Þriðjudagur 12. nóvember, 2024
7.2 C
Reykjavik

„Mikilvægasta í þessu öllu að umvefja þær ótæmandi elsku“

Á Íslandi finnast fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum.

Anna Þórhildur I. Sæmundsdóttir, Sigríður Eir Zophoníasardóttir og dætur þeirra tvær eru ein gerð hinsegin fjölskyldu. Þær voru báðar staðráðnar í því að eignast börn þegar þær kynntust og voru ekki lengi að láta verða af því. Við ræddum við þær um ólík móðurhlutverk, veggina sem þær hafa rekist á innan kerfisins, pabbaleysið og fleira.

Sigríður Eir og Anna Þórhildur, eða Sigga og Tótla eins og þær eru allajafna kallaðar, segjast ekki hafa lent í miklu mótlæti varðandi fjölskylduform þeirra.

Á undanförnum árum hefur orðið mikil framþróun í málefnum og réttindum hinsegin einstaklinga – ekki síst hvað varðar fjölskyldumyndun, það er hjónabönd og barneignir. Það er þó töluvert í land og enn ber eitthvað á fordómum og fáfræði í samfélaginu.

Sigríður Eir og Anna Þórhildur, eða Sigga og Tótla eins og þær eru allajafna kallaðar, segjast ekki hafa lent í miklu mótlæti varðandi fjölskylduform þeirra. Þær hafa þó rekist á nokkra veggi innan skrifræðisins. „Það er svona eitt og annað í kerfinu sem þarf að laga og ég held að allir séu sammála um hvaða atriði það séu, en það þarf bara að láta verða að því. Við þurfum til dæmis að skiptast á að vera pabbinn á hinum ýmsum eyðublöðum. Eins þurftum við að ,,feðra“ börnin okkar í þjóðskrá. Við erum ekki skráðar sjálfvirkt sem foreldrar, eins og hjá gagnkynhneigðum hjónum, heldur þurfum við í rauninni að sækja um að verða það eftir að barnið fæðist og svo framvegis,“ segir Tótla.

„Okkar nærumhverfi er kannski frekar verndað, flestir í kringum okkur eru upplýst og þenkjandi fólk sem gerir ekki greinarmun á okkur og öðrum fjölskyldum. Helst er það yfirþyrmandi áhugi Íslendinga á erfðamálum og genatengingum og þá kannski klaufalegar spurningar í því samhengi,“ bætir Sigga við.

Eiga ekki pabba

Það voru einmitt þessar klaufalegu spurningar sem urðu til þess að Sigga birti pistil á Facebook þar sem hún tók það skýrt fram að dætur þeirra ættu ekki pabba. „Nú er Úa komin á þann aldur að hún heyrir og skilur nánast allt sem fram fer í kringum hana. Þannig er ringlandi fyrir hana að heyra spurningar um pabba hennar og Eyrúnar þegar staðreyndin er sú að þær eiga ekki pabba. Sumir virðast ekki skilja eða eru bara ekki búnir að átta sig á að sæðisgjafinn þeirra er ekki pabbi þeirra. Það að vera pabbi er félagslegt hlutverk og pabbar hafa sömu skyldum að gegna og mæður, nema kannski rétt fyrstu vikur og mánuði í lífi barns. Það er að engu leyti minna mikilvægt hlutverk heldur en það að vera móðir. Við berum einfaldlega of mikla virðingu og of miklar væntingar til föðurhlutverkins en svo að geta kallað sæðisgjafa föður,“ segir hún.

Þær skrifuðu pistilinn í sameiningu og ætluðu hann fyrir fólkið í kringum þær, sem þær umgangast dagsdaglega, sem er með þeim í liði, fólkinu sem þær langar að umgangast. Pistillinn rataði síðan í fjölmiðla og hristi aðeins upp í samfélagsumræðunni. „Þetta var skrifað fyrir fólkið sem er með okkur í liði, við vorum ekki að reyna að sannfæra eða breyta skoðun neins. Okkur langaði að benda því á það hvernig orðanotkun, sem í flestum tilfellum er bara vanhugsuð sökum þekkingarleysis, getur haft slæm áhrif á börnin okkar. Hjá þessu

„Við þurfum að skiptast á að vera pabbinn á hinum ýmsum eyðublöðum. Við erum ekki skráðar sjálfvirkt sem foreldrar, eins og hjá gagnkynhneigðum hjónum, heldur þurfum við í rauninni að sækja um að verða það eftir að barnið fæðist.“

fólki höfum við fengið frábærar viðtökur. Það eru ótal margir búnir að skrifa okkur eða koma að máli við okkur og þakka okkur fyrir að benda sér á þetta. Nú viti það eitthvað sem það vissi ekki fyrir og að þetta hafi verið mikilvæg og góð áminnig. Auðvitað eru alltaf þessir fáu sem finna sig knúna til að segja eitthvað ljótt og vera dónalegir en þeirra orð og skrif dæma sig sjálf og við ákváðum að eyða ekki einu pennastriki eða orkudropa í svoleiðis glóruleysi,“ segir Tótla.

Ólík móðurhlutverk

Nú hafa Sigga og Tótla báðar gengið með barn, sem og verið foreldrið sem styður við bakið á þeirri sem gengur með. Þó að bæði séu vissulega móðurhlutverk eru þau afar ólík á meðgöngu, í fæðingu og fyrstu vikurnar á eftir. Að því loknu blandast hlutverkin meira saman og nú sinna þær báðar sömu hlutverkum gagnvart dætrum sínum.

„Það hentaði mér betur að vera sú sem gengur með heldur en að vera stuðningsaðilinn, mér fannst það að mörgu leyti mjög erfitt hlutverk. Þó svo að Tótla hafi verið miklu betri í því þá uppgötvuðum við báðar að þetta hlutverk að vera ,,hinn“ er mjög vanþakklátt og lítið rætt. Oft er svo mikill fókus á meðgöngumóðurina að hinn gleymist og ég get ímyndað mér að hinn gleymist jafnvel enn frekar ef hann er karlmaður. Við lentum til dæmis báðar í því að vera ekki óskað til hamingju með komandi barn af því það var ekki inni í okkar bumbu,“ segir Sigga.

Tótla er sammála og segir að sér hafi einmitt liðið betur sem stuðningsaðilinn. „Meðgangan mín var frekar erfið. Mér leið ekki vel og tókst á við hina ýmsu fylgikvilla. Mér þykir yfirleitt betra að vera manneskjan í bakgrunninum, finnst athygli sem beinist of mikið að mér óþægileg. Mér fannst samt stórkostlegt að fá að prófa þetta. Það eru algjör forréttindi að geta búið til manneskju inni í sér og alls ekki sjálfsagt. Það er magnað að finna hana vaxa og hreyfast innra með sér.“

Hvað varðar foreldrahlutverkið þykir Siggu og Tótlu mikilvægt að þær séu lið, að þær standi saman og séu samkvæmar sjálfum sér.

Fæðingin sjálf reynir ekki síst á stuðningsaðilann, en bæði Sigga og Tótla fæddu á heimili þeirra. „Líkami hins foreldrisins gerir ekkert til að hjálpa þeim í gegnum fæðinguna. Maður finnur fyrir hræðslunni og þreytunni margfalt á við þann sem er að fæða. Þannig var allavega mín reynsla. Fæðingin mín tók rúma tvo sólarhringa en Siggu einn og hálfan klukkutíma. Ég var alveg að bugast undan biðinni hjá mér en varð hrædd hvað þetta tók stuttan tíma hjá henni. Ljósmæðurnar rétt náðu til okkar áður en Sigga átti. Það var komin kollur niður, enginn kominn til okkar og ég held að ég hafi aldrei verið jafnhrædd á ævinni. Þegar ég var að fæða var ég hins vegar bara í því hlutverki og náði einhvern veginn að fara inn á við og loka á allt annað,“ segir Tótla.

„Já, ég var miklu þreyttari eftir fæðinguna hennar Tótlu en þegar ég var sjálf að fæða,“ bætir Sigga við. „Þegar Eyrún var komin í heiminn fékk ég svo mikið spennufall og það helltist yfir mig svo mikil þreyta að það leið næstum því yfir mig. Mig vantaði allt endorfínið og adrenalínið til að hjálpa mér.“

Smellpössuðu saman

Þær kynntust fyrir fjórum árum úti á lífinu, eins og svo mörg pör. „Ég sá Tótlu á bar með vinum sínum snemma á laugardagskvöldi og fannst hún sæt. Ég þorði samt ekki að nálgast hana þar og vonaði að ég myndi hitta á hana seinna um kvöldið, á eina hinsegin bar borgarinnar. Svo var hún auðvitað þar að dansa með vinum sínum og ég safnaði kjarki til að fara og dansa við hana,“ segir Sigga brosandi.

Sigga er uppalin á Hallormsstað og bjó fyrir austan þar til hún fór í Menntaskólann í Hamrahlíð. Þaðan lá leið hennar í Listaháskólann og útskrifaðist af sviðshöfundabraut með millilendingu í trúðaskóla í Kaupmannahöfn. „Í Listaháskólanum kynntist ég Völu Höskuldsdóttur og stofnaði með henni Hljómsveitina Evu sem hefur svo verið mitt aðalstarf síðan, samhliða útvarpsvinnu á Ríkisútvarpinu og fleira.“

Siggu og Tótlu finnst fólk hér á landi fullupptekið af erfðum og skyldleika. Eitthvað hefur borið á því að fólk segi að Úlfhildur og Eyrún séu hálfsystur.

Tótla ólst hins vegar upp í Vesturbænum og fór í Kvennaskólann. Hún hélt svo út til Flórens á Ítalíu þar sem hún lærði grafíska hönnun. Þegar hún kom heim úr náminu fékk hún fljótlega vinnu sem grafískur hönnuður á fréttastofu Stöðvar 2 og hefur unnið þar síðan.

„Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Við vorum báðar harðákveðnar að við værum ekkert að leita okkur að sambandi en gátum ekki haldið okkur hvor frá annarri,“ segir Sigga.

Tótla kinkar kolli og tekur í sama streng. „Sigga er sú allra skemmtilegasta kona sem ég hef kynnst. Ég áttaði mig fljótlega á því að ég hafði aldrei kynnst neinum sem ég átti svona auðvelt með að umgangast mikið. Ég er gjörn á að fá óþol fyrir fólki eftir mikil samskipti en hef aldrei átt í erfiðleikum með að verja ótæpilegu magni af tíma með Siggu – helst finnst mér vandamál að fá of lítinn tíma með henni.“

Þótt þær hafi ekki beint verið að leita sér að sambandi voru barneignir þeim samt ofarlega í huga. „Ég held það hafi verið í annað eða þriðja skiptið sem við hittumst þegar ég gekk úr skugga um að Tótlu langaði til að eignast börn í náinni framtíð. Við vorum báðar á þeim stað að okkur langaði ekki að eyða tíma í samband sem myndi ekki leiða til þess á endanum að eignast börn,“ segir Sigga.

Þær komust líka fljótt að því að þær hefðu líkar hugmyndir um uppeldi barna og hvernig fjölskyldu þær vildu eiga. „Þó að við hefðum verið mjög stutt saman þegar við ákváðum að búa til barn vorum við ákveðnar í því að þótt við myndum kannski ekki endast sem par værum við tilbúnar að ala fallega upp barn saman,“ segir Tótla.

Allt eins og það átti að vera

Eftir að ákvörðunin um að búa til barn hafði verið tekin fóru Sigga og Tótla að ræða möguleikana. „Ég sá það alltaf þannig fyrir mér þannig að framtíðarkonan mín myndi ganga með börnin. Ég var dálítið stressuð fyrir þessu og var mjög glöð með að Sigga skyldi vilja byrja. Þegar ég fylgdist svo með Siggu upplifa þetta varð ég mjög spennt, fannst allt svo magnað sem hún var að ganga í gegnum og var mjög heilluð af ferlinu. Ég var með fjögur öpp í gangi þar sem ég fylgdist með þroska fóstursins og las fyrir hana úr bókum á kvöldin,“ segir Tótla. Sigga var mjög ánægð með þessa afstöðu Tótlu því að hún var búin að hlakka mikið til að ganga með barn. „Ég elskaði að vera ólétt og væri sko alveg til í að gera það aftur.“

„Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Við vorum báðar harðákveðnar að við værum ekkert að leita okkur að sambandi en gátum ekki haldið okkur hvor frá annarri.“

Þær höfðu heyrt að það gæti verið þónokkur bið eftir því að komast á Art Medica svo þær ákváðu að hringja strax og athuga með tíma í framtíðinni. Þá bauð konan í símanum þeim að koma daginn eftir sem þær þáðu. „Tíðahringurinn minn var á mjög heppilegum stað svo læknirinn sagði að okkur væri ekkert að vanbúnaði, við gætum komið aftur eftir um það bil tíu daga í uppsetningu. Við bjuggumst ekki við að þetta myndi gerast svona hratt og höfðum í rauninni bara ætlað að kíkja til hennar til að fá upplýsingar. Við sögðumst því þurfa að sofa á þessu en þegar við vöknuðum daginn eftir fundum við að við áttum að kýla á þetta,“ segir Sigga.

Það reyndist rétt því Sigga varð ólétt í fyrstu tilraun og úr varð eldri dóttir þeirra, Úlfhildur Katrín. „Við verðum sannfærðari um það á hverjum degi að við áttum að eignast akkúrat hana. Það þurfti svo aðeins fleiri tilraunir til að búa til Eyrúnu. Það var mjög erfitt, mikil vonbrigði og ákveðið áfall í hverjum mánuði þegar það gekk ekki, en svo gekk þetta að lokum og við erum jafnsannfærðar um að við áttum að fá akkúrat hana,“ bætir Tótla við.

Systrakærleikur

Úlfhildur verður þriggja ára í lok desember og mæður hennar lýsa henni sem ljúflyndum vargi. „Hún er ótrúlega skapandi og skemmtileg. Hún þarf mikið að hreyfa sig og ókyrrist fljótt ef hún fær það ekki,“ segir Tótla. „Hún hefur svo ríkt ímyndunarafl að hún trúir oft sögunum sem hún er að búa til fyrir okkur. Hún hefur farið að gráta undan ósýnilegu ljóni sem stökk út úr sögu sem hún var sjálf að segja. Einnig hefur komið fyrir að það var hákarl á milli herbergjanna okkar svo hún komst ekki yfir til okkar hjálparlaust. Hún er einnig nýfarin að semja vísur sem lofa mjög góðu.“

„Hún er ótrúlega blíð við litlu systur sína, leggst alltaf beint hjá henni þegar hún kemur úr leikskólanum og segir henni frá deginum sínum eða syngur fyrir hana. Þegar henni finnst samskiptin full einhliða talar hún líka fyrir systur sína með fyndinni skrækróma rödd og lætur eins og þær séu að tala saman,“ segir Sigga.

Eyrún er aðeins þriggja mánaða og samkvæmt Tótlu vita þær því ekki margt um hana enn þá. „Þó sjáum við strax að hún er mjög ákveðin og góð í að láta okkur vita hvað hún þarf. Hún er heldur ekkert að splæsa brosi eða spjalli á alla. Það er yfirleitt fyrir nokkra útvalda og aðallega heimilisfólkið. Hún er algjör snillingur í samskiptum og krefst þess að fá ríkan skerf af einbeittri athygli. Hún er kannski stundum eitthvað pirruð en er ekki svöng, blaut eða þreytt. Þá vill hún að við sitjum með hana á hnjánum og horfumst djúpt í augu, brosum hvor til annarrar og spjöllum saman.“

Þótt það sé ekki á dagskrá alveg á næstunni sjá Sigga og Tótla alveg fyrir sér að bæta við fjölskylduna.

Eins og áður segir þykir þeim Siggu og Tótlu fólk hér á landi fullupptekið af erfðum og skyldleika. Eitthvað hefur borið á því að fólk segi að Úlfhildur og Eyrún séu hálfsystur. „Þær eru systur. Fæddar inn í sömu fjölskyldu og hafa alist upp hjá sömu mæðrunum frá upphafi. Við sjáum ekki hvar hinn helmingurinn ætti að koma ef þetta er að vera hálf. Það er eins og að segja að við séum báðar stjúpmæður barnanna okkar,“ segir Sigga.

„Það stingur líka svolítið þegar við erum spurðar hvort þær séu skyldar. Við vitum alveg hvað átt er við en þetta orð er líka félagslega hlaðið og heppilegra væri að spyrja um blóðtengsl ef fólki finnst mikilvægt að vita hvernig blóð streymir um æðar þeirra. Ég held að Úlfhildur gæti ekki fundið neina manneskju í heiminum sem hún er jafnskyld og systur sinni og þau tengsl sem myndast hafa á milli þeirra nú þegar eru tengsl og skyldleiki sem engin heimsins gen eða blóð gæti styrkt enn frekar.“

Svipaðar mæður

Hvað varðar foreldrahlutverkið þykir Siggu og Tótlu mikilvægt að þær séu lið, að þær standi saman og séu samkvæmar sjálfum sér. „Við ræddum þetta mikið þegar Úa var á leiðinni og höfum það að leiðarljósi. Svo er auðvitað ótal, ótal margt sem okkur langar að gera og innræta börnunum okkar – svo margt að oft virkar það yfirþyrmandi hversu mikil ábyrgð það er að ala upp barn, að móta einstakling og reyna að búa honum sem best nesti. Þá er gott að minna sig á að trúlega er það mikilvægasta í þessu öllu að umvefja dæturnar ótæmandi elsku og minna þær á að þær eru nóg, alveg eins og þær eru í öllum aðstæðum, alltaf.“

Aðspurð hvernig mæður þær séu segist Sigga vona að hún sé hlý, skilningsrík og skemmtileg, jafnvel uppátækjasöm, og að hún segi oftar já en nei. „Ég vona líka að ég sé þolinmóð þó að það sé kannski helst það sem ég þarf að æfa mig í. Tótla er ótrúlega hlý og góð mamma. Hún er bæði leikfélagi og mjög góð í blíðum aga. Við erum að mörgu leyti frekar svipaðar mæður því við erum svo sammála um hvað okkur finnst mikilvægt í uppeldinu.“

„Þó að við hefðum verið mjög stutt saman þegar við ákváðum að búa til barn vorum við ákveðnar í því að þótt við myndum kannski ekki endast sem par værum við tilbúnar að ala fallega upp barn saman.“

„Ég held ég sé best í rólegum leik,“ segir Tótla. „Ég elska að lesa fyrir Úu, búa til og hlusta með henni á sögur. Ég reyni að hlusta á stelpurnar mínar og mæta þeim þar sem þær eru staddar hverju sinni. Ég held að ég sé ástrík en ákveðin og legg mikið upp úr því að hafa ramma þar sem er pláss fyrir mistök. Sigga er mjög drífandi og skemmtilegur uppalandi. Hún er alltaf að búa til ný ævintýri og er dugleg að koma með tónlist inn í líf okkar, syngur mikið með og fyrir Úu. Hún er líka dugleg að drífa okkur út í leiðangra þegar ég og Úa erum haugar og viljum helst liggja og glápa á teiknimyndir. Hún kennir okkur öllum að opna okkur og tala um tilfinningarnar okkar. Mér finnst mikilvægt að stelpurnar mínar séu sjálfstæðar, kurteisar og ríkar af samkennd og ég vona að ég geti kennt þeim það. Ég vil að þær viti að þær geti gert hvað sem þeim dettur í hug og vona að þær fái ástríðu fyrir einhverju í lífinu.“

Þótt það sé ekki á dagskrá alveg á næstunni sjá Sigga og Tótla alveg fyrir sér að bæta við fjölskylduna. „Það er svona á seinna plani að eignast eitt barn til viðbótar eftir nokkur ár. Hvort sem það verður barn sem við göngum með, tökum í fóstur eða ættleiðum,“ segir Tótla að lokum.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Förðun / Hrafnhildur Björk Runólfsdóttir

 

Eiginleikar eplaediks

Eplaedik hefur á undanförnum árum farið frá því að vera talið gamaldags húsráð í að vera vinsælt heilsulyf.

Það er búið til úr ferskum eplum sem eru hökkuð og látin gerjast í viðartunnum. Sýran í eplaedikinu er lykillinn að heilsueflandi kostum þess – kostum svo sem bættri meltingu, heilbrigðari húð, jafnvægi á blóðsykri, auknu þyngdartapi og minni bólgum og verkjum í líkamanum. Mikilvægt er að edikið sem þú notar sé bæði er ósíað og ógerilsneitt og helst lífrænt því það er stútfullt af lifandi og heilsubætandi gerlum. Hér eru fimm sniðugar leiðir til að nota eplaedik í daglegu lífi.

Talið er að eplaedik hjálpi til við hreinsun með því að auka starfsemi lifrarinnar við að losa sig við eiturefni, auk þess inniheldur það mikið af vítamínum, steinefnum og ensímum sem eru líkamanum mikilvæg í hreinsun.

1. Detox-hreinsun
Talið er að eplaedik hjálpi til við hreinsun með því að auka starfsemi lifrarinnar við að losa sig við eiturefni, auk þess inniheldur það mikið af vítamínum, steinefnum og ensímum sem eru líkamanum mikilvæg í hreinsun. Síðan getur eplaedik einnig hjálpað til við að draga úr vatnsuppsöfnun, eða bjúg, í líkamanum. Ýmist er hægt að innbyrða eplaedikið eða bæta því út í baðið. Til að útbúa hreinsandi bað bættu 1-2 bollum af ediki út í baðið á meðan þú lætur renna í. Liggðu í baðinu 20-30 mínútur og skolaðu baðvatnið af áður en þú þurrkar þér.

2. Heilbrigð húð
Eplaedik getur hjálpað til gegn hinum ýmsu húðvandamálum því það er bæði bakteríudrepandi og róandi. Hægt er að nota það í að fjarlægja vörtur á fótum, draga úr og meðhöndla bólur, minnka svitalykt og jafnvel milda sársauka sem fylgir sólbruna. Þegar á að nota eplaedik á húð þarf að blanda það með vatni, annars getur það verið of ertandi, og best er að nota tvo hluta af vatni á móti einum af eplaediki. Síðan er hægt að setja blönduna í lítinn spreybrúsa og spreyja beint á eða annars konar flösku og nota bómull og bera blönduna á húð.

3. Náttúrulegt hreinsiefni
Upp á síðkastið hefur verið mikið rætt um notkun ediks til að hreinsa heimilið vegna náttúrulegra sýkladrepandi eiginleika þess. Blandaðu saman hálfum bolla af eplaediki á móti 1 bolla af vatni. Þú getur notað þessa blöndu til að þrífa baðherbergisflísar, eldhúsyfirborð, glugga, gler og spegla. Einnig er sniðugt að bæta örlitlum matarsóda í blönduna og þá verður allt skínandi hreint.

4. Bragðgóður og hollur drykkur
Eplaedik getur haft góð áhrif á meltinguna; jafnað sýrustig í maga, dregið úr bólgum í meltingarvegi og svo framvegis. Auðvelt er að útbúa góðan og heilsubætandi drykk með með því að blanda tveimur matskeiðum af eplaediki og tveimur matskeiðum af hunangi saman við bolla af heitu vatni. Drekktu þrjá bolla á viku og sjáðu hvort þú finnir ekki mun.

Þegar á að nota eplaedik á húð þarf að blanda það með vatni, annars getur það verið of ertandi, og best er að nota tvo hluta af vatni á móti einum af eplaediki. Síðan er hægt að setja blönduna í lítinn spreybrúsa og spreyja beint á eða annars konar flösku og nota bómull og bera blönduna á húð.

5. Glansandi hár
Það hljómar ef til vill furðulega en með því að nota eplaedik eftir að þú hefur þvegið hárið með sjampói lokarðu hárendum og hreinsar burt eftirstöðvar af óhreinindum þannig að hárið glansar enn meira á eftir. Settu hálfa matskeið af ediki í vatn. Helltu blöndunni yfir höfuðið inn í sturtu og skolaðu svo vandlega úr. Vissulega er örlítið sérstök lykt af hárinu á meðan það er blautt en hún hverfur þegar það þornar.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Fundu réttu fötin í Ástralíu

Berglind Berndsen og Anna Margrét Kristjánsdóttir reka barnafataverslun á Netinu.

Þegar íslenskar vinkonur eru í fæðingarorlofi saman er ekki hægt að búast við að þær sinni eingöngu börnum og heimili. Þær Berglind Berndsen og Anna Margrét Kristjánsdóttir ákváðu að stofna barnafataverslun á Netinu og bjóða upp á einmitt föt eins og þær langaði í á sína stráka.

Þær Berglind Berndsen og Anna Margrét Kristjánsdóttir ákváðu að stofna barnafataverslun á Netinu.

Hvernig kom það til að þið ákváðuð að fara að flytja fatnað um hálfan hnöttinn? „Instagram!“ segir Berglind ákveðin.

„Instagram leiðir mann í allskonar áttir og þar á meðal alla leið til Ástralíu. Ástralir eru framalega í að hanna stílhreinan, lífrænan og þægilegan fatnað fyrir börn.

Við erum með þrjú vörumerki sem öll eru upprunnin í Eyjaálfu; HUXBABY, Anarkid og Mickey Rose. Við teljum það mikilvægt að fötin séu framleidd úr umhverfisvænum efnum og eru vörurnar meðal annars GOTS vottaðar. Við töldum þetta mikilvægt atriði þegar við ákváðum að taka inn þessar vörur, fyrir utan hvað þær eru fallegar.“

„Það sem þessi merki eiga öll sameiginlegt er að þau bjóða upp á fatnað sem er úr lífrænni bómull og hannaður í sátt við náttúru og fólk.“

Líkt og Berglind nefndi eru þessi vörumerki leiðandi í sjálfbærni og umhverfisvænni framleiðslu í sínu heimalandi og þótt víða væri leitað. Þarna er haft að leiðarljósi að fötin séu þægileg, klæðileg og stílhrein. Er eitthvað fyrir utan það sem gerir þessi merki sérstök?

„Það sem þessi merki eiga öll sameiginlegt er að þau bjóða upp á fatnað sem er úr lífrænni bómull og hannaður í sátt við náttúru og fólk,“ segir Anna Margrét.

„Auk þess eru flíkurnar flestar unisex-hönnun sem okkur þykir mikill kostur. Við viljum bjóða upp á föt sem eru endingargóð og falleg en hefta á sama tíma ekki leik og gleði barnanna.“

Fóru að velta fyrir sér barnafötum

„Ég á einn son sem er orðinn fjórtán mánaða og hugmyndin að stofnun Litla ljónsins kviknaði þegar hann var þriggja mánaða,“ bætir Berglind við. „Ég upplifði þá að á markaðinn vantaði stílhreinan fatnað fyrir barnið mitt sem væri líka þægilegur fyrir hann.“

„Ég á einnig einn son en minn er nítján mánaða,“ bætir Anna Margrét við. „Við vorum í fæðingarorlofi á sama tíma og í því fór þetta af stað.“

Þær vinkonurnar hittust nefnilega og fóru að tala um hvers konar fatnað þær vildu klæða börn sín í og hvaða grunngildi þeim fyndist nauðsynlegt að hafa í forgrunni við val á fötum. Þegar þær svo rákust á þessi áströlsku merki fór boltinn að rúlla enda var þar að finna allt sem þær óskuðu eftir. Berglind er menntuð í uppeldis- og menntunarfræðum og er á lokaári í masters-námi í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf. Hún starfar sem ráðgjafi á BUGL með

„Við viljum bjóða upp á föt sem eru endingargóð og falleg en hefta á sama tíma ekki leik og gleði barnanna.“

fram náminu. Anna Margrét er hins vegar með gráðu í listfræði og starfar sem verslunarstjóri hjá LINDEX. Litla ljónið er í senn hugðarefni og aukastarf hjá báðum. Þær vilja styðja þau gildi er standa að baki. En hver eru næstu skref hjá ykkur varðandi fyrirtækið?
„Eins og staðan er núna erum við og verðum með netverslun en við erum reglulega með opið hús eða Popup,“ segir Berglind. „Við stefnum að því að bæta við okkur vörumerkjum í komandi framtíð og vonumst til að stækka með tímanum og langtímamarkmið eru að opna verslun.“

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér frekar vörumerki Litla ljónsins geta skoðað síðurnar, www.litlaljonid.com, Litla ljónið á Facebook og Instagram-síðuna, Litla_ljonid.

 

Bara fimm hráefni – og kvöldmaturinn er kominn!

||
||

Nauta-ribeye með sveppum og trufflumajónesi.

Það getur verið áskorun að elda góðan mat úr fáum tegundum hráefnis. En á sama tíma er það mjög frelsandi og ekki þarf að hugsa í langan tíma hvað á að vera í matinn.

Ekki þrífa pönnuna eftir steikinguna á kjötinu, heldur setjið sveppina á hana og steikið þá með ½ msk. af salti þar til þeir eru orðnir mjúkir.

Þegar eldað er úr fáum efnum er gott að nýta sumt hráefnið á tvennan og jafnvel þrennan hátt. Þá væri möguleiki að steikja salatið og einnig að nota það ferskt.

Annað sem er mikilvægt að hafa í huga er að nota allt „brasið“ af pönnunni og soðið af hráefninu til þess að hámarka bragðið.

Þó svo að ég noti einungis fimm hráefni í þennan rétt, þá tel ég ekki með salt, pipar og feiti. Ég notaði þó aðeins olíu en smjör eða góð ólífuolía gerir allt betra. Auðvitað er líka alltaf hægt að fríska upp á matinn með smávegis sítrónusafa. Ég komst líka að því að ekki er mjög dýrt að versla svona í matinn og þá er hægt að splæsa í gæðaprótín og nota gott grænmeti með.

Nauta-ribeye með sveppum og trufflumajónesi
fyrir 4

600-800 g nauta-ribeye, eða annar góður vöðvi
1 kg nýjar íslenskar kartöflur
2 dl majónes
1 msk. truffluolía
2 pakkningar (u.þ.b. 250 g) kastaníusveppir, eða aðrir sveppir

2 msk. gróft sjávarsalt
1 msk. nýmalaður svartur pipar
5 msk. olía

Hitið ofninn í 180°C. Sjóðið kartöflurnar í potti þar til þær eru næstum því alveg tilbúnar, sigtið vatnið frá og kremjið þær svo með lófanum, setjið 3 msk. af olíu yfir þær og inn í ofn. Kartöflurnar þurfa 25 mín. í ofninum.

Notið 2 msk. af olíu og hitið á pönnu. Mynd /www.pixabay.com

Hitið pönnuna á háum hita með 2 msk. af olíu. Þerrið steikurnar með eldhúsbréfi og setjið 1 msk. af salti og 1 msk. af pipar á þær. Látið þær á pönnuna og steikið í um 3-4 mín. á hvorri hlið og setjið í eldfast mót. Mögulega sama mót og kartöflurnar en sitt hvort er í góðu lagi. Hafið steikurnar í ofninum þar til kjarnhitinn er 50-60°C, eða miðlungssteiktar. Látið steikurnar hvíla í nokkrar mínútur áður en þær eru bornar fram.

Ekki þrífa pönnuna eftir steikinguna á kjötinu, heldur setjið sveppina á hana og steikið þá með ½ msk. af salti þar til þeir eru orðnir mjúkir. Bætið þeim við í eldfasta mótið með kjötinu. Hrærið truffluolíunni saman við majonesið. Saltið svo kartöflurnar með restinni af saltinu og berið fram.

Umsjón og stílisti / Gunnar Helgi Guðjónsson
Aðalmynd / Hákon Björnsson

PRADA: Hver er konan á bakvið merkið?

Allflestar konur þekkja nafnið Prada enda eitt frægasta tískuvörumerki heims síðastliðna áratugi. En hvað vitum við um konuna á bak við merkið?

Hér eru nokkrar skemmtilegar staðreyndir um Miucciu Prada sjálfa sem er ein áhrifamesta og ríkasta kona heims.

Lúxusvörumerkið Prada getur þakkað Miucciu Prada, barnabarni Mario Prada, fyrir velgengnina síðustu áratugi.

Sérstakur bakgrunnur Flestir fatahönnuðir hafa verið viðloðandi bransann alveg frá byrjun og lifa og hrærast í heimi hönnunar. Bakgrunnur Miucciu er hins vegar töluvert sérstakur en áður en hún tók við fjölskyldufyrirtækinu árið 1978 útskrifaðist hún úr stjórnmálafræði og varði fimm árum við látbragðsleik.

Lúxusvörumerkið Prada getur þakkað Miucciu Prada, barnabarni Mario Prada, fyrir velgengnina síðustu áratugi. Ítalska vörumerkið var stofnað árið 1913 og hóf framleiðslu á gæðaleðurtöskum sem halda áfram að vera aðalsmerki þeirra í dag.

Það var hins vegar Miuccia sem kom með fyrstu Ready-to-Wear-fatalínuna á markað á tíunda áratugnum en í dag selur Prada fylgihluti, fatnað og ilmvötn.

Vörumerkið Prada er þekkt fyrir látlausan elegans og stór eða áberandi lógó eru sjaldséð á töskum þeirra. Hönnunarvörur þeirra eiga að vera auðþekktar innan „innsta hrings“.

Miuccia er loksins búin að taka það í sátt að vera femínisti sem vinnur í tískuheiminum. Í viðtali við Newsweek sagði hún að vegna þess að hún væri femínisti þá hefði hún lengi vel hatað hugmyndina að vinna við tísku og að einungis nýlega hefði hún sæst við hugmyndina og hætt að líða illa yfir því. „Ég áttaði mig á því að margt mjög klárt fólk ber mikla virðingu fyrir tísku og ég hef nýtt mér tískuhönnunina til þess að kanna heima arkitektúrs, lista og kvikmynda.“

„Ég áttaði mig á því að margt klárt fólk ber virðingu fyrir tísku og ég hef nýtt mér tískuhönnunina til þess að kanna heima lista og kvikmynda.“

 

Kvikmyndin The Devil Wears Prada fjallar um reynslu aðstoðarkonu sem á að vera byggð á persónu bandaríska ritstjóra Vogue, Önnu Wintour. Þrátt fyrir að Önnu sé ekkert sérstaklega hlýlega lýst í myndinni góðu brást hún alls ekki illa við kvikmyndinni og mætti meira að segja á frumsýninguna í New York – að sjálfsögðu klædd Prada frá toppi til táar.

Gift fræmkvæmdastjóranum

Miuccia er gift viðskiptafélaga sínum en stuttu eftir að hún fór að vinna fyrir fjölskyldufyrirtækið kynntist hún Patrizio Bertelli sem síðar varð framkvæmdastjóri Prada. Hún hefur sagt að hann sé drifkrafturinn á bak við vinnu hennar og gefur honum kreditið fyrir að gera fyrirtækið að því margmilljarða veldi sem það er í dag. Hjónin eru þó þekkt fyrir það að lenda í heiftarlegum rifrildum. „Við vinnum mikið og leggjum hart að okkur og erum í ákaflega ástríðufullu sambandi, það getur verið mjög þreytandi að vinna fyrir hann. En ég dáist að honum og virði hann,“ sagði hún í viðtali við The Wall Street Journal.

Skemmtileg tíska Miuccia hefur sagst elska tísku en segir að hún eigi ekki að stjórna lífi fólks og vill ekki taka sig of hátíðlega. „Tíska er mjög fallegur hluti af lífi okkar en mér finnst að tíska eigi að vera skemmtileg.“

Prada segist geta réttlætt himinháa verðmiða varningsins frá vörumerkinu en hún segir að það kosti ekki bara mikið að framleiða varninginn frá þeim heldur kosti það einnig sitt að það sé gert við rétt skilyrði.

Vörumerkið Prada er þekkt fyrir látlausan elegans

Í viðtali „skammaði“ hún fólk á vinstri væng stjórnmálanna sem gagnrýna hættuleg og siðferðislega röng vinnuskilyrði en þykir demókratískara að klæðast ódýrum tískuflíkum. Þetta þyki henni hámark hræsninnar.

Ungdómsþráhyggja

Prada segir að nútímasamfélög séu haldin þráhyggju gagnvart ungdómnum en er sjálf of hrædd við að leiða byltingu breytinga í tískuheiminum.

„Hjá konum fylgir því mikið drama að eldast. Það vill enginn eldast en mér finnst að við ættum að finna lausn á því. Sérstaklega þar sem við lifum miklu lengur í dag,“ var haft eftir henni í viðtali.

Þegar hún var spurð af hverju hún notaði ekki eldri fyrirsætur öðru hvoru svaraði hún því að hún ynni í heimi auglýsinga en ekki í listrænum heimi og viðurkenndi að hún væri ekki nógu hugrökk til þess.

„Þeir sem eiga falleg hús og málverk en klæða sig illa skil ég ekki.“

Hún er þekkt fyrir að finnast minna alltaf meira og skilur ekki fólk sem er illa klætt.

„Þeir sem eiga falleg hús og málverk en klæða sig illa skil ég ekki og heldur ekki konur sem sýna of mikið hold. Ég trúi því að því glennulegar sem konur klæðist, því minna kynlíf stundi þær.“

Höfundur / Helga Kristjáns
Myndir / Prada

Silfurborgin við Norðursjó

Borgin Aberdeen er full af fallegum almenningsgörðum, söfnum og stórbrotnum arkitektúr.

Aberdeen er krúttleg borg í Skotlandi sem líkja má við Akureyri okkar Íslendinga, hún hefur sjarma smábæjar en er með allt það sem finna má í stórborgum.

Í borginni er stórbrotinn arkitektúr. Hér sést Aberdeen háskóli.

Aberdeen er þriðja stærsta borg Skotlands og oft nefnd granítborgin, eða Silver by the Sea, enda nánast allar byggingar á svæðinu byggðar úr hinum níðsterka og fallega efnivið, graníti. Olíuvinnsla í Norðursjó skipar stóran sess í samfélaginu og í Aberdeen er stærsti þyrluflugvöllur í Evrópu. Í borginni eru margir fallegir almenningsgarðar, stórbrotinn arkitektúr og skemmtileg söfn, enda á borgin sér margra alda sögu.

Aðalverslunargatan heitir Granite Mile og er hluti af Union Street en þar eru meira en 800 verslanir, veitingastaðir og barir. Stærsta verslunarmiðstöðin heitir Union Square og þar má finna H&M, Zöru, Michael Kors, Apple og fleiri þekktar búðir. Verslunarmiðstöðvarnar Bon Accord og St Nicholas eru samtengdar skammmt frá en þar er einnig H&M-verslun, Karen Millen, L‘Occitan, Marks & Spencer og fleiri. Í Trinity Center er svo meðal annars Debenhams og Primark.

Óhætt er að mæla með Scene-hótelunum í miðborg Aberdeen sem bjóða upp á öll nútímaþægindi. Hótelin eru þrjú og eru rekin af Scene-fjölskyldunni. Hótelin eru í samstarfi við nokkra veitingastaði víðs vegar um Aberdeen þar sem hægt er að borða og bæta á hótelreikninginn. Hótelin eru einnig í samstarfi við tvær líkamsræktarstöðvar. Fyrsta hótelið var stofnað árið 1979 og starfsemin hefur vaxið hægt og bítandi síðan. Álman á einu hótelinu var áður kirkja sem var gerð upp sem hótel, virkilega sjarmerandi.

Fjölskyldufaðirinn, stofnandi keðjunnar og framkvæmdastjóri, Charles Skene, leggur mikinn metnað í reksturinn og hefur forðast að láta fyrirtækið verða of stórt eða hluta af alþjóðlegum keðjum. Fyrir nokkrum árum var hann sæmdur OBE, Order of the British Empire sem er eins konar fálkaorða þeirra Breta, fyrir störf sín.

Í sambýli við Trump

Aberdeen og nágrenni er golfparadís en þar eru fimmtíu og sjö 18 holu golfvellir. Skammt norðan við Aberdeen er golfvöllur í eigu Donalds Trump sem kallast einfaldlega Trump International Golf Links. Hann er byggður innan um miklar sandöldur við austurströnd Skotlands sem gerir völlinn einstakan. Sandöldurnar, sem voru látnar halda sér á milli teiga, brauta og flata, eru í hlutverki hindrana og ekki er um aðrar hindranir að ræða.

Aberdeen og nágrenni er golfparadís en þar eru fimmtíu og sjö 18 holu golfvellir.

Golfarkitektinn Dr. Martin Hawtree hannaði völlinn sem var opnaður árið 2012 eftir nokkra baráttu en ekki voru allir á eitt sáttir um framkvæmdina. Trump þurfti að kaupa land af nokkrum aðilum til að geta byggt þennan draumavöll en ekki voru allir sem vildu selja. Einn eigandinn býr til dæmis enn á svæðinu og golfvöllurinn var byggður í kringum býli hans. Sagan segir að sambýlið gangi ekkert allt of vel.

Gamlt höfðingjasetur sem Trump keypti gegnir hlutverki hótels og veitingastaðar sem er sérstaklega ætlað golfurum. Sérstök svíta þar er kennd við Trump og hann dvelur í henni þegar hann er sjálfur á svæðinu. Þessa svítu er svo hægt að leigja fyrir þónokkur pund. Við golfvöllinn er svo glæsilegur golfskáli, veitingastaður og verslun.

Í kastalanum sjálfum er flott herbergi í gamaldags stíl en í gamalli hlöðu og útihúsum á móti er búið að innrétta flott nútímaleg herbergi.

Meldrum House Country Hotel and Golf Course er í um fjörutíu og fimm mínútna akstursfjarlægð frá Aberdeen. Hótelið er í gömlum kastala sem upphaflega var byggður á þrettándu öld en hefur tekið töluverðum breytingum í gegnum tíðina síðan. The Cave Bar er einn af elstu hlutum hússins eða um 800 ára gamall og þar er meðal annars eitt stærsta safn af Glen Garioch-viskíi og gaman að fara í viskísmökkun. Í kastalanum sjálfum er flott herbergi í gamaldags stíl en í gamalli hlöðu og útihúsum á móti er búið að innrétta flott nútímaleg herbergi. Golfvöllurinn er mun hefðbundnari en Trump-völlurinn, með trjám, tjörnum og sandgryfjum.

Fór næstum í flóði

Skosku hálöndin ættu allir að heimsækja einhvern tímann á ævinni. Þau eru svo falleg, full af dýrðarljóma og sögu. Þau eru meðal annars þekkt fyrir þá fjölmörgu kastala sem þar eru. Einn þeirra er Crathes Castel; það er ævintýri líkast að fara í túr um kastalann, skoða hvern krók og kima og kynnast sögu hans. Í kringum kastalann er stór garður og í raun heljarstórt útivistarsvæði sem er vinsælt meðal bæði heima- og ferðamanna. Þar er hægt að velja um sex mismunandi gönguleiðir og tilvalið fyrir fjölskylduna að njóta dagsins með nesti og nýja skó eða kíkja á veitingastaðinn sem er skammt frá kastalanum.

Ekki langt frá Crathes-kastalanum, meðfram ánni River Dee, er Banchory Lodge Hotel. Áin komst í heimsfréttirnar eitt sinn mikil flóð urðu í henni og eyðilögðu meðal annars næstum því heilan kastala sem stendur á árbakkanum. Flóðið náði alveg upp að veggjum hótelsins í Banchory Lodge en það slapp við stórfelldar skemmdir. Talsmenn hótelsins sögðu að það hefði verið ógnvekjandi að sjá stærðarinnar hjólhýsi fljóta fram hjá. Banchory Lodge Hotel er fallegt sveitahótel sem býður upp á flott hótelherbergi með fallegu útsýni. Á staðnum er frábær veitingastaður með mjög góðum mat og hægt að sitja úti á palli þegar veðrið er gott. Mikið er um að þarna séu haldnar veislur, ekki síst brúðkaupsveislur, enda frábær aðstaða til slíks og svo geta allir gestirnir gist á staðnum.

Vatnsdropar í viskíið

Viskí er eitt af einkennistáknum Skotlands og í landinu eru framleidd yfir 2.200 vörumerki af þessum eðaldrykk. Viskíhéruðin í landinu eru sex talsins og þar með tegundirnar því þær hafa mismunandi karakter eftir því á hvaða svæði þær eru framleiddar. Vinsælt er að fara í

Viskí er eitt af einkennistáknum Skotlands og í landinu eru framleidd yfir 2.200 vörumerki af þessum eðaldrykk.

viskísmökkun og skammt frá Meldrum House Country Hotel er viskíverksmiðjan Glen Garioch þar sem boðið er upp á viskísmökkun og skoðunarferð um húsakynnin. Fyrirtækið hefur í rúm 200 ár framleitt handunnið og ókaldhreinsað maltviskí.

Til að finna karakterinn í viskíinu eru oft settir nokkrir dropar af vatni út í það en við það verður ilmurinn og bragðið fyllra, líkt og þegar nýbúið er að rigna þá finnst lyktin af gróðri miklu betur.

Upplifun fólks af styrkleika viskís er persónubundin, það er sem sagt misjafnt hversu sterkt fólk á að hafa viskíið sem það drekkur. Ef það finnur fyrir bruna í hálsinum þegar það tekur sopa er drykkurinn of sterkur. Dropum af vatni er þá bætt við þangað til viskíið verður passlega sterkt. Til er sérstakt vatn til að setja út í viskí frá mismunandi stöðum í Skotlandi og bragðið verður mismunandi eftir uppruna vatnsins.

Litríkt fiskiþorp

Óhætt er að mæla með leiðsögn um borgina og fá þannig söguna og helstu perlur staðarins beint í æð. Litla fiskiþorpið í mynni hafnarinnar í Aberdeen er sérstaklega áhugavert. Það er kallað Footdee eða Fittie og samanstendur af tveimur svæðum með litlum húsum sem byggð eru í ferhyrning. Í gamla daga bjuggu sjómenn og fjölskyldur þeirra í húsunum. Þó að margar af þessum fjölskyldum búi þarna enn þá er fiskilífið á miklu undanhaldi. Á árum áður mátti sjá eiginkonurnar sitja við útidyrnar að gera við net og skiptast á sögum við nágrannana. Fiskinet voru víðs vegar þar sem greiða þurfti úr flækjum og hengja þau til þerris. Þessi litlu hús og garðarnir hafa þó fengið að halda sér. Húsin hafa öll sinn sjarma, eru litrík og margvíslega skreytt. Sumum er vel haldið við, öðrum ekki. Þarna er dásamlegt að vera og svolítið eins og að koma inn í nýja veröld úr ys og þys borgarlífsins.

Skosku hálöndin ættu allir að heimsækja einhvern tímann á ævinni. Þau eru svo falleg, full af dýrðarljóma og sögu. Þau eru meðal annars þekkt fyrir þá fjölmörgu kastala sem þar eru.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / www.pixabay.com

Hauslausar konur í Hollywood

Tumblr-síðan Headless Women of Hollywood vekur athygli á þeirri tilhneigingu kvikmyndabransans til að nota kvenmannslíkama til að selja myndir – og þá er átt við kvenlíkama án höfuðs.

Þetta fyrirbæri hefur greinilega verið lengi við lýði því hér er plakat myndarinnar The Graduate. Í henni leikur stórleikkonan Anne Bancroft en við fáum aðeins að sjá leggi hennar.

Konur eru oft hlutgerðar í Hollywood og í öðrum formum dægurmenningar – það er ekkert nýtt. En þegar konan er gerð að litlu öðru en bara líkamanum þá verðum við að segja: hingað og ekki lengra.

Tumblr-síðan Headless Women of Hollywood vekur athygli á þeirri tilhneigingu kvikmyndabransans til að nota kvenmannslíkama til að selja myndir – og þá er átt við kvenlíkama án höfuðs.

Einhverjum finnst þetta varla vera tiltökumál, og að verið sé að gera úlfalda úr mýflugu á þessari vefsíðu, en málið er að þetta er bara einn hluti af mun stærra vandamáli sem þarf að uppræta.

Oftar en ekki snýr konan baki í myndavélina, í hælum en litlu öðru með stórt bil á milli fóta. Jafnvel þegar höfuð eða andlit konu er sýnt er fókusinn oft færður á ákveðna þætti andlits … í stað þess að sýna heildina og persónugera einstaklinginn.

Heiðurinn af tumblr-síðunni á uppistandarinn Marcia Belsky en með henni vill hún hvetja Hollywood til að hætta að afhausa konur. „Með því að afhausa konuna er hún óneitanlega hlutgerð og látin sæta augnaráði karlmanna (e. Male Gaze). Samþykki hennar skiptir ekki

Mýmörg dæmi eru um að myndir af hauslausum konum séu notaðar til að auglýsa Hollywood-kvikmyndir.

lengur máli, það hefur verið fjarlægt ásamt höfði hennar, og hennar eini tilgangur er að láta horfa á sig af karlmönnum. Virði hennar er bundið við kynþokka hennar ekki persónu,“ segir hún á síðunni.

Á síðunni eru birt kvikmyndaplaköt, auglýsingar og fleira þar sem hauslaus kona kemur fyrir. Oftar en ekki snýr konan baki í myndavélina, í hælum en litlu öðru með stórt bil á milli fóta. Jafnvel þegar höfuð eða andlit konu er sýnt er fókusinn oft færður á ákveðna þætti andlits, eins og varir eða augu, í stað þess að sýna heildina og persónugera einstaklinginn. Þegar maður fer að skoða síðuna kemur það manni í raun á óvart hversu algengt þetta fyrirbæri er og hversu blindur maður hefur verið fyrir því hingað til.

Á þessu plakati fyrir nýjustu Terminator-myndina, Terminator Genisys, þótti mikilvægara að sýna andlit vélmennisins en aðalleikkonunnar Emiliu Clarke.

 

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Hinn eftirsóknarverði ljómi

Það þarf að huga vel að húðinni.

Í daglegu tali er oft talað um að geisla af heilbrigði svo það er ekki skrítið að snyrtivörur sem lofa auknum ljóma séu gríðarlega vinsælar. Þótt fallegur farði og ljómapúður geti vissulega aukið ljómann á yfirborðinu þarf líka að huga vel að húðinni til að tryggja að hann komi að innan.

Huga að mataræðinu

Mikilvægt er að drekka nóg af vatni til að halda raka í húðinni og borða litríkt grænmeti sem inniheldur andoxunarefni og lækkar ph-gildi líkamans.

Það er því miður svo að kaffi og áfengir drykkir eru vatnslosandi og mikil neysla þeirra getur valdið þurrki í húð.

Eins getur óhófleg neysla sykraðra matvæla með tímanum brotið niður kollagen og elastín í húðinni sem veldur því að hún verður slappari og líflausari. Það er þó ekki þar með sagt að maður verði að neita sér um allt heldur bara að gæta hófs.

Til mótvægis við þetta óholla er mikilvægt að drekka nóg af vatni til að halda raka í húðinni og borða litríkt grænmeti sem inniheldur andoxunarefni og lækkar ph-gildi líkamans, það getur aukið ljóma húðarinnar.

Hreinsa burt dauðar húðfrumur 

Alpha hydroxy-sýrur eru lífrænar sýrur sem skiptast í ávaxta- og mjólkursýrur. Þær eru vatnsleysanlegar og vinna eingöngu á efsta lagi húðarinnar við að hreinsa burtu dauðar húðfrumur. Með því að nota andlitsvatn með einhvers konar sýru má þannig koma í veg fyrir uppsöfnun á dauðum húðfrumum og viðhalda ljóma.

… Eins getur óhófleg neysla sykraðra matvæla með tímanum brotið niður kollagen og elastín í húðinni sem veldur því að hún verður slappari …

Ensím

Eitt af vinsælustu íðorðum í snyrtivörubransanum er án efa ensím. Þau hraða efnaskiptum í húðinni og eru aðallega notuð til að djúphreinsa húðina eða draga úr bólgum. Þau ensím sem eru notuð til að brjóta niður dauðar húðfrumur á yfirborðinu og hraða endurnýjun húðar koma úr ávöxtum, oftast papaya, ananas eða bláberjum. Ensímin eru mildari en sýrur og henta því betur fyrir viðkvæmar húðgerðir og þau er yfirleitt að finna í andlitsmöskum.

Notið réttu innihaldsefnin

Retinól er mjög algengt í snyrtivörum og á að sporna gegn öldrun húðarinnar en konur á öllum aldri geta notið góðs af því að bæta því við húðumhirðuna. Það hvetur nefnilega húðina til þess að endurnýja sig hraðar og jafnframt framleiða meira af hyaluronic-sýru og kollageni. Þannig eykur það þéttni húðarinnar, dregur úr hrukkum og öðrum öldrunarmerkjum og eykur ljóma hennar.

Þau ensím sem eru notuð til að brjóta niður dauðar húðfrumur á yfirborðinu og hraða endurnýjun húðar koma úr ávöxtum, oftast papaya, ananas eða bláberjum.

Einn helsti kostur C-vítamíns er hversu öflugt það er í að jafna litarhaft húðar og lýsa upp dökka húðbletti, hvort sem þeir eru tilkomnir vegna öldrunar eða bóluöra. Þetta magnaða vítamín hefur jafnframt róandi áhrif og getur dregið úr roða og bólgum í húð. Það hefur einnig endurnýjandi áhrif á húðina í heild þannig að hún sýnist hraustari og með meiri ljóma.

Í húðinni myndar keramíð hálfgerðan varnarhjúp utan um frumur í efri lögum húðarinnar. Ýmis utanaðkomandi áhrif, svo sem veður og vindar eða sápur og hreinsiefni, geta strípað húðina og raskað náttúrulegri fituframleiðslu hennar og þegar hún verður þurr safnast dauðar húðfrumur fyrir á yfirborðinu. Keramíði í snyrtivörum er ætlað að fylla á forða húðarinnar, veita henni þar með raka og styrkja varnarkerfi hennar.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / www.pexels.com

Fullkomin hjólaborg

Hadda Hreiðarsdóttir segir frá uppáhaldsstöðum sínum í Barcelona.

Hadda Hreiðarsdóttir, verkefnastjóri hjá 1xINTERNET, hefur búið í Barcelona í þrjú ára ásamt sambýlimanni sínum, Adam, og börnunum, Hreiðari Nóa, Unu Barböru og Benjamín.

Hadda Hreiðarsdóttir, verkefnastjóri hjá 1xINTERNET, hefur búið í Barcelona í nokkurn tíma ásamt sambýlimanni sínum, Adam, og börnunum, Hreiðari Nóa, Unu Barböru og Benjamín. Hún flutti þangað á sínum tíma til að fara í mastersnám og gat svo ekki hugsað sér að fara frá borginni. Við fengum hana til að segja okkur frá uppáhaldsstöðum sínum í Barcelona.

„Barcelona er hin fullkomna hjólaborg, alltaf gott veður, aldrei vindur og hægt að sjá margt án þess að fara erfiðar brekkur. Það er mjög auðvelt að leigja hjól og um alla borg eru hjólastígar sem auðvelda manni hjólalífið. Það er dásamlegt að hjóla með fram ströndinni, um Barceloneta-hverfið eða El Born þar sem má stoppa í einn drykk og tapas, í gegnum Parc Cituadella þar sem má leggjast niður í sólinni og hvíla sig. Þaðan inn í gotneska hverfið fram hjá dómkirkjunni, yfir í Raval-hverfið og enda svo kannski daginn á litlum veitingastað við ströndina. Það besta við Barcelona er að hún er svo lítil að þetta má gera allt fyrir hádegi.“

„Gotneska hverfið er hverfið mitt og sá hluti borgarinnar sem má ekki missa af. Litlar, þröngar götur, kaffihús, pöbbar, ávaxtabúðir, gallerí og litlar krúttlegar hönnunarbúðir.“

Njóta þess að villast
„Gotneska hverfið er hverfið mitt og sá hluti borgarinnar sem má ekki missa af. Litlar, þröngar götur, kaffihús, pöbbar, ávaxtabúðir, gallerí og litlar krúttlegar hönnunarbúðir. Lítið er um umferð og því fullkominn staður til að labba um og njóta hvort sem það er að sumarlagi eða fyrir jólin. Barcelona er nefnilega yndisleg jólaborg, þrátt fyrir snjóleysið. Þarna má hæglega njóta þessa að villast.“

Matarupplifun í myrkri
„Dans le noir er veitingastaður þar sem maður borðar í algeru myrkri sem er ótrúleg upplifun. Þjónarnir á staðnum eru allir blindir. Þriggja rétta máltíð með víni bragðst töluvert öðruvísi þegar maður sér ekki handa sinna skil.“

El Drac, eða drekinn, hið fræga verk listamannsins Gaudi.

Flottar sýningar
„MACBA er nýlistasafn Barcelona í Raval-hverfinu. Þar eru alltaf flottar sýningar sem er gaman að sjá. Svæðið er líka ótrúlega skemmtilegt með stórum torgum þar sem hægt er að sitja og fá sér drykk meðan krakkarnir leika sér og ekki síst fylgjast með hjólabrettagaurunum í Barcelona sem eru fjölmargir, þarna koma þeir bestu saman og „skeita“ frá morgni til kvölds.“

Hörðustu kjötætur fá í hnén
„Get ekki sleppt því að minnast á uppáhaldsveitingastaðinn minn. Teresa Carles er frábær grænmetisstaður sem lætur hörðustu kjötætur fá í hnén. Það er allt gott á matseðlinum. Glas af lífrænu rauðvíni kostar þarna 300 krónur íslenskar og katalónska ostatertan er skylda í hvert sinn sem þessi staður er heimsóttur.“

MACBA er nýlistasafn Barcelona í Raval-hverfinu. Þar eru alltaf flottar sýningar sem er gaman að sjá að sögn Höddu.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Villta vestrið aldrei vinsælla

Vestrar eru enn afar vinsælir og hér eru nokkur nýleg dæmi.

Westworld er í raun sýndarveruleikaskemmtigarður sem lítur út eins og villta vestrið. Þar geta gestir hagað sér eins og þeim sýnist innan um afar raunveruleg vélmenni í alls kyns hlutverkum.

Kjarkaðar konur

Godless er ný sjö þátta sería úr smiðju Netflix en þættirnir voru framleiddir af Steven Soderbergh. Þættirnir gerast árið 1884 í Nýju-Mexíkó. Stórhættulegi útlaginn Frank Griffin er á höttunum eftir Roy Goode sem stal frá honum gulli. Roy þessi var áður hluti af bófagengi Franks og Frank leit á hann sem son áður en Roy stakk hann í bakið. Roy felur sig á býli ekkjunnar Alice Fletcher sem býr í útjaðri bæjarins La Belle. Íbúar La Belle eru nær eingöngu konur því allir karlmenn bæjarins létust í hræðilegu námuslysi nokkrum árum áður. En hvernig verja nokkrar konur sig gegn manni eins og Frank?

Skemmtigarður framtíðarinnar

Sjónvarpsþættirnir Westworld eru byggðir á samnefndri kvikmynd eftir Michael Chrichton. Þeir gerast í framtíðarheimi og Westworld er í raun sýndarveruleikaskemmtigarður sem lítur út eins og villta vestrið. Þar geta gestir hagað sér eins og þeim sýnist innan um afar raunveruleg vélmenni í alls kyns hlutverkum. Þættirnir eru stjörnum prýddir en Anthony Hopkins leikur skapara garðsins, Ed Harris leikur ruddalegan gest og þau Evan Rachel Wood, Thandie Newton og James Marsden leika öll vélmenni, eða gestgjafa eins og þau eru kölluð í þáttunum.

Í leit að ástinni

Í Slow West kynnumst við ungum Skota sem ferðast alla leið til villta vestursins í Bandaríkjunum í leit að Rose, konunni sem hann elskar. Á ferð sinni kynnist hann útlaganum Silas sem slæst í för með honum sem leiðsögumaður og verndari. Jay veit hins vegar ekki að Rose og faðir hennar eru eftirlýst og fé sett til höfuðs þeirra, tvö þúsund dollarar lífs eða liðin.

Tarantino-vestrinn Django Unchained gerist í suðurríkjum Bandaríkjanna skömmu áður en þrælastríðið braust út.

Mannaveiðari og þræll

Tarantino-vestrinn Django Unchained gerist í suðurríkjum Bandaríkjanna skömmu áður en þrælastríðið braust út. Þýski læknirinn og mannaveiðarinn dr. King Schultz er á höttunum eftir hinum morðóðu Brittles-bræðrum þegar hann hittir þrælinn Django í Texas og fær hann til að aðstoða sig við leitina gegn loforði um frelsi hans og eiginkonu hans, Broomhildu, en hún er í eigu grimma plantekrueigandans Calvin Candie. Django og Schultz láta sér ekki nægja að handsama Brittles-bræðurnar heldur ná einnig að klófesta marga af hættulegustu glæpamönnum suðursins áður en þeir snúa sér að frelsun Broomhildu.

… mannaveiðarinn dr. King Schultz er á höttunum eftir hinum morðóðu Brittles-bræðrum þegar hann hittir þrælinn Django í Texas og fær hann til að aðstoða sig við leitina gegn loforði um frelsi hans og eiginkonu hans.

Hefnd og svik

True Grit kom fyrst út árið 1969 en hún er byggð á samnefndri skáldsögu Charles Portis. Þessi útgáfa Coen-bræðra frá árinu 2010 vakti mikla lukku meðal áhorfenda og gagnrýnenda. Sagan gerist árið 1877 og segir frá unglingsstúlkunni Mattie Ross. Faðir hennar er myrtur á hrottalegan hátt af undirmanni sínum sem flýr af vettvangi með tvo hesta og gull föður hennar. Mattie vill tafarlausa hefnd og leitar til hins gamalreynda og harnaða lögreglumanns Rooster Cogburns. Hann hafnar fyrst um sinn beiðni hennar en hún nær sínu fram á endanum. Þegar annar lögreglumaður, LaBoeuf sem er einnig á höttunum eftir Chaney, mætir á svæðið vandast málin. Laboeuf og Rooster taka höndum saman til að hafa uppi á Chaney, gegn vilja Mattie, og þar með hefst hættuleg för þremenninganna til að ná fram hefndum.

True Grit úgáfa Coen-bræðra frá árinu 2010 vakti mikla lukku meðal áhorfenda og gagnrýnenda.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Sjö spennandi gönguleiðir í heiminum

Víða um heim má finna staði með spennandi gönguleiðum.

Vinsældir ýmiskonar gönguferða hafa aukist mjög á undanförnum árum og víða um heim má finna staði með spennandi gönguleiðum sem skarta glæsilegu útsýni og ýmsu sem gerir þær sérstakar á einn eða annan hátt.

Zion Narrows er mögnuð gönguleið sem skartar töfrandi landslagi sem liggur í gegnum þröng gljúfur úr litríkum, eins kílómetra háum sandveggjum.

Zion Narrows í Utah-ríki, Bandaríkjunum

Zion Narrows er mögnuð gönguleið sem skartar töfrandi landslagi sem liggur í gegnum þröng gljúfur úr litríkum, eins kílómetra háum sandveggjum.

Á hinum fræga hluta leiðarinnar sem nefnist Wall Street verða gljúfrin ekki nema sex metrar að breidd að ofan. Ríflega helming leiðarinnar þarf að ganga upp með á sem liðast fallega í gegnum gljúfrin.

Úr veggjum gljúfranna hanga runnar, vatn kemur úr sprungum, þarna eru breiður af mosa, fossar og há tré.

Rétt er að taka fram að það getur verið mjög hættulegt að fara þessa leið því fljót geta komið snögglega og árlega deyja göngugarpar á leiðinni. Því þarf að vera með veðurspána á hreinu áður en farið er, og vera viss um að alls engin rigning sé í kortunum.

Með nauðsynlegum varúðarráðstöfunum er þessi gönguleið ein sú allra flottasta í Bandaríkjunum og sannarlega engu lík.

Tongariro-gönguleiðin á Nýja-Sjálandi

Landslagið á Nýja-Sjálandi er sérstaklega fallegt og því ekki að undra að ein flottasta gönguleið í heimi sé á norðureyju landsins. Hægt er að taka frá einum og upp í þrjá daga í gönguna.

Leiðin sem er um 35 kílómetra löng liggur í gegnum eldfjallasvæði og eyðimerkur sem líkjast einna helst öðrum hnöttum og fallegir fjallstindar gnæfa yfir.

Göngufólk mun sjá virka eldfjallið Ngaurube eða Doom eins og það hét í Lord of the Rings. Einnig sjóðandi leirkatla, gíga og hraun …

Göngufólk mun sjá virka eldfjallið Ngaurube eða Doom eins og það hét í kvikmyndinni Lord of the Rings. Einnig sjóðandi leirkatla, gíga, hraun og hin glæsilegu Emerald-vötn.

Ferðalagið er ekki síst skemmtilegt eftir að fer að dimma en þá er hægt að koma sér fyrir í þægilegum fjallakofum sem eru með fínum rúmum, gashiturum og -eldavélum, rennandi vatni og klósettum. Ferðalangar geta svo auðveldlega lagt lykkju á leið sína og gengið á topp fjallanna Tongariro og Ngauruhoe.

Landslagið á Nýja-Sjálandi er sérstaklega fallegt. Mynd / www.pexels.com

West Coast í Bresku Kólumbíu, Kanada

Þá sem langar í óvenjulega göngu í gegnum óspillta kanadíska náttúru, upplifa tempraða skóga, harðgerðar strandlengjur og stórkostlega fjallstinda, þá er West Coast-gönguleiðin málið. Göngufólk mun vakna í tindrandi sólarupprás, njóta ótrúlegs sólarlags, klöngrast yfir stóra steina og trjáboli, yfir læki og ár, fram hjá fossum, upplifa hve ótrúlega lítil mannskepnan er í kringum risastór tré í eldgömlum skógi. Einnig gæti fólk séð hvali, sæljón, minka og kannski einnig birni og úlfa, svo ekki sé minnst á skipsflök og aðrar minjar. Erfitt getur verið að komast að í þessa einstöku göngu og stundum er hægt að lenda í slæmu veðri, jafnvel á sumrin. Engin ganga í Norður-Ameríku býður upp á jafnfjölbreytt landslag og er sannarlega þessi virði að fara hana.

West Coast-gönguleiðin er málið fyrir þá sem langar í óvenjulega göngu í gegnum óspillta kanadíska náttúru.

Torres del Paine-gönguleiðin í Chile

Þeir sem eru að leita að stórkostlegu Alpafjallalandslagi, jöklum, jökulvötnum, skörpum fjallstindum, einstöku dýralífi og möguleikanum á því að sjá hina töfrandi graníttinda Towers of Paine, ættu að fara í þessa vinsælu 100 kílómera löngu gönguleið í Patagonia-fjöllunum í Chile. Staðurinn hefur verið útnefndur einn 50 staða sem fólk ætti að heimsækja á lífsleiðinni, af tímaritinu National Geographic. Þessi dásamlega gönguleið liggur um Magellenic-skóginn, forug fen, klettótt gil og yfir óstöðugar brýr. Þótt svæðið sé heillandi frá upphafi til enda þarf að hafa í huga að þar geta veður orðið válynd. Því getur bakpokinn orðið ansi þungur með öllu sem á þarf að halda til að halda á sér hita. Hægt er að lenda í byl og því gæti hluti leiðarinnar lokast. En slæmt veðurfar veldur því að leiðin er ekki fjölfarin og því mun ferðalöngum finnast þeir hafa unnið enn stórkostlegra afrek ef þeir ganga þessa leið.

Þeir sem eru að leita að möguleikanum á því að sjá hina töfrandi graníttinda Towers of Paine, ættu að fara í þessa vinsælu 100 kílómera löngu gönguleið í Patagonia-fjöllunum í Chile.

Annapurna-gönguleiðin í Nepal

Marga göngugarpa dreymir um að fara til Nepal til að komast í tæri við eina glæsilegustu fjallasýn í heimi. Þessi gönguleið í Annapurna býður ekki aðeins upp á snævi þakta fjallstinda, heldur einnig fjölbreytta náttúru og menningu. Gangan sem liggur frá suðrænu landslagi að hæstu fjöllum í heimi tekur um þrjár vikur og á leiðinni er hægt að gista í þægilegum skálum. Varast þarf háfjallaveiki en möguleiki er á henni þegar komið er í meira en fimm kílómetra hæð yfir sjávarmáli. Á leiðinni hitta ferðalangar Tíbeta sem búa í fjöllunum, sjá búddahof, geta heimsótt tehús, baðað sig í heitum lindum og njóta eins fallegasta útsýnis í heiminum.

Marga göngugarpa dreymir um að fara til Nepal til að komast í tæri við eina glæsilegustu fjallasýn í heimi.

Kilimanjaro í Tanzaníu

Þá sem langar að príla upp á verulega hátt fjall en ekki fara í brjálæðislega tæknilega, hættulega og bratta göngu þá er ferð á Kilimanjaro frábær kostur. Fjallið er 5,895 metra hátt og oft sagt að það sé hæsta fjall í heimi sem hægt er að ganga á án þess að þurfa tæknilega kunnáttu í klifri og útbúnaði. Það er ekki þar með sagt að gangan sé auðveld því hún er líkamlega krefjandi og árlega deyja nokkrir úr háfjallaveiki á þessari leið. Nokkrar leiðir eru á topp þessa hæsta frístandandi fjalls heims og hæsta tinds Afríku. Gangan hefst við miðbaug og farið er í gegnum allar loftlagstegundir í þessa sex daga og fimm nætur sem gangan tekur. Byrjað er í heitu graslendi, síðan farið í gegnum tempraða skóga og jökulfyllta dali að ísköldum tindinum.

Kilimanjaro í Tanzaníu.

Kalalau á Hawaii

Kalalau á Hawaii er ein glæsilegasta gönguleið í heimi. Klettarnir liggja gróðri vaxnir niður í sæblátt Kyrrahafið. Þar eru ævintýralega fullkomnir fossar sem falla niður í suðræna dali og öldurnar skella með dramatískum hætti á klettana. Í hafinu má sjá stökkvandi höfrunga og hnúfubaka og sjávarskjaldbökur við ströndina. Stígurinn er 17 kílómetra langur og þar sem hann liggur er um 1.000 metra hátt fall niður í sjó. Farið er yfir fimm stóra dali og fleiri litla. Fyrir mjög þjálfaða göngumenn tekur ferðin einn dag en tvö fyrir marga aðra sem tjalda á leiðinni. Stígurinn var fyrst byggður seint á nítjándu öld og endurbyggður árið 1960. Hann er nánast aldrei alveg flatur og á sumum stöðum liggur hann frekar nálægt hengiflugi, nokkur hundruð metra háu, beint niður í sjó.

Kalalau á Hawaii er ein glæsilegasta gönguleið í heimi.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

 

Einfaldar leiðir til að krydda sambandið

Stundum þarf bara smá hugmyndaflug til að hressa upp á sambandið.

Misjafnt er hvað pör eru dugleg að gera hluti saman til að krydda sambandið þegar grár hversdagurinn tekur við eftir gáskafulla hveitibrauðsdaga svo ekki sé talað um þegar börnin fara að koma í heiminn og taka í burtu mestallan frítímann. Notalegar stundir þurfa þó ekki að vera flóknar og geta vel samræmst daglegum athöfnum – eina sem þarf er smávegis hugmyndaflug.

Fáðu pössun á mánudagskvöldi, taktu á móti makanum með sjóðheitu baði, kertaljósum og hafðu betri fötin tilbúin.

Stefnumót á virkum degi
Stundum henta virkir dagar betur til stefnumóta en helgar sem oft eru fullar af dagskrá og fólk vill kannski frekar nýta með börnunum. Fáðu pössun á mánudagskvöldi, taktu á móti makanum með sjóðheitu baði, kertaljósum og hafðu betri fötin tilbúin. Svo getið þið skellt ykkur út að borða, jafnvel í einn kaffibolla á eftir og samt verið komin heim á skikkanlegum tíma til að hleypa barnapíunni heim og komast það tímanlega í rúmið að þið verðið ekki að deyja úr þreytu daginn eftir. Auðvitað mætti líka skreppa saman í bíó eða leikhús en það gefur ykkur náttúrlega ekki eins mikinn tíma til að tala saman.

Saman í heimilisverkin
Í stað þess að híma í sitthvoru horninu við heimilisverkin getur verið sniðugt að boða til stefnumóts við þvottafjallið, uppvaskið eða eldamennskuna. Þegar mikið er að gera eru oft fáar stundir sem nást til að spjalla saman um daginn og veginn. Það getur því verið mjög skemmtilegt að njóta þess að vera saman á stundum sem mörgum finnst kvöð. Þeir sem hafa prófað þetta hafa sagt að á þessum klukkutíma sem tók að brjóta saman allan hreina þvottinn sem hafði safnast saman hafi þau hjónin náð að spjalla meira saman en í langan tíma. Það sama á við um eldamennsku – njótið þess að búa til matinn og spjalla saman í leiðinni um daginn og veginn. Sumir hafa líka nefnt að það sé ofsalega róandi að vaska upp, eins og hálfgerð hugleiðsla, og þarna geta pör hugleitt saman án þess að verða fyrir nokkurri truflun. Af hverju ekki að njóta þessara daglegu athafna, það þarf að gera þær hvort sem er.

Hittast í hádeginu
Sama hversu mikið við höfum að gera þá þurfum við alltaf að gefa okkur tíma til að borða og því er einhvern veginn svo hentugt að nota þær stundir til að njóta samvista. Skipuleggið að hittast sem oftast í hádeginu og fá ykkur „löns“ saman. Þetta brýtur upp vinnudaginn, þið hittist og eigið saman stund – gætu verið einu stundirnar sumar vikurnar sem þið hafið til að hittast bara tvö saman. Stundum gætuð þið jafnvel gripið með ykkur pizzu, góðan heilsudrykk eða jafnvel bara fengið ykkur skyr eða eitthvað álíka fljótlegt og hist heima í hádeginu – fengið ykkur einn stuttan í leiðinni.

Þegar mikið er að gera eru oft fáar stundir sem nást til að spjalla saman um daginn og veginn. Það getur því verið mjög skemmtilegt að njóta þess að vera saman á stundum sem mörgum finnst kvöð.

Dansnámskeið
Mikil skemmtun og samvera getur verið fólgin í því að fara saman á dansnámskeið. Það er bara enn skemmtilegra ef þið hafið aldrei kunnað neitt að dansa því þá getið þið grenjað af hlátri yfir klunnaskapnum og tilraununum til að ná sporunum rétt. Hver veit nema þið náið svo að láta þetta allt smella saman að lokum og getið þá svifið um í hvort annars örmum og slegið í gegn á dansgólfum skemmtistaðanna.

Taka til í geymslunni – saman
Margir hugsa til þess með hryllingi að fara í gegnum allt dótið sem hefur safnast saman í geymslunni á undanförnum árum og flestir muna varla hvað þar reynist vera – alla vega í fæstum tilfellum hlutir sem vantar því þeirra hefur ekki verið saknað síðan þeir fór í geymsluna. En þetta þarf ekki að vera svo slæmt. Skipuleggið stefnumót í geymslunni því þetta þarf ekki að vera svo leiðinlegt ef þið gerið þetta saman. Þegar hver hluturinn birtist á fætur öðrum þá rifjar það upp alls konar skemmtilegar minningar, t.d. lampinn frá Gunnu frænku sem ykkur fannst svo ljótur, hallærislegi jakkinn sem makinn kom með í sambandið en mátti aldrei henda og svo framvegis. Þegar þið hafið farið í gegnum allt og flokkað eftir því hvort eigi að geyma það áfram, henda eða að losa ykkur við þá getið þið auglýst eigulega hluti á bland.is, jafnvel pantað bás í Kolaportinu eða haldið bílskúrssölu og grætt á öllu saman.

Ekki leita langt yfir skammt
Skoðaðu hvað sniðugt er hægt að gera í þínu nánasta umhverfi því oft er það sem sniðugt er að gera rétt fyrir framan nefið á okkur. Það þarf ekki alltaf að ferðast langar leiðir, krefjast mikils útbúnaðar eða fjárútláta að gera eitthvað skemmtilegt. Farið saman á bókasafnið og kíkið á bækur og blöð saman. Þar er til dæmis hægt að kíkja í gömul tímarit og oft er ekkert fyndnara en að sjá hvað fólk og tískan hefur breyst í áranna rás. Farið saman í gönguferð á staði sem ykkur hefur aldrei dottið í hug að fara á en stendur ykkur nærri. Þá gæti takmarkið til dæmis verið að ganga leið og götur sem þið hafið ekki farið áður og þá mun áreiðanleg margt koma á óvart.

Bakaðu köku, vöfflur eða gerðu heilsusamlokur og vertu tilbúin/n með kaffi og með því þegar makinn kemur heim úr vinnu seinnipartinn.

Sjónvarpslaus fimmtudagskvöld
Mörg okkar muna þá tíð þegar engar sjónvarpsútsendingar voru á fimmtudagskvöldum og ekki í júlí heldur. Á þessari tækniöld sem nú er runnin upp þá væri ekki vitlaust að hverfa einstöku sinnum aftur til þessara tíma. Slökkvið á sjónvarpinu, GSM-símum, Neti og tölvum. Heimasíminn má lifa svona til öryggis. Kveikið á kertum og njótið þess að vera heima í kyrrðinni frá þessu utanaðkomandi áreiti. Ef þið eigið börn þá skuluð þið leyfa þeim að njóta þessara stunda með ykkur. Komið saman og látið ykkur detta eitthvað sniðugt til að gera saman, t.d. spila, teikna, fara í leiki eins og að fela hlut, mjálmaðu nú kisa mín eða hollin skollin. Þarna gæti skapast tími sem allir fjölskyldumeðlimir gætu kunnað að meta og þjappað ykkur saman.

Komdu á óvart
Verið dugleg að gera eitthvað óvænt fyrir makann. Bakaðu köku, vöfflur eða gerðu heilsusamlokur og vertu tilbúin/n með kaffi og með því þegar makinn kemur heim úr vinnu seinnipartinn. Ef makinn sér alltaf um ákveðin húsverk skaltu koma honum á óvart með því að klára þau án þess að hann viti og segja að í staðinn séuð þið að fara saman í bíó. Komdu með góðan kaffibolla á leiðinni heim úr vinnu og færðu elskunni þinni eða keyptu uppáhaldstímaritið, bók eftir uppáhaldshöfundinn, gott freyðibað eða sturtusápu, kassa af uppáhaldsdrykknum sem aldrei er nóg til af eða bara hvað sem þér dettur í í hug.

Sólarhringssjónvarpsmaraþon
Farið saman á hótel í einn sólarhring með allar seríurnar af uppáhaldssjónvarpsþættinum ykkar og skipuleggið maraþon. Setjið fyrirfram reglur um hluti sem þið eigið að gera ef eitthvað ákveðið gerist í þáttunum. Ef þetta er til dæmis Friends gætuð þið haft: Alltaf þegar Phoebe spilar á gítarinn þá á að fara í sleik, alltaf þegar Joey reynir að sjarmera einhvern upp úr skónum á að kyssast, þegar Ross gerir eitthvað vandræðalegt á að fara úr að ofan og svo framvegis.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Bætir, hressir og kætir

Flest höfum við heyrt um svart og grænt te – en hvað er hvítt te?

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á hollustu tes og það kemur því ekki á óvart að te er vinsælasti drykkur heims á eftir vatni.

Te á sér mjög langa sögu og hefur verið til sem drykkur í tæplega 5000 ár.

Allar tegundir tes koma af sömu plöntu, Camellia Sinensis, eða afbrigðis hennar sem kallast Camellia Assamica, en það er aðeins meðferð og vinnsla eftir tínslu ákvarðar hvort teið verður svart, hvítt eða grænt. Ávaxtate, jurtate og rauðrunnate eru í raun ekki te heldur seyði úr ávöxtum, blómum, jurtum eða nálum rauðrunnans og innihalda ekki koffín.

Hvítt te er sérstakt vegna þess að einungis eru notuð ung laufblöð. Þá eru klipptir af runnanum laufsprotar sem eru við það að opnast og tvö til þrjú ung laufblöð. Í vönduðustu hvítu tei eru einungis notaðir laufsprotar. Af þessari ástæðu er uppskerutíminn stuttur, stundum ekki nema tveir til þrír dagar nokkrum sinnum á ári. Stuttur uppskerutími og vandasöm tínsla gerir það að verkum að hvítt te er sjaldgæfara og dýrara en annað te og það er aðeins ræktað í mjög takmörkuðu magni í Kína og á Sri Lanka.

… hvítt te er mikið um sig, létt og oft má sjá stilka og heil blöð í teinu. Einföld framleiðsla þýðir líka að næringarefni laufanna varðveitast vel og teið er því sérstaklega gott fyrir heilsuna.

Þegar tínslan hefur farið fram er framleiðslan einföld. Teið er látið þorna í nokkra daga í sólinni eða í sérstökum þurrkhúsum. Þessi einfalda framleiðsluaðferð gerir það að verkum að hvítt te er mikið um sig, létt og oft má sjá stilka og heil blöð í teinu. Einföld framleiðsla þýðir líka að næringarefni laufanna varðveitast vel og teið er því sérstaklega gott fyrir heilsuna.

Drukkið í mörg þúsund ár

Te á sér mjög langa sögu og hefur verið til sem drykkur í tæplega 5000 ár. Ein vinsæl þjóðsaga um uppruna tesins fjallar um keisara í Kína sem kallaði sig Wan Tu. Þekkt bók skáldsins Lu Yus, Tai Ching, fjallar um Wan Tu og þau áhrif sem te hafði á líf hans. Wan Tu var illur og grimmur harðstjóri sem var steypt af stóli af einum ráðamanna sinna og hrakinn á brott til afskekkts staðar í Kína.

Dag einn sat hann í skugganum af stórum runna og hugleiddi hvernig hann gæti náð fram hefndum. Vegna fátæktar sinnar þurfti hann að sætta sig við að drekka einungis vatn. Þar sem Wan Tu sat í þungum þönkum að sjóða vatn, féll lauf af runnanum ofan við höfuð hans, ofan í pottinn. Wan Tu komst að því að útkoman var bragðgóður drykkur sem hafði róandi áhrif. Teið hreinsaði hugann á svo áhrifaríkan hátt að hann sat undir runnanum næstu sjö árin, drakk te, iðraðist gjörða sinna sem harðstjóri og hugsaði um hvernig hann gæti bætt þær upp.

Hann nefndi drykkinn Thai, sem merkir friður. Wan Tu sneri aftur til heimaborgar sinnar í dulargervi og varð vel metinn ráðgjafi fyrrum ráðamanns síns, sem hafði steypt honum af stóli. Hann varð svo vitur og ástsæll meðal fólksins, að þegar ráðamaðurinn lést, var Wan Tu kosinn arftaki hans og stjórnaði í mörg ár. Á þeim tíma kynnti hann einnig þjóð sína fyrir tei. Ekki fyrr en á dánarbeði, leysti Wan Tu frá skjóðunni.

Heilsuávinningur hvíts tes:

Inniheldur kraftmikil andoxunarefni sem vernda líkamann fyrir sindurefnum og stuðla að frumuendurnýjun.

  • Hægir á öldrun húðarinnar.
  • Hreinsar húðina og kemur í veg fyrir að bakteríur stífli svitaholur.
  • Heldur húðinni bjartri og viðheldur raka.
  • Styrkir bein og tennur.
  • Er örverueyðandi og verndar því líkamann gegn sýkingum.
  • Inniheldur efni sem talin eru hraða brennslu líkamans.
  • Jafnar blóðsykur og heldur honum stöðugum.
  • Minnkar streituáhrif í líkamanum og hefur góð áhrif á hjartað.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Heimild / teogkaffi.is

Hver er morðinginn?

Fátt er betra en klassísk morðgáta á dimmu vetrarkvöldi.

Murder on the Orient Express var nýlega frumsýnd í kvikmyndahúsum landsins, en myndin er byggð á vinsælli skáldsögu rithöfundarins Agöthu Christie.

Engin undankomuleið
Murder on the Orient Express var nýlega frumsýnd í kvikmyndahúsum landsins. Hér er á ferðinni endurgerð af frægri mynd sem kom út árið 1974 byggð á sögu Agöthu Christie. Belgíski leynilögreglumaðurinn sérvitri Hercule Poirot er á leið til Vestur-Evrópu á fyrsta farrými Austurlandahraðlestarinnar. Nótt eina er einn af farþegunum myrtur í svefni og þar sem lestin er teppt vegna snjóskriðu sem hylur lestarteinana fær Hercule tíma og tækifæri til að rannsaka málið, raða saman sönnunargögnunum og finna morðingjann áður en lögreglan kemur um borð. Myndin skartar úrvalsliði leikara svo sem Johnny Depp, Judi Dench og Penelope Cruz en í þetta sinn fer Kenneth Brannagh með hlutverk Poirot.

Uppi og niðri
Í myndinni Gosford Park má glöggt sjá stéttaskiptinguna sem ríkti í Englandi á árum áður. Á efri hæðum sveitasetursins býr Sir William McCordle ásamt mun yngri eiginkonu sinni Lady Sylviu. Þau lifa hinu ljúfa lífi og skemmta sér við skotveiðar, útreiðar og veisluhöld. Niðri vinna þjónarnir baki brotnu undir stjórn yfirþjónsins Mr. Jennings og húsfreyjunnar fröken Wilson. Hvort sem þeim líkar það vel eða illa þá vita allir hver þeirra staða er. Einn góðan dag breytist allt þegar Sir William býður í skotveiðiveislu og vinir hans og þjónar þeirra hleypa öllu í bál og brand. Þar með hefst saga af lygum, svikum, hefnd, biturð, peningum og ást – og svo auðvitað morði.

Nótt eina er einn af farþegunum myrtur í svefni og þar sem lestin er teppt vegna snjóskriðu … fær Hercule tíma og tækifæri til að rannsaka málið.

Glæpur eða leikur
Smáþjófurinn Harry Lockhart er á flótta í Los Angeles undan lögreglunni eftir misheppnað rán en ratar óvart í leikprufu fyrir hlutverk rannsóknarlögreglumanns í kvikmynd. Hann fær hlutverkið og er boðið í ekta Hollywood-partí. Þar hittir hann einkaspæjarann Perry van Shrike sem stingur upp á að hann taki þátt í því að rannsaka glæp til að undirbúa sig fyrir hlutverkið. Harry og Petty flækjast inn í flókið morðmál. Kiss Kiss Bang Bang er skemmtileg mynd í nýtískulegum noir-stíl.

Humphrey Bogart og Lauren Bacall í hlutverkum sínum í The Big Sleep.

Flækjur
Í klassísku kvikmyndinni The Big Sleep, sem er byggð á vinsælum bókum Raymond Chandler, kynnumst við einkaspæjaranum Philip Marlowe. Hann er í upphafi ráðinn af afar ríkri fjölskyldu til að stöðva fjárkúgara sem hefur verið að áreita yngri systurina, Carmen. Eldri systirin, Vivian, vill þó meina að faðir hennar hafi ráðið Marlowe til að rannsaka allt annað mál. Með tímanum flækist málið til muna, og söguþráður myndarinnar með, og á endanum er það orðið að morðgátu.

Myndin From Hell fjallar um hið alræmda mál raðmorðingjans Jack the Ripper sem lék lausum hala í London árið 1888.

Fræg fjöldamorð
Myndin From Hell fjallar um hið alræmda mál raðmorðingjans Jack the Ripper sem lék lausum hala í London árið 1888. Jack myrti eingöngu vændiskonur í Whitechapel-hverfinu í London. Við fylgjumst við rannsóknarlögreglumönnunum Fred Abberline og Peter Godley við rannsókn málsins. Þeir félagar kynnast vændiskonum sem eru vinkonur fórnarlamba og hafa sína sögu að segja. Abberline er ópíumfíkill og þykist sjá inn í framtíðina. Hann verður jafnframt ástfanginn af Mary Kelly, einni vændiskonunni, og vill skiljanlega leysa málið áður en hún fellur fyrir hendi morðingjans.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Settu á þig grímu

est er að spreyja á sig ilmvatni þegar maður er nýkominn úr sturtu og áður en maður klæðir sig því þá er húðin rök og grípur frekar ilminn.

Á undanförnum árum hafa komið á markað fjölmargar nýjungar í húðvörum sem eiga uppruna sinn að rekja til Asíu, þá sérstaklega til Japan og Suður-Kóreu.

Á undanförnum árum hafa komið á markað fjölmargar nýjungar í húðvörum sem eiga uppruna sinn að rekja til Asíu, þá sérstaklega til Japan og Suður-Kóreu.

Ein þessara nýjunga eru svokallaðir taumaskar en hvernig virka þeir og er árangurinn þess virði að líta út eins og Hannibal Lechter í hálftíma?

Ólíkt venjulegum andlitsmöskum, yfirleitt þykkt krem eða leir í túbu sem er borinn á og síðan þvegin af eftir tiltekinn tíma, eru taumaskar í raun líkari serumi. Um er að ræða grímu úr tauefni, gegnsósa í þunnu, gelkenndu serumi, stútfullu af virkum efnum.Tauefnið sjálft er úr örþunnri bómull eða öðrum trefjum og sniðið eins og gríma, með götum fyrir augu, nef og munn, ásamt litlum blöðkum á hliðunum til að tryggja að maskinn passi á öll andlit. Áferðin á gelinu sem efnið er bleytt í er nógu þykk til að maskinn loði við húðina án þess að renna til og efnið leki ekki niður og fari til spillis.

Maskann á að setja á hreina, þurra húð en gott er að nota ávaxtasýru eða ensímhreinsi til að fjarlægja dauðar húðfrumur af yfirborðinu.

Samkvæmt leiðbeiningum á að leyfa maskanum að vera á í tíu til tuttugu mínútur. Það er samt óhætt að láta hann vera á húðinni þar til hún hefur upptekið meirihluti serumsins og gríman sjálf orðin nokkuð þurr. Þessi aðferð tryggir hámarksupptöku virku efnanna.

Best er að liggja út af á meðan maskinn er á því þá færist hann ekkert til. Það er líka mikilvægt að gefa sér tíma og slaka á, við þurfum öll á því að halda og við lítum betur út fyrir vikið.

Helstu kostir taumaska

  • Fyrst og fremst eru þeir ótrúlega þægilegir og auðveldir í notkun, meira að segja þeir sem eru ekkert alltof duglegir við að hugsa um húðina geta skellt einum á sig.
  • Mörgum finnst sérstaklega gott að ferðast með þá milli landa því þeir teljast ekki sem vökvi og má þess vegna taka með í handfarangri. Sumir setja þá meira að segja á sig í lengri flugum því þurrt loft í flugvélum getur leikið húðina grátt og þá er gott að setja á sig maska en þurfa ekki að þvo sér eftir notkun. Þú gætir samt fengið nokkur skrítin augnaráð frá samferðamönnum.
  • Til eru fjölmargar gerðir taumaska sem hafa ólíka virkni, flestar þeirra eiga það þó sameiginlegt að veita mjög öflugt rakaskot. Árangurinn er því strax sjáanlegur, húðin verður mun þéttari og unglegri. Það þýðir að það hentar vel að nota þá rétt fyrir eitthvert sérstakt tilefni, enda hafa margar stórstjörnur birt mynd af sér með taumaska rétt áður en þær ganga rauða dregilinn.
  • Þegar öllu er á botninn hvolft koma taumaskar ekki beint í staðinn fyrir annars konar andlitsmaska, heldur eru þeir góð viðbót sem er þægilegt að grípa til þegar maður vill líta extra vel út án þess að þurfa að hafa mikið fyrir því.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Himnesk súkkulaðiterta sem óhætt er að mæla með

Ómótstæðileg marensterta með súkkulaðirjóma og kirsuberjum. Það er óhætt að mæla með þessari.

Marens með súkkulaðirjóma og kirsuberjum
fyrir 8-10
marensbotnar:
4 eggjahvítur
2 dl sykur

Marens með súkkulaðirjóma og kirsuberjum.

Hitið ofn í 110°C á blásturstillingu. Stífþeytið eggjahvíturnar, bætið helminginn af sykrinum saman við og þeytið áfram þar til blandan er stíf og glansandi. Blandið þá restinni af sykrinum varlega saman við með sleikju.

Teiknið 3 hringi á bökunarpappír (20-22 cm í þvermál) og skiptið marensblöndunni á milli þeirra. Dreifið úr deiginu innan hringjanna og bakið í 1 ½ – 2 klst. Athugið að það gæti þurft að færa plöturnar til tvisvar til þrisvar á bökunartímanum.

Slökkvið á ofninum og látið botnana kólna alveg inni í honum. Setjið súkkulaðirjóma og kirsuber á milli botnanna og geymið kökuna í kæli í a.m.k. 2 klst. Sprautið súkkulaðiíssósu yfir kökuna rétt áður en hún er borin fram og skreytið með nokkrum kirsuberjum.

á milli:
300 g frosin kirsuber
1 msk. sykur
1-2 msk. sítrónusafi
súkkulaðirjómi:
200 g dökkt súkkulaði
2 msk. smjör
4 dl rjómi, þeyttur
súkkulaðiíssósa til þess að skreyta með

Setjið kirsuber, sykur og sítrónusafa saman í skál og látið standa þar til mesta frostið er farið úr berjunum, þau þurfa alls ekki að vera alveg þýdd, betra er að þau séu aðeins frosin.

Bræðið súkkulaði og smjör saman yfir vatnsbaði og látið kólna niður í stofuhita. Þeytið rjóma og blandið súkkulaðinu saman við með 2-3 handtökum, ekki meira því við viljum fá fallegt marmaramynstur í rjómann.

Setjið rjómann á milli botnananna ásamt kirsuberjunum en geymið svolítið af berjunum til þess að skreyta kökuna með.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

 

Gefst aldrei upp

Jackie Cardoso Da Silva barðist fyrir lífi sonar síns.

Bernharð sonur Jackie Cardoso Da Silva er haldinn Duchenne-vöðvarýrnun. Hann veiktist alvarlega árið 2011 og næstu ár sinnti móðir hans fáu öðru en umönnun hans.

Jackie Cardoso Da Silva kynntist íslenskum skiptinema í Brasilíu og flutti til Íslands í kjölfarið. Hún settist fyrst að á Egilsstöðum, síðan í Reykjavík og nú býr hún í Vestmannaeyjum þar sem hún er sannfærð um að sér hafi verið ætlað að búa. Hún sér lengra en nef hennar nær, dreymir fyrir ýmsu og finnur annað á sér. Á miðilsfundi kom í gegn sál sem talaði til hennar og hún vissi að sér væri ætlað að eignast fatlaðan son.

Bernharð sonur hennar er haldinn Duchenne-vöðvarýrnun. Hann veiktist alvarlega árið 2011 og næstu ár sinnti móðir hans fáu öðru en umönnun hans. „Hann bara veikast skyndilega og það leit í byrjun út fyrir að vera ælupest sem fór versnandi. Veikindin byrjuðu að morgunlagi og klukkan 16 var ég komin með hann upp á spítala og mátti ekki seinni vera. Hálftíma seinna sagði hann við mig að hann elskaði mig og bað mig um að fyrirgefa sér fyrir að vera svona veikur. Svo datt hann út.

„Hann bara veikast skyndilega og það leit í byrjun út fyrir að vera ælupest sem fór versnandi. Veikindin byrjuðu að morgunlagi og klukkan 16 var ég komin með hann upp á spítala og mátti ekki seinni vera.“

Við vorum spurð hvort við værum með einhverja hugmynd um hversu lengi ætti að reyna endurlífgun en læknarnir voru vissir um að þessi veikindi væru vegna hrörnunarsjúkdómsins. Ég hlustaði ekki á þá og sagði þeim bara að bjarga syni mínum.

Þá var hann svo illa farinn að það náðist ekki í neinar æðar á honum heldur þurfti að bora með borvél til að gefa honum lyf í beinmerg. Honum var síðan haldið sofandi í næstum þrjár vikur.

Margt fleira um lífshlaup og vinnu þessarar merku konu má lesa í nýjustu Vikunni.

Heimurinn hrundi. Ég var hjá honun dag og nótt, ég gat ekki gefist upp á honum, ég var ekki búin að kenna honum nógu mikið um að elska lífið. Ég átti allt eftir. Ég talaði stanslaust við hann og sagði honum að verkefninu væri ekki lokið. Ég lofaði honum því að líf hans yrði betra eftir að hann jafnaði sig og ég myndi gefa honum allt sem hann þyrfti til að vera hamingjusamur. Hann mætti ekki fara frá mér því hann væri heldur ekki búinn að kenna mér allt sem hann þyrfti.“

Jackie hefur stóran og hlýjan persónuleika og leitast til að bæta líðan fólksins í kringum sig á margvíslegan máta.

Margt fleira um lífshlaup og vinnu þessarar merku konu má lesa í nýjustu Vikunni.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Tartalettur að hætti mömmu

GE1511067708
Sumum finnst tartalettur alveg ómissandi um jólin.
Sumum finnst tartalettur alveg ómissandi um jólin.

Þegar kemur að jólamat finnst mörgum gaman að halda í hefðir. Til dæmis útbúa klassískan gamaldags vanilluís, rækjukokteil eins og amma bjó til nú eða tartalettur að hætti mömmu.

Sumum finnst tartalettur einmitt alveg ómissandi um jólin og hér er því uppskrift sem er bæði einföld og góð.

TARTALETTUR MEÐ ASPAS OG SVEPPUM
8-10 stk.
8-10 tartalettur
40 g smjör
2 msk. hveiti
1 dós aspas (400 g)
2 dl mjólk
1 dl rjómi
200 g sveppir, skornir í bita og steiktir í örlitlu smjöri
200 g skinka, skorin í bita (eða afgangar af reyktu kjöti)

Hitið ofninn í 180°C. Bræðið smjör í potti. Bætið hveiti út í og hrærið saman. Bætið safanum af aspasnum smám saman út í á meðan þið hrærið í og síðan mjólkinni. Hrærið vel svo úr verði kekkjalaus jafningur.

Bragðbætið með salti og pipar og bætið rjóma út í. Bætið nú aspasnum, sveppunum og skinkunni út í og blandið varlega saman, hitið þetta í gegn. Haldið heitu.

Bakið tartaletturnar í ofninum í 3-4 mín.

Hellið heitum jafningnum í tartaletturnar og berið fram strax.

Umsjón / Sigríður Bjök Bragadóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Mynd / Rut Sigurðardóttir

Á vappi um Víknaslóðir

Gönguferðir á Víknaslóðum hafa aukist mikið á undanförnum árum enda um að ræða eitt best skipulagða göngusvæði á Íslandi.

Ef þig langar að ganga um svæðið næsta sumar og gista í skálum á leiðinni þarf að hafa hraðar hendur því gistiplássin eru fljót að fara.

Hægt er að vera með alls konar útfærslur á gönguferðum á Víknaslóðum og þær geta tekið frá einum degi upp í að vera margra daga ferð. Gott kort er til af leiðunum og búið að stika þær helstu. Þó að alltaf sé skemmtilegt að fá leiðsögumann í svona ferðir til að fá allar sögurnar af svæðinu beint í æð er það ekki nauðsynlegt fyrir vana göngugarpa. Með leiðsögumanni er einnig hægt að taka allskonar útúrdúra frá hinum stikuðu gönguleiðum og skoða þannig fleiri áhugaverða staði.

Gönguferðir eru holl og góð skemmtun sem nýtur sívaxandi vinsælda hjá fólki á öllum aldri.

Á svæðinu eru þrír skálar á vegum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, í Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði. Þeir eru virkilega vel útbúnir með eldunaraðstöðu, vatnsklósettum og sturtum og hitaðir upp með timburkamínu. Einnig eru góð tjaldsvæði. Yfir sumarið er skálavörður í hverjum skála sem sér um að allt sé í röð og reglu. Með því að gerast félagi í Ferðafélagi Íslands eða einhverju af aðildarfélögum þess má fá mun ódýrara verð á gistingu.

Vinsælt er að ganga Víknaslóðir á nokkrum dögum með því að byrja á Borgarfirði eystra og enda á Seyðisfirði – eða öfugt. Sé byrjað á Seyðisfirði er gengið um Hjálárdalsheiði sem á árum áður var aðalleiðin milli fjarðanna tveggja. Vaða þarf tvær óbrúaðar ár en brú er á Fjarðará í Loðmundarfirði við Svæarenda. Einnig er hægt að fara Árnastaðaskörð en það er töluvert brattari leið. Margt fallegt er að sjá í Loðmundarfirði og eftir að búið er að koma sér fyrir í Ferðafélagsskálanum er tilvalið að skoða Klyppsstaðakirkju og fossinn innan við hana.

Frá Loðmundarfirði er annaðhvort hægt að fara beint til Borgarfjarðar um Kækjuskörð eða halda áfram til Húsavíkur um Nesháls. Sú gönguleið er frekar stutt og létt og fyrir lengra komna og hópa með leiðsögumann er hægt að fara upp úr firðinum við Stakkahlíðarskriður og upp Skúmhattardal og yfir í Húsavík sunnan Skúmhattar. Húsavíkurskáli er staðsettur innst í fallegum dalnum en niðri við sjóinn er Húsavíkurkirkja, hana er nauðsynlegt að heimsækja.

Frá Húsavíkurskála er hægt að halda áfram nokkrar leiðir. Ein liggur um Gunnhildardal austan Hvítserks og Leirfjalls og yfir í Breiðuvík. Einnig er hægt að fylgja veginum yfir Húsavíkurheiði og fara yfir í Borgarfjörð eða yfir Víknaheiði, norðan Hvítserks, og þá leiðina í Breiðuvík. Vilji fólk taka skemmtilegan útúrdúr á þessa leið þá er virkilega gaman að ganga á Hvítserk sem hefur að geyma stórkostlegar hraunmyndanir.

Þó að alltaf sé skemmtilegt að fá leiðsögumann í svona ferðir til að fá allar sögurnar af svæðinu beint í æð er það ekki nauðsynlegt fyrir vana göngugarpa. Með leiðsögumanni er einnig hægt að taka allskonar útúrdúra frá hinum stikuðu gönguleiðum og skoða þannig fleiri áhugaverða staði.

Í Breiðuvík eru enn krossgötur og um ýmsar leiðir að velja. Hægt er að ganga bílveginn yfir Gagnheiði til Borgarfjarðar eða halda áfram til Brúnavíkur. Á leiðinni er farið fram hjá Kjólsvík og Hvalvík en á milli þeirra er hið víðfræga fjall Glettingur og Glettinganes. Það er eitthvað óviðjafnanlega töff við að ganga á Gletting eða fara út að vitanum á Glettinganesi. Mæli með öðru hvoru, eða hvoru tveggja. Að lokum er hægt að fara til Borgarfjarðar yfir Brúnavíkurskarð eða Hofstrandarskarð.

Frá mörgum stöðum í göngunni blasa Dyrfjöllin við í allri sinni dýrð. Að auki má sannarlega mæla með göngu á þau sem og í Stórurð, Stapavík og Njarðvík.

Greinargóðar upplýsingar um allar gönguleiðirnar, skála, leiðsögn, útbúnað, öryggi, trúss og fleira eru á heimasíðunni borgarfjordureystri.is.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Helgi M. Arngrímsson

Kort með langan líftíma

Þegar kortin hafa gegnt sínu hlutverki geta þau skreytt borð, bekki, hillur og glugga.

María Manda Ívarsdóttir umbúðahönnuður er mikið jólabarn.

María Manda, eða Mandý eins og hún er alltaf kölluð, hefur gaman af að skreyta og setur sinn persónulega svip á jólakortin og merkimiðana og hannar þau sjálf. Þegar kortin hafa gegnt sínu hlutverki geta þau skreytt borð, bekki, hillur og glugga.

Mandý stofnaði sitt eigið fyrirtæki, Umbúðasmiðjuna, árið 2011 og hannar umbúðir fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina. Jólin 2011 ákvað hún að hanna jólakort til að senda út til viðskiptavina sinna.

„Jólakortið var í formi jólatrés og vakti athygli verslunarstjórans í Þjóðminjasafninu sem vildi strax fá þau í sölu. Ég féllst á það og viðtökurnar voru frábærar. Kortin seldust upp jafnóðum og ég kom með þau.“

„Jólakortið var í formi jólatrés og vakti athygli verslunarstjórans í Þjóðminjasafninu sem vildi strax fá þau í sölu. Ég féllst á það og viðtökurnar voru frábærar. Kortin seldust upp jafnóðum og ég kom með þau.“

Mandý hugsaði þá með sér að hún væri kannski með vöru sem vert væri að þróa frekar, sem hún gerði.
„Ég tók þátt í sýningunni Handverk og hönnun í Ráðhúsinu árið 2012 og var svo heppin að fá Skúlaverðlaunin fyrir pakkamerkispjöldin mín sem voru í formi standandi jólatrés,“ segir Mandý sem er enn að og hægt að sjá verk hennar á Facebook­-síðunni Umbúðasmiðjan.

María Manda, eða Mandý eins og hún er alltaf kölluð, hefur gaman af að skreyta og setur sinn persónulega svip á jólakortin og merkimiðana og hannar þau sjálf.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

„Mikilvægasta í þessu öllu að umvefja þær ótæmandi elsku“

Á Íslandi finnast fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum.

Anna Þórhildur I. Sæmundsdóttir, Sigríður Eir Zophoníasardóttir og dætur þeirra tvær eru ein gerð hinsegin fjölskyldu. Þær voru báðar staðráðnar í því að eignast börn þegar þær kynntust og voru ekki lengi að láta verða af því. Við ræddum við þær um ólík móðurhlutverk, veggina sem þær hafa rekist á innan kerfisins, pabbaleysið og fleira.

Sigríður Eir og Anna Þórhildur, eða Sigga og Tótla eins og þær eru allajafna kallaðar, segjast ekki hafa lent í miklu mótlæti varðandi fjölskylduform þeirra.

Á undanförnum árum hefur orðið mikil framþróun í málefnum og réttindum hinsegin einstaklinga – ekki síst hvað varðar fjölskyldumyndun, það er hjónabönd og barneignir. Það er þó töluvert í land og enn ber eitthvað á fordómum og fáfræði í samfélaginu.

Sigríður Eir og Anna Þórhildur, eða Sigga og Tótla eins og þær eru allajafna kallaðar, segjast ekki hafa lent í miklu mótlæti varðandi fjölskylduform þeirra. Þær hafa þó rekist á nokkra veggi innan skrifræðisins. „Það er svona eitt og annað í kerfinu sem þarf að laga og ég held að allir séu sammála um hvaða atriði það séu, en það þarf bara að láta verða að því. Við þurfum til dæmis að skiptast á að vera pabbinn á hinum ýmsum eyðublöðum. Eins þurftum við að ,,feðra“ börnin okkar í þjóðskrá. Við erum ekki skráðar sjálfvirkt sem foreldrar, eins og hjá gagnkynhneigðum hjónum, heldur þurfum við í rauninni að sækja um að verða það eftir að barnið fæðist og svo framvegis,“ segir Tótla.

„Okkar nærumhverfi er kannski frekar verndað, flestir í kringum okkur eru upplýst og þenkjandi fólk sem gerir ekki greinarmun á okkur og öðrum fjölskyldum. Helst er það yfirþyrmandi áhugi Íslendinga á erfðamálum og genatengingum og þá kannski klaufalegar spurningar í því samhengi,“ bætir Sigga við.

Eiga ekki pabba

Það voru einmitt þessar klaufalegu spurningar sem urðu til þess að Sigga birti pistil á Facebook þar sem hún tók það skýrt fram að dætur þeirra ættu ekki pabba. „Nú er Úa komin á þann aldur að hún heyrir og skilur nánast allt sem fram fer í kringum hana. Þannig er ringlandi fyrir hana að heyra spurningar um pabba hennar og Eyrúnar þegar staðreyndin er sú að þær eiga ekki pabba. Sumir virðast ekki skilja eða eru bara ekki búnir að átta sig á að sæðisgjafinn þeirra er ekki pabbi þeirra. Það að vera pabbi er félagslegt hlutverk og pabbar hafa sömu skyldum að gegna og mæður, nema kannski rétt fyrstu vikur og mánuði í lífi barns. Það er að engu leyti minna mikilvægt hlutverk heldur en það að vera móðir. Við berum einfaldlega of mikla virðingu og of miklar væntingar til föðurhlutverkins en svo að geta kallað sæðisgjafa föður,“ segir hún.

Þær skrifuðu pistilinn í sameiningu og ætluðu hann fyrir fólkið í kringum þær, sem þær umgangast dagsdaglega, sem er með þeim í liði, fólkinu sem þær langar að umgangast. Pistillinn rataði síðan í fjölmiðla og hristi aðeins upp í samfélagsumræðunni. „Þetta var skrifað fyrir fólkið sem er með okkur í liði, við vorum ekki að reyna að sannfæra eða breyta skoðun neins. Okkur langaði að benda því á það hvernig orðanotkun, sem í flestum tilfellum er bara vanhugsuð sökum þekkingarleysis, getur haft slæm áhrif á börnin okkar. Hjá þessu

„Við þurfum að skiptast á að vera pabbinn á hinum ýmsum eyðublöðum. Við erum ekki skráðar sjálfvirkt sem foreldrar, eins og hjá gagnkynhneigðum hjónum, heldur þurfum við í rauninni að sækja um að verða það eftir að barnið fæðist.“

fólki höfum við fengið frábærar viðtökur. Það eru ótal margir búnir að skrifa okkur eða koma að máli við okkur og þakka okkur fyrir að benda sér á þetta. Nú viti það eitthvað sem það vissi ekki fyrir og að þetta hafi verið mikilvæg og góð áminnig. Auðvitað eru alltaf þessir fáu sem finna sig knúna til að segja eitthvað ljótt og vera dónalegir en þeirra orð og skrif dæma sig sjálf og við ákváðum að eyða ekki einu pennastriki eða orkudropa í svoleiðis glóruleysi,“ segir Tótla.

Ólík móðurhlutverk

Nú hafa Sigga og Tótla báðar gengið með barn, sem og verið foreldrið sem styður við bakið á þeirri sem gengur með. Þó að bæði séu vissulega móðurhlutverk eru þau afar ólík á meðgöngu, í fæðingu og fyrstu vikurnar á eftir. Að því loknu blandast hlutverkin meira saman og nú sinna þær báðar sömu hlutverkum gagnvart dætrum sínum.

„Það hentaði mér betur að vera sú sem gengur með heldur en að vera stuðningsaðilinn, mér fannst það að mörgu leyti mjög erfitt hlutverk. Þó svo að Tótla hafi verið miklu betri í því þá uppgötvuðum við báðar að þetta hlutverk að vera ,,hinn“ er mjög vanþakklátt og lítið rætt. Oft er svo mikill fókus á meðgöngumóðurina að hinn gleymist og ég get ímyndað mér að hinn gleymist jafnvel enn frekar ef hann er karlmaður. Við lentum til dæmis báðar í því að vera ekki óskað til hamingju með komandi barn af því það var ekki inni í okkar bumbu,“ segir Sigga.

Tótla er sammála og segir að sér hafi einmitt liðið betur sem stuðningsaðilinn. „Meðgangan mín var frekar erfið. Mér leið ekki vel og tókst á við hina ýmsu fylgikvilla. Mér þykir yfirleitt betra að vera manneskjan í bakgrunninum, finnst athygli sem beinist of mikið að mér óþægileg. Mér fannst samt stórkostlegt að fá að prófa þetta. Það eru algjör forréttindi að geta búið til manneskju inni í sér og alls ekki sjálfsagt. Það er magnað að finna hana vaxa og hreyfast innra með sér.“

Hvað varðar foreldrahlutverkið þykir Siggu og Tótlu mikilvægt að þær séu lið, að þær standi saman og séu samkvæmar sjálfum sér.

Fæðingin sjálf reynir ekki síst á stuðningsaðilann, en bæði Sigga og Tótla fæddu á heimili þeirra. „Líkami hins foreldrisins gerir ekkert til að hjálpa þeim í gegnum fæðinguna. Maður finnur fyrir hræðslunni og þreytunni margfalt á við þann sem er að fæða. Þannig var allavega mín reynsla. Fæðingin mín tók rúma tvo sólarhringa en Siggu einn og hálfan klukkutíma. Ég var alveg að bugast undan biðinni hjá mér en varð hrædd hvað þetta tók stuttan tíma hjá henni. Ljósmæðurnar rétt náðu til okkar áður en Sigga átti. Það var komin kollur niður, enginn kominn til okkar og ég held að ég hafi aldrei verið jafnhrædd á ævinni. Þegar ég var að fæða var ég hins vegar bara í því hlutverki og náði einhvern veginn að fara inn á við og loka á allt annað,“ segir Tótla.

„Já, ég var miklu þreyttari eftir fæðinguna hennar Tótlu en þegar ég var sjálf að fæða,“ bætir Sigga við. „Þegar Eyrún var komin í heiminn fékk ég svo mikið spennufall og það helltist yfir mig svo mikil þreyta að það leið næstum því yfir mig. Mig vantaði allt endorfínið og adrenalínið til að hjálpa mér.“

Smellpössuðu saman

Þær kynntust fyrir fjórum árum úti á lífinu, eins og svo mörg pör. „Ég sá Tótlu á bar með vinum sínum snemma á laugardagskvöldi og fannst hún sæt. Ég þorði samt ekki að nálgast hana þar og vonaði að ég myndi hitta á hana seinna um kvöldið, á eina hinsegin bar borgarinnar. Svo var hún auðvitað þar að dansa með vinum sínum og ég safnaði kjarki til að fara og dansa við hana,“ segir Sigga brosandi.

Sigga er uppalin á Hallormsstað og bjó fyrir austan þar til hún fór í Menntaskólann í Hamrahlíð. Þaðan lá leið hennar í Listaháskólann og útskrifaðist af sviðshöfundabraut með millilendingu í trúðaskóla í Kaupmannahöfn. „Í Listaháskólanum kynntist ég Völu Höskuldsdóttur og stofnaði með henni Hljómsveitina Evu sem hefur svo verið mitt aðalstarf síðan, samhliða útvarpsvinnu á Ríkisútvarpinu og fleira.“

Siggu og Tótlu finnst fólk hér á landi fullupptekið af erfðum og skyldleika. Eitthvað hefur borið á því að fólk segi að Úlfhildur og Eyrún séu hálfsystur.

Tótla ólst hins vegar upp í Vesturbænum og fór í Kvennaskólann. Hún hélt svo út til Flórens á Ítalíu þar sem hún lærði grafíska hönnun. Þegar hún kom heim úr náminu fékk hún fljótlega vinnu sem grafískur hönnuður á fréttastofu Stöðvar 2 og hefur unnið þar síðan.

„Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Við vorum báðar harðákveðnar að við værum ekkert að leita okkur að sambandi en gátum ekki haldið okkur hvor frá annarri,“ segir Sigga.

Tótla kinkar kolli og tekur í sama streng. „Sigga er sú allra skemmtilegasta kona sem ég hef kynnst. Ég áttaði mig fljótlega á því að ég hafði aldrei kynnst neinum sem ég átti svona auðvelt með að umgangast mikið. Ég er gjörn á að fá óþol fyrir fólki eftir mikil samskipti en hef aldrei átt í erfiðleikum með að verja ótæpilegu magni af tíma með Siggu – helst finnst mér vandamál að fá of lítinn tíma með henni.“

Þótt þær hafi ekki beint verið að leita sér að sambandi voru barneignir þeim samt ofarlega í huga. „Ég held það hafi verið í annað eða þriðja skiptið sem við hittumst þegar ég gekk úr skugga um að Tótlu langaði til að eignast börn í náinni framtíð. Við vorum báðar á þeim stað að okkur langaði ekki að eyða tíma í samband sem myndi ekki leiða til þess á endanum að eignast börn,“ segir Sigga.

Þær komust líka fljótt að því að þær hefðu líkar hugmyndir um uppeldi barna og hvernig fjölskyldu þær vildu eiga. „Þó að við hefðum verið mjög stutt saman þegar við ákváðum að búa til barn vorum við ákveðnar í því að þótt við myndum kannski ekki endast sem par værum við tilbúnar að ala fallega upp barn saman,“ segir Tótla.

Allt eins og það átti að vera

Eftir að ákvörðunin um að búa til barn hafði verið tekin fóru Sigga og Tótla að ræða möguleikana. „Ég sá það alltaf þannig fyrir mér þannig að framtíðarkonan mín myndi ganga með börnin. Ég var dálítið stressuð fyrir þessu og var mjög glöð með að Sigga skyldi vilja byrja. Þegar ég fylgdist svo með Siggu upplifa þetta varð ég mjög spennt, fannst allt svo magnað sem hún var að ganga í gegnum og var mjög heilluð af ferlinu. Ég var með fjögur öpp í gangi þar sem ég fylgdist með þroska fóstursins og las fyrir hana úr bókum á kvöldin,“ segir Tótla. Sigga var mjög ánægð með þessa afstöðu Tótlu því að hún var búin að hlakka mikið til að ganga með barn. „Ég elskaði að vera ólétt og væri sko alveg til í að gera það aftur.“

„Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Við vorum báðar harðákveðnar að við værum ekkert að leita okkur að sambandi en gátum ekki haldið okkur hvor frá annarri.“

Þær höfðu heyrt að það gæti verið þónokkur bið eftir því að komast á Art Medica svo þær ákváðu að hringja strax og athuga með tíma í framtíðinni. Þá bauð konan í símanum þeim að koma daginn eftir sem þær þáðu. „Tíðahringurinn minn var á mjög heppilegum stað svo læknirinn sagði að okkur væri ekkert að vanbúnaði, við gætum komið aftur eftir um það bil tíu daga í uppsetningu. Við bjuggumst ekki við að þetta myndi gerast svona hratt og höfðum í rauninni bara ætlað að kíkja til hennar til að fá upplýsingar. Við sögðumst því þurfa að sofa á þessu en þegar við vöknuðum daginn eftir fundum við að við áttum að kýla á þetta,“ segir Sigga.

Það reyndist rétt því Sigga varð ólétt í fyrstu tilraun og úr varð eldri dóttir þeirra, Úlfhildur Katrín. „Við verðum sannfærðari um það á hverjum degi að við áttum að eignast akkúrat hana. Það þurfti svo aðeins fleiri tilraunir til að búa til Eyrúnu. Það var mjög erfitt, mikil vonbrigði og ákveðið áfall í hverjum mánuði þegar það gekk ekki, en svo gekk þetta að lokum og við erum jafnsannfærðar um að við áttum að fá akkúrat hana,“ bætir Tótla við.

Systrakærleikur

Úlfhildur verður þriggja ára í lok desember og mæður hennar lýsa henni sem ljúflyndum vargi. „Hún er ótrúlega skapandi og skemmtileg. Hún þarf mikið að hreyfa sig og ókyrrist fljótt ef hún fær það ekki,“ segir Tótla. „Hún hefur svo ríkt ímyndunarafl að hún trúir oft sögunum sem hún er að búa til fyrir okkur. Hún hefur farið að gráta undan ósýnilegu ljóni sem stökk út úr sögu sem hún var sjálf að segja. Einnig hefur komið fyrir að það var hákarl á milli herbergjanna okkar svo hún komst ekki yfir til okkar hjálparlaust. Hún er einnig nýfarin að semja vísur sem lofa mjög góðu.“

„Hún er ótrúlega blíð við litlu systur sína, leggst alltaf beint hjá henni þegar hún kemur úr leikskólanum og segir henni frá deginum sínum eða syngur fyrir hana. Þegar henni finnst samskiptin full einhliða talar hún líka fyrir systur sína með fyndinni skrækróma rödd og lætur eins og þær séu að tala saman,“ segir Sigga.

Eyrún er aðeins þriggja mánaða og samkvæmt Tótlu vita þær því ekki margt um hana enn þá. „Þó sjáum við strax að hún er mjög ákveðin og góð í að láta okkur vita hvað hún þarf. Hún er heldur ekkert að splæsa brosi eða spjalli á alla. Það er yfirleitt fyrir nokkra útvalda og aðallega heimilisfólkið. Hún er algjör snillingur í samskiptum og krefst þess að fá ríkan skerf af einbeittri athygli. Hún er kannski stundum eitthvað pirruð en er ekki svöng, blaut eða þreytt. Þá vill hún að við sitjum með hana á hnjánum og horfumst djúpt í augu, brosum hvor til annarrar og spjöllum saman.“

Þótt það sé ekki á dagskrá alveg á næstunni sjá Sigga og Tótla alveg fyrir sér að bæta við fjölskylduna.

Eins og áður segir þykir þeim Siggu og Tótlu fólk hér á landi fullupptekið af erfðum og skyldleika. Eitthvað hefur borið á því að fólk segi að Úlfhildur og Eyrún séu hálfsystur. „Þær eru systur. Fæddar inn í sömu fjölskyldu og hafa alist upp hjá sömu mæðrunum frá upphafi. Við sjáum ekki hvar hinn helmingurinn ætti að koma ef þetta er að vera hálf. Það er eins og að segja að við séum báðar stjúpmæður barnanna okkar,“ segir Sigga.

„Það stingur líka svolítið þegar við erum spurðar hvort þær séu skyldar. Við vitum alveg hvað átt er við en þetta orð er líka félagslega hlaðið og heppilegra væri að spyrja um blóðtengsl ef fólki finnst mikilvægt að vita hvernig blóð streymir um æðar þeirra. Ég held að Úlfhildur gæti ekki fundið neina manneskju í heiminum sem hún er jafnskyld og systur sinni og þau tengsl sem myndast hafa á milli þeirra nú þegar eru tengsl og skyldleiki sem engin heimsins gen eða blóð gæti styrkt enn frekar.“

Svipaðar mæður

Hvað varðar foreldrahlutverkið þykir Siggu og Tótlu mikilvægt að þær séu lið, að þær standi saman og séu samkvæmar sjálfum sér. „Við ræddum þetta mikið þegar Úa var á leiðinni og höfum það að leiðarljósi. Svo er auðvitað ótal, ótal margt sem okkur langar að gera og innræta börnunum okkar – svo margt að oft virkar það yfirþyrmandi hversu mikil ábyrgð það er að ala upp barn, að móta einstakling og reyna að búa honum sem best nesti. Þá er gott að minna sig á að trúlega er það mikilvægasta í þessu öllu að umvefja dæturnar ótæmandi elsku og minna þær á að þær eru nóg, alveg eins og þær eru í öllum aðstæðum, alltaf.“

Aðspurð hvernig mæður þær séu segist Sigga vona að hún sé hlý, skilningsrík og skemmtileg, jafnvel uppátækjasöm, og að hún segi oftar já en nei. „Ég vona líka að ég sé þolinmóð þó að það sé kannski helst það sem ég þarf að æfa mig í. Tótla er ótrúlega hlý og góð mamma. Hún er bæði leikfélagi og mjög góð í blíðum aga. Við erum að mörgu leyti frekar svipaðar mæður því við erum svo sammála um hvað okkur finnst mikilvægt í uppeldinu.“

„Þó að við hefðum verið mjög stutt saman þegar við ákváðum að búa til barn vorum við ákveðnar í því að þótt við myndum kannski ekki endast sem par værum við tilbúnar að ala fallega upp barn saman.“

„Ég held ég sé best í rólegum leik,“ segir Tótla. „Ég elska að lesa fyrir Úu, búa til og hlusta með henni á sögur. Ég reyni að hlusta á stelpurnar mínar og mæta þeim þar sem þær eru staddar hverju sinni. Ég held að ég sé ástrík en ákveðin og legg mikið upp úr því að hafa ramma þar sem er pláss fyrir mistök. Sigga er mjög drífandi og skemmtilegur uppalandi. Hún er alltaf að búa til ný ævintýri og er dugleg að koma með tónlist inn í líf okkar, syngur mikið með og fyrir Úu. Hún er líka dugleg að drífa okkur út í leiðangra þegar ég og Úa erum haugar og viljum helst liggja og glápa á teiknimyndir. Hún kennir okkur öllum að opna okkur og tala um tilfinningarnar okkar. Mér finnst mikilvægt að stelpurnar mínar séu sjálfstæðar, kurteisar og ríkar af samkennd og ég vona að ég geti kennt þeim það. Ég vil að þær viti að þær geti gert hvað sem þeim dettur í hug og vona að þær fái ástríðu fyrir einhverju í lífinu.“

Þótt það sé ekki á dagskrá alveg á næstunni sjá Sigga og Tótla alveg fyrir sér að bæta við fjölskylduna. „Það er svona á seinna plani að eignast eitt barn til viðbótar eftir nokkur ár. Hvort sem það verður barn sem við göngum með, tökum í fóstur eða ættleiðum,“ segir Tótla að lokum.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Förðun / Hrafnhildur Björk Runólfsdóttir

 

Eiginleikar eplaediks

Eplaedik hefur á undanförnum árum farið frá því að vera talið gamaldags húsráð í að vera vinsælt heilsulyf.

Það er búið til úr ferskum eplum sem eru hökkuð og látin gerjast í viðartunnum. Sýran í eplaedikinu er lykillinn að heilsueflandi kostum þess – kostum svo sem bættri meltingu, heilbrigðari húð, jafnvægi á blóðsykri, auknu þyngdartapi og minni bólgum og verkjum í líkamanum. Mikilvægt er að edikið sem þú notar sé bæði er ósíað og ógerilsneitt og helst lífrænt því það er stútfullt af lifandi og heilsubætandi gerlum. Hér eru fimm sniðugar leiðir til að nota eplaedik í daglegu lífi.

Talið er að eplaedik hjálpi til við hreinsun með því að auka starfsemi lifrarinnar við að losa sig við eiturefni, auk þess inniheldur það mikið af vítamínum, steinefnum og ensímum sem eru líkamanum mikilvæg í hreinsun.

1. Detox-hreinsun
Talið er að eplaedik hjálpi til við hreinsun með því að auka starfsemi lifrarinnar við að losa sig við eiturefni, auk þess inniheldur það mikið af vítamínum, steinefnum og ensímum sem eru líkamanum mikilvæg í hreinsun. Síðan getur eplaedik einnig hjálpað til við að draga úr vatnsuppsöfnun, eða bjúg, í líkamanum. Ýmist er hægt að innbyrða eplaedikið eða bæta því út í baðið. Til að útbúa hreinsandi bað bættu 1-2 bollum af ediki út í baðið á meðan þú lætur renna í. Liggðu í baðinu 20-30 mínútur og skolaðu baðvatnið af áður en þú þurrkar þér.

2. Heilbrigð húð
Eplaedik getur hjálpað til gegn hinum ýmsu húðvandamálum því það er bæði bakteríudrepandi og róandi. Hægt er að nota það í að fjarlægja vörtur á fótum, draga úr og meðhöndla bólur, minnka svitalykt og jafnvel milda sársauka sem fylgir sólbruna. Þegar á að nota eplaedik á húð þarf að blanda það með vatni, annars getur það verið of ertandi, og best er að nota tvo hluta af vatni á móti einum af eplaediki. Síðan er hægt að setja blönduna í lítinn spreybrúsa og spreyja beint á eða annars konar flösku og nota bómull og bera blönduna á húð.

3. Náttúrulegt hreinsiefni
Upp á síðkastið hefur verið mikið rætt um notkun ediks til að hreinsa heimilið vegna náttúrulegra sýkladrepandi eiginleika þess. Blandaðu saman hálfum bolla af eplaediki á móti 1 bolla af vatni. Þú getur notað þessa blöndu til að þrífa baðherbergisflísar, eldhúsyfirborð, glugga, gler og spegla. Einnig er sniðugt að bæta örlitlum matarsóda í blönduna og þá verður allt skínandi hreint.

4. Bragðgóður og hollur drykkur
Eplaedik getur haft góð áhrif á meltinguna; jafnað sýrustig í maga, dregið úr bólgum í meltingarvegi og svo framvegis. Auðvelt er að útbúa góðan og heilsubætandi drykk með með því að blanda tveimur matskeiðum af eplaediki og tveimur matskeiðum af hunangi saman við bolla af heitu vatni. Drekktu þrjá bolla á viku og sjáðu hvort þú finnir ekki mun.

Þegar á að nota eplaedik á húð þarf að blanda það með vatni, annars getur það verið of ertandi, og best er að nota tvo hluta af vatni á móti einum af eplaediki. Síðan er hægt að setja blönduna í lítinn spreybrúsa og spreyja beint á eða annars konar flösku og nota bómull og bera blönduna á húð.

5. Glansandi hár
Það hljómar ef til vill furðulega en með því að nota eplaedik eftir að þú hefur þvegið hárið með sjampói lokarðu hárendum og hreinsar burt eftirstöðvar af óhreinindum þannig að hárið glansar enn meira á eftir. Settu hálfa matskeið af ediki í vatn. Helltu blöndunni yfir höfuðið inn í sturtu og skolaðu svo vandlega úr. Vissulega er örlítið sérstök lykt af hárinu á meðan það er blautt en hún hverfur þegar það þornar.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Fundu réttu fötin í Ástralíu

Berglind Berndsen og Anna Margrét Kristjánsdóttir reka barnafataverslun á Netinu.

Þegar íslenskar vinkonur eru í fæðingarorlofi saman er ekki hægt að búast við að þær sinni eingöngu börnum og heimili. Þær Berglind Berndsen og Anna Margrét Kristjánsdóttir ákváðu að stofna barnafataverslun á Netinu og bjóða upp á einmitt föt eins og þær langaði í á sína stráka.

Þær Berglind Berndsen og Anna Margrét Kristjánsdóttir ákváðu að stofna barnafataverslun á Netinu.

Hvernig kom það til að þið ákváðuð að fara að flytja fatnað um hálfan hnöttinn? „Instagram!“ segir Berglind ákveðin.

„Instagram leiðir mann í allskonar áttir og þar á meðal alla leið til Ástralíu. Ástralir eru framalega í að hanna stílhreinan, lífrænan og þægilegan fatnað fyrir börn.

Við erum með þrjú vörumerki sem öll eru upprunnin í Eyjaálfu; HUXBABY, Anarkid og Mickey Rose. Við teljum það mikilvægt að fötin séu framleidd úr umhverfisvænum efnum og eru vörurnar meðal annars GOTS vottaðar. Við töldum þetta mikilvægt atriði þegar við ákváðum að taka inn þessar vörur, fyrir utan hvað þær eru fallegar.“

„Það sem þessi merki eiga öll sameiginlegt er að þau bjóða upp á fatnað sem er úr lífrænni bómull og hannaður í sátt við náttúru og fólk.“

Líkt og Berglind nefndi eru þessi vörumerki leiðandi í sjálfbærni og umhverfisvænni framleiðslu í sínu heimalandi og þótt víða væri leitað. Þarna er haft að leiðarljósi að fötin séu þægileg, klæðileg og stílhrein. Er eitthvað fyrir utan það sem gerir þessi merki sérstök?

„Það sem þessi merki eiga öll sameiginlegt er að þau bjóða upp á fatnað sem er úr lífrænni bómull og hannaður í sátt við náttúru og fólk,“ segir Anna Margrét.

„Auk þess eru flíkurnar flestar unisex-hönnun sem okkur þykir mikill kostur. Við viljum bjóða upp á föt sem eru endingargóð og falleg en hefta á sama tíma ekki leik og gleði barnanna.“

Fóru að velta fyrir sér barnafötum

„Ég á einn son sem er orðinn fjórtán mánaða og hugmyndin að stofnun Litla ljónsins kviknaði þegar hann var þriggja mánaða,“ bætir Berglind við. „Ég upplifði þá að á markaðinn vantaði stílhreinan fatnað fyrir barnið mitt sem væri líka þægilegur fyrir hann.“

„Ég á einnig einn son en minn er nítján mánaða,“ bætir Anna Margrét við. „Við vorum í fæðingarorlofi á sama tíma og í því fór þetta af stað.“

Þær vinkonurnar hittust nefnilega og fóru að tala um hvers konar fatnað þær vildu klæða börn sín í og hvaða grunngildi þeim fyndist nauðsynlegt að hafa í forgrunni við val á fötum. Þegar þær svo rákust á þessi áströlsku merki fór boltinn að rúlla enda var þar að finna allt sem þær óskuðu eftir. Berglind er menntuð í uppeldis- og menntunarfræðum og er á lokaári í masters-námi í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf. Hún starfar sem ráðgjafi á BUGL með

„Við viljum bjóða upp á föt sem eru endingargóð og falleg en hefta á sama tíma ekki leik og gleði barnanna.“

fram náminu. Anna Margrét er hins vegar með gráðu í listfræði og starfar sem verslunarstjóri hjá LINDEX. Litla ljónið er í senn hugðarefni og aukastarf hjá báðum. Þær vilja styðja þau gildi er standa að baki. En hver eru næstu skref hjá ykkur varðandi fyrirtækið?
„Eins og staðan er núna erum við og verðum með netverslun en við erum reglulega með opið hús eða Popup,“ segir Berglind. „Við stefnum að því að bæta við okkur vörumerkjum í komandi framtíð og vonumst til að stækka með tímanum og langtímamarkmið eru að opna verslun.“

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér frekar vörumerki Litla ljónsins geta skoðað síðurnar, www.litlaljonid.com, Litla ljónið á Facebook og Instagram-síðuna, Litla_ljonid.

 

Bara fimm hráefni – og kvöldmaturinn er kominn!

||
||

Nauta-ribeye með sveppum og trufflumajónesi.

Það getur verið áskorun að elda góðan mat úr fáum tegundum hráefnis. En á sama tíma er það mjög frelsandi og ekki þarf að hugsa í langan tíma hvað á að vera í matinn.

Ekki þrífa pönnuna eftir steikinguna á kjötinu, heldur setjið sveppina á hana og steikið þá með ½ msk. af salti þar til þeir eru orðnir mjúkir.

Þegar eldað er úr fáum efnum er gott að nýta sumt hráefnið á tvennan og jafnvel þrennan hátt. Þá væri möguleiki að steikja salatið og einnig að nota það ferskt.

Annað sem er mikilvægt að hafa í huga er að nota allt „brasið“ af pönnunni og soðið af hráefninu til þess að hámarka bragðið.

Þó svo að ég noti einungis fimm hráefni í þennan rétt, þá tel ég ekki með salt, pipar og feiti. Ég notaði þó aðeins olíu en smjör eða góð ólífuolía gerir allt betra. Auðvitað er líka alltaf hægt að fríska upp á matinn með smávegis sítrónusafa. Ég komst líka að því að ekki er mjög dýrt að versla svona í matinn og þá er hægt að splæsa í gæðaprótín og nota gott grænmeti með.

Nauta-ribeye með sveppum og trufflumajónesi
fyrir 4

600-800 g nauta-ribeye, eða annar góður vöðvi
1 kg nýjar íslenskar kartöflur
2 dl majónes
1 msk. truffluolía
2 pakkningar (u.þ.b. 250 g) kastaníusveppir, eða aðrir sveppir

2 msk. gróft sjávarsalt
1 msk. nýmalaður svartur pipar
5 msk. olía

Hitið ofninn í 180°C. Sjóðið kartöflurnar í potti þar til þær eru næstum því alveg tilbúnar, sigtið vatnið frá og kremjið þær svo með lófanum, setjið 3 msk. af olíu yfir þær og inn í ofn. Kartöflurnar þurfa 25 mín. í ofninum.

Notið 2 msk. af olíu og hitið á pönnu. Mynd /www.pixabay.com

Hitið pönnuna á háum hita með 2 msk. af olíu. Þerrið steikurnar með eldhúsbréfi og setjið 1 msk. af salti og 1 msk. af pipar á þær. Látið þær á pönnuna og steikið í um 3-4 mín. á hvorri hlið og setjið í eldfast mót. Mögulega sama mót og kartöflurnar en sitt hvort er í góðu lagi. Hafið steikurnar í ofninum þar til kjarnhitinn er 50-60°C, eða miðlungssteiktar. Látið steikurnar hvíla í nokkrar mínútur áður en þær eru bornar fram.

Ekki þrífa pönnuna eftir steikinguna á kjötinu, heldur setjið sveppina á hana og steikið þá með ½ msk. af salti þar til þeir eru orðnir mjúkir. Bætið þeim við í eldfasta mótið með kjötinu. Hrærið truffluolíunni saman við majonesið. Saltið svo kartöflurnar með restinni af saltinu og berið fram.

Umsjón og stílisti / Gunnar Helgi Guðjónsson
Aðalmynd / Hákon Björnsson

PRADA: Hver er konan á bakvið merkið?

Allflestar konur þekkja nafnið Prada enda eitt frægasta tískuvörumerki heims síðastliðna áratugi. En hvað vitum við um konuna á bak við merkið?

Hér eru nokkrar skemmtilegar staðreyndir um Miucciu Prada sjálfa sem er ein áhrifamesta og ríkasta kona heims.

Lúxusvörumerkið Prada getur þakkað Miucciu Prada, barnabarni Mario Prada, fyrir velgengnina síðustu áratugi.

Sérstakur bakgrunnur Flestir fatahönnuðir hafa verið viðloðandi bransann alveg frá byrjun og lifa og hrærast í heimi hönnunar. Bakgrunnur Miucciu er hins vegar töluvert sérstakur en áður en hún tók við fjölskyldufyrirtækinu árið 1978 útskrifaðist hún úr stjórnmálafræði og varði fimm árum við látbragðsleik.

Lúxusvörumerkið Prada getur þakkað Miucciu Prada, barnabarni Mario Prada, fyrir velgengnina síðustu áratugi. Ítalska vörumerkið var stofnað árið 1913 og hóf framleiðslu á gæðaleðurtöskum sem halda áfram að vera aðalsmerki þeirra í dag.

Það var hins vegar Miuccia sem kom með fyrstu Ready-to-Wear-fatalínuna á markað á tíunda áratugnum en í dag selur Prada fylgihluti, fatnað og ilmvötn.

Vörumerkið Prada er þekkt fyrir látlausan elegans og stór eða áberandi lógó eru sjaldséð á töskum þeirra. Hönnunarvörur þeirra eiga að vera auðþekktar innan „innsta hrings“.

Miuccia er loksins búin að taka það í sátt að vera femínisti sem vinnur í tískuheiminum. Í viðtali við Newsweek sagði hún að vegna þess að hún væri femínisti þá hefði hún lengi vel hatað hugmyndina að vinna við tísku og að einungis nýlega hefði hún sæst við hugmyndina og hætt að líða illa yfir því. „Ég áttaði mig á því að margt mjög klárt fólk ber mikla virðingu fyrir tísku og ég hef nýtt mér tískuhönnunina til þess að kanna heima arkitektúrs, lista og kvikmynda.“

„Ég áttaði mig á því að margt klárt fólk ber virðingu fyrir tísku og ég hef nýtt mér tískuhönnunina til þess að kanna heima lista og kvikmynda.“

 

Kvikmyndin The Devil Wears Prada fjallar um reynslu aðstoðarkonu sem á að vera byggð á persónu bandaríska ritstjóra Vogue, Önnu Wintour. Þrátt fyrir að Önnu sé ekkert sérstaklega hlýlega lýst í myndinni góðu brást hún alls ekki illa við kvikmyndinni og mætti meira að segja á frumsýninguna í New York – að sjálfsögðu klædd Prada frá toppi til táar.

Gift fræmkvæmdastjóranum

Miuccia er gift viðskiptafélaga sínum en stuttu eftir að hún fór að vinna fyrir fjölskyldufyrirtækið kynntist hún Patrizio Bertelli sem síðar varð framkvæmdastjóri Prada. Hún hefur sagt að hann sé drifkrafturinn á bak við vinnu hennar og gefur honum kreditið fyrir að gera fyrirtækið að því margmilljarða veldi sem það er í dag. Hjónin eru þó þekkt fyrir það að lenda í heiftarlegum rifrildum. „Við vinnum mikið og leggjum hart að okkur og erum í ákaflega ástríðufullu sambandi, það getur verið mjög þreytandi að vinna fyrir hann. En ég dáist að honum og virði hann,“ sagði hún í viðtali við The Wall Street Journal.

Skemmtileg tíska Miuccia hefur sagst elska tísku en segir að hún eigi ekki að stjórna lífi fólks og vill ekki taka sig of hátíðlega. „Tíska er mjög fallegur hluti af lífi okkar en mér finnst að tíska eigi að vera skemmtileg.“

Prada segist geta réttlætt himinháa verðmiða varningsins frá vörumerkinu en hún segir að það kosti ekki bara mikið að framleiða varninginn frá þeim heldur kosti það einnig sitt að það sé gert við rétt skilyrði.

Vörumerkið Prada er þekkt fyrir látlausan elegans

Í viðtali „skammaði“ hún fólk á vinstri væng stjórnmálanna sem gagnrýna hættuleg og siðferðislega röng vinnuskilyrði en þykir demókratískara að klæðast ódýrum tískuflíkum. Þetta þyki henni hámark hræsninnar.

Ungdómsþráhyggja

Prada segir að nútímasamfélög séu haldin þráhyggju gagnvart ungdómnum en er sjálf of hrædd við að leiða byltingu breytinga í tískuheiminum.

„Hjá konum fylgir því mikið drama að eldast. Það vill enginn eldast en mér finnst að við ættum að finna lausn á því. Sérstaklega þar sem við lifum miklu lengur í dag,“ var haft eftir henni í viðtali.

Þegar hún var spurð af hverju hún notaði ekki eldri fyrirsætur öðru hvoru svaraði hún því að hún ynni í heimi auglýsinga en ekki í listrænum heimi og viðurkenndi að hún væri ekki nógu hugrökk til þess.

„Þeir sem eiga falleg hús og málverk en klæða sig illa skil ég ekki.“

Hún er þekkt fyrir að finnast minna alltaf meira og skilur ekki fólk sem er illa klætt.

„Þeir sem eiga falleg hús og málverk en klæða sig illa skil ég ekki og heldur ekki konur sem sýna of mikið hold. Ég trúi því að því glennulegar sem konur klæðist, því minna kynlíf stundi þær.“

Höfundur / Helga Kristjáns
Myndir / Prada

Silfurborgin við Norðursjó

Borgin Aberdeen er full af fallegum almenningsgörðum, söfnum og stórbrotnum arkitektúr.

Aberdeen er krúttleg borg í Skotlandi sem líkja má við Akureyri okkar Íslendinga, hún hefur sjarma smábæjar en er með allt það sem finna má í stórborgum.

Í borginni er stórbrotinn arkitektúr. Hér sést Aberdeen háskóli.

Aberdeen er þriðja stærsta borg Skotlands og oft nefnd granítborgin, eða Silver by the Sea, enda nánast allar byggingar á svæðinu byggðar úr hinum níðsterka og fallega efnivið, graníti. Olíuvinnsla í Norðursjó skipar stóran sess í samfélaginu og í Aberdeen er stærsti þyrluflugvöllur í Evrópu. Í borginni eru margir fallegir almenningsgarðar, stórbrotinn arkitektúr og skemmtileg söfn, enda á borgin sér margra alda sögu.

Aðalverslunargatan heitir Granite Mile og er hluti af Union Street en þar eru meira en 800 verslanir, veitingastaðir og barir. Stærsta verslunarmiðstöðin heitir Union Square og þar má finna H&M, Zöru, Michael Kors, Apple og fleiri þekktar búðir. Verslunarmiðstöðvarnar Bon Accord og St Nicholas eru samtengdar skammmt frá en þar er einnig H&M-verslun, Karen Millen, L‘Occitan, Marks & Spencer og fleiri. Í Trinity Center er svo meðal annars Debenhams og Primark.

Óhætt er að mæla með Scene-hótelunum í miðborg Aberdeen sem bjóða upp á öll nútímaþægindi. Hótelin eru þrjú og eru rekin af Scene-fjölskyldunni. Hótelin eru í samstarfi við nokkra veitingastaði víðs vegar um Aberdeen þar sem hægt er að borða og bæta á hótelreikninginn. Hótelin eru einnig í samstarfi við tvær líkamsræktarstöðvar. Fyrsta hótelið var stofnað árið 1979 og starfsemin hefur vaxið hægt og bítandi síðan. Álman á einu hótelinu var áður kirkja sem var gerð upp sem hótel, virkilega sjarmerandi.

Fjölskyldufaðirinn, stofnandi keðjunnar og framkvæmdastjóri, Charles Skene, leggur mikinn metnað í reksturinn og hefur forðast að láta fyrirtækið verða of stórt eða hluta af alþjóðlegum keðjum. Fyrir nokkrum árum var hann sæmdur OBE, Order of the British Empire sem er eins konar fálkaorða þeirra Breta, fyrir störf sín.

Í sambýli við Trump

Aberdeen og nágrenni er golfparadís en þar eru fimmtíu og sjö 18 holu golfvellir. Skammt norðan við Aberdeen er golfvöllur í eigu Donalds Trump sem kallast einfaldlega Trump International Golf Links. Hann er byggður innan um miklar sandöldur við austurströnd Skotlands sem gerir völlinn einstakan. Sandöldurnar, sem voru látnar halda sér á milli teiga, brauta og flata, eru í hlutverki hindrana og ekki er um aðrar hindranir að ræða.

Aberdeen og nágrenni er golfparadís en þar eru fimmtíu og sjö 18 holu golfvellir.

Golfarkitektinn Dr. Martin Hawtree hannaði völlinn sem var opnaður árið 2012 eftir nokkra baráttu en ekki voru allir á eitt sáttir um framkvæmdina. Trump þurfti að kaupa land af nokkrum aðilum til að geta byggt þennan draumavöll en ekki voru allir sem vildu selja. Einn eigandinn býr til dæmis enn á svæðinu og golfvöllurinn var byggður í kringum býli hans. Sagan segir að sambýlið gangi ekkert allt of vel.

Gamlt höfðingjasetur sem Trump keypti gegnir hlutverki hótels og veitingastaðar sem er sérstaklega ætlað golfurum. Sérstök svíta þar er kennd við Trump og hann dvelur í henni þegar hann er sjálfur á svæðinu. Þessa svítu er svo hægt að leigja fyrir þónokkur pund. Við golfvöllinn er svo glæsilegur golfskáli, veitingastaður og verslun.

Í kastalanum sjálfum er flott herbergi í gamaldags stíl en í gamalli hlöðu og útihúsum á móti er búið að innrétta flott nútímaleg herbergi.

Meldrum House Country Hotel and Golf Course er í um fjörutíu og fimm mínútna akstursfjarlægð frá Aberdeen. Hótelið er í gömlum kastala sem upphaflega var byggður á þrettándu öld en hefur tekið töluverðum breytingum í gegnum tíðina síðan. The Cave Bar er einn af elstu hlutum hússins eða um 800 ára gamall og þar er meðal annars eitt stærsta safn af Glen Garioch-viskíi og gaman að fara í viskísmökkun. Í kastalanum sjálfum er flott herbergi í gamaldags stíl en í gamalli hlöðu og útihúsum á móti er búið að innrétta flott nútímaleg herbergi. Golfvöllurinn er mun hefðbundnari en Trump-völlurinn, með trjám, tjörnum og sandgryfjum.

Fór næstum í flóði

Skosku hálöndin ættu allir að heimsækja einhvern tímann á ævinni. Þau eru svo falleg, full af dýrðarljóma og sögu. Þau eru meðal annars þekkt fyrir þá fjölmörgu kastala sem þar eru. Einn þeirra er Crathes Castel; það er ævintýri líkast að fara í túr um kastalann, skoða hvern krók og kima og kynnast sögu hans. Í kringum kastalann er stór garður og í raun heljarstórt útivistarsvæði sem er vinsælt meðal bæði heima- og ferðamanna. Þar er hægt að velja um sex mismunandi gönguleiðir og tilvalið fyrir fjölskylduna að njóta dagsins með nesti og nýja skó eða kíkja á veitingastaðinn sem er skammt frá kastalanum.

Ekki langt frá Crathes-kastalanum, meðfram ánni River Dee, er Banchory Lodge Hotel. Áin komst í heimsfréttirnar eitt sinn mikil flóð urðu í henni og eyðilögðu meðal annars næstum því heilan kastala sem stendur á árbakkanum. Flóðið náði alveg upp að veggjum hótelsins í Banchory Lodge en það slapp við stórfelldar skemmdir. Talsmenn hótelsins sögðu að það hefði verið ógnvekjandi að sjá stærðarinnar hjólhýsi fljóta fram hjá. Banchory Lodge Hotel er fallegt sveitahótel sem býður upp á flott hótelherbergi með fallegu útsýni. Á staðnum er frábær veitingastaður með mjög góðum mat og hægt að sitja úti á palli þegar veðrið er gott. Mikið er um að þarna séu haldnar veislur, ekki síst brúðkaupsveislur, enda frábær aðstaða til slíks og svo geta allir gestirnir gist á staðnum.

Vatnsdropar í viskíið

Viskí er eitt af einkennistáknum Skotlands og í landinu eru framleidd yfir 2.200 vörumerki af þessum eðaldrykk. Viskíhéruðin í landinu eru sex talsins og þar með tegundirnar því þær hafa mismunandi karakter eftir því á hvaða svæði þær eru framleiddar. Vinsælt er að fara í

Viskí er eitt af einkennistáknum Skotlands og í landinu eru framleidd yfir 2.200 vörumerki af þessum eðaldrykk.

viskísmökkun og skammt frá Meldrum House Country Hotel er viskíverksmiðjan Glen Garioch þar sem boðið er upp á viskísmökkun og skoðunarferð um húsakynnin. Fyrirtækið hefur í rúm 200 ár framleitt handunnið og ókaldhreinsað maltviskí.

Til að finna karakterinn í viskíinu eru oft settir nokkrir dropar af vatni út í það en við það verður ilmurinn og bragðið fyllra, líkt og þegar nýbúið er að rigna þá finnst lyktin af gróðri miklu betur.

Upplifun fólks af styrkleika viskís er persónubundin, það er sem sagt misjafnt hversu sterkt fólk á að hafa viskíið sem það drekkur. Ef það finnur fyrir bruna í hálsinum þegar það tekur sopa er drykkurinn of sterkur. Dropum af vatni er þá bætt við þangað til viskíið verður passlega sterkt. Til er sérstakt vatn til að setja út í viskí frá mismunandi stöðum í Skotlandi og bragðið verður mismunandi eftir uppruna vatnsins.

Litríkt fiskiþorp

Óhætt er að mæla með leiðsögn um borgina og fá þannig söguna og helstu perlur staðarins beint í æð. Litla fiskiþorpið í mynni hafnarinnar í Aberdeen er sérstaklega áhugavert. Það er kallað Footdee eða Fittie og samanstendur af tveimur svæðum með litlum húsum sem byggð eru í ferhyrning. Í gamla daga bjuggu sjómenn og fjölskyldur þeirra í húsunum. Þó að margar af þessum fjölskyldum búi þarna enn þá er fiskilífið á miklu undanhaldi. Á árum áður mátti sjá eiginkonurnar sitja við útidyrnar að gera við net og skiptast á sögum við nágrannana. Fiskinet voru víðs vegar þar sem greiða þurfti úr flækjum og hengja þau til þerris. Þessi litlu hús og garðarnir hafa þó fengið að halda sér. Húsin hafa öll sinn sjarma, eru litrík og margvíslega skreytt. Sumum er vel haldið við, öðrum ekki. Þarna er dásamlegt að vera og svolítið eins og að koma inn í nýja veröld úr ys og þys borgarlífsins.

Skosku hálöndin ættu allir að heimsækja einhvern tímann á ævinni. Þau eru svo falleg, full af dýrðarljóma og sögu. Þau eru meðal annars þekkt fyrir þá fjölmörgu kastala sem þar eru.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / www.pixabay.com

Hauslausar konur í Hollywood

Tumblr-síðan Headless Women of Hollywood vekur athygli á þeirri tilhneigingu kvikmyndabransans til að nota kvenmannslíkama til að selja myndir – og þá er átt við kvenlíkama án höfuðs.

Þetta fyrirbæri hefur greinilega verið lengi við lýði því hér er plakat myndarinnar The Graduate. Í henni leikur stórleikkonan Anne Bancroft en við fáum aðeins að sjá leggi hennar.

Konur eru oft hlutgerðar í Hollywood og í öðrum formum dægurmenningar – það er ekkert nýtt. En þegar konan er gerð að litlu öðru en bara líkamanum þá verðum við að segja: hingað og ekki lengra.

Tumblr-síðan Headless Women of Hollywood vekur athygli á þeirri tilhneigingu kvikmyndabransans til að nota kvenmannslíkama til að selja myndir – og þá er átt við kvenlíkama án höfuðs.

Einhverjum finnst þetta varla vera tiltökumál, og að verið sé að gera úlfalda úr mýflugu á þessari vefsíðu, en málið er að þetta er bara einn hluti af mun stærra vandamáli sem þarf að uppræta.

Oftar en ekki snýr konan baki í myndavélina, í hælum en litlu öðru með stórt bil á milli fóta. Jafnvel þegar höfuð eða andlit konu er sýnt er fókusinn oft færður á ákveðna þætti andlits … í stað þess að sýna heildina og persónugera einstaklinginn.

Heiðurinn af tumblr-síðunni á uppistandarinn Marcia Belsky en með henni vill hún hvetja Hollywood til að hætta að afhausa konur. „Með því að afhausa konuna er hún óneitanlega hlutgerð og látin sæta augnaráði karlmanna (e. Male Gaze). Samþykki hennar skiptir ekki

Mýmörg dæmi eru um að myndir af hauslausum konum séu notaðar til að auglýsa Hollywood-kvikmyndir.

lengur máli, það hefur verið fjarlægt ásamt höfði hennar, og hennar eini tilgangur er að láta horfa á sig af karlmönnum. Virði hennar er bundið við kynþokka hennar ekki persónu,“ segir hún á síðunni.

Á síðunni eru birt kvikmyndaplaköt, auglýsingar og fleira þar sem hauslaus kona kemur fyrir. Oftar en ekki snýr konan baki í myndavélina, í hælum en litlu öðru með stórt bil á milli fóta. Jafnvel þegar höfuð eða andlit konu er sýnt er fókusinn oft færður á ákveðna þætti andlits, eins og varir eða augu, í stað þess að sýna heildina og persónugera einstaklinginn. Þegar maður fer að skoða síðuna kemur það manni í raun á óvart hversu algengt þetta fyrirbæri er og hversu blindur maður hefur verið fyrir því hingað til.

Á þessu plakati fyrir nýjustu Terminator-myndina, Terminator Genisys, þótti mikilvægara að sýna andlit vélmennisins en aðalleikkonunnar Emiliu Clarke.

 

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Hinn eftirsóknarverði ljómi

Það þarf að huga vel að húðinni.

Í daglegu tali er oft talað um að geisla af heilbrigði svo það er ekki skrítið að snyrtivörur sem lofa auknum ljóma séu gríðarlega vinsælar. Þótt fallegur farði og ljómapúður geti vissulega aukið ljómann á yfirborðinu þarf líka að huga vel að húðinni til að tryggja að hann komi að innan.

Huga að mataræðinu

Mikilvægt er að drekka nóg af vatni til að halda raka í húðinni og borða litríkt grænmeti sem inniheldur andoxunarefni og lækkar ph-gildi líkamans.

Það er því miður svo að kaffi og áfengir drykkir eru vatnslosandi og mikil neysla þeirra getur valdið þurrki í húð.

Eins getur óhófleg neysla sykraðra matvæla með tímanum brotið niður kollagen og elastín í húðinni sem veldur því að hún verður slappari og líflausari. Það er þó ekki þar með sagt að maður verði að neita sér um allt heldur bara að gæta hófs.

Til mótvægis við þetta óholla er mikilvægt að drekka nóg af vatni til að halda raka í húðinni og borða litríkt grænmeti sem inniheldur andoxunarefni og lækkar ph-gildi líkamans, það getur aukið ljóma húðarinnar.

Hreinsa burt dauðar húðfrumur 

Alpha hydroxy-sýrur eru lífrænar sýrur sem skiptast í ávaxta- og mjólkursýrur. Þær eru vatnsleysanlegar og vinna eingöngu á efsta lagi húðarinnar við að hreinsa burtu dauðar húðfrumur. Með því að nota andlitsvatn með einhvers konar sýru má þannig koma í veg fyrir uppsöfnun á dauðum húðfrumum og viðhalda ljóma.

… Eins getur óhófleg neysla sykraðra matvæla með tímanum brotið niður kollagen og elastín í húðinni sem veldur því að hún verður slappari …

Ensím

Eitt af vinsælustu íðorðum í snyrtivörubransanum er án efa ensím. Þau hraða efnaskiptum í húðinni og eru aðallega notuð til að djúphreinsa húðina eða draga úr bólgum. Þau ensím sem eru notuð til að brjóta niður dauðar húðfrumur á yfirborðinu og hraða endurnýjun húðar koma úr ávöxtum, oftast papaya, ananas eða bláberjum. Ensímin eru mildari en sýrur og henta því betur fyrir viðkvæmar húðgerðir og þau er yfirleitt að finna í andlitsmöskum.

Notið réttu innihaldsefnin

Retinól er mjög algengt í snyrtivörum og á að sporna gegn öldrun húðarinnar en konur á öllum aldri geta notið góðs af því að bæta því við húðumhirðuna. Það hvetur nefnilega húðina til þess að endurnýja sig hraðar og jafnframt framleiða meira af hyaluronic-sýru og kollageni. Þannig eykur það þéttni húðarinnar, dregur úr hrukkum og öðrum öldrunarmerkjum og eykur ljóma hennar.

Þau ensím sem eru notuð til að brjóta niður dauðar húðfrumur á yfirborðinu og hraða endurnýjun húðar koma úr ávöxtum, oftast papaya, ananas eða bláberjum.

Einn helsti kostur C-vítamíns er hversu öflugt það er í að jafna litarhaft húðar og lýsa upp dökka húðbletti, hvort sem þeir eru tilkomnir vegna öldrunar eða bóluöra. Þetta magnaða vítamín hefur jafnframt róandi áhrif og getur dregið úr roða og bólgum í húð. Það hefur einnig endurnýjandi áhrif á húðina í heild þannig að hún sýnist hraustari og með meiri ljóma.

Í húðinni myndar keramíð hálfgerðan varnarhjúp utan um frumur í efri lögum húðarinnar. Ýmis utanaðkomandi áhrif, svo sem veður og vindar eða sápur og hreinsiefni, geta strípað húðina og raskað náttúrulegri fituframleiðslu hennar og þegar hún verður þurr safnast dauðar húðfrumur fyrir á yfirborðinu. Keramíði í snyrtivörum er ætlað að fylla á forða húðarinnar, veita henni þar með raka og styrkja varnarkerfi hennar.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / www.pexels.com

Fullkomin hjólaborg

Hadda Hreiðarsdóttir segir frá uppáhaldsstöðum sínum í Barcelona.

Hadda Hreiðarsdóttir, verkefnastjóri hjá 1xINTERNET, hefur búið í Barcelona í þrjú ára ásamt sambýlimanni sínum, Adam, og börnunum, Hreiðari Nóa, Unu Barböru og Benjamín.

Hadda Hreiðarsdóttir, verkefnastjóri hjá 1xINTERNET, hefur búið í Barcelona í nokkurn tíma ásamt sambýlimanni sínum, Adam, og börnunum, Hreiðari Nóa, Unu Barböru og Benjamín. Hún flutti þangað á sínum tíma til að fara í mastersnám og gat svo ekki hugsað sér að fara frá borginni. Við fengum hana til að segja okkur frá uppáhaldsstöðum sínum í Barcelona.

„Barcelona er hin fullkomna hjólaborg, alltaf gott veður, aldrei vindur og hægt að sjá margt án þess að fara erfiðar brekkur. Það er mjög auðvelt að leigja hjól og um alla borg eru hjólastígar sem auðvelda manni hjólalífið. Það er dásamlegt að hjóla með fram ströndinni, um Barceloneta-hverfið eða El Born þar sem má stoppa í einn drykk og tapas, í gegnum Parc Cituadella þar sem má leggjast niður í sólinni og hvíla sig. Þaðan inn í gotneska hverfið fram hjá dómkirkjunni, yfir í Raval-hverfið og enda svo kannski daginn á litlum veitingastað við ströndina. Það besta við Barcelona er að hún er svo lítil að þetta má gera allt fyrir hádegi.“

„Gotneska hverfið er hverfið mitt og sá hluti borgarinnar sem má ekki missa af. Litlar, þröngar götur, kaffihús, pöbbar, ávaxtabúðir, gallerí og litlar krúttlegar hönnunarbúðir.“

Njóta þess að villast
„Gotneska hverfið er hverfið mitt og sá hluti borgarinnar sem má ekki missa af. Litlar, þröngar götur, kaffihús, pöbbar, ávaxtabúðir, gallerí og litlar krúttlegar hönnunarbúðir. Lítið er um umferð og því fullkominn staður til að labba um og njóta hvort sem það er að sumarlagi eða fyrir jólin. Barcelona er nefnilega yndisleg jólaborg, þrátt fyrir snjóleysið. Þarna má hæglega njóta þessa að villast.“

Matarupplifun í myrkri
„Dans le noir er veitingastaður þar sem maður borðar í algeru myrkri sem er ótrúleg upplifun. Þjónarnir á staðnum eru allir blindir. Þriggja rétta máltíð með víni bragðst töluvert öðruvísi þegar maður sér ekki handa sinna skil.“

El Drac, eða drekinn, hið fræga verk listamannsins Gaudi.

Flottar sýningar
„MACBA er nýlistasafn Barcelona í Raval-hverfinu. Þar eru alltaf flottar sýningar sem er gaman að sjá. Svæðið er líka ótrúlega skemmtilegt með stórum torgum þar sem hægt er að sitja og fá sér drykk meðan krakkarnir leika sér og ekki síst fylgjast með hjólabrettagaurunum í Barcelona sem eru fjölmargir, þarna koma þeir bestu saman og „skeita“ frá morgni til kvölds.“

Hörðustu kjötætur fá í hnén
„Get ekki sleppt því að minnast á uppáhaldsveitingastaðinn minn. Teresa Carles er frábær grænmetisstaður sem lætur hörðustu kjötætur fá í hnén. Það er allt gott á matseðlinum. Glas af lífrænu rauðvíni kostar þarna 300 krónur íslenskar og katalónska ostatertan er skylda í hvert sinn sem þessi staður er heimsóttur.“

MACBA er nýlistasafn Barcelona í Raval-hverfinu. Þar eru alltaf flottar sýningar sem er gaman að sjá að sögn Höddu.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Villta vestrið aldrei vinsælla

Vestrar eru enn afar vinsælir og hér eru nokkur nýleg dæmi.

Westworld er í raun sýndarveruleikaskemmtigarður sem lítur út eins og villta vestrið. Þar geta gestir hagað sér eins og þeim sýnist innan um afar raunveruleg vélmenni í alls kyns hlutverkum.

Kjarkaðar konur

Godless er ný sjö þátta sería úr smiðju Netflix en þættirnir voru framleiddir af Steven Soderbergh. Þættirnir gerast árið 1884 í Nýju-Mexíkó. Stórhættulegi útlaginn Frank Griffin er á höttunum eftir Roy Goode sem stal frá honum gulli. Roy þessi var áður hluti af bófagengi Franks og Frank leit á hann sem son áður en Roy stakk hann í bakið. Roy felur sig á býli ekkjunnar Alice Fletcher sem býr í útjaðri bæjarins La Belle. Íbúar La Belle eru nær eingöngu konur því allir karlmenn bæjarins létust í hræðilegu námuslysi nokkrum árum áður. En hvernig verja nokkrar konur sig gegn manni eins og Frank?

Skemmtigarður framtíðarinnar

Sjónvarpsþættirnir Westworld eru byggðir á samnefndri kvikmynd eftir Michael Chrichton. Þeir gerast í framtíðarheimi og Westworld er í raun sýndarveruleikaskemmtigarður sem lítur út eins og villta vestrið. Þar geta gestir hagað sér eins og þeim sýnist innan um afar raunveruleg vélmenni í alls kyns hlutverkum. Þættirnir eru stjörnum prýddir en Anthony Hopkins leikur skapara garðsins, Ed Harris leikur ruddalegan gest og þau Evan Rachel Wood, Thandie Newton og James Marsden leika öll vélmenni, eða gestgjafa eins og þau eru kölluð í þáttunum.

Í leit að ástinni

Í Slow West kynnumst við ungum Skota sem ferðast alla leið til villta vestursins í Bandaríkjunum í leit að Rose, konunni sem hann elskar. Á ferð sinni kynnist hann útlaganum Silas sem slæst í för með honum sem leiðsögumaður og verndari. Jay veit hins vegar ekki að Rose og faðir hennar eru eftirlýst og fé sett til höfuðs þeirra, tvö þúsund dollarar lífs eða liðin.

Tarantino-vestrinn Django Unchained gerist í suðurríkjum Bandaríkjanna skömmu áður en þrælastríðið braust út.

Mannaveiðari og þræll

Tarantino-vestrinn Django Unchained gerist í suðurríkjum Bandaríkjanna skömmu áður en þrælastríðið braust út. Þýski læknirinn og mannaveiðarinn dr. King Schultz er á höttunum eftir hinum morðóðu Brittles-bræðrum þegar hann hittir þrælinn Django í Texas og fær hann til að aðstoða sig við leitina gegn loforði um frelsi hans og eiginkonu hans, Broomhildu, en hún er í eigu grimma plantekrueigandans Calvin Candie. Django og Schultz láta sér ekki nægja að handsama Brittles-bræðurnar heldur ná einnig að klófesta marga af hættulegustu glæpamönnum suðursins áður en þeir snúa sér að frelsun Broomhildu.

… mannaveiðarinn dr. King Schultz er á höttunum eftir hinum morðóðu Brittles-bræðrum þegar hann hittir þrælinn Django í Texas og fær hann til að aðstoða sig við leitina gegn loforði um frelsi hans og eiginkonu hans.

Hefnd og svik

True Grit kom fyrst út árið 1969 en hún er byggð á samnefndri skáldsögu Charles Portis. Þessi útgáfa Coen-bræðra frá árinu 2010 vakti mikla lukku meðal áhorfenda og gagnrýnenda. Sagan gerist árið 1877 og segir frá unglingsstúlkunni Mattie Ross. Faðir hennar er myrtur á hrottalegan hátt af undirmanni sínum sem flýr af vettvangi með tvo hesta og gull föður hennar. Mattie vill tafarlausa hefnd og leitar til hins gamalreynda og harnaða lögreglumanns Rooster Cogburns. Hann hafnar fyrst um sinn beiðni hennar en hún nær sínu fram á endanum. Þegar annar lögreglumaður, LaBoeuf sem er einnig á höttunum eftir Chaney, mætir á svæðið vandast málin. Laboeuf og Rooster taka höndum saman til að hafa uppi á Chaney, gegn vilja Mattie, og þar með hefst hættuleg för þremenninganna til að ná fram hefndum.

True Grit úgáfa Coen-bræðra frá árinu 2010 vakti mikla lukku meðal áhorfenda og gagnrýnenda.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Sjö spennandi gönguleiðir í heiminum

Víða um heim má finna staði með spennandi gönguleiðum.

Vinsældir ýmiskonar gönguferða hafa aukist mjög á undanförnum árum og víða um heim má finna staði með spennandi gönguleiðum sem skarta glæsilegu útsýni og ýmsu sem gerir þær sérstakar á einn eða annan hátt.

Zion Narrows er mögnuð gönguleið sem skartar töfrandi landslagi sem liggur í gegnum þröng gljúfur úr litríkum, eins kílómetra háum sandveggjum.

Zion Narrows í Utah-ríki, Bandaríkjunum

Zion Narrows er mögnuð gönguleið sem skartar töfrandi landslagi sem liggur í gegnum þröng gljúfur úr litríkum, eins kílómetra háum sandveggjum.

Á hinum fræga hluta leiðarinnar sem nefnist Wall Street verða gljúfrin ekki nema sex metrar að breidd að ofan. Ríflega helming leiðarinnar þarf að ganga upp með á sem liðast fallega í gegnum gljúfrin.

Úr veggjum gljúfranna hanga runnar, vatn kemur úr sprungum, þarna eru breiður af mosa, fossar og há tré.

Rétt er að taka fram að það getur verið mjög hættulegt að fara þessa leið því fljót geta komið snögglega og árlega deyja göngugarpar á leiðinni. Því þarf að vera með veðurspána á hreinu áður en farið er, og vera viss um að alls engin rigning sé í kortunum.

Með nauðsynlegum varúðarráðstöfunum er þessi gönguleið ein sú allra flottasta í Bandaríkjunum og sannarlega engu lík.

Tongariro-gönguleiðin á Nýja-Sjálandi

Landslagið á Nýja-Sjálandi er sérstaklega fallegt og því ekki að undra að ein flottasta gönguleið í heimi sé á norðureyju landsins. Hægt er að taka frá einum og upp í þrjá daga í gönguna.

Leiðin sem er um 35 kílómetra löng liggur í gegnum eldfjallasvæði og eyðimerkur sem líkjast einna helst öðrum hnöttum og fallegir fjallstindar gnæfa yfir.

Göngufólk mun sjá virka eldfjallið Ngaurube eða Doom eins og það hét í Lord of the Rings. Einnig sjóðandi leirkatla, gíga og hraun …

Göngufólk mun sjá virka eldfjallið Ngaurube eða Doom eins og það hét í kvikmyndinni Lord of the Rings. Einnig sjóðandi leirkatla, gíga, hraun og hin glæsilegu Emerald-vötn.

Ferðalagið er ekki síst skemmtilegt eftir að fer að dimma en þá er hægt að koma sér fyrir í þægilegum fjallakofum sem eru með fínum rúmum, gashiturum og -eldavélum, rennandi vatni og klósettum. Ferðalangar geta svo auðveldlega lagt lykkju á leið sína og gengið á topp fjallanna Tongariro og Ngauruhoe.

Landslagið á Nýja-Sjálandi er sérstaklega fallegt. Mynd / www.pexels.com

West Coast í Bresku Kólumbíu, Kanada

Þá sem langar í óvenjulega göngu í gegnum óspillta kanadíska náttúru, upplifa tempraða skóga, harðgerðar strandlengjur og stórkostlega fjallstinda, þá er West Coast-gönguleiðin málið. Göngufólk mun vakna í tindrandi sólarupprás, njóta ótrúlegs sólarlags, klöngrast yfir stóra steina og trjáboli, yfir læki og ár, fram hjá fossum, upplifa hve ótrúlega lítil mannskepnan er í kringum risastór tré í eldgömlum skógi. Einnig gæti fólk séð hvali, sæljón, minka og kannski einnig birni og úlfa, svo ekki sé minnst á skipsflök og aðrar minjar. Erfitt getur verið að komast að í þessa einstöku göngu og stundum er hægt að lenda í slæmu veðri, jafnvel á sumrin. Engin ganga í Norður-Ameríku býður upp á jafnfjölbreytt landslag og er sannarlega þessi virði að fara hana.

West Coast-gönguleiðin er málið fyrir þá sem langar í óvenjulega göngu í gegnum óspillta kanadíska náttúru.

Torres del Paine-gönguleiðin í Chile

Þeir sem eru að leita að stórkostlegu Alpafjallalandslagi, jöklum, jökulvötnum, skörpum fjallstindum, einstöku dýralífi og möguleikanum á því að sjá hina töfrandi graníttinda Towers of Paine, ættu að fara í þessa vinsælu 100 kílómera löngu gönguleið í Patagonia-fjöllunum í Chile. Staðurinn hefur verið útnefndur einn 50 staða sem fólk ætti að heimsækja á lífsleiðinni, af tímaritinu National Geographic. Þessi dásamlega gönguleið liggur um Magellenic-skóginn, forug fen, klettótt gil og yfir óstöðugar brýr. Þótt svæðið sé heillandi frá upphafi til enda þarf að hafa í huga að þar geta veður orðið válynd. Því getur bakpokinn orðið ansi þungur með öllu sem á þarf að halda til að halda á sér hita. Hægt er að lenda í byl og því gæti hluti leiðarinnar lokast. En slæmt veðurfar veldur því að leiðin er ekki fjölfarin og því mun ferðalöngum finnast þeir hafa unnið enn stórkostlegra afrek ef þeir ganga þessa leið.

Þeir sem eru að leita að möguleikanum á því að sjá hina töfrandi graníttinda Towers of Paine, ættu að fara í þessa vinsælu 100 kílómera löngu gönguleið í Patagonia-fjöllunum í Chile.

Annapurna-gönguleiðin í Nepal

Marga göngugarpa dreymir um að fara til Nepal til að komast í tæri við eina glæsilegustu fjallasýn í heimi. Þessi gönguleið í Annapurna býður ekki aðeins upp á snævi þakta fjallstinda, heldur einnig fjölbreytta náttúru og menningu. Gangan sem liggur frá suðrænu landslagi að hæstu fjöllum í heimi tekur um þrjár vikur og á leiðinni er hægt að gista í þægilegum skálum. Varast þarf háfjallaveiki en möguleiki er á henni þegar komið er í meira en fimm kílómetra hæð yfir sjávarmáli. Á leiðinni hitta ferðalangar Tíbeta sem búa í fjöllunum, sjá búddahof, geta heimsótt tehús, baðað sig í heitum lindum og njóta eins fallegasta útsýnis í heiminum.

Marga göngugarpa dreymir um að fara til Nepal til að komast í tæri við eina glæsilegustu fjallasýn í heimi.

Kilimanjaro í Tanzaníu

Þá sem langar að príla upp á verulega hátt fjall en ekki fara í brjálæðislega tæknilega, hættulega og bratta göngu þá er ferð á Kilimanjaro frábær kostur. Fjallið er 5,895 metra hátt og oft sagt að það sé hæsta fjall í heimi sem hægt er að ganga á án þess að þurfa tæknilega kunnáttu í klifri og útbúnaði. Það er ekki þar með sagt að gangan sé auðveld því hún er líkamlega krefjandi og árlega deyja nokkrir úr háfjallaveiki á þessari leið. Nokkrar leiðir eru á topp þessa hæsta frístandandi fjalls heims og hæsta tinds Afríku. Gangan hefst við miðbaug og farið er í gegnum allar loftlagstegundir í þessa sex daga og fimm nætur sem gangan tekur. Byrjað er í heitu graslendi, síðan farið í gegnum tempraða skóga og jökulfyllta dali að ísköldum tindinum.

Kilimanjaro í Tanzaníu.

Kalalau á Hawaii

Kalalau á Hawaii er ein glæsilegasta gönguleið í heimi. Klettarnir liggja gróðri vaxnir niður í sæblátt Kyrrahafið. Þar eru ævintýralega fullkomnir fossar sem falla niður í suðræna dali og öldurnar skella með dramatískum hætti á klettana. Í hafinu má sjá stökkvandi höfrunga og hnúfubaka og sjávarskjaldbökur við ströndina. Stígurinn er 17 kílómetra langur og þar sem hann liggur er um 1.000 metra hátt fall niður í sjó. Farið er yfir fimm stóra dali og fleiri litla. Fyrir mjög þjálfaða göngumenn tekur ferðin einn dag en tvö fyrir marga aðra sem tjalda á leiðinni. Stígurinn var fyrst byggður seint á nítjándu öld og endurbyggður árið 1960. Hann er nánast aldrei alveg flatur og á sumum stöðum liggur hann frekar nálægt hengiflugi, nokkur hundruð metra háu, beint niður í sjó.

Kalalau á Hawaii er ein glæsilegasta gönguleið í heimi.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

 

Einfaldar leiðir til að krydda sambandið

Stundum þarf bara smá hugmyndaflug til að hressa upp á sambandið.

Misjafnt er hvað pör eru dugleg að gera hluti saman til að krydda sambandið þegar grár hversdagurinn tekur við eftir gáskafulla hveitibrauðsdaga svo ekki sé talað um þegar börnin fara að koma í heiminn og taka í burtu mestallan frítímann. Notalegar stundir þurfa þó ekki að vera flóknar og geta vel samræmst daglegum athöfnum – eina sem þarf er smávegis hugmyndaflug.

Fáðu pössun á mánudagskvöldi, taktu á móti makanum með sjóðheitu baði, kertaljósum og hafðu betri fötin tilbúin.

Stefnumót á virkum degi
Stundum henta virkir dagar betur til stefnumóta en helgar sem oft eru fullar af dagskrá og fólk vill kannski frekar nýta með börnunum. Fáðu pössun á mánudagskvöldi, taktu á móti makanum með sjóðheitu baði, kertaljósum og hafðu betri fötin tilbúin. Svo getið þið skellt ykkur út að borða, jafnvel í einn kaffibolla á eftir og samt verið komin heim á skikkanlegum tíma til að hleypa barnapíunni heim og komast það tímanlega í rúmið að þið verðið ekki að deyja úr þreytu daginn eftir. Auðvitað mætti líka skreppa saman í bíó eða leikhús en það gefur ykkur náttúrlega ekki eins mikinn tíma til að tala saman.

Saman í heimilisverkin
Í stað þess að híma í sitthvoru horninu við heimilisverkin getur verið sniðugt að boða til stefnumóts við þvottafjallið, uppvaskið eða eldamennskuna. Þegar mikið er að gera eru oft fáar stundir sem nást til að spjalla saman um daginn og veginn. Það getur því verið mjög skemmtilegt að njóta þess að vera saman á stundum sem mörgum finnst kvöð. Þeir sem hafa prófað þetta hafa sagt að á þessum klukkutíma sem tók að brjóta saman allan hreina þvottinn sem hafði safnast saman hafi þau hjónin náð að spjalla meira saman en í langan tíma. Það sama á við um eldamennsku – njótið þess að búa til matinn og spjalla saman í leiðinni um daginn og veginn. Sumir hafa líka nefnt að það sé ofsalega róandi að vaska upp, eins og hálfgerð hugleiðsla, og þarna geta pör hugleitt saman án þess að verða fyrir nokkurri truflun. Af hverju ekki að njóta þessara daglegu athafna, það þarf að gera þær hvort sem er.

Hittast í hádeginu
Sama hversu mikið við höfum að gera þá þurfum við alltaf að gefa okkur tíma til að borða og því er einhvern veginn svo hentugt að nota þær stundir til að njóta samvista. Skipuleggið að hittast sem oftast í hádeginu og fá ykkur „löns“ saman. Þetta brýtur upp vinnudaginn, þið hittist og eigið saman stund – gætu verið einu stundirnar sumar vikurnar sem þið hafið til að hittast bara tvö saman. Stundum gætuð þið jafnvel gripið með ykkur pizzu, góðan heilsudrykk eða jafnvel bara fengið ykkur skyr eða eitthvað álíka fljótlegt og hist heima í hádeginu – fengið ykkur einn stuttan í leiðinni.

Þegar mikið er að gera eru oft fáar stundir sem nást til að spjalla saman um daginn og veginn. Það getur því verið mjög skemmtilegt að njóta þess að vera saman á stundum sem mörgum finnst kvöð.

Dansnámskeið
Mikil skemmtun og samvera getur verið fólgin í því að fara saman á dansnámskeið. Það er bara enn skemmtilegra ef þið hafið aldrei kunnað neitt að dansa því þá getið þið grenjað af hlátri yfir klunnaskapnum og tilraununum til að ná sporunum rétt. Hver veit nema þið náið svo að láta þetta allt smella saman að lokum og getið þá svifið um í hvort annars örmum og slegið í gegn á dansgólfum skemmtistaðanna.

Taka til í geymslunni – saman
Margir hugsa til þess með hryllingi að fara í gegnum allt dótið sem hefur safnast saman í geymslunni á undanförnum árum og flestir muna varla hvað þar reynist vera – alla vega í fæstum tilfellum hlutir sem vantar því þeirra hefur ekki verið saknað síðan þeir fór í geymsluna. En þetta þarf ekki að vera svo slæmt. Skipuleggið stefnumót í geymslunni því þetta þarf ekki að vera svo leiðinlegt ef þið gerið þetta saman. Þegar hver hluturinn birtist á fætur öðrum þá rifjar það upp alls konar skemmtilegar minningar, t.d. lampinn frá Gunnu frænku sem ykkur fannst svo ljótur, hallærislegi jakkinn sem makinn kom með í sambandið en mátti aldrei henda og svo framvegis. Þegar þið hafið farið í gegnum allt og flokkað eftir því hvort eigi að geyma það áfram, henda eða að losa ykkur við þá getið þið auglýst eigulega hluti á bland.is, jafnvel pantað bás í Kolaportinu eða haldið bílskúrssölu og grætt á öllu saman.

Ekki leita langt yfir skammt
Skoðaðu hvað sniðugt er hægt að gera í þínu nánasta umhverfi því oft er það sem sniðugt er að gera rétt fyrir framan nefið á okkur. Það þarf ekki alltaf að ferðast langar leiðir, krefjast mikils útbúnaðar eða fjárútláta að gera eitthvað skemmtilegt. Farið saman á bókasafnið og kíkið á bækur og blöð saman. Þar er til dæmis hægt að kíkja í gömul tímarit og oft er ekkert fyndnara en að sjá hvað fólk og tískan hefur breyst í áranna rás. Farið saman í gönguferð á staði sem ykkur hefur aldrei dottið í hug að fara á en stendur ykkur nærri. Þá gæti takmarkið til dæmis verið að ganga leið og götur sem þið hafið ekki farið áður og þá mun áreiðanleg margt koma á óvart.

Bakaðu köku, vöfflur eða gerðu heilsusamlokur og vertu tilbúin/n með kaffi og með því þegar makinn kemur heim úr vinnu seinnipartinn.

Sjónvarpslaus fimmtudagskvöld
Mörg okkar muna þá tíð þegar engar sjónvarpsútsendingar voru á fimmtudagskvöldum og ekki í júlí heldur. Á þessari tækniöld sem nú er runnin upp þá væri ekki vitlaust að hverfa einstöku sinnum aftur til þessara tíma. Slökkvið á sjónvarpinu, GSM-símum, Neti og tölvum. Heimasíminn má lifa svona til öryggis. Kveikið á kertum og njótið þess að vera heima í kyrrðinni frá þessu utanaðkomandi áreiti. Ef þið eigið börn þá skuluð þið leyfa þeim að njóta þessara stunda með ykkur. Komið saman og látið ykkur detta eitthvað sniðugt til að gera saman, t.d. spila, teikna, fara í leiki eins og að fela hlut, mjálmaðu nú kisa mín eða hollin skollin. Þarna gæti skapast tími sem allir fjölskyldumeðlimir gætu kunnað að meta og þjappað ykkur saman.

Komdu á óvart
Verið dugleg að gera eitthvað óvænt fyrir makann. Bakaðu köku, vöfflur eða gerðu heilsusamlokur og vertu tilbúin/n með kaffi og með því þegar makinn kemur heim úr vinnu seinnipartinn. Ef makinn sér alltaf um ákveðin húsverk skaltu koma honum á óvart með því að klára þau án þess að hann viti og segja að í staðinn séuð þið að fara saman í bíó. Komdu með góðan kaffibolla á leiðinni heim úr vinnu og færðu elskunni þinni eða keyptu uppáhaldstímaritið, bók eftir uppáhaldshöfundinn, gott freyðibað eða sturtusápu, kassa af uppáhaldsdrykknum sem aldrei er nóg til af eða bara hvað sem þér dettur í í hug.

Sólarhringssjónvarpsmaraþon
Farið saman á hótel í einn sólarhring með allar seríurnar af uppáhaldssjónvarpsþættinum ykkar og skipuleggið maraþon. Setjið fyrirfram reglur um hluti sem þið eigið að gera ef eitthvað ákveðið gerist í þáttunum. Ef þetta er til dæmis Friends gætuð þið haft: Alltaf þegar Phoebe spilar á gítarinn þá á að fara í sleik, alltaf þegar Joey reynir að sjarmera einhvern upp úr skónum á að kyssast, þegar Ross gerir eitthvað vandræðalegt á að fara úr að ofan og svo framvegis.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Bætir, hressir og kætir

Flest höfum við heyrt um svart og grænt te – en hvað er hvítt te?

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á hollustu tes og það kemur því ekki á óvart að te er vinsælasti drykkur heims á eftir vatni.

Te á sér mjög langa sögu og hefur verið til sem drykkur í tæplega 5000 ár.

Allar tegundir tes koma af sömu plöntu, Camellia Sinensis, eða afbrigðis hennar sem kallast Camellia Assamica, en það er aðeins meðferð og vinnsla eftir tínslu ákvarðar hvort teið verður svart, hvítt eða grænt. Ávaxtate, jurtate og rauðrunnate eru í raun ekki te heldur seyði úr ávöxtum, blómum, jurtum eða nálum rauðrunnans og innihalda ekki koffín.

Hvítt te er sérstakt vegna þess að einungis eru notuð ung laufblöð. Þá eru klipptir af runnanum laufsprotar sem eru við það að opnast og tvö til þrjú ung laufblöð. Í vönduðustu hvítu tei eru einungis notaðir laufsprotar. Af þessari ástæðu er uppskerutíminn stuttur, stundum ekki nema tveir til þrír dagar nokkrum sinnum á ári. Stuttur uppskerutími og vandasöm tínsla gerir það að verkum að hvítt te er sjaldgæfara og dýrara en annað te og það er aðeins ræktað í mjög takmörkuðu magni í Kína og á Sri Lanka.

… hvítt te er mikið um sig, létt og oft má sjá stilka og heil blöð í teinu. Einföld framleiðsla þýðir líka að næringarefni laufanna varðveitast vel og teið er því sérstaklega gott fyrir heilsuna.

Þegar tínslan hefur farið fram er framleiðslan einföld. Teið er látið þorna í nokkra daga í sólinni eða í sérstökum þurrkhúsum. Þessi einfalda framleiðsluaðferð gerir það að verkum að hvítt te er mikið um sig, létt og oft má sjá stilka og heil blöð í teinu. Einföld framleiðsla þýðir líka að næringarefni laufanna varðveitast vel og teið er því sérstaklega gott fyrir heilsuna.

Drukkið í mörg þúsund ár

Te á sér mjög langa sögu og hefur verið til sem drykkur í tæplega 5000 ár. Ein vinsæl þjóðsaga um uppruna tesins fjallar um keisara í Kína sem kallaði sig Wan Tu. Þekkt bók skáldsins Lu Yus, Tai Ching, fjallar um Wan Tu og þau áhrif sem te hafði á líf hans. Wan Tu var illur og grimmur harðstjóri sem var steypt af stóli af einum ráðamanna sinna og hrakinn á brott til afskekkts staðar í Kína.

Dag einn sat hann í skugganum af stórum runna og hugleiddi hvernig hann gæti náð fram hefndum. Vegna fátæktar sinnar þurfti hann að sætta sig við að drekka einungis vatn. Þar sem Wan Tu sat í þungum þönkum að sjóða vatn, féll lauf af runnanum ofan við höfuð hans, ofan í pottinn. Wan Tu komst að því að útkoman var bragðgóður drykkur sem hafði róandi áhrif. Teið hreinsaði hugann á svo áhrifaríkan hátt að hann sat undir runnanum næstu sjö árin, drakk te, iðraðist gjörða sinna sem harðstjóri og hugsaði um hvernig hann gæti bætt þær upp.

Hann nefndi drykkinn Thai, sem merkir friður. Wan Tu sneri aftur til heimaborgar sinnar í dulargervi og varð vel metinn ráðgjafi fyrrum ráðamanns síns, sem hafði steypt honum af stóli. Hann varð svo vitur og ástsæll meðal fólksins, að þegar ráðamaðurinn lést, var Wan Tu kosinn arftaki hans og stjórnaði í mörg ár. Á þeim tíma kynnti hann einnig þjóð sína fyrir tei. Ekki fyrr en á dánarbeði, leysti Wan Tu frá skjóðunni.

Heilsuávinningur hvíts tes:

Inniheldur kraftmikil andoxunarefni sem vernda líkamann fyrir sindurefnum og stuðla að frumuendurnýjun.

  • Hægir á öldrun húðarinnar.
  • Hreinsar húðina og kemur í veg fyrir að bakteríur stífli svitaholur.
  • Heldur húðinni bjartri og viðheldur raka.
  • Styrkir bein og tennur.
  • Er örverueyðandi og verndar því líkamann gegn sýkingum.
  • Inniheldur efni sem talin eru hraða brennslu líkamans.
  • Jafnar blóðsykur og heldur honum stöðugum.
  • Minnkar streituáhrif í líkamanum og hefur góð áhrif á hjartað.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Heimild / teogkaffi.is

Hver er morðinginn?

Fátt er betra en klassísk morðgáta á dimmu vetrarkvöldi.

Murder on the Orient Express var nýlega frumsýnd í kvikmyndahúsum landsins, en myndin er byggð á vinsælli skáldsögu rithöfundarins Agöthu Christie.

Engin undankomuleið
Murder on the Orient Express var nýlega frumsýnd í kvikmyndahúsum landsins. Hér er á ferðinni endurgerð af frægri mynd sem kom út árið 1974 byggð á sögu Agöthu Christie. Belgíski leynilögreglumaðurinn sérvitri Hercule Poirot er á leið til Vestur-Evrópu á fyrsta farrými Austurlandahraðlestarinnar. Nótt eina er einn af farþegunum myrtur í svefni og þar sem lestin er teppt vegna snjóskriðu sem hylur lestarteinana fær Hercule tíma og tækifæri til að rannsaka málið, raða saman sönnunargögnunum og finna morðingjann áður en lögreglan kemur um borð. Myndin skartar úrvalsliði leikara svo sem Johnny Depp, Judi Dench og Penelope Cruz en í þetta sinn fer Kenneth Brannagh með hlutverk Poirot.

Uppi og niðri
Í myndinni Gosford Park má glöggt sjá stéttaskiptinguna sem ríkti í Englandi á árum áður. Á efri hæðum sveitasetursins býr Sir William McCordle ásamt mun yngri eiginkonu sinni Lady Sylviu. Þau lifa hinu ljúfa lífi og skemmta sér við skotveiðar, útreiðar og veisluhöld. Niðri vinna þjónarnir baki brotnu undir stjórn yfirþjónsins Mr. Jennings og húsfreyjunnar fröken Wilson. Hvort sem þeim líkar það vel eða illa þá vita allir hver þeirra staða er. Einn góðan dag breytist allt þegar Sir William býður í skotveiðiveislu og vinir hans og þjónar þeirra hleypa öllu í bál og brand. Þar með hefst saga af lygum, svikum, hefnd, biturð, peningum og ást – og svo auðvitað morði.

Nótt eina er einn af farþegunum myrtur í svefni og þar sem lestin er teppt vegna snjóskriðu … fær Hercule tíma og tækifæri til að rannsaka málið.

Glæpur eða leikur
Smáþjófurinn Harry Lockhart er á flótta í Los Angeles undan lögreglunni eftir misheppnað rán en ratar óvart í leikprufu fyrir hlutverk rannsóknarlögreglumanns í kvikmynd. Hann fær hlutverkið og er boðið í ekta Hollywood-partí. Þar hittir hann einkaspæjarann Perry van Shrike sem stingur upp á að hann taki þátt í því að rannsaka glæp til að undirbúa sig fyrir hlutverkið. Harry og Petty flækjast inn í flókið morðmál. Kiss Kiss Bang Bang er skemmtileg mynd í nýtískulegum noir-stíl.

Humphrey Bogart og Lauren Bacall í hlutverkum sínum í The Big Sleep.

Flækjur
Í klassísku kvikmyndinni The Big Sleep, sem er byggð á vinsælum bókum Raymond Chandler, kynnumst við einkaspæjaranum Philip Marlowe. Hann er í upphafi ráðinn af afar ríkri fjölskyldu til að stöðva fjárkúgara sem hefur verið að áreita yngri systurina, Carmen. Eldri systirin, Vivian, vill þó meina að faðir hennar hafi ráðið Marlowe til að rannsaka allt annað mál. Með tímanum flækist málið til muna, og söguþráður myndarinnar með, og á endanum er það orðið að morðgátu.

Myndin From Hell fjallar um hið alræmda mál raðmorðingjans Jack the Ripper sem lék lausum hala í London árið 1888.

Fræg fjöldamorð
Myndin From Hell fjallar um hið alræmda mál raðmorðingjans Jack the Ripper sem lék lausum hala í London árið 1888. Jack myrti eingöngu vændiskonur í Whitechapel-hverfinu í London. Við fylgjumst við rannsóknarlögreglumönnunum Fred Abberline og Peter Godley við rannsókn málsins. Þeir félagar kynnast vændiskonum sem eru vinkonur fórnarlamba og hafa sína sögu að segja. Abberline er ópíumfíkill og þykist sjá inn í framtíðina. Hann verður jafnframt ástfanginn af Mary Kelly, einni vændiskonunni, og vill skiljanlega leysa málið áður en hún fellur fyrir hendi morðingjans.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Settu á þig grímu

est er að spreyja á sig ilmvatni þegar maður er nýkominn úr sturtu og áður en maður klæðir sig því þá er húðin rök og grípur frekar ilminn.

Á undanförnum árum hafa komið á markað fjölmargar nýjungar í húðvörum sem eiga uppruna sinn að rekja til Asíu, þá sérstaklega til Japan og Suður-Kóreu.

Á undanförnum árum hafa komið á markað fjölmargar nýjungar í húðvörum sem eiga uppruna sinn að rekja til Asíu, þá sérstaklega til Japan og Suður-Kóreu.

Ein þessara nýjunga eru svokallaðir taumaskar en hvernig virka þeir og er árangurinn þess virði að líta út eins og Hannibal Lechter í hálftíma?

Ólíkt venjulegum andlitsmöskum, yfirleitt þykkt krem eða leir í túbu sem er borinn á og síðan þvegin af eftir tiltekinn tíma, eru taumaskar í raun líkari serumi. Um er að ræða grímu úr tauefni, gegnsósa í þunnu, gelkenndu serumi, stútfullu af virkum efnum.Tauefnið sjálft er úr örþunnri bómull eða öðrum trefjum og sniðið eins og gríma, með götum fyrir augu, nef og munn, ásamt litlum blöðkum á hliðunum til að tryggja að maskinn passi á öll andlit. Áferðin á gelinu sem efnið er bleytt í er nógu þykk til að maskinn loði við húðina án þess að renna til og efnið leki ekki niður og fari til spillis.

Maskann á að setja á hreina, þurra húð en gott er að nota ávaxtasýru eða ensímhreinsi til að fjarlægja dauðar húðfrumur af yfirborðinu.

Samkvæmt leiðbeiningum á að leyfa maskanum að vera á í tíu til tuttugu mínútur. Það er samt óhætt að láta hann vera á húðinni þar til hún hefur upptekið meirihluti serumsins og gríman sjálf orðin nokkuð þurr. Þessi aðferð tryggir hámarksupptöku virku efnanna.

Best er að liggja út af á meðan maskinn er á því þá færist hann ekkert til. Það er líka mikilvægt að gefa sér tíma og slaka á, við þurfum öll á því að halda og við lítum betur út fyrir vikið.

Helstu kostir taumaska

  • Fyrst og fremst eru þeir ótrúlega þægilegir og auðveldir í notkun, meira að segja þeir sem eru ekkert alltof duglegir við að hugsa um húðina geta skellt einum á sig.
  • Mörgum finnst sérstaklega gott að ferðast með þá milli landa því þeir teljast ekki sem vökvi og má þess vegna taka með í handfarangri. Sumir setja þá meira að segja á sig í lengri flugum því þurrt loft í flugvélum getur leikið húðina grátt og þá er gott að setja á sig maska en þurfa ekki að þvo sér eftir notkun. Þú gætir samt fengið nokkur skrítin augnaráð frá samferðamönnum.
  • Til eru fjölmargar gerðir taumaska sem hafa ólíka virkni, flestar þeirra eiga það þó sameiginlegt að veita mjög öflugt rakaskot. Árangurinn er því strax sjáanlegur, húðin verður mun þéttari og unglegri. Það þýðir að það hentar vel að nota þá rétt fyrir eitthvert sérstakt tilefni, enda hafa margar stórstjörnur birt mynd af sér með taumaska rétt áður en þær ganga rauða dregilinn.
  • Þegar öllu er á botninn hvolft koma taumaskar ekki beint í staðinn fyrir annars konar andlitsmaska, heldur eru þeir góð viðbót sem er þægilegt að grípa til þegar maður vill líta extra vel út án þess að þurfa að hafa mikið fyrir því.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir

Himnesk súkkulaðiterta sem óhætt er að mæla með

Ómótstæðileg marensterta með súkkulaðirjóma og kirsuberjum. Það er óhætt að mæla með þessari.

Marens með súkkulaðirjóma og kirsuberjum
fyrir 8-10
marensbotnar:
4 eggjahvítur
2 dl sykur

Marens með súkkulaðirjóma og kirsuberjum.

Hitið ofn í 110°C á blásturstillingu. Stífþeytið eggjahvíturnar, bætið helminginn af sykrinum saman við og þeytið áfram þar til blandan er stíf og glansandi. Blandið þá restinni af sykrinum varlega saman við með sleikju.

Teiknið 3 hringi á bökunarpappír (20-22 cm í þvermál) og skiptið marensblöndunni á milli þeirra. Dreifið úr deiginu innan hringjanna og bakið í 1 ½ – 2 klst. Athugið að það gæti þurft að færa plöturnar til tvisvar til þrisvar á bökunartímanum.

Slökkvið á ofninum og látið botnana kólna alveg inni í honum. Setjið súkkulaðirjóma og kirsuber á milli botnanna og geymið kökuna í kæli í a.m.k. 2 klst. Sprautið súkkulaðiíssósu yfir kökuna rétt áður en hún er borin fram og skreytið með nokkrum kirsuberjum.

á milli:
300 g frosin kirsuber
1 msk. sykur
1-2 msk. sítrónusafi
súkkulaðirjómi:
200 g dökkt súkkulaði
2 msk. smjör
4 dl rjómi, þeyttur
súkkulaðiíssósa til þess að skreyta með

Setjið kirsuber, sykur og sítrónusafa saman í skál og látið standa þar til mesta frostið er farið úr berjunum, þau þurfa alls ekki að vera alveg þýdd, betra er að þau séu aðeins frosin.

Bræðið súkkulaði og smjör saman yfir vatnsbaði og látið kólna niður í stofuhita. Þeytið rjóma og blandið súkkulaðinu saman við með 2-3 handtökum, ekki meira því við viljum fá fallegt marmaramynstur í rjómann.

Setjið rjómann á milli botnananna ásamt kirsuberjunum en geymið svolítið af berjunum til þess að skreyta kökuna með.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

 

Gefst aldrei upp

Jackie Cardoso Da Silva barðist fyrir lífi sonar síns.

Bernharð sonur Jackie Cardoso Da Silva er haldinn Duchenne-vöðvarýrnun. Hann veiktist alvarlega árið 2011 og næstu ár sinnti móðir hans fáu öðru en umönnun hans.

Jackie Cardoso Da Silva kynntist íslenskum skiptinema í Brasilíu og flutti til Íslands í kjölfarið. Hún settist fyrst að á Egilsstöðum, síðan í Reykjavík og nú býr hún í Vestmannaeyjum þar sem hún er sannfærð um að sér hafi verið ætlað að búa. Hún sér lengra en nef hennar nær, dreymir fyrir ýmsu og finnur annað á sér. Á miðilsfundi kom í gegn sál sem talaði til hennar og hún vissi að sér væri ætlað að eignast fatlaðan son.

Bernharð sonur hennar er haldinn Duchenne-vöðvarýrnun. Hann veiktist alvarlega árið 2011 og næstu ár sinnti móðir hans fáu öðru en umönnun hans. „Hann bara veikast skyndilega og það leit í byrjun út fyrir að vera ælupest sem fór versnandi. Veikindin byrjuðu að morgunlagi og klukkan 16 var ég komin með hann upp á spítala og mátti ekki seinni vera. Hálftíma seinna sagði hann við mig að hann elskaði mig og bað mig um að fyrirgefa sér fyrir að vera svona veikur. Svo datt hann út.

„Hann bara veikast skyndilega og það leit í byrjun út fyrir að vera ælupest sem fór versnandi. Veikindin byrjuðu að morgunlagi og klukkan 16 var ég komin með hann upp á spítala og mátti ekki seinni vera.“

Við vorum spurð hvort við værum með einhverja hugmynd um hversu lengi ætti að reyna endurlífgun en læknarnir voru vissir um að þessi veikindi væru vegna hrörnunarsjúkdómsins. Ég hlustaði ekki á þá og sagði þeim bara að bjarga syni mínum.

Þá var hann svo illa farinn að það náðist ekki í neinar æðar á honum heldur þurfti að bora með borvél til að gefa honum lyf í beinmerg. Honum var síðan haldið sofandi í næstum þrjár vikur.

Margt fleira um lífshlaup og vinnu þessarar merku konu má lesa í nýjustu Vikunni.

Heimurinn hrundi. Ég var hjá honun dag og nótt, ég gat ekki gefist upp á honum, ég var ekki búin að kenna honum nógu mikið um að elska lífið. Ég átti allt eftir. Ég talaði stanslaust við hann og sagði honum að verkefninu væri ekki lokið. Ég lofaði honum því að líf hans yrði betra eftir að hann jafnaði sig og ég myndi gefa honum allt sem hann þyrfti til að vera hamingjusamur. Hann mætti ekki fara frá mér því hann væri heldur ekki búinn að kenna mér allt sem hann þyrfti.“

Jackie hefur stóran og hlýjan persónuleika og leitast til að bæta líðan fólksins í kringum sig á margvíslegan máta.

Margt fleira um lífshlaup og vinnu þessarar merku konu má lesa í nýjustu Vikunni.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Tartalettur að hætti mömmu

GE1511067708
Sumum finnst tartalettur alveg ómissandi um jólin.
Sumum finnst tartalettur alveg ómissandi um jólin.

Þegar kemur að jólamat finnst mörgum gaman að halda í hefðir. Til dæmis útbúa klassískan gamaldags vanilluís, rækjukokteil eins og amma bjó til nú eða tartalettur að hætti mömmu.

Sumum finnst tartalettur einmitt alveg ómissandi um jólin og hér er því uppskrift sem er bæði einföld og góð.

TARTALETTUR MEÐ ASPAS OG SVEPPUM
8-10 stk.
8-10 tartalettur
40 g smjör
2 msk. hveiti
1 dós aspas (400 g)
2 dl mjólk
1 dl rjómi
200 g sveppir, skornir í bita og steiktir í örlitlu smjöri
200 g skinka, skorin í bita (eða afgangar af reyktu kjöti)

Hitið ofninn í 180°C. Bræðið smjör í potti. Bætið hveiti út í og hrærið saman. Bætið safanum af aspasnum smám saman út í á meðan þið hrærið í og síðan mjólkinni. Hrærið vel svo úr verði kekkjalaus jafningur.

Bragðbætið með salti og pipar og bætið rjóma út í. Bætið nú aspasnum, sveppunum og skinkunni út í og blandið varlega saman, hitið þetta í gegn. Haldið heitu.

Bakið tartaletturnar í ofninum í 3-4 mín.

Hellið heitum jafningnum í tartaletturnar og berið fram strax.

Umsjón / Sigríður Bjök Bragadóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Mynd / Rut Sigurðardóttir

Á vappi um Víknaslóðir

Gönguferðir á Víknaslóðum hafa aukist mikið á undanförnum árum enda um að ræða eitt best skipulagða göngusvæði á Íslandi.

Ef þig langar að ganga um svæðið næsta sumar og gista í skálum á leiðinni þarf að hafa hraðar hendur því gistiplássin eru fljót að fara.

Hægt er að vera með alls konar útfærslur á gönguferðum á Víknaslóðum og þær geta tekið frá einum degi upp í að vera margra daga ferð. Gott kort er til af leiðunum og búið að stika þær helstu. Þó að alltaf sé skemmtilegt að fá leiðsögumann í svona ferðir til að fá allar sögurnar af svæðinu beint í æð er það ekki nauðsynlegt fyrir vana göngugarpa. Með leiðsögumanni er einnig hægt að taka allskonar útúrdúra frá hinum stikuðu gönguleiðum og skoða þannig fleiri áhugaverða staði.

Gönguferðir eru holl og góð skemmtun sem nýtur sívaxandi vinsælda hjá fólki á öllum aldri.

Á svæðinu eru þrír skálar á vegum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, í Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði. Þeir eru virkilega vel útbúnir með eldunaraðstöðu, vatnsklósettum og sturtum og hitaðir upp með timburkamínu. Einnig eru góð tjaldsvæði. Yfir sumarið er skálavörður í hverjum skála sem sér um að allt sé í röð og reglu. Með því að gerast félagi í Ferðafélagi Íslands eða einhverju af aðildarfélögum þess má fá mun ódýrara verð á gistingu.

Vinsælt er að ganga Víknaslóðir á nokkrum dögum með því að byrja á Borgarfirði eystra og enda á Seyðisfirði – eða öfugt. Sé byrjað á Seyðisfirði er gengið um Hjálárdalsheiði sem á árum áður var aðalleiðin milli fjarðanna tveggja. Vaða þarf tvær óbrúaðar ár en brú er á Fjarðará í Loðmundarfirði við Svæarenda. Einnig er hægt að fara Árnastaðaskörð en það er töluvert brattari leið. Margt fallegt er að sjá í Loðmundarfirði og eftir að búið er að koma sér fyrir í Ferðafélagsskálanum er tilvalið að skoða Klyppsstaðakirkju og fossinn innan við hana.

Frá Loðmundarfirði er annaðhvort hægt að fara beint til Borgarfjarðar um Kækjuskörð eða halda áfram til Húsavíkur um Nesháls. Sú gönguleið er frekar stutt og létt og fyrir lengra komna og hópa með leiðsögumann er hægt að fara upp úr firðinum við Stakkahlíðarskriður og upp Skúmhattardal og yfir í Húsavík sunnan Skúmhattar. Húsavíkurskáli er staðsettur innst í fallegum dalnum en niðri við sjóinn er Húsavíkurkirkja, hana er nauðsynlegt að heimsækja.

Frá Húsavíkurskála er hægt að halda áfram nokkrar leiðir. Ein liggur um Gunnhildardal austan Hvítserks og Leirfjalls og yfir í Breiðuvík. Einnig er hægt að fylgja veginum yfir Húsavíkurheiði og fara yfir í Borgarfjörð eða yfir Víknaheiði, norðan Hvítserks, og þá leiðina í Breiðuvík. Vilji fólk taka skemmtilegan útúrdúr á þessa leið þá er virkilega gaman að ganga á Hvítserk sem hefur að geyma stórkostlegar hraunmyndanir.

Þó að alltaf sé skemmtilegt að fá leiðsögumann í svona ferðir til að fá allar sögurnar af svæðinu beint í æð er það ekki nauðsynlegt fyrir vana göngugarpa. Með leiðsögumanni er einnig hægt að taka allskonar útúrdúra frá hinum stikuðu gönguleiðum og skoða þannig fleiri áhugaverða staði.

Í Breiðuvík eru enn krossgötur og um ýmsar leiðir að velja. Hægt er að ganga bílveginn yfir Gagnheiði til Borgarfjarðar eða halda áfram til Brúnavíkur. Á leiðinni er farið fram hjá Kjólsvík og Hvalvík en á milli þeirra er hið víðfræga fjall Glettingur og Glettinganes. Það er eitthvað óviðjafnanlega töff við að ganga á Gletting eða fara út að vitanum á Glettinganesi. Mæli með öðru hvoru, eða hvoru tveggja. Að lokum er hægt að fara til Borgarfjarðar yfir Brúnavíkurskarð eða Hofstrandarskarð.

Frá mörgum stöðum í göngunni blasa Dyrfjöllin við í allri sinni dýrð. Að auki má sannarlega mæla með göngu á þau sem og í Stórurð, Stapavík og Njarðvík.

Greinargóðar upplýsingar um allar gönguleiðirnar, skála, leiðsögn, útbúnað, öryggi, trúss og fleira eru á heimasíðunni borgarfjordureystri.is.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Helgi M. Arngrímsson

Kort með langan líftíma

Þegar kortin hafa gegnt sínu hlutverki geta þau skreytt borð, bekki, hillur og glugga.

María Manda Ívarsdóttir umbúðahönnuður er mikið jólabarn.

María Manda, eða Mandý eins og hún er alltaf kölluð, hefur gaman af að skreyta og setur sinn persónulega svip á jólakortin og merkimiðana og hannar þau sjálf. Þegar kortin hafa gegnt sínu hlutverki geta þau skreytt borð, bekki, hillur og glugga.

Mandý stofnaði sitt eigið fyrirtæki, Umbúðasmiðjuna, árið 2011 og hannar umbúðir fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina. Jólin 2011 ákvað hún að hanna jólakort til að senda út til viðskiptavina sinna.

„Jólakortið var í formi jólatrés og vakti athygli verslunarstjórans í Þjóðminjasafninu sem vildi strax fá þau í sölu. Ég féllst á það og viðtökurnar voru frábærar. Kortin seldust upp jafnóðum og ég kom með þau.“

„Jólakortið var í formi jólatrés og vakti athygli verslunarstjórans í Þjóðminjasafninu sem vildi strax fá þau í sölu. Ég féllst á það og viðtökurnar voru frábærar. Kortin seldust upp jafnóðum og ég kom með þau.“

Mandý hugsaði þá með sér að hún væri kannski með vöru sem vert væri að þróa frekar, sem hún gerði.
„Ég tók þátt í sýningunni Handverk og hönnun í Ráðhúsinu árið 2012 og var svo heppin að fá Skúlaverðlaunin fyrir pakkamerkispjöldin mín sem voru í formi standandi jólatrés,“ segir Mandý sem er enn að og hægt að sjá verk hennar á Facebook­-síðunni Umbúðasmiðjan.

María Manda, eða Mandý eins og hún er alltaf kölluð, hefur gaman af að skreyta og setur sinn persónulega svip á jólakortin og merkimiðana og hannar þau sjálf.

Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Raddir