Fimmtudagur 26. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Aldagömul aðferð gegn öldrun húðar

Andlitsnudd má nota til að vinna gegn öldrun húðar.

Það er fátt sem veitir jafnmikla afslöppun og vellíðan og gott nudd. Flestir þekkja það sem leið til að losa um spennu og bólgur í vöðvum líkamans en færri gera sér grein fyrir að það má einnig nýta til að sporna gegn öldrun húðar.

Eftir því sem við eldumst lætur húðin meira og meira á sjá; vefirnir slappast, andlitið missir fyllingu og hrukkur myndast. Við höfum áður fjallað um hvernig sé mögulegt að hægja á þessu ferli með réttri húðumhirðu en einnig  má ná töluverðum árangri með því einu að nudda andlitið reglulega.

Andlitsnudd eykur blóðflæði til húðar sem eykur ljóma og þéttni hennar ásamt því að byggja upp vöðvana sem spornar gegn því að hún slappist niður.

Til eru ýmsar aðferðir við andlitsnudd og sumar þeirra hafa tíðkast í margar aldir,  til dæmis er talið að Kleópatra hafi nuddað andlit sitt til að viðhalda fegurð sinni. Á 19. öld notuðu svo geishurnar í Japan svokallað shiatsu-nudd, eða punktanudd. Þá eru fingurgómarnir notaðir til að þrýsta létt á valda punkta á andlitinu sem hjálpar sogæðakerfinu að losa um stíflur og úrgangsefni sem hafa safnast fyrir í húðinni.

Andlitsnudd eykur blóðflæði til húðar sem eykur ljóma og þéttni hennar ásamt því að byggja upp vöðvana sem spornar gegn því að hún slappist niður. Eftir eingöngu nokkra daga af endurteknu nuddi er hægt að sjá mikinn mun; vöðvarnir eru slakir svo ásýndin verður afslappaðri og unglegri og húðin glóir vegna aukins blóðflæðis og næringar.

Lykillinn að góðu andlitsnuddi er að nota andlitsolíu en einnig má nota  olíuhreinsi til að koma í veg fyrir að húðin dragist til en það eykur líka upptöku virku efnanna í olíunni því þeim er nuddað svo vel inn í húðina.

Andlitsnudd lífgar ekki aðeins upp húðina heldur hefur það einnig slakandi og endurnærandi áhrif á líkama og sál. Við notum andlit okkar og vöðva þess mun meira dagsdaglega en við gerum okkur grein fyrir. Því er algengt að fólk finni fyrir ýmsum streitutengdum einkennum, til dæmis spennuhöfuðverk eða augnþreytu sem má losa um með nuddinu.

Einfalt punktanudd fyrir andlit

1. Gott er að byrja með léttum en þéttum strokum upp á við og til hliðar, yfir bæði kinnar og enni, til að undirbúa húðina. Síðan eru fingurgómar löngutangar notaðir til að þrýsta á punkta á andlitinu.
2. Þrýst er á milli augabrúna og svo á þrjá punkta upp enni að hársrót. Því næst á miðjar augabrúnir og svo aftur þrjá punkta upp enni að hársrót. Sama aðferð er svo einnig endurtekin við enda augabrúna.
3. Næst er þrýst undir augun, frá nefi og á fjóra punkta að gagnauga. Endurtakið þrisvar sinnum.
4. Síðan er þrýst á sex punkta með fram kinnbeinum þangað sem kjálki og kinnbein mætast. Endurtakið þrisvar sinnum.
5. Undir miðnesi er þrýst á fjóra punkta með fram efri vör að munnvikum. Endurtakið þrisvar sinnum.
6. Þrýst er undir miðja neðri.vör, með báðum fingrum, svo þrjá punta niður miðja höku og endurtekið þrisvar sinnum.
7. Að lokum má klípa létt í húðina með vísifingri og þumalfingri. Á enni er klipið með fram augabrún, um það bil fjögur klíp, og endurtekið þrisvar. Síðan er klipið frá miðri höku og með fram kjálka, um átta klíp að eyra.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Vagga indverskrar matarmenningar í Bretlandi

Í Birmingham er af nógu að taka fyrir þá sem vilja krydda aðeins tilveruna með framandi mat. Margt annað áhugavert er þar líka í boði.

Birmingham er önnur stærsta borg Bretlands, London er stærst. Borgin hefur verið í stöðugri endurnýjun undanfarna áratugi svo byggingarnar eru ýmist mjög gamlar eða ofur nýtískulegar. Í borginni býr um milljón manna og þar ríkir mikið fjölmenningarsamfélag, sama hvað sagt er á FoxNews. Hún er mjög heppilega staðsett í miðju Englands, mitt á milli London og Manchester, svo það má segja að hún brúi bilið milli Norður- og Suður-Englands.

Í Birmingham er gaman að versla því þar er glæsileg verslunarmiðstöð sem nefnist The Bullring. Hún byggir á ríkri markaðshefð en það var fyrst árið 1154 sem markaðir voru haldnir á þessu svæði. Verslun og þjónusta hefur nú vitaskuld færst í nútímalegra horf og nýjasta byggingin líkist einna helst geimskipi og er merkileg á að líta, burtséð frá öllum verslunum sem þar leynast innandyra.

Allir vísindanördar ættu að gera sér ferð í Thinktank-vísindasafnið sem er að margra mati nútímalegasta vísindasafn heims. Þar eru tíu sýningarsalir sem eru stútfullir af fróðleik og skemmtun. Hægt er að fræðast um allt frá samgöngutækni að meltingarkerfi okkar og hvernig bragðlaukarnir virka.

Þeir sem vilja heldur skemmta sér úti í náttúrunni ættu að leggja leið sína í Cannock Chase- og Wyre-skóginn. Þar er að finna Go Ape sem er einn vinsælasti skógarskemmtigarðurinn í Bretlandi. Svífðu niður á milli trjáa á vír eða sveiflaðu þér um, eins og Tarzan, í þartilgerðum rólum. Þeir sem vilja heldur njóta náttúrunnar og umhverfisins í skóginum á rólegri máta geta ferðast um á Segway sem gerir þeim kleift að sjá meira á skemmri tíma en ef þeir væru fótgangandi.

Af nógu er að taka fyrir þá sem vilja krydda aðeins tilveruna með framandi mat en Birmingham er oft lýst sem vöggu indverskrar matarmenningar í Bretlandi. Þar er að finna eitt allrabesta úrval asískra og indverskra veitingastaða og það á sérstaklega við um hinn svokallaða Balti-þríhyrning, á mótum hverfanna Sparkbrook, Balsall Heath og Moseley. Balti er þunnur karríréttur upprunninn frá svæðinu í kringum Kasmír á landamærum Indlands og Pakistan og nafnið vísar til skálarinnar sem karríið er borið fram í.

Texti  / Hildur Friðriksdóttir

Íslenskar svefnrannsóknir á heimsmælikvarða

Erna Kristín

Margir þekkja það að fá ónógan svefn. Foreldrar ungbarna sem sofa illa á nóttunni, fólk sem starfar á óhefðbundnum tímum sólarhringsins og svo þeir sem eiga erfitt með að sofna á kvöldin. Jafnvel þeir sem hrökkva upp á nóttunni eða vakna fyrr á morgnanna en þeir hefðu ætlað sér. Einnig eru margir sem stytta svefn sinn, sérstaklega á virkum dögum vegna tímaskots. Þessu fylgir oft mikil vanlíðan, syfja og þreyta sem litar þá líðan fólks allan daginn.

Erna Sif Arnardóttir doktor í svefnrannsóknum segir þetta áhyggjuefni. „Flestir fullorðnir þurfa 7-8 tíma svefn til að líða vel þó sumir komast af með minni svefn eða aðrir þurfi lengri tíma. Margir freistast til að stytta svefninn í amstri dagsins og eru jafnvel að sofa einungis 5-6 tíma á virkum dögum en bæta sér það svo upp um helgar. Ég lýsi þessu oft sem jafngildi þess að borða óhollan mat í fimm daga og reyna svo að bæta það upp með salatáti í tvo daga, auðvitað betra að sofa alltaf of stutt en ekki hollt til lengri tíma.”

Reyndu að fara að sofa á svipuðum tíma og vakna á svipuðum tíma flesta daga, bæði á virkum dögum og um helgar. Þegar svefntíma er seinkað mikið um helgar, á fólk oft erfitt með að sofna á sunnudagskvöldum og fer þreytt og illa sofið inn í vinnuvikuna.

Prófaðu þig áfram með magn svefns sem þarft. Flestir þurfa 7-8 tíma en þetta er þó einstaklingsbundið, prófaðu að reyna að auka svefntíma kerfisbundið um 15 – 30 mínútur í einu og sjáðu hvort þú finnir fyrir bætri líðan.

Ef þú átt erfitt með svefn, að sofna á kvöldin, vaknar oft upp á nóttunni eða vaknar of snemma á morgnanna, skoðaðu svefnvenjur þínar. Best er þá að sleppa því að leggja sig í eftirmiðdaginn eða dotta yfir sjónvarpi því þetta getur haft neikvæð áhrif á nætursvefninn.

Slepptu öllu koffeini frá hádegi og sjáðu hvort svefninn batni við það. Gott að prófa slökun eða hugleiðsluæfingar til að hjálpa með svefninn.

Ef þú ert glaðvakandi um miðja nótt og hefur reynt slökun til að sofna er gott að fara fram úr rúminu, setjast og lesa frammi eða gera eitthvað sem fær þig til að hætta að hugsa um svefninn en er jafnframt slakandi. Þegar þú finnur aftur til syfju, þá geturðu farið aftur upp í rúm og reynt að sofna.

Prófaðu að sleppa snjallsímanum, spjaldtölvunni og sjónvarpinu síðustu klukkustundirnar fyrir svefn. Lestu frekar, farðu í bað eða annað slakandi. Þekkt er að tækjanotkun á kvöldin ýtir undir svefnleysi, sverfngæði versnar og og fólk er lengur að sofna. Einnig getur líkamsrækt seint um kvöld seinkað svefntíma.

Ítarlegt viðtal við Ernu má lesa í síðasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Minni diskar – minni skammtastærðir

Næringarfræðingurinn Christian Bitz hvetur fólk til að borða góðan og heilsusamlegan mat, án allra öfga, skyndilausna eða samviskubits.

Christian hefur hannað sérstakan borðbúnað sem er hugsaður og hannaður þannig að hann geri fólki auðveldara að stjórna skammtastærðunum og njóta matarins.

Christian Bitz er heilmikið til lista lagt, en hann er næringarfræðingur, metsölubókahöfundur, fyrirlesari og kemur reglulega fram í hinum ýmsu sjónvarpsþáttum í Danmörku. Hugmyndafræði hans byggir meðal annars á því að fólk lifi heilsusamlegu lífi og njóti þess að borða góðan og heilsusamlegan mat, án allra öfga, skyndilausna eða samviskubits. Hann hefur líka hannað sérstakan borðbúnað sem er hugsaður og hannaður þannig að hann geri fólki auðveldara að stjórna skammtastærðunum og njóta matarins.

Hvaðan kemur áhugi þinn á heilsu og mataræði?
Ég starfaði sem fyrirsæta víðsvegar um heiminn á tíunda áratugnum. Á þeim tíma þurfti ég að hugsa vel um eigin heilsu og áhugi minn jókst á því hvernig ég gæti náð hámarksárangri með réttu mataræði og hreyfingu. Í framhaldi af því ákvað ég að fara í nám og læra meira um það hvernig mataræði hefur í raun áhrif á líf okkar á hverjum degi.

Hverjir eru lykilþættir heilbrigðs lífstíls að þínu mati?
Fyrir það fyrsta þurfum við einfaldlega að byrja að njóta matarins aftur. Stundum einblínum við of mikið á megrun í stað matar. Síðan held ég að lykillinn að góðu mataræði og betri heilsu sé að borða rétt hlutfall kolvetna og próteins. Stærsta rannsókn sinnar tegundar, DIOGENES sem stendur fyrir Diet – Obesity – Genes, hefur sýnt fram á að besta hlutfallið sé 1:2 af kolvetnum og próteini.

Hvers vegna ákvaðstu að hanna borðbúnað?
Mitt markmið er að gera heiminn örlítið heilbrigðari. Með því að hanna minn eigin borðbúnað get ég verið við kvöldmatarborðið á hverju heimili. Allar kenningar mínar og uppskriftir geta notið stuðnings af réttum borðbúnaði og saman getur það leitt til heilbrigðara lífs.

Hver er hugmyndin eða innblásturinn á bak við borðbúnaðinn?
Grunnhugmyndin var að hanna kvöldmatardisk sem rúmar minna því allar rannsóknir sýna að minni diskar þýða minni skammtastærðir. Minni skammtastærðir þýða færri hitaeiningar og fólk er ekkert endilega líklegra til að fá sér aftur á diskinn.

Skiptir það máli að borðbúnaðurinn sé fallegur?
Ég vildi bæta auknum lit, óformlegheitum og ófullkomnun við matarborðið, þess vegna ákvað ég að nota hráan efnivið sem er innblásinn af norrænni náttúru. Ég tel að það að borða af fallegum diskum auki ánægjuna. Rannsóknir hafa líka sýnt að við skynjum mat á ólíkan hátt á svörtum, hvítum eða grænum diskum. Heilsusamlegur matur hefur líka lengi fengið á sig þann stimpil að hann sé óspennandi. Borðbúnaðurinn minn getur því kannski hleypt smávegis lífi í matseldina.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Úr einkasafni

Auktu hamingju þína með einföldum ráðum

Nokkur ráð til að auka hamingju sína.

Engin þörf er á því að verja stórfé eða snúa lífi sínu á hvolf til að hækka hamingjustigið hjá sér. Heilmargt er hægt að gera til að auka hamingju sína og hér eru nokkur ráð sem gott væri að tileinka sér.

Mikilvægi jákvæðra hugsana
Það er sérdeilis gott að venja sig á að hugsa jákvætt um sjálfan sig á hverjum degi, þó ekki væri nema í nokkrar sekúndur. Dást að nýju klippingunni fyrir framan spegilinn, þakka sér góðan árangur eða dugnað og annað í þeim dúr. Gott er líka að skrifa niður hugsanir sínar eins oft og hægt er og geyma þar sem aðrir sjá ekki, með því að koma þeim á blað nær maður samhengi hlutanna betur. Ekki hika við að deila góðum stundum með öðrum, til dæmis á Facebook eða snappinu.

Mikilvægi hvíldar
Hvíld er mikilvæg, ekki bara heima, heldur líka í vinnunni. Þegar mikið er að gera freistast maður til að fá sér snarl og borða það á meðan maður vinnur. Betra er að taka sér stutta pásu en enga og koma ferskari að verkefninu á eftir. Helgarfríum verja flestir í skemmtanir, ferðalög og annað slíkt en ekki má gleyma hvíldinni. Það tekur langan tíma að ná úr sér uppsafnaðri þreytu, svo verum ekkert að safna henni upp. Með því til dæmis að kíkja á tölvupóstinn sinn um leið og maður vaknar er maður sjálfkrafa kominn í vinnugírinn í stað þess að leyfa huganum að hvílast ögn lengur, eða þar til komið er til vinnu.

Litlar áskoranir
Finndu leið til að hrista upp í daglegri rútínu þinni til að hún festist ekki í fari. Lítil áskorun vikulega? Að brosa framan í einhvern ókunnugan sem gleður ekki bara viðkomandi, heldur einnig þig. Sjónvarps- eða símalaus dagur í algjörri ró. Eða klífa fjöll ef þú hefur ekki prófað það. Prófa nýjan kaffidrykk eða nýjan veitingastað. Allt til að breyta aðeins út af vananum.

Sniðugt er líka að gera alltaf eitthvað spennandi einn dag í viku. Það þarf ekki að vera stórt, kannski ilmandi freyðibað eða að byrja á nýrri bók, eitthvað sem þú getur hlakkað til alla vikuna. Föstudagar, í lok vinnuvikunnar hjá flestum, gætu verið hentugir.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Stundum er gott að sitja í sandinum og íhuga

Kristín Þorsteinsdóttir segir auðvelt að ferðast frá Singapúr um alla Asíu.

Kristín Þorsteinsdóttir hefur búið ásamt sambýlismanni og dóttur í Singapúr og er „stækkunarstjóri“ (e. Development Director) hjá alþjóðlegri hótelkeðju. Hún segir að helstu kostir staðarins séu gott skipulag, engir glæpir og þarna búi allra þjóða kvikindi í sátt og samlyndi sama hverrar þjóðar og trúar þeir eru. Aðalkosturinn sé þó hversu auðvelt sé að ferðast þaðan hingað og þangað um Asíu.

Vestur-Ástralía
Af öllum stöðum sem ég hef ferðast til síðan ég kom til Asíu held ég að þetta svæði sé í uppáhaldi. Borgin Perth í Ástralíu er ekki í nema rúmlega fjögurra tíma flugfjarlægð frá Singapúr. Þaðan er hægt að keyra með fram ströndinni að smábænum Margaret River sem er frægur fyrir víngerð og góðan mat. Svo er hægt að verja heilu dögunum við strendurnar þar sem enginn er yfirleitt sjáanlegur nema kannski háhyrningar að busla í flæðarmálinu. Ég er nú lítið fyrir að liggja í sólbaði en stundum er gott að sitja bara í sandinum og íhuga, eða horfa á brimbrettastrákana.

Balí, Indónesíu
Eyjan Balí er skammt frá okkur og þangað er vinsælt að fara yfir helgi til að hvíla sig í hinni loftkældu veröld verslunarmiðstöðvanna sem eru á hverju götuhorni í Singapúr. Indónesía er fjölmennasta ríki heims þar sem múhammeðstrú er iðkuð en Balí er eini staðurinn þar sem hindúar eru í meirihluta. Það setur sterkan svip á daglegt líf á eyjunni og skapar nokkuð sérstakt andrúmsloft sem mér finnst vera helsta aðdráttarafl Balí. Því miður er nokkur mengun við margar strendur á Balí og þær því ekki fýsilegur baðstaður. Þá er ráð að halda til bæjarins Ubud sem segja má að sé hið listræna hjarta Balí þar sem hægt er að stunda jóga og sötra lífrænan engifersafa. Já eða sleppa jóganu og fá sér bara bjór, eins og ég geri yfirleitt.

Kristín Þorsteinsdóttir hefur búið ásamt sambýlismanni og dóttur í Singapúr.

Japan
Ef tækifæri gefst einhvern tíma á lífsleiðinni til að fara til Japans þá ætti helst enginn að láta það úr greipum ganga. Japan var svo gott sem einangrað frá umheiminum í tvær og hálfa öld, allt til um 1850 og það útskýrir margt í menningu og háttum Japana þar sem ýmislegt kemur spánskt fyrir sjónir. Tókýó er við fyrstu sýn brjálæðisleg stórborg þar sem er auðvelt að týnast, enda engin furða því fæstar götur þar bera nöfn. En þegar betur að er gáð er borgin undarlega hljóðlát og íbúarnir ávallt boðnir og búnir að hjálpa týndum aðkomumönnum, jafnvel þótt enskukunnáttan hrökkvi skammt. Maturinn í Japan er líka kapítuli út af fyrir sig, kjúklinga-sashimi, fiskiaugu og japanskt majónes var meðal þess sem ég smakkaði í síðustu ferð og þótti gott.

Seoul í Kóreu
Kannski er ekki hægt að segja að þetta sé falleg borg enda var hún svo gott sem jöfnuð við jörðu í seinna stríðinu. Þó er búið að endurbyggja mikið af sögulegum byggingum og gaman að ganga um þar sem búddahof og ofurnýtískulegar skrifstofubyggingar standa hlið við hlið. Í Seoul er líka Gangnam-hverfið sem Psy nokkur gerði heimsfrægt í samnefndu lagi en þaðan koma margir af helstu tískustraumum í tónlist og klæðaburði sem ungt fólk í Asíu tileinkar sér. Lýtalæknar í Seoul þykja líka ansi lúnknir og eru dæmi um að dömur fái ekki að snúa til síns heima því þær líkjast ekki lengur myndinni í vegabréfinu eftir heimsókn til eins þeirra.

Sri Lanka
Eftir að borgarastríðinu lauk á þessari eyju við Indland hefur ferðamannastraumurinn aukist jafnt og þétt og skal engan undra því þetta er falleg eyja, íbúarnir indælir og margt að sjá og skoða. Þarna fórum við í safaríferð í Yala-þjóðgarðinum þar sem fíll stal nestinu, lærðum ýmislegt um tedrykkju (Sri Lanka er einn helsti teframleiðandi í heimi) og skoðuðum Tannhofið í borginni Kandí þar sem sagt er að tönn úr sjálfum Búddah sé varðveitt. Eyjan er heilagt vé meðal þeirra sem aðhyllast búddisma.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Útbúðu þig rétt fyrir útivistina

Góð ráð fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt á veturna.

Það er engin ástæða til þess að stunda ekki útivist á veturna, svo lengi sem maður útbýr sig rétt. Hér eru nokkur góð ráð fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt á veturna.

Vertu sýnilegur
Þegar dagurinn styttist neyðast margir til a fara út að hlaupa eða hjóla í rökkri. Þá er mjög mikilvægt að vera í fötum með endurskinsrákum. Best er að endurskinið sé á hand- og fótleggjum því það eru þeir hlutar líkamans sem eru á hreyfingu og grípa ljós frá bílum. Ef þú ert mikið fyrir að hlaupa í náttúrunni getur verið sniðugt að vera í litríkum eða áberandi klæðnaði að ofan ef svo óheppilega vill til að þú týnist eða villist, þá er auðveldara að koma auga á þig úr fjarlægð.

Ekki dúða þig um of
Það getur verið freistandi að klæðast öllum sínum hlýjustu fötum þegar veðrið er sem kaldast en það getur stundum haft þveröfug áhrif. Þú byrjar nefnilega að svitna sem gerir það að verkum að fötin verða rök og þá getur orðið mjög óþægilegt að hreyfa sig. Þér er einnig hættara á ofkælingu ef þú ert úti til lengri tíma. Þumalputtareglan er að klæða sig eins og það sé 5°heitara en það er í raun.

Ekki geyma símann í vasanum
Það er vissulega gáfulegt að taka símann ávallt með sér þegar þú stundar líkamsrækt utandyra.  Jafnvel þó ekkert alvarlegt gerist þá getur verið gott að geta hringt í einhvern til að ná í þig þegar þú ert örmagna 5 km frá heimili þínu. Á veturnar getur síminn hins vegar ofkólnað eða blotnað ef hann er geymdur í utanáliggjandi vasa. Reyndu að velja föt með vösum innan á eða vera með litla tösku sem þú getur verið með innanklæða.

Ekki þurrka skóna á ofni
Flestir hlaupaskór eru úr dýrum plastefnum eða leðri sem geta auðveldlega skemmst í of miklum hita. Besta ráðið til að þurrka gegnblauta skó er að troða dagblöðum inn í skónna sem draga í sig rakann – mundu bara að skipta dagblöðunum út eftir þörfum.

Strax úr fötunum
Margir gera þau mistök að fara að sinna einhverjum verkefnum um leið og þeir koma inn úr dyrunum – hvort sem það er kvöldmatargerð, sjónvarpsgláp eða tékka á tölvupósti. Þegar maður kemur inn úr kuldanum er fyrir öllu að fara strax úr rökum íþróttafötum, í volga sturtu og svo í þurr föt.

Smjúga inn fyrir húðina og snerta hjartað í manni

Ævintýri, ferðalög og eitthvað matarkyns.

My Grandmother Asked Me to Tell You She’s Sorry eftir Fredrik Backman er falleg saga af sambandi ömmu við barnabarn sitt.

Smámyndasmiðurinn eftir Jessie Burton
Þetta er ein þessara bóka sem smjúga inn fyrir húðina og snerta hjartað í manni. Þegar hin sextán ára gamla Nella kemur til Amsterdam til að hefja nýtt líf sem gift kona eru móttökurnar ekki í neinu samræmi við það sem hún bjóst við. Eitthvað er á seyði í húsinu sem hún skilur ekki og það er erfitt að taka stjórnartaumana úr höndum systur eiginmanns hennar og þjónarnir eru ósvífnari en hún á að venjast. Eiginmaðurinn gefur henni skáp sem er eftirmynd hússins þeirra og þar fær hún frjálsar hendur með að innrétta. Nella leitar til smámyndasmiðs til þess en sá virðist vita meira um líf hennar en þægilegt er. Hver eru skilaboð smámyndasmiðsins, hver er hann og hvers vegna veit hann allt, eru spurningar sem Nella er neydd til að spyrja. Þessi bók er einstaklega vel skrifuð og sumar setningar svo meitlaðar að þær verður að lesa aftur og aftur. Hugsanlega á þýðandinn, Magnea J. Matthíasdóttir sinn þátt í því en að minnsta kosti er þetta bók sem unnendur fallegs stíls ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

Falleg fantasía eftir Fredrik Backman
My Grandmother Asked Me to Tell You She’s Sorry eftir Fredrik Backman er falleg saga af sambandi ömmu við barnabarn sitt. Amman hefur sagt því sögur um ævintýralönd, prinsessur, kónga, skugga og skepnur frá því barnið var lítið en eftir dauða hennar kemur í ljós að fantasíurnar áttu sér stoð í raunveruleikanum. Litla stúlkan, Elsa, er óvenju greind og fær það hlutverk að færa öllum í fjölbýlishúsinu þar sem hún býr bréf frá ömmu þar sem hún biðst fyrirgefningar. Amman var þó ekki völd að sorgum flestra íbúanna en bréfin hennar verða til þess að hægt verður að byrja að lækna gömul sár. Bókin er dásamleg blanda af ævintýrum og raunveruleika og einstaklega vel gerðar persónur setja sterkan svip á hana. Þessi bók hefur komið út á íslensku og heitir í þýðingunni Amma biður að heilsa.

Vegur vindsins eftir Ásu Marín
Afar skemmtileg ferðasaga um Elísu sem ákveður að ganga Jakobsveginn eftir að hafa fengið slæmar fréttir. Þrátt fyrir unga kærastann sinn og stressaða foreldra vill hún vera ein þessar vikur sem gangan tekur. Elísa kynnist skrautlegu fólki á leið sinni en lengst af gengur hún ein og kynnist sjálfri sér betur. Þetta er verulega skemmtileg bók og vel skrifuð, það er eins og lesandinn sé samferða Elísu og fari með henni í gegnum súrt og sætt. Fyrsta skáldsaga höfundar og vonandi ekki sú síðasta.

Ótrúleg saga Indverja … eftir Per J. Andersson
Sönn saga um Indverja sem elti ástina sína til Svíþjóðar. Þetta er ekki bara ferðasaga heldur lýsir hún vel hvernig er að fæðast inn í stétt hinna ósnertanlegu, eins og Píkei, söguhetjan. Hann fær að fara í skóla en ekki sitja í sömu stofu og krakkarnir, heldur úti á verönd. Við fæðingu sagði stjörnuspekingur þorpsins að hann myndi giftast konu frá öðru landi. Þegar hann hittir hina sænsku Lottu í Nýju Delí er hann orðinn þekktur götulistamaður og verður fullviss um að Lotta sé sú rétta. Verulega skemmtileg og fróðleg bók um ást sem sigrar allt.

Eitthvað ofan á brauð eftir Nönnu Rögnvaldardóttur
Nýjasta bókin hennar Nönnu er bráðsniðug, notadrjúg og gefur hugmyndir. Hversu leiðigjarnt er ekki að fá sér alltaf það sama ofan á brauðið sitt?
Salöt, sætmeti, sultur og paté, viðbit og mauk … það er allt þarna, meira að segja lemon curd. Hér eru góðar hugmyndir fyrir þá sem þurfa að taka með sér nesti eða smyrja fyrir börnin, halda saumaklúbb eða partí. Uppskriftir eru miðaðar við kjötætur, grænkera og allt þar á milli. Þetta er falleg bók sem Nanna myndskreytir sjálf og að vanda eru uppskriftirnar hennar einfaldar og aðgengilegar.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Einfaldar og ódýrar leiðir til að fegra heimilið

Það þarf ekki að kosta formúu að hressa svolítið upp á heimilið.

Það þarf alls ekki að kosta formúu að hressa svolítið upp á heimilið. Oft og tíðum er ekki einu sinni nauðsynlegt að breyta miklu því litlar breytingar geta gert ótrúlega mikið fyrir hvert rými.

Auðvelt er að bæta dálitlum lit og stíl í rými með því að nota fallega vefnaðarvöru, svo sem púða, teppi, mottur eða gluggatjöld.

Vefnaður
Auðvelt er að bæta dálitlum lit og stíl í rými með því að nota fallega vefnaðarvöru, svo sem púða, teppi, mottur eða gluggatjöld.

Gamaldags gardínur hafa undanfarin ár fengið að fjúka fyrir rúllu-, strimla- eða rimlatjöld en nú er tíminn til að snúa þeirri þróun við.

Litríkir púðar og teppi geta gefið gömlum sófa nýtt líf. Okkur hættir til að gleyma því að skreyta gólfið en falleg gólfmotta getur dregið saman ólík stílbrigði í herberginu og myndað heildarsvip.

Ljós
Rétt lýsing getur umturnað rými. Síðustu ár hefur borið enn meira á því að fólk velur að kaupa ljósakrónur eftir þekkta hönnuði sem skapa flott lúkk.

Mikilvægt er að hafa fjölbreytt úrval – bæði loftljós, veggljós, gólf- og borðlampa. Þannig er hægt að skapa mismunandi stemningu eftir því hvaða ljós eru kveikt.

Töff ljósakróna getur sett punktinn yfir i-ið í vel stíliseruðu rými.

Húsgögn
Ekki hika við að blanda saman ólíkum húsgögnum – nýjum, gömlum, litríkum, náttúrulegum eða hverjum sem þér dettur í hug.

Til dæmis getur verið töff að hafa marga ólíka borðstofustóla við borðstofuborðið – það er þó vert að hafa í huga að sætin séu í svipaðri hæð á öllum stólunum.

Hugsaðu aðeins út fyrir rammann, gömul kommóða getur öðlast nýtt líf sem vaskaborð.

Veggir
Það má skreyta veggi heimilisins með ýmsu móti – málningu, veggfóðri eða bara safni af fallegum myndum í vel völdum römmum.

Hér á árum áður voru allir veggir herbergis veggfóðraðir í hólf og gólf. Í dag er kannski meira töff að velja einn vegg sem fær þá alla athyglina.

Það er engin ein rétt leið til að raða myndum upp á vegg – fylgdu eigin sannfæringu. Margir vilja meina að grár sé heppilegasti liturinn til að mála veggi ef þú vilt láta myndirnar „poppa“.

Íslensk ungmenni þjást af klukkuþreytu

Erna Sif Arnarsdóttir doktor í svefnrannsóknum segir unglinga meiri nátthrafna en fólk á öðru æviskeiði. „Á Íslandi er hærra hlutfall unglinga sem eru nátthrafnar en í löndunum sem við berum okkur saman við, líklegasta skýringin er röng staðarklukka. Við vitum að unglingar sem upplifa mikla klukkuþreytu, þ.e.a.s. misræmi á eigin líkamsklukku og sólargangs eru líklegri til að stunda fyrir áhættuhegðun svo það er til mikils að vinna að auka svefntíma þessa viðkvæma hóps. Einnig er áhyggjuefni hve mörgum íslenskum ungmennum er ávísað melatóníni en lítið er vitað um langtímaáhrif þessa lyfs sem hugsað er fyrir 55 ára og eldri.”

„Á Íslandi er hærra hlutfall unglinga sem eru nátthrafnar en í löndunum sem við berum okkur saman við, og líklegasta skýringin á þessum mun er röng staðarklukka.”

Erna Sif er formaður Hins íslenska svefnrannsóknarfélags en félagsmenn hafa lengi barist fyrir leiðréttingu staðarklukku Íslands í samræmi við sólargang. „Á Íslandi er hærra hlutfall unglinga sem eru nátthrafnar en í löndunum sem við berum okkur saman við, og líklegasta skýringin á þessum mun er röng staðarklukka. Um þetta leiti árs er sól hæst á lofti í Reykjavík um 13.30 og á Egilsstöðum um 13.00 í stað hádegis. Því er það þannig að þegar við vöknum kl 7 á morgnanna, er þorri Íslendinga í raun að vakna kl 5.30.”

Ítarlegt viðtal við Ernu má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hafa elst ótrúlega vel

Klassískar þríleikir og bókaflokkar sem njóta enn vinsælda.

Sjöwall og Wahlöö-bækurnar
Bækur hjónanna Sjöwalls og Wahlöö (sjá mynd hér að ofan) urðu tíu talsins. Þær eru taldar hafa markað tímamót í bókmenntasögunni og haft mikil áhrif á þá höfunda sem á eftir fylgdu. Aðalpersónan, sænski lögreglumaðurinn Martin Beck, er engin ofurhetja heldur ósköp venjulegur maður sem glímir við sín vandamál. Bækurnar komu út á árunum 1965-1975 og hafa elst ótrúlega vel. Meðal þeirra má nefna Morðið á ferjunni, Löggan sem hló, Pólís, pólís og Maðurinn á svölunum. Þær hafa verið þýddar á fjölda tungumála og nokkrar þeirra hafa verið kvikmyndaðar.

Ísfólkið
Bækurnar um Ísfólkið urðu alls 47 og fóru að koma út á Íslandi fyrir rúmum þrjátíu árum. Þær voru endurútgefnar af Jentas í nýrri þýðingu fyrir nokkrum árum. Í stuttu máli segja þær frá baráttu afkomenda Þengils hins illa við að aflétta þeim álögum sem hann lagði á einn í hverri kynslóð. Baráttan stendur yfir öldum saman og lesandinn fær að fylgjast með örlögum afkomendanna. Þetta eru magnaðar bækur sem grípa mann föstum tökum. Þetta eru einu bækurnar sem hér eru nefndar sem ekki hafa verið kvikmyndaðar, það hefur verið reynt en ekki tekist, einhverra hluta vegna.

Hringadróttinssaga
Stórkostlegar bækur eftir J.R.R. Tolkien. Þær komu fyrst út árin 1954 og 1955 í þremur bindum. Í þeim segir frá hobbitanum Fróða Bagga sem eignast dularfullan hring. Fljótlega kemur í ljós að eina leiðin til að stöðva hinn illa Sauron, sem hyggur á yfirráð í Miðgarði, er að fara með hringinn eina til Mordor og eyða honum þar. Fróði fer í þessa hættuför með fríðu föruneyti og lendir í mörgum ævintýrum á leiðinni. Bækurnar voru kvikmyndaðar og myndirnar eru mjög flottar og nutu gríðarlegra vinsælda. Endilega samt ekki sleppa því að lesa bækurnar, þær eru einstakar.

Lisbet Salander tölvuséní og Mikael Blómkvist blaðamaður eru frábært teymi.

Millenium-þríleikurinn
Stieg Larsson skrifaði þrjár flottar og spennandi bækur sem náðu miklum vinsældum um heiminn. Hann lést óvænt áður en sú fyrsta kom út, aðeins fimmtugur að aldri, en hafði ætlað að skrifa fleiri bækur um þau Mikael Blómkvist blaðamann og Lisbet Salander tölvuséní sem eru frábært teymi. Bækurnar voru auðvitað kvikmyndaðar og völdust einstaklega flottir leikarar í hlutverkin. Fjórða bókin, auglýst úr smiðju Stiegs heitins, kom út á síðasta ári en tilurð hennar var umdeild. Mér fannst hún ágæt spennusaga en David kemst þó ekki með tærnar þar sem Stieg hafði hælana.

Harry Potter
Bækurnar um hugrakka galdrastrákinn með eldingarlaga örið á enninu eru sjö talsins, hver annarri skemmtilegri. Þær höfða til allra aldurshópa og fólk beið í löngum röðum eftir hverri nýrri bók. Höfundur bjó til einstaklega spennandi heim galdra og töfra, baráttu góðs og ills þar sem hið góða fer yfirleitt með sigur af hólmi. Hún er líka töfrum slungin sagan af höfundinum, fátækri, einstæðri móður sem breytti lífi sínu með því að gefa heiminum þessar dásamlegu ævintýrabækur. Börn sem áður lásu ekki sér til skemmtunar, sökktu sér niður í þessar bækur og þegar kvikmyndir voru gerðar eftir þeim slógu þær líka í gegn.

Sjöwall og Wahlöö-bækurnar
Bækur hjónanna Sjöwalls og Wahlöö urðu tíu talsins. Þær eru taldar hafa markað tímamót í bókmenntasögunni og haft mikil áhrif á þá höfunda sem á eftir fylgdu. Aðalpersónan, sænski lögreglumaðurinn Martin Beck, er engin ofurhetja heldur ósköp venjulegur maður sem glímir við sín vandamál. Bækurnar komu út á árunum 1965-1975 og hafa elst ótrúlega vel. Meðal þeirra má nefna Morðið á ferjunni, Löggan sem hló, Pólís, pólís og Maðurinn á svölunum. Þær hafa verið þýddar á fjölda tungumála og nokkrar þeirra hafa verið kvikmyndaðar.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Mætt eftir fimm ára fjarveru

Femínískir rapptónleikar

Ragna var í fyrstu íslensku hipphopp hljómsveitinni og lengi eina stelpan í rappi á Íslandi.

Þann 20. janúar verða hipphopp kvennatónleikar í Gamla bíói með nokkrum að skærustu kvenröppurum landsins. Ragna Kjartansdóttir eða Cell7 er ein þeirra sem stígur á svið en hún hefur verið utan sviðsljóssins í nokkur ár.

„Ég blikkaði bara og það liðu fimm ár, ég skil þetta ekki,“ svarar Ragna hlæjandi þegar hún er spurð út í fjarveruna. „Ég er í fullu starfi sem hljóðmaður og lenti í mikilli vinnutörn en á sama tíma var ég að koma mér fyrir í studíói þar sem ég vinn að tónlistinni. Svo eignaðist ég dóttur mína þarna inn á milli.“

Hún sendi frá sér sólóplötu árið 2013 og vinnur nú að nýrri sem kemur út seinna á árinu. Lagið City Lights verður á þeirri plötu en það er þegar komið í loftið og hefur vakið mikla athygli ekki síst fyrir myndbandið.

Þær sem koma fram á tónleikunum auk Cell7 eru Alvia, Fever Dream, Krakk & Spaghettí, Reykjavíkurdætur og Sigga Ey. Milli atriða mun svo Dj De La Rosa halda uppi stemningunni. Miðar fást á tix.is og nánari upplýsingar eru á Facebook-síðunni Puzzy Patrol.

Viðtal við Rögnu er í 3. tölublaði Vikunnar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Múta verðinum með sígarettupakka“

Ellen Björnsdóttir segir frá uppáhaldsstöðum sínum á svæðinu Shanghai.

Ellen Björnsdóttir er heimavinnandi húsmóðir í Shanghai en hún er í starfsleyfi hjá Volvo Truck þar sem hún vinnur í innkaupum. Hún hefur búið í Shanghai í næstum fjögur ár ásamt fjölskyldu sinni og hundinum Barney. Við fengum hana til að segja okkur frá uppáhaldsstöðum sínum á svæðinu.

„Margir kostir fylgja því að búa í Shanghai ekki síst að upplifa menningu sem er ólík öllu sem við erum vön. Við búum í hverfi þar sem fólk allsstaðar að úr heiminum býr svo núna eigum við vini frá öllum heimshornum. Við höfum ferðast mikið síðan við fluttum hingað, svolítið um Kína en mest um alla Asíu,“ segir Ellen. Eiginmaður hennar heitir Styrmir og þau eiga dæturnar Leu, 20 ára, og Sögu, 19 ára og Styrmir á soninn Davíð, 24 ára.

The Bund
Uppáhaldsstaður minn í Shanghai er The Bund sem liggur við ána Huangpu sem skiptir Shanghai í tvo hluta; Pudong í austri og Puxi í vestri. Ég fæ aldrei nóg af útsýninu frá Puxi yfir Huangpu-ána til nýja hverfisins í Pudong og skýjakljúfanna. Gaman að ganga að degi til í mannfjöldanum sem safnast saman með fram ánni og enn betra er að njóta útsýnisins þegar dimmir og ljósin kvikna á turnunum hinum megin við ána. Á Vue-bar á 32.-33. hæð á Grand Hyatt-hótelinu er útsýnið best yfir The Bund á meðan ljósin kvikna.

Yuyuan Garden
Í gamla hverfinu í Shanghai er Yuyuan Garden, því litla sem enn er til, og er yfirleitt fullt af ferðamönnum, mest kínverskum annars staðar frá Kína en líka vestrænum. Þar er brúin sem byggð er í sikk sakk til að illir andar nái ekki til þín, en talið er að þeir geti ekki beygt, og svo fallegir steinagarðar. Ég mæli með því að þið fáið ykkur dumplings að borða í garðinum og þó að raðirnar séu oftast langar er það vel þess virði. Verið viðbúin því að teknar séu myndir af ykkur, gjarnan með Kínverjum. Skemmtilegast er að fara í kvöldhjólatúr um gamla hverfið, múta verðinum með sígarettupakka og fá þar af leiðandi að hjóla einn í gegnum mannlausan garðinn.

Yuyuan Garden.

Zhujiajiao Ancient Town
Þessi fallegi vatnabær er í um það vil 40 mínútna akstursfjarlægð frá Shanghai. Þar eru síki og fallegar brýr en síkin voru hér áður fyrr notuð til að koma varningi á milli staða. Fallegasta brúin heitir Fangsheng Bridge og hægt er að fara í bátsferðir um síkin. Gaman er að ganga um gömlu göturnar, þarna eru mörg kósí kaffihús, barir, ekta kínverskir veitingastaðir og skemmtileg lítil listagallerí ásamt verslunum sem selja silkiklúta, silkisængur og kínverska minjagripi svo eitthvað sem nefnt. Einnig eru nokkur söfn og skemmtilegir garðar sem gaman er að skoða. Hægt er að komast þangað með rútu frá nokkrum stöðum í Shanghai eða taka leigubíl ef maður er tilbúinn í fjörtíu mínútna spennandi ferðalag.

Shanghai World Financial Center
Ein af hæstu byggingunum í Kína, Shanghai World Financial Center, er í nýja hverfinu í Pudong nálægt Huangpu-ánni. Í þessum skýjakljúfi eru hótel, skrifstofur, veitingastaðir, skemmtistaðir og verslanir. Hægt er að fara með lyftu upp á 97. hæð og njóta þess sem fyrir augum ber frá útsýnispalli í 474 metra hæð. Skemmtilegast finnst mér að fara á 96. hæðina og njóta þess að borða hádegismat með þessu frábæra útsýni. Vanda þarf val á degi því útsýnið er ekki alltaf jafngott vegna loftmengunar. Þetta er ekki fyrir lofthrædda.

Sichuan Citizen
Veitingastaðurinn Sichuan Citizen er einn af mínum uppáhalds í Shanghai. Maturinn er frá Sichuan-héraðinu og er ekta kínverskur sterkur matur. Þar er alltaf góð blanda af Kínverjum og ferðamönnum og góð stemning. Einkennisdrykkur staðarins heitir Basil Drops og þið megið alls ekki láta hann fram hjá ykkur fara. Fólk kemur á þennan stað bara til að fá þennan drykk. Flestir þjónarnir tala ensku og ef ekki þá sækja þeir enskumælandi þjón. Staðurinn er í franska hverfinu svo það er ekki langt í næsta skemmtilega bar eða kaffihús ef fólk vill eiga gott kvöld í Shanghai.

Aðalmynd: Ellen við The Bund.
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Mikilvægt að huga vel að húðinni á meðan maður ferðast

Ráðleggingar um vörur sem gott er að hafa meðferðis í handfarangri.

Það getur tekið sinn toll á húðina að ferðast erlendis því um borð í flugvélum er afar þurrt loft. Þess vegna fer húðin að sýna merki rakaskorts. Það þýðir að þurr húð verður þurrari en feit húð verður enn feitari því fitukirtlarnir fara á fullt við að vinna á móti rakatapinu. Þess vegna er ekki síður mikilvægt að huga vel að húðinni á meðan maður er um borð. Hér eru nokkrar ráðleggingar um vörur sem gott er að hafa meðferðis í handfarangri.

Alls ekki gleyma að drekka nóg af vatni.

Sótthreinsandi klútar: Það er nauðsynlegt að byrja á því að sótthreinsa á sér hendurnar áður en þú ferð að snerta á þér andlitið. Klútar hafa það fram yfir handspritt að þeir fjarlægja líka megnið af óhreinindum af höndunum. Fyrst þú ert byrjuð, hví ekki strjúka klút yfir borð, sætisarma og beltissylgju og tryggja þannig að þeir fletir sem þú snertir mest séu líka lausir við bakteríur.

Hreinsiklútar: Í lengra flugi, til dæmis til Norður-Ameríku, er langbesta ráðið að þrífa strax allan farða af húðinni þannig að þú getir notað alvörurakasprengjur til að vinna gegn þurra loftinu um borð. Þægilegast er að nota þartilgerða hreinsiklúta því þeir teljast ekki til vökva í handfarangri og þú þarft ekki að komast í vatn til að þrífa húðina. Hafðu í huga að þú þarft alltaf að nota fleiri en einn klút á andlitið.

Maski eða olía: Þegar þú ert búin að taka af þér farðann, eða gerðist svo djörf að mæta ómáluð, þá er næsta skref að gefa húðinni eins mikinn raka og mögulegt er. Hér duga ekki venjuleg rakakrem heldur er betra að nota rakaserum, andlitsolíu eða einfaldlega maska. Upp á síðkastið hafa komið á markað svokallaðir svefnmaskar sem er ekki nauðsynlegt að þrífa af og eru í raun ofurnæturkrem. Einnig grípa sumir til þess ráðs að setja á sig taumaska en þú verður þá að vera tilbúin til þess að líta út eins og múmía á meðan. Hvað sem þú kýst að nota gildir það að bera oft og mikið á.

Rakagefandi sprey: Í styttra flugi er kannski ekki ástæða til að fjarlægja af sér allan farða til að setja á sig olíu eða maska, þó að sumar geri það. Við verðum samt sem áður að passa að veita húðinni nægan raka og þá geta rakagefandi andlitsvötn komið að góðum notum. Þau innihalda flest rakagefandi efni svo sem aloe vera eða hyaluronic-sýru en sum þeirra innihalda einnig plöntuolíur. Hægt er að fá mörg þessara andlitsvatna í spreyformi sem má þá spreyja yfir allt andlitið, jafnvel þótt það sé farðað, og við mælum með því að spreyja að minnsta kosti eina umferð á klukkutíma fresti meðan þú ert um borð.

Varasalvi: Vegna þess að í vörum okkar eru engir fitukirtlar stóla þær á utanaðkomandi raka, hvort sem það er úr varasalva eða munnvatni. Varasalvar eru mjög mismunandi, sumir innihalda vaselín og eru fyrst og fremst fyrirbyggjandi gegn þurrki og henta því ágætlega í flug en aðrir innihalda góðar náttúrulegar olíur sem mýkja húðina og veita raka. Báðar týpur henta vel í flug þannig að það er bara um að gera að velja þann sem þér þykir bestur.

Augndropar: Þurrt flugvélaloftið hefur líklega mest áhrif á augu okkar og til að gera ástandið enn verra erum við oft að horfa á kvikmyndir eða lesa bækur á upplýstum skjám sem erta líka augun. Þau verða því oft þurr og rauð og okkur klæjar í þau. Þess vegna er mjög sniðugt að ferðast með augndropa með sér til að róa augun og gefa þeim raka.

Vatnsflaska: Alls ekki gleyma að drekka nóg af vatni.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Leyndardómsfullir staðir sem eru flestum lokaðir

Víða um heim eru staðir með takmarkað aðgengi og aðrir sem eru harðlokaðir almenningi.

Þegar við ferðumst viljum við reyna að sjá sem mest og fá eins mikið út úr ferðalaginu og hægt er. Sums staðar rekumst við þó á veggi því margir staðir í heiminum hafa takmarkað aðgengi og aðrir eru harðlokaðir almenningi. Hér má lesa um nokkur þeirra og Ísland á að sjálfsögðu sinn fulltrúa.

Lascaux-hellamyndirnar.

Bohemian Grove
Bohemian-klúbburinn í Monte Rio, Kaliforníu samanstendur af ríkasta og valdamesta fólki heims. Á stórri og skógivaxinni landareigninni getur það skemmt sér án þess að almúginn flækist fyrir. Það kostar 25 þúsund dollara, rúmlega 3,2 milljón krónur, að ganga í klúbbinn og árgjaldið er 5 þúsund dollarar, eða um 640 þúsund krónur. Ekki fær þó hver sem er að verða meðlimur og þeir sem reyna að lauma sér óboðnir inn á svæðið verða umsvifalaust handteknir. Athyglisverður klúbbur sem er sagður búa yfir mörgum leyndarmálum.

Lascaux-hellamyndirnar
Hinn átján ára Marcel Ravidat, ásamt þremur vinum sínum, fann hellinn með þessum forsögulegu hellamyndum þann 12. september 1940. Átta árum síðar voru hellarnir opnaðir almenningi og allt að 1200 manns heimsótti þá daglega. Um 2000 myndir/fígúrur er að finna á veggjunum, bæði af mönnum og dýrum og einnig abstrakttákn. Myndirnar eru taldar vera rúmlega 17 milljón ára gamlar. Strax árið 1955 var komið í ljós að þessi umgangur fór illa með minjarnar en það var ekki fyrr en árið 1963 að var hellunum lokað almenningi.

Örkin hans Nóa á Svalbarða
Á norsku eyjunni Svalbarða er að finna hvelfingu sem byggð er langt inn í fjall. Hún geymir miklar fræbirgðir í öryggisskyni ef eitthvað alvarlegt gerist í heiminum og hungursneyð blasir við. Aðeins starfsmenn og stöku vísindamenn fá aðgang að hvelfingunni en of áhættusamt þykir að hleypa öðrum þar inn. Um 865 þúsund frætegundir alls staðar að í heiminum er að finna þar. Meira að segja Norður-Kórea á þarna innlegg. Fræhvelfingin var tekin í notkun árið 2008 og þegar hefur ein úttekt farið fram, nú nýlega þegar frægeymsla Sýrlendinga í Aleppo var eyðilögð í sprengjuárás.

Svæði 51
Bandaríkjamenn hafa loks viðurkennt tilvist þessa staðar í Nevada eftir áralangar klikkaðar samsæriskenningar um hann. Það þýðir þó ekki að almenningur sé velkominn þangað.

Menwith Hill 
Vissulega getur maður ekki spígsporað inn í hvaða herstöð sem er. Almenningur er þó sérlega óvelkominn á herstöð breska flughersins í Norður-Yorkshire í Bretlandi þar sem hin bandaríska NSA-leyniþjónusta hefur aðstöðu en leyndin er aðalsmerki hennar. Hún er sögð mikilvægasta herstöð Bandaríkjanna á erlendri grund. Stærsta hlerunarstöð heims?

Surtsey
Eyjan varð til í eldgosi sem hófst árið 1963 og hefur verið friðlýst frá 1965. Markmiðið var að tryggja að þróun eyjarinnar verði eftir lögmálum náttúrunnar, að landnám plantna og dýra, framvinda lífríkis og mótun jarðmyndana verði með sem eðlilegustum hætti og truflun af völdum manna sem minnst. Óheimilt er að fara í land eða kafa við eyna nema til rannsókna og verkefna þeim tengdum og þá aðeins með skriflegu leyfi Umhverfisstofnunar. Siglingar í kringum Surtsey eru þó heimilar. Þess má geta að Vestmannaeyingar vildu ólmir að eyjan fengi nafnið Vesturey en fengu ekki.

Hvítukarlaklúbburinn í London
Hann heitir White’s Gentleman’s Club, og þar drekkur og spilar bresk karlkynselíta. Umsækjendur þurfa samþykki 35 meðlima og árgjaldið er himinhátt.

Í þessu leynda safni Vatikansins eru geymd flest þau skjöl sem Páfastóll hefur sankað að sér.

Skjalasafn Vatikansins
Í þessu leynda safni eru geymd flest þau skjöl sem Páfastóll hefur sankað að sér. Hluti safnsins var opnaður árið 1922 og nokkru síðar sá sem tengist seinni heimsstyrjöldinni. Mikil leynd hefur hvílt yfir stærstum hluta safnsins og margar samsæriskenningar hafa orðið til um hvað það hefur að geyma.

MF: Ilha da Queimada Grande
Brasilísk eyja sem er sundurgrafin af nöðrum og þarf ekki annað en að ganga nokkur skref til að eiga á hættu að missa lífið. Aðeins örfáir vísindamenn hafa leyfi til að heimsækja þessa snákaeyju.

Niihau
Þessi eyja er ein af Havaí-eyjaklasanum. Ástæðan fyrir því að enginn má koma þangað er sú að hún er í einkaeign. Um 130 manns búa þar en aðeins þeir sem Robinson-fjölskyldan býður mega koma í heimsókn.

Jiangsu-alþjóðaleynifræðslusafnið
Jiangsu National Security Education Museum er staðsett í Nanjing í Kína og er eingöngu opið kínverskum almenningi. Öllum öðrum er úthýst vegna viðkvæmra njósnaupplýsinga sem þar er að finna.

Heard-eyja
Aðeins 400 manns er leyft að heimsækja þessa áströlsku eyju ár hvert. Bátur fer þangað á tveggja vikna fresti yfir úfinn sjó og veðurfarið er svo ömurlegt að frekar fáir eru hvort eð er spenntir fyrir að berja eyjuna augum.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Furðu mikið að gera og sjá í Óðinsvéum

Sveinn Sigurðsson mælir með áhugaverðum stöðum í Óðinsvéum.

Sveinn Sigurðsson bjó í miðbæ Óðinsvéa árin 2013-2015 þar sem hann var í námi í University of Southern Denmark og útskrifaðist með meistaragráðu í vörumerkjastjórnun og markaðssamskiptum. Hann er nú í atvinnuleit og bloggar um bjór hjá nobsbrewing.com.

„Þrátt fyrir að Óðinsvé sé þriðja stærsta borg Danmerkur með rúmlega 170 þúsund íbúa þá minnir borgin meira á smábæ. Íbúarnir eru virkilega vingjarnlegir og taka sérstaklega vel á móti Íslendingum,“ segir Sveinn sem bjó þar í tvö ár ásamt kærustu sinni, Þóreyju Richardt Úlfarsdóttur, og þar fæddist sonur þeirra, Almar Darri. „Í borginni eru margir viðburðir og hátíðir allan ársins hring, til dæmis H.C. Andersen Festival, Harry Potter-hátíð, Danski bjórdagurinn og tónlistarhátíðin Tinderbox.“

Munke Mose og Eventyrhave
Í miðborg Óðinsvéa eru tveir almenningsgarðar sem eru tengdir saman með göngustíg og þar þótti mér alltaf gaman að koma. Í Munke Mose er gott að setjast niður, fylgjast með mannlífinu og fuglalífinu og jafnvel fara í siglingu upp eftir Óðinsvéánni. Í Eventyrhave sem er í göngufjarlægð frá Munke Mose er fallegur blómagarður og einnig mörg listaverk tengd ævintýrum H.C. Andersen.

„Þrátt fyrir að Óðinsvé sé þriðja stærsta borg Danmerkur með rúmlega 170 þúsund íbúa þá minnir borgin meira á smábæ,“ segir Sveinn

Gamli bærinn
Mér finnst gamli bærinn sérstaklega fallegur og mjög gaman að rölta þar í gegn. Þar er hægt að kíkja í skranbúðir, sjá fæðingarstað H.C. Andersen og H.C. Andersen-safnið en einnig eru þar mörg sögufræg hús og staðir sem gaman er að líta á.

Egeskov-kastalinn
Egeskov-kastalinn er staðsettur í hálftíma akstursfjarlægð frá Óðinsvéum og hefur eitthvað við hæfi allra. Þar er mjög stór blómagarður sem fékk verðlaunin Best European Historic Garden árið 2012. Hægt er að skoða sjálfan kastalann og þar inni eru ýmsir sögulegir munir. Á svæðinu við kastalann er einnig stórt safn með ýmsum farartækjum, mikill fjöldi af mótorhjólum og bílum sem maður hefur ekki oft tækifæri til að sjá.

Markaðurinn á höfninni
Yfir sumartímann er gaman að fara niður á höfn á sunnudögum og skoða markað þar sem fólk kemur og selur notaða hluti. Þar myndast oft skemmtileg stemning og finna má ýmislegt forvitnilegt og skemmtilegt. Einnig er hægt að rölta um hafnarsvæðið og skoða bátana.

Dýragarðurinn
Dýragarðurinn í Óðinsvéum er einstaklega skemmtilegur og hefur fengið verðlaun fyrir að vera besti dýragarður í Evrópu. Þar er hægt að sjá hin ýmsu dýr og smáfólkið getur fengið að klappa dýrum í húsdýragarðinum á svæðinu. Ég mæli sérstaklega með því að taka með nesti og verja heilum degi í að skoða dýrin.

Christian Firtal
Vegna þess að ég er mikill bjóráhugamaður þá get ég ekki sleppt því að minnast á Christian Firtal. Þessi litli staður er staðsettur í göngugötu niðri í bæ og þar er boðið upp á marga af bestu handverksbjórum sem framleiddir eru á Norðurlöndunum. Þar er hægt að fá 20 bjórtegundir á krana og fjöldann allan af bjór á flöskum en einnig eru margar gerðir af viskíi og koníaki.

Umsjón / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Ingibjörg Hilmarsdóttir

Hinn fullkomni morgunmatur

Tillögur að hollum og góðum morgunmat.

Egg eru einstaklega prótínrík og holl fæða sem er tilvalið að neyta á morgnana.

Chia-grautur
Chia-fræ eru einstaklega næringarrík fæða en þau innihalda bæði nóg af kalki og pró­tíni og hafa oftar en ekki verið kölluð ofurfæða. Þau geta dregið í sig allt að tífalda þyngd sína af vökva og eru þannig seðjandi en jafnframt auðmeltanleg. Gott er að undirbúa chia-graut kvöldið áður og setja kúfaða matskeið af chia-fræjum og 100 ml af vökva, hægt að nota vatn, möndlumjólk eða hvað sem þig lystir, í skál eða nestisbox og inn í ískáp. Morguninn eftir munu chia-fræin hafa drukkið í sig mestallan vökvann og þá má bæta við þeim ávöxtum sem eru við höndina.

Hafragrautur
Hafragrautur er ákaflega hollur og saðsamur morgunmatur. Hann inniheldur mikið af trefjum en þær eru ekki meltar eða frásogaðar heldur fara þær í gegnum meltingarkerfið og draga í sig vökva. Hafrar geta ýmist verið litlir og stórir, grófir og fínir, glúteinlausir eða lífrænir, hver og einn verður að velja þá hafra sem hentar honum best. Sumum þykir hafragrauturinn bestur upp á gamla mátann, soðinn með ögn af salti, en einnig er hægt að bæta ávöxtum og skyri saman við eftir að grauturinn er soðinn eða sjóða epli og kanil með höfrunum.

Hristingur
Undanfarin ár hafa vinsældir hristinga og safa aukist til muna og algengt er að fólk fái sér slíkt í morgunmat eða í millimál seinnipart dags. Þó að það sé hægt að kaupa góða hrisitinga í ýmsum verslunum er einnnig auðvelt að gera gómsætan hristing heima, það eina sem til þarf er blandari eða matvinnsluvél. Blandaðu um það bil 300-400 ml af vökva, hægt að nota kókosvatn, möndlumjólk, kranavatn eða safa, og þeim ávöxtum og grænmeti sem þú vilt nota saman í blandara. Ekki sleppa grænmetinu því það gerir hristinginn hollari og næringarríkari, gott er að hafa það fyrir reglu að hafa að minnsta kosti eina tegund grænmetis. Einnig getur verið gott að nota prótínduft eða einhvers konar hnetusmjör út í en þá er betra að bæta dálitlu vatni saman við. Til þess að auka sætu er hægt að nota döðlur eða fljótandi steviu.

Egg
Egg eru einstaklega prótínrík og holl fæða sem er tilvalið að neyta á morgnana. Gerðar hafa verið nokkrar rannsóknir á ávinningi þess að fá sér egg í morgunmat, fram yfir kornmeti, og hafa þær allar sýnt að eggin verða til þess að fólk borðar færri hitaeiningar í hádeginu og það sem eftir er af deginum. Eggin eru einfaldlega svo mettandi að einstaklingar borða minni skammta. Einfalt er að grípa með sér eitt eða tvö harðsoðin egg og borða í morgunmat ásamt einhverju góðu grænmeti, til dæmis avókadó, en einnig er sniðugt að útbúa eggjahræru með því grænmeti og kjöti sem maður vill.

„Þang er ekki bara hippafæða“

Sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver mælir með því að allir borði þang reglulega.

Þang er í raun algjör næringarsprengja að sögn Jamie Oliver.

Sjónvarpskokkurinn frægi Jamie Oliver hefur viðurkennt að hann hafi lengi haldið að þang væri ekkert annað en hippafæða og enn eitt tískufyrirbærið í fæðu. Hann skipti um skoðun og mælir með því að allir borði þang reglulega því það er eitt næringarríkasta grænmeti jarðar. Samkvæmt Jamie er þang í raun algjör næringarsprengja sem inniheldur allt í senn trefjar, næringarefni, vítamín og öll steinefni sem til eru.

Gott fyrir húðina
Í þangi eru ýmis andoxunarefni, ensím og ómega fitusýrur sem hjálpa til við að hreinsa og fegra húðina. Þörunga og þang er að finna í fjölmörgum snyrtivörum nú til dags en það er engu síður gagnlegt fyrir húðina að borða þang.

Vinnur gegn líkamsfitu
Ýmsar rannsóknir hafa bent til þess að þang innihaldi efni sem dragi úr fitusöfnun líkamans og auki jafnframt brennslu. Þó svo að það þurfi að rannsaka þessa eiginleika frekar þá lofar þetta góðu.

Eykur seddu
Þegar við borðum þurrkað þang dregur það í sig vökva í maganum og þenst út þannig að okkur finnst við saddari. Það ásamt því hvað þang er líka hitaeiningasnautt og lágt í kolvetnum gerir það að fullkomnu snarli milli mála.

Grænt og vænt
Rétt eins og plöntur sem vaxa á landi inniheldur þang blaðgrænu sem er sögð hjálpa til við að draga úr bólgum í líkamanum og auka magn rauðra blóðkorna í blóði.

Járnrisi
Þang er ekki aðeins ríkt af járni heldur inniheldur það einnig mikið C-vítamín en það er nauðsynlegt fyrir upptöku líkamans á járni.

Bætir hjartaheilsu
Þang hjálpar til við að draga úr kólestrólmagni, inniheldur efni sem draga úr myndun blóðtappa og er ríkt af kalíni sem minnkar líkurnar á of háum blóðþrýstingi.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Hvetur fólk til að tileinka sér mínímalískan lífsstíl

Japanski tiltektargúrúinn Marie Kondo hvetur fólk til að eiga aðeins hluti sem vekja hjá því gleði.

Marie Kondo hefur helgað líf sitt tiltekt og mínimalískum lífsstíl. Hún rekur fyrirtæki í Tókíó þar sem hún kemur inn á heimili fólks, kennir því að fara í gegnum eigur sínar og losa sig við allan óþarfa.

Hin japanska Marie Kondo hefur helgað líf sitt tiltekt og mínimalískum lífsstíl. Hún rekur fyrirtæki í Tókíó þar sem hún kemur inn á heimili fólks, kennir því að fara í gegnum eigur sínar og losa sig við allan óþarfa. Þessi þjónusta hennar er svo vinsæl að það er þriggja mánaða biðtími. Bók hennar The Life Changing Magic of Tidying Up kom út árið 2014 en nýtur enn hylli og bloggarar um allan heim hafa tileinkað sér KonMari-aðferðina. Þessi aðferð hennar snýst um að eiga aðeins hluti sem vekja hjá þér gleði og það á jafnt við um föt, hluti, bækur og margt fleira. Hún ráðleggur fólki að meta hvern hlut út frá því hvort hann veiti þér gleði og ef ekki þá skaltu losa þig við hann.

Fleiri góð ráð úr smiðju Marie Kondo

Tiltekt er samtal við sjálfan sig. Marie lítur á tiltekt sem nokkurs konar hugleiðslu þar sem hún þarf að hlusta á eigið innsæi. Hún hvetur fólk til að finna friðsæla stund og alls ekki hlusta á tónlist, það sé bara til að flækja hlutina.

Hver hlutur á að eiga sinn ákveðna stað. Marie er þeirrar skoðunar að sem minnst dót og drasl eigi að vera á gólfum eða uppi á borðum. Í hverju rými á að vera að minnsta kosti einn góður skápur eða kommóða þar sem hægt er að geyma hluti sem ekki er prýði af. Inni í skápunum er svo mikilvægt að hafa minni geymslueiningar eins og kassa sem eru vel merktir og hægt er að stafla.

Taktu til eftir flokkum, ekki herbergjum. Marie vill meina að þetta sé gryfja sem margir falli í. Við eigum til að gleyma því að við geymum oft sömu eða svipaða hluti á mörgum stöðum í íbúðinni og erum því að endurtaka sömu tiltektina á nokkrum stöðum. Þetta skapar tiltektarvítahring sem er stundum erfitt að rjúfa. Þess vegna mælir hún með því að ákveða hvaða flokk þú ætlar að taka til í í dag í staðinn fyrir staðsetningu, það er, taka til föt í stað þess að taka til inni í svefnherbergi.

Ekki stafla hlutum. Það segir sig sjálft að hlutir sem eru neðst í stafla eru notaðir sjaldnar, sama hversu hrifin þú ert af þeim hlut. Þessi regla á jafnt við um föt, bækur og snyrtivörur. Marie mælir til dæmis með því að brjóta föt þannig að þau geti staðið upp á rönd, raða þeim þannig í kassa og ofan skúffu.

Sjaldan eða stundum þýðir í raun aldrei. Marie hlustar ekki á neinar afsakanir í þessum efnum. Ef þú klæðist einhverri flík aðeins einu sinni á ári þá er hún bara að taka óþarfa pláss í skápnum þínum restina af árinu.

Hentu öllum pappír. Það er algengur misskilningur að það sé minna um pappíra inni á heimili en á skrifstofu fyrirtækis. Við sönkum að okkur alls kyns óþarfa pappír; kvittunum, reikningum, glósum, úrklippum og þar fram eftir götum. Marie segir að einfaldasta leiðin sé að skipta öllum pappírum niður í geyma og henda en þeir pappírar sem þú geymir eru aðeins algjör nauðsyn. Helst myndi hún þó vilja henda öllum pappírum, því til eru forrit eins og Evernote þar sem þú getur skannað inn pappíra og geymt rafræna útgáfu af þeim.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Áhrifamikil tískuíkon

Nokkur af áhrifamestu tískuíkonum innan bransans í dag.

Tískuíkon dagsins í dag eru endalaus uppspretta innblásturs þegar kemur að því hvernig við klæðum okkur. Hér eru nokkrar af þeim áhrifameiri innan bransans sem eru í uppáhaldi hjá okkur.

Olivia Palermo
Tískudrottninguna Oliviu Palermo þekkja flestir sem hafa áhuga á tískunni. Hún skaust upp á stjörnuhimininn með þátttöku sinni í bandarísku raunveruleikaþáttunum The Hills en hefur síðan komið víða við. Hún var meðal annars lærlingur í kynningarmálum hjá hönnuðinum Diane von Furstenberg og vann í fylgihlutadeild hjá tískutímaritinu Elle en Olivia er þekkt fyrir að vera einstaklega smekkleg þegar kemur að því að nota fylgihluti á ferskan hátt. Olivia hefur verið áberandi í félagslífi þeirra ríku og frægu og er mynduð hvert sem hún fer, enda eitt stærsta tískuíkon samtímans. Það er alltaf hægt að leita til Oliviu að innblæstri, oliviapalermo.com.

______________________________________________________________

Hanneli Mustaparta
Hin norska Hanneli Mustaparta er fyrrverandi fyrirsæta sem fljótlega fann hjá sér mikinn áhuga á því að stílisera. Frá því hún lagði fyrirsætuskóna á hilluna að mestu árið 2008 hefur hún unnið fyrir hin ýmsu tískutímarit og stíliserað fyrir stór fyrirtæki. Áhugi hennar á útliti og stíliseringu þróaðist svo út í það að taka myndir en síðustu árin hafa götutískumyndir eftir hana birst í Vogue og á Vogue.com. Hanneli er með einstakt auga fyrir smáatriðum og ekki skemmir útlit hennar fyrir, að við tölum ekki um hárið, okkur dreymir um að hafa hár eins Hanneli!

______________________________________________________________

Hedvig Opshaug
Norski tískubloggarinn Hedvig Opshaug er konan á bak við the-northernlight.com. Nafnið á blogginu tengist heimaslóðum hennar í Norður-Noregi þar sem norðurljósin eru sýnileg allan veturinn. Hún á stuttan fyrirsætuferil að baki en lærði stærðfræði og vann í banka í Stokkhólmi þegar hún ákvað að breyta til og flytja til London. Hún segir að ferill sinn sem tískubloggari hafi fyrir tilviljun undið upp á sig en var ekki eitthvað sem hún stefndi beinlínis að. Hedvig er alltaf með puttann á tískupúlsinum og gaman að fylgjast með þessari glæsilegu konu.

______________________________________________________________

Miroslava Duma
Miroslava Duma vakti fyrst heimsathygli þegar myndir af henni birtust á þekktustu tískubloggunum eins og The Sartorialist. Hún hefur unnið fyrir mörg af stærstu tímaritum heims en hefur síðustu fimm árin unnið sjálfstætt fyrir Buro247.com en hún er meðstofnandi þeirrar vefsíðu sem fjallar meðal annars um tísku og listir og sendir út fréttir allan sólarhringinn. Það er ekki að undra að Miroslava skuli eiga marga aðdáendur enda alltaf óaðfinnanleg og klæðnaður hennar áhugaverður.

______________________________________________________________

Pernille Teisbaek
Pernille Teisbaek hefur unnið bæði fyrir framan og aftan myndavélarnar. Hún byrjaði feril sinn sem tískustjóri hjá danska tímaritinu Woman en hún hefur einnig unnið fyrir ALT for Damerne og Eurowoman. Í dag vinnur hún í fullu starfi sem stílisti, bloggari og tískusérfræðingur hjá stærstu sjónvarpsstöðvum Danmerkur. Ef þú ert í leit að  skandinavískum stílinnblæstri skaltu kíkja á Pernille, pernilleteisbaek.com.

______________________________________________________________

 

Chiara Ferragni
Hin ítalska Chiara Ferragni er konan á bak við eitt allra stærsta tískublogg heims, The Blonde Salad. Hún hefur unnið til verðlauna fyrir besta tískubloggið mörg ár í röð og birst á lista Forbes yfri ríkasta fólk heims. Hún hefur átt í samstarfi við marga af stærstu tískuhönnuðum samtímans og er talskona fyrir Pantene-hárvörur. Chiara birtist á forsíðu spænska Vogue í apríl í fyrra og er þar með fyrsti tískubloggarinn til að verma forsíðu tískubiblíunnar.

______________________________________________________________

Leandra Medine
Húmorinn skín ávallt í gegn hjá Leöndu Medine, sem heldur úti vefsíðunni The Man Repeller. Hún er einn þekktasti tískubloggari heims og áhrifamikil með meiru innan tískuheimsins. Leandra er þekkt fyrir að blanda saman ólíklegustu flíkum og fylgihlutum og er ávallt uppspretta tískuinnblásturs.

______________________________________________________________

Alexa Chung
Hin kínverk-breska Alexa Chung er eitt áhrifamesta tískuíkon samtímans og hefur alið af sér margar hermikrákur í gegnum tíðina. Hún byrjaði feril sinn sem fyrirsæta og fór þaðan yfir í sjónvarp. Síðustu árin hefur hún sett nafn sitt við ýmsan varning eins og fatnað og snyrtivörur og meðal annars skrifað fyrir breska Vogue. Þá hefur hún einnig veitt mörgum tískuhönnuðum innblástur því stíllinn hennar er svo einstakur. Alexu má oftar en ekki finna á fremsta bekk á tískusýningunum en hún er ein mest ljósmyndaða kona Bretlands.

Texti / Helga Kristjáns

Aldagömul aðferð gegn öldrun húðar

Andlitsnudd má nota til að vinna gegn öldrun húðar.

Það er fátt sem veitir jafnmikla afslöppun og vellíðan og gott nudd. Flestir þekkja það sem leið til að losa um spennu og bólgur í vöðvum líkamans en færri gera sér grein fyrir að það má einnig nýta til að sporna gegn öldrun húðar.

Eftir því sem við eldumst lætur húðin meira og meira á sjá; vefirnir slappast, andlitið missir fyllingu og hrukkur myndast. Við höfum áður fjallað um hvernig sé mögulegt að hægja á þessu ferli með réttri húðumhirðu en einnig  má ná töluverðum árangri með því einu að nudda andlitið reglulega.

Andlitsnudd eykur blóðflæði til húðar sem eykur ljóma og þéttni hennar ásamt því að byggja upp vöðvana sem spornar gegn því að hún slappist niður.

Til eru ýmsar aðferðir við andlitsnudd og sumar þeirra hafa tíðkast í margar aldir,  til dæmis er talið að Kleópatra hafi nuddað andlit sitt til að viðhalda fegurð sinni. Á 19. öld notuðu svo geishurnar í Japan svokallað shiatsu-nudd, eða punktanudd. Þá eru fingurgómarnir notaðir til að þrýsta létt á valda punkta á andlitinu sem hjálpar sogæðakerfinu að losa um stíflur og úrgangsefni sem hafa safnast fyrir í húðinni.

Andlitsnudd eykur blóðflæði til húðar sem eykur ljóma og þéttni hennar ásamt því að byggja upp vöðvana sem spornar gegn því að hún slappist niður. Eftir eingöngu nokkra daga af endurteknu nuddi er hægt að sjá mikinn mun; vöðvarnir eru slakir svo ásýndin verður afslappaðri og unglegri og húðin glóir vegna aukins blóðflæðis og næringar.

Lykillinn að góðu andlitsnuddi er að nota andlitsolíu en einnig má nota  olíuhreinsi til að koma í veg fyrir að húðin dragist til en það eykur líka upptöku virku efnanna í olíunni því þeim er nuddað svo vel inn í húðina.

Andlitsnudd lífgar ekki aðeins upp húðina heldur hefur það einnig slakandi og endurnærandi áhrif á líkama og sál. Við notum andlit okkar og vöðva þess mun meira dagsdaglega en við gerum okkur grein fyrir. Því er algengt að fólk finni fyrir ýmsum streitutengdum einkennum, til dæmis spennuhöfuðverk eða augnþreytu sem má losa um með nuddinu.

Einfalt punktanudd fyrir andlit

1. Gott er að byrja með léttum en þéttum strokum upp á við og til hliðar, yfir bæði kinnar og enni, til að undirbúa húðina. Síðan eru fingurgómar löngutangar notaðir til að þrýsta á punkta á andlitinu.
2. Þrýst er á milli augabrúna og svo á þrjá punkta upp enni að hársrót. Því næst á miðjar augabrúnir og svo aftur þrjá punkta upp enni að hársrót. Sama aðferð er svo einnig endurtekin við enda augabrúna.
3. Næst er þrýst undir augun, frá nefi og á fjóra punkta að gagnauga. Endurtakið þrisvar sinnum.
4. Síðan er þrýst á sex punkta með fram kinnbeinum þangað sem kjálki og kinnbein mætast. Endurtakið þrisvar sinnum.
5. Undir miðnesi er þrýst á fjóra punkta með fram efri vör að munnvikum. Endurtakið þrisvar sinnum.
6. Þrýst er undir miðja neðri.vör, með báðum fingrum, svo þrjá punta niður miðja höku og endurtekið þrisvar sinnum.
7. Að lokum má klípa létt í húðina með vísifingri og þumalfingri. Á enni er klipið með fram augabrún, um það bil fjögur klíp, og endurtekið þrisvar. Síðan er klipið frá miðri höku og með fram kjálka, um átta klíp að eyra.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Vagga indverskrar matarmenningar í Bretlandi

Í Birmingham er af nógu að taka fyrir þá sem vilja krydda aðeins tilveruna með framandi mat. Margt annað áhugavert er þar líka í boði.

Birmingham er önnur stærsta borg Bretlands, London er stærst. Borgin hefur verið í stöðugri endurnýjun undanfarna áratugi svo byggingarnar eru ýmist mjög gamlar eða ofur nýtískulegar. Í borginni býr um milljón manna og þar ríkir mikið fjölmenningarsamfélag, sama hvað sagt er á FoxNews. Hún er mjög heppilega staðsett í miðju Englands, mitt á milli London og Manchester, svo það má segja að hún brúi bilið milli Norður- og Suður-Englands.

Í Birmingham er gaman að versla því þar er glæsileg verslunarmiðstöð sem nefnist The Bullring. Hún byggir á ríkri markaðshefð en það var fyrst árið 1154 sem markaðir voru haldnir á þessu svæði. Verslun og þjónusta hefur nú vitaskuld færst í nútímalegra horf og nýjasta byggingin líkist einna helst geimskipi og er merkileg á að líta, burtséð frá öllum verslunum sem þar leynast innandyra.

Allir vísindanördar ættu að gera sér ferð í Thinktank-vísindasafnið sem er að margra mati nútímalegasta vísindasafn heims. Þar eru tíu sýningarsalir sem eru stútfullir af fróðleik og skemmtun. Hægt er að fræðast um allt frá samgöngutækni að meltingarkerfi okkar og hvernig bragðlaukarnir virka.

Þeir sem vilja heldur skemmta sér úti í náttúrunni ættu að leggja leið sína í Cannock Chase- og Wyre-skóginn. Þar er að finna Go Ape sem er einn vinsælasti skógarskemmtigarðurinn í Bretlandi. Svífðu niður á milli trjáa á vír eða sveiflaðu þér um, eins og Tarzan, í þartilgerðum rólum. Þeir sem vilja heldur njóta náttúrunnar og umhverfisins í skóginum á rólegri máta geta ferðast um á Segway sem gerir þeim kleift að sjá meira á skemmri tíma en ef þeir væru fótgangandi.

Af nógu er að taka fyrir þá sem vilja krydda aðeins tilveruna með framandi mat en Birmingham er oft lýst sem vöggu indverskrar matarmenningar í Bretlandi. Þar er að finna eitt allrabesta úrval asískra og indverskra veitingastaða og það á sérstaklega við um hinn svokallaða Balti-þríhyrning, á mótum hverfanna Sparkbrook, Balsall Heath og Moseley. Balti er þunnur karríréttur upprunninn frá svæðinu í kringum Kasmír á landamærum Indlands og Pakistan og nafnið vísar til skálarinnar sem karríið er borið fram í.

Texti  / Hildur Friðriksdóttir

Íslenskar svefnrannsóknir á heimsmælikvarða

Erna Kristín

Margir þekkja það að fá ónógan svefn. Foreldrar ungbarna sem sofa illa á nóttunni, fólk sem starfar á óhefðbundnum tímum sólarhringsins og svo þeir sem eiga erfitt með að sofna á kvöldin. Jafnvel þeir sem hrökkva upp á nóttunni eða vakna fyrr á morgnanna en þeir hefðu ætlað sér. Einnig eru margir sem stytta svefn sinn, sérstaklega á virkum dögum vegna tímaskots. Þessu fylgir oft mikil vanlíðan, syfja og þreyta sem litar þá líðan fólks allan daginn.

Erna Sif Arnardóttir doktor í svefnrannsóknum segir þetta áhyggjuefni. „Flestir fullorðnir þurfa 7-8 tíma svefn til að líða vel þó sumir komast af með minni svefn eða aðrir þurfi lengri tíma. Margir freistast til að stytta svefninn í amstri dagsins og eru jafnvel að sofa einungis 5-6 tíma á virkum dögum en bæta sér það svo upp um helgar. Ég lýsi þessu oft sem jafngildi þess að borða óhollan mat í fimm daga og reyna svo að bæta það upp með salatáti í tvo daga, auðvitað betra að sofa alltaf of stutt en ekki hollt til lengri tíma.”

Reyndu að fara að sofa á svipuðum tíma og vakna á svipuðum tíma flesta daga, bæði á virkum dögum og um helgar. Þegar svefntíma er seinkað mikið um helgar, á fólk oft erfitt með að sofna á sunnudagskvöldum og fer þreytt og illa sofið inn í vinnuvikuna.

Prófaðu þig áfram með magn svefns sem þarft. Flestir þurfa 7-8 tíma en þetta er þó einstaklingsbundið, prófaðu að reyna að auka svefntíma kerfisbundið um 15 – 30 mínútur í einu og sjáðu hvort þú finnir fyrir bætri líðan.

Ef þú átt erfitt með svefn, að sofna á kvöldin, vaknar oft upp á nóttunni eða vaknar of snemma á morgnanna, skoðaðu svefnvenjur þínar. Best er þá að sleppa því að leggja sig í eftirmiðdaginn eða dotta yfir sjónvarpi því þetta getur haft neikvæð áhrif á nætursvefninn.

Slepptu öllu koffeini frá hádegi og sjáðu hvort svefninn batni við það. Gott að prófa slökun eða hugleiðsluæfingar til að hjálpa með svefninn.

Ef þú ert glaðvakandi um miðja nótt og hefur reynt slökun til að sofna er gott að fara fram úr rúminu, setjast og lesa frammi eða gera eitthvað sem fær þig til að hætta að hugsa um svefninn en er jafnframt slakandi. Þegar þú finnur aftur til syfju, þá geturðu farið aftur upp í rúm og reynt að sofna.

Prófaðu að sleppa snjallsímanum, spjaldtölvunni og sjónvarpinu síðustu klukkustundirnar fyrir svefn. Lestu frekar, farðu í bað eða annað slakandi. Þekkt er að tækjanotkun á kvöldin ýtir undir svefnleysi, sverfngæði versnar og og fólk er lengur að sofna. Einnig getur líkamsrækt seint um kvöld seinkað svefntíma.

Ítarlegt viðtal við Ernu má lesa í síðasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Minni diskar – minni skammtastærðir

Næringarfræðingurinn Christian Bitz hvetur fólk til að borða góðan og heilsusamlegan mat, án allra öfga, skyndilausna eða samviskubits.

Christian hefur hannað sérstakan borðbúnað sem er hugsaður og hannaður þannig að hann geri fólki auðveldara að stjórna skammtastærðunum og njóta matarins.

Christian Bitz er heilmikið til lista lagt, en hann er næringarfræðingur, metsölubókahöfundur, fyrirlesari og kemur reglulega fram í hinum ýmsu sjónvarpsþáttum í Danmörku. Hugmyndafræði hans byggir meðal annars á því að fólk lifi heilsusamlegu lífi og njóti þess að borða góðan og heilsusamlegan mat, án allra öfga, skyndilausna eða samviskubits. Hann hefur líka hannað sérstakan borðbúnað sem er hugsaður og hannaður þannig að hann geri fólki auðveldara að stjórna skammtastærðunum og njóta matarins.

Hvaðan kemur áhugi þinn á heilsu og mataræði?
Ég starfaði sem fyrirsæta víðsvegar um heiminn á tíunda áratugnum. Á þeim tíma þurfti ég að hugsa vel um eigin heilsu og áhugi minn jókst á því hvernig ég gæti náð hámarksárangri með réttu mataræði og hreyfingu. Í framhaldi af því ákvað ég að fara í nám og læra meira um það hvernig mataræði hefur í raun áhrif á líf okkar á hverjum degi.

Hverjir eru lykilþættir heilbrigðs lífstíls að þínu mati?
Fyrir það fyrsta þurfum við einfaldlega að byrja að njóta matarins aftur. Stundum einblínum við of mikið á megrun í stað matar. Síðan held ég að lykillinn að góðu mataræði og betri heilsu sé að borða rétt hlutfall kolvetna og próteins. Stærsta rannsókn sinnar tegundar, DIOGENES sem stendur fyrir Diet – Obesity – Genes, hefur sýnt fram á að besta hlutfallið sé 1:2 af kolvetnum og próteini.

Hvers vegna ákvaðstu að hanna borðbúnað?
Mitt markmið er að gera heiminn örlítið heilbrigðari. Með því að hanna minn eigin borðbúnað get ég verið við kvöldmatarborðið á hverju heimili. Allar kenningar mínar og uppskriftir geta notið stuðnings af réttum borðbúnaði og saman getur það leitt til heilbrigðara lífs.

Hver er hugmyndin eða innblásturinn á bak við borðbúnaðinn?
Grunnhugmyndin var að hanna kvöldmatardisk sem rúmar minna því allar rannsóknir sýna að minni diskar þýða minni skammtastærðir. Minni skammtastærðir þýða færri hitaeiningar og fólk er ekkert endilega líklegra til að fá sér aftur á diskinn.

Skiptir það máli að borðbúnaðurinn sé fallegur?
Ég vildi bæta auknum lit, óformlegheitum og ófullkomnun við matarborðið, þess vegna ákvað ég að nota hráan efnivið sem er innblásinn af norrænni náttúru. Ég tel að það að borða af fallegum diskum auki ánægjuna. Rannsóknir hafa líka sýnt að við skynjum mat á ólíkan hátt á svörtum, hvítum eða grænum diskum. Heilsusamlegur matur hefur líka lengi fengið á sig þann stimpil að hann sé óspennandi. Borðbúnaðurinn minn getur því kannski hleypt smávegis lífi í matseldina.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Úr einkasafni

Auktu hamingju þína með einföldum ráðum

Nokkur ráð til að auka hamingju sína.

Engin þörf er á því að verja stórfé eða snúa lífi sínu á hvolf til að hækka hamingjustigið hjá sér. Heilmargt er hægt að gera til að auka hamingju sína og hér eru nokkur ráð sem gott væri að tileinka sér.

Mikilvægi jákvæðra hugsana
Það er sérdeilis gott að venja sig á að hugsa jákvætt um sjálfan sig á hverjum degi, þó ekki væri nema í nokkrar sekúndur. Dást að nýju klippingunni fyrir framan spegilinn, þakka sér góðan árangur eða dugnað og annað í þeim dúr. Gott er líka að skrifa niður hugsanir sínar eins oft og hægt er og geyma þar sem aðrir sjá ekki, með því að koma þeim á blað nær maður samhengi hlutanna betur. Ekki hika við að deila góðum stundum með öðrum, til dæmis á Facebook eða snappinu.

Mikilvægi hvíldar
Hvíld er mikilvæg, ekki bara heima, heldur líka í vinnunni. Þegar mikið er að gera freistast maður til að fá sér snarl og borða það á meðan maður vinnur. Betra er að taka sér stutta pásu en enga og koma ferskari að verkefninu á eftir. Helgarfríum verja flestir í skemmtanir, ferðalög og annað slíkt en ekki má gleyma hvíldinni. Það tekur langan tíma að ná úr sér uppsafnaðri þreytu, svo verum ekkert að safna henni upp. Með því til dæmis að kíkja á tölvupóstinn sinn um leið og maður vaknar er maður sjálfkrafa kominn í vinnugírinn í stað þess að leyfa huganum að hvílast ögn lengur, eða þar til komið er til vinnu.

Litlar áskoranir
Finndu leið til að hrista upp í daglegri rútínu þinni til að hún festist ekki í fari. Lítil áskorun vikulega? Að brosa framan í einhvern ókunnugan sem gleður ekki bara viðkomandi, heldur einnig þig. Sjónvarps- eða símalaus dagur í algjörri ró. Eða klífa fjöll ef þú hefur ekki prófað það. Prófa nýjan kaffidrykk eða nýjan veitingastað. Allt til að breyta aðeins út af vananum.

Sniðugt er líka að gera alltaf eitthvað spennandi einn dag í viku. Það þarf ekki að vera stórt, kannski ilmandi freyðibað eða að byrja á nýrri bók, eitthvað sem þú getur hlakkað til alla vikuna. Föstudagar, í lok vinnuvikunnar hjá flestum, gætu verið hentugir.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Stundum er gott að sitja í sandinum og íhuga

Kristín Þorsteinsdóttir segir auðvelt að ferðast frá Singapúr um alla Asíu.

Kristín Þorsteinsdóttir hefur búið ásamt sambýlismanni og dóttur í Singapúr og er „stækkunarstjóri“ (e. Development Director) hjá alþjóðlegri hótelkeðju. Hún segir að helstu kostir staðarins séu gott skipulag, engir glæpir og þarna búi allra þjóða kvikindi í sátt og samlyndi sama hverrar þjóðar og trúar þeir eru. Aðalkosturinn sé þó hversu auðvelt sé að ferðast þaðan hingað og þangað um Asíu.

Vestur-Ástralía
Af öllum stöðum sem ég hef ferðast til síðan ég kom til Asíu held ég að þetta svæði sé í uppáhaldi. Borgin Perth í Ástralíu er ekki í nema rúmlega fjögurra tíma flugfjarlægð frá Singapúr. Þaðan er hægt að keyra með fram ströndinni að smábænum Margaret River sem er frægur fyrir víngerð og góðan mat. Svo er hægt að verja heilu dögunum við strendurnar þar sem enginn er yfirleitt sjáanlegur nema kannski háhyrningar að busla í flæðarmálinu. Ég er nú lítið fyrir að liggja í sólbaði en stundum er gott að sitja bara í sandinum og íhuga, eða horfa á brimbrettastrákana.

Balí, Indónesíu
Eyjan Balí er skammt frá okkur og þangað er vinsælt að fara yfir helgi til að hvíla sig í hinni loftkældu veröld verslunarmiðstöðvanna sem eru á hverju götuhorni í Singapúr. Indónesía er fjölmennasta ríki heims þar sem múhammeðstrú er iðkuð en Balí er eini staðurinn þar sem hindúar eru í meirihluta. Það setur sterkan svip á daglegt líf á eyjunni og skapar nokkuð sérstakt andrúmsloft sem mér finnst vera helsta aðdráttarafl Balí. Því miður er nokkur mengun við margar strendur á Balí og þær því ekki fýsilegur baðstaður. Þá er ráð að halda til bæjarins Ubud sem segja má að sé hið listræna hjarta Balí þar sem hægt er að stunda jóga og sötra lífrænan engifersafa. Já eða sleppa jóganu og fá sér bara bjór, eins og ég geri yfirleitt.

Kristín Þorsteinsdóttir hefur búið ásamt sambýlismanni og dóttur í Singapúr.

Japan
Ef tækifæri gefst einhvern tíma á lífsleiðinni til að fara til Japans þá ætti helst enginn að láta það úr greipum ganga. Japan var svo gott sem einangrað frá umheiminum í tvær og hálfa öld, allt til um 1850 og það útskýrir margt í menningu og háttum Japana þar sem ýmislegt kemur spánskt fyrir sjónir. Tókýó er við fyrstu sýn brjálæðisleg stórborg þar sem er auðvelt að týnast, enda engin furða því fæstar götur þar bera nöfn. En þegar betur að er gáð er borgin undarlega hljóðlát og íbúarnir ávallt boðnir og búnir að hjálpa týndum aðkomumönnum, jafnvel þótt enskukunnáttan hrökkvi skammt. Maturinn í Japan er líka kapítuli út af fyrir sig, kjúklinga-sashimi, fiskiaugu og japanskt majónes var meðal þess sem ég smakkaði í síðustu ferð og þótti gott.

Seoul í Kóreu
Kannski er ekki hægt að segja að þetta sé falleg borg enda var hún svo gott sem jöfnuð við jörðu í seinna stríðinu. Þó er búið að endurbyggja mikið af sögulegum byggingum og gaman að ganga um þar sem búddahof og ofurnýtískulegar skrifstofubyggingar standa hlið við hlið. Í Seoul er líka Gangnam-hverfið sem Psy nokkur gerði heimsfrægt í samnefndu lagi en þaðan koma margir af helstu tískustraumum í tónlist og klæðaburði sem ungt fólk í Asíu tileinkar sér. Lýtalæknar í Seoul þykja líka ansi lúnknir og eru dæmi um að dömur fái ekki að snúa til síns heima því þær líkjast ekki lengur myndinni í vegabréfinu eftir heimsókn til eins þeirra.

Sri Lanka
Eftir að borgarastríðinu lauk á þessari eyju við Indland hefur ferðamannastraumurinn aukist jafnt og þétt og skal engan undra því þetta er falleg eyja, íbúarnir indælir og margt að sjá og skoða. Þarna fórum við í safaríferð í Yala-þjóðgarðinum þar sem fíll stal nestinu, lærðum ýmislegt um tedrykkju (Sri Lanka er einn helsti teframleiðandi í heimi) og skoðuðum Tannhofið í borginni Kandí þar sem sagt er að tönn úr sjálfum Búddah sé varðveitt. Eyjan er heilagt vé meðal þeirra sem aðhyllast búddisma.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Útbúðu þig rétt fyrir útivistina

Góð ráð fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt á veturna.

Það er engin ástæða til þess að stunda ekki útivist á veturna, svo lengi sem maður útbýr sig rétt. Hér eru nokkur góð ráð fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt á veturna.

Vertu sýnilegur
Þegar dagurinn styttist neyðast margir til a fara út að hlaupa eða hjóla í rökkri. Þá er mjög mikilvægt að vera í fötum með endurskinsrákum. Best er að endurskinið sé á hand- og fótleggjum því það eru þeir hlutar líkamans sem eru á hreyfingu og grípa ljós frá bílum. Ef þú ert mikið fyrir að hlaupa í náttúrunni getur verið sniðugt að vera í litríkum eða áberandi klæðnaði að ofan ef svo óheppilega vill til að þú týnist eða villist, þá er auðveldara að koma auga á þig úr fjarlægð.

Ekki dúða þig um of
Það getur verið freistandi að klæðast öllum sínum hlýjustu fötum þegar veðrið er sem kaldast en það getur stundum haft þveröfug áhrif. Þú byrjar nefnilega að svitna sem gerir það að verkum að fötin verða rök og þá getur orðið mjög óþægilegt að hreyfa sig. Þér er einnig hættara á ofkælingu ef þú ert úti til lengri tíma. Þumalputtareglan er að klæða sig eins og það sé 5°heitara en það er í raun.

Ekki geyma símann í vasanum
Það er vissulega gáfulegt að taka símann ávallt með sér þegar þú stundar líkamsrækt utandyra.  Jafnvel þó ekkert alvarlegt gerist þá getur verið gott að geta hringt í einhvern til að ná í þig þegar þú ert örmagna 5 km frá heimili þínu. Á veturnar getur síminn hins vegar ofkólnað eða blotnað ef hann er geymdur í utanáliggjandi vasa. Reyndu að velja föt með vösum innan á eða vera með litla tösku sem þú getur verið með innanklæða.

Ekki þurrka skóna á ofni
Flestir hlaupaskór eru úr dýrum plastefnum eða leðri sem geta auðveldlega skemmst í of miklum hita. Besta ráðið til að þurrka gegnblauta skó er að troða dagblöðum inn í skónna sem draga í sig rakann – mundu bara að skipta dagblöðunum út eftir þörfum.

Strax úr fötunum
Margir gera þau mistök að fara að sinna einhverjum verkefnum um leið og þeir koma inn úr dyrunum – hvort sem það er kvöldmatargerð, sjónvarpsgláp eða tékka á tölvupósti. Þegar maður kemur inn úr kuldanum er fyrir öllu að fara strax úr rökum íþróttafötum, í volga sturtu og svo í þurr föt.

Smjúga inn fyrir húðina og snerta hjartað í manni

Ævintýri, ferðalög og eitthvað matarkyns.

My Grandmother Asked Me to Tell You She’s Sorry eftir Fredrik Backman er falleg saga af sambandi ömmu við barnabarn sitt.

Smámyndasmiðurinn eftir Jessie Burton
Þetta er ein þessara bóka sem smjúga inn fyrir húðina og snerta hjartað í manni. Þegar hin sextán ára gamla Nella kemur til Amsterdam til að hefja nýtt líf sem gift kona eru móttökurnar ekki í neinu samræmi við það sem hún bjóst við. Eitthvað er á seyði í húsinu sem hún skilur ekki og það er erfitt að taka stjórnartaumana úr höndum systur eiginmanns hennar og þjónarnir eru ósvífnari en hún á að venjast. Eiginmaðurinn gefur henni skáp sem er eftirmynd hússins þeirra og þar fær hún frjálsar hendur með að innrétta. Nella leitar til smámyndasmiðs til þess en sá virðist vita meira um líf hennar en þægilegt er. Hver eru skilaboð smámyndasmiðsins, hver er hann og hvers vegna veit hann allt, eru spurningar sem Nella er neydd til að spyrja. Þessi bók er einstaklega vel skrifuð og sumar setningar svo meitlaðar að þær verður að lesa aftur og aftur. Hugsanlega á þýðandinn, Magnea J. Matthíasdóttir sinn þátt í því en að minnsta kosti er þetta bók sem unnendur fallegs stíls ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

Falleg fantasía eftir Fredrik Backman
My Grandmother Asked Me to Tell You She’s Sorry eftir Fredrik Backman er falleg saga af sambandi ömmu við barnabarn sitt. Amman hefur sagt því sögur um ævintýralönd, prinsessur, kónga, skugga og skepnur frá því barnið var lítið en eftir dauða hennar kemur í ljós að fantasíurnar áttu sér stoð í raunveruleikanum. Litla stúlkan, Elsa, er óvenju greind og fær það hlutverk að færa öllum í fjölbýlishúsinu þar sem hún býr bréf frá ömmu þar sem hún biðst fyrirgefningar. Amman var þó ekki völd að sorgum flestra íbúanna en bréfin hennar verða til þess að hægt verður að byrja að lækna gömul sár. Bókin er dásamleg blanda af ævintýrum og raunveruleika og einstaklega vel gerðar persónur setja sterkan svip á hana. Þessi bók hefur komið út á íslensku og heitir í þýðingunni Amma biður að heilsa.

Vegur vindsins eftir Ásu Marín
Afar skemmtileg ferðasaga um Elísu sem ákveður að ganga Jakobsveginn eftir að hafa fengið slæmar fréttir. Þrátt fyrir unga kærastann sinn og stressaða foreldra vill hún vera ein þessar vikur sem gangan tekur. Elísa kynnist skrautlegu fólki á leið sinni en lengst af gengur hún ein og kynnist sjálfri sér betur. Þetta er verulega skemmtileg bók og vel skrifuð, það er eins og lesandinn sé samferða Elísu og fari með henni í gegnum súrt og sætt. Fyrsta skáldsaga höfundar og vonandi ekki sú síðasta.

Ótrúleg saga Indverja … eftir Per J. Andersson
Sönn saga um Indverja sem elti ástina sína til Svíþjóðar. Þetta er ekki bara ferðasaga heldur lýsir hún vel hvernig er að fæðast inn í stétt hinna ósnertanlegu, eins og Píkei, söguhetjan. Hann fær að fara í skóla en ekki sitja í sömu stofu og krakkarnir, heldur úti á verönd. Við fæðingu sagði stjörnuspekingur þorpsins að hann myndi giftast konu frá öðru landi. Þegar hann hittir hina sænsku Lottu í Nýju Delí er hann orðinn þekktur götulistamaður og verður fullviss um að Lotta sé sú rétta. Verulega skemmtileg og fróðleg bók um ást sem sigrar allt.

Eitthvað ofan á brauð eftir Nönnu Rögnvaldardóttur
Nýjasta bókin hennar Nönnu er bráðsniðug, notadrjúg og gefur hugmyndir. Hversu leiðigjarnt er ekki að fá sér alltaf það sama ofan á brauðið sitt?
Salöt, sætmeti, sultur og paté, viðbit og mauk … það er allt þarna, meira að segja lemon curd. Hér eru góðar hugmyndir fyrir þá sem þurfa að taka með sér nesti eða smyrja fyrir börnin, halda saumaklúbb eða partí. Uppskriftir eru miðaðar við kjötætur, grænkera og allt þar á milli. Þetta er falleg bók sem Nanna myndskreytir sjálf og að vanda eru uppskriftirnar hennar einfaldar og aðgengilegar.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Einfaldar og ódýrar leiðir til að fegra heimilið

Það þarf ekki að kosta formúu að hressa svolítið upp á heimilið.

Það þarf alls ekki að kosta formúu að hressa svolítið upp á heimilið. Oft og tíðum er ekki einu sinni nauðsynlegt að breyta miklu því litlar breytingar geta gert ótrúlega mikið fyrir hvert rými.

Auðvelt er að bæta dálitlum lit og stíl í rými með því að nota fallega vefnaðarvöru, svo sem púða, teppi, mottur eða gluggatjöld.

Vefnaður
Auðvelt er að bæta dálitlum lit og stíl í rými með því að nota fallega vefnaðarvöru, svo sem púða, teppi, mottur eða gluggatjöld.

Gamaldags gardínur hafa undanfarin ár fengið að fjúka fyrir rúllu-, strimla- eða rimlatjöld en nú er tíminn til að snúa þeirri þróun við.

Litríkir púðar og teppi geta gefið gömlum sófa nýtt líf. Okkur hættir til að gleyma því að skreyta gólfið en falleg gólfmotta getur dregið saman ólík stílbrigði í herberginu og myndað heildarsvip.

Ljós
Rétt lýsing getur umturnað rými. Síðustu ár hefur borið enn meira á því að fólk velur að kaupa ljósakrónur eftir þekkta hönnuði sem skapa flott lúkk.

Mikilvægt er að hafa fjölbreytt úrval – bæði loftljós, veggljós, gólf- og borðlampa. Þannig er hægt að skapa mismunandi stemningu eftir því hvaða ljós eru kveikt.

Töff ljósakróna getur sett punktinn yfir i-ið í vel stíliseruðu rými.

Húsgögn
Ekki hika við að blanda saman ólíkum húsgögnum – nýjum, gömlum, litríkum, náttúrulegum eða hverjum sem þér dettur í hug.

Til dæmis getur verið töff að hafa marga ólíka borðstofustóla við borðstofuborðið – það er þó vert að hafa í huga að sætin séu í svipaðri hæð á öllum stólunum.

Hugsaðu aðeins út fyrir rammann, gömul kommóða getur öðlast nýtt líf sem vaskaborð.

Veggir
Það má skreyta veggi heimilisins með ýmsu móti – málningu, veggfóðri eða bara safni af fallegum myndum í vel völdum römmum.

Hér á árum áður voru allir veggir herbergis veggfóðraðir í hólf og gólf. Í dag er kannski meira töff að velja einn vegg sem fær þá alla athyglina.

Það er engin ein rétt leið til að raða myndum upp á vegg – fylgdu eigin sannfæringu. Margir vilja meina að grár sé heppilegasti liturinn til að mála veggi ef þú vilt láta myndirnar „poppa“.

Íslensk ungmenni þjást af klukkuþreytu

Erna Sif Arnarsdóttir doktor í svefnrannsóknum segir unglinga meiri nátthrafna en fólk á öðru æviskeiði. „Á Íslandi er hærra hlutfall unglinga sem eru nátthrafnar en í löndunum sem við berum okkur saman við, líklegasta skýringin er röng staðarklukka. Við vitum að unglingar sem upplifa mikla klukkuþreytu, þ.e.a.s. misræmi á eigin líkamsklukku og sólargangs eru líklegri til að stunda fyrir áhættuhegðun svo það er til mikils að vinna að auka svefntíma þessa viðkvæma hóps. Einnig er áhyggjuefni hve mörgum íslenskum ungmennum er ávísað melatóníni en lítið er vitað um langtímaáhrif þessa lyfs sem hugsað er fyrir 55 ára og eldri.”

„Á Íslandi er hærra hlutfall unglinga sem eru nátthrafnar en í löndunum sem við berum okkur saman við, og líklegasta skýringin á þessum mun er röng staðarklukka.”

Erna Sif er formaður Hins íslenska svefnrannsóknarfélags en félagsmenn hafa lengi barist fyrir leiðréttingu staðarklukku Íslands í samræmi við sólargang. „Á Íslandi er hærra hlutfall unglinga sem eru nátthrafnar en í löndunum sem við berum okkur saman við, og líklegasta skýringin á þessum mun er röng staðarklukka. Um þetta leiti árs er sól hæst á lofti í Reykjavík um 13.30 og á Egilsstöðum um 13.00 í stað hádegis. Því er það þannig að þegar við vöknum kl 7 á morgnanna, er þorri Íslendinga í raun að vakna kl 5.30.”

Ítarlegt viðtal við Ernu má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hafa elst ótrúlega vel

Klassískar þríleikir og bókaflokkar sem njóta enn vinsælda.

Sjöwall og Wahlöö-bækurnar
Bækur hjónanna Sjöwalls og Wahlöö (sjá mynd hér að ofan) urðu tíu talsins. Þær eru taldar hafa markað tímamót í bókmenntasögunni og haft mikil áhrif á þá höfunda sem á eftir fylgdu. Aðalpersónan, sænski lögreglumaðurinn Martin Beck, er engin ofurhetja heldur ósköp venjulegur maður sem glímir við sín vandamál. Bækurnar komu út á árunum 1965-1975 og hafa elst ótrúlega vel. Meðal þeirra má nefna Morðið á ferjunni, Löggan sem hló, Pólís, pólís og Maðurinn á svölunum. Þær hafa verið þýddar á fjölda tungumála og nokkrar þeirra hafa verið kvikmyndaðar.

Ísfólkið
Bækurnar um Ísfólkið urðu alls 47 og fóru að koma út á Íslandi fyrir rúmum þrjátíu árum. Þær voru endurútgefnar af Jentas í nýrri þýðingu fyrir nokkrum árum. Í stuttu máli segja þær frá baráttu afkomenda Þengils hins illa við að aflétta þeim álögum sem hann lagði á einn í hverri kynslóð. Baráttan stendur yfir öldum saman og lesandinn fær að fylgjast með örlögum afkomendanna. Þetta eru magnaðar bækur sem grípa mann föstum tökum. Þetta eru einu bækurnar sem hér eru nefndar sem ekki hafa verið kvikmyndaðar, það hefur verið reynt en ekki tekist, einhverra hluta vegna.

Hringadróttinssaga
Stórkostlegar bækur eftir J.R.R. Tolkien. Þær komu fyrst út árin 1954 og 1955 í þremur bindum. Í þeim segir frá hobbitanum Fróða Bagga sem eignast dularfullan hring. Fljótlega kemur í ljós að eina leiðin til að stöðva hinn illa Sauron, sem hyggur á yfirráð í Miðgarði, er að fara með hringinn eina til Mordor og eyða honum þar. Fróði fer í þessa hættuför með fríðu föruneyti og lendir í mörgum ævintýrum á leiðinni. Bækurnar voru kvikmyndaðar og myndirnar eru mjög flottar og nutu gríðarlegra vinsælda. Endilega samt ekki sleppa því að lesa bækurnar, þær eru einstakar.

Lisbet Salander tölvuséní og Mikael Blómkvist blaðamaður eru frábært teymi.

Millenium-þríleikurinn
Stieg Larsson skrifaði þrjár flottar og spennandi bækur sem náðu miklum vinsældum um heiminn. Hann lést óvænt áður en sú fyrsta kom út, aðeins fimmtugur að aldri, en hafði ætlað að skrifa fleiri bækur um þau Mikael Blómkvist blaðamann og Lisbet Salander tölvuséní sem eru frábært teymi. Bækurnar voru auðvitað kvikmyndaðar og völdust einstaklega flottir leikarar í hlutverkin. Fjórða bókin, auglýst úr smiðju Stiegs heitins, kom út á síðasta ári en tilurð hennar var umdeild. Mér fannst hún ágæt spennusaga en David kemst þó ekki með tærnar þar sem Stieg hafði hælana.

Harry Potter
Bækurnar um hugrakka galdrastrákinn með eldingarlaga örið á enninu eru sjö talsins, hver annarri skemmtilegri. Þær höfða til allra aldurshópa og fólk beið í löngum röðum eftir hverri nýrri bók. Höfundur bjó til einstaklega spennandi heim galdra og töfra, baráttu góðs og ills þar sem hið góða fer yfirleitt með sigur af hólmi. Hún er líka töfrum slungin sagan af höfundinum, fátækri, einstæðri móður sem breytti lífi sínu með því að gefa heiminum þessar dásamlegu ævintýrabækur. Börn sem áður lásu ekki sér til skemmtunar, sökktu sér niður í þessar bækur og þegar kvikmyndir voru gerðar eftir þeim slógu þær líka í gegn.

Sjöwall og Wahlöö-bækurnar
Bækur hjónanna Sjöwalls og Wahlöö urðu tíu talsins. Þær eru taldar hafa markað tímamót í bókmenntasögunni og haft mikil áhrif á þá höfunda sem á eftir fylgdu. Aðalpersónan, sænski lögreglumaðurinn Martin Beck, er engin ofurhetja heldur ósköp venjulegur maður sem glímir við sín vandamál. Bækurnar komu út á árunum 1965-1975 og hafa elst ótrúlega vel. Meðal þeirra má nefna Morðið á ferjunni, Löggan sem hló, Pólís, pólís og Maðurinn á svölunum. Þær hafa verið þýddar á fjölda tungumála og nokkrar þeirra hafa verið kvikmyndaðar.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Mætt eftir fimm ára fjarveru

Femínískir rapptónleikar

Ragna var í fyrstu íslensku hipphopp hljómsveitinni og lengi eina stelpan í rappi á Íslandi.

Þann 20. janúar verða hipphopp kvennatónleikar í Gamla bíói með nokkrum að skærustu kvenröppurum landsins. Ragna Kjartansdóttir eða Cell7 er ein þeirra sem stígur á svið en hún hefur verið utan sviðsljóssins í nokkur ár.

„Ég blikkaði bara og það liðu fimm ár, ég skil þetta ekki,“ svarar Ragna hlæjandi þegar hún er spurð út í fjarveruna. „Ég er í fullu starfi sem hljóðmaður og lenti í mikilli vinnutörn en á sama tíma var ég að koma mér fyrir í studíói þar sem ég vinn að tónlistinni. Svo eignaðist ég dóttur mína þarna inn á milli.“

Hún sendi frá sér sólóplötu árið 2013 og vinnur nú að nýrri sem kemur út seinna á árinu. Lagið City Lights verður á þeirri plötu en það er þegar komið í loftið og hefur vakið mikla athygli ekki síst fyrir myndbandið.

Þær sem koma fram á tónleikunum auk Cell7 eru Alvia, Fever Dream, Krakk & Spaghettí, Reykjavíkurdætur og Sigga Ey. Milli atriða mun svo Dj De La Rosa halda uppi stemningunni. Miðar fást á tix.is og nánari upplýsingar eru á Facebook-síðunni Puzzy Patrol.

Viðtal við Rögnu er í 3. tölublaði Vikunnar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Múta verðinum með sígarettupakka“

Ellen Björnsdóttir segir frá uppáhaldsstöðum sínum á svæðinu Shanghai.

Ellen Björnsdóttir er heimavinnandi húsmóðir í Shanghai en hún er í starfsleyfi hjá Volvo Truck þar sem hún vinnur í innkaupum. Hún hefur búið í Shanghai í næstum fjögur ár ásamt fjölskyldu sinni og hundinum Barney. Við fengum hana til að segja okkur frá uppáhaldsstöðum sínum á svæðinu.

„Margir kostir fylgja því að búa í Shanghai ekki síst að upplifa menningu sem er ólík öllu sem við erum vön. Við búum í hverfi þar sem fólk allsstaðar að úr heiminum býr svo núna eigum við vini frá öllum heimshornum. Við höfum ferðast mikið síðan við fluttum hingað, svolítið um Kína en mest um alla Asíu,“ segir Ellen. Eiginmaður hennar heitir Styrmir og þau eiga dæturnar Leu, 20 ára, og Sögu, 19 ára og Styrmir á soninn Davíð, 24 ára.

The Bund
Uppáhaldsstaður minn í Shanghai er The Bund sem liggur við ána Huangpu sem skiptir Shanghai í tvo hluta; Pudong í austri og Puxi í vestri. Ég fæ aldrei nóg af útsýninu frá Puxi yfir Huangpu-ána til nýja hverfisins í Pudong og skýjakljúfanna. Gaman að ganga að degi til í mannfjöldanum sem safnast saman með fram ánni og enn betra er að njóta útsýnisins þegar dimmir og ljósin kvikna á turnunum hinum megin við ána. Á Vue-bar á 32.-33. hæð á Grand Hyatt-hótelinu er útsýnið best yfir The Bund á meðan ljósin kvikna.

Yuyuan Garden
Í gamla hverfinu í Shanghai er Yuyuan Garden, því litla sem enn er til, og er yfirleitt fullt af ferðamönnum, mest kínverskum annars staðar frá Kína en líka vestrænum. Þar er brúin sem byggð er í sikk sakk til að illir andar nái ekki til þín, en talið er að þeir geti ekki beygt, og svo fallegir steinagarðar. Ég mæli með því að þið fáið ykkur dumplings að borða í garðinum og þó að raðirnar séu oftast langar er það vel þess virði. Verið viðbúin því að teknar séu myndir af ykkur, gjarnan með Kínverjum. Skemmtilegast er að fara í kvöldhjólatúr um gamla hverfið, múta verðinum með sígarettupakka og fá þar af leiðandi að hjóla einn í gegnum mannlausan garðinn.

Yuyuan Garden.

Zhujiajiao Ancient Town
Þessi fallegi vatnabær er í um það vil 40 mínútna akstursfjarlægð frá Shanghai. Þar eru síki og fallegar brýr en síkin voru hér áður fyrr notuð til að koma varningi á milli staða. Fallegasta brúin heitir Fangsheng Bridge og hægt er að fara í bátsferðir um síkin. Gaman er að ganga um gömlu göturnar, þarna eru mörg kósí kaffihús, barir, ekta kínverskir veitingastaðir og skemmtileg lítil listagallerí ásamt verslunum sem selja silkiklúta, silkisængur og kínverska minjagripi svo eitthvað sem nefnt. Einnig eru nokkur söfn og skemmtilegir garðar sem gaman er að skoða. Hægt er að komast þangað með rútu frá nokkrum stöðum í Shanghai eða taka leigubíl ef maður er tilbúinn í fjörtíu mínútna spennandi ferðalag.

Shanghai World Financial Center
Ein af hæstu byggingunum í Kína, Shanghai World Financial Center, er í nýja hverfinu í Pudong nálægt Huangpu-ánni. Í þessum skýjakljúfi eru hótel, skrifstofur, veitingastaðir, skemmtistaðir og verslanir. Hægt er að fara með lyftu upp á 97. hæð og njóta þess sem fyrir augum ber frá útsýnispalli í 474 metra hæð. Skemmtilegast finnst mér að fara á 96. hæðina og njóta þess að borða hádegismat með þessu frábæra útsýni. Vanda þarf val á degi því útsýnið er ekki alltaf jafngott vegna loftmengunar. Þetta er ekki fyrir lofthrædda.

Sichuan Citizen
Veitingastaðurinn Sichuan Citizen er einn af mínum uppáhalds í Shanghai. Maturinn er frá Sichuan-héraðinu og er ekta kínverskur sterkur matur. Þar er alltaf góð blanda af Kínverjum og ferðamönnum og góð stemning. Einkennisdrykkur staðarins heitir Basil Drops og þið megið alls ekki láta hann fram hjá ykkur fara. Fólk kemur á þennan stað bara til að fá þennan drykk. Flestir þjónarnir tala ensku og ef ekki þá sækja þeir enskumælandi þjón. Staðurinn er í franska hverfinu svo það er ekki langt í næsta skemmtilega bar eða kaffihús ef fólk vill eiga gott kvöld í Shanghai.

Aðalmynd: Ellen við The Bund.
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Mikilvægt að huga vel að húðinni á meðan maður ferðast

Ráðleggingar um vörur sem gott er að hafa meðferðis í handfarangri.

Það getur tekið sinn toll á húðina að ferðast erlendis því um borð í flugvélum er afar þurrt loft. Þess vegna fer húðin að sýna merki rakaskorts. Það þýðir að þurr húð verður þurrari en feit húð verður enn feitari því fitukirtlarnir fara á fullt við að vinna á móti rakatapinu. Þess vegna er ekki síður mikilvægt að huga vel að húðinni á meðan maður er um borð. Hér eru nokkrar ráðleggingar um vörur sem gott er að hafa meðferðis í handfarangri.

Alls ekki gleyma að drekka nóg af vatni.

Sótthreinsandi klútar: Það er nauðsynlegt að byrja á því að sótthreinsa á sér hendurnar áður en þú ferð að snerta á þér andlitið. Klútar hafa það fram yfir handspritt að þeir fjarlægja líka megnið af óhreinindum af höndunum. Fyrst þú ert byrjuð, hví ekki strjúka klút yfir borð, sætisarma og beltissylgju og tryggja þannig að þeir fletir sem þú snertir mest séu líka lausir við bakteríur.

Hreinsiklútar: Í lengra flugi, til dæmis til Norður-Ameríku, er langbesta ráðið að þrífa strax allan farða af húðinni þannig að þú getir notað alvörurakasprengjur til að vinna gegn þurra loftinu um borð. Þægilegast er að nota þartilgerða hreinsiklúta því þeir teljast ekki til vökva í handfarangri og þú þarft ekki að komast í vatn til að þrífa húðina. Hafðu í huga að þú þarft alltaf að nota fleiri en einn klút á andlitið.

Maski eða olía: Þegar þú ert búin að taka af þér farðann, eða gerðist svo djörf að mæta ómáluð, þá er næsta skref að gefa húðinni eins mikinn raka og mögulegt er. Hér duga ekki venjuleg rakakrem heldur er betra að nota rakaserum, andlitsolíu eða einfaldlega maska. Upp á síðkastið hafa komið á markað svokallaðir svefnmaskar sem er ekki nauðsynlegt að þrífa af og eru í raun ofurnæturkrem. Einnig grípa sumir til þess ráðs að setja á sig taumaska en þú verður þá að vera tilbúin til þess að líta út eins og múmía á meðan. Hvað sem þú kýst að nota gildir það að bera oft og mikið á.

Rakagefandi sprey: Í styttra flugi er kannski ekki ástæða til að fjarlægja af sér allan farða til að setja á sig olíu eða maska, þó að sumar geri það. Við verðum samt sem áður að passa að veita húðinni nægan raka og þá geta rakagefandi andlitsvötn komið að góðum notum. Þau innihalda flest rakagefandi efni svo sem aloe vera eða hyaluronic-sýru en sum þeirra innihalda einnig plöntuolíur. Hægt er að fá mörg þessara andlitsvatna í spreyformi sem má þá spreyja yfir allt andlitið, jafnvel þótt það sé farðað, og við mælum með því að spreyja að minnsta kosti eina umferð á klukkutíma fresti meðan þú ert um borð.

Varasalvi: Vegna þess að í vörum okkar eru engir fitukirtlar stóla þær á utanaðkomandi raka, hvort sem það er úr varasalva eða munnvatni. Varasalvar eru mjög mismunandi, sumir innihalda vaselín og eru fyrst og fremst fyrirbyggjandi gegn þurrki og henta því ágætlega í flug en aðrir innihalda góðar náttúrulegar olíur sem mýkja húðina og veita raka. Báðar týpur henta vel í flug þannig að það er bara um að gera að velja þann sem þér þykir bestur.

Augndropar: Þurrt flugvélaloftið hefur líklega mest áhrif á augu okkar og til að gera ástandið enn verra erum við oft að horfa á kvikmyndir eða lesa bækur á upplýstum skjám sem erta líka augun. Þau verða því oft þurr og rauð og okkur klæjar í þau. Þess vegna er mjög sniðugt að ferðast með augndropa með sér til að róa augun og gefa þeim raka.

Vatnsflaska: Alls ekki gleyma að drekka nóg af vatni.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Leyndardómsfullir staðir sem eru flestum lokaðir

Víða um heim eru staðir með takmarkað aðgengi og aðrir sem eru harðlokaðir almenningi.

Þegar við ferðumst viljum við reyna að sjá sem mest og fá eins mikið út úr ferðalaginu og hægt er. Sums staðar rekumst við þó á veggi því margir staðir í heiminum hafa takmarkað aðgengi og aðrir eru harðlokaðir almenningi. Hér má lesa um nokkur þeirra og Ísland á að sjálfsögðu sinn fulltrúa.

Lascaux-hellamyndirnar.

Bohemian Grove
Bohemian-klúbburinn í Monte Rio, Kaliforníu samanstendur af ríkasta og valdamesta fólki heims. Á stórri og skógivaxinni landareigninni getur það skemmt sér án þess að almúginn flækist fyrir. Það kostar 25 þúsund dollara, rúmlega 3,2 milljón krónur, að ganga í klúbbinn og árgjaldið er 5 þúsund dollarar, eða um 640 þúsund krónur. Ekki fær þó hver sem er að verða meðlimur og þeir sem reyna að lauma sér óboðnir inn á svæðið verða umsvifalaust handteknir. Athyglisverður klúbbur sem er sagður búa yfir mörgum leyndarmálum.

Lascaux-hellamyndirnar
Hinn átján ára Marcel Ravidat, ásamt þremur vinum sínum, fann hellinn með þessum forsögulegu hellamyndum þann 12. september 1940. Átta árum síðar voru hellarnir opnaðir almenningi og allt að 1200 manns heimsótti þá daglega. Um 2000 myndir/fígúrur er að finna á veggjunum, bæði af mönnum og dýrum og einnig abstrakttákn. Myndirnar eru taldar vera rúmlega 17 milljón ára gamlar. Strax árið 1955 var komið í ljós að þessi umgangur fór illa með minjarnar en það var ekki fyrr en árið 1963 að var hellunum lokað almenningi.

Örkin hans Nóa á Svalbarða
Á norsku eyjunni Svalbarða er að finna hvelfingu sem byggð er langt inn í fjall. Hún geymir miklar fræbirgðir í öryggisskyni ef eitthvað alvarlegt gerist í heiminum og hungursneyð blasir við. Aðeins starfsmenn og stöku vísindamenn fá aðgang að hvelfingunni en of áhættusamt þykir að hleypa öðrum þar inn. Um 865 þúsund frætegundir alls staðar að í heiminum er að finna þar. Meira að segja Norður-Kórea á þarna innlegg. Fræhvelfingin var tekin í notkun árið 2008 og þegar hefur ein úttekt farið fram, nú nýlega þegar frægeymsla Sýrlendinga í Aleppo var eyðilögð í sprengjuárás.

Svæði 51
Bandaríkjamenn hafa loks viðurkennt tilvist þessa staðar í Nevada eftir áralangar klikkaðar samsæriskenningar um hann. Það þýðir þó ekki að almenningur sé velkominn þangað.

Menwith Hill 
Vissulega getur maður ekki spígsporað inn í hvaða herstöð sem er. Almenningur er þó sérlega óvelkominn á herstöð breska flughersins í Norður-Yorkshire í Bretlandi þar sem hin bandaríska NSA-leyniþjónusta hefur aðstöðu en leyndin er aðalsmerki hennar. Hún er sögð mikilvægasta herstöð Bandaríkjanna á erlendri grund. Stærsta hlerunarstöð heims?

Surtsey
Eyjan varð til í eldgosi sem hófst árið 1963 og hefur verið friðlýst frá 1965. Markmiðið var að tryggja að þróun eyjarinnar verði eftir lögmálum náttúrunnar, að landnám plantna og dýra, framvinda lífríkis og mótun jarðmyndana verði með sem eðlilegustum hætti og truflun af völdum manna sem minnst. Óheimilt er að fara í land eða kafa við eyna nema til rannsókna og verkefna þeim tengdum og þá aðeins með skriflegu leyfi Umhverfisstofnunar. Siglingar í kringum Surtsey eru þó heimilar. Þess má geta að Vestmannaeyingar vildu ólmir að eyjan fengi nafnið Vesturey en fengu ekki.

Hvítukarlaklúbburinn í London
Hann heitir White’s Gentleman’s Club, og þar drekkur og spilar bresk karlkynselíta. Umsækjendur þurfa samþykki 35 meðlima og árgjaldið er himinhátt.

Í þessu leynda safni Vatikansins eru geymd flest þau skjöl sem Páfastóll hefur sankað að sér.

Skjalasafn Vatikansins
Í þessu leynda safni eru geymd flest þau skjöl sem Páfastóll hefur sankað að sér. Hluti safnsins var opnaður árið 1922 og nokkru síðar sá sem tengist seinni heimsstyrjöldinni. Mikil leynd hefur hvílt yfir stærstum hluta safnsins og margar samsæriskenningar hafa orðið til um hvað það hefur að geyma.

MF: Ilha da Queimada Grande
Brasilísk eyja sem er sundurgrafin af nöðrum og þarf ekki annað en að ganga nokkur skref til að eiga á hættu að missa lífið. Aðeins örfáir vísindamenn hafa leyfi til að heimsækja þessa snákaeyju.

Niihau
Þessi eyja er ein af Havaí-eyjaklasanum. Ástæðan fyrir því að enginn má koma þangað er sú að hún er í einkaeign. Um 130 manns búa þar en aðeins þeir sem Robinson-fjölskyldan býður mega koma í heimsókn.

Jiangsu-alþjóðaleynifræðslusafnið
Jiangsu National Security Education Museum er staðsett í Nanjing í Kína og er eingöngu opið kínverskum almenningi. Öllum öðrum er úthýst vegna viðkvæmra njósnaupplýsinga sem þar er að finna.

Heard-eyja
Aðeins 400 manns er leyft að heimsækja þessa áströlsku eyju ár hvert. Bátur fer þangað á tveggja vikna fresti yfir úfinn sjó og veðurfarið er svo ömurlegt að frekar fáir eru hvort eð er spenntir fyrir að berja eyjuna augum.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Furðu mikið að gera og sjá í Óðinsvéum

Sveinn Sigurðsson mælir með áhugaverðum stöðum í Óðinsvéum.

Sveinn Sigurðsson bjó í miðbæ Óðinsvéa árin 2013-2015 þar sem hann var í námi í University of Southern Denmark og útskrifaðist með meistaragráðu í vörumerkjastjórnun og markaðssamskiptum. Hann er nú í atvinnuleit og bloggar um bjór hjá nobsbrewing.com.

„Þrátt fyrir að Óðinsvé sé þriðja stærsta borg Danmerkur með rúmlega 170 þúsund íbúa þá minnir borgin meira á smábæ. Íbúarnir eru virkilega vingjarnlegir og taka sérstaklega vel á móti Íslendingum,“ segir Sveinn sem bjó þar í tvö ár ásamt kærustu sinni, Þóreyju Richardt Úlfarsdóttur, og þar fæddist sonur þeirra, Almar Darri. „Í borginni eru margir viðburðir og hátíðir allan ársins hring, til dæmis H.C. Andersen Festival, Harry Potter-hátíð, Danski bjórdagurinn og tónlistarhátíðin Tinderbox.“

Munke Mose og Eventyrhave
Í miðborg Óðinsvéa eru tveir almenningsgarðar sem eru tengdir saman með göngustíg og þar þótti mér alltaf gaman að koma. Í Munke Mose er gott að setjast niður, fylgjast með mannlífinu og fuglalífinu og jafnvel fara í siglingu upp eftir Óðinsvéánni. Í Eventyrhave sem er í göngufjarlægð frá Munke Mose er fallegur blómagarður og einnig mörg listaverk tengd ævintýrum H.C. Andersen.

„Þrátt fyrir að Óðinsvé sé þriðja stærsta borg Danmerkur með rúmlega 170 þúsund íbúa þá minnir borgin meira á smábæ,“ segir Sveinn

Gamli bærinn
Mér finnst gamli bærinn sérstaklega fallegur og mjög gaman að rölta þar í gegn. Þar er hægt að kíkja í skranbúðir, sjá fæðingarstað H.C. Andersen og H.C. Andersen-safnið en einnig eru þar mörg sögufræg hús og staðir sem gaman er að líta á.

Egeskov-kastalinn
Egeskov-kastalinn er staðsettur í hálftíma akstursfjarlægð frá Óðinsvéum og hefur eitthvað við hæfi allra. Þar er mjög stór blómagarður sem fékk verðlaunin Best European Historic Garden árið 2012. Hægt er að skoða sjálfan kastalann og þar inni eru ýmsir sögulegir munir. Á svæðinu við kastalann er einnig stórt safn með ýmsum farartækjum, mikill fjöldi af mótorhjólum og bílum sem maður hefur ekki oft tækifæri til að sjá.

Markaðurinn á höfninni
Yfir sumartímann er gaman að fara niður á höfn á sunnudögum og skoða markað þar sem fólk kemur og selur notaða hluti. Þar myndast oft skemmtileg stemning og finna má ýmislegt forvitnilegt og skemmtilegt. Einnig er hægt að rölta um hafnarsvæðið og skoða bátana.

Dýragarðurinn
Dýragarðurinn í Óðinsvéum er einstaklega skemmtilegur og hefur fengið verðlaun fyrir að vera besti dýragarður í Evrópu. Þar er hægt að sjá hin ýmsu dýr og smáfólkið getur fengið að klappa dýrum í húsdýragarðinum á svæðinu. Ég mæli sérstaklega með því að taka með nesti og verja heilum degi í að skoða dýrin.

Christian Firtal
Vegna þess að ég er mikill bjóráhugamaður þá get ég ekki sleppt því að minnast á Christian Firtal. Þessi litli staður er staðsettur í göngugötu niðri í bæ og þar er boðið upp á marga af bestu handverksbjórum sem framleiddir eru á Norðurlöndunum. Þar er hægt að fá 20 bjórtegundir á krana og fjöldann allan af bjór á flöskum en einnig eru margar gerðir af viskíi og koníaki.

Umsjón / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Ingibjörg Hilmarsdóttir

Hinn fullkomni morgunmatur

Tillögur að hollum og góðum morgunmat.

Egg eru einstaklega prótínrík og holl fæða sem er tilvalið að neyta á morgnana.

Chia-grautur
Chia-fræ eru einstaklega næringarrík fæða en þau innihalda bæði nóg af kalki og pró­tíni og hafa oftar en ekki verið kölluð ofurfæða. Þau geta dregið í sig allt að tífalda þyngd sína af vökva og eru þannig seðjandi en jafnframt auðmeltanleg. Gott er að undirbúa chia-graut kvöldið áður og setja kúfaða matskeið af chia-fræjum og 100 ml af vökva, hægt að nota vatn, möndlumjólk eða hvað sem þig lystir, í skál eða nestisbox og inn í ískáp. Morguninn eftir munu chia-fræin hafa drukkið í sig mestallan vökvann og þá má bæta við þeim ávöxtum sem eru við höndina.

Hafragrautur
Hafragrautur er ákaflega hollur og saðsamur morgunmatur. Hann inniheldur mikið af trefjum en þær eru ekki meltar eða frásogaðar heldur fara þær í gegnum meltingarkerfið og draga í sig vökva. Hafrar geta ýmist verið litlir og stórir, grófir og fínir, glúteinlausir eða lífrænir, hver og einn verður að velja þá hafra sem hentar honum best. Sumum þykir hafragrauturinn bestur upp á gamla mátann, soðinn með ögn af salti, en einnig er hægt að bæta ávöxtum og skyri saman við eftir að grauturinn er soðinn eða sjóða epli og kanil með höfrunum.

Hristingur
Undanfarin ár hafa vinsældir hristinga og safa aukist til muna og algengt er að fólk fái sér slíkt í morgunmat eða í millimál seinnipart dags. Þó að það sé hægt að kaupa góða hrisitinga í ýmsum verslunum er einnnig auðvelt að gera gómsætan hristing heima, það eina sem til þarf er blandari eða matvinnsluvél. Blandaðu um það bil 300-400 ml af vökva, hægt að nota kókosvatn, möndlumjólk, kranavatn eða safa, og þeim ávöxtum og grænmeti sem þú vilt nota saman í blandara. Ekki sleppa grænmetinu því það gerir hristinginn hollari og næringarríkari, gott er að hafa það fyrir reglu að hafa að minnsta kosti eina tegund grænmetis. Einnig getur verið gott að nota prótínduft eða einhvers konar hnetusmjör út í en þá er betra að bæta dálitlu vatni saman við. Til þess að auka sætu er hægt að nota döðlur eða fljótandi steviu.

Egg
Egg eru einstaklega prótínrík og holl fæða sem er tilvalið að neyta á morgnana. Gerðar hafa verið nokkrar rannsóknir á ávinningi þess að fá sér egg í morgunmat, fram yfir kornmeti, og hafa þær allar sýnt að eggin verða til þess að fólk borðar færri hitaeiningar í hádeginu og það sem eftir er af deginum. Eggin eru einfaldlega svo mettandi að einstaklingar borða minni skammta. Einfalt er að grípa með sér eitt eða tvö harðsoðin egg og borða í morgunmat ásamt einhverju góðu grænmeti, til dæmis avókadó, en einnig er sniðugt að útbúa eggjahræru með því grænmeti og kjöti sem maður vill.

„Þang er ekki bara hippafæða“

Sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver mælir með því að allir borði þang reglulega.

Þang er í raun algjör næringarsprengja að sögn Jamie Oliver.

Sjónvarpskokkurinn frægi Jamie Oliver hefur viðurkennt að hann hafi lengi haldið að þang væri ekkert annað en hippafæða og enn eitt tískufyrirbærið í fæðu. Hann skipti um skoðun og mælir með því að allir borði þang reglulega því það er eitt næringarríkasta grænmeti jarðar. Samkvæmt Jamie er þang í raun algjör næringarsprengja sem inniheldur allt í senn trefjar, næringarefni, vítamín og öll steinefni sem til eru.

Gott fyrir húðina
Í þangi eru ýmis andoxunarefni, ensím og ómega fitusýrur sem hjálpa til við að hreinsa og fegra húðina. Þörunga og þang er að finna í fjölmörgum snyrtivörum nú til dags en það er engu síður gagnlegt fyrir húðina að borða þang.

Vinnur gegn líkamsfitu
Ýmsar rannsóknir hafa bent til þess að þang innihaldi efni sem dragi úr fitusöfnun líkamans og auki jafnframt brennslu. Þó svo að það þurfi að rannsaka þessa eiginleika frekar þá lofar þetta góðu.

Eykur seddu
Þegar við borðum þurrkað þang dregur það í sig vökva í maganum og þenst út þannig að okkur finnst við saddari. Það ásamt því hvað þang er líka hitaeiningasnautt og lágt í kolvetnum gerir það að fullkomnu snarli milli mála.

Grænt og vænt
Rétt eins og plöntur sem vaxa á landi inniheldur þang blaðgrænu sem er sögð hjálpa til við að draga úr bólgum í líkamanum og auka magn rauðra blóðkorna í blóði.

Járnrisi
Þang er ekki aðeins ríkt af járni heldur inniheldur það einnig mikið C-vítamín en það er nauðsynlegt fyrir upptöku líkamans á járni.

Bætir hjartaheilsu
Þang hjálpar til við að draga úr kólestrólmagni, inniheldur efni sem draga úr myndun blóðtappa og er ríkt af kalíni sem minnkar líkurnar á of háum blóðþrýstingi.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Hvetur fólk til að tileinka sér mínímalískan lífsstíl

Japanski tiltektargúrúinn Marie Kondo hvetur fólk til að eiga aðeins hluti sem vekja hjá því gleði.

Marie Kondo hefur helgað líf sitt tiltekt og mínimalískum lífsstíl. Hún rekur fyrirtæki í Tókíó þar sem hún kemur inn á heimili fólks, kennir því að fara í gegnum eigur sínar og losa sig við allan óþarfa.

Hin japanska Marie Kondo hefur helgað líf sitt tiltekt og mínimalískum lífsstíl. Hún rekur fyrirtæki í Tókíó þar sem hún kemur inn á heimili fólks, kennir því að fara í gegnum eigur sínar og losa sig við allan óþarfa. Þessi þjónusta hennar er svo vinsæl að það er þriggja mánaða biðtími. Bók hennar The Life Changing Magic of Tidying Up kom út árið 2014 en nýtur enn hylli og bloggarar um allan heim hafa tileinkað sér KonMari-aðferðina. Þessi aðferð hennar snýst um að eiga aðeins hluti sem vekja hjá þér gleði og það á jafnt við um föt, hluti, bækur og margt fleira. Hún ráðleggur fólki að meta hvern hlut út frá því hvort hann veiti þér gleði og ef ekki þá skaltu losa þig við hann.

Fleiri góð ráð úr smiðju Marie Kondo

Tiltekt er samtal við sjálfan sig. Marie lítur á tiltekt sem nokkurs konar hugleiðslu þar sem hún þarf að hlusta á eigið innsæi. Hún hvetur fólk til að finna friðsæla stund og alls ekki hlusta á tónlist, það sé bara til að flækja hlutina.

Hver hlutur á að eiga sinn ákveðna stað. Marie er þeirrar skoðunar að sem minnst dót og drasl eigi að vera á gólfum eða uppi á borðum. Í hverju rými á að vera að minnsta kosti einn góður skápur eða kommóða þar sem hægt er að geyma hluti sem ekki er prýði af. Inni í skápunum er svo mikilvægt að hafa minni geymslueiningar eins og kassa sem eru vel merktir og hægt er að stafla.

Taktu til eftir flokkum, ekki herbergjum. Marie vill meina að þetta sé gryfja sem margir falli í. Við eigum til að gleyma því að við geymum oft sömu eða svipaða hluti á mörgum stöðum í íbúðinni og erum því að endurtaka sömu tiltektina á nokkrum stöðum. Þetta skapar tiltektarvítahring sem er stundum erfitt að rjúfa. Þess vegna mælir hún með því að ákveða hvaða flokk þú ætlar að taka til í í dag í staðinn fyrir staðsetningu, það er, taka til föt í stað þess að taka til inni í svefnherbergi.

Ekki stafla hlutum. Það segir sig sjálft að hlutir sem eru neðst í stafla eru notaðir sjaldnar, sama hversu hrifin þú ert af þeim hlut. Þessi regla á jafnt við um föt, bækur og snyrtivörur. Marie mælir til dæmis með því að brjóta föt þannig að þau geti staðið upp á rönd, raða þeim þannig í kassa og ofan skúffu.

Sjaldan eða stundum þýðir í raun aldrei. Marie hlustar ekki á neinar afsakanir í þessum efnum. Ef þú klæðist einhverri flík aðeins einu sinni á ári þá er hún bara að taka óþarfa pláss í skápnum þínum restina af árinu.

Hentu öllum pappír. Það er algengur misskilningur að það sé minna um pappíra inni á heimili en á skrifstofu fyrirtækis. Við sönkum að okkur alls kyns óþarfa pappír; kvittunum, reikningum, glósum, úrklippum og þar fram eftir götum. Marie segir að einfaldasta leiðin sé að skipta öllum pappírum niður í geyma og henda en þeir pappírar sem þú geymir eru aðeins algjör nauðsyn. Helst myndi hún þó vilja henda öllum pappírum, því til eru forrit eins og Evernote þar sem þú getur skannað inn pappíra og geymt rafræna útgáfu af þeim.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Áhrifamikil tískuíkon

Nokkur af áhrifamestu tískuíkonum innan bransans í dag.

Tískuíkon dagsins í dag eru endalaus uppspretta innblásturs þegar kemur að því hvernig við klæðum okkur. Hér eru nokkrar af þeim áhrifameiri innan bransans sem eru í uppáhaldi hjá okkur.

Olivia Palermo
Tískudrottninguna Oliviu Palermo þekkja flestir sem hafa áhuga á tískunni. Hún skaust upp á stjörnuhimininn með þátttöku sinni í bandarísku raunveruleikaþáttunum The Hills en hefur síðan komið víða við. Hún var meðal annars lærlingur í kynningarmálum hjá hönnuðinum Diane von Furstenberg og vann í fylgihlutadeild hjá tískutímaritinu Elle en Olivia er þekkt fyrir að vera einstaklega smekkleg þegar kemur að því að nota fylgihluti á ferskan hátt. Olivia hefur verið áberandi í félagslífi þeirra ríku og frægu og er mynduð hvert sem hún fer, enda eitt stærsta tískuíkon samtímans. Það er alltaf hægt að leita til Oliviu að innblæstri, oliviapalermo.com.

______________________________________________________________

Hanneli Mustaparta
Hin norska Hanneli Mustaparta er fyrrverandi fyrirsæta sem fljótlega fann hjá sér mikinn áhuga á því að stílisera. Frá því hún lagði fyrirsætuskóna á hilluna að mestu árið 2008 hefur hún unnið fyrir hin ýmsu tískutímarit og stíliserað fyrir stór fyrirtæki. Áhugi hennar á útliti og stíliseringu þróaðist svo út í það að taka myndir en síðustu árin hafa götutískumyndir eftir hana birst í Vogue og á Vogue.com. Hanneli er með einstakt auga fyrir smáatriðum og ekki skemmir útlit hennar fyrir, að við tölum ekki um hárið, okkur dreymir um að hafa hár eins Hanneli!

______________________________________________________________

Hedvig Opshaug
Norski tískubloggarinn Hedvig Opshaug er konan á bak við the-northernlight.com. Nafnið á blogginu tengist heimaslóðum hennar í Norður-Noregi þar sem norðurljósin eru sýnileg allan veturinn. Hún á stuttan fyrirsætuferil að baki en lærði stærðfræði og vann í banka í Stokkhólmi þegar hún ákvað að breyta til og flytja til London. Hún segir að ferill sinn sem tískubloggari hafi fyrir tilviljun undið upp á sig en var ekki eitthvað sem hún stefndi beinlínis að. Hedvig er alltaf með puttann á tískupúlsinum og gaman að fylgjast með þessari glæsilegu konu.

______________________________________________________________

Miroslava Duma
Miroslava Duma vakti fyrst heimsathygli þegar myndir af henni birtust á þekktustu tískubloggunum eins og The Sartorialist. Hún hefur unnið fyrir mörg af stærstu tímaritum heims en hefur síðustu fimm árin unnið sjálfstætt fyrir Buro247.com en hún er meðstofnandi þeirrar vefsíðu sem fjallar meðal annars um tísku og listir og sendir út fréttir allan sólarhringinn. Það er ekki að undra að Miroslava skuli eiga marga aðdáendur enda alltaf óaðfinnanleg og klæðnaður hennar áhugaverður.

______________________________________________________________

Pernille Teisbaek
Pernille Teisbaek hefur unnið bæði fyrir framan og aftan myndavélarnar. Hún byrjaði feril sinn sem tískustjóri hjá danska tímaritinu Woman en hún hefur einnig unnið fyrir ALT for Damerne og Eurowoman. Í dag vinnur hún í fullu starfi sem stílisti, bloggari og tískusérfræðingur hjá stærstu sjónvarpsstöðvum Danmerkur. Ef þú ert í leit að  skandinavískum stílinnblæstri skaltu kíkja á Pernille, pernilleteisbaek.com.

______________________________________________________________

 

Chiara Ferragni
Hin ítalska Chiara Ferragni er konan á bak við eitt allra stærsta tískublogg heims, The Blonde Salad. Hún hefur unnið til verðlauna fyrir besta tískubloggið mörg ár í röð og birst á lista Forbes yfri ríkasta fólk heims. Hún hefur átt í samstarfi við marga af stærstu tískuhönnuðum samtímans og er talskona fyrir Pantene-hárvörur. Chiara birtist á forsíðu spænska Vogue í apríl í fyrra og er þar með fyrsti tískubloggarinn til að verma forsíðu tískubiblíunnar.

______________________________________________________________

Leandra Medine
Húmorinn skín ávallt í gegn hjá Leöndu Medine, sem heldur úti vefsíðunni The Man Repeller. Hún er einn þekktasti tískubloggari heims og áhrifamikil með meiru innan tískuheimsins. Leandra er þekkt fyrir að blanda saman ólíklegustu flíkum og fylgihlutum og er ávallt uppspretta tískuinnblásturs.

______________________________________________________________

Alexa Chung
Hin kínverk-breska Alexa Chung er eitt áhrifamesta tískuíkon samtímans og hefur alið af sér margar hermikrákur í gegnum tíðina. Hún byrjaði feril sinn sem fyrirsæta og fór þaðan yfir í sjónvarp. Síðustu árin hefur hún sett nafn sitt við ýmsan varning eins og fatnað og snyrtivörur og meðal annars skrifað fyrir breska Vogue. Þá hefur hún einnig veitt mörgum tískuhönnuðum innblástur því stíllinn hennar er svo einstakur. Alexu má oftar en ekki finna á fremsta bekk á tískusýningunum en hún er ein mest ljósmyndaða kona Bretlands.

Texti / Helga Kristjáns

Raddir