Fimmtudagur 16. janúar, 2025
4.8 C
Reykjavik

Breytti lífi sínu með skynsemina að leiðarljósi

||
||

Líf Maríu Hlínar Eyjólfsdóttur tók stakkaskiptum eftir að hún leitaði sér aðstoðar.

Fyrir fimm árum var María Hlín Eyjólfsdóttir illa á sig komin og undirlögð af verkjum. Hún ákvað að leita sér aðstoðar til að brjótast úr ástandinu og hefur með dugnaði, elju og skynsemi náð undraverðum árangri.

„Lífið er allt annað í dag,“ segir María, sem stundar námskeiðið enn af fullum krafti auk þess að hlaupa og fara í fjallgöngur á sumrin.

„Mikilvægast af öllu er að halda í gleðina. Að missa aldrei sjónir af henni. Ef mér hefði ekki tekist að halda í hana í gegnum þetta allt þá veit ég hreinlega ekki hvernig þetta hefði farið. Kannski hefði ég bara gefist upp,“ segir María Hlín Eyjólfsdóttir, starfsmaður á leikskólanum Jöklaborg.

Fyrir fimm árum tók María ákvörðun um að breyta um lífsstíl eftir að hafa glímt við ofþreytu og verki um langt skeið. Hún skellti sér í heimsókn til Heilsuborgar en í stað þess að undir-gangast heilusmat hjá hjúkrunarfræðingi og láta skoða mataræði, hreyfinu og svefn eins og margir gera, skráði hún sig í Heilsulausnir – hóptíma þar sem lögð er áhersla á alhliða hreyfingu.

„Auðvitað var ekkert grín að byrja,“ játar hún. „Ég hafði ekki stundað neina hreyfingu lengi og var í engu formi, gat varla gengið og leið illa með sjálfa mig. Fyrir utan að ég var með alls konar verki. Meðal annars krónískan höfuðverk vegna gamalla meiðsla á hálsi. En ég var staðráðin í að gefast ekki upp og fékk góða hvatningu frá þjálfurum og þátttakendum á námskeiðinu.“

„Ég held nefnilega að stærstu mistökin sem fólk gerir þegar það ákveður að snúa við blaðinu sé að ætla sér of mikið á of skömmum tíma …. Ég held að það sé ein helsta ástæða þess að fólk gefst oft upp.“

Í samráði við þjálfarana segist María hafa ákveðið að gera allar breytingar rólega. Hún mætti til dæmis í ræktina þrisvar í viku til að byrja með á meðan hún var að koma því upp í vana og tók mataræðið smám saman í gegn og var ekkert að mæla árangurinn í lækkaðri fituprósentu heldur bættri líðan. „Með öðrum orðum var ég ekkert að umturna lífi mínu með einhverjum öfgum,“ segir hún. „Ég held nefnilega að stærstu mistökin sem fólk gerir þegar það ákveður að snúa við blaðinu sé að ætla sér of mikið á of skömmum tíma. Allt á að gerast á einu bretti. Eins og í Biggest Looser. Ég held að það sé ein helsta ástæða þess að fólk gefst oft upp.“

María var illa á sig komin og undirlögð af verkjum þegar hún leitaði sér aðstoðar.

Ekki leið á löngu þar til María fór að verða vör við breytingar á sjálfri sér. Á einu ári varð hún líkamlega hraustari en hún hafði verið um langt skeið og það sem meira er: andleg líðanin tók stakkaskiptum. Hún hélt því áfram með skynsemina að leiðarljósi og fimm árum síðar kveðst hún vera allt önnur en þegar hún steig fyrst inn á stöðina illa á sig komin og undirlögð af verkjum.

„Lífið er allt annað í dag. Ég er léttari en það sem skiptir meiru er að ég er í betra formi og mér líður betur andlega. Reyndar fæ ég enn höfuðverki af og til en með reglulegri hreyfingu hefur mér tekist að draga úr þeim,“ segir hún og kveðst enn stunda hóptímana af fullum krafti. Að auki er hún byrjuð að hlaupa og fara í fjallgöngur á sumrin til að brjóta upp rútínuna.

„Lífið er allt annað í dag. Ég er léttari en það sem skiptir meiru er að ég er í betra formi og mér líður betur andlega.“

Spurð hvort hún eigi einhver ráð handa fólk sem er í svipuðum sporum og hún var sjálf í segir María að fyrsta skrefið sé að leita sér aðstoðar. „Taktu skrefið og fáðu hjálp. Faglega hjálp. Það er ekkert að því. Ég veit það getur verið erfitt. En treystu mér, það margborgar sig,“ segir hún glaðlega.

Texti / Roald Eyvindsson

Læknir í sauðagæru: „Lygar hans virkuðu“

|
|

Það brutust út mikil fagnaðarlæti á miðvikudaginn síðasta þegar Larry Nassar, fyrrverandi læknir fimleikalandsliðs Bandaríkjanna, var dæmdur í 40 til 175 ára fangelsi fyrir að misnota tugi fimleikakvenna kynferðislega. Fórnarlömb hans og fjölskyldur þeirra féllust í faðma og felldu tár en það má með sanni segja að hugrekki og samstaða þeirra 156 kvenna sem stigu fram og sögðu frá ofbeldinu hafi ekki aðeins komið lækninum á bak við lás og slá það sem eftir er af ævi hans, heldur einnig veitt fjölda kvenna innblástur um allan heim til að opna sig um sína reynslu af kynferðislegu ofbeldi og áreitni.

„Þú átt ekki skilið að ganga út úr fangelsi nokkurn tímann aftur“

Andrúmsloftið var spennuþrungið þegar dómarinn Rosemarie Aquilina las upp sínar hugleiðingar um málið og síðan loks dóminn sjálfan.

„Ég hef sagt það sem ég þurfti að segja við fórnarlömbin. Ég hef samt aðeins meira að segja: Þið eruð ekki lengur fórnarlömb, þið eruð manneskjur sem lifðu af. Þið eruð mjög sterkar og ég hef talað við ykkur allar í einrúmi,“ sagði Rosemarie áður en hún sagðist hafa skrifað undir dauðadóm Larry Nassar.

„Þú átt ekki skilið að ganga út úr fangelsi nokkurn tímann aftur,“ sagði dómarinn og bætti við.

„Hvert sem þú myndir fara, myndir þú eyðileggja þá sem liggja best við höggi.“

Hægt er að lesa alla ræðu Rosemarie Aquilina þegar hún kvað upp dóm yfir lækninum með því að smella hér. En einnig er hægt að horfa á dóminn hér fyrir neðan:

Fyrsta fórnarlambið sem steig fram átti lokaorðið

Upphaflega áttu 88 stúlkur og konur að bera vitni gegn Larry Nassar í þessu máli sem talið er vera það stærsta sinnar tegundar innan bandaríska íþróttaheimsins, og þó víðar væri leitað. Þessi fjöldi vitna hins vegar næstum því tvöfaldaðist þegar yfirheyrslur hófust. Ein af annarri færðu þær réttarsalnum, og í raun öllum heiminum, vitnisburð sinn. Þær stóðu fyrir framan kvalara sinn og ávörpuðu manninn sem braut traust svo margra ungra íþróttakvenna og fjölskyldna þeirra.

Síðasta fórnarlambið sem talaði við réttarhöldin var fyrrverandi fimleikastjarnan Rachael Denhollander. Má segja að það hafi verið táknrænt að hún hafi átt lokaorðið þar sem hún var sú fyrsta sem kom opinberlega fram og sakaði lækninn um kynferðislegt ofbeldi, nánar tiltekið í viðtali við fréttamiðilinn Indianapolis Star í september árið 2016.

„Síðustu sextán árin hef ég gert mér grein fyrir því að ég ber ábyrgð, og hvort ég eigi að tala opinberlega eða ekki snýst ekki um hvað sé auðvelt fyrir mig að gera. Þetta er ekki eitthvað sem mig langar að gera,“ sagði Rachael í viðtalinu á sínum tíma, en rannsóknarvinna Indianapolis Star var það sem sannfærði hana um að stíga fram.

Rachael kærði Larry Nassar vegna meðferðar sem hún fékk við mjóbaksverkjum þegar hún var fimmtán ára árið 2000. Hún sótti fimm tíma hjá lækninum og sagði að í hverjum tíma hefði hann orðið aðgangsharðari en þeim fyrri. Hún sagði hann hafa nuddað kynfæri sín, stungið tveimur fingrum upp í leggöng sín og endaþarm og tekið sig úr brjóstahaldara og nuddað brjóst sín. Í viðtali við Indianapolis Star sagði Rachael að móðir hennar hefði komið með henni í alla tíma en að læknirinn hafi snúið henni þannig að móðir hennar sá aðeins höfuð hennar og bak.

„Ég var logandi hrædd. Ég skammaðist mín. Ég fór svo mikið hjá mér. Og ég var mjög ringluð þegar ég reyndi að skilja það sem var að gerast í ljósi þess hvaða manneskja hann átti að vera. Hann var frægur læknir. Vinir mínir treystu honum. Aðrar fimleikakonur treystu honum. Hvernig gat hann verið í þessari stöðu innan læknastéttarinnar, hvernig gat hann náð til slíkra metorða ef þetta var sá sem hann var?“ sagði Racheal.

Þöggun innan fimleikastéttarinnar

Þetta viðtal og rannsóknarvinna Indianapolis Star afhjúpuðu Larry Nassar sem kynferðisabrotamann sem hafði fengið að brjóta ítrekað á fimleikakonum um árabil. Það sannfærði einnig fleiri konur að stíga fram, sem kom Rachael á óvart.

„Ég vissi hve margar konur Larry hafði brotið á. Hvort einhver af þeim myndi þora að stíga fram var alltaf óvissa,“ sagði Rachael.

Í þessu viðamikla máli hefur ekki aðeins óeðli læknisins verið afhjúpað heldur einnig þöggun innan fimleikastéttarinnar um hegðun hans. Eftir að Larry var dæmdur í fangelsi létu þrír stjórnarmenn bandaríska fimleikasambandsins af störfum, þau Paul Parilla, formaður fimleikasambandsins, Jay Binder, varaformaðurinn og Bitsy Kelley, gjaldkerinn. Þá hefur John Geddert, þjálfara fimleikalandsliðsins á Ólympíuleikunum í Lundúnum 2012 og nánum samstarfsmanni læknisins, verið vikið frá störfum á meðan hann er rannsakaður. Svo var það Lou Anna Simon, rektor Michigan State-háskólans sem sagði af sér nokkrum klukkutímum eftir að læknirinn var dæmdur í fangelsi, en Larry starfaði við háskólann frá 1997 til 2016. Lou Anna hefur alfarið neitað því að hafa vitað af misnotkuninni.

Ljóst er að þetta mál er hvergi nærri búið þó að læknirinn sé kominn á bak við lás og slá. Rachael er meðal fjölmargra íþróttamanna sem hafa kært Michigan State-háskólann, fimleikasambandið og Twistars, æfingastöð sem beindi íþróttamönnum til Larry í meðferð. Íþróttafólkið heldur því fram að þjálfarar, lögregluyfirvöld, þjálfarar ráðnir af háskólanum og ráðgjafar hafi ekki rannsakað mál sem komu á borð til þeirra almennilega er varðaði hegðun læknisins. Þá hafa íþróttakonur á borð við Larissa Boyce og Tiffany Thomas-Lopez haldið því fram að þær hafi talað við þjálfara hjá Michigan State-háskólanum um Larry en að ekki hafi verið tekið mark á kvörtununum.

Larry Nassar þungt hugsi í réttarsalnum.

Fékk kraft í hvert sinn sem hann slapp

„Það gerðist ekkert þegar ásakanir höfðu verið settar fram,“ sagði saksóknarinn Angela Povilaitis í lokaræðu sinni áður en Larry var dæmdur í fangelsi. „Lygar hans virkuðu. Í hvert sinn sem hann slapp fékk hann kraft til að halda áfram, til að fullkomna aðferðir sínar og misnota fleiri.“

Hún þakkaði einnig rannsóknarblaðamönnum Indianapolis Star fyrir að hrinda þessu máli af stað.

„Án þessarar fyrstu greinar í Indianapolis Star í ágúst árið 2016, án greinarinnar þar sem Rachael steig fram opinberlega, þá væri hann enn að starfa sem læknir, að meðhöndla íþróttamenn og misnota börn,“ sagði hún og bætti við:

„Aðgerðarleysi er aðgerð. Þögn er skeytingarleysi. Réttlæti þarf aðgerð og rödd. Og það er það sem gerðist hér í réttarsalnum.“

Litlar stelpur verða sterkar konur sem eyðileggja heiminn þinn

Það verður forvitnilegt að sjá hvaða dilk þessi fangelsisdómur dregur á eftir sér, en við skulum líta á nokkrar af þeim tugi frásagna sem komu fram við réttarhöldin.

„Ég bar vitni til að láta heiminn vita að þú ert viðbjóðslegur lygari og að „meðferðir“ þínar voru dulbúið kynferðislegt ofbeldi. Þú hefur kannski áttað þig á því núna, en litlar stelpur eru ekki litlar að eilífu. Þær vaxa úr grasi og verðar sterkar konur sem snúa aftur til að eyðileggja heiminn þinn,“ sagði Kyle Stephens, fyrsta fórnarlambið sem talaði við réttarhöldin. Hún sagði að Larry hefði misnotaði sig frá 6 ára aldri og þar til hún varð 12 ára.

„Hann var læknirinn. Ég var barnið. Ég hafði ekki hugmynd um hvað mér ætti að finnast um þetta. Í langan tíma tókstu frá mér hamingjuna. Í hvert sinn sem einhver kallar mig „Kiddo“ hugsa ég um andlitið þitt þegar þú varst að misnota mig,“ sagði Maddie Johnson.

„Ég veit sannleikann. Ég man, alveg sama hvort hann man hvað hann gerði mér eða ekki. Það er það sem skiptir máli. Þú vissir að það sem þú varst að gera var rangt. Það var ekki fyrr en þú varst gómaður að þú grátbaðst um fyrirgefningu,“ sagði Christine Harrison sem sagði Larry hafa misnotað sig þegar hún var 15 og 16 ára.

„Hann snerti saklausustu líkamsparta mína. Ég gat ekki verið venjuleg stelpa lengur og ég glataði stórum parti af barnæsku minni að eilífu vegna misnotkunar hans,“ sagði Jessica Thomashaw sem sagði lækninn hafa misnotað sig frá 9 til 12 ára aldurs.

Gina Nichols, móðir fimleikakonunnar Maggie Nichols, las frásögn dóttur sinnar í réttarsalnum. Hún sagði að það væri of sársaukafullt fyrir dóttur sína að gera það sjálf, en Maggie leitaði til læknisins þegar hún var 15 ára:

„Ég man að hann fór með mig inn í æfingaherbergi, lokaði hurðinni og dró fyrir glugga. Ég hugsaði þá að þetta væri pínulítið skrýtið en hélt að þetta hlyti að vera í lagi. Ég treysti því sem hann var að gera í fyrstu en síðan byrjaði hann að snerta mig á stöðum sem mér fannst ekki rétt af honum að snerta mig á. Hann var ekki með hanska og hann sagði mér ekki það sem hann var að gera. Það var enginn annar í herberginu og ég samþykkti það sem hann gerði því fullorðna fólkið sagði mér að hann væri besti læknirinn og gæti hjálpað við að lina sársauka minn.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Nýjasta tónlistarmyndband Justin Timberlake tekið í einu skoti

|
|

Tónlistarmaðurinn Justin Timberlake frumsýndi myndband við nýjasta lag sitt, Say Something, fyrir helgi. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að myndbandið var allt tekið í einu skoti, svokallað single shot video. Lagið er á væntanlegri plötu Justins, Man of the Woods, sem kemur út 2. febrúar næstkomandi.

Justin leitaði til La Blogothèque til verksins, en það er samvinnuverkefni ýmissa kvikmyndagerðarmanna með bækistöðvar í París. Fyrrnefndir kvikmyndagerðarmenn eru þekktastir fyrir tónlistarmyndbönd sem tekin eru í einu skoti, til að mynda Start a War með The National og Marry Me með St. Vincent. Hingað til hafði fyrirtækið tekið upp myndbönd fyrir listamenn á barmi heimsfrægðar en myndbandið við Say Something er dýrasta og metnaðarfyllsta verkefni La Blogothèque frá stofnun þess fyrir um áratug.

„Þetta hefði getað orðið algjör hörmung“

Í viðtali við tímaritið Esquire segir Arturo Perez Jr., leikstjóri Say Something, að margar vikur hafi farið í skipulagningu verkefnisins.

„Þetta hefði getað orðið algjör hörmung,“ segir hann og bætir við að Justin hafi lagt mikla áherslu á að vera einlægur í myndbandinu.

„Það er svo mikið í húfi oft þegar unnið er með svona vinsælum listamönnum. Og ég verð að hrósa honum fyrir það að hann vildi vera berskjaldaður.“

Gekk um eins og brjáluð manneskja

Arturo valdi að taka myndbandið upp í hinni frægu Bradbury-byggingu í Los Angeles, sem er hvað þekktust fyrir að leika stórt hlutverk í kvikmyndinni Blade Runner. Arturo stúderaði lagið Say Something og fannst byggingin passa við texta lagsins, eins konar völundarhús heilans. Undirbúningur fyrir tökur á myndbandinu tók tvær vikur.

„Ég gekk um Bradbury-bygginguna í tvo og hálfan dag – ég bara gekk um eins og brjáluð manneskja. Við gengum og gengum og töluðum um þetta,“ segir Arturo í viðtali við Esquire og bætir við að hann og teymið hans hafi ekki viljað að myndbandið yrði kynningarbrella fyrir tónlistarmanninn.

„Við fáum ekkert út úr því að skjóta myndband í einni töku. Við fáum eitthvað út úr því að búa til ljóð.“

Justin Timberlake og Chris Stapleton.

Tónlistin tekin upp um leið

Á tökudegi unnu tvö hundruð manns við myndbandið, þar á meðal sautján tónlistarmenn og sextíu manna kór. Tónlistin var nefnilega tekin upp á staðnum þannig að þetta er í raun meira en bara myndband sem tekið er í einni töku. Þetta er líka lag sem hljóðritað er í einni töku. Æfingar hófust klukkan ellefu um morguninn en tökuliðið hafði aðeins tíu mínútur til að taka upp myndbandið til að ná djúpbláum lit næturhiminsins í gegnum glugga Bradbury-byggingarinnar. Og það tókst.

„Ég er ekki að grínast þegar ég segi að þetta er fyrsta og eina takan okkar að kvöldi til. Þetta er Justin Timberlake, fjandakornið. Gaurinn er fagmaður. Og Chris Stapleton var svo góður. Ég veit ekki hvort hann vissi nákvæmlega hvað var á seyði en hann er listamaður og bara gerði þetta,“ segir Arturo og vísar í bandaríska tónlistarmanninn Chris Stapleton sem flytur lagið með Justin.

Útkoman er vægast sagt áhrifamikil en það er oft sagt að tónlistarmyndbönd, atriði, stuttmyndir eða myndir í fullri lengd séu eins konar manndómsvígsla fyrir kvikmyndagerðarmenn. Það er mikil kúnst að taka upp á þennan hátt og er það viss gæðastimpill fyrir kvikmyndagerðarmanninn ef vel tekst til.

Nokkrar myndir í fullri lengd hafa verið teknar í einni töku, til dæmis Timecode frá árinu 2000, Russian Ark frá árinu 2002, PVC-1 frá árinu 2007 og Victoria frá árinu 2015. Þá vildi goðsagnakenndi leikstjórinn Alfred Hitchcock láta virðast sem kvikmyndin Rope frá árinu 1948 væri tekin í einni töku. Hins vegar voru myndavélar á þeim tíma ekki nógu fullkomnar til að taka upp í svo langan tíma. Hver myndavél gat einungis tekið upp 1000 fet á 35 millimetra filmu í einu, eða í um það bil tíu mínútur. Öll myndin var því tekin upp í ellefu skotum.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Verslað í matinn með Miröndu Kerr

Ofurfyrirsætan Miranda Kerr, sem er hvað þekktust fyrir að vera engill nærfatarisans Victoria’s Secret, stjórnar vikulegum þáttum á myndbandarás tímaritsins Harper’s Bazaar sem heita Little Black Book of Wellness. Í þáttunum fáum við innsýn í líf ofurfyrirsætunnar og sjáum hvernig hún heldur sér í góðu jafnvægi, bæði andlega og líkamlega.

Í nýjasta þættinum talar Miranda mikið um kosti þess að stunda kundalini jóga, en það er nánast eina hreyfingin sem hún stundar.

Þá fer Miranda líka í matvöruverslun og sýnir áhorfendum hvað hún lætur ofan í sig. Það kemur líklegast ekki á óvart að Miranda er lítið í ruslfæði og skyndibita og velur frekar að versla sér ferskt grænmeti og ávexti. Hún elskar lárperu og greipaldin og leggur mikið upp úr því að versla sér mat sem er lífrænn.

Þegar kemur að eggjum og kjúlkingi kaupir hún eingöngu afurðir af hænum í lausagöngu.

Eins og áhorfendur fá að sjá og heyra í meðfylgjandi þætti á Miranda von á barni með milljarðamæringnum Evan Spiegel, meðstofnanda Snapchat. Evan og Miranda trúlofuðu sig í júlí árið 2016 og giftu sig í maí ári síðar. Það var svo í nóvember í fyrra að þau tilkynntu að þau ættu von á sínu fyrsta barni saman.

Fyrir á Miranda soninn Flynn Cristopher Blanchard Copeland Bloom með leikaranum Orlando Bloom, en snáðinn kom í heiminn þann 6. janúar árið 2011. Miranda og Orlando byrjuðu saman seint á árinu 2007 og gengu í það heilaga árið 2012. Þau skildu þremur árum síðar.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Tíu ár án Heath Ledger

||
||

Leikarinn Heath Ledger fannst látinn í íbúð sinni á Manhattan í New York þann 22. janúar árið 2008, aðeins 28 ára að aldri. Allir fjölmiðlar fylltust af fréttum af andláti hans, en hann lést úr of stórum skammti af lyfseðilsskyldum lyfjum.

Heimurinn stóð á öndinni, sérstaklega í ljósi þess að aðeins nokkrir mánuðir voru í frumsýningu myndar sem myndi gjörbreyta hans ferli; The Dark Kinght. Heath fór með hlutverk Jókerins, persónu sem flestir höfðu tengt við Jack Nicholson síðan hann túlkaði þennan skrautlega karakter í Batman árið 1989. Heath hins vegar gerði persónuna algjörlega að sinni, og svo fór að hann hlaut Óskarsverðlaun fyrir frammistöðu sína á Óskarsverðlaununum árið 2009. Með því varð hann önnur manneskjan til að vinna Óskarinn eftir andlát, en sá fyrsti var leikarinn Peter Finch sem vann fyrir frammistöðu sína í Network árið 1976.

Ómögulegt er að segja hvaða stefnu ferill geðþekka, ástralska leikarans hefði tekið ef hann væri á lífi í dag en ljóst er að hann skipar sér í raðir goðsagna á borð við Marilyn Monroe, Bruce Lee og James Dean, listamanna sem yfirgáfu þetta jarðneska líf alltof snemma.

Heath sem hjartaknúsarinn Patrick í 10 Things I Hate About You.

Óttalaus í hlutverkavali

Heath virtist vera óttalaus í vali sínu á verkefnum. Hann sló í gegn í Hollywood í kvikmyndinni 10 Things I Hate About You árið 1999, aðeins tvítugur að aldri. Þá strax var ljóst að stjarna var fædd þar sem hann bjó ekki aðeins yfir gífurlegum sjarma á hvítu tjaldinu heldur sýndi einnig að hann bjó yfir hæfileika til að túlka trúverðugar manneskjur sem náðu til áhorfenda.

Meðal annarra mynda sem hann stal senunni í voru The Patriot, Monsters Ball og Knight’s Tale. Árið 2005 urðu síðan þáttaskil á hans ferli þegar hann tók að sér hlutverk Ennis Del Mar í kvikmynd Ang Lee, Brokeback Mountain. Er það mat manna að þetta hafi verið ansi djarft val hjá Heath eftir aðeins sex ár í Hollywood-bransanum. Þó að myndin hafi fengið einróma lof gagnrýnenda þá vakti hún hins vegar upp mikla fordóma í mörgum áhorfendum og var af einhverjum kölluð myndin um samkynhneigðu kúrekana. Heath og meðleikarar hans, Jake Gyllenhaal og Michelle Williams voru rómuð fyrir leik sinn og fékk Heath til að mynda tilnefningu til Óskarsverðlaunanna sem besti leikari í aðalhlutverki.

Þetta hlutverk Heath varð hins vegar til þess að ekki voru allir á eitt sáttir þegar tilkynnt var að hann myndi túlka Jókerinn í The Dark Knight. Warner Bros-kvikmyndaverið fékk á sig mikla árás og dundu haturspóstarnir og hatursfull orðræða um samkynhneigða yfir kvikmyndaverið þegar ljóst var um ráðningu Heath.

Heath sló í gegn í Brokeback Mountain.

Matilda og Michelle

Það má líka segja að hlutverkið í Brokeback Mountain hafi verið mikil blessun fyrir leikarann sáluga því það var á setti þeirrar myndar sem hann kynntist leikkonunni Michelle Williams. Þau byrjuðu í framhaldinu saman og í október árið 2005 eignuðust þau dótturina Matilda Rose. Árið 2007 hættu þau saman en í nýlegu viðtali við tímaritið Porter sagðist Michelle enn eiga erfitt með að sætta sig við andlát Heaths.

„Í hreinskilni sagt, í nánast hvaða kringumstæðum sem er, trúi ég að maður þurfi að sætta sig við hver maður er og hvar maður hefur verið. Í nánast öllum kringumstæðum nema einum; ég get ekki hugsað svona þegar ég hugsa um að Matilda eigi ekki föður. Það er bara eitthvað sem verður aldrei réttlátt.“

Heath Ledger átti alltaf erfitt með að vera í sviðsljósinu, sem útskýrir af hverju hann hafnaði stórum hlutverkum eins og í Spider-Man árið 2002, en þá er einungis hægt að ímynda sér hvaða hlutverk hann hefði tekið að sér til dagsins í dag. Ljóst er að leikarinn setti sitt varanlega mark á kvikmyndaheiminn og lifir enn í hjörtum aðdáenda sinna um heim allan.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Teiknar heimsfrægt fólk sem er alls staðar á netinu

|||||
|||||

„Mismunandi andlitslag fólks er oft það sem veitir mér innblástur, einnig svipbrigði og skuggar. Það er mismunandi hvaða ljósmynd heillar mig hverju sinni,“ segir Anita Ástrós Pétursdóttir. Anita er 23ja ára og útskrifuð af myndlistarbraut frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.

Mynd / Úr einkasafni
Anita Ástrós.

Anita hefur vakið eftirtekt fyrir myndir sem hún teiknar af þekktum tónlistarmönnum, þar á meðal Rihönnu, Tupac, Bob Marley og Ariönu Grande. Hún segir teikningaráhugann hafa kviknað mjög snemma.

„Ég hef verið að teikna síðan ég var lítil en ég fékk fyrst áhuga á tölvuteikningu síðasta árið mitt í Fjölbraut í Breiðholti út frá áfanga þar sem kennt er á Adobe-forritin, Photoshop, Illustrator og InDesign. Ég fiktaði svo aðeins við að teikna meir í tölvu eftir það en ekkert af alvöru fyrr en um mitt síðasta ár. Þá byrjaði ég að prófa mig áfram við að teikna á iPad í forriti sem heitir Procreate og hef verið að nota það mikið síðan,“ segir Anita.

Skemmtilegast að teikna portrettmyndir

Þó að fari mest fyrir teikningum af heimsfrægu fólki segir Anita að hún teikni líka önnur viðfangsefni, allt eftir því hvað fangar hana hverju sinni.

Poppstjarnan Rihanna.

„Ég byrjaði á að teikna fólk sem veitir mér innblástur á einhvern hátt og heillar mig. Oft sé ég líka myndir af þessu fólki sem mér finnst fallegar og langar til að teikna. Ég er alveg líka að teikna öðruvísi myndir, eins og tískuskissur og -teikningar til dæmis, en mér finnst skemmtilegast að teikna portrettmyndir. Og þar sem frægt fólk er alls staðar á netinu er auðvelt að detta í það að teikna þau.“

Anita teiknar líka eftir pöntun og hefur fengið góð viðbrögð við listaverkunum sínum.

„Ég hef verið að taka að mér nokkur verkefni og finnst mér mjög gaman að fá pantanir frá áhugasömu fólki. Ég er tiltölulega nýbyrjuð að setja inn myndir eftir mig á samfélagsmiðla en hingað til hef ég fengið jákvæð viðbrögð. Það veitir mér líka innblástur að fólki líki við það sem ég er að gera,“ segir Anita.

Ætlar að auka við kunnáttuna

Hún stefnir á meira nám í hönnun en hefur frá útskrift úr Fjölbraut í Breiðholti varið tímanum í að átta sig á hvaða stefnu hún ætlar að taka í lífinu.

„Eftir að ég útskrifaðist hef ég verið að vinna og ferðast einna helst og reyna að finna betur út úr því hvaða háskólanám mun henta mér best, en ég stefni líklegast á grafíska hönnun eða tískuhönnun á næstunni, nám þar sem ég get haldið áfram að auka við kunnáttu mína.“

Þeir sem vilja fylgjast með Anitu er bent á Instagram– og Facebook-síður hennar.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Nekt, eldi, sirkusdýrum og konfetti gæti brugðið fyrir á sviðinu

||||||
||||||

Sex lög keppa í fyrra undankeppni Söngvakeppninnar þann 10. febrúar næstkomandi í Háskólabíó og freista þess að komast í úrslitakeppnina þann 3. mars, og jafnvel alla leið í aðalkeppni Eurovision í Lissabon í maí.

Við ákváðum að kynnast flytjendunum sem stíga á stokk þetta fyrra undanúrslitakvöld og spyrja þá spjörunum úr áður en Eurovision-tryllingurinn heltekur þá alveg.

Fékk martraðir um finnsku sveitina Lordie

Ari Ólafsson flytur lagið Heim, sem heitir á ensku Our Choice, og er samið af Þórunni Ernu Clausen. Hann hefur alltaf verið mikill aðdáandi Eurovision og finnst að íslenska þjóðin eigi að fylgja hjartanu þegar hún kýs sín eftirlætislög.

Af hverju Eurovision?

Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Eurovision og ég fékk flott tækifæri með lag sem mér þótti afskaplega fallegt, svo ég kýldi á það!

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?

Lagið er um þennan valmöguleika sem við höfum öll; að hjálpa til og að borga áfram með jákvæðni og samúð, i stað þess að dæma, gagnrýna og meiða.

Hvernig var tilfinningin þegar þú komst að því að lagið væri komið í undanúrslit?

Mjög góð. Ég varð mjög spenntur mjög hratt þegar ég fattaði: Já… djók! Ég er að fara að keppa!

Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?

Hard Rock Hallelujah með Lordie. Ég man það þvi ég var svo sjúklega hræddur við þá að ég fékk martraðir um þá.

Ari varð mjög spenntur þegar hann fattaði að hann væri að fara að keppa í Eurovision

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Fairytale með Alexander Rybak. Það lag var bara svo sjúklega fallegt og flott á sviðinu. Ég mun aldrei gleyma þvi atriði.

Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa þig?

Mér finnst að fólk eiga alltaf að fylgja hjartanu sínu og ef þeim finnst lagið vera fallegt og ég syngja það vel þá ætti það að kjósa mig.

Er líf eftir Eurovision?

Já að sjálfsögðu. Lífið heldur alltaf áfram.

Hrópuðu af gleði í hópsímtali

Fókus hópurinn, sem skipar þau Sigurjón Örn Böðvarsson, Rósu Björg Ómarsdóttur, Hrafnhildi Ýr Víglundsdóttur, Karitas Hörpu Davíðsdóttur og Eirík Þór Hafdal, flytur taktfasta popplagið Aldrei gefast upp, eða Battleline. Þrettán ár eru á milli elsta og yngsta flytjandans og lofa litríku atriði á stóra sviðinu.

Af hverju Eurovision?

Langþráður draumur flestra í hópnum og einn stærsti stökkpallur tónlistarfólks á Íslandi og þótt víðar væri leitað

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?

Fyrir okkur er lagið um að fylgja draumum sínum og ástríðum og gefast ekki upp á þeim og sjálfum sér, en lagið má túlka á fleiri en einn veg.

Hvernig var tilfinningin þegar þið komust að því að lagið væri komið í undanúrslit?

Ofboðslega glöð og spennt, við hringdumst á og skiptumst á að hrópa af gleði og enduðum í einu stóru hópsímtali þar sem við vorum stödd á mismunandi stöðum í heiminum.

Fókus hópurinn flytur lag sem fjallar um að gefast aldrei upp.

Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?

Þar sem það eru 13 ár milli yngsta og elsta í hópnum eru minningar okkar mismunandi, allt frá Söndru Kim til Selmu Björns. Sandra var í eftirminnilegum bleikum jakkafötum, eins yngsti keppandi sem hafði keppt og Selma var bara svo gaddem gordjöss.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Við fórum strax að rífast um það og því ómögulegt að segja um hvert uppáhaldslag hópsins er, en við erum sammála um að þau eru fáránlega mörg.

Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?

Já, það gæti brugðið fyrir nekt, eld, sirkusdýrum og/eða konfetti. Mikilvægt að horfa! Rósa verður einnig í einangrunarplasti þar sem í fyrra gleypti hún konfetti og allar líkur á að hún slasi sig í beinni.

Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?

Það er ómögulegt að segja, líkur eru á því að við myndum mennskan pýramída og Sigurjón fari úr fötunum en að öllu gríni slepptu munum við, alveg ekki spurning, brjótast út í einhverri óstjórnlegri hysterískri gleði.

En ef þið tapið?

Er hægt að tapa? Sigurinn var að komast inn í keppnina, allt annað er bónus.

Breytir tárum í stjörnur

Söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir er Íslendingum kunn, en hún syngur lagið Ég mun skína, eða Shine, sem hún samdi ásamt Agnari Friðbertssyni. Þórunn varð lífshættulega veik þegar hún fæddi dóttur sína fyrir nokkrum árum, en hún finnur enn fyrir slæmum áhrifum veikindanna. Texti lagsins fæddist eitt kvöldið þegar henni leið illa og táknar hann von um betri líðan.

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?

Ég samdi textann bæði á ensku og íslensku um persónulega reynslu og viljann og vonina að komast upp úr erfiðleikum. Ég varð lífshættulega lasin þegar ég fæddi dóttur mína fyrir nokkrum árum og ónæmiskerfið mitt hefur ekki alveg hlýtt mér síðan. Ég hef verið lasin og þreyttari en áður og það dregur mig oft niður, en eitt kvöldið kom þessi texti út frá von um betri líðan. Ég notaði tunglið og stjörnurnar sem einskonar myndlíkinu fyrir þessar tilfinningar. Að breyta tárum í stjörnur og að skína þrátt fyrir allt. Við dílum öll við allskonar rugl en vonin og gleðin má ekki slökkna.

Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?

Nei eða Já? með Stjórninni. Ég lifði fyrir Siggu og Grétar sem barn – þau voru langflottustu.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Euphoria, af því að það er bara tryllt lag.

Þórunn Antonía er mikill aðdáandi Stjórnarinnar.

Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi þínum í beinni útsendingu?

Já svo sannarlega. Ég segi ekki meir.

Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?

Það held ég að sé ansi hæpið en það varpar hinsvegar ljósi á listamenn og það eykur líkur á giggum og tækifærum til að græða peninga. Peningar eru líka yfirleitt það síðasta sem listamenn hugsa um en það fyrsta sem þá vantar. Allir halda að listamenn eigi peninga, sérstaklega ef þeir eru þekktir, og oft er verið að biðja fólk um að koma ókeypis fram því það er svo “góð kynning”. Þetta er vinna eins og öll önnur en svo snýst ekki allt um peninga. Ef maður fer saddur að sofa og á í sig og á er það flott. Mér finnst til dæmis tími með dóttur minni dýrmætari en allir peningar.

Er líf eftir Eurovision?

Það ætla ég rétt að vona, nema ég drepist á sviðinu..sem væri nú ansi dívulegur dauðdagi.

Pössum okkur að festast ekki í snjallskjánum

Nýliðarnir Þórir Geir Guðmundsson og Gyða Margrét Kristjánsdóttir syngja dúettinn Brosa, eða With You, sem samið er af Fannari Frey Magnússyni og Guðmundi Þórarinssyni, sem eiga reyndar líka lag í seinni undankeppninni. Sterkasta Eurovision-minning þeirra beggja er af hinni einu, sönnu Silvíu Nótt.

Af hverju Eurovision?

Af hverju ekki?

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?

Okkur finnst lagið tilheyra okkar kynslóð svo vel. Það er að segja sérstaklega íslenski textinn þar sem hann fjallar um þær hugsanir sem fara í gegnum kollinn á manni þegar maður skoðar samfélagsmiðla nútímans, þar sem fólki hættir til að bera sig saman við aðra. Og sá boðskapur að við megum ekki gleyma því að hugsa um allt það sem er í kringum okkur og fólkið sem er í kringum okkur; passa sig að festast ekki í skjánum.

Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?

Við erum sammála um það að fyrsta og sterkasta minningin sé Silvía Nótt – Til hamingju Ísland. Það er mjög minnisstætt vegna þess hversu öðruvísi það var. Við vorum líka á þeim aldri þar sem maður tók öskudaginn á þetta. Öll umfjöllunin í kringum lagið, atriðið sjálft og karakterinn Silvía Nótt.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Sko, uppáhaldslagið hans Þóris er Open Your Heart – Birgitta eða Gleðibankinn. Uppáhaldslag Gyðu er hinsvegar Verka Serduchka – Dancing Lasha Tumbai.

Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?

Já, ætli atriðið muni ekki koma örlítið á óvart. Kannski ekki, en það verður að minnsta kosti alveg geggjað!

Þórir og Gyða lofa geggjuðu atriði.

Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?

Ef fólk fílar lagið, ekki hika við að kjósa það. Við myndum kunna sjúkt mikið að meta það! Það er ómetanlegur stuðningur. En við ætlum fyrst og fremst að hafa gaman að þessu og vonum að allir sem horfa munu gera það líka. Við segjum: Ef þið eruð brosandi í lok lags = kjósið’a.

Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?

Ríkur af nýjum vinum, nýrri reynslu og geggjuðum minningum já. Moldríkur.

Er líf eftir Eurovision?

Hvurslags spurning, auðvitað! Heillangt og geggjað líf framundan og í þokkabót er maður reynslunni ríkari.

Grét í fyrsta sinn yfir Eurovision í fyrra

Sólborg Guðbrandsdóttir syngur lagið Ég og Þú, eða Think It Through, með Tómasi Helga Wehmeier. Þau sömu lagið og enska textann ásamt Rob Price en Davíð Guðbrandsson á heiðurinn af íslenska textanum. Hún segist ganga sátt frá borði, sama hvort þau komist áfram eður ei.

Af hverju Eurovision?

Eurovision er mikil áskorun og við Tómas höfum gaman af þeim. Við ákváðum bara að kýla á þetta og sendum lag í keppnina án þess að búast endilega við því að komast í gegn. Söngvakeppnin hérna heima er ótrúlega fagleg, hún nýtur mikilla vinsælda og er bara ógeðslega skemmtileg. Við erum mjög þakklát fyrir það að hafa fengið þetta tækifæri.

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?

Þetta lag er ólíkt þeirri tónlist sem við Tómas erum vön að syngja. Við sömdum það ásamt Rob, vini okkar, í London í ágúst síðastliðnum og ég held að þetta lag muni alltaf minna okkur á þá ævintýraferð. Textinn í laginu minnir mann á það að þetta verði allt saman allt í lagi á endanum, sama hvað. „Trúum að við verðum, hvað sem verður, ég og þú.“

Sólborg og Tómas hafa gaman að áskorunum.

Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?

Ætli það sé ekki „All out of luck“ með Selmu Björns. Það er einhvern veginn alltaf fyrsta lagið sem ég hugsa um þegar ég heyri minnst á Eurovision. Ég var líka svo heppin að fá að syngja það í annarri undankeppninni árið 2013 með hljómsveit sem ég var í þá, White Signal. Það er eitthvað sem ég gleymi seint.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

„Amar Pelos Dois“ með Salvador Sobral sem sigraði í fyrra, það er eina skiptið sem ég hef grátið yfir Eurovision. Mitt uppáhalds íslenska lag er „Ég á líf“.

Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?

Ég veit það ekki, ætli við yrðum ekki lengi að átta okkur á því. Við höfum þó reynt að taka eitt skref í einu frá því þetta byrjaði allt saman. Við ætlum bara að njóta þess að syngja fyrir þjóðina í undanúrslitunum og hafa gaman, ef við komumst svo áfram í úrslitin er það bara algjör bónus.

En ef þið tapið?

Þá munum við ganga sátt frá borði. Þetta ferli er búið að vera algjört ævintýri og við erum búin að kynnast helling af dásamlegu fólki, maður getur ekki kvartað yfir því.

Er líf eftir Eurovision?

Eftir Eurovision er lífið rétt að byrja.

Eiga erindi í Eurovision

Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Vigdís Gunnarsdóttir skipa sveitina Heimilistóna sem hefur verið starfrækt um árabil. Þær segja lagið fjalla um það hversdagslega, sem er þó jafnframt afar mikilvægt, nefnilega vináttuna í öllum sínum myndum.

Af hverju Eurovision?

Eurovision er eins og hannað fyrir Heimilistóna. Við elskum litina og gleðina kringum þessa keppni og síðast en ekki síst hvað hún höfðar til breiðs aldurs.

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?

Kveikir í gleðinni og fjallar um það hversdagslega en þó mikilvæga; vináttuna með öllum sínum kostum og göllum

Hvernig var tilfinningin þegar þið komust að því að lagið væri komið í undanúrslitk?

Eftirvænting og mikil gleði. Sú okkar sem fékk símtalið brunaði af stað á bílnum og færði fréttirnar.

Má búast við að eitthvað komi á óvart í ykkar flutningi?

Tjaaa, það hefur ekki verið ákveðið, ekki enn sem komið er. Hver veit?

Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?

Ef fólk kann að meta lagið og kýs okkur út þá lofum við að standa okkur með sóma og gera okkar besta. Við eigum erindi

En ef þið tapið?

Þá er bara að brosa gegnum tárin og svo höldum við áfram okkar góða samstarfi

Heimilistónar elska Eurovision.

Verður einhver ríkur af að taka þátt í Eurovision?

Kannski ekki í veraldlegum skilningi en þetta gefur heilmikla gleði

Er líf eftir Eurovision?

Já, það er líf eftir Eurovision og af nægu að taka í vinnu og leik hjá okkur Heimilistónum.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Myndir / Íris Dögg Einarsdóttir

Bestu skíðasvæðin

|
|

Finna má fyrirtaks skíðasvæði víðsvegar um heim.

Skíðaiðkun er ein heilnæmasta íþrótt sem hægt er að stunda.  Á Íslandi er að finna góð svæði til að renna sér á skíðum en hvert skyldi eiginlega vera gott að fara ef til stendur að skíða úti í heimi?

Sum svæðin eru líka vinsæll staðir til snjóbrettaiðkunar, bæði á meðal byrjenda og þeirra sem lengra eru komnir.

Ef planið er að fara í ferð með fólki með mismikla reynslu á skíðum þá gæti Chamonix í Frakklandi verið málið. Á staðnum eru tólf skíðabrautir, miserfiðar þannig að hver og einn ætti að geta fundið braut við hæfi. Þarna eru sumar af bestum skíðabrekkum Evrópu, fínar brekkur fyrir börn og góðir skíðakennarar. Fyrir utan einstaklega fallegt útsýni úr þorpinu sem er ástæða þess að fólk flykkist þangað.

Madonna á Ítalíu hentar líka bæði byrjendum og þeim sem eru lengra komnir. Svæðið er vel skipulagt og kláfarnir flytja skíðaiðkendur hratt og örugglega upp í brekkurnar. Brautirnar eru fyrsta flokks og hefur svæðið hlotið sérstök verðlaun fyrir gott viðhald á þeim. Fjöldi veitingastaða og verslana er á svæðinu.

Er verið að skipuleggja skíðaferðalag fyrir fjölskylduna? Þá er Neustift í Austurríki mögulega staðurinn því þar er slatti af brekkum til að æfa sig í og fjöldi skíðalyfta. Neustift er líka vinsæll staður til snjó-brettaiðkunar, bæði á meðal byrjenda og þeirra sem lengra eru komnir. Svæðið er opið allt árið um kring.

Kandersteg í Sviss er einn besti staðurinn til að læra á skíði og brekkurnar þar í kring frábærar fyrir byrjendur. Brautirnar henta öllum og eru auðveldar, skemmtilegar og það breiðar að maður getur spreytt sig á alls konar tækjum á leiðinni niður án þess að þvælast fyrir öðrum. Staðurinn er líka vinsæll meðal áhugafólks um fjallaklifur og þeirra sem sækjast eftir rólegheitum í fallegu umhverfi.

Madonna á Ítalíu hentar líka bæði byrjendum og þeim sem eru lengra komnir. Brautirnar eru fyrsta flokks og hefur svæðið hlotið sérstök verðlaun fyrir gott viðhald á þeim.

Reyndir skíðamenn og adrenalínfíklar ættu kannski að beina sjónum sínum að í Igls Austurríki, því þar er hægt að bruna niður brekkur sem keppt var í á Ólympíuleikunum árið 1964 og svo aftur árið 1976. Nokkur af bestu skíðasvæðum Austurríkis eru umhverfis þorpið auk þess sem alls konar afþreying er í boði, til dæmis söfn sem gæti verið gaman að heimsækja og svo eru ýmsar uppákomur allt árið um kring.

Tregafullar frásagnir og óhugnaleg morðmál

Áhugaverð hlaðvörp.

Dirty John er mögnuð sex þátta hlaðvarpssería um óhugnalegt morðmál í Orange County i Bandarík-junum. Hönnuðurinn Debra Newell kynnist hinum heillandi John Meehan í gegnum stefnumótasíðu og fellur fyrir honum þrátt fyrir aðvaranir ástvina sem finnst eitthvað bogið við kauða. Það er ekki fyrr en hana fer sjálfa að gruna að John sé ekki allur þar sem hann er séður sem renna á hana tvær grímur.

Í Ástandsbörnum skoðar fjölmiðlakonan Viktoría Hermannsdóttir hið svokallaða Ástand á hernámsárunum út frá sjónarhóli ástandsbarna, það er börnum íslenskra kvenna og útlendra hermanna. Þetta eru áhugaverðir og vandaðir þættir sem meðal annars svipta hulunni af erfiðum uppvaxtarárum þessara einstaklinga og fordómunum sem margir þurftu að þola vegna uppruna síns.

Terrible, thanks for asking er vandað og vægast sagt áhugavert fimm vasaklúta hlaðvarp þar sem stjórnandinn Nora McInerney fær gesti sína til að deila erfiðum lífsreynslusögum með hlustendum. Allt frá einlægum frásögnum um erfiða skilnaði yfir í tregafullar frásagnir um ástvinamissi. Þótt vissulega sé grátið er glettnin skammt undan og það á sinn þátt í aðdráttarafli Terrible, thanks for asking.

Í þættinum Í ljósi sögunnar eru málefni og atburðir líðandi stundar skoðuð í sögulegu samhengi. Saga Jerúsalem frá fornri tíð og fram að aldamótum 20. aldar, saga Johns F. Kennedy Bandaríkjaforsetja og saga Kim Jong-un einræðisherra í Norður-Kóreu er á meðal ólíkra viðfangsefna en umsjón er í höndum Veru Illugadóttir, sem fjallar um málin af svo mikilli kunnáttu og innsæi að unun er að hlýða á.

Texti / Roald Eyvindsson

Stuðmenn fagna útgáfu Astraltertukubbs

Stuðmenn með útgáfutónleika í Háskólabíói í febrúar.

Stuðmenn standa nú í ströngu við að undirbúa tónleika í Háskólabíói í febrúar, í tilefni af útgáfu á svokölluðum Astraltertukubb sem hefur að geyma valinkunn lög efir sveitina í nýjum útgáfum. Þar á meðal Örstutt lag og hinn vinsæla smell Vor fyrir vestan.

Að sögn hljómsveitarmeðlima spannar tónlistin víðara svið en oft áður hjá sveitinni og er jafnframt að mörgu leyti verið að feta nýjar slóðir hvað Stuðmenn varðar með þessari útfærsla laganna en þar nutu þeir krafta Printz Board, fjölreynds upptökustjóra og útsetjara frá Bandaríkjunum.

Útgáfutónleikar Stuðmanna verða haldnir í Háskólabíói föstudaginn 23. febrúar næstkomandi. Miðasala hefst á tix.is þann 1. febrúar.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Saga Sig.

Óræð útkoma sem minnir á landslag annarar plánetu

Einstakt myndband.

Gyða Valtýsdóttir tónlistarkona stefnir að sinni fyrstu sólóplötu á þessu ári.

Platan Epicycle eftir Gyðu Valtýsdóttur tónlistarkonu var gefin út á heimsvísu á síðasta ári og listamaðurinn Perry Hall gerði nýlega einstakt myndband við eitt laganna. Gyða hefur verið á ferð og flugi um heim allan undanfarin ár að vinna við tónlist en hefur nú fest rætur á Íslandi og stefnir að sinni fyrstu sólóplötu á þessu ári.

„Hugmyndin að Epicycle hefur verið með mér frá því að ég var átján ára. Það var fyrst þá sem ég fór að kafa dýpra í tóna skrifaðrar tónlistar en áður hafði klassísk tónlist, þrátt fyrir námið mitt, verið mér frekar fjarlæg,“ segir Gyða sem var í hljómsveitinni Múm og er nýlega farin að spila með henni aftur. Myndband við lagið Louange à l’éternité de Jésus af plötunni hefur vakið athygli og var meðal annars flutt á Norður og Niður hátíðinni sem Sigur Rós hélt í Hörpu. „Í myndbandinu vinnur Perry Hall með fljótandi málingu sem hann umbreytir með hreyfingu, hljóðbylgjum eða efnaskiptum og kvikmyndar ferlið. Útkoman er falleg og óræð og minnir á landslag á annarri plánetu.“

Viðtal við Gyðu er í 4. tölublaði Vikunnar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Þættirnir sem allir eru að tala um

Hámgláp – ritstjórn Mannlífs situr límd yfir þessum þáttum.

1. Manhunt: Unabomber er bandarísk mínisería sem aðdáendur spennuþátta ættu að hafa gaman af. Þættirnir fjalla um erfiða leit Alríkislögreglunnar bandaríksu að launmorðingjanum Unabomber sem varð þremur mönnum að bana, særði 23 í sextán bréfasprengjutilræðum á sautján árum, og hvernig lögreglan varð að innleiða nýjar rannsóknaraðferðir til að hafa hendur í hári hins alræmda morðingja. Stórleikararnir Sam Worthington og Paul Betthany þykja hreinlega fara á kostum í þáttunum.

2. Þættirnir The Crown hafa hlotið einróma lof áhorfenda og gagnrýnenda um allan heim. Þeir fjalla um ævi Elísabetar Englandsdrottningar (sem Claire Foy leikur listilega vel) og þykja gefa svo sanna mynd af sögunni að meira að segja hin raunverulega Elísabet hefur sagst vera nokkuð sátt við útkomuna. Þess má geta að fyrsta serían er dýrasta sjónvarpsframleiðsla allra tíma og er nú von á þeirri þriðju.

3. Í frönsku spennuþáttunum The Mantis (La Mante – sjá myndina hér að ofan) gengur brjálaður morðingi laus, hermikráka sem fremur hræðileg voðaverk. Líkin hrannast upp og ráðþrota lögreglan neyðist að leita aðstoðar raðmorðingjans sem hermikrákan líkir eftir, hinnar stórhættulegu og slóttugu La Mante („Beiðunnar“), sem hefur setið í öryggisfangelsi um árabil. Leikkonan Carole Bouquet, sem glöggir áhorfendur þekkja úr James Bond-kvikmyndinni For your eyes only, sýnir stjörnuleik sem La Mante.

4. Þættirnir Black Mirror draga upp dökka mynd af náinni framtíð, dystópíska sýn, og eru sagðir vera hálfgerð ádeila á nútímatækni og hvernig fólk notar hana. Þetta eru sjálfstæðir þættir, það er ekki framhaldsþættir í eiginlegum skilningi, þar sem hver þáttur hefur sína sjálfstæðu sögu og sína „eigin“ persónur, svolítið í anda hinna fornfrægu Twilight Zone. Þess má geta að sögusviðs eins þáttarins er Ísland.

5. Þýsku þættirnir Dark eru sannkallaður hvalreki fyrir aðdáendur vísindaskáldskapar en þeir gerast í þýskum smábæ þar sem börn fara skyndilega að hverfa sporlaust og stendur lögreglan algjörlega ráðþrota í málinu. Fjölskylduleyndarmál, skuggaleg fortíð og yfirnáttúruleg – allt kemur þetta við sögu í þáttunum sem þykja í anda Stranger Things og hefur verið lýst sem „fjölskyldusögu með yfirnáttúru-legu ívafi.“

Nýrrar myndar Heru beðið með eftirvæntingu

Stikla úr vætanlegri mynd Heru Hilmarsdóttur hefur fengið áhorf upp á næstum fjórar milljónir á YouTube.

Nýjustu kvikmyndar leikkonunnar Heru Hilmarsdóttur, Mortal Engines, virðist nú beðið með mikilli eftirvæntingu en stikla úr henni hefur þegar fengið áhorf upp á næstum fjórar milljónir á YouTube þótt enn séu meira en ellefu mánuðir í frumsýningu.

Myndin byggir á samnefndri bók Philip Reeve úr bókaflokknum Predator Cities sem gerist í fjarlægri framtíð. Leikstjóri er Christian River en sjálfur Peter Jackson, sem á heiðurinn að Hringadróttins- og Hobbita-kvikmyndunum, skrifar handritið að myndinni og framleiðir. Hingað til hefur ákveðin leynd hvílt yfir hlutverki Heru í myndinni en vitað er að hún leikur persónu að nafni Hester Shaw og ef marka má æsispennandi stikluna lítur hún út fyrir að vera hinn mesti harðjaxl.

Þess má geta að þetta verður ekki eina hlutverk Heru í bandarískri stórmynd á árinu því hún leikur einnig í væntanlega fantasíutryllinum The Ashram á móti Óskarsverðlaunaleikkonunni Melissu Leo.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Aldís Pálsdóttir

Heilandi að taka þátt í sögu annarra

|
|

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur hjálpar fólki að skrifa sig frá erfiðum tilfiningum.

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur leiðbeinir fólki sem vill losa sig frá erfiðum tilfinningum með skapandi skriflegri tjáningu á ritmennskunámskeiði við Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Hún trúir á gagnsemi þess og segist sjálf hafa grafið eftir eigin sorg þegar hún skrifaði Tímaþjófinn.

„Við byrjum á því að skrifa um og fjalla um erfiðleika og skugga en svo fikrum við okkur í áttina að ljósinu, skrifum um það sem er jákvætt og þakkarvert og reynum að byggja á því til framtíðar,“ segir Steinunn.

„Markmiðið er að lífsbyrði þátttakenda léttist með því að þeir nái að tjá sig um erfiðar hugsanir og tilfinningar í rituðu máli.  Með því að vinna úr þessum erfiðu tilfinningum skriflega þá næst önnur nálgun heldur en með einungis þráðbeinni munnlegri tjáningu – sem er auðvitað óhjákvæmileg líka á svona námskeiði,“ útskýrir Steinunn þegar blaðamaður grennslast fyrir um námskeiðið. „En eitt af því undraverða sem ég hef séð á fyrri námskeiðum er svo hvernig hópurinn verður að uppbyggingarafli sem er mjög sterkt.“

Þessi aðferð, að skrifa sig frá erfiðum tilfinningum, hefur sýnt sig að hún beri árangur?  „Ég fann það auðvitað ekki upp að ritmennska gæti hjálpað fólki til að ná tökum á andlegum sársauka og til þess að vinna úr áföllum, erfiðleikum og sorg.  Þannig að aðferðin er má segja viðurkennd, heilt yfir. Hins vegar hef ég fundið út mína eigin útgáfu og útfærslu. Og það hlýtur að vera leitun að leiðbeinanda sem hefur mína löngu reynslu af ritstörfum, hálf öld, takk,“ segir hún og kveðst þess utan eiga í sínum reynslubanka ýmislegt nýtilegt, allt frá háskólanáminu til alls konar lífsreynslu, sem sé að hluta til afskaplega sársaukafull. „Og mér mundi auðvitað ekki detta í hug að leiðbeina á svona námskeiði nema af því að ég er opin fyrir öðrum og mig langar einlæglega til þess að verða náunganum til gagns og gamans.“

„… mér mundi auðvitað ekki detta í hug að leiðbeina á svona námskeiði nema af því að ég er opin fyrir öðrum og mig langar einlæglega til þess að verða náunganum til gagns og gamans.“

En hefur aðferðin langvarandi jákvæð áhrif á andlega heilsu fólks? „Ja, eitt get ég sagt með vissu í ljósi þess að ég hef gert þetta áður og það er að skammtímaáhrifin á námskeiðunum hafa verið ótrúlega upplyftandi og upplífgandi.  Sumir hafa viljað koma aftur, þar á meðal ein eldri kona sem hafði þau orð við mig að námskeiðið væri einstakt, maður færi „út úr sinni sögu.“  Og þetta var eitt af því góða sem ég sá ekki fyrir að er „heilandi“ ef ég má nota það orð að taka þátt í sögu annarra.“

Gróf eftir sinni eigin sorg

Þegar hún er spurð hvort hún hafi sjálf skrifað til að losa sig frá erfiðri reynslu eða erfiðum tilfinningum segist Steinunn ekki eiga gott með að svara þeirri spurningu. Hún hafi fyrst byrjað að skrifa í kringum tólf eða þrettán ára aldur í tilfinningaumróti og þyngslum unglingsáranna. Sé hún að skrifa sig frá einhverju sé það ósjálfrátt. Það sé ekki tilgangurinn með skrifunum, hvort sem það er í ljóði eða skáldsögu.

„En ég hef séð það á prenti oftar en einu sinni að Alda Ívarsen í Tímaþjófnum sé einhver harmrænasta persóna í seinni tíma bókum á íslensku. Og ég get alveg fullyrt að ég hafi grafið eftir minni eigin sorg þegar ég bjó Öldu til,“ viðurkennir hún.

En hvernig stóð eiginlega á því að þú fórst að af stað með þetta námskeið? „Þetta byrjaði nú þannig að mér bauðst að vera fyrsti staðarrithöfundur við Háskólann í Strassborg, flytja þar fyrirlestra og kenna skapandi skrif. Í fyrstu umferð komu fimmtán úrvalsnemendur með mjög ólíkan bakgrunn og þarna mynduðust mögnuð tengsl bæði þeirra á milli og milli mín og hópsins. Nokkrir voru ákaflega feimnir í byrjun, en í pakkanum var meðal annars að allir þurftu að standa upp og lesa upphátt.

„Ég hvet þátttakendur til þess að nota húmor í skrifunum þegar líður á námskeiðið, enda er húmor sammannleg tækni til þess að lifa af erfiðleika,“

Smám saman varð ég vitni að hreinasta undri, já ég kalla það bara undur, því ég var svo uppnumin og hissa þegar nemendurnir sem mest voru til baka fóru að blómstra. Og þá laust þeirri hugmynd niður í kollinn á mér hvort fólk sem glímir við erfiðleika, er niðurdregið, gæti í hópi og með leiðbeinanda mögulega skrifað sig frá erfiðum tilfinningum.“

Fikrum okkur í áttina að ljósinu

Að sögn Steinunnar koma þátttakendur á Ritmennskunámskeiðið á NLFÍ í Hveragerði að morgni föstudagsins 2. febrúar og stendur námskeiðið þar til síðdegis á sunnudegi, 4. febrúar. Innifalið er gisting í tvær nætur, aðgangur að sundlaug, tækjasal og allur matur á staðnum. Þátttakendur skrifa meðan á námskeiðinu stendur og farið er yfir textana í hópnum.  „Við byrjum á því að skrifa um og fjalla um erfiðleika og skugga en svo fikrum við okkur í áttina að ljósinu, skrifum um það sem er jákvætt og þakkarvert og reynum að byggja á því til framtíðar. Ég hvet þátttakendur til þess að nota húmor í skrifunum þegar líður á námskeiðið, enda er húmor sammannleg tækni til þess að lifa af erfiðleika,“ segir hún og bætir við að frá hennar bæjardyrum séð sé námskeiðið haldið við kjöraðstæður þar sem þátttakendur hverfa úr amstri hversdagsins, á þennan einstaka stað sem Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði sé.

En nú er þetta helgarnámskeið, er ekki viðbúið að þeir sem sækja það þurfi að halda áfram með vinnuna að því loknu? „Ég legg til að fólkið mitt byrji hversdaginn sinn á því að skrifa, þó ekki sé nema eina línu.  Svo er það undir hverjum og einum komið hvernig hann vinnur úr lífsreynslunni á námskeiðinu og leiðbeiningunum,“ svarar hún og segir það út af fyrir sig magnað að senda þátttakendur heim léttari á brún eftir námskeiðið.

Texti / Roald Eyvindsson
Myndir / Sigtryggur Ari Jóhannsson

Fer með börn á slóðir fossa og eldfjalla

Dalla Ólafsdóttir er nýr umsjónarmaður Ferðafélags barnanna.

Dagskrá Ferðafélags barnanna, FB, fyrir árið 2018 er komin út og þar er að finna 25 ferðir fyrir börn og foreldra þeirra, bæði vinsælar ferðir frá fyrri árum og nýjungar í bland.

Af nýjungum má nefna Fjallagarpaverkefni fjölskyldunnar sem Dalla Ólafsdóttir, annar tveggja nýrra umsjónarmanna FB, segir að standi öllum börnum til boða. „Gengið verður á sex skemmtileg fjöll, Esjuna, Úlfarsfell, Helgafell í Hafnarfirði, Mosfell, Móskarðshnúka og Þorbjörn,“ lýsir hún og getur þess að fjallahetjurnar John Snorri Sigurjónsson og Vilborg Arna Gissurardóttir sláist með í för á nokkur þeirra.

Þá býður Ferðafélag barnanna í fyrsta sinn upp á eldfjalla- og fossagöngu yfir Fimmvörðuháls. „Á leiðinni upp er gengið upp tröppur með fram Skógafossi og svo fram hjá fjölda fossa þar til gist verður í Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi,“ segir Dalla. „Næsta dag verða ein yngstu eldfjöll landsins, Magna og Móða, skoðuð, farið yfir Heljarkamb og gengið í Þórsmörk þar sem við tekur kvöldvaka í Skagfjörðsskála í Langadal.“

„Ég hlakka mikið til. Börn eru svo opin og móttækileg þannig að það verður gaman að kynna fyrir þeim íslenska náttúru og öll ævintýrin sem hún býður upp á.“

Af öðrum ferðum má nefna sveppatínslu, kræklingaferð í Hvalfjörð og pödduskoðun í Elliðaárdal en þær ferðir eru samstarfsverkefni Ferðafélags barnanna og Háskóla Íslands. „Þetta eru allt ferðir sem eru farnar á forsendum krakka, á þeirra hraða og út frá þeirra getu,“ útskýrir hún. „Þannig að krakkar, fimm til sex ára, geta allir með góðri hvatningu tekið þátt og jafnvel yngri duglegir krakkar.“

Sjálf segist hún vera spennt að takast á við þetta nýja verkefni. „Ég hlakka mikið til. Börn eru svo opin og móttækileg þannig að það verður gaman að kynna fyrir þeim íslenska náttúru og öll ævintýrin sem hún býður upp á.“

Ferðafélag barnanna er hugsað til að hvetja börn og foreldra til útiveru og samveru í náttúru landsins og starfar innan Ferðafélags Íslands. Allar nánari upplýsingar um félagið og ferðir þess má nálgast á heimasíðu FÍ, á www.fi.is.

Myndi: Hjónin Dalla Ólafsdóttir og Matthías Sigurðarson eru nýir umsjónarmenn Ferðafélags barnanna. Hér eru þau með börnum sínum í Þórsmörk.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Dalla Ólafsdóttir

Gunnar Björn gerir glæpamynd fyrir börn

|
|

Leikstjórinn Gunnar B. Guðmundsson áformar að færa skáldsögu Þórarins Leifssonar „Maðurinn sem hataði börn“ yfir á hvíta tjaldið. Hann reiknar með að myndin verði sitt dekksta verk til þessa.

Bók Þórarins hlaut glimmrandi góða dóma þegar hún kom út 2014 og var meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barnabóka.

„Þetta er á algjöru frumstigi, þannig að ég vil nú ekki segja of mikið. Bara að sem stendur er ég að plana fyrsta uppkast og sú vinna gengur vel,“ segir leikstjórinn Gunnar B. Guðmundsson sem er um þessar mundir að þróa handrit upp úr skáldsögunni „Maðurinn sem hataði börn“ eftir Þórarinn Leifsson rithöfund.

Bók Þórarins hlaut glimmrandi góða dóma þegar hún kom út 2014 og var meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barnabóka. Hún fjallar um Sylvek, ungan innflytjanda í Reykjavík, sem ákveður upp á sitt einsdæmi að rannsaka hvarf systur sinnar vegna sinnuleysis lögreglu og kynnist á vegferð sinni alls kyns áhugaverðum persónum. Þar á meðal dularfullum leigjanda, reffilegri blaðakonu, ógurlegum steratröllum og síðast en ekki síst sturluðum raðmorðingja.

Þeir sem lesið hafa söguna vita að hún er ansi blóðug á köflum. Gunnar viðurkennir fúslega að verkið sé í dekkri kantinum. Sérstaklega í ljósi þess að það er skrifað með unga lesendur í huga. „Ég er einmitt að vinna í því að tóna ofbeldið svolítið niður í handritinu,“ segir hann. „Því þótt þetta sé auðvitað fyrst og fremst glæpasaga fyrir krakka þá er samt óþarfi að sýna allt.“

„Ég er einmitt að vinna í því að tóna ofbeldið svolítið niður í handritinu,“ segir hann. „Því þótt þetta sé auðvitað fyrst og fremst glæpasaga fyrir krakka þá er samt óþarfi að sýna allt.“

Af því þú nefnir það, hafa glæpamyndir verið gerðar fyrir krakka á Íslandi áður? „Myndir með glæpaívafi, já, en þetta yrði kannski fyrsta hreinrækaða glæpamyndin. Að því sögðu má þó ekki gleyma að saga Þórarins er fantasía líka og full af svörtum húmor og ég ætla að halda í þá þætti.“

Auk þess að skrifa handritið segist Gunnar stefna að því að leikstýra myndinni sjálfur. „Maðurinn sem hataði börn“ yrði því fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd síðan „Gauragangur“ var frumsýnd árið 2010. Sú mynd byggir einmitt líka á bók, samnefndri skáldsögu Ólafs Hauks Símonarsonar og segir Gunnar að vinnan við gerð hennar komi nú að góðum notum í handritavinnunni.

„Þess utan hef ég verið í bandi við frábæra ráðgjafa hjá handritaverkefninu Cinekid og svo heyrt lítillega í Þórarni, sem er mjög þægilegur og rólegur yfir þessu öllu saman,“ segir hann. „Þannig að þetta er búið að vera skemmtileg vinna, sem ég vona bara að muni skila sér inn í myndina.“

Hvenær hefjast tökur? „Auðvitað er erfitt að segja til um það á þessu stigi málsins, í miðjum skrifum. En ef allt gengur að óskum erum við sennilega að tala um 2020. Það er rökrétt.“

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Róbert Karl Ingimundarson

Íslenskur brimbrettamaður í stórri þáttaseríu

Heiðar Logi Elíasson, fyrsti atvinnumaðurinn á brimbretti á Íslandi, og samstarfsmaður hans, Erlendur Þór Magnússon ljósmyndari, taka þátt í gerð seríu framleiddri af risaveldinu Red Bull.

„Það er að koma hingað erlent tökulið og það ætlar að fylgja okkur Ella eftir á för okkar um landið, þar sem við leitum uppi háar og kraftmiklar öldur á afviknum stöðum til að takast á við þær. Þetta verður svona „skyggnst á bak við tjöldin“ dæmi, viðtöl í bland við senur þar sem hreinlega allt getur gerst,“ segir brimbrettakappinn Heiðar Logi Elíasson kátur í bragði.

Hann og vinur hans og samstarfsfélagi til nokkurra ára, Erlendur Þór Magnússon ljósmyndari, hafa gert samning um að koma fram í annarri seríu af þáttunum Chasing the Shot sem beinir sjónum að ljósmyndurum sem leggja allt kapp á að ná hinni fullkomnu mynd af jaðaríþróttafólki – oft við erfiðar aðstæður. Fyrri serían var meðal annars tekin upp á Hawaii og Nýja-Sjálandi og hlaut góðar viðtökur en það er risaveldið Red Bull sem framleiðir þættina.

„Þetta er náttúrlega mjög flott verkefni. Ég meina, þetta er það sem okkur Ella hefur lengi dreymt um. Að gera okkar eigið „stöff“.“

Spurður um hvernig það hafi komið til að þeir félagar hafi verið fengnir til að koma fram í þáttunum segir Heiðar Logi hugmyndina hafa sprottið upp í samræðum sem hann átti við aðila innan Red Bull í fyrra. Hún hafi smám saman undið upp á sig og sé nú að verða að veruleika. „Þetta er náttúrlega mjög flott verkefni,“ segir hann, auðheyrilega spenntur. „Ég meina, þetta er það sem okkur Ella hefur lengi dreymt um. Að gera okkar eigið „stöff“.“

Í þeim stóru verkefnum sem þeir félagar hafi hingað til komið að hafi þeir meira verið hluti af teymi, eins og í nýlegri heimildamynd á Netflix sem kallast Under an Arctic Sky og fjallar bæði um þá og annað brimbrettafólk sem er að eltast við hina fullkomnu öldu. Í Chasing the Shot verði fókusinn hins vegar alfarið á þá. Auk þess hafi þeir miklu frjálsari hendur með efnistök. „Þannig að við ætlum að nota tækifærið og sýna allt sem við erum að bralla saman. Hluti sem við höfum aldrei sýnt á „vídeó“ áður. Fólk á eftir að fá alveg nýja sýn inn í það sem við erum að gera.“

Að sögn Heiðars er tökuliðið væntanlegt til landsins í febrúar og er áætlað að þættirnir verði aðgengilegir í sumar. Ekki sé búið að negla niður tökustaði að svo stöddu. Þeir ráðist af veðráttunni. „Við förum bara þangað sem stormarnir og háu öldurnar verða hverju sinni,“ segir hann hress.

Mynd: Heiðar Logi Elíasson hefur getið sér gott orð sem brimbrettamaður en hægt er að fylgjast með ævintýrum hans á bæði Snapchat og Instagram undir notendanafninu heidarlogi.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Aldís Pálsdóttir

Úr Elly í Rocky Horror

Björn Stefánsson leikur Riff Raff í Rocky Horror.

Leikarinn og trommuleikarinn Björn Stefánsson, einnig þekktur sem Bjössi í Mínus, hefur nú bæst í leikararhóp söngleiksins Rocky Horror sem verður frumsýndur í Borgarleikhúsinu í mars. Björn mun bregða sér í hlutverk ískalda einkaþjónsins Riff Raffs, sem upphaflega var leikinn af Richard O´Brien, höfundi verksins, í bíómynd byggðri á verkinu. Til stóð að leikarinn Atli Rafn Sigurðarson færi með hlutverk persónunnar en eins og kunnugt er var honum sagt upp störfum í leikhúsinu í desember í fyrra.

Björn, sem vakið hefur athygli fyrir leik sinn í Elly og í kvikmyndinni Rökkur, var því fenginn til að leysa Atla Rafn af hólmi og hefur hann undanfarnar vikur verið að æfa af krafti með leikhópi Rocky Horror, sem skartar stórstjörnum á borð við Pál Óskar og Val Frey Einarsson. Miklar vonir eru bundar við uppsetningu leikhússins á verkinu enda er Rocky Horror einn vinsælasti söngleikur allra tíma.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Skot úr myndinni Rökkur þar sem Björn fór með annað aðalhlutverkið.

Metaðsókn í Sundhöll Reykjavíkur

Gufubaðið í Sundhöllinni gallað

Sundhöll Reykjavíkur aldrei vinsæll en nú.

Óhætt er að segja að Sundhöllin í Reykjavík hafi aldrei verið jafnvinsæl og nú. Hvorki meira né minna en tæplega 36 þúsund manns lögðu leið sína í laugina í desember í fyrra eftir að hún var opnuð á nýjan leik 3. desember eftir miklar breytingar. En til samanburðar má geta að tæplega níu þúsund gestir sóttu Sundhöllina í desember árið á undan.

„Þetta er algjör sprengja miðað við fyrri ár,“ segir Brá Guðmundsdóttir, þjónustu- og mannauðsráðgjafi hjá Laugardagslaug og Sundhöll Reykjavíkur. „Við erum að tala um metaðsókn.“

Brá segir að breytingar á Sundhöllinni, sem fela meðal annars í sér byggingu viðbyggingar og útisvæðis, hafi augljóslega hitt í mark. Enda séu flestir á einu máli um að þær séu vel heppnaðar. Þá sýni ferðamenn lauginni aukinn áhuga, sem eigi þátt í þessari miklu aðsókn. Með sama áframhaldi megi reikna með metaðsókn í Sundhöllina á árinu. „Ég býst við því og að gamla sólbaðsaðstaðan og nýja útivistarsvæðið komi þá sterkt inn í veðursældinni í sumar,“ segir hún glaðlega.

Að sögn Brár hófust framkvæmdir við nýju útilaugina á vormánuðum 2015 og var Sundhöllin lokuð vegna framkvæmda frá júní 2017 fram til desember sama ár. VA arkitektar eiga heiðurinn af viðbótunum en Guðjón Samúelsson, þáverandi húsameistari, hannaði gömlu höllina.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur

Lykillinn að góðum rakstri

Rakstur er mikilvægur þáttur í húðumhirðu karla. Hér eru nokkur góð ráð.

Mjúkt skegg tryggir betri rakstur
Lykillinn að góðum rakstri er að tryggja það að skeggið sé vel blautt áður en hafist er handa. Þurrt skegg er nefnilega mun harðara sem gerir það að verkum að raksturinn er erfiðari og rakvélarblöðin slitna fyrr. Best er að skella sér í heita sturtu og raka sig svo eftir hana, en ef ekki gefst tími til að fara í sturtu er gott að setja vel heitan og rakan þvottapoka á andlitið í um það bil tvær mínútur fyrir raksturinn. Þetta mýkir skeggið, ásamt því að örva og opna húðina, þannig að raksturinn verður léttari og útkoman betri.

Sápa og bursti
Notið raksápu sem inniheldur mikið af rakagefandi og smyrjandi efnum, til dæmis glyseríni og silíkoni, eða góðan anditshreinsi sem freyðir vel. Gæðaraksápur mynda þykka og mjúka froðu án aðstoðar freyðiefna á borð við súlföt sem geta þurrkað húðina. Ef tími gefst er gott að leyfa raksápunni að vera um stund á húðinni áður en raksturinn hefst svo skeggið verði eins mjúkt og mögulegt er. Þótt sumar raksápur megi hæglega bera á með fingrunum jafnast ekkert á við að nota góðan rakbursta, eins og alvörurakarar nota, því hann ýfir skegghárin þannig að raksturinn verður enn fínni en annars.

Vertu með, ekki á móti
Við raksturinn er mikilvægt að nota góða rakvél, hvort sem um ræðir rafmagnsrakvél eða sköfu. Sköfu á alltaf að renna létt yfir hörundið, ekki þrýsta fast að, og strekkja vel á húðinni á meðan. Mikilvægt er að hreinsa rakvélarblaðið oft og vel meðan á rakstrinum stendur, svo að ekki safnist hár á milli blaðanna. Ef sápan þornar þarf aðeins að nota meira vatn og vinna froðuna aftur upp með burstanum, ekki nota meiri sápu. Það á alltaf að raka í sömu stefnu og skeggið vex, aldrei á móti. Að raka á móti skeggvextinum getur valdið sviða og inngrónum hárum í andliti ásamt því að auka líkurnar á því að maður skeri sig við raksturinn. Til að tryggja góðan rakstur getur verið gott að setja aftur á sig raksápu og raka aðra umferð en þá þvert á skeggvöxtinn, en varast samt ofrakstur.

Eftir rakstur og sótthreinsun
Meðferð eftir raksturinn er ekki síður mikilvæg og undirbúningurinn. Strax að loknum rakstri er gott að skvetta dálitlu köldu vatni á andlitið til loka húðinni aftur. Margir klikka oft á því, bera strax á sig rakspíra og uppskera mikinn sviða. En það er ekki fyrr en að húðinni hefur verið lokað á þennan hátt sem á að bera á sig rakspíra, helst einhvern sem inniheldur lítið sem ekkert alkóhól, eða rakakrem (after shave balm) til sótthreinsunar og mýkingar.

Viðhald á tækjum og tólum
Eftir hverja notkun þarf að hreinsa bæði burstann og rakvélina. Hristið vatn úr burstanum, ekki vinda hann, og geymið hann hangandi svo hárin vísi niður, en það kemur í veg fyrir að raki safnist fyrir og valdi hárlosi. Bitlaust eða skítugt blað er ein meginástæðan fyrir óþægilegum rakstri og skurðum. Rakvélarbrýni, eins og Razorpit, geta þá komið að góðum notum og gera manni kleift að spara í kaupum á rakvélarblöðum. Það eykur notkun hvers rakvélarblaðs frá tíu rökstrum upp í allt að hundrað rakstra að hreinsa það og brýna svo að það verði hárbeitt á ný.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Breytti lífi sínu með skynsemina að leiðarljósi

||
||

Líf Maríu Hlínar Eyjólfsdóttur tók stakkaskiptum eftir að hún leitaði sér aðstoðar.

Fyrir fimm árum var María Hlín Eyjólfsdóttir illa á sig komin og undirlögð af verkjum. Hún ákvað að leita sér aðstoðar til að brjótast úr ástandinu og hefur með dugnaði, elju og skynsemi náð undraverðum árangri.

„Lífið er allt annað í dag,“ segir María, sem stundar námskeiðið enn af fullum krafti auk þess að hlaupa og fara í fjallgöngur á sumrin.

„Mikilvægast af öllu er að halda í gleðina. Að missa aldrei sjónir af henni. Ef mér hefði ekki tekist að halda í hana í gegnum þetta allt þá veit ég hreinlega ekki hvernig þetta hefði farið. Kannski hefði ég bara gefist upp,“ segir María Hlín Eyjólfsdóttir, starfsmaður á leikskólanum Jöklaborg.

Fyrir fimm árum tók María ákvörðun um að breyta um lífsstíl eftir að hafa glímt við ofþreytu og verki um langt skeið. Hún skellti sér í heimsókn til Heilsuborgar en í stað þess að undir-gangast heilusmat hjá hjúkrunarfræðingi og láta skoða mataræði, hreyfinu og svefn eins og margir gera, skráði hún sig í Heilsulausnir – hóptíma þar sem lögð er áhersla á alhliða hreyfingu.

„Auðvitað var ekkert grín að byrja,“ játar hún. „Ég hafði ekki stundað neina hreyfingu lengi og var í engu formi, gat varla gengið og leið illa með sjálfa mig. Fyrir utan að ég var með alls konar verki. Meðal annars krónískan höfuðverk vegna gamalla meiðsla á hálsi. En ég var staðráðin í að gefast ekki upp og fékk góða hvatningu frá þjálfurum og þátttakendum á námskeiðinu.“

„Ég held nefnilega að stærstu mistökin sem fólk gerir þegar það ákveður að snúa við blaðinu sé að ætla sér of mikið á of skömmum tíma …. Ég held að það sé ein helsta ástæða þess að fólk gefst oft upp.“

Í samráði við þjálfarana segist María hafa ákveðið að gera allar breytingar rólega. Hún mætti til dæmis í ræktina þrisvar í viku til að byrja með á meðan hún var að koma því upp í vana og tók mataræðið smám saman í gegn og var ekkert að mæla árangurinn í lækkaðri fituprósentu heldur bættri líðan. „Með öðrum orðum var ég ekkert að umturna lífi mínu með einhverjum öfgum,“ segir hún. „Ég held nefnilega að stærstu mistökin sem fólk gerir þegar það ákveður að snúa við blaðinu sé að ætla sér of mikið á of skömmum tíma. Allt á að gerast á einu bretti. Eins og í Biggest Looser. Ég held að það sé ein helsta ástæða þess að fólk gefst oft upp.“

María var illa á sig komin og undirlögð af verkjum þegar hún leitaði sér aðstoðar.

Ekki leið á löngu þar til María fór að verða vör við breytingar á sjálfri sér. Á einu ári varð hún líkamlega hraustari en hún hafði verið um langt skeið og það sem meira er: andleg líðanin tók stakkaskiptum. Hún hélt því áfram með skynsemina að leiðarljósi og fimm árum síðar kveðst hún vera allt önnur en þegar hún steig fyrst inn á stöðina illa á sig komin og undirlögð af verkjum.

„Lífið er allt annað í dag. Ég er léttari en það sem skiptir meiru er að ég er í betra formi og mér líður betur andlega. Reyndar fæ ég enn höfuðverki af og til en með reglulegri hreyfingu hefur mér tekist að draga úr þeim,“ segir hún og kveðst enn stunda hóptímana af fullum krafti. Að auki er hún byrjuð að hlaupa og fara í fjallgöngur á sumrin til að brjóta upp rútínuna.

„Lífið er allt annað í dag. Ég er léttari en það sem skiptir meiru er að ég er í betra formi og mér líður betur andlega.“

Spurð hvort hún eigi einhver ráð handa fólk sem er í svipuðum sporum og hún var sjálf í segir María að fyrsta skrefið sé að leita sér aðstoðar. „Taktu skrefið og fáðu hjálp. Faglega hjálp. Það er ekkert að því. Ég veit það getur verið erfitt. En treystu mér, það margborgar sig,“ segir hún glaðlega.

Texti / Roald Eyvindsson

Læknir í sauðagæru: „Lygar hans virkuðu“

|
|

Það brutust út mikil fagnaðarlæti á miðvikudaginn síðasta þegar Larry Nassar, fyrrverandi læknir fimleikalandsliðs Bandaríkjanna, var dæmdur í 40 til 175 ára fangelsi fyrir að misnota tugi fimleikakvenna kynferðislega. Fórnarlömb hans og fjölskyldur þeirra féllust í faðma og felldu tár en það má með sanni segja að hugrekki og samstaða þeirra 156 kvenna sem stigu fram og sögðu frá ofbeldinu hafi ekki aðeins komið lækninum á bak við lás og slá það sem eftir er af ævi hans, heldur einnig veitt fjölda kvenna innblástur um allan heim til að opna sig um sína reynslu af kynferðislegu ofbeldi og áreitni.

„Þú átt ekki skilið að ganga út úr fangelsi nokkurn tímann aftur“

Andrúmsloftið var spennuþrungið þegar dómarinn Rosemarie Aquilina las upp sínar hugleiðingar um málið og síðan loks dóminn sjálfan.

„Ég hef sagt það sem ég þurfti að segja við fórnarlömbin. Ég hef samt aðeins meira að segja: Þið eruð ekki lengur fórnarlömb, þið eruð manneskjur sem lifðu af. Þið eruð mjög sterkar og ég hef talað við ykkur allar í einrúmi,“ sagði Rosemarie áður en hún sagðist hafa skrifað undir dauðadóm Larry Nassar.

„Þú átt ekki skilið að ganga út úr fangelsi nokkurn tímann aftur,“ sagði dómarinn og bætti við.

„Hvert sem þú myndir fara, myndir þú eyðileggja þá sem liggja best við höggi.“

Hægt er að lesa alla ræðu Rosemarie Aquilina þegar hún kvað upp dóm yfir lækninum með því að smella hér. En einnig er hægt að horfa á dóminn hér fyrir neðan:

Fyrsta fórnarlambið sem steig fram átti lokaorðið

Upphaflega áttu 88 stúlkur og konur að bera vitni gegn Larry Nassar í þessu máli sem talið er vera það stærsta sinnar tegundar innan bandaríska íþróttaheimsins, og þó víðar væri leitað. Þessi fjöldi vitna hins vegar næstum því tvöfaldaðist þegar yfirheyrslur hófust. Ein af annarri færðu þær réttarsalnum, og í raun öllum heiminum, vitnisburð sinn. Þær stóðu fyrir framan kvalara sinn og ávörpuðu manninn sem braut traust svo margra ungra íþróttakvenna og fjölskyldna þeirra.

Síðasta fórnarlambið sem talaði við réttarhöldin var fyrrverandi fimleikastjarnan Rachael Denhollander. Má segja að það hafi verið táknrænt að hún hafi átt lokaorðið þar sem hún var sú fyrsta sem kom opinberlega fram og sakaði lækninn um kynferðislegt ofbeldi, nánar tiltekið í viðtali við fréttamiðilinn Indianapolis Star í september árið 2016.

„Síðustu sextán árin hef ég gert mér grein fyrir því að ég ber ábyrgð, og hvort ég eigi að tala opinberlega eða ekki snýst ekki um hvað sé auðvelt fyrir mig að gera. Þetta er ekki eitthvað sem mig langar að gera,“ sagði Rachael í viðtalinu á sínum tíma, en rannsóknarvinna Indianapolis Star var það sem sannfærði hana um að stíga fram.

Rachael kærði Larry Nassar vegna meðferðar sem hún fékk við mjóbaksverkjum þegar hún var fimmtán ára árið 2000. Hún sótti fimm tíma hjá lækninum og sagði að í hverjum tíma hefði hann orðið aðgangsharðari en þeim fyrri. Hún sagði hann hafa nuddað kynfæri sín, stungið tveimur fingrum upp í leggöng sín og endaþarm og tekið sig úr brjóstahaldara og nuddað brjóst sín. Í viðtali við Indianapolis Star sagði Rachael að móðir hennar hefði komið með henni í alla tíma en að læknirinn hafi snúið henni þannig að móðir hennar sá aðeins höfuð hennar og bak.

„Ég var logandi hrædd. Ég skammaðist mín. Ég fór svo mikið hjá mér. Og ég var mjög ringluð þegar ég reyndi að skilja það sem var að gerast í ljósi þess hvaða manneskja hann átti að vera. Hann var frægur læknir. Vinir mínir treystu honum. Aðrar fimleikakonur treystu honum. Hvernig gat hann verið í þessari stöðu innan læknastéttarinnar, hvernig gat hann náð til slíkra metorða ef þetta var sá sem hann var?“ sagði Racheal.

Þöggun innan fimleikastéttarinnar

Þetta viðtal og rannsóknarvinna Indianapolis Star afhjúpuðu Larry Nassar sem kynferðisabrotamann sem hafði fengið að brjóta ítrekað á fimleikakonum um árabil. Það sannfærði einnig fleiri konur að stíga fram, sem kom Rachael á óvart.

„Ég vissi hve margar konur Larry hafði brotið á. Hvort einhver af þeim myndi þora að stíga fram var alltaf óvissa,“ sagði Rachael.

Í þessu viðamikla máli hefur ekki aðeins óeðli læknisins verið afhjúpað heldur einnig þöggun innan fimleikastéttarinnar um hegðun hans. Eftir að Larry var dæmdur í fangelsi létu þrír stjórnarmenn bandaríska fimleikasambandsins af störfum, þau Paul Parilla, formaður fimleikasambandsins, Jay Binder, varaformaðurinn og Bitsy Kelley, gjaldkerinn. Þá hefur John Geddert, þjálfara fimleikalandsliðsins á Ólympíuleikunum í Lundúnum 2012 og nánum samstarfsmanni læknisins, verið vikið frá störfum á meðan hann er rannsakaður. Svo var það Lou Anna Simon, rektor Michigan State-háskólans sem sagði af sér nokkrum klukkutímum eftir að læknirinn var dæmdur í fangelsi, en Larry starfaði við háskólann frá 1997 til 2016. Lou Anna hefur alfarið neitað því að hafa vitað af misnotkuninni.

Ljóst er að þetta mál er hvergi nærri búið þó að læknirinn sé kominn á bak við lás og slá. Rachael er meðal fjölmargra íþróttamanna sem hafa kært Michigan State-háskólann, fimleikasambandið og Twistars, æfingastöð sem beindi íþróttamönnum til Larry í meðferð. Íþróttafólkið heldur því fram að þjálfarar, lögregluyfirvöld, þjálfarar ráðnir af háskólanum og ráðgjafar hafi ekki rannsakað mál sem komu á borð til þeirra almennilega er varðaði hegðun læknisins. Þá hafa íþróttakonur á borð við Larissa Boyce og Tiffany Thomas-Lopez haldið því fram að þær hafi talað við þjálfara hjá Michigan State-háskólanum um Larry en að ekki hafi verið tekið mark á kvörtununum.

Larry Nassar þungt hugsi í réttarsalnum.

Fékk kraft í hvert sinn sem hann slapp

„Það gerðist ekkert þegar ásakanir höfðu verið settar fram,“ sagði saksóknarinn Angela Povilaitis í lokaræðu sinni áður en Larry var dæmdur í fangelsi. „Lygar hans virkuðu. Í hvert sinn sem hann slapp fékk hann kraft til að halda áfram, til að fullkomna aðferðir sínar og misnota fleiri.“

Hún þakkaði einnig rannsóknarblaðamönnum Indianapolis Star fyrir að hrinda þessu máli af stað.

„Án þessarar fyrstu greinar í Indianapolis Star í ágúst árið 2016, án greinarinnar þar sem Rachael steig fram opinberlega, þá væri hann enn að starfa sem læknir, að meðhöndla íþróttamenn og misnota börn,“ sagði hún og bætti við:

„Aðgerðarleysi er aðgerð. Þögn er skeytingarleysi. Réttlæti þarf aðgerð og rödd. Og það er það sem gerðist hér í réttarsalnum.“

Litlar stelpur verða sterkar konur sem eyðileggja heiminn þinn

Það verður forvitnilegt að sjá hvaða dilk þessi fangelsisdómur dregur á eftir sér, en við skulum líta á nokkrar af þeim tugi frásagna sem komu fram við réttarhöldin.

„Ég bar vitni til að láta heiminn vita að þú ert viðbjóðslegur lygari og að „meðferðir“ þínar voru dulbúið kynferðislegt ofbeldi. Þú hefur kannski áttað þig á því núna, en litlar stelpur eru ekki litlar að eilífu. Þær vaxa úr grasi og verðar sterkar konur sem snúa aftur til að eyðileggja heiminn þinn,“ sagði Kyle Stephens, fyrsta fórnarlambið sem talaði við réttarhöldin. Hún sagði að Larry hefði misnotaði sig frá 6 ára aldri og þar til hún varð 12 ára.

„Hann var læknirinn. Ég var barnið. Ég hafði ekki hugmynd um hvað mér ætti að finnast um þetta. Í langan tíma tókstu frá mér hamingjuna. Í hvert sinn sem einhver kallar mig „Kiddo“ hugsa ég um andlitið þitt þegar þú varst að misnota mig,“ sagði Maddie Johnson.

„Ég veit sannleikann. Ég man, alveg sama hvort hann man hvað hann gerði mér eða ekki. Það er það sem skiptir máli. Þú vissir að það sem þú varst að gera var rangt. Það var ekki fyrr en þú varst gómaður að þú grátbaðst um fyrirgefningu,“ sagði Christine Harrison sem sagði Larry hafa misnotað sig þegar hún var 15 og 16 ára.

„Hann snerti saklausustu líkamsparta mína. Ég gat ekki verið venjuleg stelpa lengur og ég glataði stórum parti af barnæsku minni að eilífu vegna misnotkunar hans,“ sagði Jessica Thomashaw sem sagði lækninn hafa misnotað sig frá 9 til 12 ára aldurs.

Gina Nichols, móðir fimleikakonunnar Maggie Nichols, las frásögn dóttur sinnar í réttarsalnum. Hún sagði að það væri of sársaukafullt fyrir dóttur sína að gera það sjálf, en Maggie leitaði til læknisins þegar hún var 15 ára:

„Ég man að hann fór með mig inn í æfingaherbergi, lokaði hurðinni og dró fyrir glugga. Ég hugsaði þá að þetta væri pínulítið skrýtið en hélt að þetta hlyti að vera í lagi. Ég treysti því sem hann var að gera í fyrstu en síðan byrjaði hann að snerta mig á stöðum sem mér fannst ekki rétt af honum að snerta mig á. Hann var ekki með hanska og hann sagði mér ekki það sem hann var að gera. Það var enginn annar í herberginu og ég samþykkti það sem hann gerði því fullorðna fólkið sagði mér að hann væri besti læknirinn og gæti hjálpað við að lina sársauka minn.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Nýjasta tónlistarmyndband Justin Timberlake tekið í einu skoti

|
|

Tónlistarmaðurinn Justin Timberlake frumsýndi myndband við nýjasta lag sitt, Say Something, fyrir helgi. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að myndbandið var allt tekið í einu skoti, svokallað single shot video. Lagið er á væntanlegri plötu Justins, Man of the Woods, sem kemur út 2. febrúar næstkomandi.

Justin leitaði til La Blogothèque til verksins, en það er samvinnuverkefni ýmissa kvikmyndagerðarmanna með bækistöðvar í París. Fyrrnefndir kvikmyndagerðarmenn eru þekktastir fyrir tónlistarmyndbönd sem tekin eru í einu skoti, til að mynda Start a War með The National og Marry Me með St. Vincent. Hingað til hafði fyrirtækið tekið upp myndbönd fyrir listamenn á barmi heimsfrægðar en myndbandið við Say Something er dýrasta og metnaðarfyllsta verkefni La Blogothèque frá stofnun þess fyrir um áratug.

„Þetta hefði getað orðið algjör hörmung“

Í viðtali við tímaritið Esquire segir Arturo Perez Jr., leikstjóri Say Something, að margar vikur hafi farið í skipulagningu verkefnisins.

„Þetta hefði getað orðið algjör hörmung,“ segir hann og bætir við að Justin hafi lagt mikla áherslu á að vera einlægur í myndbandinu.

„Það er svo mikið í húfi oft þegar unnið er með svona vinsælum listamönnum. Og ég verð að hrósa honum fyrir það að hann vildi vera berskjaldaður.“

Gekk um eins og brjáluð manneskja

Arturo valdi að taka myndbandið upp í hinni frægu Bradbury-byggingu í Los Angeles, sem er hvað þekktust fyrir að leika stórt hlutverk í kvikmyndinni Blade Runner. Arturo stúderaði lagið Say Something og fannst byggingin passa við texta lagsins, eins konar völundarhús heilans. Undirbúningur fyrir tökur á myndbandinu tók tvær vikur.

„Ég gekk um Bradbury-bygginguna í tvo og hálfan dag – ég bara gekk um eins og brjáluð manneskja. Við gengum og gengum og töluðum um þetta,“ segir Arturo í viðtali við Esquire og bætir við að hann og teymið hans hafi ekki viljað að myndbandið yrði kynningarbrella fyrir tónlistarmanninn.

„Við fáum ekkert út úr því að skjóta myndband í einni töku. Við fáum eitthvað út úr því að búa til ljóð.“

Justin Timberlake og Chris Stapleton.

Tónlistin tekin upp um leið

Á tökudegi unnu tvö hundruð manns við myndbandið, þar á meðal sautján tónlistarmenn og sextíu manna kór. Tónlistin var nefnilega tekin upp á staðnum þannig að þetta er í raun meira en bara myndband sem tekið er í einni töku. Þetta er líka lag sem hljóðritað er í einni töku. Æfingar hófust klukkan ellefu um morguninn en tökuliðið hafði aðeins tíu mínútur til að taka upp myndbandið til að ná djúpbláum lit næturhiminsins í gegnum glugga Bradbury-byggingarinnar. Og það tókst.

„Ég er ekki að grínast þegar ég segi að þetta er fyrsta og eina takan okkar að kvöldi til. Þetta er Justin Timberlake, fjandakornið. Gaurinn er fagmaður. Og Chris Stapleton var svo góður. Ég veit ekki hvort hann vissi nákvæmlega hvað var á seyði en hann er listamaður og bara gerði þetta,“ segir Arturo og vísar í bandaríska tónlistarmanninn Chris Stapleton sem flytur lagið með Justin.

Útkoman er vægast sagt áhrifamikil en það er oft sagt að tónlistarmyndbönd, atriði, stuttmyndir eða myndir í fullri lengd séu eins konar manndómsvígsla fyrir kvikmyndagerðarmenn. Það er mikil kúnst að taka upp á þennan hátt og er það viss gæðastimpill fyrir kvikmyndagerðarmanninn ef vel tekst til.

Nokkrar myndir í fullri lengd hafa verið teknar í einni töku, til dæmis Timecode frá árinu 2000, Russian Ark frá árinu 2002, PVC-1 frá árinu 2007 og Victoria frá árinu 2015. Þá vildi goðsagnakenndi leikstjórinn Alfred Hitchcock láta virðast sem kvikmyndin Rope frá árinu 1948 væri tekin í einni töku. Hins vegar voru myndavélar á þeim tíma ekki nógu fullkomnar til að taka upp í svo langan tíma. Hver myndavél gat einungis tekið upp 1000 fet á 35 millimetra filmu í einu, eða í um það bil tíu mínútur. Öll myndin var því tekin upp í ellefu skotum.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Verslað í matinn með Miröndu Kerr

Ofurfyrirsætan Miranda Kerr, sem er hvað þekktust fyrir að vera engill nærfatarisans Victoria’s Secret, stjórnar vikulegum þáttum á myndbandarás tímaritsins Harper’s Bazaar sem heita Little Black Book of Wellness. Í þáttunum fáum við innsýn í líf ofurfyrirsætunnar og sjáum hvernig hún heldur sér í góðu jafnvægi, bæði andlega og líkamlega.

Í nýjasta þættinum talar Miranda mikið um kosti þess að stunda kundalini jóga, en það er nánast eina hreyfingin sem hún stundar.

Þá fer Miranda líka í matvöruverslun og sýnir áhorfendum hvað hún lætur ofan í sig. Það kemur líklegast ekki á óvart að Miranda er lítið í ruslfæði og skyndibita og velur frekar að versla sér ferskt grænmeti og ávexti. Hún elskar lárperu og greipaldin og leggur mikið upp úr því að versla sér mat sem er lífrænn.

Þegar kemur að eggjum og kjúlkingi kaupir hún eingöngu afurðir af hænum í lausagöngu.

Eins og áhorfendur fá að sjá og heyra í meðfylgjandi þætti á Miranda von á barni með milljarðamæringnum Evan Spiegel, meðstofnanda Snapchat. Evan og Miranda trúlofuðu sig í júlí árið 2016 og giftu sig í maí ári síðar. Það var svo í nóvember í fyrra að þau tilkynntu að þau ættu von á sínu fyrsta barni saman.

Fyrir á Miranda soninn Flynn Cristopher Blanchard Copeland Bloom með leikaranum Orlando Bloom, en snáðinn kom í heiminn þann 6. janúar árið 2011. Miranda og Orlando byrjuðu saman seint á árinu 2007 og gengu í það heilaga árið 2012. Þau skildu þremur árum síðar.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Tíu ár án Heath Ledger

||
||

Leikarinn Heath Ledger fannst látinn í íbúð sinni á Manhattan í New York þann 22. janúar árið 2008, aðeins 28 ára að aldri. Allir fjölmiðlar fylltust af fréttum af andláti hans, en hann lést úr of stórum skammti af lyfseðilsskyldum lyfjum.

Heimurinn stóð á öndinni, sérstaklega í ljósi þess að aðeins nokkrir mánuðir voru í frumsýningu myndar sem myndi gjörbreyta hans ferli; The Dark Kinght. Heath fór með hlutverk Jókerins, persónu sem flestir höfðu tengt við Jack Nicholson síðan hann túlkaði þennan skrautlega karakter í Batman árið 1989. Heath hins vegar gerði persónuna algjörlega að sinni, og svo fór að hann hlaut Óskarsverðlaun fyrir frammistöðu sína á Óskarsverðlaununum árið 2009. Með því varð hann önnur manneskjan til að vinna Óskarinn eftir andlát, en sá fyrsti var leikarinn Peter Finch sem vann fyrir frammistöðu sína í Network árið 1976.

Ómögulegt er að segja hvaða stefnu ferill geðþekka, ástralska leikarans hefði tekið ef hann væri á lífi í dag en ljóst er að hann skipar sér í raðir goðsagna á borð við Marilyn Monroe, Bruce Lee og James Dean, listamanna sem yfirgáfu þetta jarðneska líf alltof snemma.

Heath sem hjartaknúsarinn Patrick í 10 Things I Hate About You.

Óttalaus í hlutverkavali

Heath virtist vera óttalaus í vali sínu á verkefnum. Hann sló í gegn í Hollywood í kvikmyndinni 10 Things I Hate About You árið 1999, aðeins tvítugur að aldri. Þá strax var ljóst að stjarna var fædd þar sem hann bjó ekki aðeins yfir gífurlegum sjarma á hvítu tjaldinu heldur sýndi einnig að hann bjó yfir hæfileika til að túlka trúverðugar manneskjur sem náðu til áhorfenda.

Meðal annarra mynda sem hann stal senunni í voru The Patriot, Monsters Ball og Knight’s Tale. Árið 2005 urðu síðan þáttaskil á hans ferli þegar hann tók að sér hlutverk Ennis Del Mar í kvikmynd Ang Lee, Brokeback Mountain. Er það mat manna að þetta hafi verið ansi djarft val hjá Heath eftir aðeins sex ár í Hollywood-bransanum. Þó að myndin hafi fengið einróma lof gagnrýnenda þá vakti hún hins vegar upp mikla fordóma í mörgum áhorfendum og var af einhverjum kölluð myndin um samkynhneigðu kúrekana. Heath og meðleikarar hans, Jake Gyllenhaal og Michelle Williams voru rómuð fyrir leik sinn og fékk Heath til að mynda tilnefningu til Óskarsverðlaunanna sem besti leikari í aðalhlutverki.

Þetta hlutverk Heath varð hins vegar til þess að ekki voru allir á eitt sáttir þegar tilkynnt var að hann myndi túlka Jókerinn í The Dark Knight. Warner Bros-kvikmyndaverið fékk á sig mikla árás og dundu haturspóstarnir og hatursfull orðræða um samkynhneigða yfir kvikmyndaverið þegar ljóst var um ráðningu Heath.

Heath sló í gegn í Brokeback Mountain.

Matilda og Michelle

Það má líka segja að hlutverkið í Brokeback Mountain hafi verið mikil blessun fyrir leikarann sáluga því það var á setti þeirrar myndar sem hann kynntist leikkonunni Michelle Williams. Þau byrjuðu í framhaldinu saman og í október árið 2005 eignuðust þau dótturina Matilda Rose. Árið 2007 hættu þau saman en í nýlegu viðtali við tímaritið Porter sagðist Michelle enn eiga erfitt með að sætta sig við andlát Heaths.

„Í hreinskilni sagt, í nánast hvaða kringumstæðum sem er, trúi ég að maður þurfi að sætta sig við hver maður er og hvar maður hefur verið. Í nánast öllum kringumstæðum nema einum; ég get ekki hugsað svona þegar ég hugsa um að Matilda eigi ekki föður. Það er bara eitthvað sem verður aldrei réttlátt.“

Heath Ledger átti alltaf erfitt með að vera í sviðsljósinu, sem útskýrir af hverju hann hafnaði stórum hlutverkum eins og í Spider-Man árið 2002, en þá er einungis hægt að ímynda sér hvaða hlutverk hann hefði tekið að sér til dagsins í dag. Ljóst er að leikarinn setti sitt varanlega mark á kvikmyndaheiminn og lifir enn í hjörtum aðdáenda sinna um heim allan.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Teiknar heimsfrægt fólk sem er alls staðar á netinu

|||||
|||||

„Mismunandi andlitslag fólks er oft það sem veitir mér innblástur, einnig svipbrigði og skuggar. Það er mismunandi hvaða ljósmynd heillar mig hverju sinni,“ segir Anita Ástrós Pétursdóttir. Anita er 23ja ára og útskrifuð af myndlistarbraut frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.

Mynd / Úr einkasafni
Anita Ástrós.

Anita hefur vakið eftirtekt fyrir myndir sem hún teiknar af þekktum tónlistarmönnum, þar á meðal Rihönnu, Tupac, Bob Marley og Ariönu Grande. Hún segir teikningaráhugann hafa kviknað mjög snemma.

„Ég hef verið að teikna síðan ég var lítil en ég fékk fyrst áhuga á tölvuteikningu síðasta árið mitt í Fjölbraut í Breiðholti út frá áfanga þar sem kennt er á Adobe-forritin, Photoshop, Illustrator og InDesign. Ég fiktaði svo aðeins við að teikna meir í tölvu eftir það en ekkert af alvöru fyrr en um mitt síðasta ár. Þá byrjaði ég að prófa mig áfram við að teikna á iPad í forriti sem heitir Procreate og hef verið að nota það mikið síðan,“ segir Anita.

Skemmtilegast að teikna portrettmyndir

Þó að fari mest fyrir teikningum af heimsfrægu fólki segir Anita að hún teikni líka önnur viðfangsefni, allt eftir því hvað fangar hana hverju sinni.

Poppstjarnan Rihanna.

„Ég byrjaði á að teikna fólk sem veitir mér innblástur á einhvern hátt og heillar mig. Oft sé ég líka myndir af þessu fólki sem mér finnst fallegar og langar til að teikna. Ég er alveg líka að teikna öðruvísi myndir, eins og tískuskissur og -teikningar til dæmis, en mér finnst skemmtilegast að teikna portrettmyndir. Og þar sem frægt fólk er alls staðar á netinu er auðvelt að detta í það að teikna þau.“

Anita teiknar líka eftir pöntun og hefur fengið góð viðbrögð við listaverkunum sínum.

„Ég hef verið að taka að mér nokkur verkefni og finnst mér mjög gaman að fá pantanir frá áhugasömu fólki. Ég er tiltölulega nýbyrjuð að setja inn myndir eftir mig á samfélagsmiðla en hingað til hef ég fengið jákvæð viðbrögð. Það veitir mér líka innblástur að fólki líki við það sem ég er að gera,“ segir Anita.

Ætlar að auka við kunnáttuna

Hún stefnir á meira nám í hönnun en hefur frá útskrift úr Fjölbraut í Breiðholti varið tímanum í að átta sig á hvaða stefnu hún ætlar að taka í lífinu.

„Eftir að ég útskrifaðist hef ég verið að vinna og ferðast einna helst og reyna að finna betur út úr því hvaða háskólanám mun henta mér best, en ég stefni líklegast á grafíska hönnun eða tískuhönnun á næstunni, nám þar sem ég get haldið áfram að auka við kunnáttu mína.“

Þeir sem vilja fylgjast með Anitu er bent á Instagram– og Facebook-síður hennar.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Nekt, eldi, sirkusdýrum og konfetti gæti brugðið fyrir á sviðinu

||||||
||||||

Sex lög keppa í fyrra undankeppni Söngvakeppninnar þann 10. febrúar næstkomandi í Háskólabíó og freista þess að komast í úrslitakeppnina þann 3. mars, og jafnvel alla leið í aðalkeppni Eurovision í Lissabon í maí.

Við ákváðum að kynnast flytjendunum sem stíga á stokk þetta fyrra undanúrslitakvöld og spyrja þá spjörunum úr áður en Eurovision-tryllingurinn heltekur þá alveg.

Fékk martraðir um finnsku sveitina Lordie

Ari Ólafsson flytur lagið Heim, sem heitir á ensku Our Choice, og er samið af Þórunni Ernu Clausen. Hann hefur alltaf verið mikill aðdáandi Eurovision og finnst að íslenska þjóðin eigi að fylgja hjartanu þegar hún kýs sín eftirlætislög.

Af hverju Eurovision?

Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Eurovision og ég fékk flott tækifæri með lag sem mér þótti afskaplega fallegt, svo ég kýldi á það!

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?

Lagið er um þennan valmöguleika sem við höfum öll; að hjálpa til og að borga áfram með jákvæðni og samúð, i stað þess að dæma, gagnrýna og meiða.

Hvernig var tilfinningin þegar þú komst að því að lagið væri komið í undanúrslit?

Mjög góð. Ég varð mjög spenntur mjög hratt þegar ég fattaði: Já… djók! Ég er að fara að keppa!

Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?

Hard Rock Hallelujah með Lordie. Ég man það þvi ég var svo sjúklega hræddur við þá að ég fékk martraðir um þá.

Ari varð mjög spenntur þegar hann fattaði að hann væri að fara að keppa í Eurovision

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Fairytale með Alexander Rybak. Það lag var bara svo sjúklega fallegt og flott á sviðinu. Ég mun aldrei gleyma þvi atriði.

Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa þig?

Mér finnst að fólk eiga alltaf að fylgja hjartanu sínu og ef þeim finnst lagið vera fallegt og ég syngja það vel þá ætti það að kjósa mig.

Er líf eftir Eurovision?

Já að sjálfsögðu. Lífið heldur alltaf áfram.

Hrópuðu af gleði í hópsímtali

Fókus hópurinn, sem skipar þau Sigurjón Örn Böðvarsson, Rósu Björg Ómarsdóttur, Hrafnhildi Ýr Víglundsdóttur, Karitas Hörpu Davíðsdóttur og Eirík Þór Hafdal, flytur taktfasta popplagið Aldrei gefast upp, eða Battleline. Þrettán ár eru á milli elsta og yngsta flytjandans og lofa litríku atriði á stóra sviðinu.

Af hverju Eurovision?

Langþráður draumur flestra í hópnum og einn stærsti stökkpallur tónlistarfólks á Íslandi og þótt víðar væri leitað

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?

Fyrir okkur er lagið um að fylgja draumum sínum og ástríðum og gefast ekki upp á þeim og sjálfum sér, en lagið má túlka á fleiri en einn veg.

Hvernig var tilfinningin þegar þið komust að því að lagið væri komið í undanúrslit?

Ofboðslega glöð og spennt, við hringdumst á og skiptumst á að hrópa af gleði og enduðum í einu stóru hópsímtali þar sem við vorum stödd á mismunandi stöðum í heiminum.

Fókus hópurinn flytur lag sem fjallar um að gefast aldrei upp.

Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?

Þar sem það eru 13 ár milli yngsta og elsta í hópnum eru minningar okkar mismunandi, allt frá Söndru Kim til Selmu Björns. Sandra var í eftirminnilegum bleikum jakkafötum, eins yngsti keppandi sem hafði keppt og Selma var bara svo gaddem gordjöss.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Við fórum strax að rífast um það og því ómögulegt að segja um hvert uppáhaldslag hópsins er, en við erum sammála um að þau eru fáránlega mörg.

Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?

Já, það gæti brugðið fyrir nekt, eld, sirkusdýrum og/eða konfetti. Mikilvægt að horfa! Rósa verður einnig í einangrunarplasti þar sem í fyrra gleypti hún konfetti og allar líkur á að hún slasi sig í beinni.

Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?

Það er ómögulegt að segja, líkur eru á því að við myndum mennskan pýramída og Sigurjón fari úr fötunum en að öllu gríni slepptu munum við, alveg ekki spurning, brjótast út í einhverri óstjórnlegri hysterískri gleði.

En ef þið tapið?

Er hægt að tapa? Sigurinn var að komast inn í keppnina, allt annað er bónus.

Breytir tárum í stjörnur

Söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir er Íslendingum kunn, en hún syngur lagið Ég mun skína, eða Shine, sem hún samdi ásamt Agnari Friðbertssyni. Þórunn varð lífshættulega veik þegar hún fæddi dóttur sína fyrir nokkrum árum, en hún finnur enn fyrir slæmum áhrifum veikindanna. Texti lagsins fæddist eitt kvöldið þegar henni leið illa og táknar hann von um betri líðan.

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?

Ég samdi textann bæði á ensku og íslensku um persónulega reynslu og viljann og vonina að komast upp úr erfiðleikum. Ég varð lífshættulega lasin þegar ég fæddi dóttur mína fyrir nokkrum árum og ónæmiskerfið mitt hefur ekki alveg hlýtt mér síðan. Ég hef verið lasin og þreyttari en áður og það dregur mig oft niður, en eitt kvöldið kom þessi texti út frá von um betri líðan. Ég notaði tunglið og stjörnurnar sem einskonar myndlíkinu fyrir þessar tilfinningar. Að breyta tárum í stjörnur og að skína þrátt fyrir allt. Við dílum öll við allskonar rugl en vonin og gleðin má ekki slökkna.

Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?

Nei eða Já? með Stjórninni. Ég lifði fyrir Siggu og Grétar sem barn – þau voru langflottustu.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Euphoria, af því að það er bara tryllt lag.

Þórunn Antonía er mikill aðdáandi Stjórnarinnar.

Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi þínum í beinni útsendingu?

Já svo sannarlega. Ég segi ekki meir.

Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?

Það held ég að sé ansi hæpið en það varpar hinsvegar ljósi á listamenn og það eykur líkur á giggum og tækifærum til að græða peninga. Peningar eru líka yfirleitt það síðasta sem listamenn hugsa um en það fyrsta sem þá vantar. Allir halda að listamenn eigi peninga, sérstaklega ef þeir eru þekktir, og oft er verið að biðja fólk um að koma ókeypis fram því það er svo “góð kynning”. Þetta er vinna eins og öll önnur en svo snýst ekki allt um peninga. Ef maður fer saddur að sofa og á í sig og á er það flott. Mér finnst til dæmis tími með dóttur minni dýrmætari en allir peningar.

Er líf eftir Eurovision?

Það ætla ég rétt að vona, nema ég drepist á sviðinu..sem væri nú ansi dívulegur dauðdagi.

Pössum okkur að festast ekki í snjallskjánum

Nýliðarnir Þórir Geir Guðmundsson og Gyða Margrét Kristjánsdóttir syngja dúettinn Brosa, eða With You, sem samið er af Fannari Frey Magnússyni og Guðmundi Þórarinssyni, sem eiga reyndar líka lag í seinni undankeppninni. Sterkasta Eurovision-minning þeirra beggja er af hinni einu, sönnu Silvíu Nótt.

Af hverju Eurovision?

Af hverju ekki?

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?

Okkur finnst lagið tilheyra okkar kynslóð svo vel. Það er að segja sérstaklega íslenski textinn þar sem hann fjallar um þær hugsanir sem fara í gegnum kollinn á manni þegar maður skoðar samfélagsmiðla nútímans, þar sem fólki hættir til að bera sig saman við aðra. Og sá boðskapur að við megum ekki gleyma því að hugsa um allt það sem er í kringum okkur og fólkið sem er í kringum okkur; passa sig að festast ekki í skjánum.

Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?

Við erum sammála um það að fyrsta og sterkasta minningin sé Silvía Nótt – Til hamingju Ísland. Það er mjög minnisstætt vegna þess hversu öðruvísi það var. Við vorum líka á þeim aldri þar sem maður tók öskudaginn á þetta. Öll umfjöllunin í kringum lagið, atriðið sjálft og karakterinn Silvía Nótt.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Sko, uppáhaldslagið hans Þóris er Open Your Heart – Birgitta eða Gleðibankinn. Uppáhaldslag Gyðu er hinsvegar Verka Serduchka – Dancing Lasha Tumbai.

Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?

Já, ætli atriðið muni ekki koma örlítið á óvart. Kannski ekki, en það verður að minnsta kosti alveg geggjað!

Þórir og Gyða lofa geggjuðu atriði.

Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?

Ef fólk fílar lagið, ekki hika við að kjósa það. Við myndum kunna sjúkt mikið að meta það! Það er ómetanlegur stuðningur. En við ætlum fyrst og fremst að hafa gaman að þessu og vonum að allir sem horfa munu gera það líka. Við segjum: Ef þið eruð brosandi í lok lags = kjósið’a.

Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?

Ríkur af nýjum vinum, nýrri reynslu og geggjuðum minningum já. Moldríkur.

Er líf eftir Eurovision?

Hvurslags spurning, auðvitað! Heillangt og geggjað líf framundan og í þokkabót er maður reynslunni ríkari.

Grét í fyrsta sinn yfir Eurovision í fyrra

Sólborg Guðbrandsdóttir syngur lagið Ég og Þú, eða Think It Through, með Tómasi Helga Wehmeier. Þau sömu lagið og enska textann ásamt Rob Price en Davíð Guðbrandsson á heiðurinn af íslenska textanum. Hún segist ganga sátt frá borði, sama hvort þau komist áfram eður ei.

Af hverju Eurovision?

Eurovision er mikil áskorun og við Tómas höfum gaman af þeim. Við ákváðum bara að kýla á þetta og sendum lag í keppnina án þess að búast endilega við því að komast í gegn. Söngvakeppnin hérna heima er ótrúlega fagleg, hún nýtur mikilla vinsælda og er bara ógeðslega skemmtileg. Við erum mjög þakklát fyrir það að hafa fengið þetta tækifæri.

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?

Þetta lag er ólíkt þeirri tónlist sem við Tómas erum vön að syngja. Við sömdum það ásamt Rob, vini okkar, í London í ágúst síðastliðnum og ég held að þetta lag muni alltaf minna okkur á þá ævintýraferð. Textinn í laginu minnir mann á það að þetta verði allt saman allt í lagi á endanum, sama hvað. „Trúum að við verðum, hvað sem verður, ég og þú.“

Sólborg og Tómas hafa gaman að áskorunum.

Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?

Ætli það sé ekki „All out of luck“ með Selmu Björns. Það er einhvern veginn alltaf fyrsta lagið sem ég hugsa um þegar ég heyri minnst á Eurovision. Ég var líka svo heppin að fá að syngja það í annarri undankeppninni árið 2013 með hljómsveit sem ég var í þá, White Signal. Það er eitthvað sem ég gleymi seint.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

„Amar Pelos Dois“ með Salvador Sobral sem sigraði í fyrra, það er eina skiptið sem ég hef grátið yfir Eurovision. Mitt uppáhalds íslenska lag er „Ég á líf“.

Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?

Ég veit það ekki, ætli við yrðum ekki lengi að átta okkur á því. Við höfum þó reynt að taka eitt skref í einu frá því þetta byrjaði allt saman. Við ætlum bara að njóta þess að syngja fyrir þjóðina í undanúrslitunum og hafa gaman, ef við komumst svo áfram í úrslitin er það bara algjör bónus.

En ef þið tapið?

Þá munum við ganga sátt frá borði. Þetta ferli er búið að vera algjört ævintýri og við erum búin að kynnast helling af dásamlegu fólki, maður getur ekki kvartað yfir því.

Er líf eftir Eurovision?

Eftir Eurovision er lífið rétt að byrja.

Eiga erindi í Eurovision

Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Vigdís Gunnarsdóttir skipa sveitina Heimilistóna sem hefur verið starfrækt um árabil. Þær segja lagið fjalla um það hversdagslega, sem er þó jafnframt afar mikilvægt, nefnilega vináttuna í öllum sínum myndum.

Af hverju Eurovision?

Eurovision er eins og hannað fyrir Heimilistóna. Við elskum litina og gleðina kringum þessa keppni og síðast en ekki síst hvað hún höfðar til breiðs aldurs.

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?

Kveikir í gleðinni og fjallar um það hversdagslega en þó mikilvæga; vináttuna með öllum sínum kostum og göllum

Hvernig var tilfinningin þegar þið komust að því að lagið væri komið í undanúrslitk?

Eftirvænting og mikil gleði. Sú okkar sem fékk símtalið brunaði af stað á bílnum og færði fréttirnar.

Má búast við að eitthvað komi á óvart í ykkar flutningi?

Tjaaa, það hefur ekki verið ákveðið, ekki enn sem komið er. Hver veit?

Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?

Ef fólk kann að meta lagið og kýs okkur út þá lofum við að standa okkur með sóma og gera okkar besta. Við eigum erindi

En ef þið tapið?

Þá er bara að brosa gegnum tárin og svo höldum við áfram okkar góða samstarfi

Heimilistónar elska Eurovision.

Verður einhver ríkur af að taka þátt í Eurovision?

Kannski ekki í veraldlegum skilningi en þetta gefur heilmikla gleði

Er líf eftir Eurovision?

Já, það er líf eftir Eurovision og af nægu að taka í vinnu og leik hjá okkur Heimilistónum.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Myndir / Íris Dögg Einarsdóttir

Bestu skíðasvæðin

|
|

Finna má fyrirtaks skíðasvæði víðsvegar um heim.

Skíðaiðkun er ein heilnæmasta íþrótt sem hægt er að stunda.  Á Íslandi er að finna góð svæði til að renna sér á skíðum en hvert skyldi eiginlega vera gott að fara ef til stendur að skíða úti í heimi?

Sum svæðin eru líka vinsæll staðir til snjóbrettaiðkunar, bæði á meðal byrjenda og þeirra sem lengra eru komnir.

Ef planið er að fara í ferð með fólki með mismikla reynslu á skíðum þá gæti Chamonix í Frakklandi verið málið. Á staðnum eru tólf skíðabrautir, miserfiðar þannig að hver og einn ætti að geta fundið braut við hæfi. Þarna eru sumar af bestum skíðabrekkum Evrópu, fínar brekkur fyrir börn og góðir skíðakennarar. Fyrir utan einstaklega fallegt útsýni úr þorpinu sem er ástæða þess að fólk flykkist þangað.

Madonna á Ítalíu hentar líka bæði byrjendum og þeim sem eru lengra komnir. Svæðið er vel skipulagt og kláfarnir flytja skíðaiðkendur hratt og örugglega upp í brekkurnar. Brautirnar eru fyrsta flokks og hefur svæðið hlotið sérstök verðlaun fyrir gott viðhald á þeim. Fjöldi veitingastaða og verslana er á svæðinu.

Er verið að skipuleggja skíðaferðalag fyrir fjölskylduna? Þá er Neustift í Austurríki mögulega staðurinn því þar er slatti af brekkum til að æfa sig í og fjöldi skíðalyfta. Neustift er líka vinsæll staður til snjó-brettaiðkunar, bæði á meðal byrjenda og þeirra sem lengra eru komnir. Svæðið er opið allt árið um kring.

Kandersteg í Sviss er einn besti staðurinn til að læra á skíði og brekkurnar þar í kring frábærar fyrir byrjendur. Brautirnar henta öllum og eru auðveldar, skemmtilegar og það breiðar að maður getur spreytt sig á alls konar tækjum á leiðinni niður án þess að þvælast fyrir öðrum. Staðurinn er líka vinsæll meðal áhugafólks um fjallaklifur og þeirra sem sækjast eftir rólegheitum í fallegu umhverfi.

Madonna á Ítalíu hentar líka bæði byrjendum og þeim sem eru lengra komnir. Brautirnar eru fyrsta flokks og hefur svæðið hlotið sérstök verðlaun fyrir gott viðhald á þeim.

Reyndir skíðamenn og adrenalínfíklar ættu kannski að beina sjónum sínum að í Igls Austurríki, því þar er hægt að bruna niður brekkur sem keppt var í á Ólympíuleikunum árið 1964 og svo aftur árið 1976. Nokkur af bestu skíðasvæðum Austurríkis eru umhverfis þorpið auk þess sem alls konar afþreying er í boði, til dæmis söfn sem gæti verið gaman að heimsækja og svo eru ýmsar uppákomur allt árið um kring.

Tregafullar frásagnir og óhugnaleg morðmál

Áhugaverð hlaðvörp.

Dirty John er mögnuð sex þátta hlaðvarpssería um óhugnalegt morðmál í Orange County i Bandarík-junum. Hönnuðurinn Debra Newell kynnist hinum heillandi John Meehan í gegnum stefnumótasíðu og fellur fyrir honum þrátt fyrir aðvaranir ástvina sem finnst eitthvað bogið við kauða. Það er ekki fyrr en hana fer sjálfa að gruna að John sé ekki allur þar sem hann er séður sem renna á hana tvær grímur.

Í Ástandsbörnum skoðar fjölmiðlakonan Viktoría Hermannsdóttir hið svokallaða Ástand á hernámsárunum út frá sjónarhóli ástandsbarna, það er börnum íslenskra kvenna og útlendra hermanna. Þetta eru áhugaverðir og vandaðir þættir sem meðal annars svipta hulunni af erfiðum uppvaxtarárum þessara einstaklinga og fordómunum sem margir þurftu að þola vegna uppruna síns.

Terrible, thanks for asking er vandað og vægast sagt áhugavert fimm vasaklúta hlaðvarp þar sem stjórnandinn Nora McInerney fær gesti sína til að deila erfiðum lífsreynslusögum með hlustendum. Allt frá einlægum frásögnum um erfiða skilnaði yfir í tregafullar frásagnir um ástvinamissi. Þótt vissulega sé grátið er glettnin skammt undan og það á sinn þátt í aðdráttarafli Terrible, thanks for asking.

Í þættinum Í ljósi sögunnar eru málefni og atburðir líðandi stundar skoðuð í sögulegu samhengi. Saga Jerúsalem frá fornri tíð og fram að aldamótum 20. aldar, saga Johns F. Kennedy Bandaríkjaforsetja og saga Kim Jong-un einræðisherra í Norður-Kóreu er á meðal ólíkra viðfangsefna en umsjón er í höndum Veru Illugadóttir, sem fjallar um málin af svo mikilli kunnáttu og innsæi að unun er að hlýða á.

Texti / Roald Eyvindsson

Stuðmenn fagna útgáfu Astraltertukubbs

Stuðmenn með útgáfutónleika í Háskólabíói í febrúar.

Stuðmenn standa nú í ströngu við að undirbúa tónleika í Háskólabíói í febrúar, í tilefni af útgáfu á svokölluðum Astraltertukubb sem hefur að geyma valinkunn lög efir sveitina í nýjum útgáfum. Þar á meðal Örstutt lag og hinn vinsæla smell Vor fyrir vestan.

Að sögn hljómsveitarmeðlima spannar tónlistin víðara svið en oft áður hjá sveitinni og er jafnframt að mörgu leyti verið að feta nýjar slóðir hvað Stuðmenn varðar með þessari útfærsla laganna en þar nutu þeir krafta Printz Board, fjölreynds upptökustjóra og útsetjara frá Bandaríkjunum.

Útgáfutónleikar Stuðmanna verða haldnir í Háskólabíói föstudaginn 23. febrúar næstkomandi. Miðasala hefst á tix.is þann 1. febrúar.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Saga Sig.

Óræð útkoma sem minnir á landslag annarar plánetu

Einstakt myndband.

Gyða Valtýsdóttir tónlistarkona stefnir að sinni fyrstu sólóplötu á þessu ári.

Platan Epicycle eftir Gyðu Valtýsdóttur tónlistarkonu var gefin út á heimsvísu á síðasta ári og listamaðurinn Perry Hall gerði nýlega einstakt myndband við eitt laganna. Gyða hefur verið á ferð og flugi um heim allan undanfarin ár að vinna við tónlist en hefur nú fest rætur á Íslandi og stefnir að sinni fyrstu sólóplötu á þessu ári.

„Hugmyndin að Epicycle hefur verið með mér frá því að ég var átján ára. Það var fyrst þá sem ég fór að kafa dýpra í tóna skrifaðrar tónlistar en áður hafði klassísk tónlist, þrátt fyrir námið mitt, verið mér frekar fjarlæg,“ segir Gyða sem var í hljómsveitinni Múm og er nýlega farin að spila með henni aftur. Myndband við lagið Louange à l’éternité de Jésus af plötunni hefur vakið athygli og var meðal annars flutt á Norður og Niður hátíðinni sem Sigur Rós hélt í Hörpu. „Í myndbandinu vinnur Perry Hall með fljótandi málingu sem hann umbreytir með hreyfingu, hljóðbylgjum eða efnaskiptum og kvikmyndar ferlið. Útkoman er falleg og óræð og minnir á landslag á annarri plánetu.“

Viðtal við Gyðu er í 4. tölublaði Vikunnar.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Þættirnir sem allir eru að tala um

Hámgláp – ritstjórn Mannlífs situr límd yfir þessum þáttum.

1. Manhunt: Unabomber er bandarísk mínisería sem aðdáendur spennuþátta ættu að hafa gaman af. Þættirnir fjalla um erfiða leit Alríkislögreglunnar bandaríksu að launmorðingjanum Unabomber sem varð þremur mönnum að bana, særði 23 í sextán bréfasprengjutilræðum á sautján árum, og hvernig lögreglan varð að innleiða nýjar rannsóknaraðferðir til að hafa hendur í hári hins alræmda morðingja. Stórleikararnir Sam Worthington og Paul Betthany þykja hreinlega fara á kostum í þáttunum.

2. Þættirnir The Crown hafa hlotið einróma lof áhorfenda og gagnrýnenda um allan heim. Þeir fjalla um ævi Elísabetar Englandsdrottningar (sem Claire Foy leikur listilega vel) og þykja gefa svo sanna mynd af sögunni að meira að segja hin raunverulega Elísabet hefur sagst vera nokkuð sátt við útkomuna. Þess má geta að fyrsta serían er dýrasta sjónvarpsframleiðsla allra tíma og er nú von á þeirri þriðju.

3. Í frönsku spennuþáttunum The Mantis (La Mante – sjá myndina hér að ofan) gengur brjálaður morðingi laus, hermikráka sem fremur hræðileg voðaverk. Líkin hrannast upp og ráðþrota lögreglan neyðist að leita aðstoðar raðmorðingjans sem hermikrákan líkir eftir, hinnar stórhættulegu og slóttugu La Mante („Beiðunnar“), sem hefur setið í öryggisfangelsi um árabil. Leikkonan Carole Bouquet, sem glöggir áhorfendur þekkja úr James Bond-kvikmyndinni For your eyes only, sýnir stjörnuleik sem La Mante.

4. Þættirnir Black Mirror draga upp dökka mynd af náinni framtíð, dystópíska sýn, og eru sagðir vera hálfgerð ádeila á nútímatækni og hvernig fólk notar hana. Þetta eru sjálfstæðir þættir, það er ekki framhaldsþættir í eiginlegum skilningi, þar sem hver þáttur hefur sína sjálfstæðu sögu og sína „eigin“ persónur, svolítið í anda hinna fornfrægu Twilight Zone. Þess má geta að sögusviðs eins þáttarins er Ísland.

5. Þýsku þættirnir Dark eru sannkallaður hvalreki fyrir aðdáendur vísindaskáldskapar en þeir gerast í þýskum smábæ þar sem börn fara skyndilega að hverfa sporlaust og stendur lögreglan algjörlega ráðþrota í málinu. Fjölskylduleyndarmál, skuggaleg fortíð og yfirnáttúruleg – allt kemur þetta við sögu í þáttunum sem þykja í anda Stranger Things og hefur verið lýst sem „fjölskyldusögu með yfirnáttúru-legu ívafi.“

Nýrrar myndar Heru beðið með eftirvæntingu

Stikla úr vætanlegri mynd Heru Hilmarsdóttur hefur fengið áhorf upp á næstum fjórar milljónir á YouTube.

Nýjustu kvikmyndar leikkonunnar Heru Hilmarsdóttur, Mortal Engines, virðist nú beðið með mikilli eftirvæntingu en stikla úr henni hefur þegar fengið áhorf upp á næstum fjórar milljónir á YouTube þótt enn séu meira en ellefu mánuðir í frumsýningu.

Myndin byggir á samnefndri bók Philip Reeve úr bókaflokknum Predator Cities sem gerist í fjarlægri framtíð. Leikstjóri er Christian River en sjálfur Peter Jackson, sem á heiðurinn að Hringadróttins- og Hobbita-kvikmyndunum, skrifar handritið að myndinni og framleiðir. Hingað til hefur ákveðin leynd hvílt yfir hlutverki Heru í myndinni en vitað er að hún leikur persónu að nafni Hester Shaw og ef marka má æsispennandi stikluna lítur hún út fyrir að vera hinn mesti harðjaxl.

Þess má geta að þetta verður ekki eina hlutverk Heru í bandarískri stórmynd á árinu því hún leikur einnig í væntanlega fantasíutryllinum The Ashram á móti Óskarsverðlaunaleikkonunni Melissu Leo.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Aldís Pálsdóttir

Heilandi að taka þátt í sögu annarra

|
|

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur hjálpar fólki að skrifa sig frá erfiðum tilfiningum.

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur leiðbeinir fólki sem vill losa sig frá erfiðum tilfinningum með skapandi skriflegri tjáningu á ritmennskunámskeiði við Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Hún trúir á gagnsemi þess og segist sjálf hafa grafið eftir eigin sorg þegar hún skrifaði Tímaþjófinn.

„Við byrjum á því að skrifa um og fjalla um erfiðleika og skugga en svo fikrum við okkur í áttina að ljósinu, skrifum um það sem er jákvætt og þakkarvert og reynum að byggja á því til framtíðar,“ segir Steinunn.

„Markmiðið er að lífsbyrði þátttakenda léttist með því að þeir nái að tjá sig um erfiðar hugsanir og tilfinningar í rituðu máli.  Með því að vinna úr þessum erfiðu tilfinningum skriflega þá næst önnur nálgun heldur en með einungis þráðbeinni munnlegri tjáningu – sem er auðvitað óhjákvæmileg líka á svona námskeiði,“ útskýrir Steinunn þegar blaðamaður grennslast fyrir um námskeiðið. „En eitt af því undraverða sem ég hef séð á fyrri námskeiðum er svo hvernig hópurinn verður að uppbyggingarafli sem er mjög sterkt.“

Þessi aðferð, að skrifa sig frá erfiðum tilfinningum, hefur sýnt sig að hún beri árangur?  „Ég fann það auðvitað ekki upp að ritmennska gæti hjálpað fólki til að ná tökum á andlegum sársauka og til þess að vinna úr áföllum, erfiðleikum og sorg.  Þannig að aðferðin er má segja viðurkennd, heilt yfir. Hins vegar hef ég fundið út mína eigin útgáfu og útfærslu. Og það hlýtur að vera leitun að leiðbeinanda sem hefur mína löngu reynslu af ritstörfum, hálf öld, takk,“ segir hún og kveðst þess utan eiga í sínum reynslubanka ýmislegt nýtilegt, allt frá háskólanáminu til alls konar lífsreynslu, sem sé að hluta til afskaplega sársaukafull. „Og mér mundi auðvitað ekki detta í hug að leiðbeina á svona námskeiði nema af því að ég er opin fyrir öðrum og mig langar einlæglega til þess að verða náunganum til gagns og gamans.“

„… mér mundi auðvitað ekki detta í hug að leiðbeina á svona námskeiði nema af því að ég er opin fyrir öðrum og mig langar einlæglega til þess að verða náunganum til gagns og gamans.“

En hefur aðferðin langvarandi jákvæð áhrif á andlega heilsu fólks? „Ja, eitt get ég sagt með vissu í ljósi þess að ég hef gert þetta áður og það er að skammtímaáhrifin á námskeiðunum hafa verið ótrúlega upplyftandi og upplífgandi.  Sumir hafa viljað koma aftur, þar á meðal ein eldri kona sem hafði þau orð við mig að námskeiðið væri einstakt, maður færi „út úr sinni sögu.“  Og þetta var eitt af því góða sem ég sá ekki fyrir að er „heilandi“ ef ég má nota það orð að taka þátt í sögu annarra.“

Gróf eftir sinni eigin sorg

Þegar hún er spurð hvort hún hafi sjálf skrifað til að losa sig frá erfiðri reynslu eða erfiðum tilfinningum segist Steinunn ekki eiga gott með að svara þeirri spurningu. Hún hafi fyrst byrjað að skrifa í kringum tólf eða þrettán ára aldur í tilfinningaumróti og þyngslum unglingsáranna. Sé hún að skrifa sig frá einhverju sé það ósjálfrátt. Það sé ekki tilgangurinn með skrifunum, hvort sem það er í ljóði eða skáldsögu.

„En ég hef séð það á prenti oftar en einu sinni að Alda Ívarsen í Tímaþjófnum sé einhver harmrænasta persóna í seinni tíma bókum á íslensku. Og ég get alveg fullyrt að ég hafi grafið eftir minni eigin sorg þegar ég bjó Öldu til,“ viðurkennir hún.

En hvernig stóð eiginlega á því að þú fórst að af stað með þetta námskeið? „Þetta byrjaði nú þannig að mér bauðst að vera fyrsti staðarrithöfundur við Háskólann í Strassborg, flytja þar fyrirlestra og kenna skapandi skrif. Í fyrstu umferð komu fimmtán úrvalsnemendur með mjög ólíkan bakgrunn og þarna mynduðust mögnuð tengsl bæði þeirra á milli og milli mín og hópsins. Nokkrir voru ákaflega feimnir í byrjun, en í pakkanum var meðal annars að allir þurftu að standa upp og lesa upphátt.

„Ég hvet þátttakendur til þess að nota húmor í skrifunum þegar líður á námskeiðið, enda er húmor sammannleg tækni til þess að lifa af erfiðleika,“

Smám saman varð ég vitni að hreinasta undri, já ég kalla það bara undur, því ég var svo uppnumin og hissa þegar nemendurnir sem mest voru til baka fóru að blómstra. Og þá laust þeirri hugmynd niður í kollinn á mér hvort fólk sem glímir við erfiðleika, er niðurdregið, gæti í hópi og með leiðbeinanda mögulega skrifað sig frá erfiðum tilfinningum.“

Fikrum okkur í áttina að ljósinu

Að sögn Steinunnar koma þátttakendur á Ritmennskunámskeiðið á NLFÍ í Hveragerði að morgni föstudagsins 2. febrúar og stendur námskeiðið þar til síðdegis á sunnudegi, 4. febrúar. Innifalið er gisting í tvær nætur, aðgangur að sundlaug, tækjasal og allur matur á staðnum. Þátttakendur skrifa meðan á námskeiðinu stendur og farið er yfir textana í hópnum.  „Við byrjum á því að skrifa um og fjalla um erfiðleika og skugga en svo fikrum við okkur í áttina að ljósinu, skrifum um það sem er jákvætt og þakkarvert og reynum að byggja á því til framtíðar. Ég hvet þátttakendur til þess að nota húmor í skrifunum þegar líður á námskeiðið, enda er húmor sammannleg tækni til þess að lifa af erfiðleika,“ segir hún og bætir við að frá hennar bæjardyrum séð sé námskeiðið haldið við kjöraðstæður þar sem þátttakendur hverfa úr amstri hversdagsins, á þennan einstaka stað sem Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði sé.

En nú er þetta helgarnámskeið, er ekki viðbúið að þeir sem sækja það þurfi að halda áfram með vinnuna að því loknu? „Ég legg til að fólkið mitt byrji hversdaginn sinn á því að skrifa, þó ekki sé nema eina línu.  Svo er það undir hverjum og einum komið hvernig hann vinnur úr lífsreynslunni á námskeiðinu og leiðbeiningunum,“ svarar hún og segir það út af fyrir sig magnað að senda þátttakendur heim léttari á brún eftir námskeiðið.

Texti / Roald Eyvindsson
Myndir / Sigtryggur Ari Jóhannsson

Fer með börn á slóðir fossa og eldfjalla

Dalla Ólafsdóttir er nýr umsjónarmaður Ferðafélags barnanna.

Dagskrá Ferðafélags barnanna, FB, fyrir árið 2018 er komin út og þar er að finna 25 ferðir fyrir börn og foreldra þeirra, bæði vinsælar ferðir frá fyrri árum og nýjungar í bland.

Af nýjungum má nefna Fjallagarpaverkefni fjölskyldunnar sem Dalla Ólafsdóttir, annar tveggja nýrra umsjónarmanna FB, segir að standi öllum börnum til boða. „Gengið verður á sex skemmtileg fjöll, Esjuna, Úlfarsfell, Helgafell í Hafnarfirði, Mosfell, Móskarðshnúka og Þorbjörn,“ lýsir hún og getur þess að fjallahetjurnar John Snorri Sigurjónsson og Vilborg Arna Gissurardóttir sláist með í för á nokkur þeirra.

Þá býður Ferðafélag barnanna í fyrsta sinn upp á eldfjalla- og fossagöngu yfir Fimmvörðuháls. „Á leiðinni upp er gengið upp tröppur með fram Skógafossi og svo fram hjá fjölda fossa þar til gist verður í Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi,“ segir Dalla. „Næsta dag verða ein yngstu eldfjöll landsins, Magna og Móða, skoðuð, farið yfir Heljarkamb og gengið í Þórsmörk þar sem við tekur kvöldvaka í Skagfjörðsskála í Langadal.“

„Ég hlakka mikið til. Börn eru svo opin og móttækileg þannig að það verður gaman að kynna fyrir þeim íslenska náttúru og öll ævintýrin sem hún býður upp á.“

Af öðrum ferðum má nefna sveppatínslu, kræklingaferð í Hvalfjörð og pödduskoðun í Elliðaárdal en þær ferðir eru samstarfsverkefni Ferðafélags barnanna og Háskóla Íslands. „Þetta eru allt ferðir sem eru farnar á forsendum krakka, á þeirra hraða og út frá þeirra getu,“ útskýrir hún. „Þannig að krakkar, fimm til sex ára, geta allir með góðri hvatningu tekið þátt og jafnvel yngri duglegir krakkar.“

Sjálf segist hún vera spennt að takast á við þetta nýja verkefni. „Ég hlakka mikið til. Börn eru svo opin og móttækileg þannig að það verður gaman að kynna fyrir þeim íslenska náttúru og öll ævintýrin sem hún býður upp á.“

Ferðafélag barnanna er hugsað til að hvetja börn og foreldra til útiveru og samveru í náttúru landsins og starfar innan Ferðafélags Íslands. Allar nánari upplýsingar um félagið og ferðir þess má nálgast á heimasíðu FÍ, á www.fi.is.

Myndi: Hjónin Dalla Ólafsdóttir og Matthías Sigurðarson eru nýir umsjónarmenn Ferðafélags barnanna. Hér eru þau með börnum sínum í Þórsmörk.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Dalla Ólafsdóttir

Gunnar Björn gerir glæpamynd fyrir börn

|
|

Leikstjórinn Gunnar B. Guðmundsson áformar að færa skáldsögu Þórarins Leifssonar „Maðurinn sem hataði börn“ yfir á hvíta tjaldið. Hann reiknar með að myndin verði sitt dekksta verk til þessa.

Bók Þórarins hlaut glimmrandi góða dóma þegar hún kom út 2014 og var meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barnabóka.

„Þetta er á algjöru frumstigi, þannig að ég vil nú ekki segja of mikið. Bara að sem stendur er ég að plana fyrsta uppkast og sú vinna gengur vel,“ segir leikstjórinn Gunnar B. Guðmundsson sem er um þessar mundir að þróa handrit upp úr skáldsögunni „Maðurinn sem hataði börn“ eftir Þórarinn Leifsson rithöfund.

Bók Þórarins hlaut glimmrandi góða dóma þegar hún kom út 2014 og var meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barnabóka. Hún fjallar um Sylvek, ungan innflytjanda í Reykjavík, sem ákveður upp á sitt einsdæmi að rannsaka hvarf systur sinnar vegna sinnuleysis lögreglu og kynnist á vegferð sinni alls kyns áhugaverðum persónum. Þar á meðal dularfullum leigjanda, reffilegri blaðakonu, ógurlegum steratröllum og síðast en ekki síst sturluðum raðmorðingja.

Þeir sem lesið hafa söguna vita að hún er ansi blóðug á köflum. Gunnar viðurkennir fúslega að verkið sé í dekkri kantinum. Sérstaklega í ljósi þess að það er skrifað með unga lesendur í huga. „Ég er einmitt að vinna í því að tóna ofbeldið svolítið niður í handritinu,“ segir hann. „Því þótt þetta sé auðvitað fyrst og fremst glæpasaga fyrir krakka þá er samt óþarfi að sýna allt.“

„Ég er einmitt að vinna í því að tóna ofbeldið svolítið niður í handritinu,“ segir hann. „Því þótt þetta sé auðvitað fyrst og fremst glæpasaga fyrir krakka þá er samt óþarfi að sýna allt.“

Af því þú nefnir það, hafa glæpamyndir verið gerðar fyrir krakka á Íslandi áður? „Myndir með glæpaívafi, já, en þetta yrði kannski fyrsta hreinrækaða glæpamyndin. Að því sögðu má þó ekki gleyma að saga Þórarins er fantasía líka og full af svörtum húmor og ég ætla að halda í þá þætti.“

Auk þess að skrifa handritið segist Gunnar stefna að því að leikstýra myndinni sjálfur. „Maðurinn sem hataði börn“ yrði því fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd síðan „Gauragangur“ var frumsýnd árið 2010. Sú mynd byggir einmitt líka á bók, samnefndri skáldsögu Ólafs Hauks Símonarsonar og segir Gunnar að vinnan við gerð hennar komi nú að góðum notum í handritavinnunni.

„Þess utan hef ég verið í bandi við frábæra ráðgjafa hjá handritaverkefninu Cinekid og svo heyrt lítillega í Þórarni, sem er mjög þægilegur og rólegur yfir þessu öllu saman,“ segir hann. „Þannig að þetta er búið að vera skemmtileg vinna, sem ég vona bara að muni skila sér inn í myndina.“

Hvenær hefjast tökur? „Auðvitað er erfitt að segja til um það á þessu stigi málsins, í miðjum skrifum. En ef allt gengur að óskum erum við sennilega að tala um 2020. Það er rökrétt.“

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Róbert Karl Ingimundarson

Íslenskur brimbrettamaður í stórri þáttaseríu

Heiðar Logi Elíasson, fyrsti atvinnumaðurinn á brimbretti á Íslandi, og samstarfsmaður hans, Erlendur Þór Magnússon ljósmyndari, taka þátt í gerð seríu framleiddri af risaveldinu Red Bull.

„Það er að koma hingað erlent tökulið og það ætlar að fylgja okkur Ella eftir á för okkar um landið, þar sem við leitum uppi háar og kraftmiklar öldur á afviknum stöðum til að takast á við þær. Þetta verður svona „skyggnst á bak við tjöldin“ dæmi, viðtöl í bland við senur þar sem hreinlega allt getur gerst,“ segir brimbrettakappinn Heiðar Logi Elíasson kátur í bragði.

Hann og vinur hans og samstarfsfélagi til nokkurra ára, Erlendur Þór Magnússon ljósmyndari, hafa gert samning um að koma fram í annarri seríu af þáttunum Chasing the Shot sem beinir sjónum að ljósmyndurum sem leggja allt kapp á að ná hinni fullkomnu mynd af jaðaríþróttafólki – oft við erfiðar aðstæður. Fyrri serían var meðal annars tekin upp á Hawaii og Nýja-Sjálandi og hlaut góðar viðtökur en það er risaveldið Red Bull sem framleiðir þættina.

„Þetta er náttúrlega mjög flott verkefni. Ég meina, þetta er það sem okkur Ella hefur lengi dreymt um. Að gera okkar eigið „stöff“.“

Spurður um hvernig það hafi komið til að þeir félagar hafi verið fengnir til að koma fram í þáttunum segir Heiðar Logi hugmyndina hafa sprottið upp í samræðum sem hann átti við aðila innan Red Bull í fyrra. Hún hafi smám saman undið upp á sig og sé nú að verða að veruleika. „Þetta er náttúrlega mjög flott verkefni,“ segir hann, auðheyrilega spenntur. „Ég meina, þetta er það sem okkur Ella hefur lengi dreymt um. Að gera okkar eigið „stöff“.“

Í þeim stóru verkefnum sem þeir félagar hafi hingað til komið að hafi þeir meira verið hluti af teymi, eins og í nýlegri heimildamynd á Netflix sem kallast Under an Arctic Sky og fjallar bæði um þá og annað brimbrettafólk sem er að eltast við hina fullkomnu öldu. Í Chasing the Shot verði fókusinn hins vegar alfarið á þá. Auk þess hafi þeir miklu frjálsari hendur með efnistök. „Þannig að við ætlum að nota tækifærið og sýna allt sem við erum að bralla saman. Hluti sem við höfum aldrei sýnt á „vídeó“ áður. Fólk á eftir að fá alveg nýja sýn inn í það sem við erum að gera.“

Að sögn Heiðars er tökuliðið væntanlegt til landsins í febrúar og er áætlað að þættirnir verði aðgengilegir í sumar. Ekki sé búið að negla niður tökustaði að svo stöddu. Þeir ráðist af veðráttunni. „Við förum bara þangað sem stormarnir og háu öldurnar verða hverju sinni,“ segir hann hress.

Mynd: Heiðar Logi Elíasson hefur getið sér gott orð sem brimbrettamaður en hægt er að fylgjast með ævintýrum hans á bæði Snapchat og Instagram undir notendanafninu heidarlogi.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Aldís Pálsdóttir

Úr Elly í Rocky Horror

Björn Stefánsson leikur Riff Raff í Rocky Horror.

Leikarinn og trommuleikarinn Björn Stefánsson, einnig þekktur sem Bjössi í Mínus, hefur nú bæst í leikararhóp söngleiksins Rocky Horror sem verður frumsýndur í Borgarleikhúsinu í mars. Björn mun bregða sér í hlutverk ískalda einkaþjónsins Riff Raffs, sem upphaflega var leikinn af Richard O´Brien, höfundi verksins, í bíómynd byggðri á verkinu. Til stóð að leikarinn Atli Rafn Sigurðarson færi með hlutverk persónunnar en eins og kunnugt er var honum sagt upp störfum í leikhúsinu í desember í fyrra.

Björn, sem vakið hefur athygli fyrir leik sinn í Elly og í kvikmyndinni Rökkur, var því fenginn til að leysa Atla Rafn af hólmi og hefur hann undanfarnar vikur verið að æfa af krafti með leikhópi Rocky Horror, sem skartar stórstjörnum á borð við Pál Óskar og Val Frey Einarsson. Miklar vonir eru bundar við uppsetningu leikhússins á verkinu enda er Rocky Horror einn vinsælasti söngleikur allra tíma.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Skot úr myndinni Rökkur þar sem Björn fór með annað aðalhlutverkið.

Metaðsókn í Sundhöll Reykjavíkur

Gufubaðið í Sundhöllinni gallað

Sundhöll Reykjavíkur aldrei vinsæll en nú.

Óhætt er að segja að Sundhöllin í Reykjavík hafi aldrei verið jafnvinsæl og nú. Hvorki meira né minna en tæplega 36 þúsund manns lögðu leið sína í laugina í desember í fyrra eftir að hún var opnuð á nýjan leik 3. desember eftir miklar breytingar. En til samanburðar má geta að tæplega níu þúsund gestir sóttu Sundhöllina í desember árið á undan.

„Þetta er algjör sprengja miðað við fyrri ár,“ segir Brá Guðmundsdóttir, þjónustu- og mannauðsráðgjafi hjá Laugardagslaug og Sundhöll Reykjavíkur. „Við erum að tala um metaðsókn.“

Brá segir að breytingar á Sundhöllinni, sem fela meðal annars í sér byggingu viðbyggingar og útisvæðis, hafi augljóslega hitt í mark. Enda séu flestir á einu máli um að þær séu vel heppnaðar. Þá sýni ferðamenn lauginni aukinn áhuga, sem eigi þátt í þessari miklu aðsókn. Með sama áframhaldi megi reikna með metaðsókn í Sundhöllina á árinu. „Ég býst við því og að gamla sólbaðsaðstaðan og nýja útivistarsvæðið komi þá sterkt inn í veðursældinni í sumar,“ segir hún glaðlega.

Að sögn Brár hófust framkvæmdir við nýju útilaugina á vormánuðum 2015 og var Sundhöllin lokuð vegna framkvæmda frá júní 2017 fram til desember sama ár. VA arkitektar eiga heiðurinn af viðbótunum en Guðjón Samúelsson, þáverandi húsameistari, hannaði gömlu höllina.

Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur

Lykillinn að góðum rakstri

Rakstur er mikilvægur þáttur í húðumhirðu karla. Hér eru nokkur góð ráð.

Mjúkt skegg tryggir betri rakstur
Lykillinn að góðum rakstri er að tryggja það að skeggið sé vel blautt áður en hafist er handa. Þurrt skegg er nefnilega mun harðara sem gerir það að verkum að raksturinn er erfiðari og rakvélarblöðin slitna fyrr. Best er að skella sér í heita sturtu og raka sig svo eftir hana, en ef ekki gefst tími til að fara í sturtu er gott að setja vel heitan og rakan þvottapoka á andlitið í um það bil tvær mínútur fyrir raksturinn. Þetta mýkir skeggið, ásamt því að örva og opna húðina, þannig að raksturinn verður léttari og útkoman betri.

Sápa og bursti
Notið raksápu sem inniheldur mikið af rakagefandi og smyrjandi efnum, til dæmis glyseríni og silíkoni, eða góðan anditshreinsi sem freyðir vel. Gæðaraksápur mynda þykka og mjúka froðu án aðstoðar freyðiefna á borð við súlföt sem geta þurrkað húðina. Ef tími gefst er gott að leyfa raksápunni að vera um stund á húðinni áður en raksturinn hefst svo skeggið verði eins mjúkt og mögulegt er. Þótt sumar raksápur megi hæglega bera á með fingrunum jafnast ekkert á við að nota góðan rakbursta, eins og alvörurakarar nota, því hann ýfir skegghárin þannig að raksturinn verður enn fínni en annars.

Vertu með, ekki á móti
Við raksturinn er mikilvægt að nota góða rakvél, hvort sem um ræðir rafmagnsrakvél eða sköfu. Sköfu á alltaf að renna létt yfir hörundið, ekki þrýsta fast að, og strekkja vel á húðinni á meðan. Mikilvægt er að hreinsa rakvélarblaðið oft og vel meðan á rakstrinum stendur, svo að ekki safnist hár á milli blaðanna. Ef sápan þornar þarf aðeins að nota meira vatn og vinna froðuna aftur upp með burstanum, ekki nota meiri sápu. Það á alltaf að raka í sömu stefnu og skeggið vex, aldrei á móti. Að raka á móti skeggvextinum getur valdið sviða og inngrónum hárum í andliti ásamt því að auka líkurnar á því að maður skeri sig við raksturinn. Til að tryggja góðan rakstur getur verið gott að setja aftur á sig raksápu og raka aðra umferð en þá þvert á skeggvöxtinn, en varast samt ofrakstur.

Eftir rakstur og sótthreinsun
Meðferð eftir raksturinn er ekki síður mikilvæg og undirbúningurinn. Strax að loknum rakstri er gott að skvetta dálitlu köldu vatni á andlitið til loka húðinni aftur. Margir klikka oft á því, bera strax á sig rakspíra og uppskera mikinn sviða. En það er ekki fyrr en að húðinni hefur verið lokað á þennan hátt sem á að bera á sig rakspíra, helst einhvern sem inniheldur lítið sem ekkert alkóhól, eða rakakrem (after shave balm) til sótthreinsunar og mýkingar.

Viðhald á tækjum og tólum
Eftir hverja notkun þarf að hreinsa bæði burstann og rakvélina. Hristið vatn úr burstanum, ekki vinda hann, og geymið hann hangandi svo hárin vísi niður, en það kemur í veg fyrir að raki safnist fyrir og valdi hárlosi. Bitlaust eða skítugt blað er ein meginástæðan fyrir óþægilegum rakstri og skurðum. Rakvélarbrýni, eins og Razorpit, geta þá komið að góðum notum og gera manni kleift að spara í kaupum á rakvélarblöðum. Það eykur notkun hvers rakvélarblaðs frá tíu rökstrum upp í allt að hundrað rakstra að hreinsa það og brýna svo að það verði hárbeitt á ný.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Raddir