. Flestir eru ekki að berjast en frekar að ganga í gegnum og leysa verkefnin sem verða á veginum.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Úr einkasafni og Kraftur

Ekta ítölsk menning

Tinna Bessadóttir hönnuður bjó ásamt fjölskyldu sinni í Treviso Veneto sem er í hálftíma akstursfjarlægð frá sjálfum Feneyjum.

Rétt innan veggja múrsins er haldinn markaður alla fimmtudags- og laugardagsmorgna.

„Treviso er eldgömul borg sem á sér sögu allt frá 100 árum fyrir Krist. Borgin er byggð með hliðsjón af Feneyjum. Feneyjar voru ekki með her en herinn í Treviso varði Feneyjar. Borgin á sér mikla menningarsögu og miðbærinn er byggður inn í virki umkringt sýkjum sem kallast Le Mura-sýkin og setja mikinn svip á bæinn. Þau minna á Feneyjar. Innan veggja miðbæjarins búa um 3.000 manns og erfitt að fara um á bíl en innan marka Treviso búa um 82.535 manns. Við vorum svo heppin að fá yndislega fallega íbúð rétt við múrinn og sóttum því alla okkar þjónustu, líkt og skóla barnanna, innan veggja miðbæjarins,“ segir Tinna.

Ódýrt flug
Treviso er frekar rík borg og Veneto-fylkið er það fylki sem á hvað mesta peninga á Ítalíu. „Það er lítið um fátækt í Treviso og mjög lág glæpatíðni. Sem dæmi má nefna að þá stendur á stóru skilti í hjarta miðbæjarins, á torginu Piazza Del Signore, stórum stöfum: „Treviso mafíulaus borg“.

Ryanair flýgur beint til Treviso frá London og er ekkert mál að finna flug þaðan fyrir 3.000-4.000 krónur. Það er einnig flogið frá Billund og þegar ég bjó í Danmörku var ódýrara fyrir mig að fljúga frá Billund til Treviso en að taka lestina frá Suður-Jótlandi til Kaupmannahafnar. Hótel og gistiheimili eru ódýrari þar en nálægt Feneyjum en það tekur um hálftíma að taka lestina til Feneyja, tæpa tvo tíma til Verona og þrjá tíma til Mílanó.“

Uppruni tiramisu
Tiramisu-kakan kemur uppunalega frá Treviso og veitingastaðurinn Le Beccherie, sem fann hana upp, er enn starfandi. „Hann var í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi, eða frá 1960, en árið 2014 var hins vegar skipt um eigendur. Sama tiramisu-kakan hélt að sjálfsögðu sínum sess á matseðlinum. Tiramisu-kakan er stolt ítalskrar matarmenningar og mæli ég hiklaust með að stoppa á þessum sögufræga stað og fá sér sneið. Heimilisfangið er Piazza Giannino Ancilotto 11, 31100 Treviso.“

Borgin á sér mikla menningarsögu og miðbærinn er byggður inn í virki umkringt sýkjum sem kallast Le Mura-sýkin og setja mikinn svip á bæinn. Þau minna á Feneyjar.

Ekta ítalskur markaður
Rétt innan veggja múrsins er haldinn markaður alla fimmtudags- og laugardagsmorgna. „Á þessum markaði fæst allt milli himins og jarðar og hægt að upplifa sanna ítalska menningu eins og maður sér í gömlum bíómyndum. Fatnaður, heimilisáhöld, blóm, falleg veski, efnisstrangar með fallegu silki, pelsar og svona mætti lengi telja, flæða um, ásamt ferskum ávöxtum og grænmeti sem kemur beint frá bónda. Fiskur, kjöt og ostar eru einnig til staðar og kemur það allt líka beint frá bónda, afgreitt með bros á vör.

Alla þriðjudags- og laugardagsmorgna er fiskmarkaður á lítilli eyju í hjarta miðbæjarins, Isolotto della Pesceria. Þessi litla eyja er umkringd fersku vatni sem liggur í gegn um allan miðbæinn. Markaðurinn hefur verið þarna allt frá árinu 1854 og má oft sjá innfædda renna fyrir fiski á brúnni og iðandi fuglalíf sem setur skemmtilegan blæ á listaverk borgarinnar. Umhverfis eyjuna eru fjöldinn allur af litlum trattoria-veitingastöðum þar sem gott er að setjast með litla smárétti og vínglas, best er að panta einn af öllum. Það er gaman að segja frá því að vatnið innan múra Treviso er það hreint að það má vel drekka beint úr krananum.
Fjórða sunnudag hvers mánaðar er antíkmarkaður við hlið Borgo Cavour. „Þar er endalaust hægt að gramsa og finna ótrúlegar gersemar.“

Fræg fatamerki
Piazza Del Signori er stærsta torg miðbæjarins með ótal veitingastaði. „Þar er yndislegt að setjast niður og fá sér pizzu og spriz að hætti heimamanna. Á kvöldin um helgar er oft lifandi tónlist og dansað á torginu við harmonikuspil eða ýmsar aðrar uppákomur. Þar er ávallt mikið mannlíf að hætti ítalskrar menningar, eins og brúðkaup, skrúðgöngur og sýningar af ýmsu tagi.

Það er gott að versla í borginni en flestar þær verslanir sem eru innan veggja miðbæjarins eru frekar í hærri kantinum fyrir utan stóra og glæsilega H&M-verslun. Benetton-fjölskyldan er frá Treviso og bjuggu þeir bræður einmitt í bleikri höll sem prýddi enda götunnar okkar

Í Treviso eru höfuðstöðvar merkjanna Benetton, Sisley, Stefanel, Geox, Diadora og Lotto Sport. Það er gott að versla í borginni en flestar þær verslanir sem eru innan veggja miðbæjarins eru frekar í hærri kantinum fyrir utan stóra og glæsilega H&M-verslun. Benetton-fjölskyldan er frá Treviso og bjuggu þeir bræður einmitt í bleikri höll sem prýddi enda götunnar okkar.“

Frægur tenór
Einn frægasti tenór Ítala, Mario Del Monaco, er frá Treviso. „Finna má styttur og leikhús í hans nafni í borginni. Það er um að gera að skella sér í leikhús eða á tónleika í hinu glæsilega leikhúsi Teatro Comunale Mario Del Monaco, teatrocomunaletreviso.it. Það er gaman að segja frá því að við bjuggum einmitt í gullfallegri íbúð bróður Del Monaco á meðan á dvöl okkar stóð í borginni. Þess vegna snart allt sem varðaði þennan söngvara, sem hafði áhrif á sjálfa Pavarotti og Domingo, okkur djúpt.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Aðalmynd: Tinna Bessadóttir ásamt fjölskyldunni

Úr heimi tölvuleikja

Undanfarin ár hefur kvikmyndaverum tekist að fá öfluga leikara til að fara með aðalhlutverkið í tölvuleikjamyndum og þannig aukið aðsókn á þær. Hér eru nokkrar af þeim þekktustu.

Faldir fjársjóðir
Tölvuleikirnir um Löru Croft nutu gríðarlegra vinsælda á síðasta áratug og gerðar voru tvær kvikmyndir með Angelinu Jolie í aðalhlutverki. Lara Croft kemur úr breskri aðalsfjölskyldu, en stundar það að fara á sögulega staði og safna fornmunum, úr musterum, gömlum borgum, og fleiri slíkum stöðum, víða um heiminn, og hún lætur ekkert stöðva sig, ekki einu sinni lífshættulegar aðstæður. Í fyrri myndinni, Lara Croft: Tomb Raider, sem kom út árið 2001 berst Lara við leynifélag sem kallast Illuminati í leit að fornum verndargrip sem gefur þeim sem hefur hann undir höndum möguleika á því að stjórna tímanum. Í mynd númer tvö, Lara Croft Tomb Raider: The Cradle of Life, leitar hún að öskju Pandóru í keppni við kínversk glæpasamtök. Nú er von að nýrri mynd með Aliciu Vikander í hlutverki Löru Croft.

Aftur í tíma
Assassin’s Creed-tölvuleikirnir eru níu talsins og gerast allir á tímum sögulegra átaka. Aðalsöguhetjan Desmond Miles getur ferðast aftur í tíma í gegnum minningar forfeðra sinna og getur þannig haft áhrif á framgang sögunnar. Skömmu fyrir áramót kom út kvikmynd sem er sjálfstæð eining innan þessa heims og kynnt er til sögunnar ný hetja. Callums Lynch er afkomandi hins vígfima Aguilar sem ásamt félögum sínum barðist á móti óréttlæti á tímum spænska rannsóknarréttarins. Með sérstakri tækni getur Callum ferðast aftur í tímann, tekið sér bólfestu í líkama Aguilar og haldið verkum hans áfram. Það er enginn annar en Michael Fassbender sem fer með hlutverk Lynch og Aguilar í kvikmyndinni (sjá aðalmynd).

Ógn uppvakninga
Resident Evil er líklega stærsta kvikmyndasería sem byggð er á tölvuleik. Þrátt fyrir slæma dóma njóta kvikmyndirnar mikilla vinsælda og nú er von á sjöttu og síðustu myndinni. Myndirnar segja frá fyrirtækinu Umbrella sem er eitt valdamesta fyrirtæki heims en það á velgengni sína að þakka rannsóknarstöð neðanjarðar þar sem nýstárleg vopn eru prófuð og framleidd. Í fyrstu myndinni er sagt frá því þegar veira sem fyrirtækið býr til, sleppur út og breytir hundruðum vísindamanna í hungraða uppvakninga. Tölvukerfið lokar stöðinni vegna sýkingarhættu og Alice ásamt neyðarsveit er send til að slökkva á tölvunni og koma höndum yfir veiruna. Það gengur ekki alveg eftir og veiran sleppur út og verður að faraldri. Í næstu fimm myndum reyna Alice og föruneyti hennar að ráða niðurlögum Umbrella og bjarga mannkyninu frá uppvakningum.

Prinsinn til bjargar
Í Prince of Persia-leikjunum er fylgst með prins einum í Persíu á miðöldum sem lendir í ýmsum ævintýrum og hremmingum. Leikurinn kom fyrst út árið 1989 og var endurvakinn árið 2003. Kvikmyndin Prince of Persia: The Sands of Time sem er byggð á leiknum kom út árið 2010 og segir í raun bakgrunnssögu prinsins, en hann er í raun ekki raunverulegur prins heldur fátækur munaðarleysingi sem konungurinn tók í fóstur. Á fullorðinsárum fær hann tækifæri til að endurgjalda greiðann og bjarga konunginum. Hann þarf að stöðva fyrirætlanir bróður konungsins sem ætlar að breyta tímalínunni með hjálp Tímarýtingsins þannig að konungurinn deyr sem barn og bróðirinn verði konungur. Myndin skartar einvala liði leikara, svo sem Jake Gyllenhal og Ben Kingsley, en hún fékk engu að síður fremur lélega dóma gagnrýnenda.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Mikilvægt að fylgjast með fæðingarblettum

Breytingar á fæðingarblettum geta verið merki um illkynja þróun.

Flest erum við með fæðingarbletti einhvers staðar á líkama okkar. Sumum finnst þeir óþolandi lýti á meðan aðrir sjá þá sem hluta af sínum persónueinkennum. Það er mjög mikilvægt að vera með augun opin fyrir hvers lags breytingum á fæðingarblettum því það getur verið merki um illkynja þróun.

Allir ættu að framkvæma fæðingarblettaskoðun á sjálfum sér og sínum nánustu. Þá er gott að styðjast við þumalputtareglu húðsjúkdómasérfræðinga: ÓJLÞT-regluna.

Ó stendur fyrir ósamhverfa bletti á einni eða tveimur hæðum. Því ósamhverfari, því meiri hætta.
J stendur fyrir jaðar. Það er ekki góðs viti ef hann er óskýr og óreglulegur.
L stendur fyrir litbrigði. Eru margir litir í blettinum, þar á meðal brúnn, svartur, rauður, hvítleitur eða fjólublár? Það er frekar óheppilegt. Einlitir ljósir og jafnvel miðlungsbrúnir blettir eru hins vegar alla jafna í lagi.
Þ er fyrir þvermál. Fæðingarblettur sem mælist minna en hálfur sentimetri í þvermál er venjulega góðkynja. Ef hann er stærri en hálfur sentimetri og fer stækkandi er það ekki góðs viti.
T stendur fyrir tignarleika eða ris. Fæðingarblettur sem hefur alltaf verið tignarlegur, nabbalegur og hægt er að hreyfa fram og til baka er alla jafna góðkynja. Fæðingarbletti sem alltaf hafa verið sléttir en virðast svo verða þykkari eða nabbalegri með tímanum þarf að skoða hið fyrsta.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Kyrrð, ró og gott mannlíf

Anna Björg Kristinsdóttir segir gott að búa í bæjarkjarnanum Himlingøje í nágrenni Kaupmannahafnar.

Bærinn er lítill, nánast aðeins ein gata með nokkrum húsum, félagsheimili og kirkju.

Anna Björg Kristinsdóttir hefur búið í litlum bæjarkjarna sem heitir Himlingøje í Danmörku. Himlingøje er 13 kílómetra suður af Køge og þar hafa fundist fornleifar sem taldar eru frá elstu byggðum Danmerkur, meðal annars minjar frá tímum Rómaveldis. Bærinn er lítill, nánast aðeins ein gata með nokkrum húsum, félagsheimili og kirkju. Í kring liggja akrar og sveitir og að mati Önnu Bjargar eru helstu kostir staðarins kyrrð, ró og gott mannlíf.

Stevns Klint
Er á heimsminjaskrá UNESCO. Kletturinn er samansettur úr kalksteinslögum sem hafa mikla þýðingu fyrir jarðvísindasöguna en í honum sjást meðal annars jarðlög frá því að risaeðlurnar lifðu og dóu út. Meðfram klettinum liggur 20 km langur göngustígur sem hægt er að ganga á góðum degi frá Rødvig til Bøgeskoven, eða öfugt, og margir áhugaverðir sögustaðir á leiðinni. Á meðal þeirra er kirkjan í Højerup sem var byggð vel inni í landi á þrettándu öld en með tímanum hefur sjórinn sorfið úr klettinum og hluti af kirkjunni féll í hafið 1928. Í Rødvig eru líka veitinga- og gististaðir og því tilvalinn áfangastaður fyrir þá sem vilja sjá eitthvað meira en Kaupmannahöfn í Danmerkurferðinni.

Kaldastríðssafnið
Hernaðarlega séð var svæðið við Stevns Klint mjög mikilvægt á tímum kalda stríðsins. Hér er hægt að sjá minjar þessa gamla tíma þegar gert var ráð fyrir að ef til átaka kæmi milli austurs og vesturs, yrði aðgerðum NATO stjórnað úr neðanjarðarbyrgjum við Stevns Klint. Möst fyrir söguáhugafólk!

Við kastalann er svo Vallø Slotskro sem er vandaður veitingastaður og gistiheimili.

Vallø-kastali
Kastalinn var byggður um miðja 16. öld og hefur verið búið í honum nánast samfleytt síðan. Þó brann hluti af honum árið 1893 en útveggirnir stóðu og innviðir voru endurbyggðir. Í dag eru alls níu íbúðir í kastalanum og því ekki hægt að skoða hann að innan en við komum oft hingað til að fara í göngutúr með hundinn í kastalagarðinum, sem er opinn almenningi. Það er yndislegt að ganga þarna um en garðurinn er einstaklega fallegur á sumrin og mikið notaður til útiveru. Við kastalann er svo Vallø Slotskro sem er vandaður veitingastaður og gistiheimili en ekki nóg með það, heldur var hann valinn „Årets Bedste Bo og Spis-sted i Danmark“ fyrir árið 2017 af Den danske Spiseguide. Í fimm mínútna fjarlægð er 18 holu golfvöllur.

TeBønnen – Køge
Þetta er mín uppáhaldsverslun á svæðinu. Hér fæst úrval af gæðatei og -kaffi, ásamt ýmiss konar matvælum frá dönskum smáframleiðendum; súkkulaði, kryddblöndur, hunang og alls konar marmelaði, svo eitthvað sé nefnt. Reyndar er alveg þess virði að fá sér göngu um miðbæinn í Køge og skoða gömlu skökku húsin sem gefa verslununum einstakt yfirbragð.

Dhaba – Køge
Og þegar maður er búinn að ganga um miðbæinn liggur beint við að fá sér eitthvað gott að borða. Möguleikarnir eru margir en ég ætla að mæla með Dhaba, indverskum stað sem geymir einhver ótrúleg leyndarmál í pottunum!

Stevns Klint er á heimsminjaskrá UNESCO. Kletturinn er samansettur úr kalksteinslögum sem hafa mikla þýðingu fyrir jarðvísindasöguna en í honum sjást meðal annars jarðlög frá því að risaeðlurnar lifðu og dóu út.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Finndu jafnvægi í daglegu lífi

Námskeið í nútvitundariðkun (mindfulness) hefst í húsnæði Rósarinnar, Bolholti 4 í febrúar.

Námskeiðið samanstendur af fræðslu, umræðum, reynslunámi/æfingum og heimaiðkun þar sem þátttakendum er kennt að vera í núinu meðal annars með það fyrir augum að finna jafnvægi í daglegu lífi.

Núvitundariðkun byggir á aldagamalli hugleiðsluaðferð, búddískri að uppruna, þar sem athygli að líðandi stund er þjálfuð og hugsunum beint inn á „heillavænlegar brautir“. Námskeiðið hentar fólki sem til dæmis glímir við ýmis konar verki, veikindi, þreytu eða streitu.

Kennt verður í húsnæði Rósarinnar, Bolholti 4, á mánudögum frá kl. 13.30 – 15.45, frá og með 5. febrúar. Námskeiðið er átta skipti. Sjá www.lifandinuna.is/betri-heilsa

Burt með vöðvabólguna

Fimm einfaldar leiðir til að losna við vöðvabólgu og tilheyrandi verki.

Nudd gerir kraftaverk á auma vöðva. Ef vöðvabólgan er mikil þá þýðir ekkert að fara bara einu sinni í nudd og halda að það lagi allt. Þú þarft að setja þér markmið og spyrja nuddarann þinn hversu slæm vöðvabólgan er og fá hann til að finna út með þér hvað þú þarft marga nuddtíma til að koma þér í lag.

Prófaðu kælikrem. Hægt er að kaupa sér kælikrem og kæligel til að bera á auma vöðvana og lina þjáningarnar um tíma. Það er til dæmis sniðugt að nýta sér þessi krem eftir erfiðan tíma hjá nuddaranum. Góð kælikrem eiga ekki að erta húðina eða valda óþægindum og of mikilli kælingu.

Finndu orskök bólgunnar. Til að koma í veg fyrir að vöðvabólgan endurtaki sig aftur og aftur er gott að reyna að finna orsök hennar. Er það röng líkamsbeiting, setan í vinnunni, er álagið of mikið eða streitan að taka öll völd. Finndu það út og komdu í veg fyrir að líkaminn gefi sig á þennan hátt. Líf án vöðvabólgu er gott líf.

Hvíldu þig! Hvíld og þjálfun er jafnmikilvæg fyrir fólk sem þjáist af vöðvabólgu. Þetta á þó ekki við um þá sem þjást af vöðvaverkjum eftir slys. Þá skiptir hvíldin máli og að ekki sé farið af stað fyrr en vöðvarnir eru búnir að jafna sig.

Bólgueiðandi verkjalyf eru til í öllu apótekjum. Það er í lagi að nýta sér þau, þó í hófi.

Matur sem kveikir blossann

Ýmis matvæli stytta leiðina milli magans og hjartans.

Arineldur, kertaljós og ástríðufullur matur er hinn fullkomni forleikur á rómantísku kvöldi og gefur kitlandi og hlýja tilfinningu, ásamt því að koma ímyndunaraflinu af stað. Ýmis matvæli stytta leiðina milli magans og hjartans, ekki bara vegna innihaldsins heldur líka vegna þess hvernig þau líta út. Kannski er málið að afpanta tímann hjá kynlífsráðgjafanum og kíkja í búðina í staðinn!

Möndlur
Lyktin af möndlum er sögð hafa æsandi áhrif á konur sem útskýrir hvers vegna þær eru svo algengt innihaldsefni í sápum og kremum. Möndlur eru tákn fyrir ástríðu og frjósemi.

Aspas
Þetta magnaða grænmeti með þessu afgerandi bragði á sér langa sögu um að hafa örvandi áhrif og er sígilt hráefni í ástardrykki víða um heim. Áhrifin voru talin það sterk að á 19. öldinni var það siður í Frakklandi að láta síðustu máltíð brúðguma innihalda að minnsta kosti þrjá stilka af heitum aspas.

Avókadó
Talið er að avókadó eða lárpera búi yfir örvandi krafti og hjá þjóðflokknum Aztecs er hún kölluð „ahucati“ sem þýðir eista. Í kaþólsku sögðu prestarnir sóknarbörnum sínum að láta ekki undan avókadóinu!

Örvunaráhrif sellerís eru vel þekkt í Svíþjóð þar sem hinn frægi rithöfundur Hagdahl lýsti selleríi sem „auðveldum vekjara“.

Bananar
Þessi fallegi guli ávöxtur hefur ekki aðeins afar erótíska lögun heldur tengist hann líka erótískri orku. Frægt er þegar Eva skýldi sér á bak við banana þegar höggormurinn freistaði hennar. Bananar innihalda efni sem talin eru geta aukið kyngetu.

Gulrætur
Samkvæmt Forn-Grikkjum er hver tomma af gulrót rík af lostavekjandi efnum – svo miklum að þeir átu ræturnar, fræin og laufin áður en þeir tóku þátt í svallveislum.

Sellerí
Örvunaráhrif sellerís eru vel þekkt í Svíþjóð þar sem hinn frægi rithöfundur Hagdahl lýsti selleríi sem „auðveldum vekjara“. Kramin sellerífræ eru sögð vera sérstaklega öflug og tilvalið að nota í brauð eða salatdressingar

Súkkulaði
Að öðrum mat ólöstuðum er súkkulaði konungur lostavekjandi matvæla og hefur verið notað til að vekja ástríðu víða um heim. Það hefur svo mikil áhrif á kynhvötina að það hefur verið bannað í sumum klaustrum. Hinn frægi kvennabósi Casanova var mikill súkkulaðifíkill og fékk sér alltaf tvö eða þrjú stykki áður en hann hitti ástkonur sínar.

Hindber og jarðarber – ásamt kampavíni
Fersk hindber og jarðarber eru öflugir lostavakar. Báðar tegundir bjóða ástina velkomna og mjög oft er vísað í þessi ber í erótískum bókmenntum. Ekki er verra að fá sér svolítið kampavín með en bara passlega lítið því ef viðkomandi verður drukkinn þá er allur sjarmi farinn. Súkkulaðihúðuð jarðarber og kampavínsdreitill – það gerist varla betra.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / NordicPhotos

5 leiðir til að borða meira grænmeti

Með góðu skipulagi og breyttu viðhorfi geturðu aukið grænmetisneysluna.

Þrátt fyrir að grænmeti sé virkilega hollur og góður matur eiga margir í erfiðleikum með koma því að einhverju magni inn í máltíðir sínar. Ástæðurnar geta verið margvíslegar en með góðu skipulagi og breytingu á viðhorfum getum við öll aukið grænmetisneysluna og notið hennar vel.

Fljótvirkar eldurnaraðferðir
Frosið niðurskorið grænmeti er gott að eiga til að grípa í þegar tíminn er naumur. Þú einfaldlega skellir því á pönnu í nokkrar mínútur og ert komin með fínasta meðlæti á örskotstundu. Ef mikið liggur við má einnig sjóða grænmeti, frosið og ófrosið, í örbylgjuofni. Grillað grænmeti er líka sjúklega gott.

Undirbúðu þig
Sniðugt er að skera niður fullt af grænmeti eins og papriku, gulrætur, spergilkál og fleira þegar þú hefur tíma og setja í litlar pakkningar sem hægt er að grípa til þegar tíminn er takmarkaður. Litlu pakkana getur þú svo gripið í millimál, skellt í salatið, notað með hummus eða sett í grænmetisvefjur svo dæmi séu tekin.

Frosið grænmeti
Frosið grænmeti er alveg jafnríkt af næringarefnum og ferskt grænmeti. Það er fljótlegt og auðvelt í notkun og þú þarft ekki að eiga á hættu að það skemmist innan fárra daga. Þú getur bæði keypt frosið niðurskorið grænmeti í pokum eða skorið niður þitt eigið og fryst. Tilvalið er að eiga fjölbreyttar tegundir í frysti til að eiga eitthvað við öll tækifæri.

Litríkara salat
Lífgaðu upp á salatið með því að blanda litríku grænmeti í það eins og rifnum radísum, hökkuðu rauðkáli, svörtum baunum, rauðum paprikusneiðum eða baunaspírum. Salatið mun ekki aðeins líta betur út heldur verða miklu betra á bragðið.

Gerðu grænmetissúpur
Búðu til grænmetissúpur frá grunni með fullt af girnilegu grænmeti. Víða er hægt að fá uppskriftir að alls konar girnilegum súpum, ekki síst á Netinu. Endilega eldaðu alltaf stóra skammta til að geta átt afganginn í frysti. Þú getur sett afganginn í nokkur ílát sem passa sem máltíð fyrir einn og er tilvalið að taka með sér sem nesti í vinnuna.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / NordicPhotos

Rangfeðrað fólk knúið í dómsmál

|||
|||

Það er mikið áfall fyrir fólk að komast að því að það hafi verið rangfeðrað.

Því síður er auðvelt fyrir sömu einstaklinga að þurfa að höfða dómsmál til að fá réttan uppruna sinn staðfestan. Ráðast þarf í úrbætur á barnalöggjöfinni þegar mál þessa fólks eru til meðferðar og auka þarf rétt feðra til þess að höfða faðernismál sem er lítill sem enginn núna að mati lögfræðings. Mannlíf ræddi við karl og konu sem bæði voru rangfeðruð og segja þá reynslu mjög erfiða.

„Ég fékk staðfestingu á því að ég væri sonur annars manns 2013 kominn langt á sjötugsaldur. Mig hafði grunað þetta frá því ég var 17 ára þegar móðir mín gaf í skyn að ég væri ekki sonur föður míns en nefndi aldrei nafn míns rétta föður. Ég komst bara að því nýlega,“ segir maður í samtali við Mannlíf sem treystir sér ekki til að koma fram undir nafni vegna þessa máls.

„Þetta þykir öllum í fjölskyldunni minn afskaplega viðkvæmt og hefur legið þungt á mér alla tíð. Ég vil meina að þetta hafi mótað mig sem einstakling, allur þessi efi og þrá mín eftir réttum föður í marga áratugi. Þegar ég fékk loks staðfestingu á því með lífsýnaprófi að ég væri sonur annars manns var þungu fargi af mér létt. Ég eignaðist við það fimm systkini sem hafa tekið mér vel sem er dýrmætt. Þetta er ólýsanleg tilfinning að þekkja ekki uppruna sinn og ég held það sé ómögulegt að skýra það út fyrir nokkrum sem ekki hefur upplifað það,“ segir hann.

Veigrar sér við dómsmáli

Það sem hann hins vegar þráir núna, kominn á áttræðisaldur, er að hann sé rétt feðraður í þjóðskrá. Hann reyndi að fá faðerninu breytt í þjóðskrá en stofnunin hefur hafnað beiðni hans þar sem ekki liggur fyrir dómsúrskurður um rétt faðerni. Það er hins vegar ansi flókið ferli. Fyrst þyrfti hann að höfða svokallað véfengingarmál þar sem upphaflegu faðerni yrði hnekkt fyrir dómi með lífsýnaprófi því til staðfestingar. Að því loknu þyrfti hann að höfða faðernismál sem er annað dómsmál til að staðfesta faðernið með lífsýnaprófi því til sönnunar. Bæði dómsmál og mannerfðafræðileg rannsókn á blóðsýnum eru niðurgreidd af ríkissjóði. Barnalögin segja um þessar aðstæður að einstaklingur sem leitar faðerni síns þurfi að stefna þeim manni eða mönnum sem taldir eru hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma. Sé sá maður látinn áður en málið er höfðað er lögerfingjum hans stefnt.

„Ég get … ekki hugsað mér að stefna systkinum mínum fyrir dóm sem ég hef nýlega kynnst. Ég þrái það heitt að vera rétt feðraður og skráður sem slíkur í opinberum skrám en mér finnst það of mikið lagt á alla í kringum mig.“

Líffræðileg móðir og faðir viðmælanda Mannlífs eru bæði látin og maðurinn sem hann var upphaflega feðraður líka. Þetta þýðir að hann þarf að höfða dómsmál á hendur systkinum sínum, móður megin, til að hnekkja upphaflegu faðerni og svo yrði hann knúinn til að stefna nýjum systkinum sínum fyrir dóm í faðernismálinu.

„Ég get einfaldlega ekki hugsað mér að stefna systkinum mínum fyrir dóm sem ég hef nýlega kynnst. Ég þrái það heitt að vera rétt feðraður og skráður sem slíkur í opinberum skrám en mér finnst það of mikið lagt á alla í kringum mig,“ segir hann. „Ef ég fengi að skrá nafnið mitt rétt yrði ég sáttur. Meira færi ég ekki fram á. Mér finnst þetta hrein mismunun að geta ekki framvísað lífsýnaprófi sem staðfestir svo ekki verður um villst að ég er hálfbróðir systkina minna. Með því að höfða opinbert dómsmál óttast ég að ættingjar mínir taki því illa svo viðkvæmt er þetta mál eins og gefur að skilja.“

Gat ekki hætt að leita föður síns

Benedikta Eik Eiríksdóttir var rúmlega þrítug að aldri þegar hún komst að því að hún var rangfeðruð. „Ég fékk áfall við að heyra að ég væri ekki dóttir mannsins sem ég var feðruð en

Benedikta Eik Eiríksdóttir hefur verið ófeðruð í þjóðskrá í tuttugu ár eftir að hún höfðaði véfengingarmál gegn móður sinni og manninum sem hún var upphaflega feðruð. Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

mig hafði alltaf grunað það. Ég var þá ekki galin en það tók mikið á að horfast í augu við það eitt og sér,“ segir Benedikta sem hefur í tvígang með átta ára millibili sagt viðburðaríka sögu sína í Kastljósi, nú síðast í desember síðastliðnum. Henni var greint frá því fyrir rúmum tuttugu árum að hún væri ekki dóttir mannsins sem hún taldi vera föður sinn. Sá maður sem móðir hennar taldi vera líffræðilegan föður hennar reyndist ekki heldur vera rétti líffræðilegi faðir hennar þegar blóðsýni þeirra voru rannsökuð. Fram undan var löng og erfið leit.

„Mig grunaði aldrei að ég þyrfti að leita að honum og hvað þá að þetta tæki allan þennan tíma. Ég var samt alltaf sannfærð um að ég yrði að finna út hverra manna ég væri. Ég gat ekki hætt þarna,“ segir hún. Leitinni lauk í fyrra þegar hún fékk nafnlaust símtal sem kom henni á sporið við að finna sinn rétta föður sem síðar var staðfest með lífsýnarannsókn. Faðir hennar hét Eiríkur Ragnar Guðjónsson og lést árið 2013.

„Ég náði aldrei að hitta hann því miður. Ég mun bara þekkja pabba minn í gegnum hans nánustu. Mér tókst hins vegar að finna hann og fyrir það er ég gríðarlega þakklát. Ég græddi fimm systkini í viðbót og mömmu þeirra líka. Þau hafa tekið mér rosalega vel, ég finn hvað ég er velkomin í fjölskylduna og ég reyni að rækta sambandið við þau,“ segir hún.

Vandinn við dómsmál er tilfinningalegs eðlis

Benedikta hefur verið ófeðruð í þjóðskrá í tuttugu ár eftir að hún höfðaði véfengingarmál gegn móður sinni og manninum sem hún var upphaflega feðruð. Hún ákvað í samráði við hin nýju fimm systkini sem hún eignaðist á einni nóttu að höfða faðernismál og fá það staðfest fyrir dómi að Eiríkur væri réttur líffræðilegur faðir sinn. „Ég hef ekki getað kallað mig dóttur neins í tuttugu ár og get núna loksins kallað mig Eiríksdóttur í þjóðskrá samkvæmt úrskurði héraðsdóms og það er mjög mikilvægt fyrir mig. „Þegar ég sá fram á að þurfa að stefna nýju systkinum mínum fyrir dóm og gera þetta mál opinbert þá setti ég mig í stellingar og hélt að þau yrðu ósátt við það. Það varð aldrei og þau sýndu mér fullan skilning og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Kostnaðurinn við dómsmeðferðina er ekki vandinn í sjálfu sér því hann er að mestu niðurgreiddur heldur er hann tilfinningalegs eðlis. Þótt þau hafi öll samþykkt málsmeðferðina fyrir dómi vitandi að hún væri bara formlegs eðlis þá er ekki alltaf hlaupið að því að stefna nýjum ættingjum sínum fyrir dóm sem svo er gerður opinber,“ segir Benedikta. „Ég er enn þá að reyna að ná utan um þetta allt saman, ég næ því kannski einn daginn.“

Ríkið greiði fyrir mannerfðafræðilegar rannsóknir

Á tuttugu árum hefur Benedikta látið bera lífsýni sitt við fimm menn í leitinni að réttum föður því móðir hennar sýndi ekki mikla viðleitni til að aðstoða hana við leitina. Tvær blóðrannsóknir voru greiddar úr ríkissjóði af því þær reyndust réttar, annars vegar í

Það er mikið áfall fyrir fólk að komast að því að það hafi verið rangfeðrað. Því síður er auðvelt fyrir sömu einstaklinga að þurfa að höfða dómsmál til að fá réttan uppruna sinn staðfestan. Mynd / Aldís Pálsdóttir

véfengingarmálinu og hins vegar í faðernismálinu en hin þrjú sem sýndu engin blóðtengsl greiddi hún úr eigin vasa.

Anna Margrét Pétursdóttir útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík í fyrravor og skrifaði meistararitgerð um feðrunarreglur barnalaga. Hún telur meðal annars að það þurfi að endurskoða reglur um niðurgreiðslu á mannerfðafræðilegum rannsóknum. En þær fást ekki endurgreiddar nema dómur hafi gengið í málinu og eingöngu ef niðurstaða staðfestir blóðtengsl. „Þegar einstaklingur leitar uppruna síns, liggja fyrir í mörgum tilfellum aðeins orð móður eða jafnvel sögusagnir um hver það sé sem sé mögulegur faðir. Fenginn er úrskurður héraðsdóms fyrir því að taka megi sýni svo unnt sé að framkvæma rannsókn. Leiði sú rannsókn í ljós að útilokað sé að viðkomandi sé faðir einstaklingsins þýðir það að hann þurfi sjálfur að bera kostnað af málinu. Það skiptir því máli að kostnaður vegna slíkra mála falli alltaf á ríkissjóð óháð niðurstöðu í rannsóknum, annars veigra einstaklingar sér við að höfða mál og fá því ekki svarað þeirri mikilvægu spurningu sem legið hefur þungt á þeim. Íslenska ríkinu ber skylda til að uppfylla ákvæði mannréttindasáttmála og Barnasáttmála sem lögfestir eru hér á landi þar sem kveðið er á um að barn eigi rétt á að þekkja foreldra sína. Mín skoðun er því sú að ríkinu beri skylda til að tryggja þessi réttindi,“ segir Anna Margrét.

Feður hafa takmarkaðan rétt til höfða faðernismál

Anna Margrét ákvað að skoða feðrunarreglur í barnalögum í sínu lokaverkefni meðal annars vegna þess að náinn ættingi hennar hefur reynt að komast að réttu faðerni í fjöldamörg ár án árangurs. „Það eru mannréttindi að þekkja uppruna sinn og þau réttindi eru ekki nægilega tryggð í gildandi barnalöggjöf. Að mínu mati er nauðsynlegt að ráðast í úrbætur svo umrædd réttindi verði tryggð með fullnægjandi hætti.“ Hún segir að mörgum þyki þetta flókið, kostnaðarsamt og íþyngjandi ferli að þurfa fara fyrir dómstól til að sækja þennan rétt.

Anna Margrét Pétursdóttir skrifaði meistararitgerð um feðrunarreglur barnalaga.

„Raunveruleikinn er sá að börn eru ranglega feðruð hér á landi. Það er skortur á úrræðum fyrir rangfeðraðra einstaklinga og að auki hafa karlmenn sem telja sig föður barns enga möguleika á að láta á faðerni sitt reyna.“ Hún segir að faðernisregla barnalaga, svokölluð pater-est-regla feli í sér að eiginmaður eða maður sem skráður er í sambúð með móður telst sjálfkrafa faðir barns hennar. Ákvarðanir fólks um sambúðarform hafi því áhrif á feðrun barna. Í flestum tilvikum teljist eðlilegt að svo sé en það geti þó komið fyrir að börn séu ranglega feðruð af þessum sökum. Þótt konan sé ekki í sambúð eða í hjónabandi þegar barnið er getið þá hefur faðir barnsins engan rétt ef konan hefur sambúð eða gengur í hjónaband með öðrum manni áður en barnið fæðist.

„Barn er sjálfkrafa ranglega feðrað eiginmanni eða manni sem móðir þess er skráð í sambúð með sem veldur því að sá sem réttilega telur sig vera faðir barns getur ekki höfðað faðernismál þar sem barnið hefur þegar verið feðrað. Þessu þarf að breyta og eru tillögur mínar þær að rýmka skuli málshöfðunarheimildir barnalaga til að tryggja manni sem telur sig föður barns heimild til að höfða faðernismál og/eða véfengingar- og ógildingarmál. Með því yrði réttindum barns til að þekkja uppruna sinn gert hærra undir höfði og opnuð sú leið að heimila mönnum að láta á faðerni reyna fyrir dómstólum,“ segir Anna Margrét.

Texti / Helga Arnardóttir
Aðalmynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Straumar og stefnur í hollustu 2018

|
|

Þessu holla mataræði er spáð vinsældum.

Hinn svokallaði Miðjarðarhafs„kúr“ var vinsæll á síðasta ári og áhrifa hans mun gæta áfram.

Blóm vinsæl neysluvara
Spekingar spá því að ætileg blóm eins og lofnarblóm og rósir komi sterk inn á árinu, bæði út í drykk og mat og þá ekki einunigs sem eitthvert skraut heldur vegna þeirra góðu áhrifa sem þau eru talin hafa á heilsuna.

Bólgueyðandi áhrif, góð áhrif á háan blóðþrýstingi og á magaverki, allt saman er þetta nefnt sem ástæður þess að slík blóm komi til með að verða vinsæl neysluvara árið 2018.

Falafel, Halloumi og Harissa
Hinn svokallaði Miðjarðarhafs„kúr“ var vinsæll á síðasta ári og áhrifa hans mun gæta áfram. Þannig verður falafel, Halloumi ostur og spennandi krydd eins Harissa og kardimommur, sem eru talin hafa alls konar góð áhrif á heilsuna, meðal annars andoxandi áhrif á líkamann og örvandi áhrif á meltinguna, nokkuð áberandi.

Sveppir í heilsubótarskyni
Þá er búist við að sveppir á borð við svokallaða „chaga“ sveppi, „ljónsmakka“-sveppi (lion‘s mane), „Cordyceps“ sveppi og „reishi“ sveppi, sem yfirleitt eru notaðir í fæðubótarefni eða til að bragðbæta drykki eins og te, kaffi, „smoothies“ og fleira, verði í auknum mæli notaðir í heilsubótarskyni á árinu.

Sveppir sem eru meðal annars taldir hafa bólgueyðandi áhrif á líkamann, ásamt því að vera styrkjandi fyrir ónæmiskerfið.

2017 straumar og stefnur sem lifa áfram

Ofurfæða áfram vinsæl
Læknandi fæðutegundir, sem eiga ekki aðeins að bæta heilsu heldur líka lækna ýmsa kvilla,. verða áfram áberandi árið 2018. Við höfum þegar heyrt mikið talað um bólgueyðandi túrmerik, ónæmisbætandi sveppi, svo sem chaga, og fleiri fæðutegundir munu bætast við á árinu. Mikið er talað um jurtir sem koma jafnvægi á líkamann, draga úr streitu og áhrifum streituhormónins kortisól, auka orku og fleira, allt eftir því hvað líkaminn þarf á að halda, en þetta eru jurtir á borð við ginseng, ashwagandha og lakkrísrót.

Atkins á nýjan leik
Fólk er ennað tala um Atkins-kúrinn, þökk sé Kim Kardashian. Hún hvarf algerlega úr sviðsljósinu eftir að hún eignaðist sitt annað barn og sneri ekki aftur fyrr en hún hafði misst meðgöngukílóin. Hún léttist um 30 kg á 6 mánuðum og sagðist hafa fylgt Atkins-kúrnum, það er prótínríku og kolvetnaskertu mataræði. Í þetta skipti er lögð áhersla á heilsusamlega fitu og prótín í Atkins – ekki bara beikon og rjóma í öll mál.

Heilbrigður meltingarvegur
Meltingarvegur okkar er margslungið fyrirbæri og það á sérstaklega við um þarmana. Þar lifir gríðarlegt magn baktería sem allar hafa sitt hlutverk. Undanfarna áratugi hafa læknar og vísindamenn beint rannsóknum sínum í auknum mæli að þessari þarmaflóru; hvaða áhrif hún hefur á heilsu okkar, hvernig við getum ýtt undir hana eða aukið virkni hennar og svo framvegis.

Texti / Roald Eyvindsson og Hildur Friðriksdóttir

Möndlumjólk – holl og góð

|möndlumjólk|
||

Hægt að laga ótal útgáfur af drykkjum með möndlumjólk en það fer eftir smekk hvers og eins hvað er sett í drykkinn.

Ljósi draumurinn, græna byltingin og bleiki drykkurinn.

Möndlur eru gífurlega hollar og næringarríkar og innihalda m.a. prótín, járn og kalk. Rannsóknir hafa leitt í ljós að fitusýrur í möndlum („góðar fitusýrur“) geta dregið úr hættu á hjartasjúkdómum og hjálpa til við að draga úr „slæma kólesterólinu“ svokallaða. Möndlur innihalda einnig mikið af E-vítamíni, fólínsýru, trefjum og andoxunarefnum. Þær eru hins vegar kaloríuríkar þannig að um þær gildir, eins svo margt annað, að allt er best í hófi!

Möndlumjólk sem er löguð úr möndlum og vatni er auðvelt að útbúa sjálfur og nota t.d. út á hafragrautinn. Möndlurnar eru látnar liggja í bleyti yfir nótt og síðan maukaðar í blandara ásamt vatni í nokkrar mínútur. Möndlumjólk er frábær lausn fyrir þá sem af einhverjum ástæðum vilja eða þurfa að sneiða hjá kúamjólk. Sumir næringarfræðingar og fólk í heilsugeiranum mæla með möndlumjólk ekki eingöngu í staðinn fyrir kúamjólk heldur einnig í staðinn fyrir soja- og hrísmjólk.

Möndlumjólk
1 dl möndlur með hýði, lagðar í bleyti yfir nótt
4 dl vatn

Skolið möndlur eftir að þær hafa legið í bleyti og setjið í blandara. Hellið vatni yfir og maukið þar til að blandan er orðin jöfn og mjúk.

Það er hægt að laga ótal útgáfur af drykkjum með möndlumjólk en það fer eftir smekk hvers og eins hvað er sett í drykkinn. Notið hugmyndaflugið og það sem til er í skápunum.

Bleiki drykkurinn
3-4 dl möndlumjólk
1 banani, skorinn í bita
2 dl mangó, ferskt eða frosið
1 dl frosin hindber eða jarðarber
1 dl vatn

Setjið allt í blandara og maukið saman.

Græna byltingin
3-4 dl möndlumjólk
2 lúkur spínat
3-4 döðlur, má sleppa
2 dl frosið mangó
nokkur myntulauf
2 dl vatn
safi úr ½ límónu

Setjið allt í blandara og maukið saman.

Ljósi draumurinn
3-4 dl möndlumjólk
1 banani, skorinn í bita
½ tsk. kakóduft
korn úr vanillustöng
1 dl vatn
ísmolar

Setjið allt í blandara og maukið saman.

Góður morgunverður!

Hafragrautur með möndlumjólk, kanil og bláberjum.

Allt hráefni fæst í verslunum Nóatúns. Fylgihlutir eru í einkaeigu.

______________________________________________________________

Möndlumjólk …

– er frábær lausn fyrir þá sem eru með mjólkuróþol eða vilja sneiða hjá mjólk af einhverjum ástæðum.

– inniheldur ekki mettaða fitu sem hefur áhrif á „slæma kólesterólið“ og getur leitt til hjartasjúkdóma.

Góður morgunverður!
Hafragrautur með möndlumjólk, kanil og bláberjum.

– er talin góð fyrir fólk með of háan blóðþrýsting.

– er hægt að bragðbæta með náttúrulegu sætuefni, t.d. hunangi, kornum úr vanillustöng, döðlum o.fl.

– er góð leið til að bæta hollri fitu, prótíni, vítamínum og steinefnum í máltíðirnar.

– er holl og næringarrík mjólk sem er laus við skaðlega grænmetisolíu og sætuefni.

– geymist í 2-3 daga í kæli en best er að laga hana jafnóðum.

– má frysta og það er tilvalið að frysta hana í klakaboxi eða í klakapokum.

– er frábær ein og sér með fullt af klaka (sjá mynd).

– er einnig góð hituð með vanillukornum út í.

Umsjón / Guðrún Hrund

Myndir / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Litríkt og hresst heimili Berglindar Festival

Febrúarblað Húsa og híbýla kemur út 1. febrúar smekkfullt af frábæru efni.

Við kíktum í hressandi kaffi til Berglindar Pétursdóttur en heimilið hennar er sannarlega litríkt og þar leynast margar mjög skemmtilegar hugmyndir.

Við fórum líka í heimsókn til Steingríms Gauta listamanns og Hjördísar Gestsdóttur fatahönnuðar sem eiga listrænt heimili í Hlíðunum og kíktum á vinnustofu listamannsins.

Rakel Matthea opnaði einnig dyrnar fyrir ljósmyndara blaðsins en hún er ekki ókunn fjölmiðlabransanum því hún starfaði áður sem tískuritstjóri hjá Nude Magazine. Rakel er mikil smekkpía og heimili hennar í Garðabæ er eftir því.

Á forsíðunni er svo gullfalleg stúdíóíbúð í Kópavogi sem Kristjana Ólafsdóttir í Heimilum og Hugmyndum hannaði í samvinnu við parið sem þar býr. Blaðamaður og ljósmyndari brunuðu svo á Seltjarnarnesið og mynduðu hlýlegt heimili flugfreyju og hennar fjölskyldu. Við kíktum líka í heimsókn til Lilju og Atla Fannars sem búa í Vesturbænum. Þetta, Vala Matt, Zaha Hadid, 70 ljós og lampar og fleira í blaði númer tvö á árinu.

Febrúarblað Húsa og híbýli kemur út 1. febrúar. Sjón er sögu ríkari!
Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Mynd hér að ofan / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Forsíðumynd hér að neðan / Aldís Pálsdóttir
Myndband / Óskar Páll Sveinsson

Helga Arnardóttir hættir störfum fyrir útgáfufélagið Birtíng

Helga Arnardóttir, yfirritstjóri Birtíngs, og stjórn félagsins hafa komist að samkomulagi um starfslok hennar.

Helga hóf nýlega störf hjá útgáfunni en sameiginleg ákvörðun aðila var að slíta samstarfinu og vill stjórn Birtíngs þakka henni fyrir samstarfið.

Birtíngur gefur út tímaritin Hús og híbýli, Gestgjafann, Vikuna og fríblaðið Mannlíf. Auk þess heldur félagið úti lífstílsvefnum man.is, en Lilja Katrín Gunnarsdóttir hefur verið ráðin til starfa á vefnum.

Leitar að sérkennum í viðnum

Úr álveri í útskurð og rennismíði

Jón Þórður Jónsson nýtir eftirlaunaárin til að renna allskonar muni úr tré, eins og fugla, kertastjaka, box, bjöllur og lyklakippur.

Jón Þórður Jónsson tæknifræðingur hefur rennt muni úr tré síðan synir hans og fjölskyldur þeirra gáfu honum trérennibekk í sjötugsafmælisgjöf. Hann vann um árabil hjá Ísal í Straumsvík en hætti þar sökum aldurs 2009.

„Ég renni allskonar muni úr tré, eins og fugla, kertastjaka, box, bjöllur, lyklakippur og svo framvegis,“ segir Jón Þórður og hann leggur áherslu á að viðurinn fái að njóta sín og að eiginleikar trésins komi í ljós í gegnum munina. Hann vinnur í bílskúrnum heima og hefur komið sér vel fyrir. „Ég geri þetta mest ánægjunnar vegna og að sjálfsögðu er gaman þegar einhver kaupir. Einnig fer mikið í tækifærisgjafir og jólagjafir. Ég hef haldið sýningu í bílskúrnum sem gekk mjög vel og ég ætla að halda aftur sölusýningu í vor. Ef til vill fer ég með munina mína í handverkssöluna á Króksfjarðarnesi í sumar og verð með þá á ferðalögum í húsbílnum okkar.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í 5. tbl. Vikunnar sem kemur í verslanir fimmtudaginn 1. febrúar 2018.

Jón Þórður er á Facebook undir Smiðja Jóns Þórðar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Heil eyja til sölu á 35 milljónir

Skoska eyjan Linga við Hjaltlandseyjar, norður af skoska meginlandinu, er nú til sölu. Ásett verð er 351 þúsund dollarar, rétt tæplega 35,5 milljónir króna.

Eyjan er tæplega 26 hektarar og kemst maður hæglega út í hana á bát frá skoska bænum Walls. Það þýðir að þeir sem setjast að á Lingu eru ekki langt frá siðmenningu, þó einangrunin sé algjör á eyjunni, þar sem enginn býr.

Reyndar hefur enginn búið á Lingu síðan árið 1934 þannig að smáhýsin tvö sem á eyjunni eru þarfnast mikils viðhalds. Nýr eigandi fær hins vegar leyfi til að byggja nýtt smáhýsi og bryggju, svo eitthvað sé nefnt.

Þá gefur byggingarleyfið nýjum eiganda einnig heimild til að setja upp sólar- og vindorkusellur þannig að ljóst er að framtíðin á Linga er mjög umhverfisvæn.

Það er fyrirtækið Vladi Private Islands sem sér um sölu á eyjunni en myndband af þessari náttúruperlu má horfa á hér fyrir neðan.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Góðar vinkonur í raun

Í sjálfstæðum bíómyndum er oft að finna raunverulegar lýsingar á vináttu kvenna.

Vinátta kvenna er algengt viðfangsefni kvikmynda en oftar en ekki virðast þær aðeins sýna léttu og ljúfu hliðar hennar. Konur eru flóknar verur og vinátta þeirra á milli getur verið af ýmsum toga. Það er kannski helst að við finnum raunverulegar lýsingar á vináttu í sjálfstæðum bíómyndum. Hér eru nokkur góð dæmi.

Úrhrök samfélagsins
Ghost World fjallar um þær Enid og Rebeccu sumarið eftir að þær klára gagnfræðaskóla. Þær eiga báðar í erfiðleikum með að tengjast fólki og eyða tíma sínum í að slæpast og setja út á fólk sem þeim finnast óspennandi. Þegar þær kynnast Seymour, sem er utangarðs og lifir fyrir það að safna gömlum 78 snúninga hljómplötum, umturnast líf þeirra. Á meðan Enid byrjar að hanga meira með Seymour fer Rebecca að hegða sér eins og venjuleg unglingsstúlka. Hún byrjar að vinna á kaffihúsi og fær meiri áhuga á strákum og tísku. Stelpurnar vaxa meira og meira í sundur þar til það lítur út fyrir að þær muni aldrei ná saman aftur.

Andstæður
Andstæður laðast hvor að annarri og það á svo sannarlega við um vinkonurnar Holly og Marinu í kvikmyndinni Me Without You. Holly er hljóðlát á meðan Marina er frjálsari og villtari. Þær kynnast fyrst þegar þær verða nágrannar tólf ára og verða strax mjög nánar. Vinátta þeirra er þó alls ekki fullkomin og oft á tíðum ekki einu sinni falleg. Þær virðast báðar vera afbrýðissamar hvor út í aðra og sambönd þeirra við karlmenn eru flókin. Þrátt fyrir þetta halda þær áfram að vera vinkonur í gegnum súrt og sætt þangað til Holly slítur sig lausa einn daginn.

Hálffullorðin
Frances í kvikmyndinni Frances Ha er ung kona í New York sem vill helst ekki fullorðnast – hana langar að gera og verða margt en nær árangri í fáu. Mesti sigur hennar hingað til er að hafa vingast við Sophie. Þær búa saman og hanga saman öllum stundum en gera lítið annað en að gera háðslegar athugasemdir um lífið og umhverfið í anda Dorothy Parker. Þegar Sophie fer að sína merki þess að vilja fullorðnast og ákveður að flytja í draumahverfið sitt, Tribeca, tekur Frances því illa. Samband þeirra bíður ákveðna hnekki á meðan Frances fer úr einu í annað í leit að sjálfri sér og ástinni en eins og sannar vinkonur ná þær aftur saman á endanum.

Hipsterar í Brooklyn
Í myndinni Fort Tilden er svokallaðaður „hipstera-húmor“ mjög ríkjandi – þar sem fólk gerir bæði grín að sjálfu sér og öllu öðru. Myndin segir frá vinkonunum Harper og Allie sem búa í Brooklyn. Þær eru mjög kaldhæðnar og jafnvel illkvittnar í ummælum sínum um aðra og eru eiginlega týpur sem margir myndu forðast að umgangast – en þær virðast mjög ánægðar í félagsskap hvor annarrar. Sagan gerist nær öll einn sumardag þegar vinkonurnar reyna að komast hjólandi á strönd í útjaðri New York til að hitta tvo gaura sem þær hittu í partíi kvöldið áður. Á leiðinni fáum við að kynnast stelpunum betur og brátt verða brestirnir í vináttunni sýnilegri.

Ákaft samband
Nýsjálenska kvikmyndin Heavenly Creatures er byggð á sannri sögu af þeim Juliet Hulme og Pauline Parker sem lögðu á ráðin og myrtu mömmu Pauline. Stúlkurnar kynnast þegar Juliet byrjar í sama skóla og Pauline og þær verða fljótt mjög nánar. Þær eiga það sameiginlegt að hafa átt við veikindi að stríða í æsku og upplifað einangrandi spítalavist. Þær deila einnig ástríðu á ævintýrum og bókmenntum og stytta sér stundir með því að semja sögur sem þær dreymir um að selja til Hollywood. Þegar mamma Pauline reynir að binda enda á ákaft og þráhyggjukennt samband vinkvennanna ákveða þær að myrða hana. Um er að ræða fyrsta kvikmyndahlutverk beggja aðalleikvennanna, þeirra Kate Winslet og Melanie Lynskey, en þær vöktu mikla athygli fyrir leik sinn.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

 

Fantasíuheimur sem fólk elskar eða hatar

Áhugaverðar staðreyndir um einn vinsælasta fjölskyldustað í heimi.

Orlando er vinsælasta fjölskylduborg Flórída. Engin önnur bandarísk borg státar af eins elskuðum stað og Disney World er en hann er í raun regnhlífarsamtök yfir ellefu skemmtigarða sem staðsettir eru á sama stað. Garðarnir eiga það sameiginlegt að vera sannkallaðir fantasíuheimar barna og hvort sem þú elskar garðinn eða hatar þá eru staðreyndirnar um hann áhugaverðar.

Gamanleikarinn geðþekki Steve Martin vann í garðinum í átta ár sem töframaður, ásamt öðrum störfum.

Garðurinn opnaði árið 1955 en þá var að finna undirfataverslun á aðalgötunni sem nefndist The Wizard of Bras.

Disney World er stærsti vinnustaður innan Bandaríkjanna þar sem allir starfsmenn stunda iðju sína á sama stað.

Starfsmenn garðsins eru ekki kallaðir vinnuafl heldur leikarar eða liðsmenn. Flestir þeirra geta sagt hvar klósettin er að finna á yfir fjórtán tungumálum.

Magic Kingdom-garðurinn er byggður á annarri hæð. Garðurinn byggist upp á tveimur hæðum en undirgöngin eru á jarðhæð á meðan garðurinn sjálfur liggur ofan á þeim.

Í Disney World er vatnsleikjagarður sem fæstir hafa hugmynd um. Garðurinn var sá fyrsti sinnar tegundar en hann opnaði árið 1976 og lokaði 2001. Engin starfsemi hefur verið síðan þá og er aðgangur að svæðinu stranglega bannaður.

Disney World er einn vinsælasti óskastaður fólks um hinstu hvíld. Þjóðsagan um mömmuna sem vildi að ösku sinni yrði dreift yfir eyru Dúmbó er sönn. Það sama á sér stað nánast á hverjum degi. Garðurinn býður meira að segja upp á sérstakar umbúðir fyrir slíkan viðburð.

Disney World er sjálfseignaborg en svæðið sem tilheyrir garðnum, og veldur því mikla aðdráttarafli sem Flórda hefur, er í einkaeigu.

Söngstirninu síkáta Justin Biber er bannað að koma í Disney World eftir að hafa sparkað milli fóta á Mikka Mús.

Kastali Öskubusku stendur tómur. Fyrir utan gjafavöruverslun og veitingastað í anddyrinu stendur höllin auð. Arkitektinn hannaði glæsilegt herbergi fyrir Walt sjálfan í kastalanum en hann dó áður en en höllin var vígð.

Í sjóræningjaheimi garðsins er hægt að finna alvöruhauskúpur.

Milljón kíló kalkúnaleggja eru snædd í garðinum á ári hverju. Nokkrir fyrrum starfsmenn garðsins fullyrða reyndar að leggirnir séu af strútum en ekki kalkúnum.

Hvorki er hægt að fá bolla, glös né rör innan Animal Kingdom. Starfsmenn garðsins segja það vera til að koma í veg fyrir að dýrin skaði sig á plastumbúðum. Tyggjó er sömuleiðis ófáanlegt í öllum görðunum ellefu, af augljósum ástæðum.

Starfsmenn Disney World mega ekki benda á neitt með einum fingri því sums staðar er það álitið vanvirðing. Þeir vísa því til vegar með því að nota alla höndina eða tvo fingur.

Disney World hefur lokað starfsemi sinni þrisvar sinnum, í öllum tilfellum í kjölfar hamfara. Eftir flóð 1994 og jarðskálfta 1999 og síðan vegna harmleiksins 11. september 2001 en þann dag tók einungis hálftíma að fjarlægja mörg þúsund gesti út úr garðinum.

Í garðinum er að finna eitt dýrasta flöskuvatn innan Bandaríkjanna.

Ef geimfjallið væri raunverulegt væri það þriðja hæsta fjall í Flórída.

Skellibjalla, sem flýgur yfir höllina eftir flugeldasýninguna, er oftast leikin af karlmanni.

Svæðið sem tilheyrir Disney World er á stærð við San Francisco eða tvöfalt stærra en Manhattan.

Allt til árins 2001 var starfsfólki garðsins skipað að klæðast nærfatnaði í eigu fyrirtækisins.

Pípur á aðalgötu Magic Kingdom-garðsins úða vanillulykt út í andrúmsloftið. Í desember má hins vegar anda að sér piparmyntulykt.

Yfir tvö hundruð sólgleraugu týnast í garðinum á hverjum degi.

Styttan af Öskubusku virðist vera leið frá sjónarhorni fullorðinna en brosir í augum barna sem horfa upp til hennar.

Rúmlega tvö hundruð kettir búa í garðinum en svimandi háa „hótelleiguna“ greiða þeir með því að halda músum og rottum í lágmarki.

Doritos-snakkið sívinsæla kom fyrst á markaðinn í Disney World.

Texti / Íris Hauksdóttir

Eldað með bjór

|
|

Smalabaka með bjórsósu.

Smalabaka með bjórsósu.

Úrvalið af íslenskum bjór hefur aukist mikið síðustu ár. Nokkrar tegundir hafa unnið til alþjóðlegra verðlauna og bruggmeistarar geta verið stoltir af þessari flottu framleiðslu. Bjórinn okkar er bragðmikill og frábært að nota hann í matargerð og bakstur. Hér er spennandi uppskrift og ég hvet ykkur til að prófa að nota bjórinn í pottrétti og fleiri rétti þar sem gert er ráð fyrir rauðvíni eða hvítvíni í uppskrift.

SMALABAKA MEÐ BJÓRSÓSU
fyrir 6-8

4 msk. olía
800 g nautagúllas
1 stór laukur, saxaður
3 hvítlauksgeirar, saxaðir
150 g sveppir, skornir í bita
4-5 gulrætur, skornar í bita
1 flaska bjór, t.d. Norðan Kaldi, Boli Premium, Víking Classic.
2 msk. tómat-purée
2 tsk. nautakraftur
salt og pipar

150 g ostur, rifinn til að setja ofan á

Brúnið lauk og hvítlauk í helmingnum af olíunni í þykkbotna potti þar til laukurinn fer að verða glær, setjið til hliðar. Steikið nautakjötsbitana í því sem eftir er af olíunni, gott að gera það í tvennu lagi svo þeir brúnist vel, bætið lauknum út í. Setjið sveppi og gulrætur saman við og steikið áfram í 2-3 mín. Bætið bjór, tómat-purée og nautakrafti saman við, skrapið góðu skófirnar (það sem kemur af kjötinu ef þið eruð með þykkbotna pott) saman við, látið suðuna koma upp og látið allt malla í 1-1 ½ klst. Hitið ofninn í 200°C. Hellið kjötréttinum í ofnfast fat. Dreifið kartöflumúsinni yfir og stráið osti yfir hana. Bakið í 20 mín. eða þar til osturinn er bráðinn.

1 kg kartöflur
½ dl mjólk
salt og pipar

Afhýðið og skerið kartöflur í bita. Sjóðið þær í saltvatni þar til þær eru gegnumsoðnar. Hellið þeim í sigti og setjið aftur í pottinn. Hellið mjólk út í, bragðbætið með salti og pipar og stappið saman með stappara.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

„Ástin er eina aflið sem fær mann til að fljúga”

Frábær fjölskyldumynd.

Íslenska fjölskyldumyndin Lói þú flýgur aldrei einn var forsýnd síðasta fimmtudagskvöld við hátíðlega athöfn í Smárabíói en framleiðendur myndarinnar buðu áhorfendur velkomna í bíó með poppkorni og köldum svaladrykk sem var vel við hæfi enda höfðar myndin til yngstu áhorfendanna.

Myndin segir frá litlum lóu-unga sem verður viðskila við fjölskyldu sína og þarf að komast af veturlangt á Íslandi við harðan kost.

Á vegi hans verða ýmsir fjörlegir fuglar og önnur dýr sem öll hafa þjóðernislega skírskotun enda ber sviðsmyndin þess glögglegt merki að myndin sé ætluð á alþjóðlegan markað þar sem sér-íslensk náttúrueinkenni fá notið sín með túnfífla og aðalbláber í forgrunni.

Engu er til sparað við gerð myndarinnar en sjö ár eru nú síðan handritshöfundurinn, Friðrik Erlingsson kom að máli við þá Gunnar Karlsson og Hilmar Sigurðsson sem framleiddu myndina á fimm árum undir leikstjórn Árna Ólafs Ásgeirssonar. Alls komu 400 listamenn að gerð myndarinnar sem teiknuð er í þrívídd en unnin að hluta til í Belgíu. Myndin er önnur íslenska teiknimyndin í fullri lengd og hentar börnum á öllum aldri. Handritið er fantaflott og munu margar setningar myndarinnar lifa lengi í hjörtum áhorfenda.

„Það var ekki það sem ég sagði, heldur það sem hann heyrði mig segja.”

Tónlist leikur jafnframt veigamikið hlutverk í myndinni en Sinfoníuhljómsveit Norðurlands spilar undir í áhrifaríkum atriðum ásamt þeim Högna Egilssyni og Gretu Salóme sem syngur lokalag myndarinnar.

Talsetningin er líka fyrsta flokks og ber þar helst að nefna hinn unga Mattíhas Mattíhasarson sem ljær útilegufuglinum Lóa rödd sína, en mítan um munaðarleysingjann er sannarlega lífseig meðal barnasagna.

Eina aðfinnslan við myndina var hve lítið fuglsungarnir höfðu stækkað á heilu ári og hvernig hvíti felulitur rjúpunnar hélst óbreyttur yfir sumartímann. Að öðri leiti er Lói litli frábær afþreying og á vonandi eftir að skína skært sem fögur landkynning víða um heim.

Texti / Íris Hauksdóttir

Greindist með krabbamein 32ja ára og lét frysta egg

||||
||||

„Lífið snýst um að læra, læra af sjálfum sér og öðrum. Við vitum aldrei hvaða verkefni við fáum og það skiptir svakalega miklu máli hvernig við tæklum verkefnin. Lífið getur tekið óvæntar beygjur hvenær sem er. Munum að lifa í dag,“ segir hin 36 ára Guðný Ásgeirsdóttir. Guðný er læknir og í sérnámi í heimilislækningum en hún greindist með brjóstakrabbamein fyrir rúmum þremur árum.

Guðný lærði læknisfræði í Danmörku og var 29 ára þegar hún fann fyrst fyrir hnút í brjóstinu.

„Ég lét skoða þetta úti í Danmörku þar sem ég bjó, fór þar í brjóstamyndatöku og ómskoðun og var þetta talið vera góðkynja æxli, sem sagt ekki krabbamein. Ekki þótti þörf á eftirliti. Svo flyt ég heim til Íslands í byrjun árs 2014 og fer þá að vinna á heilsugæslu. Ég fylgist vel með hnútnum og finn að hann er eitthvað að breytast, stækkar og verður harðari, eiginlega eins og bingókúla,“ segir Guðný, sem reyndi fyrst um sinn að hunsa vöxtinn í brjóstinu.

„Ég reyndi fyrst að humma fram af mér að láta skoða þetta því ég hafði jú látið skoða þetta í Danmörku. Ég var þó alltaf að hugsa að þetta væri eitthvað skrítið og gæti alveg eins verið krabbamein, svona miðað við það sem ég hafði lært. Svo kemur til mín ung stúlka á heilsugæsluna með hnút í brjósti. Ég sendi hana áfram í skoðun og fæ svo fréttir af því að hún hefði greinst með brjóstakrabbamein. Það vakti mig til umhugsunar, fyrst hún gat greinst með brjóstakrabbamein svona ung gæti ég það í raun alveg líka. Þá ákvað ég að skella mér í skoðun og reyndist þá grunur minn réttur því miður, ég var líka með brjóstakrabbamein.“

Hér er Guðný með skalla en síðan til hægri er mynd af henni með hárkollu sem hún keypti í London og mörgum fannst raunveruleg.

Mistök þegar átti að tilkynna fréttirnar

En hvernig tilfinning var það að greinast með krabbamein svona ung?

„Það er eiginlega mjög erfitt að lýsa tilfinningunni. Ég var til dæmis fyrst mjög reið, en það var aðallega af því það urðu mistök þegar ég fékk fréttir af þessu í fyrsta skipti. Ég hafði farið niður í Krabbameinsfélag og þar var tekið sýni. Læknirinn sem ég hitti hafði beðið mig um að vera með símann á mér milli klukkan 13 og 14 mánudaginn eftir og svara ef hún myndi hringja. Ég er svo að vinna á heilsugæslunni og er með móttöku þar sem ég tek á móti sjúklingum og er með viðtöl. Ég er með skjólstæðing inni hjá mér þegar síminn hringir og ég afsaka mig og segist þurfa að taka símtalið. Þá er í símanum hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum sem segir mér að ég eigi tíma hjá skurðlækni á morgun og hvort það sé möguleiki að flytja tímann. Ég verð náttlega mjög hissa og skil ekki alveg símtalið þar sem ég hafði jú ekki enn fengið að vita niðurstöðuna úr sýnatökunni. Hún afsakar sig og segist líklega vera að hringja á undan lækninum. Þá fatta ég að þetta þýði líklega að ég er með krabbamein. Ég ákvað að reyna að hugsa ekki um það og bíða eftir að læknirinn myndi hringja. Ég held áfram með viðtalið en er í hálfgerðri geðshræringu og meðtók líklega ekkert það sem skjólstæðingurinn sagði. Læknirinn hringir svo 5 mínútum síðar og segist vilja hitta mig. Ég verð þá svolítið reið og segist alveg vita hvað hún sé að fara að segja við mig. Ég fór svo og hitti lækninn og við fórum yfir málið. Ég hef svo hitt hjúkrunarfræðinginn oft eftir þetta og hún er ekkert nema yndisleg,“ segir Guðný. Hún segir næstu daga hafa liðið hjá í hálfgerðri móðu.

„Eftir þessa reiðitilfinningu man ég eftir hræðslu. En í raun er þetta allt í hálfgerðri móðu. Líklega vegna þess að áfallið var mikið. Ég man samt að ég hugsaði mjög fljótt að ég vildi geta eignast börn þrátt fyrir þetta. Ég hafði ekki enn eignast barn og var bara nýbyrjuð með kærastanum mínum þarna. Ég vildi sko ekki missa möguleikann á því að geta eignast barn síðar meir og var það eitt af því fyrsta sem ég ræddi við skurðlækninn minn.“

Erfið áramót

Guðný greindist með brjóstakrabbamein þann 15. desember 2014, í miðju læknaverkfalli. Jólahátíðin var því frekar skrýtin það árið, en sem betur fer komst Guðný undir hnífinn áður en nýja árið gekk í garð.

„Ég vissi ekkert hvenær ég færi í aðgerð til að fjarlægja meinið en skurðlæknirinn hafði sagt mér að líklega væri það ekkert fyrr en á næsta ári, sem mér fannst fáránlegt. Ég vildi bara losna við krabbameinið strax í dag. Jólin voru frekar dofin. En svo fékk ég símtal frá skurðlækninum milli jóla og nýárs um að hann hefði komið mér að í skurðaðgerð á gamlársdagsmorgun, 31. desember. Ég þáði það með þökkum og endaði því á að eyða áramótunum á Landspítalanum. Ég var reyndar frekar óheppin að eftir aðgerðina, sem var fleygskurður, hafði opnast æð í brjóstinu og blætt mikið inná brjóstið. Ég varð mjög lasin og féll til dæmis mjög mikið í blóðgildinu. Þetta voru því ansi erfið áramót en tilhugsunin að geta byrjað árið 2015 krabbameinsfrí var svakalega góð.“

Bónorð á Flórída.

Notar árið 2018 til að búa til barn

Við tók frjósemismeðferð í Svíþjóð í janúar og síðan lyfjameðferð sem hófst í febrúar.

„Lyfjameðferðin samanstóð af tvenns konar meðferð. Fyrst fékk ég lyf vikulega í tólf vikur og eftir það lyf á þriggja vikna fresti í aðrar tólf vikur. Eftir það fór ég í 33 geislameðferðir, alla virka daga, sem tók sirka sex vikur. Síðan þurfti ég að halda áfram að fá eitt lyf á þriggja vikna fresti en það þurfti ég að fá uppá Landspítala í heilt ár. Eftir þetta hef ég verið í hormónameðferð sem samanstendur af töflum og sprautum sem ég sé um sjálf. Þessi lyf þarf ég að fá næstu tíu árin,“ segir Guðný. Hún fær hins vegar núna að taka sér pásu frá hormónameðferðinni til að reyna við barneignir. í Svíþjóð lét hún frysta ófrjóvguð egg, þar sem meðferðin sem hún fór í getur valdið ófrjósemi.

„Ég hafði kynnst kærastanum mínum, sem nú er unnusti minn, aðeins þremur mánuðum áður en ég greinist. Ég fór í Art Medica og hitti þar lækni sem sagði mér að skynsamlegast væri að frysta ófrjóvguð egg þar sem við hefðum verið svo stutt saman og lögin á Íslandi segja að ég megi ekki nota fósturvísi fyrrverandi maka þó svo að hann gefi fullt leyfi. Allt getur gerst og því var þetta ákveðið. Ég flaug sem sagt út til Svíþjóðar því ekki var hægt að frysta ófrjóvguð egg hérlendis á þessum tíma. Mér skylst að það sé hægt núna hjá IVF klínikkinni. Nú hugsa ég alltaf um eggin mín sem litlu Svíana mína, þar sem eggin hafa „búið” í 3 ár í Svíþjóð,“ segir Guðný og brosir.

„Í rauninni er þetta ferli allt komið af stað og ef allt gengur vel hugsa ég að ég noti árið 2018 í að búa til eins og eitt stykki barn.“

Ekki alslæmt að greinast með krabbamein

Hún segir þetta ferli hafa sína ljósu punkta, þó erfitt sé.

„Kvöldið sem ég rakaði af mér hárið, en þá var ég byrjuð að missa það og fannst betra að hafa stjórnina og sjá um þetta sjálf. Systir mín hjálpaði mér og við prófuðum allskonar klippingar, svona af því við gátum það.“

„Þetta ferli hefur verið langt og strangt en alls ekki alslæmt. Það hefur alveg komið fullt jákvætt útúr þessum veikindum, eins og dýrmæt reynsla. Að prófa að sitja hinumegin við borðið og vera sjúklingur. Þó mér hafi í raun aldrei liðið eins og sjúklingi, þá er ég allavega búin að prófa þetta og skil vonandi skjólstæðingana mína betur. Einnig hef ég kynnst mikið af fólki sem allt hefur kennt mér eitthvað. Og svo er auðvitað mjög dýrmætt að finna stuðning frá ættingjum og vinum. Ég er alveg örugglega búin að breytast að einhverju leyti, það er líklega auðveldara fyrir aðra að dæma um það. Ég tel samt að ég hafi alltaf verið frekar jákvæð manneskja og hefur það alveg örugglega hjálpað mér að tækla þessi veikindi. Ég var líka heppin að ég varð aldrei mjög lasin. Var oft þreytt og uppgefin en aldrei þannig að ég þyrfti að liggja í rúminu heilan dag. Ég reyndi eftir fremsta megni að fara út á meðal fólks á hverjum degi og fór til dæmis mikið í ræktina með Ljósinu og einnig á ýmis námskeið hjá Ljósinu. Ég fór einnig í nokkra sálfræðitíma hjá Krafti og hitti stuðningsfulltrúa í gegnum Kraft sem var ung stelpa sem hafði gengið í gengum svipað ferli,“ segir Guðný. Hún er ekki frá því að hún kunni meira að meta daginn í dag en áður.

„Ég hef alltaf verið dugleg að njóta í núinu en líklega hugsa ég enn meira um það nú. Ekki fresta því sem mig langar til að gera eða upplifa. Reyna að umvefja mig jákvæðu og skemmtilegu fólki og gera meira af því sem mér finnst skemmtilegt. Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er til dæmis að ferðast og hef ég verið dugleg við það síðustu ár. Einnig finnst mér mikilvægt að vera dugleg að heimsækja fjölskyldu og vini þar sem maður veit aldrei hvenær við hittumst í síðasta skipti,“ segir hún.

Guðný í átaki Krafts.

Þiggið alla hjálp sem býðst

Guðný segir stuðning frá fjölskyldu og vinum ómetanlegan, en einnig stuðning frá Krafti, félags ungs fólks sem hefur greinst með krabbamein og aðstandenda þess. Hún segir sögu sína í nýju átaki Krafts, Krabbamein kemur öllum við, sem lýkur á sunnudag 4. febrúar, á alþjóðdegi gegn krabbameini. Þá ætlar Kraftur að setja Íslandsmet í perlun armbanda í Hörpu. En áður en ég kveð þessa jákvæðu, ungu konu verð ég að spyrja hana hvað hún vill segja við þá sem greinast með krabbamein í blóma lífsins?

„Þetta er í flestum tilfellum ekki dauðadómur. Flestir lifa góðu lífi þrátt fyrir greiningu. Reynið að einblína á jákvæðu hliðarnar, það er ekki allt slæmt við að greinast með krabbamein. Gerið meira fyrir ykkur sjálf og þiggið alla þá hjálp og stuðning sem býðst. Mér fannst gott að líta á veikindin sem verkefni. Verkefni sem ég þurfti að gefa allan minn tíma og orku í en svo kláraðist það að lokum. Þetta er oftast bara tímabil sem þarf að komast í gegnum. Það að segja að fólk sé að „berjast“  við krabbamein finnst mér ekki lýsa þessu rétt. Flestir eru ekki að berjast en frekar að ganga í gegnum og leysa verkefnin sem verða á veginum.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Úr einkasafni og Kraftur

Ekta ítölsk menning

Tinna Bessadóttir hönnuður bjó ásamt fjölskyldu sinni í Treviso Veneto sem er í hálftíma akstursfjarlægð frá sjálfum Feneyjum.

Rétt innan veggja múrsins er haldinn markaður alla fimmtudags- og laugardagsmorgna.

„Treviso er eldgömul borg sem á sér sögu allt frá 100 árum fyrir Krist. Borgin er byggð með hliðsjón af Feneyjum. Feneyjar voru ekki með her en herinn í Treviso varði Feneyjar. Borgin á sér mikla menningarsögu og miðbærinn er byggður inn í virki umkringt sýkjum sem kallast Le Mura-sýkin og setja mikinn svip á bæinn. Þau minna á Feneyjar. Innan veggja miðbæjarins búa um 3.000 manns og erfitt að fara um á bíl en innan marka Treviso búa um 82.535 manns. Við vorum svo heppin að fá yndislega fallega íbúð rétt við múrinn og sóttum því alla okkar þjónustu, líkt og skóla barnanna, innan veggja miðbæjarins,“ segir Tinna.

Ódýrt flug
Treviso er frekar rík borg og Veneto-fylkið er það fylki sem á hvað mesta peninga á Ítalíu. „Það er lítið um fátækt í Treviso og mjög lág glæpatíðni. Sem dæmi má nefna að þá stendur á stóru skilti í hjarta miðbæjarins, á torginu Piazza Del Signore, stórum stöfum: „Treviso mafíulaus borg“.

Ryanair flýgur beint til Treviso frá London og er ekkert mál að finna flug þaðan fyrir 3.000-4.000 krónur. Það er einnig flogið frá Billund og þegar ég bjó í Danmörku var ódýrara fyrir mig að fljúga frá Billund til Treviso en að taka lestina frá Suður-Jótlandi til Kaupmannahafnar. Hótel og gistiheimili eru ódýrari þar en nálægt Feneyjum en það tekur um hálftíma að taka lestina til Feneyja, tæpa tvo tíma til Verona og þrjá tíma til Mílanó.“

Uppruni tiramisu
Tiramisu-kakan kemur uppunalega frá Treviso og veitingastaðurinn Le Beccherie, sem fann hana upp, er enn starfandi. „Hann var í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi, eða frá 1960, en árið 2014 var hins vegar skipt um eigendur. Sama tiramisu-kakan hélt að sjálfsögðu sínum sess á matseðlinum. Tiramisu-kakan er stolt ítalskrar matarmenningar og mæli ég hiklaust með að stoppa á þessum sögufræga stað og fá sér sneið. Heimilisfangið er Piazza Giannino Ancilotto 11, 31100 Treviso.“

Borgin á sér mikla menningarsögu og miðbærinn er byggður inn í virki umkringt sýkjum sem kallast Le Mura-sýkin og setja mikinn svip á bæinn. Þau minna á Feneyjar.

Ekta ítalskur markaður
Rétt innan veggja múrsins er haldinn markaður alla fimmtudags- og laugardagsmorgna. „Á þessum markaði fæst allt milli himins og jarðar og hægt að upplifa sanna ítalska menningu eins og maður sér í gömlum bíómyndum. Fatnaður, heimilisáhöld, blóm, falleg veski, efnisstrangar með fallegu silki, pelsar og svona mætti lengi telja, flæða um, ásamt ferskum ávöxtum og grænmeti sem kemur beint frá bónda. Fiskur, kjöt og ostar eru einnig til staðar og kemur það allt líka beint frá bónda, afgreitt með bros á vör.

Alla þriðjudags- og laugardagsmorgna er fiskmarkaður á lítilli eyju í hjarta miðbæjarins, Isolotto della Pesceria. Þessi litla eyja er umkringd fersku vatni sem liggur í gegn um allan miðbæinn. Markaðurinn hefur verið þarna allt frá árinu 1854 og má oft sjá innfædda renna fyrir fiski á brúnni og iðandi fuglalíf sem setur skemmtilegan blæ á listaverk borgarinnar. Umhverfis eyjuna eru fjöldinn allur af litlum trattoria-veitingastöðum þar sem gott er að setjast með litla smárétti og vínglas, best er að panta einn af öllum. Það er gaman að segja frá því að vatnið innan múra Treviso er það hreint að það má vel drekka beint úr krananum.
Fjórða sunnudag hvers mánaðar er antíkmarkaður við hlið Borgo Cavour. „Þar er endalaust hægt að gramsa og finna ótrúlegar gersemar.“

Fræg fatamerki
Piazza Del Signori er stærsta torg miðbæjarins með ótal veitingastaði. „Þar er yndislegt að setjast niður og fá sér pizzu og spriz að hætti heimamanna. Á kvöldin um helgar er oft lifandi tónlist og dansað á torginu við harmonikuspil eða ýmsar aðrar uppákomur. Þar er ávallt mikið mannlíf að hætti ítalskrar menningar, eins og brúðkaup, skrúðgöngur og sýningar af ýmsu tagi.

Það er gott að versla í borginni en flestar þær verslanir sem eru innan veggja miðbæjarins eru frekar í hærri kantinum fyrir utan stóra og glæsilega H&M-verslun. Benetton-fjölskyldan er frá Treviso og bjuggu þeir bræður einmitt í bleikri höll sem prýddi enda götunnar okkar

Í Treviso eru höfuðstöðvar merkjanna Benetton, Sisley, Stefanel, Geox, Diadora og Lotto Sport. Það er gott að versla í borginni en flestar þær verslanir sem eru innan veggja miðbæjarins eru frekar í hærri kantinum fyrir utan stóra og glæsilega H&M-verslun. Benetton-fjölskyldan er frá Treviso og bjuggu þeir bræður einmitt í bleikri höll sem prýddi enda götunnar okkar.“

Frægur tenór
Einn frægasti tenór Ítala, Mario Del Monaco, er frá Treviso. „Finna má styttur og leikhús í hans nafni í borginni. Það er um að gera að skella sér í leikhús eða á tónleika í hinu glæsilega leikhúsi Teatro Comunale Mario Del Monaco, teatrocomunaletreviso.it. Það er gaman að segja frá því að við bjuggum einmitt í gullfallegri íbúð bróður Del Monaco á meðan á dvöl okkar stóð í borginni. Þess vegna snart allt sem varðaði þennan söngvara, sem hafði áhrif á sjálfa Pavarotti og Domingo, okkur djúpt.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Aðalmynd: Tinna Bessadóttir ásamt fjölskyldunni

Úr heimi tölvuleikja

Undanfarin ár hefur kvikmyndaverum tekist að fá öfluga leikara til að fara með aðalhlutverkið í tölvuleikjamyndum og þannig aukið aðsókn á þær. Hér eru nokkrar af þeim þekktustu.

Faldir fjársjóðir
Tölvuleikirnir um Löru Croft nutu gríðarlegra vinsælda á síðasta áratug og gerðar voru tvær kvikmyndir með Angelinu Jolie í aðalhlutverki. Lara Croft kemur úr breskri aðalsfjölskyldu, en stundar það að fara á sögulega staði og safna fornmunum, úr musterum, gömlum borgum, og fleiri slíkum stöðum, víða um heiminn, og hún lætur ekkert stöðva sig, ekki einu sinni lífshættulegar aðstæður. Í fyrri myndinni, Lara Croft: Tomb Raider, sem kom út árið 2001 berst Lara við leynifélag sem kallast Illuminati í leit að fornum verndargrip sem gefur þeim sem hefur hann undir höndum möguleika á því að stjórna tímanum. Í mynd númer tvö, Lara Croft Tomb Raider: The Cradle of Life, leitar hún að öskju Pandóru í keppni við kínversk glæpasamtök. Nú er von að nýrri mynd með Aliciu Vikander í hlutverki Löru Croft.

Aftur í tíma
Assassin’s Creed-tölvuleikirnir eru níu talsins og gerast allir á tímum sögulegra átaka. Aðalsöguhetjan Desmond Miles getur ferðast aftur í tíma í gegnum minningar forfeðra sinna og getur þannig haft áhrif á framgang sögunnar. Skömmu fyrir áramót kom út kvikmynd sem er sjálfstæð eining innan þessa heims og kynnt er til sögunnar ný hetja. Callums Lynch er afkomandi hins vígfima Aguilar sem ásamt félögum sínum barðist á móti óréttlæti á tímum spænska rannsóknarréttarins. Með sérstakri tækni getur Callum ferðast aftur í tímann, tekið sér bólfestu í líkama Aguilar og haldið verkum hans áfram. Það er enginn annar en Michael Fassbender sem fer með hlutverk Lynch og Aguilar í kvikmyndinni (sjá aðalmynd).

Ógn uppvakninga
Resident Evil er líklega stærsta kvikmyndasería sem byggð er á tölvuleik. Þrátt fyrir slæma dóma njóta kvikmyndirnar mikilla vinsælda og nú er von á sjöttu og síðustu myndinni. Myndirnar segja frá fyrirtækinu Umbrella sem er eitt valdamesta fyrirtæki heims en það á velgengni sína að þakka rannsóknarstöð neðanjarðar þar sem nýstárleg vopn eru prófuð og framleidd. Í fyrstu myndinni er sagt frá því þegar veira sem fyrirtækið býr til, sleppur út og breytir hundruðum vísindamanna í hungraða uppvakninga. Tölvukerfið lokar stöðinni vegna sýkingarhættu og Alice ásamt neyðarsveit er send til að slökkva á tölvunni og koma höndum yfir veiruna. Það gengur ekki alveg eftir og veiran sleppur út og verður að faraldri. Í næstu fimm myndum reyna Alice og föruneyti hennar að ráða niðurlögum Umbrella og bjarga mannkyninu frá uppvakningum.

Prinsinn til bjargar
Í Prince of Persia-leikjunum er fylgst með prins einum í Persíu á miðöldum sem lendir í ýmsum ævintýrum og hremmingum. Leikurinn kom fyrst út árið 1989 og var endurvakinn árið 2003. Kvikmyndin Prince of Persia: The Sands of Time sem er byggð á leiknum kom út árið 2010 og segir í raun bakgrunnssögu prinsins, en hann er í raun ekki raunverulegur prins heldur fátækur munaðarleysingi sem konungurinn tók í fóstur. Á fullorðinsárum fær hann tækifæri til að endurgjalda greiðann og bjarga konunginum. Hann þarf að stöðva fyrirætlanir bróður konungsins sem ætlar að breyta tímalínunni með hjálp Tímarýtingsins þannig að konungurinn deyr sem barn og bróðirinn verði konungur. Myndin skartar einvala liði leikara, svo sem Jake Gyllenhal og Ben Kingsley, en hún fékk engu að síður fremur lélega dóma gagnrýnenda.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Mikilvægt að fylgjast með fæðingarblettum

Breytingar á fæðingarblettum geta verið merki um illkynja þróun.

Flest erum við með fæðingarbletti einhvers staðar á líkama okkar. Sumum finnst þeir óþolandi lýti á meðan aðrir sjá þá sem hluta af sínum persónueinkennum. Það er mjög mikilvægt að vera með augun opin fyrir hvers lags breytingum á fæðingarblettum því það getur verið merki um illkynja þróun.

Allir ættu að framkvæma fæðingarblettaskoðun á sjálfum sér og sínum nánustu. Þá er gott að styðjast við þumalputtareglu húðsjúkdómasérfræðinga: ÓJLÞT-regluna.

Ó stendur fyrir ósamhverfa bletti á einni eða tveimur hæðum. Því ósamhverfari, því meiri hætta.
J stendur fyrir jaðar. Það er ekki góðs viti ef hann er óskýr og óreglulegur.
L stendur fyrir litbrigði. Eru margir litir í blettinum, þar á meðal brúnn, svartur, rauður, hvítleitur eða fjólublár? Það er frekar óheppilegt. Einlitir ljósir og jafnvel miðlungsbrúnir blettir eru hins vegar alla jafna í lagi.
Þ er fyrir þvermál. Fæðingarblettur sem mælist minna en hálfur sentimetri í þvermál er venjulega góðkynja. Ef hann er stærri en hálfur sentimetri og fer stækkandi er það ekki góðs viti.
T stendur fyrir tignarleika eða ris. Fæðingarblettur sem hefur alltaf verið tignarlegur, nabbalegur og hægt er að hreyfa fram og til baka er alla jafna góðkynja. Fæðingarbletti sem alltaf hafa verið sléttir en virðast svo verða þykkari eða nabbalegri með tímanum þarf að skoða hið fyrsta.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Kyrrð, ró og gott mannlíf

Anna Björg Kristinsdóttir segir gott að búa í bæjarkjarnanum Himlingøje í nágrenni Kaupmannahafnar.

Bærinn er lítill, nánast aðeins ein gata með nokkrum húsum, félagsheimili og kirkju.

Anna Björg Kristinsdóttir hefur búið í litlum bæjarkjarna sem heitir Himlingøje í Danmörku. Himlingøje er 13 kílómetra suður af Køge og þar hafa fundist fornleifar sem taldar eru frá elstu byggðum Danmerkur, meðal annars minjar frá tímum Rómaveldis. Bærinn er lítill, nánast aðeins ein gata með nokkrum húsum, félagsheimili og kirkju. Í kring liggja akrar og sveitir og að mati Önnu Bjargar eru helstu kostir staðarins kyrrð, ró og gott mannlíf.

Stevns Klint
Er á heimsminjaskrá UNESCO. Kletturinn er samansettur úr kalksteinslögum sem hafa mikla þýðingu fyrir jarðvísindasöguna en í honum sjást meðal annars jarðlög frá því að risaeðlurnar lifðu og dóu út. Meðfram klettinum liggur 20 km langur göngustígur sem hægt er að ganga á góðum degi frá Rødvig til Bøgeskoven, eða öfugt, og margir áhugaverðir sögustaðir á leiðinni. Á meðal þeirra er kirkjan í Højerup sem var byggð vel inni í landi á þrettándu öld en með tímanum hefur sjórinn sorfið úr klettinum og hluti af kirkjunni féll í hafið 1928. Í Rødvig eru líka veitinga- og gististaðir og því tilvalinn áfangastaður fyrir þá sem vilja sjá eitthvað meira en Kaupmannahöfn í Danmerkurferðinni.

Kaldastríðssafnið
Hernaðarlega séð var svæðið við Stevns Klint mjög mikilvægt á tímum kalda stríðsins. Hér er hægt að sjá minjar þessa gamla tíma þegar gert var ráð fyrir að ef til átaka kæmi milli austurs og vesturs, yrði aðgerðum NATO stjórnað úr neðanjarðarbyrgjum við Stevns Klint. Möst fyrir söguáhugafólk!

Við kastalann er svo Vallø Slotskro sem er vandaður veitingastaður og gistiheimili.

Vallø-kastali
Kastalinn var byggður um miðja 16. öld og hefur verið búið í honum nánast samfleytt síðan. Þó brann hluti af honum árið 1893 en útveggirnir stóðu og innviðir voru endurbyggðir. Í dag eru alls níu íbúðir í kastalanum og því ekki hægt að skoða hann að innan en við komum oft hingað til að fara í göngutúr með hundinn í kastalagarðinum, sem er opinn almenningi. Það er yndislegt að ganga þarna um en garðurinn er einstaklega fallegur á sumrin og mikið notaður til útiveru. Við kastalann er svo Vallø Slotskro sem er vandaður veitingastaður og gistiheimili en ekki nóg með það, heldur var hann valinn „Årets Bedste Bo og Spis-sted i Danmark“ fyrir árið 2017 af Den danske Spiseguide. Í fimm mínútna fjarlægð er 18 holu golfvöllur.

TeBønnen – Køge
Þetta er mín uppáhaldsverslun á svæðinu. Hér fæst úrval af gæðatei og -kaffi, ásamt ýmiss konar matvælum frá dönskum smáframleiðendum; súkkulaði, kryddblöndur, hunang og alls konar marmelaði, svo eitthvað sé nefnt. Reyndar er alveg þess virði að fá sér göngu um miðbæinn í Køge og skoða gömlu skökku húsin sem gefa verslununum einstakt yfirbragð.

Dhaba – Køge
Og þegar maður er búinn að ganga um miðbæinn liggur beint við að fá sér eitthvað gott að borða. Möguleikarnir eru margir en ég ætla að mæla með Dhaba, indverskum stað sem geymir einhver ótrúleg leyndarmál í pottunum!

Stevns Klint er á heimsminjaskrá UNESCO. Kletturinn er samansettur úr kalksteinslögum sem hafa mikla þýðingu fyrir jarðvísindasöguna en í honum sjást meðal annars jarðlög frá því að risaeðlurnar lifðu og dóu út.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Finndu jafnvægi í daglegu lífi

Námskeið í nútvitundariðkun (mindfulness) hefst í húsnæði Rósarinnar, Bolholti 4 í febrúar.

Námskeiðið samanstendur af fræðslu, umræðum, reynslunámi/æfingum og heimaiðkun þar sem þátttakendum er kennt að vera í núinu meðal annars með það fyrir augum að finna jafnvægi í daglegu lífi.

Núvitundariðkun byggir á aldagamalli hugleiðsluaðferð, búddískri að uppruna, þar sem athygli að líðandi stund er þjálfuð og hugsunum beint inn á „heillavænlegar brautir“. Námskeiðið hentar fólki sem til dæmis glímir við ýmis konar verki, veikindi, þreytu eða streitu.

Kennt verður í húsnæði Rósarinnar, Bolholti 4, á mánudögum frá kl. 13.30 – 15.45, frá og með 5. febrúar. Námskeiðið er átta skipti. Sjá www.lifandinuna.is/betri-heilsa

Burt með vöðvabólguna

Fimm einfaldar leiðir til að losna við vöðvabólgu og tilheyrandi verki.

Nudd gerir kraftaverk á auma vöðva. Ef vöðvabólgan er mikil þá þýðir ekkert að fara bara einu sinni í nudd og halda að það lagi allt. Þú þarft að setja þér markmið og spyrja nuddarann þinn hversu slæm vöðvabólgan er og fá hann til að finna út með þér hvað þú þarft marga nuddtíma til að koma þér í lag.

Prófaðu kælikrem. Hægt er að kaupa sér kælikrem og kæligel til að bera á auma vöðvana og lina þjáningarnar um tíma. Það er til dæmis sniðugt að nýta sér þessi krem eftir erfiðan tíma hjá nuddaranum. Góð kælikrem eiga ekki að erta húðina eða valda óþægindum og of mikilli kælingu.

Finndu orskök bólgunnar. Til að koma í veg fyrir að vöðvabólgan endurtaki sig aftur og aftur er gott að reyna að finna orsök hennar. Er það röng líkamsbeiting, setan í vinnunni, er álagið of mikið eða streitan að taka öll völd. Finndu það út og komdu í veg fyrir að líkaminn gefi sig á þennan hátt. Líf án vöðvabólgu er gott líf.

Hvíldu þig! Hvíld og þjálfun er jafnmikilvæg fyrir fólk sem þjáist af vöðvabólgu. Þetta á þó ekki við um þá sem þjást af vöðvaverkjum eftir slys. Þá skiptir hvíldin máli og að ekki sé farið af stað fyrr en vöðvarnir eru búnir að jafna sig.

Bólgueiðandi verkjalyf eru til í öllu apótekjum. Það er í lagi að nýta sér þau, þó í hófi.

Matur sem kveikir blossann

Ýmis matvæli stytta leiðina milli magans og hjartans.

Arineldur, kertaljós og ástríðufullur matur er hinn fullkomni forleikur á rómantísku kvöldi og gefur kitlandi og hlýja tilfinningu, ásamt því að koma ímyndunaraflinu af stað. Ýmis matvæli stytta leiðina milli magans og hjartans, ekki bara vegna innihaldsins heldur líka vegna þess hvernig þau líta út. Kannski er málið að afpanta tímann hjá kynlífsráðgjafanum og kíkja í búðina í staðinn!

Möndlur
Lyktin af möndlum er sögð hafa æsandi áhrif á konur sem útskýrir hvers vegna þær eru svo algengt innihaldsefni í sápum og kremum. Möndlur eru tákn fyrir ástríðu og frjósemi.

Aspas
Þetta magnaða grænmeti með þessu afgerandi bragði á sér langa sögu um að hafa örvandi áhrif og er sígilt hráefni í ástardrykki víða um heim. Áhrifin voru talin það sterk að á 19. öldinni var það siður í Frakklandi að láta síðustu máltíð brúðguma innihalda að minnsta kosti þrjá stilka af heitum aspas.

Avókadó
Talið er að avókadó eða lárpera búi yfir örvandi krafti og hjá þjóðflokknum Aztecs er hún kölluð „ahucati“ sem þýðir eista. Í kaþólsku sögðu prestarnir sóknarbörnum sínum að láta ekki undan avókadóinu!

Örvunaráhrif sellerís eru vel þekkt í Svíþjóð þar sem hinn frægi rithöfundur Hagdahl lýsti selleríi sem „auðveldum vekjara“.

Bananar
Þessi fallegi guli ávöxtur hefur ekki aðeins afar erótíska lögun heldur tengist hann líka erótískri orku. Frægt er þegar Eva skýldi sér á bak við banana þegar höggormurinn freistaði hennar. Bananar innihalda efni sem talin eru geta aukið kyngetu.

Gulrætur
Samkvæmt Forn-Grikkjum er hver tomma af gulrót rík af lostavekjandi efnum – svo miklum að þeir átu ræturnar, fræin og laufin áður en þeir tóku þátt í svallveislum.

Sellerí
Örvunaráhrif sellerís eru vel þekkt í Svíþjóð þar sem hinn frægi rithöfundur Hagdahl lýsti selleríi sem „auðveldum vekjara“. Kramin sellerífræ eru sögð vera sérstaklega öflug og tilvalið að nota í brauð eða salatdressingar

Súkkulaði
Að öðrum mat ólöstuðum er súkkulaði konungur lostavekjandi matvæla og hefur verið notað til að vekja ástríðu víða um heim. Það hefur svo mikil áhrif á kynhvötina að það hefur verið bannað í sumum klaustrum. Hinn frægi kvennabósi Casanova var mikill súkkulaðifíkill og fékk sér alltaf tvö eða þrjú stykki áður en hann hitti ástkonur sínar.

Hindber og jarðarber – ásamt kampavíni
Fersk hindber og jarðarber eru öflugir lostavakar. Báðar tegundir bjóða ástina velkomna og mjög oft er vísað í þessi ber í erótískum bókmenntum. Ekki er verra að fá sér svolítið kampavín með en bara passlega lítið því ef viðkomandi verður drukkinn þá er allur sjarmi farinn. Súkkulaðihúðuð jarðarber og kampavínsdreitill – það gerist varla betra.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / NordicPhotos

5 leiðir til að borða meira grænmeti

Með góðu skipulagi og breyttu viðhorfi geturðu aukið grænmetisneysluna.

Þrátt fyrir að grænmeti sé virkilega hollur og góður matur eiga margir í erfiðleikum með koma því að einhverju magni inn í máltíðir sínar. Ástæðurnar geta verið margvíslegar en með góðu skipulagi og breytingu á viðhorfum getum við öll aukið grænmetisneysluna og notið hennar vel.

Fljótvirkar eldurnaraðferðir
Frosið niðurskorið grænmeti er gott að eiga til að grípa í þegar tíminn er naumur. Þú einfaldlega skellir því á pönnu í nokkrar mínútur og ert komin með fínasta meðlæti á örskotstundu. Ef mikið liggur við má einnig sjóða grænmeti, frosið og ófrosið, í örbylgjuofni. Grillað grænmeti er líka sjúklega gott.

Undirbúðu þig
Sniðugt er að skera niður fullt af grænmeti eins og papriku, gulrætur, spergilkál og fleira þegar þú hefur tíma og setja í litlar pakkningar sem hægt er að grípa til þegar tíminn er takmarkaður. Litlu pakkana getur þú svo gripið í millimál, skellt í salatið, notað með hummus eða sett í grænmetisvefjur svo dæmi séu tekin.

Frosið grænmeti
Frosið grænmeti er alveg jafnríkt af næringarefnum og ferskt grænmeti. Það er fljótlegt og auðvelt í notkun og þú þarft ekki að eiga á hættu að það skemmist innan fárra daga. Þú getur bæði keypt frosið niðurskorið grænmeti í pokum eða skorið niður þitt eigið og fryst. Tilvalið er að eiga fjölbreyttar tegundir í frysti til að eiga eitthvað við öll tækifæri.

Litríkara salat
Lífgaðu upp á salatið með því að blanda litríku grænmeti í það eins og rifnum radísum, hökkuðu rauðkáli, svörtum baunum, rauðum paprikusneiðum eða baunaspírum. Salatið mun ekki aðeins líta betur út heldur verða miklu betra á bragðið.

Gerðu grænmetissúpur
Búðu til grænmetissúpur frá grunni með fullt af girnilegu grænmeti. Víða er hægt að fá uppskriftir að alls konar girnilegum súpum, ekki síst á Netinu. Endilega eldaðu alltaf stóra skammta til að geta átt afganginn í frysti. Þú getur sett afganginn í nokkur ílát sem passa sem máltíð fyrir einn og er tilvalið að taka með sér sem nesti í vinnuna.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / NordicPhotos

Rangfeðrað fólk knúið í dómsmál

|||
|||

Það er mikið áfall fyrir fólk að komast að því að það hafi verið rangfeðrað.

Því síður er auðvelt fyrir sömu einstaklinga að þurfa að höfða dómsmál til að fá réttan uppruna sinn staðfestan. Ráðast þarf í úrbætur á barnalöggjöfinni þegar mál þessa fólks eru til meðferðar og auka þarf rétt feðra til þess að höfða faðernismál sem er lítill sem enginn núna að mati lögfræðings. Mannlíf ræddi við karl og konu sem bæði voru rangfeðruð og segja þá reynslu mjög erfiða.

„Ég fékk staðfestingu á því að ég væri sonur annars manns 2013 kominn langt á sjötugsaldur. Mig hafði grunað þetta frá því ég var 17 ára þegar móðir mín gaf í skyn að ég væri ekki sonur föður míns en nefndi aldrei nafn míns rétta föður. Ég komst bara að því nýlega,“ segir maður í samtali við Mannlíf sem treystir sér ekki til að koma fram undir nafni vegna þessa máls.

„Þetta þykir öllum í fjölskyldunni minn afskaplega viðkvæmt og hefur legið þungt á mér alla tíð. Ég vil meina að þetta hafi mótað mig sem einstakling, allur þessi efi og þrá mín eftir réttum föður í marga áratugi. Þegar ég fékk loks staðfestingu á því með lífsýnaprófi að ég væri sonur annars manns var þungu fargi af mér létt. Ég eignaðist við það fimm systkini sem hafa tekið mér vel sem er dýrmætt. Þetta er ólýsanleg tilfinning að þekkja ekki uppruna sinn og ég held það sé ómögulegt að skýra það út fyrir nokkrum sem ekki hefur upplifað það,“ segir hann.

Veigrar sér við dómsmáli

Það sem hann hins vegar þráir núna, kominn á áttræðisaldur, er að hann sé rétt feðraður í þjóðskrá. Hann reyndi að fá faðerninu breytt í þjóðskrá en stofnunin hefur hafnað beiðni hans þar sem ekki liggur fyrir dómsúrskurður um rétt faðerni. Það er hins vegar ansi flókið ferli. Fyrst þyrfti hann að höfða svokallað véfengingarmál þar sem upphaflegu faðerni yrði hnekkt fyrir dómi með lífsýnaprófi því til staðfestingar. Að því loknu þyrfti hann að höfða faðernismál sem er annað dómsmál til að staðfesta faðernið með lífsýnaprófi því til sönnunar. Bæði dómsmál og mannerfðafræðileg rannsókn á blóðsýnum eru niðurgreidd af ríkissjóði. Barnalögin segja um þessar aðstæður að einstaklingur sem leitar faðerni síns þurfi að stefna þeim manni eða mönnum sem taldir eru hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma. Sé sá maður látinn áður en málið er höfðað er lögerfingjum hans stefnt.

„Ég get … ekki hugsað mér að stefna systkinum mínum fyrir dóm sem ég hef nýlega kynnst. Ég þrái það heitt að vera rétt feðraður og skráður sem slíkur í opinberum skrám en mér finnst það of mikið lagt á alla í kringum mig.“

Líffræðileg móðir og faðir viðmælanda Mannlífs eru bæði látin og maðurinn sem hann var upphaflega feðraður líka. Þetta þýðir að hann þarf að höfða dómsmál á hendur systkinum sínum, móður megin, til að hnekkja upphaflegu faðerni og svo yrði hann knúinn til að stefna nýjum systkinum sínum fyrir dóm í faðernismálinu.

„Ég get einfaldlega ekki hugsað mér að stefna systkinum mínum fyrir dóm sem ég hef nýlega kynnst. Ég þrái það heitt að vera rétt feðraður og skráður sem slíkur í opinberum skrám en mér finnst það of mikið lagt á alla í kringum mig,“ segir hann. „Ef ég fengi að skrá nafnið mitt rétt yrði ég sáttur. Meira færi ég ekki fram á. Mér finnst þetta hrein mismunun að geta ekki framvísað lífsýnaprófi sem staðfestir svo ekki verður um villst að ég er hálfbróðir systkina minna. Með því að höfða opinbert dómsmál óttast ég að ættingjar mínir taki því illa svo viðkvæmt er þetta mál eins og gefur að skilja.“

Gat ekki hætt að leita föður síns

Benedikta Eik Eiríksdóttir var rúmlega þrítug að aldri þegar hún komst að því að hún var rangfeðruð. „Ég fékk áfall við að heyra að ég væri ekki dóttir mannsins sem ég var feðruð en

Benedikta Eik Eiríksdóttir hefur verið ófeðruð í þjóðskrá í tuttugu ár eftir að hún höfðaði véfengingarmál gegn móður sinni og manninum sem hún var upphaflega feðruð. Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

mig hafði alltaf grunað það. Ég var þá ekki galin en það tók mikið á að horfast í augu við það eitt og sér,“ segir Benedikta sem hefur í tvígang með átta ára millibili sagt viðburðaríka sögu sína í Kastljósi, nú síðast í desember síðastliðnum. Henni var greint frá því fyrir rúmum tuttugu árum að hún væri ekki dóttir mannsins sem hún taldi vera föður sinn. Sá maður sem móðir hennar taldi vera líffræðilegan föður hennar reyndist ekki heldur vera rétti líffræðilegi faðir hennar þegar blóðsýni þeirra voru rannsökuð. Fram undan var löng og erfið leit.

„Mig grunaði aldrei að ég þyrfti að leita að honum og hvað þá að þetta tæki allan þennan tíma. Ég var samt alltaf sannfærð um að ég yrði að finna út hverra manna ég væri. Ég gat ekki hætt þarna,“ segir hún. Leitinni lauk í fyrra þegar hún fékk nafnlaust símtal sem kom henni á sporið við að finna sinn rétta föður sem síðar var staðfest með lífsýnarannsókn. Faðir hennar hét Eiríkur Ragnar Guðjónsson og lést árið 2013.

„Ég náði aldrei að hitta hann því miður. Ég mun bara þekkja pabba minn í gegnum hans nánustu. Mér tókst hins vegar að finna hann og fyrir það er ég gríðarlega þakklát. Ég græddi fimm systkini í viðbót og mömmu þeirra líka. Þau hafa tekið mér rosalega vel, ég finn hvað ég er velkomin í fjölskylduna og ég reyni að rækta sambandið við þau,“ segir hún.

Vandinn við dómsmál er tilfinningalegs eðlis

Benedikta hefur verið ófeðruð í þjóðskrá í tuttugu ár eftir að hún höfðaði véfengingarmál gegn móður sinni og manninum sem hún var upphaflega feðruð. Hún ákvað í samráði við hin nýju fimm systkini sem hún eignaðist á einni nóttu að höfða faðernismál og fá það staðfest fyrir dómi að Eiríkur væri réttur líffræðilegur faðir sinn. „Ég hef ekki getað kallað mig dóttur neins í tuttugu ár og get núna loksins kallað mig Eiríksdóttur í þjóðskrá samkvæmt úrskurði héraðsdóms og það er mjög mikilvægt fyrir mig. „Þegar ég sá fram á að þurfa að stefna nýju systkinum mínum fyrir dóm og gera þetta mál opinbert þá setti ég mig í stellingar og hélt að þau yrðu ósátt við það. Það varð aldrei og þau sýndu mér fullan skilning og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Kostnaðurinn við dómsmeðferðina er ekki vandinn í sjálfu sér því hann er að mestu niðurgreiddur heldur er hann tilfinningalegs eðlis. Þótt þau hafi öll samþykkt málsmeðferðina fyrir dómi vitandi að hún væri bara formlegs eðlis þá er ekki alltaf hlaupið að því að stefna nýjum ættingjum sínum fyrir dóm sem svo er gerður opinber,“ segir Benedikta. „Ég er enn þá að reyna að ná utan um þetta allt saman, ég næ því kannski einn daginn.“

Ríkið greiði fyrir mannerfðafræðilegar rannsóknir

Á tuttugu árum hefur Benedikta látið bera lífsýni sitt við fimm menn í leitinni að réttum föður því móðir hennar sýndi ekki mikla viðleitni til að aðstoða hana við leitina. Tvær blóðrannsóknir voru greiddar úr ríkissjóði af því þær reyndust réttar, annars vegar í

Það er mikið áfall fyrir fólk að komast að því að það hafi verið rangfeðrað. Því síður er auðvelt fyrir sömu einstaklinga að þurfa að höfða dómsmál til að fá réttan uppruna sinn staðfestan. Mynd / Aldís Pálsdóttir

véfengingarmálinu og hins vegar í faðernismálinu en hin þrjú sem sýndu engin blóðtengsl greiddi hún úr eigin vasa.

Anna Margrét Pétursdóttir útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík í fyrravor og skrifaði meistararitgerð um feðrunarreglur barnalaga. Hún telur meðal annars að það þurfi að endurskoða reglur um niðurgreiðslu á mannerfðafræðilegum rannsóknum. En þær fást ekki endurgreiddar nema dómur hafi gengið í málinu og eingöngu ef niðurstaða staðfestir blóðtengsl. „Þegar einstaklingur leitar uppruna síns, liggja fyrir í mörgum tilfellum aðeins orð móður eða jafnvel sögusagnir um hver það sé sem sé mögulegur faðir. Fenginn er úrskurður héraðsdóms fyrir því að taka megi sýni svo unnt sé að framkvæma rannsókn. Leiði sú rannsókn í ljós að útilokað sé að viðkomandi sé faðir einstaklingsins þýðir það að hann þurfi sjálfur að bera kostnað af málinu. Það skiptir því máli að kostnaður vegna slíkra mála falli alltaf á ríkissjóð óháð niðurstöðu í rannsóknum, annars veigra einstaklingar sér við að höfða mál og fá því ekki svarað þeirri mikilvægu spurningu sem legið hefur þungt á þeim. Íslenska ríkinu ber skylda til að uppfylla ákvæði mannréttindasáttmála og Barnasáttmála sem lögfestir eru hér á landi þar sem kveðið er á um að barn eigi rétt á að þekkja foreldra sína. Mín skoðun er því sú að ríkinu beri skylda til að tryggja þessi réttindi,“ segir Anna Margrét.

Feður hafa takmarkaðan rétt til höfða faðernismál

Anna Margrét ákvað að skoða feðrunarreglur í barnalögum í sínu lokaverkefni meðal annars vegna þess að náinn ættingi hennar hefur reynt að komast að réttu faðerni í fjöldamörg ár án árangurs. „Það eru mannréttindi að þekkja uppruna sinn og þau réttindi eru ekki nægilega tryggð í gildandi barnalöggjöf. Að mínu mati er nauðsynlegt að ráðast í úrbætur svo umrædd réttindi verði tryggð með fullnægjandi hætti.“ Hún segir að mörgum þyki þetta flókið, kostnaðarsamt og íþyngjandi ferli að þurfa fara fyrir dómstól til að sækja þennan rétt.

Anna Margrét Pétursdóttir skrifaði meistararitgerð um feðrunarreglur barnalaga.

„Raunveruleikinn er sá að börn eru ranglega feðruð hér á landi. Það er skortur á úrræðum fyrir rangfeðraðra einstaklinga og að auki hafa karlmenn sem telja sig föður barns enga möguleika á að láta á faðerni sitt reyna.“ Hún segir að faðernisregla barnalaga, svokölluð pater-est-regla feli í sér að eiginmaður eða maður sem skráður er í sambúð með móður telst sjálfkrafa faðir barns hennar. Ákvarðanir fólks um sambúðarform hafi því áhrif á feðrun barna. Í flestum tilvikum teljist eðlilegt að svo sé en það geti þó komið fyrir að börn séu ranglega feðruð af þessum sökum. Þótt konan sé ekki í sambúð eða í hjónabandi þegar barnið er getið þá hefur faðir barnsins engan rétt ef konan hefur sambúð eða gengur í hjónaband með öðrum manni áður en barnið fæðist.

„Barn er sjálfkrafa ranglega feðrað eiginmanni eða manni sem móðir þess er skráð í sambúð með sem veldur því að sá sem réttilega telur sig vera faðir barns getur ekki höfðað faðernismál þar sem barnið hefur þegar verið feðrað. Þessu þarf að breyta og eru tillögur mínar þær að rýmka skuli málshöfðunarheimildir barnalaga til að tryggja manni sem telur sig föður barns heimild til að höfða faðernismál og/eða véfengingar- og ógildingarmál. Með því yrði réttindum barns til að þekkja uppruna sinn gert hærra undir höfði og opnuð sú leið að heimila mönnum að láta á faðerni reyna fyrir dómstólum,“ segir Anna Margrét.

Texti / Helga Arnardóttir
Aðalmynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Straumar og stefnur í hollustu 2018

|
|

Þessu holla mataræði er spáð vinsældum.

Hinn svokallaði Miðjarðarhafs„kúr“ var vinsæll á síðasta ári og áhrifa hans mun gæta áfram.

Blóm vinsæl neysluvara
Spekingar spá því að ætileg blóm eins og lofnarblóm og rósir komi sterk inn á árinu, bæði út í drykk og mat og þá ekki einunigs sem eitthvert skraut heldur vegna þeirra góðu áhrifa sem þau eru talin hafa á heilsuna.

Bólgueyðandi áhrif, góð áhrif á háan blóðþrýstingi og á magaverki, allt saman er þetta nefnt sem ástæður þess að slík blóm komi til með að verða vinsæl neysluvara árið 2018.

Falafel, Halloumi og Harissa
Hinn svokallaði Miðjarðarhafs„kúr“ var vinsæll á síðasta ári og áhrifa hans mun gæta áfram. Þannig verður falafel, Halloumi ostur og spennandi krydd eins Harissa og kardimommur, sem eru talin hafa alls konar góð áhrif á heilsuna, meðal annars andoxandi áhrif á líkamann og örvandi áhrif á meltinguna, nokkuð áberandi.

Sveppir í heilsubótarskyni
Þá er búist við að sveppir á borð við svokallaða „chaga“ sveppi, „ljónsmakka“-sveppi (lion‘s mane), „Cordyceps“ sveppi og „reishi“ sveppi, sem yfirleitt eru notaðir í fæðubótarefni eða til að bragðbæta drykki eins og te, kaffi, „smoothies“ og fleira, verði í auknum mæli notaðir í heilsubótarskyni á árinu.

Sveppir sem eru meðal annars taldir hafa bólgueyðandi áhrif á líkamann, ásamt því að vera styrkjandi fyrir ónæmiskerfið.

2017 straumar og stefnur sem lifa áfram

Ofurfæða áfram vinsæl
Læknandi fæðutegundir, sem eiga ekki aðeins að bæta heilsu heldur líka lækna ýmsa kvilla,. verða áfram áberandi árið 2018. Við höfum þegar heyrt mikið talað um bólgueyðandi túrmerik, ónæmisbætandi sveppi, svo sem chaga, og fleiri fæðutegundir munu bætast við á árinu. Mikið er talað um jurtir sem koma jafnvægi á líkamann, draga úr streitu og áhrifum streituhormónins kortisól, auka orku og fleira, allt eftir því hvað líkaminn þarf á að halda, en þetta eru jurtir á borð við ginseng, ashwagandha og lakkrísrót.

Atkins á nýjan leik
Fólk er ennað tala um Atkins-kúrinn, þökk sé Kim Kardashian. Hún hvarf algerlega úr sviðsljósinu eftir að hún eignaðist sitt annað barn og sneri ekki aftur fyrr en hún hafði misst meðgöngukílóin. Hún léttist um 30 kg á 6 mánuðum og sagðist hafa fylgt Atkins-kúrnum, það er prótínríku og kolvetnaskertu mataræði. Í þetta skipti er lögð áhersla á heilsusamlega fitu og prótín í Atkins – ekki bara beikon og rjóma í öll mál.

Heilbrigður meltingarvegur
Meltingarvegur okkar er margslungið fyrirbæri og það á sérstaklega við um þarmana. Þar lifir gríðarlegt magn baktería sem allar hafa sitt hlutverk. Undanfarna áratugi hafa læknar og vísindamenn beint rannsóknum sínum í auknum mæli að þessari þarmaflóru; hvaða áhrif hún hefur á heilsu okkar, hvernig við getum ýtt undir hana eða aukið virkni hennar og svo framvegis.

Texti / Roald Eyvindsson og Hildur Friðriksdóttir

Möndlumjólk – holl og góð

|möndlumjólk|
||

Hægt að laga ótal útgáfur af drykkjum með möndlumjólk en það fer eftir smekk hvers og eins hvað er sett í drykkinn.

Ljósi draumurinn, græna byltingin og bleiki drykkurinn.

Möndlur eru gífurlega hollar og næringarríkar og innihalda m.a. prótín, járn og kalk. Rannsóknir hafa leitt í ljós að fitusýrur í möndlum („góðar fitusýrur“) geta dregið úr hættu á hjartasjúkdómum og hjálpa til við að draga úr „slæma kólesterólinu“ svokallaða. Möndlur innihalda einnig mikið af E-vítamíni, fólínsýru, trefjum og andoxunarefnum. Þær eru hins vegar kaloríuríkar þannig að um þær gildir, eins svo margt annað, að allt er best í hófi!

Möndlumjólk sem er löguð úr möndlum og vatni er auðvelt að útbúa sjálfur og nota t.d. út á hafragrautinn. Möndlurnar eru látnar liggja í bleyti yfir nótt og síðan maukaðar í blandara ásamt vatni í nokkrar mínútur. Möndlumjólk er frábær lausn fyrir þá sem af einhverjum ástæðum vilja eða þurfa að sneiða hjá kúamjólk. Sumir næringarfræðingar og fólk í heilsugeiranum mæla með möndlumjólk ekki eingöngu í staðinn fyrir kúamjólk heldur einnig í staðinn fyrir soja- og hrísmjólk.

Möndlumjólk
1 dl möndlur með hýði, lagðar í bleyti yfir nótt
4 dl vatn

Skolið möndlur eftir að þær hafa legið í bleyti og setjið í blandara. Hellið vatni yfir og maukið þar til að blandan er orðin jöfn og mjúk.

Það er hægt að laga ótal útgáfur af drykkjum með möndlumjólk en það fer eftir smekk hvers og eins hvað er sett í drykkinn. Notið hugmyndaflugið og það sem til er í skápunum.

Bleiki drykkurinn
3-4 dl möndlumjólk
1 banani, skorinn í bita
2 dl mangó, ferskt eða frosið
1 dl frosin hindber eða jarðarber
1 dl vatn

Setjið allt í blandara og maukið saman.

Græna byltingin
3-4 dl möndlumjólk
2 lúkur spínat
3-4 döðlur, má sleppa
2 dl frosið mangó
nokkur myntulauf
2 dl vatn
safi úr ½ límónu

Setjið allt í blandara og maukið saman.

Ljósi draumurinn
3-4 dl möndlumjólk
1 banani, skorinn í bita
½ tsk. kakóduft
korn úr vanillustöng
1 dl vatn
ísmolar

Setjið allt í blandara og maukið saman.

Góður morgunverður!

Hafragrautur með möndlumjólk, kanil og bláberjum.

Allt hráefni fæst í verslunum Nóatúns. Fylgihlutir eru í einkaeigu.

______________________________________________________________

Möndlumjólk …

– er frábær lausn fyrir þá sem eru með mjólkuróþol eða vilja sneiða hjá mjólk af einhverjum ástæðum.

– inniheldur ekki mettaða fitu sem hefur áhrif á „slæma kólesterólið“ og getur leitt til hjartasjúkdóma.

Góður morgunverður!
Hafragrautur með möndlumjólk, kanil og bláberjum.

– er talin góð fyrir fólk með of háan blóðþrýsting.

– er hægt að bragðbæta með náttúrulegu sætuefni, t.d. hunangi, kornum úr vanillustöng, döðlum o.fl.

– er góð leið til að bæta hollri fitu, prótíni, vítamínum og steinefnum í máltíðirnar.

– er holl og næringarrík mjólk sem er laus við skaðlega grænmetisolíu og sætuefni.

– geymist í 2-3 daga í kæli en best er að laga hana jafnóðum.

– má frysta og það er tilvalið að frysta hana í klakaboxi eða í klakapokum.

– er frábær ein og sér með fullt af klaka (sjá mynd).

– er einnig góð hituð með vanillukornum út í.

Umsjón / Guðrún Hrund

Myndir / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Litríkt og hresst heimili Berglindar Festival

Febrúarblað Húsa og híbýla kemur út 1. febrúar smekkfullt af frábæru efni.

Við kíktum í hressandi kaffi til Berglindar Pétursdóttur en heimilið hennar er sannarlega litríkt og þar leynast margar mjög skemmtilegar hugmyndir.

Við fórum líka í heimsókn til Steingríms Gauta listamanns og Hjördísar Gestsdóttur fatahönnuðar sem eiga listrænt heimili í Hlíðunum og kíktum á vinnustofu listamannsins.

Rakel Matthea opnaði einnig dyrnar fyrir ljósmyndara blaðsins en hún er ekki ókunn fjölmiðlabransanum því hún starfaði áður sem tískuritstjóri hjá Nude Magazine. Rakel er mikil smekkpía og heimili hennar í Garðabæ er eftir því.

Á forsíðunni er svo gullfalleg stúdíóíbúð í Kópavogi sem Kristjana Ólafsdóttir í Heimilum og Hugmyndum hannaði í samvinnu við parið sem þar býr. Blaðamaður og ljósmyndari brunuðu svo á Seltjarnarnesið og mynduðu hlýlegt heimili flugfreyju og hennar fjölskyldu. Við kíktum líka í heimsókn til Lilju og Atla Fannars sem búa í Vesturbænum. Þetta, Vala Matt, Zaha Hadid, 70 ljós og lampar og fleira í blaði númer tvö á árinu.

Febrúarblað Húsa og híbýli kemur út 1. febrúar. Sjón er sögu ríkari!
Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Mynd hér að ofan / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Forsíðumynd hér að neðan / Aldís Pálsdóttir
Myndband / Óskar Páll Sveinsson

Helga Arnardóttir hættir störfum fyrir útgáfufélagið Birtíng

Helga Arnardóttir, yfirritstjóri Birtíngs, og stjórn félagsins hafa komist að samkomulagi um starfslok hennar.

Helga hóf nýlega störf hjá útgáfunni en sameiginleg ákvörðun aðila var að slíta samstarfinu og vill stjórn Birtíngs þakka henni fyrir samstarfið.

Birtíngur gefur út tímaritin Hús og híbýli, Gestgjafann, Vikuna og fríblaðið Mannlíf. Auk þess heldur félagið úti lífstílsvefnum man.is, en Lilja Katrín Gunnarsdóttir hefur verið ráðin til starfa á vefnum.

Leitar að sérkennum í viðnum

Úr álveri í útskurð og rennismíði

Jón Þórður Jónsson nýtir eftirlaunaárin til að renna allskonar muni úr tré, eins og fugla, kertastjaka, box, bjöllur og lyklakippur.

Jón Þórður Jónsson tæknifræðingur hefur rennt muni úr tré síðan synir hans og fjölskyldur þeirra gáfu honum trérennibekk í sjötugsafmælisgjöf. Hann vann um árabil hjá Ísal í Straumsvík en hætti þar sökum aldurs 2009.

„Ég renni allskonar muni úr tré, eins og fugla, kertastjaka, box, bjöllur, lyklakippur og svo framvegis,“ segir Jón Þórður og hann leggur áherslu á að viðurinn fái að njóta sín og að eiginleikar trésins komi í ljós í gegnum munina. Hann vinnur í bílskúrnum heima og hefur komið sér vel fyrir. „Ég geri þetta mest ánægjunnar vegna og að sjálfsögðu er gaman þegar einhver kaupir. Einnig fer mikið í tækifærisgjafir og jólagjafir. Ég hef haldið sýningu í bílskúrnum sem gekk mjög vel og ég ætla að halda aftur sölusýningu í vor. Ef til vill fer ég með munina mína í handverkssöluna á Króksfjarðarnesi í sumar og verð með þá á ferðalögum í húsbílnum okkar.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í 5. tbl. Vikunnar sem kemur í verslanir fimmtudaginn 1. febrúar 2018.

Jón Þórður er á Facebook undir Smiðja Jóns Þórðar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Heil eyja til sölu á 35 milljónir

Skoska eyjan Linga við Hjaltlandseyjar, norður af skoska meginlandinu, er nú til sölu. Ásett verð er 351 þúsund dollarar, rétt tæplega 35,5 milljónir króna.

Eyjan er tæplega 26 hektarar og kemst maður hæglega út í hana á bát frá skoska bænum Walls. Það þýðir að þeir sem setjast að á Lingu eru ekki langt frá siðmenningu, þó einangrunin sé algjör á eyjunni, þar sem enginn býr.

Reyndar hefur enginn búið á Lingu síðan árið 1934 þannig að smáhýsin tvö sem á eyjunni eru þarfnast mikils viðhalds. Nýr eigandi fær hins vegar leyfi til að byggja nýtt smáhýsi og bryggju, svo eitthvað sé nefnt.

Þá gefur byggingarleyfið nýjum eiganda einnig heimild til að setja upp sólar- og vindorkusellur þannig að ljóst er að framtíðin á Linga er mjög umhverfisvæn.

Það er fyrirtækið Vladi Private Islands sem sér um sölu á eyjunni en myndband af þessari náttúruperlu má horfa á hér fyrir neðan.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Raddir