Með góðu skipulagi og breyttu viðhorfi geturðu aukið grænmetisneysluna.
Þrátt fyrir að grænmeti sé virkilega hollur og góður matur eiga margir í erfiðleikum með koma því að einhverju magni inn í máltíðir sínar. Ástæðurnar geta verið margvíslegar en með góðu skipulagi og breytingu á viðhorfum getum við öll aukið grænmetisneysluna og notið hennar vel.
Fljótvirkar eldurnaraðferðir
Frosið niðurskorið grænmeti er gott að eiga til að grípa í þegar tíminn er naumur. Þú einfaldlega skellir því á pönnu í nokkrar mínútur og ert komin með fínasta meðlæti á örskotstundu. Ef mikið liggur við má einnig sjóða grænmeti, frosið og ófrosið, í örbylgjuofni. Grillað grænmeti er líka sjúklega gott.
Undirbúðu þig
Sniðugt er að skera niður fullt af grænmeti eins og papriku, gulrætur, spergilkál og fleira þegar þú hefur tíma og setja í litlar pakkningar sem hægt er að grípa til þegar tíminn er takmarkaður. Litlu pakkana getur þú svo gripið í millimál, skellt í salatið, notað með hummus eða sett í grænmetisvefjur svo dæmi séu tekin.
Frosið grænmeti
Frosið grænmeti er alveg jafnríkt af næringarefnum og ferskt grænmeti. Það er fljótlegt og auðvelt í notkun og þú þarft ekki að eiga á hættu að það skemmist innan fárra daga. Þú getur bæði keypt frosið niðurskorið grænmeti í pokum eða skorið niður þitt eigið og fryst. Tilvalið er að eiga fjölbreyttar tegundir í frysti til að eiga eitthvað við öll tækifæri.
Litríkara salat
Lífgaðu upp á salatið með því að blanda litríku grænmeti í það eins og rifnum radísum, hökkuðu rauðkáli, svörtum baunum, rauðum paprikusneiðum eða baunaspírum. Salatið mun ekki aðeins líta betur út heldur verða miklu betra á bragðið.
Gerðu grænmetissúpur
Búðu til grænmetissúpur frá grunni með fullt af girnilegu grænmeti. Víða er hægt að fá uppskriftir að alls konar girnilegum súpum, ekki síst á Netinu. Endilega eldaðu alltaf stóra skammta til að geta átt afganginn í frysti. Þú getur sett afganginn í nokkur ílát sem passa sem máltíð fyrir einn og er tilvalið að taka með sér sem nesti í vinnuna.
Það er mikið áfall fyrir fólk að komast að því að það hafi verið rangfeðrað.
Því síður er auðvelt fyrir sömu einstaklinga að þurfa að höfða dómsmál til að fá réttan uppruna sinn staðfestan. Ráðast þarf í úrbætur á barnalöggjöfinni þegar mál þessa fólks eru til meðferðar og auka þarf rétt feðra til þess að höfða faðernismál sem er lítill sem enginn núna að mati lögfræðings. Mannlíf ræddi við karl og konu sem bæði voru rangfeðruð og segja þá reynslu mjög erfiða.
„Ég fékk staðfestingu á því að ég væri sonur annars manns 2013 kominn langt á sjötugsaldur. Mig hafði grunað þetta frá því ég var 17 ára þegar móðir mín gaf í skyn að ég væri ekki sonur föður míns en nefndi aldrei nafn míns rétta föður. Ég komst bara að því nýlega,“ segir maður í samtali við Mannlíf sem treystir sér ekki til að koma fram undir nafni vegna þessa máls.
„Þetta þykir öllum í fjölskyldunni minn afskaplega viðkvæmt og hefur legið þungt á mér alla tíð. Ég vil meina að þetta hafi mótað mig sem einstakling, allur þessi efi og þrá mín eftir réttum föður í marga áratugi. Þegar ég fékk loks staðfestingu á því með lífsýnaprófi að ég væri sonur annars manns var þungu fargi af mér létt. Ég eignaðist við það fimm systkini sem hafa tekið mér vel sem er dýrmætt. Þetta er ólýsanleg tilfinning að þekkja ekki uppruna sinn og ég held það sé ómögulegt að skýra það út fyrir nokkrum sem ekki hefur upplifað það,“ segir hann.
Veigrar sér við dómsmáli
Það sem hann hins vegar þráir núna, kominn á áttræðisaldur, er að hann sé rétt feðraður í þjóðskrá. Hann reyndi að fá faðerninu breytt í þjóðskrá en stofnunin hefur hafnað beiðni hans þar sem ekki liggur fyrir dómsúrskurður um rétt faðerni. Það er hins vegar ansi flókið ferli. Fyrst þyrfti hann að höfða svokallað véfengingarmál þar sem upphaflegu faðerni yrði hnekkt fyrir dómi með lífsýnaprófi því til staðfestingar. Að því loknu þyrfti hann að höfða faðernismál sem er annað dómsmál til að staðfesta faðernið með lífsýnaprófi því til sönnunar. Bæði dómsmál og mannerfðafræðileg rannsókn á blóðsýnum eru niðurgreidd af ríkissjóði. Barnalögin segja um þessar aðstæður að einstaklingur sem leitar faðerni síns þurfi að stefna þeim manni eða mönnum sem taldir eru hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma. Sé sá maður látinn áður en málið er höfðað er lögerfingjum hans stefnt.
„Ég get … ekki hugsað mér að stefna systkinum mínum fyrir dóm sem ég hef nýlega kynnst. Ég þrái það heitt að vera rétt feðraður og skráður sem slíkur í opinberum skrám en mér finnst það of mikið lagt á alla í kringum mig.“
Líffræðileg móðir og faðir viðmælanda Mannlífs eru bæði látin og maðurinn sem hann var upphaflega feðraður líka. Þetta þýðir að hann þarf að höfða dómsmál á hendur systkinum sínum, móður megin, til að hnekkja upphaflegu faðerni og svo yrði hann knúinn til að stefna nýjum systkinum sínum fyrir dóm í faðernismálinu.
„Ég get einfaldlega ekki hugsað mér að stefna systkinum mínum fyrir dóm sem ég hef nýlega kynnst. Ég þrái það heitt að vera rétt feðraður og skráður sem slíkur í opinberum skrám en mér finnst það of mikið lagt á alla í kringum mig,“ segir hann. „Ef ég fengi að skrá nafnið mitt rétt yrði ég sáttur. Meira færi ég ekki fram á. Mér finnst þetta hrein mismunun að geta ekki framvísað lífsýnaprófi sem staðfestir svo ekki verður um villst að ég er hálfbróðir systkina minna. Með því að höfða opinbert dómsmál óttast ég að ættingjar mínir taki því illa svo viðkvæmt er þetta mál eins og gefur að skilja.“
Gat ekki hætt að leita föður síns
Benedikta Eik Eiríksdóttir var rúmlega þrítug að aldri þegar hún komst að því að hún var rangfeðruð. „Ég fékk áfall við að heyra að ég væri ekki dóttir mannsins sem ég var feðruð en
mig hafði alltaf grunað það. Ég var þá ekki galin en það tók mikið á að horfast í augu við það eitt og sér,“ segir Benedikta sem hefur í tvígang með átta ára millibili sagt viðburðaríka sögu sína í Kastljósi, nú síðast í desember síðastliðnum. Henni var greint frá því fyrir rúmum tuttugu árum að hún væri ekki dóttir mannsins sem hún taldi vera föður sinn. Sá maður sem móðir hennar taldi vera líffræðilegan föður hennar reyndist ekki heldur vera rétti líffræðilegi faðir hennar þegar blóðsýni þeirra voru rannsökuð. Fram undan var löng og erfið leit.
„Mig grunaði aldrei að ég þyrfti að leita að honum og hvað þá að þetta tæki allan þennan tíma. Ég var samt alltaf sannfærð um að ég yrði að finna út hverra manna ég væri. Ég gat ekki hætt þarna,“ segir hún. Leitinni lauk í fyrra þegar hún fékk nafnlaust símtal sem kom henni á sporið við að finna sinn rétta föður sem síðar var staðfest með lífsýnarannsókn. Faðir hennar hét Eiríkur Ragnar Guðjónsson og lést árið 2013.
„Ég náði aldrei að hitta hann því miður. Ég mun bara þekkja pabba minn í gegnum hans nánustu. Mér tókst hins vegar að finna hann og fyrir það er ég gríðarlega þakklát. Ég græddi fimm systkini í viðbót og mömmu þeirra líka. Þau hafa tekið mér rosalega vel, ég finn hvað ég er velkomin í fjölskylduna og ég reyni að rækta sambandið við þau,“ segir hún.
Vandinn við dómsmál er tilfinningalegs eðlis
Benedikta hefur verið ófeðruð í þjóðskrá í tuttugu ár eftir að hún höfðaði véfengingarmál gegn móður sinni og manninum sem hún var upphaflega feðruð. Hún ákvað í samráði við hin nýju fimm systkini sem hún eignaðist á einni nóttu að höfða faðernismál og fá það staðfest fyrir dómi að Eiríkur væri réttur líffræðilegur faðir sinn. „Ég hef ekki getað kallað mig dóttur neins í tuttugu ár og get núna loksins kallað mig Eiríksdóttur í þjóðskrá samkvæmt úrskurði héraðsdóms og það er mjög mikilvægt fyrir mig. „Þegar ég sá fram á að þurfa að stefna nýju systkinum mínum fyrir dóm og gera þetta mál opinbert þá setti ég mig í stellingar og hélt að þau yrðu ósátt við það. Það varð aldrei og þau sýndu mér fullan skilning og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Kostnaðurinn við dómsmeðferðina er ekki vandinn í sjálfu sér því hann er að mestu niðurgreiddur heldur er hann tilfinningalegs eðlis. Þótt þau hafi öll samþykkt málsmeðferðina fyrir dómi vitandi að hún væri bara formlegs eðlis þá er ekki alltaf hlaupið að því að stefna nýjum ættingjum sínum fyrir dóm sem svo er gerður opinber,“ segir Benedikta. „Ég er enn þá að reyna að ná utan um þetta allt saman, ég næ því kannski einn daginn.“
Ríkið greiði fyrir mannerfðafræðilegar rannsóknir
Á tuttugu árum hefur Benedikta látið bera lífsýni sitt við fimm menn í leitinni að réttum föður því móðir hennar sýndi ekki mikla viðleitni til að aðstoða hana við leitina. Tvær blóðrannsóknir voru greiddar úr ríkissjóði af því þær reyndust réttar, annars vegar í
véfengingarmálinu og hins vegar í faðernismálinu en hin þrjú sem sýndu engin blóðtengsl greiddi hún úr eigin vasa.
Anna Margrét Pétursdóttir útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík í fyrravor og skrifaði meistararitgerð um feðrunarreglur barnalaga. Hún telur meðal annars að það þurfi að endurskoða reglur um niðurgreiðslu á mannerfðafræðilegum rannsóknum. En þær fást ekki endurgreiddar nema dómur hafi gengið í málinu og eingöngu ef niðurstaða staðfestir blóðtengsl. „Þegar einstaklingur leitar uppruna síns, liggja fyrir í mörgum tilfellum aðeins orð móður eða jafnvel sögusagnir um hver það sé sem sé mögulegur faðir. Fenginn er úrskurður héraðsdóms fyrir því að taka megi sýni svo unnt sé að framkvæma rannsókn. Leiði sú rannsókn í ljós að útilokað sé að viðkomandi sé faðir einstaklingsins þýðir það að hann þurfi sjálfur að bera kostnað af málinu. Það skiptir því máli að kostnaður vegna slíkra mála falli alltaf á ríkissjóð óháð niðurstöðu í rannsóknum, annars veigra einstaklingar sér við að höfða mál og fá því ekki svarað þeirri mikilvægu spurningu sem legið hefur þungt á þeim. Íslenska ríkinu ber skylda til að uppfylla ákvæði mannréttindasáttmála og Barnasáttmála sem lögfestir eru hér á landi þar sem kveðið er á um að barn eigi rétt á að þekkja foreldra sína. Mín skoðun er því sú að ríkinu beri skylda til að tryggja þessi réttindi,“ segir Anna Margrét.
Feður hafa takmarkaðan rétt til höfða faðernismál
Anna Margrét ákvað að skoða feðrunarreglur í barnalögum í sínu lokaverkefni meðal annars vegna þess að náinn ættingi hennar hefur reynt að komast að réttu faðerni í fjöldamörg ár án árangurs. „Það eru mannréttindi að þekkja uppruna sinn og þau réttindi eru ekki nægilega tryggð í gildandi barnalöggjöf. Að mínu mati er nauðsynlegt að ráðast í úrbætur svo umrædd réttindi verði tryggð með fullnægjandi hætti.“ Hún segir að mörgum þyki þetta flókið, kostnaðarsamt og íþyngjandi ferli að þurfa fara fyrir dómstól til að sækja þennan rétt.
„Raunveruleikinn er sá að börn eru ranglega feðruð hér á landi. Það er skortur á úrræðum fyrir rangfeðraðra einstaklinga og að auki hafa karlmenn sem telja sig föður barns enga möguleika á að láta á faðerni sitt reyna.“ Hún segir að faðernisregla barnalaga, svokölluð pater-est-regla feli í sér að eiginmaður eða maður sem skráður er í sambúð með móður telst sjálfkrafa faðir barns hennar. Ákvarðanir fólks um sambúðarform hafi því áhrif á feðrun barna. Í flestum tilvikum teljist eðlilegt að svo sé en það geti þó komið fyrir að börn séu ranglega feðruð af þessum sökum. Þótt konan sé ekki í sambúð eða í hjónabandi þegar barnið er getið þá hefur faðir barnsins engan rétt ef konan hefur sambúð eða gengur í hjónaband með öðrum manni áður en barnið fæðist.
„Barn er sjálfkrafa ranglega feðrað eiginmanni eða manni sem móðir þess er skráð í sambúð með sem veldur því að sá sem réttilega telur sig vera faðir barns getur ekki höfðað faðernismál þar sem barnið hefur þegar verið feðrað. Þessu þarf að breyta og eru tillögur mínar þær að rýmka skuli málshöfðunarheimildir barnalaga til að tryggja manni sem telur sig föður barns heimild til að höfða faðernismál og/eða véfengingar- og ógildingarmál. Með því yrði réttindum barns til að þekkja uppruna sinn gert hærra undir höfði og opnuð sú leið að heimila mönnum að láta á faðerni reyna fyrir dómstólum,“ segir Anna Margrét.
Blóm vinsæl neysluvara
Spekingar spá því að ætileg blóm eins og lofnarblóm og rósir komi sterk inn á árinu, bæði út í drykk og mat og þá ekki einunigs sem eitthvert skraut heldur vegna þeirra góðu áhrifa sem þau eru talin hafa á heilsuna.
Bólgueyðandi áhrif, góð áhrif á háan blóðþrýstingi og á magaverki, allt saman er þetta nefnt sem ástæður þess að slík blóm komi til með að verða vinsæl neysluvara árið 2018.
Falafel, Halloumi og Harissa
Hinn svokallaði Miðjarðarhafs„kúr“ var vinsæll á síðasta ári og áhrifa hans mun gæta áfram. Þannig verður falafel, Halloumi ostur og spennandi krydd eins Harissa og kardimommur, sem eru talin hafa alls konar góð áhrif á heilsuna, meðal annars andoxandi áhrif á líkamann og örvandi áhrif á meltinguna, nokkuð áberandi.
Sveppir í heilsubótarskyni
Þá er búist við að sveppir á borð við svokallaða „chaga“ sveppi, „ljónsmakka“-sveppi (lion‘s mane), „Cordyceps“ sveppi og „reishi“ sveppi, sem yfirleitt eru notaðir í fæðubótarefni eða til að bragðbæta drykki eins og te, kaffi, „smoothies“ og fleira, verði í auknum mæli notaðir í heilsubótarskyni á árinu.
Sveppir sem eru meðal annars taldir hafa bólgueyðandi áhrif á líkamann, ásamt því að vera styrkjandi fyrir ónæmiskerfið.
2017 straumar og stefnur sem lifa áfram
Ofurfæða áfram vinsæl
Læknandi fæðutegundir, sem eiga ekki aðeins að bæta heilsu heldur líka lækna ýmsa kvilla,. verða áfram áberandi árið 2018. Við höfum þegar heyrt mikið talað um bólgueyðandi túrmerik, ónæmisbætandi sveppi, svo sem chaga, og fleiri fæðutegundir munu bætast við á árinu. Mikið er talað um jurtir sem koma jafnvægi á líkamann, draga úr streitu og áhrifum streituhormónins kortisól, auka orku og fleira, allt eftir því hvað líkaminn þarf á að halda, en þetta eru jurtir á borð við ginseng, ashwagandha og lakkrísrót.
Atkins á nýjan leik
Fólk er ennað tala um Atkins-kúrinn, þökk sé Kim Kardashian. Hún hvarf algerlega úr sviðsljósinu eftir að hún eignaðist sitt annað barn og sneri ekki aftur fyrr en hún hafði misst meðgöngukílóin. Hún léttist um 30 kg á 6 mánuðum og sagðist hafa fylgt Atkins-kúrnum, það er prótínríku og kolvetnaskertu mataræði. Í þetta skipti er lögð áhersla á heilsusamlega fitu og prótín í Atkins – ekki bara beikon og rjóma í öll mál.
Heilbrigður meltingarvegur
Meltingarvegur okkar er margslungið fyrirbæri og það á sérstaklega við um þarmana. Þar lifir gríðarlegt magn baktería sem allar hafa sitt hlutverk. Undanfarna áratugi hafa læknar og vísindamenn beint rannsóknum sínum í auknum mæli að þessari þarmaflóru; hvaða áhrif hún hefur á heilsu okkar, hvernig við getum ýtt undir hana eða aukið virkni hennar og svo framvegis.
Hægt að laga ótal útgáfur af drykkjum með möndlumjólk en það fer eftir smekk hvers og eins hvað er sett í drykkinn.
Möndlur eru gífurlega hollar og næringarríkar og innihalda m.a. prótín, járn og kalk. Rannsóknir hafa leitt í ljós að fitusýrur í möndlum („góðar fitusýrur“) geta dregið úr hættu á hjartasjúkdómum og hjálpa til við að draga úr „slæma kólesterólinu“ svokallaða. Möndlur innihalda einnig mikið af E-vítamíni, fólínsýru, trefjum og andoxunarefnum. Þær eru hins vegar kaloríuríkar þannig að um þær gildir, eins svo margt annað, að allt er best í hófi!
Möndlumjólk sem er löguð úr möndlum og vatni er auðvelt að útbúa sjálfur og nota t.d. út á hafragrautinn. Möndlurnar eru látnar liggja í bleyti yfir nótt og síðan maukaðar í blandara ásamt vatni í nokkrar mínútur. Möndlumjólk er frábær lausn fyrir þá sem af einhverjum ástæðum vilja eða þurfa að sneiða hjá kúamjólk. Sumir næringarfræðingar og fólk í heilsugeiranum mæla með möndlumjólk ekki eingöngu í staðinn fyrir kúamjólk heldur einnig í staðinn fyrir soja- og hrísmjólk.
Möndlumjólk
1 dl möndlur með hýði, lagðar í bleyti yfir nótt
4 dl vatn
Skolið möndlur eftir að þær hafa legið í bleyti og setjið í blandara. Hellið vatni yfir og maukið þar til að blandan er orðin jöfn og mjúk.
Það er hægt að laga ótal útgáfur af drykkjum með möndlumjólk en það fer eftir smekk hvers og eins hvað er sett í drykkinn. Notið hugmyndaflugið og það sem til er í skápunum.
Bleiki drykkurinn
3-4 dl möndlumjólk
1 banani, skorinn í bita
2 dl mangó, ferskt eða frosið
1 dl frosin hindber eða jarðarber
1 dl vatn
Setjið allt í blandara og maukið saman.
Græna byltingin
3-4 dl möndlumjólk
2 lúkur spínat
3-4 döðlur, má sleppa
2 dl frosið mangó
nokkur myntulauf
2 dl vatn
safi úr ½ límónu
Setjið allt í blandara og maukið saman.
Ljósi draumurinn
3-4 dl möndlumjólk
1 banani, skorinn í bita
½ tsk. kakóduft
korn úr vanillustöng
1 dl vatn
ísmolar
Setjið allt í blandara og maukið saman.
Góður morgunverður!
Hafragrautur með möndlumjólk, kanil og bláberjum.
Allt hráefni fæst í verslunum Nóatúns. Fylgihlutir eru í einkaeigu.
Febrúarblað Húsa og híbýla kemur út 1. febrúar smekkfullt af frábæru efni.
Við kíktum í hressandi kaffi til Berglindar Pétursdóttur en heimilið hennar er sannarlega litríkt og þar leynast margar mjög skemmtilegar hugmyndir.
Við fórum líka í heimsókn til Steingríms Gauta listamanns og Hjördísar Gestsdóttur fatahönnuðar sem eiga listrænt heimili í Hlíðunum og kíktum á vinnustofu listamannsins.
Rakel Matthea opnaði einnig dyrnar fyrir ljósmyndara blaðsins en hún er ekki ókunn fjölmiðlabransanum því hún starfaði áður sem tískuritstjóri hjá Nude Magazine. Rakel er mikil smekkpía og heimili hennar í Garðabæ er eftir því.
Á forsíðunni er svo gullfalleg stúdíóíbúð í Kópavogi sem Kristjana Ólafsdóttir í Heimilum og Hugmyndum hannaði í samvinnu við parið sem þar býr. Blaðamaður og ljósmyndari brunuðu svo á Seltjarnarnesið og mynduðu hlýlegt heimili flugfreyju og hennar fjölskyldu. Við kíktum líka í heimsókn til Lilju og Atla Fannars sem búa í Vesturbænum. Þetta, Vala Matt, Zaha Hadid, 70 ljós og lampar og fleira í blaði númer tvö á árinu.
Febrúarblað Húsa og híbýli kemur út 1. febrúar. Sjón er sögu ríkari!
Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Mynd hér að ofan / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Forsíðumynd hér að neðan / Aldís Pálsdóttir
Myndband / Óskar Páll Sveinsson
Helga Arnardóttir, yfirritstjóri Birtíngs, og stjórn félagsins hafa komist að samkomulagi um starfslok hennar.
Helga hóf nýlega störf hjá útgáfunni en sameiginleg ákvörðun aðila var að slíta samstarfinu og vill stjórn Birtíngs þakka henni fyrir samstarfið.
Birtíngur gefur út tímaritin Hús og híbýli, Gestgjafann, Vikuna og fríblaðið Mannlíf. Auk þess heldur félagið úti lífstílsvefnum man.is, en Lilja Katrín Gunnarsdóttir hefur verið ráðin til starfa á vefnum.
Jón Þórður Jónsson tæknifræðingur hefur rennt muni úr tré síðan synir hans og fjölskyldur þeirra gáfu honum trérennibekk í sjötugsafmælisgjöf. Hann vann um árabil hjá Ísal í Straumsvík en hætti þar sökum aldurs 2009.
„Ég renni allskonar muni úr tré, eins og fugla, kertastjaka, box, bjöllur, lyklakippur og svo framvegis,“ segir Jón Þórður og hann leggur áherslu á að viðurinn fái að njóta sín og að eiginleikar trésins komi í ljós í gegnum munina. Hann vinnur í bílskúrnum heima og hefur komið sér vel fyrir. „Ég geri þetta mest ánægjunnar vegna og að sjálfsögðu er gaman þegar einhver kaupir. Einnig fer mikið í tækifærisgjafir og jólagjafir. Ég hef haldið sýningu í bílskúrnum sem gekk mjög vel og ég ætla að halda aftur sölusýningu í vor. Ef til vill fer ég með munina mína í handverkssöluna á Króksfjarðarnesi í sumar og verð með þá á ferðalögum í húsbílnum okkar.“
Viðtalið í heild sinni má lesa í 5. tbl. Vikunnar sem kemur í verslanir fimmtudaginn 1. febrúar 2018.
Jón Þórður er á Facebook undir Smiðja Jóns Þórðar.
Skoska eyjan Linga við Hjaltlandseyjar, norður af skoska meginlandinu, er nú til sölu. Ásett verð er 351 þúsund dollarar, rétt tæplega 35,5 milljónir króna.
Eyjan er tæplega 26 hektarar og kemst maður hæglega út í hana á bát frá skoska bænum Walls. Það þýðir að þeir sem setjast að á Lingu eru ekki langt frá siðmenningu, þó einangrunin sé algjör á eyjunni, þar sem enginn býr.
Reyndar hefur enginn búið á Lingu síðan árið 1934 þannig að smáhýsin tvö sem á eyjunni eru þarfnast mikils viðhalds. Nýr eigandi fær hins vegar leyfi til að byggja nýtt smáhýsi og bryggju, svo eitthvað sé nefnt.
Þá gefur byggingarleyfið nýjum eiganda einnig heimild til að setja upp sólar- og vindorkusellur þannig að ljóst er að framtíðin á Linga er mjög umhverfisvæn.
Það er fyrirtækið Vladi Private Islands sem sér um sölu á eyjunni en myndband af þessari náttúruperlu má horfa á hér fyrir neðan.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sótti fund Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss eins og svo margir aðrir þjóðarleiðtogar.
Justin vakti ekki aðeins athygli fyrir mælsku sína og skoðanir heldur stálu litríkir og flippaðir sokkar hans algjörlega senunni.
Forsætisráðherrann settist niður með Nóbelsverðlaunahafanum Malölu Yousafzai og sáu þá glöggir gestir fundarins glitta í fjólubláa sokka með gulum öndum á.
Eins og við Íslendingar vitum er Justin ekki eini þjóðarleiðtoginn sem er hrifinn af því að klæðast litríkum sokkum. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, hefur nefnilega oft og mörgum sinnum vakið athygli á ýmsum viðburðum þar sem hann klæðist flippuðum sokkum við hefðbundin jakkaföt. Ætli þeir Justin hafi borið saman bækur sínar?
Ég er ofboðslega nýjungagjörn manneskja og þegar að annar hver maður, og amma þeirra, var farinn að fasta í lengri eða skemmri tíma þá bara varð ég að prófa.
Það eru auðvitað til alls kyns föstur og verður hver og einn að finna föstuna í lífi sínu. Það er hægt að fasta ákveðið marga tíma á sólarhring, það er hægt að fasta með því að borða ekki vissar fæðutegundir í ákveðinn tíma eða það er hægt að fasta þannig að maður borðar akkúrat ekki neitt og drekkur bara vökva. Ég ákvað að velja seinasta kostinn. Eftir að hafa vafrað endalaust á internetinu og lesið mér til um föstur ákvað ég að fasta tvo sólarhringa í hverri viku og drekka ekkert nema vatn, kaffi og stöku dós af Pepsi Max. Ég hefði líklegast átt að sleppa mínu yndislega Max-i líka en mér fannst það fullmikið af því góða!
Ég valdi að fasta á mánudögum og fimmtudögum að vel ígrunduðu máli. Mánudagar fannst mér fullkomnir því þá er maður búinn að gúffa í sig öllu sem maður kemst í yfir helgina og er með smá kolvetnamóral, eins fáránlegt og það hljómar. Svo valdi ég fimmtudaga því ég vildi alls ekki fasta um helgar, út af fyrrnefndu gúfferíi, en vildi samt að það liði smá tími á milli fasta. Þetta ákvað ég síðan að gera í þrjár vikur til að geta skrifað þennan pistil um mína reynslu.
Það var samt alveg dýpri ástæða á bak við það að ég vildi prófa að fasta. Mig langaði að ná aftur í sjálfsagann og viljastyrkinn sem mér fannst ég hafa tapað. Ég var sem sagt orðin drullulöt, svo ég segi það hreint út. Og eitthvað sagði mér að fasta væri alveg málið. Ef ég gæti neitað mér um mat í marga klukkutíma, gæti ég nú gert ansi margt.
Vika 1 – Kökubakstur á fastandi maga
Það var pínulítið skrýtið að vakna á mánudagsmorgun í fyrstu vikunni og eiga heilan dag og kvöld framundan þar sem ég myndi ekki svo mikið sem narta í eitt tekex. Ég var alveg búin að undirbúa mig andlega, og reyndar líkamlega líka (gúfferíið, þið munið), kvöldið áður og var mjög peppuð fyrir þessu. Og viti menn, þessi mánudagur leið hjá eins og ekkert væri. Ég var bara ekkert svöng. Fyrr en klukkan sló fjögur. Búmm! Þá kom svengdin sem aldrei fyrr og heltók heilann á mér. Ég sá mat alls staðar og hefði léttilega getað borðað tölvuna mína. En það magnaða var að eftir sirka klukkutíma var þessi yfirgengilega svengdartilfinning liðin hjá. Auðvitað kom nartlöngunin um kvöldið en ekkert sem ég réð ekki við.
Fimmtudagsfastan var erfiðari. Bæði þriðjudag og miðvikudag var ég búin að borða, algjörlega ósjálfrátt, miklu minna en vanalega. Ég var ekkert búin að narta eftir klukkan átta á kvöldin þannig að ég vaknaði hálfsvöng á fimmtudagsmorgun. Og allur dagurinn var eiginlega kvöl og pína. Mig langaði svo mikið til að borða. Bara eitthvað. Allan daginn var ég að finna ný og ný verkefni til að gleyma því að mig langaði til að borða. Og þá gerði ég einmitt stóru mistökin – ég bakaði köku! Bakaði afmælisköku fyrir móður mína. Ómótstæðilega köku með fullt af smjörkremi og fallegum nammiskreytingum. Var ég haldin sjálfspíningarhvöt? Eða var ég bara svona nautheimsk? Þegar klukkan sló tólf gat ég ekki annað en dýft mér ofan í kökuafskurð og smjörkrem. Ekki mín fallegasta stund, ég viðurkenni það fúslega.
Vika 2 – Meiri orka og meira vatn
Allt í einu fann ég fyrir orku sem ég hafði ekki haft í langan tíma. Ég var farin að stunda líkamsrækt nokkrum sinnum í viku, meira að segja á dögunum sem ég var að fasta. Þá daga tók ég reyndar ekkert svakalega mikið á því, þar sem ég var hreinilega hrædd um að það myndi líða yfir mig. Ég var farin að drekka miklu meira af vatni en áður og ég var farin að spá meira í því hvað ég væri að láta ofan í mig þá daga sem ég var ekki að fasta. Það var eins og líkaminn kallaði frekar á hollan mat heldur en sætindi og kökur, sem ég er ansi svag fyrir.
Hins vegar var sama uppá tengingnum þegar kom að fimmtudagsföstunni. Hún var svakalega erfið. Þúsund sinnum erfiðari en mánudagsfastan. Þannig að þegar klukkan sló tólf fór ég rakleiðis inní eldhús að næra mig. En í þetta sinn var það ekki kaka og krem sem varð fyrir valinu til að dúndra blóðsykrinum uppí tungl og til baka. Ó, nei. Í þetta sinn valdi skynsama ég hnetur og eitthvað Goji-berja hrástykki sem var búið að safna ryki uppí skáp. Jey fyrir mér!
Vika 3 – Fimm kílómetra hlaup og enginn svefn
Síðasta vikan var klárlega átakaminnst. Ég var farin að reyna aðeins meira á mig í ræktinni þá daga sem ég var að fasta og einn daginn hljóp ég meira að segja fimm kílómetra án þess að finna fyrir höfuðverk eða óþægindum (#humblebrag).
Það var þó eitt sem var pínulítið erfitt. Okkur fjölskyldunni var boðið í matarboð á mánudeginum þannig að ég ákvað að fasta frekar á þriðjudegi. Ég hefði ekki getað trúað því hvað það var erfitt að skipta um dag til að fasta. Það var eins og fösturnar mínar væru orðnar partur af líkamsklukkunni og það að skipta um daga var eins og ég myndi henda þessari blessuðu klukku í vegg og síðan traðka á henni í hermannaklossum með stáltá.
Ég var hætt að sofna yfir sjónvarpinu eins og ég gerði nánast hvert einasta kvöld fyrir föstutímabilið mitt og ég kunni vel við alla þessa orku sem ég hafði.
Eina sem skyggði á þessa síðustu viku var að yndislega, tveggja ára dóttir mín átti erfitt með svefn aðfaranótt föstudags og var ég með hana uppá arminum bróðurpart næturinnar. Þá er ég fyrst að viðurkenna að ég nartaði í kex og súkkulaði á milli þess sem hún vældi í eyrað á mér og klíndi hori í náttfötin mín. Mér fannst ég bara eiga það frekar mikið skilið.
Líkaminn hefur gott af gúffpásu
Þegar öllu er á botninn hvolft fannst mér mjög gaman að fasta. Það voru margir sem spurðu mig hvort ég hefði eitthvað grennst á þessu og ég held ekki. Ég allavega finn engan mun á fötunum mínum. En munurinn sem ég finn er sá að ég er ánægðari með mig. Ég er stolt af mér að hafa getað þetta og sú tilfinning finnst mér miklu yndislegri og mannbætandi en nokkur grömm til eða frá. Það kom mér líka á óvart hve mikla orku ég hefði þó ég væri ekki að borða mat. Nú gætuð þið haldið að ég hefði kannski drukkið tólf lítra af kaffi á dag og 250 dósir af Pepsi Max, en svo var ekki. Kaffibollarnir urðu yfirleitt ekki fleiri en fjórir á dag og dósirnar í mesta lagi þrjár.
Það erfiðasta við að fasta er samt ekki svengdartilfinningin. Það er nefnilega félagslegi parturinn. Það var ofboðslega erfitt að setjast niður með fjölskyldunni og horfa á þau borða. Maðurinn minn var reyndar mjög klókur að elda bara það sem mér finnst vont á þeim dögum sem ég var að fasta, eins og bjúgu og kálböggla, þannig að mig langaði ekkert sérstaklega í matinn. Það er bara svo stór partur af deginum að setjast niður, allir saman, borða, hlæja og tala um daginn og veginn. Þegar ég var ekki að borða þá fannst mér ég ekki vera að taka almennilega þátt í þessari heilögu stund.
En ætla ég að halda þessu áfram? Já, ég held það bara. Eftir þessar þrjár vikur er fasta komin í hálfgerðan vana. Þetta er orðið eðlilegt. Mér líður vel af þessu og mér finnst líkami minn hafa gott af því að fá smá gúffpásu.
Hvað segir næringarfræðingurinn?
„Það eru skiptar skoðanir um föstur hjá næringarfræðingum en ég er mjög hlynnt þessu. Það sem gerist þegar við föstum er að við erum að hvíla kerfið, hjálpa frumum að heila sig, jafna blóðsykurinn og endurstilla hormónastarfsemi. Ennfremur erum við að endurstilla hausinn okkar og verðum fyrir vikið meðvitaðri um það sem við látum ofan í okkur dags daglega,“ segir Elísabet Reynisdóttir, næringarfræðingur.
Hún segir það hafa góð áhrif á líkamann að fasta, hvort sem það er í einhverja klukkutíma á dag eða heilu sólarhringana, en mælir þó ekki með að fasta í viku, eða lengri tíma, án þess að vera undir eftirliti læknis.
„Hins vegar er hægt að taka létta föstu í viku eða hálfan mánuð á ári þar sem við hvílum líkamann á kaffi, unnum mat og kolvetnum og drekkum frekar vatn og grænmetisdrykki og borðum hreinan mat. Þannig hreinsum við líkamann þó við séum að borða mat.“
Elísabet hvetur fólk til að prófa að fasta ef það hefur áhuga á því.
„Ef að fólk finnur takt til betri heilsu og líður vel þá bara: “Go for it”. Það er engin ein ríkisleið til. Það er gott að hafa einhver viðmið og nýta heilbrigða skynsemi en svo finnur hver og einn þá leið sem hentar honum best.“
Seinni undankeppni í Söngvakeppninni fer fram í Háskólabíói laugardagskvöldið 17. febrúar. Í gær fengum við að kynnast þeim flytjendum sem keppa um sæti í úrslitunum 3. mars í fyrri undankeppninni en nú er komið að því að spyrja flytjendur í seinni undankeppninni spjörunum úr.
Lífið og tónlistin stoppar ekki í Eurovision
Söngvarinn Aron Hannes syngur lagið Golddigger og stígur fyrstur á svið í Háskólabíói þann 17. febrúar næstkomandi. Hann keppti líka í fyrra og komst alla leið í úrslitakeppnina. Hann segist mjög spenntur yfir því að fá að upplifa ævintýrið í kringum Söngvakeppnina aftur.
Af hverju Eurovision?
Frábær vettvangur til að koma sér á framfæri sem tónlistarmaður.
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?
Lagið hreyf mig við fyrstu hlustun og gaf mér tækifæri til að hallast meira að nútíma funki sem að mig hefur langað að gera í langan tíma.
Hvernig var tilfinningin þegar þú komst að því að lagið væri komið í undanúrslit?
Að sjálfsögðu mjög spenntur að fá að upplifa ævintýrið í kringum Söngvakeppnina aftur.
Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?
Ætli það sé ekki Tell Me sem að Einar Ágúst og Telma tóku árið 2000. Frábært lag.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
In my dreams, WigWam. Geggjað lag sem hefur fylgt mér alla tíð síðan það var í keppninni árið 2005.
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa þig?
Ef að fólki líkar vel við lagið og atriðið þá má það endilega henda atkvæði á strákinn.
Hvernig áttu eftir að bregðast við ef þú vinnur?
Eflaust í skýjunum með það að fá að fara fyrir Íslands hönd í Eurovision.
En ef þú tapar?
Áfram gakk! Lífið og tónlistinni stoppar ekki þar.
Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?
Ríkur af reynslu og svo veit maður aldrei hversu stór tækifæri Eurovision býður uppá fyrir mann.
Númer 1,2 og 3 er að njóta augnabliksins
Gríngúbban Áttan, með Sonju Valdín og Egil Ploder í broddi fylkingar, keppir í Söngvakeppninni með lagið Hér með þér, eða Here For You. Þau Sonja og Egill segja að lagið sé ekki típískt Áttulag og telja að flutningurinn í beinni útsendingu muni koma á óvart.
Af hverju Eurovision?
Af því að við höfum alltaf haldið mikið upp á keppnina og horft á hana frá því við vorum krakkar. Svo finnst okkur gaman að taka að okkur ný og krefjandi verkefni og Söngvakeppnin passar vel inn í það.
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?
Við vildum gera eitthvað öðruvísi. Eitthvað sem Áttan hafði ekki gert áður og fórum úr þessu típíska Áttulagi yfir í eitthvað allt annað. Lagið fjallar um fyrstu skrefin í ástinni og við vonum að fólk finni þá tilfinningu þegar það hlustar.
Hvernig var tilfinningin þegar þið komust að því að lagið væri komið í undanúrslit?
Það var gjörsamlega frábært tilfinning! Alltaf gaman að ná markmiðum sínum.
Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?
Egill: Fyrsta lagið sem ég man eftir er Tell Me! með Einari Ágústi og Telmu. Það var svo skemmtilega grillað atriði. Svo að sjálfsögðu frábært lag!
Sonja: Sylvía Nótt – Congratulations. Af því að ég var Sylvíu Nótt fan #1.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Egill: Uppáhalds Eurovision lagið mitt kemur frá Belgíu. Tók þátt árið 2010 með lagið Me and my guitar. Hlusta reglulega á það ennþá í dag. Þetta er svona skemmtilega mjúkt lag. Er mikið fyrir það! Svo gleymi ég reyndar oft að nefna lagið You með Robin Stjernberg. Tók þátt fyrir Svíþjóð árið eftir Euphoria. Fékk þar af leiðandi ekki verðskuldaða athygli! Mikið spilað í vinahópnum mínum!
Sonja: Euphoria af því að það var svo öðruvísi og ég hlusta ennþá á það í dag.
Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?
Það eru þrotlausar æfingar fram að keppni og leggjum við mikið upp úr flutningnum og erum nokkuð viss um að við komum áhorfendum á óvart þar.
Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?
Það er einhvern veginn ómögulegt að gera sér grein fyrir því. Við höfum eiginlega enga hugmynd. Það væri nátturulega rosalegt! En númer 1,2 og 3 er að njóta augnabliksins.
En ef þið tapið?
Það er mikið af frábærum atriðum í keppninni. Við munum samgleðjast þeim sem fer út og keppir í Eurovision fyrir Íslands hönd. Svo höldum við áfram okkar striki og nýtum okkur meðbyrinn sem Söngvakeppnin vonandi gefur okkur.
Er líf eftir Eurovision?
Já við skulum rétt vona það!
Grenjar í hálftíma ef hann tapar
Söngvarinn Dagur Sigurðarson stígur sín fyrstu skref í Söngvakeppninni með lagið Í stormi, eða Saviours. Höfundur lagsins er Júlí Heiðar Halldórsson en hann samdi íslenska textann ásamt Þórunni Ernu Clausen og enska textann með Guðmundi Snorra Sigurðarsyni. Dagur segir lagið eins og samið fyrir sig.
Af hverju Eurovision?
Það hefur alltaf verið smá draumur hjá mér að fá prófa að syngja í Söngvakeppninni og lagið hentaði mér fullkomlega.
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?
Lagið er eins og það sé samið ofan í mig, fullkomin öskur powerballaða með nóg af dramatík.
Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?
Fyrsta lagið sem ég man eftir er Minn hinsti dans sem Páll Óskar flutti og er þetta í rauninni fyrsta minningin mín um Eurovision.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Ég ætla að segja að uppáhalds Eurovision lagið mitt sé In my dreams með hljómsveitinni Wig Wam, alvöru glys geðveiki
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa þig?
Fólk á að kjósa það lag sem því finnst flottast og taka inn í dæmið öryggi í flutningi.
Hvernig áttu eftir að bregðast við ef þú vinnur?
Ég á örugglega eftir að sturlast úr ánægju
En ef þú tapar?
Grenja í svona hálftíma og held svo áfram með lífið.
Gleyma sér í gleðinni og lifa ekki í eftirsjá
Stefanía Svavarsdóttir, Agnes Marinósdóttir og Regína Lilja Magnúsdóttir flytja lagið Svaka stuð, eða Heart Attack. Þær segja áhorfendur mega búast við óvæntum uppákomum í sínum flutningi og segja engan tapa í Eurovision.
Af hverju Eurovision?
Því í Eurovision er bara gleði, glimmer og svaka stuð – og hver vill ekki vera með í því?
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?
Agnes er skúffuskáld sem er búin að bíða eftir spotlighti fyrir þetta lag. Þýðingin er að þora og gera, gleyma sér í gleðinni og lifa ekki í eftirsjá.
Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?
Stefanía: All out of Luck. Ég var 7 ára og horfði á keppnina með öðru auganu á meðan fullorðna fólkið fylgdist með og man hvað mér fannst Selma stórkostleg.
Agnes: Páll Óskar – Minn hinsti dans. Ég man hvað mér fannst hann töff að hafa brotið niður múra og ögrað.
Regína: Páll Óskar. Þetta var eiginlega í fyrsta skiptið sem ég sá svona risastóra söngvakeppni og ég var algjör sökker fyrir söngvakeppnum. Ég man að ég hugsaði að ég ætlaði að vera í þessari söngvakeppni þegar ég yrði stór en kannski aðeins öðruvísi fötum, var pínu sjokkeruð en fannst hann samt eitthvað vandræðalega töff.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Euphoria er besta Eurovision-lag fyrr og síðar, við erum allar sammála um það.
Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?
Ó já, heldur betur. Verið viðbúin.
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?
Útaf því að við erum með svaka stuðlag! Við viljum deila gleðinni og glimmerinu með sem flestum og hver vill ekki taka þátt í því partýi?
Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?
Stefanía á eftir að fara að grenja, Agnes mun hugga Stefaníu og Regína fær taugaáfall = we got this.
En ef þið tapið?
Það tapar enginn í Eurovision.
Er líf eftir Eurovision?
Við erum spenntar að komast að því. Eflaust aðeins rólegra líf en vonandi jafn mikið glimmer.
Gott silfur var gulli betra
Knattspyrnukappinn og tónlistarmaðurinn Guðmundur Þórarinsson flytur lagið Liti, eða Colours, sem hann samdi með félaga sínum, Fannari Frey Magnússyni, en þeir eiga annað lag í keppninni; Brosa sem flutt er af Þóri og Gyðu. Guðmundur verður alveg brjálaður ef hann tapar en líka ríkur af góðum og skemmtilegum upplifunum.
Af hverju Eurovision?
Fannar sem semur lögin með mér sendi þau inn til að koma okkar tónlist á framfæri, það var engin djúp pæling á bak við það, meira að við vildum koma okkur áfram í tónlistinni.
Hvernig var tilfinningin þegar þú komst að því að lagið væri komið í undanúrslit?
Spennandi hugsaði ég. Ég bý erlendis svo að ég vissi að þetta yrði krefjandi en þetta hefur gengið mjög vel hingað til.
Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?
Sennilega Selma Björns með All out of luck. Þetta er svo minnisstætt því fjölskyldan var orðin mjög gíruð heima að við værum að fara að vinna en gott silfur var gulli betra í það skiptið.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Í síðasta skipti með Friðrik Dór. Flott lag sem passar alltaf sama hver stemningin er og Stattu upp með Bláum Ópal, ef maður setur það á í partýi þá verður kvöldið gott.
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?
Það verður hver einn að fá að ákveða það með sjálfum sér, ég reyni að syngja vel og hafa atriðið flott og þá vonandi finnst fólki lagið flott.
Hvernig átt þú eftir að bregðast við ef þú vinnur?
Ég hreinlega veit það ekki, ég hugsa ekki svo langt fram í tímann lengur, ég hef sem betur fer loksins lært að reyna að gera mitt besta í augnablikinu og ekki pæla of mikið í framtíðinni.
En ef þú tapar?
Þá verð ég reyndar alveg brjálaður.
Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?
Ríkur af góðum og skemmtilegum upplifunum.
Er líf eftir Eurovision?
Já, pælingin mín var að tónlistarferillinn myndi hefjast með Eurovision. Ég á mörg lög og finnst gaman að gefa af mér, vonandi verður þetta bara byrjunin.
Fallegur boðskapur sem höfðar til allra
Söngkonan Rakel Pálsdóttir snýr aftur í Söngvakeppnina, en hún flutti lagið Til mín ásamt Arnari Jónssyni í fyrra. Í ár syngur hún ballöðuna Óskin mín, eða My Wish, sem samið er af Hallgrími Bergssyni. Hún segist í fyrstu ekki hafa getað sungið lagið því hún fór alltaf að gráta, svo sterkt tengir hún við það.
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?
Lagið hefur sterka þýðingu fyrir mig. Ég hef aldrei tengt eins vel við lag eins og þetta. Ég varð móðir árið 2015 og þá upplifir maður nýjar tilfinningar. Þetta lag var samið um tvo afastráka sem Hallgrímur eignaðist og er þetta um það að móðir syngi til barns síns, óski þess að það elti drauma sína og treysti á sína eigin dómgreind. Ofsalega fallegur boðskapur. Í fyrstu bara gat ég ekki sungið lagið, fór alltaf að gráta. Svo sterkt tengi ég við það.
Hvernig var tilfinningin þegar þú komst að því að þú værir að fara að syngja lag í Söngvakeppninni?
Tilfinningin að fá símtalið var yndisleg! Ég var búin að hugsa með mér hversu leiðinlegt það væri að vera ekki með í keppninni í ár. En svo fæ ég símtal frá Hallgrími og hoppa af kæti. Ég hlusta svo á lagið og verð enn glaðari. Þetta lag hentar mér svo vel.
Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?
Fyrsta lagið sem ég man eftir er Another summernight sem var framlag Möltu árið 2001. Ég var að byrja að horfa á Eurovision á þessum tíma og þetta lag situr enn fast í minninu.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Þau eru mörg en þessa stundina er það lagið Undo sem Sanna Nielsen flutti fyrir Svíþjóð árið 2014 og hafnaði í 3. sæti. Annars eru lögin Je nai que mon âme, Frakkland 2001 og lag Serbíu árið 2007 – Molitva.
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa þig?
Lagið er einlægt og fallegt og hefur fallegan boðskap. Við Íslendingar þurfum að senda rólegt lag í þetta skiptið í Eurovision. Það er svo mikið stress í þjóðfélaginu. Ég held að það sé góð leið til þess að ná ró innra með okkur og anda léttar. Svo er þessi boðskapur svo fallegur og höfðar til allra.
Hvernig átt þú eftir að bregðast við ef þú vinnur?
Hoppa af kæti og fá svo stresskast.
En ef þú tapar?
Hugsa að maður á aldrei að svekkja sig yfir einhverju, heldur halda áfram, það kemur annað tækifæri.
Líf Maríu Hlínar Eyjólfsdóttur tók stakkaskiptum eftir að hún leitaði sér aðstoðar.
Fyrir fimm árum var María Hlín Eyjólfsdóttir illa á sig komin og undirlögð af verkjum. Hún ákvað að leita sér aðstoðar til að brjótast úr ástandinu og hefur með dugnaði, elju og skynsemi náð undraverðum árangri.
„Mikilvægast af öllu er að halda í gleðina. Að missa aldrei sjónir af henni. Ef mér hefði ekki tekist að halda í hana í gegnum þetta allt þá veit ég hreinlega ekki hvernig þetta hefði farið. Kannski hefði ég bara gefist upp,“ segir María Hlín Eyjólfsdóttir, starfsmaður á leikskólanum Jöklaborg.
Fyrir fimm árum tók María ákvörðun um að breyta um lífsstíl eftir að hafa glímt við ofþreytu og verki um langt skeið. Hún skellti sér í heimsókn til Heilsuborgar en í stað þess að undir-gangast heilusmat hjá hjúkrunarfræðingi og láta skoða mataræði, hreyfinu og svefn eins og margir gera, skráði hún sig í Heilsulausnir – hóptíma þar sem lögð er áhersla á alhliða hreyfingu.
„Auðvitað var ekkert grín að byrja,“ játar hún. „Ég hafði ekki stundað neina hreyfingu lengi og var í engu formi, gat varla gengið og leið illa með sjálfa mig. Fyrir utan að ég var með alls konar verki. Meðal annars krónískan höfuðverk vegna gamalla meiðsla á hálsi. En ég var staðráðin í að gefast ekki upp og fékk góða hvatningu frá þjálfurum og þátttakendum á námskeiðinu.“
„Ég held nefnilega að stærstu mistökin sem fólk gerir þegar það ákveður að snúa við blaðinu sé að ætla sér of mikið á of skömmum tíma …. Ég held að það sé ein helsta ástæða þess að fólk gefst oft upp.“
Í samráði við þjálfarana segist María hafa ákveðið að gera allar breytingar rólega. Hún mætti til dæmis í ræktina þrisvar í viku til að byrja með á meðan hún var að koma því upp í vana og tók mataræðið smám saman í gegn og var ekkert að mæla árangurinn í lækkaðri fituprósentu heldur bættri líðan. „Með öðrum orðum var ég ekkert að umturna lífi mínu með einhverjum öfgum,“ segir hún. „Ég held nefnilega að stærstu mistökin sem fólk gerir þegar það ákveður að snúa við blaðinu sé að ætla sér of mikið á of skömmum tíma. Allt á að gerast á einu bretti. Eins og í Biggest Looser. Ég held að það sé ein helsta ástæða þess að fólk gefst oft upp.“
Ekki leið á löngu þar til María fór að verða vör við breytingar á sjálfri sér. Á einu ári varð hún líkamlega hraustari en hún hafði verið um langt skeið og það sem meira er: andleg líðanin tók stakkaskiptum. Hún hélt því áfram með skynsemina að leiðarljósi og fimm árum síðar kveðst hún vera allt önnur en þegar hún steig fyrst inn á stöðina illa á sig komin og undirlögð af verkjum.
„Lífið er allt annað í dag. Ég er léttari en það sem skiptir meiru er að ég er í betra formi og mér líður betur andlega. Reyndar fæ ég enn höfuðverki af og til en með reglulegri hreyfingu hefur mér tekist að draga úr þeim,“ segir hún og kveðst enn stunda hóptímana af fullum krafti. Að auki er hún byrjuð að hlaupa og fara í fjallgöngur á sumrin til að brjóta upp rútínuna.
„Lífið er allt annað í dag. Ég er léttari en það sem skiptir meiru er að ég er í betra formi og mér líður betur andlega.“
Spurð hvort hún eigi einhver ráð handa fólk sem er í svipuðum sporum og hún var sjálf í segir María að fyrsta skrefið sé að leita sér aðstoðar. „Taktu skrefið og fáðu hjálp. Faglega hjálp. Það er ekkert að því. Ég veit það getur verið erfitt. En treystu mér, það margborgar sig,“ segir hún glaðlega.
Það brutust út mikil fagnaðarlæti á miðvikudaginn síðasta þegar Larry Nassar, fyrrverandi læknir fimleikalandsliðs Bandaríkjanna, var dæmdur í 40 til 175 ára fangelsi fyrir að misnota tugi fimleikakvenna kynferðislega. Fórnarlömb hans og fjölskyldur þeirra féllust í faðma og felldu tár en það má með sanni segja að hugrekki og samstaða þeirra 156 kvenna sem stigu fram og sögðu frá ofbeldinu hafi ekki aðeins komið lækninum á bak við lás og slá það sem eftir er af ævi hans, heldur einnig veitt fjölda kvenna innblástur um allan heim til að opna sig um sína reynslu af kynferðislegu ofbeldi og áreitni.
„Þú átt ekki skilið að ganga út úr fangelsi nokkurn tímann aftur“
Andrúmsloftið var spennuþrungið þegar dómarinn Rosemarie Aquilina las upp sínar hugleiðingar um málið og síðan loks dóminn sjálfan.
„Ég hef sagt það sem ég þurfti að segja við fórnarlömbin. Ég hef samt aðeins meira að segja: Þið eruð ekki lengur fórnarlömb, þið eruð manneskjur sem lifðu af. Þið eruð mjög sterkar og ég hef talað við ykkur allar í einrúmi,“ sagði Rosemarie áður en hún sagðist hafa skrifað undir dauðadóm Larry Nassar.
„Þú átt ekki skilið að ganga út úr fangelsi nokkurn tímann aftur,“ sagði dómarinn og bætti við.
„Hvert sem þú myndir fara, myndir þú eyðileggja þá sem liggja best við höggi.“
Hægt er að lesa alla ræðu Rosemarie Aquilina þegar hún kvað upp dóm yfir lækninum með því að smella hér. En einnig er hægt að horfa á dóminn hér fyrir neðan:
Fyrsta fórnarlambið sem steig fram átti lokaorðið
Upphaflega áttu 88 stúlkur og konur að bera vitni gegn Larry Nassar í þessu máli sem talið er vera það stærsta sinnar tegundar innan bandaríska íþróttaheimsins, og þó víðar væri leitað. Þessi fjöldi vitna hins vegar næstum því tvöfaldaðist þegar yfirheyrslur hófust. Ein af annarri færðu þær réttarsalnum, og í raun öllum heiminum, vitnisburð sinn. Þær stóðu fyrir framan kvalara sinn og ávörpuðu manninn sem braut traust svo margra ungra íþróttakvenna og fjölskyldna þeirra.
Síðasta fórnarlambið sem talaði við réttarhöldin var fyrrverandi fimleikastjarnan Rachael Denhollander. Má segja að það hafi verið táknrænt að hún hafi átt lokaorðið þar sem hún var sú fyrsta sem kom opinberlega fram og sakaði lækninn um kynferðislegt ofbeldi, nánar tiltekið í viðtali við fréttamiðilinn Indianapolis Star í september árið 2016.
„Síðustu sextán árin hef ég gert mér grein fyrir því að ég ber ábyrgð, og hvort ég eigi að tala opinberlega eða ekki snýst ekki um hvað sé auðvelt fyrir mig að gera. Þetta er ekki eitthvað sem mig langar að gera,“ sagði Rachael í viðtalinu á sínum tíma, en rannsóknarvinna Indianapolis Star var það sem sannfærði hana um að stíga fram.
Rachael kærði Larry Nassar vegna meðferðar sem hún fékk við mjóbaksverkjum þegar hún var fimmtán ára árið 2000. Hún sótti fimm tíma hjá lækninum og sagði að í hverjum tíma hefði hann orðið aðgangsharðari en þeim fyrri. Hún sagði hann hafa nuddað kynfæri sín, stungið tveimur fingrum upp í leggöng sín og endaþarm og tekið sig úr brjóstahaldara og nuddað brjóst sín. Í viðtali við Indianapolis Star sagði Rachael að móðir hennar hefði komið með henni í alla tíma en að læknirinn hafi snúið henni þannig að móðir hennar sá aðeins höfuð hennar og bak.
„Ég var logandi hrædd. Ég skammaðist mín. Ég fór svo mikið hjá mér. Og ég var mjög ringluð þegar ég reyndi að skilja það sem var að gerast í ljósi þess hvaða manneskja hann átti að vera. Hann var frægur læknir. Vinir mínir treystu honum. Aðrar fimleikakonur treystu honum. Hvernig gat hann verið í þessari stöðu innan læknastéttarinnar, hvernig gat hann náð til slíkra metorða ef þetta var sá sem hann var?“ sagði Racheal.
Þöggun innan fimleikastéttarinnar
Þetta viðtal og rannsóknarvinna Indianapolis Star afhjúpuðu Larry Nassar sem kynferðisabrotamann sem hafði fengið að brjóta ítrekað á fimleikakonum um árabil. Það sannfærði einnig fleiri konur að stíga fram, sem kom Rachael á óvart.
„Ég vissi hve margar konur Larry hafði brotið á. Hvort einhver af þeim myndi þora að stíga fram var alltaf óvissa,“ sagði Rachael.
Í þessu viðamikla máli hefur ekki aðeins óeðli læknisins verið afhjúpað heldur einnig þöggun innan fimleikastéttarinnar um hegðun hans. Eftir að Larry var dæmdur í fangelsi létu þrír stjórnarmenn bandaríska fimleikasambandsins af störfum, þau Paul Parilla, formaður fimleikasambandsins, Jay Binder, varaformaðurinn og Bitsy Kelley, gjaldkerinn. Þá hefur John Geddert, þjálfara fimleikalandsliðsins á Ólympíuleikunum í Lundúnum 2012 og nánum samstarfsmanni læknisins, verið vikið frá störfum á meðan hann er rannsakaður. Svo var það Lou Anna Simon, rektor Michigan State-háskólans sem sagði af sér nokkrum klukkutímum eftir að læknirinn var dæmdur í fangelsi, en Larry starfaði við háskólann frá 1997 til 2016. Lou Anna hefur alfarið neitað því að hafa vitað af misnotkuninni.
Ljóst er að þetta mál er hvergi nærri búið þó að læknirinn sé kominn á bak við lás og slá. Rachael er meðal fjölmargra íþróttamanna sem hafa kært Michigan State-háskólann, fimleikasambandið og Twistars, æfingastöð sem beindi íþróttamönnum til Larry í meðferð. Íþróttafólkið heldur því fram að þjálfarar, lögregluyfirvöld, þjálfarar ráðnir af háskólanum og ráðgjafar hafi ekki rannsakað mál sem komu á borð til þeirra almennilega er varðaði hegðun læknisins. Þá hafa íþróttakonur á borð við Larissa Boyce og Tiffany Thomas-Lopez haldið því fram að þær hafi talað við þjálfara hjá Michigan State-háskólanum um Larry en að ekki hafi verið tekið mark á kvörtununum.
Fékk kraft í hvert sinn sem hann slapp
„Það gerðist ekkert þegar ásakanir höfðu verið settar fram,“ sagði saksóknarinn Angela Povilaitis í lokaræðu sinni áður en Larry var dæmdur í fangelsi. „Lygar hans virkuðu. Í hvert sinn sem hann slapp fékk hann kraft til að halda áfram, til að fullkomna aðferðir sínar og misnota fleiri.“
Hún þakkaði einnig rannsóknarblaðamönnum Indianapolis Star fyrir að hrinda þessu máli af stað.
„Án þessarar fyrstu greinar í Indianapolis Star í ágúst árið 2016, án greinarinnar þar sem Rachael steig fram opinberlega, þá væri hann enn að starfa sem læknir, að meðhöndla íþróttamenn og misnota börn,“ sagði hún og bætti við:
„Aðgerðarleysi er aðgerð. Þögn er skeytingarleysi. Réttlæti þarf aðgerð og rödd. Og það er það sem gerðist hér í réttarsalnum.“
Litlar stelpur verða sterkar konur sem eyðileggja heiminn þinn
Það verður forvitnilegt að sjá hvaða dilk þessi fangelsisdómur dregur á eftir sér, en við skulum líta á nokkrar af þeim tugi frásagna sem komu fram við réttarhöldin.
„Ég bar vitni til að láta heiminn vita að þú ert viðbjóðslegur lygari og að „meðferðir“ þínar voru dulbúið kynferðislegt ofbeldi. Þú hefur kannski áttað þig á því núna, en litlar stelpur eru ekki litlar að eilífu. Þær vaxa úr grasi og verðar sterkar konur sem snúa aftur til að eyðileggja heiminn þinn,“ sagði Kyle Stephens, fyrsta fórnarlambið sem talaði við réttarhöldin. Hún sagði að Larry hefði misnotaði sig frá 6 ára aldri og þar til hún varð 12 ára.
„Hann var læknirinn. Ég var barnið. Ég hafði ekki hugmynd um hvað mér ætti að finnast um þetta. Í langan tíma tókstu frá mér hamingjuna. Í hvert sinn sem einhver kallar mig „Kiddo“ hugsa ég um andlitið þitt þegar þú varst að misnota mig,“ sagði Maddie Johnson.
„Ég veit sannleikann. Ég man, alveg sama hvort hann man hvað hann gerði mér eða ekki. Það er það sem skiptir máli. Þú vissir að það sem þú varst að gera var rangt. Það var ekki fyrr en þú varst gómaður að þú grátbaðst um fyrirgefningu,“ sagði Christine Harrison sem sagði Larry hafa misnotað sig þegar hún var 15 og 16 ára.
„Hann snerti saklausustu líkamsparta mína. Ég gat ekki verið venjuleg stelpa lengur og ég glataði stórum parti af barnæsku minni að eilífu vegna misnotkunar hans,“ sagði Jessica Thomashaw sem sagði lækninn hafa misnotað sig frá 9 til 12 ára aldurs.
Gina Nichols, móðir fimleikakonunnar Maggie Nichols, las frásögn dóttur sinnar í réttarsalnum. Hún sagði að það væri of sársaukafullt fyrir dóttur sína að gera það sjálf, en Maggie leitaði til læknisins þegar hún var 15 ára:
„Ég man að hann fór með mig inn í æfingaherbergi, lokaði hurðinni og dró fyrir glugga. Ég hugsaði þá að þetta væri pínulítið skrýtið en hélt að þetta hlyti að vera í lagi. Ég treysti því sem hann var að gera í fyrstu en síðan byrjaði hann að snerta mig á stöðum sem mér fannst ekki rétt af honum að snerta mig á. Hann var ekki með hanska og hann sagði mér ekki það sem hann var að gera. Það var enginn annar í herberginu og ég samþykkti það sem hann gerði því fullorðna fólkið sagði mér að hann væri besti læknirinn og gæti hjálpað við að lina sársauka minn.“
Tónlistarmaðurinn Justin Timberlake frumsýndi myndband við nýjasta lag sitt, Say Something, fyrir helgi. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að myndbandið var allt tekið í einu skoti, svokallað single shot video. Lagið er á væntanlegri plötu Justins, Man of the Woods, sem kemur út 2. febrúar næstkomandi.
Justin leitaði til La Blogothèque til verksins, en það er samvinnuverkefni ýmissa kvikmyndagerðarmanna með bækistöðvar í París. Fyrrnefndir kvikmyndagerðarmenn eru þekktastir fyrir tónlistarmyndbönd sem tekin eru í einu skoti, til að mynda Start a War með The National og Marry Me með St. Vincent. Hingað til hafði fyrirtækið tekið upp myndbönd fyrir listamenn á barmi heimsfrægðar en myndbandið við Say Something er dýrasta og metnaðarfyllsta verkefni La Blogothèque frá stofnun þess fyrir um áratug.
„Þetta hefði getað orðið algjör hörmung“
Í viðtali við tímaritið Esquire segir Arturo Perez Jr., leikstjóri Say Something, að margar vikur hafi farið í skipulagningu verkefnisins.
„Þetta hefði getað orðið algjör hörmung,“ segir hann og bætir við að Justin hafi lagt mikla áherslu á að vera einlægur í myndbandinu.
„Það er svo mikið í húfi oft þegar unnið er með svona vinsælum listamönnum. Og ég verð að hrósa honum fyrir það að hann vildi vera berskjaldaður.“
Gekk um eins og brjáluð manneskja
Arturo valdi að taka myndbandið upp í hinni frægu Bradbury-byggingu í Los Angeles, sem er hvað þekktust fyrir að leika stórt hlutverk í kvikmyndinni Blade Runner. Arturo stúderaði lagið Say Something og fannst byggingin passa við texta lagsins, eins konar völundarhús heilans. Undirbúningur fyrir tökur á myndbandinu tók tvær vikur.
„Ég gekk um Bradbury-bygginguna í tvo og hálfan dag – ég bara gekk um eins og brjáluð manneskja. Við gengum og gengum og töluðum um þetta,“ segir Arturo í viðtali við Esquire og bætir við að hann og teymið hans hafi ekki viljað að myndbandið yrði kynningarbrella fyrir tónlistarmanninn.
„Við fáum ekkert út úr því að skjóta myndband í einni töku. Við fáum eitthvað út úr því að búa til ljóð.“
Tónlistin tekin upp um leið
Á tökudegi unnu tvö hundruð manns við myndbandið, þar á meðal sautján tónlistarmenn og sextíu manna kór. Tónlistin var nefnilega tekin upp á staðnum þannig að þetta er í raun meira en bara myndband sem tekið er í einni töku. Þetta er líka lag sem hljóðritað er í einni töku. Æfingar hófust klukkan ellefu um morguninn en tökuliðið hafði aðeins tíu mínútur til að taka upp myndbandið til að ná djúpbláum lit næturhiminsins í gegnum glugga Bradbury-byggingarinnar. Og það tókst.
„Ég er ekki að grínast þegar ég segi að þetta er fyrsta og eina takan okkar að kvöldi til. Þetta er Justin Timberlake, fjandakornið. Gaurinn er fagmaður. Og Chris Stapleton var svo góður. Ég veit ekki hvort hann vissi nákvæmlega hvað var á seyði en hann er listamaður og bara gerði þetta,“ segir Arturo og vísar í bandaríska tónlistarmanninn Chris Stapleton sem flytur lagið með Justin.
Útkoman er vægast sagt áhrifamikil en það er oft sagt að tónlistarmyndbönd, atriði, stuttmyndir eða myndir í fullri lengd séu eins konar manndómsvígsla fyrir kvikmyndagerðarmenn. Það er mikil kúnst að taka upp á þennan hátt og er það viss gæðastimpill fyrir kvikmyndagerðarmanninn ef vel tekst til.
Nokkrar myndir í fullri lengd hafa verið teknar í einni töku, til dæmis Timecode frá árinu 2000, Russian Ark frá árinu 2002, PVC-1 frá árinu 2007 og Victoria frá árinu 2015. Þá vildi goðsagnakenndi leikstjórinn Alfred Hitchcock láta virðast sem kvikmyndin Rope frá árinu 1948 væri tekin í einni töku. Hins vegar voru myndavélar á þeim tíma ekki nógu fullkomnar til að taka upp í svo langan tíma. Hver myndavél gat einungis tekið upp 1000 fet á 35 millimetra filmu í einu, eða í um það bil tíu mínútur. Öll myndin var því tekin upp í ellefu skotum.
Ofurfyrirsætan Miranda Kerr, sem er hvað þekktust fyrir að vera engill nærfatarisans Victoria’s Secret, stjórnar vikulegum þáttum á myndbandarás tímaritsins Harper’s Bazaar sem heita Little Black Book of Wellness. Í þáttunum fáum við innsýn í líf ofurfyrirsætunnar og sjáum hvernig hún heldur sér í góðu jafnvægi, bæði andlega og líkamlega.
Í nýjasta þættinum talar Miranda mikið um kosti þess að stunda kundalini jóga, en það er nánast eina hreyfingin sem hún stundar.
Þá fer Miranda líka í matvöruverslun og sýnir áhorfendum hvað hún lætur ofan í sig. Það kemur líklegast ekki á óvart að Miranda er lítið í ruslfæði og skyndibita og velur frekar að versla sér ferskt grænmeti og ávexti. Hún elskar lárperu og greipaldin og leggur mikið upp úr því að versla sér mat sem er lífrænn.
Þegar kemur að eggjum og kjúlkingi kaupir hún eingöngu afurðir af hænum í lausagöngu.
Eins og áhorfendur fá að sjá og heyra í meðfylgjandi þætti á Miranda von á barni með milljarðamæringnum Evan Spiegel, meðstofnanda Snapchat. Evan og Miranda trúlofuðu sig í júlí árið 2016 og giftu sig í maí ári síðar. Það var svo í nóvember í fyrra að þau tilkynntu að þau ættu von á sínu fyrsta barni saman.
Fyrir á Miranda soninn Flynn Cristopher Blanchard Copeland Bloom með leikaranum Orlando Bloom, en snáðinn kom í heiminn þann 6. janúar árið 2011. Miranda og Orlando byrjuðu saman seint á árinu 2007 og gengu í það heilaga árið 2012. Þau skildu þremur árum síðar.
Leikarinn Heath Ledger fannst látinn í íbúð sinni á Manhattan í New York þann 22. janúar árið 2008, aðeins 28 ára að aldri. Allir fjölmiðlar fylltust af fréttum af andláti hans, en hann lést úr of stórum skammti af lyfseðilsskyldum lyfjum.
Heimurinn stóð á öndinni, sérstaklega í ljósi þess að aðeins nokkrir mánuðir voru í frumsýningu myndar sem myndi gjörbreyta hans ferli; The Dark Kinght. Heath fór með hlutverk Jókerins, persónu sem flestir höfðu tengt við Jack Nicholson síðan hann túlkaði þennan skrautlega karakter í Batman árið 1989. Heath hins vegar gerði persónuna algjörlega að sinni, og svo fór að hann hlaut Óskarsverðlaun fyrir frammistöðu sína á Óskarsverðlaununum árið 2009. Með því varð hann önnur manneskjan til að vinna Óskarinn eftir andlát, en sá fyrsti var leikarinn Peter Finch sem vann fyrir frammistöðu sína í Network árið 1976.
Ómögulegt er að segja hvaða stefnu ferill geðþekka, ástralska leikarans hefði tekið ef hann væri á lífi í dag en ljóst er að hann skipar sér í raðir goðsagna á borð við Marilyn Monroe, Bruce Lee og James Dean, listamanna sem yfirgáfu þetta jarðneska líf alltof snemma.
Óttalaus í hlutverkavali
Heath virtist vera óttalaus í vali sínu á verkefnum. Hann sló í gegn í Hollywood í kvikmyndinni 10 Things I Hate About You árið 1999, aðeins tvítugur að aldri. Þá strax var ljóst að stjarna var fædd þar sem hann bjó ekki aðeins yfir gífurlegum sjarma á hvítu tjaldinu heldur sýndi einnig að hann bjó yfir hæfileika til að túlka trúverðugar manneskjur sem náðu til áhorfenda.
Meðal annarra mynda sem hann stal senunni í voru The Patriot, Monsters Ball og Knight’s Tale. Árið 2005 urðu síðan þáttaskil á hans ferli þegar hann tók að sér hlutverk Ennis Del Mar í kvikmynd Ang Lee, Brokeback Mountain. Er það mat manna að þetta hafi verið ansi djarft val hjá Heath eftir aðeins sex ár í Hollywood-bransanum. Þó að myndin hafi fengið einróma lof gagnrýnenda þá vakti hún hins vegar upp mikla fordóma í mörgum áhorfendum og var af einhverjum kölluð myndin um samkynhneigðu kúrekana. Heath og meðleikarar hans, Jake Gyllenhaal og Michelle Williams voru rómuð fyrir leik sinn og fékk Heath til að mynda tilnefningu til Óskarsverðlaunanna sem besti leikari í aðalhlutverki.
Þetta hlutverk Heath varð hins vegar til þess að ekki voru allir á eitt sáttir þegar tilkynnt var að hann myndi túlka Jókerinn í The Dark Knight. Warner Bros-kvikmyndaverið fékk á sig mikla árás og dundu haturspóstarnir og hatursfull orðræða um samkynhneigða yfir kvikmyndaverið þegar ljóst var um ráðningu Heath.
Matilda og Michelle
Það má líka segja að hlutverkið í Brokeback Mountain hafi verið mikil blessun fyrir leikarann sáluga því það var á setti þeirrar myndar sem hann kynntist leikkonunni Michelle Williams. Þau byrjuðu í framhaldinu saman og í október árið 2005 eignuðust þau dótturina Matilda Rose. Árið 2007 hættu þau saman en í nýlegu viðtali við tímaritið Porter sagðist Michelle enn eiga erfitt með að sætta sig við andlát Heaths.
„Í hreinskilni sagt, í nánast hvaða kringumstæðum sem er, trúi ég að maður þurfi að sætta sig við hver maður er og hvar maður hefur verið. Í nánast öllum kringumstæðum nema einum; ég get ekki hugsað svona þegar ég hugsa um að Matilda eigi ekki föður. Það er bara eitthvað sem verður aldrei réttlátt.“
Heath Ledger átti alltaf erfitt með að vera í sviðsljósinu, sem útskýrir af hverju hann hafnaði stórum hlutverkum eins og í Spider-Man árið 2002, en þá er einungis hægt að ímynda sér hvaða hlutverk hann hefði tekið að sér til dagsins í dag. Ljóst er að leikarinn setti sitt varanlega mark á kvikmyndaheiminn og lifir enn í hjörtum aðdáenda sinna um heim allan.
„Mismunandi andlitslag fólks er oft það sem veitir mér innblástur, einnig svipbrigði og skuggar. Það er mismunandi hvaða ljósmynd heillar mig hverju sinni,“ segir Anita Ástrós Pétursdóttir. Anita er 23ja ára og útskrifuð af myndlistarbraut frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.
Anita hefur vakið eftirtekt fyrir myndir sem hún teiknar af þekktum tónlistarmönnum, þar á meðal Rihönnu, Tupac, Bob Marley og Ariönu Grande. Hún segir teikningaráhugann hafa kviknað mjög snemma.
„Ég hef verið að teikna síðan ég var lítil en ég fékk fyrst áhuga á tölvuteikningu síðasta árið mitt í Fjölbraut í Breiðholti út frá áfanga þar sem kennt er á Adobe-forritin, Photoshop, Illustrator og InDesign. Ég fiktaði svo aðeins við að teikna meir í tölvu eftir það en ekkert af alvöru fyrr en um mitt síðasta ár. Þá byrjaði ég að prófa mig áfram við að teikna á iPad í forriti sem heitir Procreate og hef verið að nota það mikið síðan,“ segir Anita.
Skemmtilegast að teikna portrettmyndir
Þó að fari mest fyrir teikningum af heimsfrægu fólki segir Anita að hún teikni líka önnur viðfangsefni, allt eftir því hvað fangar hana hverju sinni.
„Ég byrjaði á að teikna fólk sem veitir mér innblástur á einhvern hátt og heillar mig. Oft sé ég líka myndir af þessu fólki sem mér finnst fallegar og langar til að teikna. Ég er alveg líka að teikna öðruvísi myndir, eins og tískuskissur og -teikningar til dæmis, en mér finnst skemmtilegast að teikna portrettmyndir. Og þar sem frægt fólk er alls staðar á netinu er auðvelt að detta í það að teikna þau.“
Anita teiknar líka eftir pöntun og hefur fengið góð viðbrögð við listaverkunum sínum.
„Ég hef verið að taka að mér nokkur verkefni og finnst mér mjög gaman að fá pantanir frá áhugasömu fólki. Ég er tiltölulega nýbyrjuð að setja inn myndir eftir mig á samfélagsmiðla en hingað til hef ég fengið jákvæð viðbrögð. Það veitir mér líka innblástur að fólki líki við það sem ég er að gera,“ segir Anita.
Ætlar að auka við kunnáttuna
Hún stefnir á meira nám í hönnun en hefur frá útskrift úr Fjölbraut í Breiðholti varið tímanum í að átta sig á hvaða stefnu hún ætlar að taka í lífinu.
„Eftir að ég útskrifaðist hef ég verið að vinna og ferðast einna helst og reyna að finna betur út úr því hvaða háskólanám mun henta mér best, en ég stefni líklegast á grafíska hönnun eða tískuhönnun á næstunni, nám þar sem ég get haldið áfram að auka við kunnáttu mína.“
Þeir sem vilja fylgjast með Anitu er bent á Instagram– og Facebook-síður hennar.
Sex lög keppa í fyrra undankeppni Söngvakeppninnar þann 10. febrúar næstkomandi í Háskólabíó og freista þess að komast í úrslitakeppnina þann 3. mars, og jafnvel alla leið í aðalkeppni Eurovision í Lissabon í maí.
Við ákváðum að kynnast flytjendunum sem stíga á stokk þetta fyrra undanúrslitakvöld og spyrja þá spjörunum úr áður en Eurovision-tryllingurinn heltekur þá alveg.
Fékk martraðir um finnsku sveitina Lordie
Ari Ólafsson flytur lagið Heim, sem heitir á ensku Our Choice, og er samið af Þórunni Ernu Clausen. Hann hefur alltaf verið mikill aðdáandi Eurovision og finnst að íslenska þjóðin eigi að fylgja hjartanu þegar hún kýs sín eftirlætislög.
Af hverju Eurovision?
Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Eurovision og ég fékk flott tækifæri með lag sem mér þótti afskaplega fallegt, svo ég kýldi á það!
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?
Lagið er um þennan valmöguleika sem við höfum öll; að hjálpa til og að borga áfram með jákvæðni og samúð, i stað þess að dæma, gagnrýna og meiða.
Hvernig var tilfinningin þegar þú komst að því að lagið væri komið í undanúrslit?
Mjög góð. Ég varð mjög spenntur mjög hratt þegar ég fattaði: Já… djók! Ég er að fara að keppa!
Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?
Hard Rock Hallelujah með Lordie. Ég man það þvi ég var svo sjúklega hræddur við þá að ég fékk martraðir um þá.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Fairytale með Alexander Rybak. Það lag var bara svo sjúklega fallegt og flott á sviðinu. Ég mun aldrei gleyma þvi atriði.
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa þig?
Mér finnst að fólk eiga alltaf að fylgja hjartanu sínu og ef þeim finnst lagið vera fallegt og ég syngja það vel þá ætti það að kjósa mig.
Er líf eftir Eurovision?
Já að sjálfsögðu. Lífið heldur alltaf áfram.
Hrópuðu af gleði í hópsímtali
Fókus hópurinn, sem skipar þau Sigurjón Örn Böðvarsson, Rósu Björg Ómarsdóttur, Hrafnhildi Ýr Víglundsdóttur, Karitas Hörpu Davíðsdóttur og Eirík Þór Hafdal, flytur taktfasta popplagið Aldrei gefast upp, eða Battleline. Þrettán ár eru á milli elsta og yngsta flytjandans og lofa litríku atriði á stóra sviðinu.
Af hverju Eurovision?
Langþráður draumur flestra í hópnum og einn stærsti stökkpallur tónlistarfólks á Íslandi og þótt víðar væri leitað
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?
Fyrir okkur er lagið um að fylgja draumum sínum og ástríðum og gefast ekki upp á þeim og sjálfum sér, en lagið má túlka á fleiri en einn veg.
Hvernig var tilfinningin þegar þið komust að því að lagið væri komið í undanúrslit?
Ofboðslega glöð og spennt, við hringdumst á og skiptumst á að hrópa af gleði og enduðum í einu stóru hópsímtali þar sem við vorum stödd á mismunandi stöðum í heiminum.
Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?
Þar sem það eru 13 ár milli yngsta og elsta í hópnum eru minningar okkar mismunandi, allt frá Söndru Kim til Selmu Björns. Sandra var í eftirminnilegum bleikum jakkafötum, eins yngsti keppandi sem hafði keppt og Selma var bara svo gaddem gordjöss.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Við fórum strax að rífast um það og því ómögulegt að segja um hvert uppáhaldslag hópsins er, en við erum sammála um að þau eru fáránlega mörg.
Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?
Já, það gæti brugðið fyrir nekt, eld, sirkusdýrum og/eða konfetti. Mikilvægt að horfa! Rósa verður einnig í einangrunarplasti þar sem í fyrra gleypti hún konfetti og allar líkur á að hún slasi sig í beinni.
Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?
Það er ómögulegt að segja, líkur eru á því að við myndum mennskan pýramída og Sigurjón fari úr fötunum en að öllu gríni slepptu munum við, alveg ekki spurning, brjótast út í einhverri óstjórnlegri hysterískri gleði.
En ef þið tapið?
Er hægt að tapa? Sigurinn var að komast inn í keppnina, allt annað er bónus.
Breytir tárum í stjörnur
Söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir er Íslendingum kunn, en hún syngur lagið Ég mun skína, eða Shine, sem hún samdi ásamt Agnari Friðbertssyni. Þórunn varð lífshættulega veik þegar hún fæddi dóttur sína fyrir nokkrum árum, en hún finnur enn fyrir slæmum áhrifum veikindanna. Texti lagsins fæddist eitt kvöldið þegar henni leið illa og táknar hann von um betri líðan.
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?
Ég samdi textann bæði á ensku og íslensku um persónulega reynslu og viljann og vonina að komast upp úr erfiðleikum. Ég varð lífshættulega lasin þegar ég fæddi dóttur mína fyrir nokkrum árum og ónæmiskerfið mitt hefur ekki alveg hlýtt mér síðan. Ég hef verið lasin og þreyttari en áður og það dregur mig oft niður, en eitt kvöldið kom þessi texti út frá von um betri líðan. Ég notaði tunglið og stjörnurnar sem einskonar myndlíkinu fyrir þessar tilfinningar. Að breyta tárum í stjörnur og að skína þrátt fyrir allt. Við dílum öll við allskonar rugl en vonin og gleðin má ekki slökkna.
Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?
Nei eða Já? með Stjórninni. Ég lifði fyrir Siggu og Grétar sem barn – þau voru langflottustu.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Euphoria, af því að það er bara tryllt lag.
Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi þínum í beinni útsendingu?
Já svo sannarlega. Ég segi ekki meir.
Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?
Það held ég að sé ansi hæpið en það varpar hinsvegar ljósi á listamenn og það eykur líkur á giggum og tækifærum til að græða peninga. Peningar eru líka yfirleitt það síðasta sem listamenn hugsa um en það fyrsta sem þá vantar. Allir halda að listamenn eigi peninga, sérstaklega ef þeir eru þekktir, og oft er verið að biðja fólk um að koma ókeypis fram því það er svo “góð kynning”. Þetta er vinna eins og öll önnur en svo snýst ekki allt um peninga. Ef maður fer saddur að sofa og á í sig og á er það flott. Mér finnst til dæmis tími með dóttur minni dýrmætari en allir peningar.
Er líf eftir Eurovision?
Það ætla ég rétt að vona, nema ég drepist á sviðinu..sem væri nú ansi dívulegur dauðdagi.
Pössum okkur að festast ekki í snjallskjánum
Nýliðarnir Þórir Geir Guðmundsson og Gyða Margrét Kristjánsdóttir syngja dúettinn Brosa, eða With You, sem samið er af Fannari Frey Magnússyni og Guðmundi Þórarinssyni, sem eiga reyndar líka lag í seinni undankeppninni. Sterkasta Eurovision-minning þeirra beggja er af hinni einu, sönnu Silvíu Nótt.
Af hverju Eurovision?
Af hverju ekki?
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?
Okkur finnst lagið tilheyra okkar kynslóð svo vel. Það er að segja sérstaklega íslenski textinn þar sem hann fjallar um þær hugsanir sem fara í gegnum kollinn á manni þegar maður skoðar samfélagsmiðla nútímans, þar sem fólki hættir til að bera sig saman við aðra. Og sá boðskapur að við megum ekki gleyma því að hugsa um allt það sem er í kringum okkur og fólkið sem er í kringum okkur; passa sig að festast ekki í skjánum.
Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?
Við erum sammála um það að fyrsta og sterkasta minningin sé Silvía Nótt – Til hamingju Ísland. Það er mjög minnisstætt vegna þess hversu öðruvísi það var. Við vorum líka á þeim aldri þar sem maður tók öskudaginn á þetta. Öll umfjöllunin í kringum lagið, atriðið sjálft og karakterinn Silvía Nótt.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Sko, uppáhaldslagið hans Þóris er Open Your Heart – Birgitta eða Gleðibankinn. Uppáhaldslag Gyðu er hinsvegar Verka Serduchka – Dancing Lasha Tumbai.
Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?
Já, ætli atriðið muni ekki koma örlítið á óvart. Kannski ekki, en það verður að minnsta kosti alveg geggjað!
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?
Ef fólk fílar lagið, ekki hika við að kjósa það. Við myndum kunna sjúkt mikið að meta það! Það er ómetanlegur stuðningur. En við ætlum fyrst og fremst að hafa gaman að þessu og vonum að allir sem horfa munu gera það líka. Við segjum: Ef þið eruð brosandi í lok lags = kjósið’a.
Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?
Ríkur af nýjum vinum, nýrri reynslu og geggjuðum minningum já. Moldríkur.
Er líf eftir Eurovision?
Hvurslags spurning, auðvitað! Heillangt og geggjað líf framundan og í þokkabót er maður reynslunni ríkari.
Grét í fyrsta sinn yfir Eurovision í fyrra
Sólborg Guðbrandsdóttir syngur lagið Ég og Þú, eða Think It Through, með Tómasi Helga Wehmeier. Þau sömu lagið og enska textann ásamt Rob Price en Davíð Guðbrandsson á heiðurinn af íslenska textanum. Hún segist ganga sátt frá borði, sama hvort þau komist áfram eður ei.
Af hverju Eurovision?
Eurovision er mikil áskorun og við Tómas höfum gaman af þeim. Við ákváðum bara að kýla á þetta og sendum lag í keppnina án þess að búast endilega við því að komast í gegn. Söngvakeppnin hérna heima er ótrúlega fagleg, hún nýtur mikilla vinsælda og er bara ógeðslega skemmtileg. Við erum mjög þakklát fyrir það að hafa fengið þetta tækifæri.
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?
Þetta lag er ólíkt þeirri tónlist sem við Tómas erum vön að syngja. Við sömdum það ásamt Rob, vini okkar, í London í ágúst síðastliðnum og ég held að þetta lag muni alltaf minna okkur á þá ævintýraferð. Textinn í laginu minnir mann á það að þetta verði allt saman allt í lagi á endanum, sama hvað. „Trúum að við verðum, hvað sem verður, ég og þú.“
Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?
Ætli það sé ekki „All out of luck“ með Selmu Björns. Það er einhvern veginn alltaf fyrsta lagið sem ég hugsa um þegar ég heyri minnst á Eurovision. Ég var líka svo heppin að fá að syngja það í annarri undankeppninni árið 2013 með hljómsveit sem ég var í þá, White Signal. Það er eitthvað sem ég gleymi seint.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
„Amar Pelos Dois“ með Salvador Sobral sem sigraði í fyrra, það er eina skiptið sem ég hef grátið yfir Eurovision. Mitt uppáhalds íslenska lag er „Ég á líf“.
Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?
Ég veit það ekki, ætli við yrðum ekki lengi að átta okkur á því. Við höfum þó reynt að taka eitt skref í einu frá því þetta byrjaði allt saman. Við ætlum bara að njóta þess að syngja fyrir þjóðina í undanúrslitunum og hafa gaman, ef við komumst svo áfram í úrslitin er það bara algjör bónus.
En ef þið tapið?
Þá munum við ganga sátt frá borði. Þetta ferli er búið að vera algjört ævintýri og við erum búin að kynnast helling af dásamlegu fólki, maður getur ekki kvartað yfir því.
Er líf eftir Eurovision?
Eftir Eurovision er lífið rétt að byrja.
Eiga erindi í Eurovision
Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Vigdís Gunnarsdóttir skipa sveitina Heimilistóna sem hefur verið starfrækt um árabil. Þær segja lagið fjalla um það hversdagslega, sem er þó jafnframt afar mikilvægt, nefnilega vináttuna í öllum sínum myndum.
Af hverju Eurovision?
Eurovision er eins og hannað fyrir Heimilistóna. Við elskum litina og gleðina kringum þessa keppni og síðast en ekki síst hvað hún höfðar til breiðs aldurs.
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?
Kveikir í gleðinni og fjallar um það hversdagslega en þó mikilvæga; vináttuna með öllum sínum kostum og göllum
Hvernig var tilfinningin þegar þið komust að því að lagið væri komið í undanúrslitk?
Eftirvænting og mikil gleði. Sú okkar sem fékk símtalið brunaði af stað á bílnum og færði fréttirnar.
Má búast við að eitthvað komi á óvart í ykkar flutningi?
Tjaaa, það hefur ekki verið ákveðið, ekki enn sem komið er. Hver veit?
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?
Ef fólk kann að meta lagið og kýs okkur út þá lofum við að standa okkur með sóma og gera okkar besta. Við eigum erindi
En ef þið tapið?
Þá er bara að brosa gegnum tárin og svo höldum við áfram okkar góða samstarfi
Verður einhver ríkur af að taka þátt í Eurovision?
Kannski ekki í veraldlegum skilningi en þetta gefur heilmikla gleði
Er líf eftir Eurovision?
Já, það er líf eftir Eurovision og af nægu að taka í vinnu og leik hjá okkur Heimilistónum.
Skíðaiðkun er ein heilnæmasta íþrótt sem hægt er að stunda. Á Íslandi er að finna góð svæði til að renna sér á skíðum en hvert skyldi eiginlega vera gott að fara ef til stendur að skíða úti í heimi?
Ef planið er að fara í ferð með fólki með mismikla reynslu á skíðum þá gæti Chamonix í Frakklandi verið málið. Á staðnum eru tólf skíðabrautir, miserfiðar þannig að hver og einn ætti að geta fundið braut við hæfi. Þarna eru sumar af bestum skíðabrekkum Evrópu, fínar brekkur fyrir börn og góðir skíðakennarar. Fyrir utan einstaklega fallegt útsýni úr þorpinu sem er ástæða þess að fólk flykkist þangað.
Madonna á Ítalíu hentar líka bæði byrjendum og þeim sem eru lengra komnir. Svæðið er vel skipulagt og kláfarnir flytja skíðaiðkendur hratt og örugglega upp í brekkurnar. Brautirnar eru fyrsta flokks og hefur svæðið hlotið sérstök verðlaun fyrir gott viðhald á þeim. Fjöldi veitingastaða og verslana er á svæðinu.
Er verið að skipuleggja skíðaferðalag fyrir fjölskylduna? Þá er Neustift í Austurríki mögulega staðurinn því þar er slatti af brekkum til að æfa sig í og fjöldi skíðalyfta. Neustift er líka vinsæll staður til snjó-brettaiðkunar, bæði á meðal byrjenda og þeirra sem lengra eru komnir. Svæðið er opið allt árið um kring.
Kandersteg í Sviss er einn besti staðurinn til að læra á skíði og brekkurnar þar í kring frábærar fyrir byrjendur. Brautirnar henta öllum og eru auðveldar, skemmtilegar og það breiðar að maður getur spreytt sig á alls konar tækjum á leiðinni niður án þess að þvælast fyrir öðrum. Staðurinn er líka vinsæll meðal áhugafólks um fjallaklifur og þeirra sem sækjast eftir rólegheitum í fallegu umhverfi.
Madonna á Ítalíu hentar líka bæði byrjendum og þeim sem eru lengra komnir. Brautirnar eru fyrsta flokks og hefur svæðið hlotið sérstök verðlaun fyrir gott viðhald á þeim.
Reyndir skíðamenn og adrenalínfíklar ættu kannski að beina sjónum sínum að í Igls Austurríki, því þar er hægt að bruna niður brekkur sem keppt var í á Ólympíuleikunum árið 1964 og svo aftur árið 1976. Nokkur af bestu skíðasvæðum Austurríkis eru umhverfis þorpið auk þess sem alls konar afþreying er í boði, til dæmis söfn sem gæti verið gaman að heimsækja og svo eru ýmsar uppákomur allt árið um kring.
Dirty John er mögnuð sex þátta hlaðvarpssería um óhugnalegt morðmál í Orange County i Bandarík-junum. Hönnuðurinn Debra Newell kynnist hinum heillandi John Meehan í gegnum stefnumótasíðu og fellur fyrir honum þrátt fyrir aðvaranir ástvina sem finnst eitthvað bogið við kauða. Það er ekki fyrr en hana fer sjálfa að gruna að John sé ekki allur þar sem hann er séður sem renna á hana tvær grímur.
Í Ástandsbörnum skoðar fjölmiðlakonan Viktoría Hermannsdóttir hið svokallaða Ástand á hernámsárunum út frá sjónarhóli ástandsbarna, það er börnum íslenskra kvenna og útlendra hermanna. Þetta eru áhugaverðir og vandaðir þættir sem meðal annars svipta hulunni af erfiðum uppvaxtarárum þessara einstaklinga og fordómunum sem margir þurftu að þola vegna uppruna síns.
Terrible, thanks for asking er vandað og vægast sagt áhugavert fimm vasaklúta hlaðvarp þar sem stjórnandinn Nora McInerney fær gesti sína til að deila erfiðum lífsreynslusögum með hlustendum. Allt frá einlægum frásögnum um erfiða skilnaði yfir í tregafullar frásagnir um ástvinamissi. Þótt vissulega sé grátið er glettnin skammt undan og það á sinn þátt í aðdráttarafli Terrible, thanks for asking.
Í þættinum Í ljósi sögunnar eru málefni og atburðir líðandi stundar skoðuð í sögulegu samhengi. Saga Jerúsalem frá fornri tíð og fram að aldamótum 20. aldar, saga Johns F. Kennedy Bandaríkjaforsetja og saga Kim Jong-un einræðisherra í Norður-Kóreu er á meðal ólíkra viðfangsefna en umsjón er í höndum Veru Illugadóttir, sem fjallar um málin af svo mikilli kunnáttu og innsæi að unun er að hlýða á.
Með góðu skipulagi og breyttu viðhorfi geturðu aukið grænmetisneysluna.
Þrátt fyrir að grænmeti sé virkilega hollur og góður matur eiga margir í erfiðleikum með koma því að einhverju magni inn í máltíðir sínar. Ástæðurnar geta verið margvíslegar en með góðu skipulagi og breytingu á viðhorfum getum við öll aukið grænmetisneysluna og notið hennar vel.
Fljótvirkar eldurnaraðferðir
Frosið niðurskorið grænmeti er gott að eiga til að grípa í þegar tíminn er naumur. Þú einfaldlega skellir því á pönnu í nokkrar mínútur og ert komin með fínasta meðlæti á örskotstundu. Ef mikið liggur við má einnig sjóða grænmeti, frosið og ófrosið, í örbylgjuofni. Grillað grænmeti er líka sjúklega gott.
Undirbúðu þig
Sniðugt er að skera niður fullt af grænmeti eins og papriku, gulrætur, spergilkál og fleira þegar þú hefur tíma og setja í litlar pakkningar sem hægt er að grípa til þegar tíminn er takmarkaður. Litlu pakkana getur þú svo gripið í millimál, skellt í salatið, notað með hummus eða sett í grænmetisvefjur svo dæmi séu tekin.
Frosið grænmeti
Frosið grænmeti er alveg jafnríkt af næringarefnum og ferskt grænmeti. Það er fljótlegt og auðvelt í notkun og þú þarft ekki að eiga á hættu að það skemmist innan fárra daga. Þú getur bæði keypt frosið niðurskorið grænmeti í pokum eða skorið niður þitt eigið og fryst. Tilvalið er að eiga fjölbreyttar tegundir í frysti til að eiga eitthvað við öll tækifæri.
Litríkara salat
Lífgaðu upp á salatið með því að blanda litríku grænmeti í það eins og rifnum radísum, hökkuðu rauðkáli, svörtum baunum, rauðum paprikusneiðum eða baunaspírum. Salatið mun ekki aðeins líta betur út heldur verða miklu betra á bragðið.
Gerðu grænmetissúpur
Búðu til grænmetissúpur frá grunni með fullt af girnilegu grænmeti. Víða er hægt að fá uppskriftir að alls konar girnilegum súpum, ekki síst á Netinu. Endilega eldaðu alltaf stóra skammta til að geta átt afganginn í frysti. Þú getur sett afganginn í nokkur ílát sem passa sem máltíð fyrir einn og er tilvalið að taka með sér sem nesti í vinnuna.
Það er mikið áfall fyrir fólk að komast að því að það hafi verið rangfeðrað.
Því síður er auðvelt fyrir sömu einstaklinga að þurfa að höfða dómsmál til að fá réttan uppruna sinn staðfestan. Ráðast þarf í úrbætur á barnalöggjöfinni þegar mál þessa fólks eru til meðferðar og auka þarf rétt feðra til þess að höfða faðernismál sem er lítill sem enginn núna að mati lögfræðings. Mannlíf ræddi við karl og konu sem bæði voru rangfeðruð og segja þá reynslu mjög erfiða.
„Ég fékk staðfestingu á því að ég væri sonur annars manns 2013 kominn langt á sjötugsaldur. Mig hafði grunað þetta frá því ég var 17 ára þegar móðir mín gaf í skyn að ég væri ekki sonur föður míns en nefndi aldrei nafn míns rétta föður. Ég komst bara að því nýlega,“ segir maður í samtali við Mannlíf sem treystir sér ekki til að koma fram undir nafni vegna þessa máls.
„Þetta þykir öllum í fjölskyldunni minn afskaplega viðkvæmt og hefur legið þungt á mér alla tíð. Ég vil meina að þetta hafi mótað mig sem einstakling, allur þessi efi og þrá mín eftir réttum föður í marga áratugi. Þegar ég fékk loks staðfestingu á því með lífsýnaprófi að ég væri sonur annars manns var þungu fargi af mér létt. Ég eignaðist við það fimm systkini sem hafa tekið mér vel sem er dýrmætt. Þetta er ólýsanleg tilfinning að þekkja ekki uppruna sinn og ég held það sé ómögulegt að skýra það út fyrir nokkrum sem ekki hefur upplifað það,“ segir hann.
Veigrar sér við dómsmáli
Það sem hann hins vegar þráir núna, kominn á áttræðisaldur, er að hann sé rétt feðraður í þjóðskrá. Hann reyndi að fá faðerninu breytt í þjóðskrá en stofnunin hefur hafnað beiðni hans þar sem ekki liggur fyrir dómsúrskurður um rétt faðerni. Það er hins vegar ansi flókið ferli. Fyrst þyrfti hann að höfða svokallað véfengingarmál þar sem upphaflegu faðerni yrði hnekkt fyrir dómi með lífsýnaprófi því til staðfestingar. Að því loknu þyrfti hann að höfða faðernismál sem er annað dómsmál til að staðfesta faðernið með lífsýnaprófi því til sönnunar. Bæði dómsmál og mannerfðafræðileg rannsókn á blóðsýnum eru niðurgreidd af ríkissjóði. Barnalögin segja um þessar aðstæður að einstaklingur sem leitar faðerni síns þurfi að stefna þeim manni eða mönnum sem taldir eru hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma. Sé sá maður látinn áður en málið er höfðað er lögerfingjum hans stefnt.
„Ég get … ekki hugsað mér að stefna systkinum mínum fyrir dóm sem ég hef nýlega kynnst. Ég þrái það heitt að vera rétt feðraður og skráður sem slíkur í opinberum skrám en mér finnst það of mikið lagt á alla í kringum mig.“
Líffræðileg móðir og faðir viðmælanda Mannlífs eru bæði látin og maðurinn sem hann var upphaflega feðraður líka. Þetta þýðir að hann þarf að höfða dómsmál á hendur systkinum sínum, móður megin, til að hnekkja upphaflegu faðerni og svo yrði hann knúinn til að stefna nýjum systkinum sínum fyrir dóm í faðernismálinu.
„Ég get einfaldlega ekki hugsað mér að stefna systkinum mínum fyrir dóm sem ég hef nýlega kynnst. Ég þrái það heitt að vera rétt feðraður og skráður sem slíkur í opinberum skrám en mér finnst það of mikið lagt á alla í kringum mig,“ segir hann. „Ef ég fengi að skrá nafnið mitt rétt yrði ég sáttur. Meira færi ég ekki fram á. Mér finnst þetta hrein mismunun að geta ekki framvísað lífsýnaprófi sem staðfestir svo ekki verður um villst að ég er hálfbróðir systkina minna. Með því að höfða opinbert dómsmál óttast ég að ættingjar mínir taki því illa svo viðkvæmt er þetta mál eins og gefur að skilja.“
Gat ekki hætt að leita föður síns
Benedikta Eik Eiríksdóttir var rúmlega þrítug að aldri þegar hún komst að því að hún var rangfeðruð. „Ég fékk áfall við að heyra að ég væri ekki dóttir mannsins sem ég var feðruð en
mig hafði alltaf grunað það. Ég var þá ekki galin en það tók mikið á að horfast í augu við það eitt og sér,“ segir Benedikta sem hefur í tvígang með átta ára millibili sagt viðburðaríka sögu sína í Kastljósi, nú síðast í desember síðastliðnum. Henni var greint frá því fyrir rúmum tuttugu árum að hún væri ekki dóttir mannsins sem hún taldi vera föður sinn. Sá maður sem móðir hennar taldi vera líffræðilegan föður hennar reyndist ekki heldur vera rétti líffræðilegi faðir hennar þegar blóðsýni þeirra voru rannsökuð. Fram undan var löng og erfið leit.
„Mig grunaði aldrei að ég þyrfti að leita að honum og hvað þá að þetta tæki allan þennan tíma. Ég var samt alltaf sannfærð um að ég yrði að finna út hverra manna ég væri. Ég gat ekki hætt þarna,“ segir hún. Leitinni lauk í fyrra þegar hún fékk nafnlaust símtal sem kom henni á sporið við að finna sinn rétta föður sem síðar var staðfest með lífsýnarannsókn. Faðir hennar hét Eiríkur Ragnar Guðjónsson og lést árið 2013.
„Ég náði aldrei að hitta hann því miður. Ég mun bara þekkja pabba minn í gegnum hans nánustu. Mér tókst hins vegar að finna hann og fyrir það er ég gríðarlega þakklát. Ég græddi fimm systkini í viðbót og mömmu þeirra líka. Þau hafa tekið mér rosalega vel, ég finn hvað ég er velkomin í fjölskylduna og ég reyni að rækta sambandið við þau,“ segir hún.
Vandinn við dómsmál er tilfinningalegs eðlis
Benedikta hefur verið ófeðruð í þjóðskrá í tuttugu ár eftir að hún höfðaði véfengingarmál gegn móður sinni og manninum sem hún var upphaflega feðruð. Hún ákvað í samráði við hin nýju fimm systkini sem hún eignaðist á einni nóttu að höfða faðernismál og fá það staðfest fyrir dómi að Eiríkur væri réttur líffræðilegur faðir sinn. „Ég hef ekki getað kallað mig dóttur neins í tuttugu ár og get núna loksins kallað mig Eiríksdóttur í þjóðskrá samkvæmt úrskurði héraðsdóms og það er mjög mikilvægt fyrir mig. „Þegar ég sá fram á að þurfa að stefna nýju systkinum mínum fyrir dóm og gera þetta mál opinbert þá setti ég mig í stellingar og hélt að þau yrðu ósátt við það. Það varð aldrei og þau sýndu mér fullan skilning og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Kostnaðurinn við dómsmeðferðina er ekki vandinn í sjálfu sér því hann er að mestu niðurgreiddur heldur er hann tilfinningalegs eðlis. Þótt þau hafi öll samþykkt málsmeðferðina fyrir dómi vitandi að hún væri bara formlegs eðlis þá er ekki alltaf hlaupið að því að stefna nýjum ættingjum sínum fyrir dóm sem svo er gerður opinber,“ segir Benedikta. „Ég er enn þá að reyna að ná utan um þetta allt saman, ég næ því kannski einn daginn.“
Ríkið greiði fyrir mannerfðafræðilegar rannsóknir
Á tuttugu árum hefur Benedikta látið bera lífsýni sitt við fimm menn í leitinni að réttum föður því móðir hennar sýndi ekki mikla viðleitni til að aðstoða hana við leitina. Tvær blóðrannsóknir voru greiddar úr ríkissjóði af því þær reyndust réttar, annars vegar í
véfengingarmálinu og hins vegar í faðernismálinu en hin þrjú sem sýndu engin blóðtengsl greiddi hún úr eigin vasa.
Anna Margrét Pétursdóttir útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík í fyrravor og skrifaði meistararitgerð um feðrunarreglur barnalaga. Hún telur meðal annars að það þurfi að endurskoða reglur um niðurgreiðslu á mannerfðafræðilegum rannsóknum. En þær fást ekki endurgreiddar nema dómur hafi gengið í málinu og eingöngu ef niðurstaða staðfestir blóðtengsl. „Þegar einstaklingur leitar uppruna síns, liggja fyrir í mörgum tilfellum aðeins orð móður eða jafnvel sögusagnir um hver það sé sem sé mögulegur faðir. Fenginn er úrskurður héraðsdóms fyrir því að taka megi sýni svo unnt sé að framkvæma rannsókn. Leiði sú rannsókn í ljós að útilokað sé að viðkomandi sé faðir einstaklingsins þýðir það að hann þurfi sjálfur að bera kostnað af málinu. Það skiptir því máli að kostnaður vegna slíkra mála falli alltaf á ríkissjóð óháð niðurstöðu í rannsóknum, annars veigra einstaklingar sér við að höfða mál og fá því ekki svarað þeirri mikilvægu spurningu sem legið hefur þungt á þeim. Íslenska ríkinu ber skylda til að uppfylla ákvæði mannréttindasáttmála og Barnasáttmála sem lögfestir eru hér á landi þar sem kveðið er á um að barn eigi rétt á að þekkja foreldra sína. Mín skoðun er því sú að ríkinu beri skylda til að tryggja þessi réttindi,“ segir Anna Margrét.
Feður hafa takmarkaðan rétt til höfða faðernismál
Anna Margrét ákvað að skoða feðrunarreglur í barnalögum í sínu lokaverkefni meðal annars vegna þess að náinn ættingi hennar hefur reynt að komast að réttu faðerni í fjöldamörg ár án árangurs. „Það eru mannréttindi að þekkja uppruna sinn og þau réttindi eru ekki nægilega tryggð í gildandi barnalöggjöf. Að mínu mati er nauðsynlegt að ráðast í úrbætur svo umrædd réttindi verði tryggð með fullnægjandi hætti.“ Hún segir að mörgum þyki þetta flókið, kostnaðarsamt og íþyngjandi ferli að þurfa fara fyrir dómstól til að sækja þennan rétt.
„Raunveruleikinn er sá að börn eru ranglega feðruð hér á landi. Það er skortur á úrræðum fyrir rangfeðraðra einstaklinga og að auki hafa karlmenn sem telja sig föður barns enga möguleika á að láta á faðerni sitt reyna.“ Hún segir að faðernisregla barnalaga, svokölluð pater-est-regla feli í sér að eiginmaður eða maður sem skráður er í sambúð með móður telst sjálfkrafa faðir barns hennar. Ákvarðanir fólks um sambúðarform hafi því áhrif á feðrun barna. Í flestum tilvikum teljist eðlilegt að svo sé en það geti þó komið fyrir að börn séu ranglega feðruð af þessum sökum. Þótt konan sé ekki í sambúð eða í hjónabandi þegar barnið er getið þá hefur faðir barnsins engan rétt ef konan hefur sambúð eða gengur í hjónaband með öðrum manni áður en barnið fæðist.
„Barn er sjálfkrafa ranglega feðrað eiginmanni eða manni sem móðir þess er skráð í sambúð með sem veldur því að sá sem réttilega telur sig vera faðir barns getur ekki höfðað faðernismál þar sem barnið hefur þegar verið feðrað. Þessu þarf að breyta og eru tillögur mínar þær að rýmka skuli málshöfðunarheimildir barnalaga til að tryggja manni sem telur sig föður barns heimild til að höfða faðernismál og/eða véfengingar- og ógildingarmál. Með því yrði réttindum barns til að þekkja uppruna sinn gert hærra undir höfði og opnuð sú leið að heimila mönnum að láta á faðerni reyna fyrir dómstólum,“ segir Anna Margrét.
Blóm vinsæl neysluvara
Spekingar spá því að ætileg blóm eins og lofnarblóm og rósir komi sterk inn á árinu, bæði út í drykk og mat og þá ekki einunigs sem eitthvert skraut heldur vegna þeirra góðu áhrifa sem þau eru talin hafa á heilsuna.
Bólgueyðandi áhrif, góð áhrif á háan blóðþrýstingi og á magaverki, allt saman er þetta nefnt sem ástæður þess að slík blóm komi til með að verða vinsæl neysluvara árið 2018.
Falafel, Halloumi og Harissa
Hinn svokallaði Miðjarðarhafs„kúr“ var vinsæll á síðasta ári og áhrifa hans mun gæta áfram. Þannig verður falafel, Halloumi ostur og spennandi krydd eins Harissa og kardimommur, sem eru talin hafa alls konar góð áhrif á heilsuna, meðal annars andoxandi áhrif á líkamann og örvandi áhrif á meltinguna, nokkuð áberandi.
Sveppir í heilsubótarskyni
Þá er búist við að sveppir á borð við svokallaða „chaga“ sveppi, „ljónsmakka“-sveppi (lion‘s mane), „Cordyceps“ sveppi og „reishi“ sveppi, sem yfirleitt eru notaðir í fæðubótarefni eða til að bragðbæta drykki eins og te, kaffi, „smoothies“ og fleira, verði í auknum mæli notaðir í heilsubótarskyni á árinu.
Sveppir sem eru meðal annars taldir hafa bólgueyðandi áhrif á líkamann, ásamt því að vera styrkjandi fyrir ónæmiskerfið.
2017 straumar og stefnur sem lifa áfram
Ofurfæða áfram vinsæl
Læknandi fæðutegundir, sem eiga ekki aðeins að bæta heilsu heldur líka lækna ýmsa kvilla,. verða áfram áberandi árið 2018. Við höfum þegar heyrt mikið talað um bólgueyðandi túrmerik, ónæmisbætandi sveppi, svo sem chaga, og fleiri fæðutegundir munu bætast við á árinu. Mikið er talað um jurtir sem koma jafnvægi á líkamann, draga úr streitu og áhrifum streituhormónins kortisól, auka orku og fleira, allt eftir því hvað líkaminn þarf á að halda, en þetta eru jurtir á borð við ginseng, ashwagandha og lakkrísrót.
Atkins á nýjan leik
Fólk er ennað tala um Atkins-kúrinn, þökk sé Kim Kardashian. Hún hvarf algerlega úr sviðsljósinu eftir að hún eignaðist sitt annað barn og sneri ekki aftur fyrr en hún hafði misst meðgöngukílóin. Hún léttist um 30 kg á 6 mánuðum og sagðist hafa fylgt Atkins-kúrnum, það er prótínríku og kolvetnaskertu mataræði. Í þetta skipti er lögð áhersla á heilsusamlega fitu og prótín í Atkins – ekki bara beikon og rjóma í öll mál.
Heilbrigður meltingarvegur
Meltingarvegur okkar er margslungið fyrirbæri og það á sérstaklega við um þarmana. Þar lifir gríðarlegt magn baktería sem allar hafa sitt hlutverk. Undanfarna áratugi hafa læknar og vísindamenn beint rannsóknum sínum í auknum mæli að þessari þarmaflóru; hvaða áhrif hún hefur á heilsu okkar, hvernig við getum ýtt undir hana eða aukið virkni hennar og svo framvegis.
Hægt að laga ótal útgáfur af drykkjum með möndlumjólk en það fer eftir smekk hvers og eins hvað er sett í drykkinn.
Möndlur eru gífurlega hollar og næringarríkar og innihalda m.a. prótín, járn og kalk. Rannsóknir hafa leitt í ljós að fitusýrur í möndlum („góðar fitusýrur“) geta dregið úr hættu á hjartasjúkdómum og hjálpa til við að draga úr „slæma kólesterólinu“ svokallaða. Möndlur innihalda einnig mikið af E-vítamíni, fólínsýru, trefjum og andoxunarefnum. Þær eru hins vegar kaloríuríkar þannig að um þær gildir, eins svo margt annað, að allt er best í hófi!
Möndlumjólk sem er löguð úr möndlum og vatni er auðvelt að útbúa sjálfur og nota t.d. út á hafragrautinn. Möndlurnar eru látnar liggja í bleyti yfir nótt og síðan maukaðar í blandara ásamt vatni í nokkrar mínútur. Möndlumjólk er frábær lausn fyrir þá sem af einhverjum ástæðum vilja eða þurfa að sneiða hjá kúamjólk. Sumir næringarfræðingar og fólk í heilsugeiranum mæla með möndlumjólk ekki eingöngu í staðinn fyrir kúamjólk heldur einnig í staðinn fyrir soja- og hrísmjólk.
Möndlumjólk
1 dl möndlur með hýði, lagðar í bleyti yfir nótt
4 dl vatn
Skolið möndlur eftir að þær hafa legið í bleyti og setjið í blandara. Hellið vatni yfir og maukið þar til að blandan er orðin jöfn og mjúk.
Það er hægt að laga ótal útgáfur af drykkjum með möndlumjólk en það fer eftir smekk hvers og eins hvað er sett í drykkinn. Notið hugmyndaflugið og það sem til er í skápunum.
Bleiki drykkurinn
3-4 dl möndlumjólk
1 banani, skorinn í bita
2 dl mangó, ferskt eða frosið
1 dl frosin hindber eða jarðarber
1 dl vatn
Setjið allt í blandara og maukið saman.
Græna byltingin
3-4 dl möndlumjólk
2 lúkur spínat
3-4 döðlur, má sleppa
2 dl frosið mangó
nokkur myntulauf
2 dl vatn
safi úr ½ límónu
Setjið allt í blandara og maukið saman.
Ljósi draumurinn
3-4 dl möndlumjólk
1 banani, skorinn í bita
½ tsk. kakóduft
korn úr vanillustöng
1 dl vatn
ísmolar
Setjið allt í blandara og maukið saman.
Góður morgunverður!
Hafragrautur með möndlumjólk, kanil og bláberjum.
Allt hráefni fæst í verslunum Nóatúns. Fylgihlutir eru í einkaeigu.
Febrúarblað Húsa og híbýla kemur út 1. febrúar smekkfullt af frábæru efni.
Við kíktum í hressandi kaffi til Berglindar Pétursdóttur en heimilið hennar er sannarlega litríkt og þar leynast margar mjög skemmtilegar hugmyndir.
Við fórum líka í heimsókn til Steingríms Gauta listamanns og Hjördísar Gestsdóttur fatahönnuðar sem eiga listrænt heimili í Hlíðunum og kíktum á vinnustofu listamannsins.
Rakel Matthea opnaði einnig dyrnar fyrir ljósmyndara blaðsins en hún er ekki ókunn fjölmiðlabransanum því hún starfaði áður sem tískuritstjóri hjá Nude Magazine. Rakel er mikil smekkpía og heimili hennar í Garðabæ er eftir því.
Á forsíðunni er svo gullfalleg stúdíóíbúð í Kópavogi sem Kristjana Ólafsdóttir í Heimilum og Hugmyndum hannaði í samvinnu við parið sem þar býr. Blaðamaður og ljósmyndari brunuðu svo á Seltjarnarnesið og mynduðu hlýlegt heimili flugfreyju og hennar fjölskyldu. Við kíktum líka í heimsókn til Lilju og Atla Fannars sem búa í Vesturbænum. Þetta, Vala Matt, Zaha Hadid, 70 ljós og lampar og fleira í blaði númer tvö á árinu.
Febrúarblað Húsa og híbýli kemur út 1. febrúar. Sjón er sögu ríkari!
Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Mynd hér að ofan / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Forsíðumynd hér að neðan / Aldís Pálsdóttir
Myndband / Óskar Páll Sveinsson
Helga Arnardóttir, yfirritstjóri Birtíngs, og stjórn félagsins hafa komist að samkomulagi um starfslok hennar.
Helga hóf nýlega störf hjá útgáfunni en sameiginleg ákvörðun aðila var að slíta samstarfinu og vill stjórn Birtíngs þakka henni fyrir samstarfið.
Birtíngur gefur út tímaritin Hús og híbýli, Gestgjafann, Vikuna og fríblaðið Mannlíf. Auk þess heldur félagið úti lífstílsvefnum man.is, en Lilja Katrín Gunnarsdóttir hefur verið ráðin til starfa á vefnum.
Jón Þórður Jónsson tæknifræðingur hefur rennt muni úr tré síðan synir hans og fjölskyldur þeirra gáfu honum trérennibekk í sjötugsafmælisgjöf. Hann vann um árabil hjá Ísal í Straumsvík en hætti þar sökum aldurs 2009.
„Ég renni allskonar muni úr tré, eins og fugla, kertastjaka, box, bjöllur, lyklakippur og svo framvegis,“ segir Jón Þórður og hann leggur áherslu á að viðurinn fái að njóta sín og að eiginleikar trésins komi í ljós í gegnum munina. Hann vinnur í bílskúrnum heima og hefur komið sér vel fyrir. „Ég geri þetta mest ánægjunnar vegna og að sjálfsögðu er gaman þegar einhver kaupir. Einnig fer mikið í tækifærisgjafir og jólagjafir. Ég hef haldið sýningu í bílskúrnum sem gekk mjög vel og ég ætla að halda aftur sölusýningu í vor. Ef til vill fer ég með munina mína í handverkssöluna á Króksfjarðarnesi í sumar og verð með þá á ferðalögum í húsbílnum okkar.“
Viðtalið í heild sinni má lesa í 5. tbl. Vikunnar sem kemur í verslanir fimmtudaginn 1. febrúar 2018.
Jón Þórður er á Facebook undir Smiðja Jóns Þórðar.
Skoska eyjan Linga við Hjaltlandseyjar, norður af skoska meginlandinu, er nú til sölu. Ásett verð er 351 þúsund dollarar, rétt tæplega 35,5 milljónir króna.
Eyjan er tæplega 26 hektarar og kemst maður hæglega út í hana á bát frá skoska bænum Walls. Það þýðir að þeir sem setjast að á Lingu eru ekki langt frá siðmenningu, þó einangrunin sé algjör á eyjunni, þar sem enginn býr.
Reyndar hefur enginn búið á Lingu síðan árið 1934 þannig að smáhýsin tvö sem á eyjunni eru þarfnast mikils viðhalds. Nýr eigandi fær hins vegar leyfi til að byggja nýtt smáhýsi og bryggju, svo eitthvað sé nefnt.
Þá gefur byggingarleyfið nýjum eiganda einnig heimild til að setja upp sólar- og vindorkusellur þannig að ljóst er að framtíðin á Linga er mjög umhverfisvæn.
Það er fyrirtækið Vladi Private Islands sem sér um sölu á eyjunni en myndband af þessari náttúruperlu má horfa á hér fyrir neðan.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sótti fund Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss eins og svo margir aðrir þjóðarleiðtogar.
Justin vakti ekki aðeins athygli fyrir mælsku sína og skoðanir heldur stálu litríkir og flippaðir sokkar hans algjörlega senunni.
Forsætisráðherrann settist niður með Nóbelsverðlaunahafanum Malölu Yousafzai og sáu þá glöggir gestir fundarins glitta í fjólubláa sokka með gulum öndum á.
Eins og við Íslendingar vitum er Justin ekki eini þjóðarleiðtoginn sem er hrifinn af því að klæðast litríkum sokkum. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, hefur nefnilega oft og mörgum sinnum vakið athygli á ýmsum viðburðum þar sem hann klæðist flippuðum sokkum við hefðbundin jakkaföt. Ætli þeir Justin hafi borið saman bækur sínar?
Ég er ofboðslega nýjungagjörn manneskja og þegar að annar hver maður, og amma þeirra, var farinn að fasta í lengri eða skemmri tíma þá bara varð ég að prófa.
Það eru auðvitað til alls kyns föstur og verður hver og einn að finna föstuna í lífi sínu. Það er hægt að fasta ákveðið marga tíma á sólarhring, það er hægt að fasta með því að borða ekki vissar fæðutegundir í ákveðinn tíma eða það er hægt að fasta þannig að maður borðar akkúrat ekki neitt og drekkur bara vökva. Ég ákvað að velja seinasta kostinn. Eftir að hafa vafrað endalaust á internetinu og lesið mér til um föstur ákvað ég að fasta tvo sólarhringa í hverri viku og drekka ekkert nema vatn, kaffi og stöku dós af Pepsi Max. Ég hefði líklegast átt að sleppa mínu yndislega Max-i líka en mér fannst það fullmikið af því góða!
Ég valdi að fasta á mánudögum og fimmtudögum að vel ígrunduðu máli. Mánudagar fannst mér fullkomnir því þá er maður búinn að gúffa í sig öllu sem maður kemst í yfir helgina og er með smá kolvetnamóral, eins fáránlegt og það hljómar. Svo valdi ég fimmtudaga því ég vildi alls ekki fasta um helgar, út af fyrrnefndu gúfferíi, en vildi samt að það liði smá tími á milli fasta. Þetta ákvað ég síðan að gera í þrjár vikur til að geta skrifað þennan pistil um mína reynslu.
Það var samt alveg dýpri ástæða á bak við það að ég vildi prófa að fasta. Mig langaði að ná aftur í sjálfsagann og viljastyrkinn sem mér fannst ég hafa tapað. Ég var sem sagt orðin drullulöt, svo ég segi það hreint út. Og eitthvað sagði mér að fasta væri alveg málið. Ef ég gæti neitað mér um mat í marga klukkutíma, gæti ég nú gert ansi margt.
Vika 1 – Kökubakstur á fastandi maga
Það var pínulítið skrýtið að vakna á mánudagsmorgun í fyrstu vikunni og eiga heilan dag og kvöld framundan þar sem ég myndi ekki svo mikið sem narta í eitt tekex. Ég var alveg búin að undirbúa mig andlega, og reyndar líkamlega líka (gúfferíið, þið munið), kvöldið áður og var mjög peppuð fyrir þessu. Og viti menn, þessi mánudagur leið hjá eins og ekkert væri. Ég var bara ekkert svöng. Fyrr en klukkan sló fjögur. Búmm! Þá kom svengdin sem aldrei fyrr og heltók heilann á mér. Ég sá mat alls staðar og hefði léttilega getað borðað tölvuna mína. En það magnaða var að eftir sirka klukkutíma var þessi yfirgengilega svengdartilfinning liðin hjá. Auðvitað kom nartlöngunin um kvöldið en ekkert sem ég réð ekki við.
Fimmtudagsfastan var erfiðari. Bæði þriðjudag og miðvikudag var ég búin að borða, algjörlega ósjálfrátt, miklu minna en vanalega. Ég var ekkert búin að narta eftir klukkan átta á kvöldin þannig að ég vaknaði hálfsvöng á fimmtudagsmorgun. Og allur dagurinn var eiginlega kvöl og pína. Mig langaði svo mikið til að borða. Bara eitthvað. Allan daginn var ég að finna ný og ný verkefni til að gleyma því að mig langaði til að borða. Og þá gerði ég einmitt stóru mistökin – ég bakaði köku! Bakaði afmælisköku fyrir móður mína. Ómótstæðilega köku með fullt af smjörkremi og fallegum nammiskreytingum. Var ég haldin sjálfspíningarhvöt? Eða var ég bara svona nautheimsk? Þegar klukkan sló tólf gat ég ekki annað en dýft mér ofan í kökuafskurð og smjörkrem. Ekki mín fallegasta stund, ég viðurkenni það fúslega.
Vika 2 – Meiri orka og meira vatn
Allt í einu fann ég fyrir orku sem ég hafði ekki haft í langan tíma. Ég var farin að stunda líkamsrækt nokkrum sinnum í viku, meira að segja á dögunum sem ég var að fasta. Þá daga tók ég reyndar ekkert svakalega mikið á því, þar sem ég var hreinilega hrædd um að það myndi líða yfir mig. Ég var farin að drekka miklu meira af vatni en áður og ég var farin að spá meira í því hvað ég væri að láta ofan í mig þá daga sem ég var ekki að fasta. Það var eins og líkaminn kallaði frekar á hollan mat heldur en sætindi og kökur, sem ég er ansi svag fyrir.
Hins vegar var sama uppá tengingnum þegar kom að fimmtudagsföstunni. Hún var svakalega erfið. Þúsund sinnum erfiðari en mánudagsfastan. Þannig að þegar klukkan sló tólf fór ég rakleiðis inní eldhús að næra mig. En í þetta sinn var það ekki kaka og krem sem varð fyrir valinu til að dúndra blóðsykrinum uppí tungl og til baka. Ó, nei. Í þetta sinn valdi skynsama ég hnetur og eitthvað Goji-berja hrástykki sem var búið að safna ryki uppí skáp. Jey fyrir mér!
Vika 3 – Fimm kílómetra hlaup og enginn svefn
Síðasta vikan var klárlega átakaminnst. Ég var farin að reyna aðeins meira á mig í ræktinni þá daga sem ég var að fasta og einn daginn hljóp ég meira að segja fimm kílómetra án þess að finna fyrir höfuðverk eða óþægindum (#humblebrag).
Það var þó eitt sem var pínulítið erfitt. Okkur fjölskyldunni var boðið í matarboð á mánudeginum þannig að ég ákvað að fasta frekar á þriðjudegi. Ég hefði ekki getað trúað því hvað það var erfitt að skipta um dag til að fasta. Það var eins og fösturnar mínar væru orðnar partur af líkamsklukkunni og það að skipta um daga var eins og ég myndi henda þessari blessuðu klukku í vegg og síðan traðka á henni í hermannaklossum með stáltá.
Ég var hætt að sofna yfir sjónvarpinu eins og ég gerði nánast hvert einasta kvöld fyrir föstutímabilið mitt og ég kunni vel við alla þessa orku sem ég hafði.
Eina sem skyggði á þessa síðustu viku var að yndislega, tveggja ára dóttir mín átti erfitt með svefn aðfaranótt föstudags og var ég með hana uppá arminum bróðurpart næturinnar. Þá er ég fyrst að viðurkenna að ég nartaði í kex og súkkulaði á milli þess sem hún vældi í eyrað á mér og klíndi hori í náttfötin mín. Mér fannst ég bara eiga það frekar mikið skilið.
Líkaminn hefur gott af gúffpásu
Þegar öllu er á botninn hvolft fannst mér mjög gaman að fasta. Það voru margir sem spurðu mig hvort ég hefði eitthvað grennst á þessu og ég held ekki. Ég allavega finn engan mun á fötunum mínum. En munurinn sem ég finn er sá að ég er ánægðari með mig. Ég er stolt af mér að hafa getað þetta og sú tilfinning finnst mér miklu yndislegri og mannbætandi en nokkur grömm til eða frá. Það kom mér líka á óvart hve mikla orku ég hefði þó ég væri ekki að borða mat. Nú gætuð þið haldið að ég hefði kannski drukkið tólf lítra af kaffi á dag og 250 dósir af Pepsi Max, en svo var ekki. Kaffibollarnir urðu yfirleitt ekki fleiri en fjórir á dag og dósirnar í mesta lagi þrjár.
Það erfiðasta við að fasta er samt ekki svengdartilfinningin. Það er nefnilega félagslegi parturinn. Það var ofboðslega erfitt að setjast niður með fjölskyldunni og horfa á þau borða. Maðurinn minn var reyndar mjög klókur að elda bara það sem mér finnst vont á þeim dögum sem ég var að fasta, eins og bjúgu og kálböggla, þannig að mig langaði ekkert sérstaklega í matinn. Það er bara svo stór partur af deginum að setjast niður, allir saman, borða, hlæja og tala um daginn og veginn. Þegar ég var ekki að borða þá fannst mér ég ekki vera að taka almennilega þátt í þessari heilögu stund.
En ætla ég að halda þessu áfram? Já, ég held það bara. Eftir þessar þrjár vikur er fasta komin í hálfgerðan vana. Þetta er orðið eðlilegt. Mér líður vel af þessu og mér finnst líkami minn hafa gott af því að fá smá gúffpásu.
Hvað segir næringarfræðingurinn?
„Það eru skiptar skoðanir um föstur hjá næringarfræðingum en ég er mjög hlynnt þessu. Það sem gerist þegar við föstum er að við erum að hvíla kerfið, hjálpa frumum að heila sig, jafna blóðsykurinn og endurstilla hormónastarfsemi. Ennfremur erum við að endurstilla hausinn okkar og verðum fyrir vikið meðvitaðri um það sem við látum ofan í okkur dags daglega,“ segir Elísabet Reynisdóttir, næringarfræðingur.
Hún segir það hafa góð áhrif á líkamann að fasta, hvort sem það er í einhverja klukkutíma á dag eða heilu sólarhringana, en mælir þó ekki með að fasta í viku, eða lengri tíma, án þess að vera undir eftirliti læknis.
„Hins vegar er hægt að taka létta föstu í viku eða hálfan mánuð á ári þar sem við hvílum líkamann á kaffi, unnum mat og kolvetnum og drekkum frekar vatn og grænmetisdrykki og borðum hreinan mat. Þannig hreinsum við líkamann þó við séum að borða mat.“
Elísabet hvetur fólk til að prófa að fasta ef það hefur áhuga á því.
„Ef að fólk finnur takt til betri heilsu og líður vel þá bara: “Go for it”. Það er engin ein ríkisleið til. Það er gott að hafa einhver viðmið og nýta heilbrigða skynsemi en svo finnur hver og einn þá leið sem hentar honum best.“
Seinni undankeppni í Söngvakeppninni fer fram í Háskólabíói laugardagskvöldið 17. febrúar. Í gær fengum við að kynnast þeim flytjendum sem keppa um sæti í úrslitunum 3. mars í fyrri undankeppninni en nú er komið að því að spyrja flytjendur í seinni undankeppninni spjörunum úr.
Lífið og tónlistin stoppar ekki í Eurovision
Söngvarinn Aron Hannes syngur lagið Golddigger og stígur fyrstur á svið í Háskólabíói þann 17. febrúar næstkomandi. Hann keppti líka í fyrra og komst alla leið í úrslitakeppnina. Hann segist mjög spenntur yfir því að fá að upplifa ævintýrið í kringum Söngvakeppnina aftur.
Af hverju Eurovision?
Frábær vettvangur til að koma sér á framfæri sem tónlistarmaður.
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?
Lagið hreyf mig við fyrstu hlustun og gaf mér tækifæri til að hallast meira að nútíma funki sem að mig hefur langað að gera í langan tíma.
Hvernig var tilfinningin þegar þú komst að því að lagið væri komið í undanúrslit?
Að sjálfsögðu mjög spenntur að fá að upplifa ævintýrið í kringum Söngvakeppnina aftur.
Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?
Ætli það sé ekki Tell Me sem að Einar Ágúst og Telma tóku árið 2000. Frábært lag.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
In my dreams, WigWam. Geggjað lag sem hefur fylgt mér alla tíð síðan það var í keppninni árið 2005.
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa þig?
Ef að fólki líkar vel við lagið og atriðið þá má það endilega henda atkvæði á strákinn.
Hvernig áttu eftir að bregðast við ef þú vinnur?
Eflaust í skýjunum með það að fá að fara fyrir Íslands hönd í Eurovision.
En ef þú tapar?
Áfram gakk! Lífið og tónlistinni stoppar ekki þar.
Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?
Ríkur af reynslu og svo veit maður aldrei hversu stór tækifæri Eurovision býður uppá fyrir mann.
Númer 1,2 og 3 er að njóta augnabliksins
Gríngúbban Áttan, með Sonju Valdín og Egil Ploder í broddi fylkingar, keppir í Söngvakeppninni með lagið Hér með þér, eða Here For You. Þau Sonja og Egill segja að lagið sé ekki típískt Áttulag og telja að flutningurinn í beinni útsendingu muni koma á óvart.
Af hverju Eurovision?
Af því að við höfum alltaf haldið mikið upp á keppnina og horft á hana frá því við vorum krakkar. Svo finnst okkur gaman að taka að okkur ný og krefjandi verkefni og Söngvakeppnin passar vel inn í það.
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?
Við vildum gera eitthvað öðruvísi. Eitthvað sem Áttan hafði ekki gert áður og fórum úr þessu típíska Áttulagi yfir í eitthvað allt annað. Lagið fjallar um fyrstu skrefin í ástinni og við vonum að fólk finni þá tilfinningu þegar það hlustar.
Hvernig var tilfinningin þegar þið komust að því að lagið væri komið í undanúrslit?
Það var gjörsamlega frábært tilfinning! Alltaf gaman að ná markmiðum sínum.
Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?
Egill: Fyrsta lagið sem ég man eftir er Tell Me! með Einari Ágústi og Telmu. Það var svo skemmtilega grillað atriði. Svo að sjálfsögðu frábært lag!
Sonja: Sylvía Nótt – Congratulations. Af því að ég var Sylvíu Nótt fan #1.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Egill: Uppáhalds Eurovision lagið mitt kemur frá Belgíu. Tók þátt árið 2010 með lagið Me and my guitar. Hlusta reglulega á það ennþá í dag. Þetta er svona skemmtilega mjúkt lag. Er mikið fyrir það! Svo gleymi ég reyndar oft að nefna lagið You með Robin Stjernberg. Tók þátt fyrir Svíþjóð árið eftir Euphoria. Fékk þar af leiðandi ekki verðskuldaða athygli! Mikið spilað í vinahópnum mínum!
Sonja: Euphoria af því að það var svo öðruvísi og ég hlusta ennþá á það í dag.
Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?
Það eru þrotlausar æfingar fram að keppni og leggjum við mikið upp úr flutningnum og erum nokkuð viss um að við komum áhorfendum á óvart þar.
Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?
Það er einhvern veginn ómögulegt að gera sér grein fyrir því. Við höfum eiginlega enga hugmynd. Það væri nátturulega rosalegt! En númer 1,2 og 3 er að njóta augnabliksins.
En ef þið tapið?
Það er mikið af frábærum atriðum í keppninni. Við munum samgleðjast þeim sem fer út og keppir í Eurovision fyrir Íslands hönd. Svo höldum við áfram okkar striki og nýtum okkur meðbyrinn sem Söngvakeppnin vonandi gefur okkur.
Er líf eftir Eurovision?
Já við skulum rétt vona það!
Grenjar í hálftíma ef hann tapar
Söngvarinn Dagur Sigurðarson stígur sín fyrstu skref í Söngvakeppninni með lagið Í stormi, eða Saviours. Höfundur lagsins er Júlí Heiðar Halldórsson en hann samdi íslenska textann ásamt Þórunni Ernu Clausen og enska textann með Guðmundi Snorra Sigurðarsyni. Dagur segir lagið eins og samið fyrir sig.
Af hverju Eurovision?
Það hefur alltaf verið smá draumur hjá mér að fá prófa að syngja í Söngvakeppninni og lagið hentaði mér fullkomlega.
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?
Lagið er eins og það sé samið ofan í mig, fullkomin öskur powerballaða með nóg af dramatík.
Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?
Fyrsta lagið sem ég man eftir er Minn hinsti dans sem Páll Óskar flutti og er þetta í rauninni fyrsta minningin mín um Eurovision.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Ég ætla að segja að uppáhalds Eurovision lagið mitt sé In my dreams með hljómsveitinni Wig Wam, alvöru glys geðveiki
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa þig?
Fólk á að kjósa það lag sem því finnst flottast og taka inn í dæmið öryggi í flutningi.
Hvernig áttu eftir að bregðast við ef þú vinnur?
Ég á örugglega eftir að sturlast úr ánægju
En ef þú tapar?
Grenja í svona hálftíma og held svo áfram með lífið.
Gleyma sér í gleðinni og lifa ekki í eftirsjá
Stefanía Svavarsdóttir, Agnes Marinósdóttir og Regína Lilja Magnúsdóttir flytja lagið Svaka stuð, eða Heart Attack. Þær segja áhorfendur mega búast við óvæntum uppákomum í sínum flutningi og segja engan tapa í Eurovision.
Af hverju Eurovision?
Því í Eurovision er bara gleði, glimmer og svaka stuð – og hver vill ekki vera með í því?
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?
Agnes er skúffuskáld sem er búin að bíða eftir spotlighti fyrir þetta lag. Þýðingin er að þora og gera, gleyma sér í gleðinni og lifa ekki í eftirsjá.
Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?
Stefanía: All out of Luck. Ég var 7 ára og horfði á keppnina með öðru auganu á meðan fullorðna fólkið fylgdist með og man hvað mér fannst Selma stórkostleg.
Agnes: Páll Óskar – Minn hinsti dans. Ég man hvað mér fannst hann töff að hafa brotið niður múra og ögrað.
Regína: Páll Óskar. Þetta var eiginlega í fyrsta skiptið sem ég sá svona risastóra söngvakeppni og ég var algjör sökker fyrir söngvakeppnum. Ég man að ég hugsaði að ég ætlaði að vera í þessari söngvakeppni þegar ég yrði stór en kannski aðeins öðruvísi fötum, var pínu sjokkeruð en fannst hann samt eitthvað vandræðalega töff.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Euphoria er besta Eurovision-lag fyrr og síðar, við erum allar sammála um það.
Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?
Ó já, heldur betur. Verið viðbúin.
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?
Útaf því að við erum með svaka stuðlag! Við viljum deila gleðinni og glimmerinu með sem flestum og hver vill ekki taka þátt í því partýi?
Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?
Stefanía á eftir að fara að grenja, Agnes mun hugga Stefaníu og Regína fær taugaáfall = we got this.
En ef þið tapið?
Það tapar enginn í Eurovision.
Er líf eftir Eurovision?
Við erum spenntar að komast að því. Eflaust aðeins rólegra líf en vonandi jafn mikið glimmer.
Gott silfur var gulli betra
Knattspyrnukappinn og tónlistarmaðurinn Guðmundur Þórarinsson flytur lagið Liti, eða Colours, sem hann samdi með félaga sínum, Fannari Frey Magnússyni, en þeir eiga annað lag í keppninni; Brosa sem flutt er af Þóri og Gyðu. Guðmundur verður alveg brjálaður ef hann tapar en líka ríkur af góðum og skemmtilegum upplifunum.
Af hverju Eurovision?
Fannar sem semur lögin með mér sendi þau inn til að koma okkar tónlist á framfæri, það var engin djúp pæling á bak við það, meira að við vildum koma okkur áfram í tónlistinni.
Hvernig var tilfinningin þegar þú komst að því að lagið væri komið í undanúrslit?
Spennandi hugsaði ég. Ég bý erlendis svo að ég vissi að þetta yrði krefjandi en þetta hefur gengið mjög vel hingað til.
Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?
Sennilega Selma Björns með All out of luck. Þetta er svo minnisstætt því fjölskyldan var orðin mjög gíruð heima að við værum að fara að vinna en gott silfur var gulli betra í það skiptið.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Í síðasta skipti með Friðrik Dór. Flott lag sem passar alltaf sama hver stemningin er og Stattu upp með Bláum Ópal, ef maður setur það á í partýi þá verður kvöldið gott.
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?
Það verður hver einn að fá að ákveða það með sjálfum sér, ég reyni að syngja vel og hafa atriðið flott og þá vonandi finnst fólki lagið flott.
Hvernig átt þú eftir að bregðast við ef þú vinnur?
Ég hreinlega veit það ekki, ég hugsa ekki svo langt fram í tímann lengur, ég hef sem betur fer loksins lært að reyna að gera mitt besta í augnablikinu og ekki pæla of mikið í framtíðinni.
En ef þú tapar?
Þá verð ég reyndar alveg brjálaður.
Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?
Ríkur af góðum og skemmtilegum upplifunum.
Er líf eftir Eurovision?
Já, pælingin mín var að tónlistarferillinn myndi hefjast með Eurovision. Ég á mörg lög og finnst gaman að gefa af mér, vonandi verður þetta bara byrjunin.
Fallegur boðskapur sem höfðar til allra
Söngkonan Rakel Pálsdóttir snýr aftur í Söngvakeppnina, en hún flutti lagið Til mín ásamt Arnari Jónssyni í fyrra. Í ár syngur hún ballöðuna Óskin mín, eða My Wish, sem samið er af Hallgrími Bergssyni. Hún segist í fyrstu ekki hafa getað sungið lagið því hún fór alltaf að gráta, svo sterkt tengir hún við það.
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?
Lagið hefur sterka þýðingu fyrir mig. Ég hef aldrei tengt eins vel við lag eins og þetta. Ég varð móðir árið 2015 og þá upplifir maður nýjar tilfinningar. Þetta lag var samið um tvo afastráka sem Hallgrímur eignaðist og er þetta um það að móðir syngi til barns síns, óski þess að það elti drauma sína og treysti á sína eigin dómgreind. Ofsalega fallegur boðskapur. Í fyrstu bara gat ég ekki sungið lagið, fór alltaf að gráta. Svo sterkt tengi ég við það.
Hvernig var tilfinningin þegar þú komst að því að þú værir að fara að syngja lag í Söngvakeppninni?
Tilfinningin að fá símtalið var yndisleg! Ég var búin að hugsa með mér hversu leiðinlegt það væri að vera ekki með í keppninni í ár. En svo fæ ég símtal frá Hallgrími og hoppa af kæti. Ég hlusta svo á lagið og verð enn glaðari. Þetta lag hentar mér svo vel.
Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?
Fyrsta lagið sem ég man eftir er Another summernight sem var framlag Möltu árið 2001. Ég var að byrja að horfa á Eurovision á þessum tíma og þetta lag situr enn fast í minninu.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Þau eru mörg en þessa stundina er það lagið Undo sem Sanna Nielsen flutti fyrir Svíþjóð árið 2014 og hafnaði í 3. sæti. Annars eru lögin Je nai que mon âme, Frakkland 2001 og lag Serbíu árið 2007 – Molitva.
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa þig?
Lagið er einlægt og fallegt og hefur fallegan boðskap. Við Íslendingar þurfum að senda rólegt lag í þetta skiptið í Eurovision. Það er svo mikið stress í þjóðfélaginu. Ég held að það sé góð leið til þess að ná ró innra með okkur og anda léttar. Svo er þessi boðskapur svo fallegur og höfðar til allra.
Hvernig átt þú eftir að bregðast við ef þú vinnur?
Hoppa af kæti og fá svo stresskast.
En ef þú tapar?
Hugsa að maður á aldrei að svekkja sig yfir einhverju, heldur halda áfram, það kemur annað tækifæri.
Líf Maríu Hlínar Eyjólfsdóttur tók stakkaskiptum eftir að hún leitaði sér aðstoðar.
Fyrir fimm árum var María Hlín Eyjólfsdóttir illa á sig komin og undirlögð af verkjum. Hún ákvað að leita sér aðstoðar til að brjótast úr ástandinu og hefur með dugnaði, elju og skynsemi náð undraverðum árangri.
„Mikilvægast af öllu er að halda í gleðina. Að missa aldrei sjónir af henni. Ef mér hefði ekki tekist að halda í hana í gegnum þetta allt þá veit ég hreinlega ekki hvernig þetta hefði farið. Kannski hefði ég bara gefist upp,“ segir María Hlín Eyjólfsdóttir, starfsmaður á leikskólanum Jöklaborg.
Fyrir fimm árum tók María ákvörðun um að breyta um lífsstíl eftir að hafa glímt við ofþreytu og verki um langt skeið. Hún skellti sér í heimsókn til Heilsuborgar en í stað þess að undir-gangast heilusmat hjá hjúkrunarfræðingi og láta skoða mataræði, hreyfinu og svefn eins og margir gera, skráði hún sig í Heilsulausnir – hóptíma þar sem lögð er áhersla á alhliða hreyfingu.
„Auðvitað var ekkert grín að byrja,“ játar hún. „Ég hafði ekki stundað neina hreyfingu lengi og var í engu formi, gat varla gengið og leið illa með sjálfa mig. Fyrir utan að ég var með alls konar verki. Meðal annars krónískan höfuðverk vegna gamalla meiðsla á hálsi. En ég var staðráðin í að gefast ekki upp og fékk góða hvatningu frá þjálfurum og þátttakendum á námskeiðinu.“
„Ég held nefnilega að stærstu mistökin sem fólk gerir þegar það ákveður að snúa við blaðinu sé að ætla sér of mikið á of skömmum tíma …. Ég held að það sé ein helsta ástæða þess að fólk gefst oft upp.“
Í samráði við þjálfarana segist María hafa ákveðið að gera allar breytingar rólega. Hún mætti til dæmis í ræktina þrisvar í viku til að byrja með á meðan hún var að koma því upp í vana og tók mataræðið smám saman í gegn og var ekkert að mæla árangurinn í lækkaðri fituprósentu heldur bættri líðan. „Með öðrum orðum var ég ekkert að umturna lífi mínu með einhverjum öfgum,“ segir hún. „Ég held nefnilega að stærstu mistökin sem fólk gerir þegar það ákveður að snúa við blaðinu sé að ætla sér of mikið á of skömmum tíma. Allt á að gerast á einu bretti. Eins og í Biggest Looser. Ég held að það sé ein helsta ástæða þess að fólk gefst oft upp.“
Ekki leið á löngu þar til María fór að verða vör við breytingar á sjálfri sér. Á einu ári varð hún líkamlega hraustari en hún hafði verið um langt skeið og það sem meira er: andleg líðanin tók stakkaskiptum. Hún hélt því áfram með skynsemina að leiðarljósi og fimm árum síðar kveðst hún vera allt önnur en þegar hún steig fyrst inn á stöðina illa á sig komin og undirlögð af verkjum.
„Lífið er allt annað í dag. Ég er léttari en það sem skiptir meiru er að ég er í betra formi og mér líður betur andlega. Reyndar fæ ég enn höfuðverki af og til en með reglulegri hreyfingu hefur mér tekist að draga úr þeim,“ segir hún og kveðst enn stunda hóptímana af fullum krafti. Að auki er hún byrjuð að hlaupa og fara í fjallgöngur á sumrin til að brjóta upp rútínuna.
„Lífið er allt annað í dag. Ég er léttari en það sem skiptir meiru er að ég er í betra formi og mér líður betur andlega.“
Spurð hvort hún eigi einhver ráð handa fólk sem er í svipuðum sporum og hún var sjálf í segir María að fyrsta skrefið sé að leita sér aðstoðar. „Taktu skrefið og fáðu hjálp. Faglega hjálp. Það er ekkert að því. Ég veit það getur verið erfitt. En treystu mér, það margborgar sig,“ segir hún glaðlega.
Það brutust út mikil fagnaðarlæti á miðvikudaginn síðasta þegar Larry Nassar, fyrrverandi læknir fimleikalandsliðs Bandaríkjanna, var dæmdur í 40 til 175 ára fangelsi fyrir að misnota tugi fimleikakvenna kynferðislega. Fórnarlömb hans og fjölskyldur þeirra féllust í faðma og felldu tár en það má með sanni segja að hugrekki og samstaða þeirra 156 kvenna sem stigu fram og sögðu frá ofbeldinu hafi ekki aðeins komið lækninum á bak við lás og slá það sem eftir er af ævi hans, heldur einnig veitt fjölda kvenna innblástur um allan heim til að opna sig um sína reynslu af kynferðislegu ofbeldi og áreitni.
„Þú átt ekki skilið að ganga út úr fangelsi nokkurn tímann aftur“
Andrúmsloftið var spennuþrungið þegar dómarinn Rosemarie Aquilina las upp sínar hugleiðingar um málið og síðan loks dóminn sjálfan.
„Ég hef sagt það sem ég þurfti að segja við fórnarlömbin. Ég hef samt aðeins meira að segja: Þið eruð ekki lengur fórnarlömb, þið eruð manneskjur sem lifðu af. Þið eruð mjög sterkar og ég hef talað við ykkur allar í einrúmi,“ sagði Rosemarie áður en hún sagðist hafa skrifað undir dauðadóm Larry Nassar.
„Þú átt ekki skilið að ganga út úr fangelsi nokkurn tímann aftur,“ sagði dómarinn og bætti við.
„Hvert sem þú myndir fara, myndir þú eyðileggja þá sem liggja best við höggi.“
Hægt er að lesa alla ræðu Rosemarie Aquilina þegar hún kvað upp dóm yfir lækninum með því að smella hér. En einnig er hægt að horfa á dóminn hér fyrir neðan:
Fyrsta fórnarlambið sem steig fram átti lokaorðið
Upphaflega áttu 88 stúlkur og konur að bera vitni gegn Larry Nassar í þessu máli sem talið er vera það stærsta sinnar tegundar innan bandaríska íþróttaheimsins, og þó víðar væri leitað. Þessi fjöldi vitna hins vegar næstum því tvöfaldaðist þegar yfirheyrslur hófust. Ein af annarri færðu þær réttarsalnum, og í raun öllum heiminum, vitnisburð sinn. Þær stóðu fyrir framan kvalara sinn og ávörpuðu manninn sem braut traust svo margra ungra íþróttakvenna og fjölskyldna þeirra.
Síðasta fórnarlambið sem talaði við réttarhöldin var fyrrverandi fimleikastjarnan Rachael Denhollander. Má segja að það hafi verið táknrænt að hún hafi átt lokaorðið þar sem hún var sú fyrsta sem kom opinberlega fram og sakaði lækninn um kynferðislegt ofbeldi, nánar tiltekið í viðtali við fréttamiðilinn Indianapolis Star í september árið 2016.
„Síðustu sextán árin hef ég gert mér grein fyrir því að ég ber ábyrgð, og hvort ég eigi að tala opinberlega eða ekki snýst ekki um hvað sé auðvelt fyrir mig að gera. Þetta er ekki eitthvað sem mig langar að gera,“ sagði Rachael í viðtalinu á sínum tíma, en rannsóknarvinna Indianapolis Star var það sem sannfærði hana um að stíga fram.
Rachael kærði Larry Nassar vegna meðferðar sem hún fékk við mjóbaksverkjum þegar hún var fimmtán ára árið 2000. Hún sótti fimm tíma hjá lækninum og sagði að í hverjum tíma hefði hann orðið aðgangsharðari en þeim fyrri. Hún sagði hann hafa nuddað kynfæri sín, stungið tveimur fingrum upp í leggöng sín og endaþarm og tekið sig úr brjóstahaldara og nuddað brjóst sín. Í viðtali við Indianapolis Star sagði Rachael að móðir hennar hefði komið með henni í alla tíma en að læknirinn hafi snúið henni þannig að móðir hennar sá aðeins höfuð hennar og bak.
„Ég var logandi hrædd. Ég skammaðist mín. Ég fór svo mikið hjá mér. Og ég var mjög ringluð þegar ég reyndi að skilja það sem var að gerast í ljósi þess hvaða manneskja hann átti að vera. Hann var frægur læknir. Vinir mínir treystu honum. Aðrar fimleikakonur treystu honum. Hvernig gat hann verið í þessari stöðu innan læknastéttarinnar, hvernig gat hann náð til slíkra metorða ef þetta var sá sem hann var?“ sagði Racheal.
Þöggun innan fimleikastéttarinnar
Þetta viðtal og rannsóknarvinna Indianapolis Star afhjúpuðu Larry Nassar sem kynferðisabrotamann sem hafði fengið að brjóta ítrekað á fimleikakonum um árabil. Það sannfærði einnig fleiri konur að stíga fram, sem kom Rachael á óvart.
„Ég vissi hve margar konur Larry hafði brotið á. Hvort einhver af þeim myndi þora að stíga fram var alltaf óvissa,“ sagði Rachael.
Í þessu viðamikla máli hefur ekki aðeins óeðli læknisins verið afhjúpað heldur einnig þöggun innan fimleikastéttarinnar um hegðun hans. Eftir að Larry var dæmdur í fangelsi létu þrír stjórnarmenn bandaríska fimleikasambandsins af störfum, þau Paul Parilla, formaður fimleikasambandsins, Jay Binder, varaformaðurinn og Bitsy Kelley, gjaldkerinn. Þá hefur John Geddert, þjálfara fimleikalandsliðsins á Ólympíuleikunum í Lundúnum 2012 og nánum samstarfsmanni læknisins, verið vikið frá störfum á meðan hann er rannsakaður. Svo var það Lou Anna Simon, rektor Michigan State-háskólans sem sagði af sér nokkrum klukkutímum eftir að læknirinn var dæmdur í fangelsi, en Larry starfaði við háskólann frá 1997 til 2016. Lou Anna hefur alfarið neitað því að hafa vitað af misnotkuninni.
Ljóst er að þetta mál er hvergi nærri búið þó að læknirinn sé kominn á bak við lás og slá. Rachael er meðal fjölmargra íþróttamanna sem hafa kært Michigan State-háskólann, fimleikasambandið og Twistars, æfingastöð sem beindi íþróttamönnum til Larry í meðferð. Íþróttafólkið heldur því fram að þjálfarar, lögregluyfirvöld, þjálfarar ráðnir af háskólanum og ráðgjafar hafi ekki rannsakað mál sem komu á borð til þeirra almennilega er varðaði hegðun læknisins. Þá hafa íþróttakonur á borð við Larissa Boyce og Tiffany Thomas-Lopez haldið því fram að þær hafi talað við þjálfara hjá Michigan State-háskólanum um Larry en að ekki hafi verið tekið mark á kvörtununum.
Fékk kraft í hvert sinn sem hann slapp
„Það gerðist ekkert þegar ásakanir höfðu verið settar fram,“ sagði saksóknarinn Angela Povilaitis í lokaræðu sinni áður en Larry var dæmdur í fangelsi. „Lygar hans virkuðu. Í hvert sinn sem hann slapp fékk hann kraft til að halda áfram, til að fullkomna aðferðir sínar og misnota fleiri.“
Hún þakkaði einnig rannsóknarblaðamönnum Indianapolis Star fyrir að hrinda þessu máli af stað.
„Án þessarar fyrstu greinar í Indianapolis Star í ágúst árið 2016, án greinarinnar þar sem Rachael steig fram opinberlega, þá væri hann enn að starfa sem læknir, að meðhöndla íþróttamenn og misnota börn,“ sagði hún og bætti við:
„Aðgerðarleysi er aðgerð. Þögn er skeytingarleysi. Réttlæti þarf aðgerð og rödd. Og það er það sem gerðist hér í réttarsalnum.“
Litlar stelpur verða sterkar konur sem eyðileggja heiminn þinn
Það verður forvitnilegt að sjá hvaða dilk þessi fangelsisdómur dregur á eftir sér, en við skulum líta á nokkrar af þeim tugi frásagna sem komu fram við réttarhöldin.
„Ég bar vitni til að láta heiminn vita að þú ert viðbjóðslegur lygari og að „meðferðir“ þínar voru dulbúið kynferðislegt ofbeldi. Þú hefur kannski áttað þig á því núna, en litlar stelpur eru ekki litlar að eilífu. Þær vaxa úr grasi og verðar sterkar konur sem snúa aftur til að eyðileggja heiminn þinn,“ sagði Kyle Stephens, fyrsta fórnarlambið sem talaði við réttarhöldin. Hún sagði að Larry hefði misnotaði sig frá 6 ára aldri og þar til hún varð 12 ára.
„Hann var læknirinn. Ég var barnið. Ég hafði ekki hugmynd um hvað mér ætti að finnast um þetta. Í langan tíma tókstu frá mér hamingjuna. Í hvert sinn sem einhver kallar mig „Kiddo“ hugsa ég um andlitið þitt þegar þú varst að misnota mig,“ sagði Maddie Johnson.
„Ég veit sannleikann. Ég man, alveg sama hvort hann man hvað hann gerði mér eða ekki. Það er það sem skiptir máli. Þú vissir að það sem þú varst að gera var rangt. Það var ekki fyrr en þú varst gómaður að þú grátbaðst um fyrirgefningu,“ sagði Christine Harrison sem sagði Larry hafa misnotað sig þegar hún var 15 og 16 ára.
„Hann snerti saklausustu líkamsparta mína. Ég gat ekki verið venjuleg stelpa lengur og ég glataði stórum parti af barnæsku minni að eilífu vegna misnotkunar hans,“ sagði Jessica Thomashaw sem sagði lækninn hafa misnotað sig frá 9 til 12 ára aldurs.
Gina Nichols, móðir fimleikakonunnar Maggie Nichols, las frásögn dóttur sinnar í réttarsalnum. Hún sagði að það væri of sársaukafullt fyrir dóttur sína að gera það sjálf, en Maggie leitaði til læknisins þegar hún var 15 ára:
„Ég man að hann fór með mig inn í æfingaherbergi, lokaði hurðinni og dró fyrir glugga. Ég hugsaði þá að þetta væri pínulítið skrýtið en hélt að þetta hlyti að vera í lagi. Ég treysti því sem hann var að gera í fyrstu en síðan byrjaði hann að snerta mig á stöðum sem mér fannst ekki rétt af honum að snerta mig á. Hann var ekki með hanska og hann sagði mér ekki það sem hann var að gera. Það var enginn annar í herberginu og ég samþykkti það sem hann gerði því fullorðna fólkið sagði mér að hann væri besti læknirinn og gæti hjálpað við að lina sársauka minn.“
Tónlistarmaðurinn Justin Timberlake frumsýndi myndband við nýjasta lag sitt, Say Something, fyrir helgi. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að myndbandið var allt tekið í einu skoti, svokallað single shot video. Lagið er á væntanlegri plötu Justins, Man of the Woods, sem kemur út 2. febrúar næstkomandi.
Justin leitaði til La Blogothèque til verksins, en það er samvinnuverkefni ýmissa kvikmyndagerðarmanna með bækistöðvar í París. Fyrrnefndir kvikmyndagerðarmenn eru þekktastir fyrir tónlistarmyndbönd sem tekin eru í einu skoti, til að mynda Start a War með The National og Marry Me með St. Vincent. Hingað til hafði fyrirtækið tekið upp myndbönd fyrir listamenn á barmi heimsfrægðar en myndbandið við Say Something er dýrasta og metnaðarfyllsta verkefni La Blogothèque frá stofnun þess fyrir um áratug.
„Þetta hefði getað orðið algjör hörmung“
Í viðtali við tímaritið Esquire segir Arturo Perez Jr., leikstjóri Say Something, að margar vikur hafi farið í skipulagningu verkefnisins.
„Þetta hefði getað orðið algjör hörmung,“ segir hann og bætir við að Justin hafi lagt mikla áherslu á að vera einlægur í myndbandinu.
„Það er svo mikið í húfi oft þegar unnið er með svona vinsælum listamönnum. Og ég verð að hrósa honum fyrir það að hann vildi vera berskjaldaður.“
Gekk um eins og brjáluð manneskja
Arturo valdi að taka myndbandið upp í hinni frægu Bradbury-byggingu í Los Angeles, sem er hvað þekktust fyrir að leika stórt hlutverk í kvikmyndinni Blade Runner. Arturo stúderaði lagið Say Something og fannst byggingin passa við texta lagsins, eins konar völundarhús heilans. Undirbúningur fyrir tökur á myndbandinu tók tvær vikur.
„Ég gekk um Bradbury-bygginguna í tvo og hálfan dag – ég bara gekk um eins og brjáluð manneskja. Við gengum og gengum og töluðum um þetta,“ segir Arturo í viðtali við Esquire og bætir við að hann og teymið hans hafi ekki viljað að myndbandið yrði kynningarbrella fyrir tónlistarmanninn.
„Við fáum ekkert út úr því að skjóta myndband í einni töku. Við fáum eitthvað út úr því að búa til ljóð.“
Tónlistin tekin upp um leið
Á tökudegi unnu tvö hundruð manns við myndbandið, þar á meðal sautján tónlistarmenn og sextíu manna kór. Tónlistin var nefnilega tekin upp á staðnum þannig að þetta er í raun meira en bara myndband sem tekið er í einni töku. Þetta er líka lag sem hljóðritað er í einni töku. Æfingar hófust klukkan ellefu um morguninn en tökuliðið hafði aðeins tíu mínútur til að taka upp myndbandið til að ná djúpbláum lit næturhiminsins í gegnum glugga Bradbury-byggingarinnar. Og það tókst.
„Ég er ekki að grínast þegar ég segi að þetta er fyrsta og eina takan okkar að kvöldi til. Þetta er Justin Timberlake, fjandakornið. Gaurinn er fagmaður. Og Chris Stapleton var svo góður. Ég veit ekki hvort hann vissi nákvæmlega hvað var á seyði en hann er listamaður og bara gerði þetta,“ segir Arturo og vísar í bandaríska tónlistarmanninn Chris Stapleton sem flytur lagið með Justin.
Útkoman er vægast sagt áhrifamikil en það er oft sagt að tónlistarmyndbönd, atriði, stuttmyndir eða myndir í fullri lengd séu eins konar manndómsvígsla fyrir kvikmyndagerðarmenn. Það er mikil kúnst að taka upp á þennan hátt og er það viss gæðastimpill fyrir kvikmyndagerðarmanninn ef vel tekst til.
Nokkrar myndir í fullri lengd hafa verið teknar í einni töku, til dæmis Timecode frá árinu 2000, Russian Ark frá árinu 2002, PVC-1 frá árinu 2007 og Victoria frá árinu 2015. Þá vildi goðsagnakenndi leikstjórinn Alfred Hitchcock láta virðast sem kvikmyndin Rope frá árinu 1948 væri tekin í einni töku. Hins vegar voru myndavélar á þeim tíma ekki nógu fullkomnar til að taka upp í svo langan tíma. Hver myndavél gat einungis tekið upp 1000 fet á 35 millimetra filmu í einu, eða í um það bil tíu mínútur. Öll myndin var því tekin upp í ellefu skotum.
Ofurfyrirsætan Miranda Kerr, sem er hvað þekktust fyrir að vera engill nærfatarisans Victoria’s Secret, stjórnar vikulegum þáttum á myndbandarás tímaritsins Harper’s Bazaar sem heita Little Black Book of Wellness. Í þáttunum fáum við innsýn í líf ofurfyrirsætunnar og sjáum hvernig hún heldur sér í góðu jafnvægi, bæði andlega og líkamlega.
Í nýjasta þættinum talar Miranda mikið um kosti þess að stunda kundalini jóga, en það er nánast eina hreyfingin sem hún stundar.
Þá fer Miranda líka í matvöruverslun og sýnir áhorfendum hvað hún lætur ofan í sig. Það kemur líklegast ekki á óvart að Miranda er lítið í ruslfæði og skyndibita og velur frekar að versla sér ferskt grænmeti og ávexti. Hún elskar lárperu og greipaldin og leggur mikið upp úr því að versla sér mat sem er lífrænn.
Þegar kemur að eggjum og kjúlkingi kaupir hún eingöngu afurðir af hænum í lausagöngu.
Eins og áhorfendur fá að sjá og heyra í meðfylgjandi þætti á Miranda von á barni með milljarðamæringnum Evan Spiegel, meðstofnanda Snapchat. Evan og Miranda trúlofuðu sig í júlí árið 2016 og giftu sig í maí ári síðar. Það var svo í nóvember í fyrra að þau tilkynntu að þau ættu von á sínu fyrsta barni saman.
Fyrir á Miranda soninn Flynn Cristopher Blanchard Copeland Bloom með leikaranum Orlando Bloom, en snáðinn kom í heiminn þann 6. janúar árið 2011. Miranda og Orlando byrjuðu saman seint á árinu 2007 og gengu í það heilaga árið 2012. Þau skildu þremur árum síðar.
Leikarinn Heath Ledger fannst látinn í íbúð sinni á Manhattan í New York þann 22. janúar árið 2008, aðeins 28 ára að aldri. Allir fjölmiðlar fylltust af fréttum af andláti hans, en hann lést úr of stórum skammti af lyfseðilsskyldum lyfjum.
Heimurinn stóð á öndinni, sérstaklega í ljósi þess að aðeins nokkrir mánuðir voru í frumsýningu myndar sem myndi gjörbreyta hans ferli; The Dark Kinght. Heath fór með hlutverk Jókerins, persónu sem flestir höfðu tengt við Jack Nicholson síðan hann túlkaði þennan skrautlega karakter í Batman árið 1989. Heath hins vegar gerði persónuna algjörlega að sinni, og svo fór að hann hlaut Óskarsverðlaun fyrir frammistöðu sína á Óskarsverðlaununum árið 2009. Með því varð hann önnur manneskjan til að vinna Óskarinn eftir andlát, en sá fyrsti var leikarinn Peter Finch sem vann fyrir frammistöðu sína í Network árið 1976.
Ómögulegt er að segja hvaða stefnu ferill geðþekka, ástralska leikarans hefði tekið ef hann væri á lífi í dag en ljóst er að hann skipar sér í raðir goðsagna á borð við Marilyn Monroe, Bruce Lee og James Dean, listamanna sem yfirgáfu þetta jarðneska líf alltof snemma.
Óttalaus í hlutverkavali
Heath virtist vera óttalaus í vali sínu á verkefnum. Hann sló í gegn í Hollywood í kvikmyndinni 10 Things I Hate About You árið 1999, aðeins tvítugur að aldri. Þá strax var ljóst að stjarna var fædd þar sem hann bjó ekki aðeins yfir gífurlegum sjarma á hvítu tjaldinu heldur sýndi einnig að hann bjó yfir hæfileika til að túlka trúverðugar manneskjur sem náðu til áhorfenda.
Meðal annarra mynda sem hann stal senunni í voru The Patriot, Monsters Ball og Knight’s Tale. Árið 2005 urðu síðan þáttaskil á hans ferli þegar hann tók að sér hlutverk Ennis Del Mar í kvikmynd Ang Lee, Brokeback Mountain. Er það mat manna að þetta hafi verið ansi djarft val hjá Heath eftir aðeins sex ár í Hollywood-bransanum. Þó að myndin hafi fengið einróma lof gagnrýnenda þá vakti hún hins vegar upp mikla fordóma í mörgum áhorfendum og var af einhverjum kölluð myndin um samkynhneigðu kúrekana. Heath og meðleikarar hans, Jake Gyllenhaal og Michelle Williams voru rómuð fyrir leik sinn og fékk Heath til að mynda tilnefningu til Óskarsverðlaunanna sem besti leikari í aðalhlutverki.
Þetta hlutverk Heath varð hins vegar til þess að ekki voru allir á eitt sáttir þegar tilkynnt var að hann myndi túlka Jókerinn í The Dark Knight. Warner Bros-kvikmyndaverið fékk á sig mikla árás og dundu haturspóstarnir og hatursfull orðræða um samkynhneigða yfir kvikmyndaverið þegar ljóst var um ráðningu Heath.
Matilda og Michelle
Það má líka segja að hlutverkið í Brokeback Mountain hafi verið mikil blessun fyrir leikarann sáluga því það var á setti þeirrar myndar sem hann kynntist leikkonunni Michelle Williams. Þau byrjuðu í framhaldinu saman og í október árið 2005 eignuðust þau dótturina Matilda Rose. Árið 2007 hættu þau saman en í nýlegu viðtali við tímaritið Porter sagðist Michelle enn eiga erfitt með að sætta sig við andlát Heaths.
„Í hreinskilni sagt, í nánast hvaða kringumstæðum sem er, trúi ég að maður þurfi að sætta sig við hver maður er og hvar maður hefur verið. Í nánast öllum kringumstæðum nema einum; ég get ekki hugsað svona þegar ég hugsa um að Matilda eigi ekki föður. Það er bara eitthvað sem verður aldrei réttlátt.“
Heath Ledger átti alltaf erfitt með að vera í sviðsljósinu, sem útskýrir af hverju hann hafnaði stórum hlutverkum eins og í Spider-Man árið 2002, en þá er einungis hægt að ímynda sér hvaða hlutverk hann hefði tekið að sér til dagsins í dag. Ljóst er að leikarinn setti sitt varanlega mark á kvikmyndaheiminn og lifir enn í hjörtum aðdáenda sinna um heim allan.
„Mismunandi andlitslag fólks er oft það sem veitir mér innblástur, einnig svipbrigði og skuggar. Það er mismunandi hvaða ljósmynd heillar mig hverju sinni,“ segir Anita Ástrós Pétursdóttir. Anita er 23ja ára og útskrifuð af myndlistarbraut frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.
Anita hefur vakið eftirtekt fyrir myndir sem hún teiknar af þekktum tónlistarmönnum, þar á meðal Rihönnu, Tupac, Bob Marley og Ariönu Grande. Hún segir teikningaráhugann hafa kviknað mjög snemma.
„Ég hef verið að teikna síðan ég var lítil en ég fékk fyrst áhuga á tölvuteikningu síðasta árið mitt í Fjölbraut í Breiðholti út frá áfanga þar sem kennt er á Adobe-forritin, Photoshop, Illustrator og InDesign. Ég fiktaði svo aðeins við að teikna meir í tölvu eftir það en ekkert af alvöru fyrr en um mitt síðasta ár. Þá byrjaði ég að prófa mig áfram við að teikna á iPad í forriti sem heitir Procreate og hef verið að nota það mikið síðan,“ segir Anita.
Skemmtilegast að teikna portrettmyndir
Þó að fari mest fyrir teikningum af heimsfrægu fólki segir Anita að hún teikni líka önnur viðfangsefni, allt eftir því hvað fangar hana hverju sinni.
„Ég byrjaði á að teikna fólk sem veitir mér innblástur á einhvern hátt og heillar mig. Oft sé ég líka myndir af þessu fólki sem mér finnst fallegar og langar til að teikna. Ég er alveg líka að teikna öðruvísi myndir, eins og tískuskissur og -teikningar til dæmis, en mér finnst skemmtilegast að teikna portrettmyndir. Og þar sem frægt fólk er alls staðar á netinu er auðvelt að detta í það að teikna þau.“
Anita teiknar líka eftir pöntun og hefur fengið góð viðbrögð við listaverkunum sínum.
„Ég hef verið að taka að mér nokkur verkefni og finnst mér mjög gaman að fá pantanir frá áhugasömu fólki. Ég er tiltölulega nýbyrjuð að setja inn myndir eftir mig á samfélagsmiðla en hingað til hef ég fengið jákvæð viðbrögð. Það veitir mér líka innblástur að fólki líki við það sem ég er að gera,“ segir Anita.
Ætlar að auka við kunnáttuna
Hún stefnir á meira nám í hönnun en hefur frá útskrift úr Fjölbraut í Breiðholti varið tímanum í að átta sig á hvaða stefnu hún ætlar að taka í lífinu.
„Eftir að ég útskrifaðist hef ég verið að vinna og ferðast einna helst og reyna að finna betur út úr því hvaða háskólanám mun henta mér best, en ég stefni líklegast á grafíska hönnun eða tískuhönnun á næstunni, nám þar sem ég get haldið áfram að auka við kunnáttu mína.“
Þeir sem vilja fylgjast með Anitu er bent á Instagram– og Facebook-síður hennar.
Sex lög keppa í fyrra undankeppni Söngvakeppninnar þann 10. febrúar næstkomandi í Háskólabíó og freista þess að komast í úrslitakeppnina þann 3. mars, og jafnvel alla leið í aðalkeppni Eurovision í Lissabon í maí.
Við ákváðum að kynnast flytjendunum sem stíga á stokk þetta fyrra undanúrslitakvöld og spyrja þá spjörunum úr áður en Eurovision-tryllingurinn heltekur þá alveg.
Fékk martraðir um finnsku sveitina Lordie
Ari Ólafsson flytur lagið Heim, sem heitir á ensku Our Choice, og er samið af Þórunni Ernu Clausen. Hann hefur alltaf verið mikill aðdáandi Eurovision og finnst að íslenska þjóðin eigi að fylgja hjartanu þegar hún kýs sín eftirlætislög.
Af hverju Eurovision?
Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Eurovision og ég fékk flott tækifæri með lag sem mér þótti afskaplega fallegt, svo ég kýldi á það!
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?
Lagið er um þennan valmöguleika sem við höfum öll; að hjálpa til og að borga áfram með jákvæðni og samúð, i stað þess að dæma, gagnrýna og meiða.
Hvernig var tilfinningin þegar þú komst að því að lagið væri komið í undanúrslit?
Mjög góð. Ég varð mjög spenntur mjög hratt þegar ég fattaði: Já… djók! Ég er að fara að keppa!
Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?
Hard Rock Hallelujah með Lordie. Ég man það þvi ég var svo sjúklega hræddur við þá að ég fékk martraðir um þá.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Fairytale með Alexander Rybak. Það lag var bara svo sjúklega fallegt og flott á sviðinu. Ég mun aldrei gleyma þvi atriði.
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa þig?
Mér finnst að fólk eiga alltaf að fylgja hjartanu sínu og ef þeim finnst lagið vera fallegt og ég syngja það vel þá ætti það að kjósa mig.
Er líf eftir Eurovision?
Já að sjálfsögðu. Lífið heldur alltaf áfram.
Hrópuðu af gleði í hópsímtali
Fókus hópurinn, sem skipar þau Sigurjón Örn Böðvarsson, Rósu Björg Ómarsdóttur, Hrafnhildi Ýr Víglundsdóttur, Karitas Hörpu Davíðsdóttur og Eirík Þór Hafdal, flytur taktfasta popplagið Aldrei gefast upp, eða Battleline. Þrettán ár eru á milli elsta og yngsta flytjandans og lofa litríku atriði á stóra sviðinu.
Af hverju Eurovision?
Langþráður draumur flestra í hópnum og einn stærsti stökkpallur tónlistarfólks á Íslandi og þótt víðar væri leitað
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?
Fyrir okkur er lagið um að fylgja draumum sínum og ástríðum og gefast ekki upp á þeim og sjálfum sér, en lagið má túlka á fleiri en einn veg.
Hvernig var tilfinningin þegar þið komust að því að lagið væri komið í undanúrslit?
Ofboðslega glöð og spennt, við hringdumst á og skiptumst á að hrópa af gleði og enduðum í einu stóru hópsímtali þar sem við vorum stödd á mismunandi stöðum í heiminum.
Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?
Þar sem það eru 13 ár milli yngsta og elsta í hópnum eru minningar okkar mismunandi, allt frá Söndru Kim til Selmu Björns. Sandra var í eftirminnilegum bleikum jakkafötum, eins yngsti keppandi sem hafði keppt og Selma var bara svo gaddem gordjöss.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Við fórum strax að rífast um það og því ómögulegt að segja um hvert uppáhaldslag hópsins er, en við erum sammála um að þau eru fáránlega mörg.
Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?
Já, það gæti brugðið fyrir nekt, eld, sirkusdýrum og/eða konfetti. Mikilvægt að horfa! Rósa verður einnig í einangrunarplasti þar sem í fyrra gleypti hún konfetti og allar líkur á að hún slasi sig í beinni.
Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?
Það er ómögulegt að segja, líkur eru á því að við myndum mennskan pýramída og Sigurjón fari úr fötunum en að öllu gríni slepptu munum við, alveg ekki spurning, brjótast út í einhverri óstjórnlegri hysterískri gleði.
En ef þið tapið?
Er hægt að tapa? Sigurinn var að komast inn í keppnina, allt annað er bónus.
Breytir tárum í stjörnur
Söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir er Íslendingum kunn, en hún syngur lagið Ég mun skína, eða Shine, sem hún samdi ásamt Agnari Friðbertssyni. Þórunn varð lífshættulega veik þegar hún fæddi dóttur sína fyrir nokkrum árum, en hún finnur enn fyrir slæmum áhrifum veikindanna. Texti lagsins fæddist eitt kvöldið þegar henni leið illa og táknar hann von um betri líðan.
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?
Ég samdi textann bæði á ensku og íslensku um persónulega reynslu og viljann og vonina að komast upp úr erfiðleikum. Ég varð lífshættulega lasin þegar ég fæddi dóttur mína fyrir nokkrum árum og ónæmiskerfið mitt hefur ekki alveg hlýtt mér síðan. Ég hef verið lasin og þreyttari en áður og það dregur mig oft niður, en eitt kvöldið kom þessi texti út frá von um betri líðan. Ég notaði tunglið og stjörnurnar sem einskonar myndlíkinu fyrir þessar tilfinningar. Að breyta tárum í stjörnur og að skína þrátt fyrir allt. Við dílum öll við allskonar rugl en vonin og gleðin má ekki slökkna.
Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?
Nei eða Já? með Stjórninni. Ég lifði fyrir Siggu og Grétar sem barn – þau voru langflottustu.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Euphoria, af því að það er bara tryllt lag.
Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi þínum í beinni útsendingu?
Já svo sannarlega. Ég segi ekki meir.
Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?
Það held ég að sé ansi hæpið en það varpar hinsvegar ljósi á listamenn og það eykur líkur á giggum og tækifærum til að græða peninga. Peningar eru líka yfirleitt það síðasta sem listamenn hugsa um en það fyrsta sem þá vantar. Allir halda að listamenn eigi peninga, sérstaklega ef þeir eru þekktir, og oft er verið að biðja fólk um að koma ókeypis fram því það er svo “góð kynning”. Þetta er vinna eins og öll önnur en svo snýst ekki allt um peninga. Ef maður fer saddur að sofa og á í sig og á er það flott. Mér finnst til dæmis tími með dóttur minni dýrmætari en allir peningar.
Er líf eftir Eurovision?
Það ætla ég rétt að vona, nema ég drepist á sviðinu..sem væri nú ansi dívulegur dauðdagi.
Pössum okkur að festast ekki í snjallskjánum
Nýliðarnir Þórir Geir Guðmundsson og Gyða Margrét Kristjánsdóttir syngja dúettinn Brosa, eða With You, sem samið er af Fannari Frey Magnússyni og Guðmundi Þórarinssyni, sem eiga reyndar líka lag í seinni undankeppninni. Sterkasta Eurovision-minning þeirra beggja er af hinni einu, sönnu Silvíu Nótt.
Af hverju Eurovision?
Af hverju ekki?
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?
Okkur finnst lagið tilheyra okkar kynslóð svo vel. Það er að segja sérstaklega íslenski textinn þar sem hann fjallar um þær hugsanir sem fara í gegnum kollinn á manni þegar maður skoðar samfélagsmiðla nútímans, þar sem fólki hættir til að bera sig saman við aðra. Og sá boðskapur að við megum ekki gleyma því að hugsa um allt það sem er í kringum okkur og fólkið sem er í kringum okkur; passa sig að festast ekki í skjánum.
Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?
Við erum sammála um það að fyrsta og sterkasta minningin sé Silvía Nótt – Til hamingju Ísland. Það er mjög minnisstætt vegna þess hversu öðruvísi það var. Við vorum líka á þeim aldri þar sem maður tók öskudaginn á þetta. Öll umfjöllunin í kringum lagið, atriðið sjálft og karakterinn Silvía Nótt.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
Sko, uppáhaldslagið hans Þóris er Open Your Heart – Birgitta eða Gleðibankinn. Uppáhaldslag Gyðu er hinsvegar Verka Serduchka – Dancing Lasha Tumbai.
Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?
Já, ætli atriðið muni ekki koma örlítið á óvart. Kannski ekki, en það verður að minnsta kosti alveg geggjað!
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?
Ef fólk fílar lagið, ekki hika við að kjósa það. Við myndum kunna sjúkt mikið að meta það! Það er ómetanlegur stuðningur. En við ætlum fyrst og fremst að hafa gaman að þessu og vonum að allir sem horfa munu gera það líka. Við segjum: Ef þið eruð brosandi í lok lags = kjósið’a.
Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?
Ríkur af nýjum vinum, nýrri reynslu og geggjuðum minningum já. Moldríkur.
Er líf eftir Eurovision?
Hvurslags spurning, auðvitað! Heillangt og geggjað líf framundan og í þokkabót er maður reynslunni ríkari.
Grét í fyrsta sinn yfir Eurovision í fyrra
Sólborg Guðbrandsdóttir syngur lagið Ég og Þú, eða Think It Through, með Tómasi Helga Wehmeier. Þau sömu lagið og enska textann ásamt Rob Price en Davíð Guðbrandsson á heiðurinn af íslenska textanum. Hún segist ganga sátt frá borði, sama hvort þau komist áfram eður ei.
Af hverju Eurovision?
Eurovision er mikil áskorun og við Tómas höfum gaman af þeim. Við ákváðum bara að kýla á þetta og sendum lag í keppnina án þess að búast endilega við því að komast í gegn. Söngvakeppnin hérna heima er ótrúlega fagleg, hún nýtur mikilla vinsælda og er bara ógeðslega skemmtileg. Við erum mjög þakklát fyrir það að hafa fengið þetta tækifæri.
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?
Þetta lag er ólíkt þeirri tónlist sem við Tómas erum vön að syngja. Við sömdum það ásamt Rob, vini okkar, í London í ágúst síðastliðnum og ég held að þetta lag muni alltaf minna okkur á þá ævintýraferð. Textinn í laginu minnir mann á það að þetta verði allt saman allt í lagi á endanum, sama hvað. „Trúum að við verðum, hvað sem verður, ég og þú.“
Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?
Ætli það sé ekki „All out of luck“ með Selmu Björns. Það er einhvern veginn alltaf fyrsta lagið sem ég hugsa um þegar ég heyri minnst á Eurovision. Ég var líka svo heppin að fá að syngja það í annarri undankeppninni árið 2013 með hljómsveit sem ég var í þá, White Signal. Það er eitthvað sem ég gleymi seint.
En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?
„Amar Pelos Dois“ með Salvador Sobral sem sigraði í fyrra, það er eina skiptið sem ég hef grátið yfir Eurovision. Mitt uppáhalds íslenska lag er „Ég á líf“.
Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?
Ég veit það ekki, ætli við yrðum ekki lengi að átta okkur á því. Við höfum þó reynt að taka eitt skref í einu frá því þetta byrjaði allt saman. Við ætlum bara að njóta þess að syngja fyrir þjóðina í undanúrslitunum og hafa gaman, ef við komumst svo áfram í úrslitin er það bara algjör bónus.
En ef þið tapið?
Þá munum við ganga sátt frá borði. Þetta ferli er búið að vera algjört ævintýri og við erum búin að kynnast helling af dásamlegu fólki, maður getur ekki kvartað yfir því.
Er líf eftir Eurovision?
Eftir Eurovision er lífið rétt að byrja.
Eiga erindi í Eurovision
Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Vigdís Gunnarsdóttir skipa sveitina Heimilistóna sem hefur verið starfrækt um árabil. Þær segja lagið fjalla um það hversdagslega, sem er þó jafnframt afar mikilvægt, nefnilega vináttuna í öllum sínum myndum.
Af hverju Eurovision?
Eurovision er eins og hannað fyrir Heimilistóna. Við elskum litina og gleðina kringum þessa keppni og síðast en ekki síst hvað hún höfðar til breiðs aldurs.
Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?
Kveikir í gleðinni og fjallar um það hversdagslega en þó mikilvæga; vináttuna með öllum sínum kostum og göllum
Hvernig var tilfinningin þegar þið komust að því að lagið væri komið í undanúrslitk?
Eftirvænting og mikil gleði. Sú okkar sem fékk símtalið brunaði af stað á bílnum og færði fréttirnar.
Má búast við að eitthvað komi á óvart í ykkar flutningi?
Tjaaa, það hefur ekki verið ákveðið, ekki enn sem komið er. Hver veit?
Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?
Ef fólk kann að meta lagið og kýs okkur út þá lofum við að standa okkur með sóma og gera okkar besta. Við eigum erindi
En ef þið tapið?
Þá er bara að brosa gegnum tárin og svo höldum við áfram okkar góða samstarfi
Verður einhver ríkur af að taka þátt í Eurovision?
Kannski ekki í veraldlegum skilningi en þetta gefur heilmikla gleði
Er líf eftir Eurovision?
Já, það er líf eftir Eurovision og af nægu að taka í vinnu og leik hjá okkur Heimilistónum.
Skíðaiðkun er ein heilnæmasta íþrótt sem hægt er að stunda. Á Íslandi er að finna góð svæði til að renna sér á skíðum en hvert skyldi eiginlega vera gott að fara ef til stendur að skíða úti í heimi?
Ef planið er að fara í ferð með fólki með mismikla reynslu á skíðum þá gæti Chamonix í Frakklandi verið málið. Á staðnum eru tólf skíðabrautir, miserfiðar þannig að hver og einn ætti að geta fundið braut við hæfi. Þarna eru sumar af bestum skíðabrekkum Evrópu, fínar brekkur fyrir börn og góðir skíðakennarar. Fyrir utan einstaklega fallegt útsýni úr þorpinu sem er ástæða þess að fólk flykkist þangað.
Madonna á Ítalíu hentar líka bæði byrjendum og þeim sem eru lengra komnir. Svæðið er vel skipulagt og kláfarnir flytja skíðaiðkendur hratt og örugglega upp í brekkurnar. Brautirnar eru fyrsta flokks og hefur svæðið hlotið sérstök verðlaun fyrir gott viðhald á þeim. Fjöldi veitingastaða og verslana er á svæðinu.
Er verið að skipuleggja skíðaferðalag fyrir fjölskylduna? Þá er Neustift í Austurríki mögulega staðurinn því þar er slatti af brekkum til að æfa sig í og fjöldi skíðalyfta. Neustift er líka vinsæll staður til snjó-brettaiðkunar, bæði á meðal byrjenda og þeirra sem lengra eru komnir. Svæðið er opið allt árið um kring.
Kandersteg í Sviss er einn besti staðurinn til að læra á skíði og brekkurnar þar í kring frábærar fyrir byrjendur. Brautirnar henta öllum og eru auðveldar, skemmtilegar og það breiðar að maður getur spreytt sig á alls konar tækjum á leiðinni niður án þess að þvælast fyrir öðrum. Staðurinn er líka vinsæll meðal áhugafólks um fjallaklifur og þeirra sem sækjast eftir rólegheitum í fallegu umhverfi.
Madonna á Ítalíu hentar líka bæði byrjendum og þeim sem eru lengra komnir. Brautirnar eru fyrsta flokks og hefur svæðið hlotið sérstök verðlaun fyrir gott viðhald á þeim.
Reyndir skíðamenn og adrenalínfíklar ættu kannski að beina sjónum sínum að í Igls Austurríki, því þar er hægt að bruna niður brekkur sem keppt var í á Ólympíuleikunum árið 1964 og svo aftur árið 1976. Nokkur af bestu skíðasvæðum Austurríkis eru umhverfis þorpið auk þess sem alls konar afþreying er í boði, til dæmis söfn sem gæti verið gaman að heimsækja og svo eru ýmsar uppákomur allt árið um kring.
Dirty John er mögnuð sex þátta hlaðvarpssería um óhugnalegt morðmál í Orange County i Bandarík-junum. Hönnuðurinn Debra Newell kynnist hinum heillandi John Meehan í gegnum stefnumótasíðu og fellur fyrir honum þrátt fyrir aðvaranir ástvina sem finnst eitthvað bogið við kauða. Það er ekki fyrr en hana fer sjálfa að gruna að John sé ekki allur þar sem hann er séður sem renna á hana tvær grímur.
Í Ástandsbörnum skoðar fjölmiðlakonan Viktoría Hermannsdóttir hið svokallaða Ástand á hernámsárunum út frá sjónarhóli ástandsbarna, það er börnum íslenskra kvenna og útlendra hermanna. Þetta eru áhugaverðir og vandaðir þættir sem meðal annars svipta hulunni af erfiðum uppvaxtarárum þessara einstaklinga og fordómunum sem margir þurftu að þola vegna uppruna síns.
Terrible, thanks for asking er vandað og vægast sagt áhugavert fimm vasaklúta hlaðvarp þar sem stjórnandinn Nora McInerney fær gesti sína til að deila erfiðum lífsreynslusögum með hlustendum. Allt frá einlægum frásögnum um erfiða skilnaði yfir í tregafullar frásagnir um ástvinamissi. Þótt vissulega sé grátið er glettnin skammt undan og það á sinn þátt í aðdráttarafli Terrible, thanks for asking.
Í þættinum Í ljósi sögunnar eru málefni og atburðir líðandi stundar skoðuð í sögulegu samhengi. Saga Jerúsalem frá fornri tíð og fram að aldamótum 20. aldar, saga Johns F. Kennedy Bandaríkjaforsetja og saga Kim Jong-un einræðisherra í Norður-Kóreu er á meðal ólíkra viðfangsefna en umsjón er í höndum Veru Illugadóttir, sem fjallar um málin af svo mikilli kunnáttu og innsæi að unun er að hlýða á.