Hrönn Helgadóttir segir frá stöðunum á Jótlandi sem fjölskyldan heimsækir mest.
Hrönn Helgadóttir býr í Horsens, ásamt eiginmanni og tveimur börnum, og starfar sem hársnyrtir. Hún segir að bærinn sé frekar rólegur og stutt í allskonar skemmtilega afþreyingu. Hún segir okkur frá stöðunum sem þau heimsækja mest en það eru staðir sem henta vel fyrir börnin.
„Hverfið sem við búum í er aðeins fyrir utan miðbæinn en samt er ég bara um 5-7 mínútur að hjóla í vinnuna í miðbænum. Umhverfið í kringum okkur er frábært. Við erum með skóg og tjörn og rétt hjá okkur er stór almenningsgarður með leikvelli, grillaðstöðu og allskonar afþreyingu. Þangað er yndislegt að hjóla á sumrin með nesti og sleikja sólina. Við hjólum allan ársins hring og það er frábært hvað veturinn er mildur og sumarið langt. Jótland hefur upp á margt að bjóða en þeir staðir sem við höfum sótt eru aðallega skemmtigarðar og barnvænir staðir. Svo höfum við líka farið nokkra túra til Þýsklands. Það tekur ekki nema rúma klukkustund að keyra til Flensborgar héðan. Það er mikill kostur að geta farið á bílnum í frí til Evrópu í stað þess að fljúga allt eins og þegar við bjuggum á Íslandi. Við vorum t.d. í Þýskalandi um páskana og stefnum á túr um Evrópu fljótlega.“
Lalandia er við hliðin á Legolandi og er innandyra vatnaveröld, ásamt skautasvelli, skíðabraut, keilu, og ýmislegu fleiru. Þangað förum við mest yfir vetrartímann, helst til að fara í baðlandið.
Djurs Sommerland
Djurs er okkar uppáhaldsstaður, við höfum keypt okkur árspassa í garðinn síðustu tvö ár og stefnum á að gera það sama í ár. Við erum rúman klukkutíma að keyra þangað, förum að morgni með nestispakka eða kjöt á grillið og komum heim að kvöldi. Garðurinn er blanda af vatnsrennibrauta- og skemmtigarði, risastór með fjölbreyttum grasflötum þar sem hægt er að sitja og njóta. Einnig er fjöldinn allur af grillstæðum. Nóg er af tækjum og afþreyingu fyrir alla aldurshópa og við foreldrarnir skemmtum okkur alveg jafnvel og börnin. Það sem hann hefur fram yfir aðra garða er að maður finnur ekki eins mikið fyrir fjöldanum og raðirnar verða ekki eins langar.
Lalandia
Lalandia er við hliðin á Legolandi og er innandyra vatnaveröld, ásamt skautasvelli, skíðabraut, keilu, og ýmislegu fleiru. Þangað förum við mest yfir vetrartímann, helst til að fara í baðlandið. Maður fær svolítið á tilfinninguna að vera á sólarströnd; það er heitt þarna inni og sólbekkir úti um allt. Svo fer maður bara á sundfötum og kaupir sér að borða eða ís, mjög kósí. Þarna er fjöldinn allur af rennibrautum, öldulaug, smábarnalaug og barnaveröld. Einnig eru heitir pottar og gufuböð.
Randers Regnskov
Í Randers sem er í fjörutíu mínútna akstursfjarlægð frá Horsens er flottur innandyra regnskógur sem skiptist í þrjár hvelfingar; Asíu, Suður-Ameríku og Afríku. Þar er hægt að sjá helstu dýrin sem lifa í þessum regnskógum. Mínum börnum finnst fiðrildaveröldin skemmtilegust en þar fljúga fiðrildi í öllum stærðum, gerðum og litum allt í kringum mann. Fyrir utan er hefðbundið skátaleiksvæði með alls konar þrautum. Fræðandi og skemmtileg upplifun fyrir bæði börn og fullorðna.
Saksild strand
Hér í Horsens er lítil strönd í nánast göngufæri við okkur og þar finnst krökkunum meðal annars svakalega gaman að fara á krabbaveiðar. Ef veðrið er virkilega gott þá pökkum við í kæliboxið og keyrum á einn af mínum uppáhaldsstöðum, Saksild-ströndina, sem er dásemd með algerlega hreinni strönd og blágrænum sjó. Þar getur hitinn orðið mikill og okkur líður oft eins og við séum á Spáni. Sjórinn er grunnur langt út, þannig að börnin geta vaðið eins og þau vilja meðan foreldrarnir liggja í leti. Stundum förum við nokkrar fjölskyldur saman og tökum grillið með og förum ekki heim fyrr en sólin sest. Þarna eru líka veitingastaðir og ísbúðir. Þetta er ódýr og frábær fjölskylduskemmtun.
Givskud ZOO
Rétt hjá okkur er skemmtilegur dýragarður sem bæði er hægt að keyra í gegnum og rölta um. Þar er hægt að sjá allt frá fiskum og músum upp í fíla, ljón og gíraffa. Einu sinni sáum við þegar ljónin fengu sebrahest að éta og það er upplifun sem börnin gleyma seint. Okkur finnst alltaf gaman að ganga í gegnum apagarðinn þar sem aparnir eru svolítið að stríða og við sáum einu sinni apa taka snuð af barni, setja það upp í sig og hlaupa í burtu. Ég mæli með því að þeir sem eru að ferðast á Jótlandi gefi sér tíma til þess að kíkja í Giveskud sem er ekki í nema fimmtán mínútna akstursleið frá Legolandi. Á öllum bílastæðunum í garðinum eru nestis- og grillaðstæður og ég mæli með að fólk taki með sér nesti eða eitthvað á grillið í garðana því verðið á mat og drykk þar inni er í hærri kantinum.
Legoland
Legoland þekkja sennilega flestir en það er staður sem allir þurfa auðvitað að heimsækja þegar þeir koma hingað. Þar er alltaf rosalega margt fólk og langar biðraðir í öll tæki. Sérstaklega á háannatíma. Við mælum með því við okkar gesti að koma frekar í júní eða eftir miðjan ágúst til þess að fá sem mest út úr heimsókninni. Legoland er frábær garður og margt mjög skemmtilegt að sjá. En takið með ykkur drykki og nesti, allavega eitthvað af því. Því tíuþúsundkallarnir eru fljótir að hverfa í mat og drykk þarna inni.
Myndatexti: Sonja Bríe og Helgi Sævar (7 og 5 ára á myndinni) á Saksild-ströndinni á Jótlandi.
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hrönn Helgadóttir og www.pixabay.com