Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Bað börnin að hjálpa sér að deyja

|||
|||

Fyrsta kvikmynd Maríu Sólrúnar Sigurðardóttur í fjórtán ár, Adam, er fjölskylduverkefni sem fjallar um glímu sonar við spurninguna um hvort hann eigi að hjálpa heilabilaðri móður sinni að deyja, spurningu sem María þekkir úr eigin lífi.

María Sólrún kvikmyndaleikstjóri hefur búið og starfað í Þýskalandi í rúm þrjátíu ár þar sem hennar aðalstarf hefur verið að skrifa handrit að þýskum sjónvarpskvikmyndum og -seríum en hún er líka vel þekkt innan íslenska kvikmyndabransans þar sem hún hefur verið ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöðinni að fjöldamörgum íslenskum myndum, meðal annarra Hrútum og Eiðnum.

María Sólrún Sigurðardóttir er kannski ekki nafn sem almenningur þekkir en hún hefur engu að síður haft meiri áhrif á líf okkar en okkur grunar. María Sólrún hefur búið og starfað í Þýskalandi í rúm þrjátíu ár þar sem hennar aðalstarf hefur verið að skrifa handrit að þýskum sjónvarpskvikmyndum og -seríum, en hún er líka vel þekkt innan íslenska kvikmyndabransans þar sem hún hefur verið ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöðinni í fjöldamörgum íslenskum myndum, meðal annarra Hrútum og Eiðnum. Hún er hins vegar líka kvikmyndaleikstjóri og er nú mætt er til landsins með fyrstu mynd í fullri lengd sem hún hefur leikstýrt í fjórtán ár og þar sem sonur hennar, Magnús, leikur aðalhlutverkið og dóttir hennar og tengdasonur sjá um tónlistina. Myndin, sem heitir Adam, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á árinu þar sem hún fékk mikla athygli og umfjöllun og opnaði nýjar dyr fyrir alla fjölskyldumeðlimi.

Það hefur komið fram að viðfangsefni myndarinnar er glíma sonar við eigin samvisku eftir að móðir hans greinist með heilabilun. Hann hafði nefnilega lofað henni því að hjálpa henni að deyja ef til þess kæmi. Efnið er Maríu Sólrúnu hugleikið og stendur henni nærri, þar sem hennar eigin móðir glímdi við heilabilun í fjórtán ár og Maríu var sagt að það væru fimmtíu prósent líkur á því að hún sjálf ætti eftir að lenda í því sama.

„Við hefðum svo gjarna viljað geta tekið hana út af stofnuninni sem hún bjó á, farið með hana upp á jökul, spilað fyrir hana á gítar og gefið henni kakó. Leyft henni að deyja þar. Það var svo erfitt að horfa upp á þetta.“

Þótt tilefni samtals okkar Maríu Sólrúnar sé að sjálfsögðu Adam og ástæður þess að fjórtán ár liðu á milli mynda hjá henni, byrjum við spjallið á hefðbundinn íslenskan hátt með því að ég spyr Maríu Sólrúnu hvaðan hún sé og hverra manna. Það þykir henni fyndið og gefur þær upplýsingar einar að hún sé fædd í Reykjavík og alin upp í Bústaðahverfinu. Við því er lítið að segja og talið berst snarlega að Berlínardvölinni en þangað fór hún árið 1985 og hóf nám við Freie Universität Berlin.

„Ég fór þar í kvikmyndafræði, listasögu og stjórnmálafræði en svo þegar ég var í miðju magister-verkefni söðlaði ég um og fór í kvikmyndaskólann í Berlín,“ segir María Sólrún.
Spurð hvað hafi valdið því að hún skipti um vettvang segir hún skýringuna á því vera einfalda.
„Ég hafði gert nokkrar stuttmyndir og þegar ég varð einstæð móðir ákvað ég að drífa mig bara í kvikmyndagerðina.“

Hefur horft upp á misrétti í bransanum

Á þeim tíma voru börn Maríu Sólrúnar, Liina og Magnús sem bæði leika í Adam, fimm og þriggja ára en eru í dag 27 og 24 ára. María dregur enga dul á það að staða hennar sem einstæðrar móður hafi haft mest að segja um það að hún valdi handritaskrif og ráðgjöf fram yfir leikstjórnina. „En það er svo merkilegt að það er ekki fyrr en á síðustu árum sem ég hef þorað að segja það. Og ég skal segja þér út af hverju. Þannig var að einhvern tíma kynnti framleiðandi kvikmyndar leikstjóra hennar fyrir mér og útskýrði að ástæðan fyrir því að það hefðu liðið tíu ár á milli kvikmynda frá þeim ágæta manni væri að hann væri einstæður faðir. Og allir í kring sögðu bara „æ, en sætt, oh hvað hann er góður maður.“ Ég notaði það aldrei sem afsökun fyrir neinu að ég væri einstæð móðir, tók aldrei frí út á það að börnin væru veik eða neitt slíkt, þorði ekki einu sinni að minnast á það.“

Þetta leiðir talið að umræðunni um stöðu kvenna í kvikmyndabransanum, hver er reynsla Maríu Sólrúnar af henni?
„Þegar ég var barn var ég handviss um að þetta myndi allt breytast þegar ég væri orðin fullorðin, þá yrði sko komið jafnrétti milli kynjanna,“ segir hún og andvarpar. „Sérstaklega eftir að mæður okkar voru búnar að fara niður á Austurvöll 1975. En ég hef svo sannarlega horft upp á misrétti milli kynjanna í bransanum. Það er ekkert endilega bara körlunum að kenna, kerfið er svo rótgróið. Ég get auðvitað bara talað út frá sjálfri mér: Ég átti börnin mín og hefði ekki viljað missa af því en það fer vissulega mikill tími og kraftur í það, hvað þá að vera einstæð móðir. Og manni fannst maður kannski vera að missa af lestinni þegar strákarnir fóru að taka fram úr manni. Ég var búin að gera eina mynd en svo komu þeir með næstu mynd og næstu og næstu og þá gefst maður pínulítið upp, finnst ekki taka því að keppa við þá. Maður fær líka að heyra það að bransinn segi við einhvern framleiðanda sem ætlar að fara að vinna með þér „Bíddu, hún hefur nú ekkert gert í tíu ár. Getur hún þetta nokkuð lengur?“ Við konur þurfum bara að skapa okkur okkar eigin vettvang og hunsa þetta viðhorf. Þetta var mitt val og ég get alveg komið aftur. Það er heldur ekki eins og ég hafi verið fjarverandi í bransanum þennan tíma, ég var alltaf að skrifa handrit að stórum sjónvarpskvikmyndum. Starf leikstjórans er auðvitað meira dóminerað af karlmönnum en við ættum frekar að ýta á það að kerfið taki okkur inn á okkar forsendum. Kvikmyndasjóður hérna heima hefur til dæmis staðið sig mjög vel í því. Hér hafa konur fengið styrki til að gera sínar fyrstu myndir í fullri lengd eftir fimmtugt, sem er algjörlega frábært.“

María Sólrún segir tiltektir vera í gangi í kvikmyndaiðnaðinum í Þýskalandi, þar sé jafnvel talað um að setja kvóta þannig að sum stóru kvikmyndafyrirtækin séu búin að setja sér það markmið að fimmtíu prósent leikstjóra þeirra séu konur.

Leikstýrði syninum án orða

María Sólrún er sjálf rúmlega fimmtug og Adam er hennar fyrsta mynd í fullri lengd síðan 2004, hvað ýtti henni af stað aftur?
„Að börnin voru farin að heiman,“ segir hún og hlær. „Ég var alveg búin að vera með leikstjórnarverkefni í þessi fjórtán ár sem voru komin vel áleiðis og það var komin milljón evra í eitt þeirra þegar það sprakk. Og ég var kannski búin að fá leiða á því að eltast við það að rúlla upp verkefnum eftir þessu munstri. Að vera með handrit sem við erum að þróa og umskrifa og umskrifa aftur og svo koma einhverjir frá sjónvarpsstöðvunum og verða að fá að segja sitt og svona gengur það fram og til baka. Mig langaði að leyfa sköpunargáfunni að fá meiri útrás og gera þetta öðruvísi fyrst ég var að þessu á annað borð. Gera þetta á mínum eigin forsendum og fjármagna það sjálf. Ég sleppti því til dæmis að skrifa handrit, sem sumum þykir skrýtið þar sem ég hef hingað til aðallega unnið við að skrifa handrit. Ég vildi bara gera þetta skemmtilegt, vera með smávegis tilraunastarfsemi. Við byrjuðum með hugmynd og karakter sem var með stórt vandamál sem okkur fannst snerta okkur. Við fórum pínulítið í þetta eins og heimildarmyndagerðarmenn, fylgdumst með karakternum og því sem hann var að takast á við. Svo klipptum við það efni sem við vorum komin með og langaði þá að gera meira, þannig að þetta varð þriggja ára ferli, þar sem við vorum að taka og klippa, taka meira og klippa það. Svoleiðis vinnubrögð getur maður vanalega ekki fjármagnað og leyft sér.“

Magnús sonur Maríu leikur titilhlutverkið, Adam, hvernig gekk að fara úr hlutverki móðurinnar yfir í hlutverk leikstjórans gagnvart honum?
„Hann er svo prófessjónal, drengurinn, að það var ekkert mál. Kannski líka vegna þess að stuttmyndirnar sem ég gerði í gamla daga voru allar án samtala og í þessari mynd er aðalkarakterinn heyrnarlaus, þannig að það er ekki mikið um samtöl og þá getur maður meira stýrt án orða. Þannig að þetta samstarf gekk bara mjög vel.“

Hefði viljað leyfa móður sinni að deyja

Í kynningum og umfjöllunum um Adam hefur komið fram að umfjöllunarefnið, hvað sé best fyrir móður með heilabilun, stendur Maríu mjög nærri þar sem móðir hennar glímdi við heilabilun í fjórtán ár.
„Já,“ segir hún. „Við systkinin og vinir mömmu stóðum frammi fyrir þessari spurningu þegar verið var að ræða hennar aðstæður; fjórtán ár í hjólastól með bleiu. Fyrst var því haldið fram að við systkinin værum jafnvel með eitthvað svipað, að það væru fimmtíu prósent líkur á því að við yrðum svona. Við hefðum svo gjarnan viljað geta tekið hana út af stofnuninni sem hún bjó á, farið með hana upp á jökul, spilað fyrir hana á gítar og gefið henni kakó. Leyft henni að deyja þar. Það var svo erfitt að horfa upp á þetta. Svo velti maður því auðvitað fyrir sér hvað maður sjálfur myndi vilja ef maður lenti í þessum aðstæðum. Það er svo óhugnanleg tilhugsun að enda svona. Og það versta er að þá er maður ekki lengur með rænu til þess að taka neinar ákvarðanir.“

Það er augljóst að þetta málefni er Maríu Sólrúnu hugleikið, ekki síst sú spurning hvort leggja eigi það á aðstandendur að taka ákvörðun um það hvort líknardráp væri kannski mannúðlegasta lausnin. Hún segist þó ekki geta, eða vilja, taka ákveðna afstöðu í því máli.

„Myndin gengur út á það að móðirin hafði einhvern tíma beðið son sinn að hjálpa sér að deyja ef hún skyldi einhvern tíma lenda í því að fá heilabilun eins og mamma hennar hafði fengið. Ég var reyndar búin að gleyma því, en Magnús minnti mig á það þegar við vorum að vinna myndina að ég hefði gefið börnunum mínum þessi skilaboð; í guðanna bænum ekki láta mig enda eins og ömmu. Þetta er það sem drengurinn Adam stendur frammi fyrir. Honum finnst hann skulda henni það að hjálpa henni að deyja.“
Líknardráp, sem sumir kjósa að kalla dánaraðstoð, eru bönnuð með lögum í Þýskalandi þannig að ef Adam myndi hjálpa móður sinni væri það glæpur, sem gerir baráttu hans við sjálfan sig enn erfiðari. „Skiljanlega,“ segir María Sólrún.
„Eitt er að ætlast til einhvers svona af börnunum sínum,“ segir hún. „Þar fyrir utan er það ólöglegt og jafnvel þótt það væri löglegt þá hefur manneskjan sem bað um aðstoð ekki tekið þá ákvörðun meðvitað að leggja slíka byrði á fólk. Ég sé samt alveg einhverja virðingu í því að fólk fái að deyja þegar það er orðið ósjálfbjarga. En ég á voðalega erfitt með að mynda mér ákveðna skoðun á þessu. Það er svo margt sem mælir bæði með og á móti.“

Tók upp atriði í eigin rúmi

Adam var frumsýnd á Berlínarkvikmyndahátíðinni fyrr á þessu ári og hlaut afar góðar móttökur og umsagnir. María Sólrún viðurkennir að það hafi komið henni á óvart, hafi eiginlega verið súrrealísk reynsla.
„Þetta var mynd sem ég tók heima hjá mér, karakterinn var í rúminu sem ég svaf svo í um nóttina, ég skipti ekki einu sinni um rúmföt. Þetta var allt svo rosalega persónulegt. Samstarfsfólkið var vinir mínir og börnin mín, allt prófessjónal leikarar samt, og öll vinnan var svo náin. Svo erum við allt í einu komin í einhvern þúsund manna sal fullan af fólki þar sem tekið er svona vel á móti á okkur. Myndin er komin upp á risastórt tjald, lítur vel út og greinilega snertir fólk. Fólk grætur allt í kringum mann í salnum. Það var vissulega súrrealískt.“

Velgengni Adams opnaði ýmsar dyr fyrir Maríu Sólrúnu og börn hennar, hún er komin með tvö ný verkefni í vinnslu, kvikmynd sem hún vinnur að með syni sínum og sjónvarpsþætti sem hún er að þróa með Liinu, dóttur sinni.

„Þetta opnaði nýjar brautir fyrir okkur öll,“ segir hún stolt. „Við lítum á okkur sem fjölskyldu-listakollektív. Við Magnús erum að skrifa og þróa annað handrit með stóru fyrirtæki í Þýskalandi þar sem hann mun líka leika aðalhlutverkið. Það kom algjörlega til út af Adam. Hann er líka kominn með umboðsmann í Los Angeles eftir þetta. Við Liina erum svo að þróa sjónvarpsseríu fyrir annað stórt þýskt fyrirtæki og ég „sel“ alltaf tónlistarhugmyndir með í öll þessi verkefni og það eru Liina og Haraldur Þrastarson, kærasti hennar, sem vinna tónlistina. Þannig að vissulega hefur þessi mynd breytt öllu fyrir okkur.“

Konur þurfa að forma bransann upp á nýtt

Sjónvarpsserían umrædda leggur áherslu á kvenlega sýn og kvenlega reynslu, samt alls ekki eitthverja Sex and the City/Girls-hugmynd undirstrikar María. Þetta eru spennuþættir sem beina sjónum að konum og þeirra samskiptum. Við tölum um það í sjónvarpsþáttum samtímans að fjalla um konur og ég spyr, eins og auli, hvort María haldi að það sé komið til að vera, eða hvort konur fái bara sviðsljósið núna af því það er búið að þrýsta svo harkalega á kvikmyndafyrirtækin. Það þykir henni fáránleg spurning.

Velgengni Adams opnaði ýmsar dyr fyrir Maríu Sólrúnu, hún er komin með tvö ný verkefni í vinnslu, kvikmynd sem hún vinnur að með syni sínum og sjónvarpsþætti sem hún er að þróa með Liinu, dóttur sinni.

„Ég held að þetta sé komið til að vera,“ segir hún ákveðin. „Þetta er eins og að spyrja svart fólk hvort þessar myndir með áherslu á reynslu svartra séu ekki bara tískufyrirbæri. Kannski eru orðnir margir þættir um konur núna, en í vinnu minni sem ráðgjafa hjá kvikmyndasjóði hef ég ekki orðið vör við það að konur séu að taka kvikmyndagerðina yfir. Það eru enn fleiri karlar sem sækja um, þannig að í augnablikinu er alla vega engin hætta á að þeim verði bolað út.“

Ég heyri á Maríu Sólrúnu að henni finnst þessi umræða út í hött en ég þrjóskast við og spyr hvort hún sem kona sem gjörþekkir kvikmyndabransann trúi því í alvöru að hlutföll kynjanna jafnist út. Það sljákkar aðeins í henni.

„Sko. Það er alveg öruggt að tilhneigingin er sú að bransinn vill fara að sýna það að hann sinni ákveðnum skyldum. Það er alveg réttlætanlegt að spyrja hversu mikið sé á bak við það. En ef við konur sjálfar erum svolítið duglegar að nota tækifærið í leiðinni til þess að forma bransann pínu hagstæðar fyrir okkur, þannig að þú getir átt fjölskyldu og eignast börn en samt fengið að hafa rödd í þessum bransa, þá helst þetta svona. Ég trúi því. Það þýðir ekki endilega að konur þurfi að fara að gera kvikmyndir svona seint eins og ég, heldur skiptir máli að þú þykir hafa einhverja vikt í greininni þótt þú sért ekki að unga út efni sem leikstjóri eins hratt og einhverjir aðrir. Mér finnst allavega núna vera að koma fram fleiri hugrakkar stelpur með sterka rödd hér á Íslandi. Ég er ekki að meina að þær stelpur sem komu á undan hafi ekki verið hugrakkar með sterka rödd, en þeim hefur fjölgað sem er mjög jákvætt.“

Konur skila sér síður út á markaðinn

María Sólrún segir sömu tiltektirnar vera í gangi í kvikmyndaiðnaðinum í Þýskalandi, þar sé jafnvel talað um að setja kvóta þannig að sum stóru kvikmyndafyrirtækin séu búin að setja sér það markmið að fimmtíu prósent leikstjóra þeirra séu konur. Og áhrifin sjáist víðar.

„Kvikmyndahátíðin í Berlín tók þetta mjög alvarlega í ár, buðu miklu fleiri kvikmyndum gerðum af konum en áður hefur tíðkast. Þannig að umræðan hefur alveg áhrif. Það hefur lengi verið þannig í kvikmyndaskólum í Þýskalandi að konur eru næstum helmingur nemenda en það hefur ekki skilað sér út á markaðinn. Það er þess vegna sem ég tala svona mikið um að við þurfum að leyfa okkur að gera þetta á eigin forsendum og vera ekki hræddar um að missa af lestinni ef við eignumst börn og fjölskyldu og það dregur úr afköstunum í einhvern tíma. Það er aldrei of seint að snúa aftur.“

„Mér finnst alla vega núna vera að koma fram fleiri hugrakkar stelpur með sterka rödd hér á Íslandi. Ég er ekki að meina að þær stelpur sem komu á undan hafi ekki verið hugrakkar með sterka rödd, en þeim hefur fjölgað, sem er mjög jákvætt.“

Talandi um endurkomu þá verður Adam frumsýnd á Íslandi sem lokamynd barnakvikmyndahátíðar í Bíó Paradís þann 14. apríl og fer síðan í almennar sýningar þann 16. Auk þess munu María Sólrún og Magnús verða með Master Class í Bíó Paradís 16. og 17. apríl. Hvernig er það hugsað?

„Við verðum með smáspjall eftir sýningu myndarinnar um það hvaða trix er hægt að nota ef maður ætlar að búa til heimakvikmynd sem getur lent á stórri kvikmyndahátíð,“ segir María Sólrún og skellir upp úr. „Við kunnum það.“

Dýrtíðin á Íslandi hrikaleg

Í tilefni af íslensku frumsýningunni er María stödd á landinu en hér hefur hún ekki búið síðan 1985. Dreymir hana, eins og marga brottflutta Íslendinga, um að flytja heim í ellinni og njóta íslenskrar náttúru?

„Nei, ég kem hingað reglulega og nýt náttúrunnar en mér finnst dýrtíðin hér bara svo hrikaleg að ég gæti ekki búið hérna,“ segir hún og það er sjokk í röddinni. „Ég fer bara aftur heim til Berlínar og þar munum við Magnús halda áfram að vinna í handritinu að nýju kvikmyndinni og við Liina að þróa sjónvarpsþáttaröðina. Við fengum líka styrk fyrir enn eitt handritið, svo það er nóg að gera. Ég er rétt að byrja!“

Samtalið fer að styttast í annan endann en að lokum spyr ég Maríu Sólrúnu hvort hún vilji koma einhverju á framfæri við íslenskar kvikmyndagerðarkonur áður en við hættum.

„Ég vil bara endilega nota tækifærið og hvetja konurnar í bransanum til dáða. Ekki bara þessar ungu, sem maður þarf líka að hvetja, heldur bara allar konur á öllum aldri, til að láta til sín taka í kvikmyndaiðnaðinum. Koma sínum sjónarmiðum á framfæri hvað sem það kostar. Jafnvel bara gera þetta innan fjölskyldunnar, eins og við. Það var einmitt einhver kona sem benti mér á að ég hefði unnið þessa mynd eins og bóndi sem þarf að leita allra leiða til að koma uppskerunni í hús, tók bara börnin með út á akurinn þegar á þurfti að halda.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, National make up artist fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

„Ég lifði í stöðugum ótta um að einhver myndi afhjúpa mig“

|
|

„Ég vildi ekki trúa þessu,“ segir söngkonan Mariah Carey í forsíðuviðtali við tímaritið People, þar sem hún opnar sig um baráttu sína við geðhvarfasýki.

Mariah segist hafa greinst með sjúkdóminn árið 2001 í kjölfarið á því að hún hafi verið lögð inná spítala eftir að hún brotnaði niður andlega og líkamlega.

„Mig langaði ekki að burðast með smánarblettinn sem þessi lífstíðarsjúkdómur hefur, sjúkdóm sem myndi skilgreina mig og hugsanlega eyðileggja feril minn. Ég var dauðhrædd um að missa allt. Ég sannfærði sjálfa mig um að eina leiðin til að kljást við þetta væri að kljást ekki við þetta,“ segir Mariah í þessu einlæga viðtali.

Tekur lyf við sjúkdómnum

„Ég lifði í afneitun og einangrun þar til nýlega og ég lifði í stöðugum ótta um að einhver myndi afhjúpa mig. Þetta var of þung byrði til að bera og ég gat það einfaldlega ekki lengur. Ég leitaði mér meðferðar, ég umkringdi mig jákvæðu fólki og byrjaði aftur að gera það sem ég elska – að skrifa og semja tónlist. Eins erfitt og þetta er þá vissi ég að það væri komið að því að ég myndi loksins deila sögu minni,“ segir þessi hæfileikaríka kona.

Forsíða People.

Söngkonan segist nú vera í meðferð og á lyfjum við geðhvarfasýki II sem lýsir sér í ýmist þunglyndi eða oflæti.

„Ég tek lyf sem virðist ganga vel. Þau gera mig ekki of þreytta eða sljóa eða neitt svoleiðis. Það er mikilvægast að finna jafnvægið,“ segir Mariah og bætir við að hún hafi ákveðið að leita sér meðferðar eftir erfiðustu ár lífs síns.

Mariah á tvíburana Monroe og Moroccan, sex ára, með fyrrverandi eiginmanni sínum, Nick Cannon. Hún segist vera á góðum stað í lífinu í dag og vill aflétta þeirri skömm sem fylgir geðsjúkdómum.

„Ég er vongóð um að við getum komist á stað þar sem skömminni verður aflétt af fólki sem gengur í gegnum svona nokkuð eitt. Þetta getur verið mjög einangrandi.“

Biggest Loser-þjálfari hittir manninn sem bjargaði lífi hans

Einkaþjálfarinn Bob Harper, sem margir kannast við úr raunveruleikaþáttunum The Biggest Loser, hneig niður á æfingu í febrúar í fyrra og komst að því þegar hann vaknaði á spítalanum tveimur dögum seinna að hann hefði fengið alvarlegt hjartaáfall.

Bob var gestur í The Dr. Oz Show í gær þar sem hann talaði um þessa lífsreynslu og bætti við að hann hefði nýlega frétt af því að það hefði verið manneskja í ræktinni, sem þjálfarinn þekkti ekki neitt, sem hefði veitt honum fyrstu hjálp á staðnum.

Þá útskýrði Dr. Oz að teymið á bak við þáttinn hefði fundið þennan dularfull mann sem bjargaði lífi Bobs og spurði hvort þjálfarinn vildi hitta hann.

„Já!“ svaraði Bob umsvifalaust.

Ungi maðurinn, sem heitir Phillip, gekk þá inn í sjónvarpssalinn. Hafði þetta svo sterk áhrif á Bob, eins og sjá má í meðfylgjandi myndböndum, að hann kom ekki upp orði. Phillip er læknanemi og sagði í þættinum að þetta hefði verið í fyrsta sinn sem hann veitti alvöru manneskju fyrstu hjálp. Fyrir þetta atvik hafði hann aðeins æft sig á dúkkum.

„Ég leitaði að púlsi, sem var veikur, og síðan hætti ég að finna hann. Og síðan, allt í einu – viltu heyra þetta?“ spurði Phillip þjálfarann.

„Já,“ sagði Bob.

„Allt í einu varðstu blár. Rosalega blár. Þannig að þá hóf ég fyrstu hjálp.“

„Mótlætið styrkti baráttuviljann“

„Fannst ég mikill aumingi að svara aldrei fyrir mig“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu í stjórnmálum, skarpa sýn og réttlætiskennd. Okkur lék forvitni á að vita hver bakgrunnur hennar væri og komumst fljótt að því að þarna fer kona sem fékk snemma á lífsleiðinni að kenna á mótlæti á eigin skinni.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir alþingiskona segir sögu sína í 14. tölublaði Vikunnar.

„Við fluttumst til Mosfellsbæjar þegar ég var í sjöunda bekk og þar skánaði ástandið ekkert. Ég var vinafá og átti erfitt uppdráttar í gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Mér var mikið strítt og sumir léku sér að því að þykjast vera vinir mínir til þess eins að geta niðurlægt mig á einn eða annan hátt. Sumarið fyrir níunda bekk tók ég svo þá glæfralegu ákvörðun að lita á mér hárið svart. Það var engin sérstök hugmyndafræði á bak við þetta hjá mér, Sunna vinkona mín mætti í „goth“-lúkkinu í heimsókn til mín einn daginn og mér fannst þetta bara rosalega töff. En þetta litaval var greinilega kornið sem fyllti mælinn hjá skólafélögum mínum sem virtust sameinast um að fyrirlíta mig og vilja gera mér lífið leitt. Fyrri önnin í níunda bekk fannst mér helvíti á jörðu, mér leið rosalega illa og framkoman við mig skildi eftir sig stór sár á sjálfsmyndinni,“ segir Þórhildur Sunna.

„Ég man eftir að hafa reglulega verið kölluð mansonisti, mansonari, djöfladýrkandi, dópisti og ýmislegt annað verra eins og tussa, hóra og tík. Ég man eftir viðstöðulausu áreiti og tilraunum til þess að plata mig til að segja eða gera eitthvað heimskulegt. Ég man að skólafélagar mínir áttu það til að henda í mig matarafgöngum í matsalnum. Þau voru mörg sem gerðu sér það að leik að reyna að fella mig á göngunum á efri hæðinni og ég man hvað ég var alltaf hrædd að ganga fram hjá þeim. Ég man sérstaklega vel eftir vanmættinum sem ég upplifði á hverjum einasta degi og hvað mér fannst ég mikill aumingi að svara aldrei fyrir mig.“

Ítarlegt viðtal er við Þórhildi Sunnu í 14. tölublaði Vikunnar, 2018, þar sem hún ræðir meðal annars um eineltið, áreitið og gamla lögmannahrúta á Alþingi.  

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Fæddi barn í anddyrinu heima hjá sér

|
|

Þáttarstjórnandinn Seth Meyers og eiginkona hans, Alexi Ashe, eignuðust sitt annað barn, son sem hlotið hefur nafnið Axel, á sunnudag. Seth var mættur aftur til vinnu kvöldið eftir í þátt sinn Late Night With Seth Meyers, og lýsti þar fæðingunni, sem bar ansi fljótt að.

Í meðfylgjandi myndbandi byrjar Seth á að rifja upp fæðingu fyrsta barn síns, Ashe, sem kom mjög skjótt í heiminn.

„Við höfðum áhyggjur af því að hún ætti eftir að eignast barnið í Uber-bílnum,“ segir Seth en hjónakornin komust á spítalann áður en litla kraftaverkið kom í heiminn. Það sama var ekki upp á teningnum á sunnudaginn þegar Axel fæddist.

Í myndbandinu hér fyrir neðan sýnir hann einnig myndir frá stóra deginum.

Alexi byrjaði að finna fyrir hríðum og stuttu seinna leit tengdamamma Seths á hann og hrópaði: „Við verðum að fara á spítalann núna!“ Þau fóru í flýti niður í anddyri á byggingunni sem þau búa í en þegar Alexi var við það að setjast inn í Uber-bifreiðina sagði hún að barnið væri að koma og að hún gæti ekki sest inn í bílinn. Sem betur fer voru þau hjónin með dúlu með sér, sem sá til þess að fæðingin gekk vel í anddyri byggingarinnar.

Ég mæli með því að þið horfið á alla söguna frá sjónarhorni Seths því hún er bráðskemmtileg:

Gengin sex mánuði og geislar

Victoria’s Secret-fyrirsætan Candice Swanepoel á von á sínu öðru barni með kærasta sínum, Hermann Nicoli.

Candice er komin sex mánuði á leið og fagnaði því með því að birta nektarmynd af sér á Instagram sem er afskaplega falleg.

„Eru konur ekki stórkostlegar?!“ skrifaði Candice meðal annars við myndina og taggaði ljósmyndarann Inge Fonteyne, hárgreiðslumanninn Frankie Foy og förðunarfræðinginn Mariel Barrera.

Candice hefur verið dugleg að deila myndum á Instagram á meðgöngunni, en hún eignaðist sitt fyrsta barn, soninn Anacã, í október árið 2016.

The little prince #proudmama ?

A post shared by Candice Swanepoel (@angelcandices) on

Cosy with my little? ?@ingefonteyne @mariel_barrera @frankiefoye @1hotels

A post shared by Candice Swanepoel (@angelcandices) on

? @uxua

A post shared by Candice Swanepoel (@angelcandices) on

Klæðist píkubuxum í nýju myndbandi

||
||

Tónlistar- og leikkonan Janelle Monáe frumsýndi myndband við nýja lagið sitt PYNK á YouTube í gær, en myndbandinu var leikstýrt af Emmu Westenberg.

Athygli vekur að Janelle, og nokkrir af dansurum hennar, klæðist buxum í myndbandinu sem líta út eins og píka. Í einu atriðinu liggur kona á milli fótleggja Janelle og er það mjög áhugavert sjónarspil.

„PYNK er blygðunarlaus fögnuður sköpunar, sjálfsástar, kynhneigðar og píkukrafts!“ stendur í lýsingu á myndbandinu á YouTube.

PYNK er lag af væntanlegri plötu Janelle, DIRTY COMPUTER. Það er hennar þriðja breiðskífa og kemur hún út þann 27. apríl næstkomandi.

Ólýsanleg stund þegar Elísabet sá foreldra sína í fyrsta sinn

|
|
Elísabet vill ekki taka gleraugun af sér.

„Hún vill ekki taka gleraugun af sér,“ segir Gretar Örn Bragason, faðir Elísabetar Evu sem kom í heiminn þann 18. desember árið 2016.

Gretar og kona hans, Eva Hrönn Jónsdóttir, birtu myndband á Facebook nú í morgunsárið þar sem Elísabet Eva sést setja á sig gleraugu í fyrsta sinn, en hún er með +8 á báðum augum. Gretar segir að Elísabet hafi fengið þessa greiningu fyrir mánuði síðan og í gær fékk hún loksins gleraugu.

Eins og sést í myndbandinu eru viðbrögð Elísabetar þegar hún sér fjölskyldu sína í fyrsta sinn algjörlega yndisleg. Eiginlega ólýsanleg, og segir myndbandið meira en mörg orð.

„Hún varð bara rosalega hissa og forvitin að sjá allt allt í rauninni í fyrsta sinn,“ segir stolti faðirinn.

En foreldrarnir, hvernig leið þeim á þessari stundu?

„Þetta var bara dásamleg stund. Ég hafði mestar áhyggjur af því að hún myndi kannski ekkert vilja með mann hafa eftir að hún sæi hvernig maður liti raunverulega út,“ segir Gretar og hlær.

Það er allt hægt á súlunni

Súludans hefur notið mikilla vinsælda síðustu misseri og margir sem hafa fallið fyrir íþróttinni.

Fyrirtækið og líkamsræktarstöðin Power Pole Sports hefur bryddað upp á skemmtilegum leik á Instagram, þar sem forsvarsmenn fyrirtækisins hvetja iðkendur súlusportsins að birta myndir og myndbönd af sér á súlunni að gera hversdagslega hluti.

Margar myndanna eru ansi hreint skemmtilegar, en þar sjást konur meðal annars sinna húsverkum, borða, leika á hljóðfæri og hjóla á súlunni. Við elskum þessar myndir og myndbönd!

❤️❤️❤️ #WeekendPowerPoleProject Week of: 03/30/2018 Project: #pdEveryDay ❤️❤️❤️ Aaaahahahahahha! Laundry day when you’re a pole dancer from @fiapolerina!! ???????? Bra on the foot is a great touch!! ? Fantastic submission for this week’s #WeekendPowerPoleProject, #pdEveryday!!??? @powerpolesports #weekendpowerpoleproject #pdeveryday ____ Show us your EVERYDAY LIFE, but on the POLE! We’ll give you lots of examples and inspo but we’re looking for how your ordinary life would look ON THE POLE! You can do this one individually, as doubles or triples, and we would LOVE to see this one done with an entire GROUP THEME so submit your CLASS PROJECTS for this one too! We can’t WAIT to see what you come up with! This is going to be an INCREDIBLY fun one! TAG YOUR POLE FRIENDS TO PARTICIPATE IN THE PROJECT WITH YOU!! ??????‍♀️ @powerpolesports #WeekendPowerPoleProject #pdEveryDay ❤️ __________ ✅ IMPORTANT: We usually require that your moves be NEW to submit for the project, however, for THIS week, we will also accept previously done pictures, BUT YOU MUST POST THEM AGAIN this week with all the appropriate project tags for feature! ??? __________ FOR FEATURE: ✅1️⃣ FOLLOW @powerpolesports ✅2️⃣ NEW ???? FOLLOW THE HASHTAG #WeekendPowerPoleProject ✅3️⃣ POST your high quality photo or video submission (YOUR SUBMISSIONS MUST BE NEWLY POSTED TO QUALIFY) ✅4️⃣ YOU NEED 3 TAGS IN YOUR POST ???? @powerpolesports #WeekendPowerPoleProject #pdEveryDay. ???? ALL 3 TAGS must be in your ORIGINAL POST description, and not in comments. ❤️ We do a new Weekend Power Pole® Project every Friday, complete with breakdown and slo-mo videos and tutorials. Each project runs from Friday to the following Thursday. You have a FULL WEEK TO ENTER EVERY PROJECT! FOLLOW @powerpolesports AND FOLLOW HASHTAG #WeekendPowerPoleProject to learn NEW MOVES EVERY WEEK! ❤️ www.powerpolesports.com ❤️ #powerpole ® #powerpolesports #polechallenge #pdnewmoves – #pdchallenge #polepose #pdtrick #poleshapes #pdtricks #poleshape #igpoledance #ig_poledance #poleathome #homepole #staticpole #polewife #poledancingmotivation #poleathome #homepole #homepoler

A post shared by Kriston Leagh ∙ Power Pole® (@powerpolesports) on

Fólk sem talar við hundana sína er ekki brjálað

||
||

Ný rannsókn sýnir fram á að fólk sem talar við hunda sína í háum tónum er í raun að hjálpa hvuttunum sínum að halda athygli. Þetta gæti einnig hjálpað til við að bæta samband á milli hundaeigenda og gæludýranna.

Rannsakendur við York háskóla í Bretlandi ákváðu að láta á það reyna hvort að hundatal hefði sömu jákvæðu áhrif á hundana og þegar fullorðnir tala við ungbörn.

„Auðvitað vitum við að hundar geta ekki lært að tala, þannig að við vildum vita hvort hundatal virkaði fyrir hunda, eða hvort það er bara eitthvað sem við notum á hundana okkar, þar sem við lítum á hunda sem hluta af fjölskyldunni, eins og feldi klædd börn,“ segir forsvarsmaður rannsóknarinnar, Alex Benjamin, í samtali við Huffington Post.

Mikil nánd myndast oft á milli hundaeigenda og hunda.

Samskipti manna við hunda hafa áður verið rannsökuð og þá hefur meðal annars komið fram að það að tala við hunda í háum tónum, líkt og við gerum við börn, hefur góð áhrif á hvolpa, en að það skipti ekki máli þegar talað er við gamla hunda. Niðurstöður Alex og teymis hennar sýna fram á að þetta samspil sé örlítið flóknara en áður hefur verið haldið fram.

Það er gott að tala við hunda.

Teymið framkvæmdi raddpróf á 69, fullorðnum hundum. Þau fóru þannig fram að hundarnir hlustuðu á eina manneskju sem talaði háum tónum og notaði frasa sem var beint að hundunum, eins og: Þú ert góður hundur, og Eigum við að fara í göngutúr? Önnur manneskja notaði mennska frasa sem tengdust hundunum ekki neitt, eins og Ég fór í bíó í gær. Rannsakendur fylgdust með hvert athygli hundanna leitaði á meðan manneskjurnar voru að tala og fylgdust með hvaða manneskju þeir drógust að.

Því næst blönduðu rannsakendur saman hundafrösum og mennskum frösum til að sjá hvort það væri tónn raddarinnar sem hundarnir löðuðust að, eða frasarnir sjálfir. Loks komust rannsakendur að því að hundarnir voru líklegri til að laðast að manneskjunni sem notaði frasa sem var beint að hundunum.

„Við höfum sýnt fram á að hundar skynja þessa týpu af tali og það gæti verið gagnlegt að nota hana þegar þú hittir hund í fyrsta sinn, eða ef þú ert að leika við hund vinar þíns til dæmis,“ segir Alex og bætir við orðum sem margir hafa eflaust þráð að heyra lengi:

„Og ef þú ert nú þegar að tala við þinn eiginn hund eins og barn geturðu notað þessa rannsókn til að réttlæta að þú ert ekki brjáluð hundamamma!“

Ólafur Darri berst við risahákarl með Jason Statham

Fyrsta stiklan úr stórmyndinni The Meg, úr smiðju Warner Bros. Pictures, er komin á netið, en meðal leikara í myndinni er Ólafur Darri Ólafsson.

Myndin fjallar um teymi sem berst við risahákarl, tegund sem allir héldu að væri útdauð. Eins og gefur að skilja er stiklan spennuþrungin og greinilegt að hér er um að ræða eina af stórmyndum þessa árs, en myndin verður frumsýnd vestan hafs þann 10. ágúst næstkomandi.

Meðal annarra leikara í myndinni eru Jason Statham, Li Bingbing, Cliff Curtis, Rainn Wilson og Ruby Rose. Leikstjóri myndarinnar er John Turteltaub, sem leikstýrði mörgum goðsagnakenndum myndum á tíunda áratug síðustu aldar, eins og Cool Runnings, While You Were Sleeping og Phenomenon. Handritið er byggt á metsölubókinni The Meg eftir Steve Alten.

Hér fyrir neðan má sjá þessa miklu hasarstiklu:

Hugsaði um veika móður, léttist um 30 kíló og lítur út eins og Disney-prins

||||||
||||||

Jeffrey Kendall, 26 ára gamall maður frá Connecticut, ákvað að deila sögu sinni á internetinu fyrir stuttu og hefur svo sannarlega vakið mikla athygli.

Svona leit Jeffrey út fyrir tæpum þremur árum.

Jeffrey bjó með móður sinni í Connecticut árið 2015 og hugsaði um hana eftir að hún fékk gúlp í heila.

„Hún var í dái og í endurhæfingu á sjúkrahúsi í sjö mánuði, þar til henni fór ekki lengur fram og var útskrifuð þar sem tryggingarnar vildu ekki lengur dekka kostnaðinn,“ segir Jeffrey í samtali við Love What Matters. Hann segist hafa glímt við lélega sjálfsmynd um langa hríð.

„Ég var of þungur sem ungmenni og var lagður í einelti í uppvextinum. Ég hef lifað lífinu með vandamál með líkamsímynd og sjálfstraust.“

Jeffrey var of þungur sem barn.

Setti allt í samhengi

Jeffrey segir að mikið hafi breyst þegar hann horfði upp á veika móður sína.

„Ég var búinn að sjá hana á sjúkrahúsinu þar sem hún gata varla talað, ég var búinn að sjá hana á gjörgæslu þar sem hún gat ekki andað. Ég var búinn að sjá hana á gólfinu þar sem hún gat ekki vaknað. Að sjá störu hennar án löngunar móður var niðurdrepandi. Það setti sjálfsvorkun og sársauka í samhengi,“ segir Jeffrey. Hann byrjaði að æfa með vini sínum, sem var líka á slæmum stað tilfinningarlega.

Svona lítur Jeffrey út í dag.

„Góður vinur minn átti líka erfitt eftir sambandsslit og þurfti hjálp við að koma sér í form. Þetta var fullkomin ástæða fyrir mig að byrja á einhverju nýju þar sem ég mat lífið betur eftir þetta sumar. Við byrjuðum hægt, á léttri lyftingaræfingu og ég samþykkti að gera armbeygjur á hverjum degi. Stuttu síðar vaknaði ég á morgnana og fór í göngutúra á meðan ég hlustaði á hressandi tónlist.“

Tíminn leið og Jeffrey byrjaði að setja sér fleiri og fleiri markmið í átt að betri lífsstíl.

„Ég byrjaði að skokka og taka spretti og ýtti sjálfum mér alltaf lengra og lengra. Ég fann nýjar leiðir til að æfa, ég fann YouTube-rásir eins og Yoga with Adriene til að hjálpa mér að æfa heima. Ég byrjaði að stunda jóga og æfa nánast á hverjum degi.“

Frábært hár.

Lítur út eins og Disney-prins

Nú hundrað vikum síðar hefur Jeffrey misst rúmlega þrjátíu kíló. Hann birti myndir af árangri sínum á samfélagsmiðlinum Reddit og létu viðbrögin ekki á sér standa. Margir Reddit-notendur velta fyrir sér hvort hann ætti ekki að leika í sjampóauglýsingum á meðan aðrir líktu honum við Disney-prins, þá sérstaklega þann úr Fríðu og dýrinu eftir að hann breytist í mann.

Líkindin eru sláandi.

„Ég gat varla sofið það kvöld, þetta var stórkostlegt. Athugasemdirnar voru allar svo hvetjandi,“ segir Jeffrey, en bætir við að móðir sín sé mesti innblásturinn í þessari vegferð sinni.

„Hún er seigasta manneskja sem ég þekki og kennir mér að vera þakklátur fyrir lífið.“

Lífsglaður og hárprúður maður.

Auður selur opna og óhefðbundna íbúð á Baldursgötunni

Innanhússhönnuðurinn og stofnandi og ritstýra islanders.is, Auður Gná Ingvarsdóttir, hefur sett íbúð sína á Baldursgötu 30 í Reykjavík á sölu.

Æðisleg íbúð.

Íbúðin er 88 fermetrar og ásett verð er 52,5 milljónir króna. Íbúðin var öll tekin í gegn árið 2015 en hún er búin einu svefnherbergi og einu baðherbergi.

Skemmtilegt baðherbergi.

Auður er annáluð smekkmanneskja og því íbúðin öll hin glæsilegasta en henni fylgja einnig svalir með góðu útsýni, og gómsætri lykt eins og Auður segir sjálf í Facebook-færslu þar sem hún vekur athygli á fyrirhugaðri sölu.

Svefnherbergið er bjart og hlýlegt.

„Beint fyrir utan gluggann er að finna áræðanlegustu eldhúsklukku í allri Reykjavík í turni Hallgrímskirkju, og því ekki ástæða til að ofsjóða pasta, grænmeti eða annan mat. Auk þess er Eldsmiðjan á næsta horni og Snaps á því þar næsta, þannig að ef maður er ekki mikið fyrir að elda, þá er ekki hætta á að svelta. Úrvals útsýni til norðurs og suðurs. Á góðum sumardögum koma svalirnar að góðum notum, algjör stilla og oft á tíðum magnaður ilmur af eldbökuðum pizzum,“ skrifar Auður og bætir einnig við að opið hús sé í eigninni á morgun, 10. apríl, frá 17.15 til 17.45.

Hér er vel hægt að skapa minningar.

„Mín opna, bjarta og skemmtilega óhefðbunda íbúð er í sölu og á morgun er hægt að koma við og skoða. Ef að einhver veit um einverja opna, bjarta og óhefðbunda einstaklinga sem hefðu áhuga á að búa á besta stað í Þingholtunum, þá væri tilvalið að láta vita af Baldursgötunni.“

Íbúðin er á besta stað í Þingholtunum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Auður setur íbúðina á sölu, en samkvæmt frétt Smartlands í apríl í fyrra, fyrir næstum því sléttu ári, var íbúðin þá á markaðinum.

Geggjaður spegill.
Nærliggjandi umhverfi íbúðarinnar er vægast sagt lifandi.

Fann dauða eðlu í salatpokanum

Washington-búanum Grace Goldstein brá heldur betur í brún þegar hún kom heim úr ferð í matvöruverslunina Trader Joe’s í síðustu viku. Þegar Grace tók upp úr pokunum sá hún dauða eðlu í grænkálspokanum sem hún keypti.

Í samtali við tímaritið People segir Grace að hún hafi fengið áfall þegar hún sá eðluna.

„Ég var ýmist í afneitun eða mig hryllti við þessu, sem varð til þess að ég bað kærastann minn í sífellu að skoða grænkálspokann og staðfesta að þetta væri eðla, og þá hrópaði ég og ýtti pokanum frá mér og neitaði að vera nálægt honum. Og síðan bað ég um að fá að sjá hana aftur,“ segir Grace.

Hún bætir við að hún hafi ekki vitað hvað hún ætti að gera við eðluna og því hafi hún ákveðið að setja hana inn í ísskáp til að varðveita hana.

„Við höfðum samband við Trader Joe’s og vorum ekki viss hvort við ættum að fara með hana aftur í hverfisbúðina okkar þar sem við keyptum pokann. Mig langaði ekki að hafa rotnandi eðlu í ísskápnum. Hún var aðeins of nálægt ísnum mínum.“

Vinkona Grace tísti mynd af pokanum og hefur fólk skrifað athugasemdir við myndina um sínar eigin hryllingssögur af Trader Joe’s. Talskona verslunarkeðjunnar segir í samtali við People að fyrirtækið sé að skoða kvörtun Grace.

Birtir myndir af appelsínuhúð og slitförum

|||
|||

Söngkonan Demi Lovato er ötul talskona jákvæðrar líkamsímyndar, en seint í síðustu viku birti hún myndir af sér á Instagram-sögu sinni sem hafa vakið talsverða athygli.

Á einni myndinni sést Demi grípa í hold sitt og sýna slitför sem hún er með um sig miðja:

Á annarri myndinni sýnir hún appelsínuhúðina fyrir neðan rassinn:

Og á þriðju myndinni sýnir hún að læri hennar snertast:

Demi hefur unnið mikið í að bæta sína eigin sjálfsmynd síðustu ár, en hún hefur barist við þunglyndi og fíkn, skaðað sjálfa sig og verið með átröskun. Um allt þetta og meira til tjáði hún sig um í heimildarmyndinni Simply Complicated sem var frumsýnd á YouTube í fyrra. Heimildarmyndina má horfa á hér fyrir neðan:

Birtu skemmtilegt myndband til að tilkynna kynið á barninu

Knattspyrnukappinn Aron Einar Gunnarsson og eiginkona hans, fitness-drottningin Kristbjörg Jónasdóttir, eiga von á sínu öðru barni, en fyrir eiga þau soninn Óliver.

Þau birtu skemmtilegt myndband á Instagram til að tilkynna kynið á ófædda barninu, en það var Óliver sem fékk að leika stórt hlutverk í myndbandinu.

Í því sést Óliver sprengja stóra blöðru sem á stendur Boy or Girl?, eða Stelpa eða strákur? Þegar Óliver sprengir svo blöðruna koma fjölmargir bláir borðar úr henni og því ljóst að Aron og Kristbjörg eiga von á öðrum dreng.

? or a ?? @krisjfitness

A post shared by Aron Gunnarsson (@arongunnarsson) on

Óliver var líka lykilmaður í því þegar hjónin opinberuðu óléttuna á samfélagsmiðlum. Þá birtu þau hjónin einfaldlega mynd af drengnum í bol sem á stóð: Ég er að verða stóribróðir.

Ari fær fjórar stjörnur í Ástralíu

Ari Eldjárn

Ari Eldjárn tekur þátt í Melbourne International Comedy Festival þessa dagana með uppistandssýninguna Pardon My Icelandic. Gagnrýnandinn Patricia Maunder hjá Artshub segir í nýlegri gagnrýni sinni að Ari hljóti að vera fyndnasti grínistinn á Norðurlöndunum, svo hrifin var hún af sýningu hans í Melbourne.

Patricia segir sýningu Ara vera einlæga og bætir jafnframt við að enskukunnátta hans sé mjög góð, þar með talið hinir ýmsu hreimar sem Ari gerir en hann er, eins og Íslendingar vita, afar góð eftirherma.

Patricia segir Ara túlka listilega vel þann ríg sem ríkir á milli Norðurlandanna og hvernig Íslendingar þoli ekki hvernig Danir, Svíar, Finnar og Norðmenn tali niður til Íslands, en að Íslendingar geri svo slíkt hið sama við frændur okkar í Færeyjum.

Þá er Patricia afar hrifin af gríninu sem Ari gerir um dóttur sína.

„Síðustu tíu mínúturnar af sýningunni snýr Ari sér að athugunum úr sínu eigin lífi, þá helst föðurhlutverkinu. Túlkun hans á þriggja ára dóttur sinni sem einræðisherra úr Game of Thrones, sem er fullkomnuð með hrokafullum, enskum hreim, lætur mann óska að sýningin sé í annan klukkutíma,“ skrifar Patricia og bætir við, um leið og hún gefur sýningunni fjórar stjörnur:

„Þetta er gríngull sem týnist klárlega ekki á milli tungumála.“

Fór í lýtaaðgerð og dó í heila mínútu

Heidi Montag gerði garðinn frægan um miðbik síðasta áratugar í sjónvarpsþáttunum The Hills. Í kjölfarið fór hún í ansi margar lýtaaðgerðir, þar á meðal brjóstastækkun og ýmsar aðgerðir á andliti sínu, en þessi umbreyting var vel skrásett af slúðurmiðlum um allan heim.

Í nýju viðtali við tímaritið Paper segist Heidi hafa verið hætt komin í einni af aðgerðunum.

A post shared by heidipratt (@heidipratt) on

„Spencer hélt að hann væri búinn að missa mig,“ segir Heidi, og vísar í eiginmann sinn Spencer Pratt, en þau gengu í það heilaga árið 2009.

„Ég dó í eina mínútu. Út af öllum þessum aðgerðum þurfti ég að vera undir eftirliti hjúkrunarfræðinga allan sólarhringinn og Spencer vildi ekki líta af mér. Ég var lögð inn á endurhæfingastöð og þurfti að fá Demerol til að lina sársaukann því hann var svo mikill,“ bætir hún við.

Heidi segir að litlu hafi munað að hún hafi farið yfir móðuna miklu í fyrrnefndri aðgerð þar sem hjarta hennar hætti að slá í eina mínútu.

„Öryggisverðirnir hringdu í Spencer og sögðu honum: Hjarta Heidi stoppaði. Hún hefur það ekki af. Og ég hefði auðveldlega geta dáið. Ég mæli ekki með því að láta skera sig upp og Demerol er ekki eitthvað til að leika sér með. Michael Jackson dó af því.“

Þessi lífsreynsla breytti lífi Heidi.

„Ég þurfti að horfa á sjálfa mig í spegli á hverjum degi í batanum og hugsa: Hvað var ég að gera við sjálfa mig? Hvernig komst ég hingað? Hvað er að gerast,“ segir Heidi og bætir við:

Babymoon! ?

A post shared by heidipratt (@heidipratt) on

„Það kom mikið af jákvæðum hlutum úr þessu. Ég þurfti að ná botninum í mínu lífi til að gera mér grein fyrir því hvað væri mikilvægast.“

Lítið hefur farið fyrir Heidi og Spencer síðustu ár en í október í fyrra eignuðust þau sitt fyrsta barn saman, soninn Gunner Stone.

A post shared by heidipratt (@heidipratt) on

„Aðalgaldurinn er að þora að fara í hjarta sitt og opna það fyrir öðrum”

„Mér finnst ekkert svo stressandi að taka að mér að syngja þessi lög, þó þau séu svona vel þekkt og að vafalaust eigi flestir sína uppáhaldsflytjendur,” segir söngkonan Kristín Stefánsdóttir. Hún heldur tónleika til heiðurs Burt Bacharach í Salnum í Kópavogi þann 20. apríl, í tilefni af níræðisafmæli tónlistarmannsins þann 12. maí.

„Ég tengi mjög vel við þessi lög og skilaboðin í þeim og geri þau að mínum með því að mála myndina í huganum af sögunni sem verið er að segja. Þegar svona dásamleg tónsmíð rammar svo inn söguna er óhjákvæmilegt annað en að tengjast á sinn eigin hátt. Aðalgaldurinn er að þora að fara í hjarta sitt og opna það fyrir öðrum þannig að þeir geti tengst sínu hjarta í gegnum flutninginn,” segir Kristín, en meðal laga sem munu hljóma í Salnum eru The Look of Love, I Say a Little Prayer og What the World Needs Now.

Algjör suga á tónlist

„Mér finnst eins og lög Burt Bacharach séu svolítið samofin uppvexti mínum, á þann hátt á ég minningar af þessum lögum en ég var algjör suga á alls konar tónlist í uppvextinum. Lögin hans eiga það sameiginlegt að vera melódísk og þægileg fyrir eyrað en hafa einnig skýra sögu eða skilaboð sem ég held að sé líka galdurinn að vinsældunum. Maður á sterkar minningar af lögum eins og What the World Needs Now, That’s What Friends Are For, Close to You og Say a Little Prayer, svo fátt eitt sé nefnt. En það kom mér á óvart þegar ég fór að vinna þetta prógramm hvað hann á líka mörg ofboðslega falleg lög sem maður hafði sjaldan eða jafnvel aldrei heyrt. Þá gæti ég nefnt lög eins og Alfie, Who Will Speak for Love, Love’s the Answer og svona hádramatísk lög eins og This House is Empty Now. Lögin hans eru svo ljúf og fjalla flest öll á einn eða annan hátt um ástina og munum við kappkosta að koma þeim skilaboðum eins fallega og við getum til skila,” segir þessi hressa söngkona.

Fann kjólinn í útlöndum

Kristín er búin að leggja mikla vinnu í að skipleggja tónleikana og kom tónleikakjóllinn uppí hendurnar á henni fyrir utan landsteinana.

„Mér finnst stundum eins og ég sé að búa til listaverk þegar ég skipulegg svona tónleika. Öll smáatriði fæðast í huganum og verða svo að einni heild. Mikilvægur þáttur í þeirri mynd er auðvitað klæðnaðurinn. Mér fannst eins og klæðnaður minn þyrfti að vera í samræmi við orkuna í lögunum bæði í lit og mýkt. Þegar ég var svo í fríi í útlöndum í janúar kom rétti kjóllinn í fangið á mér. Mér fannst eins og þetta væri akkúrat kjóllinn sem hæfði lögunum; bæði rómantískur og mjúkur. Það skiptir miklu máli að líða vel í fötunum sem maður syngur í,” segir söngkonan og hlakkar mikið til tónleikanna, en auk grunnbands verða á sviðinu sex manna blásarateymi, fjögurra manna strengjasveit, þrjár bakraddir og Hreimur Örn Heimisson er gestasöngvari.

„Það hefur lengi blundað í mér að syngja lög eftir Burt Bacharach. Eftir að ég sá hann í Hörpu fyrir nokkrum árum fór myndin að taka á sig skýrara form og þegar ég svo flutti lagið The Look of Love á tónleikum í Noregi í fyrrasumar ákvað ég að nú myndi ég láta þennan draum rætast á nítugasta afmælisári tónlistarmannsins. Hlynur Þór Agnarsson píanóleikari, samþykkti að taka að sér útsetningar og hljómsveitarstjórn og við lögðumst í hugmyndavinnu. Það kom ekkert annað til greina en að gera þessum lögum góð skil og fá með okkur einvala lið tónlistarmanna,” segir Kristín og bætir við:

„Það sem ég held að muni koma áhorfendum mest á óvart er hvað þetta verður stór og flottur viðburður. Við verðum alls nítján manns að flytja tónlistina þar sem valinn maður er í hverju rúmi. Einnig munum við vera með ýmsan fróðleik um Burt Bacharach; ævi hans og lífshlaup og fjalla um þá sem sömdu með honum tónlistina og textana. Við söngvararnir fimm munum svo hjálpast að við syngja lögin eftir því sem okkur finnst hæfa hverju lagi fyrir sig. That´s what friends are for…”

Mynd / Úr einkasafni

Skrýtið að hafa foreldrana ekki með á brúðkaupsdaginn

„Dagurinn byrjaði voða rólega og við giftum okkur klukkan þrjú í gamalli kirkju í Innri Njarðvík,“ segir Ingibjörg Ósk Jóhannsdóttir. Hún gekk að eiga sinn heittelskaða, Þorstein Inga Hjálmarsson, á sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 2016.

Báðir foreldrar Ingibjargar eru látnir og því þurfti hún að velja einhvern annan til að leiða sig upp að altarinu á þessum stóra degi. Bæði Ingibjörg og Þorsteinn voru sammála um að það verðuga verkefni ætti að vera sett í hendur einkadóttur þeirra, Huldu Sigurlaugar, sem þá var níu ára gömul.

„Okkur fannst hún tilvalin. Ég var strax ákveðin að velja hana,“ segir Ingibjörg, en Huldu fannst þetta mikill heiður.

„Hún var svo stolt og ánægð og fannst þetta gaman.“

Fann fyrir nærveru foreldranna

Ingibjörg saknaði foreldra sinna á brúðkaupsdaginn, en var í staðinn umvafin stórum systkinahópi.

„Vissulega var skrýtið að hafa ekki foreldra sína með, en ég fann fyrir nærveru þeirra. Þetta var mitt fyrsta brúðkaup og ég kem úr stórum systkinahóp og þau komu öll,“ segir Ingibjörg og bætir við að hún hafi verið afskaplega ánægð með daginn.

„Dagurinn var yndislegur. Við héldum veisluna heima með okkar nánustu, fengum gott veður, þó það væri 17. júní,“ segir Ingibjörg og hlær. „Við erum með stórt hús og stóran pall þannig að þetta gekk vel og allt gekk upp, nema brúðartertan sem ég pantaði var mislukkuð. Ég varð fyrir vonbrigðum með hana.“

Punkta allt niður og vera tímanlega

Hvað með góð ráð fyrir stóra daginn, lumar Ingibjörg á nokkrum slíkum?

„Já, það er best að punkta allt niður sem maður ætlar að hafa og gera. Og vera tímanlega í öllu svo það verði ekki mikið stress á stóra daginn.“

Bað börnin að hjálpa sér að deyja

|||
|||

Fyrsta kvikmynd Maríu Sólrúnar Sigurðardóttur í fjórtán ár, Adam, er fjölskylduverkefni sem fjallar um glímu sonar við spurninguna um hvort hann eigi að hjálpa heilabilaðri móður sinni að deyja, spurningu sem María þekkir úr eigin lífi.

María Sólrún kvikmyndaleikstjóri hefur búið og starfað í Þýskalandi í rúm þrjátíu ár þar sem hennar aðalstarf hefur verið að skrifa handrit að þýskum sjónvarpskvikmyndum og -seríum en hún er líka vel þekkt innan íslenska kvikmyndabransans þar sem hún hefur verið ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöðinni að fjöldamörgum íslenskum myndum, meðal annarra Hrútum og Eiðnum.

María Sólrún Sigurðardóttir er kannski ekki nafn sem almenningur þekkir en hún hefur engu að síður haft meiri áhrif á líf okkar en okkur grunar. María Sólrún hefur búið og starfað í Þýskalandi í rúm þrjátíu ár þar sem hennar aðalstarf hefur verið að skrifa handrit að þýskum sjónvarpskvikmyndum og -seríum, en hún er líka vel þekkt innan íslenska kvikmyndabransans þar sem hún hefur verið ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöðinni í fjöldamörgum íslenskum myndum, meðal annarra Hrútum og Eiðnum. Hún er hins vegar líka kvikmyndaleikstjóri og er nú mætt er til landsins með fyrstu mynd í fullri lengd sem hún hefur leikstýrt í fjórtán ár og þar sem sonur hennar, Magnús, leikur aðalhlutverkið og dóttir hennar og tengdasonur sjá um tónlistina. Myndin, sem heitir Adam, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á árinu þar sem hún fékk mikla athygli og umfjöllun og opnaði nýjar dyr fyrir alla fjölskyldumeðlimi.

Það hefur komið fram að viðfangsefni myndarinnar er glíma sonar við eigin samvisku eftir að móðir hans greinist með heilabilun. Hann hafði nefnilega lofað henni því að hjálpa henni að deyja ef til þess kæmi. Efnið er Maríu Sólrúnu hugleikið og stendur henni nærri, þar sem hennar eigin móðir glímdi við heilabilun í fjórtán ár og Maríu var sagt að það væru fimmtíu prósent líkur á því að hún sjálf ætti eftir að lenda í því sama.

„Við hefðum svo gjarna viljað geta tekið hana út af stofnuninni sem hún bjó á, farið með hana upp á jökul, spilað fyrir hana á gítar og gefið henni kakó. Leyft henni að deyja þar. Það var svo erfitt að horfa upp á þetta.“

Þótt tilefni samtals okkar Maríu Sólrúnar sé að sjálfsögðu Adam og ástæður þess að fjórtán ár liðu á milli mynda hjá henni, byrjum við spjallið á hefðbundinn íslenskan hátt með því að ég spyr Maríu Sólrúnu hvaðan hún sé og hverra manna. Það þykir henni fyndið og gefur þær upplýsingar einar að hún sé fædd í Reykjavík og alin upp í Bústaðahverfinu. Við því er lítið að segja og talið berst snarlega að Berlínardvölinni en þangað fór hún árið 1985 og hóf nám við Freie Universität Berlin.

„Ég fór þar í kvikmyndafræði, listasögu og stjórnmálafræði en svo þegar ég var í miðju magister-verkefni söðlaði ég um og fór í kvikmyndaskólann í Berlín,“ segir María Sólrún.
Spurð hvað hafi valdið því að hún skipti um vettvang segir hún skýringuna á því vera einfalda.
„Ég hafði gert nokkrar stuttmyndir og þegar ég varð einstæð móðir ákvað ég að drífa mig bara í kvikmyndagerðina.“

Hefur horft upp á misrétti í bransanum

Á þeim tíma voru börn Maríu Sólrúnar, Liina og Magnús sem bæði leika í Adam, fimm og þriggja ára en eru í dag 27 og 24 ára. María dregur enga dul á það að staða hennar sem einstæðrar móður hafi haft mest að segja um það að hún valdi handritaskrif og ráðgjöf fram yfir leikstjórnina. „En það er svo merkilegt að það er ekki fyrr en á síðustu árum sem ég hef þorað að segja það. Og ég skal segja þér út af hverju. Þannig var að einhvern tíma kynnti framleiðandi kvikmyndar leikstjóra hennar fyrir mér og útskýrði að ástæðan fyrir því að það hefðu liðið tíu ár á milli kvikmynda frá þeim ágæta manni væri að hann væri einstæður faðir. Og allir í kring sögðu bara „æ, en sætt, oh hvað hann er góður maður.“ Ég notaði það aldrei sem afsökun fyrir neinu að ég væri einstæð móðir, tók aldrei frí út á það að börnin væru veik eða neitt slíkt, þorði ekki einu sinni að minnast á það.“

Þetta leiðir talið að umræðunni um stöðu kvenna í kvikmyndabransanum, hver er reynsla Maríu Sólrúnar af henni?
„Þegar ég var barn var ég handviss um að þetta myndi allt breytast þegar ég væri orðin fullorðin, þá yrði sko komið jafnrétti milli kynjanna,“ segir hún og andvarpar. „Sérstaklega eftir að mæður okkar voru búnar að fara niður á Austurvöll 1975. En ég hef svo sannarlega horft upp á misrétti milli kynjanna í bransanum. Það er ekkert endilega bara körlunum að kenna, kerfið er svo rótgróið. Ég get auðvitað bara talað út frá sjálfri mér: Ég átti börnin mín og hefði ekki viljað missa af því en það fer vissulega mikill tími og kraftur í það, hvað þá að vera einstæð móðir. Og manni fannst maður kannski vera að missa af lestinni þegar strákarnir fóru að taka fram úr manni. Ég var búin að gera eina mynd en svo komu þeir með næstu mynd og næstu og næstu og þá gefst maður pínulítið upp, finnst ekki taka því að keppa við þá. Maður fær líka að heyra það að bransinn segi við einhvern framleiðanda sem ætlar að fara að vinna með þér „Bíddu, hún hefur nú ekkert gert í tíu ár. Getur hún þetta nokkuð lengur?“ Við konur þurfum bara að skapa okkur okkar eigin vettvang og hunsa þetta viðhorf. Þetta var mitt val og ég get alveg komið aftur. Það er heldur ekki eins og ég hafi verið fjarverandi í bransanum þennan tíma, ég var alltaf að skrifa handrit að stórum sjónvarpskvikmyndum. Starf leikstjórans er auðvitað meira dóminerað af karlmönnum en við ættum frekar að ýta á það að kerfið taki okkur inn á okkar forsendum. Kvikmyndasjóður hérna heima hefur til dæmis staðið sig mjög vel í því. Hér hafa konur fengið styrki til að gera sínar fyrstu myndir í fullri lengd eftir fimmtugt, sem er algjörlega frábært.“

María Sólrún segir tiltektir vera í gangi í kvikmyndaiðnaðinum í Þýskalandi, þar sé jafnvel talað um að setja kvóta þannig að sum stóru kvikmyndafyrirtækin séu búin að setja sér það markmið að fimmtíu prósent leikstjóra þeirra séu konur.

Leikstýrði syninum án orða

María Sólrún er sjálf rúmlega fimmtug og Adam er hennar fyrsta mynd í fullri lengd síðan 2004, hvað ýtti henni af stað aftur?
„Að börnin voru farin að heiman,“ segir hún og hlær. „Ég var alveg búin að vera með leikstjórnarverkefni í þessi fjórtán ár sem voru komin vel áleiðis og það var komin milljón evra í eitt þeirra þegar það sprakk. Og ég var kannski búin að fá leiða á því að eltast við það að rúlla upp verkefnum eftir þessu munstri. Að vera með handrit sem við erum að þróa og umskrifa og umskrifa aftur og svo koma einhverjir frá sjónvarpsstöðvunum og verða að fá að segja sitt og svona gengur það fram og til baka. Mig langaði að leyfa sköpunargáfunni að fá meiri útrás og gera þetta öðruvísi fyrst ég var að þessu á annað borð. Gera þetta á mínum eigin forsendum og fjármagna það sjálf. Ég sleppti því til dæmis að skrifa handrit, sem sumum þykir skrýtið þar sem ég hef hingað til aðallega unnið við að skrifa handrit. Ég vildi bara gera þetta skemmtilegt, vera með smávegis tilraunastarfsemi. Við byrjuðum með hugmynd og karakter sem var með stórt vandamál sem okkur fannst snerta okkur. Við fórum pínulítið í þetta eins og heimildarmyndagerðarmenn, fylgdumst með karakternum og því sem hann var að takast á við. Svo klipptum við það efni sem við vorum komin með og langaði þá að gera meira, þannig að þetta varð þriggja ára ferli, þar sem við vorum að taka og klippa, taka meira og klippa það. Svoleiðis vinnubrögð getur maður vanalega ekki fjármagnað og leyft sér.“

Magnús sonur Maríu leikur titilhlutverkið, Adam, hvernig gekk að fara úr hlutverki móðurinnar yfir í hlutverk leikstjórans gagnvart honum?
„Hann er svo prófessjónal, drengurinn, að það var ekkert mál. Kannski líka vegna þess að stuttmyndirnar sem ég gerði í gamla daga voru allar án samtala og í þessari mynd er aðalkarakterinn heyrnarlaus, þannig að það er ekki mikið um samtöl og þá getur maður meira stýrt án orða. Þannig að þetta samstarf gekk bara mjög vel.“

Hefði viljað leyfa móður sinni að deyja

Í kynningum og umfjöllunum um Adam hefur komið fram að umfjöllunarefnið, hvað sé best fyrir móður með heilabilun, stendur Maríu mjög nærri þar sem móðir hennar glímdi við heilabilun í fjórtán ár.
„Já,“ segir hún. „Við systkinin og vinir mömmu stóðum frammi fyrir þessari spurningu þegar verið var að ræða hennar aðstæður; fjórtán ár í hjólastól með bleiu. Fyrst var því haldið fram að við systkinin værum jafnvel með eitthvað svipað, að það væru fimmtíu prósent líkur á því að við yrðum svona. Við hefðum svo gjarnan viljað geta tekið hana út af stofnuninni sem hún bjó á, farið með hana upp á jökul, spilað fyrir hana á gítar og gefið henni kakó. Leyft henni að deyja þar. Það var svo erfitt að horfa upp á þetta. Svo velti maður því auðvitað fyrir sér hvað maður sjálfur myndi vilja ef maður lenti í þessum aðstæðum. Það er svo óhugnanleg tilhugsun að enda svona. Og það versta er að þá er maður ekki lengur með rænu til þess að taka neinar ákvarðanir.“

Það er augljóst að þetta málefni er Maríu Sólrúnu hugleikið, ekki síst sú spurning hvort leggja eigi það á aðstandendur að taka ákvörðun um það hvort líknardráp væri kannski mannúðlegasta lausnin. Hún segist þó ekki geta, eða vilja, taka ákveðna afstöðu í því máli.

„Myndin gengur út á það að móðirin hafði einhvern tíma beðið son sinn að hjálpa sér að deyja ef hún skyldi einhvern tíma lenda í því að fá heilabilun eins og mamma hennar hafði fengið. Ég var reyndar búin að gleyma því, en Magnús minnti mig á það þegar við vorum að vinna myndina að ég hefði gefið börnunum mínum þessi skilaboð; í guðanna bænum ekki láta mig enda eins og ömmu. Þetta er það sem drengurinn Adam stendur frammi fyrir. Honum finnst hann skulda henni það að hjálpa henni að deyja.“
Líknardráp, sem sumir kjósa að kalla dánaraðstoð, eru bönnuð með lögum í Þýskalandi þannig að ef Adam myndi hjálpa móður sinni væri það glæpur, sem gerir baráttu hans við sjálfan sig enn erfiðari. „Skiljanlega,“ segir María Sólrún.
„Eitt er að ætlast til einhvers svona af börnunum sínum,“ segir hún. „Þar fyrir utan er það ólöglegt og jafnvel þótt það væri löglegt þá hefur manneskjan sem bað um aðstoð ekki tekið þá ákvörðun meðvitað að leggja slíka byrði á fólk. Ég sé samt alveg einhverja virðingu í því að fólk fái að deyja þegar það er orðið ósjálfbjarga. En ég á voðalega erfitt með að mynda mér ákveðna skoðun á þessu. Það er svo margt sem mælir bæði með og á móti.“

Tók upp atriði í eigin rúmi

Adam var frumsýnd á Berlínarkvikmyndahátíðinni fyrr á þessu ári og hlaut afar góðar móttökur og umsagnir. María Sólrún viðurkennir að það hafi komið henni á óvart, hafi eiginlega verið súrrealísk reynsla.
„Þetta var mynd sem ég tók heima hjá mér, karakterinn var í rúminu sem ég svaf svo í um nóttina, ég skipti ekki einu sinni um rúmföt. Þetta var allt svo rosalega persónulegt. Samstarfsfólkið var vinir mínir og börnin mín, allt prófessjónal leikarar samt, og öll vinnan var svo náin. Svo erum við allt í einu komin í einhvern þúsund manna sal fullan af fólki þar sem tekið er svona vel á móti á okkur. Myndin er komin upp á risastórt tjald, lítur vel út og greinilega snertir fólk. Fólk grætur allt í kringum mann í salnum. Það var vissulega súrrealískt.“

Velgengni Adams opnaði ýmsar dyr fyrir Maríu Sólrúnu og börn hennar, hún er komin með tvö ný verkefni í vinnslu, kvikmynd sem hún vinnur að með syni sínum og sjónvarpsþætti sem hún er að þróa með Liinu, dóttur sinni.

„Þetta opnaði nýjar brautir fyrir okkur öll,“ segir hún stolt. „Við lítum á okkur sem fjölskyldu-listakollektív. Við Magnús erum að skrifa og þróa annað handrit með stóru fyrirtæki í Þýskalandi þar sem hann mun líka leika aðalhlutverkið. Það kom algjörlega til út af Adam. Hann er líka kominn með umboðsmann í Los Angeles eftir þetta. Við Liina erum svo að þróa sjónvarpsseríu fyrir annað stórt þýskt fyrirtæki og ég „sel“ alltaf tónlistarhugmyndir með í öll þessi verkefni og það eru Liina og Haraldur Þrastarson, kærasti hennar, sem vinna tónlistina. Þannig að vissulega hefur þessi mynd breytt öllu fyrir okkur.“

Konur þurfa að forma bransann upp á nýtt

Sjónvarpsserían umrædda leggur áherslu á kvenlega sýn og kvenlega reynslu, samt alls ekki eitthverja Sex and the City/Girls-hugmynd undirstrikar María. Þetta eru spennuþættir sem beina sjónum að konum og þeirra samskiptum. Við tölum um það í sjónvarpsþáttum samtímans að fjalla um konur og ég spyr, eins og auli, hvort María haldi að það sé komið til að vera, eða hvort konur fái bara sviðsljósið núna af því það er búið að þrýsta svo harkalega á kvikmyndafyrirtækin. Það þykir henni fáránleg spurning.

Velgengni Adams opnaði ýmsar dyr fyrir Maríu Sólrúnu, hún er komin með tvö ný verkefni í vinnslu, kvikmynd sem hún vinnur að með syni sínum og sjónvarpsþætti sem hún er að þróa með Liinu, dóttur sinni.

„Ég held að þetta sé komið til að vera,“ segir hún ákveðin. „Þetta er eins og að spyrja svart fólk hvort þessar myndir með áherslu á reynslu svartra séu ekki bara tískufyrirbæri. Kannski eru orðnir margir þættir um konur núna, en í vinnu minni sem ráðgjafa hjá kvikmyndasjóði hef ég ekki orðið vör við það að konur séu að taka kvikmyndagerðina yfir. Það eru enn fleiri karlar sem sækja um, þannig að í augnablikinu er alla vega engin hætta á að þeim verði bolað út.“

Ég heyri á Maríu Sólrúnu að henni finnst þessi umræða út í hött en ég þrjóskast við og spyr hvort hún sem kona sem gjörþekkir kvikmyndabransann trúi því í alvöru að hlutföll kynjanna jafnist út. Það sljákkar aðeins í henni.

„Sko. Það er alveg öruggt að tilhneigingin er sú að bransinn vill fara að sýna það að hann sinni ákveðnum skyldum. Það er alveg réttlætanlegt að spyrja hversu mikið sé á bak við það. En ef við konur sjálfar erum svolítið duglegar að nota tækifærið í leiðinni til þess að forma bransann pínu hagstæðar fyrir okkur, þannig að þú getir átt fjölskyldu og eignast börn en samt fengið að hafa rödd í þessum bransa, þá helst þetta svona. Ég trúi því. Það þýðir ekki endilega að konur þurfi að fara að gera kvikmyndir svona seint eins og ég, heldur skiptir máli að þú þykir hafa einhverja vikt í greininni þótt þú sért ekki að unga út efni sem leikstjóri eins hratt og einhverjir aðrir. Mér finnst allavega núna vera að koma fram fleiri hugrakkar stelpur með sterka rödd hér á Íslandi. Ég er ekki að meina að þær stelpur sem komu á undan hafi ekki verið hugrakkar með sterka rödd, en þeim hefur fjölgað sem er mjög jákvætt.“

Konur skila sér síður út á markaðinn

María Sólrún segir sömu tiltektirnar vera í gangi í kvikmyndaiðnaðinum í Þýskalandi, þar sé jafnvel talað um að setja kvóta þannig að sum stóru kvikmyndafyrirtækin séu búin að setja sér það markmið að fimmtíu prósent leikstjóra þeirra séu konur. Og áhrifin sjáist víðar.

„Kvikmyndahátíðin í Berlín tók þetta mjög alvarlega í ár, buðu miklu fleiri kvikmyndum gerðum af konum en áður hefur tíðkast. Þannig að umræðan hefur alveg áhrif. Það hefur lengi verið þannig í kvikmyndaskólum í Þýskalandi að konur eru næstum helmingur nemenda en það hefur ekki skilað sér út á markaðinn. Það er þess vegna sem ég tala svona mikið um að við þurfum að leyfa okkur að gera þetta á eigin forsendum og vera ekki hræddar um að missa af lestinni ef við eignumst börn og fjölskyldu og það dregur úr afköstunum í einhvern tíma. Það er aldrei of seint að snúa aftur.“

„Mér finnst alla vega núna vera að koma fram fleiri hugrakkar stelpur með sterka rödd hér á Íslandi. Ég er ekki að meina að þær stelpur sem komu á undan hafi ekki verið hugrakkar með sterka rödd, en þeim hefur fjölgað, sem er mjög jákvætt.“

Talandi um endurkomu þá verður Adam frumsýnd á Íslandi sem lokamynd barnakvikmyndahátíðar í Bíó Paradís þann 14. apríl og fer síðan í almennar sýningar þann 16. Auk þess munu María Sólrún og Magnús verða með Master Class í Bíó Paradís 16. og 17. apríl. Hvernig er það hugsað?

„Við verðum með smáspjall eftir sýningu myndarinnar um það hvaða trix er hægt að nota ef maður ætlar að búa til heimakvikmynd sem getur lent á stórri kvikmyndahátíð,“ segir María Sólrún og skellir upp úr. „Við kunnum það.“

Dýrtíðin á Íslandi hrikaleg

Í tilefni af íslensku frumsýningunni er María stödd á landinu en hér hefur hún ekki búið síðan 1985. Dreymir hana, eins og marga brottflutta Íslendinga, um að flytja heim í ellinni og njóta íslenskrar náttúru?

„Nei, ég kem hingað reglulega og nýt náttúrunnar en mér finnst dýrtíðin hér bara svo hrikaleg að ég gæti ekki búið hérna,“ segir hún og það er sjokk í röddinni. „Ég fer bara aftur heim til Berlínar og þar munum við Magnús halda áfram að vinna í handritinu að nýju kvikmyndinni og við Liina að þróa sjónvarpsþáttaröðina. Við fengum líka styrk fyrir enn eitt handritið, svo það er nóg að gera. Ég er rétt að byrja!“

Samtalið fer að styttast í annan endann en að lokum spyr ég Maríu Sólrúnu hvort hún vilji koma einhverju á framfæri við íslenskar kvikmyndagerðarkonur áður en við hættum.

„Ég vil bara endilega nota tækifærið og hvetja konurnar í bransanum til dáða. Ekki bara þessar ungu, sem maður þarf líka að hvetja, heldur bara allar konur á öllum aldri, til að láta til sín taka í kvikmyndaiðnaðinum. Koma sínum sjónarmiðum á framfæri hvað sem það kostar. Jafnvel bara gera þetta innan fjölskyldunnar, eins og við. Það var einmitt einhver kona sem benti mér á að ég hefði unnið þessa mynd eins og bóndi sem þarf að leita allra leiða til að koma uppskerunni í hús, tók bara börnin með út á akurinn þegar á þurfti að halda.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, National make up artist fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

„Ég lifði í stöðugum ótta um að einhver myndi afhjúpa mig“

|
|

„Ég vildi ekki trúa þessu,“ segir söngkonan Mariah Carey í forsíðuviðtali við tímaritið People, þar sem hún opnar sig um baráttu sína við geðhvarfasýki.

Mariah segist hafa greinst með sjúkdóminn árið 2001 í kjölfarið á því að hún hafi verið lögð inná spítala eftir að hún brotnaði niður andlega og líkamlega.

„Mig langaði ekki að burðast með smánarblettinn sem þessi lífstíðarsjúkdómur hefur, sjúkdóm sem myndi skilgreina mig og hugsanlega eyðileggja feril minn. Ég var dauðhrædd um að missa allt. Ég sannfærði sjálfa mig um að eina leiðin til að kljást við þetta væri að kljást ekki við þetta,“ segir Mariah í þessu einlæga viðtali.

Tekur lyf við sjúkdómnum

„Ég lifði í afneitun og einangrun þar til nýlega og ég lifði í stöðugum ótta um að einhver myndi afhjúpa mig. Þetta var of þung byrði til að bera og ég gat það einfaldlega ekki lengur. Ég leitaði mér meðferðar, ég umkringdi mig jákvæðu fólki og byrjaði aftur að gera það sem ég elska – að skrifa og semja tónlist. Eins erfitt og þetta er þá vissi ég að það væri komið að því að ég myndi loksins deila sögu minni,“ segir þessi hæfileikaríka kona.

Forsíða People.

Söngkonan segist nú vera í meðferð og á lyfjum við geðhvarfasýki II sem lýsir sér í ýmist þunglyndi eða oflæti.

„Ég tek lyf sem virðist ganga vel. Þau gera mig ekki of þreytta eða sljóa eða neitt svoleiðis. Það er mikilvægast að finna jafnvægið,“ segir Mariah og bætir við að hún hafi ákveðið að leita sér meðferðar eftir erfiðustu ár lífs síns.

Mariah á tvíburana Monroe og Moroccan, sex ára, með fyrrverandi eiginmanni sínum, Nick Cannon. Hún segist vera á góðum stað í lífinu í dag og vill aflétta þeirri skömm sem fylgir geðsjúkdómum.

„Ég er vongóð um að við getum komist á stað þar sem skömminni verður aflétt af fólki sem gengur í gegnum svona nokkuð eitt. Þetta getur verið mjög einangrandi.“

Biggest Loser-þjálfari hittir manninn sem bjargaði lífi hans

Einkaþjálfarinn Bob Harper, sem margir kannast við úr raunveruleikaþáttunum The Biggest Loser, hneig niður á æfingu í febrúar í fyrra og komst að því þegar hann vaknaði á spítalanum tveimur dögum seinna að hann hefði fengið alvarlegt hjartaáfall.

Bob var gestur í The Dr. Oz Show í gær þar sem hann talaði um þessa lífsreynslu og bætti við að hann hefði nýlega frétt af því að það hefði verið manneskja í ræktinni, sem þjálfarinn þekkti ekki neitt, sem hefði veitt honum fyrstu hjálp á staðnum.

Þá útskýrði Dr. Oz að teymið á bak við þáttinn hefði fundið þennan dularfull mann sem bjargaði lífi Bobs og spurði hvort þjálfarinn vildi hitta hann.

„Já!“ svaraði Bob umsvifalaust.

Ungi maðurinn, sem heitir Phillip, gekk þá inn í sjónvarpssalinn. Hafði þetta svo sterk áhrif á Bob, eins og sjá má í meðfylgjandi myndböndum, að hann kom ekki upp orði. Phillip er læknanemi og sagði í þættinum að þetta hefði verið í fyrsta sinn sem hann veitti alvöru manneskju fyrstu hjálp. Fyrir þetta atvik hafði hann aðeins æft sig á dúkkum.

„Ég leitaði að púlsi, sem var veikur, og síðan hætti ég að finna hann. Og síðan, allt í einu – viltu heyra þetta?“ spurði Phillip þjálfarann.

„Já,“ sagði Bob.

„Allt í einu varðstu blár. Rosalega blár. Þannig að þá hóf ég fyrstu hjálp.“

„Mótlætið styrkti baráttuviljann“

„Fannst ég mikill aumingi að svara aldrei fyrir mig“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu í stjórnmálum, skarpa sýn og réttlætiskennd. Okkur lék forvitni á að vita hver bakgrunnur hennar væri og komumst fljótt að því að þarna fer kona sem fékk snemma á lífsleiðinni að kenna á mótlæti á eigin skinni.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir alþingiskona segir sögu sína í 14. tölublaði Vikunnar.

„Við fluttumst til Mosfellsbæjar þegar ég var í sjöunda bekk og þar skánaði ástandið ekkert. Ég var vinafá og átti erfitt uppdráttar í gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Mér var mikið strítt og sumir léku sér að því að þykjast vera vinir mínir til þess eins að geta niðurlægt mig á einn eða annan hátt. Sumarið fyrir níunda bekk tók ég svo þá glæfralegu ákvörðun að lita á mér hárið svart. Það var engin sérstök hugmyndafræði á bak við þetta hjá mér, Sunna vinkona mín mætti í „goth“-lúkkinu í heimsókn til mín einn daginn og mér fannst þetta bara rosalega töff. En þetta litaval var greinilega kornið sem fyllti mælinn hjá skólafélögum mínum sem virtust sameinast um að fyrirlíta mig og vilja gera mér lífið leitt. Fyrri önnin í níunda bekk fannst mér helvíti á jörðu, mér leið rosalega illa og framkoman við mig skildi eftir sig stór sár á sjálfsmyndinni,“ segir Þórhildur Sunna.

„Ég man eftir að hafa reglulega verið kölluð mansonisti, mansonari, djöfladýrkandi, dópisti og ýmislegt annað verra eins og tussa, hóra og tík. Ég man eftir viðstöðulausu áreiti og tilraunum til þess að plata mig til að segja eða gera eitthvað heimskulegt. Ég man að skólafélagar mínir áttu það til að henda í mig matarafgöngum í matsalnum. Þau voru mörg sem gerðu sér það að leik að reyna að fella mig á göngunum á efri hæðinni og ég man hvað ég var alltaf hrædd að ganga fram hjá þeim. Ég man sérstaklega vel eftir vanmættinum sem ég upplifði á hverjum einasta degi og hvað mér fannst ég mikill aumingi að svara aldrei fyrir mig.“

Ítarlegt viðtal er við Þórhildi Sunnu í 14. tölublaði Vikunnar, 2018, þar sem hún ræðir meðal annars um eineltið, áreitið og gamla lögmannahrúta á Alþingi.  

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Fæddi barn í anddyrinu heima hjá sér

|
|

Þáttarstjórnandinn Seth Meyers og eiginkona hans, Alexi Ashe, eignuðust sitt annað barn, son sem hlotið hefur nafnið Axel, á sunnudag. Seth var mættur aftur til vinnu kvöldið eftir í þátt sinn Late Night With Seth Meyers, og lýsti þar fæðingunni, sem bar ansi fljótt að.

Í meðfylgjandi myndbandi byrjar Seth á að rifja upp fæðingu fyrsta barn síns, Ashe, sem kom mjög skjótt í heiminn.

„Við höfðum áhyggjur af því að hún ætti eftir að eignast barnið í Uber-bílnum,“ segir Seth en hjónakornin komust á spítalann áður en litla kraftaverkið kom í heiminn. Það sama var ekki upp á teningnum á sunnudaginn þegar Axel fæddist.

Í myndbandinu hér fyrir neðan sýnir hann einnig myndir frá stóra deginum.

Alexi byrjaði að finna fyrir hríðum og stuttu seinna leit tengdamamma Seths á hann og hrópaði: „Við verðum að fara á spítalann núna!“ Þau fóru í flýti niður í anddyri á byggingunni sem þau búa í en þegar Alexi var við það að setjast inn í Uber-bifreiðina sagði hún að barnið væri að koma og að hún gæti ekki sest inn í bílinn. Sem betur fer voru þau hjónin með dúlu með sér, sem sá til þess að fæðingin gekk vel í anddyri byggingarinnar.

Ég mæli með því að þið horfið á alla söguna frá sjónarhorni Seths því hún er bráðskemmtileg:

Gengin sex mánuði og geislar

Victoria’s Secret-fyrirsætan Candice Swanepoel á von á sínu öðru barni með kærasta sínum, Hermann Nicoli.

Candice er komin sex mánuði á leið og fagnaði því með því að birta nektarmynd af sér á Instagram sem er afskaplega falleg.

„Eru konur ekki stórkostlegar?!“ skrifaði Candice meðal annars við myndina og taggaði ljósmyndarann Inge Fonteyne, hárgreiðslumanninn Frankie Foy og förðunarfræðinginn Mariel Barrera.

Candice hefur verið dugleg að deila myndum á Instagram á meðgöngunni, en hún eignaðist sitt fyrsta barn, soninn Anacã, í október árið 2016.

The little prince #proudmama ?

A post shared by Candice Swanepoel (@angelcandices) on

Cosy with my little? ?@ingefonteyne @mariel_barrera @frankiefoye @1hotels

A post shared by Candice Swanepoel (@angelcandices) on

? @uxua

A post shared by Candice Swanepoel (@angelcandices) on

Klæðist píkubuxum í nýju myndbandi

||
||

Tónlistar- og leikkonan Janelle Monáe frumsýndi myndband við nýja lagið sitt PYNK á YouTube í gær, en myndbandinu var leikstýrt af Emmu Westenberg.

Athygli vekur að Janelle, og nokkrir af dansurum hennar, klæðist buxum í myndbandinu sem líta út eins og píka. Í einu atriðinu liggur kona á milli fótleggja Janelle og er það mjög áhugavert sjónarspil.

„PYNK er blygðunarlaus fögnuður sköpunar, sjálfsástar, kynhneigðar og píkukrafts!“ stendur í lýsingu á myndbandinu á YouTube.

PYNK er lag af væntanlegri plötu Janelle, DIRTY COMPUTER. Það er hennar þriðja breiðskífa og kemur hún út þann 27. apríl næstkomandi.

Ólýsanleg stund þegar Elísabet sá foreldra sína í fyrsta sinn

|
|
Elísabet vill ekki taka gleraugun af sér.

„Hún vill ekki taka gleraugun af sér,“ segir Gretar Örn Bragason, faðir Elísabetar Evu sem kom í heiminn þann 18. desember árið 2016.

Gretar og kona hans, Eva Hrönn Jónsdóttir, birtu myndband á Facebook nú í morgunsárið þar sem Elísabet Eva sést setja á sig gleraugu í fyrsta sinn, en hún er með +8 á báðum augum. Gretar segir að Elísabet hafi fengið þessa greiningu fyrir mánuði síðan og í gær fékk hún loksins gleraugu.

Eins og sést í myndbandinu eru viðbrögð Elísabetar þegar hún sér fjölskyldu sína í fyrsta sinn algjörlega yndisleg. Eiginlega ólýsanleg, og segir myndbandið meira en mörg orð.

„Hún varð bara rosalega hissa og forvitin að sjá allt allt í rauninni í fyrsta sinn,“ segir stolti faðirinn.

En foreldrarnir, hvernig leið þeim á þessari stundu?

„Þetta var bara dásamleg stund. Ég hafði mestar áhyggjur af því að hún myndi kannski ekkert vilja með mann hafa eftir að hún sæi hvernig maður liti raunverulega út,“ segir Gretar og hlær.

Það er allt hægt á súlunni

Súludans hefur notið mikilla vinsælda síðustu misseri og margir sem hafa fallið fyrir íþróttinni.

Fyrirtækið og líkamsræktarstöðin Power Pole Sports hefur bryddað upp á skemmtilegum leik á Instagram, þar sem forsvarsmenn fyrirtækisins hvetja iðkendur súlusportsins að birta myndir og myndbönd af sér á súlunni að gera hversdagslega hluti.

Margar myndanna eru ansi hreint skemmtilegar, en þar sjást konur meðal annars sinna húsverkum, borða, leika á hljóðfæri og hjóla á súlunni. Við elskum þessar myndir og myndbönd!

❤️❤️❤️ #WeekendPowerPoleProject Week of: 03/30/2018 Project: #pdEveryDay ❤️❤️❤️ Aaaahahahahahha! Laundry day when you’re a pole dancer from @fiapolerina!! ???????? Bra on the foot is a great touch!! ? Fantastic submission for this week’s #WeekendPowerPoleProject, #pdEveryday!!??? @powerpolesports #weekendpowerpoleproject #pdeveryday ____ Show us your EVERYDAY LIFE, but on the POLE! We’ll give you lots of examples and inspo but we’re looking for how your ordinary life would look ON THE POLE! You can do this one individually, as doubles or triples, and we would LOVE to see this one done with an entire GROUP THEME so submit your CLASS PROJECTS for this one too! We can’t WAIT to see what you come up with! This is going to be an INCREDIBLY fun one! TAG YOUR POLE FRIENDS TO PARTICIPATE IN THE PROJECT WITH YOU!! ??????‍♀️ @powerpolesports #WeekendPowerPoleProject #pdEveryDay ❤️ __________ ✅ IMPORTANT: We usually require that your moves be NEW to submit for the project, however, for THIS week, we will also accept previously done pictures, BUT YOU MUST POST THEM AGAIN this week with all the appropriate project tags for feature! ??? __________ FOR FEATURE: ✅1️⃣ FOLLOW @powerpolesports ✅2️⃣ NEW ???? FOLLOW THE HASHTAG #WeekendPowerPoleProject ✅3️⃣ POST your high quality photo or video submission (YOUR SUBMISSIONS MUST BE NEWLY POSTED TO QUALIFY) ✅4️⃣ YOU NEED 3 TAGS IN YOUR POST ???? @powerpolesports #WeekendPowerPoleProject #pdEveryDay. ???? ALL 3 TAGS must be in your ORIGINAL POST description, and not in comments. ❤️ We do a new Weekend Power Pole® Project every Friday, complete with breakdown and slo-mo videos and tutorials. Each project runs from Friday to the following Thursday. You have a FULL WEEK TO ENTER EVERY PROJECT! FOLLOW @powerpolesports AND FOLLOW HASHTAG #WeekendPowerPoleProject to learn NEW MOVES EVERY WEEK! ❤️ www.powerpolesports.com ❤️ #powerpole ® #powerpolesports #polechallenge #pdnewmoves – #pdchallenge #polepose #pdtrick #poleshapes #pdtricks #poleshape #igpoledance #ig_poledance #poleathome #homepole #staticpole #polewife #poledancingmotivation #poleathome #homepole #homepoler

A post shared by Kriston Leagh ∙ Power Pole® (@powerpolesports) on

Fólk sem talar við hundana sína er ekki brjálað

||
||

Ný rannsókn sýnir fram á að fólk sem talar við hunda sína í háum tónum er í raun að hjálpa hvuttunum sínum að halda athygli. Þetta gæti einnig hjálpað til við að bæta samband á milli hundaeigenda og gæludýranna.

Rannsakendur við York háskóla í Bretlandi ákváðu að láta á það reyna hvort að hundatal hefði sömu jákvæðu áhrif á hundana og þegar fullorðnir tala við ungbörn.

„Auðvitað vitum við að hundar geta ekki lært að tala, þannig að við vildum vita hvort hundatal virkaði fyrir hunda, eða hvort það er bara eitthvað sem við notum á hundana okkar, þar sem við lítum á hunda sem hluta af fjölskyldunni, eins og feldi klædd börn,“ segir forsvarsmaður rannsóknarinnar, Alex Benjamin, í samtali við Huffington Post.

Mikil nánd myndast oft á milli hundaeigenda og hunda.

Samskipti manna við hunda hafa áður verið rannsökuð og þá hefur meðal annars komið fram að það að tala við hunda í háum tónum, líkt og við gerum við börn, hefur góð áhrif á hvolpa, en að það skipti ekki máli þegar talað er við gamla hunda. Niðurstöður Alex og teymis hennar sýna fram á að þetta samspil sé örlítið flóknara en áður hefur verið haldið fram.

Það er gott að tala við hunda.

Teymið framkvæmdi raddpróf á 69, fullorðnum hundum. Þau fóru þannig fram að hundarnir hlustuðu á eina manneskju sem talaði háum tónum og notaði frasa sem var beint að hundunum, eins og: Þú ert góður hundur, og Eigum við að fara í göngutúr? Önnur manneskja notaði mennska frasa sem tengdust hundunum ekki neitt, eins og Ég fór í bíó í gær. Rannsakendur fylgdust með hvert athygli hundanna leitaði á meðan manneskjurnar voru að tala og fylgdust með hvaða manneskju þeir drógust að.

Því næst blönduðu rannsakendur saman hundafrösum og mennskum frösum til að sjá hvort það væri tónn raddarinnar sem hundarnir löðuðust að, eða frasarnir sjálfir. Loks komust rannsakendur að því að hundarnir voru líklegri til að laðast að manneskjunni sem notaði frasa sem var beint að hundunum.

„Við höfum sýnt fram á að hundar skynja þessa týpu af tali og það gæti verið gagnlegt að nota hana þegar þú hittir hund í fyrsta sinn, eða ef þú ert að leika við hund vinar þíns til dæmis,“ segir Alex og bætir við orðum sem margir hafa eflaust þráð að heyra lengi:

„Og ef þú ert nú þegar að tala við þinn eiginn hund eins og barn geturðu notað þessa rannsókn til að réttlæta að þú ert ekki brjáluð hundamamma!“

Ólafur Darri berst við risahákarl með Jason Statham

Fyrsta stiklan úr stórmyndinni The Meg, úr smiðju Warner Bros. Pictures, er komin á netið, en meðal leikara í myndinni er Ólafur Darri Ólafsson.

Myndin fjallar um teymi sem berst við risahákarl, tegund sem allir héldu að væri útdauð. Eins og gefur að skilja er stiklan spennuþrungin og greinilegt að hér er um að ræða eina af stórmyndum þessa árs, en myndin verður frumsýnd vestan hafs þann 10. ágúst næstkomandi.

Meðal annarra leikara í myndinni eru Jason Statham, Li Bingbing, Cliff Curtis, Rainn Wilson og Ruby Rose. Leikstjóri myndarinnar er John Turteltaub, sem leikstýrði mörgum goðsagnakenndum myndum á tíunda áratug síðustu aldar, eins og Cool Runnings, While You Were Sleeping og Phenomenon. Handritið er byggt á metsölubókinni The Meg eftir Steve Alten.

Hér fyrir neðan má sjá þessa miklu hasarstiklu:

Hugsaði um veika móður, léttist um 30 kíló og lítur út eins og Disney-prins

||||||
||||||

Jeffrey Kendall, 26 ára gamall maður frá Connecticut, ákvað að deila sögu sinni á internetinu fyrir stuttu og hefur svo sannarlega vakið mikla athygli.

Svona leit Jeffrey út fyrir tæpum þremur árum.

Jeffrey bjó með móður sinni í Connecticut árið 2015 og hugsaði um hana eftir að hún fékk gúlp í heila.

„Hún var í dái og í endurhæfingu á sjúkrahúsi í sjö mánuði, þar til henni fór ekki lengur fram og var útskrifuð þar sem tryggingarnar vildu ekki lengur dekka kostnaðinn,“ segir Jeffrey í samtali við Love What Matters. Hann segist hafa glímt við lélega sjálfsmynd um langa hríð.

„Ég var of þungur sem ungmenni og var lagður í einelti í uppvextinum. Ég hef lifað lífinu með vandamál með líkamsímynd og sjálfstraust.“

Jeffrey var of þungur sem barn.

Setti allt í samhengi

Jeffrey segir að mikið hafi breyst þegar hann horfði upp á veika móður sína.

„Ég var búinn að sjá hana á sjúkrahúsinu þar sem hún gata varla talað, ég var búinn að sjá hana á gjörgæslu þar sem hún gat ekki andað. Ég var búinn að sjá hana á gólfinu þar sem hún gat ekki vaknað. Að sjá störu hennar án löngunar móður var niðurdrepandi. Það setti sjálfsvorkun og sársauka í samhengi,“ segir Jeffrey. Hann byrjaði að æfa með vini sínum, sem var líka á slæmum stað tilfinningarlega.

Svona lítur Jeffrey út í dag.

„Góður vinur minn átti líka erfitt eftir sambandsslit og þurfti hjálp við að koma sér í form. Þetta var fullkomin ástæða fyrir mig að byrja á einhverju nýju þar sem ég mat lífið betur eftir þetta sumar. Við byrjuðum hægt, á léttri lyftingaræfingu og ég samþykkti að gera armbeygjur á hverjum degi. Stuttu síðar vaknaði ég á morgnana og fór í göngutúra á meðan ég hlustaði á hressandi tónlist.“

Tíminn leið og Jeffrey byrjaði að setja sér fleiri og fleiri markmið í átt að betri lífsstíl.

„Ég byrjaði að skokka og taka spretti og ýtti sjálfum mér alltaf lengra og lengra. Ég fann nýjar leiðir til að æfa, ég fann YouTube-rásir eins og Yoga with Adriene til að hjálpa mér að æfa heima. Ég byrjaði að stunda jóga og æfa nánast á hverjum degi.“

Frábært hár.

Lítur út eins og Disney-prins

Nú hundrað vikum síðar hefur Jeffrey misst rúmlega þrjátíu kíló. Hann birti myndir af árangri sínum á samfélagsmiðlinum Reddit og létu viðbrögin ekki á sér standa. Margir Reddit-notendur velta fyrir sér hvort hann ætti ekki að leika í sjampóauglýsingum á meðan aðrir líktu honum við Disney-prins, þá sérstaklega þann úr Fríðu og dýrinu eftir að hann breytist í mann.

Líkindin eru sláandi.

„Ég gat varla sofið það kvöld, þetta var stórkostlegt. Athugasemdirnar voru allar svo hvetjandi,“ segir Jeffrey, en bætir við að móðir sín sé mesti innblásturinn í þessari vegferð sinni.

„Hún er seigasta manneskja sem ég þekki og kennir mér að vera þakklátur fyrir lífið.“

Lífsglaður og hárprúður maður.

Auður selur opna og óhefðbundna íbúð á Baldursgötunni

Innanhússhönnuðurinn og stofnandi og ritstýra islanders.is, Auður Gná Ingvarsdóttir, hefur sett íbúð sína á Baldursgötu 30 í Reykjavík á sölu.

Æðisleg íbúð.

Íbúðin er 88 fermetrar og ásett verð er 52,5 milljónir króna. Íbúðin var öll tekin í gegn árið 2015 en hún er búin einu svefnherbergi og einu baðherbergi.

Skemmtilegt baðherbergi.

Auður er annáluð smekkmanneskja og því íbúðin öll hin glæsilegasta en henni fylgja einnig svalir með góðu útsýni, og gómsætri lykt eins og Auður segir sjálf í Facebook-færslu þar sem hún vekur athygli á fyrirhugaðri sölu.

Svefnherbergið er bjart og hlýlegt.

„Beint fyrir utan gluggann er að finna áræðanlegustu eldhúsklukku í allri Reykjavík í turni Hallgrímskirkju, og því ekki ástæða til að ofsjóða pasta, grænmeti eða annan mat. Auk þess er Eldsmiðjan á næsta horni og Snaps á því þar næsta, þannig að ef maður er ekki mikið fyrir að elda, þá er ekki hætta á að svelta. Úrvals útsýni til norðurs og suðurs. Á góðum sumardögum koma svalirnar að góðum notum, algjör stilla og oft á tíðum magnaður ilmur af eldbökuðum pizzum,“ skrifar Auður og bætir einnig við að opið hús sé í eigninni á morgun, 10. apríl, frá 17.15 til 17.45.

Hér er vel hægt að skapa minningar.

„Mín opna, bjarta og skemmtilega óhefðbunda íbúð er í sölu og á morgun er hægt að koma við og skoða. Ef að einhver veit um einverja opna, bjarta og óhefðbunda einstaklinga sem hefðu áhuga á að búa á besta stað í Þingholtunum, þá væri tilvalið að láta vita af Baldursgötunni.“

Íbúðin er á besta stað í Þingholtunum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Auður setur íbúðina á sölu, en samkvæmt frétt Smartlands í apríl í fyrra, fyrir næstum því sléttu ári, var íbúðin þá á markaðinum.

Geggjaður spegill.
Nærliggjandi umhverfi íbúðarinnar er vægast sagt lifandi.

Fann dauða eðlu í salatpokanum

Washington-búanum Grace Goldstein brá heldur betur í brún þegar hún kom heim úr ferð í matvöruverslunina Trader Joe’s í síðustu viku. Þegar Grace tók upp úr pokunum sá hún dauða eðlu í grænkálspokanum sem hún keypti.

Í samtali við tímaritið People segir Grace að hún hafi fengið áfall þegar hún sá eðluna.

„Ég var ýmist í afneitun eða mig hryllti við þessu, sem varð til þess að ég bað kærastann minn í sífellu að skoða grænkálspokann og staðfesta að þetta væri eðla, og þá hrópaði ég og ýtti pokanum frá mér og neitaði að vera nálægt honum. Og síðan bað ég um að fá að sjá hana aftur,“ segir Grace.

Hún bætir við að hún hafi ekki vitað hvað hún ætti að gera við eðluna og því hafi hún ákveðið að setja hana inn í ísskáp til að varðveita hana.

„Við höfðum samband við Trader Joe’s og vorum ekki viss hvort við ættum að fara með hana aftur í hverfisbúðina okkar þar sem við keyptum pokann. Mig langaði ekki að hafa rotnandi eðlu í ísskápnum. Hún var aðeins of nálægt ísnum mínum.“

Vinkona Grace tísti mynd af pokanum og hefur fólk skrifað athugasemdir við myndina um sínar eigin hryllingssögur af Trader Joe’s. Talskona verslunarkeðjunnar segir í samtali við People að fyrirtækið sé að skoða kvörtun Grace.

Birtir myndir af appelsínuhúð og slitförum

|||
|||

Söngkonan Demi Lovato er ötul talskona jákvæðrar líkamsímyndar, en seint í síðustu viku birti hún myndir af sér á Instagram-sögu sinni sem hafa vakið talsverða athygli.

Á einni myndinni sést Demi grípa í hold sitt og sýna slitför sem hún er með um sig miðja:

Á annarri myndinni sýnir hún appelsínuhúðina fyrir neðan rassinn:

Og á þriðju myndinni sýnir hún að læri hennar snertast:

Demi hefur unnið mikið í að bæta sína eigin sjálfsmynd síðustu ár, en hún hefur barist við þunglyndi og fíkn, skaðað sjálfa sig og verið með átröskun. Um allt þetta og meira til tjáði hún sig um í heimildarmyndinni Simply Complicated sem var frumsýnd á YouTube í fyrra. Heimildarmyndina má horfa á hér fyrir neðan:

Birtu skemmtilegt myndband til að tilkynna kynið á barninu

Knattspyrnukappinn Aron Einar Gunnarsson og eiginkona hans, fitness-drottningin Kristbjörg Jónasdóttir, eiga von á sínu öðru barni, en fyrir eiga þau soninn Óliver.

Þau birtu skemmtilegt myndband á Instagram til að tilkynna kynið á ófædda barninu, en það var Óliver sem fékk að leika stórt hlutverk í myndbandinu.

Í því sést Óliver sprengja stóra blöðru sem á stendur Boy or Girl?, eða Stelpa eða strákur? Þegar Óliver sprengir svo blöðruna koma fjölmargir bláir borðar úr henni og því ljóst að Aron og Kristbjörg eiga von á öðrum dreng.

? or a ?? @krisjfitness

A post shared by Aron Gunnarsson (@arongunnarsson) on

Óliver var líka lykilmaður í því þegar hjónin opinberuðu óléttuna á samfélagsmiðlum. Þá birtu þau hjónin einfaldlega mynd af drengnum í bol sem á stóð: Ég er að verða stóribróðir.

Ari fær fjórar stjörnur í Ástralíu

Ari Eldjárn

Ari Eldjárn tekur þátt í Melbourne International Comedy Festival þessa dagana með uppistandssýninguna Pardon My Icelandic. Gagnrýnandinn Patricia Maunder hjá Artshub segir í nýlegri gagnrýni sinni að Ari hljóti að vera fyndnasti grínistinn á Norðurlöndunum, svo hrifin var hún af sýningu hans í Melbourne.

Patricia segir sýningu Ara vera einlæga og bætir jafnframt við að enskukunnátta hans sé mjög góð, þar með talið hinir ýmsu hreimar sem Ari gerir en hann er, eins og Íslendingar vita, afar góð eftirherma.

Patricia segir Ara túlka listilega vel þann ríg sem ríkir á milli Norðurlandanna og hvernig Íslendingar þoli ekki hvernig Danir, Svíar, Finnar og Norðmenn tali niður til Íslands, en að Íslendingar geri svo slíkt hið sama við frændur okkar í Færeyjum.

Þá er Patricia afar hrifin af gríninu sem Ari gerir um dóttur sína.

„Síðustu tíu mínúturnar af sýningunni snýr Ari sér að athugunum úr sínu eigin lífi, þá helst föðurhlutverkinu. Túlkun hans á þriggja ára dóttur sinni sem einræðisherra úr Game of Thrones, sem er fullkomnuð með hrokafullum, enskum hreim, lætur mann óska að sýningin sé í annan klukkutíma,“ skrifar Patricia og bætir við, um leið og hún gefur sýningunni fjórar stjörnur:

„Þetta er gríngull sem týnist klárlega ekki á milli tungumála.“

Fór í lýtaaðgerð og dó í heila mínútu

Heidi Montag gerði garðinn frægan um miðbik síðasta áratugar í sjónvarpsþáttunum The Hills. Í kjölfarið fór hún í ansi margar lýtaaðgerðir, þar á meðal brjóstastækkun og ýmsar aðgerðir á andliti sínu, en þessi umbreyting var vel skrásett af slúðurmiðlum um allan heim.

Í nýju viðtali við tímaritið Paper segist Heidi hafa verið hætt komin í einni af aðgerðunum.

A post shared by heidipratt (@heidipratt) on

„Spencer hélt að hann væri búinn að missa mig,“ segir Heidi, og vísar í eiginmann sinn Spencer Pratt, en þau gengu í það heilaga árið 2009.

„Ég dó í eina mínútu. Út af öllum þessum aðgerðum þurfti ég að vera undir eftirliti hjúkrunarfræðinga allan sólarhringinn og Spencer vildi ekki líta af mér. Ég var lögð inn á endurhæfingastöð og þurfti að fá Demerol til að lina sársaukann því hann var svo mikill,“ bætir hún við.

Heidi segir að litlu hafi munað að hún hafi farið yfir móðuna miklu í fyrrnefndri aðgerð þar sem hjarta hennar hætti að slá í eina mínútu.

„Öryggisverðirnir hringdu í Spencer og sögðu honum: Hjarta Heidi stoppaði. Hún hefur það ekki af. Og ég hefði auðveldlega geta dáið. Ég mæli ekki með því að láta skera sig upp og Demerol er ekki eitthvað til að leika sér með. Michael Jackson dó af því.“

Þessi lífsreynsla breytti lífi Heidi.

„Ég þurfti að horfa á sjálfa mig í spegli á hverjum degi í batanum og hugsa: Hvað var ég að gera við sjálfa mig? Hvernig komst ég hingað? Hvað er að gerast,“ segir Heidi og bætir við:

Babymoon! ?

A post shared by heidipratt (@heidipratt) on

„Það kom mikið af jákvæðum hlutum úr þessu. Ég þurfti að ná botninum í mínu lífi til að gera mér grein fyrir því hvað væri mikilvægast.“

Lítið hefur farið fyrir Heidi og Spencer síðustu ár en í október í fyrra eignuðust þau sitt fyrsta barn saman, soninn Gunner Stone.

A post shared by heidipratt (@heidipratt) on

„Aðalgaldurinn er að þora að fara í hjarta sitt og opna það fyrir öðrum”

„Mér finnst ekkert svo stressandi að taka að mér að syngja þessi lög, þó þau séu svona vel þekkt og að vafalaust eigi flestir sína uppáhaldsflytjendur,” segir söngkonan Kristín Stefánsdóttir. Hún heldur tónleika til heiðurs Burt Bacharach í Salnum í Kópavogi þann 20. apríl, í tilefni af níræðisafmæli tónlistarmannsins þann 12. maí.

„Ég tengi mjög vel við þessi lög og skilaboðin í þeim og geri þau að mínum með því að mála myndina í huganum af sögunni sem verið er að segja. Þegar svona dásamleg tónsmíð rammar svo inn söguna er óhjákvæmilegt annað en að tengjast á sinn eigin hátt. Aðalgaldurinn er að þora að fara í hjarta sitt og opna það fyrir öðrum þannig að þeir geti tengst sínu hjarta í gegnum flutninginn,” segir Kristín, en meðal laga sem munu hljóma í Salnum eru The Look of Love, I Say a Little Prayer og What the World Needs Now.

Algjör suga á tónlist

„Mér finnst eins og lög Burt Bacharach séu svolítið samofin uppvexti mínum, á þann hátt á ég minningar af þessum lögum en ég var algjör suga á alls konar tónlist í uppvextinum. Lögin hans eiga það sameiginlegt að vera melódísk og þægileg fyrir eyrað en hafa einnig skýra sögu eða skilaboð sem ég held að sé líka galdurinn að vinsældunum. Maður á sterkar minningar af lögum eins og What the World Needs Now, That’s What Friends Are For, Close to You og Say a Little Prayer, svo fátt eitt sé nefnt. En það kom mér á óvart þegar ég fór að vinna þetta prógramm hvað hann á líka mörg ofboðslega falleg lög sem maður hafði sjaldan eða jafnvel aldrei heyrt. Þá gæti ég nefnt lög eins og Alfie, Who Will Speak for Love, Love’s the Answer og svona hádramatísk lög eins og This House is Empty Now. Lögin hans eru svo ljúf og fjalla flest öll á einn eða annan hátt um ástina og munum við kappkosta að koma þeim skilaboðum eins fallega og við getum til skila,” segir þessi hressa söngkona.

Fann kjólinn í útlöndum

Kristín er búin að leggja mikla vinnu í að skipleggja tónleikana og kom tónleikakjóllinn uppí hendurnar á henni fyrir utan landsteinana.

„Mér finnst stundum eins og ég sé að búa til listaverk þegar ég skipulegg svona tónleika. Öll smáatriði fæðast í huganum og verða svo að einni heild. Mikilvægur þáttur í þeirri mynd er auðvitað klæðnaðurinn. Mér fannst eins og klæðnaður minn þyrfti að vera í samræmi við orkuna í lögunum bæði í lit og mýkt. Þegar ég var svo í fríi í útlöndum í janúar kom rétti kjóllinn í fangið á mér. Mér fannst eins og þetta væri akkúrat kjóllinn sem hæfði lögunum; bæði rómantískur og mjúkur. Það skiptir miklu máli að líða vel í fötunum sem maður syngur í,” segir söngkonan og hlakkar mikið til tónleikanna, en auk grunnbands verða á sviðinu sex manna blásarateymi, fjögurra manna strengjasveit, þrjár bakraddir og Hreimur Örn Heimisson er gestasöngvari.

„Það hefur lengi blundað í mér að syngja lög eftir Burt Bacharach. Eftir að ég sá hann í Hörpu fyrir nokkrum árum fór myndin að taka á sig skýrara form og þegar ég svo flutti lagið The Look of Love á tónleikum í Noregi í fyrrasumar ákvað ég að nú myndi ég láta þennan draum rætast á nítugasta afmælisári tónlistarmannsins. Hlynur Þór Agnarsson píanóleikari, samþykkti að taka að sér útsetningar og hljómsveitarstjórn og við lögðumst í hugmyndavinnu. Það kom ekkert annað til greina en að gera þessum lögum góð skil og fá með okkur einvala lið tónlistarmanna,” segir Kristín og bætir við:

„Það sem ég held að muni koma áhorfendum mest á óvart er hvað þetta verður stór og flottur viðburður. Við verðum alls nítján manns að flytja tónlistina þar sem valinn maður er í hverju rúmi. Einnig munum við vera með ýmsan fróðleik um Burt Bacharach; ævi hans og lífshlaup og fjalla um þá sem sömdu með honum tónlistina og textana. Við söngvararnir fimm munum svo hjálpast að við syngja lögin eftir því sem okkur finnst hæfa hverju lagi fyrir sig. That´s what friends are for…”

Mynd / Úr einkasafni

Skrýtið að hafa foreldrana ekki með á brúðkaupsdaginn

„Dagurinn byrjaði voða rólega og við giftum okkur klukkan þrjú í gamalli kirkju í Innri Njarðvík,“ segir Ingibjörg Ósk Jóhannsdóttir. Hún gekk að eiga sinn heittelskaða, Þorstein Inga Hjálmarsson, á sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 2016.

Báðir foreldrar Ingibjargar eru látnir og því þurfti hún að velja einhvern annan til að leiða sig upp að altarinu á þessum stóra degi. Bæði Ingibjörg og Þorsteinn voru sammála um að það verðuga verkefni ætti að vera sett í hendur einkadóttur þeirra, Huldu Sigurlaugar, sem þá var níu ára gömul.

„Okkur fannst hún tilvalin. Ég var strax ákveðin að velja hana,“ segir Ingibjörg, en Huldu fannst þetta mikill heiður.

„Hún var svo stolt og ánægð og fannst þetta gaman.“

Fann fyrir nærveru foreldranna

Ingibjörg saknaði foreldra sinna á brúðkaupsdaginn, en var í staðinn umvafin stórum systkinahópi.

„Vissulega var skrýtið að hafa ekki foreldra sína með, en ég fann fyrir nærveru þeirra. Þetta var mitt fyrsta brúðkaup og ég kem úr stórum systkinahóp og þau komu öll,“ segir Ingibjörg og bætir við að hún hafi verið afskaplega ánægð með daginn.

„Dagurinn var yndislegur. Við héldum veisluna heima með okkar nánustu, fengum gott veður, þó það væri 17. júní,“ segir Ingibjörg og hlær. „Við erum með stórt hús og stóran pall þannig að þetta gekk vel og allt gekk upp, nema brúðartertan sem ég pantaði var mislukkuð. Ég varð fyrir vonbrigðum með hana.“

Punkta allt niður og vera tímanlega

Hvað með góð ráð fyrir stóra daginn, lumar Ingibjörg á nokkrum slíkum?

„Já, það er best að punkta allt niður sem maður ætlar að hafa og gera. Og vera tímanlega í öllu svo það verði ekki mikið stress á stóra daginn.“

Raddir