Blaðamaður og ljósmyndari Húsa og híbýla heimsóttu þau Steingrím Gauta Ingólfsson myndlistarmann og Hjördísi Gestsdóttur fatahönnuð á hrollköldum föstudagsmorgni nýverið. Hlý og notaleg íbúð þeirra er staðsett í Hlíðunum en þar búa þau ásamt 9 mánaða dóttur sinni Júlíu Eir. Húsið sem var byggt árið 1946 er að þeirra sögn einskonar fjölskylduhús.
„Nú búa hér þrjár kynslóðir undir sama þaki,“ segir Hjördís, en foreldrar hennar hafa búið í húsinu í um þrjátíu ár, sjálf fluttu þau í húsið árið 2011.
Við ræðum um hvort það hafi margt þurft að fjúka þegar þau hófu sambúð. Steini talar um „Darwinisma stílsins“, en hann telur að hjá þeim hafi orðið ákveðin þróun eftir að þau fluttu inn saman. „Sá aðili sem hefur betri stíl endar á því að hafa mest að segja um hvað sé valið inn á heimilið – sem er Hjördís í okkar tilviki,“ segir hann og skellir upp úr. Hjördís segir það samt sem áður hafa komið sér skemmtilega á óvart hvað Steini vildi hafa mikið að segja varðandi stílinn inni á heimilinu en hún ólst upp við að mamma hennar sá aðallega um að fegra heimilið.
Við litum inn á vinnustofu listamannsins
Steingrímur Gauti útskirfaðist með bakkalárgráðu í myndlist árið 2015 frá Listaháskóla Íslands en á námstíma sínum hélt hann einnig í skiptinám til Berlínar. Við fengum að kíkja í stutta heimsókn á vinnustofu hans sem er staðsett á Eyjaslóð úti á Granda, en þar hefur hann verið með aðstöðu í um tvö ár.
Hvenær byrjaðir þú að skapa og fikta við listina, og hvað varð til þess að þú ákvaðst svo að læra myndlist? „Ég hef alltaf verið alveg teiknisjúkur, alveg síðan ég var barn. Svo fór ég í skóla og lærði fullt af allskonar rugli og varð fullorðinn. Fór svo aftur í skóla til að læra að vera barn aftur. Maður þarf að vera barnalegur til þess að geta búið til myndlist. En planið var að verða arkitekt. Svo var ég í Myndlistarskólanum í fornáminu og byrjaði eitthvað að fikta við að mála og ákvað að reyna við myndlistina, “ svarar Steingrímur hress í bragði.
Texti / Elín Bríta
Myndir og myndband / Aldís Pálsdóttir
Brasilíska ofurfyrirsætan Gisele Bündchen prýðir forsíðu tímaritsins Vogue Italia sem fer í sölu í dag. Gisele er algjörlega ómáluð á forsíðunni, sem og á myndum inni í tímaritinu, en þetta er í fyrsta sinn í sögu ritsins þar sem forsíðustúlkan er ómáluð og ekki er heldur búið að eiga við hár hennar.
Það var ljósmyndarinn Jamie Hawkesworth sem tók þessar fallegu myndir af Gisele, en serían heitir einfaldlega Sunday With Gisele, eða sunnudagur með Gisele.
Inni í tímaritinu veitir hún lesendum innsýn í líf sitt með ruðningsstjörnunni Tom Brady á heimili þeirra í Boston. Virðist líf fyrirsætunnar ósköp venjulegt, þó hún sé næsthæstlaunaðasta fyrirsæta heims og gift stjörnunni í New England Patriots, en liðið tapaði í Ofurskálinni síðustu helgi.
Til að gera nándina enn meiri, notaði Jamie eingöngu náttúrulega birtu þegar hann myndaði Gisele. Þá tók hann myndirnar á filmu, uppá gamla mátann, til að tryggja að ekki yrði átt við hreint og fagurt andlit fyrirsætunnar.
Vogue Italia deilir einnig mínútu löngu myndbandi af fyrirsætunni þar sem hún talar meðal annars um barnæskuna og móðurhlutverkið. Einstaklega einlægt og fallegt myndband sem sjá má hér fyrir neðan:
„Ég hataði allt við sjálfa mig og það var erfið staða að vera í,“ segir hin 31 árs gamla Katie Bolden í viðtali við tímaritið People. Tímaritið gaf nýverið út aukablað um fólk sem hefur lést um helming af líkamsþyngd sinni, og er Katie ein þeirra.
Þegar Katie var þyngst var hún tæplega 130 kíló. Venjuleg kvöldmáltíð fyrir hana var heil, stór pítsa og franskaskammtur. Hún hafði reynt ýmsa megrunarkúra á fullorðinsárum en ekkert virkaði, en Katie var einnig illa haldin af kvíða og þunglyndi.
Það var síðan í nóvember árið 2010 að hún var greind með fjölblöðrueggjastokka heilkenni, sem þýddi að það yrði henni erfitt að eignast barn.
„Þetta voru hræðilegar fréttir, því mig hafði dreymt um að vera móðir öll fullorðinsárin. Ég vissi alltaf að mig langaði í fjölskyldu með eiginmanni sínum,“ segir Katie í samtali við People. Það var hins vegar ekki fyrr en hún fór að finna fyrir sjóntruflunum og var greind með MS þremur árum síðar að hún ákvað að breyta lífsstíl sínum.
„Ég fylltist eldmóði. Ég var svo hrædd við að geta hugsanlega ekki gengið eða séð í framtíðinni. Ég gerði mér grein fyrir því að ég var bara að eyða lífinu mínu og það var kominn tími til að gera eitthvað og byrja að lifa lífinu,“ segir Katie.
Átján kíló í einum mánuði
Katie byrjaði á því að nota smáforritið MyFitnessPal til að fylgjast með hve margar kaloríur hún innbyrti yfir daginn og hve mikið prótein hún var að borða. Hægt og rólega hætti hún að borða skyndibitamat og byrjaði að ganga og synda reglulega. Það var hins vegar ekki tekið út með sældinni að breyta um lífsstíl og reyndist það henni afar erfitt til að byrja með.
„Fyrsta vikan var erfið. Ég var svöng, ég var sólgin í mat. En eftir nokkrar vikur byrjaði ég að sjá árangur og það hélt mér gangandi. Ég léttist mikið fyrstu mánuðina, til dæmis átján kíló í einum mánuði.“
Á góðum stað í dag
Fyrsta árið léttist Katie um 34 kíló og náði þá að verða ólétt af sínu fyrsta barni. Fimm mánuðum eftir barnsburð byrjaði Katie að æfa á ný og þremur og hálfu ári eftir að hún hóf lífsstílsbreytinguna var hún búin að léttast um tæplega sjötíu kíló.
Og viti menn, hún fékk fulla sjón á ný og er ekki lengur með fjölblöðrueggjastokka heilkenni. Hún er enn með MS sjúkdóminn, enda er hann ekki afleiðing af þyngdinni, en hún finnur ekki mikið fyrir einkennum sjúkdómsins.
„Ég horfi til baka á allt sem ég gerði og hugsa: Gerði ég þetta í alvörunni? Ég veit að ég er á góðum stað, líkamlega og andlega, því ég var með ofboðslega mikinn kvíða en fór samt út og gerði þetta,“ segir Katie.
Hér fyrir neðan má sjá myndband af Katie þar sem hún opnar sig um þessa vegferð sem hefur komið henni á betri stað í lífinu.
Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo, sem framleiðir til dæmis Doritos, lét hafa eftir sér í hlaðvarpi í vikunni að fyrirtækið væri að þróa sérstakar Doritos-flögur fyrir konur.
„Þegar maður horfir á mikið af ungum strákum að borða flögurnar, en þeir elska sitt Doritos, þá sleikja þeir fingur sína af innlifun og þegar flögurnar eru búnar hella þeir mylsnunni uppí munninn sinn, því þeir vilja ekki fara á mis við bragðið og mylsnuna á botninum.
Konur myndu vilja gera slíkt hið sama en þær gera það ekki. Þær vilja ekki að heyrast hátt í flögunum á almannafæri. Og þær sleikja ekki fingur sína og þær vilja ekki hella mylsnuninni og kryddinu í munninn sinn,“ sagði Indra í hlaðvarpinu.
Þessi orð Indru hafa farið sem eldur um sinu á internetinu, en Indra sagðist í framhaldinu vera með lausn á þessu svokallaða vandamáli. Að framleiða sérstakar flögur fyrir konur sem heyrðist minna í og sem skildu minna krydd eftir á fingrum.
„Þetta er ekki karlkyns og kvenkyns útgáfa af flögunum heldur meira snakk fyrir konur sem getur verið hannað öðruvísi og sett í öðruvísi umbúðir. Við erum að skoða þetta og við ætlum að setja fullt af svona vörum á markað bráðum. Fyrir konur, hljóðlátar flögur með sama bragðinu en með minna kryddi sem festist á fingrum og hvernig passa þær í tösku? Af því að konur elska að vera með snakk í töskunni,“ sagði hún.
Birtingarmynd kjaftæðis sem konur þurfa að þola
Konur á samfélagsmiðlum hafa látið í sér heyra út af þessum ummælum Indru og er ekki skemmt. Þeirra á meðal er spéfuglinn Kathy Griffin, sem segir að þessi orðræða sé hluti af stærra vandamáli.
„Þetta gæti virkað kjánalegt fyrir suma en á einhverjum tímapunkti í lífinu er flestum konum sagt að þær séu of háværar, taki of mikið pláss, að við séum of mikið. Ef Doritos ætlar að gera þetta er þetta eingöngu birtingarmynd þess kjaftæðis sem konur þurfa að þola á heimilinu og á vinnustað,“ tísti Kathy.
This may seem silly to some folks but at one point or another most women are told that they’re too loud, take up too much space, that we’re too much. If Doritos is actually doing this it’ll just represent the BS women have had to deal with at home and at work. #CrunchLouderhttps://t.co/ScaAD0Qf12
PepsiCo hefur nú gefið það út að fyrirtækið muni ekki setja á markað sérstakar dömuflögur.
„Við erum nú þegar með Doritos fyrir konur – þær heita Doritos og milljónir manna njóta þeirra á hverjum degi. Á sama tíma vitum við að þarfir og langanir breytast og að við þurfum alltaf að finna nýjar leiðir til að gleðja neytendur,“ segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.
Hér fyrir neðan má síðan sjá nokkur gamansöm tíst um þá vægast sagt skringilegu hugmynd að ætla, árið 2018, að framleiða sérstakt snakk fyrir konur:
Things I don’t want:
– Lady Bic pens
– Lady whisk(e)y
– Lady Doritos
Thank god because my fragile, feminine, woman jaw just about breaks every time I have a normal dorito. By the time I finish a bag, I’ve already been to the hospital 17 times for a shattered lady mandible! It hurts my girlish dainty hands to type this out, but thank you Doritos! https://t.co/sJJ2HsCWYJ
If someone could get me some Lady Mountain Dew to drink (no burping ladies!) to go with my Lady Doritos while I oil my Lady Remington (pink oil y’all) inside of Lady Footlocker with my Lady Moonpies (no crumbs ladies) I would be really Lady Grateful
Leikarinn góðkunni John Mahoney, sem er hvað þekktastur fyrir að leika Martin Crane í sjónvarpsþáttunum Frasier, lést síðasta sunnudag á líknardeild í Chicago. Dánarorsök var krabbamein í hálsi. Leikarinn var 77 ára þegar hann lést.
John fæddist í Blackpool á Englandi þann 20. júní árið 1940 en flutti til Bandaríkjanna sem ungur maður. Hann vann við enskukennslu og ritstýrði læknariti áður en hann fékk sig fullsaddan af vinnunni sinni. Hann ákvað að söðla um og fór í leiklistartíma Í St. Nicholas-leikhúsinu. Það má segja að það hafi verið mikið heillaspor því í framhaldinu steig hann í fyrsta sinn á svið, nánar tiltekið árið 1977, og hvatti leikarinn John Malkovich hann að ganga til liðs við Steppenwolf-leiklistarhópinn í Chicago.
Þá fóru hjólin að snúast, en fyrir frammistöðu sína í leikritinu Orphans stuttu síðar fékk John Derwent-verðlaunin og Theatre World-verðlaunin. Árið 1986 hlotnaðist honum síðan sá mikli heiður að hljóta Tony-verðlaunin fyrir bestan leik fyrir frammistöðu sína í leikritinu The House of Blue Leaves eftir John Guare.
Heimurinn kynnist Martin Crane
Fyrsta kvikmyndahlutverkið fylgdi í kjölfarið en árið 1987 fékk hann hlutverk í Tin Men í leikstjórn Barry Levinson. Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar gekk honum vel í leiklistinni og lék í myndum á borð við Moonstruck, Say Anything…, In the Line of Fire, Reality Bites, The American President, Barton Fink og The Hudsucker Proxy.
John sérhæfði sig í að leika hressa menn sem heimurinn hafði farið illa með. Það er því eilítið fyndið að hugsa til þess að hans stærsta hlutverk, í sjónvarpsþáttunum Frasier, hafi verið hinn úrilli Martin Crane, en það tók áhorfendur nokkra þætti, jafnvel heila seríu, að kunna að meta kauða. Martin var faðir Frasier og Niles Crane, mikilla snobbhænsna sem töluðu á tíðum hansi háfleygt, en voru samt hvers manns hugljúfi. Martin var fyrrverandi lögga sem elskaði þægindastólinn sinn meira en allt og sagði hlutina hreint út. Var hann því skemmtilegt mótvægi við vel máli förnu syni sína.
Frasier gekk í ellefu þáttaraðir, frá árinu 1993 til ársins 2004. John var tilnefndur til Emmy- og Golden Globe-verðlaunanna fyrir leik sinn í þáttunum og hlaut Screen Actor’s Guild-verðlaunin árið 2000.
„Frábær leikari – yndislega góð manneskja“
John var greinilega ekki aðeins góður leikari, heldur einnig mikill mannvinur utan tökustaðar því margir hafa minnst leikarans síðustu daga.
„Frábær leikari – yndislega góð manneskja – þér leið betur þegar þú hittir hann – Hvíl í friði John,“ skrifar leikarinn John Cusak á Twitter-síðu sinni, en hann lék með John í Say Anything….
Great actor – lovely kind human -any time you saw him you left feeling better – RIP John … https://t.co/jHXPHm1dEb
„Hinn stórkostlegi John Mahoney lést í dag, 77 ára að aldri. Ég hef aldrei kynnst betri manni eða stórkostlegri leikara. Það er mikil blessun fyrir okkur öll að hafa eytt 11 árum með honum,“ tístar Jeff Greenberg sem sá um leikaraval í Frasier.
The great John Mahoney passed away today at age 77. I’ve not known a kinder man nor more brilliant actor. We were all blessed to have spent 11 glorious years together. pic.twitter.com/hn3SZwuEy4
Leikkonan Peri Gilpin, sem lék Ross í Frasier, birtir mynd af John með hjartnæmri kveðju.
„John að syngja í brúðkaupinu mínu. Horfið á Moonstruck, Say Anything og/eða Frasier eða eitthvað sem þið getið með honum og skálið fyrir John. Haldið minningu hans á lofti.“
John singing at my wedding. Watch Moonstruck, Say Anything and/or Frasier or anything you can with him in it and raise a glass to John. Remember him well. pic.twitter.com/Tj3i5B4x13
Nú stendur veturinn sem hæst og tekur ein pest við af annarri. Það er eðlilegt að fá kvef á veturna, en sumir eru svo óheppnir að fá líka flensu sem er heldur óþægilegri vetrargestur.
Við ákváðum að kíkja á muninn á kvefi og flensu, en hann er nefnilega talsverður.
Eins og þruma úr heiðskýru lofti
Kvefið er þannig gert að það byrjar hægt, þannig að maður hefur nægan tíma til að grípa til viðeigandi varúðarráðstafana.
Hins vegar gerir flensan ekki boð á undan og sér og hellist mjög snögglega yfir sjúklinginn, eins og þruma úr heiðskýru lofti.
Hár hiti fylgir flensunni
Einkenni kvefs í fyrstu eru óþægindi, kláði og særindi í hálsi. Þá fylgja hnerri, nefrennsli og jafnvel rennvot augu. Yfirleitt fylgir kvefi ekki hækkaður hiti en ef einhver hitahækkun verður er hún væg.
Flensunni fylgir hiti sem getur farið uppí 39 til 40°C. Þá einkennir flensuna beinverkir, höfuðverkur og sár, djúpur hósti.
Kvefið gengur yfir á nokkrum dögum
Kvef gengur yfirleitt yfir á nokkrum dögum og varir oftast ekki lengur en viku.
Flensan gengur yfir á fimm til átta dögum, þó slappleiki og hósti geti varað lengur.
Langvarandi hósti eða lungnabólga
Fylgikvillar kvefs geta verið eyrnaverkur, langvarandi hósti og kinnholubólga. Þá þarf að leita til læknis til að fá viðeigandi meðferð.
Alvarlegri fylgikvillar flensunnar eru lungnabólga og þá þarf einnig að leita til læknis varðandi meðferð og lyf.
Dregið úr vanlíðan
Engin lækning er við kvefi og því mikilvægt að draga úr einkennum og vanlíðan. Gott er að hvílast vel og draga úr álagi, sem og að drekka heita drykki, svo sem sítrónuvatn. Hálstöflur og hóstasaft geta gert kraftaverk við að draga úr ertingu í hálsi og mikilvægt að snýta sér reglulega.
Þegar barist er við flensu er nauðsynlegt að hafa hitastillandi lyf við hendina, til dæmis Paratabs og hóstastillandi mixtúru. Þá skiptir hvíld og svefn miklu máli og hægt að leita allra ráða til að minnka vanlíðan á meðan flensan gengur yfir, til dæmis með því að innbyrða mikið af C-vítamíni.
Fyrirsætan, raunveruleikastjarnan, frumkvöðullinn og áhrifavaldurinn Kylie Jenner tilkynnti í gær að hún væri búin að eignast sitt fyrsta barn með kærasta sínum, Travis Scott. Kylie er dóttir Kris og Caitlyn Jenner og hvað þekktust fyrir að taka þátt í raunveruleikaþættinum Keeping Up With the Kardashians með fjölskyldu sinni.
Kylie faldi óléttuna fyrir umheiminum, en þó var mikið búið að skrifa um meinta meðgöngu í öllum helstu fréttamiðlum heims. Hún útskýrði af hverju í færslu á Instagram um leið og hún tilkynnti um fæðingu barnsins.
„Ég ákvað að vera ekki ólétt fyrir framan allan heiminn. Ég vissi að ég þyrfti að undirbúa mig fyrir þetta hlutverk lífs míns á eins jákvæðan, streitulausan og heilbrigðan hátt og ég gat,“ skrifar Kylie og heldur áfram.
„Ég vissi að barnið mitt myndi finna fyrir allri streitu og hverri einustu tilfinningu þannig að ég valdi að gera þetta svona fyrir litla lífið mitt og hamingju okkar.“
Aðdáendur stjörnunnar eru eflaust búnir að sakna hennar, enda er hún þekkt fyrir að fara mikinn á samfélagsmiðlum og leyfa umheiminum að fylgjast með hverju fótspori. En Kylie bætir þessa fjarveru svo sannarlega upp með rúmlega ellefu mínútna löngu myndbandi í heimildarþáttastíl þar sem hún fer yfir meðgönguna.
Myndbandið má sjá hér fyrir neðan, en það byrjar með upptöku frá árinu 1997 þegar Kris Jenner fæddi Kylie. Þá er einnig tekið viðtal við bestu vinkonu Kylie, Jordyn Woods, þar sem hún fer yfir það hvernig Kylie sagði henni stóru fréttirnar. Einnig er að finna fjölmörg myndbrot af kærustuparinu Kylie og Travis, sem hafa ávallt reynt að halda einkalífi sínu út af fyrir sig.
Það er einnig vert að minnast á að í myndbandinu má sjá litlu Chicago West, þriðja barn Kim Kardashian, systur Kylie, og Kanye West sem kom í heiminn með hjálp staðgöngumóður þann 15. janúar. Í myndbandinu sést Kylie halda á litlu frænku sinni á meðan Kim ákveður að undirbúa hana fyrir það sem koma skal.
Ein stærsta stefnumótasíða á netinu í heiminum, Match.com, gaf nýverið út sína árlegu rannsókn á einhleypum í Bandaríkjunum. Í rannsókninni voru spurningar settar fyrir fimm þúsund einhleypa einstaklinga, átján ára og eldri. Var einhleypa fólkið til dæmis spurt út í kynlíf og hvað gæti orðið til þess að samfarir væru slæmar.
82% þeirra sem svöruðu sögðu að of mikið mas í kynlífi væri mjög slæmt, 74% sögðu enga ástríðu gera samfarir slæmar og 63% sögðu litla hreyfingu í bólförum vera afar vont. Þá sögðu 62% að kynlíf væri ekki ánægjulegt ef hinn aðilinn í rúminu væri slæmur að kyssa.
Þegar kom að því að kanna hvað það væri sem gerði kynlíf gott voru 83% sammála um að umhyggjusamur og áhugasamur bólfélagi væri líklegur til vinsælda. Þá sögðu 78% samskipti skipta mestu máli og 76% að kynlífið væri gott ef bólfélaginn væri góður í að kyssa.
Þessir þrír þættir þóttu meira að segja mikilvægari en að fá fullnægingu. Það verður þó að taka það fram að þeir sem svöruðu í rannsókninni sögðu það nánast gulltryggt að báðir aðilar fengju fullnægingu ef samskipti væru góð og ef bólfélaginn væri áhugasamur og góður í kossafimi.
Hryllingsmyndin Hereditary, í leikstjórn Ari Aster, var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa.
Myndin, sem skartar leikurunum Toni Collette, Gabriel Byrne og Ann Dowd í aðalhlutverkum, kemur í kvikmyndahús næsta sumar og fjallar um Annie, sem grunar að yfirnáttúrulegir kraftar hafi heltekið húsið hennar. Hún þarf að kanna það sem býr í myrkrinu til að komst undan hræðilegum örlögum.
Gagnrýnandi The Hollywood Reporter segir að myndin sé tveir klukkutímar af hryllingi sem vindur uppá sig en gefur ekki eftir í eina mínútu. Gagnrýnandi Variety segir að myndin fjalli um mest ógnvekjandi draug allra tíma: andana innra með okkur. Þá segir gagnrýnandi USA TODAY að þetta sé hræðilegasta hryllingsmynd síðari ára.
Við hjá Mannlífi erum strax orðin mjög spennt að sjá myndina, sem hefur fengið lof gagnrýnenda þó hryllileg sé. Hafa sumir meira að segja gengið svo langt að segja að Toni Collette gæti hreppt Óskarsverðlaunin á næsta ári fyrir leik sinn í myndinni.
Gagnrýnandinn Aaron Morgan hvetur fólk á Twitter-síðu sinni til að sleppa því að horfa á stiklu fyrir myndina og horfa frekar á hana án þess að vita nokkurn skapaðan hlut. Við stóðumst samt ekki mátið, horfðum á stikluna og erum nú enn spenntari.
DO NOT WATCH THE #Hereditary TRAILER! Massive spoiler shots. Go in cold to this movie, trust me!
Við sögðum frá skoskri eyju til sölu í síðustu viku, en fyrsta boð í eyjuna var uppá 35 milljónir króna. Við ákváðum því að fara á stúfana og skoða okkar nærumhverfi til að sjá hvers konar fasteign við gætum nælt okkur í fyrir sama verð og sett var á eyjuna fögru.
67 fermetrar í Hafnarfirði
Ef við byrjum leitina á höfuðborgarsvæðinu, þá gætum við fjárfest í rétt rúmlega 67 fermetra íbúð í fjölbýlishúsi við Víðivang í Hafnarfirði. Ásett verð er 34,9 milljónir en fasteignamatið stendur í 24,2 milljónum. Íbúðin er búin einu svefnherbergi, einu baðherbergi, stofu og svölum. Í raun er íbúðin sjálf aðeins rétt rúmlega 61 fermetri þar sem inní fermetratölu er tekin geymsla í kjallara sem er 6,2 fermetrar.
Eldhús fyrir handlagna
Fyrir sama verð, eða 34,9 milljónir króna. er hægt að hreiðra um sig í 52,9 fermetra íbúð við Boðagranda í Reykjavík. Um er að ræða tveggja herbergja íbúð í lyftuhúsi með bílastæði í bílakjallara. Hér gæti handlaginn einstaklingur tekið til hendinni þar sem aðeins er farið að slá í eldhúsinnréttinguna en á baðherberginu er hins vegar nýlegur vaskur og klósett.
Snoturt athvarf í Skógarási
Í Skógarási í Árbæ í Reykjavík er einnig íbúð í fjölbýlishúsi fyrir 34,9 milljónir. Sú er 73,3 fermetrar, þar af 6,2 fermetra geymsla. Íbúðin er búin einu baðherbergi og einu svefnherbergi en mikið er búið að gera fyrir íbúðina eins og sést á myndum. Þó er einhver kostnaður við sameign yfirvofandi þar sem til stendur að skipta um hurðir.
Útsýni ekki metið til fjár
Og enn af fjölbýlishúsum, því í Æsufelli í Breiðholti er 97,6 fermetra íbúð á 34,9 milljónir króna. Íbúðin er búin 1 baðherbergi og tveimur svefnherbergjum og er hún á þriðju hæð. Þá fylgir íbúðinni einnig 7,4 fermetra geymsla í kjallara. Útsýnið er svo ekki hægt að meta til fjár og búið er að endurnýja bæði baðherbergi og eldhús.
54 fermetrar í 101
Þeir sem vilja halda sig í miðbæ Reykjavíkur gætu kíkt á 54 fermetra íbúð við Laugaveg sem er einmitt líka á 34,9 milljónir. Um er að ræða tveggja herbergja íbúð í fjölbýlishúsi við þessa annasömu verslunargötu. Íbúðin er smekklega innréttuð, en tekið er fram í fasteignaauglýsingunni að tilvalið sé að leigja íbúðina út til ferðamanna.
Möguleikar í Reykjanesbæ
Ef fólk vill færa sig aðeins út fyrir höfuðborgarsvæðið, væri hægt að kíkja á fjögurra herbergja íbúð við Hólabraut í Reykjanesbæ á 34,9 milljónir. Um er að ræða 165,1 fermetra íbúð, þar af bílskúr uppá 22,7 fermetra. Eignin býður vægast sagt upp á mikla möguleika og hentar barnafjölskyldum afar vel þar sem hún er búin fjórum svefnherbergjum.
Fimm svefnherbergi og tvö baðherbergi
Þá væri hægt að prútta aðeins og taka til greina tæplega 180 fermetra einbýlishús við Brekastíg í Vestmannaeyjum á 35,5 milljónir króna. Húsið er búið tveimur baðherbergjum, fimm svefnherbergjum og bílskúr sem er 18 fermetrar og þarfnast enduruppbyggingar. Búið er að endurnýja talsvert í húsinu og gæti stór fjölskylda látið fara vel um sig hér.
Bílskúr á tveimur hæðum
Þeir sem myndu vilja færa sig lengra austur gætu nælt sér í tæplega 280 fermetra einbýlishús við Ullartanga á Egilsstöðum á 34,5 milljónir króna. Húsið er einnig búið tveimur baðherbergjum og fimm svefnherbergjum. Bílskúr á tveimur hæðum fylgir húsinu en hann er fremur hrár. Þessi eign er tilvalin fyrir þá sem vilja taka til hendinni og gera hana upp, en hún býður upp á mikla möguleika.
Hlýlegt á Húsavík
Norður á Húsavík er síðan 185,6 fermetra einbýlishús við Laugarbrekku á 33,7 milljónir króna en athygli vekur að brunabótamatið er 40,7 milljónir. Um er að ræða tvö baðherbergi, fjögur svefnherbergi og bílskúr sem er 37,8 fermetrar. Fallegur garður umlykur húsið og er það einstaklega hlýlegt og snoturt.
Ef þessir veggir gætu talað
Fyrir þá sem myndu vilja hreiðra um sig á Vestfjörðum er hér 377 fermetra einbýlishús við Sólgötu á Ísafirði á 35 milljónir króna. Í húsinu eru tvö baðherbergi og fjögur svefnherbergi en einnig er eignin búin kjallara og rislofti. Ljóst er að mikil sál er í þessu húsi þar sem það var einu sinni samkomustaður, ballstaður, prentsmiðja og fleira. Ó, ef þessir veggir gætu talað!
Gult og glæsilegt
Við endum fasteignarúntinn á Akranesi, þar sem 170 fermetra einbýlishús við Heiðargerði fer á 34,5 milljónir króna. Fjögur svefnherbergi og eitt baðherbergi er í húsinu sem er fallega gult að lit að utan og fer því ekki framhjá neinum. Hér er klárlega eign sem væri hægt að gera ansi mikið fyrir, ef áhuginn er fyrir hendi.
Ný vegabréf, sem tekin verða í notkun í lok þessa árs, ef allt gengur að óskum, verða prýdd sextán landslagsmyndum af náttúru Íslands. Verða myndirnar notaðar sem daufur bakgrunnur á vegabréfssíðurnar.
Þjóðskrá Íslands auglýsti ekki eftir fyrrnefndum landslagsmyndum heldur var leitað til „sjö þekktra landslagsljósmyndara og þeim boðið að skila inn ákveðnum fjölda mynda hver,“ eins og segir í skriflegu svari frá Þjóðskrá Íslands við spurningum blaðamanns Mannlífs.
Mega ekki birta myndirnar í 18 ár
Alls bárust 150 myndir og voru sextán valdar sem þóttu henta best sem daufur bakgrunnur á vegabréfssíðurnar. Ljósmyndararnir sem eiga myndir í vegabréfunum eru Árni Tryggvason, Einar Guðmann, Gyða Henningsdóttir og Páll Jökull Pétursson. Ekki fékkst gefið upp hve háa greiðslu ljósmyndararnir fengu fyrir hverja mynd. Ljósmyndararnir mega ekki birta eða nota myndirnar sem urðu fyrir valinu næstu átján árin. Er það liður í að minnka líkur á að hægt sé að falsa íslensk vegabréf.
Tilboði pólska fyrirtækisins PWPW tekið
Á síðasta ári fór fram útboð sem Ríkiskaup sá um fyrir Þjóðskrá Íslands, annars vegar á framleiðslu og hönnun á íslenskum vegabréfabókum og hins vegar á framleiðslukerfi vegabréfa. Alls bárust tólf tilboð í hönnun og framleiðslu á vegabréfunum, þar á meðal frá Ísrael, Þýskalandi, Bretlandi, Ungverjalandi og Spáni. Svo fór að tilboði pólska fyrirtækisins PWPW var tekið, en samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins sérhæfir það sig í alls kyns öryggisskilríkjum, þar á meðal vegabréfum og greiðslukortum. Það var í vinnu með fyrrnefndu PWPW að upp kom sú hugmynd að nota íslenskar landslagsmyndir í vegabréfunum.
„Það var álit sérfræðinga að til þess að tryggja betur öryggi íslenska vegabréfsins sem ferðaskilríkis þá væri þörf á bæði nýrri útlitshönnun en einnig nýrri hönnun á öryggisþáttum. Það fóru fram nokkrir fundir með sérfræðingum Þjóðskrár Íslands og erlenda hönnunarteymi PWPW um hvernig ný hönnun átti að vera og ýmsar hugmyndir og tillögur nefndar. Í samvinnu við dómsmálaráðuneytið var sammælst um að styðjast við landslagsmyndir af náttúru Íslands,“ segir í skriflegu svari frá Þjóðskrá Íslands.
Óljóst er hvort gjaldskrá vegabréfa breytist í takt við nýja hönnun, en í dag kostar vegabréf 12.300 krónur fyrir 18 til 66 ára og 5600 krónur fyrir börn, aldraða og öryrkja, ef miðað er við almenna afgreiðslu.
Það má með sanni segja að landanum líki við nammikökur. Við skelltum í eina góða sem sló auðvitað í gegn. Vel má skipta sælgætinu út fyrir aðrar tegundir ef fólk vill og um að gera að prófa sig áfram.
Stillið ofn á 110°C. Setjið bökunarpappír í botninn á tveim 22 cm lausbotna formum og smyrjið hliðarnar með smjöri. Setjið eggjahvítur í skál ásamt kaffidufti og látið standa í 2-3 mín. Þeytið eggjahvíturnar og bætið sykri saman við í smáum skömmtum. Stífþeytið þar til blandan hreyfist ekki til í skálinni sé henni hvolft. Skiptið marensblöndunni í formin og bakið í 1 ½ klst. Slökkvið þá á ofninum og látið botnana kólna alveg inni í honum. Útbúið kaffisúkkulaðikrem og látið það kólna niður í stofuhita. Þeytið rjóma og blandið rúmlega helmingnum af súkkulaðikreminu lauslega saman við. Setjið súkkulaðirjómann á milli botnanna og dreifið restinni af kreminu yfir kökuna.
Í sjálfstæðum bíómyndum er oft að finna raunverulegar lýsingar á vináttu kvenna.
Vinátta kvenna er algengt viðfangsefni kvikmynda en oftar en ekki virðast þær aðeins sýna léttu og ljúfu hliðar hennar. Konur eru flóknar verur og vinátta þeirra á milli getur verið af ýmsum toga. Það er kannski helst að við finnum raunverulegar lýsingar á vináttu í sjálfstæðum bíómyndum. Hér eru nokkur góð dæmi.
Úrhrök samfélagsins
Ghost World fjallar um þær Enid og Rebeccu sumarið eftir að þær klára gagnfræðaskóla. Þær eiga báðar í erfiðleikum með að tengjast fólki og eyða tíma sínum í að slæpast og setja út á fólk sem þeim finnast óspennandi. Þegar þær kynnast Seymour, sem er utangarðs og lifir fyrir það að safna gömlum 78 snúninga hljómplötum, umturnast líf þeirra. Á meðan Enid byrjar að hanga meira með Seymour fer Rebecca að hegða sér eins og venjuleg unglingsstúlka. Hún byrjar að vinna á kaffihúsi og fær meiri áhuga á strákum og tísku. Stelpurnar vaxa meira og meira í sundur þar til það lítur út fyrir að þær muni aldrei ná saman aftur.
Andstæður
Andstæður laðast hvor að annarri og það á svo sannarlega við um vinkonurnar Holly og Marinu í kvikmyndinni Me Without You. Holly er hljóðlát á meðan Marina er frjálsari og villtari. Þær kynnast fyrst þegar þær verða nágrannar tólf ára og verða strax mjög nánar. Vinátta þeirra er þó alls ekki fullkomin og oft á tíðum ekki einu sinni falleg. Þær virðast báðar vera afbrýðissamar hvor út í aðra og sambönd þeirra við karlmenn eru flókin. Þrátt fyrir þetta halda þær áfram að vera vinkonur í gegnum súrt og sætt þangað til Holly slítur sig lausa einn daginn.
Hálffullorðin
Frances í kvikmyndinni Frances Ha er ung kona í New York sem vill helst ekki fullorðnast – hana langar að gera og verða margt en nær árangri í fáu. Mesti sigur hennar hingað til er að hafa vingast við Sophie. Þær búa saman og hanga saman öllum stundum en gera lítið annað en að gera háðslegar athugasemdir um lífið og umhverfið í anda Dorothy Parker. Þegar Sophie fer að sína merki þess að vilja fullorðnast og ákveður að flytja í draumahverfið sitt, Tribeca, tekur Frances því illa. Samband þeirra bíður ákveðna hnekki á meðan Frances fer úr einu í annað í leit að sjálfri sér og ástinni en eins og sannar vinkonur ná þær aftur saman á endanum.
Hipsterar í Brooklyn
Í myndinni Fort Tilden er svokallaðaður „hipstera-húmor“ mjög ríkjandi – þar sem fólk gerir bæði grín að sjálfu sér og öllu öðru. Myndin segir frá vinkonunum Harper og Allie sem búa í Brooklyn. Þær eru mjög kaldhæðnar og jafnvel illkvittnar í ummælum sínum um aðra og eru eiginlega týpur sem margir myndu forðast að umgangast – en þær virðast mjög ánægðar í félagsskap hvor annarrar. Sagan gerist nær öll einn sumardag þegar vinkonurnar reyna að komast hjólandi á strönd í útjaðri New York til að hitta tvo gaura sem þær hittu í partíi kvöldið áður. Á leiðinni fáum við að kynnast stelpunum betur og brátt verða brestirnir í vináttunni sýnilegri.
Ákaft samband
Nýsjálenska kvikmyndin Heavenly Creatures er byggð á sannri sögu af þeim Juliet Hulme og Pauline Parker sem lögðu á ráðin og myrtu mömmu Pauline. Stúlkurnar kynnast þegar Juliet byrjar í sama skóla og Pauline og þær verða fljótt mjög nánar. Þær eiga það sameiginlegt að hafa átt við veikindi að stríða í æsku og upplifað einangrandi spítalavist. Þær deila einnig ástríðu á ævintýrum og bókmenntum og stytta sér stundir með því að semja sögur sem þær dreymir um að selja til Hollywood. Þegar mamma Pauline reynir að binda enda á ákaft og þráhyggjukennt samband vinkvennanna ákveða þær að myrða hana. Um er að ræða fyrsta kvikmyndahlutverk beggja aðalleikvennanna, þeirra Kate Winslet og Melanie Lynskey, en þær vöktu mikla athygli fyrir leik sinn.
Áhugaverðar staðreyndir um einn vinsælasta fjölskyldustað í heimi.
Orlando er vinsælasta fjölskylduborg Flórída. Engin önnur bandarísk borg státar af eins elskuðum stað og Disney World er en hann er í raun regnhlífarsamtök yfir ellefu skemmtigarða sem staðsettir eru á sama stað. Garðarnir eiga það sameiginlegt að vera sannkallaðir fantasíuheimar barna og hvort sem þú elskar garðinn eða hatar þá eru staðreyndirnar um hann áhugaverðar.
Garðurinn opnaði árið 1955 en þá var að finna undirfataverslun á aðalgötunni sem nefndist The Wizard of Bras.
Disney World er stærsti vinnustaður innan Bandaríkjanna þar sem allir starfsmenn stunda iðju sína á sama stað.
Starfsmenn garðsins eru ekki kallaðir vinnuafl heldur leikarar eða liðsmenn. Flestir þeirra geta sagt hvar klósettin er að finna á yfir fjórtán tungumálum.
Magic Kingdom-garðurinn er byggður á annarri hæð. Garðurinn byggist upp á tveimur hæðum en undirgöngin eru á jarðhæð á meðan garðurinn sjálfur liggur ofan á þeim.
Í Disney World er vatnsleikjagarður sem fæstir hafa hugmynd um. Garðurinn var sá fyrsti sinnar tegundar en hann opnaði árið 1976 og lokaði 2001. Engin starfsemi hefur verið síðan þá og er aðgangur að svæðinu stranglega bannaður.
Disney World er einn vinsælasti óskastaður fólks um hinstu hvíld. Þjóðsagan um mömmuna sem vildi að ösku sinni yrði dreift yfir eyru Dúmbó er sönn. Það sama á sér stað nánast á hverjum degi. Garðurinn býður meira að segja upp á sérstakar umbúðir fyrir slíkan viðburð.
Disney World er sjálfseignaborg en svæðið sem tilheyrir garðnum, og veldur því mikla aðdráttarafli sem Flórda hefur, er í einkaeigu.
Kastali Öskubusku stendur tómur. Fyrir utan gjafavöruverslun og veitingastað í anddyrinu stendur höllin auð. Arkitektinn hannaði glæsilegt herbergi fyrir Walt sjálfan í kastalanum en hann dó áður en en höllin var vígð.
Í sjóræningjaheimi garðsins er hægt að finna alvöruhauskúpur.
Milljón kíló kalkúnaleggja eru snædd í garðinum á ári hverju. Nokkrir fyrrum starfsmenn garðsins fullyrða reyndar að leggirnir séu af strútum en ekki kalkúnum.
Hvorki er hægt að fá bolla, glös né rör innan Animal Kingdom. Starfsmenn garðsins segja það vera til að koma í veg fyrir að dýrin skaði sig á plastumbúðum. Tyggjó er sömuleiðis ófáanlegt í öllum görðunum ellefu, af augljósum ástæðum.
Starfsmenn Disney World mega ekki benda á neitt með einum fingri því sums staðar er það álitið vanvirðing. Þeir vísa því til vegar með því að nota alla höndina eða tvo fingur.
Disney World hefur lokað starfsemi sinni þrisvar sinnum, í öllum tilfellum í kjölfar hamfara. Eftir flóð 1994 og jarðskálfta 1999 og síðan vegna harmleiksins 11. september 2001 en þann dag tók einungis hálftíma að fjarlægja mörg þúsund gesti út úr garðinum.
Í garðinum er að finna eitt dýrasta flöskuvatn innan Bandaríkjanna.
Ef geimfjallið væri raunverulegt væri það þriðja hæsta fjall í Flórída.
Skellibjalla, sem flýgur yfir höllina eftir flugeldasýninguna, er oftast leikin af karlmanni.
Allt til árins 2001 var starfsfólki garðsins skipað að klæðast nærfatnaði í eigu fyrirtækisins.
Pípur á aðalgötu Magic Kingdom-garðsins úða vanillulykt út í andrúmsloftið. Í desember má hins vegar anda að sér piparmyntulykt.
Yfir tvö hundruð sólgleraugu týnast í garðinum á hverjum degi.
Styttan af Öskubusku virðist vera leið frá sjónarhorni fullorðinna en brosir í augum barna sem horfa upp til hennar.
Rúmlega tvö hundruð kettir búa í garðinum en svimandi háa „hótelleiguna“ greiða þeir með því að halda músum og rottum í lágmarki.
Doritos-snakkið sívinsæla kom fyrst á markaðinn í Disney World.
Úrvalið af íslenskum bjór hefur aukist mikið síðustu ár. Nokkrar tegundir hafa unnið til alþjóðlegra verðlauna og bruggmeistarar geta verið stoltir af þessari flottu framleiðslu. Bjórinn okkar er bragðmikill og frábært að nota hann í matargerð og bakstur. Hér er spennandi uppskrift og ég hvet ykkur til að prófa að nota bjórinn í pottrétti og fleiri rétti þar sem gert er ráð fyrir rauðvíni eða hvítvíni í uppskrift.
SMALABAKA MEÐ BJÓRSÓSU fyrir 6-8
4 msk. olía
800 g nautagúllas
1 stór laukur, saxaður
3 hvítlauksgeirar, saxaðir
150 g sveppir, skornir í bita
4-5 gulrætur, skornar í bita
1 flaska bjór, t.d. Norðan Kaldi, Boli Premium, Víking Classic.
2 msk. tómat-purée
2 tsk. nautakraftur
salt og pipar
150 g ostur, rifinn til að setja ofan á
Brúnið lauk og hvítlauk í helmingnum af olíunni í þykkbotna potti þar til laukurinn fer að verða glær, setjið til hliðar. Steikið nautakjötsbitana í því sem eftir er af olíunni, gott að gera það í tvennu lagi svo þeir brúnist vel, bætið lauknum út í. Setjið sveppi og gulrætur saman við og steikið áfram í 2-3 mín. Bætið bjór, tómat-purée og nautakrafti saman við, skrapið góðu skófirnar (það sem kemur af kjötinu ef þið eruð með þykkbotna pott) saman við, látið suðuna koma upp og látið allt malla í 1-1 ½ klst. Hitið ofninn í 200°C. Hellið kjötréttinum í ofnfast fat. Dreifið kartöflumúsinni yfir og stráið osti yfir hana. Bakið í 20 mín. eða þar til osturinn er bráðinn.
1 kg kartöflur
½ dl mjólk
salt og pipar
Afhýðið og skerið kartöflur í bita. Sjóðið þær í saltvatni þar til þær eru gegnumsoðnar. Hellið þeim í sigti og setjið aftur í pottinn. Hellið mjólk út í, bragðbætið með salti og pipar og stappið saman með stappara.
Íslenska fjölskyldumyndin Lói þú flýgur aldrei einn var forsýnd síðasta fimmtudagskvöld við hátíðlega athöfn í Smárabíói en framleiðendur myndarinnar buðu áhorfendur velkomna í bíó með poppkorni og köldum svaladrykk sem var vel við hæfi enda höfðar myndin til yngstu áhorfendanna.
Myndin segir frá litlum lóu-unga sem verður viðskila við fjölskyldu sína og þarf að komast af veturlangt á Íslandi við harðan kost.
Á vegi hans verða ýmsir fjörlegir fuglar og önnur dýr sem öll hafa þjóðernislega skírskotun enda ber sviðsmyndin þess glögglegt merki að myndin sé ætluð á alþjóðlegan markað þar sem sér-íslensk náttúrueinkenni fá notið sín með túnfífla og aðalbláber í forgrunni.
Engu er til sparað við gerð myndarinnar en sjö ár eru nú síðan handritshöfundurinn, Friðrik Erlingsson kom að máli við þá Gunnar Karlsson og Hilmar Sigurðsson sem framleiddu myndina á fimm árum undir leikstjórn Árna Ólafs Ásgeirssonar. Alls komu 400 listamenn að gerð myndarinnar sem teiknuð er í þrívídd en unnin að hluta til í Belgíu. Myndin er önnur íslenska teiknimyndin í fullri lengd og hentar börnum á öllum aldri. Handritið er fantaflott og munu margar setningar myndarinnar lifa lengi í hjörtum áhorfenda.
„Það var ekki það sem ég sagði, heldur það sem hann heyrði mig segja.”
Tónlist leikur jafnframt veigamikið hlutverk í myndinni en Sinfoníuhljómsveit Norðurlands spilar undir í áhrifaríkum atriðum ásamt þeim Högna Egilssyni og Gretu Salóme sem syngur lokalag myndarinnar.
Talsetningin er líka fyrsta flokks og ber þar helst að nefna hinn unga Mattíhas Mattíhasarson sem ljær útilegufuglinum Lóa rödd sína, en mítan um munaðarleysingjann er sannarlega lífseig meðal barnasagna.
Eina aðfinnslan við myndina var hve lítið fuglsungarnir höfðu stækkað á heilu ári og hvernig hvíti felulitur rjúpunnar hélst óbreyttur yfir sumartímann. Að öðri leiti er Lói litli frábær afþreying og á vonandi eftir að skína skært sem fögur landkynning víða um heim.
„Lífið snýst um að læra, læra af sjálfum sér og öðrum. Við vitum aldrei hvaða verkefni við fáum og það skiptir svakalega miklu máli hvernig við tæklum verkefnin. Lífið getur tekið óvæntar beygjur hvenær sem er. Munum að lifa í dag,“ segir hin 36 ára Guðný Ásgeirsdóttir. Guðný er læknir og í sérnámi í heimilislækningum en hún greindist með brjóstakrabbamein fyrir rúmum þremur árum.
Guðný lærði læknisfræði í Danmörku og var 29 ára þegar hún fann fyrst fyrir hnút í brjóstinu.
„Ég lét skoða þetta úti í Danmörku þar sem ég bjó, fór þar í brjóstamyndatöku og ómskoðun og var þetta talið vera góðkynja æxli, sem sagt ekki krabbamein. Ekki þótti þörf á eftirliti. Svo flyt ég heim til Íslands í byrjun árs 2014 og fer þá að vinna á heilsugæslu. Ég fylgist vel með hnútnum og finn að hann er eitthvað að breytast, stækkar og verður harðari, eiginlega eins og bingókúla,“ segir Guðný, sem reyndi fyrst um sinn að hunsa vöxtinn í brjóstinu.
„Ég reyndi fyrst að humma fram af mér að láta skoða þetta því ég hafði jú látið skoða þetta í Danmörku. Ég var þó alltaf að hugsa að þetta væri eitthvað skrítið og gæti alveg eins verið krabbamein, svona miðað við það sem ég hafði lært. Svo kemur til mín ung stúlka á heilsugæsluna með hnút í brjósti. Ég sendi hana áfram í skoðun og fæ svo fréttir af því að hún hefði greinst með brjóstakrabbamein. Það vakti mig til umhugsunar, fyrst hún gat greinst með brjóstakrabbamein svona ung gæti ég það í raun alveg líka. Þá ákvað ég að skella mér í skoðun og reyndist þá grunur minn réttur því miður, ég var líka með brjóstakrabbamein.“
Mistök þegar átti að tilkynna fréttirnar
En hvernig tilfinning var það að greinast með krabbamein svona ung?
„Það er eiginlega mjög erfitt að lýsa tilfinningunni. Ég var til dæmis fyrst mjög reið, en það var aðallega af því það urðu mistök þegar ég fékk fréttir af þessu í fyrsta skipti. Ég hafði farið niður í Krabbameinsfélag og þar var tekið sýni. Læknirinn sem ég hitti hafði beðið mig um að vera með símann á mér milli klukkan 13 og 14 mánudaginn eftir og svara ef hún myndi hringja. Ég er svo að vinna á heilsugæslunni og er með móttöku þar sem ég tek á móti sjúklingum og er með viðtöl. Ég er með skjólstæðing inni hjá mér þegar síminn hringir og ég afsaka mig og segist þurfa að taka símtalið. Þá er í símanum hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum sem segir mér að ég eigi tíma hjá skurðlækni á morgun og hvort það sé möguleiki að flytja tímann. Ég verð náttlega mjög hissa og skil ekki alveg símtalið þar sem ég hafði jú ekki enn fengið að vita niðurstöðuna úr sýnatökunni. Hún afsakar sig og segist líklega vera að hringja á undan lækninum. Þá fatta ég að þetta þýði líklega að ég er með krabbamein. Ég ákvað að reyna að hugsa ekki um það og bíða eftir að læknirinn myndi hringja. Ég held áfram með viðtalið en er í hálfgerðri geðshræringu og meðtók líklega ekkert það sem skjólstæðingurinn sagði. Læknirinn hringir svo 5 mínútum síðar og segist vilja hitta mig. Ég verð þá svolítið reið og segist alveg vita hvað hún sé að fara að segja við mig. Ég fór svo og hitti lækninn og við fórum yfir málið. Ég hef svo hitt hjúkrunarfræðinginn oft eftir þetta og hún er ekkert nema yndisleg,“ segir Guðný. Hún segir næstu daga hafa liðið hjá í hálfgerðri móðu.
„Eftir þessa reiðitilfinningu man ég eftir hræðslu. En í raun er þetta allt í hálfgerðri móðu. Líklega vegna þess að áfallið var mikið. Ég man samt að ég hugsaði mjög fljótt að ég vildi geta eignast börn þrátt fyrir þetta. Ég hafði ekki enn eignast barn og var bara nýbyrjuð með kærastanum mínum þarna. Ég vildi sko ekki missa möguleikann á því að geta eignast barn síðar meir og var það eitt af því fyrsta sem ég ræddi við skurðlækninn minn.“
Erfið áramót
Guðný greindist með brjóstakrabbamein þann 15. desember 2014, í miðju læknaverkfalli. Jólahátíðin var því frekar skrýtin það árið, en sem betur fer komst Guðný undir hnífinn áður en nýja árið gekk í garð.
„Ég vissi ekkert hvenær ég færi í aðgerð til að fjarlægja meinið en skurðlæknirinn hafði sagt mér að líklega væri það ekkert fyrr en á næsta ári, sem mér fannst fáránlegt. Ég vildi bara losna við krabbameinið strax í dag. Jólin voru frekar dofin. En svo fékk ég símtal frá skurðlækninum milli jóla og nýárs um að hann hefði komið mér að í skurðaðgerð á gamlársdagsmorgun, 31. desember. Ég þáði það með þökkum og endaði því á að eyða áramótunum á Landspítalanum. Ég var reyndar frekar óheppin að eftir aðgerðina, sem var fleygskurður, hafði opnast æð í brjóstinu og blætt mikið inná brjóstið. Ég varð mjög lasin og féll til dæmis mjög mikið í blóðgildinu. Þetta voru því ansi erfið áramót en tilhugsunin að geta byrjað árið 2015 krabbameinsfrí var svakalega góð.“
Notar árið 2018 til að búa til barn
Við tók frjósemismeðferð í Svíþjóð í janúar og síðan lyfjameðferð sem hófst í febrúar.
„Lyfjameðferðin samanstóð af tvenns konar meðferð. Fyrst fékk ég lyf vikulega í tólf vikur og eftir það lyf á þriggja vikna fresti í aðrar tólf vikur. Eftir það fór ég í 33 geislameðferðir, alla virka daga, sem tók sirka sex vikur. Síðan þurfti ég að halda áfram að fá eitt lyf á þriggja vikna fresti en það þurfti ég að fá uppá Landspítala í heilt ár. Eftir þetta hef ég verið í hormónameðferð sem samanstendur af töflum og sprautum sem ég sé um sjálf. Þessi lyf þarf ég að fá næstu tíu árin,“ segir Guðný. Hún fær hins vegar núna að taka sér pásu frá hormónameðferðinni til að reyna við barneignir. í Svíþjóð lét hún frysta ófrjóvguð egg, þar sem meðferðin sem hún fór í getur valdið ófrjósemi.
„Ég hafði kynnst kærastanum mínum, sem nú er unnusti minn, aðeins þremur mánuðum áður en ég greinist. Ég fór í Art Medica og hitti þar lækni sem sagði mér að skynsamlegast væri að frysta ófrjóvguð egg þar sem við hefðum verið svo stutt saman og lögin á Íslandi segja að ég megi ekki nota fósturvísi fyrrverandi maka þó svo að hann gefi fullt leyfi. Allt getur gerst og því var þetta ákveðið. Ég flaug sem sagt út til Svíþjóðar því ekki var hægt að frysta ófrjóvguð egg hérlendis á þessum tíma. Mér skylst að það sé hægt núna hjá IVF klínikkinni. Nú hugsa ég alltaf um eggin mín sem litlu Svíana mína, þar sem eggin hafa „búið” í 3 ár í Svíþjóð,“ segir Guðný og brosir.
„Í rauninni er þetta ferli allt komið af stað og ef allt gengur vel hugsa ég að ég noti árið 2018 í að búa til eins og eitt stykki barn.“
Ekki alslæmt að greinast með krabbamein
Hún segir þetta ferli hafa sína ljósu punkta, þó erfitt sé.
„Þetta ferli hefur verið langt og strangt en alls ekki alslæmt. Það hefur alveg komið fullt jákvætt útúr þessum veikindum, eins og dýrmæt reynsla. Að prófa að sitja hinumegin við borðið og vera sjúklingur. Þó mér hafi í raun aldrei liðið eins og sjúklingi, þá er ég allavega búin að prófa þetta og skil vonandi skjólstæðingana mína betur. Einnig hef ég kynnst mikið af fólki sem allt hefur kennt mér eitthvað. Og svo er auðvitað mjög dýrmætt að finna stuðning frá ættingjum og vinum. Ég er alveg örugglega búin að breytast að einhverju leyti, það er líklega auðveldara fyrir aðra að dæma um það. Ég tel samt að ég hafi alltaf verið frekar jákvæð manneskja og hefur það alveg örugglega hjálpað mér að tækla þessi veikindi. Ég var líka heppin að ég varð aldrei mjög lasin. Var oft þreytt og uppgefin en aldrei þannig að ég þyrfti að liggja í rúminu heilan dag. Ég reyndi eftir fremsta megni að fara út á meðal fólks á hverjum degi og fór til dæmis mikið í ræktina með Ljósinu og einnig á ýmis námskeið hjá Ljósinu. Ég fór einnig í nokkra sálfræðitíma hjá Krafti og hitti stuðningsfulltrúa í gegnum Kraft sem var ung stelpa sem hafði gengið í gengum svipað ferli,“ segir Guðný. Hún er ekki frá því að hún kunni meira að meta daginn í dag en áður.
„Ég hef alltaf verið dugleg að njóta í núinu en líklega hugsa ég enn meira um það nú. Ekki fresta því sem mig langar til að gera eða upplifa. Reyna að umvefja mig jákvæðu og skemmtilegu fólki og gera meira af því sem mér finnst skemmtilegt. Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er til dæmis að ferðast og hef ég verið dugleg við það síðustu ár. Einnig finnst mér mikilvægt að vera dugleg að heimsækja fjölskyldu og vini þar sem maður veit aldrei hvenær við hittumst í síðasta skipti,“ segir hún.
Þiggið alla hjálp sem býðst
Guðný segir stuðning frá fjölskyldu og vinum ómetanlegan, en einnig stuðning frá Krafti, félags ungs fólks sem hefur greinst með krabbamein og aðstandenda þess. Hún segir sögu sína í nýju átaki Krafts, Krabbamein kemur öllum við, sem lýkur á sunnudag 4. febrúar, á alþjóðdegi gegn krabbameini. Þá ætlar Kraftur að setja Íslandsmet í perlun armbanda í Hörpu. En áður en ég kveð þessa jákvæðu, ungu konu verð ég að spyrja hana hvað hún vill segja við þá sem greinast með krabbamein í blóma lífsins?
„Þetta er í flestum tilfellum ekki dauðadómur. Flestir lifa góðu lífi þrátt fyrir greiningu. Reynið að einblína á jákvæðu hliðarnar, það er ekki allt slæmt við að greinast með krabbamein. Gerið meira fyrir ykkur sjálf og þiggið alla þá hjálp og stuðning sem býðst. Mér fannst gott að líta á veikindin sem verkefni. Verkefni sem ég þurfti að gefa allan minn tíma og orku í en svo kláraðist það að lokum. Þetta er oftast bara tímabil sem þarf að komast í gegnum. Það að segja að fólk sé að „berjast“ við krabbamein finnst mér ekki lýsa þessu rétt. Flestir eru ekki að berjast en frekar að ganga í gegnum og leysa verkefnin sem verða á veginum.“
Texti / Lilja Katrín [email protected]
Myndir / Úr einkasafni og Kraftur
Tinna Bessadóttir hönnuður bjó ásamt fjölskyldu sinni í Treviso Veneto sem er í hálftíma akstursfjarlægð frá sjálfum Feneyjum.
„Treviso er eldgömul borg sem á sér sögu allt frá 100 árum fyrir Krist. Borgin er byggð með hliðsjón af Feneyjum. Feneyjar voru ekki með her en herinn í Treviso varði Feneyjar. Borgin á sér mikla menningarsögu og miðbærinn er byggður inn í virki umkringt sýkjum sem kallast Le Mura-sýkin og setja mikinn svip á bæinn. Þau minna á Feneyjar. Innan veggja miðbæjarins búa um 3.000 manns og erfitt að fara um á bíl en innan marka Treviso búa um 82.535 manns. Við vorum svo heppin að fá yndislega fallega íbúð rétt við múrinn og sóttum því alla okkar þjónustu, líkt og skóla barnanna, innan veggja miðbæjarins,“ segir Tinna.
Ódýrt flug
Treviso er frekar rík borg og Veneto-fylkið er það fylki sem á hvað mesta peninga á Ítalíu. „Það er lítið um fátækt í Treviso og mjög lág glæpatíðni. Sem dæmi má nefna að þá stendur á stóru skilti í hjarta miðbæjarins, á torginu Piazza Del Signore, stórum stöfum: „Treviso mafíulaus borg“.
Ryanair flýgur beint til Treviso frá London og er ekkert mál að finna flug þaðan fyrir 3.000-4.000 krónur. Það er einnig flogið frá Billund og þegar ég bjó í Danmörku var ódýrara fyrir mig að fljúga frá Billund til Treviso en að taka lestina frá Suður-Jótlandi til Kaupmannahafnar. Hótel og gistiheimili eru ódýrari þar en nálægt Feneyjum en það tekur um hálftíma að taka lestina til Feneyja, tæpa tvo tíma til Verona og þrjá tíma til Mílanó.“
Uppruni tiramisu
Tiramisu-kakan kemur uppunalega frá Treviso og veitingastaðurinn Le Beccherie, sem fann hana upp, er enn starfandi. „Hann var í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi, eða frá 1960, en árið 2014 var hins vegar skipt um eigendur. Sama tiramisu-kakan hélt að sjálfsögðu sínum sess á matseðlinum. Tiramisu-kakan er stolt ítalskrar matarmenningar og mæli ég hiklaust með að stoppa á þessum sögufræga stað og fá sér sneið. Heimilisfangið er Piazza Giannino Ancilotto 11, 31100 Treviso.“
Ekta ítalskur markaður
Rétt innan veggja múrsins er haldinn markaður alla fimmtudags- og laugardagsmorgna. „Á þessum markaði fæst allt milli himins og jarðar og hægt að upplifa sanna ítalska menningu eins og maður sér í gömlum bíómyndum. Fatnaður, heimilisáhöld, blóm, falleg veski, efnisstrangar með fallegu silki, pelsar og svona mætti lengi telja, flæða um, ásamt ferskum ávöxtum og grænmeti sem kemur beint frá bónda. Fiskur, kjöt og ostar eru einnig til staðar og kemur það allt líka beint frá bónda, afgreitt með bros á vör.
Alla þriðjudags- og laugardagsmorgna er fiskmarkaður á lítilli eyju í hjarta miðbæjarins, Isolotto della Pesceria. Þessi litla eyja er umkringd fersku vatni sem liggur í gegn um allan miðbæinn. Markaðurinn hefur verið þarna allt frá árinu 1854 og má oft sjá innfædda renna fyrir fiski á brúnni og iðandi fuglalíf sem setur skemmtilegan blæ á listaverk borgarinnar. Umhverfis eyjuna eru fjöldinn allur af litlum trattoria-veitingastöðum þar sem gott er að setjast með litla smárétti og vínglas, best er að panta einn af öllum. Það er gaman að segja frá því að vatnið innan múra Treviso er það hreint að það má vel drekka beint úr krananum.
Fjórða sunnudag hvers mánaðar er antíkmarkaður við hlið Borgo Cavour. „Þar er endalaust hægt að gramsa og finna ótrúlegar gersemar.“
Fræg fatamerki
Piazza Del Signori er stærsta torg miðbæjarins með ótal veitingastaði. „Þar er yndislegt að setjast niður og fá sér pizzu og spriz að hætti heimamanna. Á kvöldin um helgar er oft lifandi tónlist og dansað á torginu við harmonikuspil eða ýmsar aðrar uppákomur. Þar er ávallt mikið mannlíf að hætti ítalskrar menningar, eins og brúðkaup, skrúðgöngur og sýningar af ýmsu tagi.
Það er gott að versla í borginni en flestar þær verslanir sem eru innan veggja miðbæjarins eru frekar í hærri kantinum fyrir utan stóra og glæsilega H&M-verslun. Benetton-fjölskyldan er frá Treviso og bjuggu þeir bræður einmitt í bleikri höll sem prýddi enda götunnar okkar
Í Treviso eru höfuðstöðvar merkjanna Benetton, Sisley, Stefanel, Geox, Diadora og Lotto Sport. Það er gott að versla í borginni en flestar þær verslanir sem eru innan veggja miðbæjarins eru frekar í hærri kantinum fyrir utan stóra og glæsilega H&M-verslun. Benetton-fjölskyldan er frá Treviso og bjuggu þeir bræður einmitt í bleikri höll sem prýddi enda götunnar okkar.“
Frægur tenór
Einn frægasti tenór Ítala, Mario Del Monaco, er frá Treviso. „Finna má styttur og leikhús í hans nafni í borginni. Það er um að gera að skella sér í leikhús eða á tónleika í hinu glæsilega leikhúsi Teatro Comunale Mario Del Monaco, teatrocomunaletreviso.it. Það er gaman að segja frá því að við bjuggum einmitt í gullfallegri íbúð bróður Del Monaco á meðan á dvöl okkar stóð í borginni. Þess vegna snart allt sem varðaði þennan söngvara, sem hafði áhrif á sjálfa Pavarotti og Domingo, okkur djúpt.“
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Aðalmynd: Tinna Bessadóttir ásamt fjölskyldunni
Undanfarin ár hefur kvikmyndaverum tekist að fá öfluga leikara til að fara með aðalhlutverkið í tölvuleikjamyndum og þannig aukið aðsókn á þær. Hér eru nokkrar af þeim þekktustu.
Faldir fjársjóðir
Tölvuleikirnir um Löru Croft nutu gríðarlegra vinsælda á síðasta áratug og gerðar voru tvær kvikmyndir með Angelinu Jolie í aðalhlutverki. Lara Croft kemur úr breskri aðalsfjölskyldu, en stundar það að fara á sögulega staði og safna fornmunum, úr musterum, gömlum borgum, og fleiri slíkum stöðum, víða um heiminn, og hún lætur ekkert stöðva sig, ekki einu sinni lífshættulegar aðstæður. Í fyrri myndinni, Lara Croft: Tomb Raider, sem kom út árið 2001 berst Lara við leynifélag sem kallast Illuminati í leit að fornum verndargrip sem gefur þeim sem hefur hann undir höndum möguleika á því að stjórna tímanum. Í mynd númer tvö, Lara Croft Tomb Raider: The Cradle of Life, leitar hún að öskju Pandóru í keppni við kínversk glæpasamtök. Nú er von að nýrri mynd með Aliciu Vikander í hlutverki Löru Croft.
Aftur í tíma
Assassin’s Creed-tölvuleikirnir eru níu talsins og gerast allir á tímum sögulegra átaka. Aðalsöguhetjan Desmond Miles getur ferðast aftur í tíma í gegnum minningar forfeðra sinna og getur þannig haft áhrif á framgang sögunnar. Skömmu fyrir áramót kom út kvikmynd sem er sjálfstæð eining innan þessa heims og kynnt er til sögunnar ný hetja. Callums Lynch er afkomandi hins vígfima Aguilar sem ásamt félögum sínum barðist á móti óréttlæti á tímum spænska rannsóknarréttarins. Með sérstakri tækni getur Callum ferðast aftur í tímann, tekið sér bólfestu í líkama Aguilar og haldið verkum hans áfram. Það er enginn annar en Michael Fassbender sem fer með hlutverk Lynch og Aguilar í kvikmyndinni (sjá aðalmynd).
Ógn uppvakninga
Resident Evil er líklega stærsta kvikmyndasería sem byggð er á tölvuleik. Þrátt fyrir slæma dóma njóta kvikmyndirnar mikilla vinsælda og nú er von á sjöttu og síðustu myndinni. Myndirnar segja frá fyrirtækinu Umbrella sem er eitt valdamesta fyrirtæki heims en það á velgengni sína að þakka rannsóknarstöð neðanjarðar þar sem nýstárleg vopn eru prófuð og framleidd. Í fyrstu myndinni er sagt frá því þegar veira sem fyrirtækið býr til, sleppur út og breytir hundruðum vísindamanna í hungraða uppvakninga. Tölvukerfið lokar stöðinni vegna sýkingarhættu og Alice ásamt neyðarsveit er send til að slökkva á tölvunni og koma höndum yfir veiruna. Það gengur ekki alveg eftir og veiran sleppur út og verður að faraldri. Í næstu fimm myndum reyna Alice og föruneyti hennar að ráða niðurlögum Umbrella og bjarga mannkyninu frá uppvakningum.
Prinsinn til bjargar
Í Prince of Persia-leikjunum er fylgst með prins einum í Persíu á miðöldum sem lendir í ýmsum ævintýrum og hremmingum. Leikurinn kom fyrst út árið 1989 og var endurvakinn árið 2003. Kvikmyndin Prince of Persia: The Sands of Time sem er byggð á leiknum kom út árið 2010 og segir í raun bakgrunnssögu prinsins, en hann er í raun ekki raunverulegur prins heldur fátækur munaðarleysingi sem konungurinn tók í fóstur. Á fullorðinsárum fær hann tækifæri til að endurgjalda greiðann og bjarga konunginum. Hann þarf að stöðva fyrirætlanir bróður konungsins sem ætlar að breyta tímalínunni með hjálp Tímarýtingsins þannig að konungurinn deyr sem barn og bróðirinn verði konungur. Myndin skartar einvala liði leikara, svo sem Jake Gyllenhal og Ben Kingsley, en hún fékk engu að síður fremur lélega dóma gagnrýnenda.
Breytingar á fæðingarblettum geta verið merki um illkynja þróun.
Flest erum við með fæðingarbletti einhvers staðar á líkama okkar. Sumum finnst þeir óþolandi lýti á meðan aðrir sjá þá sem hluta af sínum persónueinkennum. Það er mjög mikilvægt að vera með augun opin fyrir hvers lags breytingum á fæðingarblettum því það getur verið merki um illkynja þróun.
Allir ættu að framkvæma fæðingarblettaskoðun á sjálfum sér og sínum nánustu. Þá er gott að styðjast við þumalputtareglu húðsjúkdómasérfræðinga: ÓJLÞT-regluna.
Ó stendur fyrir ósamhverfa bletti á einni eða tveimur hæðum. Því ósamhverfari, því meiri hætta. J stendur fyrir jaðar. Það er ekki góðs viti ef hann er óskýr og óreglulegur. L stendur fyrir litbrigði. Eru margir litir í blettinum, þar á meðal brúnn, svartur, rauður, hvítleitur eða fjólublár? Það er frekar óheppilegt. Einlitir ljósir og jafnvel miðlungsbrúnir blettir eru hins vegar alla jafna í lagi. Þ er fyrir þvermál. Fæðingarblettur sem mælist minna en hálfur sentimetri í þvermál er venjulega góðkynja. Ef hann er stærri en hálfur sentimetri og fer stækkandi er það ekki góðs viti. T stendur fyrir tignarleika eða ris. Fæðingarblettur sem hefur alltaf verið tignarlegur, nabbalegur og hægt er að hreyfa fram og til baka er alla jafna góðkynja. Fæðingarbletti sem alltaf hafa verið sléttir en virðast svo verða þykkari eða nabbalegri með tímanum þarf að skoða hið fyrsta.
Blaðamaður og ljósmyndari Húsa og híbýla heimsóttu þau Steingrím Gauta Ingólfsson myndlistarmann og Hjördísi Gestsdóttur fatahönnuð á hrollköldum föstudagsmorgni nýverið. Hlý og notaleg íbúð þeirra er staðsett í Hlíðunum en þar búa þau ásamt 9 mánaða dóttur sinni Júlíu Eir. Húsið sem var byggt árið 1946 er að þeirra sögn einskonar fjölskylduhús.
„Nú búa hér þrjár kynslóðir undir sama þaki,“ segir Hjördís, en foreldrar hennar hafa búið í húsinu í um þrjátíu ár, sjálf fluttu þau í húsið árið 2011.
Við ræðum um hvort það hafi margt þurft að fjúka þegar þau hófu sambúð. Steini talar um „Darwinisma stílsins“, en hann telur að hjá þeim hafi orðið ákveðin þróun eftir að þau fluttu inn saman. „Sá aðili sem hefur betri stíl endar á því að hafa mest að segja um hvað sé valið inn á heimilið – sem er Hjördís í okkar tilviki,“ segir hann og skellir upp úr. Hjördís segir það samt sem áður hafa komið sér skemmtilega á óvart hvað Steini vildi hafa mikið að segja varðandi stílinn inni á heimilinu en hún ólst upp við að mamma hennar sá aðallega um að fegra heimilið.
Við litum inn á vinnustofu listamannsins
Steingrímur Gauti útskirfaðist með bakkalárgráðu í myndlist árið 2015 frá Listaháskóla Íslands en á námstíma sínum hélt hann einnig í skiptinám til Berlínar. Við fengum að kíkja í stutta heimsókn á vinnustofu hans sem er staðsett á Eyjaslóð úti á Granda, en þar hefur hann verið með aðstöðu í um tvö ár.
Hvenær byrjaðir þú að skapa og fikta við listina, og hvað varð til þess að þú ákvaðst svo að læra myndlist? „Ég hef alltaf verið alveg teiknisjúkur, alveg síðan ég var barn. Svo fór ég í skóla og lærði fullt af allskonar rugli og varð fullorðinn. Fór svo aftur í skóla til að læra að vera barn aftur. Maður þarf að vera barnalegur til þess að geta búið til myndlist. En planið var að verða arkitekt. Svo var ég í Myndlistarskólanum í fornáminu og byrjaði eitthvað að fikta við að mála og ákvað að reyna við myndlistina, “ svarar Steingrímur hress í bragði.
Texti / Elín Bríta
Myndir og myndband / Aldís Pálsdóttir
Brasilíska ofurfyrirsætan Gisele Bündchen prýðir forsíðu tímaritsins Vogue Italia sem fer í sölu í dag. Gisele er algjörlega ómáluð á forsíðunni, sem og á myndum inni í tímaritinu, en þetta er í fyrsta sinn í sögu ritsins þar sem forsíðustúlkan er ómáluð og ekki er heldur búið að eiga við hár hennar.
Það var ljósmyndarinn Jamie Hawkesworth sem tók þessar fallegu myndir af Gisele, en serían heitir einfaldlega Sunday With Gisele, eða sunnudagur með Gisele.
Inni í tímaritinu veitir hún lesendum innsýn í líf sitt með ruðningsstjörnunni Tom Brady á heimili þeirra í Boston. Virðist líf fyrirsætunnar ósköp venjulegt, þó hún sé næsthæstlaunaðasta fyrirsæta heims og gift stjörnunni í New England Patriots, en liðið tapaði í Ofurskálinni síðustu helgi.
Til að gera nándina enn meiri, notaði Jamie eingöngu náttúrulega birtu þegar hann myndaði Gisele. Þá tók hann myndirnar á filmu, uppá gamla mátann, til að tryggja að ekki yrði átt við hreint og fagurt andlit fyrirsætunnar.
Vogue Italia deilir einnig mínútu löngu myndbandi af fyrirsætunni þar sem hún talar meðal annars um barnæskuna og móðurhlutverkið. Einstaklega einlægt og fallegt myndband sem sjá má hér fyrir neðan:
„Ég hataði allt við sjálfa mig og það var erfið staða að vera í,“ segir hin 31 árs gamla Katie Bolden í viðtali við tímaritið People. Tímaritið gaf nýverið út aukablað um fólk sem hefur lést um helming af líkamsþyngd sinni, og er Katie ein þeirra.
Þegar Katie var þyngst var hún tæplega 130 kíló. Venjuleg kvöldmáltíð fyrir hana var heil, stór pítsa og franskaskammtur. Hún hafði reynt ýmsa megrunarkúra á fullorðinsárum en ekkert virkaði, en Katie var einnig illa haldin af kvíða og þunglyndi.
Það var síðan í nóvember árið 2010 að hún var greind með fjölblöðrueggjastokka heilkenni, sem þýddi að það yrði henni erfitt að eignast barn.
„Þetta voru hræðilegar fréttir, því mig hafði dreymt um að vera móðir öll fullorðinsárin. Ég vissi alltaf að mig langaði í fjölskyldu með eiginmanni sínum,“ segir Katie í samtali við People. Það var hins vegar ekki fyrr en hún fór að finna fyrir sjóntruflunum og var greind með MS þremur árum síðar að hún ákvað að breyta lífsstíl sínum.
„Ég fylltist eldmóði. Ég var svo hrædd við að geta hugsanlega ekki gengið eða séð í framtíðinni. Ég gerði mér grein fyrir því að ég var bara að eyða lífinu mínu og það var kominn tími til að gera eitthvað og byrja að lifa lífinu,“ segir Katie.
Átján kíló í einum mánuði
Katie byrjaði á því að nota smáforritið MyFitnessPal til að fylgjast með hve margar kaloríur hún innbyrti yfir daginn og hve mikið prótein hún var að borða. Hægt og rólega hætti hún að borða skyndibitamat og byrjaði að ganga og synda reglulega. Það var hins vegar ekki tekið út með sældinni að breyta um lífsstíl og reyndist það henni afar erfitt til að byrja með.
„Fyrsta vikan var erfið. Ég var svöng, ég var sólgin í mat. En eftir nokkrar vikur byrjaði ég að sjá árangur og það hélt mér gangandi. Ég léttist mikið fyrstu mánuðina, til dæmis átján kíló í einum mánuði.“
Á góðum stað í dag
Fyrsta árið léttist Katie um 34 kíló og náði þá að verða ólétt af sínu fyrsta barni. Fimm mánuðum eftir barnsburð byrjaði Katie að æfa á ný og þremur og hálfu ári eftir að hún hóf lífsstílsbreytinguna var hún búin að léttast um tæplega sjötíu kíló.
Og viti menn, hún fékk fulla sjón á ný og er ekki lengur með fjölblöðrueggjastokka heilkenni. Hún er enn með MS sjúkdóminn, enda er hann ekki afleiðing af þyngdinni, en hún finnur ekki mikið fyrir einkennum sjúkdómsins.
„Ég horfi til baka á allt sem ég gerði og hugsa: Gerði ég þetta í alvörunni? Ég veit að ég er á góðum stað, líkamlega og andlega, því ég var með ofboðslega mikinn kvíða en fór samt út og gerði þetta,“ segir Katie.
Hér fyrir neðan má sjá myndband af Katie þar sem hún opnar sig um þessa vegferð sem hefur komið henni á betri stað í lífinu.
Indra Nooyi, forstjóri PepsiCo, sem framleiðir til dæmis Doritos, lét hafa eftir sér í hlaðvarpi í vikunni að fyrirtækið væri að þróa sérstakar Doritos-flögur fyrir konur.
„Þegar maður horfir á mikið af ungum strákum að borða flögurnar, en þeir elska sitt Doritos, þá sleikja þeir fingur sína af innlifun og þegar flögurnar eru búnar hella þeir mylsnunni uppí munninn sinn, því þeir vilja ekki fara á mis við bragðið og mylsnuna á botninum.
Konur myndu vilja gera slíkt hið sama en þær gera það ekki. Þær vilja ekki að heyrast hátt í flögunum á almannafæri. Og þær sleikja ekki fingur sína og þær vilja ekki hella mylsnuninni og kryddinu í munninn sinn,“ sagði Indra í hlaðvarpinu.
Þessi orð Indru hafa farið sem eldur um sinu á internetinu, en Indra sagðist í framhaldinu vera með lausn á þessu svokallaða vandamáli. Að framleiða sérstakar flögur fyrir konur sem heyrðist minna í og sem skildu minna krydd eftir á fingrum.
„Þetta er ekki karlkyns og kvenkyns útgáfa af flögunum heldur meira snakk fyrir konur sem getur verið hannað öðruvísi og sett í öðruvísi umbúðir. Við erum að skoða þetta og við ætlum að setja fullt af svona vörum á markað bráðum. Fyrir konur, hljóðlátar flögur með sama bragðinu en með minna kryddi sem festist á fingrum og hvernig passa þær í tösku? Af því að konur elska að vera með snakk í töskunni,“ sagði hún.
Birtingarmynd kjaftæðis sem konur þurfa að þola
Konur á samfélagsmiðlum hafa látið í sér heyra út af þessum ummælum Indru og er ekki skemmt. Þeirra á meðal er spéfuglinn Kathy Griffin, sem segir að þessi orðræða sé hluti af stærra vandamáli.
„Þetta gæti virkað kjánalegt fyrir suma en á einhverjum tímapunkti í lífinu er flestum konum sagt að þær séu of háværar, taki of mikið pláss, að við séum of mikið. Ef Doritos ætlar að gera þetta er þetta eingöngu birtingarmynd þess kjaftæðis sem konur þurfa að þola á heimilinu og á vinnustað,“ tísti Kathy.
This may seem silly to some folks but at one point or another most women are told that they’re too loud, take up too much space, that we’re too much. If Doritos is actually doing this it’ll just represent the BS women have had to deal with at home and at work. #CrunchLouderhttps://t.co/ScaAD0Qf12
PepsiCo hefur nú gefið það út að fyrirtækið muni ekki setja á markað sérstakar dömuflögur.
„Við erum nú þegar með Doritos fyrir konur – þær heita Doritos og milljónir manna njóta þeirra á hverjum degi. Á sama tíma vitum við að þarfir og langanir breytast og að við þurfum alltaf að finna nýjar leiðir til að gleðja neytendur,“ segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.
Hér fyrir neðan má síðan sjá nokkur gamansöm tíst um þá vægast sagt skringilegu hugmynd að ætla, árið 2018, að framleiða sérstakt snakk fyrir konur:
Things I don’t want:
– Lady Bic pens
– Lady whisk(e)y
– Lady Doritos
Thank god because my fragile, feminine, woman jaw just about breaks every time I have a normal dorito. By the time I finish a bag, I’ve already been to the hospital 17 times for a shattered lady mandible! It hurts my girlish dainty hands to type this out, but thank you Doritos! https://t.co/sJJ2HsCWYJ
If someone could get me some Lady Mountain Dew to drink (no burping ladies!) to go with my Lady Doritos while I oil my Lady Remington (pink oil y’all) inside of Lady Footlocker with my Lady Moonpies (no crumbs ladies) I would be really Lady Grateful
Leikarinn góðkunni John Mahoney, sem er hvað þekktastur fyrir að leika Martin Crane í sjónvarpsþáttunum Frasier, lést síðasta sunnudag á líknardeild í Chicago. Dánarorsök var krabbamein í hálsi. Leikarinn var 77 ára þegar hann lést.
John fæddist í Blackpool á Englandi þann 20. júní árið 1940 en flutti til Bandaríkjanna sem ungur maður. Hann vann við enskukennslu og ritstýrði læknariti áður en hann fékk sig fullsaddan af vinnunni sinni. Hann ákvað að söðla um og fór í leiklistartíma Í St. Nicholas-leikhúsinu. Það má segja að það hafi verið mikið heillaspor því í framhaldinu steig hann í fyrsta sinn á svið, nánar tiltekið árið 1977, og hvatti leikarinn John Malkovich hann að ganga til liðs við Steppenwolf-leiklistarhópinn í Chicago.
Þá fóru hjólin að snúast, en fyrir frammistöðu sína í leikritinu Orphans stuttu síðar fékk John Derwent-verðlaunin og Theatre World-verðlaunin. Árið 1986 hlotnaðist honum síðan sá mikli heiður að hljóta Tony-verðlaunin fyrir bestan leik fyrir frammistöðu sína í leikritinu The House of Blue Leaves eftir John Guare.
Heimurinn kynnist Martin Crane
Fyrsta kvikmyndahlutverkið fylgdi í kjölfarið en árið 1987 fékk hann hlutverk í Tin Men í leikstjórn Barry Levinson. Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar gekk honum vel í leiklistinni og lék í myndum á borð við Moonstruck, Say Anything…, In the Line of Fire, Reality Bites, The American President, Barton Fink og The Hudsucker Proxy.
John sérhæfði sig í að leika hressa menn sem heimurinn hafði farið illa með. Það er því eilítið fyndið að hugsa til þess að hans stærsta hlutverk, í sjónvarpsþáttunum Frasier, hafi verið hinn úrilli Martin Crane, en það tók áhorfendur nokkra þætti, jafnvel heila seríu, að kunna að meta kauða. Martin var faðir Frasier og Niles Crane, mikilla snobbhænsna sem töluðu á tíðum hansi háfleygt, en voru samt hvers manns hugljúfi. Martin var fyrrverandi lögga sem elskaði þægindastólinn sinn meira en allt og sagði hlutina hreint út. Var hann því skemmtilegt mótvægi við vel máli förnu syni sína.
Frasier gekk í ellefu þáttaraðir, frá árinu 1993 til ársins 2004. John var tilnefndur til Emmy- og Golden Globe-verðlaunanna fyrir leik sinn í þáttunum og hlaut Screen Actor’s Guild-verðlaunin árið 2000.
„Frábær leikari – yndislega góð manneskja“
John var greinilega ekki aðeins góður leikari, heldur einnig mikill mannvinur utan tökustaðar því margir hafa minnst leikarans síðustu daga.
„Frábær leikari – yndislega góð manneskja – þér leið betur þegar þú hittir hann – Hvíl í friði John,“ skrifar leikarinn John Cusak á Twitter-síðu sinni, en hann lék með John í Say Anything….
Great actor – lovely kind human -any time you saw him you left feeling better – RIP John … https://t.co/jHXPHm1dEb
„Hinn stórkostlegi John Mahoney lést í dag, 77 ára að aldri. Ég hef aldrei kynnst betri manni eða stórkostlegri leikara. Það er mikil blessun fyrir okkur öll að hafa eytt 11 árum með honum,“ tístar Jeff Greenberg sem sá um leikaraval í Frasier.
The great John Mahoney passed away today at age 77. I’ve not known a kinder man nor more brilliant actor. We were all blessed to have spent 11 glorious years together. pic.twitter.com/hn3SZwuEy4
Leikkonan Peri Gilpin, sem lék Ross í Frasier, birtir mynd af John með hjartnæmri kveðju.
„John að syngja í brúðkaupinu mínu. Horfið á Moonstruck, Say Anything og/eða Frasier eða eitthvað sem þið getið með honum og skálið fyrir John. Haldið minningu hans á lofti.“
John singing at my wedding. Watch Moonstruck, Say Anything and/or Frasier or anything you can with him in it and raise a glass to John. Remember him well. pic.twitter.com/Tj3i5B4x13
Nú stendur veturinn sem hæst og tekur ein pest við af annarri. Það er eðlilegt að fá kvef á veturna, en sumir eru svo óheppnir að fá líka flensu sem er heldur óþægilegri vetrargestur.
Við ákváðum að kíkja á muninn á kvefi og flensu, en hann er nefnilega talsverður.
Eins og þruma úr heiðskýru lofti
Kvefið er þannig gert að það byrjar hægt, þannig að maður hefur nægan tíma til að grípa til viðeigandi varúðarráðstafana.
Hins vegar gerir flensan ekki boð á undan og sér og hellist mjög snögglega yfir sjúklinginn, eins og þruma úr heiðskýru lofti.
Hár hiti fylgir flensunni
Einkenni kvefs í fyrstu eru óþægindi, kláði og særindi í hálsi. Þá fylgja hnerri, nefrennsli og jafnvel rennvot augu. Yfirleitt fylgir kvefi ekki hækkaður hiti en ef einhver hitahækkun verður er hún væg.
Flensunni fylgir hiti sem getur farið uppí 39 til 40°C. Þá einkennir flensuna beinverkir, höfuðverkur og sár, djúpur hósti.
Kvefið gengur yfir á nokkrum dögum
Kvef gengur yfirleitt yfir á nokkrum dögum og varir oftast ekki lengur en viku.
Flensan gengur yfir á fimm til átta dögum, þó slappleiki og hósti geti varað lengur.
Langvarandi hósti eða lungnabólga
Fylgikvillar kvefs geta verið eyrnaverkur, langvarandi hósti og kinnholubólga. Þá þarf að leita til læknis til að fá viðeigandi meðferð.
Alvarlegri fylgikvillar flensunnar eru lungnabólga og þá þarf einnig að leita til læknis varðandi meðferð og lyf.
Dregið úr vanlíðan
Engin lækning er við kvefi og því mikilvægt að draga úr einkennum og vanlíðan. Gott er að hvílast vel og draga úr álagi, sem og að drekka heita drykki, svo sem sítrónuvatn. Hálstöflur og hóstasaft geta gert kraftaverk við að draga úr ertingu í hálsi og mikilvægt að snýta sér reglulega.
Þegar barist er við flensu er nauðsynlegt að hafa hitastillandi lyf við hendina, til dæmis Paratabs og hóstastillandi mixtúru. Þá skiptir hvíld og svefn miklu máli og hægt að leita allra ráða til að minnka vanlíðan á meðan flensan gengur yfir, til dæmis með því að innbyrða mikið af C-vítamíni.
Fyrirsætan, raunveruleikastjarnan, frumkvöðullinn og áhrifavaldurinn Kylie Jenner tilkynnti í gær að hún væri búin að eignast sitt fyrsta barn með kærasta sínum, Travis Scott. Kylie er dóttir Kris og Caitlyn Jenner og hvað þekktust fyrir að taka þátt í raunveruleikaþættinum Keeping Up With the Kardashians með fjölskyldu sinni.
Kylie faldi óléttuna fyrir umheiminum, en þó var mikið búið að skrifa um meinta meðgöngu í öllum helstu fréttamiðlum heims. Hún útskýrði af hverju í færslu á Instagram um leið og hún tilkynnti um fæðingu barnsins.
„Ég ákvað að vera ekki ólétt fyrir framan allan heiminn. Ég vissi að ég þyrfti að undirbúa mig fyrir þetta hlutverk lífs míns á eins jákvæðan, streitulausan og heilbrigðan hátt og ég gat,“ skrifar Kylie og heldur áfram.
„Ég vissi að barnið mitt myndi finna fyrir allri streitu og hverri einustu tilfinningu þannig að ég valdi að gera þetta svona fyrir litla lífið mitt og hamingju okkar.“
Aðdáendur stjörnunnar eru eflaust búnir að sakna hennar, enda er hún þekkt fyrir að fara mikinn á samfélagsmiðlum og leyfa umheiminum að fylgjast með hverju fótspori. En Kylie bætir þessa fjarveru svo sannarlega upp með rúmlega ellefu mínútna löngu myndbandi í heimildarþáttastíl þar sem hún fer yfir meðgönguna.
Myndbandið má sjá hér fyrir neðan, en það byrjar með upptöku frá árinu 1997 þegar Kris Jenner fæddi Kylie. Þá er einnig tekið viðtal við bestu vinkonu Kylie, Jordyn Woods, þar sem hún fer yfir það hvernig Kylie sagði henni stóru fréttirnar. Einnig er að finna fjölmörg myndbrot af kærustuparinu Kylie og Travis, sem hafa ávallt reynt að halda einkalífi sínu út af fyrir sig.
Það er einnig vert að minnast á að í myndbandinu má sjá litlu Chicago West, þriðja barn Kim Kardashian, systur Kylie, og Kanye West sem kom í heiminn með hjálp staðgöngumóður þann 15. janúar. Í myndbandinu sést Kylie halda á litlu frænku sinni á meðan Kim ákveður að undirbúa hana fyrir það sem koma skal.
Ein stærsta stefnumótasíða á netinu í heiminum, Match.com, gaf nýverið út sína árlegu rannsókn á einhleypum í Bandaríkjunum. Í rannsókninni voru spurningar settar fyrir fimm þúsund einhleypa einstaklinga, átján ára og eldri. Var einhleypa fólkið til dæmis spurt út í kynlíf og hvað gæti orðið til þess að samfarir væru slæmar.
82% þeirra sem svöruðu sögðu að of mikið mas í kynlífi væri mjög slæmt, 74% sögðu enga ástríðu gera samfarir slæmar og 63% sögðu litla hreyfingu í bólförum vera afar vont. Þá sögðu 62% að kynlíf væri ekki ánægjulegt ef hinn aðilinn í rúminu væri slæmur að kyssa.
Þegar kom að því að kanna hvað það væri sem gerði kynlíf gott voru 83% sammála um að umhyggjusamur og áhugasamur bólfélagi væri líklegur til vinsælda. Þá sögðu 78% samskipti skipta mestu máli og 76% að kynlífið væri gott ef bólfélaginn væri góður í að kyssa.
Þessir þrír þættir þóttu meira að segja mikilvægari en að fá fullnægingu. Það verður þó að taka það fram að þeir sem svöruðu í rannsókninni sögðu það nánast gulltryggt að báðir aðilar fengju fullnægingu ef samskipti væru góð og ef bólfélaginn væri áhugasamur og góður í kossafimi.
Hryllingsmyndin Hereditary, í leikstjórn Ari Aster, var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa.
Myndin, sem skartar leikurunum Toni Collette, Gabriel Byrne og Ann Dowd í aðalhlutverkum, kemur í kvikmyndahús næsta sumar og fjallar um Annie, sem grunar að yfirnáttúrulegir kraftar hafi heltekið húsið hennar. Hún þarf að kanna það sem býr í myrkrinu til að komst undan hræðilegum örlögum.
Gagnrýnandi The Hollywood Reporter segir að myndin sé tveir klukkutímar af hryllingi sem vindur uppá sig en gefur ekki eftir í eina mínútu. Gagnrýnandi Variety segir að myndin fjalli um mest ógnvekjandi draug allra tíma: andana innra með okkur. Þá segir gagnrýnandi USA TODAY að þetta sé hræðilegasta hryllingsmynd síðari ára.
Við hjá Mannlífi erum strax orðin mjög spennt að sjá myndina, sem hefur fengið lof gagnrýnenda þó hryllileg sé. Hafa sumir meira að segja gengið svo langt að segja að Toni Collette gæti hreppt Óskarsverðlaunin á næsta ári fyrir leik sinn í myndinni.
Gagnrýnandinn Aaron Morgan hvetur fólk á Twitter-síðu sinni til að sleppa því að horfa á stiklu fyrir myndina og horfa frekar á hana án þess að vita nokkurn skapaðan hlut. Við stóðumst samt ekki mátið, horfðum á stikluna og erum nú enn spenntari.
DO NOT WATCH THE #Hereditary TRAILER! Massive spoiler shots. Go in cold to this movie, trust me!
Við sögðum frá skoskri eyju til sölu í síðustu viku, en fyrsta boð í eyjuna var uppá 35 milljónir króna. Við ákváðum því að fara á stúfana og skoða okkar nærumhverfi til að sjá hvers konar fasteign við gætum nælt okkur í fyrir sama verð og sett var á eyjuna fögru.
67 fermetrar í Hafnarfirði
Ef við byrjum leitina á höfuðborgarsvæðinu, þá gætum við fjárfest í rétt rúmlega 67 fermetra íbúð í fjölbýlishúsi við Víðivang í Hafnarfirði. Ásett verð er 34,9 milljónir en fasteignamatið stendur í 24,2 milljónum. Íbúðin er búin einu svefnherbergi, einu baðherbergi, stofu og svölum. Í raun er íbúðin sjálf aðeins rétt rúmlega 61 fermetri þar sem inní fermetratölu er tekin geymsla í kjallara sem er 6,2 fermetrar.
Eldhús fyrir handlagna
Fyrir sama verð, eða 34,9 milljónir króna. er hægt að hreiðra um sig í 52,9 fermetra íbúð við Boðagranda í Reykjavík. Um er að ræða tveggja herbergja íbúð í lyftuhúsi með bílastæði í bílakjallara. Hér gæti handlaginn einstaklingur tekið til hendinni þar sem aðeins er farið að slá í eldhúsinnréttinguna en á baðherberginu er hins vegar nýlegur vaskur og klósett.
Snoturt athvarf í Skógarási
Í Skógarási í Árbæ í Reykjavík er einnig íbúð í fjölbýlishúsi fyrir 34,9 milljónir. Sú er 73,3 fermetrar, þar af 6,2 fermetra geymsla. Íbúðin er búin einu baðherbergi og einu svefnherbergi en mikið er búið að gera fyrir íbúðina eins og sést á myndum. Þó er einhver kostnaður við sameign yfirvofandi þar sem til stendur að skipta um hurðir.
Útsýni ekki metið til fjár
Og enn af fjölbýlishúsum, því í Æsufelli í Breiðholti er 97,6 fermetra íbúð á 34,9 milljónir króna. Íbúðin er búin 1 baðherbergi og tveimur svefnherbergjum og er hún á þriðju hæð. Þá fylgir íbúðinni einnig 7,4 fermetra geymsla í kjallara. Útsýnið er svo ekki hægt að meta til fjár og búið er að endurnýja bæði baðherbergi og eldhús.
54 fermetrar í 101
Þeir sem vilja halda sig í miðbæ Reykjavíkur gætu kíkt á 54 fermetra íbúð við Laugaveg sem er einmitt líka á 34,9 milljónir. Um er að ræða tveggja herbergja íbúð í fjölbýlishúsi við þessa annasömu verslunargötu. Íbúðin er smekklega innréttuð, en tekið er fram í fasteignaauglýsingunni að tilvalið sé að leigja íbúðina út til ferðamanna.
Möguleikar í Reykjanesbæ
Ef fólk vill færa sig aðeins út fyrir höfuðborgarsvæðið, væri hægt að kíkja á fjögurra herbergja íbúð við Hólabraut í Reykjanesbæ á 34,9 milljónir. Um er að ræða 165,1 fermetra íbúð, þar af bílskúr uppá 22,7 fermetra. Eignin býður vægast sagt upp á mikla möguleika og hentar barnafjölskyldum afar vel þar sem hún er búin fjórum svefnherbergjum.
Fimm svefnherbergi og tvö baðherbergi
Þá væri hægt að prútta aðeins og taka til greina tæplega 180 fermetra einbýlishús við Brekastíg í Vestmannaeyjum á 35,5 milljónir króna. Húsið er búið tveimur baðherbergjum, fimm svefnherbergjum og bílskúr sem er 18 fermetrar og þarfnast enduruppbyggingar. Búið er að endurnýja talsvert í húsinu og gæti stór fjölskylda látið fara vel um sig hér.
Bílskúr á tveimur hæðum
Þeir sem myndu vilja færa sig lengra austur gætu nælt sér í tæplega 280 fermetra einbýlishús við Ullartanga á Egilsstöðum á 34,5 milljónir króna. Húsið er einnig búið tveimur baðherbergjum og fimm svefnherbergjum. Bílskúr á tveimur hæðum fylgir húsinu en hann er fremur hrár. Þessi eign er tilvalin fyrir þá sem vilja taka til hendinni og gera hana upp, en hún býður upp á mikla möguleika.
Hlýlegt á Húsavík
Norður á Húsavík er síðan 185,6 fermetra einbýlishús við Laugarbrekku á 33,7 milljónir króna en athygli vekur að brunabótamatið er 40,7 milljónir. Um er að ræða tvö baðherbergi, fjögur svefnherbergi og bílskúr sem er 37,8 fermetrar. Fallegur garður umlykur húsið og er það einstaklega hlýlegt og snoturt.
Ef þessir veggir gætu talað
Fyrir þá sem myndu vilja hreiðra um sig á Vestfjörðum er hér 377 fermetra einbýlishús við Sólgötu á Ísafirði á 35 milljónir króna. Í húsinu eru tvö baðherbergi og fjögur svefnherbergi en einnig er eignin búin kjallara og rislofti. Ljóst er að mikil sál er í þessu húsi þar sem það var einu sinni samkomustaður, ballstaður, prentsmiðja og fleira. Ó, ef þessir veggir gætu talað!
Gult og glæsilegt
Við endum fasteignarúntinn á Akranesi, þar sem 170 fermetra einbýlishús við Heiðargerði fer á 34,5 milljónir króna. Fjögur svefnherbergi og eitt baðherbergi er í húsinu sem er fallega gult að lit að utan og fer því ekki framhjá neinum. Hér er klárlega eign sem væri hægt að gera ansi mikið fyrir, ef áhuginn er fyrir hendi.
Ný vegabréf, sem tekin verða í notkun í lok þessa árs, ef allt gengur að óskum, verða prýdd sextán landslagsmyndum af náttúru Íslands. Verða myndirnar notaðar sem daufur bakgrunnur á vegabréfssíðurnar.
Þjóðskrá Íslands auglýsti ekki eftir fyrrnefndum landslagsmyndum heldur var leitað til „sjö þekktra landslagsljósmyndara og þeim boðið að skila inn ákveðnum fjölda mynda hver,“ eins og segir í skriflegu svari frá Þjóðskrá Íslands við spurningum blaðamanns Mannlífs.
Mega ekki birta myndirnar í 18 ár
Alls bárust 150 myndir og voru sextán valdar sem þóttu henta best sem daufur bakgrunnur á vegabréfssíðurnar. Ljósmyndararnir sem eiga myndir í vegabréfunum eru Árni Tryggvason, Einar Guðmann, Gyða Henningsdóttir og Páll Jökull Pétursson. Ekki fékkst gefið upp hve háa greiðslu ljósmyndararnir fengu fyrir hverja mynd. Ljósmyndararnir mega ekki birta eða nota myndirnar sem urðu fyrir valinu næstu átján árin. Er það liður í að minnka líkur á að hægt sé að falsa íslensk vegabréf.
Tilboði pólska fyrirtækisins PWPW tekið
Á síðasta ári fór fram útboð sem Ríkiskaup sá um fyrir Þjóðskrá Íslands, annars vegar á framleiðslu og hönnun á íslenskum vegabréfabókum og hins vegar á framleiðslukerfi vegabréfa. Alls bárust tólf tilboð í hönnun og framleiðslu á vegabréfunum, þar á meðal frá Ísrael, Þýskalandi, Bretlandi, Ungverjalandi og Spáni. Svo fór að tilboði pólska fyrirtækisins PWPW var tekið, en samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins sérhæfir það sig í alls kyns öryggisskilríkjum, þar á meðal vegabréfum og greiðslukortum. Það var í vinnu með fyrrnefndu PWPW að upp kom sú hugmynd að nota íslenskar landslagsmyndir í vegabréfunum.
„Það var álit sérfræðinga að til þess að tryggja betur öryggi íslenska vegabréfsins sem ferðaskilríkis þá væri þörf á bæði nýrri útlitshönnun en einnig nýrri hönnun á öryggisþáttum. Það fóru fram nokkrir fundir með sérfræðingum Þjóðskrár Íslands og erlenda hönnunarteymi PWPW um hvernig ný hönnun átti að vera og ýmsar hugmyndir og tillögur nefndar. Í samvinnu við dómsmálaráðuneytið var sammælst um að styðjast við landslagsmyndir af náttúru Íslands,“ segir í skriflegu svari frá Þjóðskrá Íslands.
Óljóst er hvort gjaldskrá vegabréfa breytist í takt við nýja hönnun, en í dag kostar vegabréf 12.300 krónur fyrir 18 til 66 ára og 5600 krónur fyrir börn, aldraða og öryrkja, ef miðað er við almenna afgreiðslu.
Það má með sanni segja að landanum líki við nammikökur. Við skelltum í eina góða sem sló auðvitað í gegn. Vel má skipta sælgætinu út fyrir aðrar tegundir ef fólk vill og um að gera að prófa sig áfram.
Stillið ofn á 110°C. Setjið bökunarpappír í botninn á tveim 22 cm lausbotna formum og smyrjið hliðarnar með smjöri. Setjið eggjahvítur í skál ásamt kaffidufti og látið standa í 2-3 mín. Þeytið eggjahvíturnar og bætið sykri saman við í smáum skömmtum. Stífþeytið þar til blandan hreyfist ekki til í skálinni sé henni hvolft. Skiptið marensblöndunni í formin og bakið í 1 ½ klst. Slökkvið þá á ofninum og látið botnana kólna alveg inni í honum. Útbúið kaffisúkkulaðikrem og látið það kólna niður í stofuhita. Þeytið rjóma og blandið rúmlega helmingnum af súkkulaðikreminu lauslega saman við. Setjið súkkulaðirjómann á milli botnanna og dreifið restinni af kreminu yfir kökuna.
Í sjálfstæðum bíómyndum er oft að finna raunverulegar lýsingar á vináttu kvenna.
Vinátta kvenna er algengt viðfangsefni kvikmynda en oftar en ekki virðast þær aðeins sýna léttu og ljúfu hliðar hennar. Konur eru flóknar verur og vinátta þeirra á milli getur verið af ýmsum toga. Það er kannski helst að við finnum raunverulegar lýsingar á vináttu í sjálfstæðum bíómyndum. Hér eru nokkur góð dæmi.
Úrhrök samfélagsins
Ghost World fjallar um þær Enid og Rebeccu sumarið eftir að þær klára gagnfræðaskóla. Þær eiga báðar í erfiðleikum með að tengjast fólki og eyða tíma sínum í að slæpast og setja út á fólk sem þeim finnast óspennandi. Þegar þær kynnast Seymour, sem er utangarðs og lifir fyrir það að safna gömlum 78 snúninga hljómplötum, umturnast líf þeirra. Á meðan Enid byrjar að hanga meira með Seymour fer Rebecca að hegða sér eins og venjuleg unglingsstúlka. Hún byrjar að vinna á kaffihúsi og fær meiri áhuga á strákum og tísku. Stelpurnar vaxa meira og meira í sundur þar til það lítur út fyrir að þær muni aldrei ná saman aftur.
Andstæður
Andstæður laðast hvor að annarri og það á svo sannarlega við um vinkonurnar Holly og Marinu í kvikmyndinni Me Without You. Holly er hljóðlát á meðan Marina er frjálsari og villtari. Þær kynnast fyrst þegar þær verða nágrannar tólf ára og verða strax mjög nánar. Vinátta þeirra er þó alls ekki fullkomin og oft á tíðum ekki einu sinni falleg. Þær virðast báðar vera afbrýðissamar hvor út í aðra og sambönd þeirra við karlmenn eru flókin. Þrátt fyrir þetta halda þær áfram að vera vinkonur í gegnum súrt og sætt þangað til Holly slítur sig lausa einn daginn.
Hálffullorðin
Frances í kvikmyndinni Frances Ha er ung kona í New York sem vill helst ekki fullorðnast – hana langar að gera og verða margt en nær árangri í fáu. Mesti sigur hennar hingað til er að hafa vingast við Sophie. Þær búa saman og hanga saman öllum stundum en gera lítið annað en að gera háðslegar athugasemdir um lífið og umhverfið í anda Dorothy Parker. Þegar Sophie fer að sína merki þess að vilja fullorðnast og ákveður að flytja í draumahverfið sitt, Tribeca, tekur Frances því illa. Samband þeirra bíður ákveðna hnekki á meðan Frances fer úr einu í annað í leit að sjálfri sér og ástinni en eins og sannar vinkonur ná þær aftur saman á endanum.
Hipsterar í Brooklyn
Í myndinni Fort Tilden er svokallaðaður „hipstera-húmor“ mjög ríkjandi – þar sem fólk gerir bæði grín að sjálfu sér og öllu öðru. Myndin segir frá vinkonunum Harper og Allie sem búa í Brooklyn. Þær eru mjög kaldhæðnar og jafnvel illkvittnar í ummælum sínum um aðra og eru eiginlega týpur sem margir myndu forðast að umgangast – en þær virðast mjög ánægðar í félagsskap hvor annarrar. Sagan gerist nær öll einn sumardag þegar vinkonurnar reyna að komast hjólandi á strönd í útjaðri New York til að hitta tvo gaura sem þær hittu í partíi kvöldið áður. Á leiðinni fáum við að kynnast stelpunum betur og brátt verða brestirnir í vináttunni sýnilegri.
Ákaft samband
Nýsjálenska kvikmyndin Heavenly Creatures er byggð á sannri sögu af þeim Juliet Hulme og Pauline Parker sem lögðu á ráðin og myrtu mömmu Pauline. Stúlkurnar kynnast þegar Juliet byrjar í sama skóla og Pauline og þær verða fljótt mjög nánar. Þær eiga það sameiginlegt að hafa átt við veikindi að stríða í æsku og upplifað einangrandi spítalavist. Þær deila einnig ástríðu á ævintýrum og bókmenntum og stytta sér stundir með því að semja sögur sem þær dreymir um að selja til Hollywood. Þegar mamma Pauline reynir að binda enda á ákaft og þráhyggjukennt samband vinkvennanna ákveða þær að myrða hana. Um er að ræða fyrsta kvikmyndahlutverk beggja aðalleikvennanna, þeirra Kate Winslet og Melanie Lynskey, en þær vöktu mikla athygli fyrir leik sinn.
Áhugaverðar staðreyndir um einn vinsælasta fjölskyldustað í heimi.
Orlando er vinsælasta fjölskylduborg Flórída. Engin önnur bandarísk borg státar af eins elskuðum stað og Disney World er en hann er í raun regnhlífarsamtök yfir ellefu skemmtigarða sem staðsettir eru á sama stað. Garðarnir eiga það sameiginlegt að vera sannkallaðir fantasíuheimar barna og hvort sem þú elskar garðinn eða hatar þá eru staðreyndirnar um hann áhugaverðar.
Garðurinn opnaði árið 1955 en þá var að finna undirfataverslun á aðalgötunni sem nefndist The Wizard of Bras.
Disney World er stærsti vinnustaður innan Bandaríkjanna þar sem allir starfsmenn stunda iðju sína á sama stað.
Starfsmenn garðsins eru ekki kallaðir vinnuafl heldur leikarar eða liðsmenn. Flestir þeirra geta sagt hvar klósettin er að finna á yfir fjórtán tungumálum.
Magic Kingdom-garðurinn er byggður á annarri hæð. Garðurinn byggist upp á tveimur hæðum en undirgöngin eru á jarðhæð á meðan garðurinn sjálfur liggur ofan á þeim.
Í Disney World er vatnsleikjagarður sem fæstir hafa hugmynd um. Garðurinn var sá fyrsti sinnar tegundar en hann opnaði árið 1976 og lokaði 2001. Engin starfsemi hefur verið síðan þá og er aðgangur að svæðinu stranglega bannaður.
Disney World er einn vinsælasti óskastaður fólks um hinstu hvíld. Þjóðsagan um mömmuna sem vildi að ösku sinni yrði dreift yfir eyru Dúmbó er sönn. Það sama á sér stað nánast á hverjum degi. Garðurinn býður meira að segja upp á sérstakar umbúðir fyrir slíkan viðburð.
Disney World er sjálfseignaborg en svæðið sem tilheyrir garðnum, og veldur því mikla aðdráttarafli sem Flórda hefur, er í einkaeigu.
Kastali Öskubusku stendur tómur. Fyrir utan gjafavöruverslun og veitingastað í anddyrinu stendur höllin auð. Arkitektinn hannaði glæsilegt herbergi fyrir Walt sjálfan í kastalanum en hann dó áður en en höllin var vígð.
Í sjóræningjaheimi garðsins er hægt að finna alvöruhauskúpur.
Milljón kíló kalkúnaleggja eru snædd í garðinum á ári hverju. Nokkrir fyrrum starfsmenn garðsins fullyrða reyndar að leggirnir séu af strútum en ekki kalkúnum.
Hvorki er hægt að fá bolla, glös né rör innan Animal Kingdom. Starfsmenn garðsins segja það vera til að koma í veg fyrir að dýrin skaði sig á plastumbúðum. Tyggjó er sömuleiðis ófáanlegt í öllum görðunum ellefu, af augljósum ástæðum.
Starfsmenn Disney World mega ekki benda á neitt með einum fingri því sums staðar er það álitið vanvirðing. Þeir vísa því til vegar með því að nota alla höndina eða tvo fingur.
Disney World hefur lokað starfsemi sinni þrisvar sinnum, í öllum tilfellum í kjölfar hamfara. Eftir flóð 1994 og jarðskálfta 1999 og síðan vegna harmleiksins 11. september 2001 en þann dag tók einungis hálftíma að fjarlægja mörg þúsund gesti út úr garðinum.
Í garðinum er að finna eitt dýrasta flöskuvatn innan Bandaríkjanna.
Ef geimfjallið væri raunverulegt væri það þriðja hæsta fjall í Flórída.
Skellibjalla, sem flýgur yfir höllina eftir flugeldasýninguna, er oftast leikin af karlmanni.
Allt til árins 2001 var starfsfólki garðsins skipað að klæðast nærfatnaði í eigu fyrirtækisins.
Pípur á aðalgötu Magic Kingdom-garðsins úða vanillulykt út í andrúmsloftið. Í desember má hins vegar anda að sér piparmyntulykt.
Yfir tvö hundruð sólgleraugu týnast í garðinum á hverjum degi.
Styttan af Öskubusku virðist vera leið frá sjónarhorni fullorðinna en brosir í augum barna sem horfa upp til hennar.
Rúmlega tvö hundruð kettir búa í garðinum en svimandi háa „hótelleiguna“ greiða þeir með því að halda músum og rottum í lágmarki.
Doritos-snakkið sívinsæla kom fyrst á markaðinn í Disney World.
Úrvalið af íslenskum bjór hefur aukist mikið síðustu ár. Nokkrar tegundir hafa unnið til alþjóðlegra verðlauna og bruggmeistarar geta verið stoltir af þessari flottu framleiðslu. Bjórinn okkar er bragðmikill og frábært að nota hann í matargerð og bakstur. Hér er spennandi uppskrift og ég hvet ykkur til að prófa að nota bjórinn í pottrétti og fleiri rétti þar sem gert er ráð fyrir rauðvíni eða hvítvíni í uppskrift.
SMALABAKA MEÐ BJÓRSÓSU fyrir 6-8
4 msk. olía
800 g nautagúllas
1 stór laukur, saxaður
3 hvítlauksgeirar, saxaðir
150 g sveppir, skornir í bita
4-5 gulrætur, skornar í bita
1 flaska bjór, t.d. Norðan Kaldi, Boli Premium, Víking Classic.
2 msk. tómat-purée
2 tsk. nautakraftur
salt og pipar
150 g ostur, rifinn til að setja ofan á
Brúnið lauk og hvítlauk í helmingnum af olíunni í þykkbotna potti þar til laukurinn fer að verða glær, setjið til hliðar. Steikið nautakjötsbitana í því sem eftir er af olíunni, gott að gera það í tvennu lagi svo þeir brúnist vel, bætið lauknum út í. Setjið sveppi og gulrætur saman við og steikið áfram í 2-3 mín. Bætið bjór, tómat-purée og nautakrafti saman við, skrapið góðu skófirnar (það sem kemur af kjötinu ef þið eruð með þykkbotna pott) saman við, látið suðuna koma upp og látið allt malla í 1-1 ½ klst. Hitið ofninn í 200°C. Hellið kjötréttinum í ofnfast fat. Dreifið kartöflumúsinni yfir og stráið osti yfir hana. Bakið í 20 mín. eða þar til osturinn er bráðinn.
1 kg kartöflur
½ dl mjólk
salt og pipar
Afhýðið og skerið kartöflur í bita. Sjóðið þær í saltvatni þar til þær eru gegnumsoðnar. Hellið þeim í sigti og setjið aftur í pottinn. Hellið mjólk út í, bragðbætið með salti og pipar og stappið saman með stappara.
Íslenska fjölskyldumyndin Lói þú flýgur aldrei einn var forsýnd síðasta fimmtudagskvöld við hátíðlega athöfn í Smárabíói en framleiðendur myndarinnar buðu áhorfendur velkomna í bíó með poppkorni og köldum svaladrykk sem var vel við hæfi enda höfðar myndin til yngstu áhorfendanna.
Myndin segir frá litlum lóu-unga sem verður viðskila við fjölskyldu sína og þarf að komast af veturlangt á Íslandi við harðan kost.
Á vegi hans verða ýmsir fjörlegir fuglar og önnur dýr sem öll hafa þjóðernislega skírskotun enda ber sviðsmyndin þess glögglegt merki að myndin sé ætluð á alþjóðlegan markað þar sem sér-íslensk náttúrueinkenni fá notið sín með túnfífla og aðalbláber í forgrunni.
Engu er til sparað við gerð myndarinnar en sjö ár eru nú síðan handritshöfundurinn, Friðrik Erlingsson kom að máli við þá Gunnar Karlsson og Hilmar Sigurðsson sem framleiddu myndina á fimm árum undir leikstjórn Árna Ólafs Ásgeirssonar. Alls komu 400 listamenn að gerð myndarinnar sem teiknuð er í þrívídd en unnin að hluta til í Belgíu. Myndin er önnur íslenska teiknimyndin í fullri lengd og hentar börnum á öllum aldri. Handritið er fantaflott og munu margar setningar myndarinnar lifa lengi í hjörtum áhorfenda.
„Það var ekki það sem ég sagði, heldur það sem hann heyrði mig segja.”
Tónlist leikur jafnframt veigamikið hlutverk í myndinni en Sinfoníuhljómsveit Norðurlands spilar undir í áhrifaríkum atriðum ásamt þeim Högna Egilssyni og Gretu Salóme sem syngur lokalag myndarinnar.
Talsetningin er líka fyrsta flokks og ber þar helst að nefna hinn unga Mattíhas Mattíhasarson sem ljær útilegufuglinum Lóa rödd sína, en mítan um munaðarleysingjann er sannarlega lífseig meðal barnasagna.
Eina aðfinnslan við myndina var hve lítið fuglsungarnir höfðu stækkað á heilu ári og hvernig hvíti felulitur rjúpunnar hélst óbreyttur yfir sumartímann. Að öðri leiti er Lói litli frábær afþreying og á vonandi eftir að skína skært sem fögur landkynning víða um heim.
„Lífið snýst um að læra, læra af sjálfum sér og öðrum. Við vitum aldrei hvaða verkefni við fáum og það skiptir svakalega miklu máli hvernig við tæklum verkefnin. Lífið getur tekið óvæntar beygjur hvenær sem er. Munum að lifa í dag,“ segir hin 36 ára Guðný Ásgeirsdóttir. Guðný er læknir og í sérnámi í heimilislækningum en hún greindist með brjóstakrabbamein fyrir rúmum þremur árum.
Guðný lærði læknisfræði í Danmörku og var 29 ára þegar hún fann fyrst fyrir hnút í brjóstinu.
„Ég lét skoða þetta úti í Danmörku þar sem ég bjó, fór þar í brjóstamyndatöku og ómskoðun og var þetta talið vera góðkynja æxli, sem sagt ekki krabbamein. Ekki þótti þörf á eftirliti. Svo flyt ég heim til Íslands í byrjun árs 2014 og fer þá að vinna á heilsugæslu. Ég fylgist vel með hnútnum og finn að hann er eitthvað að breytast, stækkar og verður harðari, eiginlega eins og bingókúla,“ segir Guðný, sem reyndi fyrst um sinn að hunsa vöxtinn í brjóstinu.
„Ég reyndi fyrst að humma fram af mér að láta skoða þetta því ég hafði jú látið skoða þetta í Danmörku. Ég var þó alltaf að hugsa að þetta væri eitthvað skrítið og gæti alveg eins verið krabbamein, svona miðað við það sem ég hafði lært. Svo kemur til mín ung stúlka á heilsugæsluna með hnút í brjósti. Ég sendi hana áfram í skoðun og fæ svo fréttir af því að hún hefði greinst með brjóstakrabbamein. Það vakti mig til umhugsunar, fyrst hún gat greinst með brjóstakrabbamein svona ung gæti ég það í raun alveg líka. Þá ákvað ég að skella mér í skoðun og reyndist þá grunur minn réttur því miður, ég var líka með brjóstakrabbamein.“
Mistök þegar átti að tilkynna fréttirnar
En hvernig tilfinning var það að greinast með krabbamein svona ung?
„Það er eiginlega mjög erfitt að lýsa tilfinningunni. Ég var til dæmis fyrst mjög reið, en það var aðallega af því það urðu mistök þegar ég fékk fréttir af þessu í fyrsta skipti. Ég hafði farið niður í Krabbameinsfélag og þar var tekið sýni. Læknirinn sem ég hitti hafði beðið mig um að vera með símann á mér milli klukkan 13 og 14 mánudaginn eftir og svara ef hún myndi hringja. Ég er svo að vinna á heilsugæslunni og er með móttöku þar sem ég tek á móti sjúklingum og er með viðtöl. Ég er með skjólstæðing inni hjá mér þegar síminn hringir og ég afsaka mig og segist þurfa að taka símtalið. Þá er í símanum hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum sem segir mér að ég eigi tíma hjá skurðlækni á morgun og hvort það sé möguleiki að flytja tímann. Ég verð náttlega mjög hissa og skil ekki alveg símtalið þar sem ég hafði jú ekki enn fengið að vita niðurstöðuna úr sýnatökunni. Hún afsakar sig og segist líklega vera að hringja á undan lækninum. Þá fatta ég að þetta þýði líklega að ég er með krabbamein. Ég ákvað að reyna að hugsa ekki um það og bíða eftir að læknirinn myndi hringja. Ég held áfram með viðtalið en er í hálfgerðri geðshræringu og meðtók líklega ekkert það sem skjólstæðingurinn sagði. Læknirinn hringir svo 5 mínútum síðar og segist vilja hitta mig. Ég verð þá svolítið reið og segist alveg vita hvað hún sé að fara að segja við mig. Ég fór svo og hitti lækninn og við fórum yfir málið. Ég hef svo hitt hjúkrunarfræðinginn oft eftir þetta og hún er ekkert nema yndisleg,“ segir Guðný. Hún segir næstu daga hafa liðið hjá í hálfgerðri móðu.
„Eftir þessa reiðitilfinningu man ég eftir hræðslu. En í raun er þetta allt í hálfgerðri móðu. Líklega vegna þess að áfallið var mikið. Ég man samt að ég hugsaði mjög fljótt að ég vildi geta eignast börn þrátt fyrir þetta. Ég hafði ekki enn eignast barn og var bara nýbyrjuð með kærastanum mínum þarna. Ég vildi sko ekki missa möguleikann á því að geta eignast barn síðar meir og var það eitt af því fyrsta sem ég ræddi við skurðlækninn minn.“
Erfið áramót
Guðný greindist með brjóstakrabbamein þann 15. desember 2014, í miðju læknaverkfalli. Jólahátíðin var því frekar skrýtin það árið, en sem betur fer komst Guðný undir hnífinn áður en nýja árið gekk í garð.
„Ég vissi ekkert hvenær ég færi í aðgerð til að fjarlægja meinið en skurðlæknirinn hafði sagt mér að líklega væri það ekkert fyrr en á næsta ári, sem mér fannst fáránlegt. Ég vildi bara losna við krabbameinið strax í dag. Jólin voru frekar dofin. En svo fékk ég símtal frá skurðlækninum milli jóla og nýárs um að hann hefði komið mér að í skurðaðgerð á gamlársdagsmorgun, 31. desember. Ég þáði það með þökkum og endaði því á að eyða áramótunum á Landspítalanum. Ég var reyndar frekar óheppin að eftir aðgerðina, sem var fleygskurður, hafði opnast æð í brjóstinu og blætt mikið inná brjóstið. Ég varð mjög lasin og féll til dæmis mjög mikið í blóðgildinu. Þetta voru því ansi erfið áramót en tilhugsunin að geta byrjað árið 2015 krabbameinsfrí var svakalega góð.“
Notar árið 2018 til að búa til barn
Við tók frjósemismeðferð í Svíþjóð í janúar og síðan lyfjameðferð sem hófst í febrúar.
„Lyfjameðferðin samanstóð af tvenns konar meðferð. Fyrst fékk ég lyf vikulega í tólf vikur og eftir það lyf á þriggja vikna fresti í aðrar tólf vikur. Eftir það fór ég í 33 geislameðferðir, alla virka daga, sem tók sirka sex vikur. Síðan þurfti ég að halda áfram að fá eitt lyf á þriggja vikna fresti en það þurfti ég að fá uppá Landspítala í heilt ár. Eftir þetta hef ég verið í hormónameðferð sem samanstendur af töflum og sprautum sem ég sé um sjálf. Þessi lyf þarf ég að fá næstu tíu árin,“ segir Guðný. Hún fær hins vegar núna að taka sér pásu frá hormónameðferðinni til að reyna við barneignir. í Svíþjóð lét hún frysta ófrjóvguð egg, þar sem meðferðin sem hún fór í getur valdið ófrjósemi.
„Ég hafði kynnst kærastanum mínum, sem nú er unnusti minn, aðeins þremur mánuðum áður en ég greinist. Ég fór í Art Medica og hitti þar lækni sem sagði mér að skynsamlegast væri að frysta ófrjóvguð egg þar sem við hefðum verið svo stutt saman og lögin á Íslandi segja að ég megi ekki nota fósturvísi fyrrverandi maka þó svo að hann gefi fullt leyfi. Allt getur gerst og því var þetta ákveðið. Ég flaug sem sagt út til Svíþjóðar því ekki var hægt að frysta ófrjóvguð egg hérlendis á þessum tíma. Mér skylst að það sé hægt núna hjá IVF klínikkinni. Nú hugsa ég alltaf um eggin mín sem litlu Svíana mína, þar sem eggin hafa „búið” í 3 ár í Svíþjóð,“ segir Guðný og brosir.
„Í rauninni er þetta ferli allt komið af stað og ef allt gengur vel hugsa ég að ég noti árið 2018 í að búa til eins og eitt stykki barn.“
Ekki alslæmt að greinast með krabbamein
Hún segir þetta ferli hafa sína ljósu punkta, þó erfitt sé.
„Þetta ferli hefur verið langt og strangt en alls ekki alslæmt. Það hefur alveg komið fullt jákvætt útúr þessum veikindum, eins og dýrmæt reynsla. Að prófa að sitja hinumegin við borðið og vera sjúklingur. Þó mér hafi í raun aldrei liðið eins og sjúklingi, þá er ég allavega búin að prófa þetta og skil vonandi skjólstæðingana mína betur. Einnig hef ég kynnst mikið af fólki sem allt hefur kennt mér eitthvað. Og svo er auðvitað mjög dýrmætt að finna stuðning frá ættingjum og vinum. Ég er alveg örugglega búin að breytast að einhverju leyti, það er líklega auðveldara fyrir aðra að dæma um það. Ég tel samt að ég hafi alltaf verið frekar jákvæð manneskja og hefur það alveg örugglega hjálpað mér að tækla þessi veikindi. Ég var líka heppin að ég varð aldrei mjög lasin. Var oft þreytt og uppgefin en aldrei þannig að ég þyrfti að liggja í rúminu heilan dag. Ég reyndi eftir fremsta megni að fara út á meðal fólks á hverjum degi og fór til dæmis mikið í ræktina með Ljósinu og einnig á ýmis námskeið hjá Ljósinu. Ég fór einnig í nokkra sálfræðitíma hjá Krafti og hitti stuðningsfulltrúa í gegnum Kraft sem var ung stelpa sem hafði gengið í gengum svipað ferli,“ segir Guðný. Hún er ekki frá því að hún kunni meira að meta daginn í dag en áður.
„Ég hef alltaf verið dugleg að njóta í núinu en líklega hugsa ég enn meira um það nú. Ekki fresta því sem mig langar til að gera eða upplifa. Reyna að umvefja mig jákvæðu og skemmtilegu fólki og gera meira af því sem mér finnst skemmtilegt. Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er til dæmis að ferðast og hef ég verið dugleg við það síðustu ár. Einnig finnst mér mikilvægt að vera dugleg að heimsækja fjölskyldu og vini þar sem maður veit aldrei hvenær við hittumst í síðasta skipti,“ segir hún.
Þiggið alla hjálp sem býðst
Guðný segir stuðning frá fjölskyldu og vinum ómetanlegan, en einnig stuðning frá Krafti, félags ungs fólks sem hefur greinst með krabbamein og aðstandenda þess. Hún segir sögu sína í nýju átaki Krafts, Krabbamein kemur öllum við, sem lýkur á sunnudag 4. febrúar, á alþjóðdegi gegn krabbameini. Þá ætlar Kraftur að setja Íslandsmet í perlun armbanda í Hörpu. En áður en ég kveð þessa jákvæðu, ungu konu verð ég að spyrja hana hvað hún vill segja við þá sem greinast með krabbamein í blóma lífsins?
„Þetta er í flestum tilfellum ekki dauðadómur. Flestir lifa góðu lífi þrátt fyrir greiningu. Reynið að einblína á jákvæðu hliðarnar, það er ekki allt slæmt við að greinast með krabbamein. Gerið meira fyrir ykkur sjálf og þiggið alla þá hjálp og stuðning sem býðst. Mér fannst gott að líta á veikindin sem verkefni. Verkefni sem ég þurfti að gefa allan minn tíma og orku í en svo kláraðist það að lokum. Þetta er oftast bara tímabil sem þarf að komast í gegnum. Það að segja að fólk sé að „berjast“ við krabbamein finnst mér ekki lýsa þessu rétt. Flestir eru ekki að berjast en frekar að ganga í gegnum og leysa verkefnin sem verða á veginum.“
Texti / Lilja Katrín [email protected]
Myndir / Úr einkasafni og Kraftur
Tinna Bessadóttir hönnuður bjó ásamt fjölskyldu sinni í Treviso Veneto sem er í hálftíma akstursfjarlægð frá sjálfum Feneyjum.
„Treviso er eldgömul borg sem á sér sögu allt frá 100 árum fyrir Krist. Borgin er byggð með hliðsjón af Feneyjum. Feneyjar voru ekki með her en herinn í Treviso varði Feneyjar. Borgin á sér mikla menningarsögu og miðbærinn er byggður inn í virki umkringt sýkjum sem kallast Le Mura-sýkin og setja mikinn svip á bæinn. Þau minna á Feneyjar. Innan veggja miðbæjarins búa um 3.000 manns og erfitt að fara um á bíl en innan marka Treviso búa um 82.535 manns. Við vorum svo heppin að fá yndislega fallega íbúð rétt við múrinn og sóttum því alla okkar þjónustu, líkt og skóla barnanna, innan veggja miðbæjarins,“ segir Tinna.
Ódýrt flug
Treviso er frekar rík borg og Veneto-fylkið er það fylki sem á hvað mesta peninga á Ítalíu. „Það er lítið um fátækt í Treviso og mjög lág glæpatíðni. Sem dæmi má nefna að þá stendur á stóru skilti í hjarta miðbæjarins, á torginu Piazza Del Signore, stórum stöfum: „Treviso mafíulaus borg“.
Ryanair flýgur beint til Treviso frá London og er ekkert mál að finna flug þaðan fyrir 3.000-4.000 krónur. Það er einnig flogið frá Billund og þegar ég bjó í Danmörku var ódýrara fyrir mig að fljúga frá Billund til Treviso en að taka lestina frá Suður-Jótlandi til Kaupmannahafnar. Hótel og gistiheimili eru ódýrari þar en nálægt Feneyjum en það tekur um hálftíma að taka lestina til Feneyja, tæpa tvo tíma til Verona og þrjá tíma til Mílanó.“
Uppruni tiramisu
Tiramisu-kakan kemur uppunalega frá Treviso og veitingastaðurinn Le Beccherie, sem fann hana upp, er enn starfandi. „Hann var í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi, eða frá 1960, en árið 2014 var hins vegar skipt um eigendur. Sama tiramisu-kakan hélt að sjálfsögðu sínum sess á matseðlinum. Tiramisu-kakan er stolt ítalskrar matarmenningar og mæli ég hiklaust með að stoppa á þessum sögufræga stað og fá sér sneið. Heimilisfangið er Piazza Giannino Ancilotto 11, 31100 Treviso.“
Ekta ítalskur markaður
Rétt innan veggja múrsins er haldinn markaður alla fimmtudags- og laugardagsmorgna. „Á þessum markaði fæst allt milli himins og jarðar og hægt að upplifa sanna ítalska menningu eins og maður sér í gömlum bíómyndum. Fatnaður, heimilisáhöld, blóm, falleg veski, efnisstrangar með fallegu silki, pelsar og svona mætti lengi telja, flæða um, ásamt ferskum ávöxtum og grænmeti sem kemur beint frá bónda. Fiskur, kjöt og ostar eru einnig til staðar og kemur það allt líka beint frá bónda, afgreitt með bros á vör.
Alla þriðjudags- og laugardagsmorgna er fiskmarkaður á lítilli eyju í hjarta miðbæjarins, Isolotto della Pesceria. Þessi litla eyja er umkringd fersku vatni sem liggur í gegn um allan miðbæinn. Markaðurinn hefur verið þarna allt frá árinu 1854 og má oft sjá innfædda renna fyrir fiski á brúnni og iðandi fuglalíf sem setur skemmtilegan blæ á listaverk borgarinnar. Umhverfis eyjuna eru fjöldinn allur af litlum trattoria-veitingastöðum þar sem gott er að setjast með litla smárétti og vínglas, best er að panta einn af öllum. Það er gaman að segja frá því að vatnið innan múra Treviso er það hreint að það má vel drekka beint úr krananum.
Fjórða sunnudag hvers mánaðar er antíkmarkaður við hlið Borgo Cavour. „Þar er endalaust hægt að gramsa og finna ótrúlegar gersemar.“
Fræg fatamerki
Piazza Del Signori er stærsta torg miðbæjarins með ótal veitingastaði. „Þar er yndislegt að setjast niður og fá sér pizzu og spriz að hætti heimamanna. Á kvöldin um helgar er oft lifandi tónlist og dansað á torginu við harmonikuspil eða ýmsar aðrar uppákomur. Þar er ávallt mikið mannlíf að hætti ítalskrar menningar, eins og brúðkaup, skrúðgöngur og sýningar af ýmsu tagi.
Það er gott að versla í borginni en flestar þær verslanir sem eru innan veggja miðbæjarins eru frekar í hærri kantinum fyrir utan stóra og glæsilega H&M-verslun. Benetton-fjölskyldan er frá Treviso og bjuggu þeir bræður einmitt í bleikri höll sem prýddi enda götunnar okkar
Í Treviso eru höfuðstöðvar merkjanna Benetton, Sisley, Stefanel, Geox, Diadora og Lotto Sport. Það er gott að versla í borginni en flestar þær verslanir sem eru innan veggja miðbæjarins eru frekar í hærri kantinum fyrir utan stóra og glæsilega H&M-verslun. Benetton-fjölskyldan er frá Treviso og bjuggu þeir bræður einmitt í bleikri höll sem prýddi enda götunnar okkar.“
Frægur tenór
Einn frægasti tenór Ítala, Mario Del Monaco, er frá Treviso. „Finna má styttur og leikhús í hans nafni í borginni. Það er um að gera að skella sér í leikhús eða á tónleika í hinu glæsilega leikhúsi Teatro Comunale Mario Del Monaco, teatrocomunaletreviso.it. Það er gaman að segja frá því að við bjuggum einmitt í gullfallegri íbúð bróður Del Monaco á meðan á dvöl okkar stóð í borginni. Þess vegna snart allt sem varðaði þennan söngvara, sem hafði áhrif á sjálfa Pavarotti og Domingo, okkur djúpt.“
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Aðalmynd: Tinna Bessadóttir ásamt fjölskyldunni
Undanfarin ár hefur kvikmyndaverum tekist að fá öfluga leikara til að fara með aðalhlutverkið í tölvuleikjamyndum og þannig aukið aðsókn á þær. Hér eru nokkrar af þeim þekktustu.
Faldir fjársjóðir
Tölvuleikirnir um Löru Croft nutu gríðarlegra vinsælda á síðasta áratug og gerðar voru tvær kvikmyndir með Angelinu Jolie í aðalhlutverki. Lara Croft kemur úr breskri aðalsfjölskyldu, en stundar það að fara á sögulega staði og safna fornmunum, úr musterum, gömlum borgum, og fleiri slíkum stöðum, víða um heiminn, og hún lætur ekkert stöðva sig, ekki einu sinni lífshættulegar aðstæður. Í fyrri myndinni, Lara Croft: Tomb Raider, sem kom út árið 2001 berst Lara við leynifélag sem kallast Illuminati í leit að fornum verndargrip sem gefur þeim sem hefur hann undir höndum möguleika á því að stjórna tímanum. Í mynd númer tvö, Lara Croft Tomb Raider: The Cradle of Life, leitar hún að öskju Pandóru í keppni við kínversk glæpasamtök. Nú er von að nýrri mynd með Aliciu Vikander í hlutverki Löru Croft.
Aftur í tíma
Assassin’s Creed-tölvuleikirnir eru níu talsins og gerast allir á tímum sögulegra átaka. Aðalsöguhetjan Desmond Miles getur ferðast aftur í tíma í gegnum minningar forfeðra sinna og getur þannig haft áhrif á framgang sögunnar. Skömmu fyrir áramót kom út kvikmynd sem er sjálfstæð eining innan þessa heims og kynnt er til sögunnar ný hetja. Callums Lynch er afkomandi hins vígfima Aguilar sem ásamt félögum sínum barðist á móti óréttlæti á tímum spænska rannsóknarréttarins. Með sérstakri tækni getur Callum ferðast aftur í tímann, tekið sér bólfestu í líkama Aguilar og haldið verkum hans áfram. Það er enginn annar en Michael Fassbender sem fer með hlutverk Lynch og Aguilar í kvikmyndinni (sjá aðalmynd).
Ógn uppvakninga
Resident Evil er líklega stærsta kvikmyndasería sem byggð er á tölvuleik. Þrátt fyrir slæma dóma njóta kvikmyndirnar mikilla vinsælda og nú er von á sjöttu og síðustu myndinni. Myndirnar segja frá fyrirtækinu Umbrella sem er eitt valdamesta fyrirtæki heims en það á velgengni sína að þakka rannsóknarstöð neðanjarðar þar sem nýstárleg vopn eru prófuð og framleidd. Í fyrstu myndinni er sagt frá því þegar veira sem fyrirtækið býr til, sleppur út og breytir hundruðum vísindamanna í hungraða uppvakninga. Tölvukerfið lokar stöðinni vegna sýkingarhættu og Alice ásamt neyðarsveit er send til að slökkva á tölvunni og koma höndum yfir veiruna. Það gengur ekki alveg eftir og veiran sleppur út og verður að faraldri. Í næstu fimm myndum reyna Alice og föruneyti hennar að ráða niðurlögum Umbrella og bjarga mannkyninu frá uppvakningum.
Prinsinn til bjargar
Í Prince of Persia-leikjunum er fylgst með prins einum í Persíu á miðöldum sem lendir í ýmsum ævintýrum og hremmingum. Leikurinn kom fyrst út árið 1989 og var endurvakinn árið 2003. Kvikmyndin Prince of Persia: The Sands of Time sem er byggð á leiknum kom út árið 2010 og segir í raun bakgrunnssögu prinsins, en hann er í raun ekki raunverulegur prins heldur fátækur munaðarleysingi sem konungurinn tók í fóstur. Á fullorðinsárum fær hann tækifæri til að endurgjalda greiðann og bjarga konunginum. Hann þarf að stöðva fyrirætlanir bróður konungsins sem ætlar að breyta tímalínunni með hjálp Tímarýtingsins þannig að konungurinn deyr sem barn og bróðirinn verði konungur. Myndin skartar einvala liði leikara, svo sem Jake Gyllenhal og Ben Kingsley, en hún fékk engu að síður fremur lélega dóma gagnrýnenda.
Breytingar á fæðingarblettum geta verið merki um illkynja þróun.
Flest erum við með fæðingarbletti einhvers staðar á líkama okkar. Sumum finnst þeir óþolandi lýti á meðan aðrir sjá þá sem hluta af sínum persónueinkennum. Það er mjög mikilvægt að vera með augun opin fyrir hvers lags breytingum á fæðingarblettum því það getur verið merki um illkynja þróun.
Allir ættu að framkvæma fæðingarblettaskoðun á sjálfum sér og sínum nánustu. Þá er gott að styðjast við þumalputtareglu húðsjúkdómasérfræðinga: ÓJLÞT-regluna.
Ó stendur fyrir ósamhverfa bletti á einni eða tveimur hæðum. Því ósamhverfari, því meiri hætta. J stendur fyrir jaðar. Það er ekki góðs viti ef hann er óskýr og óreglulegur. L stendur fyrir litbrigði. Eru margir litir í blettinum, þar á meðal brúnn, svartur, rauður, hvítleitur eða fjólublár? Það er frekar óheppilegt. Einlitir ljósir og jafnvel miðlungsbrúnir blettir eru hins vegar alla jafna í lagi. Þ er fyrir þvermál. Fæðingarblettur sem mælist minna en hálfur sentimetri í þvermál er venjulega góðkynja. Ef hann er stærri en hálfur sentimetri og fer stækkandi er það ekki góðs viti. T stendur fyrir tignarleika eða ris. Fæðingarblettur sem hefur alltaf verið tignarlegur, nabbalegur og hægt er að hreyfa fram og til baka er alla jafna góðkynja. Fæðingarbletti sem alltaf hafa verið sléttir en virðast svo verða þykkari eða nabbalegri með tímanum þarf að skoða hið fyrsta.