Miðvikudagur 23. október, 2024
6.7 C
Reykjavik

Metaðsókn í Sundhöll Reykjavíkur

Gufubaðið í Sundhöllinni gallað

Sundhöll Reykjavíkur aldrei vinsæll en nú.

Óhætt er að segja að Sundhöllin í Reykjavík hafi aldrei verið jafnvinsæl og nú. Hvorki meira né minna en tæplega 36 þúsund manns lögðu leið sína í laugina í desember í fyrra eftir að hún var opnuð á nýjan leik 3. desember eftir miklar breytingar. En til samanburðar má geta að tæplega níu þúsund gestir sóttu Sundhöllina í desember árið á undan.

„Þetta er algjör sprengja miðað við fyrri ár,“ segir Brá Guðmundsdóttir, þjónustu- og mannauðsráðgjafi hjá Laugardagslaug og Sundhöll Reykjavíkur. „Við erum að tala um metaðsókn.“

Brá segir að breytingar á Sundhöllinni, sem fela meðal annars í sér byggingu viðbyggingar og útisvæðis, hafi augljóslega hitt í mark. Enda séu flestir á einu máli um að þær séu vel heppnaðar. Þá sýni ferðamenn lauginni aukinn áhuga, sem eigi þátt í þessari miklu aðsókn. Með sama áframhaldi megi reikna með metaðsókn í Sundhöllina á árinu. „Ég býst við því og að gamla sólbaðsaðstaðan og nýja útivistarsvæðið komi þá sterkt inn í veðursældinni í sumar,“ segir hún glaðlega.

Að sögn Brár hófust framkvæmdir við nýju útilaugina á vormánuðum 2015 og var Sundhöllin lokuð vegna framkvæmda frá júní 2017 fram til desember sama ár. VA arkitektar eiga heiðurinn af viðbótunum en Guðjón Samúelsson, þáverandi húsameistari, hannaði gömlu höllina.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur

Lykillinn að góðum rakstri

Rakstur er mikilvægur þáttur í húðumhirðu karla. Hér eru nokkur góð ráð.

Mjúkt skegg tryggir betri rakstur
Lykillinn að góðum rakstri er að tryggja það að skeggið sé vel blautt áður en hafist er handa. Þurrt skegg er nefnilega mun harðara sem gerir það að verkum að raksturinn er erfiðari og rakvélarblöðin slitna fyrr. Best er að skella sér í heita sturtu og raka sig svo eftir hana, en ef ekki gefst tími til að fara í sturtu er gott að setja vel heitan og rakan þvottapoka á andlitið í um það bil tvær mínútur fyrir raksturinn. Þetta mýkir skeggið, ásamt því að örva og opna húðina, þannig að raksturinn verður léttari og útkoman betri.

Sápa og bursti
Notið raksápu sem inniheldur mikið af rakagefandi og smyrjandi efnum, til dæmis glyseríni og silíkoni, eða góðan anditshreinsi sem freyðir vel. Gæðaraksápur mynda þykka og mjúka froðu án aðstoðar freyðiefna á borð við súlföt sem geta þurrkað húðina. Ef tími gefst er gott að leyfa raksápunni að vera um stund á húðinni áður en raksturinn hefst svo skeggið verði eins mjúkt og mögulegt er. Þótt sumar raksápur megi hæglega bera á með fingrunum jafnast ekkert á við að nota góðan rakbursta, eins og alvörurakarar nota, því hann ýfir skegghárin þannig að raksturinn verður enn fínni en annars.

Vertu með, ekki á móti
Við raksturinn er mikilvægt að nota góða rakvél, hvort sem um ræðir rafmagnsrakvél eða sköfu. Sköfu á alltaf að renna létt yfir hörundið, ekki þrýsta fast að, og strekkja vel á húðinni á meðan. Mikilvægt er að hreinsa rakvélarblaðið oft og vel meðan á rakstrinum stendur, svo að ekki safnist hár á milli blaðanna. Ef sápan þornar þarf aðeins að nota meira vatn og vinna froðuna aftur upp með burstanum, ekki nota meiri sápu. Það á alltaf að raka í sömu stefnu og skeggið vex, aldrei á móti. Að raka á móti skeggvextinum getur valdið sviða og inngrónum hárum í andliti ásamt því að auka líkurnar á því að maður skeri sig við raksturinn. Til að tryggja góðan rakstur getur verið gott að setja aftur á sig raksápu og raka aðra umferð en þá þvert á skeggvöxtinn, en varast samt ofrakstur.

Eftir rakstur og sótthreinsun
Meðferð eftir raksturinn er ekki síður mikilvæg og undirbúningurinn. Strax að loknum rakstri er gott að skvetta dálitlu köldu vatni á andlitið til loka húðinni aftur. Margir klikka oft á því, bera strax á sig rakspíra og uppskera mikinn sviða. En það er ekki fyrr en að húðinni hefur verið lokað á þennan hátt sem á að bera á sig rakspíra, helst einhvern sem inniheldur lítið sem ekkert alkóhól, eða rakakrem (after shave balm) til sótthreinsunar og mýkingar.

Viðhald á tækjum og tólum
Eftir hverja notkun þarf að hreinsa bæði burstann og rakvélina. Hristið vatn úr burstanum, ekki vinda hann, og geymið hann hangandi svo hárin vísi niður, en það kemur í veg fyrir að raki safnist fyrir og valdi hárlosi. Bitlaust eða skítugt blað er ein meginástæðan fyrir óþægilegum rakstri og skurðum. Rakvélarbrýni, eins og Razorpit, geta þá komið að góðum notum og gera manni kleift að spara í kaupum á rakvélarblöðum. Það eykur notkun hvers rakvélarblaðs frá tíu rökstrum upp í allt að hundrað rakstra að hreinsa það og brýna svo að það verði hárbeitt á ný.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Lítil kríli með viðkvæma húð

Góð ráð fyrir húðumhirðu barna.

Það er fátt yndislegra en silkimjúk og ilmandi húð ungbarna. Hún er samt miklu þynnri og viðkvæmari en húð okkar fullorðna fólksins. Þess vegna þarfnast hún góðrar umhirðu og verndar fyrsta árið. Hér eru nokkur góð ráð fyrir húðumhirðu barna.

Bleyjubossar
Þrífa þarf bossann á bleyjubörnum reglulega því það eru efni í þvagi sem geta brennt viðkvæma rassa, rétt eins og kúkur. Sumir kjósa að nota þartilgerða blautklúta en það er nóg að nota bara rakan þvottapoka eða svampklút. Ef bleyjuútbrot fara að láta á sér kræla er mikilvægt að þrífa svæðið við hver bleyjuskipti, þerra það vel og bera síðan Zink-krem á rauða rassa til að koma í veg fyrir frekari útbrot. Einnig er gott að viðra bossann eins oft og mögulegt er.

Þvottur, þvottur og meiri þvottur
Það er ekki síður nauðsynlegt að hugsa út í hvernig við þvoum föt barna. Fötin liggja á viðkvæmri húð barnsins allan daginn og því er mikilvægt velja þvottaefni sem eru mild og örugg. Margir mæla með að sleppa mýkingarefnum alveg því þau innihalda oft mikið magn ilmefna sem eru ofnæmisvaldandi.

Margir foreldrar hafa áhyggjur af því að þeir þurfi að þvo barnafötin sér. Vissulega er þess þörf ef þú notar sterkari þvottaefni og mýkingarefni á annan þvott heimilisins. Hví ekki nota tækifærið og byrja að nota mildari, sem og umhverfisvænni, þvottaefni fyrir allan þvott? Afraksturinn gæti komið þér á óvart.

Lítil, skrítin skán
Algengt er að það myndist skán í hársverði ungbarna sem er gulbrúnt fitukennt hrúður. Þessi skán er algengust ofan á hvirfli en getur einnig verið á öðrum afmörkuðum blettum eða um allan hársvörðinn. Skánin er hættulaust ástand sem varir yfirleitt ekki lengi. Þetta veldur barninu ekki óþægindum og verður minna áberandi eftir því sem meira hár vex á höfði barnsins.

Alls ekki reyna að kroppa skánina í burtu án þess að mýkja hana upp áður, þá gæti farið að blæða úr hársverðinum og myndast sýking. Best er að bera góða jurtaolíu, svo sem möndlu-, jarðhnetu- eða ólífuolíu, í hársvörðinn áður en barnið fer að sofa. Þá mýkist skánin yfir nótt og morguninn eftir er notuð fíngerð greiða eða bursti til að bursta skánina varlega, ekki fara of nærri hársverðinum þannig að höfuðleðrið ertist. Að lokum þarf að þvo höfuðið og þá skolast hrúðrið að mestu leyti burtu. Þetta gæti þó þurft að endurtaka nokkrum sinnum.

Vanda valið á kremum
Það er mjög mikilvægt að velja vandlega það sem borið er á húð ungra barna. Það er staðreynd að mörg efni geta valdið ofnæmi eða aukið hættu á húðvandamálum síðar á ævinni. Yfirleitt þarf ekki að bera neitt sérstaklega á húð barns en stundum fá börn exem eða mikinn þurrk, sérstaklega yfir vetrartímann. Þá er mikilvægt að nota krem sem hafa verið ofnæmisprófuð í þaula og innihalda hvorki ilmefni né önnur skaðleg efni. Fyrirtæki eins og Eucerin, Neutral og Weleda framleiða mjög góðar vörur sem eru sérstaklega ætlaðar fyrir ungbörn. Einnig geta börn fengið svokallaðar hormónabólur á andlitið vegna hormóna í móðurmjólkinni. Þessar bólur eru fullkomlega eðlilegar og hverfa af sjálfu sér á nokkrum vikum svo best er að láta þær alveg í friði. Þær ná oft hámarki um sex vikna aldur en fara svo að hverfa.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Sex einfaldar leiðir til að bæta líðan þína

|
|

Heilbrigður lífsstíll byggist á góðum venjum sem verða að rútínu.

Það er þó hægara sagt en gert. Hér eru sex einfaldar leiðir til að bæta líðan þína og gera líf þitt árangursríkra og betra.

Farðu snemma á fætur og af stað.

1. Farðu snemma á fætur og af stað
Á morgnana erum við orkumest og athygli okkar er skörpust svo sá tími er tilvalinn til að taka á þeim hlutum sem okkur finnst erfiðastir eða krefjast meiri viljastyrks – eins og til dæmis að fara í ræktina. Ef þú átt erfitt með að stunda reglulega líkamsrækt þá gæti það verið vegna þess hvaða tíma dags þú ert að fara. Eftir langan vinnudag eru flestir þreyttir og svangir svo það síðasta sem þá langar að gera er að skella sér út að skokka. Þess vegna er svo gott að fara á morgnana fyrir vinnu því þá er það bara búið og margir segjast finna aukna orku það sem eftir er dagsins eftir að hafa byrjað hann á hreyfingu.

2. Beislaðu sjálfstýringuna
Góðir ávanar hafa þann kost að með tímanum verða þeir sjálfkrafa hluti af rútínu þinni sem þýðir að þú notar minni hugarorku í að framkvæma þá. Þannig nær einmitt íþróttafólk að halda sér í góðu formi og þjálfun en þetta á ekkert síður við okkur meðaljóna. Það tekur um það bil tuttugu og einn dag að venja sig á eitthvað nýtt, en getur auðvitað tekið lengri tíma þannig að það verði okkur eðlislægt. Það þýðir að ef þú átt erfitt með að fá þér ekki sætindi seinnipartinn þá muntu smám saman hætta að hugsa um það og eftir þrjár vikur verður þú jafnvel alveg laus við löngunina.

3. Skoðaðu góðu ávana þína
Ein besta leiðin til að losa sig við slæma vana er að bæta góðum ávana við þá sem þú þegar hefur. Til dæmis ef þú ert vön að fá þér kaffibolla á morgnana getur þú tekið upp á því að fá þér grænt te eða heitt vatn með sítrónu. Þá skiptir þú út slæmum vana fyrir góðan. Þar sem þú færð enn þá heitan drykk á morgnana er breytingin auðveldari en að hætta bara að drekka kaffið. Síðan getur þú haldið áfram og vanið þig á tíu mínútur af hugleiðslu með drykknum. Smám saman verður til keðja af góðum venjum sem er í raun það sem heilbrigður lífsstíll gengur út á.

4. Skrifaðu hlutina niður
Það sem við skrifum niður er oft betur greipt í minni okkar en það sem við hugsum eða heyrum. Við erum öll af vilja gerð að standa okkur en með því að skrifa áætlanir okkar niður verðum við ósjálfrátt ábyrgari gagnvart þeim og líklegri til að standa við þær. Þó að tæknin sé til margs góðs þá hefur það ekki sömu áhrif að skrifa hlutina niður í snjallsíma eða tölvu. Sestu heldur niður og skrifaðu slæma ávana niður á blað ásamt því hvernig þú ætlar að losa þig við þá. Hengdu listann svo upp þar sem þú sérð hann reglulega.

5. Taktu á afsökununum
Það að vera stöðugt að afsaka slæma ávana getur staðið í vegi fyrir því að þú takir upp góða vana í staðinn. Ef við styðjumst aftur við dæmið um kaffibollann, þegar þú vaknar þreytt á morgnana eftir erfiða vinnuviku þá er auðvelt að réttlæta fyrir sjálfri sér að þú eigir kaffibollann skilið og að þú munir halda áfram í bindindinu á morgun. Vandinn er að sá morgundagur kemur aldrei og fyrr en varir ertu byrjuð að drekka kaffi á hverjum morgni aftur. Í stað þess að fara aftur í sama farið getur þú ákveðið að fá þér svart te í þetta skiptið, þannig færðu verðlaun. Sama gildir um líkamsræktina, ef þú getur ekki farið klukkan hálf sjö í spinning farðu þá á fætur klukkan hálf átta og farðu út að skokka í hálftíma. Þá heldur þú þér við efnið.

6. Sjáðu það fyrir þér
Það er auðvelt að gleyma nýjum venjum og ástæðan fyrir því að það er erfitt að losna við slæma vana er að við erum búin að gera þá aftur og aftur í langan tíma. Til þess að auðvelda sér hlutina er hægt að búa til sjónrænar áminningar. Ef þú vilt venja þig á að nota tannþráð á morgnana settu þá minnismiða á baðherbergisspegilinn. Ef þú vilt fara í ræktina á morgnana hafðu þá líkamsræktarfötin tilbúin við hlið rúmsins, eða sofðu í þeim – það virkar. Þessar litlu áminningar munu minna þig á vanann þar til þú þarft ekki lengur á þeim að halda og vaninn er orðinn hluti af rútínunni.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

 

Svona innréttarðu litla stofu

Góð ráð fyrir þá sem eru með litlar stofur.

Þegar þú innréttar litla stofu reyndu að komast af með sem fæsta hluti. Þannig kemur þú í veg fyrir að hún verði óreiðukennd. Gott er að horfa reglulega yfir hana með gagnrýnum augum og fjarlægja það sem þér finnst ofaukið.

Gott er að láta lofta sem mest um húsgögnin. Ekki klessa til dæmis borði fast upp við hliðina á sófanum, eins og gert er á þessari mynd. Hafðu heldur smábil á milli þegar þú kemur því við.

Of mikil litadýrð getur verið yfirþyrmandi í lítilli stofu. Mörg mynstur eru heldur ekki æskileg. Hvít málning á veggjum er góð byrjun.

Til eru sniðug húsgögn með tvöfalt notagildi; fínir sófar sem eru líka svefnsófar, stólar/kollar með geymslurými, sófaborð með hillum á hliðunum, lítil borð sem gætu einnig þjónað sem sæti og svo framvegis. Þegar plássið er lítið þarf stundum að fórna einhverju til að lofti betur um það sem eftir er.

Stærri húsgögn ættu að standa aftast í stofunni frá dyrunum séð – en ekki staðsett við innganginn. Þá gæti þér fundist sem húsgögnin þrengi að þér. Settu þau þyngstu fjærst dyrunum og komdu hinum fyrir í góðu jafnvægi við þau.

Ef sami litur er á t.d. veggnum og sófanum mun sófinn verða minna áberandi og ekki grípa athyglina jafnauðveldlega og ef hann væri í öðrum lit. Það getur verið mjög flott að láta húsgögnin falla inn í vegginn á þennan hátt, svona á meðan maður ofgerir ekki. Þú getur líka notað málningu til að „fela“ bitana í loftinu, ofnana og annað sem þér finnst gefa stofunni draslaralegan blæ.

Haltu yfirborðinu hreinu og lausu við ónauðsynlegt dót. Með því að takmarka það sem þú geymir ofan á hillum, skápum, borðum og í gluggakistum loftar svo miklu betur um stofuna. Þú þarft alls ekki að fjarlægja allt, fækkaðu bara þessum hlutum. Allt verður svo miklu snyrtilegra. Þeir sem ætla að selja íbúðina sína ættu að hafa þetta í huga – áhrifin þegar inn í stofuna (íbúðina) er komið eru svo miklu betri á væntanlega kaupendur en þegar allt er ofhlaðið, hún virkar einnig stærri.

Veldu listaverk í meðalstærð á veggina í stað risastórra verka. Stórar myndir geta verið afar flottar en yfirþyrmandi í litlu rými. Mörg verk saman á vegg geta verið óreiðukennd ef þau eru of stór eða mjög misstór. Einhver regla verður að vera, að láta efri línur eða neðri mætast. Ef hengt er upp af algjöru handahófi njóta myndirnar sín ekki sem skyldi.

Falleg gluggatjöld geta skapað ljúfa og mjúka stemningu í stofunni en í litlu rými og nálægt húsgögnunum gleypa þau alveg stofuna. Gólfmottur skipta líka máli, of margar litlar mottur geta látið stofuna virka draslaralega. Rýmið sýnist allt svo miklu opnara ef hófsemi er gætt. Þú getur líka sleppt því að nota gluggatjöld. Rimla- eða rúllugluggatjöld geta verið fín lausn í litlum stofum.

Gott er að gera sem mest úr dagsbirtunni. Blóm og vasar í gluggakistum geta verið falleg en skyggja á birtuna.

Speglar eru magnaðir í þeim tilgangi að láta herbergi virðast stærra. Spegill á réttum stað gerir ótrúlega mikið fyrir lítil rými og getur gjörbreytt stofunni þinni.

Fleiri lampar og góð lýsing út í hvert horn er einnig af hinu góða.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Siggi skyr opnar dyrnar: Úr tilraunastarfsemi í stórveldi

Sigurður Kjartan Hilmarsson, eða Siggi skyr eins og hann er yfirleitt kallaður, hóf tilraunir með skyrgerð í eldhúsinu hjá sér í New York eftir gamalli uppskrift sem móðir hans sendi honum fyrir rúmum áratug.

Núna fæst skyrið í um 25 þúsund verslunum í Bandaríkjunum og fyrirhugaður er mikill vöxtur á næstu misserum. „Það verður engin breyting á okkar starfsemi. Við munum halda áfram að starfa héðan frá New York og sama góða starfsfólkið verður mér við hlið,“ segir Siggi  og hrósar starfsfólkinu

Þetta er einhver ótrúlegasta frumkvöðlasaga Íslendings í seinni tíð og hvernig varan varð til á löngum tíma með dugnaði, klókindum og hugviti

Franski mjólkurvörurisinn Lactalis keypti fyrirtækið hans Sigga á dögunum. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp og er trúnaður milli kaupanda og seljenda, en það hleypur á tugum milljarða. „Fyrirtækið hefur átt hug minn allan frá fyrsta degi,“ segir Siggi.

Siggi skyr verður í ítarlegu viðtali við Magnús Halldórsson blaðamann í Mannlífi.  Blaðið kemur út á morgun föstudaginn 26. janúar og er dreift ókeypis inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu.  Mannlíf er gefið út í samstarfi við Kjarnann.

Burstaþvottur tryggir fallegri förðun

Regluleg þrif á förðunarburstum er ávísun á betri förðun.

Mikilvægt er að þrífa förðunarburstana sína, jafnvel þótt maður sé bara að nota þá sjálfur, því það tryggir fallegri förðun en er jafnframt mjög mikilvægur þáttur í húðumhirðunni.

Það er mjög mikilvægt að þrífa förðunarburstana sína, jafnvel þótt maður sé bara að nota þá sjálfur, því það tryggir fallegri förðun en er jafnframt mjög mikilvægur þáttur í húðumhirðunni. Þegar við málum okkur þá geta bakteríur og önnur óhreinindi safnast fyrir í burstunum, sem geta valdið stíflum og bólum í húðinni seinna meir.

Hægt er að fá hreinsivökva fyrir bursta frá ýmsum snyrtivörumerkjum og það er mjög fljótlega leið til þess að þrífa og sótthreinsa bursta. Smávegis af hreinsivökvanum er þá sett í skál, burstanum dýft ofan í og svo nuddað á eldhúspappír eða hreina tusku. Megininnihaldsefni vökvans er alkóhól sem getur þurrkað burstana. Þess vegna er nauðsynlegt að djúphreinsa þá líka reglulega með sápu og vatni.

Góð regla er að þvo burstana á tveggja vikna fresti með mildri sápu eða barnasjampói, einnig getur verið gott að nota uppþvottalög á þá bursta sem eru notaðir í fljótandi farða því uppþvottalögur leysir betur upp fituna í farðanum.

Best er að þrífa burstana við vaskinn með smávegis af sápu eða sjampói í lítilli skál.  Hverjum bursta er þá dýft í sápuna, nuddað aðeins inn í lófann til að láta sápuna freyða og svo er burstinn að lokum skolaður með volgu vatni. Að lokum er gott að setja smáhárnæringu í þá bursta sem eru úr náttúrulegum hárum, leyfa henni að bíða aðeins og skola hana svo úr, þá haldast burstarnir mjúkir og fallegir.

Þegar bursti eru skolaður er mikilvægt að snúa honum niður undir bununni til að passa að ekkert vatn komist í skaftið. Þá getur límfestingin leyst upp, burstinn byrjað að „fara úr hárum“ og að lokum dottið í sundur. Af sömu ástæðu er best að láta burstana liggja flata á handklæði meðan þeir þorna, ekki hafa þá upprétta, og enn betra er að leyfa þeim að hanga aðeins út fyrir borðbrún svo loft nái að leika um þá.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Ekkert lát á endurgerðum

Ekkert lát virðist ætla að verða á endurgerðum Hollywood-kvikmyndum á næstunni. Hér er listi yfir nokkrar sígildar.

Ocean’s Eleven, Twelve, Thirteen og nú Ocean’s Eight!
Í hinni upprunalegu Ocean’s 11 mynd mátti sjá hina óviðjafnanlegu Rat Pack, Frank Sinatra, Dean Martin og Sammy Davis Jr. í aðalhlutverkum og myndin fékk á sínum tíma góðar viðtökur. Sagan segir frá Danny Ocean sem vill fremja stærsta rán sögunnar og til þess safnar hann saman ellefu manna úrvalsliði. Þegar ráðist var í endurgerð myndarinnar árið 2001 var öllum ljóst að leikaravalið þurfti að sambærilegt og það tókst svo sannarlega með George Clooney, Brad Pitt og Matt Damon. Þó að sígilda útgáfan sé alls ekki léleg þá verður að viðurkennast að sú nýrri hefur mun meira skemmtanagildi, er bæði fyndnari og meira spennandi, og verður því yfirleitt ofan á í samanburðinum. Nú er von á fjórðu myndinni og þar verða skærustu kvenstjörnur Hollywood í aðalhlutverkum, meðal annars Cate Blanchett, Sandra Bullock og Anne Hathaway.

3:10 to Yuma
Þó svo að sumir ríghaldi með klassísku útgáfunni af 3:10 to Yuma sem kom út árið 1957 eru flestir á sama máli um að endurgerð James Mangold frá árinu 2007 sé mun betri. Það er einkum vegna þess að tækninni hefur fleygt töluvert fram á þessum fimmtíu árum og því er hasarinn í myndinni mun áhrifaríkari og meira spennandi, án þess að það sé farið yfir strikið í einhverjum tæknibrellum. Aðalleikararnir, Russell Crowe og Christian Bale, sýna ótrúlega takta í hlutverkum sínum en Bale leikur smábónda sem tekur að sér að halda útlaga, Crowe, föngnum á meðan beðið er eftir lest sem mun færa hann fyrir dómstóla en Crowe reynir að beita alls kyns brögðum til að sleppa. Þetta er sígildur vestri með mjög skemmtilegum og spennandi söguþræði.

Freaky Friday
Eflaust eru margir sem ekki vita að hin geysivinsæla Disney-mynd Freaky Friday, með Jamie Lee Curtis og Lindsey Lohan í aðalhlutverkum, er í raun endurgerð á mynd sem kom út árið 1977. Myndin fjallar um unga stúlku sem skiptir um líkama við móður sína skömmu fyrir brúðkaup þeirrar síðarnefndu. Eins og áður hefur komið fram þá lék Lindsey Lohan unglingsstúlkuna í endurgerðinni en hún var þá á hátindi frægðar sinnar. Það var þó ekki síðri leikkona sem fór með sama hlutverk í upprunalegu myndinni en það var engin önnur en Jodie Foster.

The Great Gatsby
Til eru tvær kvikmyndir sem hafa verið gerðar eftir hinni sígildu skáldsögu F. Scott Fitzgerald, The Great Gatsby, og segir frá Nick Carraway sem fer frá miðvesturríkjum Bandaríkjanna til New York vorið 1922, þegar djassinn og hið ljúfa líf ræður ríkjum í borginni, og dregst fljótlega inn í heim hinna ofurríku, heim sjónhverfinga, ásta og svika. Það er erfitt að bera þessar tvær kvikmyndir saman, og nær ómögulegt færa rök fyrir því að önnur myndin sé betri en hin, því þótt þær segi sömu sögu þá er nálgun þeirra á efninu gjörólík. Sú fyrri, kom út árið 1974 með Robert Redford og Miu Farrow í aðalhlutverkum, er hefðbundnari og hógværari að öllu leyti en sú seinni. Baz Luhrman endurgerðin sem kom út árið 2013 er aftur á móti algjört augnakonfekt með frábærum leikurum í öllum hlutverkum og hvert einasta augnablik hefur verið stíliserað út í eitt. Hvorug myndin er gallalaus en þær hafa báðar marga kosti sem vega upp á móti þeim.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Heilbrigt og fallegt hár á veturna

Góð ráð til að halda hárinu heilbrigðu á veturna.

Nú gengur hver lægðin á fætur annarri yfir landið, okkur til lítillar skemmtunar. Þetta mikla vetrarveður, kuldi, rok og alls kyns úrkoma, getur haft töluverð áhrif á bæði húð og hár. Margar konur kannast við að hárið á þeim verði allt í senn þurrt, flókið og rafmagnað. Hér koma nokkur ráð til að halda hárinu heilbrigðu og auðveldu í meðhöndlun fram að vori – hvenær sem það nú kemur.

Hárþvotturinn
Ein algengustu mistökin í hárumhirðu eru að þvo hárið of oft, hvort sem það er vetur eða sumar, og að nota of heitt vatn. Í köldu veðri þornar hárið og húðin mun meira og það er því ekki á það bætandi. Reyndu að þvo hárið ekki oftar en þrisvar í viku og ekki hafa vatnið heitara en 37° en einnig er sniðugt að skola hárið upp úr köldu vatni í lokin til að halda rakanum í hárinu.

Réttar og góðar vörur
Heilbrigði hársins getur ráðist af hárvörunum sem þú notar og því er mikilvægt að nota réttar vörur fyrir þína hárgerð. Það eru ekki allir með á hreinu hver hárgerð þeirra er og það getur oft verið flókið að átta sig á muninum, til að mynda hvort maður er með þunnt eða fínt hár. Næst þegar þú ferð í klippingu er sniðugt að spyrja hárgreiðslumanninn þinn hvaða hárgerð þú ert með og hvaða hárvörur passa best fyrir þig.

Háspenna, lífshætta
Enn eitt hárvandamál sem veldur miklum pirringi er rafmagnað hár sem stendur allt út í loftið. Næstum allar konur eiga við þetta vandamál að stríða á einhverjum tímapunkti yfir vetrarmánuðina. Ástæðan fyrir því að hárið verður rafmagnað er að andrúmsloftið er þurrara í kulda. Gott er að nota einhvers konar hárolíu í enda hársins eftir að það hefur þornað. Í neyð er besta ráðið að spreyja smáhárspreyi í hárbursta og renna honum yfir hárið frá rótum til enda.

Ekki ofnota tæki og tól
Ofnotkun á hárblásara eða hitajárnum getur skemmt hárið og hættan er mun meiri á veturna þegar hárið er þurrt fyrir. Reyndu í lengstu lög að leyfa hárinu að þorna náttúrulega og blása það sem minnst. Gott viðmið er að leyfa hárinu að verða um það bil áttatíu prósent þurrt en nota síðan hárblásara í lokin til að móta það og gera það fallegt. Ekki hafa blásarann heldur stilltan á hæsta hita þó svo að kaldari stilling taki lengri tíma, þá missir hárið ekki jafnmikinn raka og verður fyrir minni skemmdum við volga þurrkun.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

 

Tólf góð ráð frá stílistum

Stílistar og innanhússhönnuðir luma á snjöllum lausnum þegar kemur að því að fegra stofuna og gera hana spennandi og áhugaverða.

Stofur eru alls konar: stórar, litlar, nútímalegar, gamaldags, tómlegar, yfirhlaðnar. Þær eiga það þó flestar sameiginlegt að þar slökum við á, skemmtum okkur, tökum á móti gestum, horfum á sjónvarpið og njótum þess að vera saman. Ef þig langar að hressa upp á stofuna þína ættirðu að lesa áfram, því hér eru tólf góð ráð frá stílistum.

1. Ef þú hefur pláss, dragðu sófa og stóla örlítið frá veggjunum. Það verður meiri nánd fyrir samræður þegar húsgögnin eru nær hvert öðru og það skapar meiri kósíheit. Stofan mun líka virðast talsvert stærri.

2. Skiptu út sófaborðinu þínu fyrir annað minna sem þó er nógu stórt fyrir bók og nokkra kaffibolla og er að auki færanlegt. Þú sparar mikið pláss með þessu og það loftar betur um stofuna.

3. Að staðsetja bókahillu fyrir aftan sófann er góð hugmynd útlitslega og ekki verra að fá aukið pláss fyrir tímarit og bækur og punt. Þar sem sófinn skyggir á hilluna gætir þú geymt hluti sem þú notar sjaldnar.

4. Að blanda saman gömlum og nýjum munum er frábær leið til að auka orku í stofunni (og öðrum herbergjum).

5. Bættu jafnvægið á milli þyngri hluta og þeirra léttari til að koma í veg fyrir þyngslaleg svæði. Léttari hlutirnir, eins og sófaborð eða hliðarborð, þurfa að vera í samhljómi við þá þyngri, eins og sófa, stóla og skenka.

6. Settu upp á vegg, t.d. fyrir ofan sófann, grunna hillu eða lista sem þú getur tyllt flottum myndum á, innrömmuðum plakötum, málverkum, ljósmyndum, ekkert endilega í sömu stærð. Ef þú þreytist á þeim, geturðu auðveldlega skipt þeim út.

7. Litir eru lykillinn að því að blanda saman hlutum í samræmi. Að nota marga liti getur orsakað óróleika en ef t.d. hvíti liturinn er mest áberandi, t.d. á veggjunum og einhverjum húsgögnum, púðum eða punti, kemur það í veg fyrir að litagleðin verði yfirþyrmandi.

8. Gulllitur getur gert heilmikið fyrir hvert herbergi.

9. Að hafa allt svolítið lágt (líka listaverk á veggjum) getur verið snjallt ef þú vilt að stofan þín virki stærri. Lágt sófaborð og húsgögn, t.d. sófi með lágt bak, hafa heilmikil áhrif til að svo verði. Það er allt í lagi að hafa háa standlampa, það er bara flott að láta birtuna koma frá þeim.

10. Með því að hengja listaverkin þín ekki alltaf fyrir miðju, t.d. yfir miðjum sófanum, mun það draga athyglina að þeim og skapa áhrif hins óvænta.

11. Tveir stólar hlið við hlið þurfa ekki að vera eins. Prófaðu að setja saman tvo stóla frá svipuðu tímabili en með ólíka lögun. Það kemur skemmtilega út.

12. Ef þú ert í vafa, bættu smávegis svörtu við.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Ástin kviknaði í Biggest Loser

Líf Örnu hefur gjörbreyst á tæpu ári.

Ítarlegt viðtal er við Örnu í 4. tölublaði Vikunnar 2018.

Arna Vilhjálmsdóttir sigraði keppnina Biggest Loser Ísland á síðasta ári. Hún breytti algerlega um lífsstíl, æfði oft á dag og missti í allt 60 kíló á sjö mánuðum. Mitt í öllum hasarnum fann hún líka ástina, flutti og fékk nýtt starf.

„Ég byrjaði að verða skotin í honum þegar við höfðum verið í fjórar eða fimm vikur á Bifröst. Ef hann var úti að grilla, fór ég út með fótboltann að sparka í vegg, bara til þess að geta hangið með honum, fór að vera lengur í pottinum bara til að spjalla við hann og þess háttar. Ég neitaði þessu náttúrlega staðfastlega við stelpurnar þegar þær inntu mig eftir því hvort ég væri bara ekki orðin skotin í honum. Þegar hann datt út úr keppninni varð ég alveg eyðilögð,“ segir Arna.

„Það gerðist samt ekkert á milli okkar í þáttunum, eða sem sagt á Bifröst. Eftir að ég kom heim addaði ég honum hins vegar á Snapchat og ruddist inn í líf hans með stanslausum snöppum og samtölum,“ segir hún hlæjandi. „Ég var samt með varann á mér og passaði mig á því að verða ekki of hrifin því ég var viss um að hrifningin væri aðeins mín megin en þannig hefur það alltaf verið hjá mér.“

Ítarlegt viðtal er við Örnu í 4. tölublaði Vikunnar sem kemur í verslanir á morgun, 25. janúar 2018.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Hrafnhildur Runólfsdóttir með Urban Decay

Aldagömul aðferð gegn öldrun húðar

Andlitsnudd má nota til að vinna gegn öldrun húðar.

Það er fátt sem veitir jafnmikla afslöppun og vellíðan og gott nudd. Flestir þekkja það sem leið til að losa um spennu og bólgur í vöðvum líkamans en færri gera sér grein fyrir að það má einnig nýta til að sporna gegn öldrun húðar.

Eftir því sem við eldumst lætur húðin meira og meira á sjá; vefirnir slappast, andlitið missir fyllingu og hrukkur myndast. Við höfum áður fjallað um hvernig sé mögulegt að hægja á þessu ferli með réttri húðumhirðu en einnig  má ná töluverðum árangri með því einu að nudda andlitið reglulega.

Andlitsnudd eykur blóðflæði til húðar sem eykur ljóma og þéttni hennar ásamt því að byggja upp vöðvana sem spornar gegn því að hún slappist niður.

Til eru ýmsar aðferðir við andlitsnudd og sumar þeirra hafa tíðkast í margar aldir,  til dæmis er talið að Kleópatra hafi nuddað andlit sitt til að viðhalda fegurð sinni. Á 19. öld notuðu svo geishurnar í Japan svokallað shiatsu-nudd, eða punktanudd. Þá eru fingurgómarnir notaðir til að þrýsta létt á valda punkta á andlitinu sem hjálpar sogæðakerfinu að losa um stíflur og úrgangsefni sem hafa safnast fyrir í húðinni.

Andlitsnudd eykur blóðflæði til húðar sem eykur ljóma og þéttni hennar ásamt því að byggja upp vöðvana sem spornar gegn því að hún slappist niður. Eftir eingöngu nokkra daga af endurteknu nuddi er hægt að sjá mikinn mun; vöðvarnir eru slakir svo ásýndin verður afslappaðri og unglegri og húðin glóir vegna aukins blóðflæðis og næringar.

Lykillinn að góðu andlitsnuddi er að nota andlitsolíu en einnig má nota  olíuhreinsi til að koma í veg fyrir að húðin dragist til en það eykur líka upptöku virku efnanna í olíunni því þeim er nuddað svo vel inn í húðina.

Andlitsnudd lífgar ekki aðeins upp húðina heldur hefur það einnig slakandi og endurnærandi áhrif á líkama og sál. Við notum andlit okkar og vöðva þess mun meira dagsdaglega en við gerum okkur grein fyrir. Því er algengt að fólk finni fyrir ýmsum streitutengdum einkennum, til dæmis spennuhöfuðverk eða augnþreytu sem má losa um með nuddinu.

Einfalt punktanudd fyrir andlit

1. Gott er að byrja með léttum en þéttum strokum upp á við og til hliðar, yfir bæði kinnar og enni, til að undirbúa húðina. Síðan eru fingurgómar löngutangar notaðir til að þrýsta á punkta á andlitinu.
2. Þrýst er á milli augabrúna og svo á þrjá punkta upp enni að hársrót. Því næst á miðjar augabrúnir og svo aftur þrjá punkta upp enni að hársrót. Sama aðferð er svo einnig endurtekin við enda augabrúna.
3. Næst er þrýst undir augun, frá nefi og á fjóra punkta að gagnauga. Endurtakið þrisvar sinnum.
4. Síðan er þrýst á sex punkta með fram kinnbeinum þangað sem kjálki og kinnbein mætast. Endurtakið þrisvar sinnum.
5. Undir miðnesi er þrýst á fjóra punkta með fram efri vör að munnvikum. Endurtakið þrisvar sinnum.
6. Þrýst er undir miðja neðri.vör, með báðum fingrum, svo þrjá punta niður miðja höku og endurtekið þrisvar sinnum.
7. Að lokum má klípa létt í húðina með vísifingri og þumalfingri. Á enni er klipið með fram augabrún, um það bil fjögur klíp, og endurtekið þrisvar. Síðan er klipið frá miðri höku og með fram kjálka, um átta klíp að eyra.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Vagga indverskrar matarmenningar í Bretlandi

Í Birmingham er af nógu að taka fyrir þá sem vilja krydda aðeins tilveruna með framandi mat. Margt annað áhugavert er þar líka í boði.

Birmingham er önnur stærsta borg Bretlands, London er stærst. Borgin hefur verið í stöðugri endurnýjun undanfarna áratugi svo byggingarnar eru ýmist mjög gamlar eða ofur nýtískulegar. Í borginni býr um milljón manna og þar ríkir mikið fjölmenningarsamfélag, sama hvað sagt er á FoxNews. Hún er mjög heppilega staðsett í miðju Englands, mitt á milli London og Manchester, svo það má segja að hún brúi bilið milli Norður- og Suður-Englands.

Í Birmingham er gaman að versla því þar er glæsileg verslunarmiðstöð sem nefnist The Bullring. Hún byggir á ríkri markaðshefð en það var fyrst árið 1154 sem markaðir voru haldnir á þessu svæði. Verslun og þjónusta hefur nú vitaskuld færst í nútímalegra horf og nýjasta byggingin líkist einna helst geimskipi og er merkileg á að líta, burtséð frá öllum verslunum sem þar leynast innandyra.

Allir vísindanördar ættu að gera sér ferð í Thinktank-vísindasafnið sem er að margra mati nútímalegasta vísindasafn heims. Þar eru tíu sýningarsalir sem eru stútfullir af fróðleik og skemmtun. Hægt er að fræðast um allt frá samgöngutækni að meltingarkerfi okkar og hvernig bragðlaukarnir virka.

Þeir sem vilja heldur skemmta sér úti í náttúrunni ættu að leggja leið sína í Cannock Chase- og Wyre-skóginn. Þar er að finna Go Ape sem er einn vinsælasti skógarskemmtigarðurinn í Bretlandi. Svífðu niður á milli trjáa á vír eða sveiflaðu þér um, eins og Tarzan, í þartilgerðum rólum. Þeir sem vilja heldur njóta náttúrunnar og umhverfisins í skóginum á rólegri máta geta ferðast um á Segway sem gerir þeim kleift að sjá meira á skemmri tíma en ef þeir væru fótgangandi.

Af nógu er að taka fyrir þá sem vilja krydda aðeins tilveruna með framandi mat en Birmingham er oft lýst sem vöggu indverskrar matarmenningar í Bretlandi. Þar er að finna eitt allrabesta úrval asískra og indverskra veitingastaða og það á sérstaklega við um hinn svokallaða Balti-þríhyrning, á mótum hverfanna Sparkbrook, Balsall Heath og Moseley. Balti er þunnur karríréttur upprunninn frá svæðinu í kringum Kasmír á landamærum Indlands og Pakistan og nafnið vísar til skálarinnar sem karríið er borið fram í.

Texti  / Hildur Friðriksdóttir

Íslenskar svefnrannsóknir á heimsmælikvarða

Erna Kristín

Margir þekkja það að fá ónógan svefn. Foreldrar ungbarna sem sofa illa á nóttunni, fólk sem starfar á óhefðbundnum tímum sólarhringsins og svo þeir sem eiga erfitt með að sofna á kvöldin. Jafnvel þeir sem hrökkva upp á nóttunni eða vakna fyrr á morgnanna en þeir hefðu ætlað sér. Einnig eru margir sem stytta svefn sinn, sérstaklega á virkum dögum vegna tímaskots. Þessu fylgir oft mikil vanlíðan, syfja og þreyta sem litar þá líðan fólks allan daginn.

Erna Sif Arnardóttir doktor í svefnrannsóknum segir þetta áhyggjuefni. „Flestir fullorðnir þurfa 7-8 tíma svefn til að líða vel þó sumir komast af með minni svefn eða aðrir þurfi lengri tíma. Margir freistast til að stytta svefninn í amstri dagsins og eru jafnvel að sofa einungis 5-6 tíma á virkum dögum en bæta sér það svo upp um helgar. Ég lýsi þessu oft sem jafngildi þess að borða óhollan mat í fimm daga og reyna svo að bæta það upp með salatáti í tvo daga, auðvitað betra að sofa alltaf of stutt en ekki hollt til lengri tíma.”

Reyndu að fara að sofa á svipuðum tíma og vakna á svipuðum tíma flesta daga, bæði á virkum dögum og um helgar. Þegar svefntíma er seinkað mikið um helgar, á fólk oft erfitt með að sofna á sunnudagskvöldum og fer þreytt og illa sofið inn í vinnuvikuna.

Prófaðu þig áfram með magn svefns sem þarft. Flestir þurfa 7-8 tíma en þetta er þó einstaklingsbundið, prófaðu að reyna að auka svefntíma kerfisbundið um 15 – 30 mínútur í einu og sjáðu hvort þú finnir fyrir bætri líðan.

Ef þú átt erfitt með svefn, að sofna á kvöldin, vaknar oft upp á nóttunni eða vaknar of snemma á morgnanna, skoðaðu svefnvenjur þínar. Best er þá að sleppa því að leggja sig í eftirmiðdaginn eða dotta yfir sjónvarpi því þetta getur haft neikvæð áhrif á nætursvefninn.

Slepptu öllu koffeini frá hádegi og sjáðu hvort svefninn batni við það. Gott að prófa slökun eða hugleiðsluæfingar til að hjálpa með svefninn.

Ef þú ert glaðvakandi um miðja nótt og hefur reynt slökun til að sofna er gott að fara fram úr rúminu, setjast og lesa frammi eða gera eitthvað sem fær þig til að hætta að hugsa um svefninn en er jafnframt slakandi. Þegar þú finnur aftur til syfju, þá geturðu farið aftur upp í rúm og reynt að sofna.

Prófaðu að sleppa snjallsímanum, spjaldtölvunni og sjónvarpinu síðustu klukkustundirnar fyrir svefn. Lestu frekar, farðu í bað eða annað slakandi. Þekkt er að tækjanotkun á kvöldin ýtir undir svefnleysi, sverfngæði versnar og og fólk er lengur að sofna. Einnig getur líkamsrækt seint um kvöld seinkað svefntíma.

Ítarlegt viðtal við Ernu má lesa í síðasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Minni diskar – minni skammtastærðir

Næringarfræðingurinn Christian Bitz hvetur fólk til að borða góðan og heilsusamlegan mat, án allra öfga, skyndilausna eða samviskubits.

Christian hefur hannað sérstakan borðbúnað sem er hugsaður og hannaður þannig að hann geri fólki auðveldara að stjórna skammtastærðunum og njóta matarins.

Christian Bitz er heilmikið til lista lagt, en hann er næringarfræðingur, metsölubókahöfundur, fyrirlesari og kemur reglulega fram í hinum ýmsu sjónvarpsþáttum í Danmörku. Hugmyndafræði hans byggir meðal annars á því að fólk lifi heilsusamlegu lífi og njóti þess að borða góðan og heilsusamlegan mat, án allra öfga, skyndilausna eða samviskubits. Hann hefur líka hannað sérstakan borðbúnað sem er hugsaður og hannaður þannig að hann geri fólki auðveldara að stjórna skammtastærðunum og njóta matarins.

Hvaðan kemur áhugi þinn á heilsu og mataræði?
Ég starfaði sem fyrirsæta víðsvegar um heiminn á tíunda áratugnum. Á þeim tíma þurfti ég að hugsa vel um eigin heilsu og áhugi minn jókst á því hvernig ég gæti náð hámarksárangri með réttu mataræði og hreyfingu. Í framhaldi af því ákvað ég að fara í nám og læra meira um það hvernig mataræði hefur í raun áhrif á líf okkar á hverjum degi.

Hverjir eru lykilþættir heilbrigðs lífstíls að þínu mati?
Fyrir það fyrsta þurfum við einfaldlega að byrja að njóta matarins aftur. Stundum einblínum við of mikið á megrun í stað matar. Síðan held ég að lykillinn að góðu mataræði og betri heilsu sé að borða rétt hlutfall kolvetna og próteins. Stærsta rannsókn sinnar tegundar, DIOGENES sem stendur fyrir Diet – Obesity – Genes, hefur sýnt fram á að besta hlutfallið sé 1:2 af kolvetnum og próteini.

Hvers vegna ákvaðstu að hanna borðbúnað?
Mitt markmið er að gera heiminn örlítið heilbrigðari. Með því að hanna minn eigin borðbúnað get ég verið við kvöldmatarborðið á hverju heimili. Allar kenningar mínar og uppskriftir geta notið stuðnings af réttum borðbúnaði og saman getur það leitt til heilbrigðara lífs.

Hver er hugmyndin eða innblásturinn á bak við borðbúnaðinn?
Grunnhugmyndin var að hanna kvöldmatardisk sem rúmar minna því allar rannsóknir sýna að minni diskar þýða minni skammtastærðir. Minni skammtastærðir þýða færri hitaeiningar og fólk er ekkert endilega líklegra til að fá sér aftur á diskinn.

Skiptir það máli að borðbúnaðurinn sé fallegur?
Ég vildi bæta auknum lit, óformlegheitum og ófullkomnun við matarborðið, þess vegna ákvað ég að nota hráan efnivið sem er innblásinn af norrænni náttúru. Ég tel að það að borða af fallegum diskum auki ánægjuna. Rannsóknir hafa líka sýnt að við skynjum mat á ólíkan hátt á svörtum, hvítum eða grænum diskum. Heilsusamlegur matur hefur líka lengi fengið á sig þann stimpil að hann sé óspennandi. Borðbúnaðurinn minn getur því kannski hleypt smávegis lífi í matseldina.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Úr einkasafni

Auktu hamingju þína með einföldum ráðum

Nokkur ráð til að auka hamingju sína.

Engin þörf er á því að verja stórfé eða snúa lífi sínu á hvolf til að hækka hamingjustigið hjá sér. Heilmargt er hægt að gera til að auka hamingju sína og hér eru nokkur ráð sem gott væri að tileinka sér.

Mikilvægi jákvæðra hugsana
Það er sérdeilis gott að venja sig á að hugsa jákvætt um sjálfan sig á hverjum degi, þó ekki væri nema í nokkrar sekúndur. Dást að nýju klippingunni fyrir framan spegilinn, þakka sér góðan árangur eða dugnað og annað í þeim dúr. Gott er líka að skrifa niður hugsanir sínar eins oft og hægt er og geyma þar sem aðrir sjá ekki, með því að koma þeim á blað nær maður samhengi hlutanna betur. Ekki hika við að deila góðum stundum með öðrum, til dæmis á Facebook eða snappinu.

Mikilvægi hvíldar
Hvíld er mikilvæg, ekki bara heima, heldur líka í vinnunni. Þegar mikið er að gera freistast maður til að fá sér snarl og borða það á meðan maður vinnur. Betra er að taka sér stutta pásu en enga og koma ferskari að verkefninu á eftir. Helgarfríum verja flestir í skemmtanir, ferðalög og annað slíkt en ekki má gleyma hvíldinni. Það tekur langan tíma að ná úr sér uppsafnaðri þreytu, svo verum ekkert að safna henni upp. Með því til dæmis að kíkja á tölvupóstinn sinn um leið og maður vaknar er maður sjálfkrafa kominn í vinnugírinn í stað þess að leyfa huganum að hvílast ögn lengur, eða þar til komið er til vinnu.

Litlar áskoranir
Finndu leið til að hrista upp í daglegri rútínu þinni til að hún festist ekki í fari. Lítil áskorun vikulega? Að brosa framan í einhvern ókunnugan sem gleður ekki bara viðkomandi, heldur einnig þig. Sjónvarps- eða símalaus dagur í algjörri ró. Eða klífa fjöll ef þú hefur ekki prófað það. Prófa nýjan kaffidrykk eða nýjan veitingastað. Allt til að breyta aðeins út af vananum.

Sniðugt er líka að gera alltaf eitthvað spennandi einn dag í viku. Það þarf ekki að vera stórt, kannski ilmandi freyðibað eða að byrja á nýrri bók, eitthvað sem þú getur hlakkað til alla vikuna. Föstudagar, í lok vinnuvikunnar hjá flestum, gætu verið hentugir.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Stundum er gott að sitja í sandinum og íhuga

Kristín Þorsteinsdóttir segir auðvelt að ferðast frá Singapúr um alla Asíu.

Kristín Þorsteinsdóttir hefur búið ásamt sambýlismanni og dóttur í Singapúr og er „stækkunarstjóri“ (e. Development Director) hjá alþjóðlegri hótelkeðju. Hún segir að helstu kostir staðarins séu gott skipulag, engir glæpir og þarna búi allra þjóða kvikindi í sátt og samlyndi sama hverrar þjóðar og trúar þeir eru. Aðalkosturinn sé þó hversu auðvelt sé að ferðast þaðan hingað og þangað um Asíu.

Vestur-Ástralía
Af öllum stöðum sem ég hef ferðast til síðan ég kom til Asíu held ég að þetta svæði sé í uppáhaldi. Borgin Perth í Ástralíu er ekki í nema rúmlega fjögurra tíma flugfjarlægð frá Singapúr. Þaðan er hægt að keyra með fram ströndinni að smábænum Margaret River sem er frægur fyrir víngerð og góðan mat. Svo er hægt að verja heilu dögunum við strendurnar þar sem enginn er yfirleitt sjáanlegur nema kannski háhyrningar að busla í flæðarmálinu. Ég er nú lítið fyrir að liggja í sólbaði en stundum er gott að sitja bara í sandinum og íhuga, eða horfa á brimbrettastrákana.

Balí, Indónesíu
Eyjan Balí er skammt frá okkur og þangað er vinsælt að fara yfir helgi til að hvíla sig í hinni loftkældu veröld verslunarmiðstöðvanna sem eru á hverju götuhorni í Singapúr. Indónesía er fjölmennasta ríki heims þar sem múhammeðstrú er iðkuð en Balí er eini staðurinn þar sem hindúar eru í meirihluta. Það setur sterkan svip á daglegt líf á eyjunni og skapar nokkuð sérstakt andrúmsloft sem mér finnst vera helsta aðdráttarafl Balí. Því miður er nokkur mengun við margar strendur á Balí og þær því ekki fýsilegur baðstaður. Þá er ráð að halda til bæjarins Ubud sem segja má að sé hið listræna hjarta Balí þar sem hægt er að stunda jóga og sötra lífrænan engifersafa. Já eða sleppa jóganu og fá sér bara bjór, eins og ég geri yfirleitt.

Kristín Þorsteinsdóttir hefur búið ásamt sambýlismanni og dóttur í Singapúr.

Japan
Ef tækifæri gefst einhvern tíma á lífsleiðinni til að fara til Japans þá ætti helst enginn að láta það úr greipum ganga. Japan var svo gott sem einangrað frá umheiminum í tvær og hálfa öld, allt til um 1850 og það útskýrir margt í menningu og háttum Japana þar sem ýmislegt kemur spánskt fyrir sjónir. Tókýó er við fyrstu sýn brjálæðisleg stórborg þar sem er auðvelt að týnast, enda engin furða því fæstar götur þar bera nöfn. En þegar betur að er gáð er borgin undarlega hljóðlát og íbúarnir ávallt boðnir og búnir að hjálpa týndum aðkomumönnum, jafnvel þótt enskukunnáttan hrökkvi skammt. Maturinn í Japan er líka kapítuli út af fyrir sig, kjúklinga-sashimi, fiskiaugu og japanskt majónes var meðal þess sem ég smakkaði í síðustu ferð og þótti gott.

Seoul í Kóreu
Kannski er ekki hægt að segja að þetta sé falleg borg enda var hún svo gott sem jöfnuð við jörðu í seinna stríðinu. Þó er búið að endurbyggja mikið af sögulegum byggingum og gaman að ganga um þar sem búddahof og ofurnýtískulegar skrifstofubyggingar standa hlið við hlið. Í Seoul er líka Gangnam-hverfið sem Psy nokkur gerði heimsfrægt í samnefndu lagi en þaðan koma margir af helstu tískustraumum í tónlist og klæðaburði sem ungt fólk í Asíu tileinkar sér. Lýtalæknar í Seoul þykja líka ansi lúnknir og eru dæmi um að dömur fái ekki að snúa til síns heima því þær líkjast ekki lengur myndinni í vegabréfinu eftir heimsókn til eins þeirra.

Sri Lanka
Eftir að borgarastríðinu lauk á þessari eyju við Indland hefur ferðamannastraumurinn aukist jafnt og þétt og skal engan undra því þetta er falleg eyja, íbúarnir indælir og margt að sjá og skoða. Þarna fórum við í safaríferð í Yala-þjóðgarðinum þar sem fíll stal nestinu, lærðum ýmislegt um tedrykkju (Sri Lanka er einn helsti teframleiðandi í heimi) og skoðuðum Tannhofið í borginni Kandí þar sem sagt er að tönn úr sjálfum Búddah sé varðveitt. Eyjan er heilagt vé meðal þeirra sem aðhyllast búddisma.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Útbúðu þig rétt fyrir útivistina

Góð ráð fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt á veturna.

Það er engin ástæða til þess að stunda ekki útivist á veturna, svo lengi sem maður útbýr sig rétt. Hér eru nokkur góð ráð fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt á veturna.

Vertu sýnilegur
Þegar dagurinn styttist neyðast margir til a fara út að hlaupa eða hjóla í rökkri. Þá er mjög mikilvægt að vera í fötum með endurskinsrákum. Best er að endurskinið sé á hand- og fótleggjum því það eru þeir hlutar líkamans sem eru á hreyfingu og grípa ljós frá bílum. Ef þú ert mikið fyrir að hlaupa í náttúrunni getur verið sniðugt að vera í litríkum eða áberandi klæðnaði að ofan ef svo óheppilega vill til að þú týnist eða villist, þá er auðveldara að koma auga á þig úr fjarlægð.

Ekki dúða þig um of
Það getur verið freistandi að klæðast öllum sínum hlýjustu fötum þegar veðrið er sem kaldast en það getur stundum haft þveröfug áhrif. Þú byrjar nefnilega að svitna sem gerir það að verkum að fötin verða rök og þá getur orðið mjög óþægilegt að hreyfa sig. Þér er einnig hættara á ofkælingu ef þú ert úti til lengri tíma. Þumalputtareglan er að klæða sig eins og það sé 5°heitara en það er í raun.

Ekki geyma símann í vasanum
Það er vissulega gáfulegt að taka símann ávallt með sér þegar þú stundar líkamsrækt utandyra.  Jafnvel þó ekkert alvarlegt gerist þá getur verið gott að geta hringt í einhvern til að ná í þig þegar þú ert örmagna 5 km frá heimili þínu. Á veturnar getur síminn hins vegar ofkólnað eða blotnað ef hann er geymdur í utanáliggjandi vasa. Reyndu að velja föt með vösum innan á eða vera með litla tösku sem þú getur verið með innanklæða.

Ekki þurrka skóna á ofni
Flestir hlaupaskór eru úr dýrum plastefnum eða leðri sem geta auðveldlega skemmst í of miklum hita. Besta ráðið til að þurrka gegnblauta skó er að troða dagblöðum inn í skónna sem draga í sig rakann – mundu bara að skipta dagblöðunum út eftir þörfum.

Strax úr fötunum
Margir gera þau mistök að fara að sinna einhverjum verkefnum um leið og þeir koma inn úr dyrunum – hvort sem það er kvöldmatargerð, sjónvarpsgláp eða tékka á tölvupósti. Þegar maður kemur inn úr kuldanum er fyrir öllu að fara strax úr rökum íþróttafötum, í volga sturtu og svo í þurr föt.

Smjúga inn fyrir húðina og snerta hjartað í manni

Ævintýri, ferðalög og eitthvað matarkyns.

My Grandmother Asked Me to Tell You She’s Sorry eftir Fredrik Backman er falleg saga af sambandi ömmu við barnabarn sitt.

Smámyndasmiðurinn eftir Jessie Burton
Þetta er ein þessara bóka sem smjúga inn fyrir húðina og snerta hjartað í manni. Þegar hin sextán ára gamla Nella kemur til Amsterdam til að hefja nýtt líf sem gift kona eru móttökurnar ekki í neinu samræmi við það sem hún bjóst við. Eitthvað er á seyði í húsinu sem hún skilur ekki og það er erfitt að taka stjórnartaumana úr höndum systur eiginmanns hennar og þjónarnir eru ósvífnari en hún á að venjast. Eiginmaðurinn gefur henni skáp sem er eftirmynd hússins þeirra og þar fær hún frjálsar hendur með að innrétta. Nella leitar til smámyndasmiðs til þess en sá virðist vita meira um líf hennar en þægilegt er. Hver eru skilaboð smámyndasmiðsins, hver er hann og hvers vegna veit hann allt, eru spurningar sem Nella er neydd til að spyrja. Þessi bók er einstaklega vel skrifuð og sumar setningar svo meitlaðar að þær verður að lesa aftur og aftur. Hugsanlega á þýðandinn, Magnea J. Matthíasdóttir sinn þátt í því en að minnsta kosti er þetta bók sem unnendur fallegs stíls ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

Falleg fantasía eftir Fredrik Backman
My Grandmother Asked Me to Tell You She’s Sorry eftir Fredrik Backman er falleg saga af sambandi ömmu við barnabarn sitt. Amman hefur sagt því sögur um ævintýralönd, prinsessur, kónga, skugga og skepnur frá því barnið var lítið en eftir dauða hennar kemur í ljós að fantasíurnar áttu sér stoð í raunveruleikanum. Litla stúlkan, Elsa, er óvenju greind og fær það hlutverk að færa öllum í fjölbýlishúsinu þar sem hún býr bréf frá ömmu þar sem hún biðst fyrirgefningar. Amman var þó ekki völd að sorgum flestra íbúanna en bréfin hennar verða til þess að hægt verður að byrja að lækna gömul sár. Bókin er dásamleg blanda af ævintýrum og raunveruleika og einstaklega vel gerðar persónur setja sterkan svip á hana. Þessi bók hefur komið út á íslensku og heitir í þýðingunni Amma biður að heilsa.

Vegur vindsins eftir Ásu Marín
Afar skemmtileg ferðasaga um Elísu sem ákveður að ganga Jakobsveginn eftir að hafa fengið slæmar fréttir. Þrátt fyrir unga kærastann sinn og stressaða foreldra vill hún vera ein þessar vikur sem gangan tekur. Elísa kynnist skrautlegu fólki á leið sinni en lengst af gengur hún ein og kynnist sjálfri sér betur. Þetta er verulega skemmtileg bók og vel skrifuð, það er eins og lesandinn sé samferða Elísu og fari með henni í gegnum súrt og sætt. Fyrsta skáldsaga höfundar og vonandi ekki sú síðasta.

Ótrúleg saga Indverja … eftir Per J. Andersson
Sönn saga um Indverja sem elti ástina sína til Svíþjóðar. Þetta er ekki bara ferðasaga heldur lýsir hún vel hvernig er að fæðast inn í stétt hinna ósnertanlegu, eins og Píkei, söguhetjan. Hann fær að fara í skóla en ekki sitja í sömu stofu og krakkarnir, heldur úti á verönd. Við fæðingu sagði stjörnuspekingur þorpsins að hann myndi giftast konu frá öðru landi. Þegar hann hittir hina sænsku Lottu í Nýju Delí er hann orðinn þekktur götulistamaður og verður fullviss um að Lotta sé sú rétta. Verulega skemmtileg og fróðleg bók um ást sem sigrar allt.

Eitthvað ofan á brauð eftir Nönnu Rögnvaldardóttur
Nýjasta bókin hennar Nönnu er bráðsniðug, notadrjúg og gefur hugmyndir. Hversu leiðigjarnt er ekki að fá sér alltaf það sama ofan á brauðið sitt?
Salöt, sætmeti, sultur og paté, viðbit og mauk … það er allt þarna, meira að segja lemon curd. Hér eru góðar hugmyndir fyrir þá sem þurfa að taka með sér nesti eða smyrja fyrir börnin, halda saumaklúbb eða partí. Uppskriftir eru miðaðar við kjötætur, grænkera og allt þar á milli. Þetta er falleg bók sem Nanna myndskreytir sjálf og að vanda eru uppskriftirnar hennar einfaldar og aðgengilegar.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Einfaldar og ódýrar leiðir til að fegra heimilið

Það þarf ekki að kosta formúu að hressa svolítið upp á heimilið.

Það þarf alls ekki að kosta formúu að hressa svolítið upp á heimilið. Oft og tíðum er ekki einu sinni nauðsynlegt að breyta miklu því litlar breytingar geta gert ótrúlega mikið fyrir hvert rými.

Auðvelt er að bæta dálitlum lit og stíl í rými með því að nota fallega vefnaðarvöru, svo sem púða, teppi, mottur eða gluggatjöld.

Vefnaður
Auðvelt er að bæta dálitlum lit og stíl í rými með því að nota fallega vefnaðarvöru, svo sem púða, teppi, mottur eða gluggatjöld.

Gamaldags gardínur hafa undanfarin ár fengið að fjúka fyrir rúllu-, strimla- eða rimlatjöld en nú er tíminn til að snúa þeirri þróun við.

Litríkir púðar og teppi geta gefið gömlum sófa nýtt líf. Okkur hættir til að gleyma því að skreyta gólfið en falleg gólfmotta getur dregið saman ólík stílbrigði í herberginu og myndað heildarsvip.

Ljós
Rétt lýsing getur umturnað rými. Síðustu ár hefur borið enn meira á því að fólk velur að kaupa ljósakrónur eftir þekkta hönnuði sem skapa flott lúkk.

Mikilvægt er að hafa fjölbreytt úrval – bæði loftljós, veggljós, gólf- og borðlampa. Þannig er hægt að skapa mismunandi stemningu eftir því hvaða ljós eru kveikt.

Töff ljósakróna getur sett punktinn yfir i-ið í vel stíliseruðu rými.

Húsgögn
Ekki hika við að blanda saman ólíkum húsgögnum – nýjum, gömlum, litríkum, náttúrulegum eða hverjum sem þér dettur í hug.

Til dæmis getur verið töff að hafa marga ólíka borðstofustóla við borðstofuborðið – það er þó vert að hafa í huga að sætin séu í svipaðri hæð á öllum stólunum.

Hugsaðu aðeins út fyrir rammann, gömul kommóða getur öðlast nýtt líf sem vaskaborð.

Veggir
Það má skreyta veggi heimilisins með ýmsu móti – málningu, veggfóðri eða bara safni af fallegum myndum í vel völdum römmum.

Hér á árum áður voru allir veggir herbergis veggfóðraðir í hólf og gólf. Í dag er kannski meira töff að velja einn vegg sem fær þá alla athyglina.

Það er engin ein rétt leið til að raða myndum upp á vegg – fylgdu eigin sannfæringu. Margir vilja meina að grár sé heppilegasti liturinn til að mála veggi ef þú vilt láta myndirnar „poppa“.

Metaðsókn í Sundhöll Reykjavíkur

Gufubaðið í Sundhöllinni gallað

Sundhöll Reykjavíkur aldrei vinsæll en nú.

Óhætt er að segja að Sundhöllin í Reykjavík hafi aldrei verið jafnvinsæl og nú. Hvorki meira né minna en tæplega 36 þúsund manns lögðu leið sína í laugina í desember í fyrra eftir að hún var opnuð á nýjan leik 3. desember eftir miklar breytingar. En til samanburðar má geta að tæplega níu þúsund gestir sóttu Sundhöllina í desember árið á undan.

„Þetta er algjör sprengja miðað við fyrri ár,“ segir Brá Guðmundsdóttir, þjónustu- og mannauðsráðgjafi hjá Laugardagslaug og Sundhöll Reykjavíkur. „Við erum að tala um metaðsókn.“

Brá segir að breytingar á Sundhöllinni, sem fela meðal annars í sér byggingu viðbyggingar og útisvæðis, hafi augljóslega hitt í mark. Enda séu flestir á einu máli um að þær séu vel heppnaðar. Þá sýni ferðamenn lauginni aukinn áhuga, sem eigi þátt í þessari miklu aðsókn. Með sama áframhaldi megi reikna með metaðsókn í Sundhöllina á árinu. „Ég býst við því og að gamla sólbaðsaðstaðan og nýja útivistarsvæðið komi þá sterkt inn í veðursældinni í sumar,“ segir hún glaðlega.

Að sögn Brár hófust framkvæmdir við nýju útilaugina á vormánuðum 2015 og var Sundhöllin lokuð vegna framkvæmda frá júní 2017 fram til desember sama ár. VA arkitektar eiga heiðurinn af viðbótunum en Guðjón Samúelsson, þáverandi húsameistari, hannaði gömlu höllina.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur

Lykillinn að góðum rakstri

Rakstur er mikilvægur þáttur í húðumhirðu karla. Hér eru nokkur góð ráð.

Mjúkt skegg tryggir betri rakstur
Lykillinn að góðum rakstri er að tryggja það að skeggið sé vel blautt áður en hafist er handa. Þurrt skegg er nefnilega mun harðara sem gerir það að verkum að raksturinn er erfiðari og rakvélarblöðin slitna fyrr. Best er að skella sér í heita sturtu og raka sig svo eftir hana, en ef ekki gefst tími til að fara í sturtu er gott að setja vel heitan og rakan þvottapoka á andlitið í um það bil tvær mínútur fyrir raksturinn. Þetta mýkir skeggið, ásamt því að örva og opna húðina, þannig að raksturinn verður léttari og útkoman betri.

Sápa og bursti
Notið raksápu sem inniheldur mikið af rakagefandi og smyrjandi efnum, til dæmis glyseríni og silíkoni, eða góðan anditshreinsi sem freyðir vel. Gæðaraksápur mynda þykka og mjúka froðu án aðstoðar freyðiefna á borð við súlföt sem geta þurrkað húðina. Ef tími gefst er gott að leyfa raksápunni að vera um stund á húðinni áður en raksturinn hefst svo skeggið verði eins mjúkt og mögulegt er. Þótt sumar raksápur megi hæglega bera á með fingrunum jafnast ekkert á við að nota góðan rakbursta, eins og alvörurakarar nota, því hann ýfir skegghárin þannig að raksturinn verður enn fínni en annars.

Vertu með, ekki á móti
Við raksturinn er mikilvægt að nota góða rakvél, hvort sem um ræðir rafmagnsrakvél eða sköfu. Sköfu á alltaf að renna létt yfir hörundið, ekki þrýsta fast að, og strekkja vel á húðinni á meðan. Mikilvægt er að hreinsa rakvélarblaðið oft og vel meðan á rakstrinum stendur, svo að ekki safnist hár á milli blaðanna. Ef sápan þornar þarf aðeins að nota meira vatn og vinna froðuna aftur upp með burstanum, ekki nota meiri sápu. Það á alltaf að raka í sömu stefnu og skeggið vex, aldrei á móti. Að raka á móti skeggvextinum getur valdið sviða og inngrónum hárum í andliti ásamt því að auka líkurnar á því að maður skeri sig við raksturinn. Til að tryggja góðan rakstur getur verið gott að setja aftur á sig raksápu og raka aðra umferð en þá þvert á skeggvöxtinn, en varast samt ofrakstur.

Eftir rakstur og sótthreinsun
Meðferð eftir raksturinn er ekki síður mikilvæg og undirbúningurinn. Strax að loknum rakstri er gott að skvetta dálitlu köldu vatni á andlitið til loka húðinni aftur. Margir klikka oft á því, bera strax á sig rakspíra og uppskera mikinn sviða. En það er ekki fyrr en að húðinni hefur verið lokað á þennan hátt sem á að bera á sig rakspíra, helst einhvern sem inniheldur lítið sem ekkert alkóhól, eða rakakrem (after shave balm) til sótthreinsunar og mýkingar.

Viðhald á tækjum og tólum
Eftir hverja notkun þarf að hreinsa bæði burstann og rakvélina. Hristið vatn úr burstanum, ekki vinda hann, og geymið hann hangandi svo hárin vísi niður, en það kemur í veg fyrir að raki safnist fyrir og valdi hárlosi. Bitlaust eða skítugt blað er ein meginástæðan fyrir óþægilegum rakstri og skurðum. Rakvélarbrýni, eins og Razorpit, geta þá komið að góðum notum og gera manni kleift að spara í kaupum á rakvélarblöðum. Það eykur notkun hvers rakvélarblaðs frá tíu rökstrum upp í allt að hundrað rakstra að hreinsa það og brýna svo að það verði hárbeitt á ný.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Lítil kríli með viðkvæma húð

Góð ráð fyrir húðumhirðu barna.

Það er fátt yndislegra en silkimjúk og ilmandi húð ungbarna. Hún er samt miklu þynnri og viðkvæmari en húð okkar fullorðna fólksins. Þess vegna þarfnast hún góðrar umhirðu og verndar fyrsta árið. Hér eru nokkur góð ráð fyrir húðumhirðu barna.

Bleyjubossar
Þrífa þarf bossann á bleyjubörnum reglulega því það eru efni í þvagi sem geta brennt viðkvæma rassa, rétt eins og kúkur. Sumir kjósa að nota þartilgerða blautklúta en það er nóg að nota bara rakan þvottapoka eða svampklút. Ef bleyjuútbrot fara að láta á sér kræla er mikilvægt að þrífa svæðið við hver bleyjuskipti, þerra það vel og bera síðan Zink-krem á rauða rassa til að koma í veg fyrir frekari útbrot. Einnig er gott að viðra bossann eins oft og mögulegt er.

Þvottur, þvottur og meiri þvottur
Það er ekki síður nauðsynlegt að hugsa út í hvernig við þvoum föt barna. Fötin liggja á viðkvæmri húð barnsins allan daginn og því er mikilvægt velja þvottaefni sem eru mild og örugg. Margir mæla með að sleppa mýkingarefnum alveg því þau innihalda oft mikið magn ilmefna sem eru ofnæmisvaldandi.

Margir foreldrar hafa áhyggjur af því að þeir þurfi að þvo barnafötin sér. Vissulega er þess þörf ef þú notar sterkari þvottaefni og mýkingarefni á annan þvott heimilisins. Hví ekki nota tækifærið og byrja að nota mildari, sem og umhverfisvænni, þvottaefni fyrir allan þvott? Afraksturinn gæti komið þér á óvart.

Lítil, skrítin skán
Algengt er að það myndist skán í hársverði ungbarna sem er gulbrúnt fitukennt hrúður. Þessi skán er algengust ofan á hvirfli en getur einnig verið á öðrum afmörkuðum blettum eða um allan hársvörðinn. Skánin er hættulaust ástand sem varir yfirleitt ekki lengi. Þetta veldur barninu ekki óþægindum og verður minna áberandi eftir því sem meira hár vex á höfði barnsins.

Alls ekki reyna að kroppa skánina í burtu án þess að mýkja hana upp áður, þá gæti farið að blæða úr hársverðinum og myndast sýking. Best er að bera góða jurtaolíu, svo sem möndlu-, jarðhnetu- eða ólífuolíu, í hársvörðinn áður en barnið fer að sofa. Þá mýkist skánin yfir nótt og morguninn eftir er notuð fíngerð greiða eða bursti til að bursta skánina varlega, ekki fara of nærri hársverðinum þannig að höfuðleðrið ertist. Að lokum þarf að þvo höfuðið og þá skolast hrúðrið að mestu leyti burtu. Þetta gæti þó þurft að endurtaka nokkrum sinnum.

Vanda valið á kremum
Það er mjög mikilvægt að velja vandlega það sem borið er á húð ungra barna. Það er staðreynd að mörg efni geta valdið ofnæmi eða aukið hættu á húðvandamálum síðar á ævinni. Yfirleitt þarf ekki að bera neitt sérstaklega á húð barns en stundum fá börn exem eða mikinn þurrk, sérstaklega yfir vetrartímann. Þá er mikilvægt að nota krem sem hafa verið ofnæmisprófuð í þaula og innihalda hvorki ilmefni né önnur skaðleg efni. Fyrirtæki eins og Eucerin, Neutral og Weleda framleiða mjög góðar vörur sem eru sérstaklega ætlaðar fyrir ungbörn. Einnig geta börn fengið svokallaðar hormónabólur á andlitið vegna hormóna í móðurmjólkinni. Þessar bólur eru fullkomlega eðlilegar og hverfa af sjálfu sér á nokkrum vikum svo best er að láta þær alveg í friði. Þær ná oft hámarki um sex vikna aldur en fara svo að hverfa.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Sex einfaldar leiðir til að bæta líðan þína

|
|

Heilbrigður lífsstíll byggist á góðum venjum sem verða að rútínu.

Það er þó hægara sagt en gert. Hér eru sex einfaldar leiðir til að bæta líðan þína og gera líf þitt árangursríkra og betra.

Farðu snemma á fætur og af stað.

1. Farðu snemma á fætur og af stað
Á morgnana erum við orkumest og athygli okkar er skörpust svo sá tími er tilvalinn til að taka á þeim hlutum sem okkur finnst erfiðastir eða krefjast meiri viljastyrks – eins og til dæmis að fara í ræktina. Ef þú átt erfitt með að stunda reglulega líkamsrækt þá gæti það verið vegna þess hvaða tíma dags þú ert að fara. Eftir langan vinnudag eru flestir þreyttir og svangir svo það síðasta sem þá langar að gera er að skella sér út að skokka. Þess vegna er svo gott að fara á morgnana fyrir vinnu því þá er það bara búið og margir segjast finna aukna orku það sem eftir er dagsins eftir að hafa byrjað hann á hreyfingu.

2. Beislaðu sjálfstýringuna
Góðir ávanar hafa þann kost að með tímanum verða þeir sjálfkrafa hluti af rútínu þinni sem þýðir að þú notar minni hugarorku í að framkvæma þá. Þannig nær einmitt íþróttafólk að halda sér í góðu formi og þjálfun en þetta á ekkert síður við okkur meðaljóna. Það tekur um það bil tuttugu og einn dag að venja sig á eitthvað nýtt, en getur auðvitað tekið lengri tíma þannig að það verði okkur eðlislægt. Það þýðir að ef þú átt erfitt með að fá þér ekki sætindi seinnipartinn þá muntu smám saman hætta að hugsa um það og eftir þrjár vikur verður þú jafnvel alveg laus við löngunina.

3. Skoðaðu góðu ávana þína
Ein besta leiðin til að losa sig við slæma vana er að bæta góðum ávana við þá sem þú þegar hefur. Til dæmis ef þú ert vön að fá þér kaffibolla á morgnana getur þú tekið upp á því að fá þér grænt te eða heitt vatn með sítrónu. Þá skiptir þú út slæmum vana fyrir góðan. Þar sem þú færð enn þá heitan drykk á morgnana er breytingin auðveldari en að hætta bara að drekka kaffið. Síðan getur þú haldið áfram og vanið þig á tíu mínútur af hugleiðslu með drykknum. Smám saman verður til keðja af góðum venjum sem er í raun það sem heilbrigður lífsstíll gengur út á.

4. Skrifaðu hlutina niður
Það sem við skrifum niður er oft betur greipt í minni okkar en það sem við hugsum eða heyrum. Við erum öll af vilja gerð að standa okkur en með því að skrifa áætlanir okkar niður verðum við ósjálfrátt ábyrgari gagnvart þeim og líklegri til að standa við þær. Þó að tæknin sé til margs góðs þá hefur það ekki sömu áhrif að skrifa hlutina niður í snjallsíma eða tölvu. Sestu heldur niður og skrifaðu slæma ávana niður á blað ásamt því hvernig þú ætlar að losa þig við þá. Hengdu listann svo upp þar sem þú sérð hann reglulega.

5. Taktu á afsökununum
Það að vera stöðugt að afsaka slæma ávana getur staðið í vegi fyrir því að þú takir upp góða vana í staðinn. Ef við styðjumst aftur við dæmið um kaffibollann, þegar þú vaknar þreytt á morgnana eftir erfiða vinnuviku þá er auðvelt að réttlæta fyrir sjálfri sér að þú eigir kaffibollann skilið og að þú munir halda áfram í bindindinu á morgun. Vandinn er að sá morgundagur kemur aldrei og fyrr en varir ertu byrjuð að drekka kaffi á hverjum morgni aftur. Í stað þess að fara aftur í sama farið getur þú ákveðið að fá þér svart te í þetta skiptið, þannig færðu verðlaun. Sama gildir um líkamsræktina, ef þú getur ekki farið klukkan hálf sjö í spinning farðu þá á fætur klukkan hálf átta og farðu út að skokka í hálftíma. Þá heldur þú þér við efnið.

6. Sjáðu það fyrir þér
Það er auðvelt að gleyma nýjum venjum og ástæðan fyrir því að það er erfitt að losna við slæma vana er að við erum búin að gera þá aftur og aftur í langan tíma. Til þess að auðvelda sér hlutina er hægt að búa til sjónrænar áminningar. Ef þú vilt venja þig á að nota tannþráð á morgnana settu þá minnismiða á baðherbergisspegilinn. Ef þú vilt fara í ræktina á morgnana hafðu þá líkamsræktarfötin tilbúin við hlið rúmsins, eða sofðu í þeim – það virkar. Þessar litlu áminningar munu minna þig á vanann þar til þú þarft ekki lengur á þeim að halda og vaninn er orðinn hluti af rútínunni.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

 

Svona innréttarðu litla stofu

Góð ráð fyrir þá sem eru með litlar stofur.

Þegar þú innréttar litla stofu reyndu að komast af með sem fæsta hluti. Þannig kemur þú í veg fyrir að hún verði óreiðukennd. Gott er að horfa reglulega yfir hana með gagnrýnum augum og fjarlægja það sem þér finnst ofaukið.

Gott er að láta lofta sem mest um húsgögnin. Ekki klessa til dæmis borði fast upp við hliðina á sófanum, eins og gert er á þessari mynd. Hafðu heldur smábil á milli þegar þú kemur því við.

Of mikil litadýrð getur verið yfirþyrmandi í lítilli stofu. Mörg mynstur eru heldur ekki æskileg. Hvít málning á veggjum er góð byrjun.

Til eru sniðug húsgögn með tvöfalt notagildi; fínir sófar sem eru líka svefnsófar, stólar/kollar með geymslurými, sófaborð með hillum á hliðunum, lítil borð sem gætu einnig þjónað sem sæti og svo framvegis. Þegar plássið er lítið þarf stundum að fórna einhverju til að lofti betur um það sem eftir er.

Stærri húsgögn ættu að standa aftast í stofunni frá dyrunum séð – en ekki staðsett við innganginn. Þá gæti þér fundist sem húsgögnin þrengi að þér. Settu þau þyngstu fjærst dyrunum og komdu hinum fyrir í góðu jafnvægi við þau.

Ef sami litur er á t.d. veggnum og sófanum mun sófinn verða minna áberandi og ekki grípa athyglina jafnauðveldlega og ef hann væri í öðrum lit. Það getur verið mjög flott að láta húsgögnin falla inn í vegginn á þennan hátt, svona á meðan maður ofgerir ekki. Þú getur líka notað málningu til að „fela“ bitana í loftinu, ofnana og annað sem þér finnst gefa stofunni draslaralegan blæ.

Haltu yfirborðinu hreinu og lausu við ónauðsynlegt dót. Með því að takmarka það sem þú geymir ofan á hillum, skápum, borðum og í gluggakistum loftar svo miklu betur um stofuna. Þú þarft alls ekki að fjarlægja allt, fækkaðu bara þessum hlutum. Allt verður svo miklu snyrtilegra. Þeir sem ætla að selja íbúðina sína ættu að hafa þetta í huga – áhrifin þegar inn í stofuna (íbúðina) er komið eru svo miklu betri á væntanlega kaupendur en þegar allt er ofhlaðið, hún virkar einnig stærri.

Veldu listaverk í meðalstærð á veggina í stað risastórra verka. Stórar myndir geta verið afar flottar en yfirþyrmandi í litlu rými. Mörg verk saman á vegg geta verið óreiðukennd ef þau eru of stór eða mjög misstór. Einhver regla verður að vera, að láta efri línur eða neðri mætast. Ef hengt er upp af algjöru handahófi njóta myndirnar sín ekki sem skyldi.

Falleg gluggatjöld geta skapað ljúfa og mjúka stemningu í stofunni en í litlu rými og nálægt húsgögnunum gleypa þau alveg stofuna. Gólfmottur skipta líka máli, of margar litlar mottur geta látið stofuna virka draslaralega. Rýmið sýnist allt svo miklu opnara ef hófsemi er gætt. Þú getur líka sleppt því að nota gluggatjöld. Rimla- eða rúllugluggatjöld geta verið fín lausn í litlum stofum.

Gott er að gera sem mest úr dagsbirtunni. Blóm og vasar í gluggakistum geta verið falleg en skyggja á birtuna.

Speglar eru magnaðir í þeim tilgangi að láta herbergi virðast stærra. Spegill á réttum stað gerir ótrúlega mikið fyrir lítil rými og getur gjörbreytt stofunni þinni.

Fleiri lampar og góð lýsing út í hvert horn er einnig af hinu góða.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Siggi skyr opnar dyrnar: Úr tilraunastarfsemi í stórveldi

Sigurður Kjartan Hilmarsson, eða Siggi skyr eins og hann er yfirleitt kallaður, hóf tilraunir með skyrgerð í eldhúsinu hjá sér í New York eftir gamalli uppskrift sem móðir hans sendi honum fyrir rúmum áratug.

Núna fæst skyrið í um 25 þúsund verslunum í Bandaríkjunum og fyrirhugaður er mikill vöxtur á næstu misserum. „Það verður engin breyting á okkar starfsemi. Við munum halda áfram að starfa héðan frá New York og sama góða starfsfólkið verður mér við hlið,“ segir Siggi  og hrósar starfsfólkinu

Þetta er einhver ótrúlegasta frumkvöðlasaga Íslendings í seinni tíð og hvernig varan varð til á löngum tíma með dugnaði, klókindum og hugviti

Franski mjólkurvörurisinn Lactalis keypti fyrirtækið hans Sigga á dögunum. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp og er trúnaður milli kaupanda og seljenda, en það hleypur á tugum milljarða. „Fyrirtækið hefur átt hug minn allan frá fyrsta degi,“ segir Siggi.

Siggi skyr verður í ítarlegu viðtali við Magnús Halldórsson blaðamann í Mannlífi.  Blaðið kemur út á morgun föstudaginn 26. janúar og er dreift ókeypis inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu.  Mannlíf er gefið út í samstarfi við Kjarnann.

Burstaþvottur tryggir fallegri förðun

Regluleg þrif á förðunarburstum er ávísun á betri förðun.

Mikilvægt er að þrífa förðunarburstana sína, jafnvel þótt maður sé bara að nota þá sjálfur, því það tryggir fallegri förðun en er jafnframt mjög mikilvægur þáttur í húðumhirðunni.

Það er mjög mikilvægt að þrífa förðunarburstana sína, jafnvel þótt maður sé bara að nota þá sjálfur, því það tryggir fallegri förðun en er jafnframt mjög mikilvægur þáttur í húðumhirðunni. Þegar við málum okkur þá geta bakteríur og önnur óhreinindi safnast fyrir í burstunum, sem geta valdið stíflum og bólum í húðinni seinna meir.

Hægt er að fá hreinsivökva fyrir bursta frá ýmsum snyrtivörumerkjum og það er mjög fljótlega leið til þess að þrífa og sótthreinsa bursta. Smávegis af hreinsivökvanum er þá sett í skál, burstanum dýft ofan í og svo nuddað á eldhúspappír eða hreina tusku. Megininnihaldsefni vökvans er alkóhól sem getur þurrkað burstana. Þess vegna er nauðsynlegt að djúphreinsa þá líka reglulega með sápu og vatni.

Góð regla er að þvo burstana á tveggja vikna fresti með mildri sápu eða barnasjampói, einnig getur verið gott að nota uppþvottalög á þá bursta sem eru notaðir í fljótandi farða því uppþvottalögur leysir betur upp fituna í farðanum.

Best er að þrífa burstana við vaskinn með smávegis af sápu eða sjampói í lítilli skál.  Hverjum bursta er þá dýft í sápuna, nuddað aðeins inn í lófann til að láta sápuna freyða og svo er burstinn að lokum skolaður með volgu vatni. Að lokum er gott að setja smáhárnæringu í þá bursta sem eru úr náttúrulegum hárum, leyfa henni að bíða aðeins og skola hana svo úr, þá haldast burstarnir mjúkir og fallegir.

Þegar bursti eru skolaður er mikilvægt að snúa honum niður undir bununni til að passa að ekkert vatn komist í skaftið. Þá getur límfestingin leyst upp, burstinn byrjað að „fara úr hárum“ og að lokum dottið í sundur. Af sömu ástæðu er best að láta burstana liggja flata á handklæði meðan þeir þorna, ekki hafa þá upprétta, og enn betra er að leyfa þeim að hanga aðeins út fyrir borðbrún svo loft nái að leika um þá.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Ekkert lát á endurgerðum

Ekkert lát virðist ætla að verða á endurgerðum Hollywood-kvikmyndum á næstunni. Hér er listi yfir nokkrar sígildar.

Ocean’s Eleven, Twelve, Thirteen og nú Ocean’s Eight!
Í hinni upprunalegu Ocean’s 11 mynd mátti sjá hina óviðjafnanlegu Rat Pack, Frank Sinatra, Dean Martin og Sammy Davis Jr. í aðalhlutverkum og myndin fékk á sínum tíma góðar viðtökur. Sagan segir frá Danny Ocean sem vill fremja stærsta rán sögunnar og til þess safnar hann saman ellefu manna úrvalsliði. Þegar ráðist var í endurgerð myndarinnar árið 2001 var öllum ljóst að leikaravalið þurfti að sambærilegt og það tókst svo sannarlega með George Clooney, Brad Pitt og Matt Damon. Þó að sígilda útgáfan sé alls ekki léleg þá verður að viðurkennast að sú nýrri hefur mun meira skemmtanagildi, er bæði fyndnari og meira spennandi, og verður því yfirleitt ofan á í samanburðinum. Nú er von á fjórðu myndinni og þar verða skærustu kvenstjörnur Hollywood í aðalhlutverkum, meðal annars Cate Blanchett, Sandra Bullock og Anne Hathaway.

3:10 to Yuma
Þó svo að sumir ríghaldi með klassísku útgáfunni af 3:10 to Yuma sem kom út árið 1957 eru flestir á sama máli um að endurgerð James Mangold frá árinu 2007 sé mun betri. Það er einkum vegna þess að tækninni hefur fleygt töluvert fram á þessum fimmtíu árum og því er hasarinn í myndinni mun áhrifaríkari og meira spennandi, án þess að það sé farið yfir strikið í einhverjum tæknibrellum. Aðalleikararnir, Russell Crowe og Christian Bale, sýna ótrúlega takta í hlutverkum sínum en Bale leikur smábónda sem tekur að sér að halda útlaga, Crowe, föngnum á meðan beðið er eftir lest sem mun færa hann fyrir dómstóla en Crowe reynir að beita alls kyns brögðum til að sleppa. Þetta er sígildur vestri með mjög skemmtilegum og spennandi söguþræði.

Freaky Friday
Eflaust eru margir sem ekki vita að hin geysivinsæla Disney-mynd Freaky Friday, með Jamie Lee Curtis og Lindsey Lohan í aðalhlutverkum, er í raun endurgerð á mynd sem kom út árið 1977. Myndin fjallar um unga stúlku sem skiptir um líkama við móður sína skömmu fyrir brúðkaup þeirrar síðarnefndu. Eins og áður hefur komið fram þá lék Lindsey Lohan unglingsstúlkuna í endurgerðinni en hún var þá á hátindi frægðar sinnar. Það var þó ekki síðri leikkona sem fór með sama hlutverk í upprunalegu myndinni en það var engin önnur en Jodie Foster.

The Great Gatsby
Til eru tvær kvikmyndir sem hafa verið gerðar eftir hinni sígildu skáldsögu F. Scott Fitzgerald, The Great Gatsby, og segir frá Nick Carraway sem fer frá miðvesturríkjum Bandaríkjanna til New York vorið 1922, þegar djassinn og hið ljúfa líf ræður ríkjum í borginni, og dregst fljótlega inn í heim hinna ofurríku, heim sjónhverfinga, ásta og svika. Það er erfitt að bera þessar tvær kvikmyndir saman, og nær ómögulegt færa rök fyrir því að önnur myndin sé betri en hin, því þótt þær segi sömu sögu þá er nálgun þeirra á efninu gjörólík. Sú fyrri, kom út árið 1974 með Robert Redford og Miu Farrow í aðalhlutverkum, er hefðbundnari og hógværari að öllu leyti en sú seinni. Baz Luhrman endurgerðin sem kom út árið 2013 er aftur á móti algjört augnakonfekt með frábærum leikurum í öllum hlutverkum og hvert einasta augnablik hefur verið stíliserað út í eitt. Hvorug myndin er gallalaus en þær hafa báðar marga kosti sem vega upp á móti þeim.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Heilbrigt og fallegt hár á veturna

Góð ráð til að halda hárinu heilbrigðu á veturna.

Nú gengur hver lægðin á fætur annarri yfir landið, okkur til lítillar skemmtunar. Þetta mikla vetrarveður, kuldi, rok og alls kyns úrkoma, getur haft töluverð áhrif á bæði húð og hár. Margar konur kannast við að hárið á þeim verði allt í senn þurrt, flókið og rafmagnað. Hér koma nokkur ráð til að halda hárinu heilbrigðu og auðveldu í meðhöndlun fram að vori – hvenær sem það nú kemur.

Hárþvotturinn
Ein algengustu mistökin í hárumhirðu eru að þvo hárið of oft, hvort sem það er vetur eða sumar, og að nota of heitt vatn. Í köldu veðri þornar hárið og húðin mun meira og það er því ekki á það bætandi. Reyndu að þvo hárið ekki oftar en þrisvar í viku og ekki hafa vatnið heitara en 37° en einnig er sniðugt að skola hárið upp úr köldu vatni í lokin til að halda rakanum í hárinu.

Réttar og góðar vörur
Heilbrigði hársins getur ráðist af hárvörunum sem þú notar og því er mikilvægt að nota réttar vörur fyrir þína hárgerð. Það eru ekki allir með á hreinu hver hárgerð þeirra er og það getur oft verið flókið að átta sig á muninum, til að mynda hvort maður er með þunnt eða fínt hár. Næst þegar þú ferð í klippingu er sniðugt að spyrja hárgreiðslumanninn þinn hvaða hárgerð þú ert með og hvaða hárvörur passa best fyrir þig.

Háspenna, lífshætta
Enn eitt hárvandamál sem veldur miklum pirringi er rafmagnað hár sem stendur allt út í loftið. Næstum allar konur eiga við þetta vandamál að stríða á einhverjum tímapunkti yfir vetrarmánuðina. Ástæðan fyrir því að hárið verður rafmagnað er að andrúmsloftið er þurrara í kulda. Gott er að nota einhvers konar hárolíu í enda hársins eftir að það hefur þornað. Í neyð er besta ráðið að spreyja smáhárspreyi í hárbursta og renna honum yfir hárið frá rótum til enda.

Ekki ofnota tæki og tól
Ofnotkun á hárblásara eða hitajárnum getur skemmt hárið og hættan er mun meiri á veturna þegar hárið er þurrt fyrir. Reyndu í lengstu lög að leyfa hárinu að þorna náttúrulega og blása það sem minnst. Gott viðmið er að leyfa hárinu að verða um það bil áttatíu prósent þurrt en nota síðan hárblásara í lokin til að móta það og gera það fallegt. Ekki hafa blásarann heldur stilltan á hæsta hita þó svo að kaldari stilling taki lengri tíma, þá missir hárið ekki jafnmikinn raka og verður fyrir minni skemmdum við volga þurrkun.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

 

Tólf góð ráð frá stílistum

Stílistar og innanhússhönnuðir luma á snjöllum lausnum þegar kemur að því að fegra stofuna og gera hana spennandi og áhugaverða.

Stofur eru alls konar: stórar, litlar, nútímalegar, gamaldags, tómlegar, yfirhlaðnar. Þær eiga það þó flestar sameiginlegt að þar slökum við á, skemmtum okkur, tökum á móti gestum, horfum á sjónvarpið og njótum þess að vera saman. Ef þig langar að hressa upp á stofuna þína ættirðu að lesa áfram, því hér eru tólf góð ráð frá stílistum.

1. Ef þú hefur pláss, dragðu sófa og stóla örlítið frá veggjunum. Það verður meiri nánd fyrir samræður þegar húsgögnin eru nær hvert öðru og það skapar meiri kósíheit. Stofan mun líka virðast talsvert stærri.

2. Skiptu út sófaborðinu þínu fyrir annað minna sem þó er nógu stórt fyrir bók og nokkra kaffibolla og er að auki færanlegt. Þú sparar mikið pláss með þessu og það loftar betur um stofuna.

3. Að staðsetja bókahillu fyrir aftan sófann er góð hugmynd útlitslega og ekki verra að fá aukið pláss fyrir tímarit og bækur og punt. Þar sem sófinn skyggir á hilluna gætir þú geymt hluti sem þú notar sjaldnar.

4. Að blanda saman gömlum og nýjum munum er frábær leið til að auka orku í stofunni (og öðrum herbergjum).

5. Bættu jafnvægið á milli þyngri hluta og þeirra léttari til að koma í veg fyrir þyngslaleg svæði. Léttari hlutirnir, eins og sófaborð eða hliðarborð, þurfa að vera í samhljómi við þá þyngri, eins og sófa, stóla og skenka.

6. Settu upp á vegg, t.d. fyrir ofan sófann, grunna hillu eða lista sem þú getur tyllt flottum myndum á, innrömmuðum plakötum, málverkum, ljósmyndum, ekkert endilega í sömu stærð. Ef þú þreytist á þeim, geturðu auðveldlega skipt þeim út.

7. Litir eru lykillinn að því að blanda saman hlutum í samræmi. Að nota marga liti getur orsakað óróleika en ef t.d. hvíti liturinn er mest áberandi, t.d. á veggjunum og einhverjum húsgögnum, púðum eða punti, kemur það í veg fyrir að litagleðin verði yfirþyrmandi.

8. Gulllitur getur gert heilmikið fyrir hvert herbergi.

9. Að hafa allt svolítið lágt (líka listaverk á veggjum) getur verið snjallt ef þú vilt að stofan þín virki stærri. Lágt sófaborð og húsgögn, t.d. sófi með lágt bak, hafa heilmikil áhrif til að svo verði. Það er allt í lagi að hafa háa standlampa, það er bara flott að láta birtuna koma frá þeim.

10. Með því að hengja listaverkin þín ekki alltaf fyrir miðju, t.d. yfir miðjum sófanum, mun það draga athyglina að þeim og skapa áhrif hins óvænta.

11. Tveir stólar hlið við hlið þurfa ekki að vera eins. Prófaðu að setja saman tvo stóla frá svipuðu tímabili en með ólíka lögun. Það kemur skemmtilega út.

12. Ef þú ert í vafa, bættu smávegis svörtu við.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Ástin kviknaði í Biggest Loser

Líf Örnu hefur gjörbreyst á tæpu ári.

Ítarlegt viðtal er við Örnu í 4. tölublaði Vikunnar 2018.

Arna Vilhjálmsdóttir sigraði keppnina Biggest Loser Ísland á síðasta ári. Hún breytti algerlega um lífsstíl, æfði oft á dag og missti í allt 60 kíló á sjö mánuðum. Mitt í öllum hasarnum fann hún líka ástina, flutti og fékk nýtt starf.

„Ég byrjaði að verða skotin í honum þegar við höfðum verið í fjórar eða fimm vikur á Bifröst. Ef hann var úti að grilla, fór ég út með fótboltann að sparka í vegg, bara til þess að geta hangið með honum, fór að vera lengur í pottinum bara til að spjalla við hann og þess háttar. Ég neitaði þessu náttúrlega staðfastlega við stelpurnar þegar þær inntu mig eftir því hvort ég væri bara ekki orðin skotin í honum. Þegar hann datt út úr keppninni varð ég alveg eyðilögð,“ segir Arna.

„Það gerðist samt ekkert á milli okkar í þáttunum, eða sem sagt á Bifröst. Eftir að ég kom heim addaði ég honum hins vegar á Snapchat og ruddist inn í líf hans með stanslausum snöppum og samtölum,“ segir hún hlæjandi. „Ég var samt með varann á mér og passaði mig á því að verða ekki of hrifin því ég var viss um að hrifningin væri aðeins mín megin en þannig hefur það alltaf verið hjá mér.“

Ítarlegt viðtal er við Örnu í 4. tölublaði Vikunnar sem kemur í verslanir á morgun, 25. janúar 2018.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Hrafnhildur Runólfsdóttir með Urban Decay

Aldagömul aðferð gegn öldrun húðar

Andlitsnudd má nota til að vinna gegn öldrun húðar.

Það er fátt sem veitir jafnmikla afslöppun og vellíðan og gott nudd. Flestir þekkja það sem leið til að losa um spennu og bólgur í vöðvum líkamans en færri gera sér grein fyrir að það má einnig nýta til að sporna gegn öldrun húðar.

Eftir því sem við eldumst lætur húðin meira og meira á sjá; vefirnir slappast, andlitið missir fyllingu og hrukkur myndast. Við höfum áður fjallað um hvernig sé mögulegt að hægja á þessu ferli með réttri húðumhirðu en einnig  má ná töluverðum árangri með því einu að nudda andlitið reglulega.

Andlitsnudd eykur blóðflæði til húðar sem eykur ljóma og þéttni hennar ásamt því að byggja upp vöðvana sem spornar gegn því að hún slappist niður.

Til eru ýmsar aðferðir við andlitsnudd og sumar þeirra hafa tíðkast í margar aldir,  til dæmis er talið að Kleópatra hafi nuddað andlit sitt til að viðhalda fegurð sinni. Á 19. öld notuðu svo geishurnar í Japan svokallað shiatsu-nudd, eða punktanudd. Þá eru fingurgómarnir notaðir til að þrýsta létt á valda punkta á andlitinu sem hjálpar sogæðakerfinu að losa um stíflur og úrgangsefni sem hafa safnast fyrir í húðinni.

Andlitsnudd eykur blóðflæði til húðar sem eykur ljóma og þéttni hennar ásamt því að byggja upp vöðvana sem spornar gegn því að hún slappist niður. Eftir eingöngu nokkra daga af endurteknu nuddi er hægt að sjá mikinn mun; vöðvarnir eru slakir svo ásýndin verður afslappaðri og unglegri og húðin glóir vegna aukins blóðflæðis og næringar.

Lykillinn að góðu andlitsnuddi er að nota andlitsolíu en einnig má nota  olíuhreinsi til að koma í veg fyrir að húðin dragist til en það eykur líka upptöku virku efnanna í olíunni því þeim er nuddað svo vel inn í húðina.

Andlitsnudd lífgar ekki aðeins upp húðina heldur hefur það einnig slakandi og endurnærandi áhrif á líkama og sál. Við notum andlit okkar og vöðva þess mun meira dagsdaglega en við gerum okkur grein fyrir. Því er algengt að fólk finni fyrir ýmsum streitutengdum einkennum, til dæmis spennuhöfuðverk eða augnþreytu sem má losa um með nuddinu.

Einfalt punktanudd fyrir andlit

1. Gott er að byrja með léttum en þéttum strokum upp á við og til hliðar, yfir bæði kinnar og enni, til að undirbúa húðina. Síðan eru fingurgómar löngutangar notaðir til að þrýsta á punkta á andlitinu.
2. Þrýst er á milli augabrúna og svo á þrjá punkta upp enni að hársrót. Því næst á miðjar augabrúnir og svo aftur þrjá punkta upp enni að hársrót. Sama aðferð er svo einnig endurtekin við enda augabrúna.
3. Næst er þrýst undir augun, frá nefi og á fjóra punkta að gagnauga. Endurtakið þrisvar sinnum.
4. Síðan er þrýst á sex punkta með fram kinnbeinum þangað sem kjálki og kinnbein mætast. Endurtakið þrisvar sinnum.
5. Undir miðnesi er þrýst á fjóra punkta með fram efri vör að munnvikum. Endurtakið þrisvar sinnum.
6. Þrýst er undir miðja neðri.vör, með báðum fingrum, svo þrjá punta niður miðja höku og endurtekið þrisvar sinnum.
7. Að lokum má klípa létt í húðina með vísifingri og þumalfingri. Á enni er klipið með fram augabrún, um það bil fjögur klíp, og endurtekið þrisvar. Síðan er klipið frá miðri höku og með fram kjálka, um átta klíp að eyra.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Vagga indverskrar matarmenningar í Bretlandi

Í Birmingham er af nógu að taka fyrir þá sem vilja krydda aðeins tilveruna með framandi mat. Margt annað áhugavert er þar líka í boði.

Birmingham er önnur stærsta borg Bretlands, London er stærst. Borgin hefur verið í stöðugri endurnýjun undanfarna áratugi svo byggingarnar eru ýmist mjög gamlar eða ofur nýtískulegar. Í borginni býr um milljón manna og þar ríkir mikið fjölmenningarsamfélag, sama hvað sagt er á FoxNews. Hún er mjög heppilega staðsett í miðju Englands, mitt á milli London og Manchester, svo það má segja að hún brúi bilið milli Norður- og Suður-Englands.

Í Birmingham er gaman að versla því þar er glæsileg verslunarmiðstöð sem nefnist The Bullring. Hún byggir á ríkri markaðshefð en það var fyrst árið 1154 sem markaðir voru haldnir á þessu svæði. Verslun og þjónusta hefur nú vitaskuld færst í nútímalegra horf og nýjasta byggingin líkist einna helst geimskipi og er merkileg á að líta, burtséð frá öllum verslunum sem þar leynast innandyra.

Allir vísindanördar ættu að gera sér ferð í Thinktank-vísindasafnið sem er að margra mati nútímalegasta vísindasafn heims. Þar eru tíu sýningarsalir sem eru stútfullir af fróðleik og skemmtun. Hægt er að fræðast um allt frá samgöngutækni að meltingarkerfi okkar og hvernig bragðlaukarnir virka.

Þeir sem vilja heldur skemmta sér úti í náttúrunni ættu að leggja leið sína í Cannock Chase- og Wyre-skóginn. Þar er að finna Go Ape sem er einn vinsælasti skógarskemmtigarðurinn í Bretlandi. Svífðu niður á milli trjáa á vír eða sveiflaðu þér um, eins og Tarzan, í þartilgerðum rólum. Þeir sem vilja heldur njóta náttúrunnar og umhverfisins í skóginum á rólegri máta geta ferðast um á Segway sem gerir þeim kleift að sjá meira á skemmri tíma en ef þeir væru fótgangandi.

Af nógu er að taka fyrir þá sem vilja krydda aðeins tilveruna með framandi mat en Birmingham er oft lýst sem vöggu indverskrar matarmenningar í Bretlandi. Þar er að finna eitt allrabesta úrval asískra og indverskra veitingastaða og það á sérstaklega við um hinn svokallaða Balti-þríhyrning, á mótum hverfanna Sparkbrook, Balsall Heath og Moseley. Balti er þunnur karríréttur upprunninn frá svæðinu í kringum Kasmír á landamærum Indlands og Pakistan og nafnið vísar til skálarinnar sem karríið er borið fram í.

Texti  / Hildur Friðriksdóttir

Íslenskar svefnrannsóknir á heimsmælikvarða

Erna Kristín

Margir þekkja það að fá ónógan svefn. Foreldrar ungbarna sem sofa illa á nóttunni, fólk sem starfar á óhefðbundnum tímum sólarhringsins og svo þeir sem eiga erfitt með að sofna á kvöldin. Jafnvel þeir sem hrökkva upp á nóttunni eða vakna fyrr á morgnanna en þeir hefðu ætlað sér. Einnig eru margir sem stytta svefn sinn, sérstaklega á virkum dögum vegna tímaskots. Þessu fylgir oft mikil vanlíðan, syfja og þreyta sem litar þá líðan fólks allan daginn.

Erna Sif Arnardóttir doktor í svefnrannsóknum segir þetta áhyggjuefni. „Flestir fullorðnir þurfa 7-8 tíma svefn til að líða vel þó sumir komast af með minni svefn eða aðrir þurfi lengri tíma. Margir freistast til að stytta svefninn í amstri dagsins og eru jafnvel að sofa einungis 5-6 tíma á virkum dögum en bæta sér það svo upp um helgar. Ég lýsi þessu oft sem jafngildi þess að borða óhollan mat í fimm daga og reyna svo að bæta það upp með salatáti í tvo daga, auðvitað betra að sofa alltaf of stutt en ekki hollt til lengri tíma.”

Reyndu að fara að sofa á svipuðum tíma og vakna á svipuðum tíma flesta daga, bæði á virkum dögum og um helgar. Þegar svefntíma er seinkað mikið um helgar, á fólk oft erfitt með að sofna á sunnudagskvöldum og fer þreytt og illa sofið inn í vinnuvikuna.

Prófaðu þig áfram með magn svefns sem þarft. Flestir þurfa 7-8 tíma en þetta er þó einstaklingsbundið, prófaðu að reyna að auka svefntíma kerfisbundið um 15 – 30 mínútur í einu og sjáðu hvort þú finnir fyrir bætri líðan.

Ef þú átt erfitt með svefn, að sofna á kvöldin, vaknar oft upp á nóttunni eða vaknar of snemma á morgnanna, skoðaðu svefnvenjur þínar. Best er þá að sleppa því að leggja sig í eftirmiðdaginn eða dotta yfir sjónvarpi því þetta getur haft neikvæð áhrif á nætursvefninn.

Slepptu öllu koffeini frá hádegi og sjáðu hvort svefninn batni við það. Gott að prófa slökun eða hugleiðsluæfingar til að hjálpa með svefninn.

Ef þú ert glaðvakandi um miðja nótt og hefur reynt slökun til að sofna er gott að fara fram úr rúminu, setjast og lesa frammi eða gera eitthvað sem fær þig til að hætta að hugsa um svefninn en er jafnframt slakandi. Þegar þú finnur aftur til syfju, þá geturðu farið aftur upp í rúm og reynt að sofna.

Prófaðu að sleppa snjallsímanum, spjaldtölvunni og sjónvarpinu síðustu klukkustundirnar fyrir svefn. Lestu frekar, farðu í bað eða annað slakandi. Þekkt er að tækjanotkun á kvöldin ýtir undir svefnleysi, sverfngæði versnar og og fólk er lengur að sofna. Einnig getur líkamsrækt seint um kvöld seinkað svefntíma.

Ítarlegt viðtal við Ernu má lesa í síðasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Minni diskar – minni skammtastærðir

Næringarfræðingurinn Christian Bitz hvetur fólk til að borða góðan og heilsusamlegan mat, án allra öfga, skyndilausna eða samviskubits.

Christian hefur hannað sérstakan borðbúnað sem er hugsaður og hannaður þannig að hann geri fólki auðveldara að stjórna skammtastærðunum og njóta matarins.

Christian Bitz er heilmikið til lista lagt, en hann er næringarfræðingur, metsölubókahöfundur, fyrirlesari og kemur reglulega fram í hinum ýmsu sjónvarpsþáttum í Danmörku. Hugmyndafræði hans byggir meðal annars á því að fólk lifi heilsusamlegu lífi og njóti þess að borða góðan og heilsusamlegan mat, án allra öfga, skyndilausna eða samviskubits. Hann hefur líka hannað sérstakan borðbúnað sem er hugsaður og hannaður þannig að hann geri fólki auðveldara að stjórna skammtastærðunum og njóta matarins.

Hvaðan kemur áhugi þinn á heilsu og mataræði?
Ég starfaði sem fyrirsæta víðsvegar um heiminn á tíunda áratugnum. Á þeim tíma þurfti ég að hugsa vel um eigin heilsu og áhugi minn jókst á því hvernig ég gæti náð hámarksárangri með réttu mataræði og hreyfingu. Í framhaldi af því ákvað ég að fara í nám og læra meira um það hvernig mataræði hefur í raun áhrif á líf okkar á hverjum degi.

Hverjir eru lykilþættir heilbrigðs lífstíls að þínu mati?
Fyrir það fyrsta þurfum við einfaldlega að byrja að njóta matarins aftur. Stundum einblínum við of mikið á megrun í stað matar. Síðan held ég að lykillinn að góðu mataræði og betri heilsu sé að borða rétt hlutfall kolvetna og próteins. Stærsta rannsókn sinnar tegundar, DIOGENES sem stendur fyrir Diet – Obesity – Genes, hefur sýnt fram á að besta hlutfallið sé 1:2 af kolvetnum og próteini.

Hvers vegna ákvaðstu að hanna borðbúnað?
Mitt markmið er að gera heiminn örlítið heilbrigðari. Með því að hanna minn eigin borðbúnað get ég verið við kvöldmatarborðið á hverju heimili. Allar kenningar mínar og uppskriftir geta notið stuðnings af réttum borðbúnaði og saman getur það leitt til heilbrigðara lífs.

Hver er hugmyndin eða innblásturinn á bak við borðbúnaðinn?
Grunnhugmyndin var að hanna kvöldmatardisk sem rúmar minna því allar rannsóknir sýna að minni diskar þýða minni skammtastærðir. Minni skammtastærðir þýða færri hitaeiningar og fólk er ekkert endilega líklegra til að fá sér aftur á diskinn.

Skiptir það máli að borðbúnaðurinn sé fallegur?
Ég vildi bæta auknum lit, óformlegheitum og ófullkomnun við matarborðið, þess vegna ákvað ég að nota hráan efnivið sem er innblásinn af norrænni náttúru. Ég tel að það að borða af fallegum diskum auki ánægjuna. Rannsóknir hafa líka sýnt að við skynjum mat á ólíkan hátt á svörtum, hvítum eða grænum diskum. Heilsusamlegur matur hefur líka lengi fengið á sig þann stimpil að hann sé óspennandi. Borðbúnaðurinn minn getur því kannski hleypt smávegis lífi í matseldina.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Úr einkasafni

Auktu hamingju þína með einföldum ráðum

Nokkur ráð til að auka hamingju sína.

Engin þörf er á því að verja stórfé eða snúa lífi sínu á hvolf til að hækka hamingjustigið hjá sér. Heilmargt er hægt að gera til að auka hamingju sína og hér eru nokkur ráð sem gott væri að tileinka sér.

Mikilvægi jákvæðra hugsana
Það er sérdeilis gott að venja sig á að hugsa jákvætt um sjálfan sig á hverjum degi, þó ekki væri nema í nokkrar sekúndur. Dást að nýju klippingunni fyrir framan spegilinn, þakka sér góðan árangur eða dugnað og annað í þeim dúr. Gott er líka að skrifa niður hugsanir sínar eins oft og hægt er og geyma þar sem aðrir sjá ekki, með því að koma þeim á blað nær maður samhengi hlutanna betur. Ekki hika við að deila góðum stundum með öðrum, til dæmis á Facebook eða snappinu.

Mikilvægi hvíldar
Hvíld er mikilvæg, ekki bara heima, heldur líka í vinnunni. Þegar mikið er að gera freistast maður til að fá sér snarl og borða það á meðan maður vinnur. Betra er að taka sér stutta pásu en enga og koma ferskari að verkefninu á eftir. Helgarfríum verja flestir í skemmtanir, ferðalög og annað slíkt en ekki má gleyma hvíldinni. Það tekur langan tíma að ná úr sér uppsafnaðri þreytu, svo verum ekkert að safna henni upp. Með því til dæmis að kíkja á tölvupóstinn sinn um leið og maður vaknar er maður sjálfkrafa kominn í vinnugírinn í stað þess að leyfa huganum að hvílast ögn lengur, eða þar til komið er til vinnu.

Litlar áskoranir
Finndu leið til að hrista upp í daglegri rútínu þinni til að hún festist ekki í fari. Lítil áskorun vikulega? Að brosa framan í einhvern ókunnugan sem gleður ekki bara viðkomandi, heldur einnig þig. Sjónvarps- eða símalaus dagur í algjörri ró. Eða klífa fjöll ef þú hefur ekki prófað það. Prófa nýjan kaffidrykk eða nýjan veitingastað. Allt til að breyta aðeins út af vananum.

Sniðugt er líka að gera alltaf eitthvað spennandi einn dag í viku. Það þarf ekki að vera stórt, kannski ilmandi freyðibað eða að byrja á nýrri bók, eitthvað sem þú getur hlakkað til alla vikuna. Föstudagar, í lok vinnuvikunnar hjá flestum, gætu verið hentugir.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Stundum er gott að sitja í sandinum og íhuga

Kristín Þorsteinsdóttir segir auðvelt að ferðast frá Singapúr um alla Asíu.

Kristín Þorsteinsdóttir hefur búið ásamt sambýlismanni og dóttur í Singapúr og er „stækkunarstjóri“ (e. Development Director) hjá alþjóðlegri hótelkeðju. Hún segir að helstu kostir staðarins séu gott skipulag, engir glæpir og þarna búi allra þjóða kvikindi í sátt og samlyndi sama hverrar þjóðar og trúar þeir eru. Aðalkosturinn sé þó hversu auðvelt sé að ferðast þaðan hingað og þangað um Asíu.

Vestur-Ástralía
Af öllum stöðum sem ég hef ferðast til síðan ég kom til Asíu held ég að þetta svæði sé í uppáhaldi. Borgin Perth í Ástralíu er ekki í nema rúmlega fjögurra tíma flugfjarlægð frá Singapúr. Þaðan er hægt að keyra með fram ströndinni að smábænum Margaret River sem er frægur fyrir víngerð og góðan mat. Svo er hægt að verja heilu dögunum við strendurnar þar sem enginn er yfirleitt sjáanlegur nema kannski háhyrningar að busla í flæðarmálinu. Ég er nú lítið fyrir að liggja í sólbaði en stundum er gott að sitja bara í sandinum og íhuga, eða horfa á brimbrettastrákana.

Balí, Indónesíu
Eyjan Balí er skammt frá okkur og þangað er vinsælt að fara yfir helgi til að hvíla sig í hinni loftkældu veröld verslunarmiðstöðvanna sem eru á hverju götuhorni í Singapúr. Indónesía er fjölmennasta ríki heims þar sem múhammeðstrú er iðkuð en Balí er eini staðurinn þar sem hindúar eru í meirihluta. Það setur sterkan svip á daglegt líf á eyjunni og skapar nokkuð sérstakt andrúmsloft sem mér finnst vera helsta aðdráttarafl Balí. Því miður er nokkur mengun við margar strendur á Balí og þær því ekki fýsilegur baðstaður. Þá er ráð að halda til bæjarins Ubud sem segja má að sé hið listræna hjarta Balí þar sem hægt er að stunda jóga og sötra lífrænan engifersafa. Já eða sleppa jóganu og fá sér bara bjór, eins og ég geri yfirleitt.

Kristín Þorsteinsdóttir hefur búið ásamt sambýlismanni og dóttur í Singapúr.

Japan
Ef tækifæri gefst einhvern tíma á lífsleiðinni til að fara til Japans þá ætti helst enginn að láta það úr greipum ganga. Japan var svo gott sem einangrað frá umheiminum í tvær og hálfa öld, allt til um 1850 og það útskýrir margt í menningu og háttum Japana þar sem ýmislegt kemur spánskt fyrir sjónir. Tókýó er við fyrstu sýn brjálæðisleg stórborg þar sem er auðvelt að týnast, enda engin furða því fæstar götur þar bera nöfn. En þegar betur að er gáð er borgin undarlega hljóðlát og íbúarnir ávallt boðnir og búnir að hjálpa týndum aðkomumönnum, jafnvel þótt enskukunnáttan hrökkvi skammt. Maturinn í Japan er líka kapítuli út af fyrir sig, kjúklinga-sashimi, fiskiaugu og japanskt majónes var meðal þess sem ég smakkaði í síðustu ferð og þótti gott.

Seoul í Kóreu
Kannski er ekki hægt að segja að þetta sé falleg borg enda var hún svo gott sem jöfnuð við jörðu í seinna stríðinu. Þó er búið að endurbyggja mikið af sögulegum byggingum og gaman að ganga um þar sem búddahof og ofurnýtískulegar skrifstofubyggingar standa hlið við hlið. Í Seoul er líka Gangnam-hverfið sem Psy nokkur gerði heimsfrægt í samnefndu lagi en þaðan koma margir af helstu tískustraumum í tónlist og klæðaburði sem ungt fólk í Asíu tileinkar sér. Lýtalæknar í Seoul þykja líka ansi lúnknir og eru dæmi um að dömur fái ekki að snúa til síns heima því þær líkjast ekki lengur myndinni í vegabréfinu eftir heimsókn til eins þeirra.

Sri Lanka
Eftir að borgarastríðinu lauk á þessari eyju við Indland hefur ferðamannastraumurinn aukist jafnt og þétt og skal engan undra því þetta er falleg eyja, íbúarnir indælir og margt að sjá og skoða. Þarna fórum við í safaríferð í Yala-þjóðgarðinum þar sem fíll stal nestinu, lærðum ýmislegt um tedrykkju (Sri Lanka er einn helsti teframleiðandi í heimi) og skoðuðum Tannhofið í borginni Kandí þar sem sagt er að tönn úr sjálfum Búddah sé varðveitt. Eyjan er heilagt vé meðal þeirra sem aðhyllast búddisma.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Útbúðu þig rétt fyrir útivistina

Góð ráð fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt á veturna.

Það er engin ástæða til þess að stunda ekki útivist á veturna, svo lengi sem maður útbýr sig rétt. Hér eru nokkur góð ráð fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt á veturna.

Vertu sýnilegur
Þegar dagurinn styttist neyðast margir til a fara út að hlaupa eða hjóla í rökkri. Þá er mjög mikilvægt að vera í fötum með endurskinsrákum. Best er að endurskinið sé á hand- og fótleggjum því það eru þeir hlutar líkamans sem eru á hreyfingu og grípa ljós frá bílum. Ef þú ert mikið fyrir að hlaupa í náttúrunni getur verið sniðugt að vera í litríkum eða áberandi klæðnaði að ofan ef svo óheppilega vill til að þú týnist eða villist, þá er auðveldara að koma auga á þig úr fjarlægð.

Ekki dúða þig um of
Það getur verið freistandi að klæðast öllum sínum hlýjustu fötum þegar veðrið er sem kaldast en það getur stundum haft þveröfug áhrif. Þú byrjar nefnilega að svitna sem gerir það að verkum að fötin verða rök og þá getur orðið mjög óþægilegt að hreyfa sig. Þér er einnig hættara á ofkælingu ef þú ert úti til lengri tíma. Þumalputtareglan er að klæða sig eins og það sé 5°heitara en það er í raun.

Ekki geyma símann í vasanum
Það er vissulega gáfulegt að taka símann ávallt með sér þegar þú stundar líkamsrækt utandyra.  Jafnvel þó ekkert alvarlegt gerist þá getur verið gott að geta hringt í einhvern til að ná í þig þegar þú ert örmagna 5 km frá heimili þínu. Á veturnar getur síminn hins vegar ofkólnað eða blotnað ef hann er geymdur í utanáliggjandi vasa. Reyndu að velja föt með vösum innan á eða vera með litla tösku sem þú getur verið með innanklæða.

Ekki þurrka skóna á ofni
Flestir hlaupaskór eru úr dýrum plastefnum eða leðri sem geta auðveldlega skemmst í of miklum hita. Besta ráðið til að þurrka gegnblauta skó er að troða dagblöðum inn í skónna sem draga í sig rakann – mundu bara að skipta dagblöðunum út eftir þörfum.

Strax úr fötunum
Margir gera þau mistök að fara að sinna einhverjum verkefnum um leið og þeir koma inn úr dyrunum – hvort sem það er kvöldmatargerð, sjónvarpsgláp eða tékka á tölvupósti. Þegar maður kemur inn úr kuldanum er fyrir öllu að fara strax úr rökum íþróttafötum, í volga sturtu og svo í þurr föt.

Smjúga inn fyrir húðina og snerta hjartað í manni

Ævintýri, ferðalög og eitthvað matarkyns.

My Grandmother Asked Me to Tell You She’s Sorry eftir Fredrik Backman er falleg saga af sambandi ömmu við barnabarn sitt.

Smámyndasmiðurinn eftir Jessie Burton
Þetta er ein þessara bóka sem smjúga inn fyrir húðina og snerta hjartað í manni. Þegar hin sextán ára gamla Nella kemur til Amsterdam til að hefja nýtt líf sem gift kona eru móttökurnar ekki í neinu samræmi við það sem hún bjóst við. Eitthvað er á seyði í húsinu sem hún skilur ekki og það er erfitt að taka stjórnartaumana úr höndum systur eiginmanns hennar og þjónarnir eru ósvífnari en hún á að venjast. Eiginmaðurinn gefur henni skáp sem er eftirmynd hússins þeirra og þar fær hún frjálsar hendur með að innrétta. Nella leitar til smámyndasmiðs til þess en sá virðist vita meira um líf hennar en þægilegt er. Hver eru skilaboð smámyndasmiðsins, hver er hann og hvers vegna veit hann allt, eru spurningar sem Nella er neydd til að spyrja. Þessi bók er einstaklega vel skrifuð og sumar setningar svo meitlaðar að þær verður að lesa aftur og aftur. Hugsanlega á þýðandinn, Magnea J. Matthíasdóttir sinn þátt í því en að minnsta kosti er þetta bók sem unnendur fallegs stíls ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

Falleg fantasía eftir Fredrik Backman
My Grandmother Asked Me to Tell You She’s Sorry eftir Fredrik Backman er falleg saga af sambandi ömmu við barnabarn sitt. Amman hefur sagt því sögur um ævintýralönd, prinsessur, kónga, skugga og skepnur frá því barnið var lítið en eftir dauða hennar kemur í ljós að fantasíurnar áttu sér stoð í raunveruleikanum. Litla stúlkan, Elsa, er óvenju greind og fær það hlutverk að færa öllum í fjölbýlishúsinu þar sem hún býr bréf frá ömmu þar sem hún biðst fyrirgefningar. Amman var þó ekki völd að sorgum flestra íbúanna en bréfin hennar verða til þess að hægt verður að byrja að lækna gömul sár. Bókin er dásamleg blanda af ævintýrum og raunveruleika og einstaklega vel gerðar persónur setja sterkan svip á hana. Þessi bók hefur komið út á íslensku og heitir í þýðingunni Amma biður að heilsa.

Vegur vindsins eftir Ásu Marín
Afar skemmtileg ferðasaga um Elísu sem ákveður að ganga Jakobsveginn eftir að hafa fengið slæmar fréttir. Þrátt fyrir unga kærastann sinn og stressaða foreldra vill hún vera ein þessar vikur sem gangan tekur. Elísa kynnist skrautlegu fólki á leið sinni en lengst af gengur hún ein og kynnist sjálfri sér betur. Þetta er verulega skemmtileg bók og vel skrifuð, það er eins og lesandinn sé samferða Elísu og fari með henni í gegnum súrt og sætt. Fyrsta skáldsaga höfundar og vonandi ekki sú síðasta.

Ótrúleg saga Indverja … eftir Per J. Andersson
Sönn saga um Indverja sem elti ástina sína til Svíþjóðar. Þetta er ekki bara ferðasaga heldur lýsir hún vel hvernig er að fæðast inn í stétt hinna ósnertanlegu, eins og Píkei, söguhetjan. Hann fær að fara í skóla en ekki sitja í sömu stofu og krakkarnir, heldur úti á verönd. Við fæðingu sagði stjörnuspekingur þorpsins að hann myndi giftast konu frá öðru landi. Þegar hann hittir hina sænsku Lottu í Nýju Delí er hann orðinn þekktur götulistamaður og verður fullviss um að Lotta sé sú rétta. Verulega skemmtileg og fróðleg bók um ást sem sigrar allt.

Eitthvað ofan á brauð eftir Nönnu Rögnvaldardóttur
Nýjasta bókin hennar Nönnu er bráðsniðug, notadrjúg og gefur hugmyndir. Hversu leiðigjarnt er ekki að fá sér alltaf það sama ofan á brauðið sitt?
Salöt, sætmeti, sultur og paté, viðbit og mauk … það er allt þarna, meira að segja lemon curd. Hér eru góðar hugmyndir fyrir þá sem þurfa að taka með sér nesti eða smyrja fyrir börnin, halda saumaklúbb eða partí. Uppskriftir eru miðaðar við kjötætur, grænkera og allt þar á milli. Þetta er falleg bók sem Nanna myndskreytir sjálf og að vanda eru uppskriftirnar hennar einfaldar og aðgengilegar.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Einfaldar og ódýrar leiðir til að fegra heimilið

Það þarf ekki að kosta formúu að hressa svolítið upp á heimilið.

Það þarf alls ekki að kosta formúu að hressa svolítið upp á heimilið. Oft og tíðum er ekki einu sinni nauðsynlegt að breyta miklu því litlar breytingar geta gert ótrúlega mikið fyrir hvert rými.

Auðvelt er að bæta dálitlum lit og stíl í rými með því að nota fallega vefnaðarvöru, svo sem púða, teppi, mottur eða gluggatjöld.

Vefnaður
Auðvelt er að bæta dálitlum lit og stíl í rými með því að nota fallega vefnaðarvöru, svo sem púða, teppi, mottur eða gluggatjöld.

Gamaldags gardínur hafa undanfarin ár fengið að fjúka fyrir rúllu-, strimla- eða rimlatjöld en nú er tíminn til að snúa þeirri þróun við.

Litríkir púðar og teppi geta gefið gömlum sófa nýtt líf. Okkur hættir til að gleyma því að skreyta gólfið en falleg gólfmotta getur dregið saman ólík stílbrigði í herberginu og myndað heildarsvip.

Ljós
Rétt lýsing getur umturnað rými. Síðustu ár hefur borið enn meira á því að fólk velur að kaupa ljósakrónur eftir þekkta hönnuði sem skapa flott lúkk.

Mikilvægt er að hafa fjölbreytt úrval – bæði loftljós, veggljós, gólf- og borðlampa. Þannig er hægt að skapa mismunandi stemningu eftir því hvaða ljós eru kveikt.

Töff ljósakróna getur sett punktinn yfir i-ið í vel stíliseruðu rými.

Húsgögn
Ekki hika við að blanda saman ólíkum húsgögnum – nýjum, gömlum, litríkum, náttúrulegum eða hverjum sem þér dettur í hug.

Til dæmis getur verið töff að hafa marga ólíka borðstofustóla við borðstofuborðið – það er þó vert að hafa í huga að sætin séu í svipaðri hæð á öllum stólunum.

Hugsaðu aðeins út fyrir rammann, gömul kommóða getur öðlast nýtt líf sem vaskaborð.

Veggir
Það má skreyta veggi heimilisins með ýmsu móti – málningu, veggfóðri eða bara safni af fallegum myndum í vel völdum römmum.

Hér á árum áður voru allir veggir herbergis veggfóðraðir í hólf og gólf. Í dag er kannski meira töff að velja einn vegg sem fær þá alla athyglina.

Það er engin ein rétt leið til að raða myndum upp á vegg – fylgdu eigin sannfæringu. Margir vilja meina að grár sé heppilegasti liturinn til að mála veggi ef þú vilt láta myndirnar „poppa“.

Raddir