Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.7 C
Reykjavik

Brenndu 300 kaloríum á 30 mínútum

Vefsíðan Popsugar er dugleg að búa til skemmtileg æfingarmyndbönd og eiga þau það öll sameiginlegt að æfingarnar er hægt að gera heima í stofu.

Til dæmis þessi æfing hér fyrir neðan sem er aðeins þrjátíu mínútur, en ef maður tekur vel á því getur maður brennt allt að þrjú hundruð kaloríum á stofugólfinu.

Í myndbandinu nota konurnar handlóð til að auka brennsluna, en að sjálfsögðu er hægt að sleppa þeim eða fylla tvær hálfslítra flöskur með vatni eða hrísgrjónum.

Góða skemmtun!

Leiðir til að skera niður hitaeiningar

Með því að innbyrða fimm hundruð hitaeiningum minna á hverjum degi er hægt að léttast um hálft kíló á viku.

Salat er ekki það sama og salat

Einn stór salatdiskur með öllu getur innihaldið fleiri hitaeiningar en pastaréttur.

Í hugum flestra er salat það hollasta sem maður getur fengið sér. Það má samt öllu ofgera og eftir því sem lagt er meira í salatið með alls kyns ostum, karamelliseruðum hnetum, beikoni, avókadó, brauðteninga og þvíumlíku þeim mun hitaeiningaríkara verður það. Einn stór salatdiskur með öllu getur innihaldið fleiri hitaeiningar en pastaréttur. Ef þú setur aðeins eitt sælkerahráefni í salatið, helmingar dressinguna og hefur fjölbreyttara grænmeti í á móti getur þú fækkað hitaeiningunum um fimm hundruð.

Minni diskar
Besta leiðin til að minnka skammtastærðir er einfaldlega að nota minni diska. Með því einu að skipta þrjátíu sentímetra disknum út fyrir tuttugu og fimm sentímetra disk muntu borða fjórðungi minna, sem þýðir fimm hundruð kaloríur þegar allar máltíðir dagsins eru taldar. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því að verða svöng því rannsóknir hafa sýnt að svengdin verður ekkert meiri.

Borðaðu sjaldnar pasta
Aðeins einn bolli af pasta eru tvö hundruð og tuttugu hitaeiningar en skammtastærðir flestra eru töluvert stærri en einn bolli. Þannig að það er auðvelt að innbyrða næstum því þúsund hitaeiningar í einni pastamáltíð. Reyndu að hafa pasta aðeins einu sinni í viku og haltu þig við tvo bolla af því, það er alltaf hægt að hafa salat með.

Varastu heilsufæði
Fólk er síður á varðbergi gagnvart mat sem er stimplaður sem heilsufæði og vanmetur oftar en ekki hitaeiningafjöldann. Þó að matur sé hollur þýðir það ekki endilega að hann sé hitaeiningasnauður, til dæmis er oft mælt með að nota hnetur og þurrkaða ávexti sem nasl en ef þú gætir ekki að þér getur þú óafvitandi innbyrt fimm hundruð hitaeiningar í einu millimáli.

Fáðu nægan svefn
Rannsóknir hafa sýnt að því minna sem þú sefur því meira hættir þér til að snarla. Þegar við erum þreytt og orkulaus sækjum við líka meira í orkuríkan mat, eins og sætindi eða aðra óhollustu. Ef við náum sjö tíma svefni á hverri nóttu gætum við innbyrt allt að fjögur hundruð hitaeiningum minna á dag.

Byrjaðu daginn vel
Morgunverður er mikilvægasta máltíð dagsins. Reyndu að borða sem mest af prótíni því það inniheldur færri hitaeiningar en kornmatur og þú verður einnig saddari lengur. Til dæmis væri hægt að fá sér tvö soðin egg og tvo skammta af grænmeti, svo sem kirsuberjatómata og gúrku.

Umsjón / Hildur Friðriksdóttir

Bloggara í yfirstærð hent út fyrir að vera í bikiníi

Anna O’Brien er 33ja ára lífsstílsbloggari og stofnandi síðunnar Glitter and Lazers. Hún lenti í bobba í Las Vegas á dögunum þar sem hún var að taka upp auglýsingamyndir fyrir sundföt. Anna ætlaði að mynda inni á hóteli sem hún nafngreinir ekki og var búin að fá leyfi fyrir myndatökunni frá kynningarteymi hótelsins.

Í samtali við Yahoo segir Anna að hún hafi fengið leyfi til að mynda alls staðar nema í spilavítinu þannig að hún ákvað að taka fyrstu myndina í anddyrinu. Hins vegar kom öryggisvörður askvaðandi að Önnu þegar hún var rétt að byrja og bað hana um að hylja sig. Anna náði þó þessari mynd:

A post shared by Glitter (@glitterandlazers) on

„Hann sagði mér að hylja mig, að ég þyrfti að fara í föt því ég mætti ekki vera í baðfötum einum klæða. Ég reyndi að tala við hann en hann hlustaði ekki,“ segir Anna. Hún bætir við að hún og ljósmyndari hennar hafi þá farið aftur uppá hótelherbergi þar sem Anna klæddi sig í sundbol. Þau fóru síðan aftur niður í anddyri og byrjuðu að mynda á öðrum stað.

„Við vorum að mynda á öðrum stað í anddyrinu og annar vörður kom til okkar og sagði okkur að stoppa,“ segir Anna og bætir við:

A post shared by Glitter (@glitterandlazers) on

„Ég sýndi honum tölvupóstana frá kynningarteyminu en það skipti engu máli. Mér líkaði ekki þær dylgjur um að ég væri að ljúga með að vera með leyfi. Hvað gerði ég til að gefa til kynna að ég væri ekki traustsins og virðingarinnar verð?“

Anna heldur að það liggi meira á bak við þessar uppákomur.

„Aðrar konur gengu um jafnlítið klæddar og ég og enginn sagði neitt við þær. Ég vil ekki halda það versta um fólk en í þessu tilviki get ég ekki annað en velt þessu fyrir mér.“

A post shared by Glitter (@glitterandlazers) on

Eftir að Anna opinberaði atvikið, bæði á Instagram og í fjölmiðlum, hefur hótelið sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að Anna hafi ekki fengið leyfi til að mynda sig í baðfötum á hótelinu, eingöngu fullklædd. Ku það ekki vera leyfilegt að ganga um á sundfötum á hótelinu samkvæmt reglum þess.

„Ég elska ekki fíkilinn – ég elska manninn minn“

|||
|||

„Það tekur gífurlega á að vera maki, dóttir, systir alkóhólista,“ segir Díana María Líndal Stefánsdóttir. Díana er búin að vera með manni sínum í fimm ár, og eiga þau tvo drengi saman; annar fjögurra ára og hinn 18 mánaða. Þá eiga þau líka einn fósturson sem er á nítjánda ári. Díana er lífsglöð og dugleg, en síðustu ár hefur hún þurft að berjast með öllu sem hún á við fíkn eiginmannsins – sjálfan alkóhólismann.

„Maðurinn minn er búinn að vera fíkill síðan hann var unglingur og var inn og út úr meðferðum sem ungur maður. Hann er búinn að taka upp og niður rassíur síðan við tókum saman, en var búinn að ná góðu tímabili áður en hann datt í það núna síðast,“ segir Díana, en stutt er síðan maður hennar kom úr meðferð, en hann lauk bæði meðferð á Vogi og Vík. Díönu blöskrar sú langa bið sem er eftir plássi í meðferð.

Díana ásamt sínum heittelskaða.

„Hann var búinn að bíða í hálft ár eftir að komast inná Vog. Ég var búin að biðja um hjálp frá öllum mögulegum og ómögulegum stofnunum en það var allt yfirfullt. Mér finnst fáránlegt þegar fólk vill sjálft fara í meðferð, eins og hann, að það þurfi að berjast við að reyna að halda sér edrú sjálft í hálft ár, sem er nátttúrulega vonlaust dæmi. Þessi bið þýddi bara hálft ár í neyslu. Á hálfu ári gerist haugur af vitleysu og hann setti okkur til dæmis í fjárhagslega pattstöðu því hann borgaði ekki leigu í þrjá mánuði. Ég vissi það ekki fyrr en leigusalinn okkar kom í vinnuna til mín. Það hefði til dæmis ekki gerst ef hægt væri að kippa fólki strax inn í meðferð. Ég segi bara eins og maðurinn minn: þetta er hrikalegt ástand og það virðist eins og öllum sé sama um stöðuna í þjóðfélaginu. Það skiptir greinilega meira máli að einhver forstjóri sé með margar milljónir í laun á mánuði en að hjálpa fólkinu okkar. Í öllum fjölskyldum er einhver sem þarf að nota þessa þjónustu og það er galið að Vogur sé eina afvötnunarstöðin, sem rúmar aðeins örfáar manneskjur miðað við þann fjölda sem þarf á hjálp að halda,“ segir Díana og heldur áfram.

„Ég hef líka sterkar skoðanir á því að Vogur eigi að vera kynjaskiptur staður því þarna eru veikir einstaklingar. Það er aldrei gott að blanda saman kynjum á svona stöðum og ég held að allir sem koma þarna inn, og aðstandendur þeirra, séu sammála um það, því þetta er ekki staður til að finna sér maka. Þegar fólk er svona veikt er það ekki með rökhugsun.“

Vill ekki hafa fíkilinn nálægt sér

Maður Díönu mætir núna tvisvar í viku í víkingaeftirmeðferð og mun gera það í eitt ár. Það gengur ágætlega að sögn Díönu, en mér leikur forvitni á að vita af hverju hún hafi ekki yfirgefið hann eftir þessi fimm, stormasömu ár.

„Stundum elskar maður einhvern meira en maður gerir sér grein fyrir. Ég vil líka halda í fjölskylduna mína. Ég veit hver hann er þegar hann er edrú. Fíkillinn er ekki maðurinn sem ég elska. Ég elska ekki fíkilinn – ég elska manninn minn og þetta eru tvær ólíkar persónur. Fíkillinn er einhver sem ég vil ekki hafa nálægt mér. Hann veit það og fer út af heimilinu þegar hann er í þessu ástandi. Ég er búin að spyrja mig oft að þessu sjálf, af hverju ég labba ekki bara út. Og ég hef alveg pakkað saman og flutt út. Ég hef flutt inn á tengdaforeldra mína með börnin þegar ástandið var orðið þannig að ég gat ekki verið inni á heimilinu,“ segir Díana, en bætir við að drengirnir sínir hafi ekki þurft að horfa uppá föður sinn fíkilinn.

„Þeir hafa aldrei séð hann undir áhrifum. Hann hefur aldrei vanrækt þá, þó hann vanræki mig, sambandið okkar og sjálfan sig. Ég hef samt hugsað að þessi síðasta meðferð sem hann fór í sé allri síðasti sénsinn hans. Ætla ég að ganga í gegnum þetta allt aftur? Þessar sex vikur sem hann var í burtu voru svakalega erfiðar.“

Ekki gleyma aðstandendum

Faðir Díönu var alkóhólisti og bróðir hennar er það líka. Fósturpabbi hennar er líka alkóhólisti en er edrú í dag.

„Það spyrja mig margir af hverju ég hafi ekki farið sömu leið. Ég er ekki alkóhólisti eða fíkill en ég er ofboðslega meðvirk og það er það sem ég þarf að vinna mikið í. Ég þarf að passa mig á að vera ekki meðvirk en ekki heldur hin andstæðan þar sem ég hlusta alls ekki á fíkilinn. Það er ekki minni vinna fyrir mig að passa mín mörk en fyrir manninn minn að halda sér edrú,“ segir hún og skýtur inní að það sé vöntun á umönnun fyrir aðstandendur fíkla.

„Mér finnst vanta fleiri úrræði fyrir aðstandendur fíkla og alkóhólista. Fólk má alveg muna eftir því hvernig okkur aðstandendum líður.“

Talandi um það, hvernig líður Díönu í skugga þessara erfiðleika?

Díana með sonum sínum, Sigurði Þór og Pétri Jökli.

„Það er rosalega erfitt að svara því hvernig mér líður því ég fæ aldrei þessa spurningu. Það virðist vera sjálfsagt að ég standi alltaf upprétt. Að bakið á mér sé svo breitt að það sé endalaust hægt að hlaða á það,“ segir Díana. Hún er búsett á Selfossi en sækir líkamsrækt í Fitness bilinu í Hveragerði hjá Loreley, og þakkar þjálfara sínum fyrir að missa ekki trú á sér.

„Ég væri löngu hrunin ef ég hefði ekki þjálfarann minn sem ræki á eftir mér og sendi mér skilaboð á hverjum degi. Eitt skipti gat ég ekki reddað pössun og þá sagði hún mér að koma með börnin heim til sín því ég þyrfti á æfingunni að halda. Hjálpin hennar er svo mikil. Ég væri ekki svona lífsglöð ef ég myndi ekki mæta í líkamsrækt. Ég næ að rækta sjálfa mig í ræktinni og það veitir mér þvílíka hugarró.“

„Ég hræðist ekki að láta dæma mig“

Díana er með opið Snapchat undir nafninu djana88 þar sem hún talar um allt milli himins og jarðar, þar á meðal baráttuna við alkóhólisma eiginmannsins, sem hún er mjög opin með. Það fer misjafnlega ofan í fólk.

„Fólki finnst skrýtið þegar ég segi frá því að maðurinn minn sé að fara í meðferð en ég vil ekki fela þetta. Hann skammast sín líka fyrir þetta en samt vita þetta allir. Hann segist vilja passa mannorðið en hann er löngu búinn að skemma það sjálfur. Það er ekki mitt að fela hvernig mér líður og hvernig mitt líf er. Ég hræðist ekki að láta dæma mig. Ég sjálf hef ekkert að fela og mér er alveg sama þó einhver viti að maðurinn minn er fíkill. Það er ekkert öðruvísi að vera fíkill en að vera með annan sjúkdóm, nema þú ræður hvort þú ert í bata eða ekki. Það er undir þér komið hvort þú viljir vinna fyrir því eða ekki. Það er fullt af fólki sem er edrú en samt ekki í bata, sem ber sig áfram daginn út og inn og einn daginn springur það. Það er svo mikil ranghugmynd að fólk geti gert þetta sjálft, án faglegrar hjálpar.“

Díana opnar sig uppá gátt á Snapchat.

Bara greitt fyrir fæði og húsnæði

Talið berst aftur að fóstursyni þeirra hjóna sem kom inná heimili þeirra fyrir að verða þremur árum síðan, þá sextán ára gamall.

„Við þekktum aðeins til fjölskyldunnar og á þessum tíma var hann á milli heimila og var að gista hér og þar. Hann fór sjálfur til barnaverndarnefndar og spurði fulltrúann sinn hvort hann mætti flytja til okkar. Hann hafði samband og spurði okkur og við samþykktum það,“ segir Díana. Hún segir að ýmislegt hafi gengið á með drenginn en að hún myndi geta hugsað sér að gerast fósturforeldri annars barns ef kerfið væri betra.

„Ég myndi hiklaust gera þetta aftur ef greiðslurnar væru hærri. Maður uppsker helling, lærir ýmislegt og græðir mikið á því að geta hjálpað barni en greiðslurnar í raun dekka bara fæði og húsnæði fyrir barnið og ekkert meira en það. Við hjálpuðum barni sem var á götunni og mér finnst það mikilvægara en peningar, en greiðslurnar þurfa samt að geta staðið undir barninu,“ segir Díana.

Þú færð ekki hjálp nema þú opnir þig

Hvernig horfir Díana á framtíðina?

„Ég tek bara einn dag í einu og þori ekki fyrir mitt litla líf að hugsa um hvað er að gerast á morgun. Ég er ekki með fimm ára plan eins og er því ég leyfi mér ekki að búa til plan sem ég þarf síðan að henda í ruslið,“ segir Díana sem fagnar þrítugsafmæli sínu í dag, og hefur þetta að segja við fólk sem glímir við erfiðleika:

„Talaðu! Ekki vera hræddur um að einhver sé að fara að dæma þig. Þér á eftir að líða illa ef þú felur þig. Þú færð ekki hjálp nema þú talir. Ef einhver dæmir þig þá er það manneskja sem þú vilt ekki hafa í lífinu þínu.“

Myndir / Úr einkasafni

Sammi og frú selja slotið

|||||
|||||

Tónlistarmaðurinn Samúel Jón Samúelsson og eiginkona hans, Kristín Bergsdóttir eru búin að setja snotra íbúð sína við Baldursgötu 26 í Reykjavík á sölu, en hjónin eru búin að búa þar síðan árið 2004.

Opin og björt stofa.

Íbúðin sem um ræðir er 73 fermetrar og er ásett verð tæplega fjörutíu milljónir króna. Íbúðin er búin einu svefnherbergi, einu baðherbergi og tveimur stofum.

Rúmgott svefnherbergi.

Íbúðin er sérstaklega vel skipulögð, björt og falleg, en áhugasamir geta skoðað hana betur í opnu húsi þriðjudaginn 17. apríl milli klukkan 17.30 og 18.00.

Skemmtilega skipulögð íbúð.
Grillað á kvöldin.
Nóg til að lesa og hlusta á.

Naloxon í nefúðaformi væntanlegt til landsins

||
||

Forsvarsmenn Frú Ragnheiðar – skaðaminnkunar hafa bent á mikilvægi þess að koma lyfinu naloxon til einstaklinga sem nota vímuefni í æð og þeirra sem eru háðir opíóðum.

Naloxon er lyf sem notað er til að endurlífga fólk sem hefur ofskammtað af ópíóðum lyfjum eins og oxýkódon, contalgin og fentanyl. Núna er naloxon eingöngu aðgengilegt á heilbrigðisstofnunum og í sjúkrabifreiðum á Íslandi. Þar sem fólk í neyslu sé yfirleitt fyrst á vettvang þegar ofskömmtun á sér stað segja forsvarsmenn frú Ragnheiðar að gefa eigi fíklum lyfið naloxone, þjálfa það í notkun þess og auk þess að þjálfa það í endurlífgun. Þannig geti það brugðist við og bjargað félögum sínum og ástvinum úr ofskömmtun.

Ólafur Einarsson, verkefnastjóri lyfjamála hjá Landlækni.

Ólafur Einarsson, verkefnastjóri lyfjamála hjá Landlækni, segir að embættið mæli ekki gegn því að fleiri hafi aðgang að lyfinu. „Eins og staðan er í dag er lyfið Naloxon eingöngu til sem stungulyf fyrir notkun á sjúkrahúsum. Það er reyndar til í blöndum líka en með öðrum ábendingum. Það er Lyfjastofnunar að meta umsóknir um markaðsleyfi lyfja og best að Lyfjastofnun svari um hvers vegna lyf eða form eru eða eru ekki á markaði hér á landi. Við í lyfjateymi embættisins höfum ekki mælt gegn því að til væri t.d. nefúði sem fleiri hefðu aðgang að, eina „hættan“ gæti hugsanlega falist í því að fíklar yrðu djarfari ef þeir vissu að til væri möguleg björgunarleið sem þeir gætu stólað á. Við lítum svo á að best sé að aðgengi sé sem minnst að sterkum verkjalyfjum fyrir þá einstaklinga sem eiga við alvarlegan fíknivanda að stríða. Jafnframt er nauðsynlegt að draga úr ávísuðu magni þessara lyfja til að sem fæstir ánetjist þeim,“ segir Ólafur.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að naloxon sem stungulyf, eða sambærileg lyf undir öðru heiti, hafi verið á markaði á Íslandi frá því á níunda áratugnum. Naloxon í nefúðaformi sé tiltölulega nýlegt lyfjaform lyfsins og ekki verið markaðssett á Íslandi hingað til frekar en annars staðar í Evrópu. „Það er hins vegar væntanlegt innan skamms og verður fyrst um sinn afgreitt á undanþágu hingað til lands frá Danmörku, að líkindum síðari hluta aprílmánaðar.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. Mynd: Inga Hrönn Sveinsdóttir

Naloxon í nefúðaformi verður einnig lyfseðilsskylt en ekki er þar með sagt að aðeins verði hægt að nálgast eina pakkningu lyfsins gegn lyfjaávísun í hvert sinn. Í reglugerðum um ávísun og afhendingu lyfja í apótekum er t.a.m. gert ráð fyrir því að hægt sé að ávísa lyfjum beint til lækna, starfs þeirra vegna, eða annarra viðbragðsaðila svo sem lögreglunnar. Þá er lyfjafræðingum í apótekum jafnframt heimilt að afgreiða og afhenda lyfseðilsskyld lyf, án þess að lyfseðli sé framvísað, í neyðartilvikum. Þessi heimild, sem stundum er vísað til sem neyðarréttar lyfjafræðinga, stendur ávallt opin og er lyfjafræðingi falið að framkvæma faglegt mat hverju sinni hvort um neyðaraðstæður sé að ræða. Þessu til viðbótar er ekkert í lögum eða reglum sem gilda um ávísun lyfja eða afgreiðslu og afhendingu lyfja í lyfjabúð sem kemur í veg fyrir að læknir ávísi umræddu lyfi til fíkla eða aðstandenda þeirra til að grípa til í neyð. Er þetta sambærilegt við ávísun og notkun adrenalínpenna sem t.d. er gripið til þegar bráðaofnæmiskast kemur upp.

Lyfseðilsskyldan undirstrikar hins vegar að lyfið skuli notað með varúð og ýtrustu leiðbeiningum fylgt. Naloxon kemur í veg fyrir að ópíóíðalyf nái til móttaka í líkamanum og getur notkun þess því valdið fráhvörfum. Á hinn bóginn virkar naloxon alla jafna skemur en ópíóíðalyfin og því getur skapast lífshættulegt ástand á nýjan leik þegar virkni naloxonsins fjarar út. Mikilvægt er því að ekki verði litið á naloxon-nefúða sem forvörn eða lyf sem veiti falskt öryggi. Það skyldi þannig einungis nota til bráðameðferðar við ofskömmtun ópíóíða þar til unnt er að koma sjúklingi undir læknishendur.

Þess má svo geta að Lyfjastofnun efnir í byrjun næstu viku til fundar með viðbragðsaðilum á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal frá bráðamóttöku Landspítala og lögreglunni. Fyrirhugað er að ræða notkun lyfsins hér á landi og hvernig stuðla megi að góðu aðgengi að því fyrir þá sem til þess þurfa að grípa,“ segir Rúna.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Þægileg og skemmtileg útivera

|
|

Keppir í Skotlandi um helgina.

Kolbrún Mist Pálsdóttir féll fyrir frisbígolfi fyrir þremur árum síðan og er núverandi Íslandsmeistari í kvennaflokki. Frisbígolf er spilað svipað og hefðbundið golf, annað hvort 9 eða 18 brautir.

Kolbrún Mist Pálsdóttir er núverandi Íslandsmeistari í frisbígolfi.

Hver braut er ákveðið par frá upphafsteig að körfunni og leikurinn gengur út að að kasta frisbídiskunum í sem fæstum köstum. Fyrsta kasti er kastað frá teig, næst frá þeim stað sem diskurinn lenti og síðan koll af kolli þar til diskurinn endar í körfunni. Þá er haldið á næstu braut. Sá vinnur sem fer völlinn á fæstum köstum. Virkt samfélag stundar frisbígolf á Íslandi og keppnir haldnar reglulega. Frisbígolfvellirnir eru nú orðnir 46 talsins og er að finna um land allt

„Flestir landsmenn ættu því að geta prufað frisbígolf. Ég mæli hiklaust með því fyrir alla, alveg frá 6 ára og upp úr,“ segir Kolbrún Mist. „Það sem er svo skemmtilegt er að líkamlegur styrkur stjórnar ekki bara kastlengdinni heldur kasttæknin. Það eina sem byrjendur þurfa er sett með þremur diskum og þá er hægt að fara á hvaða völl sem er og prófa. Þetta er voðalega þægileg útivera til að stunda með vinunum; gaman að spjalla og kasta diskum saman. Svo er alltaf skemmtilegt að sjá diskana svífa og sveigja eftir vel lukkað kast.

Fyrir þá sem langar að verða fagmenn í faginu er sniðugt að fara á byrjendamótin í Fossvogi á fimmtudagskvöldum sem byrja í maí en það er frábær staður til að taka sín fyrstu köst. Svo er bara að mæta á mót og spila, því eins og í öllu öðru þá skapar æfingin meistarann,“ segir Kolbrún Mist.

Kolbrún er nú stödd í Dunbar í Skotlandi með tíu öðrum Íslendingum á frisbígolfmóti sem fram fer um helgina.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Léttar leiðir til að bæta heilsuna

|
|

Nokkrar hraðar mínútur
Öll hreyfing skiptir máli en rannsóknir hafa sýnt að ef fólk stendur upp af og til yfir daginn og tekur einnar til tveggja mínútu hraða æfingu eykst þolið hratt og brennsla líkamans eykst til muna. Meðal æfinga sem gott er að gera eru sprellikarlahopp, hlaup upp stiga, hlaupið á staðnum eða sippa. Svokölluð froskahopp, burpees og fleiri góðar æfingar geta einnig nýst vilji menn prófa þessa leið.

Teygðu úr þér

Gott er að taka sér tíma til að teygja úr sér nokkrum sinnum yfir daginn.

Teygjur viðhalda liðleika vöðva og koma í veg fyrir að þeir styttist. Að teygja eftir líkamsrækt og æfingar dregur úr líkum á að menn fái harðsperrur en það ætti og er auðvelt að teygja mun oftar. Þeir sem eiga gæludýr hafa væntanlega tekið eftir að dýrin byrja ævinlega á að teygja sig í hvert sinn sem þau standa upp og eftir hvern blund yfir daginn. Byrjaðu daginn á að teygja vel á þér. Teygðu hendurnar upp í loft og stattu á tánum. Lyftu handleggjunum yfir höfuð og hallaðu þér vel til beggja hliða til að teygja á mittinu og síðuvöðvunum. Settu annan fótinn upp í rúmið og hallaðu þér fram og teygðu á lærvöðvunum. Taktu einnig tíma til að teygja á framanverðum lærunum og kálfunum. Snúðu þér svo að morgunverkunum.

Borðaðu prótín
Prótín er helsta byggingarefni vöðva og næringarfræðingar segja að flestir nútímamenn borði of lítið prótín. Fylli sig með kolvetnum en skeri niður prótíngjafana í máltíðinni. Fullorðin manneskja þarf 170-200 g af prótíni þrisvar sinnum yfir daginn. Gott viðmið er að ein kjúklingabringa, 200 g fiskbiti eða hálfur bolli af baunum gefa þann skammt sem þú þarft í hverri máltíð. Skoðaðu hvernig þú setur saman diskinn þinn og vittu hvort þú þurfir að bæta við prótínið. Eitt egg á morgnana getur einnig gert kraftaverk.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

Meiri umferð en minni bílasala í mars

Það sem af er ári hefur umferðarþungi aukist um höfuðborgarsvæðið sem nemur 3,3 prósentum. Bílasala hefur hins vegar dregist saman. Ferðalög erlendis geta haft áhrif.

Gríðarlegur fjöldi Íslendinga dvaldi erlendis hluta úr marsmánuði sem getur verið ein af útskýringum þess að dregið hefur úr bæði bílasölu og aukningu í umferðinni.

Sé rýnt í nýútgefnar tölur frá Vegagerðinni má sjá að umferð um höfuðborgarsvæðið jókst um 2,9 prósent í mars milli ára. Þetta er mun minni aukning en í fyrra en þá nam hún 15 prósentum í sama mánuði.

Séu fyrstu þrír mánuðir ársins teknir saman nemur aukningin 3,3 prósentum sem er sömuleiðis heldur minni aukning en í fyrra.

Þessi aukning er hins vegar í takt við það sem gerst hefur í mars síðustu tólf ár, þar sem aukningin hefur að jafnaði verið í kringum þessi þrjú prósent.

Síðustu fimm ár skera sig hins vegar úr. Aukningin hefur verið helmingi meiri, eða heil sex prósent. Það virðist því vera að við séum komin yfir mestu sprengjuna í aukningu á umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu.

Tugþúsundir Íslendinga voru á faraldsfæti og nutu lífsins á skíðum eða sundlaugarbökkum erlendis. Eðlilegt er að um hægist ef ástandið er slíkt.

Umferðin er mest á höfuðborgarsvæðinu á miðvikudögum en minnst á sunnudögum. Hún hefur hins vegar aukist milli ára á sunnudögum en dregist mest saman á föstudögum. Enda nennir enginn að vera fastur í umferð á föstudagseftirmiðdegi.

Sömu fréttir er að segja af bílasölu í nýafstöðnum marsmánuði en samdráttur varð upp á tæp 12 prósent miðað við mars 2017. Sé litið til fyrsta ársfjórðungs ársins er salan hins vegar nær sú sama og í fyrra, rúmlega 4.600 bílar.

Af þessum tölum má ráða að jafnvægi sé að færast yfir bílamarkaðinn. Þetta er í takt við það sem er að gerast á húsnæðismarkaðnum eftir mikla uppsveiflu síðustu ár. Hins vegar á eftir að taka inn einn veigamikinn þátt þegar tölurnar eru skoðaðar. Öll bílastæði við Keflavíkurflugvöll voru yfirfull um páskana. Tugþúsundir Íslendinga voru á faraldsfæti og nutu lífsins á skíðum eða sundlaugarbökkum erlendis. Eðlilegt er að um hægist ef ástandið er slíkt. Vaknar þá spurningin hvort markaðurinn taki óvæntan kipp nú þegar vélarnar eru lentar aftur heima og bílastæðin tóm.

Aðalmynd: Fjörutíu prósent nýskráðra bíla á fyrstu fjórum mánuðum ársins eru bílar seldir til bílaleiga. Það eru um 1.800 nýir bílaleigubílar sem flestir leysa eldri bíla af hólmi.

Leiktækið L-200

|||
|||

L-200 er einkar skemmtilegur pallbíll. Hann er einhvern veginn hæfilegur að flestu leyti. Góð blanda krafts, eyðslu og notagildis. Svo er hann líka fallegasti pallbíllinn á markaðnum í dag.

L-200 kallar á að maður fari út að leika sér. Finni fólk sem þarf aðstoð við að flytja eitthvað, eða finni síðasta skaflinn á suðvesturhorninu að festa sig í.

Áður en lengra er haldið verð ég að koma hreint fram. Ég elska pallbíla. Ekki amerísku drekana sem taka fjögur bílastæði í miðbænum og eyða á við meðalskuttogara, heldur nettari útgáfurnar sem flestar er runnar undan rifjum asískra bílaframleiðanda. Ég var því einkar ánægður með kostinn þegar ég keyrði yfir Hellisheiðina á móti rísandi sól á Mitsubishi L-200.

Kraftur og praktík
L-200 er heiðarlegur bíll. Þegar inn í hann er komið er innréttingin látlaus enda er hann laus við flestallt prjál. Auðvitað er hægt að fá endalausa aukapakka og auka þannig lúxusinn, en það er eitthvað við bílinn sem kallar á mann að sleppa því. Láta bakkmyndavélina og bluetooth-kerfið nægja og flýta sér bara út úr bænum og í eitthvað drullumall.
Það var nákvæmlega það sem ég gerði. Ferðinni var heitið austur fyrir fjall, sem fyrr segir, og í bústað.

L-200 reyndist furðu sprækur á þjóðveginum. 180 hestöflin skiluðu sínu en það kom á óvart hversu sparneytinn hann var. Er ég renndi fram hjá Hveragerði var meðaleyðslan langt fyrir neðan 7L/100 km, sem er uppgefin eyðsla í blönduðum akstri. Vel hefur tekist til að kreista sem mest afl úr einungis 2,4 L-vél bílsins og er veskið afar þakklátt fyrir það.

Ég verð samt að taka fram að það er sama með L-200 og flesta pallbíla í hans flokki. Hann er örlítið hastur og fjaðrirnar að aftan hjálpa ekki.

Bakkmyndavélin, auk bluetooth-útvarps og stillihnappa þess í stýrinu, er um það bil eini lúxusinn sem er að finna í L-200. En það þarf ekki meira.

Kostir þess að vera á pallbíl
Á Selfossi komu fjaðarirnar og stífu dempararnir sér hinsvegar afar vel. Það er ekki hægt að vera á pallbíl án þess að nýta pallinn. Gera fólki greiða og flytja allskonar furðulegt dót.
Í þetta skiptið var bónin að flytja um það bil 300 kg af sandi og slatta af gegnvörðum við í sandkassa, bara rétt síðasta spölinn í Grímsnesið. Auðvitað sagði ég já og það er í svona tilvikum sem pallbílar eins og L-200 skína.

Ég var reyndar ekki viss um hvað umboðið sem lánaði mér bílinn til reynsluaksturs myndi segja, en fölskvalaus gleði yngsta sumarbústaðareigandans yfir nýja sandkassanum fyllti mig vissu um að ég hefði tekið rétta ákvörðun.

Leiktækið L-200
Helgin leið og eftir góðan rúnt um sveitina með skyldustoppinu í Friðheimum hélt ég aftur á heiðina heim á leið. Ég ákvað að leggja eina lokalykkju á leið mína upp á reginheiðinni. Ég fann mér vegslóða að fylgja en þar sem leysingar síðustu daga höfðu gert veginn gljúpan og skaflana að krapahindrunum ákvað ég að snúa við eftir fyrsta skaflinn, enda einbíla.

L-200 reyndist furðu sprækur á þjóðveginum. 180 hestöflin skiluðu sínu en það kom á óvart hversu sparneytinn hann var.

En auðvitað þurfti ég aðeins að spólast í krapaskaflinum til að sjá hvort ég næði ekki góðum myndum af bílnum í alltumlykjandi þokunni. Að sjálfsögðu festi ég mig auðvitað í asnaskapnum, þurfti að hlaupa upp á veg og veifa næsta bíl. Þar voru á ferð heiðurshjón á besta aldri sem skemmtu sér konunglega yfir því að losa kokhrausta bílablaðamanninn á nýja bílnum í miðjum reynsluakstri. Höfðu þau á orði að það þyrfti fólk á eftirlaunum á bíl á eftirlaunum til að bjarga mér.
En þannig er að vera á pallbíl. Maður lendir í alls konar ævintýrum og kynnist alls konar skemmtilegu fólki. Það er eitthvað frelsi fólgið í því og einhver undarleg framkvæmdagleði sem fylgir því.
Ef á annað borð er verið að velta fyrir sér að festa kaup á pallbíl er L-200 á lista þeirra bíla sem þú ættir ef til vill að skoða fyrst.

 

Flakið frumsýnd á næsta ári

Tökur standa nú yfir á íslensku kvikmyndinni Flakið og eru leikarar og aðstandendur myndarinnar duglegir að birta myndir úr ferlinu undir kassamerkinu #flakidthemovie á samfélagsmiðlum.

Myndin fjallar um stúlku sem vill komast að leyndarmáli ömmu sinnar, sem legið hefur í þagnargildi í sextíu ár. Flakkað er á milli fortíðar og nútímans í myndinni, en nútímaparturinn er að mestu á ensku og að miklu leyti tekinn upp á Hesteyri.

Tökur eru langt komnar og stefnt er að því frumsýna myndina á næsta ári. Fyrsta stiklan úr Flakinu er væntanleg á næstunni, en meðal leikara í myndinni eru Anna Hafþórsdóttir, Víking Kristjánsson og Vignir Rafn Valþórsson. Leikstjóri myndarinnar er læknirinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Lýður Árnason.

Aðalmynd: Hér frá vinstri eru Anna Hafþórsdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson, Víkingur Kristjánsson, Hákon Jóhannesson og Vignir Rafn Valþórsson.

Kynfræðslan í Þjóðleikhúsinu

Leikritið Kynfræðslan, sem kemur úr smiðju hinna ærslafullu Pörupilta, verður ekki á fjölum Borgarleikhússins á næsta leikári, eins og það hefur verið síðustu fjögur ár. Vildi Borgarleikhúsið rýma fyrir öðrum verkum. Pörupiltar voru þó ekki lengi heimilislausir þar sem þeir hafa nú samið við Þjóðleikhúsið, þar sem Kynfræðslan verður sett upp á komandi leikári, á sama stað og Pörupiltar settu upp sína fyrstu sýningu.

Leikkonan Alexía Björg Jóhannesdóttir, sem skipar Pörupilta ásamt leikkonunum Maríu Pálsdóttur og Sólveigu Guðmundsdóttur, segir piltana vera hæstánægða með þessar breytingar.

„Við erum alsælar að vera komnar aftur í Þjóðleikhúsið þar sem við byrjuðum með fyrstu sýninguna okkar fyrir mörgum árum og líka að fá að halda áfram að fræða og skemmta unglingum,“ segir Alexía, en Pörupiltarnir eru búnir að bralla ýmislegt saman í um tíu ár.

Kynfræðslan er í uppistandsformi og er ætluð fyrir unglinga, til að fræða og styrkja krakka, efla og afhelga umræðu um kynlíf. Verkefnið hefur verið styrkt af Reykjavíkurborg síðan það fæddist fyrir fimm árum, en Alexía segir þá Pörupilta þurfa að fylgjast vel með til að uppfæra efni sýningarinnar í takt við tíðarandann.

„Já, við erum alltaf að uppfæra sýninguna á hverju ári enda alltaf eitthvað nýtt í umræðunni þegar kemur að kynlífi og kynfræðslu.“

KK beðinn um eiginhandaáritanir í Frakklandi

KK var við tökur á lokahluta seríunnar Sense8 í París.

Tónlistarmaðurinn Kristján Kristjánsson, betur þekktur sem KK, var nýverið við tökur á hinni geysivinsælu Netflix-seríu Sense8 í París. Æsispenntir aðdáendur fylgdust spenntir með öllu sem fór fram. „Þættirnir eru greinilega mjög vinsælir þarna, mjög stórir, því þarna var aðdáendahópur fyrir utan hótelið okkar allan sólarhringinn að reyna að sjá glitta í stjörnurnar,“ segir KK, sem fór sjálfur ekki varhluta af allri athyglinni og ekki í fyrsta sinn.

„Ég lenti nú bara í því þegar ég var í fríi í París í haust að vera stoppaður úti á götu af ungu fólki sem hrópaði: „Guð minn góður ert þetta þú! Má ég fá eiginhandaráritun!“ Og spurði svo hvort ég væri til í að sitja fyrir með þeim á sjálfu. Í Bandaríkjunum lenti ég í svipuðu dæmi. Þetta er svolítið skrítið, maður hefur aldrei upplifað það að vera „heimsfrægur“,“ segir hann kíminn.

„… vissulega er þetta búið að vera mikið ævintýri fyrir óvanan mann eins og mig, að fá hlutverk sem ég átti aldrei von á að landa og fá að vinna með öllu þessu stórkostlega listafólki … og kynnast þessari hlið á kvikmyndabransanum.“

Í París var verið að taka upp lokahluta Sense8 en KK leikur föður einnar aðalpersónunnar, hinnar íslensku Riley. Með í för voru Eyþór Gunnarsson og Lilja Þórisdóttir sem bæði fara með hlutverk í þáttunum. Stemningin var góð og segir KK að miklir fagnaðarfundir hafi orðið þegar leikararnir hittust, enda búnir að vinna áður saman að tveimur seríum og einni Sense8-mynd. Hann viðurkennir að það hafi hins vegar verið svolítið undarleg tilfinning að skjóta í nístandi kulda um hámiðja nótt í nánast mannlausum Eiffel-turni, þar sem lokatökurnar fóru fram.

En er ekkert skrítið að kveðja þessa persónu, píanóleikarann Gunnar, sem þú ert búinn að leika í ein fjögur ár? „Nei, í raun og veru ekki,“ svarar hann blátt áfram. „En vissulega er þetta búið að vera mikið ævintýri fyrir óvanan mann eins og mig, að fá hlutverk sem ég átti aldrei von á að landa og fá að vinna með öllu þessu stórkostlega listafólki, leikurunum og ekki síst leikstjórunum Lönu og Lily Wachowsky með sína einstöku sýn á hlutina og kynnast þessari hlið á kvikmyndabransanum. Auðvitað var þetta langt út fyrir minn þægindaramma, en ég hafði gott fólk í kringum mig, fékk stuðning frá Andreu Brabin, leiklistarkennslu hjá Kára Þórssyni og píanókennslu hjá Snorra Sigfúsi Birgissyni sem kenndi mér að spila á píanó í þykjustunni, svo ég yrði nú trúanlegur sem heimsklassa píanókonsert leikari,“ segir hann og brosir.

Hefurðu hugsað þér að leika eitthvað meira? „Nei, ég hef ekkert verið að sækjast eftir því. Er ekki einu sinni með umboðsmann,“ svarar hann hógvær. „Þetta var bara skemmtileg reynsla.“

Aðalmynd: Í Sense8 fer KK með hlutverk píanókonsert leikararns Gunnars, sem er vinsæl persóna meðal aðdáenda þáttanna.

Alvöru Cruise Control

Cadillac býður nú upp á sjálfsýringu sem leyfir þér að halla þér aftur, slaka á og fá þér blund. Eða svo gott sem.

Hver man ekki eftir flökkusögunni um Ameríkanann sem setti húsbílinn sinn á cruise control á hraðbrautinni, fór svo aftur í bílinn að slaka á og var alveg steinhissa þegar bíllinn endaði á brúarstólpa.
Þessi snillingur getur nú gert nákvæmlega þetta og ekki haft neinar áhyggjur.

Í 2018 módelum af Cadillac er hægt að fá svokallað Super Cruise Control. Þá stjórnar bíllinn ekki bara hraðanum sjálfur heldur líka stefnunni og heldur þér innan þinna akreinar.

Búnaðinn er reyndar aðeins hægt að nota á hraðbrautum sem uppfylla ákveðna staðla og er að sjálfsögðu vita gagnslaus hér á landi á okkar mjóu vegum og einbreiðu brúm. Búnaðurinn er hins vegar enn eitt skrefið í átt að sjálfkeyrandi einkabílum.

Skipti út kvíða fyrir gleði

Sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason og dansarinn Ástrós Traustadóttir duttu úr leik í sjónvarpsþættinum Allir geta dansað síðustu helgi, en þátturinn hefur verið í sýningum í nokkrar vikur.

Sölvi tjáir sig á einlægan hátt um brotthvarf sitt úr þættinum í færslu á Facebook-síðu sinni. Hann gengur sáttur frá borði.

„Einhvern tíma varð þessu dansævintýri að ljúka,“

skrifar Sölvi og segir að þátttaka hans í þættinum hafi verið stórsigur, þrátt fyrir tapið. „Það hljómar kannski furðulega þar sem ég hef unnið í sjónvarpi í fleiri ár, en fyrir mig er það að hafa stigið fjórum sinnum á svið fyrir framan mörg hundruð manns og í beinni útsendingu að dansa algjör stórsigur.“

Sölvi segist allajafna finna fyrir miklum kvíða, en að í dansinum hafi hann fundið gleði.

„Ég er í grunninn algjör kvíðabolti, en í stað kvíða hef ég ekkert fundið nema gleði og ánægju og náð að njóta þess í botn að koma fram. Allt þetta ferli í kringum dansþættina á Stöð 2 hefur verið algjör fyrsta flokks lífsreynsla. Ef einhver þarna úti fær símtal fyrir næstu seríu og er í vafa um það hvort hann eigi að taka þátt er svarið afdráttarlaust Já!!“

Hér fyrir neðan má sjá síðasta dansinn sem Sölvi og Ástrós dönsuðu í allir geta dansað:

Og hér er viðtal við þau eftir að kom í ljós að þau dönsuðu ekki meira saman:

Hlauparar jákvætt fólk

|
|

„Dásamleg náttúra í „bakgarðinum“ sem ég vissi ekkert um.“

Anna Sigríður Arnardóttir hafði aldrei hlaupið á ævinni þegar hún fór á nýliðanámskeið hjá Hlaupahópi FH en hún hafði tekið mataræðið í gegn nokkrum árum áður og var að leita að hentugri hreyfingu. Þrátt fyrir að komast vart milli ljósastaura til að byrja með féll hún fyrir hlaupunum og hefur með eljusemi og vinnu náð gríðarlegum framförum. Hún hefur nú meðal annars hlaupið tvö maraþon og Laugaveginn.

Anna Sigríður Arnardóttir féll fyrir náttúruhlaupum.

„Haustið 2011 var nýliðanámskeið í Hlaupahópi FH og vinkona mín spurði mig hvort ég kæmi ekki með henni á námskeiðið. Ég þurfti að hugsa mig mjög vel um, var spennt fyrir þessu en þorði ekki, enda hafði ég aldrei hlaupið á ævinni, ekki einu sinni þegar við áttum að hlaupa í íþróttum í grunnskólanum. Þegar námskeiðið var hálfnað fékk ég loksins kjark til að mæta á æfingu. Þann 20. nóvember 2011 mætti ég í kulda og snjó á mína fyrstu æfingu í þykkri úlpu og passaði því alls ekki inn í hópinn. Úlpan var fljót að fjúka þegar ég fór af stað en ég hafði enga þekkingu á því hvernig ætti að klæða mig á hlaupum,“ segir Anna Sigríður sem er viðskiptafræðingur hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkissins og nemandi í Ferðamálaskólanum í Kópavogi. Nokkrum árum áður hafði hún lést um 30 kíló eftir að hún breytti mataræði sínu. „Á þeim tíma hreyfði ég mig ekkert og borðaði bara það sem mér fannst gott og eitthvað sem einfalt var að elda. Við maðurinn minn áttum djúpsteikingarpott og við notuðum hann mjög reglulega. Við átum sælgæti í miklu óhófi og drukkum gosdrykki í öll mál. Ég var búin að reyna marga matarkúra sem féllu alltaf um sjálfa sig eftir nokkrar vikur.“

Hlaupin hjálpa mér til að halda góðri andlegri heilsu
Það sem Önnu finnst svo heillandi við hlaupin er útiveran og félagsskapurinn. Hún segir að mikilvægt sé að gera styrktaræfingar líka til að koma í veg fyrir meiðsli og hefur hún meðal annars stundað stöðvaþjálfun í Hress til að styrkja sig. Náttúruhlaupin hafa svo verið að koma sterk inn að undanförnu. „Áhuginn á að hlaupa í náttúrinni byrjaði vorið 2014 þegar ég fór á námskeið hjá Náttúruhlaupahópnum sem byggist á að haupa á ýmsum stöðum í náttúrunni í kringum höfuðborgarsvæðið. Ég féll alveg fyrir þessum hlaupastíl; þarna upplifði ég allt í senn, hlaupin, útiveruna, félagsskapinn og síðast en ekki síst, þessa yndislegu náttúru sem við erum með í „bakgarðinum“ okkar og ég vissi ekki af. Ég bara elska að hlaupa á stígum, innan um trén, blómin, fjöllin og jafnvel fram hjá lækjum og fossum. Þetta var ég búin að fara á mis við öll þessi ár. Það er eitthvað ólýsanlegt við hlaupin, bæði vellíðanin eftir æfingar, endorfínið á fullu og allt fólkið sem ég er búin að kynnast. Ég hef bara ekki enn þá hitt leiðinlegan hlaupara, það eru allir svo jákvæðir og með gott viðhorf til lífsins. Stundum hef ég verið að glíma við erfiðar aðstæður í lífinu, bæði álag heima og í starfi. Þá hafa hlaupin hjálpað mér til að halda góðri andlegri heilsu, enda segi ég að hreyfing sé allra meina bót,“ segir Anna Sigríður.

Texti / Ragnhildur Aðalsteindóttir
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Góð skemmtun og fyrirtaks líkamsrækt

|
|

Sumarið er á næsta leiti með tilheyrandi útveru og margir að draga fram reiðhjólin sem legið hafa í geymslum yfir veturinn eða að kaupa sér ný.

Stærðir og stillingar

Viðurkenndur hjálmur af réttri stærð er auðvitað ómissandi.

Þegar nýtt hjól er valið þarf að huga að stærð hjólsins. Þumalputtareglan við hjól með slá er að þegar notandinn stendur yfir þverslánni eiga að vera um það bil þrjár tommur eða tæplega átta sentimetrar upp í klof. Einnig er mikilvægt að hnakkurinn sé í réttri hæð. Hnakkurinn er rétt stilltur þegar hjólreiðamaðurinn situr á hnakknum, lætur annað fótstigið í neðstu stöðu, stígur á það með hælnum og getur þá rétt alveg úr fætinum. Rétt stilling hnakksins er afar mikilvæg, sérstaklega í lengri hjólreiðaferðum, til að álag á fæturna verði rétt. Þriðja mikilvæga atriðið er að stærð sjálfs hjólastellsins sé rétt. Ef hnakkurinn er rétt stilltur á stýrið að vera um fimm sentimetrum lægra en hnakkurinn og á stýrið að skyggja á framöxul hjólsins þegar hjólreiðamaðurinn hefur báðar hendur á því.

Viðhaldið er mikilvægt
Gott viðhald hjóla skiptir miklu máli bæði fyrir endingu þeirra og öryggi. Ráðlegt er að smyrja keðju hjólanna vikulega með sérstakri teflonolíu og sérstaklega ef hjólið hefur staðið úti í rigningu. Einnig er mikilvægt að hugsa vel um bremsuborða hjólsins, kanna slit reglulega og gæta að því að þeir séu rétt stilltir. Rétt stilltir borðar eiga hvorki að rekast í dekkin né í gjörð og ekki á að heyrast ískur þegar bremsað er. Auk þess að fylgjast með keðju og bremsum er mikilvægt að fylgjast með gírum hjólsins. Gírvírar teygjast yfirleitt nokkuð með tímanum og mynda því eins konar hlaup í gírunum. Gott er að strekkja á vírunum um það bil mánuði eftir að hjólið er keypt. Þá er gírastrekkjaranum á hjólinu snúið rangsælis þar til strekkist á vírunum. Með tímanum má einnig gera ráð fyrir slaka í legum hjólsins. Skemmdar legur eru fljótar að skemma út frá sér en með því að skipta þeim út eða herða þær upp í tæka tíða má spara mikið í viðhaldskostnað.

Sprungið dekk
Dekkjaskipti og -viðgerðir á hjóli eru lítið mál. Fyrst á að taka bremsur úr sambandi við gjörð. Þá er farið með keðjuna niður á minnsta tannhjólið að aftan og að framan til að slaka á keðjunni og öxulrær losaðar. Þá er dekkið laust og hægt að ná slöngunni úr því með hjálp dekkjaþvingu. Þegar gatið hefur verið fundið er gúmmíið í kringum það pússað, bótalím borið á slönguna og bótin sett á gatið. Síðan er slangan sett aftur inn í dekkið og lofti pumpað í áður en haldið er af stað.

Öryggið í fyrirrúmi
Rétt er að minna á nokkur öryggisatriði sem vert er að hafa í huga þegar þeyst er um á stálfáknum úti í góða veðrinu. Glitaugu eiga að vera bæði framan og aftan á reiðhjólum. Reiðhjólabjöllur eru einnig nauðsynlegur öryggisbúnaður og þær ber að nota til að gera öðrum viðvart, t.d. við framúrakstur á gangstéttum. Að sjálfsögðu er viðurkenndur hjálmur af réttri stærð algjörlega ómissandi. Hjólreiðafólki er heimilt að hjóla á gangstéttum jafnt sem á götum. Að sjálfsögðu eiga hjólreiðamenn að fylgja umferðarreglum eins og aðrir vegfarendur og hafa í huga að gangandi vegfarendur eiga réttinn á gangstéttunum.

Texti / Vikan
Mynd / Ernir Eyjólfsson

Spennandi að sjá viðbrögð Tyrkja

|
|

Kvikmyndin Andið eðlilega keppir á virtustu kvikmyndahátíð Tyrklands.

Úr myndinni Andið eðlilega.

Íslenka kvikmyndin Andið eðlilega keppir á Istanbul International Film Festival, í flokki sem nefnist „Human Rights in Cinema“. Mannlíf náði tali af leikstjóranum og handritshöfundinum Ísold Uggadóttur sem var að vonum ánægð enda um að ræða elstu og virtustu kvikmyndahátíð Tyrklands. „Það er auðvitað heilmikill heiður að fá myndina sýnda á keppni þarna, því þessi hátíð er sterk og mikilvæg á Tyrklandsmarkaði,“ segir hún glöð og kveðst vera spennt fyrir því að fara til Istanbul og sjá hvernig tyrkneskir áhorfendur koma til með að taka kvikmynd sem fjallar meðal annars um konu á flótta.

Istanbul International Film Festival er fjórða kvikmyndahátíðin sem Andið eðlilega er sýnd á, en eins og kunnugt er hlaut kvikmyndin alþjóðlegu gagnrýnendaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í febrúar auk þess sem Ísold var valin besti alþjóðlegi leikstjórinn á lokahátíð Sundance-kvikmyndahátíðarinnar í janúar, fyrst íslenskra leikstjóra. Myndin hefur almennt verið lofuð í hástert af gagnrýnendum og var nýlega lýst sem drama af bestu gerð af sjálfu fagtímatímaritinu Cinema Scandinavia.

„Það er auðvitað heilmikill heiður á fá myndina sýnda á keppni þarna, því þessi hátíð er sterk og mikilvæg á Tyrklandsmarkaði.“

Ísold segist vera afar þakklát þeim sem hafa látið fögur orð falla um myndina, bæði kvikmyndagagnrýnendum hér heima og erlendis og svo ekki síst sjálfum áhorfendum. Henni þykir vænt um þau sterku viðbrögð sem myndin vekur hjá fólki og finnst gaman að skynja þann gríðarlega áhuga sem er fyrir myndinni, ekki síst erlendis frá, en sem dæmi um hann hefur myndin þegar verið keypt af dreifingaraðila í Tyrklandi og fer að öllum líkindum í almennar sýningar þar í landi síðar á árinu. „Leikstjórnarverðlaunin á Sundance hafa sannarlega haft þau áhrif að kvikmyndabransinn er meðvitaður um myndina og sýnir verkinu og höfundi meiri áhuga en hann hefði gert ella,“ segir hún sposk.

En hvað er annað á döfinni? „Fram undan er að undirbúa næstu mynd,“ svarar hún. „ Við verðum að sjá hversu langan tíma tekur að koma næsta verki á koppinn, en ég er bæði að þróa eigið verk og vega og meta þau verkefni sem mér hafa boðist að undanförnu. Svo mun ég auðvitað fylgja Andið eðlilega áfram eftir og kynna hana sem víðast,“ segir hún og getur þess að hún og umboðsmenn myndarinnar eigi nú einmitt í viðræðum við fleiri erlenda dreifingaraðila um kaup á myndinni. Á þessu stigi málsins sé hins vegar of snemmt að tjá sig frekar um þær „Þetta verður bara allt saman að koma í ljós,“ segir hún leyndardómsfull.

Aðalmynd: Ísold Uggadóttir er hæstánægð með að mynd hennar Andið eðlilega skuli hafa komist á Istanbul International Film Festival. Mynd / Þórdís Claessen

 

Erlendar bílaleigur svindla á Íslendingum

|
|

Þúsundir Íslendinga eru að undirbúa ferðalögin í útlöndum um þessar mundir. Margir leigja bíla en þá er mikilvægt að hafa varan á því dæmi eru um að erlendar bílaleigur hlunnfari Íslendinga.

Mörg dæmi eru um að íslenskir viðskiptavinir hafi orðið fyrir barðinu á ósvífnum viðskiptaháttum erlendra bílaleiga þegar bílar eru pantaðir í gegnum Netið.

„Ég fann góðan díl fyrir fjölskyldubíl í gegnum vefsíðu flugfélagsins. Allt gekk samkvæmt venju. Á skrifstofunni var tekið afrit af kreditkortinu til tryggingar tjóni, ég fékk bíllyklana og bílinn. Þegar ég skilaði honum til baka tæpum hálfum mánuði síðar byrjuðu vandræðin,“ segir Birkir Marteinsson, sem fór með fjölskyldu sinni til Malpensa á Ítalíu í fyrra en þangað fljúga öll helstu flugfélögin. Birkir segir að þegar hann hafi skilað bílnum á bílaleiguna, sem er fyrir utan flugvöllinn, hafi starfsmaður gert athugasemd við á bílnum aftanverðum.

„Þetta var álíka stórt og títuprjónshaus hjá skottinu, venjulegt slit á bíl,“ segir Birkir. Hann segir starfsmanninn hafa skrifað tjónalýsingu á ítölsku inni á skrifstofunni þar sem hann lýsti því yfir að Birkir væri valdur að skemmdinni. Meta yrði tjónið og ætlaðist starfsmaðurinn til að Birkir skrifaði undir. Því neitaði hann. Á endanum skrifaði starfsmaðurinn lýsinguna á ensku og sagði Birki heppinn að vera ekki rukkaður fyrir annað tjón á bílnum. Birkir segir að hann hafi ekki getað sannað að skemmdin hafi verið á bílnum þegar hann leigði hann en maðkur hafi greinilega verið í mysunni því á sama tíma og þetta átti sér stað leigði annar viðskiptavinur bílinn og ók á brott.

„Mér til lukku voru tryggingar á kortinu og því endaði ég á að borga 20.000 krónur því tryggingin tók hinn hlutann. Ég passaði mig á að loka kortinu strax svo bílaleigan gæti ekki óskað eftir fleiri úttektum seinna.“

Þegar hann skoðaði á Netinu ummæli um bílaleiguna sá hann að aðrir viðskiptavinir höfðu greitt þúsundir króna vegna tjóns sem þeir voru sannfærðir um að hafa ekki valdið. Hann hafði því strax samband við kortafyrirtæki sitt á Íslandi. Bílaleigan var þar með úttektarheimild upp á 1.000 evrur, jafnvirði rúmlega 120.000 íslenskra króna. „Nokkru eftir að ég kom heim kom færsla frá þeim upp á 52.000 krónur. Mér til lukku voru tryggingar á kortinu og því endaði ég á að borga 20.000 krónur því tryggingin tók hinn hlutann. Ég passaði mig á að loka kortinu strax svo bílaleigan gæti ekki óskað eftir fleiri úttektum seinna,“ segir Birkir og kveðst hafa fengið sér annað kort.

Kröfðust 360.000 króna tryggingu

Mörg önnur dæmi eru um að íslenskir viðskiptavinir hafi orðið fyrir barðinu á ósvífnum viðskiptaháttum erlendra bílaleiga þegar bílar eru pantaðir í gegnum Netið. Dæmi er um að fólk hafi leigt bíl á Spáni hjá leigu sem bauð góð tilboð en viðkomandi þekkti lítið til. Þegar á hólminn var komið gerði starfsmaður bílaleigunnar kröfu um að taka út 3.000 evrur (jafnvirði um 360.000 króna) af kreditkorti leigutaka sem tryggingu og endurgreiða hana 30 dögum eftir að bílnum væri skilað. Það var til viðbótar 400 evru leigu á bílnum. Þetta sætti viðskiptavinurinn sig ekki við og sleit viðskiptunum. Hann fékk hins vegar ekki evrurnar 400 endurgreiddar frá bílaleigunni og varð að snúa sér til kortafyrirtækisins. Endurgreiðslan skilaði sér fjórum mánuðum síðar.

Til að koma í veg fyrir svikastarfsemi sem þessa mælir Birkir Marteinsson með að fólk lesi ummæli viðskiptavina bílaleiga á Netinu áður en það leigir sér bíl, en þær má m.a. finna á https://uk.trustpilot.com/. „Ég mæli líka með því að velja stóru, viðurkenndu bílaleigurnar í stað þeirra sem maður þekkir ekki mikið eins og í mínu tilviki,“ segir hann og leggur áherslu á að fólk taki jafnframt myndir af bílum sem það leigir þegar það fær hann og við skil.

Aðalmynd: Birkir Marteinsson hvetur fólk til að eiga viðskipti við stórar, viðurkenndar bílaleigur.

Danir sólgnir í íslenskar agúrkur

|
|

Sölufélag garðyrkjumanna sendi á dögunum bretti með um 4.000 agúrkum til Danmerkur. Þær seldust upp. Önnur sending fór utan í vikunni og hefur meira verið pantað.

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélagsins.

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélagsins, segir gott verð fást fyrir agúrkurnar, ívið hærra en hér á landi.

Hann segir að sölufélagið hafi byrjað fyrir um einu og hálfu ári að skoða útflutning á grænmeti til Danmerkur. Um nýbreytni sé að ræða því íslenskt grænmeti hafi nær eingöngu verið flutt út til Færeyja og Grænlands.

„Við fengum fyrirspurn um það af hverju ekki væri hægt að kaupa íslenskt grænmeti í Danmörku. Við skoðuðum málið úti og ræddum við danska kaupmenn. Viðtökurnar voru býsna góðar. Sérstaklega þóttu íslensku gúrkurnar góðar þar sem þær eru hreinni og af betri gæðum en þær dönsku,“ segir hann og bendir á að gerðar hafi verið prófanir á þeim áður en til útflutnings kom.

„Það er mikill áhugi á íslensku grænmeti því það er svo hreint.“

Íslenskar agúrkur eru stærri en Danir eiga að venjast, alla jafna um 350 grömm en þær dönsku hundrað grömmum léttari og því þurfti að rækta afbrigði. „Það kemur annar keimur í bragðið á þeim litlu,“ segir Gunlaugur. „En þær eru mjög bragðgóðar.“

Agúrkurnar eru seldar í dönsku netversluninni nemlig.com, en Gunnlaugur segir í kortunum að fleiri danskar verslanir selji íslenskar agúrkur og grænmeti. Þar á meðal Irma. „Það er mikill áhugi á íslensku grænmeti því það er svo hreint. Danirnir vildu tómata en við áttum ekki nóg til að senda út. En svo má selja þarna fisk og kjöt,“ segir hann. „Þarna eru tækifæri.“

Brenndu 300 kaloríum á 30 mínútum

Vefsíðan Popsugar er dugleg að búa til skemmtileg æfingarmyndbönd og eiga þau það öll sameiginlegt að æfingarnar er hægt að gera heima í stofu.

Til dæmis þessi æfing hér fyrir neðan sem er aðeins þrjátíu mínútur, en ef maður tekur vel á því getur maður brennt allt að þrjú hundruð kaloríum á stofugólfinu.

Í myndbandinu nota konurnar handlóð til að auka brennsluna, en að sjálfsögðu er hægt að sleppa þeim eða fylla tvær hálfslítra flöskur með vatni eða hrísgrjónum.

Góða skemmtun!

Leiðir til að skera niður hitaeiningar

Með því að innbyrða fimm hundruð hitaeiningum minna á hverjum degi er hægt að léttast um hálft kíló á viku.

Salat er ekki það sama og salat

Einn stór salatdiskur með öllu getur innihaldið fleiri hitaeiningar en pastaréttur.

Í hugum flestra er salat það hollasta sem maður getur fengið sér. Það má samt öllu ofgera og eftir því sem lagt er meira í salatið með alls kyns ostum, karamelliseruðum hnetum, beikoni, avókadó, brauðteninga og þvíumlíku þeim mun hitaeiningaríkara verður það. Einn stór salatdiskur með öllu getur innihaldið fleiri hitaeiningar en pastaréttur. Ef þú setur aðeins eitt sælkerahráefni í salatið, helmingar dressinguna og hefur fjölbreyttara grænmeti í á móti getur þú fækkað hitaeiningunum um fimm hundruð.

Minni diskar
Besta leiðin til að minnka skammtastærðir er einfaldlega að nota minni diska. Með því einu að skipta þrjátíu sentímetra disknum út fyrir tuttugu og fimm sentímetra disk muntu borða fjórðungi minna, sem þýðir fimm hundruð kaloríur þegar allar máltíðir dagsins eru taldar. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því að verða svöng því rannsóknir hafa sýnt að svengdin verður ekkert meiri.

Borðaðu sjaldnar pasta
Aðeins einn bolli af pasta eru tvö hundruð og tuttugu hitaeiningar en skammtastærðir flestra eru töluvert stærri en einn bolli. Þannig að það er auðvelt að innbyrða næstum því þúsund hitaeiningar í einni pastamáltíð. Reyndu að hafa pasta aðeins einu sinni í viku og haltu þig við tvo bolla af því, það er alltaf hægt að hafa salat með.

Varastu heilsufæði
Fólk er síður á varðbergi gagnvart mat sem er stimplaður sem heilsufæði og vanmetur oftar en ekki hitaeiningafjöldann. Þó að matur sé hollur þýðir það ekki endilega að hann sé hitaeiningasnauður, til dæmis er oft mælt með að nota hnetur og þurrkaða ávexti sem nasl en ef þú gætir ekki að þér getur þú óafvitandi innbyrt fimm hundruð hitaeiningar í einu millimáli.

Fáðu nægan svefn
Rannsóknir hafa sýnt að því minna sem þú sefur því meira hættir þér til að snarla. Þegar við erum þreytt og orkulaus sækjum við líka meira í orkuríkan mat, eins og sætindi eða aðra óhollustu. Ef við náum sjö tíma svefni á hverri nóttu gætum við innbyrt allt að fjögur hundruð hitaeiningum minna á dag.

Byrjaðu daginn vel
Morgunverður er mikilvægasta máltíð dagsins. Reyndu að borða sem mest af prótíni því það inniheldur færri hitaeiningar en kornmatur og þú verður einnig saddari lengur. Til dæmis væri hægt að fá sér tvö soðin egg og tvo skammta af grænmeti, svo sem kirsuberjatómata og gúrku.

Umsjón / Hildur Friðriksdóttir

Bloggara í yfirstærð hent út fyrir að vera í bikiníi

Anna O’Brien er 33ja ára lífsstílsbloggari og stofnandi síðunnar Glitter and Lazers. Hún lenti í bobba í Las Vegas á dögunum þar sem hún var að taka upp auglýsingamyndir fyrir sundföt. Anna ætlaði að mynda inni á hóteli sem hún nafngreinir ekki og var búin að fá leyfi fyrir myndatökunni frá kynningarteymi hótelsins.

Í samtali við Yahoo segir Anna að hún hafi fengið leyfi til að mynda alls staðar nema í spilavítinu þannig að hún ákvað að taka fyrstu myndina í anddyrinu. Hins vegar kom öryggisvörður askvaðandi að Önnu þegar hún var rétt að byrja og bað hana um að hylja sig. Anna náði þó þessari mynd:

A post shared by Glitter (@glitterandlazers) on

„Hann sagði mér að hylja mig, að ég þyrfti að fara í föt því ég mætti ekki vera í baðfötum einum klæða. Ég reyndi að tala við hann en hann hlustaði ekki,“ segir Anna. Hún bætir við að hún og ljósmyndari hennar hafi þá farið aftur uppá hótelherbergi þar sem Anna klæddi sig í sundbol. Þau fóru síðan aftur niður í anddyri og byrjuðu að mynda á öðrum stað.

„Við vorum að mynda á öðrum stað í anddyrinu og annar vörður kom til okkar og sagði okkur að stoppa,“ segir Anna og bætir við:

A post shared by Glitter (@glitterandlazers) on

„Ég sýndi honum tölvupóstana frá kynningarteyminu en það skipti engu máli. Mér líkaði ekki þær dylgjur um að ég væri að ljúga með að vera með leyfi. Hvað gerði ég til að gefa til kynna að ég væri ekki traustsins og virðingarinnar verð?“

Anna heldur að það liggi meira á bak við þessar uppákomur.

„Aðrar konur gengu um jafnlítið klæddar og ég og enginn sagði neitt við þær. Ég vil ekki halda það versta um fólk en í þessu tilviki get ég ekki annað en velt þessu fyrir mér.“

A post shared by Glitter (@glitterandlazers) on

Eftir að Anna opinberaði atvikið, bæði á Instagram og í fjölmiðlum, hefur hótelið sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að Anna hafi ekki fengið leyfi til að mynda sig í baðfötum á hótelinu, eingöngu fullklædd. Ku það ekki vera leyfilegt að ganga um á sundfötum á hótelinu samkvæmt reglum þess.

„Ég elska ekki fíkilinn – ég elska manninn minn“

|||
|||

„Það tekur gífurlega á að vera maki, dóttir, systir alkóhólista,“ segir Díana María Líndal Stefánsdóttir. Díana er búin að vera með manni sínum í fimm ár, og eiga þau tvo drengi saman; annar fjögurra ára og hinn 18 mánaða. Þá eiga þau líka einn fósturson sem er á nítjánda ári. Díana er lífsglöð og dugleg, en síðustu ár hefur hún þurft að berjast með öllu sem hún á við fíkn eiginmannsins – sjálfan alkóhólismann.

„Maðurinn minn er búinn að vera fíkill síðan hann var unglingur og var inn og út úr meðferðum sem ungur maður. Hann er búinn að taka upp og niður rassíur síðan við tókum saman, en var búinn að ná góðu tímabili áður en hann datt í það núna síðast,“ segir Díana, en stutt er síðan maður hennar kom úr meðferð, en hann lauk bæði meðferð á Vogi og Vík. Díönu blöskrar sú langa bið sem er eftir plássi í meðferð.

Díana ásamt sínum heittelskaða.

„Hann var búinn að bíða í hálft ár eftir að komast inná Vog. Ég var búin að biðja um hjálp frá öllum mögulegum og ómögulegum stofnunum en það var allt yfirfullt. Mér finnst fáránlegt þegar fólk vill sjálft fara í meðferð, eins og hann, að það þurfi að berjast við að reyna að halda sér edrú sjálft í hálft ár, sem er nátttúrulega vonlaust dæmi. Þessi bið þýddi bara hálft ár í neyslu. Á hálfu ári gerist haugur af vitleysu og hann setti okkur til dæmis í fjárhagslega pattstöðu því hann borgaði ekki leigu í þrjá mánuði. Ég vissi það ekki fyrr en leigusalinn okkar kom í vinnuna til mín. Það hefði til dæmis ekki gerst ef hægt væri að kippa fólki strax inn í meðferð. Ég segi bara eins og maðurinn minn: þetta er hrikalegt ástand og það virðist eins og öllum sé sama um stöðuna í þjóðfélaginu. Það skiptir greinilega meira máli að einhver forstjóri sé með margar milljónir í laun á mánuði en að hjálpa fólkinu okkar. Í öllum fjölskyldum er einhver sem þarf að nota þessa þjónustu og það er galið að Vogur sé eina afvötnunarstöðin, sem rúmar aðeins örfáar manneskjur miðað við þann fjölda sem þarf á hjálp að halda,“ segir Díana og heldur áfram.

„Ég hef líka sterkar skoðanir á því að Vogur eigi að vera kynjaskiptur staður því þarna eru veikir einstaklingar. Það er aldrei gott að blanda saman kynjum á svona stöðum og ég held að allir sem koma þarna inn, og aðstandendur þeirra, séu sammála um það, því þetta er ekki staður til að finna sér maka. Þegar fólk er svona veikt er það ekki með rökhugsun.“

Vill ekki hafa fíkilinn nálægt sér

Maður Díönu mætir núna tvisvar í viku í víkingaeftirmeðferð og mun gera það í eitt ár. Það gengur ágætlega að sögn Díönu, en mér leikur forvitni á að vita af hverju hún hafi ekki yfirgefið hann eftir þessi fimm, stormasömu ár.

„Stundum elskar maður einhvern meira en maður gerir sér grein fyrir. Ég vil líka halda í fjölskylduna mína. Ég veit hver hann er þegar hann er edrú. Fíkillinn er ekki maðurinn sem ég elska. Ég elska ekki fíkilinn – ég elska manninn minn og þetta eru tvær ólíkar persónur. Fíkillinn er einhver sem ég vil ekki hafa nálægt mér. Hann veit það og fer út af heimilinu þegar hann er í þessu ástandi. Ég er búin að spyrja mig oft að þessu sjálf, af hverju ég labba ekki bara út. Og ég hef alveg pakkað saman og flutt út. Ég hef flutt inn á tengdaforeldra mína með börnin þegar ástandið var orðið þannig að ég gat ekki verið inni á heimilinu,“ segir Díana, en bætir við að drengirnir sínir hafi ekki þurft að horfa uppá föður sinn fíkilinn.

„Þeir hafa aldrei séð hann undir áhrifum. Hann hefur aldrei vanrækt þá, þó hann vanræki mig, sambandið okkar og sjálfan sig. Ég hef samt hugsað að þessi síðasta meðferð sem hann fór í sé allri síðasti sénsinn hans. Ætla ég að ganga í gegnum þetta allt aftur? Þessar sex vikur sem hann var í burtu voru svakalega erfiðar.“

Ekki gleyma aðstandendum

Faðir Díönu var alkóhólisti og bróðir hennar er það líka. Fósturpabbi hennar er líka alkóhólisti en er edrú í dag.

„Það spyrja mig margir af hverju ég hafi ekki farið sömu leið. Ég er ekki alkóhólisti eða fíkill en ég er ofboðslega meðvirk og það er það sem ég þarf að vinna mikið í. Ég þarf að passa mig á að vera ekki meðvirk en ekki heldur hin andstæðan þar sem ég hlusta alls ekki á fíkilinn. Það er ekki minni vinna fyrir mig að passa mín mörk en fyrir manninn minn að halda sér edrú,“ segir hún og skýtur inní að það sé vöntun á umönnun fyrir aðstandendur fíkla.

„Mér finnst vanta fleiri úrræði fyrir aðstandendur fíkla og alkóhólista. Fólk má alveg muna eftir því hvernig okkur aðstandendum líður.“

Talandi um það, hvernig líður Díönu í skugga þessara erfiðleika?

Díana með sonum sínum, Sigurði Þór og Pétri Jökli.

„Það er rosalega erfitt að svara því hvernig mér líður því ég fæ aldrei þessa spurningu. Það virðist vera sjálfsagt að ég standi alltaf upprétt. Að bakið á mér sé svo breitt að það sé endalaust hægt að hlaða á það,“ segir Díana. Hún er búsett á Selfossi en sækir líkamsrækt í Fitness bilinu í Hveragerði hjá Loreley, og þakkar þjálfara sínum fyrir að missa ekki trú á sér.

„Ég væri löngu hrunin ef ég hefði ekki þjálfarann minn sem ræki á eftir mér og sendi mér skilaboð á hverjum degi. Eitt skipti gat ég ekki reddað pössun og þá sagði hún mér að koma með börnin heim til sín því ég þyrfti á æfingunni að halda. Hjálpin hennar er svo mikil. Ég væri ekki svona lífsglöð ef ég myndi ekki mæta í líkamsrækt. Ég næ að rækta sjálfa mig í ræktinni og það veitir mér þvílíka hugarró.“

„Ég hræðist ekki að láta dæma mig“

Díana er með opið Snapchat undir nafninu djana88 þar sem hún talar um allt milli himins og jarðar, þar á meðal baráttuna við alkóhólisma eiginmannsins, sem hún er mjög opin með. Það fer misjafnlega ofan í fólk.

„Fólki finnst skrýtið þegar ég segi frá því að maðurinn minn sé að fara í meðferð en ég vil ekki fela þetta. Hann skammast sín líka fyrir þetta en samt vita þetta allir. Hann segist vilja passa mannorðið en hann er löngu búinn að skemma það sjálfur. Það er ekki mitt að fela hvernig mér líður og hvernig mitt líf er. Ég hræðist ekki að láta dæma mig. Ég sjálf hef ekkert að fela og mér er alveg sama þó einhver viti að maðurinn minn er fíkill. Það er ekkert öðruvísi að vera fíkill en að vera með annan sjúkdóm, nema þú ræður hvort þú ert í bata eða ekki. Það er undir þér komið hvort þú viljir vinna fyrir því eða ekki. Það er fullt af fólki sem er edrú en samt ekki í bata, sem ber sig áfram daginn út og inn og einn daginn springur það. Það er svo mikil ranghugmynd að fólk geti gert þetta sjálft, án faglegrar hjálpar.“

Díana opnar sig uppá gátt á Snapchat.

Bara greitt fyrir fæði og húsnæði

Talið berst aftur að fóstursyni þeirra hjóna sem kom inná heimili þeirra fyrir að verða þremur árum síðan, þá sextán ára gamall.

„Við þekktum aðeins til fjölskyldunnar og á þessum tíma var hann á milli heimila og var að gista hér og þar. Hann fór sjálfur til barnaverndarnefndar og spurði fulltrúann sinn hvort hann mætti flytja til okkar. Hann hafði samband og spurði okkur og við samþykktum það,“ segir Díana. Hún segir að ýmislegt hafi gengið á með drenginn en að hún myndi geta hugsað sér að gerast fósturforeldri annars barns ef kerfið væri betra.

„Ég myndi hiklaust gera þetta aftur ef greiðslurnar væru hærri. Maður uppsker helling, lærir ýmislegt og græðir mikið á því að geta hjálpað barni en greiðslurnar í raun dekka bara fæði og húsnæði fyrir barnið og ekkert meira en það. Við hjálpuðum barni sem var á götunni og mér finnst það mikilvægara en peningar, en greiðslurnar þurfa samt að geta staðið undir barninu,“ segir Díana.

Þú færð ekki hjálp nema þú opnir þig

Hvernig horfir Díana á framtíðina?

„Ég tek bara einn dag í einu og þori ekki fyrir mitt litla líf að hugsa um hvað er að gerast á morgun. Ég er ekki með fimm ára plan eins og er því ég leyfi mér ekki að búa til plan sem ég þarf síðan að henda í ruslið,“ segir Díana sem fagnar þrítugsafmæli sínu í dag, og hefur þetta að segja við fólk sem glímir við erfiðleika:

„Talaðu! Ekki vera hræddur um að einhver sé að fara að dæma þig. Þér á eftir að líða illa ef þú felur þig. Þú færð ekki hjálp nema þú talir. Ef einhver dæmir þig þá er það manneskja sem þú vilt ekki hafa í lífinu þínu.“

Myndir / Úr einkasafni

Sammi og frú selja slotið

|||||
|||||

Tónlistarmaðurinn Samúel Jón Samúelsson og eiginkona hans, Kristín Bergsdóttir eru búin að setja snotra íbúð sína við Baldursgötu 26 í Reykjavík á sölu, en hjónin eru búin að búa þar síðan árið 2004.

Opin og björt stofa.

Íbúðin sem um ræðir er 73 fermetrar og er ásett verð tæplega fjörutíu milljónir króna. Íbúðin er búin einu svefnherbergi, einu baðherbergi og tveimur stofum.

Rúmgott svefnherbergi.

Íbúðin er sérstaklega vel skipulögð, björt og falleg, en áhugasamir geta skoðað hana betur í opnu húsi þriðjudaginn 17. apríl milli klukkan 17.30 og 18.00.

Skemmtilega skipulögð íbúð.
Grillað á kvöldin.
Nóg til að lesa og hlusta á.

Naloxon í nefúðaformi væntanlegt til landsins

||
||

Forsvarsmenn Frú Ragnheiðar – skaðaminnkunar hafa bent á mikilvægi þess að koma lyfinu naloxon til einstaklinga sem nota vímuefni í æð og þeirra sem eru háðir opíóðum.

Naloxon er lyf sem notað er til að endurlífga fólk sem hefur ofskammtað af ópíóðum lyfjum eins og oxýkódon, contalgin og fentanyl. Núna er naloxon eingöngu aðgengilegt á heilbrigðisstofnunum og í sjúkrabifreiðum á Íslandi. Þar sem fólk í neyslu sé yfirleitt fyrst á vettvang þegar ofskömmtun á sér stað segja forsvarsmenn frú Ragnheiðar að gefa eigi fíklum lyfið naloxone, þjálfa það í notkun þess og auk þess að þjálfa það í endurlífgun. Þannig geti það brugðist við og bjargað félögum sínum og ástvinum úr ofskömmtun.

Ólafur Einarsson, verkefnastjóri lyfjamála hjá Landlækni.

Ólafur Einarsson, verkefnastjóri lyfjamála hjá Landlækni, segir að embættið mæli ekki gegn því að fleiri hafi aðgang að lyfinu. „Eins og staðan er í dag er lyfið Naloxon eingöngu til sem stungulyf fyrir notkun á sjúkrahúsum. Það er reyndar til í blöndum líka en með öðrum ábendingum. Það er Lyfjastofnunar að meta umsóknir um markaðsleyfi lyfja og best að Lyfjastofnun svari um hvers vegna lyf eða form eru eða eru ekki á markaði hér á landi. Við í lyfjateymi embættisins höfum ekki mælt gegn því að til væri t.d. nefúði sem fleiri hefðu aðgang að, eina „hættan“ gæti hugsanlega falist í því að fíklar yrðu djarfari ef þeir vissu að til væri möguleg björgunarleið sem þeir gætu stólað á. Við lítum svo á að best sé að aðgengi sé sem minnst að sterkum verkjalyfjum fyrir þá einstaklinga sem eiga við alvarlegan fíknivanda að stríða. Jafnframt er nauðsynlegt að draga úr ávísuðu magni þessara lyfja til að sem fæstir ánetjist þeim,“ segir Ólafur.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að naloxon sem stungulyf, eða sambærileg lyf undir öðru heiti, hafi verið á markaði á Íslandi frá því á níunda áratugnum. Naloxon í nefúðaformi sé tiltölulega nýlegt lyfjaform lyfsins og ekki verið markaðssett á Íslandi hingað til frekar en annars staðar í Evrópu. „Það er hins vegar væntanlegt innan skamms og verður fyrst um sinn afgreitt á undanþágu hingað til lands frá Danmörku, að líkindum síðari hluta aprílmánaðar.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. Mynd: Inga Hrönn Sveinsdóttir

Naloxon í nefúðaformi verður einnig lyfseðilsskylt en ekki er þar með sagt að aðeins verði hægt að nálgast eina pakkningu lyfsins gegn lyfjaávísun í hvert sinn. Í reglugerðum um ávísun og afhendingu lyfja í apótekum er t.a.m. gert ráð fyrir því að hægt sé að ávísa lyfjum beint til lækna, starfs þeirra vegna, eða annarra viðbragðsaðila svo sem lögreglunnar. Þá er lyfjafræðingum í apótekum jafnframt heimilt að afgreiða og afhenda lyfseðilsskyld lyf, án þess að lyfseðli sé framvísað, í neyðartilvikum. Þessi heimild, sem stundum er vísað til sem neyðarréttar lyfjafræðinga, stendur ávallt opin og er lyfjafræðingi falið að framkvæma faglegt mat hverju sinni hvort um neyðaraðstæður sé að ræða. Þessu til viðbótar er ekkert í lögum eða reglum sem gilda um ávísun lyfja eða afgreiðslu og afhendingu lyfja í lyfjabúð sem kemur í veg fyrir að læknir ávísi umræddu lyfi til fíkla eða aðstandenda þeirra til að grípa til í neyð. Er þetta sambærilegt við ávísun og notkun adrenalínpenna sem t.d. er gripið til þegar bráðaofnæmiskast kemur upp.

Lyfseðilsskyldan undirstrikar hins vegar að lyfið skuli notað með varúð og ýtrustu leiðbeiningum fylgt. Naloxon kemur í veg fyrir að ópíóíðalyf nái til móttaka í líkamanum og getur notkun þess því valdið fráhvörfum. Á hinn bóginn virkar naloxon alla jafna skemur en ópíóíðalyfin og því getur skapast lífshættulegt ástand á nýjan leik þegar virkni naloxonsins fjarar út. Mikilvægt er því að ekki verði litið á naloxon-nefúða sem forvörn eða lyf sem veiti falskt öryggi. Það skyldi þannig einungis nota til bráðameðferðar við ofskömmtun ópíóíða þar til unnt er að koma sjúklingi undir læknishendur.

Þess má svo geta að Lyfjastofnun efnir í byrjun næstu viku til fundar með viðbragðsaðilum á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal frá bráðamóttöku Landspítala og lögreglunni. Fyrirhugað er að ræða notkun lyfsins hér á landi og hvernig stuðla megi að góðu aðgengi að því fyrir þá sem til þess þurfa að grípa,“ segir Rúna.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Þægileg og skemmtileg útivera

|
|

Keppir í Skotlandi um helgina.

Kolbrún Mist Pálsdóttir féll fyrir frisbígolfi fyrir þremur árum síðan og er núverandi Íslandsmeistari í kvennaflokki. Frisbígolf er spilað svipað og hefðbundið golf, annað hvort 9 eða 18 brautir.

Kolbrún Mist Pálsdóttir er núverandi Íslandsmeistari í frisbígolfi.

Hver braut er ákveðið par frá upphafsteig að körfunni og leikurinn gengur út að að kasta frisbídiskunum í sem fæstum köstum. Fyrsta kasti er kastað frá teig, næst frá þeim stað sem diskurinn lenti og síðan koll af kolli þar til diskurinn endar í körfunni. Þá er haldið á næstu braut. Sá vinnur sem fer völlinn á fæstum köstum. Virkt samfélag stundar frisbígolf á Íslandi og keppnir haldnar reglulega. Frisbígolfvellirnir eru nú orðnir 46 talsins og er að finna um land allt

„Flestir landsmenn ættu því að geta prufað frisbígolf. Ég mæli hiklaust með því fyrir alla, alveg frá 6 ára og upp úr,“ segir Kolbrún Mist. „Það sem er svo skemmtilegt er að líkamlegur styrkur stjórnar ekki bara kastlengdinni heldur kasttæknin. Það eina sem byrjendur þurfa er sett með þremur diskum og þá er hægt að fara á hvaða völl sem er og prófa. Þetta er voðalega þægileg útivera til að stunda með vinunum; gaman að spjalla og kasta diskum saman. Svo er alltaf skemmtilegt að sjá diskana svífa og sveigja eftir vel lukkað kast.

Fyrir þá sem langar að verða fagmenn í faginu er sniðugt að fara á byrjendamótin í Fossvogi á fimmtudagskvöldum sem byrja í maí en það er frábær staður til að taka sín fyrstu köst. Svo er bara að mæta á mót og spila, því eins og í öllu öðru þá skapar æfingin meistarann,“ segir Kolbrún Mist.

Kolbrún er nú stödd í Dunbar í Skotlandi með tíu öðrum Íslendingum á frisbígolfmóti sem fram fer um helgina.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Léttar leiðir til að bæta heilsuna

|
|

Nokkrar hraðar mínútur
Öll hreyfing skiptir máli en rannsóknir hafa sýnt að ef fólk stendur upp af og til yfir daginn og tekur einnar til tveggja mínútu hraða æfingu eykst þolið hratt og brennsla líkamans eykst til muna. Meðal æfinga sem gott er að gera eru sprellikarlahopp, hlaup upp stiga, hlaupið á staðnum eða sippa. Svokölluð froskahopp, burpees og fleiri góðar æfingar geta einnig nýst vilji menn prófa þessa leið.

Teygðu úr þér

Gott er að taka sér tíma til að teygja úr sér nokkrum sinnum yfir daginn.

Teygjur viðhalda liðleika vöðva og koma í veg fyrir að þeir styttist. Að teygja eftir líkamsrækt og æfingar dregur úr líkum á að menn fái harðsperrur en það ætti og er auðvelt að teygja mun oftar. Þeir sem eiga gæludýr hafa væntanlega tekið eftir að dýrin byrja ævinlega á að teygja sig í hvert sinn sem þau standa upp og eftir hvern blund yfir daginn. Byrjaðu daginn á að teygja vel á þér. Teygðu hendurnar upp í loft og stattu á tánum. Lyftu handleggjunum yfir höfuð og hallaðu þér vel til beggja hliða til að teygja á mittinu og síðuvöðvunum. Settu annan fótinn upp í rúmið og hallaðu þér fram og teygðu á lærvöðvunum. Taktu einnig tíma til að teygja á framanverðum lærunum og kálfunum. Snúðu þér svo að morgunverkunum.

Borðaðu prótín
Prótín er helsta byggingarefni vöðva og næringarfræðingar segja að flestir nútímamenn borði of lítið prótín. Fylli sig með kolvetnum en skeri niður prótíngjafana í máltíðinni. Fullorðin manneskja þarf 170-200 g af prótíni þrisvar sinnum yfir daginn. Gott viðmið er að ein kjúklingabringa, 200 g fiskbiti eða hálfur bolli af baunum gefa þann skammt sem þú þarft í hverri máltíð. Skoðaðu hvernig þú setur saman diskinn þinn og vittu hvort þú þurfir að bæta við prótínið. Eitt egg á morgnana getur einnig gert kraftaverk.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

Meiri umferð en minni bílasala í mars

Það sem af er ári hefur umferðarþungi aukist um höfuðborgarsvæðið sem nemur 3,3 prósentum. Bílasala hefur hins vegar dregist saman. Ferðalög erlendis geta haft áhrif.

Gríðarlegur fjöldi Íslendinga dvaldi erlendis hluta úr marsmánuði sem getur verið ein af útskýringum þess að dregið hefur úr bæði bílasölu og aukningu í umferðinni.

Sé rýnt í nýútgefnar tölur frá Vegagerðinni má sjá að umferð um höfuðborgarsvæðið jókst um 2,9 prósent í mars milli ára. Þetta er mun minni aukning en í fyrra en þá nam hún 15 prósentum í sama mánuði.

Séu fyrstu þrír mánuðir ársins teknir saman nemur aukningin 3,3 prósentum sem er sömuleiðis heldur minni aukning en í fyrra.

Þessi aukning er hins vegar í takt við það sem gerst hefur í mars síðustu tólf ár, þar sem aukningin hefur að jafnaði verið í kringum þessi þrjú prósent.

Síðustu fimm ár skera sig hins vegar úr. Aukningin hefur verið helmingi meiri, eða heil sex prósent. Það virðist því vera að við séum komin yfir mestu sprengjuna í aukningu á umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu.

Tugþúsundir Íslendinga voru á faraldsfæti og nutu lífsins á skíðum eða sundlaugarbökkum erlendis. Eðlilegt er að um hægist ef ástandið er slíkt.

Umferðin er mest á höfuðborgarsvæðinu á miðvikudögum en minnst á sunnudögum. Hún hefur hins vegar aukist milli ára á sunnudögum en dregist mest saman á föstudögum. Enda nennir enginn að vera fastur í umferð á föstudagseftirmiðdegi.

Sömu fréttir er að segja af bílasölu í nýafstöðnum marsmánuði en samdráttur varð upp á tæp 12 prósent miðað við mars 2017. Sé litið til fyrsta ársfjórðungs ársins er salan hins vegar nær sú sama og í fyrra, rúmlega 4.600 bílar.

Af þessum tölum má ráða að jafnvægi sé að færast yfir bílamarkaðinn. Þetta er í takt við það sem er að gerast á húsnæðismarkaðnum eftir mikla uppsveiflu síðustu ár. Hins vegar á eftir að taka inn einn veigamikinn þátt þegar tölurnar eru skoðaðar. Öll bílastæði við Keflavíkurflugvöll voru yfirfull um páskana. Tugþúsundir Íslendinga voru á faraldsfæti og nutu lífsins á skíðum eða sundlaugarbökkum erlendis. Eðlilegt er að um hægist ef ástandið er slíkt. Vaknar þá spurningin hvort markaðurinn taki óvæntan kipp nú þegar vélarnar eru lentar aftur heima og bílastæðin tóm.

Aðalmynd: Fjörutíu prósent nýskráðra bíla á fyrstu fjórum mánuðum ársins eru bílar seldir til bílaleiga. Það eru um 1.800 nýir bílaleigubílar sem flestir leysa eldri bíla af hólmi.

Leiktækið L-200

|||
|||

L-200 er einkar skemmtilegur pallbíll. Hann er einhvern veginn hæfilegur að flestu leyti. Góð blanda krafts, eyðslu og notagildis. Svo er hann líka fallegasti pallbíllinn á markaðnum í dag.

L-200 kallar á að maður fari út að leika sér. Finni fólk sem þarf aðstoð við að flytja eitthvað, eða finni síðasta skaflinn á suðvesturhorninu að festa sig í.

Áður en lengra er haldið verð ég að koma hreint fram. Ég elska pallbíla. Ekki amerísku drekana sem taka fjögur bílastæði í miðbænum og eyða á við meðalskuttogara, heldur nettari útgáfurnar sem flestar er runnar undan rifjum asískra bílaframleiðanda. Ég var því einkar ánægður með kostinn þegar ég keyrði yfir Hellisheiðina á móti rísandi sól á Mitsubishi L-200.

Kraftur og praktík
L-200 er heiðarlegur bíll. Þegar inn í hann er komið er innréttingin látlaus enda er hann laus við flestallt prjál. Auðvitað er hægt að fá endalausa aukapakka og auka þannig lúxusinn, en það er eitthvað við bílinn sem kallar á mann að sleppa því. Láta bakkmyndavélina og bluetooth-kerfið nægja og flýta sér bara út úr bænum og í eitthvað drullumall.
Það var nákvæmlega það sem ég gerði. Ferðinni var heitið austur fyrir fjall, sem fyrr segir, og í bústað.

L-200 reyndist furðu sprækur á þjóðveginum. 180 hestöflin skiluðu sínu en það kom á óvart hversu sparneytinn hann var. Er ég renndi fram hjá Hveragerði var meðaleyðslan langt fyrir neðan 7L/100 km, sem er uppgefin eyðsla í blönduðum akstri. Vel hefur tekist til að kreista sem mest afl úr einungis 2,4 L-vél bílsins og er veskið afar þakklátt fyrir það.

Ég verð samt að taka fram að það er sama með L-200 og flesta pallbíla í hans flokki. Hann er örlítið hastur og fjaðrirnar að aftan hjálpa ekki.

Bakkmyndavélin, auk bluetooth-útvarps og stillihnappa þess í stýrinu, er um það bil eini lúxusinn sem er að finna í L-200. En það þarf ekki meira.

Kostir þess að vera á pallbíl
Á Selfossi komu fjaðarirnar og stífu dempararnir sér hinsvegar afar vel. Það er ekki hægt að vera á pallbíl án þess að nýta pallinn. Gera fólki greiða og flytja allskonar furðulegt dót.
Í þetta skiptið var bónin að flytja um það bil 300 kg af sandi og slatta af gegnvörðum við í sandkassa, bara rétt síðasta spölinn í Grímsnesið. Auðvitað sagði ég já og það er í svona tilvikum sem pallbílar eins og L-200 skína.

Ég var reyndar ekki viss um hvað umboðið sem lánaði mér bílinn til reynsluaksturs myndi segja, en fölskvalaus gleði yngsta sumarbústaðareigandans yfir nýja sandkassanum fyllti mig vissu um að ég hefði tekið rétta ákvörðun.

Leiktækið L-200
Helgin leið og eftir góðan rúnt um sveitina með skyldustoppinu í Friðheimum hélt ég aftur á heiðina heim á leið. Ég ákvað að leggja eina lokalykkju á leið mína upp á reginheiðinni. Ég fann mér vegslóða að fylgja en þar sem leysingar síðustu daga höfðu gert veginn gljúpan og skaflana að krapahindrunum ákvað ég að snúa við eftir fyrsta skaflinn, enda einbíla.

L-200 reyndist furðu sprækur á þjóðveginum. 180 hestöflin skiluðu sínu en það kom á óvart hversu sparneytinn hann var.

En auðvitað þurfti ég aðeins að spólast í krapaskaflinum til að sjá hvort ég næði ekki góðum myndum af bílnum í alltumlykjandi þokunni. Að sjálfsögðu festi ég mig auðvitað í asnaskapnum, þurfti að hlaupa upp á veg og veifa næsta bíl. Þar voru á ferð heiðurshjón á besta aldri sem skemmtu sér konunglega yfir því að losa kokhrausta bílablaðamanninn á nýja bílnum í miðjum reynsluakstri. Höfðu þau á orði að það þyrfti fólk á eftirlaunum á bíl á eftirlaunum til að bjarga mér.
En þannig er að vera á pallbíl. Maður lendir í alls konar ævintýrum og kynnist alls konar skemmtilegu fólki. Það er eitthvað frelsi fólgið í því og einhver undarleg framkvæmdagleði sem fylgir því.
Ef á annað borð er verið að velta fyrir sér að festa kaup á pallbíl er L-200 á lista þeirra bíla sem þú ættir ef til vill að skoða fyrst.

 

Flakið frumsýnd á næsta ári

Tökur standa nú yfir á íslensku kvikmyndinni Flakið og eru leikarar og aðstandendur myndarinnar duglegir að birta myndir úr ferlinu undir kassamerkinu #flakidthemovie á samfélagsmiðlum.

Myndin fjallar um stúlku sem vill komast að leyndarmáli ömmu sinnar, sem legið hefur í þagnargildi í sextíu ár. Flakkað er á milli fortíðar og nútímans í myndinni, en nútímaparturinn er að mestu á ensku og að miklu leyti tekinn upp á Hesteyri.

Tökur eru langt komnar og stefnt er að því frumsýna myndina á næsta ári. Fyrsta stiklan úr Flakinu er væntanleg á næstunni, en meðal leikara í myndinni eru Anna Hafþórsdóttir, Víking Kristjánsson og Vignir Rafn Valþórsson. Leikstjóri myndarinnar er læknirinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Lýður Árnason.

Aðalmynd: Hér frá vinstri eru Anna Hafþórsdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson, Víkingur Kristjánsson, Hákon Jóhannesson og Vignir Rafn Valþórsson.

Kynfræðslan í Þjóðleikhúsinu

Leikritið Kynfræðslan, sem kemur úr smiðju hinna ærslafullu Pörupilta, verður ekki á fjölum Borgarleikhússins á næsta leikári, eins og það hefur verið síðustu fjögur ár. Vildi Borgarleikhúsið rýma fyrir öðrum verkum. Pörupiltar voru þó ekki lengi heimilislausir þar sem þeir hafa nú samið við Þjóðleikhúsið, þar sem Kynfræðslan verður sett upp á komandi leikári, á sama stað og Pörupiltar settu upp sína fyrstu sýningu.

Leikkonan Alexía Björg Jóhannesdóttir, sem skipar Pörupilta ásamt leikkonunum Maríu Pálsdóttur og Sólveigu Guðmundsdóttur, segir piltana vera hæstánægða með þessar breytingar.

„Við erum alsælar að vera komnar aftur í Þjóðleikhúsið þar sem við byrjuðum með fyrstu sýninguna okkar fyrir mörgum árum og líka að fá að halda áfram að fræða og skemmta unglingum,“ segir Alexía, en Pörupiltarnir eru búnir að bralla ýmislegt saman í um tíu ár.

Kynfræðslan er í uppistandsformi og er ætluð fyrir unglinga, til að fræða og styrkja krakka, efla og afhelga umræðu um kynlíf. Verkefnið hefur verið styrkt af Reykjavíkurborg síðan það fæddist fyrir fimm árum, en Alexía segir þá Pörupilta þurfa að fylgjast vel með til að uppfæra efni sýningarinnar í takt við tíðarandann.

„Já, við erum alltaf að uppfæra sýninguna á hverju ári enda alltaf eitthvað nýtt í umræðunni þegar kemur að kynlífi og kynfræðslu.“

KK beðinn um eiginhandaáritanir í Frakklandi

KK var við tökur á lokahluta seríunnar Sense8 í París.

Tónlistarmaðurinn Kristján Kristjánsson, betur þekktur sem KK, var nýverið við tökur á hinni geysivinsælu Netflix-seríu Sense8 í París. Æsispenntir aðdáendur fylgdust spenntir með öllu sem fór fram. „Þættirnir eru greinilega mjög vinsælir þarna, mjög stórir, því þarna var aðdáendahópur fyrir utan hótelið okkar allan sólarhringinn að reyna að sjá glitta í stjörnurnar,“ segir KK, sem fór sjálfur ekki varhluta af allri athyglinni og ekki í fyrsta sinn.

„Ég lenti nú bara í því þegar ég var í fríi í París í haust að vera stoppaður úti á götu af ungu fólki sem hrópaði: „Guð minn góður ert þetta þú! Má ég fá eiginhandaráritun!“ Og spurði svo hvort ég væri til í að sitja fyrir með þeim á sjálfu. Í Bandaríkjunum lenti ég í svipuðu dæmi. Þetta er svolítið skrítið, maður hefur aldrei upplifað það að vera „heimsfrægur“,“ segir hann kíminn.

„… vissulega er þetta búið að vera mikið ævintýri fyrir óvanan mann eins og mig, að fá hlutverk sem ég átti aldrei von á að landa og fá að vinna með öllu þessu stórkostlega listafólki … og kynnast þessari hlið á kvikmyndabransanum.“

Í París var verið að taka upp lokahluta Sense8 en KK leikur föður einnar aðalpersónunnar, hinnar íslensku Riley. Með í för voru Eyþór Gunnarsson og Lilja Þórisdóttir sem bæði fara með hlutverk í þáttunum. Stemningin var góð og segir KK að miklir fagnaðarfundir hafi orðið þegar leikararnir hittust, enda búnir að vinna áður saman að tveimur seríum og einni Sense8-mynd. Hann viðurkennir að það hafi hins vegar verið svolítið undarleg tilfinning að skjóta í nístandi kulda um hámiðja nótt í nánast mannlausum Eiffel-turni, þar sem lokatökurnar fóru fram.

En er ekkert skrítið að kveðja þessa persónu, píanóleikarann Gunnar, sem þú ert búinn að leika í ein fjögur ár? „Nei, í raun og veru ekki,“ svarar hann blátt áfram. „En vissulega er þetta búið að vera mikið ævintýri fyrir óvanan mann eins og mig, að fá hlutverk sem ég átti aldrei von á að landa og fá að vinna með öllu þessu stórkostlega listafólki, leikurunum og ekki síst leikstjórunum Lönu og Lily Wachowsky með sína einstöku sýn á hlutina og kynnast þessari hlið á kvikmyndabransanum. Auðvitað var þetta langt út fyrir minn þægindaramma, en ég hafði gott fólk í kringum mig, fékk stuðning frá Andreu Brabin, leiklistarkennslu hjá Kára Þórssyni og píanókennslu hjá Snorra Sigfúsi Birgissyni sem kenndi mér að spila á píanó í þykjustunni, svo ég yrði nú trúanlegur sem heimsklassa píanókonsert leikari,“ segir hann og brosir.

Hefurðu hugsað þér að leika eitthvað meira? „Nei, ég hef ekkert verið að sækjast eftir því. Er ekki einu sinni með umboðsmann,“ svarar hann hógvær. „Þetta var bara skemmtileg reynsla.“

Aðalmynd: Í Sense8 fer KK með hlutverk píanókonsert leikararns Gunnars, sem er vinsæl persóna meðal aðdáenda þáttanna.

Alvöru Cruise Control

Cadillac býður nú upp á sjálfsýringu sem leyfir þér að halla þér aftur, slaka á og fá þér blund. Eða svo gott sem.

Hver man ekki eftir flökkusögunni um Ameríkanann sem setti húsbílinn sinn á cruise control á hraðbrautinni, fór svo aftur í bílinn að slaka á og var alveg steinhissa þegar bíllinn endaði á brúarstólpa.
Þessi snillingur getur nú gert nákvæmlega þetta og ekki haft neinar áhyggjur.

Í 2018 módelum af Cadillac er hægt að fá svokallað Super Cruise Control. Þá stjórnar bíllinn ekki bara hraðanum sjálfur heldur líka stefnunni og heldur þér innan þinna akreinar.

Búnaðinn er reyndar aðeins hægt að nota á hraðbrautum sem uppfylla ákveðna staðla og er að sjálfsögðu vita gagnslaus hér á landi á okkar mjóu vegum og einbreiðu brúm. Búnaðurinn er hins vegar enn eitt skrefið í átt að sjálfkeyrandi einkabílum.

Skipti út kvíða fyrir gleði

Sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason og dansarinn Ástrós Traustadóttir duttu úr leik í sjónvarpsþættinum Allir geta dansað síðustu helgi, en þátturinn hefur verið í sýningum í nokkrar vikur.

Sölvi tjáir sig á einlægan hátt um brotthvarf sitt úr þættinum í færslu á Facebook-síðu sinni. Hann gengur sáttur frá borði.

„Einhvern tíma varð þessu dansævintýri að ljúka,“

skrifar Sölvi og segir að þátttaka hans í þættinum hafi verið stórsigur, þrátt fyrir tapið. „Það hljómar kannski furðulega þar sem ég hef unnið í sjónvarpi í fleiri ár, en fyrir mig er það að hafa stigið fjórum sinnum á svið fyrir framan mörg hundruð manns og í beinni útsendingu að dansa algjör stórsigur.“

Sölvi segist allajafna finna fyrir miklum kvíða, en að í dansinum hafi hann fundið gleði.

„Ég er í grunninn algjör kvíðabolti, en í stað kvíða hef ég ekkert fundið nema gleði og ánægju og náð að njóta þess í botn að koma fram. Allt þetta ferli í kringum dansþættina á Stöð 2 hefur verið algjör fyrsta flokks lífsreynsla. Ef einhver þarna úti fær símtal fyrir næstu seríu og er í vafa um það hvort hann eigi að taka þátt er svarið afdráttarlaust Já!!“

Hér fyrir neðan má sjá síðasta dansinn sem Sölvi og Ástrós dönsuðu í allir geta dansað:

Og hér er viðtal við þau eftir að kom í ljós að þau dönsuðu ekki meira saman:

Hlauparar jákvætt fólk

|
|

„Dásamleg náttúra í „bakgarðinum“ sem ég vissi ekkert um.“

Anna Sigríður Arnardóttir hafði aldrei hlaupið á ævinni þegar hún fór á nýliðanámskeið hjá Hlaupahópi FH en hún hafði tekið mataræðið í gegn nokkrum árum áður og var að leita að hentugri hreyfingu. Þrátt fyrir að komast vart milli ljósastaura til að byrja með féll hún fyrir hlaupunum og hefur með eljusemi og vinnu náð gríðarlegum framförum. Hún hefur nú meðal annars hlaupið tvö maraþon og Laugaveginn.

Anna Sigríður Arnardóttir féll fyrir náttúruhlaupum.

„Haustið 2011 var nýliðanámskeið í Hlaupahópi FH og vinkona mín spurði mig hvort ég kæmi ekki með henni á námskeiðið. Ég þurfti að hugsa mig mjög vel um, var spennt fyrir þessu en þorði ekki, enda hafði ég aldrei hlaupið á ævinni, ekki einu sinni þegar við áttum að hlaupa í íþróttum í grunnskólanum. Þegar námskeiðið var hálfnað fékk ég loksins kjark til að mæta á æfingu. Þann 20. nóvember 2011 mætti ég í kulda og snjó á mína fyrstu æfingu í þykkri úlpu og passaði því alls ekki inn í hópinn. Úlpan var fljót að fjúka þegar ég fór af stað en ég hafði enga þekkingu á því hvernig ætti að klæða mig á hlaupum,“ segir Anna Sigríður sem er viðskiptafræðingur hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkissins og nemandi í Ferðamálaskólanum í Kópavogi. Nokkrum árum áður hafði hún lést um 30 kíló eftir að hún breytti mataræði sínu. „Á þeim tíma hreyfði ég mig ekkert og borðaði bara það sem mér fannst gott og eitthvað sem einfalt var að elda. Við maðurinn minn áttum djúpsteikingarpott og við notuðum hann mjög reglulega. Við átum sælgæti í miklu óhófi og drukkum gosdrykki í öll mál. Ég var búin að reyna marga matarkúra sem féllu alltaf um sjálfa sig eftir nokkrar vikur.“

Hlaupin hjálpa mér til að halda góðri andlegri heilsu
Það sem Önnu finnst svo heillandi við hlaupin er útiveran og félagsskapurinn. Hún segir að mikilvægt sé að gera styrktaræfingar líka til að koma í veg fyrir meiðsli og hefur hún meðal annars stundað stöðvaþjálfun í Hress til að styrkja sig. Náttúruhlaupin hafa svo verið að koma sterk inn að undanförnu. „Áhuginn á að hlaupa í náttúrinni byrjaði vorið 2014 þegar ég fór á námskeið hjá Náttúruhlaupahópnum sem byggist á að haupa á ýmsum stöðum í náttúrunni í kringum höfuðborgarsvæðið. Ég féll alveg fyrir þessum hlaupastíl; þarna upplifði ég allt í senn, hlaupin, útiveruna, félagsskapinn og síðast en ekki síst, þessa yndislegu náttúru sem við erum með í „bakgarðinum“ okkar og ég vissi ekki af. Ég bara elska að hlaupa á stígum, innan um trén, blómin, fjöllin og jafnvel fram hjá lækjum og fossum. Þetta var ég búin að fara á mis við öll þessi ár. Það er eitthvað ólýsanlegt við hlaupin, bæði vellíðanin eftir æfingar, endorfínið á fullu og allt fólkið sem ég er búin að kynnast. Ég hef bara ekki enn þá hitt leiðinlegan hlaupara, það eru allir svo jákvæðir og með gott viðhorf til lífsins. Stundum hef ég verið að glíma við erfiðar aðstæður í lífinu, bæði álag heima og í starfi. Þá hafa hlaupin hjálpað mér til að halda góðri andlegri heilsu, enda segi ég að hreyfing sé allra meina bót,“ segir Anna Sigríður.

Texti / Ragnhildur Aðalsteindóttir
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Góð skemmtun og fyrirtaks líkamsrækt

|
|

Sumarið er á næsta leiti með tilheyrandi útveru og margir að draga fram reiðhjólin sem legið hafa í geymslum yfir veturinn eða að kaupa sér ný.

Stærðir og stillingar

Viðurkenndur hjálmur af réttri stærð er auðvitað ómissandi.

Þegar nýtt hjól er valið þarf að huga að stærð hjólsins. Þumalputtareglan við hjól með slá er að þegar notandinn stendur yfir þverslánni eiga að vera um það bil þrjár tommur eða tæplega átta sentimetrar upp í klof. Einnig er mikilvægt að hnakkurinn sé í réttri hæð. Hnakkurinn er rétt stilltur þegar hjólreiðamaðurinn situr á hnakknum, lætur annað fótstigið í neðstu stöðu, stígur á það með hælnum og getur þá rétt alveg úr fætinum. Rétt stilling hnakksins er afar mikilvæg, sérstaklega í lengri hjólreiðaferðum, til að álag á fæturna verði rétt. Þriðja mikilvæga atriðið er að stærð sjálfs hjólastellsins sé rétt. Ef hnakkurinn er rétt stilltur á stýrið að vera um fimm sentimetrum lægra en hnakkurinn og á stýrið að skyggja á framöxul hjólsins þegar hjólreiðamaðurinn hefur báðar hendur á því.

Viðhaldið er mikilvægt
Gott viðhald hjóla skiptir miklu máli bæði fyrir endingu þeirra og öryggi. Ráðlegt er að smyrja keðju hjólanna vikulega með sérstakri teflonolíu og sérstaklega ef hjólið hefur staðið úti í rigningu. Einnig er mikilvægt að hugsa vel um bremsuborða hjólsins, kanna slit reglulega og gæta að því að þeir séu rétt stilltir. Rétt stilltir borðar eiga hvorki að rekast í dekkin né í gjörð og ekki á að heyrast ískur þegar bremsað er. Auk þess að fylgjast með keðju og bremsum er mikilvægt að fylgjast með gírum hjólsins. Gírvírar teygjast yfirleitt nokkuð með tímanum og mynda því eins konar hlaup í gírunum. Gott er að strekkja á vírunum um það bil mánuði eftir að hjólið er keypt. Þá er gírastrekkjaranum á hjólinu snúið rangsælis þar til strekkist á vírunum. Með tímanum má einnig gera ráð fyrir slaka í legum hjólsins. Skemmdar legur eru fljótar að skemma út frá sér en með því að skipta þeim út eða herða þær upp í tæka tíða má spara mikið í viðhaldskostnað.

Sprungið dekk
Dekkjaskipti og -viðgerðir á hjóli eru lítið mál. Fyrst á að taka bremsur úr sambandi við gjörð. Þá er farið með keðjuna niður á minnsta tannhjólið að aftan og að framan til að slaka á keðjunni og öxulrær losaðar. Þá er dekkið laust og hægt að ná slöngunni úr því með hjálp dekkjaþvingu. Þegar gatið hefur verið fundið er gúmmíið í kringum það pússað, bótalím borið á slönguna og bótin sett á gatið. Síðan er slangan sett aftur inn í dekkið og lofti pumpað í áður en haldið er af stað.

Öryggið í fyrirrúmi
Rétt er að minna á nokkur öryggisatriði sem vert er að hafa í huga þegar þeyst er um á stálfáknum úti í góða veðrinu. Glitaugu eiga að vera bæði framan og aftan á reiðhjólum. Reiðhjólabjöllur eru einnig nauðsynlegur öryggisbúnaður og þær ber að nota til að gera öðrum viðvart, t.d. við framúrakstur á gangstéttum. Að sjálfsögðu er viðurkenndur hjálmur af réttri stærð algjörlega ómissandi. Hjólreiðafólki er heimilt að hjóla á gangstéttum jafnt sem á götum. Að sjálfsögðu eiga hjólreiðamenn að fylgja umferðarreglum eins og aðrir vegfarendur og hafa í huga að gangandi vegfarendur eiga réttinn á gangstéttunum.

Texti / Vikan
Mynd / Ernir Eyjólfsson

Spennandi að sjá viðbrögð Tyrkja

|
|

Kvikmyndin Andið eðlilega keppir á virtustu kvikmyndahátíð Tyrklands.

Úr myndinni Andið eðlilega.

Íslenka kvikmyndin Andið eðlilega keppir á Istanbul International Film Festival, í flokki sem nefnist „Human Rights in Cinema“. Mannlíf náði tali af leikstjóranum og handritshöfundinum Ísold Uggadóttur sem var að vonum ánægð enda um að ræða elstu og virtustu kvikmyndahátíð Tyrklands. „Það er auðvitað heilmikill heiður að fá myndina sýnda á keppni þarna, því þessi hátíð er sterk og mikilvæg á Tyrklandsmarkaði,“ segir hún glöð og kveðst vera spennt fyrir því að fara til Istanbul og sjá hvernig tyrkneskir áhorfendur koma til með að taka kvikmynd sem fjallar meðal annars um konu á flótta.

Istanbul International Film Festival er fjórða kvikmyndahátíðin sem Andið eðlilega er sýnd á, en eins og kunnugt er hlaut kvikmyndin alþjóðlegu gagnrýnendaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í febrúar auk þess sem Ísold var valin besti alþjóðlegi leikstjórinn á lokahátíð Sundance-kvikmyndahátíðarinnar í janúar, fyrst íslenskra leikstjóra. Myndin hefur almennt verið lofuð í hástert af gagnrýnendum og var nýlega lýst sem drama af bestu gerð af sjálfu fagtímatímaritinu Cinema Scandinavia.

„Það er auðvitað heilmikill heiður á fá myndina sýnda á keppni þarna, því þessi hátíð er sterk og mikilvæg á Tyrklandsmarkaði.“

Ísold segist vera afar þakklát þeim sem hafa látið fögur orð falla um myndina, bæði kvikmyndagagnrýnendum hér heima og erlendis og svo ekki síst sjálfum áhorfendum. Henni þykir vænt um þau sterku viðbrögð sem myndin vekur hjá fólki og finnst gaman að skynja þann gríðarlega áhuga sem er fyrir myndinni, ekki síst erlendis frá, en sem dæmi um hann hefur myndin þegar verið keypt af dreifingaraðila í Tyrklandi og fer að öllum líkindum í almennar sýningar þar í landi síðar á árinu. „Leikstjórnarverðlaunin á Sundance hafa sannarlega haft þau áhrif að kvikmyndabransinn er meðvitaður um myndina og sýnir verkinu og höfundi meiri áhuga en hann hefði gert ella,“ segir hún sposk.

En hvað er annað á döfinni? „Fram undan er að undirbúa næstu mynd,“ svarar hún. „ Við verðum að sjá hversu langan tíma tekur að koma næsta verki á koppinn, en ég er bæði að þróa eigið verk og vega og meta þau verkefni sem mér hafa boðist að undanförnu. Svo mun ég auðvitað fylgja Andið eðlilega áfram eftir og kynna hana sem víðast,“ segir hún og getur þess að hún og umboðsmenn myndarinnar eigi nú einmitt í viðræðum við fleiri erlenda dreifingaraðila um kaup á myndinni. Á þessu stigi málsins sé hins vegar of snemmt að tjá sig frekar um þær „Þetta verður bara allt saman að koma í ljós,“ segir hún leyndardómsfull.

Aðalmynd: Ísold Uggadóttir er hæstánægð með að mynd hennar Andið eðlilega skuli hafa komist á Istanbul International Film Festival. Mynd / Þórdís Claessen

 

Erlendar bílaleigur svindla á Íslendingum

|
|

Þúsundir Íslendinga eru að undirbúa ferðalögin í útlöndum um þessar mundir. Margir leigja bíla en þá er mikilvægt að hafa varan á því dæmi eru um að erlendar bílaleigur hlunnfari Íslendinga.

Mörg dæmi eru um að íslenskir viðskiptavinir hafi orðið fyrir barðinu á ósvífnum viðskiptaháttum erlendra bílaleiga þegar bílar eru pantaðir í gegnum Netið.

„Ég fann góðan díl fyrir fjölskyldubíl í gegnum vefsíðu flugfélagsins. Allt gekk samkvæmt venju. Á skrifstofunni var tekið afrit af kreditkortinu til tryggingar tjóni, ég fékk bíllyklana og bílinn. Þegar ég skilaði honum til baka tæpum hálfum mánuði síðar byrjuðu vandræðin,“ segir Birkir Marteinsson, sem fór með fjölskyldu sinni til Malpensa á Ítalíu í fyrra en þangað fljúga öll helstu flugfélögin. Birkir segir að þegar hann hafi skilað bílnum á bílaleiguna, sem er fyrir utan flugvöllinn, hafi starfsmaður gert athugasemd við á bílnum aftanverðum.

„Þetta var álíka stórt og títuprjónshaus hjá skottinu, venjulegt slit á bíl,“ segir Birkir. Hann segir starfsmanninn hafa skrifað tjónalýsingu á ítölsku inni á skrifstofunni þar sem hann lýsti því yfir að Birkir væri valdur að skemmdinni. Meta yrði tjónið og ætlaðist starfsmaðurinn til að Birkir skrifaði undir. Því neitaði hann. Á endanum skrifaði starfsmaðurinn lýsinguna á ensku og sagði Birki heppinn að vera ekki rukkaður fyrir annað tjón á bílnum. Birkir segir að hann hafi ekki getað sannað að skemmdin hafi verið á bílnum þegar hann leigði hann en maðkur hafi greinilega verið í mysunni því á sama tíma og þetta átti sér stað leigði annar viðskiptavinur bílinn og ók á brott.

„Mér til lukku voru tryggingar á kortinu og því endaði ég á að borga 20.000 krónur því tryggingin tók hinn hlutann. Ég passaði mig á að loka kortinu strax svo bílaleigan gæti ekki óskað eftir fleiri úttektum seinna.“

Þegar hann skoðaði á Netinu ummæli um bílaleiguna sá hann að aðrir viðskiptavinir höfðu greitt þúsundir króna vegna tjóns sem þeir voru sannfærðir um að hafa ekki valdið. Hann hafði því strax samband við kortafyrirtæki sitt á Íslandi. Bílaleigan var þar með úttektarheimild upp á 1.000 evrur, jafnvirði rúmlega 120.000 íslenskra króna. „Nokkru eftir að ég kom heim kom færsla frá þeim upp á 52.000 krónur. Mér til lukku voru tryggingar á kortinu og því endaði ég á að borga 20.000 krónur því tryggingin tók hinn hlutann. Ég passaði mig á að loka kortinu strax svo bílaleigan gæti ekki óskað eftir fleiri úttektum seinna,“ segir Birkir og kveðst hafa fengið sér annað kort.

Kröfðust 360.000 króna tryggingu

Mörg önnur dæmi eru um að íslenskir viðskiptavinir hafi orðið fyrir barðinu á ósvífnum viðskiptaháttum erlendra bílaleiga þegar bílar eru pantaðir í gegnum Netið. Dæmi er um að fólk hafi leigt bíl á Spáni hjá leigu sem bauð góð tilboð en viðkomandi þekkti lítið til. Þegar á hólminn var komið gerði starfsmaður bílaleigunnar kröfu um að taka út 3.000 evrur (jafnvirði um 360.000 króna) af kreditkorti leigutaka sem tryggingu og endurgreiða hana 30 dögum eftir að bílnum væri skilað. Það var til viðbótar 400 evru leigu á bílnum. Þetta sætti viðskiptavinurinn sig ekki við og sleit viðskiptunum. Hann fékk hins vegar ekki evrurnar 400 endurgreiddar frá bílaleigunni og varð að snúa sér til kortafyrirtækisins. Endurgreiðslan skilaði sér fjórum mánuðum síðar.

Til að koma í veg fyrir svikastarfsemi sem þessa mælir Birkir Marteinsson með að fólk lesi ummæli viðskiptavina bílaleiga á Netinu áður en það leigir sér bíl, en þær má m.a. finna á https://uk.trustpilot.com/. „Ég mæli líka með því að velja stóru, viðurkenndu bílaleigurnar í stað þeirra sem maður þekkir ekki mikið eins og í mínu tilviki,“ segir hann og leggur áherslu á að fólk taki jafnframt myndir af bílum sem það leigir þegar það fær hann og við skil.

Aðalmynd: Birkir Marteinsson hvetur fólk til að eiga viðskipti við stórar, viðurkenndar bílaleigur.

Danir sólgnir í íslenskar agúrkur

|
|

Sölufélag garðyrkjumanna sendi á dögunum bretti með um 4.000 agúrkum til Danmerkur. Þær seldust upp. Önnur sending fór utan í vikunni og hefur meira verið pantað.

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélagsins.

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélagsins, segir gott verð fást fyrir agúrkurnar, ívið hærra en hér á landi.

Hann segir að sölufélagið hafi byrjað fyrir um einu og hálfu ári að skoða útflutning á grænmeti til Danmerkur. Um nýbreytni sé að ræða því íslenskt grænmeti hafi nær eingöngu verið flutt út til Færeyja og Grænlands.

„Við fengum fyrirspurn um það af hverju ekki væri hægt að kaupa íslenskt grænmeti í Danmörku. Við skoðuðum málið úti og ræddum við danska kaupmenn. Viðtökurnar voru býsna góðar. Sérstaklega þóttu íslensku gúrkurnar góðar þar sem þær eru hreinni og af betri gæðum en þær dönsku,“ segir hann og bendir á að gerðar hafi verið prófanir á þeim áður en til útflutnings kom.

„Það er mikill áhugi á íslensku grænmeti því það er svo hreint.“

Íslenskar agúrkur eru stærri en Danir eiga að venjast, alla jafna um 350 grömm en þær dönsku hundrað grömmum léttari og því þurfti að rækta afbrigði. „Það kemur annar keimur í bragðið á þeim litlu,“ segir Gunlaugur. „En þær eru mjög bragðgóðar.“

Agúrkurnar eru seldar í dönsku netversluninni nemlig.com, en Gunnlaugur segir í kortunum að fleiri danskar verslanir selji íslenskar agúrkur og grænmeti. Þar á meðal Irma. „Það er mikill áhugi á íslensku grænmeti því það er svo hreint. Danirnir vildu tómata en við áttum ekki nóg til að senda út. En svo má selja þarna fisk og kjöt,“ segir hann. „Þarna eru tækifæri.“

Raddir