Grænar plöntur njóta mikilla vinsælda um þessar mundir, enda einstaklega sniðugar til að lífga upp á rými. En plöntur eru ekki aðeins augnayndi, heldur hafa margar hverjar góð áhrif á andrúmsloftið. Við tókum saman upplýsingar um nokkrar plöntur sem bæði gleðja augað og bæta loftgæði heimilisins.
Friðarlilja
Einstaklega falleg planta og auðveld í umönnun. Friðarliljan er samkvæmt NASA öflugasta plantan þegar litið er til hreinsunar andrúmsloftsins og aukins súrefnisflæðis innandyra. Við mælum með að minnsta kosti einni friðarlilju á hvert heimili.
Best á baðherbergið
Bergfléttan hefur notið mikilla vinsælda á íslenskum heimilum undanfarið. Hún er sérlega
gagnleg inni á baðherbergi þar sem hún hreinsar meðal annars formeldanhýð og svífandi saurgerla úr loftinu.
Fíkus
Fíkusinn er þeim eiginleikum gæddur að hafa hljóðeinangrandi áhrif. Hann er því tilvalinn á skrifstofuna eða í önnur stór rými.
Indíánafjöður
Einstaklega auðveld í ummönnun og vilja sumir meina að Indíánafjöður sé ódrepandi planta. Hún hefur mjög jákvæð áhrif á loftgæði, en getur verið hættuleg sé hún innbyrt. Því skal varast að hafa hana í rýmum sem gæludýr eða ung börn hafa aðgang að.
Pálmi
Frábær leið til að jafna rakastig heimilisins eða skrifstofunnar. Pálma er hægt að fá í ýmsum stærðum og gerðum en allir eiga þeir það sameiginlegt að stuðla að auknu súrefnisflæði. Þeir krefjast heldur ekki mikillar umönnunar og eru því góður kostur fyrir þá sem hafa hug á að fjárfesta í sinni fyrstu plöntu.
Tónlistarmaðurinn Alexander Rybak keppir fyrir Noregs hönd í Eurovision í næstu viku með lagið That’s How You Write a Song. Margir muna kannski eftir því að Alexander rústaði keppninni árið 2009 með laginu Fairytale og þurfti Jóhanna okkar Guðrún að sætta sig við annað sætið með lagið Is It True?
Lítil spenna hefur verið fyrir þessu nýjasta útspili Alexanders og fór myndbandið við lagið, og raunar lagið sjálft, misvel ofan í Eurovision-spekinga. Því hefur Alexander ekki verið talinn líklegur til að blanda sér í toppbaráttuna, fyrr en eftir fyrstu æfingu sína í gær.
Er það mál manna að æfingin hafi gengið stórvel og eru aðdáendur og spekúlantar afar ánægðir með sviðssetningu norska atriðisins. Alexander mundar að sjálfsögðu fiðluna og með honum á sviðinu eru nokkrir hressir dansarar. Ekki skemmir fyrir að Norðmenn bjóða upp á smá gullregn, sem hefur aldrei þótt leiðinlegt í Eurovision.
„Nokkrir blaðamenn hafa nú þegar spáð honum sigri. Hann á allavega mikla möguleika á að gera það gott,“ skrifar William Lee Adams hjá Wiwibloggs eftir fyrstu æfinguna. Mandy Pettersen hjá aðdáendasíðunni ESC Norge tekur í sama streng.
„Þetta er enn ferskara og flottara en í undankeppninni. Mjög gott rennsli hjá Noregi.“
Sjálfur segir Alexander vera hæstánægður með æfinguna í samtali við NRK, norska ríkissjónvarpið.
„Það er eins og ég hafi losnað við fjörutíu kíló af herðunum. Tilfinningin sem ég fékk þegar ég horfði á þetta er það sem ég lifi fyrir,“ segir hann og bætir við að það sé ekkert aðalatriði að komast áfram í úrslit, hann sé sáttur við þá vinnu sem hefur nú þegar farið í atriðið.
Eurovision-keppnin fer fram dagana 8., 10. og 12. maí næstkomandi. Alexander freistar gæfunnar í seinni undanriðlinum þann 10. maí og ef allt gengur að óskum kemst hann í úrslitin þann 12. maí.
Fyrstu tveir þættirnir úr annarri seríu af The Handmaid’s Tale voru frumsýndir á Hulu og í Sjónvarpi Símans í síðustu viku, en beðið hefur verið eftir þessari seríu með mikilli eftirvæntingu eftir velgengni þeirrar fyrri.
Þættirnir eru byggðir á samnefndri skáldsögu eftir Margaret Atwood frá árinu 1985 og fjallar um örlög ambátta sem neyddar eru til að ganga með börn háttsettra hjóna einhvern tímann í framtíðinni.
Persónurnar í þáttunum eru einstaklega vel túlkaðar af hinum ýmsu leikurum, og eru gervin meistaralega vel unnin. Vefmiðillinn Cosmopolitan fer vel yfir það hvernig nokkrar af aðalpersónunum líta út í raun og veru, og er áhugavert að sjá það.
Bandaríska tískufyrirtækið Camar er búið að setja í sölu glænýja týpu af gallabuxum sem eru hugsanlega ekki fyrir alla.
Buxurnar eru afar efnislitlar og hanga bókstaflega saman á saumunum. Þær myndu því líklegast ekki vera mikið notaðar á norðlægum slóðum eins og Íslandi, en þessi efnispjatla sem kölluð er gallabuxur er seld á 168 dollara, eða rétt rúmlega sautján þúsund krónur.
Grín hefur verið gert að buxunum á samfélagsmiðlum eins og sést hér fyrir neðan:
Aðeins nokkrir dagar eru í að Eurovision-keppnin hefjist þar sem Evrópulönd og Ástralía keppa um hvaða lag og flytjandi er bestur.
Fyrri undanúrslitin eru þann 8. maí, þar sem Ari Ólafsson er meðal keppenda með lagið Our Choice, þau seinni þann 10. maí og úrslitin loks þann 12. maí.
Keppnin fer fram í Lissabon í Portúgal eftir að Portúgalinn Salvador Sobral kom, sá og sigraði í fyrra. Portúgal kemst því sjálfkrafa áfram í úrslitin ásamt stóru þjóðunum fimm sem greiða talsvert fé fyrir keppnina, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Spáni.
Veðbankinn William Hill heldur utan um líkurnar þegar kemur að Eurovision, eins og svo margir aðrir veðbankar, en samkvæmt tölum frá William Hill lítur út fyrir að hin ísraelska Netta Barzilai beri sigur úr býtum þann 12. maí. Önnur lönd sem eru sigurstrangleg samkvæmt líkum veðbankans eru Búlgaría, Frakkland, Ástralía og Eistland.
Það lítur alls ekki vel út fyrir gestgjafana Portúgala, en samkvæmt líkunum verður fulltrúi þeirra, Cláudia Pascoal, einhvers staðar fyrir miðju þegar að kosningu lýkur þarnæsta laugardagskvöld.
Við Íslendingar eigum ekki eftir að hrósa sigri, ef marka má líkur William Hill, en Ari Ólafsson er meðal sjö fulltrúa sem lenda í neðstu sætunum, og komast ekki upp úr undanriðlunum. Hin löndin sex sem sitja eftir á botninum eru Króatía, Slóvenía, Svartfjallaland, Rúmenía, San Marínó og Sviss.
Hér eru þau tíu lönd sem verða efst í Eurovision samkvæmt líkum William Hill þann 30. apríl:
Þess má geta að öll lögin í seinni undanriðlinum eiga eftir að æfa í Lissabon þegar þessar tölur eru teknar saman, og því gæti þessi listi breyst mikið næstu daga. Flytjendur sem keppa í fyrri undanriðlinum luku fyrstu æfingu í gær.
1. Þau leyfa sér að verða spennt saman, jafnvel þegar ekki á að stunda kynlíf
Stephen Snyder, kynlífsþerapisti í New York, segir að pör sem ná að halda neistanum lifandi lengi stríði oft hvort öðru á almannafæri þegar ekki er hægt að stunda kynlíf.
„Fyrir ástríðufyllstu pörin er kynlíf bara toppurinn á ísjakanum. Þau njóta þess að örva hvort annað, jafnvel þegar ekki er möguleiki að stunda kynlíf eða fá fullnægingu,“ segir Stephen.
2. Þau prufa nýja hluti á hverju ári
Pör sem kunna að halda hitastiginu háu í svefnherberginu eru sífellt að leita nýrra leiða til að stunda kynlíf og njóta hvors annars.
„Eitt par sem við unnum með sagði: Á hverju ári verðum við meira kinkí,“ segir Celeste Hirschman, kynlífsþerapisti. „Þú þarft að hafa vilja til að vera frumlegur til að kynlífið sé frábært til lengri tíma litið og festist ekki í viðjum vanans. Talið sóðalega. Prófið eitthvað nýtt. Gerið það sem þið þurfið til að halda kynlífi fersku og skemmtilegu og kynlífið þitt verður sjóðheitt löngu eftir að aðrir brenna út,“ bætir hún við.
3. Þau hugsa vel um sig
Pör sem lifa geggjuðu kynlífi skilja að gott sjálfstraust er hluti af því. Þess vegna passa þau vel uppá sig sjálf og rækta sig sjálf, jafnmikið og þau rækta sambandið.
„Stórkostlegt kynlíf snýst ekki bara um samband þitt við makann. Það snýst líka um samband þitt við þig sjálfan. Þú verður að hugsa um þig. Það getur þýtt að taka frá tíma fyrir dekur, að koma vel fram við líkamann, komast yfir skömm eða sektarkennd í svefnherberginu eða læra eitthvað nýtt, eins og hvernig á að láta fullnægingu endast lengur,“ segir Vanessa Marin, kynlífsþerapisti.
4. Þau hlæja í svefnherberginu en líka utan þess
Stundum gerast fyndnir hlutir þegar tveir líkamar slást saman í hita leiksins. Svo ekki sé minnst á öll fyndnu hljóðin sem fylgja kynlífi. Þess vegna er mikilvægt fyrir pör að geta hlegið saman, að sögn kynlífsþerapistans Kimberly Resnick Anderson.
„Húmor er frábært frygðarlyf. Hlæjið á meðan þið stundið kynlíf. Pör sem skilja streituna eftir á svefnherbergisþröskuldinum og njóta kynlífs sem athafnar sem er skemmtileg og tímabundinn flótti úr raunveruleikanum eru fullnægðari en þeir sem geta ekki skipt um gír og skilið streitu, reiði og óánægjuna í daglega lífinu eftir frammi.“
5. Þau fróa sér í kynlífi
Sálfræðingurinn og kynlífsþerapistinn Shannon Chavez segir að sjálfsfróun sé skemmtilegri þegar aðrir eru með. Þá er það frábært tækifæri fyrir makann að sjá hvernig best sé að fullnægja elskhuga sínum.
„Pör sem fróa sér saman, haldast saman,“ segir Shannon.
6. Þau kanna fantasíur hvors annars
„Pör sem hafa verið lengi saman og lifa æðislegu kynlífi vita að hver manneskja er með sjálfstætt, erótískt ímyndunarafl,“ segir fyrrnefnd Celeste Hirschman. Hún bætir við að þessi pör geri það sem þarf til að uppfylla fantasíur hvors annars og leggi mikið á sig til að gleðja elskhugann.
7. Þau kyssast og snertast yfir daginn til að sýna væntumþykju
Shannon Chavez segir það skipta miklu máli að pör sýni hvort öðru ást sína á öllum tímum sólarhringsins, hvort sem það er á sófanum yfir fréttunum eða yfir fyrsta kaffibollanum á morgnana. Innilegir kossar og snerting er mjög mikilvæg.
„Þegar þið snertið hvort annað eruð þið nánari og sýnið hvort öðru meiri ást. Þetta sýnir að þið viljið vera náin maka ykkar. Í stuttu máli er fólk sem snertir, heldur í hendur, kyssir, nuddar, strýkur og kjassar hvort annað án þess að búast við kynlífi rólegra, meira kynferðislega örvað og tengdara í sambandi.“
Rúmlega tvær vikur eru þar til Harry prins og leikkonan Meghan Markle játast hvort öðru í konunglegu brúðkaupi sem beðið er eftir. Herlegheitin fara fram 19. maí næstkomandi, og verða að sjálfsögðu í beinni útsendingu í sjónvarpi, og ef marka má frétt Daily Mail vill Harry vera í toppformi þegar hann kvænist Suits-stjörnunni.
Samkvæmt fréttinni er Harry búinn að fjarlægja öll kolvetni úr mataræði sínu, fyrir utan kínóa, ávexti og grænmeti. Þá er hann líka búinn að draga úr kjötneyslu og drekkur safa reglulega til að passa línurnar.
„Þau eru búin að kaupa háklassa safavél og hún lætur hann drekka ávaxta- og grænmetissafa. Hún lætur hann líka draga úr kjötneyslu,“ segir heimildarmaður Daily Mail.
Harry hefur misst rúmlega þrjú kíló síðan hann breytti um mataræði, en Meghan hefur talað opinskátt um að hún treysti á kolvetnasnautt fæði til að halda sér í góðu formi.
Vissulega hefur lágkolvetna mataræði þau áhrif að fólk léttist en margir næringarfræðingar mæla frekar með því að fólk borði rétt tegund af kolvetnum í litlu magni, frekar en að sneiða algjörlega framhjá þeim. Þá hafa safakúrar einnig verið þekktir fyrir að láta kílóin renna af fólki, en oft er þetta þyngdartap tengt við tapi á vöðvamassa en ekki fitu. Hins vegar mæla margir næringarfræðingar með því að sleppa vissum fæðutegundum í takmarkaðan tíma til að gefa líkamanum hvíld inná milli.
Í Þingholtunum, nánar tiltekið á Fjölnisvegi, stendur þetta glæsilega og rómantíska einbýlishús. Húsið er á þremur hæðum og hver hæð hefur sinn sjarma, en húsið er 290,7 fermetrar að stærð. Rýmið nýtist vel og skipulagið verður eins best verður á kosið.
Tvær stórar og glæsilegar samliggjandi stofur eru í húsinu sem gerir húsið afar skemmtilegt til að taka á móti gestum. Einnig er þar rúmgóð borðstofa sem laðar að. Hvíti liturinn er allsráðandi í húsinu, hurðar hvítar með gylltum hurðarhúnum og listar í loftum sem gera mikið fyrir rýmið. Í elhúsinu er sérsmíðuð, stílhrein, sprautulökkuð innrétting sem kemur vel út með svörtum borðplötum.
Stórfenglegt útsýni
Húsið hýsir fjögur rúmgóð herbergi sem njóta sín vel. Parketlagður stigapallur er í húsinu og þaðan er hægt að ganga út á svalir sem bjóða upp á stórfenglegt útsýni yfir borgina. Hvað er rómantískara en að vakna á fallegum sumarmorgni og horfa yfir Þingholti þar sem þau skarta sínu fegursta, þannig er tilfinning þegar staðið er úti á svölunum á Fjölnisveginum. Einnig er geymsluris yfir rishæð og kemur sér ákaflega vel.
Lóð til suðurs
Aðkoman og aðstaðan við eignina er til fyrirmyndar, hiti er í innkeyrslu og stéttum og einnig er yfirbyggt bílaport sem er mikill kostur. Húsið að utan var viðgert og málað árið 2014. Húsinu fylgir stór ræktuð lóð sem snýr í suður þar sem sólarinnar nýtir og er tilvalin fyrir garðveislur og gleði. Lóðin er um 631,9 fermeter að stærð með trjágróðri. Einnig fylgir eigninni tvöfaldur bílskúr sem er um 39,6 fermetrar að stærð., þar er sá möguleiki fyrir hendi að gera stúdíóíbúð.
Þetta glæsilega og rómantíska einbýli í Þingholtunum er til sölu hjá fasteignasölunni Fasteignamarkaðinum. Það er ekki á hverjum degi að sem að eign sem þessi er í boði í hjarta miðborgarinnar.
Náttúrulegar munnhirðu- , húð- og bætiefnavörur sem innihalda Aloe vera í hágæðaflokki. Aloe vera-plantan er græðandi, róandi, bólgueyðandi, sótthreinsandi og næringarrík.
Vörurnar koma frá fyrirtækinu Optima sem er þekkt fyrir heilsuvörur og nýtingu gæðaefna frá náttúrulegum innihaldsefnum. Allar Aloe vera vörurnar eru með gæðastimpla og vottaðar af IASC fyrir gæði (The International Aloe Science Council) fyrir gæði í framleiðslu á Aloe vera hráefninu.
Meðal þeirra vara sem í boði eru:
Aloe Vera gel mýkir
og endurnýjar
Mýkir hjálpar til við að endurnýja þurra og -skemmda húð. Hentar vel til að bera á húðslit, ör, þurra, skorpnaða eða brennda húð.
Gelið er úr 100% lífrænu Aloe vera, inniheld-ur ekki SLS (Sodium Lauryl Sulfate), lanolin eða paraben og er ekki prófað á dýrum. Framleitt úr hreinu Aloe vera hlaupi og í því næst hámarks-næringarvirkni Aloe vera. Aloe vera hlaupið sem er notað í Aloe vera gelið er með alþjóð-legan stimpili frá „The Aloe Science Council“ fyrir gæði og hreinleika.
Aloe Vera hrásafi inniheldur yfir 75 tegundir næringarefna
Hrásafi sem er 99,9% hreinn úr Aloe vera
plöntunni.
Aloe vera er án efa einn fullkomnasti næringar-drykkur náttúrunnar. Aloe vera safinn inni-heldur yfir 75 tegundir næring–arefna: vítamín, steinefni, amínósýrur, ensím og jafnvel B-12- vítamín sem sjaldan finnst í jurtum.
Með djúsnum fylgir 25 ml glas, 1-2 glös af hrein-um Aloe vera safa á dag getur haft marga kosti fyrir heilsuna eins og að:
Hjálpa til við ýmsar meltingatruflanir.
Hjálpa til við að styrkja ónæmiskerfið með
andoxunarefnum.
Hafa bólgueyðandi eiginleika sem getur hjálpað til við magaverki.
Hjálpa til við að detoxa líkamann, stuðla að góðri heilsu og auka venjulegar -þarma-hreyfingar.
Hágæða tannkrem sem er milt, náttúrulegt og hentar fólki sem kýs vegan lífsstíl. Varan er ekki prófuð á dýrum, inniheldur ekki SLS
(Sodium Lauryl Sulfate) og engin gerviefni (litarefni og bragðefni). Ásamt þessu hafa neyt-endur þann valkost að geta valið tannkremið með eða án flúors.
Tannkremið er fullt af náttúrulegum innihaldsefnum svo sem tea tree-olíu
sem hjálpar til við að berjast gegn bakter-íum, silica sem er náttúrulegt
steinefni og not–að til að koma í veg fyrir tannskemmdir.
Aloe Vera Gentle Action-töflur
– fyrir meltingartruflanir
Skammtímalausn á hægðatregðu og meltingartruflunum.
Töflurnar eru úr 95% ekta lífrænu Aloe vera sem náttúru-lega inniheldur vítamín, steinefni, ensím, amínósýrur og fjölsykrur. Aukalega er bætt við magnesíum, rabba-bara, lakk-rís og anís sem eru þekkt náttúruleg innihaldsefni sem hafa ýmsa kosti fyrir melt-inguna og einnig vingjarnlegu bakteríuna Lactobacillus acidophilus sem hefur jákvæða eiginleika á magaflóruna.
Mælt er með 2 töflum á dag fyrir neytendur með meltingartruflanir:
Hjálpar við ýmsar meltingatruflanir.
Hefur bólgueyðandi eiginleika sem getur hjálpað við
verkjum í maga.
Góður valkostur fyrir fólk sem vill prófa náttúruleg innihaldsefni.
Aloe Vera Charcoal tannkrem
– tannhvíttandi og án flúoríð
Djúphreinsandi, tannhvíttandi og náttúrulegt tannkrem án flúoríð.
Tannkrem með einstökum viðarkolum (Charcoal) og -íslenskum fjalla-grösum. Þau hafa þann einstaka eiginleika að djúphreinsa og losa óhreinindi. Tannkremið er svart á lit og freyðir vel við notkun, rispar
ekki tennur né eyðir gler-ungnum.
Varan er ekki prófuð á dýrum, inniheldur ekki SLS (Sodium Lauryl Sulfate) og engin gerviefni (litarefni og bragðefni).
Inniheldur aðeins náttúruleg inni-haldsefni: Aloe Vera, Charcoal, Tea tree olíu, Silica, Íslensk fjallagrös, Escin, Menthol, Steviu, Xylitos og Sorbitol.
Fæst í öllum helstu
apótekum og heilsuhúsum.
Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Alvogen. Myndir / úr einkasafni Alvogen
Ingrid Kuhlman og Sylviane Lecoultre Pétursson eru meðal stofnenda félagsins Lífsvirðingar. Aðaltilgangur félagsins er að stuðla að opinni, uppbyggilegri og víðtækri umræðu um dánaraðstoð. Félagið leggur áherslu á að einstaklingur hafi yfirráð yfir líkama sínum, lífi og dauða. Þær Ingrid og Sylviane hafa báðar persónulega reynslu af því að fylgja ástvinum sínum erlendis í þeim tilgangi að enda líf sitt.
Aðspurðar um viðbrögð við stofnun félagsins segja þær Ingrid og Sylviane þau almennt vera góð. „Við finnum fyrir stuðningi við okkar málstað úr mörgum áttum. Sumir eru auðvitað svolítið smeykir við að tjá sig um málið eða hafa einfaldlega ekki velt því mikið fyrir sér. Hér er um að ræða stórar siðfræðilegar spurningar sem þarf að ræða af yfirvegun.“ Þær telja að dánaraðstoð verði eitt af dagskrárefnum samfélagsumræðunnar næstu árin. „Víðtæk umræða í samfélaginu er mikilvæg og lykillinn að gagnkvæmum skilningi. Það er aðalástæðan fyrir því að við stofnuðum Lífsvirðingu.
Heitasta óskin að deyja með reisn
Ingrid og Sylviane hafa báðar reynslu af því að fylgja ástvinum sínum erlendis í þeim tilgangi að enda líf sitt á þennan hátt. Faðir Ingrid, Anton Kuhlman, var einn af þeim fyrstu sem fékk ósk sína um dánaraðstoð uppfyllta á löglegan hátt, aðeins 11 dögum eftir að lög um það tóku gildi í Hollandi þann 1. apríl 2002.
„Pabbi var búsettur í Hollandi þar sem ég er fædd og uppalin. Hann greindist með heilaæxli vorið 1999 sem þrýsti á taugar sem olli lömun í andlitinu og jafnframt miklum verkjum. Æxlið var þannig staðsett að ekki var möguleiki að fjarlægja það. Við tóku tvær mjög erfiðar geislameðferðir sem reyndust gagnlausar því æxlið hélt áfram að stækka. Læknarnir sögðu að ekkert væri hægt að gera til að bjarga lífi hans og batahorfur væru engar.“ Svona lýsir Ingrid veikindum föður síns. „Pabba hrakaði síðan stöðugt, hann missti kraftinn í hand- og fótleggjum, jafnvægisskynið varð slæmt og hann var með mikinn höfuðverk. Um páskana 2002 fékk hann háan hita. Talið var að hann væri með lungnabólgu en það reyndist ekki rétt. Hann var fyrir löngu hættur að geta borðað fasta fæðu og fékk hana því einungis í fljótandi formi. Geislameðferðirnar höfðu eyðilagt barkalokuna með þeim afleiðingum að hann gat ekki kyngt og því fór allt sem hann drakk beint ofan í lungun en einkennin lýstu sér eins og lungnabólga. Pabbi hafði misst 20-25 kg og var orðinn aðeins 50 kg undir það síðasta.
Hann var algjörlega rúmliggjandi og þurfti aðstoð við allar athafnir. Hans heitasta ósk var að fá að deyja með reisn.“
Hann gat ekki lengur drukkið, aðeins bleytt tunguna í vatni því um leið og eitthvað fór niður hóstaði hann því upp aftur. Hann hafði fengið morfín í 6-7 vikur en það linaði ekki kvalirnar í höfðinu og eyranu sem virtust óbærilegar og ómanneskjulegar. Hann var algjörlega rúmliggjandi og þurfti aðstoð við allar athafnir. Hans heitasta ósk var að fá að deyja með reisn.“
Anton var fylgismaður laganna um dánaraðstoð og þegar þau tóku gildi í Hollandi þann 1. apríl 2002 kallaði hann á heimilislækninn sinn. Hann sagðist vera búinn að gera upp líf sitt, búinn að kveðja alla, vera sáttur og hreinlega geta ekki meir. Óháður læknir vitjaði hans og kannaði vilja hans og andlega getu til þess að taka svo afdrifaríka ákvörðun, sem og líkamlegt ástand. Læknirinn vottaði að hann félli undir lögboðin skilyrði sem heimiluðu dánaraðstoð. Samþykki fékkst og við tók undirbúningur dauðastundarinnar.
„Góða ferð og hafðu það sem best“
Ingrid segir engan ágreining hafa verið meðal ættingja um ákvörðun pabba hennar. „Við virtum hana. Hann var sáttur og við vorum sátt. Auðvitað er það örugglega það síðasta sem maður vill að missa ástvin. En þegar þjáningin ein er eftir vill maður að dauðdaginn verði eins þjáningarlaus og með eins mikilli reisn og mögulegt er. Það að ráða eigin dauðastund ætti að mínu mati að vera undir hverjum og einum komið, að uppfylltum ströngum og skýrum skilyrðum. Hver einstaklingur hefur frelsi til að lifa, því hljótum við öll að hafa sama frelsi til að deyja.
Hvers konar líf er það að bíða kvalinn eftir dauðanum, vitandi að það er enginn von um bata?
Svo kom að því að dánardagurinn rann upp. „Við vorum öll meðvituð um að þetta væri kveðjustundin og við vorum hjá pabba allan tímann. Þetta var auðvitað mjög sérkennileg en falleg stund og við fjölskyldan sátum öll á rúmstokknum hjá honum þegar læknirinn gaf honum banvæna blöndu lyfja og líf hans fjaraði út. Við spiluðum ljúfa og rólega tónlist eftir írsku hljómsveitina Enya. Við sögðum við hann: „Góða ferð og hafðu það sem best.“ Hann var sáttur og við vorum sátt. Hann dó í því umhverfi sem hann vildi og á þann hátt sem hann vildi. Pabbi var búin að biðja okkur um að skála fyrir sér eftir á, sem við og gerðum.“
Vildu að hann færi í geislameðferð
Steinar Pétursson, eiginmaður Sylviane, lést í mars árið 2013. Hann hafði nokkrum mánuðum áður greinst með heilaæxli og veikindin tekið mikið á.
Sylviane segir skoðanir Steinars varðandi dánaraðstoð hafa verið ljósar mörgum árum áður en hann veiktist. Siðferðisleg og heimspekileg málefni séu fjölskyldunni allri hugleikin og umræður um líf og dauða höfðu ávallt verið fastir liðir. „Þegar hann varð veikur, var hann fljótur að segja að hann vildi ekki deyja ruglaður, bjargarlaus og/eða meðvitundarlaus í morfínmóki. Hann vildi jafnvel ekki fara í geislameðferð. Við fjölskyldan, börnin og ég, vorum ekki tilbúin að láta hann fara strax eftir greininguna. Það var okkar ósk að hann myndi fara í geislameðferð. Hins vegar var ákveðið að þegar hann segði nóg, þá myndum við fylgja honum alla leið og styðja hann. Hann hafði alltaf verið mjög sjálfstæður
Í upphafi ferlisins höfðu þau hjónin samband við Dignitas, samtök um dánaraðstoð í Sviss, en það er heimaland Sylviane. Eftir að hafa skilað inn ítarlegri umsókn sem innihélt meðal annars æviágrip og læknisfræðileg gögn tók teymi lækna og starfsfólk Dignitas sér mánuð í að fara yfir gögnin. Svo fór að umsóknin var samþykkt, ákvörðunin hafði verið tekin. Samþykkið gildir í sex mánuði, eftir þann tíma þarf að skila gögnunum upp á nýtt.
Hjónin héldu til Sviss á brúðkaupsdeginum sínum, þann 26. febrúar. „Dagana 27. og 28. febrúar hittum við lækni á hótelinu frá teymi Dignitas sem hafði það hlutverk að ganga úr skugga um að það væri einbeittur vilji mannsins míns að deyja og að hann væri með rænu. Þann 1. mars fórum við öll saman í hús Dignitas sem var í nágrenni hótelsins. Þar tóku á móti okkur hjón sem voru til staðar til að aðstoða manninn minn við að deyja og styðja okkur. Þegar ég segi aðstoða, þá meina ég að láta einstaklinginn fá vökvann sem hann á að drekka sjálfur og passa upp á að aðstandendur séu ekki að hjálpa.“
Dauðinn fallegur
Sylviane segir að burtséð frá sorginni sem fylgir því að missa ástvin, sé hún samt sem áður þakklát fyrir að Steinar hafi valið þessa leið. „Það var fallegt að vera með honum að skrifa bréf til vina og ættingja til að þakka þeim fyrir samveruna. Það var fyndið að vera með honum að undirbúa erfðadrykkju sem hann vildi hafa og skrifa á boðskortin. Það var þroskandi og ég dáist að honum fyrir þann styrk og það hugrekki sem hann sýndi í ferðinni til Sviss. Börnin okkar eru svo stolt af honum, hann var frábært fordæmi fyrir þau. Síðustu klukkustundirnar með honum eru ógleymanlegar. Dauðinn hans var svo fallegur. Hann var stoltur að hafa stjórnað ferðinni, hann var stoltur af okkur. Við höfðum tíma til að segja allt sem okkur langaði til að segja. Við elskuðum hann og það var kominn tími til að sýna það.“
Hún segist aldrei hafa séð eftir ákvörðuninni, enda hafi hún verið alfarið í höndum eiginmanns síns. „Spurningin er ekki hvort við gerðum rétt, þetta hefur ekkert að gera með okkur sem erum eftir. Þetta snýst um réttindi þess einstaklings sem er að deyja. Hann var að gera rétt. Það var hans líf og hans dauði. Hann var að deyja, hann valdi hvernig og hvenær. Hlutverk okkar aðstandenda var að elska hann nógu mikið til að sleppa honum og styðja hann.“ segir Sylviane að lokum.
Við elskuðum hann og það var kominn tími til að sýna það.
Siðmennt framkvæmdi könnun á lífsskoðunum Íslendinga í nóvember 2015 og spurði m.a. hvort þátttakendur væru hlynntir eða andvígir því að einstaklingur gæti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann væri haldinn ólæknandi sjúkdómi. Niðurstaðan var mjög afgerandi en 74,9% voru mjög eða frekar hlynntir því á meðan 7,1% voru því frekar eða mjög andvígir, 18% svöruðu hvorki né. Hér er um að ræða afar merkilega niðurstöðu en í könnunum erlendis hefur stuðningur við dánaraðstoð hvergi mælst jafnmikill svo vitað sé.
Ítarlegri umfjöllun um Lífsvirðingu má finna í 16.tbl Vikunnar.
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Kassamerkið #oldheadshotday, eða dagur gamalla leikaramynda, hefur farið eins og eldur um sinu um samfélagsmiðla undanfarið.
Margir heimsfrægir leikarar deila gömlum leikaramyndum af sér undir kassamerkinu og eru sumar þeirra alveg hreint stórkostlegar eins og sjá má hér fyrir neðan:
Chris, William og Padraig hjá Eurovision-fréttasíðunni Wiwibloggs settust niður og fóru yfir fyrstu æfinguna fyrir Eurovision, sem fram fór í gær í Altice Arena-höllinni í Lissabon í Portúgal.
Kumpánarnir þrír fóru í gegnum hvaða atriði komu þeim mest á óvart, hvaða atriði voru mestu vonbrigðin og síðan kusu þeir sigurvegara dagsins. Alls æfðu fulltrúar tíu landa sín atriði í gær og í dag æfir restin af þeim löndum sem keppa í fyrri undanúrslitunum, alls níu talsins.
Þau atriði sem komu þeim félögum mest á óvart í gær voru lögin frá Hvíta-Rússlandi og Albaníu, en mestu vonbrigðin voru hins vegar lögin frá Búlgaríu, Belgíu og Ísrael, en margir veðbankar spá því að hin ísraelska Netta fari með sigur af hólmi í aðalkeppninni þann 12. maí næstkomandi.
Chris, William og Padraig eru á því að fulltrúar Eistlands, Tékklands, Hvíta-Rússlands, Albaníu og Litháen hafi staðið sig best á þessari fyrstu æfingu.
Í myndbandinu hér fyrir neðan minnast þeir einnig á framlag Íslands, Our Choice, þar sem þeir segja sviðssetninguna vera gamaldags en að söngvarinn Ari Ólafsson syngi lagið óaðfinnanlega:
Hér má svo sjá samantekt frá þessari fyrstu æfingu:
Margir gera erfðaskrár til að koma hinsta vilja sínum á framfæri. Ýmsar skrautlegar og óvenjulegar óskir hafa verið settar í erfðaskrár og hér má lesa um nokkrar þeirra.
Milljónir í hundana
Eleanor E. Ritchey arfleiddi hunda sína að 4,5 milljónum dollara þegar hún lést árið 1968 í Flórída. Deilt var um erfðaskrána en hún var staðfest. Fimm árum seinna hafði sjóðurinn bólgnað og fengu hundarnir 9 milljón dollara en þegar erfðaskráin var endanlega staðfest var sjóðurinn kominn upp í 14 milljónir. Þá voru aðeins 73 hundar enn á lífi. Þegar sá síðasti stökk á vit feðra sinna rann sjóðurinn til Auburn-háskólans, í rannsóknir á dýrasjúkdómum.
Engin pyntingatól á gröfina!
Leikritaskáldið George Bernard Shaw lést árið 1950. Hann var mikill áhugamaður um enska tungu og hafði búið til 40 stafa stafróf sem hann taldi að gerði alla stafsetningu mun auðveldari. Hann vildi að hluti eigna hans rynni í þetta verkefni en dómari sagði það síðar ógerlegt. Fénu var skipt í þrennt og rann til British Museum, National Gallery of Ireland og Royal Academy of Dramatic Art. Hinsta ósk hans var að jarðarför hans yrði ekki gerð að kristnum sið og að á legsteini hans yrði ekki kross eða neins konar tól tengd pyntingum eða tákn um blóðugar fórnir.
Kvöldverður fyrir þau látnu
John Bowman lést árið 1891. Hann var ekkill og dætur hans tvær voru einnig látnar. John var fullviss um að fjölskyldan myndi í sameiningu endurholdgast síðar. Hann stofnaði sjóð með 50 þúsund dollurum til að hægt væri að borga þjónustufólki til að halda yfir 20 herbergja setri hans við. Síðasta ósk hans var að kvöldverður yrði eldaður og framreiddur daglega ef þau væru glorhungruð þegar þau sneru aftur. Ósk hans var uppfyllt þar til sjóðurinn var uppurinn sem var árið 1950.
Brjálað partí
Janis Joplin söngkona lést árið 1970, 27 ára gömul. Tveimur dögum fyrir dauða sinn breytti hún erfðaskrá sinni. Hún vildi að 2500 dollarar færu í sérstakt „eftir dauða-partí“ fyrir 200 manns. Það ætti að standa heila nótt á uppáhaldspöbbnum hennar í San Anselmo í Kaliforníu. „… svo vinir mínir geti djammað ærlega eftir að ég er farin.“
„… fyrir alla þá ást og góðvild sem hún sýndi mér aldrei“
Anthony Scott: „Til fyrstu eiginkonu minnar, Sue, sem ég lofaði alltaf að minnast á í erfðaskrá minni: Halló, Sue!“
Edith S frá Walsall: „Börn mín, Roger, Helen og Patricia, fá 50 þúsund pund í sinn hlut og mega ekki eyða þeim í hægfara hesta eða hraðskreiðar konur og bara örlitlu í áfengi.“
Sara Clarke frá Bournmouth: „Ég arfleiði dóttur mína að einu sterlingspundi, fyrir alla þá ást og góðvild sem hún sýndi mér aldrei.“
Henry Budd, d. 1862: „Ég arfleiði syni mína tvo að 200 þúsund pundum með því skilyrði að þeir láti sér aldrei vaxa yfirvaraskegg.“ Annar maður, Matthias Flemming (d. 1869), hafði andúð á slíkum skeggjum og arfleiddi hvern skegglausan starfsmann sinn að tíu pundum en þeir sem voru með yfirvaraskegg fengu þó fimm pund hver í sinn hlut.
Ónefndur maður arfleiddi starfsmenn sína að einum skildingi svo þeir gætu keypt sér bók um mannasiði.
Amy T. frá Doncaster arfleiddi dýraverndunarfélag að 500 pundum og bað um að peningarnir yrðu notaðir til að gefa hundum í þess umsjá dýrlega jólamáltíð.
Norman Earnest Digweed átti verðmæta húseign sem metin var á 26 þúsund pund árið 1893 þegar hann lést. Hann arfleiddi Jesú Krist að henni ef svo færi að Jesús sneri aftur innan 80 ára. Nokkrir Jesúsar gerðu tilkall til hússins sem engu að síður rann til breska ríkisins árið 1977, þegar 80 ár voru liðin frá dauða Normans.
Kona nokkur arfleiddi heittelskaðan kött sinn að eigum sínum, meðal annars húseign. Jarðarför konunnar var haldin á fallegum sumardegi. Arfþeginn lá og sólaði sig í innkeyrslunni þegar einn syrgjendanna ók óvart yfir hann á leið í erfidrykkjuna.
Aðalmynd: Ýmsar skrautlegar og óvenjulegar óskir hafa verið settar í erfðaskrár.
Sveinn Ólafur Gunnarsson hefur verið áberandi á fjölum leikhúsanna að undanförnu. Það er því ekki úr vegi að biðja hann um að rifja upp hlutverkin sem eru honum minnisstæðust.
„Eddie í Fool for love, var afar krefjandi og spennandi hlutverk. Í raun lykilhlutverk á ferlinum, hlutverk sem ég óx við sem leikari. Uppfærslan var afar vel heppnuð enda virkilega vandaður hópur sem stóð að sýningunni.“
Þá segist hann hafa leikið sex persónur Í Hornum á höfði, sem sé ógleymanlegt því hann hafi verið á spretti alla sýninguna. „Og karaktergalleríið spannaði allt frá ástríkum óöruggum föður yfir í ofurmennskt illmenni,“ segir hann og bætir við að fátt sé jafngefandi og leika í góðri barnasýningu og í Hornum á höfði hafi verið unnið af alúð, ást og natni í dásamlegum hópi einstaklega skapandi fólks.
Hann segir að hlutverk krefjist mismikils undirbúnings. „Fyrir hverja sýningu á Illsku, þar sem ég fór með hlutverk Arnórs, greinds og vel máli farins nýnasista með tourette þurfti ég til dæmis að koma mér í karakter 60-90 mínútum fyrir show, svo að „tourettið“, kækirnir væru orðnir lífrænir og ósjálfráðir þegar við byrjuðum. Það var oft meira vesen að hætta því eftir að sýningu lauk og stundum sofnaði ég ekki fyrir kippunum. Fæ meira segja kippi núna þegar ég tala um hann,“ segir hann og hlær.
Af bíó og sjónvarpi segir hann að sér sé efst í huga það sem hann leikið síðast, en það hafi verið þegar hann brá sér í hlutverk Arnars í Mannasiðum og Valda kláms í Stellu Blómkvist. Afar ólík en áhugaverð hlutverk. „Svo þykir mér alltaf jafnvænt um Finnboga í kvikmyndinni Á annan veg. En heilt yfir þá eiga mín eftirminnilegustu hlutverk það sammerkt að ég hef fengið rými til sköpunar persónunnar og í mörgum tilfellum tekið þátt í sköpunarferlinu og handritsvinnunni. Sem gefur manni tækifæri til að nálgast hlutverk af meiri dýpt og ábyrgð.“
Bryggjuhverfið á Kársnesi í Kópavogi er staðsett á fallegum stað á móti Nauthólsvíkinni, fjölskylduvænu og fallegu umhverfi við sjávarsíðuna. Útsýnið er einstaklega fallegt í allar áttir og fögur er sjónin þegar horft er yfir í Öskjuhlíðina og víðar.
Þessar glæsilegu íbúðir eru til sölu í Naustavör og eru eignirnar hinar vönduðust. Umhverfi laðar að fólk á öllum aldri og býður uppá fjölbreytar leiðir til útivistariðkunnar fyrir fjölskyldur sem og einstaklinga. Meðal annars má nefna að Siglingafélagið Ýmir er með aðstöðu við smábátahöfnina og er það iðandi af lífi. Einnig er stutt í allar áttir og gríðarlega uppbygging atvinnulífsins er einnig á þessum slóðum og þykir stórfyrirtækjum eftirsóknarvert að komast á miðsvæðis Kópavogsins. Í bryggjuhverfinu á Kársnesinu er gert ráð fyrir verði um 400 íbúðir. Flutt var í fyrstu íbúðir hverfisins á vormánuðum 2015. Framtíðin er því björt í Bryggjuhverfinu í Kópavogi.
Íbúðirnar sem eru komnar í sölu við Naustavör 16-20 eru hið glæsilegustu og eru frá þriggja til fimm herbergja og frá 122 fermetrum að stærð upp í 210 fermetra í fjögurra og þriggja hæða fjölbýlishúsum með lyftu. Stæði í lokaðri bílgeymslu fylgir öllum íbúðum sem eru mikil lífsgæði. Íbúðirnar eru innréttaðar með vönduðum íslenskum innréttingum og fataskápum frá Brúnás sem eru hágæða hönnun. Íbúðirnar eru afhentar án gólfefna, nema á baðherbergi og þvottahúsi verða flísar, þar áhersla verður lögð á að vera með stílhreint yfirbragð.
Á baðherbergjum eru gólf flísalögð og veggir flísalagðir upp í loft. Þau verða búin vönduðum hreinlætistækjum, hitastýrðum blöndunartækjum, upphengdum salernum, sturtum með glerhlið þar sem nýting verður í hávegum höfð. Íbúðirnar eru ýmist með góðum svölum eða stórum timburveröndum sem gerir fólki kleift að njóta þess sem umhverfið hefur upp á að bjóða. Stæði í sameign verður frágengin utan sem innan og í sameign verður vönduð lyfta í hvoru stigahúsi. Anddyrin verða flísalögð en stigar og stigapallar teppalagðir. Gangstéttar við húsið verða með snjóbræðslukerfi sem er mikill kostur.
Byggingaraðili er Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. Arkitektar íbúðanna eru þeir Guðmundur Gunnlaugsson og Gunnar Páll Kristinsson frá Rýma arkitektum. Fasteignasalan Fasteignamarkaðurinn er með þessar glæsilegu íbúðir á sölu og er eftirspurnin gríðarleg, enda um vandaðar eignir að ræða og staðsetningin ein sú besta sem völ er á, á höfuðborgara svæðinu. Sjón eru sögu ríkari.
Verðflokkarnir eru eftirfarandi:
3ja herbergja íbúðir. Verð frá kr. 69,5 millj. upp í kr. 77,0 millj. 4ra herbergja íbúðir. Verð frá kr. 85,5 millj. upp í kr. 89,5 millj. 5 herbergja íbúðir. Verð frá kr. 87,5 millj. upp í kr. 119,0 millj.
Leikkonan Hera Hilmarsdóttir, sem gengur undir listamannsnafninu Hera Hilmar, er í viðtali við vefsíðuna Daily Actor í tengslum við kvikmyndina An Ordinary Man, þar sem Hera leikur á móti Sir Ben Kingsley.
Í viðtalinu er Hera spurð út í verstu áheyrnarprufu sem hún hafi farið í á ferlinum og það stendur ekki á svörum hjá leikkonunni.
„Ó, Guð, versta áheyrnarprufan. Hún var fyrir nokkrum árum og það var ein af mínum fyrstu áheyrnarprufum. Þetta var enskur leikstjóri af gamla skólanum og ég held að hann hafi verið svo forviða yfir því að íslensk stúlka væri í prufu fyrir hlutverk Englendings að hann gerði lítið úr enska hreimnum mínum,“ segir Hera og heldur áfram.
„Þetta var fullkomlega óþarft að sumu leyti. Stundum gerir maður eitthvað sem maður er ekkert sérstaklega góður í en ég var ekkert ofboðslega léleg þannig að þetta var algjör óþarfi.“
Hún bætir jafnframt við að hún hafi ekki passað í hlutverkið sem hún var að falast eftir en að framkoma leikstjórans hafi ekki þurft að vera með þessum hætti. „Þetta er í eina skiptið sem ég hef upplifað eitthvað svona.“
Toyota C-HR er skemmtilegur tvinnbíll, vel útbúinn og góður í akstri.
Gefum okkur þú standir fyrir framan fataskápinn og sért á leið í veislu. Þar verður margt fólk sem þú þekkir lítið en þú lítur upp til. Því viltu koma vel fyrir, falla í hópinn en að sama skapi marka þér sérstöðu. Þú vilt koma skilaboðunum á framfæri um að þú sért til í ævintýri og óttist ekkert, en um leið ertu ekki að fara taka þátt í neinu rugli eða koma þér og þínum í vandræði. Hvaða föt velurðu?
Toyota C-HR er bíll sem var í þessari stöðu og ákvað að fara í fínustu skyrtuna sína og leðurjakka, stuttbuxur og hlaupaskó. Allt frábærar hugmyndir sem að öllu jöfnu ættu ekki að ganga upp saman en á einhvern undarlega heillandi hátt mynda frábæra blöndu.
Þegar ég settist upp í Toyota C-HR leið mér strax vel. Að utan er bíllinn skemmtilega agressívur, allar línur afgerandi og beinskeittar. Eylítið groddaralegar en á mjög skemmtilegan hátt, svolítið eins og leðurjakki. Hann öskrar á mann að hann sé til í þjóðveginn og að fara með þig alveg á enda slóðans.
Þegar sest er inn í bílinn er upplifun mun mýkri og fágaðari. Egypsk bómull kemur upp í hugann. Þrátt fyrir að um smábíl sé að ræða finnur maður strax að Toyota hefur vandað innviðinn. Allt efnisval og áferð gefa til kynna að meira er í lagt en í hinn hefðbundna smábíl. Þarna kemur fyrsta mótsögnin sem ég verð að segja að kom skemmtilega á óvart. Þessi auknu gæði skila sér eðlilega í hærra verði og vekur athygli að hægt er að fá til bæði Prius og Avensis á hagstæðara kjörum.
Haldið skal til haga að ég keyrði Hybrid C-HIC-útgáfu bílsins sem er einskonar lúxusútgáfa, vel útilátin aukabúnaði. Komum að því síðar.
C-HR er yndislegur bíll sem auðvelt er að líka vel við. Það er gott að keyra hann, hann er eyðslugrannur, vel heppnaður í útliti að innan sem utan, og svo er þetta Toyota.
Verandi tvinnbíll er eyðslan auðvitað komin í allt annan flokk. Hún er uppgefin 3,9 l/100 km en í akstri mínum var ég reyndar eylítið undir þeirri tölu. Öflugir hlaupaskór það.
Rafkerfi bílsins er að sama skapi þungt og gerir tvinnútgáfu bílsins ögn þunglamalegri en systraútgáfuna án tvinnkerfisins. Ekki misskilja, ég hefði aldrei haft orð á því hefði ég ekki prófað báðar útgáfur. Tvinnbíllinn er mjög snarpur og skemmtilegur í akstri á allan hátt. Ég upplifði aldrei að mig vantaði meira afl frá vélinni eða meiri snerpu frá sjálfskiptingunni. Allir hlutar bílsins unnu vel saman, en bara aðeins betur í bensínbílnum. En þá eykst eyðslan svo ég myndi hiklaust mæla með tvinnútgáfunni.
Það er hægt að púsla bílnum saman á marga vegu er kemur að útliti og aukabúnaði. Í C-HIC-útgáfunni er meðal annars leðursæti og leður í mælaborði. Ætli hver og einn verði ekki að eiga það við sjálfan sig hvort líf viðkomandi þarfnist leðurs í mælaborðið.
Skjárinn fyrir aksturstölvuna er líka óvenju stór miðað við aðra hluta mælaborðsins. Ég fussaði yfir því til að byrja með en tók hann algjörlega í sátt þegar stórir hnappar skjásins gerðu allar skipanir svo miklu auðveldari á ferðinni. Þar til bíllinn tilkynnti að mér hefði borist tölvupóstur og hvort ég vildi ekki lesa hann. Fyrir utan að nú á að áttfalda sektarupphæðir fyrir afglöp undir stýri samanborið allt símabras, fannst mér það algjörlega fjarstæðukennt að lesa og hvað þá svara tölvupósti á ferð.
C-HR er búinn einum kosti sem ég hef ekki fundið í neinum öðrum bíl í sama stærðarflokki. Ökumaðurinn situr nógu hátt til að losna við tilfinninguna að rassinn sé við það að skrapa malbikið. Það er líka mjög auðvelt að setjast inn í hann og standa upp, sem er alveg yndislegt fyrir fótafúna ökumenn eins og mig. Þetta skiptir alveg ótrúlega miklu máli.
C-HR er búinn einum kosti sem ég hef ekki fundið í neinum öðrum bíl í sama stærðarflokki. Ökumaðurinn situr nógu hátt til að losna við tilfinninguna að rassinn sé við það að skrapa malbikið. Það er auðvelt að setjast inn í hann og standa upp, sem er alveg yndislegt fyrir fótafúna ökumenn eins og mig.
En að helsta galla C-HR: Buxunum, eða stuttbuxunum (ef svo má að orði komast). Skottpláss er af skornum skammti. Sé litið á upprunalega markhóp bílsins, ungt fólk í borgum, þá er þetta þónokkur ókostur því erfitt er að koma til dæmis barnakerru fyrir.
Fyrir utan það, er C-HR yndislegur bíll sem auðvelt er að líka vel við. Það er gott að keyra hann, hann er eyðslugrannur, vel heppnaður í útliti að innan sem utan, og svo er þetta Toyota. Og varðandi verðið … Ef þér líkar ekki við hann geturðu alltaf selt hann aftur, mögulega með hagnaði því slíkt eru endursölugildi Toyota hér á landi.
Bjórnördinn Hjörvar Óli Sigurðsson og kvikmyndagerðarmaðurinn Árni Theódórsson safna nú fyrir gerð heimildarþátta um bjór á Íslandi á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund. Þættirnir heita einfaldlega Öl-æði, en þeir Hjörvar og Árni stefna að því að safna átta þúsund Evrum á Karolina Fund, eða tæplega milljón króna.
Hjörvar Óli segir í samtali við Mannlíf að þessi tæpa milljón fari í kostnað við tökur á þáttunum.
„Áætlunin er svo að þriðji aðili fjármagni eftirvinnslu og fái einhvern dreifingarrétt,“ segir hann, en óvíst er hvar þættirnir verða sýndir ef fjármögnun tekst á Karolina Fund.
„Það er ekkert staðfest eins og er,“ segir þessi sjálfskipaði bjórnörd mjög dulur og bætir við að viðræður séu hafnar við eina af stóru sjónvarpsstöðvunum.
Í Öl-æði verður fjallað um sögu bjórs á Íslandi og öll brugghús landsins heimsótt, en þeim hefur heldur betur fjölgað síðasta áratuginn eða svo. Hjörvar Óli hefur gífurlegan áhuga á bjór, en segir að þættirnir eigi að ná bæði til þeirra sem vita ekkert um drykkinn en líka þeirra sem hafa brennandi áhuga á þeim fjölmörgu, mismunandi tegundum sem til eru af mjöð.
Hægt er að styrkja verkefnið inni á vefsíðu Karolina Fund en söfnuninni lýkur þann 5. maí næstkomandi. Þeir sem leggja sittt af mörkum geta tryggt sér ýmsa bjórtengda glaðninga, svo sem kvöldverð á Ölverk, kassa af íslenskum bjór og heimsókn í Bjórböðin á Árskógssandi.
Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, 53 ára hjartalæknir, er í landsliðinu í utanvegahlaupum ásamt sjö öðrum hlaupurum og þann 12. maí næstkomandi munu þau taka þátt í heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum á Spáni.
Hlaupaleiðin er 85 km í Penyagolosa-þjóðgarðinum í Castellón-héraði austarlega á Spáni. Leiðin liggur inn í land á stígum sem sumir hverjir eru fornar pílagrímsleiðir. Samtals hækkun er um 5000 m með lækkunin sem nemur 3600 m. „Þetta er mitt lengsta hlaup fram til þessa og undirbúningurinn hefur falist í lengri og skemmri hlaupum, með áherslu á að hlaupa utanvega og takast á við talsverðar hækkanir. Það er mikilvægt að ná nokkrum æfingum þar sem maður er lengi að, jafnvel 4-6 klukkustundir eða lengur því maður þarf að venjast því að vera á lengi á ferðinni,“ segir Þórdís sem er á lokaspretti undirbúnings fyrir keppnina.
Auk hennar eru í liðinu Elísabet Margeirsdóttir, Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, Hildur Aðalsteinsdóttir, Sigríður Björg Einarsdóttir, Guðni Páll Pálsson, Daníel Reynisson og Sigurjón Ernir Sturluson. Liðsstjórinn er Friðleifur Friðleifsson, einn af okkar öflugustu utanvegahlaupurum. „Við erum með nokkuð mismunandi æfingaáætlanir en við stelpurnar höfum náð nokkrum löngum góðum hlaupum saman sem er hvetjandi og skemmtilegt. Á löngu æfingunum æfir maður ekki bara hlaupið sem slíkt heldur prófar sig líka áfram með næringu og fatnað. Ég reyni líka að læða inn einni og einni hjóla- eða sundæfingu til að dreifa álaginu á skrokkinn og til tilbreytingar. Einnig þarf maður að huga að því að byggja sig upp andlega, reyna að horfa á sínar sterku hliðar og takast á við hlaupið í huganum,“ segir Þórdís. Hún var einnig í landsliðinu í fyrra en þá fór keppnin fram í Toscana og voru hlaupnir 50 kílómetrar með tæplega 3000 m hækkun. „Ég var bara nokkuð sátt við hvernig mér gekk, þrátt fyrir heldur hærra hitastig en við eigum að venjast. Ekkert kom upp á í hlaupinu, ég kom sterk í mark, leið eins vel og manni getur liðið eftir svona langt hlaup og var alveg ótrúlega hamingjusöm. Mér fannst þetta svo jákvæð upplifun, góð stemning í liðinu og frábær stemning í fjallaþorpinu þar sem hlaupið fór fram og ég er að vonast til að fá að upplifa eitthvað svipað aftur á Spáni.“
„Því fylgir ákveðin áskorun að hlaupa utanvega í allskyns færi og veðri en því fylgir líka meira frelsi. Þú starir ekki á klukkuna til að fylgjast með hraðanum á sama hátt og í götuhlaupi og það er miklu auðveldara að gleyma sér og njóta.“
Áskorun að hlaupa utanvega Keppninsmanneskja hefur blundað í Þórdísi alla tíð og sem unglingur og fram á fullorðinsár keppti hún í frjálsum íþróttum. Hún náði bestum árangri í hástökki, stökk 1,74 m, og keppti líka í 800 m hlaupi og grindahlaupi. „Eftir að frjálsíþróttaferlinum lauk spilaði ég körfubolta með Stúdentum í nokkur ár en eftir að börnin fæddust og ég fór í sérnám fór ég að hlaupa mér til heilsubótar. Ég setti markið á að taka árlega þátt í Göteborgsvarvet sem er stærsta hálfmaraþon í heimi og fer fram á hverju vori í Gautaborg þar sem ég bjó í tólf ár. Ég fór síðan að æfa hlaup meira markvisst eftir að hlaupahópur FH var stofnaður en ég mætti að sjálfsögðu á fyrstu æfinguna hjá hópnum í janúar 2010. Til að byrja með stundaði ég aðallega götuhlaup, en ég held að áhuginn á utanvegahlaupunum hafi kviknað alvarlega í tengslum við að ég hljóp Jökulsárhlaupið, 32,7 km, þá um haustið. Annars hef ég alltaf haft áhuga á útivist og eftir því sem ég hef orðið eldri hefur áhuginn á lengri keppnum og æfingum aukist og fjalla- og utanvegahlaup sameina svo sannarlega þetta tvennt. Því fylgir ákveðin áskorun að hlaupa utanvega í allskyns færi og veðri en því fylgir líka meira frelsi. Þú starir ekki á klukkuna til að fylgjast með hraðanum á sama hátt og í götuhlaupi og það er miklu auðveldara að gleyma sér og njóta. Kostirnir við utanvegahlaupin eru líka þeir að álagið á skrokkinn er öðruvísi en við götuhlaup, en þau reyna líka á jafnvægi og útsjónarsemi. Ég held þau henti flestum, ungum sem öldnum, en maður verður bara að prófa til að komast að því. Þá er ábyggilega gott að vera í góðum félagsskap til að byrja með.“
Leggur allt í sölurnar Markmið Þórdísar fyrir heimsmeistaramótið á Spáni er að mæta vel undirbúin til leiks og eiga góðan dag þar sem allt gengur upp. „Og njóta. Ég geri mér grein fyrir að ég er ekki að fara að vinna til verðlauna og að hlaupið verður afar krefjandi en ef tilfinningin eftir hlaupið verður sú að ég hafi lagt allt í sölurnar og uppskorið í samræmi við það, verð ég sátt. Ég hlakka líka til að sjá hvernig liðsfélögum mínum gengur,“ segir Þórdís.
Annars er keppnin á Spáni bara byrjunin á sumrinu. Þórdís stefnir á að hjóla Vatternrunduna, 300 km, í júni, auk þess að hlaupa Laugaveginn og fleiri utanvegahlaup í sumar. „Svo er aldrei að vita nema ég skelli mér í þríþraut erlendis í september,“ segir hún hress í bragði. Og hún fær dyggan stuðning að heiman. „Það er ómetanlegt að njóta góðs stuðnings frá sínum nánustu og ég get ekki sagt annað en að á heimilinu ríki mikill skilningur á að ég verji miklum tíma í æfingar. Svo er náttúrlega ákveðinn kostur að vera orðin svona gömul eins og ég er, börnin eru orðin fullorðin og því slepp ég alveg við að útvega pössun til að geta stundað mínar íþróttir.“
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson og úr einkasafni
Nýtt og glæsilegt fasteignablað fylgir áttunda tölublaði Mannlífs sem kom út í dag.
Í blaðinu er að finna greinagóðar upplýsingar um áhugaverðar og vandaðar fasteignir sem eru á skrá hjá fasteignasölum landsins í bland við innlit og aðrar áhugaverður greinar úr smiðju ritstjórnar Húsa og híbýla.
Fasteignablað Mannlífs er unnið í samstarfi við stærstu fasteignasölurnar og verður eftirleiðis vikulegt fylgiblað blaðsins.
Grænar plöntur njóta mikilla vinsælda um þessar mundir, enda einstaklega sniðugar til að lífga upp á rými. En plöntur eru ekki aðeins augnayndi, heldur hafa margar hverjar góð áhrif á andrúmsloftið. Við tókum saman upplýsingar um nokkrar plöntur sem bæði gleðja augað og bæta loftgæði heimilisins.
Friðarlilja
Einstaklega falleg planta og auðveld í umönnun. Friðarliljan er samkvæmt NASA öflugasta plantan þegar litið er til hreinsunar andrúmsloftsins og aukins súrefnisflæðis innandyra. Við mælum með að minnsta kosti einni friðarlilju á hvert heimili.
Best á baðherbergið
Bergfléttan hefur notið mikilla vinsælda á íslenskum heimilum undanfarið. Hún er sérlega
gagnleg inni á baðherbergi þar sem hún hreinsar meðal annars formeldanhýð og svífandi saurgerla úr loftinu.
Fíkus
Fíkusinn er þeim eiginleikum gæddur að hafa hljóðeinangrandi áhrif. Hann er því tilvalinn á skrifstofuna eða í önnur stór rými.
Indíánafjöður
Einstaklega auðveld í ummönnun og vilja sumir meina að Indíánafjöður sé ódrepandi planta. Hún hefur mjög jákvæð áhrif á loftgæði, en getur verið hættuleg sé hún innbyrt. Því skal varast að hafa hana í rýmum sem gæludýr eða ung börn hafa aðgang að.
Pálmi
Frábær leið til að jafna rakastig heimilisins eða skrifstofunnar. Pálma er hægt að fá í ýmsum stærðum og gerðum en allir eiga þeir það sameiginlegt að stuðla að auknu súrefnisflæði. Þeir krefjast heldur ekki mikillar umönnunar og eru því góður kostur fyrir þá sem hafa hug á að fjárfesta í sinni fyrstu plöntu.
Tónlistarmaðurinn Alexander Rybak keppir fyrir Noregs hönd í Eurovision í næstu viku með lagið That’s How You Write a Song. Margir muna kannski eftir því að Alexander rústaði keppninni árið 2009 með laginu Fairytale og þurfti Jóhanna okkar Guðrún að sætta sig við annað sætið með lagið Is It True?
Lítil spenna hefur verið fyrir þessu nýjasta útspili Alexanders og fór myndbandið við lagið, og raunar lagið sjálft, misvel ofan í Eurovision-spekinga. Því hefur Alexander ekki verið talinn líklegur til að blanda sér í toppbaráttuna, fyrr en eftir fyrstu æfingu sína í gær.
Er það mál manna að æfingin hafi gengið stórvel og eru aðdáendur og spekúlantar afar ánægðir með sviðssetningu norska atriðisins. Alexander mundar að sjálfsögðu fiðluna og með honum á sviðinu eru nokkrir hressir dansarar. Ekki skemmir fyrir að Norðmenn bjóða upp á smá gullregn, sem hefur aldrei þótt leiðinlegt í Eurovision.
„Nokkrir blaðamenn hafa nú þegar spáð honum sigri. Hann á allavega mikla möguleika á að gera það gott,“ skrifar William Lee Adams hjá Wiwibloggs eftir fyrstu æfinguna. Mandy Pettersen hjá aðdáendasíðunni ESC Norge tekur í sama streng.
„Þetta er enn ferskara og flottara en í undankeppninni. Mjög gott rennsli hjá Noregi.“
Sjálfur segir Alexander vera hæstánægður með æfinguna í samtali við NRK, norska ríkissjónvarpið.
„Það er eins og ég hafi losnað við fjörutíu kíló af herðunum. Tilfinningin sem ég fékk þegar ég horfði á þetta er það sem ég lifi fyrir,“ segir hann og bætir við að það sé ekkert aðalatriði að komast áfram í úrslit, hann sé sáttur við þá vinnu sem hefur nú þegar farið í atriðið.
Eurovision-keppnin fer fram dagana 8., 10. og 12. maí næstkomandi. Alexander freistar gæfunnar í seinni undanriðlinum þann 10. maí og ef allt gengur að óskum kemst hann í úrslitin þann 12. maí.
Fyrstu tveir þættirnir úr annarri seríu af The Handmaid’s Tale voru frumsýndir á Hulu og í Sjónvarpi Símans í síðustu viku, en beðið hefur verið eftir þessari seríu með mikilli eftirvæntingu eftir velgengni þeirrar fyrri.
Þættirnir eru byggðir á samnefndri skáldsögu eftir Margaret Atwood frá árinu 1985 og fjallar um örlög ambátta sem neyddar eru til að ganga með börn háttsettra hjóna einhvern tímann í framtíðinni.
Persónurnar í þáttunum eru einstaklega vel túlkaðar af hinum ýmsu leikurum, og eru gervin meistaralega vel unnin. Vefmiðillinn Cosmopolitan fer vel yfir það hvernig nokkrar af aðalpersónunum líta út í raun og veru, og er áhugavert að sjá það.
Bandaríska tískufyrirtækið Camar er búið að setja í sölu glænýja týpu af gallabuxum sem eru hugsanlega ekki fyrir alla.
Buxurnar eru afar efnislitlar og hanga bókstaflega saman á saumunum. Þær myndu því líklegast ekki vera mikið notaðar á norðlægum slóðum eins og Íslandi, en þessi efnispjatla sem kölluð er gallabuxur er seld á 168 dollara, eða rétt rúmlega sautján þúsund krónur.
Grín hefur verið gert að buxunum á samfélagsmiðlum eins og sést hér fyrir neðan:
Aðeins nokkrir dagar eru í að Eurovision-keppnin hefjist þar sem Evrópulönd og Ástralía keppa um hvaða lag og flytjandi er bestur.
Fyrri undanúrslitin eru þann 8. maí, þar sem Ari Ólafsson er meðal keppenda með lagið Our Choice, þau seinni þann 10. maí og úrslitin loks þann 12. maí.
Keppnin fer fram í Lissabon í Portúgal eftir að Portúgalinn Salvador Sobral kom, sá og sigraði í fyrra. Portúgal kemst því sjálfkrafa áfram í úrslitin ásamt stóru þjóðunum fimm sem greiða talsvert fé fyrir keppnina, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Spáni.
Veðbankinn William Hill heldur utan um líkurnar þegar kemur að Eurovision, eins og svo margir aðrir veðbankar, en samkvæmt tölum frá William Hill lítur út fyrir að hin ísraelska Netta Barzilai beri sigur úr býtum þann 12. maí. Önnur lönd sem eru sigurstrangleg samkvæmt líkum veðbankans eru Búlgaría, Frakkland, Ástralía og Eistland.
Það lítur alls ekki vel út fyrir gestgjafana Portúgala, en samkvæmt líkunum verður fulltrúi þeirra, Cláudia Pascoal, einhvers staðar fyrir miðju þegar að kosningu lýkur þarnæsta laugardagskvöld.
Við Íslendingar eigum ekki eftir að hrósa sigri, ef marka má líkur William Hill, en Ari Ólafsson er meðal sjö fulltrúa sem lenda í neðstu sætunum, og komast ekki upp úr undanriðlunum. Hin löndin sex sem sitja eftir á botninum eru Króatía, Slóvenía, Svartfjallaland, Rúmenía, San Marínó og Sviss.
Hér eru þau tíu lönd sem verða efst í Eurovision samkvæmt líkum William Hill þann 30. apríl:
Þess má geta að öll lögin í seinni undanriðlinum eiga eftir að æfa í Lissabon þegar þessar tölur eru teknar saman, og því gæti þessi listi breyst mikið næstu daga. Flytjendur sem keppa í fyrri undanriðlinum luku fyrstu æfingu í gær.
1. Þau leyfa sér að verða spennt saman, jafnvel þegar ekki á að stunda kynlíf
Stephen Snyder, kynlífsþerapisti í New York, segir að pör sem ná að halda neistanum lifandi lengi stríði oft hvort öðru á almannafæri þegar ekki er hægt að stunda kynlíf.
„Fyrir ástríðufyllstu pörin er kynlíf bara toppurinn á ísjakanum. Þau njóta þess að örva hvort annað, jafnvel þegar ekki er möguleiki að stunda kynlíf eða fá fullnægingu,“ segir Stephen.
2. Þau prufa nýja hluti á hverju ári
Pör sem kunna að halda hitastiginu háu í svefnherberginu eru sífellt að leita nýrra leiða til að stunda kynlíf og njóta hvors annars.
„Eitt par sem við unnum með sagði: Á hverju ári verðum við meira kinkí,“ segir Celeste Hirschman, kynlífsþerapisti. „Þú þarft að hafa vilja til að vera frumlegur til að kynlífið sé frábært til lengri tíma litið og festist ekki í viðjum vanans. Talið sóðalega. Prófið eitthvað nýtt. Gerið það sem þið þurfið til að halda kynlífi fersku og skemmtilegu og kynlífið þitt verður sjóðheitt löngu eftir að aðrir brenna út,“ bætir hún við.
3. Þau hugsa vel um sig
Pör sem lifa geggjuðu kynlífi skilja að gott sjálfstraust er hluti af því. Þess vegna passa þau vel uppá sig sjálf og rækta sig sjálf, jafnmikið og þau rækta sambandið.
„Stórkostlegt kynlíf snýst ekki bara um samband þitt við makann. Það snýst líka um samband þitt við þig sjálfan. Þú verður að hugsa um þig. Það getur þýtt að taka frá tíma fyrir dekur, að koma vel fram við líkamann, komast yfir skömm eða sektarkennd í svefnherberginu eða læra eitthvað nýtt, eins og hvernig á að láta fullnægingu endast lengur,“ segir Vanessa Marin, kynlífsþerapisti.
4. Þau hlæja í svefnherberginu en líka utan þess
Stundum gerast fyndnir hlutir þegar tveir líkamar slást saman í hita leiksins. Svo ekki sé minnst á öll fyndnu hljóðin sem fylgja kynlífi. Þess vegna er mikilvægt fyrir pör að geta hlegið saman, að sögn kynlífsþerapistans Kimberly Resnick Anderson.
„Húmor er frábært frygðarlyf. Hlæjið á meðan þið stundið kynlíf. Pör sem skilja streituna eftir á svefnherbergisþröskuldinum og njóta kynlífs sem athafnar sem er skemmtileg og tímabundinn flótti úr raunveruleikanum eru fullnægðari en þeir sem geta ekki skipt um gír og skilið streitu, reiði og óánægjuna í daglega lífinu eftir frammi.“
5. Þau fróa sér í kynlífi
Sálfræðingurinn og kynlífsþerapistinn Shannon Chavez segir að sjálfsfróun sé skemmtilegri þegar aðrir eru með. Þá er það frábært tækifæri fyrir makann að sjá hvernig best sé að fullnægja elskhuga sínum.
„Pör sem fróa sér saman, haldast saman,“ segir Shannon.
6. Þau kanna fantasíur hvors annars
„Pör sem hafa verið lengi saman og lifa æðislegu kynlífi vita að hver manneskja er með sjálfstætt, erótískt ímyndunarafl,“ segir fyrrnefnd Celeste Hirschman. Hún bætir við að þessi pör geri það sem þarf til að uppfylla fantasíur hvors annars og leggi mikið á sig til að gleðja elskhugann.
7. Þau kyssast og snertast yfir daginn til að sýna væntumþykju
Shannon Chavez segir það skipta miklu máli að pör sýni hvort öðru ást sína á öllum tímum sólarhringsins, hvort sem það er á sófanum yfir fréttunum eða yfir fyrsta kaffibollanum á morgnana. Innilegir kossar og snerting er mjög mikilvæg.
„Þegar þið snertið hvort annað eruð þið nánari og sýnið hvort öðru meiri ást. Þetta sýnir að þið viljið vera náin maka ykkar. Í stuttu máli er fólk sem snertir, heldur í hendur, kyssir, nuddar, strýkur og kjassar hvort annað án þess að búast við kynlífi rólegra, meira kynferðislega örvað og tengdara í sambandi.“
Rúmlega tvær vikur eru þar til Harry prins og leikkonan Meghan Markle játast hvort öðru í konunglegu brúðkaupi sem beðið er eftir. Herlegheitin fara fram 19. maí næstkomandi, og verða að sjálfsögðu í beinni útsendingu í sjónvarpi, og ef marka má frétt Daily Mail vill Harry vera í toppformi þegar hann kvænist Suits-stjörnunni.
Samkvæmt fréttinni er Harry búinn að fjarlægja öll kolvetni úr mataræði sínu, fyrir utan kínóa, ávexti og grænmeti. Þá er hann líka búinn að draga úr kjötneyslu og drekkur safa reglulega til að passa línurnar.
„Þau eru búin að kaupa háklassa safavél og hún lætur hann drekka ávaxta- og grænmetissafa. Hún lætur hann líka draga úr kjötneyslu,“ segir heimildarmaður Daily Mail.
Harry hefur misst rúmlega þrjú kíló síðan hann breytti um mataræði, en Meghan hefur talað opinskátt um að hún treysti á kolvetnasnautt fæði til að halda sér í góðu formi.
Vissulega hefur lágkolvetna mataræði þau áhrif að fólk léttist en margir næringarfræðingar mæla frekar með því að fólk borði rétt tegund af kolvetnum í litlu magni, frekar en að sneiða algjörlega framhjá þeim. Þá hafa safakúrar einnig verið þekktir fyrir að láta kílóin renna af fólki, en oft er þetta þyngdartap tengt við tapi á vöðvamassa en ekki fitu. Hins vegar mæla margir næringarfræðingar með því að sleppa vissum fæðutegundum í takmarkaðan tíma til að gefa líkamanum hvíld inná milli.
Í Þingholtunum, nánar tiltekið á Fjölnisvegi, stendur þetta glæsilega og rómantíska einbýlishús. Húsið er á þremur hæðum og hver hæð hefur sinn sjarma, en húsið er 290,7 fermetrar að stærð. Rýmið nýtist vel og skipulagið verður eins best verður á kosið.
Tvær stórar og glæsilegar samliggjandi stofur eru í húsinu sem gerir húsið afar skemmtilegt til að taka á móti gestum. Einnig er þar rúmgóð borðstofa sem laðar að. Hvíti liturinn er allsráðandi í húsinu, hurðar hvítar með gylltum hurðarhúnum og listar í loftum sem gera mikið fyrir rýmið. Í elhúsinu er sérsmíðuð, stílhrein, sprautulökkuð innrétting sem kemur vel út með svörtum borðplötum.
Stórfenglegt útsýni
Húsið hýsir fjögur rúmgóð herbergi sem njóta sín vel. Parketlagður stigapallur er í húsinu og þaðan er hægt að ganga út á svalir sem bjóða upp á stórfenglegt útsýni yfir borgina. Hvað er rómantískara en að vakna á fallegum sumarmorgni og horfa yfir Þingholti þar sem þau skarta sínu fegursta, þannig er tilfinning þegar staðið er úti á svölunum á Fjölnisveginum. Einnig er geymsluris yfir rishæð og kemur sér ákaflega vel.
Lóð til suðurs
Aðkoman og aðstaðan við eignina er til fyrirmyndar, hiti er í innkeyrslu og stéttum og einnig er yfirbyggt bílaport sem er mikill kostur. Húsið að utan var viðgert og málað árið 2014. Húsinu fylgir stór ræktuð lóð sem snýr í suður þar sem sólarinnar nýtir og er tilvalin fyrir garðveislur og gleði. Lóðin er um 631,9 fermeter að stærð með trjágróðri. Einnig fylgir eigninni tvöfaldur bílskúr sem er um 39,6 fermetrar að stærð., þar er sá möguleiki fyrir hendi að gera stúdíóíbúð.
Þetta glæsilega og rómantíska einbýli í Þingholtunum er til sölu hjá fasteignasölunni Fasteignamarkaðinum. Það er ekki á hverjum degi að sem að eign sem þessi er í boði í hjarta miðborgarinnar.
Náttúrulegar munnhirðu- , húð- og bætiefnavörur sem innihalda Aloe vera í hágæðaflokki. Aloe vera-plantan er græðandi, róandi, bólgueyðandi, sótthreinsandi og næringarrík.
Vörurnar koma frá fyrirtækinu Optima sem er þekkt fyrir heilsuvörur og nýtingu gæðaefna frá náttúrulegum innihaldsefnum. Allar Aloe vera vörurnar eru með gæðastimpla og vottaðar af IASC fyrir gæði (The International Aloe Science Council) fyrir gæði í framleiðslu á Aloe vera hráefninu.
Meðal þeirra vara sem í boði eru:
Aloe Vera gel mýkir
og endurnýjar
Mýkir hjálpar til við að endurnýja þurra og -skemmda húð. Hentar vel til að bera á húðslit, ör, þurra, skorpnaða eða brennda húð.
Gelið er úr 100% lífrænu Aloe vera, inniheld-ur ekki SLS (Sodium Lauryl Sulfate), lanolin eða paraben og er ekki prófað á dýrum. Framleitt úr hreinu Aloe vera hlaupi og í því næst hámarks-næringarvirkni Aloe vera. Aloe vera hlaupið sem er notað í Aloe vera gelið er með alþjóð-legan stimpili frá „The Aloe Science Council“ fyrir gæði og hreinleika.
Aloe Vera hrásafi inniheldur yfir 75 tegundir næringarefna
Hrásafi sem er 99,9% hreinn úr Aloe vera
plöntunni.
Aloe vera er án efa einn fullkomnasti næringar-drykkur náttúrunnar. Aloe vera safinn inni-heldur yfir 75 tegundir næring–arefna: vítamín, steinefni, amínósýrur, ensím og jafnvel B-12- vítamín sem sjaldan finnst í jurtum.
Með djúsnum fylgir 25 ml glas, 1-2 glös af hrein-um Aloe vera safa á dag getur haft marga kosti fyrir heilsuna eins og að:
Hjálpa til við ýmsar meltingatruflanir.
Hjálpa til við að styrkja ónæmiskerfið með
andoxunarefnum.
Hafa bólgueyðandi eiginleika sem getur hjálpað til við magaverki.
Hjálpa til við að detoxa líkamann, stuðla að góðri heilsu og auka venjulegar -þarma-hreyfingar.
Hágæða tannkrem sem er milt, náttúrulegt og hentar fólki sem kýs vegan lífsstíl. Varan er ekki prófuð á dýrum, inniheldur ekki SLS
(Sodium Lauryl Sulfate) og engin gerviefni (litarefni og bragðefni). Ásamt þessu hafa neyt-endur þann valkost að geta valið tannkremið með eða án flúors.
Tannkremið er fullt af náttúrulegum innihaldsefnum svo sem tea tree-olíu
sem hjálpar til við að berjast gegn bakter-íum, silica sem er náttúrulegt
steinefni og not–að til að koma í veg fyrir tannskemmdir.
Aloe Vera Gentle Action-töflur
– fyrir meltingartruflanir
Skammtímalausn á hægðatregðu og meltingartruflunum.
Töflurnar eru úr 95% ekta lífrænu Aloe vera sem náttúru-lega inniheldur vítamín, steinefni, ensím, amínósýrur og fjölsykrur. Aukalega er bætt við magnesíum, rabba-bara, lakk-rís og anís sem eru þekkt náttúruleg innihaldsefni sem hafa ýmsa kosti fyrir melt-inguna og einnig vingjarnlegu bakteríuna Lactobacillus acidophilus sem hefur jákvæða eiginleika á magaflóruna.
Mælt er með 2 töflum á dag fyrir neytendur með meltingartruflanir:
Hjálpar við ýmsar meltingatruflanir.
Hefur bólgueyðandi eiginleika sem getur hjálpað við
verkjum í maga.
Góður valkostur fyrir fólk sem vill prófa náttúruleg innihaldsefni.
Aloe Vera Charcoal tannkrem
– tannhvíttandi og án flúoríð
Djúphreinsandi, tannhvíttandi og náttúrulegt tannkrem án flúoríð.
Tannkrem með einstökum viðarkolum (Charcoal) og -íslenskum fjalla-grösum. Þau hafa þann einstaka eiginleika að djúphreinsa og losa óhreinindi. Tannkremið er svart á lit og freyðir vel við notkun, rispar
ekki tennur né eyðir gler-ungnum.
Varan er ekki prófuð á dýrum, inniheldur ekki SLS (Sodium Lauryl Sulfate) og engin gerviefni (litarefni og bragðefni).
Inniheldur aðeins náttúruleg inni-haldsefni: Aloe Vera, Charcoal, Tea tree olíu, Silica, Íslensk fjallagrös, Escin, Menthol, Steviu, Xylitos og Sorbitol.
Fæst í öllum helstu
apótekum og heilsuhúsum.
Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Alvogen. Myndir / úr einkasafni Alvogen
Ingrid Kuhlman og Sylviane Lecoultre Pétursson eru meðal stofnenda félagsins Lífsvirðingar. Aðaltilgangur félagsins er að stuðla að opinni, uppbyggilegri og víðtækri umræðu um dánaraðstoð. Félagið leggur áherslu á að einstaklingur hafi yfirráð yfir líkama sínum, lífi og dauða. Þær Ingrid og Sylviane hafa báðar persónulega reynslu af því að fylgja ástvinum sínum erlendis í þeim tilgangi að enda líf sitt.
Aðspurðar um viðbrögð við stofnun félagsins segja þær Ingrid og Sylviane þau almennt vera góð. „Við finnum fyrir stuðningi við okkar málstað úr mörgum áttum. Sumir eru auðvitað svolítið smeykir við að tjá sig um málið eða hafa einfaldlega ekki velt því mikið fyrir sér. Hér er um að ræða stórar siðfræðilegar spurningar sem þarf að ræða af yfirvegun.“ Þær telja að dánaraðstoð verði eitt af dagskrárefnum samfélagsumræðunnar næstu árin. „Víðtæk umræða í samfélaginu er mikilvæg og lykillinn að gagnkvæmum skilningi. Það er aðalástæðan fyrir því að við stofnuðum Lífsvirðingu.
Heitasta óskin að deyja með reisn
Ingrid og Sylviane hafa báðar reynslu af því að fylgja ástvinum sínum erlendis í þeim tilgangi að enda líf sitt á þennan hátt. Faðir Ingrid, Anton Kuhlman, var einn af þeim fyrstu sem fékk ósk sína um dánaraðstoð uppfyllta á löglegan hátt, aðeins 11 dögum eftir að lög um það tóku gildi í Hollandi þann 1. apríl 2002.
„Pabbi var búsettur í Hollandi þar sem ég er fædd og uppalin. Hann greindist með heilaæxli vorið 1999 sem þrýsti á taugar sem olli lömun í andlitinu og jafnframt miklum verkjum. Æxlið var þannig staðsett að ekki var möguleiki að fjarlægja það. Við tóku tvær mjög erfiðar geislameðferðir sem reyndust gagnlausar því æxlið hélt áfram að stækka. Læknarnir sögðu að ekkert væri hægt að gera til að bjarga lífi hans og batahorfur væru engar.“ Svona lýsir Ingrid veikindum föður síns. „Pabba hrakaði síðan stöðugt, hann missti kraftinn í hand- og fótleggjum, jafnvægisskynið varð slæmt og hann var með mikinn höfuðverk. Um páskana 2002 fékk hann háan hita. Talið var að hann væri með lungnabólgu en það reyndist ekki rétt. Hann var fyrir löngu hættur að geta borðað fasta fæðu og fékk hana því einungis í fljótandi formi. Geislameðferðirnar höfðu eyðilagt barkalokuna með þeim afleiðingum að hann gat ekki kyngt og því fór allt sem hann drakk beint ofan í lungun en einkennin lýstu sér eins og lungnabólga. Pabbi hafði misst 20-25 kg og var orðinn aðeins 50 kg undir það síðasta.
Hann var algjörlega rúmliggjandi og þurfti aðstoð við allar athafnir. Hans heitasta ósk var að fá að deyja með reisn.“
Hann gat ekki lengur drukkið, aðeins bleytt tunguna í vatni því um leið og eitthvað fór niður hóstaði hann því upp aftur. Hann hafði fengið morfín í 6-7 vikur en það linaði ekki kvalirnar í höfðinu og eyranu sem virtust óbærilegar og ómanneskjulegar. Hann var algjörlega rúmliggjandi og þurfti aðstoð við allar athafnir. Hans heitasta ósk var að fá að deyja með reisn.“
Anton var fylgismaður laganna um dánaraðstoð og þegar þau tóku gildi í Hollandi þann 1. apríl 2002 kallaði hann á heimilislækninn sinn. Hann sagðist vera búinn að gera upp líf sitt, búinn að kveðja alla, vera sáttur og hreinlega geta ekki meir. Óháður læknir vitjaði hans og kannaði vilja hans og andlega getu til þess að taka svo afdrifaríka ákvörðun, sem og líkamlegt ástand. Læknirinn vottaði að hann félli undir lögboðin skilyrði sem heimiluðu dánaraðstoð. Samþykki fékkst og við tók undirbúningur dauðastundarinnar.
„Góða ferð og hafðu það sem best“
Ingrid segir engan ágreining hafa verið meðal ættingja um ákvörðun pabba hennar. „Við virtum hana. Hann var sáttur og við vorum sátt. Auðvitað er það örugglega það síðasta sem maður vill að missa ástvin. En þegar þjáningin ein er eftir vill maður að dauðdaginn verði eins þjáningarlaus og með eins mikilli reisn og mögulegt er. Það að ráða eigin dauðastund ætti að mínu mati að vera undir hverjum og einum komið, að uppfylltum ströngum og skýrum skilyrðum. Hver einstaklingur hefur frelsi til að lifa, því hljótum við öll að hafa sama frelsi til að deyja.
Hvers konar líf er það að bíða kvalinn eftir dauðanum, vitandi að það er enginn von um bata?
Svo kom að því að dánardagurinn rann upp. „Við vorum öll meðvituð um að þetta væri kveðjustundin og við vorum hjá pabba allan tímann. Þetta var auðvitað mjög sérkennileg en falleg stund og við fjölskyldan sátum öll á rúmstokknum hjá honum þegar læknirinn gaf honum banvæna blöndu lyfja og líf hans fjaraði út. Við spiluðum ljúfa og rólega tónlist eftir írsku hljómsveitina Enya. Við sögðum við hann: „Góða ferð og hafðu það sem best.“ Hann var sáttur og við vorum sátt. Hann dó í því umhverfi sem hann vildi og á þann hátt sem hann vildi. Pabbi var búin að biðja okkur um að skála fyrir sér eftir á, sem við og gerðum.“
Vildu að hann færi í geislameðferð
Steinar Pétursson, eiginmaður Sylviane, lést í mars árið 2013. Hann hafði nokkrum mánuðum áður greinst með heilaæxli og veikindin tekið mikið á.
Sylviane segir skoðanir Steinars varðandi dánaraðstoð hafa verið ljósar mörgum árum áður en hann veiktist. Siðferðisleg og heimspekileg málefni séu fjölskyldunni allri hugleikin og umræður um líf og dauða höfðu ávallt verið fastir liðir. „Þegar hann varð veikur, var hann fljótur að segja að hann vildi ekki deyja ruglaður, bjargarlaus og/eða meðvitundarlaus í morfínmóki. Hann vildi jafnvel ekki fara í geislameðferð. Við fjölskyldan, börnin og ég, vorum ekki tilbúin að láta hann fara strax eftir greininguna. Það var okkar ósk að hann myndi fara í geislameðferð. Hins vegar var ákveðið að þegar hann segði nóg, þá myndum við fylgja honum alla leið og styðja hann. Hann hafði alltaf verið mjög sjálfstæður
Í upphafi ferlisins höfðu þau hjónin samband við Dignitas, samtök um dánaraðstoð í Sviss, en það er heimaland Sylviane. Eftir að hafa skilað inn ítarlegri umsókn sem innihélt meðal annars æviágrip og læknisfræðileg gögn tók teymi lækna og starfsfólk Dignitas sér mánuð í að fara yfir gögnin. Svo fór að umsóknin var samþykkt, ákvörðunin hafði verið tekin. Samþykkið gildir í sex mánuði, eftir þann tíma þarf að skila gögnunum upp á nýtt.
Hjónin héldu til Sviss á brúðkaupsdeginum sínum, þann 26. febrúar. „Dagana 27. og 28. febrúar hittum við lækni á hótelinu frá teymi Dignitas sem hafði það hlutverk að ganga úr skugga um að það væri einbeittur vilji mannsins míns að deyja og að hann væri með rænu. Þann 1. mars fórum við öll saman í hús Dignitas sem var í nágrenni hótelsins. Þar tóku á móti okkur hjón sem voru til staðar til að aðstoða manninn minn við að deyja og styðja okkur. Þegar ég segi aðstoða, þá meina ég að láta einstaklinginn fá vökvann sem hann á að drekka sjálfur og passa upp á að aðstandendur séu ekki að hjálpa.“
Dauðinn fallegur
Sylviane segir að burtséð frá sorginni sem fylgir því að missa ástvin, sé hún samt sem áður þakklát fyrir að Steinar hafi valið þessa leið. „Það var fallegt að vera með honum að skrifa bréf til vina og ættingja til að þakka þeim fyrir samveruna. Það var fyndið að vera með honum að undirbúa erfðadrykkju sem hann vildi hafa og skrifa á boðskortin. Það var þroskandi og ég dáist að honum fyrir þann styrk og það hugrekki sem hann sýndi í ferðinni til Sviss. Börnin okkar eru svo stolt af honum, hann var frábært fordæmi fyrir þau. Síðustu klukkustundirnar með honum eru ógleymanlegar. Dauðinn hans var svo fallegur. Hann var stoltur að hafa stjórnað ferðinni, hann var stoltur af okkur. Við höfðum tíma til að segja allt sem okkur langaði til að segja. Við elskuðum hann og það var kominn tími til að sýna það.“
Hún segist aldrei hafa séð eftir ákvörðuninni, enda hafi hún verið alfarið í höndum eiginmanns síns. „Spurningin er ekki hvort við gerðum rétt, þetta hefur ekkert að gera með okkur sem erum eftir. Þetta snýst um réttindi þess einstaklings sem er að deyja. Hann var að gera rétt. Það var hans líf og hans dauði. Hann var að deyja, hann valdi hvernig og hvenær. Hlutverk okkar aðstandenda var að elska hann nógu mikið til að sleppa honum og styðja hann.“ segir Sylviane að lokum.
Við elskuðum hann og það var kominn tími til að sýna það.
Siðmennt framkvæmdi könnun á lífsskoðunum Íslendinga í nóvember 2015 og spurði m.a. hvort þátttakendur væru hlynntir eða andvígir því að einstaklingur gæti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann væri haldinn ólæknandi sjúkdómi. Niðurstaðan var mjög afgerandi en 74,9% voru mjög eða frekar hlynntir því á meðan 7,1% voru því frekar eða mjög andvígir, 18% svöruðu hvorki né. Hér er um að ræða afar merkilega niðurstöðu en í könnunum erlendis hefur stuðningur við dánaraðstoð hvergi mælst jafnmikill svo vitað sé.
Ítarlegri umfjöllun um Lífsvirðingu má finna í 16.tbl Vikunnar.
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Kassamerkið #oldheadshotday, eða dagur gamalla leikaramynda, hefur farið eins og eldur um sinu um samfélagsmiðla undanfarið.
Margir heimsfrægir leikarar deila gömlum leikaramyndum af sér undir kassamerkinu og eru sumar þeirra alveg hreint stórkostlegar eins og sjá má hér fyrir neðan:
Chris, William og Padraig hjá Eurovision-fréttasíðunni Wiwibloggs settust niður og fóru yfir fyrstu æfinguna fyrir Eurovision, sem fram fór í gær í Altice Arena-höllinni í Lissabon í Portúgal.
Kumpánarnir þrír fóru í gegnum hvaða atriði komu þeim mest á óvart, hvaða atriði voru mestu vonbrigðin og síðan kusu þeir sigurvegara dagsins. Alls æfðu fulltrúar tíu landa sín atriði í gær og í dag æfir restin af þeim löndum sem keppa í fyrri undanúrslitunum, alls níu talsins.
Þau atriði sem komu þeim félögum mest á óvart í gær voru lögin frá Hvíta-Rússlandi og Albaníu, en mestu vonbrigðin voru hins vegar lögin frá Búlgaríu, Belgíu og Ísrael, en margir veðbankar spá því að hin ísraelska Netta fari með sigur af hólmi í aðalkeppninni þann 12. maí næstkomandi.
Chris, William og Padraig eru á því að fulltrúar Eistlands, Tékklands, Hvíta-Rússlands, Albaníu og Litháen hafi staðið sig best á þessari fyrstu æfingu.
Í myndbandinu hér fyrir neðan minnast þeir einnig á framlag Íslands, Our Choice, þar sem þeir segja sviðssetninguna vera gamaldags en að söngvarinn Ari Ólafsson syngi lagið óaðfinnanlega:
Hér má svo sjá samantekt frá þessari fyrstu æfingu:
Margir gera erfðaskrár til að koma hinsta vilja sínum á framfæri. Ýmsar skrautlegar og óvenjulegar óskir hafa verið settar í erfðaskrár og hér má lesa um nokkrar þeirra.
Milljónir í hundana
Eleanor E. Ritchey arfleiddi hunda sína að 4,5 milljónum dollara þegar hún lést árið 1968 í Flórída. Deilt var um erfðaskrána en hún var staðfest. Fimm árum seinna hafði sjóðurinn bólgnað og fengu hundarnir 9 milljón dollara en þegar erfðaskráin var endanlega staðfest var sjóðurinn kominn upp í 14 milljónir. Þá voru aðeins 73 hundar enn á lífi. Þegar sá síðasti stökk á vit feðra sinna rann sjóðurinn til Auburn-háskólans, í rannsóknir á dýrasjúkdómum.
Engin pyntingatól á gröfina!
Leikritaskáldið George Bernard Shaw lést árið 1950. Hann var mikill áhugamaður um enska tungu og hafði búið til 40 stafa stafróf sem hann taldi að gerði alla stafsetningu mun auðveldari. Hann vildi að hluti eigna hans rynni í þetta verkefni en dómari sagði það síðar ógerlegt. Fénu var skipt í þrennt og rann til British Museum, National Gallery of Ireland og Royal Academy of Dramatic Art. Hinsta ósk hans var að jarðarför hans yrði ekki gerð að kristnum sið og að á legsteini hans yrði ekki kross eða neins konar tól tengd pyntingum eða tákn um blóðugar fórnir.
Kvöldverður fyrir þau látnu
John Bowman lést árið 1891. Hann var ekkill og dætur hans tvær voru einnig látnar. John var fullviss um að fjölskyldan myndi í sameiningu endurholdgast síðar. Hann stofnaði sjóð með 50 þúsund dollurum til að hægt væri að borga þjónustufólki til að halda yfir 20 herbergja setri hans við. Síðasta ósk hans var að kvöldverður yrði eldaður og framreiddur daglega ef þau væru glorhungruð þegar þau sneru aftur. Ósk hans var uppfyllt þar til sjóðurinn var uppurinn sem var árið 1950.
Brjálað partí
Janis Joplin söngkona lést árið 1970, 27 ára gömul. Tveimur dögum fyrir dauða sinn breytti hún erfðaskrá sinni. Hún vildi að 2500 dollarar færu í sérstakt „eftir dauða-partí“ fyrir 200 manns. Það ætti að standa heila nótt á uppáhaldspöbbnum hennar í San Anselmo í Kaliforníu. „… svo vinir mínir geti djammað ærlega eftir að ég er farin.“
„… fyrir alla þá ást og góðvild sem hún sýndi mér aldrei“
Anthony Scott: „Til fyrstu eiginkonu minnar, Sue, sem ég lofaði alltaf að minnast á í erfðaskrá minni: Halló, Sue!“
Edith S frá Walsall: „Börn mín, Roger, Helen og Patricia, fá 50 þúsund pund í sinn hlut og mega ekki eyða þeim í hægfara hesta eða hraðskreiðar konur og bara örlitlu í áfengi.“
Sara Clarke frá Bournmouth: „Ég arfleiði dóttur mína að einu sterlingspundi, fyrir alla þá ást og góðvild sem hún sýndi mér aldrei.“
Henry Budd, d. 1862: „Ég arfleiði syni mína tvo að 200 þúsund pundum með því skilyrði að þeir láti sér aldrei vaxa yfirvaraskegg.“ Annar maður, Matthias Flemming (d. 1869), hafði andúð á slíkum skeggjum og arfleiddi hvern skegglausan starfsmann sinn að tíu pundum en þeir sem voru með yfirvaraskegg fengu þó fimm pund hver í sinn hlut.
Ónefndur maður arfleiddi starfsmenn sína að einum skildingi svo þeir gætu keypt sér bók um mannasiði.
Amy T. frá Doncaster arfleiddi dýraverndunarfélag að 500 pundum og bað um að peningarnir yrðu notaðir til að gefa hundum í þess umsjá dýrlega jólamáltíð.
Norman Earnest Digweed átti verðmæta húseign sem metin var á 26 þúsund pund árið 1893 þegar hann lést. Hann arfleiddi Jesú Krist að henni ef svo færi að Jesús sneri aftur innan 80 ára. Nokkrir Jesúsar gerðu tilkall til hússins sem engu að síður rann til breska ríkisins árið 1977, þegar 80 ár voru liðin frá dauða Normans.
Kona nokkur arfleiddi heittelskaðan kött sinn að eigum sínum, meðal annars húseign. Jarðarför konunnar var haldin á fallegum sumardegi. Arfþeginn lá og sólaði sig í innkeyrslunni þegar einn syrgjendanna ók óvart yfir hann á leið í erfidrykkjuna.
Aðalmynd: Ýmsar skrautlegar og óvenjulegar óskir hafa verið settar í erfðaskrár.
Sveinn Ólafur Gunnarsson hefur verið áberandi á fjölum leikhúsanna að undanförnu. Það er því ekki úr vegi að biðja hann um að rifja upp hlutverkin sem eru honum minnisstæðust.
„Eddie í Fool for love, var afar krefjandi og spennandi hlutverk. Í raun lykilhlutverk á ferlinum, hlutverk sem ég óx við sem leikari. Uppfærslan var afar vel heppnuð enda virkilega vandaður hópur sem stóð að sýningunni.“
Þá segist hann hafa leikið sex persónur Í Hornum á höfði, sem sé ógleymanlegt því hann hafi verið á spretti alla sýninguna. „Og karaktergalleríið spannaði allt frá ástríkum óöruggum föður yfir í ofurmennskt illmenni,“ segir hann og bætir við að fátt sé jafngefandi og leika í góðri barnasýningu og í Hornum á höfði hafi verið unnið af alúð, ást og natni í dásamlegum hópi einstaklega skapandi fólks.
Hann segir að hlutverk krefjist mismikils undirbúnings. „Fyrir hverja sýningu á Illsku, þar sem ég fór með hlutverk Arnórs, greinds og vel máli farins nýnasista með tourette þurfti ég til dæmis að koma mér í karakter 60-90 mínútum fyrir show, svo að „tourettið“, kækirnir væru orðnir lífrænir og ósjálfráðir þegar við byrjuðum. Það var oft meira vesen að hætta því eftir að sýningu lauk og stundum sofnaði ég ekki fyrir kippunum. Fæ meira segja kippi núna þegar ég tala um hann,“ segir hann og hlær.
Af bíó og sjónvarpi segir hann að sér sé efst í huga það sem hann leikið síðast, en það hafi verið þegar hann brá sér í hlutverk Arnars í Mannasiðum og Valda kláms í Stellu Blómkvist. Afar ólík en áhugaverð hlutverk. „Svo þykir mér alltaf jafnvænt um Finnboga í kvikmyndinni Á annan veg. En heilt yfir þá eiga mín eftirminnilegustu hlutverk það sammerkt að ég hef fengið rými til sköpunar persónunnar og í mörgum tilfellum tekið þátt í sköpunarferlinu og handritsvinnunni. Sem gefur manni tækifæri til að nálgast hlutverk af meiri dýpt og ábyrgð.“
Bryggjuhverfið á Kársnesi í Kópavogi er staðsett á fallegum stað á móti Nauthólsvíkinni, fjölskylduvænu og fallegu umhverfi við sjávarsíðuna. Útsýnið er einstaklega fallegt í allar áttir og fögur er sjónin þegar horft er yfir í Öskjuhlíðina og víðar.
Þessar glæsilegu íbúðir eru til sölu í Naustavör og eru eignirnar hinar vönduðust. Umhverfi laðar að fólk á öllum aldri og býður uppá fjölbreytar leiðir til útivistariðkunnar fyrir fjölskyldur sem og einstaklinga. Meðal annars má nefna að Siglingafélagið Ýmir er með aðstöðu við smábátahöfnina og er það iðandi af lífi. Einnig er stutt í allar áttir og gríðarlega uppbygging atvinnulífsins er einnig á þessum slóðum og þykir stórfyrirtækjum eftirsóknarvert að komast á miðsvæðis Kópavogsins. Í bryggjuhverfinu á Kársnesinu er gert ráð fyrir verði um 400 íbúðir. Flutt var í fyrstu íbúðir hverfisins á vormánuðum 2015. Framtíðin er því björt í Bryggjuhverfinu í Kópavogi.
Íbúðirnar sem eru komnar í sölu við Naustavör 16-20 eru hið glæsilegustu og eru frá þriggja til fimm herbergja og frá 122 fermetrum að stærð upp í 210 fermetra í fjögurra og þriggja hæða fjölbýlishúsum með lyftu. Stæði í lokaðri bílgeymslu fylgir öllum íbúðum sem eru mikil lífsgæði. Íbúðirnar eru innréttaðar með vönduðum íslenskum innréttingum og fataskápum frá Brúnás sem eru hágæða hönnun. Íbúðirnar eru afhentar án gólfefna, nema á baðherbergi og þvottahúsi verða flísar, þar áhersla verður lögð á að vera með stílhreint yfirbragð.
Á baðherbergjum eru gólf flísalögð og veggir flísalagðir upp í loft. Þau verða búin vönduðum hreinlætistækjum, hitastýrðum blöndunartækjum, upphengdum salernum, sturtum með glerhlið þar sem nýting verður í hávegum höfð. Íbúðirnar eru ýmist með góðum svölum eða stórum timburveröndum sem gerir fólki kleift að njóta þess sem umhverfið hefur upp á að bjóða. Stæði í sameign verður frágengin utan sem innan og í sameign verður vönduð lyfta í hvoru stigahúsi. Anddyrin verða flísalögð en stigar og stigapallar teppalagðir. Gangstéttar við húsið verða með snjóbræðslukerfi sem er mikill kostur.
Byggingaraðili er Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. Arkitektar íbúðanna eru þeir Guðmundur Gunnlaugsson og Gunnar Páll Kristinsson frá Rýma arkitektum. Fasteignasalan Fasteignamarkaðurinn er með þessar glæsilegu íbúðir á sölu og er eftirspurnin gríðarleg, enda um vandaðar eignir að ræða og staðsetningin ein sú besta sem völ er á, á höfuðborgara svæðinu. Sjón eru sögu ríkari.
Verðflokkarnir eru eftirfarandi:
3ja herbergja íbúðir. Verð frá kr. 69,5 millj. upp í kr. 77,0 millj. 4ra herbergja íbúðir. Verð frá kr. 85,5 millj. upp í kr. 89,5 millj. 5 herbergja íbúðir. Verð frá kr. 87,5 millj. upp í kr. 119,0 millj.
Leikkonan Hera Hilmarsdóttir, sem gengur undir listamannsnafninu Hera Hilmar, er í viðtali við vefsíðuna Daily Actor í tengslum við kvikmyndina An Ordinary Man, þar sem Hera leikur á móti Sir Ben Kingsley.
Í viðtalinu er Hera spurð út í verstu áheyrnarprufu sem hún hafi farið í á ferlinum og það stendur ekki á svörum hjá leikkonunni.
„Ó, Guð, versta áheyrnarprufan. Hún var fyrir nokkrum árum og það var ein af mínum fyrstu áheyrnarprufum. Þetta var enskur leikstjóri af gamla skólanum og ég held að hann hafi verið svo forviða yfir því að íslensk stúlka væri í prufu fyrir hlutverk Englendings að hann gerði lítið úr enska hreimnum mínum,“ segir Hera og heldur áfram.
„Þetta var fullkomlega óþarft að sumu leyti. Stundum gerir maður eitthvað sem maður er ekkert sérstaklega góður í en ég var ekkert ofboðslega léleg þannig að þetta var algjör óþarfi.“
Hún bætir jafnframt við að hún hafi ekki passað í hlutverkið sem hún var að falast eftir en að framkoma leikstjórans hafi ekki þurft að vera með þessum hætti. „Þetta er í eina skiptið sem ég hef upplifað eitthvað svona.“
Toyota C-HR er skemmtilegur tvinnbíll, vel útbúinn og góður í akstri.
Gefum okkur þú standir fyrir framan fataskápinn og sért á leið í veislu. Þar verður margt fólk sem þú þekkir lítið en þú lítur upp til. Því viltu koma vel fyrir, falla í hópinn en að sama skapi marka þér sérstöðu. Þú vilt koma skilaboðunum á framfæri um að þú sért til í ævintýri og óttist ekkert, en um leið ertu ekki að fara taka þátt í neinu rugli eða koma þér og þínum í vandræði. Hvaða föt velurðu?
Toyota C-HR er bíll sem var í þessari stöðu og ákvað að fara í fínustu skyrtuna sína og leðurjakka, stuttbuxur og hlaupaskó. Allt frábærar hugmyndir sem að öllu jöfnu ættu ekki að ganga upp saman en á einhvern undarlega heillandi hátt mynda frábæra blöndu.
Þegar ég settist upp í Toyota C-HR leið mér strax vel. Að utan er bíllinn skemmtilega agressívur, allar línur afgerandi og beinskeittar. Eylítið groddaralegar en á mjög skemmtilegan hátt, svolítið eins og leðurjakki. Hann öskrar á mann að hann sé til í þjóðveginn og að fara með þig alveg á enda slóðans.
Þegar sest er inn í bílinn er upplifun mun mýkri og fágaðari. Egypsk bómull kemur upp í hugann. Þrátt fyrir að um smábíl sé að ræða finnur maður strax að Toyota hefur vandað innviðinn. Allt efnisval og áferð gefa til kynna að meira er í lagt en í hinn hefðbundna smábíl. Þarna kemur fyrsta mótsögnin sem ég verð að segja að kom skemmtilega á óvart. Þessi auknu gæði skila sér eðlilega í hærra verði og vekur athygli að hægt er að fá til bæði Prius og Avensis á hagstæðara kjörum.
Haldið skal til haga að ég keyrði Hybrid C-HIC-útgáfu bílsins sem er einskonar lúxusútgáfa, vel útilátin aukabúnaði. Komum að því síðar.
C-HR er yndislegur bíll sem auðvelt er að líka vel við. Það er gott að keyra hann, hann er eyðslugrannur, vel heppnaður í útliti að innan sem utan, og svo er þetta Toyota.
Verandi tvinnbíll er eyðslan auðvitað komin í allt annan flokk. Hún er uppgefin 3,9 l/100 km en í akstri mínum var ég reyndar eylítið undir þeirri tölu. Öflugir hlaupaskór það.
Rafkerfi bílsins er að sama skapi þungt og gerir tvinnútgáfu bílsins ögn þunglamalegri en systraútgáfuna án tvinnkerfisins. Ekki misskilja, ég hefði aldrei haft orð á því hefði ég ekki prófað báðar útgáfur. Tvinnbíllinn er mjög snarpur og skemmtilegur í akstri á allan hátt. Ég upplifði aldrei að mig vantaði meira afl frá vélinni eða meiri snerpu frá sjálfskiptingunni. Allir hlutar bílsins unnu vel saman, en bara aðeins betur í bensínbílnum. En þá eykst eyðslan svo ég myndi hiklaust mæla með tvinnútgáfunni.
Það er hægt að púsla bílnum saman á marga vegu er kemur að útliti og aukabúnaði. Í C-HIC-útgáfunni er meðal annars leðursæti og leður í mælaborði. Ætli hver og einn verði ekki að eiga það við sjálfan sig hvort líf viðkomandi þarfnist leðurs í mælaborðið.
Skjárinn fyrir aksturstölvuna er líka óvenju stór miðað við aðra hluta mælaborðsins. Ég fussaði yfir því til að byrja með en tók hann algjörlega í sátt þegar stórir hnappar skjásins gerðu allar skipanir svo miklu auðveldari á ferðinni. Þar til bíllinn tilkynnti að mér hefði borist tölvupóstur og hvort ég vildi ekki lesa hann. Fyrir utan að nú á að áttfalda sektarupphæðir fyrir afglöp undir stýri samanborið allt símabras, fannst mér það algjörlega fjarstæðukennt að lesa og hvað þá svara tölvupósti á ferð.
C-HR er búinn einum kosti sem ég hef ekki fundið í neinum öðrum bíl í sama stærðarflokki. Ökumaðurinn situr nógu hátt til að losna við tilfinninguna að rassinn sé við það að skrapa malbikið. Það er líka mjög auðvelt að setjast inn í hann og standa upp, sem er alveg yndislegt fyrir fótafúna ökumenn eins og mig. Þetta skiptir alveg ótrúlega miklu máli.
C-HR er búinn einum kosti sem ég hef ekki fundið í neinum öðrum bíl í sama stærðarflokki. Ökumaðurinn situr nógu hátt til að losna við tilfinninguna að rassinn sé við það að skrapa malbikið. Það er auðvelt að setjast inn í hann og standa upp, sem er alveg yndislegt fyrir fótafúna ökumenn eins og mig.
En að helsta galla C-HR: Buxunum, eða stuttbuxunum (ef svo má að orði komast). Skottpláss er af skornum skammti. Sé litið á upprunalega markhóp bílsins, ungt fólk í borgum, þá er þetta þónokkur ókostur því erfitt er að koma til dæmis barnakerru fyrir.
Fyrir utan það, er C-HR yndislegur bíll sem auðvelt er að líka vel við. Það er gott að keyra hann, hann er eyðslugrannur, vel heppnaður í útliti að innan sem utan, og svo er þetta Toyota. Og varðandi verðið … Ef þér líkar ekki við hann geturðu alltaf selt hann aftur, mögulega með hagnaði því slíkt eru endursölugildi Toyota hér á landi.
Bjórnördinn Hjörvar Óli Sigurðsson og kvikmyndagerðarmaðurinn Árni Theódórsson safna nú fyrir gerð heimildarþátta um bjór á Íslandi á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund. Þættirnir heita einfaldlega Öl-æði, en þeir Hjörvar og Árni stefna að því að safna átta þúsund Evrum á Karolina Fund, eða tæplega milljón króna.
Hjörvar Óli segir í samtali við Mannlíf að þessi tæpa milljón fari í kostnað við tökur á þáttunum.
„Áætlunin er svo að þriðji aðili fjármagni eftirvinnslu og fái einhvern dreifingarrétt,“ segir hann, en óvíst er hvar þættirnir verða sýndir ef fjármögnun tekst á Karolina Fund.
„Það er ekkert staðfest eins og er,“ segir þessi sjálfskipaði bjórnörd mjög dulur og bætir við að viðræður séu hafnar við eina af stóru sjónvarpsstöðvunum.
Í Öl-æði verður fjallað um sögu bjórs á Íslandi og öll brugghús landsins heimsótt, en þeim hefur heldur betur fjölgað síðasta áratuginn eða svo. Hjörvar Óli hefur gífurlegan áhuga á bjór, en segir að þættirnir eigi að ná bæði til þeirra sem vita ekkert um drykkinn en líka þeirra sem hafa brennandi áhuga á þeim fjölmörgu, mismunandi tegundum sem til eru af mjöð.
Hægt er að styrkja verkefnið inni á vefsíðu Karolina Fund en söfnuninni lýkur þann 5. maí næstkomandi. Þeir sem leggja sittt af mörkum geta tryggt sér ýmsa bjórtengda glaðninga, svo sem kvöldverð á Ölverk, kassa af íslenskum bjór og heimsókn í Bjórböðin á Árskógssandi.
Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, 53 ára hjartalæknir, er í landsliðinu í utanvegahlaupum ásamt sjö öðrum hlaupurum og þann 12. maí næstkomandi munu þau taka þátt í heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum á Spáni.
Hlaupaleiðin er 85 km í Penyagolosa-þjóðgarðinum í Castellón-héraði austarlega á Spáni. Leiðin liggur inn í land á stígum sem sumir hverjir eru fornar pílagrímsleiðir. Samtals hækkun er um 5000 m með lækkunin sem nemur 3600 m. „Þetta er mitt lengsta hlaup fram til þessa og undirbúningurinn hefur falist í lengri og skemmri hlaupum, með áherslu á að hlaupa utanvega og takast á við talsverðar hækkanir. Það er mikilvægt að ná nokkrum æfingum þar sem maður er lengi að, jafnvel 4-6 klukkustundir eða lengur því maður þarf að venjast því að vera á lengi á ferðinni,“ segir Þórdís sem er á lokaspretti undirbúnings fyrir keppnina.
Auk hennar eru í liðinu Elísabet Margeirsdóttir, Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, Hildur Aðalsteinsdóttir, Sigríður Björg Einarsdóttir, Guðni Páll Pálsson, Daníel Reynisson og Sigurjón Ernir Sturluson. Liðsstjórinn er Friðleifur Friðleifsson, einn af okkar öflugustu utanvegahlaupurum. „Við erum með nokkuð mismunandi æfingaáætlanir en við stelpurnar höfum náð nokkrum löngum góðum hlaupum saman sem er hvetjandi og skemmtilegt. Á löngu æfingunum æfir maður ekki bara hlaupið sem slíkt heldur prófar sig líka áfram með næringu og fatnað. Ég reyni líka að læða inn einni og einni hjóla- eða sundæfingu til að dreifa álaginu á skrokkinn og til tilbreytingar. Einnig þarf maður að huga að því að byggja sig upp andlega, reyna að horfa á sínar sterku hliðar og takast á við hlaupið í huganum,“ segir Þórdís. Hún var einnig í landsliðinu í fyrra en þá fór keppnin fram í Toscana og voru hlaupnir 50 kílómetrar með tæplega 3000 m hækkun. „Ég var bara nokkuð sátt við hvernig mér gekk, þrátt fyrir heldur hærra hitastig en við eigum að venjast. Ekkert kom upp á í hlaupinu, ég kom sterk í mark, leið eins vel og manni getur liðið eftir svona langt hlaup og var alveg ótrúlega hamingjusöm. Mér fannst þetta svo jákvæð upplifun, góð stemning í liðinu og frábær stemning í fjallaþorpinu þar sem hlaupið fór fram og ég er að vonast til að fá að upplifa eitthvað svipað aftur á Spáni.“
„Því fylgir ákveðin áskorun að hlaupa utanvega í allskyns færi og veðri en því fylgir líka meira frelsi. Þú starir ekki á klukkuna til að fylgjast með hraðanum á sama hátt og í götuhlaupi og það er miklu auðveldara að gleyma sér og njóta.“
Áskorun að hlaupa utanvega Keppninsmanneskja hefur blundað í Þórdísi alla tíð og sem unglingur og fram á fullorðinsár keppti hún í frjálsum íþróttum. Hún náði bestum árangri í hástökki, stökk 1,74 m, og keppti líka í 800 m hlaupi og grindahlaupi. „Eftir að frjálsíþróttaferlinum lauk spilaði ég körfubolta með Stúdentum í nokkur ár en eftir að börnin fæddust og ég fór í sérnám fór ég að hlaupa mér til heilsubótar. Ég setti markið á að taka árlega þátt í Göteborgsvarvet sem er stærsta hálfmaraþon í heimi og fer fram á hverju vori í Gautaborg þar sem ég bjó í tólf ár. Ég fór síðan að æfa hlaup meira markvisst eftir að hlaupahópur FH var stofnaður en ég mætti að sjálfsögðu á fyrstu æfinguna hjá hópnum í janúar 2010. Til að byrja með stundaði ég aðallega götuhlaup, en ég held að áhuginn á utanvegahlaupunum hafi kviknað alvarlega í tengslum við að ég hljóp Jökulsárhlaupið, 32,7 km, þá um haustið. Annars hef ég alltaf haft áhuga á útivist og eftir því sem ég hef orðið eldri hefur áhuginn á lengri keppnum og æfingum aukist og fjalla- og utanvegahlaup sameina svo sannarlega þetta tvennt. Því fylgir ákveðin áskorun að hlaupa utanvega í allskyns færi og veðri en því fylgir líka meira frelsi. Þú starir ekki á klukkuna til að fylgjast með hraðanum á sama hátt og í götuhlaupi og það er miklu auðveldara að gleyma sér og njóta. Kostirnir við utanvegahlaupin eru líka þeir að álagið á skrokkinn er öðruvísi en við götuhlaup, en þau reyna líka á jafnvægi og útsjónarsemi. Ég held þau henti flestum, ungum sem öldnum, en maður verður bara að prófa til að komast að því. Þá er ábyggilega gott að vera í góðum félagsskap til að byrja með.“
Leggur allt í sölurnar Markmið Þórdísar fyrir heimsmeistaramótið á Spáni er að mæta vel undirbúin til leiks og eiga góðan dag þar sem allt gengur upp. „Og njóta. Ég geri mér grein fyrir að ég er ekki að fara að vinna til verðlauna og að hlaupið verður afar krefjandi en ef tilfinningin eftir hlaupið verður sú að ég hafi lagt allt í sölurnar og uppskorið í samræmi við það, verð ég sátt. Ég hlakka líka til að sjá hvernig liðsfélögum mínum gengur,“ segir Þórdís.
Annars er keppnin á Spáni bara byrjunin á sumrinu. Þórdís stefnir á að hjóla Vatternrunduna, 300 km, í júni, auk þess að hlaupa Laugaveginn og fleiri utanvegahlaup í sumar. „Svo er aldrei að vita nema ég skelli mér í þríþraut erlendis í september,“ segir hún hress í bragði. Og hún fær dyggan stuðning að heiman. „Það er ómetanlegt að njóta góðs stuðnings frá sínum nánustu og ég get ekki sagt annað en að á heimilinu ríki mikill skilningur á að ég verji miklum tíma í æfingar. Svo er náttúrlega ákveðinn kostur að vera orðin svona gömul eins og ég er, börnin eru orðin fullorðin og því slepp ég alveg við að útvega pössun til að geta stundað mínar íþróttir.“
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson og úr einkasafni
Nýtt og glæsilegt fasteignablað fylgir áttunda tölublaði Mannlífs sem kom út í dag.
Í blaðinu er að finna greinagóðar upplýsingar um áhugaverðar og vandaðar fasteignir sem eru á skrá hjá fasteignasölum landsins í bland við innlit og aðrar áhugaverður greinar úr smiðju ritstjórnar Húsa og híbýla.
Fasteignablað Mannlífs er unnið í samstarfi við stærstu fasteignasölurnar og verður eftirleiðis vikulegt fylgiblað blaðsins.