Söngkonan Miley Cyrus tilkynnti það á Instagram fyrir tæpu hálfu ári síðan að hún væri að fara að hanna strigaskó í samstarfi við Converse. Nú eru skórnir sem stjarnan var með puttana í komnir á markað.
Línan er ansi hreint hressandi og má með sanni segja að það sé nóg af glimmeri í henni. Það skemmir ekki fyrir að það eru ekki aðeins skór í línunni heldur einnig fatnaður í anda stjörnunnar.
Hér fyrir neðan má sjá nokkur af skópörunum sem Miley hannaði en hér er hægt að sjá línuna í heild sinni.
Nú er aðeins einn dagur þar til Ari Ólafsson stígur á svið í Eurovision-keppninni í Lissabon í Portúgal og freistar þess að komast í úrslit laugardagskvöldið 12. maí.
Nóg er að gera hjá Ara í Portúgal, ekki bara við að æfa atriðið við lagið Our Choice, heldur einnig við að sækja ýmsar uppákomur og tala við blaðamenn.
Það má með sanni segja að Ari hafi heillað Portúgala upp úr skónum í Eurovision-þorpinu svokallaða, en þorpinu er komið upp á hverju ári á Eurovision í borginni þar sem keppnin er haldin og safnast þar saman aðdáendur keppninnar.
Ari brá sér upp á svið og söng brot úr sigurlaginu síðan í fyrra, Amar pelos dois sem hinn portúgalski Salvador Sobral flutti svo eftirminnilega. Eins og sést í meðfylgjandi myndbandi líkaði Portúgölunum þetta vel.
Forsvarsmenn Eurovision-keppninnar fengu nokkra keppendur úr fyrri undanúrslitariðlinum til að taka þátt í áskorun, eins og sést í meðfylgjandi myndbandi. Áskorunin var einföld, að keppendur veldu sér annan tónlistarstíl til að syngja lagið sitt í.
Meðal þeirra sem tóku þátt í áskoruninni var Ari okkar Ólafsson með lagið Our Choice. Það kemur kannski á óvart að Ari myndi syngja lagið í kántrístíl ef hann þyrfti að velja sér einhvern annan stíl til að syngja í keppninni.
Kántrí-Ara má sjá þegar rétt rúmlega mínúta er liðin af myndbandinu:
Ari stígur á svið í Altice Arena-höllinni í Lissabon annað kvöld, þriðjudagskvöldið 8. maí. Hann er annar í röðinni í fyrri undanúrslitariðlinum. Ef allt gengur að óskum kemst hann áfram í úrslit sem fara fram laugardagskvöldið 12. maí.
Bunny Ears
Fyrrverandi barnastjarnan Macaulay Culkin sem glímdi við fíkniefnavanda í mörg ár er nú kominn á beinu brautina og farinn af stað með nýtt skemmtilegt hlaðvarp, Bunny Ears. Í hlaðvarpinu spjallar Culkin á kaldhæðnislegum nótum við þekkta skemmtikrafta um allt milli himins og jarðar, allt frá tölvuleikjum til detox-kúra.
You must remember this
Ertu kvikmyndanörd? Þá áttu eflaust eftir að fíla hlaðvarpið You must remember this en í því skyggnist stjórnandi þess, Karina Longworth, á bakvið gláfægða ímynda Hollywood og fer yfir ótrúlega, undarleg og grimmileg atvik sem hafa átt sér stað í mekka bandarískrar kvikmyndagerðar.
Stranglers
Í Stranglers er rakið mál eins frægasta raðmorðingja sögunnar, Alberts DeSalvo, sem myrti 13 konur í Boston á sjötta áratugnum. DeSalvo, betur þekktur sem The Boston Strangler, komst inn á heimili fórnarlamba sinna undir því yfirskini að hann þyrfti að lesa af mælum og drap þau svo á hrottafenginn hátt.
The Hilarious World of Depression
Í hlaðvarpinu The Hilarious World of Depression ræða þekktir grínistar á opinskáan og einlægan hátt um þunglyndi sitt með það fyrir augum að uppræta fórdóma gegn andlegum veikindum. Grínistarnir miðla af reynslu sinni af glímunni við „svarta hundinn“ og gefa ráð sem gætu gagnast hlustendum.
Soundtracking
Soundtracking fjallar á áhugaverðan hátt um tónlist í kvikmyndum en í því fær stjórnandi þess til sín kvikmyndaleikstjóra til að segja frá tónlistinni sem þeir völdu í kvikmyndir sínar og ástæðurnar sem liggja að baki þeirri ákvarðanatöku. Meðal gesta er Edgar Wright sem notaði í mynd sína Baby Driver upprunalegar útgáfur laga sem eru fremur þekkt í endurflutningi stórstjarna í tónlistarbransanum.
Þegar Hörður Torfason boðaði homma og lesbíur til fundar á heimili sínu 9. maí 1978 til að stofna baráttusamtök samkynhneigðra, Samtökin ’78, hafði hann dreymt um að koma slíkum samtökum á koppinn árum saman við litlar undirtektir. Það var ekki fyrr en hann hafði hrakist úr landi, ætlað fyrirfara sér en hætt við og ákveðið að berjast fyrir réttindum sínum sem hommi sem hjólin fóru að snúast.
Samtökin ’78 halda upp á 40 ára afmæli sitt þann níunda maí. Löngu orðið viðurkennt félag í samfélaginu, hljóta stuðning frá ríki og borg og eru almennt álitin nauðsynlegur partur af samfélaginu. En fyrir rúmum fjörutíu árum þegar ungur leikari, leikstjóri, söngvari og söngvasmiður byrjaði að ámálga það við samkynhneigða félaga sína að stofna samtök til að berjast fyrir réttindum sínum þótti þeim það fráleit hugmynd og sumir hlógu að honum fyrir vitleysuna.
„Já, það var allt annað landslag þá,“ segir Hörður. „Það voru nokkrir menn sem allir vissu að voru hommar, en meirihlutinn var í felum og þorði ekki fyrir sitt litla líf að koma út úr skápnum. Við vorum kallaðir kynvillingar, orðið samkynhneigð var ekki til og Mánudagsblaðið skrifaði um okkur eins og við værum glæpamenn. Svo helltu menn í sig um helgar, fóru á skemmtistaðina og reyndu við aðra homma en það var allt gert undir rós og maður þurfti að vera sérfræðingur í þessu rósamáli til að átta sig á því hvað var í gangi. Ég hef oft sagt að í þá daga hafi menn bara verið hommar um helgar og það er alveg satt. Það eru flestir búnr að gleyma því hvað þetta var niðurlægjandi staða.“
„Það hafa orðið áherslubreytingar innan samtakanna með nýjum kynslóðum og breyttum áherslum eins og kristallaðist í átökunum um inngöngu BDSM fólks fyrir nokkrum árum … En eins og einn vinur minn benti á þá gerist slíkt í öllum félagsskap, meira að segja í KR.“
Hörður segist hafa byrjað að tala um að hommar þyrftu að stofna með sér samtök til að berjast fyrir réttindum sínum og vera sýnilegir í samfélaginu fljótlega eftir að hann kom sjálfur út, þá 21 árs gamall en það hafi ekki verið neinn grundvöllur fyrir því á þeim tíma.
„Ég gat ekki hugsað mér að lifa í felum allt mitt líf,“ segir hann. „Og foreldrar mínir studdu mig í því að vera ég sjálfur og lifa í samræmi við eðli mitt. Ég var orðinn þekktur á þessum árum og mikið talað um kynhneigð mína en ég svaraði alltaf eins og satt var þegar þegar ég var spurður hvort ég væri hommi. Mér datt bara ekki í hug að fela það neitt.“
Var búinn að skrúfa frá gasinu
Eftir að hið alræmda viðtal þar sem Hörður talaði opinskátt um kynhneigð sína birtist í tímaritinu Samúel í ágúst 1975 varð allt vitlaust. Hann var úthrópaður, fékk hvorki vinnu né húsnæði og flúði að lokum til Kaupmannahafnar þar sem hann ákvað að binda enda á líf sitt.
„Ég var búinn að skrúfa frá gasinu og teipa fyrir allar rifur, alveg tilbúinn að deyja, þegar eitthvað í mér gerði uppreisn. Ég var ungur maður, hafði hæfileika sem leikari, söngvari og lagasmiður og mér fannst ég eiga skilið að lifa lífi mínu á eigin forsendum. Ég skrúfaði fyrir gasið og tók þá ákvörðun að berjast fyrir réttindum mínum og annarra samkynhneigðra hvað sem það kostaði.“
Hörður var á þessum tíma í sambandi með norskum manni og með því að nota nafn hans fengu þeir húsnæði á Íslandi. Þar settust þeir að haustið 1977 og Hörður byrjaði ótrauður að undirbúa stofnun samtakanna. Einn til að byrja með en upp úr áramótum 1978 hafði hann samband við Guðna Baldursson, sem varð fyrsti formaður Samtakanna ’78 og fékk hann í lið með sér.
„Guðni fylgdist vel með því sem var að gerast í málefnum samkynhneigðra annars staðar í Evrópu og var þar að auki einstaklega rökfastur og fylginn sér. Það var mikil gæfa fyrir Samtökin að fá hann sem formann,“ segir Hörður. „Við héldum áfram að tala við aðra homma og útskýra fyrir þeim hvað við værum að hugsa og smátt og smátt vaknaði áhugi hjá fleiri hommum. Það var erfiðara að ná í lesbíurnar en mér tókst að fá tvær sem ég þekkti til að mæta á fyrsta fundinn. Það voru nú ekkert allir ánægðir með það en ég hlustaði ekki á mótbárur. Við vorum öll á sama báti og þurftum að standa saman.“
Uppljómun við uppvaskið
Starfsemin fór hægt af stað og vakti ekki mikla ánægju í samfélaginu en smátt og smátt fóru málin að þokast í rétta átt. Hörður segir Guðna alfarið hafa séð um þá hlið starfseminnar sem sneri að samskiptum við stjórnmálamenn og tillögum um lagabreytingar, sjálfur hafi hann tekið að sér að vera í samskiptum við fjölmiðla og vinna að því að gera samkynhneigða sýnilega í samfélaginu.
„Það vissi hver einasti Íslendingur hver ég var þegar hér var komið sögu og ég samdi við Guðna um að hann sæi um Reykjavík en ég skyldi sjá um landsbyggðina, þar sem ég var oft að setja upp sýningar hjá áhugaleikfélögum,“ útskýrir hann. „Ég fór líka í nokkur viðtöl í útvarpinu og hef heyrt það seinna meir að það hafi skipt sköpum fyrir marga. Til dæmis sagði mér kona, mörgum árum seinna, að hún hefði verið húsmóðir í Vestmannaeyjum sem stóð við eldhúsvaskinn sinn og vaskaði upp þegar hún heyrði fyrst í mér tala um samkynhneigð í útvarpinu. Hún hefði samsamað sig öllu sem ég sagði og þar og þá ákveðið að hætta að lifa í blekkingaleik og gangast við því að hún væri lesbía. Sem hún og gerði. Það gladdi mig alltaf jafnmikið að heyra svona sögur og það styrkti þá trú mína að það væri eitt af undirstöðuatriðum þess að samkynhneigðir fengju réttindi á við aðra að þeir yrðu sýnilegir í samfélaginu.“
„Þess vegna finnst mér gott að Samtökin ’78 einbeiti sér að því að berjast fyrir réttindum annarra jaðarhópa, eins og trans fólks og intersex fólks, því eins og ég hef alltaf sagt þá gengur baráttan út á full mannréttindi fyrir alla.“
Gerist líka í KR
Sjálfur yfirgaf Hörður Samtökin ’78 árið 1993 eftir að upp komu leiðindi innan þeirra og hefur ekki verið starfandi í þeim síðan. Hann segist þó alls ekki vera einn af þeim sem finnst þau vera á villigötum.
„Það hafa orðið áherslubreytingar innan samtakanna með nýjum kynslóðum og breyttum áherslum eins og kristallaðist í átökunum um inngöngu BDSM fólks fyrir nokkrum árum. Það kom nýtt fólk með nýjar hugmyndir og yfirtók í raun Samtökin. En eins og einn vinur minn benti á þá gerist slíkt í öllum félagsskap, meira að segja í KR,“ segir Hörður glaðhlakkalega. „Ég lít þannig á að með lagasetningunni 2006 þegar samkynhneigðir fengu loks full mannréttindi eftir þrjátíu og eins árs baráttu Samtakanna ’78 hafi þeim tilgangi sem ég lagði upp með verið náð alveg hundrað prósent þannig að ekki sé lengur þörf á því að berjast fyrir réttindum þeirra. Þess vegna finnst mér gott að Samtökin ’78 einbeiti sér nú að því að berjast fyrir réttindum annarra jaðarhópa, eins og trans fólks og intersex fólks, því eins og ég hef alltaf sagt þá gengur þessi barátta út á full mannréttindi fyrir alla. Hitt er annað mál að mér finnst stundum að unga fólkið í dag skilji ekki hvað það var sem við þurftum að glíma við fyrir fjörutíu árum og alveg ástæða til að hvetja það til að kynna sér söguna og læra af henni. Mér fannst það til dæmis sláandi að þegar lagasetningunni 2006 var fagnað var ekki einn einasti samkynhneigður á sviðinu, enginn. Þar voru bara stjórnmálamenn, eins og þetta væri allt saman þeim að þakka. Mér finnst svolítið umhugsunarfni á hvaða leið Samtökin eru ef þeim finnst það sjálfsagt mál. Það er nefnilega þannig að þessi réttindi fengust ekki af sjálfu sér, það kostaði mikla og harða baráttu og það eru ýmis teikn á lofti í heiminum sem benda til þess að ofsóknir gegn hommum séu aftur að aukast. Það þarf að vera vakandi fyrir því svo sagan endurtaki sig ekki.“
Hinn eðlilegi gangur lífsins
En hvernig líður þér með það að þetta „barn“ þitt sem Samtökin ’78 óneitanlega eru sé orðið fertugt, ertu ekki stoltur af þínum hlut?
„Jú, jú, ég get alveg verið það, ef maður þarf endilega að vera stoltur af einhverju,“ segir Hörður og hlær. „Ég er bara ekki þannig gerður að að ég sé hoppandi af gleði yfir einhverjum hlutum, ég er frekar þurr bara þegar aðrir fagna. Ég hef ekki lengur nein tengsl við Samtökin ’78 en ég losna auðvitað aldrei undan því að hafa verið sá sem stofnaði þau og gengst glaður við því.“
Spurður hvernig hann ætli að fagna tímamótunum upplýsir Hörður að hann hafi verið beðinn um að syngja nokkra söngva í kaffisamsæti sem haldið verður í húsnæði Samtakanna við Suðurgötu 3 þann 9. maí til að halda upp á afmælið.
„Þau hringdu í mig og báðu mig að gera þetta,“ segir hann hógvær. „Og ég geri það auðvitað með gleði, þótt einhverjir verði kannski ekki ánægðir með það. Að öðru leyti hugsa ég ekki lengur mikið um þessi mál. Ég var forgöngumaður í stofnun þessara samtaka, en svo tóku aðrir við stjórninni og það er bara nákvæmlega eins og það á vera. Hinn eðlilegi gangur lífsins.“
Páll Óskar, söngvari og leikari, deilir með lesendum nokkrum sakbitnum sælum.
„Það skal tekið fram að ég fæ enga sektarkennd yfir þessu myndum. Ég skammast mín ekki baun fyrir kvikmyndasmekk minn og upplifi bara sælu við áhorf þessara mynda. Almenni kvikmyndaáhorfandinn myndi spyrja sig hvern andskotann hann væri að horfa á, en ég er ekki hann,“ segir Páll Óskar ákveðinn.
Lady Terminator (Jalil Jackson – Indónesía 1988)
Ekki fokka í þessari dömu. Indónesía dældi frá sér drasli á níunda áratugnum og þessi mynd er sú besta af þeim. Ver- og hefnigjörn sjávargyðja vaknar til lífsins úr löngum dvala, dressar sig upp í leður, reddar sér hríðskotabyssu (sem tæmist aldrei) og drepur alla karlmenn sem á vegi hennar verða – eftir að hún sængar hjá þeim auðvitað. Mögnuð blanda af kvenkyns Terminator og Kill Bill. Ég þurfti oft að spóla til baka og klípa mig.
Bring it on (2000)
Godzilla vs. The Smog Monster! (Yoshimitsu Banno – Japan 1971)
Upprunalegu japönsku Godzilla-myndirnar eru ekkert minna er stórkostleg listaverk. Maður dáist að öllum litlu handgerðu „stórborgunum“ sem er svo rústað af manni í gúmmíbúningi. Hér berst Godzilla við útblástur bíla og verksmiðja – mengun sem safnast saman af mannavöldum og stökkbreytist í risaskrímsli með tvö augu og karakter. Þú byrjar að flokka plast og pappír eftir þessa mynd.
Bring it on (2000)
Mad Foxes (Paul Grau – Sviss/Spánn 1981) Upprunalegur titill: Los Violadores
Eurodrasl gerist ekki betra. Mótorhjólagengi aðhyllist nasisma, misþyrmir og drepur fólk. Kærasti ungrar konu leitar hefnda og lagar á sér hárið á meðan. Þetta er ein af fáum myndum sem ég hef séð í lífinu sem hefur ekkert „continuity“. Engin sena meikar sens við næstu senu. Hljóðsetning myndarinnar yfir á enska tungu er nauðsynlegur partur af stuðinu. Myndin sem þú þarft að sjá með berum augum til að trúa að hún hafi verið gerð.
Bring it on (2000)
Double Agent ’73 (Doris Wishman – Bandaríkin 1973)
Chesty Morgan er brjóstgott svar við Bond. Elsku stúlkan var með alvörurisabrjóst sem náðu niður að hnjám. Hér leikur Chesty njósnara sem á að uppræta og drepa heróínsmyglara og taka myndir af líkunum. Myndavél er plantað í vinstra brjóstið á henni og löngu fyrir daga Instagram fær hún milljón ástæður til að fara úr brjóstahaldaranum og taka myndir af öllu því sem hún drepur, sér og borðar. Með flassi. Doris Wishman var eini kvenleikstjóri sögunnar sem sérhæfði sig í B-myndum og ferill hennar er eins og fullkomlega ótrúleg lygasaga.
Leikkonan Jördis Richter landaði hlutverki í hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Fortitude.
„Fortitude er einn af mínum uppáhaldssjónvarpsþáttum um þessar mundir þannig að ég varð ótrúlega glöð að heyra að ég hefð hreppt hlutverkið,“ segir Jördis. „Reyndar var ég kölluð í áheyrnarprufu fyrir allt annað hlutverk, sem kom svo á daginn að hæfði mér alls ekki og þá buðu framleiðendurnir mér þessa rullu. Þeir vildu bara ólmir fá mig í þættina.“
Í Fortitude fer Jördis með hlutverk nýrrar persónu, Trudy, barþjóns í bænum sem hún lýsir í stuttu máli sem einskonar sáluhjálpara. Hún viðurkennir að það hafi verið svolítið skrítið að koma ný inn í þættina á þriðju og síðustu seríu en sér hafi verið afskaplega vel tekið af öllum í tökuliðinu. Það sé gaman á setti og lærdómsríkt að leika á móti stórstjörnum á borð við Dennis Quaid.
„Reyndar var ég kölluð í áheyrnarprufu fyrir allt annað hlutverk, sem kom svo á daginn að hæfði mér alls ekki og þá buðu framleiðendurnir mér þessa rullu. Þeir vildu bara ólmir fá mig í þættina.“
„Dennis er almennilegur og fyndinn náungi og það er gaman að fylgjast með honum leika. Leikararnir eru bara allir æðislegir,“ lýsir hún og bætir við að uppáhaldspersónan hennar í þáttunum sé drykkfelldi lögreglustjórinn Dan Anderson sem er leikinn af írska leikaranum Richard Dormer. „Meðal annars af því að það er svo áhugavert að fylgjast með Richard að störfum,“ útskýrir hún. „Hvað hann á auðvelt með að detta í og úr karakter og hvernig hann beitir röddinni, það er ótrúlega áhugavert að verða vitni að því. Það veitir manni svo mikinn innblástur.“
Jördis, sem er þýsk en hefur verið búsett á Íslandi síðustu ár, er alls engin nýgræðingur þegar kemur að spennuþáttum því hún hefur meðal annars farið með hlutverk lögreglukonu í vinsælli þýskri sjónvarpsseríu, Komissarin Lucas, og segist í gríni því vera orðin vön því að vera innan um gerviblóð og lík. Það sem Fortitude hafi hins vegar umfram aðra spennuþætti sem hún hefur leikið í sé hvað framleiðslan er dýr og vönduð. Meira að segja byssurnar eru raunverulegri en hún á að venjast. „Og það er alltaf verið að draga fram riffla,“ segir hún og hlær.
Hún bendir á að kostirnir við svona stóra framleiðslu séu fleiri. „Til dæmis fáum við öll lengri tíma til að kynnast og vinna hlutina saman sem gerir vinnsluna þægilegri. Svo er eitt af því skemmtilega við þetta verkefni hvað þættirnir fá góða dreifingu, því eftir því sem þeir eru sýndir víðar eru meiri líkur á að fleiri sjái þá. Og leikarar kunna auðvitað alltaf að meta aukinn sýnileika.“
Fólki reynist oft erfitt að sinna daglegri hreyfingu og nefnir þá helst tímaskort, þreytu, áhugaleysi og óöryggi sem ástæður. Mikilvægt er að gefa sér tíma til þess að hreyfa sig, þótt það sé ekki nema í hálftíma á dag, því hreyfing eykur líkamshreysti, vellíðan og lífsgæði almennt. Hægt er að hreyfa sig hvar og hvenær sem er og oft án lítils kostnaðar – engar afsakanir.
Úr kyrrsetu í fimm kílómetra hlaup
Það getur reynst mörgum erfitt að byrja að hlaupa. Couch to 5K er hlaupaprógram sem hægt er að hlaða niður á snjallsíma og er hannað með því markmiði að þjálfa fólk hægt og rólega upp í að geta hlaupið 5 km samfleytt.
Heimatilbúin lóð
Það er algjör óþarfi að kaupa dýr handlóð þegar maður er að byrja. Hægt er að nýta ýmsa hluti sem til eru á heimilinu sem lóð, til dæmis niðursuðudósir. Einnig er sniðugt að fylla plastflöskur af vatni en eins lítra flaska er um það bil 1 kg.
Sippaðu eins og þú gerðir sem krakki
Að sippa er mjög áhrifarík leið til að bæta þolið því að tíu mínútur af rösku sippi veitir álíka þoláhrif og 30 mínútur af skokki. Það sem meira er að þetta reynir á langflesta vöðva líkamans og er rosalega skemmtileg hreyfing.
Kíktu á bókasafnið
Hægt er að fá fleira en skáldsögur og fræðirit á bókasöfnum landsins. Flest bókasöfn eru einnig með bæði líkamsræktardiska og -bækur til útláns. Kíktu á næsta bókasafn og sjáðu hvað er til.
YouTube
Á YouTube er ógrynni af alls kyns skemmtilegum myndböndum. Margir vita þó ekki að þar má líka finna ókeypis líkamsræktarmyndbönd. Sem dæmi má nefna Blogilates-rásina þar sem pílates-kennarinn Cassey Ho setur inn hressileg og aðgengileg myndbönd.
Upp og niður stiga
Mikilvægt er að nýta öll tækifæri sem gefast til hreyfingar. Einfalt er að venja sig af því að fara með lyftunni upp eða niður, sama hvort um er að ræða eina hæð eða fimm, það mun koma þér á óvart hversu fljótt það venst.
Út að labba með hundinn
Þeir sem eiga hund kannast við að neyðast til að fara með þá í göngutúr, allavega einu sinni á dag. Þeir sem ekki eiga hund geta þó tekið sér þetta til fyrirmyndar og miðað við að ganga að minnsta kosti hálftíma á dag.
Auðveldar æfingar
Það eru til fjölmargar styrktaræfingar sem hægt er að gera heima, jafnvel á meðan maður horfir á sjónvarpið. Sem dæmi um slíkar æfingar má nefna: hnébeygjur, armbeygjur, framstig, magaæfingar og bakæfingar.
Aðeins nokkrir dagar eru þar til Eurovision-keppnin hefst fyrir alvöru í Lissabon í Portúgal, en keppnin er haldin dagana 8. til 12. maí næstkomandi.
Evrópskir áhorfendur fá að velja sér sigurvegara ásamt dómnefndum frá öllum Evrópulöndunum og Ástralíu, en fimm reynsluboltar sitja í íslensku dómnefndinni sem leggur sitt mat á öll framlögin sem keppa.
Í dómnefnd eru tónlistarkonan Védís Hervör Arnadottir, Hlynur Ben, ritstjóri og stofnandi garg.is, Jón Rafnsson tónlistarmaður, Erla Jónatansdóttir, kennari og söngkona, og Hannes Friðbjarnarson, trommuleikari og fyrrum Eurovision-fari.
Sá síðastnefndi fór fyrir Íslands hönd í Eurovision-keppnina árið 2013 í Malmö í Svíþjóð þar sem Eyþór Ingi Gunnlaugsson söng lagið Ég á líf. Þá var Hannes í hlutverki bakraddasöngvara. Eftir keppnina viðraði Hannes þá hugmynd að Ísland tæki sér pásu frá Eurovision vegna fjárskorts RÚV. Skemmst er frá því að segja að hugmyndin féll í grýttan jarðveg hjá Eurovision-aðdáednum, svo sem Friðriki Ómars og Regínu Ósk sem skipuðu dúettinn Eurobandið og gerðu garðinn frægan í Serbíu árið 2008.
Það er ekki bara Ísland sem skipar fyrrum Eurovision-stjörnur í dómnefnd.
Danir stóla til dæmis á Emmelie de Forest sem sigraði með laginu Only Teardrops í Malmö árið 2013. Austurríkismenn leggja traust sitt á Nathan Trent sem endaði í 16. sæti í keppninni í fyrra með lagið Running on Air og Norðmenn eru með Hanne Haugsand, sem var í tríóinu Charmed sem keppti árið 2000 með lagið My Heart Goes Boom og lenti í 11. sæti, svo fátt eitt sé nefnt.
Eurovision-farinn Ari Ólafsson er búinn að setja í loftið endurhljóðblandaða útgáfu af Eurovision-laginu Our Choice, sem hann flytur í keppninni í næstu viku.
Lagið var endurhljóðblandað af upptökuteyminu StopWaitGo og er komið í ansi hreint poppaðan dansbúning. Ari frumflutti útgáfuna á Facebook-síðu sinni og hefur verið hlustað á hana mörg þúsund sinnum.
StopWaitGo er eftirsótt upptökuteymi og eru meðlimir þess ekki ókunnugir Eurovision. Þeir áttu til dæmis þau tvö lög sem kepptust um að komast utan í keppnina árið 2015, bæði Lítil Skref, eða Unbroken, með Maríu Ólafsdóttur og Í síðasta skipti, eða Once Again, flutt af Friðriki Dór. Eins og margir muna var það fyrra lagið sem keppti fyrir Íslands hönd í Eurovision en Friðrik Dór fékk að fljóta með í bakröddum.
Ari stígur á sviðið í Lissabon næstkomandi þriðjudag, þann 8. maí, í fyrri undanúrslitariðlinum. Ari er númer tvö í röðinni, en veðbankar og Eurovision-spekúlantar eru flestir sammála um að hann komist ekki upp úr riðlinum. Ef svo fer að Ari vinni hjörtu Evrópubúa líkt og hann vann hjörtu Íslendinga keppir hann í úrslitunum laugardagskvöldið 12. maí.
Félagasamtökin Blátt áfram hafa hrint af stað landssöfnun undir yfirskriftinni „Vertu verndari“ í því skyni að efla fræðslu og forvarnir gegn kynferðisofbeldi á börnum. Sigríður Björnsdóttir, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Blátt áfram, segist hafa upplifað mikla viðhorfsbreytingu hjá almenningi gagnvart þessum erfiða málaflokki á þeim 14 árum sem samtökin hafa starfað, en segir að enn sé af nógu að taka eins og #metoo-byltingin hafi sýnt fram á.
„Þetta er allt annað í dag. Það er kominn miklu betri skilningur á kynferðisofbeldi og þeim skelfilegu afleiðingum sem það getur haft og við sem samfélag almennt miklu meðvitaðri um hvað það er mikilvægt að koma í veg fyrir það,“ segir Sigríður, spurð hvernig henni finnist viðhorfið gagnvart umræðunni um kynferðisofbeldi á börnum hafa breyst frá því að samtökin voru stofnuð.
„Fólk er almennt bæði betur upplýst og tilbúnara að afla sér fræðslu en áður,“ heldur hún áfram. „Það hringir til okkar, leitar sér hjálpar og breytir viðbrögðum sínum eftir að fengið forvarnarfræðslu hjá Blátt áfram, sem er besta uppskera viðfangsefna okkar,“ segir hún og nefnir sem dæmi að síðastliðinn vetur hafi Blátt áfram farið af stað með nýtt verkefni ætlað foreldrum og aðstandendum barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og því hafi verið vel tekið. „Talið er að um 17 til 27 prósent barna verði fyrir kynferðisofbeldi eða áreitni fyrir 18 ára aldur og foreldrar þessara barna eiga oft um sárt að binda. Telja sig ekki hafa staðið sig vel í foreldrahlutverkinu og eru af þeim sökum stundum uppfullir af skömm, reiði og sektarkennd. Við ákváðum að bjóða upp á stuðingshóp fyrir foreldra og aðstandendur því meðferð barna fer töluvert eftir því hvernig foreldrum tekst að halda utan um eigið líf,“ útskýrir hún.
„Árið 2014 sendum við Velferðarráðuneytinu drög að aðgerðaráætlun fyrir forvarnir gegn kynferðisofbeldi á landsvísu en ráðamenn eru fyrst núna að taka við sér og átta sig á mikilvægi forvarna til langs tíma.“
Hún nefnir líka námskeiðið „Verndarar barna“ sem er eitt af helstu verkefnum Blátt áfram og er gagnreynt efni byggt á rannsóknum. „Þetta er markviss og öflug fræðsla fyrir fullorðna, foreldra og aðila sem starfa með börnum og ungmennum. Fræðsla sem stofnanir og sveitafélög nýta sér til að efla þekkingu og færni meðal starfsfólks við störf sín og hjálpar því að taka samstundis á óæskilegri hegðun annarra fullorðinna og hjálpar börnum að greina strax frá ofbeldi.“
Ráðamenn fyrst núna að taka við sér
Sigríður segir það vera góða þróun að sveitarfélög og stofnanir séu farin að taka ábyrgð á velferð barna og ungmenna með markvissri þjálfun starfsstétta sem starfa með þessum aldurshópum. „Það er góð tilfinning að sjá slíkan árangur en ég viðurkenni samt sem áður að ég hefði viljað sjá fleiri breytingar í samfélaginu og þær mættu hafa gerst hraðar og fyrr.
Árið 2014 sendum við til dæmis Velferðarráðuneytinu drög að aðgerðaráætlun fyrir forvarnir gegn kynferðisofbeldi á landsvísu en ráðamenn eru fyrst núna að taka við sér og átta sig á mikilvægi forvarna til langs tíma. Fólk er að átta sig á því að forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börunum eru líka forvarnir gegn sjálfsvígum, áfengis- og vímuefnanotkun, matarfíkn og öðrum afleiðingum sem valda fólki með áfallasögu úr æsku meiri vanda, langt fram á fullorðinsárin. Að áföll í æsku hafa langvarandi afleiðingar á allt lífið og með því að fækka slíkum áföllum höfum við áhrif á svo margt fleira en bara einstaklinginn sjálfan. Að starfið sem Blátt áfram innir af hendi og baráttan gegn kynferðisofbeldi á börnum er ekki stakt átaksverkefni.“
Íslendingar stutt komnir í baráttunni
Spurð hvort það sé ekki búið að vera strembið að standa í brúnni í öll þessi ár viðurkennir Sigríður að vissulega hafi það oft tekið á. „Það er krefjandi að vera í fararbroddi með umræðu um jafnvandasamt og sársaukafullt málefni og kynferðisofbeldi á börnum,“ segir hún. „En á sama tíma er gott að sjá árangur af starfinu. Fólk kemur og þakkar okkur fyrir að vera með fræðslu og segir að samtökin hafi bjargað sér. Eins og þegar ung kona stöðvaði mig á förnum vegi fyrir skömmu og sagði mér frá því að vegna fræðslu sem hún hafði fengið hjá Blátt áfram í skólanum sínum þegar hún var yngri hafi hún strax getað greint frá ofbeldi sem hún varð síðar fyrir. Það er gefandi að heyra svona sögur. Að fá að vita að við erum að bjarga mannslífum.“
Heldurðu að þessari baráttu, baráttunni gegn kynferðisofbeldi á börnum, komi einhvern tímann til með að ljúka? „Ég held að henni ljúki ekki, nei,“ svarar hún, „en verkefnin breytast og við sjáum það á þeim þjóðum sem eru komnar lengra en við Íslendingar í forvörnum gegn kynferðisofbeldi hvað við erum raunverulega stutt á veg komin í að uppræta ofbeldi á börnum.“
Gerendur ekki með horn og hala
En hvernig sérðu fyrir þér að við getum unnið betur á þessu samfélagsmeini sem kynferðisofbeldi er? „Samfélagsmeinið er til dæmis vandi okkar að horfast í augu við hverjir það eru sem brjóta gegn börnum. Að átta sig meðal annars á því að gerendurnir eru ekki með horn og hala. Að flestir sem brjóta gegn börnum eru tengdir þeim með einhverjum hætti. Ef við viljum stöðva ofbeldið þurfum við að taka það með inn í myndina. Við þurfum að vera tilbúin að bregðast við óþægilegri hegðun annars fullorðins fólks gagnvart börnum og þannig vernda börnin,“ svarar hún og getur þess að ein leiðin til þess sé einmitt að leggja Blátt áfram lið.
„Samfélagsmeinið er … vandi okkar að horfast í augu við hverjir það eru sem brjóta gegn börnum. Að átta sig meðal annars á því að … flestir sem brjóta gegn börnum eru tengdir þeim með einhverjum hætti.“
„Blátt áfram er rekið með styrkjum og frjálsum framlögum einstaklinga, fyrirtækja og félaga. Fleiri aðilar styðja við bakið á okkur sem störfum að forvörnum gegn kynferðisofbeldi með ýmsum hætti þótt hann sé sjaldnast nægur. Þess vegna skiptir landssöfnun félagsins sem er í gangi núna miklu máli. Lyklakippan sem er til sölu felur í sér stuðning til okkar. Salan er mikilvægur liður í því að afla fjár til að sinna brýnum verkefnum sem eru mörg og fjölgar árlega. Hún er liður í því að hjálpa öðrum til betra lífs. Liður í því að hjálpa samfélaginu að bæta tilveru okkar allra. Í því að hjálpa okkur að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi á börnum.“
Stöðvum ofbeldi gegn börnum
Að sögn Sigríðar vita flestallir Íslendingar nægilega mikið um þessi mál í dag, til dæmis með tilkomu nýlegra byltinga, eins og #metoo þar sem fjöldi kvenna hefur stigið fram og greint frá kynferðisáreiti og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir, margar hverjar á á barnsaldri, til að vera meðvitaðir um nauðsyn þess að koma í veg fyrir að slíkt ofbeldi eigi sér stað. „Við vitum nægilega mikið um það hvernig það gerist og þá er komin tími til að koma í veg fyrir það. Börn eiga ekki að þurfa að verða fyrir þessu ofbeldi,“ segir hún. „Þess vegna hvet ég sem flesta að gerast „verndarar“ með því að styðja Blátt áfram í því að stöðva það, þetta ofbeldi á börnum, til dæmis með því að kaupa fyrrnefndu lyklakippuna sem er til sölu í landssöfnun félagsins eða með því að styrkja starfssemi þess með mánaðarlegum greiðslum. Tækifærið sem við höfum núna til þess að reyna að vinna gegn því er einstakt fyrir samfélagið okkar. Tíminn er núna.“
Við hjá Vogue fyrir heimilið bjóðum upp á fjölbreytt úrval af gluggatjöldum. Hægt er að panta efni frá tveimur birgjum, Köbe og Vriesco. Báðir aðilar hafa mjög mikið úrval af fallegum og vönduðum gluggatjaldaefnum. Við erum með sýningarlengjur í versluninni og einnig svokallaða „hengera“ en þar eru öll sýnishornin af þeim efnum sem boðið er upp á.
Velúr móðins í dag
Við sérsaumum bæði fyrir einstaklinga og hótel en það færist allaf meira í aukana að fólk velji sér gluggatjöld og það verður æ vinsælla að fólk velji sér þyngri efni og í litum. Velúrefnin eru mjög vinsæl en hvítt eða natur voal er alltaf inni.
Veggfóður kemur sterkt inn
Köbe býður einnig upp á úrval fallegs veggfóðurs sem hægt er að velja við gluggatjöldin og einnig er hægt að fá efni sem hægt er að nota í bólstrun. Í dag er aftur orðið mjög vinsælt að fegra falleg rými með mjúku og aðlaðandi veggfóðri. Híbýlin verða hlýlegri og mýkri með veggfóðrinu.
Við vinnum í lausnum og framleiðum fyrir þig
Einnig býður Vogue fyrir heimilið upp á flestar aðrar lausnir fyrir gluggann; screen, myrkvunarrúllur, strimla og þess háttar. Ef ekki allar þá flestar aðrar lausnir. Fagmennskan er alltaf höfð að leiðarljósi og það er ávallt framleitt eftir málum.
VOGUE FYRIR HEIMILIÐ
Síðumúla 30
108 Reykjavík
Sími: 533-3500 www.vogue.is
VOGUE FYRIR HEIMILIÐ
Hofsbót 4
600 Akureyri
Sími: 462-3504 www.vogue.is
Þegar fasteignaeigendur eru í söluhugleiðingum reynist þeim oft erfitt að verðmeta eignir sínar og fagna því að geta fengið faglega og trausta ráðgjöf hvað ber að hafa í huga þegar fasteignir eru verðlagðar, með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Einnig er mikið um að fasteignaeigendur vilji fara út í endurfjármögnum á lánum sínum og tryggja að þeir séu á hagstæðustu kjörum sem í boði eru hverju sinni.
Fasteignasalan Eignalind hefur undanfarin tíu ár boðið upp á ráðgjöf fyrir fasteignaeigendur og hafa þessi verðmöt færst mikið í vöxt á síðustu árum og æ fleiri leita eftir ráðgjöf. Ráðgjöfin sem boðið er upp á ber heitið Verdmat.is.
Við hittum Sigurð Odd Sigurðsson, löggiltan fasteignasala hjá Verdmat.is, og fræddumst frekar um þessa ráðgjöf og hvernig hún fer fram.
„Það eru fjölmargir sem leita til okkar og beiðnum um ráðgjöf fer fjölgandi. Hvernig ætli þetta verdmat.is virki og hvernig ber maður sig að? Hver er munurinn á verðmati vegna sölu eða vegna endurfjármögnunar? eru þær spurningar sem brenna á vörum þeirra sem til okkar leita,“ segir Sigurður.
Endurfjármögnum á lánum í stöðugri aukningu
Verðmat vegna endurfjármögnunar á lánum hefur aukist mjög mikið á síðastliðnum árum og ástæða þess er að nú er hagstætt að breyta lánum og vextir eru lægri en þeir voru fyrir nokkrum árum þegar áhvílandi lán voru tekin. Hvernig fara þessi verðmöt fram?
„Verðmöt vegna endurfjármögnunar eða skrifleg verðmöt, verða að vera skrifleg og undirrituð af löggiltum fasteignasala, en þá þarf fasteignasali frá okkur að heimsækja viðkomandi fasteign og taka niður allar upplýsingar um eignina og nákvæma lýsingu á fasteigninni. Síðan er útbúið skjal sem eigandi getur farið með í sinn viðskiptabanka eða lífeyrissjóð eða þar sem hann ætlar að nota verðmatið en verðmat getur einnig verið út af skilnaðarmálum, erfðamálum og fleira. Við erum að bjóða þessi verðmöt á 20.000 krónur og margir af viðskiptavinir okkar hafa sagt að þetta sé það ódýrasta á markaðinum,“ segir Sigurður.
Frí og skuldbindingarlaus þjónusta
Þið bjóðið jafnframt upp á verðmat fyrir einstaklinga í söluhugleiðingum, hvernig kviknaði sú hugmynd hjá ykkur bjóða upp á þessa þjónustu?
„Það er rétt, við erum líka með verðmat fyrir fólk í söluhugleiðingum og hugmyndin kviknaði þannig fyrst af verdmat.is því oft voru svo margir að spá og spekúlera að selja eða skipta um húsnæði en voru ekki alveg vissir hvað þeir ætluðu að gera og vildu ávallt fá að vita fyrst hvað þeir fengju fyrir eignina sína áður en farið var á fullt. Við ákváðum því að bjóða upp á þessa ráðgjöf inni á verdmat.is og nú er hægt panta verðmat á heimasíðunni okkar www.verdmat.is eða hringja í okkur. Við bregðumst fljótt við og komum yfirleitt daginn eftir eða þegar það hentar eigandanum. Þá skoðum við eignina og tökum síðan verðmatsfund daginn eftir. Við förum vel yfir hverja eign og reynum að koma með raunhæft verð fyrir hverja þá eign sem við metum. Síðan ákveður eigandi fasteignarinnar hvað hann gerir, hvort hann setur strax í sölu eða bíður einhvern tíma. Það er nú oft svo að fasteignaeigendur biðja okkur um að gefa sér tilboð í sölulaun sem við glaðir gerum og reynum að bjóða öllum okkar viðskiptavinum hagstætt verð,“ segir Sigurður og brosir. Hann bætir jafnframt við að þó að viðkomandi fasteignaeigandi sem nýtir sér þjónustuna og ákveði að skipta ekki við þá eða bíði með að selja, sé hann ekki rukkaður um neitt af þeirra hálfu og þessi þjónusta er frí og skuldbindingalaus.
„Við erum nú þegar með stóran hóp ánægðra viðskiptavina og margir hafa orðið samband beint við okkur af því að einhver mælti með þjónustu okkar sem er auðvitað mjög ánægjulegt. Við erum ávallt til þjónustu reiðubúnir.“
Gaman er að geta þess að Verdmat.is er tíu ára á þessu ári og þar starfa fasteignasalar með áratuga reynslu af fasteignamarkaðinum.
Áhugasamir geta kynnt sér það sem í boðið er nánar hér / Sími 616 8880
Innbrotahrina erlendra glæpagengja stöðvuð. Þýfið var flutt úr landi eða hent. Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir dæmi um að fólki hafi liðið illa á heimilum sínum eftir innbrot og flutt.
„Við náðum að stöðva þá sem stóðu að stórum hluta þessara innbrota. Þetta voru sjö einstaklingar frá Austur-Evrópu og einn sem hafði verið búsettur hér lengi og var með íslenskt ríkisfang. Einn var 16 ára og hefur verið sendur til síns heima en aðrir hafa verið úrskurðaðir í farbann, gæsluvarðhald og bíða ákæru,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er búið,við sjáum ekki þessa hópa lengur.“
Skúli segir lögreglu hafa tekist að endurheimta hluta af þýfi við húsleitir og handtökur. Ljóst sé að þjófarnir hafi flutt eitthvað úr landi og selt hluta þess. Það sem þjófarnir töldu ekki fást mikið fyrir hentu þeir. Tilfinningalega tjónið er mest, að mati Skúla. „Það eru dæmi um að fólk hafi ekki getað búið í húsum sínum lengur, selt það og flutt.“
„Það eru dæmi um að fólk hafi ekki getað búið í húsum sínum lengur, selt það og flutt.“
Innbrotahrina gekk yfir höfuðborgarsvæðið fyrir jól og inn í árið. Helst var brotist inn á heimili fólks, sérstaklega fjölgaði innbrotum í sérbýli í Garðbæ, Kópavogi, Grafarvogi og Mosfellsbæ. Skúli segir lögregluna hafa greint af aðferðunum að herjað var skipulega á ákveðin hverfi. Aðferðirnar við innbrotin og verksummerki voru svipuð. Farið var inn bakatil hjá fólki þegar enginn var heima yfir hábjartan dag. Farið var inn í svefnherbergi og stolið skartgripum, peningum og minni raftækjum.
„Verksummerki sýndu greinilega að fleiri en einn var á ferðinni. Okkur grunaði strax að um væri að ræða erlenda brotamenn því við vorum með myndir af brotamönnum sem enginn okkar kannaðist við. Þýfi var heldur ekki að ganga kaupum og sölum. Við fundum reyndar þýfi hjá skartgripasala sem hafði keypt það í góðri trú,“ segir Skúli.
Ábendingar leiddu til handtöku
Slíkur var faraldurinn að lögreglan bað fólk að vera á varðbergi og fylgjast með mannaferðum. Árangurinn var góður og bárust lögreglunni ábendingar sem leiddu til þess að þjófagengið var handtekið í tveimur umfangsmiklum aðgerðum í Setbergshverfinu í Hafnarfirði og í Garðabæ. Átta til níu lögreglubílar voru notaðir við aðra handtökuna. Þýfi fannst á vettvangi auk muna sem stolið var úr sumarbústöðum á Vesturlandi og því ljóst að þjófarnir voru sökudólgarnir í innbrotum þar.
„Ég var mjög ánægður með það hvernig lögreglan stóð sig við handtökurnar. Þessir einstaklingar áttu enga möguleika á því að komast burt og voru handteknir á hlaupum,“ segir Skúli. Þegar þjófarnir voru handteknir voru tilkynningar um innbrot í sérbýli, einbýlishús og ráðhús, orðnar 70 talsins.
En hvernig á að komast hjá því að kaupa þýfi?
„Yfirleitt er það þannig að fólki er að bjóðast verðmætir hlutir á ótrúlega lágu verði. Þegar þannig háttar til þá á fólk að vera á varðbergi, gæti verið um þýfi að ræða. Fólk má ætla að um sé að ræða þýfi,“ segir Skúl aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Hér má sjá þróun innbrota í fyrirtæki/verslanir/stofnanir og heimili. Eins og myndin sýnir þá fjölgaði innbrotum talsvert á þessu ári. En hrinunni lauk snarlega þar sem grafið fer niður. Innbrot hafa verið á svipuðu róli síðustu árin og hefur lögreglan séð það verra, svo sem á árunum eftir hrun.
Stjórn framboðsins Okkar Hveragerði er ekki beint í skýjunum eftir að ungir sjálfstæðismenn í bænum keyptu lén framboðsins í lok mars.
Okkar Hveragerði er nýr listi skipaður fólki úr Samfylkingunni, Bjartri framtíð og óháðra sem ætlar fram í sveitarstjórnarkosningunum í lok mánaðar. Frambjóðendurnir stofnuðu Facebook-síðu Okkar Hveragerði 28. mars síðastliðinn. Daginn eftir tryggði stjórn Asks, félags ungra sjálfstæðismanna í Hveragerði sér hins vegar lénið www.okkarhveragerdi.is og vísaði allri umferð þaðan yfir á vefsíðu Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði.
„Það kom okkur mjög spánskt fyrir sjónir að lénið væri virkilega laust á þessum tímapunkti og kom þá upp í einhverjum félagsmönnum örlítill ungliðapúki sem vildi setja fútt í kosningabaráttuna,“ segir Laufey Sif Lárusdóttir, formaður Asks. Hún bendir á að Askur og fleiri í Hveragerði hafi notað slagorð nýja framboðsins í sínu starfi í gegnum tíðina.
Laufey bendir líka á að undarlegt sé að stjórn framboðsins Okkar Hveragerði hafi ekki tryggt sér lénið fyrr. ,,Í nútímasamfélagi er þetta eitt af því fyrsta sem maður gerir við stofnun fyrirtækis eða pólitísku framboði. Þú finnur nafn og kannar hvort lénið sé laust. Ef maður gerir það ekki þá gerir einhver annar það,“ segir hún.
Spurð hvort stjórn framboðsins Okkar Hveragerði hafi haft samband við stjórn Asks til að þess að fá lénið segir hún svo ekki vera.
Aðalmynd: Laufey Sif Lárusdóttir segir fútt komið í kosningabaráttuna í Hveragerði.
Trans mennirnir Alexander Björn Gunnarsson og Davíð Illugi Hjörleifsson Figved fengu úthlutað kvenkyni við fæðingu en létu leiðrétta kyn sitt og lifa nú loksins sem þeir sjálfir. Þeir segja mikinn mun á kröfum sem samfélagið gerir til kynjanna. Konur eigi að vera stilltar en karlmenn megi hafa hátt.
„Konur eiga að vera settlegar og ekki láta mikið fyrir sér fara. Ég er þannig frá náttúrunnar hendi en nú er meiri pressa á mig að vera sýnilegri og taka meira pláss. Ég upplifi það mjög sterkt að það voru gerðar miklu meiri kröfur til mín, áður en ég kom út sem strákur, að haga mér vel, standa mig vel og vera 110% fullkominn. Í dag er ég yfirleitt lesinn sem karlmaður og þá er mér alveg fyrirgefið ef ég geri mistök, því allir geri mistök. En ef maður er stelpa þá gera ekki allir mistök,“ segir Alexander. Alexander verður þrítugur í sumar og var mjög opinskár í fjölmiðlum um sitt kynleiðréttingarferli. Hann bloggaði til að mynda um typpið á sér á sínum tíma og hefur lagt sín lóð á vogarskálar þess að opna umræðu um transfólk.
„Maður á bara að þegja og ekki vera fyrir,“ segir sessunautur Alexanders, Davíð Illugi eða Illugi eins og hann er oftast kallaður. Illugi er áratug yngri en Alexander en hann hefur verið búsettur í Noregi í um átta ár. Hann hefur spilað tölvuleiki um árabil og finnur vel fyrir kynjamisrétti og -mun í þeim heimi.
„Þegar að fólk leit á mig sem stelpu og ég skaut manneskju í byssuleik þá varð allt kreisí af fögnuði því fólk bjóst ekki við neinu af stelpu. En ef ég skýt fáa í byssuleik núna verð ég bara skammaður og dissaður, það þykir ekki nógu gott. Í tölvuleikjaheiminum eru karlmenn sem spila tölvuleiki kallaðir gamers, en konur heita gamer girls. Það var alltaf verið að adda mér þegar var litið á mig sem stelpu og alltaf verið að tala um útlitið mitt en ég fann að ég var ekki einn af hópnum. Strákarnir voru ekkert að spá í taktíkinni minni í leiknum og buðu mér í alls kyns teymi bara af því að ég var stelpa. Svo var mikið talað um kynlíf og ég spurður oft hvort ég ætti kærasta,“ segir Illugi, en Alexander fann ekki mikið fyrir kynferðislegri áreitni þegar hann lifði lífinu sem kona
„Ég kom út sem lesbía þegar ég var 16 ára og hef alltaf verið á karlmannlegri hlið, útlitslega séð. Karlmenn töluðu aldrei mikið um útlitið mitt en fann ég meira fyrir því að þeir komu til mín og sýndu mér gellur. En ég hef séð svo mörg dæmi um kynferðislega áreitni í kringum mig og það er fáránlegt að karlmenn leyfi sér svona hluti,“ segir Alexander.
„Já, eins og áreiti á vinnustað,“ skýtur Illugi inn í. „Það að þú þurfir að umbera að karlmaður sem er yfirmaður þinn sé að káfa á þér á vinnustað þar sem þú þarft að vera á hverjum degi er hræðilegt. Það er mjög algengt og konur bara taka því. Ég hef oft orðið vitni að slíku og stundum langar mig að fara til kvenna og segja þeim að standa upp fyrir sér sjálfum.“
Og Alexander bætir við: „Ég held að konur upplifi sig oft vanmáttugar og varnarlausar gagnvart karlmönnum.“ Illugi segir að það tengist uppeldinu.
„Þær eru bara aldar upp þannig. Karlmenn mega vera eins og þeir eru. Þeir mega vera háværir og haga sér eins og fífl. Ég er rosalega oft fúll yfir því að vera karl. Stundum þoli ég það ekki en svo er ég líka mjög glaður að hafa geta upplifað þá hlið að vera kvenmaður. Það gerir mig að betri manneskju. Pældu í því ef ég hefði byrjað að skilgreina mig sem karlmann þegar ég var fjögurra ára og hefði verið alinn upp sem karlmaður. Ég hefði orðið allt önnur manneskja en ég er núna. Ég er ánægður að hafa upplifað hlið kvenmanna svo ég sé ekki þessi manneskja sem maður er alltaf að forðast,“ segir hann og Alexander slær á létta strengi. „Já, það hjálpar mér mikið í samskiptum við aðrar stelpur og kærustuna mína. Bara það að vita hvernig það er að vera með túrverki. Ég held að það myndi hjálpa rosalega í mörgum samböndum,“ segir hann og hlær.
„Það er jákvætt að vita um líkamlegu hlutina en líka þá samfélagslegu,“ bætir Illugi við.
Hluti af karlmennsku er að vera með mótþróa
Okkur er tíðrætt um þessi rótgrónu, samfélagslegu gildi að karlmenn megi allt og hafi leyfi til að taka mikið pláss. Fyrir stuttu spratt upp bylgja í kjölfar #metoo sem gekk um samfélagsmiðla undir kassamerkinu #karlmennskan. Það átak reis ekki nærri því jafnhátt og forveri þess, og á mikið inni, en þá kom í ljós að karlmönnum leyfist alls ekki allt, eitthvað sem hugtakið eitruð karlmennska nær mjög vel utan um.
„Karlmenn mega margt en það er samt mjög þröngt skilgreint hvað þeir mega. Við megum til dæmis ekki vera í kjólum. Það virðist að við megum gera það sem við viljum á hlut kvenna en ekki á hlut annarra karla,“ segir Alexander.
„Hluti af karlmennskunni er að vera með mótþróa. Ef það er verið að biðja karlmenn um að opna sig þá skilja þeir ekki að þeir geti það og vilja það ekki. Þeir hafa verið aldir upp svo lengi við það að þeir megi ekki opna sig og tala um tilfinningar. Þetta hefur með uppeldi og kynjahlutverk að gera,“ segir Illugi og Alexander er sama sinnis.
„Þetta á eftir að taka mjög langan tíma. Margir karlmenn eru aldir upp við það að gráta ekki, verða ekki veikir, sýna ekki tilfinningar. Sem betur fer virðast bara eldri kynslóðirnar vera enn í þeim pakka. Mér finnst þetta vera hægt og rólega að breytast með yngri kynslóðina. Strákar sem til dæmis vilja vera með naglalakk mega það þótt það sé „stelpulegt“. Við erum í millibilsástandi núna þar sem gamlar hefðir og yngri kynslóðin, með ný gildi og venjur, mætast.“
Illugi bætir því við að karlmönnum þyki auðveldara að opna sig fyrir honum, því þeir halda að hann sé hommi, og þá sérstaklega á skemmtistöðum eftir nokkra drykki. „Gagnkynhneigðir, sískynja karlmenn koma oft til mín og byrja að tala um tilfinningar. Þeim líður eins og það sé meira viðurkennt frá manneskju eins og mér sem er ekki gagnkynhneigður, sískynja karlmaður,“ segir Illugi.
„Ókei, ég lendi aldrei í því,“ segir Alexander.
„Ég lendi oft í því en ég djamma mjög mikið,“ segir Illugi og brosir.
„Ég djamma aldrei,“ segir Alexander og glottir.
„Það koma menn til mín á djamminu og opna sig. Sumir hafa kannski aldrei talað um tilfinningar en það er viss þjálfun að gera það. Ég gat það ekki áður en nú er ég rosalega opin manneskja. Karlmenn hafa almennt mjög sjaldan þá þjálfun,“ segir Illugi og bætir við að talað sé niðrandi um karlmenn sem tali um tilfinningar, sem hjálpi alls ekki.
„Þú ert hommi ef þú talar um tilfinningar. Þú ert stelpa, í niðrandi meiningu. Það er mesta óvirðing gagnvart karlmennsku að líkja henni við eitthvað kvenlegt. Karlmennska er svo mikilvæg hjá karlmönnum en í flestum tilvikum er hún það því þeim finnst að hún eigi að vera mikilvæg.“
Alexander skýtur inn í að það sé mikilvægt að útrýma þessari niðrandi orðræðu, bæði fyrir konur og karlmenn. „Þessi orðræða um að eitthvað sé kerlingarlegt, að einhver slái eins og stelpa, að einhver sé hommalegur, hefur svo slæm áhrif á sjálfsmyndina hjá konum, stelpum, hommum og börnum. Það hefur mjög sterk áhrif að tala um það sem þú ert í niðrandi tilgangi. Það er bara hreint út sagt hræðilegt.“
Vilja ekki vera ógnandi karlmenn
Alexander og Illugi hafa að sjálfsögðu ekki farið varhluta af #metoo þar sem athygli var beint að kynferðislegri áreitni og ofbeldi gagnvart konum. Þeir fagna þessu átaki, eins og öðrum þar á undan, en segja að á sama tíma skapi þetta ákveðinn vanda fyrir karla.
„Það er óþægilegt fyrir konur ef karlmaður gengur á eftir þeim í myrkri. En það er líka óþægilegt fyrir okkur sem karlmenn að hafa áhyggjur af því að konunni líði illa. Ég vil ekki að fólk sé hrætt við mig. En ég skil að fólk vilji hafa varann á. Það eru konur sem er ráðist á í myrkri og það eru karlmenn sem gera það,“ segir Alexander.
„Mér fannst óþægilegt að ganga í myrkri þegar það var horft á mig sem kvenmann og ég var skíthræddur. Núna er ég það ekki. Sem manneskja sem hefur upplifað að vera kona, en er nú maður, þá er ég alltaf að passa mig á að vera ekki þessi ógnandi manneskja sem lætur konum líða svona,“ segir Illugi.
„En þessar bylgjur, eins og #metoo, mega ekki deyja. Við þurfum að halda áfram að ýta undir þær og ekki leyfa þeim að deyja út,“ segir Alexander og Illugi er því hjartanlega sammála.
„Það að barátta verði svona hávær finnst mér æðislegt. Við erum ekki komin mjög langt í kynjajafnrétti þó að við viljum trúa því. Þegar svona byltingar fæðast þá verður fólk háværara og fólk meðtekur eitthvað smávegis af því sem baráttufólkið segir. Svo kemur önnur barátta og fólk meðtekur örlítið meira og svo framvegis. En þá má ekki hætta. Við verðum að vera hávær.“
Óþægilegt að brosa og vinka til barna
Þeir Alexander og Illugi eru báðir miklar barnagælur en finna sterkt fyrir því að litið sé öðruvísi á þeirra samskipti við börn eftir að fólk byrjaði að upplifa þá sem karlmenn.
„Ég er með eina neikvæða sögu í kollinum,“ segir Alexander djúpt hugsi. „Ég var að koma úr ræktinni og var að bíða eftir strætó. Þá kom hópur af leikskólakrökkum og einn strákur vinkaði mér. Ég brosti og vinkaði en þá kom leikskólakennari og stóð á milli okkar. Ég fann fyrir því að þetta mætti ekki og að samstundis kviknaði grunur um að ég væri barnaperri,“ segir hann og Illugi, sem vinnur á leikskóla, kinkar kolli.
„Ég elska börn. Ef fólk spurði mig hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór sagði ég alltaf pabbi. Fólk hélt að ég væri að meina að mig langaði að vera eins og pabbi minn en mig langaði bara að vera faðir. Ég brosi alltaf til barna þegar ég sé þau og nú finn ég svo sterklega fyrir því að ég held því inni því ég vil ekki að einhver haldi að ég sé barnaperri. Það er mjög skrýtið, því áður var það ekki þannig,“ segir Illugi og vísar í tímann áður en hann lét leiðrétta kyn sitt.
„Það hefur vissulega neikvæðar hliðar að vera karlmaður og vinna á leikskóla. Ef barn myndi segja eitthvað sem myndi hljóma eins og ég hefði gert eitthvað rangt þá væri tekið öðruvísi á því en ef um konu væri að ræða,“ segir Illugi.
„Það væri tekið alvarlegra á því,“ segir Alexander. „Og ég skil alveg af hverju.“
Þurfti að vera karlmannlegasti karlinn á svæði
Vegferðir Alexanders og Illuga að því að gera sér ljóst að þeir væru í raun karlmenn, þó að þeir hefðu fengið úthlutað kvenkyni við fæðingu, voru mjög ólíkar.
„Ég vissi ekki að það væru til trans gaurar þannig að ég kom fyrst út sem lessa,“ segir Illugi. „Ég vildi vera mjög karlmannlegur og var mjög upptekinn af því. Ég til dæmis elska söngleiki en hefði aldrei nefnt það á þessu tímabili. Skilurðu mig?“ spyr hann Alexander sem brosir kankvíslega.
„Upp að vissu marki. En ég var alltaf mjög opinn með það að ég elska söngleiki,“ segir Alexander og hlær.
„Það er samt ímynd sem fólk hefur um að karlmenn eigi ekki að elska söngleiki. Eða ballet. Ég elska ballet. Og á þessu tímabili þegar ég var mjög upptekinn af því að vera karlmannlegur, eða stereótýpan af karlmennsku. Ég byrjaði að vera háværari, því karlmenn mega vera háværari en konur, tala djúpri röddu og hnykkla vöðvana í speglinum. Þangað til ég byrjaði á hormónum. Þá byrjaði mér að vera skítsama um karlmennsku,“ segir Illugi og Alexander skýtur inn í að vissulega hafi hann upplifað slíkt tímabil þar sem hann í raun aðhylltist einhvers konar ofurkarlmennsku, þótt það hafi verið mun styttra tímabil en hjá Illuga.
„Ég hafði ekki alveg jafnmiklar áhyggjur af þessu en það tengist örugglega því að ég upplifði mig ekki alltaf sem strák. Ég upplifði mig sem stelpu en síðan breyttist það yfir í að ég upplifði mig sem strák. Það er frekar lýsandi fyrir það hve flæðandi kynvitund getur verið. Í um það bil ár upplifði ég að ég þyrfti að vera karlmannlegasti karlmaðurinn á svæðinu og mátti til dæmis ekki horfa á bleikan lit og því um líkt.“
Laminn fyrir að vera trans maður
Við stöldrum aðeins við þá staðreynd að þeir báðir séu trans menn, en trans menn hafa verið minna áberandi í samfélaginu en trans konur síðustu ár. Af hverju halda þeir að svo sé?
„Á meðan það er svona mikil trans fóbía í samfélaginu þá er líklegt að þeir sem geta falið sig geri það. Það er engin ástæða fyrir okkur að koma í viðtöl og segjast vera trans menn, nema sú staðreynd að við viljum vera sýnilegri og við viljum opna umræðuna,“ segir Alexander.
Illugi hefur fundið fyrir fordómum gegn trans fólki á eigin skinni, í bókstaflegri merkingu. „Ég hef verið laminn fyrir að vera trans, með hnúajárni. Ég lenti á spítala. Það er brútal,“ segir hann og það tekur greinilega mikið á hann að rifja það upp. „Fólk heldur að við séum komin langt, sem er rétt. Við erum komin langt í hinsegin baráttunni. Samt er mikið sem þarf enn að vinna í. Samkvæmt regnbogakortinu þar sem farið er yfir hve langt lönd eru komin í réttindum hinsegin fólks í lagalegum skilningi, stöndum við mjög illa. Það eru til dæmis engin lög sem banna það að hinsegin manneskja sé rekin úr starfi út af því að hún er hinsegin,“ segir hann og bætir við að fordómarnir birtist í ýmsum myndum.
„Ég er ekki laminn á hverjum einasta degi en það hefur gerst og ekki bara einu sinni. Svo eru þessi litlu atriði endalaust. Fólk heldur að það megi spyrja mig um allt sem tengist minni kynhneigð, og jafnvel kynlífi. Þannig að ég þarf alltaf að vera búinn undir að fá alls kyns spurningar um það.“
Sjö milljarðar og eitthvert kyn
Þeir Alexander og Illugi eru reyndar báðir sammála um að það sé ekki hægt að skipta heiminum í tvær fylkingar út frá kyni.
„Fyrir kynþroska eru allir eins, fyrir utan kynfærin. Hins vegar tengist allt einhverju kyni í samfélaginu. Og ef það tengist ekki kyni þá tengist það kynfærunum þínum. Kyn er hins vegar svo persónubundið. Þú ert bara þitt kyn. Ég vil meina að það séu til jafnmörg kyn og það eru manneskjurnar eru í heiminum. Það er enginn annar með þín sérkenni,“ segir Illugi.
„Það eru til sjö milljarðar og alls konar kyn. Hver er sitt eigið kyn. Við erum til dæmis báðir trans gaurar, en erum ekki á nokkurn hátt eins. Heilinn okkar vill svo mikið flokka í hlutum. Því færri flokka sem þú ert með, því þægilegra er það fyrir heilann. Þannig að ef þú getur flokkað allan heiminn í tvo flokka þá er það mjög einfalt. En hvernig er hægt að setja rúmlega sjö milljarða manna í tvo kassa? Við flokkum til dæmis ávexti í einn flokk en bananar og epli eru samt ekki eins. Ég vil meina að þessir tveir flokkar kynja séu yfirflokkar og síðan séu margir undirflokkar, skörun og alls konar,“ segir Alexander.
Þolir ekki karlmennsku
Það myndi taka okkur marga daga að ná utan um hugtakið karlmennska, birtingarmyndir karlmennskunnar og hvað sé til ráða til að útrýma eitraðri karlmennsku. En áður en ég kveð þá Illuga og Alexander verð ég að spyrja hvaða merkingu þeir leggi í sína eigin karlmennsku í dag.
„Ég reyni að vera rosalega góður pabbi,“ segir Alexander en hann á átta mánaða stúlku með unnustu sinni. „Það vill svo skemmtilega til að mér finnst gaman að fara í ræktina og lyfta þungum lóðum. Svo finnst mér gaman að þrífa, baka og elda,“ segir hann og Illugi tekur við.
„Núna get ég sagt að ég þoli ekki karlmennsku. Ég vil ekki vera þessi karlmaður sem öðrum finnst ógnandi. Ég er skíthræddur við eitraða karlmennsku. Ég leik mér að því að vera ekki karlmannlegi karlinn í kringum karlmenn. Ég tala oft um eitthvað sem karlmenn myndu aldrei tala um til að sjá viðbrögðin frá öðrum karlmönnum. Meðan karlmennskan er enn eitruð þá verður mér illa við hana.“
Hvað er eitruð karlmennska?
Hugtakið eitruð karlmennska er notað í sál- og kynjafræði og vísar til vissra viðmiða karlmannlegrar hegðunar í Norður-Ameríku og Evrópu, sem tengjast samfélagsskaða og þeim skaða sem karlmenn sjálfir verða fyrir. Hefðbundnar staðalímyndir karlmanna sem æðri vera sem og kvenhatur og hinseginfælni geta verið álitnar sem eitraðar sökum þess að þær ala á ofbeldi, þar með talið kynferðislegu ofbeldi og heimilisofbeldi.
Aðrir eiginleikar sem fylgja þessum staðalímyndum eru að karlmenn séu tilfinningalega lokaðir, en tengsl eru á milli þess og sálfræðilegra vandamála karlmanna, streitu og misnotkun á ávanabindandi efnum. Aðrir eitraðir eiginleikar eru mikil vinnusemi karlmanna og að þeir þurfi að sjá fyrir fjölskyldunni. Þessari eitruðu karlmennsku hefur oft verið kennt um að ofbeldi meðal karlmanna er talið eðlilegt. Stundum hefur því verið fleygt fram að eitruð karlmennska sé leið feðraveldisins til að skaða karlmenn.
Að vera sís/sískynja
Sís er lýsingarorð og forskeyti sem er notað um fólk sem upplifir sig á þann hátt að það tilheyri því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Sís kona er til dæmis kona sem var úthlutað kyninu „stelpa“ við fæðingu og er sátt við það. Orðinu er oft stillt upp sem andheiti við orðið trans.
Að vera trans
Trans er regnhlífarheiti yfir fólk sem er með kynvitund sem samræmist ekki því kyni sem því var úthlutað við fæðingu.
Kynvitund
Kynvitund segir til um hvernig fólk vill lifa og vera í sínu kyni. Kynvitund vísar ekki til kynfæra, líffræði eða útlits heldur upplifunar fólks af eigin kyni. Allir hafa kynvitund því allir upplifa kyn sitt á einhvern hátt.
Kynhneigð
Kynhneigð segir til um hverjum fólk getur laðast að, orðið skotið í eða ástfangið af.
„Við sem foreldrar berum ábyrgð á menntun barnanna og það er það sem ég vil gera með því að ferðast með þau um heiminn, og auðvitað allt Ísland, og kenna þeim í gegnum lífið, ekki í gegnum bækur, tölvur og fyrirlestra, mötun á námsefni og eyðufyllingar,“ segir Ágústa Margrét Arnardóttir.
Ágústa á fimm börn með eiginmanni sínum, Guðlaugi Birgissyni. Fyrr á þessu ári ákváð fjölskyldan að rífa sig upp frá heimili sínu á Djúpavogi og flakka um Spán í fimm vikur. Fjölskyldan hefur leyft almenningi að fylgjast með ferðum sínum á Facebook-síðunni Whattodoin og sneri nýverið aftur heim til Íslands. Ágústa segir að aðdragandinn að ferðinni hafi í raun verið langur. Elsta dóttir þeirra hjóna, Vigdís, fæddist árið 2006 og í kjölfarið eignuðust þau þrjú börn á rétt rúmlega þremur árum. Á sama tíma stofnaði Ágústa hönnunar- og framleiðslufyrirtæki og Guðlaugur byrjaði að kaupa sig inn í útgerð þar sem hann starfaði sem skipstjóri.
Hraðinn bitnaði á fjölskyldunni
„Ég fékk mikið hrós fyrir dugnaðinn og eljuna, var þessi týpíska ofurkona sem hélt ég gæti allt. Ég elska að vinna mikið, elskaði reksturinn minn og börnin, og allt sem ég var að gera og langaði svo ógeðslega mikið að gera allt og láta allt ganga, en það var engan veginn að gerast, þetta var bara allt of mikið. Hraðinn og álagið bitnaði á fjölskyldunni og andlegri og líkamlegri heilsu minni auk þess sem upprunaleg markmið mín og lífssýn voru bara í dvala, nánast gleymd,“ segir Ágústa en meðal markmiða hennar í lífinu var að ferðast með börnunum og eyða meiri tíma með þeim. Hún segist hafa verið með einhvers konar fjölskylduferð í bígerð lengi en alltaf litið á skólagöngu barnanna sem hindrun.
„Svo gerðist það að sonur minn var kominn á algjörar villigötur, hafði illa stjórn á sér, brást reiður og illa við ýmsu og fúnkeraði bara ekki vel. Hann var settur í prógramm sem sneri að lærdómnum og hegðun í skólanum,“ segir Ágústa. Í framhaldinu varði hún tæpum fjórum mánuðum með syni sínum í skólanum, í 95% kennslustundanna, frímínútum, tómstundum og öðru.
„Ég hlustaði á ótal fyrirlestra, hljóðbækur, las rannsóknir og annað. Líf okkar allra gjörbreyttist þarna og sýn mín á menntakerfið og allt lífið breyttist algjörlega. Og eitt af því sem ég lærði á þessu er að skólaganga barnanna minna er ekki hindrun í að við sem fjölskylda ferðumst eða förum okkar leiðir í menntun þeirra.“
Fengu aldrei pásu frá hvert öðru
Það var svo áhugi Ágústu á heimakennslu og menntun sem varð til þess að þau ákváðu að kasta sér ofan í djúpu laugina og ferðast, en Ágústa skipulagði ferðina í meira en ár. Þau sögðu börnunum frá ferðinni á aðfangadagskvöld í fyrra og tveimur og hálfum mánuði síðan fóru þau af stað á vit ævintýranna.
„Við höfum alltaf verið mjög samheldin fjölskylda og mikið saman en að vera saman í fimm vikur á stað þar sem við þekktum enga og vorum hvorki í skóla, tómstundum, vinnu, né hittum vini eða fjölskyldu var allt annað en við erum vön. Helstu kostirnir við svona lífsstíl eru að við kynnumst mun nánar og betur en hér heima, því það er engin truflun, ekki hægt að forða sér eða sækja í aðra ef eitthvað bjátar á. Auk þess hefur maður ótakmarkaðan tíma til að sjá „mynstur“ í börnunum og sjálfum sér – hvað er stressandi, hvað er slakandi, hvað hefur góð og hvað hefur vond áhrif. Og ókostirnir eru kannski að það er aldrei „friður“, við fáum aldrei pásu frá hvert öðru, sem hefur líka áhrif. Ef einn var í vondu skapi hafði það áhrif á alla og ef börnin eru pirruð, þreytt, svöng, leið eða eitthvað þá láta þau það bitna hvert á öðru,“ segir Ágústa og heldur áfram.
„Þetta var oft ofsalega erfitt og snéri þá aðallega að dagsformi hvers og eins. Hér heima get ég laumað mér í kaffi til vinkonu, þau leikið við vini eða heimsótt ömmu og afa, farið í göngutúr ein, kveikt á sjónvarpi eða farið tölvur ef það er þreyta og pirringur í gangi en þarna var ekkert svoleiðis í boði. Við reyndum alltaf að setja dagana upp sem streytulausasta og þægilegasta fyrir alla en það sem hentar 1 árs barni, 3 ára, 8, 10 og 11 ára sem og foreldrum á fertugsaldri er ekkert alltaf það sama. Málamiðlanir voru stór partur af ferðinni og að gefa öllum svigrúmið sem þeir þurftu þótt það væri nánast ekkert svigrúm eða tími. Maður metur tímann allt öðruvísi eftir svona ferð.“
Sáu fátækt og fjölbreytileika
Fjölskyldan ætlaði fyrst að leigja íbúð í tvo til þrjá mánuði en vegna breytinga í útgerðinni hjá Guðlaugi þurfti þau að stytta dvölina niður í fimm vikur. Þá voru þau búin að festa íbúðina og þurftu að greiða fyrir hana 450 þúsund krónur. Flugið var hins vegar talsvert ódýrara en þau voru vön fyrir sjö manna fjölskyldu.
„Flugið fyrir okkur sjö kostaði um 120 þúsund krónur með millilendingu og gistingu í Gatwick á leiðinni út og 102 þúsund krónur í beinu flugi heim. Ég var búin að kynna mér staðsetningar og verð á nauðsynjum vel þannig að á svæðinu sem við vorum var allt meira en helmingi ódýrara en hér heima. Við leigðum bíl, fórum á söfn, í hellaferð og í garða sem kostuðu og þar húrraðist kostnaðurinn upp en þessu er alveg hægt að sleppa. Við nýttum okkur mikla ókeypis afþreyingu eins og almenningsgarða og ströndina og það er alveg endalaust hægt gera eitthvað án þess að taka upp budduna,“ segir Ágústa aðspurð um hvort þetta ævintýri hafi ekki kostað skildinginn. Hún segist aðhyllast mínimalískan lífsstíl og er ánægð með að leyfa börnunum sínum að upplifa ýmislegt sem kennir þeim virði peninga.
„Börnunum, sérstaklega þessari ellefu ára, finnst við oft lifa eins og fátæklingar en hún hefur þó lært það af þessu að það þarf að forgangsraða og hafa fyrir hlutunum. Í ferðinni upplifðu þau svo að gista á geggjuðu 4 stjörnu hótelinu niður í 0 stjörnu rottuholu, þau sáu fátækt, betlara og miklu meiri fjölbreytileika fólks en hér heima. Ég vil að þau kynnist þessu frekar en biðröðum í Disney-garðinum og peningaplokki í alls konar over prized-görðum og skemmtunum. Ég hef samt ekkert á móti því og allt í lagi að upplifa það líka, en við bjuggum oft til bestu stundirnar með nesti í almenningsgörðum og það var æði.“
Heimurinn opnaðist
En hvað stóð upp úr á þessu fimm vikna ferðalagi?
„Það sem stendur upp úr er áhrifin á börnin, hvernig þau upplifðu hlutina, hvað þeim fannst merkilegt, hvernig þau þroskuðust og lærðu. Það var mikill munur á þeim fyrstu dagana og þá síðustu, veröldin stækkaði og heimurinn opnaðist einhvern veginn fyrir þeim. Í byrjun fannst mér þau bara frekar áhugalaus og hugmyndasnauð, vildu til dæmis alltaf fara í sama garðinn og á sama veitingastaðinn frekar en að kanna svæðið og prófa eitthvað nýtt. Þetta pirraði mig en svo fattaði ég að þau höfðu engin viðmið, þau vissu ekkert hvað var handan við hornið, þau eru alin upp í pínulitlum bæ þar sem allt er alltaf eins, rútínan, viðburðir, fólk, staðir og dýr. Þannig að við fórum meira og meðvitað að kanna ný svæði, prófa nýja hluti, tala meira um allt sem mögulegt er í heiminum og leyfa lífinu að koma okkur á óvart án þess að hafa plön eða vera afturhaldsöm. Þetta skilaði sér í því að undir lokin var þessi 10 ára farinn að skipuleggja ferð til Týndu borgarinnar, 11 ára til Hawaii og við hin roadtrip um Bandaríkin. Þetta opnaði heiminn fyrir þeim, og okkur,“ segir Ágústa og bætir við að ferðin hafi haft góð áhrif á fjölskylduna í heild.
„Við erum klárlega samheldnari, það er meira umburðarlyndi eða alla vega þekking og skilningur á hinum.“
Allir tilbúnir að koma heim
En hvernig var svo að koma aftur í raunveruleikann á Djúpavogi?
„Við vorum síðustu dagana í Barcelona, borgin var troðin af fólki, mikil umferð, hraði og allt miklu dýrara en á hinum stöðunum og miklu heitara og óþægilegra veður. Það voru því allir frekar tilbúnir að koma heim, spenntir og ánægðir. Þannig að heimferðin og allt eftir það hefur gengið vel. Við fundum svo rosalega vel hvað útivera, birta og gróður er ólýsanlega miklivægt þannig að nú er markmið að halda þessum „úti“ lífsstíl áfram, en hingað til hef ég verið kuldaskjóða og nenni alls ekki út í vondu veðri eða myrkri. En nú þurfum við bara að læra að lifa með því, því það er líklegra að ég geti breytt um hugarfar en veðurfar.“
Fjölskyldan heldur úti vefsíðu samfara fyrrnefndri Facebook-síðu, þar sem hún ætlar að fara vel og vandlega yfir ferðalagið á næstunni. Ágústa mælir hiklaust með svona flótta úr hversdagsleikanum fyrir hvern sem er.
„Já, maður verður svo samdauna samfélaginu og fer ósjálfrátt í farveginn sem hinir eru í eða farveginn sem í boði er ef maður er alltaf á sama staðnum, sérstaklega litlum stöðum. Að fara í burtu, núllstilla allt, tengjast á annan hátt og upplifa annað er góð byrjun til að rjúfa rútínuna sem maður er í ef maður kýs það.“
Útskrift flugfreyja hjá Icelandair fór fram í vikunni. Meðal þeirra sem útskrifuðust voru leikkonurnar María Heba Þorkelsdóttir og Laufey Elíasdóttir og mega því flugfarþegar búast við því að njóta flugsins með þessum tveimur kjarnakonum í nánustu framtíð.
María Heba er ein ástsælasta gamanleikkona ársins og hlaut meðal annars Edduverðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni Okkar eigin Osló. María er hins vegar líka mjög slungin dramaleikkona, eins og þekkt er með gamanleikara, og hefur til að mynda leikið í sjónvarpsþáttunum Föngum, Pressu og Hamrinum sem og kvikmyndinni Eiðum.
Laufey er hluti af leikhópnum RaTaTam sem setti síðast upp verkið Ahh… sem hlaut einróma lof gagnrýnenda. Þá ættu kvikmyndahúsagestir einnig að kannast við hana úr kvikmyndunum Brúðguminn, Desember og Vonarstræti.
Þær María Heba og Laufey eru langt því frá að vera fyrstu leikkonurnar til að bregða sér í hlutverk flugfreyja þar sem landsþekktar listakonur hafa áður látið ljós sitt skína í háloftunum, þar á meðal Edda Björgvinsdóttir, Helga Braga Jónsdóttir, Heiða Ólafsdóttir og Svandís Dóra Einarsdóttir.
Aðalmynd / Leikkonan María Heba / Ljósmyndari: Aldís Pálsdóttir
Ingibjörg Ýr Óskarsdóttir starfar sem ljósmóðir en segir áhugann á starfinu hafa kviknað í sveitaheimsókn þegar hún sá afkvæmi í fyrsta skipti koma í heiminn.
„Ég var í heimsókn í sveit hjá langömmusystur minni þegar ég sá lamb fæðast. Frænka mín aðstoðaði kindina við að koma lambinu í heiminn og mér fannst þetta magnað.”
„Þetta var mín fyrsta upplifun af því að sjá afkvæmi fæðast og ég er viss um að það kviknaði á einhverjum ljósmóðurfrumum inni í mér við sauðburðinn.”
„Ég var samt ekki ákveðin í að verða ljósmóðir fyrr en ég var á þriðja árinu mínu í hjúkrun. Þá var ég í verknámi á fæðingardeild fjórðungssjúkrahúsins á Akureyri og ljósmæðurnar þar leyfðu mér að fylgjast með fæðingu. Eftir að ég gekk út af spítalanum eftir að hafa séð þessa fyrstu fæðingu þá vissi ég að það væri ekki aftur snúið, ég vissi hvað ég vildi verða, ég ætlaði að verða ljósmóðir.”
Ingibjörg segir ljósmóðurstarfið ákaflega fjölbreytt. „Margir halda að ljósmæður séu eingöngu í því að taka á móti börnum en raunin er sú að þær sinna líka konum og fjölskyldum á meðgöngu, í sængurlegu og ungbarnavernd. Ljósmæður sinna einnig allskyns fræðslu og forvarnarstarfi sem kemur að heilsu kvenna, barna og fjölskyldunnar í heild.
Órjúfanleg tengsl verða til á fyrstu mínútunum eftir að barn fæðist og mikilvægt er að aðskilja ekki foreldra og barn nema þörf þykir. Ingibjörg segir mikilvægt að foreldrarnir gleymi tímanum og símanum og njóti þess að skoða og kynnast barninu sínu fyrstu klukkustundirnar og njóti stundarinnar.
„Þetta er mögnuð stund sem kemur ekki aftur.”
Það er gott er að minna sig á að hver og ein fæðing er einstök og upplifun kvenna af fæðingu er líka mismunandi. Að koma barni í heiminn er erfitt en erfitt á jákvæðan hátt og erfiðleikarnir breytast yfirleitt í þína stærstu og fallegustu stund sem þú munt muna um ókomna tíð, augnablikið sem þú varðst mamma.”
Eva Laufey Hermannsdóttir Kjaran er fyrir löngu orðin þjóðþekkt en hún haslaði sér fyrst völl sem ástríðubakari.
Fimm árum síðar hefur hún gefið út tvær matreiðslubækur og tíunda sjónvarpsþáttaröðin nú þegar í pípunum. Hún segir það sjálfskipaða kröfu að vilja vera fullkomin öllum stundum.
„Ég er langt frá því að vera fullkomin en ég viðurkenni að áður en ég eignaðist seinni dóttur okkar leið mér oft eins og ég væri hamstur á hjóli. Ég veit hreint út sagt ekki hvað gerðist en ég róaðist mjög mikið. Eftir að hafa verið stanslaust á út opnu, í vinnu, að klára BS í viðskiptafræði, mæta í ræktina, vera dugleg mamma og góð eiginkona, passa að elda alltaf góðan mat og halda heimilinu í standi. Með öðrum orðum, reyna að vera fullkominn öllum stundum. Vera alltaf á trilljón en á sama tíma alltaf að biða eftir því sem gerist næst, að njóta ekki þess að vera á staðnum með fólkinu mínu, róleg í eigin skinni.
„Mér fannst ég of oft vera alveg við það að bræða úr mér en í raun var ég bara í keppni við sjálfa mig.”
Satt best að segja veit ég ekki hvað gerðist en dag einn fór ég að hugsa um þetta. Ætli það hafi ekki verið þegar ég sat með eldri stelpu minni inn í herberginu hennar í staðinn fyrir að leika við hana þá nýtti ég frekar tímann til þess að taka til en að leika við hana, sem er auðvitað alveg þveröfugt við það sem maður ætti að gera. Maðurinn minn hefur hjálpað heilmikið til við að róa mig í þessum efnum. Hann segir að þegar ég verð eldri að þá muni ég ekki hugsa til þess hversu hrein herbergin hafi verið heldur frekar hugsa til stundanna saman með stelpunum. Ofurfínt hús er ekki það sem skapar hamingjusamt heimili og það gildir í öllu.
„Ætli ég hafi ekki bara sætt mig við það að vera alls ekki fullkomin og með því móti hafi allt róast.”
Svo lengi sem ég sinni því sem ég geri vel og fólki mitt finni að ég elski það heitt, þá skiptir annað engu máli þó svo að heimilið eða annað bíði. Það má strauja eða bóna gólfið seinna. Í dag gæti ég ekki verið þakklátari því ég veit að það eina sem skiptir máli er dagurinn í dag. Ég er satt best að segja svo dauðfegin að vera ekki eins stressuð og ég var um að allt yrði að vera tipp topp öllum stundum en þvílíkur léttir að vera laus við þá kvöð. Ég er farin að taka miklu betur eftir öllum hlutum og hugsa á hverju kvöldi um eitthvað þrennt sem veitti mér mikla ánægju yfir daginn. Þetta hef ég látið heimilisfólkið mitt gera sömuleiðis og ég trúi því að með þessum hætti komi maður í veg fyrir að hugsa um eitthvað neikvætt sem átti sér stað eða í besta falli minni mann á hvað lífið er skemmtilegt.”
Söngkonan Miley Cyrus tilkynnti það á Instagram fyrir tæpu hálfu ári síðan að hún væri að fara að hanna strigaskó í samstarfi við Converse. Nú eru skórnir sem stjarnan var með puttana í komnir á markað.
Línan er ansi hreint hressandi og má með sanni segja að það sé nóg af glimmeri í henni. Það skemmir ekki fyrir að það eru ekki aðeins skór í línunni heldur einnig fatnaður í anda stjörnunnar.
Hér fyrir neðan má sjá nokkur af skópörunum sem Miley hannaði en hér er hægt að sjá línuna í heild sinni.
Nú er aðeins einn dagur þar til Ari Ólafsson stígur á svið í Eurovision-keppninni í Lissabon í Portúgal og freistar þess að komast í úrslit laugardagskvöldið 12. maí.
Nóg er að gera hjá Ara í Portúgal, ekki bara við að æfa atriðið við lagið Our Choice, heldur einnig við að sækja ýmsar uppákomur og tala við blaðamenn.
Það má með sanni segja að Ari hafi heillað Portúgala upp úr skónum í Eurovision-þorpinu svokallaða, en þorpinu er komið upp á hverju ári á Eurovision í borginni þar sem keppnin er haldin og safnast þar saman aðdáendur keppninnar.
Ari brá sér upp á svið og söng brot úr sigurlaginu síðan í fyrra, Amar pelos dois sem hinn portúgalski Salvador Sobral flutti svo eftirminnilega. Eins og sést í meðfylgjandi myndbandi líkaði Portúgölunum þetta vel.
Forsvarsmenn Eurovision-keppninnar fengu nokkra keppendur úr fyrri undanúrslitariðlinum til að taka þátt í áskorun, eins og sést í meðfylgjandi myndbandi. Áskorunin var einföld, að keppendur veldu sér annan tónlistarstíl til að syngja lagið sitt í.
Meðal þeirra sem tóku þátt í áskoruninni var Ari okkar Ólafsson með lagið Our Choice. Það kemur kannski á óvart að Ari myndi syngja lagið í kántrístíl ef hann þyrfti að velja sér einhvern annan stíl til að syngja í keppninni.
Kántrí-Ara má sjá þegar rétt rúmlega mínúta er liðin af myndbandinu:
Ari stígur á svið í Altice Arena-höllinni í Lissabon annað kvöld, þriðjudagskvöldið 8. maí. Hann er annar í röðinni í fyrri undanúrslitariðlinum. Ef allt gengur að óskum kemst hann áfram í úrslit sem fara fram laugardagskvöldið 12. maí.
Bunny Ears
Fyrrverandi barnastjarnan Macaulay Culkin sem glímdi við fíkniefnavanda í mörg ár er nú kominn á beinu brautina og farinn af stað með nýtt skemmtilegt hlaðvarp, Bunny Ears. Í hlaðvarpinu spjallar Culkin á kaldhæðnislegum nótum við þekkta skemmtikrafta um allt milli himins og jarðar, allt frá tölvuleikjum til detox-kúra.
You must remember this
Ertu kvikmyndanörd? Þá áttu eflaust eftir að fíla hlaðvarpið You must remember this en í því skyggnist stjórnandi þess, Karina Longworth, á bakvið gláfægða ímynda Hollywood og fer yfir ótrúlega, undarleg og grimmileg atvik sem hafa átt sér stað í mekka bandarískrar kvikmyndagerðar.
Stranglers
Í Stranglers er rakið mál eins frægasta raðmorðingja sögunnar, Alberts DeSalvo, sem myrti 13 konur í Boston á sjötta áratugnum. DeSalvo, betur þekktur sem The Boston Strangler, komst inn á heimili fórnarlamba sinna undir því yfirskini að hann þyrfti að lesa af mælum og drap þau svo á hrottafenginn hátt.
The Hilarious World of Depression
Í hlaðvarpinu The Hilarious World of Depression ræða þekktir grínistar á opinskáan og einlægan hátt um þunglyndi sitt með það fyrir augum að uppræta fórdóma gegn andlegum veikindum. Grínistarnir miðla af reynslu sinni af glímunni við „svarta hundinn“ og gefa ráð sem gætu gagnast hlustendum.
Soundtracking
Soundtracking fjallar á áhugaverðan hátt um tónlist í kvikmyndum en í því fær stjórnandi þess til sín kvikmyndaleikstjóra til að segja frá tónlistinni sem þeir völdu í kvikmyndir sínar og ástæðurnar sem liggja að baki þeirri ákvarðanatöku. Meðal gesta er Edgar Wright sem notaði í mynd sína Baby Driver upprunalegar útgáfur laga sem eru fremur þekkt í endurflutningi stórstjarna í tónlistarbransanum.
Þegar Hörður Torfason boðaði homma og lesbíur til fundar á heimili sínu 9. maí 1978 til að stofna baráttusamtök samkynhneigðra, Samtökin ’78, hafði hann dreymt um að koma slíkum samtökum á koppinn árum saman við litlar undirtektir. Það var ekki fyrr en hann hafði hrakist úr landi, ætlað fyrirfara sér en hætt við og ákveðið að berjast fyrir réttindum sínum sem hommi sem hjólin fóru að snúast.
Samtökin ’78 halda upp á 40 ára afmæli sitt þann níunda maí. Löngu orðið viðurkennt félag í samfélaginu, hljóta stuðning frá ríki og borg og eru almennt álitin nauðsynlegur partur af samfélaginu. En fyrir rúmum fjörutíu árum þegar ungur leikari, leikstjóri, söngvari og söngvasmiður byrjaði að ámálga það við samkynhneigða félaga sína að stofna samtök til að berjast fyrir réttindum sínum þótti þeim það fráleit hugmynd og sumir hlógu að honum fyrir vitleysuna.
„Já, það var allt annað landslag þá,“ segir Hörður. „Það voru nokkrir menn sem allir vissu að voru hommar, en meirihlutinn var í felum og þorði ekki fyrir sitt litla líf að koma út úr skápnum. Við vorum kallaðir kynvillingar, orðið samkynhneigð var ekki til og Mánudagsblaðið skrifaði um okkur eins og við værum glæpamenn. Svo helltu menn í sig um helgar, fóru á skemmtistaðina og reyndu við aðra homma en það var allt gert undir rós og maður þurfti að vera sérfræðingur í þessu rósamáli til að átta sig á því hvað var í gangi. Ég hef oft sagt að í þá daga hafi menn bara verið hommar um helgar og það er alveg satt. Það eru flestir búnr að gleyma því hvað þetta var niðurlægjandi staða.“
„Það hafa orðið áherslubreytingar innan samtakanna með nýjum kynslóðum og breyttum áherslum eins og kristallaðist í átökunum um inngöngu BDSM fólks fyrir nokkrum árum … En eins og einn vinur minn benti á þá gerist slíkt í öllum félagsskap, meira að segja í KR.“
Hörður segist hafa byrjað að tala um að hommar þyrftu að stofna með sér samtök til að berjast fyrir réttindum sínum og vera sýnilegir í samfélaginu fljótlega eftir að hann kom sjálfur út, þá 21 árs gamall en það hafi ekki verið neinn grundvöllur fyrir því á þeim tíma.
„Ég gat ekki hugsað mér að lifa í felum allt mitt líf,“ segir hann. „Og foreldrar mínir studdu mig í því að vera ég sjálfur og lifa í samræmi við eðli mitt. Ég var orðinn þekktur á þessum árum og mikið talað um kynhneigð mína en ég svaraði alltaf eins og satt var þegar þegar ég var spurður hvort ég væri hommi. Mér datt bara ekki í hug að fela það neitt.“
Var búinn að skrúfa frá gasinu
Eftir að hið alræmda viðtal þar sem Hörður talaði opinskátt um kynhneigð sína birtist í tímaritinu Samúel í ágúst 1975 varð allt vitlaust. Hann var úthrópaður, fékk hvorki vinnu né húsnæði og flúði að lokum til Kaupmannahafnar þar sem hann ákvað að binda enda á líf sitt.
„Ég var búinn að skrúfa frá gasinu og teipa fyrir allar rifur, alveg tilbúinn að deyja, þegar eitthvað í mér gerði uppreisn. Ég var ungur maður, hafði hæfileika sem leikari, söngvari og lagasmiður og mér fannst ég eiga skilið að lifa lífi mínu á eigin forsendum. Ég skrúfaði fyrir gasið og tók þá ákvörðun að berjast fyrir réttindum mínum og annarra samkynhneigðra hvað sem það kostaði.“
Hörður var á þessum tíma í sambandi með norskum manni og með því að nota nafn hans fengu þeir húsnæði á Íslandi. Þar settust þeir að haustið 1977 og Hörður byrjaði ótrauður að undirbúa stofnun samtakanna. Einn til að byrja með en upp úr áramótum 1978 hafði hann samband við Guðna Baldursson, sem varð fyrsti formaður Samtakanna ’78 og fékk hann í lið með sér.
„Guðni fylgdist vel með því sem var að gerast í málefnum samkynhneigðra annars staðar í Evrópu og var þar að auki einstaklega rökfastur og fylginn sér. Það var mikil gæfa fyrir Samtökin að fá hann sem formann,“ segir Hörður. „Við héldum áfram að tala við aðra homma og útskýra fyrir þeim hvað við værum að hugsa og smátt og smátt vaknaði áhugi hjá fleiri hommum. Það var erfiðara að ná í lesbíurnar en mér tókst að fá tvær sem ég þekkti til að mæta á fyrsta fundinn. Það voru nú ekkert allir ánægðir með það en ég hlustaði ekki á mótbárur. Við vorum öll á sama báti og þurftum að standa saman.“
Uppljómun við uppvaskið
Starfsemin fór hægt af stað og vakti ekki mikla ánægju í samfélaginu en smátt og smátt fóru málin að þokast í rétta átt. Hörður segir Guðna alfarið hafa séð um þá hlið starfseminnar sem sneri að samskiptum við stjórnmálamenn og tillögum um lagabreytingar, sjálfur hafi hann tekið að sér að vera í samskiptum við fjölmiðla og vinna að því að gera samkynhneigða sýnilega í samfélaginu.
„Það vissi hver einasti Íslendingur hver ég var þegar hér var komið sögu og ég samdi við Guðna um að hann sæi um Reykjavík en ég skyldi sjá um landsbyggðina, þar sem ég var oft að setja upp sýningar hjá áhugaleikfélögum,“ útskýrir hann. „Ég fór líka í nokkur viðtöl í útvarpinu og hef heyrt það seinna meir að það hafi skipt sköpum fyrir marga. Til dæmis sagði mér kona, mörgum árum seinna, að hún hefði verið húsmóðir í Vestmannaeyjum sem stóð við eldhúsvaskinn sinn og vaskaði upp þegar hún heyrði fyrst í mér tala um samkynhneigð í útvarpinu. Hún hefði samsamað sig öllu sem ég sagði og þar og þá ákveðið að hætta að lifa í blekkingaleik og gangast við því að hún væri lesbía. Sem hún og gerði. Það gladdi mig alltaf jafnmikið að heyra svona sögur og það styrkti þá trú mína að það væri eitt af undirstöðuatriðum þess að samkynhneigðir fengju réttindi á við aðra að þeir yrðu sýnilegir í samfélaginu.“
„Þess vegna finnst mér gott að Samtökin ’78 einbeiti sér að því að berjast fyrir réttindum annarra jaðarhópa, eins og trans fólks og intersex fólks, því eins og ég hef alltaf sagt þá gengur baráttan út á full mannréttindi fyrir alla.“
Gerist líka í KR
Sjálfur yfirgaf Hörður Samtökin ’78 árið 1993 eftir að upp komu leiðindi innan þeirra og hefur ekki verið starfandi í þeim síðan. Hann segist þó alls ekki vera einn af þeim sem finnst þau vera á villigötum.
„Það hafa orðið áherslubreytingar innan samtakanna með nýjum kynslóðum og breyttum áherslum eins og kristallaðist í átökunum um inngöngu BDSM fólks fyrir nokkrum árum. Það kom nýtt fólk með nýjar hugmyndir og yfirtók í raun Samtökin. En eins og einn vinur minn benti á þá gerist slíkt í öllum félagsskap, meira að segja í KR,“ segir Hörður glaðhlakkalega. „Ég lít þannig á að með lagasetningunni 2006 þegar samkynhneigðir fengu loks full mannréttindi eftir þrjátíu og eins árs baráttu Samtakanna ’78 hafi þeim tilgangi sem ég lagði upp með verið náð alveg hundrað prósent þannig að ekki sé lengur þörf á því að berjast fyrir réttindum þeirra. Þess vegna finnst mér gott að Samtökin ’78 einbeiti sér nú að því að berjast fyrir réttindum annarra jaðarhópa, eins og trans fólks og intersex fólks, því eins og ég hef alltaf sagt þá gengur þessi barátta út á full mannréttindi fyrir alla. Hitt er annað mál að mér finnst stundum að unga fólkið í dag skilji ekki hvað það var sem við þurftum að glíma við fyrir fjörutíu árum og alveg ástæða til að hvetja það til að kynna sér söguna og læra af henni. Mér fannst það til dæmis sláandi að þegar lagasetningunni 2006 var fagnað var ekki einn einasti samkynhneigður á sviðinu, enginn. Þar voru bara stjórnmálamenn, eins og þetta væri allt saman þeim að þakka. Mér finnst svolítið umhugsunarfni á hvaða leið Samtökin eru ef þeim finnst það sjálfsagt mál. Það er nefnilega þannig að þessi réttindi fengust ekki af sjálfu sér, það kostaði mikla og harða baráttu og það eru ýmis teikn á lofti í heiminum sem benda til þess að ofsóknir gegn hommum séu aftur að aukast. Það þarf að vera vakandi fyrir því svo sagan endurtaki sig ekki.“
Hinn eðlilegi gangur lífsins
En hvernig líður þér með það að þetta „barn“ þitt sem Samtökin ’78 óneitanlega eru sé orðið fertugt, ertu ekki stoltur af þínum hlut?
„Jú, jú, ég get alveg verið það, ef maður þarf endilega að vera stoltur af einhverju,“ segir Hörður og hlær. „Ég er bara ekki þannig gerður að að ég sé hoppandi af gleði yfir einhverjum hlutum, ég er frekar þurr bara þegar aðrir fagna. Ég hef ekki lengur nein tengsl við Samtökin ’78 en ég losna auðvitað aldrei undan því að hafa verið sá sem stofnaði þau og gengst glaður við því.“
Spurður hvernig hann ætli að fagna tímamótunum upplýsir Hörður að hann hafi verið beðinn um að syngja nokkra söngva í kaffisamsæti sem haldið verður í húsnæði Samtakanna við Suðurgötu 3 þann 9. maí til að halda upp á afmælið.
„Þau hringdu í mig og báðu mig að gera þetta,“ segir hann hógvær. „Og ég geri það auðvitað með gleði, þótt einhverjir verði kannski ekki ánægðir með það. Að öðru leyti hugsa ég ekki lengur mikið um þessi mál. Ég var forgöngumaður í stofnun þessara samtaka, en svo tóku aðrir við stjórninni og það er bara nákvæmlega eins og það á vera. Hinn eðlilegi gangur lífsins.“
Páll Óskar, söngvari og leikari, deilir með lesendum nokkrum sakbitnum sælum.
„Það skal tekið fram að ég fæ enga sektarkennd yfir þessu myndum. Ég skammast mín ekki baun fyrir kvikmyndasmekk minn og upplifi bara sælu við áhorf þessara mynda. Almenni kvikmyndaáhorfandinn myndi spyrja sig hvern andskotann hann væri að horfa á, en ég er ekki hann,“ segir Páll Óskar ákveðinn.
Lady Terminator (Jalil Jackson – Indónesía 1988)
Ekki fokka í þessari dömu. Indónesía dældi frá sér drasli á níunda áratugnum og þessi mynd er sú besta af þeim. Ver- og hefnigjörn sjávargyðja vaknar til lífsins úr löngum dvala, dressar sig upp í leður, reddar sér hríðskotabyssu (sem tæmist aldrei) og drepur alla karlmenn sem á vegi hennar verða – eftir að hún sængar hjá þeim auðvitað. Mögnuð blanda af kvenkyns Terminator og Kill Bill. Ég þurfti oft að spóla til baka og klípa mig.
Bring it on (2000)
Godzilla vs. The Smog Monster! (Yoshimitsu Banno – Japan 1971)
Upprunalegu japönsku Godzilla-myndirnar eru ekkert minna er stórkostleg listaverk. Maður dáist að öllum litlu handgerðu „stórborgunum“ sem er svo rústað af manni í gúmmíbúningi. Hér berst Godzilla við útblástur bíla og verksmiðja – mengun sem safnast saman af mannavöldum og stökkbreytist í risaskrímsli með tvö augu og karakter. Þú byrjar að flokka plast og pappír eftir þessa mynd.
Bring it on (2000)
Mad Foxes (Paul Grau – Sviss/Spánn 1981) Upprunalegur titill: Los Violadores
Eurodrasl gerist ekki betra. Mótorhjólagengi aðhyllist nasisma, misþyrmir og drepur fólk. Kærasti ungrar konu leitar hefnda og lagar á sér hárið á meðan. Þetta er ein af fáum myndum sem ég hef séð í lífinu sem hefur ekkert „continuity“. Engin sena meikar sens við næstu senu. Hljóðsetning myndarinnar yfir á enska tungu er nauðsynlegur partur af stuðinu. Myndin sem þú þarft að sjá með berum augum til að trúa að hún hafi verið gerð.
Bring it on (2000)
Double Agent ’73 (Doris Wishman – Bandaríkin 1973)
Chesty Morgan er brjóstgott svar við Bond. Elsku stúlkan var með alvörurisabrjóst sem náðu niður að hnjám. Hér leikur Chesty njósnara sem á að uppræta og drepa heróínsmyglara og taka myndir af líkunum. Myndavél er plantað í vinstra brjóstið á henni og löngu fyrir daga Instagram fær hún milljón ástæður til að fara úr brjóstahaldaranum og taka myndir af öllu því sem hún drepur, sér og borðar. Með flassi. Doris Wishman var eini kvenleikstjóri sögunnar sem sérhæfði sig í B-myndum og ferill hennar er eins og fullkomlega ótrúleg lygasaga.
Leikkonan Jördis Richter landaði hlutverki í hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Fortitude.
„Fortitude er einn af mínum uppáhaldssjónvarpsþáttum um þessar mundir þannig að ég varð ótrúlega glöð að heyra að ég hefð hreppt hlutverkið,“ segir Jördis. „Reyndar var ég kölluð í áheyrnarprufu fyrir allt annað hlutverk, sem kom svo á daginn að hæfði mér alls ekki og þá buðu framleiðendurnir mér þessa rullu. Þeir vildu bara ólmir fá mig í þættina.“
Í Fortitude fer Jördis með hlutverk nýrrar persónu, Trudy, barþjóns í bænum sem hún lýsir í stuttu máli sem einskonar sáluhjálpara. Hún viðurkennir að það hafi verið svolítið skrítið að koma ný inn í þættina á þriðju og síðustu seríu en sér hafi verið afskaplega vel tekið af öllum í tökuliðinu. Það sé gaman á setti og lærdómsríkt að leika á móti stórstjörnum á borð við Dennis Quaid.
„Reyndar var ég kölluð í áheyrnarprufu fyrir allt annað hlutverk, sem kom svo á daginn að hæfði mér alls ekki og þá buðu framleiðendurnir mér þessa rullu. Þeir vildu bara ólmir fá mig í þættina.“
„Dennis er almennilegur og fyndinn náungi og það er gaman að fylgjast með honum leika. Leikararnir eru bara allir æðislegir,“ lýsir hún og bætir við að uppáhaldspersónan hennar í þáttunum sé drykkfelldi lögreglustjórinn Dan Anderson sem er leikinn af írska leikaranum Richard Dormer. „Meðal annars af því að það er svo áhugavert að fylgjast með Richard að störfum,“ útskýrir hún. „Hvað hann á auðvelt með að detta í og úr karakter og hvernig hann beitir röddinni, það er ótrúlega áhugavert að verða vitni að því. Það veitir manni svo mikinn innblástur.“
Jördis, sem er þýsk en hefur verið búsett á Íslandi síðustu ár, er alls engin nýgræðingur þegar kemur að spennuþáttum því hún hefur meðal annars farið með hlutverk lögreglukonu í vinsælli þýskri sjónvarpsseríu, Komissarin Lucas, og segist í gríni því vera orðin vön því að vera innan um gerviblóð og lík. Það sem Fortitude hafi hins vegar umfram aðra spennuþætti sem hún hefur leikið í sé hvað framleiðslan er dýr og vönduð. Meira að segja byssurnar eru raunverulegri en hún á að venjast. „Og það er alltaf verið að draga fram riffla,“ segir hún og hlær.
Hún bendir á að kostirnir við svona stóra framleiðslu séu fleiri. „Til dæmis fáum við öll lengri tíma til að kynnast og vinna hlutina saman sem gerir vinnsluna þægilegri. Svo er eitt af því skemmtilega við þetta verkefni hvað þættirnir fá góða dreifingu, því eftir því sem þeir eru sýndir víðar eru meiri líkur á að fleiri sjái þá. Og leikarar kunna auðvitað alltaf að meta aukinn sýnileika.“
Fólki reynist oft erfitt að sinna daglegri hreyfingu og nefnir þá helst tímaskort, þreytu, áhugaleysi og óöryggi sem ástæður. Mikilvægt er að gefa sér tíma til þess að hreyfa sig, þótt það sé ekki nema í hálftíma á dag, því hreyfing eykur líkamshreysti, vellíðan og lífsgæði almennt. Hægt er að hreyfa sig hvar og hvenær sem er og oft án lítils kostnaðar – engar afsakanir.
Úr kyrrsetu í fimm kílómetra hlaup
Það getur reynst mörgum erfitt að byrja að hlaupa. Couch to 5K er hlaupaprógram sem hægt er að hlaða niður á snjallsíma og er hannað með því markmiði að þjálfa fólk hægt og rólega upp í að geta hlaupið 5 km samfleytt.
Heimatilbúin lóð
Það er algjör óþarfi að kaupa dýr handlóð þegar maður er að byrja. Hægt er að nýta ýmsa hluti sem til eru á heimilinu sem lóð, til dæmis niðursuðudósir. Einnig er sniðugt að fylla plastflöskur af vatni en eins lítra flaska er um það bil 1 kg.
Sippaðu eins og þú gerðir sem krakki
Að sippa er mjög áhrifarík leið til að bæta þolið því að tíu mínútur af rösku sippi veitir álíka þoláhrif og 30 mínútur af skokki. Það sem meira er að þetta reynir á langflesta vöðva líkamans og er rosalega skemmtileg hreyfing.
Kíktu á bókasafnið
Hægt er að fá fleira en skáldsögur og fræðirit á bókasöfnum landsins. Flest bókasöfn eru einnig með bæði líkamsræktardiska og -bækur til útláns. Kíktu á næsta bókasafn og sjáðu hvað er til.
YouTube
Á YouTube er ógrynni af alls kyns skemmtilegum myndböndum. Margir vita þó ekki að þar má líka finna ókeypis líkamsræktarmyndbönd. Sem dæmi má nefna Blogilates-rásina þar sem pílates-kennarinn Cassey Ho setur inn hressileg og aðgengileg myndbönd.
Upp og niður stiga
Mikilvægt er að nýta öll tækifæri sem gefast til hreyfingar. Einfalt er að venja sig af því að fara með lyftunni upp eða niður, sama hvort um er að ræða eina hæð eða fimm, það mun koma þér á óvart hversu fljótt það venst.
Út að labba með hundinn
Þeir sem eiga hund kannast við að neyðast til að fara með þá í göngutúr, allavega einu sinni á dag. Þeir sem ekki eiga hund geta þó tekið sér þetta til fyrirmyndar og miðað við að ganga að minnsta kosti hálftíma á dag.
Auðveldar æfingar
Það eru til fjölmargar styrktaræfingar sem hægt er að gera heima, jafnvel á meðan maður horfir á sjónvarpið. Sem dæmi um slíkar æfingar má nefna: hnébeygjur, armbeygjur, framstig, magaæfingar og bakæfingar.
Aðeins nokkrir dagar eru þar til Eurovision-keppnin hefst fyrir alvöru í Lissabon í Portúgal, en keppnin er haldin dagana 8. til 12. maí næstkomandi.
Evrópskir áhorfendur fá að velja sér sigurvegara ásamt dómnefndum frá öllum Evrópulöndunum og Ástralíu, en fimm reynsluboltar sitja í íslensku dómnefndinni sem leggur sitt mat á öll framlögin sem keppa.
Í dómnefnd eru tónlistarkonan Védís Hervör Arnadottir, Hlynur Ben, ritstjóri og stofnandi garg.is, Jón Rafnsson tónlistarmaður, Erla Jónatansdóttir, kennari og söngkona, og Hannes Friðbjarnarson, trommuleikari og fyrrum Eurovision-fari.
Sá síðastnefndi fór fyrir Íslands hönd í Eurovision-keppnina árið 2013 í Malmö í Svíþjóð þar sem Eyþór Ingi Gunnlaugsson söng lagið Ég á líf. Þá var Hannes í hlutverki bakraddasöngvara. Eftir keppnina viðraði Hannes þá hugmynd að Ísland tæki sér pásu frá Eurovision vegna fjárskorts RÚV. Skemmst er frá því að segja að hugmyndin féll í grýttan jarðveg hjá Eurovision-aðdáednum, svo sem Friðriki Ómars og Regínu Ósk sem skipuðu dúettinn Eurobandið og gerðu garðinn frægan í Serbíu árið 2008.
Það er ekki bara Ísland sem skipar fyrrum Eurovision-stjörnur í dómnefnd.
Danir stóla til dæmis á Emmelie de Forest sem sigraði með laginu Only Teardrops í Malmö árið 2013. Austurríkismenn leggja traust sitt á Nathan Trent sem endaði í 16. sæti í keppninni í fyrra með lagið Running on Air og Norðmenn eru með Hanne Haugsand, sem var í tríóinu Charmed sem keppti árið 2000 með lagið My Heart Goes Boom og lenti í 11. sæti, svo fátt eitt sé nefnt.
Eurovision-farinn Ari Ólafsson er búinn að setja í loftið endurhljóðblandaða útgáfu af Eurovision-laginu Our Choice, sem hann flytur í keppninni í næstu viku.
Lagið var endurhljóðblandað af upptökuteyminu StopWaitGo og er komið í ansi hreint poppaðan dansbúning. Ari frumflutti útgáfuna á Facebook-síðu sinni og hefur verið hlustað á hana mörg þúsund sinnum.
StopWaitGo er eftirsótt upptökuteymi og eru meðlimir þess ekki ókunnugir Eurovision. Þeir áttu til dæmis þau tvö lög sem kepptust um að komast utan í keppnina árið 2015, bæði Lítil Skref, eða Unbroken, með Maríu Ólafsdóttur og Í síðasta skipti, eða Once Again, flutt af Friðriki Dór. Eins og margir muna var það fyrra lagið sem keppti fyrir Íslands hönd í Eurovision en Friðrik Dór fékk að fljóta með í bakröddum.
Ari stígur á sviðið í Lissabon næstkomandi þriðjudag, þann 8. maí, í fyrri undanúrslitariðlinum. Ari er númer tvö í röðinni, en veðbankar og Eurovision-spekúlantar eru flestir sammála um að hann komist ekki upp úr riðlinum. Ef svo fer að Ari vinni hjörtu Evrópubúa líkt og hann vann hjörtu Íslendinga keppir hann í úrslitunum laugardagskvöldið 12. maí.
Félagasamtökin Blátt áfram hafa hrint af stað landssöfnun undir yfirskriftinni „Vertu verndari“ í því skyni að efla fræðslu og forvarnir gegn kynferðisofbeldi á börnum. Sigríður Björnsdóttir, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Blátt áfram, segist hafa upplifað mikla viðhorfsbreytingu hjá almenningi gagnvart þessum erfiða málaflokki á þeim 14 árum sem samtökin hafa starfað, en segir að enn sé af nógu að taka eins og #metoo-byltingin hafi sýnt fram á.
„Þetta er allt annað í dag. Það er kominn miklu betri skilningur á kynferðisofbeldi og þeim skelfilegu afleiðingum sem það getur haft og við sem samfélag almennt miklu meðvitaðri um hvað það er mikilvægt að koma í veg fyrir það,“ segir Sigríður, spurð hvernig henni finnist viðhorfið gagnvart umræðunni um kynferðisofbeldi á börnum hafa breyst frá því að samtökin voru stofnuð.
„Fólk er almennt bæði betur upplýst og tilbúnara að afla sér fræðslu en áður,“ heldur hún áfram. „Það hringir til okkar, leitar sér hjálpar og breytir viðbrögðum sínum eftir að fengið forvarnarfræðslu hjá Blátt áfram, sem er besta uppskera viðfangsefna okkar,“ segir hún og nefnir sem dæmi að síðastliðinn vetur hafi Blátt áfram farið af stað með nýtt verkefni ætlað foreldrum og aðstandendum barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og því hafi verið vel tekið. „Talið er að um 17 til 27 prósent barna verði fyrir kynferðisofbeldi eða áreitni fyrir 18 ára aldur og foreldrar þessara barna eiga oft um sárt að binda. Telja sig ekki hafa staðið sig vel í foreldrahlutverkinu og eru af þeim sökum stundum uppfullir af skömm, reiði og sektarkennd. Við ákváðum að bjóða upp á stuðingshóp fyrir foreldra og aðstandendur því meðferð barna fer töluvert eftir því hvernig foreldrum tekst að halda utan um eigið líf,“ útskýrir hún.
„Árið 2014 sendum við Velferðarráðuneytinu drög að aðgerðaráætlun fyrir forvarnir gegn kynferðisofbeldi á landsvísu en ráðamenn eru fyrst núna að taka við sér og átta sig á mikilvægi forvarna til langs tíma.“
Hún nefnir líka námskeiðið „Verndarar barna“ sem er eitt af helstu verkefnum Blátt áfram og er gagnreynt efni byggt á rannsóknum. „Þetta er markviss og öflug fræðsla fyrir fullorðna, foreldra og aðila sem starfa með börnum og ungmennum. Fræðsla sem stofnanir og sveitafélög nýta sér til að efla þekkingu og færni meðal starfsfólks við störf sín og hjálpar því að taka samstundis á óæskilegri hegðun annarra fullorðinna og hjálpar börnum að greina strax frá ofbeldi.“
Ráðamenn fyrst núna að taka við sér
Sigríður segir það vera góða þróun að sveitarfélög og stofnanir séu farin að taka ábyrgð á velferð barna og ungmenna með markvissri þjálfun starfsstétta sem starfa með þessum aldurshópum. „Það er góð tilfinning að sjá slíkan árangur en ég viðurkenni samt sem áður að ég hefði viljað sjá fleiri breytingar í samfélaginu og þær mættu hafa gerst hraðar og fyrr.
Árið 2014 sendum við til dæmis Velferðarráðuneytinu drög að aðgerðaráætlun fyrir forvarnir gegn kynferðisofbeldi á landsvísu en ráðamenn eru fyrst núna að taka við sér og átta sig á mikilvægi forvarna til langs tíma. Fólk er að átta sig á því að forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börunum eru líka forvarnir gegn sjálfsvígum, áfengis- og vímuefnanotkun, matarfíkn og öðrum afleiðingum sem valda fólki með áfallasögu úr æsku meiri vanda, langt fram á fullorðinsárin. Að áföll í æsku hafa langvarandi afleiðingar á allt lífið og með því að fækka slíkum áföllum höfum við áhrif á svo margt fleira en bara einstaklinginn sjálfan. Að starfið sem Blátt áfram innir af hendi og baráttan gegn kynferðisofbeldi á börnum er ekki stakt átaksverkefni.“
Íslendingar stutt komnir í baráttunni
Spurð hvort það sé ekki búið að vera strembið að standa í brúnni í öll þessi ár viðurkennir Sigríður að vissulega hafi það oft tekið á. „Það er krefjandi að vera í fararbroddi með umræðu um jafnvandasamt og sársaukafullt málefni og kynferðisofbeldi á börnum,“ segir hún. „En á sama tíma er gott að sjá árangur af starfinu. Fólk kemur og þakkar okkur fyrir að vera með fræðslu og segir að samtökin hafi bjargað sér. Eins og þegar ung kona stöðvaði mig á förnum vegi fyrir skömmu og sagði mér frá því að vegna fræðslu sem hún hafði fengið hjá Blátt áfram í skólanum sínum þegar hún var yngri hafi hún strax getað greint frá ofbeldi sem hún varð síðar fyrir. Það er gefandi að heyra svona sögur. Að fá að vita að við erum að bjarga mannslífum.“
Heldurðu að þessari baráttu, baráttunni gegn kynferðisofbeldi á börnum, komi einhvern tímann til með að ljúka? „Ég held að henni ljúki ekki, nei,“ svarar hún, „en verkefnin breytast og við sjáum það á þeim þjóðum sem eru komnar lengra en við Íslendingar í forvörnum gegn kynferðisofbeldi hvað við erum raunverulega stutt á veg komin í að uppræta ofbeldi á börnum.“
Gerendur ekki með horn og hala
En hvernig sérðu fyrir þér að við getum unnið betur á þessu samfélagsmeini sem kynferðisofbeldi er? „Samfélagsmeinið er til dæmis vandi okkar að horfast í augu við hverjir það eru sem brjóta gegn börnum. Að átta sig meðal annars á því að gerendurnir eru ekki með horn og hala. Að flestir sem brjóta gegn börnum eru tengdir þeim með einhverjum hætti. Ef við viljum stöðva ofbeldið þurfum við að taka það með inn í myndina. Við þurfum að vera tilbúin að bregðast við óþægilegri hegðun annars fullorðins fólks gagnvart börnum og þannig vernda börnin,“ svarar hún og getur þess að ein leiðin til þess sé einmitt að leggja Blátt áfram lið.
„Samfélagsmeinið er … vandi okkar að horfast í augu við hverjir það eru sem brjóta gegn börnum. Að átta sig meðal annars á því að … flestir sem brjóta gegn börnum eru tengdir þeim með einhverjum hætti.“
„Blátt áfram er rekið með styrkjum og frjálsum framlögum einstaklinga, fyrirtækja og félaga. Fleiri aðilar styðja við bakið á okkur sem störfum að forvörnum gegn kynferðisofbeldi með ýmsum hætti þótt hann sé sjaldnast nægur. Þess vegna skiptir landssöfnun félagsins sem er í gangi núna miklu máli. Lyklakippan sem er til sölu felur í sér stuðning til okkar. Salan er mikilvægur liður í því að afla fjár til að sinna brýnum verkefnum sem eru mörg og fjölgar árlega. Hún er liður í því að hjálpa öðrum til betra lífs. Liður í því að hjálpa samfélaginu að bæta tilveru okkar allra. Í því að hjálpa okkur að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi á börnum.“
Stöðvum ofbeldi gegn börnum
Að sögn Sigríðar vita flestallir Íslendingar nægilega mikið um þessi mál í dag, til dæmis með tilkomu nýlegra byltinga, eins og #metoo þar sem fjöldi kvenna hefur stigið fram og greint frá kynferðisáreiti og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir, margar hverjar á á barnsaldri, til að vera meðvitaðir um nauðsyn þess að koma í veg fyrir að slíkt ofbeldi eigi sér stað. „Við vitum nægilega mikið um það hvernig það gerist og þá er komin tími til að koma í veg fyrir það. Börn eiga ekki að þurfa að verða fyrir þessu ofbeldi,“ segir hún. „Þess vegna hvet ég sem flesta að gerast „verndarar“ með því að styðja Blátt áfram í því að stöðva það, þetta ofbeldi á börnum, til dæmis með því að kaupa fyrrnefndu lyklakippuna sem er til sölu í landssöfnun félagsins eða með því að styrkja starfssemi þess með mánaðarlegum greiðslum. Tækifærið sem við höfum núna til þess að reyna að vinna gegn því er einstakt fyrir samfélagið okkar. Tíminn er núna.“
Við hjá Vogue fyrir heimilið bjóðum upp á fjölbreytt úrval af gluggatjöldum. Hægt er að panta efni frá tveimur birgjum, Köbe og Vriesco. Báðir aðilar hafa mjög mikið úrval af fallegum og vönduðum gluggatjaldaefnum. Við erum með sýningarlengjur í versluninni og einnig svokallaða „hengera“ en þar eru öll sýnishornin af þeim efnum sem boðið er upp á.
Velúr móðins í dag
Við sérsaumum bæði fyrir einstaklinga og hótel en það færist allaf meira í aukana að fólk velji sér gluggatjöld og það verður æ vinsælla að fólk velji sér þyngri efni og í litum. Velúrefnin eru mjög vinsæl en hvítt eða natur voal er alltaf inni.
Veggfóður kemur sterkt inn
Köbe býður einnig upp á úrval fallegs veggfóðurs sem hægt er að velja við gluggatjöldin og einnig er hægt að fá efni sem hægt er að nota í bólstrun. Í dag er aftur orðið mjög vinsælt að fegra falleg rými með mjúku og aðlaðandi veggfóðri. Híbýlin verða hlýlegri og mýkri með veggfóðrinu.
Við vinnum í lausnum og framleiðum fyrir þig
Einnig býður Vogue fyrir heimilið upp á flestar aðrar lausnir fyrir gluggann; screen, myrkvunarrúllur, strimla og þess háttar. Ef ekki allar þá flestar aðrar lausnir. Fagmennskan er alltaf höfð að leiðarljósi og það er ávallt framleitt eftir málum.
VOGUE FYRIR HEIMILIÐ
Síðumúla 30
108 Reykjavík
Sími: 533-3500 www.vogue.is
VOGUE FYRIR HEIMILIÐ
Hofsbót 4
600 Akureyri
Sími: 462-3504 www.vogue.is
Þegar fasteignaeigendur eru í söluhugleiðingum reynist þeim oft erfitt að verðmeta eignir sínar og fagna því að geta fengið faglega og trausta ráðgjöf hvað ber að hafa í huga þegar fasteignir eru verðlagðar, með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Einnig er mikið um að fasteignaeigendur vilji fara út í endurfjármögnum á lánum sínum og tryggja að þeir séu á hagstæðustu kjörum sem í boði eru hverju sinni.
Fasteignasalan Eignalind hefur undanfarin tíu ár boðið upp á ráðgjöf fyrir fasteignaeigendur og hafa þessi verðmöt færst mikið í vöxt á síðustu árum og æ fleiri leita eftir ráðgjöf. Ráðgjöfin sem boðið er upp á ber heitið Verdmat.is.
Við hittum Sigurð Odd Sigurðsson, löggiltan fasteignasala hjá Verdmat.is, og fræddumst frekar um þessa ráðgjöf og hvernig hún fer fram.
„Það eru fjölmargir sem leita til okkar og beiðnum um ráðgjöf fer fjölgandi. Hvernig ætli þetta verdmat.is virki og hvernig ber maður sig að? Hver er munurinn á verðmati vegna sölu eða vegna endurfjármögnunar? eru þær spurningar sem brenna á vörum þeirra sem til okkar leita,“ segir Sigurður.
Endurfjármögnum á lánum í stöðugri aukningu
Verðmat vegna endurfjármögnunar á lánum hefur aukist mjög mikið á síðastliðnum árum og ástæða þess er að nú er hagstætt að breyta lánum og vextir eru lægri en þeir voru fyrir nokkrum árum þegar áhvílandi lán voru tekin. Hvernig fara þessi verðmöt fram?
„Verðmöt vegna endurfjármögnunar eða skrifleg verðmöt, verða að vera skrifleg og undirrituð af löggiltum fasteignasala, en þá þarf fasteignasali frá okkur að heimsækja viðkomandi fasteign og taka niður allar upplýsingar um eignina og nákvæma lýsingu á fasteigninni. Síðan er útbúið skjal sem eigandi getur farið með í sinn viðskiptabanka eða lífeyrissjóð eða þar sem hann ætlar að nota verðmatið en verðmat getur einnig verið út af skilnaðarmálum, erfðamálum og fleira. Við erum að bjóða þessi verðmöt á 20.000 krónur og margir af viðskiptavinir okkar hafa sagt að þetta sé það ódýrasta á markaðinum,“ segir Sigurður.
Frí og skuldbindingarlaus þjónusta
Þið bjóðið jafnframt upp á verðmat fyrir einstaklinga í söluhugleiðingum, hvernig kviknaði sú hugmynd hjá ykkur bjóða upp á þessa þjónustu?
„Það er rétt, við erum líka með verðmat fyrir fólk í söluhugleiðingum og hugmyndin kviknaði þannig fyrst af verdmat.is því oft voru svo margir að spá og spekúlera að selja eða skipta um húsnæði en voru ekki alveg vissir hvað þeir ætluðu að gera og vildu ávallt fá að vita fyrst hvað þeir fengju fyrir eignina sína áður en farið var á fullt. Við ákváðum því að bjóða upp á þessa ráðgjöf inni á verdmat.is og nú er hægt panta verðmat á heimasíðunni okkar www.verdmat.is eða hringja í okkur. Við bregðumst fljótt við og komum yfirleitt daginn eftir eða þegar það hentar eigandanum. Þá skoðum við eignina og tökum síðan verðmatsfund daginn eftir. Við förum vel yfir hverja eign og reynum að koma með raunhæft verð fyrir hverja þá eign sem við metum. Síðan ákveður eigandi fasteignarinnar hvað hann gerir, hvort hann setur strax í sölu eða bíður einhvern tíma. Það er nú oft svo að fasteignaeigendur biðja okkur um að gefa sér tilboð í sölulaun sem við glaðir gerum og reynum að bjóða öllum okkar viðskiptavinum hagstætt verð,“ segir Sigurður og brosir. Hann bætir jafnframt við að þó að viðkomandi fasteignaeigandi sem nýtir sér þjónustuna og ákveði að skipta ekki við þá eða bíði með að selja, sé hann ekki rukkaður um neitt af þeirra hálfu og þessi þjónusta er frí og skuldbindingalaus.
„Við erum nú þegar með stóran hóp ánægðra viðskiptavina og margir hafa orðið samband beint við okkur af því að einhver mælti með þjónustu okkar sem er auðvitað mjög ánægjulegt. Við erum ávallt til þjónustu reiðubúnir.“
Gaman er að geta þess að Verdmat.is er tíu ára á þessu ári og þar starfa fasteignasalar með áratuga reynslu af fasteignamarkaðinum.
Áhugasamir geta kynnt sér það sem í boðið er nánar hér / Sími 616 8880
Innbrotahrina erlendra glæpagengja stöðvuð. Þýfið var flutt úr landi eða hent. Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir dæmi um að fólki hafi liðið illa á heimilum sínum eftir innbrot og flutt.
„Við náðum að stöðva þá sem stóðu að stórum hluta þessara innbrota. Þetta voru sjö einstaklingar frá Austur-Evrópu og einn sem hafði verið búsettur hér lengi og var með íslenskt ríkisfang. Einn var 16 ára og hefur verið sendur til síns heima en aðrir hafa verið úrskurðaðir í farbann, gæsluvarðhald og bíða ákæru,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er búið,við sjáum ekki þessa hópa lengur.“
Skúli segir lögreglu hafa tekist að endurheimta hluta af þýfi við húsleitir og handtökur. Ljóst sé að þjófarnir hafi flutt eitthvað úr landi og selt hluta þess. Það sem þjófarnir töldu ekki fást mikið fyrir hentu þeir. Tilfinningalega tjónið er mest, að mati Skúla. „Það eru dæmi um að fólk hafi ekki getað búið í húsum sínum lengur, selt það og flutt.“
„Það eru dæmi um að fólk hafi ekki getað búið í húsum sínum lengur, selt það og flutt.“
Innbrotahrina gekk yfir höfuðborgarsvæðið fyrir jól og inn í árið. Helst var brotist inn á heimili fólks, sérstaklega fjölgaði innbrotum í sérbýli í Garðbæ, Kópavogi, Grafarvogi og Mosfellsbæ. Skúli segir lögregluna hafa greint af aðferðunum að herjað var skipulega á ákveðin hverfi. Aðferðirnar við innbrotin og verksummerki voru svipuð. Farið var inn bakatil hjá fólki þegar enginn var heima yfir hábjartan dag. Farið var inn í svefnherbergi og stolið skartgripum, peningum og minni raftækjum.
„Verksummerki sýndu greinilega að fleiri en einn var á ferðinni. Okkur grunaði strax að um væri að ræða erlenda brotamenn því við vorum með myndir af brotamönnum sem enginn okkar kannaðist við. Þýfi var heldur ekki að ganga kaupum og sölum. Við fundum reyndar þýfi hjá skartgripasala sem hafði keypt það í góðri trú,“ segir Skúli.
Ábendingar leiddu til handtöku
Slíkur var faraldurinn að lögreglan bað fólk að vera á varðbergi og fylgjast með mannaferðum. Árangurinn var góður og bárust lögreglunni ábendingar sem leiddu til þess að þjófagengið var handtekið í tveimur umfangsmiklum aðgerðum í Setbergshverfinu í Hafnarfirði og í Garðabæ. Átta til níu lögreglubílar voru notaðir við aðra handtökuna. Þýfi fannst á vettvangi auk muna sem stolið var úr sumarbústöðum á Vesturlandi og því ljóst að þjófarnir voru sökudólgarnir í innbrotum þar.
„Ég var mjög ánægður með það hvernig lögreglan stóð sig við handtökurnar. Þessir einstaklingar áttu enga möguleika á því að komast burt og voru handteknir á hlaupum,“ segir Skúli. Þegar þjófarnir voru handteknir voru tilkynningar um innbrot í sérbýli, einbýlishús og ráðhús, orðnar 70 talsins.
En hvernig á að komast hjá því að kaupa þýfi?
„Yfirleitt er það þannig að fólki er að bjóðast verðmætir hlutir á ótrúlega lágu verði. Þegar þannig háttar til þá á fólk að vera á varðbergi, gæti verið um þýfi að ræða. Fólk má ætla að um sé að ræða þýfi,“ segir Skúl aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Hér má sjá þróun innbrota í fyrirtæki/verslanir/stofnanir og heimili. Eins og myndin sýnir þá fjölgaði innbrotum talsvert á þessu ári. En hrinunni lauk snarlega þar sem grafið fer niður. Innbrot hafa verið á svipuðu róli síðustu árin og hefur lögreglan séð það verra, svo sem á árunum eftir hrun.
Stjórn framboðsins Okkar Hveragerði er ekki beint í skýjunum eftir að ungir sjálfstæðismenn í bænum keyptu lén framboðsins í lok mars.
Okkar Hveragerði er nýr listi skipaður fólki úr Samfylkingunni, Bjartri framtíð og óháðra sem ætlar fram í sveitarstjórnarkosningunum í lok mánaðar. Frambjóðendurnir stofnuðu Facebook-síðu Okkar Hveragerði 28. mars síðastliðinn. Daginn eftir tryggði stjórn Asks, félags ungra sjálfstæðismanna í Hveragerði sér hins vegar lénið www.okkarhveragerdi.is og vísaði allri umferð þaðan yfir á vefsíðu Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði.
„Það kom okkur mjög spánskt fyrir sjónir að lénið væri virkilega laust á þessum tímapunkti og kom þá upp í einhverjum félagsmönnum örlítill ungliðapúki sem vildi setja fútt í kosningabaráttuna,“ segir Laufey Sif Lárusdóttir, formaður Asks. Hún bendir á að Askur og fleiri í Hveragerði hafi notað slagorð nýja framboðsins í sínu starfi í gegnum tíðina.
Laufey bendir líka á að undarlegt sé að stjórn framboðsins Okkar Hveragerði hafi ekki tryggt sér lénið fyrr. ,,Í nútímasamfélagi er þetta eitt af því fyrsta sem maður gerir við stofnun fyrirtækis eða pólitísku framboði. Þú finnur nafn og kannar hvort lénið sé laust. Ef maður gerir það ekki þá gerir einhver annar það,“ segir hún.
Spurð hvort stjórn framboðsins Okkar Hveragerði hafi haft samband við stjórn Asks til að þess að fá lénið segir hún svo ekki vera.
Aðalmynd: Laufey Sif Lárusdóttir segir fútt komið í kosningabaráttuna í Hveragerði.
Trans mennirnir Alexander Björn Gunnarsson og Davíð Illugi Hjörleifsson Figved fengu úthlutað kvenkyni við fæðingu en létu leiðrétta kyn sitt og lifa nú loksins sem þeir sjálfir. Þeir segja mikinn mun á kröfum sem samfélagið gerir til kynjanna. Konur eigi að vera stilltar en karlmenn megi hafa hátt.
„Konur eiga að vera settlegar og ekki láta mikið fyrir sér fara. Ég er þannig frá náttúrunnar hendi en nú er meiri pressa á mig að vera sýnilegri og taka meira pláss. Ég upplifi það mjög sterkt að það voru gerðar miklu meiri kröfur til mín, áður en ég kom út sem strákur, að haga mér vel, standa mig vel og vera 110% fullkominn. Í dag er ég yfirleitt lesinn sem karlmaður og þá er mér alveg fyrirgefið ef ég geri mistök, því allir geri mistök. En ef maður er stelpa þá gera ekki allir mistök,“ segir Alexander. Alexander verður þrítugur í sumar og var mjög opinskár í fjölmiðlum um sitt kynleiðréttingarferli. Hann bloggaði til að mynda um typpið á sér á sínum tíma og hefur lagt sín lóð á vogarskálar þess að opna umræðu um transfólk.
„Maður á bara að þegja og ekki vera fyrir,“ segir sessunautur Alexanders, Davíð Illugi eða Illugi eins og hann er oftast kallaður. Illugi er áratug yngri en Alexander en hann hefur verið búsettur í Noregi í um átta ár. Hann hefur spilað tölvuleiki um árabil og finnur vel fyrir kynjamisrétti og -mun í þeim heimi.
„Þegar að fólk leit á mig sem stelpu og ég skaut manneskju í byssuleik þá varð allt kreisí af fögnuði því fólk bjóst ekki við neinu af stelpu. En ef ég skýt fáa í byssuleik núna verð ég bara skammaður og dissaður, það þykir ekki nógu gott. Í tölvuleikjaheiminum eru karlmenn sem spila tölvuleiki kallaðir gamers, en konur heita gamer girls. Það var alltaf verið að adda mér þegar var litið á mig sem stelpu og alltaf verið að tala um útlitið mitt en ég fann að ég var ekki einn af hópnum. Strákarnir voru ekkert að spá í taktíkinni minni í leiknum og buðu mér í alls kyns teymi bara af því að ég var stelpa. Svo var mikið talað um kynlíf og ég spurður oft hvort ég ætti kærasta,“ segir Illugi, en Alexander fann ekki mikið fyrir kynferðislegri áreitni þegar hann lifði lífinu sem kona
„Ég kom út sem lesbía þegar ég var 16 ára og hef alltaf verið á karlmannlegri hlið, útlitslega séð. Karlmenn töluðu aldrei mikið um útlitið mitt en fann ég meira fyrir því að þeir komu til mín og sýndu mér gellur. En ég hef séð svo mörg dæmi um kynferðislega áreitni í kringum mig og það er fáránlegt að karlmenn leyfi sér svona hluti,“ segir Alexander.
„Já, eins og áreiti á vinnustað,“ skýtur Illugi inn í. „Það að þú þurfir að umbera að karlmaður sem er yfirmaður þinn sé að káfa á þér á vinnustað þar sem þú þarft að vera á hverjum degi er hræðilegt. Það er mjög algengt og konur bara taka því. Ég hef oft orðið vitni að slíku og stundum langar mig að fara til kvenna og segja þeim að standa upp fyrir sér sjálfum.“
Og Alexander bætir við: „Ég held að konur upplifi sig oft vanmáttugar og varnarlausar gagnvart karlmönnum.“ Illugi segir að það tengist uppeldinu.
„Þær eru bara aldar upp þannig. Karlmenn mega vera eins og þeir eru. Þeir mega vera háværir og haga sér eins og fífl. Ég er rosalega oft fúll yfir því að vera karl. Stundum þoli ég það ekki en svo er ég líka mjög glaður að hafa geta upplifað þá hlið að vera kvenmaður. Það gerir mig að betri manneskju. Pældu í því ef ég hefði byrjað að skilgreina mig sem karlmann þegar ég var fjögurra ára og hefði verið alinn upp sem karlmaður. Ég hefði orðið allt önnur manneskja en ég er núna. Ég er ánægður að hafa upplifað hlið kvenmanna svo ég sé ekki þessi manneskja sem maður er alltaf að forðast,“ segir hann og Alexander slær á létta strengi. „Já, það hjálpar mér mikið í samskiptum við aðrar stelpur og kærustuna mína. Bara það að vita hvernig það er að vera með túrverki. Ég held að það myndi hjálpa rosalega í mörgum samböndum,“ segir hann og hlær.
„Það er jákvætt að vita um líkamlegu hlutina en líka þá samfélagslegu,“ bætir Illugi við.
Hluti af karlmennsku er að vera með mótþróa
Okkur er tíðrætt um þessi rótgrónu, samfélagslegu gildi að karlmenn megi allt og hafi leyfi til að taka mikið pláss. Fyrir stuttu spratt upp bylgja í kjölfar #metoo sem gekk um samfélagsmiðla undir kassamerkinu #karlmennskan. Það átak reis ekki nærri því jafnhátt og forveri þess, og á mikið inni, en þá kom í ljós að karlmönnum leyfist alls ekki allt, eitthvað sem hugtakið eitruð karlmennska nær mjög vel utan um.
„Karlmenn mega margt en það er samt mjög þröngt skilgreint hvað þeir mega. Við megum til dæmis ekki vera í kjólum. Það virðist að við megum gera það sem við viljum á hlut kvenna en ekki á hlut annarra karla,“ segir Alexander.
„Hluti af karlmennskunni er að vera með mótþróa. Ef það er verið að biðja karlmenn um að opna sig þá skilja þeir ekki að þeir geti það og vilja það ekki. Þeir hafa verið aldir upp svo lengi við það að þeir megi ekki opna sig og tala um tilfinningar. Þetta hefur með uppeldi og kynjahlutverk að gera,“ segir Illugi og Alexander er sama sinnis.
„Þetta á eftir að taka mjög langan tíma. Margir karlmenn eru aldir upp við það að gráta ekki, verða ekki veikir, sýna ekki tilfinningar. Sem betur fer virðast bara eldri kynslóðirnar vera enn í þeim pakka. Mér finnst þetta vera hægt og rólega að breytast með yngri kynslóðina. Strákar sem til dæmis vilja vera með naglalakk mega það þótt það sé „stelpulegt“. Við erum í millibilsástandi núna þar sem gamlar hefðir og yngri kynslóðin, með ný gildi og venjur, mætast.“
Illugi bætir því við að karlmönnum þyki auðveldara að opna sig fyrir honum, því þeir halda að hann sé hommi, og þá sérstaklega á skemmtistöðum eftir nokkra drykki. „Gagnkynhneigðir, sískynja karlmenn koma oft til mín og byrja að tala um tilfinningar. Þeim líður eins og það sé meira viðurkennt frá manneskju eins og mér sem er ekki gagnkynhneigður, sískynja karlmaður,“ segir Illugi.
„Ókei, ég lendi aldrei í því,“ segir Alexander.
„Ég lendi oft í því en ég djamma mjög mikið,“ segir Illugi og brosir.
„Ég djamma aldrei,“ segir Alexander og glottir.
„Það koma menn til mín á djamminu og opna sig. Sumir hafa kannski aldrei talað um tilfinningar en það er viss þjálfun að gera það. Ég gat það ekki áður en nú er ég rosalega opin manneskja. Karlmenn hafa almennt mjög sjaldan þá þjálfun,“ segir Illugi og bætir við að talað sé niðrandi um karlmenn sem tali um tilfinningar, sem hjálpi alls ekki.
„Þú ert hommi ef þú talar um tilfinningar. Þú ert stelpa, í niðrandi meiningu. Það er mesta óvirðing gagnvart karlmennsku að líkja henni við eitthvað kvenlegt. Karlmennska er svo mikilvæg hjá karlmönnum en í flestum tilvikum er hún það því þeim finnst að hún eigi að vera mikilvæg.“
Alexander skýtur inn í að það sé mikilvægt að útrýma þessari niðrandi orðræðu, bæði fyrir konur og karlmenn. „Þessi orðræða um að eitthvað sé kerlingarlegt, að einhver slái eins og stelpa, að einhver sé hommalegur, hefur svo slæm áhrif á sjálfsmyndina hjá konum, stelpum, hommum og börnum. Það hefur mjög sterk áhrif að tala um það sem þú ert í niðrandi tilgangi. Það er bara hreint út sagt hræðilegt.“
Vilja ekki vera ógnandi karlmenn
Alexander og Illugi hafa að sjálfsögðu ekki farið varhluta af #metoo þar sem athygli var beint að kynferðislegri áreitni og ofbeldi gagnvart konum. Þeir fagna þessu átaki, eins og öðrum þar á undan, en segja að á sama tíma skapi þetta ákveðinn vanda fyrir karla.
„Það er óþægilegt fyrir konur ef karlmaður gengur á eftir þeim í myrkri. En það er líka óþægilegt fyrir okkur sem karlmenn að hafa áhyggjur af því að konunni líði illa. Ég vil ekki að fólk sé hrætt við mig. En ég skil að fólk vilji hafa varann á. Það eru konur sem er ráðist á í myrkri og það eru karlmenn sem gera það,“ segir Alexander.
„Mér fannst óþægilegt að ganga í myrkri þegar það var horft á mig sem kvenmann og ég var skíthræddur. Núna er ég það ekki. Sem manneskja sem hefur upplifað að vera kona, en er nú maður, þá er ég alltaf að passa mig á að vera ekki þessi ógnandi manneskja sem lætur konum líða svona,“ segir Illugi.
„En þessar bylgjur, eins og #metoo, mega ekki deyja. Við þurfum að halda áfram að ýta undir þær og ekki leyfa þeim að deyja út,“ segir Alexander og Illugi er því hjartanlega sammála.
„Það að barátta verði svona hávær finnst mér æðislegt. Við erum ekki komin mjög langt í kynjajafnrétti þó að við viljum trúa því. Þegar svona byltingar fæðast þá verður fólk háværara og fólk meðtekur eitthvað smávegis af því sem baráttufólkið segir. Svo kemur önnur barátta og fólk meðtekur örlítið meira og svo framvegis. En þá má ekki hætta. Við verðum að vera hávær.“
Óþægilegt að brosa og vinka til barna
Þeir Alexander og Illugi eru báðir miklar barnagælur en finna sterkt fyrir því að litið sé öðruvísi á þeirra samskipti við börn eftir að fólk byrjaði að upplifa þá sem karlmenn.
„Ég er með eina neikvæða sögu í kollinum,“ segir Alexander djúpt hugsi. „Ég var að koma úr ræktinni og var að bíða eftir strætó. Þá kom hópur af leikskólakrökkum og einn strákur vinkaði mér. Ég brosti og vinkaði en þá kom leikskólakennari og stóð á milli okkar. Ég fann fyrir því að þetta mætti ekki og að samstundis kviknaði grunur um að ég væri barnaperri,“ segir hann og Illugi, sem vinnur á leikskóla, kinkar kolli.
„Ég elska börn. Ef fólk spurði mig hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór sagði ég alltaf pabbi. Fólk hélt að ég væri að meina að mig langaði að vera eins og pabbi minn en mig langaði bara að vera faðir. Ég brosi alltaf til barna þegar ég sé þau og nú finn ég svo sterklega fyrir því að ég held því inni því ég vil ekki að einhver haldi að ég sé barnaperri. Það er mjög skrýtið, því áður var það ekki þannig,“ segir Illugi og vísar í tímann áður en hann lét leiðrétta kyn sitt.
„Það hefur vissulega neikvæðar hliðar að vera karlmaður og vinna á leikskóla. Ef barn myndi segja eitthvað sem myndi hljóma eins og ég hefði gert eitthvað rangt þá væri tekið öðruvísi á því en ef um konu væri að ræða,“ segir Illugi.
„Það væri tekið alvarlegra á því,“ segir Alexander. „Og ég skil alveg af hverju.“
Þurfti að vera karlmannlegasti karlinn á svæði
Vegferðir Alexanders og Illuga að því að gera sér ljóst að þeir væru í raun karlmenn, þó að þeir hefðu fengið úthlutað kvenkyni við fæðingu, voru mjög ólíkar.
„Ég vissi ekki að það væru til trans gaurar þannig að ég kom fyrst út sem lessa,“ segir Illugi. „Ég vildi vera mjög karlmannlegur og var mjög upptekinn af því. Ég til dæmis elska söngleiki en hefði aldrei nefnt það á þessu tímabili. Skilurðu mig?“ spyr hann Alexander sem brosir kankvíslega.
„Upp að vissu marki. En ég var alltaf mjög opinn með það að ég elska söngleiki,“ segir Alexander og hlær.
„Það er samt ímynd sem fólk hefur um að karlmenn eigi ekki að elska söngleiki. Eða ballet. Ég elska ballet. Og á þessu tímabili þegar ég var mjög upptekinn af því að vera karlmannlegur, eða stereótýpan af karlmennsku. Ég byrjaði að vera háværari, því karlmenn mega vera háværari en konur, tala djúpri röddu og hnykkla vöðvana í speglinum. Þangað til ég byrjaði á hormónum. Þá byrjaði mér að vera skítsama um karlmennsku,“ segir Illugi og Alexander skýtur inn í að vissulega hafi hann upplifað slíkt tímabil þar sem hann í raun aðhylltist einhvers konar ofurkarlmennsku, þótt það hafi verið mun styttra tímabil en hjá Illuga.
„Ég hafði ekki alveg jafnmiklar áhyggjur af þessu en það tengist örugglega því að ég upplifði mig ekki alltaf sem strák. Ég upplifði mig sem stelpu en síðan breyttist það yfir í að ég upplifði mig sem strák. Það er frekar lýsandi fyrir það hve flæðandi kynvitund getur verið. Í um það bil ár upplifði ég að ég þyrfti að vera karlmannlegasti karlmaðurinn á svæðinu og mátti til dæmis ekki horfa á bleikan lit og því um líkt.“
Laminn fyrir að vera trans maður
Við stöldrum aðeins við þá staðreynd að þeir báðir séu trans menn, en trans menn hafa verið minna áberandi í samfélaginu en trans konur síðustu ár. Af hverju halda þeir að svo sé?
„Á meðan það er svona mikil trans fóbía í samfélaginu þá er líklegt að þeir sem geta falið sig geri það. Það er engin ástæða fyrir okkur að koma í viðtöl og segjast vera trans menn, nema sú staðreynd að við viljum vera sýnilegri og við viljum opna umræðuna,“ segir Alexander.
Illugi hefur fundið fyrir fordómum gegn trans fólki á eigin skinni, í bókstaflegri merkingu. „Ég hef verið laminn fyrir að vera trans, með hnúajárni. Ég lenti á spítala. Það er brútal,“ segir hann og það tekur greinilega mikið á hann að rifja það upp. „Fólk heldur að við séum komin langt, sem er rétt. Við erum komin langt í hinsegin baráttunni. Samt er mikið sem þarf enn að vinna í. Samkvæmt regnbogakortinu þar sem farið er yfir hve langt lönd eru komin í réttindum hinsegin fólks í lagalegum skilningi, stöndum við mjög illa. Það eru til dæmis engin lög sem banna það að hinsegin manneskja sé rekin úr starfi út af því að hún er hinsegin,“ segir hann og bætir við að fordómarnir birtist í ýmsum myndum.
„Ég er ekki laminn á hverjum einasta degi en það hefur gerst og ekki bara einu sinni. Svo eru þessi litlu atriði endalaust. Fólk heldur að það megi spyrja mig um allt sem tengist minni kynhneigð, og jafnvel kynlífi. Þannig að ég þarf alltaf að vera búinn undir að fá alls kyns spurningar um það.“
Sjö milljarðar og eitthvert kyn
Þeir Alexander og Illugi eru reyndar báðir sammála um að það sé ekki hægt að skipta heiminum í tvær fylkingar út frá kyni.
„Fyrir kynþroska eru allir eins, fyrir utan kynfærin. Hins vegar tengist allt einhverju kyni í samfélaginu. Og ef það tengist ekki kyni þá tengist það kynfærunum þínum. Kyn er hins vegar svo persónubundið. Þú ert bara þitt kyn. Ég vil meina að það séu til jafnmörg kyn og það eru manneskjurnar eru í heiminum. Það er enginn annar með þín sérkenni,“ segir Illugi.
„Það eru til sjö milljarðar og alls konar kyn. Hver er sitt eigið kyn. Við erum til dæmis báðir trans gaurar, en erum ekki á nokkurn hátt eins. Heilinn okkar vill svo mikið flokka í hlutum. Því færri flokka sem þú ert með, því þægilegra er það fyrir heilann. Þannig að ef þú getur flokkað allan heiminn í tvo flokka þá er það mjög einfalt. En hvernig er hægt að setja rúmlega sjö milljarða manna í tvo kassa? Við flokkum til dæmis ávexti í einn flokk en bananar og epli eru samt ekki eins. Ég vil meina að þessir tveir flokkar kynja séu yfirflokkar og síðan séu margir undirflokkar, skörun og alls konar,“ segir Alexander.
Þolir ekki karlmennsku
Það myndi taka okkur marga daga að ná utan um hugtakið karlmennska, birtingarmyndir karlmennskunnar og hvað sé til ráða til að útrýma eitraðri karlmennsku. En áður en ég kveð þá Illuga og Alexander verð ég að spyrja hvaða merkingu þeir leggi í sína eigin karlmennsku í dag.
„Ég reyni að vera rosalega góður pabbi,“ segir Alexander en hann á átta mánaða stúlku með unnustu sinni. „Það vill svo skemmtilega til að mér finnst gaman að fara í ræktina og lyfta þungum lóðum. Svo finnst mér gaman að þrífa, baka og elda,“ segir hann og Illugi tekur við.
„Núna get ég sagt að ég þoli ekki karlmennsku. Ég vil ekki vera þessi karlmaður sem öðrum finnst ógnandi. Ég er skíthræddur við eitraða karlmennsku. Ég leik mér að því að vera ekki karlmannlegi karlinn í kringum karlmenn. Ég tala oft um eitthvað sem karlmenn myndu aldrei tala um til að sjá viðbrögðin frá öðrum karlmönnum. Meðan karlmennskan er enn eitruð þá verður mér illa við hana.“
Hvað er eitruð karlmennska?
Hugtakið eitruð karlmennska er notað í sál- og kynjafræði og vísar til vissra viðmiða karlmannlegrar hegðunar í Norður-Ameríku og Evrópu, sem tengjast samfélagsskaða og þeim skaða sem karlmenn sjálfir verða fyrir. Hefðbundnar staðalímyndir karlmanna sem æðri vera sem og kvenhatur og hinseginfælni geta verið álitnar sem eitraðar sökum þess að þær ala á ofbeldi, þar með talið kynferðislegu ofbeldi og heimilisofbeldi.
Aðrir eiginleikar sem fylgja þessum staðalímyndum eru að karlmenn séu tilfinningalega lokaðir, en tengsl eru á milli þess og sálfræðilegra vandamála karlmanna, streitu og misnotkun á ávanabindandi efnum. Aðrir eitraðir eiginleikar eru mikil vinnusemi karlmanna og að þeir þurfi að sjá fyrir fjölskyldunni. Þessari eitruðu karlmennsku hefur oft verið kennt um að ofbeldi meðal karlmanna er talið eðlilegt. Stundum hefur því verið fleygt fram að eitruð karlmennska sé leið feðraveldisins til að skaða karlmenn.
Að vera sís/sískynja
Sís er lýsingarorð og forskeyti sem er notað um fólk sem upplifir sig á þann hátt að það tilheyri því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Sís kona er til dæmis kona sem var úthlutað kyninu „stelpa“ við fæðingu og er sátt við það. Orðinu er oft stillt upp sem andheiti við orðið trans.
Að vera trans
Trans er regnhlífarheiti yfir fólk sem er með kynvitund sem samræmist ekki því kyni sem því var úthlutað við fæðingu.
Kynvitund
Kynvitund segir til um hvernig fólk vill lifa og vera í sínu kyni. Kynvitund vísar ekki til kynfæra, líffræði eða útlits heldur upplifunar fólks af eigin kyni. Allir hafa kynvitund því allir upplifa kyn sitt á einhvern hátt.
Kynhneigð
Kynhneigð segir til um hverjum fólk getur laðast að, orðið skotið í eða ástfangið af.
„Við sem foreldrar berum ábyrgð á menntun barnanna og það er það sem ég vil gera með því að ferðast með þau um heiminn, og auðvitað allt Ísland, og kenna þeim í gegnum lífið, ekki í gegnum bækur, tölvur og fyrirlestra, mötun á námsefni og eyðufyllingar,“ segir Ágústa Margrét Arnardóttir.
Ágústa á fimm börn með eiginmanni sínum, Guðlaugi Birgissyni. Fyrr á þessu ári ákváð fjölskyldan að rífa sig upp frá heimili sínu á Djúpavogi og flakka um Spán í fimm vikur. Fjölskyldan hefur leyft almenningi að fylgjast með ferðum sínum á Facebook-síðunni Whattodoin og sneri nýverið aftur heim til Íslands. Ágústa segir að aðdragandinn að ferðinni hafi í raun verið langur. Elsta dóttir þeirra hjóna, Vigdís, fæddist árið 2006 og í kjölfarið eignuðust þau þrjú börn á rétt rúmlega þremur árum. Á sama tíma stofnaði Ágústa hönnunar- og framleiðslufyrirtæki og Guðlaugur byrjaði að kaupa sig inn í útgerð þar sem hann starfaði sem skipstjóri.
Hraðinn bitnaði á fjölskyldunni
„Ég fékk mikið hrós fyrir dugnaðinn og eljuna, var þessi týpíska ofurkona sem hélt ég gæti allt. Ég elska að vinna mikið, elskaði reksturinn minn og börnin, og allt sem ég var að gera og langaði svo ógeðslega mikið að gera allt og láta allt ganga, en það var engan veginn að gerast, þetta var bara allt of mikið. Hraðinn og álagið bitnaði á fjölskyldunni og andlegri og líkamlegri heilsu minni auk þess sem upprunaleg markmið mín og lífssýn voru bara í dvala, nánast gleymd,“ segir Ágústa en meðal markmiða hennar í lífinu var að ferðast með börnunum og eyða meiri tíma með þeim. Hún segist hafa verið með einhvers konar fjölskylduferð í bígerð lengi en alltaf litið á skólagöngu barnanna sem hindrun.
„Svo gerðist það að sonur minn var kominn á algjörar villigötur, hafði illa stjórn á sér, brást reiður og illa við ýmsu og fúnkeraði bara ekki vel. Hann var settur í prógramm sem sneri að lærdómnum og hegðun í skólanum,“ segir Ágústa. Í framhaldinu varði hún tæpum fjórum mánuðum með syni sínum í skólanum, í 95% kennslustundanna, frímínútum, tómstundum og öðru.
„Ég hlustaði á ótal fyrirlestra, hljóðbækur, las rannsóknir og annað. Líf okkar allra gjörbreyttist þarna og sýn mín á menntakerfið og allt lífið breyttist algjörlega. Og eitt af því sem ég lærði á þessu er að skólaganga barnanna minna er ekki hindrun í að við sem fjölskylda ferðumst eða förum okkar leiðir í menntun þeirra.“
Fengu aldrei pásu frá hvert öðru
Það var svo áhugi Ágústu á heimakennslu og menntun sem varð til þess að þau ákváðu að kasta sér ofan í djúpu laugina og ferðast, en Ágústa skipulagði ferðina í meira en ár. Þau sögðu börnunum frá ferðinni á aðfangadagskvöld í fyrra og tveimur og hálfum mánuði síðan fóru þau af stað á vit ævintýranna.
„Við höfum alltaf verið mjög samheldin fjölskylda og mikið saman en að vera saman í fimm vikur á stað þar sem við þekktum enga og vorum hvorki í skóla, tómstundum, vinnu, né hittum vini eða fjölskyldu var allt annað en við erum vön. Helstu kostirnir við svona lífsstíl eru að við kynnumst mun nánar og betur en hér heima, því það er engin truflun, ekki hægt að forða sér eða sækja í aðra ef eitthvað bjátar á. Auk þess hefur maður ótakmarkaðan tíma til að sjá „mynstur“ í börnunum og sjálfum sér – hvað er stressandi, hvað er slakandi, hvað hefur góð og hvað hefur vond áhrif. Og ókostirnir eru kannski að það er aldrei „friður“, við fáum aldrei pásu frá hvert öðru, sem hefur líka áhrif. Ef einn var í vondu skapi hafði það áhrif á alla og ef börnin eru pirruð, þreytt, svöng, leið eða eitthvað þá láta þau það bitna hvert á öðru,“ segir Ágústa og heldur áfram.
„Þetta var oft ofsalega erfitt og snéri þá aðallega að dagsformi hvers og eins. Hér heima get ég laumað mér í kaffi til vinkonu, þau leikið við vini eða heimsótt ömmu og afa, farið í göngutúr ein, kveikt á sjónvarpi eða farið tölvur ef það er þreyta og pirringur í gangi en þarna var ekkert svoleiðis í boði. Við reyndum alltaf að setja dagana upp sem streytulausasta og þægilegasta fyrir alla en það sem hentar 1 árs barni, 3 ára, 8, 10 og 11 ára sem og foreldrum á fertugsaldri er ekkert alltaf það sama. Málamiðlanir voru stór partur af ferðinni og að gefa öllum svigrúmið sem þeir þurftu þótt það væri nánast ekkert svigrúm eða tími. Maður metur tímann allt öðruvísi eftir svona ferð.“
Sáu fátækt og fjölbreytileika
Fjölskyldan ætlaði fyrst að leigja íbúð í tvo til þrjá mánuði en vegna breytinga í útgerðinni hjá Guðlaugi þurfti þau að stytta dvölina niður í fimm vikur. Þá voru þau búin að festa íbúðina og þurftu að greiða fyrir hana 450 þúsund krónur. Flugið var hins vegar talsvert ódýrara en þau voru vön fyrir sjö manna fjölskyldu.
„Flugið fyrir okkur sjö kostaði um 120 þúsund krónur með millilendingu og gistingu í Gatwick á leiðinni út og 102 þúsund krónur í beinu flugi heim. Ég var búin að kynna mér staðsetningar og verð á nauðsynjum vel þannig að á svæðinu sem við vorum var allt meira en helmingi ódýrara en hér heima. Við leigðum bíl, fórum á söfn, í hellaferð og í garða sem kostuðu og þar húrraðist kostnaðurinn upp en þessu er alveg hægt að sleppa. Við nýttum okkur mikla ókeypis afþreyingu eins og almenningsgarða og ströndina og það er alveg endalaust hægt gera eitthvað án þess að taka upp budduna,“ segir Ágústa aðspurð um hvort þetta ævintýri hafi ekki kostað skildinginn. Hún segist aðhyllast mínimalískan lífsstíl og er ánægð með að leyfa börnunum sínum að upplifa ýmislegt sem kennir þeim virði peninga.
„Börnunum, sérstaklega þessari ellefu ára, finnst við oft lifa eins og fátæklingar en hún hefur þó lært það af þessu að það þarf að forgangsraða og hafa fyrir hlutunum. Í ferðinni upplifðu þau svo að gista á geggjuðu 4 stjörnu hótelinu niður í 0 stjörnu rottuholu, þau sáu fátækt, betlara og miklu meiri fjölbreytileika fólks en hér heima. Ég vil að þau kynnist þessu frekar en biðröðum í Disney-garðinum og peningaplokki í alls konar over prized-görðum og skemmtunum. Ég hef samt ekkert á móti því og allt í lagi að upplifa það líka, en við bjuggum oft til bestu stundirnar með nesti í almenningsgörðum og það var æði.“
Heimurinn opnaðist
En hvað stóð upp úr á þessu fimm vikna ferðalagi?
„Það sem stendur upp úr er áhrifin á börnin, hvernig þau upplifðu hlutina, hvað þeim fannst merkilegt, hvernig þau þroskuðust og lærðu. Það var mikill munur á þeim fyrstu dagana og þá síðustu, veröldin stækkaði og heimurinn opnaðist einhvern veginn fyrir þeim. Í byrjun fannst mér þau bara frekar áhugalaus og hugmyndasnauð, vildu til dæmis alltaf fara í sama garðinn og á sama veitingastaðinn frekar en að kanna svæðið og prófa eitthvað nýtt. Þetta pirraði mig en svo fattaði ég að þau höfðu engin viðmið, þau vissu ekkert hvað var handan við hornið, þau eru alin upp í pínulitlum bæ þar sem allt er alltaf eins, rútínan, viðburðir, fólk, staðir og dýr. Þannig að við fórum meira og meðvitað að kanna ný svæði, prófa nýja hluti, tala meira um allt sem mögulegt er í heiminum og leyfa lífinu að koma okkur á óvart án þess að hafa plön eða vera afturhaldsöm. Þetta skilaði sér í því að undir lokin var þessi 10 ára farinn að skipuleggja ferð til Týndu borgarinnar, 11 ára til Hawaii og við hin roadtrip um Bandaríkin. Þetta opnaði heiminn fyrir þeim, og okkur,“ segir Ágústa og bætir við að ferðin hafi haft góð áhrif á fjölskylduna í heild.
„Við erum klárlega samheldnari, það er meira umburðarlyndi eða alla vega þekking og skilningur á hinum.“
Allir tilbúnir að koma heim
En hvernig var svo að koma aftur í raunveruleikann á Djúpavogi?
„Við vorum síðustu dagana í Barcelona, borgin var troðin af fólki, mikil umferð, hraði og allt miklu dýrara en á hinum stöðunum og miklu heitara og óþægilegra veður. Það voru því allir frekar tilbúnir að koma heim, spenntir og ánægðir. Þannig að heimferðin og allt eftir það hefur gengið vel. Við fundum svo rosalega vel hvað útivera, birta og gróður er ólýsanlega miklivægt þannig að nú er markmið að halda þessum „úti“ lífsstíl áfram, en hingað til hef ég verið kuldaskjóða og nenni alls ekki út í vondu veðri eða myrkri. En nú þurfum við bara að læra að lifa með því, því það er líklegra að ég geti breytt um hugarfar en veðurfar.“
Fjölskyldan heldur úti vefsíðu samfara fyrrnefndri Facebook-síðu, þar sem hún ætlar að fara vel og vandlega yfir ferðalagið á næstunni. Ágústa mælir hiklaust með svona flótta úr hversdagsleikanum fyrir hvern sem er.
„Já, maður verður svo samdauna samfélaginu og fer ósjálfrátt í farveginn sem hinir eru í eða farveginn sem í boði er ef maður er alltaf á sama staðnum, sérstaklega litlum stöðum. Að fara í burtu, núllstilla allt, tengjast á annan hátt og upplifa annað er góð byrjun til að rjúfa rútínuna sem maður er í ef maður kýs það.“
Útskrift flugfreyja hjá Icelandair fór fram í vikunni. Meðal þeirra sem útskrifuðust voru leikkonurnar María Heba Þorkelsdóttir og Laufey Elíasdóttir og mega því flugfarþegar búast við því að njóta flugsins með þessum tveimur kjarnakonum í nánustu framtíð.
María Heba er ein ástsælasta gamanleikkona ársins og hlaut meðal annars Edduverðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni Okkar eigin Osló. María er hins vegar líka mjög slungin dramaleikkona, eins og þekkt er með gamanleikara, og hefur til að mynda leikið í sjónvarpsþáttunum Föngum, Pressu og Hamrinum sem og kvikmyndinni Eiðum.
Laufey er hluti af leikhópnum RaTaTam sem setti síðast upp verkið Ahh… sem hlaut einróma lof gagnrýnenda. Þá ættu kvikmyndahúsagestir einnig að kannast við hana úr kvikmyndunum Brúðguminn, Desember og Vonarstræti.
Þær María Heba og Laufey eru langt því frá að vera fyrstu leikkonurnar til að bregða sér í hlutverk flugfreyja þar sem landsþekktar listakonur hafa áður látið ljós sitt skína í háloftunum, þar á meðal Edda Björgvinsdóttir, Helga Braga Jónsdóttir, Heiða Ólafsdóttir og Svandís Dóra Einarsdóttir.
Aðalmynd / Leikkonan María Heba / Ljósmyndari: Aldís Pálsdóttir
Ingibjörg Ýr Óskarsdóttir starfar sem ljósmóðir en segir áhugann á starfinu hafa kviknað í sveitaheimsókn þegar hún sá afkvæmi í fyrsta skipti koma í heiminn.
„Ég var í heimsókn í sveit hjá langömmusystur minni þegar ég sá lamb fæðast. Frænka mín aðstoðaði kindina við að koma lambinu í heiminn og mér fannst þetta magnað.”
„Þetta var mín fyrsta upplifun af því að sjá afkvæmi fæðast og ég er viss um að það kviknaði á einhverjum ljósmóðurfrumum inni í mér við sauðburðinn.”
„Ég var samt ekki ákveðin í að verða ljósmóðir fyrr en ég var á þriðja árinu mínu í hjúkrun. Þá var ég í verknámi á fæðingardeild fjórðungssjúkrahúsins á Akureyri og ljósmæðurnar þar leyfðu mér að fylgjast með fæðingu. Eftir að ég gekk út af spítalanum eftir að hafa séð þessa fyrstu fæðingu þá vissi ég að það væri ekki aftur snúið, ég vissi hvað ég vildi verða, ég ætlaði að verða ljósmóðir.”
Ingibjörg segir ljósmóðurstarfið ákaflega fjölbreytt. „Margir halda að ljósmæður séu eingöngu í því að taka á móti börnum en raunin er sú að þær sinna líka konum og fjölskyldum á meðgöngu, í sængurlegu og ungbarnavernd. Ljósmæður sinna einnig allskyns fræðslu og forvarnarstarfi sem kemur að heilsu kvenna, barna og fjölskyldunnar í heild.
Órjúfanleg tengsl verða til á fyrstu mínútunum eftir að barn fæðist og mikilvægt er að aðskilja ekki foreldra og barn nema þörf þykir. Ingibjörg segir mikilvægt að foreldrarnir gleymi tímanum og símanum og njóti þess að skoða og kynnast barninu sínu fyrstu klukkustundirnar og njóti stundarinnar.
„Þetta er mögnuð stund sem kemur ekki aftur.”
Það er gott er að minna sig á að hver og ein fæðing er einstök og upplifun kvenna af fæðingu er líka mismunandi. Að koma barni í heiminn er erfitt en erfitt á jákvæðan hátt og erfiðleikarnir breytast yfirleitt í þína stærstu og fallegustu stund sem þú munt muna um ókomna tíð, augnablikið sem þú varðst mamma.”
Eva Laufey Hermannsdóttir Kjaran er fyrir löngu orðin þjóðþekkt en hún haslaði sér fyrst völl sem ástríðubakari.
Fimm árum síðar hefur hún gefið út tvær matreiðslubækur og tíunda sjónvarpsþáttaröðin nú þegar í pípunum. Hún segir það sjálfskipaða kröfu að vilja vera fullkomin öllum stundum.
„Ég er langt frá því að vera fullkomin en ég viðurkenni að áður en ég eignaðist seinni dóttur okkar leið mér oft eins og ég væri hamstur á hjóli. Ég veit hreint út sagt ekki hvað gerðist en ég róaðist mjög mikið. Eftir að hafa verið stanslaust á út opnu, í vinnu, að klára BS í viðskiptafræði, mæta í ræktina, vera dugleg mamma og góð eiginkona, passa að elda alltaf góðan mat og halda heimilinu í standi. Með öðrum orðum, reyna að vera fullkominn öllum stundum. Vera alltaf á trilljón en á sama tíma alltaf að biða eftir því sem gerist næst, að njóta ekki þess að vera á staðnum með fólkinu mínu, róleg í eigin skinni.
„Mér fannst ég of oft vera alveg við það að bræða úr mér en í raun var ég bara í keppni við sjálfa mig.”
Satt best að segja veit ég ekki hvað gerðist en dag einn fór ég að hugsa um þetta. Ætli það hafi ekki verið þegar ég sat með eldri stelpu minni inn í herberginu hennar í staðinn fyrir að leika við hana þá nýtti ég frekar tímann til þess að taka til en að leika við hana, sem er auðvitað alveg þveröfugt við það sem maður ætti að gera. Maðurinn minn hefur hjálpað heilmikið til við að róa mig í þessum efnum. Hann segir að þegar ég verð eldri að þá muni ég ekki hugsa til þess hversu hrein herbergin hafi verið heldur frekar hugsa til stundanna saman með stelpunum. Ofurfínt hús er ekki það sem skapar hamingjusamt heimili og það gildir í öllu.
„Ætli ég hafi ekki bara sætt mig við það að vera alls ekki fullkomin og með því móti hafi allt róast.”
Svo lengi sem ég sinni því sem ég geri vel og fólki mitt finni að ég elski það heitt, þá skiptir annað engu máli þó svo að heimilið eða annað bíði. Það má strauja eða bóna gólfið seinna. Í dag gæti ég ekki verið þakklátari því ég veit að það eina sem skiptir máli er dagurinn í dag. Ég er satt best að segja svo dauðfegin að vera ekki eins stressuð og ég var um að allt yrði að vera tipp topp öllum stundum en þvílíkur léttir að vera laus við þá kvöð. Ég er farin að taka miklu betur eftir öllum hlutum og hugsa á hverju kvöldi um eitthvað þrennt sem veitti mér mikla ánægju yfir daginn. Þetta hef ég látið heimilisfólkið mitt gera sömuleiðis og ég trúi því að með þessum hætti komi maður í veg fyrir að hugsa um eitthvað neikvætt sem átti sér stað eða í besta falli minni mann á hvað lífið er skemmtilegt.”