Anna Bryndís Skúladóttir er mikil fjallageit og gefur ráð varðandi búnað.
Anna Bryndís Skúladóttir er mikil fjallageit og hefur ásamt félögum sínum í Fjallgönguklúbbnum Fjallhress gengið á marga flotta austfirska tinda. Við fengum hana til að segja okkur fá eftirminnilegustu göngunum og gefa okkur nokkur góð ráð um búnað.
„Falleg náttúra og að kljást við fjölbreytt landslag og ögrandi fjöll er það skemmtilegasta við fjallamennskuna. Ég fer mikið ein á fjöll og finnst það frábært en það er líka mjög gefandi að ganga með vinum mínum í Fjallgönguklúbbnum Fjallhress og um leið eykur það öryggi á fjöllum,“ segir Bryndís. Hún er deildarstjóri í Seyðisfjarðarskóla á leikskóladeild og starfar einnig sem fjallaleiðsögumaður og landvörður á sumrin. Í frítíma sínum stundar hún fjallgöngur og kajakróður.
„Súla, hæsti tindur Dyrfjalla, er í uppáhaldi vegna þess hve mikil fjölbreytni er í gönguleiðinni og einstök innkoma á þetta mikla klettafjall, sem er blómi skrýdd klettarák. Útsýnið af toppnum er magnað. Eftirminnilegast er þó líklega þegar dóttir mín hringdi í mig þar sem ég var að koma niður af Hvannadalshnjúk og sagði að það væri farið að gjósa á jöklinum. Nei, ég hélt nú ekki. ,,Jú mamma, þetta er bæði í fréttum í útvarpi og sérútsending í sjónvarpinu sagði hún mjög angistarfull.“ Þá sneri ég mér við og sá þá gosstrókinn stíga upp til himins. Þetta var Grímsvatnagosið í maí 2011.“
Mikilvægt að láta vita af sér
Hvað þurfa byrjendur í fjallamennsku að hafa í huga og hvaða búnaður er nauðsynlegur? „Það þarf að huga að veðurspá og láta aðra vita hvert halda skal og hvenær þú áætlar að koma til baka. Góður bakpoki undir skjólfatnað og nesti er mikilvægt. Ólíkan búnað þarf í vetrarfjallamennsku og sumarfjallgöngum. Létt föt, sólgleraugu og sólarvörn í sólinni á sumrin. Muna líka að hafa sólgleraugu og sólarvörn í vetrarsól í snjó og á jökli, ullarfatnað innst og góðar ullarpeysur undir skjólgóðri skel er mjög gott. Göngustafir koma sér vel við ýmsar aðstæður og að vetri eru broddar og ísaxir oft nauðsynleg. Sími, áttaviti eða GSP-tæki eru allt góð öryggistæki. Ekki gleyma vatni á brúsa í allar lengri göngur.“
Hvaða nesti finnst þér best að hafa? „Það fer eftir árstíðum og erfiðleikastigi. Léttari samlokur og ávaxtasafa á sumrin en á veturna kæfusamloku, lifrarpylsu og egg. Svo er ég alltaf með svart te á brúsa. Snickers er ómissandi og reyndu ekki að koma með súkkulaðirúsínur þar sem ég er,“ segir hún hlæjandi.
Hún hvetur fólk hiklaust til að stunda fjallamennsku. „Fjallganga er gríðarlega góð alhliða hreyfing og gott sport bæði fyrir sál og líkama. Náttúran er endalaus uppspretta fegurðar og fjölbreytileika en það er ekki síður magnað að upplifa náttúruna í ham þar sem mannskepnan fær ekki beislað hana, s.s. í jarðskjálftum, gosum, flóðum og skriðuföllum.“
Og það er skemmtilegt göngusumar fram undan hjá Bryndísi en hún ætlar meðal annars að ganga á Búlandstind, Grjótfjall og Þriggjakirknafell, einnig Kverkfjöll og í Hveradal, á Jónsfjall og í Mínuskörð í botni Borgarfjarðar eystra og loka þar með fjallahringnum í firðinum. Þá mun hún fara í fimm daga ferð um Víknaslóðir sem leiðsögumaður, ganga Fimmvörðuháls og fara í kjakferðir í fjallvötnunum á hálendinu.
Aðalmynd: Bryndís ásamt Skúla Júlíussyni á Stöng í Berufirði.
Hér er uppskrift að salati sem er ekki bara bráðhollt heldur algjört sælkerafæði líka.
Appelsínusalat með súkkulaði-sorbet
fyrir 4
Ráðlagður dagskammtur af hreinu súkkulaði, samkvæmt ofurfæðiskenningum, er u.þ.b. 15-20 grömm. Það er nú alveg næg ástæða til að skoða þetta fæði svolítið betur.
Hér er uppskrift að súkkulaði-sorbet sem er dökkur og seiðandi og með appelsínum og granateplum er hann alveg ómótstæðilegur.
3-4 appelsínur
1 granatepli
Súkkulaði-sorbet
3 dl vatn
40 g kakó (eins dökkt og þið hafið efni á)
100 g hrásykur
100 g 70% súkkulaði, saxað
½ tsk. vanilludropar
svolítið salt
Sjóðið vatn, kakó og sykur saman. Bætið súkkulaði út í ásamt vanillu og salti og hrærið í þar til súkkulaðið er uppleyst, kælið. Frystið í ísvél eða í frysti. Ef þið setjið ísinn í frysti er gott að setja þunnt lag í stórt form svo hann frjósi fljótt og hræra í öðru hvoru á meðan ísinn er að frjósa.
Hátt hlutfall andoxunarefna í dökku súkkulaði geri það að hinu fullkomna sælgæti. Súkkulaði er ríkt af flavoníðum sem sannað hefur verið að auka blóðflæði, draga úr hósta, bæta minni og mýkja húðina. Þeir sem aðhyllast ofurfæðiskenningar segja ráðlagðan dagskammt vera 15-20 grömm á dag.
Kristín Tómasdóttir rithöfundur hefur á undanförnum árum skrifað sex bækur ætlaðar ungum krökkum. Hún leggur áherslu á að byggja upp sterka sjálfsmynd og efla vitund þeirra um eigin tilfinningalíf. Nýjasta bók hennar, Sterkar stelpur, hefur þó ákveðna sérstöðu því hún er ætluð yngri lesendahópi og er tileinkuð yngstu dóttur hennar sem er trans stúlka.
Kristín hefur einnig sett saman sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stelpur og ferðast um landið í þeim tilgangi að efla íslenskar stelpur.
„Ég fann fyrir mikilli eftirspurn meðal foreldra sem voru farnir að finna fyrir því að sjálfsmynd stelpna þeirra væri farin að þróast í neikvæða átt fyrr en þá hafði grunað,“ segir hún. „Við erum að sjá stelpur niður í 6 ára fara í megrun og alls kyns önnur merki sem foreldrar hræðast en vita líka að hægt er að koma í veg fyrir með fyrirbyggjandi sjálfstyrkingu.“
Ítarlegra viðtal við Kristínu er að finna í nýjustu Vikunni.
Þegar farið er í frí um landið hættir okkur til að stoppa bara á þekktustu stöðunum því við vitum ekki af öllu hinu sem Ísland hefur upp á að bjóða.
Suðurlandið er einn vinsælasti staður ferðamanna sem koma hingað til lands og geymir ótrúlegar náttúruperlur. Hér eru nokkrir staðir sem minna hefur farið fyrir og við mælum sannarlega með að þið skoðið.
Fjaðrárgljúfur
Fjaðrárgljúfur er virkilega falleg náttúrusmíð rétt við þjóðveg númer eitt, skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur. Ekið er að gljúfrinu um Lakaveg og þaðan gengið upp með gilinu. Einnig er hægt að ganga upp eftir gljúfrinu sjálfu en það gæti þurft að vaða töluvert. Mikilfenglegar móbergsmyndir prýða gilið og þetta getur verið skemmtilegt stopp fyrir alla fjölskylduna.
Gljúfrabúi
Fossinn Gljúfrabúi er aðeins nokkur hundruð metrum fyrir innan Seljalandsfoss og fellur bak við hamravegg úr móbergi, kallaður Franskanef, sem lokar fossinn af. Hægt er að komast inn í hellinn um op að framanverðu þar sem áin Gljúfurá rennur út og það er töfrum líkast að sjá fossinn steypast niður þessa 40 metra. Einng má klifra upp á Franskanef og sá fossinn að ofanverðu en munið að fara að öllu með gát.
Svartifoss
Svartifoss er einn fallegasti foss á landinu þar sem hann fellur niður ægifagurt stuðlaberg í Skaftafelli. Frá Skaftafellssofu er hægt að ganga að Svartafossi en leiðin er tæpir tveir kílómetrar og tekur um 35-45 mínútur. Gengið er meðfram tjaldsvæðinu og beygt upp á hæð sem heitir Austurbrekkur. Farið er yfir Eystragil á göngubrú og á leiðinni sjást Hundafoss og Magnúsarfoss. Þegar komið er upp hæðina er gott útsýni að Svartafossi og svo er gengið niður í gilið til að komast alveg að fossinum.
Þakgil
Þakgil er falinn gimsteinn á Höfðabrekkuafrétti staðsett milli Mýrdalsjökuls og Mýrdalssands um 15 kílómetra frá þjóðveginum en beygt er út af þjóðvegi númer eitt við Höfðabrekku sem er fimm kílómetrum fyrir austan Vík. Þar er gott tjaldsvæði, veðursæld og stórbrotin náttúra. Ef þú ert á leiðinni í útilegu þá er þetta staður sem er virkilega þess virði að skoða. Einnig er hægt að leigja smáhýsi á staðnum. Margar fallegar gönguleiðir við allra hæfi eru á svæðinu.
Ingólfshöfði
Fjölskyldufyrirtækið Öræfaferðir á Hofsnesi sem staðsett er rétt hjá Fagurhólsmýri við rætur Öræfajökuls býður upp á spennandi lunda- og söguferðir út í Ingólfshöfða á heyvögnum sem eru hengdir aftan í dráttarvélar (sjá aðalmynd). Ferðin tekur alls tvo og hálfan klukkutíma og ferðin í vagninum um það bil 25 mínútur hvora leið. Það kostar 7.500 kr. fyrir fullorðna, 2.500 kr. fyrir börn á aldrinum 8-16 ára en börn frá 4-7 ára frá frítt. Gengið er um höfðann með leiðsögumanni og það eru 99% líkur á því að sjá lunda á svæðinu yfir sumartímann. Skemmtileg ævintýraferð fyrir fjölskylduna í sumarfríinu.
Sonja Arnardóttir slasaðist illa í bílslysi en keppir nú í fitness.
Fyrir sex árum ákvað Sonja að taka allhressilega til í sínu lífi. Hún ákvað að setja sjálfa sig í fyrsta sæti og hóf að stunda líkamsrækt af kappi. Á síðasta ári byrjaði hún að þjálfa fyrir sitt fyrsta fitness-mót. Í dag er hún hraustari en hún hefur nokkurn tímann verið og stefnir ekki að því að hætta að hreyfa sig í bráð.
Í desember 1991 var hún á ferð í Borgarfirði þegar hún keyrði óvænt inn á mikið ísingasvæði með þeim afleiðingum að hún missti stjórn á bílnum og hann fór nokkrar veltur. Sonja var ekki í öryggisbelti og kastaðist langa leið út um framrúðu bílsins. Hún var með meðvitund allan tímann og man vel sársaukann og brothljóðin þegar bein líkama hennar fóru í sundur. Með henni í för var fyrrverandi eiginmaður hennar sem slasaðist mikið í andliti. Þau voru svo heppin að aðrir vegfarendur komu fljótlega á vettvang til hjálpar og þar á meðal var sjúkraflutningamaður sem sá til þess að Sonja var ekki hreyfð fyrr en læknir og sjúkrabíll voru komnir á staðinn.
Sonja átti erfitt með andardrátt og hélt í raun að hún væri að deyja. Við tóku margar aðgerðir, löng sjúkrahúsvist og endurhæfing. Ljóst var að þessi unga kona næði aldrei fullri heilsu aftur. Í raun var hún stálheppin að mænan skyldi ekki fara í sundur. Nú nærri þremur áratugum síðar er hún enn að takast á við líkamlegar og andlegar afleiðingar slyssins en telur að það stranga mataræði og agi sem fylgir fitness-íþróttinni hafi hjálpað sér mikið. Hún lætur enga bilbug á sér finna og stefnir á að keppa aftur á mótum í ár.
Viðtalið í heild má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.
Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir
Fatnaður / Lindex og Vila
Það er ekki ofsögum sagt að augabrúnirnar eru besti „fylgihlutur“ hverrar konu, enda ramma þær inn andlitið. Síðustu misserin hefur tiltölulega ný tækni í varanlegri förðun notið mikilla vinsælda enda útlitið náttúrulegra en það sem áður þekktist.
Microblading-aðferðin hefur notið mikilla vinsælda um heim allan en hér á landi eru nokkrar snyrtistofur sem sérhæfa sig í þessari nýlegu tækni. Aðferðin felur í sér að búa til örmjó „hár“ með stykki sem hefur örfínan hnífsodd sem sker í ysta lag húðarinnar sem síðan er fyllt upp í með lit. Með þessum hætti er auðvelt að búa til aukahár, þykkja brúnir og breyta lagi þeirra eða jafnvel hanna þær frá grunni ef engin hár eru fyrir.
Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga ef þú hefur áhuga á því að fá þér microblading-augabrúnatattú:
Leggstu í rannsóknarvinnu
Vertu viss um að vera búin að kynna þér þann sérfræðing sem þú velur til þess að gera tattúið vel áður en hafist er handa. Fáðu að sjá fyrir og eftir-myndir eftir viðkomandi til að vera viss um að vinna hans/hennar sé þér að skapi og menntun og reynsla standist kröfur þínar. Sérfræðingurinn ætti einnig að geta svarað öllum spurningum sem vakna hjá kúnnanum og aðgerðin framkvæmd í sterílu og fagmannlegu umhverfi.
Undirbúðu þig
Áður en þú færð þér microblading-tattú skaltu forðast það að vaxa eða plokka augabrúnirnar. Einnig er gott að sleppa því að nota kornamaska sem inniheldur allskyns sýrur sem eiga það til að skapa roða í húðinni og varastu að nota blóðþynnandi lyf. Þær sem eru óléttar, með barn á brjósti eða sykursjúkar ættu að forðast microblading.
Tjáðu þig
Sérfræðingurinn sem þú leitar til mun mæla andlit þitt og augabrúnir og vinna út frá andlitsfalli þínu og mælingum til að fá sem náttúrulegasta yfirbragðið. En vertu dugleg við að tjá óskir þínar við sérfræðinginn og áður en hafist er handa er mikilvægt að þú sjáir teikningarnar á andlitinu, ef vera skyldi að þú vildir gera einhverjar breytingar.
Passaðu upp á þær
Þegar þú ert búin að fá fullkomnar augabrúnir er eðlilegt að þú viljir sýna þær. Passaðu samt upp á að nota ekki krem og aðrar húðvörur nálægt svæðinu í að minnsta kostu tíu daga eftir aðgerðina og ekki snerta svæðið. Vertu dugleg að bera græðandi krem á svæðið með eyrnapinna.
Þar sem hrúður myndast á meðferðarsvæðinu mun liturinn vera dekkri og skarpari fyrstu vikuna. Eftir 6-10 daga dofnar liturinn um u.þ.b. helming. Eftir 4-6 vikur ættirðu að fara aftur og láta laga það sem hefur dofnað og láta vita ef þú vilt láta lagfæra eitthvað varðandi útlit brúnanna.
Passaðu upp á að fara ekki í sólbað, synda eða svitna mikið fyrstu tíu dagana eftir microblading. Þegar svæðið hefur náð að gróa er gott að nota sólarvörn á brúnirnar til að koma í veg fyrir að þær dofni.
Misjafnt er eftir húðtýpu og lit á brúnum hversu lengi microblading-aðferðin endist á húðinni en eftir hálft ár getur útlit háranna farið að dofna. Mælt er með endurkomu á 8 mánaða til tveggja ára fresti.
Sætindi þurfa ekki alltaf að vera óholl, sætar ávaxtakökur með hunangi, agave-sírópi og þurrkuðum eða ferskum ávöxtum eru fullar af fjöri og góðri orku. Fjörgandi freistingar og ekkert samviskubit. Eins og þessi bláberjabaka sem svíkur engan.
Bláberjabaka fyrir 8-10
Þetta er hrákaka. Bláber, möndlur og hnetur eru ekki bara góð heldur líka ofurholl fæða, full af víta-mínum. Botn:
150 g ferskar döðlur
130 g möndlur
2-3 msk. hunang eða agave-síróp
Setjið smjörpappír í botninn á 22 cm smelluformi. Fjarlægið steina úr döðlum. Setjið möndlur í matvinnsluvél og malið fínt. Bætið döðlum og hunangi út í og maukið vel. Setjið deigið í formið og þrýstið því niður í botninn, kælið.
Fylling:
1 dl kókosmjöl
1 dl ristaðar furuhnetur eða kasjúhnetur
2 dl bláber, fersk eða frosin og afþýdd
1-2 msk. hunang eða agave-síróp eða eftir smekk
2-3 msk. kókosolía, mýkt í krukkunni ofan í vatnsbaði
1-2 tsk. sítrónusafi
Setjið allt í matvinnsluvél og maukið. Hellið fyllingunni í formið og dreifið ferskum bláberjum yfir, kælið í 30 mín. Losið kökuna úr forminu og setjið á disk, hún vill límast svolítið við pappírinn þannig að það er gott að hvolfa henni á annan disk, fletta pappírnum af og hvolfa henni síðan á diskinn sem þið ætlið að bera kökuna fram á. Skreytið með sítrónu- eða límónuberki og berið fram með þeyttum rjóma.
Rannsakendur segja að 15-25 g af hnetum á dag geti dregið úr hættunni á hjartasjúkdómum og sykursýki. Heslihnetur innihalda t.d. arginine, amínósýru sem talin er lækka blóðþrýsting. Möndlur innihalda polyfenól sem talin eru hjartastyrkjandi og lækka slæma kólesterólið (LDL) í blóðinu. Meðalhófið gildir hér þar sem hnetur eru hitaeiningaríkar.
Kvikmyndabransinn er algjört karlaveldi; karlar reka framleiðslufyrirtækin, vinna flest verðlaun, fá betur borgað fyrir leik sinn í kvikmyndum og svona mætti lengi telja. Það hallar sérstaklega á kvenkynsleikstjóra. Ein skýringin á þessu er að konur eru ekki meðvitaðar um fulltrúa sína innan þessarar stéttar og átta sig því ekki á að þetta sé mögulegur starfsferill fyrir þær. Við viljum því fjalla um fjóra frægustu kvenleikstjórana í bransanum um þessar mundir.
Kathryn Bigelow
Einn frægasti kvenleikstjóri samtímans er Kathryn Bigelow (á myndinn hér að ofan). Hún var lengi gift öðrum frægum leikstjóra, James Cameron, sem leikstýrði meðal annars Titanic. Kathryn er þekkt fyrir fremur karllægar kvikmyndir svo sem Zero Dark Thirty og Point Break og var fyrsta konan til að vinna Óskarsverðlaun fyrir leikstjórn kvikmyndarinnar The Hurt Locker árið 2008.
„Ef það er einhver mótstaða gegn því að konur séu að gera kvikmyndir þá kýs ég að leiða hana alveg hjá mér af tveimur ástæðum: Ég get ekki breytt kyni mínu og ég þverneita að hætta að gera kvikmyndir.“
Sofia Coppola
Það má með sanni segja að leikstjórn sé Sofiu Coppola í blóð borin en hún er dóttir leikstjórans fræga Francis Ford Coppola sem á meðal annars heiðurinn að myndunum um Guðföðurinn. Hún vann Óskarsverðlaun árið 2004 fyrir handritið að Lost In Translation og hún var einnig tilnefnd fyrir leikstjórn sömu myndar. Sofia fékk einnig þann mikla heiður að fá Gullpálmann fyrir leikstjórn á kvikmyndahátíðinni í Cannes en hún er aðeins önnur konan til að hljóta þau verðlaun og fyrsta bandaríska konan.
„Meðalmennska og miðjumoð er það versta sem ég get hugsað mér. Það er miklu áhugaverðara að fá sterk og afgerandi viðbrögð og að það sé blanda af fólki sem ýmist fílar myndina eða fílar hana ekki. Þannig verða til samræður.“
Jane Campion
Fyrir um það bil tveimur áratugum var Jane Campion aðalkonan í leikstjórabransanum. Hún byrjaði að reyna fyrir sér í heimalandi sínu, Ástralíu, og sló svo í gegn með myndinni The Piano sem fjallaði um mállausan píanóleikara. Hún var aðeins tilnefnd til Óskarsverðlauna en vann hins vegar Gullpálmann fyrst kvenna fyrir þá mynd.
„Ég myndi svo gjarnan vilja sjá fleiri kvenleikstjóra því þær standa fyrir helming mannkyns sem fæddi allan heiminn. Ef þær eru ekki að skrifa og leikstýra þá munum við hin ekki fá að heyra alla söguna.“
Catherine Hardwicke
Þó að hún sé eflaust þekktust fyrir að hafa leikstýrt fyrstu, og bestu, Twilight-myndinni þá er Catherine Hardwicke mest metin fyrir leikstjórnarlega frumraun sína, Thirteen, sem er hrá og átakanleg þroskasaga. Hún hefur mikinn áhuga á að segja sögur kvenna og ein af nýrri myndum hennar er fallega vináttumyndina Miss You Already.
„Ég hef setið fundi þar sem voru bókstaflega tólf reiðir karlar í fundarherbergi og ég. Þegar hver einasti þeirra skaut niður hugmynd mína stóð ég samt bara fastar á mínu.“
Elfa Þorsteinsdóttir heilsufrömuður stendur á bakvið heimasíðuna rawmother.com þar sem hún deilir hráfæðisuppskriftum og ýmsum heilsutengdum fróðleik.
Heilsuáhugi hennar kviknaði fyrir nokkrum árum þegar breytt mataræði gjörbreytti líðan langveiks sonar hennar.
„Heimasíðan hefur verið lengi í fæðingu. Ég eignaðist dreng árið 2005 sem var langveikur. Eftir lífsnauðsynlegar aðgerðir sat hann enn þá eftir með ýmis heilsufarsleg vandamál sem hefðbundar lækningar gátu ekki hjálpað honum með. Þarna hófst fyrir alvöru heilsuáhuginn minn,“ segir Elfa sem búið hefur ásamt fjölskyldu sinni á suðurströnd Englands í fimm ár. Eftir aðgerðirnar og ýmsa fylgikvilla átti sonur hennar, Anthony, meðal annars erfitt með alla næringarinntöku. „Ég var mamma með veikan strák með það eina markmið að finna lausn sem virkaði fyrir hann. Eftir mikinn lestur ákvað ég að prófa að fara með honum á hráfæði í eitt ár og athuga hvort það myndi hjálpa honum. Það er skemmst frá því að segja að á sjö mánuðum komst líkami hans í fullkomið lag og allt fór að virka rétt í fyrsta skipti á ævi hans.
Daginn sem ég fékk niðurstöðurnar úr prufunum hans lofaði ég honum að ég myndi vera með honum á hráfæði þar til hann flytti að heiman og fljótlega var öll fjölskyldan komin á sama fæði. Maðurinn minn losnaði í kjölfarið við ýmis heilsufarsleg vandamál á nokkrum mánuðum auk þess að missa 30 kíló og dóttir okkar losnaði við áreynsluasma. Ég hef lært svo margt á þessum tíma í sambandi við heilsu og hvernig við getum notað réttan mat til að hjálpa líkama okkar að lækna sig sjálfur. Mér fannst ekki hægt að vera komin með alla þessa þekkingu, eftir að vera búin að lifa þessum lífsstíl í svona mörg ár, og halda henni bara fyrir sjálfa mig og fjölskyldu mína.
„Ég hef lært svo margt á þessum tíma í sambandi við heilsu og hvernig við getum notað réttan mat til að hjálpa líkama okkar að lækna sig sjálfur.“
Það er líka búin að vera gríðarlega mikil eftirspurn eftir námskeiðum hjá mér og ráðum í sambandi við bætt mataræði. Svo það lá eiginlega beinast við að koma þekkingunni fyrir á einum stað. Ég var svo heppin að fá hana Ingibjörgu Rósu, vinkonu mína, með mér í þetta verkefni. Hún er mín hægri hönd í öllu sem kemur að tæknimálum, textum fyrir heimasíðuna og uppsetningu, enda með enskukunnáttu upp á rúmlega tíu. Heimasíðan var svo opnuð á ellefu ára afmælisdegi hans Anthonys í fyrra.“
Sérstakar barnauppskriftir
Síðan er í stöðugri þróun og vinnslu þar sem Elfa bætir inn uppskriftum reglulega, setur inn bloggpósta og fræðslu. „Sérstaðan felst kannski helst í því að þarna er manneskja sem lifir þessum lífsstíl og er með alla fjölskyldu sína á hráfæði. Ég legg mikið upp úr því að maturinn bragðist vel og geti því höfðað til sem flestra. Fólk hefur svo val um að koma í áskrift hjá mér þar sem það fær nýjar uppskriftir reglulega með vídeói um hvernig hver réttur er búinn til. Þetta er eins og að vera í áskrift að hráfæðinámskeiði þar sem ég býð öllum heim í eldhús til mín.
Anthony er líka með sitt svæði á síðunni, Anthony’s Kitchen, þar sem við búum saman til uppáhaldsréttina hans. Þeir eiga það sameiginlegt að vera allir mjög einfaldir og bragðgóðir. Við upptökur á efni fyrir Anthony’s Kitchen verða stundum mistök. Það er stundum ansi spaugilegt það sem miður fer og svo á Anthony til að vera mjög orðheppinn í tökum, sem er ekki hægt að nota í aðalmyndböndin, svo Anthony kom með þá hugmynd að gera myndbönd úr skotunum sem misheppnast og við erum nýbúin að setja þau inn á síðuna líka.“
Elfa tekur að sér að leiða hópa í föstur og safahreinsanir. „Ég hef farið reglulega í hreinsanir síðan ég var 18 ára. Þær eru einfaldlega hluti af mínum lífsstíl. Á síðustu árum hefur verið sótt mjög mikið í að komast í þessar hreinsanir með mér og það hefur undið upp á sig. Ég býð Facebook-vinum mínum og fylgjendum að koma með mér í hreinsanir þrisvar sinnum á ári. Þar fá allir frítt prógramm sem ég hef sett saman og stuðning í gegnum alla hreinsunina. Nýárshreinsunin er sú lengsta, 10-14 dagar, svo eru styttri hreinsanir í maí og september, 4-5 dagar. Þetta hefur verið ótrúlega gaman og gefandi þrátt fyrir mikla vinnu við hverja hreinsun. Þessar hreinsanir hafa verið upphafið hjá mörgum að taka næstu skref að bættum lífsstíl sem mér þykir sérstaklega vænt um að fá að vera þátttakandi í.“
Í þekktum heilsuþætti
Elfu bregður fyrir í myndinni Fat, Sick & Nearly Dead 2 eftir ástralska kvikmyndagerðarmanninn og heilsufrömuðinn Joe Cross en hann hefur persónulega reynslu af djúsföstu. „Fyrir nokkrum árum var ég að hjálpa einni vinkonu minni sem þurfti að fara í langa og mikla safahreisnun og ákvað að prófa að bjóða Facebook-vinum mínum að vera með. Ég átti von á að fá kannski 4-5 með okkur en á rúmum sólarhring voru komnir yfir 100 manns í hreinsihópinn, alls staðar að úr heiminum. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég gæti stutt allan hópinn og hafði því samband við Joe Cross sem þá hafði nýlega gefið út myndina sína Fat Sick and Nearly Dead og bað um hjálp hans. Honum fannst mjög sérstakt það sem ég var að gera og gerði þá undantekningu að hjálpa mér við að styðja og hvetja fólkið í hópnum. Hann kom inn, kommenteraði og fylgdist með okkur – sem var brjálað „búst“ fyrir alla. Við Joe höfum hist nokkrum sinnum eftir þetta þegar hann hefur komið til London. Hann er svo einstaklega vandaður maður, er alveg eins í persónu og þú sérð hann á skjánum. Honum fannst svo flott að þekkja manneskju frá kalda Íslandi sem væri að djúsa þannig að ég fékk að vera ein af þeim sem heilsa áhorfendum í upphafsatriði myndarinnar Fat, Sick and Nearly Dead 2.“
Fram undan er áframhaldandi uppbygging uppskriftabankans á heimasíðunni, viðbætur á fróðleik og fleira. „Svo eru hreinsanirnar mínar reglulega á dagskrá. Á Facebook getur fólk skráð sig í hópinn og fengið aðgang að prógramminu og stuðningshópnum frítt. Svo er líka hægt að fylgjast með mér á Instagram og Twitter þar sem allar upplýsingar eru einnig settar inn. Svo langar mig mjög mikið til að koma til Íslands og halda þar námskeið aftur sem fyrst.
„Ég hef farið reglulega í hreinsanir síðan ég var 18 ára. Þær eru einfaldlega hluti af mínum lífsstíl. Á síðustu árum hefur verið sótt mjög mikið í að komast í þessar hreinsanir með mér og það hefur undið upp á sig.“
Við Anthony erum með langan lista af hugmyndum og réttum sem við eigum eftir að taka upp fyrir Anthony’s Kitchen. Regluleg „live-vídeó“ eru á Facebook-síðunni minni og margt fleira skemmtilegt fram undan. Það er um að gera að fylgjast með fyrir þá sem hafa áhuga á að bæta við hollum grænmetisréttum fyrir fjölskylduna og fá heilsutengda fróðleiksmola.“
Hráfæðis-triffli
Triffli er gamall og hefðbundinn enskur eftirréttur sem er borinn fram í glerskál og samanstendur vanalega af svampbotni eða makkarónukökum, ávöxtum og eggjakremi. Að auki er oft áfengi í honum svo hann er langt í frá hollur í sinni upprunalegu mynd. Hér er hins vegar útgáfa af honum sem er svo holl að óhætt er að fá sér tvo og jafnvel þrjá skammta.
Súkkulaðilag
1 bolli möndlur
1 bolli mjúkar döðlur
1 bolli kakóduft
3 msk. sæta í fljótandi formi, t.d. kókosnektar, hunang, agave o.fl.
3 msk. kókosolía
salt
Setjið möndlur, döðlur og kakóduft í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til möndlurnar og döðlurnar eru komnar í fína bita.
Bætið þá sætunni, kókosolíunni og smávegis salti, eftir smekki hvers og eins, út í og látið matvinnsluvélina ganga áfram í nokkrar sekúndur, eða þar til kurlið loðir saman þegar það er kramið á milli tveggja fingra.
Berjalag
300 g hindber eða jarðarber, eftir smekk. Hvort tveggja eru himnesk ber til að nota í þessa uppskrift.
Settu berin í skál og stappaðu þau með gaffli til að búa til gróft mauk.
Ágætt er að skilja nokkur ber eftir til að nota til að skreyta með.
Búðingur
1 bolli nýkreistur appelsínusafi, úr u.þ.b. 3 appelsínum
safi úr 1 appelsínugulri papriku, u.þ.b. 1 dl
1 mangó
safi úr ½ sítrónu
1 bolli kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2-4 klst.
1 bolli kókosolía, fljótandi, hún bráðnar við 25°C
½ bolli hreint xylitol
1 tsk. stevíudropar með vanillubragði
salt eftir smekk
Paprikan er sett í gegnum djúsvél, eða bara í blandara og svo má sía safann frá með fínni grisju eða hnetumjólkurpoka. Afhýðið mangóið og takið steininn frá.
Allt er sett í blandarakönnu og blandað vel eða þar til kasjúhneturnar eru vel maukaðar og komin er búðingsblanda með silkimjúkri áferð.
Samsetning
Sett í lögum í fallega glerskál. Byrjið á að setja helminginn af súkkulaðikurlinu í botninn á skálinni. Þrýstið aðeins niður með sleif svo botninn verði vel þéttur. Hellið helmingnum af búðingnum yfir. Þar ofan á fer allt berjamaukið og svo restin af súkkulaðikurlinu áður en afgangurinn af búðingnum fer ofan á sem efsta lag.
Fallegt að skreyta með sömu berjum og notuð eru í berjalagið.
Látið standa í vel köldum ískáp í um það bil 8-10 klst. eða inni í frysti í 2 klst. til að búðingurinn þéttist áður en trifflið er borið fram. Njótið hvers munnbita af þessum heilsusamlega og himneska eftirrétti.
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Alexandra Kristjánsdóttir
Það er hægt að gera margt með skemmtilegt með krökkunum heima.
Samverustundir fjölskyldunnar eru mjög dýrmætar. Oft er talað um gildi útiveru og hvernig má gera skemmtilega hluti með börnum utan veggja heimilisins. En innivera er ekki síður góð og gild, það er hægt að gera margt fleira skemmtilegt en bara að horfa á sjónvarpið. Hér eru nokkrar góðar hugmyndir.
Allir í eldhúsinu
Góð leið til að verja tíma með börnunum er að elda eða baka eitthvað með þeim. Matreiðsla getur aukið áhuga, sjálfstraust, forvitni og frumkvæði barna. Þau eru flest vön að sjá foreldra sína í eldhúsinu þannig að við það að fá að taka þátt finna þau fyrir trausti frá hinum fullorðnu og gera sér grein fyrir að þau séu að læra eitthvað sem er mikilvægt. Með því að taka þátt fer barnið einnig að velta fyrir sé hvað það borðar, hvað er í matnum sem það borðar og hvaðan hráefnið kemur. Með því að kynnast öllu ferlinu og hráefnum frá grunni getur gert það að verkum að matvendni minnki ef hún er til staðar. Það skiptir miklu máli fyrir allt lífið að fá áhuga á matreiðslu og geta eldað sér næringarríkan mat. Því upplýstara sem barnið verður því minni líkur verða á að það velji eingöngu skyndibita í framtíðinni. Matreiðsla stuðlar einnig að ýmiss konar færni, svo sem stærðfræði, því það þarf að mæla hráefni, telja og stundum leggja saman, og einnig eykst orðaforði barnsins. Það er líka mikil áskorun að takast á við afleiðingarnar ef eitthvað fer úrskeiðis og vinna að lausnum í þeim efnum.
Litagleði
Flestir foreldrar þekkja það að vera beðnir um að sitja og teikna með barninu sem getur reynst flókið ef maður hefur litla sem enga hæfileika á því sviði. Hins vegar geta allir litað og undanfarin ár hafa vinsældir litabóka fyrir fullorðna aukist til muna. Margir trúa því að það sé róandi fyrir hugann að lita og þessi iðja er oft tengd við hugmyndir um gjörhygli, eða mindfulness, og litir hafa lengi verið notaðir í ýmiss konar listmeðferð. Helsti munurinn á litabókum fyrir börn og fullorðna er erfiðleikastigið, litabækur fullorðinna eru með smærri og flóknari myndum. Þannig að nú geta foreldrar og börn setið saman með sína litabókina hvert og notið þess að lita saman.
Fjölskyldan getur setið saman og lesið bók þannig að hver fjölskyldumeðlimur fær sitt tækifæri til að lesa upphátt fyrir hina … Þetta eykur bæði lesskilning og lestrarfærni barna.
Sögustund
Margir, ef ekki flestir, foreldrar lesa fyrir börnin sín þar til þau ná þeim aldri að byrja að lesa sjálf. En það er ekki síður skemmtilegt að lesa með börnunum sínum þegar þau eru farin að geta það sjálf. Til dæmis getur fjölskyldan setið saman og lesið bók þannig að hver fjölskyldumeðlimur fær sitt tækifæri til að lesa upphátt fyrir hina. Síðan má ræða saman um atvik í bókinni og spá í söguþráðinn. Þetta eykur bæði lesskilning og lestrarfærni barna auk þess sem orðaforði þeirra eykst. Einnig getur þetta aukið sjálfstraust barna því þau munu oft þurfa að lesa upphátt fyrir jafningja sína í skólanum sem getur verið ógnvekjandi fyrir marga.
Spilerí
Í dag spila börn frekar tölvuleiki en hefðbundin spil. Það er allt gott og blessað því leikirnir æfa oftar en ekki svipaða tækni og færni, svo sem kænsku, úrlausn vandamála og þolinmæði. Það getur þó verið erfiðara fyrir foreldra að taka þátt í því spili. Því ekki grafa upp spilastokk og kenna börnum nokkra góða leiki sem þið spiluðuð í æsku? Þetta gefur tengingu við fortíðina og börn hafa gaman af því að heyra hvernig hlutirnir voru þegar þið voruð krakkar. Borðspil eru einnig skemmtileg þótt þau séu oft tímafrekari en að spila á spil. Hægt er að nota tímann á meðan spilað er til að ræða daginn og veginn, spyrja um skóladaginn eða hvað sem er án þess þó að það sé þvingað eða einhver pressa.
Í barndóm aftur
Það hafa allir gott af því að leika sér aðeins og finna barnið innra með sér. Börn hafa líka þörf fyrir að finna þessa tengingu við foreldra sína, að þeir séu líka börn inn við beinið. Fyrir utan þessa klassísku leiki, svo sem feluleik, er til dæmis skemmtilegt að búa til virki úr púðum, sófum og teppum og síðan er hægt að fara í þykjustuleik inni í virkinu. Annar skemmtilegur leikur er nokkurs konar dótakeila; þá er böngsum, dótaköllum eða öðru dóti raðað upp við endann á löngum gangi og leikmenn skiptast svo á að rúlla bolta og reyna að fella dótið. Önnur útfærsla á þessum leik er að leikmenn stilli sér upp sitt hvorum megin við ganginn með sína dótakalla og þá er markmiðið að vera fyrstur til að fella alla kallana hjá hinum. Önnur góð leið til að fá útrás og hafa það gaman er að halda danspartí, þá er einfaldlega skemmtilegt lag sett á fóninn og svo dansa allir eins og þeir eigi lífið að leysa.
Sex góð ráð til þess að líða betur og ná lengra í starfi.
Flest viljum við ná einhverri velgengni í því starfi sem við höfum valið okkur. Við verjum jú bróðurpartinum af lífinu í vinnunni og því skiptir máli að við finnum að við séum að ná árangri. Ýmislegt í okkar hversdagslegu rútínu hefur áhrif á það hvernig við vinnum vinnuna okkar og þar með hversu mikilli velgengni við njótum. Hér eru sex góð ráð til þess að líða betur og ná lengra í starfi.
1. Einbeittu þér að styrkleikum, ekki veikleikum. Stundum eigum við það til að eyða of miklum tíma í að bæta okkur í því sem við erum ekki góð í að eðlisfari. Það getur verið gáfulegra að bæta styrkleika þína enn frekar. Oftar en ekki vinnur fólk saman í hóp þar sem einstaklingar bæta hverjir aðra upp þannig að það skiptir ekki máli þótt þú sért ekki góð/ur í öllu – svo lengi sem þú ert mjög góð/ur í sumu.
2. Hagaðu vinnu þinni eins og þér þykir best. Það sem hentar einum þarf ekki að henta öllum öðrum starfsmönnum fyrirtækis. Undanfarin ár hafa mörg fyrirtæki innleitt opin rými en sumum þykir betra að vinna bak við luktar dyr, allavega í ákveðnum verkefnum. Oftast er hægt að finna lausn á þessum vanda til dæmis með því að nota fundarherbergi þegar þau eru laus eða óska eftir því að vinna heima. Einnig geta hljóðeinangrandi heyrnatól komið að góðum notum.
3. Hafðu hemil á skapinu þínu. Viðhorf þitt hefur ekki aðeins áhrif á líðan og afrakstur þinn í vinnunni heldur einnig á samstarfsfélaga þína. Þess vegna ættirðu að reyna eftir bestu getu að hafa jákvæðni að leiðarljósi en rannsóknir hafa sýnt að með því að hugsa jákvætt verðum við ósjálfrátt jákvæðari gagnvart vinnunni og jákvæðir einstaklingar áorka meira.
4. Veldu hollari mat. Þegar öllu er á botninn hvolft er fæðan eldsneyti líkamans og gæði hennar geta haft mikil áhrif á okkur. Ef þú veist að þú munt ekki hafa tíma til að ná þér í hádegismat reyndu að hafa með þér nesti svo þú sleppir ekki máltíðum. Forðastu sykur líka eftir bestu getu því hann getur valdið blóðsykurshruni og meðfylgjandi orkuleysi.
5. Láttu gott af þér leiða. Þó að það sé mikilvægt að hugsa um sjálfan sig þá getur það aukið vellíðan að gera eitthvað gott fyrir aðra, hvort sem það er að hella upp á kaffi, hjálpa með verkefni eða bjóða einhverjum far heim. Þetta eykur liðsheildina og þýðir það að vinnufélagar þínir eru mun líklegri til að koma þér til hjálpar þegar þú þarft á því að halda.
6. Ekki hugsa um það sem er liðið. Þegar við eigum slæman dag í vinnunni hættir okkur til að taka þær tilfinningar með okkur heim og endurhugsa allt sem við gerðum og hvernig við hefðum getað gert betur. Með þessu erum við að viðhalda streitunni og öllum fylgifiskum hennar þannig að við náum ekki að hvílast almennilega. Hafðu þann vana á að fara einu sinni yfir daginn að honum loknum og segðu svo skilið við hann.
Sjöfn Kristjánsdóttir selur prjónauppskriftir af barnafötum sem hún hannar á vefversluninni Petit Knitting.
Sjöfn Kristjánsdóttir prjónaði svo mikið á son sinn í fæðingarorlofinu að eiginmaður hennar, Grétar Karl Arason, stakk upp á því að hún gerði þetta að atvinnu. Hugmyndin var gripin á lofti og vefverslunin Petit Knitting varð til þar sem hægt er að kaupa prjónauppskriftir af barnafötum sem Sjöfn hannar.
„Þessi hugmynd kom þegar ég var í fæðingarorlofi með Ara, sem er 1 árs, en þá prjónaði ég alveg eins og vindurinn á hann. Eitt kvöldið spurði Grétar mig af hverju ég gerði ekki eitthvað úr þessu, hvort ég gæti ekki skrifað upp þessar uppskriftir og selt. Ég hef sjálf aldrei farið eftir uppskriftum því mér finnst þær oft of flóknar og hef því alltaf verið að breyta þeim og laga að mínu smekk. Við kýldum hugmyndina í gang og þetta átti að vera svona auka áhugamál en þrátt fyrir að það séu aðeins sex mánuðir síðan við byrjuðum erum við orðin stórt nafn í íslenskum prjónaheimi með yfir fjögur þúsund fylgjendur á Facebook og yfir tvö þúsund fylgjendur á Instagram. Við byrjuðum með eina uppskrift en erum núna komin með yfir 30 uppskriftir í sölu. Grétar sér um tæknilegu hliðina, kaupir auglýsingar og heldur utan um markaðssetningu og fjármálin. Ég sé um að hanna, skrifa og prjóna uppskriftirnar og taka myndir af því sem ég hef verið að gera,“ segir Sjöfn.
„Ég hef sjálf aldrei farið eftir uppskriftum því mér finnst þær oft of flóknar og hef því alltaf verið að breyta þeim og laga að mínu smekk.“
Skandinavísk hönnun
Sjöfn er forstöðumaður í dægradvöl Vatnsendaskóla og Grétar er viðskiptastjóri hjá Símanum. Þau eiga tvö börn, Sögu Sjafnar, sem er 11 ára, og Ara Sjafnar, sem er eins og áður sagði nýorðinn eins árs. „Petit Knitting er þriðja barnið og er vefverslun með
prjónauppskriftir. Við seljum uppskriftir í stykkjatali en það er svolítil vöntun á því hér á landi. Nú gefst fólki kostur á því að versla þessa einu uppskrift sem það langar í án þess að þurfa að kaupa heilt blað eða heila bók. Svo er þetta líka allt rafrænt hjá okkur sem gerir okkur umhverfisvæn. Grétar vinnur að heiman eins og er og sér um Ara á meðan ég vinn frá 8-16 á daginn. Ég kem svo heim og tek við og Grétar klárar það sem þarf að gera í hans vinnu. Svo er eldað, baðað, sett í þvottavélar, látið læra heima og komið í háttinn. Þegar heimilið er komið í ró sest ég við prjónaskap og prjóna þar til ég fer að sofa. Það er alltaf nóg að gera hjá okkur og lítill tími í tilhugalíf,“ segir hún hlæjandi.
„Við erum aðallega að hanna uppskriftir að barnafötum. Við byrjuðum að hanna föt í stærðum 0-2 ára en erum nú komin með uppskriftir í stærðum 0-10 ára. Það var eftirspurn eftir stærri stærðum svo við urðum við þeirri beiðni. Eins og er eru allar uppskriftir á íslensku og nokkrar höfum við þýtt yfir á ensku. Um þessar mundir er verið að þýða allar uppskriftir yfir á dönsku og svo er markmiðið að koma öllum uppskriftum yfir á norsku og ensku líka. Skandinavía er stór og prjónaáhugi í löndunum þar er mjög mikill. Hönnun mín er í skandinavískum stíl svo möguleikar okkar eiga eftir að margfaldast þegar við komum uppskriftum yfir á Norðurlandamálin sem og á ensku. Nafnið á fyrirtækinu er eiginlega sameiginleg ákvörðun mín og vinkvenna minna, þeirra Abbýjar og Ástríðar. Ég henti nokkrum nöfnum á þær og við vorum svo sammála um að Petit Knitting væri fullkomið. Það er bæði alþjóðlegt og lýsir því sem ég er að gera – að prjóna á litla fólkið.“
Með tíu þumalfingur
Áhuginn á prjónaskap og hönnun byrjaði snemma hjá Sjöfn. „Mamma, Guðný Guðmundsdóttir, var mikil prjónakona og hannaði og seldi flíkur eftir sjálfa sig. Hún hlaut einnig gullprjóna ársins 1995 sem voru veittir af prjónabúðinni Tinnu fyrir prjónaskap og hönnun. Ég var sjálf 13 ára þegar ég prjónaði fyrstu flíkina mína hjálparlaust en það var húfa og að sjálfsögðu var hún ekki prjónuð eftir uppskrift. Eftir það var ekki aftur snúið og hef ég verið að prjóna síðan en með nokkrum hléum þó. Ég útskrifaðist svo árið 2002 af hönnunar- og textílbraut frá FB en fór svo í uppeldis- og menntunarfræði í HÍ og tók meistarapróf í því fagi. Hönnunin hefur samt alltaf yfirhöndina þó að ég þurfi að sinna henni í frítíma mínum eins og er. Ég stefni að því að geta unnið við þetta sem aðalstarf eftir um það bil tvö ár.“
Hún er enn sú eina í fjölskyldunni sem prjónar en hún hefur reynt að ná manninum sínum og dóttur í þetta með sér. „Ég hef mikið reynt að fá Grétar til að grípa í prjónana því ég er með svo margar hugmyndir í kollinum en bara tvær hendur svo það er fullt af hugmyndum sem þurfa að bíða. En hann hefur ekki fallið í þá freistni enn þá. Hann segist vera með tíu þumalputta. Saga er aðeins byrjuð að prjóna með mér en þolinmæðin er ekki alveg nógu mikil enn þá. Hún hefur þó mikinn áhuga á því sem ég er að gera svo það er aldrei að vita hvernig framtíðin verður hjá henni. Hún er mjög skapandi en það er spurning á hvaða sviði sköpunar hún endar. Ari hefur mjög mikinn áhuga á garnhniklum en það kemur í ljós hvort hann verði með tíu þumalfingur eins og pabbi sinn.“
„Ég legg mikið upp úr því að hafa uppskriftirnar mínar einfaldar, skýrar og aðgengilegar þannig að allir prjónarar komist í gegnum þær. Það er fátt leiðinlegra en flóknar og óskýrar uppskriftir sem gera það að verkum að maður endar með því að henda prjónunum ofan í skúffu.“
Annars eru spennandi tímar fram undan og markaðurinn sívaxandi eftir því sem uppskriftirnar eru þýddar á fleiri tungumál. „Ég legg mikið upp úr því að hafa uppskriftirnar mínar einfaldar, skýrar og aðgengilegar þannig að allir prjónarar komist í gegnum þær. Það er fátt leiðinlegra en flóknar og óskýrar uppskriftir sem gera það að verkum að maður endar með því að henda prjónunum ofan í skúffu,“ segir Sjöfn að lokum.
Nánari upplýsingar eru á heimasíðunni petitknitting.com, á Instagram undir petitknitting_iceland og á Facebook undir Petitknitting.
Ingibjörg Lára Hjartardóttir flutti til Jamaíku fyrir tæpum fjórum árum vegna spennandi atvinnutilboðs og ævintýraþrár.
Við fengum hana til að segja okkur frá nokkrum stöðum sem hún mælir með að gestir landsins skoði.
Pelican Bar
Á litlu sandskeri út með suðurströnd Jamaíku er Pelican Bar sem er byggður úr rekavið. Til að komast þangað færðu annað hvort sjómann til að sigla með þig á litlum báti, um það bil 20 mínútur frá Treasure Beach, eða ferð í skipulagða útsýnisferð.
Á barnum er hvorki salernisaðstaða né rafmagn. Kælirinn fyrir bjór er gömul frystikista sem er full af klaka. Þarna er góð stemning, hægt að synda í sjónum í kring og oft sitja pelikanar á bátunum sem bíða eftir fólkinu.
Fljóta á fleka niður Martha Brae-ána
Martha Brae-áin er í um 45 mínútna akstursfjarlægð frá Montego Bay. Ferðin niður ána tekur eina til tvær klukkustundir á bambusfleka. Á leiðinni er fylgst með lífinu meðfram ánni og hægt að stoppa á leiðinni til að kaupa minjagripi eða Red Stripe-bjór. Best að fara á degi þegar engin skemmtiferðaskip eru í höfn því þá er maður nánast einn á ánni. Dásamlega slakandi.
Á litlu sandskeri út með suðurströnd Jamaíku er Pelican Bar sem er byggður úr rekavið. Til að komast þangað færðu annað hvort sjómann til að sigla með þig á litlum báti, um það bil 20 mínútur frá Treasure Beach …
Scotchies
Scotchies er veitingastaður í útjaðri Montego Bay. Þar er boðið upp á grillaðan kjúkling og svínakjöt, marinerað með svokallaðri Jerk Seasoning, innlendri kryddblöndu með sterkum chili-pipar sem heitir Scotch Bonnet. Þetta getur verið mjög sterkt. Meðlætið eru grillaðir grænir bananar, sætar kartöflur og hrísgrjón með nýrnabaunum, eða Rice & Peas eins og innfæddir kalla það. Grillið er frumstætt og yfir það breitt með bárujárni þannig að kjötið er hálfreykt um leið og það er grillað. Best að fá sér ískalda Red Stripe-heimabjórinn með. Máltíðin kostar innan við 2.000 kr. fyrir tvo.
YS-fossarnir
Þessir fossar í ánni YS í suðurhluta Jamaíku eru sjö talsins. Það er hægt að labba upp hluta fossanna með leiðsögumanni og eins er hægt að synda í hyljum fyrir neðan flesta þeirra. Mér finnst þessir fossar mun fallegri en Dunn’s-fossarnir sem eru frægastir og flestir sjá þegar þeir koma til Jamaíku. Það er ekki eins mikil mannmergð við YS og þar með betri upplifun.
Negril-ströndin
Negril er lengsta ströndin á Jamaíku, kölluð 7 Mile Beach, nærri 12 kílómetra löng. Gaman er að labba hana og sjá bæði innfædda og ferðamenn njóta sín. Sölumennirnir láta sér segjast ef maður er bara ákveðinn og kurteis.
Kvikmyndir um töfra njóta yfirleitt mikilla vinsælda.
Sögur um galdra hafa ávallt fylgt mannkyninu. Kvikmyndir eru líklega einn besti vettvangurinn til að segja slíkar sögur því tæknin sem er notuð er oft töfrum líkust. Hér eru nokkrar frábærar myndir sem sýna margar ólíkar hliðar á þessum spennandi og yfirskilvitlegu hæfileikum.
Töfraskepnur
Flestir sem hafa fylgst með ævintýrum galdrapiltsins Harry Potter, hvort sem það á hvíta tjaldinu eða á prenti, kannast við nafnið Newt Scamander. Hann er höfundur bókarinnar Fantastic Beasts and Where to Find Them sem hvert skólabarn í Hogwarts þarf að kaupa og lesa á fyrsta árinu sínu. Árið 2001 gaf J.K. Rowling út sérstaka útgáfu af bókinni sem vakti mikla lukku hjá aðdáendum.
Í nýlegri kvikmynd byggð á þeirri bók (sjá mynd að ofan) er ungi fræðimaðurinn Newt Scamander nýkominn til New York árið 1926 í leit að töfraverum sem hann hefur einsett sér að rannsaka og bjarga þegar það á við. Hann veit þó ekki að stórhættuleg og kraftmikil vá vofir yfir borginni og hann flækist fljótt inn þau mál.
Gæfa eða bölvun
Systurnar Sally og Gillian Owens í myndinni Practical Magic hafa alla tíð vitað að þær væru ekki eins og fólk er flest. Þær ólust upp hjá frænkum sínum á vægast sagt óvenjulegu heimili þar sem þeim voru litlar eða engar reglur settar. Frænkurnar lögðu sig fram við að vekja hjá systrunum hina einstöku dulrænu hæfileika sem fylgt hafa konum af Owens ættinni í þeirri von að veita þeim þann styrk sem fylgir því að iðka hvítgaldra í nytsamlegum tilgangi. En galdrasæringar Owens kvennanna kosta sitt og í raun fylgir þeim hin mesta bölvun – mennirnir sem þær verða ástfangnar af eru dæmdir til ótímabærs andláts.
Köld kvenna ráð
Galdrar hafa lengi heillað táningsstelpur sem ýmist reyna að nota þá til að laða að sér ást eða leita hefnda. The Craft segir einmitt frá einum slíkum hóp. Þegar ný stelpa flytur í bæinn kynnist hún fljótlega öðrum stelpum sem hafa áhuga á yfirskilvitlegum og dularfullum hlutum. Saman búa þessar fjórar stelpur yfir miklum yfirnáttúrulegum kröftum. Þær geta nánast allt, allt frá því að ná í draumaprinsinn og látið hann dýrka sig, og hvað annað sem þeim dettur í hug – þær eru óstöðvandi og möguleikarnir eru endalausir. Slíku valdi fylgir mikil ábyrgð og það getur óvænt snúist gegn manni, eins og stelpurnar fá að kynnast.
Keppinautar á sviði
Kvikmyndin The Prestige gerist í lok nítjándu aldar í London og segir frá Robert Angier og Alfred Borden sem eru vinir og aðstoðarmenn töframanns. Þegar Julia, ástkær eiginkona Roberts, deyr slysalega í einu atriði kennir Robert Alfred um dauða hennar þannig að vinátta þeirra snýst upp í andhverfu sína. Báðir verða þeir síða frægir töframenn og keppinautar á því sviði – þeir gera hvað þeir geta til að skemma fyrir hvorum öðrum. Þegar Alfred framkvæmir árangursríkt bragð verður Robert hreinlega að komast að því hvernig hann fór að því en kemst að því að sumt er best látið kyrrt liggja.
Kristín Maríella Friðjónsdóttir segir að þörfin fyrir nýjar uppeldisaðferðir sé mikil hér á landi.
Kristín Maríella Friðjónsdóttir kynntist RIE eða Respectful Parenting-uppeldisaðferðinni fyrir tæpum þremur árum og hefur síðan þá haldið fjölmörg námskeið sem notið hafa mikilla vinsælda. Kristín sem er búsett í Singapúr segir greinilegt að þörfin fyrir nýjar uppeldisaðferðir sé mikil hér á landi.
„Við fluttum hingað fyrir þremur árum þegar maðurinn minn stundaði masters-nám hér. Eftir útskrift fékk hann atvinnutilboð og því ílengdumst við. Okkur líður mjög vel í Singapúr og höfum komið okkur vel fyrir hérna hinum megin á hnettinum.“
Kristín er menntaður fiðluleikari og lærði einnig á víólu í Bandaríkjunum. Eftir það nám tóku við fjölbreytt störf tengd tónlistinni en á sama tíma stofnaði hún skartgripamerkið Twin Within ásamt systur sinni, Áslaugu Írisi. Fljótlega tók hönnunin yfir en eftir að fjölskyldan flutti til Singapúr hefur Kristín haldið rekstrinum áfram auk þess að kenna ungum börnum á fiðlu og miðla fræðslutengdu efni um uppeldisaðferðina RIE eða Respectful Parenting. „Ég kýs að kalla þessa uppeldisstefnu Virðingarríkt tengslauppeldi en ég kynntist RIE fyrir þremur árum. Þá var Ylfa, eldri dóttir mín, um 6 mánaða. Ég hef alltaf verið mjög áhugasöm um allt sem viðkemur uppeldi, meðgöngu, fæðingu, þroska barna og samskiptum. Stuttu eftir að við fluttum til Singapúr fékk ég réttindi í fæðingarhjálp (e. doula) og óhætt að segja ég eyði öllum frítíma mínum í að lesa um allt sem viðkemur börnum. Í einhverjum rannsóknarham á Internetinu rambaði ég inn á bloggsíðu Janet Lansbury, sem er helsta talskona RIE í heiminum, og þá var ekki aftur snúið. Ég tengdi strax mjög sterkt við það sem ég las frá henni og fékk bara ekki nóg. Það er nefnilega þannig með RIE, ef maður tengir, þá tengir maður svo sterkt.“
Virðingin, traustið og tengingin
Kristín segir erfitt að útskýra stefnuna í stuttu máli því hún sé í raun heill heimur af fróðleik. „Að mínu mati er RIE byggt upp á þremur grunnhugtökum en þau eru virðing, traust og tenging. Mér finnst það vera eins konar kjarni RIE sem stefnan gengur alltaf út frá. Við komum fram við börn af virðingu frá fæðingu. Við lítum á þau sem heila einstaklinga sem eiga rétt á því að komið sé fram við þau eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Við reynum eftir fremsta megni að sjá hlutina frá þeirra sjónarhorni og bjóðum þeim að taka þátt í lífinu strax frá fyrsta degi. Við tölum eðlilega við börnin okkar, sleppum öllu leikritum, erum hreinkilin, örugg og róleg. Eins er mikil virðing borin fyrir mikilvægi leiks og við reynum að trufla ekki barn sem er niðursokkið í leik. Börn eru studd til að leika sér sjálfstætt og á sínum forsendum frá upphafi. Við treystum líka barni til þess að þroska hreyfigetu sína á sínum hraða með sínum leiðum og hjálpum eða kennum þeim til dæmis ekki að snúa sér, setjast eða ganga.
„Við leyfum barni að tjá allar tilfinningar sínar og styðjum börnin í gegnum grátköst með því að viðurkenna tilfinningar þeirra og sýna þeim þolinmæði.“
Við trúum því að börn séu alltaf góð og vitum að þegar þau sýna óæskilega hegðun sé það vegna þess að þau eigi erfitt og vanti aðstoð frá okkur. Við leyfum börnum að tjá allar tilfinningar þeirra og styðjum þau í gegnum grátköst með því að viðurkenna tilfinningar þeirra og sýna þeim þolinmæði. Þannig myndum við sterk tengsl við barnið og það byrjar að taka mörkunum sem við setjum betur. Við setjum tilfinningum ekki mörk en við setjum hins vegar hegðun mörk. Við trúum á mikilvægi þess að setja skýr mörk en við setjum þau samt alltaf á rólegan hátt. Það má segja að helsta markimið RIE sé að byggja upp heilbrigt samband á milli foreldris og barns, samband sem báðir aðilar geta notið sín í og þar sem þörfum beggja er mætt af samkennd og virðingu.“
Námskeiðin seldust upp á örfáum klukkustundum
Kristín hafði skrifað um RIE inn á samfélagsmiðlum í rúmt ár þegar hún fór fyrst að fá fyrirspurnir um að halda námskeið á Íslandi. „Nánast allt efni sem til er um Respectful Parenting er á ensku og ég fann fyrir mikilli vöntun á íslensku efni. Þegar ég var síðan á leiðinni heim til Íslands um síðustu jól ákvað ég að mæta eftirspurninni og halda nokkur námskeið. Það gekk rosalega vel og ég fann strax að þetta átti vel við mig, mér leið vel upp á „sviði“ og fæ mikið út úr því að miðla á þennan hátt.“ Eftir námskeiðin var enn mikil eftirspurn og því ákvað Kristín að koma heim nú í sumar og halda fleiri. Viðtökurnar voru gríðarlegar og undir lokin seldust síðustu aukanámskeiðin upp á örfáum klukkutímum. „Það var eins og fólk hefði verið að bíða eftir einhverju svona. Ég hélt fjórtán námskeið í heildina og það var greinilegt að fólk er mjög áhugasamt og þráir að komast á betri stað í samskiptum við börnin sín. Það finnst mér frábær þróun enda hlýtur foreldrahlutverkið að vera mikilvægasta hlutverk okkar allra sem eigum börn.“
Kristín segir fyrirspurnirnar sem henni berist óteljandi og vandamálin fjölbreytt. Hún hafi þó aldrei rekist á vegg heldur komi svörin oftast fyrirhafnarlaust til sín. „Þegar maður gefur ráð er mikilvægast að setja sig almennilega í aðstæðurnar. Þá bið ég iðulega um meiri upplýsingar og nánar lýsingar á vandamálinu. Hvenær kemur hegðunin upp? Hvernig hefur foreldrið brugðist við hingað til? Hvernig bregst barnið við? Hvað annað er að gerast í lífi barnsins? Eftir að hafa fengið þessar upplýsingar koma svörin til mín. Ég myndi segja að óöryggi foreldra þegar kemur að því að setja mörk sé eitt algengasta vandamálið. Hvaða mörk má setja og hvernig. Hræðsla við grátur og viðbrögð barnanna sinna og síðan óraunhæfar væntingar í sambandi við það hvers er hægt að ætlast til af börnunum sínum og hvenær.“
Þegar talið berst að hennar eigin uppeldi segir Kristín stærstu áskorunina liggja í að veita hvoru barni fyrir sig fulla athygli í kringum umönnunarverkefni en það er stór partur af RIE. „Það er hugsað þannig að í öllum hversdagslegum ummönnunarverkefnum eins og t.d. að skipta á bleiu, klæða í föt, baða eða gefa að borða reynum við að vera með fulla athygli á barninu. Það er erfitt þegar þú ert komin með tvö eða fleiri börn því að oftar en ekki vill hitt barnið líka fá athygli á sama tíma. Í RIE tölum við um að hefðbundin sanngirni (þar sem allt er 100% jafnt) er í raun ekki sanngirni heldur líður báðum börnum eins og þau fái ekki nóg.
Við reynum ekki að keppast við að gefa allt jafnt heldur gefum við eftir þörfum og það sama gildir um tímann okkar eða athyglina. Þá skiptir máli að vera skýr í sambandi við það hvar athyglin okkar er og oft setjum við mörk í kringum það. Við segjum eitthvað eins og „Ég heyri í þér, Ylfa, þú vilt að ég komi og sjái myndina sem þú varst að teikna, þú vilt að ég komi núna strax, ég skil, en ég get ekki komið strax, nú er ég að skipta á bleiunni hanns Breka og ætla að einbeita mér að því. Þegar ég er búin, þá ætla ég að koma til þín og vera bara með þér.“
Það sem gerist er að bæði börnin slaka meira á því þau vita að hvort um sig fá þau 100% athygli þegar „þeirra tími“ kemur. Svo virkar það líka þannig að þegar við hægjum á og gefum fulla athygli í gegnum ummönnunarverkefni, þó að það sé ekki nema í nokkrar mínútur í senn, þá er barnið líka miklu líklegra til að geta sleppt okkur þess á milli og fer frekar að leika sér sjálft því það er sátt eftir tímann sem við áttum saman.“
Að hjálpin komi frá hjartanu
RIE-fræðsla byggjast mikið á langtímamarkmiðum en þátttaka barna í heimilisstörfum gegnir veigamiklu hlutverki innan stefnunnar. Kristín segir markmiðið vera að barnið sjái mikilvægi þess að hjálpa til inni á heimilinu en sömuleiðis finni hjá sér þörfina að hafa hreint í kringum sig. „Þetta snýst auðvitað um að líða vel í umhverfi sínu. Ég vil að barnið mitt hjálpi til því það vilji vera partur af heildinni, en að hjálpin komi frá hjartanu, ekki út frá hræðslu eða skyldu. Það er ekki hægt að pína barn í að vera hjálplegt. Heimilisverk fellur undir það sem við köllum „modeling“ í RIE. Þá skyldum við ekki barn til þess að hjálpa til á neinn hátt en bjóðum því þátttöku. Við pössum að vera góðar fyrirmyndir og treystum því að þegar barn er tilbúið þá mun það vilja hjálpa til því að börn vilja í grunninn öll standa sig vel, vera partur af heildinni og líkjast foreldrunum.“
Þegar kemur að ósamkomulagi barna styðst Kristín mikið við að lýsa aðstæðum. „Ég geri alltaf það sama þegar barn grætur eða er ósátt. Ég hægi á og segi eitthvað eins og „hmm … ég heyri grátur, það eru allir að gráta, allir eru ósáttir“ og síðan myndi ég skoða hvað væri í gangi og gefa hverju barni rödd fyrir sig með því að segja upphátt það sem ég sæi, án þess að dæma. Dvel jafnvel í ósættinu og bæti svo við, „hvað getum við gert?“ Síðan bíð ég með opinn arminn því það mega allir alltaf fá knús sem vilja og það mega allir gráta sem vilja en við reynum að styðja börn í að finna sjálf lausnir á vandamálunum. Þannig er best stutt við þroska og getu í samskiptum.“
„Þetta snýst auðvitað um að líða vel í umhverfi sínu. Ég vil að barnið mitt hjálpi til því það vilji vera partur af heildinni, en að hjálpin komi frá hjartanu, ekki út frá hræðslu eða skyldu. Það er ekki hægt að pína barn í að vera hjálplegt.“
Aðspurt hvort hún veiti foreldrum ráð óumbeðið segist Kristín hafa það fyrir reglu að koma ekki með athugasemdir við uppeldisaðferðir annarra. „Ég ráðlegg fólki eindregið að skipta sér ekki af uppeldi annarra nema um eitthvað alvarlegt sé að ræða. Það hefur mjög lítið upp á sig að skipta sér af öðrum. Sannleikurinn er sá að flestir eru að reyna sitt besta. Það eru allir á sinni einstöku vegferð í foreldrahlutverkinu og það besta sem maður getur gert er að vera góð fyrirmynd sjálfur. Það er nefnilega þá sem maður fær spurningar frá áhugasömum og fólkið í kringum mann vill fá að vita meira um hvað maður er að gera. Það sér að eitthvað er að virka vel og verður forvitið. Foreldrahlutverkið og allt í sambandi við börnin okkar er eitthvað sem er mjög nálægt okkur, mjög persónulegt og fólk tekur því persónulega ef það upplifir að verið sé að dæma það. Þá fer fólk frekar í vörn. Fólk þarf að vera tilbúið að fara í gegnum ákveðna sjálfskoðun ef það ætlar að tileinka sér uppeldisaðferð eins og RIE og það eru einfaldlega ekki allir tilbúnir í það.“
Ofbeldi gegn börnum óhugnalega algengt
Kristín segir það áhugaverða upplifun að ala upp börn hinum megin á hnettinum þar sem margir menningarheimar koma saman en Singapúr er einstaklega fjölbreytt samfélag. „Þetta hefur verið mjög þroskandi ferli og áhugavert. En þó að Singapúr sé í Asíu er hér að finna mjög sterk vestræn áhrif. Mikið er lagt upp úr því að bjóða fjölskyldum upp á ríka barnamenningu og það er alltaf nóg af mjög metnaðarfullu starfi í boði fyrir börn og fjölskyldur, allskonar sýningar á listasöfnum, viðburðir í görðunum og mikið lagt upp úr vönduðum leikvöllum og svæðum fyrir börn. Singapúr er mjög örugg borg, næstum því öruggari en Reykjavík og alveg frábært að vera hérna með börn, borgin er þekkt fyrir það. Að því sögðu er hér að finna sterk áhrif frá Asíu, Malasíu og Kína og uppeldislega má segja menninginuna skiptist svolítið í tvennt. Hér er að finna stórt samfélag fólks frá Vesturlöndum, Evrópu og Bandaríkjunum, uppeldi sem rímar við það sem við þekkjum frá Íslandi. Foreldrar sem leita frekar að frjálsari aðferðum í skólakerfinu svipað og stefnurnar í leik- og grunnskólum standa fyrir heima, þetta „play-based“ módel sem er auðvelt að finna í flestum leikskólum landsins. Skólakerfið hér skiptist því í tvennt, annars vegar hverfisskóla og svo alþjóðlega skóla, þarna er mikill áherslumunur. Í hverfisleikskólum eru börnin frá 7 á morgnanna til 19 á kvöldin, fólk vinnur svo langa vinnudaga. Mikið er lagt upp úr aga og þurfa leikskólabörn að sitja kyrr við borð og læra, hlusta á kennarann og gera svo heimavinnu fyrir næsta leikskóladag. Ég er auðvitað svakalega mikið á móti þessu því þetta stríðir gegn því sem er eðlislægt fyrir börn á þessum aldri. Það er margsannað að börn læri best í gegnum leik og helst frjálsan leik sem þau fá að stjórna sjálf.
Alþjóðlegu skólarnir eru skárri en þeir eru mjög dýrir. Ég var svo heppin að finna lítinn leikskóla sem er virkilega „play-based“ og skólastýran les bloggið hennar Janet Lansbury og er mjög vel að sér. Hér í Singapúr er líka óhugnalega algengt að foreldrar leggi hendur á börnin sín í refsingarskyni, það er meira að segja ákveðinn stafur sem einungis er notaður í hýðingarskyni og þá er talað um „caning“. Þetta á að aga börnin og láta þau hlýða. Mér fallast oft hendur yfir þessu og finnst svo langt í land en þetta er samt smátt og smátt eitthvað að breytast, maður getur ekki breytt heiminum einn en maður breytir samt sem áður heiminum á sinn hátt þegar maður vandar sig vel í uppeldinu, börnin okkar eru auðvitað framtíðin og því hvergi betri staður til að hafa mikil og góð áhrif.“
Stundum getur verið skemmtilegt að breyta til um áramótin og prófa eitthvað nýtt.
Planaðu gamlárskvöld með krökkunum
Ef þú átt börn þá er upplagt að plana gamlárskvöld með þeim. Búa til leiki, spila, horfa á Áramótskaupið og skemmtilegar myndir, borða smákökur og læra áramótahefðir annarra landa. Það er hægt að gera svo margt skemmtilegt saman.
Haltu þemapartí
Haltu fjölmennt partí með því að hóa saman fjölskyldu, vinum og kunningjum og hafðu skemmtilegt þema. Hægt er að hafa hlaðborð og biðja alla um að koma með eitthvað gómsætt á borðið. Hver veit, ef vel tekst til gæti þetta jafnvel orðið árlegur viðburður.
Njóttu þess að vera heima
Svo er alltaf hægt að njóta sín í rólegheitum heima um kvöldið.
Hafa það til dæmis gott undir hlýju teppi upp í sófa og horfa á Áramótaannálinn og Skaupið, annað hvort ein/n eða í góðum félagsskap.
Fara til dæmis í skemmtilega leiki, spjalla og fara saman yfir árið sem er að líða.
Finndu gott útsýni
Hvernig væri að prófa að upplifa áramótin í nýju ljósi. Ganga til dæmis upp í hlíðar Esjunar og horfa á ljósadýrðina þaðan. Nú eða fara upp í Öskjuhlíð eða að Kópavogskirkju. Þessir staðir eru uppi á hæð þaðan sem fínt útsýni er yfir borgina.
Svokallaðir mömmubloggarar hafa aldrei notið jafn mikilla vinsælda og nú, enda frábært að geta fengið stílráð og mömmumola á sama stað. Hér eru bloggsíður fantaflottra mæðra sem við mælum með að þið smellið á í næsta netrúnti.
Ruth Crilly (mynd að ofan)
Ruth Crilly er fyrirsæta og móðir sem á von á sínu öðru barni. Hún hefur lengi haldið úti „bjútí“bloggsíðu og vinsælli YouTube-stöð en eftir að hún varð móðir stofnaði hún bloggið TheUpphill.com þar sem hún fjallar um allt sem snýr að móðurhlutverkinu. Hún er sjarmatröll mikið með einstaklega smitandi húmor, við mælum með henni heilshugar.
Joanna Goddard
Joanna byrjaði feril sinn hjá Cosmopolitan og þekkir því fjölmiðlabransann inn og út. Hún hefur einnig skrifað fyrir Elle, Glamour, New York, Condé Nast Traveler og Martha Stewart Living. Bloggsíðan hennar, sem í byrjun var einungis hobbí, er nú orðið að hennar aðalatvinnu. Fylgist með ævintýrum hennar og fjölskyldunnar á CupOfJo.com.
Anh Sundstrom
Anh Sundstrom er mamma hennar litlu Luciu og fáránlega smart markaðsstýra en hún heldur úti mömmutískublogginu 9to5Chic.com. Síðan bloggsíðan hennar fór á flug hefur hún birst í Elle og Glamour, meðal annars.
Sofi Fahrman
Hin sænska Sofi heldur úti gríðarvinsælu bloggsíðunni Sofi´s Snapshots (Sofissnapshots.com), hún hefur gefið út fjórar bækur sem farið hafa beint á topp vinsældarlista, og stjórnað sænsku útgáfunni af Project Runway. Talandi um mömmuinnblástur!
Rachel Parcell
Rachel Parcell hefur grætt á tá og fingri síðan hún stofnaði vefsíðuna sína Pink Peonies og meðal annars hannað sína eigin skartgripalínu. Hægt er að fylgjast með þessari sjarmerandi tveggja barna móður á Pinkpeonies.com.
Anjelica Lorenz
Við mælum með því að þið kíkið á bloggsíðu hinnar hrikalega smörtu Anjelica Lorenz, Modejunkie.com, hvort sem það er til að fá stílinnblástur eða hugmyndir fyrir næsta barnaafmæli.
Emily Schuman
Cupcakes and Cashmere hefur lengi verið vinsælt tískublogg en nýverið hafa lesendur þess fengið að fylgjast með hvernig Emily Schuman spreytir sig í mömmuhlutverkinu. Bollaköku- og kasmírblanda klikkar seint! Cupcakesandcashmere.com
Charlotte Groeneveld-Van Haren
Tveggja barna móðirin Charlotte er þekkt fyrir frábæran stíl og birtist reglulega á síðum tímarita á borð við Vogue Paris, InStyle, Nylon og W Magazine. Mömmustílinnblástur beint í æð! Thefashionguitar.com
Prýðilegir partýréttir eða „daginn-eftir-partý-réttir“ úr smiðju Önnu Bjarkar Eðvarðsdóttur.
Anna Björk Eðvarðsdóttir lærði fyrst að elda egg í brauði og segir það hafa verið ást við fyrsta bita. Hún segir árstíðirnar ráða því hvaða matreiðsluhefð sé í uppáhaldi en réttirnar sem hún býður lesendum upp á að þessu sinni eru hver öðrum girnilegri.
Hvað starfarðu og hvaða verkefni fæstu við um þessar mundir? Ég er bloggari, sjálfboðaliði, eiginkona, mamma og amma. Það sem ég hef verið að dunda mér við undanfarið er að gera upp 34 feta seglskútu sem við Guðjón eigum. Hún stóð á landi í nokkur ár og þurfti á ást og umhyggju að halda þegar við sjósettum hana aftur. Við erum að klára það og vonum að við náum að sigla eitthvað áður en haustlægðirnar hellast yfir okkur.
Hvað var það fyrsta sem þú lærðir að elda? Egg í brauði, það er sem sagt brauðsneið sem miðjan er skoinn úr. Ytra lagið af sneiðinni er steikt á pönnu og egg brotið ofan í holuna og þegar eggið hefur tekið sig í smástund á pönnunni er miðjan sett ofan á eggið án þess að sprengja rauðuna og svo er sneiðinni snúið við og hún steikt áfram á hinni hliðinni. Þessi dásemd er svo borin fram með tómatsósu og sinnepi, til hliðar. Þetta varð ást við fyrsta bita, ást sem varir enn.
Ertu jafnvíg á bakstur og matseld? Mér finnst miklu skemmtilegra að elda en baka. Ég baka ekki mikið af hnallþórum en ég hef gaman af því að baka brauð og allskonar bökur. Ég hef ekki lagt mikla rækt við bakasturinn. Ég hef alltaf haldið því fram að það sé mömmu að kenna, hún er svo frábær bakari að ég hef ekki nennt að reyna eins mikið fyrir mér í þeim efnum.
Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín? Nei, alls ekki. Mér finnst það fara eftir árstíðunum hvað höfðar til mín á hverjum tíma. Hvaða hráefni er ferskast, veðrið og hitastigið skiptir máli og svo auðvitað hvað er til í ísskápnum. Ég er mjög nýtin og þoli ekki að henda mat.
Mér finnst það fara eftir árstíðunum hvað höfðar til mín á hverjum tíma. Hvaða hráefni er ferskast, veðrið og hitastigið skiptir máli og svo auðvitað hvað er til í ísskápnum. Ég er mjög nýtin og þoli ekki að henda mat.
Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu? Örugglega nokkur en ég er með nokkuð gott valminni á svoleiðis og sigta það frá og nenni ekki mikið að pæla í því. En ef þú pressar mig þá rámar mig óljóst í fyllingu í sítrónu-marensböku sem vildi ekki láta að stjórn, ójá, oftar en einu sinni.
Hefur þú uppgötvað einhverja snilld í matseld nýlega? „Low and slow“, eða hægeldaður matur. Það er ekkert nýtt við það en mikil snilld sem minnir á sig aftur og aftur. Aðferðin gefur hráefninu tíma svo það njóti sín sem best og maður þarf ekki að standa yfir pottunum lengi. Þá er t.d. hægt að kaupa ódýrari bita af kjöti sem eru oft vannýttir og útbúa stórkostlega veislu. Ég á mér uppáhaldsmeðlæti sem eru hægeldaðir smátómatar í góðri ólífuolíu með sneiddum hvítlauk og tímíani, dásamlegir.
Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku? Það var eflaust að sjá um veitingarnar í vígslu reiðhallarinnar í Mosfellsbæ hjá Hestamannafélaginu Herði en þá var Guðjón formaður Harðar. Annars er það þetta venjulega, eins og hjá flestum, að elda hátíðarmatinn um jól og áramót, að allt lukkist sem best. Maturinn er svo stór hluti af upplifuninni á jólunum, ilmurinn sem læðist í gegnum húsið eftir því sem líður á daginn kemur með hátíðarstemninguna. Í sumar var skírnarveisla yngri dóttursonarins heima hjá okkur Guðjóni. Það var hádegisverður fyrir stórfjölskylduna og vini sem ég naut að elda eins og alltaf þegar maður eldar fyrir þá sem hafa gaman af því að borða góðan mat.
Uppáhaldsmatreiðsluþættir? Þættir sem fara nánar í efnð, eins og hvaðan hráefnið kemur, hvernig það er alið eða ræktað. Þættir sem eru um hvernig matur var eldaður hér áður fyrr. Mér finnst það allt svo forvitnilegt hvernig farið var að áður en öll nútímaþægindin komu til sögunnar. Hið blómlega bú er t.d. þáttur sem ég naut að horfa á og breskir þættir sem heita Food Unwrapped eru uppáhaldsþættir. Annars finnst mér alltaf gaman að horfa á matreiðsluþætti.
Cheddar- og parmesanbitar með reyktri papriku og rósmaríni
45 stykki
125 g mjúkt smjör
1 msk. flórsykur
1 tsk. kummin
1 tsk. reykt paprikuduft
80 g sterkur cheddar-ostur
50 g rifinn parmesanostur
2 tsk. kúmenfræ
2 tsk. saxað ferskt rósmarínlauf
110 g hveiti
50 g maísmjöl (gróft eins og polenta)
salt á hnífsoddi
Ofan á kökurnar
1 egg, þeytt
rósmaríngreinar
gróft sjávarsalt
Ofninn er hitaður í 160°C á blæstri. Smjör, flórsykur, kummin og paprika er þeytt létt og ljós. Hrærið svo báða ostana varlega út í ásamt kúmeni og rósmaríni.
Að lokum er hveiti og maísmjöli ásamt salti bætt út í og hrært í samfellt deig. Deigið er sett á bökunarpappír og annað lag af pappír lagt ofan á deigið og það er svo flatt út þar á milli með kökukefli þar til það er eins og 100 kr. peningur. Sett í kæli og kælt. Þegar deigið er tilbúið til að baka eru stungnar út kökur sem eru um 5 cm í þvermál, penslaðar með þeyttu eggi og söxuðu rósmaríni og grófu sjávarsalti dreift yfir.
Kökunum er raðar á pappírsklædda bökunarpötu og þær bakaðar í 16-17 mínútur. Hægt er að frysta óbakað deigið.
Ofninn er hitaður í 180°C. Sex brauðsneiðum er raðað á stóran djúpan disk. Hrærið saman í skál rjómaost, mascarpone, pekanhnetur, púðursykur, kanil og salt. Maukinu er smurt á sneiðarnar og hinar sex sneiðarnar eru lagðar ofan á. Þeytið saman í annarri skál egg, mjólk og salt. Hrærunni er hellt jafnt yfir sneiðarnar svo hún þeki allt yfirborðið og látin bíða í smástund svo þær drekki í sig vökvann. Bökunarpappír er settur í ofnskúffu og samlokunum raðað ofan í. Bakaðar í 1 klukkustund en snúið á 15 mínútna fresti svo þær bakist jafnt.
Saltkaramellu-bananasósa
¾ bollar dökkur púðursykur, þéttpakkaður
½ bolli rjómi
½ bolli smjör
2 msk. síróp
1 tsk. vanilludropar
½ tsk. gróft sjávarsalt
1 banani
Púðursykur, rjómi, smjör og síróp er hitað í potti á rúmlegum meðalhita. Suðan er látin koma upp og hitinn lækkaður og þetta látið malla í 3-4 mínútur. Tekið af hitanum, vanillu og salti bætt út í. Hellt í skál og látið kólna niður í stofuhita í um klukkustund. Bananinn er skorinn í sneiðar og hann hrærður varlega út í.
Hakkinu og kryddinu ásamt harissa-maukinu og salti er hnoðað vel saman. Deiginu er skipt í tvo jafna hluta. Fetaosturinn er mulinn í miðjuna á hvorum borgara og deiginu vafið utan um ostinn og lokað vel. Grillpanna er hituð á meðalhita, borgararnir penslaðir með olíu og steiktir í 5-6 mínútur. Pítubrauðin eru hituð í brauðristinni. Þau eru svo fyllt með grískri jógúrt, klettasalati og lamborgara. Þessi borgari er frábær á útigrillið.
Pylsurnar eru grillaðar eða steiktar. Brauðin eru opnuð og þunnu lagi af smjöri er smurt inn í þau og þau grilluð eða ristuð, bara að innan, á þurri pönnu á háum hita. Brauðið smurt að innan með sterku sinnepi, síðan er pylsa lögð í brauðið ásamt lauk og salsa.
Bjórsoðinn sætur laukur
2 tsk. ólífuolía
2 tsk. smjör
3 stórir laukar í þunnum sneiðum
1 tsk. kúmenfræ
2 msk. dökkur muscavado-sykur eða dökkur púðursykur
2 hvítlauksrif, marin
1 flaska ljós bjór
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
Olía og smjör er hitað á pönnu og lauk, kúmeni og salti er bætt út í og steikt á meðalhita í u.þ.b. 10 mínútur og hrært í við og við. Sykrinum er dreift yfir ásamt hvítlauk og látið mallað áfram þar til laukurinn fer að karamelliserast. Þá er bjórnum hellt yfir og látið mallað áfram í um 15 mínútur, eða þar til bjórinn er gufaður upp og laukurinn er dökkur á litinn. Smakkað til með salti og pipar.
Chili-salsa
2 vorlaukar, í þunnum sneiðum
1 rautt chili, fínsaxað (fræin með ef þú vilt salsað sterkt)
Útbúið marineringuna og látið rækjurnar marinerast í nokkra tíma. Þær eru svo þræddar á grillpinna en ekki henda marineringunni. Rækjurnar eru grillaðar þar til þær eru orðnar bleikar og gegnsteiktar en passið að ofelda þær ekki. Marineringin er sett í lítinn pott og látin malla í nokkrar mínútur, síðan er henni hellt yfir grillaðar rækjurnar.
Smjör- og blóðbergsbollubrauð
2 öskjur tilbúið pizzudeig, ekki útrúllað
50 g smjör, brætt
blóðbergs- eða rósmaríngreinar
1-2 msk. polenta
gróft sjávarsalt
Smyrjið 20 cm lausbotna kökuform að innan með olíu og polentan er hrist innan í forminu svo hún þeki botn og hliðar. Deiginu er skipt í u.þ.b. 14 jafnstóra hluta og þeir hnoðaðir létt í litlar bollur sem er jafnað í formið. Þær þekja ekki botninn en fylla vel út í eftir hefingu. Mér finnst fínt að láta deigið hefast í 1-2 klukkustundir undir plastfilmu áður en ég baka það. Ofninn er hitaður í 200°C. Smjörið er brætt og kælt aðeins, svo er því penslað yfir brauðið. Að lokum er blóðbergi og grófu salti dreift yfir og brauðið bakað í 30-35 mínútur. Tekið úr forminu um leið og það hefur kólnað aðeins og borið fram með rækjunum og auka smjöri.
Nú eru áramótin á næsta leiti og þá fara flestir í einhvers konar veislu eða partí.
Það er því við hæfi að skoða nokkrar bestu og frægustu partímyndir allra tíma.
Á æskuslóðum
Eins og nafnið gefur til kynna fjallar kvikmyndin Sisters um systurnar Kate og Mauru Ellis (mynd hér að ofan). Þegar þær komast á snoðir um áform foreldra sinna um að selja æskuheimili þeirra ákveða þær að halda kveðjuhóf á meðan foreldrarnir bregða sér frá. Þetta partí skal toppa öll partí sem áður hafa verið haldin í þessu húsi. Félögum þeirra úr gagnfræðiskóla er öllum boðið. Þrátt fyrir að meirihluti þeirra sé nú orðinn ráðsettur og með börn kunna þeir enn að djamma. Tina Fey og Amy Poehler, sem leika systurnar, eru kómískir snillingar. Í myndinni fylgjumst við með kostulegum undirbúningi og auðvitað veislunni sjálfri sem eins og flestir ættu að geta giskað á fer heldur betur úrskeiðis með verulega skondnum afleiðingum.
Tryllt tógapartí
Animal House (hér til hliðar) gerist árið 1962 í Faber-framhaldsskólanum. Delta Tau Chi-bræðralagið er illa þokkað og hver sem er getur fengið inngöngu á meðan Omega Theta Pi-bræðralagið er ekki opið hverjum sem er og í raun stútfullt af ríkum, hvítum strákum sem enginn þolir nema skólastjórinn. Skólastjórinn leitar til þeirra til að hrekja fyrrnefnda bræðralagið úr skólanum. Alls kyns bellibrögðum er beitt og skólastjórinn nær vilja sínum næstum fram. Delturnar halda risastórt tóga-partí með hljómsveit og öllu klabbinu. Ýmistlegt skrautlegt gerist í partíinu, meðal annars sefur einn bræðranna hjá eiginkonu skólastjórans.
Sögulegt partí
Í Project X á Thomas afmæli og eins og alla unga menn dreymir hann um að halda besta og flottasta afmælispartí sem haldið hefur verið. Til allrar lukku verða foreldrar hans ekki heima svo Thomas lætur slag standa og fær félaga sína, J.B. og Costa, í lið með sér. Hann lætur orðið ganga að öllum sé boðið heim til hans í partí ársins – og enginn lætur segja sér það tvisvar. Allir mæta og upphefst einhver svakalegasta veisla sem sögur fara af. Það skemmir auðvitað ekki fyrir að Thomas á ríka foreldra sem búa í stóru húsi með sundlaug og alls konar fíneríi. Auðvitað reynast nágrannarnir ekki alveg sáttir við lætin en það bíttar engu.
Þrautaganga
Lúðarnir og bestu vinirnir Evan og Seth í myndinni Superbad gera hér um bil hvað sem er til að vinna sér hylli kvenpeningsins. Þegar þeir komast óvænt yfir heimboð í partí eyða þeir heilum degi, ásamt vini sínum Fogell, í að komast yfir nægt áfengi fyrir partíið. Þeir ætla að deila áfenginu með tveimur stelpum, Jules og Beccu, í þeirri von að þeir missi loksins sveindóminn og geti farið í framhaldsskóla eftir viðburðaríkt sumar. Áætlun þeirra flækist þegar Fogell lendir upp á kant við tvær klaufskar löggur sem hægja á þeim en jafnframt aðstoða þá um leið. Komast þeir einhvern tímann í partíið og með nægilegt áfengi?
Óþreyjufull ungmenni
Can‘t Hardly Wait er klassísk partímynd í þeim skilningi að hún gerist nær eingöngu í einu partíi. Eftir brautskráningu nemenda í Huntington Hill-skólanum er komið að lokapartíinu. Þar er samankomin hin skrautlega nemendaflóra sem þrifist hefur í skólanum undanfarin fjögur ár – nördar, íþróttagarpar, fegurðardísir og hornrekur. Öll eru þau staðráðin í að sleppa fram af sér beislinu og gera upp þær tilfinningar sem legið hafa bældar alla skólagönguna, enda ekki seinna vænna áður en þau halda sína leið.
Nokkur góð ráð varðandi val á ilmvatni til að auka endingu.
Hvernig við skynjum ilm og hvaða ilmur okkur þykir góður er afar persónubundið. Þess vegna er mjög áhættusamt að gefa einhverjum ilmvatn að gjöf, það er, ef viðkomandi hefur ekki valið sér það sjálfur. En þegar við höfum loksins fundið rétta ilminn fyrir okkur þá viljum auðvitað að hann endist sem lengst á okkur. Hér eru nokkur góð ráð varðandi val á ilmvatni til að auka endingu og hvernig sé best að geyma þau.
1. Ilmvötn hafa takmarkaðan líftíma síðan fer lyktin að breytast og dofna. Ákveðnir þættir geta haft áhrif á og takmarkað líftímann, þá sérstaklega hiti, birta og raki. Þess vegna er óráðlegt að geyma ilmvötn inni á baðherbergi eða úti í gluggakistu og mælst er til að geyma þau frekar á þurrum og skuggsælum stað. Það þýðir þó ekki að þú þurfir að geyma þau inni í skáp. Yfirleitt er mikil vinna lögð í hönnun ilmvatsnglasa og því er tilvalið að stilla þeim fallega upp á snyrtiborði eða kommóðu, margir hafa til dæmis notað fallega bakka eða kökudiska.
2. Ilmur endist skemur á þurri húð og þess vegna er mikilvægt að bera krem á húðina ef þú vilt að hann endist lengur. Mörg ilmvatnsmerki framleiða body lotion með sama ilmi sem vissulega eykur áhrif hans en það er ekkert síðra að nota gott ilmlaust krem. Einnig mæla sumir sérfræðingar með því að bera vaselín á þá staði sem þú spreyjar ilmvatninu á því það myndar nokkurs konar hjúp á milli ilmvatnsins og húðarinnar og eykur þannig endingu.
Algengt er að sjá konur nudda úlnliðunum saman eftir að þær hafa spreyjað ilmvatni á sig en það eru mikil mistök. Það verður til þess að toppnótur ilmsins hverfa hraðar og ilmurinn endist skemur á úlnliðnum.
3. Spreyjaðu ilmvatni á helstu púlsstaði líkamans, það er úlnliði, háls og olnboga- og hnésbætur, því það tryggir að ilmurinn dreifist vel. Best er að spreyja á sig ilmvatni þegar maður er nýkominn úr sturtu og áður en maður klæðir sig því þá er húðin rök og grípur frekar ilminn. Þetta kemur líka í veg fyrir að ilmvatnið liti viðkvæm föt eða skartgripi. Algengt er að sjá konur nudda úlnliðunum saman eftir að þær hafa spreyjað ilmvatni á sig en það eru mikil mistök. Það verður til þess að toppnótur ilmsins hverfa hraðar og ilmurinn endist skemur á úlnliðnum. Ef þú vilt aðeins fá léttan ilm eða ert að bæta á þig örlítið meira ilmvatni fyrir kvöldið er sniðugt að spreyja ilmvatninu létt upp í loftið og ganga inn í mistrið. Margar konur spreyja ilmvatni í hárið á sér milli þvotta, enda er mikil uppgufun sem fer fram í gegnum höfuðið, ilmvatn sem inniheldur alkahól getur þó þurrkað hárið óþarflega mikið og þá er betra að spreyja ilmvatninu í hárbursta og renna honum svo í gegnum hárið.
4. Það getur reynst flókið að finna sér nýjan ilm og nauðsynlegt að vera með helstu hugtök á hreinu. Eau de toilette er með léttari ilm en Eau de parfum og er þar af leiðandi yfirleitt aðeins ódýrari. Ilmnótur skiptast niður í grunn-, mið- og toppnótur en ilmur getur ýmist verið blómlegur, sætur, kryddaður eða sítrus- og ávaxtakenndur. Einnig er hægt að fá ilm í föstu formi eða sem hreina ilmolíu, en slíkur ilmur er oftar en ekki kröftugri en sá sem er spreyjaður.
5. Það er mjög misjafnt hvernig ilmvötn lykta á fólki. Í flestum verslunum er að finna þar til gerðan pappír sem þú getur spreyjað á áður en þú reynir eitthvað á eigin skinni. Ef þú hins vegar lendir í því að þú spreyjar á þig ilmvatni sem hentar þér alls ekki er gott að strjúka meikhreinsiklút yfir svæðið til að fjarlægja ilminn. Sniðugt er að blanda ólíkum ilmvötnum saman til að fá einstakan ilm sem einkennir þig. Þá er sniðugt að nota prufupappírinn til að prófa ólíkar blöndur. Þumalputtareglan segir að þú eigir að byrja á þyngri ilmi og enda á léttari, því annars er hætta á að sá léttari kæfist. Til að finna sanna lykt ilmvatnsins verður að spreyja því á húð og leyfa því að bíða í nokkrar mínútur á meðan það rýkur aðeins og aðlagast þér.
6. Ilmvötn má nota á fjölmarga vegu, til dæmis er sniðugt að spreyja uppáhaldsilmvatninu þínu á sængurfötin þín. Einnig er hægt að spreyja því á tissjúpappír sem þú setur í skúffurnar þar sem þú geymir fötin þín þannig að þau dragi í sig örlítinn ilm. Góð leið til að nýta síðustu dropana af ilmvatni sem leynist á botni glassins er að hella því út í lyktarlaust body lotion og gefa því þannig ilm.
Anna Bryndís Skúladóttir er mikil fjallageit og gefur ráð varðandi búnað.
Anna Bryndís Skúladóttir er mikil fjallageit og hefur ásamt félögum sínum í Fjallgönguklúbbnum Fjallhress gengið á marga flotta austfirska tinda. Við fengum hana til að segja okkur fá eftirminnilegustu göngunum og gefa okkur nokkur góð ráð um búnað.
„Falleg náttúra og að kljást við fjölbreytt landslag og ögrandi fjöll er það skemmtilegasta við fjallamennskuna. Ég fer mikið ein á fjöll og finnst það frábært en það er líka mjög gefandi að ganga með vinum mínum í Fjallgönguklúbbnum Fjallhress og um leið eykur það öryggi á fjöllum,“ segir Bryndís. Hún er deildarstjóri í Seyðisfjarðarskóla á leikskóladeild og starfar einnig sem fjallaleiðsögumaður og landvörður á sumrin. Í frítíma sínum stundar hún fjallgöngur og kajakróður.
„Súla, hæsti tindur Dyrfjalla, er í uppáhaldi vegna þess hve mikil fjölbreytni er í gönguleiðinni og einstök innkoma á þetta mikla klettafjall, sem er blómi skrýdd klettarák. Útsýnið af toppnum er magnað. Eftirminnilegast er þó líklega þegar dóttir mín hringdi í mig þar sem ég var að koma niður af Hvannadalshnjúk og sagði að það væri farið að gjósa á jöklinum. Nei, ég hélt nú ekki. ,,Jú mamma, þetta er bæði í fréttum í útvarpi og sérútsending í sjónvarpinu sagði hún mjög angistarfull.“ Þá sneri ég mér við og sá þá gosstrókinn stíga upp til himins. Þetta var Grímsvatnagosið í maí 2011.“
Mikilvægt að láta vita af sér
Hvað þurfa byrjendur í fjallamennsku að hafa í huga og hvaða búnaður er nauðsynlegur? „Það þarf að huga að veðurspá og láta aðra vita hvert halda skal og hvenær þú áætlar að koma til baka. Góður bakpoki undir skjólfatnað og nesti er mikilvægt. Ólíkan búnað þarf í vetrarfjallamennsku og sumarfjallgöngum. Létt föt, sólgleraugu og sólarvörn í sólinni á sumrin. Muna líka að hafa sólgleraugu og sólarvörn í vetrarsól í snjó og á jökli, ullarfatnað innst og góðar ullarpeysur undir skjólgóðri skel er mjög gott. Göngustafir koma sér vel við ýmsar aðstæður og að vetri eru broddar og ísaxir oft nauðsynleg. Sími, áttaviti eða GSP-tæki eru allt góð öryggistæki. Ekki gleyma vatni á brúsa í allar lengri göngur.“
Hvaða nesti finnst þér best að hafa? „Það fer eftir árstíðum og erfiðleikastigi. Léttari samlokur og ávaxtasafa á sumrin en á veturna kæfusamloku, lifrarpylsu og egg. Svo er ég alltaf með svart te á brúsa. Snickers er ómissandi og reyndu ekki að koma með súkkulaðirúsínur þar sem ég er,“ segir hún hlæjandi.
Hún hvetur fólk hiklaust til að stunda fjallamennsku. „Fjallganga er gríðarlega góð alhliða hreyfing og gott sport bæði fyrir sál og líkama. Náttúran er endalaus uppspretta fegurðar og fjölbreytileika en það er ekki síður magnað að upplifa náttúruna í ham þar sem mannskepnan fær ekki beislað hana, s.s. í jarðskjálftum, gosum, flóðum og skriðuföllum.“
Og það er skemmtilegt göngusumar fram undan hjá Bryndísi en hún ætlar meðal annars að ganga á Búlandstind, Grjótfjall og Þriggjakirknafell, einnig Kverkfjöll og í Hveradal, á Jónsfjall og í Mínuskörð í botni Borgarfjarðar eystra og loka þar með fjallahringnum í firðinum. Þá mun hún fara í fimm daga ferð um Víknaslóðir sem leiðsögumaður, ganga Fimmvörðuháls og fara í kjakferðir í fjallvötnunum á hálendinu.
Aðalmynd: Bryndís ásamt Skúla Júlíussyni á Stöng í Berufirði.
Hér er uppskrift að salati sem er ekki bara bráðhollt heldur algjört sælkerafæði líka.
Appelsínusalat með súkkulaði-sorbet
fyrir 4
Ráðlagður dagskammtur af hreinu súkkulaði, samkvæmt ofurfæðiskenningum, er u.þ.b. 15-20 grömm. Það er nú alveg næg ástæða til að skoða þetta fæði svolítið betur.
Hér er uppskrift að súkkulaði-sorbet sem er dökkur og seiðandi og með appelsínum og granateplum er hann alveg ómótstæðilegur.
3-4 appelsínur
1 granatepli
Súkkulaði-sorbet
3 dl vatn
40 g kakó (eins dökkt og þið hafið efni á)
100 g hrásykur
100 g 70% súkkulaði, saxað
½ tsk. vanilludropar
svolítið salt
Sjóðið vatn, kakó og sykur saman. Bætið súkkulaði út í ásamt vanillu og salti og hrærið í þar til súkkulaðið er uppleyst, kælið. Frystið í ísvél eða í frysti. Ef þið setjið ísinn í frysti er gott að setja þunnt lag í stórt form svo hann frjósi fljótt og hræra í öðru hvoru á meðan ísinn er að frjósa.
Hátt hlutfall andoxunarefna í dökku súkkulaði geri það að hinu fullkomna sælgæti. Súkkulaði er ríkt af flavoníðum sem sannað hefur verið að auka blóðflæði, draga úr hósta, bæta minni og mýkja húðina. Þeir sem aðhyllast ofurfæðiskenningar segja ráðlagðan dagskammt vera 15-20 grömm á dag.
Kristín Tómasdóttir rithöfundur hefur á undanförnum árum skrifað sex bækur ætlaðar ungum krökkum. Hún leggur áherslu á að byggja upp sterka sjálfsmynd og efla vitund þeirra um eigin tilfinningalíf. Nýjasta bók hennar, Sterkar stelpur, hefur þó ákveðna sérstöðu því hún er ætluð yngri lesendahópi og er tileinkuð yngstu dóttur hennar sem er trans stúlka.
Kristín hefur einnig sett saman sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stelpur og ferðast um landið í þeim tilgangi að efla íslenskar stelpur.
„Ég fann fyrir mikilli eftirspurn meðal foreldra sem voru farnir að finna fyrir því að sjálfsmynd stelpna þeirra væri farin að þróast í neikvæða átt fyrr en þá hafði grunað,“ segir hún. „Við erum að sjá stelpur niður í 6 ára fara í megrun og alls kyns önnur merki sem foreldrar hræðast en vita líka að hægt er að koma í veg fyrir með fyrirbyggjandi sjálfstyrkingu.“
Ítarlegra viðtal við Kristínu er að finna í nýjustu Vikunni.
Þegar farið er í frí um landið hættir okkur til að stoppa bara á þekktustu stöðunum því við vitum ekki af öllu hinu sem Ísland hefur upp á að bjóða.
Suðurlandið er einn vinsælasti staður ferðamanna sem koma hingað til lands og geymir ótrúlegar náttúruperlur. Hér eru nokkrir staðir sem minna hefur farið fyrir og við mælum sannarlega með að þið skoðið.
Fjaðrárgljúfur
Fjaðrárgljúfur er virkilega falleg náttúrusmíð rétt við þjóðveg númer eitt, skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur. Ekið er að gljúfrinu um Lakaveg og þaðan gengið upp með gilinu. Einnig er hægt að ganga upp eftir gljúfrinu sjálfu en það gæti þurft að vaða töluvert. Mikilfenglegar móbergsmyndir prýða gilið og þetta getur verið skemmtilegt stopp fyrir alla fjölskylduna.
Gljúfrabúi
Fossinn Gljúfrabúi er aðeins nokkur hundruð metrum fyrir innan Seljalandsfoss og fellur bak við hamravegg úr móbergi, kallaður Franskanef, sem lokar fossinn af. Hægt er að komast inn í hellinn um op að framanverðu þar sem áin Gljúfurá rennur út og það er töfrum líkast að sjá fossinn steypast niður þessa 40 metra. Einng má klifra upp á Franskanef og sá fossinn að ofanverðu en munið að fara að öllu með gát.
Svartifoss
Svartifoss er einn fallegasti foss á landinu þar sem hann fellur niður ægifagurt stuðlaberg í Skaftafelli. Frá Skaftafellssofu er hægt að ganga að Svartafossi en leiðin er tæpir tveir kílómetrar og tekur um 35-45 mínútur. Gengið er meðfram tjaldsvæðinu og beygt upp á hæð sem heitir Austurbrekkur. Farið er yfir Eystragil á göngubrú og á leiðinni sjást Hundafoss og Magnúsarfoss. Þegar komið er upp hæðina er gott útsýni að Svartafossi og svo er gengið niður í gilið til að komast alveg að fossinum.
Þakgil
Þakgil er falinn gimsteinn á Höfðabrekkuafrétti staðsett milli Mýrdalsjökuls og Mýrdalssands um 15 kílómetra frá þjóðveginum en beygt er út af þjóðvegi númer eitt við Höfðabrekku sem er fimm kílómetrum fyrir austan Vík. Þar er gott tjaldsvæði, veðursæld og stórbrotin náttúra. Ef þú ert á leiðinni í útilegu þá er þetta staður sem er virkilega þess virði að skoða. Einnig er hægt að leigja smáhýsi á staðnum. Margar fallegar gönguleiðir við allra hæfi eru á svæðinu.
Ingólfshöfði
Fjölskyldufyrirtækið Öræfaferðir á Hofsnesi sem staðsett er rétt hjá Fagurhólsmýri við rætur Öræfajökuls býður upp á spennandi lunda- og söguferðir út í Ingólfshöfða á heyvögnum sem eru hengdir aftan í dráttarvélar (sjá aðalmynd). Ferðin tekur alls tvo og hálfan klukkutíma og ferðin í vagninum um það bil 25 mínútur hvora leið. Það kostar 7.500 kr. fyrir fullorðna, 2.500 kr. fyrir börn á aldrinum 8-16 ára en börn frá 4-7 ára frá frítt. Gengið er um höfðann með leiðsögumanni og það eru 99% líkur á því að sjá lunda á svæðinu yfir sumartímann. Skemmtileg ævintýraferð fyrir fjölskylduna í sumarfríinu.
Sonja Arnardóttir slasaðist illa í bílslysi en keppir nú í fitness.
Fyrir sex árum ákvað Sonja að taka allhressilega til í sínu lífi. Hún ákvað að setja sjálfa sig í fyrsta sæti og hóf að stunda líkamsrækt af kappi. Á síðasta ári byrjaði hún að þjálfa fyrir sitt fyrsta fitness-mót. Í dag er hún hraustari en hún hefur nokkurn tímann verið og stefnir ekki að því að hætta að hreyfa sig í bráð.
Í desember 1991 var hún á ferð í Borgarfirði þegar hún keyrði óvænt inn á mikið ísingasvæði með þeim afleiðingum að hún missti stjórn á bílnum og hann fór nokkrar veltur. Sonja var ekki í öryggisbelti og kastaðist langa leið út um framrúðu bílsins. Hún var með meðvitund allan tímann og man vel sársaukann og brothljóðin þegar bein líkama hennar fóru í sundur. Með henni í för var fyrrverandi eiginmaður hennar sem slasaðist mikið í andliti. Þau voru svo heppin að aðrir vegfarendur komu fljótlega á vettvang til hjálpar og þar á meðal var sjúkraflutningamaður sem sá til þess að Sonja var ekki hreyfð fyrr en læknir og sjúkrabíll voru komnir á staðinn.
Sonja átti erfitt með andardrátt og hélt í raun að hún væri að deyja. Við tóku margar aðgerðir, löng sjúkrahúsvist og endurhæfing. Ljóst var að þessi unga kona næði aldrei fullri heilsu aftur. Í raun var hún stálheppin að mænan skyldi ekki fara í sundur. Nú nærri þremur áratugum síðar er hún enn að takast á við líkamlegar og andlegar afleiðingar slyssins en telur að það stranga mataræði og agi sem fylgir fitness-íþróttinni hafi hjálpað sér mikið. Hún lætur enga bilbug á sér finna og stefnir á að keppa aftur á mótum í ár.
Viðtalið í heild má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.
Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir
Fatnaður / Lindex og Vila
Það er ekki ofsögum sagt að augabrúnirnar eru besti „fylgihlutur“ hverrar konu, enda ramma þær inn andlitið. Síðustu misserin hefur tiltölulega ný tækni í varanlegri förðun notið mikilla vinsælda enda útlitið náttúrulegra en það sem áður þekktist.
Microblading-aðferðin hefur notið mikilla vinsælda um heim allan en hér á landi eru nokkrar snyrtistofur sem sérhæfa sig í þessari nýlegu tækni. Aðferðin felur í sér að búa til örmjó „hár“ með stykki sem hefur örfínan hnífsodd sem sker í ysta lag húðarinnar sem síðan er fyllt upp í með lit. Með þessum hætti er auðvelt að búa til aukahár, þykkja brúnir og breyta lagi þeirra eða jafnvel hanna þær frá grunni ef engin hár eru fyrir.
Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga ef þú hefur áhuga á því að fá þér microblading-augabrúnatattú:
Leggstu í rannsóknarvinnu
Vertu viss um að vera búin að kynna þér þann sérfræðing sem þú velur til þess að gera tattúið vel áður en hafist er handa. Fáðu að sjá fyrir og eftir-myndir eftir viðkomandi til að vera viss um að vinna hans/hennar sé þér að skapi og menntun og reynsla standist kröfur þínar. Sérfræðingurinn ætti einnig að geta svarað öllum spurningum sem vakna hjá kúnnanum og aðgerðin framkvæmd í sterílu og fagmannlegu umhverfi.
Undirbúðu þig
Áður en þú færð þér microblading-tattú skaltu forðast það að vaxa eða plokka augabrúnirnar. Einnig er gott að sleppa því að nota kornamaska sem inniheldur allskyns sýrur sem eiga það til að skapa roða í húðinni og varastu að nota blóðþynnandi lyf. Þær sem eru óléttar, með barn á brjósti eða sykursjúkar ættu að forðast microblading.
Tjáðu þig
Sérfræðingurinn sem þú leitar til mun mæla andlit þitt og augabrúnir og vinna út frá andlitsfalli þínu og mælingum til að fá sem náttúrulegasta yfirbragðið. En vertu dugleg við að tjá óskir þínar við sérfræðinginn og áður en hafist er handa er mikilvægt að þú sjáir teikningarnar á andlitinu, ef vera skyldi að þú vildir gera einhverjar breytingar.
Passaðu upp á þær
Þegar þú ert búin að fá fullkomnar augabrúnir er eðlilegt að þú viljir sýna þær. Passaðu samt upp á að nota ekki krem og aðrar húðvörur nálægt svæðinu í að minnsta kostu tíu daga eftir aðgerðina og ekki snerta svæðið. Vertu dugleg að bera græðandi krem á svæðið með eyrnapinna.
Þar sem hrúður myndast á meðferðarsvæðinu mun liturinn vera dekkri og skarpari fyrstu vikuna. Eftir 6-10 daga dofnar liturinn um u.þ.b. helming. Eftir 4-6 vikur ættirðu að fara aftur og láta laga það sem hefur dofnað og láta vita ef þú vilt láta lagfæra eitthvað varðandi útlit brúnanna.
Passaðu upp á að fara ekki í sólbað, synda eða svitna mikið fyrstu tíu dagana eftir microblading. Þegar svæðið hefur náð að gróa er gott að nota sólarvörn á brúnirnar til að koma í veg fyrir að þær dofni.
Misjafnt er eftir húðtýpu og lit á brúnum hversu lengi microblading-aðferðin endist á húðinni en eftir hálft ár getur útlit háranna farið að dofna. Mælt er með endurkomu á 8 mánaða til tveggja ára fresti.
Sætindi þurfa ekki alltaf að vera óholl, sætar ávaxtakökur með hunangi, agave-sírópi og þurrkuðum eða ferskum ávöxtum eru fullar af fjöri og góðri orku. Fjörgandi freistingar og ekkert samviskubit. Eins og þessi bláberjabaka sem svíkur engan.
Bláberjabaka fyrir 8-10
Þetta er hrákaka. Bláber, möndlur og hnetur eru ekki bara góð heldur líka ofurholl fæða, full af víta-mínum. Botn:
150 g ferskar döðlur
130 g möndlur
2-3 msk. hunang eða agave-síróp
Setjið smjörpappír í botninn á 22 cm smelluformi. Fjarlægið steina úr döðlum. Setjið möndlur í matvinnsluvél og malið fínt. Bætið döðlum og hunangi út í og maukið vel. Setjið deigið í formið og þrýstið því niður í botninn, kælið.
Fylling:
1 dl kókosmjöl
1 dl ristaðar furuhnetur eða kasjúhnetur
2 dl bláber, fersk eða frosin og afþýdd
1-2 msk. hunang eða agave-síróp eða eftir smekk
2-3 msk. kókosolía, mýkt í krukkunni ofan í vatnsbaði
1-2 tsk. sítrónusafi
Setjið allt í matvinnsluvél og maukið. Hellið fyllingunni í formið og dreifið ferskum bláberjum yfir, kælið í 30 mín. Losið kökuna úr forminu og setjið á disk, hún vill límast svolítið við pappírinn þannig að það er gott að hvolfa henni á annan disk, fletta pappírnum af og hvolfa henni síðan á diskinn sem þið ætlið að bera kökuna fram á. Skreytið með sítrónu- eða límónuberki og berið fram með þeyttum rjóma.
Rannsakendur segja að 15-25 g af hnetum á dag geti dregið úr hættunni á hjartasjúkdómum og sykursýki. Heslihnetur innihalda t.d. arginine, amínósýru sem talin er lækka blóðþrýsting. Möndlur innihalda polyfenól sem talin eru hjartastyrkjandi og lækka slæma kólesterólið (LDL) í blóðinu. Meðalhófið gildir hér þar sem hnetur eru hitaeiningaríkar.
Kvikmyndabransinn er algjört karlaveldi; karlar reka framleiðslufyrirtækin, vinna flest verðlaun, fá betur borgað fyrir leik sinn í kvikmyndum og svona mætti lengi telja. Það hallar sérstaklega á kvenkynsleikstjóra. Ein skýringin á þessu er að konur eru ekki meðvitaðar um fulltrúa sína innan þessarar stéttar og átta sig því ekki á að þetta sé mögulegur starfsferill fyrir þær. Við viljum því fjalla um fjóra frægustu kvenleikstjórana í bransanum um þessar mundir.
Kathryn Bigelow
Einn frægasti kvenleikstjóri samtímans er Kathryn Bigelow (á myndinn hér að ofan). Hún var lengi gift öðrum frægum leikstjóra, James Cameron, sem leikstýrði meðal annars Titanic. Kathryn er þekkt fyrir fremur karllægar kvikmyndir svo sem Zero Dark Thirty og Point Break og var fyrsta konan til að vinna Óskarsverðlaun fyrir leikstjórn kvikmyndarinnar The Hurt Locker árið 2008.
„Ef það er einhver mótstaða gegn því að konur séu að gera kvikmyndir þá kýs ég að leiða hana alveg hjá mér af tveimur ástæðum: Ég get ekki breytt kyni mínu og ég þverneita að hætta að gera kvikmyndir.“
Sofia Coppola
Það má með sanni segja að leikstjórn sé Sofiu Coppola í blóð borin en hún er dóttir leikstjórans fræga Francis Ford Coppola sem á meðal annars heiðurinn að myndunum um Guðföðurinn. Hún vann Óskarsverðlaun árið 2004 fyrir handritið að Lost In Translation og hún var einnig tilnefnd fyrir leikstjórn sömu myndar. Sofia fékk einnig þann mikla heiður að fá Gullpálmann fyrir leikstjórn á kvikmyndahátíðinni í Cannes en hún er aðeins önnur konan til að hljóta þau verðlaun og fyrsta bandaríska konan.
„Meðalmennska og miðjumoð er það versta sem ég get hugsað mér. Það er miklu áhugaverðara að fá sterk og afgerandi viðbrögð og að það sé blanda af fólki sem ýmist fílar myndina eða fílar hana ekki. Þannig verða til samræður.“
Jane Campion
Fyrir um það bil tveimur áratugum var Jane Campion aðalkonan í leikstjórabransanum. Hún byrjaði að reyna fyrir sér í heimalandi sínu, Ástralíu, og sló svo í gegn með myndinni The Piano sem fjallaði um mállausan píanóleikara. Hún var aðeins tilnefnd til Óskarsverðlauna en vann hins vegar Gullpálmann fyrst kvenna fyrir þá mynd.
„Ég myndi svo gjarnan vilja sjá fleiri kvenleikstjóra því þær standa fyrir helming mannkyns sem fæddi allan heiminn. Ef þær eru ekki að skrifa og leikstýra þá munum við hin ekki fá að heyra alla söguna.“
Catherine Hardwicke
Þó að hún sé eflaust þekktust fyrir að hafa leikstýrt fyrstu, og bestu, Twilight-myndinni þá er Catherine Hardwicke mest metin fyrir leikstjórnarlega frumraun sína, Thirteen, sem er hrá og átakanleg þroskasaga. Hún hefur mikinn áhuga á að segja sögur kvenna og ein af nýrri myndum hennar er fallega vináttumyndina Miss You Already.
„Ég hef setið fundi þar sem voru bókstaflega tólf reiðir karlar í fundarherbergi og ég. Þegar hver einasti þeirra skaut niður hugmynd mína stóð ég samt bara fastar á mínu.“
Elfa Þorsteinsdóttir heilsufrömuður stendur á bakvið heimasíðuna rawmother.com þar sem hún deilir hráfæðisuppskriftum og ýmsum heilsutengdum fróðleik.
Heilsuáhugi hennar kviknaði fyrir nokkrum árum þegar breytt mataræði gjörbreytti líðan langveiks sonar hennar.
„Heimasíðan hefur verið lengi í fæðingu. Ég eignaðist dreng árið 2005 sem var langveikur. Eftir lífsnauðsynlegar aðgerðir sat hann enn þá eftir með ýmis heilsufarsleg vandamál sem hefðbundar lækningar gátu ekki hjálpað honum með. Þarna hófst fyrir alvöru heilsuáhuginn minn,“ segir Elfa sem búið hefur ásamt fjölskyldu sinni á suðurströnd Englands í fimm ár. Eftir aðgerðirnar og ýmsa fylgikvilla átti sonur hennar, Anthony, meðal annars erfitt með alla næringarinntöku. „Ég var mamma með veikan strák með það eina markmið að finna lausn sem virkaði fyrir hann. Eftir mikinn lestur ákvað ég að prófa að fara með honum á hráfæði í eitt ár og athuga hvort það myndi hjálpa honum. Það er skemmst frá því að segja að á sjö mánuðum komst líkami hans í fullkomið lag og allt fór að virka rétt í fyrsta skipti á ævi hans.
Daginn sem ég fékk niðurstöðurnar úr prufunum hans lofaði ég honum að ég myndi vera með honum á hráfæði þar til hann flytti að heiman og fljótlega var öll fjölskyldan komin á sama fæði. Maðurinn minn losnaði í kjölfarið við ýmis heilsufarsleg vandamál á nokkrum mánuðum auk þess að missa 30 kíló og dóttir okkar losnaði við áreynsluasma. Ég hef lært svo margt á þessum tíma í sambandi við heilsu og hvernig við getum notað réttan mat til að hjálpa líkama okkar að lækna sig sjálfur. Mér fannst ekki hægt að vera komin með alla þessa þekkingu, eftir að vera búin að lifa þessum lífsstíl í svona mörg ár, og halda henni bara fyrir sjálfa mig og fjölskyldu mína.
„Ég hef lært svo margt á þessum tíma í sambandi við heilsu og hvernig við getum notað réttan mat til að hjálpa líkama okkar að lækna sig sjálfur.“
Það er líka búin að vera gríðarlega mikil eftirspurn eftir námskeiðum hjá mér og ráðum í sambandi við bætt mataræði. Svo það lá eiginlega beinast við að koma þekkingunni fyrir á einum stað. Ég var svo heppin að fá hana Ingibjörgu Rósu, vinkonu mína, með mér í þetta verkefni. Hún er mín hægri hönd í öllu sem kemur að tæknimálum, textum fyrir heimasíðuna og uppsetningu, enda með enskukunnáttu upp á rúmlega tíu. Heimasíðan var svo opnuð á ellefu ára afmælisdegi hans Anthonys í fyrra.“
Sérstakar barnauppskriftir
Síðan er í stöðugri þróun og vinnslu þar sem Elfa bætir inn uppskriftum reglulega, setur inn bloggpósta og fræðslu. „Sérstaðan felst kannski helst í því að þarna er manneskja sem lifir þessum lífsstíl og er með alla fjölskyldu sína á hráfæði. Ég legg mikið upp úr því að maturinn bragðist vel og geti því höfðað til sem flestra. Fólk hefur svo val um að koma í áskrift hjá mér þar sem það fær nýjar uppskriftir reglulega með vídeói um hvernig hver réttur er búinn til. Þetta er eins og að vera í áskrift að hráfæðinámskeiði þar sem ég býð öllum heim í eldhús til mín.
Anthony er líka með sitt svæði á síðunni, Anthony’s Kitchen, þar sem við búum saman til uppáhaldsréttina hans. Þeir eiga það sameiginlegt að vera allir mjög einfaldir og bragðgóðir. Við upptökur á efni fyrir Anthony’s Kitchen verða stundum mistök. Það er stundum ansi spaugilegt það sem miður fer og svo á Anthony til að vera mjög orðheppinn í tökum, sem er ekki hægt að nota í aðalmyndböndin, svo Anthony kom með þá hugmynd að gera myndbönd úr skotunum sem misheppnast og við erum nýbúin að setja þau inn á síðuna líka.“
Elfa tekur að sér að leiða hópa í föstur og safahreinsanir. „Ég hef farið reglulega í hreinsanir síðan ég var 18 ára. Þær eru einfaldlega hluti af mínum lífsstíl. Á síðustu árum hefur verið sótt mjög mikið í að komast í þessar hreinsanir með mér og það hefur undið upp á sig. Ég býð Facebook-vinum mínum og fylgjendum að koma með mér í hreinsanir þrisvar sinnum á ári. Þar fá allir frítt prógramm sem ég hef sett saman og stuðning í gegnum alla hreinsunina. Nýárshreinsunin er sú lengsta, 10-14 dagar, svo eru styttri hreinsanir í maí og september, 4-5 dagar. Þetta hefur verið ótrúlega gaman og gefandi þrátt fyrir mikla vinnu við hverja hreinsun. Þessar hreinsanir hafa verið upphafið hjá mörgum að taka næstu skref að bættum lífsstíl sem mér þykir sérstaklega vænt um að fá að vera þátttakandi í.“
Í þekktum heilsuþætti
Elfu bregður fyrir í myndinni Fat, Sick & Nearly Dead 2 eftir ástralska kvikmyndagerðarmanninn og heilsufrömuðinn Joe Cross en hann hefur persónulega reynslu af djúsföstu. „Fyrir nokkrum árum var ég að hjálpa einni vinkonu minni sem þurfti að fara í langa og mikla safahreisnun og ákvað að prófa að bjóða Facebook-vinum mínum að vera með. Ég átti von á að fá kannski 4-5 með okkur en á rúmum sólarhring voru komnir yfir 100 manns í hreinsihópinn, alls staðar að úr heiminum. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég gæti stutt allan hópinn og hafði því samband við Joe Cross sem þá hafði nýlega gefið út myndina sína Fat Sick and Nearly Dead og bað um hjálp hans. Honum fannst mjög sérstakt það sem ég var að gera og gerði þá undantekningu að hjálpa mér við að styðja og hvetja fólkið í hópnum. Hann kom inn, kommenteraði og fylgdist með okkur – sem var brjálað „búst“ fyrir alla. Við Joe höfum hist nokkrum sinnum eftir þetta þegar hann hefur komið til London. Hann er svo einstaklega vandaður maður, er alveg eins í persónu og þú sérð hann á skjánum. Honum fannst svo flott að þekkja manneskju frá kalda Íslandi sem væri að djúsa þannig að ég fékk að vera ein af þeim sem heilsa áhorfendum í upphafsatriði myndarinnar Fat, Sick and Nearly Dead 2.“
Fram undan er áframhaldandi uppbygging uppskriftabankans á heimasíðunni, viðbætur á fróðleik og fleira. „Svo eru hreinsanirnar mínar reglulega á dagskrá. Á Facebook getur fólk skráð sig í hópinn og fengið aðgang að prógramminu og stuðningshópnum frítt. Svo er líka hægt að fylgjast með mér á Instagram og Twitter þar sem allar upplýsingar eru einnig settar inn. Svo langar mig mjög mikið til að koma til Íslands og halda þar námskeið aftur sem fyrst.
„Ég hef farið reglulega í hreinsanir síðan ég var 18 ára. Þær eru einfaldlega hluti af mínum lífsstíl. Á síðustu árum hefur verið sótt mjög mikið í að komast í þessar hreinsanir með mér og það hefur undið upp á sig.“
Við Anthony erum með langan lista af hugmyndum og réttum sem við eigum eftir að taka upp fyrir Anthony’s Kitchen. Regluleg „live-vídeó“ eru á Facebook-síðunni minni og margt fleira skemmtilegt fram undan. Það er um að gera að fylgjast með fyrir þá sem hafa áhuga á að bæta við hollum grænmetisréttum fyrir fjölskylduna og fá heilsutengda fróðleiksmola.“
Hráfæðis-triffli
Triffli er gamall og hefðbundinn enskur eftirréttur sem er borinn fram í glerskál og samanstendur vanalega af svampbotni eða makkarónukökum, ávöxtum og eggjakremi. Að auki er oft áfengi í honum svo hann er langt í frá hollur í sinni upprunalegu mynd. Hér er hins vegar útgáfa af honum sem er svo holl að óhætt er að fá sér tvo og jafnvel þrjá skammta.
Súkkulaðilag
1 bolli möndlur
1 bolli mjúkar döðlur
1 bolli kakóduft
3 msk. sæta í fljótandi formi, t.d. kókosnektar, hunang, agave o.fl.
3 msk. kókosolía
salt
Setjið möndlur, döðlur og kakóduft í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til möndlurnar og döðlurnar eru komnar í fína bita.
Bætið þá sætunni, kókosolíunni og smávegis salti, eftir smekki hvers og eins, út í og látið matvinnsluvélina ganga áfram í nokkrar sekúndur, eða þar til kurlið loðir saman þegar það er kramið á milli tveggja fingra.
Berjalag
300 g hindber eða jarðarber, eftir smekk. Hvort tveggja eru himnesk ber til að nota í þessa uppskrift.
Settu berin í skál og stappaðu þau með gaffli til að búa til gróft mauk.
Ágætt er að skilja nokkur ber eftir til að nota til að skreyta með.
Búðingur
1 bolli nýkreistur appelsínusafi, úr u.þ.b. 3 appelsínum
safi úr 1 appelsínugulri papriku, u.þ.b. 1 dl
1 mangó
safi úr ½ sítrónu
1 bolli kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2-4 klst.
1 bolli kókosolía, fljótandi, hún bráðnar við 25°C
½ bolli hreint xylitol
1 tsk. stevíudropar með vanillubragði
salt eftir smekk
Paprikan er sett í gegnum djúsvél, eða bara í blandara og svo má sía safann frá með fínni grisju eða hnetumjólkurpoka. Afhýðið mangóið og takið steininn frá.
Allt er sett í blandarakönnu og blandað vel eða þar til kasjúhneturnar eru vel maukaðar og komin er búðingsblanda með silkimjúkri áferð.
Samsetning
Sett í lögum í fallega glerskál. Byrjið á að setja helminginn af súkkulaðikurlinu í botninn á skálinni. Þrýstið aðeins niður með sleif svo botninn verði vel þéttur. Hellið helmingnum af búðingnum yfir. Þar ofan á fer allt berjamaukið og svo restin af súkkulaðikurlinu áður en afgangurinn af búðingnum fer ofan á sem efsta lag.
Fallegt að skreyta með sömu berjum og notuð eru í berjalagið.
Látið standa í vel köldum ískáp í um það bil 8-10 klst. eða inni í frysti í 2 klst. til að búðingurinn þéttist áður en trifflið er borið fram. Njótið hvers munnbita af þessum heilsusamlega og himneska eftirrétti.
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Alexandra Kristjánsdóttir
Það er hægt að gera margt með skemmtilegt með krökkunum heima.
Samverustundir fjölskyldunnar eru mjög dýrmætar. Oft er talað um gildi útiveru og hvernig má gera skemmtilega hluti með börnum utan veggja heimilisins. En innivera er ekki síður góð og gild, það er hægt að gera margt fleira skemmtilegt en bara að horfa á sjónvarpið. Hér eru nokkrar góðar hugmyndir.
Allir í eldhúsinu
Góð leið til að verja tíma með börnunum er að elda eða baka eitthvað með þeim. Matreiðsla getur aukið áhuga, sjálfstraust, forvitni og frumkvæði barna. Þau eru flest vön að sjá foreldra sína í eldhúsinu þannig að við það að fá að taka þátt finna þau fyrir trausti frá hinum fullorðnu og gera sér grein fyrir að þau séu að læra eitthvað sem er mikilvægt. Með því að taka þátt fer barnið einnig að velta fyrir sé hvað það borðar, hvað er í matnum sem það borðar og hvaðan hráefnið kemur. Með því að kynnast öllu ferlinu og hráefnum frá grunni getur gert það að verkum að matvendni minnki ef hún er til staðar. Það skiptir miklu máli fyrir allt lífið að fá áhuga á matreiðslu og geta eldað sér næringarríkan mat. Því upplýstara sem barnið verður því minni líkur verða á að það velji eingöngu skyndibita í framtíðinni. Matreiðsla stuðlar einnig að ýmiss konar færni, svo sem stærðfræði, því það þarf að mæla hráefni, telja og stundum leggja saman, og einnig eykst orðaforði barnsins. Það er líka mikil áskorun að takast á við afleiðingarnar ef eitthvað fer úrskeiðis og vinna að lausnum í þeim efnum.
Litagleði
Flestir foreldrar þekkja það að vera beðnir um að sitja og teikna með barninu sem getur reynst flókið ef maður hefur litla sem enga hæfileika á því sviði. Hins vegar geta allir litað og undanfarin ár hafa vinsældir litabóka fyrir fullorðna aukist til muna. Margir trúa því að það sé róandi fyrir hugann að lita og þessi iðja er oft tengd við hugmyndir um gjörhygli, eða mindfulness, og litir hafa lengi verið notaðir í ýmiss konar listmeðferð. Helsti munurinn á litabókum fyrir börn og fullorðna er erfiðleikastigið, litabækur fullorðinna eru með smærri og flóknari myndum. Þannig að nú geta foreldrar og börn setið saman með sína litabókina hvert og notið þess að lita saman.
Fjölskyldan getur setið saman og lesið bók þannig að hver fjölskyldumeðlimur fær sitt tækifæri til að lesa upphátt fyrir hina … Þetta eykur bæði lesskilning og lestrarfærni barna.
Sögustund
Margir, ef ekki flestir, foreldrar lesa fyrir börnin sín þar til þau ná þeim aldri að byrja að lesa sjálf. En það er ekki síður skemmtilegt að lesa með börnunum sínum þegar þau eru farin að geta það sjálf. Til dæmis getur fjölskyldan setið saman og lesið bók þannig að hver fjölskyldumeðlimur fær sitt tækifæri til að lesa upphátt fyrir hina. Síðan má ræða saman um atvik í bókinni og spá í söguþráðinn. Þetta eykur bæði lesskilning og lestrarfærni barna auk þess sem orðaforði þeirra eykst. Einnig getur þetta aukið sjálfstraust barna því þau munu oft þurfa að lesa upphátt fyrir jafningja sína í skólanum sem getur verið ógnvekjandi fyrir marga.
Spilerí
Í dag spila börn frekar tölvuleiki en hefðbundin spil. Það er allt gott og blessað því leikirnir æfa oftar en ekki svipaða tækni og færni, svo sem kænsku, úrlausn vandamála og þolinmæði. Það getur þó verið erfiðara fyrir foreldra að taka þátt í því spili. Því ekki grafa upp spilastokk og kenna börnum nokkra góða leiki sem þið spiluðuð í æsku? Þetta gefur tengingu við fortíðina og börn hafa gaman af því að heyra hvernig hlutirnir voru þegar þið voruð krakkar. Borðspil eru einnig skemmtileg þótt þau séu oft tímafrekari en að spila á spil. Hægt er að nota tímann á meðan spilað er til að ræða daginn og veginn, spyrja um skóladaginn eða hvað sem er án þess þó að það sé þvingað eða einhver pressa.
Í barndóm aftur
Það hafa allir gott af því að leika sér aðeins og finna barnið innra með sér. Börn hafa líka þörf fyrir að finna þessa tengingu við foreldra sína, að þeir séu líka börn inn við beinið. Fyrir utan þessa klassísku leiki, svo sem feluleik, er til dæmis skemmtilegt að búa til virki úr púðum, sófum og teppum og síðan er hægt að fara í þykjustuleik inni í virkinu. Annar skemmtilegur leikur er nokkurs konar dótakeila; þá er böngsum, dótaköllum eða öðru dóti raðað upp við endann á löngum gangi og leikmenn skiptast svo á að rúlla bolta og reyna að fella dótið. Önnur útfærsla á þessum leik er að leikmenn stilli sér upp sitt hvorum megin við ganginn með sína dótakalla og þá er markmiðið að vera fyrstur til að fella alla kallana hjá hinum. Önnur góð leið til að fá útrás og hafa það gaman er að halda danspartí, þá er einfaldlega skemmtilegt lag sett á fóninn og svo dansa allir eins og þeir eigi lífið að leysa.
Sex góð ráð til þess að líða betur og ná lengra í starfi.
Flest viljum við ná einhverri velgengni í því starfi sem við höfum valið okkur. Við verjum jú bróðurpartinum af lífinu í vinnunni og því skiptir máli að við finnum að við séum að ná árangri. Ýmislegt í okkar hversdagslegu rútínu hefur áhrif á það hvernig við vinnum vinnuna okkar og þar með hversu mikilli velgengni við njótum. Hér eru sex góð ráð til þess að líða betur og ná lengra í starfi.
1. Einbeittu þér að styrkleikum, ekki veikleikum. Stundum eigum við það til að eyða of miklum tíma í að bæta okkur í því sem við erum ekki góð í að eðlisfari. Það getur verið gáfulegra að bæta styrkleika þína enn frekar. Oftar en ekki vinnur fólk saman í hóp þar sem einstaklingar bæta hverjir aðra upp þannig að það skiptir ekki máli þótt þú sért ekki góð/ur í öllu – svo lengi sem þú ert mjög góð/ur í sumu.
2. Hagaðu vinnu þinni eins og þér þykir best. Það sem hentar einum þarf ekki að henta öllum öðrum starfsmönnum fyrirtækis. Undanfarin ár hafa mörg fyrirtæki innleitt opin rými en sumum þykir betra að vinna bak við luktar dyr, allavega í ákveðnum verkefnum. Oftast er hægt að finna lausn á þessum vanda til dæmis með því að nota fundarherbergi þegar þau eru laus eða óska eftir því að vinna heima. Einnig geta hljóðeinangrandi heyrnatól komið að góðum notum.
3. Hafðu hemil á skapinu þínu. Viðhorf þitt hefur ekki aðeins áhrif á líðan og afrakstur þinn í vinnunni heldur einnig á samstarfsfélaga þína. Þess vegna ættirðu að reyna eftir bestu getu að hafa jákvæðni að leiðarljósi en rannsóknir hafa sýnt að með því að hugsa jákvætt verðum við ósjálfrátt jákvæðari gagnvart vinnunni og jákvæðir einstaklingar áorka meira.
4. Veldu hollari mat. Þegar öllu er á botninn hvolft er fæðan eldsneyti líkamans og gæði hennar geta haft mikil áhrif á okkur. Ef þú veist að þú munt ekki hafa tíma til að ná þér í hádegismat reyndu að hafa með þér nesti svo þú sleppir ekki máltíðum. Forðastu sykur líka eftir bestu getu því hann getur valdið blóðsykurshruni og meðfylgjandi orkuleysi.
5. Láttu gott af þér leiða. Þó að það sé mikilvægt að hugsa um sjálfan sig þá getur það aukið vellíðan að gera eitthvað gott fyrir aðra, hvort sem það er að hella upp á kaffi, hjálpa með verkefni eða bjóða einhverjum far heim. Þetta eykur liðsheildina og þýðir það að vinnufélagar þínir eru mun líklegri til að koma þér til hjálpar þegar þú þarft á því að halda.
6. Ekki hugsa um það sem er liðið. Þegar við eigum slæman dag í vinnunni hættir okkur til að taka þær tilfinningar með okkur heim og endurhugsa allt sem við gerðum og hvernig við hefðum getað gert betur. Með þessu erum við að viðhalda streitunni og öllum fylgifiskum hennar þannig að við náum ekki að hvílast almennilega. Hafðu þann vana á að fara einu sinni yfir daginn að honum loknum og segðu svo skilið við hann.
Sjöfn Kristjánsdóttir selur prjónauppskriftir af barnafötum sem hún hannar á vefversluninni Petit Knitting.
Sjöfn Kristjánsdóttir prjónaði svo mikið á son sinn í fæðingarorlofinu að eiginmaður hennar, Grétar Karl Arason, stakk upp á því að hún gerði þetta að atvinnu. Hugmyndin var gripin á lofti og vefverslunin Petit Knitting varð til þar sem hægt er að kaupa prjónauppskriftir af barnafötum sem Sjöfn hannar.
„Þessi hugmynd kom þegar ég var í fæðingarorlofi með Ara, sem er 1 árs, en þá prjónaði ég alveg eins og vindurinn á hann. Eitt kvöldið spurði Grétar mig af hverju ég gerði ekki eitthvað úr þessu, hvort ég gæti ekki skrifað upp þessar uppskriftir og selt. Ég hef sjálf aldrei farið eftir uppskriftum því mér finnst þær oft of flóknar og hef því alltaf verið að breyta þeim og laga að mínu smekk. Við kýldum hugmyndina í gang og þetta átti að vera svona auka áhugamál en þrátt fyrir að það séu aðeins sex mánuðir síðan við byrjuðum erum við orðin stórt nafn í íslenskum prjónaheimi með yfir fjögur þúsund fylgjendur á Facebook og yfir tvö þúsund fylgjendur á Instagram. Við byrjuðum með eina uppskrift en erum núna komin með yfir 30 uppskriftir í sölu. Grétar sér um tæknilegu hliðina, kaupir auglýsingar og heldur utan um markaðssetningu og fjármálin. Ég sé um að hanna, skrifa og prjóna uppskriftirnar og taka myndir af því sem ég hef verið að gera,“ segir Sjöfn.
„Ég hef sjálf aldrei farið eftir uppskriftum því mér finnst þær oft of flóknar og hef því alltaf verið að breyta þeim og laga að mínu smekk.“
Skandinavísk hönnun
Sjöfn er forstöðumaður í dægradvöl Vatnsendaskóla og Grétar er viðskiptastjóri hjá Símanum. Þau eiga tvö börn, Sögu Sjafnar, sem er 11 ára, og Ara Sjafnar, sem er eins og áður sagði nýorðinn eins árs. „Petit Knitting er þriðja barnið og er vefverslun með
prjónauppskriftir. Við seljum uppskriftir í stykkjatali en það er svolítil vöntun á því hér á landi. Nú gefst fólki kostur á því að versla þessa einu uppskrift sem það langar í án þess að þurfa að kaupa heilt blað eða heila bók. Svo er þetta líka allt rafrænt hjá okkur sem gerir okkur umhverfisvæn. Grétar vinnur að heiman eins og er og sér um Ara á meðan ég vinn frá 8-16 á daginn. Ég kem svo heim og tek við og Grétar klárar það sem þarf að gera í hans vinnu. Svo er eldað, baðað, sett í þvottavélar, látið læra heima og komið í háttinn. Þegar heimilið er komið í ró sest ég við prjónaskap og prjóna þar til ég fer að sofa. Það er alltaf nóg að gera hjá okkur og lítill tími í tilhugalíf,“ segir hún hlæjandi.
„Við erum aðallega að hanna uppskriftir að barnafötum. Við byrjuðum að hanna föt í stærðum 0-2 ára en erum nú komin með uppskriftir í stærðum 0-10 ára. Það var eftirspurn eftir stærri stærðum svo við urðum við þeirri beiðni. Eins og er eru allar uppskriftir á íslensku og nokkrar höfum við þýtt yfir á ensku. Um þessar mundir er verið að þýða allar uppskriftir yfir á dönsku og svo er markmiðið að koma öllum uppskriftum yfir á norsku og ensku líka. Skandinavía er stór og prjónaáhugi í löndunum þar er mjög mikill. Hönnun mín er í skandinavískum stíl svo möguleikar okkar eiga eftir að margfaldast þegar við komum uppskriftum yfir á Norðurlandamálin sem og á ensku. Nafnið á fyrirtækinu er eiginlega sameiginleg ákvörðun mín og vinkvenna minna, þeirra Abbýjar og Ástríðar. Ég henti nokkrum nöfnum á þær og við vorum svo sammála um að Petit Knitting væri fullkomið. Það er bæði alþjóðlegt og lýsir því sem ég er að gera – að prjóna á litla fólkið.“
Með tíu þumalfingur
Áhuginn á prjónaskap og hönnun byrjaði snemma hjá Sjöfn. „Mamma, Guðný Guðmundsdóttir, var mikil prjónakona og hannaði og seldi flíkur eftir sjálfa sig. Hún hlaut einnig gullprjóna ársins 1995 sem voru veittir af prjónabúðinni Tinnu fyrir prjónaskap og hönnun. Ég var sjálf 13 ára þegar ég prjónaði fyrstu flíkina mína hjálparlaust en það var húfa og að sjálfsögðu var hún ekki prjónuð eftir uppskrift. Eftir það var ekki aftur snúið og hef ég verið að prjóna síðan en með nokkrum hléum þó. Ég útskrifaðist svo árið 2002 af hönnunar- og textílbraut frá FB en fór svo í uppeldis- og menntunarfræði í HÍ og tók meistarapróf í því fagi. Hönnunin hefur samt alltaf yfirhöndina þó að ég þurfi að sinna henni í frítíma mínum eins og er. Ég stefni að því að geta unnið við þetta sem aðalstarf eftir um það bil tvö ár.“
Hún er enn sú eina í fjölskyldunni sem prjónar en hún hefur reynt að ná manninum sínum og dóttur í þetta með sér. „Ég hef mikið reynt að fá Grétar til að grípa í prjónana því ég er með svo margar hugmyndir í kollinum en bara tvær hendur svo það er fullt af hugmyndum sem þurfa að bíða. En hann hefur ekki fallið í þá freistni enn þá. Hann segist vera með tíu þumalputta. Saga er aðeins byrjuð að prjóna með mér en þolinmæðin er ekki alveg nógu mikil enn þá. Hún hefur þó mikinn áhuga á því sem ég er að gera svo það er aldrei að vita hvernig framtíðin verður hjá henni. Hún er mjög skapandi en það er spurning á hvaða sviði sköpunar hún endar. Ari hefur mjög mikinn áhuga á garnhniklum en það kemur í ljós hvort hann verði með tíu þumalfingur eins og pabbi sinn.“
„Ég legg mikið upp úr því að hafa uppskriftirnar mínar einfaldar, skýrar og aðgengilegar þannig að allir prjónarar komist í gegnum þær. Það er fátt leiðinlegra en flóknar og óskýrar uppskriftir sem gera það að verkum að maður endar með því að henda prjónunum ofan í skúffu.“
Annars eru spennandi tímar fram undan og markaðurinn sívaxandi eftir því sem uppskriftirnar eru þýddar á fleiri tungumál. „Ég legg mikið upp úr því að hafa uppskriftirnar mínar einfaldar, skýrar og aðgengilegar þannig að allir prjónarar komist í gegnum þær. Það er fátt leiðinlegra en flóknar og óskýrar uppskriftir sem gera það að verkum að maður endar með því að henda prjónunum ofan í skúffu,“ segir Sjöfn að lokum.
Nánari upplýsingar eru á heimasíðunni petitknitting.com, á Instagram undir petitknitting_iceland og á Facebook undir Petitknitting.
Ingibjörg Lára Hjartardóttir flutti til Jamaíku fyrir tæpum fjórum árum vegna spennandi atvinnutilboðs og ævintýraþrár.
Við fengum hana til að segja okkur frá nokkrum stöðum sem hún mælir með að gestir landsins skoði.
Pelican Bar
Á litlu sandskeri út með suðurströnd Jamaíku er Pelican Bar sem er byggður úr rekavið. Til að komast þangað færðu annað hvort sjómann til að sigla með þig á litlum báti, um það bil 20 mínútur frá Treasure Beach, eða ferð í skipulagða útsýnisferð.
Á barnum er hvorki salernisaðstaða né rafmagn. Kælirinn fyrir bjór er gömul frystikista sem er full af klaka. Þarna er góð stemning, hægt að synda í sjónum í kring og oft sitja pelikanar á bátunum sem bíða eftir fólkinu.
Fljóta á fleka niður Martha Brae-ána
Martha Brae-áin er í um 45 mínútna akstursfjarlægð frá Montego Bay. Ferðin niður ána tekur eina til tvær klukkustundir á bambusfleka. Á leiðinni er fylgst með lífinu meðfram ánni og hægt að stoppa á leiðinni til að kaupa minjagripi eða Red Stripe-bjór. Best að fara á degi þegar engin skemmtiferðaskip eru í höfn því þá er maður nánast einn á ánni. Dásamlega slakandi.
Á litlu sandskeri út með suðurströnd Jamaíku er Pelican Bar sem er byggður úr rekavið. Til að komast þangað færðu annað hvort sjómann til að sigla með þig á litlum báti, um það bil 20 mínútur frá Treasure Beach …
Scotchies
Scotchies er veitingastaður í útjaðri Montego Bay. Þar er boðið upp á grillaðan kjúkling og svínakjöt, marinerað með svokallaðri Jerk Seasoning, innlendri kryddblöndu með sterkum chili-pipar sem heitir Scotch Bonnet. Þetta getur verið mjög sterkt. Meðlætið eru grillaðir grænir bananar, sætar kartöflur og hrísgrjón með nýrnabaunum, eða Rice & Peas eins og innfæddir kalla það. Grillið er frumstætt og yfir það breitt með bárujárni þannig að kjötið er hálfreykt um leið og það er grillað. Best að fá sér ískalda Red Stripe-heimabjórinn með. Máltíðin kostar innan við 2.000 kr. fyrir tvo.
YS-fossarnir
Þessir fossar í ánni YS í suðurhluta Jamaíku eru sjö talsins. Það er hægt að labba upp hluta fossanna með leiðsögumanni og eins er hægt að synda í hyljum fyrir neðan flesta þeirra. Mér finnst þessir fossar mun fallegri en Dunn’s-fossarnir sem eru frægastir og flestir sjá þegar þeir koma til Jamaíku. Það er ekki eins mikil mannmergð við YS og þar með betri upplifun.
Negril-ströndin
Negril er lengsta ströndin á Jamaíku, kölluð 7 Mile Beach, nærri 12 kílómetra löng. Gaman er að labba hana og sjá bæði innfædda og ferðamenn njóta sín. Sölumennirnir láta sér segjast ef maður er bara ákveðinn og kurteis.
Kvikmyndir um töfra njóta yfirleitt mikilla vinsælda.
Sögur um galdra hafa ávallt fylgt mannkyninu. Kvikmyndir eru líklega einn besti vettvangurinn til að segja slíkar sögur því tæknin sem er notuð er oft töfrum líkust. Hér eru nokkrar frábærar myndir sem sýna margar ólíkar hliðar á þessum spennandi og yfirskilvitlegu hæfileikum.
Töfraskepnur
Flestir sem hafa fylgst með ævintýrum galdrapiltsins Harry Potter, hvort sem það á hvíta tjaldinu eða á prenti, kannast við nafnið Newt Scamander. Hann er höfundur bókarinnar Fantastic Beasts and Where to Find Them sem hvert skólabarn í Hogwarts þarf að kaupa og lesa á fyrsta árinu sínu. Árið 2001 gaf J.K. Rowling út sérstaka útgáfu af bókinni sem vakti mikla lukku hjá aðdáendum.
Í nýlegri kvikmynd byggð á þeirri bók (sjá mynd að ofan) er ungi fræðimaðurinn Newt Scamander nýkominn til New York árið 1926 í leit að töfraverum sem hann hefur einsett sér að rannsaka og bjarga þegar það á við. Hann veit þó ekki að stórhættuleg og kraftmikil vá vofir yfir borginni og hann flækist fljótt inn þau mál.
Gæfa eða bölvun
Systurnar Sally og Gillian Owens í myndinni Practical Magic hafa alla tíð vitað að þær væru ekki eins og fólk er flest. Þær ólust upp hjá frænkum sínum á vægast sagt óvenjulegu heimili þar sem þeim voru litlar eða engar reglur settar. Frænkurnar lögðu sig fram við að vekja hjá systrunum hina einstöku dulrænu hæfileika sem fylgt hafa konum af Owens ættinni í þeirri von að veita þeim þann styrk sem fylgir því að iðka hvítgaldra í nytsamlegum tilgangi. En galdrasæringar Owens kvennanna kosta sitt og í raun fylgir þeim hin mesta bölvun – mennirnir sem þær verða ástfangnar af eru dæmdir til ótímabærs andláts.
Köld kvenna ráð
Galdrar hafa lengi heillað táningsstelpur sem ýmist reyna að nota þá til að laða að sér ást eða leita hefnda. The Craft segir einmitt frá einum slíkum hóp. Þegar ný stelpa flytur í bæinn kynnist hún fljótlega öðrum stelpum sem hafa áhuga á yfirskilvitlegum og dularfullum hlutum. Saman búa þessar fjórar stelpur yfir miklum yfirnáttúrulegum kröftum. Þær geta nánast allt, allt frá því að ná í draumaprinsinn og látið hann dýrka sig, og hvað annað sem þeim dettur í hug – þær eru óstöðvandi og möguleikarnir eru endalausir. Slíku valdi fylgir mikil ábyrgð og það getur óvænt snúist gegn manni, eins og stelpurnar fá að kynnast.
Keppinautar á sviði
Kvikmyndin The Prestige gerist í lok nítjándu aldar í London og segir frá Robert Angier og Alfred Borden sem eru vinir og aðstoðarmenn töframanns. Þegar Julia, ástkær eiginkona Roberts, deyr slysalega í einu atriði kennir Robert Alfred um dauða hennar þannig að vinátta þeirra snýst upp í andhverfu sína. Báðir verða þeir síða frægir töframenn og keppinautar á því sviði – þeir gera hvað þeir geta til að skemma fyrir hvorum öðrum. Þegar Alfred framkvæmir árangursríkt bragð verður Robert hreinlega að komast að því hvernig hann fór að því en kemst að því að sumt er best látið kyrrt liggja.
Kristín Maríella Friðjónsdóttir segir að þörfin fyrir nýjar uppeldisaðferðir sé mikil hér á landi.
Kristín Maríella Friðjónsdóttir kynntist RIE eða Respectful Parenting-uppeldisaðferðinni fyrir tæpum þremur árum og hefur síðan þá haldið fjölmörg námskeið sem notið hafa mikilla vinsælda. Kristín sem er búsett í Singapúr segir greinilegt að þörfin fyrir nýjar uppeldisaðferðir sé mikil hér á landi.
„Við fluttum hingað fyrir þremur árum þegar maðurinn minn stundaði masters-nám hér. Eftir útskrift fékk hann atvinnutilboð og því ílengdumst við. Okkur líður mjög vel í Singapúr og höfum komið okkur vel fyrir hérna hinum megin á hnettinum.“
Kristín er menntaður fiðluleikari og lærði einnig á víólu í Bandaríkjunum. Eftir það nám tóku við fjölbreytt störf tengd tónlistinni en á sama tíma stofnaði hún skartgripamerkið Twin Within ásamt systur sinni, Áslaugu Írisi. Fljótlega tók hönnunin yfir en eftir að fjölskyldan flutti til Singapúr hefur Kristín haldið rekstrinum áfram auk þess að kenna ungum börnum á fiðlu og miðla fræðslutengdu efni um uppeldisaðferðina RIE eða Respectful Parenting. „Ég kýs að kalla þessa uppeldisstefnu Virðingarríkt tengslauppeldi en ég kynntist RIE fyrir þremur árum. Þá var Ylfa, eldri dóttir mín, um 6 mánaða. Ég hef alltaf verið mjög áhugasöm um allt sem viðkemur uppeldi, meðgöngu, fæðingu, þroska barna og samskiptum. Stuttu eftir að við fluttum til Singapúr fékk ég réttindi í fæðingarhjálp (e. doula) og óhætt að segja ég eyði öllum frítíma mínum í að lesa um allt sem viðkemur börnum. Í einhverjum rannsóknarham á Internetinu rambaði ég inn á bloggsíðu Janet Lansbury, sem er helsta talskona RIE í heiminum, og þá var ekki aftur snúið. Ég tengdi strax mjög sterkt við það sem ég las frá henni og fékk bara ekki nóg. Það er nefnilega þannig með RIE, ef maður tengir, þá tengir maður svo sterkt.“
Virðingin, traustið og tengingin
Kristín segir erfitt að útskýra stefnuna í stuttu máli því hún sé í raun heill heimur af fróðleik. „Að mínu mati er RIE byggt upp á þremur grunnhugtökum en þau eru virðing, traust og tenging. Mér finnst það vera eins konar kjarni RIE sem stefnan gengur alltaf út frá. Við komum fram við börn af virðingu frá fæðingu. Við lítum á þau sem heila einstaklinga sem eiga rétt á því að komið sé fram við þau eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Við reynum eftir fremsta megni að sjá hlutina frá þeirra sjónarhorni og bjóðum þeim að taka þátt í lífinu strax frá fyrsta degi. Við tölum eðlilega við börnin okkar, sleppum öllu leikritum, erum hreinkilin, örugg og róleg. Eins er mikil virðing borin fyrir mikilvægi leiks og við reynum að trufla ekki barn sem er niðursokkið í leik. Börn eru studd til að leika sér sjálfstætt og á sínum forsendum frá upphafi. Við treystum líka barni til þess að þroska hreyfigetu sína á sínum hraða með sínum leiðum og hjálpum eða kennum þeim til dæmis ekki að snúa sér, setjast eða ganga.
„Við leyfum barni að tjá allar tilfinningar sínar og styðjum börnin í gegnum grátköst með því að viðurkenna tilfinningar þeirra og sýna þeim þolinmæði.“
Við trúum því að börn séu alltaf góð og vitum að þegar þau sýna óæskilega hegðun sé það vegna þess að þau eigi erfitt og vanti aðstoð frá okkur. Við leyfum börnum að tjá allar tilfinningar þeirra og styðjum þau í gegnum grátköst með því að viðurkenna tilfinningar þeirra og sýna þeim þolinmæði. Þannig myndum við sterk tengsl við barnið og það byrjar að taka mörkunum sem við setjum betur. Við setjum tilfinningum ekki mörk en við setjum hins vegar hegðun mörk. Við trúum á mikilvægi þess að setja skýr mörk en við setjum þau samt alltaf á rólegan hátt. Það má segja að helsta markimið RIE sé að byggja upp heilbrigt samband á milli foreldris og barns, samband sem báðir aðilar geta notið sín í og þar sem þörfum beggja er mætt af samkennd og virðingu.“
Námskeiðin seldust upp á örfáum klukkustundum
Kristín hafði skrifað um RIE inn á samfélagsmiðlum í rúmt ár þegar hún fór fyrst að fá fyrirspurnir um að halda námskeið á Íslandi. „Nánast allt efni sem til er um Respectful Parenting er á ensku og ég fann fyrir mikilli vöntun á íslensku efni. Þegar ég var síðan á leiðinni heim til Íslands um síðustu jól ákvað ég að mæta eftirspurninni og halda nokkur námskeið. Það gekk rosalega vel og ég fann strax að þetta átti vel við mig, mér leið vel upp á „sviði“ og fæ mikið út úr því að miðla á þennan hátt.“ Eftir námskeiðin var enn mikil eftirspurn og því ákvað Kristín að koma heim nú í sumar og halda fleiri. Viðtökurnar voru gríðarlegar og undir lokin seldust síðustu aukanámskeiðin upp á örfáum klukkutímum. „Það var eins og fólk hefði verið að bíða eftir einhverju svona. Ég hélt fjórtán námskeið í heildina og það var greinilegt að fólk er mjög áhugasamt og þráir að komast á betri stað í samskiptum við börnin sín. Það finnst mér frábær þróun enda hlýtur foreldrahlutverkið að vera mikilvægasta hlutverk okkar allra sem eigum börn.“
Kristín segir fyrirspurnirnar sem henni berist óteljandi og vandamálin fjölbreytt. Hún hafi þó aldrei rekist á vegg heldur komi svörin oftast fyrirhafnarlaust til sín. „Þegar maður gefur ráð er mikilvægast að setja sig almennilega í aðstæðurnar. Þá bið ég iðulega um meiri upplýsingar og nánar lýsingar á vandamálinu. Hvenær kemur hegðunin upp? Hvernig hefur foreldrið brugðist við hingað til? Hvernig bregst barnið við? Hvað annað er að gerast í lífi barnsins? Eftir að hafa fengið þessar upplýsingar koma svörin til mín. Ég myndi segja að óöryggi foreldra þegar kemur að því að setja mörk sé eitt algengasta vandamálið. Hvaða mörk má setja og hvernig. Hræðsla við grátur og viðbrögð barnanna sinna og síðan óraunhæfar væntingar í sambandi við það hvers er hægt að ætlast til af börnunum sínum og hvenær.“
Þegar talið berst að hennar eigin uppeldi segir Kristín stærstu áskorunina liggja í að veita hvoru barni fyrir sig fulla athygli í kringum umönnunarverkefni en það er stór partur af RIE. „Það er hugsað þannig að í öllum hversdagslegum ummönnunarverkefnum eins og t.d. að skipta á bleiu, klæða í föt, baða eða gefa að borða reynum við að vera með fulla athygli á barninu. Það er erfitt þegar þú ert komin með tvö eða fleiri börn því að oftar en ekki vill hitt barnið líka fá athygli á sama tíma. Í RIE tölum við um að hefðbundin sanngirni (þar sem allt er 100% jafnt) er í raun ekki sanngirni heldur líður báðum börnum eins og þau fái ekki nóg.
Við reynum ekki að keppast við að gefa allt jafnt heldur gefum við eftir þörfum og það sama gildir um tímann okkar eða athyglina. Þá skiptir máli að vera skýr í sambandi við það hvar athyglin okkar er og oft setjum við mörk í kringum það. Við segjum eitthvað eins og „Ég heyri í þér, Ylfa, þú vilt að ég komi og sjái myndina sem þú varst að teikna, þú vilt að ég komi núna strax, ég skil, en ég get ekki komið strax, nú er ég að skipta á bleiunni hanns Breka og ætla að einbeita mér að því. Þegar ég er búin, þá ætla ég að koma til þín og vera bara með þér.“
Það sem gerist er að bæði börnin slaka meira á því þau vita að hvort um sig fá þau 100% athygli þegar „þeirra tími“ kemur. Svo virkar það líka þannig að þegar við hægjum á og gefum fulla athygli í gegnum ummönnunarverkefni, þó að það sé ekki nema í nokkrar mínútur í senn, þá er barnið líka miklu líklegra til að geta sleppt okkur þess á milli og fer frekar að leika sér sjálft því það er sátt eftir tímann sem við áttum saman.“
Að hjálpin komi frá hjartanu
RIE-fræðsla byggjast mikið á langtímamarkmiðum en þátttaka barna í heimilisstörfum gegnir veigamiklu hlutverki innan stefnunnar. Kristín segir markmiðið vera að barnið sjái mikilvægi þess að hjálpa til inni á heimilinu en sömuleiðis finni hjá sér þörfina að hafa hreint í kringum sig. „Þetta snýst auðvitað um að líða vel í umhverfi sínu. Ég vil að barnið mitt hjálpi til því það vilji vera partur af heildinni, en að hjálpin komi frá hjartanu, ekki út frá hræðslu eða skyldu. Það er ekki hægt að pína barn í að vera hjálplegt. Heimilisverk fellur undir það sem við köllum „modeling“ í RIE. Þá skyldum við ekki barn til þess að hjálpa til á neinn hátt en bjóðum því þátttöku. Við pössum að vera góðar fyrirmyndir og treystum því að þegar barn er tilbúið þá mun það vilja hjálpa til því að börn vilja í grunninn öll standa sig vel, vera partur af heildinni og líkjast foreldrunum.“
Þegar kemur að ósamkomulagi barna styðst Kristín mikið við að lýsa aðstæðum. „Ég geri alltaf það sama þegar barn grætur eða er ósátt. Ég hægi á og segi eitthvað eins og „hmm … ég heyri grátur, það eru allir að gráta, allir eru ósáttir“ og síðan myndi ég skoða hvað væri í gangi og gefa hverju barni rödd fyrir sig með því að segja upphátt það sem ég sæi, án þess að dæma. Dvel jafnvel í ósættinu og bæti svo við, „hvað getum við gert?“ Síðan bíð ég með opinn arminn því það mega allir alltaf fá knús sem vilja og það mega allir gráta sem vilja en við reynum að styðja börn í að finna sjálf lausnir á vandamálunum. Þannig er best stutt við þroska og getu í samskiptum.“
„Þetta snýst auðvitað um að líða vel í umhverfi sínu. Ég vil að barnið mitt hjálpi til því það vilji vera partur af heildinni, en að hjálpin komi frá hjartanu, ekki út frá hræðslu eða skyldu. Það er ekki hægt að pína barn í að vera hjálplegt.“
Aðspurt hvort hún veiti foreldrum ráð óumbeðið segist Kristín hafa það fyrir reglu að koma ekki með athugasemdir við uppeldisaðferðir annarra. „Ég ráðlegg fólki eindregið að skipta sér ekki af uppeldi annarra nema um eitthvað alvarlegt sé að ræða. Það hefur mjög lítið upp á sig að skipta sér af öðrum. Sannleikurinn er sá að flestir eru að reyna sitt besta. Það eru allir á sinni einstöku vegferð í foreldrahlutverkinu og það besta sem maður getur gert er að vera góð fyrirmynd sjálfur. Það er nefnilega þá sem maður fær spurningar frá áhugasömum og fólkið í kringum mann vill fá að vita meira um hvað maður er að gera. Það sér að eitthvað er að virka vel og verður forvitið. Foreldrahlutverkið og allt í sambandi við börnin okkar er eitthvað sem er mjög nálægt okkur, mjög persónulegt og fólk tekur því persónulega ef það upplifir að verið sé að dæma það. Þá fer fólk frekar í vörn. Fólk þarf að vera tilbúið að fara í gegnum ákveðna sjálfskoðun ef það ætlar að tileinka sér uppeldisaðferð eins og RIE og það eru einfaldlega ekki allir tilbúnir í það.“
Ofbeldi gegn börnum óhugnalega algengt
Kristín segir það áhugaverða upplifun að ala upp börn hinum megin á hnettinum þar sem margir menningarheimar koma saman en Singapúr er einstaklega fjölbreytt samfélag. „Þetta hefur verið mjög þroskandi ferli og áhugavert. En þó að Singapúr sé í Asíu er hér að finna mjög sterk vestræn áhrif. Mikið er lagt upp úr því að bjóða fjölskyldum upp á ríka barnamenningu og það er alltaf nóg af mjög metnaðarfullu starfi í boði fyrir börn og fjölskyldur, allskonar sýningar á listasöfnum, viðburðir í görðunum og mikið lagt upp úr vönduðum leikvöllum og svæðum fyrir börn. Singapúr er mjög örugg borg, næstum því öruggari en Reykjavík og alveg frábært að vera hérna með börn, borgin er þekkt fyrir það. Að því sögðu er hér að finna sterk áhrif frá Asíu, Malasíu og Kína og uppeldislega má segja menninginuna skiptist svolítið í tvennt. Hér er að finna stórt samfélag fólks frá Vesturlöndum, Evrópu og Bandaríkjunum, uppeldi sem rímar við það sem við þekkjum frá Íslandi. Foreldrar sem leita frekar að frjálsari aðferðum í skólakerfinu svipað og stefnurnar í leik- og grunnskólum standa fyrir heima, þetta „play-based“ módel sem er auðvelt að finna í flestum leikskólum landsins. Skólakerfið hér skiptist því í tvennt, annars vegar hverfisskóla og svo alþjóðlega skóla, þarna er mikill áherslumunur. Í hverfisleikskólum eru börnin frá 7 á morgnanna til 19 á kvöldin, fólk vinnur svo langa vinnudaga. Mikið er lagt upp úr aga og þurfa leikskólabörn að sitja kyrr við borð og læra, hlusta á kennarann og gera svo heimavinnu fyrir næsta leikskóladag. Ég er auðvitað svakalega mikið á móti þessu því þetta stríðir gegn því sem er eðlislægt fyrir börn á þessum aldri. Það er margsannað að börn læri best í gegnum leik og helst frjálsan leik sem þau fá að stjórna sjálf.
Alþjóðlegu skólarnir eru skárri en þeir eru mjög dýrir. Ég var svo heppin að finna lítinn leikskóla sem er virkilega „play-based“ og skólastýran les bloggið hennar Janet Lansbury og er mjög vel að sér. Hér í Singapúr er líka óhugnalega algengt að foreldrar leggi hendur á börnin sín í refsingarskyni, það er meira að segja ákveðinn stafur sem einungis er notaður í hýðingarskyni og þá er talað um „caning“. Þetta á að aga börnin og láta þau hlýða. Mér fallast oft hendur yfir þessu og finnst svo langt í land en þetta er samt smátt og smátt eitthvað að breytast, maður getur ekki breytt heiminum einn en maður breytir samt sem áður heiminum á sinn hátt þegar maður vandar sig vel í uppeldinu, börnin okkar eru auðvitað framtíðin og því hvergi betri staður til að hafa mikil og góð áhrif.“
Stundum getur verið skemmtilegt að breyta til um áramótin og prófa eitthvað nýtt.
Planaðu gamlárskvöld með krökkunum
Ef þú átt börn þá er upplagt að plana gamlárskvöld með þeim. Búa til leiki, spila, horfa á Áramótskaupið og skemmtilegar myndir, borða smákökur og læra áramótahefðir annarra landa. Það er hægt að gera svo margt skemmtilegt saman.
Haltu þemapartí
Haltu fjölmennt partí með því að hóa saman fjölskyldu, vinum og kunningjum og hafðu skemmtilegt þema. Hægt er að hafa hlaðborð og biðja alla um að koma með eitthvað gómsætt á borðið. Hver veit, ef vel tekst til gæti þetta jafnvel orðið árlegur viðburður.
Njóttu þess að vera heima
Svo er alltaf hægt að njóta sín í rólegheitum heima um kvöldið.
Hafa það til dæmis gott undir hlýju teppi upp í sófa og horfa á Áramótaannálinn og Skaupið, annað hvort ein/n eða í góðum félagsskap.
Fara til dæmis í skemmtilega leiki, spjalla og fara saman yfir árið sem er að líða.
Finndu gott útsýni
Hvernig væri að prófa að upplifa áramótin í nýju ljósi. Ganga til dæmis upp í hlíðar Esjunar og horfa á ljósadýrðina þaðan. Nú eða fara upp í Öskjuhlíð eða að Kópavogskirkju. Þessir staðir eru uppi á hæð þaðan sem fínt útsýni er yfir borgina.
Svokallaðir mömmubloggarar hafa aldrei notið jafn mikilla vinsælda og nú, enda frábært að geta fengið stílráð og mömmumola á sama stað. Hér eru bloggsíður fantaflottra mæðra sem við mælum með að þið smellið á í næsta netrúnti.
Ruth Crilly (mynd að ofan)
Ruth Crilly er fyrirsæta og móðir sem á von á sínu öðru barni. Hún hefur lengi haldið úti „bjútí“bloggsíðu og vinsælli YouTube-stöð en eftir að hún varð móðir stofnaði hún bloggið TheUpphill.com þar sem hún fjallar um allt sem snýr að móðurhlutverkinu. Hún er sjarmatröll mikið með einstaklega smitandi húmor, við mælum með henni heilshugar.
Joanna Goddard
Joanna byrjaði feril sinn hjá Cosmopolitan og þekkir því fjölmiðlabransann inn og út. Hún hefur einnig skrifað fyrir Elle, Glamour, New York, Condé Nast Traveler og Martha Stewart Living. Bloggsíðan hennar, sem í byrjun var einungis hobbí, er nú orðið að hennar aðalatvinnu. Fylgist með ævintýrum hennar og fjölskyldunnar á CupOfJo.com.
Anh Sundstrom
Anh Sundstrom er mamma hennar litlu Luciu og fáránlega smart markaðsstýra en hún heldur úti mömmutískublogginu 9to5Chic.com. Síðan bloggsíðan hennar fór á flug hefur hún birst í Elle og Glamour, meðal annars.
Sofi Fahrman
Hin sænska Sofi heldur úti gríðarvinsælu bloggsíðunni Sofi´s Snapshots (Sofissnapshots.com), hún hefur gefið út fjórar bækur sem farið hafa beint á topp vinsældarlista, og stjórnað sænsku útgáfunni af Project Runway. Talandi um mömmuinnblástur!
Rachel Parcell
Rachel Parcell hefur grætt á tá og fingri síðan hún stofnaði vefsíðuna sína Pink Peonies og meðal annars hannað sína eigin skartgripalínu. Hægt er að fylgjast með þessari sjarmerandi tveggja barna móður á Pinkpeonies.com.
Anjelica Lorenz
Við mælum með því að þið kíkið á bloggsíðu hinnar hrikalega smörtu Anjelica Lorenz, Modejunkie.com, hvort sem það er til að fá stílinnblástur eða hugmyndir fyrir næsta barnaafmæli.
Emily Schuman
Cupcakes and Cashmere hefur lengi verið vinsælt tískublogg en nýverið hafa lesendur þess fengið að fylgjast með hvernig Emily Schuman spreytir sig í mömmuhlutverkinu. Bollaköku- og kasmírblanda klikkar seint! Cupcakesandcashmere.com
Charlotte Groeneveld-Van Haren
Tveggja barna móðirin Charlotte er þekkt fyrir frábæran stíl og birtist reglulega á síðum tímarita á borð við Vogue Paris, InStyle, Nylon og W Magazine. Mömmustílinnblástur beint í æð! Thefashionguitar.com
Prýðilegir partýréttir eða „daginn-eftir-partý-réttir“ úr smiðju Önnu Bjarkar Eðvarðsdóttur.
Anna Björk Eðvarðsdóttir lærði fyrst að elda egg í brauði og segir það hafa verið ást við fyrsta bita. Hún segir árstíðirnar ráða því hvaða matreiðsluhefð sé í uppáhaldi en réttirnar sem hún býður lesendum upp á að þessu sinni eru hver öðrum girnilegri.
Hvað starfarðu og hvaða verkefni fæstu við um þessar mundir? Ég er bloggari, sjálfboðaliði, eiginkona, mamma og amma. Það sem ég hef verið að dunda mér við undanfarið er að gera upp 34 feta seglskútu sem við Guðjón eigum. Hún stóð á landi í nokkur ár og þurfti á ást og umhyggju að halda þegar við sjósettum hana aftur. Við erum að klára það og vonum að við náum að sigla eitthvað áður en haustlægðirnar hellast yfir okkur.
Hvað var það fyrsta sem þú lærðir að elda? Egg í brauði, það er sem sagt brauðsneið sem miðjan er skoinn úr. Ytra lagið af sneiðinni er steikt á pönnu og egg brotið ofan í holuna og þegar eggið hefur tekið sig í smástund á pönnunni er miðjan sett ofan á eggið án þess að sprengja rauðuna og svo er sneiðinni snúið við og hún steikt áfram á hinni hliðinni. Þessi dásemd er svo borin fram með tómatsósu og sinnepi, til hliðar. Þetta varð ást við fyrsta bita, ást sem varir enn.
Ertu jafnvíg á bakstur og matseld? Mér finnst miklu skemmtilegra að elda en baka. Ég baka ekki mikið af hnallþórum en ég hef gaman af því að baka brauð og allskonar bökur. Ég hef ekki lagt mikla rækt við bakasturinn. Ég hef alltaf haldið því fram að það sé mömmu að kenna, hún er svo frábær bakari að ég hef ekki nennt að reyna eins mikið fyrir mér í þeim efnum.
Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín? Nei, alls ekki. Mér finnst það fara eftir árstíðunum hvað höfðar til mín á hverjum tíma. Hvaða hráefni er ferskast, veðrið og hitastigið skiptir máli og svo auðvitað hvað er til í ísskápnum. Ég er mjög nýtin og þoli ekki að henda mat.
Mér finnst það fara eftir árstíðunum hvað höfðar til mín á hverjum tíma. Hvaða hráefni er ferskast, veðrið og hitastigið skiptir máli og svo auðvitað hvað er til í ísskápnum. Ég er mjög nýtin og þoli ekki að henda mat.
Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu? Örugglega nokkur en ég er með nokkuð gott valminni á svoleiðis og sigta það frá og nenni ekki mikið að pæla í því. En ef þú pressar mig þá rámar mig óljóst í fyllingu í sítrónu-marensböku sem vildi ekki láta að stjórn, ójá, oftar en einu sinni.
Hefur þú uppgötvað einhverja snilld í matseld nýlega? „Low and slow“, eða hægeldaður matur. Það er ekkert nýtt við það en mikil snilld sem minnir á sig aftur og aftur. Aðferðin gefur hráefninu tíma svo það njóti sín sem best og maður þarf ekki að standa yfir pottunum lengi. Þá er t.d. hægt að kaupa ódýrari bita af kjöti sem eru oft vannýttir og útbúa stórkostlega veislu. Ég á mér uppáhaldsmeðlæti sem eru hægeldaðir smátómatar í góðri ólífuolíu með sneiddum hvítlauk og tímíani, dásamlegir.
Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku? Það var eflaust að sjá um veitingarnar í vígslu reiðhallarinnar í Mosfellsbæ hjá Hestamannafélaginu Herði en þá var Guðjón formaður Harðar. Annars er það þetta venjulega, eins og hjá flestum, að elda hátíðarmatinn um jól og áramót, að allt lukkist sem best. Maturinn er svo stór hluti af upplifuninni á jólunum, ilmurinn sem læðist í gegnum húsið eftir því sem líður á daginn kemur með hátíðarstemninguna. Í sumar var skírnarveisla yngri dóttursonarins heima hjá okkur Guðjóni. Það var hádegisverður fyrir stórfjölskylduna og vini sem ég naut að elda eins og alltaf þegar maður eldar fyrir þá sem hafa gaman af því að borða góðan mat.
Uppáhaldsmatreiðsluþættir? Þættir sem fara nánar í efnð, eins og hvaðan hráefnið kemur, hvernig það er alið eða ræktað. Þættir sem eru um hvernig matur var eldaður hér áður fyrr. Mér finnst það allt svo forvitnilegt hvernig farið var að áður en öll nútímaþægindin komu til sögunnar. Hið blómlega bú er t.d. þáttur sem ég naut að horfa á og breskir þættir sem heita Food Unwrapped eru uppáhaldsþættir. Annars finnst mér alltaf gaman að horfa á matreiðsluþætti.
Cheddar- og parmesanbitar með reyktri papriku og rósmaríni
45 stykki
125 g mjúkt smjör
1 msk. flórsykur
1 tsk. kummin
1 tsk. reykt paprikuduft
80 g sterkur cheddar-ostur
50 g rifinn parmesanostur
2 tsk. kúmenfræ
2 tsk. saxað ferskt rósmarínlauf
110 g hveiti
50 g maísmjöl (gróft eins og polenta)
salt á hnífsoddi
Ofan á kökurnar
1 egg, þeytt
rósmaríngreinar
gróft sjávarsalt
Ofninn er hitaður í 160°C á blæstri. Smjör, flórsykur, kummin og paprika er þeytt létt og ljós. Hrærið svo báða ostana varlega út í ásamt kúmeni og rósmaríni.
Að lokum er hveiti og maísmjöli ásamt salti bætt út í og hrært í samfellt deig. Deigið er sett á bökunarpappír og annað lag af pappír lagt ofan á deigið og það er svo flatt út þar á milli með kökukefli þar til það er eins og 100 kr. peningur. Sett í kæli og kælt. Þegar deigið er tilbúið til að baka eru stungnar út kökur sem eru um 5 cm í þvermál, penslaðar með þeyttu eggi og söxuðu rósmaríni og grófu sjávarsalti dreift yfir.
Kökunum er raðar á pappírsklædda bökunarpötu og þær bakaðar í 16-17 mínútur. Hægt er að frysta óbakað deigið.
Ofninn er hitaður í 180°C. Sex brauðsneiðum er raðað á stóran djúpan disk. Hrærið saman í skál rjómaost, mascarpone, pekanhnetur, púðursykur, kanil og salt. Maukinu er smurt á sneiðarnar og hinar sex sneiðarnar eru lagðar ofan á. Þeytið saman í annarri skál egg, mjólk og salt. Hrærunni er hellt jafnt yfir sneiðarnar svo hún þeki allt yfirborðið og látin bíða í smástund svo þær drekki í sig vökvann. Bökunarpappír er settur í ofnskúffu og samlokunum raðað ofan í. Bakaðar í 1 klukkustund en snúið á 15 mínútna fresti svo þær bakist jafnt.
Saltkaramellu-bananasósa
¾ bollar dökkur púðursykur, þéttpakkaður
½ bolli rjómi
½ bolli smjör
2 msk. síróp
1 tsk. vanilludropar
½ tsk. gróft sjávarsalt
1 banani
Púðursykur, rjómi, smjör og síróp er hitað í potti á rúmlegum meðalhita. Suðan er látin koma upp og hitinn lækkaður og þetta látið malla í 3-4 mínútur. Tekið af hitanum, vanillu og salti bætt út í. Hellt í skál og látið kólna niður í stofuhita í um klukkustund. Bananinn er skorinn í sneiðar og hann hrærður varlega út í.
Hakkinu og kryddinu ásamt harissa-maukinu og salti er hnoðað vel saman. Deiginu er skipt í tvo jafna hluta. Fetaosturinn er mulinn í miðjuna á hvorum borgara og deiginu vafið utan um ostinn og lokað vel. Grillpanna er hituð á meðalhita, borgararnir penslaðir með olíu og steiktir í 5-6 mínútur. Pítubrauðin eru hituð í brauðristinni. Þau eru svo fyllt með grískri jógúrt, klettasalati og lamborgara. Þessi borgari er frábær á útigrillið.
Pylsurnar eru grillaðar eða steiktar. Brauðin eru opnuð og þunnu lagi af smjöri er smurt inn í þau og þau grilluð eða ristuð, bara að innan, á þurri pönnu á háum hita. Brauðið smurt að innan með sterku sinnepi, síðan er pylsa lögð í brauðið ásamt lauk og salsa.
Bjórsoðinn sætur laukur
2 tsk. ólífuolía
2 tsk. smjör
3 stórir laukar í þunnum sneiðum
1 tsk. kúmenfræ
2 msk. dökkur muscavado-sykur eða dökkur púðursykur
2 hvítlauksrif, marin
1 flaska ljós bjór
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
Olía og smjör er hitað á pönnu og lauk, kúmeni og salti er bætt út í og steikt á meðalhita í u.þ.b. 10 mínútur og hrært í við og við. Sykrinum er dreift yfir ásamt hvítlauk og látið mallað áfram þar til laukurinn fer að karamelliserast. Þá er bjórnum hellt yfir og látið mallað áfram í um 15 mínútur, eða þar til bjórinn er gufaður upp og laukurinn er dökkur á litinn. Smakkað til með salti og pipar.
Chili-salsa
2 vorlaukar, í þunnum sneiðum
1 rautt chili, fínsaxað (fræin með ef þú vilt salsað sterkt)
Útbúið marineringuna og látið rækjurnar marinerast í nokkra tíma. Þær eru svo þræddar á grillpinna en ekki henda marineringunni. Rækjurnar eru grillaðar þar til þær eru orðnar bleikar og gegnsteiktar en passið að ofelda þær ekki. Marineringin er sett í lítinn pott og látin malla í nokkrar mínútur, síðan er henni hellt yfir grillaðar rækjurnar.
Smjör- og blóðbergsbollubrauð
2 öskjur tilbúið pizzudeig, ekki útrúllað
50 g smjör, brætt
blóðbergs- eða rósmaríngreinar
1-2 msk. polenta
gróft sjávarsalt
Smyrjið 20 cm lausbotna kökuform að innan með olíu og polentan er hrist innan í forminu svo hún þeki botn og hliðar. Deiginu er skipt í u.þ.b. 14 jafnstóra hluta og þeir hnoðaðir létt í litlar bollur sem er jafnað í formið. Þær þekja ekki botninn en fylla vel út í eftir hefingu. Mér finnst fínt að láta deigið hefast í 1-2 klukkustundir undir plastfilmu áður en ég baka það. Ofninn er hitaður í 200°C. Smjörið er brætt og kælt aðeins, svo er því penslað yfir brauðið. Að lokum er blóðbergi og grófu salti dreift yfir og brauðið bakað í 30-35 mínútur. Tekið úr forminu um leið og það hefur kólnað aðeins og borið fram með rækjunum og auka smjöri.
Nú eru áramótin á næsta leiti og þá fara flestir í einhvers konar veislu eða partí.
Það er því við hæfi að skoða nokkrar bestu og frægustu partímyndir allra tíma.
Á æskuslóðum
Eins og nafnið gefur til kynna fjallar kvikmyndin Sisters um systurnar Kate og Mauru Ellis (mynd hér að ofan). Þegar þær komast á snoðir um áform foreldra sinna um að selja æskuheimili þeirra ákveða þær að halda kveðjuhóf á meðan foreldrarnir bregða sér frá. Þetta partí skal toppa öll partí sem áður hafa verið haldin í þessu húsi. Félögum þeirra úr gagnfræðiskóla er öllum boðið. Þrátt fyrir að meirihluti þeirra sé nú orðinn ráðsettur og með börn kunna þeir enn að djamma. Tina Fey og Amy Poehler, sem leika systurnar, eru kómískir snillingar. Í myndinni fylgjumst við með kostulegum undirbúningi og auðvitað veislunni sjálfri sem eins og flestir ættu að geta giskað á fer heldur betur úrskeiðis með verulega skondnum afleiðingum.
Tryllt tógapartí
Animal House (hér til hliðar) gerist árið 1962 í Faber-framhaldsskólanum. Delta Tau Chi-bræðralagið er illa þokkað og hver sem er getur fengið inngöngu á meðan Omega Theta Pi-bræðralagið er ekki opið hverjum sem er og í raun stútfullt af ríkum, hvítum strákum sem enginn þolir nema skólastjórinn. Skólastjórinn leitar til þeirra til að hrekja fyrrnefnda bræðralagið úr skólanum. Alls kyns bellibrögðum er beitt og skólastjórinn nær vilja sínum næstum fram. Delturnar halda risastórt tóga-partí með hljómsveit og öllu klabbinu. Ýmistlegt skrautlegt gerist í partíinu, meðal annars sefur einn bræðranna hjá eiginkonu skólastjórans.
Sögulegt partí
Í Project X á Thomas afmæli og eins og alla unga menn dreymir hann um að halda besta og flottasta afmælispartí sem haldið hefur verið. Til allrar lukku verða foreldrar hans ekki heima svo Thomas lætur slag standa og fær félaga sína, J.B. og Costa, í lið með sér. Hann lætur orðið ganga að öllum sé boðið heim til hans í partí ársins – og enginn lætur segja sér það tvisvar. Allir mæta og upphefst einhver svakalegasta veisla sem sögur fara af. Það skemmir auðvitað ekki fyrir að Thomas á ríka foreldra sem búa í stóru húsi með sundlaug og alls konar fíneríi. Auðvitað reynast nágrannarnir ekki alveg sáttir við lætin en það bíttar engu.
Þrautaganga
Lúðarnir og bestu vinirnir Evan og Seth í myndinni Superbad gera hér um bil hvað sem er til að vinna sér hylli kvenpeningsins. Þegar þeir komast óvænt yfir heimboð í partí eyða þeir heilum degi, ásamt vini sínum Fogell, í að komast yfir nægt áfengi fyrir partíið. Þeir ætla að deila áfenginu með tveimur stelpum, Jules og Beccu, í þeirri von að þeir missi loksins sveindóminn og geti farið í framhaldsskóla eftir viðburðaríkt sumar. Áætlun þeirra flækist þegar Fogell lendir upp á kant við tvær klaufskar löggur sem hægja á þeim en jafnframt aðstoða þá um leið. Komast þeir einhvern tímann í partíið og með nægilegt áfengi?
Óþreyjufull ungmenni
Can‘t Hardly Wait er klassísk partímynd í þeim skilningi að hún gerist nær eingöngu í einu partíi. Eftir brautskráningu nemenda í Huntington Hill-skólanum er komið að lokapartíinu. Þar er samankomin hin skrautlega nemendaflóra sem þrifist hefur í skólanum undanfarin fjögur ár – nördar, íþróttagarpar, fegurðardísir og hornrekur. Öll eru þau staðráðin í að sleppa fram af sér beislinu og gera upp þær tilfinningar sem legið hafa bældar alla skólagönguna, enda ekki seinna vænna áður en þau halda sína leið.
Nokkur góð ráð varðandi val á ilmvatni til að auka endingu.
Hvernig við skynjum ilm og hvaða ilmur okkur þykir góður er afar persónubundið. Þess vegna er mjög áhættusamt að gefa einhverjum ilmvatn að gjöf, það er, ef viðkomandi hefur ekki valið sér það sjálfur. En þegar við höfum loksins fundið rétta ilminn fyrir okkur þá viljum auðvitað að hann endist sem lengst á okkur. Hér eru nokkur góð ráð varðandi val á ilmvatni til að auka endingu og hvernig sé best að geyma þau.
1. Ilmvötn hafa takmarkaðan líftíma síðan fer lyktin að breytast og dofna. Ákveðnir þættir geta haft áhrif á og takmarkað líftímann, þá sérstaklega hiti, birta og raki. Þess vegna er óráðlegt að geyma ilmvötn inni á baðherbergi eða úti í gluggakistu og mælst er til að geyma þau frekar á þurrum og skuggsælum stað. Það þýðir þó ekki að þú þurfir að geyma þau inni í skáp. Yfirleitt er mikil vinna lögð í hönnun ilmvatsnglasa og því er tilvalið að stilla þeim fallega upp á snyrtiborði eða kommóðu, margir hafa til dæmis notað fallega bakka eða kökudiska.
2. Ilmur endist skemur á þurri húð og þess vegna er mikilvægt að bera krem á húðina ef þú vilt að hann endist lengur. Mörg ilmvatnsmerki framleiða body lotion með sama ilmi sem vissulega eykur áhrif hans en það er ekkert síðra að nota gott ilmlaust krem. Einnig mæla sumir sérfræðingar með því að bera vaselín á þá staði sem þú spreyjar ilmvatninu á því það myndar nokkurs konar hjúp á milli ilmvatnsins og húðarinnar og eykur þannig endingu.
Algengt er að sjá konur nudda úlnliðunum saman eftir að þær hafa spreyjað ilmvatni á sig en það eru mikil mistök. Það verður til þess að toppnótur ilmsins hverfa hraðar og ilmurinn endist skemur á úlnliðnum.
3. Spreyjaðu ilmvatni á helstu púlsstaði líkamans, það er úlnliði, háls og olnboga- og hnésbætur, því það tryggir að ilmurinn dreifist vel. Best er að spreyja á sig ilmvatni þegar maður er nýkominn úr sturtu og áður en maður klæðir sig því þá er húðin rök og grípur frekar ilminn. Þetta kemur líka í veg fyrir að ilmvatnið liti viðkvæm föt eða skartgripi. Algengt er að sjá konur nudda úlnliðunum saman eftir að þær hafa spreyjað ilmvatni á sig en það eru mikil mistök. Það verður til þess að toppnótur ilmsins hverfa hraðar og ilmurinn endist skemur á úlnliðnum. Ef þú vilt aðeins fá léttan ilm eða ert að bæta á þig örlítið meira ilmvatni fyrir kvöldið er sniðugt að spreyja ilmvatninu létt upp í loftið og ganga inn í mistrið. Margar konur spreyja ilmvatni í hárið á sér milli þvotta, enda er mikil uppgufun sem fer fram í gegnum höfuðið, ilmvatn sem inniheldur alkahól getur þó þurrkað hárið óþarflega mikið og þá er betra að spreyja ilmvatninu í hárbursta og renna honum svo í gegnum hárið.
4. Það getur reynst flókið að finna sér nýjan ilm og nauðsynlegt að vera með helstu hugtök á hreinu. Eau de toilette er með léttari ilm en Eau de parfum og er þar af leiðandi yfirleitt aðeins ódýrari. Ilmnótur skiptast niður í grunn-, mið- og toppnótur en ilmur getur ýmist verið blómlegur, sætur, kryddaður eða sítrus- og ávaxtakenndur. Einnig er hægt að fá ilm í föstu formi eða sem hreina ilmolíu, en slíkur ilmur er oftar en ekki kröftugri en sá sem er spreyjaður.
5. Það er mjög misjafnt hvernig ilmvötn lykta á fólki. Í flestum verslunum er að finna þar til gerðan pappír sem þú getur spreyjað á áður en þú reynir eitthvað á eigin skinni. Ef þú hins vegar lendir í því að þú spreyjar á þig ilmvatni sem hentar þér alls ekki er gott að strjúka meikhreinsiklút yfir svæðið til að fjarlægja ilminn. Sniðugt er að blanda ólíkum ilmvötnum saman til að fá einstakan ilm sem einkennir þig. Þá er sniðugt að nota prufupappírinn til að prófa ólíkar blöndur. Þumalputtareglan segir að þú eigir að byrja á þyngri ilmi og enda á léttari, því annars er hætta á að sá léttari kæfist. Til að finna sanna lykt ilmvatnsins verður að spreyja því á húð og leyfa því að bíða í nokkrar mínútur á meðan það rýkur aðeins og aðlagast þér.
6. Ilmvötn má nota á fjölmarga vegu, til dæmis er sniðugt að spreyja uppáhaldsilmvatninu þínu á sængurfötin þín. Einnig er hægt að spreyja því á tissjúpappír sem þú setur í skúffurnar þar sem þú geymir fötin þín þannig að þau dragi í sig örlítinn ilm. Góð leið til að nýta síðustu dropana af ilmvatni sem leynist á botni glassins er að hella því út í lyktarlaust body lotion og gefa því þannig ilm.