Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Þá riðu skúrkar um héruð

||||
||||

HM í knattspyrnu hefur getið af sér ógrynni hetja í gegnum tíðina. Skúrkar eru þó einnig mikilvægir til að halda jafnvægi í þessari risavöxnu íþróttaveislu og gildir þá einu hvort leikmenn skapi sér óvinsældir með ofbeldisverkum, svindli, leikaraskap eða einfaldlega með því að bregðast liðsfélögum sínum þegar mest ríður á. Mannlíf rifjaði upp nokkra fræga skúrka í sögu HM.

1. Óvinsælli en Hitler

Þýski markmaðurinn Harald Schumacher, Vestur-Þýskalandi, framdi fólskulegasta brot HM-sögunnar þegar Þjóðverjar og Frakkar léku í undanúrslitum á HM á Spáni 1982. Þegar franski varnarmaðurinn Battiston elti glæsilega sendingu hetjunnar Michels Platini inn fyrir þýsku vörnina tók Schumacher á rás út úr marki sínu í átt að þeim franska, sem varð fyrri til að ná til boltans og skaut naumlega fram hjá. Markverðinum virtist hins vegar vera hjartanlega sama um boltann og stökk beint á Battiston, sem fékk mjöðmina og lærið á Schumacher í höfuðið af ógnarafli og féll meðvitundarlaus til jarðar.

Platini sagðist síðar hafa haldið að Battiston væri dáinn því hann fann engan púls þegar liðsfélagar og sjúkralið stumraði yfir honum hrímhvítum í framan. Á meðan rölti Schumacher í hægðum sínum um vítateiginn, sýndi fórnarlambi sínu engan áhuga og virtist óþreyjufullur að taka útsparkið og hefja leik að nýju, því dómari leiksins dæmdi ekki einu sinni aukaspyrnu fyrir brotið augljósa og hvað þá verðskuldað rautt spjald á Schumacher. Knattspyrnukarma virðist ekki hafa virkað sérlega vel þennan ákveðna dag því leiknum lauk með 3-3 jafntefli eftir framlengingu og í vítakeppninni, þeirri fyrstu í sögu HM, varði Schumacher tvær vítaspyrnur.

Að leik loknum, þegar Schumacher var tjáð af fréttamönnum að Battiston hefði misst tvær tennur í árásinni, brákað þrjú rifbein og skemmt hryggjarlið, grínaðist markvörðurinn með að hann skyldi með glöðu geði borga fyrir tannaðgerð fyrir varnarmanninn úr því hann væri ekki meira slasaður en svo. Allt hleypti þetta skiljanlega illu blóði í þorra knattspyrnuáhugafólks og sér í lagi Frakka. Málið vakti svo mikla athygli að þjóðarleiðtogar landanna tveggja, þeir Helmut Kohl og François Mitterand, ræddu það á blaðamannafundi til að freista þess að lægja öldurnar. Í skoðanakönnun fransks dagblaðs skömmu síðar var Schumacher kosinn óvinsælasti maður Frakklands með talsverðum yfirburðum. Adolf Hitler, landi markvarðarins, varð í öðru sæti í þessari sömu könnun.

Battiston náði sér að fullu um síðir en þetta ógeðfellda atvik litaði þó feril beggja leikmanna upp frá því og það er kannski það sorglegasta við það, því báðir voru þeir frábærir knattspyrnumenn. Þá er einnig leiðinlegt að leiksins sjálfs sé fyrst og fremst minnst fyrir fólskulegt brot en ekki þá stórkostlegu knattspyrnu og gríðarlegu spennu sem fram fór á sjálfum vellinum.

2. Mannætan snýr aftur

Luis Suárez, Uruguay, hefur tekið þátt í tveimur heimsmeistarakeppnum til þessa. Á lokamínútu framlengingar í 8-liða úrslitum HM 2010 í Suður-Afríku varði hann skot Ghana-mannsins Asamoah Gyan viljandi með hendi á marklínunni og kom þannig í veg fyrir þann sögulega atburð að afrískt landslið kæmist í fyrsta sinn í undanúrslit HM. Þetta upptæki Uruguay-mannsins vakti takmarkaða lukku og enn síður gríðarlegur fögnuður hans á hliðarlínunni þegar Uruguay vann vítaspyrnukeppnina sem fylgdi í kjölfarið.

Einhverjir hafa reynt að halda uppi vörnum fyrir Suárez og bent á að vitanlega sé gáfulegra að stöðva bolta með hendi en að horfa á eftir honum í netið á síðustu mínútunni en sú skoðun hefur einhverra hluta vegna orðið undir í umræðunni enda Suárez langt frá því að vera ástsælasti leikmaður heimsfótboltans. Í lokaleik riðilsins á HM í Brasilíu 2014 tók Suárez svo upp á því að bíta Giorgio Chiellini, varnarmann Ítala, í öxlina eftir barning í teignum og greip svo klaufalega um tennurnar til að láta líta út fyrir að hann hefði óvart dottið á hann. Suárez tókst að blekkja dómarann en ekki sjónvarpsmyndavélarnar og var í kjölfarið dæmdur í langt bann, enda var þetta í þriðja sinn sem hann smjattaði á líkama andstæðings í miðjum leik.

Hverju skyldi Luis Suárez taka upp á í Rússlandi í sumar?

3. Gallaður snillingur

Það má færa rök fyrir því að goðsögnin Diego Armando Maradona hafi leikið skúrkinn á einn eða annan hátt í öllum fjórum heimsmeistaramótunum sem hann tók þátt í, en sumum þó meira en öðrum. Í fyrstu keppninni á Spáni árið 1982 varð nýstirnið pirrað á sífelldum spörkum andstæðinga sinna og lét að endingu reka sig út af fyrir hefndarbrot í lokaleik Argentínumanna, þar sem liðið féll úr leik gegn Brasilíu. Í Mexíkó árið 1986 spilaði hann eins og engill og tryggði þjóð sinni heimsmeistaratitilinn nánast einn síns liðs, en tókst þó að slá fölva á fegurðina með því að skora mark með hendi gegn Englendingum í 8-liða úrslitum. „Markið var skorað með örlitlu af höfði Maradona og örlitlu af hendi guðs,“ sagði Maradona og viðhélt þeirri söguskoðun langt fram á næstu öld.

Hann þótti langt frá sínu besta á Ítalíu árið 1990 og klúðraði meðal annars víti í 8-liða úrslitum en Argentínumenn komust þó alla leið í úrslitaleikinn þar sem þeir biðu lægri hlut gegn Vestur-Þjóðverjum. Í síðasta mótinu sínu í Bandaríkjunum árið 1994 féll Maradona svo á lyfjaprófi og var sendur heim með skít og skömm eftir aðeins tvo leiki og argentínska liðið beið þess ekki bætur.

4. Skelkur í bringu

Sjaldan eða aldrei hefur leikmanni tekist að skaða orðspor sitt eins harkalega og Zinedine Zidane (Frakklandi) í úrslitaleik HM 2006 í Þýskalandi gegn Ítölum. Þetta var síðasti leikur goðsins á ferlinum og allt stefndi í sannkallaðan ævintýraendi fram á síðustu mínútu framlengingar, þegar Zidane brást skyndilega ókvæða við móðgunaryrðum varnarmannsins Marcos Materazzi um systur hins fyrrnefnda og keyrði stífbónaðan skallann af miklu afli í bringu hans. Ítalinn datt niður sem dauður væri, Zidane fékk rautt spjald og Ítalir unnu vítaspyrnukeppnina sem fylgdi í kjölfarið. Þessi frábæri leikmaður hefði getað lokið ferlinum með því að lyfta stærsta bikarnum af þeim öllum en er þess í stað frekar minnst vegna einhvers sem hann gerði með höfðinu en fótunum.

5. Hætta ber leik þá hæst hann stendur

Rivaldo Vítor Borba Ferreira, frá Brasilíu, ​var talsvert betri fótboltamaður en leikari. Það kom bersýnilega í ljós undir lok leik Brasilíu og Tyrklands í riðlakeppninni á HM í Japan og Suður-Kóreu árið 2002, þegar hann bjó sig undir að taka hornspyrnu og Tyrkinn Hakan Ünsal sparkaði til hans boltanum, nokkuð fast en ekki svo fast að nokkrum fullfrískum manni í feiknaformi yrði meint af að fá hann í sig. Rivaldo fékk boltann í lærið en greip umsvifalaust um andlitið, henti sér niður og rúllaði sér um völlinn með kómískan angistarsvip á andlitinu. Dómarinn lét blekkjast á einhvern ótrúlegan hátt og rak Ünsal af velli, en Rivaldo hefur æ síðan verið minnst sem svindlara.

Fleiri tilkallaðir:

Patrice Evra.

Patrice Evra, Frakklandi
Fyrirliðinn leiddi uppreisn leikmanna gegn þjálfara franska landsliðsins á HM í Suður-Afríku árið 2010 sem gerði alla viðkomandi að fíflum.

Antonio Rattín, Argentínu
Fyrirliði Argentínumanna lét reka sig út af fyrir kjaftbrúk í leik gegn gestgjöfum Englendinga á HM 1966, neitaði að yfirgefa völlinn þar til í lengstu lög, stóð á rauða teppinu sem var einungis ætlað drottningunni og þurrkaði sér loks um hendurnar með breska fánanum á leiðinni út af.

Frank Rijkaard, Hollandi
Hrækti í hárið á þýska framherjanum Rudi Völler á HM á Ítalíu 1990 og aftur þegar hann var rekinn út af fyrir vikið. Var uppnefndur „Lamadýrið“ af þýskum fjölmiðlum.

Roy Keane.

Roy Keane, Írlandi
Var svo pirraður vegna slæmra æfingaaðstæðna írska landsliðsins á HM í Japan og Suður-Kóreu 2002 að hann gagnrýndi þjálfarann stanslaust þar til hann var rekinn úr hópnum og sendur heim áður en liðið hafði spilað sinn fyrsta leik.

Juan Camilo Zúñiga, Kólumbíu
Dúndraði með hnénu í bakið á hetju heimamanna, Neymar, í 8-liða úrslitum á HM í Brasilíu 2014 með þeim afleiðingum að gulldrengurinn lék ekki meira á mótinu. Í næsta leik biðu Neymar-lausir gestgjafarnir afhroð, 7-1, gegn verðandi heimsmeisturum Þjóðverja.

Kristjana.

Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttakona á RÚV, nefnir Diego Simeone, Argentínu:

„Maðurinn sem gerði David Beckham að hataðasta manni Englands á HM í Frakklandi sumarið 1998. Beckham, sem var algjört átrúnaðargoð hjá mér (já, ég fékk mér tölvupóstfangið [email protected]) fékk rautt spjald í leiknum gegn Argentínu í 16-liða úrslitum þegar hann sparkaði, lauflétt, aftan í Simeone. Þeim argentínska tókst að ýkja viðbrögðin svo mikið og láta þar með reka helstu vonarstjörnu Englendinga af velli. Leikurinn fór í vítaspyrnukeppni og þar tapaði England fyrir Argentínu.“

Örn Úlfar.

Örn Úlfar Sævarsson, hugmyndasmiður á ENNEMM, nefnir Roberto Baggio, Ítalíu:

„Árið 1994 byrjaði ég aftur að hafa áhuga fótbolta og HM í Bandaríkjunum var eiginlega fyrsta mótið sem ég fylgdist með af athygli. Roberto Baggio var allt í öllu fyrir Ítalíu og kom þeim í úrslitaleikinn en fyrir kaldhæðni örlaganna er hans einkum minnst fyrir vítaspyrnuklúðrið sem færði Brasilíumönnum titilinn. Og fyrir glæpsamlega hárgreiðslu.“

Fjölbreytt úrval stuðningshlífa frá Protek

Protek býður upp á fjölbreytt og mikið úrval stuðningshlífa, frá mildum stuðningi til mikils stuðning. Protek hannar sínar eigin hlífar með það að markmiði að þær séu fyrir mismunandi meiðsli sem geta komið upp á lífsleiðinni og að hægt sé að eiga hlífarnar í langan tíma. Þær eru endingargóðar og á sanngjörnu og góðu verði. Protek-hlífarnar eru hjálpartækjastuðningur við tognun, brákun og fyrir veika vöðva og liði svo dæmi séu tekin. Þetta eru hágæðavörur sem hafa hjálpað fjölmörgum að stunda sína hreyfingu eftir ýmiskonar meiðsli, t.d. eftir erfið álagsmeiðsli.

Kostir Protek-hlífanna eru meðal annars:

  • Svartar á lit, klassísk og falleg hönnun.
  • Framleiddar úr gæðaefnum sem eiga að endast í langan tíma þrátt fyrir mikla notkun.
  • Hægt að nota allar hlífarnar við daglegar athafnir og í íþróttum þar sem efnin anda vel.
  • Hlífarnar passa bæði á hægri og vinstri útlimi.
  • Mikið úrval stærða, allir ættu að finna stærð við hæfi.
  • Þær hjálpa til við að koma í veg fyrir frekari meiðsli.
  • Stuðningur hjálpar til við að draga úr bólgum í kringum særða vöðva og liði.
  • Þær halda hita að slasaða svæðinu og auka þannig blóðfæði sem flýtir bata.

Í boði eru þrjár tegundir stuðningshlífa á skalanum 1-6

Elastigated-hlífar

Í Elastigated-línunni er handahlíf, ökklahlíf, úlnliðshlíf, olnbogahlíf, hnéhlíf og hné- og kálfahlíf. Efnið í hlífunum inniheldur 52% nylon, 35% spandex og 13% latex með 4way stretch sem gefur betri teygjanleika en ella.

Helstu eiginleikar:

Mildur og teygjanlegur stuðningur.
Léttar og þægilegar hlífar.

Neoprena-hlífar

Í Neoprene-línunni eru hnéhlíf, ökklahlíf, úlnliðshlíf og olnbogahlíf. Efnið í hlífunum inniheldur 90% neoprene rubber og 10% nylon. Efnið er 3 mm þykkt sem gefur aukinn stuðning og einangrun.

Helstu eiginleikar:

Góður stuðningur og stífara efni en í Elastigated-hlífunum.
Halda hita vel inni sem veitir lækningu fyrir veika vöðva og liði með því að auka blóðflæði.

Spelkuhlífar

Í spelkulínunni er handahlíf með tveimur spelkum, mjóbakshlíf með átta spelkum, mjóbakshlíf með sex spelkum, hnéhlíf með fjórum spelkum og hnéhlíf með tveimur lömum. Efnið í spelkuhlífunum er ýmist úr Neoprene eða Elastigated ásamt spelkum eða lömum.

Helstu eiginleikar:

Mikill stuðningur frá spelkum og/eða lömum.
Hægt er að fjarlægja spelkurnar frá hlífunum og þannig stilla og staðsetja stuðninginn eftir þörfum sem er mikill kostur.

Góð lausn fyrir sinaskeiðabólgu og veikan eða slasaðan úlnlið

Einnig er í boði handahlíf með tveimur spelkum sem hægt er að nota fyrir hægri eða vinstri hönd. Hlífin hefur fullan stuðning og kemur með tveimur spelkum báðum megin við úlnlið. Þessi handahlíf hentar mjög vel fyrir þá einstaklinga sem eru með sinaskeiðabólgu og þá sem eru með veikan eða slasaðan úlnlið.

Helstu eiginleikar:

Hægt er að fjarlægja spelkurnar og beygja þær eftir þörfum.
Ein stærð sem passar á flesta þar sem stuðningurinn er stillanlegur.

Nánari upplýsingar um allar Protek-hlífarnar er að finna á vef Alvogen.

Protek stuðningshlífarnar fást í flestum apótekum.

 

Stöðugt fleiri ofbeldismál koma til kasta lögreglu

|
|

Lögreglan skilgreinir ofbeldisverk gegn konum mun betur í dag en áður. Rannveig Þórisdóttir hjá upplýsingadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir fleiri þolendur ofbeldis þora að stíga fram nú en áður.

Sextán einstaklingar fengu neyðarhnapp hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári vegna hættu á ofbeldi gegn þeim. Þetta er næstum 80% aukning frá árinu 2015 þegar einstaklingar í níu málum fengu neyðarhnappa. Á sama tíma hefur lögreglan þurft að hafa afskipti af miklu fleiri málum sem tengjast heimilisofbeldi en áður. Þau voru um 20 að meðaltali á mánuði árið 2014 en eru nú um 60 á mánuði.

Rannveig Þórisdóttir hjá upplýsingadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir ekki víst að ofbeldisverkum hafi endilega fjölgað. Ýmsir þættir skýri að fleiri ofbeldismál eru skráð í bókum lögreglu nú en áður og fleiri fái neyðarhnappa.

„Í langan tíma var litið á heimilisofbeldi sem fjölskylduvandamál sem lögreglan átti ekki að skipta sér af. En það er ekkert séríslenskt fyrirbæri,“ segir Rannveig og bendir á að breytt verklag lögreglu hafi skilað þessum árangri.

Rannveig.

Stærstu breytingarnar voru gerðar árið 2015 þegar Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við sem lögreglustjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Síðan þá hefur lögreglan horfið frá því að vera valdastofnun yfir í að verða þjónustustofnun fyrir almenning. Þessu fylgdu ýmsar áherslubreytingar, m.a. sú að skilgreina heimilisofbeldi sem viðfangsefni lögreglu og skrá brotin sem sem koma upp.

„Það var búið að reyna ýmislegt en gengið illa. Eftir að Sigríður kom inn þá förum við í fullum herklæðum á vettvang og rannsökum málin sem koma upp,“ segir Rannveig og tekur fram að breytt verklag feli í sér að nálgast ofbeldismál með öðrum hætti en áður. Nú er tekið fastar á þeim, þeim fylgt eftir, málin skráð betur og þolendum tryggð betri málsmeðferð. „Við höfum lyft grettistaki um allt land því þetta nýja verklag lögreglunnar hefur leitt til þess að nálgunarbann og neyðarhnappar hafa verið notaðir í meiri mæli en áður.“

Misbrestur í skráningu

Rannveig segir misbrest hafa verið á skráningu málanna áður og minnir á að mál eins og heimilisofbeldi hafi áður ekki verið hugsað sem lögreglumál. „Ég veit ekki hversu samanburðarhæfar tölurnar eru því við vorum ekki að skrá málin með markvissum hætti. Segja má að við höfum vanskráð þetta áður og því sé málum ekki endilega að fjölga,“ segir Rannveig og bætir við að eftir því sem umfjöllun um ofbeldisverk eykst og fleiri stígi fram og greini frá ofbeldisverkum því frekar leiti fólk til lögreglu.

Eins og áður sagði voru 20 mál tengd heimilisofbeldi skráð í bækur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2014. Nú fjórum árum síðar eru málin þrefalt fleiri eða 60 að meðaltali á mánuði.

Spurð að því hvað þurfi til að lögregla láti einstakling fá neyðarhnapp segir Rannveig að það sé metið í hverju tilviki fyrir sig. Oft sé um að ræða aðstæður þar sem óttast er að einstaklingur geti verið í hættu.

„Frá því við breyttum verklaginu sem snerta ofbeldi á heimilum þá hefur verið stöðug aukning ofbeldismála hjá okkur,“ segir Rannveig.

Fjöldi mála þar sem þurft hefur að láta þolanda fá neyðarhnapp

2015: 9 mál
2016: 11 mál
2017: 16 mál

Dæmi um það þegar einstaklingur fær neyðarhnapp

Hildur Þorsteinsdóttir lýsti í ítarlegu viðtali við DV í vor hræðilegu ofbeldi sem fyrrverandi eiginmaður hennar hafði beitt hana bæði á meðan sambúð stóð og í eftirmála skilnaðar. Eftir að hún sleit sambandinu sótti ofbeldismaðurinn svo að henni að Hildur fékk neyðarhnapp hjá lögreglu og varð hún að beita honum þegar henni fannst sér ógnað. Neyðarhnappinn gekk hún með í sex mánuði.

Úr kynsvalli í klikkað Eurovision-partí

||
||

Páll Óskar Hjálmtýsson leikur Frank-N-Furter í Rocky Horror í hátt í fertugasta sinn á laugardaginn. Eftir sýninguna brunar hann á skemmtistaðinn Spot og stillir upp fyrir stærsta Eurovision-partí landsins. Palli segist ekki hafa verið í betra formi síðan hann var ungur maður og því sé þetta gerlegt.

„Yfirmenn í Borgarleikhúsinu voru svo sætir að færa sýningu af Rocky Horror til klukkan 16 á laugardaginn þannig að ég hleyp beint úr leikhúsinu á Spot, klára „soundcheck“, horfi á keppnina með öðru auganu og svo byrjar bara ballið,“ segir stórsöngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson.

Páll Óskar fer á kostum sem Frank-N-Furter á fjölum Borgarleikhússins.

Páll Óskar heldur í hefðir annað kvöld, laugardagskvöldið 12. maí, og blæs til heljarinnar Eurovision-balls á Spot í Kópavogi eftir að aðalkeppni Eurovision lýkur. Páll Óskar hélt fyrsta Eurovision-ballið árið 2003, og er því orðinn ýmsu vanur, en í ár verður þessi dagur örlítið öðruvísi þar sem Páll Óskar stígur einnig á svið í Borgarleikhúsinu sem kynsnillingurinn Frank-N-Furter. Er það bara gerlegt?

„Já, þetta er gerlegt. Á laugardögum hef ég iðulega hlaupið út úr leikhúsinu eftir Rocky Horror-sýningar og spilað á árshátíðum. Ég treysti mér hins vegar ekki til að spila á skólaböllum og einkapartíum á virkum dögum og tók bara út fyrir það. Ég byrja svo aftur á því öllu þegar sýningum fækkar,“ segir Páll Óskar. Síðasta sýning fyrir sumarfrí er 10. júní og við tekur kærkomið en stutt sumarfrí hjá söngvaranum.

„Eftir síðustu sýningu fer ég beint til Grikklands og slaka á í sólbaði,“ segir Páll Óskar. Hann er vel málaður í gervi Frank-N-Furter og ætlar að njóta þess að sleppa við það. „Ég ætla ekki að raka mig í mánuð. Þetta verður mottumars í júní,“ segir hann hlæjandi.

Lærði að umgangast mat upp á nýtt

Páll Óskar segist ekki hafa verið í betra líkamlegu formi síðan hann var ungur maður og því nái hann að anna þessu álagi.

„Ég lærði að borða upp á nýtt fyrir þremur árum. Ég er með góðan og fallegan þjálfara í World Class í Laugum, hann heitir Hilmar Björn. Hann ítrekaði fyrir mér að ég gæti mætt á hverjum einasta degi og pumpað og pumpað í tvo tíma á dag en að árangurinn yrði ósköp lítill nema ég lærði að umgangast mat upp á nýtt. Hann hjálpaði mér að finna próteindrykki sem virka eins og ein máltíð þannig að í dag borða ég alltaf eina máltíð á dag og drekk síðan próteindrykki. Ég sneiði fram hjá hamborgurum og sóðamat en ég neita mér ekki um súkkulaðið mitt,“ segir Páll Óskar og brosir.

„Svo hætti ég að drekka kók með sykri og skipti yfir í Coke Zero. Á fyrstu fjórum vikunum missti ég fjögur kíló og ég hef ekki litið til baka síðan. Þegar ég reyni að drekka kók núna er það svo vont á bragðið, eins og drekka eitthvað úr niðurfalli.“

Skærar Eurovision-stjörnur trylla lýðinn

Páll Óskar er vel málaður í Rocky Horror en ætlar að skilja málningarburstana eftir heima í sumarfríinu.

Söngvarinn okkar ástsæli er fullur tilhlökkunar fyrir laugardeginum, bæði fyrir því að stíga í hátt í fertugasta sinn á svið Borgarleikhússins sem kynsnillingurinn Frank-N-Further, en einnig fyrir Eurovision-ballinu, sem stendur yfir frá kl. 23 til fjögur um nóttina.

„Það fallegasta við þessi böll er að þarna kemst maður næst því að upplifa stemninguna sem maður upplifir í alvöru þegar maður fer út á keppnina. Þetta er eini staðurinn á jarðríki þar sem maður fær tækifæri til að hitta allra þjóða kvikindi í sama suðupottinum, samankomin út af einni og sömu ástæðunni,“ segir Páll Óskar. Honum til halds og trausts verða góðir gestir, þau Selma Björns, Jóhanna Guðrún, Hera Björk, Eyjólfur Kristjánsson og Stefán Hilmarsson, sannkallað Eurovision-stórskotalið.

„Þakið fer af húsinu þegar ég kynni gestina á svið. Fólk bilast þegar íslensku stórstjörnurnar taka Eurovision-lögin sín,“ segir Palli og bætir við að margir ballgesta séu fastagestir ár eftir ár. „Fólk kemur til mín og biður um útúrtjúlluð óskalög, eins og framlag Spánar árið 2003. Ballgestir vita nákvæmlega hvað klukkan slær og þetta er orðin yndisleg hefð hjá mörgum. Þetta er líka æðislega gaman fyrir mig því þetta er eini dagurinn á árinu þar sem ég get leyft mér að spila nær einvörðungu Eurovision-lög.“

Útilokar ekki þátttöku í Eurovision

Eins og flestir vita hefur Páll Óskar einu sinni farið fyrir Íslands hönd í Eurovision. Það var í Dyflinni árið 1997 með lagið Minn hinsti dans, sem vakti heldur betur athygli í keppninni. Lagið lenti í 20. sæti og voru margir á því að Palli hefði náð lengra, jafnvel unnið keppnina, ef símakosning hefði verið tekin í gagnið, eins og var gert árið síðar þegar hin ísraelska Dana International sigraði með lagið Diva. En klæjar Palla ekkert í raddböndin að taka aftur þátt í Eurovision?

„Ég verð að fá lag sem kýlir mig kaldan á staðnum, alveg eins og Euphoria gerði þegar ég heyrði það fyrst.

Næst verð ég að fara með lag sem getur unnið. Ég er þannig gerður að ég verð að fá safaríka laglínu til að leika mér með. Ég verð að fá hljómagang sem gengur upp á næstum því hvaða hljóðfæri sem er og gefur mér samt pínu gæsahúð. Eða eitthvað sætt. Þá fer ég í gang,“ segir þessi sjarmerandi söngvari, og því ekki útilokað að hann eigi einhvern tímann aftur eftir að vera fulltrúi Íslands í þessari vinsælu söngvakeppni.

Topp 3 à la Páll Óskar

Georgía – Iriao – For You
„Mér finnst þetta vera lagasmíðin sem er með mesta kjötið á beinunum. Lag sem er samið af einhverri dýpt og þekkingu.“

Eistland – Elina Nechayeva – La Forza
„Það er svolítið hættulegt að senda klassískan söngvara í Eurovision. Það hefur sjaldan gefist vel. En þetta lag frá Eistlandi er svo vel útfært og gellan neglir þetta alltaf á hverri einustu æfingu.“

Frakkland – Madame Monsieur – Mercy
„Gríðarlega vel samið popplag og langmikilvægasti boðskapurinn af öllum lögunum.“

Eiturhressi Eurovision-leikur Mannlífs og algjörlega tilgangslaus fróðleikur

|||
|||

Stærsti dagur Eurovision-aðdáenda um heim allan, samt mestmegnis bara í Evrópu, er á næsta leiti. Því sá Mannlíf sig knúið í að búa til eiturhressan og skemmtilegan Eurovision-leik til að gera keppnina og öll Eurovision-partíin aðeins skemmtilegri.

Leikurinn er þannig gerður að bæði er hægt að spila hann meðal fullorðinna í hressum teitum þar sem svokallað partígos er við hönd eða í stórum fjölskylduboðum þar sem krakkarnir eru útúrtjúnaðir af snakk- og nammiáti. Góða skemmtun!

1. Við byrjum þetta rólega. Gefið næsta manni „high five“ í hvert sinn sem minnst er á Salvador Sobral, sigurvegara síðasta árs.

2. Drekkið tvo sopa, hvort sem það er partígos eða strangheiðarlegt vatn, í hvert sinn sem þið skiljið ekki texta í lögunum.

3. Troðið munninn á ykkur fullan af snakki alltaf þegar portúgölsku kynnarnir reyna að vera fyndnir en mistekst hrapallega.

4. Klappið í hvert sinn sem sungið er um ást eða heimsfrið. Bara ekki klappa of hátt, eða verið í vettlingum – þetta verður ansi hreint mikið klapp!

5. Klárið úr glasinu ykkar þegar Gísli Marteinn minnist á hve Ari stóð sig frábærlega eða þegar hann ber saman stjórnmál og Eurovision eða þegar hann gerir grín að klæðaburði keppenda.

6. Standið upp og dansið fugladansinn í hvert sinn sem eldur er á sviðinu.

7. Ef þið hafið ekki hugmynd um hvar eitthvað land er staðsett í Evrópu, eða hvort það er á annað borð í Evrópu, verðið þið að róa ykkur niður og fá ykkur þrjá sopa.

8. Fimm sopar á haus í hvert sinn sem stigakynnir reynir fyrir sér á tungumáli heimamanna, portúgölsku, með misgóðum árangri. Bónussopi ef portúgölsku kynnarnir skilja ekki bofs í stigakynninum. #áframeddasif!

9. Tvær, vænar lúkur af nammi í skoltinn á ykkur ef einhverjir tæknilegir örðugleikar verða þegar stigin eru kynnt. Jebb, það fer enginn í megrun á Eurovision!

10. Og svo verðið þið að blanda ykkur glænýjan drykk og skála í botn í hvert sinn sem þjóð gefur nágrannaþjóð sinni 12 stig.

Tíminn líður hratt …

Ísland tók fyrst þátt í Eurovision árið 1986 með lagið Gleðibankinn. Þá voru aðeins tuttugu lög í keppninni og Ísland lenti í hinu alræmda sextánda sæti með nítján stig. Þá var …

… forsætisráðherra okkar, Katrín Jakobsdóttir, aðeins 10 ára.

…. fjármála- og efnahagsráðherra okkar, Bjarni Benediktsson, 16 ára.

… félags- og jafnréttismálaráðherra okkar, Ásmundur Einar Daðason, aðeins 4 ára gamall.

… utanríkisráðherra okkar, Guðlaugur Þór Þórðarson, á 19 aldursári.

… umhverfis- og auðlindaráðherra okkar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, 9 ára gamall.

… sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra okkar, Kristján Þór Júlíusson, 29 ára.

… mennta- og menningarmálaráðherra okkar, Lilja Alfreðsdóttir, 13 ára gömul.

… dómsmálaráðherra okkar, Sigríður Á. Andersen, rétt nýfermd, eða að verða 15 ára.

… samgöngu- og sveitastjórnarráðherra okkar, Sigurður Ingi Jóhannsson, 24 ára.

… heilbrigðisráðherra okkar, Svandís Svavarsdóttir, 22 ára.

… ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra okkar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ekki fædd.

Endurkomur allra endurkoma

Eins og margir vita reynir Norðmaðurinn Alexander Rybak að endurtaka leikinn í ár með lagið That’s How You Write a Song, eftir að hafa sigrað í Moskvu árið 2009 með lagið Fairytale.

Hann er langt frá því að vera fyrsti Eurovision-keppandinn sem snýr aftur, og örugglega ekki sá seinasti. Raunar hafa tæplega tvö hundruð keppendur snúið aftur í keppnina með misgóðum árangri. Flestum vegnar verr í annað sinn, en svo eru aðrir sem ná að vinna huga og hjörtu Eurovision-aðdáenda aftur og aftur.

Þrenna til Írlands
Eins og írski söngvarinn Johnny Logan. Hann vann Eurovision fyrst árið 1980 með lagið What’s Another Year. Sjö árum seinna tók hann aftur sigurinn heim með Hold Me Now og árið 1992 sigraði Linda Martin með laginu Why Me, úr smiðju fyrrnefnds Johnnys.

Númer 1
Hin gríska Helena Paparizou átti líka stórkostlega endurkomu í Eurovision árið 2005, eftir að hafa lent í þriðja sæti með stúlknasveitinni Antique árið 2001. Árið 2005 nefnilega kom, sá og sigraði Helena með goðsagnakennda lagið My Number 1 sem enn er spilað við góðar undirtektir á Eurovision-böllum um heim allan.

Alltaf í topp fimm
Önnur stórsöngkona, Carola Häggkvist frá Svíþjóð, hefur keppt í Eurovision hvorki meira né minna en þrisvar sinnum. Fyrst árið 1983 með lagið Främling sem lenti í þriðja sæti, aðeins sextán stigum frá sigrinum. Svo sneri hún aftur árið 1991 með lagið Fångad av en stormvind. Þá var jafntefli milli Svíþjóðar og Frakklands en Svíar hlutu loks dolluna þegar búið var að telja hvort landið fékk fleiri tíu stig, enda löndin jöfn að fjölda 12 stiga atkvæða. Árið 2006 kom Carola síðan aftur í Eurovision eins og stormsveipur með lagið Invincible sem lenti í fimmta sæti.

Skautað til sigurs
Það væri hægt að halda endalaust áfram í endurkomunum, en við verðum að minnast á rússneska hjartaknúsarann Dima Bilan sem lenti í öðru sæti árið 2006 með lagið Never Let You Go, eftir eftirminnilega atriðið þar sem kona reis upp úr píanói. Tveimur árum seinna sneri Dima aftur með fiðluleikara og listdansskautara, negldi lagið Believe og færði Rússum sigurinn.

Hvernig sigrar maður í Eurovision?

Ef við lítum á keppnirnar frá árinu 1998, þegar símakosningu var hrint af stað, þá er sigurstranglegast að keppa í seinni undanúrslitariðlinum. Af þeim tuttugu lögum sem hafa unnið frá árinu 1998 hafa fjórtán þeirra keppt í seinni riðlinum, en aðeins sex í þeim fyrri, þar á meðal hinn portúgalski Salvador Sobral sem vann í fyrra. Öll lögin hafa keppt í seinni helmingi síns riðils, nema tvö – Dana International með lagið Diva, árið 1998, og Sertab Erener með lagið Everyway that I can, árið 2003.

Þrumur = gott, sólskin = vont
Þá er ýmislegt í texta lagsins sem getur verið líklegt til sigurs. Það er til dæmis mjög sigurstranglegt að syngja um vont veður, eins og þrumur, eldingar og ský. Þá er einnig gott að hafa einhvers konar eld í atriðinu. Það er hins vegar ekki vænlegt til árangurs að syngja um sólskin. Það er slæmt að hlaupa eða ganga til einhvers en mjög gott að syngja um flug. Þá er afleitt að syngja um að tala með hjartanu og betra að tala með huganum, augunum eða öðrum líkamspörtum ef sigur er markmiðið.

Popplag í D-moll
Lög geta verið í dúr og moll. Lög í dúr eru yfirleitt glaðleg en í moll eru þau frekar dökk og drungaleg. Maður myndi halda að lögin í dúr væru þá líklegri til vinsælda í Eurovision, en svo er ekki, allavega frá aldamótunum 2000. Þá hafa örfá lög í dúr sigrað en flest sigurlaganna verið í moll. Og ef þið ætlið að semja Eurovision-lag, hefur D-moll verið ansi vinsæl tóntegund síðustu ár.

„Ég er með hreina samvisku“

|
|

„Upplifunin eins og fólk væri á leiðinni heim til mín með heykvíslarnar.“

Arnar Pétursson stefnir á Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

Arnar Pétursson er einn af bestu langhlaupurum landsins og stefnir að því að ná ólympíulágmarki í maraþoni fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020. Hann á að baki ótal titla, vann níu Íslandsmeistaratitla á síðasta ári og á besta tíma Íslendings í maraþoni sem hlaupið hefur hérlendis. Í viðtali við Mannlíf gerir hann upp ásakanirnar um svindl í bæði í Reykjavíkurmaraþoni og Víðavangshlaupi ÍR.

Til að ná ólympíulágmarkinu í maraþoni þarf Arnar að hlaupa undir tveimur klukkustundum og nítján mínútum. Til viðmiðunar má nefna að Íslandsmet Kára Steins Karlssonar er 2.17.12 sem hann setti í Berlín árið 2011 og heimsmetið, 2.02.57, á Dennis Kimetto frá Kenía, sett í Berlín 2014. Síðustu helgina í apríl hljóp Arnar sitt besta hlaup til þessa, 2.24.13, sem er þriðji besti tími Íslendings frá upphafi, og bætti sig um fjórar mínútur. „Markmiðið var að setja tíma sem sýnir bæði mér og öðrum að ég get náð ólympíulágmarkinu. Ég ætlaði að vera á bilinu 2.19-2.24 og það náðist. Hlaupið var jafnt og ég í toppstandi og get því ekki annað en verið ánægður,“ segir Arnar sem stefnir að því að að ná lágmarkinu á næsta eða þarnæsta ári en hann getur í fyrsta lagi náð því í janúar 2019. „Martha Ernstdóttir sem aðstoðar mig, er búin að kenna mér að vera alltaf ánægður með bætingu, annað væri dónaskapur, ekki síst gagnvart fólki sem myndi gefa allt til að geta bætt sig einu sinni enn. Einn daginn mun nefnilega koma að því að maður hættir að gera betur og með því að vera óánægður með bætingu er maður óbeint að móðga þá sem ekki geta bætt sína bestu tíma lengur. Ég hef tamið mér þetta, er ánægður með hlaupið í Hamborg og stefni hærra.“

Refsing annarra íþrótta
Arnar er fæddur árið 1991 og byrjaði íþróttaferilinn í fimleikum hjá Gerplu. Þegar hann var fimm ára bættist fótboltinn við og síðar körfuboltinn en þá hætti hann í fimleikunum. Þegar hann var fimmtán ára ákvað hann svo að fókusera alfarið á körfuna og átti mikilli velgengni að fagna þar. „Ég hafði eins mikla fordóma fyrir hlaupum og hægt er að finna. Hlaup voru refsing annarra íþrótta, þegar ég var að æfa fótbolta og körfu þá var okkur refsað með hlaupum ef okkur illa gekk. Ég var því óbeint alinn upp við að hafa óbeit á hlaupum. Ég tók samt þátt í mörgum hlaupakeppnum á þessum árum, ekki síst þegar mamma var að draga mig í hin og þessi götuhlaup en ég á henni mikið að þakka að ég skuli vera í hlaupum núna. Ég vann oft í mínum aldursflokki og þess háttar og það var mjög gaman en ég gat ekki hugsað mér að æfa þetta. Svo þegar ég var 17 ára þá tók pabbi þátt í heilu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoni og ég hugsaði með mér að fyrst hann gæti þetta þá ætti ég að drífa þetta líka. Ég skráði mig í heilt maraþon ári síðar þegar ég hafði aldur til, þremur vikum fyrir hlaupið. Það kom mér verulega á óvart að heimilið fór á hvolf við þessa ákvörðun. Það var eins og ég hefði sagt þeim að ég ætlaði að stökkva í fallhlífarstökki án fallhlífar. Þau sögðu: „Arnar þú verður að drekka á öllum drykkjarstöðvum, þú verður að stoppa og borða bananann þar sem hann er í boði. Ég skildi ekki þessar áhyggjur, ég ætlaði bara að fara og haka við þetta á bökketlistanum. Í rauninni var eina markmiðið að klára hlaupið og svo væri fyndið að ná að vera á forsíðu Morgunblaðsins á mynd af upphafi hlaupsins. Eini undirbúningurinn var að gera góðan lagalista og ég kom mér svo fyrir framarlega í startinu. Ég bombaði síðan af stað og náði að vera með þeim fyrstu í smátíma, hélt að svo myndi strollan bara koma fram úr mér en það gerðist ekki. Ég vissi hins vegar ekkert hvað ég var að gera og sá hlaupara fyrir framan mig sem virkaði mjög pró, með gelið utan á sér og vatnsbrúsa, þannig að ég ákvað að elta hann. Þetta var þá Jóhann Gylfason sem er mikill hlaupagarpur. Ég gerði hins vegar eins og foreldrar mínir sögðu og stoppaði á öllum drykkjarstöðvum og gekk meðan ég borðaði bananann. Þá missti ég Jóhann alltaf langt frá mér en svo tætti ég af stað og náði honum aftur. Seinna frétti ég að hann hafi alltaf orðið jafnhissa þegar ég kom alltaf aftur. Ég kláraði hlaupið og leið bara vel þegar ég kom í mark á tímanum 2.55. Mér til mikillar undrunar kom í ljós að ég hafði komið annar í mark af Íslendingunum og slegið 30 ára gamalt Íslandsmet í maraþoni 18-20 ára og 20-22 ára.“

Arnar byrjaði að æfa hlaup þegar hann var ekki valinn U-20 landslið í körfubolta en hann hafði fram að þeim tíma haft fordóma fyrir hlaupum.

Örlögin taka í taumana
Þarna sá Arnar að hlaupin lágu vel fyrir honum og hann var hvattur til að fara að æfa hlaup. „Að sama skapi var ég í yngri liðunum í landsliðinu í körfubolta, varð tvisvar Norðurlandameistari og var fyrirliðinn í mínu liði í meistaraflokki. Mér fannst að hlaupaæfingar gætu ekki verið skemmtilegar – átti ég að hlaupa á æfingu, hlaupa á æfingunni sjálfri og hlaupa svo heim aftur? Og hvað var svo á dagskrá daginn eftir, já, meiri hlaup,“ segir Arnar hlæjandi.
Tímamót urðu hins vegar í lífi hans við tvítugsaldurinn þegar verið var að velja í U-20 landsliðið í körfubolta. Arnar endaði sem þrettándi maður en tólf fóru á mótið. Valið stóð á milli hans og Martins Hermannssonar. „Martin er í dag einn af okkar bestu körfuboltamönnum og einn af aðalmönnunum í landsliðinu. Ég er virkilega ánægður fyrir hönd okkar beggja að þetta fór svona. Það var eins og örlögin hefðu gripið inn í. Ég ákvað, fyrst ég komst ekki með, að prófa að æfa af alvöru fyrir Reykjavíkurmaraþon í staðinn. Ég bað Birgi Sævarsson, frænda minn og hlaupara, að gera fyrir mig æfingaplan. Ég hafði aldrei séð æfingaplan fyrr og misskildi það þannig að ég æfði tvöfalt eða þrefalt meira en ég átti að gera fyrstu þrjár vikurnar. Þá gafst ég næstum upp, því þetta var svo hrikalega erfitt. Enda hváði Biggi þegar ég sagði honum það. Það var mikill léttir þegar hið sanna kom í ljós og ég áttaði mig á að ég þurfti ekki að hlaupa á morgnana, í hádeginu og eftir vinnu alla daga,“ segir hann og hlær. Sumarið 2011 byrjaði Arnar að æfa hlaup, hljóp Reykjavíkurmaraþon og sigraði á tímanum 2.43. Ári seinna hætti hann í körfunni og sneri sér alfarið að hlaupunum.

„Þarna fékk ég forsmekkinn af því hvernig er að vera í brennideplinum í umræðunni og viðurkenni að mér leið ekki vel.“

Sakaður um svindl
Hver skrautfjöðurin á fætur annarri hefur bæst í hatt Arnars síðan hann byrjaði að æfa hlaup og vinningshlaupin skipta tugum ef ekki hundruðum. En hann hefur líka upplifað mótlæti. Tvisvar sinnum hefur hann verið ásakaður um að svindla í keppnishlaupi. Þó að málin hafi á sínum tíma tekið andlega á Arnar þá mætti hann þeim með æðruleysi.
„Fyrsta atvikið kom upp þegar ég hljóp fyrsta maraþonið 18 ára en þá tikkaði ekki ein tímamottan inn og millitíminn skráðist ekki. Þá voru einhverjir sem efuðust um að ég hefði hlaupið allt hlaupið því tíminn var svo góður en áðurnefndur Jóhann Gylfason staðfesti að ég hljóp fyrir aftan hann allan tímann, ég hefði kannski átt að sjá þarna í hvað stefndi,“ segir Arnar og brosir út í annað þegar hann rifjar þessi atvik upp. Fimm árum seinna kom svo annað málið upp, einnig í Reykjavíkurmaraþoni þar sem niðurstaða hlaupsins var kærð þar sem faðir hans hafði hjólað með honum hluta af leiðinni. „Í öllum svona hlaupum er alltaf manneskja á hjóli eða mótorhjóli á undan fyrsta manni. Í stórum hlaupum fær meira að segja þjálfarinn oft að vera á hjóli með. Ég hafði frétt að von væri á sterkum erlendum hlaupurum í hlaupið og vissi að ég myndi því líklega hlaupa einn með ekkert hjól á undan mér. Ég bað því pabba um að vera á hjóli til að halda mér félagsskap, það er erfitt að vera aleinn í svona löngu hlaupi. Ef fleiri keppendur hefðu verið á sama róli og ég þá hefði ekki verið neinn tilgangur með þessu. Pabbi sinnti sama hlutverki fyrir mig og hjólið fyrir fyrsta mann. Í rauninni hefði verið eðlilegt að hjólað hefði verið fyrir framan mig líka þar sem ég var fyrsti Íslendingurinn. Það höfðu hins vegar verið settar reglur um hlaupið að það mættu ekki vera hjólreiðafólk á brautinni nema á vegum hlaupsins, meðal annars til að það væri ekki fyrir. En ég var bara einn og pabbi var ekki fyrir einum eða neinum. Svo sprakk þetta bara upp þegar aðilinn sem var tæpum tíu mínútum á eftir mér í hlaupinu kærði niðurstöðuna og við tók mikil og neikvæð umræða í fjölmiðlum og samfélaginu í minn garð. Þarna fékk ég forsmekkinn af því hvernig er að vera í brennideplinum í umræðunni og viðurkenni að mér leið ekki vel. Kærður, það var eins og ég væri fyrir dómstólum. Yfirleitt þegar svona kemur upp í frjálsíþróttaheiminum þá er þetta ekki teiknað upp eins og viðkomandi sé kærður heldur er niðurstaðan kærð. Ég var á fyrirlestri í skólanum þegar ég sá á tölvuskjá hjá samnemanda fyrir framan mig fyrirsögn á frétt: „Svindl í Reykjavíkurmaraþoni“. Ekki kærður, meint svindl eða spurningarmerki. Úrskurður ÍSÍ í þessu máli varð hins vegar að ekkert þótti athugavert við þetta og við unnum málið.“

Arnari finnst miður að mjög lítil áhersla sé lögð á langhlaup í frjálsíþróttum krakka og þau hafi því litla möguleika á að ná langt á því sviði fyrr en þau verða fullorðin.

„Ég varð skúrkurinn“
Þriðja atvikið kom svo upp í Víðavangshlaupi ÍR vorið 2015 þegar í kjölfar hlaupsins var birt myndband af Arnari og keppinauti hans koma í mark. Þar sést greinilega að Arnar fer öfugu megin við staur þegar þeir félagar taka níutíu gráðu beygju rétt áður en þeir koma í mark. „Þetta mál var í rauninni enn skrautlegra þar sem ég var þarna kominn með einhverja forsögu. Á myndbandinu leit þetta eins illa út og hægt var, ekki einu sinni ég sjálfur hélt með gæjanum sem fór öfugu megin við staurinn og sigraði í kjölfarið hlaupið. Ég áttaði mig hins vegar strax á þessu þegar ég kom í mark og benti mótshöldurum á að þetta þyrfi að laga svo aðrir myndu ekki lenda í þessu og á myndbandinu sést brautarvörðurinn sem var á röngum stað færa sig til að laga þessi mistök. Í lokin á þessu hlaupi vorum við örugglega á 22 km hraða – prófaðu að fara á bretti, stilla á 22, hlaupa af stað og reyna svo að taka einhverjar skynsamlegar ákvarðanir. Ég var ekkert að hugsa þarna, sá þennan staur ekki fyrr en hann var beint fyrir framan mig og ég sveigði frá. Brautarvörðurinn hefði átt að vera þarna eða borði, þar sem þetta var níutíu gráðu beygja, það átti ekki að vera möguleiki að fara út fyrir brautina enda viðurkenndi ÍR eftir hlaupið að mistökin voru þeirra. Það hefði verið eðlilegast að ég hefði verið dæmdur úr leik og ég hefði þurft að sækja mál mitt vegna mistaka í brautarvörslu. Ég hefði að öllum líkindum unnið það mál því ég gerði ekkert rangt, þetta var klúður í brautarvörslu og ég hefði ekki átt að líða fyrir það. En í staðinn kemur þetta myndband á Netið og allt springur og ég er vondi gæinn. Margir af þekktustu mönnum þjóðarinnar tjáðu sig um málið og þetta var mjög súrrealískt. Ég var bara svindlari og átti að sjá sóma minn í að skila titlinum. Ég skrifaði hins vegar pistil á Netið og fór í viðtal í Ísland í dag þar sem ég útskýrði mál mitt. Þar með var málinu lokið af minni hálfu þar sem ég var með hreina samvisku og ef fólk vill enn trúa öðru þá verður svo að vera. Þar sem enginn kærði mig þá var ég ekki dæmdur úr leik og því stóð sigurinn. Ég varð því skúrkurinn í staðinn fyrir að vera sá sem var að sækja rétt sinn. Málið endaði svo þannig að sex mánuðum seinna fór málið fyrir stjórn Frjálsíþróttasambandsins, ég var sviptur tiltinum og ég var ósáttur við það enda tel ég að mistökin hafi legið hjá mótshöldurum.
Þetta er hins vegar einhver besta og verðmætasta upplifun sem ég hef upplifað því ég lærði að láta ekki álit annarra hafa áhrif á mína líðan. Í öllum þessum málum er ég með hreina samvisku. Ég vissi að ég hafði ekki reynt að ná forskoti af yfirlögðu ráði og verið „gómaður“. Ég hugsaði að nú væri alvörumótlæti og spurningin bara hvernig ég ætlaði að vinna úr því. Ætlaði ég að brotna niður eða halda haus? Ég ákvað strax að þetta myndi ekki skilgreina mig, ég skyldi halda ótrauður áfram, halda áfram að taka þátt í hlaupum og vinna hlaup, helst öll. Fólk skyldi sjá að ég þyrfti ekki að „svindla“ til að ná árangri. Það var áhugaverð reynsla að vera svona milli tannanna á fólki – upplifunin var sú að fólk væri við það að koma heim til mín með heykvíslarnar og það vegna götuhlaups. Verst var að horfa upp á áhrifin sem þetta hafði á þau sem stóðu mér næst, ekki síst mömmu. Henni þótti erfitt að horfa upp á þessar ásakanir gagnvart syni sínum.
Þessi lífsreynsla styrkti mig og ég hef reynt að gera bara grín að þessu. Fólkið sem var næst mér var mjög skilningsríkt enda er ég mjög heppinn með fólkið í kringum mig. Innan hlaupaheimsins höfðu sumir meira að segja á orði að þetta væri bara flott enda langmesta umfjöllun sem götuhlaup hefði nokkru sinni fengið. RÚV fylgdist meira að segja með Íslandsmótinu í víðavangshlaupi helgina eftir. Þar vann ég og það var bara gert grín að þessu í viðtali á eftir, ég var spurður hvort brautarvarslan hefði ekki verið í lagi þarna og þess háttar. Það er mikilvægt að sjá broslegu hliðarnar á þessu.“

„Ég hugsaði að nú væri alvörumótlæti og spurningin bara hvernig ég ætlaði að vinna úr því. Ætlaði ég að brotna niður eða halda haus?“

Langhlaup krakka litin hornauga
Arnar leggur mikinn metnað í allt sem hann gerir og menntun hans er þar ekki undanskilin. Hann er með grunnnám í hagfræði með 24 aukaeiningum og er núna að klára þrjár meistaragráður á þremur árum; í reikningsskilum og endurskoðun, fjármálum fyrirtækja og kennsluréttindum fyrir framhaldsskólastig. „Ég er orðinn nokkuð sáttur með mína menntum og held að ég muni ekki setjast aftur á skólabekk í bráð. Mig langar að taka löggildinguna, verða löggiltur endurskoðandi, þó að planið sé ekkert endilega að starfa við það nákvæmlega. Ég er með fínan grunn til að vinna við hvað sem er á fjármálasviðinu,“ segir Arnar.
Hann hugsar vel um mataræðið og heldur æfingadagbók um líðan sína. Hann passar að næringin sé rétt og að drekka nóg vatn. En mataræðið var ekki alltaf svona. „Þegar ég var að reyna að þyngja mig á menntaskólaárunum hugsaði ég mun minna út í hvað ég lét ofan í mig þótt ég hafi alltaf tekið lýsi. Nánast daglega borðaði ég Chicago Town Pizza, Fries to go-örbylgjufranskar, Prins polo og kók. Það var mjög algengt að vera með brunasár í munninum eftir ostinn þar sem ég gat aldrei beðið með að rífa pizzuna í mig um leið og hún kom úr ofninum,“ segir hann hlæjandi. „Þegar ég kom inn í hlaupin þá breyttist mataræðið ósjálfrátt með. Ef mataræðið er ekki í lagi þá starfar líkaminn ekki jafn vel á æfingum og ég hætti fljótlega að nenna því. Í kjölfarið gengu æfingarnar betur, svefninn varð betri og svo framvegis því þetta hangir allt saman. Áfengi drekk ég í hófi. Tveimur mánuðum fyrir stóra keppni þá er ekki farið á djammið en ég fæ mér alveg einn og einn bjór með mat eða þegar maður kíkir í pottinn eftir erfiðar æfingar.“
Arnari finnst miður að mjög lítil áhersla sé lögð á langhlaup í frjálsíþróttum krakka og þau hafi því litla möguleika á að ná langt á því sviði fyrr en þau verða fullorðin. „Litið er hornauga að krakkar æfi langhlaup og hlaupi tíu kílómetra á dag en ef þau eru að hlaupa á eftir bolta þá er það allt í lagi. Í frjálsum íþróttum eru fjölmargar greinar sem eru allar kynntar fyrir krökkunum, nema langhlaup, þrátt fyrir að það sé í raun langstærsta greinin. Þessar greinar tengjast flestar sprengikrafti á einn eða annan hátt þannig að ef þú hefur ekki góðan sprengikraft og ert byggður fyrir langhlaup þá færðu ekki tækifæri til að spreyta þig. Með þessu eru til dæmis svo til engar líkur á því að við getum sent einhvern 18 ára á Ólympíuleikana í 5000 m eða 10.000 m en til þess að geta það þarftu að vera búinn að byggja hlaupagrunn í að minnsta kosti 6-8 ár. Eins og keppendur frá Afríku sem hafa vegna aðstæðna undirbúið sig fyrir þessi hlaup því þeir þurftu alltaf að hlaupa fram og til baka í skólann. Þeir sem hafa orðið góðir hér hafa orðið það eiginlega óvart, eins og ég sem var að æfa tvær boltaíþróttir og byggði því grunninn fyrir hlaupin þar,“ segir Arnar sem alltaf hefur verið með mikið keppnisskap. „Ég var mjög orkumikill krakki og mamma sendi mig oft út að hlaupa hring um hverfið til að ná mér niður. Ef ég vildi ekki fara þá sagðist hún ætla að taka tímann og þá var ég þotinn af stað. Keppnisskapið hefur hjálpað mér mikið, sérstaklega eftir að ég lærði að láta það vinna með mér. Ég man alltaf eftir atviki þegar ég var efnilegur 11 ára piltur í körfubolta. Þá kom þjálfari hins liðsins til mín eftir leik, þar sem ég hafði fengið fimm villur og þess vegna ekki náð að spila allan leikinn. Hann sagði: „Þú er allt of góður til að láta keppnisskapið fara svona með þig.“ Þetta hefur alltaf setið í mér, að einhver svona utanaðkomandi sæi eitthvað í mér og gæfi mér ráð sem hefur fylgt mér alla ævi. Ég hef reynt að temja mér þetta sjálfur sem og að hrósa öðrum.“

„Hlaup eru miklu félagslegri en margir halda, getustigið spannar allt bilið og enginn er að dæma annan. Í keppnishlaupum koma allir í mark sem sigurvegarar enda taka allir þátt á sínum forsendum.“

Arnar hefur í samvinnu við Íslandsbanka heimsótt fjölmarga hlaupahópa um land allt í vor til að kynna Reykjavíkurmaraþon og gefa hlaupurum góð ráð.

Vill sjónvarpa Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka
Íslandsbanki hefur fengið Arnar til liðs við sig í ár og hann hefur að undanförnu farið inn í hlaupahópa víða um land til að kynna Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka og gefa hlaupafólki góð ráð. „Við viljum meðal annars vekja athygli á þeim fjölmörgu hlaupahópum sem starfandi eru um land allt og hvetja áhugasama til að ganga til liðs við þá. Þetta hefur verið virkilega skemmtilegt verkefni og gengið frábærlega vel enda er gríðarlega jákvæð orka inni í þessum hópum. Hlaup eru miklu félagslegri en margir halda, getustigið spannar allt bilið og enginn er að dæma annan. Í keppnishlaupum koma allir í mark sem sigurvegarar enda taka allir þátt á sínum forsendum.
Einnig er í pípunum að gera heilu maraþoni í Reykjavíkumaraþoni hærra undir höfði, eitthvað í líkingu við það sem fólk þekkir í stóru hlaupunum erlendis og það eru margar hugmyndir á lofti hvað það varðar. Einnig myndi ég vilja sjá RÚV líkja eftir því sem þýsku sjónvarpsstöðvarnar gera og hafa þriggja til fjögurra tíma útsendingu í kringum keppnina enda er þarna endalaust af sögum og sjónvarpsefni. Hægt væri að hafa eina myndavél á fyrsta fólki og klippa inn á það annað slagið en mest væru þetta viðtöl við þátttakendur sem eru til dæmis að hlaupa til styrktar einhverju málefni, slökkviliðsfólkið sem hleypur í búningunum, fólkið á hvatningastöðvunum og svo framvegis. Þetta hefur allt að bera til að verða mjög skemmtilegt sjónvarpsefni og væri kjörin leið til að hefja menningarnæturdagskrána,“ segir Arnar.
„Fram undan er svo íslenska hlaupasumarið en það er skemmtilegasti tími ársins. Planið er að fara í æfingabúðir um mitt sumar sem verða með svipuðu sniði og í Suður-Afríku um áramótin en þá var ég í tvær vikur að hlaupa 200 km og 205 km á viku. Ég stefni að því að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ágúst og svo hugsanlega annað maraþon erlendis í september eða október. Þá verður markmiðið að höggva enn nær ólympíulágmarkinu enda er draumurinn að keppa fyrir Íslands hönd á stærsta sviðinu. Þangað til mun ég halda áfram að mæta í götuhlaupin á Íslandi en þar ber helst að nefna Powerade-sumarmótaröðina og Hleðsluhlaupið. Ef fólk vill fylgjast betur með mér og fá góð hlauparáð þá er ég virkur á Instagram undir nafninu @arnarpetur. Ég vonast til að sjá sem flesta í götuhlaupunum í sumar og hvet alla til að mæta þegar ég fer aftur í heimsóknir í hlaupahópa um allt land.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Sáluhjálparinn og grínarinn

|
|

Bræðurnir Pétur Jóhann Sigfússon og Steinn Jónsson hafa valið sér ólíkan starfsvettvang en þó má segja að þeir vinni báðir við það sama; að hjálpa fólki að takast á við lífið. Steinn er móttökuráðgjafi hjá Píeta-samtökunum, sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur og eftirlifendur, og Pétur Jóhann léttir fólki lífið með gríni, eins og allir þekkja. Þeir segjast vera nánir og Pétur Jóhann segir Stein vera sáluhjálpara að upplagi en Steinn hins vegar þarf ekki annað en sjá andlitið á bróður sínum til að komast í betra skap.

Pétur Jóhann er sex árum eldri en Steinn og segist hafa reynt að passa hann þegar þeir voru yngri. „Ég gerði heiðarlegar tilraunir til þess að passa hann,“ segir hann. „En það var það mikill aldursmunur á okkur að mér fannst hann eiginlega meira fyrir en eitthvað annað á þessum árum. En þegar við urðum eldri náðum við að tengjast.“
„Nú ertu að sykurhúða æskuna allrosalega,“ grípur Steinn fram í. „Já, ég ætla nú ekkert að fara of djúpt í saumana á þessu,“ svarar Pétur Jóhann og svo bresta þeir báðir í skellihlátur. Það er greinilegt að þeir eru vanir orðahnippingum og hafa báðir jafngaman af.

Milli heims og helju

Bræðurnir hafa farið ólíkar leiðir í lífinu, Steinn vann sem þjónustustjóri gæslusviðs Securitas í fjórtán ár og notaði allar frístundir til að aka um á mótorhjóli en Pétur hellti sér ungur út í grínið. „Áhugamál okkar eru eins ólík og hugsast getur,“ viðurkennir Steinn. „En á síðustu árum höfum við sameinast í stangveiði sem við höfum báðir áhuga á.“

Í júlí 2015 lenti Steinn í alvarlegu mótorhjólaslysi sem varð til þess að líf hans gjörbreyttist. Hann lá milli heims og helju í fimm daga með tuttugu bein í líkamanum brotin og slitna vöðva og sinar.

„Það stóð um tíma til að aflima mig, en ég er nú með alla limi enn þá,“ segir hann.

„Ég er líka svo þrjóskur að eðlisfari að ég var farinn að vinna aftur hjá Securitas í október 2015 þótt ég væri á hækjum. En það kom í bakið á mér seinna og ég þurfti að minnka vinnuna niður í fimmtíu prósent.“

Steinn hafði alltaf átt sér þann draum að fara erlendis og hjálpa fólki sem ætti í erfiðleikum og eftir slysið fór hann að velta því alvarlega fyrir sér að láta þann draum rætast. Hann hóf nám í Ráðgjafaskólanum í fyrra og skipti í framhaldi af því algjörlega um starfsvettvang.

„Ég sá auglýsingu frá Kára Eyþórssyni sem rekur Ráðgjafaskólann, hringdi í hann og hann benti mér á að það væri hægt að hjálpa alveg nóg hérna heima. Það var eiginlega það sem gerði það að verkum að ég fór í skólann og fór í framhaldinu að vinna hjá Píeta-samtökunum.“

Málefni sem stendur okkur nærri

Meðal þeirrar þjónustu sem Píeta-samtökin bjóða upp á eru fimmtán ókeypis meðferðartímar hjá þverfaglegu teymi, sem í eru félagsfræðingur, sálfræðingur og geðhjúkrunarfræðingur fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum og fimm ókeypis sálfræðitímar fyrir aðstandendur þeirra. Það þarf að hringja í síma samtakanna og panta tíma og eitt af hlutverkum Steins er að svara símtölum frá fólki og meta hvort þjónustan sem Píeta-samtökin bjóða upp á henti viðkomandi manneskju. Í framhaldinu tekur hann svo á móti þeim sem samtökin aðstoða og tengir þá við sérfæðingana sem sjá um meðferðina.

En hvað um persónulega reynslu, hafa þeir bræður einhvern tíma glímt við slíka erfiðleika eða hugsanir um sjálfsvíg?

„Nei, en þetta stendur okkur nærri,“ segir Steinn. „Það hafa tveir úr ættinni bundið enda á eigið líf og svo átti ég mjög góðan vin sem gerði slíkt hið sama.“

En þú Pétur? Hefur þú alltaf verið svona ofurhress?

„Ég held ég sé nú bara eins og allflestir með það,“ svarar Pétur Jóhann. „Maður er mishress, en vinnunnar minnar vegna þá verð ég oftast að vera bara ofurhress, alla vega út á við. Það er heldur ekkert erfitt fyrir mig. Ég nýt þeirra forréttinda að vera í kringum skemmtilegt fólk alla daga í öllu sem ég er að gera. En ég segi samt eins og Steini bróðir að þetta stendur manni nærri. Ég og konan mín eigum tvær stelpur sem eru nýkomnar af unglingsskeiðinu og maður hefur séð ýmislegt og fengið að kynnast ýmsu í gegnum þær. Þannig að þetta málefni stendur manni nærri.“

Þakklætið næring

Steinn valdi sér þetta starf vegna löngunar til að hjálpa fólki til betra lífs, var einhver svipuð ástæða fyrir því að þú valdir grínið?

„Í upphafi var það nú ekki drifkrafturinn, nei,“ viðurkennir Pétur Jóhann. „Ég fann bara að þetta var eitthvað sem ég varð að prófa og byrjaði í uppistandi. Ég var sannfærður um að ég hefði eitthvað fram að færa á þessum vettvangi. Það eru náttúrlega mörg ár liðin síðan og ég búinn að gera svo margt að núna eru aðrir hlutir farnir að næra mann í þessu og þá ekki síst að finna það að fólk nýtur þess að fylgjast með því sem maður er að gera. Það er töluvert mikil næring í því fyrir mig. Fólk er að stoppa mann á förnum vegi og þakka fyrir eitthvað sem maður hefur gert og það finnst mér rosalega mikils virði.“

Þú hlýtur líka að upplifa það í þínu starfi, Steinn, að fólki finnist það standa í þakkarskuld við þig fyrir að hafa hjálpað því.

„Já heldur betur. Ég lít þannig á það að ef við náum að bjarga einum þá sé það sigur. En við munum ábyggilega koma til með að bjarga fleirum.“

Bræður standa þétt saman.

Úr myrkrinu í ljósið

Aðfaranótt laugardagsins 12. maí standa Píeta-samtökin fyrir sinni árlegu göngu „Úr myrkrinu í ljósið“ og ég bið Stein að útskýra í stuttu máli hver hugmyndin að baki henni sé.

„Það er lagt af stað klukkan fjögur um nóttina og gengnir fimm kílómetrar. Þetta er náttúrlega rosalega táknræn ganga,“ útskýrir hann. „Lagt af stað í myrkri og gengið inn í ljósið. Gangan er í minningu þeirra sem látist hafa í sjálfsvígi og til að efla von þeirra sem eiga um sárt að binda vegna vanlíðunar og sjálfsvígshugsana. Það er líka mikið af aðstandendum fólks sem fallið hefur fyrir eigin hendi sem ganga með okkur.“

Fer alltaf að hlæja

Ég spyr þá bræður hvort þeir ætli að ganga í ár og það ætlar Steinn að sjálfsögðu að gera en Pétur Jóhann spyr auðvitað strax hvað þetta sé langt sem þurfi að ganga. Það skapar léttan grínskets milli þeirra bræðra og þegar þeir hætta að fíflast spyr ég Stein hvað honum finnist um bróður sinn sem grínara.

„Það eru tveir menn sem ég á erfitt með að hlæja ekki að bara um leið og sé á þeim andlitin,“ segir Steinn. „Það eru Pétur og Jón Gnarr. Þegar ég sé andlitið á Pétri, hvort sem er í virðulegu matarboði eða einhvers staðar annars staðar þá fer ég bara að hlæja.“

Grínið í genunum

Ég spyr Pétur Jóhann hvort hann haldi að Steinn hefði getað átt framtíð fyrir sér sem grínari en hann þvertekur fyrir það í fyrstu.

„Nei, nei, nei,“ segir hann og skellihlær en söðlar svo um. „Jú, án efa hefði hann getað það. Þetta er í genunum okkar allra bræðranna. Ég vil meina að við séum allir fyndnir, hver á sinn hátt, en einhverra hluta vegna virðist ég hafa haft meiri löngun til að takast á við þetta. Það var ekki nóg fyrir mig að fá hlátur í góðra vina hópi. Það virðist hins vegar vera nóg fyrir bræður mína. Þeir geta komið öllum til að hlæja í fjölskylduboðum og litlum partíum en ég þarf að fá eitthvað meira.“

„Ég er örugglega félagsfælnari en Pétur,“ útskýrir Steinn. „Það spilar kannski eitthvað inn í. En þó að það væri ekki raunin þá finn ég bara engan áhuga á þessum geira.“

Við sláum botninn í spjallið með því að ég spyr Pétur Jóhann hvað honum finnist um starfið sem Steinn er að vinna.

„Mér finnst það alveg magnað,“ segir hann. „Ég dáist að honum. Eins og hann kom inn á áðan þá lenti hann í þessu mótorhjólaslysi og söðlar í rauninni alveg um. Ég held hann eigi eftir að blómstra í þessu starfi. Þetta liggur mjög vel fyrir honum og það er mjög gott að tala við hann. Það hefur alltaf verið hans sterkasta hlið, finnst mér. Þegar maður situr og talar við hann er maður oft búinn að segja honum sín eigin svörtustu leyndarmál, án þess að ætla sér það. Það er honum meðfætt að vera sálfræðingur. Ef ég er í einhverri krísu í huganum þá hringi ég bara í Steina bróður og hann reddar öllu.“

Sími Píeta-samtakanna er opinn frá 9-16 alla virka daga og Steinn hvetur alla þá sem glíma við sjálfsskaða og sjálfsvígshugsanir til að nýta sér þetta bjargræði sér að kostnaðarlausu.

Myndir / Hallur Karlsson

Rússar gætu dottið út í Eurovision í kvöld

Skandinavísku þjóðirnar Svíþjóð og Noregur komast upp úr öðrum undanúrslitariðlinum í Eurovision í kvöld ef marka má veðbanka og Eurovision-spekúlanta. Aðrar þjóðir sem komast áfram, ef eingöngu er stuðst við veðbankaspár, eru Moldóvía, Úkraína, Pólland, Ástralía, Holland, Danmörk, Ungverjaland og Lettland. Rússar og Rúmenar koma þar strax á eftir og því ekki inni í úrslitunum, eitthvað sem hefur aldrei gerst áður.

Ef veðbankar hafa rétt fyrir sér verður Ísland eina þjóðin í Skandinavíu sem keppir ekki í úrslitum Eurovision á laugardag, en Finnar komust upp úr fyrri undanriðlinum á þriðjudag á meðan Ari okkar Ólafsson sat eftir með sárt enni.

Fiðlusnillingurinn með ofurkraftana

Það er fiðlusnillingurinn Alexander Rybak sem keppir fyrir hönd Noregs með lagið That’s How You Write a Song. Hann hefur verið að fikra sig hægt og örugglega upp veðbankalistann og trónir nú á toppi þeirra flytjenda sem líklegastir eru til að fara rakleiðis í gegn í úrslit í kvöld. Ef litið er á líkurnar á vefsíðunni Eurovision World sést raunar að Alexander er spáð öðru sæti í allri keppninni, á eftir hinni eldfimu Eleni frá Kýpur sem við sáum loka fyrri undanriðlinum með hvelli.

Eins og flestir muna eftir fór Alexander með sigur af hólmi í Eurovision árið 2009 með lagið Fairytale. Þegar nýjasta lagið hans var kynnt var því misvel tekið en það er eins og þetta sjarmatröll hafi einhvern ofurkraft þegar kemur að Eurovision því eftir æfingar í Altice-höllinni hefur lagið hans verið talið æ líklegra til að vinna keppnina í ár. En það er annað sem hjálpar Norðmanninum knáa. Hann var í öðru sæti í rússnesku útgáfunni af Your Face Sounds Familiar þar sem hann fór meðal annars á kostum sem Eurovision-sigurvegarinn Dima Bilan, og á því dyggan aðdáendahóp í Rússlandi.

Frábært atriði – lélegir söngvarar

Talandi um Rússland, þá lítur allt út fyrir það að hin rússneska Julia Samoylova, sem stígur sjötta á svið með lagið I Won’t Break, komist ekki áfram, þrátt fyrir tilþrifamikla sviðssetningu. Lagið er hins vegar langt frá því að vera jafnsterkt og fyrri framlög Rússa í keppninni og Julia umdeild eftir að henni var bannað að keppa í Úkraínu í fyrra.

Tríóið DoReDoS frá Moldavíu stígur á svið á eftir Juliu með stuðlagið My Lucky Day. Lagið er frekar fyndið, eins og lagahöfundurinn Philipp Kirkorov hefur sagt í viðtölum, og hefur það vaxið í áliti jafnt og þétt hjá Eurovision-aðdáendum síðan æfingar hófust í Lissabon. Atriði Moldovíu er afar hressandi og skemmtilega útfært, en söngvararnir í DoReDoS eru langt frá því að vera sterkir. Það er spurning hvort áhorfendur og dómnefnd fyrirgefi þeim það. Það verður að koma í ljós.

Svöl sviðssetning

Svo er það Svíinn Benjamin Ingrosso, sem er næstlíklegastur til að komast upp úr riðlinum, á eftir nágranna sínum Alexander Rybak. Hann býður upp á dansvæna poppsmellinn Dance You Off og flytur hann afar vel ef marka má æfingar. Benjamin er búinn að færa skemmtilega og svala sviðssetningu úr Melodifestivalen alla leið til Lissabon og á áhorfendum heima í stofu eftir að líða eins og þeir séu að horfa á tónlistarmyndband, sem er kærkomin tilbreyting.

Dananum Jonas Flodager Rasmussen með víkingalagið Higher Ground er spáð áfram í kvöld. Lagið er allt öðruvísi en önnur lög í keppninni og stóra spurningin er hvernig Evrópa tekur í víkingadramatíkina. Rasmussen býður uppá snjókomu, eins og Írinn í fyrri undankeppninni, og við munum öll hvernig það fór. Þetta er hugsanlega atriðið sem gæti komið hvað mest á óvart í kvöld, og ættu Íslendingar að leggja sérstaklega vel við hlustir til að heyra íslenskuna sem er sungin í laginu.

Sjá einnig: Ari komst ekki áfram í Eurovision.

Treystir á sig sjálfa

Hin ástralska Jessica Mauboy reynir að halda landi sínu í keppninni með lagið We Got Love og tekst það samkvæmt veðbönkum. Jessica lenti í því að slasa sig á æfingu í Lissabon, þó ekki alvarlega. Hún fékk tak í hálsi eftir að hún sveiflaði hári sínu aðeins of kröftuglega á æfingu. Jessia treystir á sjálfa sig og frábæra söngrödd á sviðinu og er atriðið fremur einfalt. Lagið er hins vegar grípandi, Jessica sjarmerandi og söngurinn óaðfinnanlegur.

Því hefur verið fleygt fram að þessi seinni undanriðillinn sé ekki jafn sterkur og sá fyrri, en ljóst er að hart verður barist til síðustu upphækkunar í kvöld til að komast í úrslitin þann 12. maí.

Bein útsending á seinni undanriðlinum hefst klukkan 19.00 á RÚV. Hér má sjá röð keppanda.

Geggjuð styrktar- og brennsluæfing með lóðum

Það getur oft verið erfitt að drattast í ræktina, sérstaklega þegar veðrið er orðið örlítið betra.

Myndbandið hér fyrir neðan er frá Popsugar Fitness en í því má sjá 45 mínútna styrktar- og brennsluæfingu sem hægt er að gera heima í stofu.

Í myndbandinu eru notuð lóð, en það er ekkert mál að sleppa þeim eða fylla tvær lítersflöskur af vatni til að fá smá mótstöðu. Í myndbandinu eru sýndar ýmsar æfingar, en oftast er sýnd erfiðari og léttari útgáfa þannig að allir geti spreytt sig á æfingunum, sama hvernig formi þeir eru í.

Góða og sveitta skemmtun!

Backstreet Boys klæddu sig upp sem Spice Girls og tóku lagið

Strákarnir í drengjasveitinni The Backstreet Boys, eða réttara sagt mennirnir, ákváðu að heiðra stúlknasveitina Spice Girls á tónleikum í vikunni.

En tónlistarmennirnir létu sér ekki nægja að bara taka útgáfu af lagi með Spice Girls eða kasta á kryddpíurnar kveðju. Ó nei, þeir Nick, AJ, Brian, Kevin og Howie fóru sko alla leið.

Þeir ákváðu að klæða sig upp sem Kryddpíurnar, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan, og mæma eitt lag með þeim. Á myndinni hér fyrir neðan sést að Nick var Baby Spice, AJ var Scary Spice, Brian var Sporty Spice, Kevin var Posh Spice og Howie var Ginger Spice.

Í meðfylgjandi myndbandi má svo sjá þessa skemmtilegu uppákomu:

Breytir tárum í orð

Sara Mansour er á forsíðu Vikunnar að þessu sinni, en hún hefur þrátt fyrir ungan aldur skipað sér í raðir okkar helstu aðgerðasinna. Sara er drifin áfram af sterkri réttlætiskennd og segir samvisku sína stjórna öllu sem hún geri. Þrátt fyrir háværar og oft óvægnar gagnrýnisraddir ætlar hún alls ekki að leggja árar í bát og segir jákvæðu viðbrögðin sem hún fær gera allt þess virði. Sara er ótrúleg fyrirmynd og þegar litið er yfir afrek hennar er erfitt að trúa því að hún sé aðeins 21 árs.

Sara ólst upp í Vesturbænum og var að eigin sögn mjög hamingjusamt barn. „Ég var alltaf brosandi og er enn. Hins vegar fæddist ég með tilfinningalega viðkvæmni. Það þýðir einfaldlega að allt sem ég finn fyrir er mjög sterkt. Þegar ég er glöð er ég himinlifandi en þegar ég er leið er ég miður mín. Þetta birtist í miklum kvíða hjá mér sem barni, til dæmis aðskilnaðarkvíða. Ég reyni þó alltaf að aðskilja þetta tvennt, þ.e. manneskjuna sem ég er, mild og jákvæð, og sjúkdómseinkenni sem ná stundum tökum á mér.“ segir hún.

Samviskan stjórnar öllu

Aðspurð segist Sara alltaf hafa verið þannig að Guði gerð að hún eigi erfitt með að bíta sig í tunguna þegar hún verður vitni af óréttlæti. „Það hefur oft komið mér í vandræði. Einu sinni þegar ég var lítil var ég t.d. á fimleikaæfingu og þjálfarinn minn skammaði nokkrar stelpur fyrir að vera að tala. Ég gat ekki horft upp á þær sæta ávítum þegar ég hafði líka tekið þátt í samræðunum svo ég gaf mig fram og þurfti að gera aukalega þrekæfingar fyrir vikið. Þetta er kannski ekki besta dæmið en mér hefur alltaf fundist þetta svolítið fyndið því það sýnir að ég get aldrei setið á mér og segi alltaf sannleikann, meira að segja þegar ég ætti kannski ekki að gera það. Ég held ekki að það geri mig að betri manneskju en aðra, en samviskan mín er svo sterkt afl innra með mér að hún stjórnar eiginlega öllu sem ég geri.“

Sara hefur mikið notað Netið og samfélagsmiðla til að koma skoðunum sínum á framfæri. Hún segir það ekki hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að verða þessi baráttukona, aktivisti, heldur hafi það þróast óvænt í þá átt. Tilviljun hafi ráðið því að hún byrjaði að nota Facebook til að tjá sig um það sem olli henni hugarangri. „Venjulega er ferlið eitthvað á þá leið að ég verð meðvituð um eitthvað óréttlátt, sest niður og græt af vonleysi í klukkustund en stend síðan upp og breyti tárunum frekar í orð,“ segir hún.

Samviskan mín er svo sterkt afl innra með mér að hún stjórnar eiginlega öllu sem ég geri.

Sara hefur velt upp ýmsum áleitnum spurningum og hikar ekki við láta í sér heyra ef hún verður vitni af óréttlæti. Skrif hennar hafa oft vakið mikið umtal og ekki eru alltaf allir sammála þeim. Hún segir gagnrýnina oft ná til sín en jákvæðu viðbrögðin séu mun algengari.  „Ég var bara barn þegar ég byrjaði að skrifa og tjá skoðanir mínar og viðbrögðin sem ég mætti, bæði góð og slæm, hafa mótað mig meira en margir gera sér grein fyrir. Það væri helber lygi að halda því fram að fáfræðin sem ég mæti stundum hafi ekki áhrif á mig. Sumir segja að það venjist með aldrinum en ég held og vona að það eigi ekki við um mig. Ég held það af því ég er mjög viðkvæm manneskja og ég vona það því mótlætið styrkir mig og gerir mér kleift að takast á við aðstæður sem aðrir hafa kannski ekki sömu getu til. Ég veit að það hljómar eins og klisja, en jákvæðu viðbrögðin sem ég fæ eru margfalt meiri og þau gera allt hitt lítilvægt í samanburði. Ég hef reynt að safna saman öllum jákvæðum skilaboðum sem ég fæ og þau eru að nálgast fimm hundruð og þegar mér líður illa leita ég þangað. Ef mig vantar styrk til að takast á við ómálefnalega gagnrýni skoða ég uppáhaldsskilaboðin, t.d. frá stelpu sem sagði að ég hefði gefið henni styrk til að segja mömmu sinni frá að hún hefði verið beitt kynferðisofbeldi og skilaboð sem segja að manneskjan sem sendi þau hafi ekki raunverulega skilið hvað rasismi var fyrr en hún byrjaði að fylgjast með mér. Svona skilaboð um að ég hafi breytt viðhorfi fólks eru ómetanleg því þau eru beinhörð sönnun þess að ein manneskja geti knúið fram breytingar og það er einmitt það sem ég reyni að skila til annarra í sömu stöðu og ég. Verstu viðbrögð sem ég hef fengið á hlutlægan skala eru hótanir sem beinast að fjölskyldunni minni en ef ég á að vera hreinskilin þá er langverst að mæta skilningsleysi, háði eða jafnvel andúð frá fólki sem maður hélt að vissi betur.“

Áfallastreituröskun eftir röð áfalla

Sara er greind með áfallastreituröskun sem hefur haft mikil áhrif á líf hennar. Hún hefur ekki rætt það mikið opinberlega og segir að einkennunum fylgi stundum ákveðin skömm. Í æsku varð hún fyrir röð áfalla sem hún bældi lengi niðri. Þeim sem hún mundi eftir sagði hún aldrei frá. Hún segist hafa átt erfitt með að sætta sig við að hafa verið greind með áfallastreituröskun. „Mér fannst ég ekki eiga nógu bágt til að þjást af sjúkdómi sem hefur í dægurmenningu helst einkennt fyrrverandi hermenn. En raunveruleikinn er að upplifun af styrjöld er ekki forsenda þess að vera með áfallastreituröskun og hún getur hrjáð fólk með alls konar reynslu. Í dag kemur hún helst fram í aktívismanum og verður til þess að ég fæ köst þegar eitthvað minnir mig á sársaukafullar upplifanir. Ég reyni að vera opin með það, eins og aðra geðsjúkdóma, en einkennunum fylgir viss skömm, t.d. er ég gjörn á að fá martraðir og svitna mikið í svefni. Ég fer reglulega til dásamlegs sálfræðings, sem hefur hjálpað mér meira en orð fá lýst, en ég hef lítið rætt þennan hluta af lífinu mínu því, eins og ég segi, þá fylgir því smáskömm og sársauki sem ég á enn eftir að vinna úr. En ég efast ekki um að það gerist með tímanum. Þetta er bara einn af þessum hlutum sem maður þarf að lifa með og ég mun ekki leyfa því að halda aftur af mér.“

Þetta er aðeins brot út ítarlegu viðtali við Söru. Viðtalið í heild má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
Myndir: Aldís Pálsdóttir

10 ráð til að losna við Eurovision-þynnkuna

|
|

Það er alltaf erfitt að vakna daginn eftir að Ísland dettur úr Eurovision. Alveg sama hve oft það gerist, það bara er ekki hægt að venjast því. Vonbrigðin eru svo yfirgengilega mikil og fyrsta sem maður gerir er að líta á alla helstu vefmiðla og fullvissa sig um að kynnirinn hafi óvart sagt Írland þegar hann ætlaði í raun að öskra ÍSLAND!

Nú er eyðimerkurganga Íslands í Eurovision orðin aðeins of löng, og ættum við því að vera orðin vön því að keppa ekki í úrslitunum. En auðvitað bindum við alltaf vonir við að okkar lög komist áfram, sérstaklega þegar þau eru flutt jafn óaðfinnanlega og Ari Ólafsson flutti Our Choice í gær.

Þannig að þegar að vonbrigðin, svokölluð Eurovision-þynnka, skellur á erum við á Mannlífi með tíu ráð til að vinna á timburmönnunum bug:

1. Aragríma í seinni riðlinum

Byrjaðu strax að hlusta á öll lögin í seinni undanúrslitariðlinum, veldu þér uppáhalds sem á jafnframt góðan séns á að komast áfram samkvæmt veðbönkum, til dæmis Noregur eða Svíþjóð, og haltu með því eins og enginn sé morgundagurinn. Ef það hjálpar geturðu alltaf klippt út andlitið á Ara og fært það með skjánum þegar uppáhaldið þitt er að syngja svo flytjandinn virðist vera íslenskur.

2. Svona semurðu lag

Sestu niður í góðu tómi og hlustaðu á sigurlög síðustu tuttugu ára eða svo. Punktaðu niður hvað þau eiga sameiginlegt og reyndu síðan að semja besta Eurovision-lag allra tíma!

3. Það geta ekki allir verið gordjöss

Hringdu í Pál Óskar og biddu hann um að syngja fyrir þig. Sendu honum svo besta Eurovision-lag allra tíma sem þú varst að semja.

Eurovision-Palli kemur þér í stuðið.

4. Gefðu þér tíma til að syrgja

Farðu í vinnuna og láttu eins og ekkert hafi í skorist. Þegar einhver byrjar að tala um Eurovision, afsakaðu þig og farðu inn á klósett til að gráta.

5. Ömurleg hugmynd

Farðu niður í Hörpu og finndu allar ástæður fyrir því að það væri ömurleg hugmynd ef Ísland myndi vinna Eurovision. En ekki láta gabbast og ráða þig í vinnu sem þjónustufulltrúi!

6. Ekki ýta á takkann!

Ekki kveikja á útvarpi, sjónvarpi eða lesa vefmiðla í dag. Það ýfir bara upp sárar minningar. Sárar, sárar minningar.

7. Skamm, Magnús Geir

Skrifaðu mjög harðort bréf til Magnúsar Geirs, sjónvarpsstjóra, þar sem þú heimtar tafarlaust að fá að sitja í valnefnd fyrir þessi blessuðu lög sem keppa í Söngvakeppninni, og bendir honum jafnframt á að Ísland hafi aðeins komist einu sinni upp úr undanriðlinum eftir að hann tók við störfum.

8. Þú hefur valið…

Prófaðu að taka textann úr Our Choice og syngja hann við ísraelska lagið TOY með henni Nettu. Það er sjúklega fyndið og á bókað eftir að koma þér í betra skap – sérstaklega þegar þú ímyndar þér Ara að gagga eins og hæna uppi á sviði.

9. Fánamóment

Vefðu íslenska fánanum um líkama þinn og hugsaðu um allt það góða í lífinu.

10. Is It True?

Svo verður þú að horfast í augu við það að Ísland keppir ekki á laugardaginn. Og það gæti farið svo að Ísland komist ekki heldur í úrslit á næsta ári, og þarnæsta og þarþarnæsta. Skrifaðu bréf sem þú átt aldrei eftir að senda þar sem þú listar upp allar tilfinningar sem bærast innra með þér er þú hugsar raunsætt um hlutina. Leyfðu þér að skrifa hvað sem er, og taktu þér allan tímann í heiminum sem þú þarft til að losa um tilfinningarnar. Þú mátt gráta, þú mátt hlæja, þú mátt syrgja. Náðu síðan í kveikjara, settu Is It True? á fóninn og kveiktu í bréfinu. Brenndu sorgina í burtu og byrjaðu að plana Eurovision-matinn fyrir fimmtudaginn og laugardaginn.

Sögulegt hús á einum eftirsóttasta stað í hjarta borgarinnar

Eign vikunnar er þetta fallega og sögulega hús við Laufásveg 43. Húsið er byggt árið 1903 í Sveitser-stíl sem algengt var í Noregi um aldamótin 1900. Eins og önnur hús af þeirri gerð er það með bröttu þaki og portbyggt og stendur á eignarlóð. Einkenni þessarar eignar er handverk sem þar er að finna, bæði innan- og utandyra, og fangar það gestsaugað um leið. Mikið handverk er þar að finna, meðal annars íburðarmiklar gluggaumgjarðir. Húsið er á einum besta stað í miðborg Reykjavíkur og stutt í allt sem borgin hefur upp á að bjóða, menningarlíf, veitingahúsaflóru, alla þjónustu sem og skóla og fjölmargar fallegar gönguleiðir um miðbæinn.

Skjólsæll og bjartur garður

Garðurinn er gamalgróinn og skemmtilegur, hann er bæði bjartur, skjólsæll og einstaklega hlýr. Þar eru tré sem trjáfræðingar telja ein af merkustu trjám borgarinnar, hvert af sinni tegund. En í garðinum er að finna beyki, hlyn og ask.

Endurbyggt og stækkað

Húsið er timburhús á steinhlöðnum kjallara. Á árunum 2000 til 2005 var húsið endurbyggt og byggt var við húsið og er því nánast um nýtt hús að ræða. Burðarvirki var endurnýjað, ný utanhússklæðning er á húsinu en undir henni er tvöfalt gips. Húsið prýða nýir gluggar með tvöföldu gleri og nýjar útidyrahurðir. Að innan er veggklæðningin endurnýjuð og gips notað á veggi og í loft. Einnig eru gólfin meira og minna endurnýjuð. Í húsinu eru nýjar vatnslagnir, frárennslislagnir og raflagnir. Þær voru lagðar sér fyrir hverja hæð auk þess sem ný drenlögn var lögð.

Eikarþil frá árunum 1920 til 1930

Dyr og hurðir eru upprunalegar í hluta hússins, en á miðhæðinni voru þær hækkaðar og breikkaðar og er útkoman hin glæsilegasta.  Á miðhæðinni, í anddyri og holi, er eikarþil frá árunum 1920 til 1930. Í dag er húsið nýtt sem þrjár íbúðir. Húsið  getur einnig verið einbýli, því gert var ráð fyrir við byggingu þess að hægt væri að opna milli hæða og rýma með lítilli fyrirhöfn.

Húsið hlaut viðurkenningu fyrir velheppnaðar endurbætur

Þegar húsið var endurnýjað var kappkostað að halda öllu skrauti í upprunalegri mynd og er húsið eitt best heppnaða hús í Sveitser-stíl í Reykjavík. Margt í húsinu er í sínum upprunalega stíl. En árið 2005 veitti borgarstjórinn í Reykjavík húsinu viðurkenningu fyrir velheppnaða endurbyggingu.

Einstakt tækifæri að eignast hús með sál í hjarta borgarinnar

Þetta fallega hús er um 260,4 fermetrar að stærð og húsið er þrír matshlutar, þrjár íbúðir, allar með sérinngangi. Það er þó mjög auðvelt að breyta nýtingunni í einbýlishús en húsið var hannað með það að leiðarljósi auðvelt væri að breyta því í þrjár íbúðir og öfugt. Hér um að ræða einstakt tækifæri til að eignast eign á einum eftirsóttasta stað í hjarta miðborgarinnar sem á sér sögu, hús með sál. Eignin er til sölu hjá Kjöreign fasteignasölu sem veitir frekari upplýsingar um eignina og hana er einnig að finna á heimasíðu hennar: www.kjoreign.is

Fróðleiksmoli um Laufásveg 43

Reykjavíkurborg átti húsið um tíma og var ráðgert að það yrði hluti af húsasafni borgarinnar. Frá því var horfið en allt innbú þess þá flutt á Árbæjarsafn. Þar var sett upp sýning um húsið og sögu þess með því innbúi sem fylgdi því. Einnig myndum úr húsinu eins og það var á árunum u.þ.b. 1916-1999. Húsinu hafði lítið verið breytt allan þann tíma.

Mest í því að vera þreyttar og svangar saman

Vinkonurnar Þórunn Ívarsdóttir og Alexsandra Bernharð Guðmundsdóttir eiga ýmislegt sameiginlegt. Þær eru báðar flugfreyjur, háskólanemar og samfélagsmiðlastjörnur, svo fátt eitt sé nefnt. Örlögin réðu því að þær eru nú báðar óléttar af sínu fyrsta barni, en þær segja ótrúlega skemmtilegt að vera samferða í þessu ferli.

 

Þórunn hefur verið með manninum sínum Harry Sampsted í rúm fimm ár. Hún hefur talað opinskátt um baráttu sína við endrómetríósu (legslímuflakk) en sjúkdómurinn hefur valdið því að hún átti erfitt með að verða barnshafandi.„Ég var mjög glöð að þurfa ekki að sækja frekari aðstoð en þetta tókst á endanum á náttúrulegan hátt.“ segir Þórunn. „Ég hef farið í tvær aðgerðir síðan ég greindist árið 2015. Í haust ákváðum við að leita okkur læknishjálpar, en læknirinn sá vonarglætu að þetta gæti komið náttúrulega og gaf okkur smá tímaramma. Hún kom svo undir þegar við vorum á síðasta séns.“ Þórunn er komin 23 vikur á leið og er sett þann 2.september.

Alexsandra og maðurinn hennar, Níels Adolf Svansson eiga von á frumburði sínum þann 20.október, sem þýðir að Alexsandra er komin rúmar 16 vikur á leið. Þau voru byrjuð að huga að barneignum og má segja að „baunin“ hafi komið eins og kölluð. „Við erum búin að vera saman í 9 ár, og vorum farin að tala um að byrja reyna árið 2018. Ég fékk svo jákvætt próf fyrr en áætlað var og við erum mjög hamingjusöm með það.“ Segir Alexsandra.

Alexsandra Bernhard

Samrýndar

Þær vinkonur eru mjög samrýndar og það sannast einna best á því hvernig þær komust að óléttunni hjá hvor annarri. Þórunn segir þær hafa haft sínar grunsemdir þegar hún sjálf var ólétt en þegar kom að Alexsöndru hafi þær verið alveg grunlausar. „Alexsandra vissi í raun að ég væri ólétt á undan mér, en ég var búin að taka grátköst útaf mjög smávægilegum hlutum nokkrum dögum áður. Sem dæmi má nefna að ég fór að gráta í afgreiðslu BL þegar ég fékk bílinn minn ekki til baka úr viðgerð á réttum tíma en þá var minni konu farið að gruna ansi margt. Þar sem að hún vissi að við værum að reyna, en svo var þetta allt öðruvísi þegar við komumst að því að Alexsandra væri ólétt. Hún nefndi við mig að hún væri 5 dögum of sein að byrja á blæðingum. Þá píndi ég hana til að taka próf. Við fórum í þrjú apótek þangað til að við fundum eitt opið. Síðan komu niðurstöðurnar okkur svolítið á óvart en þetta var hreint út sagt yndislegt. Það var samt mjög erfitt að halda þessum upplýsingum út af fyrir sig í átta vikur.“

Ég fór að gráta í afgreiðslu BL þegar ég fékk bílinn minn ekki til baka úr viðgerð á réttum tíma en þá var minni konu farið að gruna ansi margt.

Báðar að berjast við ógleði

Þær stöllur hafa ekki farið varhluta af ógleði og öðrum fylgikvillum sem fylgja oft fyrstu vikum meðgöngunnar. „Ég var óvinnufær fyrstu frá 6-16 viku og þá var mjög erfitt  að halda þessu leyndu frá fólkinu í kringum mig. Ég var með lágan blóðþrýsting og kastaði upp um það bil 6 sinnum á dag. Vegna orkuleysis og uppkasta leið yfir mig og rotaðist ég á baðherbergisgólfinu dágóða stund.  Suma daga komst ég ekki út úr húsi en um leið og ég hætti að vinna fór allt upp á við“ segir Þórunn.

Alexsandra hefur svipaða sögðu að segja „Mér byrjaði að líða frekar illa svona tveimur vikum eftir að ég kemst að ég er ólétt. Var óglátt stanslaust allan sólarhringinn en byrjaði síðan ekki að kasta upp fyrr en á tíundu viku og er ennþá að kasta upp.mÉg er búin að vera svolítið hressari en Þórunn en á mína slæmu daga.“

Þórunn og Harry vita kynið og eiga von á stelpu. Alexsandra og Níels hafa einnig ákveðið að kíkja í pakkann og eiga pantaðan tíma í sónar hjá 9.mánuðum þann 17.maí. Alexsandra segist hafa á tilfinningunni að það sé strákur á leiðinni en Þórunn giskar á stelpu. „Fyrst var ég 100% viss að það væri strákur hjá henni, núna fæ ég smá efasemdir aftur.“

Eins og fylgjendur þeirra á samfélagsmiðlum hafa tekið eftir eru þær byrjaðar að undirbúa komu erfingjanna. Aðspurð segist Alexsandra búin að vera ansi dugleg að kaupa föt en sé ekki komin með neitt annað. „Ég er alveg handviss um hvernig ég vil hafa hlutina og hvað ég ætla að kaupa. Ég ætla að byrja formlega á undirbúningnum þegar ég hætti að vinna.“

Þórunn Ívarsdóttir

Þórunn segist vera komin með leyfi til að byrja að innrétta barnahornið 1.júlí. „Mér finnst fínt að dreifa kostnaðinum yfir nokkra mánuði. Ég veit líka alveg hvernig ég ætla að hafa allt en það er kannski betra að gera einn hlut í einu svo hinn helmingurinn fái ekki taugaáfall. Annars er náttúrulega stórhættulegt að vera saman í þessu, þar sem við erum báðar duglegar að versla og núna langar okkur að kaupa allt fínt og flott handa krílunum.“

Þær segjast fyrir utan það að versla barnaföt aðallega vera í því að vera þreyttar og svangar saman. „Við espum hvor aðra upp og fáum okkur eitthvað rosalega gott að borða, því okkur finnst við eiga það skilið. Við erum alltaf svangar“ segja vinkonurnar að lokum.

Myndir: Hákon Björnsson

Ítarlegra viðtal við Þórunni og Alexsöndru má finna í 17.tölublaði Vikunnar

Margt gæti komið á óvart í Eurovision í kvöld

Ari okkar Ólafsson stígur á svið í Altice Arena-höllinni í Lissabon í kvöld og keppir í fyrri undanúrslitariðli Eurovision. Ef allt gengur að óskum kemst Ari áfram og keppir í úrslitunum laugardagskvöldið 12. maí.

Útlitið fyrir að Ari nái loksins að binda enda á eyðimerkurgöngu okkar Íslendinga í keppninni er ekki gott, en Ísland hefur ekki komist upp úr undanriðlunum síðustu þrjú ár. Ef marka má samantekt úr helstu veðbönkum heimsins kemst Ari ekki upp úr riðlinum og skipar sér í neðstu sætin ásamt Makedóníu og Írlandi. Í spá vefsíðunnar Eurovision World er Ari neðstur.

Sjá einnig: Mikið klappað fyrir Ara á dómararennsli.

Engir LED-skjáir

Auk Íslands keppa eftirfarandi lönd í kvöld, í réttri röð, en Ari er númer 2 á undan Albaníu: Aserbaídjan, Albanía, Belgía, Tékkland, Litháen, Ísrael, Hvíta-Rússland, Eistland, Búlgaría, Makedónía, Króatía, Austurríki, Grikkland, Finnland, Armenía, Sviss, Írland og Kýpur. Tíu lönd komast áfram í úrslit.

Þessi riðill hefur verið kallaður dauðariðillinn, enda hafa margir spáð því að þau tíu lönd sem komist upp úr riðlinum verði þau tíu efstu í úrslitunum þann 12. maí. Meðal landa sem eru talin sigurstrangleg eru Ísrael, Tékkland, Eistland og Búlgaría.

Það getur hins vegar margt komið á óvart í kvöld, eins og venja er í Eurovision, og þó veðbankar og spár hafi oft rétt fyrir sér þá kemur fyrir að þeim bregst bogalistin. Þá ber að nefna sviðið og sviðssetninguna, en eins og kunnugt er eru engir LED-skjáir í Lissabon og því mörg atriðanna keimlík er kemur að sviðssetningu. Því reynir meira á flytjendur að skera sig úr og meira á ljósahönnuði að gera atriði eftirminnileg.

Sjá einnig: Spánn vinnur Eurovision ef marka má Google.

Áskrift að úrslitunum

Aserbaídjan opnar kvöldið með söngkonunni Aisel og laginu X My Heart. Veðbankar spá henni ekki áfram í úrslit en gleyma þó kannski mikilvægri staðreynd að Aserbaídjan kemst alltaf upp úr undanriðlinum, alveg sama hve lagið er slakt. Þannig að við þurfum líklegast ekki að hafa miklar áhyggjur af henni Aisel, þó atriðið sé frekar bragðdauft og lagið ekkert spes.

Hin ísraelska Netta hefur verið talin sigurstranglegust, raunar til að vinna alla keppnina, í nokkrar vikur. Hins vegar olli fyrsta æfing söngkonunnar í Lissabon nokkrum vonbrigðum meðal Eurovision-spekúlanta, þó raddbönd Nettu hafi langt því frá klikkað. Unnið var í atriðinu og þegar kom að annarri æfingu var ísraelska teymið búið að bæta við eldglærum og sápukúlum sem gerir mikið fyrir atriðið.

Lagið, Toy, er sterkt og nýtur mikillar hylli í Eurovision-heiminum og því nánast öruggt að Netta komist áfram í úrslit. Hvort hún hrósi sigri í úrslitum á laugardagskvöldið er svo annað mál, og hugsanlegt að hún hafi toppað á vinsældarlistum of snemma.

Sópransöngur og stuð

Ísrael er í fyrri part undanúrslitanna í kvöld, sjöunda í röðinni. Önnur lönd sem eru talin sigurstrangleg, Tékkland og Eistland, eru líka framarlega – Tékkland númer 5 og Eistland númer 9. Það getur líka haft áhrif á gengi þeirra, en veðbankar eru sammála um að þessi tvö lög komist áfram. Mikolas Josef syngur lagið Lie to Me fyrir Tékka og lenti í smá erfiðleikum á fyrstu æfingu þar sem hann slasaðist er hann gerði fimleikaæfingar á sviðinu. Mikolas náði sem betur fer að hrista það af sér og var mjög öruggur á sviðinu á annarri æfingu, þrátt fyrir byrjunarerfiðleika með hljóðnemann. Lagið er hresst og sviðssetningin ágæt og því líklegt að hann komist áfram.

Eistar taka áhættu með því að senda klassískt menntaða söngkonu, hana Elinu Nechayeva, með hið dramatíska lag La Forza. Elina syngur lagið óaðfinnanlega en það er ekki síður kjóll hennar sem hefur stolið senunni. Elina fær líklegast fullt hús stiga dómnefndar en óvíst er hvernig Eurovision-aðdáendur taka þessari flottu sópransöngkonu.

Tveir svartir hestar

Finnar eru fimmtándir í röðinni í kvöld og syngur söngkonan Sara Aalto lagið Monsters. Samkvæmt veðbönkum rétt slefar Sara í úrslit, en hér er á ferð atriði sem er stórlega vanmetið og á eflaust eftir að standa sig talsvert betur en spáð er. Sara er þrususöngkona og bjóða Finnar upp á skemmtilegt, töff og hressandi atriði parað við lag sem er mikið heilalím.

Má segja að Finnar séu svarti hesturinn sem gæti hreinlega farið alla leið í keppninni í ár, þvert á alla spádóma.

Kýpur lokar sýningunni í kvöld með laginu Fuego sem flutt er af þokkagyðjunni Eleni Foureira. Hér er á ferð annar svartur hestur sem var spáð afar slöku gengi þar til æfingar hófust í Altice Arena-höllinni í Lissabon. Nú er Eleni efst í öllum veðbankaspám, sem og spá á vefsíðu Eurovision World. Og það er ekkert skrýtið þar sem má með sanni segja að Eleni loki herlegheitunum með hvelli, óaðfinnanlegum söng og seiðandi danssporum í anda Beyoncé. Hins vegar gæti Fuego orðið eitt af þessum lögum sem verða pólitíkinni að bráð og komast ekki áfram út af því að önnur lönd eiga áskriftarmiða í úrslit, til dæmis Aserbaídjan.

Er pláss fyrir Ara?

Önnur lönd sem veðbankar eru sannfærðir um að komist áfram eru Búlgaría, Grikkland, Austurríki, Belgía og Hvíta-Rússland. Það er hins vegar ómögulegt að segja hvernig kvöldið í kvöld fer, og það er jafnvel pláss fyrir fleiri svarta hesta í riðlinum, til dæmis Ara okkar Ólafsson. Flestir Eurovision-spekúlantar eru sammála um að Ari negli lagið á öllum æfingum og viðburðum en að lagið sjálft sé hins vegar ekki nógu spennandi til að gera mikið í keppninni.

Bein útsending á fyrri undankeppninni í Eurovision hefst klukkan 19 í kvöld á RÚV.

Svakalegustu lúkkin í MET-galaveislunni

|||||||||||||||
|||||||||||||||

Hin árlega MET-galaveisla var haldin í gærkvöldi, en um fjáröflun er að ræða fyrir Metropolitan Museum of Art’s Costume Institute í New York.

Öllum helstu stjörnum í heiminum í dag er boðið í veisluna og á hverju ári er sérstakt þema. Í ár var þemað: Guðlegir líkamar: Tíska og kaþólskt ímyndunarafl.

Eins og sjá má voru margir sem fóru alla leið í klæðaburði í veislunni og ekki úr vegi að kíkja á nokkur af svakalegustu lúkkunum þetta kvöld:

Lena Waithe í Carolina Herrera

Sarah Jessica Parker í Dolce & Gabbana

Katy Perry í Versace

Cara Delevingne í Dior

Solange Knowles í Iris van Herpen

Zendaya í Versace

Cardi B í Moschino

Chadwick Boseman í Versace

Ariana Grande í Vera Wang

Blake Lively í Versace

Frances McDormand í Valentino

Madonna í Jean Paul Gaultier

Rita Ora í Prada

Lana del Rey og Jared Leto í Gucci

Rihanna í Margiela

Ari komst ekki áfram í Eurovision

Eurovision-farinn Ari Ólafsson komst ekki upp úr fyrri undanúrslitariðlinum í kvöld, þrátt fyrir óaðfinnanlegan flutning á laginu Our Choice í Altice-höllinni í Lissabon í Portúgal.

Tíu lög komust upp úr riðlinum, en stigin voru sambland af einkunn dómara og símakosningu. Ekki hefur verið gefið upp hve mörg stig hvert lag fékk.

Lögin sem komust áfram í úrslit, sem haldin verða laugardagskvöldið 12. maí, eru eftirfarandi:

Austurríki – Nobody But You – Cesár Sampson

Eistland – La Forza – Elina Nechayeva

Kýpur – Fuego – Eleni Foureira

Litháen – When We’re Old – Ieva Zasimauskaité

Ísrael – TOY – Netta

Tékkland – Lie to Me – Mikolas Josef

Búlgaría – Bones – EQUINOX

Albanía – Mall – Eugent Bushpepa

Finnland – Monsters – Saara Aalto

Írland – Together – Ryan O’Shaugnessy

Fylgstu með #12stig í kvöld

Ari Ólafsson stígur á stóra sviðið í Altice Arena-höllinni í Lissabon í Portúgal í kvöld og syngur lagið Our Choice í von um að komast í úrslit Eurovision þann 12. maí næstkomandi.

Eins og venja er viðra tístarar skoðanir sínar undir kassamerkinu #12stig þegar kemur að Eurovision og í kvöld er engin breyting á því.

Hér fyrir neðan munu allar færslur merktar #12stig rúlla og því hægt að glöggva sig á því hvað aðrir hafa að segja um söngvakeppnina í ár.

Góða skemmtun í kvöld og áfram Ísland!

Mikið klappað fyrir Ara á dómararennsli

Ari Ólafsson steig á svið í Altice Arena-höllinni í Lissabon í gær á svokölluðu dómararennsli, sem er ætlað fyrir dómnefndir allra landanna sem taka þátt. Stig dómnefndar gilda helming á móti símakosningu.

Eins og sést í meðfylgjandi myndbandi, þó gæðin séu ekki sem best, var klappað mikið fyrir Ara á rennslinu og er mál manna að hann hafi neglt flutninginn uppá 10.

Sjá einnig: Þú gætir grætt fúlgur fjár með því að veðja á Our Choice.

Veðbankar og Eurovision-spekúlantar eru hins vegar sammála um að Ari nái ekki upp úr undanriðilinum. Það sé þó ekki vegna þess að Ari sé lélegur söngvari heldur sé lagið óspennandi.

Útsending á Eurovision hefst klukkan 19 í kvöld á RÚV og er Ari annar á stóra sviðið.

Mynd / Andres Putting (Eurovision.tv)

Svona lítur litli prinsinn út

Kensington-höll er búin að setja fyrstu, opinberu myndirnar af Lúðvík prins á Instagram, en Lúðvík er þriðja barn þeirra Kate Middleton, hertogaynju af Cambridge, og Vilhjálms Bretaprins.

Sjá einnig: Sláandi lík Díönu prinsessu í rauðum kjól.

Lúðvík kom í heiminn þann 23. apríl síðastliðinn og er því aðeins tveggja vikna gamall. Með myndunum fylgir kveðja til Breta og þakkir fyrir falleg skilaboð eftir fæðingu prinsins.

Á annarri myndinni er Lúðvík í tandurhreinum og fallegum ungbarnaflíkum, líklegast handprjónuðum.

Á hinni myndinni sést systir hans Charlotte halda á honum, en myndin var tekin á afmælisdegi prinsessunnar þann 2. maí síðastliðinn.

Sjá einnig: Dagurinn á fæðingardeildinni kostar tæpa milljón.

Þá riðu skúrkar um héruð

||||
||||

HM í knattspyrnu hefur getið af sér ógrynni hetja í gegnum tíðina. Skúrkar eru þó einnig mikilvægir til að halda jafnvægi í þessari risavöxnu íþróttaveislu og gildir þá einu hvort leikmenn skapi sér óvinsældir með ofbeldisverkum, svindli, leikaraskap eða einfaldlega með því að bregðast liðsfélögum sínum þegar mest ríður á. Mannlíf rifjaði upp nokkra fræga skúrka í sögu HM.

1. Óvinsælli en Hitler

Þýski markmaðurinn Harald Schumacher, Vestur-Þýskalandi, framdi fólskulegasta brot HM-sögunnar þegar Þjóðverjar og Frakkar léku í undanúrslitum á HM á Spáni 1982. Þegar franski varnarmaðurinn Battiston elti glæsilega sendingu hetjunnar Michels Platini inn fyrir þýsku vörnina tók Schumacher á rás út úr marki sínu í átt að þeim franska, sem varð fyrri til að ná til boltans og skaut naumlega fram hjá. Markverðinum virtist hins vegar vera hjartanlega sama um boltann og stökk beint á Battiston, sem fékk mjöðmina og lærið á Schumacher í höfuðið af ógnarafli og féll meðvitundarlaus til jarðar.

Platini sagðist síðar hafa haldið að Battiston væri dáinn því hann fann engan púls þegar liðsfélagar og sjúkralið stumraði yfir honum hrímhvítum í framan. Á meðan rölti Schumacher í hægðum sínum um vítateiginn, sýndi fórnarlambi sínu engan áhuga og virtist óþreyjufullur að taka útsparkið og hefja leik að nýju, því dómari leiksins dæmdi ekki einu sinni aukaspyrnu fyrir brotið augljósa og hvað þá verðskuldað rautt spjald á Schumacher. Knattspyrnukarma virðist ekki hafa virkað sérlega vel þennan ákveðna dag því leiknum lauk með 3-3 jafntefli eftir framlengingu og í vítakeppninni, þeirri fyrstu í sögu HM, varði Schumacher tvær vítaspyrnur.

Að leik loknum, þegar Schumacher var tjáð af fréttamönnum að Battiston hefði misst tvær tennur í árásinni, brákað þrjú rifbein og skemmt hryggjarlið, grínaðist markvörðurinn með að hann skyldi með glöðu geði borga fyrir tannaðgerð fyrir varnarmanninn úr því hann væri ekki meira slasaður en svo. Allt hleypti þetta skiljanlega illu blóði í þorra knattspyrnuáhugafólks og sér í lagi Frakka. Málið vakti svo mikla athygli að þjóðarleiðtogar landanna tveggja, þeir Helmut Kohl og François Mitterand, ræddu það á blaðamannafundi til að freista þess að lægja öldurnar. Í skoðanakönnun fransks dagblaðs skömmu síðar var Schumacher kosinn óvinsælasti maður Frakklands með talsverðum yfirburðum. Adolf Hitler, landi markvarðarins, varð í öðru sæti í þessari sömu könnun.

Battiston náði sér að fullu um síðir en þetta ógeðfellda atvik litaði þó feril beggja leikmanna upp frá því og það er kannski það sorglegasta við það, því báðir voru þeir frábærir knattspyrnumenn. Þá er einnig leiðinlegt að leiksins sjálfs sé fyrst og fremst minnst fyrir fólskulegt brot en ekki þá stórkostlegu knattspyrnu og gríðarlegu spennu sem fram fór á sjálfum vellinum.

2. Mannætan snýr aftur

Luis Suárez, Uruguay, hefur tekið þátt í tveimur heimsmeistarakeppnum til þessa. Á lokamínútu framlengingar í 8-liða úrslitum HM 2010 í Suður-Afríku varði hann skot Ghana-mannsins Asamoah Gyan viljandi með hendi á marklínunni og kom þannig í veg fyrir þann sögulega atburð að afrískt landslið kæmist í fyrsta sinn í undanúrslit HM. Þetta upptæki Uruguay-mannsins vakti takmarkaða lukku og enn síður gríðarlegur fögnuður hans á hliðarlínunni þegar Uruguay vann vítaspyrnukeppnina sem fylgdi í kjölfarið.

Einhverjir hafa reynt að halda uppi vörnum fyrir Suárez og bent á að vitanlega sé gáfulegra að stöðva bolta með hendi en að horfa á eftir honum í netið á síðustu mínútunni en sú skoðun hefur einhverra hluta vegna orðið undir í umræðunni enda Suárez langt frá því að vera ástsælasti leikmaður heimsfótboltans. Í lokaleik riðilsins á HM í Brasilíu 2014 tók Suárez svo upp á því að bíta Giorgio Chiellini, varnarmann Ítala, í öxlina eftir barning í teignum og greip svo klaufalega um tennurnar til að láta líta út fyrir að hann hefði óvart dottið á hann. Suárez tókst að blekkja dómarann en ekki sjónvarpsmyndavélarnar og var í kjölfarið dæmdur í langt bann, enda var þetta í þriðja sinn sem hann smjattaði á líkama andstæðings í miðjum leik.

Hverju skyldi Luis Suárez taka upp á í Rússlandi í sumar?

3. Gallaður snillingur

Það má færa rök fyrir því að goðsögnin Diego Armando Maradona hafi leikið skúrkinn á einn eða annan hátt í öllum fjórum heimsmeistaramótunum sem hann tók þátt í, en sumum þó meira en öðrum. Í fyrstu keppninni á Spáni árið 1982 varð nýstirnið pirrað á sífelldum spörkum andstæðinga sinna og lét að endingu reka sig út af fyrir hefndarbrot í lokaleik Argentínumanna, þar sem liðið féll úr leik gegn Brasilíu. Í Mexíkó árið 1986 spilaði hann eins og engill og tryggði þjóð sinni heimsmeistaratitilinn nánast einn síns liðs, en tókst þó að slá fölva á fegurðina með því að skora mark með hendi gegn Englendingum í 8-liða úrslitum. „Markið var skorað með örlitlu af höfði Maradona og örlitlu af hendi guðs,“ sagði Maradona og viðhélt þeirri söguskoðun langt fram á næstu öld.

Hann þótti langt frá sínu besta á Ítalíu árið 1990 og klúðraði meðal annars víti í 8-liða úrslitum en Argentínumenn komust þó alla leið í úrslitaleikinn þar sem þeir biðu lægri hlut gegn Vestur-Þjóðverjum. Í síðasta mótinu sínu í Bandaríkjunum árið 1994 féll Maradona svo á lyfjaprófi og var sendur heim með skít og skömm eftir aðeins tvo leiki og argentínska liðið beið þess ekki bætur.

4. Skelkur í bringu

Sjaldan eða aldrei hefur leikmanni tekist að skaða orðspor sitt eins harkalega og Zinedine Zidane (Frakklandi) í úrslitaleik HM 2006 í Þýskalandi gegn Ítölum. Þetta var síðasti leikur goðsins á ferlinum og allt stefndi í sannkallaðan ævintýraendi fram á síðustu mínútu framlengingar, þegar Zidane brást skyndilega ókvæða við móðgunaryrðum varnarmannsins Marcos Materazzi um systur hins fyrrnefnda og keyrði stífbónaðan skallann af miklu afli í bringu hans. Ítalinn datt niður sem dauður væri, Zidane fékk rautt spjald og Ítalir unnu vítaspyrnukeppnina sem fylgdi í kjölfarið. Þessi frábæri leikmaður hefði getað lokið ferlinum með því að lyfta stærsta bikarnum af þeim öllum en er þess í stað frekar minnst vegna einhvers sem hann gerði með höfðinu en fótunum.

5. Hætta ber leik þá hæst hann stendur

Rivaldo Vítor Borba Ferreira, frá Brasilíu, ​var talsvert betri fótboltamaður en leikari. Það kom bersýnilega í ljós undir lok leik Brasilíu og Tyrklands í riðlakeppninni á HM í Japan og Suður-Kóreu árið 2002, þegar hann bjó sig undir að taka hornspyrnu og Tyrkinn Hakan Ünsal sparkaði til hans boltanum, nokkuð fast en ekki svo fast að nokkrum fullfrískum manni í feiknaformi yrði meint af að fá hann í sig. Rivaldo fékk boltann í lærið en greip umsvifalaust um andlitið, henti sér niður og rúllaði sér um völlinn með kómískan angistarsvip á andlitinu. Dómarinn lét blekkjast á einhvern ótrúlegan hátt og rak Ünsal af velli, en Rivaldo hefur æ síðan verið minnst sem svindlara.

Fleiri tilkallaðir:

Patrice Evra.

Patrice Evra, Frakklandi
Fyrirliðinn leiddi uppreisn leikmanna gegn þjálfara franska landsliðsins á HM í Suður-Afríku árið 2010 sem gerði alla viðkomandi að fíflum.

Antonio Rattín, Argentínu
Fyrirliði Argentínumanna lét reka sig út af fyrir kjaftbrúk í leik gegn gestgjöfum Englendinga á HM 1966, neitaði að yfirgefa völlinn þar til í lengstu lög, stóð á rauða teppinu sem var einungis ætlað drottningunni og þurrkaði sér loks um hendurnar með breska fánanum á leiðinni út af.

Frank Rijkaard, Hollandi
Hrækti í hárið á þýska framherjanum Rudi Völler á HM á Ítalíu 1990 og aftur þegar hann var rekinn út af fyrir vikið. Var uppnefndur „Lamadýrið“ af þýskum fjölmiðlum.

Roy Keane.

Roy Keane, Írlandi
Var svo pirraður vegna slæmra æfingaaðstæðna írska landsliðsins á HM í Japan og Suður-Kóreu 2002 að hann gagnrýndi þjálfarann stanslaust þar til hann var rekinn úr hópnum og sendur heim áður en liðið hafði spilað sinn fyrsta leik.

Juan Camilo Zúñiga, Kólumbíu
Dúndraði með hnénu í bakið á hetju heimamanna, Neymar, í 8-liða úrslitum á HM í Brasilíu 2014 með þeim afleiðingum að gulldrengurinn lék ekki meira á mótinu. Í næsta leik biðu Neymar-lausir gestgjafarnir afhroð, 7-1, gegn verðandi heimsmeisturum Þjóðverja.

Kristjana.

Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttakona á RÚV, nefnir Diego Simeone, Argentínu:

„Maðurinn sem gerði David Beckham að hataðasta manni Englands á HM í Frakklandi sumarið 1998. Beckham, sem var algjört átrúnaðargoð hjá mér (já, ég fékk mér tölvupóstfangið [email protected]) fékk rautt spjald í leiknum gegn Argentínu í 16-liða úrslitum þegar hann sparkaði, lauflétt, aftan í Simeone. Þeim argentínska tókst að ýkja viðbrögðin svo mikið og láta þar með reka helstu vonarstjörnu Englendinga af velli. Leikurinn fór í vítaspyrnukeppni og þar tapaði England fyrir Argentínu.“

Örn Úlfar.

Örn Úlfar Sævarsson, hugmyndasmiður á ENNEMM, nefnir Roberto Baggio, Ítalíu:

„Árið 1994 byrjaði ég aftur að hafa áhuga fótbolta og HM í Bandaríkjunum var eiginlega fyrsta mótið sem ég fylgdist með af athygli. Roberto Baggio var allt í öllu fyrir Ítalíu og kom þeim í úrslitaleikinn en fyrir kaldhæðni örlaganna er hans einkum minnst fyrir vítaspyrnuklúðrið sem færði Brasilíumönnum titilinn. Og fyrir glæpsamlega hárgreiðslu.“

Fjölbreytt úrval stuðningshlífa frá Protek

Protek býður upp á fjölbreytt og mikið úrval stuðningshlífa, frá mildum stuðningi til mikils stuðning. Protek hannar sínar eigin hlífar með það að markmiði að þær séu fyrir mismunandi meiðsli sem geta komið upp á lífsleiðinni og að hægt sé að eiga hlífarnar í langan tíma. Þær eru endingargóðar og á sanngjörnu og góðu verði. Protek-hlífarnar eru hjálpartækjastuðningur við tognun, brákun og fyrir veika vöðva og liði svo dæmi séu tekin. Þetta eru hágæðavörur sem hafa hjálpað fjölmörgum að stunda sína hreyfingu eftir ýmiskonar meiðsli, t.d. eftir erfið álagsmeiðsli.

Kostir Protek-hlífanna eru meðal annars:

  • Svartar á lit, klassísk og falleg hönnun.
  • Framleiddar úr gæðaefnum sem eiga að endast í langan tíma þrátt fyrir mikla notkun.
  • Hægt að nota allar hlífarnar við daglegar athafnir og í íþróttum þar sem efnin anda vel.
  • Hlífarnar passa bæði á hægri og vinstri útlimi.
  • Mikið úrval stærða, allir ættu að finna stærð við hæfi.
  • Þær hjálpa til við að koma í veg fyrir frekari meiðsli.
  • Stuðningur hjálpar til við að draga úr bólgum í kringum særða vöðva og liði.
  • Þær halda hita að slasaða svæðinu og auka þannig blóðfæði sem flýtir bata.

Í boði eru þrjár tegundir stuðningshlífa á skalanum 1-6

Elastigated-hlífar

Í Elastigated-línunni er handahlíf, ökklahlíf, úlnliðshlíf, olnbogahlíf, hnéhlíf og hné- og kálfahlíf. Efnið í hlífunum inniheldur 52% nylon, 35% spandex og 13% latex með 4way stretch sem gefur betri teygjanleika en ella.

Helstu eiginleikar:

Mildur og teygjanlegur stuðningur.
Léttar og þægilegar hlífar.

Neoprena-hlífar

Í Neoprene-línunni eru hnéhlíf, ökklahlíf, úlnliðshlíf og olnbogahlíf. Efnið í hlífunum inniheldur 90% neoprene rubber og 10% nylon. Efnið er 3 mm þykkt sem gefur aukinn stuðning og einangrun.

Helstu eiginleikar:

Góður stuðningur og stífara efni en í Elastigated-hlífunum.
Halda hita vel inni sem veitir lækningu fyrir veika vöðva og liði með því að auka blóðflæði.

Spelkuhlífar

Í spelkulínunni er handahlíf með tveimur spelkum, mjóbakshlíf með átta spelkum, mjóbakshlíf með sex spelkum, hnéhlíf með fjórum spelkum og hnéhlíf með tveimur lömum. Efnið í spelkuhlífunum er ýmist úr Neoprene eða Elastigated ásamt spelkum eða lömum.

Helstu eiginleikar:

Mikill stuðningur frá spelkum og/eða lömum.
Hægt er að fjarlægja spelkurnar frá hlífunum og þannig stilla og staðsetja stuðninginn eftir þörfum sem er mikill kostur.

Góð lausn fyrir sinaskeiðabólgu og veikan eða slasaðan úlnlið

Einnig er í boði handahlíf með tveimur spelkum sem hægt er að nota fyrir hægri eða vinstri hönd. Hlífin hefur fullan stuðning og kemur með tveimur spelkum báðum megin við úlnlið. Þessi handahlíf hentar mjög vel fyrir þá einstaklinga sem eru með sinaskeiðabólgu og þá sem eru með veikan eða slasaðan úlnlið.

Helstu eiginleikar:

Hægt er að fjarlægja spelkurnar og beygja þær eftir þörfum.
Ein stærð sem passar á flesta þar sem stuðningurinn er stillanlegur.

Nánari upplýsingar um allar Protek-hlífarnar er að finna á vef Alvogen.

Protek stuðningshlífarnar fást í flestum apótekum.

 

Stöðugt fleiri ofbeldismál koma til kasta lögreglu

|
|

Lögreglan skilgreinir ofbeldisverk gegn konum mun betur í dag en áður. Rannveig Þórisdóttir hjá upplýsingadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir fleiri þolendur ofbeldis þora að stíga fram nú en áður.

Sextán einstaklingar fengu neyðarhnapp hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári vegna hættu á ofbeldi gegn þeim. Þetta er næstum 80% aukning frá árinu 2015 þegar einstaklingar í níu málum fengu neyðarhnappa. Á sama tíma hefur lögreglan þurft að hafa afskipti af miklu fleiri málum sem tengjast heimilisofbeldi en áður. Þau voru um 20 að meðaltali á mánuði árið 2014 en eru nú um 60 á mánuði.

Rannveig Þórisdóttir hjá upplýsingadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir ekki víst að ofbeldisverkum hafi endilega fjölgað. Ýmsir þættir skýri að fleiri ofbeldismál eru skráð í bókum lögreglu nú en áður og fleiri fái neyðarhnappa.

„Í langan tíma var litið á heimilisofbeldi sem fjölskylduvandamál sem lögreglan átti ekki að skipta sér af. En það er ekkert séríslenskt fyrirbæri,“ segir Rannveig og bendir á að breytt verklag lögreglu hafi skilað þessum árangri.

Rannveig.

Stærstu breytingarnar voru gerðar árið 2015 þegar Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við sem lögreglustjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Síðan þá hefur lögreglan horfið frá því að vera valdastofnun yfir í að verða þjónustustofnun fyrir almenning. Þessu fylgdu ýmsar áherslubreytingar, m.a. sú að skilgreina heimilisofbeldi sem viðfangsefni lögreglu og skrá brotin sem sem koma upp.

„Það var búið að reyna ýmislegt en gengið illa. Eftir að Sigríður kom inn þá förum við í fullum herklæðum á vettvang og rannsökum málin sem koma upp,“ segir Rannveig og tekur fram að breytt verklag feli í sér að nálgast ofbeldismál með öðrum hætti en áður. Nú er tekið fastar á þeim, þeim fylgt eftir, málin skráð betur og þolendum tryggð betri málsmeðferð. „Við höfum lyft grettistaki um allt land því þetta nýja verklag lögreglunnar hefur leitt til þess að nálgunarbann og neyðarhnappar hafa verið notaðir í meiri mæli en áður.“

Misbrestur í skráningu

Rannveig segir misbrest hafa verið á skráningu málanna áður og minnir á að mál eins og heimilisofbeldi hafi áður ekki verið hugsað sem lögreglumál. „Ég veit ekki hversu samanburðarhæfar tölurnar eru því við vorum ekki að skrá málin með markvissum hætti. Segja má að við höfum vanskráð þetta áður og því sé málum ekki endilega að fjölga,“ segir Rannveig og bætir við að eftir því sem umfjöllun um ofbeldisverk eykst og fleiri stígi fram og greini frá ofbeldisverkum því frekar leiti fólk til lögreglu.

Eins og áður sagði voru 20 mál tengd heimilisofbeldi skráð í bækur Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu árið 2014. Nú fjórum árum síðar eru málin þrefalt fleiri eða 60 að meðaltali á mánuði.

Spurð að því hvað þurfi til að lögregla láti einstakling fá neyðarhnapp segir Rannveig að það sé metið í hverju tilviki fyrir sig. Oft sé um að ræða aðstæður þar sem óttast er að einstaklingur geti verið í hættu.

„Frá því við breyttum verklaginu sem snerta ofbeldi á heimilum þá hefur verið stöðug aukning ofbeldismála hjá okkur,“ segir Rannveig.

Fjöldi mála þar sem þurft hefur að láta þolanda fá neyðarhnapp

2015: 9 mál
2016: 11 mál
2017: 16 mál

Dæmi um það þegar einstaklingur fær neyðarhnapp

Hildur Þorsteinsdóttir lýsti í ítarlegu viðtali við DV í vor hræðilegu ofbeldi sem fyrrverandi eiginmaður hennar hafði beitt hana bæði á meðan sambúð stóð og í eftirmála skilnaðar. Eftir að hún sleit sambandinu sótti ofbeldismaðurinn svo að henni að Hildur fékk neyðarhnapp hjá lögreglu og varð hún að beita honum þegar henni fannst sér ógnað. Neyðarhnappinn gekk hún með í sex mánuði.

Úr kynsvalli í klikkað Eurovision-partí

||
||

Páll Óskar Hjálmtýsson leikur Frank-N-Furter í Rocky Horror í hátt í fertugasta sinn á laugardaginn. Eftir sýninguna brunar hann á skemmtistaðinn Spot og stillir upp fyrir stærsta Eurovision-partí landsins. Palli segist ekki hafa verið í betra formi síðan hann var ungur maður og því sé þetta gerlegt.

„Yfirmenn í Borgarleikhúsinu voru svo sætir að færa sýningu af Rocky Horror til klukkan 16 á laugardaginn þannig að ég hleyp beint úr leikhúsinu á Spot, klára „soundcheck“, horfi á keppnina með öðru auganu og svo byrjar bara ballið,“ segir stórsöngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson.

Páll Óskar fer á kostum sem Frank-N-Furter á fjölum Borgarleikhússins.

Páll Óskar heldur í hefðir annað kvöld, laugardagskvöldið 12. maí, og blæs til heljarinnar Eurovision-balls á Spot í Kópavogi eftir að aðalkeppni Eurovision lýkur. Páll Óskar hélt fyrsta Eurovision-ballið árið 2003, og er því orðinn ýmsu vanur, en í ár verður þessi dagur örlítið öðruvísi þar sem Páll Óskar stígur einnig á svið í Borgarleikhúsinu sem kynsnillingurinn Frank-N-Furter. Er það bara gerlegt?

„Já, þetta er gerlegt. Á laugardögum hef ég iðulega hlaupið út úr leikhúsinu eftir Rocky Horror-sýningar og spilað á árshátíðum. Ég treysti mér hins vegar ekki til að spila á skólaböllum og einkapartíum á virkum dögum og tók bara út fyrir það. Ég byrja svo aftur á því öllu þegar sýningum fækkar,“ segir Páll Óskar. Síðasta sýning fyrir sumarfrí er 10. júní og við tekur kærkomið en stutt sumarfrí hjá söngvaranum.

„Eftir síðustu sýningu fer ég beint til Grikklands og slaka á í sólbaði,“ segir Páll Óskar. Hann er vel málaður í gervi Frank-N-Furter og ætlar að njóta þess að sleppa við það. „Ég ætla ekki að raka mig í mánuð. Þetta verður mottumars í júní,“ segir hann hlæjandi.

Lærði að umgangast mat upp á nýtt

Páll Óskar segist ekki hafa verið í betra líkamlegu formi síðan hann var ungur maður og því nái hann að anna þessu álagi.

„Ég lærði að borða upp á nýtt fyrir þremur árum. Ég er með góðan og fallegan þjálfara í World Class í Laugum, hann heitir Hilmar Björn. Hann ítrekaði fyrir mér að ég gæti mætt á hverjum einasta degi og pumpað og pumpað í tvo tíma á dag en að árangurinn yrði ósköp lítill nema ég lærði að umgangast mat upp á nýtt. Hann hjálpaði mér að finna próteindrykki sem virka eins og ein máltíð þannig að í dag borða ég alltaf eina máltíð á dag og drekk síðan próteindrykki. Ég sneiði fram hjá hamborgurum og sóðamat en ég neita mér ekki um súkkulaðið mitt,“ segir Páll Óskar og brosir.

„Svo hætti ég að drekka kók með sykri og skipti yfir í Coke Zero. Á fyrstu fjórum vikunum missti ég fjögur kíló og ég hef ekki litið til baka síðan. Þegar ég reyni að drekka kók núna er það svo vont á bragðið, eins og drekka eitthvað úr niðurfalli.“

Skærar Eurovision-stjörnur trylla lýðinn

Páll Óskar er vel málaður í Rocky Horror en ætlar að skilja málningarburstana eftir heima í sumarfríinu.

Söngvarinn okkar ástsæli er fullur tilhlökkunar fyrir laugardeginum, bæði fyrir því að stíga í hátt í fertugasta sinn á svið Borgarleikhússins sem kynsnillingurinn Frank-N-Further, en einnig fyrir Eurovision-ballinu, sem stendur yfir frá kl. 23 til fjögur um nóttina.

„Það fallegasta við þessi böll er að þarna kemst maður næst því að upplifa stemninguna sem maður upplifir í alvöru þegar maður fer út á keppnina. Þetta er eini staðurinn á jarðríki þar sem maður fær tækifæri til að hitta allra þjóða kvikindi í sama suðupottinum, samankomin út af einni og sömu ástæðunni,“ segir Páll Óskar. Honum til halds og trausts verða góðir gestir, þau Selma Björns, Jóhanna Guðrún, Hera Björk, Eyjólfur Kristjánsson og Stefán Hilmarsson, sannkallað Eurovision-stórskotalið.

„Þakið fer af húsinu þegar ég kynni gestina á svið. Fólk bilast þegar íslensku stórstjörnurnar taka Eurovision-lögin sín,“ segir Palli og bætir við að margir ballgesta séu fastagestir ár eftir ár. „Fólk kemur til mín og biður um útúrtjúlluð óskalög, eins og framlag Spánar árið 2003. Ballgestir vita nákvæmlega hvað klukkan slær og þetta er orðin yndisleg hefð hjá mörgum. Þetta er líka æðislega gaman fyrir mig því þetta er eini dagurinn á árinu þar sem ég get leyft mér að spila nær einvörðungu Eurovision-lög.“

Útilokar ekki þátttöku í Eurovision

Eins og flestir vita hefur Páll Óskar einu sinni farið fyrir Íslands hönd í Eurovision. Það var í Dyflinni árið 1997 með lagið Minn hinsti dans, sem vakti heldur betur athygli í keppninni. Lagið lenti í 20. sæti og voru margir á því að Palli hefði náð lengra, jafnvel unnið keppnina, ef símakosning hefði verið tekin í gagnið, eins og var gert árið síðar þegar hin ísraelska Dana International sigraði með lagið Diva. En klæjar Palla ekkert í raddböndin að taka aftur þátt í Eurovision?

„Ég verð að fá lag sem kýlir mig kaldan á staðnum, alveg eins og Euphoria gerði þegar ég heyrði það fyrst.

Næst verð ég að fara með lag sem getur unnið. Ég er þannig gerður að ég verð að fá safaríka laglínu til að leika mér með. Ég verð að fá hljómagang sem gengur upp á næstum því hvaða hljóðfæri sem er og gefur mér samt pínu gæsahúð. Eða eitthvað sætt. Þá fer ég í gang,“ segir þessi sjarmerandi söngvari, og því ekki útilokað að hann eigi einhvern tímann aftur eftir að vera fulltrúi Íslands í þessari vinsælu söngvakeppni.

Topp 3 à la Páll Óskar

Georgía – Iriao – For You
„Mér finnst þetta vera lagasmíðin sem er með mesta kjötið á beinunum. Lag sem er samið af einhverri dýpt og þekkingu.“

Eistland – Elina Nechayeva – La Forza
„Það er svolítið hættulegt að senda klassískan söngvara í Eurovision. Það hefur sjaldan gefist vel. En þetta lag frá Eistlandi er svo vel útfært og gellan neglir þetta alltaf á hverri einustu æfingu.“

Frakkland – Madame Monsieur – Mercy
„Gríðarlega vel samið popplag og langmikilvægasti boðskapurinn af öllum lögunum.“

Eiturhressi Eurovision-leikur Mannlífs og algjörlega tilgangslaus fróðleikur

|||
|||

Stærsti dagur Eurovision-aðdáenda um heim allan, samt mestmegnis bara í Evrópu, er á næsta leiti. Því sá Mannlíf sig knúið í að búa til eiturhressan og skemmtilegan Eurovision-leik til að gera keppnina og öll Eurovision-partíin aðeins skemmtilegri.

Leikurinn er þannig gerður að bæði er hægt að spila hann meðal fullorðinna í hressum teitum þar sem svokallað partígos er við hönd eða í stórum fjölskylduboðum þar sem krakkarnir eru útúrtjúnaðir af snakk- og nammiáti. Góða skemmtun!

1. Við byrjum þetta rólega. Gefið næsta manni „high five“ í hvert sinn sem minnst er á Salvador Sobral, sigurvegara síðasta árs.

2. Drekkið tvo sopa, hvort sem það er partígos eða strangheiðarlegt vatn, í hvert sinn sem þið skiljið ekki texta í lögunum.

3. Troðið munninn á ykkur fullan af snakki alltaf þegar portúgölsku kynnarnir reyna að vera fyndnir en mistekst hrapallega.

4. Klappið í hvert sinn sem sungið er um ást eða heimsfrið. Bara ekki klappa of hátt, eða verið í vettlingum – þetta verður ansi hreint mikið klapp!

5. Klárið úr glasinu ykkar þegar Gísli Marteinn minnist á hve Ari stóð sig frábærlega eða þegar hann ber saman stjórnmál og Eurovision eða þegar hann gerir grín að klæðaburði keppenda.

6. Standið upp og dansið fugladansinn í hvert sinn sem eldur er á sviðinu.

7. Ef þið hafið ekki hugmynd um hvar eitthvað land er staðsett í Evrópu, eða hvort það er á annað borð í Evrópu, verðið þið að róa ykkur niður og fá ykkur þrjá sopa.

8. Fimm sopar á haus í hvert sinn sem stigakynnir reynir fyrir sér á tungumáli heimamanna, portúgölsku, með misgóðum árangri. Bónussopi ef portúgölsku kynnarnir skilja ekki bofs í stigakynninum. #áframeddasif!

9. Tvær, vænar lúkur af nammi í skoltinn á ykkur ef einhverjir tæknilegir örðugleikar verða þegar stigin eru kynnt. Jebb, það fer enginn í megrun á Eurovision!

10. Og svo verðið þið að blanda ykkur glænýjan drykk og skála í botn í hvert sinn sem þjóð gefur nágrannaþjóð sinni 12 stig.

Tíminn líður hratt …

Ísland tók fyrst þátt í Eurovision árið 1986 með lagið Gleðibankinn. Þá voru aðeins tuttugu lög í keppninni og Ísland lenti í hinu alræmda sextánda sæti með nítján stig. Þá var …

… forsætisráðherra okkar, Katrín Jakobsdóttir, aðeins 10 ára.

…. fjármála- og efnahagsráðherra okkar, Bjarni Benediktsson, 16 ára.

… félags- og jafnréttismálaráðherra okkar, Ásmundur Einar Daðason, aðeins 4 ára gamall.

… utanríkisráðherra okkar, Guðlaugur Þór Þórðarson, á 19 aldursári.

… umhverfis- og auðlindaráðherra okkar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, 9 ára gamall.

… sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra okkar, Kristján Þór Júlíusson, 29 ára.

… mennta- og menningarmálaráðherra okkar, Lilja Alfreðsdóttir, 13 ára gömul.

… dómsmálaráðherra okkar, Sigríður Á. Andersen, rétt nýfermd, eða að verða 15 ára.

… samgöngu- og sveitastjórnarráðherra okkar, Sigurður Ingi Jóhannsson, 24 ára.

… heilbrigðisráðherra okkar, Svandís Svavarsdóttir, 22 ára.

… ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra okkar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ekki fædd.

Endurkomur allra endurkoma

Eins og margir vita reynir Norðmaðurinn Alexander Rybak að endurtaka leikinn í ár með lagið That’s How You Write a Song, eftir að hafa sigrað í Moskvu árið 2009 með lagið Fairytale.

Hann er langt frá því að vera fyrsti Eurovision-keppandinn sem snýr aftur, og örugglega ekki sá seinasti. Raunar hafa tæplega tvö hundruð keppendur snúið aftur í keppnina með misgóðum árangri. Flestum vegnar verr í annað sinn, en svo eru aðrir sem ná að vinna huga og hjörtu Eurovision-aðdáenda aftur og aftur.

Þrenna til Írlands
Eins og írski söngvarinn Johnny Logan. Hann vann Eurovision fyrst árið 1980 með lagið What’s Another Year. Sjö árum seinna tók hann aftur sigurinn heim með Hold Me Now og árið 1992 sigraði Linda Martin með laginu Why Me, úr smiðju fyrrnefnds Johnnys.

Númer 1
Hin gríska Helena Paparizou átti líka stórkostlega endurkomu í Eurovision árið 2005, eftir að hafa lent í þriðja sæti með stúlknasveitinni Antique árið 2001. Árið 2005 nefnilega kom, sá og sigraði Helena með goðsagnakennda lagið My Number 1 sem enn er spilað við góðar undirtektir á Eurovision-böllum um heim allan.

Alltaf í topp fimm
Önnur stórsöngkona, Carola Häggkvist frá Svíþjóð, hefur keppt í Eurovision hvorki meira né minna en þrisvar sinnum. Fyrst árið 1983 með lagið Främling sem lenti í þriðja sæti, aðeins sextán stigum frá sigrinum. Svo sneri hún aftur árið 1991 með lagið Fångad av en stormvind. Þá var jafntefli milli Svíþjóðar og Frakklands en Svíar hlutu loks dolluna þegar búið var að telja hvort landið fékk fleiri tíu stig, enda löndin jöfn að fjölda 12 stiga atkvæða. Árið 2006 kom Carola síðan aftur í Eurovision eins og stormsveipur með lagið Invincible sem lenti í fimmta sæti.

Skautað til sigurs
Það væri hægt að halda endalaust áfram í endurkomunum, en við verðum að minnast á rússneska hjartaknúsarann Dima Bilan sem lenti í öðru sæti árið 2006 með lagið Never Let You Go, eftir eftirminnilega atriðið þar sem kona reis upp úr píanói. Tveimur árum seinna sneri Dima aftur með fiðluleikara og listdansskautara, negldi lagið Believe og færði Rússum sigurinn.

Hvernig sigrar maður í Eurovision?

Ef við lítum á keppnirnar frá árinu 1998, þegar símakosningu var hrint af stað, þá er sigurstranglegast að keppa í seinni undanúrslitariðlinum. Af þeim tuttugu lögum sem hafa unnið frá árinu 1998 hafa fjórtán þeirra keppt í seinni riðlinum, en aðeins sex í þeim fyrri, þar á meðal hinn portúgalski Salvador Sobral sem vann í fyrra. Öll lögin hafa keppt í seinni helmingi síns riðils, nema tvö – Dana International með lagið Diva, árið 1998, og Sertab Erener með lagið Everyway that I can, árið 2003.

Þrumur = gott, sólskin = vont
Þá er ýmislegt í texta lagsins sem getur verið líklegt til sigurs. Það er til dæmis mjög sigurstranglegt að syngja um vont veður, eins og þrumur, eldingar og ský. Þá er einnig gott að hafa einhvers konar eld í atriðinu. Það er hins vegar ekki vænlegt til árangurs að syngja um sólskin. Það er slæmt að hlaupa eða ganga til einhvers en mjög gott að syngja um flug. Þá er afleitt að syngja um að tala með hjartanu og betra að tala með huganum, augunum eða öðrum líkamspörtum ef sigur er markmiðið.

Popplag í D-moll
Lög geta verið í dúr og moll. Lög í dúr eru yfirleitt glaðleg en í moll eru þau frekar dökk og drungaleg. Maður myndi halda að lögin í dúr væru þá líklegri til vinsælda í Eurovision, en svo er ekki, allavega frá aldamótunum 2000. Þá hafa örfá lög í dúr sigrað en flest sigurlaganna verið í moll. Og ef þið ætlið að semja Eurovision-lag, hefur D-moll verið ansi vinsæl tóntegund síðustu ár.

„Ég er með hreina samvisku“

|
|

„Upplifunin eins og fólk væri á leiðinni heim til mín með heykvíslarnar.“

Arnar Pétursson stefnir á Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

Arnar Pétursson er einn af bestu langhlaupurum landsins og stefnir að því að ná ólympíulágmarki í maraþoni fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020. Hann á að baki ótal titla, vann níu Íslandsmeistaratitla á síðasta ári og á besta tíma Íslendings í maraþoni sem hlaupið hefur hérlendis. Í viðtali við Mannlíf gerir hann upp ásakanirnar um svindl í bæði í Reykjavíkurmaraþoni og Víðavangshlaupi ÍR.

Til að ná ólympíulágmarkinu í maraþoni þarf Arnar að hlaupa undir tveimur klukkustundum og nítján mínútum. Til viðmiðunar má nefna að Íslandsmet Kára Steins Karlssonar er 2.17.12 sem hann setti í Berlín árið 2011 og heimsmetið, 2.02.57, á Dennis Kimetto frá Kenía, sett í Berlín 2014. Síðustu helgina í apríl hljóp Arnar sitt besta hlaup til þessa, 2.24.13, sem er þriðji besti tími Íslendings frá upphafi, og bætti sig um fjórar mínútur. „Markmiðið var að setja tíma sem sýnir bæði mér og öðrum að ég get náð ólympíulágmarkinu. Ég ætlaði að vera á bilinu 2.19-2.24 og það náðist. Hlaupið var jafnt og ég í toppstandi og get því ekki annað en verið ánægður,“ segir Arnar sem stefnir að því að að ná lágmarkinu á næsta eða þarnæsta ári en hann getur í fyrsta lagi náð því í janúar 2019. „Martha Ernstdóttir sem aðstoðar mig, er búin að kenna mér að vera alltaf ánægður með bætingu, annað væri dónaskapur, ekki síst gagnvart fólki sem myndi gefa allt til að geta bætt sig einu sinni enn. Einn daginn mun nefnilega koma að því að maður hættir að gera betur og með því að vera óánægður með bætingu er maður óbeint að móðga þá sem ekki geta bætt sína bestu tíma lengur. Ég hef tamið mér þetta, er ánægður með hlaupið í Hamborg og stefni hærra.“

Refsing annarra íþrótta
Arnar er fæddur árið 1991 og byrjaði íþróttaferilinn í fimleikum hjá Gerplu. Þegar hann var fimm ára bættist fótboltinn við og síðar körfuboltinn en þá hætti hann í fimleikunum. Þegar hann var fimmtán ára ákvað hann svo að fókusera alfarið á körfuna og átti mikilli velgengni að fagna þar. „Ég hafði eins mikla fordóma fyrir hlaupum og hægt er að finna. Hlaup voru refsing annarra íþrótta, þegar ég var að æfa fótbolta og körfu þá var okkur refsað með hlaupum ef okkur illa gekk. Ég var því óbeint alinn upp við að hafa óbeit á hlaupum. Ég tók samt þátt í mörgum hlaupakeppnum á þessum árum, ekki síst þegar mamma var að draga mig í hin og þessi götuhlaup en ég á henni mikið að þakka að ég skuli vera í hlaupum núna. Ég vann oft í mínum aldursflokki og þess háttar og það var mjög gaman en ég gat ekki hugsað mér að æfa þetta. Svo þegar ég var 17 ára þá tók pabbi þátt í heilu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoni og ég hugsaði með mér að fyrst hann gæti þetta þá ætti ég að drífa þetta líka. Ég skráði mig í heilt maraþon ári síðar þegar ég hafði aldur til, þremur vikum fyrir hlaupið. Það kom mér verulega á óvart að heimilið fór á hvolf við þessa ákvörðun. Það var eins og ég hefði sagt þeim að ég ætlaði að stökkva í fallhlífarstökki án fallhlífar. Þau sögðu: „Arnar þú verður að drekka á öllum drykkjarstöðvum, þú verður að stoppa og borða bananann þar sem hann er í boði. Ég skildi ekki þessar áhyggjur, ég ætlaði bara að fara og haka við þetta á bökketlistanum. Í rauninni var eina markmiðið að klára hlaupið og svo væri fyndið að ná að vera á forsíðu Morgunblaðsins á mynd af upphafi hlaupsins. Eini undirbúningurinn var að gera góðan lagalista og ég kom mér svo fyrir framarlega í startinu. Ég bombaði síðan af stað og náði að vera með þeim fyrstu í smátíma, hélt að svo myndi strollan bara koma fram úr mér en það gerðist ekki. Ég vissi hins vegar ekkert hvað ég var að gera og sá hlaupara fyrir framan mig sem virkaði mjög pró, með gelið utan á sér og vatnsbrúsa, þannig að ég ákvað að elta hann. Þetta var þá Jóhann Gylfason sem er mikill hlaupagarpur. Ég gerði hins vegar eins og foreldrar mínir sögðu og stoppaði á öllum drykkjarstöðvum og gekk meðan ég borðaði bananann. Þá missti ég Jóhann alltaf langt frá mér en svo tætti ég af stað og náði honum aftur. Seinna frétti ég að hann hafi alltaf orðið jafnhissa þegar ég kom alltaf aftur. Ég kláraði hlaupið og leið bara vel þegar ég kom í mark á tímanum 2.55. Mér til mikillar undrunar kom í ljós að ég hafði komið annar í mark af Íslendingunum og slegið 30 ára gamalt Íslandsmet í maraþoni 18-20 ára og 20-22 ára.“

Arnar byrjaði að æfa hlaup þegar hann var ekki valinn U-20 landslið í körfubolta en hann hafði fram að þeim tíma haft fordóma fyrir hlaupum.

Örlögin taka í taumana
Þarna sá Arnar að hlaupin lágu vel fyrir honum og hann var hvattur til að fara að æfa hlaup. „Að sama skapi var ég í yngri liðunum í landsliðinu í körfubolta, varð tvisvar Norðurlandameistari og var fyrirliðinn í mínu liði í meistaraflokki. Mér fannst að hlaupaæfingar gætu ekki verið skemmtilegar – átti ég að hlaupa á æfingu, hlaupa á æfingunni sjálfri og hlaupa svo heim aftur? Og hvað var svo á dagskrá daginn eftir, já, meiri hlaup,“ segir Arnar hlæjandi.
Tímamót urðu hins vegar í lífi hans við tvítugsaldurinn þegar verið var að velja í U-20 landsliðið í körfubolta. Arnar endaði sem þrettándi maður en tólf fóru á mótið. Valið stóð á milli hans og Martins Hermannssonar. „Martin er í dag einn af okkar bestu körfuboltamönnum og einn af aðalmönnunum í landsliðinu. Ég er virkilega ánægður fyrir hönd okkar beggja að þetta fór svona. Það var eins og örlögin hefðu gripið inn í. Ég ákvað, fyrst ég komst ekki með, að prófa að æfa af alvöru fyrir Reykjavíkurmaraþon í staðinn. Ég bað Birgi Sævarsson, frænda minn og hlaupara, að gera fyrir mig æfingaplan. Ég hafði aldrei séð æfingaplan fyrr og misskildi það þannig að ég æfði tvöfalt eða þrefalt meira en ég átti að gera fyrstu þrjár vikurnar. Þá gafst ég næstum upp, því þetta var svo hrikalega erfitt. Enda hváði Biggi þegar ég sagði honum það. Það var mikill léttir þegar hið sanna kom í ljós og ég áttaði mig á að ég þurfti ekki að hlaupa á morgnana, í hádeginu og eftir vinnu alla daga,“ segir hann og hlær. Sumarið 2011 byrjaði Arnar að æfa hlaup, hljóp Reykjavíkurmaraþon og sigraði á tímanum 2.43. Ári seinna hætti hann í körfunni og sneri sér alfarið að hlaupunum.

„Þarna fékk ég forsmekkinn af því hvernig er að vera í brennideplinum í umræðunni og viðurkenni að mér leið ekki vel.“

Sakaður um svindl
Hver skrautfjöðurin á fætur annarri hefur bæst í hatt Arnars síðan hann byrjaði að æfa hlaup og vinningshlaupin skipta tugum ef ekki hundruðum. En hann hefur líka upplifað mótlæti. Tvisvar sinnum hefur hann verið ásakaður um að svindla í keppnishlaupi. Þó að málin hafi á sínum tíma tekið andlega á Arnar þá mætti hann þeim með æðruleysi.
„Fyrsta atvikið kom upp þegar ég hljóp fyrsta maraþonið 18 ára en þá tikkaði ekki ein tímamottan inn og millitíminn skráðist ekki. Þá voru einhverjir sem efuðust um að ég hefði hlaupið allt hlaupið því tíminn var svo góður en áðurnefndur Jóhann Gylfason staðfesti að ég hljóp fyrir aftan hann allan tímann, ég hefði kannski átt að sjá þarna í hvað stefndi,“ segir Arnar og brosir út í annað þegar hann rifjar þessi atvik upp. Fimm árum seinna kom svo annað málið upp, einnig í Reykjavíkurmaraþoni þar sem niðurstaða hlaupsins var kærð þar sem faðir hans hafði hjólað með honum hluta af leiðinni. „Í öllum svona hlaupum er alltaf manneskja á hjóli eða mótorhjóli á undan fyrsta manni. Í stórum hlaupum fær meira að segja þjálfarinn oft að vera á hjóli með. Ég hafði frétt að von væri á sterkum erlendum hlaupurum í hlaupið og vissi að ég myndi því líklega hlaupa einn með ekkert hjól á undan mér. Ég bað því pabba um að vera á hjóli til að halda mér félagsskap, það er erfitt að vera aleinn í svona löngu hlaupi. Ef fleiri keppendur hefðu verið á sama róli og ég þá hefði ekki verið neinn tilgangur með þessu. Pabbi sinnti sama hlutverki fyrir mig og hjólið fyrir fyrsta mann. Í rauninni hefði verið eðlilegt að hjólað hefði verið fyrir framan mig líka þar sem ég var fyrsti Íslendingurinn. Það höfðu hins vegar verið settar reglur um hlaupið að það mættu ekki vera hjólreiðafólk á brautinni nema á vegum hlaupsins, meðal annars til að það væri ekki fyrir. En ég var bara einn og pabbi var ekki fyrir einum eða neinum. Svo sprakk þetta bara upp þegar aðilinn sem var tæpum tíu mínútum á eftir mér í hlaupinu kærði niðurstöðuna og við tók mikil og neikvæð umræða í fjölmiðlum og samfélaginu í minn garð. Þarna fékk ég forsmekkinn af því hvernig er að vera í brennideplinum í umræðunni og viðurkenni að mér leið ekki vel. Kærður, það var eins og ég væri fyrir dómstólum. Yfirleitt þegar svona kemur upp í frjálsíþróttaheiminum þá er þetta ekki teiknað upp eins og viðkomandi sé kærður heldur er niðurstaðan kærð. Ég var á fyrirlestri í skólanum þegar ég sá á tölvuskjá hjá samnemanda fyrir framan mig fyrirsögn á frétt: „Svindl í Reykjavíkurmaraþoni“. Ekki kærður, meint svindl eða spurningarmerki. Úrskurður ÍSÍ í þessu máli varð hins vegar að ekkert þótti athugavert við þetta og við unnum málið.“

Arnari finnst miður að mjög lítil áhersla sé lögð á langhlaup í frjálsíþróttum krakka og þau hafi því litla möguleika á að ná langt á því sviði fyrr en þau verða fullorðin.

„Ég varð skúrkurinn“
Þriðja atvikið kom svo upp í Víðavangshlaupi ÍR vorið 2015 þegar í kjölfar hlaupsins var birt myndband af Arnari og keppinauti hans koma í mark. Þar sést greinilega að Arnar fer öfugu megin við staur þegar þeir félagar taka níutíu gráðu beygju rétt áður en þeir koma í mark. „Þetta mál var í rauninni enn skrautlegra þar sem ég var þarna kominn með einhverja forsögu. Á myndbandinu leit þetta eins illa út og hægt var, ekki einu sinni ég sjálfur hélt með gæjanum sem fór öfugu megin við staurinn og sigraði í kjölfarið hlaupið. Ég áttaði mig hins vegar strax á þessu þegar ég kom í mark og benti mótshöldurum á að þetta þyrfi að laga svo aðrir myndu ekki lenda í þessu og á myndbandinu sést brautarvörðurinn sem var á röngum stað færa sig til að laga þessi mistök. Í lokin á þessu hlaupi vorum við örugglega á 22 km hraða – prófaðu að fara á bretti, stilla á 22, hlaupa af stað og reyna svo að taka einhverjar skynsamlegar ákvarðanir. Ég var ekkert að hugsa þarna, sá þennan staur ekki fyrr en hann var beint fyrir framan mig og ég sveigði frá. Brautarvörðurinn hefði átt að vera þarna eða borði, þar sem þetta var níutíu gráðu beygja, það átti ekki að vera möguleiki að fara út fyrir brautina enda viðurkenndi ÍR eftir hlaupið að mistökin voru þeirra. Það hefði verið eðlilegast að ég hefði verið dæmdur úr leik og ég hefði þurft að sækja mál mitt vegna mistaka í brautarvörslu. Ég hefði að öllum líkindum unnið það mál því ég gerði ekkert rangt, þetta var klúður í brautarvörslu og ég hefði ekki átt að líða fyrir það. En í staðinn kemur þetta myndband á Netið og allt springur og ég er vondi gæinn. Margir af þekktustu mönnum þjóðarinnar tjáðu sig um málið og þetta var mjög súrrealískt. Ég var bara svindlari og átti að sjá sóma minn í að skila titlinum. Ég skrifaði hins vegar pistil á Netið og fór í viðtal í Ísland í dag þar sem ég útskýrði mál mitt. Þar með var málinu lokið af minni hálfu þar sem ég var með hreina samvisku og ef fólk vill enn trúa öðru þá verður svo að vera. Þar sem enginn kærði mig þá var ég ekki dæmdur úr leik og því stóð sigurinn. Ég varð því skúrkurinn í staðinn fyrir að vera sá sem var að sækja rétt sinn. Málið endaði svo þannig að sex mánuðum seinna fór málið fyrir stjórn Frjálsíþróttasambandsins, ég var sviptur tiltinum og ég var ósáttur við það enda tel ég að mistökin hafi legið hjá mótshöldurum.
Þetta er hins vegar einhver besta og verðmætasta upplifun sem ég hef upplifað því ég lærði að láta ekki álit annarra hafa áhrif á mína líðan. Í öllum þessum málum er ég með hreina samvisku. Ég vissi að ég hafði ekki reynt að ná forskoti af yfirlögðu ráði og verið „gómaður“. Ég hugsaði að nú væri alvörumótlæti og spurningin bara hvernig ég ætlaði að vinna úr því. Ætlaði ég að brotna niður eða halda haus? Ég ákvað strax að þetta myndi ekki skilgreina mig, ég skyldi halda ótrauður áfram, halda áfram að taka þátt í hlaupum og vinna hlaup, helst öll. Fólk skyldi sjá að ég þyrfti ekki að „svindla“ til að ná árangri. Það var áhugaverð reynsla að vera svona milli tannanna á fólki – upplifunin var sú að fólk væri við það að koma heim til mín með heykvíslarnar og það vegna götuhlaups. Verst var að horfa upp á áhrifin sem þetta hafði á þau sem stóðu mér næst, ekki síst mömmu. Henni þótti erfitt að horfa upp á þessar ásakanir gagnvart syni sínum.
Þessi lífsreynsla styrkti mig og ég hef reynt að gera bara grín að þessu. Fólkið sem var næst mér var mjög skilningsríkt enda er ég mjög heppinn með fólkið í kringum mig. Innan hlaupaheimsins höfðu sumir meira að segja á orði að þetta væri bara flott enda langmesta umfjöllun sem götuhlaup hefði nokkru sinni fengið. RÚV fylgdist meira að segja með Íslandsmótinu í víðavangshlaupi helgina eftir. Þar vann ég og það var bara gert grín að þessu í viðtali á eftir, ég var spurður hvort brautarvarslan hefði ekki verið í lagi þarna og þess háttar. Það er mikilvægt að sjá broslegu hliðarnar á þessu.“

„Ég hugsaði að nú væri alvörumótlæti og spurningin bara hvernig ég ætlaði að vinna úr því. Ætlaði ég að brotna niður eða halda haus?“

Langhlaup krakka litin hornauga
Arnar leggur mikinn metnað í allt sem hann gerir og menntun hans er þar ekki undanskilin. Hann er með grunnnám í hagfræði með 24 aukaeiningum og er núna að klára þrjár meistaragráður á þremur árum; í reikningsskilum og endurskoðun, fjármálum fyrirtækja og kennsluréttindum fyrir framhaldsskólastig. „Ég er orðinn nokkuð sáttur með mína menntum og held að ég muni ekki setjast aftur á skólabekk í bráð. Mig langar að taka löggildinguna, verða löggiltur endurskoðandi, þó að planið sé ekkert endilega að starfa við það nákvæmlega. Ég er með fínan grunn til að vinna við hvað sem er á fjármálasviðinu,“ segir Arnar.
Hann hugsar vel um mataræðið og heldur æfingadagbók um líðan sína. Hann passar að næringin sé rétt og að drekka nóg vatn. En mataræðið var ekki alltaf svona. „Þegar ég var að reyna að þyngja mig á menntaskólaárunum hugsaði ég mun minna út í hvað ég lét ofan í mig þótt ég hafi alltaf tekið lýsi. Nánast daglega borðaði ég Chicago Town Pizza, Fries to go-örbylgjufranskar, Prins polo og kók. Það var mjög algengt að vera með brunasár í munninum eftir ostinn þar sem ég gat aldrei beðið með að rífa pizzuna í mig um leið og hún kom úr ofninum,“ segir hann hlæjandi. „Þegar ég kom inn í hlaupin þá breyttist mataræðið ósjálfrátt með. Ef mataræðið er ekki í lagi þá starfar líkaminn ekki jafn vel á æfingum og ég hætti fljótlega að nenna því. Í kjölfarið gengu æfingarnar betur, svefninn varð betri og svo framvegis því þetta hangir allt saman. Áfengi drekk ég í hófi. Tveimur mánuðum fyrir stóra keppni þá er ekki farið á djammið en ég fæ mér alveg einn og einn bjór með mat eða þegar maður kíkir í pottinn eftir erfiðar æfingar.“
Arnari finnst miður að mjög lítil áhersla sé lögð á langhlaup í frjálsíþróttum krakka og þau hafi því litla möguleika á að ná langt á því sviði fyrr en þau verða fullorðin. „Litið er hornauga að krakkar æfi langhlaup og hlaupi tíu kílómetra á dag en ef þau eru að hlaupa á eftir bolta þá er það allt í lagi. Í frjálsum íþróttum eru fjölmargar greinar sem eru allar kynntar fyrir krökkunum, nema langhlaup, þrátt fyrir að það sé í raun langstærsta greinin. Þessar greinar tengjast flestar sprengikrafti á einn eða annan hátt þannig að ef þú hefur ekki góðan sprengikraft og ert byggður fyrir langhlaup þá færðu ekki tækifæri til að spreyta þig. Með þessu eru til dæmis svo til engar líkur á því að við getum sent einhvern 18 ára á Ólympíuleikana í 5000 m eða 10.000 m en til þess að geta það þarftu að vera búinn að byggja hlaupagrunn í að minnsta kosti 6-8 ár. Eins og keppendur frá Afríku sem hafa vegna aðstæðna undirbúið sig fyrir þessi hlaup því þeir þurftu alltaf að hlaupa fram og til baka í skólann. Þeir sem hafa orðið góðir hér hafa orðið það eiginlega óvart, eins og ég sem var að æfa tvær boltaíþróttir og byggði því grunninn fyrir hlaupin þar,“ segir Arnar sem alltaf hefur verið með mikið keppnisskap. „Ég var mjög orkumikill krakki og mamma sendi mig oft út að hlaupa hring um hverfið til að ná mér niður. Ef ég vildi ekki fara þá sagðist hún ætla að taka tímann og þá var ég þotinn af stað. Keppnisskapið hefur hjálpað mér mikið, sérstaklega eftir að ég lærði að láta það vinna með mér. Ég man alltaf eftir atviki þegar ég var efnilegur 11 ára piltur í körfubolta. Þá kom þjálfari hins liðsins til mín eftir leik, þar sem ég hafði fengið fimm villur og þess vegna ekki náð að spila allan leikinn. Hann sagði: „Þú er allt of góður til að láta keppnisskapið fara svona með þig.“ Þetta hefur alltaf setið í mér, að einhver svona utanaðkomandi sæi eitthvað í mér og gæfi mér ráð sem hefur fylgt mér alla ævi. Ég hef reynt að temja mér þetta sjálfur sem og að hrósa öðrum.“

„Hlaup eru miklu félagslegri en margir halda, getustigið spannar allt bilið og enginn er að dæma annan. Í keppnishlaupum koma allir í mark sem sigurvegarar enda taka allir þátt á sínum forsendum.“

Arnar hefur í samvinnu við Íslandsbanka heimsótt fjölmarga hlaupahópa um land allt í vor til að kynna Reykjavíkurmaraþon og gefa hlaupurum góð ráð.

Vill sjónvarpa Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka
Íslandsbanki hefur fengið Arnar til liðs við sig í ár og hann hefur að undanförnu farið inn í hlaupahópa víða um land til að kynna Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka og gefa hlaupafólki góð ráð. „Við viljum meðal annars vekja athygli á þeim fjölmörgu hlaupahópum sem starfandi eru um land allt og hvetja áhugasama til að ganga til liðs við þá. Þetta hefur verið virkilega skemmtilegt verkefni og gengið frábærlega vel enda er gríðarlega jákvæð orka inni í þessum hópum. Hlaup eru miklu félagslegri en margir halda, getustigið spannar allt bilið og enginn er að dæma annan. Í keppnishlaupum koma allir í mark sem sigurvegarar enda taka allir þátt á sínum forsendum.
Einnig er í pípunum að gera heilu maraþoni í Reykjavíkumaraþoni hærra undir höfði, eitthvað í líkingu við það sem fólk þekkir í stóru hlaupunum erlendis og það eru margar hugmyndir á lofti hvað það varðar. Einnig myndi ég vilja sjá RÚV líkja eftir því sem þýsku sjónvarpsstöðvarnar gera og hafa þriggja til fjögurra tíma útsendingu í kringum keppnina enda er þarna endalaust af sögum og sjónvarpsefni. Hægt væri að hafa eina myndavél á fyrsta fólki og klippa inn á það annað slagið en mest væru þetta viðtöl við þátttakendur sem eru til dæmis að hlaupa til styrktar einhverju málefni, slökkviliðsfólkið sem hleypur í búningunum, fólkið á hvatningastöðvunum og svo framvegis. Þetta hefur allt að bera til að verða mjög skemmtilegt sjónvarpsefni og væri kjörin leið til að hefja menningarnæturdagskrána,“ segir Arnar.
„Fram undan er svo íslenska hlaupasumarið en það er skemmtilegasti tími ársins. Planið er að fara í æfingabúðir um mitt sumar sem verða með svipuðu sniði og í Suður-Afríku um áramótin en þá var ég í tvær vikur að hlaupa 200 km og 205 km á viku. Ég stefni að því að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ágúst og svo hugsanlega annað maraþon erlendis í september eða október. Þá verður markmiðið að höggva enn nær ólympíulágmarkinu enda er draumurinn að keppa fyrir Íslands hönd á stærsta sviðinu. Þangað til mun ég halda áfram að mæta í götuhlaupin á Íslandi en þar ber helst að nefna Powerade-sumarmótaröðina og Hleðsluhlaupið. Ef fólk vill fylgjast betur með mér og fá góð hlauparáð þá er ég virkur á Instagram undir nafninu @arnarpetur. Ég vonast til að sjá sem flesta í götuhlaupunum í sumar og hvet alla til að mæta þegar ég fer aftur í heimsóknir í hlaupahópa um allt land.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Sáluhjálparinn og grínarinn

|
|

Bræðurnir Pétur Jóhann Sigfússon og Steinn Jónsson hafa valið sér ólíkan starfsvettvang en þó má segja að þeir vinni báðir við það sama; að hjálpa fólki að takast á við lífið. Steinn er móttökuráðgjafi hjá Píeta-samtökunum, sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur og eftirlifendur, og Pétur Jóhann léttir fólki lífið með gríni, eins og allir þekkja. Þeir segjast vera nánir og Pétur Jóhann segir Stein vera sáluhjálpara að upplagi en Steinn hins vegar þarf ekki annað en sjá andlitið á bróður sínum til að komast í betra skap.

Pétur Jóhann er sex árum eldri en Steinn og segist hafa reynt að passa hann þegar þeir voru yngri. „Ég gerði heiðarlegar tilraunir til þess að passa hann,“ segir hann. „En það var það mikill aldursmunur á okkur að mér fannst hann eiginlega meira fyrir en eitthvað annað á þessum árum. En þegar við urðum eldri náðum við að tengjast.“
„Nú ertu að sykurhúða æskuna allrosalega,“ grípur Steinn fram í. „Já, ég ætla nú ekkert að fara of djúpt í saumana á þessu,“ svarar Pétur Jóhann og svo bresta þeir báðir í skellihlátur. Það er greinilegt að þeir eru vanir orðahnippingum og hafa báðir jafngaman af.

Milli heims og helju

Bræðurnir hafa farið ólíkar leiðir í lífinu, Steinn vann sem þjónustustjóri gæslusviðs Securitas í fjórtán ár og notaði allar frístundir til að aka um á mótorhjóli en Pétur hellti sér ungur út í grínið. „Áhugamál okkar eru eins ólík og hugsast getur,“ viðurkennir Steinn. „En á síðustu árum höfum við sameinast í stangveiði sem við höfum báðir áhuga á.“

Í júlí 2015 lenti Steinn í alvarlegu mótorhjólaslysi sem varð til þess að líf hans gjörbreyttist. Hann lá milli heims og helju í fimm daga með tuttugu bein í líkamanum brotin og slitna vöðva og sinar.

„Það stóð um tíma til að aflima mig, en ég er nú með alla limi enn þá,“ segir hann.

„Ég er líka svo þrjóskur að eðlisfari að ég var farinn að vinna aftur hjá Securitas í október 2015 þótt ég væri á hækjum. En það kom í bakið á mér seinna og ég þurfti að minnka vinnuna niður í fimmtíu prósent.“

Steinn hafði alltaf átt sér þann draum að fara erlendis og hjálpa fólki sem ætti í erfiðleikum og eftir slysið fór hann að velta því alvarlega fyrir sér að láta þann draum rætast. Hann hóf nám í Ráðgjafaskólanum í fyrra og skipti í framhaldi af því algjörlega um starfsvettvang.

„Ég sá auglýsingu frá Kára Eyþórssyni sem rekur Ráðgjafaskólann, hringdi í hann og hann benti mér á að það væri hægt að hjálpa alveg nóg hérna heima. Það var eiginlega það sem gerði það að verkum að ég fór í skólann og fór í framhaldinu að vinna hjá Píeta-samtökunum.“

Málefni sem stendur okkur nærri

Meðal þeirrar þjónustu sem Píeta-samtökin bjóða upp á eru fimmtán ókeypis meðferðartímar hjá þverfaglegu teymi, sem í eru félagsfræðingur, sálfræðingur og geðhjúkrunarfræðingur fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum og fimm ókeypis sálfræðitímar fyrir aðstandendur þeirra. Það þarf að hringja í síma samtakanna og panta tíma og eitt af hlutverkum Steins er að svara símtölum frá fólki og meta hvort þjónustan sem Píeta-samtökin bjóða upp á henti viðkomandi manneskju. Í framhaldinu tekur hann svo á móti þeim sem samtökin aðstoða og tengir þá við sérfæðingana sem sjá um meðferðina.

En hvað um persónulega reynslu, hafa þeir bræður einhvern tíma glímt við slíka erfiðleika eða hugsanir um sjálfsvíg?

„Nei, en þetta stendur okkur nærri,“ segir Steinn. „Það hafa tveir úr ættinni bundið enda á eigið líf og svo átti ég mjög góðan vin sem gerði slíkt hið sama.“

En þú Pétur? Hefur þú alltaf verið svona ofurhress?

„Ég held ég sé nú bara eins og allflestir með það,“ svarar Pétur Jóhann. „Maður er mishress, en vinnunnar minnar vegna þá verð ég oftast að vera bara ofurhress, alla vega út á við. Það er heldur ekkert erfitt fyrir mig. Ég nýt þeirra forréttinda að vera í kringum skemmtilegt fólk alla daga í öllu sem ég er að gera. En ég segi samt eins og Steini bróðir að þetta stendur manni nærri. Ég og konan mín eigum tvær stelpur sem eru nýkomnar af unglingsskeiðinu og maður hefur séð ýmislegt og fengið að kynnast ýmsu í gegnum þær. Þannig að þetta málefni stendur manni nærri.“

Þakklætið næring

Steinn valdi sér þetta starf vegna löngunar til að hjálpa fólki til betra lífs, var einhver svipuð ástæða fyrir því að þú valdir grínið?

„Í upphafi var það nú ekki drifkrafturinn, nei,“ viðurkennir Pétur Jóhann. „Ég fann bara að þetta var eitthvað sem ég varð að prófa og byrjaði í uppistandi. Ég var sannfærður um að ég hefði eitthvað fram að færa á þessum vettvangi. Það eru náttúrlega mörg ár liðin síðan og ég búinn að gera svo margt að núna eru aðrir hlutir farnir að næra mann í þessu og þá ekki síst að finna það að fólk nýtur þess að fylgjast með því sem maður er að gera. Það er töluvert mikil næring í því fyrir mig. Fólk er að stoppa mann á förnum vegi og þakka fyrir eitthvað sem maður hefur gert og það finnst mér rosalega mikils virði.“

Þú hlýtur líka að upplifa það í þínu starfi, Steinn, að fólki finnist það standa í þakkarskuld við þig fyrir að hafa hjálpað því.

„Já heldur betur. Ég lít þannig á það að ef við náum að bjarga einum þá sé það sigur. En við munum ábyggilega koma til með að bjarga fleirum.“

Bræður standa þétt saman.

Úr myrkrinu í ljósið

Aðfaranótt laugardagsins 12. maí standa Píeta-samtökin fyrir sinni árlegu göngu „Úr myrkrinu í ljósið“ og ég bið Stein að útskýra í stuttu máli hver hugmyndin að baki henni sé.

„Það er lagt af stað klukkan fjögur um nóttina og gengnir fimm kílómetrar. Þetta er náttúrlega rosalega táknræn ganga,“ útskýrir hann. „Lagt af stað í myrkri og gengið inn í ljósið. Gangan er í minningu þeirra sem látist hafa í sjálfsvígi og til að efla von þeirra sem eiga um sárt að binda vegna vanlíðunar og sjálfsvígshugsana. Það er líka mikið af aðstandendum fólks sem fallið hefur fyrir eigin hendi sem ganga með okkur.“

Fer alltaf að hlæja

Ég spyr þá bræður hvort þeir ætli að ganga í ár og það ætlar Steinn að sjálfsögðu að gera en Pétur Jóhann spyr auðvitað strax hvað þetta sé langt sem þurfi að ganga. Það skapar léttan grínskets milli þeirra bræðra og þegar þeir hætta að fíflast spyr ég Stein hvað honum finnist um bróður sinn sem grínara.

„Það eru tveir menn sem ég á erfitt með að hlæja ekki að bara um leið og sé á þeim andlitin,“ segir Steinn. „Það eru Pétur og Jón Gnarr. Þegar ég sé andlitið á Pétri, hvort sem er í virðulegu matarboði eða einhvers staðar annars staðar þá fer ég bara að hlæja.“

Grínið í genunum

Ég spyr Pétur Jóhann hvort hann haldi að Steinn hefði getað átt framtíð fyrir sér sem grínari en hann þvertekur fyrir það í fyrstu.

„Nei, nei, nei,“ segir hann og skellihlær en söðlar svo um. „Jú, án efa hefði hann getað það. Þetta er í genunum okkar allra bræðranna. Ég vil meina að við séum allir fyndnir, hver á sinn hátt, en einhverra hluta vegna virðist ég hafa haft meiri löngun til að takast á við þetta. Það var ekki nóg fyrir mig að fá hlátur í góðra vina hópi. Það virðist hins vegar vera nóg fyrir bræður mína. Þeir geta komið öllum til að hlæja í fjölskylduboðum og litlum partíum en ég þarf að fá eitthvað meira.“

„Ég er örugglega félagsfælnari en Pétur,“ útskýrir Steinn. „Það spilar kannski eitthvað inn í. En þó að það væri ekki raunin þá finn ég bara engan áhuga á þessum geira.“

Við sláum botninn í spjallið með því að ég spyr Pétur Jóhann hvað honum finnist um starfið sem Steinn er að vinna.

„Mér finnst það alveg magnað,“ segir hann. „Ég dáist að honum. Eins og hann kom inn á áðan þá lenti hann í þessu mótorhjólaslysi og söðlar í rauninni alveg um. Ég held hann eigi eftir að blómstra í þessu starfi. Þetta liggur mjög vel fyrir honum og það er mjög gott að tala við hann. Það hefur alltaf verið hans sterkasta hlið, finnst mér. Þegar maður situr og talar við hann er maður oft búinn að segja honum sín eigin svörtustu leyndarmál, án þess að ætla sér það. Það er honum meðfætt að vera sálfræðingur. Ef ég er í einhverri krísu í huganum þá hringi ég bara í Steina bróður og hann reddar öllu.“

Sími Píeta-samtakanna er opinn frá 9-16 alla virka daga og Steinn hvetur alla þá sem glíma við sjálfsskaða og sjálfsvígshugsanir til að nýta sér þetta bjargræði sér að kostnaðarlausu.

Myndir / Hallur Karlsson

Rússar gætu dottið út í Eurovision í kvöld

Skandinavísku þjóðirnar Svíþjóð og Noregur komast upp úr öðrum undanúrslitariðlinum í Eurovision í kvöld ef marka má veðbanka og Eurovision-spekúlanta. Aðrar þjóðir sem komast áfram, ef eingöngu er stuðst við veðbankaspár, eru Moldóvía, Úkraína, Pólland, Ástralía, Holland, Danmörk, Ungverjaland og Lettland. Rússar og Rúmenar koma þar strax á eftir og því ekki inni í úrslitunum, eitthvað sem hefur aldrei gerst áður.

Ef veðbankar hafa rétt fyrir sér verður Ísland eina þjóðin í Skandinavíu sem keppir ekki í úrslitum Eurovision á laugardag, en Finnar komust upp úr fyrri undanriðlinum á þriðjudag á meðan Ari okkar Ólafsson sat eftir með sárt enni.

Fiðlusnillingurinn með ofurkraftana

Það er fiðlusnillingurinn Alexander Rybak sem keppir fyrir hönd Noregs með lagið That’s How You Write a Song. Hann hefur verið að fikra sig hægt og örugglega upp veðbankalistann og trónir nú á toppi þeirra flytjenda sem líklegastir eru til að fara rakleiðis í gegn í úrslit í kvöld. Ef litið er á líkurnar á vefsíðunni Eurovision World sést raunar að Alexander er spáð öðru sæti í allri keppninni, á eftir hinni eldfimu Eleni frá Kýpur sem við sáum loka fyrri undanriðlinum með hvelli.

Eins og flestir muna eftir fór Alexander með sigur af hólmi í Eurovision árið 2009 með lagið Fairytale. Þegar nýjasta lagið hans var kynnt var því misvel tekið en það er eins og þetta sjarmatröll hafi einhvern ofurkraft þegar kemur að Eurovision því eftir æfingar í Altice-höllinni hefur lagið hans verið talið æ líklegra til að vinna keppnina í ár. En það er annað sem hjálpar Norðmanninum knáa. Hann var í öðru sæti í rússnesku útgáfunni af Your Face Sounds Familiar þar sem hann fór meðal annars á kostum sem Eurovision-sigurvegarinn Dima Bilan, og á því dyggan aðdáendahóp í Rússlandi.

Frábært atriði – lélegir söngvarar

Talandi um Rússland, þá lítur allt út fyrir það að hin rússneska Julia Samoylova, sem stígur sjötta á svið með lagið I Won’t Break, komist ekki áfram, þrátt fyrir tilþrifamikla sviðssetningu. Lagið er hins vegar langt frá því að vera jafnsterkt og fyrri framlög Rússa í keppninni og Julia umdeild eftir að henni var bannað að keppa í Úkraínu í fyrra.

Tríóið DoReDoS frá Moldavíu stígur á svið á eftir Juliu með stuðlagið My Lucky Day. Lagið er frekar fyndið, eins og lagahöfundurinn Philipp Kirkorov hefur sagt í viðtölum, og hefur það vaxið í áliti jafnt og þétt hjá Eurovision-aðdáendum síðan æfingar hófust í Lissabon. Atriði Moldovíu er afar hressandi og skemmtilega útfært, en söngvararnir í DoReDoS eru langt frá því að vera sterkir. Það er spurning hvort áhorfendur og dómnefnd fyrirgefi þeim það. Það verður að koma í ljós.

Svöl sviðssetning

Svo er það Svíinn Benjamin Ingrosso, sem er næstlíklegastur til að komast upp úr riðlinum, á eftir nágranna sínum Alexander Rybak. Hann býður upp á dansvæna poppsmellinn Dance You Off og flytur hann afar vel ef marka má æfingar. Benjamin er búinn að færa skemmtilega og svala sviðssetningu úr Melodifestivalen alla leið til Lissabon og á áhorfendum heima í stofu eftir að líða eins og þeir séu að horfa á tónlistarmyndband, sem er kærkomin tilbreyting.

Dananum Jonas Flodager Rasmussen með víkingalagið Higher Ground er spáð áfram í kvöld. Lagið er allt öðruvísi en önnur lög í keppninni og stóra spurningin er hvernig Evrópa tekur í víkingadramatíkina. Rasmussen býður uppá snjókomu, eins og Írinn í fyrri undankeppninni, og við munum öll hvernig það fór. Þetta er hugsanlega atriðið sem gæti komið hvað mest á óvart í kvöld, og ættu Íslendingar að leggja sérstaklega vel við hlustir til að heyra íslenskuna sem er sungin í laginu.

Sjá einnig: Ari komst ekki áfram í Eurovision.

Treystir á sig sjálfa

Hin ástralska Jessica Mauboy reynir að halda landi sínu í keppninni með lagið We Got Love og tekst það samkvæmt veðbönkum. Jessica lenti í því að slasa sig á æfingu í Lissabon, þó ekki alvarlega. Hún fékk tak í hálsi eftir að hún sveiflaði hári sínu aðeins of kröftuglega á æfingu. Jessia treystir á sjálfa sig og frábæra söngrödd á sviðinu og er atriðið fremur einfalt. Lagið er hins vegar grípandi, Jessica sjarmerandi og söngurinn óaðfinnanlegur.

Því hefur verið fleygt fram að þessi seinni undanriðillinn sé ekki jafn sterkur og sá fyrri, en ljóst er að hart verður barist til síðustu upphækkunar í kvöld til að komast í úrslitin þann 12. maí.

Bein útsending á seinni undanriðlinum hefst klukkan 19.00 á RÚV. Hér má sjá röð keppanda.

Geggjuð styrktar- og brennsluæfing með lóðum

Það getur oft verið erfitt að drattast í ræktina, sérstaklega þegar veðrið er orðið örlítið betra.

Myndbandið hér fyrir neðan er frá Popsugar Fitness en í því má sjá 45 mínútna styrktar- og brennsluæfingu sem hægt er að gera heima í stofu.

Í myndbandinu eru notuð lóð, en það er ekkert mál að sleppa þeim eða fylla tvær lítersflöskur af vatni til að fá smá mótstöðu. Í myndbandinu eru sýndar ýmsar æfingar, en oftast er sýnd erfiðari og léttari útgáfa þannig að allir geti spreytt sig á æfingunum, sama hvernig formi þeir eru í.

Góða og sveitta skemmtun!

Backstreet Boys klæddu sig upp sem Spice Girls og tóku lagið

Strákarnir í drengjasveitinni The Backstreet Boys, eða réttara sagt mennirnir, ákváðu að heiðra stúlknasveitina Spice Girls á tónleikum í vikunni.

En tónlistarmennirnir létu sér ekki nægja að bara taka útgáfu af lagi með Spice Girls eða kasta á kryddpíurnar kveðju. Ó nei, þeir Nick, AJ, Brian, Kevin og Howie fóru sko alla leið.

Þeir ákváðu að klæða sig upp sem Kryddpíurnar, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan, og mæma eitt lag með þeim. Á myndinni hér fyrir neðan sést að Nick var Baby Spice, AJ var Scary Spice, Brian var Sporty Spice, Kevin var Posh Spice og Howie var Ginger Spice.

Í meðfylgjandi myndbandi má svo sjá þessa skemmtilegu uppákomu:

Breytir tárum í orð

Sara Mansour er á forsíðu Vikunnar að þessu sinni, en hún hefur þrátt fyrir ungan aldur skipað sér í raðir okkar helstu aðgerðasinna. Sara er drifin áfram af sterkri réttlætiskennd og segir samvisku sína stjórna öllu sem hún geri. Þrátt fyrir háværar og oft óvægnar gagnrýnisraddir ætlar hún alls ekki að leggja árar í bát og segir jákvæðu viðbrögðin sem hún fær gera allt þess virði. Sara er ótrúleg fyrirmynd og þegar litið er yfir afrek hennar er erfitt að trúa því að hún sé aðeins 21 árs.

Sara ólst upp í Vesturbænum og var að eigin sögn mjög hamingjusamt barn. „Ég var alltaf brosandi og er enn. Hins vegar fæddist ég með tilfinningalega viðkvæmni. Það þýðir einfaldlega að allt sem ég finn fyrir er mjög sterkt. Þegar ég er glöð er ég himinlifandi en þegar ég er leið er ég miður mín. Þetta birtist í miklum kvíða hjá mér sem barni, til dæmis aðskilnaðarkvíða. Ég reyni þó alltaf að aðskilja þetta tvennt, þ.e. manneskjuna sem ég er, mild og jákvæð, og sjúkdómseinkenni sem ná stundum tökum á mér.“ segir hún.

Samviskan stjórnar öllu

Aðspurð segist Sara alltaf hafa verið þannig að Guði gerð að hún eigi erfitt með að bíta sig í tunguna þegar hún verður vitni af óréttlæti. „Það hefur oft komið mér í vandræði. Einu sinni þegar ég var lítil var ég t.d. á fimleikaæfingu og þjálfarinn minn skammaði nokkrar stelpur fyrir að vera að tala. Ég gat ekki horft upp á þær sæta ávítum þegar ég hafði líka tekið þátt í samræðunum svo ég gaf mig fram og þurfti að gera aukalega þrekæfingar fyrir vikið. Þetta er kannski ekki besta dæmið en mér hefur alltaf fundist þetta svolítið fyndið því það sýnir að ég get aldrei setið á mér og segi alltaf sannleikann, meira að segja þegar ég ætti kannski ekki að gera það. Ég held ekki að það geri mig að betri manneskju en aðra, en samviskan mín er svo sterkt afl innra með mér að hún stjórnar eiginlega öllu sem ég geri.“

Sara hefur mikið notað Netið og samfélagsmiðla til að koma skoðunum sínum á framfæri. Hún segir það ekki hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að verða þessi baráttukona, aktivisti, heldur hafi það þróast óvænt í þá átt. Tilviljun hafi ráðið því að hún byrjaði að nota Facebook til að tjá sig um það sem olli henni hugarangri. „Venjulega er ferlið eitthvað á þá leið að ég verð meðvituð um eitthvað óréttlátt, sest niður og græt af vonleysi í klukkustund en stend síðan upp og breyti tárunum frekar í orð,“ segir hún.

Samviskan mín er svo sterkt afl innra með mér að hún stjórnar eiginlega öllu sem ég geri.

Sara hefur velt upp ýmsum áleitnum spurningum og hikar ekki við láta í sér heyra ef hún verður vitni af óréttlæti. Skrif hennar hafa oft vakið mikið umtal og ekki eru alltaf allir sammála þeim. Hún segir gagnrýnina oft ná til sín en jákvæðu viðbrögðin séu mun algengari.  „Ég var bara barn þegar ég byrjaði að skrifa og tjá skoðanir mínar og viðbrögðin sem ég mætti, bæði góð og slæm, hafa mótað mig meira en margir gera sér grein fyrir. Það væri helber lygi að halda því fram að fáfræðin sem ég mæti stundum hafi ekki áhrif á mig. Sumir segja að það venjist með aldrinum en ég held og vona að það eigi ekki við um mig. Ég held það af því ég er mjög viðkvæm manneskja og ég vona það því mótlætið styrkir mig og gerir mér kleift að takast á við aðstæður sem aðrir hafa kannski ekki sömu getu til. Ég veit að það hljómar eins og klisja, en jákvæðu viðbrögðin sem ég fæ eru margfalt meiri og þau gera allt hitt lítilvægt í samanburði. Ég hef reynt að safna saman öllum jákvæðum skilaboðum sem ég fæ og þau eru að nálgast fimm hundruð og þegar mér líður illa leita ég þangað. Ef mig vantar styrk til að takast á við ómálefnalega gagnrýni skoða ég uppáhaldsskilaboðin, t.d. frá stelpu sem sagði að ég hefði gefið henni styrk til að segja mömmu sinni frá að hún hefði verið beitt kynferðisofbeldi og skilaboð sem segja að manneskjan sem sendi þau hafi ekki raunverulega skilið hvað rasismi var fyrr en hún byrjaði að fylgjast með mér. Svona skilaboð um að ég hafi breytt viðhorfi fólks eru ómetanleg því þau eru beinhörð sönnun þess að ein manneskja geti knúið fram breytingar og það er einmitt það sem ég reyni að skila til annarra í sömu stöðu og ég. Verstu viðbrögð sem ég hef fengið á hlutlægan skala eru hótanir sem beinast að fjölskyldunni minni en ef ég á að vera hreinskilin þá er langverst að mæta skilningsleysi, háði eða jafnvel andúð frá fólki sem maður hélt að vissi betur.“

Áfallastreituröskun eftir röð áfalla

Sara er greind með áfallastreituröskun sem hefur haft mikil áhrif á líf hennar. Hún hefur ekki rætt það mikið opinberlega og segir að einkennunum fylgi stundum ákveðin skömm. Í æsku varð hún fyrir röð áfalla sem hún bældi lengi niðri. Þeim sem hún mundi eftir sagði hún aldrei frá. Hún segist hafa átt erfitt með að sætta sig við að hafa verið greind með áfallastreituröskun. „Mér fannst ég ekki eiga nógu bágt til að þjást af sjúkdómi sem hefur í dægurmenningu helst einkennt fyrrverandi hermenn. En raunveruleikinn er að upplifun af styrjöld er ekki forsenda þess að vera með áfallastreituröskun og hún getur hrjáð fólk með alls konar reynslu. Í dag kemur hún helst fram í aktívismanum og verður til þess að ég fæ köst þegar eitthvað minnir mig á sársaukafullar upplifanir. Ég reyni að vera opin með það, eins og aðra geðsjúkdóma, en einkennunum fylgir viss skömm, t.d. er ég gjörn á að fá martraðir og svitna mikið í svefni. Ég fer reglulega til dásamlegs sálfræðings, sem hefur hjálpað mér meira en orð fá lýst, en ég hef lítið rætt þennan hluta af lífinu mínu því, eins og ég segi, þá fylgir því smáskömm og sársauki sem ég á enn eftir að vinna úr. En ég efast ekki um að það gerist með tímanum. Þetta er bara einn af þessum hlutum sem maður þarf að lifa með og ég mun ekki leyfa því að halda aftur af mér.“

Þetta er aðeins brot út ítarlegu viðtali við Söru. Viðtalið í heild má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
Myndir: Aldís Pálsdóttir

10 ráð til að losna við Eurovision-þynnkuna

|
|

Það er alltaf erfitt að vakna daginn eftir að Ísland dettur úr Eurovision. Alveg sama hve oft það gerist, það bara er ekki hægt að venjast því. Vonbrigðin eru svo yfirgengilega mikil og fyrsta sem maður gerir er að líta á alla helstu vefmiðla og fullvissa sig um að kynnirinn hafi óvart sagt Írland þegar hann ætlaði í raun að öskra ÍSLAND!

Nú er eyðimerkurganga Íslands í Eurovision orðin aðeins of löng, og ættum við því að vera orðin vön því að keppa ekki í úrslitunum. En auðvitað bindum við alltaf vonir við að okkar lög komist áfram, sérstaklega þegar þau eru flutt jafn óaðfinnanlega og Ari Ólafsson flutti Our Choice í gær.

Þannig að þegar að vonbrigðin, svokölluð Eurovision-þynnka, skellur á erum við á Mannlífi með tíu ráð til að vinna á timburmönnunum bug:

1. Aragríma í seinni riðlinum

Byrjaðu strax að hlusta á öll lögin í seinni undanúrslitariðlinum, veldu þér uppáhalds sem á jafnframt góðan séns á að komast áfram samkvæmt veðbönkum, til dæmis Noregur eða Svíþjóð, og haltu með því eins og enginn sé morgundagurinn. Ef það hjálpar geturðu alltaf klippt út andlitið á Ara og fært það með skjánum þegar uppáhaldið þitt er að syngja svo flytjandinn virðist vera íslenskur.

2. Svona semurðu lag

Sestu niður í góðu tómi og hlustaðu á sigurlög síðustu tuttugu ára eða svo. Punktaðu niður hvað þau eiga sameiginlegt og reyndu síðan að semja besta Eurovision-lag allra tíma!

3. Það geta ekki allir verið gordjöss

Hringdu í Pál Óskar og biddu hann um að syngja fyrir þig. Sendu honum svo besta Eurovision-lag allra tíma sem þú varst að semja.

Eurovision-Palli kemur þér í stuðið.

4. Gefðu þér tíma til að syrgja

Farðu í vinnuna og láttu eins og ekkert hafi í skorist. Þegar einhver byrjar að tala um Eurovision, afsakaðu þig og farðu inn á klósett til að gráta.

5. Ömurleg hugmynd

Farðu niður í Hörpu og finndu allar ástæður fyrir því að það væri ömurleg hugmynd ef Ísland myndi vinna Eurovision. En ekki láta gabbast og ráða þig í vinnu sem þjónustufulltrúi!

6. Ekki ýta á takkann!

Ekki kveikja á útvarpi, sjónvarpi eða lesa vefmiðla í dag. Það ýfir bara upp sárar minningar. Sárar, sárar minningar.

7. Skamm, Magnús Geir

Skrifaðu mjög harðort bréf til Magnúsar Geirs, sjónvarpsstjóra, þar sem þú heimtar tafarlaust að fá að sitja í valnefnd fyrir þessi blessuðu lög sem keppa í Söngvakeppninni, og bendir honum jafnframt á að Ísland hafi aðeins komist einu sinni upp úr undanriðlinum eftir að hann tók við störfum.

8. Þú hefur valið…

Prófaðu að taka textann úr Our Choice og syngja hann við ísraelska lagið TOY með henni Nettu. Það er sjúklega fyndið og á bókað eftir að koma þér í betra skap – sérstaklega þegar þú ímyndar þér Ara að gagga eins og hæna uppi á sviði.

9. Fánamóment

Vefðu íslenska fánanum um líkama þinn og hugsaðu um allt það góða í lífinu.

10. Is It True?

Svo verður þú að horfast í augu við það að Ísland keppir ekki á laugardaginn. Og það gæti farið svo að Ísland komist ekki heldur í úrslit á næsta ári, og þarnæsta og þarþarnæsta. Skrifaðu bréf sem þú átt aldrei eftir að senda þar sem þú listar upp allar tilfinningar sem bærast innra með þér er þú hugsar raunsætt um hlutina. Leyfðu þér að skrifa hvað sem er, og taktu þér allan tímann í heiminum sem þú þarft til að losa um tilfinningarnar. Þú mátt gráta, þú mátt hlæja, þú mátt syrgja. Náðu síðan í kveikjara, settu Is It True? á fóninn og kveiktu í bréfinu. Brenndu sorgina í burtu og byrjaðu að plana Eurovision-matinn fyrir fimmtudaginn og laugardaginn.

Sögulegt hús á einum eftirsóttasta stað í hjarta borgarinnar

Eign vikunnar er þetta fallega og sögulega hús við Laufásveg 43. Húsið er byggt árið 1903 í Sveitser-stíl sem algengt var í Noregi um aldamótin 1900. Eins og önnur hús af þeirri gerð er það með bröttu þaki og portbyggt og stendur á eignarlóð. Einkenni þessarar eignar er handverk sem þar er að finna, bæði innan- og utandyra, og fangar það gestsaugað um leið. Mikið handverk er þar að finna, meðal annars íburðarmiklar gluggaumgjarðir. Húsið er á einum besta stað í miðborg Reykjavíkur og stutt í allt sem borgin hefur upp á að bjóða, menningarlíf, veitingahúsaflóru, alla þjónustu sem og skóla og fjölmargar fallegar gönguleiðir um miðbæinn.

Skjólsæll og bjartur garður

Garðurinn er gamalgróinn og skemmtilegur, hann er bæði bjartur, skjólsæll og einstaklega hlýr. Þar eru tré sem trjáfræðingar telja ein af merkustu trjám borgarinnar, hvert af sinni tegund. En í garðinum er að finna beyki, hlyn og ask.

Endurbyggt og stækkað

Húsið er timburhús á steinhlöðnum kjallara. Á árunum 2000 til 2005 var húsið endurbyggt og byggt var við húsið og er því nánast um nýtt hús að ræða. Burðarvirki var endurnýjað, ný utanhússklæðning er á húsinu en undir henni er tvöfalt gips. Húsið prýða nýir gluggar með tvöföldu gleri og nýjar útidyrahurðir. Að innan er veggklæðningin endurnýjuð og gips notað á veggi og í loft. Einnig eru gólfin meira og minna endurnýjuð. Í húsinu eru nýjar vatnslagnir, frárennslislagnir og raflagnir. Þær voru lagðar sér fyrir hverja hæð auk þess sem ný drenlögn var lögð.

Eikarþil frá árunum 1920 til 1930

Dyr og hurðir eru upprunalegar í hluta hússins, en á miðhæðinni voru þær hækkaðar og breikkaðar og er útkoman hin glæsilegasta.  Á miðhæðinni, í anddyri og holi, er eikarþil frá árunum 1920 til 1930. Í dag er húsið nýtt sem þrjár íbúðir. Húsið  getur einnig verið einbýli, því gert var ráð fyrir við byggingu þess að hægt væri að opna milli hæða og rýma með lítilli fyrirhöfn.

Húsið hlaut viðurkenningu fyrir velheppnaðar endurbætur

Þegar húsið var endurnýjað var kappkostað að halda öllu skrauti í upprunalegri mynd og er húsið eitt best heppnaða hús í Sveitser-stíl í Reykjavík. Margt í húsinu er í sínum upprunalega stíl. En árið 2005 veitti borgarstjórinn í Reykjavík húsinu viðurkenningu fyrir velheppnaða endurbyggingu.

Einstakt tækifæri að eignast hús með sál í hjarta borgarinnar

Þetta fallega hús er um 260,4 fermetrar að stærð og húsið er þrír matshlutar, þrjár íbúðir, allar með sérinngangi. Það er þó mjög auðvelt að breyta nýtingunni í einbýlishús en húsið var hannað með það að leiðarljósi auðvelt væri að breyta því í þrjár íbúðir og öfugt. Hér um að ræða einstakt tækifæri til að eignast eign á einum eftirsóttasta stað í hjarta miðborgarinnar sem á sér sögu, hús með sál. Eignin er til sölu hjá Kjöreign fasteignasölu sem veitir frekari upplýsingar um eignina og hana er einnig að finna á heimasíðu hennar: www.kjoreign.is

Fróðleiksmoli um Laufásveg 43

Reykjavíkurborg átti húsið um tíma og var ráðgert að það yrði hluti af húsasafni borgarinnar. Frá því var horfið en allt innbú þess þá flutt á Árbæjarsafn. Þar var sett upp sýning um húsið og sögu þess með því innbúi sem fylgdi því. Einnig myndum úr húsinu eins og það var á árunum u.þ.b. 1916-1999. Húsinu hafði lítið verið breytt allan þann tíma.

Mest í því að vera þreyttar og svangar saman

Vinkonurnar Þórunn Ívarsdóttir og Alexsandra Bernharð Guðmundsdóttir eiga ýmislegt sameiginlegt. Þær eru báðar flugfreyjur, háskólanemar og samfélagsmiðlastjörnur, svo fátt eitt sé nefnt. Örlögin réðu því að þær eru nú báðar óléttar af sínu fyrsta barni, en þær segja ótrúlega skemmtilegt að vera samferða í þessu ferli.

 

Þórunn hefur verið með manninum sínum Harry Sampsted í rúm fimm ár. Hún hefur talað opinskátt um baráttu sína við endrómetríósu (legslímuflakk) en sjúkdómurinn hefur valdið því að hún átti erfitt með að verða barnshafandi.„Ég var mjög glöð að þurfa ekki að sækja frekari aðstoð en þetta tókst á endanum á náttúrulegan hátt.“ segir Þórunn. „Ég hef farið í tvær aðgerðir síðan ég greindist árið 2015. Í haust ákváðum við að leita okkur læknishjálpar, en læknirinn sá vonarglætu að þetta gæti komið náttúrulega og gaf okkur smá tímaramma. Hún kom svo undir þegar við vorum á síðasta séns.“ Þórunn er komin 23 vikur á leið og er sett þann 2.september.

Alexsandra og maðurinn hennar, Níels Adolf Svansson eiga von á frumburði sínum þann 20.október, sem þýðir að Alexsandra er komin rúmar 16 vikur á leið. Þau voru byrjuð að huga að barneignum og má segja að „baunin“ hafi komið eins og kölluð. „Við erum búin að vera saman í 9 ár, og vorum farin að tala um að byrja reyna árið 2018. Ég fékk svo jákvætt próf fyrr en áætlað var og við erum mjög hamingjusöm með það.“ Segir Alexsandra.

Alexsandra Bernhard

Samrýndar

Þær vinkonur eru mjög samrýndar og það sannast einna best á því hvernig þær komust að óléttunni hjá hvor annarri. Þórunn segir þær hafa haft sínar grunsemdir þegar hún sjálf var ólétt en þegar kom að Alexsöndru hafi þær verið alveg grunlausar. „Alexsandra vissi í raun að ég væri ólétt á undan mér, en ég var búin að taka grátköst útaf mjög smávægilegum hlutum nokkrum dögum áður. Sem dæmi má nefna að ég fór að gráta í afgreiðslu BL þegar ég fékk bílinn minn ekki til baka úr viðgerð á réttum tíma en þá var minni konu farið að gruna ansi margt. Þar sem að hún vissi að við værum að reyna, en svo var þetta allt öðruvísi þegar við komumst að því að Alexsandra væri ólétt. Hún nefndi við mig að hún væri 5 dögum of sein að byrja á blæðingum. Þá píndi ég hana til að taka próf. Við fórum í þrjú apótek þangað til að við fundum eitt opið. Síðan komu niðurstöðurnar okkur svolítið á óvart en þetta var hreint út sagt yndislegt. Það var samt mjög erfitt að halda þessum upplýsingum út af fyrir sig í átta vikur.“

Ég fór að gráta í afgreiðslu BL þegar ég fékk bílinn minn ekki til baka úr viðgerð á réttum tíma en þá var minni konu farið að gruna ansi margt.

Báðar að berjast við ógleði

Þær stöllur hafa ekki farið varhluta af ógleði og öðrum fylgikvillum sem fylgja oft fyrstu vikum meðgöngunnar. „Ég var óvinnufær fyrstu frá 6-16 viku og þá var mjög erfitt  að halda þessu leyndu frá fólkinu í kringum mig. Ég var með lágan blóðþrýsting og kastaði upp um það bil 6 sinnum á dag. Vegna orkuleysis og uppkasta leið yfir mig og rotaðist ég á baðherbergisgólfinu dágóða stund.  Suma daga komst ég ekki út úr húsi en um leið og ég hætti að vinna fór allt upp á við“ segir Þórunn.

Alexsandra hefur svipaða sögðu að segja „Mér byrjaði að líða frekar illa svona tveimur vikum eftir að ég kemst að ég er ólétt. Var óglátt stanslaust allan sólarhringinn en byrjaði síðan ekki að kasta upp fyrr en á tíundu viku og er ennþá að kasta upp.mÉg er búin að vera svolítið hressari en Þórunn en á mína slæmu daga.“

Þórunn og Harry vita kynið og eiga von á stelpu. Alexsandra og Níels hafa einnig ákveðið að kíkja í pakkann og eiga pantaðan tíma í sónar hjá 9.mánuðum þann 17.maí. Alexsandra segist hafa á tilfinningunni að það sé strákur á leiðinni en Þórunn giskar á stelpu. „Fyrst var ég 100% viss að það væri strákur hjá henni, núna fæ ég smá efasemdir aftur.“

Eins og fylgjendur þeirra á samfélagsmiðlum hafa tekið eftir eru þær byrjaðar að undirbúa komu erfingjanna. Aðspurð segist Alexsandra búin að vera ansi dugleg að kaupa föt en sé ekki komin með neitt annað. „Ég er alveg handviss um hvernig ég vil hafa hlutina og hvað ég ætla að kaupa. Ég ætla að byrja formlega á undirbúningnum þegar ég hætti að vinna.“

Þórunn Ívarsdóttir

Þórunn segist vera komin með leyfi til að byrja að innrétta barnahornið 1.júlí. „Mér finnst fínt að dreifa kostnaðinum yfir nokkra mánuði. Ég veit líka alveg hvernig ég ætla að hafa allt en það er kannski betra að gera einn hlut í einu svo hinn helmingurinn fái ekki taugaáfall. Annars er náttúrulega stórhættulegt að vera saman í þessu, þar sem við erum báðar duglegar að versla og núna langar okkur að kaupa allt fínt og flott handa krílunum.“

Þær segjast fyrir utan það að versla barnaföt aðallega vera í því að vera þreyttar og svangar saman. „Við espum hvor aðra upp og fáum okkur eitthvað rosalega gott að borða, því okkur finnst við eiga það skilið. Við erum alltaf svangar“ segja vinkonurnar að lokum.

Myndir: Hákon Björnsson

Ítarlegra viðtal við Þórunni og Alexsöndru má finna í 17.tölublaði Vikunnar

Margt gæti komið á óvart í Eurovision í kvöld

Ari okkar Ólafsson stígur á svið í Altice Arena-höllinni í Lissabon í kvöld og keppir í fyrri undanúrslitariðli Eurovision. Ef allt gengur að óskum kemst Ari áfram og keppir í úrslitunum laugardagskvöldið 12. maí.

Útlitið fyrir að Ari nái loksins að binda enda á eyðimerkurgöngu okkar Íslendinga í keppninni er ekki gott, en Ísland hefur ekki komist upp úr undanriðlunum síðustu þrjú ár. Ef marka má samantekt úr helstu veðbönkum heimsins kemst Ari ekki upp úr riðlinum og skipar sér í neðstu sætin ásamt Makedóníu og Írlandi. Í spá vefsíðunnar Eurovision World er Ari neðstur.

Sjá einnig: Mikið klappað fyrir Ara á dómararennsli.

Engir LED-skjáir

Auk Íslands keppa eftirfarandi lönd í kvöld, í réttri röð, en Ari er númer 2 á undan Albaníu: Aserbaídjan, Albanía, Belgía, Tékkland, Litháen, Ísrael, Hvíta-Rússland, Eistland, Búlgaría, Makedónía, Króatía, Austurríki, Grikkland, Finnland, Armenía, Sviss, Írland og Kýpur. Tíu lönd komast áfram í úrslit.

Þessi riðill hefur verið kallaður dauðariðillinn, enda hafa margir spáð því að þau tíu lönd sem komist upp úr riðlinum verði þau tíu efstu í úrslitunum þann 12. maí. Meðal landa sem eru talin sigurstrangleg eru Ísrael, Tékkland, Eistland og Búlgaría.

Það getur hins vegar margt komið á óvart í kvöld, eins og venja er í Eurovision, og þó veðbankar og spár hafi oft rétt fyrir sér þá kemur fyrir að þeim bregst bogalistin. Þá ber að nefna sviðið og sviðssetninguna, en eins og kunnugt er eru engir LED-skjáir í Lissabon og því mörg atriðanna keimlík er kemur að sviðssetningu. Því reynir meira á flytjendur að skera sig úr og meira á ljósahönnuði að gera atriði eftirminnileg.

Sjá einnig: Spánn vinnur Eurovision ef marka má Google.

Áskrift að úrslitunum

Aserbaídjan opnar kvöldið með söngkonunni Aisel og laginu X My Heart. Veðbankar spá henni ekki áfram í úrslit en gleyma þó kannski mikilvægri staðreynd að Aserbaídjan kemst alltaf upp úr undanriðlinum, alveg sama hve lagið er slakt. Þannig að við þurfum líklegast ekki að hafa miklar áhyggjur af henni Aisel, þó atriðið sé frekar bragðdauft og lagið ekkert spes.

Hin ísraelska Netta hefur verið talin sigurstranglegust, raunar til að vinna alla keppnina, í nokkrar vikur. Hins vegar olli fyrsta æfing söngkonunnar í Lissabon nokkrum vonbrigðum meðal Eurovision-spekúlanta, þó raddbönd Nettu hafi langt því frá klikkað. Unnið var í atriðinu og þegar kom að annarri æfingu var ísraelska teymið búið að bæta við eldglærum og sápukúlum sem gerir mikið fyrir atriðið.

Lagið, Toy, er sterkt og nýtur mikillar hylli í Eurovision-heiminum og því nánast öruggt að Netta komist áfram í úrslit. Hvort hún hrósi sigri í úrslitum á laugardagskvöldið er svo annað mál, og hugsanlegt að hún hafi toppað á vinsældarlistum of snemma.

Sópransöngur og stuð

Ísrael er í fyrri part undanúrslitanna í kvöld, sjöunda í röðinni. Önnur lönd sem eru talin sigurstrangleg, Tékkland og Eistland, eru líka framarlega – Tékkland númer 5 og Eistland númer 9. Það getur líka haft áhrif á gengi þeirra, en veðbankar eru sammála um að þessi tvö lög komist áfram. Mikolas Josef syngur lagið Lie to Me fyrir Tékka og lenti í smá erfiðleikum á fyrstu æfingu þar sem hann slasaðist er hann gerði fimleikaæfingar á sviðinu. Mikolas náði sem betur fer að hrista það af sér og var mjög öruggur á sviðinu á annarri æfingu, þrátt fyrir byrjunarerfiðleika með hljóðnemann. Lagið er hresst og sviðssetningin ágæt og því líklegt að hann komist áfram.

Eistar taka áhættu með því að senda klassískt menntaða söngkonu, hana Elinu Nechayeva, með hið dramatíska lag La Forza. Elina syngur lagið óaðfinnanlega en það er ekki síður kjóll hennar sem hefur stolið senunni. Elina fær líklegast fullt hús stiga dómnefndar en óvíst er hvernig Eurovision-aðdáendur taka þessari flottu sópransöngkonu.

Tveir svartir hestar

Finnar eru fimmtándir í röðinni í kvöld og syngur söngkonan Sara Aalto lagið Monsters. Samkvæmt veðbönkum rétt slefar Sara í úrslit, en hér er á ferð atriði sem er stórlega vanmetið og á eflaust eftir að standa sig talsvert betur en spáð er. Sara er þrususöngkona og bjóða Finnar upp á skemmtilegt, töff og hressandi atriði parað við lag sem er mikið heilalím.

Má segja að Finnar séu svarti hesturinn sem gæti hreinlega farið alla leið í keppninni í ár, þvert á alla spádóma.

Kýpur lokar sýningunni í kvöld með laginu Fuego sem flutt er af þokkagyðjunni Eleni Foureira. Hér er á ferð annar svartur hestur sem var spáð afar slöku gengi þar til æfingar hófust í Altice Arena-höllinni í Lissabon. Nú er Eleni efst í öllum veðbankaspám, sem og spá á vefsíðu Eurovision World. Og það er ekkert skrýtið þar sem má með sanni segja að Eleni loki herlegheitunum með hvelli, óaðfinnanlegum söng og seiðandi danssporum í anda Beyoncé. Hins vegar gæti Fuego orðið eitt af þessum lögum sem verða pólitíkinni að bráð og komast ekki áfram út af því að önnur lönd eiga áskriftarmiða í úrslit, til dæmis Aserbaídjan.

Er pláss fyrir Ara?

Önnur lönd sem veðbankar eru sannfærðir um að komist áfram eru Búlgaría, Grikkland, Austurríki, Belgía og Hvíta-Rússland. Það er hins vegar ómögulegt að segja hvernig kvöldið í kvöld fer, og það er jafnvel pláss fyrir fleiri svarta hesta í riðlinum, til dæmis Ara okkar Ólafsson. Flestir Eurovision-spekúlantar eru sammála um að Ari negli lagið á öllum æfingum og viðburðum en að lagið sjálft sé hins vegar ekki nógu spennandi til að gera mikið í keppninni.

Bein útsending á fyrri undankeppninni í Eurovision hefst klukkan 19 í kvöld á RÚV.

Svakalegustu lúkkin í MET-galaveislunni

|||||||||||||||
|||||||||||||||

Hin árlega MET-galaveisla var haldin í gærkvöldi, en um fjáröflun er að ræða fyrir Metropolitan Museum of Art’s Costume Institute í New York.

Öllum helstu stjörnum í heiminum í dag er boðið í veisluna og á hverju ári er sérstakt þema. Í ár var þemað: Guðlegir líkamar: Tíska og kaþólskt ímyndunarafl.

Eins og sjá má voru margir sem fóru alla leið í klæðaburði í veislunni og ekki úr vegi að kíkja á nokkur af svakalegustu lúkkunum þetta kvöld:

Lena Waithe í Carolina Herrera

Sarah Jessica Parker í Dolce & Gabbana

Katy Perry í Versace

Cara Delevingne í Dior

Solange Knowles í Iris van Herpen

Zendaya í Versace

Cardi B í Moschino

Chadwick Boseman í Versace

Ariana Grande í Vera Wang

Blake Lively í Versace

Frances McDormand í Valentino

Madonna í Jean Paul Gaultier

Rita Ora í Prada

Lana del Rey og Jared Leto í Gucci

Rihanna í Margiela

Ari komst ekki áfram í Eurovision

Eurovision-farinn Ari Ólafsson komst ekki upp úr fyrri undanúrslitariðlinum í kvöld, þrátt fyrir óaðfinnanlegan flutning á laginu Our Choice í Altice-höllinni í Lissabon í Portúgal.

Tíu lög komust upp úr riðlinum, en stigin voru sambland af einkunn dómara og símakosningu. Ekki hefur verið gefið upp hve mörg stig hvert lag fékk.

Lögin sem komust áfram í úrslit, sem haldin verða laugardagskvöldið 12. maí, eru eftirfarandi:

Austurríki – Nobody But You – Cesár Sampson

Eistland – La Forza – Elina Nechayeva

Kýpur – Fuego – Eleni Foureira

Litháen – When We’re Old – Ieva Zasimauskaité

Ísrael – TOY – Netta

Tékkland – Lie to Me – Mikolas Josef

Búlgaría – Bones – EQUINOX

Albanía – Mall – Eugent Bushpepa

Finnland – Monsters – Saara Aalto

Írland – Together – Ryan O’Shaugnessy

Fylgstu með #12stig í kvöld

Ari Ólafsson stígur á stóra sviðið í Altice Arena-höllinni í Lissabon í Portúgal í kvöld og syngur lagið Our Choice í von um að komast í úrslit Eurovision þann 12. maí næstkomandi.

Eins og venja er viðra tístarar skoðanir sínar undir kassamerkinu #12stig þegar kemur að Eurovision og í kvöld er engin breyting á því.

Hér fyrir neðan munu allar færslur merktar #12stig rúlla og því hægt að glöggva sig á því hvað aðrir hafa að segja um söngvakeppnina í ár.

Góða skemmtun í kvöld og áfram Ísland!

Mikið klappað fyrir Ara á dómararennsli

Ari Ólafsson steig á svið í Altice Arena-höllinni í Lissabon í gær á svokölluðu dómararennsli, sem er ætlað fyrir dómnefndir allra landanna sem taka þátt. Stig dómnefndar gilda helming á móti símakosningu.

Eins og sést í meðfylgjandi myndbandi, þó gæðin séu ekki sem best, var klappað mikið fyrir Ara á rennslinu og er mál manna að hann hafi neglt flutninginn uppá 10.

Sjá einnig: Þú gætir grætt fúlgur fjár með því að veðja á Our Choice.

Veðbankar og Eurovision-spekúlantar eru hins vegar sammála um að Ari nái ekki upp úr undanriðilinum. Það sé þó ekki vegna þess að Ari sé lélegur söngvari heldur sé lagið óspennandi.

Útsending á Eurovision hefst klukkan 19 í kvöld á RÚV og er Ari annar á stóra sviðið.

Mynd / Andres Putting (Eurovision.tv)

Svona lítur litli prinsinn út

Kensington-höll er búin að setja fyrstu, opinberu myndirnar af Lúðvík prins á Instagram, en Lúðvík er þriðja barn þeirra Kate Middleton, hertogaynju af Cambridge, og Vilhjálms Bretaprins.

Sjá einnig: Sláandi lík Díönu prinsessu í rauðum kjól.

Lúðvík kom í heiminn þann 23. apríl síðastliðinn og er því aðeins tveggja vikna gamall. Með myndunum fylgir kveðja til Breta og þakkir fyrir falleg skilaboð eftir fæðingu prinsins.

Á annarri myndinni er Lúðvík í tandurhreinum og fallegum ungbarnaflíkum, líklegast handprjónuðum.

Á hinni myndinni sést systir hans Charlotte halda á honum, en myndin var tekin á afmælisdegi prinsessunnar þann 2. maí síðastliðinn.

Sjá einnig: Dagurinn á fæðingardeildinni kostar tæpa milljón.

Raddir