Sunnudagur 26. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Hvítlaukur á bannlista í matarboðum konungsfjölskyldunnar

Camilla, hertogynjan af Cornwall, var gestur í raunveruleikaþættinum MasterChef Ástralía fyrir stuttu. Í þættinum var Camilla spurð hver uppáhaldsmatur Karls Bretaprins, eiginmanns hennar, væri.

„Hann elskar, elskar osta,” sagði Camilla við Gary Mehigan, dómara í MasterChef. „Hann er mikill aðdáandi osts og elskar allt sem varðar osta.”

Hún bætti við að Karl gæti ekki staðist neitt með eggjum með grænmeti.

„Hann elskar það. Þá myndi glitta í bros.”

Camilla talaði einnig um hvaða matvæli væru á bannlista í matarboðum konungsfjölskyldunnar.

„Mér finnst leiðinlegt að segja það en hvítlaukur. Hvítlaukur er bannaður,” sagði Camilla og Gary spurði hvort það væri út af því að fólk væri mikið að tala saman, enda andfýla fylgifiskur hvítlauksins.

„Já, einmitt. Þannig að maður þarf að sleppa hvítlauknum,” sagði Camilla.

Viðtalið við Camillu má sjá hér fyrir neðan:

Í heimsreisu í eitt ár með tvö lítil börn: „Lífið er of stutt fyrir efasemdir”

|||||
|||||

„Það var í október á siðasta ári sem Álfheiður henti fram þessari klikkuðu hugmynd að hætta í vinnum, leigja út íbúðina og fara í heimsreisu í heilt ár. Ég var ekki lengi að samþykkja þessa hugmynd og sama kvöld vorum við farnar að plana,” segir Eva Dögg Jafetsdóttir.

Fjölskyldan á góðri stundu.

Hún og eiginkona hennar, Álfheiður Björk Sæberg, ásamt tveimur börnum þeirra, Sindra Sæberg Evusyni, 4ra ára og Söru Sæberg Evudóttur, 2ja ára, ákváðu að kveðja lífið á Íslandi í heilt ár og flakka um heiminn. Heimsreisan hófst 26. júní síðastliðinn og var Asía fyrsta heimsálfan sem varð fyrir valinu, nánar tiltekið Taíland.

Gróft plan til áramóta

„Við fórum í brúðkaupsferð til Tælands 2011 og elskuðum landið, menninguna, matinn og fólkið. Því fannst okkur tilvalið að byrja þar,” segir Eva, en fjölskyldan er núna stödd í sjarmerandi borginni Chiang Mai í Norður-Taílandi, sem jafnframt er stærsta borgin í þessum landshluta. Fjölskyldan ætlar að dvelja í mánuð í Taílandi og fljúga þaðan til Víetnam. Síðan er planið að heimsækja Japan, Filippseyjar, Kambódíu, Suður-Taíland, Síngapor og Balí – í þessari röð. Eftir það er framtíðin óráðin.

„Við höfum lagt upp gróft plan til áramóta, bókað nokkur flug, gistingar og þess háttar en okkur finnst mikilvægt og spennandi að vera sveigjanlegra og opnar fyrir tækifærum á leiðinni. Eftir Balí vitum við svo sem ekkert hvað við gerum. Kannski ferðumst við áfram um Asíu eða skiptum alfarið um heimsálfu. Lífið er ævintýri og við ætlum að upplifa það.”

Aðalmálið að fá ekki bakþanka

Eins og gefur að skilja krefst mikils undirbúnings að leggja í slíka för, sérstaklega með tvö börn á leikskólaaldri með í för.

„Skipulagsferlið er langt og strangt og það þarf að huga að mörgu. Aðalmálið er að fá ekki bakþanka, en við höfðum einmitt lesið um það og vorum meðvitaðar um þá staðreynd. Að halda sig við planið og hella sér út í djúpu laugina,” segir Eva og bætir við að margir tímar hafi farið í að undirbúa förina með internetið að vopni.

„Það er erfitt að skipuleggja nákvæmlega hvert skal halda og hvernig ferðaleiðin á að vera en eftir allmargar klukkustundir á veraldarvefnum og mikla rannsóknarvinnu komumst við að grófri niðurstöðu hvað myndi henta okkur og héldum okkur við hana.”

Seldu allt sem þær gátu

Systkinin Sindri og Sara í hitanum í Taílandi.

Svo eru það auðvitað peningamálin, en mikilvægt er að fylgjast vel með öllum fjárútlátum á ferðinni, en ekki síður áður en haldið er af landi brott í svona langa ferð. Eva og Álfheiður gripu til ýmissa ráða til að hafa efni á þessari ævintýraför.

„Við reyndum að selja allt sem við gátum selt til að afla aukatekna, tókum að okkur aukavinnur og spöruðum hverja einustu krónu. Við vissum líka vel að Asía er talsvert ódýrari en Íslandið góða. Við skelltum íbúðinni á leigu og vonumst til að tekjurnar af henni eigi eftir að fleyta okkur eitthvað áfram. Við ætlum að passa peninginn vel og skipuleggja útgjöldin í reisunni. Það finnst okkur skemmtileg áskorun og auðvitað mikilvægt ef við ætlum að vera í einhvern tíma,” segir Álfheiður. Þær reyna líka að halda farangri í algjöru lágmarki.

„Við ferðuðumst út með eina tösku og handfarangurstösku en eftir vel ígrundaðar pælingar þá höfum við ákveðið að skipta yfir í bakpoka. Við ætlum að halda farangri í lágmarki og reyna að komast af með lítið.”

En hvernig tóku ættmenni og vinir fjölskyldunnar í heimsreisuna?

„Það hafa verið skiptar skoðanir hjá fólkinu í kringum okkur og auðvitað efasemdir sem plantast í huganum: Hvað erum við að pæla? Eigum við ekki bara að skella okkur í tveggja vikna sólarlandaferð í staðinn? Getum við þetta? Viljum við stökkva svona langt út fyrir þægindahringinn? Og svarið er allan daginn: Já. Við getum þetta og ætlum að gera þetta. Lífið er of stutt fyrir efasemdir.”

Menning, lærdómur, skemmtun og samvera

Lítið hefur reynt á nánar samvistir fjölskyldunnar enn sem komið er, enda er þessi reisa rétt að byrja og enn eins og hefðbundið sumarfrí. Eva segir að reisan eigi eflaust eftir að reyna á en að sama skapi styrkja fjölskylduböndin.

„Auðvitað mun þetta vera viðbrigði og jafnvel álag á fjölskylduna. Að fara úr hversdagsleikanum í svona mikla samveru í algjörlega nýjum aðstæðum, en við erum mjög opnar í okkar samskiptum og meðvitaðar um þá staðreynd að stundum þarf maður tíma fyrir sjálfan sig og við ætlum að gera allt í okkar veldi til að láta ekkert verða ósagt. Við elskum að vera saman sem fjölskylda en allir þurfa sinn tíma líka. Þetta mun styrkja okkar fjölskyldubönd og vináttu og við munum læra svo ótalmargt. Við ætlum ekki að láta þessa reisu verða að margra mánaða sólarlandaferð með brjálaðri afþreyingu upp á hvern einasta dag. Auðvitað gerist það eflaust að sjálfsdáðum svona fyrstu vikurnar en svo er draumurinn að þetta verði að lífsstíl. Við ætlum að leggja upp með fjórar megin áherslur sem við ætlum að hafa til hliðsjónar í ferðinni, en þær eru; menning, lærdómur, skemmtun og samvera.”

Lífið er ævintýri.

Misstu næstum því af fluginu

Taílendingar elska börn.

Er eitthvað fyndið eða sérkennilegt sem fjölskyldan hefur lent í hingað til?

„Við munum án efa lenda í ýmsum óförum, en það sem komið er ber kannski hæst þegar við vorum næstum því búin að missa af fluginu okkar til Taílands, en við áttum þá bara tuttugu mínútur til að tjékka okkur inn,” segir Álfheiður og hlær. „Hér úti í Tælandi eru börnin algjörar stórstjörnur og allir vilja snerta þau og taka myndir. Við höfðum einmitt lesið okkur til um það og eflaust verður þetta þreytandi til lengdar en enn sem komið er er þetta bara krúttlegt og skemmtilegt,” bætir hún við. Þær Eva hafa einnig í huga að kanna aðstæður hinsegin fólks í hverju landi þar sem þær eru sjálfar hinsegin.

„Verandi tvær konur með börn, eða svokölluð hinsegin fjölskylda, þurfum við að skoða vel og vandlega hvernig hvert land tekur okkur og þær hættur sem kunna að skapast einungis út frá þessari staðreynd. Öryggi okkar og sérstaklega barnanna okkar eru að sjálfsögðu i forgangi. Við höfum ekki áhuga á að heimsækja lönd þar sem við erum óvelkomnar eða illa séðar. Að ferðast með tvö ung börn á eftir að vera erfitt og mikil áskorun en við hlökkum til að takast á við þetta.”

Lífið er núna

Áhugasamir geta fylgst með ferðum fjölskyldunnar á Snapchat og Instagram undir nafninu worldtravelmoms. Einnig halda þær úti heimasíðunni worldtravelmoms.com.

„Við ákváðum að opna okkur á samfélagsmiðlum og leyfa öðrum að njóta með okkur. Vonandi getum við verið hvatning fyrir aðra eins og við fengum hvatninguna til að skella okkur í þetta,” segir Eva og Álfheiður tekur í sama streng. Þær geta ekki beðið eftir að sjá hvert framtíðin leiðir þær og börnin þeirra tvö.

„Við erum ótrúlega spenntar fyrir þessu ævintýri okkar. Lífið er núna og við ætlum að njóta þess.”

Þreyttir ferðalangar.

Stútfullt blað af skemmtilegum sumarhúsum

Júlíblað Húsa og híbýla var að koma út og er sérlega lifandi og skemmtilegt.

Blaðið er fullt af skemmtilegum sumarhúsum bæði hérlendis og erlendis. Við kíktum á herragarð í Eyjafjarðarsveit sem áður hafði verið í eyði í rúm 60 ár en var breytt á einstakan hátt. Jóhanna Vilhjálmsdóttir og Geir Sveinsson búa úti í skógi í Hans og Grétu húsi rétt utan við Berlín og kíktum við einnig í heimsókn til þeirra. Unnie Arendrup hannaði póstkortið sem fylgir með blaðinu og ber verkið heitið Sumarvæntingar.

Karítas Sveinsdóttir innanhússhönnuður hjá HAF Studio sýndi okkur alla sína uppáhaldshluti en hún er að undirbúa opnun verslunar HAF Studio úti á Granda ásamt eiginmanni sinum, Hafsteini Júlíussyni.

Egill Guðmundsson arkitekt og einn af eigendum Arkís arkitekta sagði okkur allt það helsta sem er að gerast í arkitektúr í dag og hvers við megum vænta í framtíðinni.

Viktoría Hrund Kjartansdóttir og Brynjar Guðlaugsson gerðu upp glæsilega íbúð í Keflavík en Viktoría var að útskrifast með BA-gráðu í arkitektúr og tekur einnig að sér að hanna íbúðir fyrir aðra.

Blaðið er einnig stútfullt af góðum hugmyndum fyrir ferðalagið, sumarhúsið og sumarveisluna.

Ljósmyndarar blaðsins tóku ógrynni ljósmynda og komust þær því miður ekki allar í blaðið. Því er tilvalið að birta þær hér á vefnum og leyfa lesendum að njóta þeirra:

Harpa Lind Harðardóttir og Stefán Gíslason sem búa í glæsihúsi í Garðabæ en þau hafa búið víða. Þau er með mörg járn í eldinum og eru nú að innrétta glænýtt hótel í Borgarfirði ásamt því að reka verslunina Willamia á Garðatorgi.
Við heimsóttum hressar systur sem hafa verið að gera upp sumarhús við Þingvallavatn sem tókst einstaklega vel.
Í Skorradal er fallegt sumarhús í rustic-stíl sem við heimsóttum en það stendur í einstaklega fallegu umhverfi.
Öngulsstaðir í Eyjafjarðarsveit er sögulegt stórbýli sem lagðist í eyði í rúm 60 ár. Húsið var gert upp á einstakan hátt og er orðið að sannkölluðum herragarði. Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt hjá Basalti hannaði breytingarnar ásamt Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni en Sigríður er hvað þekktust fyrir þátt sinn í hönnun Bláa lónsins og Sundlaugarinnar á Hófsósi og hefur hlotið mörg verðlaun fyrir.
Rétt utan við Berlín í miðjum skógi stendur hús Jóhönnu Vilhjálmsdóttur og Geirs Sveinssonar. Húsið var byggt árið 1935 af eiganda bjórbrugghúss. Villt náttúran allt í kring sveipar húsið sannkölluðum ævintýrablæ.

Myndir / Aldís Pálsdóttir, Auðunn Níelsson, Álfheiður Guðmundsdóttir, Hallur Karlsson og Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Ástin spyr ekki um aldur: Hann er 68 ára og hún 34 ára

|||
|||

Leik- og söngkonan Katharine McPhee trúlofaðist tónlistarmógúlnum David Foster í vikunni, en David bað um hönd hennar á Ítalíu þar sem þau hafa verið á ferðalagi síðustu daga.

Bónorðið átti sér stað á fjallstindi um kvöld undir stjörnubjörtum himni. Þau Katharine og David hafa þá staðfest það að ástin spyr ekki um aldur, en hún er 34 ára og hann 68 ára. Katharine og David hafa lítið viljað tjá sig um sambandið síðasta árið, en við ákváðum að líta yfir ástarsöguna þeirra í hnotskurn.

Nýkomin úr samböndum

Rúmlega ár er síðan ýmsum fór að gruna að Katharine og David væru meira en vinir, en þau hafa þekkst í gegnum tónlistarbransann síðan leik- og söngkonan var 21 árs. Á þeim tíma þegar sögusagnir um sambandið fóru á kreik var David að ganga frá skilnaði við raunveruleikastjörnuna Yolanda Hadid og Katharine að hætta með leikaranum Elyes Gabel eftir tveggja ára samband.

Spennt fyrir stjúpu

Í kjölfar sögusagnanna, sem fóru af stað í maí á seinasta ári, virtist dóttir Davids, Erin, staðfesta sambandið með myndbroti af þeim á Snapchat. Hún sagði fylgjendum sínum á samfélagsmiðlinum að hún væri spennt fyrir nýju stjúpmóður sinni.

Gaman saman

Nokkru seinna, eða í september í fyrra, fóru þau David og Katharine saman í galaveislu á vegum Grammy-verðlaunanna þar sem David var heiðraður fyrir starf sitt í tónlistarbransanum. Á næstu tveimur mánuðum sem fylgdu á eftir sáust þau meðal annars saman í Los Angeles að halda uppá 68 ára afmæli Davids og á körfuboltaleik.

Sagði lítið um sambandið

Þegar Katharine var spurð út í samband þeirra í tímaritinu Health í desember í fyrra vildi hún hins vegar ekki gefa mikið upp.

„Mér þykir mjög, mjög vænt um hann og mér finnst hann vera stórkostleg manneskja,” sagði hún um David. „Vissirðu að ég er búin að þekkja hann síðan ég var 21 árs? Hann framleiddi fyrstu smáskífuna mína. Þannig að hann hefur verið mér góður. Fólk getur sagt það sem það vill,” bætti hún við, en mikill aldursmunur parsins var iðulega á milli tannanna á fólki.

Börnin glöð

Í sama mánuði sagði Sara Foster, dóttir Davids, í samtali við Us Weekly að hún og systkini hennar væru hæstánægð með Katharine.

„Við viljum bara einhvern sem kemur vel fram við hann og sem þykir vænt um hann. Ég held að hann hafi fundið þá manneskju núna,” sagði hún.

Stelpan mín

Us Weekly tók viðtal við David á rauða dreglinum í veislu á vegum Grammy í lok janúar síðastliðnum. Hann endaði viðtali á því að afsaka sig og segja:

„Ég þarf að ná í stelpuna mína,” og vísaði þar með til Katharine.

„Ég elska þig”

David og Katharine mættu saman í Met-galaveisluna í maí síðastliðnum og sáust í fyrsta sinn haldast í hendur og staðfesta samband sitt. Um mánuði síðan skrifaði Katharine svo athugasemd við mynd sem David birti af sér sjálfum og skrifaði einfaldlega:

„Svo myndarlegur. Ég elska þig.”

?summer daze!!

A post shared by David Foster (@davidfoster) on

Svo kom að því í þessari viku að fréttir þess efnis að parið væri trúlofað voru staðfestar, en óvíst er hvenær brúðkaupið verður.

?Yup!!

A post shared by David Foster (@davidfoster) on

Krakkar hlusta á Guns N’ Roses í fyrsta sinn: „Þetta er bara of hávært”

Rokksveitin Guns N’ Roses heldur tónleika á Laugardalsvelli þann 24. júlí. Örfáir miðar eru eftir á tónleikana samkvæmt tónleikahöldurum, en nokkrum miðum var bætt við fyrir stuttu.

Sveitina þarf vart að kynna en aðdáendur bandsins ættu að vera himinlifandi með að lykilmenn sveitarinnar, þeir Axl Rose, Slash og Duff McKagan, stíga allir á stokk þegar sveitin tryllir lýðinn á Laugardalsvelli.

Okkur fannst því tilvalið að rifja upp eitt klassískt myndband þar sem nokkrir krakkar eru látnir hlusta á lög með Guns N’ Roses. Sumir krakkanna hafa heyrt foreldra sína kyrja lögin, á meðan aðrir hafa aldrei heyrt þau áður. Viðbrögðin við músíkinni eru kostuleg, en á meðan einhverjir telja tónlistina of einsleita og háværa eru aðrir krakkar hæstánægðir með lagavalið og eru staðráðnir í að hlusta oftar á sveitina.

Í myndbandinu, sem má horfa á hér fyrir neðan, fá krakkarnir meðal annars að hlusta á klassísk lög eins og Paradise City, Take Me to the Jungle og Sweet Child O’ Mine, en það er eiginlega bókað mál að allt verður gjörsamlega vitlaust í dalnum þegar að þau hljóma í seinnipart júlí.

Hraunað yfir ofurfyrirsætu á Instagram

|
Chrissy Teigen Jokes About Sharing a Bad Mom Photo While Pretending to Shoplift|

Ofurfyrirsætan Chrissy Teigen birti ofboðslega krúttlega mynd af sér og börnunum sínum tveimur, Lunu og Miles, á Instagram í gær.

Á myndinni sést Chrissy halda á börnunum, en hvorugt barnið virðist vera neitt sérstaklega sátt við myndatökuna, eins og Chrissy skrifar í raun sjálf við myndina:

„Ætti ég að birta myndina þar sem ég virðist ekki halda við höfuð hans en ég lít vel út og Luna nennir þessu ekki, myndina þar sem ég styð við höfuð hans en ég lít þokkalega út og Luna nennir þessu ekki eða myndina þar sem hann er grátandi og ég lít vel út og Luna nennir þessu ekki?”

Margir taka þessum myndatexta afar vel og hrósa Chrissy fyrir að vera ávallt svo hrein og bein. Aðrir gera sér hins vegar mat úr myndinni sjálfri, án þess að lesa myndatextann að virðist, og fordæma myndbirtinguna harkalega.

„Af hverju er þetta barn úti í sólinni svona? Þess vegna grætur hann,” skrifar einn notandi Instagram við myndina, og vísar þá í að sólin skíni beint á andlit Miles. Ofurfyrirsætan svarar notandanum fullum hálsi, með hæðni að vopni:

„Hann sagði mér að hann elskaði þetta.”

Fleiri athugasemdir í sama dúr er að finna við myndina og virðist Chrissy vera í fullri vinnu við að slá á létta strengi í svörum sínum til fólks.

Það er skemmtilegt að skanna athugasemdirnar við myndina frægu.

Chrissy er gift tónlistarmanninum John Legend, en þau kynntust árið 2007 við tökur á tónlistarmyndbandi hans við lagið Stereo. Þau eignuðust dótturina Lunu í apríl árið 2016 og soninn Miles í maí á þessu ári.

Dóra leitar föður síns án árangurs: „Mig langar bara að vita hver pabbi minn er”

|||
|||

„Ég er orðin svolítið buguð út af þessu. Kannski er hann dáinn? Kannski var hann að halda framhjá og vill ekki að konan sín komist að þessu. Ég bara hreinlega veit það ekki, en mér finnst skrýtið að enginn kannist við þetta,” segir Borghildur Dóra Björnsdóttir, oftast kölluð Dóra.

Dóra veit ekki hver blóðfaðir hennar er, en hefur langað að vita það síðan hún man eftir sér. Fyrir ári síðan auglýsti hún, ef svo má segja, eftir honum á Facebook og skrifað var um leit hennar í fjölmiðlum, til að mynda DV. Nú, ári síðar, hefur hvorki gengið né rekið hjá Dóru sem leitar enn pabba síns.

Dóra vill ekkert frá pabba sínum. Hún vill bara hitta hann.

„Mér hefur orðið lítið ágengt í þessari leit. Það voru þrír menn sem höfðu samband á sínum tíma og héldu að þeir væru pabbi minn. Einn þeirra var alveg viss í sinni sök og hafði samband við mig á Facebook í kjölfar fréttarinnar í DV. Hann skrifaði svo stöðuuppfærslu á Facebook og sagði að mamma mín hefði ekki viljað að hann færi í DNA próf til að sanna faðernið og sagðist oft hafa talað við mig í síma. Mamma kannaðist við manninn en sagði af og frá að hann væri pabbi minn. Þetta var orðið hálf óþægilegt þannig að ég lokaði á hann á Facebook. En hann langaði allavega mikið til að vera pabbi minn,” segir Dóra í samtali við blaðamann Mannlífs.

Enginn passar við lýsinguna

Dóra kom undir í Atlavík árið 1983, nánar tiltekið á sunnudagskvöldið á útihátíðinni. Það sem hún veit um föður sinn sem hún hefur leitað svo lengi er að hann er rauðhærður, en var með litað dökkt hár. Hann sagðist heita Jónas Haukur Sveinsson, en vera kallaður Haukur Sveinsson. Hann sagði móður Dóru, sem kölluð var Dæda, að hann væri smiður og að hann ætti fimm ára dóttur sem héti Hulda. Þegar að Dæda og þessi maður stungu saman nefjum var hann víst í svörtum Adidas skóm, bláum gallabuxum og ljósgrárri lopapeysu með svörtu og hvítu munstri. Þegar Dóra auglýsti eftir manninum á Facebook lét hún mynd af móður sinni á hátíðinni fylgja með, í von um að finna föður sinn. Dóra hefur ekki fundið manninn sem passar við lýsinguna, né mann með þessu nafn, og segir að hann hafi aldrei haft samband aftur við móður hennar eftir þetta örlagaríka kvöld.

Hér er myndin af Dædu úr Atlavík.

„Hún og afi reyndu að hafa uppá honum þegar hún var ólétt,” segir Dóra og bætir við að sú leit hafi ekki borið árangur. Þegar Dóra kom í heiminn kom Björn, afi hennar henni í föðurstað og því ber hún föðurnafnið hans í dag.

„Við bjuggum hjá ömmu og afa þar til ég varð sex ára og afi var mikið með mig. Hann gerði allt þetta pabbastöff með mér og gekk mér í föðurstað. Ég missti mikið þegar hann dó,” segir Dóra, en Björn afi hennar lést árið 2014. Áður en hann lést tók Dóra föðurnafnið hans, en það gekk ekki þrautalaust fyrir sig.

„Þegar ég talaði við Þjóðskrá og sagðist vilja taka nafn afa míns þá var mér sagt að pabbi minn yrði að samþykkja það,” segir Dóra og hlær. „Ég sagði þá bara: Þið látið mig vita þegar þið finnið hann.”

„Ætli ég eigi systkini þarna úti?”

Dóra segir í raun ekki hafa þurft á föður að halda sökum þess hve mikil föðurímynd afi hennar var henni. Þó togaði alltaf í hana að leita að uppruna sínum.

„Ég hafði alltaf afa en mig langaði að vita hver ætti hinn helminginn í mér. Ég er ekkert lík mömmu minni, en hún er búin að segja að ég sé hávaxin eins og pabbi og með sömu augnumgjörð,” segir Dóra og bætir við að hana langi einnig að finna föður sinn uppá að finna jafnvel systkini sín.

„Ég á engin systkini en væri alveg til í það. Mig hefur alltaf langað til að eiga fjölskyldu sem er náin og legg mig mikið fram við að vera góð móðir barnanna minna. Ætli ég eigi systkini þarna úti?”

Pældi í því hvort kærastinn væri bróðir hennar

Sæt mynd af Dóru og Birni afa hennar, sem lést fyrir fjórum árum.

Dóra er 34 ára, þriggja barna móðir í dag og er í sambúð. Hún hefur reynt ýmislegt til að hafa uppá föður sínum í gegnum tíðina en svo virðist sem maðurinn hafi hreinlega gufað upp. Henni hafa borist ýmsar ábendingar í gegnum Facebook og haugur af myndum af hátíðinni í Atlavík en ekkert hefur gengið í leitinni. Það finnst henni skrýtið.

„Mér finnst skrýtið að maður hittir helling af fólki sem mann langar ekki að hitta á hverjum degi því Ísland er svo lítið. En af hverju ekki hann? Ég pældi oft í því þegar ég var unglingur og var að byrja með strák að hann gæti verið bróðir minn. Ég spurði meira að segja kærastann minn sérstaklega hvort pabbi hans hefði nokkuð verið í Atlavík árið 1983,” segir hún og brosir.

Langar bara að hitta hann

Dóra veit ekki hve lengi hún ætlar að halda leitinni til streitu, enda bara rekist á veggi síðustu ár. En hvað ef dagurinn kemur loksins að hún hittir föður sinn? Er hún búin að ákveða hvað hún ætlar að segja við hann?

„Mig langar bara að hitta hann. Ég er ekki að fara fram á neitt frá honum. Ef hann vill ekkert með mig hafa þá verður bara að hafa það. En mig langar allavega að sjá hann og vonandi vilja börnin hans kynnast mér og minni fjölskyldu. Það er leiðinlegt að þurfa að taka það fram en ég er ekki að fara fram á peninga frá honum eða neitt svoleiðis. Mig langar bara að vita hver pabbi minn er.”

Hér fyrir neðan má sjá auglýsinguna svokölluðu sem Dóra birti á Facebook, en henni hefur verið deilt rúmlega þúsund sinnum:

Kjánalegir frasar, yfirdrifinn hasar og hlægileg áhættuatriði

Tómas Valgeirsson kvikmyndagagnrýnandi og blaðamaður deilir sínum sakbitnu sælum með lesendum.

Spice World (1997)

Spice World er eins og svar Bretlands við Með allt á hreinu, ekki síður í ljósi þess að báðar kvikmyndir innihalda senur þar sem þekkt band kemst í kynni við geimverur og gengur söguþráðurinn ekki út á neitt nema að hafa gaman. Í Spice World er kjánahrollurinn allsráðandi og leikhæfileikar Kryddpíanna langt frá því að vera neitt til að hrópa húrra yfir (þótt hún Geri standi sig eflaust best af öllum hópnum). Söguþráðurinn er þvældur, fáránlegur og ekki undir neinum kringumstæðum ætti myndin að teljast fólki bjóðandi í dag. En gleðiorka stelpnanna er hressilega smitandi, andinn svo flippaður, framvindan furðuleg og jaðrar það við hreina dásemd að sjá fullt af frægu liði skjóta upp kollinum í fáránlegum gestahlutverkum. Og svarið er já, ég fíla tónlistina líka en við skulum ekki fara nánar út í það.

Never Back Down (2008)

Hvað gerist þegar þú endurgerir The Karate Kid fyrir aldamótakynslóðina, með MMA-slagsmálum og án þess að viðurkenna að um endurgerð sé að ræða? Never Back Down er sú mynd, en ekki nóg með það, heldur eru klisjurnar svo yfirdrifnar og margar að það mætti auðveldlega halda að myndin sé bein „paródía“. Handritið er tóm, ólgandi tjara og áhorfandinn er í hættu við það að fá alvarlegar tannskemmdir yfir því að gnísta tönnum yfir illa skrifuðum samræðum. Never Back Down er hins vegar svo alvörugefin og púkaleg að hún gefur frá sér einhvern ljóma sem gerir hana að stórskemmtilegum sora. Að öðru leyti eru slagsmálasenurnar merkilega flottar og taka allar Karate Kid-kvikmyndirnar í nefið. Einnig verður að segjast að aðalleikari myndarinnar lítur ískyggilega mikið út eins og ungur Tom Cruise. Gefum henni prik fyrir það.

Commando (1985)

Ef þú ert að leita að hornsteini kjánalegra „eitís“-hasarmynda, þá er Commando hættulega nálægt toppnum. Hún hefur allt sem þarf; kjánalega frasa, yfirdrifinn hasar, hlægileg áhættuatriði og illmenni sem sigrar Freddy Mercury-tvífarakeppnina. Hann „Ahnuld“ Schwarzenegger er í hörkustuði og tekur sig alvarlega með prýði, en það er ekki auðvelt markmið þegar persóna hans gengur undir hinu kostulega nafni John Matrix. Því er það ekkert nema gargandi snilld að horfa á Commando í góðum félagsskap, sérstaklega með þeim sem hafa aldrei séð hana. Það verður hlegið fram á næsta dag. Því get ég lofað.

Blossi – 810551 (1997)

Blossi er algjört barn síns tíma, en hvílíkt barn! Myndin á sér hreinlega engan sinn líka og er nánast svo rugluð og vond að hún fer heilan gæðahring og er nálægt því að vera költ-gimsteinn fyrir vikið. Myndin er pönkuð, stefnulaus, súrrealísk, illa leikin niður í tær og í sjálfu sér algjört frávik í íslenskri kvikmyndagerð hvað byggingu og speki varðar. Stíllinn er hraður, háfleygur og lokaatriðin þarf nánast að sjá til að trúa. Það að myndin skuli ekki enn vera fáanleg í neinu stafrænu formi er glæpi líkast fyrir okkar dægurmenningu. Blossi má alls ekki þurrkast út úr íslenskri kvikmyndasögu, hvort sem við elskum hann, hötum, elskum að hata eða öfugt.

Asískur innbakaður lax með sesam-brokkolí

01. tbl. 2017
|

Einfaldur innbakaður lax með asískum hráefnum, ristuðu sesam-brokkolí og bragðmikilli sósu.


4 bitar lax, um 250 g hver biti
2 cm engiferrót, afhhýdd og sneidd
2 vorlaukar, sneiddir
2 hvítlauksgeirar, skornir í tvennt og marðir
6 msk. sojasósa
4 msk. hunang
4 msk. hrísgrjónaedik
1 rautt chili-aldin, sneitt (má sleppa)

Þerrið laxinn með eldhúspappír. Setjið hann í eldfast mót eða í rennilásapoka ásamt engifer, vorlauk og hvítlauk. Hrærið saman sojasósu, hunang og hrísgrjónaedik og hellið yfir fiskinn og grænmetið. Látið liggja í kryddleginum í a.m.k. 30 mín. Hitið ofn í 160°C. Takið fram 4 stórar arkir af bökunarpappír. Leggið laxabita ofan á hverja örk og setjið smávegis af grænmetinu ofan á hvern laxabita og notið síðan skeið til að hella yfir svolitlum kryddlegi (passið að eiga afgang af kryddleginum og grænmeti til að búa til sósu). Pakkið síðan laxinum inn í bökunarpappírinn með því að bretta pappírinn og loka honum, gott er að nota heftara til að festa umslagið betur. Einnig má nota álpappír utan um fiskinn. Reynið að passa að ekki séu glufur á umslaginu svo að laxinn nái að gufusjóðast í ofninum. Bakið fiskinn inni í miðjum ofni á ofnplötu í 15-20 mín., eða þar til fiskurinn hefur eldast í gegn. Búið til sósu á meðan með því að setja afganginn af kryddleginum í lítinn pott yfir meðalháan hita. Hrærið í pottinum þar til sósan þykknar. Athugið að sósan er bragðmikil og sölt og því þarf ekki mikið af sósu. Sáldrið sneiddu chili-aldini yfir laxinn og berið fram með sesam-brokkólí og hrísgrjónum.

Sesam-brokkólí:
1 haus brokkólí
1 msk. ólífuolía
1 msk. sesamolía
2 tsk. sojasósa
1 msk. sesamfræ

Hitið ofn í 220°C. Takið brokkólíið í sundur og snyrtið og skrælið stilkana. Hrærið saman ólífuolíu, sesamolíu og sojasósu í meðalstórri skál. Veltið brokkólínu upp úr sósunni og dreifið síðan úr því á ofnplötu. Sáldrið sesamfræjum yfir brokkólíið og ristið í miðjum ofni í 10 mínútur. Takið það úr ofninum og snúið bitunum við og setjið aftur inn í ofn og ristið í 5-10 mínútur til viðbótar eða þar til brokkólíið hefur eldast og endarnir eru farnir að ristast.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Folda Guðlaugsdóttir

Ætlaði í hjáveituaðgerð en þarf þess ekki: „Þetta er ekki of seint”

||||||||
||||||||

Laura Micetich var aðeins 22ja ára þegar hún steig á vigtina og sá að hún var að nálgast 140 kíló. Hún glímdi við ýmsa heilsukvilla, svo sem of háan blóðþrýsting og forsykursýki. Hún vissi að hún þyrfti að breyta um lífsstíl til að geta lifað góðu lífi um aldur og ævi.

Laura glímdi við ýmsa kvilla.

„Ég ákvað að taka stjórnina í mínu eigin lífi og breyta til. Eftir að hafa reynt að ná tökum á heilsunni minni margoft, og mistekist, var þetta orðið það alvarlegt að ég íhugaði að fara í magahjáveituaðgerð,” skrifar Laura á vefsíðu sinni. Hún byrjaði hins vegar á því að fara í ræktina og fljótt varð ljóst að hún þyrfti ekki aðgerð.

Hún ætlaði að fara í magahjáveituaðgerð.

„Það sem byrjaði sem pælingar um magahjáveituaðgerð varð að ástríðu fyrir heilsusamlegum lífsstíl, þreki og næringu. Ég byrjaði að fara í ræktina, lyfta lóðum og borðaði hreina fæðu sem var klæðskerasniðin að þörfum líkamans. Það tók mig bara nokkrar vikur að átta mig á að ég þurfti ekki að leggjast undir hnífinn. Ég þurfti að leggjast undir stöngina.”

Stöngin varð besti vinur hennar.

Lagaði mataræðið

Fyrsta árið léttist Laura um 45 kíló og losaði sig við ýmsa óheilbrigða ávana.

Líkamsrækt varð að lífsstíl.

„Ég er nú laus við alla kvilla og lífið mitt hefur breyst til hins betra með því að átta mig á að það sem við viljum og það sem við gerum er eitthvað sem við stjórnum algjörlega,” skrifar Laura, en mataræðið spilaði stórt hlutverk í lífsstílsbreytingu hennar.

„Ég lagaði mataræðið mitt. Ég borðaði mikið af hreinum mat og tók alla sterkju og unninn sykur úr fæðunni. Ég hætti að fara út að borða. Ég hætti að borða skyndibita. Ég hætti að kaupa rusl í búðinni. Ég hætti að drekka áfengi með vinum. Ég hætti að oféta rusl. Þannig er nú það.”

Laura æfir á hverjum degi.

Innblástur á Instagram

Laura er í dag tæp 90 kíló og er afar vinsæl á Instagram, með um 330 þúsund fylgjendur. Á samfélagsmiðlinum deilir hún alls kyns ráðum og skilaboðum sem eru full af innblæstri. Eins og til dæmis þessum:

„Það er ekkert sem heitir tilbúin/n. Það er bara núið,” skrifar Laura við eina mynd á Instagram. Við aðra skrifar hún:

Lengst til vinstri er hún sem þyngst. Í miðjunni er hún grennst, rúm 80 kíló og lengst til vinstri er mynd af Lauru eins og hún er í dag, tæp 90 kíló.

„Þú ert ekki of gamall/gömul. Þetta er ekki of seint.”

Hún segir einnig á Instagram að þessi vegferð hafi verið erfið en algjörlega þess virði. Hún segir í lagi að eiga slæma daga svo lengi sem maður læri að taka sér pásu, en ekki gefa allt upp á bátinn. Hún er fylgjandi því að fólk skapi sína eigin velgengni og lifir eftir mottóinu:

Ekki gefast upp, segir Laura.

„Þú ert sá/sú sem þú velur að vera.”

Hér má sjá vegferð þessarar ungu konu.

FUR-liðar höguðu sér vel meðan á tökum stóð

|
|

Íslenskur ljósmyndanemi myndaði bresku hljómsveitina FUR við gerð nýjasta myndbands sveitarinnar.

Ingimar Þórhallson myndaði bresku sveitina FUR við gerð nýjasta myndbands hennar við lagið What would I do. „Það var gaman að fá tækifæri til að kynnast þeim við þessar kringumstæður,“ segir hann hress. „Þetta eru afskaplega skemmtilegir strákar, kurteisir og hógværir og það auðveldaði vinnuna.“

Verkefnið fékk Ingimar í gegnum tvíburabræður sína Jakob og Jónas Þórhallssyni sem störfuðu með sveitinni síðastliðið haust þegar þeir gerðu myndband við lag hennar, If you know that I‘m lonely. Það var tilnefnt til fjölda verðlauna og átti þátt í því að koma FUR á kortið. Í ljósi ánægju með samstarfið leituðu meðlimirnir aftur til bræðranna með næsta videó og þeir ákváðu að fá Ingimar, sem er á lokaári í ljósmyndanámi við hinn virta háskóla Camberwell College of Arts í London, til að mynda það sem gerðist á bak við tjöldin. Þannig að skyndilega var ljósmyndaneminn staddur í stúdíói í Norður-London fyrir þremur vikum í miðri hitabylgju að mynda eina af heitustu upprennandi rokksveitum Bretlands.

„Þetta eru afskaplega skemmtilegir strákar, kurteisir og hógværir og það auðveldaði vinnuna.“

Ingimar viðurkennir að þetta hafi verið svolítið súrrealísk upplifun. „Ég passaði bara að láta lítið fyrir mér fara og reyndi að ná öllum þessum óvæntu augnablikum sem komu upp í samskiptum sveitarinnar, leikstjórans og fólksins undir hans stjórn,“ rifjar hann upp og segir að tæknilega séð hafi þetta verið örlítið krefjandi verkefni, því hann hafi notast við Leicu M-myndavél og prime-linsur og því sjálfur þurft að stilla allt ljósop, hraða og fókus, auk þess sem hitinn hafi verið hrikalegur. „En sviðsetningin leit vel út frá mínum bæjardyrum séð og þetta gekk allt saman vel að lokum.“

Náttúran og samspil manns og náttúru eru Ingimari hugleikin.

Þetta er ekki fyrsta verkefnið af þessu tagi sem Ingimar hefur fengist við því hann myndaði líka gerð myndbands við Unbroken með Maríu Ólafsdóttur, framlag Íslands til Eurovision-söngvakeppninnar árið 2015. „Það var meðal annars tekið upp í gömlu sementsverksmiðjunni á Akranesi og fjöldi fólks kom að gerð þess til að tryggja að það yrði klárað í tæka tíð fyrir Eurovision,“ segir hann og bætir við að án nokkurs vafa sé gerð þess myndbands stærsta „á bak við tjöldin“-verkefnið sem hann hafi komið að.

Auðheyrilegt er að Ingimar hefur í nógu að snúast. Fyrir utan að vera í fullu námi er hann með nokkur járn í eldinum, meðal annars gerð spilastokks með náttúrumyndum sem hann er að vinna með breskum hönnuði, og ljósmyndabók sem kemur til með að innihalda myndir úr íslenskri náttúru. Þá hefur hann verið í samstarfi við fyrirtækið Sólarfilmu um gerð vara sem eru skreyttar myndum eftir hann og nýverið myndaði hann háhitasvæði á Íslandi, en útkoman, 72 ljósmyndir, prýða veggi nýlegs hótels.

En hvenær kemur myndbandið með FUR út og hvar verður hægt að skoða myndirnar? „Þær eru í höndum leikstjórans sem ræður því hvernig þær verða notaðar,“ svarar hann. „En myndbandið kemur út í júlí, skilst mér, og ég hlakka mikið til að sjá útkomuna því þetta var skemmtilegt verkefni.“

 

Dreymir um að eignast litla eyju í Karíbahafinu og hengirúm fest í tvö pálmatré

Ásdís Ósk Valsdóttir er löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls fasteignasölu. Hún býr með þremur börnum sínum í Lindahverfi, þeim Axel Vali Þórissyni, 22 ára; Viktori Loga Þórissyni, 16 ára og Sigrúnu Tinnu Þórisdóttur, 9 ára.

Hvað heillar þig mest við starfið?

„Það er fjölbreytileikinn, það eru alltaf ný og spennandi verkefni á hverjum degi. Ég er búin að vera fasteignasali í fimmtán ár og get ekki hugsað mér annað starf, að fá að vinna svona náið með fólki og í gegnum starfið hef ég eignast marga af mínum bestu vinum. Þetta er gífurlega lifandi starf og alltaf nýjar áskoranir.“

Getur þú lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?

„Ég vakna klukkan fimm á morgnana, byrja á góðri morgungöngu og fer svo annaðhvort í ræktina eða hlusta á fyrirlestra tengda vinnunni, vek krakkana þegar þeir eru hjá mér og fæ mér góða ommelettu og er mætt í vinnu um klukkan átta.  Það er oft erfitt að skipuleggja daginn en ég miða við að svara póstum og klára pappírsvinnu að morgni og seinni parturinn fer síðan í að sýna eignir, skoða eignir og fylgja eftir málum.  Það er auðvelt að drekkja sér í vinnu og fyrir nokkrum árum tók ég þá ákvörðun að hætta að vinna á kvöldin og um helgar og eiga meiri tíma með krökkunum og njóta lífsins.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili?

„Fólk gerir heimili að heimili.“

Getur þú líst þínum stíl?

„Suðrænn og litríkur. Ég ferðaðist mikið um Suður-Ameríku á mínum yngri árum og bjó eitt ár í Hondúras, það er til dæmis ekki hægt að vera fúll og dansa salsa á sama tíma, mæli með því að prófa það.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt?

„Í raun og veru ekki, ég hef mjög gaman af að skoða mismunandi byggingarstíl, sérstaklega þegar ég er erlendis, held að uppáhaldsbærinn minn hafi verið á Chiloe-eyju rétt fyrir utan Puerto Montt í Chile þar sem öll húsin voru timburhús, mjög litrík og sum pínulítið skökk og sjarmerandi en ég hef líka mjög gaman af því að kíkja í opin hús glæsivillna í Beverly Hills, heimurinn bíður upp á svo mikinn fjölbreytileika og svo erfitt að gera upp á milli.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð?

„Börnin mín, elska þegar þau voru að koma með listaverk úr leikskóla og skóla, sem búið var að pakka inn af mikilli ást og leggja allt í gjöfina og umbúðirnar.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?

„Litla eyju í Karíbahafinu þar sem ég get sett gott hengirúm á milli tveggja pálmatrjáa.“

Uppáhaldsliturinn þinn?

„Sterkir og hressir litir, eins og rautt og fjólublátt, það eru flestir litir til í mínum fataskáp, vantar helst svartan.“

Hvar líður þér best?

„Heima með krökkunum mínum eða á góðri strönd með bók að hlusta á sjávarniðinn.“

Nú er sumarið komið og margir huga að garðinum, er eitthvað sem þig langar að eignast í garðinn?

„Ég væri nú alveg til í góða tjörn í garðinn og tvö pálmatré til að hengja suðurameríska hengirúmið mitt á.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?

„Ég elska Bryggjuna Brugghús; góður matur, skemmtileg þjónusta og djasskvöldin þeirra eru frábær.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar?

„Í raun og veru ekki, ég hef rosalega gaman af fjölbreytileika lífsins, ég ferðast mjög mikið og nýt þess að skoða hvað heimurinn hefur upp á margt fallegt og skemmtilegt að bjóða.“

Að lifa lífinu lifandi er að …

… vera í núinu og njóta.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

 

Saknar þess að leika á íslensku

Leikarinn Sindri Swan landaði bitastæðu hlutverki í breskum vísindatrylli.

„Þetta er vísindaskáldskapur, tryllir sem gerist í framtíðinni og fjallar um öflugar verur sem telja mannkynið ófært um að hugsa um jörðina og vaka af þeirri ástæðu yfir því. Ein þessara vera sér hins vegar það góða í mannfólkinu og trúir að maður nokkur að nafni Daniel, sem ég leik, geti breytt öllu með því að færa valdið aftur í hendur þess,“ segir Sindri, spurður út í myndina.

THEM er að hans sögn sjálfstætt framleidd kvikmynd og önnur kvikmynd spænska leikstjórans Ignacio Maiso í fullri lengd. Án þess að vilja fara nánar út í sögurþráðinn segir hann að handritið sé mjög forvitnilegt og frábrugðið þeim verkefnum sem hann hefur fengist við hingað til vegna þeirra ögrandi heimspekilegu spurninga sem sagan velti upp. Svo hafi hlutverkið sjálft líka verið krefjandi þar sem persóna hans gangi í gegnum mikil umskipti í myndinni. Byrji sem maður sem lifir tiltölulega áhyggjulausi lífi en verði taugahrúga þegar hann uppgötvar að hann hefur örlög jarðarbúa í hendi sér.

„Coogan var mjög hógvær, nánast feiminn en Reilly heilsaði upp á alla og var afar viðkunnanlegur. Þeir voru báðir frábærir.“

„Fram að þessu hef ég kannski verið að taka þátt í hefðbundnari verkefnum, ef svo má að orði komast, þar sem áherslan hefur meira verið á fólk og samskipti,“ lýsir hann og nefnir í því samhengi sjónvarpsefni framleitt af þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF um Díönu prinsessu þar sem hann leikur trúnaðarvin hennar. „Sömu sögu er að segja um myndina Stan & Ollie þar sem ég fer með lítið hlutverk en sú mynd kemur út á næsta ári og skartar John C. Reiley og Steve Coogan í aðalhlutverkum.“

Já! Hvernig var að hitta stjörnur eins og Reiley og Coogan? „Magnað,“ svarar hann. „Coogan var mjög hógvær, nánast feiminn en Reilly heilsaði upp á alla og var afar viðkunnanlegur. Þeir voru báðir frábærir.“

Sindri er búsettur í London og starfar þar bæði sem leikari og ljósmyndari og segir það ganga vel þótt vissulega sé ákveðinn línudans að sinna báðum störfum. „Kosturinn er sá að maður getur stýrt sínum tíma að einhverju leyti og mætt í prufur og tökur. En það er líka ókostur því maður mætir ekki í fasta vinnu og fær borgað um hver mánaðarmót heldur þarf að eltast við verkefni og það getur verið tímafrekt.“

Á heildina litið segist hann þó vera ánægður og hafa nóg að gera. Það sé kannski helst að hann sakni þess að vinna á Íslandi. „Ég væri alveg til í að taka að mér einhver verkefni þar. Ég sakna þess að leika á íslensku.“

En hvenær er von á THEM? „Tja, tökur standa yfir í London eins og er en ef allt gengur vel reikna framleiðendurnir með að klára myndina fyrir 2019,“ segir hann hress, „og gefa út seint sama ár, eða snemma 2020. Það kemur í ljós.“

Mynd / Daníel Starrason

Samskip græðir í Færeyjum

Svo vel gengur í skipaflutningum í Færeyjum að hagnaður Samskipa þar hefur ekki verið meiri í ellefu ár.

Fram kemur í færeyska fréttamiðlinum Dimmalætting að rekstrarhagnaður Samskipa í Færeyjum hafi numið tæpum 37 milljónum danskra króna á síðasta ári og hefur hann aldrei verið meiri.

Hagnaður fyrirtækisins nam 6,5 milljónum króna og hefur annað eins ekki sést síðan árið 2007.

„Mér finnst eins og ég sé að fræða fólk í gegnum typpabrandara“

|
|

„Það sem knýr sýninguna áfram er hve spaugilegt það var hve týndur ég var í þessum nýja heimi sem ég hafði svo kjánalega mikla vanþekkingu á þegar ég var í sambandi,“ segir ástralski grínistinn Jonathan Duffy, vanalega þekktur sem Jono. Jono sýnir uppistandið I Wouldn’t Date Me Either á hátíðinni Reykjavík Fringe Festival í byrjun júlí, en verkið fjallar um þann tíma þegar Jono varð einhleypur eftir tíu ára samband og þurfti að læra að deita upp á nýtt. Á sama tíma varð hann þrítugur og fluttist á milli landa. Hann segir heim stefnumóta hafa breyst mikið á þessum áratug sem hann var í sambandi.

Skyndibitamenning í stefnumótaheimi

„Sambönd virtust ekki endast eins lengi því það var keimur af skyndibitamenningu þegar kom að stefnumótum. Þú finnur einhvern, sérð til hvort það virkar eða færð það sem þú vilt og heldur áfram. Ég held að það sé gott og slæmt. Annars vegar held ég að það veiti fólki kraft til að vera minna meðvirkt og ekki byggja sjálfsmat sitt á hæfni sinni í að vera í sambandi. Á hinn bóginn hef ég tekið eftir tísku þar sem fólk byrjar í sambandi en endar það um leið og nýjabrumið fer af, í staðinn fyrir að vinna í hlutunum og gera sambandið sterkara,“ segir Jono. Svo kom að því að Jono fann ástina, en hann og kærasti hans hafa búið saman í hartnært ár.

Jono sýnir I Wouldn’t Date Me Either á Fringe Festival.

„Við pössuðum saman á Tinder, á tímabili þar sem ég var ekki að leita að neinu,“ segir Jono. „Ég var hreinskilinn við hann um allt frá byrjun og gerði meira að segja grín að því að ég væri með pabbalíkama og hryti þegar ég drykki,“ segir sprellarinn, en það er einmitt hans besta ráð til fólks á stefnumótabuxunum – að koma hreint fram.

„Verið hreinskilin. Ekki bara við fólkið sem þið deitið heldur líka ykkur sjálf. Maður ætti alltaf að spyrja sig af hverju maður vill vera í sambandi. Ég held að á vissum tímabilum græði maður á því að vera einhleypur. Ég lærði mest um sjálfan mig þegar ég var einn á báti. Þegar ég tók allar ákvarðanir einn og var sá eini sem bar ábyrgð á öllu sem fór úrskeiðis í mínu lífi.“

Endaþarmsgælur og Grindr

Jono sýnir I Wouldn’t Date Me Either í Secret Cellar 4. og 8. júlí og í Tjarnarbíói 5. og 7. júlí. Jono hefur verið búsettur á Íslandi um nokkurt skeið og á að baki sýningarnar Australiana og An Evening With Jono Duffy. Hann segir nýju sýninguna frábrugðna þeim þótt gestir megi treysta á að Jono verði alveg jafnhispurslaus og hans er von og vísa.

„Ég tala opinskátt um hluti eins og kynlíf og aðra hluti sem eru tabú. Mér finnst fólk njóta þess því það heyrir hluti sem það vildi alltaf fræðast um en var of hrætt að spyrja,“ segir Jono, sem er samkynhneigður en segir að flestir gestir á sýningum hans sé gagnkynhneigt fólk. „Mér finnst eins og ég sé að fræða fólk í gegnum typpabrandara,“ segir hann og hlær. „En ef þú vilt ekki að barnið þitt viti neitt um endaþarmsgælur og stefnumótaappið Grindr, ekki koma með það.“

Höll minninganna: Leið Heru til Hollywood

||
||

Þær fréttir bárust í vikunni að leikkonan Hera Hilmarsdóttir, eða Hera Hilmar, hafi landað hlutverki í sjónvarpsþáttunum The Romanoffs sem koma úr smiðju höfundar Mad Men. Hera hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn, en hún leikur aðalhlutverkið í ævintýraspennumyndinni Mortal Engines sem frumsýnd verður í desember. Hera hefur verið viðloðandi leiklist frá blautu barnsbeini, og ekki úr vegi að líta á upprunann sem skapaði stjörnuna.

Hera landar hlutverki í þáttum frá höfundi Mad Men

Í leikhópi með mömmu

Hera var virk í leiklist allt frá grunnskólaaldri, en árið 1999 hélt hún ásamt leikhópnum Tröllabörn í Kramhúsinu á alþjóðlega leiklistarhátíð barna í Toulouse í Frakklandi. Þá var Hera aðeins ellefu ára gömul, en átti eflaust hæg heimatökin með að leita sér leiðsagnar í vinnunni þar sem annar stjórnandi leikhópsins var Þórey Sigþórsdóttir, móðir hennar.

Með leiklist í blóðinu

Faðir Heru er leikstjórinn Hilmar Oddsson og því má með sanni segja að hún hafi fengið leiklistargenin í vöggugjöf. Í viðtali við DV árið 2007 sagði Hera að hún hafi alltaf fengið mikinn stuðning frá foreldrum sínum eftir að ljóst var að hún myndi feta leiklistarbrautina.

„Í fyrstu reyndu þau hljóðlega að fá mig frá leiklistarbransanum, en þegar þeim var ljóst að mér var alvara studdu þau mig heilshugar,“ sagði Hera þá og bætti við:

„Ég þurfti sífellt að vera að sanna mig og það má eiginlega segja að mér hafi tekist það. En ég er þeim líka þakklát, vegna þess að þau gerðu mér grein fyrir því að maður getur ekki tekið sér neitt fyrir hendur án þess að gefa sig allan í það.“

„Leggið nafn þessarar leikkonu á minnið“

Það gerði Hera svo sannarlega, en hún var einnig liðtæk á selló á yngri árum en lagði sellóið á hilluna til að einbeita sér að leiklistinni. Það má segja að stóra tækifærið hafi komið í menntaskóla þegar hún tók þátt í leikritinu Martröð á jólanótt í Menntaskólanum í Hamrahlíð. Hera hlaut Tréhausinn fyrir frammistöðu sína, verðlaun sem leikhúsrýnarnir Hrund Ólafsdóttir og Þorgeir Tryggvason veittu áhugaleikhópum. Þorgeir lofaði frammistöðu Heru á vefnum leiklist.is: „Leggið nafn þessarar leikkonu á minnið.“

Leikstjórinn, Guðný Halldórsdóttir, sótti sýninguna, leist vel á Heru og bauð henni hlutverk í kvikmyndinni Veðramót sem tekin var upp árið 2006. Hera heillaði áhorfendur upp úr skónum og var tilnefnd til Edduverðlaunanna fyrir hlutverk sitt sem Dísa. Síðan þá hefur leiðin aðeins legið upp á við og virðist nægur ljómi eftir í þessari íslensku stjörnu.

Sveitasæla sunnan heiða

Hótelið býr yfir 46 þægilegum og snyrtilegum herbergjum, ýmist einstaklings, tveggja eða þriggja manna, fjölskylduherbergi og rúmgóðum svítum.

Fosshótel Hekla er notalegt sveitahótel í aðeins klukkutíma akstursfjarlægð frá Reykjavík.

Sunnan heiða er að finna sveitahótelið Fosshótel Heklu að Brjánsstöðum. Þeir sem sækjast eftir því að komast burt úr skarkala höfuðborgarsvæðisins í fallegt og róandi umhverfi verða ekki sviknir af að dvelja þar. Hótelið stendur miðsvæðis á Skeiðunum þaðan sem útsýni er til allra átta og margar af helstu náttúruperlum Suðurlands eru í grenndinni, svo sem Fimmvörðuháls og Eyjafjallajökull. Þar gefst líka gott tækifæri til útivistar og hreyfingar því stutt er í hálendið, Landmannalaugar, Kjöl og Sprengisand.

Matgæðingar fá svo eitthvað fyrir sinn snúð því hótelið státar af fínasta veitingastað. Á morgnana og í hádeginu er þar boðið upp á vel útilátið hlaðborð en þjónað er til borðs á kvöldin. Áhersla er lögð á að bjóða mat úr gæða hráefni sem kemur að miklu leyti beint frá bændum á Suðurlandi en þetta aðgengi að fersku hráefni skilar sér vel í matseldina, eins og undiritaður getur vottað. Fyrr í sumar gafst honum færi á að smakka matinn og fékk sér þá lambasteik með kartöflum og íslensku grænmeti sem reyndist svona líka einstaklega gott. Við hlið veitingastaðarins er svo hlýleg betri stofa með bar þar sem hægt er að hafa það notalegt að máltíð lokinni og skammt undan heitur pottur sem tilvalið er að skella sér í fyrir eða eftir mat.

Matgæðingar fá svo eitthvað fyrir sinn snúð því hótelið státar af fínasta veitingastað.

Útivist, hreyfing, afslöppun, vinnuferð, skemmtiferð, veislur eða flótti úr borgarstressinu í sveitasæluna. Fosshótel Hekla býður upp á allt þetta og meira til.

Við hlið veitingastaðarins er svo hlýleg betri stofa með bar þar sem hægt er að hafa það notalegt að máltíð lokinni.

Fyrir þá sem eru á höttunum eftir hóteli með góðri fundaraðstöðu, til dæmis undir vinnufundi eða nokkurra daga ráðstefnur, kemur Fosshótel Hekla sterkt inn. Á hótelinu er hlýlegur fundar- og ráðstefnusalur með góðum tækjabúnaði og rúmar allt að 60 manns. Sá fjöldi kemst hæglega fyrir á veitingastaðnum sem tekur 110 manns í sæti en af þeim sökum er staðurinn líka tilvalinn fyrir hvers kyns mannfögnuði; brúðkaup, afmæli, árshátíðir og svo framvegis.

Á hótelinu er hlýlegur fundar- og ráðstefnusalur með góðum tækjabúnaði og rúmar allt að 60 manns.

Útivist, hreyfing, afslöppun, vinnuferð, skemmtiferð, veislur eða flótti úr borgarstressinu í sveitasæluna. Fosshótel Hekla býður upp á allt þetta og meira til, möguleikarnir eru óþrjótandi. Undirritaður var svo sannarlega ekki svikinn af dvölinni og ætlar að skella sér aftur við fyrsta tækifæri, en hægt er að bóka herbergi á vefnum islandshotel.is

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Íslandshótel.

 

Danir vara við heimagerðu slími

Heimagert slím nýtur mikilla vinsælda hjá börnum. Hjúkrunarfræðingur segir kemíska blöndu geta valdið áreiti í húð barna. Foreldrar verði að passa hvað börnin leiki sér með.

Astma- og ofnæmissamtök Danmerkur vara við heimagerðu slími. Slímgerð í heimahúsum nýtur mikilla vinsælda hjá börnum. Til marks um það var slímgerð í þriðja sæti yfir fyrirspurnir á vídeóvefnum YouTube á síðasta ári.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem Danir vara við leikföngum og föndri fyrir börn. Fyrr í þessum mánuði varaði Umhverfisstofnun Danmerkur við kreistileikfanginu Squishy eftir að eiturefni fundust í því. Neytendastofa sendi í kjölfarið út fyrirspurn til leikfangasala og innflytjenda leikfanga og óskaði upplýsinga um hvort leikföngin fáist hér. Reynist svo vera, eigi að taka hana af markaði og farga leikföngunum.

Í umsögn Astma- og ofnæmissamtaka Danmerkur um heimagerða slímið segir að í heimagerðu slími sé lím, raksápa og matarsódi. Húð barna sé viðkvæm fyrir raksápu og lími, það geti valdið ofnæmi hjá þeim og þau fengið útbrot á hendur. Í færeyska Kringivarpinu er haft eftir dönskum fjölmiðlum að foreldrar hafi auga með því hvort börn klæi eftir slímgerð, húð þeirra fái rauðan lit, útbrot eða að jafnvel myndist sár.

Umhverfisstofnun Danmerkur og matvælaeftirlit landsins taka undir áhyggjur Astma- og ofnæmissamtakanna og vara við slímgerð barna. Þau eigi ekki að leika sér með raksápu, matarsóda og lím, hvað þá blanda efnunum saman.

Einfalt er fyrir börn að verða sér úti um efni til að búa til slím. Leiðbeiningar um slímgerð má finna á YouTube og á íslenskum vefsíðum og vefsíðum föndurbúða. Innihaldið í slíminu er í nær öllum tilvikum hið sama og dönsku Astma- og ofnæmissamtökin vara við, það er, lím og matarsódi ásamt öðru. Í sumum uppskriftum er húðkrem sett í uppskriftina í stað raksápu.

„Þetta eru svo nýlegar fréttir að við erum rétt að byrja að kynna okkur þetta,“ segir Tonie Gertin Sørensen hjúkrunarfræðingur sem er starfsmaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands. Hún sá frétt um þetta í dönskum fréttatíma í vikunni. Hún segir engar fyrirspurnir eða ábendingar hafa borist félaginu vegna þessa. Mjög stutt sé síðan umræðan kom upp í Danmörku og þurfi félagið að kynna sér málið frekar. Hún bendir á að það segi sig sjálft að þegar kemískum efnum er blandað saman geti orðið til blanda sem valdi áreiti á húð.

„En sem foreldri myndi ég segja að við verðum að vera á varðbergi gagnvart því sem börnin okkar leika sér með,“ segir Tonie.

Hjólamet gæti fallið

WOW cyclothon

Tugir þúsunda nota reiðhjól á höfuðborgarsvæðinu í hverjum mánuði. Nú í júní fór 25.501 reiðhjól fram hjá hjólamælum Reykjavíkurborgar við Nauthólsvík og má búast við að fjöldinn verði meiri þegar sólin fer að sýna sig.

„Við höfum ekki náð neinu meti ennþá en miðað við veðurfar hér í höfuðborginni þar sem af er má leiða að því líkum að við getum slegið met á þessu ári. Það er að segja ef sumarið kemur,“ segir Kristinn Jón Eysteinsson, skipulagsfræðingur hjá Reykjavíkurborg.

Hann bendir á að hjólreiðar séu mjög háðar veðri og sýni mælar að þegar sólar naut í höfuðborginni á dögunum hafi margir farið út að hjóla og ganga.

Mynd / Ernir Eyjólfsson

Kerfið duglegra að verja sig en borgarana

|||
|||

Þöggun, samtrygging og afskiptaleysi eru nokkur orð sem hafa verið notuð til að lýsa réttarkerfinu þegar kemur að meðferð kynferðisbrota í umfjöllun Mannlífs síðustu vikur. Kveikja umfjöllunarinnar er mál þriggja stúlkna sem sökuðu lögreglumann um kynferðisbrot. Mannlíf náði tali af þremur þingmönnum sem segja ýmsar brotalamir í kerfinu.

„Frásagnirnar eru sláandi. Í umfjölluninni kemur einnig fram misræmi í sjónarmiðum yfirvalda til málsins og hvernig eigi að bregðast við og standa að rannsókn og stöðu þess ásakaða. Það er auðvitað óviðunandi,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, um mál kvennanna þriggja.

„Kynferðislegt ofbeldi, ekki síst gegn börnum og unglingum, er svo alvarlegt að það verður alltaf að bregðast við af festu og öryggi. Öll málsmeðferð verður að vera fumlaus og fallin til þess að vekja traust bæði að efni og formi, hvað þá þegar ásakanir beinast að þeim sem eiga að halda uppi lögum og reglu.“

„Réttarkerfið á Íslandi er til háborinnar skammar“

Vantar upp á skilning fyrir réttindum þolenda

Þórhildur Sunna.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, segist áhyggjufull yfir stöðu þolenda innan réttarvörslukerfisins í ljósi ýmissa mála sem hafa komið upp síðustu misseri. „Það virðist vera að þessi réttindi barna til að njóta alltaf vafans og að allt sé gert til að þeirra hagsmunir séu í forgrunni hafi ekki náð kjölfestu í réttarkerfinu eins og það leggur sig á Íslandi. Þetta sjáum við víðtæk dæmi um hjá lögreglunni, hjá dómstólum og hjá sýslumannsembættum. Það veldur mér miklum áhyggjum að staðan sé ekki betri en raun ber vitni,“ segir Þórhildur Sunna. Hún bætir við að þó að mikil vakning hafi orðið í samfélaginu varðandi kynferðisbrot í kjölfar herferða eins og #metoo sé enn ýmsu ábótavant.

„Það vantar upp á skilning innan kerfisins fyrir réttindum þolenda í kynferðisbrotamálum. Réttindi geranda og/eða sakborninga eru að sjálfsögðu mjög mikilvæg; að þeir fái sanngjarna málsmeðferð og að aðilar séu saklausir uns sekt er sönnuð. En þolendar eiga líka rétt á sanngjarnri málsmeðferð og þeir eiga rétt á vernd gegn ofbeldi. Þeir eiga rétt á því að réttarkerfið sinni þeim af virðingu, kostgæfni og af miklum metnaði.“

Mætti mikilli andstöðu innan réttarkerfisins

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram tillögu um afnám fyrningar í kynferðisbrotum gegn börnum árið 2003 og segist hafa mætt mikilli andstöðu innan réttarkerfisins áður en lagabreytingum var náð fram í þessum efnum fjórum árum síðar.

„Mörgum lögfræðingum fannst þessi tillaga allt of róttæk og þar sem dönsku lögin gerðu ráð fyrir að þessi brot væru fyrnanleg ættu íslensk lög að gera ráð fyrir hinu sama. Mér fannst slík röksemdarfærsla vera út í hött og ég vildi að við tækjum þetta eðlilega skref. Við eigum ekki að vera feimin að taka refsipólitískar ákvarðanir. Með því að hafa þessi brot fyrnanleg högnuðust gerendurnir á lögunum þar sem þolendur leita sér oft ásjár kerfisins mörgum árum eftir að brotin voru framin,“ segir Ágúst, en í kjölfar lagabreytinganna varð Ísland eitt fyrsta land í heiminum sem gerði alvarleg kynferðisbrot gegn börnum ófyrnanleg.

Tveir starfshópar, svipaðar niðurstöður

Ágúst Ólafur.

Fyrir fimm árum var Ágúst Ólafur formaður starfshóps sem skilaði tillögum um meðferð kynferðisbrot innan réttarvörslukerfisins til dómsmálaráðuneytis. Samráðshópur skilaði aftur tillögum sama efnis árið 2016. Tillögurnar virðast vera um margt líkar. Í báðum var til að mynda óskað eftir skýrari stefnu stjórnvalda, innspýtingu í forvarnir og að tryggja sálfræðiaðstoð fyrir brotaþola. Ágúst segir að sitthvað úr tillögum síns starfshóp hafi náð í gegn, annað ekki.

Jón Steindór segir margt gott innan réttarvörslukerfisins en að alltaf megi gera betur.

„Eitt af því sem þarf til dæmis að skoða eru samskipti og upplýsingagjöf til fórnarlamba um gang mála, framvindu rannsóknar og forsendur ákvarðana. Sömuleiðis spurning um hvort ekki þurfi að breyta lögum um aðild fórnarlamba að dómsmálum og rannsóknum þannig að þau verði aðilar máls en ekki vitni eins og nú er,“ segir hann og bætir við að honum finnist stefna stjórnvalda í þessum málaflokki ekki skýr. „En ég held að vilji sé til þess að taka þessi mál fastari tökum og því ber að fagna. Sjálfsagt er að styðja þá viðleitni og veita stjórnvöldum virkt aðhald.“

Ákveðin uppskrift að þöggun

Þórhildur Sunna kannast við þá þöggun sem talað hefur verið um í umfjöllun Mannlífs og segir í raun vera mjög skýra uppskrift að henni.

„Þetta virðist vera tækni og þessi tækni heitir þöggun“

„Almennt í þöggunarmálum virðast vera þrír sérstakir þættir. Númer 1: Að gera lítið úr málinu. Ef við tökum Höfum hátt-málið sem dæmi þá gæti þetta verið þegar það kom fyrst upp á yfirborðið og Bjarni Benediktsson sagði þá dæmdu barnaníðinga sem um ræddi hafa fengið eðlilega málsmeðferð þegar þeir sóttu um uppreist æru. Þá talaði Brynjar Níelsson, þáverandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, um að það væru til verri brot en þetta gegn börnum. Númer 2: Að kenna öðrum um. Í Höfum hátt-byltingunni lét Bjarni Benediktsson fyrst að því liggja að þetta hefði verið á hans ábyrgð. Þegar það fór að verða óþægilegt var Ólöfu Nordal kennt um og svo lögunum. Lögin gerðu þetta. Númer 3: Að skjóta sendiboðann. Í fyrrnefndu

Jón Steindór.

máli lét Brynjar til dæmis hafa eftir sér að fólk vildi einungis fá upplýsingar um hverjir þessir valinkunnu menn sem veittu barnaníðíngunum meðmæli væru svo hægt væri að ganga í skrokk á þeim, og gerði þannig lítið úr málinu. Þolendur voru einnig rægðir á alþjóðavettvangi. Svo getur þessi hringur byrjað aftur upp á nýtt. Það virðist vera að kerfið sé duglegra að verja sig en borgarana í landinu.“

Jón Steindór segir það kýrskýrt að reynt hafi verið að þagga mál niður eða gera minna úr þeim í gegnum tíðina.

„Gegn þessu þarf að berjast með upplýsingum og fræðslu um hve alvarleg þessi brot eru. Ég vil ekki trúa því að þöggun sé kerfisbundin. Hitt verður að vera alveg skýrt að þöggun er glæpur. Samtímis verður að búa svo um hnúta að fórnarlömb geti treyst því að á þau sé hlustað, mál rannsökuð af hlutlægni og til hlítar,“ segir hann og því er Ágúst Ólafur sammála.

„Þöggun vegna þessara mála má aldrei eiga sér stað í íslensku réttarkerfi eða í samfélaginu í heild sinni. Sem betur fer erum við farin að ræða þessi mál mun opinskár en áður þótt dæmi um þöggun séu einnig til staðar. Kynferðisafbrot eru ein alvarlegustu afbrot samfélagsins og við eigum einfaldlega að stefna á að útrýma þeim. Annað á ekki að vera í boði.“

Hvítlaukur á bannlista í matarboðum konungsfjölskyldunnar

Camilla, hertogynjan af Cornwall, var gestur í raunveruleikaþættinum MasterChef Ástralía fyrir stuttu. Í þættinum var Camilla spurð hver uppáhaldsmatur Karls Bretaprins, eiginmanns hennar, væri.

„Hann elskar, elskar osta,” sagði Camilla við Gary Mehigan, dómara í MasterChef. „Hann er mikill aðdáandi osts og elskar allt sem varðar osta.”

Hún bætti við að Karl gæti ekki staðist neitt með eggjum með grænmeti.

„Hann elskar það. Þá myndi glitta í bros.”

Camilla talaði einnig um hvaða matvæli væru á bannlista í matarboðum konungsfjölskyldunnar.

„Mér finnst leiðinlegt að segja það en hvítlaukur. Hvítlaukur er bannaður,” sagði Camilla og Gary spurði hvort það væri út af því að fólk væri mikið að tala saman, enda andfýla fylgifiskur hvítlauksins.

„Já, einmitt. Þannig að maður þarf að sleppa hvítlauknum,” sagði Camilla.

Viðtalið við Camillu má sjá hér fyrir neðan:

Í heimsreisu í eitt ár með tvö lítil börn: „Lífið er of stutt fyrir efasemdir”

|||||
|||||

„Það var í október á siðasta ári sem Álfheiður henti fram þessari klikkuðu hugmynd að hætta í vinnum, leigja út íbúðina og fara í heimsreisu í heilt ár. Ég var ekki lengi að samþykkja þessa hugmynd og sama kvöld vorum við farnar að plana,” segir Eva Dögg Jafetsdóttir.

Fjölskyldan á góðri stundu.

Hún og eiginkona hennar, Álfheiður Björk Sæberg, ásamt tveimur börnum þeirra, Sindra Sæberg Evusyni, 4ra ára og Söru Sæberg Evudóttur, 2ja ára, ákváðu að kveðja lífið á Íslandi í heilt ár og flakka um heiminn. Heimsreisan hófst 26. júní síðastliðinn og var Asía fyrsta heimsálfan sem varð fyrir valinu, nánar tiltekið Taíland.

Gróft plan til áramóta

„Við fórum í brúðkaupsferð til Tælands 2011 og elskuðum landið, menninguna, matinn og fólkið. Því fannst okkur tilvalið að byrja þar,” segir Eva, en fjölskyldan er núna stödd í sjarmerandi borginni Chiang Mai í Norður-Taílandi, sem jafnframt er stærsta borgin í þessum landshluta. Fjölskyldan ætlar að dvelja í mánuð í Taílandi og fljúga þaðan til Víetnam. Síðan er planið að heimsækja Japan, Filippseyjar, Kambódíu, Suður-Taíland, Síngapor og Balí – í þessari röð. Eftir það er framtíðin óráðin.

„Við höfum lagt upp gróft plan til áramóta, bókað nokkur flug, gistingar og þess háttar en okkur finnst mikilvægt og spennandi að vera sveigjanlegra og opnar fyrir tækifærum á leiðinni. Eftir Balí vitum við svo sem ekkert hvað við gerum. Kannski ferðumst við áfram um Asíu eða skiptum alfarið um heimsálfu. Lífið er ævintýri og við ætlum að upplifa það.”

Aðalmálið að fá ekki bakþanka

Eins og gefur að skilja krefst mikils undirbúnings að leggja í slíka för, sérstaklega með tvö börn á leikskólaaldri með í för.

„Skipulagsferlið er langt og strangt og það þarf að huga að mörgu. Aðalmálið er að fá ekki bakþanka, en við höfðum einmitt lesið um það og vorum meðvitaðar um þá staðreynd. Að halda sig við planið og hella sér út í djúpu laugina,” segir Eva og bætir við að margir tímar hafi farið í að undirbúa förina með internetið að vopni.

„Það er erfitt að skipuleggja nákvæmlega hvert skal halda og hvernig ferðaleiðin á að vera en eftir allmargar klukkustundir á veraldarvefnum og mikla rannsóknarvinnu komumst við að grófri niðurstöðu hvað myndi henta okkur og héldum okkur við hana.”

Seldu allt sem þær gátu

Systkinin Sindri og Sara í hitanum í Taílandi.

Svo eru það auðvitað peningamálin, en mikilvægt er að fylgjast vel með öllum fjárútlátum á ferðinni, en ekki síður áður en haldið er af landi brott í svona langa ferð. Eva og Álfheiður gripu til ýmissa ráða til að hafa efni á þessari ævintýraför.

„Við reyndum að selja allt sem við gátum selt til að afla aukatekna, tókum að okkur aukavinnur og spöruðum hverja einustu krónu. Við vissum líka vel að Asía er talsvert ódýrari en Íslandið góða. Við skelltum íbúðinni á leigu og vonumst til að tekjurnar af henni eigi eftir að fleyta okkur eitthvað áfram. Við ætlum að passa peninginn vel og skipuleggja útgjöldin í reisunni. Það finnst okkur skemmtileg áskorun og auðvitað mikilvægt ef við ætlum að vera í einhvern tíma,” segir Álfheiður. Þær reyna líka að halda farangri í algjöru lágmarki.

„Við ferðuðumst út með eina tösku og handfarangurstösku en eftir vel ígrundaðar pælingar þá höfum við ákveðið að skipta yfir í bakpoka. Við ætlum að halda farangri í lágmarki og reyna að komast af með lítið.”

En hvernig tóku ættmenni og vinir fjölskyldunnar í heimsreisuna?

„Það hafa verið skiptar skoðanir hjá fólkinu í kringum okkur og auðvitað efasemdir sem plantast í huganum: Hvað erum við að pæla? Eigum við ekki bara að skella okkur í tveggja vikna sólarlandaferð í staðinn? Getum við þetta? Viljum við stökkva svona langt út fyrir þægindahringinn? Og svarið er allan daginn: Já. Við getum þetta og ætlum að gera þetta. Lífið er of stutt fyrir efasemdir.”

Menning, lærdómur, skemmtun og samvera

Lítið hefur reynt á nánar samvistir fjölskyldunnar enn sem komið er, enda er þessi reisa rétt að byrja og enn eins og hefðbundið sumarfrí. Eva segir að reisan eigi eflaust eftir að reyna á en að sama skapi styrkja fjölskylduböndin.

„Auðvitað mun þetta vera viðbrigði og jafnvel álag á fjölskylduna. Að fara úr hversdagsleikanum í svona mikla samveru í algjörlega nýjum aðstæðum, en við erum mjög opnar í okkar samskiptum og meðvitaðar um þá staðreynd að stundum þarf maður tíma fyrir sjálfan sig og við ætlum að gera allt í okkar veldi til að láta ekkert verða ósagt. Við elskum að vera saman sem fjölskylda en allir þurfa sinn tíma líka. Þetta mun styrkja okkar fjölskyldubönd og vináttu og við munum læra svo ótalmargt. Við ætlum ekki að láta þessa reisu verða að margra mánaða sólarlandaferð með brjálaðri afþreyingu upp á hvern einasta dag. Auðvitað gerist það eflaust að sjálfsdáðum svona fyrstu vikurnar en svo er draumurinn að þetta verði að lífsstíl. Við ætlum að leggja upp með fjórar megin áherslur sem við ætlum að hafa til hliðsjónar í ferðinni, en þær eru; menning, lærdómur, skemmtun og samvera.”

Lífið er ævintýri.

Misstu næstum því af fluginu

Taílendingar elska börn.

Er eitthvað fyndið eða sérkennilegt sem fjölskyldan hefur lent í hingað til?

„Við munum án efa lenda í ýmsum óförum, en það sem komið er ber kannski hæst þegar við vorum næstum því búin að missa af fluginu okkar til Taílands, en við áttum þá bara tuttugu mínútur til að tjékka okkur inn,” segir Álfheiður og hlær. „Hér úti í Tælandi eru börnin algjörar stórstjörnur og allir vilja snerta þau og taka myndir. Við höfðum einmitt lesið okkur til um það og eflaust verður þetta þreytandi til lengdar en enn sem komið er er þetta bara krúttlegt og skemmtilegt,” bætir hún við. Þær Eva hafa einnig í huga að kanna aðstæður hinsegin fólks í hverju landi þar sem þær eru sjálfar hinsegin.

„Verandi tvær konur með börn, eða svokölluð hinsegin fjölskylda, þurfum við að skoða vel og vandlega hvernig hvert land tekur okkur og þær hættur sem kunna að skapast einungis út frá þessari staðreynd. Öryggi okkar og sérstaklega barnanna okkar eru að sjálfsögðu i forgangi. Við höfum ekki áhuga á að heimsækja lönd þar sem við erum óvelkomnar eða illa séðar. Að ferðast með tvö ung börn á eftir að vera erfitt og mikil áskorun en við hlökkum til að takast á við þetta.”

Lífið er núna

Áhugasamir geta fylgst með ferðum fjölskyldunnar á Snapchat og Instagram undir nafninu worldtravelmoms. Einnig halda þær úti heimasíðunni worldtravelmoms.com.

„Við ákváðum að opna okkur á samfélagsmiðlum og leyfa öðrum að njóta með okkur. Vonandi getum við verið hvatning fyrir aðra eins og við fengum hvatninguna til að skella okkur í þetta,” segir Eva og Álfheiður tekur í sama streng. Þær geta ekki beðið eftir að sjá hvert framtíðin leiðir þær og börnin þeirra tvö.

„Við erum ótrúlega spenntar fyrir þessu ævintýri okkar. Lífið er núna og við ætlum að njóta þess.”

Þreyttir ferðalangar.

Stútfullt blað af skemmtilegum sumarhúsum

Júlíblað Húsa og híbýla var að koma út og er sérlega lifandi og skemmtilegt.

Blaðið er fullt af skemmtilegum sumarhúsum bæði hérlendis og erlendis. Við kíktum á herragarð í Eyjafjarðarsveit sem áður hafði verið í eyði í rúm 60 ár en var breytt á einstakan hátt. Jóhanna Vilhjálmsdóttir og Geir Sveinsson búa úti í skógi í Hans og Grétu húsi rétt utan við Berlín og kíktum við einnig í heimsókn til þeirra. Unnie Arendrup hannaði póstkortið sem fylgir með blaðinu og ber verkið heitið Sumarvæntingar.

Karítas Sveinsdóttir innanhússhönnuður hjá HAF Studio sýndi okkur alla sína uppáhaldshluti en hún er að undirbúa opnun verslunar HAF Studio úti á Granda ásamt eiginmanni sinum, Hafsteini Júlíussyni.

Egill Guðmundsson arkitekt og einn af eigendum Arkís arkitekta sagði okkur allt það helsta sem er að gerast í arkitektúr í dag og hvers við megum vænta í framtíðinni.

Viktoría Hrund Kjartansdóttir og Brynjar Guðlaugsson gerðu upp glæsilega íbúð í Keflavík en Viktoría var að útskrifast með BA-gráðu í arkitektúr og tekur einnig að sér að hanna íbúðir fyrir aðra.

Blaðið er einnig stútfullt af góðum hugmyndum fyrir ferðalagið, sumarhúsið og sumarveisluna.

Ljósmyndarar blaðsins tóku ógrynni ljósmynda og komust þær því miður ekki allar í blaðið. Því er tilvalið að birta þær hér á vefnum og leyfa lesendum að njóta þeirra:

Harpa Lind Harðardóttir og Stefán Gíslason sem búa í glæsihúsi í Garðabæ en þau hafa búið víða. Þau er með mörg járn í eldinum og eru nú að innrétta glænýtt hótel í Borgarfirði ásamt því að reka verslunina Willamia á Garðatorgi.
Við heimsóttum hressar systur sem hafa verið að gera upp sumarhús við Þingvallavatn sem tókst einstaklega vel.
Í Skorradal er fallegt sumarhús í rustic-stíl sem við heimsóttum en það stendur í einstaklega fallegu umhverfi.
Öngulsstaðir í Eyjafjarðarsveit er sögulegt stórbýli sem lagðist í eyði í rúm 60 ár. Húsið var gert upp á einstakan hátt og er orðið að sannkölluðum herragarði. Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt hjá Basalti hannaði breytingarnar ásamt Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni en Sigríður er hvað þekktust fyrir þátt sinn í hönnun Bláa lónsins og Sundlaugarinnar á Hófsósi og hefur hlotið mörg verðlaun fyrir.
Rétt utan við Berlín í miðjum skógi stendur hús Jóhönnu Vilhjálmsdóttur og Geirs Sveinssonar. Húsið var byggt árið 1935 af eiganda bjórbrugghúss. Villt náttúran allt í kring sveipar húsið sannkölluðum ævintýrablæ.

Myndir / Aldís Pálsdóttir, Auðunn Níelsson, Álfheiður Guðmundsdóttir, Hallur Karlsson og Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Ástin spyr ekki um aldur: Hann er 68 ára og hún 34 ára

|||
|||

Leik- og söngkonan Katharine McPhee trúlofaðist tónlistarmógúlnum David Foster í vikunni, en David bað um hönd hennar á Ítalíu þar sem þau hafa verið á ferðalagi síðustu daga.

Bónorðið átti sér stað á fjallstindi um kvöld undir stjörnubjörtum himni. Þau Katharine og David hafa þá staðfest það að ástin spyr ekki um aldur, en hún er 34 ára og hann 68 ára. Katharine og David hafa lítið viljað tjá sig um sambandið síðasta árið, en við ákváðum að líta yfir ástarsöguna þeirra í hnotskurn.

Nýkomin úr samböndum

Rúmlega ár er síðan ýmsum fór að gruna að Katharine og David væru meira en vinir, en þau hafa þekkst í gegnum tónlistarbransann síðan leik- og söngkonan var 21 árs. Á þeim tíma þegar sögusagnir um sambandið fóru á kreik var David að ganga frá skilnaði við raunveruleikastjörnuna Yolanda Hadid og Katharine að hætta með leikaranum Elyes Gabel eftir tveggja ára samband.

Spennt fyrir stjúpu

Í kjölfar sögusagnanna, sem fóru af stað í maí á seinasta ári, virtist dóttir Davids, Erin, staðfesta sambandið með myndbroti af þeim á Snapchat. Hún sagði fylgjendum sínum á samfélagsmiðlinum að hún væri spennt fyrir nýju stjúpmóður sinni.

Gaman saman

Nokkru seinna, eða í september í fyrra, fóru þau David og Katharine saman í galaveislu á vegum Grammy-verðlaunanna þar sem David var heiðraður fyrir starf sitt í tónlistarbransanum. Á næstu tveimur mánuðum sem fylgdu á eftir sáust þau meðal annars saman í Los Angeles að halda uppá 68 ára afmæli Davids og á körfuboltaleik.

Sagði lítið um sambandið

Þegar Katharine var spurð út í samband þeirra í tímaritinu Health í desember í fyrra vildi hún hins vegar ekki gefa mikið upp.

„Mér þykir mjög, mjög vænt um hann og mér finnst hann vera stórkostleg manneskja,” sagði hún um David. „Vissirðu að ég er búin að þekkja hann síðan ég var 21 árs? Hann framleiddi fyrstu smáskífuna mína. Þannig að hann hefur verið mér góður. Fólk getur sagt það sem það vill,” bætti hún við, en mikill aldursmunur parsins var iðulega á milli tannanna á fólki.

Börnin glöð

Í sama mánuði sagði Sara Foster, dóttir Davids, í samtali við Us Weekly að hún og systkini hennar væru hæstánægð með Katharine.

„Við viljum bara einhvern sem kemur vel fram við hann og sem þykir vænt um hann. Ég held að hann hafi fundið þá manneskju núna,” sagði hún.

Stelpan mín

Us Weekly tók viðtal við David á rauða dreglinum í veislu á vegum Grammy í lok janúar síðastliðnum. Hann endaði viðtali á því að afsaka sig og segja:

„Ég þarf að ná í stelpuna mína,” og vísaði þar með til Katharine.

„Ég elska þig”

David og Katharine mættu saman í Met-galaveisluna í maí síðastliðnum og sáust í fyrsta sinn haldast í hendur og staðfesta samband sitt. Um mánuði síðan skrifaði Katharine svo athugasemd við mynd sem David birti af sér sjálfum og skrifaði einfaldlega:

„Svo myndarlegur. Ég elska þig.”

?summer daze!!

A post shared by David Foster (@davidfoster) on

Svo kom að því í þessari viku að fréttir þess efnis að parið væri trúlofað voru staðfestar, en óvíst er hvenær brúðkaupið verður.

?Yup!!

A post shared by David Foster (@davidfoster) on

Krakkar hlusta á Guns N’ Roses í fyrsta sinn: „Þetta er bara of hávært”

Rokksveitin Guns N’ Roses heldur tónleika á Laugardalsvelli þann 24. júlí. Örfáir miðar eru eftir á tónleikana samkvæmt tónleikahöldurum, en nokkrum miðum var bætt við fyrir stuttu.

Sveitina þarf vart að kynna en aðdáendur bandsins ættu að vera himinlifandi með að lykilmenn sveitarinnar, þeir Axl Rose, Slash og Duff McKagan, stíga allir á stokk þegar sveitin tryllir lýðinn á Laugardalsvelli.

Okkur fannst því tilvalið að rifja upp eitt klassískt myndband þar sem nokkrir krakkar eru látnir hlusta á lög með Guns N’ Roses. Sumir krakkanna hafa heyrt foreldra sína kyrja lögin, á meðan aðrir hafa aldrei heyrt þau áður. Viðbrögðin við músíkinni eru kostuleg, en á meðan einhverjir telja tónlistina of einsleita og háværa eru aðrir krakkar hæstánægðir með lagavalið og eru staðráðnir í að hlusta oftar á sveitina.

Í myndbandinu, sem má horfa á hér fyrir neðan, fá krakkarnir meðal annars að hlusta á klassísk lög eins og Paradise City, Take Me to the Jungle og Sweet Child O’ Mine, en það er eiginlega bókað mál að allt verður gjörsamlega vitlaust í dalnum þegar að þau hljóma í seinnipart júlí.

Hraunað yfir ofurfyrirsætu á Instagram

|
Chrissy Teigen Jokes About Sharing a Bad Mom Photo While Pretending to Shoplift|

Ofurfyrirsætan Chrissy Teigen birti ofboðslega krúttlega mynd af sér og börnunum sínum tveimur, Lunu og Miles, á Instagram í gær.

Á myndinni sést Chrissy halda á börnunum, en hvorugt barnið virðist vera neitt sérstaklega sátt við myndatökuna, eins og Chrissy skrifar í raun sjálf við myndina:

„Ætti ég að birta myndina þar sem ég virðist ekki halda við höfuð hans en ég lít vel út og Luna nennir þessu ekki, myndina þar sem ég styð við höfuð hans en ég lít þokkalega út og Luna nennir þessu ekki eða myndina þar sem hann er grátandi og ég lít vel út og Luna nennir þessu ekki?”

Margir taka þessum myndatexta afar vel og hrósa Chrissy fyrir að vera ávallt svo hrein og bein. Aðrir gera sér hins vegar mat úr myndinni sjálfri, án þess að lesa myndatextann að virðist, og fordæma myndbirtinguna harkalega.

„Af hverju er þetta barn úti í sólinni svona? Þess vegna grætur hann,” skrifar einn notandi Instagram við myndina, og vísar þá í að sólin skíni beint á andlit Miles. Ofurfyrirsætan svarar notandanum fullum hálsi, með hæðni að vopni:

„Hann sagði mér að hann elskaði þetta.”

Fleiri athugasemdir í sama dúr er að finna við myndina og virðist Chrissy vera í fullri vinnu við að slá á létta strengi í svörum sínum til fólks.

Það er skemmtilegt að skanna athugasemdirnar við myndina frægu.

Chrissy er gift tónlistarmanninum John Legend, en þau kynntust árið 2007 við tökur á tónlistarmyndbandi hans við lagið Stereo. Þau eignuðust dótturina Lunu í apríl árið 2016 og soninn Miles í maí á þessu ári.

Dóra leitar föður síns án árangurs: „Mig langar bara að vita hver pabbi minn er”

|||
|||

„Ég er orðin svolítið buguð út af þessu. Kannski er hann dáinn? Kannski var hann að halda framhjá og vill ekki að konan sín komist að þessu. Ég bara hreinlega veit það ekki, en mér finnst skrýtið að enginn kannist við þetta,” segir Borghildur Dóra Björnsdóttir, oftast kölluð Dóra.

Dóra veit ekki hver blóðfaðir hennar er, en hefur langað að vita það síðan hún man eftir sér. Fyrir ári síðan auglýsti hún, ef svo má segja, eftir honum á Facebook og skrifað var um leit hennar í fjölmiðlum, til að mynda DV. Nú, ári síðar, hefur hvorki gengið né rekið hjá Dóru sem leitar enn pabba síns.

Dóra vill ekkert frá pabba sínum. Hún vill bara hitta hann.

„Mér hefur orðið lítið ágengt í þessari leit. Það voru þrír menn sem höfðu samband á sínum tíma og héldu að þeir væru pabbi minn. Einn þeirra var alveg viss í sinni sök og hafði samband við mig á Facebook í kjölfar fréttarinnar í DV. Hann skrifaði svo stöðuuppfærslu á Facebook og sagði að mamma mín hefði ekki viljað að hann færi í DNA próf til að sanna faðernið og sagðist oft hafa talað við mig í síma. Mamma kannaðist við manninn en sagði af og frá að hann væri pabbi minn. Þetta var orðið hálf óþægilegt þannig að ég lokaði á hann á Facebook. En hann langaði allavega mikið til að vera pabbi minn,” segir Dóra í samtali við blaðamann Mannlífs.

Enginn passar við lýsinguna

Dóra kom undir í Atlavík árið 1983, nánar tiltekið á sunnudagskvöldið á útihátíðinni. Það sem hún veit um föður sinn sem hún hefur leitað svo lengi er að hann er rauðhærður, en var með litað dökkt hár. Hann sagðist heita Jónas Haukur Sveinsson, en vera kallaður Haukur Sveinsson. Hann sagði móður Dóru, sem kölluð var Dæda, að hann væri smiður og að hann ætti fimm ára dóttur sem héti Hulda. Þegar að Dæda og þessi maður stungu saman nefjum var hann víst í svörtum Adidas skóm, bláum gallabuxum og ljósgrárri lopapeysu með svörtu og hvítu munstri. Þegar Dóra auglýsti eftir manninum á Facebook lét hún mynd af móður sinni á hátíðinni fylgja með, í von um að finna föður sinn. Dóra hefur ekki fundið manninn sem passar við lýsinguna, né mann með þessu nafn, og segir að hann hafi aldrei haft samband aftur við móður hennar eftir þetta örlagaríka kvöld.

Hér er myndin af Dædu úr Atlavík.

„Hún og afi reyndu að hafa uppá honum þegar hún var ólétt,” segir Dóra og bætir við að sú leit hafi ekki borið árangur. Þegar Dóra kom í heiminn kom Björn, afi hennar henni í föðurstað og því ber hún föðurnafnið hans í dag.

„Við bjuggum hjá ömmu og afa þar til ég varð sex ára og afi var mikið með mig. Hann gerði allt þetta pabbastöff með mér og gekk mér í föðurstað. Ég missti mikið þegar hann dó,” segir Dóra, en Björn afi hennar lést árið 2014. Áður en hann lést tók Dóra föðurnafnið hans, en það gekk ekki þrautalaust fyrir sig.

„Þegar ég talaði við Þjóðskrá og sagðist vilja taka nafn afa míns þá var mér sagt að pabbi minn yrði að samþykkja það,” segir Dóra og hlær. „Ég sagði þá bara: Þið látið mig vita þegar þið finnið hann.”

„Ætli ég eigi systkini þarna úti?”

Dóra segir í raun ekki hafa þurft á föður að halda sökum þess hve mikil föðurímynd afi hennar var henni. Þó togaði alltaf í hana að leita að uppruna sínum.

„Ég hafði alltaf afa en mig langaði að vita hver ætti hinn helminginn í mér. Ég er ekkert lík mömmu minni, en hún er búin að segja að ég sé hávaxin eins og pabbi og með sömu augnumgjörð,” segir Dóra og bætir við að hana langi einnig að finna föður sinn uppá að finna jafnvel systkini sín.

„Ég á engin systkini en væri alveg til í það. Mig hefur alltaf langað til að eiga fjölskyldu sem er náin og legg mig mikið fram við að vera góð móðir barnanna minna. Ætli ég eigi systkini þarna úti?”

Pældi í því hvort kærastinn væri bróðir hennar

Sæt mynd af Dóru og Birni afa hennar, sem lést fyrir fjórum árum.

Dóra er 34 ára, þriggja barna móðir í dag og er í sambúð. Hún hefur reynt ýmislegt til að hafa uppá föður sínum í gegnum tíðina en svo virðist sem maðurinn hafi hreinlega gufað upp. Henni hafa borist ýmsar ábendingar í gegnum Facebook og haugur af myndum af hátíðinni í Atlavík en ekkert hefur gengið í leitinni. Það finnst henni skrýtið.

„Mér finnst skrýtið að maður hittir helling af fólki sem mann langar ekki að hitta á hverjum degi því Ísland er svo lítið. En af hverju ekki hann? Ég pældi oft í því þegar ég var unglingur og var að byrja með strák að hann gæti verið bróðir minn. Ég spurði meira að segja kærastann minn sérstaklega hvort pabbi hans hefði nokkuð verið í Atlavík árið 1983,” segir hún og brosir.

Langar bara að hitta hann

Dóra veit ekki hve lengi hún ætlar að halda leitinni til streitu, enda bara rekist á veggi síðustu ár. En hvað ef dagurinn kemur loksins að hún hittir föður sinn? Er hún búin að ákveða hvað hún ætlar að segja við hann?

„Mig langar bara að hitta hann. Ég er ekki að fara fram á neitt frá honum. Ef hann vill ekkert með mig hafa þá verður bara að hafa það. En mig langar allavega að sjá hann og vonandi vilja börnin hans kynnast mér og minni fjölskyldu. Það er leiðinlegt að þurfa að taka það fram en ég er ekki að fara fram á peninga frá honum eða neitt svoleiðis. Mig langar bara að vita hver pabbi minn er.”

Hér fyrir neðan má sjá auglýsinguna svokölluðu sem Dóra birti á Facebook, en henni hefur verið deilt rúmlega þúsund sinnum:

Kjánalegir frasar, yfirdrifinn hasar og hlægileg áhættuatriði

Tómas Valgeirsson kvikmyndagagnrýnandi og blaðamaður deilir sínum sakbitnu sælum með lesendum.

Spice World (1997)

Spice World er eins og svar Bretlands við Með allt á hreinu, ekki síður í ljósi þess að báðar kvikmyndir innihalda senur þar sem þekkt band kemst í kynni við geimverur og gengur söguþráðurinn ekki út á neitt nema að hafa gaman. Í Spice World er kjánahrollurinn allsráðandi og leikhæfileikar Kryddpíanna langt frá því að vera neitt til að hrópa húrra yfir (þótt hún Geri standi sig eflaust best af öllum hópnum). Söguþráðurinn er þvældur, fáránlegur og ekki undir neinum kringumstæðum ætti myndin að teljast fólki bjóðandi í dag. En gleðiorka stelpnanna er hressilega smitandi, andinn svo flippaður, framvindan furðuleg og jaðrar það við hreina dásemd að sjá fullt af frægu liði skjóta upp kollinum í fáránlegum gestahlutverkum. Og svarið er já, ég fíla tónlistina líka en við skulum ekki fara nánar út í það.

Never Back Down (2008)

Hvað gerist þegar þú endurgerir The Karate Kid fyrir aldamótakynslóðina, með MMA-slagsmálum og án þess að viðurkenna að um endurgerð sé að ræða? Never Back Down er sú mynd, en ekki nóg með það, heldur eru klisjurnar svo yfirdrifnar og margar að það mætti auðveldlega halda að myndin sé bein „paródía“. Handritið er tóm, ólgandi tjara og áhorfandinn er í hættu við það að fá alvarlegar tannskemmdir yfir því að gnísta tönnum yfir illa skrifuðum samræðum. Never Back Down er hins vegar svo alvörugefin og púkaleg að hún gefur frá sér einhvern ljóma sem gerir hana að stórskemmtilegum sora. Að öðru leyti eru slagsmálasenurnar merkilega flottar og taka allar Karate Kid-kvikmyndirnar í nefið. Einnig verður að segjast að aðalleikari myndarinnar lítur ískyggilega mikið út eins og ungur Tom Cruise. Gefum henni prik fyrir það.

Commando (1985)

Ef þú ert að leita að hornsteini kjánalegra „eitís“-hasarmynda, þá er Commando hættulega nálægt toppnum. Hún hefur allt sem þarf; kjánalega frasa, yfirdrifinn hasar, hlægileg áhættuatriði og illmenni sem sigrar Freddy Mercury-tvífarakeppnina. Hann „Ahnuld“ Schwarzenegger er í hörkustuði og tekur sig alvarlega með prýði, en það er ekki auðvelt markmið þegar persóna hans gengur undir hinu kostulega nafni John Matrix. Því er það ekkert nema gargandi snilld að horfa á Commando í góðum félagsskap, sérstaklega með þeim sem hafa aldrei séð hana. Það verður hlegið fram á næsta dag. Því get ég lofað.

Blossi – 810551 (1997)

Blossi er algjört barn síns tíma, en hvílíkt barn! Myndin á sér hreinlega engan sinn líka og er nánast svo rugluð og vond að hún fer heilan gæðahring og er nálægt því að vera költ-gimsteinn fyrir vikið. Myndin er pönkuð, stefnulaus, súrrealísk, illa leikin niður í tær og í sjálfu sér algjört frávik í íslenskri kvikmyndagerð hvað byggingu og speki varðar. Stíllinn er hraður, háfleygur og lokaatriðin þarf nánast að sjá til að trúa. Það að myndin skuli ekki enn vera fáanleg í neinu stafrænu formi er glæpi líkast fyrir okkar dægurmenningu. Blossi má alls ekki þurrkast út úr íslenskri kvikmyndasögu, hvort sem við elskum hann, hötum, elskum að hata eða öfugt.

Asískur innbakaður lax með sesam-brokkolí

01. tbl. 2017
|

Einfaldur innbakaður lax með asískum hráefnum, ristuðu sesam-brokkolí og bragðmikilli sósu.


4 bitar lax, um 250 g hver biti
2 cm engiferrót, afhhýdd og sneidd
2 vorlaukar, sneiddir
2 hvítlauksgeirar, skornir í tvennt og marðir
6 msk. sojasósa
4 msk. hunang
4 msk. hrísgrjónaedik
1 rautt chili-aldin, sneitt (má sleppa)

Þerrið laxinn með eldhúspappír. Setjið hann í eldfast mót eða í rennilásapoka ásamt engifer, vorlauk og hvítlauk. Hrærið saman sojasósu, hunang og hrísgrjónaedik og hellið yfir fiskinn og grænmetið. Látið liggja í kryddleginum í a.m.k. 30 mín. Hitið ofn í 160°C. Takið fram 4 stórar arkir af bökunarpappír. Leggið laxabita ofan á hverja örk og setjið smávegis af grænmetinu ofan á hvern laxabita og notið síðan skeið til að hella yfir svolitlum kryddlegi (passið að eiga afgang af kryddleginum og grænmeti til að búa til sósu). Pakkið síðan laxinum inn í bökunarpappírinn með því að bretta pappírinn og loka honum, gott er að nota heftara til að festa umslagið betur. Einnig má nota álpappír utan um fiskinn. Reynið að passa að ekki séu glufur á umslaginu svo að laxinn nái að gufusjóðast í ofninum. Bakið fiskinn inni í miðjum ofni á ofnplötu í 15-20 mín., eða þar til fiskurinn hefur eldast í gegn. Búið til sósu á meðan með því að setja afganginn af kryddleginum í lítinn pott yfir meðalháan hita. Hrærið í pottinum þar til sósan þykknar. Athugið að sósan er bragðmikil og sölt og því þarf ekki mikið af sósu. Sáldrið sneiddu chili-aldini yfir laxinn og berið fram með sesam-brokkólí og hrísgrjónum.

Sesam-brokkólí:
1 haus brokkólí
1 msk. ólífuolía
1 msk. sesamolía
2 tsk. sojasósa
1 msk. sesamfræ

Hitið ofn í 220°C. Takið brokkólíið í sundur og snyrtið og skrælið stilkana. Hrærið saman ólífuolíu, sesamolíu og sojasósu í meðalstórri skál. Veltið brokkólínu upp úr sósunni og dreifið síðan úr því á ofnplötu. Sáldrið sesamfræjum yfir brokkólíið og ristið í miðjum ofni í 10 mínútur. Takið það úr ofninum og snúið bitunum við og setjið aftur inn í ofn og ristið í 5-10 mínútur til viðbótar eða þar til brokkólíið hefur eldast og endarnir eru farnir að ristast.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Folda Guðlaugsdóttir

Ætlaði í hjáveituaðgerð en þarf þess ekki: „Þetta er ekki of seint”

||||||||
||||||||

Laura Micetich var aðeins 22ja ára þegar hún steig á vigtina og sá að hún var að nálgast 140 kíló. Hún glímdi við ýmsa heilsukvilla, svo sem of háan blóðþrýsting og forsykursýki. Hún vissi að hún þyrfti að breyta um lífsstíl til að geta lifað góðu lífi um aldur og ævi.

Laura glímdi við ýmsa kvilla.

„Ég ákvað að taka stjórnina í mínu eigin lífi og breyta til. Eftir að hafa reynt að ná tökum á heilsunni minni margoft, og mistekist, var þetta orðið það alvarlegt að ég íhugaði að fara í magahjáveituaðgerð,” skrifar Laura á vefsíðu sinni. Hún byrjaði hins vegar á því að fara í ræktina og fljótt varð ljóst að hún þyrfti ekki aðgerð.

Hún ætlaði að fara í magahjáveituaðgerð.

„Það sem byrjaði sem pælingar um magahjáveituaðgerð varð að ástríðu fyrir heilsusamlegum lífsstíl, þreki og næringu. Ég byrjaði að fara í ræktina, lyfta lóðum og borðaði hreina fæðu sem var klæðskerasniðin að þörfum líkamans. Það tók mig bara nokkrar vikur að átta mig á að ég þurfti ekki að leggjast undir hnífinn. Ég þurfti að leggjast undir stöngina.”

Stöngin varð besti vinur hennar.

Lagaði mataræðið

Fyrsta árið léttist Laura um 45 kíló og losaði sig við ýmsa óheilbrigða ávana.

Líkamsrækt varð að lífsstíl.

„Ég er nú laus við alla kvilla og lífið mitt hefur breyst til hins betra með því að átta mig á að það sem við viljum og það sem við gerum er eitthvað sem við stjórnum algjörlega,” skrifar Laura, en mataræðið spilaði stórt hlutverk í lífsstílsbreytingu hennar.

„Ég lagaði mataræðið mitt. Ég borðaði mikið af hreinum mat og tók alla sterkju og unninn sykur úr fæðunni. Ég hætti að fara út að borða. Ég hætti að borða skyndibita. Ég hætti að kaupa rusl í búðinni. Ég hætti að drekka áfengi með vinum. Ég hætti að oféta rusl. Þannig er nú það.”

Laura æfir á hverjum degi.

Innblástur á Instagram

Laura er í dag tæp 90 kíló og er afar vinsæl á Instagram, með um 330 þúsund fylgjendur. Á samfélagsmiðlinum deilir hún alls kyns ráðum og skilaboðum sem eru full af innblæstri. Eins og til dæmis þessum:

„Það er ekkert sem heitir tilbúin/n. Það er bara núið,” skrifar Laura við eina mynd á Instagram. Við aðra skrifar hún:

Lengst til vinstri er hún sem þyngst. Í miðjunni er hún grennst, rúm 80 kíló og lengst til vinstri er mynd af Lauru eins og hún er í dag, tæp 90 kíló.

„Þú ert ekki of gamall/gömul. Þetta er ekki of seint.”

Hún segir einnig á Instagram að þessi vegferð hafi verið erfið en algjörlega þess virði. Hún segir í lagi að eiga slæma daga svo lengi sem maður læri að taka sér pásu, en ekki gefa allt upp á bátinn. Hún er fylgjandi því að fólk skapi sína eigin velgengni og lifir eftir mottóinu:

Ekki gefast upp, segir Laura.

„Þú ert sá/sú sem þú velur að vera.”

Hér má sjá vegferð þessarar ungu konu.

FUR-liðar höguðu sér vel meðan á tökum stóð

|
|

Íslenskur ljósmyndanemi myndaði bresku hljómsveitina FUR við gerð nýjasta myndbands sveitarinnar.

Ingimar Þórhallson myndaði bresku sveitina FUR við gerð nýjasta myndbands hennar við lagið What would I do. „Það var gaman að fá tækifæri til að kynnast þeim við þessar kringumstæður,“ segir hann hress. „Þetta eru afskaplega skemmtilegir strákar, kurteisir og hógværir og það auðveldaði vinnuna.“

Verkefnið fékk Ingimar í gegnum tvíburabræður sína Jakob og Jónas Þórhallssyni sem störfuðu með sveitinni síðastliðið haust þegar þeir gerðu myndband við lag hennar, If you know that I‘m lonely. Það var tilnefnt til fjölda verðlauna og átti þátt í því að koma FUR á kortið. Í ljósi ánægju með samstarfið leituðu meðlimirnir aftur til bræðranna með næsta videó og þeir ákváðu að fá Ingimar, sem er á lokaári í ljósmyndanámi við hinn virta háskóla Camberwell College of Arts í London, til að mynda það sem gerðist á bak við tjöldin. Þannig að skyndilega var ljósmyndaneminn staddur í stúdíói í Norður-London fyrir þremur vikum í miðri hitabylgju að mynda eina af heitustu upprennandi rokksveitum Bretlands.

„Þetta eru afskaplega skemmtilegir strákar, kurteisir og hógværir og það auðveldaði vinnuna.“

Ingimar viðurkennir að þetta hafi verið svolítið súrrealísk upplifun. „Ég passaði bara að láta lítið fyrir mér fara og reyndi að ná öllum þessum óvæntu augnablikum sem komu upp í samskiptum sveitarinnar, leikstjórans og fólksins undir hans stjórn,“ rifjar hann upp og segir að tæknilega séð hafi þetta verið örlítið krefjandi verkefni, því hann hafi notast við Leicu M-myndavél og prime-linsur og því sjálfur þurft að stilla allt ljósop, hraða og fókus, auk þess sem hitinn hafi verið hrikalegur. „En sviðsetningin leit vel út frá mínum bæjardyrum séð og þetta gekk allt saman vel að lokum.“

Náttúran og samspil manns og náttúru eru Ingimari hugleikin.

Þetta er ekki fyrsta verkefnið af þessu tagi sem Ingimar hefur fengist við því hann myndaði líka gerð myndbands við Unbroken með Maríu Ólafsdóttur, framlag Íslands til Eurovision-söngvakeppninnar árið 2015. „Það var meðal annars tekið upp í gömlu sementsverksmiðjunni á Akranesi og fjöldi fólks kom að gerð þess til að tryggja að það yrði klárað í tæka tíð fyrir Eurovision,“ segir hann og bætir við að án nokkurs vafa sé gerð þess myndbands stærsta „á bak við tjöldin“-verkefnið sem hann hafi komið að.

Auðheyrilegt er að Ingimar hefur í nógu að snúast. Fyrir utan að vera í fullu námi er hann með nokkur járn í eldinum, meðal annars gerð spilastokks með náttúrumyndum sem hann er að vinna með breskum hönnuði, og ljósmyndabók sem kemur til með að innihalda myndir úr íslenskri náttúru. Þá hefur hann verið í samstarfi við fyrirtækið Sólarfilmu um gerð vara sem eru skreyttar myndum eftir hann og nýverið myndaði hann háhitasvæði á Íslandi, en útkoman, 72 ljósmyndir, prýða veggi nýlegs hótels.

En hvenær kemur myndbandið með FUR út og hvar verður hægt að skoða myndirnar? „Þær eru í höndum leikstjórans sem ræður því hvernig þær verða notaðar,“ svarar hann. „En myndbandið kemur út í júlí, skilst mér, og ég hlakka mikið til að sjá útkomuna því þetta var skemmtilegt verkefni.“

 

Dreymir um að eignast litla eyju í Karíbahafinu og hengirúm fest í tvö pálmatré

Ásdís Ósk Valsdóttir er löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls fasteignasölu. Hún býr með þremur börnum sínum í Lindahverfi, þeim Axel Vali Þórissyni, 22 ára; Viktori Loga Þórissyni, 16 ára og Sigrúnu Tinnu Þórisdóttur, 9 ára.

Hvað heillar þig mest við starfið?

„Það er fjölbreytileikinn, það eru alltaf ný og spennandi verkefni á hverjum degi. Ég er búin að vera fasteignasali í fimmtán ár og get ekki hugsað mér annað starf, að fá að vinna svona náið með fólki og í gegnum starfið hef ég eignast marga af mínum bestu vinum. Þetta er gífurlega lifandi starf og alltaf nýjar áskoranir.“

Getur þú lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?

„Ég vakna klukkan fimm á morgnana, byrja á góðri morgungöngu og fer svo annaðhvort í ræktina eða hlusta á fyrirlestra tengda vinnunni, vek krakkana þegar þeir eru hjá mér og fæ mér góða ommelettu og er mætt í vinnu um klukkan átta.  Það er oft erfitt að skipuleggja daginn en ég miða við að svara póstum og klára pappírsvinnu að morgni og seinni parturinn fer síðan í að sýna eignir, skoða eignir og fylgja eftir málum.  Það er auðvelt að drekkja sér í vinnu og fyrir nokkrum árum tók ég þá ákvörðun að hætta að vinna á kvöldin og um helgar og eiga meiri tíma með krökkunum og njóta lífsins.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili?

„Fólk gerir heimili að heimili.“

Getur þú líst þínum stíl?

„Suðrænn og litríkur. Ég ferðaðist mikið um Suður-Ameríku á mínum yngri árum og bjó eitt ár í Hondúras, það er til dæmis ekki hægt að vera fúll og dansa salsa á sama tíma, mæli með því að prófa það.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt?

„Í raun og veru ekki, ég hef mjög gaman af að skoða mismunandi byggingarstíl, sérstaklega þegar ég er erlendis, held að uppáhaldsbærinn minn hafi verið á Chiloe-eyju rétt fyrir utan Puerto Montt í Chile þar sem öll húsin voru timburhús, mjög litrík og sum pínulítið skökk og sjarmerandi en ég hef líka mjög gaman af því að kíkja í opin hús glæsivillna í Beverly Hills, heimurinn bíður upp á svo mikinn fjölbreytileika og svo erfitt að gera upp á milli.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð?

„Börnin mín, elska þegar þau voru að koma með listaverk úr leikskóla og skóla, sem búið var að pakka inn af mikilli ást og leggja allt í gjöfina og umbúðirnar.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?

„Litla eyju í Karíbahafinu þar sem ég get sett gott hengirúm á milli tveggja pálmatrjáa.“

Uppáhaldsliturinn þinn?

„Sterkir og hressir litir, eins og rautt og fjólublátt, það eru flestir litir til í mínum fataskáp, vantar helst svartan.“

Hvar líður þér best?

„Heima með krökkunum mínum eða á góðri strönd með bók að hlusta á sjávarniðinn.“

Nú er sumarið komið og margir huga að garðinum, er eitthvað sem þig langar að eignast í garðinn?

„Ég væri nú alveg til í góða tjörn í garðinn og tvö pálmatré til að hengja suðurameríska hengirúmið mitt á.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?

„Ég elska Bryggjuna Brugghús; góður matur, skemmtileg þjónusta og djasskvöldin þeirra eru frábær.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar?

„Í raun og veru ekki, ég hef rosalega gaman af fjölbreytileika lífsins, ég ferðast mjög mikið og nýt þess að skoða hvað heimurinn hefur upp á margt fallegt og skemmtilegt að bjóða.“

Að lifa lífinu lifandi er að …

… vera í núinu og njóta.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

 

Saknar þess að leika á íslensku

Leikarinn Sindri Swan landaði bitastæðu hlutverki í breskum vísindatrylli.

„Þetta er vísindaskáldskapur, tryllir sem gerist í framtíðinni og fjallar um öflugar verur sem telja mannkynið ófært um að hugsa um jörðina og vaka af þeirri ástæðu yfir því. Ein þessara vera sér hins vegar það góða í mannfólkinu og trúir að maður nokkur að nafni Daniel, sem ég leik, geti breytt öllu með því að færa valdið aftur í hendur þess,“ segir Sindri, spurður út í myndina.

THEM er að hans sögn sjálfstætt framleidd kvikmynd og önnur kvikmynd spænska leikstjórans Ignacio Maiso í fullri lengd. Án þess að vilja fara nánar út í sögurþráðinn segir hann að handritið sé mjög forvitnilegt og frábrugðið þeim verkefnum sem hann hefur fengist við hingað til vegna þeirra ögrandi heimspekilegu spurninga sem sagan velti upp. Svo hafi hlutverkið sjálft líka verið krefjandi þar sem persóna hans gangi í gegnum mikil umskipti í myndinni. Byrji sem maður sem lifir tiltölulega áhyggjulausi lífi en verði taugahrúga þegar hann uppgötvar að hann hefur örlög jarðarbúa í hendi sér.

„Coogan var mjög hógvær, nánast feiminn en Reilly heilsaði upp á alla og var afar viðkunnanlegur. Þeir voru báðir frábærir.“

„Fram að þessu hef ég kannski verið að taka þátt í hefðbundnari verkefnum, ef svo má að orði komast, þar sem áherslan hefur meira verið á fólk og samskipti,“ lýsir hann og nefnir í því samhengi sjónvarpsefni framleitt af þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF um Díönu prinsessu þar sem hann leikur trúnaðarvin hennar. „Sömu sögu er að segja um myndina Stan & Ollie þar sem ég fer með lítið hlutverk en sú mynd kemur út á næsta ári og skartar John C. Reiley og Steve Coogan í aðalhlutverkum.“

Já! Hvernig var að hitta stjörnur eins og Reiley og Coogan? „Magnað,“ svarar hann. „Coogan var mjög hógvær, nánast feiminn en Reilly heilsaði upp á alla og var afar viðkunnanlegur. Þeir voru báðir frábærir.“

Sindri er búsettur í London og starfar þar bæði sem leikari og ljósmyndari og segir það ganga vel þótt vissulega sé ákveðinn línudans að sinna báðum störfum. „Kosturinn er sá að maður getur stýrt sínum tíma að einhverju leyti og mætt í prufur og tökur. En það er líka ókostur því maður mætir ekki í fasta vinnu og fær borgað um hver mánaðarmót heldur þarf að eltast við verkefni og það getur verið tímafrekt.“

Á heildina litið segist hann þó vera ánægður og hafa nóg að gera. Það sé kannski helst að hann sakni þess að vinna á Íslandi. „Ég væri alveg til í að taka að mér einhver verkefni þar. Ég sakna þess að leika á íslensku.“

En hvenær er von á THEM? „Tja, tökur standa yfir í London eins og er en ef allt gengur vel reikna framleiðendurnir með að klára myndina fyrir 2019,“ segir hann hress, „og gefa út seint sama ár, eða snemma 2020. Það kemur í ljós.“

Mynd / Daníel Starrason

Samskip græðir í Færeyjum

Svo vel gengur í skipaflutningum í Færeyjum að hagnaður Samskipa þar hefur ekki verið meiri í ellefu ár.

Fram kemur í færeyska fréttamiðlinum Dimmalætting að rekstrarhagnaður Samskipa í Færeyjum hafi numið tæpum 37 milljónum danskra króna á síðasta ári og hefur hann aldrei verið meiri.

Hagnaður fyrirtækisins nam 6,5 milljónum króna og hefur annað eins ekki sést síðan árið 2007.

„Mér finnst eins og ég sé að fræða fólk í gegnum typpabrandara“

|
|

„Það sem knýr sýninguna áfram er hve spaugilegt það var hve týndur ég var í þessum nýja heimi sem ég hafði svo kjánalega mikla vanþekkingu á þegar ég var í sambandi,“ segir ástralski grínistinn Jonathan Duffy, vanalega þekktur sem Jono. Jono sýnir uppistandið I Wouldn’t Date Me Either á hátíðinni Reykjavík Fringe Festival í byrjun júlí, en verkið fjallar um þann tíma þegar Jono varð einhleypur eftir tíu ára samband og þurfti að læra að deita upp á nýtt. Á sama tíma varð hann þrítugur og fluttist á milli landa. Hann segir heim stefnumóta hafa breyst mikið á þessum áratug sem hann var í sambandi.

Skyndibitamenning í stefnumótaheimi

„Sambönd virtust ekki endast eins lengi því það var keimur af skyndibitamenningu þegar kom að stefnumótum. Þú finnur einhvern, sérð til hvort það virkar eða færð það sem þú vilt og heldur áfram. Ég held að það sé gott og slæmt. Annars vegar held ég að það veiti fólki kraft til að vera minna meðvirkt og ekki byggja sjálfsmat sitt á hæfni sinni í að vera í sambandi. Á hinn bóginn hef ég tekið eftir tísku þar sem fólk byrjar í sambandi en endar það um leið og nýjabrumið fer af, í staðinn fyrir að vinna í hlutunum og gera sambandið sterkara,“ segir Jono. Svo kom að því að Jono fann ástina, en hann og kærasti hans hafa búið saman í hartnært ár.

Jono sýnir I Wouldn’t Date Me Either á Fringe Festival.

„Við pössuðum saman á Tinder, á tímabili þar sem ég var ekki að leita að neinu,“ segir Jono. „Ég var hreinskilinn við hann um allt frá byrjun og gerði meira að segja grín að því að ég væri með pabbalíkama og hryti þegar ég drykki,“ segir sprellarinn, en það er einmitt hans besta ráð til fólks á stefnumótabuxunum – að koma hreint fram.

„Verið hreinskilin. Ekki bara við fólkið sem þið deitið heldur líka ykkur sjálf. Maður ætti alltaf að spyrja sig af hverju maður vill vera í sambandi. Ég held að á vissum tímabilum græði maður á því að vera einhleypur. Ég lærði mest um sjálfan mig þegar ég var einn á báti. Þegar ég tók allar ákvarðanir einn og var sá eini sem bar ábyrgð á öllu sem fór úrskeiðis í mínu lífi.“

Endaþarmsgælur og Grindr

Jono sýnir I Wouldn’t Date Me Either í Secret Cellar 4. og 8. júlí og í Tjarnarbíói 5. og 7. júlí. Jono hefur verið búsettur á Íslandi um nokkurt skeið og á að baki sýningarnar Australiana og An Evening With Jono Duffy. Hann segir nýju sýninguna frábrugðna þeim þótt gestir megi treysta á að Jono verði alveg jafnhispurslaus og hans er von og vísa.

„Ég tala opinskátt um hluti eins og kynlíf og aðra hluti sem eru tabú. Mér finnst fólk njóta þess því það heyrir hluti sem það vildi alltaf fræðast um en var of hrætt að spyrja,“ segir Jono, sem er samkynhneigður en segir að flestir gestir á sýningum hans sé gagnkynhneigt fólk. „Mér finnst eins og ég sé að fræða fólk í gegnum typpabrandara,“ segir hann og hlær. „En ef þú vilt ekki að barnið þitt viti neitt um endaþarmsgælur og stefnumótaappið Grindr, ekki koma með það.“

Höll minninganna: Leið Heru til Hollywood

||
||

Þær fréttir bárust í vikunni að leikkonan Hera Hilmarsdóttir, eða Hera Hilmar, hafi landað hlutverki í sjónvarpsþáttunum The Romanoffs sem koma úr smiðju höfundar Mad Men. Hera hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn, en hún leikur aðalhlutverkið í ævintýraspennumyndinni Mortal Engines sem frumsýnd verður í desember. Hera hefur verið viðloðandi leiklist frá blautu barnsbeini, og ekki úr vegi að líta á upprunann sem skapaði stjörnuna.

Hera landar hlutverki í þáttum frá höfundi Mad Men

Í leikhópi með mömmu

Hera var virk í leiklist allt frá grunnskólaaldri, en árið 1999 hélt hún ásamt leikhópnum Tröllabörn í Kramhúsinu á alþjóðlega leiklistarhátíð barna í Toulouse í Frakklandi. Þá var Hera aðeins ellefu ára gömul, en átti eflaust hæg heimatökin með að leita sér leiðsagnar í vinnunni þar sem annar stjórnandi leikhópsins var Þórey Sigþórsdóttir, móðir hennar.

Með leiklist í blóðinu

Faðir Heru er leikstjórinn Hilmar Oddsson og því má með sanni segja að hún hafi fengið leiklistargenin í vöggugjöf. Í viðtali við DV árið 2007 sagði Hera að hún hafi alltaf fengið mikinn stuðning frá foreldrum sínum eftir að ljóst var að hún myndi feta leiklistarbrautina.

„Í fyrstu reyndu þau hljóðlega að fá mig frá leiklistarbransanum, en þegar þeim var ljóst að mér var alvara studdu þau mig heilshugar,“ sagði Hera þá og bætti við:

„Ég þurfti sífellt að vera að sanna mig og það má eiginlega segja að mér hafi tekist það. En ég er þeim líka þakklát, vegna þess að þau gerðu mér grein fyrir því að maður getur ekki tekið sér neitt fyrir hendur án þess að gefa sig allan í það.“

„Leggið nafn þessarar leikkonu á minnið“

Það gerði Hera svo sannarlega, en hún var einnig liðtæk á selló á yngri árum en lagði sellóið á hilluna til að einbeita sér að leiklistinni. Það má segja að stóra tækifærið hafi komið í menntaskóla þegar hún tók þátt í leikritinu Martröð á jólanótt í Menntaskólanum í Hamrahlíð. Hera hlaut Tréhausinn fyrir frammistöðu sína, verðlaun sem leikhúsrýnarnir Hrund Ólafsdóttir og Þorgeir Tryggvason veittu áhugaleikhópum. Þorgeir lofaði frammistöðu Heru á vefnum leiklist.is: „Leggið nafn þessarar leikkonu á minnið.“

Leikstjórinn, Guðný Halldórsdóttir, sótti sýninguna, leist vel á Heru og bauð henni hlutverk í kvikmyndinni Veðramót sem tekin var upp árið 2006. Hera heillaði áhorfendur upp úr skónum og var tilnefnd til Edduverðlaunanna fyrir hlutverk sitt sem Dísa. Síðan þá hefur leiðin aðeins legið upp á við og virðist nægur ljómi eftir í þessari íslensku stjörnu.

Sveitasæla sunnan heiða

Hótelið býr yfir 46 þægilegum og snyrtilegum herbergjum, ýmist einstaklings, tveggja eða þriggja manna, fjölskylduherbergi og rúmgóðum svítum.

Fosshótel Hekla er notalegt sveitahótel í aðeins klukkutíma akstursfjarlægð frá Reykjavík.

Sunnan heiða er að finna sveitahótelið Fosshótel Heklu að Brjánsstöðum. Þeir sem sækjast eftir því að komast burt úr skarkala höfuðborgarsvæðisins í fallegt og róandi umhverfi verða ekki sviknir af að dvelja þar. Hótelið stendur miðsvæðis á Skeiðunum þaðan sem útsýni er til allra átta og margar af helstu náttúruperlum Suðurlands eru í grenndinni, svo sem Fimmvörðuháls og Eyjafjallajökull. Þar gefst líka gott tækifæri til útivistar og hreyfingar því stutt er í hálendið, Landmannalaugar, Kjöl og Sprengisand.

Matgæðingar fá svo eitthvað fyrir sinn snúð því hótelið státar af fínasta veitingastað. Á morgnana og í hádeginu er þar boðið upp á vel útilátið hlaðborð en þjónað er til borðs á kvöldin. Áhersla er lögð á að bjóða mat úr gæða hráefni sem kemur að miklu leyti beint frá bændum á Suðurlandi en þetta aðgengi að fersku hráefni skilar sér vel í matseldina, eins og undiritaður getur vottað. Fyrr í sumar gafst honum færi á að smakka matinn og fékk sér þá lambasteik með kartöflum og íslensku grænmeti sem reyndist svona líka einstaklega gott. Við hlið veitingastaðarins er svo hlýleg betri stofa með bar þar sem hægt er að hafa það notalegt að máltíð lokinni og skammt undan heitur pottur sem tilvalið er að skella sér í fyrir eða eftir mat.

Matgæðingar fá svo eitthvað fyrir sinn snúð því hótelið státar af fínasta veitingastað.

Útivist, hreyfing, afslöppun, vinnuferð, skemmtiferð, veislur eða flótti úr borgarstressinu í sveitasæluna. Fosshótel Hekla býður upp á allt þetta og meira til.

Við hlið veitingastaðarins er svo hlýleg betri stofa með bar þar sem hægt er að hafa það notalegt að máltíð lokinni.

Fyrir þá sem eru á höttunum eftir hóteli með góðri fundaraðstöðu, til dæmis undir vinnufundi eða nokkurra daga ráðstefnur, kemur Fosshótel Hekla sterkt inn. Á hótelinu er hlýlegur fundar- og ráðstefnusalur með góðum tækjabúnaði og rúmar allt að 60 manns. Sá fjöldi kemst hæglega fyrir á veitingastaðnum sem tekur 110 manns í sæti en af þeim sökum er staðurinn líka tilvalinn fyrir hvers kyns mannfögnuði; brúðkaup, afmæli, árshátíðir og svo framvegis.

Á hótelinu er hlýlegur fundar- og ráðstefnusalur með góðum tækjabúnaði og rúmar allt að 60 manns.

Útivist, hreyfing, afslöppun, vinnuferð, skemmtiferð, veislur eða flótti úr borgarstressinu í sveitasæluna. Fosshótel Hekla býður upp á allt þetta og meira til, möguleikarnir eru óþrjótandi. Undirritaður var svo sannarlega ekki svikinn af dvölinni og ætlar að skella sér aftur við fyrsta tækifæri, en hægt er að bóka herbergi á vefnum islandshotel.is

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Íslandshótel.

 

Danir vara við heimagerðu slími

Heimagert slím nýtur mikilla vinsælda hjá börnum. Hjúkrunarfræðingur segir kemíska blöndu geta valdið áreiti í húð barna. Foreldrar verði að passa hvað börnin leiki sér með.

Astma- og ofnæmissamtök Danmerkur vara við heimagerðu slími. Slímgerð í heimahúsum nýtur mikilla vinsælda hjá börnum. Til marks um það var slímgerð í þriðja sæti yfir fyrirspurnir á vídeóvefnum YouTube á síðasta ári.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem Danir vara við leikföngum og föndri fyrir börn. Fyrr í þessum mánuði varaði Umhverfisstofnun Danmerkur við kreistileikfanginu Squishy eftir að eiturefni fundust í því. Neytendastofa sendi í kjölfarið út fyrirspurn til leikfangasala og innflytjenda leikfanga og óskaði upplýsinga um hvort leikföngin fáist hér. Reynist svo vera, eigi að taka hana af markaði og farga leikföngunum.

Í umsögn Astma- og ofnæmissamtaka Danmerkur um heimagerða slímið segir að í heimagerðu slími sé lím, raksápa og matarsódi. Húð barna sé viðkvæm fyrir raksápu og lími, það geti valdið ofnæmi hjá þeim og þau fengið útbrot á hendur. Í færeyska Kringivarpinu er haft eftir dönskum fjölmiðlum að foreldrar hafi auga með því hvort börn klæi eftir slímgerð, húð þeirra fái rauðan lit, útbrot eða að jafnvel myndist sár.

Umhverfisstofnun Danmerkur og matvælaeftirlit landsins taka undir áhyggjur Astma- og ofnæmissamtakanna og vara við slímgerð barna. Þau eigi ekki að leika sér með raksápu, matarsóda og lím, hvað þá blanda efnunum saman.

Einfalt er fyrir börn að verða sér úti um efni til að búa til slím. Leiðbeiningar um slímgerð má finna á YouTube og á íslenskum vefsíðum og vefsíðum föndurbúða. Innihaldið í slíminu er í nær öllum tilvikum hið sama og dönsku Astma- og ofnæmissamtökin vara við, það er, lím og matarsódi ásamt öðru. Í sumum uppskriftum er húðkrem sett í uppskriftina í stað raksápu.

„Þetta eru svo nýlegar fréttir að við erum rétt að byrja að kynna okkur þetta,“ segir Tonie Gertin Sørensen hjúkrunarfræðingur sem er starfsmaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands. Hún sá frétt um þetta í dönskum fréttatíma í vikunni. Hún segir engar fyrirspurnir eða ábendingar hafa borist félaginu vegna þessa. Mjög stutt sé síðan umræðan kom upp í Danmörku og þurfi félagið að kynna sér málið frekar. Hún bendir á að það segi sig sjálft að þegar kemískum efnum er blandað saman geti orðið til blanda sem valdi áreiti á húð.

„En sem foreldri myndi ég segja að við verðum að vera á varðbergi gagnvart því sem börnin okkar leika sér með,“ segir Tonie.

Hjólamet gæti fallið

WOW cyclothon

Tugir þúsunda nota reiðhjól á höfuðborgarsvæðinu í hverjum mánuði. Nú í júní fór 25.501 reiðhjól fram hjá hjólamælum Reykjavíkurborgar við Nauthólsvík og má búast við að fjöldinn verði meiri þegar sólin fer að sýna sig.

„Við höfum ekki náð neinu meti ennþá en miðað við veðurfar hér í höfuðborginni þar sem af er má leiða að því líkum að við getum slegið met á þessu ári. Það er að segja ef sumarið kemur,“ segir Kristinn Jón Eysteinsson, skipulagsfræðingur hjá Reykjavíkurborg.

Hann bendir á að hjólreiðar séu mjög háðar veðri og sýni mælar að þegar sólar naut í höfuðborginni á dögunum hafi margir farið út að hjóla og ganga.

Mynd / Ernir Eyjólfsson

Kerfið duglegra að verja sig en borgarana

|||
|||

Þöggun, samtrygging og afskiptaleysi eru nokkur orð sem hafa verið notuð til að lýsa réttarkerfinu þegar kemur að meðferð kynferðisbrota í umfjöllun Mannlífs síðustu vikur. Kveikja umfjöllunarinnar er mál þriggja stúlkna sem sökuðu lögreglumann um kynferðisbrot. Mannlíf náði tali af þremur þingmönnum sem segja ýmsar brotalamir í kerfinu.

„Frásagnirnar eru sláandi. Í umfjölluninni kemur einnig fram misræmi í sjónarmiðum yfirvalda til málsins og hvernig eigi að bregðast við og standa að rannsókn og stöðu þess ásakaða. Það er auðvitað óviðunandi,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, um mál kvennanna þriggja.

„Kynferðislegt ofbeldi, ekki síst gegn börnum og unglingum, er svo alvarlegt að það verður alltaf að bregðast við af festu og öryggi. Öll málsmeðferð verður að vera fumlaus og fallin til þess að vekja traust bæði að efni og formi, hvað þá þegar ásakanir beinast að þeim sem eiga að halda uppi lögum og reglu.“

„Réttarkerfið á Íslandi er til háborinnar skammar“

Vantar upp á skilning fyrir réttindum þolenda

Þórhildur Sunna.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, segist áhyggjufull yfir stöðu þolenda innan réttarvörslukerfisins í ljósi ýmissa mála sem hafa komið upp síðustu misseri. „Það virðist vera að þessi réttindi barna til að njóta alltaf vafans og að allt sé gert til að þeirra hagsmunir séu í forgrunni hafi ekki náð kjölfestu í réttarkerfinu eins og það leggur sig á Íslandi. Þetta sjáum við víðtæk dæmi um hjá lögreglunni, hjá dómstólum og hjá sýslumannsembættum. Það veldur mér miklum áhyggjum að staðan sé ekki betri en raun ber vitni,“ segir Þórhildur Sunna. Hún bætir við að þó að mikil vakning hafi orðið í samfélaginu varðandi kynferðisbrot í kjölfar herferða eins og #metoo sé enn ýmsu ábótavant.

„Það vantar upp á skilning innan kerfisins fyrir réttindum þolenda í kynferðisbrotamálum. Réttindi geranda og/eða sakborninga eru að sjálfsögðu mjög mikilvæg; að þeir fái sanngjarna málsmeðferð og að aðilar séu saklausir uns sekt er sönnuð. En þolendar eiga líka rétt á sanngjarnri málsmeðferð og þeir eiga rétt á vernd gegn ofbeldi. Þeir eiga rétt á því að réttarkerfið sinni þeim af virðingu, kostgæfni og af miklum metnaði.“

Mætti mikilli andstöðu innan réttarkerfisins

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram tillögu um afnám fyrningar í kynferðisbrotum gegn börnum árið 2003 og segist hafa mætt mikilli andstöðu innan réttarkerfisins áður en lagabreytingum var náð fram í þessum efnum fjórum árum síðar.

„Mörgum lögfræðingum fannst þessi tillaga allt of róttæk og þar sem dönsku lögin gerðu ráð fyrir að þessi brot væru fyrnanleg ættu íslensk lög að gera ráð fyrir hinu sama. Mér fannst slík röksemdarfærsla vera út í hött og ég vildi að við tækjum þetta eðlilega skref. Við eigum ekki að vera feimin að taka refsipólitískar ákvarðanir. Með því að hafa þessi brot fyrnanleg högnuðust gerendurnir á lögunum þar sem þolendur leita sér oft ásjár kerfisins mörgum árum eftir að brotin voru framin,“ segir Ágúst, en í kjölfar lagabreytinganna varð Ísland eitt fyrsta land í heiminum sem gerði alvarleg kynferðisbrot gegn börnum ófyrnanleg.

Tveir starfshópar, svipaðar niðurstöður

Ágúst Ólafur.

Fyrir fimm árum var Ágúst Ólafur formaður starfshóps sem skilaði tillögum um meðferð kynferðisbrot innan réttarvörslukerfisins til dómsmálaráðuneytis. Samráðshópur skilaði aftur tillögum sama efnis árið 2016. Tillögurnar virðast vera um margt líkar. Í báðum var til að mynda óskað eftir skýrari stefnu stjórnvalda, innspýtingu í forvarnir og að tryggja sálfræðiaðstoð fyrir brotaþola. Ágúst segir að sitthvað úr tillögum síns starfshóp hafi náð í gegn, annað ekki.

Jón Steindór segir margt gott innan réttarvörslukerfisins en að alltaf megi gera betur.

„Eitt af því sem þarf til dæmis að skoða eru samskipti og upplýsingagjöf til fórnarlamba um gang mála, framvindu rannsóknar og forsendur ákvarðana. Sömuleiðis spurning um hvort ekki þurfi að breyta lögum um aðild fórnarlamba að dómsmálum og rannsóknum þannig að þau verði aðilar máls en ekki vitni eins og nú er,“ segir hann og bætir við að honum finnist stefna stjórnvalda í þessum málaflokki ekki skýr. „En ég held að vilji sé til þess að taka þessi mál fastari tökum og því ber að fagna. Sjálfsagt er að styðja þá viðleitni og veita stjórnvöldum virkt aðhald.“

Ákveðin uppskrift að þöggun

Þórhildur Sunna kannast við þá þöggun sem talað hefur verið um í umfjöllun Mannlífs og segir í raun vera mjög skýra uppskrift að henni.

„Þetta virðist vera tækni og þessi tækni heitir þöggun“

„Almennt í þöggunarmálum virðast vera þrír sérstakir þættir. Númer 1: Að gera lítið úr málinu. Ef við tökum Höfum hátt-málið sem dæmi þá gæti þetta verið þegar það kom fyrst upp á yfirborðið og Bjarni Benediktsson sagði þá dæmdu barnaníðinga sem um ræddi hafa fengið eðlilega málsmeðferð þegar þeir sóttu um uppreist æru. Þá talaði Brynjar Níelsson, þáverandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, um að það væru til verri brot en þetta gegn börnum. Númer 2: Að kenna öðrum um. Í Höfum hátt-byltingunni lét Bjarni Benediktsson fyrst að því liggja að þetta hefði verið á hans ábyrgð. Þegar það fór að verða óþægilegt var Ólöfu Nordal kennt um og svo lögunum. Lögin gerðu þetta. Númer 3: Að skjóta sendiboðann. Í fyrrnefndu

Jón Steindór.

máli lét Brynjar til dæmis hafa eftir sér að fólk vildi einungis fá upplýsingar um hverjir þessir valinkunnu menn sem veittu barnaníðíngunum meðmæli væru svo hægt væri að ganga í skrokk á þeim, og gerði þannig lítið úr málinu. Þolendur voru einnig rægðir á alþjóðavettvangi. Svo getur þessi hringur byrjað aftur upp á nýtt. Það virðist vera að kerfið sé duglegra að verja sig en borgarana í landinu.“

Jón Steindór segir það kýrskýrt að reynt hafi verið að þagga mál niður eða gera minna úr þeim í gegnum tíðina.

„Gegn þessu þarf að berjast með upplýsingum og fræðslu um hve alvarleg þessi brot eru. Ég vil ekki trúa því að þöggun sé kerfisbundin. Hitt verður að vera alveg skýrt að þöggun er glæpur. Samtímis verður að búa svo um hnúta að fórnarlömb geti treyst því að á þau sé hlustað, mál rannsökuð af hlutlægni og til hlítar,“ segir hann og því er Ágúst Ólafur sammála.

„Þöggun vegna þessara mála má aldrei eiga sér stað í íslensku réttarkerfi eða í samfélaginu í heild sinni. Sem betur fer erum við farin að ræða þessi mál mun opinskár en áður þótt dæmi um þöggun séu einnig til staðar. Kynferðisafbrot eru ein alvarlegustu afbrot samfélagsins og við eigum einfaldlega að stefna á að útrýma þeim. Annað á ekki að vera í boði.“

Raddir