Á Íslandi finnast fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum.
Anna Þórhildur I. Sæmundsdóttir, Sigríður Eir Zophoníasardóttir og dætur þeirra tvær eru ein gerð hinsegin fjölskyldu. Þær voru báðar staðráðnar í því að eignast börn þegar þær kynntust og voru ekki lengi að láta verða af því. Við ræddum við þær um ólík móðurhlutverk, veggina sem þær hafa rekist á innan kerfisins, pabbaleysið og fleira.
Á undanförnum árum hefur orðið mikil framþróun í málefnum og réttindum hinsegin einstaklinga – ekki síst hvað varðar fjölskyldumyndun, það er hjónabönd og barneignir. Það er þó töluvert í land og enn ber eitthvað á fordómum og fáfræði í samfélaginu.
Sigríður Eir og Anna Þórhildur, eða Sigga og Tótla eins og þær eru allajafna kallaðar, segjast ekki hafa lent í miklu mótlæti varðandi fjölskylduform þeirra. Þær hafa þó rekist á nokkra veggi innan skrifræðisins. „Það er svona eitt og annað í kerfinu sem þarf að laga og ég held að allir séu sammála um hvaða atriði það séu, en það þarf bara að láta verða að því. Við þurfum til dæmis að skiptast á að vera pabbinn á hinum ýmsum eyðublöðum. Eins þurftum við að ,,feðra“ börnin okkar í þjóðskrá. Við erum ekki skráðar sjálfvirkt sem foreldrar, eins og hjá gagnkynhneigðum hjónum, heldur þurfum við í rauninni að sækja um að verða það eftir að barnið fæðist og svo framvegis,“ segir Tótla.
„Okkar nærumhverfi er kannski frekar verndað, flestir í kringum okkur eru upplýst og þenkjandi fólk sem gerir ekki greinarmun á okkur og öðrum fjölskyldum. Helst er það yfirþyrmandi áhugi Íslendinga á erfðamálum og genatengingum og þá kannski klaufalegar spurningar í því samhengi,“ bætir Sigga við.
Eiga ekki pabba
Það voru einmitt þessar klaufalegu spurningar sem urðu til þess að Sigga birti pistil á Facebook þar sem hún tók það skýrt fram að dætur þeirra ættu ekki pabba. „Nú er Úa komin á þann aldur að hún heyrir og skilur nánast allt sem fram fer í kringum hana. Þannig er ringlandi fyrir hana að heyra spurningar um pabba hennar og Eyrúnar þegar staðreyndin er sú að þær eiga ekki pabba. Sumir virðast ekki skilja eða eru bara ekki búnir að átta sig á að sæðisgjafinn þeirra er ekki pabbi þeirra. Það að vera pabbi er félagslegt hlutverk og pabbar hafa sömu skyldum að gegna og mæður, nema kannski rétt fyrstu vikur og mánuði í lífi barns. Það er að engu leyti minna mikilvægt hlutverk heldur en það að vera móðir. Við berum einfaldlega of mikla virðingu og of miklar væntingar til föðurhlutverkins en svo að geta kallað sæðisgjafa föður,“ segir hún.
Þær skrifuðu pistilinn í sameiningu og ætluðu hann fyrir fólkið í kringum þær, sem þær umgangast dagsdaglega, sem er með þeim í liði, fólkinu sem þær langar að umgangast. Pistillinn rataði síðan í fjölmiðla og hristi aðeins upp í samfélagsumræðunni. „Þetta var skrifað fyrir fólkið sem er með okkur í liði, við vorum ekki að reyna að sannfæra eða breyta skoðun neins. Okkur langaði að benda því á það hvernig orðanotkun, sem í flestum tilfellum er bara vanhugsuð sökum þekkingarleysis, getur haft slæm áhrif á börnin okkar. Hjá þessu
„Við þurfum að skiptast á að vera pabbinn á hinum ýmsum eyðublöðum. Við erum ekki skráðar sjálfvirkt sem foreldrar, eins og hjá gagnkynhneigðum hjónum, heldur þurfum við í rauninni að sækja um að verða það eftir að barnið fæðist.“
fólki höfum við fengið frábærar viðtökur. Það eru ótal margir búnir að skrifa okkur eða koma að máli við okkur og þakka okkur fyrir að benda sér á þetta. Nú viti það eitthvað sem það vissi ekki fyrir og að þetta hafi verið mikilvæg og góð áminnig. Auðvitað eru alltaf þessir fáu sem finna sig knúna til að segja eitthvað ljótt og vera dónalegir en þeirra orð og skrif dæma sig sjálf og við ákváðum að eyða ekki einu pennastriki eða orkudropa í svoleiðis glóruleysi,“ segir Tótla.
Ólík móðurhlutverk
Nú hafa Sigga og Tótla báðar gengið með barn, sem og verið foreldrið sem styður við bakið á þeirri sem gengur með. Þó að bæði séu vissulega móðurhlutverk eru þau afar ólík á meðgöngu, í fæðingu og fyrstu vikurnar á eftir. Að því loknu blandast hlutverkin meira saman og nú sinna þær báðar sömu hlutverkum gagnvart dætrum sínum.
„Það hentaði mér betur að vera sú sem gengur með heldur en að vera stuðningsaðilinn, mér fannst það að mörgu leyti mjög erfitt hlutverk. Þó svo að Tótla hafi verið miklu betri í því þá uppgötvuðum við báðar að þetta hlutverk að vera ,,hinn“ er mjög vanþakklátt og lítið rætt. Oft er svo mikill fókus á meðgöngumóðurina að hinn gleymist og ég get ímyndað mér að hinn gleymist jafnvel enn frekar ef hann er karlmaður. Við lentum til dæmis báðar í því að vera ekki óskað til hamingju með komandi barn af því það var ekki inni í okkar bumbu,“ segir Sigga.
Tótla er sammála og segir að sér hafi einmitt liðið betur sem stuðningsaðilinn. „Meðgangan mín var frekar erfið. Mér leið ekki vel og tókst á við hina ýmsu fylgikvilla. Mér þykir yfirleitt betra að vera manneskjan í bakgrunninum, finnst athygli sem beinist of mikið að mér óþægileg. Mér fannst samt stórkostlegt að fá að prófa þetta. Það eru algjör forréttindi að geta búið til manneskju inni í sér og alls ekki sjálfsagt. Það er magnað að finna hana vaxa og hreyfast innra með sér.“
Fæðingin sjálf reynir ekki síst á stuðningsaðilann, en bæði Sigga og Tótla fæddu á heimili þeirra. „Líkami hins foreldrisins gerir ekkert til að hjálpa þeim í gegnum fæðinguna. Maður finnur fyrir hræðslunni og þreytunni margfalt á við þann sem er að fæða. Þannig var allavega mín reynsla. Fæðingin mín tók rúma tvo sólarhringa en Siggu einn og hálfan klukkutíma. Ég var alveg að bugast undan biðinni hjá mér en varð hrædd hvað þetta tók stuttan tíma hjá henni. Ljósmæðurnar rétt náðu til okkar áður en Sigga átti. Það var komin kollur niður, enginn kominn til okkar og ég held að ég hafi aldrei verið jafnhrædd á ævinni. Þegar ég var að fæða var ég hins vegar bara í því hlutverki og náði einhvern veginn að fara inn á við og loka á allt annað,“ segir Tótla.
„Já, ég var miklu þreyttari eftir fæðinguna hennar Tótlu en þegar ég var sjálf að fæða,“ bætir Sigga við. „Þegar Eyrún var komin í heiminn fékk ég svo mikið spennufall og það helltist yfir mig svo mikil þreyta að það leið næstum því yfir mig. Mig vantaði allt endorfínið og adrenalínið til að hjálpa mér.“
Smellpössuðu saman
Þær kynntust fyrir fjórum árum úti á lífinu, eins og svo mörg pör. „Ég sá Tótlu á bar með vinum sínum snemma á laugardagskvöldi og fannst hún sæt. Ég þorði samt ekki að nálgast hana þar og vonaði að ég myndi hitta á hana seinna um kvöldið, á eina hinsegin bar borgarinnar. Svo var hún auðvitað þar að dansa með vinum sínum og ég safnaði kjarki til að fara og dansa við hana,“ segir Sigga brosandi.
Sigga er uppalin á Hallormsstað og bjó fyrir austan þar til hún fór í Menntaskólann í Hamrahlíð. Þaðan lá leið hennar í Listaháskólann og útskrifaðist af sviðshöfundabraut með millilendingu í trúðaskóla í Kaupmannahöfn. „Í Listaháskólanum kynntist ég Völu Höskuldsdóttur og stofnaði með henni Hljómsveitina Evu sem hefur svo verið mitt aðalstarf síðan, samhliða útvarpsvinnu á Ríkisútvarpinu og fleira.“
Tótla ólst hins vegar upp í Vesturbænum og fór í Kvennaskólann. Hún hélt svo út til Flórens á Ítalíu þar sem hún lærði grafíska hönnun. Þegar hún kom heim úr náminu fékk hún fljótlega vinnu sem grafískur hönnuður á fréttastofu Stöðvar 2 og hefur unnið þar síðan.
„Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Við vorum báðar harðákveðnar að við værum ekkert að leita okkur að sambandi en gátum ekki haldið okkur hvor frá annarri,“ segir Sigga.
Tótla kinkar kolli og tekur í sama streng. „Sigga er sú allra skemmtilegasta kona sem ég hef kynnst. Ég áttaði mig fljótlega á því að ég hafði aldrei kynnst neinum sem ég átti svona auðvelt með að umgangast mikið. Ég er gjörn á að fá óþol fyrir fólki eftir mikil samskipti en hef aldrei átt í erfiðleikum með að verja ótæpilegu magni af tíma með Siggu – helst finnst mér vandamál að fá of lítinn tíma með henni.“
Þótt þær hafi ekki beint verið að leita sér að sambandi voru barneignir þeim samt ofarlega í huga. „Ég held það hafi verið í annað eða þriðja skiptið sem við hittumst þegar ég gekk úr skugga um að Tótlu langaði til að eignast börn í náinni framtíð. Við vorum báðar á þeim stað að okkur langaði ekki að eyða tíma í samband sem myndi ekki leiða til þess á endanum að eignast börn,“ segir Sigga.
Þær komust líka fljótt að því að þær hefðu líkar hugmyndir um uppeldi barna og hvernig fjölskyldu þær vildu eiga. „Þó að við hefðum verið mjög stutt saman þegar við ákváðum að búa til barn vorum við ákveðnar í því að þótt við myndum kannski ekki endast sem par værum við tilbúnar að ala fallega upp barn saman,“ segir Tótla.
Allt eins og það átti að vera
Eftir að ákvörðunin um að búa til barn hafði verið tekin fóru Sigga og Tótla að ræða möguleikana. „Ég sá það alltaf þannig fyrir mér þannig að framtíðarkonan mín myndi ganga með börnin. Ég var dálítið stressuð fyrir þessu og var mjög glöð með að Sigga skyldi vilja byrja. Þegar ég fylgdist svo með Siggu upplifa þetta varð ég mjög spennt, fannst allt svo magnað sem hún var að ganga í gegnum og var mjög heilluð af ferlinu. Ég var með fjögur öpp í gangi þar sem ég fylgdist með þroska fóstursins og las fyrir hana úr bókum á kvöldin,“ segir Tótla. Sigga var mjög ánægð með þessa afstöðu Tótlu því að hún var búin að hlakka mikið til að ganga með barn. „Ég elskaði að vera ólétt og væri sko alveg til í að gera það aftur.“
„Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Við vorum báðar harðákveðnar að við værum ekkert að leita okkur að sambandi en gátum ekki haldið okkur hvor frá annarri.“
Þær höfðu heyrt að það gæti verið þónokkur bið eftir því að komast á Art Medica svo þær ákváðu að hringja strax og athuga með tíma í framtíðinni. Þá bauð konan í símanum þeim að koma daginn eftir sem þær þáðu. „Tíðahringurinn minn var á mjög heppilegum stað svo læknirinn sagði að okkur væri ekkert að vanbúnaði, við gætum komið aftur eftir um það bil tíu daga í uppsetningu. Við bjuggumst ekki við að þetta myndi gerast svona hratt og höfðum í rauninni bara ætlað að kíkja til hennar til að fá upplýsingar. Við sögðumst því þurfa að sofa á þessu en þegar við vöknuðum daginn eftir fundum við að við áttum að kýla á þetta,“ segir Sigga.
Það reyndist rétt því Sigga varð ólétt í fyrstu tilraun og úr varð eldri dóttir þeirra, Úlfhildur Katrín. „Við verðum sannfærðari um það á hverjum degi að við áttum að eignast akkúrat hana. Það þurfti svo aðeins fleiri tilraunir til að búa til Eyrúnu. Það var mjög erfitt, mikil vonbrigði og ákveðið áfall í hverjum mánuði þegar það gekk ekki, en svo gekk þetta að lokum og við erum jafnsannfærðar um að við áttum að fá akkúrat hana,“ bætir Tótla við.
Systrakærleikur
Úlfhildur verður þriggja ára í lok desember og mæður hennar lýsa henni sem ljúflyndum vargi. „Hún er ótrúlega skapandi og skemmtileg. Hún þarf mikið að hreyfa sig og ókyrrist fljótt ef hún fær það ekki,“ segir Tótla. „Hún hefur svo ríkt ímyndunarafl að hún trúir oft sögunum sem hún er að búa til fyrir okkur. Hún hefur farið að gráta undan ósýnilegu ljóni sem stökk út úr sögu sem hún var sjálf að segja. Einnig hefur komið fyrir að það var hákarl á milli herbergjanna okkar svo hún komst ekki yfir til okkar hjálparlaust. Hún er einnig nýfarin að semja vísur sem lofa mjög góðu.“
„Hún er ótrúlega blíð við litlu systur sína, leggst alltaf beint hjá henni þegar hún kemur úr leikskólanum og segir henni frá deginum sínum eða syngur fyrir hana. Þegar henni finnst samskiptin full einhliða talar hún líka fyrir systur sína með fyndinni skrækróma rödd og lætur eins og þær séu að tala saman,“ segir Sigga.
Eyrún er aðeins þriggja mánaða og samkvæmt Tótlu vita þær því ekki margt um hana enn þá. „Þó sjáum við strax að hún er mjög ákveðin og góð í að láta okkur vita hvað hún þarf. Hún er heldur ekkert að splæsa brosi eða spjalli á alla. Það er yfirleitt fyrir nokkra útvalda og aðallega heimilisfólkið. Hún er algjör snillingur í samskiptum og krefst þess að fá ríkan skerf af einbeittri athygli. Hún er kannski stundum eitthvað pirruð en er ekki svöng, blaut eða þreytt. Þá vill hún að við sitjum með hana á hnjánum og horfumst djúpt í augu, brosum hvor til annarrar og spjöllum saman.“
Eins og áður segir þykir þeim Siggu og Tótlu fólk hér á landi fullupptekið af erfðum og skyldleika. Eitthvað hefur borið á því að fólk segi að Úlfhildur og Eyrún séu hálfsystur. „Þær eru systur. Fæddar inn í sömu fjölskyldu og hafa alist upp hjá sömu mæðrunum frá upphafi. Við sjáum ekki hvar hinn helmingurinn ætti að koma ef þetta er að vera hálf. Það er eins og að segja að við séum báðar stjúpmæður barnanna okkar,“ segir Sigga.
„Það stingur líka svolítið þegar við erum spurðar hvort þær séu skyldar. Við vitum alveg hvað átt er við en þetta orð er líka félagslega hlaðið og heppilegra væri að spyrja um blóðtengsl ef fólki finnst mikilvægt að vita hvernig blóð streymir um æðar þeirra. Ég held að Úlfhildur gæti ekki fundið neina manneskju í heiminum sem hún er jafnskyld og systur sinni og þau tengsl sem myndast hafa á milli þeirra nú þegar eru tengsl og skyldleiki sem engin heimsins gen eða blóð gæti styrkt enn frekar.“
Svipaðar mæður
Hvað varðar foreldrahlutverkið þykir Siggu og Tótlu mikilvægt að þær séu lið, að þær standi saman og séu samkvæmar sjálfum sér. „Við ræddum þetta mikið þegar Úa var á leiðinni og höfum það að leiðarljósi. Svo er auðvitað ótal, ótal margt sem okkur langar að gera og innræta börnunum okkar – svo margt að oft virkar það yfirþyrmandi hversu mikil ábyrgð það er að ala upp barn, að móta einstakling og reyna að búa honum sem best nesti. Þá er gott að minna sig á að trúlega er það mikilvægasta í þessu öllu að umvefja dæturnar ótæmandi elsku og minna þær á að þær eru nóg, alveg eins og þær eru í öllum aðstæðum, alltaf.“
Aðspurð hvernig mæður þær séu segist Sigga vona að hún sé hlý, skilningsrík og skemmtileg, jafnvel uppátækjasöm, og að hún segi oftar já en nei. „Ég vona líka að ég sé þolinmóð þó að það sé kannski helst það sem ég þarf að æfa mig í. Tótla er ótrúlega hlý og góð mamma. Hún er bæði leikfélagi og mjög góð í blíðum aga. Við erum að mörgu leyti frekar svipaðar mæður því við erum svo sammála um hvað okkur finnst mikilvægt í uppeldinu.“
„Þó að við hefðum verið mjög stutt saman þegar við ákváðum að búa til barn vorum við ákveðnar í því að þótt við myndum kannski ekki endast sem par værum við tilbúnar að ala fallega upp barn saman.“
„Ég held ég sé best í rólegum leik,“ segir Tótla. „Ég elska að lesa fyrir Úu, búa til og hlusta með henni á sögur. Ég reyni að hlusta á stelpurnar mínar og mæta þeim þar sem þær eru staddar hverju sinni. Ég held að ég sé ástrík en ákveðin og legg mikið upp úr því að hafa ramma þar sem er pláss fyrir mistök. Sigga er mjög drífandi og skemmtilegur uppalandi. Hún er alltaf að búa til ný ævintýri og er dugleg að koma með tónlist inn í líf okkar, syngur mikið með og fyrir Úu. Hún er líka dugleg að drífa okkur út í leiðangra þegar ég og Úa erum haugar og viljum helst liggja og glápa á teiknimyndir. Hún kennir okkur öllum að opna okkur og tala um tilfinningarnar okkar. Mér finnst mikilvægt að stelpurnar mínar séu sjálfstæðar, kurteisar og ríkar af samkennd og ég vona að ég geti kennt þeim það. Ég vil að þær viti að þær geti gert hvað sem þeim dettur í hug og vona að þær fái ástríðu fyrir einhverju í lífinu.“
Þótt það sé ekki á dagskrá alveg á næstunni sjá Sigga og Tótla alveg fyrir sér að bæta við fjölskylduna. „Það er svona á seinna plani að eignast eitt barn til viðbótar eftir nokkur ár. Hvort sem það verður barn sem við göngum með, tökum í fóstur eða ættleiðum,“ segir Tótla að lokum.
Höfundur / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Förðun / Hrafnhildur Björk Runólfsdóttir