Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Gulla arkitekt hannar einstaka glæsiíbúð

Gulla arkitekt segist heillast af hógværum glæsileika og arktitektúr með listrænu ívafi.

Guðlaug Jónsdóttir, arkitekt og hönnuður, hefur búið í borg englana, Los Angeles, í næstum þrjátíu ár og getið sér gott orð sem arkitekt. Gulla, eins og hún er alltaf kölluð, hefur hannað tvær sérlega smart húsgagnalínur sem eru einungis seldar í listagalleríum og má segja að þessi húsgögn hennar séu oft meira í ætt við listaverk eða skúlptúr en hefðbundin húsgögn.

Guðlaug Jónsdóttir, arkitekt og hönnuður, hefur búið í borg englana, Los Angeles, í næstum þrjátíu ár og getið sér gott orð sem arkitekt

Gulla hefur líka hannað mörg flott hótel víða um heim og veitingastaði sömuleiðis og nýlega tók hún að sér að hanna glæsiíbúð í hæstu íbúðarbyggingu heims í stórborginni New York, nánar tiltekið 432 Park Avenue-skýjakljúfrinum sem lokið var að byggja í enda árs 2015. Afraksturinn er algjör veisla fyrir augað. Þetta heimili er sannarlega einstakt, fágað og glæsilegt en um leið líka hlýlegt og tímalaust.

Við hittum Gullu þegar hún var stödd hér á landi í jólafríi og spurðum hana út í þessa íðilfögru íbúð en þess má geta að Gulla fékk nýlega hönnunarverðlaun Interior Design Magazin; Best resort design 2017 og voru verðlaunin fyrir lúxushótel sem hún hannaði í Kína en þessi verðlaunin eru eins og Óskarinn í hönnun og því mikill heiður að fá þau. Við óskum Gullu til hamingju með enn eina rósina í hnappagatið því þetta eru aldeilis ekki fyrstu verðlaunin sem hún fær fyrir hönnun sína.

Íbúðin er staðsett í hæstu íbúðabyggingu heims

Íbúðin er eins og fyrr segir í hæsta íbúðarhúsnæði heims og Gulla segir að húsið sé 90 hæðir og 425,5 metra hátt. Og þá langar okkur að vita hversu hátt upp með lyftunni hún hafi farið þegar hún vann að þessu verkefni? ,,Íbúðin er á 55. hæð og hún er um 350 fermetrar,“ segir hún og bætir við að lofthæðin sé tæpir fjórir metrar. „Það eru hjón sem eiga þetta og þau eru til að mynda hvort með sitt baðherbergið.“Hennar baðherbergi er með frístandandi baðkeri sem er staðsett við stóran glugga og það er því einstakt útsýni yfir borgina þegar legið er baði þarna uppi á 55. hæð. Hann er með sturtu á sínu baðherbergi þannig að þau eru ekki eins.

Þarna er stórt opið aðalrými sem telur stofu, borðstofu og eldhúsið, inn af því er annað ,,vinnueldhús“, þvottaherbergi og annar inngangur. Auk þess er líka eitt herbergi sem er sérhannað til að spila backgammon, eða kotru, eins og það heitir á íslensku því herramaðurinn sem þarna býr spilar gjarnan kotru við félaga sína og þá er ekki amalegt að vera með þetta flotta spilarými.

Þessi glæsilega íbúð prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Húsa og híbýla og þar má sjá fleiri fallegar myndir og viðtalið við Gullu í heild sinni.

Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Myndir / Art Gray

Að vinna fyrir Ísland fær hjartað til að slá hraðar

|||
Halla Þórlaug Óskarsdóttir.|Du: dikter för nyfödingar.|Sesselja Agnes - undarleg saga.|Síðasta setning Fermats.

Halla Hrund Logadóttir starfar við kennslu í Harvard-háskóla í Bandaríkjunum þar sem hún stofnaði og stýrir nú fyrsta náms- og rannsóknarvettvangi tengdum Norðurslóðum. Áður hafði Halla byggt upp Íslenska orkuháskólann við Háskólann í Reykjavík. Hún segir áhugann á umhverfismálum hafa fylgt sér frá blautu barnsbeini. „Mér finnst skemmtilegast að byggja hluti sem geta haft jákvæð áhrif á einhvern hátt og nýtast íslensku samfélagi. Það að vinna fyrir Ísland fær hjartað til að slá örar og hvetur mig til að gera mitt allra besta.”

„Ég er oft að sinna mörgum verkefnum í ólíklegustu löndum og reyna á sama tíma að vera frábær mamma en ég held að allar útivinnandi konur tengi við slíkt á einhvern hátt.”

Halla býr ásamt fjölskyldu sinni í Cambridge í Boston, hún segir áherslurnar hafa umbreyst við fæðingu dóttur þeirra. „Ég er oft að sinna mörgum verkefnum í ólíklegustu löndum og reyna á sama tíma að vera frábær mamma en ég held að allar útivinnandi konur tengi við slíkt á einhvern hátt. Ég vil vera dóttur minni góð fyrirmynd í leik og starfi og er dugleg að taka hana með með mér í vinnuna til að sýna henni eitthvað nýtt. Þó finnst mér ég læra mest af henni, hún minnir mig á gildi sem mér finnst skipta máli í fari fólks.”

Ítarlegt viðtal við Höllu má lesa í næsta tölublaði Vikunnar sem kemur út á fimmtudaginn 18.janúar.

Texti / Íris Hauksdóttir

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Förðun / Ástrós Erla Benediktsdóttir

Ekki sleppa morgunmat

Mikilvægasta máltíð dagsins.

Allir hafa heyrt  gömlu tugguna um að morgunmatur sé mikilvægasta máltíð dagsins en margir sleppa honum, hvort sem það er vegna anna eða af annarri ástæðu. Það er þó ýmislegt til í þessari gömlu tuggu.

Á síðastliðnum fimm árum hefur orðið ákveðin vitundarvakning um mikilvægi þess að fasta í ákveðinn tíma á hverjum sólarhring til að gefa líkamanum tækifæri til að taka fótinn af bensíngjöfinni og sinna nauðsynlegu viðhaldi. Ýmsar gerðir föstumataræðis hafa verið í umræðunni, eins 5:2-mataræðið eða 16 tíma fasta, og þær hafa sína kosti og galla. Við getum þó öll tileinkað okkur það að hætta að borða á kvöldin og ná þannig allavega 10 tíma föstu á hverjum degi.

Enska orðið yfir morgunmat, breakfast, þýðir bókstaflega að brjóta föstu. Þannig að um leið og við borðum morgunmat hættum við að fasta, líkaminn vaknar úr ákveðnum hvíldarfasa þannig að meltingin og önnur efnaskifti byrja að vinna aftur á sinn eðlilega hátt.

Líkaminn byrjar þá að brenna hitaeiningum í auknum mæli og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að þeir sem borða morgunmat grennast frekar, og haldast frekar í kjörþyngd, en þeir sem að sleppa morgunmat. Það er þó ekki þar með sagt að það sé algjörlega nauðsynlegt að borða morgunmatinn um leið og maður vaknar heldur er í lagi að bíða, ef til vill til klukkan tíu.

Hvenær svo sem þú borðar morgunverðinn er mikilvægast að hann sé hollur og næringarríkur. Sumir vilja örlítið sætari morgunmat á meðan aðrir geta ekki hugsað sér það.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Ást er ást

Myndir sem sýna lesbísk ástarsambönd á heiðarlegan og fallegan hátt eru fágætar en hafa allar vakið töluverða athygli.

Kvikmyndaiðnaðurinn hefur oft verið gagnrýndur fyrir það að sýna aðeins gagnkynhneigðar ástarsögur og þegar fjallað er um samkynhneigð sambönd er það yfirleitt á mjög steríótýpískan, jafnvel neikvæðan, hátt. Hér eru nokkrar undantekningar sem sýna lesbísk ástarsambönd á heiðarlegan og fallegan hátt, enda hafa þær allar vakið töluverða athygli.

Eitthvað vantaði
La Vie d’Adèle, eða Blue is the Warmest Color eins og hún kallaðist á ensku (sjá mynd hér að ofan), fjallar um ósköp venjulega fimmtán ára stúlku, Adele, sem hefur áhuga á öllu því sem unglingsstúlkur hafa áhuga á; vinum, skóla, tónlist og strákum. Þegar hún byrjar með einum vinsælasta stráknum í skólanum áttar hún sig á að ekki er allt eins og það á að vera. Samkvæmt bekkjarfélögum hennar er hann hinn fullkomni strákur en henni líður sem það vanti eitthvað. Þetta veldur ruglingi hjá henni og hún fer að velta fyrir sér hvað geti verið að. En þegar hún hittir fyrir tilviljun hina bláhærðu Emmu finnur hún það sem hingað til hefur vantað. Hrá og hreinskilin mynd sem vann Gullpálmann í Cannes árið 2013.

Í The Kids are Alright er sagt frá parinu Jules og Nic sem hafa verið saman í næstum tuttugu ár og eiga tvo unglinga.

Framsækin fjölskylda
Í myndinni The Kids are Alright er sagt frá lesbíska parinu Jules og Nic sem hafa verið saman í næstum tuttugu ár og eiga tvo unglinga, Joni og Laser, sem þær eignuðust með hjálp tæknisæðingar. Þær hafa alltaf verið hreinskilnar við börnin sín og sagt þeim hvernig þau komu til. Þær bjuggust þó aldrei við að þau myndu vilja kynnast föður sínum en dag einn ákveða þau að hafa uppi á sæðisgjafanum, Paul,  sem kemur þeim skemmtilega á óvart. Þau stofna til sambands við hann og bjóða honum meðal annars í heimsókn, sem kemur mæðrum þeirra í dálítið uppnám.

________________________________________________________________

My Summer of Love fjallar um afdrifaríkt sumar í lífi tveggja ungra stúlkna, Tamsin og Monu.

Ólíkar en líkar
Eins og titillinn gefur til kynna þá fjallar My Summer of Love um afdrifaríkt sumar í lífi tveggja ungra stúlkna, Tamsin og Monu. Þrátt fyrir að vera úr ólíkum stéttum samfélagsins þá laðast þær strax hvor að annarri. Þær eiga það sameiginlegt að fjölskyldur þeirra eru fremur brotnar, en bróðir Monu er fyrrum afbrotamaður sem snerist til kristni í fangelsi og faðir Tamsin heldur fram hjá móður hennar. Þær byrja að njósna um fjölskyldumeðlimi og komast að ýmsum leyndarmálum en þau leyndarmál binda þær fastar saman. Áhugaverð og falleg mynd sem gerist í sveitum Bretlands en þarna má sjá Emily Blunt unga taka sín fyrstu skref í kvikmyndaleik.

________________________________________________________________

Á milli Carol og Theresu kviknar dálítill neisti.

Af litlum neista
Theresa er ung kona sem fær tímabundna vinnu um jólin 1952 hjá stórverslun á Manhattan en hún er áhugaljósmyndari sem dreymir um að komast að sem atvinnuljósmyndari hjá einhverju traustu tímariti eða dagblaði. Dag einn kemur í verslunina hástéttarkonan Carol og á milli þeirra kviknar dálítill neisti. Eitt leiðir síðan af öðru og smám saman fer samband þeirra að þróast. Það á þó eftir að draga dilk á eftir sér því Carol á í deilu við eiginmann sinn en hann hefur hótað að nota samkynhneigð hennar sem rökstuðning fyrir því að hann eigi að fá fullt forræði yfir börnum þeirra. Carol er glæsileg mynd sem lýsir viðhorfum til samkynhneigðar á þessum tíma. Báðar leikkonurnar, Cate Blanchett og Rooney Mara, eiga stórleik í myndinni.

________________________________________________________________

Kvöld eitt liggja leiðir Elinar og Agnesar saman og upp frá því þróast óvænt samband.

Unglingsárin erfið
Unglingsstúlkurnar Elin og Agnes eru í sama skóla en eiga annars litla sem enga samleið. Elín er hress og vinsæl á meðan Agnes er vinafá og niðurdregin. Þær eru samt báðar komnar með upp í kok á lífi sínu, en Elínu dreymir um að flýja smábæinn Åmål en Agnesi dreymir bara um Elínu. Kvöld eitt liggja leiðir þeirra saman og upp frá því þróast óvænt samband sem gæti reynst lausnin á vanda þeirra beggja. Spurningin er þó hvort þær séu nógu kjarkaðar til að standa uppi í hárinu á vinum sínum og samnemendum. Fucking Åmål var langt á undan samtíð sinni, eins og svo margar skandinavískar myndir eru, og fjallaði opinskátt um samkynhneigð samhliða því að sýna hversu erfitt það er að vera unglingur.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Fljótlegur fiskréttur

|
|Fullkomið með soðnum kartöflum.

Eðalfiskur sem er auðvelt og fljótlegt að elda.

Berið fiskinn fram með soðnum kartöflum

Sítrónufiskur
fyrir 4
1 msk. smjör
700-800 ýsa eða annar fiskur
1 ½ dl rjómi eða matreiðslurjómi
safi úr 1 lítilli sítrónu
2 msk. ferskt fáfnisgras eða kóríander, saxað (má nota 2 tsk. þurrkað)
salt og nýmalaður pipar
1 laukur, sneiddur
1 fenníka, sneidd
2 msk. olía
Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið ofnfast fat með smjöri og raðið fiskinum í fatið.
Blandið saman rjóma, sítrónusafa og estragoni, hellið blöndunni yfir fiskinn, saltið og stráið vel af pipar yfir.
Bakið í ofninum í 20 mín.
Steikið lauk og fenníku í olíu á pönnu og berið fram með fiskinum ásamt soðnum kartöflum.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Óeðlilegt ef æfingarferlið hefði verið auðvelt

Kristín Þóra segir áhorfendur geta búið sig undir mikið sjónarspil.

Leikritið Medea var frumsýnt um helgina í Borgarleikhúsinu en óvænt hlutverkaskipti urðu í verkinu á miðju æfingartímabili.

Kristín Þóra Haraldsdóttir fer með titilhlutverk sýningarinnar og segir hún æfingarferlið hafa verið lærdómsríkt og gefandi. „Verkið er heilmikil áskorun sem einkennist auðvitað einna helst á því hversu krefjandi karakter Medea er. Þetta hefur því eðli málsins samkvæmt tekið aðeins á. Að mínu mati væri óeðlilegt ef æfingarferlið hefði verið auðvelt. Þetta er þannig verk.”

Eins og frægt hefur orðið urðu breytingar innan leikhópsins þegar æfingarferlið var langt komið, en þá steig Hjörtur Jóhann Jónsson inn í annað burðarhlutverk sýningarinnar sem Jason, eiginmaður Medeu. Hlutverkið átti áður að skipa Atla Rafn Sigurðarsyni sem vikið var frá störfum nú fyrir skömmu. Kristín Þóra segir Hjört Jóhann hafa orðið við áskoruninni og gert ákaflega vel úr hlutverkinu á ótrúlega skömmum tíma. „Hjörtur Jóhann kom gríðarlega sterkur inn, lærði textann sinn um jólin og stendur sig með glæsibrag enda magnaður leikari og einstakur listamaður.”

Sjálf segist Kristín Þóra hafa nálgast sinn karakter á sama hátt og með alla aðra karaktera sem hún hefur tekist á við. „Ég hugsa fyrst og fremst, hvað er það sem drífur þessa konu áfram. Ég grúskaði mikið í grískri goðafræði en eins og flestir vita er Evripídes höfundur verksins sem skrifað var fyrir 2400 árum síðan. Ég velti upp stöðu kvenna á þeim tíma sem verkið var skrifað og einnig stöðu kvenna í dag. Einnig hef ég skoðað sorg og áföll hvernig við bregðumst við í slíkum aðstæðum. Medea er í miðju sorgarferli. Hvað gerist hjá okkur þegar við erum stödd í miðjum stormi, líkamlega og tilfinningalega, hvað gerist sem dæmi í heilanum þegar við förum í,,flight mode“. Svo auðvitað læra textann sem er nú engin smábiti og dansa með mótleikurunum og leikstjóranum Hörpu Arnardóttur sem hjálpa mér að komast nær karakternum.”

„Hjörtur Jóhann kom gríðarlega sterkur inn, lærði textann sinn um jólin og stendur sig með glæsibrag enda magnaður leikari og einstakur listamaður.”

Nú þegar frumsýningin er yfirstaðin þar sem fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna er óhætt að segja áhorfendur geti búið sig undir magnað sjónarspil. „Ég held að áhorfendur ættu að hugsa um þetta sem mikið ferðalag. Leikmynd og búningar Filippíu Elísdóttur eru konfekt fyrir augað, lýsing Björns Bergsteins er töfrandi eins og hann er þekktur fyrir. Tónlist Valgeirs Sigurðssonar er algjörlega mögnuð, ein sú flottasta sem ég hef heyrt í leikhúsi. Vonandi náum við leikararnir að segja þessa sögu, sýna mennskuna í þessum karakterum og hreyfa við áhorfendum. Við gerum allavega okkar besta til að svo verði.”

Texti / Íris Hauksdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Útivistarparadísin Hafnarfjörður

Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarpóstsins og innanhússarkitekt, segir frá útivistarperlum í Hafnarfirði.

Hafnarfjörður er svo miklu meira en þyrping húsa en þar má finna eitt stórbrotnasta útivistasvæði landsins. Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarpóstsins og innanhússarkitekt, hefur búið í Hafnarfirði síðan 1962 og þekkir bæinn og umhverfi hans vel. Við fengum hann til að segja okkur frá nokkrum perlum á svæðinu.

Guðni er kvæntur Kristjönu Þórdísi Ásgeirsdóttur og þau eiga sex syni og 5 barnabörn. „Við Kristjana byrjuðum að búa á brúðkaupsnóttinni árið 1978 í gömlu húsi við Suðurgötu. Síðan hefur annað ekki komið til greina en að vera hér enda gott að búa í Hafnarfirði sem státar af gríðarlega fallegu bæjarstæði sem er umvafið af sjávarströnd, fjölbreyttu hrauni og óteljandi náttúrufyrirbrigðum og minjum um byggð fyrri alda. Mannlífið er gott og fjölbreytt félagsstarf og menningarstarfsemi. Þrátt fyrir stærðina er það eins og að búa í þorpi, í besta skilningi þess orðs, að búa í Hafnarfirði.“

Hellisgerði
Milli Skúlaskeiðs og Reykjavíkurvegar er skrúðgarður Hafnfirðinga, einstakur fyrir hraunlandslag sitt. Var farið að nota hann sem áningarstað á 19. öldinni en hann dregur nafn sitt af Fjarðarhelli sem þar er. Formlegur skrúðgarður varð hann árið 1923 og eftir það hófst trjárækt þar og síðar blómarækt. Þarna eru ákjósanlegir staðir til að setjast á teppi með nesti og njóta þessarar náttúruperlu í hjarta Hafnarfjarðar.

Við Hvaleyrarvatn, Höfðaskógur og Helgafell í baksýn. Mynd / Guðni Gíslason

Malirnar
Mikil útgerð hefur verið í Hafnarfirði enda er þar góð höfn frá náttúrunnar hendi. Malirnar er samnefni malarkamba á milli hraunkletta við norðanverðan Hafnarfjörð. Krosseyri var við gamla hafnargarðinn en er nú horfin en utar sjást enn Langeyramalir við Herjólfsgötu og Litlu-Langeyrarmalir undan Brúsastöðum. Skerseyrarmalir liggja milli Brúsastaða og Balaklappar. Frá bílastæði innst við Herjólfsgötu er skemmtileg gönguleið eftir fjörukambinum. Skarf má sjá á klettum í sjónum og þarna má sjá ummerki eftir útgerð fyrri alda.

Hvaleyrarvatn
Jafnt að vetri sem sumri er umhverfi Hvaleyrarvatns, rétt innan byggðar í Hafnarfirði, orðin hreinasta perla. Á sumrin hópast fólk að vatninu á góðviðrisdögum og buslar í vatninu, gengur og hjólar á stígum allt umhverfis vatnið og nýtur lífsins. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur ræktað þar mikinn skóg og lagt stíga og þar má finna svæði með sýnishornum af flestum trjátegundum og einnig er þar að finna nyrsta rósagarð í heimi. Hafnfirsku skátarnir eiga skála við vatnið og hafa komið þar upp útivistarparadís.

Helgafell
Bæjarfell Hafnfirðinga er 338 metra hár móbergsstapi ofan Kaldársels. Fjallið, sem myndaðist við gos undir jökli seint á ísöld, er vinsælt til uppgöngu og ágætlega mörkuð leið er frá Kaldárbotnum, upptökum kalda vatns Hafnfirðinga. Á fjallinu er varða og í henni má finna gestabók. Fjölmargir áhugaverðir staðir eru nálægt Helgafelli og gönguferð í kringum fjallið getur leitt fólk að Litlu-borgum, friðuðum hraunmyndunum S-A fjallsins, Valabóli austan Valahnjúka og fleiri staða.

Fosshellir
Fjölmarga hraunhella má finna í landi Hafnarfjarðar. Ef gengið er til austurs frá bílastæðunum við Kaldárbotna ofan Kaldársels, með fram vatnsverndargirðingunni er komið í Helgadal. Þar er gönguleið á sléttri hraunhellu þar til gönguleiðin snýr til suðurs. Þar í N-A er komið að jarðfalli. Gengið er niður í jarðfallið og til vinstri og er þá komið að hraunfossinum sem hellirinn er nefndur eftir. Þarna þarf vasaljós og ef haldið er upp fossinn má sjá hraunmyndanir sem minna á jötu og eru ummerki hraunstraums. Þá fer að glitta í ljós og þegar út er komið er horft til baka að gönguleiðinni. Líkur eru á að Fosshellir sé hluti 100 m hellis en op inn í hann má finna í hraunsprungu um 100 m N-V af útgönguleiðinni. Skammt þar undan er Rauðshellir sem einnig er áhugaverður.

Gjárnar
Rétt áður en komið er í Kaldársel, þar sem gamli Kaldárselsvegurinn mætir þeim nýja eru einstaklega fallegar hraunmyndanir sem kallast Gjár. Gjárnar eru leifar tæmdrar hrauntjarnar sem myndaðist fyrir u.þ.b. 7000 árum þegar Búrfellsgosi var að ljúka. Sjóðandi heit hrauneðjan kraumaði um stund í tjörninni áður en hraunflaumurinn rann eftir neðanjarðarrásum í átt til sjávar og tjarnarbotninn storknaði. Gjárnar voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Aðalmynd: Guðni við Tröllin í Valahnúkum, Helgafell í bakgrunni. Mynd / Jón Guðnason

Lambalæri með blóðbergi og rótargrænmeti

Ljúffeng steik þar sem lambabragðið fær að njóta sín.

Lambalæri með blóðbergi og rótargrænmeti.

Lambalæri með blóðbergi og rótargrænmeti
1 meðalstórt lambalæri frá Bjarteyjarsandi
ólífuolía
salt og pipar
1 lúka íslenskt garðablóðberg, saxað
1 lúka mynta, fersk, söxuð
5 hvítlauksgeirar, maukaðir
Hitið grill eða pönnu í 300°C, kveikið á ofninum á 140°C. Blandið því næst saman olíunni og öllum kryddunum og makið vel á allt lambið.
Því næst er lambið sett á heitt grillið eða pönnu og eldað í 3 mín. á hvorri hlið, þannig að það „lokist“ vel.
Eftir það er kjötið sett í eldfast mót og inn í ofn í 55-65 mín. eða þar til kjarnhitinn hefur náð 60°C. Þá er kjötið tekið út og látið hvíla uppi á borði með stykki yfir í minnst 10 mín. áður en skorið er í það.


Borið fram með nýuppteknu rótargrænmeti og brúnni sósu.

Umsjón / Hinrink Carl Ellertson
Myndir / Ernir Eyjólfsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

 

Blóðugir glæpir og annar hryllingur

Ekki missa af þessum sjónvarpsþáttum.

Það verður að segjast eins og er, það er skemmtilegast að horfa á glæpaþætti í einum rikk og þurfa ekki að bíða í viku eða meira eftir næsta þætti. Hér eru nokkrir afar spennandi þættir sem eru fáanlegir á Netflix.

Rannsókn raðmorðingja
Mindhunter (sjá mynd að ofan) eru nýlegir þættir framleiddir af Netflix. Þættirnir gerast árið 1977 þegar glæpasálfræði var á frumstigi. FBI-mennirnir Holden Ford og Bill Tech byrja að skoða morðingja sem virðast ekki hafa drepið af hefðbundnum ástæðum, svo sem hefnd eða ástríðu, og hafa jafnframt myrt fleiri en fimm einstaklinga, ýmist í einum rikk eða yfir lengri tíma. Þeir vilja komast að því hvað hvetur þessa menn til að myrða og hvernig megi koma í veg fyrir slíka glæpi. Þættirnir eru sannsögulegir og viðtölin við morðingjana eru byggð á upprunalegum gögnum Ford og Tech auk þess sem þeir eiga heiðurinn af hugtakinu raðmorðingi.

Lucifer sest að í Los Angeles þar sem hann starfar sem ráðgjafi hjá LAPD auk þess að reka næturklúbbinn Lux.

Djöfull og dauði
Bandarísku þættirnir Lucifer fjalla um satan sjálfan, Lucifer Morningstar. Honum leiðist í helvíti og því ákveður hann að yfirgefa krúnu sína að halda upp á yfirborðið. Hann sest að í Los Angeles þar sem hann starfar sem ráðgjafi hjá LAPD auk þess að reka næturklúbbinn Lux. En hvað veit djöfullinn um glæpi – merkilega mikið að því er virðist.

________________________________________________________________

Í þáttunum Luther kynnumst við titilpersónunni John Luther, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar í London, sem sér um alvarlega glæpi.

Skuggalegir glæpir
Bretar kunna svo sannarlega að gera lögguþætti. Í þáttunum Luther kynnumst við titilpersónunni John Luther, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar í London, sem sér um alvarlega glæpi. Vinnan er númer eitt, tvö og þrjú í lífi Luthers og það bitnar bæði á honum og þeim sem standa honum næst. Vegna þess hve skuggalegir glæpirnir sem hann rannsakar eru þá finnst honum stundum sem myrkrið sé að gleypa sig.

________________________________________________________________

Johnny Lee Miller sem Sherlock Holmes og Lucy Liu sem Watson.

Í nýjum búning
Það þekkja flestir einkaspæjarann Sherlock Holmes, enda hafa fjölmargar birtingarmyndir hans komið í sjónvarpi og á hvíta tjaldinu. Elementary eru bandarískir þættir sem setja sögurnar um Sherlock Holmes, sem Arthur Conan Doyle skrifaði, í nýjan búning. Þættirnir gerast í New York, ekki í London, í samtímanum og í þetta skipti er Dr. Watson kona, sem Lucy Liu, leikur. Johnny Lee Miller er einnig frábær í hlutverki Sherlocks og þættirnir eru hreint út sagt ávanabindandi.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Skerum niður hitaeiningar

Hvernig er best að skera niður fjölda hitaeininga?

Einfaldasta leiðin til að léttast er að skera niður hitaeiningar, það vita allir. Hins vegar eru ekki allir klárir á því hvernig þeir eigi að fara að því og hve mikið þeir eigi að skera niður. Með því að innbyrða fimm hundruð hitaeiningum minna á hverjum degi er hægt að léttast um hálft kíló á viku. Hér eru nokkrar góðar leiðir til þess.

Salöt eru oftast holl, en öllu má samt ofgera og eftir því sem lagt er meira í salatið með alls kyns ostum, karamelliseruðum hnetum, avókadó og þvíumlíku þeim mun hitaeiningaríkara verður það.

Varastu heilsufæði
Fólk er síður á varðbergi gagnvart mat sem er stimplaður sem heilsufæði og vanmetur oftar en ekki hitaeiningafjöldann. Þó að matur sé hollur þýðir það ekki endilega að hann sé hitaeiningasnauður, til dæmis er oft mælt með að nota hnetur og þurrkaða ávexti sem nasl en ef þú gætir ekki að þér getur þú óafvitandi innbyrt fimm hundruð hitaeiningar í einu millimáli.

Salat er ekki það sama og salat
Í hugum flestra er salat það hollasta sem maður getur fengið sér. Það má samt öllu ofgera og eftir því sem lagt er meira í salatið með alls kyns ostum, karamelliseruðum hnetum, beikoni, avókadó, brauðteninga og þvíumlíku þeim mun hitaeiningaríkara verður það. Einn stór salatdiskur með öllu getur innihaldið fleiri hitaeiningar en pastaréttur. Ef þú setur aðeins eitt sælkerahráefni í salatið, helmingar dressinguna og hefur fjölbreyttara grænmeti í á móti getur þú fækkað hitaeiningunum um fimm hundruð.

Minni diskar
Besta leiðin til að minnka skammtastærðir er einfaldlega að nota minni diska. Með því einu að skipta þrjátíu sentímetra disknum út fyrir tuttugu og fimm sentímetra disk muntu borða fjórðungi minna, sem þýðir fimm hundruð kaloríur þegar allar máltíðir dagsins eru taldar. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því að verða svöng því rannsóknir hafa sýnt að svengdin verður ekkert meiri.

Borðaðu sjaldnar pasta
Aðeins einn bolli af pasta eru tvö hundruð og tuttugu hitaeiningar en skammtastærðir flestra eru töluvert stærri en einn bolli. Þannig að það er auðvelt að innbyrða næstum því þúsund hitaeiningar í einni pastamáltíð. Reyndu að hafa pasta aðeins einu sinni í viku og haltu þig við tvo bolla af því, það er alltaf hægt að hafa salat með.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Svarthvíta hetjan mín

Það eru ákveðnir töfrar sem fylgja svarthvítum myndum.

Lengi vel voru svarthvítar myndir það eina sem var í boði en jafnvel í dag, mörgum áratugum eftir að litfilmur voru fundnar upp, eru enn til kvikmyndagerðarmenn sem velja að taka myndir upp í svarthvítu.

Datt í lukkupottinn
Í Nebraska (sjá mynd hér að ofan) kynnumst við Woody Grant, öldruðum vélvirkja og fyrrverandi málara, sem ákveður að ferðast frá Montana til Nebraska til að innheimta milljón dollara sem hann heldur að hann hafi unnið í happdrætti. Woody er vegna óhóflegrar áfengisneyslu í gegnum árin orðinn verulega ruglaður ofan í sérviskuna sem hefur alltaf einkennt hann. Þegar hann fær bréf þar sem látið er að því liggja að hann hafi unnið milljón dollara í happdrætti og það eina sem hann þurfi að gera sé að mæta á svæðið og sækja vinninginn. Allir í kringum hann vita að þetta er auglýsingabrella, eða hreinlega svindl, en Woody er harður á því að vinningurinn sé raunverulegur og ákveður að sækja hann.

Schindler var þýskur viðskiptajöfur sem óvænt gerðist bjargvættur mitt í þriðja ríki nasista í Þýskalandi.

Bjargvættur
Óskarsverðlaunamyndin Schindler’s List er byggð á sannri sögu Oskars Schindler. Hann var montinn og gráðugur þýskur viðskiptajöfur sem óvænt gerðist bjargvættur mitt í þriðja ríki nasista í Þýskalandi. Hann ákvað að breyta verksmiðju sinni í flóttamannabúðir fyrir gyðinga og náði þannig að bjarga 1.100 gyðingum frá því að verða sendir í Auschwithz-fangabúðirnar, þar sem gasklefinn beið þeirra.

Myndin Manhattan er talin vera ein af meistaraverkum Allens.

Svört kómedía
Leikstjórinn Woody Allen hefur gaman að því að leika sér með ýmis stílbrigði eins og svarthvíta filmu. Í Manhattan leikur Woody Allen sjálfur Isaac sem er 42 ára og skilinn við Jill. Hún býr nú með annarri konu og er að skrifa bók þar sem hún ætlar að deila persónulegum hlutum úr sambandi þeirra Isaac. Isaac á svo í ástarsambandi við unglingsstúlkuna Tracy þar til hann hittir Mary, hjákonu besta vinar síns og kolfellur fyrir henni.

Frances opnar hjarta sitt fyrir ástinni og dansinum á ný með misgóðum árangri.

Hálffullorðin
Frances Ha í samnefndri kvikmynd er dansari af lífi og sál. Hún starfar hins vegar sem danskennari til að ná endum saman. Hana langar að gera og verða margt en nær árangri í fáu. Mesti sigur hennar hingað til er vinátta hennar og Sophie. Vinkonurnar eru svona semi-hipsterar og hanga saman öllum stundum, en fást við fátt utan þess að gera írónískar athugasemdir um lífið um umhverfið í anda Dorothy Parker. Þegar fólk hefur orð á því að þær séu farnar að minna á lesbískt par sem sé hætt að stunda kynlíf krefst Sophie að þær endurskoði vináttuna. Þannig fer Frances opnar hjarta sitt fyrir ástinni og dansinum á ný með misgóðum árangri.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Fallegt, fjölskylduvænt og öruggt land

Guðrún Helga Jóhannsdóttir býr ásamt fjölskyldu sinni í Senegal.

Guðrún Helga Jóhannsdóttir, doktorsnemi og stundakennari við Háskóla Íslands, býr ásamt fjölskyldu sinni í Senegal. Hún segir að Senegal sé fjölskylduvænt og öruggt land.

Guðrún Helga Jóhannsdóttir býr ásamt manni sínum Yakhya Diop og börnum í Senegal.

„Ég er gift Yakhya Diop, á fjögur börn, þrjú stjúpbörn og eitt á leiðinni. Við fluttum til baka á Klakann í maí síðastliðnum. Höfuðborgin Dakar er frekar þróuð miðað við höfuðborgir nágrannalandanna og þar er allt til alls, hvort sem um er að ræða hágæða læknisþjónustu eða lúxushótel,“ segir Guðrún Helga sem segir okkur hér frá nokkrum áhugaverðum stöðum á svæðinu.

Monument pour la renaissance Africaine
Áhugaverð, falleg og mjög umdeild 50 metra há bronsstytta í Oukam-hverfinu í Dakar. Styttan gnæfir yfir Dakarborg og horfir út á Atlantshafið. Abdoulaye Wade, fyrrum forseti Senegal, lét byggja styttuna og hlaut mikla gagnrýni fyrir þá ákvörðun en styttan kostaði um 2,8 milljarða króna í byggingu. Styttan var vígð á þjóðhátíðardegi Senegals, 4. apríl, árið 2010 en það ár voru 50 ár liðin frá því að landið fékk sjálfstæði frá Frökkum. Styttan er hæsta stytta Afríku og er nauðsynlegt stopp hvers þess sem leggur leið sína til Dakar.

Ile de Ngor
Ile de Ngor er eins og annar heimur. Lítil eyja alveg við Dakar, án rafmagns. Það tekur einungis 10 mínútur að komast þangað með bát. Um það bil 100 íbúar af Lébou-ættbálknum búa á eynni. Eyjan er umlukin fallegum ströndum og er loftslag þar mjög gott allt árið um kring, um það bil 25 gráður. Aðalatvinnuvegur eyjaskeggja eru fiskveiðar og ferðamannaiðnaður en fjöldi ferðamanna sækir eyna heim ár hvert.

Ile de Goree
Falleg eyja með sorglega sögu. Ile de Goree sem hefur 1.680 íbúa er í tveggja kílómetra fjarlægð frá Dakar. Eyjan var útskipunarstaður þræla sem seldir voru til Ameríku. Þar er áhugavert safn um þrælasöguna en einnig eru þar veitingastaðir og fallegar strendur. Eyjan er vinsæll áfangastaður ferðamanna og góð dagsferð frá Dakar.

Að sögn Guðrúnar er Senegal fjölskylduvænt land.

Parc de Bandia
Þetta er einn af fáum stöðum í Senegal þar sem hægt er að upplifa afríska safarístemningu. Garðurinn er í 65 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Dakar, nálægt Saly sem er vinsæll ferðamannastaður. Í garðinum eru gíraffar, sebrahestar, apar, krókódílar, hýenur og nashyrningar auk annarra dýra. Keyrt er um garðinn og dýrin skoðuð í sínu náttúrulega umhverfi innan um aldagömul stórglæsileg baobab-tré.

Lac Rose
Þetta vatn er nauðsynlegur áfangastaður fyrir hvern þann sem heimsækir Senegal. Það er í útjaðri Dakar og auðvelt að taka leigubíl þangað frá höfuðborginni. Vatnið er bleikt á litinn vegna mikils magns salts í því. Á staðnum er hægt að kaupa salt sem unnið er úr vatninu. Við mælum sérstaklega með því að leigja fjórhjól og/eða pallbíl og fara í ferð í kringum vatnið með leiðsögumanni. Það er algjörlega ómissandi og frábær skemmtun, leiðsögumaðurinn keyrir að vatninu og sýnir manni saltvinnsluna og gefur tíma fyrir myndatökur.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Máttugar matartegundir

Matartegundir sem auka kraft og úthald.

Granatepli innihalda öflug andoxunarefni og rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla þeirra getur haft áhrif á það hvernig slagæðar okkar eldast.

Flestar matartegundir hafa áhrif á okkur. Þær gefa okkur næringarefni, orku og vítamín til að takast á við verkefni dagsins og því rétt að huga að því hvaða matartegundir við ættum að leitast eftir að bæta inn í okkar daglegu neyslu til að auka okkur kraft og úthald, ekki síst þessa köldustu og dimmustu vetrarmánuði.

Granatepli innihalda öflug andoxunarefni og rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla þeirra getur haft áhrif á það hvernig slagæðar okkar eldast. Líklegt þykir að granatepli hafi góð áhrif á tíðni krabbameins, sérstaklega blöðruhálskirtilskrabbameins, en engum rannsóknum á þessum eiginleikum hefur enn verið lokið.

Bygg inniheldur átta lífsnauðsynlegar amínósýrur og samkvæmt nýlegri rannsókn getur neysla á því komið reglu á blóðsykurinn í allt að 10 klst. eftir neyslu þess. Bygg er einnig talið hjálpa til við lækkun kólesteróls í blóði og draga úr hættunni á tegund 2 sykursýki.

Magurt kjöt er ein besta uppspretta járns sem til er og hefur einnig áhrif á getu líkamans til að taka upp járn úr öðrum fæðutegundum. Kjöt inniheldur sínk sem talið er bæta minnið og B-vítamín sem hjálpa líkamanum að nýta orkuna úr matnum. Kjöt af dýrum sem fóðruð hafa verið á grasi í stað hafra inniheldur meira af E-vítamíni og omega-3 fitusýrum. Villibráðin okkar er mögur og bítur gras, mosa og fjallagrös allan ársins hring.

Feitur fiskur er fullur af fjörefnum og omega-3 fitusýrum sem sannað er að hafa góð og víðtæk áhrif í líkamanum. Omega-3 fitusýrur hafa m.a. verið taldar hafa góð áhrif á liði og lundarfar og hjálplegar í baráttunni gegn þunglyndi og kvíða auk þess að hafa góð áhrif á starfsemi heilans. Fiskur er klárlega rétta hráefnið til að byrja á þegar við viljum bæta mataræði okkar.

Feitur fiskur er fullur af fjörefnum og omega-3 fitusýrum sem sannað er að hafa góð og víðtæk áhrif í líkamanum … Fiskur er klárlega rétta hráefnið til að byrja á þegar við viljum bæta mataræði okkar.

Kanill er bragðgóður í bæði sæta og kryddaða rétti og það er kannski ekki af ástæðulausu að margir sækja í hann. Hann er talinn koma jafnvægi á blóðsykurinn og hefur í gegnum aldirnar verið notaður gegn tannverkjum og andremmu og einnig sem vörn gegn kvefi og meltingartruflunum.

Villtur lax inniheldur mikið af D-vítamíni og omega-3 fitusýrum og sáralítið af þungmálmum. Íslenski laxinn, sér í lagi sá villti, er hér í algjörum sérflokki. Fitusýrurnar í laxinum hafa góð áhrif á húðina og lundarfarið og berjast gegn fitusöfnun, hjartasjúkdómum og áhrifum liðagigtar.

Til eru margar tegundir af hollum olíum svo sem ólífuolía, sesamolía, hörfræjaolía og hveitikímsolía en þær henta misvel í eldamennsku og eru misbragðgóðar. Til að hámarka heilsusamlega eiginleika þeirra er best að geyma þær í dökkum flöskum á köldum stað, jafnvel í kæliskáp.

Eggjarauður innihalda mörg torfengin næringarefni, s.s. choline sem tengt hefur verið lægri tíðni brjóstakrabbameins (ein rauða uppfyllir ¼ af ráðlögðum dagsskammti). Auk þess innihalda eggjarauður mikilvæg andoxunarefni. Margir hafa forðast egg vegna tengsla þeirra við hjartasjúkdóma en fyrir flesta er engin ástæða til þess. Þeir sem þegar þjást af hjartasjúkdómum ættu að takmarka neysluna við 1-2 rauður á viku en öðrum er óhætt að borða a.m.k. eitt egg daglega, rannsóknir hafa sýnt fram á að það eykur ekki líkurnar á hjartasjúkdómum eða hjartaáfalli.

Spirulina er ein þekktasta ofurfæða sem til er en hún er jafnan þurrkuð og hennar yfirleitt neytt sem fæðubótarefnis. Það er ekki að ástæðulaus að Spirulina lendir ofarlega á öllum ofurfæðulistum, hún inniheldur gríðarlegt magn næringarefna, t.d. beta karótín, járn, kalíum, kalk, B-12 vítamín, blaðgrænu og góðar fitusýrur.

Rannsóknir sem gerðar voru á dýrum sýndu m.a. að neysla á bláberjum gæti lækkaði kólesterólmagn í blóði og hjálpað til við stjórnun blóðþrýstings.

Blaðlaukur, laukur og hvítlaukur búa yfir mörgum ótrúlegum kostum. Laukur er talinn geta hjálpað til við að lækka blóðþrýstinginn og kólesteról í blóði. Rannsóknir benda einnig til að laukur geti haft hamlandi áhrif á vöxt krabbameinsfruma í blöðruhálskirtli, maga og ristli. Laukur hefur hamlandi áhrif á fjölgun baktería og hvítlaukur er t.d. talinn geta minnkað líkurnar á kvefi.

Mikil víndrykkja verður seint talin heilsusamleg en því er þó haldið fram að hófleg neysla á rauðvíni geti haft góð áhrif á starfssemi hjarta og æðakerfis, þetta er stundum kallað „franska mótsögnin“. Rauðvín inniheldur polyfenól og resveratol, efni sem m.a. eru talin eiga þátt í þessum meintu áhrifum rauðvíns. Rauðvín er einnig ríkt af andoxunarefnum. Við leggjum hér aftur áherslu á orðin „hófleg neysla“.

Bláber innihalda mikið magn andoxunarefna og talið er að neysla þeirra geti dregið úr einkennum hjá Alzheimer-sjúklingum og þeim sem þjást af elliglöpum. Rannsóknir sem gerðar voru á dýrum sýndu m.a. að neysla á bláberjum gæti lækkaði kólesterólmagn í blóði og hjálpað til við stjórnun blóðþrýstings.

Rauðrófan er mjög mikilvæg fæðutegund og hefur stóru hlutverki að gegna fyrir líkamann. Í rauðrófunni er járn, C-, Bl-, B2-, B6-, og P-vítamín ásamt mikilsverðustu amínósýrunum. Rauðrófan hefur gagnast vel við blóðleysi og bólgum í líkamanum og ætti skilið að gegna miklu stærra hlutverki hjá okkur en hún gerir. Síðustu ár hefur verið hægt að fá mjög góðar, ferskar rauðrófur í verslunum hérlendis.

Texti / Guðrún Vaka Helgadóttir

 

 

Í opnu sambandi

Í borginni St. Petersburg á Flórída er safn sem er tileinkað einum virtasta og umdeildasta málara heims.

Dalí nam myndlist í Madríd og varð á námsárunum þegar þekktur fyrir að vera sérvirtingur auk þess sem myndir hans vöktu strax athygli.

Það er stærsta safn meistarans utan Spánar og hýsir að mestu einkasafn vinahjóna hans, Reynolds og Eleanor Morse, auk ljósmynda úr lífi Dalís og Gölu, eiginkonu hans.

Stuttu áður en Reynolds og Eleanor Morse giftu sig árið 1942 fóru þau á sýningu á verkum Dalís í Cleveland, Ohio. Þau féllu fyrir listamanninum og keyptu sitt fyrsta verk eftir hann ári seinna. Þetta varð upphafið á söfnun þeirra á upprunalegum verkum Dalís og að áralangri vináttu milli þessara hjóna. Verkin höfðu þau á heimili síni í Cleveland til ársins 1971 en þá opnuðu þau safn við hliðina á skrifstofuhúsnæði sínu í Beachwood, Ohio. Þeim varð hins vegar um megn að taka á móti þeim fjölda gesta sem sóttu safnið og ákváðu að flytja safnið á ný í lok áttunda áratugarins. Eftir mikla leit sem vakti þjóðarathygli völdu Morse-hjónin safninu stað í vörugeymslu við höfnina St. Petersburg sem opnaði árið 1982.

Árið 2008 var safninu svo valinn nýr staður og glæsileg bygging sem arkitektinn Yann Weymouth hannaði var tekin í notkun árið 2011. Byggingin er það sterkbyggð að hún á að standa af sér fellibyl af stærðargráðunni fimm.

The Hallucinogenic Toreador sem Dalí málaði 1968-70.

Á safninu eru meira en 2000 listaverk – olíuverk, vatnslitamyndir, teikningar, skúlptúrar og fleira. Af þeim átján meistaraverkum sem Dalí gerði eru átta staðsett í þessu safni. Flest af þekktustu verkum Dalís eru í súrrealískum stíl og því kemur mörgum gestum safnsins á óvart hve gríðarlega fjölbreytt verk hans eru.
Fyrstu verk hans voru landslags-, andlits- og kyrralífsmyndir á meðan verk sem hann gerði síðar á ævinni voru meðal annars trúarlegs eðlis og þau sem sýna tvær myndir í einni. Síðan komu sjónhverfingar, sterk form og þrívídd inn í verk hans. Á safninu eru myndir sem gefa góða innsýn í öll þessi tímabil.

Meðal verka sem þið ættuð alls ekki að láta fram hjá ykkur fara eru Slave Market with the Disappearing Bust of Voltaire og Old Age, Adolescence, and Infancy (The Three Ages), súrrealískar myndir sem blekkja augað.
Hægt er að verja klukkustundum fyrir framan stærstu meistaraverkin eins og The Hallucinogenic Toreador sem Dalí málaði 1968-70, The Discovery of America by Christopher Columbus frá árinu 1959 og The Ecumenical Council sem hann málaði árið 1960. Einnig er vert að nefna verkið Gala Contemplating the Mediterranean Sea which at Twenty Meters Becomes the Portrait of Abraham Lincoln frá árinu 1976 sem er gott dæmi um mynd sem hefur tvær í einni.

Hið glæsilega safn er að finna í borginni St. Petersburg á Flórída. Mynd / www.commons.wikimedia.org

Gala eiginkona Dalís er viðfangsefni í mörgum mynda hans en hún fylgdi honum alla tíð og sá til þess að hann gæti algerlega einbeitt sér að myndlistinni. Þau bjuggu ýmist í Bandaríkjunum eða á Spáni og litu á Ameríku sem sitt annað heimili. Þessa síðastnefndu mynd málaði Dalí á hótelherbergi í St. Régis-hótelinu í New York. Myndin er óður til landsins sem gaf honum skjól á meðan borgara- og heimstyrjaldir geysuðu í Evrópu.

Þess má geta að samband þeirra hjóna var enginn dans á rósum. Þau voru í opnu sambandi og það vakti oft upp afbrýðisemi og leiddi til illdeilna.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Einstakt ævintýri að vera í heimavistarskóla

|
|dfbgbfgb

Börðust gegn lokun.

Bryndís Fiona Ford skólameistari Hússtjórnarskólans á Hallormsstað segir skólann mikilvægan hluta af menningu Austurlands.

Fyrir ári gerðu stjórnendur Hússtjórnarskólans mennta- og menningarmálaráðuneytinu grein fyrir því að of fáir nemendur hefðu sótt um á vorönn 2017. „Við bjuggust samt ekki við að þá yrði ákveðið að hætta skólahaldi. Sveiflur í aðsókn að skólum eru eðlilegar og endurspegla ástand þjóðfélagsins. Það var því mikið áfall að fá þær fréttir. Við börðumst áfram fyrir skólann, sögu hans og hlutverki og um leið fyrir þá nemendur sem höfðu sótt um nám,“ segir Bryndís Fiona Ford skólameistari Hússtjórnarskólans.

„Skólinn er hluti af menningu fjórðungsins, skólinn og nemendur hans hafa því mikið gildi. Námið samanstendur af textílgreinum og matreiðslu og byggir á áralangri reynslu þar sem menningararfur og nútímatækni fara saman. Námið er stöðugt að breytast og nú með nýrri námskrá erum við að nálgast námsefnið út frá meiri sjálfbærni. Við nýtum okkur umhverfið sem mest og förum í kraftgöngur um skóginn og heimsækjum nánasta umhverfi. Í matreiðslu er mikið unnið með austfirskt hráefni og fá nemendur tækifæri til að skapa og hanna ýmsa rétti og útfærslur undir leiðsögn matreiðslumeistara og gestakennara. Nemendur tengjast sterkum böndum við skólann, umhverfið en allra mest við samnemendur. Hér á sér stað eitthvað ævintýralegt sem erfitt er að koma orðum að.“

Ítarlegt viðtal við Bryndísi er í 2. tölublaði Vikunnar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Myndsmiðjan/Kox

Chili-kjúklingur með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu

|
|

Gerðu vel við þig um helgina.

Berið kjúklinginn fram með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu.

Chili-kjúklingur með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu
1 heill kjúklingur
2 gulrætur
1 rófa
1 sæt kartafla
3-4 msk. olía
gróft sjávarsalt
1 sítróna, skorin í sneiðar

Skolið kjúklinginn vel og þerrið með eldhúspappír. Notið einnota hanska og makið chili-kryddmaukinu innan í og utan á kjúklinginn. Það getur verið gott að losa skinnið aðeins frá og maka kryddmaukinu undir skinnið þar sem það er hægt. Á þessu stigi er gott að láta kjúklinginn standa í kæli yfir nótt eða í nokkrar klst. við stofuhita. Stillið ofn á 180°C. Skerið grænmetið í fremur stóra bita, athugið að hafa sætu kartöflubitana töluvert stærri en hina þar sem sætar kartöflur eldast hraðar. Veltið grænmetinu upp úr olíu og grófu salti og raðið því í botninn á eldföstu móti. Skerið sítrónu í sneiðar og raðið ofan á grænmetið. Setjið kjúklinginn ofan á sítrónusneiðarnar og eldið í u.þ.b. 1 ½ klst. eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Berið gjarnan fram með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu.

chili-kryddmauk:
8 hvítlauksgeirar
2 tsk. sjávarsalt
2 tsk. fenníkufræ
3 tsk. kúmenfræ
nýmalaður svartur pipar
1 þurrkað chili-aldin, mulið smátt, eins má nota 1 tsk. chili-flögur
1-2 tsk. ólífuolía

Merjið saman hvítlauksgeira og salt í mortéli þar til úr verður mauk. Bætið kryddinu saman við og merjið gróft saman ásamt ólífuolíunni.

jógúrtsósa:
2 dl grísk jógúrt
lófafylli fersk mynta, smátt söxuð
lófafylli fersk steinselja, smátt söxuð
1-2 tsk. hunang
2-3 tsk. sesamolía
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Blandið öllu vel saman og látið standa í kæli í nokkrar klst.

saffranhrísgrjón:
2 laukar, smátt skornir
2 tómatar, smátt skornir
nokkrir saffranþræðir
2 ½ dl villihrísgrjón eða hýðishrísgrjón
5 dl kjúklingasoð
1 tsk. salt

Steikið lauk á pönnu í 6-8 mín. eða þar til hann er orðin glær. Bætið tómötum saman við ásamt saffranþráðum og látið malla í nokkrar mín. Setjið þá hrísgrjónin saman við og steikið þau í nokkrar mín. Bætið kjúklingasoði út í ásamt salti og látið malla við vægan hita þar til hrísgrjónin eru soðin í gegn og allur vökvi horfinn.

Texti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Rakel Sigurðsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

 „Góð vinnustaðamenning mikilvæg gegn kulnun í starfi“

Það fyrsta sem hverfur er gamansemin

Sveindís Anna Jóhannsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, hefur sérhæft sig í handleiðslu gegn kulnun í starfi.

Vinnutengd streita hefur á undanförnum árum aukist hjá þjóðinni og mikilvægt að grípa tímalega til aðgerða. Sveindís Anna Jóhannsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, hefur vakið athygli á því að handleiðsla sé öflugt verkfæri gegn kulnun í starfi.

„Birtingarmyndir kulnunar geta verið margvíslegar en eitt af því sem hverfur eða minnkar stórlega er gamansemin. Það verður allt svo alvarlegt. Ekkert er lengur skemmtilegt eða hægt að brosa að. Fólk fer einnig að einangra sig, hætta að taka þátt, vinna jafnvel í kaffi- og matartímum til að forðast samstarfsfólk. Síðan fer fólk einnig að forðast kunningja og vini og að lokum einangrar fólk sig líka frá fjölskyldunni,“ segir Sveindís í greinargóðu viðtali í 2. tölublaði Vikunnar sem kom í verslanir í dag.

Hún segir að góð vinnustaðamenning sé mikilvæg gegn kulnun í starfi. „Auknar líkur eru á kulnun ef markmið starfsins eru óljós eða mótsagnarkennd. Strangar reglur lofa ekki góðu sem og neikvætt andrúmsloft, lítið rými fyrir nýjar hugmyndir, slök stjórnun og eftirfylgd, lítil áhrif starfsmanna á eigið starf og stöðugt kapphlaup við tímann. Einnig of mörg verkefni, þegar sjaldan er hrósað fyrir vel unnin störf og þegar fjöldi undirmanna er yfir 35 manns.“

Nánar má lesa um málið í 2. tölublaði Vikunnar sem kom út í dag 11. janúar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Frumraunir í ástamálum

Fyrsta ástin er flókið fyrirbæri sem engu að síður er svo freistandi að fanga á hvíta tjaldinu.

Hér eru nokkrar ljúfsárar og yndislegar myndir um fyrstu ástina.

Algjörar andstæður
Í Spectacular Now (sbr. mynd hér að ofan) er sagt frá Sutter Keely sem lifir í núinu og er ekkert mikið fyrir það að gera plön fyrir framtíðina. Hann er á síðasta ári í framhaldsskóla, heillandi og vinamargur, miðdepill athyglinnar í veislum, elskar að vinna í fatabúðinni og svo framvegis – en hann er líka efnilegur alkóhólisti og vískíflaskan er aldrei langt undan. Eftir að kærastan segir honum upp fer hann á fyllerí og vaknar í ókunnugum garði þar sem Aimee Finecky stendur yfir honum. Hún er öðruvísi en þær stelpur sem hann á að venjast, sannkölluð „góð stelpa“ sem leggur sig fram í skóla, á sér drauma um framtíðina og hefur aldrei átt kærasta. Þrátt fyrir að vera svona ólík ná þau merkilega vel saman og hafa áhrif hvort á annað, bæði góð og slæm.

Oliver ákveður að hann ætli að verða besti kærasti í heimi til að tryggja að Jordana haldi áfram að vera hrifin af honum.

Skeleggur strákur
Skondna kvikmyndin Submarine segir frá hinum 15 ára gamla Oliver Tate en hann á sér tvö meginmarkmið: að missa sveindóminn fyrir næsta afmælisdag og rústa sambandi móður sinnar við elskhuga sinn. Oliver er bráðþroska ungur strákur og rembist við að auka vinsældir sínar í skólanum. Einn góðan veðurdag verður hin dökkhærða fegurðardís, Jordana, skotin í honum og hann ákveður að hann ætli að verða besti kærasti í heimi til að tryggja að hún haldi áfram að vera hrifin af honum. Á sama tíma er hjónaband foreldra hans í molum og ekki bætir úr skák þegar fyrrum kærasti móður hans flytur inn í húsið við hliðina. Oliver leggur á ráðin um það hvernig hann geti látið foreldra sína vera áfram saman. Lúmskt skemmtileg bresk kvikmynd þar sem hinn ungi leikari Craig Roberts ber af.

Cada og Thomas sem er yfir sig ástfanginn af henni.

Sorgleg en falleg
Það er ekki hægt að fjalla um fyrstu ástina og þroskasögur án þess að tala um My Girl. Þar kynnumst við Vödu Sultenfuss sem er heltekin af dauðanum. Móðir hennar er látin og faðir hennar rekur útfararstofu. Hún heldur að hún sé ástfangin af enskukennaranum sínum og skráir sig meira að segja í ljóðanámskeið til að ganga í augun á honum. Besti vinur hennar, Thomas J., er algjör ofnæmispési. Hann er yfir sig ástfanginn af Vödu og tilbúinn til að gera hvað sem er fyrir hana. Vada reiðist þegar faðir hennar ræður förðunarfræðing á útfararstofuna og hrífst af henni. Hún gerir allt hvað hún getur til að skemma fyrir þeim. Eins og flestir vita er endir myndarinnar mjög sorglegur og það er nauðsynlegt að vera með tissjúkassa við höndina þegar maður horfir á þessa.

Oskar kynnist Eli sem er heldur betur sérstök stúlka.

Flókin ást
Það er nógu erfitt og flókið að verða skotinn í fyrsta skiptið þó manneskjan sem maður er skotinn í sé ekki vampýra í þokkabót. Í sænsku myndinni Låt den rätte komma in kynnumst við Oskari, 12 ára gömlum strák í Stokkhólmi sem er lagður í einelti í skólanum og foreldrar hans láta hann alveg afskiptan. Líf hans breytist þegar hann kynnist Eli sem er heldur betur sérstök stúlka. Hún þolir illa sólskinið, fúlsar við flestum mat og svo þarf að bjóða henni sérstaklega inn í herbergi. Hann fellur engu að síður fyrir henni og hún gefur honum styrk til að standa með sjálfum sér. En þegar hann uppgötvar að hún þarf að drekka mannablóð til að lifa neyðist hann til að hugsa sinn gang upp á nýtt.

Moonrise Kingdom fjallar um samband 12 ára stráks, Sam, og stelpu, Suzy, sem hafa verið pennavinir í eitt ár.

Sannkallað ævintýri
Á eyjunni New Penzance búa aðeins örfáar hræður auk þess sem þar eru reknar sumarbúðir. Myndin Moonrise Kingdom fjallar um samband 12 ára stráks, Sam, og stelpu, Suzy, sem hafa verið pennavinir í eitt ár. Þau verða ástfangin í gegnum bréfaskriftirnar og gera með sér leynilegt samkomulag um að flýja saman út í óbyggðirnar. Suzy býr á eyjunni með fjölskyldu sinni en Sam kemur árlega í Ivanhoe-sumarbúðirnar. Á meðan yfirvöld og hinar ýmsu stofnanir leita þeirra sækir skuggalegur stormur í sig veðrið þannig að á endanum er hið sallarólega samfélag litlu eyjunnar komið á annan endann.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Stórbrotnir staðir á Suðurlandi

Á Suðurlandi eru margir stórbrotnir staðir sem vert er að heimsækja við réttar aðstæður.

Þar er hvergi meiri fjölbreytni í náttúrufari á Íslandi eins og jöklar, eldfjöll, eldfjallaeyjar, háhitasvæði, jökulár, svartar sjávarstrendur, víðáttumikil undirlendi, mýrar og stöðuvötn af öllum stærðum og gerðum. Það er því óhætt að mæla með ósnortnu hálendi Suðurlands við áhugasama ferðalanga.

Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins. Mynd / www.commons.wikimedia.org

Lakagígar gusu árið 1783 hinu mesta hraungosi er sögur fara af á jörðinni. Þeir voru þá kallaðir Skaftáreldar og er gígaröðin 25 kílómetrar að lengd og endar við Vatnajökul. Alls eru gígaopin talin vera um 100. Gígarnir eru af margvíslegri gerð og lögun. Sumir eru kringlóttir, aðrir aflangir og stundum meira eða minna brotnir. Í barmi flestra þeirra er skarð sem hraunið hefur runnið út úr.

Flestir þeirra eru að miklu leyti þaktir þykkri breiðu af grámosa og hinir fegurstu tilsýndar. Ganga ber um þá með gætni því að mosinn er afar viðkvæmur. Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins en þeir voru friðlýstir árið 1971.

Fjaðrárgljúfur Hið 100 metra djúpa og tveggja kílómetra langa Fjaðrárgljúfur er bæði stórbrotið og hrikalegt. Gljúfrið er veggbratt, hlykkjótt og þröngt. Berggrunnurinn í Fjaðrárgljúfri er að mestu móberg frá kuldaskeiðum ísaldar og telst um tveggja milljóna ára gamalt. Fjaðrá á upptök sín í Geirlandshrauni og fellur fram af heiðarbrúninni í þessu mikilfenglega gljúfri þar til hún skilar sér niður í Skaftá. Fjaðrá er bergvatnsá og ljóst er að hún hefur breyst mikið í tímans rás. Í dag er Fjaðrá oftast frekar vatnslítil og því geta göngumenn hæglega kosið að ganga inn gljúfrið en þá þarf að vaða ána alloft. Innst í gljúfrinu eru fossar svo ganga þarf sömu leið til baka. Flestir velja að ganga eftir göngustíg uppi á gljúfurbarminum og njóta um leið útsýnisins yfir gljúfrið. Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá og öðlaðist heimsfrægð eftir að söngvarinn Justin Bieber tók upp myndband sitt I´ll Show You í gljúfrinu.

Raufarhólshellir Einn af lengstu hellum Íslands nefnist Raufarhólshellir og er staðsettur við Þrengslaveg. Hellirinn er yfir 1.300 metra langur og myndaðist í Leitarhraunsgosi í Bláfjöllum fyrir um 5.200 árum. Vinsælt er að nota hellinn í kvikmyndum og til að mynda var hluti úr kvikmyndinni Noah (2014) tekinn upp þar. Daglegar ferðir eru í boði í hellinn.

Jökladýrð Hluta af hinni kraftmiklu móður jörð er að finna í hinum hættulegu jöklum landsins. Flesta jökla landsins er að finna á Suðurlandi og vert að hafa í huga að mestu máli skiptir að setja í forgang viðeigandi búnað og skipulagningu ef ferðast á yfir jökul. Eitt megineinkenni jökla er að þeir hreyfast. Í jöklunum eru margar virkar eldstöðvar en eldgos og jarðhiti bræða ís og geta valdið jökulhlaupi. Um þriðjungur þess vatns sem fellur til sjávar á Íslandi er jökulvatn. Aðgengi að íslenskum jöklum er nokkuð mismunandi en þó er mögulegt að komast að flestum þeirra. Ferð upp á jökul getur verið ógleymanlegt ævintýri en þó ber að hafa í huga að þeir geta verið stórhættulegir og því nauðsynlegt að vera í fylgd reyndra jöklaleiðsögumanna. Nokkur fyrirtæki sjá um skipulagðar jöklaferðir á Suðurlandi en hægt er að nálgast upplýsingar um þær á Netinu, í upplýsingamiðstöðvum ferðamála eða hjá starfsmönnum hótela. Vikan mælir eindregið með að ferðamenn hafi samband við ferðaskipuleggjendur og leiðsögumenn á svæðunum áður en lagt er af stað upp á jökul.

Systrastapi við Klaustur Árið 1186 var sett nunnuklaustur í Kirkjubæ á Síðu sem síðar var nefnt Kirkjubæjarklaustur. Örnefnin Systrastapi og Systrafoss eru einmitt tengd þeim tíma.

Mikilvægt er að leggja af stað vel undirbúinn.

Systrastapi er klettastapi vestan við Klaustur. Þjóðsaga segir að uppi á stapanum sé legstaður tveggja klaustursystra sem hafi verið brenndar á báli fyrir brot á siðareglum. Önnur hafði selt sig fjandanum, gengið með vígt brauð fyrir náðhúsdyr og lagst með karlmönnum. Hin hafði talað óguðlega um páfann. Eftir siðaskiptin var seinni nunnan talin saklaus og á leiði hennar óx fagur gróður en á leiði hinnar seku var gróðurlaust. Klifra má upp á stapann en þaðan er mikið útsýni með jöklasýn.

Systrafoss heitir fossinn þar sem Fossá fellur úr Systravatni fram af fjallsbrúninni fyrir ofan Kirkjubæjarklaustur, ofan í Fossárgil. Fallegar gönguleiðir eru í nágrenni fossins og greið gönguleið er upp á fjallsbrúnina að Systravatni en ofan af brúninni er stórbrotið útsýni.

Frá Hrífunesi yfir í Þjórsárdal Óhætt er að mæla með göngu frá Hrífunesi yfir í Þjórsárdal sem álitinn er af mörgum einn fegursti dalur landsins. Þjórsárdalur er staðsettur í Árnessýslu og liggur milli Búrfells og Skriðufells. Dalurinn skiptist í tvo dalbotna um Rauðukamba og Bergólfsstaðaá en hann er bæði sléttlendur og vikurborin eftir síendurtekin eldgos í Heklu. Talið er að Þjórsárdalur hafi verið fullbyggður á þjóðveldisöld en lagst í eyði á 17. öld. Merkustu staðir dalsins eru taldir vera Stöng, Háifoss, Þjóðveldisbærinn, Vegghamar og Gjáin.

Texti / Íris Hauksdóttir

Góð stemning á Hátíðarkvöldverði Klúbbs matreiðslumanna

Fagmennska var í hæsta gæðaflokki á Hátíðarkvöldverði Klúbbs matreiðslumanna 2018!

Selma Björnsdóttir hélt uppi fjörinu.

Óhætt er að segja að öllu hafi verið tjaldað til á Hátíðarkvöldverði Klúbbs matreiðslumanna, sem fór fram  á Hilton Reykjavík Nordica síðastliðinn laugardag. Tekið var á móti gestum með freyðandi kampavíni og smáréttum en um 400 gestir sóttu veisluhöldin ásamt fjölda fagfólks sem útbjó matinn og þjónaði gestum.

Er Hátíðarkvöldverðurinn liður í fjáröflun félagsins og því unnu fagmenn, kokkar og matreiðslumenn, launalaust þetta kvöld. Klúbburinn notar svo ágóðan til að fjármagna ýmsa áhugaverða viðburði, svo sem keppnina Kokka ársins og fleira.

Góð stemning var á staðnum en það voru þau Erpur Eyvindarson og Selma Björnsdóttir sem héldu uppi fjörinu og skemmtu gestum sem nutu þess að borða gómsæta réttina sem voru reiddir fram hver á eftir öðrum.

Nánar í næsta tölublaði Gestgjafans, sem kemur út fimmtudaginn 18. janúar!

Myndir / Sigurjón Ragnar
Texti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

 

Gulla arkitekt hannar einstaka glæsiíbúð

Gulla arkitekt segist heillast af hógværum glæsileika og arktitektúr með listrænu ívafi.

Guðlaug Jónsdóttir, arkitekt og hönnuður, hefur búið í borg englana, Los Angeles, í næstum þrjátíu ár og getið sér gott orð sem arkitekt. Gulla, eins og hún er alltaf kölluð, hefur hannað tvær sérlega smart húsgagnalínur sem eru einungis seldar í listagalleríum og má segja að þessi húsgögn hennar séu oft meira í ætt við listaverk eða skúlptúr en hefðbundin húsgögn.

Guðlaug Jónsdóttir, arkitekt og hönnuður, hefur búið í borg englana, Los Angeles, í næstum þrjátíu ár og getið sér gott orð sem arkitekt

Gulla hefur líka hannað mörg flott hótel víða um heim og veitingastaði sömuleiðis og nýlega tók hún að sér að hanna glæsiíbúð í hæstu íbúðarbyggingu heims í stórborginni New York, nánar tiltekið 432 Park Avenue-skýjakljúfrinum sem lokið var að byggja í enda árs 2015. Afraksturinn er algjör veisla fyrir augað. Þetta heimili er sannarlega einstakt, fágað og glæsilegt en um leið líka hlýlegt og tímalaust.

Við hittum Gullu þegar hún var stödd hér á landi í jólafríi og spurðum hana út í þessa íðilfögru íbúð en þess má geta að Gulla fékk nýlega hönnunarverðlaun Interior Design Magazin; Best resort design 2017 og voru verðlaunin fyrir lúxushótel sem hún hannaði í Kína en þessi verðlaunin eru eins og Óskarinn í hönnun og því mikill heiður að fá þau. Við óskum Gullu til hamingju með enn eina rósina í hnappagatið því þetta eru aldeilis ekki fyrstu verðlaunin sem hún fær fyrir hönnun sína.

Íbúðin er staðsett í hæstu íbúðabyggingu heims

Íbúðin er eins og fyrr segir í hæsta íbúðarhúsnæði heims og Gulla segir að húsið sé 90 hæðir og 425,5 metra hátt. Og þá langar okkur að vita hversu hátt upp með lyftunni hún hafi farið þegar hún vann að þessu verkefni? ,,Íbúðin er á 55. hæð og hún er um 350 fermetrar,“ segir hún og bætir við að lofthæðin sé tæpir fjórir metrar. „Það eru hjón sem eiga þetta og þau eru til að mynda hvort með sitt baðherbergið.“Hennar baðherbergi er með frístandandi baðkeri sem er staðsett við stóran glugga og það er því einstakt útsýni yfir borgina þegar legið er baði þarna uppi á 55. hæð. Hann er með sturtu á sínu baðherbergi þannig að þau eru ekki eins.

Þarna er stórt opið aðalrými sem telur stofu, borðstofu og eldhúsið, inn af því er annað ,,vinnueldhús“, þvottaherbergi og annar inngangur. Auk þess er líka eitt herbergi sem er sérhannað til að spila backgammon, eða kotru, eins og það heitir á íslensku því herramaðurinn sem þarna býr spilar gjarnan kotru við félaga sína og þá er ekki amalegt að vera með þetta flotta spilarými.

Þessi glæsilega íbúð prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Húsa og híbýla og þar má sjá fleiri fallegar myndir og viðtalið við Gullu í heild sinni.

Texti / Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Myndir / Art Gray

Að vinna fyrir Ísland fær hjartað til að slá hraðar

|||
Halla Þórlaug Óskarsdóttir.|Du: dikter för nyfödingar.|Sesselja Agnes - undarleg saga.|Síðasta setning Fermats.

Halla Hrund Logadóttir starfar við kennslu í Harvard-háskóla í Bandaríkjunum þar sem hún stofnaði og stýrir nú fyrsta náms- og rannsóknarvettvangi tengdum Norðurslóðum. Áður hafði Halla byggt upp Íslenska orkuháskólann við Háskólann í Reykjavík. Hún segir áhugann á umhverfismálum hafa fylgt sér frá blautu barnsbeini. „Mér finnst skemmtilegast að byggja hluti sem geta haft jákvæð áhrif á einhvern hátt og nýtast íslensku samfélagi. Það að vinna fyrir Ísland fær hjartað til að slá örar og hvetur mig til að gera mitt allra besta.”

„Ég er oft að sinna mörgum verkefnum í ólíklegustu löndum og reyna á sama tíma að vera frábær mamma en ég held að allar útivinnandi konur tengi við slíkt á einhvern hátt.”

Halla býr ásamt fjölskyldu sinni í Cambridge í Boston, hún segir áherslurnar hafa umbreyst við fæðingu dóttur þeirra. „Ég er oft að sinna mörgum verkefnum í ólíklegustu löndum og reyna á sama tíma að vera frábær mamma en ég held að allar útivinnandi konur tengi við slíkt á einhvern hátt. Ég vil vera dóttur minni góð fyrirmynd í leik og starfi og er dugleg að taka hana með með mér í vinnuna til að sýna henni eitthvað nýtt. Þó finnst mér ég læra mest af henni, hún minnir mig á gildi sem mér finnst skipta máli í fari fólks.”

Ítarlegt viðtal við Höllu má lesa í næsta tölublaði Vikunnar sem kemur út á fimmtudaginn 18.janúar.

Texti / Íris Hauksdóttir

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Förðun / Ástrós Erla Benediktsdóttir

Ekki sleppa morgunmat

Mikilvægasta máltíð dagsins.

Allir hafa heyrt  gömlu tugguna um að morgunmatur sé mikilvægasta máltíð dagsins en margir sleppa honum, hvort sem það er vegna anna eða af annarri ástæðu. Það er þó ýmislegt til í þessari gömlu tuggu.

Á síðastliðnum fimm árum hefur orðið ákveðin vitundarvakning um mikilvægi þess að fasta í ákveðinn tíma á hverjum sólarhring til að gefa líkamanum tækifæri til að taka fótinn af bensíngjöfinni og sinna nauðsynlegu viðhaldi. Ýmsar gerðir föstumataræðis hafa verið í umræðunni, eins 5:2-mataræðið eða 16 tíma fasta, og þær hafa sína kosti og galla. Við getum þó öll tileinkað okkur það að hætta að borða á kvöldin og ná þannig allavega 10 tíma föstu á hverjum degi.

Enska orðið yfir morgunmat, breakfast, þýðir bókstaflega að brjóta föstu. Þannig að um leið og við borðum morgunmat hættum við að fasta, líkaminn vaknar úr ákveðnum hvíldarfasa þannig að meltingin og önnur efnaskifti byrja að vinna aftur á sinn eðlilega hátt.

Líkaminn byrjar þá að brenna hitaeiningum í auknum mæli og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að þeir sem borða morgunmat grennast frekar, og haldast frekar í kjörþyngd, en þeir sem að sleppa morgunmat. Það er þó ekki þar með sagt að það sé algjörlega nauðsynlegt að borða morgunmatinn um leið og maður vaknar heldur er í lagi að bíða, ef til vill til klukkan tíu.

Hvenær svo sem þú borðar morgunverðinn er mikilvægast að hann sé hollur og næringarríkur. Sumir vilja örlítið sætari morgunmat á meðan aðrir geta ekki hugsað sér það.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Ást er ást

Myndir sem sýna lesbísk ástarsambönd á heiðarlegan og fallegan hátt eru fágætar en hafa allar vakið töluverða athygli.

Kvikmyndaiðnaðurinn hefur oft verið gagnrýndur fyrir það að sýna aðeins gagnkynhneigðar ástarsögur og þegar fjallað er um samkynhneigð sambönd er það yfirleitt á mjög steríótýpískan, jafnvel neikvæðan, hátt. Hér eru nokkrar undantekningar sem sýna lesbísk ástarsambönd á heiðarlegan og fallegan hátt, enda hafa þær allar vakið töluverða athygli.

Eitthvað vantaði
La Vie d’Adèle, eða Blue is the Warmest Color eins og hún kallaðist á ensku (sjá mynd hér að ofan), fjallar um ósköp venjulega fimmtán ára stúlku, Adele, sem hefur áhuga á öllu því sem unglingsstúlkur hafa áhuga á; vinum, skóla, tónlist og strákum. Þegar hún byrjar með einum vinsælasta stráknum í skólanum áttar hún sig á að ekki er allt eins og það á að vera. Samkvæmt bekkjarfélögum hennar er hann hinn fullkomni strákur en henni líður sem það vanti eitthvað. Þetta veldur ruglingi hjá henni og hún fer að velta fyrir sér hvað geti verið að. En þegar hún hittir fyrir tilviljun hina bláhærðu Emmu finnur hún það sem hingað til hefur vantað. Hrá og hreinskilin mynd sem vann Gullpálmann í Cannes árið 2013.

Í The Kids are Alright er sagt frá parinu Jules og Nic sem hafa verið saman í næstum tuttugu ár og eiga tvo unglinga.

Framsækin fjölskylda
Í myndinni The Kids are Alright er sagt frá lesbíska parinu Jules og Nic sem hafa verið saman í næstum tuttugu ár og eiga tvo unglinga, Joni og Laser, sem þær eignuðust með hjálp tæknisæðingar. Þær hafa alltaf verið hreinskilnar við börnin sín og sagt þeim hvernig þau komu til. Þær bjuggust þó aldrei við að þau myndu vilja kynnast föður sínum en dag einn ákveða þau að hafa uppi á sæðisgjafanum, Paul,  sem kemur þeim skemmtilega á óvart. Þau stofna til sambands við hann og bjóða honum meðal annars í heimsókn, sem kemur mæðrum þeirra í dálítið uppnám.

________________________________________________________________

My Summer of Love fjallar um afdrifaríkt sumar í lífi tveggja ungra stúlkna, Tamsin og Monu.

Ólíkar en líkar
Eins og titillinn gefur til kynna þá fjallar My Summer of Love um afdrifaríkt sumar í lífi tveggja ungra stúlkna, Tamsin og Monu. Þrátt fyrir að vera úr ólíkum stéttum samfélagsins þá laðast þær strax hvor að annarri. Þær eiga það sameiginlegt að fjölskyldur þeirra eru fremur brotnar, en bróðir Monu er fyrrum afbrotamaður sem snerist til kristni í fangelsi og faðir Tamsin heldur fram hjá móður hennar. Þær byrja að njósna um fjölskyldumeðlimi og komast að ýmsum leyndarmálum en þau leyndarmál binda þær fastar saman. Áhugaverð og falleg mynd sem gerist í sveitum Bretlands en þarna má sjá Emily Blunt unga taka sín fyrstu skref í kvikmyndaleik.

________________________________________________________________

Á milli Carol og Theresu kviknar dálítill neisti.

Af litlum neista
Theresa er ung kona sem fær tímabundna vinnu um jólin 1952 hjá stórverslun á Manhattan en hún er áhugaljósmyndari sem dreymir um að komast að sem atvinnuljósmyndari hjá einhverju traustu tímariti eða dagblaði. Dag einn kemur í verslunina hástéttarkonan Carol og á milli þeirra kviknar dálítill neisti. Eitt leiðir síðan af öðru og smám saman fer samband þeirra að þróast. Það á þó eftir að draga dilk á eftir sér því Carol á í deilu við eiginmann sinn en hann hefur hótað að nota samkynhneigð hennar sem rökstuðning fyrir því að hann eigi að fá fullt forræði yfir börnum þeirra. Carol er glæsileg mynd sem lýsir viðhorfum til samkynhneigðar á þessum tíma. Báðar leikkonurnar, Cate Blanchett og Rooney Mara, eiga stórleik í myndinni.

________________________________________________________________

Kvöld eitt liggja leiðir Elinar og Agnesar saman og upp frá því þróast óvænt samband.

Unglingsárin erfið
Unglingsstúlkurnar Elin og Agnes eru í sama skóla en eiga annars litla sem enga samleið. Elín er hress og vinsæl á meðan Agnes er vinafá og niðurdregin. Þær eru samt báðar komnar með upp í kok á lífi sínu, en Elínu dreymir um að flýja smábæinn Åmål en Agnesi dreymir bara um Elínu. Kvöld eitt liggja leiðir þeirra saman og upp frá því þróast óvænt samband sem gæti reynst lausnin á vanda þeirra beggja. Spurningin er þó hvort þær séu nógu kjarkaðar til að standa uppi í hárinu á vinum sínum og samnemendum. Fucking Åmål var langt á undan samtíð sinni, eins og svo margar skandinavískar myndir eru, og fjallaði opinskátt um samkynhneigð samhliða því að sýna hversu erfitt það er að vera unglingur.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Fljótlegur fiskréttur

|
|Fullkomið með soðnum kartöflum.

Eðalfiskur sem er auðvelt og fljótlegt að elda.

Berið fiskinn fram með soðnum kartöflum

Sítrónufiskur
fyrir 4
1 msk. smjör
700-800 ýsa eða annar fiskur
1 ½ dl rjómi eða matreiðslurjómi
safi úr 1 lítilli sítrónu
2 msk. ferskt fáfnisgras eða kóríander, saxað (má nota 2 tsk. þurrkað)
salt og nýmalaður pipar
1 laukur, sneiddur
1 fenníka, sneidd
2 msk. olía
Hitið ofninn í 180°C. Smyrjið ofnfast fat með smjöri og raðið fiskinum í fatið.
Blandið saman rjóma, sítrónusafa og estragoni, hellið blöndunni yfir fiskinn, saltið og stráið vel af pipar yfir.
Bakið í ofninum í 20 mín.
Steikið lauk og fenníku í olíu á pönnu og berið fram með fiskinum ásamt soðnum kartöflum.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Óeðlilegt ef æfingarferlið hefði verið auðvelt

Kristín Þóra segir áhorfendur geta búið sig undir mikið sjónarspil.

Leikritið Medea var frumsýnt um helgina í Borgarleikhúsinu en óvænt hlutverkaskipti urðu í verkinu á miðju æfingartímabili.

Kristín Þóra Haraldsdóttir fer með titilhlutverk sýningarinnar og segir hún æfingarferlið hafa verið lærdómsríkt og gefandi. „Verkið er heilmikil áskorun sem einkennist auðvitað einna helst á því hversu krefjandi karakter Medea er. Þetta hefur því eðli málsins samkvæmt tekið aðeins á. Að mínu mati væri óeðlilegt ef æfingarferlið hefði verið auðvelt. Þetta er þannig verk.”

Eins og frægt hefur orðið urðu breytingar innan leikhópsins þegar æfingarferlið var langt komið, en þá steig Hjörtur Jóhann Jónsson inn í annað burðarhlutverk sýningarinnar sem Jason, eiginmaður Medeu. Hlutverkið átti áður að skipa Atla Rafn Sigurðarsyni sem vikið var frá störfum nú fyrir skömmu. Kristín Þóra segir Hjört Jóhann hafa orðið við áskoruninni og gert ákaflega vel úr hlutverkinu á ótrúlega skömmum tíma. „Hjörtur Jóhann kom gríðarlega sterkur inn, lærði textann sinn um jólin og stendur sig með glæsibrag enda magnaður leikari og einstakur listamaður.”

Sjálf segist Kristín Þóra hafa nálgast sinn karakter á sama hátt og með alla aðra karaktera sem hún hefur tekist á við. „Ég hugsa fyrst og fremst, hvað er það sem drífur þessa konu áfram. Ég grúskaði mikið í grískri goðafræði en eins og flestir vita er Evripídes höfundur verksins sem skrifað var fyrir 2400 árum síðan. Ég velti upp stöðu kvenna á þeim tíma sem verkið var skrifað og einnig stöðu kvenna í dag. Einnig hef ég skoðað sorg og áföll hvernig við bregðumst við í slíkum aðstæðum. Medea er í miðju sorgarferli. Hvað gerist hjá okkur þegar við erum stödd í miðjum stormi, líkamlega og tilfinningalega, hvað gerist sem dæmi í heilanum þegar við förum í,,flight mode“. Svo auðvitað læra textann sem er nú engin smábiti og dansa með mótleikurunum og leikstjóranum Hörpu Arnardóttur sem hjálpa mér að komast nær karakternum.”

„Hjörtur Jóhann kom gríðarlega sterkur inn, lærði textann sinn um jólin og stendur sig með glæsibrag enda magnaður leikari og einstakur listamaður.”

Nú þegar frumsýningin er yfirstaðin þar sem fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna er óhætt að segja áhorfendur geti búið sig undir magnað sjónarspil. „Ég held að áhorfendur ættu að hugsa um þetta sem mikið ferðalag. Leikmynd og búningar Filippíu Elísdóttur eru konfekt fyrir augað, lýsing Björns Bergsteins er töfrandi eins og hann er þekktur fyrir. Tónlist Valgeirs Sigurðssonar er algjörlega mögnuð, ein sú flottasta sem ég hef heyrt í leikhúsi. Vonandi náum við leikararnir að segja þessa sögu, sýna mennskuna í þessum karakterum og hreyfa við áhorfendum. Við gerum allavega okkar besta til að svo verði.”

Texti / Íris Hauksdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Útivistarparadísin Hafnarfjörður

Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarpóstsins og innanhússarkitekt, segir frá útivistarperlum í Hafnarfirði.

Hafnarfjörður er svo miklu meira en þyrping húsa en þar má finna eitt stórbrotnasta útivistasvæði landsins. Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarpóstsins og innanhússarkitekt, hefur búið í Hafnarfirði síðan 1962 og þekkir bæinn og umhverfi hans vel. Við fengum hann til að segja okkur frá nokkrum perlum á svæðinu.

Guðni er kvæntur Kristjönu Þórdísi Ásgeirsdóttur og þau eiga sex syni og 5 barnabörn. „Við Kristjana byrjuðum að búa á brúðkaupsnóttinni árið 1978 í gömlu húsi við Suðurgötu. Síðan hefur annað ekki komið til greina en að vera hér enda gott að búa í Hafnarfirði sem státar af gríðarlega fallegu bæjarstæði sem er umvafið af sjávarströnd, fjölbreyttu hrauni og óteljandi náttúrufyrirbrigðum og minjum um byggð fyrri alda. Mannlífið er gott og fjölbreytt félagsstarf og menningarstarfsemi. Þrátt fyrir stærðina er það eins og að búa í þorpi, í besta skilningi þess orðs, að búa í Hafnarfirði.“

Hellisgerði
Milli Skúlaskeiðs og Reykjavíkurvegar er skrúðgarður Hafnfirðinga, einstakur fyrir hraunlandslag sitt. Var farið að nota hann sem áningarstað á 19. öldinni en hann dregur nafn sitt af Fjarðarhelli sem þar er. Formlegur skrúðgarður varð hann árið 1923 og eftir það hófst trjárækt þar og síðar blómarækt. Þarna eru ákjósanlegir staðir til að setjast á teppi með nesti og njóta þessarar náttúruperlu í hjarta Hafnarfjarðar.

Við Hvaleyrarvatn, Höfðaskógur og Helgafell í baksýn. Mynd / Guðni Gíslason

Malirnar
Mikil útgerð hefur verið í Hafnarfirði enda er þar góð höfn frá náttúrunnar hendi. Malirnar er samnefni malarkamba á milli hraunkletta við norðanverðan Hafnarfjörð. Krosseyri var við gamla hafnargarðinn en er nú horfin en utar sjást enn Langeyramalir við Herjólfsgötu og Litlu-Langeyrarmalir undan Brúsastöðum. Skerseyrarmalir liggja milli Brúsastaða og Balaklappar. Frá bílastæði innst við Herjólfsgötu er skemmtileg gönguleið eftir fjörukambinum. Skarf má sjá á klettum í sjónum og þarna má sjá ummerki eftir útgerð fyrri alda.

Hvaleyrarvatn
Jafnt að vetri sem sumri er umhverfi Hvaleyrarvatns, rétt innan byggðar í Hafnarfirði, orðin hreinasta perla. Á sumrin hópast fólk að vatninu á góðviðrisdögum og buslar í vatninu, gengur og hjólar á stígum allt umhverfis vatnið og nýtur lífsins. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur ræktað þar mikinn skóg og lagt stíga og þar má finna svæði með sýnishornum af flestum trjátegundum og einnig er þar að finna nyrsta rósagarð í heimi. Hafnfirsku skátarnir eiga skála við vatnið og hafa komið þar upp útivistarparadís.

Helgafell
Bæjarfell Hafnfirðinga er 338 metra hár móbergsstapi ofan Kaldársels. Fjallið, sem myndaðist við gos undir jökli seint á ísöld, er vinsælt til uppgöngu og ágætlega mörkuð leið er frá Kaldárbotnum, upptökum kalda vatns Hafnfirðinga. Á fjallinu er varða og í henni má finna gestabók. Fjölmargir áhugaverðir staðir eru nálægt Helgafelli og gönguferð í kringum fjallið getur leitt fólk að Litlu-borgum, friðuðum hraunmyndunum S-A fjallsins, Valabóli austan Valahnjúka og fleiri staða.

Fosshellir
Fjölmarga hraunhella má finna í landi Hafnarfjarðar. Ef gengið er til austurs frá bílastæðunum við Kaldárbotna ofan Kaldársels, með fram vatnsverndargirðingunni er komið í Helgadal. Þar er gönguleið á sléttri hraunhellu þar til gönguleiðin snýr til suðurs. Þar í N-A er komið að jarðfalli. Gengið er niður í jarðfallið og til vinstri og er þá komið að hraunfossinum sem hellirinn er nefndur eftir. Þarna þarf vasaljós og ef haldið er upp fossinn má sjá hraunmyndanir sem minna á jötu og eru ummerki hraunstraums. Þá fer að glitta í ljós og þegar út er komið er horft til baka að gönguleiðinni. Líkur eru á að Fosshellir sé hluti 100 m hellis en op inn í hann má finna í hraunsprungu um 100 m N-V af útgönguleiðinni. Skammt þar undan er Rauðshellir sem einnig er áhugaverður.

Gjárnar
Rétt áður en komið er í Kaldársel, þar sem gamli Kaldárselsvegurinn mætir þeim nýja eru einstaklega fallegar hraunmyndanir sem kallast Gjár. Gjárnar eru leifar tæmdrar hrauntjarnar sem myndaðist fyrir u.þ.b. 7000 árum þegar Búrfellsgosi var að ljúka. Sjóðandi heit hrauneðjan kraumaði um stund í tjörninni áður en hraunflaumurinn rann eftir neðanjarðarrásum í átt til sjávar og tjarnarbotninn storknaði. Gjárnar voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Aðalmynd: Guðni við Tröllin í Valahnúkum, Helgafell í bakgrunni. Mynd / Jón Guðnason

Lambalæri með blóðbergi og rótargrænmeti

Ljúffeng steik þar sem lambabragðið fær að njóta sín.

Lambalæri með blóðbergi og rótargrænmeti.

Lambalæri með blóðbergi og rótargrænmeti
1 meðalstórt lambalæri frá Bjarteyjarsandi
ólífuolía
salt og pipar
1 lúka íslenskt garðablóðberg, saxað
1 lúka mynta, fersk, söxuð
5 hvítlauksgeirar, maukaðir
Hitið grill eða pönnu í 300°C, kveikið á ofninum á 140°C. Blandið því næst saman olíunni og öllum kryddunum og makið vel á allt lambið.
Því næst er lambið sett á heitt grillið eða pönnu og eldað í 3 mín. á hvorri hlið, þannig að það „lokist“ vel.
Eftir það er kjötið sett í eldfast mót og inn í ofn í 55-65 mín. eða þar til kjarnhitinn hefur náð 60°C. Þá er kjötið tekið út og látið hvíla uppi á borði með stykki yfir í minnst 10 mín. áður en skorið er í það.


Borið fram með nýuppteknu rótargrænmeti og brúnni sósu.

Umsjón / Hinrink Carl Ellertson
Myndir / Ernir Eyjólfsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

 

Blóðugir glæpir og annar hryllingur

Ekki missa af þessum sjónvarpsþáttum.

Það verður að segjast eins og er, það er skemmtilegast að horfa á glæpaþætti í einum rikk og þurfa ekki að bíða í viku eða meira eftir næsta þætti. Hér eru nokkrir afar spennandi þættir sem eru fáanlegir á Netflix.

Rannsókn raðmorðingja
Mindhunter (sjá mynd að ofan) eru nýlegir þættir framleiddir af Netflix. Þættirnir gerast árið 1977 þegar glæpasálfræði var á frumstigi. FBI-mennirnir Holden Ford og Bill Tech byrja að skoða morðingja sem virðast ekki hafa drepið af hefðbundnum ástæðum, svo sem hefnd eða ástríðu, og hafa jafnframt myrt fleiri en fimm einstaklinga, ýmist í einum rikk eða yfir lengri tíma. Þeir vilja komast að því hvað hvetur þessa menn til að myrða og hvernig megi koma í veg fyrir slíka glæpi. Þættirnir eru sannsögulegir og viðtölin við morðingjana eru byggð á upprunalegum gögnum Ford og Tech auk þess sem þeir eiga heiðurinn af hugtakinu raðmorðingi.

Lucifer sest að í Los Angeles þar sem hann starfar sem ráðgjafi hjá LAPD auk þess að reka næturklúbbinn Lux.

Djöfull og dauði
Bandarísku þættirnir Lucifer fjalla um satan sjálfan, Lucifer Morningstar. Honum leiðist í helvíti og því ákveður hann að yfirgefa krúnu sína að halda upp á yfirborðið. Hann sest að í Los Angeles þar sem hann starfar sem ráðgjafi hjá LAPD auk þess að reka næturklúbbinn Lux. En hvað veit djöfullinn um glæpi – merkilega mikið að því er virðist.

________________________________________________________________

Í þáttunum Luther kynnumst við titilpersónunni John Luther, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar í London, sem sér um alvarlega glæpi.

Skuggalegir glæpir
Bretar kunna svo sannarlega að gera lögguþætti. Í þáttunum Luther kynnumst við titilpersónunni John Luther, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar í London, sem sér um alvarlega glæpi. Vinnan er númer eitt, tvö og þrjú í lífi Luthers og það bitnar bæði á honum og þeim sem standa honum næst. Vegna þess hve skuggalegir glæpirnir sem hann rannsakar eru þá finnst honum stundum sem myrkrið sé að gleypa sig.

________________________________________________________________

Johnny Lee Miller sem Sherlock Holmes og Lucy Liu sem Watson.

Í nýjum búning
Það þekkja flestir einkaspæjarann Sherlock Holmes, enda hafa fjölmargar birtingarmyndir hans komið í sjónvarpi og á hvíta tjaldinu. Elementary eru bandarískir þættir sem setja sögurnar um Sherlock Holmes, sem Arthur Conan Doyle skrifaði, í nýjan búning. Þættirnir gerast í New York, ekki í London, í samtímanum og í þetta skipti er Dr. Watson kona, sem Lucy Liu, leikur. Johnny Lee Miller er einnig frábær í hlutverki Sherlocks og þættirnir eru hreint út sagt ávanabindandi.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Skerum niður hitaeiningar

Hvernig er best að skera niður fjölda hitaeininga?

Einfaldasta leiðin til að léttast er að skera niður hitaeiningar, það vita allir. Hins vegar eru ekki allir klárir á því hvernig þeir eigi að fara að því og hve mikið þeir eigi að skera niður. Með því að innbyrða fimm hundruð hitaeiningum minna á hverjum degi er hægt að léttast um hálft kíló á viku. Hér eru nokkrar góðar leiðir til þess.

Salöt eru oftast holl, en öllu má samt ofgera og eftir því sem lagt er meira í salatið með alls kyns ostum, karamelliseruðum hnetum, avókadó og þvíumlíku þeim mun hitaeiningaríkara verður það.

Varastu heilsufæði
Fólk er síður á varðbergi gagnvart mat sem er stimplaður sem heilsufæði og vanmetur oftar en ekki hitaeiningafjöldann. Þó að matur sé hollur þýðir það ekki endilega að hann sé hitaeiningasnauður, til dæmis er oft mælt með að nota hnetur og þurrkaða ávexti sem nasl en ef þú gætir ekki að þér getur þú óafvitandi innbyrt fimm hundruð hitaeiningar í einu millimáli.

Salat er ekki það sama og salat
Í hugum flestra er salat það hollasta sem maður getur fengið sér. Það má samt öllu ofgera og eftir því sem lagt er meira í salatið með alls kyns ostum, karamelliseruðum hnetum, beikoni, avókadó, brauðteninga og þvíumlíku þeim mun hitaeiningaríkara verður það. Einn stór salatdiskur með öllu getur innihaldið fleiri hitaeiningar en pastaréttur. Ef þú setur aðeins eitt sælkerahráefni í salatið, helmingar dressinguna og hefur fjölbreyttara grænmeti í á móti getur þú fækkað hitaeiningunum um fimm hundruð.

Minni diskar
Besta leiðin til að minnka skammtastærðir er einfaldlega að nota minni diska. Með því einu að skipta þrjátíu sentímetra disknum út fyrir tuttugu og fimm sentímetra disk muntu borða fjórðungi minna, sem þýðir fimm hundruð kaloríur þegar allar máltíðir dagsins eru taldar. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því að verða svöng því rannsóknir hafa sýnt að svengdin verður ekkert meiri.

Borðaðu sjaldnar pasta
Aðeins einn bolli af pasta eru tvö hundruð og tuttugu hitaeiningar en skammtastærðir flestra eru töluvert stærri en einn bolli. Þannig að það er auðvelt að innbyrða næstum því þúsund hitaeiningar í einni pastamáltíð. Reyndu að hafa pasta aðeins einu sinni í viku og haltu þig við tvo bolla af því, það er alltaf hægt að hafa salat með.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Svarthvíta hetjan mín

Það eru ákveðnir töfrar sem fylgja svarthvítum myndum.

Lengi vel voru svarthvítar myndir það eina sem var í boði en jafnvel í dag, mörgum áratugum eftir að litfilmur voru fundnar upp, eru enn til kvikmyndagerðarmenn sem velja að taka myndir upp í svarthvítu.

Datt í lukkupottinn
Í Nebraska (sjá mynd hér að ofan) kynnumst við Woody Grant, öldruðum vélvirkja og fyrrverandi málara, sem ákveður að ferðast frá Montana til Nebraska til að innheimta milljón dollara sem hann heldur að hann hafi unnið í happdrætti. Woody er vegna óhóflegrar áfengisneyslu í gegnum árin orðinn verulega ruglaður ofan í sérviskuna sem hefur alltaf einkennt hann. Þegar hann fær bréf þar sem látið er að því liggja að hann hafi unnið milljón dollara í happdrætti og það eina sem hann þurfi að gera sé að mæta á svæðið og sækja vinninginn. Allir í kringum hann vita að þetta er auglýsingabrella, eða hreinlega svindl, en Woody er harður á því að vinningurinn sé raunverulegur og ákveður að sækja hann.

Schindler var þýskur viðskiptajöfur sem óvænt gerðist bjargvættur mitt í þriðja ríki nasista í Þýskalandi.

Bjargvættur
Óskarsverðlaunamyndin Schindler’s List er byggð á sannri sögu Oskars Schindler. Hann var montinn og gráðugur þýskur viðskiptajöfur sem óvænt gerðist bjargvættur mitt í þriðja ríki nasista í Þýskalandi. Hann ákvað að breyta verksmiðju sinni í flóttamannabúðir fyrir gyðinga og náði þannig að bjarga 1.100 gyðingum frá því að verða sendir í Auschwithz-fangabúðirnar, þar sem gasklefinn beið þeirra.

Myndin Manhattan er talin vera ein af meistaraverkum Allens.

Svört kómedía
Leikstjórinn Woody Allen hefur gaman að því að leika sér með ýmis stílbrigði eins og svarthvíta filmu. Í Manhattan leikur Woody Allen sjálfur Isaac sem er 42 ára og skilinn við Jill. Hún býr nú með annarri konu og er að skrifa bók þar sem hún ætlar að deila persónulegum hlutum úr sambandi þeirra Isaac. Isaac á svo í ástarsambandi við unglingsstúlkuna Tracy þar til hann hittir Mary, hjákonu besta vinar síns og kolfellur fyrir henni.

Frances opnar hjarta sitt fyrir ástinni og dansinum á ný með misgóðum árangri.

Hálffullorðin
Frances Ha í samnefndri kvikmynd er dansari af lífi og sál. Hún starfar hins vegar sem danskennari til að ná endum saman. Hana langar að gera og verða margt en nær árangri í fáu. Mesti sigur hennar hingað til er vinátta hennar og Sophie. Vinkonurnar eru svona semi-hipsterar og hanga saman öllum stundum, en fást við fátt utan þess að gera írónískar athugasemdir um lífið um umhverfið í anda Dorothy Parker. Þegar fólk hefur orð á því að þær séu farnar að minna á lesbískt par sem sé hætt að stunda kynlíf krefst Sophie að þær endurskoði vináttuna. Þannig fer Frances opnar hjarta sitt fyrir ástinni og dansinum á ný með misgóðum árangri.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Fallegt, fjölskylduvænt og öruggt land

Guðrún Helga Jóhannsdóttir býr ásamt fjölskyldu sinni í Senegal.

Guðrún Helga Jóhannsdóttir, doktorsnemi og stundakennari við Háskóla Íslands, býr ásamt fjölskyldu sinni í Senegal. Hún segir að Senegal sé fjölskylduvænt og öruggt land.

Guðrún Helga Jóhannsdóttir býr ásamt manni sínum Yakhya Diop og börnum í Senegal.

„Ég er gift Yakhya Diop, á fjögur börn, þrjú stjúpbörn og eitt á leiðinni. Við fluttum til baka á Klakann í maí síðastliðnum. Höfuðborgin Dakar er frekar þróuð miðað við höfuðborgir nágrannalandanna og þar er allt til alls, hvort sem um er að ræða hágæða læknisþjónustu eða lúxushótel,“ segir Guðrún Helga sem segir okkur hér frá nokkrum áhugaverðum stöðum á svæðinu.

Monument pour la renaissance Africaine
Áhugaverð, falleg og mjög umdeild 50 metra há bronsstytta í Oukam-hverfinu í Dakar. Styttan gnæfir yfir Dakarborg og horfir út á Atlantshafið. Abdoulaye Wade, fyrrum forseti Senegal, lét byggja styttuna og hlaut mikla gagnrýni fyrir þá ákvörðun en styttan kostaði um 2,8 milljarða króna í byggingu. Styttan var vígð á þjóðhátíðardegi Senegals, 4. apríl, árið 2010 en það ár voru 50 ár liðin frá því að landið fékk sjálfstæði frá Frökkum. Styttan er hæsta stytta Afríku og er nauðsynlegt stopp hvers þess sem leggur leið sína til Dakar.

Ile de Ngor
Ile de Ngor er eins og annar heimur. Lítil eyja alveg við Dakar, án rafmagns. Það tekur einungis 10 mínútur að komast þangað með bát. Um það bil 100 íbúar af Lébou-ættbálknum búa á eynni. Eyjan er umlukin fallegum ströndum og er loftslag þar mjög gott allt árið um kring, um það bil 25 gráður. Aðalatvinnuvegur eyjaskeggja eru fiskveiðar og ferðamannaiðnaður en fjöldi ferðamanna sækir eyna heim ár hvert.

Ile de Goree
Falleg eyja með sorglega sögu. Ile de Goree sem hefur 1.680 íbúa er í tveggja kílómetra fjarlægð frá Dakar. Eyjan var útskipunarstaður þræla sem seldir voru til Ameríku. Þar er áhugavert safn um þrælasöguna en einnig eru þar veitingastaðir og fallegar strendur. Eyjan er vinsæll áfangastaður ferðamanna og góð dagsferð frá Dakar.

Að sögn Guðrúnar er Senegal fjölskylduvænt land.

Parc de Bandia
Þetta er einn af fáum stöðum í Senegal þar sem hægt er að upplifa afríska safarístemningu. Garðurinn er í 65 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Dakar, nálægt Saly sem er vinsæll ferðamannastaður. Í garðinum eru gíraffar, sebrahestar, apar, krókódílar, hýenur og nashyrningar auk annarra dýra. Keyrt er um garðinn og dýrin skoðuð í sínu náttúrulega umhverfi innan um aldagömul stórglæsileg baobab-tré.

Lac Rose
Þetta vatn er nauðsynlegur áfangastaður fyrir hvern þann sem heimsækir Senegal. Það er í útjaðri Dakar og auðvelt að taka leigubíl þangað frá höfuðborginni. Vatnið er bleikt á litinn vegna mikils magns salts í því. Á staðnum er hægt að kaupa salt sem unnið er úr vatninu. Við mælum sérstaklega með því að leigja fjórhjól og/eða pallbíl og fara í ferð í kringum vatnið með leiðsögumanni. Það er algjörlega ómissandi og frábær skemmtun, leiðsögumaðurinn keyrir að vatninu og sýnir manni saltvinnsluna og gefur tíma fyrir myndatökur.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Máttugar matartegundir

Matartegundir sem auka kraft og úthald.

Granatepli innihalda öflug andoxunarefni og rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla þeirra getur haft áhrif á það hvernig slagæðar okkar eldast.

Flestar matartegundir hafa áhrif á okkur. Þær gefa okkur næringarefni, orku og vítamín til að takast á við verkefni dagsins og því rétt að huga að því hvaða matartegundir við ættum að leitast eftir að bæta inn í okkar daglegu neyslu til að auka okkur kraft og úthald, ekki síst þessa köldustu og dimmustu vetrarmánuði.

Granatepli innihalda öflug andoxunarefni og rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla þeirra getur haft áhrif á það hvernig slagæðar okkar eldast. Líklegt þykir að granatepli hafi góð áhrif á tíðni krabbameins, sérstaklega blöðruhálskirtilskrabbameins, en engum rannsóknum á þessum eiginleikum hefur enn verið lokið.

Bygg inniheldur átta lífsnauðsynlegar amínósýrur og samkvæmt nýlegri rannsókn getur neysla á því komið reglu á blóðsykurinn í allt að 10 klst. eftir neyslu þess. Bygg er einnig talið hjálpa til við lækkun kólesteróls í blóði og draga úr hættunni á tegund 2 sykursýki.

Magurt kjöt er ein besta uppspretta járns sem til er og hefur einnig áhrif á getu líkamans til að taka upp járn úr öðrum fæðutegundum. Kjöt inniheldur sínk sem talið er bæta minnið og B-vítamín sem hjálpa líkamanum að nýta orkuna úr matnum. Kjöt af dýrum sem fóðruð hafa verið á grasi í stað hafra inniheldur meira af E-vítamíni og omega-3 fitusýrum. Villibráðin okkar er mögur og bítur gras, mosa og fjallagrös allan ársins hring.

Feitur fiskur er fullur af fjörefnum og omega-3 fitusýrum sem sannað er að hafa góð og víðtæk áhrif í líkamanum. Omega-3 fitusýrur hafa m.a. verið taldar hafa góð áhrif á liði og lundarfar og hjálplegar í baráttunni gegn þunglyndi og kvíða auk þess að hafa góð áhrif á starfsemi heilans. Fiskur er klárlega rétta hráefnið til að byrja á þegar við viljum bæta mataræði okkar.

Feitur fiskur er fullur af fjörefnum og omega-3 fitusýrum sem sannað er að hafa góð og víðtæk áhrif í líkamanum … Fiskur er klárlega rétta hráefnið til að byrja á þegar við viljum bæta mataræði okkar.

Kanill er bragðgóður í bæði sæta og kryddaða rétti og það er kannski ekki af ástæðulausu að margir sækja í hann. Hann er talinn koma jafnvægi á blóðsykurinn og hefur í gegnum aldirnar verið notaður gegn tannverkjum og andremmu og einnig sem vörn gegn kvefi og meltingartruflunum.

Villtur lax inniheldur mikið af D-vítamíni og omega-3 fitusýrum og sáralítið af þungmálmum. Íslenski laxinn, sér í lagi sá villti, er hér í algjörum sérflokki. Fitusýrurnar í laxinum hafa góð áhrif á húðina og lundarfarið og berjast gegn fitusöfnun, hjartasjúkdómum og áhrifum liðagigtar.

Til eru margar tegundir af hollum olíum svo sem ólífuolía, sesamolía, hörfræjaolía og hveitikímsolía en þær henta misvel í eldamennsku og eru misbragðgóðar. Til að hámarka heilsusamlega eiginleika þeirra er best að geyma þær í dökkum flöskum á köldum stað, jafnvel í kæliskáp.

Eggjarauður innihalda mörg torfengin næringarefni, s.s. choline sem tengt hefur verið lægri tíðni brjóstakrabbameins (ein rauða uppfyllir ¼ af ráðlögðum dagsskammti). Auk þess innihalda eggjarauður mikilvæg andoxunarefni. Margir hafa forðast egg vegna tengsla þeirra við hjartasjúkdóma en fyrir flesta er engin ástæða til þess. Þeir sem þegar þjást af hjartasjúkdómum ættu að takmarka neysluna við 1-2 rauður á viku en öðrum er óhætt að borða a.m.k. eitt egg daglega, rannsóknir hafa sýnt fram á að það eykur ekki líkurnar á hjartasjúkdómum eða hjartaáfalli.

Spirulina er ein þekktasta ofurfæða sem til er en hún er jafnan þurrkuð og hennar yfirleitt neytt sem fæðubótarefnis. Það er ekki að ástæðulaus að Spirulina lendir ofarlega á öllum ofurfæðulistum, hún inniheldur gríðarlegt magn næringarefna, t.d. beta karótín, járn, kalíum, kalk, B-12 vítamín, blaðgrænu og góðar fitusýrur.

Rannsóknir sem gerðar voru á dýrum sýndu m.a. að neysla á bláberjum gæti lækkaði kólesterólmagn í blóði og hjálpað til við stjórnun blóðþrýstings.

Blaðlaukur, laukur og hvítlaukur búa yfir mörgum ótrúlegum kostum. Laukur er talinn geta hjálpað til við að lækka blóðþrýstinginn og kólesteról í blóði. Rannsóknir benda einnig til að laukur geti haft hamlandi áhrif á vöxt krabbameinsfruma í blöðruhálskirtli, maga og ristli. Laukur hefur hamlandi áhrif á fjölgun baktería og hvítlaukur er t.d. talinn geta minnkað líkurnar á kvefi.

Mikil víndrykkja verður seint talin heilsusamleg en því er þó haldið fram að hófleg neysla á rauðvíni geti haft góð áhrif á starfssemi hjarta og æðakerfis, þetta er stundum kallað „franska mótsögnin“. Rauðvín inniheldur polyfenól og resveratol, efni sem m.a. eru talin eiga þátt í þessum meintu áhrifum rauðvíns. Rauðvín er einnig ríkt af andoxunarefnum. Við leggjum hér aftur áherslu á orðin „hófleg neysla“.

Bláber innihalda mikið magn andoxunarefna og talið er að neysla þeirra geti dregið úr einkennum hjá Alzheimer-sjúklingum og þeim sem þjást af elliglöpum. Rannsóknir sem gerðar voru á dýrum sýndu m.a. að neysla á bláberjum gæti lækkaði kólesterólmagn í blóði og hjálpað til við stjórnun blóðþrýstings.

Rauðrófan er mjög mikilvæg fæðutegund og hefur stóru hlutverki að gegna fyrir líkamann. Í rauðrófunni er járn, C-, Bl-, B2-, B6-, og P-vítamín ásamt mikilsverðustu amínósýrunum. Rauðrófan hefur gagnast vel við blóðleysi og bólgum í líkamanum og ætti skilið að gegna miklu stærra hlutverki hjá okkur en hún gerir. Síðustu ár hefur verið hægt að fá mjög góðar, ferskar rauðrófur í verslunum hérlendis.

Texti / Guðrún Vaka Helgadóttir

 

 

Í opnu sambandi

Í borginni St. Petersburg á Flórída er safn sem er tileinkað einum virtasta og umdeildasta málara heims.

Dalí nam myndlist í Madríd og varð á námsárunum þegar þekktur fyrir að vera sérvirtingur auk þess sem myndir hans vöktu strax athygli.

Það er stærsta safn meistarans utan Spánar og hýsir að mestu einkasafn vinahjóna hans, Reynolds og Eleanor Morse, auk ljósmynda úr lífi Dalís og Gölu, eiginkonu hans.

Stuttu áður en Reynolds og Eleanor Morse giftu sig árið 1942 fóru þau á sýningu á verkum Dalís í Cleveland, Ohio. Þau féllu fyrir listamanninum og keyptu sitt fyrsta verk eftir hann ári seinna. Þetta varð upphafið á söfnun þeirra á upprunalegum verkum Dalís og að áralangri vináttu milli þessara hjóna. Verkin höfðu þau á heimili síni í Cleveland til ársins 1971 en þá opnuðu þau safn við hliðina á skrifstofuhúsnæði sínu í Beachwood, Ohio. Þeim varð hins vegar um megn að taka á móti þeim fjölda gesta sem sóttu safnið og ákváðu að flytja safnið á ný í lok áttunda áratugarins. Eftir mikla leit sem vakti þjóðarathygli völdu Morse-hjónin safninu stað í vörugeymslu við höfnina St. Petersburg sem opnaði árið 1982.

Árið 2008 var safninu svo valinn nýr staður og glæsileg bygging sem arkitektinn Yann Weymouth hannaði var tekin í notkun árið 2011. Byggingin er það sterkbyggð að hún á að standa af sér fellibyl af stærðargráðunni fimm.

The Hallucinogenic Toreador sem Dalí málaði 1968-70.

Á safninu eru meira en 2000 listaverk – olíuverk, vatnslitamyndir, teikningar, skúlptúrar og fleira. Af þeim átján meistaraverkum sem Dalí gerði eru átta staðsett í þessu safni. Flest af þekktustu verkum Dalís eru í súrrealískum stíl og því kemur mörgum gestum safnsins á óvart hve gríðarlega fjölbreytt verk hans eru.
Fyrstu verk hans voru landslags-, andlits- og kyrralífsmyndir á meðan verk sem hann gerði síðar á ævinni voru meðal annars trúarlegs eðlis og þau sem sýna tvær myndir í einni. Síðan komu sjónhverfingar, sterk form og þrívídd inn í verk hans. Á safninu eru myndir sem gefa góða innsýn í öll þessi tímabil.

Meðal verka sem þið ættuð alls ekki að láta fram hjá ykkur fara eru Slave Market with the Disappearing Bust of Voltaire og Old Age, Adolescence, and Infancy (The Three Ages), súrrealískar myndir sem blekkja augað.
Hægt er að verja klukkustundum fyrir framan stærstu meistaraverkin eins og The Hallucinogenic Toreador sem Dalí málaði 1968-70, The Discovery of America by Christopher Columbus frá árinu 1959 og The Ecumenical Council sem hann málaði árið 1960. Einnig er vert að nefna verkið Gala Contemplating the Mediterranean Sea which at Twenty Meters Becomes the Portrait of Abraham Lincoln frá árinu 1976 sem er gott dæmi um mynd sem hefur tvær í einni.

Hið glæsilega safn er að finna í borginni St. Petersburg á Flórída. Mynd / www.commons.wikimedia.org

Gala eiginkona Dalís er viðfangsefni í mörgum mynda hans en hún fylgdi honum alla tíð og sá til þess að hann gæti algerlega einbeitt sér að myndlistinni. Þau bjuggu ýmist í Bandaríkjunum eða á Spáni og litu á Ameríku sem sitt annað heimili. Þessa síðastnefndu mynd málaði Dalí á hótelherbergi í St. Régis-hótelinu í New York. Myndin er óður til landsins sem gaf honum skjól á meðan borgara- og heimstyrjaldir geysuðu í Evrópu.

Þess má geta að samband þeirra hjóna var enginn dans á rósum. Þau voru í opnu sambandi og það vakti oft upp afbrýðisemi og leiddi til illdeilna.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Einstakt ævintýri að vera í heimavistarskóla

|
|dfbgbfgb

Börðust gegn lokun.

Bryndís Fiona Ford skólameistari Hússtjórnarskólans á Hallormsstað segir skólann mikilvægan hluta af menningu Austurlands.

Fyrir ári gerðu stjórnendur Hússtjórnarskólans mennta- og menningarmálaráðuneytinu grein fyrir því að of fáir nemendur hefðu sótt um á vorönn 2017. „Við bjuggust samt ekki við að þá yrði ákveðið að hætta skólahaldi. Sveiflur í aðsókn að skólum eru eðlilegar og endurspegla ástand þjóðfélagsins. Það var því mikið áfall að fá þær fréttir. Við börðumst áfram fyrir skólann, sögu hans og hlutverki og um leið fyrir þá nemendur sem höfðu sótt um nám,“ segir Bryndís Fiona Ford skólameistari Hússtjórnarskólans.

„Skólinn er hluti af menningu fjórðungsins, skólinn og nemendur hans hafa því mikið gildi. Námið samanstendur af textílgreinum og matreiðslu og byggir á áralangri reynslu þar sem menningararfur og nútímatækni fara saman. Námið er stöðugt að breytast og nú með nýrri námskrá erum við að nálgast námsefnið út frá meiri sjálfbærni. Við nýtum okkur umhverfið sem mest og förum í kraftgöngur um skóginn og heimsækjum nánasta umhverfi. Í matreiðslu er mikið unnið með austfirskt hráefni og fá nemendur tækifæri til að skapa og hanna ýmsa rétti og útfærslur undir leiðsögn matreiðslumeistara og gestakennara. Nemendur tengjast sterkum böndum við skólann, umhverfið en allra mest við samnemendur. Hér á sér stað eitthvað ævintýralegt sem erfitt er að koma orðum að.“

Ítarlegt viðtal við Bryndísi er í 2. tölublaði Vikunnar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Myndsmiðjan/Kox

Chili-kjúklingur með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu

|
|

Gerðu vel við þig um helgina.

Berið kjúklinginn fram með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu.

Chili-kjúklingur með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu
1 heill kjúklingur
2 gulrætur
1 rófa
1 sæt kartafla
3-4 msk. olía
gróft sjávarsalt
1 sítróna, skorin í sneiðar

Skolið kjúklinginn vel og þerrið með eldhúspappír. Notið einnota hanska og makið chili-kryddmaukinu innan í og utan á kjúklinginn. Það getur verið gott að losa skinnið aðeins frá og maka kryddmaukinu undir skinnið þar sem það er hægt. Á þessu stigi er gott að láta kjúklinginn standa í kæli yfir nótt eða í nokkrar klst. við stofuhita. Stillið ofn á 180°C. Skerið grænmetið í fremur stóra bita, athugið að hafa sætu kartöflubitana töluvert stærri en hina þar sem sætar kartöflur eldast hraðar. Veltið grænmetinu upp úr olíu og grófu salti og raðið því í botninn á eldföstu móti. Skerið sítrónu í sneiðar og raðið ofan á grænmetið. Setjið kjúklinginn ofan á sítrónusneiðarnar og eldið í u.þ.b. 1 ½ klst. eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Berið gjarnan fram með saffranhrísgrjónum og jógúrtsósu.

chili-kryddmauk:
8 hvítlauksgeirar
2 tsk. sjávarsalt
2 tsk. fenníkufræ
3 tsk. kúmenfræ
nýmalaður svartur pipar
1 þurrkað chili-aldin, mulið smátt, eins má nota 1 tsk. chili-flögur
1-2 tsk. ólífuolía

Merjið saman hvítlauksgeira og salt í mortéli þar til úr verður mauk. Bætið kryddinu saman við og merjið gróft saman ásamt ólífuolíunni.

jógúrtsósa:
2 dl grísk jógúrt
lófafylli fersk mynta, smátt söxuð
lófafylli fersk steinselja, smátt söxuð
1-2 tsk. hunang
2-3 tsk. sesamolía
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Blandið öllu vel saman og látið standa í kæli í nokkrar klst.

saffranhrísgrjón:
2 laukar, smátt skornir
2 tómatar, smátt skornir
nokkrir saffranþræðir
2 ½ dl villihrísgrjón eða hýðishrísgrjón
5 dl kjúklingasoð
1 tsk. salt

Steikið lauk á pönnu í 6-8 mín. eða þar til hann er orðin glær. Bætið tómötum saman við ásamt saffranþráðum og látið malla í nokkrar mín. Setjið þá hrísgrjónin saman við og steikið þau í nokkrar mín. Bætið kjúklingasoði út í ásamt salti og látið malla við vægan hita þar til hrísgrjónin eru soðin í gegn og allur vökvi horfinn.

Texti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Rakel Sigurðsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

 „Góð vinnustaðamenning mikilvæg gegn kulnun í starfi“

Það fyrsta sem hverfur er gamansemin

Sveindís Anna Jóhannsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, hefur sérhæft sig í handleiðslu gegn kulnun í starfi.

Vinnutengd streita hefur á undanförnum árum aukist hjá þjóðinni og mikilvægt að grípa tímalega til aðgerða. Sveindís Anna Jóhannsdóttir, félags- og fjölskylduráðgjafi, hefur vakið athygli á því að handleiðsla sé öflugt verkfæri gegn kulnun í starfi.

„Birtingarmyndir kulnunar geta verið margvíslegar en eitt af því sem hverfur eða minnkar stórlega er gamansemin. Það verður allt svo alvarlegt. Ekkert er lengur skemmtilegt eða hægt að brosa að. Fólk fer einnig að einangra sig, hætta að taka þátt, vinna jafnvel í kaffi- og matartímum til að forðast samstarfsfólk. Síðan fer fólk einnig að forðast kunningja og vini og að lokum einangrar fólk sig líka frá fjölskyldunni,“ segir Sveindís í greinargóðu viðtali í 2. tölublaði Vikunnar sem kom í verslanir í dag.

Hún segir að góð vinnustaðamenning sé mikilvæg gegn kulnun í starfi. „Auknar líkur eru á kulnun ef markmið starfsins eru óljós eða mótsagnarkennd. Strangar reglur lofa ekki góðu sem og neikvætt andrúmsloft, lítið rými fyrir nýjar hugmyndir, slök stjórnun og eftirfylgd, lítil áhrif starfsmanna á eigið starf og stöðugt kapphlaup við tímann. Einnig of mörg verkefni, þegar sjaldan er hrósað fyrir vel unnin störf og þegar fjöldi undirmanna er yfir 35 manns.“

Nánar má lesa um málið í 2. tölublaði Vikunnar sem kom út í dag 11. janúar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Frumraunir í ástamálum

Fyrsta ástin er flókið fyrirbæri sem engu að síður er svo freistandi að fanga á hvíta tjaldinu.

Hér eru nokkrar ljúfsárar og yndislegar myndir um fyrstu ástina.

Algjörar andstæður
Í Spectacular Now (sbr. mynd hér að ofan) er sagt frá Sutter Keely sem lifir í núinu og er ekkert mikið fyrir það að gera plön fyrir framtíðina. Hann er á síðasta ári í framhaldsskóla, heillandi og vinamargur, miðdepill athyglinnar í veislum, elskar að vinna í fatabúðinni og svo framvegis – en hann er líka efnilegur alkóhólisti og vískíflaskan er aldrei langt undan. Eftir að kærastan segir honum upp fer hann á fyllerí og vaknar í ókunnugum garði þar sem Aimee Finecky stendur yfir honum. Hún er öðruvísi en þær stelpur sem hann á að venjast, sannkölluð „góð stelpa“ sem leggur sig fram í skóla, á sér drauma um framtíðina og hefur aldrei átt kærasta. Þrátt fyrir að vera svona ólík ná þau merkilega vel saman og hafa áhrif hvort á annað, bæði góð og slæm.

Oliver ákveður að hann ætli að verða besti kærasti í heimi til að tryggja að Jordana haldi áfram að vera hrifin af honum.

Skeleggur strákur
Skondna kvikmyndin Submarine segir frá hinum 15 ára gamla Oliver Tate en hann á sér tvö meginmarkmið: að missa sveindóminn fyrir næsta afmælisdag og rústa sambandi móður sinnar við elskhuga sinn. Oliver er bráðþroska ungur strákur og rembist við að auka vinsældir sínar í skólanum. Einn góðan veðurdag verður hin dökkhærða fegurðardís, Jordana, skotin í honum og hann ákveður að hann ætli að verða besti kærasti í heimi til að tryggja að hún haldi áfram að vera hrifin af honum. Á sama tíma er hjónaband foreldra hans í molum og ekki bætir úr skák þegar fyrrum kærasti móður hans flytur inn í húsið við hliðina. Oliver leggur á ráðin um það hvernig hann geti látið foreldra sína vera áfram saman. Lúmskt skemmtileg bresk kvikmynd þar sem hinn ungi leikari Craig Roberts ber af.

Cada og Thomas sem er yfir sig ástfanginn af henni.

Sorgleg en falleg
Það er ekki hægt að fjalla um fyrstu ástina og þroskasögur án þess að tala um My Girl. Þar kynnumst við Vödu Sultenfuss sem er heltekin af dauðanum. Móðir hennar er látin og faðir hennar rekur útfararstofu. Hún heldur að hún sé ástfangin af enskukennaranum sínum og skráir sig meira að segja í ljóðanámskeið til að ganga í augun á honum. Besti vinur hennar, Thomas J., er algjör ofnæmispési. Hann er yfir sig ástfanginn af Vödu og tilbúinn til að gera hvað sem er fyrir hana. Vada reiðist þegar faðir hennar ræður förðunarfræðing á útfararstofuna og hrífst af henni. Hún gerir allt hvað hún getur til að skemma fyrir þeim. Eins og flestir vita er endir myndarinnar mjög sorglegur og það er nauðsynlegt að vera með tissjúkassa við höndina þegar maður horfir á þessa.

Oskar kynnist Eli sem er heldur betur sérstök stúlka.

Flókin ást
Það er nógu erfitt og flókið að verða skotinn í fyrsta skiptið þó manneskjan sem maður er skotinn í sé ekki vampýra í þokkabót. Í sænsku myndinni Låt den rätte komma in kynnumst við Oskari, 12 ára gömlum strák í Stokkhólmi sem er lagður í einelti í skólanum og foreldrar hans láta hann alveg afskiptan. Líf hans breytist þegar hann kynnist Eli sem er heldur betur sérstök stúlka. Hún þolir illa sólskinið, fúlsar við flestum mat og svo þarf að bjóða henni sérstaklega inn í herbergi. Hann fellur engu að síður fyrir henni og hún gefur honum styrk til að standa með sjálfum sér. En þegar hann uppgötvar að hún þarf að drekka mannablóð til að lifa neyðist hann til að hugsa sinn gang upp á nýtt.

Moonrise Kingdom fjallar um samband 12 ára stráks, Sam, og stelpu, Suzy, sem hafa verið pennavinir í eitt ár.

Sannkallað ævintýri
Á eyjunni New Penzance búa aðeins örfáar hræður auk þess sem þar eru reknar sumarbúðir. Myndin Moonrise Kingdom fjallar um samband 12 ára stráks, Sam, og stelpu, Suzy, sem hafa verið pennavinir í eitt ár. Þau verða ástfangin í gegnum bréfaskriftirnar og gera með sér leynilegt samkomulag um að flýja saman út í óbyggðirnar. Suzy býr á eyjunni með fjölskyldu sinni en Sam kemur árlega í Ivanhoe-sumarbúðirnar. Á meðan yfirvöld og hinar ýmsu stofnanir leita þeirra sækir skuggalegur stormur í sig veðrið þannig að á endanum er hið sallarólega samfélag litlu eyjunnar komið á annan endann.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Stórbrotnir staðir á Suðurlandi

Á Suðurlandi eru margir stórbrotnir staðir sem vert er að heimsækja við réttar aðstæður.

Þar er hvergi meiri fjölbreytni í náttúrufari á Íslandi eins og jöklar, eldfjöll, eldfjallaeyjar, háhitasvæði, jökulár, svartar sjávarstrendur, víðáttumikil undirlendi, mýrar og stöðuvötn af öllum stærðum og gerðum. Það er því óhætt að mæla með ósnortnu hálendi Suðurlands við áhugasama ferðalanga.

Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins. Mynd / www.commons.wikimedia.org

Lakagígar gusu árið 1783 hinu mesta hraungosi er sögur fara af á jörðinni. Þeir voru þá kallaðir Skaftáreldar og er gígaröðin 25 kílómetrar að lengd og endar við Vatnajökul. Alls eru gígaopin talin vera um 100. Gígarnir eru af margvíslegri gerð og lögun. Sumir eru kringlóttir, aðrir aflangir og stundum meira eða minna brotnir. Í barmi flestra þeirra er skarð sem hraunið hefur runnið út úr.

Flestir þeirra eru að miklu leyti þaktir þykkri breiðu af grámosa og hinir fegurstu tilsýndar. Ganga ber um þá með gætni því að mosinn er afar viðkvæmur. Lakagígar eru, hvernig sem á þá er litið, ein stórfelldasta furðusmíð í náttúru landsins en þeir voru friðlýstir árið 1971.

Fjaðrárgljúfur Hið 100 metra djúpa og tveggja kílómetra langa Fjaðrárgljúfur er bæði stórbrotið og hrikalegt. Gljúfrið er veggbratt, hlykkjótt og þröngt. Berggrunnurinn í Fjaðrárgljúfri er að mestu móberg frá kuldaskeiðum ísaldar og telst um tveggja milljóna ára gamalt. Fjaðrá á upptök sín í Geirlandshrauni og fellur fram af heiðarbrúninni í þessu mikilfenglega gljúfri þar til hún skilar sér niður í Skaftá. Fjaðrá er bergvatnsá og ljóst er að hún hefur breyst mikið í tímans rás. Í dag er Fjaðrá oftast frekar vatnslítil og því geta göngumenn hæglega kosið að ganga inn gljúfrið en þá þarf að vaða ána alloft. Innst í gljúfrinu eru fossar svo ganga þarf sömu leið til baka. Flestir velja að ganga eftir göngustíg uppi á gljúfurbarminum og njóta um leið útsýnisins yfir gljúfrið. Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá og öðlaðist heimsfrægð eftir að söngvarinn Justin Bieber tók upp myndband sitt I´ll Show You í gljúfrinu.

Raufarhólshellir Einn af lengstu hellum Íslands nefnist Raufarhólshellir og er staðsettur við Þrengslaveg. Hellirinn er yfir 1.300 metra langur og myndaðist í Leitarhraunsgosi í Bláfjöllum fyrir um 5.200 árum. Vinsælt er að nota hellinn í kvikmyndum og til að mynda var hluti úr kvikmyndinni Noah (2014) tekinn upp þar. Daglegar ferðir eru í boði í hellinn.

Jökladýrð Hluta af hinni kraftmiklu móður jörð er að finna í hinum hættulegu jöklum landsins. Flesta jökla landsins er að finna á Suðurlandi og vert að hafa í huga að mestu máli skiptir að setja í forgang viðeigandi búnað og skipulagningu ef ferðast á yfir jökul. Eitt megineinkenni jökla er að þeir hreyfast. Í jöklunum eru margar virkar eldstöðvar en eldgos og jarðhiti bræða ís og geta valdið jökulhlaupi. Um þriðjungur þess vatns sem fellur til sjávar á Íslandi er jökulvatn. Aðgengi að íslenskum jöklum er nokkuð mismunandi en þó er mögulegt að komast að flestum þeirra. Ferð upp á jökul getur verið ógleymanlegt ævintýri en þó ber að hafa í huga að þeir geta verið stórhættulegir og því nauðsynlegt að vera í fylgd reyndra jöklaleiðsögumanna. Nokkur fyrirtæki sjá um skipulagðar jöklaferðir á Suðurlandi en hægt er að nálgast upplýsingar um þær á Netinu, í upplýsingamiðstöðvum ferðamála eða hjá starfsmönnum hótela. Vikan mælir eindregið með að ferðamenn hafi samband við ferðaskipuleggjendur og leiðsögumenn á svæðunum áður en lagt er af stað upp á jökul.

Systrastapi við Klaustur Árið 1186 var sett nunnuklaustur í Kirkjubæ á Síðu sem síðar var nefnt Kirkjubæjarklaustur. Örnefnin Systrastapi og Systrafoss eru einmitt tengd þeim tíma.

Mikilvægt er að leggja af stað vel undirbúinn.

Systrastapi er klettastapi vestan við Klaustur. Þjóðsaga segir að uppi á stapanum sé legstaður tveggja klaustursystra sem hafi verið brenndar á báli fyrir brot á siðareglum. Önnur hafði selt sig fjandanum, gengið með vígt brauð fyrir náðhúsdyr og lagst með karlmönnum. Hin hafði talað óguðlega um páfann. Eftir siðaskiptin var seinni nunnan talin saklaus og á leiði hennar óx fagur gróður en á leiði hinnar seku var gróðurlaust. Klifra má upp á stapann en þaðan er mikið útsýni með jöklasýn.

Systrafoss heitir fossinn þar sem Fossá fellur úr Systravatni fram af fjallsbrúninni fyrir ofan Kirkjubæjarklaustur, ofan í Fossárgil. Fallegar gönguleiðir eru í nágrenni fossins og greið gönguleið er upp á fjallsbrúnina að Systravatni en ofan af brúninni er stórbrotið útsýni.

Frá Hrífunesi yfir í Þjórsárdal Óhætt er að mæla með göngu frá Hrífunesi yfir í Þjórsárdal sem álitinn er af mörgum einn fegursti dalur landsins. Þjórsárdalur er staðsettur í Árnessýslu og liggur milli Búrfells og Skriðufells. Dalurinn skiptist í tvo dalbotna um Rauðukamba og Bergólfsstaðaá en hann er bæði sléttlendur og vikurborin eftir síendurtekin eldgos í Heklu. Talið er að Þjórsárdalur hafi verið fullbyggður á þjóðveldisöld en lagst í eyði á 17. öld. Merkustu staðir dalsins eru taldir vera Stöng, Háifoss, Þjóðveldisbærinn, Vegghamar og Gjáin.

Texti / Íris Hauksdóttir

Góð stemning á Hátíðarkvöldverði Klúbbs matreiðslumanna

Fagmennska var í hæsta gæðaflokki á Hátíðarkvöldverði Klúbbs matreiðslumanna 2018!

Selma Björnsdóttir hélt uppi fjörinu.

Óhætt er að segja að öllu hafi verið tjaldað til á Hátíðarkvöldverði Klúbbs matreiðslumanna, sem fór fram  á Hilton Reykjavík Nordica síðastliðinn laugardag. Tekið var á móti gestum með freyðandi kampavíni og smáréttum en um 400 gestir sóttu veisluhöldin ásamt fjölda fagfólks sem útbjó matinn og þjónaði gestum.

Er Hátíðarkvöldverðurinn liður í fjáröflun félagsins og því unnu fagmenn, kokkar og matreiðslumenn, launalaust þetta kvöld. Klúbburinn notar svo ágóðan til að fjármagna ýmsa áhugaverða viðburði, svo sem keppnina Kokka ársins og fleira.

Góð stemning var á staðnum en það voru þau Erpur Eyvindarson og Selma Björnsdóttir sem héldu uppi fjörinu og skemmtu gestum sem nutu þess að borða gómsæta réttina sem voru reiddir fram hver á eftir öðrum.

Nánar í næsta tölublaði Gestgjafans, sem kemur út fimmtudaginn 18. janúar!

Myndir / Sigurjón Ragnar
Texti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

 

Raddir