Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.1 C
Reykjavik

Kynlegar kastalaverur

Uppsetning Borgarleikhússins á söngleiknum Rocky Horror show hefur varla farið fram hjá neinum. Uppselt er á nær allar sýningar út leikárið svo óhætt er að fullyrða að Frank-N-Furter og fjölskylda muni öðlast framhaldslíf á fjölunum næsta leikár.

Fyrir þá sem ekki þekkja til greinir sagan frá turtildúfunum Brad og Janet sem villast af leið og enda fyrir tilviljun í dularfullum kastala. Atburðarásin vindur fljótt upp á sig og áhorfendur verða strax sólgnir í að komast í kynni við kynjaverur kastalans.

Þýðing Braga Valdimars Skúlasonar var eins og við var að búast bæði hnyttin og vel ígrunduð þó að vissulega sé erfitt að gleyma gömlu þýðingu Veturliða Guðnasonar.

Búningar Filippíu Elísdóttur voru framúrskarandi og þá sérstaklega klæði Kólumbíu og geimgallar systkinanna Riff Raff og Magnetu. Flestir dansaranna fengu sömuleiðis að glitra í glæsilegum glimmerklæðum.

Dansatriðin voru heldur færri en í fyrri stórsýningum Borgarleikhússins en danshöfundinum Lee Proud tókst að galdra fram stórskemmtileg atriði eins og honum einum er lagið.

Óhætt að segja að leikur Björns Stefánssonar, í hlutverki Riff Raff, hafi verið framúrskarandi. Vala Kristín Eiríksdóttir var jafnframt nístandi og sannfærandi sem Kólumbía.

Brynhildur Guðjónsdóttir var lágstemmd í hlutverki Magnetu en hún opnaði og lokaði þessu „sjabbí“ sjóvi á karnivalískan máta.

Arnar Dan Kristjánsson smellpassaði í hlutverk vöðvatröllsins Rocky, sköpunarverks Frank-N-Furters, bæði í söng og líkamlegum styrkleika.

Haraldur Ari Stefánsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttur blésu lífi í lykilpersónurnar tvær sem glata sakleysi sínu innan kastalaveggjanna. Haraldur Ari var einkar sannfærandi sem Brad en Þórunn Arna hefði mátt vera djarfari Janet.

Valdimar Guðmundsson á stutta en eftirminnilega innkomu þegar hinn meingallaði Eddi mætti örlögum sínum. Sú lausn að rúlla honum inn á börum í stað þess að láta hann þeysast um sviðið á mótorhjóli dró verulega úr þeim ótta sem átti að stafa af persónunni sem Frank-N-Furter hafði mistekst að skapa.

Það leikur enginn vafi á því hvers vegna áhorfendur flykkjast á sýninguna, þeir eru komnir til að berja stjörnuna augum. Páll Óskar er elskaðasta óskabarn þjóðarinnar og skín hér eins og perlan sem hann er.

Boðskapur verksins er að blása von í hjörtu fólks sem hefur upplifað sig utangarðs eða útskúfað og sýna því að allir hafa tilgang. Heimurinn er stærri en við höldum og það er nóg pláss fyrir alla, Lifðu – ekki leynast.

Fáir hafa haldið kyndli þessarar baráttu hærra á lofti en Páll Óskar sem virðist klæðskerasniðinn í hlutverk Frank-N-Furter. Á köflum er eins og kynsnillingurinn vakni til lífs á sviðinu en öðrum stundum er eins og hann skipti um ham og breytist í Grinch með trúðslegu yfirbragði.

Leikstjóri sýningarinnar, Marta Nordal, hefði mátt draga úr þessum töktum.

Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur var hönnuð að miklu leyti í kringum hugarheim Páls og var hreint út sagt stórkostleg, rétt eins og tónlistin í höndum Jóns Ólafssonar svo óhætt að fullyrða að enginn verði svikinn af því að sjá Rocky Horror Show.

 

Umfjöllunina er að finna í 15.tbl Vikunnar.

Þetta er minn eigin fjársjóður

|
|

Benedikt Máni Möller hefur náð ótrúlegum árangri í tréúrskurði sem hann segir það skemmtilegasta sem hann geri. Benedikt er einhverfur en verkin hans voru sýnd í fimm vikur á bókasafni Reykjanesbæjar nú fyrr á árinu.

Benedikt segist skera helst út menn með skegg, húfur og víkingahjálma en hann geri einnig hnífa, fugla og hunda. „Svo er ég nýbyrjaður að skera út skartgripi,” bætir hann við og heldur áfram. „Það er mjög misjafnt hvað hlutirnir mínir taka langan tíma í vinnslu en ég má varla vera í neinu öðru því ég fer beint á smíðastofuna mína þegar ég kem heim úr skólanum.”

„Ég hlakka alltaf mikið til að komast heim og byrja að tálga og fá um leið fleiri hugmyndir. Stundum fæ hugmyndir þegar ég sé ókunnugt fólk og velti fyrir mér útliti þess. Um þessar mundir er ég til að mynda mikið að spá í nefinu á fólki.”

Óhætt er að segja að verk Benedikts hafi notið umtalsverðrar athygli en fyrr á þessu ári var haldin fimm vikna sýning á bókasafni Reykjanesbæjar þar sem tréútskurður hans fékk sérstakt pláss. Hann segist einnig hafa haldið sýningu fyrir bekkinn sinn í skólanum sem og kennarana. „Ég sé ekki fyrir mér neitt annað en að halda að sjálfsögðu áfram á þessari braut og þegar ég útskrifast úr skólanum langar mig að læra húsamiði og geta jafnvel byggt mitt eigið timburhús. Eftir það væri gaman að læra málmsmíði svo ég gæti smíðað málmhnífa. Í það minnsta vona ég að ég muni aldrei hætta að tálga.”

Viðtalið má lesa í heild í nýjasta tölublaði Vikunnar.

„Fallegt þegar fagfólk þarf að upplifa að vera amatörar“

|||
|||

Björk hvetjandi og sýnir algjört traust.

Sviðshreyfingar í komandi tónleikaferð Bjarkar Guðmundsdóttur eru í höndum Margrétar Bjarnadóttur, danshöfundar og myndlistamanns. Þær kynntust fyrir 15 árum þegar Margrét var barnfóstra Bjarkar.

Margrét Bjarnadóttir segir að lög Bjarkar séu aðaláttavitinn í sköpun sviðshreyfinganna.

Í lok maí mun Björk hefja tónleikaferð sína um heiminn og hélt nokkurs konar generalprufu af tónleikunum í Háskólabíói fyrir skömmu. Tónleikarnir eru liður í útgáfu Útópíu sem er tíunda sólóplata Bjarkar en hún kom út í lok síðasta árs. Hún kemur fram með sjö flautuleikurum, hörpuleikara, slagverksleikara og raftónlistarmanni. Hópurinn hefur verið við æfingar á Íslandi síðastliðnar vikur. Leikmynd tónleikaferðarinnar var frumsýnd í Háskólabíói en hún er hönnuð af Heimi Sverrissyni og smíðuð í Irma studios. Við spurðum Margréti út í verkið og samstarfið við Björk.

„Við höfum þekkst í mörg ár þar sem ég var barnfóstra dóttur hennar í eitt ár fyrir 15 árum. Það var sko yndislegt samstarf. Svo, fyrr í vetur, bað hún mig um að semja hreyfingar fyrir tónlistarmyndbandið við lagið Útópía þar sem flautuleikararnir voru í stóru hlutverki. Það var mjög skemmtilegt og var eins og byrjunin á einhverju sem væri hægt að þróa áfram. Upp úr því spurði hún hvort ég hefði áhuga á að sjá um hreyfingar flautuleikaranna fyrir tónleikaferðalagið,“ segir Margrét.

„Svo þurfti ég líka að huga að heildarmyndinni, að kaffæra ekki tónleikana í danssporum heldur finna jafnvægi.“

Við vinnsluna á verkinu vildi Margrét finna leið til þess að hreyfingar flautuleikaranna gætu orðið eðlilegur hluti af flutningi þeirra eða framlenging á honum. „Flautuleikararnir, allt konur, eru rosalega færar og ég vildi ekki að hreyfingarnar ynnu á móti tónlistarflutningnum. Það gerði það vissulega fyrst þegar þær voru að læra hreyfingarnar og ná tökum á þeim en svo kom þetta smám saman. Kannski hefði ég ekki haft svona mikla trú á því ef ég hefði ekki verið búin að gera No Tomorrow á síðasta ári, gítarballett okkar Ragnars Kjartanssonar með Íslenska dansflokknum, þar sem dansararnir lærðu að spila á gítar og dansa um leið. Mér finnst svo fallegt tímabil í æfingaferlinu þegar þessar miklu fagmanneskjur þurfa að sætta sig við að verða amatörar í smátíma á meðan þær eru að tileinka sér eitthvað alveg nýtt. Þær eru að gera svo margt sem þær hafa aldrei gert áður og kannski eitthvað sem fáir ef einhverjir flautuleikarar hafa gert – að læra öll þessi lög utanbókar sem sum hver eru í flóknum útsetningum og dansa samhæfðar hreyfingar um leið. Þetta er mjög mikil áskorun. En svo þurfti ég líka að huga að heildarmyndinni, að kaffæra ekki tónleikana í danssporum heldur finna jafnvægi. Sum lög vildu bara kyrrð og þá hlustaði ég á það. Svo eru margir þættir sem spila inn í og hafa áhrif á það sem maður getur gert, eins og til dæmis leikmyndin og skiptingar á flautum á milli laga, sem eru mjög tíðar, þannig að það er að mörgu að huga. En svo er þetta líka eitthvað sem verður áfram í þróun. Það var svo gott að fá tækifæri til þess að vera með æfingatónleika í Háskólabíói og nú höfum við tíma til að breyta og bæta og nostra við smáatriði fyrir tónleikaferðalagið sem hefst í London.“

Frábært að vinna með Björk
Björk skapar sína heima á einstakan hátt en Margrét heldur að hún hafi aldrei áður skapað jafnsjónrænan heim fyrir tónleikaferðalag, sérstaklega á svona tónlistarhátíðum utandyra eins og fram undan eru í sumar. „Það þarf að vera hægt að skella leikmyndinni sem Heimir Sverrisson hannaði upp á hálftíma og skyndilega ertu komin með eitt stykki útópískan heim. Það er svo mikil alúð í öllu, alveg út í minnstu smáatriði, eins og til dæmis grímurnar sem James Merry hannar og býr til fyrir Björk, flautuleikara og hörpuleikara. Hver gríma er einstök og skreytt með pínulitlum perlum sem sjást kannski ekki úr kílómetra fjarlægð á útifestivali en skipta samt mjög miklu máli fyrir stemninguna í heiminum sem hefur verið skapaður.“

Mikið var um dýrðir þegar Björk frumflutti tónleikana í Háskólabíói á dögunum. Mynd / Santiago Felipe

Margrét mun vera með á æfingum í London áður en tónleikaferðalagið hefst og ætlar svo að minnsta kosti að kíkja á hópinn í Róm og sjá hvernig hlutirnir standa. Hún segir að samstarfið við Björk hafi verið frábært. „Hún er hvetjandi og sýnir manni mikið traust en þannig upplifir maður algjört frelsi til að prófa sig áfram. Við ræddum nálgunina en svo var hún aðallega bara mjög hvetjandi. Það hjálpar líka að hafa þekkst í mörg ár og það er svona gagnkvæmur skilningur sem gerir allt auðveldara.

„Það þýðir ekki að gera þær lafmóðar í einhverjum dansi þannig að þær geti ekki blásið í hljóðfærið.“

Lögin eru náttúrlega aðaláttavitinn minn í þessari vinnu. Það er alltaf svo skýr tilfinning í lögunum hennar og þegar ég tengi inn á tilfinninguna í viðkomandi lagi koma hreyfingarnar frekar ósjálfrátt og óþvingað. En hreyfingarnar sem komu hjá mér hentuðu svo ekki alltaf flautuleiknum og þá þurfti ég að aðlaga þær að honum og flautuleikurunum. Ég skil þetta hljóðfæri mun betur núna og það er áhugavert að semja hreyfingar fyrir blásturshljóðfæraleikara þar sem öndunin skiptir miklu máli. Það þýðir ekki að gera þær lafmóðar í einhverjum dansi þannig að þær geti ekki blásið í hljóðfærið þó að þær fari nú reyndar alveg fram á ystu nöf í sumum lögum. En mér finnst mjög gaman að vinna með takmarkanir, þær fara alltaf með mann á einhverjar ófyrirséðar brautir.“

Myndlist og skrif
Margrét kláraði danshöfundanám í listháskóla í Hollandi árið 2006 og hefur unnið sjálfstætt síðan þá. Svo fór hún að vinna meira að myndlist og starfar nú jöfnum höndum sem danshöfundur og myndlistarmaður. „En skrif hafa líka fylgt mér lengi og textar alltaf spilað stórt hlutverk í bæði sviðs- og myndlistarverkunum mínum. Ég hef verið í mastersnámi í ritlist við Háskóla Íslands og næst á dagskrá er einmitt að klára MA-lokaverkefnið mitt þar. Það hefur verið að safnast saman í langan tíma og ég hlakka til að veita því athygli núna.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson og Santiago Felipe

Íslendingar flykkjast til tannlækna í útlöndum

|
|

Fleiri en áður fara í frí til útlanda og fara til tannlæknis í leiðinni. Tannlæknaþjónusta er 50-70% ódýrari í Austur-Evrópu en hér á landi.

Rósa Kristín Benediktsdóttir er tengiliður ungversku tannlæknastofunnar Madenta í Búdapest.

„Við byrjuðum í mars og ég ætlaði að gera þetta að aukavinnu. En það hefur verið mikil eftirspurn. Fimm hafa farið út og ég er með tugi pantana frá fólki sem er að skoða það að fara til tannlæknis í Búdapest,“ segir Rósa Kristín Benediktsdóttir, sem er tengiliður ungversku tannlæknastofunnar Madenta í Búdapest.

Mikil ásókn hefur verið upp á síðkastið hjá fólki á miðjum aldri, örorkuþegum og lífeyrisþegum að fara í tannviðgerðir í Austur-Evrópu. Pólland og Ungverjaland eru vinsælustu löndin um þessari mundir. Ásóknin skýrist af því að tannlæknastofur frá löndunum eru með tengiliði hér á landi. Þá hjálpar til að beint flug er til landanna og endurgreiða Sjúkratryggingar tannlæknakostnað fyrir lífeyrisþega, þ.e. örorku- og ellilífeyrisþega.

Oftast er um að ræða dýrari tannviðgerðir á borð tannplönt, það er þegar ný tönn er skrúfuð ofan í rótarstæði, en einnig krónur og brýr og margt fleira. Yngra fólk leitar eftir tannfegrun. Ætla má að tannlæknakostnaðurinn í Ungverjalandi sé 50-70% lægri en hér á landi.

Rósa fór sjálf til tannlæknis í Búdapest árið 2014 og aftur í fyrra. Í kjölfarið ræddi hún við eiganda tannlæknastofunnar Madenta og varð úr að hún gerðist tengiliður hennar hér á landi. Þau réðust í að búa til heimasíðu fyrir tannlæknastofuna á íslensku og auglýsa á samfélagsmiðlum. Undirtektirnar hafa verið framar vonum,“ segir Rósa, sem er með aðstoðarmanneskju sem talar við fólk yfir daginn.

„ … það hefur veriðmikil eftirspurn. Fimm hafa farið út og ég er með tugi pantana frá fólki sem er að skoða það að fara til tannlæknis í Búdapest.“

Þjónustan sem boðið er upp á ytra er nokkuð önnur en fólk á að venjast hér. Algengast er að fólk sendi Rósu röntgenmynd frá tannlækni. Í kjölfarið gerir tannlæknastofan tilboð og útlistar kostnað við tannviðgerðina. Boðið er upp á staðgreiðsluafslætti og ýmislegt fleira, að hennar sögn.

Rósa bætir við að hún hafi fengið misjafnar undirtektir hjá íslenskum tannlæknum.

„Það hlýtur að vera svolítill samkeppnistitringur. Okkar viðskiptavinir hafa margir rætt þetta við sína tannlækna, haft þá með í ráðum og þeir gera sér grein fyrir því að það er ódýrara að fara út og að þjónustan er góð.“

Tannlæknar gefa vinnu sína
Mannlíf leitaði viðbragða Þórunnar Sveinbjörnsdóttur, formanns Landssambands eldri borgara, vegna málsins. „Við vitum af því að tannlæknar hafa þurft að gefa vinnu sína því eldra fólk hefur ekki efni á að fara til tannlæknis. Fólk fer í minni aðgerðir en sleppir þeim stærri sem kosta frá hálfri milljón og upp úr,“ segir hún og bætir við að íslenski stjórnvöld hafi skilið eldri borgara eftir hvað snertir niðurgreiðslu vegna tannlækninga. Niðurgreiðslan hafi ekki hækkað síðan árið 2004.

„ … margir eru illa haldnir af tannskemmdum og bíða eftir aðgerðum hins opinbera.

Hún bendir á að starfshópur hafi nýverið lokið störfum um málið og skilað tillögum sínum til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Það hefur skilað því að 1. júlí verða 500 milljónir króna lagðar til niðurgreiðslu vegna tannlækninga á þessu ári og einn milljarður framvegis frá næsta ári.

„VIð gerum ráð fyrir því að þetta verði með þessum hætti í nokkur ár,“ segir Þórunn. „En þessi biðtími hefur valdið því að mjög margir eru illa haldnir af tannskemmdum og bíða eftir aðgerðum hins opinbera.“

31 fengið endurgreiðslu það sem af er ári
Í júní árið 2016 var gefin út reglugerð um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri en samkvæmt henni eiga sjúklingar rétt á að sækja sér heilbrigðisþjónustu til annarra aðildarríkja á EES-svæðinu og fá endurgreiddan útlagðan kostnað.

Árið 2016 fór enginn héðan til útlanda vegna tannlækninga og því kom ekki til að Sjúkratryggingar þyrftu að greiða fyrir slíkt. Ári síðar fóru 28 utan þar af 20 til Ungverjalands. Endurgreiðsla til þessara 20 einstaklinga nam rúmum 2,2 milljónum króna.

Það sem af er ári, þ.e. frá ársbyrjun og þar til snemma í mars, hefur 31 einstaklingur fengið endurgreiðslu Sjúkratrygginga vegna tannlækninga. Þar af er eitt barn undir 18 ára aldri. Þar af hafa 12 fengið lækningu á Spáni en 10 í Ungverjalandi. Endurgreiðslan á fyrstu þremur mánuðum ársins nemur rúmum 2,5 milljónum króna.

Úrval af vönduðum og fallegum borðstofuhúsgögnum í Vogue fyrir heimilið

Mynd/Pixabay

Má bjóða þér rómantískan sveitastíl eða stílhreinan módernstíl.

Við hjá Vogue fyrir heimilið erum með úrval af borðstofuhúsgögnum. Við erum meðal annars með vörur frá merkjum eins og Richmond, Karel Mintejens og fleirum. Þetta eru hollensk og belgísk vörumerki. Þetta eru fallegar gæðavörur sem hægt er að sérpanta upp úr bæklingum en að sjálfsögðu erum við með hluta af vörunni í sýningarsal okkar í Síðumúlanum.

Einnig er hægt að fá gjafavöru frá Richmond sem mjög vönduð og falleg lína sem passar vel við húsgögnin. Sú lína er í rómantískum sveitastíl, mikið er um hráan gegnheilan við. Hægt er að velja marga liti af skápum og skenkum sem eru lakkaðir. Þá er hægt að velja höldur, lista og fleira sem gefur aukna möguleika fyrir viðskiptavini að velja eftir sínum smekk.

Vogue fyrir heimilið er húsgagnaverslun með 67 ára sögu sem er sífellt að endurskipuleggja vöruframboð sitt.

Aftur á móti er línan frá Karel Mintjens stílhreinni og meiri módernlína.
Þar er að finna stækkanleg borðstofuborð, sjónvarpskenki, hillur og margt fleira
fallegt.

Við bjóðum líka upp á vörulínu frá Skandinavian Design og Zilstra þar sem er að finna falleg borðstofuhúsgögn og margt fleira.

Vogue fyrir heimilið er húsgagnaverslun með 67 ára sögu sem er sífellt að
endurskipuleggja vöruframboð sitt. Nú er einmitt verið að standsetja borðstofudeildina en það er alltaf verið að breyta og bæta.

Karel Mintjent er belgískt fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í gegnheilli eik og hefur sinnt íslenskum heimilum yfir 50 ár. Vörulína þeirra er allt frá klassískri eik yfir í stílhreinan módernstíl.
Vogue selur bæði af lager og sérpantanir. Þetta eru einstaklega fallegar og vandaðar vörur í gæðaflokki.

Sjáið úrvalið á heimasíðu okkar www.vogue.is

Vogue fyrir heimilið
Síðmúla 30
108 Reykjavík
Sími: 533-3500
Opnunartímar:
Virkir dagar: 10.00 – 18.00
Laugardaga: 11.00 – 16.00

Vogue fyrir heimilið
Hofsbót 4
600 Akureyri
Sími: 462-3504
Opnunartímar:
Virkir dagar: 09.00 – 18.00
Laugardaga: 10.00 – 14.00

Mannlíf í samstarfi við Stúdíó – Birtíng
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

Syngjandi sveifla í sirkustjaldi

Söngleikurinn Slá í gegn er sýndur um þessar mundir í Þjóðleikhúsinu en verkið byggir á lögum eftir hljómsveitina Stuðmenn.

Það er óhætt að segja að öllu sé tjaldað til á Stóra sviði Þjóðleikhússins þar sem söngleikurinn Slá í gegn fylgir titli sínum.

Þrátt fyrir þunnan og fyrirsjáanlegan söguþráð nær hugvitsamleg leikstjórn Guðjóns Davíðs Karlssonar að draga fram það besta í öllum listamönnum sýningarinnar á réttum augnablikum.

Verkið segir frá þeim Binna og Helgu sem reka farandssirkus við litla ánægju einkadótturinnar Hörpu Sjafnar sem neyðist til að ferðast með þeim um landið í veikri von um að uppfylla æskudraum föður henar um sirkusstjórn. Þegar hér er komið sögu á sirkusinn leið um fáfarið bæjarfélag þar sem þorpsbúa dreymir jafnframt stóra drauma. Litla áhugaleikhúsið þar í bæ er um það bil að leggja lokahönd á uppfærslu sína á Gullna hliðinu en æfingarnar ganga vægast sagt illa. Þar fer sjálfskipaður leikstjóri hópsins, Sigurjón digri, fremstur í flokki en sjálfur vill hann helst leika öll hlutverkin. Í gagnkvæmu vonleysi ákveða fylkingarnar tvær, það er að segja leikfélagið og listamenn sirkussins að leiða saman hesta sína í þeirri einlægu von um að setja eitthvað stórfenglegt á svið og frumflytja fjöllistagjörning. Þegar sjálfur forsetinn boðar komu sína setur hópurinn svo allt í botn og þrátt fyrir heldur vonleysislega byrjun fer sagan að sjálfsögðu vel.

Leikmynd Finns Arnars Arnarssonar er hreint út sagt meiriháttar og búningar Maríu Th. Ólafsdóttur hver öðrum fallegri. Eflaust eru það sirkusáhrifin sem slá ryki í augun en hér voru allar erkitýpurnar mættar til leiks með skeggjuðu konuna og tattúveraða manninn í broddi fylkingar.

Sú nýbreytni undanfarin ár að fá á svið listamenn úr öðrum listgreinum tekst einstaklega vel upp í sýningu sem þessari þar sem fjöllistafólkið fær notið sín eðli söguþráðarins samkvæmt.

Það er jafnframt mikill fengur í danshöfundinum Chantelle Carey sem stýrir nú, meðal annarra nokkrum af þeim hæfileikaríkju drengjum sem blésu eftirminnilegu lífi í ballettdrenginn Billy hér um árið í öðru leikhúsi. Það verður spennandi að sjá þessa stráka stækka á sviðinu á komandi árum.

Lýsing Magnúsar Arnars Sigurðarsonar, sjóngervingar Inga Bekk sem og aðrar leikhúslausnir eru listilega leystar og þá sérstaklega töfrabragðið í lok sýningarinnar. Töfrar og leikhús eru svo sannarlega bannvæn blanda.

Tónlistin heldur sýningunni svo uppi með tónlistarstjórann Vigni Snæ Vigfússon fremstan í flokki en allir listamennirnir skila þessum sígildu slögurum með stakri prýði.

Það felst ákveðin spenna í sýningum sem þessum þegar handritið er óþekkt og eftirvæntingin hvort uppáhaldslagið muni koma, nær áþreifanleg eftir því sem líður á kvöldið. Hápunktarnir voru margir þó að lokasenan standi lagsamlega upp úr.

 

Umfjöllunin kom fram í 14.tbl Vikunnar.

Mynd / Hörður Sveinsson.

Góður mórall og mikil eftirvænting

Söngleikurinn Moulin Rouge verður frumsýndur í Hörpu annað kvöld.

Greta Salome Stefánsdóttir fer með aðalhlutverk sýningarinnar en hún er einnig framkvæmdarstýra viðburðarins sem einnig verður settur upp í Hofi á Akureyri. „Ég elskaði myndina þegar hún kom út á sínum tíma og þetta er bara svo kjörin tónleikasýning. Lögin bjóða upp á svo risastór söng og dansatriði og það er óhætt að segja að við séum að ganga mjög langt í því.

„Æfingarferlið hefur verið einstaklega skemmtilegt, sérstaklega hjá dönsurunum. Þetta er risastórt verkefni með um hundrað manns og því flækjustigið hátt en möguleiki á mikilli gæsahúð.

En þessi hópur er bara svo frábær og allir svo tilbúnir að ganga langt í að gera þetta sem flottast og það á algjörlega eftir að skila sér í sýningunni. Það er mjög góður mórall í hópnum og mikil eftirvænting.”

Greta segir sýninguna fyrst og fremst einblína á söng og dans en þó bregði fyrir leiknum senum inn á milli. „Við erum að fara hálfgerða millileið sem er mjög skemmtileg. Fólk fær söguna algjörlega í æð en um leið risastór tónlistaratriði. Við erum að taka lögin úr myndinni og færa þau í lifandi búning með hljómsveit, tíu söngvurum, sjö bakröddum, sjötíu manna kór og tólf dönsurum þannig að það er óhætt að segja að gjörsamlega allt sé lagt á borðið.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta blaði Vikunnar.

Mynd / Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

Flytja meira inn frá Póllandi

Samskip hefur opnað nýja siglingaleið frá Póllandi.

„Það er verið að byggja gríðarlega mikið og byggingastigið hér mun haldast óbreytt til 2020. Helsta aukning í innflutningi er einmitt byggingarefni frá Póllandi, stálgrindur og fleira. En svo er pólskt samfélag á Íslandi sem þarf að þjónusta,“ segir Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri innflutningasviðs Samskipa.

Samskip voru að opna nýja siglingaleið með erlendum samstarfsaðila frá Póllandi, í gegnum Eystrasaltið, Ósló í Noregi og Árósa í Danmörku. Birgir segir að kallað hafi verið eftir bættum tengingum við þetta svæði og sé Samskip nú að svara því.

Verðmæti innflutnings frá Eystrasaltsríkjunum hefur aukist nokkuð á síðastliðnum átta árum. Mesti vöxturinn er á innflutningi frá Póllandi. Verðmætið nam tæpum 5,9 milljörðum króna árið 2010 en var kominn upp í 20,1 milljarð í fyrra. Mesti vöxturinn var frá 2016 til 2017 eða upp á 42% á milli ára.

Halda brúðkaupið á vínekru á Ítalíu

|

Söngvarinn Friðrik Dór Jónsson og unnusta hans, Lísa Hafliðadóttir, ganga í það heilaga í sumar. Í viðtali við brúðkaupsblað Glamour segjast þau ætla að innsigla ástina á Ítalíu.

„Brúðkaupið verður haldið á vínekru í Toskanahéraðinu á Ítalíu. Við vorum byrjuð að skipuleggja brúðkaup hérna heima og komin ágætlega á veg með það. En síðan, eiginlega upp úr þurru, kom sú hugmynd að gera þetta einhvers staðar erlendis,“ segir í viðtalinu, og bætir parið við að þau séu ekkert tengd landinu en finnist ákveðin rómantík umlykja það. Því hafi þau ákveðið að taka af skarið.

„Í framhaldinu ákváðum við að henda okkur í djúpu laugina og kýla á þetta. Við sjáum vonandi ekki eftir því.“

Tæplega hundrað manns eru á gestalistanum, en sökum góðs skipulags segja þau Friðrik og Lísa að lítið verði um forföll.

„Við bókuðum húsið á vínekrunni í byrjun ágúst í fyrra og strax í framhaldinu byrjuðum við að skipuleggja allt,“ segir í viðtalinu. „Það eru lítil sem engin forföll af gestalistanum og ég held að góður fyrirvari leiki þar stórt hlutverk.“

Það er fallegt í Toskana.

Þó að parið ætli að gifta sig erlendis verður samt íslenskur bragur á þessum stóra degi.

„Athöfnin og veislan verða eftir íslensku uppskriftinni. Athöfnin verður hins vegar táknræn svo við verðum ekki með neinn prest en í veislunni ætlum við að hafa veislustjóra og ræðuhöld og enda þetta svo á góðu partíi.“

Tónlistarmaðurinn fær eflaust dygga aðstoð frá bróður sínum, tónlistarmanninum Jóni Jónssyni, og mágkonu sinni, Hafdísi Björk Jónsdóttur, þar sem þau létu pússa sig saman síðasta sumar, reynslunni ríkari.

Aðalmynd / Rut Sigurðardóttir

Loksins litið á brennó sem alvöruíþrótt

||
||

Keppt verður í brennibolta í fyrsta sinn á landsmóti Ungmennafélags Íslands á Sauðárkróki í sumar. Sólveig Sigurðardóttir, talskona brennóiðkenda á höfuðborgarsvæðinu, segir mikla spennu ríkja meðal hópsins fyrir mótinu. Hún vonar að í framtíðinni verði hægt að æfa brennibolta skipulega undir handleiðslu þjálfara.

„UMFÍ langar að bjóða upp á hreyfingu sem höfðar til sem flestra. Þeir höfðu heyrt af allskonar hópum um allt land sem voru að spila brennibolta og langaði að höfða til breiðs hóps. Brennibolti er íþrótt sem allir þekkja úr barnæsku og allir geta rifjað upp, tekið þátt og haft gaman af,“ segir Sólveig Sigurðardóttir, talskona Brennóbomba, hóps kvenna á höfuðborgarsvæðinu sem æfir brennibolta.

Í fyrsta sinn í ár verður keppt í brennibolta á landsmóti UMFÍ, Ungmennafélags Íslands. Landsmótið fer fram þann 12. til 15. júlí á Sauðárkróki, en Sólveig segir að Brennóbomburnar hafi verið himinlifandi þegar kom í ljós að brennibolti yrði meðal keppnisgreina.

„Ég gjörsamlega fríkaði út af spenningi þegar ég fékk þessar fregnir og ég held að hinar bomburnar hafi ekki verið síður spenntar.

Það er líka svo gaman að fólk sé loksins farið á líta á brennibolta sem íþrótt og uppgötva hvað þetta er ótrúlega góð og mikil hreyfing. Mér finnst líka mjög jákvætt að það sé verið að breikka rammann þegar það kemur að keppnisíþróttum. Ég vona að þessi áhugi haldi áfram og að í framtíðinni verði hægt að æfa brennibolta á öllum aldri undir handleiðslu þjálfara. Það væri frábært.“

Karlmenn keppa líka

Sólveig er spennt fyrir sumrinu.

Virkir brennóhópar, sem hittast reglulega, eru staðsettir í Kópavogi, Hafnarfirði, Grindavík, á Blönduósi og Sauðárkróki. Sólveig er ekki viss hve mörg lið hafa skráð sig til leiks á landsmótinu, en hún útilokar ekki að aðrir en þeir sem eru virkir brennóðikendur slái til og keppi í sumar.

„Ég er alveg viss um að það séu einhverjir hressir vinahópar eða æfingafélagar sem ákveða að slá til og taka smátrylling í brennó á Landsmóti,“ segir Sólveig.

Sólveig tilheyrir, eins og áður segir, hópnum Brennóbombur sem hittist reglulega allt árið um kring á höfuðborgarsvæðinu og spilar brennó. Sá félagsskapur er eingöngu fyrir konur en á landsmótinu mega karlmenn einnig keppa í sportinu. Hvernig leggst það í Sólveigu?

„Það leggst órúlega vel í mig og ég er mjög spennt að sjá hvernig þátttakan verður. Brennóbomburnar æfa tvisvar sinnum í viku í Kórnum í Kópavogi yfir vetrartímann en eru með eina opna æfingu í mánuði fyrir bæði kynin. Hingað til hefur það vakið mikla lukku. Mér sýnist strákarnir vera alveg jafnspenntir fyrir íþróttinni þegar þeir mæta á völlinn og eru enn spenntari að æfingu lokinni, þegar þeir eru búnir að uppgötva hvað þetta er ótrrúlega skemmtileg og mikil hreyfing,“ segir Sólveig.

Keppt er í brennibolta laugardaginn 14. júlí á landsmótinu og fer fjöldi leikja eftir fjölda þátttakenda. Sólveig segir Brennóbomburnar mjög spenntar fyrir því að keppa í íþróttinni á stærri vettvangi, en þær hafa haldið opinber Íslandsmeistaramót í brennó um áraskeið. „Stemninginn er ótrúlega góð og allar hlakkar til að koma saman á Króknum og hafa ótrúlega gaman af.“

Ólétt og getur ekki keppt

Sólveig hefur æft brennó um árabil og því liggur beinast við að spyrja hvort hún ætli ekki sjálf að keppa í sumar. „Úff, ég ætla ekki að segja þér hvað það er erfitt að svara þessari spurningu neitandi en ég get því miður ekki verið með sem keppandi í ár. Ég er barnshafandi og verð líklega með aðeins of stóran bolta framan á mér í sumar,“ segir Sólveig brosandi.

En þarf maður að vera einhverjum sérstökum hæfileikum gæddur til að spila brennibolta?
„Nei, alls ekki. Þetta er svo fjölbreytt íþrótt að það virðast allir finna sig í einhverju inni á vellinum, hvort sem það er að hlaupa, kasta, grípa eða að forðast boltann. Það sem mestu máli skiptir er að halda í gleðina sem fylgir þessari íþrótt og hafa húmor fyrir sjálfum sér og öðrum. Svo er voða gaman þegar það fær að skína í smávegis keppnisskap svona inn á milli,“ segir Sólveig kankvís og bætir við að það sé lítið mál að slást í hópinn með Brennóbombum á höfuðborgarsvæðinu.

Brennó er góð skemmtun.

„Við æfum í íþróttahúsinu Kórnum í Kópavogi á mánudögum og miðvikudögum klukkan 21.00 yfir vetrartímann en á sumrin er æft úti þegar verður leyfir. Allar konur átján ára og eldri eru velkomnar til okkar. Fyrsti tíminn er alltaf ókeypis og því er um að gera að taka af skarið, kíkja á okkur og prófa. Ég lofa taumlausri gleði og brjálaðri brennslu í sjúklega skemmtilegum félagskap. Það er líka hægt að finna okkur á Facebook undir nafninu Innibrennó. Eins eru hinir brennóhóparnir á Facebook líka.“

Bílastæðavandi aðalgrínið á árshátíð RÚV

Árshátíð RÚV var haldin með pompi og prakt í Gamla bíói um síðustu helgi. Öllu var til tjaldað til að gera kvöldið sem eftirminnilegast en það var spéfuglinn Dóri DNA sem var veislustjóri, og reytti af sér brandara eins og honum einum er lagið.

GELLUR að glensa #rúvarar2018

A post shared by Viktoria Hermannsdóttir (@viktoriahermanns) on

Það má segja að bílastæðavandi í Efstaleitinu hafi verið aðalstjarna kvöldsins þar sem mikið var gert grín að honum í árshátíðarmyndbandinu. Eins og margir vita standa nú yfir framkvæmdir sunnan við Sjónvarpshúsið, og hafa gert um nokkurt skeið, þar sem fjögur fjölbýlishús rísa. Mikið grín var gert að þessum skorti á bílastæðum í skugga framkvæmdanna og uppskar það hlátrasköll um allt bíóið. Sagði Dóri að miðaverðið á árshátíðina væri lægra en í fyrra og talsvert ódýrara en að leggja hjá RÚV, og vísaði þar í að búið væri að sekta bíla í gríð og erg sem legðu ólöglega við Sjónvarpshúsið út af fyrrnefndum stæðaskorti.

???? #rúvarar2018

A post shared by ʙᴇʀɢʟɪɴᴅ ᴘᴇᴛᴜʀsᴅᴏᴛᴛɪʀ (@berglindfestival) on

Þá komst Dóri DNA ekki hjá því að gera grín að launahækkun sjálfs útvarpsstjóra, Magnúsar Geirs Þórðarsonar, en nýverið komst það í fréttir að laun hans hefðu hækkað um 16%, upp í 1,8 milljón á mánuði.

Það er mál manna að árshátíðin hafi verið með besta móti, en hljómsveitin Babies spilaði fyrir dansi áður en hópurinn tvístraðist út í nóttina.

Aðalmynd af Dóra DNA / Bragi Þór Jósefsson

Bannaði fólki að snerta börnin

||||||
||||||

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun, segir að Íslendingar geti lært mikið af Kínverjum en hún bjó ásamt fjölskyldu sinni í Sjanghæ í þrjú ár. Stefanía segist hafa þurft að hafa sig alla við í að lesa í fólk og aðstæður þar sem mikill munur sé á samskiptum þjóðanna tveggja, Íslendinga og Kínverja. Stundum hafi legið nærri árekstrum.

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir er nýtekin við starfi framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun eftir átta ár starf hjá tölvuleikjafyrirtækinu CCP.

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir er nýtekin við starfi framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun eftir átta ára starf hjá tölvuleikjafyrirtækinu CCP. Þar var hún meðal annars þróunarstjóri á skrifstofu fyrirtækisins í Sjanghæ, þar sem hún bjó í þrjú ár með manni og þremur börnum. Hvernig stóð á því að hún tók þessa U-beygju úr tölvuleikjaþróun yfir í orkugeirann?

„Áður en ég fór að vinna hjá CCP var ég í tíu ár í orkugeiranum þannig að CCP var í rauninni U-beygjan,“ segir Stefanía og hlær. „Það má eiginlega segja að ég sé komin aftur heim með þessu starfi hjá Landsvirkjun. Ég var átta ár hjá Orkustofnun, byrjaði þar á meðan ég var í háskólanámi og gerði bæði BSc- og masters-verkefnið mitt þar. Tók svo síðar við sem yfirverkefnisstjóri í upplýsingatækni, því ég var að brúa bilið milli vísinda og upplýsingatækni í mínu námi, blandaði fyrst saman landafræði og tölvunarfræði í BSc-verkefninu og í masters-verkefninu blandaði ég svo saman umhverfisfræði og tölvunarfræði og útskrifaðist úr verkfræði, en mér finnst rosalega gaman að blanda saman svona ólíkum hlutum. Nú er alltaf verið að tala um að það sé svo mikilvægt að fólk vinni þverfaglega og það hentar mér virkilega vel. Það er mjög gaman að koma aftur inn í orkugeirann átta árum seinna og þá sérstaklega að koma inn í viðskipta- og markaðshlið starfseminnar.“

„Fólk vildi líka fá að koma við þau og tala við þau og mér fannst oft erfitt hvað fólk fór gjörsamlega yfir mörkin í því. Eitt af því fyrsta sem ég lærði að segja á kínversku var „ekki snerta þau“.“

Réðu ekki hvernig sagan þróaðist

Starfsheiti Stefaníu hjá Landsvirkjun er framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar, hvað felst í því?

„Við erum fimm framkvæmdastjórar sem heyrum undir forstjórann og hlutverk markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs er að hámarka tekjur Landsvirkjunar. Við erum að greina ný viðskiptatækifæri, erum í vöruþróun og kynningu og kynningu og sölu á vörum og þjónustu og svo þurfum við líka að reka raforkusamningana við núverandi viðskiptavini.“

Það er greinilegt að þetta er fjölbreytt starf og kannski ekkert svo ólíkt því sem Stefanía var að gera hjá CCP, eða hvað?

„Þegar ég byrjaði hjá CCP var ég að koma frá upplýsingatæknifyrirtæki þar sem ég hafði unnið mikið að tæknilausnum fyrir orkufyrirtæki en þegar ég kom inn í CCP tók ég við sem deildarstjóri í hönnun sem var í rauninni mín leið til þess að komast aðeins meira inn í hönnun og listsköpun, sem mér finnst svo mikilvægt að tengja saman í allri tækni. Það er lykilatriði í allri vöruþróun að skilja báða heima, finnst mér, og þetta var mitt tækifæri til þess að ná heildarmyndinni; að fara úr tækninni yfir í sköpunina.“

Stefanía segir erfitt að alhæfa um reglur í samskiptum í samfélaginu í Sjanghæ almennt, þar sé slíkur aragrúi af fólki með alls konar bakgrunn og misjafnt hvað hverjum hóp þykir við hæfi.

Í starfi sínu sem hönnunarstjóri hjá CCP vann Stefanía náið með söguhöfundum leiksins Eve Online og hún segir það hafa verið ómetanlega reynslu.

„Þessi leikur er náttúrlega svo ótrúlegur,“ segir hún. „Maður getur endalaust fundið upp á nýjum hlutum þarna inni þannig að það var rosalega gott fyrir mig að kynnast því að búa til tölvuleik frá þessari hlið. Með allar þessar sögur og öll þessi kerfi. Svo bjuggum við eitthvað til og settum það út en af því að leikurinn er svo dýnamískur þá veit maður aldrei hvað spilararnir gera á endanum við það og það kemur manni oft á óvart hvernig framvindan verður. Eitt af því sem var svo spennandi við að búa þennan leik til var að við réðum því ekkert endilega hvernig sagan þróaðist.“

llaus á foreldrafundi

Saga Stefaníu sjálfrar þróaðist þannig að hún varð yfirþróunarstjóri Eve Online á Íslandi og síðan flutti hún til Kína þar sem hún færði sig meira yfir í viðskiptaþróun fyrir CCP. Þar kynntist hún enn einni hliðinni á þessum heimi.

„Í stúdíóinu í Sjanghæ voru um sextíu manns og ég var að stýra útgáfu Eve Online í Kína vegna þess að Kínverjar mega ekki spila á alþjóðlega servernum þannig að það þarf að spegla allt yfir til Kína og við sem vestrænt fyrirtæki máttum ekki gefa út leikinn sjálf svo að við unnum það með kínverskum útgefanda sem var sérfræðngur í kínverska markaðinum.“

Það hlýtur að hafa verið töluvert átak að taka sig upp með mann og þrjú börn og flytja til Sjanghæ. Fékk hún ekki menningarsjokk?

„Ég kunni afskaplega vel við mig í Kína. Mér fannst gaman að læra kínversku, það er eins og það opnist annar heimur við að læra táknin. En eftir þrjú ár er maður svolítið uppgefinn á menguninni. Hún er bara óbærileg. Það er óbærilegt að reyna að fá börnin sín til að vera með öndunargrímur þegar þau fara út.“

„Jú, þetta var menningarsjokk fyrir alla, það verður bara að viðurkennast,“ segir Stefanía glaðbeitt. „Maðurinn minn vann líka hjá CCP og við þurftum að skipuleggja líf okkar þannig að við gætum bæði sótt vinnu allan daginn þótt við værum með þrjú börn á ýmsum aldri. Yngsta barnið var ekki orðið tveggja ára. Hún fór strax á kínverskan leikskóla og ég byrjaði að læra kínversku og var að læra hana allan tímann sem við vorum þarna, enda fannst mér það mikilvægt upp á það að skilja menninguna og komast inn í samfélagið og það var í rauninni nauðsynlegt. En fyrstu mánuðina sem við bjuggum í Sjanghæ var dóttirin sem sagt á kínverskum leikskóla og ég ekki farin að tala neina kínversku og það var mjög erfitt að geta ekki átt samskipti við fólkið sem passaði barnið manns á hverjum degi. Þau voru stundum að senda mér bréf heim og ég fór þá með þau í vinnuna og lét þýða þau þar. Þau lögðu líka afar mikið upp úr því að ég kæmi á foreldrafund sem ég gerði auðvitað. Þar fór að sjálfsögðu allt fram á kínversku og ég skildi ekki neitt.“

Er kínverskan ekki hrikalega erfitt mál að læra?

„Jú, mér fannst það erfitt. Þetta er samt ekkert brjálæðislega erfitt tungumál þegar maður er farinn að skilja hljóðin. Það tók mig svolítinn tíma. En eftir að maður nær þeim verður þetta auðveldara. Litlan mín var fljót að ná kínverskunni mjög vel en strákarnir, sem voru þá níu og fjórtán ára, fóru í alþjóðlegan skóla þar sem kennt var á ensku. Þannig að það voru í rauninni bara við mæðgur sem töluðum kínversku. Við vorum með heimilishjálp eins og er mjög algengt í Kína og hún talaði enga ensku sem ýtti líka á mig að læra að tjá mig. Hún tók á móti Katrínu litlu á hverjum degi þegar hún kom heim úr leikskólanum og passaði hana þangað til við komum heim og þær urðu rosalega góðar vinkonur. Það var stundum svolítið erfitt að koma því til skila hver setti reglurnar á heimilinu. Til dæmis sagðist sú stutta mega fá ís eftir leikskóla, en ég hafði sagt að hún ætti að fá jógúrt. Það tók mig smátíma að vinda ofan af svona hlutum, en hún var bara strax miklu betri en ég í tungumálinu.“

Segja já þótt þeir meini nei

nverskt samfélag er ansi ólíkt því íslenska, hver fannst Stefaníu vera mesti munurinn?

„Sjanghæ er náttúrlega svo brjáluð borg. Þar er svo margt fólk, tuttugu og sex milljón manns, og það er mjög mikill munur á því hvernig fólk lifir innan Sjanghæ eftir hverfum. Maður stendur fyrir framan gríðarlega flottar Gucci-búðir og gengur svo eina götu og er þá kominn í hverfi þar sem fólk er að vaska upp fyrir utan húsin sín þar sem ekki er rennandi vatn inni í húsunum og svo framvegis. Maður sér ekki ofboðslega mikla fátækt en maður sér hvað það er mikill munur á lífskjörum fólks innan borgarinnar.“

Hvað með viðskiptasamfélagið, er það mjög ólíkt því vestræna?

„Já, það er mjög ólíkt. Það er ekki eins formlegt og ég hélt fyrir fram, en það er miklu meira af óskrifuðum reglum. Ég var þarna að vinna með kínverska útgefandanum og við erum auðvitað með samning en hann er eiginlega meira til hliðsjónar. Þetta snýst dálítið mikið um persónuleg sambönd og það eru ýmsar venjur í viðskiptum hjá þeim sem við erum ekki vön. Til dæmis er mikið verið að gefa gjafir og það tók mig töluverðan tíma að venjast því. Ég vissi það auðvitað en stundum var ég boðuð á mikilvægan fund og var lögð af stað þegar ég uppgötvaði að ég hafði gleymt að finna gjafir handa þeim. Það var svolítill hausverkur af því maður er ekki vanur þessum sið. Svo þurfti ég líka að venjast samskiptunum.

„Ég hafði kannski komið með hugmynd sem enginn mótmælti beint, þeir jánkuðu og kinkuðu kolli og svo þurfti ég að komast að því eftir öðrum leiðum að þeim leist ekki vel á hugmyndina af einhverri ástæðu. Þetta var rosalega góður skóli í því að þjálfa sig í að lesa fólk og aðstæður betur.“

Fólk í Kína talar stundum í kringum hlutina og það tók mig dálítinn tíma að venjast því að lesa í það sem fólk var að segja. Stundum þurfti ég að finna út hvað það meinti eftir krókaleiðum. Ég hafði kannski komið með hugmynd sem enginn mótmælti beint, þeir jánkuðu og kinkuðu kolli og svo þurfti ég að komast að því eftir öðrum leiðum að þeim leist ekki vel á hugmyndina af einhverri ástæðu.

Þetta var rosalega góður skóli í því að þjálfa sig í að lesa fólk og aðstæður betur. Og hlusta. Það er mjög mikilvægt í samskiptum í viðskiptalífinu í Kína að hlusta. Að mæta ekki strax með mína skoðun heldur hlusta fyrst eftir því hvað þau voru að hugsa og hvort það sem ég var að leggja til passaði inn í það. Það er líka mikil auðmýkt í fólki og það sækist eftir því að finna samhljóm og forðast átök. Fólk gengur frekar frá borðinu en að takast of mikið á.“

Fjölskyldan saman: Halldór, Árni, Snorri, Stefanía og Katrín.

Bannaði fólki að snerta börnin

Stefanía segir erfitt að alhæfa um reglur í samskiptum í samfélaginu í Sjanghæ almennt, þar sé slíkur aragrúi af fólki með alls konar bakgrunn og misjafnt hvað hverjum hóp þykir við hæfi. Stundum hafi legið nærri árekstrum.

„Katrín og Árni eru bæði ljóshærð og hún með bollukinnar. Stundum var bara ekki hægt að vera með þau á fjölförnum stöðum. Ef við fórum á ferðamannastaði þar sem voru kínverskir ferðamenn þá var alltaf strolla á eftir okkur. Ég held það séu þúsundir Kínverja sem eiga myndir af Katrínu og Árna í símanum sínum. Fólk vildi líka fá að koma við þau og tala við þau og mér fannst oft erfitt hvað fólk fór gjörsamlega yfir mörkin í því. Eitt af því fyrsta sem ég lærði að segja á kínversku var „ekki snerta þau“. Mér fannst rosalega erfitt þegar fólk kom og rak puttana í hárið á þeim en ég veit að þetta var allt vel meint. Margir, og þá sérstaklega fólk af landsbyggðinni, hafa aldrei séð ljóshærða hvíta krakka og finnst þau svo ofboðslega sæt að þau ráða bara ekki við sig.“

„Fólk vildi líka fá að koma við þau og tala við þau og mér fannst oft erfitt hvað fólk fór gjörsamlega yfir mörkin í því. Eitt af því fyrsta sem ég lærði að segja á kínversku var „ekki snerta þau“.“

Fyrst við erum farin að tala um ferðamannastaði er ekki úr vegi að spyrja Stefaníu hvernig henni finnist Asíuríkin standa sig í þeim málum sem snerta þá og hvort við Íslendingar getum kannski lært eitthvað af þeim.

„Við ferðuðumst töluvert um Asíu og það er áberandi hvað Asíuþjóðirnar passa vel upp á sitt. Þar  hikar fólk ekki við að taka gjald af ferðamönnum inn á ferðamannastaði enda er ofboðslega margt  fólk þarna. Þegar maður kemur til Kambódíu þá borgar maður komugjald á hvern haus og auk þess er selt inn á vinsæla ferðamannastaði. Ég varð eiginlega svolítið hissa á hversu langt þau eru komin í fagmennsku og skipulagningu í kringum ferðamannaiðnaðinn. Þetta er gríðarlega fátæk þjóð sem hefur glímt við ótrúlega erfiða hluti en hún hefur náð að skipuleggja þetta vel. Mér finnst að við Íslendingar þurfum aðeins að passa upp á það sem við höfum. Í Asíu þykir það alveg sjálfsagt.“

Reykjavík orðin meiri heimsborg

Stefanía og fjölskylda bjuggu í Sjanghæ í þrjú ár og hún segir þeim hafa liðið mjög vel þar.

„Ég kunni afskaplega vel við mig í Kína. Mér fannst gaman að læra kínversku, það er eins og það opnist annar heimur við að læra táknin. En eftir þrjú ár er maður svolítið uppgefinn á menguninni. Hún er bara óbærileg. Það er óbærilegt að reyna að fá börnin sín til að vera með öndunargrímur þegar þau fara út. Vatnið er líka mjög mengað, maður drekkur það auðvitað ekki en maður fer að hugsa um það þegar maður er í sturtu á hverjum degi hvaða áhrif það hafi. Þessir hlutir sem við tökum sem sjálfsögðum, hreina loftið og hreina vatnið, eru ómetanlegir. Ég hef verið heima í rúmt ár og ég hugsa stundum enn þá um það þegar ég geng út úr húsinu hvað það sé gott að geta andað að sér hreinu lofti.“

Hvernig var annars að koma heim eftir þessi þrjú ár í burtu, hefur eitthvað breyst?

Katrín og vinkona í Longsheng

„Nei, þetta er of stuttur tími til þess. Eða jú, ég sá breytingu. Ég sá breytingu á því hvað það er miklu, miklu meira af ferðamönnum en var. Og í rauninni verður Reykjavík pínulítið meiri heimsborg við það. Það er hægt að reka fleiri flotta veitingastaði og svo framvegis. Með öllum þessum ferðamönnum spratt upp margvísleg menning sem er alveg frábært. Mér finnst skemmtilegt að koma úr svona stórri heimsborg eins og Sjanghæ og finna að það er smávegis heimsborgarbragur kominn á Reykjavík líka. Það er ekkert nema jákvætt.“

Fyrst eftir heimkomuna hélt Stefanía áfram að vinna hjá CCP, hvað varð til þess að hún hætti þar?

„Ég kom heim og tók við sem framkvæmdastjóri CCP á Íslandi en í október í fyrra voru skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu og ákveðið að hætta nýrri þróun á sýndarveruleikaleikjum og við það minnkuðu umsvifin gríðarlega. Það varð ekki lengur þörf fyrir framkvæmdastjóra af neinni af skrifstofum CCP. Það kom mér ekki endilega á óvart og minn viðskilnaður við CCP var á mjög góðum nótum og ég fylgist auðvitað með fyrirtækinu áfram og held með því.“

Ýmislegt sameiginlegt með Landsvirkjun og CCP

Nú ertu komin yfir til Landsvirkjunar er það ekki allt annað kúltúrsamfélag heldur en tölvuleikjaheimurinn?

„Þetta er svolítið annar kúltúr, jú,“ viðurkennir Stefanía. „En ég sé líka ýmislegt sem er sameiginlegt og það er meira en fólk heldur. Það er gríðarlega mikil þekking inni í báðum fyrirtækjunum og mikil hollusta starfsmanna á báðum stöðum. Þetta eru fyrirtæki sem eru í mikilli þróun á nýjum aðferðum og lausnum og ég finn mig mjög vel í svoleiðis umhverfi. Þegar mér bauðst að fara inn í Landsvirkjun þá var ég í skýjunum yfir því. Þetta er einmitt svona tækifæri sem mér fannst akkúrat tímabært núna. Báðir þessir vinnustaðir halda líka vel utan um sitt fólk en auðvitað er margt öðruvísi. Nærri einn þriðji af starfsmönnum CCP á Íslandi er erlendur þannig að vinnutungumálið er enska og að vera með svona mörg þjóðerni innan fyrirtækis gerir það skiljanlega svolítið ólíkt öðrum fyrirtækjum á Íslandi. Svo er það auðvitað þannig að Landsvirkjun er rótgróið fyrirtæki, það er meira um ferla og hlutirnir í fastari skorðum en í tölvuleikjabransanum sem er miklu hraðari, það er bara eðli slíks fyrirtækis. Í staðinn ríkir meiri stöðugleiki og festa hjá Landsvirkjun.“

Landsvirkjun er samt í nokkurs konar ímyndarherferð til að breyta ásýnd fyrirtækisins, er það ekki?

„Jú. Landsvirkjun hefur verið að breytast mikið undanfarin ár. Gott dæmi um þær breytingar sem ég upplifi og sé er metnaðarfull jafnréttisstefna. Við kynntum í mars nýja heildstæða jafnréttisáætlun og aðgerðaáætlun í jafnréttismálum og þar eru sett fram markmið, mælikvarðar og umbótaverkefni. Eins og lög gera ráð fyrir er Landsvirkjun að fara í gegnum jafnlaunavottun en við erum að taka þetta miklu lengra. Við erum að taka menninguna fyrir, tala um hana, búa til verkefni sem fjalla um stöðu kynja í mismunandi stjórnunarlögum, tala um framgangs- og menntakerfi fyrir konur og svo hvernig er ráðið inn í fyrirtækið. Fyrir mig sýnir þetta að fyrirtækinu er alvara með þessu. Mér finnst mikilvægt að fyrirtæki gæti að jafnrétti og ég er bara ekki tilbúin að samþykkja að helmingur starfsmanna sé alltaf í minnihluta þegar kemur að stjórnunarstöðum. Á Íslandi eru ellefu prósent forstjóra konur og ástæðan er klárlega ekki að konur séu ekki hæfar í þessi störf til jafns við karla. Þetta er bara óafsakanlegur, kerfisbundinn halli og það þarf að laga hann. Það þarf hugrekki til að taka á þessu og ég er afskaplega stolt af mínum vinnustað og stjórnendum þar að sýna þetta hugrekki.“

„Ég held að þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir hér á landi séu að við þurfum að vera með stefnu í orkumálum og sú stefna þarf að endurspegla umhverfissjónarmið og markmið sem lúta að alþjóðavæðingu. Okkar umhverfismarkmið og umhverfissjónarmið geta ekki bara miðast við það hvernig hlutirnir eru hérna á Íslandi.“

Kolabrennsla í Kína kemur okkur við

Fyrir utan jafnréttið, hver eru stóru málin sem Landsvirkjun þarf að takast á við á næstu árum?

„Auðvitað er það þannig að stefna Landsvirkjunar er að fá sem mest fyrir auðlindina okkar. Ég er svo nýkomin þar inn að ég er sjálf að læra inn á það hvar tækifærin í framtíðinni liggja, en ég held að það séu mikil tækifæri fyrir Ísland almennt í orkumálum. Við eigum svo ofboðslega mikið af grænni orku og nú hef ég fundið á eigin skinni hvernig það er að búa í rosalega mengaðri borg og geri mér vel grein fyrir því að það að verið sé að brenna kol í Kína til þess að búa til alls konar hluti sem við svo kaupum er okkar mál, það kemur okkur við. Ísland er hluti af þessari plánetu og þetta kemur inn á okkar neyslumynstur og líka hvernig við ætlum svo að nota okkar orku. Að framleiða eitthvað á Íslandi með grænni orku gerir það að verkum að það er ekki verið að brenna kol einhvers staðar annars staðar til að framleiða það. Orkumál eru mjög stórt umhverfismál.

„Að framleiða eitthvað á Íslandi með grænni orku gerir það að verkum að það er ekki verið að brenna kol einhvers staðar annars staðar til að framleiða það. Orkumál eru mjög stórt umhverfismál.“

Mér finnst við Íslendingar stundum ekki átta okkur á því að það er jákvætt að við notum okkar grænu orku. Ég held að þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir hér á landi séu að við þurfum að vera með stefnu í orkumálum og sú stefna þarf að endurspegla umhverfissjónarmið og markmið sem lúta að alþjóðavæðingu. Okkar umhverfismarkmið og umhverfissjónarmið geta ekki bara miðast við það hvernig hlutirnir eru hérna á Íslandi.“

Nú er fjölskyldan búin að búa á Íslandi í rúmt ár, voru viðbrigðin eftir þriggja ára Kínadvöl ekkert erfið?

„Jú. Við komum heim í janúar í fyrra og dóttir mín var strax á þriðja degi orðin mjög þreytt á því að þurfa alltaf að klæða sig í svona mörg fötum. Þótt það verði alveg kalt í desember og janúar í Sjanghæ þá er það á öðrum skala þannig að hún var alls ekki vön því að þurfa að vera með húfu og í úlpu. Svo þurfti hún líka að venjast íslenska matnum. Hún var ekki hrifin þegar hún fékk kartöflur og fisk í fyrsta skipti á leikskólanum,“ segir Stefanía og skellihlær. „Miðjusonurinn sem verður þrettán ára á þessu ári var hins vegar mjög glaður að komast heim og geta aftur leikið sér úti með vinum sínum og við erum öll mjög ánægð með að vera komin heim. Og á meðan krakkarnir eru að klára skóla held ég að við verðum hér. Allavega næstu árin. Svo sjáum við til.“

Birgir Breiðdal vill nota fótboltann til að stuðla að betri heimi

Ungar íslenskar fótboltakonur fengu það frábæra tækifæri að stunda nám í alþjóðlegum heimavistarskóla á Spáni og iðka jafnframt íþrótt sína af kappi.

TNGS (The Next Generation Sports) er alþjóðlegur heimavistarskóli í Valencia á Spáni. Skólinn hefur verið starfræktur í sjö ár og býður meðal annars upp á einstaklingsmiðaða þjálfun í knattspyrnu, nám á framhaldskólastigi og í lífsleikni. Mikil áhersla er lögð á að undirbúa unga leikmenn andlega og líkamlega fyrir framtíðina.

Nú er komið að stelpunum, en sett hefur verið á laggirnar kvennadeild innan skólans þar sem íslenskum stúlkum gefst tækifæri til að láta til sín taka. Unnið er að því að stofna lið sem mun taka þátt og keppa í spænsku deildinni næsta vetur, undir stjórn spænskra þjálfara. Birgir Breiðdal, yfirþjálfari stúlkna í U12 liði Þróttar, er umsjónarmaður verkefnisins.

Birgir nam arkitektúr í Mílano og starfaði m.a. lengi á Ítalíu, jafnt við fagið sem og gat hann sér gott orð sem myndlistarmaður. Hann hafði nóg að gera en fann sig aldrei almennilega í starfinu þar sem kyrrsetan og inniveran er mikil. Fjölskyldan ákvað að flytja aftur til Íslands árið 2009 og segja má að örlögin hafi þá gripið í taumana. „Rétt eftir að við fluttum heim vorum við í miðju hruninu. Þegar kreppir að eru arkitektar og myndlistarmenn auðvitað með þeim fyrstu sem missa vinnuna. Ég var í raun fyrir löngu búinn að teikna yfir mig og var tilbúinn að gera eitthvað annað,“ segir Birgir.

Dóttir hans var byrjuð að æfa fótbolta með Val og þegar kom að þjálfarafríi í félaginu var send út beiðni til foreldra, hvort einhver treysti sér til að taka við þjálfuninni í fríinu. Birgir ákvað að slá til og segist fljótt hafa fundið að þarna væri hann á réttri hillu. „Ég uppgvötaði nýjan hæfileika hjá sjálfum mér, að vinna með fólki, með krökkum. Á þessum tímapunkti snérist allt umtal í þjóðfélaginu um Icesave og raus um hrunið, en á meðan var ég úti að leika mér með krökkunum, sem var yndislegt.“

Árið 2011 byrjaði Birgir svo að starfa sem þjálfari hjá FRAM og tók síðan formlega við þjálfarastarfinu sem yfirþjálfari kvennadeildar Þróttar 2016. „Þegar ég byrjaði var ég kominn yfir fertugt en hefði viljað byrja fyrr. Ég vissi ekki almenninlega hvað ég vildi gera áður en ég byrjaði að þjálfa.“ Birgir á sjálfur ekki langan knattspyrnuferil að baki en að hans mati er það ekki grundvallaratriði. „Maður þarf ekki að vera besti fótboltamaðurinn til að vera besti þjálfarinn. Aðalmálið er að hafa mikinn áhuga, góðan leikskilning, lesa völlinn og taka góðar ákvarðanir. Ég á tvær dætur sem eru í liðinu sem ég þjálfa, en inni á vellinum gleymi ég því stundum. Þar eru þær ekkert öðruvísi fyrir mér en hinar stelpurnar. Mér þykir alveg jafnvænt um hinar og lít í raun og veru á þær allar sömu augum.“

Lestu viðtalið við Birgi í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar. Þar sem einnig má finna nánari upplýsingar um þetta spennandi verkefni.

Texti: Margrét Björk Jónsdóttir

Myndir: Hákon Davíð Björnsson

Instagram-notendur sem vert er að fylgjast með

Nýtt í Vikunni.

Instagram er stærsti samfélagsmiðill í heimi og virðist ekkert vinsældum hans. Það er alltaf gaman að uppgötva notendur sem veita innblástur og tímaritið Vikan hefur nú tekið upp nýjan lið þar sem mælt verður með áhugaverðum Instagram-notendum.

Guðlaug Katrín
@gudlaugkatrin

Guðlaug Katrín er 23 ára íslensk stúlka, búsett í Malmö. Instagram-aðgangur Guðlaugar er undir skandinavískum áhrifum en þar deilir hún m.a. myndum af heimili sínu, frá matargerð og daglegu lífi. Það er greinilegt að Guðlaug er mikil smekkkona en margar af myndum hennar eru eins og klipptar úr tískublaði.

 

 

Sólveig Sveinbjörnsdóttir
@localicelander

Sólveig heldur úti aðganganginum Local Icelander. Þar deilir hún myndum af ferðalögum sínum en einnig spila fallegar náttúrumyndir frá Íslandi stórt hlutverk. Það er einstaklega gaman að sjá landið okkar frá þessu sjónarhorni, en myndirnar eru hver annari fegurri. Við fréttum að Sólveig hefði í hyggju að opna bloggsíðu fljótlega, svo það er vert að fylgjast með.

 

Unnur Eggerts
@unnureggerts

Það er alltaf gaman að fylgjast með Íslendingum „meika það“ erlendis en það virðist hún Unnur Eggertsdóttir sannarlega vera að gera. Unnur landaði nýlega hlutverki sem Marilyn Monroe í söngleik sem settur verður upp í Las Vegas og því vægast sagt spennandi tímar fram undan.

 

Íris Tara
@iristara87

Förðunarfræðingurinn, bloggarinn og fagurkerinn Íris Tara heldur úti skemmtilegum aðgangi þar sem kennir ýmissa grasa. Þar deilir hún m.a. myndum af heimilinu en Íris er einstaklega lagin í því að grafa upp gersemar á nytjamörkuðum og gefa þeim andlitslyftingu. Synir hennar þrír spila einnig stórt hlutverk á myndunum og skal engan undra, enda heimsins mestu krútt.

Þessi grein er brot úr stærri umfjöllun sem finna má í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Margrét Björk Jónsdóttir

 

Stórkostlegar brúðkaupsmyndir sem segja meira en mörg orð

||||||||||
||||||||||

Við elskum vefsíðuna Fearless Photographers, vefsíðu sem sýnir það besta sem er að gerast í brúðkaupsljósmyndun um allan heim.

Vefsíðan verðlaunar bestu myndirnar hverju sinni á tveggja mánaða fresti og veitti einmitt nýlega þau verðlaun.

Sjá einnig: Þessar myndir fanga stemninguna á brúðkaupsdaginn fullkomlega

Rúmlega tíu þúsund myndir voru sendar inn í keppnina að þessu sinni en aðeins 147 voru verðlaunaðar. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar af okkar uppáhaldsmyndum, en hægt er að sjá allar myndirnar með því að smella hér.

Jóhannes Haukur fer á kostum í stiklu fyrir nýja Netflix-seríu

|
|

Netflix hefur sett í loftið nýja stiklu fyrir sjónvarpsþættina The Innocents sem fara í sýningar á efnisveitunni þann 24. ágúst næstkomandi. Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson fer með stórt hlutverk í þáttunum og fer á kostum í stiklunni.

Þættirnir fjalla um unglingsparið Harry og June sem flýja foreldra sína til að geta verið saman. Öll þeirra framtíðarplön komast í uppnám þegar í ljós kemur að June getur breytt sér í hvaða manneskju sem er. Eins og sést í stiklunni hér fyrir neðan breytir hún sér meðal annars í fyrrnefndan Jóhannes Hauk.

Meðal annarra leikara í þáttunum er breski leikarinn Guy Pearce sem tilnefndur hefur verið til fjölda, alþjóðlegra verðlauna, og er líklegast þekktastur fyrir leik í kvikmyndunum Memento, L.A Confidential og The Adventures of Priscilla, Queen of the Desert.

Jóhannes Haukur sagði í viðtali við Mannlíf fyrir stuttu að hann væri samningsbundinn að leika í annarri seríu af The Innocents ef ákveðið verður að ráðast í gerð seríu númer tvö. Það ræðst auðvitað allt eftir viðtökunum, en stiklan lofar góðu.

Jóhannes flottur í The Innocents.

„Netflix-serían The Innocents verður frumsýnd í júlí og ef ákveðið verður að gera aðra seríu er ég samningsbundinn að leika í henni. Þá fer ég aftur í tökur í september eða október, að því gefnu að verði gerð önnur sería sem ég veit ekki fyrr en í ágúst. Mögulega leik ég í skandinavískri bíómynd í ágúst en það er allt á samningsstigi og ekkert ákveðið. En það væri gaman,“ sagði leikarinn, en þegar viðtalið var tekið var ekki komin frumsýningardagsetning á sjónvarpsþættina, en hún er 24. ágúst eins og áður segir.

„Skíðin verið hluti af lífinu frá því ég man eftir mér“

Elsa Guðrún Jónsdóttir keppti fyrir Íslands hönd á vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang þrátt fyrir að lítill snjór hafi fallið í heimabæ hennar, Ólafsfirði á undirbúningstímanum.

Elsa Guðrún er hörkudugleg, þrjátíu og tveggja ára kona. Enginn Íslendingur getur státað af jafngóðum árangri á skíðum og hún, en hún á yfir fimmtíu Íslandsmeistaratitla í skíðagöngu að baki. Elsa keppti á Ólympíuleikunum í greininni í febrúar síðastliðnum og varð þar með fyrsta íslenska konan til að ná þeim árangri. Þrátt fyrir erfiðar æfingaaðstæður tókst henni að þjálfa sig fyrir keppnina, samhliða því að vera í fullri vinnu og með fjölskyldu.

Elsa býr ásamt fjölskyldu sinni á Ólafsfirði. Þau hjónin hafa verið saman frá unglingsárum, en maðurinn hennar, Kristófer Beck, er sjómaður. Þau eiga tvö börn, níu og sjö ára. Elsa hefur að eigin sögn alltaf verið mikil íþróttamanneskja. „Ég æfði fótbolta þegar ég var yngri og var mikið í fjallgöngum, í hlaupum og á hjólaskíðum á sumrin og skíðum á veturna. Skíðin hafa verið partur af mínu lífi síðan ég man eftir mér. Pabbi var á fullu í þessu þegar hann var ungur, varð Íslandsmeistari nokkrum sinnum og fór á heimsmeistaramót. Öll systkini hans æfðu íþróttina og bróðir hans fór eitt sinn á Ólympíuleikana. Pabbi fylgdi mér á öll mót og æfingar, hann þjálfaði okkur krakkana stundum og var alltaf til taks og fylgir mér enn þann dag í dag. Hann var til dæmis með mér núna á Skíðamóti Íslands í Reykjavík í fjóra daga og sá um skíðin mín frá a-ö og stóð út í braut að hvetja mig. Má segja hann vera minn helsta stuðningsmann.“

Pressa að vinna allar keppnir

Skíðaferill Elsu byrjaði um fimm ára aldur og frá fyrstu keppni var hún sigursæl. „Þegar ég keppti í fyrsta sinn sigraði ég og hélt því svo bara áfram næstu árin. Ég var með rosalegt keppnisskap og var með á öllum Andrésarleikum, unglingameistaramótum, bikarmótum og landsmótum. Í raun man ég ekki eftir einni keppni sem ég sleppti eða komst ekki á vegna veikinda.“ Elsa segist hafa þróað með sér gríðarlega pressu á sjálfa sig að hún yrði að vinna allar keppnir. En um tvítugt kom að því að hún datt í sprettgöngu á Íslandsmeistaramóti. „Þá fann ég fyrir vissum létti. Það var eins og ég hefði losnað undan pressu sem ég hélt að allir hefðu á mér en var í raun og veru bara pressa frá mér sjálfri.“

Ítarlegra viðtal við Elsu Guðrúnu má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar, en þar segir hún frá undirbúningnum fyrir Ólympíuleikana og ævintýrinu í Suður-Kóreu.

Texti: Margrét Björk Jónsdóttir

Myndir og myndvinnsla: Aldís Pálsdóttir

Förðun: Björg Alfreðsdóttir, National Make Up Artist fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

Giftu sig á vökudeildinni hjá veikri dóttur

|||||
|||||

Rubia Ferreira og Tyler Campbell áttu von á sínu fyrsta barni og flugu á heimaslóðir í Alabama í Bandaríkjunum frá Okinawa í Japan, þar sem þau eru búsett, til að vera með fjölskyldunni áður en barnið kæmi í heiminn. Þegar þau eyddu gæðatíma með vinum og fjölskyldu í nóvember síðastliðnum byrjaði Rubia að finna til í maganum. Læknar sögðu að hún þyrfti að fara í bráðakeisara og kom barnið þeirra Tyler í heiminn eftir aðeins 24 vikna meðgöngu.

Litla hnátan tók þátt.

Rubia og Tyler eignuðust stúlku, sem heitir Kaelin, og parið eyddi næstu fimm mánuðum með henni á vökudeildinni þar sem Kaelin litla var með krónískan lungnasjúkdóm sem heitir lungnaháþrýstingur. Parið vissi að þau vildu gifta sig fyrr en síðar og ætluðu upprunalega að gifta sig á strönd í Okinawa. Síðan fengu þau þá hugmynd að hafa athöfnina í sjúkraherbergi dótturinnar í staðinn.

Skemmtileg hugmynd.

„Við vissum að við vildum ekki bíða lengur og við vildum að dóttir okkar yrði viðstödd,“ segir Tyler í samtali við Cosmopolitan og bætir við:

„Okkur fannst vera svalt að hafa brúðkaupið í herbergi Kaelin en við bjuggumst aldrei við því að það gæti gerst.“

Barnalæknirinn var í mikilvægu hlutverki á stóra daginn.

Parið fékk dyggan stuðning og hjálp frá starfsfólki spítalans og gekk barnalæknir Kaelin meira að segja með Rubiu upp að „altarinu“. Athöfnin átti sér stað á sjálfan Valentínusardaginn.

Rubia með hjúkrunarkonu.

„Það skipti okkur svo miklu máli að deila þessum tímamótum með nýju fjölskyldunni okkar hér,“ segir Rubia, en þau Tyler vona að þau geti snúið aftur til Okinawa í lok sumars þegar Kaelin verður útskrifuð.

Sátt og ástfangin.

Myndir / University of Alabama Birmingham

Nýfædda stúlkan er komin með Instagram-síðu

|
|

Raunveruleikastjarnan Khloé Kardashian eignaðist stúlku með kærasta sínum Tristan Thompson síðasta fimmtudag, í skugga alvarlegra fregna um að Tristan væri búinn að vera að halda framhjá Khloé.

Stúlkan hefur fengið nafnið True, sem netverjum finnst ansi kómískt í ljósi framhjáhaldsfregnanna. Kris Jenner, móðir Khloé, hefur reyndar bent á það á samfélagsmiðlum að afi hennar hafi heitið True Otis Houghton og að raunverulegt nafn föður hennar hafi verið Robert True Houghton. Þannig að True er ættarnafn.

En þó True litla sé bara nokkurra daga gömul er hún nú þegar komin með sinn eigin Instagram-reikning undir nafninu True Thompson. Þó að engar myndir hafi verið birtar á síðunni enn þá er True samt komin með tæplega 170 þúsund fylgjendur þegar þetta er skrifað. Margur er knár þótt hann sé smár!

Vinsælasta ungbarnið á Instagram.

Nú getur þú slappað af á einhyrningaeyju

|||||
|||||

Mikið einhyrningaræði hefur gripið heimsbyggðina en Filippseyingar hafa tekið skrefið lengra og búið til fljótandi einhyrningaeyju í Subic-flóa, 130 kílómetrum vestur af höfuðborginni Manila.

Eyjan fagra.

Eyjan er kannski ekki eyja í eiginlegum skilningi þar sem hún er uppblásin, en dekkar þó svæði sem er um 3400 fermetrar. Á eyjunni eru rennibrautir, brýr, rólur, turnar og ýmislegt fleira skemmtilegt, en eyjunni hefur verið lýst sem stærsta, uppblásna leikvelli í Asíu.

Þvílík snilld.
Eyjan í öllu sínu veldi.

Þegar að fólk er búið að leika yfir sig á eyjunni getur það slappað af á svæði sem heitir Pink Bali Lounge, sem er stútfullt af bleikum og fjólubláum sólhlífum og hægindastólum.

Pink Bali Lounge.

Fyrir tæplega þúsund krónur er hægt að kaupa aðgang að ströndinni við eyjuna allan daginn og klukkutíma af uppblásnu fjöri með einhyrningunum. Ef maður eyðir hins vegar um sextán hundruð krónum fær maður aðgang að einhyrningaeyjunni allan daginn, en hún er opin frá 8 til 17.50 á hverjum degi.

Hugmynd fyrir næsta sumarfrí?

Kynlegar kastalaverur

Uppsetning Borgarleikhússins á söngleiknum Rocky Horror show hefur varla farið fram hjá neinum. Uppselt er á nær allar sýningar út leikárið svo óhætt er að fullyrða að Frank-N-Furter og fjölskylda muni öðlast framhaldslíf á fjölunum næsta leikár.

Fyrir þá sem ekki þekkja til greinir sagan frá turtildúfunum Brad og Janet sem villast af leið og enda fyrir tilviljun í dularfullum kastala. Atburðarásin vindur fljótt upp á sig og áhorfendur verða strax sólgnir í að komast í kynni við kynjaverur kastalans.

Þýðing Braga Valdimars Skúlasonar var eins og við var að búast bæði hnyttin og vel ígrunduð þó að vissulega sé erfitt að gleyma gömlu þýðingu Veturliða Guðnasonar.

Búningar Filippíu Elísdóttur voru framúrskarandi og þá sérstaklega klæði Kólumbíu og geimgallar systkinanna Riff Raff og Magnetu. Flestir dansaranna fengu sömuleiðis að glitra í glæsilegum glimmerklæðum.

Dansatriðin voru heldur færri en í fyrri stórsýningum Borgarleikhússins en danshöfundinum Lee Proud tókst að galdra fram stórskemmtileg atriði eins og honum einum er lagið.

Óhætt að segja að leikur Björns Stefánssonar, í hlutverki Riff Raff, hafi verið framúrskarandi. Vala Kristín Eiríksdóttir var jafnframt nístandi og sannfærandi sem Kólumbía.

Brynhildur Guðjónsdóttir var lágstemmd í hlutverki Magnetu en hún opnaði og lokaði þessu „sjabbí“ sjóvi á karnivalískan máta.

Arnar Dan Kristjánsson smellpassaði í hlutverk vöðvatröllsins Rocky, sköpunarverks Frank-N-Furters, bæði í söng og líkamlegum styrkleika.

Haraldur Ari Stefánsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttur blésu lífi í lykilpersónurnar tvær sem glata sakleysi sínu innan kastalaveggjanna. Haraldur Ari var einkar sannfærandi sem Brad en Þórunn Arna hefði mátt vera djarfari Janet.

Valdimar Guðmundsson á stutta en eftirminnilega innkomu þegar hinn meingallaði Eddi mætti örlögum sínum. Sú lausn að rúlla honum inn á börum í stað þess að láta hann þeysast um sviðið á mótorhjóli dró verulega úr þeim ótta sem átti að stafa af persónunni sem Frank-N-Furter hafði mistekst að skapa.

Það leikur enginn vafi á því hvers vegna áhorfendur flykkjast á sýninguna, þeir eru komnir til að berja stjörnuna augum. Páll Óskar er elskaðasta óskabarn þjóðarinnar og skín hér eins og perlan sem hann er.

Boðskapur verksins er að blása von í hjörtu fólks sem hefur upplifað sig utangarðs eða útskúfað og sýna því að allir hafa tilgang. Heimurinn er stærri en við höldum og það er nóg pláss fyrir alla, Lifðu – ekki leynast.

Fáir hafa haldið kyndli þessarar baráttu hærra á lofti en Páll Óskar sem virðist klæðskerasniðinn í hlutverk Frank-N-Furter. Á köflum er eins og kynsnillingurinn vakni til lífs á sviðinu en öðrum stundum er eins og hann skipti um ham og breytist í Grinch með trúðslegu yfirbragði.

Leikstjóri sýningarinnar, Marta Nordal, hefði mátt draga úr þessum töktum.

Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur var hönnuð að miklu leyti í kringum hugarheim Páls og var hreint út sagt stórkostleg, rétt eins og tónlistin í höndum Jóns Ólafssonar svo óhætt að fullyrða að enginn verði svikinn af því að sjá Rocky Horror Show.

 

Umfjöllunina er að finna í 15.tbl Vikunnar.

Þetta er minn eigin fjársjóður

|
|

Benedikt Máni Möller hefur náð ótrúlegum árangri í tréúrskurði sem hann segir það skemmtilegasta sem hann geri. Benedikt er einhverfur en verkin hans voru sýnd í fimm vikur á bókasafni Reykjanesbæjar nú fyrr á árinu.

Benedikt segist skera helst út menn með skegg, húfur og víkingahjálma en hann geri einnig hnífa, fugla og hunda. „Svo er ég nýbyrjaður að skera út skartgripi,” bætir hann við og heldur áfram. „Það er mjög misjafnt hvað hlutirnir mínir taka langan tíma í vinnslu en ég má varla vera í neinu öðru því ég fer beint á smíðastofuna mína þegar ég kem heim úr skólanum.”

„Ég hlakka alltaf mikið til að komast heim og byrja að tálga og fá um leið fleiri hugmyndir. Stundum fæ hugmyndir þegar ég sé ókunnugt fólk og velti fyrir mér útliti þess. Um þessar mundir er ég til að mynda mikið að spá í nefinu á fólki.”

Óhætt er að segja að verk Benedikts hafi notið umtalsverðrar athygli en fyrr á þessu ári var haldin fimm vikna sýning á bókasafni Reykjanesbæjar þar sem tréútskurður hans fékk sérstakt pláss. Hann segist einnig hafa haldið sýningu fyrir bekkinn sinn í skólanum sem og kennarana. „Ég sé ekki fyrir mér neitt annað en að halda að sjálfsögðu áfram á þessari braut og þegar ég útskrifast úr skólanum langar mig að læra húsamiði og geta jafnvel byggt mitt eigið timburhús. Eftir það væri gaman að læra málmsmíði svo ég gæti smíðað málmhnífa. Í það minnsta vona ég að ég muni aldrei hætta að tálga.”

Viðtalið má lesa í heild í nýjasta tölublaði Vikunnar.

„Fallegt þegar fagfólk þarf að upplifa að vera amatörar“

|||
|||

Björk hvetjandi og sýnir algjört traust.

Sviðshreyfingar í komandi tónleikaferð Bjarkar Guðmundsdóttur eru í höndum Margrétar Bjarnadóttur, danshöfundar og myndlistamanns. Þær kynntust fyrir 15 árum þegar Margrét var barnfóstra Bjarkar.

Margrét Bjarnadóttir segir að lög Bjarkar séu aðaláttavitinn í sköpun sviðshreyfinganna.

Í lok maí mun Björk hefja tónleikaferð sína um heiminn og hélt nokkurs konar generalprufu af tónleikunum í Háskólabíói fyrir skömmu. Tónleikarnir eru liður í útgáfu Útópíu sem er tíunda sólóplata Bjarkar en hún kom út í lok síðasta árs. Hún kemur fram með sjö flautuleikurum, hörpuleikara, slagverksleikara og raftónlistarmanni. Hópurinn hefur verið við æfingar á Íslandi síðastliðnar vikur. Leikmynd tónleikaferðarinnar var frumsýnd í Háskólabíói en hún er hönnuð af Heimi Sverrissyni og smíðuð í Irma studios. Við spurðum Margréti út í verkið og samstarfið við Björk.

„Við höfum þekkst í mörg ár þar sem ég var barnfóstra dóttur hennar í eitt ár fyrir 15 árum. Það var sko yndislegt samstarf. Svo, fyrr í vetur, bað hún mig um að semja hreyfingar fyrir tónlistarmyndbandið við lagið Útópía þar sem flautuleikararnir voru í stóru hlutverki. Það var mjög skemmtilegt og var eins og byrjunin á einhverju sem væri hægt að þróa áfram. Upp úr því spurði hún hvort ég hefði áhuga á að sjá um hreyfingar flautuleikaranna fyrir tónleikaferðalagið,“ segir Margrét.

„Svo þurfti ég líka að huga að heildarmyndinni, að kaffæra ekki tónleikana í danssporum heldur finna jafnvægi.“

Við vinnsluna á verkinu vildi Margrét finna leið til þess að hreyfingar flautuleikaranna gætu orðið eðlilegur hluti af flutningi þeirra eða framlenging á honum. „Flautuleikararnir, allt konur, eru rosalega færar og ég vildi ekki að hreyfingarnar ynnu á móti tónlistarflutningnum. Það gerði það vissulega fyrst þegar þær voru að læra hreyfingarnar og ná tökum á þeim en svo kom þetta smám saman. Kannski hefði ég ekki haft svona mikla trú á því ef ég hefði ekki verið búin að gera No Tomorrow á síðasta ári, gítarballett okkar Ragnars Kjartanssonar með Íslenska dansflokknum, þar sem dansararnir lærðu að spila á gítar og dansa um leið. Mér finnst svo fallegt tímabil í æfingaferlinu þegar þessar miklu fagmanneskjur þurfa að sætta sig við að verða amatörar í smátíma á meðan þær eru að tileinka sér eitthvað alveg nýtt. Þær eru að gera svo margt sem þær hafa aldrei gert áður og kannski eitthvað sem fáir ef einhverjir flautuleikarar hafa gert – að læra öll þessi lög utanbókar sem sum hver eru í flóknum útsetningum og dansa samhæfðar hreyfingar um leið. Þetta er mjög mikil áskorun. En svo þurfti ég líka að huga að heildarmyndinni, að kaffæra ekki tónleikana í danssporum heldur finna jafnvægi. Sum lög vildu bara kyrrð og þá hlustaði ég á það. Svo eru margir þættir sem spila inn í og hafa áhrif á það sem maður getur gert, eins og til dæmis leikmyndin og skiptingar á flautum á milli laga, sem eru mjög tíðar, þannig að það er að mörgu að huga. En svo er þetta líka eitthvað sem verður áfram í þróun. Það var svo gott að fá tækifæri til þess að vera með æfingatónleika í Háskólabíói og nú höfum við tíma til að breyta og bæta og nostra við smáatriði fyrir tónleikaferðalagið sem hefst í London.“

Frábært að vinna með Björk
Björk skapar sína heima á einstakan hátt en Margrét heldur að hún hafi aldrei áður skapað jafnsjónrænan heim fyrir tónleikaferðalag, sérstaklega á svona tónlistarhátíðum utandyra eins og fram undan eru í sumar. „Það þarf að vera hægt að skella leikmyndinni sem Heimir Sverrisson hannaði upp á hálftíma og skyndilega ertu komin með eitt stykki útópískan heim. Það er svo mikil alúð í öllu, alveg út í minnstu smáatriði, eins og til dæmis grímurnar sem James Merry hannar og býr til fyrir Björk, flautuleikara og hörpuleikara. Hver gríma er einstök og skreytt með pínulitlum perlum sem sjást kannski ekki úr kílómetra fjarlægð á útifestivali en skipta samt mjög miklu máli fyrir stemninguna í heiminum sem hefur verið skapaður.“

Mikið var um dýrðir þegar Björk frumflutti tónleikana í Háskólabíói á dögunum. Mynd / Santiago Felipe

Margrét mun vera með á æfingum í London áður en tónleikaferðalagið hefst og ætlar svo að minnsta kosti að kíkja á hópinn í Róm og sjá hvernig hlutirnir standa. Hún segir að samstarfið við Björk hafi verið frábært. „Hún er hvetjandi og sýnir manni mikið traust en þannig upplifir maður algjört frelsi til að prófa sig áfram. Við ræddum nálgunina en svo var hún aðallega bara mjög hvetjandi. Það hjálpar líka að hafa þekkst í mörg ár og það er svona gagnkvæmur skilningur sem gerir allt auðveldara.

„Það þýðir ekki að gera þær lafmóðar í einhverjum dansi þannig að þær geti ekki blásið í hljóðfærið.“

Lögin eru náttúrlega aðaláttavitinn minn í þessari vinnu. Það er alltaf svo skýr tilfinning í lögunum hennar og þegar ég tengi inn á tilfinninguna í viðkomandi lagi koma hreyfingarnar frekar ósjálfrátt og óþvingað. En hreyfingarnar sem komu hjá mér hentuðu svo ekki alltaf flautuleiknum og þá þurfti ég að aðlaga þær að honum og flautuleikurunum. Ég skil þetta hljóðfæri mun betur núna og það er áhugavert að semja hreyfingar fyrir blásturshljóðfæraleikara þar sem öndunin skiptir miklu máli. Það þýðir ekki að gera þær lafmóðar í einhverjum dansi þannig að þær geti ekki blásið í hljóðfærið þó að þær fari nú reyndar alveg fram á ystu nöf í sumum lögum. En mér finnst mjög gaman að vinna með takmarkanir, þær fara alltaf með mann á einhverjar ófyrirséðar brautir.“

Myndlist og skrif
Margrét kláraði danshöfundanám í listháskóla í Hollandi árið 2006 og hefur unnið sjálfstætt síðan þá. Svo fór hún að vinna meira að myndlist og starfar nú jöfnum höndum sem danshöfundur og myndlistarmaður. „En skrif hafa líka fylgt mér lengi og textar alltaf spilað stórt hlutverk í bæði sviðs- og myndlistarverkunum mínum. Ég hef verið í mastersnámi í ritlist við Háskóla Íslands og næst á dagskrá er einmitt að klára MA-lokaverkefnið mitt þar. Það hefur verið að safnast saman í langan tíma og ég hlakka til að veita því athygli núna.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson og Santiago Felipe

Íslendingar flykkjast til tannlækna í útlöndum

|
|

Fleiri en áður fara í frí til útlanda og fara til tannlæknis í leiðinni. Tannlæknaþjónusta er 50-70% ódýrari í Austur-Evrópu en hér á landi.

Rósa Kristín Benediktsdóttir er tengiliður ungversku tannlæknastofunnar Madenta í Búdapest.

„Við byrjuðum í mars og ég ætlaði að gera þetta að aukavinnu. En það hefur verið mikil eftirspurn. Fimm hafa farið út og ég er með tugi pantana frá fólki sem er að skoða það að fara til tannlæknis í Búdapest,“ segir Rósa Kristín Benediktsdóttir, sem er tengiliður ungversku tannlæknastofunnar Madenta í Búdapest.

Mikil ásókn hefur verið upp á síðkastið hjá fólki á miðjum aldri, örorkuþegum og lífeyrisþegum að fara í tannviðgerðir í Austur-Evrópu. Pólland og Ungverjaland eru vinsælustu löndin um þessari mundir. Ásóknin skýrist af því að tannlæknastofur frá löndunum eru með tengiliði hér á landi. Þá hjálpar til að beint flug er til landanna og endurgreiða Sjúkratryggingar tannlæknakostnað fyrir lífeyrisþega, þ.e. örorku- og ellilífeyrisþega.

Oftast er um að ræða dýrari tannviðgerðir á borð tannplönt, það er þegar ný tönn er skrúfuð ofan í rótarstæði, en einnig krónur og brýr og margt fleira. Yngra fólk leitar eftir tannfegrun. Ætla má að tannlæknakostnaðurinn í Ungverjalandi sé 50-70% lægri en hér á landi.

Rósa fór sjálf til tannlæknis í Búdapest árið 2014 og aftur í fyrra. Í kjölfarið ræddi hún við eiganda tannlæknastofunnar Madenta og varð úr að hún gerðist tengiliður hennar hér á landi. Þau réðust í að búa til heimasíðu fyrir tannlæknastofuna á íslensku og auglýsa á samfélagsmiðlum. Undirtektirnar hafa verið framar vonum,“ segir Rósa, sem er með aðstoðarmanneskju sem talar við fólk yfir daginn.

„ … það hefur veriðmikil eftirspurn. Fimm hafa farið út og ég er með tugi pantana frá fólki sem er að skoða það að fara til tannlæknis í Búdapest.“

Þjónustan sem boðið er upp á ytra er nokkuð önnur en fólk á að venjast hér. Algengast er að fólk sendi Rósu röntgenmynd frá tannlækni. Í kjölfarið gerir tannlæknastofan tilboð og útlistar kostnað við tannviðgerðina. Boðið er upp á staðgreiðsluafslætti og ýmislegt fleira, að hennar sögn.

Rósa bætir við að hún hafi fengið misjafnar undirtektir hjá íslenskum tannlæknum.

„Það hlýtur að vera svolítill samkeppnistitringur. Okkar viðskiptavinir hafa margir rætt þetta við sína tannlækna, haft þá með í ráðum og þeir gera sér grein fyrir því að það er ódýrara að fara út og að þjónustan er góð.“

Tannlæknar gefa vinnu sína
Mannlíf leitaði viðbragða Þórunnar Sveinbjörnsdóttur, formanns Landssambands eldri borgara, vegna málsins. „Við vitum af því að tannlæknar hafa þurft að gefa vinnu sína því eldra fólk hefur ekki efni á að fara til tannlæknis. Fólk fer í minni aðgerðir en sleppir þeim stærri sem kosta frá hálfri milljón og upp úr,“ segir hún og bætir við að íslenski stjórnvöld hafi skilið eldri borgara eftir hvað snertir niðurgreiðslu vegna tannlækninga. Niðurgreiðslan hafi ekki hækkað síðan árið 2004.

„ … margir eru illa haldnir af tannskemmdum og bíða eftir aðgerðum hins opinbera.

Hún bendir á að starfshópur hafi nýverið lokið störfum um málið og skilað tillögum sínum til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Það hefur skilað því að 1. júlí verða 500 milljónir króna lagðar til niðurgreiðslu vegna tannlækninga á þessu ári og einn milljarður framvegis frá næsta ári.

„VIð gerum ráð fyrir því að þetta verði með þessum hætti í nokkur ár,“ segir Þórunn. „En þessi biðtími hefur valdið því að mjög margir eru illa haldnir af tannskemmdum og bíða eftir aðgerðum hins opinbera.“

31 fengið endurgreiðslu það sem af er ári
Í júní árið 2016 var gefin út reglugerð um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri en samkvæmt henni eiga sjúklingar rétt á að sækja sér heilbrigðisþjónustu til annarra aðildarríkja á EES-svæðinu og fá endurgreiddan útlagðan kostnað.

Árið 2016 fór enginn héðan til útlanda vegna tannlækninga og því kom ekki til að Sjúkratryggingar þyrftu að greiða fyrir slíkt. Ári síðar fóru 28 utan þar af 20 til Ungverjalands. Endurgreiðsla til þessara 20 einstaklinga nam rúmum 2,2 milljónum króna.

Það sem af er ári, þ.e. frá ársbyrjun og þar til snemma í mars, hefur 31 einstaklingur fengið endurgreiðslu Sjúkratrygginga vegna tannlækninga. Þar af er eitt barn undir 18 ára aldri. Þar af hafa 12 fengið lækningu á Spáni en 10 í Ungverjalandi. Endurgreiðslan á fyrstu þremur mánuðum ársins nemur rúmum 2,5 milljónum króna.

Úrval af vönduðum og fallegum borðstofuhúsgögnum í Vogue fyrir heimilið

Mynd/Pixabay

Má bjóða þér rómantískan sveitastíl eða stílhreinan módernstíl.

Við hjá Vogue fyrir heimilið erum með úrval af borðstofuhúsgögnum. Við erum meðal annars með vörur frá merkjum eins og Richmond, Karel Mintejens og fleirum. Þetta eru hollensk og belgísk vörumerki. Þetta eru fallegar gæðavörur sem hægt er að sérpanta upp úr bæklingum en að sjálfsögðu erum við með hluta af vörunni í sýningarsal okkar í Síðumúlanum.

Einnig er hægt að fá gjafavöru frá Richmond sem mjög vönduð og falleg lína sem passar vel við húsgögnin. Sú lína er í rómantískum sveitastíl, mikið er um hráan gegnheilan við. Hægt er að velja marga liti af skápum og skenkum sem eru lakkaðir. Þá er hægt að velja höldur, lista og fleira sem gefur aukna möguleika fyrir viðskiptavini að velja eftir sínum smekk.

Vogue fyrir heimilið er húsgagnaverslun með 67 ára sögu sem er sífellt að endurskipuleggja vöruframboð sitt.

Aftur á móti er línan frá Karel Mintjens stílhreinni og meiri módernlína.
Þar er að finna stækkanleg borðstofuborð, sjónvarpskenki, hillur og margt fleira
fallegt.

Við bjóðum líka upp á vörulínu frá Skandinavian Design og Zilstra þar sem er að finna falleg borðstofuhúsgögn og margt fleira.

Vogue fyrir heimilið er húsgagnaverslun með 67 ára sögu sem er sífellt að
endurskipuleggja vöruframboð sitt. Nú er einmitt verið að standsetja borðstofudeildina en það er alltaf verið að breyta og bæta.

Karel Mintjent er belgískt fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í gegnheilli eik og hefur sinnt íslenskum heimilum yfir 50 ár. Vörulína þeirra er allt frá klassískri eik yfir í stílhreinan módernstíl.
Vogue selur bæði af lager og sérpantanir. Þetta eru einstaklega fallegar og vandaðar vörur í gæðaflokki.

Sjáið úrvalið á heimasíðu okkar www.vogue.is

Vogue fyrir heimilið
Síðmúla 30
108 Reykjavík
Sími: 533-3500
Opnunartímar:
Virkir dagar: 10.00 – 18.00
Laugardaga: 11.00 – 16.00

Vogue fyrir heimilið
Hofsbót 4
600 Akureyri
Sími: 462-3504
Opnunartímar:
Virkir dagar: 09.00 – 18.00
Laugardaga: 10.00 – 14.00

Mannlíf í samstarfi við Stúdíó – Birtíng
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

Syngjandi sveifla í sirkustjaldi

Söngleikurinn Slá í gegn er sýndur um þessar mundir í Þjóðleikhúsinu en verkið byggir á lögum eftir hljómsveitina Stuðmenn.

Það er óhætt að segja að öllu sé tjaldað til á Stóra sviði Þjóðleikhússins þar sem söngleikurinn Slá í gegn fylgir titli sínum.

Þrátt fyrir þunnan og fyrirsjáanlegan söguþráð nær hugvitsamleg leikstjórn Guðjóns Davíðs Karlssonar að draga fram það besta í öllum listamönnum sýningarinnar á réttum augnablikum.

Verkið segir frá þeim Binna og Helgu sem reka farandssirkus við litla ánægju einkadótturinnar Hörpu Sjafnar sem neyðist til að ferðast með þeim um landið í veikri von um að uppfylla æskudraum föður henar um sirkusstjórn. Þegar hér er komið sögu á sirkusinn leið um fáfarið bæjarfélag þar sem þorpsbúa dreymir jafnframt stóra drauma. Litla áhugaleikhúsið þar í bæ er um það bil að leggja lokahönd á uppfærslu sína á Gullna hliðinu en æfingarnar ganga vægast sagt illa. Þar fer sjálfskipaður leikstjóri hópsins, Sigurjón digri, fremstur í flokki en sjálfur vill hann helst leika öll hlutverkin. Í gagnkvæmu vonleysi ákveða fylkingarnar tvær, það er að segja leikfélagið og listamenn sirkussins að leiða saman hesta sína í þeirri einlægu von um að setja eitthvað stórfenglegt á svið og frumflytja fjöllistagjörning. Þegar sjálfur forsetinn boðar komu sína setur hópurinn svo allt í botn og þrátt fyrir heldur vonleysislega byrjun fer sagan að sjálfsögðu vel.

Leikmynd Finns Arnars Arnarssonar er hreint út sagt meiriháttar og búningar Maríu Th. Ólafsdóttur hver öðrum fallegri. Eflaust eru það sirkusáhrifin sem slá ryki í augun en hér voru allar erkitýpurnar mættar til leiks með skeggjuðu konuna og tattúveraða manninn í broddi fylkingar.

Sú nýbreytni undanfarin ár að fá á svið listamenn úr öðrum listgreinum tekst einstaklega vel upp í sýningu sem þessari þar sem fjöllistafólkið fær notið sín eðli söguþráðarins samkvæmt.

Það er jafnframt mikill fengur í danshöfundinum Chantelle Carey sem stýrir nú, meðal annarra nokkrum af þeim hæfileikaríkju drengjum sem blésu eftirminnilegu lífi í ballettdrenginn Billy hér um árið í öðru leikhúsi. Það verður spennandi að sjá þessa stráka stækka á sviðinu á komandi árum.

Lýsing Magnúsar Arnars Sigurðarsonar, sjóngervingar Inga Bekk sem og aðrar leikhúslausnir eru listilega leystar og þá sérstaklega töfrabragðið í lok sýningarinnar. Töfrar og leikhús eru svo sannarlega bannvæn blanda.

Tónlistin heldur sýningunni svo uppi með tónlistarstjórann Vigni Snæ Vigfússon fremstan í flokki en allir listamennirnir skila þessum sígildu slögurum með stakri prýði.

Það felst ákveðin spenna í sýningum sem þessum þegar handritið er óþekkt og eftirvæntingin hvort uppáhaldslagið muni koma, nær áþreifanleg eftir því sem líður á kvöldið. Hápunktarnir voru margir þó að lokasenan standi lagsamlega upp úr.

 

Umfjöllunin kom fram í 14.tbl Vikunnar.

Mynd / Hörður Sveinsson.

Góður mórall og mikil eftirvænting

Söngleikurinn Moulin Rouge verður frumsýndur í Hörpu annað kvöld.

Greta Salome Stefánsdóttir fer með aðalhlutverk sýningarinnar en hún er einnig framkvæmdarstýra viðburðarins sem einnig verður settur upp í Hofi á Akureyri. „Ég elskaði myndina þegar hún kom út á sínum tíma og þetta er bara svo kjörin tónleikasýning. Lögin bjóða upp á svo risastór söng og dansatriði og það er óhætt að segja að við séum að ganga mjög langt í því.

„Æfingarferlið hefur verið einstaklega skemmtilegt, sérstaklega hjá dönsurunum. Þetta er risastórt verkefni með um hundrað manns og því flækjustigið hátt en möguleiki á mikilli gæsahúð.

En þessi hópur er bara svo frábær og allir svo tilbúnir að ganga langt í að gera þetta sem flottast og það á algjörlega eftir að skila sér í sýningunni. Það er mjög góður mórall í hópnum og mikil eftirvænting.”

Greta segir sýninguna fyrst og fremst einblína á söng og dans en þó bregði fyrir leiknum senum inn á milli. „Við erum að fara hálfgerða millileið sem er mjög skemmtileg. Fólk fær söguna algjörlega í æð en um leið risastór tónlistaratriði. Við erum að taka lögin úr myndinni og færa þau í lifandi búning með hljómsveit, tíu söngvurum, sjö bakröddum, sjötíu manna kór og tólf dönsurum þannig að það er óhætt að segja að gjörsamlega allt sé lagt á borðið.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta blaði Vikunnar.

Mynd / Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

Flytja meira inn frá Póllandi

Samskip hefur opnað nýja siglingaleið frá Póllandi.

„Það er verið að byggja gríðarlega mikið og byggingastigið hér mun haldast óbreytt til 2020. Helsta aukning í innflutningi er einmitt byggingarefni frá Póllandi, stálgrindur og fleira. En svo er pólskt samfélag á Íslandi sem þarf að þjónusta,“ segir Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri innflutningasviðs Samskipa.

Samskip voru að opna nýja siglingaleið með erlendum samstarfsaðila frá Póllandi, í gegnum Eystrasaltið, Ósló í Noregi og Árósa í Danmörku. Birgir segir að kallað hafi verið eftir bættum tengingum við þetta svæði og sé Samskip nú að svara því.

Verðmæti innflutnings frá Eystrasaltsríkjunum hefur aukist nokkuð á síðastliðnum átta árum. Mesti vöxturinn er á innflutningi frá Póllandi. Verðmætið nam tæpum 5,9 milljörðum króna árið 2010 en var kominn upp í 20,1 milljarð í fyrra. Mesti vöxturinn var frá 2016 til 2017 eða upp á 42% á milli ára.

Halda brúðkaupið á vínekru á Ítalíu

|

Söngvarinn Friðrik Dór Jónsson og unnusta hans, Lísa Hafliðadóttir, ganga í það heilaga í sumar. Í viðtali við brúðkaupsblað Glamour segjast þau ætla að innsigla ástina á Ítalíu.

„Brúðkaupið verður haldið á vínekru í Toskanahéraðinu á Ítalíu. Við vorum byrjuð að skipuleggja brúðkaup hérna heima og komin ágætlega á veg með það. En síðan, eiginlega upp úr þurru, kom sú hugmynd að gera þetta einhvers staðar erlendis,“ segir í viðtalinu, og bætir parið við að þau séu ekkert tengd landinu en finnist ákveðin rómantík umlykja það. Því hafi þau ákveðið að taka af skarið.

„Í framhaldinu ákváðum við að henda okkur í djúpu laugina og kýla á þetta. Við sjáum vonandi ekki eftir því.“

Tæplega hundrað manns eru á gestalistanum, en sökum góðs skipulags segja þau Friðrik og Lísa að lítið verði um forföll.

„Við bókuðum húsið á vínekrunni í byrjun ágúst í fyrra og strax í framhaldinu byrjuðum við að skipuleggja allt,“ segir í viðtalinu. „Það eru lítil sem engin forföll af gestalistanum og ég held að góður fyrirvari leiki þar stórt hlutverk.“

Það er fallegt í Toskana.

Þó að parið ætli að gifta sig erlendis verður samt íslenskur bragur á þessum stóra degi.

„Athöfnin og veislan verða eftir íslensku uppskriftinni. Athöfnin verður hins vegar táknræn svo við verðum ekki með neinn prest en í veislunni ætlum við að hafa veislustjóra og ræðuhöld og enda þetta svo á góðu partíi.“

Tónlistarmaðurinn fær eflaust dygga aðstoð frá bróður sínum, tónlistarmanninum Jóni Jónssyni, og mágkonu sinni, Hafdísi Björk Jónsdóttur, þar sem þau létu pússa sig saman síðasta sumar, reynslunni ríkari.

Aðalmynd / Rut Sigurðardóttir

Loksins litið á brennó sem alvöruíþrótt

||
||

Keppt verður í brennibolta í fyrsta sinn á landsmóti Ungmennafélags Íslands á Sauðárkróki í sumar. Sólveig Sigurðardóttir, talskona brennóiðkenda á höfuðborgarsvæðinu, segir mikla spennu ríkja meðal hópsins fyrir mótinu. Hún vonar að í framtíðinni verði hægt að æfa brennibolta skipulega undir handleiðslu þjálfara.

„UMFÍ langar að bjóða upp á hreyfingu sem höfðar til sem flestra. Þeir höfðu heyrt af allskonar hópum um allt land sem voru að spila brennibolta og langaði að höfða til breiðs hóps. Brennibolti er íþrótt sem allir þekkja úr barnæsku og allir geta rifjað upp, tekið þátt og haft gaman af,“ segir Sólveig Sigurðardóttir, talskona Brennóbomba, hóps kvenna á höfuðborgarsvæðinu sem æfir brennibolta.

Í fyrsta sinn í ár verður keppt í brennibolta á landsmóti UMFÍ, Ungmennafélags Íslands. Landsmótið fer fram þann 12. til 15. júlí á Sauðárkróki, en Sólveig segir að Brennóbomburnar hafi verið himinlifandi þegar kom í ljós að brennibolti yrði meðal keppnisgreina.

„Ég gjörsamlega fríkaði út af spenningi þegar ég fékk þessar fregnir og ég held að hinar bomburnar hafi ekki verið síður spenntar.

Það er líka svo gaman að fólk sé loksins farið á líta á brennibolta sem íþrótt og uppgötva hvað þetta er ótrúlega góð og mikil hreyfing. Mér finnst líka mjög jákvætt að það sé verið að breikka rammann þegar það kemur að keppnisíþróttum. Ég vona að þessi áhugi haldi áfram og að í framtíðinni verði hægt að æfa brennibolta á öllum aldri undir handleiðslu þjálfara. Það væri frábært.“

Karlmenn keppa líka

Sólveig er spennt fyrir sumrinu.

Virkir brennóhópar, sem hittast reglulega, eru staðsettir í Kópavogi, Hafnarfirði, Grindavík, á Blönduósi og Sauðárkróki. Sólveig er ekki viss hve mörg lið hafa skráð sig til leiks á landsmótinu, en hún útilokar ekki að aðrir en þeir sem eru virkir brennóðikendur slái til og keppi í sumar.

„Ég er alveg viss um að það séu einhverjir hressir vinahópar eða æfingafélagar sem ákveða að slá til og taka smátrylling í brennó á Landsmóti,“ segir Sólveig.

Sólveig tilheyrir, eins og áður segir, hópnum Brennóbombur sem hittist reglulega allt árið um kring á höfuðborgarsvæðinu og spilar brennó. Sá félagsskapur er eingöngu fyrir konur en á landsmótinu mega karlmenn einnig keppa í sportinu. Hvernig leggst það í Sólveigu?

„Það leggst órúlega vel í mig og ég er mjög spennt að sjá hvernig þátttakan verður. Brennóbomburnar æfa tvisvar sinnum í viku í Kórnum í Kópavogi yfir vetrartímann en eru með eina opna æfingu í mánuði fyrir bæði kynin. Hingað til hefur það vakið mikla lukku. Mér sýnist strákarnir vera alveg jafnspenntir fyrir íþróttinni þegar þeir mæta á völlinn og eru enn spenntari að æfingu lokinni, þegar þeir eru búnir að uppgötva hvað þetta er ótrrúlega skemmtileg og mikil hreyfing,“ segir Sólveig.

Keppt er í brennibolta laugardaginn 14. júlí á landsmótinu og fer fjöldi leikja eftir fjölda þátttakenda. Sólveig segir Brennóbomburnar mjög spenntar fyrir því að keppa í íþróttinni á stærri vettvangi, en þær hafa haldið opinber Íslandsmeistaramót í brennó um áraskeið. „Stemninginn er ótrúlega góð og allar hlakkar til að koma saman á Króknum og hafa ótrúlega gaman af.“

Ólétt og getur ekki keppt

Sólveig hefur æft brennó um árabil og því liggur beinast við að spyrja hvort hún ætli ekki sjálf að keppa í sumar. „Úff, ég ætla ekki að segja þér hvað það er erfitt að svara þessari spurningu neitandi en ég get því miður ekki verið með sem keppandi í ár. Ég er barnshafandi og verð líklega með aðeins of stóran bolta framan á mér í sumar,“ segir Sólveig brosandi.

En þarf maður að vera einhverjum sérstökum hæfileikum gæddur til að spila brennibolta?
„Nei, alls ekki. Þetta er svo fjölbreytt íþrótt að það virðast allir finna sig í einhverju inni á vellinum, hvort sem það er að hlaupa, kasta, grípa eða að forðast boltann. Það sem mestu máli skiptir er að halda í gleðina sem fylgir þessari íþrótt og hafa húmor fyrir sjálfum sér og öðrum. Svo er voða gaman þegar það fær að skína í smávegis keppnisskap svona inn á milli,“ segir Sólveig kankvís og bætir við að það sé lítið mál að slást í hópinn með Brennóbombum á höfuðborgarsvæðinu.

Brennó er góð skemmtun.

„Við æfum í íþróttahúsinu Kórnum í Kópavogi á mánudögum og miðvikudögum klukkan 21.00 yfir vetrartímann en á sumrin er æft úti þegar verður leyfir. Allar konur átján ára og eldri eru velkomnar til okkar. Fyrsti tíminn er alltaf ókeypis og því er um að gera að taka af skarið, kíkja á okkur og prófa. Ég lofa taumlausri gleði og brjálaðri brennslu í sjúklega skemmtilegum félagskap. Það er líka hægt að finna okkur á Facebook undir nafninu Innibrennó. Eins eru hinir brennóhóparnir á Facebook líka.“

Bílastæðavandi aðalgrínið á árshátíð RÚV

Árshátíð RÚV var haldin með pompi og prakt í Gamla bíói um síðustu helgi. Öllu var til tjaldað til að gera kvöldið sem eftirminnilegast en það var spéfuglinn Dóri DNA sem var veislustjóri, og reytti af sér brandara eins og honum einum er lagið.

GELLUR að glensa #rúvarar2018

A post shared by Viktoria Hermannsdóttir (@viktoriahermanns) on

Það má segja að bílastæðavandi í Efstaleitinu hafi verið aðalstjarna kvöldsins þar sem mikið var gert grín að honum í árshátíðarmyndbandinu. Eins og margir vita standa nú yfir framkvæmdir sunnan við Sjónvarpshúsið, og hafa gert um nokkurt skeið, þar sem fjögur fjölbýlishús rísa. Mikið grín var gert að þessum skorti á bílastæðum í skugga framkvæmdanna og uppskar það hlátrasköll um allt bíóið. Sagði Dóri að miðaverðið á árshátíðina væri lægra en í fyrra og talsvert ódýrara en að leggja hjá RÚV, og vísaði þar í að búið væri að sekta bíla í gríð og erg sem legðu ólöglega við Sjónvarpshúsið út af fyrrnefndum stæðaskorti.

???? #rúvarar2018

A post shared by ʙᴇʀɢʟɪɴᴅ ᴘᴇᴛᴜʀsᴅᴏᴛᴛɪʀ (@berglindfestival) on

Þá komst Dóri DNA ekki hjá því að gera grín að launahækkun sjálfs útvarpsstjóra, Magnúsar Geirs Þórðarsonar, en nýverið komst það í fréttir að laun hans hefðu hækkað um 16%, upp í 1,8 milljón á mánuði.

Það er mál manna að árshátíðin hafi verið með besta móti, en hljómsveitin Babies spilaði fyrir dansi áður en hópurinn tvístraðist út í nóttina.

Aðalmynd af Dóra DNA / Bragi Þór Jósefsson

Bannaði fólki að snerta börnin

||||||
||||||

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun, segir að Íslendingar geti lært mikið af Kínverjum en hún bjó ásamt fjölskyldu sinni í Sjanghæ í þrjú ár. Stefanía segist hafa þurft að hafa sig alla við í að lesa í fólk og aðstæður þar sem mikill munur sé á samskiptum þjóðanna tveggja, Íslendinga og Kínverja. Stundum hafi legið nærri árekstrum.

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir er nýtekin við starfi framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun eftir átta ár starf hjá tölvuleikjafyrirtækinu CCP.

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir er nýtekin við starfi framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun eftir átta ára starf hjá tölvuleikjafyrirtækinu CCP. Þar var hún meðal annars þróunarstjóri á skrifstofu fyrirtækisins í Sjanghæ, þar sem hún bjó í þrjú ár með manni og þremur börnum. Hvernig stóð á því að hún tók þessa U-beygju úr tölvuleikjaþróun yfir í orkugeirann?

„Áður en ég fór að vinna hjá CCP var ég í tíu ár í orkugeiranum þannig að CCP var í rauninni U-beygjan,“ segir Stefanía og hlær. „Það má eiginlega segja að ég sé komin aftur heim með þessu starfi hjá Landsvirkjun. Ég var átta ár hjá Orkustofnun, byrjaði þar á meðan ég var í háskólanámi og gerði bæði BSc- og masters-verkefnið mitt þar. Tók svo síðar við sem yfirverkefnisstjóri í upplýsingatækni, því ég var að brúa bilið milli vísinda og upplýsingatækni í mínu námi, blandaði fyrst saman landafræði og tölvunarfræði í BSc-verkefninu og í masters-verkefninu blandaði ég svo saman umhverfisfræði og tölvunarfræði og útskrifaðist úr verkfræði, en mér finnst rosalega gaman að blanda saman svona ólíkum hlutum. Nú er alltaf verið að tala um að það sé svo mikilvægt að fólk vinni þverfaglega og það hentar mér virkilega vel. Það er mjög gaman að koma aftur inn í orkugeirann átta árum seinna og þá sérstaklega að koma inn í viðskipta- og markaðshlið starfseminnar.“

„Fólk vildi líka fá að koma við þau og tala við þau og mér fannst oft erfitt hvað fólk fór gjörsamlega yfir mörkin í því. Eitt af því fyrsta sem ég lærði að segja á kínversku var „ekki snerta þau“.“

Réðu ekki hvernig sagan þróaðist

Starfsheiti Stefaníu hjá Landsvirkjun er framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar, hvað felst í því?

„Við erum fimm framkvæmdastjórar sem heyrum undir forstjórann og hlutverk markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs er að hámarka tekjur Landsvirkjunar. Við erum að greina ný viðskiptatækifæri, erum í vöruþróun og kynningu og kynningu og sölu á vörum og þjónustu og svo þurfum við líka að reka raforkusamningana við núverandi viðskiptavini.“

Það er greinilegt að þetta er fjölbreytt starf og kannski ekkert svo ólíkt því sem Stefanía var að gera hjá CCP, eða hvað?

„Þegar ég byrjaði hjá CCP var ég að koma frá upplýsingatæknifyrirtæki þar sem ég hafði unnið mikið að tæknilausnum fyrir orkufyrirtæki en þegar ég kom inn í CCP tók ég við sem deildarstjóri í hönnun sem var í rauninni mín leið til þess að komast aðeins meira inn í hönnun og listsköpun, sem mér finnst svo mikilvægt að tengja saman í allri tækni. Það er lykilatriði í allri vöruþróun að skilja báða heima, finnst mér, og þetta var mitt tækifæri til þess að ná heildarmyndinni; að fara úr tækninni yfir í sköpunina.“

Stefanía segir erfitt að alhæfa um reglur í samskiptum í samfélaginu í Sjanghæ almennt, þar sé slíkur aragrúi af fólki með alls konar bakgrunn og misjafnt hvað hverjum hóp þykir við hæfi.

Í starfi sínu sem hönnunarstjóri hjá CCP vann Stefanía náið með söguhöfundum leiksins Eve Online og hún segir það hafa verið ómetanlega reynslu.

„Þessi leikur er náttúrlega svo ótrúlegur,“ segir hún. „Maður getur endalaust fundið upp á nýjum hlutum þarna inni þannig að það var rosalega gott fyrir mig að kynnast því að búa til tölvuleik frá þessari hlið. Með allar þessar sögur og öll þessi kerfi. Svo bjuggum við eitthvað til og settum það út en af því að leikurinn er svo dýnamískur þá veit maður aldrei hvað spilararnir gera á endanum við það og það kemur manni oft á óvart hvernig framvindan verður. Eitt af því sem var svo spennandi við að búa þennan leik til var að við réðum því ekkert endilega hvernig sagan þróaðist.“

llaus á foreldrafundi

Saga Stefaníu sjálfrar þróaðist þannig að hún varð yfirþróunarstjóri Eve Online á Íslandi og síðan flutti hún til Kína þar sem hún færði sig meira yfir í viðskiptaþróun fyrir CCP. Þar kynntist hún enn einni hliðinni á þessum heimi.

„Í stúdíóinu í Sjanghæ voru um sextíu manns og ég var að stýra útgáfu Eve Online í Kína vegna þess að Kínverjar mega ekki spila á alþjóðlega servernum þannig að það þarf að spegla allt yfir til Kína og við sem vestrænt fyrirtæki máttum ekki gefa út leikinn sjálf svo að við unnum það með kínverskum útgefanda sem var sérfræðngur í kínverska markaðinum.“

Það hlýtur að hafa verið töluvert átak að taka sig upp með mann og þrjú börn og flytja til Sjanghæ. Fékk hún ekki menningarsjokk?

„Ég kunni afskaplega vel við mig í Kína. Mér fannst gaman að læra kínversku, það er eins og það opnist annar heimur við að læra táknin. En eftir þrjú ár er maður svolítið uppgefinn á menguninni. Hún er bara óbærileg. Það er óbærilegt að reyna að fá börnin sín til að vera með öndunargrímur þegar þau fara út.“

„Jú, þetta var menningarsjokk fyrir alla, það verður bara að viðurkennast,“ segir Stefanía glaðbeitt. „Maðurinn minn vann líka hjá CCP og við þurftum að skipuleggja líf okkar þannig að við gætum bæði sótt vinnu allan daginn þótt við værum með þrjú börn á ýmsum aldri. Yngsta barnið var ekki orðið tveggja ára. Hún fór strax á kínverskan leikskóla og ég byrjaði að læra kínversku og var að læra hana allan tímann sem við vorum þarna, enda fannst mér það mikilvægt upp á það að skilja menninguna og komast inn í samfélagið og það var í rauninni nauðsynlegt. En fyrstu mánuðina sem við bjuggum í Sjanghæ var dóttirin sem sagt á kínverskum leikskóla og ég ekki farin að tala neina kínversku og það var mjög erfitt að geta ekki átt samskipti við fólkið sem passaði barnið manns á hverjum degi. Þau voru stundum að senda mér bréf heim og ég fór þá með þau í vinnuna og lét þýða þau þar. Þau lögðu líka afar mikið upp úr því að ég kæmi á foreldrafund sem ég gerði auðvitað. Þar fór að sjálfsögðu allt fram á kínversku og ég skildi ekki neitt.“

Er kínverskan ekki hrikalega erfitt mál að læra?

„Jú, mér fannst það erfitt. Þetta er samt ekkert brjálæðislega erfitt tungumál þegar maður er farinn að skilja hljóðin. Það tók mig svolítinn tíma. En eftir að maður nær þeim verður þetta auðveldara. Litlan mín var fljót að ná kínverskunni mjög vel en strákarnir, sem voru þá níu og fjórtán ára, fóru í alþjóðlegan skóla þar sem kennt var á ensku. Þannig að það voru í rauninni bara við mæðgur sem töluðum kínversku. Við vorum með heimilishjálp eins og er mjög algengt í Kína og hún talaði enga ensku sem ýtti líka á mig að læra að tjá mig. Hún tók á móti Katrínu litlu á hverjum degi þegar hún kom heim úr leikskólanum og passaði hana þangað til við komum heim og þær urðu rosalega góðar vinkonur. Það var stundum svolítið erfitt að koma því til skila hver setti reglurnar á heimilinu. Til dæmis sagðist sú stutta mega fá ís eftir leikskóla, en ég hafði sagt að hún ætti að fá jógúrt. Það tók mig smátíma að vinda ofan af svona hlutum, en hún var bara strax miklu betri en ég í tungumálinu.“

Segja já þótt þeir meini nei

nverskt samfélag er ansi ólíkt því íslenska, hver fannst Stefaníu vera mesti munurinn?

„Sjanghæ er náttúrlega svo brjáluð borg. Þar er svo margt fólk, tuttugu og sex milljón manns, og það er mjög mikill munur á því hvernig fólk lifir innan Sjanghæ eftir hverfum. Maður stendur fyrir framan gríðarlega flottar Gucci-búðir og gengur svo eina götu og er þá kominn í hverfi þar sem fólk er að vaska upp fyrir utan húsin sín þar sem ekki er rennandi vatn inni í húsunum og svo framvegis. Maður sér ekki ofboðslega mikla fátækt en maður sér hvað það er mikill munur á lífskjörum fólks innan borgarinnar.“

Hvað með viðskiptasamfélagið, er það mjög ólíkt því vestræna?

„Já, það er mjög ólíkt. Það er ekki eins formlegt og ég hélt fyrir fram, en það er miklu meira af óskrifuðum reglum. Ég var þarna að vinna með kínverska útgefandanum og við erum auðvitað með samning en hann er eiginlega meira til hliðsjónar. Þetta snýst dálítið mikið um persónuleg sambönd og það eru ýmsar venjur í viðskiptum hjá þeim sem við erum ekki vön. Til dæmis er mikið verið að gefa gjafir og það tók mig töluverðan tíma að venjast því. Ég vissi það auðvitað en stundum var ég boðuð á mikilvægan fund og var lögð af stað þegar ég uppgötvaði að ég hafði gleymt að finna gjafir handa þeim. Það var svolítill hausverkur af því maður er ekki vanur þessum sið. Svo þurfti ég líka að venjast samskiptunum.

„Ég hafði kannski komið með hugmynd sem enginn mótmælti beint, þeir jánkuðu og kinkuðu kolli og svo þurfti ég að komast að því eftir öðrum leiðum að þeim leist ekki vel á hugmyndina af einhverri ástæðu. Þetta var rosalega góður skóli í því að þjálfa sig í að lesa fólk og aðstæður betur.“

Fólk í Kína talar stundum í kringum hlutina og það tók mig dálítinn tíma að venjast því að lesa í það sem fólk var að segja. Stundum þurfti ég að finna út hvað það meinti eftir krókaleiðum. Ég hafði kannski komið með hugmynd sem enginn mótmælti beint, þeir jánkuðu og kinkuðu kolli og svo þurfti ég að komast að því eftir öðrum leiðum að þeim leist ekki vel á hugmyndina af einhverri ástæðu.

Þetta var rosalega góður skóli í því að þjálfa sig í að lesa fólk og aðstæður betur. Og hlusta. Það er mjög mikilvægt í samskiptum í viðskiptalífinu í Kína að hlusta. Að mæta ekki strax með mína skoðun heldur hlusta fyrst eftir því hvað þau voru að hugsa og hvort það sem ég var að leggja til passaði inn í það. Það er líka mikil auðmýkt í fólki og það sækist eftir því að finna samhljóm og forðast átök. Fólk gengur frekar frá borðinu en að takast of mikið á.“

Fjölskyldan saman: Halldór, Árni, Snorri, Stefanía og Katrín.

Bannaði fólki að snerta börnin

Stefanía segir erfitt að alhæfa um reglur í samskiptum í samfélaginu í Sjanghæ almennt, þar sé slíkur aragrúi af fólki með alls konar bakgrunn og misjafnt hvað hverjum hóp þykir við hæfi. Stundum hafi legið nærri árekstrum.

„Katrín og Árni eru bæði ljóshærð og hún með bollukinnar. Stundum var bara ekki hægt að vera með þau á fjölförnum stöðum. Ef við fórum á ferðamannastaði þar sem voru kínverskir ferðamenn þá var alltaf strolla á eftir okkur. Ég held það séu þúsundir Kínverja sem eiga myndir af Katrínu og Árna í símanum sínum. Fólk vildi líka fá að koma við þau og tala við þau og mér fannst oft erfitt hvað fólk fór gjörsamlega yfir mörkin í því. Eitt af því fyrsta sem ég lærði að segja á kínversku var „ekki snerta þau“. Mér fannst rosalega erfitt þegar fólk kom og rak puttana í hárið á þeim en ég veit að þetta var allt vel meint. Margir, og þá sérstaklega fólk af landsbyggðinni, hafa aldrei séð ljóshærða hvíta krakka og finnst þau svo ofboðslega sæt að þau ráða bara ekki við sig.“

„Fólk vildi líka fá að koma við þau og tala við þau og mér fannst oft erfitt hvað fólk fór gjörsamlega yfir mörkin í því. Eitt af því fyrsta sem ég lærði að segja á kínversku var „ekki snerta þau“.“

Fyrst við erum farin að tala um ferðamannastaði er ekki úr vegi að spyrja Stefaníu hvernig henni finnist Asíuríkin standa sig í þeim málum sem snerta þá og hvort við Íslendingar getum kannski lært eitthvað af þeim.

„Við ferðuðumst töluvert um Asíu og það er áberandi hvað Asíuþjóðirnar passa vel upp á sitt. Þar  hikar fólk ekki við að taka gjald af ferðamönnum inn á ferðamannastaði enda er ofboðslega margt  fólk þarna. Þegar maður kemur til Kambódíu þá borgar maður komugjald á hvern haus og auk þess er selt inn á vinsæla ferðamannastaði. Ég varð eiginlega svolítið hissa á hversu langt þau eru komin í fagmennsku og skipulagningu í kringum ferðamannaiðnaðinn. Þetta er gríðarlega fátæk þjóð sem hefur glímt við ótrúlega erfiða hluti en hún hefur náð að skipuleggja þetta vel. Mér finnst að við Íslendingar þurfum aðeins að passa upp á það sem við höfum. Í Asíu þykir það alveg sjálfsagt.“

Reykjavík orðin meiri heimsborg

Stefanía og fjölskylda bjuggu í Sjanghæ í þrjú ár og hún segir þeim hafa liðið mjög vel þar.

„Ég kunni afskaplega vel við mig í Kína. Mér fannst gaman að læra kínversku, það er eins og það opnist annar heimur við að læra táknin. En eftir þrjú ár er maður svolítið uppgefinn á menguninni. Hún er bara óbærileg. Það er óbærilegt að reyna að fá börnin sín til að vera með öndunargrímur þegar þau fara út. Vatnið er líka mjög mengað, maður drekkur það auðvitað ekki en maður fer að hugsa um það þegar maður er í sturtu á hverjum degi hvaða áhrif það hafi. Þessir hlutir sem við tökum sem sjálfsögðum, hreina loftið og hreina vatnið, eru ómetanlegir. Ég hef verið heima í rúmt ár og ég hugsa stundum enn þá um það þegar ég geng út úr húsinu hvað það sé gott að geta andað að sér hreinu lofti.“

Hvernig var annars að koma heim eftir þessi þrjú ár í burtu, hefur eitthvað breyst?

Katrín og vinkona í Longsheng

„Nei, þetta er of stuttur tími til þess. Eða jú, ég sá breytingu. Ég sá breytingu á því hvað það er miklu, miklu meira af ferðamönnum en var. Og í rauninni verður Reykjavík pínulítið meiri heimsborg við það. Það er hægt að reka fleiri flotta veitingastaði og svo framvegis. Með öllum þessum ferðamönnum spratt upp margvísleg menning sem er alveg frábært. Mér finnst skemmtilegt að koma úr svona stórri heimsborg eins og Sjanghæ og finna að það er smávegis heimsborgarbragur kominn á Reykjavík líka. Það er ekkert nema jákvætt.“

Fyrst eftir heimkomuna hélt Stefanía áfram að vinna hjá CCP, hvað varð til þess að hún hætti þar?

„Ég kom heim og tók við sem framkvæmdastjóri CCP á Íslandi en í október í fyrra voru skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu og ákveðið að hætta nýrri þróun á sýndarveruleikaleikjum og við það minnkuðu umsvifin gríðarlega. Það varð ekki lengur þörf fyrir framkvæmdastjóra af neinni af skrifstofum CCP. Það kom mér ekki endilega á óvart og minn viðskilnaður við CCP var á mjög góðum nótum og ég fylgist auðvitað með fyrirtækinu áfram og held með því.“

Ýmislegt sameiginlegt með Landsvirkjun og CCP

Nú ertu komin yfir til Landsvirkjunar er það ekki allt annað kúltúrsamfélag heldur en tölvuleikjaheimurinn?

„Þetta er svolítið annar kúltúr, jú,“ viðurkennir Stefanía. „En ég sé líka ýmislegt sem er sameiginlegt og það er meira en fólk heldur. Það er gríðarlega mikil þekking inni í báðum fyrirtækjunum og mikil hollusta starfsmanna á báðum stöðum. Þetta eru fyrirtæki sem eru í mikilli þróun á nýjum aðferðum og lausnum og ég finn mig mjög vel í svoleiðis umhverfi. Þegar mér bauðst að fara inn í Landsvirkjun þá var ég í skýjunum yfir því. Þetta er einmitt svona tækifæri sem mér fannst akkúrat tímabært núna. Báðir þessir vinnustaðir halda líka vel utan um sitt fólk en auðvitað er margt öðruvísi. Nærri einn þriðji af starfsmönnum CCP á Íslandi er erlendur þannig að vinnutungumálið er enska og að vera með svona mörg þjóðerni innan fyrirtækis gerir það skiljanlega svolítið ólíkt öðrum fyrirtækjum á Íslandi. Svo er það auðvitað þannig að Landsvirkjun er rótgróið fyrirtæki, það er meira um ferla og hlutirnir í fastari skorðum en í tölvuleikjabransanum sem er miklu hraðari, það er bara eðli slíks fyrirtækis. Í staðinn ríkir meiri stöðugleiki og festa hjá Landsvirkjun.“

Landsvirkjun er samt í nokkurs konar ímyndarherferð til að breyta ásýnd fyrirtækisins, er það ekki?

„Jú. Landsvirkjun hefur verið að breytast mikið undanfarin ár. Gott dæmi um þær breytingar sem ég upplifi og sé er metnaðarfull jafnréttisstefna. Við kynntum í mars nýja heildstæða jafnréttisáætlun og aðgerðaáætlun í jafnréttismálum og þar eru sett fram markmið, mælikvarðar og umbótaverkefni. Eins og lög gera ráð fyrir er Landsvirkjun að fara í gegnum jafnlaunavottun en við erum að taka þetta miklu lengra. Við erum að taka menninguna fyrir, tala um hana, búa til verkefni sem fjalla um stöðu kynja í mismunandi stjórnunarlögum, tala um framgangs- og menntakerfi fyrir konur og svo hvernig er ráðið inn í fyrirtækið. Fyrir mig sýnir þetta að fyrirtækinu er alvara með þessu. Mér finnst mikilvægt að fyrirtæki gæti að jafnrétti og ég er bara ekki tilbúin að samþykkja að helmingur starfsmanna sé alltaf í minnihluta þegar kemur að stjórnunarstöðum. Á Íslandi eru ellefu prósent forstjóra konur og ástæðan er klárlega ekki að konur séu ekki hæfar í þessi störf til jafns við karla. Þetta er bara óafsakanlegur, kerfisbundinn halli og það þarf að laga hann. Það þarf hugrekki til að taka á þessu og ég er afskaplega stolt af mínum vinnustað og stjórnendum þar að sýna þetta hugrekki.“

„Ég held að þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir hér á landi séu að við þurfum að vera með stefnu í orkumálum og sú stefna þarf að endurspegla umhverfissjónarmið og markmið sem lúta að alþjóðavæðingu. Okkar umhverfismarkmið og umhverfissjónarmið geta ekki bara miðast við það hvernig hlutirnir eru hérna á Íslandi.“

Kolabrennsla í Kína kemur okkur við

Fyrir utan jafnréttið, hver eru stóru málin sem Landsvirkjun þarf að takast á við á næstu árum?

„Auðvitað er það þannig að stefna Landsvirkjunar er að fá sem mest fyrir auðlindina okkar. Ég er svo nýkomin þar inn að ég er sjálf að læra inn á það hvar tækifærin í framtíðinni liggja, en ég held að það séu mikil tækifæri fyrir Ísland almennt í orkumálum. Við eigum svo ofboðslega mikið af grænni orku og nú hef ég fundið á eigin skinni hvernig það er að búa í rosalega mengaðri borg og geri mér vel grein fyrir því að það að verið sé að brenna kol í Kína til þess að búa til alls konar hluti sem við svo kaupum er okkar mál, það kemur okkur við. Ísland er hluti af þessari plánetu og þetta kemur inn á okkar neyslumynstur og líka hvernig við ætlum svo að nota okkar orku. Að framleiða eitthvað á Íslandi með grænni orku gerir það að verkum að það er ekki verið að brenna kol einhvers staðar annars staðar til að framleiða það. Orkumál eru mjög stórt umhverfismál.

„Að framleiða eitthvað á Íslandi með grænni orku gerir það að verkum að það er ekki verið að brenna kol einhvers staðar annars staðar til að framleiða það. Orkumál eru mjög stórt umhverfismál.“

Mér finnst við Íslendingar stundum ekki átta okkur á því að það er jákvætt að við notum okkar grænu orku. Ég held að þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir hér á landi séu að við þurfum að vera með stefnu í orkumálum og sú stefna þarf að endurspegla umhverfissjónarmið og markmið sem lúta að alþjóðavæðingu. Okkar umhverfismarkmið og umhverfissjónarmið geta ekki bara miðast við það hvernig hlutirnir eru hérna á Íslandi.“

Nú er fjölskyldan búin að búa á Íslandi í rúmt ár, voru viðbrigðin eftir þriggja ára Kínadvöl ekkert erfið?

„Jú. Við komum heim í janúar í fyrra og dóttir mín var strax á þriðja degi orðin mjög þreytt á því að þurfa alltaf að klæða sig í svona mörg fötum. Þótt það verði alveg kalt í desember og janúar í Sjanghæ þá er það á öðrum skala þannig að hún var alls ekki vön því að þurfa að vera með húfu og í úlpu. Svo þurfti hún líka að venjast íslenska matnum. Hún var ekki hrifin þegar hún fékk kartöflur og fisk í fyrsta skipti á leikskólanum,“ segir Stefanía og skellihlær. „Miðjusonurinn sem verður þrettán ára á þessu ári var hins vegar mjög glaður að komast heim og geta aftur leikið sér úti með vinum sínum og við erum öll mjög ánægð með að vera komin heim. Og á meðan krakkarnir eru að klára skóla held ég að við verðum hér. Allavega næstu árin. Svo sjáum við til.“

Birgir Breiðdal vill nota fótboltann til að stuðla að betri heimi

Ungar íslenskar fótboltakonur fengu það frábæra tækifæri að stunda nám í alþjóðlegum heimavistarskóla á Spáni og iðka jafnframt íþrótt sína af kappi.

TNGS (The Next Generation Sports) er alþjóðlegur heimavistarskóli í Valencia á Spáni. Skólinn hefur verið starfræktur í sjö ár og býður meðal annars upp á einstaklingsmiðaða þjálfun í knattspyrnu, nám á framhaldskólastigi og í lífsleikni. Mikil áhersla er lögð á að undirbúa unga leikmenn andlega og líkamlega fyrir framtíðina.

Nú er komið að stelpunum, en sett hefur verið á laggirnar kvennadeild innan skólans þar sem íslenskum stúlkum gefst tækifæri til að láta til sín taka. Unnið er að því að stofna lið sem mun taka þátt og keppa í spænsku deildinni næsta vetur, undir stjórn spænskra þjálfara. Birgir Breiðdal, yfirþjálfari stúlkna í U12 liði Þróttar, er umsjónarmaður verkefnisins.

Birgir nam arkitektúr í Mílano og starfaði m.a. lengi á Ítalíu, jafnt við fagið sem og gat hann sér gott orð sem myndlistarmaður. Hann hafði nóg að gera en fann sig aldrei almennilega í starfinu þar sem kyrrsetan og inniveran er mikil. Fjölskyldan ákvað að flytja aftur til Íslands árið 2009 og segja má að örlögin hafi þá gripið í taumana. „Rétt eftir að við fluttum heim vorum við í miðju hruninu. Þegar kreppir að eru arkitektar og myndlistarmenn auðvitað með þeim fyrstu sem missa vinnuna. Ég var í raun fyrir löngu búinn að teikna yfir mig og var tilbúinn að gera eitthvað annað,“ segir Birgir.

Dóttir hans var byrjuð að æfa fótbolta með Val og þegar kom að þjálfarafríi í félaginu var send út beiðni til foreldra, hvort einhver treysti sér til að taka við þjálfuninni í fríinu. Birgir ákvað að slá til og segist fljótt hafa fundið að þarna væri hann á réttri hillu. „Ég uppgvötaði nýjan hæfileika hjá sjálfum mér, að vinna með fólki, með krökkum. Á þessum tímapunkti snérist allt umtal í þjóðfélaginu um Icesave og raus um hrunið, en á meðan var ég úti að leika mér með krökkunum, sem var yndislegt.“

Árið 2011 byrjaði Birgir svo að starfa sem þjálfari hjá FRAM og tók síðan formlega við þjálfarastarfinu sem yfirþjálfari kvennadeildar Þróttar 2016. „Þegar ég byrjaði var ég kominn yfir fertugt en hefði viljað byrja fyrr. Ég vissi ekki almenninlega hvað ég vildi gera áður en ég byrjaði að þjálfa.“ Birgir á sjálfur ekki langan knattspyrnuferil að baki en að hans mati er það ekki grundvallaratriði. „Maður þarf ekki að vera besti fótboltamaðurinn til að vera besti þjálfarinn. Aðalmálið er að hafa mikinn áhuga, góðan leikskilning, lesa völlinn og taka góðar ákvarðanir. Ég á tvær dætur sem eru í liðinu sem ég þjálfa, en inni á vellinum gleymi ég því stundum. Þar eru þær ekkert öðruvísi fyrir mér en hinar stelpurnar. Mér þykir alveg jafnvænt um hinar og lít í raun og veru á þær allar sömu augum.“

Lestu viðtalið við Birgi í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar. Þar sem einnig má finna nánari upplýsingar um þetta spennandi verkefni.

Texti: Margrét Björk Jónsdóttir

Myndir: Hákon Davíð Björnsson

Instagram-notendur sem vert er að fylgjast með

Nýtt í Vikunni.

Instagram er stærsti samfélagsmiðill í heimi og virðist ekkert vinsældum hans. Það er alltaf gaman að uppgötva notendur sem veita innblástur og tímaritið Vikan hefur nú tekið upp nýjan lið þar sem mælt verður með áhugaverðum Instagram-notendum.

Guðlaug Katrín
@gudlaugkatrin

Guðlaug Katrín er 23 ára íslensk stúlka, búsett í Malmö. Instagram-aðgangur Guðlaugar er undir skandinavískum áhrifum en þar deilir hún m.a. myndum af heimili sínu, frá matargerð og daglegu lífi. Það er greinilegt að Guðlaug er mikil smekkkona en margar af myndum hennar eru eins og klipptar úr tískublaði.

 

 

Sólveig Sveinbjörnsdóttir
@localicelander

Sólveig heldur úti aðganganginum Local Icelander. Þar deilir hún myndum af ferðalögum sínum en einnig spila fallegar náttúrumyndir frá Íslandi stórt hlutverk. Það er einstaklega gaman að sjá landið okkar frá þessu sjónarhorni, en myndirnar eru hver annari fegurri. Við fréttum að Sólveig hefði í hyggju að opna bloggsíðu fljótlega, svo það er vert að fylgjast með.

 

Unnur Eggerts
@unnureggerts

Það er alltaf gaman að fylgjast með Íslendingum „meika það“ erlendis en það virðist hún Unnur Eggertsdóttir sannarlega vera að gera. Unnur landaði nýlega hlutverki sem Marilyn Monroe í söngleik sem settur verður upp í Las Vegas og því vægast sagt spennandi tímar fram undan.

 

Íris Tara
@iristara87

Förðunarfræðingurinn, bloggarinn og fagurkerinn Íris Tara heldur úti skemmtilegum aðgangi þar sem kennir ýmissa grasa. Þar deilir hún m.a. myndum af heimilinu en Íris er einstaklega lagin í því að grafa upp gersemar á nytjamörkuðum og gefa þeim andlitslyftingu. Synir hennar þrír spila einnig stórt hlutverk á myndunum og skal engan undra, enda heimsins mestu krútt.

Þessi grein er brot úr stærri umfjöllun sem finna má í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Margrét Björk Jónsdóttir

 

Stórkostlegar brúðkaupsmyndir sem segja meira en mörg orð

||||||||||
||||||||||

Við elskum vefsíðuna Fearless Photographers, vefsíðu sem sýnir það besta sem er að gerast í brúðkaupsljósmyndun um allan heim.

Vefsíðan verðlaunar bestu myndirnar hverju sinni á tveggja mánaða fresti og veitti einmitt nýlega þau verðlaun.

Sjá einnig: Þessar myndir fanga stemninguna á brúðkaupsdaginn fullkomlega

Rúmlega tíu þúsund myndir voru sendar inn í keppnina að þessu sinni en aðeins 147 voru verðlaunaðar. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar af okkar uppáhaldsmyndum, en hægt er að sjá allar myndirnar með því að smella hér.

Jóhannes Haukur fer á kostum í stiklu fyrir nýja Netflix-seríu

|
|

Netflix hefur sett í loftið nýja stiklu fyrir sjónvarpsþættina The Innocents sem fara í sýningar á efnisveitunni þann 24. ágúst næstkomandi. Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson fer með stórt hlutverk í þáttunum og fer á kostum í stiklunni.

Þættirnir fjalla um unglingsparið Harry og June sem flýja foreldra sína til að geta verið saman. Öll þeirra framtíðarplön komast í uppnám þegar í ljós kemur að June getur breytt sér í hvaða manneskju sem er. Eins og sést í stiklunni hér fyrir neðan breytir hún sér meðal annars í fyrrnefndan Jóhannes Hauk.

Meðal annarra leikara í þáttunum er breski leikarinn Guy Pearce sem tilnefndur hefur verið til fjölda, alþjóðlegra verðlauna, og er líklegast þekktastur fyrir leik í kvikmyndunum Memento, L.A Confidential og The Adventures of Priscilla, Queen of the Desert.

Jóhannes Haukur sagði í viðtali við Mannlíf fyrir stuttu að hann væri samningsbundinn að leika í annarri seríu af The Innocents ef ákveðið verður að ráðast í gerð seríu númer tvö. Það ræðst auðvitað allt eftir viðtökunum, en stiklan lofar góðu.

Jóhannes flottur í The Innocents.

„Netflix-serían The Innocents verður frumsýnd í júlí og ef ákveðið verður að gera aðra seríu er ég samningsbundinn að leika í henni. Þá fer ég aftur í tökur í september eða október, að því gefnu að verði gerð önnur sería sem ég veit ekki fyrr en í ágúst. Mögulega leik ég í skandinavískri bíómynd í ágúst en það er allt á samningsstigi og ekkert ákveðið. En það væri gaman,“ sagði leikarinn, en þegar viðtalið var tekið var ekki komin frumsýningardagsetning á sjónvarpsþættina, en hún er 24. ágúst eins og áður segir.

„Skíðin verið hluti af lífinu frá því ég man eftir mér“

Elsa Guðrún Jónsdóttir keppti fyrir Íslands hönd á vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang þrátt fyrir að lítill snjór hafi fallið í heimabæ hennar, Ólafsfirði á undirbúningstímanum.

Elsa Guðrún er hörkudugleg, þrjátíu og tveggja ára kona. Enginn Íslendingur getur státað af jafngóðum árangri á skíðum og hún, en hún á yfir fimmtíu Íslandsmeistaratitla í skíðagöngu að baki. Elsa keppti á Ólympíuleikunum í greininni í febrúar síðastliðnum og varð þar með fyrsta íslenska konan til að ná þeim árangri. Þrátt fyrir erfiðar æfingaaðstæður tókst henni að þjálfa sig fyrir keppnina, samhliða því að vera í fullri vinnu og með fjölskyldu.

Elsa býr ásamt fjölskyldu sinni á Ólafsfirði. Þau hjónin hafa verið saman frá unglingsárum, en maðurinn hennar, Kristófer Beck, er sjómaður. Þau eiga tvö börn, níu og sjö ára. Elsa hefur að eigin sögn alltaf verið mikil íþróttamanneskja. „Ég æfði fótbolta þegar ég var yngri og var mikið í fjallgöngum, í hlaupum og á hjólaskíðum á sumrin og skíðum á veturna. Skíðin hafa verið partur af mínu lífi síðan ég man eftir mér. Pabbi var á fullu í þessu þegar hann var ungur, varð Íslandsmeistari nokkrum sinnum og fór á heimsmeistaramót. Öll systkini hans æfðu íþróttina og bróðir hans fór eitt sinn á Ólympíuleikana. Pabbi fylgdi mér á öll mót og æfingar, hann þjálfaði okkur krakkana stundum og var alltaf til taks og fylgir mér enn þann dag í dag. Hann var til dæmis með mér núna á Skíðamóti Íslands í Reykjavík í fjóra daga og sá um skíðin mín frá a-ö og stóð út í braut að hvetja mig. Má segja hann vera minn helsta stuðningsmann.“

Pressa að vinna allar keppnir

Skíðaferill Elsu byrjaði um fimm ára aldur og frá fyrstu keppni var hún sigursæl. „Þegar ég keppti í fyrsta sinn sigraði ég og hélt því svo bara áfram næstu árin. Ég var með rosalegt keppnisskap og var með á öllum Andrésarleikum, unglingameistaramótum, bikarmótum og landsmótum. Í raun man ég ekki eftir einni keppni sem ég sleppti eða komst ekki á vegna veikinda.“ Elsa segist hafa þróað með sér gríðarlega pressu á sjálfa sig að hún yrði að vinna allar keppnir. En um tvítugt kom að því að hún datt í sprettgöngu á Íslandsmeistaramóti. „Þá fann ég fyrir vissum létti. Það var eins og ég hefði losnað undan pressu sem ég hélt að allir hefðu á mér en var í raun og veru bara pressa frá mér sjálfri.“

Ítarlegra viðtal við Elsu Guðrúnu má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar, en þar segir hún frá undirbúningnum fyrir Ólympíuleikana og ævintýrinu í Suður-Kóreu.

Texti: Margrét Björk Jónsdóttir

Myndir og myndvinnsla: Aldís Pálsdóttir

Förðun: Björg Alfreðsdóttir, National Make Up Artist fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

Giftu sig á vökudeildinni hjá veikri dóttur

|||||
|||||

Rubia Ferreira og Tyler Campbell áttu von á sínu fyrsta barni og flugu á heimaslóðir í Alabama í Bandaríkjunum frá Okinawa í Japan, þar sem þau eru búsett, til að vera með fjölskyldunni áður en barnið kæmi í heiminn. Þegar þau eyddu gæðatíma með vinum og fjölskyldu í nóvember síðastliðnum byrjaði Rubia að finna til í maganum. Læknar sögðu að hún þyrfti að fara í bráðakeisara og kom barnið þeirra Tyler í heiminn eftir aðeins 24 vikna meðgöngu.

Litla hnátan tók þátt.

Rubia og Tyler eignuðust stúlku, sem heitir Kaelin, og parið eyddi næstu fimm mánuðum með henni á vökudeildinni þar sem Kaelin litla var með krónískan lungnasjúkdóm sem heitir lungnaháþrýstingur. Parið vissi að þau vildu gifta sig fyrr en síðar og ætluðu upprunalega að gifta sig á strönd í Okinawa. Síðan fengu þau þá hugmynd að hafa athöfnina í sjúkraherbergi dótturinnar í staðinn.

Skemmtileg hugmynd.

„Við vissum að við vildum ekki bíða lengur og við vildum að dóttir okkar yrði viðstödd,“ segir Tyler í samtali við Cosmopolitan og bætir við:

„Okkur fannst vera svalt að hafa brúðkaupið í herbergi Kaelin en við bjuggumst aldrei við því að það gæti gerst.“

Barnalæknirinn var í mikilvægu hlutverki á stóra daginn.

Parið fékk dyggan stuðning og hjálp frá starfsfólki spítalans og gekk barnalæknir Kaelin meira að segja með Rubiu upp að „altarinu“. Athöfnin átti sér stað á sjálfan Valentínusardaginn.

Rubia með hjúkrunarkonu.

„Það skipti okkur svo miklu máli að deila þessum tímamótum með nýju fjölskyldunni okkar hér,“ segir Rubia, en þau Tyler vona að þau geti snúið aftur til Okinawa í lok sumars þegar Kaelin verður útskrifuð.

Sátt og ástfangin.

Myndir / University of Alabama Birmingham

Nýfædda stúlkan er komin með Instagram-síðu

|
|

Raunveruleikastjarnan Khloé Kardashian eignaðist stúlku með kærasta sínum Tristan Thompson síðasta fimmtudag, í skugga alvarlegra fregna um að Tristan væri búinn að vera að halda framhjá Khloé.

Stúlkan hefur fengið nafnið True, sem netverjum finnst ansi kómískt í ljósi framhjáhaldsfregnanna. Kris Jenner, móðir Khloé, hefur reyndar bent á það á samfélagsmiðlum að afi hennar hafi heitið True Otis Houghton og að raunverulegt nafn föður hennar hafi verið Robert True Houghton. Þannig að True er ættarnafn.

En þó True litla sé bara nokkurra daga gömul er hún nú þegar komin með sinn eigin Instagram-reikning undir nafninu True Thompson. Þó að engar myndir hafi verið birtar á síðunni enn þá er True samt komin með tæplega 170 þúsund fylgjendur þegar þetta er skrifað. Margur er knár þótt hann sé smár!

Vinsælasta ungbarnið á Instagram.

Nú getur þú slappað af á einhyrningaeyju

|||||
|||||

Mikið einhyrningaræði hefur gripið heimsbyggðina en Filippseyingar hafa tekið skrefið lengra og búið til fljótandi einhyrningaeyju í Subic-flóa, 130 kílómetrum vestur af höfuðborginni Manila.

Eyjan fagra.

Eyjan er kannski ekki eyja í eiginlegum skilningi þar sem hún er uppblásin, en dekkar þó svæði sem er um 3400 fermetrar. Á eyjunni eru rennibrautir, brýr, rólur, turnar og ýmislegt fleira skemmtilegt, en eyjunni hefur verið lýst sem stærsta, uppblásna leikvelli í Asíu.

Þvílík snilld.
Eyjan í öllu sínu veldi.

Þegar að fólk er búið að leika yfir sig á eyjunni getur það slappað af á svæði sem heitir Pink Bali Lounge, sem er stútfullt af bleikum og fjólubláum sólhlífum og hægindastólum.

Pink Bali Lounge.

Fyrir tæplega þúsund krónur er hægt að kaupa aðgang að ströndinni við eyjuna allan daginn og klukkutíma af uppblásnu fjöri með einhyrningunum. Ef maður eyðir hins vegar um sextán hundruð krónum fær maður aðgang að einhyrningaeyjunni allan daginn, en hún er opin frá 8 til 17.50 á hverjum degi.

Hugmynd fyrir næsta sumarfrí?

Raddir