Ragnar Egilsson, framkvæmdastjóri Hlemms, er mikill matgæðingur.
Ragnar töfrar fram fjölbreytta en einfalda rétti sem lesendur ættu allir auðveldlega að geta leikið eftir.
Hvað starfarðu og hvaða verkefni fæstu við um þessar mundir? „Ég er framkvæmdastjóri Hlemms og er mest að einbeita mér að uppbyggingu Mathallarinnar þessa dagana með því að styðja við þá frábæru rekstraraðila sem hafa komið sér fyrir í húsinu og undirbúa ýmiss konar spennandi viðburði.“
Hvað var það fyrsta sem þú lærðir að elda? „Það fyrsta sem ég man eftir var að gera eggjaköku fyrir pabba. Mér hefur alltaf fundist eitthvað spennandi við að taka alls konar mismunandi hráefni og blanda því saman og sjá hvað gerist. Ég hef líka gaman af því að gera þetta með fólk í partíum. Lengi vel var ég ekki maðurinn sem þú talaðir við ef þú vildir heyra hvernig ætti að hafa hlutina einfalda og leyfa hráefninu að skína því mexíkóskar kássur með ótal innihaldsefnum hafa alltaf höfðað meira til mín. En ég er að verða einfaldari með árunum, í öllum skilningi orðsins.“
Ertu jafnvígur á bakstur og matseld? „Mér fannst skemmtilegra að baka þegar ég fór fyrst að búa einn, trúlega því þar er allt mælt svo nákvæmlega. Eftir því sem maður varð öruggari með sig í eldhúsinu sá ég að matseldin átti meira við mig. Góður bakstur er heldur ekkert djók.“
Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín? „Erfið spurning. Áðurnefnd mexíkósk matseld, víetnömsk, japönsk og írönsk. Eiginlega höfðar öll matseld til mín en framandi hráefni, „fönkí“ bragð og sítrus koma oft við sögu.“
„Eiginlega höfðar öll matseld til mín en framandi hráefni, „fönkí“ bragð og sítrus koma oft við sögu.“
Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu? „Ég hef gert svo mörg mistök í eldhúsinu að ég myndi ekki vita hvar ég ætti að byrja. Ætli þau nýjustu séu ekki að halda að ég gæti eldað eitthvað ætilegt þegar ég var rammstíflaður af haustkvefi og með ekkert lyktarskyn. Endaði með að nota svona þremur matskeiðum of mikið af salti í núðlurétt um daginn.“
Hefur þú uppgötvað einhverja snilld í matseld nýlega? „Bæta matarsóda í vatn með spaghettí til að fá svipaða áferð og á ramen-núðlum.
Svo var ég að fá sendingu af þurrkuðum rauðum berjum sem heita zereshk og eru mikilvægt hráefni í íranskri matseld, ég er enn að læra almennilega á þau.“
Hefur þú ræktað krydd- eða matjurtir? „Skessujurt, myntu, kóríander og graslauk. Er grútlélegur í garðyrkju en mig dreymir um að bæta mig.“
Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku? „Tahdig. Þetta er íranskur réttur. Hrísgrjón sem er leyft að brúnast og inniheldur í grunninn bara vatn og hrísgrjón. Það er asnalegt hvað það er erfitt að ná þessu réttu.“
UPPSKRIFTIR
Fyrstu tvær uppskriftirnar að spjótum eru frá Böðvari Lemack frá Kröst á Hlemmi – Mathöll.
Grillað lambaspjót með kartöflusalati 8 pinnar
Kartöflusalat
1 kg smælki
2 hvítlauksgeirar
30 g greinar af fersku tímíani
klípa af salti
1 eldpipar
1 dós sýrður rjómi
30 g saxað ferskt dill
1 msk. dijon-sinnep
Fyrstu fjögur innihaldsefnin eru soðin saman þar til kartöflurnar eru soðnar. Næstu þremur er blandað saman og kartöflunum blandað við sósuna. Salt og pipar eftir smekk.
Lambaspjót
800 g lamba-fillet skorið í bita
1 bolli sojasósa
1 bolli dijon-sinnep
1 bolli púðursykur
1 bolli balsamedik
Blandið saman sojasósu, sinnepi, púðursykri og ediki og marinerið lambið í blöndunni að lágmarki yfir nótt, helst yfir sólarhring. Þræðið upp á spjót og grillið þar til tilbúið.
Best er að bera pinnana fram með fersku, söxuðu grænkáli og rabarbarasultu.
Uppskriftin að þessum klassíska franska eftirrétti kemur frá kökugerðarmeistaranum og matarbloggaranum David Lebovitz. Með tilkomu Costco er orðið sérstaklega auðvelt að finna góð kirsuber á sanngjörnu verði. Bakstur gerist varla einfaldari.
500 g kirsuber
3 stór egg
70 g hveiti
1 tsk. vanilludropar
⅛ tsk. möndludropar
100 g strásykur og 50 g til viðbótar
330 ml nýmjólk
smjörklípa til að smyrja bökunardisk
Hitið ofninn í 190ºC og smyrjið mótið. Fjarlægið steina úr kirsuberjum og dreifið jafnt yfir botninn á mótinu. Blandið saman eggjum, hveiti, vanillu- og möndludropum, 100 g af sykri og mjólk í hrærivél. Deigið verður mjög þunnt. Hellið deiginu yfir kirsuberin og stráið 50 g af sykri yfir. Bakið í 45 mínútur.
180 g tröllahafrar
180 g venjulegir hafrar
250 g grófsaxaðar möndlur
50 ml matarolía, eða kókosolía
130 ml hunang
1 tsk. flögusalt
1 msk. heil kóríanderfræ
börkur af hálfri sítrónu, í heilum renningum
2 tsk. appelsínublómavatn
1 léttþeytt eggjahvíta
250 g fíntsaxaðar þurrkaðar apríkósur
Hitið ofninn að 160ºC og leggið bökunarpappír í ofnskúffu. Blandið fyrstu þremur innihaldsefnunum saman í skál. Hitið olíu, hunang, salt, kóríanderfræ og sítrónubörk í litlum potti yfir lágum hita í 5-10 mínútur. Takið hunangsblönduna af hita, sigtið burt fræ og börk og hrærið appelsínublómavatni út í. Blandið hunangsblöndunni vandlega saman við hafrablönduna og bætið lausþeyttri eggjahvítu varlega saman við. Dreifið vel úr blöndunni á bökunarpappír. Bakið í 30-40 mín. og hrærið af og til þar til granólað hefur tekið á sig lit. Leyfið granólanu að kólna og blandið þurrkuðum apríkósum vandlega saman við.
Berið fram með góðri grískri jógúrt og örlitlu hunangi.
Appelsínublómavatn fæst til dæmis í tyrknesku sérvöruversluninni Istanbul Market í Ármúla en þar fæst líka prýðileg jógúrt af ýmsu tagi.
Gjafir sem innihalda ást og hlátur hitta alltaf í mark hjá yngstu kynslóðinni.
Allir krakkar elska að fá pakka. Þeir geta komið í öllum stærðum og gerðum en þær gjafir sem hitta alltaf í mark innihalda ást og hlátur. Þessar gjafir segja hvað skýrast: „Ég var að hugsa um þig“. Kostnaðurinn er enginn enda eru dýrustu gjafirnar eru ekki þær bestu.
Öll börn þrá að eiga einkastund með foreldrum sínum. Barnið upplifir sig einstakara við það eitt að fá tíma þegar aðeins það á hug og hjörtu foreldra sinna. Það er jafnframt mikilvægt fyrir foreldrana að eiga gæðastund með barninu sínu.
Þegar tímaleysið er algjört er snjallt að gera eldamennskuna að skemmtilegu stefnumóti barns og foreldris. Búðarferðin getur líka orðið að æsispennandi rannsóknarleiðangri og bílaþvottastöðin reynst sannkallaður ævintýraheimur með réttu hugarfari. Því er mikilvægt að bregða reglulega út af vananum, fara jafnvel lengri leiðina og finna það áhugaverða í hversdagslegum viðkomustöðum.
Þegar kemur að stefnumóti er gott ráð að leyfa barninu að velja hvað það vill gera. Oft eru það einföldustu og ódýrustu lausnirnar sem það leitar að. Þegar barnið fær tækifæri til þess að velja verður skipulagningin mun meira spennandi og barninu finnst það vera við stjórn.
Börn elska að hjálpa og hafa hlutverk. Þvottakarfan getur til að mynda reynst hin besta skemmtun þegar barnið fær að taka þátt og sortera sokkana. Vissulega er oft fljótlegra að þjóta einn í búðina eða henda tilbúnum rétti í ofninn en með því að virkja þátttöku barnanna og leyfa þeim að gera hlutina á sínum hraða söfnum við dýrmætum augnablikum í minningabankann sem verða aldrei metin til fjár.
Að fara á stefnumót með foreldrinu í bakaríið getur sem dæmi orðið uppspretta yndislegra minninga síðar meir.
Foreldrasamviskubitinu sagt stríð á hendur
Stefnumótið þarf ekki að vera þaulskipulagt því lausnin liggur oft í því að skapa augnablik í hversdagsleikanum. Með þessum hætti má kría út nokkrar dýrmætar mínútur í daglegri rútínu og forðast um leið hið alræmda foreldrasamviskubit. Samverustundir sem oft eru af svo skornum skammti aukast í kjölfarið og upp spretta nýjar hugmyndir af skemmtilegri afþreyingu með barninu.
Þegar kemur að skipulögðu stefnumóti er gott ráð að leyfa barninu að velja hvað það vill gera. Oft eru það einföldustu og ódýrustu lausnirnar sem það leitar að. Þegar barnið fær tækifæri til þess að velja verður skipulagningin mun meira spennandi og barninu finnst það vera við stjórn.
Að kasta steinum í læk eða safna laufblöðum getur verið hin mesta skemmtun. Tína köngla og mála síðan heima, eða fara í fjársjóðsleit í skóginum. Rannsóknarleiðangur um hverfið eða heimsókn á skólalóðina fyrir tilvonandi nemendur. Meira að segja kanilsnúðabakstur getur vakið upp mikla kátínu eða barn sem fær að telja kartöflur ofan í kvöldverðarpottinn. Kostnaðarhliðin þarf því ekki að vefjast fyrir fjársveltum foreldrum og enn síður fyrirhöfnin. Einföldustu atriði geta vakið stórkostlega kæti hjá börnum.
Ekki vanmeta útiveruna, það er flest auðveldara að vera úti, hvort sem það er gönguferð, hjólaferð eða könnunarleiðangur. Ferska loftið gerir öllum gott. Tímaramminn er síðan annað mál. Margir foreldar bera fyrir sig tímaleysi og áætla að til þess að stefnumótið eigi að bera tilætlaðan árangur verði það að vera langt. Viðveran mun kannski taka nokkrar klukkustundir en barnið mun muna eftir því og tala um það í langan tíma á eftir. Eins ber að hafa í huga að gleðirammi barna er ákveðið langur og auðvelt fyrir foreldra að mikla hluti óþarflega fyrir sér.
Nokkrar hugmyndir af einkatíma barns
Leyfðu barninu að velja hvað er í matinn og hvar þið borðið hann, hvort sem það er heima eða á veitingastaðnum. Sjálfstraust barna eykst með því að fá að stjórna.
Ef þú ert foreldri hefurðu sjálfsagt heyrt setninguna sjáðu mig oftar en einu sinni. Gefðu barninu athyglina – leyfðu því að vera í sviðsljósinu.
Eftir kvöldbaðið er ómetanleg stund að barnið velji sér bók til að lesa. Þannig sameinast það foreldri sínu í dagsins lok sem reynist oftar en ekki besta stund hans fyrir innileg samtöl.
Fyrir suma eru morgnarnir besti tíminn sem foreldrið getur átt með börnum sínum en fyrir aðra eru kvöldin þeirra tími. Nýtið tímann og styrkleika barnanna til fulls.
Setið upp skipulagt stefnumót með hverju barni fyrir sig.
Súperkvöld er önnur hugmynd að skemmtilegri tilbreytingu fyrir barnafólk en það eru kvöld sem börnin ráða ferðinni í einu og öllu.
Fanney Vigfúsdóttir segir frá skemmtilegum stöðum í Kaupmannahöfn.
Fanney Vigfúsdóttir var í námi í heimilislækninugm í Kaupmannahöfn og þekkir borgina og svæðið í kring vel. Við fengum hana til að segja okkur frá nokkrum stöðum sem hún mælir með að fólk skoði þegar það fer til borgarinnar.
„Það var á allan hátt lærdómsríkt að búa í Kaupmannahöfn. Borgin er falleg með ógrynni af möguleikum til að upplifa eitthvað við allra hæfi. Hægt er að hjóla mest allt sem farið er innanbæjar og svo eru góðar almenningssamgöngur ef maður vill kíkja fyrir utan borgarmörkin. Það er mikið af almenningsgörðum sem er gaman að labba um og skoða eða að hittast í með vinum og grilla og hafa það huggulegt,“ segir Fanney.
Jónshús
Það ætti að vera skylda fyrir Íslendinga sem koma til Kaupmannahafnar að koma í Jónshús. Að labba frá Nørreport, fram hjá Kongens Have, jafnvel fara dálítinn krók og labba í gegnum garðinn, dást að Rosenborg-kastalanum og Statens Museum for Kunst á leiðinni og svo sjá þetta fallega hornhús á Øster Voldgade 12 (á milli Østerport og Nørreport). Í þessu húsi bjó Jón Sigurðsson með konu sinni og barðist fyrir sjálfstæði Íslendinga og seinna keypti íslenskur kaupmaður það og gaf íslenska ríkinu sem á það enn. Þarna er mjög áhugavert og flott safn um Jón Sigurðsson og einnig er þetta félagsheimili með allskonar starfsemi fyrir Íslendinga í Kaupmannahöfn.
Skt. Hans Torv á Nørrebro
Þetta huggulega torg hefur alltaf verið í uppáhaldi. Þar er hægt að setjast niður og njóta veitinga og drykkja eða fá sér ís. Margt áhugavert er hægt að skoða í öllum áttum frá torginu. Hægt er að labba niður að síkjunum og kíkja í second hand-verslanir á leiðinni eða í gegnum Elmegade þar sem eru margar litlar búðir. Á Nörrebrogade er ekta fjölbreytileiki með fólki alls staðar að úr heiminum og í Assistants Kirkegård getur maður séð fólk í sólbaði milli legsteinanna ásamt því að dást að þessum fallega kyrrláta garði í miðri borgarösinni.
Frederiksborg Slot í Hillerød
Það er virkilega þess virði að taka lestina út úr bænum og fara til Hillerød. Þar er hugguleg göngugata og við enda hennar Frederiksborg Slot sem er yndislega fallegur kastali með enn þá fallegri hallargarði. Manni líður eins og maður sé kominn í ævintýri, algjörlega magnað.
Stevns Klint í Højerup
Ég gæti ekki mælt nóg með að taka allavega einn dag í að fara og skoða Stevns sem er svæði á litlum skaga um það bil 40 mínútum suður frá Kaupmannahöfn. Það er auðveldast að vera á bíl, en það eru líka einhverjar almenningssamgöngur og einnig eru hjólastígar um allt. Ef ég hefði bara einn dag myndi ég byrja að keyra til Højerup að Stevns Klint en þar er kirkja sem stendur á bjargbrún. Hluti kirkjunnar er dottinn í hafið en maður getur farið inn í kirkjuna og út á svalir þar sem maður horfir beint niður í grýtta fjöruna. Útsýnið er magnað og hægt er að labba niður brattan langan stiga niður í fjöruna, þetta er algjörlega einn fallegasti staður í Danmörku. Þaðan myndi ég svo kíkja í Holtug Kridtbrud, labba þangað niður og skoða salamöndrutjarnirnar, litlar tjarnir sem eru fullar af litlum salamöndrum og svo eru litlar eðlur líka allt um kring. Á leiðinni myndi ég keyra upp að Vallø Slot, litlum kastala sem er búið að breyta í íbúðir, með fallegum hallargarði og litlum hallarbæ með flottum veitingastað, á þessum leiðum eru falleg engi og skógsvæði sem maður getur alveg gleymt sér við að skoða. Ég verð að mæla með að koma við á einhverjum af þeim mörgu sveitabæjum sem selja ávexti/grænmeti og annað ræktað á búinu, brakandi ferskt og gott.
Little Women er ein af þessum klassísku jólamyndum sem sumir kjósa að horfa á á hverju ári. Myndin segir frá systrunum Jo, Meg, Beth og Amy ásamt móður þeirra en faðir þeirra er fjarverandi að berjast í borgarastyrjöldinni í Bandaríkjunum. Þetta er náin og samheldin fjölskylda sem þó þarf að glíma við erfiðleika, eins og aðrar fjölskyldur. Eitt hjartnæmasta atriði myndarinnar er þegar konurnar ákveða að gefa allan hátíðarmatinn sem þær hafa safnað fyrir í marga mánuði og búið er að matreiða eftir kúnstarinnar reglum. Nágrannar þeirra voru nefnilega hjálparþurfi. Það reynist þeim erfitt að pakka saman öllu veisluborðinu án þess að hafa svo mikið sem snert við matnum en viðbrögð nágranna þeirra við þessari gjöf gerir það þess virði.
Fjölskyldudrama
Í Family Stone (aðalmynd) fylgjumst við með hrakfarajólum Stone-fjölskyldunnar. Elsti sonurinn, Everett, hefur boðið kærustu sinni, Meredith, heim um jólin með það fyrir augum að biðja hennar yfir hátíðarnar með glæsilegum hring. Hún fær miður góðar móttökur og ákveður í örvæntingu að bjóða systur sinni að koma til að dreifa athyglinni. Allt gengur á afturfótunum og Meredith er svo stíf að allt sem hún segir kemur út á versta mögulega veg og móðgar meirihlutann af fjölskyldunni. Á jóladag biður Everett móður sína um hringinn sem er erfðargripur en hún neitar honum upphaflega um hann. Þegar henni snýst síðan hugur eru farnar að renna tvær grímur á Everett og hann er ekki viss hvort hann vilji enn þá giftast Meredith.
Óætur kalkúnn
Clark Wilhelm Griswold langar að halda hin fullkomnu Griswold-fjölskyldujól. Eftir margra mánaða undirbúning býður hann bæði foreldrum sínum og tengdaforeldrum og einnig Louis, frænda sínum, og elliærri frænku sinni, Bethany. Honum að óvörum mætir líka groddalegi frændi konu hans, Eddie, ásamt allri fjölskyldu sinni í húsbílnum sínum. Clark er búinn að skreyta húsið með meira en 20.000 ljósaperum og ná í risastórt jólatré sem passar eiginlega ekki inn í stofuna. Þegar þau eru loks sest við borðstofuborðið, búin að fara með borðbæn og ætla að gæða sér á kræsingum þá er kalkúnninn ekki eins og hann átti að vera. Um leið og Clark sker í fuglinn þá svo gott sem springur hann, með tilheyrandi búkhljóði, því hann er algjörlega orðinn að engu að innan.
Pítsuveisla í limmósínu
Í Home Alone 2: Lost in New York er Kevin McCallister mættur aftur. Í þetta skiptið fer hann óvart í aðra flugvél en fjölskylda sín og endar í New York-borg, í stað Flórída. Hann er ekki lengi að gera borgina að leikvelli sínum, enda með nóg af peningum og kreditkortum. Eitt minnisstætt atriði er þegar Kevin keyrir um borgina í limmósínu og hámar í sig ostapítsu á meðan, mjög grand á því. Kevin er ekki einn lengi því hinir illræmdu bjánabófar, Harry og Marv, enn þá í sárum eftir síðustu viðskipti sín við Kevin, eru líka mættir á svæðið og ætla núna að fremja rán aldarinnar.
Í desember gæti verið sniðugt að „detoxa“ eða „pretoxa“ áður en jólahátíðin skellur á.
Desember er annasamasti mánuður ársins hjá flestum. Við þurfum ekki aðeins að versla jólagjafir, þrífa heimilið, skrifa jólakort, skreyta og guð má vita hvað heldur er okkur einnig boðið í alls konar aðventuboð á vinnustöðum, til ættingja og vina. Síðan skellur jólahátíðin á og það er sama upp á teningnum þá. Þannig að mánuðurinn einkennist af áti, drykkju, streitu og svefnleysi. Við höfum oft heyrt talað um detox, eða hreinsun, eftir þetta sukktímabil en einnig er gáfulegt að huga að nokkurs konar „pretoxi“, það er andlegum og líkamlegum undirbúningi, og hér eru nokkur góð ráð.
Matur
Hangikjöt, skata, villibráð, grafinn lax og svo mætti lengi telja. Þótt hátíðarmatur sé vissulega gómsætur er hann einnig þungur í maga og oftar en ekki fremur saltur. Án þess að þú gerir þér fulla grein fyrir því þá getur hann farið að hafa áhrif á heilsu þína.
Þú getur lítið stjórnað hvað er á boðstólum í þeim veislum og partíum sem þú ferð í. Þess vegna er enn mikilvægara að passa upp á að ísskápurinn þinn sé að minnsta kosti vel birgur af alls kyns ferskum mat, eins og grænmeti. Þau fáu kvöld sem þú ert heima hjá þér í aðdraganda jólanna ættir þú að reyna að fá þér salat eða annan léttan mat. Þú munt sofa betur og almennt líða betur þegar þú vaknar daginn eftir.
Takmarkaðu nammiátið við nokkra daga því of mikill sykur getur valdið ójöfnu orkustigi, þannig að þú ert annað hvort alltof þreytt eða of ör.
Drykkur
Áfengi er oftar en ekki haft um hönd í kringum hátíðarnar og þá kannski í meira mæli en gengur og gerist aðra mánuði ársins. Það er mikilvægt að reyna að gæta hófs og jafnframt vanda valið. Reyndu að drekka sem minnst af sykruðum drykkjum og drekktu alltaf eitt vatnsglas á móti hverjum drykk svo þú verðir ekki fyrir vökvatapi.
Hátíðarmatur er eins og áður sagði fremur saltur og reyktur sem þýðir að okkur hættir til að binda meira vatn í líkamanum. Þannig að þegar þú hættir einn morgun að passa í buxurnar þínar þá er það ekki endilega vegna þess að þú sért búin að fitna heldur getur það einfaldlega verið bjúgur. Því er gott að venja sig á að drekka nóg af vatni og fá sér vatnslosandi drykk, eins og sítrónuvatn, á morgnana.
Eins og áður sagði er maturinn í þessum mánuði ekki mjög fjölbreyttur. Til að auka vítamín- og steinefnaneyslu þína er gott að fá sér „smoothie“ á morgnana með nóg af ferskum eða frosnum ávöxtum, kókosvatni, chia-fræjum, avókadó og spínati eða grænkáli. Þannig færðu góðan kraft og næringu fyrir daginn og þú getur tjúttað fram eftir nóttu ef þannig liggur á þér.
Reyndu líka eftir bestu getu að skipta kaffinu út fyrir te því það hefur alla jafna mun meira magn andoxunarefna ásamt því að innihalda jurtir sem geta hjálpað til við að jafna meltingu, styrkja ónæmiskerfið, gefa orku og einbeitningu og svo framvegis.
Hvíld
Það er alveg bókað mál að þú færð ekki nægan svefn í desember, hvort sem þú ert að djamma á jólahlaðborðum eða sveitt að versla jólagjafir á miðnæturopnun í verslunum. Þess vegna verður að grípa gæsina þegar hún gefst og fara snemma að sofa og tryggja gæði svefnsins. Skiptu reglulega um á rúminu, því fátt hjálpar manni að sofna eins og tandurhrein og ilmandi sængurföt. Það þekkja flestir að lavender er mjög róandi og því er sniðugt að blanda nokkrum dropum af lavander-ilmolíu við vatn og spreyja létt yfir koddann.
Einnig er gott að drekka róandi te á kvöldin til að tryggja að maður sofni snemma. Það er hægt að fá ýmsar gerðir af tei í verslunum og mikilvægast er að það sé koffínlaust en síðan eru ýmsar jurtir sem eru svefnaukandi, eins og kamilla, eða garðabrúða.
Hættu líka í símanum og spjaldtölvunni allavega klukkutíma áður en þú ætlar upp í rúm því bláa ljósið sem slík tæki gefa frá sér hamla melatónínframleiðslu svo það tekur þig lengri tíma að sofna.
Með einföldum ráðum er hægt að bæta ásýnd baðherbergja.
Baðherbergi eru oft þau rými sem fá hvað minnstar endurbætur innan heimilisins. Flestir eru þó sammála um að vilja hafa baðherbergin hrein og snyrtileg en stærðarinnar vegna getur reynst erfitt að koma skipulagi á handklæði, sturtusápur og baðdót barnanna. Það er þó heilmikið sem hægt er að bæta með einföldum ráðum sem þurfa hvorki að kosta mikið né krefjast mikilla framkvæmda.
Á flestum heimilum eru baðherbergin í smærra lagi og því rúmast takmarkað magn húsgagna þar inni. Því eru það smáhlutirnir sem skapa rétta andrúmsloftið enda dvelja flestir góðan part af deginum inni á baðherberginu.
Falleg handklæði fleyta baðherberginu langt, hvort sem þeim er rúllað upp í opinni hillu eða látin hanga á vegg.
Sturtuhengi geta gert ótrúlega mikið fyrir stílhrein baðherbergi og skapað réttu stemninguna hvort sem hún er suðræn eða skræpótt, einföld eða með prenti.
Margir geyma körfur fyrir óhreinan þvott á baðherbergjum sínum og geta þau vissulega stungið í stúf. Það þarf þó ekki að vera flókið að finna smekklegar körfur á góðu verði sem gera mikið fyrir heildarrýmið.
Kerti eru ómissandi þegar kemur að því að skapa þægilegt andrúmsloft innan baðherbergisins. Hvort sem um er að ræða fallegt ilmkerti við vaskinn eða við freyðibaðið.
Sápan setur svo svip sinn á baðherbergið, hvort sem um er að ræða handsápu, sturtusápu eða baðsöltin. Það er auðvelt að týna sér í úrvali á öllum þeim gæðahúðvörum sem framleiddar eru og því kjörið að skipta oft út og skapa þannig fjölbreytta stemningu innan baðherbergisins. Eins er hægt að kaupa fjölnota og fallegar sápupumpur og fylla reglulega á.
Kerti eru ómissandi þegar kemur að því að skapa þægilegt andrúmsloft innan baðherbergisins. Hvort sem um er að ræða fallegt ilmkerti við vaskinn eða við freyðibaðið.
Lítill kollur eða hliðarborð fyrir handklæði eða húðvörur getur sömuleiðis komið sér vel. Kollinn má nýta undir tölvuna fyrir þá sem vilja horfa á bíómynd í baði.
Fyrir yngstu baðdýrkendurna er um að gera að verða sér úti um baðleikföng og hirslur undir baðdótið.
Sérstakir baðlitir og slím færa svo sannarlega fjör í baðið sem og segulstafir sem hægt er að líma á vegginn meðan á baðferðinni stendur.
Þá geta plöntur færa líf í litlaust rými en þær skapa jafnframt hlýju og notalegheit.
Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur heldur fyrirlestra og námskeið um einelti fyrir fólk á öllum aldri.
Kolbrún Baldursdóttir hefur starfað sem sálfræðingur í 25 ár. Hún rekur eigin sálfræðistofu ásamt því að vera í hlutastarfi á heilsugæslu og sinna sálfræðiþjónustu fyrir hælisleitendur. Hún heldur einnig fyrirlestra og námskeið um einelti fyrir fólk á öllum aldri og ekki síst foreldra bæði fórnarlamba og gerenda. Við fengum hana til að gefa okkur innsýn í viðfangsefnið.
„Snemma á ferli mínum tóku eineltismálin hug minn,“ segir Kolbrún. „Mér fannst alltaf svo innilega sárt að hitta einstaklinga, börn og fullorðna sem voru niðurbrotin vegna þess að einhver einn eða fleiri höfðu verið að níðast á þeim leynt og ljóst. Skaðsemi langvinns eineltis getur verið mannskemmandi og dæmi eru um að andleg líðan þolanda er rústir einar eftir einelti. Afleiðingar lifa stundum með manneskjunni alla ævi þótt margir finni leið með eða án aðstoðar til að milda og lifa með sársaukanum, brotinni sjálfsmynd og viðloðandi höfnunartilfinningu. Þeir sem koma úr erfiðum uppeldisaðstæðum, eiga erfitt félagslega eða glíma við annan vanda fyrir ná sér jafnvel ekki á strik eftir að einelti hefur bæst við. Þá er eins og mælirinn fyllist endanlega. Dæmi eru um að fólk verði öryrkjar og einstaka sjá enga vonarglætu og hafa svipt sig lífi.
Mér hefur alltaf fundist að við, einstaklingar, hópar og samfélagið allt, ættum að geta gert eitthvað verulega raunhæft í þessum málum, ekki bara til skemmri tíma heldur til framtíðar. Eineltishegðun mun koma upp endrum og sinnum en með skilvirkum forvörnum, virkri viðbragðsáætlun og faglegri vinnslu mála sem koma upp getur verulega dregið úr eineltistilburðum og ef mál kemur upp skiptir öllu að gripið sé strax inn í og einelti stoppað nánast í fæðingu.“
Kolbrún hefur skrifað fjölda greina og pistla um hugmyndir í þessu sambandi ásamt því að þekkja málið af eigin raun. „Ég hef komið að vinnslu þessara mála í mörg ár bæði í málum þar sem aðilar eru börn, unglingar og fullorðið fólk. Ég held að ég hefði aldrei getað rætt af neinu alvöru öryggi um þessi mál nema af því að ég hef sjálf fengið að snerta á þeim með beinum hætti. Með hverju máli sem ég hef komið að sem sálfræðingur hef ég sjálf lært eitthvað nýtt og þróað þannig hugmyndafræðina og betrumbætt verklagið.“
Breytt viðhorf og úrlausnir
Auk fræðslufyrirlestra og greinaskrifa var Kolbrún með sálfræðiþætti, Í nærveru sálar, á ÍNN meðal annars um eineltismál. „Það var um það leyti sem Skólavefurinn bað mig að skrifa leiðbeiningabók um einelti. Bókin EKKI MEIR kom út 2012 og strax í kjölfarið fór ég í samstarf við Æskulýðsvettvanginn og nokkur sveitarfélög og fékk enn frekari tækifæri til að fara um allt land og miðla því hvernig fyrirbyggjandi vinna gæti litið út með viðbragðsáætlun, tilkynningareyðublaði, verkferlum og verklagi. Þessum hugmyndum mínum um forvarnir og úrvinnslu eineltismála var hvarvetna vel tekið. Margir tóku þessar leiðbeiningar upp strax í kjölfarið og tileinkuðu sér verkfæri sem mér fannst hafa gagnast mér í þessum málum. Það gaf mér enn meiri kraft til að halda áfram þessu verkefni. EKKI MEIR ævintýrið er enn í gangi og lifir góðu lífi og ég mun sinna þeirri fræðslu áfram næstu árin.“
Kolbrún segir að samfélagið viðurkenni nú einelti og skaðsemi þess sé flestum orðin kunn. Einnig sé nánast horfið að fólk fullyrði að einelti sé ekki til á þeirra vinnustað eða skóla. „Allt hefur gerst með meiri hraða eftir tilkomu samfélagsmiðlanna. Nú tjáir sig hver sem vill um sína reynslu til dæmis á Facebook og viðbrögðin láta ekki á sér standa. Samfélagsmiðlar koma málum sannarlega hratt upp á borð. Eðli þessara mála er svipað í dag og áður að mörgu leyti nema við hefur bæst neteinelti með tilkomu Netsins og samfélagsmiðlanna. Þau mál eru afar erfið vegna þess að netníð eða myndir sem ætlað er að skaða og meiða breiðast út af ógnarhraða svo engin bönd ná utan um. Á Netinu geta gerendur blómstrað þar sem þeir hafa falið sig í lokuðum grúppum, þykjast vera aðrir en þeir eru eða eru undir fölskum nöfnum.
„Ég man þegar dætur mínar voru litlar þá spurði ég þær af og til eftirfarandi spurninga: Ert þú ekki öruggleg góð við alla í bekknum? Eru krakkarnir góðir við þig? Heldur þú að einhverjum í þínum bekk líði illa vegna einhvers í bekknum? Ef kom svar sem hringdi bjöllum var síðan brugðist við því eftir atvikum.“
Við erum farin að hjálpa þeim sem stríða og meiða önnur börn. Börnum sem þetta gera þarf að hjálpa. Þetta eru börn sem oft líður illa með sjálf sig og eiga erfitt í skóla-, félags- eða fjölskylduaðstæðum. Sum eru reið inni í sér, önnur hafa einfaldlega ekki fengið viðeigandi leiðbeiningar um samskipti og stundum má tengja orsakir við persónueinkenni eða röskun sem barn kann að glíma við. Við þolendur reynum við að ítreka að þetta er ekki þeim að kenna. Þeim er ekki strítt vegna þess að þau eru svo ómöguleg. En þótt sá sem verður fyrir einelti viti vel að þetta er vandi þess sem sýnir hina vondu hegðun þá líður honum oft engu að síður ömurlega og spyr sig: „Af hverju ég?“ Og foreldrar spyrja: „Af hverju barnið mitt?“ Fullorðnum þolanda tekst iðulega betur að „skila skömminni“ en unglingum sem eru enn að móta og þroska sína sjálfsmynd.
Nú höfum við verkfæri til að taka á þessum málum og gerð er krafa um að forvarnarstarfi sé sinnt. Á heimasíðu minni kolbrunbaldurs.is má finna allan fróðleik um forvarnir og úrvinnslu eineltismála sem ég hef fram að færa. Barnaheill er einnig með frábært verkefni, Vinátta – forvarnarverkefni gegn einelti, sem komið er í tugi leikskóla um land allt og er nú á haustönn verið að bjóða upp á það fyrir fyrstu bekki grunnskóla, sjá nánar um það á barnaheill.is.“
Samstarf við foreldra mikilvægt
Kolbrún segir að hlutverk foreldra sé stórt í eineltismálum eins og öðrum sem varða börn þeirra. „Þá gildir einu hvort um er að ræða foreldra barna sem sjaldan eða aldrei hafa orðið fyrir stríðni eða einelti sem og foreldra barna sem eru þolendur nú eða barna sem kvartað hefur verið út af vegna eineltishegðunar. Reynsla foreldra barna í þessum málum er iðulega erfið og sársaukafull. Foreldrar þolenda finna oft til mikils vanmáttar, kvíða, reiði og sorgar, ótta og óvissu um hvernig tekið verði á málinu og hvort takist að stöðva eineltið. Foreldrar barna sem kvartað er yfir líður einnig oft mjög illa. Stundum trúa þau því ekki að barn þeirra hafi sýnt viðlíka hegðun, aðrir foreldrar segjast ekkert endilega hissa t.d. ef barn þeirra á sögu um að hafa sýnt af sér slæma framkomu. Flestir foreldrar finna til sterkrar verndartilfinningar þegar barn þeirra er ásakað um að leggja í einelti og þá án tillits til hvort foreldrar trúi ásökununum eða ekki. Það er ekkert nema eðlilegt. Aðalatriðið er að vinna með skólanum eða félagasamtökunum að fá málið upp á borð þannig að hægt sé að skoða það og ljúka því. Stundum er svona mál byggt á misskilningi sem leysist auðveldlega þegar farið er að skoða málið nánar. Þá kemur jafnvel í ljós að ekki var um að ræða einelti heldur einhvern misskilning jafnvel, stundum hefur verið um að ræða valdabaráttu og stundum er um flokkadrætti að ræða. Þessi mál geta verið gríðarlega flókin og margslungin eins og oft þegar kemur að mannlegum samskiptum.
Samvinna foreldra við skóla og aðrar stofnanir sem barnið er hjá skiptir öllu þegar erfið mál koma upp. Þá reynir á að aðilar treysti hver öðrum og sjái að hagsmunir barnanna er það sem skiptir öllu og þá er átt við hagsmunir allra barnanna sem að málinu koma. Foreldrar eru lykilaðilar þegar grafast á fyrir um orsakir og stöðva óheillaþróun málsins. Foreldrar eru einnig áhrifamestu fyrirmyndir barna sinna. Foreldrar sem horfast ekki í augu við meintan hlut barna sinna í kvörtunarmáli eru að senda þeim „vond skilaboð“ sem koma þeim ekki til góða hvorki nú né síðar. Í þeim tilfellum sem foreldrar eru e.t.v. óánægðir með skólann má sú óánægja aldrei verða til að hindra samvinnu þegar greiða á úr erfiðum málum.
Enginn stendur eins nærri börnunum og foreldrar þeirra. Hvað varðar fræðslu og þjálfun barna í samskiptum skiptir máli að byrja um leið og þroski leyfir að kenna þeim að koma vel fram við alla, líka þá sem eru ekki endilega vinir eða bestu vinir. Kenna þeim að setja sig í spor annarra, að láta vita ef þeir sjá stríðni eða einelti og ekki megi skilja út undan. Ég man þegar dætur mínar voru litlar þá spurði ég þær af og til eftirfarandi spurninga: Ert þú ekki öruggleg góð við alla í bekknum? Eru krakkarnir góðir við þig? Heldur þú að einhverjum í þínum bekk líði illa vegna einhvers í bekknum? Ef kom svar sem hringdi bjöllum var síðan brugðist við því eftir atvikum. Með einföldum spurningum er hægt að fylgjast með gangi mála í skólum barna sinna og ef barnið sýnir vanlíðunareinnkenni eða upplýsir um ofbeldisatvik af einhverju tagi er mikilvægt að hafa strax samband við skólann eða íþrótta- eða æskulýðsfélagið. Öllu skiptir að hafa samband og sé niðurstaðan að tilkynna einelti að koma þá kvörtuninni á framfæri með skriflegum hætti. Ef kvörtunin er einungis munnleg er alltaf meiri hætta á að upplýsingar skili sér ekki nægjanlega vel og meiri hætta er á misskilningi. Hlutverk foreldra er líka að taka virkan þátt í að gera kannski gott kerfi betra og koma með góðar ábendingar og tillögur sem geta bætt verkferla skóla í þessum málum.“
„Foreldrar sem horfast ekki í augu við meintan hlut barna sinna í kvörtunarmáli eru að senda þeim „vond skilaboð“ sem koma þeim ekki til góða hvorki nú né síðar.“
Kolbrún býður meðal annars upp á prógramm fyrir foreldra barna sem tengjast eineltismálum. „Í þeim fyrirlestri sem ég hef sniðið með foreldra í huga í þessum málum fer ég í gegnum þessa þætti. Ég byrja á að ræða birtingamyndir eineltis, algengar orsakir og ástæður stríðni og eineltis. Einnig tengsl ADHD og eineltis og hvernig það geti mögulega verið áhættuþáttur bæði fyrir að stríða og vera strítt/lagður í einelti. Áherslan er síðan á hlutverk og aðkomu foreldra að þessum málum, reynslu þeirra og með hvaða hætti þeir geta komið sterkar inn í forvarnarstarf og úrvinnslustarf. Loks fer ég lið fyri lið yfir hvernig ferli frá tilkynningu til málaloka lítur út frá sjónarhorni foreldra.“
Hún ætlar að miðla því sem hún kann í þessum málaflokki eins lengi og óskað er eftir. Ég mæti á eins marga staði og ég get, nota heimasíðuna og bíð upp á handleiðslu og ráðgjöf á stofu. Þetta er ekki lengur bara einhver vinna hjá mér heldur löngu orðið hugsjón og áhugamál vegna þess að ég veit og skynja að þessum málum er hægt að þoka til enn betri vegar.“
Ekkert lát virðist vera á ofurhetjuæði sem hefur staðið í rúm tíu ár.
Á hverju ári koma út tvær til þrjár myndir í þessum flokki og vekja miklar vinsældir, bæði hjá áhorfendum og gagnrýnendum.
Til heljar
Myndin Thor: Ragnarok var frumsýnd nýlega, en um er að ræða þriðju myndina um þrumuguðinn og hvorki meira né minna en sautjándu myndina í Avengers-seríu Marvel.
Í þetta sinn þarf Thor að takast á við hina illu en máttugu Helu sem Óðinn kastaði niður í Niflheim . Framleiðendur myndarinnar virðast þó hafa leitt hjá sér þá staðreynd að Hel sem Hela byggir á er eitt afkvæma Loka samkvæmt Eddukvæðum og Heimskringlu.
Í myndinni snýr Hela aftur frá undirheimum staðráðin í að leggja Ásgarð í eyði og koma bræðrum sínum og systrum, og mannkyninu í heild, fyrir kattarnef. Thor fær til liðs við sig bæði nýja og gamla félaga í baráttunni við þennan erfiða óvin.
Leðurblakan snýr aftur
Í upphafi ofurhetjuæðisins sem nú er í gangi var Dark Knight-þríleikurinn hans Christopher Nolan, en í þeim snéri ein frægasta ofurhetja allra tíma, Batman, aftur á hvíta tjaldið. Í myndunum sem eru mun dekkri og alvarlegri en fyrri Batman-myndir glímir Batman við klassísk illmenni svo sem Scarecrow, Joker, Catwoman og Bane. Með hlutverk leðurblökunnar fer Christian Bale og voru flestir sammála um að hann næði persónunni mjög vel.
Ofurfjölskyldufaðir
Í teiknimyndinni The Incredibles kynnumst við Bob Parr, öðru nafni Mr Incredible, og eiginkonu hans Helen, öðru nafni Elastic girl. Þau voru einar mestu ofurhetjur heims en hafa neyðst til að lifa í leyni undanfarin ár vegna aðfara yfirvalda gegn ofurhetjum. Þau búa í úthverfunum ásamt börnum sínum þremur, Violet, Dash og Jack-Jack, sem eru öll gædd ofurhæfileikum. Bob þráir ekkert heitar en að komast aftur í ofurhetjugallann og stekkur því á tækifærið þegar hann fær dularfull skilaboð um háleynilegt verkefni á fjarlægri eyju. Hann uppgötvar fljótlega að ekki er allt sem sýnist og hann þarf hjálp fjölskyldu sinnar við að bjarga heiminum fá gereyðingu.
Andhetja eða ofurhetja?
Deadpool fjallar um ofurhetju sem hefur engan áhuga á að vera ofurhetja. Fyrrum sérsveitarmaðurinn og málaliðinn Wade Wilson greinist með ólæknandi krabbamein og í örvæntingu sinni samþykkir hann að gangast undir ólöglega lyfjameðferð sem á að gefa honum ofurkrafta. Þegar ofurkraftar Wade virkjast afmyndast húð hans einnig svo hann lítur út fyrir að hafa verið brenndur. Honum finnst hann því ekki eiga afturkvæmt til unnustu sinnar heldur ákveður að ná fram hefndum sem grímuklædda andhetjan Deadpool.
Engir kraftar
Kick-Ass er ekki beint hefðbundin ofurhetjumynd að því leyti að aðalsöguhetjan er ekki gædd neinum ofurkröftum. Dave Lizewski er dálítið lúðalegur unglingur sem hefur brennandi áhuga á teiknimyndasögum, á nokkra góða vini og býr einn með föður sínum. Líf hans er fremur einfalt og þægilegt. Það er að segja þar til að hann ákveður einn daginn að gerast ofurhetja. Hann pantar sér búning á Netinu og heldur út á stræti borgarinnar til að koma í veg fyrir glæpi. Hann flækist þó fljótt inn í mun stærri og hættulegri mál en hann átti von á.
Víðsvegar um heim bjóða heilsuhæli upp á afslöppun, líkamsrækt, sólböð og fleira.
Hver hefur ekki lent í því að koma heim úr fríi bæði þreyttari og þybbnari en þegar hann fór út? Undanfarin ár hafa svokölluð heilsuhæli sprottið upp víða um heim. Þau bjóða upp hið fullkomna frí – afslöppun, líkamsrækt og sólböð. Þetta gefur þér tækifæri til að losa þig við slæma ávana og hefja nýjan lífsstíl. Það besta er að þú lítur betur út og þér líður mun betur þegar þú kemur heim. Heilsuhælin hafa ýmsar ólíkar áherslur: jóga, fjallgöngur, hermannaþjálfun og svo framvegis. Hér eru nokkrir spennandi kostir sem finnast í Evrópu.
Shanti-Som í Marbella á Spáni
Í heilsusetrinu Shanti-Som á Spáni mætir austrið vestrinu. Stuðst er við fornar hefðir og athafnir til að vinda ofan af streitu nútímans og öllum fylgifiskum hennar.
Gestir hlaða batteríin með því að stunda jóga og hugleiðslu og með fersku, hreinsandi mataræði.
Helsta sérstaða Shanti-Som er heildræn nálgun, þar er unnið jafnmikið að andlegri heilsu og þeirri líkamlegu. Gestir eru leiddir í gegnum hugleiðslu, sjálfskoðun og styrkingu. Markmiðið er að hvetja, verðlauna og fræða en aldrei að dæma.
Gestir yfirgefa setrið reiðubúnir til að breyta lífsstíl sínum til hins betra og ráða betur við streitu í sínu daglega lífi.
Best fyrir: Þá sem eru í leit að innri friði og vilja ná betri tökum á jóga.
Frekari upplýsingar á shantisom.com.
38°N á Ibiza
Í 38°N er lögð megináhersla á hámarksárangur án ofþjálfunar. Boðið er upp á fjölbreytta og skemmtilega hreyfingu en alls eru yfir fimm klukkustundir af hreyfingu á dag. Þau sem reka fyrirtækið bjóða upp á fjórar mismunandi gerðir heilsufría því þau trúa ekki á að eitt henti öllum og sérsníða ferðina fyrir hvern gest. Einnig leggja þau upp með að hafa hópastærðir litlar svo gestirnir fái persónulega og góða þjónustu á meðan á dvölinni stendur. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hjá 38°N, bæði hvað varðar lengd og gerð námskeiðs.
Best fyrir: Þá sem vilja fá góða og persónulega þjónustu.
Frekari upplýsingar á thirtyeightdegreesnorth.com.
Wildfitness á Krít
Hjá Wildfitness segja þau að náttúran sé einn öflugasti kennarinn sem völ er á.
Horft er aftur til uppruna okkar þar sem maðurinn þurfti að aðlagast erfiðum aðstæðum og lifa af í náttúrunni með aðeins hugvit og líkamsstyrk sinn að vopni.
Heilsufríið sem þau bjóða upp á byggist því á náttúrunni og þau leggja áherslu á þrennt: Wild Moving, veru í og hreyfingu í náttúrunni með aðstoð reyndra leiðbeinenda, Wild Eating, ljúffengan, hreinan og náttúrulegan mat, og Wild Living, að læra að hlusta á líkamann og finna náttúrulegan takt hans þegar kemur að hvíld, hleðslu og hreyfingu.
Markmiðið er að endurstilla og þjálfa hug og líkama þannig að gestir geti áfram notað þær lexíur sem þeir lærðu eftir að heim er komið.
Frekari upplýsingar á wildfitness.com.
Spa í Puyssentut í Suður-Frakklandi og á Mallorca
Spa gefur sig út fyrir að blanda saman líkamsrækt, jóga, hollu mataræði og næringu, nuddi og slökun til að ná frábærum árangri. Þau lofa að eftir aðeins sjö daga muntu snúa aftur heim sem ný manneskja. Mjög takmarkaður fjöldi er í hverjum hóp til að tryggja persónulega þjónustu. Hver og einn fær næringarviðtal, reglulega nuddtíma, einkaþjálfun, fjallgöngur með leiðsögn og ýmsa eintaklingsráðgjöf. Vegna þess hve einstaklingsmiðað þetta heilsufrí er þá hentar það bæði byrjendum og lengra komnum og fólki á öllum aldri.
Best fyrir: Þá sem vilja lúxus á góðu verði.
Frekari upplýsingar á inspa-retreats.com.
Gaia House í Devon í Bretlandi
Gaia House er setur þar sem iðkuð er þögul hugleiðsla. Setrið er heppilega staðsett milli hæða og hóla í Suður-Devon og þar ríkir mikil kyrrð. Boðið er upp á heilsufrí þar sem gestir fá handleiðslu og fræðslu í hefðum búddisma en sérstök áhersla er lögð á vipassana eða
innsæishugleiðslu. Í fríinu geta gestir aukið innri ró, visku og samkennd sína í gegnum hugleiðslu og gjörhygli. Kennarar koma hvaðanæva að og eru með gríðarmikla reynslu á bakinu.
Best fyrir: Þá sem vilja finna innri frið.
Frekari upplýsingar á gaiahouse.co.uk.
No.1 Boot Camp á Ibiza
Hér er á ferðinni alvöruæfingarbúðir og allir gestir sjá verulegan árangur. Hermannaþjálfun er iðkuð af krafti og hörku í sjö daga auk þess eru jógaæfingar og nudd notað til að tryggja vellíðun og góðan vöðvabata. Venjulegur dagur getur til dæmis einkennst af krefjandi gönguferðum um hæðir eyjunnar, styrktaræfingar, hópíþróttir og fleira. Mataræðið er strangt en samt hollt og gott.
Best fyrir: Þá sem vilja finna og sjá alvöruárangur.
Frekari upplýsingar á no1bootcamp.com
The Body Camp á Ibiza
The Body Camp er mjög vinsælt meðal þekktra einstaklinga í Bretlandi og lúxusinn er eftir því. Enginn ætti að láta lúxusinn blekkja sig því hér er á ferðinni alvöru, alhliða heilsuhæli. Vikan hefst á þolprófi og líkamsmælingu, frekar ógnvekjandi en nauðsynlegt. Síðan eru dagarnir uppfullir af fjölbreyttri og erfiðri hreyfingu. En það sem dregur fólk helst að er maturinn sem er sérsniðinn af kokkinum Benjamin Whale. Mataræðið er 80% plöntufæði sem er síðan bætt með hágæða kjöti og fiski. Í umsögnum talar fólk um að það hafi aldrei getað ímyndað sér að heilsufæði gæti smakkast svona vel.
Ingunn Anna Þráinsdóttir framleiðir allskonar vörur undir merkjum Mosa.
Ingunn Anna Þráinsdóttir, grafískur hönnuður hjá Héraðsprenti á Egilsstöðum, rekur einnig fyrirtækið Mosa kósímosa. Vörurnar eru allar handunnar og handþrykktar, öll hráefni eru náttúruleg og allar vörurnar hafa notagildi.
„Árið 2010 byrjaði ég með litla hugmynd sem hét Flóra Icelandic Design. Sú hugmynd kviknaði eftir listamannadvöl sem ég fór í til Vesterålen í Norður-Noregi. Í þeirri dvöl vann ég gríðarlegt magn plöntuteikninga og mig langaði til að þróa einhverskonar vörulínu upp úr því, annaðhvort úr pappír eða textíl. Þannig þróaðist Flóra í að verða lítið hönnunarstúdíó sem framleiddi og seldi vörur.
Núna sjö árum síðar langaði mig að „re-branda“ Flóru, það er að segja að endurmarkaðssetja Flóru undir nýju nafni og með ferskum andblæ. Flóra kemur úr náttúrunni. Eftir miklar vangaveltur um nýtt nafn ákvað ég að Mosi kósímosi yrði það rétta.
Ég hef áður sagt að það sé fátt eins dásamlegt og að leggjast í dúnmjúkan mosabing, eitthvað sem flestir Íslendingar þekkja. Mosi er harðger, vex hægt en pjakkast áfram, svona eins og ferlið er stundum þegar maður reynir að vinna áfram góða hugmynd en hefur ekki allan sólarhringinn til þess.
Ég þarf að deila tíma mínum milli átta klukkustunda dagvinnu í Héraðsprenti, hugsa um heimili, sinna áhugamálum og sinna Mosa. Þetta getur stundum orðið snúið en með íslenska harkinu tekst það.
„Mosi er harðger, vex hægt en pjakkast áfram, svona eins og ferlið er stundum þegar maður reynir að vinna áfram góða hugmynd en hefur ekki allan sólarhringinn til þess.“
Maðurinn minn, hann Steini Palli, er mér stoð og stytta í þessu öllu, hann er mjög hvetjandi og hrósar mér oft þegar ég er þreytt,“ segir Ingunn en eiginmaður hennar heitir fullu nafni Steingrímur Páll Hreiðarsson og sameiginlega eiga þau fjögur börn og einn hund og búa á Egilsstöðum.
Ingunn framleiðir allskonar vörur undir merkjum Mosa og má þar nefna gjafakort, gjafapappír og textílvörur svo sem servíettur, viskastykki, dúka og svuntur. „Svo dettur stundum eitt og annað inn á borð hjá mér sem er sérpantað. Ég held að teikningarnar mínar geri vörurnar mínar sérstakar. Vörurnar eru allar handunnar, handþrykktar og mitt fingrafar
er á þeim öllum á einhvern hátt. Allt hráefni er náttúrulegt og allar vörurnar hafa notagildi. Ég er trú mínu skapandi sjálfi, þ.e. ég teikna, þróa og framleiði bara það sem höfðar til mín og losar um mína þörf til að skapa. Ég elti ekki bara tískuna, mínar vörur eru ekki eins í útliti og neitt annað.“
Foreldrarnir fyrirmynd
Ingunn ólst upp á Egilsstöðum og segir að nálægðin við náttúruna, fjölskyldu og vini sé dýrmæt minning. Sem barn fékk Ingunn strax áhuga á öllu skapandi. Foreldrar hennar byrjuðu með Héraðsprent þegar hún var eins árs og hún ólst upp í kringum það.
„Pabbi smíðaði og málaði margs konar hluti og það hefur örugglega kveikt áhuga minn. Ég fór í Menntaskólann við Hamrahlíð strax eftir grunnskóla. Þaðan flæktist ég í frönskunám upp í HÍ en hætti eftir 1 ár og fór að vinna. Mig langaði gríðarlega í hönnunarnám og haustið 1999 fór ég til Halifax í Kanada í fjögurra ára háskólanám í Communication Design, útleggst líklega sem samskiptahönnun á íslensku en ég kalla það nú bara grafíska hönnun.
Fram undan er svo að þróa nýjar vörur, teikna og grúska í pappír og textíl. Hægt er að kaupa vörurnar í Húsi handanna á Egilsstöðum og í vefverslun www.mosi.shop.
Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir og úr einkasafni
Á Vestfjörðum eru að finna heitar laugar í öllum stærðum og gerðum.
Fátt er betra en að hvíla lúin bein í náttúrulaug eftir langan dag á ferðalagi. Á Vestfjörðum eru margar heitar laugar í öllum stærðum og gerðum og virkilega þess virði að leita þær uppi. Hér eru nokkrar þeirra.
Krossneslaug er í fimm mínútna akstursfjarlægð frá Kaupfélaginu í Norðurfirði en vatn frá heitum hverum kyndir laugina. Hún er staðsett við fjöruborðið fyrir neðan veg og umhverfi hennar er virkilega dramatískt og einstakt. Skyldubað fyrir alla sem eru að ferðast um Strandirnar.
Pollurinn er nokkru utan við kauptúnið Tálkafjörð og uppi í hlíðinni. Hann er þrískiptur í tvo setpotta og einn nokkuð dýpri. Búningshús er á staðnum sem er viðhaldið af hreppnum. Útsýnið úr pottunum út Tálknafjörðinn er dásamlegt.
Náttúrulaugin í Heydal er í stuttu göngufæri frá Sveitahótelinu í Heydal. Sumir segja að hún færi gestum hennar aukinn kraft. Að sögn Stellu Guðmundsdóttur, gestgjafa í Heydal, er dalurinn alger perla og ef gengið er meðfram ánni inn dalinn má sjá nokkur gil og marga litla fossa. Hún segir að heita náttúrulaugin sé alltaf vinsæl enda talið að Guðmundur góði hafi vígt hana og hún því hin mesta heilsulind.
Útsýnið úr pottunum út Tálknafjörðinn er dásamlegt.
Rétt hjá Hótel Flókalundi er Hellulaugin sem hlaðin er grjóti. Engin búningsaðstaða er hjá lauginni en gestir láta það ekki á sig fá enda dásamlegt að njóta þess að liggja í heitri lauginni á þessum fallega stað.
Í Reykjafirði við Arnarfjörð má finna tvær heitar laugar. Önnur er steypt sundlaug sem gerð var árið 1975. Stutt frá henni er lítil hlaðin náttúrulaug og hitinn í henni er um 40°C allt árið um kring. Vatn rennur í steyptu laugina allan ársins hring og hægt er að hafa fataskipti í litlum kofa sem stendur við laugina.
Í Bjarnarfirði á Ströndum er lítil hlaðin baðlaug um 100 metrum norðan við vesturhorn Hótels Laugarhóls sem er í gamla skólahúsinu á Klúku. Laugin er friðlýst sem fornleifar og er ein margra Gvendarlauga á Íslandi þar sem sagt er að Guðmundur góði Arason, biskup á Hólum, hafi vígt vatnið.
Lítið eitt neðan við baðlaugina, á milli Hótels Laugarhóls og Kotbýlis kuklarans, sem er hluti af Galdrasýningu á Ströndum, er sundlaug sem einnig er kölluð Gvendarlaug, eftir gömlu lauginni.
Í fjöruborðinu á Drangsnesi eru þrír heitir pottar sem komið var fyrir eftir að heitt vatn fannst á Drangsnesi árið 1997. Pottarnir hafa notið mikilla vinsælda jafn hjá heimamönnum sem ferðamönnum og ekki stendur til að fjarlægja þá þrátt fyrir að byggð hafi verið glæsileg sundlaug á Drangsnesi.
Hörgshlíðarlaug er staðsett í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi. Hún er steynsteypt, 2×6 metrar að stærð og tæpur metri að dýpt þar sem hún er dýpst. Nauteyrarlaug er í landi Nauteyrar innarlega í Ísafjarðardjúpi og hitinn í henni er frá 35°C-42°C.
Gdansk byggir á gömlum merg en er samt nýtískuleg borg og með öll nútímaþægindi.
Það eru ef til vill öfugmæli að segja ,,þessi litla borg“ Gdansk við Eystrasaltið, þegar íbúafjöldi hennar er meiri en íbúar Íslands til samans, en alls eru íbúar Gdansk 480.000 og það er margt sem kemur á óvart í heimsókn til borgarinnar. Hún er með stærstu borgum Póllands.
Gdansk, sem er kölluð Danzig á þýsku, er hafnarborg við Eystrasaltið, við mynni árinnar Motlawa, og ein af elstu borgum Póllands, en upphaf hennar má rekja til 7.-10. aldar e. Kr., það er ekki nákvæmt. Saga hennar er þyrnum stráð og hefur hún lotið mörgum herrum og má þar nefna Prússa, Svía og Dani að ógleymdu Þjóðverjum en endrum og eins voru yfirráðin yfir eigin landi í höndum borgarbúa.
Eftir fyrri heimsstyrjöldina varð til fríríkið Danzig, ríki sem var undir verndarvæng Þjóðabandalagsins. Íbúar Gdansk urðu þeir fyrstu til að verða fyrir árásum Þjóðverja í heimsstyrjöldinni síðari þegar Þjóðverjar réðust á Wsterplatte-skagann í Gdansk. Til að gera langa sögu stutta þá rústuðu stríðsherrar í heimsstyrjöldinni síðari, bæði Þjóðverjar og Rússar, Gdansk og fleiri stöðum í Póllandi.
… flestir matsölustaðir bjóða upp á frábæran alþjóðlegan matseðil, þar sem metnaðurinn er ekki bara lagður í gott hráefni, heldur framúrskarandi framreiðslu og smekkvísi.
En Pólverjar voru ákveðnir í að byggja landið sitt stríðshrjáða upp að nýju og það tók allt að 30 ár að stærstum hluta og þeir eru enn að. Þess má sjá merki í fallegum arkitektúr í flæmskum og hollenskum stíl og í stíl sem er jafnvel undir ítölskum og frönskum áhrifum. Húsin í miðbænum eru ekki ólík þeim sem sjá má í Amsterdam en einnig í nýtískulegri mynd utan miðbæjarins. Enn í dag er borgin fyrst og fremst hafnar- og iðnaðarborg, þar sem verslun er einnig áberandi. Öllum þýskum götunöfnum hefur þó verið breytt í pólsk en þrátt fyrir að í gegnum tíðina hafi ýmis þjóðarbrot búið í Póllandi er þessi um 40 milljóna þjóð í dag að stærstum hluta Pólverjar en réttindi minnihlutahópa eru tryggð í stjórnarskrá landsins.
Sólarstrendur og ógleymanlegur matur
En Gdansk á sér margar hliðar, hliðar sem fáir Íslendingar gera sér grein fyrir. Hún byggir á gömlum merg en er samt nýtískuleg og með öll nútímaþægindi. Það er ekki annað að sjá en að íbúar Gdansk séu ágætlega á veg komnir og vel til fara, borgin er hrein og fín og fólkið er afar almennilegt þótt það tali takmarkaða ensku en allt af vilja gert til að hjálpa og aðstoða. Og Gdansk-búar eru sannarlega listamenn, til dæmis þegar um er að ræða skartgripi úr amber-steininum, gul-og grænlituðum steinum sem berast á strendur Gdansk og hafa verið notaðir til lækninga í aldir. Þessir steinar eiga að vera orkujafnandi fyrir líkamann.
Borgin býr einnig yfir sjaldgæfum eiginleika, þar er nefnilega að finna þessa fínu sandströnd, þar sem hægt er að rekast á amber-steina. Hún er eins og besta sólarströnd enda vinsæl hjá bæði íbúum og ferðamönnum yfir sumartímann. Sumrin eru heit, allt að 25-35° C en svali berst frá hafinu.
Veturnir eru kaldari en þó mildir og í októbermánuði er jafnvel hægt að borða úti en mjög margir veitingastaðir bjóða upp á það og eru þá með arineld sem hægt er að hlýja sér við. Það er helst í janúar og febrúar að hitastigið fari niður fyrir frostmark en þá er líka tilvalið að stunda ýmsar vetraríþróttir.
Þá erum við komin að enn einni snilldinni hjá Gdnask-búum en það er að elda mat. Bæði er hægt að smakka pólskan mat og það er mjög skemmtilegt þótt hann sé ekki allra og flestir matsölustaðir bjóða upp á frábæran alþjóðlegan matseðil, þar sem metnaðurinn er ekki bara lagður í gott hráefni, heldur framúrskarandi framreiðslu og smekkvísi – svo maturinn bragðast enn betur fyrir vikið og ekki skemmir fyrir að sælkeramáltíðin kostar Íslendinginn næstum ekki neitt. Sem dæmi má nefna að forréttur á fínum veitingastað og nautasteik eða önd í aðalrétt með glasi af rauðvíni hússins og sódavatni er frá 4.000-5.000 kr.
Göngutúr með fram ánni, þar sem margir af bestu veitingastöðunum setja svo vitanlega punkturinn yfir i-ið, hvort sem um er að ræða rómantíska ferð, árshátíðarferð eða bara ferðalag með vinum eða vinkonum.
Að njóta lífsins í spa
Ertu þreytt/ur? Þarftu að endurnýja lífsorkuna eða bara jafna orkuflæðið? Þá er spa-ið í Gdansk eitthvað fyrir þig! Klassískt nudd, fótanudd, handsnyrting, sána, allt fæst þetta á fjölmörgum hótelum í Gdansk og líka annars staðar fyrir allt að helmingi lægra verð en hér heima (spa á hótelunum er yfirleitt aðeins dýrara en annars staðar staðar í borginni en það er þægilegt að geta brugðið sér í einhverja af þeim fjölmörgum spa-meðferðum sem í boði eru á hótelinu sem eru oft á fjögurra stjarna hótelum en gisting á slíkum hótelum eru einnig á góðu verði í borginni).
Gdansk er borgin til þess að hvíla sig í, slaka á og gera vel við sig í mat og drykk. Það er líka vel þess virði að heimsækja spa-bæinn Sopot sem er ekki langt frá Gdansk. Gdansk-búar, eru yfirvegaðir og rólegir og það er ekki mikill asi á þeim. Áreitið í borginni er lítið en afar gaman er að ganga um í gamla bænum með fallegu húsunum og óreglulegu hellulögnunum. Þar eru
margir með sölutjöld og selja flestir amber-steina í margs konar skartgripum. Sölumenn eru ekki ágengir og alltaf kurteisir, svo það er hægt að skoða án þess að fá samviskubit yfir að kaupa ekki. Þar eru líka fallegar gler- og leirlistarverslanir.
Þá er kaffið sem fæst á kaffihúsunum allt um kring mjög sterkt og gott en þar er líka hægt að fá ýmsa drykki og jafnvel kokteila sem kosta frá 300-600 kr. Fyrir þá sem eru að leita að aðeins meira fjöri þá er hægt að þefa uppi gott næturlíf í Gdansk.
Alls konar söfn og skemmtilegheit
Það er svo margt sem hægt er að gera í Gdansk – en allt í rólegheitum. Á sumrin er vinsælt að fara á ströndina og allan ársins hring er hægt að hjóla og hlaupa í fallegu umhverfi borgarinnar. Í haust- eða vetrarferð er hægt að kíkja á listaverkin í The National Museum en þar má m.a. líta pólska og hollenska málara. Það sama á við um Gdansk History Museum, skemmtilegt safn um sögu Gdansk og Old Town Hall. Á kvöldin er hægt að skella sér á tónleika í Shakespeare-leikhúsinu, því ekki er hægt að saka þá Gdansk-búa um að vera snauðir af menningu. Leikhúsið er stolt borgarinnar og ekki síður talið skemmtun fyrir gesti þess. Þá eru ónefndar afskaplega fallegar kirkjur í borginni, fyrir þá sem hafa gaman af að skoða þær og nota tækifærið til að kveikja á kerti fyrir látna ástvini.
Gdansk er borgin til þess að hvíla sig í, slaka á og gera vel við sig í mat og drykk. Það er líka vel þess virði að heimsækja spa-bæinn Sopot sem er ekki langt frá Gdansk.
Ef þú ert á fjölskylduferðalagi eru það vitaskuld strendurnar sem heilla á sumrin en svo margt annað líka. Börnum þykir ferð á Sjóminjasafnið eftirminnileg (National Maritime Museum) sem er einmitt í skipi og hjálpar börnum að skilja leyndardóma sæfarana, sjávarvinda og fleira. Þá er hægt að fara í siglingu með ,,sjóræningjabáti um ána, að ógleymdu ,,auganu“ þeirra Gdansk-búa, sem er líkt og London Eye en aðeins minna. Í því er gott útsýni yfir borgina alla og það sem er að gerast þar.
Börnum finnst ef til vill ekkert sérstaklega gaman að fara í verslunarmiðstöðvar – og þó – þar eru margar spennandi barna- og unglingabúðir og kringlurnar í Gdansk eru stærri en okkar með öllum helstu alþjóðlegu verslunum. Sem dæmi um þá helstu er Baltycka Shopping Center.
Mikilvægt að koma enn frekar til móts við þarfir viðskiptavina segir rekstrarstjóri Ellingsen.is.
„Það má segja að vefverslunin sé hugsuð sem viðbót við verslanir okkar á Akureyri og í Reykjavík,“ segir Ásdís Jörundsdóttir rekstrarstjóri Ellingsen.is. „Pælingin er sú að fólk geti farið inn á slóðina www.ellingsen.is annað hvort til panta af Netinu nú eða bara skoðað úrvalið áður en það kíkir í heimsókn.“
Hún segir vefverslunina fyrst og fremst endurspegla vöruúrval verslana Ellingsen. „Þarna er því að finna alls konar vörur sem tengjast hreyfingu og útiveru, svo sem fatnað á börn og fullorðna, tjöld, hjól, sæþotur, buggy bíla, græjur og margt fleira og margt fleira. Í raun allt frá skóm og upp úr – með áherslu á gæði.“
Það hefur ekki farið framhjá mörgum að Ellingsen hefur tekið miklum breytingum á árinu. Er vefsíðan hluti af þeim? „Já, í raun fórum við í smá naflaskoðun,“ segir hún. „Athuguðum hvað var að virka og hvað ekki og í framhaldinu ákváðum við að fækka vörflokkum og leggja frekar áherslu á það sem hefur gengið vel. Úr varð að einblína á vörur sem tengjast hreyfingu og útiveru eins og áður sagði og bjóða þannig upp á allt sem tengist útilegum, fjallgöngum, hjólreiðum og ræktinni svo dæmi séu nefnd. Við búum líka á hjara veraldar og því fátt betra en að eiga góða úlpu og vatnshelda skó í íslenska slabbveturinn.
„Það má segja að vefverslunin sé hugsuð sem viðbót við verslanir okkar … Pælingin er sú að fólk geti farið inn á slóðina www.ellingsen.is annað hvort til panta af Netinu nú eða bara skoðað úrvalið áður en það kíkir í heimsókn.“
Með hliðsjón af þessu réðumst við í gagngerar endurbætur á verslunum okkar. Aðallega á Fiskislóð. Við sáum einfaldlega að við höfðum ekkert að gera við allt plássið þar. Þannig að við skiptum húsinu upp í nokkrar einingar og áframleigðum til annarra fyrirtækja, s.s. Gæludýra.is, Lyf og heilsu og Sjúkraþjálfunar Reykjavíkur. Eftir stendur rými sem heldur miklu betur utan um starfssemina en áður.“
Hvernig hafa viðtökurnar verið? „Rosalega góðar. Við höfum verið að fá hingað til okkar 800 til 1000 manns á hverjum einasta degi til viðbótar við okkar föstu viðskiptarvini. Fólk sem kom jafn vel ekki áður. Þannig að það er mikil dýnamík í húsinu.“
Eins og sagði segir Ásdís vefverslunina vera lið í miklum breytingum fyrirtækisins.
„Nú til dags er auðvitað mikilvægt fyrir fyrirtæki að halda úti síðum þar sem fólk getur skoðað vöruúrvalið og pantað af Netinu og með nýju vefversluninni erum við að koma enn frekar til móts við þarfir viðskiptavina okkar og bæta þjónustuna.“
Hafsteinn Ólafsson, yfirmaður á veitingastaðnum Sumac Grill + Drinks, er sannkallaður matgæðingur. Hafsteinn er jafnframt meðlimur í íslenska kokkalandsliðinu og átti því ekki í neinum vandræðum með að töfra fram spennandi rétti.
Hvað var það fyrsta sem þú lærðir að elda?
Mig minnir að það hefði verið skyrterta sem ég lærði að gera í minni fyrstu vinnu í eldhúsi 14 ára gamall.
Ertu jafnvígur á bakstur og matseld?
Nei alls ekki, held mig aðallega við matseld en maður getur samt alveg bjargað sér í bakstrinum.
Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín?
Já ég er mikið fyrir það að grilla og þá helst á alvörukolagrillum.
Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu?
Ekkert eitt sem mér dettur í hug en maður er alltaf að gera einhver lítil mistök sem hjálpa manni bara að verða betri í því sem maður gerir.
Hefur þú uppgötvað einhverja snilld í matseld nýlega?
Já núna í undirbúningnum og opnuninni á Sumac vorum við mikið að prófa okkur áfram með allskonar framandi krydd. Við ferðuðumst meðal annars til Líbanon til að fá innblástur.
Hefur þú ræktað krydd- eða matjurtir?
Ég hef oft reynt það en það gengur yfirleitt illa.
Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku?
Þær eru allmargar en ég held að ég verði að nefna þau tvö skipti sem ég fór að keppa með kokkalandsliðinu á heimsmeistaramótinu 2014 og Ólimpíuleikunum í matreiðslu 2016.
Roðflettið og beinhreinsið laxinn. Stráið kryddblöndunni yfir hann og leyfið að standa í 40 mín. inni í kæli, skolið laxinn eftir þann tíma og skerið flakið í u.þ.b. 6 bita. Stillið ofnin á 50°C. Setjið laxinn í eldfast mót og vel af olíu yfir, eldið í 15-20 mín. eða þar til laxinn brotnar í flögur.
Kryddblanda
100 g salt
60 g sykur
10 g kóríanderfræ
10 g fenníkufræ
börkur af einni sítrónu
Öllu blandað saman.
Kúmkat
2 stk. kúmkat
100 g appelsínusafi
100 g eplaedik
100 g sykur
Kúmkatið er skorið í þunnar sneiðar. Appelsínusafi, edik og sykur er soðið saman í potti og svo hellt yfir kúmkatið.
Fenníkusósa
2 stk. fenníka
2 stk. laukur
300 ml hvítvín
700 ml rjómi
200 g smjör
2 stk. anísstjörnur
2 stk. appelsínur
300 ml appelsínusafi
Fenníka, laukur og anísstjörnur svitað saman í potti. Þegar það er orðið mjúkt er hvítvíni bætt út í og þessu leyft að malla í um 10 mín. þá er appelsínusafanum bætt út í. Þessu leyft að sjóða saman í um 15 mín. Því næst fer rjóminn út í. Þessu er leyft að sjóða saman þar til rétt þykkt og bragð hefur náðst. Þá er sósan sigtuð og í lokin er köldum smjörteningum hrært rólega út í.
Laxinn er svo rifinn niður í litla bita og dressingu úr sítrónuolíu og graslaukstráð yfir. Kúmkatið og kóríander sett á laxinn og svo sósan í lokin.
Romaine-hausinn er skorinn til helminga og skolaður. Best er að grilla romain-salatið en einnig er hægt að steikja það á pönnu.
Aioli
50 g eggjarauður
150 g olía
100 g hvítlauksolía
1 msk. dijon-sinnep
salt
sítrónusafi
Eggjarauðurnar eru hitaðar varlega í vatnsbaði upp í 55°C til að gerilsneyða þær, svo er olíunni hrært út í mjórri bunu og sinnepi bætt út í. Smakkið til með salti og sítrónu.
Hitið ofn í 190°C. Sjóðið blómkálið í 6 mín. Bragðbætið með kryddblöndunni og bakið í 15 mín. eða þar til blómkálið er orðið gullinbrúnt. Berið blómkálið fram með jógúrtsósu, granateplum og ristuðum möndluflögum.
kryddblanda:
10 g salt
5 g sykur
5 g malað kummin
3 g ristuð og möluð kóríanderfræ
Blandið öllu saman.
jógúrtsósa:
200 g grísk jógúrt
30 g kummin
50 g tahini
salt
pipar
sítrónusafi
Blandið jógúrt, tahini og kummin saman og smakkað til með salti, pipar, og sítrónu.
granatepla-vinaigrette:
1 stk. granatepli
1 stk. appelsína
50 ml ólífuolía
25 ml eplaedik
salt
hunang
ristaðar möndlur
Opnið granateplið og takið fræin úr. Bætið appelsínusafa og berki saman við og bætið því næst olíunni og edikinu út í. Smakkið til með salti og hunangi. Stráið ristuðum möndlum yfir í lokin.
The Hendrikje Museum of Bags and Purse í Amsterdam eða Töskusafnið í Amsterdam er ekkert venjulegt safn.
Reyndar er það töskusafn og þar má finna ægifagrar töskur af öllu tagi frá því á fimmtándu öld og til þeirrar tuttugustu og fyrstu. Það má segja að í safninu megi finna töskur vestrænnar menningar síðustu fimm hundruð ár. Safnið er einungis safn taskna í Evrópu en er þó það stærsta sinnar tegundar í heiminum enda sýningargripir yfir 5000. Það er því vert að taka sér góðan tíma til að fara í gegnum safnið, því svo á hver og ein taska sér yfirleitt sérstaka sögu.
Frá upphafi siðmenningar hafa töskur verið til og á milli 1500-1800 hafa fundist, margar hangandi töskur bæði ætlaðar konum og körlum. Þær voru nauðsynlegar, rétt eins og í dag, til þess að bera á sér persónulega pappíra, peninga og annað sem nauðsynlega þurfti og oftast voru þær bornar innanklæða. Klæðnaður á þessu tíma var hvorki með vösum eða öðru þar sem hægt var að geyma veski eða aðra persónulega muni. Á 17. öld og þeirri 18. og meirihlutann af þeirri 19. voru klæði kvenna hins vegar svo íburðarmikil að auðveldlega var hægt að hafa eitt og jafnvel tvö veski innanklæða.
Umhverfi safnsins er stórglæsilegt … Hægt er að velja um sérstök tímabilaherbergi. Kaffihús er einnig á staðnum fyrir svanga maga …
Flest þessara veskja voru handsaumuð, sérstaklega handa heldra fólki, og bróderuð fallega og stundum voru þau fest við belti. Þegar leið að 17. öld fóru karlmannsveskin að hverfa úr tísku en kvenveskin að sækja í sig veðrið. Frá 16. öld fór líka að bera á þeirri þróun að veski kvennanna voru notadrýgri og veskin urðu enn meiri þar geymdu þær saumadótið sitt, hníf og skæri. Einnig fór að bera á því að veski væri stöðutákn. Steinar og útsaumur einkenndu veskin og sú þróun hélt áfram næstu aldirnar en það er ekki fyrr en á 20. öld sem handtaskan leysti þessi gömlu raunverulega af hólmi og varð að merkjavöru og stöðutákni.
Gleymdu karlmennirnir hafa aftur fengið sínar töskur
En aftur í tímann, þegar leifar rómversku borgarinnar Pompei voru uppgötvaðar á 18. öld, varð hin gríska og rómverska menning aftur geysilega vinsæl. Sú hreyfing sem kom í kjölfarið, klassisminn, nýklassík hafði mikil áhrif á kventískuna. Kjólar urðu styttri og beinni og mittislínan færðist upp. Undir þessum kjólum var ekkert rými fyrir veski og því fóru þau loksins að sjást. Veski með bandi eða keðju voru sérstakalega vinsæl og flest voru þau rétthyrnd. Þannig var tískan á fyrstu ártugum 19. aldar. En á tímum iðnbyltingarinnar í lok
þeirrar sömu aldar, voru margar aðferðir og tækni til framleiðslu veskja reynd og gáfust sumar hverjar vel. Ný efni eins og pappamassinn, járn og slípað stál var notað við framleiðslu á veskjum með þeim árangri að fjölbreytnin varð meiri og veskin ódýrari og nú fóru töskur fyrir karlmenn að sjást aftur, enda er töluvert rými á sýningunni tileinkaður þeim sérstaklega. Svo þetta safn er ekkert bara fyrir okkur stelpurnar.
Upphafið að veskjasafninu má rekja til Hendrikje Ivo og manns hennar Heinz en þau höfðu ástríðu fyrir söfnun gamalla veskja með sögu, sérstaklega hún. Tækifærið til að setja upp safn tileinkuðu veskjum kom þegar ónefndur milljarðamæringur bauð henni stuðning sinn og þetta fallega safn varð að veruleika. Töskurnar eru einstakar sem þar, hver og ein, og saman liggur verðmæti þeirra í hundruð milljóna króna ef ekki milljarða en milljarðamæringurinn góði hefur stutt kaup á einstökum safnkaupum og húsinu einnig, því áður var Hendrikje bara með safnið heima hjá sér.
Umhverfi safnsins er stórglæsilegt, líkt og á 5 stjörnu hóteli og þar er hægt að fá afar girnilegt high tea um kaffileytið en það verður þó að panta daginn áður. Hægt er að velja um sérstök tímabilaherbergi. Kaffihús er einnig á staðnum fyrir svanga maga og þurra munna.
Töskusafnið er við Herengracht 573, 117 CD Amsterdam. Sími +31 (0)20 254 64 52. Netfang: [email protected] þar má finna allar frekar upplýsingar. Aðgangseyrir er um 1550 kr. fyrir fullorðna og rúmlega 900 kr. fyrir börn. Heimasíða safnsins er https://tassenmuseum.nl. Þá á bara eftir að nefna safnbúðina, löðrandi í töskum og ýmsum skemmtilegum fylgihlutum og ef þú átt leið um Amsterdam, ekki gleyma þessu litla en gífurlega fallega og skemmtilega safni.
Nú sækir kuldaboli að og við erum öll farin að draga fram vetraryfirhafnirnar.
Hvort sem þú kýst að klæðast kápu, frakka eða úlpu þá er nauðsynlegt að verja sig vel. En hver er sagan á bak við þessar flíkur og hvernig hafa þær þróast í gegnum tíðina?
Á miðöldum voru það nær eingöngu karlmenn sem klæddust sérsniðnum kápum, frökkum eða öðrum yfirhöfnum á meðan konur vöfðu sig sjölum. Í Evrópu voru þetta yfirleitt millisíðir frakkar sem voru hnepptir að framan, aðsniðnir í mittið og með einskonar opnu pilsi að neðan.
Hér á landi voru yfirhafnir unnar úr vaðmáli, svokölluðu hafnarvoði, og margar hétu skondnum en lýsandi nöfnum. Belghempa var karlmannsyfirhöfn til ferðalaga, úr grófu vaðmáli, hnésíð, ófóðruð og skrautlaus, en doppa var sjóflík sem var hnésíður stakkur úr grófu og mjög þykku vaðmáli.
Með tíð og tíma þróuðust yfirhafnir og frá 18. öld byrjuðu að koma fram kápur eins og við þekkjum þær í dag; hné- eða skósíðar, ein- eða tvíhnepptar og úr ull eða öðrum efnum. Sum snið eiga rót sína í hermannaklæðum enda voru þau sérstaklega hönnuð með notagildið í huga.
Stuttar kápur eða frakkar, sem nefnast pea coat á ensku, komu fyrst fram á sjónarsviðið fyrir rúmum tvö hundruð árum. Kápan nær aðeins niður að lærum og klauf á sitthvorri hlið þannig að auðvelt var að setjast í henni. Hún er yfirleitt úr ull og tvíhneppt með stórum tölum úr við, plasti eða málmi. Þessi stutta flík var fyrst hönnuð fyrir sjóliða í herliði Evrópu og Bandaríkjanna en nútímaútgáfur eru svo gott sem nákvæmlega eins.
Svokölluð duffel-kápakemur reglulega í tísku en uppruna hennar má rekja allt til 1820. Kápan er nefnd eftir bænum Duffel í útjaðri Antwerp í Belgíu en talið er að sniðið sé að fyrirmynd pólsks hermannafrakka. Kápan var afar vinsæl meðal hermanna og almennings Evrópu seinni hluta 19. aldar og fram yfir fyrri heimsstyrjöld. Einkenni duffel-kápu eru þykkt ullarefni og líning með skosku köflóttu mynstri, þverfaldsfestingar úr leðri og beini eða við, tveir stórir utanáliggjandi vasar og hetta með hálsbandi sem hægt var að hneppa.
Trench-kápan var fyrst þróuð sem hlífðarflík fyrir breska og franska hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni. Þegar margir heyra orðið „trench“ dettur þeim vörumerkið Burberry í hug og það er ekki furða, tískuhúsið hefur framleitt kápurnar í rúma öld. Thomas Burberry fann upp gaberdínefni árið 1850 sem er afar þéttofið efni úr ull eða bómull sem hleypir síður vind eða regni í gegn. Rúmum tuttugu árum síðar, árið 1901, sendi hann inn tillögu að regnfrakka fyrir herforingja breska hersins sem var samþykkt og send til framleiðslu. Þannig fæddist trench-frakkinn. Í dag er hann vinsæll hjá báðum kynjum enda stílhrein og afslöppuð yfirhöfn. Hefðbundinn frakki er tvíhnepptur með tíu tölum, með breiðum boðungi og belti um miðjuna og oft líka neðst á ermunum.
Í kringum 1920 naut mjög skemmtilegt kápusnið vinsælda meðal kvenna, svokallað púpu-snið eða cocoon coat. Slíkar kápur voru víðar um miðjuna og mjókkuðu svo niður fyrir hné. Eins og aðrar flíkur á þessum tíma voru kápurnar skreyttar fallegum munstrum, loðskinni, fjöðrum og fleira. Þetta snið komst síðan óvænt í tísku aftur á undanförnum árum og þá í mun stílhreinni búning en áður.
Dúnfylltar flíkur hafa lengi verið notaðar til að halda hita á fólki yfir harða vetrarmánuði og fundist hafa dæmi um slíkar flíkur í Evrópu, Indlandi og jafnvel Kína. Rússneskir hermenn klæddust einnig dúnfylltum frökkum í fyrstu heimsstyrjöldinni. Sá sem á þó heiðurinn af því að setja dúnúlpur á almennan markað er Eddie Bauer. Hann saumaði fyrstu úlpuna árið 1936 og sótti um einkaleyfi á uppfinningunni árið 1940. Innblásturinn að hugmyndin var sagan um rússnesku hermennina sem afi hans sagði honum þegar hann var barn. Sú saga rifjaðist svo upp fyrir honum þegar hann varð næstum úti í veiðiferð. Dúnúlpur hafa dottið í og úr tísku nokkrum sinnum síðan og eru ákkúrat í tísku núna.
Á Íslandi finnast fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum.
Anna Þórhildur I. Sæmundsdóttir, Sigríður Eir Zophoníasardóttir og dætur þeirra tvær eru ein gerð hinsegin fjölskyldu. Þær voru báðar staðráðnar í því að eignast börn þegar þær kynntust og voru ekki lengi að láta verða af því. Við ræddum við þær um ólík móðurhlutverk, veggina sem þær hafa rekist á innan kerfisins, pabbaleysið og fleira.
Á undanförnum árum hefur orðið mikil framþróun í málefnum og réttindum hinsegin einstaklinga – ekki síst hvað varðar fjölskyldumyndun, það er hjónabönd og barneignir. Það er þó töluvert í land og enn ber eitthvað á fordómum og fáfræði í samfélaginu.
Sigríður Eir og Anna Þórhildur, eða Sigga og Tótla eins og þær eru allajafna kallaðar, segjast ekki hafa lent í miklu mótlæti varðandi fjölskylduform þeirra. Þær hafa þó rekist á nokkra veggi innan skrifræðisins. „Það er svona eitt og annað í kerfinu sem þarf að laga og ég held að allir séu sammála um hvaða atriði það séu, en það þarf bara að láta verða að því. Við þurfum til dæmis að skiptast á að vera pabbinn á hinum ýmsum eyðublöðum. Eins þurftum við að ,,feðra“ börnin okkar í þjóðskrá. Við erum ekki skráðar sjálfvirkt sem foreldrar, eins og hjá gagnkynhneigðum hjónum, heldur þurfum við í rauninni að sækja um að verða það eftir að barnið fæðist og svo framvegis,“ segir Tótla.
„Okkar nærumhverfi er kannski frekar verndað, flestir í kringum okkur eru upplýst og þenkjandi fólk sem gerir ekki greinarmun á okkur og öðrum fjölskyldum. Helst er það yfirþyrmandi áhugi Íslendinga á erfðamálum og genatengingum og þá kannski klaufalegar spurningar í því samhengi,“ bætir Sigga við.
Eiga ekki pabba
Það voru einmitt þessar klaufalegu spurningar sem urðu til þess að Sigga birti pistil á Facebook þar sem hún tók það skýrt fram að dætur þeirra ættu ekki pabba. „Nú er Úa komin á þann aldur að hún heyrir og skilur nánast allt sem fram fer í kringum hana. Þannig er ringlandi fyrir hana að heyra spurningar um pabba hennar og Eyrúnar þegar staðreyndin er sú að þær eiga ekki pabba. Sumir virðast ekki skilja eða eru bara ekki búnir að átta sig á að sæðisgjafinn þeirra er ekki pabbi þeirra. Það að vera pabbi er félagslegt hlutverk og pabbar hafa sömu skyldum að gegna og mæður, nema kannski rétt fyrstu vikur og mánuði í lífi barns. Það er að engu leyti minna mikilvægt hlutverk heldur en það að vera móðir. Við berum einfaldlega of mikla virðingu og of miklar væntingar til föðurhlutverkins en svo að geta kallað sæðisgjafa föður,“ segir hún.
Þær skrifuðu pistilinn í sameiningu og ætluðu hann fyrir fólkið í kringum þær, sem þær umgangast dagsdaglega, sem er með þeim í liði, fólkinu sem þær langar að umgangast. Pistillinn rataði síðan í fjölmiðla og hristi aðeins upp í samfélagsumræðunni. „Þetta var skrifað fyrir fólkið sem er með okkur í liði, við vorum ekki að reyna að sannfæra eða breyta skoðun neins. Okkur langaði að benda því á það hvernig orðanotkun, sem í flestum tilfellum er bara vanhugsuð sökum þekkingarleysis, getur haft slæm áhrif á börnin okkar. Hjá þessu
„Við þurfum að skiptast á að vera pabbinn á hinum ýmsum eyðublöðum. Við erum ekki skráðar sjálfvirkt sem foreldrar, eins og hjá gagnkynhneigðum hjónum, heldur þurfum við í rauninni að sækja um að verða það eftir að barnið fæðist.“
fólki höfum við fengið frábærar viðtökur. Það eru ótal margir búnir að skrifa okkur eða koma að máli við okkur og þakka okkur fyrir að benda sér á þetta. Nú viti það eitthvað sem það vissi ekki fyrir og að þetta hafi verið mikilvæg og góð áminnig. Auðvitað eru alltaf þessir fáu sem finna sig knúna til að segja eitthvað ljótt og vera dónalegir en þeirra orð og skrif dæma sig sjálf og við ákváðum að eyða ekki einu pennastriki eða orkudropa í svoleiðis glóruleysi,“ segir Tótla.
Ólík móðurhlutverk
Nú hafa Sigga og Tótla báðar gengið með barn, sem og verið foreldrið sem styður við bakið á þeirri sem gengur með. Þó að bæði séu vissulega móðurhlutverk eru þau afar ólík á meðgöngu, í fæðingu og fyrstu vikurnar á eftir. Að því loknu blandast hlutverkin meira saman og nú sinna þær báðar sömu hlutverkum gagnvart dætrum sínum.
„Það hentaði mér betur að vera sú sem gengur með heldur en að vera stuðningsaðilinn, mér fannst það að mörgu leyti mjög erfitt hlutverk. Þó svo að Tótla hafi verið miklu betri í því þá uppgötvuðum við báðar að þetta hlutverk að vera ,,hinn“ er mjög vanþakklátt og lítið rætt. Oft er svo mikill fókus á meðgöngumóðurina að hinn gleymist og ég get ímyndað mér að hinn gleymist jafnvel enn frekar ef hann er karlmaður. Við lentum til dæmis báðar í því að vera ekki óskað til hamingju með komandi barn af því það var ekki inni í okkar bumbu,“ segir Sigga.
Tótla er sammála og segir að sér hafi einmitt liðið betur sem stuðningsaðilinn. „Meðgangan mín var frekar erfið. Mér leið ekki vel og tókst á við hina ýmsu fylgikvilla. Mér þykir yfirleitt betra að vera manneskjan í bakgrunninum, finnst athygli sem beinist of mikið að mér óþægileg. Mér fannst samt stórkostlegt að fá að prófa þetta. Það eru algjör forréttindi að geta búið til manneskju inni í sér og alls ekki sjálfsagt. Það er magnað að finna hana vaxa og hreyfast innra með sér.“
Fæðingin sjálf reynir ekki síst á stuðningsaðilann, en bæði Sigga og Tótla fæddu á heimili þeirra. „Líkami hins foreldrisins gerir ekkert til að hjálpa þeim í gegnum fæðinguna. Maður finnur fyrir hræðslunni og þreytunni margfalt á við þann sem er að fæða. Þannig var allavega mín reynsla. Fæðingin mín tók rúma tvo sólarhringa en Siggu einn og hálfan klukkutíma. Ég var alveg að bugast undan biðinni hjá mér en varð hrædd hvað þetta tók stuttan tíma hjá henni. Ljósmæðurnar rétt náðu til okkar áður en Sigga átti. Það var komin kollur niður, enginn kominn til okkar og ég held að ég hafi aldrei verið jafnhrædd á ævinni. Þegar ég var að fæða var ég hins vegar bara í því hlutverki og náði einhvern veginn að fara inn á við og loka á allt annað,“ segir Tótla.
„Já, ég var miklu þreyttari eftir fæðinguna hennar Tótlu en þegar ég var sjálf að fæða,“ bætir Sigga við. „Þegar Eyrún var komin í heiminn fékk ég svo mikið spennufall og það helltist yfir mig svo mikil þreyta að það leið næstum því yfir mig. Mig vantaði allt endorfínið og adrenalínið til að hjálpa mér.“
Smellpössuðu saman
Þær kynntust fyrir fjórum árum úti á lífinu, eins og svo mörg pör. „Ég sá Tótlu á bar með vinum sínum snemma á laugardagskvöldi og fannst hún sæt. Ég þorði samt ekki að nálgast hana þar og vonaði að ég myndi hitta á hana seinna um kvöldið, á eina hinsegin bar borgarinnar. Svo var hún auðvitað þar að dansa með vinum sínum og ég safnaði kjarki til að fara og dansa við hana,“ segir Sigga brosandi.
Sigga er uppalin á Hallormsstað og bjó fyrir austan þar til hún fór í Menntaskólann í Hamrahlíð. Þaðan lá leið hennar í Listaháskólann og útskrifaðist af sviðshöfundabraut með millilendingu í trúðaskóla í Kaupmannahöfn. „Í Listaháskólanum kynntist ég Völu Höskuldsdóttur og stofnaði með henni Hljómsveitina Evu sem hefur svo verið mitt aðalstarf síðan, samhliða útvarpsvinnu á Ríkisútvarpinu og fleira.“
Tótla ólst hins vegar upp í Vesturbænum og fór í Kvennaskólann. Hún hélt svo út til Flórens á Ítalíu þar sem hún lærði grafíska hönnun. Þegar hún kom heim úr náminu fékk hún fljótlega vinnu sem grafískur hönnuður á fréttastofu Stöðvar 2 og hefur unnið þar síðan.
„Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Við vorum báðar harðákveðnar að við værum ekkert að leita okkur að sambandi en gátum ekki haldið okkur hvor frá annarri,“ segir Sigga.
Tótla kinkar kolli og tekur í sama streng. „Sigga er sú allra skemmtilegasta kona sem ég hef kynnst. Ég áttaði mig fljótlega á því að ég hafði aldrei kynnst neinum sem ég átti svona auðvelt með að umgangast mikið. Ég er gjörn á að fá óþol fyrir fólki eftir mikil samskipti en hef aldrei átt í erfiðleikum með að verja ótæpilegu magni af tíma með Siggu – helst finnst mér vandamál að fá of lítinn tíma með henni.“
Þótt þær hafi ekki beint verið að leita sér að sambandi voru barneignir þeim samt ofarlega í huga. „Ég held það hafi verið í annað eða þriðja skiptið sem við hittumst þegar ég gekk úr skugga um að Tótlu langaði til að eignast börn í náinni framtíð. Við vorum báðar á þeim stað að okkur langaði ekki að eyða tíma í samband sem myndi ekki leiða til þess á endanum að eignast börn,“ segir Sigga.
Þær komust líka fljótt að því að þær hefðu líkar hugmyndir um uppeldi barna og hvernig fjölskyldu þær vildu eiga. „Þó að við hefðum verið mjög stutt saman þegar við ákváðum að búa til barn vorum við ákveðnar í því að þótt við myndum kannski ekki endast sem par værum við tilbúnar að ala fallega upp barn saman,“ segir Tótla.
Allt eins og það átti að vera
Eftir að ákvörðunin um að búa til barn hafði verið tekin fóru Sigga og Tótla að ræða möguleikana. „Ég sá það alltaf þannig fyrir mér þannig að framtíðarkonan mín myndi ganga með börnin. Ég var dálítið stressuð fyrir þessu og var mjög glöð með að Sigga skyldi vilja byrja. Þegar ég fylgdist svo með Siggu upplifa þetta varð ég mjög spennt, fannst allt svo magnað sem hún var að ganga í gegnum og var mjög heilluð af ferlinu. Ég var með fjögur öpp í gangi þar sem ég fylgdist með þroska fóstursins og las fyrir hana úr bókum á kvöldin,“ segir Tótla. Sigga var mjög ánægð með þessa afstöðu Tótlu því að hún var búin að hlakka mikið til að ganga með barn. „Ég elskaði að vera ólétt og væri sko alveg til í að gera það aftur.“
„Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Við vorum báðar harðákveðnar að við værum ekkert að leita okkur að sambandi en gátum ekki haldið okkur hvor frá annarri.“
Þær höfðu heyrt að það gæti verið þónokkur bið eftir því að komast á Art Medica svo þær ákváðu að hringja strax og athuga með tíma í framtíðinni. Þá bauð konan í símanum þeim að koma daginn eftir sem þær þáðu. „Tíðahringurinn minn var á mjög heppilegum stað svo læknirinn sagði að okkur væri ekkert að vanbúnaði, við gætum komið aftur eftir um það bil tíu daga í uppsetningu. Við bjuggumst ekki við að þetta myndi gerast svona hratt og höfðum í rauninni bara ætlað að kíkja til hennar til að fá upplýsingar. Við sögðumst því þurfa að sofa á þessu en þegar við vöknuðum daginn eftir fundum við að við áttum að kýla á þetta,“ segir Sigga.
Það reyndist rétt því Sigga varð ólétt í fyrstu tilraun og úr varð eldri dóttir þeirra, Úlfhildur Katrín. „Við verðum sannfærðari um það á hverjum degi að við áttum að eignast akkúrat hana. Það þurfti svo aðeins fleiri tilraunir til að búa til Eyrúnu. Það var mjög erfitt, mikil vonbrigði og ákveðið áfall í hverjum mánuði þegar það gekk ekki, en svo gekk þetta að lokum og við erum jafnsannfærðar um að við áttum að fá akkúrat hana,“ bætir Tótla við.
Systrakærleikur
Úlfhildur verður þriggja ára í lok desember og mæður hennar lýsa henni sem ljúflyndum vargi. „Hún er ótrúlega skapandi og skemmtileg. Hún þarf mikið að hreyfa sig og ókyrrist fljótt ef hún fær það ekki,“ segir Tótla. „Hún hefur svo ríkt ímyndunarafl að hún trúir oft sögunum sem hún er að búa til fyrir okkur. Hún hefur farið að gráta undan ósýnilegu ljóni sem stökk út úr sögu sem hún var sjálf að segja. Einnig hefur komið fyrir að það var hákarl á milli herbergjanna okkar svo hún komst ekki yfir til okkar hjálparlaust. Hún er einnig nýfarin að semja vísur sem lofa mjög góðu.“
„Hún er ótrúlega blíð við litlu systur sína, leggst alltaf beint hjá henni þegar hún kemur úr leikskólanum og segir henni frá deginum sínum eða syngur fyrir hana. Þegar henni finnst samskiptin full einhliða talar hún líka fyrir systur sína með fyndinni skrækróma rödd og lætur eins og þær séu að tala saman,“ segir Sigga.
Eyrún er aðeins þriggja mánaða og samkvæmt Tótlu vita þær því ekki margt um hana enn þá. „Þó sjáum við strax að hún er mjög ákveðin og góð í að láta okkur vita hvað hún þarf. Hún er heldur ekkert að splæsa brosi eða spjalli á alla. Það er yfirleitt fyrir nokkra útvalda og aðallega heimilisfólkið. Hún er algjör snillingur í samskiptum og krefst þess að fá ríkan skerf af einbeittri athygli. Hún er kannski stundum eitthvað pirruð en er ekki svöng, blaut eða þreytt. Þá vill hún að við sitjum með hana á hnjánum og horfumst djúpt í augu, brosum hvor til annarrar og spjöllum saman.“
Eins og áður segir þykir þeim Siggu og Tótlu fólk hér á landi fullupptekið af erfðum og skyldleika. Eitthvað hefur borið á því að fólk segi að Úlfhildur og Eyrún séu hálfsystur. „Þær eru systur. Fæddar inn í sömu fjölskyldu og hafa alist upp hjá sömu mæðrunum frá upphafi. Við sjáum ekki hvar hinn helmingurinn ætti að koma ef þetta er að vera hálf. Það er eins og að segja að við séum báðar stjúpmæður barnanna okkar,“ segir Sigga.
„Það stingur líka svolítið þegar við erum spurðar hvort þær séu skyldar. Við vitum alveg hvað átt er við en þetta orð er líka félagslega hlaðið og heppilegra væri að spyrja um blóðtengsl ef fólki finnst mikilvægt að vita hvernig blóð streymir um æðar þeirra. Ég held að Úlfhildur gæti ekki fundið neina manneskju í heiminum sem hún er jafnskyld og systur sinni og þau tengsl sem myndast hafa á milli þeirra nú þegar eru tengsl og skyldleiki sem engin heimsins gen eða blóð gæti styrkt enn frekar.“
Svipaðar mæður
Hvað varðar foreldrahlutverkið þykir Siggu og Tótlu mikilvægt að þær séu lið, að þær standi saman og séu samkvæmar sjálfum sér. „Við ræddum þetta mikið þegar Úa var á leiðinni og höfum það að leiðarljósi. Svo er auðvitað ótal, ótal margt sem okkur langar að gera og innræta börnunum okkar – svo margt að oft virkar það yfirþyrmandi hversu mikil ábyrgð það er að ala upp barn, að móta einstakling og reyna að búa honum sem best nesti. Þá er gott að minna sig á að trúlega er það mikilvægasta í þessu öllu að umvefja dæturnar ótæmandi elsku og minna þær á að þær eru nóg, alveg eins og þær eru í öllum aðstæðum, alltaf.“
Aðspurð hvernig mæður þær séu segist Sigga vona að hún sé hlý, skilningsrík og skemmtileg, jafnvel uppátækjasöm, og að hún segi oftar já en nei. „Ég vona líka að ég sé þolinmóð þó að það sé kannski helst það sem ég þarf að æfa mig í. Tótla er ótrúlega hlý og góð mamma. Hún er bæði leikfélagi og mjög góð í blíðum aga. Við erum að mörgu leyti frekar svipaðar mæður því við erum svo sammála um hvað okkur finnst mikilvægt í uppeldinu.“
„Þó að við hefðum verið mjög stutt saman þegar við ákváðum að búa til barn vorum við ákveðnar í því að þótt við myndum kannski ekki endast sem par værum við tilbúnar að ala fallega upp barn saman.“
„Ég held ég sé best í rólegum leik,“ segir Tótla. „Ég elska að lesa fyrir Úu, búa til og hlusta með henni á sögur. Ég reyni að hlusta á stelpurnar mínar og mæta þeim þar sem þær eru staddar hverju sinni. Ég held að ég sé ástrík en ákveðin og legg mikið upp úr því að hafa ramma þar sem er pláss fyrir mistök. Sigga er mjög drífandi og skemmtilegur uppalandi. Hún er alltaf að búa til ný ævintýri og er dugleg að koma með tónlist inn í líf okkar, syngur mikið með og fyrir Úu. Hún er líka dugleg að drífa okkur út í leiðangra þegar ég og Úa erum haugar og viljum helst liggja og glápa á teiknimyndir. Hún kennir okkur öllum að opna okkur og tala um tilfinningarnar okkar. Mér finnst mikilvægt að stelpurnar mínar séu sjálfstæðar, kurteisar og ríkar af samkennd og ég vona að ég geti kennt þeim það. Ég vil að þær viti að þær geti gert hvað sem þeim dettur í hug og vona að þær fái ástríðu fyrir einhverju í lífinu.“
Þótt það sé ekki á dagskrá alveg á næstunni sjá Sigga og Tótla alveg fyrir sér að bæta við fjölskylduna. „Það er svona á seinna plani að eignast eitt barn til viðbótar eftir nokkur ár. Hvort sem það verður barn sem við göngum með, tökum í fóstur eða ættleiðum,“ segir Tótla að lokum.
Eplaedik hefur á undanförnum árum farið frá því að vera talið gamaldags húsráð í að vera vinsælt heilsulyf.
Það er búið til úr ferskum eplum sem eru hökkuð og látin gerjast í viðartunnum. Sýran í eplaedikinu er lykillinn að heilsueflandi kostum þess – kostum svo sem bættri meltingu, heilbrigðari húð, jafnvægi á blóðsykri, auknu þyngdartapi og minni bólgum og verkjum í líkamanum. Mikilvægt er að edikið sem þú notar sé bæði er ósíað og ógerilsneitt og helst lífrænt því það er stútfullt af lifandi og heilsubætandi gerlum. Hér eru fimm sniðugar leiðir til að nota eplaedik í daglegu lífi.
1. Detox-hreinsun
Talið er að eplaedik hjálpi til við hreinsun með því að auka starfsemi lifrarinnar við að losa sig við eiturefni, auk þess inniheldur það mikið af vítamínum, steinefnum og ensímum sem eru líkamanum mikilvæg í hreinsun. Síðan getur eplaedik einnig hjálpað til við að draga úr vatnsuppsöfnun, eða bjúg, í líkamanum. Ýmist er hægt að innbyrða eplaedikið eða bæta því út í baðið. Til að útbúa hreinsandi bað bættu 1-2 bollum af ediki út í baðið á meðan þú lætur renna í. Liggðu í baðinu 20-30 mínútur og skolaðu baðvatnið af áður en þú þurrkar þér.
2. Heilbrigð húð
Eplaedik getur hjálpað til gegn hinum ýmsu húðvandamálum því það er bæði bakteríudrepandi og róandi. Hægt er að nota það í að fjarlægja vörtur á fótum, draga úr og meðhöndla bólur, minnka svitalykt og jafnvel milda sársauka sem fylgir sólbruna. Þegar á að nota eplaedik á húð þarf að blanda það með vatni, annars getur það verið of ertandi, og best er að nota tvo hluta af vatni á móti einum af eplaediki. Síðan er hægt að setja blönduna í lítinn spreybrúsa og spreyja beint á eða annars konar flösku og nota bómull og bera blönduna á húð.
3. Náttúrulegt hreinsiefni
Upp á síðkastið hefur verið mikið rætt um notkun ediks til að hreinsa heimilið vegna náttúrulegra sýkladrepandi eiginleika þess. Blandaðu saman hálfum bolla af eplaediki á móti 1 bolla af vatni. Þú getur notað þessa blöndu til að þrífa baðherbergisflísar, eldhúsyfirborð, glugga, gler og spegla. Einnig er sniðugt að bæta örlitlum matarsóda í blönduna og þá verður allt skínandi hreint.
4. Bragðgóður og hollur drykkur
Eplaedik getur haft góð áhrif á meltinguna; jafnað sýrustig í maga, dregið úr bólgum í meltingarvegi og svo framvegis. Auðvelt er að útbúa góðan og heilsubætandi drykk með með því að blanda tveimur matskeiðum af eplaediki og tveimur matskeiðum af hunangi saman við bolla af heitu vatni. Drekktu þrjá bolla á viku og sjáðu hvort þú finnir ekki mun.
Þegar á að nota eplaedik á húð þarf að blanda það með vatni, annars getur það verið of ertandi, og best er að nota tvo hluta af vatni á móti einum af eplaediki. Síðan er hægt að setja blönduna í lítinn spreybrúsa og spreyja beint á eða annars konar flösku og nota bómull og bera blönduna á húð.
5. Glansandi hár
Það hljómar ef til vill furðulega en með því að nota eplaedik eftir að þú hefur þvegið hárið með sjampói lokarðu hárendum og hreinsar burt eftirstöðvar af óhreinindum þannig að hárið glansar enn meira á eftir. Settu hálfa matskeið af ediki í vatn. Helltu blöndunni yfir höfuðið inn í sturtu og skolaðu svo vandlega úr. Vissulega er örlítið sérstök lykt af hárinu á meðan það er blautt en hún hverfur þegar það þornar.
Berglind Berndsen og Anna Margrét Kristjánsdóttir reka barnafataverslun á Netinu.
Þegar íslenskar vinkonur eru í fæðingarorlofi saman er ekki hægt að búast við að þær sinni eingöngu börnum og heimili. Þær Berglind Berndsen og Anna Margrét Kristjánsdóttir ákváðu að stofna barnafataverslun á Netinu og bjóða upp á einmitt föt eins og þær langaði í á sína stráka.
Hvernig kom það til að þið ákváðuð að fara að flytja fatnað um hálfan hnöttinn? „Instagram!“ segir Berglind ákveðin.
„Instagram leiðir mann í allskonar áttir og þar á meðal alla leið til Ástralíu. Ástralir eru framalega í að hanna stílhreinan, lífrænan og þægilegan fatnað fyrir börn.
Við erum með þrjú vörumerki sem öll eru upprunnin í Eyjaálfu; HUXBABY, Anarkid og Mickey Rose. Við teljum það mikilvægt að fötin séu framleidd úr umhverfisvænum efnum og eru vörurnar meðal annars GOTS vottaðar. Við töldum þetta mikilvægt atriði þegar við ákváðum að taka inn þessar vörur, fyrir utan hvað þær eru fallegar.“
„Það sem þessi merki eiga öll sameiginlegt er að þau bjóða upp á fatnað sem er úr lífrænni bómull og hannaður í sátt við náttúru og fólk.“
Líkt og Berglind nefndi eru þessi vörumerki leiðandi í sjálfbærni og umhverfisvænni framleiðslu í sínu heimalandi og þótt víða væri leitað. Þarna er haft að leiðarljósi að fötin séu þægileg, klæðileg og stílhrein. Er eitthvað fyrir utan það sem gerir þessi merki sérstök?
„Það sem þessi merki eiga öll sameiginlegt er að þau bjóða upp á fatnað sem er úr lífrænni bómull og hannaður í sátt við náttúru og fólk,“ segir Anna Margrét.
„Auk þess eru flíkurnar flestar unisex-hönnun sem okkur þykir mikill kostur. Við viljum bjóða upp á föt sem eru endingargóð og falleg en hefta á sama tíma ekki leik og gleði barnanna.“
Fóru að velta fyrir sér barnafötum
„Ég á einn son sem er orðinn fjórtán mánaða og hugmyndin að stofnun Litla ljónsins kviknaði þegar hann var þriggja mánaða,“ bætir Berglind við. „Ég upplifði þá að á markaðinn vantaði stílhreinan fatnað fyrir barnið mitt sem væri líka þægilegur fyrir hann.“
„Ég á einnig einn son en minn er nítján mánaða,“ bætir Anna Margrét við. „Við vorum í fæðingarorlofi á sama tíma og í því fór þetta af stað.“
Þær vinkonurnar hittust nefnilega og fóru að tala um hvers konar fatnað þær vildu klæða börn sín í og hvaða grunngildi þeim fyndist nauðsynlegt að hafa í forgrunni við val á fötum. Þegar þær svo rákust á þessi áströlsku merki fór boltinn að rúlla enda var þar að finna allt sem þær óskuðu eftir. Berglind er menntuð í uppeldis- og menntunarfræðum og er á lokaári í masters-námi í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf. Hún starfar sem ráðgjafi á BUGL með
fram náminu. Anna Margrét er hins vegar með gráðu í listfræði og starfar sem verslunarstjóri hjá LINDEX. Litla ljónið er í senn hugðarefni og aukastarf hjá báðum. Þær vilja styðja þau gildi er standa að baki. En hver eru næstu skref hjá ykkur varðandi fyrirtækið?
„Eins og staðan er núna erum við og verðum með netverslun en við erum reglulega með opið hús eða Popup,“ segir Berglind. „Við stefnum að því að bæta við okkur vörumerkjum í komandi framtíð og vonumst til að stækka með tímanum og langtímamarkmið eru að opna verslun.“
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér frekar vörumerki Litla ljónsins geta skoðað síðurnar, www.litlaljonid.com, Litla ljónið á Facebook og Instagram-síðuna, Litla_ljonid.
Það getur verið áskorun að elda góðan mat úr fáum tegundum hráefnis. En á sama tíma er það mjög frelsandi og ekki þarf að hugsa í langan tíma hvað á að vera í matinn.
Þegar eldað er úr fáum efnum er gott að nýta sumt hráefnið á tvennan og jafnvel þrennan hátt. Þá væri möguleiki að steikja salatið og einnig að nota það ferskt.
Annað sem er mikilvægt að hafa í huga er að nota allt „brasið“ af pönnunni og soðið af hráefninu til þess að hámarka bragðið.
Þó svo að ég noti einungis fimm hráefni í þennan rétt, þá tel ég ekki með salt, pipar og feiti. Ég notaði þó aðeins olíu en smjör eða góð ólífuolía gerir allt betra. Auðvitað er líka alltaf hægt að fríska upp á matinn með smávegis sítrónusafa. Ég komst líka að því að ekki er mjög dýrt að versla svona í matinn og þá er hægt að splæsa í gæðaprótín og nota gott grænmeti með.
Nauta-ribeye með sveppum og trufflumajónesi
fyrir 4
600-800 g nauta-ribeye, eða annar góður vöðvi
1 kg nýjar íslenskar kartöflur
2 dl majónes
1 msk. truffluolía
2 pakkningar (u.þ.b. 250 g) kastaníusveppir, eða aðrir sveppir
Hitið ofninn í 180°C. Sjóðið kartöflurnar í potti þar til þær eru næstum því alveg tilbúnar, sigtið vatnið frá og kremjið þær svo með lófanum, setjið 3 msk. af olíu yfir þær og inn í ofn. Kartöflurnar þurfa 25 mín. í ofninum.
Hitið pönnuna á háum hita með 2 msk. af olíu. Þerrið steikurnar með eldhúsbréfi og setjið 1 msk. af salti og 1 msk. af pipar á þær. Látið þær á pönnuna og steikið í um 3-4 mín. á hvorri hlið og setjið í eldfast mót. Mögulega sama mót og kartöflurnar en sitt hvort er í góðu lagi. Hafið steikurnar í ofninum þar til kjarnhitinn er 50-60°C, eða miðlungssteiktar. Látið steikurnar hvíla í nokkrar mínútur áður en þær eru bornar fram.
Ekki þrífa pönnuna eftir steikinguna á kjötinu, heldur setjið sveppina á hana og steikið þá með ½ msk. af salti þar til þeir eru orðnir mjúkir. Bætið þeim við í eldfasta mótið með kjötinu. Hrærið truffluolíunni saman við majonesið. Saltið svo kartöflurnar með restinni af saltinu og berið fram.
Umsjón og stílisti / Gunnar Helgi Guðjónsson
Aðalmynd / Hákon Björnsson
Ragnar Egilsson, framkvæmdastjóri Hlemms, er mikill matgæðingur.
Ragnar töfrar fram fjölbreytta en einfalda rétti sem lesendur ættu allir auðveldlega að geta leikið eftir.
Hvað starfarðu og hvaða verkefni fæstu við um þessar mundir? „Ég er framkvæmdastjóri Hlemms og er mest að einbeita mér að uppbyggingu Mathallarinnar þessa dagana með því að styðja við þá frábæru rekstraraðila sem hafa komið sér fyrir í húsinu og undirbúa ýmiss konar spennandi viðburði.“
Hvað var það fyrsta sem þú lærðir að elda? „Það fyrsta sem ég man eftir var að gera eggjaköku fyrir pabba. Mér hefur alltaf fundist eitthvað spennandi við að taka alls konar mismunandi hráefni og blanda því saman og sjá hvað gerist. Ég hef líka gaman af því að gera þetta með fólk í partíum. Lengi vel var ég ekki maðurinn sem þú talaðir við ef þú vildir heyra hvernig ætti að hafa hlutina einfalda og leyfa hráefninu að skína því mexíkóskar kássur með ótal innihaldsefnum hafa alltaf höfðað meira til mín. En ég er að verða einfaldari með árunum, í öllum skilningi orðsins.“
Ertu jafnvígur á bakstur og matseld? „Mér fannst skemmtilegra að baka þegar ég fór fyrst að búa einn, trúlega því þar er allt mælt svo nákvæmlega. Eftir því sem maður varð öruggari með sig í eldhúsinu sá ég að matseldin átti meira við mig. Góður bakstur er heldur ekkert djók.“
Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín? „Erfið spurning. Áðurnefnd mexíkósk matseld, víetnömsk, japönsk og írönsk. Eiginlega höfðar öll matseld til mín en framandi hráefni, „fönkí“ bragð og sítrus koma oft við sögu.“
„Eiginlega höfðar öll matseld til mín en framandi hráefni, „fönkí“ bragð og sítrus koma oft við sögu.“
Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu? „Ég hef gert svo mörg mistök í eldhúsinu að ég myndi ekki vita hvar ég ætti að byrja. Ætli þau nýjustu séu ekki að halda að ég gæti eldað eitthvað ætilegt þegar ég var rammstíflaður af haustkvefi og með ekkert lyktarskyn. Endaði með að nota svona þremur matskeiðum of mikið af salti í núðlurétt um daginn.“
Hefur þú uppgötvað einhverja snilld í matseld nýlega? „Bæta matarsóda í vatn með spaghettí til að fá svipaða áferð og á ramen-núðlum.
Svo var ég að fá sendingu af þurrkuðum rauðum berjum sem heita zereshk og eru mikilvægt hráefni í íranskri matseld, ég er enn að læra almennilega á þau.“
Hefur þú ræktað krydd- eða matjurtir? „Skessujurt, myntu, kóríander og graslauk. Er grútlélegur í garðyrkju en mig dreymir um að bæta mig.“
Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku? „Tahdig. Þetta er íranskur réttur. Hrísgrjón sem er leyft að brúnast og inniheldur í grunninn bara vatn og hrísgrjón. Það er asnalegt hvað það er erfitt að ná þessu réttu.“
UPPSKRIFTIR
Fyrstu tvær uppskriftirnar að spjótum eru frá Böðvari Lemack frá Kröst á Hlemmi – Mathöll.
Grillað lambaspjót með kartöflusalati 8 pinnar
Kartöflusalat
1 kg smælki
2 hvítlauksgeirar
30 g greinar af fersku tímíani
klípa af salti
1 eldpipar
1 dós sýrður rjómi
30 g saxað ferskt dill
1 msk. dijon-sinnep
Fyrstu fjögur innihaldsefnin eru soðin saman þar til kartöflurnar eru soðnar. Næstu þremur er blandað saman og kartöflunum blandað við sósuna. Salt og pipar eftir smekk.
Lambaspjót
800 g lamba-fillet skorið í bita
1 bolli sojasósa
1 bolli dijon-sinnep
1 bolli púðursykur
1 bolli balsamedik
Blandið saman sojasósu, sinnepi, púðursykri og ediki og marinerið lambið í blöndunni að lágmarki yfir nótt, helst yfir sólarhring. Þræðið upp á spjót og grillið þar til tilbúið.
Best er að bera pinnana fram með fersku, söxuðu grænkáli og rabarbarasultu.
Uppskriftin að þessum klassíska franska eftirrétti kemur frá kökugerðarmeistaranum og matarbloggaranum David Lebovitz. Með tilkomu Costco er orðið sérstaklega auðvelt að finna góð kirsuber á sanngjörnu verði. Bakstur gerist varla einfaldari.
500 g kirsuber
3 stór egg
70 g hveiti
1 tsk. vanilludropar
⅛ tsk. möndludropar
100 g strásykur og 50 g til viðbótar
330 ml nýmjólk
smjörklípa til að smyrja bökunardisk
Hitið ofninn í 190ºC og smyrjið mótið. Fjarlægið steina úr kirsuberjum og dreifið jafnt yfir botninn á mótinu. Blandið saman eggjum, hveiti, vanillu- og möndludropum, 100 g af sykri og mjólk í hrærivél. Deigið verður mjög þunnt. Hellið deiginu yfir kirsuberin og stráið 50 g af sykri yfir. Bakið í 45 mínútur.
180 g tröllahafrar
180 g venjulegir hafrar
250 g grófsaxaðar möndlur
50 ml matarolía, eða kókosolía
130 ml hunang
1 tsk. flögusalt
1 msk. heil kóríanderfræ
börkur af hálfri sítrónu, í heilum renningum
2 tsk. appelsínublómavatn
1 léttþeytt eggjahvíta
250 g fíntsaxaðar þurrkaðar apríkósur
Hitið ofninn að 160ºC og leggið bökunarpappír í ofnskúffu. Blandið fyrstu þremur innihaldsefnunum saman í skál. Hitið olíu, hunang, salt, kóríanderfræ og sítrónubörk í litlum potti yfir lágum hita í 5-10 mínútur. Takið hunangsblönduna af hita, sigtið burt fræ og börk og hrærið appelsínublómavatni út í. Blandið hunangsblöndunni vandlega saman við hafrablönduna og bætið lausþeyttri eggjahvítu varlega saman við. Dreifið vel úr blöndunni á bökunarpappír. Bakið í 30-40 mín. og hrærið af og til þar til granólað hefur tekið á sig lit. Leyfið granólanu að kólna og blandið þurrkuðum apríkósum vandlega saman við.
Berið fram með góðri grískri jógúrt og örlitlu hunangi.
Appelsínublómavatn fæst til dæmis í tyrknesku sérvöruversluninni Istanbul Market í Ármúla en þar fæst líka prýðileg jógúrt af ýmsu tagi.
Gjafir sem innihalda ást og hlátur hitta alltaf í mark hjá yngstu kynslóðinni.
Allir krakkar elska að fá pakka. Þeir geta komið í öllum stærðum og gerðum en þær gjafir sem hitta alltaf í mark innihalda ást og hlátur. Þessar gjafir segja hvað skýrast: „Ég var að hugsa um þig“. Kostnaðurinn er enginn enda eru dýrustu gjafirnar eru ekki þær bestu.
Öll börn þrá að eiga einkastund með foreldrum sínum. Barnið upplifir sig einstakara við það eitt að fá tíma þegar aðeins það á hug og hjörtu foreldra sinna. Það er jafnframt mikilvægt fyrir foreldrana að eiga gæðastund með barninu sínu.
Þegar tímaleysið er algjört er snjallt að gera eldamennskuna að skemmtilegu stefnumóti barns og foreldris. Búðarferðin getur líka orðið að æsispennandi rannsóknarleiðangri og bílaþvottastöðin reynst sannkallaður ævintýraheimur með réttu hugarfari. Því er mikilvægt að bregða reglulega út af vananum, fara jafnvel lengri leiðina og finna það áhugaverða í hversdagslegum viðkomustöðum.
Þegar kemur að stefnumóti er gott ráð að leyfa barninu að velja hvað það vill gera. Oft eru það einföldustu og ódýrustu lausnirnar sem það leitar að. Þegar barnið fær tækifæri til þess að velja verður skipulagningin mun meira spennandi og barninu finnst það vera við stjórn.
Börn elska að hjálpa og hafa hlutverk. Þvottakarfan getur til að mynda reynst hin besta skemmtun þegar barnið fær að taka þátt og sortera sokkana. Vissulega er oft fljótlegra að þjóta einn í búðina eða henda tilbúnum rétti í ofninn en með því að virkja þátttöku barnanna og leyfa þeim að gera hlutina á sínum hraða söfnum við dýrmætum augnablikum í minningabankann sem verða aldrei metin til fjár.
Að fara á stefnumót með foreldrinu í bakaríið getur sem dæmi orðið uppspretta yndislegra minninga síðar meir.
Foreldrasamviskubitinu sagt stríð á hendur
Stefnumótið þarf ekki að vera þaulskipulagt því lausnin liggur oft í því að skapa augnablik í hversdagsleikanum. Með þessum hætti má kría út nokkrar dýrmætar mínútur í daglegri rútínu og forðast um leið hið alræmda foreldrasamviskubit. Samverustundir sem oft eru af svo skornum skammti aukast í kjölfarið og upp spretta nýjar hugmyndir af skemmtilegri afþreyingu með barninu.
Þegar kemur að skipulögðu stefnumóti er gott ráð að leyfa barninu að velja hvað það vill gera. Oft eru það einföldustu og ódýrustu lausnirnar sem það leitar að. Þegar barnið fær tækifæri til þess að velja verður skipulagningin mun meira spennandi og barninu finnst það vera við stjórn.
Að kasta steinum í læk eða safna laufblöðum getur verið hin mesta skemmtun. Tína köngla og mála síðan heima, eða fara í fjársjóðsleit í skóginum. Rannsóknarleiðangur um hverfið eða heimsókn á skólalóðina fyrir tilvonandi nemendur. Meira að segja kanilsnúðabakstur getur vakið upp mikla kátínu eða barn sem fær að telja kartöflur ofan í kvöldverðarpottinn. Kostnaðarhliðin þarf því ekki að vefjast fyrir fjársveltum foreldrum og enn síður fyrirhöfnin. Einföldustu atriði geta vakið stórkostlega kæti hjá börnum.
Ekki vanmeta útiveruna, það er flest auðveldara að vera úti, hvort sem það er gönguferð, hjólaferð eða könnunarleiðangur. Ferska loftið gerir öllum gott. Tímaramminn er síðan annað mál. Margir foreldar bera fyrir sig tímaleysi og áætla að til þess að stefnumótið eigi að bera tilætlaðan árangur verði það að vera langt. Viðveran mun kannski taka nokkrar klukkustundir en barnið mun muna eftir því og tala um það í langan tíma á eftir. Eins ber að hafa í huga að gleðirammi barna er ákveðið langur og auðvelt fyrir foreldra að mikla hluti óþarflega fyrir sér.
Nokkrar hugmyndir af einkatíma barns
Leyfðu barninu að velja hvað er í matinn og hvar þið borðið hann, hvort sem það er heima eða á veitingastaðnum. Sjálfstraust barna eykst með því að fá að stjórna.
Ef þú ert foreldri hefurðu sjálfsagt heyrt setninguna sjáðu mig oftar en einu sinni. Gefðu barninu athyglina – leyfðu því að vera í sviðsljósinu.
Eftir kvöldbaðið er ómetanleg stund að barnið velji sér bók til að lesa. Þannig sameinast það foreldri sínu í dagsins lok sem reynist oftar en ekki besta stund hans fyrir innileg samtöl.
Fyrir suma eru morgnarnir besti tíminn sem foreldrið getur átt með börnum sínum en fyrir aðra eru kvöldin þeirra tími. Nýtið tímann og styrkleika barnanna til fulls.
Setið upp skipulagt stefnumót með hverju barni fyrir sig.
Súperkvöld er önnur hugmynd að skemmtilegri tilbreytingu fyrir barnafólk en það eru kvöld sem börnin ráða ferðinni í einu og öllu.
Fanney Vigfúsdóttir segir frá skemmtilegum stöðum í Kaupmannahöfn.
Fanney Vigfúsdóttir var í námi í heimilislækninugm í Kaupmannahöfn og þekkir borgina og svæðið í kring vel. Við fengum hana til að segja okkur frá nokkrum stöðum sem hún mælir með að fólk skoði þegar það fer til borgarinnar.
„Það var á allan hátt lærdómsríkt að búa í Kaupmannahöfn. Borgin er falleg með ógrynni af möguleikum til að upplifa eitthvað við allra hæfi. Hægt er að hjóla mest allt sem farið er innanbæjar og svo eru góðar almenningssamgöngur ef maður vill kíkja fyrir utan borgarmörkin. Það er mikið af almenningsgörðum sem er gaman að labba um og skoða eða að hittast í með vinum og grilla og hafa það huggulegt,“ segir Fanney.
Jónshús
Það ætti að vera skylda fyrir Íslendinga sem koma til Kaupmannahafnar að koma í Jónshús. Að labba frá Nørreport, fram hjá Kongens Have, jafnvel fara dálítinn krók og labba í gegnum garðinn, dást að Rosenborg-kastalanum og Statens Museum for Kunst á leiðinni og svo sjá þetta fallega hornhús á Øster Voldgade 12 (á milli Østerport og Nørreport). Í þessu húsi bjó Jón Sigurðsson með konu sinni og barðist fyrir sjálfstæði Íslendinga og seinna keypti íslenskur kaupmaður það og gaf íslenska ríkinu sem á það enn. Þarna er mjög áhugavert og flott safn um Jón Sigurðsson og einnig er þetta félagsheimili með allskonar starfsemi fyrir Íslendinga í Kaupmannahöfn.
Skt. Hans Torv á Nørrebro
Þetta huggulega torg hefur alltaf verið í uppáhaldi. Þar er hægt að setjast niður og njóta veitinga og drykkja eða fá sér ís. Margt áhugavert er hægt að skoða í öllum áttum frá torginu. Hægt er að labba niður að síkjunum og kíkja í second hand-verslanir á leiðinni eða í gegnum Elmegade þar sem eru margar litlar búðir. Á Nörrebrogade er ekta fjölbreytileiki með fólki alls staðar að úr heiminum og í Assistants Kirkegård getur maður séð fólk í sólbaði milli legsteinanna ásamt því að dást að þessum fallega kyrrláta garði í miðri borgarösinni.
Frederiksborg Slot í Hillerød
Það er virkilega þess virði að taka lestina út úr bænum og fara til Hillerød. Þar er hugguleg göngugata og við enda hennar Frederiksborg Slot sem er yndislega fallegur kastali með enn þá fallegri hallargarði. Manni líður eins og maður sé kominn í ævintýri, algjörlega magnað.
Stevns Klint í Højerup
Ég gæti ekki mælt nóg með að taka allavega einn dag í að fara og skoða Stevns sem er svæði á litlum skaga um það bil 40 mínútum suður frá Kaupmannahöfn. Það er auðveldast að vera á bíl, en það eru líka einhverjar almenningssamgöngur og einnig eru hjólastígar um allt. Ef ég hefði bara einn dag myndi ég byrja að keyra til Højerup að Stevns Klint en þar er kirkja sem stendur á bjargbrún. Hluti kirkjunnar er dottinn í hafið en maður getur farið inn í kirkjuna og út á svalir þar sem maður horfir beint niður í grýtta fjöruna. Útsýnið er magnað og hægt er að labba niður brattan langan stiga niður í fjöruna, þetta er algjörlega einn fallegasti staður í Danmörku. Þaðan myndi ég svo kíkja í Holtug Kridtbrud, labba þangað niður og skoða salamöndrutjarnirnar, litlar tjarnir sem eru fullar af litlum salamöndrum og svo eru litlar eðlur líka allt um kring. Á leiðinni myndi ég keyra upp að Vallø Slot, litlum kastala sem er búið að breyta í íbúðir, með fallegum hallargarði og litlum hallarbæ með flottum veitingastað, á þessum leiðum eru falleg engi og skógsvæði sem maður getur alveg gleymt sér við að skoða. Ég verð að mæla með að koma við á einhverjum af þeim mörgu sveitabæjum sem selja ávexti/grænmeti og annað ræktað á búinu, brakandi ferskt og gott.
Little Women er ein af þessum klassísku jólamyndum sem sumir kjósa að horfa á á hverju ári. Myndin segir frá systrunum Jo, Meg, Beth og Amy ásamt móður þeirra en faðir þeirra er fjarverandi að berjast í borgarastyrjöldinni í Bandaríkjunum. Þetta er náin og samheldin fjölskylda sem þó þarf að glíma við erfiðleika, eins og aðrar fjölskyldur. Eitt hjartnæmasta atriði myndarinnar er þegar konurnar ákveða að gefa allan hátíðarmatinn sem þær hafa safnað fyrir í marga mánuði og búið er að matreiða eftir kúnstarinnar reglum. Nágrannar þeirra voru nefnilega hjálparþurfi. Það reynist þeim erfitt að pakka saman öllu veisluborðinu án þess að hafa svo mikið sem snert við matnum en viðbrögð nágranna þeirra við þessari gjöf gerir það þess virði.
Fjölskyldudrama
Í Family Stone (aðalmynd) fylgjumst við með hrakfarajólum Stone-fjölskyldunnar. Elsti sonurinn, Everett, hefur boðið kærustu sinni, Meredith, heim um jólin með það fyrir augum að biðja hennar yfir hátíðarnar með glæsilegum hring. Hún fær miður góðar móttökur og ákveður í örvæntingu að bjóða systur sinni að koma til að dreifa athyglinni. Allt gengur á afturfótunum og Meredith er svo stíf að allt sem hún segir kemur út á versta mögulega veg og móðgar meirihlutann af fjölskyldunni. Á jóladag biður Everett móður sína um hringinn sem er erfðargripur en hún neitar honum upphaflega um hann. Þegar henni snýst síðan hugur eru farnar að renna tvær grímur á Everett og hann er ekki viss hvort hann vilji enn þá giftast Meredith.
Óætur kalkúnn
Clark Wilhelm Griswold langar að halda hin fullkomnu Griswold-fjölskyldujól. Eftir margra mánaða undirbúning býður hann bæði foreldrum sínum og tengdaforeldrum og einnig Louis, frænda sínum, og elliærri frænku sinni, Bethany. Honum að óvörum mætir líka groddalegi frændi konu hans, Eddie, ásamt allri fjölskyldu sinni í húsbílnum sínum. Clark er búinn að skreyta húsið með meira en 20.000 ljósaperum og ná í risastórt jólatré sem passar eiginlega ekki inn í stofuna. Þegar þau eru loks sest við borðstofuborðið, búin að fara með borðbæn og ætla að gæða sér á kræsingum þá er kalkúnninn ekki eins og hann átti að vera. Um leið og Clark sker í fuglinn þá svo gott sem springur hann, með tilheyrandi búkhljóði, því hann er algjörlega orðinn að engu að innan.
Pítsuveisla í limmósínu
Í Home Alone 2: Lost in New York er Kevin McCallister mættur aftur. Í þetta skiptið fer hann óvart í aðra flugvél en fjölskylda sín og endar í New York-borg, í stað Flórída. Hann er ekki lengi að gera borgina að leikvelli sínum, enda með nóg af peningum og kreditkortum. Eitt minnisstætt atriði er þegar Kevin keyrir um borgina í limmósínu og hámar í sig ostapítsu á meðan, mjög grand á því. Kevin er ekki einn lengi því hinir illræmdu bjánabófar, Harry og Marv, enn þá í sárum eftir síðustu viðskipti sín við Kevin, eru líka mættir á svæðið og ætla núna að fremja rán aldarinnar.
Í desember gæti verið sniðugt að „detoxa“ eða „pretoxa“ áður en jólahátíðin skellur á.
Desember er annasamasti mánuður ársins hjá flestum. Við þurfum ekki aðeins að versla jólagjafir, þrífa heimilið, skrifa jólakort, skreyta og guð má vita hvað heldur er okkur einnig boðið í alls konar aðventuboð á vinnustöðum, til ættingja og vina. Síðan skellur jólahátíðin á og það er sama upp á teningnum þá. Þannig að mánuðurinn einkennist af áti, drykkju, streitu og svefnleysi. Við höfum oft heyrt talað um detox, eða hreinsun, eftir þetta sukktímabil en einnig er gáfulegt að huga að nokkurs konar „pretoxi“, það er andlegum og líkamlegum undirbúningi, og hér eru nokkur góð ráð.
Matur
Hangikjöt, skata, villibráð, grafinn lax og svo mætti lengi telja. Þótt hátíðarmatur sé vissulega gómsætur er hann einnig þungur í maga og oftar en ekki fremur saltur. Án þess að þú gerir þér fulla grein fyrir því þá getur hann farið að hafa áhrif á heilsu þína.
Þú getur lítið stjórnað hvað er á boðstólum í þeim veislum og partíum sem þú ferð í. Þess vegna er enn mikilvægara að passa upp á að ísskápurinn þinn sé að minnsta kosti vel birgur af alls kyns ferskum mat, eins og grænmeti. Þau fáu kvöld sem þú ert heima hjá þér í aðdraganda jólanna ættir þú að reyna að fá þér salat eða annan léttan mat. Þú munt sofa betur og almennt líða betur þegar þú vaknar daginn eftir.
Takmarkaðu nammiátið við nokkra daga því of mikill sykur getur valdið ójöfnu orkustigi, þannig að þú ert annað hvort alltof þreytt eða of ör.
Drykkur
Áfengi er oftar en ekki haft um hönd í kringum hátíðarnar og þá kannski í meira mæli en gengur og gerist aðra mánuði ársins. Það er mikilvægt að reyna að gæta hófs og jafnframt vanda valið. Reyndu að drekka sem minnst af sykruðum drykkjum og drekktu alltaf eitt vatnsglas á móti hverjum drykk svo þú verðir ekki fyrir vökvatapi.
Hátíðarmatur er eins og áður sagði fremur saltur og reyktur sem þýðir að okkur hættir til að binda meira vatn í líkamanum. Þannig að þegar þú hættir einn morgun að passa í buxurnar þínar þá er það ekki endilega vegna þess að þú sért búin að fitna heldur getur það einfaldlega verið bjúgur. Því er gott að venja sig á að drekka nóg af vatni og fá sér vatnslosandi drykk, eins og sítrónuvatn, á morgnana.
Eins og áður sagði er maturinn í þessum mánuði ekki mjög fjölbreyttur. Til að auka vítamín- og steinefnaneyslu þína er gott að fá sér „smoothie“ á morgnana með nóg af ferskum eða frosnum ávöxtum, kókosvatni, chia-fræjum, avókadó og spínati eða grænkáli. Þannig færðu góðan kraft og næringu fyrir daginn og þú getur tjúttað fram eftir nóttu ef þannig liggur á þér.
Reyndu líka eftir bestu getu að skipta kaffinu út fyrir te því það hefur alla jafna mun meira magn andoxunarefna ásamt því að innihalda jurtir sem geta hjálpað til við að jafna meltingu, styrkja ónæmiskerfið, gefa orku og einbeitningu og svo framvegis.
Hvíld
Það er alveg bókað mál að þú færð ekki nægan svefn í desember, hvort sem þú ert að djamma á jólahlaðborðum eða sveitt að versla jólagjafir á miðnæturopnun í verslunum. Þess vegna verður að grípa gæsina þegar hún gefst og fara snemma að sofa og tryggja gæði svefnsins. Skiptu reglulega um á rúminu, því fátt hjálpar manni að sofna eins og tandurhrein og ilmandi sængurföt. Það þekkja flestir að lavender er mjög róandi og því er sniðugt að blanda nokkrum dropum af lavander-ilmolíu við vatn og spreyja létt yfir koddann.
Einnig er gott að drekka róandi te á kvöldin til að tryggja að maður sofni snemma. Það er hægt að fá ýmsar gerðir af tei í verslunum og mikilvægast er að það sé koffínlaust en síðan eru ýmsar jurtir sem eru svefnaukandi, eins og kamilla, eða garðabrúða.
Hættu líka í símanum og spjaldtölvunni allavega klukkutíma áður en þú ætlar upp í rúm því bláa ljósið sem slík tæki gefa frá sér hamla melatónínframleiðslu svo það tekur þig lengri tíma að sofna.
Með einföldum ráðum er hægt að bæta ásýnd baðherbergja.
Baðherbergi eru oft þau rými sem fá hvað minnstar endurbætur innan heimilisins. Flestir eru þó sammála um að vilja hafa baðherbergin hrein og snyrtileg en stærðarinnar vegna getur reynst erfitt að koma skipulagi á handklæði, sturtusápur og baðdót barnanna. Það er þó heilmikið sem hægt er að bæta með einföldum ráðum sem þurfa hvorki að kosta mikið né krefjast mikilla framkvæmda.
Á flestum heimilum eru baðherbergin í smærra lagi og því rúmast takmarkað magn húsgagna þar inni. Því eru það smáhlutirnir sem skapa rétta andrúmsloftið enda dvelja flestir góðan part af deginum inni á baðherberginu.
Falleg handklæði fleyta baðherberginu langt, hvort sem þeim er rúllað upp í opinni hillu eða látin hanga á vegg.
Sturtuhengi geta gert ótrúlega mikið fyrir stílhrein baðherbergi og skapað réttu stemninguna hvort sem hún er suðræn eða skræpótt, einföld eða með prenti.
Margir geyma körfur fyrir óhreinan þvott á baðherbergjum sínum og geta þau vissulega stungið í stúf. Það þarf þó ekki að vera flókið að finna smekklegar körfur á góðu verði sem gera mikið fyrir heildarrýmið.
Kerti eru ómissandi þegar kemur að því að skapa þægilegt andrúmsloft innan baðherbergisins. Hvort sem um er að ræða fallegt ilmkerti við vaskinn eða við freyðibaðið.
Sápan setur svo svip sinn á baðherbergið, hvort sem um er að ræða handsápu, sturtusápu eða baðsöltin. Það er auðvelt að týna sér í úrvali á öllum þeim gæðahúðvörum sem framleiddar eru og því kjörið að skipta oft út og skapa þannig fjölbreytta stemningu innan baðherbergisins. Eins er hægt að kaupa fjölnota og fallegar sápupumpur og fylla reglulega á.
Kerti eru ómissandi þegar kemur að því að skapa þægilegt andrúmsloft innan baðherbergisins. Hvort sem um er að ræða fallegt ilmkerti við vaskinn eða við freyðibaðið.
Lítill kollur eða hliðarborð fyrir handklæði eða húðvörur getur sömuleiðis komið sér vel. Kollinn má nýta undir tölvuna fyrir þá sem vilja horfa á bíómynd í baði.
Fyrir yngstu baðdýrkendurna er um að gera að verða sér úti um baðleikföng og hirslur undir baðdótið.
Sérstakir baðlitir og slím færa svo sannarlega fjör í baðið sem og segulstafir sem hægt er að líma á vegginn meðan á baðferðinni stendur.
Þá geta plöntur færa líf í litlaust rými en þær skapa jafnframt hlýju og notalegheit.
Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur heldur fyrirlestra og námskeið um einelti fyrir fólk á öllum aldri.
Kolbrún Baldursdóttir hefur starfað sem sálfræðingur í 25 ár. Hún rekur eigin sálfræðistofu ásamt því að vera í hlutastarfi á heilsugæslu og sinna sálfræðiþjónustu fyrir hælisleitendur. Hún heldur einnig fyrirlestra og námskeið um einelti fyrir fólk á öllum aldri og ekki síst foreldra bæði fórnarlamba og gerenda. Við fengum hana til að gefa okkur innsýn í viðfangsefnið.
„Snemma á ferli mínum tóku eineltismálin hug minn,“ segir Kolbrún. „Mér fannst alltaf svo innilega sárt að hitta einstaklinga, börn og fullorðna sem voru niðurbrotin vegna þess að einhver einn eða fleiri höfðu verið að níðast á þeim leynt og ljóst. Skaðsemi langvinns eineltis getur verið mannskemmandi og dæmi eru um að andleg líðan þolanda er rústir einar eftir einelti. Afleiðingar lifa stundum með manneskjunni alla ævi þótt margir finni leið með eða án aðstoðar til að milda og lifa með sársaukanum, brotinni sjálfsmynd og viðloðandi höfnunartilfinningu. Þeir sem koma úr erfiðum uppeldisaðstæðum, eiga erfitt félagslega eða glíma við annan vanda fyrir ná sér jafnvel ekki á strik eftir að einelti hefur bæst við. Þá er eins og mælirinn fyllist endanlega. Dæmi eru um að fólk verði öryrkjar og einstaka sjá enga vonarglætu og hafa svipt sig lífi.
Mér hefur alltaf fundist að við, einstaklingar, hópar og samfélagið allt, ættum að geta gert eitthvað verulega raunhæft í þessum málum, ekki bara til skemmri tíma heldur til framtíðar. Eineltishegðun mun koma upp endrum og sinnum en með skilvirkum forvörnum, virkri viðbragðsáætlun og faglegri vinnslu mála sem koma upp getur verulega dregið úr eineltistilburðum og ef mál kemur upp skiptir öllu að gripið sé strax inn í og einelti stoppað nánast í fæðingu.“
Kolbrún hefur skrifað fjölda greina og pistla um hugmyndir í þessu sambandi ásamt því að þekkja málið af eigin raun. „Ég hef komið að vinnslu þessara mála í mörg ár bæði í málum þar sem aðilar eru börn, unglingar og fullorðið fólk. Ég held að ég hefði aldrei getað rætt af neinu alvöru öryggi um þessi mál nema af því að ég hef sjálf fengið að snerta á þeim með beinum hætti. Með hverju máli sem ég hef komið að sem sálfræðingur hef ég sjálf lært eitthvað nýtt og þróað þannig hugmyndafræðina og betrumbætt verklagið.“
Breytt viðhorf og úrlausnir
Auk fræðslufyrirlestra og greinaskrifa var Kolbrún með sálfræðiþætti, Í nærveru sálar, á ÍNN meðal annars um eineltismál. „Það var um það leyti sem Skólavefurinn bað mig að skrifa leiðbeiningabók um einelti. Bókin EKKI MEIR kom út 2012 og strax í kjölfarið fór ég í samstarf við Æskulýðsvettvanginn og nokkur sveitarfélög og fékk enn frekari tækifæri til að fara um allt land og miðla því hvernig fyrirbyggjandi vinna gæti litið út með viðbragðsáætlun, tilkynningareyðublaði, verkferlum og verklagi. Þessum hugmyndum mínum um forvarnir og úrvinnslu eineltismála var hvarvetna vel tekið. Margir tóku þessar leiðbeiningar upp strax í kjölfarið og tileinkuðu sér verkfæri sem mér fannst hafa gagnast mér í þessum málum. Það gaf mér enn meiri kraft til að halda áfram þessu verkefni. EKKI MEIR ævintýrið er enn í gangi og lifir góðu lífi og ég mun sinna þeirri fræðslu áfram næstu árin.“
Kolbrún segir að samfélagið viðurkenni nú einelti og skaðsemi þess sé flestum orðin kunn. Einnig sé nánast horfið að fólk fullyrði að einelti sé ekki til á þeirra vinnustað eða skóla. „Allt hefur gerst með meiri hraða eftir tilkomu samfélagsmiðlanna. Nú tjáir sig hver sem vill um sína reynslu til dæmis á Facebook og viðbrögðin láta ekki á sér standa. Samfélagsmiðlar koma málum sannarlega hratt upp á borð. Eðli þessara mála er svipað í dag og áður að mörgu leyti nema við hefur bæst neteinelti með tilkomu Netsins og samfélagsmiðlanna. Þau mál eru afar erfið vegna þess að netníð eða myndir sem ætlað er að skaða og meiða breiðast út af ógnarhraða svo engin bönd ná utan um. Á Netinu geta gerendur blómstrað þar sem þeir hafa falið sig í lokuðum grúppum, þykjast vera aðrir en þeir eru eða eru undir fölskum nöfnum.
„Ég man þegar dætur mínar voru litlar þá spurði ég þær af og til eftirfarandi spurninga: Ert þú ekki öruggleg góð við alla í bekknum? Eru krakkarnir góðir við þig? Heldur þú að einhverjum í þínum bekk líði illa vegna einhvers í bekknum? Ef kom svar sem hringdi bjöllum var síðan brugðist við því eftir atvikum.“
Við erum farin að hjálpa þeim sem stríða og meiða önnur börn. Börnum sem þetta gera þarf að hjálpa. Þetta eru börn sem oft líður illa með sjálf sig og eiga erfitt í skóla-, félags- eða fjölskylduaðstæðum. Sum eru reið inni í sér, önnur hafa einfaldlega ekki fengið viðeigandi leiðbeiningar um samskipti og stundum má tengja orsakir við persónueinkenni eða röskun sem barn kann að glíma við. Við þolendur reynum við að ítreka að þetta er ekki þeim að kenna. Þeim er ekki strítt vegna þess að þau eru svo ómöguleg. En þótt sá sem verður fyrir einelti viti vel að þetta er vandi þess sem sýnir hina vondu hegðun þá líður honum oft engu að síður ömurlega og spyr sig: „Af hverju ég?“ Og foreldrar spyrja: „Af hverju barnið mitt?“ Fullorðnum þolanda tekst iðulega betur að „skila skömminni“ en unglingum sem eru enn að móta og þroska sína sjálfsmynd.
Nú höfum við verkfæri til að taka á þessum málum og gerð er krafa um að forvarnarstarfi sé sinnt. Á heimasíðu minni kolbrunbaldurs.is má finna allan fróðleik um forvarnir og úrvinnslu eineltismála sem ég hef fram að færa. Barnaheill er einnig með frábært verkefni, Vinátta – forvarnarverkefni gegn einelti, sem komið er í tugi leikskóla um land allt og er nú á haustönn verið að bjóða upp á það fyrir fyrstu bekki grunnskóla, sjá nánar um það á barnaheill.is.“
Samstarf við foreldra mikilvægt
Kolbrún segir að hlutverk foreldra sé stórt í eineltismálum eins og öðrum sem varða börn þeirra. „Þá gildir einu hvort um er að ræða foreldra barna sem sjaldan eða aldrei hafa orðið fyrir stríðni eða einelti sem og foreldra barna sem eru þolendur nú eða barna sem kvartað hefur verið út af vegna eineltishegðunar. Reynsla foreldra barna í þessum málum er iðulega erfið og sársaukafull. Foreldrar þolenda finna oft til mikils vanmáttar, kvíða, reiði og sorgar, ótta og óvissu um hvernig tekið verði á málinu og hvort takist að stöðva eineltið. Foreldrar barna sem kvartað er yfir líður einnig oft mjög illa. Stundum trúa þau því ekki að barn þeirra hafi sýnt viðlíka hegðun, aðrir foreldrar segjast ekkert endilega hissa t.d. ef barn þeirra á sögu um að hafa sýnt af sér slæma framkomu. Flestir foreldrar finna til sterkrar verndartilfinningar þegar barn þeirra er ásakað um að leggja í einelti og þá án tillits til hvort foreldrar trúi ásökununum eða ekki. Það er ekkert nema eðlilegt. Aðalatriðið er að vinna með skólanum eða félagasamtökunum að fá málið upp á borð þannig að hægt sé að skoða það og ljúka því. Stundum er svona mál byggt á misskilningi sem leysist auðveldlega þegar farið er að skoða málið nánar. Þá kemur jafnvel í ljós að ekki var um að ræða einelti heldur einhvern misskilning jafnvel, stundum hefur verið um að ræða valdabaráttu og stundum er um flokkadrætti að ræða. Þessi mál geta verið gríðarlega flókin og margslungin eins og oft þegar kemur að mannlegum samskiptum.
Samvinna foreldra við skóla og aðrar stofnanir sem barnið er hjá skiptir öllu þegar erfið mál koma upp. Þá reynir á að aðilar treysti hver öðrum og sjái að hagsmunir barnanna er það sem skiptir öllu og þá er átt við hagsmunir allra barnanna sem að málinu koma. Foreldrar eru lykilaðilar þegar grafast á fyrir um orsakir og stöðva óheillaþróun málsins. Foreldrar eru einnig áhrifamestu fyrirmyndir barna sinna. Foreldrar sem horfast ekki í augu við meintan hlut barna sinna í kvörtunarmáli eru að senda þeim „vond skilaboð“ sem koma þeim ekki til góða hvorki nú né síðar. Í þeim tilfellum sem foreldrar eru e.t.v. óánægðir með skólann má sú óánægja aldrei verða til að hindra samvinnu þegar greiða á úr erfiðum málum.
Enginn stendur eins nærri börnunum og foreldrar þeirra. Hvað varðar fræðslu og þjálfun barna í samskiptum skiptir máli að byrja um leið og þroski leyfir að kenna þeim að koma vel fram við alla, líka þá sem eru ekki endilega vinir eða bestu vinir. Kenna þeim að setja sig í spor annarra, að láta vita ef þeir sjá stríðni eða einelti og ekki megi skilja út undan. Ég man þegar dætur mínar voru litlar þá spurði ég þær af og til eftirfarandi spurninga: Ert þú ekki öruggleg góð við alla í bekknum? Eru krakkarnir góðir við þig? Heldur þú að einhverjum í þínum bekk líði illa vegna einhvers í bekknum? Ef kom svar sem hringdi bjöllum var síðan brugðist við því eftir atvikum. Með einföldum spurningum er hægt að fylgjast með gangi mála í skólum barna sinna og ef barnið sýnir vanlíðunareinnkenni eða upplýsir um ofbeldisatvik af einhverju tagi er mikilvægt að hafa strax samband við skólann eða íþrótta- eða æskulýðsfélagið. Öllu skiptir að hafa samband og sé niðurstaðan að tilkynna einelti að koma þá kvörtuninni á framfæri með skriflegum hætti. Ef kvörtunin er einungis munnleg er alltaf meiri hætta á að upplýsingar skili sér ekki nægjanlega vel og meiri hætta er á misskilningi. Hlutverk foreldra er líka að taka virkan þátt í að gera kannski gott kerfi betra og koma með góðar ábendingar og tillögur sem geta bætt verkferla skóla í þessum málum.“
„Foreldrar sem horfast ekki í augu við meintan hlut barna sinna í kvörtunarmáli eru að senda þeim „vond skilaboð“ sem koma þeim ekki til góða hvorki nú né síðar.“
Kolbrún býður meðal annars upp á prógramm fyrir foreldra barna sem tengjast eineltismálum. „Í þeim fyrirlestri sem ég hef sniðið með foreldra í huga í þessum málum fer ég í gegnum þessa þætti. Ég byrja á að ræða birtingamyndir eineltis, algengar orsakir og ástæður stríðni og eineltis. Einnig tengsl ADHD og eineltis og hvernig það geti mögulega verið áhættuþáttur bæði fyrir að stríða og vera strítt/lagður í einelti. Áherslan er síðan á hlutverk og aðkomu foreldra að þessum málum, reynslu þeirra og með hvaða hætti þeir geta komið sterkar inn í forvarnarstarf og úrvinnslustarf. Loks fer ég lið fyri lið yfir hvernig ferli frá tilkynningu til málaloka lítur út frá sjónarhorni foreldra.“
Hún ætlar að miðla því sem hún kann í þessum málaflokki eins lengi og óskað er eftir. Ég mæti á eins marga staði og ég get, nota heimasíðuna og bíð upp á handleiðslu og ráðgjöf á stofu. Þetta er ekki lengur bara einhver vinna hjá mér heldur löngu orðið hugsjón og áhugamál vegna þess að ég veit og skynja að þessum málum er hægt að þoka til enn betri vegar.“
Ekkert lát virðist vera á ofurhetjuæði sem hefur staðið í rúm tíu ár.
Á hverju ári koma út tvær til þrjár myndir í þessum flokki og vekja miklar vinsældir, bæði hjá áhorfendum og gagnrýnendum.
Til heljar
Myndin Thor: Ragnarok var frumsýnd nýlega, en um er að ræða þriðju myndina um þrumuguðinn og hvorki meira né minna en sautjándu myndina í Avengers-seríu Marvel.
Í þetta sinn þarf Thor að takast á við hina illu en máttugu Helu sem Óðinn kastaði niður í Niflheim . Framleiðendur myndarinnar virðast þó hafa leitt hjá sér þá staðreynd að Hel sem Hela byggir á er eitt afkvæma Loka samkvæmt Eddukvæðum og Heimskringlu.
Í myndinni snýr Hela aftur frá undirheimum staðráðin í að leggja Ásgarð í eyði og koma bræðrum sínum og systrum, og mannkyninu í heild, fyrir kattarnef. Thor fær til liðs við sig bæði nýja og gamla félaga í baráttunni við þennan erfiða óvin.
Leðurblakan snýr aftur
Í upphafi ofurhetjuæðisins sem nú er í gangi var Dark Knight-þríleikurinn hans Christopher Nolan, en í þeim snéri ein frægasta ofurhetja allra tíma, Batman, aftur á hvíta tjaldið. Í myndunum sem eru mun dekkri og alvarlegri en fyrri Batman-myndir glímir Batman við klassísk illmenni svo sem Scarecrow, Joker, Catwoman og Bane. Með hlutverk leðurblökunnar fer Christian Bale og voru flestir sammála um að hann næði persónunni mjög vel.
Ofurfjölskyldufaðir
Í teiknimyndinni The Incredibles kynnumst við Bob Parr, öðru nafni Mr Incredible, og eiginkonu hans Helen, öðru nafni Elastic girl. Þau voru einar mestu ofurhetjur heims en hafa neyðst til að lifa í leyni undanfarin ár vegna aðfara yfirvalda gegn ofurhetjum. Þau búa í úthverfunum ásamt börnum sínum þremur, Violet, Dash og Jack-Jack, sem eru öll gædd ofurhæfileikum. Bob þráir ekkert heitar en að komast aftur í ofurhetjugallann og stekkur því á tækifærið þegar hann fær dularfull skilaboð um háleynilegt verkefni á fjarlægri eyju. Hann uppgötvar fljótlega að ekki er allt sem sýnist og hann þarf hjálp fjölskyldu sinnar við að bjarga heiminum fá gereyðingu.
Andhetja eða ofurhetja?
Deadpool fjallar um ofurhetju sem hefur engan áhuga á að vera ofurhetja. Fyrrum sérsveitarmaðurinn og málaliðinn Wade Wilson greinist með ólæknandi krabbamein og í örvæntingu sinni samþykkir hann að gangast undir ólöglega lyfjameðferð sem á að gefa honum ofurkrafta. Þegar ofurkraftar Wade virkjast afmyndast húð hans einnig svo hann lítur út fyrir að hafa verið brenndur. Honum finnst hann því ekki eiga afturkvæmt til unnustu sinnar heldur ákveður að ná fram hefndum sem grímuklædda andhetjan Deadpool.
Engir kraftar
Kick-Ass er ekki beint hefðbundin ofurhetjumynd að því leyti að aðalsöguhetjan er ekki gædd neinum ofurkröftum. Dave Lizewski er dálítið lúðalegur unglingur sem hefur brennandi áhuga á teiknimyndasögum, á nokkra góða vini og býr einn með föður sínum. Líf hans er fremur einfalt og þægilegt. Það er að segja þar til að hann ákveður einn daginn að gerast ofurhetja. Hann pantar sér búning á Netinu og heldur út á stræti borgarinnar til að koma í veg fyrir glæpi. Hann flækist þó fljótt inn í mun stærri og hættulegri mál en hann átti von á.
Víðsvegar um heim bjóða heilsuhæli upp á afslöppun, líkamsrækt, sólböð og fleira.
Hver hefur ekki lent í því að koma heim úr fríi bæði þreyttari og þybbnari en þegar hann fór út? Undanfarin ár hafa svokölluð heilsuhæli sprottið upp víða um heim. Þau bjóða upp hið fullkomna frí – afslöppun, líkamsrækt og sólböð. Þetta gefur þér tækifæri til að losa þig við slæma ávana og hefja nýjan lífsstíl. Það besta er að þú lítur betur út og þér líður mun betur þegar þú kemur heim. Heilsuhælin hafa ýmsar ólíkar áherslur: jóga, fjallgöngur, hermannaþjálfun og svo framvegis. Hér eru nokkrir spennandi kostir sem finnast í Evrópu.
Shanti-Som í Marbella á Spáni
Í heilsusetrinu Shanti-Som á Spáni mætir austrið vestrinu. Stuðst er við fornar hefðir og athafnir til að vinda ofan af streitu nútímans og öllum fylgifiskum hennar.
Gestir hlaða batteríin með því að stunda jóga og hugleiðslu og með fersku, hreinsandi mataræði.
Helsta sérstaða Shanti-Som er heildræn nálgun, þar er unnið jafnmikið að andlegri heilsu og þeirri líkamlegu. Gestir eru leiddir í gegnum hugleiðslu, sjálfskoðun og styrkingu. Markmiðið er að hvetja, verðlauna og fræða en aldrei að dæma.
Gestir yfirgefa setrið reiðubúnir til að breyta lífsstíl sínum til hins betra og ráða betur við streitu í sínu daglega lífi.
Best fyrir: Þá sem eru í leit að innri friði og vilja ná betri tökum á jóga.
Frekari upplýsingar á shantisom.com.
38°N á Ibiza
Í 38°N er lögð megináhersla á hámarksárangur án ofþjálfunar. Boðið er upp á fjölbreytta og skemmtilega hreyfingu en alls eru yfir fimm klukkustundir af hreyfingu á dag. Þau sem reka fyrirtækið bjóða upp á fjórar mismunandi gerðir heilsufría því þau trúa ekki á að eitt henti öllum og sérsníða ferðina fyrir hvern gest. Einnig leggja þau upp með að hafa hópastærðir litlar svo gestirnir fái persónulega og góða þjónustu á meðan á dvölinni stendur. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hjá 38°N, bæði hvað varðar lengd og gerð námskeiðs.
Best fyrir: Þá sem vilja fá góða og persónulega þjónustu.
Frekari upplýsingar á thirtyeightdegreesnorth.com.
Wildfitness á Krít
Hjá Wildfitness segja þau að náttúran sé einn öflugasti kennarinn sem völ er á.
Horft er aftur til uppruna okkar þar sem maðurinn þurfti að aðlagast erfiðum aðstæðum og lifa af í náttúrunni með aðeins hugvit og líkamsstyrk sinn að vopni.
Heilsufríið sem þau bjóða upp á byggist því á náttúrunni og þau leggja áherslu á þrennt: Wild Moving, veru í og hreyfingu í náttúrunni með aðstoð reyndra leiðbeinenda, Wild Eating, ljúffengan, hreinan og náttúrulegan mat, og Wild Living, að læra að hlusta á líkamann og finna náttúrulegan takt hans þegar kemur að hvíld, hleðslu og hreyfingu.
Markmiðið er að endurstilla og þjálfa hug og líkama þannig að gestir geti áfram notað þær lexíur sem þeir lærðu eftir að heim er komið.
Frekari upplýsingar á wildfitness.com.
Spa í Puyssentut í Suður-Frakklandi og á Mallorca
Spa gefur sig út fyrir að blanda saman líkamsrækt, jóga, hollu mataræði og næringu, nuddi og slökun til að ná frábærum árangri. Þau lofa að eftir aðeins sjö daga muntu snúa aftur heim sem ný manneskja. Mjög takmarkaður fjöldi er í hverjum hóp til að tryggja persónulega þjónustu. Hver og einn fær næringarviðtal, reglulega nuddtíma, einkaþjálfun, fjallgöngur með leiðsögn og ýmsa eintaklingsráðgjöf. Vegna þess hve einstaklingsmiðað þetta heilsufrí er þá hentar það bæði byrjendum og lengra komnum og fólki á öllum aldri.
Best fyrir: Þá sem vilja lúxus á góðu verði.
Frekari upplýsingar á inspa-retreats.com.
Gaia House í Devon í Bretlandi
Gaia House er setur þar sem iðkuð er þögul hugleiðsla. Setrið er heppilega staðsett milli hæða og hóla í Suður-Devon og þar ríkir mikil kyrrð. Boðið er upp á heilsufrí þar sem gestir fá handleiðslu og fræðslu í hefðum búddisma en sérstök áhersla er lögð á vipassana eða
innsæishugleiðslu. Í fríinu geta gestir aukið innri ró, visku og samkennd sína í gegnum hugleiðslu og gjörhygli. Kennarar koma hvaðanæva að og eru með gríðarmikla reynslu á bakinu.
Best fyrir: Þá sem vilja finna innri frið.
Frekari upplýsingar á gaiahouse.co.uk.
No.1 Boot Camp á Ibiza
Hér er á ferðinni alvöruæfingarbúðir og allir gestir sjá verulegan árangur. Hermannaþjálfun er iðkuð af krafti og hörku í sjö daga auk þess eru jógaæfingar og nudd notað til að tryggja vellíðun og góðan vöðvabata. Venjulegur dagur getur til dæmis einkennst af krefjandi gönguferðum um hæðir eyjunnar, styrktaræfingar, hópíþróttir og fleira. Mataræðið er strangt en samt hollt og gott.
Best fyrir: Þá sem vilja finna og sjá alvöruárangur.
Frekari upplýsingar á no1bootcamp.com
The Body Camp á Ibiza
The Body Camp er mjög vinsælt meðal þekktra einstaklinga í Bretlandi og lúxusinn er eftir því. Enginn ætti að láta lúxusinn blekkja sig því hér er á ferðinni alvöru, alhliða heilsuhæli. Vikan hefst á þolprófi og líkamsmælingu, frekar ógnvekjandi en nauðsynlegt. Síðan eru dagarnir uppfullir af fjölbreyttri og erfiðri hreyfingu. En það sem dregur fólk helst að er maturinn sem er sérsniðinn af kokkinum Benjamin Whale. Mataræðið er 80% plöntufæði sem er síðan bætt með hágæða kjöti og fiski. Í umsögnum talar fólk um að það hafi aldrei getað ímyndað sér að heilsufæði gæti smakkast svona vel.
Ingunn Anna Þráinsdóttir framleiðir allskonar vörur undir merkjum Mosa.
Ingunn Anna Þráinsdóttir, grafískur hönnuður hjá Héraðsprenti á Egilsstöðum, rekur einnig fyrirtækið Mosa kósímosa. Vörurnar eru allar handunnar og handþrykktar, öll hráefni eru náttúruleg og allar vörurnar hafa notagildi.
„Árið 2010 byrjaði ég með litla hugmynd sem hét Flóra Icelandic Design. Sú hugmynd kviknaði eftir listamannadvöl sem ég fór í til Vesterålen í Norður-Noregi. Í þeirri dvöl vann ég gríðarlegt magn plöntuteikninga og mig langaði til að þróa einhverskonar vörulínu upp úr því, annaðhvort úr pappír eða textíl. Þannig þróaðist Flóra í að verða lítið hönnunarstúdíó sem framleiddi og seldi vörur.
Núna sjö árum síðar langaði mig að „re-branda“ Flóru, það er að segja að endurmarkaðssetja Flóru undir nýju nafni og með ferskum andblæ. Flóra kemur úr náttúrunni. Eftir miklar vangaveltur um nýtt nafn ákvað ég að Mosi kósímosi yrði það rétta.
Ég hef áður sagt að það sé fátt eins dásamlegt og að leggjast í dúnmjúkan mosabing, eitthvað sem flestir Íslendingar þekkja. Mosi er harðger, vex hægt en pjakkast áfram, svona eins og ferlið er stundum þegar maður reynir að vinna áfram góða hugmynd en hefur ekki allan sólarhringinn til þess.
Ég þarf að deila tíma mínum milli átta klukkustunda dagvinnu í Héraðsprenti, hugsa um heimili, sinna áhugamálum og sinna Mosa. Þetta getur stundum orðið snúið en með íslenska harkinu tekst það.
„Mosi er harðger, vex hægt en pjakkast áfram, svona eins og ferlið er stundum þegar maður reynir að vinna áfram góða hugmynd en hefur ekki allan sólarhringinn til þess.“
Maðurinn minn, hann Steini Palli, er mér stoð og stytta í þessu öllu, hann er mjög hvetjandi og hrósar mér oft þegar ég er þreytt,“ segir Ingunn en eiginmaður hennar heitir fullu nafni Steingrímur Páll Hreiðarsson og sameiginlega eiga þau fjögur börn og einn hund og búa á Egilsstöðum.
Ingunn framleiðir allskonar vörur undir merkjum Mosa og má þar nefna gjafakort, gjafapappír og textílvörur svo sem servíettur, viskastykki, dúka og svuntur. „Svo dettur stundum eitt og annað inn á borð hjá mér sem er sérpantað. Ég held að teikningarnar mínar geri vörurnar mínar sérstakar. Vörurnar eru allar handunnar, handþrykktar og mitt fingrafar
er á þeim öllum á einhvern hátt. Allt hráefni er náttúrulegt og allar vörurnar hafa notagildi. Ég er trú mínu skapandi sjálfi, þ.e. ég teikna, þróa og framleiði bara það sem höfðar til mín og losar um mína þörf til að skapa. Ég elti ekki bara tískuna, mínar vörur eru ekki eins í útliti og neitt annað.“
Foreldrarnir fyrirmynd
Ingunn ólst upp á Egilsstöðum og segir að nálægðin við náttúruna, fjölskyldu og vini sé dýrmæt minning. Sem barn fékk Ingunn strax áhuga á öllu skapandi. Foreldrar hennar byrjuðu með Héraðsprent þegar hún var eins árs og hún ólst upp í kringum það.
„Pabbi smíðaði og málaði margs konar hluti og það hefur örugglega kveikt áhuga minn. Ég fór í Menntaskólann við Hamrahlíð strax eftir grunnskóla. Þaðan flæktist ég í frönskunám upp í HÍ en hætti eftir 1 ár og fór að vinna. Mig langaði gríðarlega í hönnunarnám og haustið 1999 fór ég til Halifax í Kanada í fjögurra ára háskólanám í Communication Design, útleggst líklega sem samskiptahönnun á íslensku en ég kalla það nú bara grafíska hönnun.
Fram undan er svo að þróa nýjar vörur, teikna og grúska í pappír og textíl. Hægt er að kaupa vörurnar í Húsi handanna á Egilsstöðum og í vefverslun www.mosi.shop.
Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir og úr einkasafni
Á Vestfjörðum eru að finna heitar laugar í öllum stærðum og gerðum.
Fátt er betra en að hvíla lúin bein í náttúrulaug eftir langan dag á ferðalagi. Á Vestfjörðum eru margar heitar laugar í öllum stærðum og gerðum og virkilega þess virði að leita þær uppi. Hér eru nokkrar þeirra.
Krossneslaug er í fimm mínútna akstursfjarlægð frá Kaupfélaginu í Norðurfirði en vatn frá heitum hverum kyndir laugina. Hún er staðsett við fjöruborðið fyrir neðan veg og umhverfi hennar er virkilega dramatískt og einstakt. Skyldubað fyrir alla sem eru að ferðast um Strandirnar.
Pollurinn er nokkru utan við kauptúnið Tálkafjörð og uppi í hlíðinni. Hann er þrískiptur í tvo setpotta og einn nokkuð dýpri. Búningshús er á staðnum sem er viðhaldið af hreppnum. Útsýnið úr pottunum út Tálknafjörðinn er dásamlegt.
Náttúrulaugin í Heydal er í stuttu göngufæri frá Sveitahótelinu í Heydal. Sumir segja að hún færi gestum hennar aukinn kraft. Að sögn Stellu Guðmundsdóttur, gestgjafa í Heydal, er dalurinn alger perla og ef gengið er meðfram ánni inn dalinn má sjá nokkur gil og marga litla fossa. Hún segir að heita náttúrulaugin sé alltaf vinsæl enda talið að Guðmundur góði hafi vígt hana og hún því hin mesta heilsulind.
Útsýnið úr pottunum út Tálknafjörðinn er dásamlegt.
Rétt hjá Hótel Flókalundi er Hellulaugin sem hlaðin er grjóti. Engin búningsaðstaða er hjá lauginni en gestir láta það ekki á sig fá enda dásamlegt að njóta þess að liggja í heitri lauginni á þessum fallega stað.
Í Reykjafirði við Arnarfjörð má finna tvær heitar laugar. Önnur er steypt sundlaug sem gerð var árið 1975. Stutt frá henni er lítil hlaðin náttúrulaug og hitinn í henni er um 40°C allt árið um kring. Vatn rennur í steyptu laugina allan ársins hring og hægt er að hafa fataskipti í litlum kofa sem stendur við laugina.
Í Bjarnarfirði á Ströndum er lítil hlaðin baðlaug um 100 metrum norðan við vesturhorn Hótels Laugarhóls sem er í gamla skólahúsinu á Klúku. Laugin er friðlýst sem fornleifar og er ein margra Gvendarlauga á Íslandi þar sem sagt er að Guðmundur góði Arason, biskup á Hólum, hafi vígt vatnið.
Lítið eitt neðan við baðlaugina, á milli Hótels Laugarhóls og Kotbýlis kuklarans, sem er hluti af Galdrasýningu á Ströndum, er sundlaug sem einnig er kölluð Gvendarlaug, eftir gömlu lauginni.
Í fjöruborðinu á Drangsnesi eru þrír heitir pottar sem komið var fyrir eftir að heitt vatn fannst á Drangsnesi árið 1997. Pottarnir hafa notið mikilla vinsælda jafn hjá heimamönnum sem ferðamönnum og ekki stendur til að fjarlægja þá þrátt fyrir að byggð hafi verið glæsileg sundlaug á Drangsnesi.
Hörgshlíðarlaug er staðsett í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi. Hún er steynsteypt, 2×6 metrar að stærð og tæpur metri að dýpt þar sem hún er dýpst. Nauteyrarlaug er í landi Nauteyrar innarlega í Ísafjarðardjúpi og hitinn í henni er frá 35°C-42°C.
Gdansk byggir á gömlum merg en er samt nýtískuleg borg og með öll nútímaþægindi.
Það eru ef til vill öfugmæli að segja ,,þessi litla borg“ Gdansk við Eystrasaltið, þegar íbúafjöldi hennar er meiri en íbúar Íslands til samans, en alls eru íbúar Gdansk 480.000 og það er margt sem kemur á óvart í heimsókn til borgarinnar. Hún er með stærstu borgum Póllands.
Gdansk, sem er kölluð Danzig á þýsku, er hafnarborg við Eystrasaltið, við mynni árinnar Motlawa, og ein af elstu borgum Póllands, en upphaf hennar má rekja til 7.-10. aldar e. Kr., það er ekki nákvæmt. Saga hennar er þyrnum stráð og hefur hún lotið mörgum herrum og má þar nefna Prússa, Svía og Dani að ógleymdu Þjóðverjum en endrum og eins voru yfirráðin yfir eigin landi í höndum borgarbúa.
Eftir fyrri heimsstyrjöldina varð til fríríkið Danzig, ríki sem var undir verndarvæng Þjóðabandalagsins. Íbúar Gdansk urðu þeir fyrstu til að verða fyrir árásum Þjóðverja í heimsstyrjöldinni síðari þegar Þjóðverjar réðust á Wsterplatte-skagann í Gdansk. Til að gera langa sögu stutta þá rústuðu stríðsherrar í heimsstyrjöldinni síðari, bæði Þjóðverjar og Rússar, Gdansk og fleiri stöðum í Póllandi.
… flestir matsölustaðir bjóða upp á frábæran alþjóðlegan matseðil, þar sem metnaðurinn er ekki bara lagður í gott hráefni, heldur framúrskarandi framreiðslu og smekkvísi.
En Pólverjar voru ákveðnir í að byggja landið sitt stríðshrjáða upp að nýju og það tók allt að 30 ár að stærstum hluta og þeir eru enn að. Þess má sjá merki í fallegum arkitektúr í flæmskum og hollenskum stíl og í stíl sem er jafnvel undir ítölskum og frönskum áhrifum. Húsin í miðbænum eru ekki ólík þeim sem sjá má í Amsterdam en einnig í nýtískulegri mynd utan miðbæjarins. Enn í dag er borgin fyrst og fremst hafnar- og iðnaðarborg, þar sem verslun er einnig áberandi. Öllum þýskum götunöfnum hefur þó verið breytt í pólsk en þrátt fyrir að í gegnum tíðina hafi ýmis þjóðarbrot búið í Póllandi er þessi um 40 milljóna þjóð í dag að stærstum hluta Pólverjar en réttindi minnihlutahópa eru tryggð í stjórnarskrá landsins.
Sólarstrendur og ógleymanlegur matur
En Gdansk á sér margar hliðar, hliðar sem fáir Íslendingar gera sér grein fyrir. Hún byggir á gömlum merg en er samt nýtískuleg og með öll nútímaþægindi. Það er ekki annað að sjá en að íbúar Gdansk séu ágætlega á veg komnir og vel til fara, borgin er hrein og fín og fólkið er afar almennilegt þótt það tali takmarkaða ensku en allt af vilja gert til að hjálpa og aðstoða. Og Gdansk-búar eru sannarlega listamenn, til dæmis þegar um er að ræða skartgripi úr amber-steininum, gul-og grænlituðum steinum sem berast á strendur Gdansk og hafa verið notaðir til lækninga í aldir. Þessir steinar eiga að vera orkujafnandi fyrir líkamann.
Borgin býr einnig yfir sjaldgæfum eiginleika, þar er nefnilega að finna þessa fínu sandströnd, þar sem hægt er að rekast á amber-steina. Hún er eins og besta sólarströnd enda vinsæl hjá bæði íbúum og ferðamönnum yfir sumartímann. Sumrin eru heit, allt að 25-35° C en svali berst frá hafinu.
Veturnir eru kaldari en þó mildir og í októbermánuði er jafnvel hægt að borða úti en mjög margir veitingastaðir bjóða upp á það og eru þá með arineld sem hægt er að hlýja sér við. Það er helst í janúar og febrúar að hitastigið fari niður fyrir frostmark en þá er líka tilvalið að stunda ýmsar vetraríþróttir.
Þá erum við komin að enn einni snilldinni hjá Gdnask-búum en það er að elda mat. Bæði er hægt að smakka pólskan mat og það er mjög skemmtilegt þótt hann sé ekki allra og flestir matsölustaðir bjóða upp á frábæran alþjóðlegan matseðil, þar sem metnaðurinn er ekki bara lagður í gott hráefni, heldur framúrskarandi framreiðslu og smekkvísi – svo maturinn bragðast enn betur fyrir vikið og ekki skemmir fyrir að sælkeramáltíðin kostar Íslendinginn næstum ekki neitt. Sem dæmi má nefna að forréttur á fínum veitingastað og nautasteik eða önd í aðalrétt með glasi af rauðvíni hússins og sódavatni er frá 4.000-5.000 kr.
Göngutúr með fram ánni, þar sem margir af bestu veitingastöðunum setja svo vitanlega punkturinn yfir i-ið, hvort sem um er að ræða rómantíska ferð, árshátíðarferð eða bara ferðalag með vinum eða vinkonum.
Að njóta lífsins í spa
Ertu þreytt/ur? Þarftu að endurnýja lífsorkuna eða bara jafna orkuflæðið? Þá er spa-ið í Gdansk eitthvað fyrir þig! Klassískt nudd, fótanudd, handsnyrting, sána, allt fæst þetta á fjölmörgum hótelum í Gdansk og líka annars staðar fyrir allt að helmingi lægra verð en hér heima (spa á hótelunum er yfirleitt aðeins dýrara en annars staðar staðar í borginni en það er þægilegt að geta brugðið sér í einhverja af þeim fjölmörgum spa-meðferðum sem í boði eru á hótelinu sem eru oft á fjögurra stjarna hótelum en gisting á slíkum hótelum eru einnig á góðu verði í borginni).
Gdansk er borgin til þess að hvíla sig í, slaka á og gera vel við sig í mat og drykk. Það er líka vel þess virði að heimsækja spa-bæinn Sopot sem er ekki langt frá Gdansk. Gdansk-búar, eru yfirvegaðir og rólegir og það er ekki mikill asi á þeim. Áreitið í borginni er lítið en afar gaman er að ganga um í gamla bænum með fallegu húsunum og óreglulegu hellulögnunum. Þar eru
margir með sölutjöld og selja flestir amber-steina í margs konar skartgripum. Sölumenn eru ekki ágengir og alltaf kurteisir, svo það er hægt að skoða án þess að fá samviskubit yfir að kaupa ekki. Þar eru líka fallegar gler- og leirlistarverslanir.
Þá er kaffið sem fæst á kaffihúsunum allt um kring mjög sterkt og gott en þar er líka hægt að fá ýmsa drykki og jafnvel kokteila sem kosta frá 300-600 kr. Fyrir þá sem eru að leita að aðeins meira fjöri þá er hægt að þefa uppi gott næturlíf í Gdansk.
Alls konar söfn og skemmtilegheit
Það er svo margt sem hægt er að gera í Gdansk – en allt í rólegheitum. Á sumrin er vinsælt að fara á ströndina og allan ársins hring er hægt að hjóla og hlaupa í fallegu umhverfi borgarinnar. Í haust- eða vetrarferð er hægt að kíkja á listaverkin í The National Museum en þar má m.a. líta pólska og hollenska málara. Það sama á við um Gdansk History Museum, skemmtilegt safn um sögu Gdansk og Old Town Hall. Á kvöldin er hægt að skella sér á tónleika í Shakespeare-leikhúsinu, því ekki er hægt að saka þá Gdansk-búa um að vera snauðir af menningu. Leikhúsið er stolt borgarinnar og ekki síður talið skemmtun fyrir gesti þess. Þá eru ónefndar afskaplega fallegar kirkjur í borginni, fyrir þá sem hafa gaman af að skoða þær og nota tækifærið til að kveikja á kerti fyrir látna ástvini.
Gdansk er borgin til þess að hvíla sig í, slaka á og gera vel við sig í mat og drykk. Það er líka vel þess virði að heimsækja spa-bæinn Sopot sem er ekki langt frá Gdansk.
Ef þú ert á fjölskylduferðalagi eru það vitaskuld strendurnar sem heilla á sumrin en svo margt annað líka. Börnum þykir ferð á Sjóminjasafnið eftirminnileg (National Maritime Museum) sem er einmitt í skipi og hjálpar börnum að skilja leyndardóma sæfarana, sjávarvinda og fleira. Þá er hægt að fara í siglingu með ,,sjóræningjabáti um ána, að ógleymdu ,,auganu“ þeirra Gdansk-búa, sem er líkt og London Eye en aðeins minna. Í því er gott útsýni yfir borgina alla og það sem er að gerast þar.
Börnum finnst ef til vill ekkert sérstaklega gaman að fara í verslunarmiðstöðvar – og þó – þar eru margar spennandi barna- og unglingabúðir og kringlurnar í Gdansk eru stærri en okkar með öllum helstu alþjóðlegu verslunum. Sem dæmi um þá helstu er Baltycka Shopping Center.
Mikilvægt að koma enn frekar til móts við þarfir viðskiptavina segir rekstrarstjóri Ellingsen.is.
„Það má segja að vefverslunin sé hugsuð sem viðbót við verslanir okkar á Akureyri og í Reykjavík,“ segir Ásdís Jörundsdóttir rekstrarstjóri Ellingsen.is. „Pælingin er sú að fólk geti farið inn á slóðina www.ellingsen.is annað hvort til panta af Netinu nú eða bara skoðað úrvalið áður en það kíkir í heimsókn.“
Hún segir vefverslunina fyrst og fremst endurspegla vöruúrval verslana Ellingsen. „Þarna er því að finna alls konar vörur sem tengjast hreyfingu og útiveru, svo sem fatnað á börn og fullorðna, tjöld, hjól, sæþotur, buggy bíla, græjur og margt fleira og margt fleira. Í raun allt frá skóm og upp úr – með áherslu á gæði.“
Það hefur ekki farið framhjá mörgum að Ellingsen hefur tekið miklum breytingum á árinu. Er vefsíðan hluti af þeim? „Já, í raun fórum við í smá naflaskoðun,“ segir hún. „Athuguðum hvað var að virka og hvað ekki og í framhaldinu ákváðum við að fækka vörflokkum og leggja frekar áherslu á það sem hefur gengið vel. Úr varð að einblína á vörur sem tengjast hreyfingu og útiveru eins og áður sagði og bjóða þannig upp á allt sem tengist útilegum, fjallgöngum, hjólreiðum og ræktinni svo dæmi séu nefnd. Við búum líka á hjara veraldar og því fátt betra en að eiga góða úlpu og vatnshelda skó í íslenska slabbveturinn.
„Það má segja að vefverslunin sé hugsuð sem viðbót við verslanir okkar … Pælingin er sú að fólk geti farið inn á slóðina www.ellingsen.is annað hvort til panta af Netinu nú eða bara skoðað úrvalið áður en það kíkir í heimsókn.“
Með hliðsjón af þessu réðumst við í gagngerar endurbætur á verslunum okkar. Aðallega á Fiskislóð. Við sáum einfaldlega að við höfðum ekkert að gera við allt plássið þar. Þannig að við skiptum húsinu upp í nokkrar einingar og áframleigðum til annarra fyrirtækja, s.s. Gæludýra.is, Lyf og heilsu og Sjúkraþjálfunar Reykjavíkur. Eftir stendur rými sem heldur miklu betur utan um starfssemina en áður.“
Hvernig hafa viðtökurnar verið? „Rosalega góðar. Við höfum verið að fá hingað til okkar 800 til 1000 manns á hverjum einasta degi til viðbótar við okkar föstu viðskiptarvini. Fólk sem kom jafn vel ekki áður. Þannig að það er mikil dýnamík í húsinu.“
Eins og sagði segir Ásdís vefverslunina vera lið í miklum breytingum fyrirtækisins.
„Nú til dags er auðvitað mikilvægt fyrir fyrirtæki að halda úti síðum þar sem fólk getur skoðað vöruúrvalið og pantað af Netinu og með nýju vefversluninni erum við að koma enn frekar til móts við þarfir viðskiptavina okkar og bæta þjónustuna.“
Hafsteinn Ólafsson, yfirmaður á veitingastaðnum Sumac Grill + Drinks, er sannkallaður matgæðingur. Hafsteinn er jafnframt meðlimur í íslenska kokkalandsliðinu og átti því ekki í neinum vandræðum með að töfra fram spennandi rétti.
Hvað var það fyrsta sem þú lærðir að elda?
Mig minnir að það hefði verið skyrterta sem ég lærði að gera í minni fyrstu vinnu í eldhúsi 14 ára gamall.
Ertu jafnvígur á bakstur og matseld?
Nei alls ekki, held mig aðallega við matseld en maður getur samt alveg bjargað sér í bakstrinum.
Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín?
Já ég er mikið fyrir það að grilla og þá helst á alvörukolagrillum.
Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu?
Ekkert eitt sem mér dettur í hug en maður er alltaf að gera einhver lítil mistök sem hjálpa manni bara að verða betri í því sem maður gerir.
Hefur þú uppgötvað einhverja snilld í matseld nýlega?
Já núna í undirbúningnum og opnuninni á Sumac vorum við mikið að prófa okkur áfram með allskonar framandi krydd. Við ferðuðumst meðal annars til Líbanon til að fá innblástur.
Hefur þú ræktað krydd- eða matjurtir?
Ég hef oft reynt það en það gengur yfirleitt illa.
Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku?
Þær eru allmargar en ég held að ég verði að nefna þau tvö skipti sem ég fór að keppa með kokkalandsliðinu á heimsmeistaramótinu 2014 og Ólimpíuleikunum í matreiðslu 2016.
Roðflettið og beinhreinsið laxinn. Stráið kryddblöndunni yfir hann og leyfið að standa í 40 mín. inni í kæli, skolið laxinn eftir þann tíma og skerið flakið í u.þ.b. 6 bita. Stillið ofnin á 50°C. Setjið laxinn í eldfast mót og vel af olíu yfir, eldið í 15-20 mín. eða þar til laxinn brotnar í flögur.
Kryddblanda
100 g salt
60 g sykur
10 g kóríanderfræ
10 g fenníkufræ
börkur af einni sítrónu
Öllu blandað saman.
Kúmkat
2 stk. kúmkat
100 g appelsínusafi
100 g eplaedik
100 g sykur
Kúmkatið er skorið í þunnar sneiðar. Appelsínusafi, edik og sykur er soðið saman í potti og svo hellt yfir kúmkatið.
Fenníkusósa
2 stk. fenníka
2 stk. laukur
300 ml hvítvín
700 ml rjómi
200 g smjör
2 stk. anísstjörnur
2 stk. appelsínur
300 ml appelsínusafi
Fenníka, laukur og anísstjörnur svitað saman í potti. Þegar það er orðið mjúkt er hvítvíni bætt út í og þessu leyft að malla í um 10 mín. þá er appelsínusafanum bætt út í. Þessu leyft að sjóða saman í um 15 mín. Því næst fer rjóminn út í. Þessu er leyft að sjóða saman þar til rétt þykkt og bragð hefur náðst. Þá er sósan sigtuð og í lokin er köldum smjörteningum hrært rólega út í.
Laxinn er svo rifinn niður í litla bita og dressingu úr sítrónuolíu og graslaukstráð yfir. Kúmkatið og kóríander sett á laxinn og svo sósan í lokin.
Romaine-hausinn er skorinn til helminga og skolaður. Best er að grilla romain-salatið en einnig er hægt að steikja það á pönnu.
Aioli
50 g eggjarauður
150 g olía
100 g hvítlauksolía
1 msk. dijon-sinnep
salt
sítrónusafi
Eggjarauðurnar eru hitaðar varlega í vatnsbaði upp í 55°C til að gerilsneyða þær, svo er olíunni hrært út í mjórri bunu og sinnepi bætt út í. Smakkið til með salti og sítrónu.
Hitið ofn í 190°C. Sjóðið blómkálið í 6 mín. Bragðbætið með kryddblöndunni og bakið í 15 mín. eða þar til blómkálið er orðið gullinbrúnt. Berið blómkálið fram með jógúrtsósu, granateplum og ristuðum möndluflögum.
kryddblanda:
10 g salt
5 g sykur
5 g malað kummin
3 g ristuð og möluð kóríanderfræ
Blandið öllu saman.
jógúrtsósa:
200 g grísk jógúrt
30 g kummin
50 g tahini
salt
pipar
sítrónusafi
Blandið jógúrt, tahini og kummin saman og smakkað til með salti, pipar, og sítrónu.
granatepla-vinaigrette:
1 stk. granatepli
1 stk. appelsína
50 ml ólífuolía
25 ml eplaedik
salt
hunang
ristaðar möndlur
Opnið granateplið og takið fræin úr. Bætið appelsínusafa og berki saman við og bætið því næst olíunni og edikinu út í. Smakkið til með salti og hunangi. Stráið ristuðum möndlum yfir í lokin.
The Hendrikje Museum of Bags and Purse í Amsterdam eða Töskusafnið í Amsterdam er ekkert venjulegt safn.
Reyndar er það töskusafn og þar má finna ægifagrar töskur af öllu tagi frá því á fimmtándu öld og til þeirrar tuttugustu og fyrstu. Það má segja að í safninu megi finna töskur vestrænnar menningar síðustu fimm hundruð ár. Safnið er einungis safn taskna í Evrópu en er þó það stærsta sinnar tegundar í heiminum enda sýningargripir yfir 5000. Það er því vert að taka sér góðan tíma til að fara í gegnum safnið, því svo á hver og ein taska sér yfirleitt sérstaka sögu.
Frá upphafi siðmenningar hafa töskur verið til og á milli 1500-1800 hafa fundist, margar hangandi töskur bæði ætlaðar konum og körlum. Þær voru nauðsynlegar, rétt eins og í dag, til þess að bera á sér persónulega pappíra, peninga og annað sem nauðsynlega þurfti og oftast voru þær bornar innanklæða. Klæðnaður á þessu tíma var hvorki með vösum eða öðru þar sem hægt var að geyma veski eða aðra persónulega muni. Á 17. öld og þeirri 18. og meirihlutann af þeirri 19. voru klæði kvenna hins vegar svo íburðarmikil að auðveldlega var hægt að hafa eitt og jafnvel tvö veski innanklæða.
Umhverfi safnsins er stórglæsilegt … Hægt er að velja um sérstök tímabilaherbergi. Kaffihús er einnig á staðnum fyrir svanga maga …
Flest þessara veskja voru handsaumuð, sérstaklega handa heldra fólki, og bróderuð fallega og stundum voru þau fest við belti. Þegar leið að 17. öld fóru karlmannsveskin að hverfa úr tísku en kvenveskin að sækja í sig veðrið. Frá 16. öld fór líka að bera á þeirri þróun að veski kvennanna voru notadrýgri og veskin urðu enn meiri þar geymdu þær saumadótið sitt, hníf og skæri. Einnig fór að bera á því að veski væri stöðutákn. Steinar og útsaumur einkenndu veskin og sú þróun hélt áfram næstu aldirnar en það er ekki fyrr en á 20. öld sem handtaskan leysti þessi gömlu raunverulega af hólmi og varð að merkjavöru og stöðutákni.
Gleymdu karlmennirnir hafa aftur fengið sínar töskur
En aftur í tímann, þegar leifar rómversku borgarinnar Pompei voru uppgötvaðar á 18. öld, varð hin gríska og rómverska menning aftur geysilega vinsæl. Sú hreyfing sem kom í kjölfarið, klassisminn, nýklassík hafði mikil áhrif á kventískuna. Kjólar urðu styttri og beinni og mittislínan færðist upp. Undir þessum kjólum var ekkert rými fyrir veski og því fóru þau loksins að sjást. Veski með bandi eða keðju voru sérstakalega vinsæl og flest voru þau rétthyrnd. Þannig var tískan á fyrstu ártugum 19. aldar. En á tímum iðnbyltingarinnar í lok
þeirrar sömu aldar, voru margar aðferðir og tækni til framleiðslu veskja reynd og gáfust sumar hverjar vel. Ný efni eins og pappamassinn, járn og slípað stál var notað við framleiðslu á veskjum með þeim árangri að fjölbreytnin varð meiri og veskin ódýrari og nú fóru töskur fyrir karlmenn að sjást aftur, enda er töluvert rými á sýningunni tileinkaður þeim sérstaklega. Svo þetta safn er ekkert bara fyrir okkur stelpurnar.
Upphafið að veskjasafninu má rekja til Hendrikje Ivo og manns hennar Heinz en þau höfðu ástríðu fyrir söfnun gamalla veskja með sögu, sérstaklega hún. Tækifærið til að setja upp safn tileinkuðu veskjum kom þegar ónefndur milljarðamæringur bauð henni stuðning sinn og þetta fallega safn varð að veruleika. Töskurnar eru einstakar sem þar, hver og ein, og saman liggur verðmæti þeirra í hundruð milljóna króna ef ekki milljarða en milljarðamæringurinn góði hefur stutt kaup á einstökum safnkaupum og húsinu einnig, því áður var Hendrikje bara með safnið heima hjá sér.
Umhverfi safnsins er stórglæsilegt, líkt og á 5 stjörnu hóteli og þar er hægt að fá afar girnilegt high tea um kaffileytið en það verður þó að panta daginn áður. Hægt er að velja um sérstök tímabilaherbergi. Kaffihús er einnig á staðnum fyrir svanga maga og þurra munna.
Töskusafnið er við Herengracht 573, 117 CD Amsterdam. Sími +31 (0)20 254 64 52. Netfang: [email protected] þar má finna allar frekar upplýsingar. Aðgangseyrir er um 1550 kr. fyrir fullorðna og rúmlega 900 kr. fyrir börn. Heimasíða safnsins er https://tassenmuseum.nl. Þá á bara eftir að nefna safnbúðina, löðrandi í töskum og ýmsum skemmtilegum fylgihlutum og ef þú átt leið um Amsterdam, ekki gleyma þessu litla en gífurlega fallega og skemmtilega safni.
Nú sækir kuldaboli að og við erum öll farin að draga fram vetraryfirhafnirnar.
Hvort sem þú kýst að klæðast kápu, frakka eða úlpu þá er nauðsynlegt að verja sig vel. En hver er sagan á bak við þessar flíkur og hvernig hafa þær þróast í gegnum tíðina?
Á miðöldum voru það nær eingöngu karlmenn sem klæddust sérsniðnum kápum, frökkum eða öðrum yfirhöfnum á meðan konur vöfðu sig sjölum. Í Evrópu voru þetta yfirleitt millisíðir frakkar sem voru hnepptir að framan, aðsniðnir í mittið og með einskonar opnu pilsi að neðan.
Hér á landi voru yfirhafnir unnar úr vaðmáli, svokölluðu hafnarvoði, og margar hétu skondnum en lýsandi nöfnum. Belghempa var karlmannsyfirhöfn til ferðalaga, úr grófu vaðmáli, hnésíð, ófóðruð og skrautlaus, en doppa var sjóflík sem var hnésíður stakkur úr grófu og mjög þykku vaðmáli.
Með tíð og tíma þróuðust yfirhafnir og frá 18. öld byrjuðu að koma fram kápur eins og við þekkjum þær í dag; hné- eða skósíðar, ein- eða tvíhnepptar og úr ull eða öðrum efnum. Sum snið eiga rót sína í hermannaklæðum enda voru þau sérstaklega hönnuð með notagildið í huga.
Stuttar kápur eða frakkar, sem nefnast pea coat á ensku, komu fyrst fram á sjónarsviðið fyrir rúmum tvö hundruð árum. Kápan nær aðeins niður að lærum og klauf á sitthvorri hlið þannig að auðvelt var að setjast í henni. Hún er yfirleitt úr ull og tvíhneppt með stórum tölum úr við, plasti eða málmi. Þessi stutta flík var fyrst hönnuð fyrir sjóliða í herliði Evrópu og Bandaríkjanna en nútímaútgáfur eru svo gott sem nákvæmlega eins.
Svokölluð duffel-kápakemur reglulega í tísku en uppruna hennar má rekja allt til 1820. Kápan er nefnd eftir bænum Duffel í útjaðri Antwerp í Belgíu en talið er að sniðið sé að fyrirmynd pólsks hermannafrakka. Kápan var afar vinsæl meðal hermanna og almennings Evrópu seinni hluta 19. aldar og fram yfir fyrri heimsstyrjöld. Einkenni duffel-kápu eru þykkt ullarefni og líning með skosku köflóttu mynstri, þverfaldsfestingar úr leðri og beini eða við, tveir stórir utanáliggjandi vasar og hetta með hálsbandi sem hægt var að hneppa.
Trench-kápan var fyrst þróuð sem hlífðarflík fyrir breska og franska hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni. Þegar margir heyra orðið „trench“ dettur þeim vörumerkið Burberry í hug og það er ekki furða, tískuhúsið hefur framleitt kápurnar í rúma öld. Thomas Burberry fann upp gaberdínefni árið 1850 sem er afar þéttofið efni úr ull eða bómull sem hleypir síður vind eða regni í gegn. Rúmum tuttugu árum síðar, árið 1901, sendi hann inn tillögu að regnfrakka fyrir herforingja breska hersins sem var samþykkt og send til framleiðslu. Þannig fæddist trench-frakkinn. Í dag er hann vinsæll hjá báðum kynjum enda stílhrein og afslöppuð yfirhöfn. Hefðbundinn frakki er tvíhnepptur með tíu tölum, með breiðum boðungi og belti um miðjuna og oft líka neðst á ermunum.
Í kringum 1920 naut mjög skemmtilegt kápusnið vinsælda meðal kvenna, svokallað púpu-snið eða cocoon coat. Slíkar kápur voru víðar um miðjuna og mjókkuðu svo niður fyrir hné. Eins og aðrar flíkur á þessum tíma voru kápurnar skreyttar fallegum munstrum, loðskinni, fjöðrum og fleira. Þetta snið komst síðan óvænt í tísku aftur á undanförnum árum og þá í mun stílhreinni búning en áður.
Dúnfylltar flíkur hafa lengi verið notaðar til að halda hita á fólki yfir harða vetrarmánuði og fundist hafa dæmi um slíkar flíkur í Evrópu, Indlandi og jafnvel Kína. Rússneskir hermenn klæddust einnig dúnfylltum frökkum í fyrstu heimsstyrjöldinni. Sá sem á þó heiðurinn af því að setja dúnúlpur á almennan markað er Eddie Bauer. Hann saumaði fyrstu úlpuna árið 1936 og sótti um einkaleyfi á uppfinningunni árið 1940. Innblásturinn að hugmyndin var sagan um rússnesku hermennina sem afi hans sagði honum þegar hann var barn. Sú saga rifjaðist svo upp fyrir honum þegar hann varð næstum úti í veiðiferð. Dúnúlpur hafa dottið í og úr tísku nokkrum sinnum síðan og eru ákkúrat í tísku núna.
Á Íslandi finnast fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum.
Anna Þórhildur I. Sæmundsdóttir, Sigríður Eir Zophoníasardóttir og dætur þeirra tvær eru ein gerð hinsegin fjölskyldu. Þær voru báðar staðráðnar í því að eignast börn þegar þær kynntust og voru ekki lengi að láta verða af því. Við ræddum við þær um ólík móðurhlutverk, veggina sem þær hafa rekist á innan kerfisins, pabbaleysið og fleira.
Á undanförnum árum hefur orðið mikil framþróun í málefnum og réttindum hinsegin einstaklinga – ekki síst hvað varðar fjölskyldumyndun, það er hjónabönd og barneignir. Það er þó töluvert í land og enn ber eitthvað á fordómum og fáfræði í samfélaginu.
Sigríður Eir og Anna Þórhildur, eða Sigga og Tótla eins og þær eru allajafna kallaðar, segjast ekki hafa lent í miklu mótlæti varðandi fjölskylduform þeirra. Þær hafa þó rekist á nokkra veggi innan skrifræðisins. „Það er svona eitt og annað í kerfinu sem þarf að laga og ég held að allir séu sammála um hvaða atriði það séu, en það þarf bara að láta verða að því. Við þurfum til dæmis að skiptast á að vera pabbinn á hinum ýmsum eyðublöðum. Eins þurftum við að ,,feðra“ börnin okkar í þjóðskrá. Við erum ekki skráðar sjálfvirkt sem foreldrar, eins og hjá gagnkynhneigðum hjónum, heldur þurfum við í rauninni að sækja um að verða það eftir að barnið fæðist og svo framvegis,“ segir Tótla.
„Okkar nærumhverfi er kannski frekar verndað, flestir í kringum okkur eru upplýst og þenkjandi fólk sem gerir ekki greinarmun á okkur og öðrum fjölskyldum. Helst er það yfirþyrmandi áhugi Íslendinga á erfðamálum og genatengingum og þá kannski klaufalegar spurningar í því samhengi,“ bætir Sigga við.
Eiga ekki pabba
Það voru einmitt þessar klaufalegu spurningar sem urðu til þess að Sigga birti pistil á Facebook þar sem hún tók það skýrt fram að dætur þeirra ættu ekki pabba. „Nú er Úa komin á þann aldur að hún heyrir og skilur nánast allt sem fram fer í kringum hana. Þannig er ringlandi fyrir hana að heyra spurningar um pabba hennar og Eyrúnar þegar staðreyndin er sú að þær eiga ekki pabba. Sumir virðast ekki skilja eða eru bara ekki búnir að átta sig á að sæðisgjafinn þeirra er ekki pabbi þeirra. Það að vera pabbi er félagslegt hlutverk og pabbar hafa sömu skyldum að gegna og mæður, nema kannski rétt fyrstu vikur og mánuði í lífi barns. Það er að engu leyti minna mikilvægt hlutverk heldur en það að vera móðir. Við berum einfaldlega of mikla virðingu og of miklar væntingar til föðurhlutverkins en svo að geta kallað sæðisgjafa föður,“ segir hún.
Þær skrifuðu pistilinn í sameiningu og ætluðu hann fyrir fólkið í kringum þær, sem þær umgangast dagsdaglega, sem er með þeim í liði, fólkinu sem þær langar að umgangast. Pistillinn rataði síðan í fjölmiðla og hristi aðeins upp í samfélagsumræðunni. „Þetta var skrifað fyrir fólkið sem er með okkur í liði, við vorum ekki að reyna að sannfæra eða breyta skoðun neins. Okkur langaði að benda því á það hvernig orðanotkun, sem í flestum tilfellum er bara vanhugsuð sökum þekkingarleysis, getur haft slæm áhrif á börnin okkar. Hjá þessu
„Við þurfum að skiptast á að vera pabbinn á hinum ýmsum eyðublöðum. Við erum ekki skráðar sjálfvirkt sem foreldrar, eins og hjá gagnkynhneigðum hjónum, heldur þurfum við í rauninni að sækja um að verða það eftir að barnið fæðist.“
fólki höfum við fengið frábærar viðtökur. Það eru ótal margir búnir að skrifa okkur eða koma að máli við okkur og þakka okkur fyrir að benda sér á þetta. Nú viti það eitthvað sem það vissi ekki fyrir og að þetta hafi verið mikilvæg og góð áminnig. Auðvitað eru alltaf þessir fáu sem finna sig knúna til að segja eitthvað ljótt og vera dónalegir en þeirra orð og skrif dæma sig sjálf og við ákváðum að eyða ekki einu pennastriki eða orkudropa í svoleiðis glóruleysi,“ segir Tótla.
Ólík móðurhlutverk
Nú hafa Sigga og Tótla báðar gengið með barn, sem og verið foreldrið sem styður við bakið á þeirri sem gengur með. Þó að bæði séu vissulega móðurhlutverk eru þau afar ólík á meðgöngu, í fæðingu og fyrstu vikurnar á eftir. Að því loknu blandast hlutverkin meira saman og nú sinna þær báðar sömu hlutverkum gagnvart dætrum sínum.
„Það hentaði mér betur að vera sú sem gengur með heldur en að vera stuðningsaðilinn, mér fannst það að mörgu leyti mjög erfitt hlutverk. Þó svo að Tótla hafi verið miklu betri í því þá uppgötvuðum við báðar að þetta hlutverk að vera ,,hinn“ er mjög vanþakklátt og lítið rætt. Oft er svo mikill fókus á meðgöngumóðurina að hinn gleymist og ég get ímyndað mér að hinn gleymist jafnvel enn frekar ef hann er karlmaður. Við lentum til dæmis báðar í því að vera ekki óskað til hamingju með komandi barn af því það var ekki inni í okkar bumbu,“ segir Sigga.
Tótla er sammála og segir að sér hafi einmitt liðið betur sem stuðningsaðilinn. „Meðgangan mín var frekar erfið. Mér leið ekki vel og tókst á við hina ýmsu fylgikvilla. Mér þykir yfirleitt betra að vera manneskjan í bakgrunninum, finnst athygli sem beinist of mikið að mér óþægileg. Mér fannst samt stórkostlegt að fá að prófa þetta. Það eru algjör forréttindi að geta búið til manneskju inni í sér og alls ekki sjálfsagt. Það er magnað að finna hana vaxa og hreyfast innra með sér.“
Fæðingin sjálf reynir ekki síst á stuðningsaðilann, en bæði Sigga og Tótla fæddu á heimili þeirra. „Líkami hins foreldrisins gerir ekkert til að hjálpa þeim í gegnum fæðinguna. Maður finnur fyrir hræðslunni og þreytunni margfalt á við þann sem er að fæða. Þannig var allavega mín reynsla. Fæðingin mín tók rúma tvo sólarhringa en Siggu einn og hálfan klukkutíma. Ég var alveg að bugast undan biðinni hjá mér en varð hrædd hvað þetta tók stuttan tíma hjá henni. Ljósmæðurnar rétt náðu til okkar áður en Sigga átti. Það var komin kollur niður, enginn kominn til okkar og ég held að ég hafi aldrei verið jafnhrædd á ævinni. Þegar ég var að fæða var ég hins vegar bara í því hlutverki og náði einhvern veginn að fara inn á við og loka á allt annað,“ segir Tótla.
„Já, ég var miklu þreyttari eftir fæðinguna hennar Tótlu en þegar ég var sjálf að fæða,“ bætir Sigga við. „Þegar Eyrún var komin í heiminn fékk ég svo mikið spennufall og það helltist yfir mig svo mikil þreyta að það leið næstum því yfir mig. Mig vantaði allt endorfínið og adrenalínið til að hjálpa mér.“
Smellpössuðu saman
Þær kynntust fyrir fjórum árum úti á lífinu, eins og svo mörg pör. „Ég sá Tótlu á bar með vinum sínum snemma á laugardagskvöldi og fannst hún sæt. Ég þorði samt ekki að nálgast hana þar og vonaði að ég myndi hitta á hana seinna um kvöldið, á eina hinsegin bar borgarinnar. Svo var hún auðvitað þar að dansa með vinum sínum og ég safnaði kjarki til að fara og dansa við hana,“ segir Sigga brosandi.
Sigga er uppalin á Hallormsstað og bjó fyrir austan þar til hún fór í Menntaskólann í Hamrahlíð. Þaðan lá leið hennar í Listaháskólann og útskrifaðist af sviðshöfundabraut með millilendingu í trúðaskóla í Kaupmannahöfn. „Í Listaháskólanum kynntist ég Völu Höskuldsdóttur og stofnaði með henni Hljómsveitina Evu sem hefur svo verið mitt aðalstarf síðan, samhliða útvarpsvinnu á Ríkisútvarpinu og fleira.“
Tótla ólst hins vegar upp í Vesturbænum og fór í Kvennaskólann. Hún hélt svo út til Flórens á Ítalíu þar sem hún lærði grafíska hönnun. Þegar hún kom heim úr náminu fékk hún fljótlega vinnu sem grafískur hönnuður á fréttastofu Stöðvar 2 og hefur unnið þar síðan.
„Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Við vorum báðar harðákveðnar að við værum ekkert að leita okkur að sambandi en gátum ekki haldið okkur hvor frá annarri,“ segir Sigga.
Tótla kinkar kolli og tekur í sama streng. „Sigga er sú allra skemmtilegasta kona sem ég hef kynnst. Ég áttaði mig fljótlega á því að ég hafði aldrei kynnst neinum sem ég átti svona auðvelt með að umgangast mikið. Ég er gjörn á að fá óþol fyrir fólki eftir mikil samskipti en hef aldrei átt í erfiðleikum með að verja ótæpilegu magni af tíma með Siggu – helst finnst mér vandamál að fá of lítinn tíma með henni.“
Þótt þær hafi ekki beint verið að leita sér að sambandi voru barneignir þeim samt ofarlega í huga. „Ég held það hafi verið í annað eða þriðja skiptið sem við hittumst þegar ég gekk úr skugga um að Tótlu langaði til að eignast börn í náinni framtíð. Við vorum báðar á þeim stað að okkur langaði ekki að eyða tíma í samband sem myndi ekki leiða til þess á endanum að eignast börn,“ segir Sigga.
Þær komust líka fljótt að því að þær hefðu líkar hugmyndir um uppeldi barna og hvernig fjölskyldu þær vildu eiga. „Þó að við hefðum verið mjög stutt saman þegar við ákváðum að búa til barn vorum við ákveðnar í því að þótt við myndum kannski ekki endast sem par værum við tilbúnar að ala fallega upp barn saman,“ segir Tótla.
Allt eins og það átti að vera
Eftir að ákvörðunin um að búa til barn hafði verið tekin fóru Sigga og Tótla að ræða möguleikana. „Ég sá það alltaf þannig fyrir mér þannig að framtíðarkonan mín myndi ganga með börnin. Ég var dálítið stressuð fyrir þessu og var mjög glöð með að Sigga skyldi vilja byrja. Þegar ég fylgdist svo með Siggu upplifa þetta varð ég mjög spennt, fannst allt svo magnað sem hún var að ganga í gegnum og var mjög heilluð af ferlinu. Ég var með fjögur öpp í gangi þar sem ég fylgdist með þroska fóstursins og las fyrir hana úr bókum á kvöldin,“ segir Tótla. Sigga var mjög ánægð með þessa afstöðu Tótlu því að hún var búin að hlakka mikið til að ganga með barn. „Ég elskaði að vera ólétt og væri sko alveg til í að gera það aftur.“
„Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Við vorum báðar harðákveðnar að við værum ekkert að leita okkur að sambandi en gátum ekki haldið okkur hvor frá annarri.“
Þær höfðu heyrt að það gæti verið þónokkur bið eftir því að komast á Art Medica svo þær ákváðu að hringja strax og athuga með tíma í framtíðinni. Þá bauð konan í símanum þeim að koma daginn eftir sem þær þáðu. „Tíðahringurinn minn var á mjög heppilegum stað svo læknirinn sagði að okkur væri ekkert að vanbúnaði, við gætum komið aftur eftir um það bil tíu daga í uppsetningu. Við bjuggumst ekki við að þetta myndi gerast svona hratt og höfðum í rauninni bara ætlað að kíkja til hennar til að fá upplýsingar. Við sögðumst því þurfa að sofa á þessu en þegar við vöknuðum daginn eftir fundum við að við áttum að kýla á þetta,“ segir Sigga.
Það reyndist rétt því Sigga varð ólétt í fyrstu tilraun og úr varð eldri dóttir þeirra, Úlfhildur Katrín. „Við verðum sannfærðari um það á hverjum degi að við áttum að eignast akkúrat hana. Það þurfti svo aðeins fleiri tilraunir til að búa til Eyrúnu. Það var mjög erfitt, mikil vonbrigði og ákveðið áfall í hverjum mánuði þegar það gekk ekki, en svo gekk þetta að lokum og við erum jafnsannfærðar um að við áttum að fá akkúrat hana,“ bætir Tótla við.
Systrakærleikur
Úlfhildur verður þriggja ára í lok desember og mæður hennar lýsa henni sem ljúflyndum vargi. „Hún er ótrúlega skapandi og skemmtileg. Hún þarf mikið að hreyfa sig og ókyrrist fljótt ef hún fær það ekki,“ segir Tótla. „Hún hefur svo ríkt ímyndunarafl að hún trúir oft sögunum sem hún er að búa til fyrir okkur. Hún hefur farið að gráta undan ósýnilegu ljóni sem stökk út úr sögu sem hún var sjálf að segja. Einnig hefur komið fyrir að það var hákarl á milli herbergjanna okkar svo hún komst ekki yfir til okkar hjálparlaust. Hún er einnig nýfarin að semja vísur sem lofa mjög góðu.“
„Hún er ótrúlega blíð við litlu systur sína, leggst alltaf beint hjá henni þegar hún kemur úr leikskólanum og segir henni frá deginum sínum eða syngur fyrir hana. Þegar henni finnst samskiptin full einhliða talar hún líka fyrir systur sína með fyndinni skrækróma rödd og lætur eins og þær séu að tala saman,“ segir Sigga.
Eyrún er aðeins þriggja mánaða og samkvæmt Tótlu vita þær því ekki margt um hana enn þá. „Þó sjáum við strax að hún er mjög ákveðin og góð í að láta okkur vita hvað hún þarf. Hún er heldur ekkert að splæsa brosi eða spjalli á alla. Það er yfirleitt fyrir nokkra útvalda og aðallega heimilisfólkið. Hún er algjör snillingur í samskiptum og krefst þess að fá ríkan skerf af einbeittri athygli. Hún er kannski stundum eitthvað pirruð en er ekki svöng, blaut eða þreytt. Þá vill hún að við sitjum með hana á hnjánum og horfumst djúpt í augu, brosum hvor til annarrar og spjöllum saman.“
Eins og áður segir þykir þeim Siggu og Tótlu fólk hér á landi fullupptekið af erfðum og skyldleika. Eitthvað hefur borið á því að fólk segi að Úlfhildur og Eyrún séu hálfsystur. „Þær eru systur. Fæddar inn í sömu fjölskyldu og hafa alist upp hjá sömu mæðrunum frá upphafi. Við sjáum ekki hvar hinn helmingurinn ætti að koma ef þetta er að vera hálf. Það er eins og að segja að við séum báðar stjúpmæður barnanna okkar,“ segir Sigga.
„Það stingur líka svolítið þegar við erum spurðar hvort þær séu skyldar. Við vitum alveg hvað átt er við en þetta orð er líka félagslega hlaðið og heppilegra væri að spyrja um blóðtengsl ef fólki finnst mikilvægt að vita hvernig blóð streymir um æðar þeirra. Ég held að Úlfhildur gæti ekki fundið neina manneskju í heiminum sem hún er jafnskyld og systur sinni og þau tengsl sem myndast hafa á milli þeirra nú þegar eru tengsl og skyldleiki sem engin heimsins gen eða blóð gæti styrkt enn frekar.“
Svipaðar mæður
Hvað varðar foreldrahlutverkið þykir Siggu og Tótlu mikilvægt að þær séu lið, að þær standi saman og séu samkvæmar sjálfum sér. „Við ræddum þetta mikið þegar Úa var á leiðinni og höfum það að leiðarljósi. Svo er auðvitað ótal, ótal margt sem okkur langar að gera og innræta börnunum okkar – svo margt að oft virkar það yfirþyrmandi hversu mikil ábyrgð það er að ala upp barn, að móta einstakling og reyna að búa honum sem best nesti. Þá er gott að minna sig á að trúlega er það mikilvægasta í þessu öllu að umvefja dæturnar ótæmandi elsku og minna þær á að þær eru nóg, alveg eins og þær eru í öllum aðstæðum, alltaf.“
Aðspurð hvernig mæður þær séu segist Sigga vona að hún sé hlý, skilningsrík og skemmtileg, jafnvel uppátækjasöm, og að hún segi oftar já en nei. „Ég vona líka að ég sé þolinmóð þó að það sé kannski helst það sem ég þarf að æfa mig í. Tótla er ótrúlega hlý og góð mamma. Hún er bæði leikfélagi og mjög góð í blíðum aga. Við erum að mörgu leyti frekar svipaðar mæður því við erum svo sammála um hvað okkur finnst mikilvægt í uppeldinu.“
„Þó að við hefðum verið mjög stutt saman þegar við ákváðum að búa til barn vorum við ákveðnar í því að þótt við myndum kannski ekki endast sem par værum við tilbúnar að ala fallega upp barn saman.“
„Ég held ég sé best í rólegum leik,“ segir Tótla. „Ég elska að lesa fyrir Úu, búa til og hlusta með henni á sögur. Ég reyni að hlusta á stelpurnar mínar og mæta þeim þar sem þær eru staddar hverju sinni. Ég held að ég sé ástrík en ákveðin og legg mikið upp úr því að hafa ramma þar sem er pláss fyrir mistök. Sigga er mjög drífandi og skemmtilegur uppalandi. Hún er alltaf að búa til ný ævintýri og er dugleg að koma með tónlist inn í líf okkar, syngur mikið með og fyrir Úu. Hún er líka dugleg að drífa okkur út í leiðangra þegar ég og Úa erum haugar og viljum helst liggja og glápa á teiknimyndir. Hún kennir okkur öllum að opna okkur og tala um tilfinningarnar okkar. Mér finnst mikilvægt að stelpurnar mínar séu sjálfstæðar, kurteisar og ríkar af samkennd og ég vona að ég geti kennt þeim það. Ég vil að þær viti að þær geti gert hvað sem þeim dettur í hug og vona að þær fái ástríðu fyrir einhverju í lífinu.“
Þótt það sé ekki á dagskrá alveg á næstunni sjá Sigga og Tótla alveg fyrir sér að bæta við fjölskylduna. „Það er svona á seinna plani að eignast eitt barn til viðbótar eftir nokkur ár. Hvort sem það verður barn sem við göngum með, tökum í fóstur eða ættleiðum,“ segir Tótla að lokum.
Eplaedik hefur á undanförnum árum farið frá því að vera talið gamaldags húsráð í að vera vinsælt heilsulyf.
Það er búið til úr ferskum eplum sem eru hökkuð og látin gerjast í viðartunnum. Sýran í eplaedikinu er lykillinn að heilsueflandi kostum þess – kostum svo sem bættri meltingu, heilbrigðari húð, jafnvægi á blóðsykri, auknu þyngdartapi og minni bólgum og verkjum í líkamanum. Mikilvægt er að edikið sem þú notar sé bæði er ósíað og ógerilsneitt og helst lífrænt því það er stútfullt af lifandi og heilsubætandi gerlum. Hér eru fimm sniðugar leiðir til að nota eplaedik í daglegu lífi.
1. Detox-hreinsun
Talið er að eplaedik hjálpi til við hreinsun með því að auka starfsemi lifrarinnar við að losa sig við eiturefni, auk þess inniheldur það mikið af vítamínum, steinefnum og ensímum sem eru líkamanum mikilvæg í hreinsun. Síðan getur eplaedik einnig hjálpað til við að draga úr vatnsuppsöfnun, eða bjúg, í líkamanum. Ýmist er hægt að innbyrða eplaedikið eða bæta því út í baðið. Til að útbúa hreinsandi bað bættu 1-2 bollum af ediki út í baðið á meðan þú lætur renna í. Liggðu í baðinu 20-30 mínútur og skolaðu baðvatnið af áður en þú þurrkar þér.
2. Heilbrigð húð
Eplaedik getur hjálpað til gegn hinum ýmsu húðvandamálum því það er bæði bakteríudrepandi og róandi. Hægt er að nota það í að fjarlægja vörtur á fótum, draga úr og meðhöndla bólur, minnka svitalykt og jafnvel milda sársauka sem fylgir sólbruna. Þegar á að nota eplaedik á húð þarf að blanda það með vatni, annars getur það verið of ertandi, og best er að nota tvo hluta af vatni á móti einum af eplaediki. Síðan er hægt að setja blönduna í lítinn spreybrúsa og spreyja beint á eða annars konar flösku og nota bómull og bera blönduna á húð.
3. Náttúrulegt hreinsiefni
Upp á síðkastið hefur verið mikið rætt um notkun ediks til að hreinsa heimilið vegna náttúrulegra sýkladrepandi eiginleika þess. Blandaðu saman hálfum bolla af eplaediki á móti 1 bolla af vatni. Þú getur notað þessa blöndu til að þrífa baðherbergisflísar, eldhúsyfirborð, glugga, gler og spegla. Einnig er sniðugt að bæta örlitlum matarsóda í blönduna og þá verður allt skínandi hreint.
4. Bragðgóður og hollur drykkur
Eplaedik getur haft góð áhrif á meltinguna; jafnað sýrustig í maga, dregið úr bólgum í meltingarvegi og svo framvegis. Auðvelt er að útbúa góðan og heilsubætandi drykk með með því að blanda tveimur matskeiðum af eplaediki og tveimur matskeiðum af hunangi saman við bolla af heitu vatni. Drekktu þrjá bolla á viku og sjáðu hvort þú finnir ekki mun.
Þegar á að nota eplaedik á húð þarf að blanda það með vatni, annars getur það verið of ertandi, og best er að nota tvo hluta af vatni á móti einum af eplaediki. Síðan er hægt að setja blönduna í lítinn spreybrúsa og spreyja beint á eða annars konar flösku og nota bómull og bera blönduna á húð.
5. Glansandi hár
Það hljómar ef til vill furðulega en með því að nota eplaedik eftir að þú hefur þvegið hárið með sjampói lokarðu hárendum og hreinsar burt eftirstöðvar af óhreinindum þannig að hárið glansar enn meira á eftir. Settu hálfa matskeið af ediki í vatn. Helltu blöndunni yfir höfuðið inn í sturtu og skolaðu svo vandlega úr. Vissulega er örlítið sérstök lykt af hárinu á meðan það er blautt en hún hverfur þegar það þornar.
Berglind Berndsen og Anna Margrét Kristjánsdóttir reka barnafataverslun á Netinu.
Þegar íslenskar vinkonur eru í fæðingarorlofi saman er ekki hægt að búast við að þær sinni eingöngu börnum og heimili. Þær Berglind Berndsen og Anna Margrét Kristjánsdóttir ákváðu að stofna barnafataverslun á Netinu og bjóða upp á einmitt föt eins og þær langaði í á sína stráka.
Hvernig kom það til að þið ákváðuð að fara að flytja fatnað um hálfan hnöttinn? „Instagram!“ segir Berglind ákveðin.
„Instagram leiðir mann í allskonar áttir og þar á meðal alla leið til Ástralíu. Ástralir eru framalega í að hanna stílhreinan, lífrænan og þægilegan fatnað fyrir börn.
Við erum með þrjú vörumerki sem öll eru upprunnin í Eyjaálfu; HUXBABY, Anarkid og Mickey Rose. Við teljum það mikilvægt að fötin séu framleidd úr umhverfisvænum efnum og eru vörurnar meðal annars GOTS vottaðar. Við töldum þetta mikilvægt atriði þegar við ákváðum að taka inn þessar vörur, fyrir utan hvað þær eru fallegar.“
„Það sem þessi merki eiga öll sameiginlegt er að þau bjóða upp á fatnað sem er úr lífrænni bómull og hannaður í sátt við náttúru og fólk.“
Líkt og Berglind nefndi eru þessi vörumerki leiðandi í sjálfbærni og umhverfisvænni framleiðslu í sínu heimalandi og þótt víða væri leitað. Þarna er haft að leiðarljósi að fötin séu þægileg, klæðileg og stílhrein. Er eitthvað fyrir utan það sem gerir þessi merki sérstök?
„Það sem þessi merki eiga öll sameiginlegt er að þau bjóða upp á fatnað sem er úr lífrænni bómull og hannaður í sátt við náttúru og fólk,“ segir Anna Margrét.
„Auk þess eru flíkurnar flestar unisex-hönnun sem okkur þykir mikill kostur. Við viljum bjóða upp á föt sem eru endingargóð og falleg en hefta á sama tíma ekki leik og gleði barnanna.“
Fóru að velta fyrir sér barnafötum
„Ég á einn son sem er orðinn fjórtán mánaða og hugmyndin að stofnun Litla ljónsins kviknaði þegar hann var þriggja mánaða,“ bætir Berglind við. „Ég upplifði þá að á markaðinn vantaði stílhreinan fatnað fyrir barnið mitt sem væri líka þægilegur fyrir hann.“
„Ég á einnig einn son en minn er nítján mánaða,“ bætir Anna Margrét við. „Við vorum í fæðingarorlofi á sama tíma og í því fór þetta af stað.“
Þær vinkonurnar hittust nefnilega og fóru að tala um hvers konar fatnað þær vildu klæða börn sín í og hvaða grunngildi þeim fyndist nauðsynlegt að hafa í forgrunni við val á fötum. Þegar þær svo rákust á þessi áströlsku merki fór boltinn að rúlla enda var þar að finna allt sem þær óskuðu eftir. Berglind er menntuð í uppeldis- og menntunarfræðum og er á lokaári í masters-námi í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf. Hún starfar sem ráðgjafi á BUGL með
fram náminu. Anna Margrét er hins vegar með gráðu í listfræði og starfar sem verslunarstjóri hjá LINDEX. Litla ljónið er í senn hugðarefni og aukastarf hjá báðum. Þær vilja styðja þau gildi er standa að baki. En hver eru næstu skref hjá ykkur varðandi fyrirtækið?
„Eins og staðan er núna erum við og verðum með netverslun en við erum reglulega með opið hús eða Popup,“ segir Berglind. „Við stefnum að því að bæta við okkur vörumerkjum í komandi framtíð og vonumst til að stækka með tímanum og langtímamarkmið eru að opna verslun.“
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér frekar vörumerki Litla ljónsins geta skoðað síðurnar, www.litlaljonid.com, Litla ljónið á Facebook og Instagram-síðuna, Litla_ljonid.
Það getur verið áskorun að elda góðan mat úr fáum tegundum hráefnis. En á sama tíma er það mjög frelsandi og ekki þarf að hugsa í langan tíma hvað á að vera í matinn.
Þegar eldað er úr fáum efnum er gott að nýta sumt hráefnið á tvennan og jafnvel þrennan hátt. Þá væri möguleiki að steikja salatið og einnig að nota það ferskt.
Annað sem er mikilvægt að hafa í huga er að nota allt „brasið“ af pönnunni og soðið af hráefninu til þess að hámarka bragðið.
Þó svo að ég noti einungis fimm hráefni í þennan rétt, þá tel ég ekki með salt, pipar og feiti. Ég notaði þó aðeins olíu en smjör eða góð ólífuolía gerir allt betra. Auðvitað er líka alltaf hægt að fríska upp á matinn með smávegis sítrónusafa. Ég komst líka að því að ekki er mjög dýrt að versla svona í matinn og þá er hægt að splæsa í gæðaprótín og nota gott grænmeti með.
Nauta-ribeye með sveppum og trufflumajónesi
fyrir 4
600-800 g nauta-ribeye, eða annar góður vöðvi
1 kg nýjar íslenskar kartöflur
2 dl majónes
1 msk. truffluolía
2 pakkningar (u.þ.b. 250 g) kastaníusveppir, eða aðrir sveppir
Hitið ofninn í 180°C. Sjóðið kartöflurnar í potti þar til þær eru næstum því alveg tilbúnar, sigtið vatnið frá og kremjið þær svo með lófanum, setjið 3 msk. af olíu yfir þær og inn í ofn. Kartöflurnar þurfa 25 mín. í ofninum.
Hitið pönnuna á háum hita með 2 msk. af olíu. Þerrið steikurnar með eldhúsbréfi og setjið 1 msk. af salti og 1 msk. af pipar á þær. Látið þær á pönnuna og steikið í um 3-4 mín. á hvorri hlið og setjið í eldfast mót. Mögulega sama mót og kartöflurnar en sitt hvort er í góðu lagi. Hafið steikurnar í ofninum þar til kjarnhitinn er 50-60°C, eða miðlungssteiktar. Látið steikurnar hvíla í nokkrar mínútur áður en þær eru bornar fram.
Ekki þrífa pönnuna eftir steikinguna á kjötinu, heldur setjið sveppina á hana og steikið þá með ½ msk. af salti þar til þeir eru orðnir mjúkir. Bætið þeim við í eldfasta mótið með kjötinu. Hrærið truffluolíunni saman við majonesið. Saltið svo kartöflurnar með restinni af saltinu og berið fram.
Umsjón og stílisti / Gunnar Helgi Guðjónsson
Aðalmynd / Hákon Björnsson