Föstudagur 15. nóvember, 2024
2.7 C
Reykjavik

Máttugar matartegundir

Matartegundir sem auka kraft og úthald.

Granatepli innihalda öflug andoxunarefni og rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla þeirra getur haft áhrif á það hvernig slagæðar okkar eldast.

Flestar matartegundir hafa áhrif á okkur. Þær gefa okkur næringarefni, orku og vítamín til að takast á við verkefni dagsins og því rétt að huga að því hvaða matartegundir við ættum að leitast eftir að bæta inn í okkar daglegu neyslu til að auka okkur kraft og úthald, ekki síst þessa köldustu og dimmustu vetrarmánuði.

Granatepli innihalda öflug andoxunarefni og rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla þeirra getur haft áhrif á það hvernig slagæðar okkar eldast. Líklegt þykir að granatepli hafi góð áhrif á tíðni krabbameins, sérstaklega blöðruhálskirtilskrabbameins, en engum rannsóknum á þessum eiginleikum hefur enn verið lokið.

Bygg inniheldur átta lífsnauðsynlegar amínósýrur og samkvæmt nýlegri rannsókn getur neysla á því komið reglu á blóðsykurinn í allt að 10 klst. eftir neyslu þess. Bygg er einnig talið hjálpa til við lækkun kólesteróls í blóði og draga úr hættunni á tegund 2 sykursýki.

Magurt kjöt er ein besta uppspretta járns sem til er og hefur einnig áhrif á getu líkamans til að taka upp járn úr öðrum fæðutegundum. Kjöt inniheldur sínk sem talið er bæta minnið og B-vítamín sem hjálpa líkamanum að nýta orkuna úr matnum. Kjöt af dýrum sem fóðruð hafa verið á grasi í stað hafra inniheldur meira af E-vítamíni og omega-3 fitusýrum. Villibráðin okkar er mögur og bítur gras, mosa og fjallagrös allan ársins hring.

Feitur fiskur er fullur af fjörefnum og omega-3 fitusýrum sem sannað er að hafa góð og víðtæk áhrif í líkamanum. Omega-3 fitusýrur hafa m.a. verið taldar hafa góð áhrif á liði og lundarfar og hjálplegar í baráttunni gegn þunglyndi og kvíða auk þess að hafa góð áhrif á starfsemi heilans. Fiskur er klárlega rétta hráefnið til að byrja á þegar við viljum bæta mataræði okkar.

Feitur fiskur er fullur af fjörefnum og omega-3 fitusýrum sem sannað er að hafa góð og víðtæk áhrif í líkamanum … Fiskur er klárlega rétta hráefnið til að byrja á þegar við viljum bæta mataræði okkar.

Kanill er bragðgóður í bæði sæta og kryddaða rétti og það er kannski ekki af ástæðulausu að margir sækja í hann. Hann er talinn koma jafnvægi á blóðsykurinn og hefur í gegnum aldirnar verið notaður gegn tannverkjum og andremmu og einnig sem vörn gegn kvefi og meltingartruflunum.

Villtur lax inniheldur mikið af D-vítamíni og omega-3 fitusýrum og sáralítið af þungmálmum. Íslenski laxinn, sér í lagi sá villti, er hér í algjörum sérflokki. Fitusýrurnar í laxinum hafa góð áhrif á húðina og lundarfarið og berjast gegn fitusöfnun, hjartasjúkdómum og áhrifum liðagigtar.

Til eru margar tegundir af hollum olíum svo sem ólífuolía, sesamolía, hörfræjaolía og hveitikímsolía en þær henta misvel í eldamennsku og eru misbragðgóðar. Til að hámarka heilsusamlega eiginleika þeirra er best að geyma þær í dökkum flöskum á köldum stað, jafnvel í kæliskáp.

Eggjarauður innihalda mörg torfengin næringarefni, s.s. choline sem tengt hefur verið lægri tíðni brjóstakrabbameins (ein rauða uppfyllir ¼ af ráðlögðum dagsskammti). Auk þess innihalda eggjarauður mikilvæg andoxunarefni. Margir hafa forðast egg vegna tengsla þeirra við hjartasjúkdóma en fyrir flesta er engin ástæða til þess. Þeir sem þegar þjást af hjartasjúkdómum ættu að takmarka neysluna við 1-2 rauður á viku en öðrum er óhætt að borða a.m.k. eitt egg daglega, rannsóknir hafa sýnt fram á að það eykur ekki líkurnar á hjartasjúkdómum eða hjartaáfalli.

Spirulina er ein þekktasta ofurfæða sem til er en hún er jafnan þurrkuð og hennar yfirleitt neytt sem fæðubótarefnis. Það er ekki að ástæðulaus að Spirulina lendir ofarlega á öllum ofurfæðulistum, hún inniheldur gríðarlegt magn næringarefna, t.d. beta karótín, járn, kalíum, kalk, B-12 vítamín, blaðgrænu og góðar fitusýrur.

Rannsóknir sem gerðar voru á dýrum sýndu m.a. að neysla á bláberjum gæti lækkaði kólesterólmagn í blóði og hjálpað til við stjórnun blóðþrýstings.

Blaðlaukur, laukur og hvítlaukur búa yfir mörgum ótrúlegum kostum. Laukur er talinn geta hjálpað til við að lækka blóðþrýstinginn og kólesteról í blóði. Rannsóknir benda einnig til að laukur geti haft hamlandi áhrif á vöxt krabbameinsfruma í blöðruhálskirtli, maga og ristli. Laukur hefur hamlandi áhrif á fjölgun baktería og hvítlaukur er t.d. talinn geta minnkað líkurnar á kvefi.

Mikil víndrykkja verður seint talin heilsusamleg en því er þó haldið fram að hófleg neysla á rauðvíni geti haft góð áhrif á starfssemi hjarta og æðakerfis, þetta er stundum kallað „franska mótsögnin“. Rauðvín inniheldur polyfenól og resveratol, efni sem m.a. eru talin eiga þátt í þessum meintu áhrifum rauðvíns. Rauðvín er einnig ríkt af andoxunarefnum. Við leggjum hér aftur áherslu á orðin „hófleg neysla“.

Bláber innihalda mikið magn andoxunarefna og talið er að neysla þeirra geti dregið úr einkennum hjá Alzheimer-sjúklingum og þeim sem þjást af elliglöpum. Rannsóknir sem gerðar voru á dýrum sýndu m.a. að neysla á bláberjum gæti lækkaði kólesterólmagn í blóði og hjálpað til við stjórnun blóðþrýstings.

Rauðrófan er mjög mikilvæg fæðutegund og hefur stóru hlutverki að gegna fyrir líkamann. Í rauðrófunni er járn, C-, Bl-, B2-, B6-, og P-vítamín ásamt mikilsverðustu amínósýrunum. Rauðrófan hefur gagnast vel við blóðleysi og bólgum í líkamanum og ætti skilið að gegna miklu stærra hlutverki hjá okkur en hún gerir. Síðustu ár hefur verið hægt að fá mjög góðar, ferskar rauðrófur í verslunum hérlendis.

Texti / Guðrún Vaka Helgadóttir

 

 

Í opnu sambandi

Í borginni St. Petersburg á Flórída er safn sem er tileinkað einum virtasta og umdeildasta málara heims.

Dalí nam myndlist í Madríd og varð á námsárunum þegar þekktur fyrir að vera sérvirtingur auk þess sem myndir hans vöktu strax athygli.

Það er stærsta safn meistarans utan Spánar og hýsir að mestu einkasafn vinahjóna hans, Reynolds og Eleanor Morse, auk ljósmynda úr lífi Dalís og Gölu, eiginkonu hans.

Stuttu áður en Reynolds og Eleanor Morse giftu sig árið 1942 fóru þau á sýningu á verkum Dalís í Cleveland, Ohio. Þau féllu fyrir listamanninum og keyptu sitt fyrsta verk eftir hann ári seinna. Þetta varð upphafið á söfnun þeirra á upprunalegum verkum Dalís og að áralangri vináttu milli þessara hjóna. Verkin höfðu þau á heimili síni í Cleveland til ársins 1971 en þá opnuðu þau safn við hliðina á skrifstofuhúsnæði sínu í Beachwood, Ohio. Þeim varð hins vegar um megn að taka á móti þeim fjölda gesta sem sóttu safnið og ákváðu að flytja safnið á ný í lok áttunda áratugarins. Eftir mikla leit sem vakti þjóðarathygli völdu Morse-hjónin safninu stað í vörugeymslu við höfnina St. Petersburg sem opnaði árið 1982.

Árið 2008 var safninu svo valinn nýr staður og glæsileg bygging sem arkitektinn Yann Weymouth hannaði var tekin í notkun árið 2011. Byggingin er það sterkbyggð að hún á að standa af sér fellibyl af stærðargráðunni fimm.

The Hallucinogenic Toreador sem Dalí málaði 1968-70.

Á safninu eru meira en 2000 listaverk – olíuverk, vatnslitamyndir, teikningar, skúlptúrar og fleira. Af þeim átján meistaraverkum sem Dalí gerði eru átta staðsett í þessu safni. Flest af þekktustu verkum Dalís eru í súrrealískum stíl og því kemur mörgum gestum safnsins á óvart hve gríðarlega fjölbreytt verk hans eru.
Fyrstu verk hans voru landslags-, andlits- og kyrralífsmyndir á meðan verk sem hann gerði síðar á ævinni voru meðal annars trúarlegs eðlis og þau sem sýna tvær myndir í einni. Síðan komu sjónhverfingar, sterk form og þrívídd inn í verk hans. Á safninu eru myndir sem gefa góða innsýn í öll þessi tímabil.

Meðal verka sem þið ættuð alls ekki að láta fram hjá ykkur fara eru Slave Market with the Disappearing Bust of Voltaire og Old Age, Adolescence, and Infancy (The Three Ages), súrrealískar myndir sem blekkja augað.
Hægt er að verja klukkustundum fyrir framan stærstu meistaraverkin eins og The Hallucinogenic Toreador sem Dalí málaði 1968-70, The Discovery of America by Christopher Columbus frá árinu 1959 og The Ecumenical Council sem hann málaði árið 1960. Einnig er vert að nefna verkið Gala Contemplating the Mediterranean Sea which at Twenty Meters Becomes the Portrait of Abraham Lincoln frá árinu 1976 sem er gott dæmi um mynd sem hefur tvær í einni.

Hið glæsilega safn er að finna í borginni St. Petersburg á Flórída. Mynd / www.commons.wikimedia.org

Gala eiginkona Dalís er viðfangsefni í mörgum mynda hans en hún fylgdi honum alla tíð og sá til þess að hann gæti algerlega einbeitt sér að myndlistinni. Þau bjuggu ýmist í Bandaríkjunum eða á Spáni og litu á Ameríku sem sitt annað heimili. Þessa síðastnefndu mynd málaði Dalí á hótelherbergi í St. Régis-hótelinu í New York. Myndin er óður til landsins sem gaf honum skjól á meðan borgara- og heimstyrjaldir geysuðu í Evrópu.

Þess má geta að samband þeirra hjóna var enginn dans á rósum. Þau voru í opnu sambandi og það vakti oft upp afbrýðisemi og leiddi til illdeilna.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Einstakt ævintýri að vera í heimavistarskóla

|
|dfbgbfgb

Börðust gegn lokun.

Bryndís Fiona Ford skólameistari Hússtjórnarskólans á Hallormsstað segir skólann mikilvægan hluta af menningu Austurlands.

Fyrir ári gerðu stjórnendur Hússtjórnarskólans mennta- og menningarmálaráðuneytinu grein fyrir því að of fáir nemendur hefðu sótt um á vorönn 2017. „Við bjuggust samt ekki við að þá yrði ákveðið að hætta skólahaldi. Sveiflur í aðsókn að skólum eru eðlilegar og endurspegla ástand þjóðfélagsins. Það var því mikið áfall að fá þær fréttir. Við börðumst áfram fyrir skólann, sögu hans og hlutverki og um leið fyrir þá nemendur sem höfðu sótt um nám,“ segir Bryndís Fiona Ford skólameistari Hússtjórnarskólans.

„Skólinn er hluti af menningu fjórðungsins, skólinn og nemendur hans hafa því mikið gildi. Námið samanstendur af textílgreinum og matreiðslu og byggir á áralangri reynslu þar sem menningararfur og nútímatækni fara saman. Námið er stöðugt að breytast og nú með nýrri námskrá erum við að nálgast námsefnið út frá meiri sjálfbærni. Við nýtum okkur umhverfið sem mest og förum í kraftgöngur um skóginn og heimsækjum nánasta umhverfi. Í matreiðslu er mikið unnið með austfirskt hráefni og fá nemendur tækifæri til að skapa og hanna ýmsa rétti og útfærslur undir leiðsögn matreiðslumeistara og gestakennara. Nemendur tengjast sterkum böndum við skólann, umhverfið en allra mest við samnemendur. Hér á sér stað eitthvað ævintýralegt sem erfitt er að koma orðum að.“

Ítarlegt viðtal við Bryndísi er í 2. tölublaði Vikunnar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Myndsmiðjan/Kox

Chili-kjúklingur með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu

|
|

Gerðu vel við þig um helgina.

Berið kjúklinginn fram með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu.

Chili-kjúklingur með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu
1 heill kjúklingur
2 gulrætur
1 rófa
1 sæt kartafla
3-4 msk. olía
gróft sjávarsalt
1 sítróna, skorin í sneiðar

Skolið kjúklinginn vel og þerrið með eldhúspappír. Notið einnota hanska og makið chili-kryddmaukinu innan í og utan á kjúklinginn. Það getur verið gott að losa skinnið aðeins frá og maka kryddmaukinu undir skinnið þar sem það er hægt. Á þessu stigi er gott að láta kjúklinginn standa í kæli yfir nótt eða í nokkrar klst. við stofuhita. Stillið ofn á 180°C. Skerið grænmetið í fremur stóra bita, athugið að hafa sætu kartöflubitana töluvert stærri en hina þar sem sætar kartöflur eldast hraðar. Veltið grænmetinu upp úr olíu og grófu salti og raðið því í botninn á eldföstu móti. Skerið sítrónu í sneiðar og raðið ofan á grænmetið. Setjið kjúklinginn ofan á sítrónusneiðarnar og eldið í u.þ.b. 1 ½ klst. eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Berið gjarnan fram með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu.

chili-kryddmauk:
8 hvítlauksgeirar
2 tsk. sjávarsalt
2 tsk. fenníkufræ
3 tsk. kúmenfræ
nýmalaður svartur pipar
1 þurrkað chili-aldin, mulið smátt, eins má nota 1 tsk. chili-flögur
1-2 tsk. ólífuolía

Merjið saman hvítlauksgeira og salt í mortéli þar til úr verður mauk. Bætið kryddinu saman við og merjið gróft saman ásamt ólífuolíunni.

jógúrtsósa:
2 dl grísk jógúrt
lófafylli fersk mynta, smátt söxuð
lófafylli fersk steinselja, smátt söxuð
1-2 tsk. hunang
2-3 tsk. sesamolía
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Blandið öllu vel saman og látið standa í kæli í nokkrar klst.

saffranhrísgrjón:
2 laukar, smátt skornir
2 tómatar, smátt skornir
nokkrir saffranþræðir
2 ½ dl villihrísgrjón eða hýðishrísgrjón
5 dl kjúklingasoð
1 tsk. salt

Steikið lauk á pönnu í 6-8 mín. eða þar til hann er orðin glær. Bætið tómötum saman við ásamt saffranþráðum og látið malla í nokkrar mín. Setjið þá hrísgrjónin saman við og steikið þau í nokkrar mín. Bætið kjúklingasoði út í ásamt salti og látið malla við vægan hita þar til hrísgrjónin eru soðin í gegn og allur vökvi horfinn.

Texti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Rakel Sigurðsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

 „Góð vinnustaðamenning mikilvæg gegn kulnun í starfi“

Það fyrsta sem hverfur er gamansemin

Sveindís Anna Jóhannsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, hefur sérhæft sig í handleiðslu gegn kulnun í starfi.

Vinnutengd streita hefur á undanförnum árum aukist hjá þjóðinni og mikilvægt að grípa tímalega til aðgerða. Sveindís Anna Jóhannsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, hefur vakið athygli á því að handleiðsla sé öflugt verkfæri gegn kulnun í starfi.

„Birtingarmyndir kulnunar geta verið margvíslegar en eitt af því sem hverfur eða minnkar stórlega er gamansemin. Það verður allt svo alvarlegt. Ekkert er lengur skemmtilegt eða hægt að brosa að. Fólk fer einnig að einangra sig, hætta að taka þátt, vinna jafnvel í kaffi- og matartímum til að forðast samstarfsfólk. Síðan fer fólk einnig að forðast kunningja og vini og að lokum einangrar fólk sig líka frá fjölskyldunni,“ segir Sveindís í greinargóðu viðtali í 2. tölublaði Vikunnar sem kom í verslanir í dag.

Hún segir að góð vinnustaðamenning sé mikilvæg gegn kulnun í starfi. „Auknar líkur eru á kulnun ef markmið starfsins eru óljós eða mótsagnarkennd. Strangar reglur lofa ekki góðu sem og neikvætt andrúmsloft, lítið rými fyrir nýjar hugmyndir, slök stjórnun og eftirfylgd, lítil áhrif starfsmanna á eigið starf og stöðugt kapphlaup við tímann. Einnig of mörg verkefni, þegar sjaldan er hrósað fyrir vel unnin störf og þegar fjöldi undirmanna er yfir 35 manns.“

Nánar má lesa um málið í 2. tölublaði Vikunnar sem kom út í dag 11. janúar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Frumraunir í ástamálum

Fyrsta ástin er flókið fyrirbæri sem engu að síður er svo freistandi að fanga á hvíta tjaldinu.

Hér eru nokkrar ljúfsárar og yndislegar myndir um fyrstu ástina.

Algjörar andstæður
Í Spectacular Now (sbr. mynd hér að ofan) er sagt frá Sutter Keely sem lifir í núinu og er ekkert mikið fyrir það að gera plön fyrir framtíðina. Hann er á síðasta ári í framhaldsskóla, heillandi og vinamargur, miðdepill athyglinnar í veislum, elskar að vinna í fatabúðinni og svo framvegis – en hann er líka efnilegur alkóhólisti og vískíflaskan er aldrei langt undan. Eftir að kærastan segir honum upp fer hann á fyllerí og vaknar í ókunnugum garði þar sem Aimee Finecky stendur yfir honum. Hún er öðruvísi en þær stelpur sem hann á að venjast, sannkölluð „góð stelpa“ sem leggur sig fram í skóla, á sér drauma um framtíðina og hefur aldrei átt kærasta. Þrátt fyrir að vera svona ólík ná þau merkilega vel saman og hafa áhrif hvort á annað, bæði góð og slæm.

Oliver ákveður að hann ætli að verða besti kærasti í heimi til að tryggja að Jordana haldi áfram að vera hrifin af honum.

Skeleggur strákur
Skondna kvikmyndin Submarine segir frá hinum 15 ára gamla Oliver Tate en hann á sér tvö meginmarkmið: að missa sveindóminn fyrir næsta afmælisdag og rústa sambandi móður sinnar við elskhuga sinn. Oliver er bráðþroska ungur strákur og rembist við að auka vinsældir sínar í skólanum. Einn góðan veðurdag verður hin dökkhærða fegurðardís, Jordana, skotin í honum og hann ákveður að hann ætli að verða besti kærasti í heimi til að tryggja að hún haldi áfram að vera hrifin af honum. Á sama tíma er hjónaband foreldra hans í molum og ekki bætir úr skák þegar fyrrum kærasti móður hans flytur inn í húsið við hliðina. Oliver leggur á ráðin um það hvernig hann geti látið foreldra sína vera áfram saman. Lúmskt skemmtileg bresk kvikmynd þar sem hinn ungi leikari Craig Roberts ber af.

Cada og Thomas sem er yfir sig ástfanginn af henni.

Sorgleg en falleg
Það er ekki hægt að fjalla um fyrstu ástina og þroskasögur án þess að tala um My Girl. Þar kynnumst við Vödu Sultenfuss sem er heltekin af dauðanum. Móðir hennar er látin og faðir hennar rekur útfararstofu. Hún heldur að hún sé ástfangin af enskukennaranum sínum og skráir sig meira að segja í ljóðanámskeið til að ganga í augun á honum. Besti vinur hennar, Thomas J., er algjör ofnæmispési. Hann er yfir sig ástfanginn af Vödu og tilbúinn til að gera hvað sem er fyrir hana. Vada reiðist þegar faðir hennar ræður förðunarfræðing á útfararstofuna og hrífst af henni. Hún gerir allt hvað hún getur til að skemma fyrir þeim. Eins og flestir vita er endir myndarinnar mjög sorglegur og það er nauðsynlegt að vera með tissjúkassa við höndina þegar maður horfir á þessa.

Oskar kynnist Eli sem er heldur betur sérstök stúlka.

Flókin ást
Það er nógu erfitt og flókið að verða skotinn í fyrsta skiptið þó manneskjan sem maður er skotinn í sé ekki vampýra í þokkabót. Í sænsku myndinni Låt den rätte komma in kynnumst við Oskari, 12 ára gömlum strák í Stokkhólmi sem er lagður í einelti í skólanum og foreldrar hans láta hann alveg afskiptan. Líf hans breytist þegar hann kynnist Eli sem er heldur betur sérstök stúlka. Hún þolir illa sólskinið, fúlsar við flestum mat og svo þarf að bjóða henni sérstaklega inn í herbergi. Hann fellur engu að síður fyrir henni og hún gefur honum styrk til að standa með sjálfum sér. En þegar hann uppgötvar að hún þarf að drekka mannablóð til að lifa neyðist hann til að hugsa sinn gang upp á nýtt.

Moonrise Kingdom fjallar um samband 12 ára stráks, Sam, og stelpu, Suzy, sem hafa verið pennavinir í eitt ár.

Sannkallað ævintýri
Á eyjunni New Penzance búa aðeins örfáar hræður auk þess sem þar eru reknar sumarbúðir. Myndin Moonrise Kingdom fjallar um samband 12 ára stráks, Sam, og stelpu, Suzy, sem hafa verið pennavinir í eitt ár. Þau verða ástfangin í gegnum bréfaskriftirnar og gera með sér leynilegt samkomulag um að flýja saman út í óbyggðirnar. Suzy býr á eyjunni með fjölskyldu sinni en Sam kemur árlega í Ivanhoe-sumarbúðirnar. Á meðan yfirvöld og hinar ýmsu stofnanir leita þeirra sækir skuggalegur stormur í sig veðrið þannig að á endanum er hið sallarólega samfélag litlu eyjunnar komið á annan endann.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Stórbrotnir staðir á Suðurlandi

Á Suðurlandi eru margir stórbrotnir staðir sem vert er að heimsækja við réttar aðstæður.

Þar er hvergi meiri fjölbreytni í náttúrufari á Íslandi eins og jöklar, eldfjöll, eldfjallaeyjar, háhitasvæði, jökulár, svartar sjávarstrendur, víðáttumikil undirlendi, mýrar og stöðuvötn af öllum stærðum og gerðum. Það er því óhætt að mæla með ósnortnu hálendi Suðurlands við áhugasama ferðalanga.

Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins. Mynd / www.commons.wikimedia.org

Lakagígar gusu árið 1783 hinu mesta hraungosi er sögur fara af á jörðinni. Þeir voru þá kallaðir Skaftáreldar og er gígaröðin 25 kílómetrar að lengd og endar við Vatnajökul. Alls eru gígaopin talin vera um 100. Gígarnir eru af margvíslegri gerð og lögun. Sumir eru kringlóttir, aðrir aflangir og stundum meira eða minna brotnir. Í barmi flestra þeirra er skarð sem hraunið hefur runnið út úr.

Flestir þeirra eru að miklu leyti þaktir þykkri breiðu af grámosa og hinir fegurstu tilsýndar. Ganga ber um þá með gætni því að mosinn er afar viðkvæmur. Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins en þeir voru friðlýstir árið 1971.

Fjaðrárgljúfur Hið 100 metra djúpa og tveggja kílómetra langa Fjaðrárgljúfur er bæði stórbrotið og hrikalegt. Gljúfrið er veggbratt, hlykkjótt og þröngt. Berggrunnurinn í Fjaðrárgljúfri er að mestu móberg frá kuldaskeiðum ísaldar og telst um tveggja milljóna ára gamalt. Fjaðrá á upptök sín í Geirlandshrauni og fellur fram af heiðarbrúninni í þessu mikilfenglega gljúfri þar til hún skilar sér niður í Skaftá. Fjaðrá er bergvatnsá og ljóst er að hún hefur breyst mikið í tímans rás. Í dag er Fjaðrá oftast frekar vatnslítil og því geta göngumenn hæglega kosið að ganga inn gljúfrið en þá þarf að vaða ána alloft. Innst í gljúfrinu eru fossar svo ganga þarf sömu leið til baka. Flestir velja að ganga eftir göngustíg uppi á gljúfurbarminum og njóta um leið útsýnisins yfir gljúfrið. Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá og öðlaðist heimsfrægð eftir að söngvarinn Justin Bieber tók upp myndband sitt I´ll Show You í gljúfrinu.

Raufarhólshellir Einn af lengstu hellum Íslands nefnist Raufarhólshellir og er staðsettur við Þrengslaveg. Hellirinn er yfir 1.300 metra langur og myndaðist í Leitarhraunsgosi í Bláfjöllum fyrir um 5.200 árum. Vinsælt er að nota hellinn í kvikmyndum og til að mynda var hluti úr kvikmyndinni Noah (2014) tekinn upp þar. Daglegar ferðir eru í boði í hellinn.

Jökladýrð Hluta af hinni kraftmiklu móður jörð er að finna í hinum hættulegu jöklum landsins. Flesta jökla landsins er að finna á Suðurlandi og vert að hafa í huga að mestu máli skiptir að setja í forgang viðeigandi búnað og skipulagningu ef ferðast á yfir jökul. Eitt megineinkenni jökla er að þeir hreyfast. Í jöklunum eru margar virkar eldstöðvar en eldgos og jarðhiti bræða ís og geta valdið jökulhlaupi. Um þriðjungur þess vatns sem fellur til sjávar á Íslandi er jökulvatn. Aðgengi að íslenskum jöklum er nokkuð mismunandi en þó er mögulegt að komast að flestum þeirra. Ferð upp á jökul getur verið ógleymanlegt ævintýri en þó ber að hafa í huga að þeir geta verið stórhættulegir og því nauðsynlegt að vera í fylgd reyndra jöklaleiðsögumanna. Nokkur fyrirtæki sjá um skipulagðar jöklaferðir á Suðurlandi en hægt er að nálgast upplýsingar um þær á Netinu, í upplýsingamiðstöðvum ferðamála eða hjá starfsmönnum hótela. Vikan mælir eindregið með að ferðamenn hafi samband við ferðaskipuleggjendur og leiðsögumenn á svæðunum áður en lagt er af stað upp á jökul.

Systrastapi við Klaustur Árið 1186 var sett nunnuklaustur í Kirkjubæ á Síðu sem síðar var nefnt Kirkjubæjarklaustur. Örnefnin Systrastapi og Systrafoss eru einmitt tengd þeim tíma.

Mikilvægt er að leggja af stað vel undirbúinn.

Systrastapi er klettastapi vestan við Klaustur. Þjóðsaga segir að uppi á stapanum sé legstaður tveggja klaustursystra sem hafi verið brenndar á báli fyrir brot á siðareglum. Önnur hafði selt sig fjandanum, gengið með vígt brauð fyrir náðhúsdyr og lagst með karlmönnum. Hin hafði talað óguðlega um páfann. Eftir siðaskiptin var seinni nunnan talin saklaus og á leiði hennar óx fagur gróður en á leiði hinnar seku var gróðurlaust. Klifra má upp á stapann en þaðan er mikið útsýni með jöklasýn.

Systrafoss heitir fossinn þar sem Fossá fellur úr Systravatni fram af fjallsbrúninni fyrir ofan Kirkjubæjarklaustur, ofan í Fossárgil. Fallegar gönguleiðir eru í nágrenni fossins og greið gönguleið er upp á fjallsbrúnina að Systravatni en ofan af brúninni er stórbrotið útsýni.

Frá Hrífunesi yfir í Þjórsárdal Óhætt er að mæla með göngu frá Hrífunesi yfir í Þjórsárdal sem álitinn er af mörgum einn fegursti dalur landsins. Þjórsárdalur er staðsettur í Árnessýslu og liggur milli Búrfells og Skriðufells. Dalurinn skiptist í tvo dalbotna um Rauðukamba og Bergólfsstaðaá en hann er bæði sléttlendur og vikurborin eftir síendurtekin eldgos í Heklu. Talið er að Þjórsárdalur hafi verið fullbyggður á þjóðveldisöld en lagst í eyði á 17. öld. Merkustu staðir dalsins eru taldir vera Stöng, Háifoss, Þjóðveldisbærinn, Vegghamar og Gjáin.

Texti / Íris Hauksdóttir

Góð stemning á Hátíðarkvöldverði Klúbbs matreiðslumanna

Fagmennska var í hæsta gæðaflokki á Hátíðarkvöldverði Klúbbs matreiðslumanna 2018!

Selma Björnsdóttir hélt uppi fjörinu.

Óhætt er að segja að öllu hafi verið tjaldað til á Hátíðarkvöldverði Klúbbs matreiðslumanna, sem fór fram  á Hilton Reykjavík Nordica síðastliðinn laugardag. Tekið var á móti gestum með freyðandi kampavíni og smáréttum en um 400 gestir sóttu veisluhöldin ásamt fjölda fagfólks sem útbjó matinn og þjónaði gestum.

Er Hátíðarkvöldverðurinn liður í fjáröflun félagsins og því unnu fagmenn, kokkar og matreiðslumenn, launalaust þetta kvöld. Klúbburinn notar svo ágóðan til að fjármagna ýmsa áhugaverða viðburði, svo sem keppnina Kokka ársins og fleira.

Góð stemning var á staðnum en það voru þau Erpur Eyvindarson og Selma Björnsdóttir sem héldu uppi fjörinu og skemmtu gestum sem nutu þess að borða gómsæta réttina sem voru reiddir fram hver á eftir öðrum.

Nánar í næsta tölublaði Gestgjafans, sem kemur út fimmtudaginn 18. janúar!

Myndir / Sigurjón Ragnar
Texti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

 

Kafar ofan í heim týndra barna

Viktoría Hermannsdóttir fer af stað með Málið er, vikulega útvarpsþætti á Rás 1

Viktoría Hermannsdóttir vakti mikla athygli fyrir útvarpsþáttaseríuna Ástandsbörnin sem hún gerði fyrir Rás 1 í fyrra og útvarpsþáttinn Á ég bróður sem var sjálfstætt framhald og var fluttur um jólin.  Núna fer hún af stað með vikulega útvarpsþætti á Rás 1 sem bera heitið Málið er.

„Þetta er í raun mjög opið og ég ætla taka fyrir eitthvað sem mér finnst áhugavert hverju sinni. Þetta verður í heimildastíl og mikil vinna lögð í hvern þátt. Ég er algjör grúskari og elska góðar sögur þannig að það er skemmtilegt tækifæri fyrir mig að fá að fjalla um það sem mér finnst áhugavert á þessum skemmtilega vettvangi sem útvarpið er,“ segir Viktoría.  Hún er umsjónarmaður þáttanna en hugmyndin er líka að aðrir dagskrárgerðarmenn geti tekið mál fyrir og kafað ofan í þau.

Í fyrsta þættinum ætlar Viktoría að kafa ofan í heim týndu barnanna á Íslandi.

„Ég fæ að fylgja eftir lögreglumanni sem hefur undanfarin ár verið vakinn og sofin yfir því að leita að þessum börnum. Þetta eru börn á aldrinum 11-18 ára sem oft er lýst eftir. Þetta er ekki mjög stór hópur en það hefur fjölgað í honum undanfarið og vandi margra er mikill. Ég skoða allar hliðar í þessum þætti – kynnist þessum heimi í gegnum lögreglumanninn sem lifir og hrærist í þessu, foreldra sem eiga barn sem tilheyrir þessum hópi og svo unga konu sem eitt sinn tilheyrði þessum hópi og veitir okkur innsýn í þennan heim sem er ekkert alltof fallegur,“ segir Viktoría.

Þættirnir verða á dagskrá kl. 16 alla föstudaga á Rás 1 og verða aðgengilegir á hlaðvarpinu líka.

Ljósmynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Piers Morgan fær kaldar kveðjur frá Tonyu Harding

Skautadrottningin fyrrverandi Tonya Harding stendur uppi í hárinu á Piers Morgan.

Tonya Harding svaraði fyrir sig þegar Piers Morgan spjallaði við hana í þættinum Good Morning Britain. Kvikmynd um ævi Tonyu hefur farið sigurför um heiminn. Mynd / www.commons.wikipedia.org

Kvikmyndin I, Tonya, með Margot Robbie í hlutverk fyrrum ólympufara í listhlaupi á skautum, Tonyu Harding hefur farið sigurför um heiminn. Tonya var í viðtali gegnum gervihnött við Piers Morgan í Good Morning Britain þegar hann gaf í skyn að hún hefði ekki verið alsaklaust fórnarlamb þegar sá fáheyrði atburður átti sér stað að ofbeldismaður á launum hjá fyrrum eiginmanni Tonyu barði helsta keppinaut hennar í hnéð með hafnaboltakylfu. Skautadrottningin fyrrverandi svaraði hvasst fyrir sig.

Morgan gekk hart fram í spurningum sínum um árásina sem átti sér stað árið 1994. Báðar voru skautakonurnar á leið á ólympíuleika en Tonya hafði alla tíð mátt þola að fá lægri einkunnir fyrir frammistöðu sína á ísnum en Nancy. Í myndinni kemur fram að þetta hafi verið vegna þess að dómurum fannst Tonya ekki þess verð að vera fulltrúi Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Stúlkurnar voru báðar frá fátækum heimilum en fjölskylda Tonyu ansi skrautleg meðan meiri reglusemi og festa ríkti í kringum Nancy.

Morgan er þekktur fyrir að vera óvæginn og nokkuð dómharður um menn og málefni. Hann spurði hana ítrekað um meint ofbeldi móður hennar og fyrrum eiginmanns gagnvart henni og sagði svo: „Kannski hentar þér að leika fórnarlamb. En ég held að þú hafir ekki verið fórnarlambið í þessu öll. Það var Nancy Kerrigan en draumur hennar um ólympíugull var gerður að engu.“

„Þakka þér kærlega fyrir en ég held ég verði að segja góða nótt,“ var svar skautadrottningarinnar og hún átti bágt með að leyna reiði sinni.

Þeir sem hafa séð myndina geta líklega ekki annað en dáðst að stillingu hennar því á sinni tíð var hún þekkt fyrir flest annað en yfirvegun. Hún svaraði þó nokkrum spurningum í viðbót en viðtalinu lauk með því að hún fullyrti að hún hefði ekkert vitað um ráðagerðir fyrrum manns síns og félaga hans. Hún benti einnig á að þolendur ofbeldis hafa sjaldan kraft til að standa með sjálfum sér eða setja sig upp á móti kúgurum sínum. Þess má einnig geta að á Golden Globe verðlaunahátíðinni hampaði Allison Janney  gullnum hnetti fyrir túlkun sína á móður Tonyu Harding í myndinni.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

Flóknar fjölskyldur

Það er ekkert sjálfsagt að fjölskyldum lyndi vel saman eins og sjá má í The Glass Castle og fleiri kvikmyndum.

Erfið ævi
Í The Glass Castle (sjá mynd hér að ofan) kynnumst við Jeannette Walls sem fæddist 1960 og ólst upp ásamt þremur systkinum í mikilli fátækt, óreiðu og afskiptaleysi. Faðir þeirra var drykkfelldur draumóramaður sem hélst hvergi í vinnu og móðirin sagðist vera listakona þótt hún skapaði aldrei neitt af viti og virtist oft hvorki vita í þennan heim né annan. Fjölskyldan festi hvergi rætur, flutti eða flúði stöðugt frá einum stað til annars þannig að hvorki Jeannette né systkini hennar gengu í skóla á uppvaxtarárunum. Þetta uppeldi gerði það þó að verkum að þau lærðu fljótt að standa á eigin fótum og flúðu foreldra sína um leið og þau gátu. Það er þangað til foreldrarnir daga uppi sem hústökufólk í New York. Áhugaverð mynd með hinni hæfileikaríku Brie Larson en handritið er byggt á sjálfævisögu Jeanette Walls sjálfrar.

_______________________________________________________________

Þessi skrautlegi hópur leggur af stað í ferðalag á heiðgulri rútu til að koma yngsta barninu í fegurðarsamkeppni.

Sólskinsferðin
Allir fjölskyldumeðlimirnir í Little Miss Sunshine eiga það sameiginlegt að taka sjálfa sig aðeins of alvarlega. Fjölskyldan samanstendur af keðjureykjandi móður, nær gjaldþrota fjölskylduföður, samkynhneigðum frænda sem er að jafna sig eftir sjálfsmorðstilraun, þunglyndum táningi og afa sem reynist vera heróínsjúklingur. Þessi skrautlegi hópur leggur af stað í ferðalag á heiðgulri rútu til að koma yngsta barninu í fegurðarsamkeppni og að sjálfsögðu fer allt í bál og brand á leiðinni.

_______________________________________________________________

Fjölskyldan í The Royal Tenenbaums er skemmtilega öðruvísi.

Furðufuglar
Persónur í kvikmyndum Wes Andersons eiga alltaf í dálítið furðulegum samskiptum og það á sannarlega við um fjölskylduna í The Royal Tenenbaums. Fjölskyldufaðirinn, Royal, hefur hvorki reynst góður faðir né góður eiginmaður. Þegar hann er loksins búinn að glopra öllu frá sér reynir hann að komast aftur í mjúkinn hjá fjölskyldu sinni, fyrrum eiginkonu og þremur börnum. Í stað þess að biðjast afsökunnar eins og maður þykist hann hins vegar vera með banvænan sjúkdóm og höfðar til samvisku þeirra. Þetta verður óvænt til þess að draga saman alla fjölskylduna – en alls ekki hrakfallalaust.

_______________________________________________________________

The Squid and the Whale fjallar um áhrif skilnaðar á fjölskyldu.

Skilnaður og brestir
Myndin The Squid and the Whale fjallar um áhrif skilnaðar á fjölskyldu. Bernard Berkman er hrokafullur rithöfundur sem var eitt sinn mikils metinn en ferill hans hefur smám saman orðið að engu. Hann starfar sem háskólakennari og verður afar ósáttur þegar ótrú eiginkona hans, Joan, fær ritverk sín útgefin og mjög góðar viðtökur. Þau ákveða þau að skilja og tilkynna það tveimur sonum sínum, Walt sem er sextán ára og Frank sem er tólf. Drengirnir skiptast á að dvelja hjá foreldrum sínum og fljótlega fara þeir að skipa sér í lið með hvoru þeirra fyrir sig. Þessi togstreita hefur gríðarleg áhrif á strákana en foreldrarnir virðast bara hugsa um sjálfa sig.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Feiknaflott íbúð í hjarta Reykjavíkur

Blaðamaður og ljósmyndari Húsa og híbýla heimsóttu fallegt hús við Hverfisgötu í Reykjavík.

Í þessu reisulega húsi var hér áður fyrr starfrækt kaupfélag. Íbúðin er á annarri hæð og það er bæði hægt að taka stigann upp eða gamla, græna og mjög svo sjarmerandi lyftu sem okkur skilst að sé ein elsta lyfta landsins. Sólveig Andrea innanhússarkitekt tók að sér að hanna þessa feiknaflottu íbúð í hjarta Reykjavíkur þar sem iðandi mannlífið er beint fyrir neðan gluggana, Sólveig tók á móti tvíeykinu frá blaðinu, ásamt smekkdömunni sem þarna býr ásamt eiginmanni sínum og dóttur.

Hjónin keyptu íbúðina vorið 2016 eftir að hafa haft augastað á henni í nokkurn tíma. Þau ákváðu strax að taka hana alla í gegn og fluttu svo inn rúmu ári seinna. Það er hátt til lofts og fallegir stórir gluggar setja sterkan svip á rýmið sem er allt nýuppgert. Það fer ekki á milli mála að þarna búa fagurkerar sem hafa nef fyrir fallegri hönnun því íbúðin er öll ofboðslega smekkleg, stíllinn er töff en samt hlýlegur og örlítið rómantískur. Hlýlegt parket, kristalsljósakrónur, mildir brúnir tónar hér og þar, mottur, málverk og íburðamikil og klassísk húsgögn.

Íbúðin er öll ofboðslega smekkleg, stíllinn er töff en samt hlýlegur og örlítið rómantískur.

En hvað var það sem eigendurnir voru að sækjast eftir, voru ákveðnar hugmyndir eða kröfur frá þeim?

„Já, þeir voru að sækjast eftir þessum svokallaða loft-íbúða tilfinningu; rýmið opið, loftin frekar hrá og ófrágengnir veggirnir, það er að segja ekki pússaðir og spartslaðir. Það var samt ákveðið að mála alla veggina, líka þessa hráu og halda hráleikanum í loftunum og upprunalegu útliti gluggana. Gluggakistan í eldhúsrýminu var svona djúp og þau vildu halda henni þannig enda mjög flott svona djúp og mikil. Eigendurnir vildu í rauninni halda í allt það sem gerði íbúðina að iðnaðarhúsnæði,“ segir Sólveig og labbar með okkur um íbúðina.

Arkitektinn gæti vel hugsað sér að búa þarna

Ertu ánægð með útkomuna á þessari íbúð við Hverfisgötuna?

„Já, alveg svakalega, líka af því húsráðendur eru svo rosalega smekklegir. Það var svo gaman að koma þegar allt var tilbúð og þau flutt inn og sjá útkomuna því það er allt svo smekklegt hjá þeim. Þau voru mjög opin fyrir mínum hugmyndum og höfðu skoðanir og áhuga á öllu sem þurfti að gera og ákveða í ferlinu. Við útfærðum margt í sameiningu og annað kom alfarið frá þeim eins og til dæmis brúni liturinn sem er á nokkrum veggjum, hann er frá Slippfélaginu.“

Það er hátt til lofts og fallegir stórir gluggar setja sterkan svip á rýmið sem er allt nýuppgert.

Við spyrjum við Sólveigu hvort hún sjálf gæti hugsað sér að búa í þessari íbúð? „Já, ekki spurning. Kannski ekki með þrjú börn en ég væri til í það þegar börnin eru farin að heiman. Staðsetningin er ekki mjög barnvæn en þetta er æðislegt ef maður er barnalaus eða með uppkomin börn,“ svarar hún brosandi og við kveðjum þessar smekkkonur og gamla sjarmahúsið við Hverfisgötuna.

Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

„Dæmigerð afstaða þeirra sem eru mótfallnir framförum“

Þórdís Elva segir yfirlýsinguna dæma sig sjálfa.

Þórdísi Elvu finnst þessi yfirlýsing vera dæmigerð afstaða þeirra sem eru mótfallnir framförum.

Rúmlega 100 franskar konur ásaka forsprakka byltingarinnar undir myllumerkinu #metoo um nornaveiðar. Catherine Deneuve er ein þeirra kvenna sem skrifað hafa opið bréf þar sem þær gagnrýna baráttuna gegn kynferðislegri áreitni og segja hana ógn gegn kynferðislegu frelsi. Í yfirlýsingunni kemur fram að konur sem ekki taki þátt í byltingunni eigi yfir höfði sér ásakanir um svik gegn kynsystrum sínum.

Þær segja karlmönnum hafa verið vikið úr störfum fyrir sakleysislegar snertingar og einstaka kossa. Það brjóti ekki gegn sæmd kvenna að snerta líkama þeirra og gerir þær síður en svo að fórnarlömbum.

Catherine Deneuve er ein þekktasta leikkona frakka en hún hefur meðal annars skapað sér miklar óvinsældir eftir opinbera yfirlýsingu þess lútandi að standa með leikstjóranum Roman Polanski sem sakaður var um nauðgun á ungri stúlku. Þá var haft eftir Deneuve að nauðgun sé ofmetin.

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir er ein þeirra sem farið hefur fremst í flokki baráttunnar á Íslandi segir yfirlýsinguna dæma sig sjálfa. „Hér er verið að fordæma konur fyrir að standa á rétti sínum að verða ekki fyrir áreitni eða ofbeldi. Til að gera lítið úr þeim eru notuð dæmi eins og „hendi á hné“, „þvingaður koss“ og „kynferðisleg skilaboð“ sem konum eru send, svo sem typpamyndir. Í nútímanum eru þetta ótvíræð dæmi um kynferðislega áreitni. Þegar Catherine Deneuve var ung þótti ýmislegt sem ógnar lýðheilsu ekki vera sérstakt tiltökumál, eins og að reykja í flugvélum og sleppa bílbeltanotkun. Sem betur fer hafa viðmiðin breyst og kröfurnar aukist.

Mér finnst þessi yfirlýsing vera dæmigerð afstaða þeirra sem eru mótfallnir framförum, því fyrr á tímum tíðkaðist verra atlæti. Í stað þess að horfa með nostalgíu til fortíðar, þar sem mannréttindi voru fótum troðin í öllum flokkum, hvort sem um er að ræða mannréttindi kvenna, þeldökkra, samkynhneigðra eða transfólks svo dæmi séu nefnd ættum við að vera stolt af þeim árangri sem náðst hefur. Viðtökurnar við #metoo sýna að á heimsvísu erum við langflest stolt af þessari þörfu byltingu. Ég spái því að Catherine Deneuve og hennar skoðanasystkin verði notuð sem dæmi í sögubókum framtíðarinnar um fólk sem andmælti framförunum, á sama hátt og þeir sem andmæltu mannréttindasigrum annarra minnihlutahópa.”

Texti / Íris Hauksdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir

 

„Ákjósanleg braut til bætinga“

Spennandi fimm kílómetra keppnishlaup fyrir alla.

Hlaupaárið 2018 fer af stað með krafti og mörg skemmtileg keppnishlaup framundan. Hlaupasería FH og BOSE inniheldur þrenn fimm kílómetra hlaup og stigakeppni einstaklinga. Hlaupunum er startað á göngustígnum gegnt íþróttahúsinu á Strandgötu í Hafnarfirði stundvíslega klukkan 19 fimmtudagana 25. janúar, 22. febrúar  og 22. mars.

Hörður Jóhann Halldórsson, formaður Hlaupahóps FH, á von á mikilli stemningu í Hlaupaseríu FH og BOSE í vetur.

„Þetta er í áttunda árið sem að hlaupaserían er haldin. Þær breytingar urðu í ár að samið var við Origo og samhliða ákveðið að nefna seríuna Hlaupaseríu FH og BOSE,“ segir Hörður Jóhann Halldórsson formaður Hlaupahóps FH. „Hlaupaleiðin er mæld af löggildum mælingamönnum, brautin nokkuð flöt og því ákjósanleg til bætinga. Besta tíma konu í brautinni á Arndís Ýr Hafþórsdóttir, 17:52 og besta tíma karls í brautinni á Kári Steinn Karlsson, 15:03. Þau sem oftast hafa unnið hlaup í seríunni eru Arnar Pétursson sem hefur unnið fimm sinnum og Arndís Ýr Hafþórsdóttir, níu sinnum, en alls hafa 22 hlaup verið haldin síðan 2011. Reikna má með fjölmörgum hlaupurum í ár og mikilli stemningu þar sem DJ mun koma hlaupurum í gírinn við upphaf og endi hlaups. Undan- og eftirfarar verða á hjólum, öflug brautargæsla og hraðastjórar í 20, 25 og 30 mínútum nýtast sem ákveðin tímaviðmið í hlaupinu, sem ætti að hjálpa hlaupurum að ná markmiðum sínum hafi þeir ákveðið að klára hlaupið innan ákveðins tíma.“

 

Skráning í hlaupin fer fram á hlaup.is.
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

„Miklu auðveldara að búa hér en á Íslandi“

Arnar Pálsson flugvirki segir frá áhugaverðum stöðum í Delitzsch í Þýskalandi.

Arnar Pálsson hefur búið ásamt konu sinni Maríu og hluta af börnum þeirra í Delitzsch í nokkur ár.

„Ég kynntist Maríu í Yakutsk í Síberíu og þar giftum við okkur. Við eigum saman tvö börn. Fyrir átti María einn son og ég átti tvær dætur og einn son. Við búum fimm saman hér í Delitzsch en börnin mín þrjú búa hjá mömmu sinni í Reykjavík.

María flutti fyrst til Íslands og við bjuggum saman í Keflavík í tæplega sex ár. Fyrir fjórum árum fékk ég einfaldlega nóg af ástandinu heima og fann vinnu á flugvellinum í Leipzig. Fyrstu tvö árin flaug ég á milli, vann í 14 daga og átti 14 daga frí á milli. Þar sem tækifærið var komið fór ég að undirbúa að flytja fjölskylduna með mér til Þýskalands og í ágúst í hittiðfyrra fluttum við út. Við keyptum okkur hús í júní á síðasta ári og líkar vel hérna. Það er svo miklu auðveldara að lifa hér en á Íslandi. Verðlag, úrval og gæði matvöru eru ekkert í líkingu við það sem er á Íslandi. Heilbrigðiskerfið virkar mjög vel og aldrei þurfum við að taka upp veskið þegar við hittum lækna. Lánavextir hér eru ekkert í líkingu við það sem þú sérð á Íslandi,“ segir Arnar.

„Það er svo miklu auðveldara að lifa hér en á Íslandi. Verðlag, úrval og gæði matvöru eru ekkert í líkingu við það sem er á Íslandi.“

„Delitzsch er mjög þægilegur bær að búa í en íbúar eru tæplega 20.000 talsins. Við búum í útjaðrinum svo það er ofsalega rólegt kringum húsið okkar og mjög öruggt fyrir börnin að leika úti. Delitzsch er mitt á milli Leipzig og Halle og tekur ekki nema um 20 mínútur að keyra þangað ef okkur vantar eitthvað á öðrum hvorum staðnum.

Minnivarðinn The Monument to the Battle of the Nations í Leipzig.

Hér eru margir áhugaverðir staðir. Delitzsch-kastali (sjá mynd hér að ofan) og garðurinn þar í kringum er virkilega flottur.
Hér er Porsche-verksmiðja þar sem hægt er að prófa bíla og skoða safn og hér er líka BMW-verksmiðja.
Miðborg Leipzig er heillandi og skemmtileg og ég hvet fólk til að ganga þar um og skoða. Gröf Johannesar Sebastians Bach er í Thomas-kirkju, hæsta minnismerki Evrópu er á staðnum en það var reist til minningar um fyrsta sigurinn gegn Napóleon árið 1813 og er kallað The Monument to the Battle of the Nations.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir.

Þrettán tindar með Vilborgu Örnu

Spennandi fjallgöngunámskeið með Vilborgu Örnu í janúar.

Vilborg Arna Gissurardóttir og félagar bjóða upp á skemmtilegt fjallgöngunámskeið í vetur.

Vilborg Arna Gissurardóttir slær sjaldan slöku við og fer nú í janúar af stað með gönguhóp ásamt Ingu Dagmar Karlsdóttur og Tomaszi Þór Verusyni þar sem boðið er upp á göngudagskrá fram á vor. Fjallgöngurnar er tvær til þrjár í mánuði, stigvaxandi í takt við hækkandi sól og aukið þrek, og á endanum verður farið á Hvannadalshnjúk ef aðstæður og veður leyfir.

„Fjallgöngur eru ein besta líkamsræktin sem hægt er að stunda og eru þekktar fyrir að hafa jákvæð áhrif á líkama, streitu og huga. Við byrjum á minni fjöllum og bætum smá saman í hæðarmetrana með hækkandi sól. Ein þekktasta aukaverkunin af fjallgöngunum hafa verið nýir félagar og fleiri áskoranir svo við hvetjum alla áhugasama til þess að vera með,“ segir Vilborg Arna.

Þátttakendur þurfa að eiga Esjubrodda og ljós auk þess að vera viðbúin að leigja viðeigandi búnað fyrir jöklaferðirnar þannig að það má búast við spennandi ævintýrum með þessum flottu fjallagörpum.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Rétt lýsing getur hreinlega gerbreytt heimilinu

Lýsing skiptir sköpum inni á heimili.

Lýsing skiptir sköpum inni á heimili. Það má skipta lýsingu í þrjá flokka: umlykjandi lýsingu, sem veitir almenna birtu, áherslulýsingu, sem vekur athygli á ákveðnum stað eða mun á heimilinu, og að lokum vinnulýsingu, sem gefur manni næga birtu til að klára ákveðin verk. Síðan er hægt að nota ýmsar ólíkar gerðir ljósgjafa til að ná fram þeirri lýsingu sem maður vill.

Sniðugt er að hafa dimmera á loftljósum til að geta stýrt birtustiginu og stemningunni í rýminu.

Loftljós flokkast nær alltaf undir umlykjandi lýsingu. Sniðugt er að hafa dimmera á þessum ljósum til að geta stýrt birtustiginu og stemningunni í rýminu.
Loftljós eru ýmist ljósakrónur sem hanga niður úr loftinu eða kúplar sem liggja þétt upp við það.
Krónur setja meiri svip á herbergið og því skiptir sköpum að velja einhverja sem passar vel við stíl þess en kúplar dreifa birtu meira yfir allt herbergið án þess að vera fyrir.

Veggljós hafa verið mjög vanmetin undanfarin ár en svo virðist sem vinsældir þeirra séu að aukast.
Veggljós geta bæði flokkast sem umlykjandi en einnig áherslulýsing, til dæmis þegar þau eru staðsett sitthvorum megin við fallegt málverk.
Veggljós eru handhæg leið til að stýra birtunni, það að hafa aðeins kveikt á þeim en ekki loftljósi gefur dramatíska eða rómantíska lýsingu.

Gólflampar eru annað dæmi um vanmetna lýsingu. Þeir geta nefnilega þjónað öllum þremur hlutverkum lýsingar. Ótrúlega margar gerðir eru til, sumar lýsa upp og aðrar niður, sumar eru hönnunarmunir á meðan aðrar setja notagildið á oddinn. Eitt er víst að það geta allir bætt einum gólflampa við inn í stofu hjá sér.

Borðlampa má bæði nota sem áherslu- og vinnulýsingu. Glæsilegur lampi á hliðarborði getur sett punktinn yfir i-ið í stíliseringu herbergis en einnig getur hann komið að góðu gagni við lestur bóka. Eins koma borðlampar að góðum notum í skrifstofurými þar sem þörf er á mikilli birtu.

Góðan borðlampa er hægt að nota sem vinnulýsingu – og ekki skemmir fyrir ef hann er fallega hannaður.

Texti /  Hildur Friðriksdóttir

Dásamlega góð kaka á sunnudegi

|
|

Döðlukaka með ávöxtum svíkur engan.

Hér er uppskrift að ljúffengri döðluköku. Ávextirnir sem hér eru flokkast undir ofurfæðu og eru bara tillaga. Þið getið auðvitað notað þá ávexti sem ykkur finnast bestir.

Döðlukaka með ávöxtum.

Döðlukaka með ávöxtum
fyrir 8

Botn:
500 g þurrkaðar döðlur
3 dl vatn
½ dl kókosolía, mýkt í vatnsbaði
1 stór, þroskaður banani eða 2 litlir
2 msk. hunang eða agave-síróp
1 ½ dl tröllhafrar

Ofan á:
2 kíví, skræld og skorin í bita
1 dl bláber
100 g jarðarber, skorin í tvennt
kjarnar úr ½ granatepli
100 g 70% súkkulaði, gróft saxað
50 g ristaðar valhnetur eða pekanhnetur, gróft saxaðar, eða grófar, ristaðar kókosflögur

Sjóðið döðlur í vatni í 10 mín. Látið standa í 15 mín. og sigtið svo vatnið frá. Setjið döðlurnar í matvinnsluvél og maukið vel ásamt kókosolíu, banana, sætuefni og tröllhöfrum. Setjið maukið í form sem er u.þ.b. 20×30 cm, kælið. Raðið ávöxtum, súkkulaði og hnetum eða kókosflögum ofan á og berið fram með þeyttum rjóma.

Trefjaríkir hafrar eru jafnvel enn hollari en áður hefur verið talið og sýna nýjar rannsóknir að þeir minnka ekki bara líkurnar á hjartasjúkdómum heldur einnig tegund 2 sykursýki.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Fyrirsætur vekja athygli á mikilvægum málefnum

Módel sem eru hægt og bítandi að breyta heiminum.

Litið var á fyrirsætur fyrri áratuga sem persónuleikalaus herðatré og fjölbreytnin var eftir því. Vissulega sáum við fyrirsætur á tíunda áratugnum neita að klæðast feldi vegna dýraverndunarsamtakanna PETA en þá voru það ofurfyrirsætur á borð við Naomi Campbell og Cindy Crawford sem höfðu þá þegar skapað sér nafn innan bransans og höfðu efni á því að tjá sig.

Með vinsældum samfélagsmiðla hefur hópur fyrirsæta og aktívista notað rödd sína og andlit til þess að vekja athygli á mikilvægum málefnum og uppskera frekar frægð og frama fyrir vikið en skammir. Skoðum nokkrar ungar og áhugaverðar konur sem eru hægt og bítandi að breyta heiminum.

 

Ebonee Davis hefur rætt rasisma í tískubransanum.

Ebonee Davis
Ebonee Davis vakti mikla athygli þegar hún skrifaði áhrifaríkt opið bréf stílað á tískubransann. Spurningar eins og hvaða áhrif fjölmiðlar hafi á menningu okkar og hvort tískuheimurinn geti hætt að vera rasískur voru henni efstar í huga. Eins og þekkt er hafa fyrirsætur af afrískum uppruna átt erfiðar uppdráttar og enn í dag eru svartar fyrirsætur minna en 10% þeirra sem ganga niður tískusýningarpallana. Ebonee segist hafa fengið að heyra að fyrirtæki bókuðu bara svartar fyrirsætur ef þær litu út fyrir að koma beint frá afskekktu þorpi í Afríku eða eins og hvítar konur dýft í súkkulaði. Hún segist hafa reynt að fara eftir þeim ráðleggingum frá byrjun ferilsins árið 2011. Það var ekki fyrr en hún ákvað að leyfa náttúrulegu hári sínu að njóta sín og hún opnaði munninn og krafðist réttlætis að ferill hennar fór á flug. Náttúruleg fegurð hennar landaði henni meðal annars haustherferð Calvin Klein árið 2016.

_______________________________________________________________

Fjölbreytni í tískuheiminum, femínismi og fíkn eru Adwou Aboah hugleikin.

Adwoa Aboah
Adwoa er stofnandi Gurls Talk, sem er vefmiðill sem einbeitir sér að málefnum kvenna og hvetur ungar konur til að tjá sig án þess að vera dæmdar eða mismunað. Hún talar reglulega hreinskilningslega um fjölbreytni í tískuheiminum, femínisma, andlega heilsu og fíkn.

_______________________________________________________________

Cameron Russel hefur m.a. verið dugleg að ræða félagsleg og pólitísk málefni, loftlagsbreytingar og hreina orku.

Cameron Russel
Horft hefur verið á Ted-fyrirlestur ofurfyrirsætunnar Cameron Russel rúmlega nítján milljón sinnum þegar þetta er skrifað. Cameron útskrifaðist úr hagfræði og stjórnmálafræði frá Colombia-háskóla og hefur heldur betur gert meira en að sitja fyrir og vera sæt síðan hún útskrifaðist. Hún hefur verið dugleg að ræða félagsleg og pólitísk málefni, loftlagsbreytingar, hreina orku og sanngjörn laun fyrir þá sem vinna í tískuiðnaðinum, til að nefna örfá dæmi.

_______________________________________________________________

Markmið Avery McCall er að safna fjármunum til að vinna með flóttamönnum.

Avery McCall
Avery hefur verið virkur þátttakandi í stjórnmálum frá tólf ára aldri og meðal annars verið unglingaráðgjafi fyrir herferð Sameinuðu þjóðanna, Foundation’s Girl Up. Hún varði menntaskólaárunum sem talsmaður flóttamanna og aðstoðaði þá sem fluttust frá stríðshrjáðu Sýrlandi, Suður-Súdan og frá lýðveldinu Kongó. Hún hefur notað andlit sitt til góðs innan tískuheimsins til að vekja athygli á mikilvægum málefnum. Hennar markmið er að safna fjármunum til að vinna með flóttamönnum og draumurinn er að  geta leiðbeint börnum sem flýja frá stríðshrjáðum löndum.

_______________________________________________________________

Andreja Pejic hefur varpað ljósi á málefni transfólks innan tískuheimsins.

Andreja Pejic
Andreja hefur verið kölluð fyrsta transsúpermódelið. Andrej var fæddur í fyrrum Júgóslavíu en alinn upp í Melbourne í Ástralíu. Áður en hann fór í kynleiðréttingu árið 2013 var hann þegar þekkt fyrirsæta innan tískuheimsins og vakti útlit hans víða athygli, enda átti hann auðvelt með að fara í hlutverk beggja kynja. Síðustu árin hefur ferill Andreju blómstrað og hún meðal annars setið fyrir á forsíðum tímarita á borð við Elle, L’Officiel, Fashion og GQ. Árið 2015 varð hún fyrsta transfyrirsætan til þess að vera andlit snyrtivörufyrirtækis en hún landaði stórum samningi við Make Up For Ever. Andreja hefur varpað ljósi á málefni transfólks og opnað dyr fyrir fjölbreyttari hóp innan tískuheimsins.

_______________________________________________________________

Charli Howard og Clémentine Desseaux
Líkamsímynd hefur verið mikið tískuorð upp á síðkastið í bransanum og sem betur fer eru sífellt fleiri týpur sem ná árangri í tískuheiminum í dag. Þær Charli Howard og Clémentine Desseaux vöktu heimsathygli fyrir verkefni sitt All Woman Project sem er myndasería, sem hefur ekki verið átt við í Photoshop, af konum af öllum stærðum, gerðum, litum og aldri sem sanna það að fegurð kemur ekki í einni staðlaðri stærð.

Texti / Helga Kristjáns

Ekta fiskisúpa í anda Miðjarðarhafsins

|
|

Suðræn sælkerasúpa sem vermir og nærir kroppinn.

Ljúffenga fiskisúpa.

Fiskisúpa frá Sikiley
fyrir 4-6

Hér er uppskrift að ekta fiskisúpu í anda Miðjarðarhafsins.
4 msk. olía
1 laukur, saxaður smátt
4 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 fersk fenníka, sneidd
1 stór gulrót, í litlum bitum
1 lítill blaðlaukur, sneiddur
300 g tómatar, saxaðir
safi úr 1 appelsínu
safi úr 1 sítrónu
1 tsk. þurrkað tímían
2 tsk. paprika
12 dl fiskisoð eða vatn og fiskikraftur
1 ½ dl hvítvín
1 msk. tómatmauk
1 msk. sykur eða hunang
1-2 tsk. salt
300 g lax
400 g stórar rækjur
300 g langa eða annar hvítur fiskur
2 msk. þurrkuð steinselja

Steikið laukinn í olíunni þar til hann fer að verða glær. Bætið hvítlauk, fenníku, gulrót og blaðlauk út í og steikið aðeins áfram. Bætið öllu nema fiski og steinselju út og látið súpuna sjóða í 20 mín. Bætið fiski út í og látið sjóða í 4-5 mín. í viðbót. Stráið steinselju yfir í lokinn.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Ernir Eyjólfsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Máttugar matartegundir

Matartegundir sem auka kraft og úthald.

Granatepli innihalda öflug andoxunarefni og rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla þeirra getur haft áhrif á það hvernig slagæðar okkar eldast.

Flestar matartegundir hafa áhrif á okkur. Þær gefa okkur næringarefni, orku og vítamín til að takast á við verkefni dagsins og því rétt að huga að því hvaða matartegundir við ættum að leitast eftir að bæta inn í okkar daglegu neyslu til að auka okkur kraft og úthald, ekki síst þessa köldustu og dimmustu vetrarmánuði.

Granatepli innihalda öflug andoxunarefni og rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla þeirra getur haft áhrif á það hvernig slagæðar okkar eldast. Líklegt þykir að granatepli hafi góð áhrif á tíðni krabbameins, sérstaklega blöðruhálskirtilskrabbameins, en engum rannsóknum á þessum eiginleikum hefur enn verið lokið.

Bygg inniheldur átta lífsnauðsynlegar amínósýrur og samkvæmt nýlegri rannsókn getur neysla á því komið reglu á blóðsykurinn í allt að 10 klst. eftir neyslu þess. Bygg er einnig talið hjálpa til við lækkun kólesteróls í blóði og draga úr hættunni á tegund 2 sykursýki.

Magurt kjöt er ein besta uppspretta járns sem til er og hefur einnig áhrif á getu líkamans til að taka upp járn úr öðrum fæðutegundum. Kjöt inniheldur sínk sem talið er bæta minnið og B-vítamín sem hjálpa líkamanum að nýta orkuna úr matnum. Kjöt af dýrum sem fóðruð hafa verið á grasi í stað hafra inniheldur meira af E-vítamíni og omega-3 fitusýrum. Villibráðin okkar er mögur og bítur gras, mosa og fjallagrös allan ársins hring.

Feitur fiskur er fullur af fjörefnum og omega-3 fitusýrum sem sannað er að hafa góð og víðtæk áhrif í líkamanum. Omega-3 fitusýrur hafa m.a. verið taldar hafa góð áhrif á liði og lundarfar og hjálplegar í baráttunni gegn þunglyndi og kvíða auk þess að hafa góð áhrif á starfsemi heilans. Fiskur er klárlega rétta hráefnið til að byrja á þegar við viljum bæta mataræði okkar.

Feitur fiskur er fullur af fjörefnum og omega-3 fitusýrum sem sannað er að hafa góð og víðtæk áhrif í líkamanum … Fiskur er klárlega rétta hráefnið til að byrja á þegar við viljum bæta mataræði okkar.

Kanill er bragðgóður í bæði sæta og kryddaða rétti og það er kannski ekki af ástæðulausu að margir sækja í hann. Hann er talinn koma jafnvægi á blóðsykurinn og hefur í gegnum aldirnar verið notaður gegn tannverkjum og andremmu og einnig sem vörn gegn kvefi og meltingartruflunum.

Villtur lax inniheldur mikið af D-vítamíni og omega-3 fitusýrum og sáralítið af þungmálmum. Íslenski laxinn, sér í lagi sá villti, er hér í algjörum sérflokki. Fitusýrurnar í laxinum hafa góð áhrif á húðina og lundarfarið og berjast gegn fitusöfnun, hjartasjúkdómum og áhrifum liðagigtar.

Til eru margar tegundir af hollum olíum svo sem ólífuolía, sesamolía, hörfræjaolía og hveitikímsolía en þær henta misvel í eldamennsku og eru misbragðgóðar. Til að hámarka heilsusamlega eiginleika þeirra er best að geyma þær í dökkum flöskum á köldum stað, jafnvel í kæliskáp.

Eggjarauður innihalda mörg torfengin næringarefni, s.s. choline sem tengt hefur verið lægri tíðni brjóstakrabbameins (ein rauða uppfyllir ¼ af ráðlögðum dagsskammti). Auk þess innihalda eggjarauður mikilvæg andoxunarefni. Margir hafa forðast egg vegna tengsla þeirra við hjartasjúkdóma en fyrir flesta er engin ástæða til þess. Þeir sem þegar þjást af hjartasjúkdómum ættu að takmarka neysluna við 1-2 rauður á viku en öðrum er óhætt að borða a.m.k. eitt egg daglega, rannsóknir hafa sýnt fram á að það eykur ekki líkurnar á hjartasjúkdómum eða hjartaáfalli.

Spirulina er ein þekktasta ofurfæða sem til er en hún er jafnan þurrkuð og hennar yfirleitt neytt sem fæðubótarefnis. Það er ekki að ástæðulaus að Spirulina lendir ofarlega á öllum ofurfæðulistum, hún inniheldur gríðarlegt magn næringarefna, t.d. beta karótín, járn, kalíum, kalk, B-12 vítamín, blaðgrænu og góðar fitusýrur.

Rannsóknir sem gerðar voru á dýrum sýndu m.a. að neysla á bláberjum gæti lækkaði kólesterólmagn í blóði og hjálpað til við stjórnun blóðþrýstings.

Blaðlaukur, laukur og hvítlaukur búa yfir mörgum ótrúlegum kostum. Laukur er talinn geta hjálpað til við að lækka blóðþrýstinginn og kólesteról í blóði. Rannsóknir benda einnig til að laukur geti haft hamlandi áhrif á vöxt krabbameinsfruma í blöðruhálskirtli, maga og ristli. Laukur hefur hamlandi áhrif á fjölgun baktería og hvítlaukur er t.d. talinn geta minnkað líkurnar á kvefi.

Mikil víndrykkja verður seint talin heilsusamleg en því er þó haldið fram að hófleg neysla á rauðvíni geti haft góð áhrif á starfssemi hjarta og æðakerfis, þetta er stundum kallað „franska mótsögnin“. Rauðvín inniheldur polyfenól og resveratol, efni sem m.a. eru talin eiga þátt í þessum meintu áhrifum rauðvíns. Rauðvín er einnig ríkt af andoxunarefnum. Við leggjum hér aftur áherslu á orðin „hófleg neysla“.

Bláber innihalda mikið magn andoxunarefna og talið er að neysla þeirra geti dregið úr einkennum hjá Alzheimer-sjúklingum og þeim sem þjást af elliglöpum. Rannsóknir sem gerðar voru á dýrum sýndu m.a. að neysla á bláberjum gæti lækkaði kólesterólmagn í blóði og hjálpað til við stjórnun blóðþrýstings.

Rauðrófan er mjög mikilvæg fæðutegund og hefur stóru hlutverki að gegna fyrir líkamann. Í rauðrófunni er járn, C-, Bl-, B2-, B6-, og P-vítamín ásamt mikilsverðustu amínósýrunum. Rauðrófan hefur gagnast vel við blóðleysi og bólgum í líkamanum og ætti skilið að gegna miklu stærra hlutverki hjá okkur en hún gerir. Síðustu ár hefur verið hægt að fá mjög góðar, ferskar rauðrófur í verslunum hérlendis.

Texti / Guðrún Vaka Helgadóttir

 

 

Í opnu sambandi

Í borginni St. Petersburg á Flórída er safn sem er tileinkað einum virtasta og umdeildasta málara heims.

Dalí nam myndlist í Madríd og varð á námsárunum þegar þekktur fyrir að vera sérvirtingur auk þess sem myndir hans vöktu strax athygli.

Það er stærsta safn meistarans utan Spánar og hýsir að mestu einkasafn vinahjóna hans, Reynolds og Eleanor Morse, auk ljósmynda úr lífi Dalís og Gölu, eiginkonu hans.

Stuttu áður en Reynolds og Eleanor Morse giftu sig árið 1942 fóru þau á sýningu á verkum Dalís í Cleveland, Ohio. Þau féllu fyrir listamanninum og keyptu sitt fyrsta verk eftir hann ári seinna. Þetta varð upphafið á söfnun þeirra á upprunalegum verkum Dalís og að áralangri vináttu milli þessara hjóna. Verkin höfðu þau á heimili síni í Cleveland til ársins 1971 en þá opnuðu þau safn við hliðina á skrifstofuhúsnæði sínu í Beachwood, Ohio. Þeim varð hins vegar um megn að taka á móti þeim fjölda gesta sem sóttu safnið og ákváðu að flytja safnið á ný í lok áttunda áratugarins. Eftir mikla leit sem vakti þjóðarathygli völdu Morse-hjónin safninu stað í vörugeymslu við höfnina St. Petersburg sem opnaði árið 1982.

Árið 2008 var safninu svo valinn nýr staður og glæsileg bygging sem arkitektinn Yann Weymouth hannaði var tekin í notkun árið 2011. Byggingin er það sterkbyggð að hún á að standa af sér fellibyl af stærðargráðunni fimm.

The Hallucinogenic Toreador sem Dalí málaði 1968-70.

Á safninu eru meira en 2000 listaverk – olíuverk, vatnslitamyndir, teikningar, skúlptúrar og fleira. Af þeim átján meistaraverkum sem Dalí gerði eru átta staðsett í þessu safni. Flest af þekktustu verkum Dalís eru í súrrealískum stíl og því kemur mörgum gestum safnsins á óvart hve gríðarlega fjölbreytt verk hans eru.
Fyrstu verk hans voru landslags-, andlits- og kyrralífsmyndir á meðan verk sem hann gerði síðar á ævinni voru meðal annars trúarlegs eðlis og þau sem sýna tvær myndir í einni. Síðan komu sjónhverfingar, sterk form og þrívídd inn í verk hans. Á safninu eru myndir sem gefa góða innsýn í öll þessi tímabil.

Meðal verka sem þið ættuð alls ekki að láta fram hjá ykkur fara eru Slave Market with the Disappearing Bust of Voltaire og Old Age, Adolescence, and Infancy (The Three Ages), súrrealískar myndir sem blekkja augað.
Hægt er að verja klukkustundum fyrir framan stærstu meistaraverkin eins og The Hallucinogenic Toreador sem Dalí málaði 1968-70, The Discovery of America by Christopher Columbus frá árinu 1959 og The Ecumenical Council sem hann málaði árið 1960. Einnig er vert að nefna verkið Gala Contemplating the Mediterranean Sea which at Twenty Meters Becomes the Portrait of Abraham Lincoln frá árinu 1976 sem er gott dæmi um mynd sem hefur tvær í einni.

Hið glæsilega safn er að finna í borginni St. Petersburg á Flórída. Mynd / www.commons.wikimedia.org

Gala eiginkona Dalís er viðfangsefni í mörgum mynda hans en hún fylgdi honum alla tíð og sá til þess að hann gæti algerlega einbeitt sér að myndlistinni. Þau bjuggu ýmist í Bandaríkjunum eða á Spáni og litu á Ameríku sem sitt annað heimili. Þessa síðastnefndu mynd málaði Dalí á hótelherbergi í St. Régis-hótelinu í New York. Myndin er óður til landsins sem gaf honum skjól á meðan borgara- og heimstyrjaldir geysuðu í Evrópu.

Þess má geta að samband þeirra hjóna var enginn dans á rósum. Þau voru í opnu sambandi og það vakti oft upp afbrýðisemi og leiddi til illdeilna.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Einstakt ævintýri að vera í heimavistarskóla

|
|dfbgbfgb

Börðust gegn lokun.

Bryndís Fiona Ford skólameistari Hússtjórnarskólans á Hallormsstað segir skólann mikilvægan hluta af menningu Austurlands.

Fyrir ári gerðu stjórnendur Hússtjórnarskólans mennta- og menningarmálaráðuneytinu grein fyrir því að of fáir nemendur hefðu sótt um á vorönn 2017. „Við bjuggust samt ekki við að þá yrði ákveðið að hætta skólahaldi. Sveiflur í aðsókn að skólum eru eðlilegar og endurspegla ástand þjóðfélagsins. Það var því mikið áfall að fá þær fréttir. Við börðumst áfram fyrir skólann, sögu hans og hlutverki og um leið fyrir þá nemendur sem höfðu sótt um nám,“ segir Bryndís Fiona Ford skólameistari Hússtjórnarskólans.

„Skólinn er hluti af menningu fjórðungsins, skólinn og nemendur hans hafa því mikið gildi. Námið samanstendur af textílgreinum og matreiðslu og byggir á áralangri reynslu þar sem menningararfur og nútímatækni fara saman. Námið er stöðugt að breytast og nú með nýrri námskrá erum við að nálgast námsefnið út frá meiri sjálfbærni. Við nýtum okkur umhverfið sem mest og förum í kraftgöngur um skóginn og heimsækjum nánasta umhverfi. Í matreiðslu er mikið unnið með austfirskt hráefni og fá nemendur tækifæri til að skapa og hanna ýmsa rétti og útfærslur undir leiðsögn matreiðslumeistara og gestakennara. Nemendur tengjast sterkum böndum við skólann, umhverfið en allra mest við samnemendur. Hér á sér stað eitthvað ævintýralegt sem erfitt er að koma orðum að.“

Ítarlegt viðtal við Bryndísi er í 2. tölublaði Vikunnar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Myndsmiðjan/Kox

Chili-kjúklingur með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu

|
|

Gerðu vel við þig um helgina.

Berið kjúklinginn fram með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu.

Chili-kjúklingur með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu
1 heill kjúklingur
2 gulrætur
1 rófa
1 sæt kartafla
3-4 msk. olía
gróft sjávarsalt
1 sítróna, skorin í sneiðar

Skolið kjúklinginn vel og þerrið með eldhúspappír. Notið einnota hanska og makið chili-kryddmaukinu innan í og utan á kjúklinginn. Það getur verið gott að losa skinnið aðeins frá og maka kryddmaukinu undir skinnið þar sem það er hægt. Á þessu stigi er gott að láta kjúklinginn standa í kæli yfir nótt eða í nokkrar klst. við stofuhita. Stillið ofn á 180°C. Skerið grænmetið í fremur stóra bita, athugið að hafa sætu kartöflubitana töluvert stærri en hina þar sem sætar kartöflur eldast hraðar. Veltið grænmetinu upp úr olíu og grófu salti og raðið því í botninn á eldföstu móti. Skerið sítrónu í sneiðar og raðið ofan á grænmetið. Setjið kjúklinginn ofan á sítrónusneiðarnar og eldið í u.þ.b. 1 ½ klst. eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Berið gjarnan fram með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu.

chili-kryddmauk:
8 hvítlauksgeirar
2 tsk. sjávarsalt
2 tsk. fenníkufræ
3 tsk. kúmenfræ
nýmalaður svartur pipar
1 þurrkað chili-aldin, mulið smátt, eins má nota 1 tsk. chili-flögur
1-2 tsk. ólífuolía

Merjið saman hvítlauksgeira og salt í mortéli þar til úr verður mauk. Bætið kryddinu saman við og merjið gróft saman ásamt ólífuolíunni.

jógúrtsósa:
2 dl grísk jógúrt
lófafylli fersk mynta, smátt söxuð
lófafylli fersk steinselja, smátt söxuð
1-2 tsk. hunang
2-3 tsk. sesamolía
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Blandið öllu vel saman og látið standa í kæli í nokkrar klst.

saffranhrísgrjón:
2 laukar, smátt skornir
2 tómatar, smátt skornir
nokkrir saffranþræðir
2 ½ dl villihrísgrjón eða hýðishrísgrjón
5 dl kjúklingasoð
1 tsk. salt

Steikið lauk á pönnu í 6-8 mín. eða þar til hann er orðin glær. Bætið tómötum saman við ásamt saffranþráðum og látið malla í nokkrar mín. Setjið þá hrísgrjónin saman við og steikið þau í nokkrar mín. Bætið kjúklingasoði út í ásamt salti og látið malla við vægan hita þar til hrísgrjónin eru soðin í gegn og allur vökvi horfinn.

Texti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Rakel Sigurðsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

 „Góð vinnustaðamenning mikilvæg gegn kulnun í starfi“

Það fyrsta sem hverfur er gamansemin

Sveindís Anna Jóhannsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, hefur sérhæft sig í handleiðslu gegn kulnun í starfi.

Vinnutengd streita hefur á undanförnum árum aukist hjá þjóðinni og mikilvægt að grípa tímalega til aðgerða. Sveindís Anna Jóhannsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, hefur vakið athygli á því að handleiðsla sé öflugt verkfæri gegn kulnun í starfi.

„Birtingarmyndir kulnunar geta verið margvíslegar en eitt af því sem hverfur eða minnkar stórlega er gamansemin. Það verður allt svo alvarlegt. Ekkert er lengur skemmtilegt eða hægt að brosa að. Fólk fer einnig að einangra sig, hætta að taka þátt, vinna jafnvel í kaffi- og matartímum til að forðast samstarfsfólk. Síðan fer fólk einnig að forðast kunningja og vini og að lokum einangrar fólk sig líka frá fjölskyldunni,“ segir Sveindís í greinargóðu viðtali í 2. tölublaði Vikunnar sem kom í verslanir í dag.

Hún segir að góð vinnustaðamenning sé mikilvæg gegn kulnun í starfi. „Auknar líkur eru á kulnun ef markmið starfsins eru óljós eða mótsagnarkennd. Strangar reglur lofa ekki góðu sem og neikvætt andrúmsloft, lítið rými fyrir nýjar hugmyndir, slök stjórnun og eftirfylgd, lítil áhrif starfsmanna á eigið starf og stöðugt kapphlaup við tímann. Einnig of mörg verkefni, þegar sjaldan er hrósað fyrir vel unnin störf og þegar fjöldi undirmanna er yfir 35 manns.“

Nánar má lesa um málið í 2. tölublaði Vikunnar sem kom út í dag 11. janúar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Frumraunir í ástamálum

Fyrsta ástin er flókið fyrirbæri sem engu að síður er svo freistandi að fanga á hvíta tjaldinu.

Hér eru nokkrar ljúfsárar og yndislegar myndir um fyrstu ástina.

Algjörar andstæður
Í Spectacular Now (sbr. mynd hér að ofan) er sagt frá Sutter Keely sem lifir í núinu og er ekkert mikið fyrir það að gera plön fyrir framtíðina. Hann er á síðasta ári í framhaldsskóla, heillandi og vinamargur, miðdepill athyglinnar í veislum, elskar að vinna í fatabúðinni og svo framvegis – en hann er líka efnilegur alkóhólisti og vískíflaskan er aldrei langt undan. Eftir að kærastan segir honum upp fer hann á fyllerí og vaknar í ókunnugum garði þar sem Aimee Finecky stendur yfir honum. Hún er öðruvísi en þær stelpur sem hann á að venjast, sannkölluð „góð stelpa“ sem leggur sig fram í skóla, á sér drauma um framtíðina og hefur aldrei átt kærasta. Þrátt fyrir að vera svona ólík ná þau merkilega vel saman og hafa áhrif hvort á annað, bæði góð og slæm.

Oliver ákveður að hann ætli að verða besti kærasti í heimi til að tryggja að Jordana haldi áfram að vera hrifin af honum.

Skeleggur strákur
Skondna kvikmyndin Submarine segir frá hinum 15 ára gamla Oliver Tate en hann á sér tvö meginmarkmið: að missa sveindóminn fyrir næsta afmælisdag og rústa sambandi móður sinnar við elskhuga sinn. Oliver er bráðþroska ungur strákur og rembist við að auka vinsældir sínar í skólanum. Einn góðan veðurdag verður hin dökkhærða fegurðardís, Jordana, skotin í honum og hann ákveður að hann ætli að verða besti kærasti í heimi til að tryggja að hún haldi áfram að vera hrifin af honum. Á sama tíma er hjónaband foreldra hans í molum og ekki bætir úr skák þegar fyrrum kærasti móður hans flytur inn í húsið við hliðina. Oliver leggur á ráðin um það hvernig hann geti látið foreldra sína vera áfram saman. Lúmskt skemmtileg bresk kvikmynd þar sem hinn ungi leikari Craig Roberts ber af.

Cada og Thomas sem er yfir sig ástfanginn af henni.

Sorgleg en falleg
Það er ekki hægt að fjalla um fyrstu ástina og þroskasögur án þess að tala um My Girl. Þar kynnumst við Vödu Sultenfuss sem er heltekin af dauðanum. Móðir hennar er látin og faðir hennar rekur útfararstofu. Hún heldur að hún sé ástfangin af enskukennaranum sínum og skráir sig meira að segja í ljóðanámskeið til að ganga í augun á honum. Besti vinur hennar, Thomas J., er algjör ofnæmispési. Hann er yfir sig ástfanginn af Vödu og tilbúinn til að gera hvað sem er fyrir hana. Vada reiðist þegar faðir hennar ræður förðunarfræðing á útfararstofuna og hrífst af henni. Hún gerir allt hvað hún getur til að skemma fyrir þeim. Eins og flestir vita er endir myndarinnar mjög sorglegur og það er nauðsynlegt að vera með tissjúkassa við höndina þegar maður horfir á þessa.

Oskar kynnist Eli sem er heldur betur sérstök stúlka.

Flókin ást
Það er nógu erfitt og flókið að verða skotinn í fyrsta skiptið þó manneskjan sem maður er skotinn í sé ekki vampýra í þokkabót. Í sænsku myndinni Låt den rätte komma in kynnumst við Oskari, 12 ára gömlum strák í Stokkhólmi sem er lagður í einelti í skólanum og foreldrar hans láta hann alveg afskiptan. Líf hans breytist þegar hann kynnist Eli sem er heldur betur sérstök stúlka. Hún þolir illa sólskinið, fúlsar við flestum mat og svo þarf að bjóða henni sérstaklega inn í herbergi. Hann fellur engu að síður fyrir henni og hún gefur honum styrk til að standa með sjálfum sér. En þegar hann uppgötvar að hún þarf að drekka mannablóð til að lifa neyðist hann til að hugsa sinn gang upp á nýtt.

Moonrise Kingdom fjallar um samband 12 ára stráks, Sam, og stelpu, Suzy, sem hafa verið pennavinir í eitt ár.

Sannkallað ævintýri
Á eyjunni New Penzance búa aðeins örfáar hræður auk þess sem þar eru reknar sumarbúðir. Myndin Moonrise Kingdom fjallar um samband 12 ára stráks, Sam, og stelpu, Suzy, sem hafa verið pennavinir í eitt ár. Þau verða ástfangin í gegnum bréfaskriftirnar og gera með sér leynilegt samkomulag um að flýja saman út í óbyggðirnar. Suzy býr á eyjunni með fjölskyldu sinni en Sam kemur árlega í Ivanhoe-sumarbúðirnar. Á meðan yfirvöld og hinar ýmsu stofnanir leita þeirra sækir skuggalegur stormur í sig veðrið þannig að á endanum er hið sallarólega samfélag litlu eyjunnar komið á annan endann.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Stórbrotnir staðir á Suðurlandi

Á Suðurlandi eru margir stórbrotnir staðir sem vert er að heimsækja við réttar aðstæður.

Þar er hvergi meiri fjölbreytni í náttúrufari á Íslandi eins og jöklar, eldfjöll, eldfjallaeyjar, háhitasvæði, jökulár, svartar sjávarstrendur, víðáttumikil undirlendi, mýrar og stöðuvötn af öllum stærðum og gerðum. Það er því óhætt að mæla með ósnortnu hálendi Suðurlands við áhugasama ferðalanga.

Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins. Mynd / www.commons.wikimedia.org

Lakagígar gusu árið 1783 hinu mesta hraungosi er sögur fara af á jörðinni. Þeir voru þá kallaðir Skaftáreldar og er gígaröðin 25 kílómetrar að lengd og endar við Vatnajökul. Alls eru gígaopin talin vera um 100. Gígarnir eru af margvíslegri gerð og lögun. Sumir eru kringlóttir, aðrir aflangir og stundum meira eða minna brotnir. Í barmi flestra þeirra er skarð sem hraunið hefur runnið út úr.

Flestir þeirra eru að miklu leyti þaktir þykkri breiðu af grámosa og hinir fegurstu tilsýndar. Ganga ber um þá með gætni því að mosinn er afar viðkvæmur. Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins en þeir voru friðlýstir árið 1971.

Fjaðrárgljúfur Hið 100 metra djúpa og tveggja kílómetra langa Fjaðrárgljúfur er bæði stórbrotið og hrikalegt. Gljúfrið er veggbratt, hlykkjótt og þröngt. Berggrunnurinn í Fjaðrárgljúfri er að mestu móberg frá kuldaskeiðum ísaldar og telst um tveggja milljóna ára gamalt. Fjaðrá á upptök sín í Geirlandshrauni og fellur fram af heiðarbrúninni í þessu mikilfenglega gljúfri þar til hún skilar sér niður í Skaftá. Fjaðrá er bergvatnsá og ljóst er að hún hefur breyst mikið í tímans rás. Í dag er Fjaðrá oftast frekar vatnslítil og því geta göngumenn hæglega kosið að ganga inn gljúfrið en þá þarf að vaða ána alloft. Innst í gljúfrinu eru fossar svo ganga þarf sömu leið til baka. Flestir velja að ganga eftir göngustíg uppi á gljúfurbarminum og njóta um leið útsýnisins yfir gljúfrið. Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá og öðlaðist heimsfrægð eftir að söngvarinn Justin Bieber tók upp myndband sitt I´ll Show You í gljúfrinu.

Raufarhólshellir Einn af lengstu hellum Íslands nefnist Raufarhólshellir og er staðsettur við Þrengslaveg. Hellirinn er yfir 1.300 metra langur og myndaðist í Leitarhraunsgosi í Bláfjöllum fyrir um 5.200 árum. Vinsælt er að nota hellinn í kvikmyndum og til að mynda var hluti úr kvikmyndinni Noah (2014) tekinn upp þar. Daglegar ferðir eru í boði í hellinn.

Jökladýrð Hluta af hinni kraftmiklu móður jörð er að finna í hinum hættulegu jöklum landsins. Flesta jökla landsins er að finna á Suðurlandi og vert að hafa í huga að mestu máli skiptir að setja í forgang viðeigandi búnað og skipulagningu ef ferðast á yfir jökul. Eitt megineinkenni jökla er að þeir hreyfast. Í jöklunum eru margar virkar eldstöðvar en eldgos og jarðhiti bræða ís og geta valdið jökulhlaupi. Um þriðjungur þess vatns sem fellur til sjávar á Íslandi er jökulvatn. Aðgengi að íslenskum jöklum er nokkuð mismunandi en þó er mögulegt að komast að flestum þeirra. Ferð upp á jökul getur verið ógleymanlegt ævintýri en þó ber að hafa í huga að þeir geta verið stórhættulegir og því nauðsynlegt að vera í fylgd reyndra jöklaleiðsögumanna. Nokkur fyrirtæki sjá um skipulagðar jöklaferðir á Suðurlandi en hægt er að nálgast upplýsingar um þær á Netinu, í upplýsingamiðstöðvum ferðamála eða hjá starfsmönnum hótela. Vikan mælir eindregið með að ferðamenn hafi samband við ferðaskipuleggjendur og leiðsögumenn á svæðunum áður en lagt er af stað upp á jökul.

Systrastapi við Klaustur Árið 1186 var sett nunnuklaustur í Kirkjubæ á Síðu sem síðar var nefnt Kirkjubæjarklaustur. Örnefnin Systrastapi og Systrafoss eru einmitt tengd þeim tíma.

Mikilvægt er að leggja af stað vel undirbúinn.

Systrastapi er klettastapi vestan við Klaustur. Þjóðsaga segir að uppi á stapanum sé legstaður tveggja klaustursystra sem hafi verið brenndar á báli fyrir brot á siðareglum. Önnur hafði selt sig fjandanum, gengið með vígt brauð fyrir náðhúsdyr og lagst með karlmönnum. Hin hafði talað óguðlega um páfann. Eftir siðaskiptin var seinni nunnan talin saklaus og á leiði hennar óx fagur gróður en á leiði hinnar seku var gróðurlaust. Klifra má upp á stapann en þaðan er mikið útsýni með jöklasýn.

Systrafoss heitir fossinn þar sem Fossá fellur úr Systravatni fram af fjallsbrúninni fyrir ofan Kirkjubæjarklaustur, ofan í Fossárgil. Fallegar gönguleiðir eru í nágrenni fossins og greið gönguleið er upp á fjallsbrúnina að Systravatni en ofan af brúninni er stórbrotið útsýni.

Frá Hrífunesi yfir í Þjórsárdal Óhætt er að mæla með göngu frá Hrífunesi yfir í Þjórsárdal sem álitinn er af mörgum einn fegursti dalur landsins. Þjórsárdalur er staðsettur í Árnessýslu og liggur milli Búrfells og Skriðufells. Dalurinn skiptist í tvo dalbotna um Rauðukamba og Bergólfsstaðaá en hann er bæði sléttlendur og vikurborin eftir síendurtekin eldgos í Heklu. Talið er að Þjórsárdalur hafi verið fullbyggður á þjóðveldisöld en lagst í eyði á 17. öld. Merkustu staðir dalsins eru taldir vera Stöng, Háifoss, Þjóðveldisbærinn, Vegghamar og Gjáin.

Texti / Íris Hauksdóttir

Góð stemning á Hátíðarkvöldverði Klúbbs matreiðslumanna

Fagmennska var í hæsta gæðaflokki á Hátíðarkvöldverði Klúbbs matreiðslumanna 2018!

Selma Björnsdóttir hélt uppi fjörinu.

Óhætt er að segja að öllu hafi verið tjaldað til á Hátíðarkvöldverði Klúbbs matreiðslumanna, sem fór fram  á Hilton Reykjavík Nordica síðastliðinn laugardag. Tekið var á móti gestum með freyðandi kampavíni og smáréttum en um 400 gestir sóttu veisluhöldin ásamt fjölda fagfólks sem útbjó matinn og þjónaði gestum.

Er Hátíðarkvöldverðurinn liður í fjáröflun félagsins og því unnu fagmenn, kokkar og matreiðslumenn, launalaust þetta kvöld. Klúbburinn notar svo ágóðan til að fjármagna ýmsa áhugaverða viðburði, svo sem keppnina Kokka ársins og fleira.

Góð stemning var á staðnum en það voru þau Erpur Eyvindarson og Selma Björnsdóttir sem héldu uppi fjörinu og skemmtu gestum sem nutu þess að borða gómsæta réttina sem voru reiddir fram hver á eftir öðrum.

Nánar í næsta tölublaði Gestgjafans, sem kemur út fimmtudaginn 18. janúar!

Myndir / Sigurjón Ragnar
Texti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

 

Kafar ofan í heim týndra barna

Viktoría Hermannsdóttir fer af stað með Málið er, vikulega útvarpsþætti á Rás 1

Viktoría Hermannsdóttir vakti mikla athygli fyrir útvarpsþáttaseríuna Ástandsbörnin sem hún gerði fyrir Rás 1 í fyrra og útvarpsþáttinn Á ég bróður sem var sjálfstætt framhald og var fluttur um jólin.  Núna fer hún af stað með vikulega útvarpsþætti á Rás 1 sem bera heitið Málið er.

„Þetta er í raun mjög opið og ég ætla taka fyrir eitthvað sem mér finnst áhugavert hverju sinni. Þetta verður í heimildastíl og mikil vinna lögð í hvern þátt. Ég er algjör grúskari og elska góðar sögur þannig að það er skemmtilegt tækifæri fyrir mig að fá að fjalla um það sem mér finnst áhugavert á þessum skemmtilega vettvangi sem útvarpið er,“ segir Viktoría.  Hún er umsjónarmaður þáttanna en hugmyndin er líka að aðrir dagskrárgerðarmenn geti tekið mál fyrir og kafað ofan í þau.

Í fyrsta þættinum ætlar Viktoría að kafa ofan í heim týndu barnanna á Íslandi.

„Ég fæ að fylgja eftir lögreglumanni sem hefur undanfarin ár verið vakinn og sofin yfir því að leita að þessum börnum. Þetta eru börn á aldrinum 11-18 ára sem oft er lýst eftir. Þetta er ekki mjög stór hópur en það hefur fjölgað í honum undanfarið og vandi margra er mikill. Ég skoða allar hliðar í þessum þætti – kynnist þessum heimi í gegnum lögreglumanninn sem lifir og hrærist í þessu, foreldra sem eiga barn sem tilheyrir þessum hópi og svo unga konu sem eitt sinn tilheyrði þessum hópi og veitir okkur innsýn í þennan heim sem er ekkert alltof fallegur,“ segir Viktoría.

Þættirnir verða á dagskrá kl. 16 alla föstudaga á Rás 1 og verða aðgengilegir á hlaðvarpinu líka.

Ljósmynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Piers Morgan fær kaldar kveðjur frá Tonyu Harding

Skautadrottningin fyrrverandi Tonya Harding stendur uppi í hárinu á Piers Morgan.

Tonya Harding svaraði fyrir sig þegar Piers Morgan spjallaði við hana í þættinum Good Morning Britain. Kvikmynd um ævi Tonyu hefur farið sigurför um heiminn. Mynd / www.commons.wikipedia.org

Kvikmyndin I, Tonya, með Margot Robbie í hlutverk fyrrum ólympufara í listhlaupi á skautum, Tonyu Harding hefur farið sigurför um heiminn. Tonya var í viðtali gegnum gervihnött við Piers Morgan í Good Morning Britain þegar hann gaf í skyn að hún hefði ekki verið alsaklaust fórnarlamb þegar sá fáheyrði atburður átti sér stað að ofbeldismaður á launum hjá fyrrum eiginmanni Tonyu barði helsta keppinaut hennar í hnéð með hafnaboltakylfu. Skautadrottningin fyrrverandi svaraði hvasst fyrir sig.

Morgan gekk hart fram í spurningum sínum um árásina sem átti sér stað árið 1994. Báðar voru skautakonurnar á leið á ólympíuleika en Tonya hafði alla tíð mátt þola að fá lægri einkunnir fyrir frammistöðu sína á ísnum en Nancy. Í myndinni kemur fram að þetta hafi verið vegna þess að dómurum fannst Tonya ekki þess verð að vera fulltrúi Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Stúlkurnar voru báðar frá fátækum heimilum en fjölskylda Tonyu ansi skrautleg meðan meiri reglusemi og festa ríkti í kringum Nancy.

Morgan er þekktur fyrir að vera óvæginn og nokkuð dómharður um menn og málefni. Hann spurði hana ítrekað um meint ofbeldi móður hennar og fyrrum eiginmanns gagnvart henni og sagði svo: „Kannski hentar þér að leika fórnarlamb. En ég held að þú hafir ekki verið fórnarlambið í þessu öll. Það var Nancy Kerrigan en draumur hennar um ólympíugull var gerður að engu.“

„Þakka þér kærlega fyrir en ég held ég verði að segja góða nótt,“ var svar skautadrottningarinnar og hún átti bágt með að leyna reiði sinni.

Þeir sem hafa séð myndina geta líklega ekki annað en dáðst að stillingu hennar því á sinni tíð var hún þekkt fyrir flest annað en yfirvegun. Hún svaraði þó nokkrum spurningum í viðbót en viðtalinu lauk með því að hún fullyrti að hún hefði ekkert vitað um ráðagerðir fyrrum manns síns og félaga hans. Hún benti einnig á að þolendur ofbeldis hafa sjaldan kraft til að standa með sjálfum sér eða setja sig upp á móti kúgurum sínum. Þess má einnig geta að á Golden Globe verðlaunahátíðinni hampaði Allison Janney  gullnum hnetti fyrir túlkun sína á móður Tonyu Harding í myndinni.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

Flóknar fjölskyldur

Það er ekkert sjálfsagt að fjölskyldum lyndi vel saman eins og sjá má í The Glass Castle og fleiri kvikmyndum.

Erfið ævi
Í The Glass Castle (sjá mynd hér að ofan) kynnumst við Jeannette Walls sem fæddist 1960 og ólst upp ásamt þremur systkinum í mikilli fátækt, óreiðu og afskiptaleysi. Faðir þeirra var drykkfelldur draumóramaður sem hélst hvergi í vinnu og móðirin sagðist vera listakona þótt hún skapaði aldrei neitt af viti og virtist oft hvorki vita í þennan heim né annan. Fjölskyldan festi hvergi rætur, flutti eða flúði stöðugt frá einum stað til annars þannig að hvorki Jeannette né systkini hennar gengu í skóla á uppvaxtarárunum. Þetta uppeldi gerði það þó að verkum að þau lærðu fljótt að standa á eigin fótum og flúðu foreldra sína um leið og þau gátu. Það er þangað til foreldrarnir daga uppi sem hústökufólk í New York. Áhugaverð mynd með hinni hæfileikaríku Brie Larson en handritið er byggt á sjálfævisögu Jeanette Walls sjálfrar.

_______________________________________________________________

Þessi skrautlegi hópur leggur af stað í ferðalag á heiðgulri rútu til að koma yngsta barninu í fegurðarsamkeppni.

Sólskinsferðin
Allir fjölskyldumeðlimirnir í Little Miss Sunshine eiga það sameiginlegt að taka sjálfa sig aðeins of alvarlega. Fjölskyldan samanstendur af keðjureykjandi móður, nær gjaldþrota fjölskylduföður, samkynhneigðum frænda sem er að jafna sig eftir sjálfsmorðstilraun, þunglyndum táningi og afa sem reynist vera heróínsjúklingur. Þessi skrautlegi hópur leggur af stað í ferðalag á heiðgulri rútu til að koma yngsta barninu í fegurðarsamkeppni og að sjálfsögðu fer allt í bál og brand á leiðinni.

_______________________________________________________________

Fjölskyldan í The Royal Tenenbaums er skemmtilega öðruvísi.

Furðufuglar
Persónur í kvikmyndum Wes Andersons eiga alltaf í dálítið furðulegum samskiptum og það á sannarlega við um fjölskylduna í The Royal Tenenbaums. Fjölskyldufaðirinn, Royal, hefur hvorki reynst góður faðir né góður eiginmaður. Þegar hann er loksins búinn að glopra öllu frá sér reynir hann að komast aftur í mjúkinn hjá fjölskyldu sinni, fyrrum eiginkonu og þremur börnum. Í stað þess að biðjast afsökunnar eins og maður þykist hann hins vegar vera með banvænan sjúkdóm og höfðar til samvisku þeirra. Þetta verður óvænt til þess að draga saman alla fjölskylduna – en alls ekki hrakfallalaust.

_______________________________________________________________

The Squid and the Whale fjallar um áhrif skilnaðar á fjölskyldu.

Skilnaður og brestir
Myndin The Squid and the Whale fjallar um áhrif skilnaðar á fjölskyldu. Bernard Berkman er hrokafullur rithöfundur sem var eitt sinn mikils metinn en ferill hans hefur smám saman orðið að engu. Hann starfar sem háskólakennari og verður afar ósáttur þegar ótrú eiginkona hans, Joan, fær ritverk sín útgefin og mjög góðar viðtökur. Þau ákveða þau að skilja og tilkynna það tveimur sonum sínum, Walt sem er sextán ára og Frank sem er tólf. Drengirnir skiptast á að dvelja hjá foreldrum sínum og fljótlega fara þeir að skipa sér í lið með hvoru þeirra fyrir sig. Þessi togstreita hefur gríðarleg áhrif á strákana en foreldrarnir virðast bara hugsa um sjálfa sig.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Feiknaflott íbúð í hjarta Reykjavíkur

Blaðamaður og ljósmyndari Húsa og híbýla heimsóttu fallegt hús við Hverfisgötu í Reykjavík.

Í þessu reisulega húsi var hér áður fyrr starfrækt kaupfélag. Íbúðin er á annarri hæð og það er bæði hægt að taka stigann upp eða gamla, græna og mjög svo sjarmerandi lyftu sem okkur skilst að sé ein elsta lyfta landsins. Sólveig Andrea innanhússarkitekt tók að sér að hanna þessa feiknaflottu íbúð í hjarta Reykjavíkur þar sem iðandi mannlífið er beint fyrir neðan gluggana, Sólveig tók á móti tvíeykinu frá blaðinu, ásamt smekkdömunni sem þarna býr ásamt eiginmanni sínum og dóttur.

Hjónin keyptu íbúðina vorið 2016 eftir að hafa haft augastað á henni í nokkurn tíma. Þau ákváðu strax að taka hana alla í gegn og fluttu svo inn rúmu ári seinna. Það er hátt til lofts og fallegir stórir gluggar setja sterkan svip á rýmið sem er allt nýuppgert. Það fer ekki á milli mála að þarna búa fagurkerar sem hafa nef fyrir fallegri hönnun því íbúðin er öll ofboðslega smekkleg, stíllinn er töff en samt hlýlegur og örlítið rómantískur. Hlýlegt parket, kristalsljósakrónur, mildir brúnir tónar hér og þar, mottur, málverk og íburðamikil og klassísk húsgögn.

Íbúðin er öll ofboðslega smekkleg, stíllinn er töff en samt hlýlegur og örlítið rómantískur.

En hvað var það sem eigendurnir voru að sækjast eftir, voru ákveðnar hugmyndir eða kröfur frá þeim?

„Já, þeir voru að sækjast eftir þessum svokallaða loft-íbúða tilfinningu; rýmið opið, loftin frekar hrá og ófrágengnir veggirnir, það er að segja ekki pússaðir og spartslaðir. Það var samt ákveðið að mála alla veggina, líka þessa hráu og halda hráleikanum í loftunum og upprunalegu útliti gluggana. Gluggakistan í eldhúsrýminu var svona djúp og þau vildu halda henni þannig enda mjög flott svona djúp og mikil. Eigendurnir vildu í rauninni halda í allt það sem gerði íbúðina að iðnaðarhúsnæði,“ segir Sólveig og labbar með okkur um íbúðina.

Arkitektinn gæti vel hugsað sér að búa þarna

Ertu ánægð með útkomuna á þessari íbúð við Hverfisgötuna?

„Já, alveg svakalega, líka af því húsráðendur eru svo rosalega smekklegir. Það var svo gaman að koma þegar allt var tilbúð og þau flutt inn og sjá útkomuna því það er allt svo smekklegt hjá þeim. Þau voru mjög opin fyrir mínum hugmyndum og höfðu skoðanir og áhuga á öllu sem þurfti að gera og ákveða í ferlinu. Við útfærðum margt í sameiningu og annað kom alfarið frá þeim eins og til dæmis brúni liturinn sem er á nokkrum veggjum, hann er frá Slippfélaginu.“

Það er hátt til lofts og fallegir stórir gluggar setja sterkan svip á rýmið sem er allt nýuppgert.

Við spyrjum við Sólveigu hvort hún sjálf gæti hugsað sér að búa í þessari íbúð? „Já, ekki spurning. Kannski ekki með þrjú börn en ég væri til í það þegar börnin eru farin að heiman. Staðsetningin er ekki mjög barnvæn en þetta er æðislegt ef maður er barnalaus eða með uppkomin börn,“ svarar hún brosandi og við kveðjum þessar smekkkonur og gamla sjarmahúsið við Hverfisgötuna.

Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

„Dæmigerð afstaða þeirra sem eru mótfallnir framförum“

Þórdís Elva segir yfirlýsinguna dæma sig sjálfa.

Þórdísi Elvu finnst þessi yfirlýsing vera dæmigerð afstaða þeirra sem eru mótfallnir framförum.

Rúmlega 100 franskar konur ásaka forsprakka byltingarinnar undir myllumerkinu #metoo um nornaveiðar. Catherine Deneuve er ein þeirra kvenna sem skrifað hafa opið bréf þar sem þær gagnrýna baráttuna gegn kynferðislegri áreitni og segja hana ógn gegn kynferðislegu frelsi. Í yfirlýsingunni kemur fram að konur sem ekki taki þátt í byltingunni eigi yfir höfði sér ásakanir um svik gegn kynsystrum sínum.

Þær segja karlmönnum hafa verið vikið úr störfum fyrir sakleysislegar snertingar og einstaka kossa. Það brjóti ekki gegn sæmd kvenna að snerta líkama þeirra og gerir þær síður en svo að fórnarlömbum.

Catherine Deneuve er ein þekktasta leikkona frakka en hún hefur meðal annars skapað sér miklar óvinsældir eftir opinbera yfirlýsingu þess lútandi að standa með leikstjóranum Roman Polanski sem sakaður var um nauðgun á ungri stúlku. Þá var haft eftir Deneuve að nauðgun sé ofmetin.

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir er ein þeirra sem farið hefur fremst í flokki baráttunnar á Íslandi segir yfirlýsinguna dæma sig sjálfa. „Hér er verið að fordæma konur fyrir að standa á rétti sínum að verða ekki fyrir áreitni eða ofbeldi. Til að gera lítið úr þeim eru notuð dæmi eins og „hendi á hné“, „þvingaður koss“ og „kynferðisleg skilaboð“ sem konum eru send, svo sem typpamyndir. Í nútímanum eru þetta ótvíræð dæmi um kynferðislega áreitni. Þegar Catherine Deneuve var ung þótti ýmislegt sem ógnar lýðheilsu ekki vera sérstakt tiltökumál, eins og að reykja í flugvélum og sleppa bílbeltanotkun. Sem betur fer hafa viðmiðin breyst og kröfurnar aukist.

Mér finnst þessi yfirlýsing vera dæmigerð afstaða þeirra sem eru mótfallnir framförum, því fyrr á tímum tíðkaðist verra atlæti. Í stað þess að horfa með nostalgíu til fortíðar, þar sem mannréttindi voru fótum troðin í öllum flokkum, hvort sem um er að ræða mannréttindi kvenna, þeldökkra, samkynhneigðra eða transfólks svo dæmi séu nefnd ættum við að vera stolt af þeim árangri sem náðst hefur. Viðtökurnar við #metoo sýna að á heimsvísu erum við langflest stolt af þessari þörfu byltingu. Ég spái því að Catherine Deneuve og hennar skoðanasystkin verði notuð sem dæmi í sögubókum framtíðarinnar um fólk sem andmælti framförunum, á sama hátt og þeir sem andmæltu mannréttindasigrum annarra minnihlutahópa.”

Texti / Íris Hauksdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir

 

„Ákjósanleg braut til bætinga“

Spennandi fimm kílómetra keppnishlaup fyrir alla.

Hlaupaárið 2018 fer af stað með krafti og mörg skemmtileg keppnishlaup framundan. Hlaupasería FH og BOSE inniheldur þrenn fimm kílómetra hlaup og stigakeppni einstaklinga. Hlaupunum er startað á göngustígnum gegnt íþróttahúsinu á Strandgötu í Hafnarfirði stundvíslega klukkan 19 fimmtudagana 25. janúar, 22. febrúar  og 22. mars.

Hörður Jóhann Halldórsson, formaður Hlaupahóps FH, á von á mikilli stemningu í Hlaupaseríu FH og BOSE í vetur.

„Þetta er í áttunda árið sem að hlaupaserían er haldin. Þær breytingar urðu í ár að samið var við Origo og samhliða ákveðið að nefna seríuna Hlaupaseríu FH og BOSE,“ segir Hörður Jóhann Halldórsson formaður Hlaupahóps FH. „Hlaupaleiðin er mæld af löggildum mælingamönnum, brautin nokkuð flöt og því ákjósanleg til bætinga. Besta tíma konu í brautinni á Arndís Ýr Hafþórsdóttir, 17:52 og besta tíma karls í brautinni á Kári Steinn Karlsson, 15:03. Þau sem oftast hafa unnið hlaup í seríunni eru Arnar Pétursson sem hefur unnið fimm sinnum og Arndís Ýr Hafþórsdóttir, níu sinnum, en alls hafa 22 hlaup verið haldin síðan 2011. Reikna má með fjölmörgum hlaupurum í ár og mikilli stemningu þar sem DJ mun koma hlaupurum í gírinn við upphaf og endi hlaups. Undan- og eftirfarar verða á hjólum, öflug brautargæsla og hraðastjórar í 20, 25 og 30 mínútum nýtast sem ákveðin tímaviðmið í hlaupinu, sem ætti að hjálpa hlaupurum að ná markmiðum sínum hafi þeir ákveðið að klára hlaupið innan ákveðins tíma.“

 

Skráning í hlaupin fer fram á hlaup.is.
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

„Miklu auðveldara að búa hér en á Íslandi“

Arnar Pálsson flugvirki segir frá áhugaverðum stöðum í Delitzsch í Þýskalandi.

Arnar Pálsson hefur búið ásamt konu sinni Maríu og hluta af börnum þeirra í Delitzsch í nokkur ár.

„Ég kynntist Maríu í Yakutsk í Síberíu og þar giftum við okkur. Við eigum saman tvö börn. Fyrir átti María einn son og ég átti tvær dætur og einn son. Við búum fimm saman hér í Delitzsch en börnin mín þrjú búa hjá mömmu sinni í Reykjavík.

María flutti fyrst til Íslands og við bjuggum saman í Keflavík í tæplega sex ár. Fyrir fjórum árum fékk ég einfaldlega nóg af ástandinu heima og fann vinnu á flugvellinum í Leipzig. Fyrstu tvö árin flaug ég á milli, vann í 14 daga og átti 14 daga frí á milli. Þar sem tækifærið var komið fór ég að undirbúa að flytja fjölskylduna með mér til Þýskalands og í ágúst í hittiðfyrra fluttum við út. Við keyptum okkur hús í júní á síðasta ári og líkar vel hérna. Það er svo miklu auðveldara að lifa hér en á Íslandi. Verðlag, úrval og gæði matvöru eru ekkert í líkingu við það sem er á Íslandi. Heilbrigðiskerfið virkar mjög vel og aldrei þurfum við að taka upp veskið þegar við hittum lækna. Lánavextir hér eru ekkert í líkingu við það sem þú sérð á Íslandi,“ segir Arnar.

„Það er svo miklu auðveldara að lifa hér en á Íslandi. Verðlag, úrval og gæði matvöru eru ekkert í líkingu við það sem er á Íslandi.“

„Delitzsch er mjög þægilegur bær að búa í en íbúar eru tæplega 20.000 talsins. Við búum í útjaðrinum svo það er ofsalega rólegt kringum húsið okkar og mjög öruggt fyrir börnin að leika úti. Delitzsch er mitt á milli Leipzig og Halle og tekur ekki nema um 20 mínútur að keyra þangað ef okkur vantar eitthvað á öðrum hvorum staðnum.

Minnivarðinn The Monument to the Battle of the Nations í Leipzig.

Hér eru margir áhugaverðir staðir. Delitzsch-kastali (sjá mynd hér að ofan) og garðurinn þar í kringum er virkilega flottur.
Hér er Porsche-verksmiðja þar sem hægt er að prófa bíla og skoða safn og hér er líka BMW-verksmiðja.
Miðborg Leipzig er heillandi og skemmtileg og ég hvet fólk til að ganga þar um og skoða. Gröf Johannesar Sebastians Bach er í Thomas-kirkju, hæsta minnismerki Evrópu er á staðnum en það var reist til minningar um fyrsta sigurinn gegn Napóleon árið 1813 og er kallað The Monument to the Battle of the Nations.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir.

Þrettán tindar með Vilborgu Örnu

Spennandi fjallgöngunámskeið með Vilborgu Örnu í janúar.

Vilborg Arna Gissurardóttir og félagar bjóða upp á skemmtilegt fjallgöngunámskeið í vetur.

Vilborg Arna Gissurardóttir slær sjaldan slöku við og fer nú í janúar af stað með gönguhóp ásamt Ingu Dagmar Karlsdóttur og Tomaszi Þór Verusyni þar sem boðið er upp á göngudagskrá fram á vor. Fjallgöngurnar er tvær til þrjár í mánuði, stigvaxandi í takt við hækkandi sól og aukið þrek, og á endanum verður farið á Hvannadalshnjúk ef aðstæður og veður leyfir.

„Fjallgöngur eru ein besta líkamsræktin sem hægt er að stunda og eru þekktar fyrir að hafa jákvæð áhrif á líkama, streitu og huga. Við byrjum á minni fjöllum og bætum smá saman í hæðarmetrana með hækkandi sól. Ein þekktasta aukaverkunin af fjallgöngunum hafa verið nýir félagar og fleiri áskoranir svo við hvetjum alla áhugasama til þess að vera með,“ segir Vilborg Arna.

Þátttakendur þurfa að eiga Esjubrodda og ljós auk þess að vera viðbúin að leigja viðeigandi búnað fyrir jöklaferðirnar þannig að það má búast við spennandi ævintýrum með þessum flottu fjallagörpum.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Rétt lýsing getur hreinlega gerbreytt heimilinu

Lýsing skiptir sköpum inni á heimili.

Lýsing skiptir sköpum inni á heimili. Það má skipta lýsingu í þrjá flokka: umlykjandi lýsingu, sem veitir almenna birtu, áherslulýsingu, sem vekur athygli á ákveðnum stað eða mun á heimilinu, og að lokum vinnulýsingu, sem gefur manni næga birtu til að klára ákveðin verk. Síðan er hægt að nota ýmsar ólíkar gerðir ljósgjafa til að ná fram þeirri lýsingu sem maður vill.

Sniðugt er að hafa dimmera á loftljósum til að geta stýrt birtustiginu og stemningunni í rýminu.

Loftljós flokkast nær alltaf undir umlykjandi lýsingu. Sniðugt er að hafa dimmera á þessum ljósum til að geta stýrt birtustiginu og stemningunni í rýminu.
Loftljós eru ýmist ljósakrónur sem hanga niður úr loftinu eða kúplar sem liggja þétt upp við það.
Krónur setja meiri svip á herbergið og því skiptir sköpum að velja einhverja sem passar vel við stíl þess en kúplar dreifa birtu meira yfir allt herbergið án þess að vera fyrir.

Veggljós hafa verið mjög vanmetin undanfarin ár en svo virðist sem vinsældir þeirra séu að aukast.
Veggljós geta bæði flokkast sem umlykjandi en einnig áherslulýsing, til dæmis þegar þau eru staðsett sitthvorum megin við fallegt málverk.
Veggljós eru handhæg leið til að stýra birtunni, það að hafa aðeins kveikt á þeim en ekki loftljósi gefur dramatíska eða rómantíska lýsingu.

Gólflampar eru annað dæmi um vanmetna lýsingu. Þeir geta nefnilega þjónað öllum þremur hlutverkum lýsingar. Ótrúlega margar gerðir eru til, sumar lýsa upp og aðrar niður, sumar eru hönnunarmunir á meðan aðrar setja notagildið á oddinn. Eitt er víst að það geta allir bætt einum gólflampa við inn í stofu hjá sér.

Borðlampa má bæði nota sem áherslu- og vinnulýsingu. Glæsilegur lampi á hliðarborði getur sett punktinn yfir i-ið í stíliseringu herbergis en einnig getur hann komið að góðu gagni við lestur bóka. Eins koma borðlampar að góðum notum í skrifstofurými þar sem þörf er á mikilli birtu.

Góðan borðlampa er hægt að nota sem vinnulýsingu – og ekki skemmir fyrir ef hann er fallega hannaður.

Texti /  Hildur Friðriksdóttir

Dásamlega góð kaka á sunnudegi

|
|

Döðlukaka með ávöxtum svíkur engan.

Hér er uppskrift að ljúffengri döðluköku. Ávextirnir sem hér eru flokkast undir ofurfæðu og eru bara tillaga. Þið getið auðvitað notað þá ávexti sem ykkur finnast bestir.

Döðlukaka með ávöxtum.

Döðlukaka með ávöxtum
fyrir 8

Botn:
500 g þurrkaðar döðlur
3 dl vatn
½ dl kókosolía, mýkt í vatnsbaði
1 stór, þroskaður banani eða 2 litlir
2 msk. hunang eða agave-síróp
1 ½ dl tröllhafrar

Ofan á:
2 kíví, skræld og skorin í bita
1 dl bláber
100 g jarðarber, skorin í tvennt
kjarnar úr ½ granatepli
100 g 70% súkkulaði, gróft saxað
50 g ristaðar valhnetur eða pekanhnetur, gróft saxaðar, eða grófar, ristaðar kókosflögur

Sjóðið döðlur í vatni í 10 mín. Látið standa í 15 mín. og sigtið svo vatnið frá. Setjið döðlurnar í matvinnsluvél og maukið vel ásamt kókosolíu, banana, sætuefni og tröllhöfrum. Setjið maukið í form sem er u.þ.b. 20×30 cm, kælið. Raðið ávöxtum, súkkulaði og hnetum eða kókosflögum ofan á og berið fram með þeyttum rjóma.

Trefjaríkir hafrar eru jafnvel enn hollari en áður hefur verið talið og sýna nýjar rannsóknir að þeir minnka ekki bara líkurnar á hjartasjúkdómum heldur einnig tegund 2 sykursýki.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Fyrirsætur vekja athygli á mikilvægum málefnum

Módel sem eru hægt og bítandi að breyta heiminum.

Litið var á fyrirsætur fyrri áratuga sem persónuleikalaus herðatré og fjölbreytnin var eftir því. Vissulega sáum við fyrirsætur á tíunda áratugnum neita að klæðast feldi vegna dýraverndunarsamtakanna PETA en þá voru það ofurfyrirsætur á borð við Naomi Campbell og Cindy Crawford sem höfðu þá þegar skapað sér nafn innan bransans og höfðu efni á því að tjá sig.

Með vinsældum samfélagsmiðla hefur hópur fyrirsæta og aktívista notað rödd sína og andlit til þess að vekja athygli á mikilvægum málefnum og uppskera frekar frægð og frama fyrir vikið en skammir. Skoðum nokkrar ungar og áhugaverðar konur sem eru hægt og bítandi að breyta heiminum.

 

Ebonee Davis hefur rætt rasisma í tískubransanum.

Ebonee Davis
Ebonee Davis vakti mikla athygli þegar hún skrifaði áhrifaríkt opið bréf stílað á tískubransann. Spurningar eins og hvaða áhrif fjölmiðlar hafi á menningu okkar og hvort tískuheimurinn geti hætt að vera rasískur voru henni efstar í huga. Eins og þekkt er hafa fyrirsætur af afrískum uppruna átt erfiðar uppdráttar og enn í dag eru svartar fyrirsætur minna en 10% þeirra sem ganga niður tískusýningarpallana. Ebonee segist hafa fengið að heyra að fyrirtæki bókuðu bara svartar fyrirsætur ef þær litu út fyrir að koma beint frá afskekktu þorpi í Afríku eða eins og hvítar konur dýft í súkkulaði. Hún segist hafa reynt að fara eftir þeim ráðleggingum frá byrjun ferilsins árið 2011. Það var ekki fyrr en hún ákvað að leyfa náttúrulegu hári sínu að njóta sín og hún opnaði munninn og krafðist réttlætis að ferill hennar fór á flug. Náttúruleg fegurð hennar landaði henni meðal annars haustherferð Calvin Klein árið 2016.

_______________________________________________________________

Fjölbreytni í tískuheiminum, femínismi og fíkn eru Adwou Aboah hugleikin.

Adwoa Aboah
Adwoa er stofnandi Gurls Talk, sem er vefmiðill sem einbeitir sér að málefnum kvenna og hvetur ungar konur til að tjá sig án þess að vera dæmdar eða mismunað. Hún talar reglulega hreinskilningslega um fjölbreytni í tískuheiminum, femínisma, andlega heilsu og fíkn.

_______________________________________________________________

Cameron Russel hefur m.a. verið dugleg að ræða félagsleg og pólitísk málefni, loftlagsbreytingar og hreina orku.

Cameron Russel
Horft hefur verið á Ted-fyrirlestur ofurfyrirsætunnar Cameron Russel rúmlega nítján milljón sinnum þegar þetta er skrifað. Cameron útskrifaðist úr hagfræði og stjórnmálafræði frá Colombia-háskóla og hefur heldur betur gert meira en að sitja fyrir og vera sæt síðan hún útskrifaðist. Hún hefur verið dugleg að ræða félagsleg og pólitísk málefni, loftlagsbreytingar, hreina orku og sanngjörn laun fyrir þá sem vinna í tískuiðnaðinum, til að nefna örfá dæmi.

_______________________________________________________________

Markmið Avery McCall er að safna fjármunum til að vinna með flóttamönnum.

Avery McCall
Avery hefur verið virkur þátttakandi í stjórnmálum frá tólf ára aldri og meðal annars verið unglingaráðgjafi fyrir herferð Sameinuðu þjóðanna, Foundation’s Girl Up. Hún varði menntaskólaárunum sem talsmaður flóttamanna og aðstoðaði þá sem fluttust frá stríðshrjáðu Sýrlandi, Suður-Súdan og frá lýðveldinu Kongó. Hún hefur notað andlit sitt til góðs innan tískuheimsins til að vekja athygli á mikilvægum málefnum. Hennar markmið er að safna fjármunum til að vinna með flóttamönnum og draumurinn er að  geta leiðbeint börnum sem flýja frá stríðshrjáðum löndum.

_______________________________________________________________

Andreja Pejic hefur varpað ljósi á málefni transfólks innan tískuheimsins.

Andreja Pejic
Andreja hefur verið kölluð fyrsta transsúpermódelið. Andrej var fæddur í fyrrum Júgóslavíu en alinn upp í Melbourne í Ástralíu. Áður en hann fór í kynleiðréttingu árið 2013 var hann þegar þekkt fyrirsæta innan tískuheimsins og vakti útlit hans víða athygli, enda átti hann auðvelt með að fara í hlutverk beggja kynja. Síðustu árin hefur ferill Andreju blómstrað og hún meðal annars setið fyrir á forsíðum tímarita á borð við Elle, L’Officiel, Fashion og GQ. Árið 2015 varð hún fyrsta transfyrirsætan til þess að vera andlit snyrtivörufyrirtækis en hún landaði stórum samningi við Make Up For Ever. Andreja hefur varpað ljósi á málefni transfólks og opnað dyr fyrir fjölbreyttari hóp innan tískuheimsins.

_______________________________________________________________

Charli Howard og Clémentine Desseaux
Líkamsímynd hefur verið mikið tískuorð upp á síðkastið í bransanum og sem betur fer eru sífellt fleiri týpur sem ná árangri í tískuheiminum í dag. Þær Charli Howard og Clémentine Desseaux vöktu heimsathygli fyrir verkefni sitt All Woman Project sem er myndasería, sem hefur ekki verið átt við í Photoshop, af konum af öllum stærðum, gerðum, litum og aldri sem sanna það að fegurð kemur ekki í einni staðlaðri stærð.

Texti / Helga Kristjáns

Ekta fiskisúpa í anda Miðjarðarhafsins

|
|

Suðræn sælkerasúpa sem vermir og nærir kroppinn.

Ljúffenga fiskisúpa.

Fiskisúpa frá Sikiley
fyrir 4-6

Hér er uppskrift að ekta fiskisúpu í anda Miðjarðarhafsins.
4 msk. olía
1 laukur, saxaður smátt
4 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 fersk fenníka, sneidd
1 stór gulrót, í litlum bitum
1 lítill blaðlaukur, sneiddur
300 g tómatar, saxaðir
safi úr 1 appelsínu
safi úr 1 sítrónu
1 tsk. þurrkað tímían
2 tsk. paprika
12 dl fiskisoð eða vatn og fiskikraftur
1 ½ dl hvítvín
1 msk. tómatmauk
1 msk. sykur eða hunang
1-2 tsk. salt
300 g lax
400 g stórar rækjur
300 g langa eða annar hvítur fiskur
2 msk. þurrkuð steinselja

Steikið laukinn í olíunni þar til hann fer að verða glær. Bætið hvítlauk, fenníku, gulrót og blaðlauk út í og steikið aðeins áfram. Bætið öllu nema fiski og steinselju út og látið súpuna sjóða í 20 mín. Bætið fiski út í og látið sjóða í 4-5 mín. í viðbót. Stráið steinselju yfir í lokinn.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Ernir Eyjólfsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Raddir