Sunnudagur 29. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Dásamlega góð kaka á sunnudegi

|
|

Döðlukaka með ávöxtum svíkur engan.

Hér er uppskrift að ljúffengri döðluköku. Ávextirnir sem hér eru flokkast undir ofurfæðu og eru bara tillaga. Þið getið auðvitað notað þá ávexti sem ykkur finnast bestir.

Döðlukaka með ávöxtum.

Döðlukaka með ávöxtum
fyrir 8

Botn:
500 g þurrkaðar döðlur
3 dl vatn
½ dl kókosolía, mýkt í vatnsbaði
1 stór, þroskaður banani eða 2 litlir
2 msk. hunang eða agave-síróp
1 ½ dl tröllhafrar

Ofan á:
2 kíví, skræld og skorin í bita
1 dl bláber
100 g jarðarber, skorin í tvennt
kjarnar úr ½ granatepli
100 g 70% súkkulaði, gróft saxað
50 g ristaðar valhnetur eða pekanhnetur, gróft saxaðar, eða grófar, ristaðar kókosflögur

Sjóðið döðlur í vatni í 10 mín. Látið standa í 15 mín. og sigtið svo vatnið frá. Setjið döðlurnar í matvinnsluvél og maukið vel ásamt kókosolíu, banana, sætuefni og tröllhöfrum. Setjið maukið í form sem er u.þ.b. 20×30 cm, kælið. Raðið ávöxtum, súkkulaði og hnetum eða kókosflögum ofan á og berið fram með þeyttum rjóma.

Trefjaríkir hafrar eru jafnvel enn hollari en áður hefur verið talið og sýna nýjar rannsóknir að þeir minnka ekki bara líkurnar á hjartasjúkdómum heldur einnig tegund 2 sykursýki.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Fyrirsætur vekja athygli á mikilvægum málefnum

Módel sem eru hægt og bítandi að breyta heiminum.

Litið var á fyrirsætur fyrri áratuga sem persónuleikalaus herðatré og fjölbreytnin var eftir því. Vissulega sáum við fyrirsætur á tíunda áratugnum neita að klæðast feldi vegna dýraverndunarsamtakanna PETA en þá voru það ofurfyrirsætur á borð við Naomi Campbell og Cindy Crawford sem höfðu þá þegar skapað sér nafn innan bransans og höfðu efni á því að tjá sig.

Með vinsældum samfélagsmiðla hefur hópur fyrirsæta og aktívista notað rödd sína og andlit til þess að vekja athygli á mikilvægum málefnum og uppskera frekar frægð og frama fyrir vikið en skammir. Skoðum nokkrar ungar og áhugaverðar konur sem eru hægt og bítandi að breyta heiminum.

 

Ebonee Davis hefur rætt rasisma í tískubransanum.

Ebonee Davis
Ebonee Davis vakti mikla athygli þegar hún skrifaði áhrifaríkt opið bréf stílað á tískubransann. Spurningar eins og hvaða áhrif fjölmiðlar hafi á menningu okkar og hvort tískuheimurinn geti hætt að vera rasískur voru henni efstar í huga. Eins og þekkt er hafa fyrirsætur af afrískum uppruna átt erfiðar uppdráttar og enn í dag eru svartar fyrirsætur minna en 10% þeirra sem ganga niður tískusýningarpallana. Ebonee segist hafa fengið að heyra að fyrirtæki bókuðu bara svartar fyrirsætur ef þær litu út fyrir að koma beint frá afskekktu þorpi í Afríku eða eins og hvítar konur dýft í súkkulaði. Hún segist hafa reynt að fara eftir þeim ráðleggingum frá byrjun ferilsins árið 2011. Það var ekki fyrr en hún ákvað að leyfa náttúrulegu hári sínu að njóta sín og hún opnaði munninn og krafðist réttlætis að ferill hennar fór á flug. Náttúruleg fegurð hennar landaði henni meðal annars haustherferð Calvin Klein árið 2016.

_______________________________________________________________

Fjölbreytni í tískuheiminum, femínismi og fíkn eru Adwou Aboah hugleikin.

Adwoa Aboah
Adwoa er stofnandi Gurls Talk, sem er vefmiðill sem einbeitir sér að málefnum kvenna og hvetur ungar konur til að tjá sig án þess að vera dæmdar eða mismunað. Hún talar reglulega hreinskilningslega um fjölbreytni í tískuheiminum, femínisma, andlega heilsu og fíkn.

_______________________________________________________________

Cameron Russel hefur m.a. verið dugleg að ræða félagsleg og pólitísk málefni, loftlagsbreytingar og hreina orku.

Cameron Russel
Horft hefur verið á Ted-fyrirlestur ofurfyrirsætunnar Cameron Russel rúmlega nítján milljón sinnum þegar þetta er skrifað. Cameron útskrifaðist úr hagfræði og stjórnmálafræði frá Colombia-háskóla og hefur heldur betur gert meira en að sitja fyrir og vera sæt síðan hún útskrifaðist. Hún hefur verið dugleg að ræða félagsleg og pólitísk málefni, loftlagsbreytingar, hreina orku og sanngjörn laun fyrir þá sem vinna í tískuiðnaðinum, til að nefna örfá dæmi.

_______________________________________________________________

Markmið Avery McCall er að safna fjármunum til að vinna með flóttamönnum.

Avery McCall
Avery hefur verið virkur þátttakandi í stjórnmálum frá tólf ára aldri og meðal annars verið unglingaráðgjafi fyrir herferð Sameinuðu þjóðanna, Foundation’s Girl Up. Hún varði menntaskólaárunum sem talsmaður flóttamanna og aðstoðaði þá sem fluttust frá stríðshrjáðu Sýrlandi, Suður-Súdan og frá lýðveldinu Kongó. Hún hefur notað andlit sitt til góðs innan tískuheimsins til að vekja athygli á mikilvægum málefnum. Hennar markmið er að safna fjármunum til að vinna með flóttamönnum og draumurinn er að  geta leiðbeint börnum sem flýja frá stríðshrjáðum löndum.

_______________________________________________________________

Andreja Pejic hefur varpað ljósi á málefni transfólks innan tískuheimsins.

Andreja Pejic
Andreja hefur verið kölluð fyrsta transsúpermódelið. Andrej var fæddur í fyrrum Júgóslavíu en alinn upp í Melbourne í Ástralíu. Áður en hann fór í kynleiðréttingu árið 2013 var hann þegar þekkt fyrirsæta innan tískuheimsins og vakti útlit hans víða athygli, enda átti hann auðvelt með að fara í hlutverk beggja kynja. Síðustu árin hefur ferill Andreju blómstrað og hún meðal annars setið fyrir á forsíðum tímarita á borð við Elle, L’Officiel, Fashion og GQ. Árið 2015 varð hún fyrsta transfyrirsætan til þess að vera andlit snyrtivörufyrirtækis en hún landaði stórum samningi við Make Up For Ever. Andreja hefur varpað ljósi á málefni transfólks og opnað dyr fyrir fjölbreyttari hóp innan tískuheimsins.

_______________________________________________________________

Charli Howard og Clémentine Desseaux
Líkamsímynd hefur verið mikið tískuorð upp á síðkastið í bransanum og sem betur fer eru sífellt fleiri týpur sem ná árangri í tískuheiminum í dag. Þær Charli Howard og Clémentine Desseaux vöktu heimsathygli fyrir verkefni sitt All Woman Project sem er myndasería, sem hefur ekki verið átt við í Photoshop, af konum af öllum stærðum, gerðum, litum og aldri sem sanna það að fegurð kemur ekki í einni staðlaðri stærð.

Texti / Helga Kristjáns

Ekta fiskisúpa í anda Miðjarðarhafsins

|
|

Suðræn sælkerasúpa sem vermir og nærir kroppinn.

Ljúffenga fiskisúpa.

Fiskisúpa frá Sikiley
fyrir 4-6

Hér er uppskrift að ekta fiskisúpu í anda Miðjarðarhafsins.
4 msk. olía
1 laukur, saxaður smátt
4 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 fersk fenníka, sneidd
1 stór gulrót, í litlum bitum
1 lítill blaðlaukur, sneiddur
300 g tómatar, saxaðir
safi úr 1 appelsínu
safi úr 1 sítrónu
1 tsk. þurrkað tímían
2 tsk. paprika
12 dl fiskisoð eða vatn og fiskikraftur
1 ½ dl hvítvín
1 msk. tómatmauk
1 msk. sykur eða hunang
1-2 tsk. salt
300 g lax
400 g stórar rækjur
300 g langa eða annar hvítur fiskur
2 msk. þurrkuð steinselja

Steikið laukinn í olíunni þar til hann fer að verða glær. Bætið hvítlauk, fenníku, gulrót og blaðlauk út í og steikið aðeins áfram. Bætið öllu nema fiski og steinselju út og látið súpuna sjóða í 20 mín. Bætið fiski út í og látið sjóða í 4-5 mín. í viðbót. Stráið steinselju yfir í lokinn.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Ernir Eyjólfsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

„Fjallganga er gríðarlega góð alhliða hreyfing“

Anna Bryndís Skúladóttir er mikil fjallageit og gefur ráð varðandi búnað.

Anna Bryndís Skúladóttir er mikil fjallageit og hefur ásamt félögum sínum í Fjallgönguklúbbnum Fjallhress gengið á marga flotta austfirska tinda. Við fengum hana til að segja okkur fá eftirminnilegustu göngunum og gefa okkur nokkur góð ráð um búnað.

Á toppi Hvannadalshnjúks.

„Falleg náttúra og að kljást við fjölbreytt landslag og ögrandi fjöll er það skemmtilegasta við fjallamennskuna. Ég fer mikið ein á fjöll og finnst það frábært en það er líka mjög gefandi að ganga með vinum mínum í Fjallgönguklúbbnum Fjallhress og um leið eykur það öryggi á fjöllum,“ segir Bryndís. Hún er deildarstjóri í Seyðisfjarðarskóla á leikskóladeild og starfar einnig sem fjallaleiðsögumaður og landvörður á sumrin. Í frítíma sínum stundar hún fjallgöngur og kajakróður.

„Súla, hæsti tindur Dyrfjalla, er í uppáhaldi vegna þess hve mikil fjölbreytni er í gönguleiðinni og einstök innkoma á þetta mikla klettafjall, sem er blómi skrýdd klettarák. Útsýnið af toppnum er magnað. Eftirminnilegast er þó líklega þegar dóttir mín hringdi í mig þar sem ég var að koma niður af Hvannadalshnjúk og sagði að það væri farið að gjósa á jöklinum. Nei, ég hélt nú ekki. ,,Jú mamma, þetta er bæði í fréttum í útvarpi og sérútsending í sjónvarpinu sagði hún mjög angistarfull.“ Þá sneri ég mér við og sá þá gosstrókinn stíga upp til himins. Þetta var Grímsvatnagosið í maí 2011.“

Mikilvægt að láta vita af sér

Hvað þurfa byrjendur í fjallamennsku að hafa í huga og hvaða búnaður er nauðsynlegur? „Það þarf að huga að veðurspá og láta aðra vita hvert halda skal og hvenær þú áætlar að koma til baka. Góður bakpoki undir skjólfatnað og nesti er mikilvægt. Ólíkan búnað þarf í vetrarfjallamennsku og sumarfjallgöngum. Létt föt, sólgleraugu og sólarvörn í sólinni á sumrin. Muna líka að hafa sólgleraugu og sólarvörn í vetrarsól í snjó og á jökli, ullarfatnað innst og góðar ullarpeysur undir skjólgóðri skel er mjög gott. Göngustafir koma sér vel við ýmsar aðstæður og að vetri eru broddar og ísaxir oft nauðsynleg. Sími, áttaviti eða GSP-tæki eru allt góð öryggistæki. Ekki gleyma vatni á brúsa í allar lengri göngur.“

Hvaða nesti finnst þér best að hafa? „Það fer eftir árstíðum og erfiðleikastigi. Léttari samlokur og ávaxtasafa á sumrin en á veturna kæfusamloku, lifrarpylsu og egg. Svo er ég alltaf með svart te á brúsa. Snickers er ómissandi og reyndu ekki að koma með súkkulaðirúsínur þar sem ég er,“ segir hún hlæjandi.

Hún hvetur fólk hiklaust til að stunda fjallamennsku. „Fjallganga er gríðarlega góð alhliða hreyfing og gott sport bæði fyrir sál og líkama. Náttúran er endalaus uppspretta fegurðar og fjölbreytileika en það er ekki síður magnað að upplifa náttúruna í ham þar sem mannskepnan fær ekki beislað hana, s.s. í jarðskjálftum, gosum, flóðum og skriðuföllum.“

Og það er skemmtilegt göngusumar fram undan hjá Bryndísi en hún ætlar meðal annars að ganga á Búlandstind, Grjótfjall og Þriggjakirknafell, einnig Kverkfjöll og í Hveradal, á Jónsfjall og í Mínuskörð í botni Borgarfjarðar eystra og loka þar með fjallahringnum í firðinum. Þá mun hún fara í fimm daga ferð um Víknaslóðir sem leiðsögumaður, ganga Fimmvörðuháls og fara í kjakferðir í fjallvötnunum á hálendinu.

Aðalmynd: Bryndís ásamt Skúla Júlíussyni á Stöng í Berufirði.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

 

Salat fyrir sælgætisgrísi

|
adsf|

Appelsínusalat með súkkulaði-sorbet.

Hér er uppskrift að salati sem er ekki bara bráðhollt heldur algjört sælkerafæði líka.

Hollt og gott. Appelsínusalat með súkkulaði-sorbet.

Appelsínusalat með súkkulaði-sorbet
fyrir 4

Ráðlagður dagskammtur af hreinu súkkulaði, samkvæmt ofurfæðiskenningum, er u.þ.b. 15-20 grömm. Það er nú alveg næg ástæða til að skoða þetta fæði svolítið betur.
Hér er uppskrift að súkkulaði-sorbet sem er dökkur og seiðandi og með appelsínum og granateplum er hann alveg ómótstæðilegur.

3-4 appelsínur
1 granatepli

Súkkulaði-sorbet
3 dl vatn
40 g kakó (eins dökkt og þið hafið efni á)
100 g hrásykur
100 g 70% súkkulaði, saxað
½ tsk. vanilludropar
svolítið salt

Sjóðið vatn, kakó og sykur saman. Bætið súkkulaði út í ásamt vanillu og salti og hrærið í þar til súkkulaðið er uppleyst, kælið. Frystið í ísvél eða í frysti. Ef þið setjið ísinn í frysti er gott að setja þunnt lag í stórt form svo hann frjósi fljótt og hræra í öðru hvoru á meðan ísinn er að frjósa.

Hátt hlutfall andoxunarefna í dökku súkkulaði geri það að hinu fullkomna sælgæti. Súkkulaði er ríkt af flavoníðum sem sannað hefur verið að auka blóðflæði, draga úr hósta, bæta minni og mýkja húðina. Þeir sem aðhyllast ofurfæðiskenningar segja ráðlagðan dagskammt vera 15-20 grömm á dag.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

„Sjáum stelpur niður í 6 ára fara í megrun“

Kristín Tómasdóttir styrkir sjálfsmynd ungra krakka.

Í nýjasta tölublaði Vikunnar er að finna ítarlegt viðtal við Kristínu.

Kristín Tómasdóttir rithöfundur hefur á undanförnum árum skrifað sex bækur ætlaðar ungum krökkum. Hún leggur áherslu á að byggja upp sterka sjálfsmynd og efla vitund þeirra um eigin tilfinningalíf. Nýjasta bók hennar, Sterkar stelpur, hefur þó ákveðna sérstöðu því hún er ætluð yngri lesendahópi og er tileinkuð yngstu dóttur hennar sem er trans stúlka.

Kristín hefur einnig sett saman sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stelpur og ferðast um landið í þeim tilgangi að efla íslenskar stelpur.

„Ég fann fyrir mikilli eftirspurn meðal foreldra sem voru farnir að finna fyrir því að sjálfsmynd stelpna þeirra væri farin að þróast í neikvæða átt fyrr en þá hafði grunað,“ segir hún. „Við erum að sjá stelpur niður í 6 ára fara í megrun og alls kyns önnur merki sem foreldrar hræðast en vita líka að hægt er að koma í veg fyrir með fyrirbyggjandi sjálfstyrkingu.“

Ítarlegra viðtal við Kristínu er að finna í nýjustu Vikunni.

Texti / Íris Hauksdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Leyndar perlur á Suðurlandi

Þegar farið er í frí um landið hættir okkur til að stoppa bara á þekktustu stöðunum því við vitum ekki af öllu hinu sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Suðurlandið er einn vinsælasti staður ferðamanna sem koma hingað til lands og geymir ótrúlegar náttúruperlur. Hér eru nokkrir staðir sem minna hefur farið fyrir og við mælum sannarlega með að þið skoðið.

Þótt núna sé kannski ekki eins sumarlegt um að lítast og á þessari ljósmynd þá er óhætt að segja að Svartifoss sé einn fallegasti foss landsins.

Fjaðrárgljúfur
Fjaðrárgljúfur er virkilega falleg náttúrusmíð rétt við þjóðveg númer eitt, skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur. Ekið er að gljúfrinu um Lakaveg og þaðan gengið upp með gilinu. Einnig er hægt að ganga upp eftir gljúfrinu sjálfu en það gæti þurft að vaða töluvert. Mikilfenglegar móbergsmyndir prýða gilið og þetta getur verið skemmtilegt stopp fyrir alla fjölskylduna.

Gljúfrabúi
Fossinn Gljúfrabúi er aðeins nokkur hundruð metrum fyrir innan Seljalandsfoss og fellur bak við hamravegg úr móbergi, kallaður Franskanef, sem lokar fossinn af. Hægt er að komast inn í hellinn um op að framanverðu þar sem áin Gljúfurá rennur út og það er töfrum líkast að sjá fossinn steypast niður þessa 40 metra. Einng má klifra upp á Franskanef og sá fossinn að ofanverðu en munið að fara að öllu með gát.

Svartifoss
Svartifoss er einn fallegasti foss á landinu þar sem hann fellur niður ægifagurt stuðlaberg í Skaftafelli. Frá Skaftafellssofu er hægt að ganga að Svartafossi en leiðin er tæpir tveir kílómetrar og tekur um 35-45 mínútur. Gengið er meðfram tjaldsvæðinu og beygt upp á hæð sem heitir Austurbrekkur. Farið er yfir Eystragil á göngubrú og á leiðinni sjást Hundafoss og Magnúsarfoss. Þegar komið er upp hæðina er gott útsýni að Svartafossi og svo er gengið niður í gilið til að komast alveg að fossinum.

Þakgil
Þakgil er falinn gimsteinn á Höfðabrekkuafrétti staðsett milli Mýrdalsjökuls og Mýrdalssands um 15 kílómetra frá þjóðveginum en beygt er út af þjóðvegi númer eitt við Höfðabrekku sem er fimm kílómetrum fyrir austan Vík. Þar er gott tjaldsvæði, veðursæld og stórbrotin náttúra. Ef þú ert á leiðinni í útilegu þá er þetta staður sem er virkilega þess virði að skoða. Einnig er hægt að leigja smáhýsi á staðnum. Margar fallegar gönguleiðir við allra hæfi eru á svæðinu.

Ingólfshöfði
Fjölskyldufyrirtækið Öræfaferðir á Hofsnesi sem staðsett er rétt hjá Fagurhólsmýri við rætur Öræfajökuls býður upp á spennandi lunda- og söguferðir út í Ingólfshöfða á heyvögnum sem eru hengdir aftan í dráttarvélar (sjá aðalmynd). Ferðin tekur alls tvo og hálfan klukkutíma og ferðin í vagninum um það bil 25 mínútur hvora leið. Það kostar 7.500 kr. fyrir fullorðna, 2.500 kr. fyrir börn á aldrinum 8-16 ára en börn frá 4-7 ára frá frítt. Gengið er um höfðann með leiðsögumanni og það eru 99% líkur á því að sjá lunda á svæðinu yfir sumartímann. Skemmtileg ævintýraferð fyrir fjölskylduna í sumarfríinu.

Mölbrotnaði í bílslysi og náði undraverðum árangri í líkamsrækt

|
|

Sonja Arnardóttir slasaðist illa í bílslysi en keppir nú í fitness.

Sonja Arnarsdóttir er í viðtali í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Fyrir sex árum ákvað Sonja að taka allhressilega til í sínu lífi. Hún ákvað að setja sjálfa sig í fyrsta sæti og hóf að stunda líkamsrækt af kappi. Á síðasta ári byrjaði hún að þjálfa fyrir sitt fyrsta fitness-mót. Í dag er hún hraustari en hún hefur nokkurn tímann verið og stefnir ekki að því að hætta að hreyfa sig í bráð.

Í desember 1991 var hún á ferð í Borgarfirði þegar hún keyrði óvænt inn á mikið ísingasvæði með þeim afleiðingum að hún missti stjórn á bílnum og hann fór nokkrar veltur. Sonja var ekki í öryggisbelti og kastaðist langa leið út um framrúðu bílsins. Hún var með meðvitund allan tímann og man vel sársaukann og brothljóðin þegar bein líkama hennar fóru í sundur. Með henni í för var fyrrverandi eiginmaður hennar sem slasaðist mikið í andliti. Þau voru svo heppin að aðrir vegfarendur komu fljótlega á vettvang til hjálpar og þar á meðal var sjúkraflutningamaður sem sá til þess að Sonja var ekki hreyfð fyrr en læknir og sjúkrabíll voru komnir á staðinn.

Sonja átti erfitt með andardrátt og hélt í raun að hún væri að deyja. Við tóku margar aðgerðir, löng sjúkrahúsvist og endurhæfing. Ljóst var að þessi unga kona næði aldrei fullri heilsu aftur. Í raun var hún stálheppin að mænan skyldi ekki fara í sundur. Nú nærri þremur áratugum síðar er hún enn að takast á við líkamlegar og andlegar afleiðingar slyssins en telur að það stranga mataræði og agi sem fylgir fitness-íþróttinni hafi hjálpað sér mikið. Hún lætur enga bilbug á sér finna og stefnir á að keppa aftur á mótum í ár.

Viðtalið í heild má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir
Fatnaður / Lindex og Vila

Augabrúnatattú njóta sífellt meiri vinsælda

Tiltölulega ný tækni í varanlegri förðun.

Það er ekki ofsögum sagt að augabrúnirnar eru besti „fylgihlutur“ hverrar konu, enda ramma þær inn andlitið. Síðustu misserin hefur tiltölulega ný tækni í varanlegri förðun notið mikilla vinsælda enda útlitið náttúrulegra en það sem áður þekktist.

Margar þekktar konur eru aðdáendur microblading-aðferðarinnar en meðal þeirra er leikkonan Lena Dunham sem segir að aðferðin hafi bjargað augabrúnum hennar eftir margra ára ofplokkun.

Microblading-aðferðin hefur notið mikilla vinsælda um heim allan en hér á landi eru nokkrar snyrtistofur sem sérhæfa sig í þessari nýlegu tækni. Aðferðin felur í sér að búa til örmjó „hár“ með stykki sem hefur örfínan hnífsodd sem sker í ysta lag húðarinnar sem síðan er fyllt upp í með lit. Með þessum hætti er auðvelt að búa til aukahár, þykkja brúnir og breyta lagi þeirra eða jafnvel hanna þær frá grunni ef engin hár eru fyrir.

Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga ef þú hefur áhuga á því að fá þér microblading-augabrúnatattú:

Leggstu í rannsóknarvinnu
Vertu viss um að vera búin að kynna þér þann sérfræðing sem þú velur til þess að gera tattúið vel áður en hafist er handa. Fáðu að sjá fyrir og eftir-myndir eftir viðkomandi til að vera viss um að vinna hans/hennar sé þér að skapi og menntun og reynsla standist kröfur þínar. Sérfræðingurinn ætti einnig að geta svarað öllum spurningum sem vakna hjá kúnnanum og aðgerðin framkvæmd í sterílu og fagmannlegu umhverfi.

Undirbúðu þig
Áður en þú færð þér microblading-tattú skaltu forðast það að vaxa eða plokka augabrúnirnar. Einnig er gott að sleppa því að nota kornamaska sem inniheldur allskyns sýrur sem eiga það til að skapa roða í húðinni og varastu að nota blóðþynnandi lyf. Þær sem eru óléttar, með barn á brjósti eða sykursjúkar ættu að forðast microblading.

Fyrir og eftir myndir.

Tjáðu þig
Sérfræðingurinn sem þú leitar til mun mæla andlit þitt og augabrúnir og vinna út frá andlitsfalli þínu og mælingum til að fá sem náttúrulegasta yfirbragðið. En vertu dugleg við að tjá óskir þínar við sérfræðinginn og áður en hafist er handa er mikilvægt að þú sjáir teikningarnar á andlitinu, ef vera skyldi að þú vildir gera einhverjar breytingar.

Passaðu upp á þær
Þegar þú ert búin að fá fullkomnar augabrúnir er eðlilegt að þú viljir sýna þær. Passaðu samt upp á að nota ekki krem og aðrar húðvörur nálægt svæðinu í að minnsta kostu tíu daga eftir aðgerðina og ekki snerta svæðið. Vertu dugleg að bera græðandi krem á svæðið með eyrnapinna.
Þar sem hrúður myndast á meðferðarsvæðinu mun liturinn vera dekkri og skarpari fyrstu vikuna. Eftir 6-10 daga dofnar liturinn um u.þ.b. helming. Eftir 4-6 vikur ættirðu að fara aftur og láta laga það sem hefur dofnað og láta vita ef þú vilt láta lagfæra eitthvað varðandi útlit brúnanna.

Passaðu upp á að fara ekki í sólbað, synda eða svitna mikið fyrstu tíu dagana eftir microblading. Þegar svæðið hefur náð að gróa er gott að nota sólarvörn á brúnirnar til að koma í veg fyrir að þær dofni.

Misjafnt er eftir húðtýpu og lit á brúnum hversu lengi microblading-aðferðin endist á húðinni en eftir hálft ár getur útlit háranna farið að dofna. Mælt er með endurkomu á 8 mánaða til tveggja ára fresti.

Texti / Helga Kristjáns

Upplífgandi eftirréttur – og ekkert samviskubit

Bláberjabaka sem er bæði holl og góð.

Sætindi þurfa ekki alltaf að vera óholl, sætar ávaxtakökur með hunangi, agave-sírópi og þurrkuðum eða ferskum ávöxtum eru fullar af fjöri og góðri orku. Fjörgandi freistingar og ekkert samviskubit. Eins og þessi bláberjabaka sem svíkur engan.

Eftir ljúffenga og orkugefandi máltíð er sætur biti ómissandi.

Bláberjabaka
fyrir 8-10
Þetta er hrákaka. Bláber, möndlur og hnetur eru ekki bara góð heldur líka ofurholl fæða, full af víta-mínum.
Botn:
150 g ferskar döðlur
130 g möndlur
2-3 msk. hunang eða agave-síróp

Setjið smjörpappír í botninn á 22 cm smelluformi. Fjarlægið steina úr döðlum. Setjið möndlur í matvinnsluvél og malið fínt. Bætið döðlum og hunangi út í og maukið vel. Setjið deigið í formið og þrýstið því niður í botninn, kælið. 

Fylling:
1 dl kókosmjöl
1 dl ristaðar furuhnetur eða kasjúhnetur
2 dl bláber, fersk eða frosin og afþýdd
1-2 msk. hunang eða agave-síróp eða eftir smekk
2-3 msk. kókosolía, mýkt í krukkunni ofan í vatnsbaði
1-2 tsk. sítrónusafi

Ofan á: 
1-2 dl fersk bláber
1 tsk. fínt rifinn sítrónubörkur

Setjið allt í matvinnsluvél og maukið. Hellið fyllingunni í formið og dreifið ferskum bláberjum yfir, kælið í 30 mín. Losið kökuna úr forminu og setjið á disk, hún vill límast svolítið við pappírinn þannig að það er gott að hvolfa henni á annan disk, fletta pappírnum af og hvolfa henni síðan á diskinn sem þið ætlið að bera kökuna fram á. Skreytið með sítrónu- eða límónuberki og berið fram með þeyttum rjóma. 

Rannsakendur segja að 15-25 g af hnetum á dag geti dregið úr hættunni á hjartasjúkdómum og sykursýki. Heslihnetur innihalda t.d. arginine, amínósýru sem talin er lækka blóðþrýsting. Möndlur innihalda polyfenól sem talin eru hjartastyrkjandi og lækka slæma kólesterólið (LDL) í blóðinu. Meðalhófið gildir hér þar sem hnetur eru hitaeiningaríkar.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Mynd / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

 

Konur í karlaveldi

|
|

Fjórir frægustu kvenleikstjórar samtímans.

Kvikmyndabransinn er algjört karlaveldi; karlar reka framleiðslufyrirtækin, vinna flest verðlaun, fá betur borgað fyrir leik sinn í kvikmyndum og svona mætti lengi telja. Það hallar sérstaklega á kvenkynsleikstjóra. Ein skýringin á þessu er að konur eru ekki meðvitaðar um fulltrúa sína innan þessarar stéttar og átta sig því ekki á að þetta sé mögulegur starfsferill fyrir þær. Við viljum því fjalla um fjóra frægustu kvenleikstjórana í bransanum um þessar mundir.

Kathryn Bigelow
Einn frægasti kvenleikstjóri samtímans er Kathryn Bigelow (á myndinn hér að ofan). Hún var lengi gift öðrum frægum leikstjóra, James Cameron, sem leikstýrði meðal annars Titanic. Kathryn er þekkt fyrir fremur karllægar kvikmyndir svo sem Zero Dark Thirty og Point Break og var fyrsta konan til að vinna Óskarsverðlaun fyrir leikstjórn kvikmyndarinnar The Hurt Locker árið 2008.

„Ef það er einhver mótstaða gegn því að konur séu að gera kvikmyndir þá kýs ég að leiða hana alveg hjá mér af tveimur ástæðum: Ég get ekki breytt kyni mínu og ég þverneita að hætta að gera kvikmyndir.“

________________________________________________________________

Sofia Copola vann Óskarsverðlaun árið 2004 fyrir handritið að Lost In Translation og hún var einnig tilnefnd fyrir leikstjórn sömu myndar.

Sofia Coppola
Það má með sanni segja að leikstjórn sé Sofiu Coppola í blóð borin en hún er dóttir leikstjórans fræga Francis Ford Coppola sem á meðal annars heiðurinn að myndunum um Guðföðurinn. Hún vann Óskarsverðlaun árið 2004 fyrir handritið að Lost In Translation og hún var einnig tilnefnd fyrir leikstjórn sömu myndar. Sofia fékk einnig þann mikla heiður að fá Gullpálmann fyrir leikstjórn á kvikmyndahátíðinni í Cannes en hún er aðeins önnur konan til að hljóta þau verðlaun og fyrsta bandaríska konan.

„Meðalmennska og miðjumoð er það versta sem ég get hugsað mér. Það er miklu áhugaverðara að fá sterk og afgerandi viðbrögð og að það sé blanda af fólki sem ýmist fílar myndina eða fílar hana ekki. Þannig verða til samræður.“

________________________________________________________________

Jane Campion sló í gegn með myndinni The Piano sem fjallaði um mállausan píanóleikara.

Jane Campion
Fyrir um það bil tveimur áratugum var Jane Campion aðalkonan í leikstjórabransanum. Hún byrjaði að reyna fyrir sér í heimalandi sínu, Ástralíu, og sló svo í gegn með myndinni The Piano sem fjallaði um mállausan píanóleikara. Hún var aðeins tilnefnd til Óskarsverðlauna en vann hins vegar Gullpálmann fyrst kvenna fyrir þá mynd.

„Ég myndi svo gjarnan vilja sjá fleiri kvenleikstjóra því þær standa fyrir helming mannkyns sem fæddi allan heiminn. Ef þær eru ekki að skrifa og leikstýra þá munum við hin ekki fá að heyra alla söguna.“

________________________________________________________________

Catherine Hardwicke vakti mikla athygli fyrir hina hráu og átakanlegu þroskasögu sem sögð er í Thirteen.

Catherine Hardwicke
Þó að hún sé eflaust þekktust fyrir að hafa leikstýrt fyrstu, og bestu, Twilight-myndinni þá er Catherine Hardwicke mest metin fyrir leikstjórnarlega frumraun sína, Thirteen, sem er hrá og átakanleg þroskasaga. Hún hefur mikinn áhuga á að segja sögur kvenna og ein af nýrri myndum hennar er fallega vináttumyndina Miss You Already.

„Ég hef setið fundi þar sem voru bókstaflega tólf reiðir karlar í fundarherbergi og ég. Þegar hver einasti þeirra skaut niður hugmynd mína stóð ég samt bara fastar á mínu.“

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Fjölskyldan öll heilsuhraustari á hráfæði

|
|

Elfa Þorsteinsdóttir heilsufrömuður stendur á bakvið heimasíðuna rawmother.com þar sem hún deilir hráfæðisuppskriftum og ýmsum heilsutengdum fróðleik.

Heilsuáhugi hennar kviknaði fyrir nokkrum árum þegar breytt mataræði gjörbreytti líðan langveiks sonar hennar.

„Fyrst og fremst er það orkan, heilbrigðið, fallegri húð og meiri vellíðan sem maður upplifir þegar maður er á þessu fæði,“ svarar Elfa þegar hún er spurð út í sérstöðu hráfæðis. „Svo er það auðvitað bragðið og ferskleikinn í öllum matnum sem er svo einstakt. Hráfæði inniheldur hámark næringarefna, vítamína, steinefna og ensíma sem annars vilja tapast mikið við eldun.“

„Heimasíðan hefur verið lengi í fæðingu. Ég eignaðist dreng árið 2005 sem var langveikur. Eftir lífsnauðsynlegar aðgerðir sat hann enn þá eftir með ýmis heilsufarsleg vandamál sem hefðbundar lækningar gátu ekki hjálpað honum með. Þarna hófst fyrir alvöru heilsuáhuginn minn,“ segir Elfa sem búið hefur ásamt fjölskyldu sinni á suðurströnd Englands í fimm ár. Eftir aðgerðirnar og ýmsa fylgikvilla átti sonur hennar, Anthony, meðal annars erfitt með alla næringarinntöku. „Ég var mamma með veikan strák með það eina markmið að finna lausn sem virkaði fyrir hann. Eftir mikinn lestur ákvað ég að prófa að fara með honum á hráfæði í eitt ár og athuga hvort það myndi hjálpa honum. Það er skemmst frá því að segja að á sjö mánuðum komst líkami hans í fullkomið lag og allt fór að virka rétt í fyrsta skipti á ævi hans.

Daginn sem ég fékk niðurstöðurnar úr prufunum hans lofaði ég honum að ég myndi vera með honum á hráfæði þar til hann flytti að heiman og fljótlega var öll fjölskyldan komin á sama fæði. Maðurinn minn losnaði í kjölfarið við ýmis heilsufarsleg vandamál á nokkrum mánuðum auk þess að missa 30 kíló og dóttir okkar losnaði við áreynsluasma. Ég hef lært svo margt á þessum tíma í sambandi við heilsu og hvernig við getum notað réttan mat til að hjálpa líkama okkar að lækna sig sjálfur. Mér fannst ekki hægt að vera komin með alla þessa þekkingu, eftir að vera búin að lifa þessum lífsstíl í svona mörg ár, og halda henni bara fyrir sjálfa mig og fjölskyldu mína.

„Ég hef lært svo margt á þessum tíma í sambandi við heilsu og hvernig við getum notað réttan mat til að hjálpa líkama okkar að lækna sig sjálfur.“

Það er líka búin að vera gríðarlega mikil eftirspurn eftir námskeiðum hjá mér og ráðum í sambandi við bætt mataræði. Svo það lá eiginlega beinast við að koma þekkingunni fyrir á einum stað. Ég var svo heppin að fá hana Ingibjörgu Rósu, vinkonu mína, með mér í þetta verkefni. Hún er mín hægri hönd í öllu sem kemur að tæknimálum, textum fyrir heimasíðuna og uppsetningu, enda með enskukunnáttu upp á rúmlega tíu. Heimasíðan var svo opnuð á ellefu ára afmælisdegi hans Anthonys í fyrra.“

Sérstakar barnauppskriftir

Síðan er í stöðugri þróun og vinnslu þar sem Elfa bætir inn uppskriftum reglulega, setur inn bloggpósta og fræðslu. „Sérstaðan felst kannski helst í því að þarna er manneskja sem lifir þessum lífsstíl og er með alla fjölskyldu sína á hráfæði. Ég legg mikið upp úr því að maturinn bragðist vel og geti því höfðað til sem flestra. Fólk hefur svo val um að koma í áskrift hjá mér þar sem það fær nýjar uppskriftir reglulega með vídeói um hvernig hver réttur er búinn til. Þetta er eins og að vera í áskrift að hráfæðinámskeiði þar sem ég býð öllum heim í eldhús til mín.

Elfa ásamt syni sínum, Anthony, sem hefur verið á hráfæði frá fjögurra ára aldri og er með sérstakar hráfæðisbarnauppskriftir á heimasíðunni.

Anthony er líka með sitt svæði á síðunni, Anthony’s Kitchen, þar sem við búum saman til uppáhaldsréttina hans. Þeir eiga það sameiginlegt að vera allir mjög einfaldir og bragðgóðir. Við upptökur á efni fyrir Anthony’s Kitchen verða stundum mistök. Það er stundum ansi spaugilegt það sem miður fer og svo á Anthony til að vera mjög orðheppinn í tökum, sem er ekki hægt að nota í aðalmyndböndin, svo Anthony kom með þá hugmynd að gera myndbönd úr skotunum sem misheppnast og við erum nýbúin að setja þau inn á síðuna líka.“

Elfa tekur að sér að leiða hópa í föstur og safahreinsanir. „Ég hef farið reglulega í hreinsanir síðan ég var 18 ára. Þær eru einfaldlega hluti af mínum lífsstíl. Á síðustu árum hefur verið sótt mjög mikið í að komast í þessar hreinsanir með mér og það hefur undið upp á sig. Ég býð Facebook-vinum mínum og fylgjendum að koma með mér í hreinsanir þrisvar sinnum á ári. Þar fá allir frítt prógramm sem ég hef sett saman og stuðning í gegnum alla hreinsunina. Nýárshreinsunin er sú lengsta, 10-14 dagar, svo eru styttri hreinsanir í maí og september, 4-5 dagar. Þetta hefur verið ótrúlega gaman og gefandi þrátt fyrir mikla vinnu við hverja hreinsun. Þessar hreinsanir hafa verið upphafið hjá mörgum að taka næstu skref að bættum lífsstíl sem mér þykir sérstaklega vænt um að fá að vera þátttakandi í.“

Í þekktum heilsuþætti

Elfu bregður fyrir í myndinni Fat, Sick & Nearly Dead 2 eftir ástralska kvikmyndagerðarmanninn og heilsufrömuðinn Joe Cross en hann hefur persónulega reynslu af djúsföstu. „Fyrir nokkrum árum var ég að hjálpa einni vinkonu minni sem þurfti að fara í langa og mikla safahreisnun og ákvað að prófa að bjóða Facebook-vinum mínum að vera með. Ég átti von á að fá kannski 4-5 með okkur en á rúmum sólarhring voru komnir yfir 100 manns í hreinsihópinn, alls staðar að úr heiminum. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég gæti stutt allan hópinn og hafði því samband við Joe Cross sem þá hafði nýlega gefið út myndina sína Fat Sick and Nearly Dead og bað um hjálp hans. Honum fannst mjög sérstakt það sem ég var að gera og gerði þá undantekningu að hjálpa mér við að styðja og hvetja fólkið í hópnum. Hann kom inn, kommenteraði og fylgdist með okkur – sem var brjálað „búst“ fyrir alla. Við Joe höfum hist nokkrum sinnum eftir þetta þegar hann hefur komið til London. Hann er svo einstaklega vandaður maður, er alveg eins í persónu og þú sérð hann á skjánum. Honum fannst svo flott að þekkja manneskju frá kalda Íslandi sem væri að djúsa þannig að ég fékk að vera ein af þeim sem heilsa áhorfendum í upphafsatriði myndarinnar Fat, Sick and Nearly Dead 2.“

Fram undan er áframhaldandi uppbygging uppskriftabankans á heimasíðunni, viðbætur á fróðleik og fleira. „Svo eru hreinsanirnar mínar reglulega á dagskrá. Á Facebook getur fólk skráð sig í hópinn og fengið aðgang að prógramminu og stuðningshópnum frítt. Svo er líka hægt að fylgjast með mér á Instagram og Twitter þar sem allar upplýsingar eru einnig settar inn. Svo langar mig mjög mikið til að koma til Íslands og halda þar námskeið aftur sem fyrst.

„Ég hef farið reglulega í hreinsanir síðan ég var 18 ára. Þær eru einfaldlega hluti af mínum lífsstíl. Á síðustu árum hefur verið sótt mjög mikið í að komast í þessar hreinsanir með mér og það hefur undið upp á sig.“

Við Anthony erum með langan lista af hugmyndum og réttum sem við eigum eftir að taka upp fyrir Anthony’s Kitchen. Regluleg „live-vídeó“ eru á Facebook-síðunni minni og margt fleira skemmtilegt fram undan. Það er um að gera að fylgjast með fyrir þá sem hafa áhuga á að bæta við hollum  grænmetisréttum fyrir fjölskylduna og fá heilsutengda fróðleiksmola.“

Hráfæðis-triffli

Triffli er gamall og hefðbundinn enskur eftirréttur sem er borinn fram í glerskál og samanstendur vanalega af svampbotni eða makkarónukökum, ávöxtum og eggjakremi. Að auki er oft áfengi í honum svo hann er langt í frá hollur í sinni upprunalegu mynd. Hér er hins vegar útgáfa af honum sem er svo holl að óhætt er að fá sér tvo og jafnvel þrjá skammta.

Þessi útgáfa af Triffli er svo holl að óhætt er að fá sér tvo og jafnvel þrjá skammta.

Súkkulaðilag
1 bolli möndlur

1 bolli mjúkar döðlur

1 bolli kakóduft

3 msk. sæta í fljótandi formi, t.d. kókosnektar, hunang, agave o.fl.

3 msk. kókosolía

salt

Setjið möndlur, döðlur og kakóduft í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til möndlurnar og döðlurnar eru komnar í fína bita.
Bætið þá sætunni, kókosolíunni og smávegis salti, eftir smekki hvers og eins, út í og látið matvinnsluvélina ganga áfram í nokkrar sekúndur, eða þar til kurlið loðir saman þegar það er kramið á milli tveggja fingra.

Berjalag

300 g hindber eða jarðarber, eftir smekk. Hvort tveggja eru himnesk ber til að nota í þessa uppskrift.

Settu berin í skál og stappaðu þau með gaffli til að búa til gróft mauk.

Ágætt er að skilja nokkur ber eftir til að nota til að skreyta með.

Búðingur

1 bolli nýkreistur appelsínusafi, úr u.þ.b. 3 appelsínum

safi úr 1 appelsínugulri papriku, u.þ.b. 1 dl

1 mangó

safi úr ½ sítrónu

1 bolli kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2-4 klst.

1 bolli kókosolía, fljótandi, hún bráðnar við 25°C

½ bolli hreint xylitol

1 tsk. stevíudropar með vanillubragði

salt eftir smekk

Paprikan er sett í gegnum djúsvél, eða bara í blandara og svo má sía safann frá með fínni grisju eða hnetumjólkurpoka. Afhýðið mangóið og takið steininn frá.

Allt er sett í blandarakönnu og blandað vel eða þar til kasjúhneturnar eru vel maukaðar og komin er búðingsblanda með silkimjúkri áferð.

Samsetning

Sett í lögum í fallega glerskál. Byrjið á að setja helminginn af súkkulaðikurlinu í botninn á skálinni. Þrýstið aðeins niður með sleif svo botninn verði vel þéttur. Hellið helmingnum af búðingnum yfir. Þar ofan á fer allt berjamaukið og svo restin af súkkulaðikurlinu áður en afgangurinn af búðingnum fer ofan á sem efsta lag.

Fallegt að skreyta með sömu berjum og notuð eru í berjalagið.

Látið standa í vel köldum ískáp í um það bil 8-10 klst. eða inni í frysti í 2 klst. til að búðingurinn þéttist áður en trifflið er borið fram.
Njótið hvers munnbita af þessum heilsusamlega og himneska eftirrétti.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Alexandra Kristjánsdóttir

Fjör fyrir alla fjölskylduna

Það er hægt að gera margt með skemmtilegt með krökkunum heima.

Samverustundir fjölskyldunnar eru mjög dýrmætar. Oft er talað um gildi útiveru og hvernig má gera skemmtilega hluti með börnum utan veggja heimilisins. En innivera er ekki síður góð og gild, það er hægt að gera margt fleira skemmtilegt en bara að horfa á sjónvarpið. Hér eru nokkrar góðar hugmyndir.

Matreiðsla getur aukið áhuga, sjálfstraust, forvitni og frumkvæði barna.

Allir í eldhúsinu
Góð leið til að verja tíma með börnunum er að elda eða baka eitthvað með þeim. Matreiðsla getur aukið áhuga, sjálfstraust, forvitni og frumkvæði barna. Þau eru flest vön að sjá foreldra sína í eldhúsinu þannig að við það að fá að taka þátt finna þau fyrir trausti frá hinum fullorðnu og gera sér grein fyrir að þau séu að læra eitthvað sem er mikilvægt. Með því að taka þátt fer barnið einnig að velta fyrir sé hvað það borðar, hvað er í matnum sem það borðar og hvaðan hráefnið kemur. Með því að kynnast öllu ferlinu og hráefnum frá grunni getur gert það að verkum að matvendni minnki ef hún er til staðar. Það skiptir miklu máli fyrir allt lífið að fá áhuga á matreiðslu og geta eldað sér næringarríkan mat. Því upplýstara sem barnið verður því minni líkur verða á að það velji eingöngu skyndibita í framtíðinni. Matreiðsla stuðlar einnig að ýmiss konar færni, svo sem stærðfræði, því það þarf að mæla hráefni, telja og stundum leggja saman, og einnig eykst orðaforði barnsins. Það er líka mikil áskorun að takast á við afleiðingarnar ef eitthvað fer úrskeiðis og vinna að lausnum í þeim efnum.

Litagleði
Flestir foreldrar þekkja það að vera beðnir um að sitja og teikna með barninu sem getur reynst flókið ef maður hefur litla sem enga hæfileika á því sviði. Hins vegar geta allir litað og undanfarin ár hafa vinsældir litabóka fyrir fullorðna aukist til muna. Margir trúa því að það sé róandi fyrir hugann að lita og þessi iðja er oft tengd við hugmyndir um gjörhygli, eða mindfulness, og litir hafa lengi verið notaðir í ýmiss konar listmeðferð. Helsti munurinn á litabókum fyrir börn og fullorðna er erfiðleikastigið, litabækur fullorðinna eru með smærri og flóknari myndum. Þannig að nú geta foreldrar og börn setið saman með sína litabókina hvert og notið þess að lita saman.

Fjölskyldan getur setið saman og lesið bók þannig að hver fjölskyldumeðlimur fær sitt tækifæri til að lesa upphátt fyrir hina … Þetta eykur bæði lesskilning og lestrarfærni barna.

Sögustund
Margir, ef ekki flestir, foreldrar lesa fyrir börnin sín þar til þau ná þeim aldri að byrja að lesa sjálf. En það er ekki síður skemmtilegt að lesa með börnunum sínum þegar þau eru farin að geta það sjálf. Til dæmis getur fjölskyldan setið saman og lesið bók þannig að hver fjölskyldumeðlimur fær sitt tækifæri til að lesa upphátt fyrir hina. Síðan má ræða saman um atvik í bókinni og spá í söguþráðinn. Þetta eykur bæði lesskilning og lestrarfærni barna auk þess sem orðaforði þeirra eykst. Einnig getur þetta aukið sjálfstraust barna því þau munu oft þurfa að lesa upphátt fyrir jafningja sína í skólanum sem getur verið ógnvekjandi fyrir marga.

Því ekki grafa upp spilastokk og kenna börnum nokkra góða leiki sem þið spiluðuð í æsku?

Spilerí
Í dag spila börn frekar tölvuleiki en hefðbundin spil. Það er allt gott og blessað því leikirnir æfa oftar en ekki svipaða tækni og færni, svo sem kænsku, úrlausn vandamála og þolinmæði. Það getur þó verið erfiðara fyrir foreldra að taka þátt í því spili. Því ekki grafa upp spilastokk og kenna börnum nokkra góða leiki sem þið spiluðuð í æsku? Þetta gefur tengingu við fortíðina og börn hafa gaman af því að heyra hvernig hlutirnir voru þegar þið voruð krakkar. Borðspil eru einnig skemmtileg þótt þau séu oft tímafrekari en að spila á spil. Hægt er að nota tímann á meðan spilað er til að ræða daginn og veginn, spyrja um skóladaginn eða hvað sem er án þess þó að það sé þvingað eða einhver pressa.

Í barndóm aftur
Það hafa allir gott af því að leika sér aðeins og finna barnið innra með sér. Börn hafa líka þörf fyrir að finna þessa tengingu við foreldra sína, að þeir séu líka börn inn við beinið. Fyrir utan þessa klassísku leiki, svo sem feluleik, er til dæmis skemmtilegt að búa til virki úr púðum, sófum og teppum og síðan er hægt að fara í þykjustuleik inni í virkinu. Annar skemmtilegur leikur er nokkurs konar dótakeila; þá er böngsum, dótaköllum eða öðru dóti raðað upp við endann á löngum gangi og leikmenn skiptast svo á að rúlla bolta og reyna að fella dótið. Önnur útfærsla á þessum leik er að leikmenn stilli sér upp sitt hvorum megin við ganginn með sína dótakalla og þá er markmiðið að vera fyrstur til að fella alla kallana hjá hinum. Önnur góð leið til að fá útrás og hafa það gaman er að halda danspartí, þá er einfaldlega skemmtilegt lag sett á fóninn og svo dansa allir eins og þeir eigi lífið að leysa.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / www.pixabay.com

Aukinn árangur og velgengni í vinnu

Sex góð ráð til þess að líða betur og ná lengra í starfi.

Flest viljum við ná einhverri velgengni í því starfi sem við höfum valið okkur. Við verjum jú bróðurpartinum af lífinu í vinnunni og því skiptir máli að við finnum að við séum að ná árangri. Ýmislegt í okkar hversdagslegu rútínu hefur áhrif á það hvernig við vinnum vinnuna okkar og þar með hversu mikilli velgengni við njótum. Hér eru sex góð ráð til þess að líða betur og ná lengra í starfi.

Oftar en ekki vinnur fólk saman í hóp þar sem einstaklingar bæta hverjir aðra upp þannig að það skiptir ekki máli þótt þú sért ekki góð/ur í öllu – svo lengi sem þú ert mjög góð/ur í sumu.

1. Einbeittu þér að styrkleikum, ekki veikleikum. Stundum eigum við það til að eyða of miklum tíma í að bæta okkur í því sem við erum ekki góð í að eðlisfari. Það getur verið gáfulegra að bæta styrkleika þína enn frekar. Oftar en ekki vinnur fólk saman í hóp þar sem einstaklingar bæta hverjir aðra upp þannig að það skiptir ekki máli þótt þú sért ekki góð/ur í öllu – svo lengi sem þú ert mjög góð/ur í sumu.

2. Hagaðu vinnu þinni eins og þér þykir best. Það sem hentar einum þarf ekki að henta öllum öðrum starfsmönnum fyrirtækis. Undanfarin ár hafa mörg fyrirtæki innleitt opin rými en sumum þykir betra að vinna bak við luktar dyr, allavega í ákveðnum verkefnum. Oftast er hægt að finna lausn á þessum vanda til dæmis með því að nota fundarherbergi þegar þau eru laus eða óska eftir því að vinna heima. Einnig geta hljóðeinangrandi heyrnatól komið að góðum notum.

3. Hafðu hemil á skapinu þínu. Viðhorf þitt hefur ekki aðeins áhrif á líðan og afrakstur þinn í vinnunni heldur einnig á samstarfsfélaga þína. Þess vegna ættirðu að reyna eftir bestu getu að hafa jákvæðni að leiðarljósi en rannsóknir hafa sýnt að með því að hugsa jákvætt verðum við ósjálfrátt jákvæðari gagnvart vinnunni og jákvæðir einstaklingar áorka meira.

Veldu hollari mat. Þegar öllu er á botninn hvolft er fæðan eldsneyti líkamans og gæði hennar geta haft mikil áhrif á okkur. Ef þú veist að þú munt ekki hafa tíma til að ná þér í hádegismat reyndu að hafa með þér nesti svo þú sleppir ekki máltíðum.

4. Veldu hollari mat. Þegar öllu er á botninn hvolft er fæðan eldsneyti líkamans og gæði hennar geta haft mikil áhrif á okkur. Ef þú veist að þú munt ekki hafa tíma til að ná þér í hádegismat reyndu að hafa með þér nesti svo þú sleppir ekki máltíðum. Forðastu sykur líka eftir bestu getu því hann getur valdið blóðsykurshruni og meðfylgjandi orkuleysi.

5. Láttu gott af þér leiða. Þó að það sé mikilvægt að hugsa um sjálfan sig þá getur það aukið vellíðan að gera eitthvað gott fyrir aðra, hvort sem það er að hella upp á kaffi, hjálpa með verkefni eða bjóða einhverjum far heim. Þetta eykur liðsheildina og þýðir það að vinnufélagar þínir eru mun líklegri til að koma þér til hjálpar þegar þú þarft á því að halda.

6. Ekki hugsa um það sem er liðið. Þegar við eigum slæman dag í vinnunni hættir okkur til að taka þær tilfinningar með okkur heim og endurhugsa allt sem við gerðum og hvernig við hefðum getað gert betur. Með þessu erum við að viðhalda streitunni og öllum fylgifiskum hennar þannig að við náum ekki að hvílast almennilega. Hafðu þann vana á að fara einu sinni yfir daginn að honum loknum og segðu svo skilið við hann.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

„Lítill tími í tilhugalíf“

Sjöfn Kristjánsdóttir selur prjónauppskriftir af barnafötum sem hún hannar á vefversluninni Petit Knitting.

Hjónin Sjöfn Kristjánsdóttir og Grétar Karl Arason.

Sjöfn Kristjánsdóttir prjónaði svo mikið á son sinn í fæðingarorlofinu að eiginmaður hennar, Grétar Karl Arason, stakk upp á því að hún gerði þetta að atvinnu. Hugmyndin var gripin á lofti og vefverslunin Petit Knitting varð til þar sem hægt er að kaupa prjónauppskriftir af barnafötum sem Sjöfn hannar.

„Þessi hugmynd kom þegar ég var í fæðingarorlofi með Ara, sem er 1 árs, en þá prjónaði ég alveg eins og vindurinn á hann. Eitt kvöldið spurði Grétar mig af hverju ég gerði ekki eitthvað úr þessu, hvort ég gæti ekki skrifað upp þessar uppskriftir og selt. Ég hef sjálf aldrei farið eftir uppskriftum því mér finnst þær oft of flóknar og hef því alltaf verið að breyta þeim og laga að mínu smekk. Við kýldum hugmyndina í gang og þetta átti að vera svona auka áhugamál en þrátt fyrir að það séu aðeins sex mánuðir síðan við byrjuðum erum við orðin stórt nafn í íslenskum prjónaheimi með yfir fjögur þúsund fylgjendur á Facebook og yfir tvö þúsund fylgjendur á Instagram. Við byrjuðum með eina uppskrift en erum núna komin með yfir 30 uppskriftir í sölu. Grétar sér um tæknilegu hliðina, kaupir auglýsingar og heldur utan um markaðssetningu og fjármálin. Ég sé um að hanna, skrifa og prjóna uppskriftirnar og taka myndir af því sem ég hef verið að gera,“ segir Sjöfn.

„Ég hef sjálf aldrei farið eftir uppskriftum því mér finnst þær oft of flóknar og hef því alltaf verið að breyta þeim og laga að mínu smekk.“

Skandinavísk hönnun

Sjöfn er forstöðumaður í dægradvöl Vatnsendaskóla og Grétar er viðskiptastjóri hjá Símanum. Þau eiga tvö börn, Sögu Sjafnar, sem er 11 ára, og Ara Sjafnar, sem er eins og áður sagði nýorðinn eins árs. „Petit Knitting er þriðja barnið og er vefverslun með

„Ég legg mikið upp úr því að hafa uppskriftirnar mínar einfaldar, skýrar og aðgengilegar þannig að allir prjónarar komist í gegnum þær.“

prjónauppskriftir. Við seljum uppskriftir í stykkjatali en það er svolítil vöntun á því hér á landi. Nú gefst fólki kostur á því að versla þessa einu uppskrift sem það langar í án þess að þurfa að kaupa heilt blað eða heila bók. Svo er þetta líka allt rafrænt hjá okkur sem gerir okkur umhverfisvæn. Grétar vinnur að heiman eins og er og sér um Ara á meðan ég vinn frá 8-16 á daginn. Ég kem svo heim og tek við og Grétar klárar það sem þarf að gera í hans vinnu. Svo er eldað, baðað, sett í þvottavélar, látið læra heima og komið í háttinn. Þegar heimilið er komið í ró sest ég við prjónaskap og prjóna þar til ég fer að sofa. Það er alltaf nóg að gera hjá okkur og lítill tími í tilhugalíf,“ segir hún hlæjandi.

„Við erum aðallega að hanna uppskriftir að barnafötum. Við byrjuðum að hanna föt í stærðum 0-2 ára en erum nú komin með uppskriftir í stærðum 0-10 ára. Það var eftirspurn eftir stærri stærðum svo við urðum við þeirri beiðni. Eins og er eru allar uppskriftir á íslensku og nokkrar höfum við þýtt yfir á ensku. Um þessar mundir er verið að þýða allar uppskriftir yfir á dönsku og svo er markmiðið að koma öllum uppskriftum yfir á norsku og ensku líka. Skandinavía er stór og prjónaáhugi í löndunum þar er mjög mikill. Hönnun mín er í skandinavískum stíl svo möguleikar okkar eiga eftir að margfaldast þegar við komum uppskriftum yfir á Norðurlandamálin sem og á ensku. Nafnið á fyrirtækinu er eiginlega sameiginleg ákvörðun mín og vinkvenna minna, þeirra Abbýjar og Ástríðar. Ég henti nokkrum nöfnum á þær og við vorum svo sammála um að Petit Knitting væri fullkomið. Það er bæði alþjóðlegt og lýsir því sem ég er að gera – að prjóna á litla fólkið.“

Með tíu þumalfingur

Áhuginn á prjónaskap og hönnun byrjaði snemma hjá Sjöfn. „Mamma, Guðný Guðmundsdóttir, var mikil prjónakona og hannaði og seldi flíkur eftir sjálfa sig. Hún hlaut einnig gullprjóna ársins 1995 sem voru veittir af prjónabúðinni Tinnu fyrir prjónaskap og hönnun. Ég var sjálf 13 ára þegar ég prjónaði fyrstu flíkina mína hjálparlaust en það var húfa og að sjálfsögðu var hún ekki prjónuð eftir uppskrift. Eftir það var ekki aftur snúið og hef ég verið að prjóna síðan en með nokkrum hléum þó. Ég útskrifaðist svo árið 2002 af hönnunar- og textílbraut frá FB en fór svo í uppeldis- og menntunarfræði í HÍ og tók meistarapróf í því fagi. Hönnunin hefur samt alltaf yfirhöndina þó að ég þurfi að sinna henni í frítíma mínum eins og er. Ég stefni að því að geta unnið við þetta sem aðalstarf eftir um það bil tvö ár.“

„Hönnun mín er í skandinavískum stíl svo möguleikar okkar eiga eftir að margfaldast þegar við komum uppskriftum yfir á Norðurlandamálin sem og á ensku,“ segir Sjöfn.

Hún er enn sú eina í fjölskyldunni sem prjónar en hún hefur reynt að ná manninum sínum og dóttur í þetta með sér. „Ég hef mikið reynt að fá Grétar til að grípa í prjónana því ég er með svo margar hugmyndir í kollinum en bara tvær hendur svo það er fullt af hugmyndum sem þurfa að bíða. En hann hefur ekki fallið í þá freistni enn þá. Hann segist vera með tíu þumalputta. Saga er aðeins byrjuð að prjóna með mér en þolinmæðin er ekki alveg nógu mikil enn þá. Hún hefur þó mikinn áhuga á því sem ég er að gera svo það er aldrei að vita hvernig framtíðin verður hjá henni. Hún er mjög skapandi en það er spurning á hvaða sviði sköpunar hún endar. Ari hefur mjög mikinn áhuga á garnhniklum en það kemur í ljós hvort hann verði með tíu þumalfingur eins og pabbi sinn.“

„Ég legg mikið upp úr því að hafa uppskriftirnar mínar einfaldar, skýrar og aðgengilegar þannig að allir prjónarar komist í gegnum þær. Það er fátt leiðinlegra en flóknar og óskýrar uppskriftir sem gera það að verkum að maður endar með því að henda prjónunum ofan í skúffu.“

Annars eru spennandi tímar fram undan og markaðurinn sívaxandi eftir því sem uppskriftirnar eru þýddar á fleiri tungumál. „Ég legg mikið upp úr því að hafa uppskriftirnar mínar einfaldar, skýrar og aðgengilegar þannig að allir prjónarar komist í gegnum þær. Það er fátt leiðinlegra en flóknar og óskýrar uppskriftir sem gera það að verkum að maður endar með því að henda prjónunum ofan í skúffu,“ segir Sjöfn að lokum.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðunni petitknitting.com, á Instagram undir petitknitting_iceland og á Facebook undir Petitknitting.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir /Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Bambusflekar, fossar og frumstæður matur

Ingibjörg Lára Hjartardóttir flutti til Jamaíku fyrir tæpum fjórum árum vegna spennandi atvinnutilboðs og ævintýraþrár.

Við fengum hana til að segja okkur frá nokkrum stöðum sem hún mælir með að gestir landsins skoði.

Igibjörg Lára Hjartardóttir flutti til Jamaíku fyrir tæpum fjórum árum vegna spennandi atvinnutilboðs.

Pelican Bar
Á litlu sandskeri út með suðurströnd Jamaíku er Pelican Bar sem er byggður úr rekavið. Til að komast þangað færðu annað hvort sjómann til að sigla með þig á litlum báti, um það bil 20 mínútur frá Treasure Beach, eða ferð í skipulagða útsýnisferð.

Á barnum er hvorki salernisaðstaða né rafmagn. Kælirinn fyrir bjór er gömul frystikista sem er full af klaka. Þarna er góð stemning, hægt að synda í sjónum í kring og oft sitja pelikanar á bátunum sem bíða eftir fólkinu.

Fljóta á fleka niður Martha Brae-ána
Martha Brae-áin er í um 45 mínútna akstursfjarlægð frá Montego Bay. Ferðin niður ána tekur eina til tvær klukkustundir á bambusfleka. Á leiðinni er fylgst með lífinu meðfram ánni og hægt að stoppa á leiðinni til að kaupa minjagripi eða Red Stripe-bjór. Best að fara á degi þegar engin skemmtiferðaskip eru í höfn því þá er maður nánast einn á ánni. Dásamlega slakandi.

Á litlu sandskeri út með suðurströnd Jamaíku er Pelican Bar sem er byggður úr rekavið. Til að komast þangað færðu annað hvort sjómann til að sigla með þig á litlum báti, um það bil 20 mínútur frá Treasure Beach …

Scotchies
Scotchies er veitingastaður í útjaðri Montego Bay. Þar er boðið upp á grillaðan kjúkling og svínakjöt, marinerað með svokallaðri Jerk Seasoning, innlendri kryddblöndu með sterkum chili-pipar sem heitir Scotch Bonnet. Þetta getur verið mjög sterkt. Meðlætið eru grillaðir grænir bananar, sætar kartöflur og hrísgrjón með nýrnabaunum, eða Rice & Peas eins og innfæddir kalla það. Grillið er frumstætt og yfir það breitt með bárujárni þannig að kjötið er hálfreykt um leið og það er grillað. Best að fá sér ískalda Red Stripe-heimabjórinn með. Máltíðin kostar innan við 2.000 kr. fyrir tvo.

Ferðin niður Martha Brae-ána tekur eina til tvær klukkustundir á bambusfleka.

YS-fossarnir
Þessir fossar í ánni YS í suðurhluta Jamaíku eru sjö talsins. Það er hægt að labba upp hluta fossanna með leiðsögumanni og eins er hægt að synda í hyljum fyrir neðan flesta þeirra. Mér finnst þessir fossar mun fallegri en Dunn’s-fossarnir sem eru frægastir og flestir sjá þegar þeir koma til Jamaíku. Það er ekki eins mikil mannmergð við YS og þar með betri upplifun.

Negril-ströndin
Negril er lengsta ströndin á Jamaíku, kölluð 7 Mile Beach, nærri 12 kílómetra löng. Gaman er að labba hana og sjá bæði innfædda og ferðamenn njóta sín. Sölumennirnir láta sér segjast ef maður er bara ákveðinn og kurteis.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Gleði og galdrar

Kvikmyndir um töfra njóta yfirleitt mikilla vinsælda.

Sögur um galdra hafa ávallt fylgt mannkyninu. Kvikmyndir eru líklega einn besti vettvangurinn til að segja slíkar sögur því tæknin sem er notuð er oft töfrum líkust. Hér eru nokkrar frábærar myndir sem sýna margar ólíkar hliðar á þessum spennandi og yfirskilvitlegu hæfileikum.

 Töfraskepnur

Flestir sem hafa fylgst með ævintýrum galdrapiltsins Harry Potter, hvort sem það á hvíta tjaldinu eða á prenti, kannast við nafnið Newt Scamander. Hann er höfundur bókarinnar Fantastic Beasts and Where to Find Them sem hvert skólabarn í Hogwarts þarf að kaupa og lesa á fyrsta árinu sínu. Árið 2001 gaf J.K. Rowling út sérstaka útgáfu af bókinni sem vakti mikla lukku hjá aðdáendum.

Í nýlegri kvikmynd byggð á þeirri bók (sjá mynd að ofan) er ungi fræðimaðurinn Newt Scamander nýkominn til New York árið 1926 í leit að töfraverum sem hann hefur einsett sér að rannsaka og bjarga þegar það á við. Hann veit þó ekki að stórhættuleg og kraftmikil vá vofir yfir borginni og hann flækist fljótt inn þau mál.

Nicole Kidman og Sandra Bullock sem systurnar Sally og Gillian Owens.

Gæfa eða bölvun

Systurnar Sally og Gillian Owens í myndinni Practical Magic hafa alla tíð vitað að þær væru ekki eins og fólk er flest. Þær ólust upp hjá frænkum sínum á vægast sagt óvenjulegu heimili þar sem þeim voru litlar eða engar reglur settar. Frænkurnar lögðu sig fram við að vekja hjá systrunum hina einstöku dulrænu hæfileika sem fylgt hafa konum af Owens ættinni í þeirri von að veita þeim þann styrk sem fylgir því að iðka hvítgaldra í nytsamlegum tilgangi. En galdrasæringar Owens kvennanna kosta sitt og í raun fylgir þeim hin mesta bölvun – mennirnir sem þær verða ástfangnar af eru dæmdir til ótímabærs andláts.

The Craft segir af fjórum táningsstúlkum sem búa yfir yfirnáttúrulegum kröftum.

Köld kvenna ráð

Galdrar hafa lengi heillað táningsstelpur sem ýmist reyna að nota þá til að laða að sér ást eða leita hefnda. The Craft segir einmitt frá einum slíkum hóp. Þegar ný stelpa flytur í bæinn kynnist hún fljótlega öðrum stelpum sem hafa áhuga á yfirskilvitlegum og dularfullum hlutum. Saman búa þessar fjórar stelpur yfir miklum yfirnáttúrulegum kröftum. Þær geta nánast allt, allt frá því að ná í draumaprinsinn og látið hann dýrka sig, og hvað annað sem þeim dettur í hug – þær eru óstöðvandi og möguleikarnir eru endalausir. Slíku valdi fylgir mikil ábyrgð og það getur óvænt snúist gegn manni, eins og stelpurnar fá að kynnast.

The Prestige segir frá tveimur sjónhverfingamönnum sem gera allt til að skemma fyrir hvorum öðrum.

Keppinautar á sviði

Kvikmyndin The Prestige gerist í lok nítjándu aldar í London og segir frá Robert Angier og Alfred Borden sem eru vinir og aðstoðarmenn töframanns. Þegar Julia, ástkær eiginkona Roberts, deyr slysalega í einu atriði kennir Robert Alfred um dauða hennar þannig að vinátta þeirra snýst upp í andhverfu sína. Báðir verða þeir síða frægir töframenn og keppinautar á því sviði – þeir gera hvað þeir geta til að skemma fyrir hvorum öðrum. Þegar Alfred framkvæmir árangursríkt bragð verður Robert hreinlega að komast að því hvernig hann fór að því en kemst að því að sumt er best látið kyrrt liggja.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

 

Ef maður tengir við RIE tengir maður svo sterkt

Kristín Maríella Friðjónsdóttir segir að þörfin fyrir nýjar uppeldisaðferðir sé mikil hér á landi.

Kristín Maríella Friðjónsdóttir kynntist RIE eða Respectful Parenting-uppeldisaðferðinni fyrir tæpum þremur árum og hefur síðan þá haldið fjölmörg námskeið sem notið hafa mikilla vinsælda. Kristín sem er búsett í Singapúr segir greinilegt að þörfin fyrir nýjar uppeldisaðferðir sé mikil hér á landi.

Kristín Maríella Friðjónsdóttir kynntist RIE eða Respectful Parenting-uppeldisaðferðinni fyrir tæpum þremur árum og hefur síðan þá haldið fjölmörg námskeið sem notið hafa mikilla vinsælda.

„Við fluttum hingað fyrir þremur árum þegar maðurinn minn stundaði masters-nám hér. Eftir útskrift fékk hann atvinnutilboð og því ílengdumst við. Okkur líður mjög vel í Singapúr og höfum komið okkur vel fyrir hérna hinum megin á hnettinum.“

Kristín er menntaður fiðluleikari og lærði einnig á víólu í Bandaríkjunum. Eftir það nám tóku við fjölbreytt störf tengd tónlistinni en á sama tíma stofnaði hún skartgripamerkið Twin Within ásamt systur sinni, Áslaugu Írisi. Fljótlega tók hönnunin yfir en eftir að fjölskyldan flutti til Singapúr hefur Kristín haldið rekstrinum áfram auk þess að kenna ungum börnum á fiðlu og miðla fræðslutengdu efni um uppeldisaðferðina RIE eða Respectful Parenting. „Ég kýs að kalla þessa uppeldisstefnu Virðingarríkt tengslauppeldi en ég kynntist RIE fyrir þremur árum. Þá var Ylfa, eldri dóttir mín, um 6 mánaða. Ég hef alltaf verið mjög áhugasöm um allt sem viðkemur uppeldi, meðgöngu, fæðingu, þroska barna og samskiptum. Stuttu eftir að við fluttum til Singapúr fékk ég réttindi í fæðingarhjálp (e. doula) og óhætt að segja ég eyði öllum frítíma mínum í að lesa um allt sem viðkemur börnum. Í einhverjum rannsóknarham á Internetinu rambaði ég inn á bloggsíðu Janet Lansbury, sem er helsta talskona RIE í heiminum, og þá var ekki aftur snúið. Ég tengdi strax mjög sterkt við það sem ég las frá henni og fékk bara ekki nóg. Það er nefnilega þannig með RIE, ef maður tengir, þá tengir maður svo sterkt.“

Virðingin, traustið og tengingin

Kristín segir erfitt að útskýra stefnuna í stuttu máli því hún sé í raun heill heimur af fróðleik. „Að mínu mati er RIE byggt upp á þremur grunnhugtökum en þau eru virðing, traust og tenging. Mér finnst það vera eins konar kjarni RIE sem stefnan gengur alltaf út frá. Við komum fram við börn af virðingu frá fæðingu. Við lítum á þau sem heila einstaklinga sem eiga rétt á því að komið sé fram við þau eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Við reynum eftir fremsta megni að sjá hlutina frá þeirra sjónarhorni og bjóðum þeim að taka þátt í lífinu strax frá fyrsta degi. Við tölum eðlilega við börnin okkar, sleppum öllu leikritum, erum hreinkilin, örugg og róleg. Eins er mikil virðing borin fyrir mikilvægi leiks og við reynum að trufla ekki barn sem er niðursokkið í leik. Börn eru studd til að leika sér sjálfstætt og á sínum forsendum frá upphafi. Við treystum líka barni til þess að þroska hreyfigetu sína á sínum hraða með sínum leiðum og hjálpum eða kennum þeim til dæmis ekki að snúa sér, setjast eða ganga.

„Við leyfum barni að tjá allar tilfinningar sínar og styðjum börnin í gegnum grátköst með því að viðurkenna tilfinningar þeirra og sýna þeim þolinmæði.“

Við trúum því að börn séu alltaf góð og vitum að þegar þau sýna óæskilega hegðun sé það vegna þess að þau eigi erfitt og vanti aðstoð frá okkur. Við leyfum börnum að tjá allar tilfinningar þeirra og styðjum þau í gegnum grátköst með því að viðurkenna tilfinningar þeirra og sýna þeim þolinmæði. Þannig myndum við sterk tengsl við barnið og það byrjar að taka mörkunum sem við setjum betur.  Við setjum tilfinningum ekki mörk en við setjum hins vegar hegðun mörk. Við trúum á mikilvægi þess að setja skýr mörk en við setjum þau samt alltaf á rólegan hátt. Það má segja að helsta markimið RIE sé að byggja upp heilbrigt samband á milli foreldris og barns, samband sem báðir aðilar geta notið sín í og þar sem þörfum beggja er mætt af samkennd og virðingu.“

Námskeiðin seldust upp á örfáum klukkustundum

Kristín hafði skrifað um RIE inn á samfélagsmiðlum í rúmt ár þegar hún fór fyrst að fá fyrirspurnir um að halda námskeið á Íslandi. „Nánast allt efni sem til er um Respectful Parenting er á ensku og ég fann fyrir mikilli vöntun á íslensku efni. Þegar ég var síðan á leiðinni heim til Íslands um síðustu jól ákvað ég að mæta eftirspurninni og halda nokkur námskeið. Það gekk rosalega vel og ég fann strax að þetta átti vel við mig, mér leið vel upp á „sviði“ og fæ mikið út úr því að miðla á þennan hátt.“ Eftir námskeiðin var enn mikil eftirspurn og því ákvað Kristín að koma heim nú í sumar og halda fleiri. Viðtökurnar voru gríðarlegar og undir lokin seldust síðustu aukanámskeiðin upp á örfáum klukkutímum. „Það var eins og fólk hefði verið að bíða eftir einhverju svona. Ég hélt fjórtán námskeið í heildina og það var greinilegt að fólk er mjög áhugasamt og þráir að komast á betri stað í samskiptum við börnin sín. Það finnst mér frábær þróun enda hlýtur foreldrahlutverkið að vera mikilvægasta hlutverk okkar allra sem eigum börn.“

Aðspurt hvort hún veiti foreldrum ráð óumbeðið segist Kristín hafa það fyrir reglu að koma ekki með athugasemdir við uppeldisaðferðir annarra.

Kristín segir fyrirspurnirnar sem henni berist óteljandi og vandamálin fjölbreytt. Hún hafi þó aldrei rekist á vegg heldur komi svörin oftast fyrirhafnarlaust til sín. „Þegar maður gefur ráð er mikilvægast að setja sig almennilega í aðstæðurnar. Þá bið ég iðulega um meiri upplýsingar og nánar lýsingar á vandamálinu. Hvenær kemur hegðunin upp? Hvernig hefur foreldrið brugðist við hingað til? Hvernig bregst barnið við? Hvað annað er að gerast í lífi barnsins? Eftir að hafa fengið þessar upplýsingar koma svörin til mín. Ég myndi segja að óöryggi foreldra þegar kemur að því að setja mörk sé eitt algengasta vandamálið. Hvaða mörk má setja og hvernig. Hræðsla við grátur og viðbrögð barnanna sinna og síðan óraunhæfar væntingar í sambandi við það hvers er hægt að ætlast til af börnunum sínum og hvenær.“

Þegar talið berst að hennar eigin uppeldi segir Kristín stærstu áskorunina liggja í að veita hvoru barni fyrir sig fulla athygli í kringum umönnunarverkefni en það er stór partur af RIE. „Það er hugsað þannig að í öllum hversdagslegum ummönnunarverkefnum eins og t.d. að skipta á bleiu, klæða í föt, baða eða gefa að borða reynum við að vera með fulla athygli á barninu. Það er erfitt þegar þú ert komin með tvö eða fleiri börn því að oftar en ekki vill hitt barnið líka fá athygli á sama tíma. Í RIE tölum við um að hefðbundin sanngirni (þar sem allt er 100% jafnt) er í raun ekki sanngirni heldur líður báðum börnum eins og þau fái ekki nóg.

Við reynum ekki að keppast við að gefa allt jafnt heldur gefum við eftir þörfum og það sama gildir um tímann okkar eða athyglina. Þá skiptir máli að vera skýr í sambandi við það hvar athyglin okkar er og oft setjum við mörk í kringum það. Við segjum eitthvað eins og „Ég heyri í þér, Ylfa, þú vilt að ég komi og sjái myndina sem þú varst að teikna, þú vilt að ég komi núna strax, ég skil, en ég get ekki komið strax, nú er ég að skipta á bleiunni hanns Breka og ætla að einbeita mér að því. Þegar ég er búin, þá ætla ég að koma til þín og vera bara með þér.“
Það sem gerist er að bæði börnin slaka meira á því þau vita að hvort um sig fá þau 100% athygli þegar „þeirra tími“ kemur. Svo virkar það líka þannig að þegar við hægjum á og gefum fulla athygli í gegnum ummönnunarverkefni, þó að það sé ekki nema í nokkrar mínútur í senn, þá er barnið líka miklu líklegra til að geta sleppt okkur þess á milli og fer frekar að leika sér sjálft því það er sátt eftir tímann sem við áttum saman.“

Að hjálpin komi frá hjartanu

RIE-fræðsla byggjast mikið á langtímamarkmiðum en þátttaka barna í heimilisstörfum gegnir veigamiklu hlutverki innan stefnunnar. Kristín segir markmiðið vera að barnið sjái mikilvægi þess að hjálpa til inni á heimilinu en sömuleiðis finni hjá sér þörfina að hafa hreint í kringum sig. „Þetta snýst auðvitað um að líða vel í umhverfi sínu. Ég vil að barnið mitt hjálpi til því það vilji vera partur af heildinni, en að hjálpin komi frá hjartanu, ekki út frá hræðslu eða skyldu. Það er ekki hægt að pína barn í að vera hjálplegt. Heimilisverk fellur undir það sem við köllum „modeling“ í RIE. Þá skyldum við ekki barn til þess að hjálpa til á neinn hátt en bjóðum því þátttöku. Við pössum að vera góðar fyrirmyndir og treystum því að þegar barn er tilbúið þá mun það vilja hjálpa til því að börn vilja í grunninn öll standa sig vel, vera partur af heildinni og líkjast foreldrunum.“

Þegar kemur að ósamkomulagi barna styðst Kristín mikið við að lýsa aðstæðum. „Ég geri alltaf það sama þegar barn grætur eða er ósátt. Ég hægi á og segi eitthvað eins og „hmm … ég heyri grátur, það eru allir að gráta, allir eru ósáttir“ og síðan myndi ég skoða hvað væri í gangi og gefa hverju barni rödd fyrir sig með því að segja upphátt það sem ég sæi, án þess að dæma. Dvel jafnvel í ósættinu og bæti svo við, „hvað getum við gert?“ Síðan bíð ég með opinn arminn því það mega allir alltaf fá knús sem vilja og það mega allir gráta sem vilja en við reynum að styðja börn í að finna sjálf lausnir á vandamálunum. Þannig er best stutt við þroska og getu í samskiptum.“

„Þetta snýst auðvitað um að líða vel í umhverfi sínu. Ég vil að barnið mitt hjálpi til því það vilji vera partur af heildinni, en að hjálpin komi frá hjartanu, ekki út frá hræðslu eða skyldu. Það er ekki hægt að pína barn í að vera hjálplegt.“

Aðspurt hvort hún veiti foreldrum ráð óumbeðið segist Kristín hafa það fyrir reglu að koma ekki með athugasemdir við uppeldisaðferðir annarra. „Ég ráðlegg fólki eindregið að skipta sér ekki af uppeldi annarra nema um eitthvað alvarlegt sé að ræða. Það hefur mjög lítið upp á sig að skipta sér af öðrum. Sannleikurinn er sá að flestir eru að reyna sitt besta. Það eru allir á sinni einstöku vegferð í foreldrahlutverkinu og það besta sem maður getur gert er að vera góð fyrirmynd sjálfur. Það er nefnilega þá sem maður fær spurningar frá áhugasömum og fólkið í kringum mann vill fá að vita meira um hvað maður er að gera. Það sér að eitthvað er að virka vel og verður forvitið. Foreldrahlutverkið og allt í sambandi við börnin okkar er eitthvað sem er mjög nálægt okkur, mjög persónulegt og fólk tekur því persónulega ef það upplifir að verið sé að dæma það. Þá fer fólk frekar í vörn. Fólk þarf að vera tilbúið að fara í gegnum ákveðna sjálfskoðun ef það ætlar að tileinka sér uppeldisaðferð eins og RIE og það eru einfaldlega ekki allir tilbúnir í það.“

Kristín segir fyrirspurnirnar sem henni berist óteljandi og vandamálin fjölbreytt. Hún hafi þó aldrei rekist á vegg heldur komi svörin oftast fyrirhafnarlaust til sín.

Ofbeldi gegn börnum óhugnalega algengt

Kristín segir það áhugaverða upplifun að ala upp börn hinum megin á hnettinum þar sem margir menningarheimar koma saman en Singapúr er einstaklega fjölbreytt samfélag. „Þetta hefur verið mjög þroskandi ferli og áhugavert. En þó að Singapúr sé í Asíu er hér að finna mjög sterk vestræn áhrif. Mikið er lagt upp úr því að bjóða fjölskyldum upp á ríka barnamenningu og það er alltaf nóg af mjög metnaðarfullu starfi í boði fyrir börn og fjölskyldur, allskonar sýningar á listasöfnum, viðburðir í görðunum og mikið lagt upp úr vönduðum leikvöllum og svæðum fyrir börn. Singapúr er mjög örugg borg, næstum því öruggari en Reykjavík og alveg frábært að vera hérna með börn, borgin er þekkt fyrir það. Að því sögðu er hér að finna sterk áhrif frá Asíu, Malasíu og Kína og uppeldislega má segja menninginuna skiptist svolítið í tvennt. Hér er að finna stórt samfélag fólks frá Vesturlöndum, Evrópu og Bandaríkjunum, uppeldi sem rímar við það sem við þekkjum frá Íslandi. Foreldrar sem leita frekar að frjálsari aðferðum í skólakerfinu svipað og stefnurnar í leik- og grunnskólum standa fyrir heima, þetta „play-based“ módel sem er auðvelt að finna í flestum leikskólum landsins. Skólakerfið hér skiptist því í tvennt, annars vegar hverfisskóla og svo alþjóðlega skóla, þarna er mikill áherslumunur. Í hverfisleikskólum eru börnin frá 7 á morgnanna til 19 á kvöldin, fólk vinnur svo langa vinnudaga. Mikið er lagt upp úr aga og þurfa leikskólabörn að sitja kyrr við borð og læra, hlusta á kennarann og gera svo heimavinnu fyrir næsta leikskóladag. Ég er auðvitað svakalega mikið á móti þessu því þetta stríðir gegn því sem er eðlislægt fyrir börn á þessum aldri. Það er margsannað að börn læri best í gegnum leik og helst frjálsan leik sem þau fá að stjórna sjálf.

Alþjóðlegu skólarnir eru skárri en þeir eru mjög dýrir. Ég var svo heppin að finna lítinn leikskóla sem er virkilega „play-based“ og skólastýran les bloggið hennar Janet Lansbury og er mjög vel að sér. Hér í Singapúr er líka óhugnalega algengt að foreldrar leggi hendur á börnin sín í refsingarskyni, það er meira að segja ákveðinn stafur sem einungis er notaður í hýðingarskyni og þá er talað um „caning“. Þetta á að aga börnin og láta þau hlýða. Mér fallast oft hendur yfir þessu og finnst svo langt í land en þetta er samt smátt og smátt eitthvað að breytast, maður getur ekki breytt heiminum einn en maður breytir samt sem áður heiminum á sinn hátt þegar maður vandar sig vel í uppeldinu, börnin okkar eru auðvitað framtíðin og því hvergi betri staður til að hafa mikil og góð áhrif.“

Texti / Íris Hauksdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Poppaðu upp áramótin

|||
|||

Stundum getur verið skemmtilegt að breyta til um áramótin og prófa eitthvað nýtt.

Ef þú átt börn þá er upplagt að plana gamlárskvöld með þeim.

Planaðu gamlárskvöld með krökkunum
Ef þú átt börn þá er upplagt að plana gamlárskvöld með þeim. Búa til leiki, spila, horfa á Áramótskaupið og skemmtilegar myndir, borða smákökur og læra áramótahefðir annarra landa. Það er hægt að gera svo margt skemmtilegt saman.

Haltu þemapartí
Haltu fjölmennt partí með því að hóa saman fjölskyldu, vinum og kunningjum og hafðu skemmtilegt þema. Hægt er að hafa hlaðborð og biðja alla um að koma með eitthvað gómsætt á borðið. Hver veit, ef vel tekst til gæti þetta jafnvel orðið árlegur viðburður.

Það er alltaf hægt að njóta sín í rólegheitum heima í kvöld.

Njóttu þess að vera heima
Svo er alltaf hægt að njóta sín í rólegheitum heima um kvöldið.
Hafa það til dæmis gott undir hlýju teppi upp í sófa og horfa á Áramótaannálinn og Skaupið, annað hvort ein/n eða í góðum félagsskap.
Fara til dæmis í skemmtilega leiki, spjalla og fara saman yfir árið sem er að líða.

Finndu gott útsýni
Hvernig væri að prófa að upplifa áramótin í nýju ljósi. Ganga til dæmis upp í hlíðar Esjunar og horfa á ljósadýrðina þaðan. Nú eða fara upp í Öskjuhlíð eða að Kópavogskirkju. Þessir staðir eru uppi á hæð þaðan sem fínt útsýni er yfir borgina.

Á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess eru margir fallegir útsýnisstaðir sem hægt er að velja um.

Myndir / www.pixabay.com

Stællegar mömmur

Mömmubloggarar hafa aldrei verið vinsælli en nú.

Svokallaðir mömmubloggarar hafa aldrei notið jafn mikilla vinsælda og nú, enda frábært að geta fengið stílráð og mömmumola á sama stað. Hér eru bloggsíður fantaflottra mæðra sem við mælum með að þið smellið á í næsta netrúnti.

Ruth Crilly (mynd að ofan)
Ruth Crilly er fyrirsæta og móðir sem á von á sínu öðru barni. Hún hefur lengi haldið úti „bjútí“bloggsíðu og vinsælli YouTube-stöð en eftir að hún varð móðir stofnaði hún bloggið TheUpphill.com þar sem hún fjallar um allt sem snýr að móðurhlutverkinu. Hún er sjarmatröll mikið með einstaklega smitandi húmor, við mælum með henni heilshugar.

_______________________________________________________________

Bloggsíðan hennar Joönnu var einungis hobbí en er nú orðið að hennar aðalatvinnu.

Joanna Goddard
Joanna byrjaði feril sinn hjá Cosmopolitan og þekkir því fjölmiðlabransann inn og út. Hún hefur einnig skrifað fyrir Elle, Glamour, New York, Condé Nast Traveler og Martha Stewart Living. Bloggsíðan hennar, sem í byrjun var einungis hobbí, er nú orðið að hennar aðalatvinnu. Fylgist með ævintýrum hennar og fjölskyldunnar á CupOfJo.com.

_______________________________________________________________

Síðan bloggsíðan hennar Anh fór á flug hefur hún birst í Elle og Glamour.

Anh Sundstrom
Anh Sundstrom er mamma hennar litlu Luciu og fáránlega smart markaðsstýra en hún heldur úti mömmutískublogginu 9to5Chic.com. Síðan bloggsíðan hennar fór á flug hefur hún birst í Elle og Glamour, meðal annars.

_______________________________________________________________

Sofi heldur úti gríðarvinsælu bloggsíðunni Sofi´s Snapshots (Sofissnapshots.com).

Sofi Fahrman
Hin sænska Sofi heldur úti gríðarvinsælu bloggsíðunni Sofi´s Snapshots (Sofissnapshots.com), hún hefur gefið út fjórar bækur sem farið hafa beint á topp vinsældarlista, og stjórnað sænsku útgáfunni af Project Runway. Talandi um mömmuinnblástur!

_______________________________________________________________

Rachel Parcell hefur grætt á tá og fingri síðan hún stofnaði vefsíðuna sína Pink Peonies.

Rachel Parcell
Rachel Parcell hefur grætt á tá og fingri síðan hún stofnaði vefsíðuna sína Pink Peonies og meðal annars hannað sína eigin skartgripalínu. Hægt er að fylgjast með þessari sjarmerandi tveggja barna móður á Pinkpeonies.com.

_______________________________________________________________

Hin hrikalega smarta Anjelica Lorenz.

Anjelica Lorenz
Við mælum með því að þið kíkið á bloggsíðu hinnar hrikalega smörtu Anjelica Lorenz, Modejunkie.com, hvort sem það er til að fá stílinnblástur eða hugmyndir fyrir næsta barnaafmæli.

_______________________________________________________________

Emily Schuman spreytir sig í mömmuhlutverkinu á www.cupcakesandcashmere.com

Emily Schuman
Cupcakes and Cashmere hefur lengi verið vinsælt tískublogg en nýverið hafa lesendur þess fengið að fylgjast með hvernig Emily Schuman spreytir sig í mömmuhlutverkinu. Bollaköku- og kasmírblanda klikkar seint! Cupcakesandcashmere.com

_______________________________________________________________

Tveggja barna móðirin Charlotte birtist reglulega á síðum tímarita á borð við Vogue Paris, InStyle, Nylon og W Magazine.

Charlotte Groeneveld-Van Haren
Tveggja barna móðirin Charlotte er þekkt fyrir frábæran stíl og birtist reglulega á síðum tímarita á borð við Vogue Paris, InStyle, Nylon og W Magazine. Mömmustílinnblástur beint í æð! Thefashionguitar.com

Texti / Helga Kristjáns

Dásamlega góð kaka á sunnudegi

|
|

Döðlukaka með ávöxtum svíkur engan.

Hér er uppskrift að ljúffengri döðluköku. Ávextirnir sem hér eru flokkast undir ofurfæðu og eru bara tillaga. Þið getið auðvitað notað þá ávexti sem ykkur finnast bestir.

Döðlukaka með ávöxtum.

Döðlukaka með ávöxtum
fyrir 8

Botn:
500 g þurrkaðar döðlur
3 dl vatn
½ dl kókosolía, mýkt í vatnsbaði
1 stór, þroskaður banani eða 2 litlir
2 msk. hunang eða agave-síróp
1 ½ dl tröllhafrar

Ofan á:
2 kíví, skræld og skorin í bita
1 dl bláber
100 g jarðarber, skorin í tvennt
kjarnar úr ½ granatepli
100 g 70% súkkulaði, gróft saxað
50 g ristaðar valhnetur eða pekanhnetur, gróft saxaðar, eða grófar, ristaðar kókosflögur

Sjóðið döðlur í vatni í 10 mín. Látið standa í 15 mín. og sigtið svo vatnið frá. Setjið döðlurnar í matvinnsluvél og maukið vel ásamt kókosolíu, banana, sætuefni og tröllhöfrum. Setjið maukið í form sem er u.þ.b. 20×30 cm, kælið. Raðið ávöxtum, súkkulaði og hnetum eða kókosflögum ofan á og berið fram með þeyttum rjóma.

Trefjaríkir hafrar eru jafnvel enn hollari en áður hefur verið talið og sýna nýjar rannsóknir að þeir minnka ekki bara líkurnar á hjartasjúkdómum heldur einnig tegund 2 sykursýki.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Fyrirsætur vekja athygli á mikilvægum málefnum

Módel sem eru hægt og bítandi að breyta heiminum.

Litið var á fyrirsætur fyrri áratuga sem persónuleikalaus herðatré og fjölbreytnin var eftir því. Vissulega sáum við fyrirsætur á tíunda áratugnum neita að klæðast feldi vegna dýraverndunarsamtakanna PETA en þá voru það ofurfyrirsætur á borð við Naomi Campbell og Cindy Crawford sem höfðu þá þegar skapað sér nafn innan bransans og höfðu efni á því að tjá sig.

Með vinsældum samfélagsmiðla hefur hópur fyrirsæta og aktívista notað rödd sína og andlit til þess að vekja athygli á mikilvægum málefnum og uppskera frekar frægð og frama fyrir vikið en skammir. Skoðum nokkrar ungar og áhugaverðar konur sem eru hægt og bítandi að breyta heiminum.

 

Ebonee Davis hefur rætt rasisma í tískubransanum.

Ebonee Davis
Ebonee Davis vakti mikla athygli þegar hún skrifaði áhrifaríkt opið bréf stílað á tískubransann. Spurningar eins og hvaða áhrif fjölmiðlar hafi á menningu okkar og hvort tískuheimurinn geti hætt að vera rasískur voru henni efstar í huga. Eins og þekkt er hafa fyrirsætur af afrískum uppruna átt erfiðar uppdráttar og enn í dag eru svartar fyrirsætur minna en 10% þeirra sem ganga niður tískusýningarpallana. Ebonee segist hafa fengið að heyra að fyrirtæki bókuðu bara svartar fyrirsætur ef þær litu út fyrir að koma beint frá afskekktu þorpi í Afríku eða eins og hvítar konur dýft í súkkulaði. Hún segist hafa reynt að fara eftir þeim ráðleggingum frá byrjun ferilsins árið 2011. Það var ekki fyrr en hún ákvað að leyfa náttúrulegu hári sínu að njóta sín og hún opnaði munninn og krafðist réttlætis að ferill hennar fór á flug. Náttúruleg fegurð hennar landaði henni meðal annars haustherferð Calvin Klein árið 2016.

_______________________________________________________________

Fjölbreytni í tískuheiminum, femínismi og fíkn eru Adwou Aboah hugleikin.

Adwoa Aboah
Adwoa er stofnandi Gurls Talk, sem er vefmiðill sem einbeitir sér að málefnum kvenna og hvetur ungar konur til að tjá sig án þess að vera dæmdar eða mismunað. Hún talar reglulega hreinskilningslega um fjölbreytni í tískuheiminum, femínisma, andlega heilsu og fíkn.

_______________________________________________________________

Cameron Russel hefur m.a. verið dugleg að ræða félagsleg og pólitísk málefni, loftlagsbreytingar og hreina orku.

Cameron Russel
Horft hefur verið á Ted-fyrirlestur ofurfyrirsætunnar Cameron Russel rúmlega nítján milljón sinnum þegar þetta er skrifað. Cameron útskrifaðist úr hagfræði og stjórnmálafræði frá Colombia-háskóla og hefur heldur betur gert meira en að sitja fyrir og vera sæt síðan hún útskrifaðist. Hún hefur verið dugleg að ræða félagsleg og pólitísk málefni, loftlagsbreytingar, hreina orku og sanngjörn laun fyrir þá sem vinna í tískuiðnaðinum, til að nefna örfá dæmi.

_______________________________________________________________

Markmið Avery McCall er að safna fjármunum til að vinna með flóttamönnum.

Avery McCall
Avery hefur verið virkur þátttakandi í stjórnmálum frá tólf ára aldri og meðal annars verið unglingaráðgjafi fyrir herferð Sameinuðu þjóðanna, Foundation’s Girl Up. Hún varði menntaskólaárunum sem talsmaður flóttamanna og aðstoðaði þá sem fluttust frá stríðshrjáðu Sýrlandi, Suður-Súdan og frá lýðveldinu Kongó. Hún hefur notað andlit sitt til góðs innan tískuheimsins til að vekja athygli á mikilvægum málefnum. Hennar markmið er að safna fjármunum til að vinna með flóttamönnum og draumurinn er að  geta leiðbeint börnum sem flýja frá stríðshrjáðum löndum.

_______________________________________________________________

Andreja Pejic hefur varpað ljósi á málefni transfólks innan tískuheimsins.

Andreja Pejic
Andreja hefur verið kölluð fyrsta transsúpermódelið. Andrej var fæddur í fyrrum Júgóslavíu en alinn upp í Melbourne í Ástralíu. Áður en hann fór í kynleiðréttingu árið 2013 var hann þegar þekkt fyrirsæta innan tískuheimsins og vakti útlit hans víða athygli, enda átti hann auðvelt með að fara í hlutverk beggja kynja. Síðustu árin hefur ferill Andreju blómstrað og hún meðal annars setið fyrir á forsíðum tímarita á borð við Elle, L’Officiel, Fashion og GQ. Árið 2015 varð hún fyrsta transfyrirsætan til þess að vera andlit snyrtivörufyrirtækis en hún landaði stórum samningi við Make Up For Ever. Andreja hefur varpað ljósi á málefni transfólks og opnað dyr fyrir fjölbreyttari hóp innan tískuheimsins.

_______________________________________________________________

Charli Howard og Clémentine Desseaux
Líkamsímynd hefur verið mikið tískuorð upp á síðkastið í bransanum og sem betur fer eru sífellt fleiri týpur sem ná árangri í tískuheiminum í dag. Þær Charli Howard og Clémentine Desseaux vöktu heimsathygli fyrir verkefni sitt All Woman Project sem er myndasería, sem hefur ekki verið átt við í Photoshop, af konum af öllum stærðum, gerðum, litum og aldri sem sanna það að fegurð kemur ekki í einni staðlaðri stærð.

Texti / Helga Kristjáns

Ekta fiskisúpa í anda Miðjarðarhafsins

|
|

Suðræn sælkerasúpa sem vermir og nærir kroppinn.

Ljúffenga fiskisúpa.

Fiskisúpa frá Sikiley
fyrir 4-6

Hér er uppskrift að ekta fiskisúpu í anda Miðjarðarhafsins.
4 msk. olía
1 laukur, saxaður smátt
4 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 fersk fenníka, sneidd
1 stór gulrót, í litlum bitum
1 lítill blaðlaukur, sneiddur
300 g tómatar, saxaðir
safi úr 1 appelsínu
safi úr 1 sítrónu
1 tsk. þurrkað tímían
2 tsk. paprika
12 dl fiskisoð eða vatn og fiskikraftur
1 ½ dl hvítvín
1 msk. tómatmauk
1 msk. sykur eða hunang
1-2 tsk. salt
300 g lax
400 g stórar rækjur
300 g langa eða annar hvítur fiskur
2 msk. þurrkuð steinselja

Steikið laukinn í olíunni þar til hann fer að verða glær. Bætið hvítlauk, fenníku, gulrót og blaðlauk út í og steikið aðeins áfram. Bætið öllu nema fiski og steinselju út og látið súpuna sjóða í 20 mín. Bætið fiski út í og látið sjóða í 4-5 mín. í viðbót. Stráið steinselju yfir í lokinn.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Ernir Eyjólfsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

„Fjallganga er gríðarlega góð alhliða hreyfing“

Anna Bryndís Skúladóttir er mikil fjallageit og gefur ráð varðandi búnað.

Anna Bryndís Skúladóttir er mikil fjallageit og hefur ásamt félögum sínum í Fjallgönguklúbbnum Fjallhress gengið á marga flotta austfirska tinda. Við fengum hana til að segja okkur fá eftirminnilegustu göngunum og gefa okkur nokkur góð ráð um búnað.

Á toppi Hvannadalshnjúks.

„Falleg náttúra og að kljást við fjölbreytt landslag og ögrandi fjöll er það skemmtilegasta við fjallamennskuna. Ég fer mikið ein á fjöll og finnst það frábært en það er líka mjög gefandi að ganga með vinum mínum í Fjallgönguklúbbnum Fjallhress og um leið eykur það öryggi á fjöllum,“ segir Bryndís. Hún er deildarstjóri í Seyðisfjarðarskóla á leikskóladeild og starfar einnig sem fjallaleiðsögumaður og landvörður á sumrin. Í frítíma sínum stundar hún fjallgöngur og kajakróður.

„Súla, hæsti tindur Dyrfjalla, er í uppáhaldi vegna þess hve mikil fjölbreytni er í gönguleiðinni og einstök innkoma á þetta mikla klettafjall, sem er blómi skrýdd klettarák. Útsýnið af toppnum er magnað. Eftirminnilegast er þó líklega þegar dóttir mín hringdi í mig þar sem ég var að koma niður af Hvannadalshnjúk og sagði að það væri farið að gjósa á jöklinum. Nei, ég hélt nú ekki. ,,Jú mamma, þetta er bæði í fréttum í útvarpi og sérútsending í sjónvarpinu sagði hún mjög angistarfull.“ Þá sneri ég mér við og sá þá gosstrókinn stíga upp til himins. Þetta var Grímsvatnagosið í maí 2011.“

Mikilvægt að láta vita af sér

Hvað þurfa byrjendur í fjallamennsku að hafa í huga og hvaða búnaður er nauðsynlegur? „Það þarf að huga að veðurspá og láta aðra vita hvert halda skal og hvenær þú áætlar að koma til baka. Góður bakpoki undir skjólfatnað og nesti er mikilvægt. Ólíkan búnað þarf í vetrarfjallamennsku og sumarfjallgöngum. Létt föt, sólgleraugu og sólarvörn í sólinni á sumrin. Muna líka að hafa sólgleraugu og sólarvörn í vetrarsól í snjó og á jökli, ullarfatnað innst og góðar ullarpeysur undir skjólgóðri skel er mjög gott. Göngustafir koma sér vel við ýmsar aðstæður og að vetri eru broddar og ísaxir oft nauðsynleg. Sími, áttaviti eða GSP-tæki eru allt góð öryggistæki. Ekki gleyma vatni á brúsa í allar lengri göngur.“

Hvaða nesti finnst þér best að hafa? „Það fer eftir árstíðum og erfiðleikastigi. Léttari samlokur og ávaxtasafa á sumrin en á veturna kæfusamloku, lifrarpylsu og egg. Svo er ég alltaf með svart te á brúsa. Snickers er ómissandi og reyndu ekki að koma með súkkulaðirúsínur þar sem ég er,“ segir hún hlæjandi.

Hún hvetur fólk hiklaust til að stunda fjallamennsku. „Fjallganga er gríðarlega góð alhliða hreyfing og gott sport bæði fyrir sál og líkama. Náttúran er endalaus uppspretta fegurðar og fjölbreytileika en það er ekki síður magnað að upplifa náttúruna í ham þar sem mannskepnan fær ekki beislað hana, s.s. í jarðskjálftum, gosum, flóðum og skriðuföllum.“

Og það er skemmtilegt göngusumar fram undan hjá Bryndísi en hún ætlar meðal annars að ganga á Búlandstind, Grjótfjall og Þriggjakirknafell, einnig Kverkfjöll og í Hveradal, á Jónsfjall og í Mínuskörð í botni Borgarfjarðar eystra og loka þar með fjallahringnum í firðinum. Þá mun hún fara í fimm daga ferð um Víknaslóðir sem leiðsögumaður, ganga Fimmvörðuháls og fara í kjakferðir í fjallvötnunum á hálendinu.

Aðalmynd: Bryndís ásamt Skúla Júlíussyni á Stöng í Berufirði.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

 

Salat fyrir sælgætisgrísi

|
adsf|

Appelsínusalat með súkkulaði-sorbet.

Hér er uppskrift að salati sem er ekki bara bráðhollt heldur algjört sælkerafæði líka.

Hollt og gott. Appelsínusalat með súkkulaði-sorbet.

Appelsínusalat með súkkulaði-sorbet
fyrir 4

Ráðlagður dagskammtur af hreinu súkkulaði, samkvæmt ofurfæðiskenningum, er u.þ.b. 15-20 grömm. Það er nú alveg næg ástæða til að skoða þetta fæði svolítið betur.
Hér er uppskrift að súkkulaði-sorbet sem er dökkur og seiðandi og með appelsínum og granateplum er hann alveg ómótstæðilegur.

3-4 appelsínur
1 granatepli

Súkkulaði-sorbet
3 dl vatn
40 g kakó (eins dökkt og þið hafið efni á)
100 g hrásykur
100 g 70% súkkulaði, saxað
½ tsk. vanilludropar
svolítið salt

Sjóðið vatn, kakó og sykur saman. Bætið súkkulaði út í ásamt vanillu og salti og hrærið í þar til súkkulaðið er uppleyst, kælið. Frystið í ísvél eða í frysti. Ef þið setjið ísinn í frysti er gott að setja þunnt lag í stórt form svo hann frjósi fljótt og hræra í öðru hvoru á meðan ísinn er að frjósa.

Hátt hlutfall andoxunarefna í dökku súkkulaði geri það að hinu fullkomna sælgæti. Súkkulaði er ríkt af flavoníðum sem sannað hefur verið að auka blóðflæði, draga úr hósta, bæta minni og mýkja húðina. Þeir sem aðhyllast ofurfæðiskenningar segja ráðlagðan dagskammt vera 15-20 grömm á dag.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

„Sjáum stelpur niður í 6 ára fara í megrun“

Kristín Tómasdóttir styrkir sjálfsmynd ungra krakka.

Í nýjasta tölublaði Vikunnar er að finna ítarlegt viðtal við Kristínu.

Kristín Tómasdóttir rithöfundur hefur á undanförnum árum skrifað sex bækur ætlaðar ungum krökkum. Hún leggur áherslu á að byggja upp sterka sjálfsmynd og efla vitund þeirra um eigin tilfinningalíf. Nýjasta bók hennar, Sterkar stelpur, hefur þó ákveðna sérstöðu því hún er ætluð yngri lesendahópi og er tileinkuð yngstu dóttur hennar sem er trans stúlka.

Kristín hefur einnig sett saman sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stelpur og ferðast um landið í þeim tilgangi að efla íslenskar stelpur.

„Ég fann fyrir mikilli eftirspurn meðal foreldra sem voru farnir að finna fyrir því að sjálfsmynd stelpna þeirra væri farin að þróast í neikvæða átt fyrr en þá hafði grunað,“ segir hún. „Við erum að sjá stelpur niður í 6 ára fara í megrun og alls kyns önnur merki sem foreldrar hræðast en vita líka að hægt er að koma í veg fyrir með fyrirbyggjandi sjálfstyrkingu.“

Ítarlegra viðtal við Kristínu er að finna í nýjustu Vikunni.

Texti / Íris Hauksdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Leyndar perlur á Suðurlandi

Þegar farið er í frí um landið hættir okkur til að stoppa bara á þekktustu stöðunum því við vitum ekki af öllu hinu sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Suðurlandið er einn vinsælasti staður ferðamanna sem koma hingað til lands og geymir ótrúlegar náttúruperlur. Hér eru nokkrir staðir sem minna hefur farið fyrir og við mælum sannarlega með að þið skoðið.

Þótt núna sé kannski ekki eins sumarlegt um að lítast og á þessari ljósmynd þá er óhætt að segja að Svartifoss sé einn fallegasti foss landsins.

Fjaðrárgljúfur
Fjaðrárgljúfur er virkilega falleg náttúrusmíð rétt við þjóðveg númer eitt, skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur. Ekið er að gljúfrinu um Lakaveg og þaðan gengið upp með gilinu. Einnig er hægt að ganga upp eftir gljúfrinu sjálfu en það gæti þurft að vaða töluvert. Mikilfenglegar móbergsmyndir prýða gilið og þetta getur verið skemmtilegt stopp fyrir alla fjölskylduna.

Gljúfrabúi
Fossinn Gljúfrabúi er aðeins nokkur hundruð metrum fyrir innan Seljalandsfoss og fellur bak við hamravegg úr móbergi, kallaður Franskanef, sem lokar fossinn af. Hægt er að komast inn í hellinn um op að framanverðu þar sem áin Gljúfurá rennur út og það er töfrum líkast að sjá fossinn steypast niður þessa 40 metra. Einng má klifra upp á Franskanef og sá fossinn að ofanverðu en munið að fara að öllu með gát.

Svartifoss
Svartifoss er einn fallegasti foss á landinu þar sem hann fellur niður ægifagurt stuðlaberg í Skaftafelli. Frá Skaftafellssofu er hægt að ganga að Svartafossi en leiðin er tæpir tveir kílómetrar og tekur um 35-45 mínútur. Gengið er meðfram tjaldsvæðinu og beygt upp á hæð sem heitir Austurbrekkur. Farið er yfir Eystragil á göngubrú og á leiðinni sjást Hundafoss og Magnúsarfoss. Þegar komið er upp hæðina er gott útsýni að Svartafossi og svo er gengið niður í gilið til að komast alveg að fossinum.

Þakgil
Þakgil er falinn gimsteinn á Höfðabrekkuafrétti staðsett milli Mýrdalsjökuls og Mýrdalssands um 15 kílómetra frá þjóðveginum en beygt er út af þjóðvegi númer eitt við Höfðabrekku sem er fimm kílómetrum fyrir austan Vík. Þar er gott tjaldsvæði, veðursæld og stórbrotin náttúra. Ef þú ert á leiðinni í útilegu þá er þetta staður sem er virkilega þess virði að skoða. Einnig er hægt að leigja smáhýsi á staðnum. Margar fallegar gönguleiðir við allra hæfi eru á svæðinu.

Ingólfshöfði
Fjölskyldufyrirtækið Öræfaferðir á Hofsnesi sem staðsett er rétt hjá Fagurhólsmýri við rætur Öræfajökuls býður upp á spennandi lunda- og söguferðir út í Ingólfshöfða á heyvögnum sem eru hengdir aftan í dráttarvélar (sjá aðalmynd). Ferðin tekur alls tvo og hálfan klukkutíma og ferðin í vagninum um það bil 25 mínútur hvora leið. Það kostar 7.500 kr. fyrir fullorðna, 2.500 kr. fyrir börn á aldrinum 8-16 ára en börn frá 4-7 ára frá frítt. Gengið er um höfðann með leiðsögumanni og það eru 99% líkur á því að sjá lunda á svæðinu yfir sumartímann. Skemmtileg ævintýraferð fyrir fjölskylduna í sumarfríinu.

Mölbrotnaði í bílslysi og náði undraverðum árangri í líkamsrækt

|
|

Sonja Arnardóttir slasaðist illa í bílslysi en keppir nú í fitness.

Sonja Arnarsdóttir er í viðtali í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Fyrir sex árum ákvað Sonja að taka allhressilega til í sínu lífi. Hún ákvað að setja sjálfa sig í fyrsta sæti og hóf að stunda líkamsrækt af kappi. Á síðasta ári byrjaði hún að þjálfa fyrir sitt fyrsta fitness-mót. Í dag er hún hraustari en hún hefur nokkurn tímann verið og stefnir ekki að því að hætta að hreyfa sig í bráð.

Í desember 1991 var hún á ferð í Borgarfirði þegar hún keyrði óvænt inn á mikið ísingasvæði með þeim afleiðingum að hún missti stjórn á bílnum og hann fór nokkrar veltur. Sonja var ekki í öryggisbelti og kastaðist langa leið út um framrúðu bílsins. Hún var með meðvitund allan tímann og man vel sársaukann og brothljóðin þegar bein líkama hennar fóru í sundur. Með henni í för var fyrrverandi eiginmaður hennar sem slasaðist mikið í andliti. Þau voru svo heppin að aðrir vegfarendur komu fljótlega á vettvang til hjálpar og þar á meðal var sjúkraflutningamaður sem sá til þess að Sonja var ekki hreyfð fyrr en læknir og sjúkrabíll voru komnir á staðinn.

Sonja átti erfitt með andardrátt og hélt í raun að hún væri að deyja. Við tóku margar aðgerðir, löng sjúkrahúsvist og endurhæfing. Ljóst var að þessi unga kona næði aldrei fullri heilsu aftur. Í raun var hún stálheppin að mænan skyldi ekki fara í sundur. Nú nærri þremur áratugum síðar er hún enn að takast á við líkamlegar og andlegar afleiðingar slyssins en telur að það stranga mataræði og agi sem fylgir fitness-íþróttinni hafi hjálpað sér mikið. Hún lætur enga bilbug á sér finna og stefnir á að keppa aftur á mótum í ár.

Viðtalið í heild má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir
Fatnaður / Lindex og Vila

Augabrúnatattú njóta sífellt meiri vinsælda

Tiltölulega ný tækni í varanlegri förðun.

Það er ekki ofsögum sagt að augabrúnirnar eru besti „fylgihlutur“ hverrar konu, enda ramma þær inn andlitið. Síðustu misserin hefur tiltölulega ný tækni í varanlegri förðun notið mikilla vinsælda enda útlitið náttúrulegra en það sem áður þekktist.

Margar þekktar konur eru aðdáendur microblading-aðferðarinnar en meðal þeirra er leikkonan Lena Dunham sem segir að aðferðin hafi bjargað augabrúnum hennar eftir margra ára ofplokkun.

Microblading-aðferðin hefur notið mikilla vinsælda um heim allan en hér á landi eru nokkrar snyrtistofur sem sérhæfa sig í þessari nýlegu tækni. Aðferðin felur í sér að búa til örmjó „hár“ með stykki sem hefur örfínan hnífsodd sem sker í ysta lag húðarinnar sem síðan er fyllt upp í með lit. Með þessum hætti er auðvelt að búa til aukahár, þykkja brúnir og breyta lagi þeirra eða jafnvel hanna þær frá grunni ef engin hár eru fyrir.

Hér eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga ef þú hefur áhuga á því að fá þér microblading-augabrúnatattú:

Leggstu í rannsóknarvinnu
Vertu viss um að vera búin að kynna þér þann sérfræðing sem þú velur til þess að gera tattúið vel áður en hafist er handa. Fáðu að sjá fyrir og eftir-myndir eftir viðkomandi til að vera viss um að vinna hans/hennar sé þér að skapi og menntun og reynsla standist kröfur þínar. Sérfræðingurinn ætti einnig að geta svarað öllum spurningum sem vakna hjá kúnnanum og aðgerðin framkvæmd í sterílu og fagmannlegu umhverfi.

Undirbúðu þig
Áður en þú færð þér microblading-tattú skaltu forðast það að vaxa eða plokka augabrúnirnar. Einnig er gott að sleppa því að nota kornamaska sem inniheldur allskyns sýrur sem eiga það til að skapa roða í húðinni og varastu að nota blóðþynnandi lyf. Þær sem eru óléttar, með barn á brjósti eða sykursjúkar ættu að forðast microblading.

Fyrir og eftir myndir.

Tjáðu þig
Sérfræðingurinn sem þú leitar til mun mæla andlit þitt og augabrúnir og vinna út frá andlitsfalli þínu og mælingum til að fá sem náttúrulegasta yfirbragðið. En vertu dugleg við að tjá óskir þínar við sérfræðinginn og áður en hafist er handa er mikilvægt að þú sjáir teikningarnar á andlitinu, ef vera skyldi að þú vildir gera einhverjar breytingar.

Passaðu upp á þær
Þegar þú ert búin að fá fullkomnar augabrúnir er eðlilegt að þú viljir sýna þær. Passaðu samt upp á að nota ekki krem og aðrar húðvörur nálægt svæðinu í að minnsta kostu tíu daga eftir aðgerðina og ekki snerta svæðið. Vertu dugleg að bera græðandi krem á svæðið með eyrnapinna.
Þar sem hrúður myndast á meðferðarsvæðinu mun liturinn vera dekkri og skarpari fyrstu vikuna. Eftir 6-10 daga dofnar liturinn um u.þ.b. helming. Eftir 4-6 vikur ættirðu að fara aftur og láta laga það sem hefur dofnað og láta vita ef þú vilt láta lagfæra eitthvað varðandi útlit brúnanna.

Passaðu upp á að fara ekki í sólbað, synda eða svitna mikið fyrstu tíu dagana eftir microblading. Þegar svæðið hefur náð að gróa er gott að nota sólarvörn á brúnirnar til að koma í veg fyrir að þær dofni.

Misjafnt er eftir húðtýpu og lit á brúnum hversu lengi microblading-aðferðin endist á húðinni en eftir hálft ár getur útlit háranna farið að dofna. Mælt er með endurkomu á 8 mánaða til tveggja ára fresti.

Texti / Helga Kristjáns

Upplífgandi eftirréttur – og ekkert samviskubit

Bláberjabaka sem er bæði holl og góð.

Sætindi þurfa ekki alltaf að vera óholl, sætar ávaxtakökur með hunangi, agave-sírópi og þurrkuðum eða ferskum ávöxtum eru fullar af fjöri og góðri orku. Fjörgandi freistingar og ekkert samviskubit. Eins og þessi bláberjabaka sem svíkur engan.

Eftir ljúffenga og orkugefandi máltíð er sætur biti ómissandi.

Bláberjabaka
fyrir 8-10
Þetta er hrákaka. Bláber, möndlur og hnetur eru ekki bara góð heldur líka ofurholl fæða, full af víta-mínum.
Botn:
150 g ferskar döðlur
130 g möndlur
2-3 msk. hunang eða agave-síróp

Setjið smjörpappír í botninn á 22 cm smelluformi. Fjarlægið steina úr döðlum. Setjið möndlur í matvinnsluvél og malið fínt. Bætið döðlum og hunangi út í og maukið vel. Setjið deigið í formið og þrýstið því niður í botninn, kælið. 

Fylling:
1 dl kókosmjöl
1 dl ristaðar furuhnetur eða kasjúhnetur
2 dl bláber, fersk eða frosin og afþýdd
1-2 msk. hunang eða agave-síróp eða eftir smekk
2-3 msk. kókosolía, mýkt í krukkunni ofan í vatnsbaði
1-2 tsk. sítrónusafi

Ofan á: 
1-2 dl fersk bláber
1 tsk. fínt rifinn sítrónubörkur

Setjið allt í matvinnsluvél og maukið. Hellið fyllingunni í formið og dreifið ferskum bláberjum yfir, kælið í 30 mín. Losið kökuna úr forminu og setjið á disk, hún vill límast svolítið við pappírinn þannig að það er gott að hvolfa henni á annan disk, fletta pappírnum af og hvolfa henni síðan á diskinn sem þið ætlið að bera kökuna fram á. Skreytið með sítrónu- eða límónuberki og berið fram með þeyttum rjóma. 

Rannsakendur segja að 15-25 g af hnetum á dag geti dregið úr hættunni á hjartasjúkdómum og sykursýki. Heslihnetur innihalda t.d. arginine, amínósýru sem talin er lækka blóðþrýsting. Möndlur innihalda polyfenól sem talin eru hjartastyrkjandi og lækka slæma kólesterólið (LDL) í blóðinu. Meðalhófið gildir hér þar sem hnetur eru hitaeiningaríkar.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Mynd / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

 

Konur í karlaveldi

|
|

Fjórir frægustu kvenleikstjórar samtímans.

Kvikmyndabransinn er algjört karlaveldi; karlar reka framleiðslufyrirtækin, vinna flest verðlaun, fá betur borgað fyrir leik sinn í kvikmyndum og svona mætti lengi telja. Það hallar sérstaklega á kvenkynsleikstjóra. Ein skýringin á þessu er að konur eru ekki meðvitaðar um fulltrúa sína innan þessarar stéttar og átta sig því ekki á að þetta sé mögulegur starfsferill fyrir þær. Við viljum því fjalla um fjóra frægustu kvenleikstjórana í bransanum um þessar mundir.

Kathryn Bigelow
Einn frægasti kvenleikstjóri samtímans er Kathryn Bigelow (á myndinn hér að ofan). Hún var lengi gift öðrum frægum leikstjóra, James Cameron, sem leikstýrði meðal annars Titanic. Kathryn er þekkt fyrir fremur karllægar kvikmyndir svo sem Zero Dark Thirty og Point Break og var fyrsta konan til að vinna Óskarsverðlaun fyrir leikstjórn kvikmyndarinnar The Hurt Locker árið 2008.

„Ef það er einhver mótstaða gegn því að konur séu að gera kvikmyndir þá kýs ég að leiða hana alveg hjá mér af tveimur ástæðum: Ég get ekki breytt kyni mínu og ég þverneita að hætta að gera kvikmyndir.“

________________________________________________________________

Sofia Copola vann Óskarsverðlaun árið 2004 fyrir handritið að Lost In Translation og hún var einnig tilnefnd fyrir leikstjórn sömu myndar.

Sofia Coppola
Það má með sanni segja að leikstjórn sé Sofiu Coppola í blóð borin en hún er dóttir leikstjórans fræga Francis Ford Coppola sem á meðal annars heiðurinn að myndunum um Guðföðurinn. Hún vann Óskarsverðlaun árið 2004 fyrir handritið að Lost In Translation og hún var einnig tilnefnd fyrir leikstjórn sömu myndar. Sofia fékk einnig þann mikla heiður að fá Gullpálmann fyrir leikstjórn á kvikmyndahátíðinni í Cannes en hún er aðeins önnur konan til að hljóta þau verðlaun og fyrsta bandaríska konan.

„Meðalmennska og miðjumoð er það versta sem ég get hugsað mér. Það er miklu áhugaverðara að fá sterk og afgerandi viðbrögð og að það sé blanda af fólki sem ýmist fílar myndina eða fílar hana ekki. Þannig verða til samræður.“

________________________________________________________________

Jane Campion sló í gegn með myndinni The Piano sem fjallaði um mállausan píanóleikara.

Jane Campion
Fyrir um það bil tveimur áratugum var Jane Campion aðalkonan í leikstjórabransanum. Hún byrjaði að reyna fyrir sér í heimalandi sínu, Ástralíu, og sló svo í gegn með myndinni The Piano sem fjallaði um mállausan píanóleikara. Hún var aðeins tilnefnd til Óskarsverðlauna en vann hins vegar Gullpálmann fyrst kvenna fyrir þá mynd.

„Ég myndi svo gjarnan vilja sjá fleiri kvenleikstjóra því þær standa fyrir helming mannkyns sem fæddi allan heiminn. Ef þær eru ekki að skrifa og leikstýra þá munum við hin ekki fá að heyra alla söguna.“

________________________________________________________________

Catherine Hardwicke vakti mikla athygli fyrir hina hráu og átakanlegu þroskasögu sem sögð er í Thirteen.

Catherine Hardwicke
Þó að hún sé eflaust þekktust fyrir að hafa leikstýrt fyrstu, og bestu, Twilight-myndinni þá er Catherine Hardwicke mest metin fyrir leikstjórnarlega frumraun sína, Thirteen, sem er hrá og átakanleg þroskasaga. Hún hefur mikinn áhuga á að segja sögur kvenna og ein af nýrri myndum hennar er fallega vináttumyndina Miss You Already.

„Ég hef setið fundi þar sem voru bókstaflega tólf reiðir karlar í fundarherbergi og ég. Þegar hver einasti þeirra skaut niður hugmynd mína stóð ég samt bara fastar á mínu.“

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Fjölskyldan öll heilsuhraustari á hráfæði

|
|

Elfa Þorsteinsdóttir heilsufrömuður stendur á bakvið heimasíðuna rawmother.com þar sem hún deilir hráfæðisuppskriftum og ýmsum heilsutengdum fróðleik.

Heilsuáhugi hennar kviknaði fyrir nokkrum árum þegar breytt mataræði gjörbreytti líðan langveiks sonar hennar.

„Fyrst og fremst er það orkan, heilbrigðið, fallegri húð og meiri vellíðan sem maður upplifir þegar maður er á þessu fæði,“ svarar Elfa þegar hún er spurð út í sérstöðu hráfæðis. „Svo er það auðvitað bragðið og ferskleikinn í öllum matnum sem er svo einstakt. Hráfæði inniheldur hámark næringarefna, vítamína, steinefna og ensíma sem annars vilja tapast mikið við eldun.“

„Heimasíðan hefur verið lengi í fæðingu. Ég eignaðist dreng árið 2005 sem var langveikur. Eftir lífsnauðsynlegar aðgerðir sat hann enn þá eftir með ýmis heilsufarsleg vandamál sem hefðbundar lækningar gátu ekki hjálpað honum með. Þarna hófst fyrir alvöru heilsuáhuginn minn,“ segir Elfa sem búið hefur ásamt fjölskyldu sinni á suðurströnd Englands í fimm ár. Eftir aðgerðirnar og ýmsa fylgikvilla átti sonur hennar, Anthony, meðal annars erfitt með alla næringarinntöku. „Ég var mamma með veikan strák með það eina markmið að finna lausn sem virkaði fyrir hann. Eftir mikinn lestur ákvað ég að prófa að fara með honum á hráfæði í eitt ár og athuga hvort það myndi hjálpa honum. Það er skemmst frá því að segja að á sjö mánuðum komst líkami hans í fullkomið lag og allt fór að virka rétt í fyrsta skipti á ævi hans.

Daginn sem ég fékk niðurstöðurnar úr prufunum hans lofaði ég honum að ég myndi vera með honum á hráfæði þar til hann flytti að heiman og fljótlega var öll fjölskyldan komin á sama fæði. Maðurinn minn losnaði í kjölfarið við ýmis heilsufarsleg vandamál á nokkrum mánuðum auk þess að missa 30 kíló og dóttir okkar losnaði við áreynsluasma. Ég hef lært svo margt á þessum tíma í sambandi við heilsu og hvernig við getum notað réttan mat til að hjálpa líkama okkar að lækna sig sjálfur. Mér fannst ekki hægt að vera komin með alla þessa þekkingu, eftir að vera búin að lifa þessum lífsstíl í svona mörg ár, og halda henni bara fyrir sjálfa mig og fjölskyldu mína.

„Ég hef lært svo margt á þessum tíma í sambandi við heilsu og hvernig við getum notað réttan mat til að hjálpa líkama okkar að lækna sig sjálfur.“

Það er líka búin að vera gríðarlega mikil eftirspurn eftir námskeiðum hjá mér og ráðum í sambandi við bætt mataræði. Svo það lá eiginlega beinast við að koma þekkingunni fyrir á einum stað. Ég var svo heppin að fá hana Ingibjörgu Rósu, vinkonu mína, með mér í þetta verkefni. Hún er mín hægri hönd í öllu sem kemur að tæknimálum, textum fyrir heimasíðuna og uppsetningu, enda með enskukunnáttu upp á rúmlega tíu. Heimasíðan var svo opnuð á ellefu ára afmælisdegi hans Anthonys í fyrra.“

Sérstakar barnauppskriftir

Síðan er í stöðugri þróun og vinnslu þar sem Elfa bætir inn uppskriftum reglulega, setur inn bloggpósta og fræðslu. „Sérstaðan felst kannski helst í því að þarna er manneskja sem lifir þessum lífsstíl og er með alla fjölskyldu sína á hráfæði. Ég legg mikið upp úr því að maturinn bragðist vel og geti því höfðað til sem flestra. Fólk hefur svo val um að koma í áskrift hjá mér þar sem það fær nýjar uppskriftir reglulega með vídeói um hvernig hver réttur er búinn til. Þetta er eins og að vera í áskrift að hráfæðinámskeiði þar sem ég býð öllum heim í eldhús til mín.

Elfa ásamt syni sínum, Anthony, sem hefur verið á hráfæði frá fjögurra ára aldri og er með sérstakar hráfæðisbarnauppskriftir á heimasíðunni.

Anthony er líka með sitt svæði á síðunni, Anthony’s Kitchen, þar sem við búum saman til uppáhaldsréttina hans. Þeir eiga það sameiginlegt að vera allir mjög einfaldir og bragðgóðir. Við upptökur á efni fyrir Anthony’s Kitchen verða stundum mistök. Það er stundum ansi spaugilegt það sem miður fer og svo á Anthony til að vera mjög orðheppinn í tökum, sem er ekki hægt að nota í aðalmyndböndin, svo Anthony kom með þá hugmynd að gera myndbönd úr skotunum sem misheppnast og við erum nýbúin að setja þau inn á síðuna líka.“

Elfa tekur að sér að leiða hópa í föstur og safahreinsanir. „Ég hef farið reglulega í hreinsanir síðan ég var 18 ára. Þær eru einfaldlega hluti af mínum lífsstíl. Á síðustu árum hefur verið sótt mjög mikið í að komast í þessar hreinsanir með mér og það hefur undið upp á sig. Ég býð Facebook-vinum mínum og fylgjendum að koma með mér í hreinsanir þrisvar sinnum á ári. Þar fá allir frítt prógramm sem ég hef sett saman og stuðning í gegnum alla hreinsunina. Nýárshreinsunin er sú lengsta, 10-14 dagar, svo eru styttri hreinsanir í maí og september, 4-5 dagar. Þetta hefur verið ótrúlega gaman og gefandi þrátt fyrir mikla vinnu við hverja hreinsun. Þessar hreinsanir hafa verið upphafið hjá mörgum að taka næstu skref að bættum lífsstíl sem mér þykir sérstaklega vænt um að fá að vera þátttakandi í.“

Í þekktum heilsuþætti

Elfu bregður fyrir í myndinni Fat, Sick & Nearly Dead 2 eftir ástralska kvikmyndagerðarmanninn og heilsufrömuðinn Joe Cross en hann hefur persónulega reynslu af djúsföstu. „Fyrir nokkrum árum var ég að hjálpa einni vinkonu minni sem þurfti að fara í langa og mikla safahreisnun og ákvað að prófa að bjóða Facebook-vinum mínum að vera með. Ég átti von á að fá kannski 4-5 með okkur en á rúmum sólarhring voru komnir yfir 100 manns í hreinsihópinn, alls staðar að úr heiminum. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég gæti stutt allan hópinn og hafði því samband við Joe Cross sem þá hafði nýlega gefið út myndina sína Fat Sick and Nearly Dead og bað um hjálp hans. Honum fannst mjög sérstakt það sem ég var að gera og gerði þá undantekningu að hjálpa mér við að styðja og hvetja fólkið í hópnum. Hann kom inn, kommenteraði og fylgdist með okkur – sem var brjálað „búst“ fyrir alla. Við Joe höfum hist nokkrum sinnum eftir þetta þegar hann hefur komið til London. Hann er svo einstaklega vandaður maður, er alveg eins í persónu og þú sérð hann á skjánum. Honum fannst svo flott að þekkja manneskju frá kalda Íslandi sem væri að djúsa þannig að ég fékk að vera ein af þeim sem heilsa áhorfendum í upphafsatriði myndarinnar Fat, Sick and Nearly Dead 2.“

Fram undan er áframhaldandi uppbygging uppskriftabankans á heimasíðunni, viðbætur á fróðleik og fleira. „Svo eru hreinsanirnar mínar reglulega á dagskrá. Á Facebook getur fólk skráð sig í hópinn og fengið aðgang að prógramminu og stuðningshópnum frítt. Svo er líka hægt að fylgjast með mér á Instagram og Twitter þar sem allar upplýsingar eru einnig settar inn. Svo langar mig mjög mikið til að koma til Íslands og halda þar námskeið aftur sem fyrst.

„Ég hef farið reglulega í hreinsanir síðan ég var 18 ára. Þær eru einfaldlega hluti af mínum lífsstíl. Á síðustu árum hefur verið sótt mjög mikið í að komast í þessar hreinsanir með mér og það hefur undið upp á sig.“

Við Anthony erum með langan lista af hugmyndum og réttum sem við eigum eftir að taka upp fyrir Anthony’s Kitchen. Regluleg „live-vídeó“ eru á Facebook-síðunni minni og margt fleira skemmtilegt fram undan. Það er um að gera að fylgjast með fyrir þá sem hafa áhuga á að bæta við hollum  grænmetisréttum fyrir fjölskylduna og fá heilsutengda fróðleiksmola.“

Hráfæðis-triffli

Triffli er gamall og hefðbundinn enskur eftirréttur sem er borinn fram í glerskál og samanstendur vanalega af svampbotni eða makkarónukökum, ávöxtum og eggjakremi. Að auki er oft áfengi í honum svo hann er langt í frá hollur í sinni upprunalegu mynd. Hér er hins vegar útgáfa af honum sem er svo holl að óhætt er að fá sér tvo og jafnvel þrjá skammta.

Þessi útgáfa af Triffli er svo holl að óhætt er að fá sér tvo og jafnvel þrjá skammta.

Súkkulaðilag
1 bolli möndlur

1 bolli mjúkar döðlur

1 bolli kakóduft

3 msk. sæta í fljótandi formi, t.d. kókosnektar, hunang, agave o.fl.

3 msk. kókosolía

salt

Setjið möndlur, döðlur og kakóduft í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til möndlurnar og döðlurnar eru komnar í fína bita.
Bætið þá sætunni, kókosolíunni og smávegis salti, eftir smekki hvers og eins, út í og látið matvinnsluvélina ganga áfram í nokkrar sekúndur, eða þar til kurlið loðir saman þegar það er kramið á milli tveggja fingra.

Berjalag

300 g hindber eða jarðarber, eftir smekk. Hvort tveggja eru himnesk ber til að nota í þessa uppskrift.

Settu berin í skál og stappaðu þau með gaffli til að búa til gróft mauk.

Ágætt er að skilja nokkur ber eftir til að nota til að skreyta með.

Búðingur

1 bolli nýkreistur appelsínusafi, úr u.þ.b. 3 appelsínum

safi úr 1 appelsínugulri papriku, u.þ.b. 1 dl

1 mangó

safi úr ½ sítrónu

1 bolli kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2-4 klst.

1 bolli kókosolía, fljótandi, hún bráðnar við 25°C

½ bolli hreint xylitol

1 tsk. stevíudropar með vanillubragði

salt eftir smekk

Paprikan er sett í gegnum djúsvél, eða bara í blandara og svo má sía safann frá með fínni grisju eða hnetumjólkurpoka. Afhýðið mangóið og takið steininn frá.

Allt er sett í blandarakönnu og blandað vel eða þar til kasjúhneturnar eru vel maukaðar og komin er búðingsblanda með silkimjúkri áferð.

Samsetning

Sett í lögum í fallega glerskál. Byrjið á að setja helminginn af súkkulaðikurlinu í botninn á skálinni. Þrýstið aðeins niður með sleif svo botninn verði vel þéttur. Hellið helmingnum af búðingnum yfir. Þar ofan á fer allt berjamaukið og svo restin af súkkulaðikurlinu áður en afgangurinn af búðingnum fer ofan á sem efsta lag.

Fallegt að skreyta með sömu berjum og notuð eru í berjalagið.

Látið standa í vel köldum ískáp í um það bil 8-10 klst. eða inni í frysti í 2 klst. til að búðingurinn þéttist áður en trifflið er borið fram.
Njótið hvers munnbita af þessum heilsusamlega og himneska eftirrétti.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Alexandra Kristjánsdóttir

Fjör fyrir alla fjölskylduna

Það er hægt að gera margt með skemmtilegt með krökkunum heima.

Samverustundir fjölskyldunnar eru mjög dýrmætar. Oft er talað um gildi útiveru og hvernig má gera skemmtilega hluti með börnum utan veggja heimilisins. En innivera er ekki síður góð og gild, það er hægt að gera margt fleira skemmtilegt en bara að horfa á sjónvarpið. Hér eru nokkrar góðar hugmyndir.

Matreiðsla getur aukið áhuga, sjálfstraust, forvitni og frumkvæði barna.

Allir í eldhúsinu
Góð leið til að verja tíma með börnunum er að elda eða baka eitthvað með þeim. Matreiðsla getur aukið áhuga, sjálfstraust, forvitni og frumkvæði barna. Þau eru flest vön að sjá foreldra sína í eldhúsinu þannig að við það að fá að taka þátt finna þau fyrir trausti frá hinum fullorðnu og gera sér grein fyrir að þau séu að læra eitthvað sem er mikilvægt. Með því að taka þátt fer barnið einnig að velta fyrir sé hvað það borðar, hvað er í matnum sem það borðar og hvaðan hráefnið kemur. Með því að kynnast öllu ferlinu og hráefnum frá grunni getur gert það að verkum að matvendni minnki ef hún er til staðar. Það skiptir miklu máli fyrir allt lífið að fá áhuga á matreiðslu og geta eldað sér næringarríkan mat. Því upplýstara sem barnið verður því minni líkur verða á að það velji eingöngu skyndibita í framtíðinni. Matreiðsla stuðlar einnig að ýmiss konar færni, svo sem stærðfræði, því það þarf að mæla hráefni, telja og stundum leggja saman, og einnig eykst orðaforði barnsins. Það er líka mikil áskorun að takast á við afleiðingarnar ef eitthvað fer úrskeiðis og vinna að lausnum í þeim efnum.

Litagleði
Flestir foreldrar þekkja það að vera beðnir um að sitja og teikna með barninu sem getur reynst flókið ef maður hefur litla sem enga hæfileika á því sviði. Hins vegar geta allir litað og undanfarin ár hafa vinsældir litabóka fyrir fullorðna aukist til muna. Margir trúa því að það sé róandi fyrir hugann að lita og þessi iðja er oft tengd við hugmyndir um gjörhygli, eða mindfulness, og litir hafa lengi verið notaðir í ýmiss konar listmeðferð. Helsti munurinn á litabókum fyrir börn og fullorðna er erfiðleikastigið, litabækur fullorðinna eru með smærri og flóknari myndum. Þannig að nú geta foreldrar og börn setið saman með sína litabókina hvert og notið þess að lita saman.

Fjölskyldan getur setið saman og lesið bók þannig að hver fjölskyldumeðlimur fær sitt tækifæri til að lesa upphátt fyrir hina … Þetta eykur bæði lesskilning og lestrarfærni barna.

Sögustund
Margir, ef ekki flestir, foreldrar lesa fyrir börnin sín þar til þau ná þeim aldri að byrja að lesa sjálf. En það er ekki síður skemmtilegt að lesa með börnunum sínum þegar þau eru farin að geta það sjálf. Til dæmis getur fjölskyldan setið saman og lesið bók þannig að hver fjölskyldumeðlimur fær sitt tækifæri til að lesa upphátt fyrir hina. Síðan má ræða saman um atvik í bókinni og spá í söguþráðinn. Þetta eykur bæði lesskilning og lestrarfærni barna auk þess sem orðaforði þeirra eykst. Einnig getur þetta aukið sjálfstraust barna því þau munu oft þurfa að lesa upphátt fyrir jafningja sína í skólanum sem getur verið ógnvekjandi fyrir marga.

Því ekki grafa upp spilastokk og kenna börnum nokkra góða leiki sem þið spiluðuð í æsku?

Spilerí
Í dag spila börn frekar tölvuleiki en hefðbundin spil. Það er allt gott og blessað því leikirnir æfa oftar en ekki svipaða tækni og færni, svo sem kænsku, úrlausn vandamála og þolinmæði. Það getur þó verið erfiðara fyrir foreldra að taka þátt í því spili. Því ekki grafa upp spilastokk og kenna börnum nokkra góða leiki sem þið spiluðuð í æsku? Þetta gefur tengingu við fortíðina og börn hafa gaman af því að heyra hvernig hlutirnir voru þegar þið voruð krakkar. Borðspil eru einnig skemmtileg þótt þau séu oft tímafrekari en að spila á spil. Hægt er að nota tímann á meðan spilað er til að ræða daginn og veginn, spyrja um skóladaginn eða hvað sem er án þess þó að það sé þvingað eða einhver pressa.

Í barndóm aftur
Það hafa allir gott af því að leika sér aðeins og finna barnið innra með sér. Börn hafa líka þörf fyrir að finna þessa tengingu við foreldra sína, að þeir séu líka börn inn við beinið. Fyrir utan þessa klassísku leiki, svo sem feluleik, er til dæmis skemmtilegt að búa til virki úr púðum, sófum og teppum og síðan er hægt að fara í þykjustuleik inni í virkinu. Annar skemmtilegur leikur er nokkurs konar dótakeila; þá er böngsum, dótaköllum eða öðru dóti raðað upp við endann á löngum gangi og leikmenn skiptast svo á að rúlla bolta og reyna að fella dótið. Önnur útfærsla á þessum leik er að leikmenn stilli sér upp sitt hvorum megin við ganginn með sína dótakalla og þá er markmiðið að vera fyrstur til að fella alla kallana hjá hinum. Önnur góð leið til að fá útrás og hafa það gaman er að halda danspartí, þá er einfaldlega skemmtilegt lag sett á fóninn og svo dansa allir eins og þeir eigi lífið að leysa.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / www.pixabay.com

Aukinn árangur og velgengni í vinnu

Sex góð ráð til þess að líða betur og ná lengra í starfi.

Flest viljum við ná einhverri velgengni í því starfi sem við höfum valið okkur. Við verjum jú bróðurpartinum af lífinu í vinnunni og því skiptir máli að við finnum að við séum að ná árangri. Ýmislegt í okkar hversdagslegu rútínu hefur áhrif á það hvernig við vinnum vinnuna okkar og þar með hversu mikilli velgengni við njótum. Hér eru sex góð ráð til þess að líða betur og ná lengra í starfi.

Oftar en ekki vinnur fólk saman í hóp þar sem einstaklingar bæta hverjir aðra upp þannig að það skiptir ekki máli þótt þú sért ekki góð/ur í öllu – svo lengi sem þú ert mjög góð/ur í sumu.

1. Einbeittu þér að styrkleikum, ekki veikleikum. Stundum eigum við það til að eyða of miklum tíma í að bæta okkur í því sem við erum ekki góð í að eðlisfari. Það getur verið gáfulegra að bæta styrkleika þína enn frekar. Oftar en ekki vinnur fólk saman í hóp þar sem einstaklingar bæta hverjir aðra upp þannig að það skiptir ekki máli þótt þú sért ekki góð/ur í öllu – svo lengi sem þú ert mjög góð/ur í sumu.

2. Hagaðu vinnu þinni eins og þér þykir best. Það sem hentar einum þarf ekki að henta öllum öðrum starfsmönnum fyrirtækis. Undanfarin ár hafa mörg fyrirtæki innleitt opin rými en sumum þykir betra að vinna bak við luktar dyr, allavega í ákveðnum verkefnum. Oftast er hægt að finna lausn á þessum vanda til dæmis með því að nota fundarherbergi þegar þau eru laus eða óska eftir því að vinna heima. Einnig geta hljóðeinangrandi heyrnatól komið að góðum notum.

3. Hafðu hemil á skapinu þínu. Viðhorf þitt hefur ekki aðeins áhrif á líðan og afrakstur þinn í vinnunni heldur einnig á samstarfsfélaga þína. Þess vegna ættirðu að reyna eftir bestu getu að hafa jákvæðni að leiðarljósi en rannsóknir hafa sýnt að með því að hugsa jákvætt verðum við ósjálfrátt jákvæðari gagnvart vinnunni og jákvæðir einstaklingar áorka meira.

Veldu hollari mat. Þegar öllu er á botninn hvolft er fæðan eldsneyti líkamans og gæði hennar geta haft mikil áhrif á okkur. Ef þú veist að þú munt ekki hafa tíma til að ná þér í hádegismat reyndu að hafa með þér nesti svo þú sleppir ekki máltíðum.

4. Veldu hollari mat. Þegar öllu er á botninn hvolft er fæðan eldsneyti líkamans og gæði hennar geta haft mikil áhrif á okkur. Ef þú veist að þú munt ekki hafa tíma til að ná þér í hádegismat reyndu að hafa með þér nesti svo þú sleppir ekki máltíðum. Forðastu sykur líka eftir bestu getu því hann getur valdið blóðsykurshruni og meðfylgjandi orkuleysi.

5. Láttu gott af þér leiða. Þó að það sé mikilvægt að hugsa um sjálfan sig þá getur það aukið vellíðan að gera eitthvað gott fyrir aðra, hvort sem það er að hella upp á kaffi, hjálpa með verkefni eða bjóða einhverjum far heim. Þetta eykur liðsheildina og þýðir það að vinnufélagar þínir eru mun líklegri til að koma þér til hjálpar þegar þú þarft á því að halda.

6. Ekki hugsa um það sem er liðið. Þegar við eigum slæman dag í vinnunni hættir okkur til að taka þær tilfinningar með okkur heim og endurhugsa allt sem við gerðum og hvernig við hefðum getað gert betur. Með þessu erum við að viðhalda streitunni og öllum fylgifiskum hennar þannig að við náum ekki að hvílast almennilega. Hafðu þann vana á að fara einu sinni yfir daginn að honum loknum og segðu svo skilið við hann.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

„Lítill tími í tilhugalíf“

Sjöfn Kristjánsdóttir selur prjónauppskriftir af barnafötum sem hún hannar á vefversluninni Petit Knitting.

Hjónin Sjöfn Kristjánsdóttir og Grétar Karl Arason.

Sjöfn Kristjánsdóttir prjónaði svo mikið á son sinn í fæðingarorlofinu að eiginmaður hennar, Grétar Karl Arason, stakk upp á því að hún gerði þetta að atvinnu. Hugmyndin var gripin á lofti og vefverslunin Petit Knitting varð til þar sem hægt er að kaupa prjónauppskriftir af barnafötum sem Sjöfn hannar.

„Þessi hugmynd kom þegar ég var í fæðingarorlofi með Ara, sem er 1 árs, en þá prjónaði ég alveg eins og vindurinn á hann. Eitt kvöldið spurði Grétar mig af hverju ég gerði ekki eitthvað úr þessu, hvort ég gæti ekki skrifað upp þessar uppskriftir og selt. Ég hef sjálf aldrei farið eftir uppskriftum því mér finnst þær oft of flóknar og hef því alltaf verið að breyta þeim og laga að mínu smekk. Við kýldum hugmyndina í gang og þetta átti að vera svona auka áhugamál en þrátt fyrir að það séu aðeins sex mánuðir síðan við byrjuðum erum við orðin stórt nafn í íslenskum prjónaheimi með yfir fjögur þúsund fylgjendur á Facebook og yfir tvö þúsund fylgjendur á Instagram. Við byrjuðum með eina uppskrift en erum núna komin með yfir 30 uppskriftir í sölu. Grétar sér um tæknilegu hliðina, kaupir auglýsingar og heldur utan um markaðssetningu og fjármálin. Ég sé um að hanna, skrifa og prjóna uppskriftirnar og taka myndir af því sem ég hef verið að gera,“ segir Sjöfn.

„Ég hef sjálf aldrei farið eftir uppskriftum því mér finnst þær oft of flóknar og hef því alltaf verið að breyta þeim og laga að mínu smekk.“

Skandinavísk hönnun

Sjöfn er forstöðumaður í dægradvöl Vatnsendaskóla og Grétar er viðskiptastjóri hjá Símanum. Þau eiga tvö börn, Sögu Sjafnar, sem er 11 ára, og Ara Sjafnar, sem er eins og áður sagði nýorðinn eins árs. „Petit Knitting er þriðja barnið og er vefverslun með

„Ég legg mikið upp úr því að hafa uppskriftirnar mínar einfaldar, skýrar og aðgengilegar þannig að allir prjónarar komist í gegnum þær.“

prjónauppskriftir. Við seljum uppskriftir í stykkjatali en það er svolítil vöntun á því hér á landi. Nú gefst fólki kostur á því að versla þessa einu uppskrift sem það langar í án þess að þurfa að kaupa heilt blað eða heila bók. Svo er þetta líka allt rafrænt hjá okkur sem gerir okkur umhverfisvæn. Grétar vinnur að heiman eins og er og sér um Ara á meðan ég vinn frá 8-16 á daginn. Ég kem svo heim og tek við og Grétar klárar það sem þarf að gera í hans vinnu. Svo er eldað, baðað, sett í þvottavélar, látið læra heima og komið í háttinn. Þegar heimilið er komið í ró sest ég við prjónaskap og prjóna þar til ég fer að sofa. Það er alltaf nóg að gera hjá okkur og lítill tími í tilhugalíf,“ segir hún hlæjandi.

„Við erum aðallega að hanna uppskriftir að barnafötum. Við byrjuðum að hanna föt í stærðum 0-2 ára en erum nú komin með uppskriftir í stærðum 0-10 ára. Það var eftirspurn eftir stærri stærðum svo við urðum við þeirri beiðni. Eins og er eru allar uppskriftir á íslensku og nokkrar höfum við þýtt yfir á ensku. Um þessar mundir er verið að þýða allar uppskriftir yfir á dönsku og svo er markmiðið að koma öllum uppskriftum yfir á norsku og ensku líka. Skandinavía er stór og prjónaáhugi í löndunum þar er mjög mikill. Hönnun mín er í skandinavískum stíl svo möguleikar okkar eiga eftir að margfaldast þegar við komum uppskriftum yfir á Norðurlandamálin sem og á ensku. Nafnið á fyrirtækinu er eiginlega sameiginleg ákvörðun mín og vinkvenna minna, þeirra Abbýjar og Ástríðar. Ég henti nokkrum nöfnum á þær og við vorum svo sammála um að Petit Knitting væri fullkomið. Það er bæði alþjóðlegt og lýsir því sem ég er að gera – að prjóna á litla fólkið.“

Með tíu þumalfingur

Áhuginn á prjónaskap og hönnun byrjaði snemma hjá Sjöfn. „Mamma, Guðný Guðmundsdóttir, var mikil prjónakona og hannaði og seldi flíkur eftir sjálfa sig. Hún hlaut einnig gullprjóna ársins 1995 sem voru veittir af prjónabúðinni Tinnu fyrir prjónaskap og hönnun. Ég var sjálf 13 ára þegar ég prjónaði fyrstu flíkina mína hjálparlaust en það var húfa og að sjálfsögðu var hún ekki prjónuð eftir uppskrift. Eftir það var ekki aftur snúið og hef ég verið að prjóna síðan en með nokkrum hléum þó. Ég útskrifaðist svo árið 2002 af hönnunar- og textílbraut frá FB en fór svo í uppeldis- og menntunarfræði í HÍ og tók meistarapróf í því fagi. Hönnunin hefur samt alltaf yfirhöndina þó að ég þurfi að sinna henni í frítíma mínum eins og er. Ég stefni að því að geta unnið við þetta sem aðalstarf eftir um það bil tvö ár.“

„Hönnun mín er í skandinavískum stíl svo möguleikar okkar eiga eftir að margfaldast þegar við komum uppskriftum yfir á Norðurlandamálin sem og á ensku,“ segir Sjöfn.

Hún er enn sú eina í fjölskyldunni sem prjónar en hún hefur reynt að ná manninum sínum og dóttur í þetta með sér. „Ég hef mikið reynt að fá Grétar til að grípa í prjónana því ég er með svo margar hugmyndir í kollinum en bara tvær hendur svo það er fullt af hugmyndum sem þurfa að bíða. En hann hefur ekki fallið í þá freistni enn þá. Hann segist vera með tíu þumalputta. Saga er aðeins byrjuð að prjóna með mér en þolinmæðin er ekki alveg nógu mikil enn þá. Hún hefur þó mikinn áhuga á því sem ég er að gera svo það er aldrei að vita hvernig framtíðin verður hjá henni. Hún er mjög skapandi en það er spurning á hvaða sviði sköpunar hún endar. Ari hefur mjög mikinn áhuga á garnhniklum en það kemur í ljós hvort hann verði með tíu þumalfingur eins og pabbi sinn.“

„Ég legg mikið upp úr því að hafa uppskriftirnar mínar einfaldar, skýrar og aðgengilegar þannig að allir prjónarar komist í gegnum þær. Það er fátt leiðinlegra en flóknar og óskýrar uppskriftir sem gera það að verkum að maður endar með því að henda prjónunum ofan í skúffu.“

Annars eru spennandi tímar fram undan og markaðurinn sívaxandi eftir því sem uppskriftirnar eru þýddar á fleiri tungumál. „Ég legg mikið upp úr því að hafa uppskriftirnar mínar einfaldar, skýrar og aðgengilegar þannig að allir prjónarar komist í gegnum þær. Það er fátt leiðinlegra en flóknar og óskýrar uppskriftir sem gera það að verkum að maður endar með því að henda prjónunum ofan í skúffu,“ segir Sjöfn að lokum.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðunni petitknitting.com, á Instagram undir petitknitting_iceland og á Facebook undir Petitknitting.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir /Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Bambusflekar, fossar og frumstæður matur

Ingibjörg Lára Hjartardóttir flutti til Jamaíku fyrir tæpum fjórum árum vegna spennandi atvinnutilboðs og ævintýraþrár.

Við fengum hana til að segja okkur frá nokkrum stöðum sem hún mælir með að gestir landsins skoði.

Igibjörg Lára Hjartardóttir flutti til Jamaíku fyrir tæpum fjórum árum vegna spennandi atvinnutilboðs.

Pelican Bar
Á litlu sandskeri út með suðurströnd Jamaíku er Pelican Bar sem er byggður úr rekavið. Til að komast þangað færðu annað hvort sjómann til að sigla með þig á litlum báti, um það bil 20 mínútur frá Treasure Beach, eða ferð í skipulagða útsýnisferð.

Á barnum er hvorki salernisaðstaða né rafmagn. Kælirinn fyrir bjór er gömul frystikista sem er full af klaka. Þarna er góð stemning, hægt að synda í sjónum í kring og oft sitja pelikanar á bátunum sem bíða eftir fólkinu.

Fljóta á fleka niður Martha Brae-ána
Martha Brae-áin er í um 45 mínútna akstursfjarlægð frá Montego Bay. Ferðin niður ána tekur eina til tvær klukkustundir á bambusfleka. Á leiðinni er fylgst með lífinu meðfram ánni og hægt að stoppa á leiðinni til að kaupa minjagripi eða Red Stripe-bjór. Best að fara á degi þegar engin skemmtiferðaskip eru í höfn því þá er maður nánast einn á ánni. Dásamlega slakandi.

Á litlu sandskeri út með suðurströnd Jamaíku er Pelican Bar sem er byggður úr rekavið. Til að komast þangað færðu annað hvort sjómann til að sigla með þig á litlum báti, um það bil 20 mínútur frá Treasure Beach …

Scotchies
Scotchies er veitingastaður í útjaðri Montego Bay. Þar er boðið upp á grillaðan kjúkling og svínakjöt, marinerað með svokallaðri Jerk Seasoning, innlendri kryddblöndu með sterkum chili-pipar sem heitir Scotch Bonnet. Þetta getur verið mjög sterkt. Meðlætið eru grillaðir grænir bananar, sætar kartöflur og hrísgrjón með nýrnabaunum, eða Rice & Peas eins og innfæddir kalla það. Grillið er frumstætt og yfir það breitt með bárujárni þannig að kjötið er hálfreykt um leið og það er grillað. Best að fá sér ískalda Red Stripe-heimabjórinn með. Máltíðin kostar innan við 2.000 kr. fyrir tvo.

Ferðin niður Martha Brae-ána tekur eina til tvær klukkustundir á bambusfleka.

YS-fossarnir
Þessir fossar í ánni YS í suðurhluta Jamaíku eru sjö talsins. Það er hægt að labba upp hluta fossanna með leiðsögumanni og eins er hægt að synda í hyljum fyrir neðan flesta þeirra. Mér finnst þessir fossar mun fallegri en Dunn’s-fossarnir sem eru frægastir og flestir sjá þegar þeir koma til Jamaíku. Það er ekki eins mikil mannmergð við YS og þar með betri upplifun.

Negril-ströndin
Negril er lengsta ströndin á Jamaíku, kölluð 7 Mile Beach, nærri 12 kílómetra löng. Gaman er að labba hana og sjá bæði innfædda og ferðamenn njóta sín. Sölumennirnir láta sér segjast ef maður er bara ákveðinn og kurteis.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Gleði og galdrar

Kvikmyndir um töfra njóta yfirleitt mikilla vinsælda.

Sögur um galdra hafa ávallt fylgt mannkyninu. Kvikmyndir eru líklega einn besti vettvangurinn til að segja slíkar sögur því tæknin sem er notuð er oft töfrum líkust. Hér eru nokkrar frábærar myndir sem sýna margar ólíkar hliðar á þessum spennandi og yfirskilvitlegu hæfileikum.

 Töfraskepnur

Flestir sem hafa fylgst með ævintýrum galdrapiltsins Harry Potter, hvort sem það á hvíta tjaldinu eða á prenti, kannast við nafnið Newt Scamander. Hann er höfundur bókarinnar Fantastic Beasts and Where to Find Them sem hvert skólabarn í Hogwarts þarf að kaupa og lesa á fyrsta árinu sínu. Árið 2001 gaf J.K. Rowling út sérstaka útgáfu af bókinni sem vakti mikla lukku hjá aðdáendum.

Í nýlegri kvikmynd byggð á þeirri bók (sjá mynd að ofan) er ungi fræðimaðurinn Newt Scamander nýkominn til New York árið 1926 í leit að töfraverum sem hann hefur einsett sér að rannsaka og bjarga þegar það á við. Hann veit þó ekki að stórhættuleg og kraftmikil vá vofir yfir borginni og hann flækist fljótt inn þau mál.

Nicole Kidman og Sandra Bullock sem systurnar Sally og Gillian Owens.

Gæfa eða bölvun

Systurnar Sally og Gillian Owens í myndinni Practical Magic hafa alla tíð vitað að þær væru ekki eins og fólk er flest. Þær ólust upp hjá frænkum sínum á vægast sagt óvenjulegu heimili þar sem þeim voru litlar eða engar reglur settar. Frænkurnar lögðu sig fram við að vekja hjá systrunum hina einstöku dulrænu hæfileika sem fylgt hafa konum af Owens ættinni í þeirri von að veita þeim þann styrk sem fylgir því að iðka hvítgaldra í nytsamlegum tilgangi. En galdrasæringar Owens kvennanna kosta sitt og í raun fylgir þeim hin mesta bölvun – mennirnir sem þær verða ástfangnar af eru dæmdir til ótímabærs andláts.

The Craft segir af fjórum táningsstúlkum sem búa yfir yfirnáttúrulegum kröftum.

Köld kvenna ráð

Galdrar hafa lengi heillað táningsstelpur sem ýmist reyna að nota þá til að laða að sér ást eða leita hefnda. The Craft segir einmitt frá einum slíkum hóp. Þegar ný stelpa flytur í bæinn kynnist hún fljótlega öðrum stelpum sem hafa áhuga á yfirskilvitlegum og dularfullum hlutum. Saman búa þessar fjórar stelpur yfir miklum yfirnáttúrulegum kröftum. Þær geta nánast allt, allt frá því að ná í draumaprinsinn og látið hann dýrka sig, og hvað annað sem þeim dettur í hug – þær eru óstöðvandi og möguleikarnir eru endalausir. Slíku valdi fylgir mikil ábyrgð og það getur óvænt snúist gegn manni, eins og stelpurnar fá að kynnast.

The Prestige segir frá tveimur sjónhverfingamönnum sem gera allt til að skemma fyrir hvorum öðrum.

Keppinautar á sviði

Kvikmyndin The Prestige gerist í lok nítjándu aldar í London og segir frá Robert Angier og Alfred Borden sem eru vinir og aðstoðarmenn töframanns. Þegar Julia, ástkær eiginkona Roberts, deyr slysalega í einu atriði kennir Robert Alfred um dauða hennar þannig að vinátta þeirra snýst upp í andhverfu sína. Báðir verða þeir síða frægir töframenn og keppinautar á því sviði – þeir gera hvað þeir geta til að skemma fyrir hvorum öðrum. Þegar Alfred framkvæmir árangursríkt bragð verður Robert hreinlega að komast að því hvernig hann fór að því en kemst að því að sumt er best látið kyrrt liggja.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

 

Ef maður tengir við RIE tengir maður svo sterkt

Kristín Maríella Friðjónsdóttir segir að þörfin fyrir nýjar uppeldisaðferðir sé mikil hér á landi.

Kristín Maríella Friðjónsdóttir kynntist RIE eða Respectful Parenting-uppeldisaðferðinni fyrir tæpum þremur árum og hefur síðan þá haldið fjölmörg námskeið sem notið hafa mikilla vinsælda. Kristín sem er búsett í Singapúr segir greinilegt að þörfin fyrir nýjar uppeldisaðferðir sé mikil hér á landi.

Kristín Maríella Friðjónsdóttir kynntist RIE eða Respectful Parenting-uppeldisaðferðinni fyrir tæpum þremur árum og hefur síðan þá haldið fjölmörg námskeið sem notið hafa mikilla vinsælda.

„Við fluttum hingað fyrir þremur árum þegar maðurinn minn stundaði masters-nám hér. Eftir útskrift fékk hann atvinnutilboð og því ílengdumst við. Okkur líður mjög vel í Singapúr og höfum komið okkur vel fyrir hérna hinum megin á hnettinum.“

Kristín er menntaður fiðluleikari og lærði einnig á víólu í Bandaríkjunum. Eftir það nám tóku við fjölbreytt störf tengd tónlistinni en á sama tíma stofnaði hún skartgripamerkið Twin Within ásamt systur sinni, Áslaugu Írisi. Fljótlega tók hönnunin yfir en eftir að fjölskyldan flutti til Singapúr hefur Kristín haldið rekstrinum áfram auk þess að kenna ungum börnum á fiðlu og miðla fræðslutengdu efni um uppeldisaðferðina RIE eða Respectful Parenting. „Ég kýs að kalla þessa uppeldisstefnu Virðingarríkt tengslauppeldi en ég kynntist RIE fyrir þremur árum. Þá var Ylfa, eldri dóttir mín, um 6 mánaða. Ég hef alltaf verið mjög áhugasöm um allt sem viðkemur uppeldi, meðgöngu, fæðingu, þroska barna og samskiptum. Stuttu eftir að við fluttum til Singapúr fékk ég réttindi í fæðingarhjálp (e. doula) og óhætt að segja ég eyði öllum frítíma mínum í að lesa um allt sem viðkemur börnum. Í einhverjum rannsóknarham á Internetinu rambaði ég inn á bloggsíðu Janet Lansbury, sem er helsta talskona RIE í heiminum, og þá var ekki aftur snúið. Ég tengdi strax mjög sterkt við það sem ég las frá henni og fékk bara ekki nóg. Það er nefnilega þannig með RIE, ef maður tengir, þá tengir maður svo sterkt.“

Virðingin, traustið og tengingin

Kristín segir erfitt að útskýra stefnuna í stuttu máli því hún sé í raun heill heimur af fróðleik. „Að mínu mati er RIE byggt upp á þremur grunnhugtökum en þau eru virðing, traust og tenging. Mér finnst það vera eins konar kjarni RIE sem stefnan gengur alltaf út frá. Við komum fram við börn af virðingu frá fæðingu. Við lítum á þau sem heila einstaklinga sem eiga rétt á því að komið sé fram við þau eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Við reynum eftir fremsta megni að sjá hlutina frá þeirra sjónarhorni og bjóðum þeim að taka þátt í lífinu strax frá fyrsta degi. Við tölum eðlilega við börnin okkar, sleppum öllu leikritum, erum hreinkilin, örugg og róleg. Eins er mikil virðing borin fyrir mikilvægi leiks og við reynum að trufla ekki barn sem er niðursokkið í leik. Börn eru studd til að leika sér sjálfstætt og á sínum forsendum frá upphafi. Við treystum líka barni til þess að þroska hreyfigetu sína á sínum hraða með sínum leiðum og hjálpum eða kennum þeim til dæmis ekki að snúa sér, setjast eða ganga.

„Við leyfum barni að tjá allar tilfinningar sínar og styðjum börnin í gegnum grátköst með því að viðurkenna tilfinningar þeirra og sýna þeim þolinmæði.“

Við trúum því að börn séu alltaf góð og vitum að þegar þau sýna óæskilega hegðun sé það vegna þess að þau eigi erfitt og vanti aðstoð frá okkur. Við leyfum börnum að tjá allar tilfinningar þeirra og styðjum þau í gegnum grátköst með því að viðurkenna tilfinningar þeirra og sýna þeim þolinmæði. Þannig myndum við sterk tengsl við barnið og það byrjar að taka mörkunum sem við setjum betur.  Við setjum tilfinningum ekki mörk en við setjum hins vegar hegðun mörk. Við trúum á mikilvægi þess að setja skýr mörk en við setjum þau samt alltaf á rólegan hátt. Það má segja að helsta markimið RIE sé að byggja upp heilbrigt samband á milli foreldris og barns, samband sem báðir aðilar geta notið sín í og þar sem þörfum beggja er mætt af samkennd og virðingu.“

Námskeiðin seldust upp á örfáum klukkustundum

Kristín hafði skrifað um RIE inn á samfélagsmiðlum í rúmt ár þegar hún fór fyrst að fá fyrirspurnir um að halda námskeið á Íslandi. „Nánast allt efni sem til er um Respectful Parenting er á ensku og ég fann fyrir mikilli vöntun á íslensku efni. Þegar ég var síðan á leiðinni heim til Íslands um síðustu jól ákvað ég að mæta eftirspurninni og halda nokkur námskeið. Það gekk rosalega vel og ég fann strax að þetta átti vel við mig, mér leið vel upp á „sviði“ og fæ mikið út úr því að miðla á þennan hátt.“ Eftir námskeiðin var enn mikil eftirspurn og því ákvað Kristín að koma heim nú í sumar og halda fleiri. Viðtökurnar voru gríðarlegar og undir lokin seldust síðustu aukanámskeiðin upp á örfáum klukkutímum. „Það var eins og fólk hefði verið að bíða eftir einhverju svona. Ég hélt fjórtán námskeið í heildina og það var greinilegt að fólk er mjög áhugasamt og þráir að komast á betri stað í samskiptum við börnin sín. Það finnst mér frábær þróun enda hlýtur foreldrahlutverkið að vera mikilvægasta hlutverk okkar allra sem eigum börn.“

Aðspurt hvort hún veiti foreldrum ráð óumbeðið segist Kristín hafa það fyrir reglu að koma ekki með athugasemdir við uppeldisaðferðir annarra.

Kristín segir fyrirspurnirnar sem henni berist óteljandi og vandamálin fjölbreytt. Hún hafi þó aldrei rekist á vegg heldur komi svörin oftast fyrirhafnarlaust til sín. „Þegar maður gefur ráð er mikilvægast að setja sig almennilega í aðstæðurnar. Þá bið ég iðulega um meiri upplýsingar og nánar lýsingar á vandamálinu. Hvenær kemur hegðunin upp? Hvernig hefur foreldrið brugðist við hingað til? Hvernig bregst barnið við? Hvað annað er að gerast í lífi barnsins? Eftir að hafa fengið þessar upplýsingar koma svörin til mín. Ég myndi segja að óöryggi foreldra þegar kemur að því að setja mörk sé eitt algengasta vandamálið. Hvaða mörk má setja og hvernig. Hræðsla við grátur og viðbrögð barnanna sinna og síðan óraunhæfar væntingar í sambandi við það hvers er hægt að ætlast til af börnunum sínum og hvenær.“

Þegar talið berst að hennar eigin uppeldi segir Kristín stærstu áskorunina liggja í að veita hvoru barni fyrir sig fulla athygli í kringum umönnunarverkefni en það er stór partur af RIE. „Það er hugsað þannig að í öllum hversdagslegum ummönnunarverkefnum eins og t.d. að skipta á bleiu, klæða í föt, baða eða gefa að borða reynum við að vera með fulla athygli á barninu. Það er erfitt þegar þú ert komin með tvö eða fleiri börn því að oftar en ekki vill hitt barnið líka fá athygli á sama tíma. Í RIE tölum við um að hefðbundin sanngirni (þar sem allt er 100% jafnt) er í raun ekki sanngirni heldur líður báðum börnum eins og þau fái ekki nóg.

Við reynum ekki að keppast við að gefa allt jafnt heldur gefum við eftir þörfum og það sama gildir um tímann okkar eða athyglina. Þá skiptir máli að vera skýr í sambandi við það hvar athyglin okkar er og oft setjum við mörk í kringum það. Við segjum eitthvað eins og „Ég heyri í þér, Ylfa, þú vilt að ég komi og sjái myndina sem þú varst að teikna, þú vilt að ég komi núna strax, ég skil, en ég get ekki komið strax, nú er ég að skipta á bleiunni hanns Breka og ætla að einbeita mér að því. Þegar ég er búin, þá ætla ég að koma til þín og vera bara með þér.“
Það sem gerist er að bæði börnin slaka meira á því þau vita að hvort um sig fá þau 100% athygli þegar „þeirra tími“ kemur. Svo virkar það líka þannig að þegar við hægjum á og gefum fulla athygli í gegnum ummönnunarverkefni, þó að það sé ekki nema í nokkrar mínútur í senn, þá er barnið líka miklu líklegra til að geta sleppt okkur þess á milli og fer frekar að leika sér sjálft því það er sátt eftir tímann sem við áttum saman.“

Að hjálpin komi frá hjartanu

RIE-fræðsla byggjast mikið á langtímamarkmiðum en þátttaka barna í heimilisstörfum gegnir veigamiklu hlutverki innan stefnunnar. Kristín segir markmiðið vera að barnið sjái mikilvægi þess að hjálpa til inni á heimilinu en sömuleiðis finni hjá sér þörfina að hafa hreint í kringum sig. „Þetta snýst auðvitað um að líða vel í umhverfi sínu. Ég vil að barnið mitt hjálpi til því það vilji vera partur af heildinni, en að hjálpin komi frá hjartanu, ekki út frá hræðslu eða skyldu. Það er ekki hægt að pína barn í að vera hjálplegt. Heimilisverk fellur undir það sem við köllum „modeling“ í RIE. Þá skyldum við ekki barn til þess að hjálpa til á neinn hátt en bjóðum því þátttöku. Við pössum að vera góðar fyrirmyndir og treystum því að þegar barn er tilbúið þá mun það vilja hjálpa til því að börn vilja í grunninn öll standa sig vel, vera partur af heildinni og líkjast foreldrunum.“

Þegar kemur að ósamkomulagi barna styðst Kristín mikið við að lýsa aðstæðum. „Ég geri alltaf það sama þegar barn grætur eða er ósátt. Ég hægi á og segi eitthvað eins og „hmm … ég heyri grátur, það eru allir að gráta, allir eru ósáttir“ og síðan myndi ég skoða hvað væri í gangi og gefa hverju barni rödd fyrir sig með því að segja upphátt það sem ég sæi, án þess að dæma. Dvel jafnvel í ósættinu og bæti svo við, „hvað getum við gert?“ Síðan bíð ég með opinn arminn því það mega allir alltaf fá knús sem vilja og það mega allir gráta sem vilja en við reynum að styðja börn í að finna sjálf lausnir á vandamálunum. Þannig er best stutt við þroska og getu í samskiptum.“

„Þetta snýst auðvitað um að líða vel í umhverfi sínu. Ég vil að barnið mitt hjálpi til því það vilji vera partur af heildinni, en að hjálpin komi frá hjartanu, ekki út frá hræðslu eða skyldu. Það er ekki hægt að pína barn í að vera hjálplegt.“

Aðspurt hvort hún veiti foreldrum ráð óumbeðið segist Kristín hafa það fyrir reglu að koma ekki með athugasemdir við uppeldisaðferðir annarra. „Ég ráðlegg fólki eindregið að skipta sér ekki af uppeldi annarra nema um eitthvað alvarlegt sé að ræða. Það hefur mjög lítið upp á sig að skipta sér af öðrum. Sannleikurinn er sá að flestir eru að reyna sitt besta. Það eru allir á sinni einstöku vegferð í foreldrahlutverkinu og það besta sem maður getur gert er að vera góð fyrirmynd sjálfur. Það er nefnilega þá sem maður fær spurningar frá áhugasömum og fólkið í kringum mann vill fá að vita meira um hvað maður er að gera. Það sér að eitthvað er að virka vel og verður forvitið. Foreldrahlutverkið og allt í sambandi við börnin okkar er eitthvað sem er mjög nálægt okkur, mjög persónulegt og fólk tekur því persónulega ef það upplifir að verið sé að dæma það. Þá fer fólk frekar í vörn. Fólk þarf að vera tilbúið að fara í gegnum ákveðna sjálfskoðun ef það ætlar að tileinka sér uppeldisaðferð eins og RIE og það eru einfaldlega ekki allir tilbúnir í það.“

Kristín segir fyrirspurnirnar sem henni berist óteljandi og vandamálin fjölbreytt. Hún hafi þó aldrei rekist á vegg heldur komi svörin oftast fyrirhafnarlaust til sín.

Ofbeldi gegn börnum óhugnalega algengt

Kristín segir það áhugaverða upplifun að ala upp börn hinum megin á hnettinum þar sem margir menningarheimar koma saman en Singapúr er einstaklega fjölbreytt samfélag. „Þetta hefur verið mjög þroskandi ferli og áhugavert. En þó að Singapúr sé í Asíu er hér að finna mjög sterk vestræn áhrif. Mikið er lagt upp úr því að bjóða fjölskyldum upp á ríka barnamenningu og það er alltaf nóg af mjög metnaðarfullu starfi í boði fyrir börn og fjölskyldur, allskonar sýningar á listasöfnum, viðburðir í görðunum og mikið lagt upp úr vönduðum leikvöllum og svæðum fyrir börn. Singapúr er mjög örugg borg, næstum því öruggari en Reykjavík og alveg frábært að vera hérna með börn, borgin er þekkt fyrir það. Að því sögðu er hér að finna sterk áhrif frá Asíu, Malasíu og Kína og uppeldislega má segja menninginuna skiptist svolítið í tvennt. Hér er að finna stórt samfélag fólks frá Vesturlöndum, Evrópu og Bandaríkjunum, uppeldi sem rímar við það sem við þekkjum frá Íslandi. Foreldrar sem leita frekar að frjálsari aðferðum í skólakerfinu svipað og stefnurnar í leik- og grunnskólum standa fyrir heima, þetta „play-based“ módel sem er auðvelt að finna í flestum leikskólum landsins. Skólakerfið hér skiptist því í tvennt, annars vegar hverfisskóla og svo alþjóðlega skóla, þarna er mikill áherslumunur. Í hverfisleikskólum eru börnin frá 7 á morgnanna til 19 á kvöldin, fólk vinnur svo langa vinnudaga. Mikið er lagt upp úr aga og þurfa leikskólabörn að sitja kyrr við borð og læra, hlusta á kennarann og gera svo heimavinnu fyrir næsta leikskóladag. Ég er auðvitað svakalega mikið á móti þessu því þetta stríðir gegn því sem er eðlislægt fyrir börn á þessum aldri. Það er margsannað að börn læri best í gegnum leik og helst frjálsan leik sem þau fá að stjórna sjálf.

Alþjóðlegu skólarnir eru skárri en þeir eru mjög dýrir. Ég var svo heppin að finna lítinn leikskóla sem er virkilega „play-based“ og skólastýran les bloggið hennar Janet Lansbury og er mjög vel að sér. Hér í Singapúr er líka óhugnalega algengt að foreldrar leggi hendur á börnin sín í refsingarskyni, það er meira að segja ákveðinn stafur sem einungis er notaður í hýðingarskyni og þá er talað um „caning“. Þetta á að aga börnin og láta þau hlýða. Mér fallast oft hendur yfir þessu og finnst svo langt í land en þetta er samt smátt og smátt eitthvað að breytast, maður getur ekki breytt heiminum einn en maður breytir samt sem áður heiminum á sinn hátt þegar maður vandar sig vel í uppeldinu, börnin okkar eru auðvitað framtíðin og því hvergi betri staður til að hafa mikil og góð áhrif.“

Texti / Íris Hauksdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Poppaðu upp áramótin

|||
|||

Stundum getur verið skemmtilegt að breyta til um áramótin og prófa eitthvað nýtt.

Ef þú átt börn þá er upplagt að plana gamlárskvöld með þeim.

Planaðu gamlárskvöld með krökkunum
Ef þú átt börn þá er upplagt að plana gamlárskvöld með þeim. Búa til leiki, spila, horfa á Áramótskaupið og skemmtilegar myndir, borða smákökur og læra áramótahefðir annarra landa. Það er hægt að gera svo margt skemmtilegt saman.

Haltu þemapartí
Haltu fjölmennt partí með því að hóa saman fjölskyldu, vinum og kunningjum og hafðu skemmtilegt þema. Hægt er að hafa hlaðborð og biðja alla um að koma með eitthvað gómsætt á borðið. Hver veit, ef vel tekst til gæti þetta jafnvel orðið árlegur viðburður.

Það er alltaf hægt að njóta sín í rólegheitum heima í kvöld.

Njóttu þess að vera heima
Svo er alltaf hægt að njóta sín í rólegheitum heima um kvöldið.
Hafa það til dæmis gott undir hlýju teppi upp í sófa og horfa á Áramótaannálinn og Skaupið, annað hvort ein/n eða í góðum félagsskap.
Fara til dæmis í skemmtilega leiki, spjalla og fara saman yfir árið sem er að líða.

Finndu gott útsýni
Hvernig væri að prófa að upplifa áramótin í nýju ljósi. Ganga til dæmis upp í hlíðar Esjunar og horfa á ljósadýrðina þaðan. Nú eða fara upp í Öskjuhlíð eða að Kópavogskirkju. Þessir staðir eru uppi á hæð þaðan sem fínt útsýni er yfir borgina.

Á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess eru margir fallegir útsýnisstaðir sem hægt er að velja um.

Myndir / www.pixabay.com

Stællegar mömmur

Mömmubloggarar hafa aldrei verið vinsælli en nú.

Svokallaðir mömmubloggarar hafa aldrei notið jafn mikilla vinsælda og nú, enda frábært að geta fengið stílráð og mömmumola á sama stað. Hér eru bloggsíður fantaflottra mæðra sem við mælum með að þið smellið á í næsta netrúnti.

Ruth Crilly (mynd að ofan)
Ruth Crilly er fyrirsæta og móðir sem á von á sínu öðru barni. Hún hefur lengi haldið úti „bjútí“bloggsíðu og vinsælli YouTube-stöð en eftir að hún varð móðir stofnaði hún bloggið TheUpphill.com þar sem hún fjallar um allt sem snýr að móðurhlutverkinu. Hún er sjarmatröll mikið með einstaklega smitandi húmor, við mælum með henni heilshugar.

_______________________________________________________________

Bloggsíðan hennar Joönnu var einungis hobbí en er nú orðið að hennar aðalatvinnu.

Joanna Goddard
Joanna byrjaði feril sinn hjá Cosmopolitan og þekkir því fjölmiðlabransann inn og út. Hún hefur einnig skrifað fyrir Elle, Glamour, New York, Condé Nast Traveler og Martha Stewart Living. Bloggsíðan hennar, sem í byrjun var einungis hobbí, er nú orðið að hennar aðalatvinnu. Fylgist með ævintýrum hennar og fjölskyldunnar á CupOfJo.com.

_______________________________________________________________

Síðan bloggsíðan hennar Anh fór á flug hefur hún birst í Elle og Glamour.

Anh Sundstrom
Anh Sundstrom er mamma hennar litlu Luciu og fáránlega smart markaðsstýra en hún heldur úti mömmutískublogginu 9to5Chic.com. Síðan bloggsíðan hennar fór á flug hefur hún birst í Elle og Glamour, meðal annars.

_______________________________________________________________

Sofi heldur úti gríðarvinsælu bloggsíðunni Sofi´s Snapshots (Sofissnapshots.com).

Sofi Fahrman
Hin sænska Sofi heldur úti gríðarvinsælu bloggsíðunni Sofi´s Snapshots (Sofissnapshots.com), hún hefur gefið út fjórar bækur sem farið hafa beint á topp vinsældarlista, og stjórnað sænsku útgáfunni af Project Runway. Talandi um mömmuinnblástur!

_______________________________________________________________

Rachel Parcell hefur grætt á tá og fingri síðan hún stofnaði vefsíðuna sína Pink Peonies.

Rachel Parcell
Rachel Parcell hefur grætt á tá og fingri síðan hún stofnaði vefsíðuna sína Pink Peonies og meðal annars hannað sína eigin skartgripalínu. Hægt er að fylgjast með þessari sjarmerandi tveggja barna móður á Pinkpeonies.com.

_______________________________________________________________

Hin hrikalega smarta Anjelica Lorenz.

Anjelica Lorenz
Við mælum með því að þið kíkið á bloggsíðu hinnar hrikalega smörtu Anjelica Lorenz, Modejunkie.com, hvort sem það er til að fá stílinnblástur eða hugmyndir fyrir næsta barnaafmæli.

_______________________________________________________________

Emily Schuman spreytir sig í mömmuhlutverkinu á www.cupcakesandcashmere.com

Emily Schuman
Cupcakes and Cashmere hefur lengi verið vinsælt tískublogg en nýverið hafa lesendur þess fengið að fylgjast með hvernig Emily Schuman spreytir sig í mömmuhlutverkinu. Bollaköku- og kasmírblanda klikkar seint! Cupcakesandcashmere.com

_______________________________________________________________

Tveggja barna móðirin Charlotte birtist reglulega á síðum tímarita á borð við Vogue Paris, InStyle, Nylon og W Magazine.

Charlotte Groeneveld-Van Haren
Tveggja barna móðirin Charlotte er þekkt fyrir frábæran stíl og birtist reglulega á síðum tímarita á borð við Vogue Paris, InStyle, Nylon og W Magazine. Mömmustílinnblástur beint í æð! Thefashionguitar.com

Texti / Helga Kristjáns

Raddir