Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Var neydd til að sturta hamstrinum niður á flugvélasalerni

Saga hinnar 21 árs Belen Aldecosea hefur náð athygli heimsins, en hún er harla óvenjuleg. Þann 21. nóvember síðastliðinn var Belen bókuð í flug með flugfélaginu Spirit frá Baltimore til Suður-Flórída. Hún segist hafa hringt í flugfélagið til að athuga hvort að hamsturinn hennar Pebbles, sem læknir skrifaði uppá að væri stuðningsdýrið hennar, mætti fljúga með henni. Belen segir að svarið frá flugfélaginu hafi verið jákvætt.

En þegar að Belen mætti í flug sagði starfsmaður flugfélagins að dýrið mætti ekki fljúga. Ráðlagði starfsmaðurinn henni að sturta hamstrinum niður inni á einu salerni flugvélarinnar svo hún gæti flogið með vélinni. Og þar sem þetta var í aðdraganda þakkargjörðarhátíðarinnar voru allir vinir Belen uppteknir og hún of ung til að leigja sér bílaleigubíl og keyra.

Það endaði því með því að hún gerði eitt það erfiðasta sem hún hafði gert á lífsleiðinni – hún sturtaði Pebbles niður.

„Hún var hrædd. Ég var hrædd. Það var hræðilegt að setja hana í klósettið. Ég varð mjög tilfinningaleg. Ég grét. Ég sat í góðar tíu mínútur á salerninu og grét,“ segir Belen í samtali við Miami Herald.

Öll nagdýr bönnuð

Belen íhugar að lögsækja flugfélagið, en forsvarsmenn þess hafa staðfastlega neitað því að starfsmaður á þeirra vegum hafi sagt henni að sturta hamstrinum niður.

Belen fékk Pebbles síðasta haust eftir að hún fékk kýli á hálsinn og talið var að hugsanlega væri um krabbamein að ræða. Kýlið reyndist síðar vera jákvætt. Hún býr í Baltimore en bókaði flug til Suður-Flórída til að láta fjarlægja kýlið.

Forsvarsmenn flugfélagsins játa að mistök hafi átt sér stað þegar að starfsmaður hafi sagt Belen að hamsturinn mætti koma með í flugið, en nagdýr af öllu tagi eru bönnuð í flugum hjá Spirit. Þeir segja einnig að Belen hafi verið boðið að fljúga níu tímum seinna svo hún hefði tíma til að finna stað fyrir hamsturinn að vera á.

„Gögn okkar sýna að gesturinn þáði seinna flugið án mótmæla,“ segir Derek Dombrowski, talsmaður flugfélagsins í samtali við BuzzFeed News og bætir við að Belen hafi verið boðinn afsláttarmiði vegna óþægindanna en að flugfélagið hafi ekki heyrt meira í henni. Belen sturtaði dýrinu niður eftir að hún þáði boð um að fljúga síðar um daginn og segir að starfsmaður hafi stungið uppá því að hún losaði sig við dýrið á þann hátt eða sleppti því lausu.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Grét þegar hún rifjaði upp tímann með Trump

Omarosa Manigault er einn af keppendunum í sjónvarpsþættinum Celebrity Big Brother. Omarosa vakti fyrst athygli sem keppandi í The Apprentice, undir stjórn Donalds Trump, árið 2004 og réð sig síðar sem samskiptafulltrúa hans þegar hann varð forseti Bandaríkjanna. Hún sagði upp í desember í fyrra, þó margir fjölmiðlar hafi haldið því fram að hún hefði verið rekin.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá Omarosu rifja upp tíma sinn í Hvíta húsinu í spjalli við sjónvarpsstjörnuna, og keppanda í Celebrity Big Brother, Ross Matthews. Hún segist hafa verið að þjóna þjóð sinni þegar Ross spyr hana af hverju í ósköpunum hún réði sig í vinnu hjá Trump.

Hún segir enn fremur að hún hafi reynt að hafa hemil á forsetanum, til dæmis á samfélagsmiðlum, en hann fer oft mikinn á Twitter.

„Ég reyndi að vera sú manneskja en allir í kringum hann réðust á mig. Þeir sögðu: Haldið henni frá honum. Ekki veita henni aðganga að honum. Ekki leyfa henni að tala við hann,“ segir Omarosa kjökrandi.

Ross spyr hana síðan hvort að bandaríska þjóðin ætti að hafa áhyggjur af hegðun forsetans. Þá kinkar hún kolli.

„Þetta verður ekki í lagi. Það verður það ekki. Þetta er svo slæmt.“

Spjallið má sjá í myndbandinu hér fyrir neðan:

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Þetta eru lögin sem komast áfram í Söngvakeppninni

Fyrri undankeppnin í Söngvakeppninni fer fram á laugardagskvöldið og keppa sex lög um að komast í úrslitin þann 3. mars næstkomandi.

Við fengum Eurovision-sérfræðingana með meiru, Flosa Jón Ófeigsson og Kristínu Kristjánsdóttur til að spá í spilin og reyna að sjá fyrir hvaða þrjú lög komast áfram í úrslitin.

Lagið ekki nógu sterkt en treysta á gott „show“

Ég mun skína – Þórunn Antonía

Flosi: „Ég elska gamla stöffið sem Þórunn Antonía hefur búið til. Ég er mikill aðdáandi en ég verð að segja að ég varð fyrir pínu vonbrigðum með lagið af því að hún er svo flott. Hún verður frábær á sviði og mun negla þetta þegar kemur að beinu útsendingunni. Mér finnst lagið bara ekki nógu sterkt ef ég á að vera hreinskilinn. Það þarf að vera rosa „show“ ef hún ætlar að grípa fólkið. Þetta atriði minnir mig á Svölu í fyrra, nema ekki eins gott lag.“

Kristín: „Ég veit ekki alveg með þetta. Hún er náttúrulega rosalega hæfileikarík söngkona en þetta er ekki hennar besta. Eiginlega langt því frá. Það er spurning hvort hún skíni það skært að hún komist áfram. Ég ætla ekki að afskrifa hana. Ég vona að hún keyri þetta aðeins upp og geri ekki sömu mistökin og Svala gerði í fyrra, að vera ekki með nógu gott „show“.“

„Ég gæti ekki munað lagið þó að líf mitt lægi við“

Ég og þú – Sólborg Guðbrandsdóttir og Tómas Helgi Wehmeier

Flosi: „Ég veit ekki hvort fólk eigi eftir að ná laginu. Ég hef pínu áhyggjur af því. Ég hef líka pínu áhyggjur af því að lagið sé raddað allan tímann. Það má ekki vera neitt stress á þeim. Þau eru bæði úr The Voice þannig að þau eru komin með smá reynslu í bankann. Þetta eru svo miklar týpur og flottar. Ef röddin virkar þá er aldrei að vita hvað gerist á laugardaginn. Þetta er eitt af lögunum sem vinnur á.“

Kristín: „Þetta á ekki eftir að fljúga. Ég trúi ekki að tvær svona hrikalega töff manneskjur geti verið með svona arfaslakt lag. Það er ekkert að ske og ég gæti ekki munað lagið þó að líf mitt lægi við. Ég er eiginlega alveg viss um að þau komast ekki áfram.“

Úrelt lag en flottur söngvari

Heim – Ari Ólafsson

Flosi: „Lagahöfundurinn Þórunn Clausen er náttúrulega reynslubolti í Söngvakeppninni. Ég veit að atriðið verður pottþétt og það verður öllu tjaldað til. Það eru alltaf flott atriði frá Þórunni. Ari sjálfur er okkar vonarstjarna, bara 19 ára gamall. Ég hef engar áhyggjur af flutninginum sjálfum. Spurningin er hvort þetta sé of einfalt eða ekki. Það verður að koma í ljós á kvöldinu sjálfu. Þessi hái tónn sem allir eru að tala um kemur seint í laginu. Ef að fólk fílar ekki lagið nær það ekki þessum svaka tóni sem hann á eftir að rústa. En hann er gullfallegur strákur og myndavélin mun örugglega elska hann.“

Kristín: „Mér finnst Ari rosa flottur. En mér finnst þetta lag sjúklega leiðinlegt. Mér finnst það rosalega úrelt. Það hefði kannski virkað fyrir fimmtán árum. Hann er rosa flottur söngvari og tilvonandi stjarna. Ég hef á tilfinningunni að lagið eigi ekki eftir að gera mikið. Það gæti hins vegar verið svarti hesturinn í keppninni. Ég sé það samt ekki alveg því lagið er svo auðgleymanlegt.“

Ást við fyrstu sýn

Kúst og fæjó – Heimilistónar

Flosi: „Þetta er náttúrulega bara ást við fyrstu sýn. Þetta er landslið leikkvenna á Íslandi og ég hef engar áhyggjur af flutningnum. Þetta er eina lagið sem verður pottþétt á íslensku þannig að þeir sem búast ekki við að við syngjum á ensku í keppninni þurfa að setja X við Heimilistóna. Þetta er svolítið gamaldags lag og mömmufílíngur í því. Það er eitthvað sem grípur mig við þetta. Þetta atriði er eins og Daði Freyr í fyrra. Fólk hélt að hann væri grínatriði, alveg eins og það heldur með Heimliistóna en þeim er alvara með þetta. Þetta er sko ekkert grín og ég held að þetta fljúgi áfram.“

Kristín: „Kúst og fæjó er að fara áfram. Þetta er eina lagið í allri keppninni sem ég man alltaf. Ég er alltaf að syngja það. Þær hala inn eitthvað af stigum og ég spái þeim alla leið í einvígið. Þessi retro stíll á laginu og þreytta sixtís húsmóðirin – etta virkar allt saman. Þetta er allt öðruvísi, eins og Daði í fyrra. Ég segi að þær verði Daðinn í ár.“

Fer örugglega áfram

Aldrei gefast upp – Fókus hópurinn

Flosi: „Ég held að þetta sé eitt af lögunum sem fer áfram. Þetta eru fimm “solid” söngvarar. Þau eru öll með reynslu í bankanum úr The Voice. Þau tóna rosalega vel saman. Raddirnar þeirra blandast svo vel saman. Þau eru hress og skemmtileg. Þau eru miklar keppnismanneskjur en taka sig ekki of alvarlega. Ég er smá sökker fyrir góðum röddum og harmoníum og ég hef engar áhyggjur af því að þetta klikki. Þetta er það lag í fyrri undankeppninni em ætti örugglega að fara áfram.“

Kristín: „Það er sennilega að fara áfram. Ég er nokkuð viss um það. Þau eru öll frekar sterk og harmonæsa svo vel. Þetta lag hefur „major hook”. Ég spái þeim áfram.“

Svarti hesturinn í keppninni

Litir – Guðmundur Þórarinsson

Flosi: „Ég held að hann gæti orðið svarti hesturinn í keppninni. Lagið er frekar ferskt. Svo verð ég að segja, sem samkynhneigður karlmaður, að það er ekki leiðinlegt að sjá hann uppi á sviðinu. Þetta er ekki uppáhaldslagið mitt persónulega. Ég er Euro-skvísa þannig að ég elska glimmer og ostapopplög. En það er eitthvað við þetta. Þetta gæti orðið lagið sem bankar á dyrnar.“

Kristín: „Hann er alveg ágætur og kom svolítið á óvart. Ég vil sjá hann í beinni útsendingu. Guðmundur er óskrifað blað. Ég vil sjá hvernig hann tæklar þetta. Þetta lag er rosalega lágstemmt. Ef hann neglir þetta þá ætla ég ekki að afskrifa hann en ef þetta verður bara hann með gítarinn þá gæti þetta vel týnst.“

Þá er komið að stóru spurningunni – telja Flosi og Kristín að sigurlagið, lagið sem fer fyrir Íslands hönd í Eurovision í Lissabon í maí, leynist í fyrri undankeppninni?

Flosi: „Fyrir mér eru tvö atriði á laugardaginn sem eiga möguleika á að fara í einvígið, það eru Heimilistónar og Fókus hópurinn. En þetta fer eftir því hvernig seinni undankeppnin verður.“

Kristín: „Ég hef aldrei rétt fyrir mér en ég held að sigurlagið leynist í hinum riðlinum. Hins vegar held ég að Kúst og fæjó eigi efitr að fara langt.“

Smellið hér til að kynnast keppendum í fyrri undankeppninni betur.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Hannar buxur sem móta líkamann

|
|

Burt með hliðarspikið.

Bráðum mun Theodóra koma á markað með sínar eigin gallabuxur.

Theodóra Elísabet Smáradóttir, hönnuður og framkvæmdarstjóri, byrjaði ung að skapa og sjá tækifæri í nánast öllu í umhverfinu. Hún rekur hönnunarfyrirtæki og verslun í Kópavogi ásamt eigimanni sínum þar sem hún selur meðal annars hinar vinsælu MuffinTopKiller®-buxur sem halda vel utan um miðjusvæði líkamans.

„Ég hafði fengið mig fullsadda af illa sniðnum buxum með vonlausum streng í mittinu sem annað hvort var svo víður að buxurnar héldust ekki uppi eða með alltof þröngum mjóum streng sem skarst inn í mittið og bjó til það sem oft er kallað „muffintop“ eða hliðarspik sem kemur upp úr strengnum. Ég fór af stað í þróunarvinnu til að geta hafið framleiðslu á MTK-efninu í teygjuna. Þetta efni er framleitt fyrir okkur erlendis og hvergi annarsstaðar hægt að fá. Gott aðhald og þægindi er helsta sérstaða buxnanna.Teygjan mótar miðjusvæði líkamans og gefur þetta góða aðhald sem konur eru sjúkar í. Þær eru þægilegar, styðja vel við magann og móta línurnar í stað þess að búa til muffintop eins og margar aðrar buxur gera. Buxurnar henta öllum konum, á öllum aldri og í öllum stærðum. Það er alveg sama hvernig við erum í laginu, það skiptir okkur allar máli að líða vel yfir daginn og finna til frelsis“.

Dýrmætur lærdómur frá ömmu

Sköpunarkrafturinn hefur fylgt Theodóru frá barnæsku og saumaáhuginn kviknaði um 4-5 ára aldurinn þegar amma hennar kenndi henni á saumavél. „Amma mín, Theodóra Elísabet „nafna mín og vinkona“ eins og við kölluðum okkur, er fyrirmyndin mín. Strax á þessum aldri var ég með miklar hugmyndir um hvað ég vildi skapa og amma leyfði þessum sköpunarkrafti að blómstra. Hún stoppaði mig aldrei af með því að segja hvernig hlutir ættu að vera samkvæmt bókinn en var alltaf tibúin á hliðarlínunni svo ég færi mér ekki að voða í sumum af þessum framkvæmdum. Hún var reiðubúin að aðstoða mig um leið og ég var opin fyrir hennar ráðleggingum þegar ég sá að hlutirnir gengu ekki alveg upp eins og þeir höfðu gert í huga mér. Það dýrmætasta sem hún kenndi mér var að láta hugann ráða og finna út hvernig ég gat leyst það sem ég sá fyrir mér. Stundu gengu hlutirnir upp og stundum alls ekki og á því lærði ég einmitt mest. Ég sé í dag að það var leið ömmu til að kenna mér án þess að takmarka hugann. Svona lærði ég að allt er hægt og ég trúi því enn í dag – það er bara spurning hvað þú ert tilbúin að leggja á þig til að framkvæma það. Ég reyni eftir bestu getu að kenna dætrum mínum það sama – setja sér engar hindranir. Ef þær mæti lokuðum dyrum að finna þá opin glugga til að skríða inn um. Gefast ekki upp en það sé í lagi að hætta ef þær telji það rétt. Ég er enn að læra þann hluta, að það megi hætta að vel ígrunduðu máli án þess að það kallist uppgjöf.“

Mikilvægar fjölskyldustundir

Teygjan í MuffinTopKiller®-buxunum mótar miðjusvæði líkamans og gefur gott aðhald.

Eignmaður Theodóru er Sigurður Jónsson og hann starfar að fullu með henni í rekstrinum. Þau eiga þrjár dætur sem heita Viktoría Sól, 5 ára, Elísabet Sól, 2 ára, og Ísabella Sól, 5 mánaða. „Það gengur vel að samtvinna þetta en getur auðvitað verið krefjandi suma daga ekki síst fyrir dæturnar sem þurfa oft að þvælast með mömmu og pabba á fundi og jafnvel á sýningar erlendis. Við erum mjög meðvituð um að ofbjóða þeim ekki og pössum að hafa svoleiðis daga líka skemmtilega fyrir þær. Við erum vöknuð og byrjuð að vinna fyrir klukkan 6 á morgnana og hættum að vinna klukkan 16 þegar tvær elstu eru búnar í leikskólanum. Yngsta stelpan er með okkur foreldrunum allan daginn og verður heima til alla vega eins árs aldurs þegar hún fer í dagvistun. Við vinnum ekki um helgar heldur nýtum tímann saman enda er fjölskyldan í fyrsta sæti hjá okkur. Stelpurnar okkar er mikil partídýr sem vilja helst vera í eða halda matarboð með vinum okkar og fjölskyldu allar helgar og njóta lífsins saman sem við svo sannarlega gerum,“ segir Theodóra.

Þau hjónin reka verslun að Hlíðarsmára 4 í Kópavogi og margt áhugavert framundan. Auk MTK-buxnanna eru til sölu ýmis annar fatnaður sem Theodóra hannar. Í hinum helmingi verslunarinnar eru barnavörur til sölu, meðal annars barnavagn sem hún lét framleiða sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður.

Allar nánari upplýsingar eru á heimasíðunni muffintopkiller.com

Texti: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir: Aldís Pálsdóttir og Kári Sverrisson

Mamma veit best

Til eru ófáar kvikmyndir sem fjalla um hið flókna en fallega samband sem á sér stað milli móður og dóttur. Hér eru nokkrar sem sýna kómísku hliðina.

Svaðilför í frumskógi
Þegar kærasti Emily segir henni upp ákveður hún að fara með ofurvarkára móður sína í ævintýralegt frí til Ecuador. Það endar ekki betur en svo að þeim er rænt. Þær átta sig fljótlega á því að þær verða að vinna saman, þrátt fyrir að vera gjörólíkar týpur. Þessi reynsla hefur góð áhrif á samband þeirra og þær bindast fyrir vikið traustari böndum við það að reyna að losna úr prísundinni í frumskóginum.

Samþykktur af mömmu
Í myndinni Because I Said So kynnumst við Daphne Wilder. Hún er móðir sem þekkir engin mörk og vill vera með stöðug ítök í lífi dætra sinna. Dætur hennar þrjár eru geðlæknirinn Maggie, hin kynþokkafulla og óábyrga Mae og hin óörugga en aðlaðandi Milly – sem er ekki enn gengin út og veit ekki hvernig á að haga sér þegar kemur að karlmönnum. Til að koma í veg fyrir að yngsta dóttirin geri sömu mistök og hún gerði ákveður Daphne að finna sjálf fullkominn mann fyrir hana og koma þeim saman án þess að Milly viti.

Hættulegt tvíeyki
Þegar kemur að því að svindla á milljónamæringum eru mæðgurnar Maxine Paige sannir fagmenn. Svikamyllan í myndinni Heartbreakers er einföld; fyrst giftist Maxine þeim, síðan tælir Paige þá og svo fer Maxine fram á skilnað með tilheyrandi skilnaðarpakka. Þegar þessu er lokið snúa þær sér að næsta fórnarlambi. Allt gengur eins og í sögu þar til Paige brýtur meginreglu þeirra mæðgna og verður ástfangin í alvöru af ungum barþjóni. Núna þarf Maxine að passa upp á að missa ekki dótturina og besta glæpafélaga sem hún mun nokkurn tíma eignast auk þess sem hún situr uppi gift hinum miður geðslega milljarðamæringi William Tensy.

Hollywood-uppeldi
Handritshöfundur myndarinnar Postcards from the Edge og bókarinnar sem hún er byggð á er engin önnur en leikkonan Carrie Fisher. Í myndinni er sagt frá leikkonunni Suzanne sem er nýkomin af meðferðarstofnun vegna eiturlyfjafíknar. Hún neyðist til að flytja aftur heim til móður sinnar sem hún sagði skilið við fyrir mörgum árum. Suzanne lifði í skugga móður sinnar alla sína æsku en Doris er hávær, stjórnsöm, sjálfhverf og með mikið keppnisskap. Hún á það til að gefa dóttur sinni góð ráð, hvort sem hún sækist eftir því eða ekki. Myndin er mjög kómísk og Meryl Streep og Shirley Maclaine fara á kostum í hlutverki mæðgnanna. Margar getgátur hafa verið uppi um það hvort samband mæðgnanna væri byggt á sambandi Carrie Fisher og móður hennar Debbie Reynolds en Carrie neitaði því alla tíð.

Ólíkar en samrýndar
Myndin Anywhere but Here sýnir hversu ólíkar mæðgur geta oft verið. Adele August er sérvitur kona sem fær einn góðan veðurdag alveg nóg af litla bænum sem hún býr í. Hún yfirgefur fjölskylduna og annan eiginmann sinn og flytur til Beverly Hills ásamt dóttur sinni. Hún gerir það til að láta óræða og óraunhæfa drauma sína rætast. Dóttir hennar Ann er alls ekki sátt við flutningana eða við litríka hegðun móður sinnar. Adele skráir Ann í gagnfræðiskóla í Beverly Hills með það fyrir augum að hún kynnist börnum frægra leikara, fari síðan í UCLA og verði leikkona sjálf. Ann er hins vegar staðráðin í því að fara í háskóla á austurströndinni. Á endanum sættast þær hvor við aðra og læra að meta hversu ólíkar þær eru.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Kepptust um hver gæti sofið hjá þyngstu konunni

Bræðralag við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum hefur verið sett á tveggja ára skilorð eftir að skólayfirvöld komust að því að bræðralagið hélt sérstaka keppni þar sem nýir meðlimir kepptust um að sofa hjá þyngstu konunni. Var keppnin kölluð “pig roast”, sem væri hægt að þýða sem svínaveisla.

Bræðralagið Zeta Beta Tau ku hafa haldið keppnina á síðasta ári. Meðlimir fengu stig fyrir að sofa hjá konum. Ef jafntefli kom upp, fékk sá meðlimur verðlaun sem hafði sofið hjá þyngstu konunni. Meðlimunum var sagt af sér eldri meðlimum að segja konunum ekki frá keppninni.

Rannsókn á málinu lauk í janúar, en meðlimir bræðralagsins munu þurfa að sækja námskeið um kynferðislegt ofbeldi og áreiti.

Í tilkynningu á Facebook-síðu bræðralagsins kemur fram að keppnin hafi ekki verið samþykkt af yfirstjórn bræðralagsins og að forsvarsmenn bræðralagsins væru gjörsamlega miður sín yfir þessu athæfi.

„Við trúum því varla að þetta hafi verið gert af þeim sem við köllum bræður. Í kjölfarið höfum við hafið sjálfsskoðun til að tryggja að svona gerist ekki aftur hjá neinum sem tengist ZBT eða háskólasamfélaginu,“ segir í tilkynningunni. Þá er því einnig haldið fram að þeir bræður sem fari ekki eftir gildum og hugsjónum bræðralagsins verði reknir úr reglunni.

„Við erum staðráðin í að sýna með aðgerðum okkar að þessi óafsakanlega hegðun verður ekki liðin.“

Ráð við Cornell-háskóla, sem hefur með bræðralög að gera, vinnur nú að því að finna nýjar leiðir til að fræða meðlimi bræðralaga um hvernig þeir styðji við kynjamisrétti í skólasamfélaginu og hvernig hægt sé að breyta hugarfari þeirra í rétta átt.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Þetta er myndin sem hefur fengið flest læk í sögu Instagram

Raunveruleikastjarnan og frumkvöðullinn Kylie Jenner eignaðist sitt fyrsta barn um mánaðarmótin. Kylie opinberaði svo nafn hnátunnar í gær, miðvikudaginn 7. febrúar, og hefur hún hlotið nafnið Stormi. Með þessari opinberun fylgdi mynd af smárri hendi Stormi halda um hendi móður sinnar.

stormi webster ??

A post shared by Kylie (@kyliejenner) on

Internetið nánast sprakk þegar Kylie birti myndina á Instagram og á aðeins nokkrum klukkutímum varð þetta sú mynd á Instagram sem hefur fengið flest læk frá upphafi.

Þegar þetta er skrifað er myndin búin að fá rúmlega fjórtán milljónir læka og hrifsaði Kylie toppsætið af knattspyrnugoðsögninni Cristiano Ronaldo.

Rúmlega 11,3 millónir Instagram-notenda hafa líkað við mynd sem Ronaldo setti inn seint á síðasta ári þegar hann tilkynnti að hann væri búinn að eignast sitt fjórða barn, dótturina Alönu Martinu með kærustu sinni, Georginu Rodriguez. Birti hann fallega mynd af spítalanum sem hitti rakleiðis í mark hjá aðdáendum hans.

Þá hafa rúmlega 11,2 milljónir grammara líkað við mynd sem söngkonan Beyoncé setti inn af sér óléttri snemma á síðasta ári, þar sem hún tilkynnti að hún og eiginmaður hennar, Jay Z, ættu von á tvíburum, sem komu í heiminn um mitt síðasta ár. Þeir hlutu nöfnin Rumi og Sir Carter.

Kylie er nú í sjöunda sæti yfir þær manneskjur á Instagram sem eiga flesta fylgjendur, á eftir stjörnunum Selenu Gomez, Ronaldo, Ariönu Grande, Beyoncé, systur sinni Kim Kardashian og Taylor Swift.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Stjörnupabbinn Will Smith gerir grín að syninum

Með tilkomu samfélagsmiðla hafa foreldrar fengið óvænt vopn í hendurnar – að geta gert góðlátlegt grín að börnunum sínum þannig að þau fari hjá sér. Þetta höfum við séð margoft, til dæmis þegar foreldrar endurgera sjálfsmyndir barnanna sinna, börnunum til mikils ama.

Stjörnupabbinn Will Smith hefur nú gengið einu skrefi lengra og ákvað að endurgera mynbandið við lagið Icon, en það er sonur hans Jaden Smith sem flytur lagið. Will gerði þetta til að fagna því að lagið náði þeim stóra áfanga að vera streymt hundrað milljón sinnum á Spotify.

„Til hamingju með 100.000.000 streymi á Spotify, Jaden! Það er æðisleg gjöf fyrir foreldra að dást að börnunum sínum. Haltu áfram að vera þú,“ skrifar Will við myndbandið á Instagram, og má greina vissa hæðni í kveðjunni.

Jaden Smith hefur fetað í fótspor foreldra sinna, en móðir hans er leikkonan Jada Pinkett-Smith, og hefur náð góðum frama í leiklistinni. Hann lék til dæmis á móti föður sínum í kvikmyndinni The Pursuit of Happyness og vakti síðar lukku í endurgerð á The Karate Kid. Í nóvemer í fyrra gaf hann síðan út sína fyrstu plötu, Syre, en lagið Icon er einmitt á þeirri plötu.

Hér fyrir neðan má sjá upprunalegu útgáfuna af myndbandinu við Icon, en faðir hans virðist hafa náð að stæla það ótrúlega vel.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Léttist um 85 kíló og sagði skilið við Bakkus

„Ég var þekktur sem íþróttamaður og þegar ég fór úr því í þetta man ég að fólk sagði: Guð minn góður, hvað gerðist?“ segir Noah Kingery í viðtali við vefritið Men’s Health.

Noah segir sögu sína í viðtalinu, en á yngri árum spilaði hann knattspyrnu í Brasilíu. Hann borðaði hollan mat og æfði mikið en þegar hann var átján ára þurfti hann að velja milli þess að bjarga sambandi sínu við kærustu sína í heimabænum Dallas í Bandaríkjunum eða halda áfram að láta ferilinn blómstra í Brasilíu. Hann valdi að snúa aftur heim til að halda kærustunni.

Sambandið hins vegar gekk ekki upp og það fékk mikið á Noah. Hann leitaði að huggun í mat og áfengi og þyngdist um rúm 96 kíló á einu ári. Þá var hann orðinn rúm 160 kíló og hafði aldrei verið jafn þungur.

Alltaf maðurinn á bak við tjöldin

Árið 2009 flutti Noah til Los Angeles til að stofna sitt eigið fatamerki, Prep Couture, en meðal viðskiptavina hans voru Kanye West og Justin Bieber.

„Ég gat ekki klæðst neinu sem ég bjó til. Ég var alltaf maðurinn á bak við tjöldin og vildi ekki láta sjá mig,“ segir Noah. Þáttaskil urðu í lífi hans ári síðar þegar náinn vinur hans lést í bílslysi þegar ökumaður undir áhrifum áfengis keyrði á hann.

„Ég sagði við sjálfan mig: Ókei, ég verð að hætta að drekka og ná stjórn á þessu. Ég þarf að verða aftur fótboltamaðurinn sem ég var í miðskóla.“

Léttist um 67 kíló en sjálfstraustið vantaði

Noah ákvað að borða og æfa eins og þegar hann var í formi. Hann hætti að borða sjö þúsund kaloríur af kínverskum mat á dag og byrjaði að borða hreinan mat. Hann æfði af fullum krafti og lyfti lóðum til að byggja upp vöðvamassa. Og hann hætti að drekka. Allt þetta varð til þess að hann léttist um 67 kíló.

„En ég fékk ekki meira sjálfstraust. Mér fannst ég enn vera rúm 160 kíló. Ég var alltaf að berjast við það,“ segir Noah og níu mánuðum síðar féll hann.

„Ég vildi ekki hugsa um hve illa mér leið þannig að ég féll aftur í mína gömlu fíkn – áfengi.“

Langaði að hoppa

Noah byrjaði í kjölfarið að borða óhollan mat og hætti að æfa. Fljótlega bætti hann nánast öllu aftur á sig og var fljótlega orðinn 145 kíló. Á þessum tímapunkti íhugaði hann sjálfsvíg.

„Mér fannst eins og ég væri með pálmann í höndunum fjárhagslega en í einkalífinu fannst mér ég vera tómur. Mig langaði ekki að halda áfram að lifa. Þannig að einn dag keypti ég vodkaflösku og verkjastillandi og fór uppá 31. hæð í húsinu sem ég bjó í. Mig langaði til að hoppa. En einn af bestu vinum mínum hringdi og ég sagði honum hvað ég ætlaði að gera og hann flýtti sér til mín. Næsta sem ég man er að hann sagði: Ef einhver getur breyst, getur þú það en þú verður að finna sjálfan þig. Ef þessi stund breytir þér ekki, þá gerir ekkert það,“ segir Noah.

Hann ákvað að breyta fíkninni í eitthvað gott – að borða góðan og hollan mat og hugsa vel um líkamann. Hann ákvað að æfa aftur eins og hann gerði og í dag æfir hann fimm daga vikunnar í einn til tvo tíma. Hann borðar fjórar máltíðir á dag og borðar máltíð sem er rík af kolvetnum annað hvort fyrir eða rétt eftir æfingar. Hann borðar mikið af próteini, eins og fitulítið kjöt, egg og gríska jógúrt. Hann velur að borða eingöngu mat sem honum finnst góður.

„Þú verður að elska það sem þú borðar. Ef þú sérð þig ekki borða það næstu þrjá mánuði þá er það ekki að fara að virka.“

Getum ekki breytt gærdeginum

Í dag er Noah 75 kíló og vinnur sem næringarfræðingur. Nú nýtur hann lífsins við að hjálpa öðrum og hjálpaði meira að segja móður sinni að losa sig við 48 kíló.

„Ég hef verið þarna. Ég veit hvernig það er að reyna að losa sig við slæma ávana. Mig langaði að hafa tilgang í vegferð annarra og sjá hvernig líf þeirra breytist,” segir Noah og bætir við.

„Við getum ekki breytt því sem gerðist í gær en við getum gert það sem við getum í dag til að breyta morgundeginum.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

„Andlegt ofbeldi veldur tilfinningalegum skaða og sárum“

Átakið Sjúk ást er nýtt átak sem Stígamót hleypti af stokkunum í gær. Um er að ræða forvarnaverkefni gegn ofbeldi sem ætlað er ungu fólki á aldrinum 13 til 20 ára.

Markmið átaksins er að vekja athygli á einkennum heilbrigðra, óheilbrigðra og ofbeldisfullra sambanda. Á vefsíðu átaksins er að finna aragrúa af upplýsingum og ákváðum við hjá Mannlífi að kynna okkur hvað það er sem einkennir andlegt ofbeldi, ofbeldi sem oft erfitt er að greina eða segja frá.

Andlegt ofbeldi felur í sér hótanir, niðurlægingu, óvelkomið og yfirþyrmandi eftirlit svo sem með endalausum skilaboðum, auðmýkingu, ógnun, einangrun eða ofsóknir.

Andlegt ofbeldi getur líka birst á duldari hátt:

  • ‍Að uppnefna þig og gera lítið úr þér
  • Að öskra á þig
  • Að niðurlægja þig viljandi fyrir framan aðra
  • Að koma í veg fyrir að þú hittir eða talir við vini þína eða fjölskyldumeðlimi
  • Að segja þér í hverju þú átt að vera eða hvernig þú átt að haga þér
  • Að eyðileggja eigur þínar í bræðiskasti (henda hlutum, kýla í vegg, sparka í hurð o.s.frv.)
  • Að notast við samfélagsmiðla eða síma til að stjórna þér, ógna eða niðurlægja.
  • Að nota hegðun þína sem afsökun fyrir ofbeldi eða óheilbrigðri hegðun.
  • Að saka þig um framhjáhald og fyllast afbrýðisemi yfir samskiptum þínum við annað fólk
  • Að ofsækja þig
  • Að hóta að fremja sjálfsvíg til að koma í veg fyrir að þú slítir sambandinu
  • Að hóta að skaða þig, gæludýrið þitt eða fólk sem þér er annt um
  • Að láta þig efast um upplifanir þínar og tilfinningar þannig að þú heldur jafnvel að þú sért að ímynda þér ofbeldið sem þú verður fyrir
  • Að þrýsta á um kynferðislegar athafnir með því að láta þig fá samviskubit eða saka þig um barnaskap þegar þú vilt ekki gera eitthvað

  • Að hóta að opinbera einkamál þín, svo sem kynhneigð eða heimilisaðstæður
  • Að hóta að dreifa viðkvæmum myndum af þér á netinu
  • Að dreifa ljótum sögum um þig

Er andlegt ofbeldi virkilega ofbeldi?

Samband getur verið óheilbrigt og ofbeldisfullt án þess að það leiði nokkurn tíma til líkamlegs ofbeldis. Andlegt ofbeldi veldur tilfinningalegum skaða og sárum. Stundum verður ofbeldið svo slæmt að þú ferð að trúa því sem maki þinn segir. Þú ferð að halda að þú sért einskis virði, ljót og heimsk manneskja. Þú sannfærist jafnvel um að enginn annar myndi vilja vera í sambandi með þér því stöðug gagnrýni og niðurlæging brýtur niður sjálfsmyndina. Þú gætir jafnvel farið að kenna þér um ofbeldishegðun makans.

Heimild: Sjúk ást

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Lax með möndlum og sítrónusafa

Ljúffengur og bráðhollur réttur.

 

LAX MEÐ MÖNDLUM OG SÍTRÓNUSAFA
fyrir 3-4

RASP:
1 ½ dl góður brauðraspur
2 hnefafylli möndluflögur, kramdar og muldar gróft
börkur af 1 sítrónu
6 litlir vorlaukar, fínt saxaðir, notið eins mikið af græna hlutanum og hægt er
hnefafylli steinselja, smátt skorin
2 msk. ólífuolía

Blandið öllu vel saman.

800 g laxaflak
1 msk. ólífuolía
safi úr 1 sítrónu
1 tsk. grænt dijon-sinnep með kryddjurtum (fine herbes), eða annað gott sinnep
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Hitið ofn í 180°C. Setjið laxaflak í eldfast mót með roðið niður og penslið með olíu og sinnepi og dreypið sítrónusafa yfir. Stráið ríflega af salti og svörtum pipar yfir flakið og hyljið það því næst með brauðraspinu. Bakið í 15-20 mín. og látið síðan standa í 5-10 mín. áður en fiskurinn er borinn fram. Berið gjarnan fram með góðu salati, jógúrtsósu og kartöflum.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Vetrarblús – góð ráð

Ráð sem gera okkur betur í stakk búin til að takast á við veturinn.

Mörg þekkjum við vetrarblúsinn sem á það til að læðast að okkur á veturna. Hér eru nokkur ráð sem gera okkur betur í stakk búin til að takast á við hann, án þess að missa vitið!

Kveiktu ljósið um leið og vekjaraklukkan hringir.

Kveiktu ljósið um leið og vekjaraklukkan hringir. Að græja sig fyrir vinnudaginn í myrkri gerir þig bara þreyttari og myglulegri.

Klæddu þig vel og taktu þér smágöngutúr í hádeginu. Það kemur ekkert í staðinn fyrir sólarljós, nýttu það litla sem gefst! Fríska loftið gerir einnig kraftaverk.

Planaðu vinahitting strax eftir vinnu. Þér er enginn greiði gerður með að fara beint á Facebook eða að horfa á sjónvarpið uppi í sófa í fósturstellingunni. Hittu vini eða fjölskyldu allavega einu sinni í viku og virkjaðu hláturvöðvana.

Taktu D-vítamíntöflur, þær hafa góð áhrif á skapið. Á haustin og veturna fáum við ekki nóg af D-vítamíni frá sólinni og þurfum smáhjálp.

Skreyttu heimilið með fallegum púðum, nýju rúmteppi eða kertum. Splæstu jafnvel í bjartan lit á vegginn. Þegar það er grátt úti verður að vera bjart og upplífgandi inni!

Afskorin blóm lífga upp á heimilið – og skapið í leiðinni.

Farðu út að leika! Sleðaferðir, skíðaferðir eða aðrar fjölskylduferðir úti gera kraftaverk fyrir sálina.

Drekktu grænt te – það er hollt og getur hjálpað við að ráða bót á depurð sem oft fylgir vetrinum.

Við eigum það til að borða meira af ávöxtum á sumrin, enda úrvalið í hámarki. Haltu áfram að borða ávexti þegar hausta fer, ávextir eru náttúrlegt þunglyndislyf.

Farðu snemma að sofa og fáðu góðan nætursvefn.

Vertu meðvituð/meðvitaður um líðan þína og minntu sjálfa/n þig á að vetrarblúsinn er bara tímabundinn – að vera meðvituð skiptir miklu máli fyrir okkur. Gerðu þér grein fyrir tilfinningum þínum, ekki dæma þær eða reyna að fela þær. Reyndu að sjá allar jákvæðu hliðarnar á vetrinum!

Texti /Helga Kristjáns

Engir karlmenn leyfðir á þessari lúxuseyju

|
|

Hægt verður að fara í frí á SuperShe-eyjunni við strendur Finnlands frá og með næsta sumri. Staðurinn er sérstakur áfangastaður fyrir þær sakir að engir karlmenn eru leyfðir á eyjunni.

Kristina Roth, fyrrverandi ráðgjafi, festi kaup á eyjunni og ákvað að opna stað eingöngu fyrir konur eftir nokkur vel heppnuð frí til Bandaríkjanna.

„Konurnar myndu setja á sig varalit þegar sætur strákur kæmi. Hugmyndin á bak við eyjuna er í raun: Hey, einblínum á okkur sjálfar – hættum að reyna að fíra upp í hormónunum,“ segir Kristina í samtali við New York Post um eyjaævintýrið.

Hún segist samt ekki hata karlmenn.

„Ég elska karlmenn!“ segir hún og bætir við að hún sé opin fyrir því að leyfa karlkyns gesti á SuperShe-eyjunni í framtíðinni.

Konur sem hafa áhuga á dvöl á eyjunni þurfa að sækja um meðlimakort á vefsíðu paradísarinnar, en vika á eyjunni, með nánast öllu inniföldu, kostar 3500 dollara, eða rétt rúmlega 350 þúsund krónur. Til að sækja um dvöl þurfa áhugasamir að fara í viðtal við stofnandann, Kristinu, en það er hægt að gera á Skype.

„Ég vil velja manneskjurnar og sjá að þær séu í góðu jafnvægi og passi inn í hópinn,“ segir Kristina.

Þess má geta að það eru ekki aðeins karlmenn sem eru bannaðir á eyjunni heldur öll hugarbreytandi efni.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Fæddi barn á ganginum og ljósmyndarinn náði stórkostlegum myndum af því

||||
||||

Jes og Travis Hogan frá Manhattan í Kansas eignuðust nýverið sitt sjötta barn, á einstaklega eftirminnilegan hátt.

Jes og Travis fóru uppá sjúkrahús þegar Jes fann fyrir óvenjulegum samdráttum sem voru sterkari en dagana áður. Tammy Karin, ljósmyndari hjá Little Leapling Photography, hitti þau á sjúkrahúsinu, en hún kom rétt svo í tæka tíð til að mynda fæðinguna.

Jes komst nefnilega ekki mjög langt og endaði á því að fæða barnið, lítinn dreng, á gangi sjúkrahússins.

Uppháhaldsmynd móðurinnar.

Tammy náði algjörlega stórkostlegum myndum af fæðingu barnsins, sem sýna svo sannarlega að fæðingar eru jafn misjafnar og þær eru margar. Jes segir í samtali við fréttaveituna BuzzFeed að sín eftirlætismynd sé þegar eiginmaður hennar og hjúkrunarfræðingurinn voru að hjálpa henni að leggjast niður á gólfið, nokkrum mínútum áður en barnið kom í heiminn.

„Það er smá glott á eiginmanni mínum en ég man hve örugg mér fannst ég í örmum hans. Þessi mynd fangar allt sem ég vil. Hún á sérstakan stað í mínu hjarta,” segir Jes. Hún hvetur aðrar konur til að deila sínum fæðingarsögum.

Fæðingin tók aðeins nokkrar mínútur.

„Ég vil að mæður muni að þær eru kröftugar og að fæðing er stórkostleg. Ekki gleyma styrk ykkar á þessu augnabliki, sama hvernig fæðingin er. Ég trúi að fæðingar skilgreini okkur sem manneskjur og hjálpi konum að öðlast meiri styrk og jarðtengingu.”

Max flýtti sér í heiminn.
Falleg stund sem var fest á filmu.

Hér fyrir neðan má sjá myndband um fæðingu litla snáðans sem hlotið hefur nafnið Max.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Little Leapling Photography

Sleit ofbeldisfullu sambandi: „Þetta breytti mér“

Í nýjasta hlaðvarpi spjallþáttadrottningarinnar Opruh Winfrey, Oprah’s SuperSoul Conversations, sest Oprah niður með leikkonunum Reese Witherspoon og Mindy Kaling, en þessar þrjár leika saman í kvikmyndinni A Wrinkle in Time sem frumsýnd verður í mars.

Í viðtalinu talar Reese opinskátt um að hún hafi verið í ofbeldisfullu sambandi, en nefnir ofbeldismanninn þó ekki á nafn.

„Var þetta líkamlegt? Beitti hann ofbeldi með orðum? Bæði?“ spyr Oprah og Reese svarar:

„Andlegt, beitti ofbeldi með orðum og já,“ segir leikkonan. Hún bætir við að þó að hún hafi vitað að það yrði erfitt að slíta sig úr sambandinu þá hafi það verið nauðsynlegt.

„Lína var dregin í sandinn og það var stigið yfir hana. Eitthvað breyttist í höfðinu á mér. Ég vissi að þetta yrði mjög erfitt en ég gat ekki meir. Þetta var náið samband og ég var mjög, mjög ung.“

Stóð með sjálfri sér

Reese segir að þessi ákvörðun hafi mótað hana sem konuna sem hún er í dag.

„Þetta breytti mér, sú staðreynd að ég stóð með sjálfri mér. Ég er öðruvísi manneskja núna og þetta er hluti af ástæðunni fyrir því að ég get staðið upp og sagt: Já, ég er metnaðargjörn. Því einhver reyndi að taka það frá mér,“ segir leikkonan. Síðar í viðtalinu talar hún meira um mikilvægi þess að konur séu metnaðarfullar.

„Metnaður snýst ekki um að vera eigingjarn og hann snýst ekki bara um mann sjálfan. Hann snýst um að vilja gera meira og betra fyrir samfélagið, skóla, heiminn, ríkisstjórnina. Metnaðarfull kona er ekki ógnvænleg og hún er ekki fráhrindandi.“

Hlusta má á allt viðtalið við þær stöllur hér fyrir neðan:

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

„Ég hef alltaf litið á þessi börn sem mín eigin“

||||
||||

„Árið 2017 var æðislegt en líka afar skrýtið. Það var allavega mjög öðruvísi,“ segir leikarinn Jóel Sæmundsson.

Jóel frumsýndi einleikinn Hellisbúann í september á síðasta ári, landaði stóru hlutverki í bíómynd og létti sig um tíu kíló á sextíu dögum. Hann gerði þetta allt ásamt því að hugsa um börnin sín þrjú, en hann gekk tveimur af börnunum í föðurstað þegar hann kynntist fyrrverandi kærustu sinni. Við heyrðum í Jóel og fórum yfir þetta magnaða ár með honum.

Engin karlrembusýning

„Ég var búinn að lesa leikritið og var lengi búið að langa að leika Hellisbúann, þó ég hefði aldrei séð stykkið á sviði. Ég ákvað því að hafa samband við Theater Mogul, fyrirtækið sem á réttinn af verkinu, og þá vildi svo skemmtilega til að þau höfðu líka verið að leita leiða til að setja verkið aftur upp á Íslandi. Ég fór á tvo fundi með Óskari Eiríkssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, hann skoðaði efni með mér og síðan ákváðum við að kýla á þetta saman,“ segir Jóel um hvernig það atvikaðist að hann brá sér í hlutverk Hellisbúans.

Jóel sem hellisbúinn.

Margir muna eflaust eftir sýningunni Hellisbúinn með Bjarna Hauk fremstan í flokki, en einleikurinn vakti gríðarlega lukku á Íslandi á tíunda áratug síðustu aldar, og síðan aftur fyrir nokkrum árum með Jóhannes Hauk í aðalhlutverki. Verkið, sem skrifað er af Rob Becker, hefur einnig farið sigurför um heiminn allan og er til dæmis sá einleikur sem lengst hefur gengið á Broadway. Verkið var skrifað árið 1991 og segir Jóel að síðasta vor og sumar hafi farið í það að uppfæra handritið.

„Við í raun uppfærðum handritið í takt við gamla punkta sem höfundurinn hafði skrifað, sem voru farnir úr verkinu, en færðum það inn í nútímann. Í því ferli fékk ég dýpri skilning á verkinu. Aðalpunkturinn í því er að þó við séum ólík þurfum við að finna leið til að koma saman. Tveir mismunandi einstaklingar samankomnir eru sterkari en einn. Þannig að við fórum aðeins aftur til rótanna ef svo má segja í handritaferlinu,“ segir Jóel, sem þvertekur fyrir að þetta sé enn, eitt karlrembustykkið eins og hann hefur svo oft heyrt fleygt.

„Alls ekki. Að mínu mati hefur þetta stykki aldrei átt jafn vel við og akkúrat núna.“

Enginn bjargar manni ef illa fer

Jóel lærði leiklist í Bretlandi og var með litla sem enga reynslu af einleikjum áður en hann tók að sér hlutverk hellisbúans, sem er tveggja klukkutíma sýning.

„Mér finnst þetta ofboðslega gaman. Það er auðvitað erfitt að enginn getur bjargað manni ef illa fer en sem betur fer hefur ekkert stórfenglegt komið uppá. Eitt sinn gleymdi ég þrjátíu mínútum af stykkinu en náði einhvern veginn að spóla aðeins til baka og klára verkið eins og á að klára það. Svo var reyndar mjög fyndið þegar ég flækti mig í bol sem ég átti að klæða mig úr á sviðinu. Það gerðist mjög hratt og ég held ég hafi ekkert geta sagt nema: Þetta hefur aldrei komið fyrir áður. Það var mjög spaugilegt,“ segir Jóel.

Jóel er fjölhæfur leikari.

Stærsti einleikur í heimi og aðalhlutverk í bíómynd

En draumurinn um hellisbúann var ekki sá eini sem rættist á síðasta ári. Þegar leikarinn var búinn að tryggja sér það hlutverk fékk hann tilboð úr annarri átt sem hann gat ekki hafnað.

„Ég var fastur í Miami þegar ég fékk símtal um að sænskur leikstjóri vildi fá mig í prufu á Íslandi. Ég fékk prufunni frestað um einn dag, leigði mér bíl og keyrði frá Miami til Orlando þar sem ég fékk flug heim til Íslands. Ég fékk senuna sem ég átti að lesa senda í tölvupósti og æfði mig alla nóttina í fluginu. Þegar ég lenti á Íslandi brunaði ég síðan beint í prufuna. Þegar ég kom á staðinn kom í ljós að ég hafði æft vitlausan karakter en það reddaðist sem betur fer. Áður en ég fór spurði leikstjórinn mig hvort ég vildi lesa handritið og koma aftur á morgun. Ég þáði það boð og næsta dag var mér boðið burðarhlutverk í myndinni,“ segir Jóel.

Um er að ræða kvikmyndina Pity the Lovers í leikstjórn Maximilian Hult sem er öll á íslensku og tekin upp á Íslandi. Meðal annarra leikara í myndinni eru Björn Thors, Sara Dögg Ásgeirsdóttir og Sigurður Karlsson.

„Það er ekki á hverjum degi sem maður leikur stærsta einleik í heimi og fær aðalhlutverk í kvikmynd,“ segir Jóel þegar hann rifjar þetta upp. Tökutímabil myndarinnar skaraðist á við æfingatímabil Hellisbúans þannig að í fjórar vikur vann Jóel 200% leikaravinnu og rúmlega það. Í ofanálagi undirbjó hann sig vel fyrir kvikmyndahlutverkið.

Tíu kíló á sextíu dögum

„Myndin er um tvo bræður, Óskar og Magga. Þeir eru báðir rólegir í tíðinni en eiga erfitt með náin sambönd. Ég leik Magga sem þráir að verða ástfanginn og eignast fjölskyldu og hús og fer því úr einu sambandi í annað. Til að undirbúa mig fyrir hluverkið létti ég mig um tíu kíló á sextíu dögum. Ég taldi kaloríur en fékk mér samt allt sem mig langaði í. Ef mig langaði í pítsu þá fórnaði ég öðru. Ég fór á Esjuna þrisvar sinnum í viku og æfði í rauninni í sextíu daga í röð. Ég var ekki beðinn um að koma mér í betra líkamlegt form en mér fannst týpan kalla á það. Ég vildi líka búa mig undir að vinna fullan tökudag, fullan æfingadag og hugsa um krakkana. Þannig að síðasta sumar gerði ég lítið annað en að æfa og undirbúa mig.“

Á góðri stundu með föður sínum.

Jóel hefur tekið að sér ýmis verkefni síðan hann útskrifaðist úr leiklistarskóla fyrir tæpum áratug. En hvað er það núna sem gerir það að verkum að verkefnin koma til hans?

„Ég hef alltaf unnið mjög mikið, verið að búa eitthvað til og aldrei setið á rassgatinu aðgerðarlaus. Ég hef alltaf haft stóra drauma og lifi fyrir að láta þá rætast. Ég hef í raun verið að taka lítil skref að stærra markmiði. Ég einbeiti mér að því að umkringja mig góðri orku en forðast neikvæða orku því hún hjálpar mér ekki. Ég held að ég geti með sanni sagt að ég sé búinn að vinna fyrir þessu. Ég hugsa leiklistina í raun eins og íþrótt. Ef ég fer ekki út að hlaupa, þá bæti ég mig ekki. Ég hleyp ekki hraðar ef ég sit í sófanum. Að sama skapi er enginn að fara að hringja í mig ef ég tek ekki upp símann,“ segir Jóel.

Metur fjölskyldustundirnar

Jóel og börnin þrjú.

Talið berst að einkalífinu, en fjölskyldan er mjög mikilvæg leikaranum. Hann og fyrrverandi kærasta hans, Arna Pétursdóttir, skildu fyrir rúmum tveimur árum en þau eiga þrjú börn saman, Elvar Snæ, tólf ára, Elísu Sif, níu ára og Ester Maddý, þriggja ára. Raunar er sú síðastnefnda eina barnið sem er blóðtengd Jóel en hann gekk hinum tveimur í föðurstað. Arna og Jóel skipta forræði og segir hann samband þeirra á milli mjög gott.

„Það er gott samband okkar á milli og við reynum að halda í viku/viku fyrirkomulag, þó oftast sé Arna aðeins meira með börnin vegna óreglulegs vinnutíma hjá mér. En ég hef alltaf litið á þessi börn sem mín eigin og voru þau mjög ung þegar ég kom inn í líf þeirra. Ég gæti ekki ímyndað mér lífið án þeirra og met ég stundirnar með þeim mjög mikið. Oft er ég til dæmis í fríi á morgnana og þá keyri ég Elvar í skólann, þó það sé ekki mín vika með honum. Þá eigum við yndislega gæðastund í bílnum á morgnana,“ segir Jóel.

Fagnar 35 ára afmæli uppi á sviði

Það er eiginlega ekki hægt að sleppa leikaranum eftir þessa hressilegu yfirferð á árinu 2017 án þess að spyrja hvað framtíðin beri í skauti sér?

„Það er eitthvað í pípunum,“ segir Jóel og hlær. „Það er tengt sviðinu en það verður að bíða betri tíma að tilkynna það. Ég er með fullt af hugmyndum sem mig langar að framkvæma og nóg af draumum sem ég vil uppfylla,“ segir leikarinn, en næstu helgi sýnir hann tvær sýningar af Hellisbúanum. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þetta er stór helgi hjá Jóel. Hann fagnar nefnilega 35 ára afmæli sínu.

„Ég hef aldrei haldið uppá afmælið mitt svona – að leika á sviði fyrir framan fullan sal af fólki. Ég hlakka mikið til, enda ómetanlegt að fá að vinna við það sem maður elskar. Svo skemmir ekki fyrir að ég fæ líka að fagna deginum í faðmi fjölskyldunnar þannig að ég fæ í raun það besta úr báðum heimum á afmælisdaginn.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Úr einkasafni

Söngdívan Bonnie Tyler syngur fyrir Íslendinga í sumar

Velska stórsöngkonan Bonnie Tyler er búin að bætast í hóp þeirra listamanna sem troða upp á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem fram fer í Laugardalnum 21. til 24. júní.

Ferillinn hófst árið 1976

Bonnie þarf vart að kynna en fyrsta lagið með henni, My! My! Honeycomb kom út í apríl árið 1976. Lagið náði þó ekki að heilla heiminn og því var meira fé eytt í að kynna annað lag hennar, Lost in France sem var gefið út í september sama ár. Það lag náði miklum vinsældum sem og næsta lag hennar, More Than a Lover, sem Bonnie flutti í þættinum Top of the Pops í lok mars árið 1977. Þrátt fyrir velgengni seinni tveggja laganna náði fyrsta plata hennar, The World Starts Tonight, ekki miklum vinsældum í Evrópu, nema í Svíþjóð þar sem hún náði öðru sæti á vinsældarlistum.

Árið 1978 sló söngkonan í gegn með lagið It’s a Heartache, sem náði bæði vinsældum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Önnur plata hennar, Natural Force, sem gefin var út sama ár náði gullsölu í Bandaríkjunum. Þriðja plata hennar, Diamond Cut, kom út árið eftir og sló rækilega í gegn í Noregi og Svíþjóð. Gagnrýnendur voru ekki eins hrifnir. Sama var uppi á tengingnum með plötuna Goodbye to the Island sem kom út árið 1981 og þá gengu gagnrýnendur svo langt að spá því að ferli Bonnie væri lokið.

Total Eclipse of the Heart

Þessar fjórar fyrstu plötur Bonnie voru gefnar út af RCA plötuútgáfunni og síðan skildu leiðir. Þá vildi Bonnie breyta um stíl og fékk upptökustjórann Jim Steinman í lið með sér, en sá hafði unnið mikið með söngvaranum Meat Loaf. Jim hlustaði á plöturnar hennar og fannst tónlistin ekki góð. Honum leist hins vegar vel á Bonnie og bauð henni í íbúð sína í New York og spilaði fyrir hana lagið Total Eclipse of the Heart, lag sem átti eftir að ná toppi vinsældarlista um heim allan árið 1983. Auk þess fékk Bonnie tvær tilnefningar til Grammy-verðlauna fyrir lagið. Í kjölfarið gaf hún út plötuna Faster Than the Speed of Night sem náði fyrsta sæti í Bretlandi.

Tók þátt í Eurovision

Bonnie hélt áfram að vinna með Jim og platan Secret Dreams and Forbidden Fire kom út árið 1986. Á þeirri plötu má til dæmis heyra lagið Holding Out for a Hero, sem var upprunalega gefið út árið 1984 fyrir kvikmyndina Footloose. Gagnrýnendur voru ekki hrifnir af plötunni en hún gekk mjög vel í Evrópu.

Síðan þá hefur Bonnie átt mikilli velgengni að fagna, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, og voru margir himinlifandi þegar það var tilkynnt að hún myndi keppa fyrir hönd Bretlands í Eurovision árið 2013. Lagið sem Bonnie flutti heitir Believe in Me, en það náði ekki að heilla evrópska sjónvarpsáhorfendur. Það endaði í 19. sæti með 23 stig.

Það verður spennandi að sjá hvaða lög Bonnie býður Íslendingum uppá en ljóst er að hún á mikið og gott safn af slögurum sem sameina fólk í söng.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

„Fjölbreytnin mun koma þér skemmtilega á óvart“

|
|

Töfrandi eyja við vesturströnd Kanada.

Svanhildur Reynisdóttir Svansson hönnuður hefur búið á Vancouver-eyju í Kanada síðan 2005.

Svanhildur Reynisdóttir Svansson hönnuður hefur búið á Vancouver-eyju í Kanada síðan 2005 ásamt sonum sínum tveimur. Þar er mikil náttúrufegurð með fallegum gróðri, ströndum og skógum og sumrin eru heit. Þar er fjölmenning í hávegum höfð og samfélagið kennir skilning gagnvart því að ekki trúi allir eins. Við fengum Svanhildi til að segja okkur frá nokkrum af sínum uppáhaldsstöðum á svæðinu.

Miðbær Victoria
Þegar þið heimsækið Vancouver-eyju er frábært að byrja í miðbæ Victoria og svæðinu þar í kring. Borgin er umlukin fallegri strönd og á sumum þeirra sjást Ólympíufjöllin í Bandaríkjunum. Við höfnina liggja fjölmargar snekkjur og skútur við bryggju, götulistamenn sýna listir sínar og glæsilega þinghúsið og Empress-hótelið blasa við. Ég mæli eindregið með British Colombia-safninu en þar er meðal annars hægt að sjá mammúta og marga hluti sem tengjast sögu landsins, þar með talið frumbyggjalist og Totem-súlurnar. IMAX-bíóið er skemmtileg upplifun og dásamlegt að skella sér á veitingastaðinn Spaghetti Factory með fjölskylduna. Þetta er allt í göngufæri. Um kvöldið er gaman að kíkja á The Irish Pub og fara svo á götumarkaðinn þar sem listamenn selja handverkið sitt.

Löng strandlengja
Í tveggja klukkustunda akstursfjarlægð á austurströndinni er bærinn Parksville sem er einstaklega fjölskylduvænn. Þar er almenningsgarður með nokkurra kílómetra langri sandströnd og þegar er fjara þá er hægt að ganga endalaust eftir henni, tína ígulker og skeljar og búa til sandkastala þangað til flæðir að á ný. Á sumrin eru haldnar stórar sandkastalakeppnir þarna sem fólk héðan og þaðan úr heiminum tekur þátt í. Ýmislegt er í boði fyrir alla aldurshópa eins og mini-golf, stuðarabátar og markaðir. Þú getur einnig séð stóra Douglas-furu og leigt litla kofa á ströndinni.

Sögulegi blómagarðurinn The Butchart Gardens er í um klukkustundar akstursfjarlægð frá miðbæ Victoria. Staðurinn var byggður snemma á tíunda áratugnum á tómri kalksteinsnámu en skartar í dag meðal annars japönskum garði, rósagarði, grænmetisgarði ásamt gosbrunnum, styttum og mörgu fleiru.

Risastór blómagarður
Sögulegi blómagarðurinn The Butchart Gardens er í um klukkustundar akstursfjarlægð frá miðbæ Victoria. Staðurinn var byggður snemma á tíunda áratugnum á tómri kalksteinsnámu en skartar í dag meðal annars japönskum garði, rósagarði, grænmetisgarði ásamt gosbrunnum, styttum og mörgu fleiru. Fjölbreytni blómahafsins mun koma þér skemmtilega á óvart þegar þú gengur í gegnum þessa röð af görðum sem hannaðir eru af alþjólegum listamönnum. Á kvöldin er garðurinn lýstur upp og um helgar eru flugeldasýningar. Yfir jólin eru Carollers-söngvar sungnir víða um garðinn, hægt að fara á skauta og aka um í gamaldags hestvagni. Þarna eru verslanir, veitingastaðir, hægt að fá sér síðdegiste í viktorískum stíl og upplifa ýmsa skemmtun. Dásamlegt er að verja heilum degi í þessum æðislega garði.

Náttúruparadís
Sjávarbærinn Port Renfrew er í um tveggja og hálfrar klukkustundar akstursfjarlægð frá miðbæ Victoria en bærinn er einnig þekktur sem höfuðborg stórra trjáa í Kanada. Í villtri náttúru Avatar Grove eru heimsins stærstu tré, þar á meðal Douglas-fura, rauðviður, greni og Sitka-tré. Það er ævintýralegt að ganga í gegnum skóginn innan um 500-1000 ára gömul tré sem eru 12 metrar eða meira að ummáli. Ef þið fylgið stígnum komið þið að Gordon-ánni sem er með stórum mosaklæddum steinum, litlum fossum og burknarnir prýða bakkana. Í skóginum búa elgir, fjallaljón, birnir, úlfar og fleiri dýr. Sannkölluð náttúruparadís.

Hægt er að leigja flugvél sem lendir á vatni til að fara í útsýnisflug og jafnvel alla leið til Seattle.

Töfrandi hippaeyja
Það eru nokkrar eyjur í kringum Vancouver-eyju og Salt Spring Island er ein sú stærsta, staðsett milli Vancouver-eyju og meginlandsins. Ferja gengur á milli eyjanna og hægt að taka bílinn með. Ferjuferðin veitir fallegt útsýni og hægt að sjá fegurð Vancouver-eyju úr smávegis fjarlægð. Einnig er hægt að leigja flugvél sem lendir á vatni til að fara í útsýnisflug og jafnvel alla leið til Seattle. Á Salt Spring Island eru strandir, tjaldstæði og stikaðar gönguleiðir. Bændamarkaðir með ferskum ávöxtum eru víðast hvar ásamt mörkuðum með handverk og fleira. Njóttu töfrandi og rólegs andrúmslofts staðarins sem er þekktur um heim allan fyrir listir, handverk og skapandi iðnað.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Úr einkasafni og safni

Linguini með pistasíum, þistilhjörtum og sítrónu

|
|

Ómótstæðilegur ítalskur réttur.

LINGUINI MEÐ ÞILSTILHJÖRTUM, PISTASÍUM OG SÍTRÓNU

Þistilhjartapestó:
1 krukka grilluð þistilhjörtu, olían sigtuð frá
70 g pistasíur (1 poki)
1 sítróna, börkur og safi
2 hvítlauksgeirar, fínt rifnir
1 búnt steinselja
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar
1 dl jómfrúarólífuolí

Setjið allt nema olíu saman í matvinnsluvél og maukið. Bætið olíunni út í í lítilli bunu. Bragðbætið með salti og pipar ef þarf. Sjóðið linguini skv. leiðbeiningum og blandið pestói saman við, magn af pestói fer eftir smekk hvers og eins. Berið gjarnan fram með sítrónusneið og rifnum parmesanosti. Þistilhjartapestó er einnig mjög gott á samlokur eða kex og t.d. með fiski.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Hugað að heilsunni í vinnunni

Mikilvægt er að huga vel að heilsunni á meðan við erum í vinnunni.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá eyðum við bróðurparti tíma okkar í vinnunni. Þess vegna er mjög mikilvægt að huga vel að heilsunni á meðan við erum á skrifstofunni. Hér eru nokkur góð ráð sem gott er að hafa í huga.

Alltaf við höndina
Ofþornun getur haft áhrif á starfsemi líkamans á margan hátt og eitt einkenni er einbeytingarleysi og þreyta. Til að tryggja að við drekkum nægilegt vatn yfir daginn er sniðugt að vera með vatnsbrúsa á skrifborðinu. Ósjálfrátt förum við að fá okkur einn og einn sopa þannig að áður en við vitum af erum við búin að drekka tvo lítra af vatni, eða ráðlagðan dagskammt.

Hollur kostur
Þegar mikið er að gera þá hættir okkur til að grípa eitthvern fljótlegan mat sem er oftar en ekki óhollur. Gott ráð til að sporna við þessu er að skipuleggja nesti kvöldið áður. Ýmist er hægt að nota afganga frá kvöldmatnum eða gera einfalda rétti, svo sem pastasalat, samloku, skyr með múslí og svo framvegis.

Rétt staða
Það er mjög mikilvægt að passa að sitja rétt við skrifborðið sitt ásamt því að tölvuskjárinn, lyklaborðið og músin séu á réttum stað. Því ef þessi atriði eru röng þá er hætt við að við fáum vöðvabólgu, tennisolnboga og ýmsa fleiri kvilla. Mörg fyrirtæki hafa tekið í gagnið upphækkanleg skrifborð sem ýmist er hægt að standa og sitja við. Þannig getur fólk ráðið sinni vinnustöðu sjálft.

Gakktu um gólf
Það eitt að standa upp og fara á salernið eða ná í kaffibolla getur komið blóðflæðinu aftur í gang og slakað á huganum. Ef þú hefur val reyndu að velja þá kaffivél eða salerni sem er hvað lengst frá vinnustöð þinni þannig að þú fáir sem mesta hreyfingu út úr þessari pásu. Eins er mikilvægt að sleppa lyftunni og fara frekar stigann þegar það er hægt.

Hugsaðu vel um augun
Við getum ofreynt augun með því að stara allan daginn á upplýstan tölvuskjá eða snjallsíma. Gott er að hafa 20-20-20 þumalputtaregluna í huga, það er að taka 20 sekúndna pásu á 20 mínútna fresti og leyfðu augunum að renna yfir eitthvað í um 20 feta fjarlægð, um það bil sex metra. Þetta slakar á spennu í öllum smáu vöðvunum í augunum.

Fáðu ferskt loft
Það eitt að stíga út fyrir hússins dyr og anda að sér fersku lofti getur gert kraftaverk fyrir einbeitingu og framleiðni – hvað þá ef þér tekst að hreyfa þig aðeins utandyra líka. Í stað þess að eyða öllum hádegismatnum í það að borða og kjafta inni á kaffistofu ættirðu að standa upp og taka tuttugu mínútna göngutúr um næsta nágrenni, þú verður mun kröftugari á eftir.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Var neydd til að sturta hamstrinum niður á flugvélasalerni

Saga hinnar 21 árs Belen Aldecosea hefur náð athygli heimsins, en hún er harla óvenjuleg. Þann 21. nóvember síðastliðinn var Belen bókuð í flug með flugfélaginu Spirit frá Baltimore til Suður-Flórída. Hún segist hafa hringt í flugfélagið til að athuga hvort að hamsturinn hennar Pebbles, sem læknir skrifaði uppá að væri stuðningsdýrið hennar, mætti fljúga með henni. Belen segir að svarið frá flugfélaginu hafi verið jákvætt.

En þegar að Belen mætti í flug sagði starfsmaður flugfélagins að dýrið mætti ekki fljúga. Ráðlagði starfsmaðurinn henni að sturta hamstrinum niður inni á einu salerni flugvélarinnar svo hún gæti flogið með vélinni. Og þar sem þetta var í aðdraganda þakkargjörðarhátíðarinnar voru allir vinir Belen uppteknir og hún of ung til að leigja sér bílaleigubíl og keyra.

Það endaði því með því að hún gerði eitt það erfiðasta sem hún hafði gert á lífsleiðinni – hún sturtaði Pebbles niður.

„Hún var hrædd. Ég var hrædd. Það var hræðilegt að setja hana í klósettið. Ég varð mjög tilfinningaleg. Ég grét. Ég sat í góðar tíu mínútur á salerninu og grét,“ segir Belen í samtali við Miami Herald.

Öll nagdýr bönnuð

Belen íhugar að lögsækja flugfélagið, en forsvarsmenn þess hafa staðfastlega neitað því að starfsmaður á þeirra vegum hafi sagt henni að sturta hamstrinum niður.

Belen fékk Pebbles síðasta haust eftir að hún fékk kýli á hálsinn og talið var að hugsanlega væri um krabbamein að ræða. Kýlið reyndist síðar vera jákvætt. Hún býr í Baltimore en bókaði flug til Suður-Flórída til að láta fjarlægja kýlið.

Forsvarsmenn flugfélagsins játa að mistök hafi átt sér stað þegar að starfsmaður hafi sagt Belen að hamsturinn mætti koma með í flugið, en nagdýr af öllu tagi eru bönnuð í flugum hjá Spirit. Þeir segja einnig að Belen hafi verið boðið að fljúga níu tímum seinna svo hún hefði tíma til að finna stað fyrir hamsturinn að vera á.

„Gögn okkar sýna að gesturinn þáði seinna flugið án mótmæla,“ segir Derek Dombrowski, talsmaður flugfélagsins í samtali við BuzzFeed News og bætir við að Belen hafi verið boðinn afsláttarmiði vegna óþægindanna en að flugfélagið hafi ekki heyrt meira í henni. Belen sturtaði dýrinu niður eftir að hún þáði boð um að fljúga síðar um daginn og segir að starfsmaður hafi stungið uppá því að hún losaði sig við dýrið á þann hátt eða sleppti því lausu.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Grét þegar hún rifjaði upp tímann með Trump

Omarosa Manigault er einn af keppendunum í sjónvarpsþættinum Celebrity Big Brother. Omarosa vakti fyrst athygli sem keppandi í The Apprentice, undir stjórn Donalds Trump, árið 2004 og réð sig síðar sem samskiptafulltrúa hans þegar hann varð forseti Bandaríkjanna. Hún sagði upp í desember í fyrra, þó margir fjölmiðlar hafi haldið því fram að hún hefði verið rekin.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá Omarosu rifja upp tíma sinn í Hvíta húsinu í spjalli við sjónvarpsstjörnuna, og keppanda í Celebrity Big Brother, Ross Matthews. Hún segist hafa verið að þjóna þjóð sinni þegar Ross spyr hana af hverju í ósköpunum hún réði sig í vinnu hjá Trump.

Hún segir enn fremur að hún hafi reynt að hafa hemil á forsetanum, til dæmis á samfélagsmiðlum, en hann fer oft mikinn á Twitter.

„Ég reyndi að vera sú manneskja en allir í kringum hann réðust á mig. Þeir sögðu: Haldið henni frá honum. Ekki veita henni aðganga að honum. Ekki leyfa henni að tala við hann,“ segir Omarosa kjökrandi.

Ross spyr hana síðan hvort að bandaríska þjóðin ætti að hafa áhyggjur af hegðun forsetans. Þá kinkar hún kolli.

„Þetta verður ekki í lagi. Það verður það ekki. Þetta er svo slæmt.“

Spjallið má sjá í myndbandinu hér fyrir neðan:

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Þetta eru lögin sem komast áfram í Söngvakeppninni

Fyrri undankeppnin í Söngvakeppninni fer fram á laugardagskvöldið og keppa sex lög um að komast í úrslitin þann 3. mars næstkomandi.

Við fengum Eurovision-sérfræðingana með meiru, Flosa Jón Ófeigsson og Kristínu Kristjánsdóttur til að spá í spilin og reyna að sjá fyrir hvaða þrjú lög komast áfram í úrslitin.

Lagið ekki nógu sterkt en treysta á gott „show“

Ég mun skína – Þórunn Antonía

Flosi: „Ég elska gamla stöffið sem Þórunn Antonía hefur búið til. Ég er mikill aðdáandi en ég verð að segja að ég varð fyrir pínu vonbrigðum með lagið af því að hún er svo flott. Hún verður frábær á sviði og mun negla þetta þegar kemur að beinu útsendingunni. Mér finnst lagið bara ekki nógu sterkt ef ég á að vera hreinskilinn. Það þarf að vera rosa „show“ ef hún ætlar að grípa fólkið. Þetta atriði minnir mig á Svölu í fyrra, nema ekki eins gott lag.“

Kristín: „Ég veit ekki alveg með þetta. Hún er náttúrulega rosalega hæfileikarík söngkona en þetta er ekki hennar besta. Eiginlega langt því frá. Það er spurning hvort hún skíni það skært að hún komist áfram. Ég ætla ekki að afskrifa hana. Ég vona að hún keyri þetta aðeins upp og geri ekki sömu mistökin og Svala gerði í fyrra, að vera ekki með nógu gott „show“.“

„Ég gæti ekki munað lagið þó að líf mitt lægi við“

Ég og þú – Sólborg Guðbrandsdóttir og Tómas Helgi Wehmeier

Flosi: „Ég veit ekki hvort fólk eigi eftir að ná laginu. Ég hef pínu áhyggjur af því. Ég hef líka pínu áhyggjur af því að lagið sé raddað allan tímann. Það má ekki vera neitt stress á þeim. Þau eru bæði úr The Voice þannig að þau eru komin með smá reynslu í bankann. Þetta eru svo miklar týpur og flottar. Ef röddin virkar þá er aldrei að vita hvað gerist á laugardaginn. Þetta er eitt af lögunum sem vinnur á.“

Kristín: „Þetta á ekki eftir að fljúga. Ég trúi ekki að tvær svona hrikalega töff manneskjur geti verið með svona arfaslakt lag. Það er ekkert að ske og ég gæti ekki munað lagið þó að líf mitt lægi við. Ég er eiginlega alveg viss um að þau komast ekki áfram.“

Úrelt lag en flottur söngvari

Heim – Ari Ólafsson

Flosi: „Lagahöfundurinn Þórunn Clausen er náttúrulega reynslubolti í Söngvakeppninni. Ég veit að atriðið verður pottþétt og það verður öllu tjaldað til. Það eru alltaf flott atriði frá Þórunni. Ari sjálfur er okkar vonarstjarna, bara 19 ára gamall. Ég hef engar áhyggjur af flutninginum sjálfum. Spurningin er hvort þetta sé of einfalt eða ekki. Það verður að koma í ljós á kvöldinu sjálfu. Þessi hái tónn sem allir eru að tala um kemur seint í laginu. Ef að fólk fílar ekki lagið nær það ekki þessum svaka tóni sem hann á eftir að rústa. En hann er gullfallegur strákur og myndavélin mun örugglega elska hann.“

Kristín: „Mér finnst Ari rosa flottur. En mér finnst þetta lag sjúklega leiðinlegt. Mér finnst það rosalega úrelt. Það hefði kannski virkað fyrir fimmtán árum. Hann er rosa flottur söngvari og tilvonandi stjarna. Ég hef á tilfinningunni að lagið eigi ekki eftir að gera mikið. Það gæti hins vegar verið svarti hesturinn í keppninni. Ég sé það samt ekki alveg því lagið er svo auðgleymanlegt.“

Ást við fyrstu sýn

Kúst og fæjó – Heimilistónar

Flosi: „Þetta er náttúrulega bara ást við fyrstu sýn. Þetta er landslið leikkvenna á Íslandi og ég hef engar áhyggjur af flutningnum. Þetta er eina lagið sem verður pottþétt á íslensku þannig að þeir sem búast ekki við að við syngjum á ensku í keppninni þurfa að setja X við Heimilistóna. Þetta er svolítið gamaldags lag og mömmufílíngur í því. Það er eitthvað sem grípur mig við þetta. Þetta atriði er eins og Daði Freyr í fyrra. Fólk hélt að hann væri grínatriði, alveg eins og það heldur með Heimliistóna en þeim er alvara með þetta. Þetta er sko ekkert grín og ég held að þetta fljúgi áfram.“

Kristín: „Kúst og fæjó er að fara áfram. Þetta er eina lagið í allri keppninni sem ég man alltaf. Ég er alltaf að syngja það. Þær hala inn eitthvað af stigum og ég spái þeim alla leið í einvígið. Þessi retro stíll á laginu og þreytta sixtís húsmóðirin – etta virkar allt saman. Þetta er allt öðruvísi, eins og Daði í fyrra. Ég segi að þær verði Daðinn í ár.“

Fer örugglega áfram

Aldrei gefast upp – Fókus hópurinn

Flosi: „Ég held að þetta sé eitt af lögunum sem fer áfram. Þetta eru fimm “solid” söngvarar. Þau eru öll með reynslu í bankanum úr The Voice. Þau tóna rosalega vel saman. Raddirnar þeirra blandast svo vel saman. Þau eru hress og skemmtileg. Þau eru miklar keppnismanneskjur en taka sig ekki of alvarlega. Ég er smá sökker fyrir góðum röddum og harmoníum og ég hef engar áhyggjur af því að þetta klikki. Þetta er það lag í fyrri undankeppninni em ætti örugglega að fara áfram.“

Kristín: „Það er sennilega að fara áfram. Ég er nokkuð viss um það. Þau eru öll frekar sterk og harmonæsa svo vel. Þetta lag hefur „major hook”. Ég spái þeim áfram.“

Svarti hesturinn í keppninni

Litir – Guðmundur Þórarinsson

Flosi: „Ég held að hann gæti orðið svarti hesturinn í keppninni. Lagið er frekar ferskt. Svo verð ég að segja, sem samkynhneigður karlmaður, að það er ekki leiðinlegt að sjá hann uppi á sviðinu. Þetta er ekki uppáhaldslagið mitt persónulega. Ég er Euro-skvísa þannig að ég elska glimmer og ostapopplög. En það er eitthvað við þetta. Þetta gæti orðið lagið sem bankar á dyrnar.“

Kristín: „Hann er alveg ágætur og kom svolítið á óvart. Ég vil sjá hann í beinni útsendingu. Guðmundur er óskrifað blað. Ég vil sjá hvernig hann tæklar þetta. Þetta lag er rosalega lágstemmt. Ef hann neglir þetta þá ætla ég ekki að afskrifa hann en ef þetta verður bara hann með gítarinn þá gæti þetta vel týnst.“

Þá er komið að stóru spurningunni – telja Flosi og Kristín að sigurlagið, lagið sem fer fyrir Íslands hönd í Eurovision í Lissabon í maí, leynist í fyrri undankeppninni?

Flosi: „Fyrir mér eru tvö atriði á laugardaginn sem eiga möguleika á að fara í einvígið, það eru Heimilistónar og Fókus hópurinn. En þetta fer eftir því hvernig seinni undankeppnin verður.“

Kristín: „Ég hef aldrei rétt fyrir mér en ég held að sigurlagið leynist í hinum riðlinum. Hins vegar held ég að Kúst og fæjó eigi efitr að fara langt.“

Smellið hér til að kynnast keppendum í fyrri undankeppninni betur.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Hannar buxur sem móta líkamann

|
|

Burt með hliðarspikið.

Bráðum mun Theodóra koma á markað með sínar eigin gallabuxur.

Theodóra Elísabet Smáradóttir, hönnuður og framkvæmdarstjóri, byrjaði ung að skapa og sjá tækifæri í nánast öllu í umhverfinu. Hún rekur hönnunarfyrirtæki og verslun í Kópavogi ásamt eigimanni sínum þar sem hún selur meðal annars hinar vinsælu MuffinTopKiller®-buxur sem halda vel utan um miðjusvæði líkamans.

„Ég hafði fengið mig fullsadda af illa sniðnum buxum með vonlausum streng í mittinu sem annað hvort var svo víður að buxurnar héldust ekki uppi eða með alltof þröngum mjóum streng sem skarst inn í mittið og bjó til það sem oft er kallað „muffintop“ eða hliðarspik sem kemur upp úr strengnum. Ég fór af stað í þróunarvinnu til að geta hafið framleiðslu á MTK-efninu í teygjuna. Þetta efni er framleitt fyrir okkur erlendis og hvergi annarsstaðar hægt að fá. Gott aðhald og þægindi er helsta sérstaða buxnanna.Teygjan mótar miðjusvæði líkamans og gefur þetta góða aðhald sem konur eru sjúkar í. Þær eru þægilegar, styðja vel við magann og móta línurnar í stað þess að búa til muffintop eins og margar aðrar buxur gera. Buxurnar henta öllum konum, á öllum aldri og í öllum stærðum. Það er alveg sama hvernig við erum í laginu, það skiptir okkur allar máli að líða vel yfir daginn og finna til frelsis“.

Dýrmætur lærdómur frá ömmu

Sköpunarkrafturinn hefur fylgt Theodóru frá barnæsku og saumaáhuginn kviknaði um 4-5 ára aldurinn þegar amma hennar kenndi henni á saumavél. „Amma mín, Theodóra Elísabet „nafna mín og vinkona“ eins og við kölluðum okkur, er fyrirmyndin mín. Strax á þessum aldri var ég með miklar hugmyndir um hvað ég vildi skapa og amma leyfði þessum sköpunarkrafti að blómstra. Hún stoppaði mig aldrei af með því að segja hvernig hlutir ættu að vera samkvæmt bókinn en var alltaf tibúin á hliðarlínunni svo ég færi mér ekki að voða í sumum af þessum framkvæmdum. Hún var reiðubúin að aðstoða mig um leið og ég var opin fyrir hennar ráðleggingum þegar ég sá að hlutirnir gengu ekki alveg upp eins og þeir höfðu gert í huga mér. Það dýrmætasta sem hún kenndi mér var að láta hugann ráða og finna út hvernig ég gat leyst það sem ég sá fyrir mér. Stundu gengu hlutirnir upp og stundum alls ekki og á því lærði ég einmitt mest. Ég sé í dag að það var leið ömmu til að kenna mér án þess að takmarka hugann. Svona lærði ég að allt er hægt og ég trúi því enn í dag – það er bara spurning hvað þú ert tilbúin að leggja á þig til að framkvæma það. Ég reyni eftir bestu getu að kenna dætrum mínum það sama – setja sér engar hindranir. Ef þær mæti lokuðum dyrum að finna þá opin glugga til að skríða inn um. Gefast ekki upp en það sé í lagi að hætta ef þær telji það rétt. Ég er enn að læra þann hluta, að það megi hætta að vel ígrunduðu máli án þess að það kallist uppgjöf.“

Mikilvægar fjölskyldustundir

Teygjan í MuffinTopKiller®-buxunum mótar miðjusvæði líkamans og gefur gott aðhald.

Eignmaður Theodóru er Sigurður Jónsson og hann starfar að fullu með henni í rekstrinum. Þau eiga þrjár dætur sem heita Viktoría Sól, 5 ára, Elísabet Sól, 2 ára, og Ísabella Sól, 5 mánaða. „Það gengur vel að samtvinna þetta en getur auðvitað verið krefjandi suma daga ekki síst fyrir dæturnar sem þurfa oft að þvælast með mömmu og pabba á fundi og jafnvel á sýningar erlendis. Við erum mjög meðvituð um að ofbjóða þeim ekki og pössum að hafa svoleiðis daga líka skemmtilega fyrir þær. Við erum vöknuð og byrjuð að vinna fyrir klukkan 6 á morgnana og hættum að vinna klukkan 16 þegar tvær elstu eru búnar í leikskólanum. Yngsta stelpan er með okkur foreldrunum allan daginn og verður heima til alla vega eins árs aldurs þegar hún fer í dagvistun. Við vinnum ekki um helgar heldur nýtum tímann saman enda er fjölskyldan í fyrsta sæti hjá okkur. Stelpurnar okkar er mikil partídýr sem vilja helst vera í eða halda matarboð með vinum okkar og fjölskyldu allar helgar og njóta lífsins saman sem við svo sannarlega gerum,“ segir Theodóra.

Þau hjónin reka verslun að Hlíðarsmára 4 í Kópavogi og margt áhugavert framundan. Auk MTK-buxnanna eru til sölu ýmis annar fatnaður sem Theodóra hannar. Í hinum helmingi verslunarinnar eru barnavörur til sölu, meðal annars barnavagn sem hún lét framleiða sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður.

Allar nánari upplýsingar eru á heimasíðunni muffintopkiller.com

Texti: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir: Aldís Pálsdóttir og Kári Sverrisson

Mamma veit best

Til eru ófáar kvikmyndir sem fjalla um hið flókna en fallega samband sem á sér stað milli móður og dóttur. Hér eru nokkrar sem sýna kómísku hliðina.

Svaðilför í frumskógi
Þegar kærasti Emily segir henni upp ákveður hún að fara með ofurvarkára móður sína í ævintýralegt frí til Ecuador. Það endar ekki betur en svo að þeim er rænt. Þær átta sig fljótlega á því að þær verða að vinna saman, þrátt fyrir að vera gjörólíkar týpur. Þessi reynsla hefur góð áhrif á samband þeirra og þær bindast fyrir vikið traustari böndum við það að reyna að losna úr prísundinni í frumskóginum.

Samþykktur af mömmu
Í myndinni Because I Said So kynnumst við Daphne Wilder. Hún er móðir sem þekkir engin mörk og vill vera með stöðug ítök í lífi dætra sinna. Dætur hennar þrjár eru geðlæknirinn Maggie, hin kynþokkafulla og óábyrga Mae og hin óörugga en aðlaðandi Milly – sem er ekki enn gengin út og veit ekki hvernig á að haga sér þegar kemur að karlmönnum. Til að koma í veg fyrir að yngsta dóttirin geri sömu mistök og hún gerði ákveður Daphne að finna sjálf fullkominn mann fyrir hana og koma þeim saman án þess að Milly viti.

Hættulegt tvíeyki
Þegar kemur að því að svindla á milljónamæringum eru mæðgurnar Maxine Paige sannir fagmenn. Svikamyllan í myndinni Heartbreakers er einföld; fyrst giftist Maxine þeim, síðan tælir Paige þá og svo fer Maxine fram á skilnað með tilheyrandi skilnaðarpakka. Þegar þessu er lokið snúa þær sér að næsta fórnarlambi. Allt gengur eins og í sögu þar til Paige brýtur meginreglu þeirra mæðgna og verður ástfangin í alvöru af ungum barþjóni. Núna þarf Maxine að passa upp á að missa ekki dótturina og besta glæpafélaga sem hún mun nokkurn tíma eignast auk þess sem hún situr uppi gift hinum miður geðslega milljarðamæringi William Tensy.

Hollywood-uppeldi
Handritshöfundur myndarinnar Postcards from the Edge og bókarinnar sem hún er byggð á er engin önnur en leikkonan Carrie Fisher. Í myndinni er sagt frá leikkonunni Suzanne sem er nýkomin af meðferðarstofnun vegna eiturlyfjafíknar. Hún neyðist til að flytja aftur heim til móður sinnar sem hún sagði skilið við fyrir mörgum árum. Suzanne lifði í skugga móður sinnar alla sína æsku en Doris er hávær, stjórnsöm, sjálfhverf og með mikið keppnisskap. Hún á það til að gefa dóttur sinni góð ráð, hvort sem hún sækist eftir því eða ekki. Myndin er mjög kómísk og Meryl Streep og Shirley Maclaine fara á kostum í hlutverki mæðgnanna. Margar getgátur hafa verið uppi um það hvort samband mæðgnanna væri byggt á sambandi Carrie Fisher og móður hennar Debbie Reynolds en Carrie neitaði því alla tíð.

Ólíkar en samrýndar
Myndin Anywhere but Here sýnir hversu ólíkar mæðgur geta oft verið. Adele August er sérvitur kona sem fær einn góðan veðurdag alveg nóg af litla bænum sem hún býr í. Hún yfirgefur fjölskylduna og annan eiginmann sinn og flytur til Beverly Hills ásamt dóttur sinni. Hún gerir það til að láta óræða og óraunhæfa drauma sína rætast. Dóttir hennar Ann er alls ekki sátt við flutningana eða við litríka hegðun móður sinnar. Adele skráir Ann í gagnfræðiskóla í Beverly Hills með það fyrir augum að hún kynnist börnum frægra leikara, fari síðan í UCLA og verði leikkona sjálf. Ann er hins vegar staðráðin í því að fara í háskóla á austurströndinni. Á endanum sættast þær hvor við aðra og læra að meta hversu ólíkar þær eru.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Kepptust um hver gæti sofið hjá þyngstu konunni

Bræðralag við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum hefur verið sett á tveggja ára skilorð eftir að skólayfirvöld komust að því að bræðralagið hélt sérstaka keppni þar sem nýir meðlimir kepptust um að sofa hjá þyngstu konunni. Var keppnin kölluð “pig roast”, sem væri hægt að þýða sem svínaveisla.

Bræðralagið Zeta Beta Tau ku hafa haldið keppnina á síðasta ári. Meðlimir fengu stig fyrir að sofa hjá konum. Ef jafntefli kom upp, fékk sá meðlimur verðlaun sem hafði sofið hjá þyngstu konunni. Meðlimunum var sagt af sér eldri meðlimum að segja konunum ekki frá keppninni.

Rannsókn á málinu lauk í janúar, en meðlimir bræðralagsins munu þurfa að sækja námskeið um kynferðislegt ofbeldi og áreiti.

Í tilkynningu á Facebook-síðu bræðralagsins kemur fram að keppnin hafi ekki verið samþykkt af yfirstjórn bræðralagsins og að forsvarsmenn bræðralagsins væru gjörsamlega miður sín yfir þessu athæfi.

„Við trúum því varla að þetta hafi verið gert af þeim sem við köllum bræður. Í kjölfarið höfum við hafið sjálfsskoðun til að tryggja að svona gerist ekki aftur hjá neinum sem tengist ZBT eða háskólasamfélaginu,“ segir í tilkynningunni. Þá er því einnig haldið fram að þeir bræður sem fari ekki eftir gildum og hugsjónum bræðralagsins verði reknir úr reglunni.

„Við erum staðráðin í að sýna með aðgerðum okkar að þessi óafsakanlega hegðun verður ekki liðin.“

Ráð við Cornell-háskóla, sem hefur með bræðralög að gera, vinnur nú að því að finna nýjar leiðir til að fræða meðlimi bræðralaga um hvernig þeir styðji við kynjamisrétti í skólasamfélaginu og hvernig hægt sé að breyta hugarfari þeirra í rétta átt.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Þetta er myndin sem hefur fengið flest læk í sögu Instagram

Raunveruleikastjarnan og frumkvöðullinn Kylie Jenner eignaðist sitt fyrsta barn um mánaðarmótin. Kylie opinberaði svo nafn hnátunnar í gær, miðvikudaginn 7. febrúar, og hefur hún hlotið nafnið Stormi. Með þessari opinberun fylgdi mynd af smárri hendi Stormi halda um hendi móður sinnar.

stormi webster ??

A post shared by Kylie (@kyliejenner) on

Internetið nánast sprakk þegar Kylie birti myndina á Instagram og á aðeins nokkrum klukkutímum varð þetta sú mynd á Instagram sem hefur fengið flest læk frá upphafi.

Þegar þetta er skrifað er myndin búin að fá rúmlega fjórtán milljónir læka og hrifsaði Kylie toppsætið af knattspyrnugoðsögninni Cristiano Ronaldo.

Rúmlega 11,3 millónir Instagram-notenda hafa líkað við mynd sem Ronaldo setti inn seint á síðasta ári þegar hann tilkynnti að hann væri búinn að eignast sitt fjórða barn, dótturina Alönu Martinu með kærustu sinni, Georginu Rodriguez. Birti hann fallega mynd af spítalanum sem hitti rakleiðis í mark hjá aðdáendum hans.

Þá hafa rúmlega 11,2 milljónir grammara líkað við mynd sem söngkonan Beyoncé setti inn af sér óléttri snemma á síðasta ári, þar sem hún tilkynnti að hún og eiginmaður hennar, Jay Z, ættu von á tvíburum, sem komu í heiminn um mitt síðasta ár. Þeir hlutu nöfnin Rumi og Sir Carter.

Kylie er nú í sjöunda sæti yfir þær manneskjur á Instagram sem eiga flesta fylgjendur, á eftir stjörnunum Selenu Gomez, Ronaldo, Ariönu Grande, Beyoncé, systur sinni Kim Kardashian og Taylor Swift.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Stjörnupabbinn Will Smith gerir grín að syninum

Með tilkomu samfélagsmiðla hafa foreldrar fengið óvænt vopn í hendurnar – að geta gert góðlátlegt grín að börnunum sínum þannig að þau fari hjá sér. Þetta höfum við séð margoft, til dæmis þegar foreldrar endurgera sjálfsmyndir barnanna sinna, börnunum til mikils ama.

Stjörnupabbinn Will Smith hefur nú gengið einu skrefi lengra og ákvað að endurgera mynbandið við lagið Icon, en það er sonur hans Jaden Smith sem flytur lagið. Will gerði þetta til að fagna því að lagið náði þeim stóra áfanga að vera streymt hundrað milljón sinnum á Spotify.

„Til hamingju með 100.000.000 streymi á Spotify, Jaden! Það er æðisleg gjöf fyrir foreldra að dást að börnunum sínum. Haltu áfram að vera þú,“ skrifar Will við myndbandið á Instagram, og má greina vissa hæðni í kveðjunni.

Jaden Smith hefur fetað í fótspor foreldra sinna, en móðir hans er leikkonan Jada Pinkett-Smith, og hefur náð góðum frama í leiklistinni. Hann lék til dæmis á móti föður sínum í kvikmyndinni The Pursuit of Happyness og vakti síðar lukku í endurgerð á The Karate Kid. Í nóvemer í fyrra gaf hann síðan út sína fyrstu plötu, Syre, en lagið Icon er einmitt á þeirri plötu.

Hér fyrir neðan má sjá upprunalegu útgáfuna af myndbandinu við Icon, en faðir hans virðist hafa náð að stæla það ótrúlega vel.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Léttist um 85 kíló og sagði skilið við Bakkus

„Ég var þekktur sem íþróttamaður og þegar ég fór úr því í þetta man ég að fólk sagði: Guð minn góður, hvað gerðist?“ segir Noah Kingery í viðtali við vefritið Men’s Health.

Noah segir sögu sína í viðtalinu, en á yngri árum spilaði hann knattspyrnu í Brasilíu. Hann borðaði hollan mat og æfði mikið en þegar hann var átján ára þurfti hann að velja milli þess að bjarga sambandi sínu við kærustu sína í heimabænum Dallas í Bandaríkjunum eða halda áfram að láta ferilinn blómstra í Brasilíu. Hann valdi að snúa aftur heim til að halda kærustunni.

Sambandið hins vegar gekk ekki upp og það fékk mikið á Noah. Hann leitaði að huggun í mat og áfengi og þyngdist um rúm 96 kíló á einu ári. Þá var hann orðinn rúm 160 kíló og hafði aldrei verið jafn þungur.

Alltaf maðurinn á bak við tjöldin

Árið 2009 flutti Noah til Los Angeles til að stofna sitt eigið fatamerki, Prep Couture, en meðal viðskiptavina hans voru Kanye West og Justin Bieber.

„Ég gat ekki klæðst neinu sem ég bjó til. Ég var alltaf maðurinn á bak við tjöldin og vildi ekki láta sjá mig,“ segir Noah. Þáttaskil urðu í lífi hans ári síðar þegar náinn vinur hans lést í bílslysi þegar ökumaður undir áhrifum áfengis keyrði á hann.

„Ég sagði við sjálfan mig: Ókei, ég verð að hætta að drekka og ná stjórn á þessu. Ég þarf að verða aftur fótboltamaðurinn sem ég var í miðskóla.“

Léttist um 67 kíló en sjálfstraustið vantaði

Noah ákvað að borða og æfa eins og þegar hann var í formi. Hann hætti að borða sjö þúsund kaloríur af kínverskum mat á dag og byrjaði að borða hreinan mat. Hann æfði af fullum krafti og lyfti lóðum til að byggja upp vöðvamassa. Og hann hætti að drekka. Allt þetta varð til þess að hann léttist um 67 kíló.

„En ég fékk ekki meira sjálfstraust. Mér fannst ég enn vera rúm 160 kíló. Ég var alltaf að berjast við það,“ segir Noah og níu mánuðum síðar féll hann.

„Ég vildi ekki hugsa um hve illa mér leið þannig að ég féll aftur í mína gömlu fíkn – áfengi.“

Langaði að hoppa

Noah byrjaði í kjölfarið að borða óhollan mat og hætti að æfa. Fljótlega bætti hann nánast öllu aftur á sig og var fljótlega orðinn 145 kíló. Á þessum tímapunkti íhugaði hann sjálfsvíg.

„Mér fannst eins og ég væri með pálmann í höndunum fjárhagslega en í einkalífinu fannst mér ég vera tómur. Mig langaði ekki að halda áfram að lifa. Þannig að einn dag keypti ég vodkaflösku og verkjastillandi og fór uppá 31. hæð í húsinu sem ég bjó í. Mig langaði til að hoppa. En einn af bestu vinum mínum hringdi og ég sagði honum hvað ég ætlaði að gera og hann flýtti sér til mín. Næsta sem ég man er að hann sagði: Ef einhver getur breyst, getur þú það en þú verður að finna sjálfan þig. Ef þessi stund breytir þér ekki, þá gerir ekkert það,“ segir Noah.

Hann ákvað að breyta fíkninni í eitthvað gott – að borða góðan og hollan mat og hugsa vel um líkamann. Hann ákvað að æfa aftur eins og hann gerði og í dag æfir hann fimm daga vikunnar í einn til tvo tíma. Hann borðar fjórar máltíðir á dag og borðar máltíð sem er rík af kolvetnum annað hvort fyrir eða rétt eftir æfingar. Hann borðar mikið af próteini, eins og fitulítið kjöt, egg og gríska jógúrt. Hann velur að borða eingöngu mat sem honum finnst góður.

„Þú verður að elska það sem þú borðar. Ef þú sérð þig ekki borða það næstu þrjá mánuði þá er það ekki að fara að virka.“

Getum ekki breytt gærdeginum

Í dag er Noah 75 kíló og vinnur sem næringarfræðingur. Nú nýtur hann lífsins við að hjálpa öðrum og hjálpaði meira að segja móður sinni að losa sig við 48 kíló.

„Ég hef verið þarna. Ég veit hvernig það er að reyna að losa sig við slæma ávana. Mig langaði að hafa tilgang í vegferð annarra og sjá hvernig líf þeirra breytist,” segir Noah og bætir við.

„Við getum ekki breytt því sem gerðist í gær en við getum gert það sem við getum í dag til að breyta morgundeginum.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

„Andlegt ofbeldi veldur tilfinningalegum skaða og sárum“

Átakið Sjúk ást er nýtt átak sem Stígamót hleypti af stokkunum í gær. Um er að ræða forvarnaverkefni gegn ofbeldi sem ætlað er ungu fólki á aldrinum 13 til 20 ára.

Markmið átaksins er að vekja athygli á einkennum heilbrigðra, óheilbrigðra og ofbeldisfullra sambanda. Á vefsíðu átaksins er að finna aragrúa af upplýsingum og ákváðum við hjá Mannlífi að kynna okkur hvað það er sem einkennir andlegt ofbeldi, ofbeldi sem oft erfitt er að greina eða segja frá.

Andlegt ofbeldi felur í sér hótanir, niðurlægingu, óvelkomið og yfirþyrmandi eftirlit svo sem með endalausum skilaboðum, auðmýkingu, ógnun, einangrun eða ofsóknir.

Andlegt ofbeldi getur líka birst á duldari hátt:

  • ‍Að uppnefna þig og gera lítið úr þér
  • Að öskra á þig
  • Að niðurlægja þig viljandi fyrir framan aðra
  • Að koma í veg fyrir að þú hittir eða talir við vini þína eða fjölskyldumeðlimi
  • Að segja þér í hverju þú átt að vera eða hvernig þú átt að haga þér
  • Að eyðileggja eigur þínar í bræðiskasti (henda hlutum, kýla í vegg, sparka í hurð o.s.frv.)
  • Að notast við samfélagsmiðla eða síma til að stjórna þér, ógna eða niðurlægja.
  • Að nota hegðun þína sem afsökun fyrir ofbeldi eða óheilbrigðri hegðun.
  • Að saka þig um framhjáhald og fyllast afbrýðisemi yfir samskiptum þínum við annað fólk
  • Að ofsækja þig
  • Að hóta að fremja sjálfsvíg til að koma í veg fyrir að þú slítir sambandinu
  • Að hóta að skaða þig, gæludýrið þitt eða fólk sem þér er annt um
  • Að láta þig efast um upplifanir þínar og tilfinningar þannig að þú heldur jafnvel að þú sért að ímynda þér ofbeldið sem þú verður fyrir
  • Að þrýsta á um kynferðislegar athafnir með því að láta þig fá samviskubit eða saka þig um barnaskap þegar þú vilt ekki gera eitthvað

  • Að hóta að opinbera einkamál þín, svo sem kynhneigð eða heimilisaðstæður
  • Að hóta að dreifa viðkvæmum myndum af þér á netinu
  • Að dreifa ljótum sögum um þig

Er andlegt ofbeldi virkilega ofbeldi?

Samband getur verið óheilbrigt og ofbeldisfullt án þess að það leiði nokkurn tíma til líkamlegs ofbeldis. Andlegt ofbeldi veldur tilfinningalegum skaða og sárum. Stundum verður ofbeldið svo slæmt að þú ferð að trúa því sem maki þinn segir. Þú ferð að halda að þú sért einskis virði, ljót og heimsk manneskja. Þú sannfærist jafnvel um að enginn annar myndi vilja vera í sambandi með þér því stöðug gagnrýni og niðurlæging brýtur niður sjálfsmyndina. Þú gætir jafnvel farið að kenna þér um ofbeldishegðun makans.

Heimild: Sjúk ást

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Lax með möndlum og sítrónusafa

Ljúffengur og bráðhollur réttur.

 

LAX MEÐ MÖNDLUM OG SÍTRÓNUSAFA
fyrir 3-4

RASP:
1 ½ dl góður brauðraspur
2 hnefafylli möndluflögur, kramdar og muldar gróft
börkur af 1 sítrónu
6 litlir vorlaukar, fínt saxaðir, notið eins mikið af græna hlutanum og hægt er
hnefafylli steinselja, smátt skorin
2 msk. ólífuolía

Blandið öllu vel saman.

800 g laxaflak
1 msk. ólífuolía
safi úr 1 sítrónu
1 tsk. grænt dijon-sinnep með kryddjurtum (fine herbes), eða annað gott sinnep
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Hitið ofn í 180°C. Setjið laxaflak í eldfast mót með roðið niður og penslið með olíu og sinnepi og dreypið sítrónusafa yfir. Stráið ríflega af salti og svörtum pipar yfir flakið og hyljið það því næst með brauðraspinu. Bakið í 15-20 mín. og látið síðan standa í 5-10 mín. áður en fiskurinn er borinn fram. Berið gjarnan fram með góðu salati, jógúrtsósu og kartöflum.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Vetrarblús – góð ráð

Ráð sem gera okkur betur í stakk búin til að takast á við veturinn.

Mörg þekkjum við vetrarblúsinn sem á það til að læðast að okkur á veturna. Hér eru nokkur ráð sem gera okkur betur í stakk búin til að takast á við hann, án þess að missa vitið!

Kveiktu ljósið um leið og vekjaraklukkan hringir.

Kveiktu ljósið um leið og vekjaraklukkan hringir. Að græja sig fyrir vinnudaginn í myrkri gerir þig bara þreyttari og myglulegri.

Klæddu þig vel og taktu þér smágöngutúr í hádeginu. Það kemur ekkert í staðinn fyrir sólarljós, nýttu það litla sem gefst! Fríska loftið gerir einnig kraftaverk.

Planaðu vinahitting strax eftir vinnu. Þér er enginn greiði gerður með að fara beint á Facebook eða að horfa á sjónvarpið uppi í sófa í fósturstellingunni. Hittu vini eða fjölskyldu allavega einu sinni í viku og virkjaðu hláturvöðvana.

Taktu D-vítamíntöflur, þær hafa góð áhrif á skapið. Á haustin og veturna fáum við ekki nóg af D-vítamíni frá sólinni og þurfum smáhjálp.

Skreyttu heimilið með fallegum púðum, nýju rúmteppi eða kertum. Splæstu jafnvel í bjartan lit á vegginn. Þegar það er grátt úti verður að vera bjart og upplífgandi inni!

Afskorin blóm lífga upp á heimilið – og skapið í leiðinni.

Farðu út að leika! Sleðaferðir, skíðaferðir eða aðrar fjölskylduferðir úti gera kraftaverk fyrir sálina.

Drekktu grænt te – það er hollt og getur hjálpað við að ráða bót á depurð sem oft fylgir vetrinum.

Við eigum það til að borða meira af ávöxtum á sumrin, enda úrvalið í hámarki. Haltu áfram að borða ávexti þegar hausta fer, ávextir eru náttúrlegt þunglyndislyf.

Farðu snemma að sofa og fáðu góðan nætursvefn.

Vertu meðvituð/meðvitaður um líðan þína og minntu sjálfa/n þig á að vetrarblúsinn er bara tímabundinn – að vera meðvituð skiptir miklu máli fyrir okkur. Gerðu þér grein fyrir tilfinningum þínum, ekki dæma þær eða reyna að fela þær. Reyndu að sjá allar jákvæðu hliðarnar á vetrinum!

Texti /Helga Kristjáns

Engir karlmenn leyfðir á þessari lúxuseyju

|
|

Hægt verður að fara í frí á SuperShe-eyjunni við strendur Finnlands frá og með næsta sumri. Staðurinn er sérstakur áfangastaður fyrir þær sakir að engir karlmenn eru leyfðir á eyjunni.

Kristina Roth, fyrrverandi ráðgjafi, festi kaup á eyjunni og ákvað að opna stað eingöngu fyrir konur eftir nokkur vel heppnuð frí til Bandaríkjanna.

„Konurnar myndu setja á sig varalit þegar sætur strákur kæmi. Hugmyndin á bak við eyjuna er í raun: Hey, einblínum á okkur sjálfar – hættum að reyna að fíra upp í hormónunum,“ segir Kristina í samtali við New York Post um eyjaævintýrið.

Hún segist samt ekki hata karlmenn.

„Ég elska karlmenn!“ segir hún og bætir við að hún sé opin fyrir því að leyfa karlkyns gesti á SuperShe-eyjunni í framtíðinni.

Konur sem hafa áhuga á dvöl á eyjunni þurfa að sækja um meðlimakort á vefsíðu paradísarinnar, en vika á eyjunni, með nánast öllu inniföldu, kostar 3500 dollara, eða rétt rúmlega 350 þúsund krónur. Til að sækja um dvöl þurfa áhugasamir að fara í viðtal við stofnandann, Kristinu, en það er hægt að gera á Skype.

„Ég vil velja manneskjurnar og sjá að þær séu í góðu jafnvægi og passi inn í hópinn,“ segir Kristina.

Þess má geta að það eru ekki aðeins karlmenn sem eru bannaðir á eyjunni heldur öll hugarbreytandi efni.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Fæddi barn á ganginum og ljósmyndarinn náði stórkostlegum myndum af því

||||
||||

Jes og Travis Hogan frá Manhattan í Kansas eignuðust nýverið sitt sjötta barn, á einstaklega eftirminnilegan hátt.

Jes og Travis fóru uppá sjúkrahús þegar Jes fann fyrir óvenjulegum samdráttum sem voru sterkari en dagana áður. Tammy Karin, ljósmyndari hjá Little Leapling Photography, hitti þau á sjúkrahúsinu, en hún kom rétt svo í tæka tíð til að mynda fæðinguna.

Jes komst nefnilega ekki mjög langt og endaði á því að fæða barnið, lítinn dreng, á gangi sjúkrahússins.

Uppháhaldsmynd móðurinnar.

Tammy náði algjörlega stórkostlegum myndum af fæðingu barnsins, sem sýna svo sannarlega að fæðingar eru jafn misjafnar og þær eru margar. Jes segir í samtali við fréttaveituna BuzzFeed að sín eftirlætismynd sé þegar eiginmaður hennar og hjúkrunarfræðingurinn voru að hjálpa henni að leggjast niður á gólfið, nokkrum mínútum áður en barnið kom í heiminn.

„Það er smá glott á eiginmanni mínum en ég man hve örugg mér fannst ég í örmum hans. Þessi mynd fangar allt sem ég vil. Hún á sérstakan stað í mínu hjarta,” segir Jes. Hún hvetur aðrar konur til að deila sínum fæðingarsögum.

Fæðingin tók aðeins nokkrar mínútur.

„Ég vil að mæður muni að þær eru kröftugar og að fæðing er stórkostleg. Ekki gleyma styrk ykkar á þessu augnabliki, sama hvernig fæðingin er. Ég trúi að fæðingar skilgreini okkur sem manneskjur og hjálpi konum að öðlast meiri styrk og jarðtengingu.”

Max flýtti sér í heiminn.
Falleg stund sem var fest á filmu.

Hér fyrir neðan má sjá myndband um fæðingu litla snáðans sem hlotið hefur nafnið Max.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Little Leapling Photography

Sleit ofbeldisfullu sambandi: „Þetta breytti mér“

Í nýjasta hlaðvarpi spjallþáttadrottningarinnar Opruh Winfrey, Oprah’s SuperSoul Conversations, sest Oprah niður með leikkonunum Reese Witherspoon og Mindy Kaling, en þessar þrjár leika saman í kvikmyndinni A Wrinkle in Time sem frumsýnd verður í mars.

Í viðtalinu talar Reese opinskátt um að hún hafi verið í ofbeldisfullu sambandi, en nefnir ofbeldismanninn þó ekki á nafn.

„Var þetta líkamlegt? Beitti hann ofbeldi með orðum? Bæði?“ spyr Oprah og Reese svarar:

„Andlegt, beitti ofbeldi með orðum og já,“ segir leikkonan. Hún bætir við að þó að hún hafi vitað að það yrði erfitt að slíta sig úr sambandinu þá hafi það verið nauðsynlegt.

„Lína var dregin í sandinn og það var stigið yfir hana. Eitthvað breyttist í höfðinu á mér. Ég vissi að þetta yrði mjög erfitt en ég gat ekki meir. Þetta var náið samband og ég var mjög, mjög ung.“

Stóð með sjálfri sér

Reese segir að þessi ákvörðun hafi mótað hana sem konuna sem hún er í dag.

„Þetta breytti mér, sú staðreynd að ég stóð með sjálfri mér. Ég er öðruvísi manneskja núna og þetta er hluti af ástæðunni fyrir því að ég get staðið upp og sagt: Já, ég er metnaðargjörn. Því einhver reyndi að taka það frá mér,“ segir leikkonan. Síðar í viðtalinu talar hún meira um mikilvægi þess að konur séu metnaðarfullar.

„Metnaður snýst ekki um að vera eigingjarn og hann snýst ekki bara um mann sjálfan. Hann snýst um að vilja gera meira og betra fyrir samfélagið, skóla, heiminn, ríkisstjórnina. Metnaðarfull kona er ekki ógnvænleg og hún er ekki fráhrindandi.“

Hlusta má á allt viðtalið við þær stöllur hér fyrir neðan:

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

„Ég hef alltaf litið á þessi börn sem mín eigin“

||||
||||

„Árið 2017 var æðislegt en líka afar skrýtið. Það var allavega mjög öðruvísi,“ segir leikarinn Jóel Sæmundsson.

Jóel frumsýndi einleikinn Hellisbúann í september á síðasta ári, landaði stóru hlutverki í bíómynd og létti sig um tíu kíló á sextíu dögum. Hann gerði þetta allt ásamt því að hugsa um börnin sín þrjú, en hann gekk tveimur af börnunum í föðurstað þegar hann kynntist fyrrverandi kærustu sinni. Við heyrðum í Jóel og fórum yfir þetta magnaða ár með honum.

Engin karlrembusýning

„Ég var búinn að lesa leikritið og var lengi búið að langa að leika Hellisbúann, þó ég hefði aldrei séð stykkið á sviði. Ég ákvað því að hafa samband við Theater Mogul, fyrirtækið sem á réttinn af verkinu, og þá vildi svo skemmtilega til að þau höfðu líka verið að leita leiða til að setja verkið aftur upp á Íslandi. Ég fór á tvo fundi með Óskari Eiríkssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, hann skoðaði efni með mér og síðan ákváðum við að kýla á þetta saman,“ segir Jóel um hvernig það atvikaðist að hann brá sér í hlutverk Hellisbúans.

Jóel sem hellisbúinn.

Margir muna eflaust eftir sýningunni Hellisbúinn með Bjarna Hauk fremstan í flokki, en einleikurinn vakti gríðarlega lukku á Íslandi á tíunda áratug síðustu aldar, og síðan aftur fyrir nokkrum árum með Jóhannes Hauk í aðalhlutverki. Verkið, sem skrifað er af Rob Becker, hefur einnig farið sigurför um heiminn allan og er til dæmis sá einleikur sem lengst hefur gengið á Broadway. Verkið var skrifað árið 1991 og segir Jóel að síðasta vor og sumar hafi farið í það að uppfæra handritið.

„Við í raun uppfærðum handritið í takt við gamla punkta sem höfundurinn hafði skrifað, sem voru farnir úr verkinu, en færðum það inn í nútímann. Í því ferli fékk ég dýpri skilning á verkinu. Aðalpunkturinn í því er að þó við séum ólík þurfum við að finna leið til að koma saman. Tveir mismunandi einstaklingar samankomnir eru sterkari en einn. Þannig að við fórum aðeins aftur til rótanna ef svo má segja í handritaferlinu,“ segir Jóel, sem þvertekur fyrir að þetta sé enn, eitt karlrembustykkið eins og hann hefur svo oft heyrt fleygt.

„Alls ekki. Að mínu mati hefur þetta stykki aldrei átt jafn vel við og akkúrat núna.“

Enginn bjargar manni ef illa fer

Jóel lærði leiklist í Bretlandi og var með litla sem enga reynslu af einleikjum áður en hann tók að sér hlutverk hellisbúans, sem er tveggja klukkutíma sýning.

„Mér finnst þetta ofboðslega gaman. Það er auðvitað erfitt að enginn getur bjargað manni ef illa fer en sem betur fer hefur ekkert stórfenglegt komið uppá. Eitt sinn gleymdi ég þrjátíu mínútum af stykkinu en náði einhvern veginn að spóla aðeins til baka og klára verkið eins og á að klára það. Svo var reyndar mjög fyndið þegar ég flækti mig í bol sem ég átti að klæða mig úr á sviðinu. Það gerðist mjög hratt og ég held ég hafi ekkert geta sagt nema: Þetta hefur aldrei komið fyrir áður. Það var mjög spaugilegt,“ segir Jóel.

Jóel er fjölhæfur leikari.

Stærsti einleikur í heimi og aðalhlutverk í bíómynd

En draumurinn um hellisbúann var ekki sá eini sem rættist á síðasta ári. Þegar leikarinn var búinn að tryggja sér það hlutverk fékk hann tilboð úr annarri átt sem hann gat ekki hafnað.

„Ég var fastur í Miami þegar ég fékk símtal um að sænskur leikstjóri vildi fá mig í prufu á Íslandi. Ég fékk prufunni frestað um einn dag, leigði mér bíl og keyrði frá Miami til Orlando þar sem ég fékk flug heim til Íslands. Ég fékk senuna sem ég átti að lesa senda í tölvupósti og æfði mig alla nóttina í fluginu. Þegar ég lenti á Íslandi brunaði ég síðan beint í prufuna. Þegar ég kom á staðinn kom í ljós að ég hafði æft vitlausan karakter en það reddaðist sem betur fer. Áður en ég fór spurði leikstjórinn mig hvort ég vildi lesa handritið og koma aftur á morgun. Ég þáði það boð og næsta dag var mér boðið burðarhlutverk í myndinni,“ segir Jóel.

Um er að ræða kvikmyndina Pity the Lovers í leikstjórn Maximilian Hult sem er öll á íslensku og tekin upp á Íslandi. Meðal annarra leikara í myndinni eru Björn Thors, Sara Dögg Ásgeirsdóttir og Sigurður Karlsson.

„Það er ekki á hverjum degi sem maður leikur stærsta einleik í heimi og fær aðalhlutverk í kvikmynd,“ segir Jóel þegar hann rifjar þetta upp. Tökutímabil myndarinnar skaraðist á við æfingatímabil Hellisbúans þannig að í fjórar vikur vann Jóel 200% leikaravinnu og rúmlega það. Í ofanálagi undirbjó hann sig vel fyrir kvikmyndahlutverkið.

Tíu kíló á sextíu dögum

„Myndin er um tvo bræður, Óskar og Magga. Þeir eru báðir rólegir í tíðinni en eiga erfitt með náin sambönd. Ég leik Magga sem þráir að verða ástfanginn og eignast fjölskyldu og hús og fer því úr einu sambandi í annað. Til að undirbúa mig fyrir hluverkið létti ég mig um tíu kíló á sextíu dögum. Ég taldi kaloríur en fékk mér samt allt sem mig langaði í. Ef mig langaði í pítsu þá fórnaði ég öðru. Ég fór á Esjuna þrisvar sinnum í viku og æfði í rauninni í sextíu daga í röð. Ég var ekki beðinn um að koma mér í betra líkamlegt form en mér fannst týpan kalla á það. Ég vildi líka búa mig undir að vinna fullan tökudag, fullan æfingadag og hugsa um krakkana. Þannig að síðasta sumar gerði ég lítið annað en að æfa og undirbúa mig.“

Á góðri stundu með föður sínum.

Jóel hefur tekið að sér ýmis verkefni síðan hann útskrifaðist úr leiklistarskóla fyrir tæpum áratug. En hvað er það núna sem gerir það að verkum að verkefnin koma til hans?

„Ég hef alltaf unnið mjög mikið, verið að búa eitthvað til og aldrei setið á rassgatinu aðgerðarlaus. Ég hef alltaf haft stóra drauma og lifi fyrir að láta þá rætast. Ég hef í raun verið að taka lítil skref að stærra markmiði. Ég einbeiti mér að því að umkringja mig góðri orku en forðast neikvæða orku því hún hjálpar mér ekki. Ég held að ég geti með sanni sagt að ég sé búinn að vinna fyrir þessu. Ég hugsa leiklistina í raun eins og íþrótt. Ef ég fer ekki út að hlaupa, þá bæti ég mig ekki. Ég hleyp ekki hraðar ef ég sit í sófanum. Að sama skapi er enginn að fara að hringja í mig ef ég tek ekki upp símann,“ segir Jóel.

Metur fjölskyldustundirnar

Jóel og börnin þrjú.

Talið berst að einkalífinu, en fjölskyldan er mjög mikilvæg leikaranum. Hann og fyrrverandi kærasta hans, Arna Pétursdóttir, skildu fyrir rúmum tveimur árum en þau eiga þrjú börn saman, Elvar Snæ, tólf ára, Elísu Sif, níu ára og Ester Maddý, þriggja ára. Raunar er sú síðastnefnda eina barnið sem er blóðtengd Jóel en hann gekk hinum tveimur í föðurstað. Arna og Jóel skipta forræði og segir hann samband þeirra á milli mjög gott.

„Það er gott samband okkar á milli og við reynum að halda í viku/viku fyrirkomulag, þó oftast sé Arna aðeins meira með börnin vegna óreglulegs vinnutíma hjá mér. En ég hef alltaf litið á þessi börn sem mín eigin og voru þau mjög ung þegar ég kom inn í líf þeirra. Ég gæti ekki ímyndað mér lífið án þeirra og met ég stundirnar með þeim mjög mikið. Oft er ég til dæmis í fríi á morgnana og þá keyri ég Elvar í skólann, þó það sé ekki mín vika með honum. Þá eigum við yndislega gæðastund í bílnum á morgnana,“ segir Jóel.

Fagnar 35 ára afmæli uppi á sviði

Það er eiginlega ekki hægt að sleppa leikaranum eftir þessa hressilegu yfirferð á árinu 2017 án þess að spyrja hvað framtíðin beri í skauti sér?

„Það er eitthvað í pípunum,“ segir Jóel og hlær. „Það er tengt sviðinu en það verður að bíða betri tíma að tilkynna það. Ég er með fullt af hugmyndum sem mig langar að framkvæma og nóg af draumum sem ég vil uppfylla,“ segir leikarinn, en næstu helgi sýnir hann tvær sýningar af Hellisbúanum. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þetta er stór helgi hjá Jóel. Hann fagnar nefnilega 35 ára afmæli sínu.

„Ég hef aldrei haldið uppá afmælið mitt svona – að leika á sviði fyrir framan fullan sal af fólki. Ég hlakka mikið til, enda ómetanlegt að fá að vinna við það sem maður elskar. Svo skemmir ekki fyrir að ég fæ líka að fagna deginum í faðmi fjölskyldunnar þannig að ég fæ í raun það besta úr báðum heimum á afmælisdaginn.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Úr einkasafni

Söngdívan Bonnie Tyler syngur fyrir Íslendinga í sumar

Velska stórsöngkonan Bonnie Tyler er búin að bætast í hóp þeirra listamanna sem troða upp á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sem fram fer í Laugardalnum 21. til 24. júní.

Ferillinn hófst árið 1976

Bonnie þarf vart að kynna en fyrsta lagið með henni, My! My! Honeycomb kom út í apríl árið 1976. Lagið náði þó ekki að heilla heiminn og því var meira fé eytt í að kynna annað lag hennar, Lost in France sem var gefið út í september sama ár. Það lag náði miklum vinsældum sem og næsta lag hennar, More Than a Lover, sem Bonnie flutti í þættinum Top of the Pops í lok mars árið 1977. Þrátt fyrir velgengni seinni tveggja laganna náði fyrsta plata hennar, The World Starts Tonight, ekki miklum vinsældum í Evrópu, nema í Svíþjóð þar sem hún náði öðru sæti á vinsældarlistum.

Árið 1978 sló söngkonan í gegn með lagið It’s a Heartache, sem náði bæði vinsældum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Önnur plata hennar, Natural Force, sem gefin var út sama ár náði gullsölu í Bandaríkjunum. Þriðja plata hennar, Diamond Cut, kom út árið eftir og sló rækilega í gegn í Noregi og Svíþjóð. Gagnrýnendur voru ekki eins hrifnir. Sama var uppi á tengingnum með plötuna Goodbye to the Island sem kom út árið 1981 og þá gengu gagnrýnendur svo langt að spá því að ferli Bonnie væri lokið.

Total Eclipse of the Heart

Þessar fjórar fyrstu plötur Bonnie voru gefnar út af RCA plötuútgáfunni og síðan skildu leiðir. Þá vildi Bonnie breyta um stíl og fékk upptökustjórann Jim Steinman í lið með sér, en sá hafði unnið mikið með söngvaranum Meat Loaf. Jim hlustaði á plöturnar hennar og fannst tónlistin ekki góð. Honum leist hins vegar vel á Bonnie og bauð henni í íbúð sína í New York og spilaði fyrir hana lagið Total Eclipse of the Heart, lag sem átti eftir að ná toppi vinsældarlista um heim allan árið 1983. Auk þess fékk Bonnie tvær tilnefningar til Grammy-verðlauna fyrir lagið. Í kjölfarið gaf hún út plötuna Faster Than the Speed of Night sem náði fyrsta sæti í Bretlandi.

Tók þátt í Eurovision

Bonnie hélt áfram að vinna með Jim og platan Secret Dreams and Forbidden Fire kom út árið 1986. Á þeirri plötu má til dæmis heyra lagið Holding Out for a Hero, sem var upprunalega gefið út árið 1984 fyrir kvikmyndina Footloose. Gagnrýnendur voru ekki hrifnir af plötunni en hún gekk mjög vel í Evrópu.

Síðan þá hefur Bonnie átt mikilli velgengni að fagna, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, og voru margir himinlifandi þegar það var tilkynnt að hún myndi keppa fyrir hönd Bretlands í Eurovision árið 2013. Lagið sem Bonnie flutti heitir Believe in Me, en það náði ekki að heilla evrópska sjónvarpsáhorfendur. Það endaði í 19. sæti með 23 stig.

Það verður spennandi að sjá hvaða lög Bonnie býður Íslendingum uppá en ljóst er að hún á mikið og gott safn af slögurum sem sameina fólk í söng.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

„Fjölbreytnin mun koma þér skemmtilega á óvart“

|
|

Töfrandi eyja við vesturströnd Kanada.

Svanhildur Reynisdóttir Svansson hönnuður hefur búið á Vancouver-eyju í Kanada síðan 2005.

Svanhildur Reynisdóttir Svansson hönnuður hefur búið á Vancouver-eyju í Kanada síðan 2005 ásamt sonum sínum tveimur. Þar er mikil náttúrufegurð með fallegum gróðri, ströndum og skógum og sumrin eru heit. Þar er fjölmenning í hávegum höfð og samfélagið kennir skilning gagnvart því að ekki trúi allir eins. Við fengum Svanhildi til að segja okkur frá nokkrum af sínum uppáhaldsstöðum á svæðinu.

Miðbær Victoria
Þegar þið heimsækið Vancouver-eyju er frábært að byrja í miðbæ Victoria og svæðinu þar í kring. Borgin er umlukin fallegri strönd og á sumum þeirra sjást Ólympíufjöllin í Bandaríkjunum. Við höfnina liggja fjölmargar snekkjur og skútur við bryggju, götulistamenn sýna listir sínar og glæsilega þinghúsið og Empress-hótelið blasa við. Ég mæli eindregið með British Colombia-safninu en þar er meðal annars hægt að sjá mammúta og marga hluti sem tengjast sögu landsins, þar með talið frumbyggjalist og Totem-súlurnar. IMAX-bíóið er skemmtileg upplifun og dásamlegt að skella sér á veitingastaðinn Spaghetti Factory með fjölskylduna. Þetta er allt í göngufæri. Um kvöldið er gaman að kíkja á The Irish Pub og fara svo á götumarkaðinn þar sem listamenn selja handverkið sitt.

Löng strandlengja
Í tveggja klukkustunda akstursfjarlægð á austurströndinni er bærinn Parksville sem er einstaklega fjölskylduvænn. Þar er almenningsgarður með nokkurra kílómetra langri sandströnd og þegar er fjara þá er hægt að ganga endalaust eftir henni, tína ígulker og skeljar og búa til sandkastala þangað til flæðir að á ný. Á sumrin eru haldnar stórar sandkastalakeppnir þarna sem fólk héðan og þaðan úr heiminum tekur þátt í. Ýmislegt er í boði fyrir alla aldurshópa eins og mini-golf, stuðarabátar og markaðir. Þú getur einnig séð stóra Douglas-furu og leigt litla kofa á ströndinni.

Sögulegi blómagarðurinn The Butchart Gardens er í um klukkustundar akstursfjarlægð frá miðbæ Victoria. Staðurinn var byggður snemma á tíunda áratugnum á tómri kalksteinsnámu en skartar í dag meðal annars japönskum garði, rósagarði, grænmetisgarði ásamt gosbrunnum, styttum og mörgu fleiru.

Risastór blómagarður
Sögulegi blómagarðurinn The Butchart Gardens er í um klukkustundar akstursfjarlægð frá miðbæ Victoria. Staðurinn var byggður snemma á tíunda áratugnum á tómri kalksteinsnámu en skartar í dag meðal annars japönskum garði, rósagarði, grænmetisgarði ásamt gosbrunnum, styttum og mörgu fleiru. Fjölbreytni blómahafsins mun koma þér skemmtilega á óvart þegar þú gengur í gegnum þessa röð af görðum sem hannaðir eru af alþjólegum listamönnum. Á kvöldin er garðurinn lýstur upp og um helgar eru flugeldasýningar. Yfir jólin eru Carollers-söngvar sungnir víða um garðinn, hægt að fara á skauta og aka um í gamaldags hestvagni. Þarna eru verslanir, veitingastaðir, hægt að fá sér síðdegiste í viktorískum stíl og upplifa ýmsa skemmtun. Dásamlegt er að verja heilum degi í þessum æðislega garði.

Náttúruparadís
Sjávarbærinn Port Renfrew er í um tveggja og hálfrar klukkustundar akstursfjarlægð frá miðbæ Victoria en bærinn er einnig þekktur sem höfuðborg stórra trjáa í Kanada. Í villtri náttúru Avatar Grove eru heimsins stærstu tré, þar á meðal Douglas-fura, rauðviður, greni og Sitka-tré. Það er ævintýralegt að ganga í gegnum skóginn innan um 500-1000 ára gömul tré sem eru 12 metrar eða meira að ummáli. Ef þið fylgið stígnum komið þið að Gordon-ánni sem er með stórum mosaklæddum steinum, litlum fossum og burknarnir prýða bakkana. Í skóginum búa elgir, fjallaljón, birnir, úlfar og fleiri dýr. Sannkölluð náttúruparadís.

Hægt er að leigja flugvél sem lendir á vatni til að fara í útsýnisflug og jafnvel alla leið til Seattle.

Töfrandi hippaeyja
Það eru nokkrar eyjur í kringum Vancouver-eyju og Salt Spring Island er ein sú stærsta, staðsett milli Vancouver-eyju og meginlandsins. Ferja gengur á milli eyjanna og hægt að taka bílinn með. Ferjuferðin veitir fallegt útsýni og hægt að sjá fegurð Vancouver-eyju úr smávegis fjarlægð. Einnig er hægt að leigja flugvél sem lendir á vatni til að fara í útsýnisflug og jafnvel alla leið til Seattle. Á Salt Spring Island eru strandir, tjaldstæði og stikaðar gönguleiðir. Bændamarkaðir með ferskum ávöxtum eru víðast hvar ásamt mörkuðum með handverk og fleira. Njóttu töfrandi og rólegs andrúmslofts staðarins sem er þekktur um heim allan fyrir listir, handverk og skapandi iðnað.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Úr einkasafni og safni

Linguini með pistasíum, þistilhjörtum og sítrónu

|
|

Ómótstæðilegur ítalskur réttur.

LINGUINI MEÐ ÞILSTILHJÖRTUM, PISTASÍUM OG SÍTRÓNU

Þistilhjartapestó:
1 krukka grilluð þistilhjörtu, olían sigtuð frá
70 g pistasíur (1 poki)
1 sítróna, börkur og safi
2 hvítlauksgeirar, fínt rifnir
1 búnt steinselja
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar
1 dl jómfrúarólífuolí

Setjið allt nema olíu saman í matvinnsluvél og maukið. Bætið olíunni út í í lítilli bunu. Bragðbætið með salti og pipar ef þarf. Sjóðið linguini skv. leiðbeiningum og blandið pestói saman við, magn af pestói fer eftir smekk hvers og eins. Berið gjarnan fram með sítrónusneið og rifnum parmesanosti. Þistilhjartapestó er einnig mjög gott á samlokur eða kex og t.d. með fiski.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Hugað að heilsunni í vinnunni

Mikilvægt er að huga vel að heilsunni á meðan við erum í vinnunni.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá eyðum við bróðurparti tíma okkar í vinnunni. Þess vegna er mjög mikilvægt að huga vel að heilsunni á meðan við erum á skrifstofunni. Hér eru nokkur góð ráð sem gott er að hafa í huga.

Alltaf við höndina
Ofþornun getur haft áhrif á starfsemi líkamans á margan hátt og eitt einkenni er einbeytingarleysi og þreyta. Til að tryggja að við drekkum nægilegt vatn yfir daginn er sniðugt að vera með vatnsbrúsa á skrifborðinu. Ósjálfrátt förum við að fá okkur einn og einn sopa þannig að áður en við vitum af erum við búin að drekka tvo lítra af vatni, eða ráðlagðan dagskammt.

Hollur kostur
Þegar mikið er að gera þá hættir okkur til að grípa eitthvern fljótlegan mat sem er oftar en ekki óhollur. Gott ráð til að sporna við þessu er að skipuleggja nesti kvöldið áður. Ýmist er hægt að nota afganga frá kvöldmatnum eða gera einfalda rétti, svo sem pastasalat, samloku, skyr með múslí og svo framvegis.

Rétt staða
Það er mjög mikilvægt að passa að sitja rétt við skrifborðið sitt ásamt því að tölvuskjárinn, lyklaborðið og músin séu á réttum stað. Því ef þessi atriði eru röng þá er hætt við að við fáum vöðvabólgu, tennisolnboga og ýmsa fleiri kvilla. Mörg fyrirtæki hafa tekið í gagnið upphækkanleg skrifborð sem ýmist er hægt að standa og sitja við. Þannig getur fólk ráðið sinni vinnustöðu sjálft.

Gakktu um gólf
Það eitt að standa upp og fara á salernið eða ná í kaffibolla getur komið blóðflæðinu aftur í gang og slakað á huganum. Ef þú hefur val reyndu að velja þá kaffivél eða salerni sem er hvað lengst frá vinnustöð þinni þannig að þú fáir sem mesta hreyfingu út úr þessari pásu. Eins er mikilvægt að sleppa lyftunni og fara frekar stigann þegar það er hægt.

Hugsaðu vel um augun
Við getum ofreynt augun með því að stara allan daginn á upplýstan tölvuskjá eða snjallsíma. Gott er að hafa 20-20-20 þumalputtaregluna í huga, það er að taka 20 sekúndna pásu á 20 mínútna fresti og leyfðu augunum að renna yfir eitthvað í um 20 feta fjarlægð, um það bil sex metra. Þetta slakar á spennu í öllum smáu vöðvunum í augunum.

Fáðu ferskt loft
Það eitt að stíga út fyrir hússins dyr og anda að sér fersku lofti getur gert kraftaverk fyrir einbeitingu og framleiðni – hvað þá ef þér tekst að hreyfa þig aðeins utandyra líka. Í stað þess að eyða öllum hádegismatnum í það að borða og kjafta inni á kaffistofu ættirðu að standa upp og taka tuttugu mínútna göngutúr um næsta nágrenni, þú verður mun kröftugari á eftir.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Raddir