Sunnudagur 26. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Gekk fram af Kínverjum

Sólveig Guðmundsdóttir leikkona rifjar upp eftirminnileg hlutverk á ferlinum.

Sólveig Guðmundsdóttir leikkona segir að öll þau hlutverk sem hún hefur tekið að sér eða fengið tækifæri til að skapa hafi stækkað hana sem leikkonu. Eftirminnilegasta hlutverkið hljóti þó að vera Sóley Rós ræstitæknir í samnefndum tvíleik sem hún og María Reyndal settu upp í Tjarnarbíói en þar lék hún á móti Sveini Ólafi Gunnarssyni. „Við María skrifuðum verkið og framleiddum það og þar sem það byggir á sögu konu sem býr og starfar á Akureyri og fjallar um barnsmissi, atburð sem bæði er erfitt að tala um og sviðsetja, þá var líka mikil ábyrgð á okkur að skila verkinu vel af okkur,“ lýsir hún og bætir við að það sé ekki oft sem leikarar fái svona hlutverk upp í hendurnar. Því hafi allir sem að verkinu komu vandað sig og hlúð að þessari fallegu og viðkvæmu sögu. „Það var ótrúlegt að fara með áhorfendum í gegnum hlátur og grátur í svona náinni frásögn. Mikill skóli. Mér fannst ég stækka bæði sem leikkona og manneskja við að vinna verkið. Þetta var líklega svona lykilhlutverk fyrir mig.“

Önnur sýning sem Sólveigu þykir óhemju vænt um er sýningin Lífið – stórkostlegt drullumall sem Leikhúsið 10 fingur setti upp. „Við Helga Arnalds, Charlotte Böving og Sveinn Ólafur bjuggum þá sýningu til frá grunni. Verkið segir stóra sögu fyrir börn og fullorðna en alveg án orða og efniviðurinn eða leikmyndin er mold þannig að við sköpum heilan heim úr mold á sviðinu,“ segir hún og játar að þetta hafi ekki verið auðvelt verk; að búa til sýningu úr engu, án allra orða og aðeins með mold til að leika með. Orkan sem listrænir stjórnendur settu í verkið hafi hins vegar skilað sér á fallegan hátt í það og til áhorfenda víðs vegar um heim og gaman að sjá hvernig mismunandi menningarheimar upplifðu söguna. „Í Kína þar sem við sýndum verkið síðasta sumar þóttum við til dæmis fara yfir strikið með því að setja moldina upp í okkur og slást og bítast um yfirráðasvæðið, um moldina, á meðan Möltubúar tengdu við heilagleikann og möguleg trúartákn í sýningunni. En eitt af því skemmtilega við verkið, sem stendur til að sýna í Þýskalandi, Kaíró og í Hollandi á næsta ári, er að það talar til allra aldurhópa og er mjög opið til túlkunar. Þetta er því hlutverk sem gaman er að heimsækja aftur og aftur.“

Af öðrum hlutverkum nefnir Sólveig Agnesi í ILLSKU, sem Óskabörn ógæfunnar settu upp og Vignir Rafn Valþórsson leikstýrði og Jórunni í íslenska barnaleikritinu Horn á höfði sem GRAL setti upp í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar. „Svo er ég mjög þakklát fólkinu sem ég hef unnið með á ferlinum, meðal annars leikstjórunum sem hafa boðið mér vinnu því það er mikilvægt að vera treyst fyrir hlutverki til að æfa sig og verða betri í handverkinu,“ segir hún glöð.

Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Þetta er sagan hans

Benjamín Nökkvi Björnsson greindist með hvítblæði níu vikna gamall. Hann sigraðist tvisvar á veikindum sínum og er sá einstaklingur sem hefur lifað lengst með meinið.

Tæpum tólf árum síðar laut hann í lægra haldi eftir að hafa þjást af sjaldgæfum lungnasjúkdómi. Móðir hans, Eygló Guðmundsdóttir segir Benjamín notið hafa góðra lífskjara enda lifði hann í algjörri núvitund. Hún varði nýverið doktorsritgerð sína sem fjallar um sálfélagsleg áhrif foreldra krabbameinsgreindra barna, samhliða því að skrifa bók um sögu þeirra mæðgina.

Sama dag og Benjamín dó átti hann innihaldsríkt samtal við móður sína. „Hann sagðist ekki eiga mikið eftir inni og spurði hvort ég yrði leið að heyra hann segja þetta. Ég játti því auðvitað en bætti við að hann mætti tala um allt við mig. Við héldumst svo í hendur og grétum.
Ég hafði séð hann draga sig sífellt meira inn í skel og á þessum tíma var hann alfarið hættur að mæta í skólann. Síðasta árið vildi hann lítið umgangast önnur börn og upplifði sig sífellt meira sem líkamlega vanmáttugan. Ég hélt á honum milli staða til að spara orkuna hans en þegar vinir hans voru fyrir utan í fótbolta og hann með súrefniskútinn hélt hann fast í virðingu sína og bað um að fá að ganga. Svo heilsaði hann en hélt aftur inn.”

„Hann fór rosalega langt á þrjóskunni og síðustu vikuna lifði hann á viljanum. Hann hafði ákveðið að halda Fífa-mót og fleira en þegar því lokið dó hann á einum degi.”

Bókin, sem bráðum kemur út byrjaði sem bloggfærsla en Eygló vantaði hvíld frá símaeyranu. „Sem móðir langveiks barns verður maður fljótt þreyttur í símaeyranu en samt þakklátur þeim sem vildu fylgjast með. Ég hætti að blogga en fann friðþægingu í skrifunum. Þau urðu óvart að bókarhandriti en tilgangur þess að birta skrifin er fræðsla, á hversdagsmáli. Hver sem er á að geta lesið og sett sína sýn í textann en á sama tíma upplýsa þá sem standa hinum megin við línuna.”

„Það segir til að mynda ekki sannleikann þegar foreldrar veikra barna svara að þau hafi það fínt. Þau vita að þau hafa fimmtán mínútur og verja þeim tíma skiljanlega frekar í að læknirinn fari yfir stöðu veika barnsins en sinnar eigin.”

„En þetta er saga okkar Benjamíns. Þrátt fyrir að við hefðum mætt allskonar viðmóti er þetta síður en svo einhver predikunarbók. Þeir sem þekkja vita að maður verður ofboðslega einn í svona ferli. Eitt af því sem ég á erfiðast með að heyra sem sálfræðingur er að það sem brjóti mann ekki styrki því í svona tilfellum er maður neyddur út í aðstæður. Ef ég mætti velja væri ég ekki pínd til að standa á brúninni til að njóta lífsins. Á sama tíma veit ég að fólk meinar vel og eflaust myndi Benjamín skamma mig fyrir að vera dónaleg því hann vildi bara vera blíður. Þetta er bókin hans og á sama tíma viðbrögð mín í geggjuðum aðstæðum.”

Viðtalið má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Förðun / Björg Alfreðsdóttir.

Hera landar hlutverki í þáttum frá höfundi Mad Men

Íslenska leikkonan Hera Hilmarsdóttir, nú þekkt undir nafninu Hera Hilmar, er búin að landa hlutverki í sjónvarpsþáttunum The Romanoffs sem frumsýndir verða á Amazon Prime í ár. Vefsíðan Deadline segir frá þessu.

The Romanoffs kemur úr smiðju Matthew Weiner, höfundar þáttanna Mad Men sem nutu gríðarlegra vinsælda og sópuðu til sín verðlauna. Hera leikur konuna Ondine, samkvæmt frétt Deadline, í þætti sem heitir The One That Holds Everything. Er Ondine lýst sem glæsilegri veru sem er fær um voðaverk.

The Romanoffs eru byggðir upp á mismunandi sögum af fólki sem telur sig vera afkomendur rússnesku konungsfjölskyldunnar. Meðal annarra leikara í seríunni eru Diane Lane, Aaron Eckhart, Isabelle Huppert, Marthe Keller, Christina Hendricks, John Slattery, Jack Huston og Amanda Peet.

Það er því nóg að gera hjá Heru og rís fræðgarsól hennar hátt, en hún er í aðalhlutverki í kvikmyndinni Mortal Engines sem frumsýnd verður í desember. Myndinni er beðið með mikillar eftirvæntingu en hún er byggð á bókaröð eftir Philip Reeve.

Sjónvarpspör sem hefðu hætt saman í raunveruleikanum

||||
||||

Það eru ófá pörin sem hafa fellt hugi saman á sjónvarpsskjánum. Hins vegar eru samböndin oft það stormasöm að það er furða að pörin hangi saman, og oft vantar uppá samskiptahæfileika þeirra.

Þetta er meðal þess sem nokkrir hjónabandsráðgjafar segja í nýrri grein á Huffington Post, þar sem farið er yfir þau sjónvarpspör sem hefðu ekki endað saman í raunveruleikanum.

Ross og Rachel í Friends

Þetta var sannarlega haltu mér-slepptu mér samband sem endaði með því að Ross og Rachel byrjuðu enn á ný saman í síðustu þáttaröðinni, eftir að hafa eignast barn saman. Danielle Forshee, félagsráðgjafi frá New Jersey, segir að þau hefðu eflaust dottið aftur í sitt gamla sambandsmynstur í framtíðinni.

„Sambandið var búið til á grunni sem var skemmdur eftir áralanga og vafasama hegðun. Þau voru bæði trúlofuð öðrum, þau áttu í samskiptaerfiðleikum með að tjá sig nákvæmlega um hvernig þeim leið með hvert annað og síðan giftu þau sig skyndilega í Las Vegas þegar þau voru blindfull,“ segir hún. Danielle Kepler, sambandsráðgjafi frá Chicago, er sammála því að samskipti Ross og Rachel hafi verið afleit.

„Þau gerðu það sem flestir gera þegar þeir eiga erfitt: spyrja vini sína ráða eða kvarta í staðinn fyrir að tala við hvort annað.“

Carrie og Mr. Big úr Sex and the City

Það eru ekki allir sammála um hvort það hafi verið gott og rétt að Carrie hafi loksins endað með Mr. Big, enda var hann búinn að halda henni heitri í fjölmörg ár. Carly Haeck, sambandsráðgjafi í Seattle, segir að þeirra leið til að glíma við tilfinningar myndi eflaust slíta þeim í sundur í framtíðinni.

Hún segir að manneskjur eins og Big, sem á erfitt með að binda sig annarri manneskju, kunni að þrá ást en eigi erfitt með nánd. Þá segir hún að Carrie þurfi sífellda staðfestingu á sambandi þeirra.

„Í gegnum þeirra samband hefur Big fjarlægt sig frá Carrie, kannski til að bjarga sér frá því að vera berskjaldaður eftir að hafa verið særður í hjónabandi sínu,“ segir Carly og heldur áfram.

„Því meira sem hann dregur sig í hlé, því óöruggari verður Carrie í sambandinu, sem veldur því að hún er bæði mjög óþreyjufull í leit sinni að sambandi og gengur meira á eftir honum og fjarlægir sig stundum frá honum til að hann særi hana ekki.“

Carly segir að þessi hegðun fari í hringi og gæti orðið til þess að Big yrði enn fjarlægari, sem myndi þýða endalok sambandsins.

„Þau þyrftu að átta sig á þessari hringrás og hvað veldur henni til að láta sambandið ganga og tala saman til að finnast þau örugg í sambandinu.“

Chuck og Wendy Rhoades í Billions

Linda Schlapfer, hjónabands- og fjölskylduráðgjafi í Connecticut, segir að ágreiningur á milli þessara tveggja myndi strax koma í ljós þar sem Chuck er lögfræðingur að rannsaka Axe Capital þar sem Wendy vinnur sem geðlæknir.

„Það er ómögulegt að halda með erkióvinum þegar annar er yfirmaður þinn og hinn eiginmaður þinn,“ segir Linda. Hún bætir við að bæði Chuck og Wendy hafi stigið yfir óafsakanlegar línur í hjónabandinu.

„Hann braust inn í tölvuna hennar og það er alveg bannað. Og hún fær svakalegar gjafir frá Axe og eyðir miklum tíma með yfirmanni sínum eftir vinnu. Það myndi láta hvaða eiginmanni sem er líða óþægilega.“

Tony og Carmela Soprano í The Sopranos

Carmela var rödd skynseminnar í mafíuþáttunum og þó hún hafi skilið við mafíósann í seríu fjögur náðu þau aftur saman. Danielle Forshee á erfitt með að trúa að þetta hjónaband hefði gengið í raunveruleikanum, þar sem Tony var ekki bara glæpamaður heldur steig oft yfir línuna.

„Ef eiginmaður sýnir mynstur þar sem hann heldur framhjá eða leitar utan sambandsins að tilfinningalegri, andlegri eða líkamlegri fróun þá er ólíklegt að kona í raunveruleikanum myndi heðga sér eins og Carmela gerir. Hún setur þarfir Tonys í fyrsta sæti, heldur heimilinu óaðfinnanlegu og eldar uppáhaldsmáltíðirnar hans. Það er bara óraunverulegt.“

„Það yrði allt kolvitlaust ef það væri hálfnakin kona á kökunni“

|
|

Útvarpsstöðin K100 birtir mynd á Facebook-síðu sinni af súkkulaðiköku með mynd af knattspyrnukappanum Rúrik Gíslasyni. Á myndinni er Rúrik ber að ofan en við myndina hafa forsvarsmenn K100 skrifað:

„Nú getur þú nartað í Rúrik.“

Rúrik hefur notið gríðarlegra vinsælda á Instagram eftir að heimsmeistaramót karla í knattspyrnu hófst, en þessi brandari K100 fer misvel í fólk.

Sjá einnig: Tímaritið People kallar Rúrik augnakonfekt.

„Ef þetta væri Kona ….hvað væri sagt þá ? Hann er stórglæsilegur , en mér finnst þetta orðið áreitni á drenginn. Er #metoo búið ?“ skrifar einn notandi og ýmsir aðrir taka í sama streng.

„Í alvöru talað? Hann er manneskja, ekki æti. Hlutgerving á fólki er löngu orðin úrelt,“ skrifar einn notandi við myndina og annar bætir við:

„Bara sorry …. En af hverju er þetta í lagi, en það yrði allt kolvitlaust ef það væri hálfnakin kona á kökunni.. Kallast þetta ekki bara áreitni?? svona miðað við fréttir og annað af kynferðislegri eða kynbundinni áreitni á konur, þá gildir það sama um karlmenn! sorry.. er farin í sólbað…“

Sjá einnig: BBC segir Rúrik blöndu af Brad Pitt, Channing Tatum og Chris Hemsworth.

Einhverjum sem skrifa athugasemdir við mynd K100 finnst hins vegar ekkert athugavert við myndina. Einn notandi vonar hins vegar að útvarpsstöðin hafi fengið leyfi fyrir myndanotkuninni:

„Hvað er að ykkur , þið eruð öll á hunk of meat einsvo restinn , flottur drengur myndi ekki leggja mér hann til munns en mun kvetja hann áfram af öllum salarkröftum á eftir vonandi feingu þið leyfi fyrir þessari skreytingu.“ Annar notandi sér eftir því að hafa ekki pantað slíka köku fyrir stórleikinn gegn Króatíu á eftir.

„Ó my, ég hefði átt að bjóða upp á svona í tilefni dagsins.“

Hér fyrir neðan má sjá myndina umdeildu sem hefur, þegar þetta er skrifað, verið deilt rúmlega þrjátíu sinnum:

Gagnrýni á rannsókn lögreglu vísað frá: „Mikil vonbrigði”

Nefnd um eftirlit með lögreglu tók mál Halldóru Baldursdóttur fyrir á mánudaginn, 25. júní, en Halldóra sendi nefndinni erindi þar sem hún gagnrýndi rannsókn á máli dóttur sinnar, Helgu Elínar. Mannlíf hefur fjallað ítarlega um mál Halldóru og Helgu Elínar, en Helga Elín kærði lögreglumann fyrir kynferðisbrot þegar hún var barn. Móðir hennar gagnrýndi rannsókn málsins harðlega í viðtali við Mannlíf.

Þegar að Helga steig fram og sagði frá meintu broti höfðu tvær aðrar stúlkur kært lögreglumanninn fyrir kynferðisbrot; fyrrnefnd stjúpdóttir hans, Kiana Sif Limehouse, og Lovísa Sól. Halldóra hefur mikið út á rannsókn málsins að setja og í vetur skrifaði hún bréf til nefndar um eftirlit með lögreglu þar sem hún óskaði eftir því að málsmeðferðin yrði skoðuð og gripið til viðeigandi ráðstafana. Gagnrýndi hún meðal annars að málin hefðu ekki verið rannsökuð saman, að lögreglumanninum hefði ekki verið vikið úr starfi á meðan á rannsókn stóð og að ummæli sakborningsins hefði ekki verið borin undir Helgu Elínu.

Erindi um óvandaða lögreglurannsókn vísað frá

Í niðurstöðum nefndarinnar, sem bárust Halldóru og fjölskyldu hennar á mánudag eins og áður segir, er erindi hennar sem snýr beint að óvandaðri lögreglurannsókn vísað frá. Halldóra gerði einnig athugasemdir við að lögreglumaðurinn hafi haft útkallsskyldu í hverfi fjölskyldunnar og að þar með hafi Helga verið sett í óásættanlega stöðu. Nefndin telur þá ábendingu mikilvæga, eins og kemur fram í niðurstöðum hennar, og hefur ákveðið að taka til athugunar verklag og verkferla er varða ákvarðanir innan lögreglunnar um störf og starfsskyldur þeirra starfsmanna lögreglunnar sem sakaðir eru um refsiverð brot. Hins vegar hafa slíkar ábendingar þegar komið fram til dómsmálaráðuneytis, til að mynda árið 2016 þegar samráðshópur sendi tillögur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins til ráðuneytisins. Þar stendur orðrétt:

„Útbúa þarf samræmdar leiðbeiningar sem lýsa verklagi hjá lögreglu, þar með talið á fyrstu stigum máls og við framhaldsrannsókn. Meðal annars verði tekið mið af leiðbeiningum um rannsókn nauðgunarmála sem fram koma í skýrslu starfshóps ríkissaksóknara um meðferð nauðgunarmála hjá lögreglu og ákæruvaldi (2007). Þannig verði hægt að tryggja betur gæði rannsóknar frá því rannsókn hefst uns henni lýkur. Með gátlistum og verkferlum verði meðal annars leitast við að tryggja að skýrslutökur uppfylli gerðar kröfur. T.d að bera skuli framburð sakbornings undir brotaþola að jafnaði. Þannig skipti ekki höfuðmáli hvaða lögreglumaður taki fyrstu skýrslu eða komi að rannsókn máls í upphafi. Með samræmdum gátlista verði leitast við að girða fyrir mistök við rannsókn og tryggja öflun sönnunargagna. Að auki þarf að samræma verkferla á milli lögregluembætta, meðal annars til að tryggja samræmi í öflun og greiningu beinna og óbeinna sönnunargagna, t.d. tölvu- og símagagna.“

Mikil vonbrigði

Niðurstaða nefndarinnar er fjölskyldunni mikil vonbrigði.

„Það voru okkur, fjölskyldu Helgu Elínar, mikil vonbrigði að lesa ákvörðun nefndarinnar um að vísa frá þeim hluta erindis okkar sem snýr beint að óvandaðri rannsókn lögreglu. Veigamiklum athugasemdum um að rannsóknarheimildir lögreglu hafi ekki verið nýttar, tilteknar kærur hafi ekki verið rannsakaðar saman og að ummæli sakbornings hafi ekki verið borin undir brotaþola er vísað frá á grunni þess að athugasemdirnar lúti að rannsókn máls og það sé ekki hlutverk nefndarinnar að endurskoða rannsókn mála hjá lögreglu. Þeim lið kvörtunar minnar er lýtur að grundvelli niðurfellingar málsins (ósannreynt tímavinnuskjal, framburður minnislausra vitna o.fl.) hjá ríkissaksóknara er vísað frá á grunni þess að nefndin hafi heldur ekki það hlutverk að endurskoða ákvörðun handhafa ákæruvalds um hvort ákæra er gefin út í einstaka málum,“ stendur meðal annars í yfirlýsingu sem fjölskyldan sendi Mannlífi fyrir stundu.

Skora á dómsmálaráðherra

Í yfirlýsingunni skorar fjölskyldan einnig á dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, að beita sér fyrir því að lögum sé fylgt þegar kemur að málum þar sem embættismaður er sakfelldur um brot í starfi eða kærður fyrir alvarleg brot, líkt og kynferðisbrot.

„Við fjölskylda Helgu Elínar, viljum skora á dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, sem er yfirmaður lögreglumála í landinu, að beita sér fyrir því að innan lögreglunnar starfi eingöngu þeir sem uppfylli skilyrði lögreglulaga nr. 90/1996 en í lið 28a. gr. laganna um hæfi segir að: „Engan má skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta“.

Við teljum að viðkomandi lögreglumaður sem varð uppvís að því að segja ósatt í dómsmáli gegn honum árið 2005 og hafi eftir það verið kærður í þrígang fyrir kynferðisbrot gegn börnum geti ekki uppfyllt þessi skilyrði lögreglulaganna. Lögreglumaðurinn nýtur einfaldlega ekki traust og virðingar í samfélaginu.“

„Við krefjumst breytinga“

Nefnd um eftirlit með lögreglu fer ekki með ákæruvald, en fjölskylda Helgu skorar á Sigríði Á. Andersen að bæta úr því.

„Ef nefndina skortir lagaheimildir til að geta beitt sér af fullri í hörku málum er varða öryggi almennings gagnvart lögreglu og eftirliti með lögreglu, þá skorum við á dómsmálaráðherra að bæta úr því,“ stendur í yfirlýsingunni. Jafnframt krefst fjölskyldan breytinga er varðar meðferð kynferðisbrotamála innan réttarkerfisins.

„Við viljum að tími afskiptaleysis, áhugaleysis, samtryggingar og þöggunar í meðferð kynferðisbrotamála sé liðinn. Við krefjumst viðurkenningar á þeim mistökum sem gerð voru við rannsókn kynferðisbrotamálanna sem viðkomandi lögreglumaður var kærður fyrir. Við krefjumst breytinga.“

Tók fjóran og hálfan mánuð að fá niðurstöðu

Í reglum um Nefnd um eftirlit með lögreglu kemur fram að nefndin skuli hraða meðferð máls eftir því sem kostur er og að jafnaði ljúka meðferð þess innan mánaðar frá móttöku tilkynningar. Samkvæmt skriflegum svörum frá Drífu Kristínu Sigurðardóttur, lögfræðingi hjá nefndinni, til Mannlífs hafa á árinu 2018 að meðaltali liðið 67 dagar frá því að nefndin hefur tekið á móti erindi og þar til hún hefur lagt mat á það og komið því til meðferðar réttum stað.

Halldóra Baldursdóttir, móðir Helgu Elínar, sendi erindi til nefndarinnar þann 14. febrúar síðastliðinn. Málsnúmer barst henni þann 6. apríl. Halldóra fékk niðurstöðu nefndarinnar í gær, mánudaginn 25. júní. Það liðu því fjórir og hálfur mánuður síðan hún sendi erindið. Aðspurð um þann langa tíma sem Halldóra og dóttir hennar hafa þurft að bíða eftir afgreiðslu segir Drífa ekki geta tjáð sig við fjölmiðla um einstaka mál.

Lesa má niðurstöðu nefndarinnar með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan:

NEL 18020004_ákvörðun 31.2018, dags. 25.6.2018

Yfirlýsingu Halldóru Baldursdóttur og fjölskyldu hennar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Mosfellsbæ 26.06.2018
Yfirlýsing vegna ákvörðunar NEL og áskorun til dómsmálaráðherra

Í gær barst okkur ákvörðun NEL, nefndar um eftirlit með lögreglu vegna kvörtunar okkar frá 14. febrúar 2018. Í erindinu var óskað eftir að nefndin tæki til skoðunar málsmeðferð kynferðisbrotakæru á hendur starfandi lögreglumanni og farið fram á úrbætur.

Það voru okkur, fjölskyldu Helgu Elínar, mikil vonbrigði að lesa ákvörðun nefndarinnar um að vísa frá þeim hluta erindis okkar sem snýr beint að óvandaðri rannsókn lögreglu. Veigamiklum athugasemdum um að rannsóknarheimildir lögreglu hafi ekki verið nýttar, tilteknar kærur hafi ekki verið rannsakaðar saman og að ummæli sakbornings hafi ekki verið borin undir brotaþola er vísað frá á grunni þess að athugasemdirnar lúti að rannsókn máls og það sé ekki hlutverk nefndarinnar að endurskoða rannsókn mála hjá lögreglu. Þeim lið kvörtunar minnar er lýtur að grundvelli niðurfellingar málsins (ósannreynt tímavinnuskjal, framburður minnislausra vitna o.fl.) hjá ríkissaksóknara er vísað frá á grunni þess að nefndin hafi heldur ekki það hlutverk að endurskoða ákvörðun handhafa ákæruvalds um hvort ákæra er gefin út í einstaka málum.

Nefnd um eftirlit með lögreglu tekur heldur ekki afstöðu til athugasemda um að sakborningur hafi farið með á rannsóknarvettvang, þar sem brotið átti sér stað og að vitnaskýrslur hafi verið teknar á vinnustað vinar sakbornings. Þessum athugasemdum vísar nefndin til Lögreglustjórans á Vesturlandi til meðferðar. Vísað er til þess að viðkomandi kvörtun á starfsaðferðum lögreglu heyri undir viðkomandi lögreglustjóra en ekki nefndina. Fram sé komin fullnægjandi kvörtun í skilningi lögreglulaga sem lögreglustjóra ber að taka afstöðu til í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í þessu samhengi er vert að benda á að lögreglumaðurinn sem um ræðir starfar í dag undir yfirstjórn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Í erindinu gerðum við m.a. athugasemdir við það að lögreglumaðurinn sem við kærðum hafi ekki verið leystur undan vinnuskyldu á meðan rannsókn málsins fór fram og hafi haft útkallsskyldu í okkar hverfi og þar með hafi Helga Elín, sem þá var barn að aldri verið sett í þá stöðu að geta ekki með nokkru móti kallað eftir aðstoð lögreglu ef á þyrfti að halda. Nefndin telur þessa ábendingu mikilvæga, og hefur ákveðið að taka til athugunar verklag og verkferla er varða ákvarðanir innan lögreglunnar um störf og starfsskyldur þeirra starfsmanna lögreglunnar sem sakaðir eru um refsiverð afbrot. Jafnframt hefur nefndin ákveðið að samhliða verði kallað eftir nánari upplýsingum og gögnum um ákvarðanir að þessu leyti sem teknar voru við meðferð þessa máls. Það er okkar mat að þessi staða megi aldrei koma upp aftur, að barn verði aldrei sett í þessa óviðunandi stöðu sem Helga Elín var sett í.

Við fjölskylda Helgu Elínar, viljum skora á dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, sem er yfirmaður lögreglumála í landinu, að beita sér fyrir því að innan lögreglunnar starfi eingöngu þeir sem uppfylli skilyrði lögreglulaga nr. 90/1996 en í lið 28a. gr. laganna um hæfi segir að: „Engan má skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta„.

Við teljum að viðkomandi lögreglumaður sem varð uppvís að því að segja ósatt í dómsmáli gegn honum árið 2005 og hafi eftir það verið kærður í þrígang fyrir kynferðisbrot gegn börnum geti ekki uppfyllt þessi skilyrði lögreglulaganna. Lögreglumaðurinn nýtur einfaldlega ekki traust og virðingar í samfélaginu.

Einnig krefjumst við afstöðu dómsmálaráðherra sem yfirvalds lögreglumála til þeirra athugasemda sem fram hafa komið um óvandaða rannsókn lögreglu sem nefnd um eftirlit með lögreglu vísar frá en vísar ekki til úrlausnar.
Við væntum þess að dómsmálaráðherra beiti sér fyrir því samhliða nefnd um eftirlit með lögreglu að lögreglustjórar þeirra embætta sem málið varðar sannarlega í þessu tilviki, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórinn á Vesturlandi ræki þá skyldu sína að taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að leysa viðkomandi starfsmann lögreglu frá embætti eða hvort gera þurfi breytingu á vinnuskyldum eða verkefnum viðkomandi starfsmanns lögreglu í samræmi við upp komin kynferðisbrotamál þar sem sakborningur er starfsmaður lögreglu. Við treystum því einnig að hið sama gildi í öðrum málum eftir atvikum þar sem grunur vaknar um refsiverð afbrot þar sem sakborningur er starfsmaður lögreglu.

Ef nefndina skortir lagaheimildir til að geta beitt sér af fullri í hörku málum er varða öryggi almennings gagnvart lögreglu og eftirliti með lögreglu, þá skorum við á dómsmálaráðherra að bæta úr því.

Við viljum að tími afskiptaleysis, áhugaleysis, samtryggingar og þöggunar í meðferð kynferðisbrotamála sé liðinn. Við krefjumst viðurkenningar á þeim mistökum sem gerð voru við rannsókn kynferðisbrotamálanna sem viðkomandi lögreglumaður var kærður fyrir. Við krefjumst breytinga.

Halldóra Baldursdóttir

Nafngreina lögreglumanninn í máli kvennanna þriggja

Konurnar þrjá sem hafa sakað lögreglumann um kynferðisbrot, þær Helga Elín, Kiana Sif og Lovísa Sól, stíga fram í DV í dag og fjallað er um mál þeirra, sem Mannlíf hefur fjallað ítarlega um síðustu vikur.

Í DV í dag er lögreglumaðurinn sem stúlkurnar sökuðu um kynferðisbrot nafngreindur.

„Kiana Sif og Helga Elín hafa stigið fram á forsíðu Mannlífs, hvor í sínu lagi með viku millibili, og lýst meintum kynferðisbrotum fyrrverandi stjúpföður Kiönu Sifjar, Aðalbergs Sveinssonar, lögreglumanns hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í forsíðufrétt DV um málið.

Í blaðinu er farið ítarlega yfir málið, en eins og Mannlíf hefur sagt frá bauð Kiana Sif Helgu Elínu í sumarbústaðaferð árið 2007, sem þá voru tíu ára gamlar. Í viðtali við Mannlíf sagði móðir Helgu Elínar, Halldóra Baldursdóttir, að hegðun dóttur sinnar hefði breyst í kjölfar ferðarinnar. Það var svo nokkrum árum síðar að Helga Elín sagði frá og sakaði stjúpföður Kiönu Sifjar um kynferðisbrot. Brotið var kært en málið látið niður falla.

Nokkrum árum áður, árið 2009, hafði Kiana Sif sakað stjúpföður sinn um kynferðisbrot og þriðja stúlkan, Lovísa Sól, sem var með þeim tveimur fyrrnefndu í bekk, kærði stjúpföður Kiönu Sifjar árið 2013.

Eins og hefur komið fram í Mannlífi voru vinur lögreglumannsins, sem er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera, og eiginkona hans með í umræddu sumarbústaðarferðinni. Að sögn Halldóru Baldursdóttur, móður Helgu Elínar, tók skýrslutaka yfir vinahjónunum aðeins örfáar mínútur og fór fram á skrifstofu embættismannsins. Þau hjónin og eiginkona sakbornings báru fyrir sig minnisleysi vegna áfengisdrykkju og niðurfelling málsins var meðal annars byggð á þeirra vitnisburði. Við rannsókn málsins kom fram að klámefni hafði verið haft fyrir börnunum í umræddri sumarbústaðaferð. Umrædd vinahjón voru aldrei spurð út í klámmyndaáhorfið og tölva sakbornings var ekki skoðuð. Þegar lögregla skoðaði sumarbústaðinn fór hinn meinti kynferðisafbrotamaður með á vettvang.

Vinur lögreglumannsins, háttsetti embættismaðurinn, er einnig nafngreindur í umfjöllun DV:

„Helga Elín, sem þá var 10 ára gömul, fékk að slást í för með Kiönu vinkonu sinni, Jóhönnu móður hennar og stjúpföðurnum Aðalbergi. Með í för var annað par ásamt dætrum sínum, Páll Winkel fangelsismálastjóri og fyrrverandi kona hans,“ segir í forsíðufrétt DV.

„Kvöldið áður en ég sagði frá misnotaði hann mig í seinasta skiptið“

|||||
Kiana Sif. Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttirþ|||||

Kiana Sif Limehouse var barn þegar brotið var ítrekað á henni kynferðislega, að hennar sögn. Meintur gerandi var þáverandi stjúpfaðir hennar, sá hinn sami og Helga Elín sagði í 12. tölublaði Mannlífs hafa misnotað sig kynferðislega í sumarbústað þegar hún var tíu ára gömul. Kiönu blöskrar að maðurinn, sem er lögreglumaður, fái enn að starfa, en hún er ein þriggja stúlkna sem hafa sakað manninn um kynferðisbrot. Í kjölfar erfiðrar æsku leiddist Kiana út í fíkniefnaneyslu og var farin að reykja kannabis daglega aðeins þrettán ára. Hún hefur verið edrú í þrjú ár og þarf að vinna í því á hverjum degi að elska sjálfa sig á ný.

„Ímynda ég mér stundum hvernig lífið hefði verið öðruvísi ef þetta hefði ekki gerst? Já, algjörlega. En maður lifir bara með því sem hendir mann. Föðurættin mín er mjög trúuð og hefur föðuramma mín talað um að Guð sendi einungis það til manns sem maður getur tekist á við. Ég er ekki eins trúuð og hún og get því miður ekki fundið neina réttlætingu á því sem gerðist,“ segir Kiana.

Hún verður 21 árs í nóvember, er að læra að verða félagsliði og vinnur á elliheimili. Í fyrstu virðist sem henni finnist auðvelt, ef svo má segja, að tala um fortíð sína. Hún er opin og einlæg og segir frá barnæsku sinni eins og hún sjái hana ljóslifandi fyrir sér. Kiana á bandarískan föður og íslenska móður sem skildu þegar hún var þriggja ára gömul. Þá byrjaði móðir hennar að vera með manni sem Kiana segir að hafi brotið á sér kynferðislega.

„Ég man enn í hvernig buxum hann var þetta skiptið“

„Ég fann alltaf fyrir því að ég var ekki tekin í sátt. Ég man að hann átti erfitt með að stjórna skapi sínu og ég var skömmuð fyrir minnstu hluti. Mín upplifun sem krakki var að ég væri bara fyrir,“ segir Kiana. Hún segir að þegar hún hafi nálgast kynþroskaaldurinn hafi áhugi mannsins á sér aukist.

„Ég svaf alltaf uppi í rúmi hjá mömmu þegar hann var að vinna. Þegar hann færði mig á milli rúma man ég eftir að hann byrjaði að þukla brjóstin á mér. Ég var vakandi en lét sem ég svæfi. Ég vissi að þetta var ekki rétt en ég sagði ekki neitt. Ég var lítil og hafði ekki vit á því að þetta væri óeðlilegt. Síðan fór þetta að vinda upp á sig. Hann bauð mér að smakka áfengi og einhverju síðar man ég eftir honum standandi í dyrunum á herberginu mínu þegar ég var sofandi. Þá hafði hann verið að drekka og þuklaði á sjálfum sér. Eitt kvöldið tók hann það skref að koma inn í herbergið mitt og snerta mig. Hann setti puttana inn í píkuna á mér og hélt mér þannig að ég myndi ekki snúa mér við. Þegar ég bað hann um að hætta sagði hann að þetta væri bara leyndarmálið okkar. Ég man enn í hvernig buxum hann var þetta skiptið. Ég man enn hvernig rakspírinn hans lyktaði,“ segir Kiana og augun fyllast af tárum. Konan sem ætlaði að rekja þessa sögu án þess að láta bilbug á sér finna getur ekki haldið aftur af tárunum, enda enn að glíma við afleiðingar ofbeldis og á eflaust eftir að takast á við þær alla ævi.

„Mér þótti virkilega vænt um hann. Hann var fyrirmyndin mín. Það særði mig svo ofboðslega mikið að manneskja sem mér þótti svo vænt um skyldi bregðast mér. Að horfa á einhvern sem föðurímynd í lengri tíma og svo að þessi manneskja brjóti svona rosalega á þér. Það var bara sálarmorð. Ég hugsaði bara: Gerði ég eitthvað rangt? Gaf ég of mikið af mér? Var ég of sexí? En ég var bara krakki. Ég var bara ég og ég gerði ekkert rangt,“ segir Kiana.

„Mig langar að vera fyrirmynd fyrir stelpur og stráka og mig langar að hafa áhrif á að meira sé gert í þessum málum í okkar samfélagi og öðrum samfélögum,“ segir Kiana sem dreymir um að hjálpa öðrum þolendum kynferðisofbeldis í framtíðinni.

Sér eftir að hafa ekki gargað á hjálp

Mæðgurnar Helga Elín og Halldóra Baldursdóttir sögðu, eins og fyrr segir, sögu sína í 12. tölublaði Mannlífs. Þær sögðu frá meintri misnotkun á Helgu Elínu sem átti sér stað í sumarbústaðarferð, að þeirra sögn. Sumarbústaðarferð sem Kiana, ein af hennar bestu vinkonum, hafði boðið henni í.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“.

„Ég sat aftur í og stjúpfaðir minn keyrði. Ég var mjög spennt að fá vinkonu mína með upp í sumarbústað og það var ofboðslega gaman hjá okkur. Við lékum okkur mikið og fórum í nornaleik. Við fífluðumst við einhverja mýri og ég festi mig í henni. Það var alveg ógeðslega gaman hjá okkur,“ segir Kiana og brosir áður en hún verður þungt hugsi.

„Síðan kom vinafólk mömmu og stjúppabba míns. Þau voru með dætur sínar með sér og við Helga vorum voðalega duglegar í mömmuleik og svæfðum dæturnar og litla bróður minn. Síðan byrjaði fullorðna fólkið að drekka en vinahjónin komu með tvo fulla poka með sér af einhvers konar klámefni. Við vorum náttúrlega krakkar og forvitnir um hvað væri í pokunum en þá fengum við að vita að þetta væri ekki fyrir krakka. Við Helga sváfum á uppblásinni dýnu við hliðina á sófanum og þegar stjúpi minn og vinur hans héldu að við værum sofnaðar byrjuðu þeir að tala um kynlíf. Það næsta sem ég man er að seinna um nóttina kom stjúpi minn fram og allt í einu greip Helga í hendina á mér og bað mig um að hjálpa sér. Ég stirðnaði. Ég vissi nákvæmlega hvað var að gerast en ég gerði ekki neitt. Eins ógeðslegt og það hljómar þá var ég fegin að þetta væri ekki ég en í dag vildi ég að þetta hefði verið ég, í staðinn fyrir að þetta kæmi fyrir einhvern annan. Daginn eftir vildi Helga fá að hringja í mömmu sína en hún fékk það ekki. Restin af ferðinni er bara í móðu,“ segir Kiana. Í kjölfarið flosnaði upp úr vinskapnum.

„Hún forðaðist mig og ég vissi alveg af hverju, en á sama tíma vissi ég það ekki. Ég skildi ekki af hverju hún vildi ekki tala við mig. Ég gerði ekki neitt,“ bætir Kiana við. Í dag eru þær Helga kunningjakonur og finna styrk hvor í annarri.

„Við erum sterkari saman og við skiljum hvor aðra,“ segir Kiana. Hún er þakklát þeim mæðgum fyrir að hafa stigið fram í viðtali við Mannlíf og deilt sinni reynslu. „Mér fannst magnað að lesa viðtalið við þær. Þær hafa sína hlið og ég hef mína. Þær gefa mér mikinn drifkraft. Mér þykir ofboðslega vænt um þær báðar,“ segir Kiana. En var erfitt að lesa viðtalið?

„Nei, ekki beint erfitt. En það fékk mig til að hugsa til baka og ég gerði mér grein fyrir hvað þetta var slæmt. Ég lokaði á þetta í svo langan tíma. Mér fannst ég bera ábyrgð á að þetta hefði komið fyrir hana svo lengi og því fylgdi mikil skömm. Mér fannst eins og ég hefði valdið henni vonbrigðum og að ég hefði ekki verið sönn vinkona. Í dag veit ég að þetta var ekki mér að kenna. Langt frá því. Hefði ég getað gargað og öskrað á hjálp? Já, en ég gerði það ekki. Það er ein mín stærsta eftirsjá í lífinu.“

Upplifði höfnun frá móður sinni

Eins og kom fram í Mannlífi sagði Helga ekki frá þessu meinta ofbeldi fyrr en þann 5. október árið 2011. Hún trúði vinkonu sinni í skólanum fyrir þessari reynslu og í kjölfarið var móðir hennar kölluð í skólann. Halldóra, móðir Helgu, sagði í viðtalinu að breytt hegðunarmynstur dóttur hennar hefði skýrst við þessa uppljóstrun, en hegðun Kiönu tók einnig miklum breytingum eftir að meint brot hófust.

„Ég var hætt að hafa áhuga á skólanum. Ég byrjaði að stelast í sígarettur. Ég hafði enga trú á mér og mig langaði ekki til að lifa. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að tækla vandamálin og þorði ekki að segja neitt því ég var hrædd við viðbrögð fólksins í kringum mig. Ég hélt að enginn gæti elskað mig. Mér fannst eins og ég væri skemmd. Eftir fyrsta skiptið fór ég algjörlega inn í skel. Ég fór að vera lengur úti á kvöldin og var slétt sama um allt og alla. Ég fór að stela rosalega mikið og finna flóttaleið til að þurfa ekki að hugsa um þetta. Ég fór að fikta við áfengi og kom mér í alls konar vandræði. Ég taldi mér trú um að ég væri bara geðveik og var farin að finna fyrir miklum skapsveiflum. Ég réð ekki við tilfinningar mínar og ofsareiði braust út,“ segir Kiana. Hún sagði loks frá ofbeldinu þegar hún var ellefu ára.

„Kvöldið áður en ég sagði frá misnotaði hann mig í seinasta skiptið,“ segir hún og klökknar. „Daginn eftir mætti ég í skólann og ég man bara að ég sturlaðist. Það var eins og hefði verið kveikt á rofa í hausnum á mér. Ég kastaði borðum og stólum og síðan brotnaði ég niður. Kennarinn minn skildi ekki hvað var í gangi og bauð mér að tala við skólahjúkrunarfræðinginn, sem ég þáði. Ég gekk inn til hennar og vissi ekki hvort ég ætti að segja henni sannleikann eða ekki. Síðan rann það upp fyrir mér að ég var alltaf að finna afsakanir til að hitta hana. Mér var illt á ýmsum stöðum því ég var að reyna að finna einhvern annan stað fyrir verkinn innra með mér. Þarna sagði ég henni að stjúppabbi minn hefði snert mig á stöðum sem hann ætti ekki að vera að snerta mig á. Hún benti á ýmsa staði á líkamanum og ég sagði já við þeim stöðum sem hún benti á. Síðan gaf hún í skyn að hún þyrfti að láta vita af þessu. Þá var eins og þúsund kílóum væri lyft af öxlum mínum og ég gat loksins andað. Þetta væri búið.“

Kiana er búin að vera edrú í þrjú ár.

Í kjölfarið var móðir hennar kölluð á fund í skólanum.

„Ég fór til hennar og horfði á hana. Hún horfði á mig eins og ég hefði brugðist henni. Ég fékk þvílíka höfnunartilfinningu. Það var hringt í ömmu mína og hún kom og náði í mig. Ég veit ekki hvar ég væri án hennar. Hún er demanturinn minn og mér þykir svo vænt um hana. Ég fór til hennar og móðursystir mín bjó hjá henni á þessum tíma. Heima hjá ömmu brotnaði ég algjörlega niður. Ég fékk taugaáfall ellefu ára. Ég náði ekki að sofa og starði bara út í loftið. Þær sögðust ætla að standa með mér í gegnum þetta allt og að þær elskuðu mig. Að þetta breytti ekki þeirra áliti á mér og að þetta væri ekki mér að kenna. Þær brugðust hárrétt við og ég fékk alla þá ást sem ég átti að fá og þurfti á að halda. Á þessum tímapunkti gerði ég mér ekki grein fyrir því að þetta væri bara rétt að byrja,“ segir Kiana og heldur áfram.

„Ég bjóst við því að ég þyrfti að tala við lögguna, hann yrði handtekinn og fengi það sem hann ætti skilið. Það sem gerðist var að ég fór í nokkur viðtöl í Barnahúsi og var ekki einu sinni send í læknisskoðun, þó að það væri bara einn dagur frá meintri misnotkun,“ segir hún. Hún lifði í þeirri von að móðir hennar myndi loks horfast í augu við sögu hennar og trúa henni.

„Það skipti ekki máli hvað var sagt við hana, hún trúði mér ekki. Ég fékk það beint í andlitið að mamma elskaði mig ekki og að hún afneitaði mér. Hún ætlaði bara að vera með honum. Þarna myndaðist tómarúm innra með mér. Ég sem stelpa á leið inn í unglingsárin fann í fyrsta sinn fyrir virkilegu hatri og reiði í garð manneskju sem átti bara að elska mig. Sem átti bara að vera til staðar fyrir mig. Og hún var það ekki. Það bókstaflega drap mig að innan.“

Flúði í heim eiturlyfja

Kiana hætti að vilja fara í viðtöl í Barnahúsi og valdi frekar hugarbreytandi efni til að flýja raunveruleikann. Þrettán ára var hún byrjuð að reykja kannabis á hverjum degi og fjórtán ára héldu örvandi efni henni gangandi.

„Þetta var rosalega góður flótti og ég væri að ljúga ef ég segði að mér hefði ekki fundist þetta skemmtilegt. Ég var mjög dugleg þegar kom að fíkniefnum og með mikinn metnað fyrir neyslunni,“ segir Kiana og bætir við að hún hafi snúið mönnum um fingur sér til að hafa efni á fíkninni.

„Það er auðvelt ef maður er ung og falleg stelpa. Þá þarf maður bara að gefa mönnum undir fótinn og ég var mjög dugleg að því þegar kom að fíkniefnum. En ég gerði ekki meira, ekkert kynferðislegt með þeim. Ég notfærði mér fólk og menn þegar ég var í neyslu. Ég hataði sjálfa mig. Sjálfseyðingarhvötin var á milljón og sjálfsálitið ekkert. Ef ég elskaði mig ekki, hver ætti þá eftir að gera það? Ég sóttist eftir ást á öllum röngu stöðunum. Ég fór að vera með eldri strákum, sérstaklega þeim sem gátu skaffað fyrir neyslunni. Strákum sem ég notaði til að gera hluti fyrir mig,“ segir Kiana. Eins og áður segir sagði Helga vinkona hennar frá meinta ofbeldinu þann 5. október, en Kiana sneri lífinu við og hætti í neyslu þann 5. október fyrir þremur árum. Einskær tilviljun, en mikilvægur dagur í lífi þeirra beggja.

„Það var annaðhvort að duga eða drepast. Fíkniefnin voru ástin í lífi mínu. Þau voru það eina sem elskaði mig, að ég hélt, en þau voru farin að bregðast mér. Mig langaði ekki að nota þau lengur. Ég hafði brotið svo mörg prinsipp og leið ömurlega. Ég var búin að steikja í mér hausinn. Vorið 2015 var ég tekin fyrir að reyna að koma fíkniefnum til Vestmannaeyja. Eftir það var ég edrú í heila fjóra mánuði að leita mér að annarri fíkn. Ég leitaði að staðfestingu frá hinu kyninu en ég höndlaði ekki sjálfa mig og fór aftur í sama farið og byrjaði að nota aftur. Þetta var orðið mjög sorglegt í endann. Seinasta djammið mitt var þannig að ég fór í bíó. Ég fór á Sicario sem fjallar um fíkniefnahring. Ég var svo biluð að ég hélt að allir í salnum væru í löggunni. Ég fór í meðferð morguninn eftir, fyrst til að friða alla í kringum mig en ekki fyrir sjálfa mig. Þetta var besta ákvörðun sem ég hef tekið. Inni á Vogi byrjaði ég að finna fyrir tilfinningum. Ég var svo hrædd því allt kom upp aftur og ég þurfti að díla við hlutina. Ég fékk taugaáfall inni á Vogi. Kjálkinn á mér festist og ég var í svo miklum fráhvörfum að ég slefaði. Mér leið eins og ég væri að kafna og að tungan í mér væri að leka niður í háls. Ég var svo ofboðslega hrædd og búin á því. Þá kom reiðin upp aftur og ég réð ekkert við hana. Ég var svo rosalega reið.“

„Ég trúði því að réttlætið myndi sigra“

Við hoppum aftur nokkur ár aftur í tímann þegar Helga ákvað að stíga fram og segja frá meintu kynferðisofbeldi. Kiana segir að þá hafi kviknað smávonarglæta í brjósti hennar.

„Ég vonaði svo innilega að hún yrði heppnari en ég. Það var það eina sem ég vonaði. Þegar hún sagði frá komu tveir lögreglumenn heim til mín og ræddu við mig um mitt mál, hennar mál og mál þriðju stelpunnar. Ég vissi ekki af þriðju stelpunni. Á því augnabliki hefði ég getað logið einhverju en ég vildi vera hreinskilin. Ég trúði því að réttlætið myndi sigra,“ segir Kiana, en þessar þrjár kærur á hendur manninum voru allar felldar niður. Honum var ekki vikið úr starfi meðan á rannsókn málanna stóð og hélt starfi sínu innan lögreglunnar þegar málin voru látin niður falla.

„Ég skil þetta ekki. Voru orð mín ekki nóg? Eða hinna tveggja? Ég bara fatta þetta ekki,“ segir Kiana, en mál hennar og Helgu voru ekki rannsökuð saman. „Auðvitað átti að rannsaka málin saman. Og auðvitað átti að senda mig í læknisskoðun þegar ég sagði frá til að athuga með innvortis áverka. Svo vill enginn taka ábyrgð á þessu,“ segir Kiana og bendir á þá staðreynd að embætti Ríkislögreglustjóra og Ríkissaksóknara hafi bent hvort á annað þegar móðir Helgu setti út á rannsókn máls dóttur hennar í Mannlífi.

„Það benda allir hver á annan. Hvað ef þetta væri dóttir einhvers innan þessara embætta? Eða sonur? Væru þetta viðbrögðin þá? Ég efast um það. Ég fyllist viðbjóði að hugsa til þess að þessi maður fái enn að vinna innan veggja lögreglunnar. Að hann fái að vinna þar sem brotnir einstaklingar leita sér hjálpar. Það gerir mig bilaða. Réttarkerfið á Íslandi er til háborinnar skammar. Það hefur ekki bara brugðist mér og Helgu, heldur svo ótal fleirum.“

Vill hjálpa öðrum þolendum

Kiana prýðir forsíðu Mannlífs.

Kiana glímir í dag við ýmsar þekktar afleiðingar kynferðisofbeldis. Hún kann illa á samskipti við fólk þar sem hún á erfitt með að greina muninn á réttu og röngu. Henni finnst óþægilegt að snerta börn því hún er hrædd um að snerta þau á óviðeigandi hátt. Hún er með ofsakvíða og áfallastreituröskun. Hún er logandi hrædd við að gera mistök. Hún hefur unnið mikið í sjálfri sér síðustu þrjú árin og meðal annars leitað sér hjálpar hjá geðlæknum, sálfræðingum og hjá Stígamótum.

„Ég vinn í því á hverjum degi að elska sjálfa mig. Mér finnst eins og ég kunni ekki að vera vinkona. Að ég þurfi að æfa mig í því. Að ég þurfi að læra að vera systir. Ég get leitað mér hjálpar til að hjálpa sjálfri mér en hvað með réttlætið? Mig langar að berjast fyrir réttlætinu í þessu máli en ég veit ekki hvernig ég á að gera það. Ég get ekki leitað til lögreglunnar því ég veit ekki hvernig ég á að fara að því að treysta henni í þessu máli. Það er sagt að rétt skuli vera rétt þegar kemur að lögum og reglum og þetta á að vera fólk sem á að vernda íbúana í landinu. En það getur samt ekki opnað augun fyrir eigin breyskleikum,“ segir Kiana sem dreymir um að hjálpa öðrum þolendum kynferðisofbeldis í framtíðinni.

„Mig langar að vera fyrirmynd fyrir stelpur og stráka og mig langar að hafa áhrif á að meira sé gert í þessum málum í okkar samfélagi og öðrum samfélögum. Það er enn tabú að hafa lent í kynferðisofbeldi, hvort sem það er nauðgun eða áreiti. Samfélagið er lokað og það breytist ekkert nema við gerum eitthvað í því. Viljum við virkilega að börn framtíðarinnar upplifi heiminn svona? Að þau þurfi að lifa í stanslausum ótta, að ekkert sé gert ef eitthvað kemur fyrir þau og hvort þau fái réttlæti eða ekki? Það er náttúrlega bara fáránlegt. Ég horfi á börnin í kringum mig sem ég elska ofboðslega mikið og finnst vont að sjá að þetta sé heimurinn sem við bjóðum þeim upp á.“

„Ég er tilbúin að mæta því sem kemur“

Í dag býr Kiana hjá móður sinni, sem er ekki sátt við að dóttir sín stígi fram í þessu viðtali, að hennar sögn. Móðir hennar sleit fyrir nokkrum árum samvistum við manninn sem Kiana sakar um kynferðisofbeldi, en að sögn Kiönu er samband þeirra mæðgna enn stirt á köflum.

„Mamma mín verður alltaf mamma mín. Ég elska hana og það mun aldrei breytast. Það koma tímabil þar sem ég finn fyrir reiðinni og hatrinu og mér finnst erfitt að geta ekki rætt þessa hluti við hana. Ég hef þurft að taka það í sátt að hún muni ekki ræða þetta. Ég stjórna henni ekki og ég ber ekki ábyrgð á hamingju annarra, einungis minni eigin. Ég er mjög þakklát fyrir fjölskyldu mína. Svo ég tali nú ekki um vinina. Ég veit ekki hvar ég væri í dag ef ég ætti ekki þær vinkonur og vini sem ég á í dag. Þau taka mér eins og ég er og ég get verið ég sjálf í kringum þau,“ segir Kiana. Hún svaf lítið í nótt. Hún var með hugann við þetta viðtal. Þessa opinberun sína. Hún segist ekki stressuð fyrir því að Ísland fái að vita hennar sögu. Þótt það sé erfitt að rifja upp þennan sára tíma, segir hún það að vissu leyti gott. Ákveðinn létti.

„Ég er ekki stressuð fyrir viðbrögðunum sem ég á eftir að fá. Ég get ekki gert öllum til geðs. Kannski á ég eftir að fá fullt af jákvæðum viðbrögðum en ég veit að ég á eftir að gera einhverja mjög reiða. Ég veit það, en ég vil koma hlutunum frá mér eins og þeir eru. Rétt skal vera rétt og það sem kemur, kemur. Ég er tilbúin að mæta því sem kemur.“

Málið í hnotskurn

Mæðgurnar Halldóra og Helga sögðu sína sögu fyrir tveimur vikum.

Lögreglumaðurinn sem þrjár stúlkur sökuðu um kynferðisbrot starfaði áfram meðan á rannsókn allra málanna þriggja stóð. Málin voru ekki rannsökuð saman. Eftir að málin voru felld niður hélt lögreglumaðurinn starfinu. Í máli Helgu Elínar liggja fyrir skýrslur frá sérfræðingum í Barnahúsi sem staðfestu að Helga Elín hefði orðið fyrir miklum skaða í umtalaðri sumarbústaðarferð.

Eins og hefur komið fram voru vinur lögreglumannsins, sem er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera, og eiginkona hans með í sumarbústaðarferðinni. Að sögn Halldóru Baldursdóttur, móður Helgu Elínar, tók skýrslutaka yfir vinahjónunum aðeins örfáar mínútur og fór fram á skrifstofu embættismannsins. Þau hjónin og eiginkona sakbornings báru fyrir sig minnisleysi vegna áfengisdrykkju og niðurfelling málsins var meðal annars byggð á þeirra vitnisburði. Við rannsókn málsins kom fram að klámefni hafði verið haft fyrir börnunum í umræddri sumarbústaðaferð. Umrædd vinahjón voru aldrei spurð út í klámmyndaáhorfið og tölva sakbornings var ekki skoðuð. Þegar lögregla skoðaði sumarbústaðinn fór hinn meinti kynferðisafbrotamaður með á vettvang.

Að sögn Halldóru kemur fram í rannsóknargögnum að lögreglumaðurinn hafi sakað stelpurnar þrjár um samsæri gegn sér og að ekkert hafi verið gert til að hrekja slíkt. Halldóra hefur óskað eftir því við Nefnd um eftirlit með lögreglu að málsmeðferðin verði skoðuð. Eitt að því sem hún gagnrýndi harðlega var að þrátt fyrir að þrjár stúlkur hefðu kært lögreglumanninn hefðu málin ekki verið rannsökuð saman og ekkert brugðist við fullyrðingum lögreglumannsins um að stúlkurnar þrjár hefðu uppi samsæri gegn sér.

Sjá einnig: Segist ekki hafa brugðist dóttur Halldóru.

Enginn tekur ábyrgð

Í viðtali í 12. tölublaði Mannlífs sagði Halldóra að henni hafi verið bent á að senda erindi á Harald Johannessen ríkislögreglustjóra, af þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, Stefáni Eiríkssyni, þegar mál dóttur hennar kom upp. Í samtali við Mannlíf lýsti hún þeirri tilfinningu sinni að ríkislögreglustjóri hafi brugðist henni og dóttur hennar, þar sem hann vildi „ekkert fyrir okkur gera.“

Embætti ríkislögreglustjóra hefur andmælt þeirri fullyrðingu Halldóru að ríkislögreglustjóri, Haraldur Johannessen, hafi brugðist dóttur Halldóru,

Haraldur Johannessen hefur ekki viljað svara spurningum Mannlífs persónulega um þetta mál. Samkvæmt yfirlýsingu frá embætti ríkislögreglustjóra fór embættið þess á leit við ríkissaksóknara að fá afhent rannsóknargögn málsins til þess að unnt væri að taka ákvörðun um hvort leysa skyldi lögreglumanninn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Ríkissaksóknari hafnaði erindi Embættis ríkislögreglustjóra með vísan til heimildarskorts í lögum. Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sagði hins vegar í samtali við Stundina að ríkissaksóknari hafi sent „ríkislögreglustjóra allar upplýsingar um málið vegna fyrirhugaðrar ákvarðanatöku hans um það hvort veita ætti viðkomandi lögreglumanni lausn frá störfum“.

Stefán Eiríksson starfaði sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins meðan á rannsókn málsins stóð. Stefán kveðst ekki hafa fylgst með umfjöllun um málið og neitar að tjá sig um það við blaðamenn Mannlífs.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Förðun / Silja Dröfn Jónsdóttir með vörum frá Urban Decay

Baltasar reffilegur á rauða dreglinum í London

|||
|||

Leikstjórinn Baltasar Kormákur lét sig ekki vanta á sýningu á nýjustu mynd sinni, Adrift á Soho-hótelinu í London í gær, sunnudag.

Aðalleikarar myndarinnar, Sam Claflin og Shailene Woodley, voru að sjálfsögðu einnig mætt á rauða dregilinn og tók þríeykið sig vel út saman.

Sam, Shailene og Baltasar.

Sjá einnig: Kveikti á myndavélunum þegar allir byrjuðu að æla.

Shailene Woodley klæddist rauðri blússu við svartar buxur.

Adrift var frumsýnd vestan hafs í byrjun mánaðarins og samkvæmt Wikipedia hefur hún halað inn um 31 milljón dollara í miðasölutekjur, en framleiðslukostnaður við myndina var 35 milljónir dollara. Þá hefur myndin fengið fína dóma víða um heim.

Sam Claflin klæddist gráum jakkafötum.

Myndin er lauslega byggð á sannri sögu pars sem sigldi frá Tahítí til San Diego árið 1983. Þau sigldu hins vegar rakleiðis til móts við fellibylinn Raymond en misstu ekki lífsviljann.

Tímaritið People kallar Rúrik augnakonfekt

||||||||||
||||||||||

Tímaritið People birtir lista yfir þá 39 leikmenn á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu sem blaðamönnum finnst skara fram úr þegar kemur að kynþokka.

Það kemur líklega ekki á óvart að Rúrik okkar Gíslason er á listanum, en hann hefur vakið gríðarlega athygli á heimsmeistaramótinu. Eins og hefur verið sagt frá var Rúrik með um fjörutíu þúsund fylgjendur á Instagram fyrir mótið en er nú kominn yfir milljón fylgjendur. Rúrik er eini Íslendingurinn á lista People.

Sjá einnig: BBC segir Rúrik blöndu af Brad Pitt, Channing Tatum og Chris Hemsworth.

Á honum eru einnig kunnugleg andlit eins og portúgalski knattspyrnukappinn Cristiano Ronaldo. Það vekur hins vegar athygli að þýski markvörðurinn Manuel Neuer er einnig á listanum, en boltaspekingurinn Hjörvar Hafliðason kvartaði mikið yfir fjarveru hans á kynþokkalistum á Twitter. Virðist Hjörvar hafa verið bænheyrðu af People.

Sjá einnig: Rúrik og Ragnar meðal kynþokkafyllstu leikmanna á HM.

Hér fyrir neðan má sjá nokkra af þeim 39 knattspyrnumönnum sem People kallar augnakonfekt, en listann í heild sinni má sjá með því að smella hér.

Diafra Sakho – Senegal

Dusan Tadic – Serbía

Jose Carvallo – Perú

Manuel Neuer – Þýskaland

Mathew Leckie – Ástralía

Morteza Pouraliganji – Íran

Roman Burki – Sviss

Sam Morsy – Egyptaland

Sergio Aguero – Argentína

Kim Shin-Wook – Suður-Kórea

Aðalmynd / Skjáskot úr auglýsingu Coca Cola á Íslandi

Myndir: Svona var stemningin á Secret Solstice

||||||||||||
||||||||||||

Tónlistarhátíðin Secret Solstice var haldin með pompi og prakt í Laugardalnum um helgina, fimmta árið í röð. Fjöldinn allur af heimsþekktum listamönnum tróð upp, svo sem Slayer, Gucci Mane, Stormzy og Bonnie Tyler.

Mikil mannmergð var í Laugardalnum út af hátíðinni. Þó veðrið hafi ekki beint leikið við hátíðargesti var mikil stemning í dalnum, eins og meðfylgjandi myndir frá tónleikahöldurum sýna.

Myndir / Secret Solstice

„Mikilvægt að okkar raddir heyrist“

Ensk-íslenska verkið (Can This Be) Home verðlaunað á leiklistarhátíð í Tékklandi.

Ensk-íslenska verkið (Can This Be) Home hlaut í vikunni brautryðjendaverðlaunin á Fringe-leiklistarhátíðinni í Prag og í kjölfar þess hefur aðstandendum sýningarinnar verið boðið að setja verkið upp í hinu virta leikhúsi Chats Palace í London. Í samtali við Mannlíf segist leikstjórinn, Kolbrún Björt Sigfúsdóttir, vera í skýjunum með boðið og viðurkenninguna enda standi efnisviður verksins henni nærri. „Það er alveg frábært að fá þessa viðurkenningu því við erum búin að vinna að verkinu í tvö ár og erum að fjalla um málefni sem skiptir okkur miklu máli,“ segir hún og vísar þar í umfjöllunarefnið sem snýst um upplifun innflytjenda í Bretlandi af kosningunum um Brexit. Hvernig þeir, þar á meðal hún sjálf, hafi liðið með að vera sagt óbeint að þeir ættu ekki lengur heima í Bretlandi í ljósi niðurstöðunnar.

Kolbrún segir að þetta sé reyndar ekki fyrsta útgáfa verksins heldur hafi það þróast í takt við umræðuna um Brexit-málið og því nokkrar útgáfur litið dagsins ljós. Fyrsta útgáfan hafi orðið til áður en kosningin um Brexit fór fram. Í annarri útgáfu hafi verið reynt að gera upp niðurstöðu kosninganna fyrir innflytjendur og þá sem kusu að halda Bretlandi innan Evrópusambandsins. Þriðja hafi verið lesin á degi skyndikosninganna sem Theresa May boðaði til í von um að auka stuðning sinn og Brexit á þingi, sem hafi ekki gengið upp. „Nú eru svo komin tvö ár síðan það var kosið og Brexit er enn í mótun. Þess vegna fannst okkur mikilvægt að okkar raddir heyrðust, nú sem aldrei fyrr, áður en langvarandi ákvarðanir sem móta framtíð okkar eru teknar. Ætlunin með verkinu er að tala til fólks. Fá það til að hugsa um það sem er í gangi.“

„Það er alveg frábært að fá þessa viðurkenningu því við erum búin að vinna að verkinu í tvö ár og erum að fjalla um málefni sem skiptir okkur miklu máli.“

Hún viðurkennir að vegna hins pólitíska umfjöllunarefnis hafi aðstandendur (Can This Be) Home alls ekki búist við að verkið ynni til verðlauna á hátíðinni í Prag. Auk þess sé verkið langt frá því að vera hefðbundin leiksýning. Eiginlega sé varla hægt að tala um leiksýningu þar sem verkið samanstandi af tveimur hlutum, tónleikum flautuleikarans Tom Oakes, innblásnum af ferðlögum hans um heiminn og ljóðaupplestri þar sem Kolbrún flytur eigin texta, byggðan á fyrrnefndri reynslu innflytjenda af Brexit. Sigurinn hafi því komið henni og öðrum aðstandendum sýningarinnar skemmtilega á óvart.

En er ekki gaman fyrir ungan leikstjóra og leikritaskáld að fá svona rífandi start? „Jú það er voða ljúft. Það er grínast með það að „overnight success“ í Hollywood taki fimm ár. Tvö er vel sloppið,“ segir hún og bætir við að þar sem þetta sé fyrsta handritið hennar sem hlýtur verðlaun þá sé þetta líka persónulegur sigur.

Spurð út í framhaldið segir hún uppsetninguna í London vera næst á dagskrá. „Við erum bara að vinna í því að finna hentugar dagsetningar,“ segir hún glaðlega, „en þetta verður alveg geggjað.“

 

Stólar Wegner alltaf heillað

Guðmundur Hallgrímsson er fasteignasali á REMAX Senter-fasteignasölunni. Hann býr í Vesturbænum í Reykjavík og er í sambúð með Völu Valþórsdóttur viðskiptaþróunarstjóra hjá Landsvirkjun, og á tvo stráka, Patrek Thor, fimmtán ára og Kormák Krumma, tíu ára.

Hvað heillar þig mest við starfið?
„Það sem er skemmtilegast er fjölbreytileikinn og samskipti við fólk, einnig er mjög gaman að óska fólki til hamingju þegar það hefur fest kaup á nýju heimili.“

Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?
„Dagurinn byrjar milli klukkan 8-9 á morgnana og endar oft milli kl. 18.00 og 19.00 en þó er maður oft að vinna lengur en þá í símanum og tölvupóstum.  Annars eru dagarnir mjög misjafnir, suma daga er maður að vinna allan daginn á skrifstofunni en aðra er maður mikið á ferðinni í verðmati á eignum og að sýna eignir.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili?
„Mér finnst gaman að hafa fallegt hjá mér og hef áhuga á myndlist og fallegum húsgögnum en það sem gerir heimilið að heimili er númer eitt fólkið sem býr þar og þeir sem koma í heimsókn, vinir, ættingjar og vinir barnanna. Það er til dæmis gott merki um að heimilið sé góður staður til að vera á þegar maður kemur úr vinnu og allt eldhúsið er fullt af diskum og brauðmylsnu eftir synina og vini þeirra.“

Geturðu líst þínum stíl?
„Hann er frekar skandinavískur en með kannski smáslettu af breskum húmor, mér finnst gaman að poppa upp skandinavíska mínimalstílinn með litum og stemningu.“

„Það er til dæmis gott merki um að heimilið sé góður staður til að vera á þegar maður kemur úr vinnu og allt eldhúsið er fullt af diskum og brauðmylsnu eftir synina og vini þeirra.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt?
„Það eru mjög margir frábærir arkitektar bæði innlendir og erlendir og mér finnst erfitt að benda á einn, en meðal annars er Manfreð Vilhjálmsson í miklu uppáhaldi hjá mér. Við á REMAX erum einmitt með Blikanes 21 til sölu núna sem er eitt af húsunum sem hann teiknaði.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð?  
„Það er svipað og með arkitektana og gæti listinn verið endalaus. Stólarnir hans Hans Wegner hafa alltaf heillað mig og svo er HAF, íslenska hönnunarteymið, að gera frábæra hluti og auðvitað Ólafur Elíasson sem er allt í senn listamaður, hönnuður og arkitekt.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?
„Ég hef í mörg ár haft augastað á koníaksbrúnum sófa frá ítalska merkinu Flexform, hann skilar sér vonandi einn daginn í stofuna.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Það sveiflast svolítið milli árstíða, ljósari litir á sumrin og dekkri á veturna. Brúnt, grænt og navy-blátt er alltaf klassískt og svo er ég mjög hrifinn af hvítum skyrtum í fataskápinn.“

Hvar líður þér best? 

„Það er heima með fólkinu mínu og svo með vinum. Hef gaman af því að vera í náttúrunni á skíðum og fjallahjóli.“

Nú er sumarið komið og margir huga að garðinum, er eitthvað sem þig langar að eignast í garðinn? 
„Það eina sem vantar í hann er meiri sól.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Það er endalaust verið að opna skemmtilega nýja staði, Bastard er til dæmis frábær viðbót í flóruna en mínir uppáhalds eru alltaf Snaps og Jómfrúin en ég elska danskt smurbrauð.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira en annar?
„Nei, í raun ekki en ég er bæði mjög hrifinn að gömlum húsum með fallegum gluggum og loftlistum, það er að segja þessi hús frá árunum 1900-1930 og svo stílnum frá 1960-1970 þar sem formin eru einfaldari og gluggarnir stærri.“

 

„Magnað að leikur sem maður bjó til sé spilaður 2000 sinnum á dag“

|
|

Nýr íslenskur tölvuleikur á meðal áhugaverðustu „indí“-leikja á Norðurlöndunum.

Íslenski tölvuleikurinn Out of the Loop, eða Úti á túni, sem kom út á dögunum hefur verið valinn til þátttöku á leikjaráðstefnunni Nordic Game Conference sem fer fram í Malmö í Svíþjóð á næsta ári. Leikurinn verður á sýningu helgaðri áhugaverðustu „indí“-leikjunum á Norðurlöndunum.

„Það er Yonderplay sem stendur fyrir valinu, en Yonderplay er nýja nafnið á Nordic Indie Sensation sem velur mest spennandi leikina sem eru gefnir sjálfstætt út á Norðurlöndum,“ útskýrir Sigursteinn Gunnarsson, annar hönnuða leiksins. „Það er ótrúlegur heiður að verða fyrir valinu.“

Sigursteinn lýsir Out of the Loop sem stafrænum spurningaborðspilaleik í nokkrum umferð-um fyrir síma, sem 3-9 geta spilað í einu og fá allir nema einn leikmanna eitt leyniorð í hverri umferð. „Leikmennirnir eiga síðan að svara spurningum sem tengjast hverju leyniorði og reyna þannig að finna út hvern vantar leyniorðin, þ.e. hver er úti á túni, á meðan sá reynir að veiða leyniorðin upp úr þeim svo þeir fatti það ekki,“ útskýrir hann og bætir við að Out of the Loop sé í ætt við tölvuleikinn Spyfall sem sumir íslenskir „spilarar“ ættu að kannast við.

„Í rauninni jafnast þó ekkert á við að að sjá fólk hlæja og skemmta sér í leiknum sem maður bjó til.“

Out of the Loop hlaut á dögunum viðurkenningu frá Copenhagen Game Collective.

Out of the Loop hefur verið í þróun í níu mánuði og er annar leikurinn sem Sigursteinn og Torfi Ásgeirsson, félagi hans og meðeigandi leikjafyrirtækisins Tasty Rook, senda frá sér. Fyrri leikur þeirra félaga, spæjaraleikurinn Triple Agent, er að sögn Sigursteins í svipuðum stíl og Out of the Loop en hann komst líka inn á sömu sýningu í fyrra og hefur hlotið góðar viðtökur. „Triple Agent hefur verið sýndur á þónokkrum hátíðum erlendis og frægur YouTube- gagnrýnandi, Totalbiscuit, valdi hann sem einn af tíu bestu leikjum ársins í fyrra, en það er svolítið magnað að vita til þess að leikur sem maður bjó til sé spilaður 2000 sinnum á dag,“ segir hann og brosir.

Spurður hvaða þýðingu þátttaka á Nordic Game Conference komi til með að hafa fyrir Out of the Loop og fyrirtækið Tasty Rook, segir Sigursteinn að þeir Torfi séu þessa dagana á fullu að kynna leikinn og viðurkenningar af þessu tagi hjálpi klárlega til. „Auðvitað er alltaf ótrúlega gaman þegar það sem maður er að gera vekur áhuga og hrifningu en í rauninni jafnast þó ekkert á við að að sjá fólk hlæja og skemmta sér í leiknum sem maður bjó til,“ segir hann glaður.

Aðalmynd: Sigursteinn Gunnarsson og Torfi Ásgeirsson, meðeigendur leikjafyrirtækisins Tasty Rook.

Ævintýri á Jónsmessunótt

Þrátt fyrir viðvarandi sólskinsskort er sumarið víst komið og gott betur en það. Miðsumarshátíðir njóta mikilla vinsælda á Norðurlöndum en hér á landi eru ýmsar yfirnáttúrulegar verur tengdar sólstöðum. Á aðfaranótt Jónsmessu, þann 24. júní, er mælt með því að velta sér upp úr dögginni og jafnvel talið að dýr geti talað.

Hugmyndin um Jónsmessunótt er í augum margra sveipuð rómantískum bjarma sem eflaust á rætur sínar að rekja til skáldsögu Williams Shakespeare um Draum á Jónsmessu (e. A Midsummer Night´s Dream). Þar má sjá flóru fjölbreyttra persóna skipta um ham þessa dularfullu nótt og vægast sagt undarlega atburðarás eiga sér stað þar sem ólíklegustu fyrirbæri fella hugi saman.

Ástin er blind á augum, skyggn í hjarta, svo Amor sjónlaus þenur vænginn bjarta; á vizku og táli veit hann aldrei skil, og vængjuð blinda þýtur háskans til.

Bókmenntaunnendur, ólæknandi rómantíkusar og aðdáendur sögunnar þurfa þó ekki að bíða lengi því til stendur að setja verkið upp í Þjóðleikhúsinu á komandi leikári.

Hefðirnar ekki séríslenskar
Margir halda að mýtur tengdar Jónsmessunótt séu séríslenskar en svo er ekki. Hugmyndin um að dýr tali mannamál þessa nótt, eða að selir kasti ham sínum þekkist víða annars staðar. Ein algengasta kenning tengd þessari goðsagnakenndu nóttu er tengd lækningarmætti daggarinnar og hafa eflaust margir látið á hana reyna. Talið er að döggin á Jónsmessunótt sé svo heilnæm að hún geti læknað kláða ásamt öðrum húðmeinum en lækning á að felast í því að láta döggina þorna af sjálfri sér á nöktum líkamanum. Eins er sú trú að þessa nótt sé hægt að finna náttúrusteina með töframátt, svokallaða lausnarsteina til að hjálpa bæði konum og kúm. Sagan segir jafnframt að á Baulutindi sé tjörn og í henni sé að finna óskastein. Sá sem nær í steininn á að fá óskir sínar uppfylltar, en aðeins þessa einu nótt.
Hún er jafnframt langlíf sú trú að skil milli heima séu minni á Jónsmessunótt en aðrar nætur og því séu auknar líkur á að hitta fyrir hverskyns handanheimsverur. Púkar, nornir og draugar njóta því mikillar hylli ásamt öðrum yfirnáttúrulegum verum sem óhjákvæmilega tengjast nóttinni, en bæði nú og þá tíðkast víða að halda veislur, brennur og dansleiki á þessum degi.

Svíar skemmta sér fram undir morgun
Ísland hefur þó ekki tærnar þar sem Svíþjóð hefur hælana í þessum efnum því þrátt fyrir að þjóðhátíðardagur Svía sé aðeins tæpum tveimur vikum áður er miðsumarshátíðin (e. midsomer) þekktasta hefð landsins. Hátíðin er ekki bundin við aðfaranótt 24. júní eins og hér heima heldur er hún alltaf haldin um helgi og flakkar á milli daganna 19. til 25. júní. Börn eru þá komin í sumarfrí og flest fjölskyldufólk farið í sitt staðlaða fimm vikna sumarfrí.
Vinir og ættingjar safnast saman og fagna sumrinu en margir sækja í sveitasæluna enda er hvergi betra að koma saman en í grænni náttúrunni. Hátíðin fer að sjálfsögðu fram undir berum himni þar sem sumarkvöldin eru aldrei lengri eða fegurri en á þessum árstíma.

Ströng hefð ríkir um hátíðina og óhætt að segja hana sveipaða nostalgískum ljóma. Um hana ríkja ákveðnar reglur sem nær óhjákvæmilegt er að brjóta en matseðillinn er til að mynda ein þeirra órjúfanlegu hefða sem margir tengja við þennan tíma árs.

Miðsumarshátíðarmatseðillinn inniheldur nær undantekningalaust lax í ýmsum útfærslum ásamt soðnum kartöflum með fersku dilli og sýrðum rjóma. Eftirrétturinn er jafnframt ófrávíkjanlega fyrsta uppskera sumarsins af jarðarberjum, bornum fram með þeyttum rjóma. Með veisluhöldunum drekka hátíðargestir bjór en í hvert sinn sem glasið er fyllt á ný bresta veislugestir í tilheyrandi þjóðhátíðarsöngva. Eftir mat er slegið upp dansgólfi upp á gamla mátann þar sem ungir sem aldnir skemmta sér saman.
Blóm leika mikilvægt hlutverk í borðskreytingum en kvenkynsgestir bera jafnframt blómakransa á höfði.

Samkvæmt aldafornum hefðum tína ógiftar konur svo sjö mismunandi blómategundir með sér í krans á leiðinni heim og leggja undir koddann sinn. Um nóttina á þeim svo að birtast í draumi sá maður sem síðar verður þeirra eiginmaður.

Nóttin fyrir Jónsmessu er því töfrandi tími, einkum og sér í lagi í rómantískum skilningi því samkvæmt Svíum kemur sannleikurinn sífellt betur í ljós eftir því sem bjórglösum miðsumarshátíðarinnar fjölgar. Sannleikurinn getur svo ýmist leitt til hjónabands eða skilnaðar. Hvað sem því líður er þessi árstími einkar vinsæll fyrir brúðkaup og önnur hátíðarhöld.

 

Greinin birtist í 24. tbl Vikunnar.

Hvernig er hægt að gera leigumarkaðinn öruggari?

|||
|||

Leigumarkaðurinn á Íslandi er óstöðugur og hefur hækkað hratt á undanförnum árum. Hvaða ástæður liggja að baki því og hvernig getum við bætt hann að mati sérfræðinga?

Konráð S. Guðjónsson.

Stefna íslenskra stjórnvalda um að betra sé að eiga en að leigja íbúð virðist hafa leitt til óöryggis og sveiflna á leigumarkaði. Þrír hagfræðingar hafa lagt fram tillögur sínar til að sporna við þessum sveiflum, en allar eru þær eru ólíkar í eðli sínu. Gætu þessar breytingar raunverulega leitt til stærri og öruggari leigumarkaðar á Íslandi?

Lágtekjufólk greiddi á Íslandi að jafnaði helming ráðstöfunartekna sinna í leigu árið 2016, meira en á öllum hinum Norðurlöndunum samkvæmt nýlegri skýrslu Íbúðalánasjóðs. Hlutfall íbúa á leigumarkaði var einnig nokkuð lágt miðað við sömu löndin þrátt fyrir aukningu síðari ára, en árið 2016 var það einungis lægra í Noregi. Íslendingar virðast því leigja minna og búa við verri kost á leigumarkaði samanborið við aðrar Norðurlandaþjóðir.

Ólafur Margeirsson.

Þessi staða hefur ekki gerst að sjálfu sér, að mati Konráðs S. Guðjónssonar, hagfræðings Viðskiptaráðs. Samkvæmt honum hefur séreignarstefnan sem rekin hefur verið af stjórnvöldum skapað hvata til þess að eiga frekar en að leigja húsnæði. Líkt og Konráð segir Ólafur Margeirsson hagfræðingur þá hugsun að Íslendingar „eigi að eiga“ húsnæði hafa leitt til meiri skuldsetningar, hærra fasteignaverðs og óstöðugleika á húsnæðismarkaði. Í erindi sem hann hélt á fundi á vegum stéttarfélagsins Eflingar á mánudag sagði hann að ein lausn á þessu vandamáli gæti verið sú að auka aðkomu langtímafjárfesta að leigumarkaðnum á Íslandi, þá einna helst með leigufélögum sem lífeyrissjóðirnir gætu átt og rekið.

Una Jónsdóttir.

Una Jónsdóttir hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði tekur undir áhyggjur Konráðs og Ólafs um afleiðingar séreignarstefnunnar. Una veltir því upp hvaða leiguverð gæti talist sanngjarnt og eðlilegt. Þar sem húsnæði sé nauðsynjavara og öruggt aðgengi að þeim séu skilgreind sem mannréttindi samkvæmt Sameinuðu þjóðunum væru ríkisafskipti óumflýjanleg.

Ítarleg fréttaskýring um leigumarkaðinn á Íslandi er að finna í nýjasta tölublaði Mannlífs. Nánar má lesa um málið á vef Kjarnans.

Texti / Jónas Atla Gunnarsson

19 ára New York-búi gerir heimildarmynd um íslenska sauðfjárbændur

||
||

„Það sem veitir mér innblástur eru mál sem snerta venjulegt fólk, hvort sem það býr í stríðshrjáðum löndum, er heimilislaust í New York eða þarf að bregðast við breyttu landslagi í sauðfjárbúskap á Íslandi,“ segir neminn, ljósmyndarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Erik Kantar. Erik er nítján ára gamall og vinnur nú að heimildarmynd um íslenska sauðfjárbændur. Hann féll fyrir landi og þjóð í fyrra og ákvað í kjölfarið að kafa ofan í heim fjárbænda.

Fór á puttanum um Ísland

Erik við störf í íslenskri náttúru.

„Mig hafði alltaf dreymt um að fara til Íslands þannig að í fyrra lét ég hvatvísi ráða för og pantaði sextán daga ferð og kom til landsins án þess að vera með hótel bókað. Ég var svo spenntur að koma á staðinn. Ég fór á puttanum um landið og varð ástfanginn af öllu við Ísland. Alveg síðan þá hefur hjarta mitt sagt mér að kom aftur. Ég þurfti að finna mér verkefni svo ég gæti gert eitthvað stærra en bara heimsækja landið,“ segir Erik og brosir.

„Ég valdi að gera heimildarmynd um sauðfjárbændur því iðnaðurinn er að deyja á smærri býlum. Yfirvöld hafa gert þessum bændum erfitt fyrir að lifa af starfinu eins og þeir gerðu áður fyrr. Þessi iðnaður er að breytast hratt og myndin mun fjalla um það.“

Í anda Vice

Hann segir að myndin verði í anda heimildarþátta frá Vice Media.

„Markmið myndarinnar er mjög hnitmiðað. Myndin fjallar um hið geysistóra vandamál sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir í dag, sem í raun neyðir þá til að hætta búskap, og hvernig ein fjölskylda er að kljást við þetta vandamál. Í stuttu máli er markmið myndarinnar að sýna þessar breytingar í bússkapnum í gegnum líf einnar fjölskyldu.“

Erik er nýsnúinn aftur til Bandaríkjanna eftir að hafa eytt tíma hér á landi við tökur. Hann fékk gistingu hjá bændunum á Hólum í Búðardal, sem reka einnig lítinn húsdýragarð sem er opinn á sumrin og líkaði dvölin vel.

„Fjölskyldan hafði frábæra sögu að segja fyrir myndina,“ segir Erik dulur og vill ekki gefa of mikið upp um það. Erik snýr svo aftur til Íslands í réttir í haust til að taka upp meira efni og klárar myndina í kjölfarið. Hægt verður að horfa á myndina á heimasíðu hans, erikkantarphoto.com en hægt er að fylgjast með framgang myndarinnar á Instagram síðu hans undir nafninu @erikkantar.

En hvað tekur svo við hjá Erik?

„Ég get ekki sagt til um það strax. En Ísland er alltaf í hjarta mínu þegar ég leita að sögu.“

Byggðastofnun skoðaði dreifingu sauðfjár á Íslandi árið 2016 miðað við ásetning það ár. Þá kom fram að …

… fjöldi sauðfjárbúa hér á landi væri 2481 talsins
… búunum hafði fækkað um sautján bú frá árinu áður
… langflest búin töldu 199 eða færri kindur, eða 63,5%
… stærstu búin sem héldu 600 kindur eða fleiri væru aðeins 125 talsins

Meeee!

Hef ekki þörf fyrir já-fólk

|||||
|||||

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum sig. Henni finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála sér og kippir sér lítið upp við gagnrýni en myndi hins vegar aldrei þora að birta eigin skáldskap af ótta við að vera grilluð.

„Ég hef sennilega enst svona lengi í stjórnmálum vegna þess að ég hef húmor fyrir fólki og sjálfri mér. Það er alveg nauðsynlegt,“ segir Katrín, spurð út í þátttöku hennar í stjórnmálum.

Katrín er eðli málsins samkvæmt umsetin kona og ekki margar lausar stundir í hjá henni í deginum. Hún gefur sér þó tíma til að spjalla við mig og þar sem viðtalið fer fram í vikunni þegar Trump Bandaríkjaforseti setur alþjóðasamfélagið á hliðina með innflytjendastefnu sinni, jafn vel þótt hann hafi síðan vikið frá því að skilja að foreldra og börn innflytjenda, er eðlilegt að fyrsta spurningin snúi að því hvað henni finnist um framgöngu hans.

„Það að skilja börn frá foreldrum sínum er auðvitað ekki í takt við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir hún. „Og þótt Bandaríkin séu ekki aðilar að honum stríðir þetta líka gegn þeim gildum sem við stöndum fyrir þegar kemur að því að tryggja velferð og réttindi barna. Þetta er auðvitað líka mjög umdeilt innan Bandaríkjanna, hefur sætt mikilli gagnrýni úr báðum flokkum og sérlega áhugavert að allar lifandi forsetafrúr Bandaríkjanna hafa gagnrýnt þetta.“

Þú munt sem forsætisráðherra Íslands ávarpa NATO-ráðstefnuna í Brussel í júlí, þar sem Trump og Erdogan verða meðal áheyrenda, hvernig leggst það í þig?

„Það er bara hluti af starfinu að eiga í alþjóðlegum samskiptum,“ svarar Katrín hin rólegasta. „Það er bara þannig.“

VG er eini flokkurinn sem hefur haft það á stefnuskrá að Ísland gengi úr NATO, þannig að það hlýtur að taka svolítið á þig persónulega að þurfa að taka þátt í ráðstefnu þess.

„Við höfum þá stefnu, það er rétt,“ segir Katrín. „Það breytir því ekki að allir aðrir flokkar á þinginu hafa samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland þar sem aðildin að NATO er einn af hornsteinunum og við fylgjum þeirri stefnu sem er lýðræðislega samþykkt, það er auðvitað bara hluti af því að vera í stjórnmálum og það höfum við gert áður þegar við vorum síðast í ríkisstjórnarsamstarfi og það liggur fyrir að sem ráðherra starfar maður samkvæmt þeirri stefnu sem Alþingi hefur tekið lýðræðislega ákvörðun um að fylgja.“

Ég var reyndar að fiska eftir persónulegri líðan Katrínar með það að þurfa að vera í samskiptum við þessa menn en hún er ekki á því að láta mig komast upp með það. Hún bætir þó við: „Ég mun auðvitað tala fyrir okkar utanríkisstefnu sem er sú að það beri alltaf að reyna að stefna að pólitískum og friðsamlegum lausnum á átökum. Það eigi alltaf að vera fyrsta val. Við höfum ákveðna sérstöðu sem herlaust land og tölum fyrir slíkum lausnum á alþjóðavettvangi og ég mun gera það á þessum fundi.“

„Fólk verður að fá að hafa sínar skoðanir og ég hef aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum mig. Mér finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála mér.“

Katrín segist hafa góðan stuðning allrar fjölskyldunnar en hún er yngst fjögurra systkina og segist hafa verið hálfgerð dekurrófa á heimilinu.

Hefur húmor fyrir fólki
Vinstri græn hafa setið undir gagnrýni síðan þau fóru í ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, er starf forsætisráðherra ekki ofboðslega slítandi?

„Það er nú ekki allt neikvætt, sem betur fer,“ svarar Katrín um hæl og ég heyri að hún brosir. „Það eru einhverjir ánægðir og aðrir ekki. Það er nú bara hluti af því að vera í stjórnmálum.“

Þetta svar vekur upp spurninguna um það hvað upphaflega hafi valdið því að Katrín fór að taka þátt í stjórnmálum.

„Ég er búin að vera á Alþingi síðan 2007 og mun lengur í pólitík og ástæðan fyrir því er að ég hef rosalegan áhuga á samfélagsmálum og fyrir því að vinna fyrir samfélagið. Þann áhuga hef ég haft frá því ég byrjaði að vera virk í félagslífi í framhaldsskóla. Ástæðan fyrir því að ég endist í pólitík er hins vegar að ég hef líka áhuga á fólki og mér finnst gaman að vinna með því, líka fólki sem er ósammála mér. Það finnst mér geta verið krefjandi og áhugavert. Ég hef sennilega enst svona lengi í stjórnmálum vegna þess að ég hef húmor fyrir fólki og sjálfri mér. Það er alveg nauðsynlegt.“

Þrátt fyrir langan stjórnmálaferil, meðal annars sem menntamálaráðherra, hlýtur starf forsætisráðherra að vera mun meira álag en Katrín hefur áður upplifað. Er þetta starf það erfiðasta sem hún hefur tekist á við?

„Já, ætli það sé það ekki,“ segir hún hugsi. „En það er auðvitað þannig að við öll sem vorum í stjórnmálum eftir hrun, óháð því hvort við vorum í stjórn eða stjórnarandstöðu held ég, lifðum tíma sem reyndust mörgum mjög erfiðir og það að vera menntamálaráðherra og vinna í málaflokkum sem maður hefur ástríðu fyrir, bæði menntamálum og menningarmálum, var auðvitað flókið á mestu niðurskurðartímum í lýðveldissögunni, þannig að ég segi ekki að maður hafi ekki mætt mótlæti eða álagi áður. En þetta er auðvitað stórt verkefni sem ég er í núna.“

„Ég verð í stjórnmálum á meðan ég hef ástríðu fyrir þeim. Svo hætti ég. Við verðum bara að bíða og sjá hvenær það verður.“

Sofnar um leið og hún sest niður
Hefurðu einhvern tíma til að eiga eitthvert líf fyrir utan starfið? Geturðu horft á fótbolta og gert eitthvað sem þér finnst skemmtilegt?

„Starfið er sem betur fer líka skemmtilegt. En það er ekki mikill tími sem gefst til að kúpla sig út en maður verður að gera það við og við, annars missir maður bara vitið,“ segir Katrín og hlær. „En það verður að viðurkennast að til þess gefst minni tími en oft áður.“

Ertu áhugamanneskja um fótbolta?

„Já, ef ég væri í öðru starfi eða hefði tök á því þá myndi ég horfa á alla leiki en akkúrat núna er ástandið þannig að maður lætur sér nægja að fylgjast með leikjum Íslands. Svo sér maður kannski slitrur úr öðrum leikjum á hlaupum. Það er auðvitað töluvert horft á þetta á mínu heimili þar sem ég á nú þrjá stráka þannig að ég missi ekki alveg af þessu.“

Geturðu einhvern tíma verið heima hjá þér á kvöldin?

„Jú, jú, auðvitað kemur maður stundum heim,“ svarar hún og andvarpar. „Gallinn er að maður sofnar yfirleitt strax og maður sest niður þannig að maður er kannski ekki góður félagsskapur.“

Katrín hefur áður talað um það í viðtölum að heimilishaldið hvíli mest á eiginmanni hennar, Gunnari Sigvaldasyni, og það hefur væntanlega ekki breyst við nýja starfið, eða hvað?

„Já, þetta hvílir ansi mikið á honum, það verður að viðurkennast,“ segir hún. „Það er held ég hluti af því sem gerist hjá mörgum stjórnmálamönnum að makar þeirra þurfa að taka mestu ábyrgðina á öllu þessu sem þarf að sinna hjá öllum fjölskyldum. Vinnutíminn er oft mjög óvenjulegur og ófyrirséður og það er kannski það sem ég ímynda mér að sé leiðinlegast við að vera giftur stjórnmálamanni. Að vita í sjálfu sér aldrei hvað gerist.“

„Við höfum ákveðna sérstöðu sem herlaust land og tölum fyrir slíkum lausnum á alþjóðavettvangi og ég mun gera það á þessum fundi.“

Alltaf erfitt að vera í ríkisstjórn
Eins og fram kom áður hefur þingflokkur VG setið undir gagnrýni fyrir að hafa gengið inn í þetta ríkisstjórnarsamstarf. Er ekkert erfitt að takast á við það?

„Það er bara erfitt að vera í ríkisstjórn, það var líka erfitt á árunum 2009-2013, það er bara hluti af lífinu. Maður gengur ekki inn í þetta verkefni með það að markmiði að verða eitthvað sérstaklega vinsæll. Okkur fannst hins vegar mjög mikilvægt að hafa áhrif á stjórn landsins. Það hefur verið að molna undan innviðum samfélagsins eftir kreppu og við verðum bara að horfast í augu við stöðuna eins og hún er. Það er mjög mikilvægt að við nýtum núna þá efnahagslegu hagsæld sem verið hefur til þess að byggja upp þessa innviði. Það eru líka stór verkefni sem mínum flokki fannst mikilvægt að hafa áhrif á, ég get nefnt umhverfismálin, náttúruvernd og loftslagsmál, kynjajafnréttismál og þessa innviðauppbyggingu sem mér finnst mikilvæg til þess að tryggja aukinn jöfnuð og aukna velsæld í samfélaginu. Þannig að, jú, jú, við erum gagnrýnd fyrir það að gera málamiðlanir og ná ekki öllum okkar málum fram en það er bara fylgifiskur þess að fara í ríkisstjórn. Það er ekki eins og við séum ókunnug þessum viðbrögðum frá fyrri tíð. Ef maður er alltaf að hugsa um að einhverjum muni finnast eitthvað athugavert við það sem maður gerir þá mun maður líklega aldrei gera neitt.“

Er þetta ekki bara svipað og að vera í hjónabandi? Snýst þetta ekki meira og minna um málamiðlanir og tilslakanir?

„Jú, jú, það er náttúrlega undirstaða lýðræðissamfélaga að ólík öfl geti gert málamiðlanir og það þekkjum auðvitað bæði úr okkar sögu og sögu annarra landa að undirstaðan er sú að við höfum öll okkar hugmyndir og okkar stefnu og svo þurfum við einhvern veginn að lenda einhverjum ásættanlegum niðurstöðum og það er auðvitað alltaf flókið.“

Katrín í myndatöku á tröppum Stjórnarráðsins.

Tekur ekki fram fallbyssuna
Oft hefur verið bent á Katrínu sem einn mesta diplómatann í íslenskum stjórnmálum, er hún sammála því mati? Á hún auðvelt með að miðla málum og aðlaga sig að ólíkum áherslum annarra?

„Ég held það sé alveg rétt að ég eigi það og það átti í sjálfu sér alveg eins við í stjórnarandstöðu,“ segir Katrín. „Ég viðurkenni það að ég er ekki manneskja stórra orða og ég tek ekki fram fallbyssuna í hvert sinn sem eitthvað gerist. Mér finnst það ekki spennandi stjórnmál sem snúast bara um það.“

Þegar Katrín tók við forsætisráðherraembætinu vakti það einna mesta athygli erlendra miðla að hún væri sérfræðingur í glæpasögum sem myndi væntanlega koma sér vel í þessu starfi. Er hún sammála þeirri skoðun? Er það góður grunnur fyrir forsætisráðherra að hafa stúderað glæpasögur?

„Það er góður grunnur fyrir alla stjórnmálamenn,“ segir hún og glottir. „Þetta er náttúrlega skrýtinn geiri og glæpasögur byggja á þeirri forsendu að engum sé treystandi, þannig að er það ekki ágætis grunnur?“

Þurfa stjórnmálamenn þá alltaf að vera á varðbergi gagnvart því að einhver styngi þá í bakið?

„Ja, maður hefur séð dæmi um það í stjórnmálum,“ svarar hún rólega. „Þótt ég þekki það ekki endilega persónulega af minni reynslu. En maður hefur séð það gerast hjá öðrum.“

Les skáldskap á hverjum degi
Glæpasögur eru varla eina áhugamálið, hvaða fleiri áhugamál hefur forsætisráðherrann?

„Ég hef engin áhugamál, ég er alltaf í vinnunni,“ svarar Katrín um hæl og skellir upp úr. „Nei, nei, ég hef rosalega gaman af því að vera úti á sumrin og njóta okkar náttúru og fallega lands. Sennilega er það stærsta áhugamál mitt að vera úti í íslenskri náttúru og síðan les ég nú fleira en glæpasögur. Ég les skáldskap á hverjum einasta degi. Þótt glæpasögur séu ágætar geta þær orðið leiðigjarnar til lengdar, maður er svolítið farinn að sjá það fyrir á blaðsíðu 200 hver morðinginn reynist vera á síðu 500 þegar maður hefur lesið svona mikið af þeim. Þannig að ég les alls konar skáldskap og þetta tvennt er efst á listanum, að vera úti og lesa.“

Það fylgir því auðvitað að vera í opinberu embætti að þurfa að gæta orða sinna en áttu ekki eitthvert athvarf, hjá vinum eða fjölskyldu, þar sem þú getur bara verið Katrín og sagt allt sem þér dettur í hug?

„Maður verður auðvitað að sinna þeim störfum sem maður tekur að sér og gerir það bara. Þau eru hluti af manni sjálfum líka. En það er nauðsynlegt að eiga góða vini og fjölskyldu þar sem maður getur talað í trúnaði og þarf ekki að vega og meta hvert orð. Og ég er mjög heppin með vini.“

„Ég ímynda mér að það sé miklu verra að vera tekinn af lífi sem rithöfundur. Maður er öllu vanur úr stjórnmálunum en það hlýtur að vera alveg hræðileg upplifun að láta grilla hugverkin sín.“

Alveg einlæglega, hvað hefur reynst þér erfiðast í starfi forsætisráðherra?

„Kannski það að maður er alltaf í embættinu, eins og við vorum að tala um. Það er auðvitað ákveðið álag. Þess vegna er ég að tala um nauðsyn þess að eiga góða vini sem maður getur verið opinskár við og sagt hluti sem eru ekki „réttir“. Sagt bara allt sem ekki má. Það er alveg ljóst að maður talar ekki bara fyrir sína hönd þegar maður er forsætisráðherra, maður talar fyrir hönd landsins.“

Eitt af því sem gerir það að verkum að Katrín hefur verið einn vinsælasti stjórnmálamaður á Íslandi er hvað hún er vel máli farin og fer vel með tungumálið, er það að hennar mati nauðsynlegur eiginleiki góðs stjórnmálamanns?

„Það skiptir máli fyrir okkur öll að nýta tungumálið sem við eigum, við gleymum því stundum hvað við eigum mikil verðmæti í þessu tungumáli. Ég er oft spurð erlendis hvaða tungumál við tölum á Íslandi og það kemur mörgum á óvart þegar ég segi að við tölum íslensku. Það er eins og mörgum, sérstaklega stærri þjóðum, finnist það algjörlega galið að 350.000 manna þjóð tali eigið tungumál. Ég held hins vegar að það skipti okkur sem þjóð ofboðslega miklu máli að eiga þessar rætur og geta verið í þessum tengslum við okkar fortíð í gegnum tungumálið. Það er sérstaklega mikilvægt núna, þegar við sjáum heiminn í kringum okkur breytast dag frá degi og tæknina verða stærri og stærri þátt í lífi okkar, að íslenskan verði gjaldgeng í tækniheiminum.“

Katrín í ríkisstjórnarherberginu.

Hefur ekki þörf fyrir já-fólk
Talið berst aftur að eiginmanninum og hvort Katrín og hann séu til dæmis alltaf sammála um pólitíkina?

„Nei, það erum við ekki,“ svarar hún. „Við rífumst alveg um pólitík. Ég veit ekki einu sinni hvað hann kýs, ég fer ekki með honum inn í kjörklefann. En hann hefur hins vegar sýnt mér mikinn stuðning með ráðum og dáð þótt hann sé ekkert alltaf sammála mér. Enda geri ég enga kröfu um það. Fólk verður að fá að hafa sínar skoðanir og ég hef aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum mig. Mér finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála mér.“

Katrín segist hafa góðan stuðning allrar fjölskyldunnar en hún er yngst fjögurra systkina og segist hafa verið hálfgerð dekurrófa á heimilinu.

„Ég var mikið uppáhaldsbarn, eins og oft er með yngstu börn,“ segir hún og hlær. „Ég er sex árum yngri en tvíburabræður mínir og fjórtán árum yngri en systir mín og þeim þótti uppeldi mínu mjög ábótavant. Þau gagnrýndu foreldra okkar mikið fyrir að hafa hætt öllu uppeldi þegar ég kom í heiminn. Það hef ég fengið að heyra frá því ég man eftir mér.“

Spurð hvað hún hafi ætlað sér að verða áður en stjórnmálin hertóku huga hennar vefst Katrínu tunga um tönn, nema hún segist aldrei hafa ætlað sér að verða stjórnmálamaður þegar hún yrði stór. „Ég hafði alls konar hugmyndir. Var minnt á það um daginn að ég hefði skrifað í einhverja bekkjarbók í grunnskóla að ég ætlaði að verða skurðlæknir. Ég hef líka mjög mikinn áhuga á því sem ég var að gera áður en ég varð stjórnmálamaður en þá vann ég bæði við bókaútgáfu og sem kennari og fannst hvort tveggja mjög gaman. Mér hafa reyndar fundist flest störf sem ég hef sinnt mjög skemmtileg.“

Birti tvær örsögur
Talandi um bókaútgáfu og færni í íslensku, skrifarðu sjálf skáldskap?

„Nei, því miður ekki,“ svarar Katrín og dæsir. „Ég er samt alltaf að ímynda mér að ég sé að fara að gera það bráðum. Ég skrifaði ljóð og einhvern hallærisskap þegar ég var unglingur en ég held það hafi beinlínis ekkert birst eftir mig af skáldskap nema tvær örsögur sem birtust í tímariti íslenskunema þegar ég var í Háskólanum. Ég lít svo á að skáld séu hugrakkasta fólk í heimi því þau rífa úr sér hjartað og leggja það á borð og eru svo jafnvel tekin af lífi og grilluð. Mér finnst það mjög ógnvekjandi starf.“

Ég bendi Katrínu á að stjórnmálamenn séu nú líka aldeilis grillaðir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum en henni finnst það mun minna mál.

„Ég ímynda mér að það sé miklu verra að tekinn af lífi sem rithöfundur. Maður er öllu vanur úr stjórnmálunum en það hlýtur að vera alveg hræðileg upplifun að láta grilla hugverkin sín.“

Einhvers staðar las ég að þú værir ákveðin í að hætta í stjórnmálum þegar þessu kjörtímabili lyki, er eitthvað hæft í því?

„Ég tek bara einn dag í einu,“ svarar hún véfréttarlega. „Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það. Ég verð í stjórnmálum á meðan ég hef ástríðu fyrir þeim. Svo hætti ég. Við verðum bara að bíða og sjá hvenær það verður.“

Og ætlarðu þá að skrifa krassandi sjálfsævisögu og segja allt sem þú gast ekki sagt á meðan þú varst í opinberu embætti?

„Það verður svoleiðis,“ segir Katrín og skellihlær. „Og svo mun ég flytja eitthvað mjög langt í burtu!“

 

Myndir: Aldís Pálsdóttir

Einstakt að ganga í bjartri nóttunni

|||
|||

Jónsmessunæturferðir frá Fimmvörðuhálsi yfir að Básum hafa notið sívaxandi vinsælda en ferðin markar hápunkt í starfi Útivistar ár hvert.

Skúli Skúlason, framkvæmdarstjóri Útivistar.

„Það sem gerir þessa göngu einstaka er kannski fyrst og fremst sú stemning sem fylgir því að ganga í bjartri nóttinni.  Kyrrðin verður næstum áþreifanleg, jafnvel fuglarnir eru farnir að sofa,“ segir Skúli Skúlason, framkvæmdarstjóri Útivistar.

Gangan fer þannig fram að brottför er síðdegis á föstudegi frá BSÍ.  Ekið að Skógum og gengið yfir nóttina yfir Fimmvörðuháls með nokkrum stoppum á leiðinni, meðal annars við skála Útivistar efst á Fimmvörðuhálsi þar sem boðið verður upp á heita kjötsúpu.  Stuttan spöl norðan við Fimmvörðuskála eru tvö yngstu fjöll landsins, þeir bræður Magni og Móði. Gengið er upp á Magna og horft yfir splunkunýtt apalhraunið sem enn rýkur úr. Það er einstök tilfinning að standa á eldfjallinu og finna hve jörðin er volg undir iljunum.

Áfram er haldið í norður og fljótlega blasir Fjallabak við í morgunbirtunni. Gengið er fram á Heiðarhornið en þaðan sést stórkostleg náttúra hvert sem litið er. Síðasti áfangi göngunnar er niður í Strákagil og þaðan heim í Bása þar sem notalegur svefnpokinn bíður þreyttra göngumanna.

Þegar kemur fram á morgun fer hópurinn að týnast í Bása og flestir þá væntanlega orðnir þægilega þreyttir þannig að það verður gott að leggja sig í nokkra klukkutíma. Allur farangur er fluttur yfir í Bása þannig að svefnpoki og tjald verður komið á staðinn þegar þangað er komið. Um kvöldið verður svo slegið upp grillveislu þar sem boðið verður upp á klassískt lambalæri.  Eftir matinn verður svo slegið upp varðeldi og að sjálfsögðu tekið lagið eins og í öllum góðum útilegum.

Skúli segir umgjörðina um þessa göngu vera umfangsmeiri en í venjulegum Fimmvörðuhálsferðum og kjötsúpan uppi á hálsinum sé bara einn þáttur í því.  „Loks er það svo sú stemning sem er í Básum þessa helgi, en fjöldi fólks gerir sér ferð þangað til að upplifa hana þó að það taki ekki þátt í göngunni sem slíkri.“

„Fyrir mörgum kemur sumarið ekki fyrir alvöru fyrr en með Jónsmessugöngunni á Fimmvörðuháls og gleðinni í Básum.“

Fatnaður og góðir skór skipta öllu máli
Að hans sögn er lögð áhersla að fara ekki of hratt yfir og alltaf sé gætt vel af því að hafa nægilega marga fararastjóra með í för svo þörfum allra sé sinnt, hvort sem þeir fari hægt yfir eða hratt.  „Það er snúnara að hætta við á miðri leið. Við gerum þó ráðstafanir til að geta brugðist við ef einhverjir gefast upp eða meiðast og geta ekki haldið áfram göngu. Ég tel þessa ferð henta öllum sem á annað borð geta stundað göngur.  Það er þó rétt að hafa í huga að leiðin er 24 km sem er nokkuð drjúg dagleið og auk þess verið að ganga að næturlagi.“

Þegar kemur að útbúnaði fyrir slíka ferð segir hann mikilvægt að huga að góðum gönguskóm og hlífðarfatnaði. „Mikilvægt er að hafa meðferðis allt sem göngumaðurinn þarfnast og forðast að taka með sér óþarfa hluti sem hægt er að vera án. Of þungar byrðar gera ferðina erfiðari og draga úr ánægju göngumannsins af henni. Fyrir utan líkamlegt atgervi gegna skóbúnaður og fatnaður lykilhlutverki. Veðrið í bænum við brottför segir ekki allt um hvernig veðrið er uppi á Fimmvörðuhálsi. Það má alveg ganga að því vísu að þar sé talsvert kaldara, ekki síst um miðja nótt.  Hlý undirföt, millilag og svo er nauðsynlegt að vera með regnheldan jakka og buxur í bakpokanum, jafnvel þótt það sé sólskin við brottför.  Svo þarf líka að vera með orkuríkt nesti og vatnsflösku. Líkaminn þarf orku í gönguna og þó svo við bjóðum upp á hressingu á leiðinni er það ekki nóg.“

Gengið er yfir nóttina yfir Fimmvörðuháls með nokkrum stoppum á leiðinni, meðal annars við skála Útivistar efst á Fimmvörðuhálsi þar sem boðið verður upp á heita kjötsúpu.

Að því sögðu segir Skúli að mikil tilhlökkun sé vegna göngunnar því ferðin marki alltaf ákveðin hápunkt í starfi Útivistar. „Við leggjum allt í að gera þessa helgi skemmtilega og fyrir mörgum kemur sumarið ekki fyrir alvöru fyrr en með Jónsmessugöngunni á Fimmvörðuháls og gleðinni í Básum. Á sunnudeginum er svo lagt af stað heim með rútum um hádegisbilið en fararstjórar Útivistar sjá um alla leiðsögn á heimleiðinni. Þar eru fjölmörg náttúruundur sem vert er að skoða á leiðinni með kærkomnum kaffistoppum.“

Áríðandi er að hafa meðferðis allt sem göngumaðurinn þarfnast.
Góður skóbúnaður og hlífðarfatnaður er m.a. mikilvægur.
Hlý undirföt, millilag, regnheldur jakki og buxur í bakpokanum.
Orkuríkt nesti og vatnsflaska.
Ekki of þungar byrðar.
Gott líkamlegt atgervi.

Myndir / úr einkasafni

Ísland mætir Ofurörnunum í dag

||
||

Landslið Íslands mætir Nígeríu í viðureign á HM Í Rússlandi í dag. Nígería á eitt allra sigursælasta lið Afríku og því full ástæða til að vanmeta það ekki.

Landslið Nígeríu í fótbolta er kallað Ofurernirnir.

Nígería er risastórt land. Þjóðarbrotin eru óteljandi og tungumálin sem töluð eru innan Nígeru skipta hundruðum. En eitt á öll þjóðin sameiginlegt og það er ástin á landsliðinu sínu. Saga þess er glæsileg en með sanni má segja að Nígería sé eitt allra sigursælasta lið Afríku. Við ætlum okkur auðvitað að binda enda á þessa sigurgöngu en víst er að við megum síst við að vanmeta þessa miklu knattspyrnuþjóð.

Takk, pabbi!
Það er allt í lagi að Nígeríumenn skori, svo lengi sem við skorum fleiri en þeir. En ef þeir skora syngja stuðningsmennirnir „Ósje Baba“, sem þýðir „Takk fyrir, faðir“ á yourobísku, sem er eitt af mest töluðu tungumálunum í Nígeríu. Við skulum bara vona að þeir hafi lítið að þakka fyrir í leiknum.

Vesturafrískur taktur
Stuðningsmenn Nígeríu þykja með þeim hressari en skrautlegir búningar, fagurgrænar hárkollur og  sólgleraugu í yfirstærð eru algeng sjón meðal þeirra.
Yfirleitt fylgir þeim hljómsveit sem spilar svokallaða Highlife-tónlist. Sú tónlistarstefna á rætur sínar að rekja til Gana og er blanda af klassískum vesturafrískum takti og vestrænni popptónlist.
Til að koma sér í stuð fyrir leikinn má finna fullt af Highlife-tónlist á YouTube, svona áður en við syngjum endurtekið Ég er kominn heim fullum hálsi.

Strákarnir okkar á móti Ofurörnunum
Áður en Nígería lýsti yfir sjálfstæði og tók sér sinn græna og hvíta fána spilaði landslið þeirra í rauðum búningum. Þeir voru þá kallaðir Rauðu djöflarnir. Í kjölfar sjálfstæðis urðu búningarnir grænir og síðan var viðurnefninu breytt í Grænu ernirnir. Í kjölfar mjög svo umdeilds ósigurs þeirra í úrslitum Afríkubikarsins árið 1988 var nafninu breytt í Ofurernina.
Kvennalandslið þeirra kallar sig Ofurfálkana og eru unglingalandslið beggja kynja kölluð ýmist Fljúgandi ernirnir eða Gylltu arnarungarnir.

Þrefaldir Afríkumeistarar
Þrisvar hafa Nígeríumenn hrósað sigri í Afríkukeppninni. Keppnin er haldin annað hvert ár og sigraði Nígería fyrst árið 1980 á heimavelli, svo árið 1994 í Túnis, og að lokum árið 2013 í Suður-Afríku.
Liðið komst hins vegar ekki á lokamótið tvö síðustu skipti, árið 2015 og 2017.

Dottnir úr stuði?
Nígería hefur einungis unnið einn leik af síðustu sjö og gert eitt jafntefli. Margir segja að gullöld þeirra sé liðin og ljóst er að í liðinu er enginn leikmaður sem kallast getur stórstjarna.
Það eru góðar fréttir fyrir okkur, en þrátt fyrir það er ljóst að leikurinn verður gríðarlega erfiður.

Erkifjendur og nágrannar
Nígeríumenn hafa marga hildina háð við landslið Kamerún og mikil samkeppni hefur myndast milli þessara granna. Hápunktinum var náð í úrslitaleik Afríkukeppninnar árið 2000 en dómarinn dæmdi svo í vítaspyrnukeppni að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu að vítaspyrna Viktors Ikpeba hefði ekki farið yfir línuna og því töpuðu þeir leiknum.

En erkifjendur Nígeríu á knattspyrnuvellinum eru samt sem áður Ganabúar sem einmitt gerðu jafntefli 2-2 við íslenska landsliðið í loka undirbúningsleik okkar fyrir HM.

2010 komst nígeríska landsliðið ekki upp úr riðlinum á HM. Forseti landsins, Goodluck Jonathan, fyrirskipaði að í refsingaskyni skyldi liðið sæta tveggja ára keppnisbanni.

Frumraunin á HM ‘94
Nígería komst í fyrsta sinn á lokamót HM árið 1994. Liðið var firnasterkt og mikill og góður liðsandi þótti einkenna spilamennsku þess. Þeir sigruðu riðilinn sinn og voru svo tveimur mínútum frá því að sigra Ítalíu í 16 liða úrslitum. Roberto Baggio nokkur marði drauma þeirra með marki á lokamínútunni svo Nígería sat eftir en Ítalía hélt áfram keppni þar til þeir töpuðu fyrir Brasilíu í frægri vítaspyrnukeppni í útslitaleiknum.
Þar réð spyrna téðs Roberto Baggio úrslitum í leiðinlegasta úrslitaleik síðari tíma en hann skaut himinhátt yfir af punktinum.

Pólitísk afskipti
Ofurernirnir komust aftur á HM 1998, 2002, 2010 og 2014. Þeir hafa lengst komist í 16 liða úrslit.
2010 komust þeir hins vegar ekki upp úr riðlinum og hlutu einungis eitt stig. Forseti landsins, Goodluck Jonathan, fyrirskipaði svo að í refsingaskyni skyldi liðið sæta tveggja ára keppnisbanni. Stórundarleg ákvörðun í alla staði og FIFA hótaði öllu illu enda lítt hrifið af pólitískum afskiptum.
Í kjölfarið fór af stað mikill farsi þar sem þingið aflétti banni forsetans, en FIFA fannst það ekki nóg og setti liðið í ótímabundið bann um haustið. Bannið entist í heila fjóra daga en var þá aflétt.

Gekk fram af Kínverjum

Sólveig Guðmundsdóttir leikkona rifjar upp eftirminnileg hlutverk á ferlinum.

Sólveig Guðmundsdóttir leikkona segir að öll þau hlutverk sem hún hefur tekið að sér eða fengið tækifæri til að skapa hafi stækkað hana sem leikkonu. Eftirminnilegasta hlutverkið hljóti þó að vera Sóley Rós ræstitæknir í samnefndum tvíleik sem hún og María Reyndal settu upp í Tjarnarbíói en þar lék hún á móti Sveini Ólafi Gunnarssyni. „Við María skrifuðum verkið og framleiddum það og þar sem það byggir á sögu konu sem býr og starfar á Akureyri og fjallar um barnsmissi, atburð sem bæði er erfitt að tala um og sviðsetja, þá var líka mikil ábyrgð á okkur að skila verkinu vel af okkur,“ lýsir hún og bætir við að það sé ekki oft sem leikarar fái svona hlutverk upp í hendurnar. Því hafi allir sem að verkinu komu vandað sig og hlúð að þessari fallegu og viðkvæmu sögu. „Það var ótrúlegt að fara með áhorfendum í gegnum hlátur og grátur í svona náinni frásögn. Mikill skóli. Mér fannst ég stækka bæði sem leikkona og manneskja við að vinna verkið. Þetta var líklega svona lykilhlutverk fyrir mig.“

Önnur sýning sem Sólveigu þykir óhemju vænt um er sýningin Lífið – stórkostlegt drullumall sem Leikhúsið 10 fingur setti upp. „Við Helga Arnalds, Charlotte Böving og Sveinn Ólafur bjuggum þá sýningu til frá grunni. Verkið segir stóra sögu fyrir börn og fullorðna en alveg án orða og efniviðurinn eða leikmyndin er mold þannig að við sköpum heilan heim úr mold á sviðinu,“ segir hún og játar að þetta hafi ekki verið auðvelt verk; að búa til sýningu úr engu, án allra orða og aðeins með mold til að leika með. Orkan sem listrænir stjórnendur settu í verkið hafi hins vegar skilað sér á fallegan hátt í það og til áhorfenda víðs vegar um heim og gaman að sjá hvernig mismunandi menningarheimar upplifðu söguna. „Í Kína þar sem við sýndum verkið síðasta sumar þóttum við til dæmis fara yfir strikið með því að setja moldina upp í okkur og slást og bítast um yfirráðasvæðið, um moldina, á meðan Möltubúar tengdu við heilagleikann og möguleg trúartákn í sýningunni. En eitt af því skemmtilega við verkið, sem stendur til að sýna í Þýskalandi, Kaíró og í Hollandi á næsta ári, er að það talar til allra aldurhópa og er mjög opið til túlkunar. Þetta er því hlutverk sem gaman er að heimsækja aftur og aftur.“

Af öðrum hlutverkum nefnir Sólveig Agnesi í ILLSKU, sem Óskabörn ógæfunnar settu upp og Vignir Rafn Valþórsson leikstýrði og Jórunni í íslenska barnaleikritinu Horn á höfði sem GRAL setti upp í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar. „Svo er ég mjög þakklát fólkinu sem ég hef unnið með á ferlinum, meðal annars leikstjórunum sem hafa boðið mér vinnu því það er mikilvægt að vera treyst fyrir hlutverki til að æfa sig og verða betri í handverkinu,“ segir hún glöð.

Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Þetta er sagan hans

Benjamín Nökkvi Björnsson greindist með hvítblæði níu vikna gamall. Hann sigraðist tvisvar á veikindum sínum og er sá einstaklingur sem hefur lifað lengst með meinið.

Tæpum tólf árum síðar laut hann í lægra haldi eftir að hafa þjást af sjaldgæfum lungnasjúkdómi. Móðir hans, Eygló Guðmundsdóttir segir Benjamín notið hafa góðra lífskjara enda lifði hann í algjörri núvitund. Hún varði nýverið doktorsritgerð sína sem fjallar um sálfélagsleg áhrif foreldra krabbameinsgreindra barna, samhliða því að skrifa bók um sögu þeirra mæðgina.

Sama dag og Benjamín dó átti hann innihaldsríkt samtal við móður sína. „Hann sagðist ekki eiga mikið eftir inni og spurði hvort ég yrði leið að heyra hann segja þetta. Ég játti því auðvitað en bætti við að hann mætti tala um allt við mig. Við héldumst svo í hendur og grétum.
Ég hafði séð hann draga sig sífellt meira inn í skel og á þessum tíma var hann alfarið hættur að mæta í skólann. Síðasta árið vildi hann lítið umgangast önnur börn og upplifði sig sífellt meira sem líkamlega vanmáttugan. Ég hélt á honum milli staða til að spara orkuna hans en þegar vinir hans voru fyrir utan í fótbolta og hann með súrefniskútinn hélt hann fast í virðingu sína og bað um að fá að ganga. Svo heilsaði hann en hélt aftur inn.”

„Hann fór rosalega langt á þrjóskunni og síðustu vikuna lifði hann á viljanum. Hann hafði ákveðið að halda Fífa-mót og fleira en þegar því lokið dó hann á einum degi.”

Bókin, sem bráðum kemur út byrjaði sem bloggfærsla en Eygló vantaði hvíld frá símaeyranu. „Sem móðir langveiks barns verður maður fljótt þreyttur í símaeyranu en samt þakklátur þeim sem vildu fylgjast með. Ég hætti að blogga en fann friðþægingu í skrifunum. Þau urðu óvart að bókarhandriti en tilgangur þess að birta skrifin er fræðsla, á hversdagsmáli. Hver sem er á að geta lesið og sett sína sýn í textann en á sama tíma upplýsa þá sem standa hinum megin við línuna.”

„Það segir til að mynda ekki sannleikann þegar foreldrar veikra barna svara að þau hafi það fínt. Þau vita að þau hafa fimmtán mínútur og verja þeim tíma skiljanlega frekar í að læknirinn fari yfir stöðu veika barnsins en sinnar eigin.”

„En þetta er saga okkar Benjamíns. Þrátt fyrir að við hefðum mætt allskonar viðmóti er þetta síður en svo einhver predikunarbók. Þeir sem þekkja vita að maður verður ofboðslega einn í svona ferli. Eitt af því sem ég á erfiðast með að heyra sem sálfræðingur er að það sem brjóti mann ekki styrki því í svona tilfellum er maður neyddur út í aðstæður. Ef ég mætti velja væri ég ekki pínd til að standa á brúninni til að njóta lífsins. Á sama tíma veit ég að fólk meinar vel og eflaust myndi Benjamín skamma mig fyrir að vera dónaleg því hann vildi bara vera blíður. Þetta er bókin hans og á sama tíma viðbrögð mín í geggjuðum aðstæðum.”

Viðtalið má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Förðun / Björg Alfreðsdóttir.

Hera landar hlutverki í þáttum frá höfundi Mad Men

Íslenska leikkonan Hera Hilmarsdóttir, nú þekkt undir nafninu Hera Hilmar, er búin að landa hlutverki í sjónvarpsþáttunum The Romanoffs sem frumsýndir verða á Amazon Prime í ár. Vefsíðan Deadline segir frá þessu.

The Romanoffs kemur úr smiðju Matthew Weiner, höfundar þáttanna Mad Men sem nutu gríðarlegra vinsælda og sópuðu til sín verðlauna. Hera leikur konuna Ondine, samkvæmt frétt Deadline, í þætti sem heitir The One That Holds Everything. Er Ondine lýst sem glæsilegri veru sem er fær um voðaverk.

The Romanoffs eru byggðir upp á mismunandi sögum af fólki sem telur sig vera afkomendur rússnesku konungsfjölskyldunnar. Meðal annarra leikara í seríunni eru Diane Lane, Aaron Eckhart, Isabelle Huppert, Marthe Keller, Christina Hendricks, John Slattery, Jack Huston og Amanda Peet.

Það er því nóg að gera hjá Heru og rís fræðgarsól hennar hátt, en hún er í aðalhlutverki í kvikmyndinni Mortal Engines sem frumsýnd verður í desember. Myndinni er beðið með mikillar eftirvæntingu en hún er byggð á bókaröð eftir Philip Reeve.

Sjónvarpspör sem hefðu hætt saman í raunveruleikanum

||||
||||

Það eru ófá pörin sem hafa fellt hugi saman á sjónvarpsskjánum. Hins vegar eru samböndin oft það stormasöm að það er furða að pörin hangi saman, og oft vantar uppá samskiptahæfileika þeirra.

Þetta er meðal þess sem nokkrir hjónabandsráðgjafar segja í nýrri grein á Huffington Post, þar sem farið er yfir þau sjónvarpspör sem hefðu ekki endað saman í raunveruleikanum.

Ross og Rachel í Friends

Þetta var sannarlega haltu mér-slepptu mér samband sem endaði með því að Ross og Rachel byrjuðu enn á ný saman í síðustu þáttaröðinni, eftir að hafa eignast barn saman. Danielle Forshee, félagsráðgjafi frá New Jersey, segir að þau hefðu eflaust dottið aftur í sitt gamla sambandsmynstur í framtíðinni.

„Sambandið var búið til á grunni sem var skemmdur eftir áralanga og vafasama hegðun. Þau voru bæði trúlofuð öðrum, þau áttu í samskiptaerfiðleikum með að tjá sig nákvæmlega um hvernig þeim leið með hvert annað og síðan giftu þau sig skyndilega í Las Vegas þegar þau voru blindfull,“ segir hún. Danielle Kepler, sambandsráðgjafi frá Chicago, er sammála því að samskipti Ross og Rachel hafi verið afleit.

„Þau gerðu það sem flestir gera þegar þeir eiga erfitt: spyrja vini sína ráða eða kvarta í staðinn fyrir að tala við hvort annað.“

Carrie og Mr. Big úr Sex and the City

Það eru ekki allir sammála um hvort það hafi verið gott og rétt að Carrie hafi loksins endað með Mr. Big, enda var hann búinn að halda henni heitri í fjölmörg ár. Carly Haeck, sambandsráðgjafi í Seattle, segir að þeirra leið til að glíma við tilfinningar myndi eflaust slíta þeim í sundur í framtíðinni.

Hún segir að manneskjur eins og Big, sem á erfitt með að binda sig annarri manneskju, kunni að þrá ást en eigi erfitt með nánd. Þá segir hún að Carrie þurfi sífellda staðfestingu á sambandi þeirra.

„Í gegnum þeirra samband hefur Big fjarlægt sig frá Carrie, kannski til að bjarga sér frá því að vera berskjaldaður eftir að hafa verið særður í hjónabandi sínu,“ segir Carly og heldur áfram.

„Því meira sem hann dregur sig í hlé, því óöruggari verður Carrie í sambandinu, sem veldur því að hún er bæði mjög óþreyjufull í leit sinni að sambandi og gengur meira á eftir honum og fjarlægir sig stundum frá honum til að hann særi hana ekki.“

Carly segir að þessi hegðun fari í hringi og gæti orðið til þess að Big yrði enn fjarlægari, sem myndi þýða endalok sambandsins.

„Þau þyrftu að átta sig á þessari hringrás og hvað veldur henni til að láta sambandið ganga og tala saman til að finnast þau örugg í sambandinu.“

Chuck og Wendy Rhoades í Billions

Linda Schlapfer, hjónabands- og fjölskylduráðgjafi í Connecticut, segir að ágreiningur á milli þessara tveggja myndi strax koma í ljós þar sem Chuck er lögfræðingur að rannsaka Axe Capital þar sem Wendy vinnur sem geðlæknir.

„Það er ómögulegt að halda með erkióvinum þegar annar er yfirmaður þinn og hinn eiginmaður þinn,“ segir Linda. Hún bætir við að bæði Chuck og Wendy hafi stigið yfir óafsakanlegar línur í hjónabandinu.

„Hann braust inn í tölvuna hennar og það er alveg bannað. Og hún fær svakalegar gjafir frá Axe og eyðir miklum tíma með yfirmanni sínum eftir vinnu. Það myndi láta hvaða eiginmanni sem er líða óþægilega.“

Tony og Carmela Soprano í The Sopranos

Carmela var rödd skynseminnar í mafíuþáttunum og þó hún hafi skilið við mafíósann í seríu fjögur náðu þau aftur saman. Danielle Forshee á erfitt með að trúa að þetta hjónaband hefði gengið í raunveruleikanum, þar sem Tony var ekki bara glæpamaður heldur steig oft yfir línuna.

„Ef eiginmaður sýnir mynstur þar sem hann heldur framhjá eða leitar utan sambandsins að tilfinningalegri, andlegri eða líkamlegri fróun þá er ólíklegt að kona í raunveruleikanum myndi heðga sér eins og Carmela gerir. Hún setur þarfir Tonys í fyrsta sæti, heldur heimilinu óaðfinnanlegu og eldar uppáhaldsmáltíðirnar hans. Það er bara óraunverulegt.“

„Það yrði allt kolvitlaust ef það væri hálfnakin kona á kökunni“

|
|

Útvarpsstöðin K100 birtir mynd á Facebook-síðu sinni af súkkulaðiköku með mynd af knattspyrnukappanum Rúrik Gíslasyni. Á myndinni er Rúrik ber að ofan en við myndina hafa forsvarsmenn K100 skrifað:

„Nú getur þú nartað í Rúrik.“

Rúrik hefur notið gríðarlegra vinsælda á Instagram eftir að heimsmeistaramót karla í knattspyrnu hófst, en þessi brandari K100 fer misvel í fólk.

Sjá einnig: Tímaritið People kallar Rúrik augnakonfekt.

„Ef þetta væri Kona ….hvað væri sagt þá ? Hann er stórglæsilegur , en mér finnst þetta orðið áreitni á drenginn. Er #metoo búið ?“ skrifar einn notandi og ýmsir aðrir taka í sama streng.

„Í alvöru talað? Hann er manneskja, ekki æti. Hlutgerving á fólki er löngu orðin úrelt,“ skrifar einn notandi við myndina og annar bætir við:

„Bara sorry …. En af hverju er þetta í lagi, en það yrði allt kolvitlaust ef það væri hálfnakin kona á kökunni.. Kallast þetta ekki bara áreitni?? svona miðað við fréttir og annað af kynferðislegri eða kynbundinni áreitni á konur, þá gildir það sama um karlmenn! sorry.. er farin í sólbað…“

Sjá einnig: BBC segir Rúrik blöndu af Brad Pitt, Channing Tatum og Chris Hemsworth.

Einhverjum sem skrifa athugasemdir við mynd K100 finnst hins vegar ekkert athugavert við myndina. Einn notandi vonar hins vegar að útvarpsstöðin hafi fengið leyfi fyrir myndanotkuninni:

„Hvað er að ykkur , þið eruð öll á hunk of meat einsvo restinn , flottur drengur myndi ekki leggja mér hann til munns en mun kvetja hann áfram af öllum salarkröftum á eftir vonandi feingu þið leyfi fyrir þessari skreytingu.“ Annar notandi sér eftir því að hafa ekki pantað slíka köku fyrir stórleikinn gegn Króatíu á eftir.

„Ó my, ég hefði átt að bjóða upp á svona í tilefni dagsins.“

Hér fyrir neðan má sjá myndina umdeildu sem hefur, þegar þetta er skrifað, verið deilt rúmlega þrjátíu sinnum:

Gagnrýni á rannsókn lögreglu vísað frá: „Mikil vonbrigði”

Nefnd um eftirlit með lögreglu tók mál Halldóru Baldursdóttur fyrir á mánudaginn, 25. júní, en Halldóra sendi nefndinni erindi þar sem hún gagnrýndi rannsókn á máli dóttur sinnar, Helgu Elínar. Mannlíf hefur fjallað ítarlega um mál Halldóru og Helgu Elínar, en Helga Elín kærði lögreglumann fyrir kynferðisbrot þegar hún var barn. Móðir hennar gagnrýndi rannsókn málsins harðlega í viðtali við Mannlíf.

Þegar að Helga steig fram og sagði frá meintu broti höfðu tvær aðrar stúlkur kært lögreglumanninn fyrir kynferðisbrot; fyrrnefnd stjúpdóttir hans, Kiana Sif Limehouse, og Lovísa Sól. Halldóra hefur mikið út á rannsókn málsins að setja og í vetur skrifaði hún bréf til nefndar um eftirlit með lögreglu þar sem hún óskaði eftir því að málsmeðferðin yrði skoðuð og gripið til viðeigandi ráðstafana. Gagnrýndi hún meðal annars að málin hefðu ekki verið rannsökuð saman, að lögreglumanninum hefði ekki verið vikið úr starfi á meðan á rannsókn stóð og að ummæli sakborningsins hefði ekki verið borin undir Helgu Elínu.

Erindi um óvandaða lögreglurannsókn vísað frá

Í niðurstöðum nefndarinnar, sem bárust Halldóru og fjölskyldu hennar á mánudag eins og áður segir, er erindi hennar sem snýr beint að óvandaðri lögreglurannsókn vísað frá. Halldóra gerði einnig athugasemdir við að lögreglumaðurinn hafi haft útkallsskyldu í hverfi fjölskyldunnar og að þar með hafi Helga verið sett í óásættanlega stöðu. Nefndin telur þá ábendingu mikilvæga, eins og kemur fram í niðurstöðum hennar, og hefur ákveðið að taka til athugunar verklag og verkferla er varða ákvarðanir innan lögreglunnar um störf og starfsskyldur þeirra starfsmanna lögreglunnar sem sakaðir eru um refsiverð brot. Hins vegar hafa slíkar ábendingar þegar komið fram til dómsmálaráðuneytis, til að mynda árið 2016 þegar samráðshópur sendi tillögur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins til ráðuneytisins. Þar stendur orðrétt:

„Útbúa þarf samræmdar leiðbeiningar sem lýsa verklagi hjá lögreglu, þar með talið á fyrstu stigum máls og við framhaldsrannsókn. Meðal annars verði tekið mið af leiðbeiningum um rannsókn nauðgunarmála sem fram koma í skýrslu starfshóps ríkissaksóknara um meðferð nauðgunarmála hjá lögreglu og ákæruvaldi (2007). Þannig verði hægt að tryggja betur gæði rannsóknar frá því rannsókn hefst uns henni lýkur. Með gátlistum og verkferlum verði meðal annars leitast við að tryggja að skýrslutökur uppfylli gerðar kröfur. T.d að bera skuli framburð sakbornings undir brotaþola að jafnaði. Þannig skipti ekki höfuðmáli hvaða lögreglumaður taki fyrstu skýrslu eða komi að rannsókn máls í upphafi. Með samræmdum gátlista verði leitast við að girða fyrir mistök við rannsókn og tryggja öflun sönnunargagna. Að auki þarf að samræma verkferla á milli lögregluembætta, meðal annars til að tryggja samræmi í öflun og greiningu beinna og óbeinna sönnunargagna, t.d. tölvu- og símagagna.“

Mikil vonbrigði

Niðurstaða nefndarinnar er fjölskyldunni mikil vonbrigði.

„Það voru okkur, fjölskyldu Helgu Elínar, mikil vonbrigði að lesa ákvörðun nefndarinnar um að vísa frá þeim hluta erindis okkar sem snýr beint að óvandaðri rannsókn lögreglu. Veigamiklum athugasemdum um að rannsóknarheimildir lögreglu hafi ekki verið nýttar, tilteknar kærur hafi ekki verið rannsakaðar saman og að ummæli sakbornings hafi ekki verið borin undir brotaþola er vísað frá á grunni þess að athugasemdirnar lúti að rannsókn máls og það sé ekki hlutverk nefndarinnar að endurskoða rannsókn mála hjá lögreglu. Þeim lið kvörtunar minnar er lýtur að grundvelli niðurfellingar málsins (ósannreynt tímavinnuskjal, framburður minnislausra vitna o.fl.) hjá ríkissaksóknara er vísað frá á grunni þess að nefndin hafi heldur ekki það hlutverk að endurskoða ákvörðun handhafa ákæruvalds um hvort ákæra er gefin út í einstaka málum,“ stendur meðal annars í yfirlýsingu sem fjölskyldan sendi Mannlífi fyrir stundu.

Skora á dómsmálaráðherra

Í yfirlýsingunni skorar fjölskyldan einnig á dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, að beita sér fyrir því að lögum sé fylgt þegar kemur að málum þar sem embættismaður er sakfelldur um brot í starfi eða kærður fyrir alvarleg brot, líkt og kynferðisbrot.

„Við fjölskylda Helgu Elínar, viljum skora á dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, sem er yfirmaður lögreglumála í landinu, að beita sér fyrir því að innan lögreglunnar starfi eingöngu þeir sem uppfylli skilyrði lögreglulaga nr. 90/1996 en í lið 28a. gr. laganna um hæfi segir að: „Engan má skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta“.

Við teljum að viðkomandi lögreglumaður sem varð uppvís að því að segja ósatt í dómsmáli gegn honum árið 2005 og hafi eftir það verið kærður í þrígang fyrir kynferðisbrot gegn börnum geti ekki uppfyllt þessi skilyrði lögreglulaganna. Lögreglumaðurinn nýtur einfaldlega ekki traust og virðingar í samfélaginu.“

„Við krefjumst breytinga“

Nefnd um eftirlit með lögreglu fer ekki með ákæruvald, en fjölskylda Helgu skorar á Sigríði Á. Andersen að bæta úr því.

„Ef nefndina skortir lagaheimildir til að geta beitt sér af fullri í hörku málum er varða öryggi almennings gagnvart lögreglu og eftirliti með lögreglu, þá skorum við á dómsmálaráðherra að bæta úr því,“ stendur í yfirlýsingunni. Jafnframt krefst fjölskyldan breytinga er varðar meðferð kynferðisbrotamála innan réttarkerfisins.

„Við viljum að tími afskiptaleysis, áhugaleysis, samtryggingar og þöggunar í meðferð kynferðisbrotamála sé liðinn. Við krefjumst viðurkenningar á þeim mistökum sem gerð voru við rannsókn kynferðisbrotamálanna sem viðkomandi lögreglumaður var kærður fyrir. Við krefjumst breytinga.“

Tók fjóran og hálfan mánuð að fá niðurstöðu

Í reglum um Nefnd um eftirlit með lögreglu kemur fram að nefndin skuli hraða meðferð máls eftir því sem kostur er og að jafnaði ljúka meðferð þess innan mánaðar frá móttöku tilkynningar. Samkvæmt skriflegum svörum frá Drífu Kristínu Sigurðardóttur, lögfræðingi hjá nefndinni, til Mannlífs hafa á árinu 2018 að meðaltali liðið 67 dagar frá því að nefndin hefur tekið á móti erindi og þar til hún hefur lagt mat á það og komið því til meðferðar réttum stað.

Halldóra Baldursdóttir, móðir Helgu Elínar, sendi erindi til nefndarinnar þann 14. febrúar síðastliðinn. Málsnúmer barst henni þann 6. apríl. Halldóra fékk niðurstöðu nefndarinnar í gær, mánudaginn 25. júní. Það liðu því fjórir og hálfur mánuður síðan hún sendi erindið. Aðspurð um þann langa tíma sem Halldóra og dóttir hennar hafa þurft að bíða eftir afgreiðslu segir Drífa ekki geta tjáð sig við fjölmiðla um einstaka mál.

Lesa má niðurstöðu nefndarinnar með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan:

NEL 18020004_ákvörðun 31.2018, dags. 25.6.2018

Yfirlýsingu Halldóru Baldursdóttur og fjölskyldu hennar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Mosfellsbæ 26.06.2018
Yfirlýsing vegna ákvörðunar NEL og áskorun til dómsmálaráðherra

Í gær barst okkur ákvörðun NEL, nefndar um eftirlit með lögreglu vegna kvörtunar okkar frá 14. febrúar 2018. Í erindinu var óskað eftir að nefndin tæki til skoðunar málsmeðferð kynferðisbrotakæru á hendur starfandi lögreglumanni og farið fram á úrbætur.

Það voru okkur, fjölskyldu Helgu Elínar, mikil vonbrigði að lesa ákvörðun nefndarinnar um að vísa frá þeim hluta erindis okkar sem snýr beint að óvandaðri rannsókn lögreglu. Veigamiklum athugasemdum um að rannsóknarheimildir lögreglu hafi ekki verið nýttar, tilteknar kærur hafi ekki verið rannsakaðar saman og að ummæli sakbornings hafi ekki verið borin undir brotaþola er vísað frá á grunni þess að athugasemdirnar lúti að rannsókn máls og það sé ekki hlutverk nefndarinnar að endurskoða rannsókn mála hjá lögreglu. Þeim lið kvörtunar minnar er lýtur að grundvelli niðurfellingar málsins (ósannreynt tímavinnuskjal, framburður minnislausra vitna o.fl.) hjá ríkissaksóknara er vísað frá á grunni þess að nefndin hafi heldur ekki það hlutverk að endurskoða ákvörðun handhafa ákæruvalds um hvort ákæra er gefin út í einstaka málum.

Nefnd um eftirlit með lögreglu tekur heldur ekki afstöðu til athugasemda um að sakborningur hafi farið með á rannsóknarvettvang, þar sem brotið átti sér stað og að vitnaskýrslur hafi verið teknar á vinnustað vinar sakbornings. Þessum athugasemdum vísar nefndin til Lögreglustjórans á Vesturlandi til meðferðar. Vísað er til þess að viðkomandi kvörtun á starfsaðferðum lögreglu heyri undir viðkomandi lögreglustjóra en ekki nefndina. Fram sé komin fullnægjandi kvörtun í skilningi lögreglulaga sem lögreglustjóra ber að taka afstöðu til í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í þessu samhengi er vert að benda á að lögreglumaðurinn sem um ræðir starfar í dag undir yfirstjórn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Í erindinu gerðum við m.a. athugasemdir við það að lögreglumaðurinn sem við kærðum hafi ekki verið leystur undan vinnuskyldu á meðan rannsókn málsins fór fram og hafi haft útkallsskyldu í okkar hverfi og þar með hafi Helga Elín, sem þá var barn að aldri verið sett í þá stöðu að geta ekki með nokkru móti kallað eftir aðstoð lögreglu ef á þyrfti að halda. Nefndin telur þessa ábendingu mikilvæga, og hefur ákveðið að taka til athugunar verklag og verkferla er varða ákvarðanir innan lögreglunnar um störf og starfsskyldur þeirra starfsmanna lögreglunnar sem sakaðir eru um refsiverð afbrot. Jafnframt hefur nefndin ákveðið að samhliða verði kallað eftir nánari upplýsingum og gögnum um ákvarðanir að þessu leyti sem teknar voru við meðferð þessa máls. Það er okkar mat að þessi staða megi aldrei koma upp aftur, að barn verði aldrei sett í þessa óviðunandi stöðu sem Helga Elín var sett í.

Við fjölskylda Helgu Elínar, viljum skora á dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, sem er yfirmaður lögreglumála í landinu, að beita sér fyrir því að innan lögreglunnar starfi eingöngu þeir sem uppfylli skilyrði lögreglulaga nr. 90/1996 en í lið 28a. gr. laganna um hæfi segir að: „Engan má skipa, setja eða ráða til starfa hjá lögreglu sem hefur gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta„.

Við teljum að viðkomandi lögreglumaður sem varð uppvís að því að segja ósatt í dómsmáli gegn honum árið 2005 og hafi eftir það verið kærður í þrígang fyrir kynferðisbrot gegn börnum geti ekki uppfyllt þessi skilyrði lögreglulaganna. Lögreglumaðurinn nýtur einfaldlega ekki traust og virðingar í samfélaginu.

Einnig krefjumst við afstöðu dómsmálaráðherra sem yfirvalds lögreglumála til þeirra athugasemda sem fram hafa komið um óvandaða rannsókn lögreglu sem nefnd um eftirlit með lögreglu vísar frá en vísar ekki til úrlausnar.
Við væntum þess að dómsmálaráðherra beiti sér fyrir því samhliða nefnd um eftirlit með lögreglu að lögreglustjórar þeirra embætta sem málið varðar sannarlega í þessu tilviki, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórinn á Vesturlandi ræki þá skyldu sína að taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að leysa viðkomandi starfsmann lögreglu frá embætti eða hvort gera þurfi breytingu á vinnuskyldum eða verkefnum viðkomandi starfsmanns lögreglu í samræmi við upp komin kynferðisbrotamál þar sem sakborningur er starfsmaður lögreglu. Við treystum því einnig að hið sama gildi í öðrum málum eftir atvikum þar sem grunur vaknar um refsiverð afbrot þar sem sakborningur er starfsmaður lögreglu.

Ef nefndina skortir lagaheimildir til að geta beitt sér af fullri í hörku málum er varða öryggi almennings gagnvart lögreglu og eftirliti með lögreglu, þá skorum við á dómsmálaráðherra að bæta úr því.

Við viljum að tími afskiptaleysis, áhugaleysis, samtryggingar og þöggunar í meðferð kynferðisbrotamála sé liðinn. Við krefjumst viðurkenningar á þeim mistökum sem gerð voru við rannsókn kynferðisbrotamálanna sem viðkomandi lögreglumaður var kærður fyrir. Við krefjumst breytinga.

Halldóra Baldursdóttir

Nafngreina lögreglumanninn í máli kvennanna þriggja

Konurnar þrjá sem hafa sakað lögreglumann um kynferðisbrot, þær Helga Elín, Kiana Sif og Lovísa Sól, stíga fram í DV í dag og fjallað er um mál þeirra, sem Mannlíf hefur fjallað ítarlega um síðustu vikur.

Í DV í dag er lögreglumaðurinn sem stúlkurnar sökuðu um kynferðisbrot nafngreindur.

„Kiana Sif og Helga Elín hafa stigið fram á forsíðu Mannlífs, hvor í sínu lagi með viku millibili, og lýst meintum kynferðisbrotum fyrrverandi stjúpföður Kiönu Sifjar, Aðalbergs Sveinssonar, lögreglumanns hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í forsíðufrétt DV um málið.

Í blaðinu er farið ítarlega yfir málið, en eins og Mannlíf hefur sagt frá bauð Kiana Sif Helgu Elínu í sumarbústaðaferð árið 2007, sem þá voru tíu ára gamlar. Í viðtali við Mannlíf sagði móðir Helgu Elínar, Halldóra Baldursdóttir, að hegðun dóttur sinnar hefði breyst í kjölfar ferðarinnar. Það var svo nokkrum árum síðar að Helga Elín sagði frá og sakaði stjúpföður Kiönu Sifjar um kynferðisbrot. Brotið var kært en málið látið niður falla.

Nokkrum árum áður, árið 2009, hafði Kiana Sif sakað stjúpföður sinn um kynferðisbrot og þriðja stúlkan, Lovísa Sól, sem var með þeim tveimur fyrrnefndu í bekk, kærði stjúpföður Kiönu Sifjar árið 2013.

Eins og hefur komið fram í Mannlífi voru vinur lögreglumannsins, sem er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera, og eiginkona hans með í umræddu sumarbústaðarferðinni. Að sögn Halldóru Baldursdóttur, móður Helgu Elínar, tók skýrslutaka yfir vinahjónunum aðeins örfáar mínútur og fór fram á skrifstofu embættismannsins. Þau hjónin og eiginkona sakbornings báru fyrir sig minnisleysi vegna áfengisdrykkju og niðurfelling málsins var meðal annars byggð á þeirra vitnisburði. Við rannsókn málsins kom fram að klámefni hafði verið haft fyrir börnunum í umræddri sumarbústaðaferð. Umrædd vinahjón voru aldrei spurð út í klámmyndaáhorfið og tölva sakbornings var ekki skoðuð. Þegar lögregla skoðaði sumarbústaðinn fór hinn meinti kynferðisafbrotamaður með á vettvang.

Vinur lögreglumannsins, háttsetti embættismaðurinn, er einnig nafngreindur í umfjöllun DV:

„Helga Elín, sem þá var 10 ára gömul, fékk að slást í för með Kiönu vinkonu sinni, Jóhönnu móður hennar og stjúpföðurnum Aðalbergi. Með í för var annað par ásamt dætrum sínum, Páll Winkel fangelsismálastjóri og fyrrverandi kona hans,“ segir í forsíðufrétt DV.

„Kvöldið áður en ég sagði frá misnotaði hann mig í seinasta skiptið“

|||||
Kiana Sif. Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttirþ|||||

Kiana Sif Limehouse var barn þegar brotið var ítrekað á henni kynferðislega, að hennar sögn. Meintur gerandi var þáverandi stjúpfaðir hennar, sá hinn sami og Helga Elín sagði í 12. tölublaði Mannlífs hafa misnotað sig kynferðislega í sumarbústað þegar hún var tíu ára gömul. Kiönu blöskrar að maðurinn, sem er lögreglumaður, fái enn að starfa, en hún er ein þriggja stúlkna sem hafa sakað manninn um kynferðisbrot. Í kjölfar erfiðrar æsku leiddist Kiana út í fíkniefnaneyslu og var farin að reykja kannabis daglega aðeins þrettán ára. Hún hefur verið edrú í þrjú ár og þarf að vinna í því á hverjum degi að elska sjálfa sig á ný.

„Ímynda ég mér stundum hvernig lífið hefði verið öðruvísi ef þetta hefði ekki gerst? Já, algjörlega. En maður lifir bara með því sem hendir mann. Föðurættin mín er mjög trúuð og hefur föðuramma mín talað um að Guð sendi einungis það til manns sem maður getur tekist á við. Ég er ekki eins trúuð og hún og get því miður ekki fundið neina réttlætingu á því sem gerðist,“ segir Kiana.

Hún verður 21 árs í nóvember, er að læra að verða félagsliði og vinnur á elliheimili. Í fyrstu virðist sem henni finnist auðvelt, ef svo má segja, að tala um fortíð sína. Hún er opin og einlæg og segir frá barnæsku sinni eins og hún sjái hana ljóslifandi fyrir sér. Kiana á bandarískan föður og íslenska móður sem skildu þegar hún var þriggja ára gömul. Þá byrjaði móðir hennar að vera með manni sem Kiana segir að hafi brotið á sér kynferðislega.

„Ég man enn í hvernig buxum hann var þetta skiptið“

„Ég fann alltaf fyrir því að ég var ekki tekin í sátt. Ég man að hann átti erfitt með að stjórna skapi sínu og ég var skömmuð fyrir minnstu hluti. Mín upplifun sem krakki var að ég væri bara fyrir,“ segir Kiana. Hún segir að þegar hún hafi nálgast kynþroskaaldurinn hafi áhugi mannsins á sér aukist.

„Ég svaf alltaf uppi í rúmi hjá mömmu þegar hann var að vinna. Þegar hann færði mig á milli rúma man ég eftir að hann byrjaði að þukla brjóstin á mér. Ég var vakandi en lét sem ég svæfi. Ég vissi að þetta var ekki rétt en ég sagði ekki neitt. Ég var lítil og hafði ekki vit á því að þetta væri óeðlilegt. Síðan fór þetta að vinda upp á sig. Hann bauð mér að smakka áfengi og einhverju síðar man ég eftir honum standandi í dyrunum á herberginu mínu þegar ég var sofandi. Þá hafði hann verið að drekka og þuklaði á sjálfum sér. Eitt kvöldið tók hann það skref að koma inn í herbergið mitt og snerta mig. Hann setti puttana inn í píkuna á mér og hélt mér þannig að ég myndi ekki snúa mér við. Þegar ég bað hann um að hætta sagði hann að þetta væri bara leyndarmálið okkar. Ég man enn í hvernig buxum hann var þetta skiptið. Ég man enn hvernig rakspírinn hans lyktaði,“ segir Kiana og augun fyllast af tárum. Konan sem ætlaði að rekja þessa sögu án þess að láta bilbug á sér finna getur ekki haldið aftur af tárunum, enda enn að glíma við afleiðingar ofbeldis og á eflaust eftir að takast á við þær alla ævi.

„Mér þótti virkilega vænt um hann. Hann var fyrirmyndin mín. Það særði mig svo ofboðslega mikið að manneskja sem mér þótti svo vænt um skyldi bregðast mér. Að horfa á einhvern sem föðurímynd í lengri tíma og svo að þessi manneskja brjóti svona rosalega á þér. Það var bara sálarmorð. Ég hugsaði bara: Gerði ég eitthvað rangt? Gaf ég of mikið af mér? Var ég of sexí? En ég var bara krakki. Ég var bara ég og ég gerði ekkert rangt,“ segir Kiana.

„Mig langar að vera fyrirmynd fyrir stelpur og stráka og mig langar að hafa áhrif á að meira sé gert í þessum málum í okkar samfélagi og öðrum samfélögum,“ segir Kiana sem dreymir um að hjálpa öðrum þolendum kynferðisofbeldis í framtíðinni.

Sér eftir að hafa ekki gargað á hjálp

Mæðgurnar Helga Elín og Halldóra Baldursdóttir sögðu, eins og fyrr segir, sögu sína í 12. tölublaði Mannlífs. Þær sögðu frá meintri misnotkun á Helgu Elínu sem átti sér stað í sumarbústaðarferð, að þeirra sögn. Sumarbústaðarferð sem Kiana, ein af hennar bestu vinkonum, hafði boðið henni í.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“.

„Ég sat aftur í og stjúpfaðir minn keyrði. Ég var mjög spennt að fá vinkonu mína með upp í sumarbústað og það var ofboðslega gaman hjá okkur. Við lékum okkur mikið og fórum í nornaleik. Við fífluðumst við einhverja mýri og ég festi mig í henni. Það var alveg ógeðslega gaman hjá okkur,“ segir Kiana og brosir áður en hún verður þungt hugsi.

„Síðan kom vinafólk mömmu og stjúppabba míns. Þau voru með dætur sínar með sér og við Helga vorum voðalega duglegar í mömmuleik og svæfðum dæturnar og litla bróður minn. Síðan byrjaði fullorðna fólkið að drekka en vinahjónin komu með tvo fulla poka með sér af einhvers konar klámefni. Við vorum náttúrlega krakkar og forvitnir um hvað væri í pokunum en þá fengum við að vita að þetta væri ekki fyrir krakka. Við Helga sváfum á uppblásinni dýnu við hliðina á sófanum og þegar stjúpi minn og vinur hans héldu að við værum sofnaðar byrjuðu þeir að tala um kynlíf. Það næsta sem ég man er að seinna um nóttina kom stjúpi minn fram og allt í einu greip Helga í hendina á mér og bað mig um að hjálpa sér. Ég stirðnaði. Ég vissi nákvæmlega hvað var að gerast en ég gerði ekki neitt. Eins ógeðslegt og það hljómar þá var ég fegin að þetta væri ekki ég en í dag vildi ég að þetta hefði verið ég, í staðinn fyrir að þetta kæmi fyrir einhvern annan. Daginn eftir vildi Helga fá að hringja í mömmu sína en hún fékk það ekki. Restin af ferðinni er bara í móðu,“ segir Kiana. Í kjölfarið flosnaði upp úr vinskapnum.

„Hún forðaðist mig og ég vissi alveg af hverju, en á sama tíma vissi ég það ekki. Ég skildi ekki af hverju hún vildi ekki tala við mig. Ég gerði ekki neitt,“ bætir Kiana við. Í dag eru þær Helga kunningjakonur og finna styrk hvor í annarri.

„Við erum sterkari saman og við skiljum hvor aðra,“ segir Kiana. Hún er þakklát þeim mæðgum fyrir að hafa stigið fram í viðtali við Mannlíf og deilt sinni reynslu. „Mér fannst magnað að lesa viðtalið við þær. Þær hafa sína hlið og ég hef mína. Þær gefa mér mikinn drifkraft. Mér þykir ofboðslega vænt um þær báðar,“ segir Kiana. En var erfitt að lesa viðtalið?

„Nei, ekki beint erfitt. En það fékk mig til að hugsa til baka og ég gerði mér grein fyrir hvað þetta var slæmt. Ég lokaði á þetta í svo langan tíma. Mér fannst ég bera ábyrgð á að þetta hefði komið fyrir hana svo lengi og því fylgdi mikil skömm. Mér fannst eins og ég hefði valdið henni vonbrigðum og að ég hefði ekki verið sönn vinkona. Í dag veit ég að þetta var ekki mér að kenna. Langt frá því. Hefði ég getað gargað og öskrað á hjálp? Já, en ég gerði það ekki. Það er ein mín stærsta eftirsjá í lífinu.“

Upplifði höfnun frá móður sinni

Eins og kom fram í Mannlífi sagði Helga ekki frá þessu meinta ofbeldi fyrr en þann 5. október árið 2011. Hún trúði vinkonu sinni í skólanum fyrir þessari reynslu og í kjölfarið var móðir hennar kölluð í skólann. Halldóra, móðir Helgu, sagði í viðtalinu að breytt hegðunarmynstur dóttur hennar hefði skýrst við þessa uppljóstrun, en hegðun Kiönu tók einnig miklum breytingum eftir að meint brot hófust.

„Ég var hætt að hafa áhuga á skólanum. Ég byrjaði að stelast í sígarettur. Ég hafði enga trú á mér og mig langaði ekki til að lifa. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að tækla vandamálin og þorði ekki að segja neitt því ég var hrædd við viðbrögð fólksins í kringum mig. Ég hélt að enginn gæti elskað mig. Mér fannst eins og ég væri skemmd. Eftir fyrsta skiptið fór ég algjörlega inn í skel. Ég fór að vera lengur úti á kvöldin og var slétt sama um allt og alla. Ég fór að stela rosalega mikið og finna flóttaleið til að þurfa ekki að hugsa um þetta. Ég fór að fikta við áfengi og kom mér í alls konar vandræði. Ég taldi mér trú um að ég væri bara geðveik og var farin að finna fyrir miklum skapsveiflum. Ég réð ekki við tilfinningar mínar og ofsareiði braust út,“ segir Kiana. Hún sagði loks frá ofbeldinu þegar hún var ellefu ára.

„Kvöldið áður en ég sagði frá misnotaði hann mig í seinasta skiptið,“ segir hún og klökknar. „Daginn eftir mætti ég í skólann og ég man bara að ég sturlaðist. Það var eins og hefði verið kveikt á rofa í hausnum á mér. Ég kastaði borðum og stólum og síðan brotnaði ég niður. Kennarinn minn skildi ekki hvað var í gangi og bauð mér að tala við skólahjúkrunarfræðinginn, sem ég þáði. Ég gekk inn til hennar og vissi ekki hvort ég ætti að segja henni sannleikann eða ekki. Síðan rann það upp fyrir mér að ég var alltaf að finna afsakanir til að hitta hana. Mér var illt á ýmsum stöðum því ég var að reyna að finna einhvern annan stað fyrir verkinn innra með mér. Þarna sagði ég henni að stjúppabbi minn hefði snert mig á stöðum sem hann ætti ekki að vera að snerta mig á. Hún benti á ýmsa staði á líkamanum og ég sagði já við þeim stöðum sem hún benti á. Síðan gaf hún í skyn að hún þyrfti að láta vita af þessu. Þá var eins og þúsund kílóum væri lyft af öxlum mínum og ég gat loksins andað. Þetta væri búið.“

Kiana er búin að vera edrú í þrjú ár.

Í kjölfarið var móðir hennar kölluð á fund í skólanum.

„Ég fór til hennar og horfði á hana. Hún horfði á mig eins og ég hefði brugðist henni. Ég fékk þvílíka höfnunartilfinningu. Það var hringt í ömmu mína og hún kom og náði í mig. Ég veit ekki hvar ég væri án hennar. Hún er demanturinn minn og mér þykir svo vænt um hana. Ég fór til hennar og móðursystir mín bjó hjá henni á þessum tíma. Heima hjá ömmu brotnaði ég algjörlega niður. Ég fékk taugaáfall ellefu ára. Ég náði ekki að sofa og starði bara út í loftið. Þær sögðust ætla að standa með mér í gegnum þetta allt og að þær elskuðu mig. Að þetta breytti ekki þeirra áliti á mér og að þetta væri ekki mér að kenna. Þær brugðust hárrétt við og ég fékk alla þá ást sem ég átti að fá og þurfti á að halda. Á þessum tímapunkti gerði ég mér ekki grein fyrir því að þetta væri bara rétt að byrja,“ segir Kiana og heldur áfram.

„Ég bjóst við því að ég þyrfti að tala við lögguna, hann yrði handtekinn og fengi það sem hann ætti skilið. Það sem gerðist var að ég fór í nokkur viðtöl í Barnahúsi og var ekki einu sinni send í læknisskoðun, þó að það væri bara einn dagur frá meintri misnotkun,“ segir hún. Hún lifði í þeirri von að móðir hennar myndi loks horfast í augu við sögu hennar og trúa henni.

„Það skipti ekki máli hvað var sagt við hana, hún trúði mér ekki. Ég fékk það beint í andlitið að mamma elskaði mig ekki og að hún afneitaði mér. Hún ætlaði bara að vera með honum. Þarna myndaðist tómarúm innra með mér. Ég sem stelpa á leið inn í unglingsárin fann í fyrsta sinn fyrir virkilegu hatri og reiði í garð manneskju sem átti bara að elska mig. Sem átti bara að vera til staðar fyrir mig. Og hún var það ekki. Það bókstaflega drap mig að innan.“

Flúði í heim eiturlyfja

Kiana hætti að vilja fara í viðtöl í Barnahúsi og valdi frekar hugarbreytandi efni til að flýja raunveruleikann. Þrettán ára var hún byrjuð að reykja kannabis á hverjum degi og fjórtán ára héldu örvandi efni henni gangandi.

„Þetta var rosalega góður flótti og ég væri að ljúga ef ég segði að mér hefði ekki fundist þetta skemmtilegt. Ég var mjög dugleg þegar kom að fíkniefnum og með mikinn metnað fyrir neyslunni,“ segir Kiana og bætir við að hún hafi snúið mönnum um fingur sér til að hafa efni á fíkninni.

„Það er auðvelt ef maður er ung og falleg stelpa. Þá þarf maður bara að gefa mönnum undir fótinn og ég var mjög dugleg að því þegar kom að fíkniefnum. En ég gerði ekki meira, ekkert kynferðislegt með þeim. Ég notfærði mér fólk og menn þegar ég var í neyslu. Ég hataði sjálfa mig. Sjálfseyðingarhvötin var á milljón og sjálfsálitið ekkert. Ef ég elskaði mig ekki, hver ætti þá eftir að gera það? Ég sóttist eftir ást á öllum röngu stöðunum. Ég fór að vera með eldri strákum, sérstaklega þeim sem gátu skaffað fyrir neyslunni. Strákum sem ég notaði til að gera hluti fyrir mig,“ segir Kiana. Eins og áður segir sagði Helga vinkona hennar frá meinta ofbeldinu þann 5. október, en Kiana sneri lífinu við og hætti í neyslu þann 5. október fyrir þremur árum. Einskær tilviljun, en mikilvægur dagur í lífi þeirra beggja.

„Það var annaðhvort að duga eða drepast. Fíkniefnin voru ástin í lífi mínu. Þau voru það eina sem elskaði mig, að ég hélt, en þau voru farin að bregðast mér. Mig langaði ekki að nota þau lengur. Ég hafði brotið svo mörg prinsipp og leið ömurlega. Ég var búin að steikja í mér hausinn. Vorið 2015 var ég tekin fyrir að reyna að koma fíkniefnum til Vestmannaeyja. Eftir það var ég edrú í heila fjóra mánuði að leita mér að annarri fíkn. Ég leitaði að staðfestingu frá hinu kyninu en ég höndlaði ekki sjálfa mig og fór aftur í sama farið og byrjaði að nota aftur. Þetta var orðið mjög sorglegt í endann. Seinasta djammið mitt var þannig að ég fór í bíó. Ég fór á Sicario sem fjallar um fíkniefnahring. Ég var svo biluð að ég hélt að allir í salnum væru í löggunni. Ég fór í meðferð morguninn eftir, fyrst til að friða alla í kringum mig en ekki fyrir sjálfa mig. Þetta var besta ákvörðun sem ég hef tekið. Inni á Vogi byrjaði ég að finna fyrir tilfinningum. Ég var svo hrædd því allt kom upp aftur og ég þurfti að díla við hlutina. Ég fékk taugaáfall inni á Vogi. Kjálkinn á mér festist og ég var í svo miklum fráhvörfum að ég slefaði. Mér leið eins og ég væri að kafna og að tungan í mér væri að leka niður í háls. Ég var svo ofboðslega hrædd og búin á því. Þá kom reiðin upp aftur og ég réð ekkert við hana. Ég var svo rosalega reið.“

„Ég trúði því að réttlætið myndi sigra“

Við hoppum aftur nokkur ár aftur í tímann þegar Helga ákvað að stíga fram og segja frá meintu kynferðisofbeldi. Kiana segir að þá hafi kviknað smávonarglæta í brjósti hennar.

„Ég vonaði svo innilega að hún yrði heppnari en ég. Það var það eina sem ég vonaði. Þegar hún sagði frá komu tveir lögreglumenn heim til mín og ræddu við mig um mitt mál, hennar mál og mál þriðju stelpunnar. Ég vissi ekki af þriðju stelpunni. Á því augnabliki hefði ég getað logið einhverju en ég vildi vera hreinskilin. Ég trúði því að réttlætið myndi sigra,“ segir Kiana, en þessar þrjár kærur á hendur manninum voru allar felldar niður. Honum var ekki vikið úr starfi meðan á rannsókn málanna stóð og hélt starfi sínu innan lögreglunnar þegar málin voru látin niður falla.

„Ég skil þetta ekki. Voru orð mín ekki nóg? Eða hinna tveggja? Ég bara fatta þetta ekki,“ segir Kiana, en mál hennar og Helgu voru ekki rannsökuð saman. „Auðvitað átti að rannsaka málin saman. Og auðvitað átti að senda mig í læknisskoðun þegar ég sagði frá til að athuga með innvortis áverka. Svo vill enginn taka ábyrgð á þessu,“ segir Kiana og bendir á þá staðreynd að embætti Ríkislögreglustjóra og Ríkissaksóknara hafi bent hvort á annað þegar móðir Helgu setti út á rannsókn máls dóttur hennar í Mannlífi.

„Það benda allir hver á annan. Hvað ef þetta væri dóttir einhvers innan þessara embætta? Eða sonur? Væru þetta viðbrögðin þá? Ég efast um það. Ég fyllist viðbjóði að hugsa til þess að þessi maður fái enn að vinna innan veggja lögreglunnar. Að hann fái að vinna þar sem brotnir einstaklingar leita sér hjálpar. Það gerir mig bilaða. Réttarkerfið á Íslandi er til háborinnar skammar. Það hefur ekki bara brugðist mér og Helgu, heldur svo ótal fleirum.“

Vill hjálpa öðrum þolendum

Kiana prýðir forsíðu Mannlífs.

Kiana glímir í dag við ýmsar þekktar afleiðingar kynferðisofbeldis. Hún kann illa á samskipti við fólk þar sem hún á erfitt með að greina muninn á réttu og röngu. Henni finnst óþægilegt að snerta börn því hún er hrædd um að snerta þau á óviðeigandi hátt. Hún er með ofsakvíða og áfallastreituröskun. Hún er logandi hrædd við að gera mistök. Hún hefur unnið mikið í sjálfri sér síðustu þrjú árin og meðal annars leitað sér hjálpar hjá geðlæknum, sálfræðingum og hjá Stígamótum.

„Ég vinn í því á hverjum degi að elska sjálfa mig. Mér finnst eins og ég kunni ekki að vera vinkona. Að ég þurfi að æfa mig í því. Að ég þurfi að læra að vera systir. Ég get leitað mér hjálpar til að hjálpa sjálfri mér en hvað með réttlætið? Mig langar að berjast fyrir réttlætinu í þessu máli en ég veit ekki hvernig ég á að gera það. Ég get ekki leitað til lögreglunnar því ég veit ekki hvernig ég á að fara að því að treysta henni í þessu máli. Það er sagt að rétt skuli vera rétt þegar kemur að lögum og reglum og þetta á að vera fólk sem á að vernda íbúana í landinu. En það getur samt ekki opnað augun fyrir eigin breyskleikum,“ segir Kiana sem dreymir um að hjálpa öðrum þolendum kynferðisofbeldis í framtíðinni.

„Mig langar að vera fyrirmynd fyrir stelpur og stráka og mig langar að hafa áhrif á að meira sé gert í þessum málum í okkar samfélagi og öðrum samfélögum. Það er enn tabú að hafa lent í kynferðisofbeldi, hvort sem það er nauðgun eða áreiti. Samfélagið er lokað og það breytist ekkert nema við gerum eitthvað í því. Viljum við virkilega að börn framtíðarinnar upplifi heiminn svona? Að þau þurfi að lifa í stanslausum ótta, að ekkert sé gert ef eitthvað kemur fyrir þau og hvort þau fái réttlæti eða ekki? Það er náttúrlega bara fáránlegt. Ég horfi á börnin í kringum mig sem ég elska ofboðslega mikið og finnst vont að sjá að þetta sé heimurinn sem við bjóðum þeim upp á.“

„Ég er tilbúin að mæta því sem kemur“

Í dag býr Kiana hjá móður sinni, sem er ekki sátt við að dóttir sín stígi fram í þessu viðtali, að hennar sögn. Móðir hennar sleit fyrir nokkrum árum samvistum við manninn sem Kiana sakar um kynferðisofbeldi, en að sögn Kiönu er samband þeirra mæðgna enn stirt á köflum.

„Mamma mín verður alltaf mamma mín. Ég elska hana og það mun aldrei breytast. Það koma tímabil þar sem ég finn fyrir reiðinni og hatrinu og mér finnst erfitt að geta ekki rætt þessa hluti við hana. Ég hef þurft að taka það í sátt að hún muni ekki ræða þetta. Ég stjórna henni ekki og ég ber ekki ábyrgð á hamingju annarra, einungis minni eigin. Ég er mjög þakklát fyrir fjölskyldu mína. Svo ég tali nú ekki um vinina. Ég veit ekki hvar ég væri í dag ef ég ætti ekki þær vinkonur og vini sem ég á í dag. Þau taka mér eins og ég er og ég get verið ég sjálf í kringum þau,“ segir Kiana. Hún svaf lítið í nótt. Hún var með hugann við þetta viðtal. Þessa opinberun sína. Hún segist ekki stressuð fyrir því að Ísland fái að vita hennar sögu. Þótt það sé erfitt að rifja upp þennan sára tíma, segir hún það að vissu leyti gott. Ákveðinn létti.

„Ég er ekki stressuð fyrir viðbrögðunum sem ég á eftir að fá. Ég get ekki gert öllum til geðs. Kannski á ég eftir að fá fullt af jákvæðum viðbrögðum en ég veit að ég á eftir að gera einhverja mjög reiða. Ég veit það, en ég vil koma hlutunum frá mér eins og þeir eru. Rétt skal vera rétt og það sem kemur, kemur. Ég er tilbúin að mæta því sem kemur.“

Málið í hnotskurn

Mæðgurnar Halldóra og Helga sögðu sína sögu fyrir tveimur vikum.

Lögreglumaðurinn sem þrjár stúlkur sökuðu um kynferðisbrot starfaði áfram meðan á rannsókn allra málanna þriggja stóð. Málin voru ekki rannsökuð saman. Eftir að málin voru felld niður hélt lögreglumaðurinn starfinu. Í máli Helgu Elínar liggja fyrir skýrslur frá sérfræðingum í Barnahúsi sem staðfestu að Helga Elín hefði orðið fyrir miklum skaða í umtalaðri sumarbústaðarferð.

Eins og hefur komið fram voru vinur lögreglumannsins, sem er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera, og eiginkona hans með í sumarbústaðarferðinni. Að sögn Halldóru Baldursdóttur, móður Helgu Elínar, tók skýrslutaka yfir vinahjónunum aðeins örfáar mínútur og fór fram á skrifstofu embættismannsins. Þau hjónin og eiginkona sakbornings báru fyrir sig minnisleysi vegna áfengisdrykkju og niðurfelling málsins var meðal annars byggð á þeirra vitnisburði. Við rannsókn málsins kom fram að klámefni hafði verið haft fyrir börnunum í umræddri sumarbústaðaferð. Umrædd vinahjón voru aldrei spurð út í klámmyndaáhorfið og tölva sakbornings var ekki skoðuð. Þegar lögregla skoðaði sumarbústaðinn fór hinn meinti kynferðisafbrotamaður með á vettvang.

Að sögn Halldóru kemur fram í rannsóknargögnum að lögreglumaðurinn hafi sakað stelpurnar þrjár um samsæri gegn sér og að ekkert hafi verið gert til að hrekja slíkt. Halldóra hefur óskað eftir því við Nefnd um eftirlit með lögreglu að málsmeðferðin verði skoðuð. Eitt að því sem hún gagnrýndi harðlega var að þrátt fyrir að þrjár stúlkur hefðu kært lögreglumanninn hefðu málin ekki verið rannsökuð saman og ekkert brugðist við fullyrðingum lögreglumannsins um að stúlkurnar þrjár hefðu uppi samsæri gegn sér.

Sjá einnig: Segist ekki hafa brugðist dóttur Halldóru.

Enginn tekur ábyrgð

Í viðtali í 12. tölublaði Mannlífs sagði Halldóra að henni hafi verið bent á að senda erindi á Harald Johannessen ríkislögreglustjóra, af þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, Stefáni Eiríkssyni, þegar mál dóttur hennar kom upp. Í samtali við Mannlíf lýsti hún þeirri tilfinningu sinni að ríkislögreglustjóri hafi brugðist henni og dóttur hennar, þar sem hann vildi „ekkert fyrir okkur gera.“

Embætti ríkislögreglustjóra hefur andmælt þeirri fullyrðingu Halldóru að ríkislögreglustjóri, Haraldur Johannessen, hafi brugðist dóttur Halldóru,

Haraldur Johannessen hefur ekki viljað svara spurningum Mannlífs persónulega um þetta mál. Samkvæmt yfirlýsingu frá embætti ríkislögreglustjóra fór embættið þess á leit við ríkissaksóknara að fá afhent rannsóknargögn málsins til þess að unnt væri að taka ákvörðun um hvort leysa skyldi lögreglumanninn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Ríkissaksóknari hafnaði erindi Embættis ríkislögreglustjóra með vísan til heimildarskorts í lögum. Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sagði hins vegar í samtali við Stundina að ríkissaksóknari hafi sent „ríkislögreglustjóra allar upplýsingar um málið vegna fyrirhugaðrar ákvarðanatöku hans um það hvort veita ætti viðkomandi lögreglumanni lausn frá störfum“.

Stefán Eiríksson starfaði sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins meðan á rannsókn málsins stóð. Stefán kveðst ekki hafa fylgst með umfjöllun um málið og neitar að tjá sig um það við blaðamenn Mannlífs.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Förðun / Silja Dröfn Jónsdóttir með vörum frá Urban Decay

Baltasar reffilegur á rauða dreglinum í London

|||
|||

Leikstjórinn Baltasar Kormákur lét sig ekki vanta á sýningu á nýjustu mynd sinni, Adrift á Soho-hótelinu í London í gær, sunnudag.

Aðalleikarar myndarinnar, Sam Claflin og Shailene Woodley, voru að sjálfsögðu einnig mætt á rauða dregilinn og tók þríeykið sig vel út saman.

Sam, Shailene og Baltasar.

Sjá einnig: Kveikti á myndavélunum þegar allir byrjuðu að æla.

Shailene Woodley klæddist rauðri blússu við svartar buxur.

Adrift var frumsýnd vestan hafs í byrjun mánaðarins og samkvæmt Wikipedia hefur hún halað inn um 31 milljón dollara í miðasölutekjur, en framleiðslukostnaður við myndina var 35 milljónir dollara. Þá hefur myndin fengið fína dóma víða um heim.

Sam Claflin klæddist gráum jakkafötum.

Myndin er lauslega byggð á sannri sögu pars sem sigldi frá Tahítí til San Diego árið 1983. Þau sigldu hins vegar rakleiðis til móts við fellibylinn Raymond en misstu ekki lífsviljann.

Tímaritið People kallar Rúrik augnakonfekt

||||||||||
||||||||||

Tímaritið People birtir lista yfir þá 39 leikmenn á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu sem blaðamönnum finnst skara fram úr þegar kemur að kynþokka.

Það kemur líklega ekki á óvart að Rúrik okkar Gíslason er á listanum, en hann hefur vakið gríðarlega athygli á heimsmeistaramótinu. Eins og hefur verið sagt frá var Rúrik með um fjörutíu þúsund fylgjendur á Instagram fyrir mótið en er nú kominn yfir milljón fylgjendur. Rúrik er eini Íslendingurinn á lista People.

Sjá einnig: BBC segir Rúrik blöndu af Brad Pitt, Channing Tatum og Chris Hemsworth.

Á honum eru einnig kunnugleg andlit eins og portúgalski knattspyrnukappinn Cristiano Ronaldo. Það vekur hins vegar athygli að þýski markvörðurinn Manuel Neuer er einnig á listanum, en boltaspekingurinn Hjörvar Hafliðason kvartaði mikið yfir fjarveru hans á kynþokkalistum á Twitter. Virðist Hjörvar hafa verið bænheyrðu af People.

Sjá einnig: Rúrik og Ragnar meðal kynþokkafyllstu leikmanna á HM.

Hér fyrir neðan má sjá nokkra af þeim 39 knattspyrnumönnum sem People kallar augnakonfekt, en listann í heild sinni má sjá með því að smella hér.

Diafra Sakho – Senegal

Dusan Tadic – Serbía

Jose Carvallo – Perú

Manuel Neuer – Þýskaland

Mathew Leckie – Ástralía

Morteza Pouraliganji – Íran

Roman Burki – Sviss

Sam Morsy – Egyptaland

Sergio Aguero – Argentína

Kim Shin-Wook – Suður-Kórea

Aðalmynd / Skjáskot úr auglýsingu Coca Cola á Íslandi

Myndir: Svona var stemningin á Secret Solstice

||||||||||||
||||||||||||

Tónlistarhátíðin Secret Solstice var haldin með pompi og prakt í Laugardalnum um helgina, fimmta árið í röð. Fjöldinn allur af heimsþekktum listamönnum tróð upp, svo sem Slayer, Gucci Mane, Stormzy og Bonnie Tyler.

Mikil mannmergð var í Laugardalnum út af hátíðinni. Þó veðrið hafi ekki beint leikið við hátíðargesti var mikil stemning í dalnum, eins og meðfylgjandi myndir frá tónleikahöldurum sýna.

Myndir / Secret Solstice

„Mikilvægt að okkar raddir heyrist“

Ensk-íslenska verkið (Can This Be) Home verðlaunað á leiklistarhátíð í Tékklandi.

Ensk-íslenska verkið (Can This Be) Home hlaut í vikunni brautryðjendaverðlaunin á Fringe-leiklistarhátíðinni í Prag og í kjölfar þess hefur aðstandendum sýningarinnar verið boðið að setja verkið upp í hinu virta leikhúsi Chats Palace í London. Í samtali við Mannlíf segist leikstjórinn, Kolbrún Björt Sigfúsdóttir, vera í skýjunum með boðið og viðurkenninguna enda standi efnisviður verksins henni nærri. „Það er alveg frábært að fá þessa viðurkenningu því við erum búin að vinna að verkinu í tvö ár og erum að fjalla um málefni sem skiptir okkur miklu máli,“ segir hún og vísar þar í umfjöllunarefnið sem snýst um upplifun innflytjenda í Bretlandi af kosningunum um Brexit. Hvernig þeir, þar á meðal hún sjálf, hafi liðið með að vera sagt óbeint að þeir ættu ekki lengur heima í Bretlandi í ljósi niðurstöðunnar.

Kolbrún segir að þetta sé reyndar ekki fyrsta útgáfa verksins heldur hafi það þróast í takt við umræðuna um Brexit-málið og því nokkrar útgáfur litið dagsins ljós. Fyrsta útgáfan hafi orðið til áður en kosningin um Brexit fór fram. Í annarri útgáfu hafi verið reynt að gera upp niðurstöðu kosninganna fyrir innflytjendur og þá sem kusu að halda Bretlandi innan Evrópusambandsins. Þriðja hafi verið lesin á degi skyndikosninganna sem Theresa May boðaði til í von um að auka stuðning sinn og Brexit á þingi, sem hafi ekki gengið upp. „Nú eru svo komin tvö ár síðan það var kosið og Brexit er enn í mótun. Þess vegna fannst okkur mikilvægt að okkar raddir heyrðust, nú sem aldrei fyrr, áður en langvarandi ákvarðanir sem móta framtíð okkar eru teknar. Ætlunin með verkinu er að tala til fólks. Fá það til að hugsa um það sem er í gangi.“

„Það er alveg frábært að fá þessa viðurkenningu því við erum búin að vinna að verkinu í tvö ár og erum að fjalla um málefni sem skiptir okkur miklu máli.“

Hún viðurkennir að vegna hins pólitíska umfjöllunarefnis hafi aðstandendur (Can This Be) Home alls ekki búist við að verkið ynni til verðlauna á hátíðinni í Prag. Auk þess sé verkið langt frá því að vera hefðbundin leiksýning. Eiginlega sé varla hægt að tala um leiksýningu þar sem verkið samanstandi af tveimur hlutum, tónleikum flautuleikarans Tom Oakes, innblásnum af ferðlögum hans um heiminn og ljóðaupplestri þar sem Kolbrún flytur eigin texta, byggðan á fyrrnefndri reynslu innflytjenda af Brexit. Sigurinn hafi því komið henni og öðrum aðstandendum sýningarinnar skemmtilega á óvart.

En er ekki gaman fyrir ungan leikstjóra og leikritaskáld að fá svona rífandi start? „Jú það er voða ljúft. Það er grínast með það að „overnight success“ í Hollywood taki fimm ár. Tvö er vel sloppið,“ segir hún og bætir við að þar sem þetta sé fyrsta handritið hennar sem hlýtur verðlaun þá sé þetta líka persónulegur sigur.

Spurð út í framhaldið segir hún uppsetninguna í London vera næst á dagskrá. „Við erum bara að vinna í því að finna hentugar dagsetningar,“ segir hún glaðlega, „en þetta verður alveg geggjað.“

 

Stólar Wegner alltaf heillað

Guðmundur Hallgrímsson er fasteignasali á REMAX Senter-fasteignasölunni. Hann býr í Vesturbænum í Reykjavík og er í sambúð með Völu Valþórsdóttur viðskiptaþróunarstjóra hjá Landsvirkjun, og á tvo stráka, Patrek Thor, fimmtán ára og Kormák Krumma, tíu ára.

Hvað heillar þig mest við starfið?
„Það sem er skemmtilegast er fjölbreytileikinn og samskipti við fólk, einnig er mjög gaman að óska fólki til hamingju þegar það hefur fest kaup á nýju heimili.“

Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?
„Dagurinn byrjar milli klukkan 8-9 á morgnana og endar oft milli kl. 18.00 og 19.00 en þó er maður oft að vinna lengur en þá í símanum og tölvupóstum.  Annars eru dagarnir mjög misjafnir, suma daga er maður að vinna allan daginn á skrifstofunni en aðra er maður mikið á ferðinni í verðmati á eignum og að sýna eignir.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili?
„Mér finnst gaman að hafa fallegt hjá mér og hef áhuga á myndlist og fallegum húsgögnum en það sem gerir heimilið að heimili er númer eitt fólkið sem býr þar og þeir sem koma í heimsókn, vinir, ættingjar og vinir barnanna. Það er til dæmis gott merki um að heimilið sé góður staður til að vera á þegar maður kemur úr vinnu og allt eldhúsið er fullt af diskum og brauðmylsnu eftir synina og vini þeirra.“

Geturðu líst þínum stíl?
„Hann er frekar skandinavískur en með kannski smáslettu af breskum húmor, mér finnst gaman að poppa upp skandinavíska mínimalstílinn með litum og stemningu.“

„Það er til dæmis gott merki um að heimilið sé góður staður til að vera á þegar maður kemur úr vinnu og allt eldhúsið er fullt af diskum og brauðmylsnu eftir synina og vini þeirra.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt?
„Það eru mjög margir frábærir arkitektar bæði innlendir og erlendir og mér finnst erfitt að benda á einn, en meðal annars er Manfreð Vilhjálmsson í miklu uppáhaldi hjá mér. Við á REMAX erum einmitt með Blikanes 21 til sölu núna sem er eitt af húsunum sem hann teiknaði.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð?  
„Það er svipað og með arkitektana og gæti listinn verið endalaus. Stólarnir hans Hans Wegner hafa alltaf heillað mig og svo er HAF, íslenska hönnunarteymið, að gera frábæra hluti og auðvitað Ólafur Elíasson sem er allt í senn listamaður, hönnuður og arkitekt.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?
„Ég hef í mörg ár haft augastað á koníaksbrúnum sófa frá ítalska merkinu Flexform, hann skilar sér vonandi einn daginn í stofuna.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Það sveiflast svolítið milli árstíða, ljósari litir á sumrin og dekkri á veturna. Brúnt, grænt og navy-blátt er alltaf klassískt og svo er ég mjög hrifinn af hvítum skyrtum í fataskápinn.“

Hvar líður þér best? 

„Það er heima með fólkinu mínu og svo með vinum. Hef gaman af því að vera í náttúrunni á skíðum og fjallahjóli.“

Nú er sumarið komið og margir huga að garðinum, er eitthvað sem þig langar að eignast í garðinn? 
„Það eina sem vantar í hann er meiri sól.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Það er endalaust verið að opna skemmtilega nýja staði, Bastard er til dæmis frábær viðbót í flóruna en mínir uppáhalds eru alltaf Snaps og Jómfrúin en ég elska danskt smurbrauð.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira en annar?
„Nei, í raun ekki en ég er bæði mjög hrifinn að gömlum húsum með fallegum gluggum og loftlistum, það er að segja þessi hús frá árunum 1900-1930 og svo stílnum frá 1960-1970 þar sem formin eru einfaldari og gluggarnir stærri.“

 

„Magnað að leikur sem maður bjó til sé spilaður 2000 sinnum á dag“

|
|

Nýr íslenskur tölvuleikur á meðal áhugaverðustu „indí“-leikja á Norðurlöndunum.

Íslenski tölvuleikurinn Out of the Loop, eða Úti á túni, sem kom út á dögunum hefur verið valinn til þátttöku á leikjaráðstefnunni Nordic Game Conference sem fer fram í Malmö í Svíþjóð á næsta ári. Leikurinn verður á sýningu helgaðri áhugaverðustu „indí“-leikjunum á Norðurlöndunum.

„Það er Yonderplay sem stendur fyrir valinu, en Yonderplay er nýja nafnið á Nordic Indie Sensation sem velur mest spennandi leikina sem eru gefnir sjálfstætt út á Norðurlöndum,“ útskýrir Sigursteinn Gunnarsson, annar hönnuða leiksins. „Það er ótrúlegur heiður að verða fyrir valinu.“

Sigursteinn lýsir Out of the Loop sem stafrænum spurningaborðspilaleik í nokkrum umferð-um fyrir síma, sem 3-9 geta spilað í einu og fá allir nema einn leikmanna eitt leyniorð í hverri umferð. „Leikmennirnir eiga síðan að svara spurningum sem tengjast hverju leyniorði og reyna þannig að finna út hvern vantar leyniorðin, þ.e. hver er úti á túni, á meðan sá reynir að veiða leyniorðin upp úr þeim svo þeir fatti það ekki,“ útskýrir hann og bætir við að Out of the Loop sé í ætt við tölvuleikinn Spyfall sem sumir íslenskir „spilarar“ ættu að kannast við.

„Í rauninni jafnast þó ekkert á við að að sjá fólk hlæja og skemmta sér í leiknum sem maður bjó til.“

Out of the Loop hlaut á dögunum viðurkenningu frá Copenhagen Game Collective.

Out of the Loop hefur verið í þróun í níu mánuði og er annar leikurinn sem Sigursteinn og Torfi Ásgeirsson, félagi hans og meðeigandi leikjafyrirtækisins Tasty Rook, senda frá sér. Fyrri leikur þeirra félaga, spæjaraleikurinn Triple Agent, er að sögn Sigursteins í svipuðum stíl og Out of the Loop en hann komst líka inn á sömu sýningu í fyrra og hefur hlotið góðar viðtökur. „Triple Agent hefur verið sýndur á þónokkrum hátíðum erlendis og frægur YouTube- gagnrýnandi, Totalbiscuit, valdi hann sem einn af tíu bestu leikjum ársins í fyrra, en það er svolítið magnað að vita til þess að leikur sem maður bjó til sé spilaður 2000 sinnum á dag,“ segir hann og brosir.

Spurður hvaða þýðingu þátttaka á Nordic Game Conference komi til með að hafa fyrir Out of the Loop og fyrirtækið Tasty Rook, segir Sigursteinn að þeir Torfi séu þessa dagana á fullu að kynna leikinn og viðurkenningar af þessu tagi hjálpi klárlega til. „Auðvitað er alltaf ótrúlega gaman þegar það sem maður er að gera vekur áhuga og hrifningu en í rauninni jafnast þó ekkert á við að að sjá fólk hlæja og skemmta sér í leiknum sem maður bjó til,“ segir hann glaður.

Aðalmynd: Sigursteinn Gunnarsson og Torfi Ásgeirsson, meðeigendur leikjafyrirtækisins Tasty Rook.

Ævintýri á Jónsmessunótt

Þrátt fyrir viðvarandi sólskinsskort er sumarið víst komið og gott betur en það. Miðsumarshátíðir njóta mikilla vinsælda á Norðurlöndum en hér á landi eru ýmsar yfirnáttúrulegar verur tengdar sólstöðum. Á aðfaranótt Jónsmessu, þann 24. júní, er mælt með því að velta sér upp úr dögginni og jafnvel talið að dýr geti talað.

Hugmyndin um Jónsmessunótt er í augum margra sveipuð rómantískum bjarma sem eflaust á rætur sínar að rekja til skáldsögu Williams Shakespeare um Draum á Jónsmessu (e. A Midsummer Night´s Dream). Þar má sjá flóru fjölbreyttra persóna skipta um ham þessa dularfullu nótt og vægast sagt undarlega atburðarás eiga sér stað þar sem ólíklegustu fyrirbæri fella hugi saman.

Ástin er blind á augum, skyggn í hjarta, svo Amor sjónlaus þenur vænginn bjarta; á vizku og táli veit hann aldrei skil, og vængjuð blinda þýtur háskans til.

Bókmenntaunnendur, ólæknandi rómantíkusar og aðdáendur sögunnar þurfa þó ekki að bíða lengi því til stendur að setja verkið upp í Þjóðleikhúsinu á komandi leikári.

Hefðirnar ekki séríslenskar
Margir halda að mýtur tengdar Jónsmessunótt séu séríslenskar en svo er ekki. Hugmyndin um að dýr tali mannamál þessa nótt, eða að selir kasti ham sínum þekkist víða annars staðar. Ein algengasta kenning tengd þessari goðsagnakenndu nóttu er tengd lækningarmætti daggarinnar og hafa eflaust margir látið á hana reyna. Talið er að döggin á Jónsmessunótt sé svo heilnæm að hún geti læknað kláða ásamt öðrum húðmeinum en lækning á að felast í því að láta döggina þorna af sjálfri sér á nöktum líkamanum. Eins er sú trú að þessa nótt sé hægt að finna náttúrusteina með töframátt, svokallaða lausnarsteina til að hjálpa bæði konum og kúm. Sagan segir jafnframt að á Baulutindi sé tjörn og í henni sé að finna óskastein. Sá sem nær í steininn á að fá óskir sínar uppfylltar, en aðeins þessa einu nótt.
Hún er jafnframt langlíf sú trú að skil milli heima séu minni á Jónsmessunótt en aðrar nætur og því séu auknar líkur á að hitta fyrir hverskyns handanheimsverur. Púkar, nornir og draugar njóta því mikillar hylli ásamt öðrum yfirnáttúrulegum verum sem óhjákvæmilega tengjast nóttinni, en bæði nú og þá tíðkast víða að halda veislur, brennur og dansleiki á þessum degi.

Svíar skemmta sér fram undir morgun
Ísland hefur þó ekki tærnar þar sem Svíþjóð hefur hælana í þessum efnum því þrátt fyrir að þjóðhátíðardagur Svía sé aðeins tæpum tveimur vikum áður er miðsumarshátíðin (e. midsomer) þekktasta hefð landsins. Hátíðin er ekki bundin við aðfaranótt 24. júní eins og hér heima heldur er hún alltaf haldin um helgi og flakkar á milli daganna 19. til 25. júní. Börn eru þá komin í sumarfrí og flest fjölskyldufólk farið í sitt staðlaða fimm vikna sumarfrí.
Vinir og ættingjar safnast saman og fagna sumrinu en margir sækja í sveitasæluna enda er hvergi betra að koma saman en í grænni náttúrunni. Hátíðin fer að sjálfsögðu fram undir berum himni þar sem sumarkvöldin eru aldrei lengri eða fegurri en á þessum árstíma.

Ströng hefð ríkir um hátíðina og óhætt að segja hana sveipaða nostalgískum ljóma. Um hana ríkja ákveðnar reglur sem nær óhjákvæmilegt er að brjóta en matseðillinn er til að mynda ein þeirra órjúfanlegu hefða sem margir tengja við þennan tíma árs.

Miðsumarshátíðarmatseðillinn inniheldur nær undantekningalaust lax í ýmsum útfærslum ásamt soðnum kartöflum með fersku dilli og sýrðum rjóma. Eftirrétturinn er jafnframt ófrávíkjanlega fyrsta uppskera sumarsins af jarðarberjum, bornum fram með þeyttum rjóma. Með veisluhöldunum drekka hátíðargestir bjór en í hvert sinn sem glasið er fyllt á ný bresta veislugestir í tilheyrandi þjóðhátíðarsöngva. Eftir mat er slegið upp dansgólfi upp á gamla mátann þar sem ungir sem aldnir skemmta sér saman.
Blóm leika mikilvægt hlutverk í borðskreytingum en kvenkynsgestir bera jafnframt blómakransa á höfði.

Samkvæmt aldafornum hefðum tína ógiftar konur svo sjö mismunandi blómategundir með sér í krans á leiðinni heim og leggja undir koddann sinn. Um nóttina á þeim svo að birtast í draumi sá maður sem síðar verður þeirra eiginmaður.

Nóttin fyrir Jónsmessu er því töfrandi tími, einkum og sér í lagi í rómantískum skilningi því samkvæmt Svíum kemur sannleikurinn sífellt betur í ljós eftir því sem bjórglösum miðsumarshátíðarinnar fjölgar. Sannleikurinn getur svo ýmist leitt til hjónabands eða skilnaðar. Hvað sem því líður er þessi árstími einkar vinsæll fyrir brúðkaup og önnur hátíðarhöld.

 

Greinin birtist í 24. tbl Vikunnar.

Hvernig er hægt að gera leigumarkaðinn öruggari?

|||
|||

Leigumarkaðurinn á Íslandi er óstöðugur og hefur hækkað hratt á undanförnum árum. Hvaða ástæður liggja að baki því og hvernig getum við bætt hann að mati sérfræðinga?

Konráð S. Guðjónsson.

Stefna íslenskra stjórnvalda um að betra sé að eiga en að leigja íbúð virðist hafa leitt til óöryggis og sveiflna á leigumarkaði. Þrír hagfræðingar hafa lagt fram tillögur sínar til að sporna við þessum sveiflum, en allar eru þær eru ólíkar í eðli sínu. Gætu þessar breytingar raunverulega leitt til stærri og öruggari leigumarkaðar á Íslandi?

Lágtekjufólk greiddi á Íslandi að jafnaði helming ráðstöfunartekna sinna í leigu árið 2016, meira en á öllum hinum Norðurlöndunum samkvæmt nýlegri skýrslu Íbúðalánasjóðs. Hlutfall íbúa á leigumarkaði var einnig nokkuð lágt miðað við sömu löndin þrátt fyrir aukningu síðari ára, en árið 2016 var það einungis lægra í Noregi. Íslendingar virðast því leigja minna og búa við verri kost á leigumarkaði samanborið við aðrar Norðurlandaþjóðir.

Ólafur Margeirsson.

Þessi staða hefur ekki gerst að sjálfu sér, að mati Konráðs S. Guðjónssonar, hagfræðings Viðskiptaráðs. Samkvæmt honum hefur séreignarstefnan sem rekin hefur verið af stjórnvöldum skapað hvata til þess að eiga frekar en að leigja húsnæði. Líkt og Konráð segir Ólafur Margeirsson hagfræðingur þá hugsun að Íslendingar „eigi að eiga“ húsnæði hafa leitt til meiri skuldsetningar, hærra fasteignaverðs og óstöðugleika á húsnæðismarkaði. Í erindi sem hann hélt á fundi á vegum stéttarfélagsins Eflingar á mánudag sagði hann að ein lausn á þessu vandamáli gæti verið sú að auka aðkomu langtímafjárfesta að leigumarkaðnum á Íslandi, þá einna helst með leigufélögum sem lífeyrissjóðirnir gætu átt og rekið.

Una Jónsdóttir.

Una Jónsdóttir hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði tekur undir áhyggjur Konráðs og Ólafs um afleiðingar séreignarstefnunnar. Una veltir því upp hvaða leiguverð gæti talist sanngjarnt og eðlilegt. Þar sem húsnæði sé nauðsynjavara og öruggt aðgengi að þeim séu skilgreind sem mannréttindi samkvæmt Sameinuðu þjóðunum væru ríkisafskipti óumflýjanleg.

Ítarleg fréttaskýring um leigumarkaðinn á Íslandi er að finna í nýjasta tölublaði Mannlífs. Nánar má lesa um málið á vef Kjarnans.

Texti / Jónas Atla Gunnarsson

19 ára New York-búi gerir heimildarmynd um íslenska sauðfjárbændur

||
||

„Það sem veitir mér innblástur eru mál sem snerta venjulegt fólk, hvort sem það býr í stríðshrjáðum löndum, er heimilislaust í New York eða þarf að bregðast við breyttu landslagi í sauðfjárbúskap á Íslandi,“ segir neminn, ljósmyndarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Erik Kantar. Erik er nítján ára gamall og vinnur nú að heimildarmynd um íslenska sauðfjárbændur. Hann féll fyrir landi og þjóð í fyrra og ákvað í kjölfarið að kafa ofan í heim fjárbænda.

Fór á puttanum um Ísland

Erik við störf í íslenskri náttúru.

„Mig hafði alltaf dreymt um að fara til Íslands þannig að í fyrra lét ég hvatvísi ráða för og pantaði sextán daga ferð og kom til landsins án þess að vera með hótel bókað. Ég var svo spenntur að koma á staðinn. Ég fór á puttanum um landið og varð ástfanginn af öllu við Ísland. Alveg síðan þá hefur hjarta mitt sagt mér að kom aftur. Ég þurfti að finna mér verkefni svo ég gæti gert eitthvað stærra en bara heimsækja landið,“ segir Erik og brosir.

„Ég valdi að gera heimildarmynd um sauðfjárbændur því iðnaðurinn er að deyja á smærri býlum. Yfirvöld hafa gert þessum bændum erfitt fyrir að lifa af starfinu eins og þeir gerðu áður fyrr. Þessi iðnaður er að breytast hratt og myndin mun fjalla um það.“

Í anda Vice

Hann segir að myndin verði í anda heimildarþátta frá Vice Media.

„Markmið myndarinnar er mjög hnitmiðað. Myndin fjallar um hið geysistóra vandamál sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir í dag, sem í raun neyðir þá til að hætta búskap, og hvernig ein fjölskylda er að kljást við þetta vandamál. Í stuttu máli er markmið myndarinnar að sýna þessar breytingar í bússkapnum í gegnum líf einnar fjölskyldu.“

Erik er nýsnúinn aftur til Bandaríkjanna eftir að hafa eytt tíma hér á landi við tökur. Hann fékk gistingu hjá bændunum á Hólum í Búðardal, sem reka einnig lítinn húsdýragarð sem er opinn á sumrin og líkaði dvölin vel.

„Fjölskyldan hafði frábæra sögu að segja fyrir myndina,“ segir Erik dulur og vill ekki gefa of mikið upp um það. Erik snýr svo aftur til Íslands í réttir í haust til að taka upp meira efni og klárar myndina í kjölfarið. Hægt verður að horfa á myndina á heimasíðu hans, erikkantarphoto.com en hægt er að fylgjast með framgang myndarinnar á Instagram síðu hans undir nafninu @erikkantar.

En hvað tekur svo við hjá Erik?

„Ég get ekki sagt til um það strax. En Ísland er alltaf í hjarta mínu þegar ég leita að sögu.“

Byggðastofnun skoðaði dreifingu sauðfjár á Íslandi árið 2016 miðað við ásetning það ár. Þá kom fram að …

… fjöldi sauðfjárbúa hér á landi væri 2481 talsins
… búunum hafði fækkað um sautján bú frá árinu áður
… langflest búin töldu 199 eða færri kindur, eða 63,5%
… stærstu búin sem héldu 600 kindur eða fleiri væru aðeins 125 talsins

Meeee!

Hef ekki þörf fyrir já-fólk

|||||
|||||

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum sig. Henni finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála sér og kippir sér lítið upp við gagnrýni en myndi hins vegar aldrei þora að birta eigin skáldskap af ótta við að vera grilluð.

„Ég hef sennilega enst svona lengi í stjórnmálum vegna þess að ég hef húmor fyrir fólki og sjálfri mér. Það er alveg nauðsynlegt,“ segir Katrín, spurð út í þátttöku hennar í stjórnmálum.

Katrín er eðli málsins samkvæmt umsetin kona og ekki margar lausar stundir í hjá henni í deginum. Hún gefur sér þó tíma til að spjalla við mig og þar sem viðtalið fer fram í vikunni þegar Trump Bandaríkjaforseti setur alþjóðasamfélagið á hliðina með innflytjendastefnu sinni, jafn vel þótt hann hafi síðan vikið frá því að skilja að foreldra og börn innflytjenda, er eðlilegt að fyrsta spurningin snúi að því hvað henni finnist um framgöngu hans.

„Það að skilja börn frá foreldrum sínum er auðvitað ekki í takt við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir hún. „Og þótt Bandaríkin séu ekki aðilar að honum stríðir þetta líka gegn þeim gildum sem við stöndum fyrir þegar kemur að því að tryggja velferð og réttindi barna. Þetta er auðvitað líka mjög umdeilt innan Bandaríkjanna, hefur sætt mikilli gagnrýni úr báðum flokkum og sérlega áhugavert að allar lifandi forsetafrúr Bandaríkjanna hafa gagnrýnt þetta.“

Þú munt sem forsætisráðherra Íslands ávarpa NATO-ráðstefnuna í Brussel í júlí, þar sem Trump og Erdogan verða meðal áheyrenda, hvernig leggst það í þig?

„Það er bara hluti af starfinu að eiga í alþjóðlegum samskiptum,“ svarar Katrín hin rólegasta. „Það er bara þannig.“

VG er eini flokkurinn sem hefur haft það á stefnuskrá að Ísland gengi úr NATO, þannig að það hlýtur að taka svolítið á þig persónulega að þurfa að taka þátt í ráðstefnu þess.

„Við höfum þá stefnu, það er rétt,“ segir Katrín. „Það breytir því ekki að allir aðrir flokkar á þinginu hafa samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland þar sem aðildin að NATO er einn af hornsteinunum og við fylgjum þeirri stefnu sem er lýðræðislega samþykkt, það er auðvitað bara hluti af því að vera í stjórnmálum og það höfum við gert áður þegar við vorum síðast í ríkisstjórnarsamstarfi og það liggur fyrir að sem ráðherra starfar maður samkvæmt þeirri stefnu sem Alþingi hefur tekið lýðræðislega ákvörðun um að fylgja.“

Ég var reyndar að fiska eftir persónulegri líðan Katrínar með það að þurfa að vera í samskiptum við þessa menn en hún er ekki á því að láta mig komast upp með það. Hún bætir þó við: „Ég mun auðvitað tala fyrir okkar utanríkisstefnu sem er sú að það beri alltaf að reyna að stefna að pólitískum og friðsamlegum lausnum á átökum. Það eigi alltaf að vera fyrsta val. Við höfum ákveðna sérstöðu sem herlaust land og tölum fyrir slíkum lausnum á alþjóðavettvangi og ég mun gera það á þessum fundi.“

„Fólk verður að fá að hafa sínar skoðanir og ég hef aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum mig. Mér finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála mér.“

Katrín segist hafa góðan stuðning allrar fjölskyldunnar en hún er yngst fjögurra systkina og segist hafa verið hálfgerð dekurrófa á heimilinu.

Hefur húmor fyrir fólki
Vinstri græn hafa setið undir gagnrýni síðan þau fóru í ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, er starf forsætisráðherra ekki ofboðslega slítandi?

„Það er nú ekki allt neikvætt, sem betur fer,“ svarar Katrín um hæl og ég heyri að hún brosir. „Það eru einhverjir ánægðir og aðrir ekki. Það er nú bara hluti af því að vera í stjórnmálum.“

Þetta svar vekur upp spurninguna um það hvað upphaflega hafi valdið því að Katrín fór að taka þátt í stjórnmálum.

„Ég er búin að vera á Alþingi síðan 2007 og mun lengur í pólitík og ástæðan fyrir því er að ég hef rosalegan áhuga á samfélagsmálum og fyrir því að vinna fyrir samfélagið. Þann áhuga hef ég haft frá því ég byrjaði að vera virk í félagslífi í framhaldsskóla. Ástæðan fyrir því að ég endist í pólitík er hins vegar að ég hef líka áhuga á fólki og mér finnst gaman að vinna með því, líka fólki sem er ósammála mér. Það finnst mér geta verið krefjandi og áhugavert. Ég hef sennilega enst svona lengi í stjórnmálum vegna þess að ég hef húmor fyrir fólki og sjálfri mér. Það er alveg nauðsynlegt.“

Þrátt fyrir langan stjórnmálaferil, meðal annars sem menntamálaráðherra, hlýtur starf forsætisráðherra að vera mun meira álag en Katrín hefur áður upplifað. Er þetta starf það erfiðasta sem hún hefur tekist á við?

„Já, ætli það sé það ekki,“ segir hún hugsi. „En það er auðvitað þannig að við öll sem vorum í stjórnmálum eftir hrun, óháð því hvort við vorum í stjórn eða stjórnarandstöðu held ég, lifðum tíma sem reyndust mörgum mjög erfiðir og það að vera menntamálaráðherra og vinna í málaflokkum sem maður hefur ástríðu fyrir, bæði menntamálum og menningarmálum, var auðvitað flókið á mestu niðurskurðartímum í lýðveldissögunni, þannig að ég segi ekki að maður hafi ekki mætt mótlæti eða álagi áður. En þetta er auðvitað stórt verkefni sem ég er í núna.“

„Ég verð í stjórnmálum á meðan ég hef ástríðu fyrir þeim. Svo hætti ég. Við verðum bara að bíða og sjá hvenær það verður.“

Sofnar um leið og hún sest niður
Hefurðu einhvern tíma til að eiga eitthvert líf fyrir utan starfið? Geturðu horft á fótbolta og gert eitthvað sem þér finnst skemmtilegt?

„Starfið er sem betur fer líka skemmtilegt. En það er ekki mikill tími sem gefst til að kúpla sig út en maður verður að gera það við og við, annars missir maður bara vitið,“ segir Katrín og hlær. „En það verður að viðurkennast að til þess gefst minni tími en oft áður.“

Ertu áhugamanneskja um fótbolta?

„Já, ef ég væri í öðru starfi eða hefði tök á því þá myndi ég horfa á alla leiki en akkúrat núna er ástandið þannig að maður lætur sér nægja að fylgjast með leikjum Íslands. Svo sér maður kannski slitrur úr öðrum leikjum á hlaupum. Það er auðvitað töluvert horft á þetta á mínu heimili þar sem ég á nú þrjá stráka þannig að ég missi ekki alveg af þessu.“

Geturðu einhvern tíma verið heima hjá þér á kvöldin?

„Jú, jú, auðvitað kemur maður stundum heim,“ svarar hún og andvarpar. „Gallinn er að maður sofnar yfirleitt strax og maður sest niður þannig að maður er kannski ekki góður félagsskapur.“

Katrín hefur áður talað um það í viðtölum að heimilishaldið hvíli mest á eiginmanni hennar, Gunnari Sigvaldasyni, og það hefur væntanlega ekki breyst við nýja starfið, eða hvað?

„Já, þetta hvílir ansi mikið á honum, það verður að viðurkennast,“ segir hún. „Það er held ég hluti af því sem gerist hjá mörgum stjórnmálamönnum að makar þeirra þurfa að taka mestu ábyrgðina á öllu þessu sem þarf að sinna hjá öllum fjölskyldum. Vinnutíminn er oft mjög óvenjulegur og ófyrirséður og það er kannski það sem ég ímynda mér að sé leiðinlegast við að vera giftur stjórnmálamanni. Að vita í sjálfu sér aldrei hvað gerist.“

„Við höfum ákveðna sérstöðu sem herlaust land og tölum fyrir slíkum lausnum á alþjóðavettvangi og ég mun gera það á þessum fundi.“

Alltaf erfitt að vera í ríkisstjórn
Eins og fram kom áður hefur þingflokkur VG setið undir gagnrýni fyrir að hafa gengið inn í þetta ríkisstjórnarsamstarf. Er ekkert erfitt að takast á við það?

„Það er bara erfitt að vera í ríkisstjórn, það var líka erfitt á árunum 2009-2013, það er bara hluti af lífinu. Maður gengur ekki inn í þetta verkefni með það að markmiði að verða eitthvað sérstaklega vinsæll. Okkur fannst hins vegar mjög mikilvægt að hafa áhrif á stjórn landsins. Það hefur verið að molna undan innviðum samfélagsins eftir kreppu og við verðum bara að horfast í augu við stöðuna eins og hún er. Það er mjög mikilvægt að við nýtum núna þá efnahagslegu hagsæld sem verið hefur til þess að byggja upp þessa innviði. Það eru líka stór verkefni sem mínum flokki fannst mikilvægt að hafa áhrif á, ég get nefnt umhverfismálin, náttúruvernd og loftslagsmál, kynjajafnréttismál og þessa innviðauppbyggingu sem mér finnst mikilvæg til þess að tryggja aukinn jöfnuð og aukna velsæld í samfélaginu. Þannig að, jú, jú, við erum gagnrýnd fyrir það að gera málamiðlanir og ná ekki öllum okkar málum fram en það er bara fylgifiskur þess að fara í ríkisstjórn. Það er ekki eins og við séum ókunnug þessum viðbrögðum frá fyrri tíð. Ef maður er alltaf að hugsa um að einhverjum muni finnast eitthvað athugavert við það sem maður gerir þá mun maður líklega aldrei gera neitt.“

Er þetta ekki bara svipað og að vera í hjónabandi? Snýst þetta ekki meira og minna um málamiðlanir og tilslakanir?

„Jú, jú, það er náttúrlega undirstaða lýðræðissamfélaga að ólík öfl geti gert málamiðlanir og það þekkjum auðvitað bæði úr okkar sögu og sögu annarra landa að undirstaðan er sú að við höfum öll okkar hugmyndir og okkar stefnu og svo þurfum við einhvern veginn að lenda einhverjum ásættanlegum niðurstöðum og það er auðvitað alltaf flókið.“

Katrín í myndatöku á tröppum Stjórnarráðsins.

Tekur ekki fram fallbyssuna
Oft hefur verið bent á Katrínu sem einn mesta diplómatann í íslenskum stjórnmálum, er hún sammála því mati? Á hún auðvelt með að miðla málum og aðlaga sig að ólíkum áherslum annarra?

„Ég held það sé alveg rétt að ég eigi það og það átti í sjálfu sér alveg eins við í stjórnarandstöðu,“ segir Katrín. „Ég viðurkenni það að ég er ekki manneskja stórra orða og ég tek ekki fram fallbyssuna í hvert sinn sem eitthvað gerist. Mér finnst það ekki spennandi stjórnmál sem snúast bara um það.“

Þegar Katrín tók við forsætisráðherraembætinu vakti það einna mesta athygli erlendra miðla að hún væri sérfræðingur í glæpasögum sem myndi væntanlega koma sér vel í þessu starfi. Er hún sammála þeirri skoðun? Er það góður grunnur fyrir forsætisráðherra að hafa stúderað glæpasögur?

„Það er góður grunnur fyrir alla stjórnmálamenn,“ segir hún og glottir. „Þetta er náttúrlega skrýtinn geiri og glæpasögur byggja á þeirri forsendu að engum sé treystandi, þannig að er það ekki ágætis grunnur?“

Þurfa stjórnmálamenn þá alltaf að vera á varðbergi gagnvart því að einhver styngi þá í bakið?

„Ja, maður hefur séð dæmi um það í stjórnmálum,“ svarar hún rólega. „Þótt ég þekki það ekki endilega persónulega af minni reynslu. En maður hefur séð það gerast hjá öðrum.“

Les skáldskap á hverjum degi
Glæpasögur eru varla eina áhugamálið, hvaða fleiri áhugamál hefur forsætisráðherrann?

„Ég hef engin áhugamál, ég er alltaf í vinnunni,“ svarar Katrín um hæl og skellir upp úr. „Nei, nei, ég hef rosalega gaman af því að vera úti á sumrin og njóta okkar náttúru og fallega lands. Sennilega er það stærsta áhugamál mitt að vera úti í íslenskri náttúru og síðan les ég nú fleira en glæpasögur. Ég les skáldskap á hverjum einasta degi. Þótt glæpasögur séu ágætar geta þær orðið leiðigjarnar til lengdar, maður er svolítið farinn að sjá það fyrir á blaðsíðu 200 hver morðinginn reynist vera á síðu 500 þegar maður hefur lesið svona mikið af þeim. Þannig að ég les alls konar skáldskap og þetta tvennt er efst á listanum, að vera úti og lesa.“

Það fylgir því auðvitað að vera í opinberu embætti að þurfa að gæta orða sinna en áttu ekki eitthvert athvarf, hjá vinum eða fjölskyldu, þar sem þú getur bara verið Katrín og sagt allt sem þér dettur í hug?

„Maður verður auðvitað að sinna þeim störfum sem maður tekur að sér og gerir það bara. Þau eru hluti af manni sjálfum líka. En það er nauðsynlegt að eiga góða vini og fjölskyldu þar sem maður getur talað í trúnaði og þarf ekki að vega og meta hvert orð. Og ég er mjög heppin með vini.“

„Ég ímynda mér að það sé miklu verra að vera tekinn af lífi sem rithöfundur. Maður er öllu vanur úr stjórnmálunum en það hlýtur að vera alveg hræðileg upplifun að láta grilla hugverkin sín.“

Alveg einlæglega, hvað hefur reynst þér erfiðast í starfi forsætisráðherra?

„Kannski það að maður er alltaf í embættinu, eins og við vorum að tala um. Það er auðvitað ákveðið álag. Þess vegna er ég að tala um nauðsyn þess að eiga góða vini sem maður getur verið opinskár við og sagt hluti sem eru ekki „réttir“. Sagt bara allt sem ekki má. Það er alveg ljóst að maður talar ekki bara fyrir sína hönd þegar maður er forsætisráðherra, maður talar fyrir hönd landsins.“

Eitt af því sem gerir það að verkum að Katrín hefur verið einn vinsælasti stjórnmálamaður á Íslandi er hvað hún er vel máli farin og fer vel með tungumálið, er það að hennar mati nauðsynlegur eiginleiki góðs stjórnmálamanns?

„Það skiptir máli fyrir okkur öll að nýta tungumálið sem við eigum, við gleymum því stundum hvað við eigum mikil verðmæti í þessu tungumáli. Ég er oft spurð erlendis hvaða tungumál við tölum á Íslandi og það kemur mörgum á óvart þegar ég segi að við tölum íslensku. Það er eins og mörgum, sérstaklega stærri þjóðum, finnist það algjörlega galið að 350.000 manna þjóð tali eigið tungumál. Ég held hins vegar að það skipti okkur sem þjóð ofboðslega miklu máli að eiga þessar rætur og geta verið í þessum tengslum við okkar fortíð í gegnum tungumálið. Það er sérstaklega mikilvægt núna, þegar við sjáum heiminn í kringum okkur breytast dag frá degi og tæknina verða stærri og stærri þátt í lífi okkar, að íslenskan verði gjaldgeng í tækniheiminum.“

Katrín í ríkisstjórnarherberginu.

Hefur ekki þörf fyrir já-fólk
Talið berst aftur að eiginmanninum og hvort Katrín og hann séu til dæmis alltaf sammála um pólitíkina?

„Nei, það erum við ekki,“ svarar hún. „Við rífumst alveg um pólitík. Ég veit ekki einu sinni hvað hann kýs, ég fer ekki með honum inn í kjörklefann. En hann hefur hins vegar sýnt mér mikinn stuðning með ráðum og dáð þótt hann sé ekkert alltaf sammála mér. Enda geri ég enga kröfu um það. Fólk verður að fá að hafa sínar skoðanir og ég hef aldrei haft mikla þörf fyrir það að hafa bara já-fólk í kringum mig. Mér finnst oft gott að heyra í fólki sem er ósammála mér.“

Katrín segist hafa góðan stuðning allrar fjölskyldunnar en hún er yngst fjögurra systkina og segist hafa verið hálfgerð dekurrófa á heimilinu.

„Ég var mikið uppáhaldsbarn, eins og oft er með yngstu börn,“ segir hún og hlær. „Ég er sex árum yngri en tvíburabræður mínir og fjórtán árum yngri en systir mín og þeim þótti uppeldi mínu mjög ábótavant. Þau gagnrýndu foreldra okkar mikið fyrir að hafa hætt öllu uppeldi þegar ég kom í heiminn. Það hef ég fengið að heyra frá því ég man eftir mér.“

Spurð hvað hún hafi ætlað sér að verða áður en stjórnmálin hertóku huga hennar vefst Katrínu tunga um tönn, nema hún segist aldrei hafa ætlað sér að verða stjórnmálamaður þegar hún yrði stór. „Ég hafði alls konar hugmyndir. Var minnt á það um daginn að ég hefði skrifað í einhverja bekkjarbók í grunnskóla að ég ætlaði að verða skurðlæknir. Ég hef líka mjög mikinn áhuga á því sem ég var að gera áður en ég varð stjórnmálamaður en þá vann ég bæði við bókaútgáfu og sem kennari og fannst hvort tveggja mjög gaman. Mér hafa reyndar fundist flest störf sem ég hef sinnt mjög skemmtileg.“

Birti tvær örsögur
Talandi um bókaútgáfu og færni í íslensku, skrifarðu sjálf skáldskap?

„Nei, því miður ekki,“ svarar Katrín og dæsir. „Ég er samt alltaf að ímynda mér að ég sé að fara að gera það bráðum. Ég skrifaði ljóð og einhvern hallærisskap þegar ég var unglingur en ég held það hafi beinlínis ekkert birst eftir mig af skáldskap nema tvær örsögur sem birtust í tímariti íslenskunema þegar ég var í Háskólanum. Ég lít svo á að skáld séu hugrakkasta fólk í heimi því þau rífa úr sér hjartað og leggja það á borð og eru svo jafnvel tekin af lífi og grilluð. Mér finnst það mjög ógnvekjandi starf.“

Ég bendi Katrínu á að stjórnmálamenn séu nú líka aldeilis grillaðir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum en henni finnst það mun minna mál.

„Ég ímynda mér að það sé miklu verra að tekinn af lífi sem rithöfundur. Maður er öllu vanur úr stjórnmálunum en það hlýtur að vera alveg hræðileg upplifun að láta grilla hugverkin sín.“

Einhvers staðar las ég að þú værir ákveðin í að hætta í stjórnmálum þegar þessu kjörtímabili lyki, er eitthvað hæft í því?

„Ég tek bara einn dag í einu,“ svarar hún véfréttarlega. „Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það. Ég verð í stjórnmálum á meðan ég hef ástríðu fyrir þeim. Svo hætti ég. Við verðum bara að bíða og sjá hvenær það verður.“

Og ætlarðu þá að skrifa krassandi sjálfsævisögu og segja allt sem þú gast ekki sagt á meðan þú varst í opinberu embætti?

„Það verður svoleiðis,“ segir Katrín og skellihlær. „Og svo mun ég flytja eitthvað mjög langt í burtu!“

 

Myndir: Aldís Pálsdóttir

Einstakt að ganga í bjartri nóttunni

|||
|||

Jónsmessunæturferðir frá Fimmvörðuhálsi yfir að Básum hafa notið sívaxandi vinsælda en ferðin markar hápunkt í starfi Útivistar ár hvert.

Skúli Skúlason, framkvæmdarstjóri Útivistar.

„Það sem gerir þessa göngu einstaka er kannski fyrst og fremst sú stemning sem fylgir því að ganga í bjartri nóttinni.  Kyrrðin verður næstum áþreifanleg, jafnvel fuglarnir eru farnir að sofa,“ segir Skúli Skúlason, framkvæmdarstjóri Útivistar.

Gangan fer þannig fram að brottför er síðdegis á föstudegi frá BSÍ.  Ekið að Skógum og gengið yfir nóttina yfir Fimmvörðuháls með nokkrum stoppum á leiðinni, meðal annars við skála Útivistar efst á Fimmvörðuhálsi þar sem boðið verður upp á heita kjötsúpu.  Stuttan spöl norðan við Fimmvörðuskála eru tvö yngstu fjöll landsins, þeir bræður Magni og Móði. Gengið er upp á Magna og horft yfir splunkunýtt apalhraunið sem enn rýkur úr. Það er einstök tilfinning að standa á eldfjallinu og finna hve jörðin er volg undir iljunum.

Áfram er haldið í norður og fljótlega blasir Fjallabak við í morgunbirtunni. Gengið er fram á Heiðarhornið en þaðan sést stórkostleg náttúra hvert sem litið er. Síðasti áfangi göngunnar er niður í Strákagil og þaðan heim í Bása þar sem notalegur svefnpokinn bíður þreyttra göngumanna.

Þegar kemur fram á morgun fer hópurinn að týnast í Bása og flestir þá væntanlega orðnir þægilega þreyttir þannig að það verður gott að leggja sig í nokkra klukkutíma. Allur farangur er fluttur yfir í Bása þannig að svefnpoki og tjald verður komið á staðinn þegar þangað er komið. Um kvöldið verður svo slegið upp grillveislu þar sem boðið verður upp á klassískt lambalæri.  Eftir matinn verður svo slegið upp varðeldi og að sjálfsögðu tekið lagið eins og í öllum góðum útilegum.

Skúli segir umgjörðina um þessa göngu vera umfangsmeiri en í venjulegum Fimmvörðuhálsferðum og kjötsúpan uppi á hálsinum sé bara einn þáttur í því.  „Loks er það svo sú stemning sem er í Básum þessa helgi, en fjöldi fólks gerir sér ferð þangað til að upplifa hana þó að það taki ekki þátt í göngunni sem slíkri.“

„Fyrir mörgum kemur sumarið ekki fyrir alvöru fyrr en með Jónsmessugöngunni á Fimmvörðuháls og gleðinni í Básum.“

Fatnaður og góðir skór skipta öllu máli
Að hans sögn er lögð áhersla að fara ekki of hratt yfir og alltaf sé gætt vel af því að hafa nægilega marga fararastjóra með í för svo þörfum allra sé sinnt, hvort sem þeir fari hægt yfir eða hratt.  „Það er snúnara að hætta við á miðri leið. Við gerum þó ráðstafanir til að geta brugðist við ef einhverjir gefast upp eða meiðast og geta ekki haldið áfram göngu. Ég tel þessa ferð henta öllum sem á annað borð geta stundað göngur.  Það er þó rétt að hafa í huga að leiðin er 24 km sem er nokkuð drjúg dagleið og auk þess verið að ganga að næturlagi.“

Þegar kemur að útbúnaði fyrir slíka ferð segir hann mikilvægt að huga að góðum gönguskóm og hlífðarfatnaði. „Mikilvægt er að hafa meðferðis allt sem göngumaðurinn þarfnast og forðast að taka með sér óþarfa hluti sem hægt er að vera án. Of þungar byrðar gera ferðina erfiðari og draga úr ánægju göngumannsins af henni. Fyrir utan líkamlegt atgervi gegna skóbúnaður og fatnaður lykilhlutverki. Veðrið í bænum við brottför segir ekki allt um hvernig veðrið er uppi á Fimmvörðuhálsi. Það má alveg ganga að því vísu að þar sé talsvert kaldara, ekki síst um miðja nótt.  Hlý undirföt, millilag og svo er nauðsynlegt að vera með regnheldan jakka og buxur í bakpokanum, jafnvel þótt það sé sólskin við brottför.  Svo þarf líka að vera með orkuríkt nesti og vatnsflösku. Líkaminn þarf orku í gönguna og þó svo við bjóðum upp á hressingu á leiðinni er það ekki nóg.“

Gengið er yfir nóttina yfir Fimmvörðuháls með nokkrum stoppum á leiðinni, meðal annars við skála Útivistar efst á Fimmvörðuhálsi þar sem boðið verður upp á heita kjötsúpu.

Að því sögðu segir Skúli að mikil tilhlökkun sé vegna göngunnar því ferðin marki alltaf ákveðin hápunkt í starfi Útivistar. „Við leggjum allt í að gera þessa helgi skemmtilega og fyrir mörgum kemur sumarið ekki fyrir alvöru fyrr en með Jónsmessugöngunni á Fimmvörðuháls og gleðinni í Básum. Á sunnudeginum er svo lagt af stað heim með rútum um hádegisbilið en fararstjórar Útivistar sjá um alla leiðsögn á heimleiðinni. Þar eru fjölmörg náttúruundur sem vert er að skoða á leiðinni með kærkomnum kaffistoppum.“

Áríðandi er að hafa meðferðis allt sem göngumaðurinn þarfnast.
Góður skóbúnaður og hlífðarfatnaður er m.a. mikilvægur.
Hlý undirföt, millilag, regnheldur jakki og buxur í bakpokanum.
Orkuríkt nesti og vatnsflaska.
Ekki of þungar byrðar.
Gott líkamlegt atgervi.

Myndir / úr einkasafni

Ísland mætir Ofurörnunum í dag

||
||

Landslið Íslands mætir Nígeríu í viðureign á HM Í Rússlandi í dag. Nígería á eitt allra sigursælasta lið Afríku og því full ástæða til að vanmeta það ekki.

Landslið Nígeríu í fótbolta er kallað Ofurernirnir.

Nígería er risastórt land. Þjóðarbrotin eru óteljandi og tungumálin sem töluð eru innan Nígeru skipta hundruðum. En eitt á öll þjóðin sameiginlegt og það er ástin á landsliðinu sínu. Saga þess er glæsileg en með sanni má segja að Nígería sé eitt allra sigursælasta lið Afríku. Við ætlum okkur auðvitað að binda enda á þessa sigurgöngu en víst er að við megum síst við að vanmeta þessa miklu knattspyrnuþjóð.

Takk, pabbi!
Það er allt í lagi að Nígeríumenn skori, svo lengi sem við skorum fleiri en þeir. En ef þeir skora syngja stuðningsmennirnir „Ósje Baba“, sem þýðir „Takk fyrir, faðir“ á yourobísku, sem er eitt af mest töluðu tungumálunum í Nígeríu. Við skulum bara vona að þeir hafi lítið að þakka fyrir í leiknum.

Vesturafrískur taktur
Stuðningsmenn Nígeríu þykja með þeim hressari en skrautlegir búningar, fagurgrænar hárkollur og  sólgleraugu í yfirstærð eru algeng sjón meðal þeirra.
Yfirleitt fylgir þeim hljómsveit sem spilar svokallaða Highlife-tónlist. Sú tónlistarstefna á rætur sínar að rekja til Gana og er blanda af klassískum vesturafrískum takti og vestrænni popptónlist.
Til að koma sér í stuð fyrir leikinn má finna fullt af Highlife-tónlist á YouTube, svona áður en við syngjum endurtekið Ég er kominn heim fullum hálsi.

Strákarnir okkar á móti Ofurörnunum
Áður en Nígería lýsti yfir sjálfstæði og tók sér sinn græna og hvíta fána spilaði landslið þeirra í rauðum búningum. Þeir voru þá kallaðir Rauðu djöflarnir. Í kjölfar sjálfstæðis urðu búningarnir grænir og síðan var viðurnefninu breytt í Grænu ernirnir. Í kjölfar mjög svo umdeilds ósigurs þeirra í úrslitum Afríkubikarsins árið 1988 var nafninu breytt í Ofurernina.
Kvennalandslið þeirra kallar sig Ofurfálkana og eru unglingalandslið beggja kynja kölluð ýmist Fljúgandi ernirnir eða Gylltu arnarungarnir.

Þrefaldir Afríkumeistarar
Þrisvar hafa Nígeríumenn hrósað sigri í Afríkukeppninni. Keppnin er haldin annað hvert ár og sigraði Nígería fyrst árið 1980 á heimavelli, svo árið 1994 í Túnis, og að lokum árið 2013 í Suður-Afríku.
Liðið komst hins vegar ekki á lokamótið tvö síðustu skipti, árið 2015 og 2017.

Dottnir úr stuði?
Nígería hefur einungis unnið einn leik af síðustu sjö og gert eitt jafntefli. Margir segja að gullöld þeirra sé liðin og ljóst er að í liðinu er enginn leikmaður sem kallast getur stórstjarna.
Það eru góðar fréttir fyrir okkur, en þrátt fyrir það er ljóst að leikurinn verður gríðarlega erfiður.

Erkifjendur og nágrannar
Nígeríumenn hafa marga hildina háð við landslið Kamerún og mikil samkeppni hefur myndast milli þessara granna. Hápunktinum var náð í úrslitaleik Afríkukeppninnar árið 2000 en dómarinn dæmdi svo í vítaspyrnukeppni að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu að vítaspyrna Viktors Ikpeba hefði ekki farið yfir línuna og því töpuðu þeir leiknum.

En erkifjendur Nígeríu á knattspyrnuvellinum eru samt sem áður Ganabúar sem einmitt gerðu jafntefli 2-2 við íslenska landsliðið í loka undirbúningsleik okkar fyrir HM.

2010 komst nígeríska landsliðið ekki upp úr riðlinum á HM. Forseti landsins, Goodluck Jonathan, fyrirskipaði að í refsingaskyni skyldi liðið sæta tveggja ára keppnisbanni.

Frumraunin á HM ‘94
Nígería komst í fyrsta sinn á lokamót HM árið 1994. Liðið var firnasterkt og mikill og góður liðsandi þótti einkenna spilamennsku þess. Þeir sigruðu riðilinn sinn og voru svo tveimur mínútum frá því að sigra Ítalíu í 16 liða úrslitum. Roberto Baggio nokkur marði drauma þeirra með marki á lokamínútunni svo Nígería sat eftir en Ítalía hélt áfram keppni þar til þeir töpuðu fyrir Brasilíu í frægri vítaspyrnukeppni í útslitaleiknum.
Þar réð spyrna téðs Roberto Baggio úrslitum í leiðinlegasta úrslitaleik síðari tíma en hann skaut himinhátt yfir af punktinum.

Pólitísk afskipti
Ofurernirnir komust aftur á HM 1998, 2002, 2010 og 2014. Þeir hafa lengst komist í 16 liða úrslit.
2010 komust þeir hins vegar ekki upp úr riðlinum og hlutu einungis eitt stig. Forseti landsins, Goodluck Jonathan, fyrirskipaði svo að í refsingaskyni skyldi liðið sæta tveggja ára keppnisbanni. Stórundarleg ákvörðun í alla staði og FIFA hótaði öllu illu enda lítt hrifið af pólitískum afskiptum.
Í kjölfarið fór af stað mikill farsi þar sem þingið aflétti banni forsetans, en FIFA fannst það ekki nóg og setti liðið í ótímabundið bann um haustið. Bannið entist í heila fjóra daga en var þá aflétt.

Raddir