Miðvikudagur 23. október, 2024
2.8 C
Reykjavik

Bakaði þúsund bollakökur

Thelma Þorbergsdóttir starfar sem félagsráðgjafi en matur spilar samt stórt hlutverk í lífi hennar þar sem hún heldur úti matarbloggi og bloggar auk þess reglulega á vefsvæðinu gottimatinn.is sem er starfrækt af Mjólkursamsölunni.

Thelma Þorbergsdóttir félagsráðgjafi heldur úti vinsælu matarbloggi.

Að þessu sinni deildi hún með okkur nokkrum gómsætum en þægilegum uppskrifum að eftirréttum.

 Hvað starfarðu og hvaða verkefni fæstu við um þessar mundir?
Ég er félagsráðgjafi hjá Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar. Helstu verkefnin sem ég fæst við um þessar mundir er að undirbúa mig undir komu nýs barns sem á að fæðast í byrjun maí.

Hvað var það fyrsta sem þú lærðir að elda?
Sósur, ég er algjör sósukona og konurnar í minni fjölskyldu gera bestu sósur í heimi.

Ertu jafnvíg á bakstur og matseld?
Já, mér finnst jafnskemmtilegt að baka og elda.

Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín?
Ég er rosalega hrifin af asískum mat og get borðað hrísgrjón í öll mál! Svo elska ég íslenskan mat, eins og lambakjötið okkar góða og allt sem hægt er að gera úr því.

Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu?
Ég held að ég verði að segja að það hafi verið þegar ég bakaði svo svakalega háa brúðartertu fyrir sjálfa mig sem stóð svo í heitu eldhúsinu í salnum yfir nóttina. Hún hrundi og lá klesst við vegginn í eldhúsinu daginn eftir. Fyrir mér var þessi fullkomni dagur ónýtur en hann endaði svo á að vera besti dagur lífs míns og ég gat hlegið að þessu seinna. Fólk fékk þó köku en hún var ekki falleg og í nokkrum pörtum en góð var hún sögðu gestirnir, þeir hafa ekki þorað öðru!

Þegar ég var að byrja að baka og vinna sem matarbloggari hjá Gott í matinn fékk ég það verkefni fyrir Metro að gera 1000 bollakökur fyrir hrekkjavöku. Það var svona fyrsta og stærsta áskorun mín þegar ég byrjaði í þessu öllu saman.

Hefur þú ræktað krydd- og/eða matjurtir?
Nei, ég er ekki alveg þar en mér var gefin chili-planta sem ég náði að drepa.

Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku?
Þegar ég var að byrja að baka og vinna sem matarbloggari hjá Gott í matinn fékk ég það verkefni fyrir Metro að gera 1000 bollakökur fyrir hrekkjavöku. Það var svona fyrsta og stærsta áskorun mín þegar ég byrjaði í þessu öllu saman.

Hvað færðu þér á pizzu? Pepperóní, rjómaost og rauðlauk.

Uppáhaldsmatreiðsluþættir? Mér finnst mjög gaman að horfa á Lorraine Pascale, það er allt svo fallegt hjá henni eitthvað.

Bloggsíða: freistingarthelmu.blogspot.com og heimasíða Gott í matinn, er matarbloggari þar.

______________________________________________________________

Marens-mess í skál

Marens-mess í skál slær alltaf í gegn.

Kostirnir við þennan rétt eru þeir að hann slær alltaf í gegn, þú getur sloppið algjörlega við bakstur og það skiptir ekki máli hvernig þú setur hann saman, hann er alltaf jafngóður.

1 marengsbotn

1 lítri rjómi

300 g jarðarber

300 g bláber

Æðibitakassi

Nóa kropp

súkkulaðisíróp

Þeytið rjómann þar til hann verður stífur og stendur, passið ykkur þó að þeyta hann ekki of mikið. Fyrir þennan rétt skiptir í rauninni ekki máli í hvaða röð þið setjið hráefnið saman við rjómann og marensinn en gaman er að raða þeim í fallega skál og skreyta að vild. Gott er að setja rjóma í botninn á skál og setja svo marens ofan á. Brytjið jarðarberin niður í sneiðar eða litla bita og blandið saman við ásamt bláberjum. Skerið Æðibita gróflega niður og blandið þeim saman við. Gott er að setja marensinn í byrjun og svo í lokin. Skreytið með rjóma og súkkulaðisírópi ásamt Nóa kroppi. Geymið í kæli, einnig er gott að setja marensinn í frysti í 30 mínútur áður en rétturinn er borinn fram.

______________________________________________________________

Brownie með saltaðri karamellu

Uppskriftin er frekar stór og auðvelt er að helminga hana. Hún er þó ekki lengi á veisluborðinu því hún klárast yfirleitt.

Botn

200 g saltkringlur eða saltstangir

150 g smjör

2 msk. dökkur púðursykur

Hitið ofninn í 200°C og setjið smjörpappír í bökunarform sem er um 20×30 cm að stærð. Mjög mikilvægt er að hafa smjörpappír í botninum og aðeins upp fyrir brúnirnar svo hægt sé að ná kökunni upp úr forminu sem best.

Setjið saltkringlurnar í matvinnsluvél og grófhakkið þær. Bræðið smjör og hellið saman við ásamt púðursykrinum og látið matvinnsluvélina vinna vel þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið saltkringlublönduna ofan í formið og þrýstið vel niður í botninn. Bakið botninn í 7 mín., takið formið út og kælið á meðan þið undirbúið kökuna.

Brownie

320 g smjör

600 g sykur

Brownie með karamellu – ekki reikna með að hún  verði lengi á veisluborðinu.

170 g kakó

½ tsk. salt

4 egg

2 tsk. vanilludropar

120 g hveiti

1 tsk. lyftiduft

Lækkið hitann á ofninum niður í 180°C fyrir kökuna. Setjið smjör í pott og bræðið yfir lágum hita. Þegar helmingurinn af smjörinu er bráðnaður bætið þá kakói, sykri og salti saman við. Hrærið allt vel saman og passið ykkur að láta blönduna alls ekki sjóða. Blandan má einnig ekki vera of heit þegar eggin eru sett saman við. Bætið eggjum saman við, einu í einu, og hrærið vel á milli. Setjið vanilludropa saman við og hrærið. Setjið því næst hveiti saman við og hrærið vel saman þar til blandan verður mjúk og slétt.

Hellið blöndunni yfir saltkringlubotninn og bakið í 30 mín. eða þar til tannstöngull kemur næstum því hreinn upp úr miðju kökunnar. Það er allt í góðu og bara betra ef kakan er aðeins blaut þegar hún er tekin út úr ofninum. Takið kökuna út og kælið á meðan þið undirbúið karamelluna.

Söltuð karamella

400 g sykur

170 g smjör

240 ml rjómi

1 tsk. vanilludropar

½-1 tsk. salt (sjávarsalt)

Setjið sykur í pott yfir meðalháum hita og hrærið stanslaust með viðarsleif. Sykurinn fer í harða köggla en það lagast þegar hann hitnar frekar og verður að vökva. Hrærið stanslaust og passið að sykurinn brenni ekki við. Þegar sykurinn hefur bráðnað alveg og er orðinn gullinbrúnn að lit, bætið þá smjöri saman við og hrærið vel. Blandið því næst rjómanum varlega saman við í smáum skömmtum og hrærið vel. Takið pottinn af hellunni og blandið vanilludropum og salti saman við. Leyfið karamellunni að kólna þar til hún hefur náð stofuhita áður en þið setjið hana yfir kökuna. Hellið karamellunni yfir kökuna, myljið sjávarsalt yfir karamelluna og setjið inn í ísskáp. Kælið kökuna í rúmlega 2 klst. áður en þið berið hana fram. Gott er að nota beittan hníf til þess að skera meðfram köntum formsins svo auðveldara verði að ná henni upp úr forminu, skerið í litla bita.

______________________________________________________________

Skyr með lakkrísbragði og piparmöndlum

Einstaklega ferskur og góður skyreftirréttur sem tekur engan stund að gera.

Einstaklega ferskur og góður skyreftirréttur sem tekur engan stund að gera.

fyrir 4-6

400 g KEA-skyr með lakkrísbragði

½ lítri rjómi

2 msk. flórsykur

súkkulaðisíróp

piparmöndlur

Þeytið rjóma þar til hann er orðinn stífur og stendur. Blandið helmingnum af rjómanum saman við skyrið og hrærið vel saman.

Sprautið súkkulaðisírópi meðfram köntunum á desertglasi eða -skál og látið leka niður. Sprautið skyrblönduni ofan í glösin.

Sprautið því næst rjómanum ofan á ásamt grófsöxuðum piparmöndlum. Geymið í kæli þar til borið er fram.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Íslendingar elska marens!

Á Íslandi er varla haldin veisla án þess að skellt sé í marens.

Það er á hreinu að marens er mjög vinsæll á Íslandi. Hér eru dásamlegar vegan marenskökur.

Ég hef spurt þónokkra í kringum mig hvort þeir hafi orðið varir við marenskökur á ferðalögum sínum um heiminn. Svarið er eiginlega alltaf nei eða að það hafi alla vega ekki verið mjög áberandi. Því fór ég að velta fyrir mér hvort marensáhugi og -ást sé eitthvað séríslenskt fyrirbæri. Um það er erfitt að fullyrða en það er alveg á hreinu að marens er engu að síður mjög vinsæll á Íslandi. Varla er haldin íslensk veisla án þess að skellt sé í marens og borin fram girnileg og gómsæt marensterta. Það var þessi einstaki áhugi landans á marens sem varð kveikjan að þessum marensþætti og við fórum alla leið!

Marens er mjög einföld kaka í eðli sínu en það eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga til þess að hann heppnist vel og verður farið yfir þau hér í þættinum. Ég hef heyrt því fleygt að veðurfar hafi áhrif á marensgerð, mikill loftþrýstingur og raki séu t.d. ekki ákjósanlegar breytur. Það tekur stundum aðeins lengri tíma að baka marensinn ef mjög rakt er í veðri en það hefur ekkert úrslitavald. Franskar makrónur eru kannski það viðkvæmasta en það verður þó ekki fjallað um þær hér.

Til eru nokkrar tegundir af sætmeti sem eru með svipaða uppbyggingu og marens og er að mestu búið til úr eggjahvítum og sykri og ég mun fara yfir helstu tegundirnar ásamt þessum hefðbundna marens sem við þekkjum öll svo vel.

Nokkur góð marens ráð

    • Hafið skálina alltaf tandurhreina
    • Byrjið alltaf á því að þeyta eggjahvíturnar aðeins áður en sykrinum er bætt við
    • Hrærið aukahráefni alltaf mjög varlega saman við marensdeigið
    • Ef eggjarauða blandast saman við hvíturnar, veiðið hana upp með eggjaskurn. Prufið að
      þeyta, ef ekkert gerist, byrjið upp á nýtt og notið það gamla í ommeilettu.
    • 1 eggjahvíta er u.þ.b. 30-35 g
    • 1 dl af eggjavítum, samsvarar hvítu úr þremur eggjum
    • Hafið alltaf eggjahvíturnar við stofuhita
    • Geymið marens í lokuðum umbúðum
    • Mjúkir toppar:
      Þegar þeytaranum er stungið ofan í eggjahvítuhræruna, hann tekinn upp og snúið við, slútir marensinn aðeins niður.
    • Stífir toppar:
      Þegar þeytaranum er stungið ofan í eggjahvítuhræruna, hann tekinn upp og snúið við, stendur marensinn beint upp í loftið.

Fullt af skemmtilegum og gómsætum marensuppskriftun í kökublaði Gestgjafans! Nú fer hver að verða síðastur að næla sér í eintak – enda uppselt hjá útgefanda!

Höfundur / Gunnar Helgi Guðjónsson
Stílsiti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Gómsætir og fallegir bakaðir kleinuhringir í kökublaði Gestgjafnas

Segja má að kleinuhringjaæði hafa gripið Íslendinga undanfarin misseri.

Kleinuhringirnir höfða til margra með vinalegri lögun sinni, mjúku deiginu og óteljandi möguleikum á kremi og skrauti.

Hinn klassíski kleinuhringur er djúpsteiktur en í þessum uppskriftum bregðum við frá þeim vana og bökum þá einfaldlega í ofni í þartilgerðu bökunarformi. Bakaðir kleinuhringir eru fljótlegir og auðveldir í bakstri en geta auðveldlega litið út eins og mikið hafi verið fyrir þeim haft með því að dýfa þeim ofan í krem og skreyta. Þeir eru góðir í kaffiboðið og maður fer létt með að slá í gegn með þeim í næsta barnaafmæli.

Fimm gómsætar uppskriftir er að finna í kökublaði Gesgtjafans. Hér er mynd af gómsætum Red velvet-kleinuhringjum.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir

 

Heillandi borg englanna

Þorgerður Ösp Arnþórsdóttir arkitekt býr með eiginmanni sínum, Gretti Ólafssyni, tveimur hundum og einum ketti í Los Angeles.

Þorgerður Ösp Arnþórsdóttir arkitekt býr með eiginmanni sínum, Gretti Ólafssyni, tveimur hundum og einum ketti í Los Angeles.

Þorgerður segir að helstu kostir þess að búa þar séu veðrið, fjölbreytileikinn og starfsmöguleikarnir. „Við höfum verið hér í tæp fimm ár. Veðurfarið er dásamlegt og veturinn mildur. Sumarið byrjar hægt og rólega í júní með fremur þungbúnum morgnum þar sem sólin lætur ekki sjá sig fyrr en upp úr hádegi, þetta er kallað „June gloom“. Svo getur verið mjög heitt frá júlí fram í október.

Annar helsti kostur Los Angeles er hreinlega fjölbreytileikinn. Los Angeles býður upp á ótal starfsmöguleika í öllum brönsum, það er ekki bara kvikmyndaiðnaðurinn sem ræður ríkjum hér.

Hér er svo endalaust hægt að upplifa frábæra list, hönnun og aðra menningarviðburði. Mannlífið og borgarlandslagið er fjölbreytt. Hér geturðu fengið Manhattan-stemningu beint í æð í miðbænum, strandarþorpsstemningu við ströndina og róleg, gróin úthverfi eru að finna alls staðar. Hér á Suður-Kaliforníusvæðinu grínast fólk með að hægt sé að fara á skíði og á ströndina í sólbað á sama deginum.

Hér er svo endalaust hægt að upplifa frábæra list, hönnun og aðra menningarviðburði. Mannlífið og borgarlandslagið er fjölbreytt.

Los Angeles er ekkert eins og kvikmyndir láta hana líta út fyrir að vera, hún er upp til hópa ekki mjög glamúrus og það er skýr stéttaskipting. Það geta staðið hallir og félagsíbúðir sitt hvoru megin við sömu götu.

Einnig er borgin undir sterkum áhrif frá mexíkóskri arfleifð landshlutans, spænska og mexíkósk menning er alls staðar, jafnvel í meira mæli en sú ameríska, sem mér finnst alger plús – því meiri menningarheimum sem ég kynnist því betra – en það er oft ekki minnst á þetta þegar verið er að kynna borgina.

Einnig má ég til með að minnast á hvað borgin er hundavæn.“

Miðbær Los Angeles

Við höfum alltaf búið í miðbænum og við elskum það. Miðbærinn er frekar lítill en hefur samt sín afmörkuðu hverfi sem hafa öll sinn eigin persónuleika. Frá The Bank District þar sem allir skýjakljúfarnir eru, til The Historic Core, Little Tokyo, The Arts District, mitt uppáhald, South Park hjá Staples Center og niður í the Fashion District. Það er endalaust hægt að skoða, versla og borða. Það er eitthvað við það að ganga um í fullkomnu borgarlandslagi í steikjandi hita sem er svo ofboðslega heillandi.

Kíkið svo út á Santa Monica Pier og farið í parísarhjólið á bryggjunni.

Góðar gönguferðir

Los Angeles er byggð upp við margar hæðir og fjöll svo endalaust er hægt að fara í göngur. Hvort sem þú vilt stuttan hring upp við Griffith Observatory til að fá geggjað útsýni, aðeins lengri hring í Runyon Canyon og mögulega koma auga á einhvern frægan, eða fara upp í Santa Monica-fjöllin og taka alvöru útivistardag, þá geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi.

Söluvagnar

Ekki vera hrædd við að spreyta ykkur í spænsku og biðja um „tacos al pastor“ frá næsta söluvagni sem þið sjáið á götunni. „Angeleno-ar“ eru sjúkir í mat úr svona vögnum.

Túristarúnturinn

Flestir sem koma til LA vilja upplifa smávegis af Hollywood. Farið niður Hollywood Boulevard og finnið stjörnuna með uppáhaldsleikaranum, röltið upp Beachwood Drive og sjáið Hollywood-skiltið. Kíkið svo út á Santa Monica Pier og farið í parísarhjólið á bryggjunni. Með LA-traffík er þetta meira en nóg plan fyrir einn dag en ef þið viljið bæta við og eruð á bíl þá mæli ég með að keyra Mulholland Drive-götuna eins og hún leggur sig. En farið varlega. Það eru tveir útsýnisstaðir á leiðinni, Hollywood Bowl Overlook, og annar lengra í norður þaðan sem hægt er að horfa yfir The Valley. Þá fyrst gerir maður sér grein fyrir hvað borgin er risastór.

In-n-Out Burger
Treystið mér.

Miðbærinn er frekar lítill en hefur samt sín afmörkuðu hverfi sem hafa öll sinn eigin persónuleika. Það er endalaust hægt að skoða, versla og borða.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Óhræddur við að vera hræddur

||||

Það kom þjóðinni heldur betur á óvart þegar íslenski bardagamaðurinn Gunnar Nelson var sleginn rothöggi í síðasta bardaga sínum. Flestir bjuggust við að hann myndi sigra.

Gunnar er ekki að svekkja sig á tapinu heldur sér bæði sigra og ósigra sem tækifæri til að bæta sig. Hann segir mannlegt að finna fyrir ótta en hugrekki felist í því að sigrast á honum. Nú bíður hann því spenntur eftir fregnum um næsta bardaga og hver andstæðingurinn verður en hver svo sem það verður stefnir Gunnar á sigur.

„Ég hélt að eini vandinn væri að ég sæi tvöfalt og þá væru allavega 50/50 líkur á að ég hitti á réttan gaur.“

„Þetta fór eins og það fór – ég get ekkert breytt því núna. Ponzinibbio náttúrulega bara svindlaði,“ segir Gunnar ákveðinn. Hann segist muna skýrt eftir bardaganum auk þess sem hann hafi horft á hann aftur til að staðfesta upplifun sína. „Þetta var helvíti hraður bardagi og hreint út sagt ömurlegur fyrir mig. Við komum báðir út úr hornunum í byrjun og þó að hann pressi aðeins næ ég strax nokkuð góðu „uppercut-höggi“ á hann. Þá kemur hann hins vegar út með útrétta hönd og potar djúpt í bæði augun á mér. Eftir það sé ég tvöfalt, sé bókstaflega tvo gæja fyrir framan mig. Ég reyni samt að hrista þetta af mér og fela það fyrst dómarinn gerði ekki neitt. Ég næ inn sparki og kannski höggi en svo kemur högg frá honum sem rétt fer fram hjá mér og þá átta ég mig á því að ég skynja ekki fjarlægðina á milli okkar rétt. Ég hélt að eini vandinn væri að ég sæi tvöfalt og þá væru allavega 50/50 líkur á að ég hitti á réttan gaur. Hann nær höggi á mig, grípur í buxurnar mínar og dregur mig til sín, svo þegar ég er kominn upp við búrið og er að reyna að verja mig potar hann aftur í augun á mér. Þannig að ég er með lokuð augun þegar hann nær rothögginu.“

Gunnar datt ekki lengi út en þetta var svokallað „flash-knockout“ sem þýðir að bardagakappinn rotast aðeins í nokkrar sekúndur og þegar hann rankar við sér er hann hvorki vankaður né ringlaður. „Þetta er svona „best case scenario-rothögg“. Ég vissi alveg hvar ég var og hvað væri í gangi.“

„Upprunalega eru þetta samt sjálfsvarnaríþróttir og til þess að þú lærir að verja þig þarf auðvitað einhver að ráðast á þig. Þetta snýst því um að yfirbuga andstæðinginn, ekki ráðast á hann.“

Í viðtölum strax eftir bardagann tók Gunnar stóran hlut ábyrgðarinnar á sig og sagði að hann hefði átt að stoppa bardagann strax. Þessu voru hins vegar faðir hans, Haraldur Dean Nelson, og þjálfari, John Kavannagh, ekki sammála og samkvæmt reglum getur aðeins dómari stöðvað bardaga, ekki bardagakappi. „Ég hefði kannski getað reynt að gera dómaranum viðvart að það væri ekki í lagi með mig. Það getur samt verið áhættusamt fyrir mig að taka um augun eða ná til dómarans því andstæðingurinn getur þá nýtt tækifærið og slegið til manns.“

Vildi setja fordæmi

Gunnar fór fremur sigurviss inn í bardagann við Ponzinibbio, eins og flesta aðra bardaga. Ef ekki hefði verið fyrir meint svindl andstæðingsins hefði hann að öllum líkindum staðið uppi sem sigurvegari, eins og svo margir bjuggust við. Gunnar og teymið hans ákváðu því að kæra útkomuna til UFC. „Til að byrja með var ég ekki viss um að ég vildi standa í því, ég nennti ekki að eyða meiri tíma og púðri í þetta. Það er mjög erfitt að fá útkomu bardaga breytt eða hnekkt, jafnvel þó að maður geti sýnt fram á svindl og manni finnist það vera borðleggjandi.“

Ein af upphaflegu grunnreglum UFC segir að það megi ekki pota í augu andstæðingsins og í ársbyrjun var nýrri reglu bætt inn til að styðja þá grunnreglu sem bannar bardagamönnum að slá í átt að andliti með ókrepptan hnefa. Gunnar kærði því úrslitin fyrst og fremst til að vekja athygli á þessu broti og setja fordæmi. „Ef ég hugsaði um íþróttina í heild og ekki bara um sjálfan mig þá var réttast að kæra. Þetta mun ábyggilega gerast aftur og vonandi verður það minna mál fyrir næsta sem lendir í þessu.“

UFC hafnaði loks kærunni í september svo úrslitin standa. Þó að sú ákvörðun hafi ekki komið Gunnari og teymi hans á óvart var hún engu að síður mikil vonbrigði. „Ég var kominn á skrið þarna og þetta sló mig aftur,“ segir Gunnar en hann féll niður um tvö sæti á styrkleikalista UFC við tapið. „Þetta er auðvitað fúlt en það eina sem ég get gert er að læra af þessu. Ég lít á þetta sem reynslu og veganesti fyrir framtíðina. Þótt það sé erfitt að reyna að stoppa svindlara veit ég allavega að ef ég lendi í einhverju álíka aftur mun ég reyna að láta dómarann vita svo hann geti stöðvað bardagann – og reyna að vera ekki sleginn niður áður. Maður þarf að fá tækifæri til að jafna sig eftir svona árás, því það er frekar áríðandi að sjá almennilega í bardaga,“ segir Gunnar og hlær.

Hingað til hefur Gunnar komist hjá því að fá á sig þung höfuðhögg eða rothögg. Hann segist þó alltaf verið undirbúinn undir það og þetta muni því ekki breyta neinu hvað varðar þjálfun. „Við pössum okkur mikið á höfuðhöggum. Við æfum aðeins með léttari höggum, menn bera virðingu fyrir og vita hvenær þeir fá á sig högg, án þess að við þurfum alltaf að vera að slá í gegn. Þetta er samt fín lína því auðvitað þurfa menn að upplifa orkuna sem þeir munu finna í alvöru bardaga án þess að verða fyrir óþarfa skaða á æfingu. Þá er hætta á að menn veðrist of mikið á að æfa.“

„Það er eðlilegt að upplifa alls kyns tilfinningar, bæði jákvæðar og neikvæðar, en það sem skiptir máli er hvernig maður tekst á við þær.“

MMA er lífsstíll

Gunnar var mjög orkumikill sem barn – það þurfti mikið að hafa fyrir honum og hafa ofan af fyrir honum. Foreldrum hans var því strax ljóst að hann hefði gott af því að stunda íþróttir. Gunnar fékk snemma áhuga á á bardagaíþróttum. Faðir hans, Haraldur Dean Nelson, var mikill áhugamaður og hafði bæði æft karate og kick-box á sínum tíma. Þeir feðgar horfðu oft saman á Bruce Lee-myndir og Gunnar vildi strax fara að æfa karate. Haraldur hvatti hann hins vegar til að æfa íshokkí því honum fannst hann þurfa íþrótt sem byði upp á meiri hasar og hreyfingu, en karate einkennist fyrst og fremst af miklum sjálfsaga og einbeitingu. Algengt er að börn missi áhugann og flosni upp úr karate á unglingsárunum og Haraldur vildi síður að það kæmi fyrir Gunnar.

Hann var því þrettán ára þegar hann hóf loks að æfa karate og náði strax miklum árangri. Hann vann Íslandsmeistaratitilinn í sínum flokki rúmu ári síðar og hélt þeim titli næstu tvö árin. Árið 2005, þegar hann var aðeins sextán ára, var Gunnar valinn efnilegasti karate-maður landsins en skömmu síðar hætti hann og sneri sér alfarið að MMA.

Í dag lítur hann á MMA sem lífsstíl og segir íþróttina hafa gefið sér mikið. „Maður lærir svo mikið um sjálfan sig. Ég er til að mynda skapstór, og hef alltaf verið, en í gegnum MMA hef ég lært að hafa stjórn á tilfinningum mínum. Í búrinu koma ýmsar tilfinningar upp á yfirborðið og þær geta hlaupið með mann í gönur. Maður þarf því að beisla þær, nýta orkuna úr þeim og tækla andstæðinginn og bardagann með rökfestu og skynsemi.

„Ég held að ég hafi alltaf verið með dálítinn athyglisbrest. En ég á mjög auðvelt með að einbeita mér svo lengi sem það er einhver hreyfing og hraði á hlutunum.“

Þetta hefur líka hjálpað mér í aðstæðum í lífinu utan íþróttarinnar. Það er eðlilegt að upplifa alls kyns tilfinningar, bæði jákvæðar og neikvæðar, en það sem skiptir máli er hvernig maður tekst á við þær. Þú ert ekki verri manneskja þótt þú verðir reiður eða afbrýðissamur, eða hvað sem það er, heldur er það hvað þú gerir við þessar tilfinningar sem skilgreinir þig og persónu þína.“

Gunnar segist líka geta verið mjög óþolinmóður og afar ör í hugsun. „Ég er oft farinn að hugsa um tuttugu hluti í einu. Ég held að ég hafi alltaf verið með dálítinn athyglisbrest. En ég á mjög auðvelt með að einbeita mér svo lengi sem það er einhver hreyfing og hraði á hlutunum.“

Það er stundum talað um að hugurinn skipti jafnmiklu máli og líkamsformið í bardagalistum. Tap getur óneitanlega haft meiri og verri áhrif á hugann en Gunnar vill meina að það skipti máli hvernig menn líti á og vinni úr tapinu. „Þú ákveður hvaða áhrif það hefur; ætlarðu að nota það, læra af því og láta það gera þig hungraðari eða ætlarðu að koðna niður? Sumir bardagamenn eru mjög háðir sviðsljósinu og kokhraustir út á við. Ég gæti alveg trúað því að það fari illa með þá að tapa. Jú, jú, það er alltaf skemmtilegra að vinna en ég lít á allt sem tækifæri til að bæta mig. Ég horfi til baka og tek það sem ég þarf úr upplifuninni en held svo áfram.“

Harkaleg íþrótt, ekki ofbeldi

Tíu ár eru liðin síðan Gunnar fór út í atvinnumennsku í MMA og á þeim tíma hefur hann barist í tuttugu bardögum; það gerir sextán sigra, þrjú töp og eitt jafntefli. Í ár átti hann einnig fimm ára UFC-afmæli. Aðspurður hvaða bardagi hafi verið erfiðastur segir Gunnar það tvímælalaust hafa verið við Demian Maia. Gunnar var ekki heill heilsu skömmu fyrir þann bardaga. „Ég átti einfaldlega mjög slæmt kvöld og veit ekki nákvæmlega hvers vegna. Ég var sprækur í kollinum en mér fannst orkubirgðir mínar klárast alltof hratt og líkaminn þreytast við litla áreynslu. Ég hef aðeins reynt að stúdera þetta en eina niðurstaðan sem ég hef komist að er að það er bara dagamunur á mönnum og þetta var ekki minn dagur.“

Á þessum árum hefur hann lært eitt og annað. „Af Maia-bardaganum lærði ég gefast ekki upp þrátt fyrir þreytu. Ég var gjörsamlega búinn á því og hefði oft getað fundið leið út en gerði það ekki heldur hélt áfram að berjast. Það er jákvæð lexía sem ég gat tekið úr þeim bardaga.“

Bardagastíll Gunnars er sagður óhefðbundinn og hann tekur alveg undir það. „Ég byrjaði í karate og er því með hraða fótavinnu, þennan inn og út stíl sem tíðkast þar, en síðan hef ég líka varið mjög miklum tíma á gólfinu í glímu. Þessi samsetning sést ekki oft og er fremur sjaldgæf – menn eru yfirleitt góðir í öðru hvoru. Annars er kannski erfitt fyrir mig að lýsa stílnum. Ég reyni samt stöðugt að bæta hann. Mér finnst gott að hafa eitthvað að vinna í, eitthvað til að bæta. Ég er ekki beint með stór, ákveðin markmið sem ég stefni að heldur þykir mér gaman að dunda við eitthvað og æfa mig. Ég er dálítill „craftsman“ og vil vinna að einhverjum hæfileika, bæta og þróa hann.

„Ég veit það sjálfur að mér finnst oft miklu óþægilegra þegar einhver náinn mér er að fara að berjast heldur en þegar ég sjálfur geri það. Það getur verið mjög stressandi.“

MMA hefur iðulega verið gagnrýnt fyrir að vera ofbeldisfull íþrótt en Gunnar bendir á að það sé ekki hægt að tala um ofbeldi þegar tveir þrautþjálfaðir einstaklingar takist á í bardaga sem þeir hafi báðir samþykkt. „Það eru fjölmargar íþróttir hættulegar og MMA er alls ekki hættulegasta íþróttin, það er bara staðreynd. Þetta er samt mjög harkaleg íþrótt og það getur stuðað fólk sem finnst kannski að eini tilgangurinn með íþróttinni sé að meiða einhvern. Upprunalega eru þetta samt sjálfsvarnaríþróttir og til þess að þú lærir að verja þig þarf auðvitað einhver að ráðast á þig. Þetta snýst því um að yfirbuga andstæðinginn, ekki ráðast á hann. Reglurnar eru eins góðar og hægt er án þess að gera bardagann óraunhæfan. Auk þess eru læknar á staðnum ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis. Það er mjög góð umgjörð utan um þetta.“

Gunnari er yfirleitt lýst sem yfirveguðum og rólegum gaur, innan og utan búrsins. Það virðist lítið fá á hann en það er ekki þar með sagt að hann hræðist ekkert. „Auðvitað verð ég smeykur. Það er allt í lagi að verða hræddur, bara mannlegt, en ætlarðu að leyfa óttanum að stjórna þér eða ætlar þú að horfast í augu við hann? Hugrekki er að mínu mati afar góður eiginleiki en það þýðir ekki að þú verðir ekki hræddur heldur nærðu að sigrast á hræðslunni – þú ert óhræddur við að vera hræddur,“ segir hann.

„Ég geri ráð fyrir að berjast í nokkur ár í viðbót en er ekki með neinn ákveðinn tíma í huga. Ég er voðalega lítið að hugsa langt fram í tímann, tek frekar einn dag í einu.“

Einstök stöð

Hefðbundnum degi í lífi Gunnars er mestmegnis varið í Mjölni þar sem hann bæði æfir og kennir. Hann er einn tíu stofnmeðlima íþróttafélagsins sem var sett á laggirnar árið 2005. Í febrúar á þessu ári tóku þeir í gagnið nýja aðstöðu í Öskjuhlíð þar sem Keiluhöllin og Rúbín voru einu sinni til húsa. Þar er að finna sex æfingasali, lyftinga- og teygjuaðstöðu, þrektæki, MMA-búr, boxhring, barnahorn og margt fleira.

„Mjölnir er einstakt batterí. Ég hef ferðast víða, nánast um allan heim, og farið í stöðvar en það jafnast ekkert á við Mjölni. Það er frábær andi þar innandyra og það segja það líka allir sem koma hingað. Þótt þetta sé bardagaklúbbur er ábyggilega minni tuddaskapur hér en í margri annarri líkamsrækt.

Við leyfum ekki dæmdum og þekktum afbrotamönnum að æfa í Mjölni, svo ég tali nú ekki um þá sem hafa verið dæmdir fyrir líkamsárásir, við viljum ekki sjá þá. Þetta er íþrótt og við viljum bara hafa fólk sem hefur gaman af því að taka á því, svitna, læra eitthvað og vera í góðum félagsskap. Það er það sem við stöndum fyrir,“ segir hann.

Gunnar fer ýmist á eina eða tvær æfingar á dag og æfingarnar eru miserfiðar. „Á mánudögum, til dæmis, kenni ég í hádeginu, klukkan eitt fer ég á æfingu þar sem ég tek mjög vel á því í einn og hálfan tíma. Eftir slíkar æfingar geri ég yfirleitt lítið um kvöldið, ef eitthvað, kannski helst einhverja tæknilega æfingu.“
Hann æfir jafnt og þétt yfir árið og tekur sér sjaldan hlé frá æfingum. Fyrir bardaga tekur hann svokallað „camp“ þar sem hann trappar upp æfingarnar og tekur fleiri spretti en vanalega. „Maður verður samt að passa sig og halda líkamanum góðum, það er ekki gott að lenda í ofþjálfun. Það skiptir miklu máli að skipuleggja campið vel og hafa góða blöndu af þungum og léttum æfingum svo maður nái hvíld. Eftir bardagann er svo líka mikilvægt að taka smápásu frá æfingum til að halda geðheilsunni – þetta snýst um jafnvægi.“

Glímir við soninn

Þegar Gunnar er ekki í Mjölni lifir hann ósköp venjulegu lífi. Aðra hverja viku er hann með son sinn, Stíg Tý Nelson, og vaknar fyrr þá daga til að koma honum af stað í leikskólann. Þar fyrir utan ver hann tíma með kærustu, vinum og fjölskyldu, horfir á sjónvarpið og spilar Playstation.

Gunnar er í sambandi með Fransisku Björk Hinriksdóttur en þau kynntust fyrir um ári. Hún er að hans sögn orðin nokkuð vön að horfa á hann berjast.

„Ég er skapstór, og hef alltaf verið, en í gegnum MMA hef ég lært að hafa stjórn á tilfinningum mínum.“

„Það er auðvitað ekkert sérstaklega þægilegt fyrir hana, eða almennt þá sem standa mér næst, að horfa á mig í búrinu. Ég veit það sjálfur að mér finnst oft miklu óþægilegra þegar einhver náinn mér er að fara að berjast heldur en þegar ég sjálfur geri það. Það getur verið mjög stressandi. Hún tekur því samt bara mjög vel.“

Stígur Týr er orðinn þriggja og hálfs árs og farinn að átta sig á hvað faðir hans gerir. „Honum finnst gaman að skuggaboxa, glíma og þess háttar – hann er aðallega í því að glíma við mig. Hann er rosalega orkumikill og algjör gaur. Mamma vill meina að ég hafi átt hann fullkomlega skilið miðað við hvernig ég var sem barn.

Ég mun klárlega leyfa honum að prófa barnastarfið hérna í Mjölni þegar hann verður eldri, sjá hvort hann hafi gaman af því. Það er frábærlega vel staðið að barnastarfinu og það er bara gott fyrir krakka að bæta almenna hreyfigetu og fá aðeins að takast á á vinalegan hátt. Það er hollt og þroskandi. Það eru dæmi um krakka sem hafa komið og átt eitthvað erfitt með sig en hér hafa þau byggt upp sjálfstraust og róast í sjálfum sér. Fyrir suma þá er þessi íþrótt bara algjörlega málið.“

Aðspurður um hvernig faðir hann sé segir Gunnar að það verði bara að spyrja Stíg að því. „Ég hef allavega ákveðnar skoðanir á hvernig ég vil ala hann upp. Mér finnst gott að leyfa honum að finna út úr hlutunum sjálfur en læt hann jafnframt ekki komast upp með bull og frekju. Maður þarf að láta þau vita hvað sé í lagi og hvað ekki. Krakkar þurfa að fá að takast á við sín vandamál og taka út pirring eða óánægju en svo er það bara búið. Það er í raun mjög einfalt að halda honum glöðum svo lengi sem maður er duglegur að finna upp á einhverju nýju að gera. Krakkar vilja endalaust læra eitthvað nýtt þannig að stundum er nóg að breyta um umhverfi eða stemningu.“

Kallar eftir bardaga

Í mörgum íþróttum ná menn hátindi sínum milli tvítugs og þrítugs en það er ekki óalgengt að bardagakappar í MMA séu að toppa sig seinna. Gunnar er til dæmis tuttugu og níu ára og enn að bæta sig. „Ég geri ráð fyrir að berjast í nokkur ár í viðbót en er ekki með neinn ákveðinn tíma í huga. Ég er voðalega lítið að hugsa langt fram í tímann, tek frekar einn dag í einu. Ég mun samt alltaf vera í þessu sporti með einum eða öðrum hætti. MMA er svo hrikalega stór hluti af mér og ég elska íþróttina af öllu hjarta. Þótt ég hætti að berjast þá er það bara partur af ferðalaginu, vissulega stór partur, en ég mun halda áfram að kenna og þróa þessa íþrótt.

Eftir Ponzinibbio-bardagann tók Gunnar sér hlé til að jafna sig almennilega. Reglur UFC kveða á um að bardagakappar séu settir í fjörutíu og fimm daga keppnisbann eftir rothögg en teyminu fannst það vera of lítið. „Ég er tiltölulega nýfarinn að æfa aftur að ráði, kannski rúm vika síðan ég byrjaði af kappi. Síðustu æfingar hafa gengið mjög vel og ég er bara að koma mér aftur í toppform. En ég er búinn að jafna mig og tilbúinn í næsta bardaga.“

„Mjölnir er einstakt batterí. Ég hef ferðast víða, nánast um allan heim, og farið í stöðvar en það jafnast ekkert á við Mjölni. Það er frábær andi þar innandyra og það segja það líka allir sem koma hingað.“

Það vakti athygli nýverið þegar Gunnar virtist kalla eftir bardaga við Darren Till í athugasemd á Instagram. Till kom inn í UFC nýverið með hvelli og sagði að allir væru of hræddir við að berjast við hann. Gunnar svaraði þessari staðhæfingu með orðunum: „Ég er til stóri strákur.“ „Það urðu einhveru uppþot í kringum þessi ummæli mín á Netinu. En ég er til í bardaga og Darren tók líka vel í þennan möguleika. Þetta kemur bara í ljós en mér finnst líklegt að á næstu vikum tilkynni UFC hvenær ég muni berjast næst og við hvern það verður,“ segir Gunnar að lokum og það er greinilegt að hann er hvergi banginn.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Innlit á veitingastaðinn Flatey Pizza úti á Granda

Á hvössum og köldum haustdegi kíktu blaðamaður og ljósmyndari inn í hlýjuna á nýjum veitingastað úti á Granda.

Vinirnir Haukur Már Gestsson, Brynjar Guðjónsson, Sindri Snær Jensson og Jón Davíð Davíðsson standa að staðnum en Sindri Snær og Jón Davíð eru þekktir í tískuheimi Reykjavíkur. Þeir eru eigendur verslunarinnar Húrra Reykjavík sem er starfrækt á tveimur stöðum á Hverfisgötunni og hefur átt góðu gengi að fagna.

Hvað kom til að þeir ákváðu að opna saman pítsustað? „Við erum æskuvinir úr Laugardalnum og þetta byrjaði á því að við Binni fórum að þróa með okkur þráhyggju fyrir ákveðinni pítsugerðarhefð eftir að hafa upplifað hana erlendis,“ segir Haukur. „Svo fórum við að spjalla við Sindra og Jón sem urðu strax mjög heillaðir, en þeir höfðu þá verið að láta sig dreyma um að opna veitingahús í nokkurn tíma. Eitt leiddi af öðru og á endanum fórum við saman í vísindaferð til London, borðuðum á tíu Napoletana-pítsustöðum á þremur dögum og í kjölfarið ákváðum við að kýla á þetta.“

„Það þarf mikla þjálfun til að gera svona pítsur, sérstaklega ef maður ætlar að gera það almennilega.“

Haukur hefur lengi haft áhuga á pítsugerð. „Ég hafði verið að fikta við súrdeigsbakstur í nokkur ár og svo smakkaði ég þessa tegund af pítsu í New York árið 2009. Síðan þá hef ég verið að leika mér að þessu heima hjá mér.“

Greinilegt er að pítsugerð er mikil ástríða hjá vinunum. Eftir að hafa afráðið að opna veitingastaðinn, ákváðu Brynjar og Haukur að ferðast til Napólí til að ná betri tökum á þeirri list að baka Napólípítsur. „Það þarf mikla þjálfun til að gera svona pítsur,“ segir Haukur, „sérstaklega ef maður ætlar að gera það almennilega. Við vörðum tveimur vikum í Napólí og hittum alla þá sem vildu fræða okkur um þessa pítsuhefð, m.a. AVPN-samtökin um verndun Napólípítsuhefðar. Svo eyddum við auðvitað drjúgum tíma á mörgum af þekktustu pítsustöðunum í Napólí, en í heildina eru um fjögur þúsund pítsustaðir í borginni.“

Viðtalið í heild má lesa í kökublaði Gestgjafans.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Leggja hjarta og sál í starfsemina

Pink Iceland er ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í skipulagningu ferða-, viðburða- og brúðkaupa fyrir hinsegin gesti.

En tekið er vel á móti öllum svo lengi sem þeir eru ekki fordómafullir.

Eigendurnir Eva María, t.h., og Birna Hrönn en Hannes Páll var vant viðlátinn. Mynd/Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði fyrir allnokkrum árum hjá Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange sem er eigandi þess ásamt Birnu Hrönn Björnsdóttur og Hannesi Páli Pálssyni. „Ég hafði lengi haft þann draum að koma á laggirnar þjónustu fyrir hinsegin ferðamenn. Ástæðan var aðallega sú að hinsegin ferðamenn verða oft fyrir hindrunum á ferðalögum sínu, óþægindum, fordómum og jafnvel ofbeldi. Með Pink Iceland er markmiðið að bjóða upp á þjónustuviðmót þar sem hinsegin gestum landins líður vel og geta ferðast frjálsir.

Ég stofnaði fyrirtækið árið 2011 þegar ég stundaði nám í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og tók þátt í frumkvöðlakeppninni Gullegginu. Ég fann strax að mig langaði ekki vera ein á þessu ferðalagi sem var að stofna nýtt fyrirtæki svo að unnusta mín Birna Hrönn hoppaði um borð í lestina. Skömmu síðar bættist vinur okkar Hannes Páll við í eigendahópinn og við fundum strax að við höfðum öll þrjú sömu ástríðu fyrir málefninu og vildum byggja upp fallegt fyrirtæki saman,“ segir Eva María sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Pink Iceland er að sögn Evu Maríu 21. aldar ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í skipulagningu ferða-, viðburða- og brúðkaupa fyrir hinsegin gesti. Eva er eigandi, ferða- og brúðkaupsskipuleggjandi, ásamt þeim Birnu Hrönn og Hannesi Páli. Birna er að auki markaðsstjóri stafrænnar markaðssetningar og Hannes er einnig hönnuður og markaðsstjóri.

„Þó að áherslur og markaðssetning beinist aðallega að þjónustu fyrir hinsegin gesti tökum við vel á móti öllum góðum gestum, svo lengi sem þeir eru ekki fordómafullir. Það er mikill munur á okkar fyrirtæki og ferðaskrifstofuforminu sem fólk þekkir frá því áður en Internetið og bókunarsíður urðu helstu tæki og tól ferðalanga til að skipuleggja fríin sín.

„Við segjum stundum að það megi líkja okkur við kaupmanninn á horninu, það er kannski aðeins dýrara en alltaf jafnnotalegt þegar manni er heilsað eins og gömlum vini og er þjónustaður í samræmi við það.“

Þessi munur liggur kannski einna helst í því að við þurfum að keppa í verðum við risavaxnar alþjóðlegar bókunarvélar en veita á sama tíma persónulega þjónustu og hanna hágæðaupplifun fyrir gestina okkar. Við segjum stundum að það megi líkja okkur við kaupmanninn á horninu, það er kannski aðeins dýrara en alltaf jafnnotalegt þegar manni er heilsað eins og gömlum og vini og er þjónustaður í samræmi við það. Gestir okkar eru nær allir erlendir enda er þjónusta okkar miðuð að þeirra þörfum.“

Náttúran aðdráttarafl

Brúðkaupsþjónusta Pink Iceland er fjölþætt og starfsfólkið aðstoðar tilvonandi hjón með allt sem viðkemur því að giftast og upplifa Ísland. „Verkefnin eru ótalmörg og mismunandi og það verða til fjölmörg dagsverk við skipulagningu hinna einföldustu brúðkaupa. Við vinnum náið með til dæmis ljósmyndurum, stílistum, athafnastjórum, leiðsögufólki, prestum, landeigendum, veitingafólki, tónlistarfólki og opinberum stofnunum. Þegar brúðkaupsgestir koma til landins þá vilja þeir líka ferðast og því tvinnast brúðkaups- og ferðaskipulagningin gjarnan saman.

Mynd / Pink Iceland

Mikill meirihluti okkar gesta er frá Bandaríkjunum. Náttúra landsins er aðal aðdráttaraflið fyrir ferðalögum fólks til Íslands og það sama á við með brúðkaup. Ísland verður því oft fyrir valinu þegar pör eru að leita að fallegum náttúrulegum stöðum til þess að láta gefa sig saman enda fara 90% okkar athafna fram utandyra.

Okkar þjónusta er einstök því hún er sérsniðin að ákveðnum hópi ferðamanna, þ.e. hinsegin ferðamönnum. Við tilheyrum sjálf þessum hópi og þekkjum hann vel. Við höfum svo tileinkað okkur ákveðna stefnu sem er það að vera hreinskilin við okkar gesti, erum með svokallaða „honesty policy“ þar sem við segjum hvernig viðskiptamódelið okkar virkar og það kann fólk að meta. Við höfum stundum talað um að við séum með ágætis „síu“ því að það kemur mjög skýrt fram hvað við stöndum fyrir og þá fáum við oftast ekki til okkar gesti sem eru með fordóma. Gestir okkar ganga iðulega í takt við þá lífssýn sem við, sem störfum hjá fyrirtækinu, höfum.“

Mikilvægt að lesa í aðstæður

Eva segir starfið mjög gefandi og þakklætið sé þar efst á blaði. „Það er ómetanlegt að finna þakklætið hjá fólki þegar allt er yfirstaðið. Sem brúðkaupsskipuleggjandi myndar maður náin tengsl við brúðhjón, vini þeirra og ættingja sem gerir allt ferlið svo gefandi. Í dag eigum við vini út um allan heim. Það er ótrúlega dýrmætt. Skemmtilegast er að upplifa stóra daginn með fólki. Sjá allt smella saman, upplifa gleðina og allar tilfinningarnar hjá gestum. Það er líka gaman að fá að vinna með fólki sem kann að meta þegar maður gefur sig allan í það að búa til einn mikilvægasta dag í lífi þess.

Hafþór Óskarsson, ferða- og brúðkaupsskipuleggjandi, og Sigríður Pálsdóttir brúðkaupsskipuleggjandi.

Veðrið getur oft verið mikil áskorun en við reynum þó að líta á það meira sem ævintýri sem kryddar daginn. Það getur verið erfitt að þurfa að breyta dagskrá dagsins vegna veðurs eftir að hafa skipulagt daginn í heilt ár eða lengur. Sem betur fer gerir fólk sér nú yfirleitt grein fyrir því að það er allra veðra von á Íslandi og kippir sér ekki upp við óvæntan snjóstorm eða smávegis rigningu. Það eru einna helst Íslendingarnir sem signa sig þegar þykkir upp og verða meðvirkir með íslenskri veðráttu. Ættingjar brúðhjóna geta líka verið erfiðir á köflum og þá þarf brúðkaupsskipuleggjandi að takast á við þá til þess að létta undir með brúðhjónunum. Það er mikilvægt að lesa vel í aðstæður og vinna úr þeim áskorunum sem koma upp án þess að brúðhjónin finni fyrir nokkru.

Við leggjum mikla áherslu á að fólkið njóti þessa ferðalags sem felst í því að skipuleggja brúðkaup í ókunnugu landi. Þá er gagnkvæmt traust mikilvægt, þ.e. að tilvonandi par treysti okkur fyrir að hjálpa sér að taka réttar ákvarðanir. Fólk á það til að týnast í smáatriðum og þá er það okkar hlutverk að fá það til þess að forgangsraða og einblína á stóru myndina – það sem virkilega skiptir máli. Við hvetjum fólk alltaf til að fylgja hjartanu og henda hefðum út um gluggann. Það þarf ekki að bjóða fulla frændanum eða óviðeigandi frænkunni sem eyðileggja allar veislur. Það má alveg bjóða upp á „burger og bjór“ í veislu. Það má alveg gifta sig á táslunum og strákar mega alveg vera með blómvönd.“

„Það fékk því mikið á alla þegar ein systirin kvað sér hljóðs og bað um að fá að lesa bréf frá móður mannsins, en þau höfðu á þessum tímapunkti ekki talast við í mörg ár.“

Hún segir að kostnaður sé eins mismunandi og brúðkaupin eru mörg. „Bara blómin í stóru brúðkaupi geta kostað jafnmikið og öll þjónustan á bak við lítið brúðkaup. Eins og áður sagði er hreinskilni og gagnsæi okkur mikilvæg og við reynum bara að vinna með það sem tilvonandi brúðhjón hafa úr að spila. Ef við sjáum fram á að brúðhjón hafi ekki efni á okkar þjónustu þá reynum við samt alltaf að gefa þeim góð ráð og beina þeim í réttar áttir. Ef við berum þetta saman við það sem pörin væru að eyða í sínu heimalandi þá er oftast ódýrara fyrir þau að gifta sig á Íslandi þar sem veisla er oft minni í sniðum og færri gestum boðið en í öðrum löndum. Það er þá verið að fjárfesta í öðrum hlutum, minna eytt í til dæmis skreytingar og meira í hluti sem bæta upplifun gesta og pars, til dæmis ævintýralegar ferðir, góðan mat, skemmtileg tónlistaratriði og svo framvegis.“

Allir hágrétu

Starfsemin hefur skilið eftir sig margar góðar minningar og Eva segir að alltaf standi eitthvað upp úr í hverju brúðkaupi. „Eftirminnilegustu sögurnar tengjast gjarnan tilfinningarríkum uppákomum. Okkur er minnistætt brúðkaup sem við skipulögðum fyrir nokkru þar sem foreldrar annars brúðgumans höfðu afneitað syni sínum eftir að hann kom út úr skápnum. Systur þessa manns náðu þó að smygla sér úr landi til að vera við brúðkaup bróður síns, án vitneskju foreldranna eftir því sem við best vissum. Það fékk því mikið á alla þegar ein systirin kvað sér hljóðs og bað um að fá að lesa bréf frá móður

Mynd / Pink Iceland

mannsins, en þau höfðu á þessum tímapunkti ekki talast við í mörg ár. Við vissum ekki hverju við ættum von á og settum okkur í stellingar og vorum tilbúin að slökkva á hljóðnemanum. Þess gerðist þó ekki þörf því bréfið var fullt af ást og viðurkenningu móður á syni sínum. Það kom fram að pabbinn vissi hvorki af brúðkaupinu né bréfinu sem var lesið og móðirin, sem var orðin okkuð öldruð, vildi fullvissa strákinn sinn um að hann væri elskaður, þó ekki væri nema af öðru foreldrinu. Allir sem urðu vitni að þessu hágrétu hvort sem það voru gestir, gumar, þjónar eða brúðkaupsskipuleggendur.“

Gott orðspor dýrmætt

Eva María er stolt af því orðspori sem þau hafa skapað sér. „Við erum til dæmis komin með tæplega 300 fimm stjörnu umsagnir á Tripadvisor og þeir sem ferðast með okkur koma iðulega til okkar vegna þess að einhver mælti með okkar ferðum. Það er búið að fjalla fallega um okkur um allan heim og við trúum því að ef maður leggur hjarta og sál í það sem maður gerir og passar að njóta þess á hverjum degi komi það margfalt til baka. Við höfum vaxið hratt á síðustu árum en þó ekkert í líkingu við mikið af fyrirtækjum í kringum okkur og það er einfaldlega vegna þess að við viljum halda rétt á spöðunum, fara ekki fram úr okkur og passa að þjónustan sem við bjóðum upp á sé einstök.

Við erum alltaf að bralla eitthvað. Þessa dagana tökum við til dæmis þátt í HönnunarMars þar sem við bjóðum upp á DesignWalk-gönguferð um miðborgina. Við erum líka að skipuleggja heimsóknir kórahópa til landsins. Svo erum við alltaf að leita nýrra leiða til að tengja saman skapandi greinar, menningu og ferðaþjónustu enda finnst okkur þetta vera náskyldar greinar.“

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Ávaxtajólakaka á aðventunni

Leirlistarkonan og myndlistarkennarinn Mariella Thayer hefur gaman af því að fá útrás fyrir sköpunarhæfileika sína í eldhúsinu. Kakan sem hún gefur okkur uppskrift að er dásamleg ávaxtaka sem upphaflega kom frá ömmu hennar.

Kökuna hefur hún bakað fyrir jólin í yfir 20 ár en í gegnum árin hefur hún þróað kökuna og gert að sinni. „Ég baka alltaf svolítið magn og frysti og tek svo bara eina og eina út og ber fram í litlum bitum með kaffi eða ískaldri mjólk.

Kakan hentar líka sérlega vel sem matarjólagjöf og nokkrir ættingjar mínir fá kökuna í jólapakkann en þá tek ég hana út úr frystinum rétt fyrir jól og pakka henni inn en hún geymist í 4-5 daga í í kæli og 6 mánuði í frysti.“

„Kakan hentar líka sérlega vel sem matarjólagjöf og nokkrir ættingjar mínir fá kökuna í jólapakkann.“

Þess má geta að Mariella hefur gaman af því að endurgera gamla hluti og gefa þeim nýtt líf í postulíni en hlutirnir á myndinni eru einmitt úr postulínssmiðju hennar. Áhugasamir geta skoðað postulínið á Facebook-síðunni „jól alla daga“.

Ávaxtajólakaka

Ávextir:
2 ½ dl þurrkaðar döðlur, saxaðar
2 ½ dl þurrkaðar gráfíkjur, saxaðar
2 ½ dl rúsínur
1 lítil krukka af rauðum maraschino-kirsuberjum
2 dl sérrí

Setjið allt hráefnið í skál og látið standa yfir nótt eða látið liggja í 2-3 klukkustundir.

Hnetur:
2 dl möndlur, gróft saxaðar
2 dl pekanhnetur, gróft saxaðar
2 dl valhnetur, gróft saxaðar
2 dl brasilíuhnetur, gróft saxaðar
150 g suðusúkkulaði, saxað, eða einn poki Síríus súkkulaðidropar

Setjið til hliðar og geymið.

Deig:
150 g sykur
150 g mjúkt smjör
3 egg
200 g hveiti
1 ⅓ tsk. lyftiduft

Þeytið sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós. Bætið síðan einu eggi í einu út í og hrærið aðeins í á milli. Þegar blandan verður létt, ljós og jöfn er hveitið og lyftiduftið hrært út í og vélin látin ganga svolitla stund. Bætið ávöxtunum og hnetunum saman við deigið og hrærið varlega saman á hægum hraða þar til allt hefur samlagast vel. Skiptið deiginu jafnt í 4 einnota álmót (20×9,2 cm) og bakið við 150°C í u.þ.b. eina klukkustund. Gott er að stinga með prjóni í kökuna þegar hún hefur verið í ofninum í 50 mínútur.

Höfundur: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Gefðu sköpunarkraftinum lausan tauminn

Grenitrjám fylgir bæði kostnaður og leiðindaumstang.

Það þarf að vökva tréð reglulega, ryksuga nálarnar og eftir jól þarf maður að losa sig við það. Vissulega er hægt að kaupa falleg gervijólatré en einnig er hægt að útbúa jólatréslíki frá grunni. Hér eru nokkrar skemmtilegar útfærslur.


Hver segir að jólatréð þurfi endilega að vera grenitré. Hér er einfaldlega nokkrum greinum komið fyrir í vasa og þær skreyttar með öllu tilheyrandi.

Í litlum íbúðum þar sem gólfpláss er af skornum skammti er gott ráð að útbúa einfaldlega jólatré á vegg. Ýmist er hægt að nota vegglímmiða og nota svo nagla eða teiknibólur til að festa skrautið á tréð. Önnur útfærsla er að nota grunnar hillur og mynda jólatréð með þeim. Þá er hægt að stilla myndum og skrauti upp á hillurnar og strengja ljós- eða skrautborða á þær.

Auðvelt er að búa til jólatré úr greinum eða öðrum trjábútum. Hér er útfærsla úr dökkum gólflistum sem er raðað á víxl. Mikilvægt er að skipuleggja sig vel áður en hafist er handa; ákveða lokahæð og -breidd trésins, reikna hversu marga búta þarf, lengd þeirra og loks þarf að saga og pússa viðinn. Tréð úr gólflistum er létt og lipurt þannig að það er hægt að hengja það upp í loft.

Það getur reynst erfitt að hengja venjulegt jólatrésskraut á þetta tré en ýmist er hægt að leggja skraut á endann á hverjum planka eða skrúfa króka neðan á þá til að hengja skraut í.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Þær breyttu til batnaðar

Eftirtaldir fatahönnuðir og kvenskörungar hristu upp í úreldum hefðum og höfðu mikil áhrif á það hvernig við klæðum okkur í dag.

Mary Quant

Mary Quant kynnti meðal annars til sögunnar mínipilsið sem breytti því hvernig konur klæddust til frambúðar.

Það varð mikil bylting í tískunni þegar fatahönnuðurinn Mary Quant mætti á svæðið á sjöunda áratug síðustu aldar. Hún kynnti meðal annars til sögunnar mínipilsið sem breytti því hvernig konur klæddust til frambúðar. Á þessum árum varð önnur bylgja feminískra hreyfinga til og konur upplifðu kynferðislegt frelsi með komu getnaðarvarnarpillunnar á markað. Það var engu líkara en þær vantaði áþreifanlega táknmynd í stíl við vaxandi frelsið.

Það tóku ekki allir vel í þessar breytingar á klæðaburði kvenna en í ævisögu Mary Quant minnist hún þess að uppáklæddir eldri karlmenn hafi barið regnhlífum sínum harkalega í gluggana á fyrstu búð hennar og öskrað ókvæðisorð á borð við: „siðlaust!“ og „ógeðslegt!“.

… í ævisögu Mary Quant minnist hún þess að uppáklæddir eldri karlmenn hafi barið regnhlífum sínum harkalega í gluggana á fyrstu búð hennar og öskrað ókvæðisorð á borð við: „siðlaust!“ og „ógeðslegt!“

En Mary hélt ótrauð áfram að breyta tískuheiminum með því að hrista upp í íhaldssömum hefðum. Hún hjálpaði konum að tjá sig og gaf þeim það sem þær sóttust eftir: uppreisn. Mínipilsið var táknmynd uppreisnar gegn gömul hefðum og stóð fyrir kynþokka og kynlíf og að klæðast því var pottþétt leið til þess að pirra íhaldssama foreldrana.

Áður var ætlast til þess að stúlkur líktu eftir klæðaburði mæðra sinna en femínistahreyfingarnar gáfu skít í þá hugmyndafræði. Mary gerði sér grein fyrir því að mínipilsatískan átti upptök sín í götutískunni og viðskiptavinir hennar gerðu kröfur um æ styttri pils og þannig hjálpaði hún til við að frelsa konur á sjöunda áratuginum undan úreltum hefðum og gömlum gildum.

Vivienne Westwood

Það varð mikil breyting á landslagi tískunnar á áttunda áratugnum, þegar glimmer og glamrokk sixtís-tímans rann sitt skeið þar sem David Bowie og Bítlarnir voru helstu tískufyrirmyndirnar. Í miðjum umsviptingunum var breski fatahönnuðurinn Vivienne Westwood.

Hún byrjaði ferilinn með því að reka verslunina SEX með kærasta sínum en þau hönnuðu rennilása, pinna, nælur og armbönd með pólitískum skilaboðum.

Hún byrjaði ferilinn með því að reka verslunina SEX með kærasta sínum en þau hönnuðu rennilása, pinna, nælur og armbönd með pólitískum skilaboðum.

Seint á áttunda áratugnum varð pönktónlist leið breskra ungmenna til þess að fá útrás og tjá reiði sína gegn stjórnvöldum. Tvær milljónir atvinnulausra fékk meðal annars útrás í gegnum pönkið og með því að klippa og næla saman skotapilsið, sem var gjarnan notað sem táknmynd drottningarinnar.

Vivienne var rétt kona á réttum stað og gaf anarkistunum rödd innan hátískunnar. Hún blandaði köflóttu skotamynstri saman við gaddaðar hundaólar, skreytti allskyns fatnað með öryggisnælum og gerði hátískuvöru úr kynlífsklæðnaði.

Diane Von Furstenberg

Diane Von Furstenberg er viðskiptamógull í sinni tærustu mynd. Ekki nóg með að samkvæmt Forbes er hún ein allra ríkasta kona Bandaríkjanna með tilliti til tekna heldur náði hún heldur betur að snúa vörn í sókn þegar fyrirtæki hennar átti í erfiðleikum á níunda áratugnum og kom enn sterkari inn á markað aftur með sívinsælu bundnu kjólana sína sem hún sló upprunalega í gegn með á áttunda áratugnum.

Saga Diane er einkar merkileg því hún hefur aldrei í raun þurft að vinna. Hún kynntist eiginmanni sínum, prinsinum Egon von Furstenberg í háskólafríi í svissnesku Ölpunum og stuttu síðar giftu þau sig.

Diane var þó alltaf staðráðin í að gera meira en að njóta lífsins lystisemda í boði eiginmannsins og hefur löngum sagt að það sé henni einna mikilvægast í lífinu að skapa sínar eigin tekjur.

Og það gerði hún heldur betur. Bundni kjóllinn hennar varð óendanlega vinsæll. Árið 1975 framleiddi hún 15.000 kjóla á viku og hönnuninni klæddust hinar ólíkustu konur á borð við Betty Ford og Gloriu Steinem.

Diane Von Furstenberg er viðskiptamógull í sinni tærustu mynd.

Kjóllinn varð flíkin sem gerði allt fyrir konuna sem reyndi að gera allt, svipað og konan sem stóð á bak við hönnun hans.

Og ástæðan fyrir vinsældunum var óneitanlega vegna þess að í honum leið konum eins og þær langaði að líða í miðri kynlífsbyltingu: kynþokkafullum og óheftum og kjóllinn varð táknmynd fyrir frelsi kvenna á þessum tíma.

Bundni kjóllinn hennar Diane hentaði vel sem vinnuklæðnaður þar sem hann var bundinn þétt upp við líkamann en böndin voru leyst eftir vinnu til að mæta á diskótekið og ef tilefni gafst til var auðvelt að leysa hann með einu handtaki seinna um kvöldið.

Kjóllinn varð flíkin sem gerði allt fyrir konuna sem reyndi að gera allt, svipað og konan sem stóð á bak við hönnun hans. Hönnun Diane nýtur enn mikilla vinsælda í dag enda erfitt að finna klassískari hönnun sem hægt er að klæðast við hin ýmsu tilefni.

Donna Karan

Á níunda áratugnum, þegar konur kepptu við karla upp metorðastigann í viðskiptalífinu varð vöntun á fatnaði sem undirstrikaði metnaðinn og stöðu þeirra á vinnumarkaði. Árið 1984 kom á markað frá Donnu Karen fatalína sem bar nafnið Seven Easy Pieces, fatnaður sem konur gátu klæðst og liðið í senn bæði kvenlega og fagmannlega á vinnustaðnum.

Donna Karan lagði áherslu á nokkrar einfaldar flíkur sem hægt var að blanda saman að vild; samfellur, stuttermabolir og hnésíð pils urðu bestu vinir hinnar vinnandi konu. Karan varð sjálf táknmynd fyrir þá konu.

Donna Karan kvartaði undan því að það eina sem var í boði áður en hún kom til sögunnar var að klæðast karlmannlegum drögtum eða allt of fínlegum kjólum sem hentuðu ekki þeim sem voru úti á vinnumarkaðnum. Konur klæddust nokkurn veginn eins og karlmenn og það vantaði allan kvenlegan þokka.

Fatalínan hennar sendi öflug skilaboð og undirstrikaði konuna sem klæddist þeim en reyndi ekki að líkja eftir klæðnaði mannsins sem hún þurfti að standa uppi í hárinu á á skrifstofunni.

Í fyrsta sinn í sögunni var hægt að fá fatnað fyrir konur sem lét þær ekki líta út fyrir að vera karlkyns og gerði heldur ekki lítið úr þeim með sykursætri hönnun. Hún fyllti upp í plássið sem vantaði á milli röndóttu jakkafatanna og pífupilsa.

Fatalínan hennar sendi öflug skilaboð og undirstrikaði konuna sem klæddist þeim en reyndi ekki að líkja eftir klæðnaði mannsins sem hún þurfti að standa uppi í hárinu á á skrifstofunni.

Donna Karan lagði áherslu á nokkrar einfaldar flíkur sem hægt var að blanda saman að vild; samfellur, stuttermabolir og hnésíð pils urðu bestu vinir hinnar vinnandi konu. Karan varð sjálf táknmynd fyrir þá konu og bar einfalda og þægilega hönnun sína einstaklega vel. Ólíkt því sem þekktist hjá yngri kynslóðinni á þessum árum þá einbeitti Donna sér að því að hanna einfaldar flíkur úr þægilegum efnum en konur flykktust í verslanir hennar og tóku vel í nútímalega hönnunina og Donna varð ókrýnd drottning Sjöundu Breiðgötu.

Höfundur / Helga Kristjáns

 

Teiknimyndir – ekki bara fyrir börn

Okkur hættir stundum til að líta á teiknimyndir sem eitthvað bara fyrir börn en þær geta haft mikið skemmtanagildi fyrir alla fjölskylduna.

Anna fær hjálp frá hinum eitilharða fjallamanni Kristoff, hreindýrinu hans Sven og snjókarlinum Olaf.

Mikið púður fer í framleiðslu þessara mynda og þær hljóta ekki síður verðlaun en leiknar kvikmyndir. Á ári hverju hlýtur ein teiknimynd verðlaun sem sú besta sinnar tegundar á Óskarsverðlaununum og hér eru þær sem unnið hafa síðustu fimm ár.

Vélmenni og vinir
Big Hero 6 segir frá unglingsdrengnum Hiro Hamada sem eyðir frítíma sínum í að byggja vélmenni. Hann lendir í miklum ævintýrum með uppblásna félaga sínum Baymax sem bróðir hans bjó til. Þeir þurfa ásamt nokkrum kostulegum og uppátækjasömum vinum Hiros að stöðva illan skúrk sem ætlar sér að ná öllum völdum á jörðinni.

Systraást
Það þekkir hvert mannsbarn lagið Þetta er nóg, eða Let it Go, úr kvikmyndinni Frozen. Myndin segir frá konungsbornu systrunum Önnu og Elsu. Þegar þær voru litlar voru þær bestu vinkonur en hafa fjarlægst með árunum vegna þess að á Elsu hvíla álög – allt sem hún snertir frýs og hún getur framkallað vetur. Dag einn kemst upp um þessi álög og Elsa flýr konungsdæmið en skilur það eftir í vetrarríki. Anna er haldin óbilandi bjartsýni og ákveður að takast á hendur ferðalag til að finna systur sína og binda enda á frostaveturinn endalausa. Hún fær hjálp frá hinum eitilharða fjallamanni Kristoff, hreindýrinu hans Sven og snjókarlinum Olaf.

Zootopia verðlaunin sem besta teiknimyndin. Hún fjallar um heim þar sem öll dýrin eru vinir en þó ríkir ekki fullkomið jafnrétti meðal þeirra og töluvert er um fordóma.

Dýrahasar
Í ár hreppti Zootopia verðlaunin sem besta teiknimyndin. Hún fjallar um heim þar sem öll dýrin eru vinir en þó ríkir ekki fullkomið jafnrétti meðal þeirra og töluvert er um fordóma. Aðalpersónurnar eru tvær, annars vegar löggukanínan Judy og hins vegar svali rebbinn Nick sem er þekktur fyrir að vera ekki alltaf alveg réttum megin við lögin og er nokkuð hrekkjóttur í þokkabót. Þau kynnast þegar Judy er send til að handtaka hann fyrir glæp sem hann er ranglega sakaður um að hafa framið en það reynist hægara sagt en gert að hafa hendur í skotti hans. Málin taka hins vegar nýja stefnu þegar Nick og Judy flækjast bæði inn í samsæri og neyðast til að snúa bökum saman til að endurheimta heiður sinn og orðspor.

Inside Out segir frá ungri stúlku og þeim tilfinningum sem bærast innra með henni og stjórna daglegri líðan hennar og skapsveiflum.

Flókið tilfinningalíf
Inside Out er heldur betur áhugaverð og frumleg teiknimynd. Hún segir frá ungri stúlku og þeim tilfinningum sem bærast innra með henni og stjórna daglegri líðan hennar og skapsveiflum. Dagný er nýflutt ásamt foreldrum sínum á nýjan stað og saknar auðvitað gömlu heimaslóðanna og vinanna. Þetta hefur óneitanlega áhrif á tilfinnningalíf hennar og við fáum að kynnast hennar helstu tilfinningum: Gleði, Sorg, Óbeit, Reiði og Ótta. Gleði hefur hingað til alltaf verið við stjórnvölinn og líkar illa að Sorg sé farin að færa sig upp á skaftið. Dag einn verður dálítið óhapp til þess að ein af kjarnaminningum Dagnýjar tapast og Gleði ásetur sér að endurheimta hana, en sú ferð á eftir að hafa kostulegar afleiðingar í för með sér.

Í Brave er svo sannarlega að finnsa flotta fyrirmynd fyrir litlar stelpur.

Lítill kvenskörungur
Í Brave er svo sannarlega að finnsa flotta fyrirmynd fyrir litlar stelpur. Myndin gerist í hinum dulúðugu skosku hálöndum þar sem Merida er prinsessa í konungsríki sem stjórnað er af Fergusi kóngi og Elinoru drottningu. Merida er afar sjálfstæð, dálítið óstýrilát og mjög góður bogmaður. Þegar á að bjóða hönd hennar fram til hjónabands býður hún venjunum birginn og veldur miklum titringi í konungsríkinu. Til að gera málin enn flóknari leitar Merida hjálpar hjá sérviturri gamalli konu og fær hjá henni eina ósk sem reynist þó vera óheillaósk því hún gerir það að verkum að Elinor, mamma Meridu, breytist í skógarbjörn.

Fjölbreytileiki fegurðar

Þessar fyrirsætur eru að brjóta múra í bransanum.

Þegar talað er um óvenjulegar fyrirsætur þá er oft átt við stúlkur sem eru samt gríðarlega fallegar en á óhefðbundinn hátt – til dæmis með hátt enni, langt á milli augna, frekjuskarð, í yfirstærð og svo framvegis.
Til eru þó fyrirsætur sem virkilega stokka upp í norminu og sýna að fegurð á sér raunverulega fjölmargar birtingarmyndir. Þetta eru konur sem sáu aldrei fyrir sér feril sem fyrirsætur, einkum og sér í lagi vegna þess að þær áttu engar fyrirmyndir innan bransans. Engu að síður hafa þær blómstrað og eru fyrirmyndir komandi kynslóða.

Melanie Gaydos fæddist með sjaldgæfan sjúkdóm sem veldur óeðlilegum vexti á vefjum húðar, tanna, nagla og smárra beina. Hún er einnig með alopeciu þannig að hún er alveg hárlaus. Hún hóf störf sem fyrirsæta eftir að kærastinn hennar, sem er ljósmyndari, hvatti hana til þess.

„Mér finnst gott að geta sýnt öðrum að það er fólk sem fæðist öðruvísi en það sjálft og jafnframt að það snýst ekki allt um það hvernig þú lítur út.“

 

 

Jillian Mercado sótti um fyrirsætustarfið í gríni og það kom henni mjög á óvart þegar hún fékk það. Hún hafði lengi verið viðriðin tískuheiminn sem bloggari. Hún hefur verið í hjólastól alla ævi vegna vöðvarýrnunarsjúkdóms. Hún hefur unnið með stórum nöfnum á borð við Diesel og Carine Roitfeld.

„Ég lít á fyrirsætustörfin sem bæði heppni og blessun. Ég er bara sú sem ég er og það er mjög fallegt að heimurinn geti tekið mér sem slíkri.“

Brunette Moffy er rangeyg. Það er ef til vill ekki alvarlegur kvilli og auðvelt er að leiðrétta hann með sterasprautum, skurðaðgerðum eða einfaldlega gleraugum. Moffy hefur hins vegar kosið að gera það ekki og fagnar óhefðbundnu útliti sínu og það virðast aðrir gera líka því hún hefur þegar setið fyrir á forsíðu tímaritsins Pop.

„Ég elska augun mín.“

Diandra Forrest er bandarísk fyrirsæta af afrískum uppruna sem fæddist með albínisma, meðfæddan skort á litarefni í húð, hári og augum. Hún er fyrsta kvenfyrirsæta með þessi einkenni og er ánægð með að geta verið fyrirmynd annarra barna og unglinga með albínisma.

Aðalmynd, efst, er af Winnnie Harlow. Winnie þjáist af vitiligo-sjúkdómnum sem veldur því að algjörlega litlausir blettir myndast á húð. Hún var iðulega kölluð belja þegar hún var í barnaskóla og bekkjarsystkini hennar bauluðu á eftir henni. Hún vakti athygli þegar hún tók þátt í America‘s Next Top Model um árið. Þrátt fyrir að hafa aðeins lent í sjötta sæti í keppninni hófu hönnuðir og ljósmyndarar að hafa samband við hana og biðja um að hún sæti fyrir hjá sér.

„Ég byrjaði að elska sjálfa mig. Þá fóru tækifærin að hrannast inn og ég þakka guði fyrir hvert eitt og einasta.“

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

„Bismark besta jólasælgætið“

Kökublað Vikunnar er komið í verslanir og inniheldur margar glæsilegar uppskriftir. Hulda Viktorsdóttir hjúkrunarnemi er ein þeirra sem bakaði fyrir blaðið.

Kökublað Vikunnar er stútfullt af spennandi efnum. Hulda Viktorsdóttir hjúkrunarnemi er ein þeirra sem bakaði fyrir blaðið en hún reynir að baka eitthvað alla aðventuna.

„Það hefur verið bakað mikið fyrir jólin frá því ég man eftir mér. Mamma heldur mikið í hefðirnar og bakar nánast alltaf það sama hver jól. Á aðventunni finnst mér bakstur með mömmu ómissandi, ilmandi kertaljós og ljúfir tónar með Michael Bublé.“ segir Hulda. „Ég bakaði fyrir ykkur þessa þriggja laga súkkulaðiköku með Bismark-smjörkremi þar sem Bismark er uppáhaldsjólasælgæti mitt.“

Bismark-súkkulaðikaka

225 g sykur
225 g púðursykur
180 g smjör við stofuhita
3 egg
345 g hveiti
½ tsk. salt
60 g kakó
3 dl mjólk

Smjör, sykur og púðursykur þeytt saman. Eggjunum bætt rólega saman við. Þeytt þar til blandan er orðin loftkennd. Restin af þurrefnum bætt saman við. Sett í þrjú grunn form og bakað við 180°C í um það bil 30 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í kökuna kemur hreinn upp.

Kremið
150 g Philadelphia-rjómaostur
375 g smjör
1 ½-2 pk. flórsykur
3 msk. rjómi
2 tsk. piparmyntu-extract

Rjómaostur og smjör þeytt saman. Rjómanum og flórsykrinum bætt saman við og loks piparmyntudropunum. Það er betra að setja minna en meira af flórsykrinum og bæta frekar jafnóðum við þar til kremið er orðið eins og þú vilt hafa það. Einnig er gott að smakka kremið til og bæta þá við piparmyntudropum ef þess þarf.
Kakan er síðan skreytt með jólastöfum og Bismark-brjóstsykrum.

Umsjón: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir: Hákon Davíð Björnsson

Fjórar frægar skandinavískar hönnunarvörur

adsf

Skandinavísk hönnun er ein sú vinsælasta í heiminum í dag, ekki síst retro-hönnun frá fyrri part síðustu aldar en ekki allir þekkja söguna á bak við munina.

Hér eru nokkrar klassískar hönnunarvörur frá Skandinavíu sem er að finna á fjölmörgum íslenskum heimilum og smáskot um hönnuðina á bak við þær.

Hönnuðurinn Kay Bojesen og Apinn frægi.

Kay Bojesen og Apinn

Hönnuðurinn Kay Bojesen menntaði sig upprunalega sem silfursmiður og var í læri hjá Georg Jensen. Það var ekki fyrr en hann eignaðist fyrsta son sinn, Otto, sem hann sneri sér að viðarleikföngum.

Hann mundi hvað honum þótti gaman í æsku þegar faðir hans tálgaði leikföng úr við fyrir hann. Hann vildi einnig rækta sköpunargáfu barna sinna með leikföngum sem væru frumleg og glaðleg.

Hann er án efa þekktastur fyrir Apann en eftir hann liggja þó yfir 2.000 munir og margir eru enn framleiddir í dag.

Poul Henningsen og PH-ljósin

Poul Henningsen kom fyrst til starfa hjá Louis Poulsen árið 1925 og starfaði þar til dauðadags árið 1967.

Hann hóf strax handa við að hanna ljós fyrir sýningu í París og það reyndist upphafið á PH-vörulínunni.

Helsta markmið hans var að hanna ljós sem voru laus við endurkast þannig að þau veittu þarfa birtu en sköpuðu jafnframt mjúka skugga.

Til eru ýmsar útfærslur á PH-ljósum en vinsælastar eru eflaust hangandi PH 3.5 og PH 5-lampinn.

Til eru ýmsar útfærslur á PH-ljósum Henningsen.

Arne Jacobsen og Eggið

Arkitektinn og hönnuðurinn Arne Jacobsen er flestum kunnur og ekki er hægt að tala um skandinavíska hönnun án þess að minnast á hann. Þegar hann var ungur átti hann sér draum um að verða listmálari en faðir hans fékk hann til að velja frekar arkitektúr því það væri praktískara. Hann hóf samstarf við húsgagnaframleiðandan Fritz Hansen árið 1934 sem enn í dag framleiðir stólana hans. Þótt hann sé ef til vill frægastur fyrir Eggið þá eru ekki allir sem hafa efni á að kaupa sér eitt slíkt. Á mörgum íslenskum heimilum er hins vegar að finna Sjöuna í einum eða fleiri litum.

Stólar eftir Arne Jacobsen.

Alvar Aalto

Finnski arkitektinn og hönnuðurinn Alvar Aalto var sannkallaður þúsundþjalasmiður en hann er þekktur bæði fyrir byggingar, húsgögn, textíl og glermuni. Á flestum íslenskum heimilum er að finna að minnsta kosti einn mun úr vörulínunni sem Alvar Aalto hannaði fyrir finnska fyrirtækið Iittala, hvort sem það er glervasi, kertastjaki, bakki eða eitthvað annað. Aalto sigraði Karhula-Iittala glerhönnunarkeppnina árið 1936 með þeirri línu. Innblásturinn fékk hann frá öldum hafsins og er línan í dag ein þekktasta hönnun Finnlands.

Úr smiðju Alvars Aalto.

Mistökin geta verið algjör snilld

Linda Ben Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Linda Benediktsdóttir er mörgum sælkeranum kunn en hún heldur úti bloggsíðunni lindaben.is.

Í nýjasta tölublaði Vikunnar er Linda með uppskrift að lakkrísostaköku með hvítu súkkulaði, konfektkleinuhringjum og brownies með eggjahvítukremi og súkkuði.

,,Ég legg gríðarlegan metnað í bloggið mitt og hef virkilega gaman að því að skapa efnið sem fer þangað inn. Instagram er líka vettvangur sem mér finnst skemmtilegur og legg ég mikið upp úr þeirri síðu. Mér finnst æðislegt að tengjast lesendum mínum á þennan persónulega hátt.

Áður hafði Linda rekið síðuna makkaronur.is þar sem fólk gat pantað sér makkarónur fyrir hvaða tilefni sem er á netinu. Linda segir það hafa verið skemmtilegt verkefni að reka sína eigin kökubúð. ,,Ég fer oft af stað með einhverja ákveðna útkomu í huga en þegar lengra er komið í ferlinu er niðurstaðan langt í frá sú sem ég ætlaði í upphafi. Frekar en að byrja upp á nýtt læt ég hlutina bara virka.

Mér hefur alltaf þótt gaman að baka og vel köku fram yfir önnur sætindi. En ég passa líka að hafa jafnvægi í matarræðinu. Ég borða holla fæðu dagsdaglega, hreyfi mig þegar ég hef tíma en það hentar mér best að hafa allt í hófi. En svo þegar mig langar í góða köku leyfi ég mér það bara og fæ ekkert samviskubit yfir því.“

,,Ég fer oft af stað með einhverja ákveðna útkomu í huga en þegar lengra er komið í ferlinu er niðurstaðan langt í frá sú sem ég ætlaði í upphafi.“

Hún segir að það besta við baksturinn sé nefnilega útrásin sem maður fær fyrir sköpunargleðinni. ,,Svo er ákveðin spenna fólkin í því að vera gera eitthvað nýtt og sjá hvort það virkilega heppnist, sérstaklega þegar maður er að taka smá séns en mistökin geta sömuleiðis verið algjör snilld.“

Í nýjasta tölublaði Vikunnar er Linda með uppskrift að lakkrísostaköku með hvítu súkkulaði, konfektkleinuhringjum og brownies með eggjahvítukremi og súkkuði. 

Höfundur / Íris Hauksdóttir
Myndir /Heiðbjörg Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hvað felst í vegan-lífsstíl?

Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að fólk velji grænmetisfæði, annað hvort eingöngu eða að mun stærri hluta mataræðis síns.

Algengt er einnig að hluti hópsins gangi lengra og kjósi að gerast vegan, eins og það er kallað. Í því felst að kjósa að borða ekkert sem á rætur að rekja til dýraríkisins. Nota að auki nota engar vörur sem hafa annað hvort verið framleiddar úr afurðum dýra eða þau notuð við prófanir á gæðum þeirra.

Flestir þeir er kjósa þennan lífsstíl gera það af hugsjón. Þeim ofbýður meðferð manna á skepnum og vilja ekki stuðla að því að haldið sé áfram að kvelja skepnur sem eiga jafnmikinn tilverurétt og menn á þessari jörð.

Núorðið bjóða flestar matvöruverslanir upp á gott úrval af því fæði sem vegan-fólk kýs og á mörgum veitingahúsum er ávallt val um rétti sem henta því. Mynd/pexels.com

Rannsóknir hafa einnig sýnt að nútímalandabúnaður á stóran þátt í að út í andrúmsloftið streyma eiturefni er stækka gatið í ósonlaginu og valda loftslagsbreytingum. Vaxtarhormón og fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf er sömuleiðis algengur fylgifiskur verksmiðjubúskapar og ungt fólk um allan heim hefur áhyggjur af þeirri þróun. Ekki liggur fyrir vitneskja um hvaða áhrif þetta muni hafa á menn þegar til lengri tíma er litið né heldur vitað hver áhrif ýmissa aukefna sem blandað er í matvæli eru.

Fjölgun mannkyns er sömuleiðis ör og ef við höldum áfram að velja þau matvæli sem nú eru á borðum flestra munum við ekki geta brauðfætt heiminn innan nokkurra kynslóða. Vísindamenn hafa þess vegna lengi hvatt menn til að huga að því að auka neyslu á mat úr plönturíkinu en að auki leitað að fleiri æskilegum prótíngjöfum og skordýr reynst þar vænlegur kostur.

Valið auðvelt

Velji fólk vegan-lífsstíl neytir það ekki eggja, gelatíns, mjólkurvara og hunangs. Þótt dýr séu ekki drepin við framleiðslu þessara matvæla eru þau haldin á búgörðum við mismunandi aðstæður. Til að mótmæla því kýs vegan-fólk að nota ekki þessar vörur. Baunir og baunaafurðir, eins og tofu og tempeh, eru helstu prótíngjafarnir auk sveppa og hneta. Í raun er fæði þeirra mjög heilsusamlegt og ríkt af margvíslegum næringarefnum. Talið er að í Bandaríkjunum séu um það bil 2,5% íbúa vegan og tala þeirra er aðhyllast þessa stefnu fer ört hækkandi.

Vísindamenn hafa þess vegna lengi hvatt menn til að huga að því að auka neyslu á mat úr plönturíkinu en að auki leitað að fleiri æskilegum prótíngjöfum og skordýr reynst þar vænlegur kostur.

Margir þeirra er taka upp þennan lífsstíl tala um að á óvart hafi komið hversu auðvelt það hafi reynst. Núorðið bjóða flestar matvöruverslanir upp á gott úrval af því fæði sem vegan-fólk kýs og á mörgum veitingahúsum er ávallt val um rétti sem henta því. Þetta er nýlunda því ekki er langt síðan að hér á landi var tæpast um annað að velja fyrir grænkera en salat með nokkrum tegundum grænmetis og því lítið spennandi fyrir þá að fara út að borða með vinum.

Flestir þeir er kjósa þennan lífsstíl gera það af hugsjón. Þeim ofbýður meðferð manna á skepnum og vilja ekki stuðla að því að haldið sé áfram að kvelja skepnur.

Þessi þróun er til marks um hversu hratt þessi lífsstíll hefur unnið á. Þeir sem kjósa hann þurfa þó að vera meðvitaðir um hvað þeir borða og gæta þess að fá nóg af kalki, B12-vítamíni, zinki og járni. Á hinn bóginn njóta þeir þess að fá mun meira af C- og E-vítamínum, potassíum, magnesíum og fólínsýrum en kjötætur og þá skortir aldrei trefjar. Þær eru undirstaða heilbrigðs meltingarkerfis og margar kjötætur finna oft fyrir hægðatregðu, ristilvandamálum og brjóstsviða sem vegan-fólk er laust við.

Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að fæði er byggir að stærstum hluta á afurðum úr plönturíkinu dregur mjög úr líkum á að fólk fái krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma. Grænkerar hafa einnig almennt mun lægri blóðþrýsting og kólesteról í blóði.

Rannsóknir hafa sýnt … að fæði er byggir að stærstum hluta á afurðum úr plönturíkinu dregur úr líkum á krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum.

Auk þess er að ofan var talið hafa rannsóknir sýnt að þeir sem kjósa að borða fyrst og fremst mat úr plönturíkinu eru almennt grennri en hinir, þjást síður af ofnæmi eða óþoli, halda liðleika lengur fram eftir ævi og fá síður sykursýki II. Þeir verða þó að gæta þess vel að neyta nægilegs magns af kalk- og D-vítamínríkri fæðu til að tryggja beinþéttni.

Í 45. tbl. Vikunnar er að finna ítarlega úttekt á hvað felst í vegan-lífsstíl og hver eru heppileg fyrstu skref ef menn hafa áhuga á að tileinka sér hann. Hér er brot úr greininni en þeir sem vilja lesa meira geta nálgast blaðið á næsta sölustað.

Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir

„Til í bardaga“

MMA hefur iðulega verið gagnrýnt fyrir að vera ofbeldisfull íþrótt en Gunnar bendir á að það sé ekki hægt að tala um ofbeldi þegar tveir þrautþjálfaðir einstaklingar takist á í bardaga sem þeir hafi báðir samþykkt.

Bardagakappinn Gunnar Nelson er búinn að jafna sig eftir Ponzinibbio-bardagann en í honum fékk hann í fyrsta skipti á sig rothögg.

„Þetta var helvíti hraður bardagi og hreint út sagt ömurlegur fyrir mig,“ segir Gunnar.

Gunnar er tiltölulega nýfarinn að æfa aftur að ráði en segist tilbúinn í næsta bardaga.

„Við komum báðir út úr hornunum í byrjun og þó að hann pressi aðeins næ ég strax nokkuð góðu „uppercut-höggi“ á hann. Þá kemur hann hins vegar út með útrétta hönd og potar djúpt í bæði augun á mér. Eftir það sé ég tvöfalt, sé bókstaflega tvo gæja fyrir framan mig.“

Ponzibbio potaði svo aftur í augu Gunnars þegar hann var kominn upp við búrið og var að reyna að verja sig og Gunnar var því með lokuð augun þegar Ponzibbio náði rothögginu.

Í viðtölum strax eftir bardagann við Ponzibbio tók Gunnar stóran hlut ábyrgðarinnar á sig og sagði að hann hefði átt að stoppa bardagann strax, en samkvæmt reglum getur aðeins dómari stöðvað bardaga ekki bardagakappi.

Hann segist þó hafa lært lexíu sína og ef hann lendir aftur í svipuðum aðstæðum muni hann reyna að láta dómarann vita svo hann geti stöðvað bardagann. „Maður þarf að fá tækifæri til að jafna sig eftir svona árás, því það er frekar áríðandi að sjá almennilega í bardaga.“

„Það urðu einhveru uppþot í kringum þessi ummæli mín á Netinu. En ég er til í bardaga og Darren tók líka vel í þennan möguleika.“

Gunnar er tiltölulega nýfarinn að æfa aftur að ráði en segist tilbúinn í næsta bardaga. „Síðustu æfingar hafa gengið mjög vel og ég er bara að koma mér aftur í toppform.“

Það vakti athygli nýverið þegar Gunnar virtist kalla eftir bardaga við Darren Till í athugasemd á Instagram. Till kom inn í UFC nýverið með hvelli og sagði að allir væru of hræddir við að berjast við hann. Gunnar svaraði þessari staðhæfingu með orðunum: „Ég er til stóri strákur.“ „Það urðu einhver uppþot í kringum þessi ummæli mín á Netinu. En ég er til í bardaga og Darren tók líka vel í þennan möguleika.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Myndband / Óskar Páll Sveinsson

 

 

Músur sem mótuðu tískuna

Stella segir að fatasmekkur foreldra sinna hafi verið henni innblástur.

Ekki er óalgengt að listamenn eigi sér músur sem þeir sækja andagift sína í.

Fatahönnuðir eiga sér oftar en ekki fleiri en eina músu; sumar hafa tímabundin áhrif og veita innblástur að ákveðinni vörulínu eða tískusýningu á meðan aðrar rista dýpra og hafa mótað hönnuðina og sýn þeirra á tísku.

Samkvæmt Tom Ford er allt tískuvit hans sprottið frá þeim tíma sem hann varði með hönnuðinum Halston þá aðeins sautján ára.

Tom Ford
Táningsárin eru mjög mótandi tími og það á ekki síst við um Tom Ford. Samkvæmt honum er allt tískuvit hans sprottið frá þeim tíma sem hann varði með hönnuðinum Halston þá aðeins sautján ára.

Halston klæddi allt fína og fræga fólkið á þessum tíma, Lizu Minnelli, Elizabeth Taylor og Angelicu Houston.

 „Ég var eins og svampur og saug þetta í mig og mikið af upplifunum mínum frá þessum tíma hafa mótað fagurfræði mína.“

„Ég fór kvöld eitt fullur heim til Halstons og hann eldaði egg handa okkur. Á þessum árum kynntist ég fólki, eins og Biöncu Jagger, sem ég þekki enn í dag og það segir stundum: „Bíddu hvenær kynntist ég þér fyrst?“ Ég var bara sautján ára krakki sem var með vini þeirra.

Ég var eins og svampur og saug þetta í mig og mikið af upplifunum mínum frá þessum tíma hafa mótað fagurfræði mína.“

Rachele Regini er helsti innblástur móður sinnar Mariu Grazia Chiuri, listræns stjórnanda Dior.

Maria Grazia Chiuri

Listrænn stjórnandi Dior, Maria Grazia Chiuri, fetar óhrædd í fótspor heimsfrægra hönnuða. Það kemur því ef til vill einhverjum á óvart að sú sem veitir henni helst innblástur er tvítug dóttir hennar, Rachele Regini. „Að sjálfsögðu er hún músan mín. Ég elska tísku af öllu hjarta og ég veit nákvæmlega hvað ég vil fá út úr henni fyrir sjálfa mig. En ef ég á að vera alveg hreinskilin þá hugsa ég nær aldrei um sjálfa mig í hönnun minni, þú verður að hlusta á hvað yngri kynslóðin vill. Stundum eru það því börnin sem kenna móðurinni.“

 

Karl Lagerfeld, listrænn stjórnandi hjá Chanel og Fendi, sækir enn innblástur í fyrrum unnusta sinn, Jacques De Bascher, sem lést árið 1989.

Karl Lagerfeld

Það eru ekki aðeins lifandi einstaklingar sem eru hönnuðum músur. Einn frægasti fatahönnuður samtímans, Karl Lagerfeld, listrænn stjórnandi hjá Chanel og Fendi, sækir enn innblástur í fyrrum unnusta sinn, Jacques De Bascher, sem lést árið 1989 aðeins þrjátíu og sjö ára. „Ég er mikill fjölskyldumaður en hann var eins og fjölskylda án þeirra skyldna sem fylgja fjölskyldum. Hann hleypti birtu inn í líf mitt á hátt sem engum hefur tekist síðan. Kannski er bara ein slík manneskja á mann og svo ekki meir.“

 

Ævilöng vinátta Huberts de Givenchy og Audrey Hepburn er vel þekkt innan tískubransans. A

Hubert de Givenchy

Ævilöng vinátta Huberts de Givenchy og Audrey Hepburn er vel þekkt innan tískubransans. Audrey Hepburn sagði að fötin hans væru þau einu sem henni liði sem sér sjálfri í. Hubert De Givenchy hannaði eina frægustu flík kvikmyndasögunnar á Audrey, eða svarta kjólinn sem hún klæddist í Breakfast at Tiffany’s. „Ég kann best við persónuleika hennar og sjarma. Stíll hennar skín í gegn í kvikmyndum og í þeim fötum sem hún klæðist. Hún er einstök,“ sagði hann. Enn þann dag í dag sækir tískuhúsið fræga innblástur í Audrey.

Móðir Alessandro Michele er helsti innblásturinn í hönnun hans.

Alessandro Michele

Mömmur eru bestar og það veit Alessandro Michele, listrænn stjórnanadi Gucci, vel. Móðir hans er helsti innblásturinn í hönnun hans og hann lýsir henni sem algjörlega klikkaðri kerlingu sem lifir í stællegum heimi. „Okkur vantar fleiri sérvitringa eins og hana svo ég hef hannað vörulínur mínar og tískusýningar með tilliti til eintaklingsins. Hvernig þú klæðir þig segir heilmikið um það hvernig þér líður, hvernig þú lifir lífinu, hvað þú lest og gildi þín. Það er einmitt það sem ég vildi koma inn hjá Gucci.“

„Hvernig þú klæðir þig segir heilmikið um það hvernig þér líður, hvernig þú lifir lífinu, hvað þú lest og gildi þín. Það er einmitt það sem ég vildi koma inn hjá Gucci.“

Stella segir að fatasmekkur foreldra sinna hafi verið henni innblástur.

Stella McCartney

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni segir máltækið en þó að foreldrar Stellu McCartney, tónlistarfólkið Paul og Linda McCartney, hafi svo sannarlega verið hæfileikaríkir og skapandi þá var fatasmekkur þeirra ekkert til að hrópa húrra fyrir. Stella segir þó að það hafi einmitt verið henni innblástur. „Foreldrar mínir höfðu lítinn áhuga á tísku sem gerði það að verkum að stíll þeirra var aldrei útpældur né ofhugsaður. Það var þeim svo eðlislægt að blanda saman nýju og gömlu, glamúr og klassík. Þau höfðu ómeðvitað mikil áhrif á mig og vörumerki mitt, mig langaði að gera eitthvað meira og stærra en bara að hanna fallega kjóla og sýna þá á tískupöllunum.“

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

 

Geymilegar gersemar

Ýmsar gersemar leynast í geymslum landsins og það á ekki síst við um geymslur Hönnunarsafns Íslands.

Sýningin Geymilegir hlutir hefur staðið yfir frá árinu 2015. Þar má sjá sýnishorn af þeim fjögur þúsund munum sem eru í safneigninni, en sýningin er einmitt hönnuð með það fyrir augum að auðvelt sé að skipta hlutum út og setja nýja inn.

Sýningin Geymilegir hlutir hefur staðið yfir frá árinu 2015. Þar má sjá sýnishorn af þeim fjögur þúsund munum sem eru í safneigninni. Hér er Fundarstóll eftir Gunnar H. Guðmundsson, húsameistara Reykjavíkur, úr fundarsal borgarstjórnar Reykjavíkur að Skúlatúni 2. Einn af þremur misháum stólum úr sömu seríu sem safnið varðveitir. Þessir stólar eru enn í notkun hjá Reykjavíkurborg.

Aðdragandinn að stofnun Hönnunarsafns Íslands var allnokkur en umræðuna um nauðsyn á slíku safni má rekja aftur til ársins 1992 þegar félagið Form Ísland setti saman hóp með fulltrúum hönnuða, menntamálaráðuneytisins, Listasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Reykjavíkurborgar um slíkt safn. Í framhaldinu var þeim tilmælum beint til menntamálaráðuneytisins að skipa nefnd er mæti með hvaða hætti stofna mætti safn er sinnti listiðnaði.

Í byrjun árs 1997 var niðurstaða þeirra nefndar að mikil þörf væri á safni er sinnti listhandverki og iðnhönnun. Árið 1998 gerðu því menntamálaráðuneytið og Garðabær samkomulag um að reka í sameiningu íslenskt hönnunarsafn er safnaði og sýndi listiðnað.

Fyrst um sinn var safnið deild í Þjóðminjasafni Íslands en með nýjum samningi við menntamálaráðuneytið árið 2006 tók Garðabær við rekstri Hönnunarsafns Íslands og starfar safnið sem stofnun á vegum bæjarfélagsins. Þá hafði safnið til afnota lítinn sal við Garðatorg þar sem haldnar voru nokkrar sýningar á ári en skrifstofu og varðveislurými var að finna á öðrum stað.

Árið 2009 var safninu valinn staður við Garðatorg 1 og fluttist öll starfsemi safnsins þangað þegar reglubundið sýningahald safnsins hófst í maí 2010.

Safneign safnsins stækkar jafnt og þétt og telur nú um fjögur þúsund gripi.

Í dag starfa á safninu forstöðumaður og sérfræðingur ásamt gæslu- og afgreiðslufólki. Nýbúið er að útbúa sýningarrými í anddyri safnsins þar sem verða settar upp minni sýningar á verkum eða verkefnum hönnuða.

Gripir safnsins falla í eftirfarandi flokka: húsgagnahönnun, grafísk hönnun, arkitektúr, fatahönnun, vöru- og iðnhönnun, textílhönnun, skartgripahönnun, gull- og silfursmíði, keramík og glerlist.

Safneign safnsins stækkar jafnt og þétt og telur nú um fjögur þúsund gripi. Safnið kaupir reglulega inn gripi í safneignina en einnig berst töluvert af gjöfum til þess. Það er safninu mikils virði að fólk hugsi til þess, hvort sem það vill gefa eða fá hjálp við að greina hluti í sinni eigu.

Sífellt meiri fróðleikur um hönnunarsögu Íslendinga

Nýir gripir sem koma í safnið á hverju ári leggja grunn að efni til rannsókna og þeir eru í sjálfu sér vitnisburður á hverjum tíma um það sem sérfræðingar álíta æskilegt að sé varðveitt í safni. Gildi þeirra hluta sem koma til safnsins breytist, merking getur orðið önnur – og jafnvel meiri.

Árið 1969 var Manfreð Vilhjálmsson fenginn til að hanna húsgögn og innréttingar fyrir nýjan unglingaskemmtistað, Tónabæ, í Skaftahlíð 24. Í Tónabæ vildi Manfreð skapa umhverfi sem reykvískir unglingar ættu ekki að venjast heima hjá sér og með því gera staðinn að þeirra athvarfi.

Undanfarin ár hafa safninu borist nokkrar stórar gjafir sem styrkja safneign þess mjög. Má þar nefna gjöf frá grafíska hönnuðinum Gísla B. Björnssyni á munum frá ævistarfi hans. Gjöf frá Einari Þorsteini Ásgeirssyni arkitekt á gripum sem tengjast vinnu hans og nú síðast gjöf frá Bláa lóninu á stóru keramíksafni sem hefur að geyma afar gott yfirlit yfir íslenska leirlistasögu.

Eitt af hlutverkum Hönnunarsafns Íslands er að stuðla að rannsóknum á íslenskri hönnunarsögu. Með stækkandi safneign safnast sífellt inn meiri fróðleikur um hönnunarsögu Íslendinga.

Safnið hefur fengið hrós fyrir það að hafa örlítið aðra hugsjón en önnur hönnunarsöfn erlendis, það er, á safninu er að finna bæði hversdagslega og hástemda hönnun. Þannig má glöggt sjá hvernig íslensk hönnun hefur haft áhrif á heimili, samfélag og menningu þjóðarinnar – og öfugt.

Breidd safneignarinnar er greinileg á sýningu safnsins Geymilegir hlutir sem nú er í gangi.

Þar eru til sýnis nokkrir af þeim úrvalsmunum sem safnið varðveitir af ýmsum ástæðum – sem dæmi má nefna Don Cano-krumpugalla og fallegt Max-sófasett. Lýsingarorðið geymilegur er lítt þekkt í dag. En gömul merking orðsins var sett í samhengi við gjafmildi og stórhug, eins og vitnað er um í tímaritinu Skírni árið 1913 á eftirfarandi hátt: „… þá verður sá talinn mestur er mest gaf af geymilegum hlutum,“ en í þessari setningu liggur einmitt kjarninn í starfsemi Hönnunarsafnsins.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Felur jólakræsingar í ísskápum nágrannanna

Þúsundþjalasmiðurinn Margrét Erla Maack hlakkar til jóla og segir sérstakan fjölskyldusið alltaf koma sér í jólaskap.

„Það er nokkuð sérstakur siður á mínu æskuheimili sem sumum finnst svolítið erfitt að skilja. En hann gengur sem sagt út á það að við skiptumst á að elda hvert fyrir annað og látum ekki vita hvað er í matinn fyrr en sest er til borðs,“ segir Margrét Erla Maack, fjöllistakona, kabarettdís og skemmtikraftur, og bætir við að í raun sé alltaf miklu meiri spenningur í kringum þetta leynimakk heldur en til dæmis jólagjafirnar.

„Jólastemningin hefst þegar við tilkynnum að við séum búin að kaupa í matinn. Síðan eru kræsingarnar faldar í ísskápum og frystum nágranna og vina þar til að matarboðunum kemur,“ segir hún hress. „Við höfum prófað alls konar mat. Ein jólin vorum við með á boðstólum mat undir inderveskum árhrifum, vindaloo-hreindýr og tandoori-humar, og ég hugsa að það hafi heppnast einna best.“

„Við höfum prófað alls konar mat. Ein jólin vorum við með á boðstólum mat undir inderveskum árhrifum, vindaloo-hreindýr og tandoori-humar, og ég hugsa að það hafi heppnast einna best.“

Þar fyrir utan finnst Margréti Erlu fátt jólalegra en að sinna verslunarstörfum á aðventunni. „Þó að ég sé fullbókuð í veislustjórn, skemmtanir og „plötusnúðamennsku“ allar helgar í desember þá get ég ekki stillt mig um að taka vaktir með vinum mínum í Kormáki og Skildi en þar nær jólastemningin hámarki á tíu klukkustunda löngum innpökkunarvöktum á Þorláksmessu.

Ætli þetta hafi ekki eitthvað með æskuna að gera. Þegar ég var lítil vann mamma mín
allan desember í barnafataversluninni Bangsa í Bankastræti og þá brugðum við
fjölskyldan yfirleitt á það ráð að skreyta heima um miðjan nóvember svo hún upplifði kósí skammdegisjólastemningu með okkur áður en vinnutörnin hófst,“ segir hún og brosir.

Höfundur / Roald Eyvindsson
Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Bakaði þúsund bollakökur

Thelma Þorbergsdóttir starfar sem félagsráðgjafi en matur spilar samt stórt hlutverk í lífi hennar þar sem hún heldur úti matarbloggi og bloggar auk þess reglulega á vefsvæðinu gottimatinn.is sem er starfrækt af Mjólkursamsölunni.

Thelma Þorbergsdóttir félagsráðgjafi heldur úti vinsælu matarbloggi.

Að þessu sinni deildi hún með okkur nokkrum gómsætum en þægilegum uppskrifum að eftirréttum.

 Hvað starfarðu og hvaða verkefni fæstu við um þessar mundir?
Ég er félagsráðgjafi hjá Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar. Helstu verkefnin sem ég fæst við um þessar mundir er að undirbúa mig undir komu nýs barns sem á að fæðast í byrjun maí.

Hvað var það fyrsta sem þú lærðir að elda?
Sósur, ég er algjör sósukona og konurnar í minni fjölskyldu gera bestu sósur í heimi.

Ertu jafnvíg á bakstur og matseld?
Já, mér finnst jafnskemmtilegt að baka og elda.

Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín?
Ég er rosalega hrifin af asískum mat og get borðað hrísgrjón í öll mál! Svo elska ég íslenskan mat, eins og lambakjötið okkar góða og allt sem hægt er að gera úr því.

Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu?
Ég held að ég verði að segja að það hafi verið þegar ég bakaði svo svakalega háa brúðartertu fyrir sjálfa mig sem stóð svo í heitu eldhúsinu í salnum yfir nóttina. Hún hrundi og lá klesst við vegginn í eldhúsinu daginn eftir. Fyrir mér var þessi fullkomni dagur ónýtur en hann endaði svo á að vera besti dagur lífs míns og ég gat hlegið að þessu seinna. Fólk fékk þó köku en hún var ekki falleg og í nokkrum pörtum en góð var hún sögðu gestirnir, þeir hafa ekki þorað öðru!

Þegar ég var að byrja að baka og vinna sem matarbloggari hjá Gott í matinn fékk ég það verkefni fyrir Metro að gera 1000 bollakökur fyrir hrekkjavöku. Það var svona fyrsta og stærsta áskorun mín þegar ég byrjaði í þessu öllu saman.

Hefur þú ræktað krydd- og/eða matjurtir?
Nei, ég er ekki alveg þar en mér var gefin chili-planta sem ég náði að drepa.

Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku?
Þegar ég var að byrja að baka og vinna sem matarbloggari hjá Gott í matinn fékk ég það verkefni fyrir Metro að gera 1000 bollakökur fyrir hrekkjavöku. Það var svona fyrsta og stærsta áskorun mín þegar ég byrjaði í þessu öllu saman.

Hvað færðu þér á pizzu? Pepperóní, rjómaost og rauðlauk.

Uppáhaldsmatreiðsluþættir? Mér finnst mjög gaman að horfa á Lorraine Pascale, það er allt svo fallegt hjá henni eitthvað.

Bloggsíða: freistingarthelmu.blogspot.com og heimasíða Gott í matinn, er matarbloggari þar.

______________________________________________________________

Marens-mess í skál

Marens-mess í skál slær alltaf í gegn.

Kostirnir við þennan rétt eru þeir að hann slær alltaf í gegn, þú getur sloppið algjörlega við bakstur og það skiptir ekki máli hvernig þú setur hann saman, hann er alltaf jafngóður.

1 marengsbotn

1 lítri rjómi

300 g jarðarber

300 g bláber

Æðibitakassi

Nóa kropp

súkkulaðisíróp

Þeytið rjómann þar til hann verður stífur og stendur, passið ykkur þó að þeyta hann ekki of mikið. Fyrir þennan rétt skiptir í rauninni ekki máli í hvaða röð þið setjið hráefnið saman við rjómann og marensinn en gaman er að raða þeim í fallega skál og skreyta að vild. Gott er að setja rjóma í botninn á skál og setja svo marens ofan á. Brytjið jarðarberin niður í sneiðar eða litla bita og blandið saman við ásamt bláberjum. Skerið Æðibita gróflega niður og blandið þeim saman við. Gott er að setja marensinn í byrjun og svo í lokin. Skreytið með rjóma og súkkulaðisírópi ásamt Nóa kroppi. Geymið í kæli, einnig er gott að setja marensinn í frysti í 30 mínútur áður en rétturinn er borinn fram.

______________________________________________________________

Brownie með saltaðri karamellu

Uppskriftin er frekar stór og auðvelt er að helminga hana. Hún er þó ekki lengi á veisluborðinu því hún klárast yfirleitt.

Botn

200 g saltkringlur eða saltstangir

150 g smjör

2 msk. dökkur púðursykur

Hitið ofninn í 200°C og setjið smjörpappír í bökunarform sem er um 20×30 cm að stærð. Mjög mikilvægt er að hafa smjörpappír í botninum og aðeins upp fyrir brúnirnar svo hægt sé að ná kökunni upp úr forminu sem best.

Setjið saltkringlurnar í matvinnsluvél og grófhakkið þær. Bræðið smjör og hellið saman við ásamt púðursykrinum og látið matvinnsluvélina vinna vel þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið saltkringlublönduna ofan í formið og þrýstið vel niður í botninn. Bakið botninn í 7 mín., takið formið út og kælið á meðan þið undirbúið kökuna.

Brownie

320 g smjör

600 g sykur

Brownie með karamellu – ekki reikna með að hún  verði lengi á veisluborðinu.

170 g kakó

½ tsk. salt

4 egg

2 tsk. vanilludropar

120 g hveiti

1 tsk. lyftiduft

Lækkið hitann á ofninum niður í 180°C fyrir kökuna. Setjið smjör í pott og bræðið yfir lágum hita. Þegar helmingurinn af smjörinu er bráðnaður bætið þá kakói, sykri og salti saman við. Hrærið allt vel saman og passið ykkur að láta blönduna alls ekki sjóða. Blandan má einnig ekki vera of heit þegar eggin eru sett saman við. Bætið eggjum saman við, einu í einu, og hrærið vel á milli. Setjið vanilludropa saman við og hrærið. Setjið því næst hveiti saman við og hrærið vel saman þar til blandan verður mjúk og slétt.

Hellið blöndunni yfir saltkringlubotninn og bakið í 30 mín. eða þar til tannstöngull kemur næstum því hreinn upp úr miðju kökunnar. Það er allt í góðu og bara betra ef kakan er aðeins blaut þegar hún er tekin út úr ofninum. Takið kökuna út og kælið á meðan þið undirbúið karamelluna.

Söltuð karamella

400 g sykur

170 g smjör

240 ml rjómi

1 tsk. vanilludropar

½-1 tsk. salt (sjávarsalt)

Setjið sykur í pott yfir meðalháum hita og hrærið stanslaust með viðarsleif. Sykurinn fer í harða köggla en það lagast þegar hann hitnar frekar og verður að vökva. Hrærið stanslaust og passið að sykurinn brenni ekki við. Þegar sykurinn hefur bráðnað alveg og er orðinn gullinbrúnn að lit, bætið þá smjöri saman við og hrærið vel. Blandið því næst rjómanum varlega saman við í smáum skömmtum og hrærið vel. Takið pottinn af hellunni og blandið vanilludropum og salti saman við. Leyfið karamellunni að kólna þar til hún hefur náð stofuhita áður en þið setjið hana yfir kökuna. Hellið karamellunni yfir kökuna, myljið sjávarsalt yfir karamelluna og setjið inn í ísskáp. Kælið kökuna í rúmlega 2 klst. áður en þið berið hana fram. Gott er að nota beittan hníf til þess að skera meðfram köntum formsins svo auðveldara verði að ná henni upp úr forminu, skerið í litla bita.

______________________________________________________________

Skyr með lakkrísbragði og piparmöndlum

Einstaklega ferskur og góður skyreftirréttur sem tekur engan stund að gera.

Einstaklega ferskur og góður skyreftirréttur sem tekur engan stund að gera.

fyrir 4-6

400 g KEA-skyr með lakkrísbragði

½ lítri rjómi

2 msk. flórsykur

súkkulaðisíróp

piparmöndlur

Þeytið rjóma þar til hann er orðinn stífur og stendur. Blandið helmingnum af rjómanum saman við skyrið og hrærið vel saman.

Sprautið súkkulaðisírópi meðfram köntunum á desertglasi eða -skál og látið leka niður. Sprautið skyrblönduni ofan í glösin.

Sprautið því næst rjómanum ofan á ásamt grófsöxuðum piparmöndlum. Geymið í kæli þar til borið er fram.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Íslendingar elska marens!

Á Íslandi er varla haldin veisla án þess að skellt sé í marens.

Það er á hreinu að marens er mjög vinsæll á Íslandi. Hér eru dásamlegar vegan marenskökur.

Ég hef spurt þónokkra í kringum mig hvort þeir hafi orðið varir við marenskökur á ferðalögum sínum um heiminn. Svarið er eiginlega alltaf nei eða að það hafi alla vega ekki verið mjög áberandi. Því fór ég að velta fyrir mér hvort marensáhugi og -ást sé eitthvað séríslenskt fyrirbæri. Um það er erfitt að fullyrða en það er alveg á hreinu að marens er engu að síður mjög vinsæll á Íslandi. Varla er haldin íslensk veisla án þess að skellt sé í marens og borin fram girnileg og gómsæt marensterta. Það var þessi einstaki áhugi landans á marens sem varð kveikjan að þessum marensþætti og við fórum alla leið!

Marens er mjög einföld kaka í eðli sínu en það eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga til þess að hann heppnist vel og verður farið yfir þau hér í þættinum. Ég hef heyrt því fleygt að veðurfar hafi áhrif á marensgerð, mikill loftþrýstingur og raki séu t.d. ekki ákjósanlegar breytur. Það tekur stundum aðeins lengri tíma að baka marensinn ef mjög rakt er í veðri en það hefur ekkert úrslitavald. Franskar makrónur eru kannski það viðkvæmasta en það verður þó ekki fjallað um þær hér.

Til eru nokkrar tegundir af sætmeti sem eru með svipaða uppbyggingu og marens og er að mestu búið til úr eggjahvítum og sykri og ég mun fara yfir helstu tegundirnar ásamt þessum hefðbundna marens sem við þekkjum öll svo vel.

Nokkur góð marens ráð

    • Hafið skálina alltaf tandurhreina
    • Byrjið alltaf á því að þeyta eggjahvíturnar aðeins áður en sykrinum er bætt við
    • Hrærið aukahráefni alltaf mjög varlega saman við marensdeigið
    • Ef eggjarauða blandast saman við hvíturnar, veiðið hana upp með eggjaskurn. Prufið að
      þeyta, ef ekkert gerist, byrjið upp á nýtt og notið það gamla í ommeilettu.
    • 1 eggjahvíta er u.þ.b. 30-35 g
    • 1 dl af eggjavítum, samsvarar hvítu úr þremur eggjum
    • Hafið alltaf eggjahvíturnar við stofuhita
    • Geymið marens í lokuðum umbúðum
    • Mjúkir toppar:
      Þegar þeytaranum er stungið ofan í eggjahvítuhræruna, hann tekinn upp og snúið við, slútir marensinn aðeins niður.
    • Stífir toppar:
      Þegar þeytaranum er stungið ofan í eggjahvítuhræruna, hann tekinn upp og snúið við, stendur marensinn beint upp í loftið.

Fullt af skemmtilegum og gómsætum marensuppskriftun í kökublaði Gestgjafans! Nú fer hver að verða síðastur að næla sér í eintak – enda uppselt hjá útgefanda!

Höfundur / Gunnar Helgi Guðjónsson
Stílsiti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Gómsætir og fallegir bakaðir kleinuhringir í kökublaði Gestgjafnas

Segja má að kleinuhringjaæði hafa gripið Íslendinga undanfarin misseri.

Kleinuhringirnir höfða til margra með vinalegri lögun sinni, mjúku deiginu og óteljandi möguleikum á kremi og skrauti.

Hinn klassíski kleinuhringur er djúpsteiktur en í þessum uppskriftum bregðum við frá þeim vana og bökum þá einfaldlega í ofni í þartilgerðu bökunarformi. Bakaðir kleinuhringir eru fljótlegir og auðveldir í bakstri en geta auðveldlega litið út eins og mikið hafi verið fyrir þeim haft með því að dýfa þeim ofan í krem og skreyta. Þeir eru góðir í kaffiboðið og maður fer létt með að slá í gegn með þeim í næsta barnaafmæli.

Fimm gómsætar uppskriftir er að finna í kökublaði Gesgtjafans. Hér er mynd af gómsætum Red velvet-kleinuhringjum.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir

 

Heillandi borg englanna

Þorgerður Ösp Arnþórsdóttir arkitekt býr með eiginmanni sínum, Gretti Ólafssyni, tveimur hundum og einum ketti í Los Angeles.

Þorgerður Ösp Arnþórsdóttir arkitekt býr með eiginmanni sínum, Gretti Ólafssyni, tveimur hundum og einum ketti í Los Angeles.

Þorgerður segir að helstu kostir þess að búa þar séu veðrið, fjölbreytileikinn og starfsmöguleikarnir. „Við höfum verið hér í tæp fimm ár. Veðurfarið er dásamlegt og veturinn mildur. Sumarið byrjar hægt og rólega í júní með fremur þungbúnum morgnum þar sem sólin lætur ekki sjá sig fyrr en upp úr hádegi, þetta er kallað „June gloom“. Svo getur verið mjög heitt frá júlí fram í október.

Annar helsti kostur Los Angeles er hreinlega fjölbreytileikinn. Los Angeles býður upp á ótal starfsmöguleika í öllum brönsum, það er ekki bara kvikmyndaiðnaðurinn sem ræður ríkjum hér.

Hér er svo endalaust hægt að upplifa frábæra list, hönnun og aðra menningarviðburði. Mannlífið og borgarlandslagið er fjölbreytt. Hér geturðu fengið Manhattan-stemningu beint í æð í miðbænum, strandarþorpsstemningu við ströndina og róleg, gróin úthverfi eru að finna alls staðar. Hér á Suður-Kaliforníusvæðinu grínast fólk með að hægt sé að fara á skíði og á ströndina í sólbað á sama deginum.

Hér er svo endalaust hægt að upplifa frábæra list, hönnun og aðra menningarviðburði. Mannlífið og borgarlandslagið er fjölbreytt.

Los Angeles er ekkert eins og kvikmyndir láta hana líta út fyrir að vera, hún er upp til hópa ekki mjög glamúrus og það er skýr stéttaskipting. Það geta staðið hallir og félagsíbúðir sitt hvoru megin við sömu götu.

Einnig er borgin undir sterkum áhrif frá mexíkóskri arfleifð landshlutans, spænska og mexíkósk menning er alls staðar, jafnvel í meira mæli en sú ameríska, sem mér finnst alger plús – því meiri menningarheimum sem ég kynnist því betra – en það er oft ekki minnst á þetta þegar verið er að kynna borgina.

Einnig má ég til með að minnast á hvað borgin er hundavæn.“

Miðbær Los Angeles

Við höfum alltaf búið í miðbænum og við elskum það. Miðbærinn er frekar lítill en hefur samt sín afmörkuðu hverfi sem hafa öll sinn eigin persónuleika. Frá The Bank District þar sem allir skýjakljúfarnir eru, til The Historic Core, Little Tokyo, The Arts District, mitt uppáhald, South Park hjá Staples Center og niður í the Fashion District. Það er endalaust hægt að skoða, versla og borða. Það er eitthvað við það að ganga um í fullkomnu borgarlandslagi í steikjandi hita sem er svo ofboðslega heillandi.

Kíkið svo út á Santa Monica Pier og farið í parísarhjólið á bryggjunni.

Góðar gönguferðir

Los Angeles er byggð upp við margar hæðir og fjöll svo endalaust er hægt að fara í göngur. Hvort sem þú vilt stuttan hring upp við Griffith Observatory til að fá geggjað útsýni, aðeins lengri hring í Runyon Canyon og mögulega koma auga á einhvern frægan, eða fara upp í Santa Monica-fjöllin og taka alvöru útivistardag, þá geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi.

Söluvagnar

Ekki vera hrædd við að spreyta ykkur í spænsku og biðja um „tacos al pastor“ frá næsta söluvagni sem þið sjáið á götunni. „Angeleno-ar“ eru sjúkir í mat úr svona vögnum.

Túristarúnturinn

Flestir sem koma til LA vilja upplifa smávegis af Hollywood. Farið niður Hollywood Boulevard og finnið stjörnuna með uppáhaldsleikaranum, röltið upp Beachwood Drive og sjáið Hollywood-skiltið. Kíkið svo út á Santa Monica Pier og farið í parísarhjólið á bryggjunni. Með LA-traffík er þetta meira en nóg plan fyrir einn dag en ef þið viljið bæta við og eruð á bíl þá mæli ég með að keyra Mulholland Drive-götuna eins og hún leggur sig. En farið varlega. Það eru tveir útsýnisstaðir á leiðinni, Hollywood Bowl Overlook, og annar lengra í norður þaðan sem hægt er að horfa yfir The Valley. Þá fyrst gerir maður sér grein fyrir hvað borgin er risastór.

In-n-Out Burger
Treystið mér.

Miðbærinn er frekar lítill en hefur samt sín afmörkuðu hverfi sem hafa öll sinn eigin persónuleika. Það er endalaust hægt að skoða, versla og borða.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Óhræddur við að vera hræddur

||||

Það kom þjóðinni heldur betur á óvart þegar íslenski bardagamaðurinn Gunnar Nelson var sleginn rothöggi í síðasta bardaga sínum. Flestir bjuggust við að hann myndi sigra.

Gunnar er ekki að svekkja sig á tapinu heldur sér bæði sigra og ósigra sem tækifæri til að bæta sig. Hann segir mannlegt að finna fyrir ótta en hugrekki felist í því að sigrast á honum. Nú bíður hann því spenntur eftir fregnum um næsta bardaga og hver andstæðingurinn verður en hver svo sem það verður stefnir Gunnar á sigur.

„Ég hélt að eini vandinn væri að ég sæi tvöfalt og þá væru allavega 50/50 líkur á að ég hitti á réttan gaur.“

„Þetta fór eins og það fór – ég get ekkert breytt því núna. Ponzinibbio náttúrulega bara svindlaði,“ segir Gunnar ákveðinn. Hann segist muna skýrt eftir bardaganum auk þess sem hann hafi horft á hann aftur til að staðfesta upplifun sína. „Þetta var helvíti hraður bardagi og hreint út sagt ömurlegur fyrir mig. Við komum báðir út úr hornunum í byrjun og þó að hann pressi aðeins næ ég strax nokkuð góðu „uppercut-höggi“ á hann. Þá kemur hann hins vegar út með útrétta hönd og potar djúpt í bæði augun á mér. Eftir það sé ég tvöfalt, sé bókstaflega tvo gæja fyrir framan mig. Ég reyni samt að hrista þetta af mér og fela það fyrst dómarinn gerði ekki neitt. Ég næ inn sparki og kannski höggi en svo kemur högg frá honum sem rétt fer fram hjá mér og þá átta ég mig á því að ég skynja ekki fjarlægðina á milli okkar rétt. Ég hélt að eini vandinn væri að ég sæi tvöfalt og þá væru allavega 50/50 líkur á að ég hitti á réttan gaur. Hann nær höggi á mig, grípur í buxurnar mínar og dregur mig til sín, svo þegar ég er kominn upp við búrið og er að reyna að verja mig potar hann aftur í augun á mér. Þannig að ég er með lokuð augun þegar hann nær rothögginu.“

Gunnar datt ekki lengi út en þetta var svokallað „flash-knockout“ sem þýðir að bardagakappinn rotast aðeins í nokkrar sekúndur og þegar hann rankar við sér er hann hvorki vankaður né ringlaður. „Þetta er svona „best case scenario-rothögg“. Ég vissi alveg hvar ég var og hvað væri í gangi.“

„Upprunalega eru þetta samt sjálfsvarnaríþróttir og til þess að þú lærir að verja þig þarf auðvitað einhver að ráðast á þig. Þetta snýst því um að yfirbuga andstæðinginn, ekki ráðast á hann.“

Í viðtölum strax eftir bardagann tók Gunnar stóran hlut ábyrgðarinnar á sig og sagði að hann hefði átt að stoppa bardagann strax. Þessu voru hins vegar faðir hans, Haraldur Dean Nelson, og þjálfari, John Kavannagh, ekki sammála og samkvæmt reglum getur aðeins dómari stöðvað bardaga, ekki bardagakappi. „Ég hefði kannski getað reynt að gera dómaranum viðvart að það væri ekki í lagi með mig. Það getur samt verið áhættusamt fyrir mig að taka um augun eða ná til dómarans því andstæðingurinn getur þá nýtt tækifærið og slegið til manns.“

Vildi setja fordæmi

Gunnar fór fremur sigurviss inn í bardagann við Ponzinibbio, eins og flesta aðra bardaga. Ef ekki hefði verið fyrir meint svindl andstæðingsins hefði hann að öllum líkindum staðið uppi sem sigurvegari, eins og svo margir bjuggust við. Gunnar og teymið hans ákváðu því að kæra útkomuna til UFC. „Til að byrja með var ég ekki viss um að ég vildi standa í því, ég nennti ekki að eyða meiri tíma og púðri í þetta. Það er mjög erfitt að fá útkomu bardaga breytt eða hnekkt, jafnvel þó að maður geti sýnt fram á svindl og manni finnist það vera borðleggjandi.“

Ein af upphaflegu grunnreglum UFC segir að það megi ekki pota í augu andstæðingsins og í ársbyrjun var nýrri reglu bætt inn til að styðja þá grunnreglu sem bannar bardagamönnum að slá í átt að andliti með ókrepptan hnefa. Gunnar kærði því úrslitin fyrst og fremst til að vekja athygli á þessu broti og setja fordæmi. „Ef ég hugsaði um íþróttina í heild og ekki bara um sjálfan mig þá var réttast að kæra. Þetta mun ábyggilega gerast aftur og vonandi verður það minna mál fyrir næsta sem lendir í þessu.“

UFC hafnaði loks kærunni í september svo úrslitin standa. Þó að sú ákvörðun hafi ekki komið Gunnari og teymi hans á óvart var hún engu að síður mikil vonbrigði. „Ég var kominn á skrið þarna og þetta sló mig aftur,“ segir Gunnar en hann féll niður um tvö sæti á styrkleikalista UFC við tapið. „Þetta er auðvitað fúlt en það eina sem ég get gert er að læra af þessu. Ég lít á þetta sem reynslu og veganesti fyrir framtíðina. Þótt það sé erfitt að reyna að stoppa svindlara veit ég allavega að ef ég lendi í einhverju álíka aftur mun ég reyna að láta dómarann vita svo hann geti stöðvað bardagann – og reyna að vera ekki sleginn niður áður. Maður þarf að fá tækifæri til að jafna sig eftir svona árás, því það er frekar áríðandi að sjá almennilega í bardaga,“ segir Gunnar og hlær.

Hingað til hefur Gunnar komist hjá því að fá á sig þung höfuðhögg eða rothögg. Hann segist þó alltaf verið undirbúinn undir það og þetta muni því ekki breyta neinu hvað varðar þjálfun. „Við pössum okkur mikið á höfuðhöggum. Við æfum aðeins með léttari höggum, menn bera virðingu fyrir og vita hvenær þeir fá á sig högg, án þess að við þurfum alltaf að vera að slá í gegn. Þetta er samt fín lína því auðvitað þurfa menn að upplifa orkuna sem þeir munu finna í alvöru bardaga án þess að verða fyrir óþarfa skaða á æfingu. Þá er hætta á að menn veðrist of mikið á að æfa.“

„Það er eðlilegt að upplifa alls kyns tilfinningar, bæði jákvæðar og neikvæðar, en það sem skiptir máli er hvernig maður tekst á við þær.“

MMA er lífsstíll

Gunnar var mjög orkumikill sem barn – það þurfti mikið að hafa fyrir honum og hafa ofan af fyrir honum. Foreldrum hans var því strax ljóst að hann hefði gott af því að stunda íþróttir. Gunnar fékk snemma áhuga á á bardagaíþróttum. Faðir hans, Haraldur Dean Nelson, var mikill áhugamaður og hafði bæði æft karate og kick-box á sínum tíma. Þeir feðgar horfðu oft saman á Bruce Lee-myndir og Gunnar vildi strax fara að æfa karate. Haraldur hvatti hann hins vegar til að æfa íshokkí því honum fannst hann þurfa íþrótt sem byði upp á meiri hasar og hreyfingu, en karate einkennist fyrst og fremst af miklum sjálfsaga og einbeitingu. Algengt er að börn missi áhugann og flosni upp úr karate á unglingsárunum og Haraldur vildi síður að það kæmi fyrir Gunnar.

Hann var því þrettán ára þegar hann hóf loks að æfa karate og náði strax miklum árangri. Hann vann Íslandsmeistaratitilinn í sínum flokki rúmu ári síðar og hélt þeim titli næstu tvö árin. Árið 2005, þegar hann var aðeins sextán ára, var Gunnar valinn efnilegasti karate-maður landsins en skömmu síðar hætti hann og sneri sér alfarið að MMA.

Í dag lítur hann á MMA sem lífsstíl og segir íþróttina hafa gefið sér mikið. „Maður lærir svo mikið um sjálfan sig. Ég er til að mynda skapstór, og hef alltaf verið, en í gegnum MMA hef ég lært að hafa stjórn á tilfinningum mínum. Í búrinu koma ýmsar tilfinningar upp á yfirborðið og þær geta hlaupið með mann í gönur. Maður þarf því að beisla þær, nýta orkuna úr þeim og tækla andstæðinginn og bardagann með rökfestu og skynsemi.

„Ég held að ég hafi alltaf verið með dálítinn athyglisbrest. En ég á mjög auðvelt með að einbeita mér svo lengi sem það er einhver hreyfing og hraði á hlutunum.“

Þetta hefur líka hjálpað mér í aðstæðum í lífinu utan íþróttarinnar. Það er eðlilegt að upplifa alls kyns tilfinningar, bæði jákvæðar og neikvæðar, en það sem skiptir máli er hvernig maður tekst á við þær. Þú ert ekki verri manneskja þótt þú verðir reiður eða afbrýðissamur, eða hvað sem það er, heldur er það hvað þú gerir við þessar tilfinningar sem skilgreinir þig og persónu þína.“

Gunnar segist líka geta verið mjög óþolinmóður og afar ör í hugsun. „Ég er oft farinn að hugsa um tuttugu hluti í einu. Ég held að ég hafi alltaf verið með dálítinn athyglisbrest. En ég á mjög auðvelt með að einbeita mér svo lengi sem það er einhver hreyfing og hraði á hlutunum.“

Það er stundum talað um að hugurinn skipti jafnmiklu máli og líkamsformið í bardagalistum. Tap getur óneitanlega haft meiri og verri áhrif á hugann en Gunnar vill meina að það skipti máli hvernig menn líti á og vinni úr tapinu. „Þú ákveður hvaða áhrif það hefur; ætlarðu að nota það, læra af því og láta það gera þig hungraðari eða ætlarðu að koðna niður? Sumir bardagamenn eru mjög háðir sviðsljósinu og kokhraustir út á við. Ég gæti alveg trúað því að það fari illa með þá að tapa. Jú, jú, það er alltaf skemmtilegra að vinna en ég lít á allt sem tækifæri til að bæta mig. Ég horfi til baka og tek það sem ég þarf úr upplifuninni en held svo áfram.“

Harkaleg íþrótt, ekki ofbeldi

Tíu ár eru liðin síðan Gunnar fór út í atvinnumennsku í MMA og á þeim tíma hefur hann barist í tuttugu bardögum; það gerir sextán sigra, þrjú töp og eitt jafntefli. Í ár átti hann einnig fimm ára UFC-afmæli. Aðspurður hvaða bardagi hafi verið erfiðastur segir Gunnar það tvímælalaust hafa verið við Demian Maia. Gunnar var ekki heill heilsu skömmu fyrir þann bardaga. „Ég átti einfaldlega mjög slæmt kvöld og veit ekki nákvæmlega hvers vegna. Ég var sprækur í kollinum en mér fannst orkubirgðir mínar klárast alltof hratt og líkaminn þreytast við litla áreynslu. Ég hef aðeins reynt að stúdera þetta en eina niðurstaðan sem ég hef komist að er að það er bara dagamunur á mönnum og þetta var ekki minn dagur.“

Á þessum árum hefur hann lært eitt og annað. „Af Maia-bardaganum lærði ég gefast ekki upp þrátt fyrir þreytu. Ég var gjörsamlega búinn á því og hefði oft getað fundið leið út en gerði það ekki heldur hélt áfram að berjast. Það er jákvæð lexía sem ég gat tekið úr þeim bardaga.“

Bardagastíll Gunnars er sagður óhefðbundinn og hann tekur alveg undir það. „Ég byrjaði í karate og er því með hraða fótavinnu, þennan inn og út stíl sem tíðkast þar, en síðan hef ég líka varið mjög miklum tíma á gólfinu í glímu. Þessi samsetning sést ekki oft og er fremur sjaldgæf – menn eru yfirleitt góðir í öðru hvoru. Annars er kannski erfitt fyrir mig að lýsa stílnum. Ég reyni samt stöðugt að bæta hann. Mér finnst gott að hafa eitthvað að vinna í, eitthvað til að bæta. Ég er ekki beint með stór, ákveðin markmið sem ég stefni að heldur þykir mér gaman að dunda við eitthvað og æfa mig. Ég er dálítill „craftsman“ og vil vinna að einhverjum hæfileika, bæta og þróa hann.

„Ég veit það sjálfur að mér finnst oft miklu óþægilegra þegar einhver náinn mér er að fara að berjast heldur en þegar ég sjálfur geri það. Það getur verið mjög stressandi.“

MMA hefur iðulega verið gagnrýnt fyrir að vera ofbeldisfull íþrótt en Gunnar bendir á að það sé ekki hægt að tala um ofbeldi þegar tveir þrautþjálfaðir einstaklingar takist á í bardaga sem þeir hafi báðir samþykkt. „Það eru fjölmargar íþróttir hættulegar og MMA er alls ekki hættulegasta íþróttin, það er bara staðreynd. Þetta er samt mjög harkaleg íþrótt og það getur stuðað fólk sem finnst kannski að eini tilgangurinn með íþróttinni sé að meiða einhvern. Upprunalega eru þetta samt sjálfsvarnaríþróttir og til þess að þú lærir að verja þig þarf auðvitað einhver að ráðast á þig. Þetta snýst því um að yfirbuga andstæðinginn, ekki ráðast á hann. Reglurnar eru eins góðar og hægt er án þess að gera bardagann óraunhæfan. Auk þess eru læknar á staðnum ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis. Það er mjög góð umgjörð utan um þetta.“

Gunnari er yfirleitt lýst sem yfirveguðum og rólegum gaur, innan og utan búrsins. Það virðist lítið fá á hann en það er ekki þar með sagt að hann hræðist ekkert. „Auðvitað verð ég smeykur. Það er allt í lagi að verða hræddur, bara mannlegt, en ætlarðu að leyfa óttanum að stjórna þér eða ætlar þú að horfast í augu við hann? Hugrekki er að mínu mati afar góður eiginleiki en það þýðir ekki að þú verðir ekki hræddur heldur nærðu að sigrast á hræðslunni – þú ert óhræddur við að vera hræddur,“ segir hann.

„Ég geri ráð fyrir að berjast í nokkur ár í viðbót en er ekki með neinn ákveðinn tíma í huga. Ég er voðalega lítið að hugsa langt fram í tímann, tek frekar einn dag í einu.“

Einstök stöð

Hefðbundnum degi í lífi Gunnars er mestmegnis varið í Mjölni þar sem hann bæði æfir og kennir. Hann er einn tíu stofnmeðlima íþróttafélagsins sem var sett á laggirnar árið 2005. Í febrúar á þessu ári tóku þeir í gagnið nýja aðstöðu í Öskjuhlíð þar sem Keiluhöllin og Rúbín voru einu sinni til húsa. Þar er að finna sex æfingasali, lyftinga- og teygjuaðstöðu, þrektæki, MMA-búr, boxhring, barnahorn og margt fleira.

„Mjölnir er einstakt batterí. Ég hef ferðast víða, nánast um allan heim, og farið í stöðvar en það jafnast ekkert á við Mjölni. Það er frábær andi þar innandyra og það segja það líka allir sem koma hingað. Þótt þetta sé bardagaklúbbur er ábyggilega minni tuddaskapur hér en í margri annarri líkamsrækt.

Við leyfum ekki dæmdum og þekktum afbrotamönnum að æfa í Mjölni, svo ég tali nú ekki um þá sem hafa verið dæmdir fyrir líkamsárásir, við viljum ekki sjá þá. Þetta er íþrótt og við viljum bara hafa fólk sem hefur gaman af því að taka á því, svitna, læra eitthvað og vera í góðum félagsskap. Það er það sem við stöndum fyrir,“ segir hann.

Gunnar fer ýmist á eina eða tvær æfingar á dag og æfingarnar eru miserfiðar. „Á mánudögum, til dæmis, kenni ég í hádeginu, klukkan eitt fer ég á æfingu þar sem ég tek mjög vel á því í einn og hálfan tíma. Eftir slíkar æfingar geri ég yfirleitt lítið um kvöldið, ef eitthvað, kannski helst einhverja tæknilega æfingu.“
Hann æfir jafnt og þétt yfir árið og tekur sér sjaldan hlé frá æfingum. Fyrir bardaga tekur hann svokallað „camp“ þar sem hann trappar upp æfingarnar og tekur fleiri spretti en vanalega. „Maður verður samt að passa sig og halda líkamanum góðum, það er ekki gott að lenda í ofþjálfun. Það skiptir miklu máli að skipuleggja campið vel og hafa góða blöndu af þungum og léttum æfingum svo maður nái hvíld. Eftir bardagann er svo líka mikilvægt að taka smápásu frá æfingum til að halda geðheilsunni – þetta snýst um jafnvægi.“

Glímir við soninn

Þegar Gunnar er ekki í Mjölni lifir hann ósköp venjulegu lífi. Aðra hverja viku er hann með son sinn, Stíg Tý Nelson, og vaknar fyrr þá daga til að koma honum af stað í leikskólann. Þar fyrir utan ver hann tíma með kærustu, vinum og fjölskyldu, horfir á sjónvarpið og spilar Playstation.

Gunnar er í sambandi með Fransisku Björk Hinriksdóttur en þau kynntust fyrir um ári. Hún er að hans sögn orðin nokkuð vön að horfa á hann berjast.

„Ég er skapstór, og hef alltaf verið, en í gegnum MMA hef ég lært að hafa stjórn á tilfinningum mínum.“

„Það er auðvitað ekkert sérstaklega þægilegt fyrir hana, eða almennt þá sem standa mér næst, að horfa á mig í búrinu. Ég veit það sjálfur að mér finnst oft miklu óþægilegra þegar einhver náinn mér er að fara að berjast heldur en þegar ég sjálfur geri það. Það getur verið mjög stressandi. Hún tekur því samt bara mjög vel.“

Stígur Týr er orðinn þriggja og hálfs árs og farinn að átta sig á hvað faðir hans gerir. „Honum finnst gaman að skuggaboxa, glíma og þess háttar – hann er aðallega í því að glíma við mig. Hann er rosalega orkumikill og algjör gaur. Mamma vill meina að ég hafi átt hann fullkomlega skilið miðað við hvernig ég var sem barn.

Ég mun klárlega leyfa honum að prófa barnastarfið hérna í Mjölni þegar hann verður eldri, sjá hvort hann hafi gaman af því. Það er frábærlega vel staðið að barnastarfinu og það er bara gott fyrir krakka að bæta almenna hreyfigetu og fá aðeins að takast á á vinalegan hátt. Það er hollt og þroskandi. Það eru dæmi um krakka sem hafa komið og átt eitthvað erfitt með sig en hér hafa þau byggt upp sjálfstraust og róast í sjálfum sér. Fyrir suma þá er þessi íþrótt bara algjörlega málið.“

Aðspurður um hvernig faðir hann sé segir Gunnar að það verði bara að spyrja Stíg að því. „Ég hef allavega ákveðnar skoðanir á hvernig ég vil ala hann upp. Mér finnst gott að leyfa honum að finna út úr hlutunum sjálfur en læt hann jafnframt ekki komast upp með bull og frekju. Maður þarf að láta þau vita hvað sé í lagi og hvað ekki. Krakkar þurfa að fá að takast á við sín vandamál og taka út pirring eða óánægju en svo er það bara búið. Það er í raun mjög einfalt að halda honum glöðum svo lengi sem maður er duglegur að finna upp á einhverju nýju að gera. Krakkar vilja endalaust læra eitthvað nýtt þannig að stundum er nóg að breyta um umhverfi eða stemningu.“

Kallar eftir bardaga

Í mörgum íþróttum ná menn hátindi sínum milli tvítugs og þrítugs en það er ekki óalgengt að bardagakappar í MMA séu að toppa sig seinna. Gunnar er til dæmis tuttugu og níu ára og enn að bæta sig. „Ég geri ráð fyrir að berjast í nokkur ár í viðbót en er ekki með neinn ákveðinn tíma í huga. Ég er voðalega lítið að hugsa langt fram í tímann, tek frekar einn dag í einu. Ég mun samt alltaf vera í þessu sporti með einum eða öðrum hætti. MMA er svo hrikalega stór hluti af mér og ég elska íþróttina af öllu hjarta. Þótt ég hætti að berjast þá er það bara partur af ferðalaginu, vissulega stór partur, en ég mun halda áfram að kenna og þróa þessa íþrótt.

Eftir Ponzinibbio-bardagann tók Gunnar sér hlé til að jafna sig almennilega. Reglur UFC kveða á um að bardagakappar séu settir í fjörutíu og fimm daga keppnisbann eftir rothögg en teyminu fannst það vera of lítið. „Ég er tiltölulega nýfarinn að æfa aftur að ráði, kannski rúm vika síðan ég byrjaði af kappi. Síðustu æfingar hafa gengið mjög vel og ég er bara að koma mér aftur í toppform. En ég er búinn að jafna mig og tilbúinn í næsta bardaga.“

„Mjölnir er einstakt batterí. Ég hef ferðast víða, nánast um allan heim, og farið í stöðvar en það jafnast ekkert á við Mjölni. Það er frábær andi þar innandyra og það segja það líka allir sem koma hingað.“

Það vakti athygli nýverið þegar Gunnar virtist kalla eftir bardaga við Darren Till í athugasemd á Instagram. Till kom inn í UFC nýverið með hvelli og sagði að allir væru of hræddir við að berjast við hann. Gunnar svaraði þessari staðhæfingu með orðunum: „Ég er til stóri strákur.“ „Það urðu einhveru uppþot í kringum þessi ummæli mín á Netinu. En ég er til í bardaga og Darren tók líka vel í þennan möguleika. Þetta kemur bara í ljós en mér finnst líklegt að á næstu vikum tilkynni UFC hvenær ég muni berjast næst og við hvern það verður,“ segir Gunnar að lokum og það er greinilegt að hann er hvergi banginn.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Innlit á veitingastaðinn Flatey Pizza úti á Granda

Á hvössum og köldum haustdegi kíktu blaðamaður og ljósmyndari inn í hlýjuna á nýjum veitingastað úti á Granda.

Vinirnir Haukur Már Gestsson, Brynjar Guðjónsson, Sindri Snær Jensson og Jón Davíð Davíðsson standa að staðnum en Sindri Snær og Jón Davíð eru þekktir í tískuheimi Reykjavíkur. Þeir eru eigendur verslunarinnar Húrra Reykjavík sem er starfrækt á tveimur stöðum á Hverfisgötunni og hefur átt góðu gengi að fagna.

Hvað kom til að þeir ákváðu að opna saman pítsustað? „Við erum æskuvinir úr Laugardalnum og þetta byrjaði á því að við Binni fórum að þróa með okkur þráhyggju fyrir ákveðinni pítsugerðarhefð eftir að hafa upplifað hana erlendis,“ segir Haukur. „Svo fórum við að spjalla við Sindra og Jón sem urðu strax mjög heillaðir, en þeir höfðu þá verið að láta sig dreyma um að opna veitingahús í nokkurn tíma. Eitt leiddi af öðru og á endanum fórum við saman í vísindaferð til London, borðuðum á tíu Napoletana-pítsustöðum á þremur dögum og í kjölfarið ákváðum við að kýla á þetta.“

„Það þarf mikla þjálfun til að gera svona pítsur, sérstaklega ef maður ætlar að gera það almennilega.“

Haukur hefur lengi haft áhuga á pítsugerð. „Ég hafði verið að fikta við súrdeigsbakstur í nokkur ár og svo smakkaði ég þessa tegund af pítsu í New York árið 2009. Síðan þá hef ég verið að leika mér að þessu heima hjá mér.“

Greinilegt er að pítsugerð er mikil ástríða hjá vinunum. Eftir að hafa afráðið að opna veitingastaðinn, ákváðu Brynjar og Haukur að ferðast til Napólí til að ná betri tökum á þeirri list að baka Napólípítsur. „Það þarf mikla þjálfun til að gera svona pítsur,“ segir Haukur, „sérstaklega ef maður ætlar að gera það almennilega. Við vörðum tveimur vikum í Napólí og hittum alla þá sem vildu fræða okkur um þessa pítsuhefð, m.a. AVPN-samtökin um verndun Napólípítsuhefðar. Svo eyddum við auðvitað drjúgum tíma á mörgum af þekktustu pítsustöðunum í Napólí, en í heildina eru um fjögur þúsund pítsustaðir í borginni.“

Viðtalið í heild má lesa í kökublaði Gestgjafans.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Leggja hjarta og sál í starfsemina

Pink Iceland er ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í skipulagningu ferða-, viðburða- og brúðkaupa fyrir hinsegin gesti.

En tekið er vel á móti öllum svo lengi sem þeir eru ekki fordómafullir.

Eigendurnir Eva María, t.h., og Birna Hrönn en Hannes Páll var vant viðlátinn. Mynd/Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði fyrir allnokkrum árum hjá Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange sem er eigandi þess ásamt Birnu Hrönn Björnsdóttur og Hannesi Páli Pálssyni. „Ég hafði lengi haft þann draum að koma á laggirnar þjónustu fyrir hinsegin ferðamenn. Ástæðan var aðallega sú að hinsegin ferðamenn verða oft fyrir hindrunum á ferðalögum sínu, óþægindum, fordómum og jafnvel ofbeldi. Með Pink Iceland er markmiðið að bjóða upp á þjónustuviðmót þar sem hinsegin gestum landins líður vel og geta ferðast frjálsir.

Ég stofnaði fyrirtækið árið 2011 þegar ég stundaði nám í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og tók þátt í frumkvöðlakeppninni Gullegginu. Ég fann strax að mig langaði ekki vera ein á þessu ferðalagi sem var að stofna nýtt fyrirtæki svo að unnusta mín Birna Hrönn hoppaði um borð í lestina. Skömmu síðar bættist vinur okkar Hannes Páll við í eigendahópinn og við fundum strax að við höfðum öll þrjú sömu ástríðu fyrir málefninu og vildum byggja upp fallegt fyrirtæki saman,“ segir Eva María sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Pink Iceland er að sögn Evu Maríu 21. aldar ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í skipulagningu ferða-, viðburða- og brúðkaupa fyrir hinsegin gesti. Eva er eigandi, ferða- og brúðkaupsskipuleggjandi, ásamt þeim Birnu Hrönn og Hannesi Páli. Birna er að auki markaðsstjóri stafrænnar markaðssetningar og Hannes er einnig hönnuður og markaðsstjóri.

„Þó að áherslur og markaðssetning beinist aðallega að þjónustu fyrir hinsegin gesti tökum við vel á móti öllum góðum gestum, svo lengi sem þeir eru ekki fordómafullir. Það er mikill munur á okkar fyrirtæki og ferðaskrifstofuforminu sem fólk þekkir frá því áður en Internetið og bókunarsíður urðu helstu tæki og tól ferðalanga til að skipuleggja fríin sín.

„Við segjum stundum að það megi líkja okkur við kaupmanninn á horninu, það er kannski aðeins dýrara en alltaf jafnnotalegt þegar manni er heilsað eins og gömlum vini og er þjónustaður í samræmi við það.“

Þessi munur liggur kannski einna helst í því að við þurfum að keppa í verðum við risavaxnar alþjóðlegar bókunarvélar en veita á sama tíma persónulega þjónustu og hanna hágæðaupplifun fyrir gestina okkar. Við segjum stundum að það megi líkja okkur við kaupmanninn á horninu, það er kannski aðeins dýrara en alltaf jafnnotalegt þegar manni er heilsað eins og gömlum og vini og er þjónustaður í samræmi við það. Gestir okkar eru nær allir erlendir enda er þjónusta okkar miðuð að þeirra þörfum.“

Náttúran aðdráttarafl

Brúðkaupsþjónusta Pink Iceland er fjölþætt og starfsfólkið aðstoðar tilvonandi hjón með allt sem viðkemur því að giftast og upplifa Ísland. „Verkefnin eru ótalmörg og mismunandi og það verða til fjölmörg dagsverk við skipulagningu hinna einföldustu brúðkaupa. Við vinnum náið með til dæmis ljósmyndurum, stílistum, athafnastjórum, leiðsögufólki, prestum, landeigendum, veitingafólki, tónlistarfólki og opinberum stofnunum. Þegar brúðkaupsgestir koma til landins þá vilja þeir líka ferðast og því tvinnast brúðkaups- og ferðaskipulagningin gjarnan saman.

Mynd / Pink Iceland

Mikill meirihluti okkar gesta er frá Bandaríkjunum. Náttúra landsins er aðal aðdráttaraflið fyrir ferðalögum fólks til Íslands og það sama á við með brúðkaup. Ísland verður því oft fyrir valinu þegar pör eru að leita að fallegum náttúrulegum stöðum til þess að láta gefa sig saman enda fara 90% okkar athafna fram utandyra.

Okkar þjónusta er einstök því hún er sérsniðin að ákveðnum hópi ferðamanna, þ.e. hinsegin ferðamönnum. Við tilheyrum sjálf þessum hópi og þekkjum hann vel. Við höfum svo tileinkað okkur ákveðna stefnu sem er það að vera hreinskilin við okkar gesti, erum með svokallaða „honesty policy“ þar sem við segjum hvernig viðskiptamódelið okkar virkar og það kann fólk að meta. Við höfum stundum talað um að við séum með ágætis „síu“ því að það kemur mjög skýrt fram hvað við stöndum fyrir og þá fáum við oftast ekki til okkar gesti sem eru með fordóma. Gestir okkar ganga iðulega í takt við þá lífssýn sem við, sem störfum hjá fyrirtækinu, höfum.“

Mikilvægt að lesa í aðstæður

Eva segir starfið mjög gefandi og þakklætið sé þar efst á blaði. „Það er ómetanlegt að finna þakklætið hjá fólki þegar allt er yfirstaðið. Sem brúðkaupsskipuleggjandi myndar maður náin tengsl við brúðhjón, vini þeirra og ættingja sem gerir allt ferlið svo gefandi. Í dag eigum við vini út um allan heim. Það er ótrúlega dýrmætt. Skemmtilegast er að upplifa stóra daginn með fólki. Sjá allt smella saman, upplifa gleðina og allar tilfinningarnar hjá gestum. Það er líka gaman að fá að vinna með fólki sem kann að meta þegar maður gefur sig allan í það að búa til einn mikilvægasta dag í lífi þess.

Hafþór Óskarsson, ferða- og brúðkaupsskipuleggjandi, og Sigríður Pálsdóttir brúðkaupsskipuleggjandi.

Veðrið getur oft verið mikil áskorun en við reynum þó að líta á það meira sem ævintýri sem kryddar daginn. Það getur verið erfitt að þurfa að breyta dagskrá dagsins vegna veðurs eftir að hafa skipulagt daginn í heilt ár eða lengur. Sem betur fer gerir fólk sér nú yfirleitt grein fyrir því að það er allra veðra von á Íslandi og kippir sér ekki upp við óvæntan snjóstorm eða smávegis rigningu. Það eru einna helst Íslendingarnir sem signa sig þegar þykkir upp og verða meðvirkir með íslenskri veðráttu. Ættingjar brúðhjóna geta líka verið erfiðir á köflum og þá þarf brúðkaupsskipuleggjandi að takast á við þá til þess að létta undir með brúðhjónunum. Það er mikilvægt að lesa vel í aðstæður og vinna úr þeim áskorunum sem koma upp án þess að brúðhjónin finni fyrir nokkru.

Við leggjum mikla áherslu á að fólkið njóti þessa ferðalags sem felst í því að skipuleggja brúðkaup í ókunnugu landi. Þá er gagnkvæmt traust mikilvægt, þ.e. að tilvonandi par treysti okkur fyrir að hjálpa sér að taka réttar ákvarðanir. Fólk á það til að týnast í smáatriðum og þá er það okkar hlutverk að fá það til þess að forgangsraða og einblína á stóru myndina – það sem virkilega skiptir máli. Við hvetjum fólk alltaf til að fylgja hjartanu og henda hefðum út um gluggann. Það þarf ekki að bjóða fulla frændanum eða óviðeigandi frænkunni sem eyðileggja allar veislur. Það má alveg bjóða upp á „burger og bjór“ í veislu. Það má alveg gifta sig á táslunum og strákar mega alveg vera með blómvönd.“

„Það fékk því mikið á alla þegar ein systirin kvað sér hljóðs og bað um að fá að lesa bréf frá móður mannsins, en þau höfðu á þessum tímapunkti ekki talast við í mörg ár.“

Hún segir að kostnaður sé eins mismunandi og brúðkaupin eru mörg. „Bara blómin í stóru brúðkaupi geta kostað jafnmikið og öll þjónustan á bak við lítið brúðkaup. Eins og áður sagði er hreinskilni og gagnsæi okkur mikilvæg og við reynum bara að vinna með það sem tilvonandi brúðhjón hafa úr að spila. Ef við sjáum fram á að brúðhjón hafi ekki efni á okkar þjónustu þá reynum við samt alltaf að gefa þeim góð ráð og beina þeim í réttar áttir. Ef við berum þetta saman við það sem pörin væru að eyða í sínu heimalandi þá er oftast ódýrara fyrir þau að gifta sig á Íslandi þar sem veisla er oft minni í sniðum og færri gestum boðið en í öðrum löndum. Það er þá verið að fjárfesta í öðrum hlutum, minna eytt í til dæmis skreytingar og meira í hluti sem bæta upplifun gesta og pars, til dæmis ævintýralegar ferðir, góðan mat, skemmtileg tónlistaratriði og svo framvegis.“

Allir hágrétu

Starfsemin hefur skilið eftir sig margar góðar minningar og Eva segir að alltaf standi eitthvað upp úr í hverju brúðkaupi. „Eftirminnilegustu sögurnar tengjast gjarnan tilfinningarríkum uppákomum. Okkur er minnistætt brúðkaup sem við skipulögðum fyrir nokkru þar sem foreldrar annars brúðgumans höfðu afneitað syni sínum eftir að hann kom út úr skápnum. Systur þessa manns náðu þó að smygla sér úr landi til að vera við brúðkaup bróður síns, án vitneskju foreldranna eftir því sem við best vissum. Það fékk því mikið á alla þegar ein systirin kvað sér hljóðs og bað um að fá að lesa bréf frá móður

Mynd / Pink Iceland

mannsins, en þau höfðu á þessum tímapunkti ekki talast við í mörg ár. Við vissum ekki hverju við ættum von á og settum okkur í stellingar og vorum tilbúin að slökkva á hljóðnemanum. Þess gerðist þó ekki þörf því bréfið var fullt af ást og viðurkenningu móður á syni sínum. Það kom fram að pabbinn vissi hvorki af brúðkaupinu né bréfinu sem var lesið og móðirin, sem var orðin okkuð öldruð, vildi fullvissa strákinn sinn um að hann væri elskaður, þó ekki væri nema af öðru foreldrinu. Allir sem urðu vitni að þessu hágrétu hvort sem það voru gestir, gumar, þjónar eða brúðkaupsskipuleggendur.“

Gott orðspor dýrmætt

Eva María er stolt af því orðspori sem þau hafa skapað sér. „Við erum til dæmis komin með tæplega 300 fimm stjörnu umsagnir á Tripadvisor og þeir sem ferðast með okkur koma iðulega til okkar vegna þess að einhver mælti með okkar ferðum. Það er búið að fjalla fallega um okkur um allan heim og við trúum því að ef maður leggur hjarta og sál í það sem maður gerir og passar að njóta þess á hverjum degi komi það margfalt til baka. Við höfum vaxið hratt á síðustu árum en þó ekkert í líkingu við mikið af fyrirtækjum í kringum okkur og það er einfaldlega vegna þess að við viljum halda rétt á spöðunum, fara ekki fram úr okkur og passa að þjónustan sem við bjóðum upp á sé einstök.

Við erum alltaf að bralla eitthvað. Þessa dagana tökum við til dæmis þátt í HönnunarMars þar sem við bjóðum upp á DesignWalk-gönguferð um miðborgina. Við erum líka að skipuleggja heimsóknir kórahópa til landsins. Svo erum við alltaf að leita nýrra leiða til að tengja saman skapandi greinar, menningu og ferðaþjónustu enda finnst okkur þetta vera náskyldar greinar.“

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Ávaxtajólakaka á aðventunni

Leirlistarkonan og myndlistarkennarinn Mariella Thayer hefur gaman af því að fá útrás fyrir sköpunarhæfileika sína í eldhúsinu. Kakan sem hún gefur okkur uppskrift að er dásamleg ávaxtaka sem upphaflega kom frá ömmu hennar.

Kökuna hefur hún bakað fyrir jólin í yfir 20 ár en í gegnum árin hefur hún þróað kökuna og gert að sinni. „Ég baka alltaf svolítið magn og frysti og tek svo bara eina og eina út og ber fram í litlum bitum með kaffi eða ískaldri mjólk.

Kakan hentar líka sérlega vel sem matarjólagjöf og nokkrir ættingjar mínir fá kökuna í jólapakkann en þá tek ég hana út úr frystinum rétt fyrir jól og pakka henni inn en hún geymist í 4-5 daga í í kæli og 6 mánuði í frysti.“

„Kakan hentar líka sérlega vel sem matarjólagjöf og nokkrir ættingjar mínir fá kökuna í jólapakkann.“

Þess má geta að Mariella hefur gaman af því að endurgera gamla hluti og gefa þeim nýtt líf í postulíni en hlutirnir á myndinni eru einmitt úr postulínssmiðju hennar. Áhugasamir geta skoðað postulínið á Facebook-síðunni „jól alla daga“.

Ávaxtajólakaka

Ávextir:
2 ½ dl þurrkaðar döðlur, saxaðar
2 ½ dl þurrkaðar gráfíkjur, saxaðar
2 ½ dl rúsínur
1 lítil krukka af rauðum maraschino-kirsuberjum
2 dl sérrí

Setjið allt hráefnið í skál og látið standa yfir nótt eða látið liggja í 2-3 klukkustundir.

Hnetur:
2 dl möndlur, gróft saxaðar
2 dl pekanhnetur, gróft saxaðar
2 dl valhnetur, gróft saxaðar
2 dl brasilíuhnetur, gróft saxaðar
150 g suðusúkkulaði, saxað, eða einn poki Síríus súkkulaðidropar

Setjið til hliðar og geymið.

Deig:
150 g sykur
150 g mjúkt smjör
3 egg
200 g hveiti
1 ⅓ tsk. lyftiduft

Þeytið sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós. Bætið síðan einu eggi í einu út í og hrærið aðeins í á milli. Þegar blandan verður létt, ljós og jöfn er hveitið og lyftiduftið hrært út í og vélin látin ganga svolitla stund. Bætið ávöxtunum og hnetunum saman við deigið og hrærið varlega saman á hægum hraða þar til allt hefur samlagast vel. Skiptið deiginu jafnt í 4 einnota álmót (20×9,2 cm) og bakið við 150°C í u.þ.b. eina klukkustund. Gott er að stinga með prjóni í kökuna þegar hún hefur verið í ofninum í 50 mínútur.

Höfundur: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Gefðu sköpunarkraftinum lausan tauminn

Grenitrjám fylgir bæði kostnaður og leiðindaumstang.

Það þarf að vökva tréð reglulega, ryksuga nálarnar og eftir jól þarf maður að losa sig við það. Vissulega er hægt að kaupa falleg gervijólatré en einnig er hægt að útbúa jólatréslíki frá grunni. Hér eru nokkrar skemmtilegar útfærslur.


Hver segir að jólatréð þurfi endilega að vera grenitré. Hér er einfaldlega nokkrum greinum komið fyrir í vasa og þær skreyttar með öllu tilheyrandi.

Í litlum íbúðum þar sem gólfpláss er af skornum skammti er gott ráð að útbúa einfaldlega jólatré á vegg. Ýmist er hægt að nota vegglímmiða og nota svo nagla eða teiknibólur til að festa skrautið á tréð. Önnur útfærsla er að nota grunnar hillur og mynda jólatréð með þeim. Þá er hægt að stilla myndum og skrauti upp á hillurnar og strengja ljós- eða skrautborða á þær.

Auðvelt er að búa til jólatré úr greinum eða öðrum trjábútum. Hér er útfærsla úr dökkum gólflistum sem er raðað á víxl. Mikilvægt er að skipuleggja sig vel áður en hafist er handa; ákveða lokahæð og -breidd trésins, reikna hversu marga búta þarf, lengd þeirra og loks þarf að saga og pússa viðinn. Tréð úr gólflistum er létt og lipurt þannig að það er hægt að hengja það upp í loft.

Það getur reynst erfitt að hengja venjulegt jólatrésskraut á þetta tré en ýmist er hægt að leggja skraut á endann á hverjum planka eða skrúfa króka neðan á þá til að hengja skraut í.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Þær breyttu til batnaðar

Eftirtaldir fatahönnuðir og kvenskörungar hristu upp í úreldum hefðum og höfðu mikil áhrif á það hvernig við klæðum okkur í dag.

Mary Quant

Mary Quant kynnti meðal annars til sögunnar mínipilsið sem breytti því hvernig konur klæddust til frambúðar.

Það varð mikil bylting í tískunni þegar fatahönnuðurinn Mary Quant mætti á svæðið á sjöunda áratug síðustu aldar. Hún kynnti meðal annars til sögunnar mínipilsið sem breytti því hvernig konur klæddust til frambúðar. Á þessum árum varð önnur bylgja feminískra hreyfinga til og konur upplifðu kynferðislegt frelsi með komu getnaðarvarnarpillunnar á markað. Það var engu líkara en þær vantaði áþreifanlega táknmynd í stíl við vaxandi frelsið.

Það tóku ekki allir vel í þessar breytingar á klæðaburði kvenna en í ævisögu Mary Quant minnist hún þess að uppáklæddir eldri karlmenn hafi barið regnhlífum sínum harkalega í gluggana á fyrstu búð hennar og öskrað ókvæðisorð á borð við: „siðlaust!“ og „ógeðslegt!“.

… í ævisögu Mary Quant minnist hún þess að uppáklæddir eldri karlmenn hafi barið regnhlífum sínum harkalega í gluggana á fyrstu búð hennar og öskrað ókvæðisorð á borð við: „siðlaust!“ og „ógeðslegt!“

En Mary hélt ótrauð áfram að breyta tískuheiminum með því að hrista upp í íhaldssömum hefðum. Hún hjálpaði konum að tjá sig og gaf þeim það sem þær sóttust eftir: uppreisn. Mínipilsið var táknmynd uppreisnar gegn gömul hefðum og stóð fyrir kynþokka og kynlíf og að klæðast því var pottþétt leið til þess að pirra íhaldssama foreldrana.

Áður var ætlast til þess að stúlkur líktu eftir klæðaburði mæðra sinna en femínistahreyfingarnar gáfu skít í þá hugmyndafræði. Mary gerði sér grein fyrir því að mínipilsatískan átti upptök sín í götutískunni og viðskiptavinir hennar gerðu kröfur um æ styttri pils og þannig hjálpaði hún til við að frelsa konur á sjöunda áratuginum undan úreltum hefðum og gömlum gildum.

Vivienne Westwood

Það varð mikil breyting á landslagi tískunnar á áttunda áratugnum, þegar glimmer og glamrokk sixtís-tímans rann sitt skeið þar sem David Bowie og Bítlarnir voru helstu tískufyrirmyndirnar. Í miðjum umsviptingunum var breski fatahönnuðurinn Vivienne Westwood.

Hún byrjaði ferilinn með því að reka verslunina SEX með kærasta sínum en þau hönnuðu rennilása, pinna, nælur og armbönd með pólitískum skilaboðum.

Hún byrjaði ferilinn með því að reka verslunina SEX með kærasta sínum en þau hönnuðu rennilása, pinna, nælur og armbönd með pólitískum skilaboðum.

Seint á áttunda áratugnum varð pönktónlist leið breskra ungmenna til þess að fá útrás og tjá reiði sína gegn stjórnvöldum. Tvær milljónir atvinnulausra fékk meðal annars útrás í gegnum pönkið og með því að klippa og næla saman skotapilsið, sem var gjarnan notað sem táknmynd drottningarinnar.

Vivienne var rétt kona á réttum stað og gaf anarkistunum rödd innan hátískunnar. Hún blandaði köflóttu skotamynstri saman við gaddaðar hundaólar, skreytti allskyns fatnað með öryggisnælum og gerði hátískuvöru úr kynlífsklæðnaði.

Diane Von Furstenberg

Diane Von Furstenberg er viðskiptamógull í sinni tærustu mynd. Ekki nóg með að samkvæmt Forbes er hún ein allra ríkasta kona Bandaríkjanna með tilliti til tekna heldur náði hún heldur betur að snúa vörn í sókn þegar fyrirtæki hennar átti í erfiðleikum á níunda áratugnum og kom enn sterkari inn á markað aftur með sívinsælu bundnu kjólana sína sem hún sló upprunalega í gegn með á áttunda áratugnum.

Saga Diane er einkar merkileg því hún hefur aldrei í raun þurft að vinna. Hún kynntist eiginmanni sínum, prinsinum Egon von Furstenberg í háskólafríi í svissnesku Ölpunum og stuttu síðar giftu þau sig.

Diane var þó alltaf staðráðin í að gera meira en að njóta lífsins lystisemda í boði eiginmannsins og hefur löngum sagt að það sé henni einna mikilvægast í lífinu að skapa sínar eigin tekjur.

Og það gerði hún heldur betur. Bundni kjóllinn hennar varð óendanlega vinsæll. Árið 1975 framleiddi hún 15.000 kjóla á viku og hönnuninni klæddust hinar ólíkustu konur á borð við Betty Ford og Gloriu Steinem.

Diane Von Furstenberg er viðskiptamógull í sinni tærustu mynd.

Kjóllinn varð flíkin sem gerði allt fyrir konuna sem reyndi að gera allt, svipað og konan sem stóð á bak við hönnun hans.

Og ástæðan fyrir vinsældunum var óneitanlega vegna þess að í honum leið konum eins og þær langaði að líða í miðri kynlífsbyltingu: kynþokkafullum og óheftum og kjóllinn varð táknmynd fyrir frelsi kvenna á þessum tíma.

Bundni kjóllinn hennar Diane hentaði vel sem vinnuklæðnaður þar sem hann var bundinn þétt upp við líkamann en böndin voru leyst eftir vinnu til að mæta á diskótekið og ef tilefni gafst til var auðvelt að leysa hann með einu handtaki seinna um kvöldið.

Kjóllinn varð flíkin sem gerði allt fyrir konuna sem reyndi að gera allt, svipað og konan sem stóð á bak við hönnun hans. Hönnun Diane nýtur enn mikilla vinsælda í dag enda erfitt að finna klassískari hönnun sem hægt er að klæðast við hin ýmsu tilefni.

Donna Karan

Á níunda áratugnum, þegar konur kepptu við karla upp metorðastigann í viðskiptalífinu varð vöntun á fatnaði sem undirstrikaði metnaðinn og stöðu þeirra á vinnumarkaði. Árið 1984 kom á markað frá Donnu Karen fatalína sem bar nafnið Seven Easy Pieces, fatnaður sem konur gátu klæðst og liðið í senn bæði kvenlega og fagmannlega á vinnustaðnum.

Donna Karan lagði áherslu á nokkrar einfaldar flíkur sem hægt var að blanda saman að vild; samfellur, stuttermabolir og hnésíð pils urðu bestu vinir hinnar vinnandi konu. Karan varð sjálf táknmynd fyrir þá konu.

Donna Karan kvartaði undan því að það eina sem var í boði áður en hún kom til sögunnar var að klæðast karlmannlegum drögtum eða allt of fínlegum kjólum sem hentuðu ekki þeim sem voru úti á vinnumarkaðnum. Konur klæddust nokkurn veginn eins og karlmenn og það vantaði allan kvenlegan þokka.

Fatalínan hennar sendi öflug skilaboð og undirstrikaði konuna sem klæddist þeim en reyndi ekki að líkja eftir klæðnaði mannsins sem hún þurfti að standa uppi í hárinu á á skrifstofunni.

Í fyrsta sinn í sögunni var hægt að fá fatnað fyrir konur sem lét þær ekki líta út fyrir að vera karlkyns og gerði heldur ekki lítið úr þeim með sykursætri hönnun. Hún fyllti upp í plássið sem vantaði á milli röndóttu jakkafatanna og pífupilsa.

Fatalínan hennar sendi öflug skilaboð og undirstrikaði konuna sem klæddist þeim en reyndi ekki að líkja eftir klæðnaði mannsins sem hún þurfti að standa uppi í hárinu á á skrifstofunni.

Donna Karan lagði áherslu á nokkrar einfaldar flíkur sem hægt var að blanda saman að vild; samfellur, stuttermabolir og hnésíð pils urðu bestu vinir hinnar vinnandi konu. Karan varð sjálf táknmynd fyrir þá konu og bar einfalda og þægilega hönnun sína einstaklega vel. Ólíkt því sem þekktist hjá yngri kynslóðinni á þessum árum þá einbeitti Donna sér að því að hanna einfaldar flíkur úr þægilegum efnum en konur flykktust í verslanir hennar og tóku vel í nútímalega hönnunina og Donna varð ókrýnd drottning Sjöundu Breiðgötu.

Höfundur / Helga Kristjáns

 

Teiknimyndir – ekki bara fyrir börn

Okkur hættir stundum til að líta á teiknimyndir sem eitthvað bara fyrir börn en þær geta haft mikið skemmtanagildi fyrir alla fjölskylduna.

Anna fær hjálp frá hinum eitilharða fjallamanni Kristoff, hreindýrinu hans Sven og snjókarlinum Olaf.

Mikið púður fer í framleiðslu þessara mynda og þær hljóta ekki síður verðlaun en leiknar kvikmyndir. Á ári hverju hlýtur ein teiknimynd verðlaun sem sú besta sinnar tegundar á Óskarsverðlaununum og hér eru þær sem unnið hafa síðustu fimm ár.

Vélmenni og vinir
Big Hero 6 segir frá unglingsdrengnum Hiro Hamada sem eyðir frítíma sínum í að byggja vélmenni. Hann lendir í miklum ævintýrum með uppblásna félaga sínum Baymax sem bróðir hans bjó til. Þeir þurfa ásamt nokkrum kostulegum og uppátækjasömum vinum Hiros að stöðva illan skúrk sem ætlar sér að ná öllum völdum á jörðinni.

Systraást
Það þekkir hvert mannsbarn lagið Þetta er nóg, eða Let it Go, úr kvikmyndinni Frozen. Myndin segir frá konungsbornu systrunum Önnu og Elsu. Þegar þær voru litlar voru þær bestu vinkonur en hafa fjarlægst með árunum vegna þess að á Elsu hvíla álög – allt sem hún snertir frýs og hún getur framkallað vetur. Dag einn kemst upp um þessi álög og Elsa flýr konungsdæmið en skilur það eftir í vetrarríki. Anna er haldin óbilandi bjartsýni og ákveður að takast á hendur ferðalag til að finna systur sína og binda enda á frostaveturinn endalausa. Hún fær hjálp frá hinum eitilharða fjallamanni Kristoff, hreindýrinu hans Sven og snjókarlinum Olaf.

Zootopia verðlaunin sem besta teiknimyndin. Hún fjallar um heim þar sem öll dýrin eru vinir en þó ríkir ekki fullkomið jafnrétti meðal þeirra og töluvert er um fordóma.

Dýrahasar
Í ár hreppti Zootopia verðlaunin sem besta teiknimyndin. Hún fjallar um heim þar sem öll dýrin eru vinir en þó ríkir ekki fullkomið jafnrétti meðal þeirra og töluvert er um fordóma. Aðalpersónurnar eru tvær, annars vegar löggukanínan Judy og hins vegar svali rebbinn Nick sem er þekktur fyrir að vera ekki alltaf alveg réttum megin við lögin og er nokkuð hrekkjóttur í þokkabót. Þau kynnast þegar Judy er send til að handtaka hann fyrir glæp sem hann er ranglega sakaður um að hafa framið en það reynist hægara sagt en gert að hafa hendur í skotti hans. Málin taka hins vegar nýja stefnu þegar Nick og Judy flækjast bæði inn í samsæri og neyðast til að snúa bökum saman til að endurheimta heiður sinn og orðspor.

Inside Out segir frá ungri stúlku og þeim tilfinningum sem bærast innra með henni og stjórna daglegri líðan hennar og skapsveiflum.

Flókið tilfinningalíf
Inside Out er heldur betur áhugaverð og frumleg teiknimynd. Hún segir frá ungri stúlku og þeim tilfinningum sem bærast innra með henni og stjórna daglegri líðan hennar og skapsveiflum. Dagný er nýflutt ásamt foreldrum sínum á nýjan stað og saknar auðvitað gömlu heimaslóðanna og vinanna. Þetta hefur óneitanlega áhrif á tilfinnningalíf hennar og við fáum að kynnast hennar helstu tilfinningum: Gleði, Sorg, Óbeit, Reiði og Ótta. Gleði hefur hingað til alltaf verið við stjórnvölinn og líkar illa að Sorg sé farin að færa sig upp á skaftið. Dag einn verður dálítið óhapp til þess að ein af kjarnaminningum Dagnýjar tapast og Gleði ásetur sér að endurheimta hana, en sú ferð á eftir að hafa kostulegar afleiðingar í för með sér.

Í Brave er svo sannarlega að finnsa flotta fyrirmynd fyrir litlar stelpur.

Lítill kvenskörungur
Í Brave er svo sannarlega að finnsa flotta fyrirmynd fyrir litlar stelpur. Myndin gerist í hinum dulúðugu skosku hálöndum þar sem Merida er prinsessa í konungsríki sem stjórnað er af Fergusi kóngi og Elinoru drottningu. Merida er afar sjálfstæð, dálítið óstýrilát og mjög góður bogmaður. Þegar á að bjóða hönd hennar fram til hjónabands býður hún venjunum birginn og veldur miklum titringi í konungsríkinu. Til að gera málin enn flóknari leitar Merida hjálpar hjá sérviturri gamalli konu og fær hjá henni eina ósk sem reynist þó vera óheillaósk því hún gerir það að verkum að Elinor, mamma Meridu, breytist í skógarbjörn.

Fjölbreytileiki fegurðar

Þessar fyrirsætur eru að brjóta múra í bransanum.

Þegar talað er um óvenjulegar fyrirsætur þá er oft átt við stúlkur sem eru samt gríðarlega fallegar en á óhefðbundinn hátt – til dæmis með hátt enni, langt á milli augna, frekjuskarð, í yfirstærð og svo framvegis.
Til eru þó fyrirsætur sem virkilega stokka upp í norminu og sýna að fegurð á sér raunverulega fjölmargar birtingarmyndir. Þetta eru konur sem sáu aldrei fyrir sér feril sem fyrirsætur, einkum og sér í lagi vegna þess að þær áttu engar fyrirmyndir innan bransans. Engu að síður hafa þær blómstrað og eru fyrirmyndir komandi kynslóða.

Melanie Gaydos fæddist með sjaldgæfan sjúkdóm sem veldur óeðlilegum vexti á vefjum húðar, tanna, nagla og smárra beina. Hún er einnig með alopeciu þannig að hún er alveg hárlaus. Hún hóf störf sem fyrirsæta eftir að kærastinn hennar, sem er ljósmyndari, hvatti hana til þess.

„Mér finnst gott að geta sýnt öðrum að það er fólk sem fæðist öðruvísi en það sjálft og jafnframt að það snýst ekki allt um það hvernig þú lítur út.“

 

 

Jillian Mercado sótti um fyrirsætustarfið í gríni og það kom henni mjög á óvart þegar hún fékk það. Hún hafði lengi verið viðriðin tískuheiminn sem bloggari. Hún hefur verið í hjólastól alla ævi vegna vöðvarýrnunarsjúkdóms. Hún hefur unnið með stórum nöfnum á borð við Diesel og Carine Roitfeld.

„Ég lít á fyrirsætustörfin sem bæði heppni og blessun. Ég er bara sú sem ég er og það er mjög fallegt að heimurinn geti tekið mér sem slíkri.“

Brunette Moffy er rangeyg. Það er ef til vill ekki alvarlegur kvilli og auðvelt er að leiðrétta hann með sterasprautum, skurðaðgerðum eða einfaldlega gleraugum. Moffy hefur hins vegar kosið að gera það ekki og fagnar óhefðbundnu útliti sínu og það virðast aðrir gera líka því hún hefur þegar setið fyrir á forsíðu tímaritsins Pop.

„Ég elska augun mín.“

Diandra Forrest er bandarísk fyrirsæta af afrískum uppruna sem fæddist með albínisma, meðfæddan skort á litarefni í húð, hári og augum. Hún er fyrsta kvenfyrirsæta með þessi einkenni og er ánægð með að geta verið fyrirmynd annarra barna og unglinga með albínisma.

Aðalmynd, efst, er af Winnnie Harlow. Winnie þjáist af vitiligo-sjúkdómnum sem veldur því að algjörlega litlausir blettir myndast á húð. Hún var iðulega kölluð belja þegar hún var í barnaskóla og bekkjarsystkini hennar bauluðu á eftir henni. Hún vakti athygli þegar hún tók þátt í America‘s Next Top Model um árið. Þrátt fyrir að hafa aðeins lent í sjötta sæti í keppninni hófu hönnuðir og ljósmyndarar að hafa samband við hana og biðja um að hún sæti fyrir hjá sér.

„Ég byrjaði að elska sjálfa mig. Þá fóru tækifærin að hrannast inn og ég þakka guði fyrir hvert eitt og einasta.“

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

„Bismark besta jólasælgætið“

Kökublað Vikunnar er komið í verslanir og inniheldur margar glæsilegar uppskriftir. Hulda Viktorsdóttir hjúkrunarnemi er ein þeirra sem bakaði fyrir blaðið.

Kökublað Vikunnar er stútfullt af spennandi efnum. Hulda Viktorsdóttir hjúkrunarnemi er ein þeirra sem bakaði fyrir blaðið en hún reynir að baka eitthvað alla aðventuna.

„Það hefur verið bakað mikið fyrir jólin frá því ég man eftir mér. Mamma heldur mikið í hefðirnar og bakar nánast alltaf það sama hver jól. Á aðventunni finnst mér bakstur með mömmu ómissandi, ilmandi kertaljós og ljúfir tónar með Michael Bublé.“ segir Hulda. „Ég bakaði fyrir ykkur þessa þriggja laga súkkulaðiköku með Bismark-smjörkremi þar sem Bismark er uppáhaldsjólasælgæti mitt.“

Bismark-súkkulaðikaka

225 g sykur
225 g púðursykur
180 g smjör við stofuhita
3 egg
345 g hveiti
½ tsk. salt
60 g kakó
3 dl mjólk

Smjör, sykur og púðursykur þeytt saman. Eggjunum bætt rólega saman við. Þeytt þar til blandan er orðin loftkennd. Restin af þurrefnum bætt saman við. Sett í þrjú grunn form og bakað við 180°C í um það bil 30 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í kökuna kemur hreinn upp.

Kremið
150 g Philadelphia-rjómaostur
375 g smjör
1 ½-2 pk. flórsykur
3 msk. rjómi
2 tsk. piparmyntu-extract

Rjómaostur og smjör þeytt saman. Rjómanum og flórsykrinum bætt saman við og loks piparmyntudropunum. Það er betra að setja minna en meira af flórsykrinum og bæta frekar jafnóðum við þar til kremið er orðið eins og þú vilt hafa það. Einnig er gott að smakka kremið til og bæta þá við piparmyntudropum ef þess þarf.
Kakan er síðan skreytt með jólastöfum og Bismark-brjóstsykrum.

Umsjón: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir: Hákon Davíð Björnsson

Fjórar frægar skandinavískar hönnunarvörur

adsf

Skandinavísk hönnun er ein sú vinsælasta í heiminum í dag, ekki síst retro-hönnun frá fyrri part síðustu aldar en ekki allir þekkja söguna á bak við munina.

Hér eru nokkrar klassískar hönnunarvörur frá Skandinavíu sem er að finna á fjölmörgum íslenskum heimilum og smáskot um hönnuðina á bak við þær.

Hönnuðurinn Kay Bojesen og Apinn frægi.

Kay Bojesen og Apinn

Hönnuðurinn Kay Bojesen menntaði sig upprunalega sem silfursmiður og var í læri hjá Georg Jensen. Það var ekki fyrr en hann eignaðist fyrsta son sinn, Otto, sem hann sneri sér að viðarleikföngum.

Hann mundi hvað honum þótti gaman í æsku þegar faðir hans tálgaði leikföng úr við fyrir hann. Hann vildi einnig rækta sköpunargáfu barna sinna með leikföngum sem væru frumleg og glaðleg.

Hann er án efa þekktastur fyrir Apann en eftir hann liggja þó yfir 2.000 munir og margir eru enn framleiddir í dag.

Poul Henningsen og PH-ljósin

Poul Henningsen kom fyrst til starfa hjá Louis Poulsen árið 1925 og starfaði þar til dauðadags árið 1967.

Hann hóf strax handa við að hanna ljós fyrir sýningu í París og það reyndist upphafið á PH-vörulínunni.

Helsta markmið hans var að hanna ljós sem voru laus við endurkast þannig að þau veittu þarfa birtu en sköpuðu jafnframt mjúka skugga.

Til eru ýmsar útfærslur á PH-ljósum en vinsælastar eru eflaust hangandi PH 3.5 og PH 5-lampinn.

Til eru ýmsar útfærslur á PH-ljósum Henningsen.

Arne Jacobsen og Eggið

Arkitektinn og hönnuðurinn Arne Jacobsen er flestum kunnur og ekki er hægt að tala um skandinavíska hönnun án þess að minnast á hann. Þegar hann var ungur átti hann sér draum um að verða listmálari en faðir hans fékk hann til að velja frekar arkitektúr því það væri praktískara. Hann hóf samstarf við húsgagnaframleiðandan Fritz Hansen árið 1934 sem enn í dag framleiðir stólana hans. Þótt hann sé ef til vill frægastur fyrir Eggið þá eru ekki allir sem hafa efni á að kaupa sér eitt slíkt. Á mörgum íslenskum heimilum er hins vegar að finna Sjöuna í einum eða fleiri litum.

Stólar eftir Arne Jacobsen.

Alvar Aalto

Finnski arkitektinn og hönnuðurinn Alvar Aalto var sannkallaður þúsundþjalasmiður en hann er þekktur bæði fyrir byggingar, húsgögn, textíl og glermuni. Á flestum íslenskum heimilum er að finna að minnsta kosti einn mun úr vörulínunni sem Alvar Aalto hannaði fyrir finnska fyrirtækið Iittala, hvort sem það er glervasi, kertastjaki, bakki eða eitthvað annað. Aalto sigraði Karhula-Iittala glerhönnunarkeppnina árið 1936 með þeirri línu. Innblásturinn fékk hann frá öldum hafsins og er línan í dag ein þekktasta hönnun Finnlands.

Úr smiðju Alvars Aalto.

Mistökin geta verið algjör snilld

Linda Ben Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Linda Benediktsdóttir er mörgum sælkeranum kunn en hún heldur úti bloggsíðunni lindaben.is.

Í nýjasta tölublaði Vikunnar er Linda með uppskrift að lakkrísostaköku með hvítu súkkulaði, konfektkleinuhringjum og brownies með eggjahvítukremi og súkkuði.

,,Ég legg gríðarlegan metnað í bloggið mitt og hef virkilega gaman að því að skapa efnið sem fer þangað inn. Instagram er líka vettvangur sem mér finnst skemmtilegur og legg ég mikið upp úr þeirri síðu. Mér finnst æðislegt að tengjast lesendum mínum á þennan persónulega hátt.

Áður hafði Linda rekið síðuna makkaronur.is þar sem fólk gat pantað sér makkarónur fyrir hvaða tilefni sem er á netinu. Linda segir það hafa verið skemmtilegt verkefni að reka sína eigin kökubúð. ,,Ég fer oft af stað með einhverja ákveðna útkomu í huga en þegar lengra er komið í ferlinu er niðurstaðan langt í frá sú sem ég ætlaði í upphafi. Frekar en að byrja upp á nýtt læt ég hlutina bara virka.

Mér hefur alltaf þótt gaman að baka og vel köku fram yfir önnur sætindi. En ég passa líka að hafa jafnvægi í matarræðinu. Ég borða holla fæðu dagsdaglega, hreyfi mig þegar ég hef tíma en það hentar mér best að hafa allt í hófi. En svo þegar mig langar í góða köku leyfi ég mér það bara og fæ ekkert samviskubit yfir því.“

,,Ég fer oft af stað með einhverja ákveðna útkomu í huga en þegar lengra er komið í ferlinu er niðurstaðan langt í frá sú sem ég ætlaði í upphafi.“

Hún segir að það besta við baksturinn sé nefnilega útrásin sem maður fær fyrir sköpunargleðinni. ,,Svo er ákveðin spenna fólkin í því að vera gera eitthvað nýtt og sjá hvort það virkilega heppnist, sérstaklega þegar maður er að taka smá séns en mistökin geta sömuleiðis verið algjör snilld.“

Í nýjasta tölublaði Vikunnar er Linda með uppskrift að lakkrísostaköku með hvítu súkkulaði, konfektkleinuhringjum og brownies með eggjahvítukremi og súkkuði. 

Höfundur / Íris Hauksdóttir
Myndir /Heiðbjörg Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hvað felst í vegan-lífsstíl?

Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að fólk velji grænmetisfæði, annað hvort eingöngu eða að mun stærri hluta mataræðis síns.

Algengt er einnig að hluti hópsins gangi lengra og kjósi að gerast vegan, eins og það er kallað. Í því felst að kjósa að borða ekkert sem á rætur að rekja til dýraríkisins. Nota að auki nota engar vörur sem hafa annað hvort verið framleiddar úr afurðum dýra eða þau notuð við prófanir á gæðum þeirra.

Flestir þeir er kjósa þennan lífsstíl gera það af hugsjón. Þeim ofbýður meðferð manna á skepnum og vilja ekki stuðla að því að haldið sé áfram að kvelja skepnur sem eiga jafnmikinn tilverurétt og menn á þessari jörð.

Núorðið bjóða flestar matvöruverslanir upp á gott úrval af því fæði sem vegan-fólk kýs og á mörgum veitingahúsum er ávallt val um rétti sem henta því. Mynd/pexels.com

Rannsóknir hafa einnig sýnt að nútímalandabúnaður á stóran þátt í að út í andrúmsloftið streyma eiturefni er stækka gatið í ósonlaginu og valda loftslagsbreytingum. Vaxtarhormón og fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf er sömuleiðis algengur fylgifiskur verksmiðjubúskapar og ungt fólk um allan heim hefur áhyggjur af þeirri þróun. Ekki liggur fyrir vitneskja um hvaða áhrif þetta muni hafa á menn þegar til lengri tíma er litið né heldur vitað hver áhrif ýmissa aukefna sem blandað er í matvæli eru.

Fjölgun mannkyns er sömuleiðis ör og ef við höldum áfram að velja þau matvæli sem nú eru á borðum flestra munum við ekki geta brauðfætt heiminn innan nokkurra kynslóða. Vísindamenn hafa þess vegna lengi hvatt menn til að huga að því að auka neyslu á mat úr plönturíkinu en að auki leitað að fleiri æskilegum prótíngjöfum og skordýr reynst þar vænlegur kostur.

Valið auðvelt

Velji fólk vegan-lífsstíl neytir það ekki eggja, gelatíns, mjólkurvara og hunangs. Þótt dýr séu ekki drepin við framleiðslu þessara matvæla eru þau haldin á búgörðum við mismunandi aðstæður. Til að mótmæla því kýs vegan-fólk að nota ekki þessar vörur. Baunir og baunaafurðir, eins og tofu og tempeh, eru helstu prótíngjafarnir auk sveppa og hneta. Í raun er fæði þeirra mjög heilsusamlegt og ríkt af margvíslegum næringarefnum. Talið er að í Bandaríkjunum séu um það bil 2,5% íbúa vegan og tala þeirra er aðhyllast þessa stefnu fer ört hækkandi.

Vísindamenn hafa þess vegna lengi hvatt menn til að huga að því að auka neyslu á mat úr plönturíkinu en að auki leitað að fleiri æskilegum prótíngjöfum og skordýr reynst þar vænlegur kostur.

Margir þeirra er taka upp þennan lífsstíl tala um að á óvart hafi komið hversu auðvelt það hafi reynst. Núorðið bjóða flestar matvöruverslanir upp á gott úrval af því fæði sem vegan-fólk kýs og á mörgum veitingahúsum er ávallt val um rétti sem henta því. Þetta er nýlunda því ekki er langt síðan að hér á landi var tæpast um annað að velja fyrir grænkera en salat með nokkrum tegundum grænmetis og því lítið spennandi fyrir þá að fara út að borða með vinum.

Flestir þeir er kjósa þennan lífsstíl gera það af hugsjón. Þeim ofbýður meðferð manna á skepnum og vilja ekki stuðla að því að haldið sé áfram að kvelja skepnur.

Þessi þróun er til marks um hversu hratt þessi lífsstíll hefur unnið á. Þeir sem kjósa hann þurfa þó að vera meðvitaðir um hvað þeir borða og gæta þess að fá nóg af kalki, B12-vítamíni, zinki og járni. Á hinn bóginn njóta þeir þess að fá mun meira af C- og E-vítamínum, potassíum, magnesíum og fólínsýrum en kjötætur og þá skortir aldrei trefjar. Þær eru undirstaða heilbrigðs meltingarkerfis og margar kjötætur finna oft fyrir hægðatregðu, ristilvandamálum og brjóstsviða sem vegan-fólk er laust við.

Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að fæði er byggir að stærstum hluta á afurðum úr plönturíkinu dregur mjög úr líkum á að fólk fái krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma. Grænkerar hafa einnig almennt mun lægri blóðþrýsting og kólesteról í blóði.

Rannsóknir hafa sýnt … að fæði er byggir að stærstum hluta á afurðum úr plönturíkinu dregur úr líkum á krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum.

Auk þess er að ofan var talið hafa rannsóknir sýnt að þeir sem kjósa að borða fyrst og fremst mat úr plönturíkinu eru almennt grennri en hinir, þjást síður af ofnæmi eða óþoli, halda liðleika lengur fram eftir ævi og fá síður sykursýki II. Þeir verða þó að gæta þess vel að neyta nægilegs magns af kalk- og D-vítamínríkri fæðu til að tryggja beinþéttni.

Í 45. tbl. Vikunnar er að finna ítarlega úttekt á hvað felst í vegan-lífsstíl og hver eru heppileg fyrstu skref ef menn hafa áhuga á að tileinka sér hann. Hér er brot úr greininni en þeir sem vilja lesa meira geta nálgast blaðið á næsta sölustað.

Höfundur / Steingerður Steinarsdóttir

„Til í bardaga“

MMA hefur iðulega verið gagnrýnt fyrir að vera ofbeldisfull íþrótt en Gunnar bendir á að það sé ekki hægt að tala um ofbeldi þegar tveir þrautþjálfaðir einstaklingar takist á í bardaga sem þeir hafi báðir samþykkt.

Bardagakappinn Gunnar Nelson er búinn að jafna sig eftir Ponzinibbio-bardagann en í honum fékk hann í fyrsta skipti á sig rothögg.

„Þetta var helvíti hraður bardagi og hreint út sagt ömurlegur fyrir mig,“ segir Gunnar.

Gunnar er tiltölulega nýfarinn að æfa aftur að ráði en segist tilbúinn í næsta bardaga.

„Við komum báðir út úr hornunum í byrjun og þó að hann pressi aðeins næ ég strax nokkuð góðu „uppercut-höggi“ á hann. Þá kemur hann hins vegar út með útrétta hönd og potar djúpt í bæði augun á mér. Eftir það sé ég tvöfalt, sé bókstaflega tvo gæja fyrir framan mig.“

Ponzibbio potaði svo aftur í augu Gunnars þegar hann var kominn upp við búrið og var að reyna að verja sig og Gunnar var því með lokuð augun þegar Ponzibbio náði rothögginu.

Í viðtölum strax eftir bardagann við Ponzibbio tók Gunnar stóran hlut ábyrgðarinnar á sig og sagði að hann hefði átt að stoppa bardagann strax, en samkvæmt reglum getur aðeins dómari stöðvað bardaga ekki bardagakappi.

Hann segist þó hafa lært lexíu sína og ef hann lendir aftur í svipuðum aðstæðum muni hann reyna að láta dómarann vita svo hann geti stöðvað bardagann. „Maður þarf að fá tækifæri til að jafna sig eftir svona árás, því það er frekar áríðandi að sjá almennilega í bardaga.“

„Það urðu einhveru uppþot í kringum þessi ummæli mín á Netinu. En ég er til í bardaga og Darren tók líka vel í þennan möguleika.“

Gunnar er tiltölulega nýfarinn að æfa aftur að ráði en segist tilbúinn í næsta bardaga. „Síðustu æfingar hafa gengið mjög vel og ég er bara að koma mér aftur í toppform.“

Það vakti athygli nýverið þegar Gunnar virtist kalla eftir bardaga við Darren Till í athugasemd á Instagram. Till kom inn í UFC nýverið með hvelli og sagði að allir væru of hræddir við að berjast við hann. Gunnar svaraði þessari staðhæfingu með orðunum: „Ég er til stóri strákur.“ „Það urðu einhver uppþot í kringum þessi ummæli mín á Netinu. En ég er til í bardaga og Darren tók líka vel í þennan möguleika.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Myndband / Óskar Páll Sveinsson

 

 

Músur sem mótuðu tískuna

Stella segir að fatasmekkur foreldra sinna hafi verið henni innblástur.

Ekki er óalgengt að listamenn eigi sér músur sem þeir sækja andagift sína í.

Fatahönnuðir eiga sér oftar en ekki fleiri en eina músu; sumar hafa tímabundin áhrif og veita innblástur að ákveðinni vörulínu eða tískusýningu á meðan aðrar rista dýpra og hafa mótað hönnuðina og sýn þeirra á tísku.

Samkvæmt Tom Ford er allt tískuvit hans sprottið frá þeim tíma sem hann varði með hönnuðinum Halston þá aðeins sautján ára.

Tom Ford
Táningsárin eru mjög mótandi tími og það á ekki síst við um Tom Ford. Samkvæmt honum er allt tískuvit hans sprottið frá þeim tíma sem hann varði með hönnuðinum Halston þá aðeins sautján ára.

Halston klæddi allt fína og fræga fólkið á þessum tíma, Lizu Minnelli, Elizabeth Taylor og Angelicu Houston.

 „Ég var eins og svampur og saug þetta í mig og mikið af upplifunum mínum frá þessum tíma hafa mótað fagurfræði mína.“

„Ég fór kvöld eitt fullur heim til Halstons og hann eldaði egg handa okkur. Á þessum árum kynntist ég fólki, eins og Biöncu Jagger, sem ég þekki enn í dag og það segir stundum: „Bíddu hvenær kynntist ég þér fyrst?“ Ég var bara sautján ára krakki sem var með vini þeirra.

Ég var eins og svampur og saug þetta í mig og mikið af upplifunum mínum frá þessum tíma hafa mótað fagurfræði mína.“

Rachele Regini er helsti innblástur móður sinnar Mariu Grazia Chiuri, listræns stjórnanda Dior.

Maria Grazia Chiuri

Listrænn stjórnandi Dior, Maria Grazia Chiuri, fetar óhrædd í fótspor heimsfrægra hönnuða. Það kemur því ef til vill einhverjum á óvart að sú sem veitir henni helst innblástur er tvítug dóttir hennar, Rachele Regini. „Að sjálfsögðu er hún músan mín. Ég elska tísku af öllu hjarta og ég veit nákvæmlega hvað ég vil fá út úr henni fyrir sjálfa mig. En ef ég á að vera alveg hreinskilin þá hugsa ég nær aldrei um sjálfa mig í hönnun minni, þú verður að hlusta á hvað yngri kynslóðin vill. Stundum eru það því börnin sem kenna móðurinni.“

 

Karl Lagerfeld, listrænn stjórnandi hjá Chanel og Fendi, sækir enn innblástur í fyrrum unnusta sinn, Jacques De Bascher, sem lést árið 1989.

Karl Lagerfeld

Það eru ekki aðeins lifandi einstaklingar sem eru hönnuðum músur. Einn frægasti fatahönnuður samtímans, Karl Lagerfeld, listrænn stjórnandi hjá Chanel og Fendi, sækir enn innblástur í fyrrum unnusta sinn, Jacques De Bascher, sem lést árið 1989 aðeins þrjátíu og sjö ára. „Ég er mikill fjölskyldumaður en hann var eins og fjölskylda án þeirra skyldna sem fylgja fjölskyldum. Hann hleypti birtu inn í líf mitt á hátt sem engum hefur tekist síðan. Kannski er bara ein slík manneskja á mann og svo ekki meir.“

 

Ævilöng vinátta Huberts de Givenchy og Audrey Hepburn er vel þekkt innan tískubransans. A

Hubert de Givenchy

Ævilöng vinátta Huberts de Givenchy og Audrey Hepburn er vel þekkt innan tískubransans. Audrey Hepburn sagði að fötin hans væru þau einu sem henni liði sem sér sjálfri í. Hubert De Givenchy hannaði eina frægustu flík kvikmyndasögunnar á Audrey, eða svarta kjólinn sem hún klæddist í Breakfast at Tiffany’s. „Ég kann best við persónuleika hennar og sjarma. Stíll hennar skín í gegn í kvikmyndum og í þeim fötum sem hún klæðist. Hún er einstök,“ sagði hann. Enn þann dag í dag sækir tískuhúsið fræga innblástur í Audrey.

Móðir Alessandro Michele er helsti innblásturinn í hönnun hans.

Alessandro Michele

Mömmur eru bestar og það veit Alessandro Michele, listrænn stjórnanadi Gucci, vel. Móðir hans er helsti innblásturinn í hönnun hans og hann lýsir henni sem algjörlega klikkaðri kerlingu sem lifir í stællegum heimi. „Okkur vantar fleiri sérvitringa eins og hana svo ég hef hannað vörulínur mínar og tískusýningar með tilliti til eintaklingsins. Hvernig þú klæðir þig segir heilmikið um það hvernig þér líður, hvernig þú lifir lífinu, hvað þú lest og gildi þín. Það er einmitt það sem ég vildi koma inn hjá Gucci.“

„Hvernig þú klæðir þig segir heilmikið um það hvernig þér líður, hvernig þú lifir lífinu, hvað þú lest og gildi þín. Það er einmitt það sem ég vildi koma inn hjá Gucci.“

Stella segir að fatasmekkur foreldra sinna hafi verið henni innblástur.

Stella McCartney

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni segir máltækið en þó að foreldrar Stellu McCartney, tónlistarfólkið Paul og Linda McCartney, hafi svo sannarlega verið hæfileikaríkir og skapandi þá var fatasmekkur þeirra ekkert til að hrópa húrra fyrir. Stella segir þó að það hafi einmitt verið henni innblástur. „Foreldrar mínir höfðu lítinn áhuga á tísku sem gerði það að verkum að stíll þeirra var aldrei útpældur né ofhugsaður. Það var þeim svo eðlislægt að blanda saman nýju og gömlu, glamúr og klassík. Þau höfðu ómeðvitað mikil áhrif á mig og vörumerki mitt, mig langaði að gera eitthvað meira og stærra en bara að hanna fallega kjóla og sýna þá á tískupöllunum.“

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

 

Geymilegar gersemar

Ýmsar gersemar leynast í geymslum landsins og það á ekki síst við um geymslur Hönnunarsafns Íslands.

Sýningin Geymilegir hlutir hefur staðið yfir frá árinu 2015. Þar má sjá sýnishorn af þeim fjögur þúsund munum sem eru í safneigninni, en sýningin er einmitt hönnuð með það fyrir augum að auðvelt sé að skipta hlutum út og setja nýja inn.

Sýningin Geymilegir hlutir hefur staðið yfir frá árinu 2015. Þar má sjá sýnishorn af þeim fjögur þúsund munum sem eru í safneigninni. Hér er Fundarstóll eftir Gunnar H. Guðmundsson, húsameistara Reykjavíkur, úr fundarsal borgarstjórnar Reykjavíkur að Skúlatúni 2. Einn af þremur misháum stólum úr sömu seríu sem safnið varðveitir. Þessir stólar eru enn í notkun hjá Reykjavíkurborg.

Aðdragandinn að stofnun Hönnunarsafns Íslands var allnokkur en umræðuna um nauðsyn á slíku safni má rekja aftur til ársins 1992 þegar félagið Form Ísland setti saman hóp með fulltrúum hönnuða, menntamálaráðuneytisins, Listasafns Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Reykjavíkurborgar um slíkt safn. Í framhaldinu var þeim tilmælum beint til menntamálaráðuneytisins að skipa nefnd er mæti með hvaða hætti stofna mætti safn er sinnti listiðnaði.

Í byrjun árs 1997 var niðurstaða þeirra nefndar að mikil þörf væri á safni er sinnti listhandverki og iðnhönnun. Árið 1998 gerðu því menntamálaráðuneytið og Garðabær samkomulag um að reka í sameiningu íslenskt hönnunarsafn er safnaði og sýndi listiðnað.

Fyrst um sinn var safnið deild í Þjóðminjasafni Íslands en með nýjum samningi við menntamálaráðuneytið árið 2006 tók Garðabær við rekstri Hönnunarsafns Íslands og starfar safnið sem stofnun á vegum bæjarfélagsins. Þá hafði safnið til afnota lítinn sal við Garðatorg þar sem haldnar voru nokkrar sýningar á ári en skrifstofu og varðveislurými var að finna á öðrum stað.

Árið 2009 var safninu valinn staður við Garðatorg 1 og fluttist öll starfsemi safnsins þangað þegar reglubundið sýningahald safnsins hófst í maí 2010.

Safneign safnsins stækkar jafnt og þétt og telur nú um fjögur þúsund gripi.

Í dag starfa á safninu forstöðumaður og sérfræðingur ásamt gæslu- og afgreiðslufólki. Nýbúið er að útbúa sýningarrými í anddyri safnsins þar sem verða settar upp minni sýningar á verkum eða verkefnum hönnuða.

Gripir safnsins falla í eftirfarandi flokka: húsgagnahönnun, grafísk hönnun, arkitektúr, fatahönnun, vöru- og iðnhönnun, textílhönnun, skartgripahönnun, gull- og silfursmíði, keramík og glerlist.

Safneign safnsins stækkar jafnt og þétt og telur nú um fjögur þúsund gripi. Safnið kaupir reglulega inn gripi í safneignina en einnig berst töluvert af gjöfum til þess. Það er safninu mikils virði að fólk hugsi til þess, hvort sem það vill gefa eða fá hjálp við að greina hluti í sinni eigu.

Sífellt meiri fróðleikur um hönnunarsögu Íslendinga

Nýir gripir sem koma í safnið á hverju ári leggja grunn að efni til rannsókna og þeir eru í sjálfu sér vitnisburður á hverjum tíma um það sem sérfræðingar álíta æskilegt að sé varðveitt í safni. Gildi þeirra hluta sem koma til safnsins breytist, merking getur orðið önnur – og jafnvel meiri.

Árið 1969 var Manfreð Vilhjálmsson fenginn til að hanna húsgögn og innréttingar fyrir nýjan unglingaskemmtistað, Tónabæ, í Skaftahlíð 24. Í Tónabæ vildi Manfreð skapa umhverfi sem reykvískir unglingar ættu ekki að venjast heima hjá sér og með því gera staðinn að þeirra athvarfi.

Undanfarin ár hafa safninu borist nokkrar stórar gjafir sem styrkja safneign þess mjög. Má þar nefna gjöf frá grafíska hönnuðinum Gísla B. Björnssyni á munum frá ævistarfi hans. Gjöf frá Einari Þorsteini Ásgeirssyni arkitekt á gripum sem tengjast vinnu hans og nú síðast gjöf frá Bláa lóninu á stóru keramíksafni sem hefur að geyma afar gott yfirlit yfir íslenska leirlistasögu.

Eitt af hlutverkum Hönnunarsafns Íslands er að stuðla að rannsóknum á íslenskri hönnunarsögu. Með stækkandi safneign safnast sífellt inn meiri fróðleikur um hönnunarsögu Íslendinga.

Safnið hefur fengið hrós fyrir það að hafa örlítið aðra hugsjón en önnur hönnunarsöfn erlendis, það er, á safninu er að finna bæði hversdagslega og hástemda hönnun. Þannig má glöggt sjá hvernig íslensk hönnun hefur haft áhrif á heimili, samfélag og menningu þjóðarinnar – og öfugt.

Breidd safneignarinnar er greinileg á sýningu safnsins Geymilegir hlutir sem nú er í gangi.

Þar eru til sýnis nokkrir af þeim úrvalsmunum sem safnið varðveitir af ýmsum ástæðum – sem dæmi má nefna Don Cano-krumpugalla og fallegt Max-sófasett. Lýsingarorðið geymilegur er lítt þekkt í dag. En gömul merking orðsins var sett í samhengi við gjafmildi og stórhug, eins og vitnað er um í tímaritinu Skírni árið 1913 á eftirfarandi hátt: „… þá verður sá talinn mestur er mest gaf af geymilegum hlutum,“ en í þessari setningu liggur einmitt kjarninn í starfsemi Hönnunarsafnsins.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Felur jólakræsingar í ísskápum nágrannanna

Þúsundþjalasmiðurinn Margrét Erla Maack hlakkar til jóla og segir sérstakan fjölskyldusið alltaf koma sér í jólaskap.

„Það er nokkuð sérstakur siður á mínu æskuheimili sem sumum finnst svolítið erfitt að skilja. En hann gengur sem sagt út á það að við skiptumst á að elda hvert fyrir annað og látum ekki vita hvað er í matinn fyrr en sest er til borðs,“ segir Margrét Erla Maack, fjöllistakona, kabarettdís og skemmtikraftur, og bætir við að í raun sé alltaf miklu meiri spenningur í kringum þetta leynimakk heldur en til dæmis jólagjafirnar.

„Jólastemningin hefst þegar við tilkynnum að við séum búin að kaupa í matinn. Síðan eru kræsingarnar faldar í ísskápum og frystum nágranna og vina þar til að matarboðunum kemur,“ segir hún hress. „Við höfum prófað alls konar mat. Ein jólin vorum við með á boðstólum mat undir inderveskum árhrifum, vindaloo-hreindýr og tandoori-humar, og ég hugsa að það hafi heppnast einna best.“

„Við höfum prófað alls konar mat. Ein jólin vorum við með á boðstólum mat undir inderveskum árhrifum, vindaloo-hreindýr og tandoori-humar, og ég hugsa að það hafi heppnast einna best.“

Þar fyrir utan finnst Margréti Erlu fátt jólalegra en að sinna verslunarstörfum á aðventunni. „Þó að ég sé fullbókuð í veislustjórn, skemmtanir og „plötusnúðamennsku“ allar helgar í desember þá get ég ekki stillt mig um að taka vaktir með vinum mínum í Kormáki og Skildi en þar nær jólastemningin hámarki á tíu klukkustunda löngum innpökkunarvöktum á Þorláksmessu.

Ætli þetta hafi ekki eitthvað með æskuna að gera. Þegar ég var lítil vann mamma mín
allan desember í barnafataversluninni Bangsa í Bankastræti og þá brugðum við
fjölskyldan yfirleitt á það ráð að skreyta heima um miðjan nóvember svo hún upplifði kósí skammdegisjólastemningu með okkur áður en vinnutörnin hófst,“ segir hún og brosir.

Höfundur / Roald Eyvindsson
Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Raddir