Fimmtudagur 23. janúar, 2025
1 C
Reykjavik

Ef maður tengir við RIE tengir maður svo sterkt

Kristín Maríella Friðjónsdóttir segir að þörfin fyrir nýjar uppeldisaðferðir sé mikil hér á landi.

Kristín Maríella Friðjónsdóttir kynntist RIE eða Respectful Parenting-uppeldisaðferðinni fyrir tæpum þremur árum og hefur síðan þá haldið fjölmörg námskeið sem notið hafa mikilla vinsælda. Kristín sem er búsett í Singapúr segir greinilegt að þörfin fyrir nýjar uppeldisaðferðir sé mikil hér á landi.

Kristín Maríella Friðjónsdóttir kynntist RIE eða Respectful Parenting-uppeldisaðferðinni fyrir tæpum þremur árum og hefur síðan þá haldið fjölmörg námskeið sem notið hafa mikilla vinsælda.

„Við fluttum hingað fyrir þremur árum þegar maðurinn minn stundaði masters-nám hér. Eftir útskrift fékk hann atvinnutilboð og því ílengdumst við. Okkur líður mjög vel í Singapúr og höfum komið okkur vel fyrir hérna hinum megin á hnettinum.“

Kristín er menntaður fiðluleikari og lærði einnig á víólu í Bandaríkjunum. Eftir það nám tóku við fjölbreytt störf tengd tónlistinni en á sama tíma stofnaði hún skartgripamerkið Twin Within ásamt systur sinni, Áslaugu Írisi. Fljótlega tók hönnunin yfir en eftir að fjölskyldan flutti til Singapúr hefur Kristín haldið rekstrinum áfram auk þess að kenna ungum börnum á fiðlu og miðla fræðslutengdu efni um uppeldisaðferðina RIE eða Respectful Parenting. „Ég kýs að kalla þessa uppeldisstefnu Virðingarríkt tengslauppeldi en ég kynntist RIE fyrir þremur árum. Þá var Ylfa, eldri dóttir mín, um 6 mánaða. Ég hef alltaf verið mjög áhugasöm um allt sem viðkemur uppeldi, meðgöngu, fæðingu, þroska barna og samskiptum. Stuttu eftir að við fluttum til Singapúr fékk ég réttindi í fæðingarhjálp (e. doula) og óhætt að segja ég eyði öllum frítíma mínum í að lesa um allt sem viðkemur börnum. Í einhverjum rannsóknarham á Internetinu rambaði ég inn á bloggsíðu Janet Lansbury, sem er helsta talskona RIE í heiminum, og þá var ekki aftur snúið. Ég tengdi strax mjög sterkt við það sem ég las frá henni og fékk bara ekki nóg. Það er nefnilega þannig með RIE, ef maður tengir, þá tengir maður svo sterkt.“

Virðingin, traustið og tengingin

Kristín segir erfitt að útskýra stefnuna í stuttu máli því hún sé í raun heill heimur af fróðleik. „Að mínu mati er RIE byggt upp á þremur grunnhugtökum en þau eru virðing, traust og tenging. Mér finnst það vera eins konar kjarni RIE sem stefnan gengur alltaf út frá. Við komum fram við börn af virðingu frá fæðingu. Við lítum á þau sem heila einstaklinga sem eiga rétt á því að komið sé fram við þau eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Við reynum eftir fremsta megni að sjá hlutina frá þeirra sjónarhorni og bjóðum þeim að taka þátt í lífinu strax frá fyrsta degi. Við tölum eðlilega við börnin okkar, sleppum öllu leikritum, erum hreinkilin, örugg og róleg. Eins er mikil virðing borin fyrir mikilvægi leiks og við reynum að trufla ekki barn sem er niðursokkið í leik. Börn eru studd til að leika sér sjálfstætt og á sínum forsendum frá upphafi. Við treystum líka barni til þess að þroska hreyfigetu sína á sínum hraða með sínum leiðum og hjálpum eða kennum þeim til dæmis ekki að snúa sér, setjast eða ganga.

„Við leyfum barni að tjá allar tilfinningar sínar og styðjum börnin í gegnum grátköst með því að viðurkenna tilfinningar þeirra og sýna þeim þolinmæði.“

Við trúum því að börn séu alltaf góð og vitum að þegar þau sýna óæskilega hegðun sé það vegna þess að þau eigi erfitt og vanti aðstoð frá okkur. Við leyfum börnum að tjá allar tilfinningar þeirra og styðjum þau í gegnum grátköst með því að viðurkenna tilfinningar þeirra og sýna þeim þolinmæði. Þannig myndum við sterk tengsl við barnið og það byrjar að taka mörkunum sem við setjum betur.  Við setjum tilfinningum ekki mörk en við setjum hins vegar hegðun mörk. Við trúum á mikilvægi þess að setja skýr mörk en við setjum þau samt alltaf á rólegan hátt. Það má segja að helsta markimið RIE sé að byggja upp heilbrigt samband á milli foreldris og barns, samband sem báðir aðilar geta notið sín í og þar sem þörfum beggja er mætt af samkennd og virðingu.“

Námskeiðin seldust upp á örfáum klukkustundum

Kristín hafði skrifað um RIE inn á samfélagsmiðlum í rúmt ár þegar hún fór fyrst að fá fyrirspurnir um að halda námskeið á Íslandi. „Nánast allt efni sem til er um Respectful Parenting er á ensku og ég fann fyrir mikilli vöntun á íslensku efni. Þegar ég var síðan á leiðinni heim til Íslands um síðustu jól ákvað ég að mæta eftirspurninni og halda nokkur námskeið. Það gekk rosalega vel og ég fann strax að þetta átti vel við mig, mér leið vel upp á „sviði“ og fæ mikið út úr því að miðla á þennan hátt.“ Eftir námskeiðin var enn mikil eftirspurn og því ákvað Kristín að koma heim nú í sumar og halda fleiri. Viðtökurnar voru gríðarlegar og undir lokin seldust síðustu aukanámskeiðin upp á örfáum klukkutímum. „Það var eins og fólk hefði verið að bíða eftir einhverju svona. Ég hélt fjórtán námskeið í heildina og það var greinilegt að fólk er mjög áhugasamt og þráir að komast á betri stað í samskiptum við börnin sín. Það finnst mér frábær þróun enda hlýtur foreldrahlutverkið að vera mikilvægasta hlutverk okkar allra sem eigum börn.“

Aðspurt hvort hún veiti foreldrum ráð óumbeðið segist Kristín hafa það fyrir reglu að koma ekki með athugasemdir við uppeldisaðferðir annarra.

Kristín segir fyrirspurnirnar sem henni berist óteljandi og vandamálin fjölbreytt. Hún hafi þó aldrei rekist á vegg heldur komi svörin oftast fyrirhafnarlaust til sín. „Þegar maður gefur ráð er mikilvægast að setja sig almennilega í aðstæðurnar. Þá bið ég iðulega um meiri upplýsingar og nánar lýsingar á vandamálinu. Hvenær kemur hegðunin upp? Hvernig hefur foreldrið brugðist við hingað til? Hvernig bregst barnið við? Hvað annað er að gerast í lífi barnsins? Eftir að hafa fengið þessar upplýsingar koma svörin til mín. Ég myndi segja að óöryggi foreldra þegar kemur að því að setja mörk sé eitt algengasta vandamálið. Hvaða mörk má setja og hvernig. Hræðsla við grátur og viðbrögð barnanna sinna og síðan óraunhæfar væntingar í sambandi við það hvers er hægt að ætlast til af börnunum sínum og hvenær.“

Þegar talið berst að hennar eigin uppeldi segir Kristín stærstu áskorunina liggja í að veita hvoru barni fyrir sig fulla athygli í kringum umönnunarverkefni en það er stór partur af RIE. „Það er hugsað þannig að í öllum hversdagslegum ummönnunarverkefnum eins og t.d. að skipta á bleiu, klæða í föt, baða eða gefa að borða reynum við að vera með fulla athygli á barninu. Það er erfitt þegar þú ert komin með tvö eða fleiri börn því að oftar en ekki vill hitt barnið líka fá athygli á sama tíma. Í RIE tölum við um að hefðbundin sanngirni (þar sem allt er 100% jafnt) er í raun ekki sanngirni heldur líður báðum börnum eins og þau fái ekki nóg.

Við reynum ekki að keppast við að gefa allt jafnt heldur gefum við eftir þörfum og það sama gildir um tímann okkar eða athyglina. Þá skiptir máli að vera skýr í sambandi við það hvar athyglin okkar er og oft setjum við mörk í kringum það. Við segjum eitthvað eins og „Ég heyri í þér, Ylfa, þú vilt að ég komi og sjái myndina sem þú varst að teikna, þú vilt að ég komi núna strax, ég skil, en ég get ekki komið strax, nú er ég að skipta á bleiunni hanns Breka og ætla að einbeita mér að því. Þegar ég er búin, þá ætla ég að koma til þín og vera bara með þér.“
Það sem gerist er að bæði börnin slaka meira á því þau vita að hvort um sig fá þau 100% athygli þegar „þeirra tími“ kemur. Svo virkar það líka þannig að þegar við hægjum á og gefum fulla athygli í gegnum ummönnunarverkefni, þó að það sé ekki nema í nokkrar mínútur í senn, þá er barnið líka miklu líklegra til að geta sleppt okkur þess á milli og fer frekar að leika sér sjálft því það er sátt eftir tímann sem við áttum saman.“

Að hjálpin komi frá hjartanu

RIE-fræðsla byggjast mikið á langtímamarkmiðum en þátttaka barna í heimilisstörfum gegnir veigamiklu hlutverki innan stefnunnar. Kristín segir markmiðið vera að barnið sjái mikilvægi þess að hjálpa til inni á heimilinu en sömuleiðis finni hjá sér þörfina að hafa hreint í kringum sig. „Þetta snýst auðvitað um að líða vel í umhverfi sínu. Ég vil að barnið mitt hjálpi til því það vilji vera partur af heildinni, en að hjálpin komi frá hjartanu, ekki út frá hræðslu eða skyldu. Það er ekki hægt að pína barn í að vera hjálplegt. Heimilisverk fellur undir það sem við köllum „modeling“ í RIE. Þá skyldum við ekki barn til þess að hjálpa til á neinn hátt en bjóðum því þátttöku. Við pössum að vera góðar fyrirmyndir og treystum því að þegar barn er tilbúið þá mun það vilja hjálpa til því að börn vilja í grunninn öll standa sig vel, vera partur af heildinni og líkjast foreldrunum.“

Þegar kemur að ósamkomulagi barna styðst Kristín mikið við að lýsa aðstæðum. „Ég geri alltaf það sama þegar barn grætur eða er ósátt. Ég hægi á og segi eitthvað eins og „hmm … ég heyri grátur, það eru allir að gráta, allir eru ósáttir“ og síðan myndi ég skoða hvað væri í gangi og gefa hverju barni rödd fyrir sig með því að segja upphátt það sem ég sæi, án þess að dæma. Dvel jafnvel í ósættinu og bæti svo við, „hvað getum við gert?“ Síðan bíð ég með opinn arminn því það mega allir alltaf fá knús sem vilja og það mega allir gráta sem vilja en við reynum að styðja börn í að finna sjálf lausnir á vandamálunum. Þannig er best stutt við þroska og getu í samskiptum.“

„Þetta snýst auðvitað um að líða vel í umhverfi sínu. Ég vil að barnið mitt hjálpi til því það vilji vera partur af heildinni, en að hjálpin komi frá hjartanu, ekki út frá hræðslu eða skyldu. Það er ekki hægt að pína barn í að vera hjálplegt.“

Aðspurt hvort hún veiti foreldrum ráð óumbeðið segist Kristín hafa það fyrir reglu að koma ekki með athugasemdir við uppeldisaðferðir annarra. „Ég ráðlegg fólki eindregið að skipta sér ekki af uppeldi annarra nema um eitthvað alvarlegt sé að ræða. Það hefur mjög lítið upp á sig að skipta sér af öðrum. Sannleikurinn er sá að flestir eru að reyna sitt besta. Það eru allir á sinni einstöku vegferð í foreldrahlutverkinu og það besta sem maður getur gert er að vera góð fyrirmynd sjálfur. Það er nefnilega þá sem maður fær spurningar frá áhugasömum og fólkið í kringum mann vill fá að vita meira um hvað maður er að gera. Það sér að eitthvað er að virka vel og verður forvitið. Foreldrahlutverkið og allt í sambandi við börnin okkar er eitthvað sem er mjög nálægt okkur, mjög persónulegt og fólk tekur því persónulega ef það upplifir að verið sé að dæma það. Þá fer fólk frekar í vörn. Fólk þarf að vera tilbúið að fara í gegnum ákveðna sjálfskoðun ef það ætlar að tileinka sér uppeldisaðferð eins og RIE og það eru einfaldlega ekki allir tilbúnir í það.“

Kristín segir fyrirspurnirnar sem henni berist óteljandi og vandamálin fjölbreytt. Hún hafi þó aldrei rekist á vegg heldur komi svörin oftast fyrirhafnarlaust til sín.

Ofbeldi gegn börnum óhugnalega algengt

Kristín segir það áhugaverða upplifun að ala upp börn hinum megin á hnettinum þar sem margir menningarheimar koma saman en Singapúr er einstaklega fjölbreytt samfélag. „Þetta hefur verið mjög þroskandi ferli og áhugavert. En þó að Singapúr sé í Asíu er hér að finna mjög sterk vestræn áhrif. Mikið er lagt upp úr því að bjóða fjölskyldum upp á ríka barnamenningu og það er alltaf nóg af mjög metnaðarfullu starfi í boði fyrir börn og fjölskyldur, allskonar sýningar á listasöfnum, viðburðir í görðunum og mikið lagt upp úr vönduðum leikvöllum og svæðum fyrir börn. Singapúr er mjög örugg borg, næstum því öruggari en Reykjavík og alveg frábært að vera hérna með börn, borgin er þekkt fyrir það. Að því sögðu er hér að finna sterk áhrif frá Asíu, Malasíu og Kína og uppeldislega má segja menninginuna skiptist svolítið í tvennt. Hér er að finna stórt samfélag fólks frá Vesturlöndum, Evrópu og Bandaríkjunum, uppeldi sem rímar við það sem við þekkjum frá Íslandi. Foreldrar sem leita frekar að frjálsari aðferðum í skólakerfinu svipað og stefnurnar í leik- og grunnskólum standa fyrir heima, þetta „play-based“ módel sem er auðvelt að finna í flestum leikskólum landsins. Skólakerfið hér skiptist því í tvennt, annars vegar hverfisskóla og svo alþjóðlega skóla, þarna er mikill áherslumunur. Í hverfisleikskólum eru börnin frá 7 á morgnanna til 19 á kvöldin, fólk vinnur svo langa vinnudaga. Mikið er lagt upp úr aga og þurfa leikskólabörn að sitja kyrr við borð og læra, hlusta á kennarann og gera svo heimavinnu fyrir næsta leikskóladag. Ég er auðvitað svakalega mikið á móti þessu því þetta stríðir gegn því sem er eðlislægt fyrir börn á þessum aldri. Það er margsannað að börn læri best í gegnum leik og helst frjálsan leik sem þau fá að stjórna sjálf.

Alþjóðlegu skólarnir eru skárri en þeir eru mjög dýrir. Ég var svo heppin að finna lítinn leikskóla sem er virkilega „play-based“ og skólastýran les bloggið hennar Janet Lansbury og er mjög vel að sér. Hér í Singapúr er líka óhugnalega algengt að foreldrar leggi hendur á börnin sín í refsingarskyni, það er meira að segja ákveðinn stafur sem einungis er notaður í hýðingarskyni og þá er talað um „caning“. Þetta á að aga börnin og láta þau hlýða. Mér fallast oft hendur yfir þessu og finnst svo langt í land en þetta er samt smátt og smátt eitthvað að breytast, maður getur ekki breytt heiminum einn en maður breytir samt sem áður heiminum á sinn hátt þegar maður vandar sig vel í uppeldinu, börnin okkar eru auðvitað framtíðin og því hvergi betri staður til að hafa mikil og góð áhrif.“

Texti / Íris Hauksdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Poppaðu upp áramótin

|||
|||

Stundum getur verið skemmtilegt að breyta til um áramótin og prófa eitthvað nýtt.

Ef þú átt börn þá er upplagt að plana gamlárskvöld með þeim.

Planaðu gamlárskvöld með krökkunum
Ef þú átt börn þá er upplagt að plana gamlárskvöld með þeim. Búa til leiki, spila, horfa á Áramótskaupið og skemmtilegar myndir, borða smákökur og læra áramótahefðir annarra landa. Það er hægt að gera svo margt skemmtilegt saman.

Haltu þemapartí
Haltu fjölmennt partí með því að hóa saman fjölskyldu, vinum og kunningjum og hafðu skemmtilegt þema. Hægt er að hafa hlaðborð og biðja alla um að koma með eitthvað gómsætt á borðið. Hver veit, ef vel tekst til gæti þetta jafnvel orðið árlegur viðburður.

Það er alltaf hægt að njóta sín í rólegheitum heima í kvöld.

Njóttu þess að vera heima
Svo er alltaf hægt að njóta sín í rólegheitum heima um kvöldið.
Hafa það til dæmis gott undir hlýju teppi upp í sófa og horfa á Áramótaannálinn og Skaupið, annað hvort ein/n eða í góðum félagsskap.
Fara til dæmis í skemmtilega leiki, spjalla og fara saman yfir árið sem er að líða.

Finndu gott útsýni
Hvernig væri að prófa að upplifa áramótin í nýju ljósi. Ganga til dæmis upp í hlíðar Esjunar og horfa á ljósadýrðina þaðan. Nú eða fara upp í Öskjuhlíð eða að Kópavogskirkju. Þessir staðir eru uppi á hæð þaðan sem fínt útsýni er yfir borgina.

Á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess eru margir fallegir útsýnisstaðir sem hægt er að velja um.

Myndir / www.pixabay.com

Stællegar mömmur

Mömmubloggarar hafa aldrei verið vinsælli en nú.

Svokallaðir mömmubloggarar hafa aldrei notið jafn mikilla vinsælda og nú, enda frábært að geta fengið stílráð og mömmumola á sama stað. Hér eru bloggsíður fantaflottra mæðra sem við mælum með að þið smellið á í næsta netrúnti.

Ruth Crilly (mynd að ofan)
Ruth Crilly er fyrirsæta og móðir sem á von á sínu öðru barni. Hún hefur lengi haldið úti „bjútí“bloggsíðu og vinsælli YouTube-stöð en eftir að hún varð móðir stofnaði hún bloggið TheUpphill.com þar sem hún fjallar um allt sem snýr að móðurhlutverkinu. Hún er sjarmatröll mikið með einstaklega smitandi húmor, við mælum með henni heilshugar.

_______________________________________________________________

Bloggsíðan hennar Joönnu var einungis hobbí en er nú orðið að hennar aðalatvinnu.

Joanna Goddard
Joanna byrjaði feril sinn hjá Cosmopolitan og þekkir því fjölmiðlabransann inn og út. Hún hefur einnig skrifað fyrir Elle, Glamour, New York, Condé Nast Traveler og Martha Stewart Living. Bloggsíðan hennar, sem í byrjun var einungis hobbí, er nú orðið að hennar aðalatvinnu. Fylgist með ævintýrum hennar og fjölskyldunnar á CupOfJo.com.

_______________________________________________________________

Síðan bloggsíðan hennar Anh fór á flug hefur hún birst í Elle og Glamour.

Anh Sundstrom
Anh Sundstrom er mamma hennar litlu Luciu og fáránlega smart markaðsstýra en hún heldur úti mömmutískublogginu 9to5Chic.com. Síðan bloggsíðan hennar fór á flug hefur hún birst í Elle og Glamour, meðal annars.

_______________________________________________________________

Sofi heldur úti gríðarvinsælu bloggsíðunni Sofi´s Snapshots (Sofissnapshots.com).

Sofi Fahrman
Hin sænska Sofi heldur úti gríðarvinsælu bloggsíðunni Sofi´s Snapshots (Sofissnapshots.com), hún hefur gefið út fjórar bækur sem farið hafa beint á topp vinsældarlista, og stjórnað sænsku útgáfunni af Project Runway. Talandi um mömmuinnblástur!

_______________________________________________________________

Rachel Parcell hefur grætt á tá og fingri síðan hún stofnaði vefsíðuna sína Pink Peonies.

Rachel Parcell
Rachel Parcell hefur grætt á tá og fingri síðan hún stofnaði vefsíðuna sína Pink Peonies og meðal annars hannað sína eigin skartgripalínu. Hægt er að fylgjast með þessari sjarmerandi tveggja barna móður á Pinkpeonies.com.

_______________________________________________________________

Hin hrikalega smarta Anjelica Lorenz.

Anjelica Lorenz
Við mælum með því að þið kíkið á bloggsíðu hinnar hrikalega smörtu Anjelica Lorenz, Modejunkie.com, hvort sem það er til að fá stílinnblástur eða hugmyndir fyrir næsta barnaafmæli.

_______________________________________________________________

Emily Schuman spreytir sig í mömmuhlutverkinu á www.cupcakesandcashmere.com

Emily Schuman
Cupcakes and Cashmere hefur lengi verið vinsælt tískublogg en nýverið hafa lesendur þess fengið að fylgjast með hvernig Emily Schuman spreytir sig í mömmuhlutverkinu. Bollaköku- og kasmírblanda klikkar seint! Cupcakesandcashmere.com

_______________________________________________________________

Tveggja barna móðirin Charlotte birtist reglulega á síðum tímarita á borð við Vogue Paris, InStyle, Nylon og W Magazine.

Charlotte Groeneveld-Van Haren
Tveggja barna móðirin Charlotte er þekkt fyrir frábæran stíl og birtist reglulega á síðum tímarita á borð við Vogue Paris, InStyle, Nylon og W Magazine. Mömmustílinnblástur beint í æð! Thefashionguitar.com

Texti / Helga Kristjáns

Ást við fyrsta bita

Prýðilegir partýréttir eða „daginn-eftir-partý-réttir“ úr smiðju Önnu Bjarkar Eðvarðsdóttur.

Anna Björk Eðvarðsdóttir töfrar fram hvert lostætið á fætur öðru.

Anna Björk Eðvarðsdóttir lærði fyrst að elda egg í brauði og segir það hafa verið ást við fyrsta bita. Hún segir árstíðirnar ráða því hvaða matreiðsluhefð sé í uppáhaldi en réttirnar sem hún býður lesendum upp á að þessu sinni eru hver öðrum girnilegri.

Hvað starfarðu og hvaða verkefni fæstu við um þessar mundir? Ég er bloggari, sjálfboðaliði, eiginkona, mamma og amma. Það sem ég hef verið að dunda mér við undanfarið er að gera upp 34 feta seglskútu sem við Guðjón eigum. Hún stóð á landi í nokkur ár og þurfti á ást og umhyggju að halda þegar við sjósettum hana aftur. Við erum að klára það og vonum að við náum að sigla eitthvað áður en haustlægðirnar hellast yfir okkur.

Hvað var það fyrsta sem þú lærðir að elda? Egg í brauði, það er sem sagt brauðsneið sem miðjan er skoinn úr. Ytra lagið af sneiðinni er steikt á pönnu og egg brotið ofan í holuna og þegar eggið hefur tekið sig í smástund á pönnunni er miðjan sett ofan á eggið án þess að sprengja rauðuna og svo er sneiðinni snúið við og hún steikt áfram á hinni hliðinni. Þessi dásemd er svo borin fram með tómatsósu og sinnepi, til hliðar. Þetta varð ást við fyrsta bita, ást sem varir enn.

Ertu jafnvíg á bakstur og matseld? Mér finnst miklu skemmtilegra að elda en baka. Ég baka ekki mikið af hnallþórum en ég hef gaman af því að baka brauð og allskonar bökur. Ég hef ekki lagt mikla rækt við bakasturinn. Ég hef alltaf haldið því fram að það sé mömmu að kenna, hún er svo frábær bakari að ég hef ekki nennt að reyna eins mikið fyrir mér í þeim efnum.

Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín? Nei, alls ekki. Mér finnst það fara eftir árstíðunum hvað höfðar til mín á hverjum tíma. Hvaða hráefni er ferskast, veðrið og hitastigið skiptir máli og svo auðvitað hvað er til í ísskápnum. Ég er mjög nýtin og þoli ekki að henda mat.

Mér finnst það fara eftir árstíðunum hvað höfðar til mín á hverjum tíma. Hvaða hráefni er ferskast, veðrið og hitastigið skiptir máli og svo auðvitað hvað er til í ísskápnum. Ég er mjög nýtin og þoli ekki að henda mat.

Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu? Örugglega nokkur en ég er með nokkuð gott valminni á svoleiðis og sigta það frá og nenni ekki mikið að pæla í því. En ef þú pressar mig þá rámar mig óljóst í fyllingu í sítrónu-marensböku sem vildi ekki láta að stjórn, ójá, oftar en einu sinni.

Hefur þú uppgötvað einhverja snilld í matseld nýlega? „Low and slow“, eða hægeldaður matur. Það er ekkert nýtt við það en mikil snilld sem minnir á sig aftur og aftur. Aðferðin gefur hráefninu tíma svo það njóti sín sem best og maður þarf ekki að standa yfir pottunum lengi. Þá er t.d. hægt að kaupa ódýrari bita af kjöti sem eru oft vannýttir og útbúa stórkostlega veislu. Ég á mér uppáhaldsmeðlæti sem eru hægeldaðir smátómatar í góðri ólífuolíu með sneiddum hvítlauk og tímíani, dásamlegir.

Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku? Það var eflaust að sjá um veitingarnar í vígslu reiðhallarinnar í Mosfellsbæ hjá Hestamannafélaginu Herði en þá var Guðjón formaður Harðar. Annars er það þetta venjulega, eins og hjá flestum, að elda hátíðarmatinn um jól og áramót, að allt lukkist sem best. Maturinn er svo stór hluti af upplifuninni á jólunum, ilmurinn sem læðist í gegnum húsið eftir því sem líður á daginn kemur með hátíðarstemninguna. Í sumar var skírnarveisla yngri dóttursonarins heima hjá okkur Guðjóni. Það var hádegisverður fyrir stórfjölskylduna og vini sem ég naut að elda eins og alltaf þegar maður eldar fyrir þá sem hafa gaman af því að borða góðan mat.

Uppáhaldsmatreiðsluþættir? Þættir sem fara nánar í efnð, eins og hvaðan hráefnið kemur, hvernig það er alið eða ræktað. Þættir sem eru um hvernig matur var eldaður hér áður fyrr. Mér finnst það allt svo forvitnilegt hvernig farið var að áður en öll nútímaþægindin komu til sögunnar. Hið blómlega bú er t.d. þáttur sem ég naut að horfa á og breskir þættir sem heita Food Unwrapped eru uppáhaldsþættir. Annars finnst mér alltaf gaman að horfa á matreiðsluþætti.

Bloggsíða: annabjork.is.

____________________________________________________________

Cheddar- og parmesanbitar með reyktri papriku og rósmaríni

45 stykki

125 g mjúkt smjör

1 msk. flórsykur

1 tsk. kummin

1 tsk. reykt paprikuduft

80 g sterkur cheddar-ostur

50 g rifinn parmesanostur

2 tsk. kúmenfræ

2 tsk. saxað ferskt rósmarínlauf

110 g hveiti

50 g maísmjöl (gróft eins og polenta)

salt á hnífsoddi

 Ofan á kökurnar

1 egg, þeytt

rósmaríngreinar

gróft sjávarsalt

Ofninn er hitaður í 160°C á blæstri. Smjör, flórsykur, kummin og paprika er þeytt létt og ljós. Hrærið svo báða ostana varlega út í ásamt kúmeni og rósmaríni.

Að lokum er hveiti og maísmjöli ásamt salti bætt út í og hrært í samfellt deig. Deigið er sett á bökunarpappír og annað lag af pappír lagt ofan á deigið og það er svo flatt út þar á milli með kökukefli þar til það er eins og 100 kr. peningur. Sett í kæli og kælt. Þegar deigið er tilbúið til að baka eru stungnar út kökur sem eru um 5 cm í þvermál, penslaðar með þeyttu eggi og söxuðu rósmaríni og grófu sjávarsalti dreift yfir.

Kökunum er raðar á pappírsklædda bökunarpötu og þær bakaðar í 16-17 mínútur. Hægt er að frysta óbakað deigið.

____________________________________________________________

Fyllt frönsk samloka með saltkaramellu-bananasósu

fyrir 6

12 sneiðar af hvítu samlokubrauði

250 g rjómostur, við stofuhita, í bláu boxunum

125 g mascarpone-ostur, við stofuhita

½ bolli ristaðar pekanhnetur, saxaðar

2 msk. púðursykur, þjappaðar

1 tsk. kanill

½ tsk. salt

6 egg, léttþeytt

3 bollar mjólk

¼ tsk. salt

Ofninn er hitaður í 180°C.  Sex brauðsneiðum er raðað á stóran djúpan disk.  Hrærið saman í skál rjómaost, mascarpone, pekanhnetur, púðursykur, kanil og salt. Maukinu er smurt á sneiðarnar og hinar sex sneiðarnar eru lagðar ofan á. Þeytið saman í annarri skál egg, mjólk og salt. Hrærunni er hellt jafnt yfir sneiðarnar svo hún þeki allt yfirborðið og látin bíða í smástund svo þær drekki í sig vökvann. Bökunarpappír er settur í ofnskúffu og samlokunum raðað ofan í.  Bakaðar í 1 klukkustund en snúið á 15 mínútna fresti svo þær bakist jafnt.

Saltkaramellu-bananasósa

¾ bollar dökkur púðursykur, þéttpakkaður

½ bolli rjómi

½ bolli smjör

2 msk. síróp

1 tsk. vanilludropar

½ tsk. gróft sjávarsalt

1 banani

Púðursykur, rjómi, smjör og síróp er hitað í potti á rúmlegum meðalhita. Suðan er látin koma upp og hitinn lækkaður og þetta látið malla í 3-4 mínútur. Tekið af hitanum, vanillu og salti bætt út í. Hellt í skál og látið kólna niður í stofuhita í um klukkustund. Bananinn er skorinn í sneiðar og hann hrærður varlega út í. 

Sósan er borin fram með brauðinu.

____________________________________________________________

Harissa-lamborgarar með feta og klettasalati

fyrir 2

250 lambahakk

½ tsk. kummin

cayanne-pipar eftir smekk (sterkur)

2 msk. harissa-mauk

sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

60 g fetaostur

ólífuolía til að pensla með

2 pítubrauð

klettasalat

grísk jógúrt

Hakkinu og kryddinu ásamt harissa-maukinu og salti er hnoðað vel saman. Deiginu er skipt í tvo jafna hluta. Fetaosturinn er mulinn í miðjuna á hvorum borgara og deiginu vafið utan um ostinn og lokað vel. Grillpanna er hituð á meðalhita, borgararnir penslaðir með olíu og steiktir í 5-6  mínútur. Pítubrauðin eru hituð í brauðristinni. Þau eru svo fyllt með grískri jógúrt, klettasalati og lamborgara. Þessi borgari er frábær á útigrillið.

____________________________________________________________

Pylsur með bjórsoðnum sætum lauk og chili-salsa

fyrir 4

pylsur að eigin vali

brioch-pylsubrauð

mjúkt smjör

sterkt sinnep

Pylsurnar eru grillaðar eða steiktar. Brauðin eru opnuð og þunnu lagi af smjöri er smurt inn í þau og þau grilluð eða ristuð, bara að innan, á þurri pönnu á háum hita. Brauðið smurt að innan með sterku sinnepi, síðan er pylsa lögð í brauðið ásamt lauk og salsa.

Bjórsoðinn sætur laukur

2 tsk. ólífuolía

2 tsk. smjör

3 stórir laukar í þunnum sneiðum

1 tsk. kúmenfræ

2 msk. dökkur muscavado-sykur eða dökkur púðursykur

2 hvítlauksrif, marin

1 flaska ljós bjór

sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Olía og smjör er hitað á pönnu og lauk, kúmeni og salti er bætt út í og steikt á meðalhita í u.þ.b. 10 mínútur og hrært í við og við. Sykrinum er dreift yfir ásamt hvítlauk og látið mallað áfram þar til laukurinn fer að karamelliserast. Þá er bjórnum hellt yfir og látið mallað áfram í um 15 mínútur, eða þar til bjórinn er gufaður upp og laukurinn er dökkur á litinn. Smakkað til með salti og pipar.

Chili-salsa

2 vorlaukar, í þunnum sneiðum

1 rautt chili, fínsaxað (fræin með ef þú vilt salsað sterkt)

2 msk. söxuð steinselja

2 tsk. ólífuolía

Öllu blandað saman í skál.

____________________________________________________________

Rækjur með smjör- og blóðbergsbollubrauði

forréttur fyrir 4 eða kvöldveður fyrir 2

20 tígrisrækjur

2 msk. Shriracha Hot Sauce

2 msk. olía

¼ tsk. salt

2 tsk. sykur

5 hvítlauksrif, marin

Útbúið marineringuna og látið rækjurnar marinerast í nokkra tíma. Þær eru svo þræddar á grillpinna en ekki henda marineringunni. Rækjurnar eru grillaðar þar til þær eru orðnar bleikar og gegnsteiktar en passið að ofelda þær ekki. Marineringin er sett í lítinn pott og látin malla í nokkrar mínútur, síðan er henni hellt yfir grillaðar rækjurnar.

 

Smjör- og blóðbergsbollubrauð

2 öskjur tilbúið pizzudeig, ekki útrúllað

50 g smjör, brætt

blóðbergs- eða rósmaríngreinar

1-2 msk. polenta

gróft sjávarsalt

Smyrjið 20 cm lausbotna kökuform að innan með olíu og polentan er hrist innan í forminu svo hún þeki botn og hliðar. Deiginu er skipt í u.þ.b. 14 jafnstóra hluta og þeir hnoðaðir létt í litlar bollur sem er jafnað í formið. Þær þekja ekki botninn en fylla vel út í eftir hefingu. Mér finnst fínt að láta deigið hefast í 1-2 klukkustundir undir plastfilmu áður en ég baka það. Ofninn er hitaður í 200°C.  Smjörið er brætt og kælt aðeins, svo er því penslað yfir brauðið. Að lokum er blóðbergi og grófu salti dreift yfir og brauðið bakað í 30-35 mínútur. Tekið úr forminu um leið og það hefur kólnað aðeins og borið fram með rækjunum og auka smjöri.

Umsjón / Íris Hauksdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Partí ársins

Nú eru áramótin á næsta leiti og þá fara flestir í einhvers konar veislu eða partí.

Það er því við hæfi að skoða nokkrar bestu og frægustu partímyndir allra tíma.

Í kvikmyndinni Animal House fer allt úr böndunum.

Á æskuslóðum
Eins og nafnið gefur til kynna fjallar kvikmyndin Sisters um systurnar Kate og Mauru Ellis (mynd hér að ofan). Þegar þær komast á snoðir um áform foreldra sinna um að selja æskuheimili þeirra ákveða þær að halda kveðjuhóf á meðan foreldrarnir bregða sér frá. Þetta partí skal toppa öll partí sem áður hafa verið haldin í þessu húsi. Félögum þeirra úr gagnfræðiskóla er öllum boðið. Þrátt fyrir að meirihluti þeirra sé nú orðinn ráðsettur og með börn kunna þeir enn að djamma. Tina Fey og Amy Poehler, sem leika systurnar, eru kómískir snillingar. Í myndinni fylgjumst við með kostulegum undirbúningi og auðvitað veislunni sjálfri sem eins og flestir ættu að geta giskað á fer heldur betur úrskeiðis með verulega skondnum afleiðingum.

Tryllt tógapartí
Animal House (hér til hliðar) gerist árið 1962 í Faber-framhaldsskólanum. Delta Tau Chi-bræðralagið er illa þokkað og hver sem er getur fengið inngöngu á meðan Omega Theta Pi-bræðralagið er ekki opið hverjum sem er og í raun stútfullt af ríkum, hvítum strákum sem enginn þolir nema skólastjórinn. Skólastjórinn leitar til þeirra til að hrekja fyrrnefnda bræðralagið úr skólanum. Alls kyns bellibrögðum er beitt og skólastjórinn nær vilja sínum næstum fram. Delturnar halda risastórt tóga-partí með hljómsveit og öllu klabbinu. Ýmistlegt skrautlegt gerist í partíinu, meðal annars sefur einn bræðranna hjá eiginkonu skólastjórans.

________________________________________________________________

Thomas lætur orðið ganga að öllum sé boðið heim til hans í partí ársins – og enginn lætur segja sér það tvisvar.

Sögulegt partí
Í Project X á Thomas afmæli og eins og alla unga menn dreymir hann um að halda besta og flottasta afmælispartí sem haldið hefur verið. Til allrar lukku verða foreldrar hans ekki heima svo Thomas lætur slag standa og fær félaga sína, J.B. og Costa, í lið með sér. Hann lætur orðið ganga að öllum sé boðið heim til hans í partí ársins – og enginn lætur segja sér það tvisvar. Allir mæta og upphefst einhver svakalegasta veisla sem sögur fara af. Það skemmir auðvitað ekki fyrir að Thomas á ríka foreldra sem búa í stóru húsi með sundlaug og alls konar fíneríi. Auðvitað reynast nágrannarnir ekki alveg sáttir við lætin en það bíttar engu.

________________________________________________________________

Lúðarnir í Superbad eyða heilum degi í að komast yfir nægt áfengi fyrir partý.

Þrautaganga
Lúðarnir og bestu vinirnir Evan og Seth í myndinni Superbad gera hér um bil hvað sem er til að vinna sér hylli kvenpeningsins. Þegar þeir komast óvænt yfir heimboð í partí eyða þeir heilum degi, ásamt vini sínum Fogell, í að komast yfir nægt áfengi fyrir partíið. Þeir ætla að deila áfenginu með tveimur stelpum, Jules og Beccu, í þeirri von að þeir missi loksins sveindóminn og geti farið í framhaldsskóla eftir viðburðaríkt sumar. Áætlun þeirra flækist þegar Fogell lendir upp á kant við tvær klaufskar löggur sem hægja á þeim en jafnframt aðstoða þá um leið. Komast þeir einhvern tímann í partíið og með nægilegt áfengi?

________________________________________________________________

Can‘t Hardly Wait gerist nær eingöngu í einu partíi.

Óþreyjufull ungmenni
Can‘t Hardly Wait er klassísk partímynd í þeim skilningi að hún gerist nær eingöngu í einu partíi. Eftir brautskráningu nemenda í Huntington Hill-skólanum er komið að lokapartíinu. Þar er samankomin hin skrautlega nemendaflóra sem þrifist hefur í skólanum undanfarin fjögur ár – nördar, íþróttagarpar, fegurðardísir og hornrekur. Öll eru þau staðráðin í að sleppa fram af sér beislinu og gera upp þær tilfinningar sem legið hafa bældar alla skólagönguna, enda ekki seinna vænna áður en þau halda sína leið.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Ljúfur angan

Nokkur góð ráð varðandi val á ilmvatni til að auka endingu.

Hvernig við skynjum ilm og hvaða ilmur okkur þykir góður er afar persónubundið. Þess vegna er mjög áhættusamt að gefa einhverjum ilmvatn að gjöf, það er, ef viðkomandi hefur ekki valið sér það sjálfur. En þegar við höfum loksins fundið rétta ilminn fyrir okkur þá viljum auðvitað að hann endist sem lengst á okkur. Hér eru nokkur góð ráð varðandi val á ilmvatni til að auka endingu og hvernig sé best að geyma þau.

Yfirleitt er mikil vinna lögð í hönnun ilmvatsnglasa og því er tilvalið að stilla þeim fallega upp á snyrtiborði eða kommóðu.

1. Ilmvötn hafa takmarkaðan líftíma síðan fer lyktin að breytast og dofna. Ákveðnir þættir geta haft áhrif á og takmarkað líftímann, þá sérstaklega hiti, birta og raki. Þess vegna er óráðlegt að geyma ilmvötn inni á baðherbergi eða úti í gluggakistu og mælst er til að geyma þau frekar á þurrum og skuggsælum stað. Það þýðir þó ekki að þú þurfir að geyma þau inni í skáp. Yfirleitt er mikil vinna lögð í hönnun ilmvatsnglasa og því er tilvalið að stilla þeim fallega upp á snyrtiborði eða kommóðu, margir hafa til dæmis notað fallega bakka eða kökudiska.

2. Ilmur endist skemur á þurri húð og þess vegna er mikilvægt að bera krem á húðina ef þú vilt að hann endist lengur. Mörg ilmvatnsmerki framleiða body lotion með sama ilmi sem vissulega eykur áhrif hans en það er ekkert síðra að nota gott ilmlaust krem. Einnig mæla sumir sérfræðingar með því að bera vaselín á þá staði sem þú spreyjar ilmvatninu á því það myndar nokkurs konar hjúp á milli ilmvatnsins og húðarinnar og eykur þannig endingu.

Algengt er að sjá konur nudda úlnliðunum saman eftir að þær hafa spreyjað ilmvatni á sig en það eru mikil mistök. Það verður til þess að toppnótur ilmsins hverfa hraðar og ilmurinn endist skemur á úlnliðnum.

3. Spreyjaðu ilmvatni á helstu púlsstaði líkamans, það er úlnliði, háls og olnboga- og hnésbætur, því það tryggir að ilmurinn dreifist vel. Best er að spreyja á sig ilmvatni þegar maður er nýkominn úr sturtu og áður en maður klæðir sig því þá er húðin rök og grípur frekar ilminn. Þetta kemur líka í veg fyrir að ilmvatnið liti viðkvæm föt eða skartgripi. Algengt er að sjá konur nudda úlnliðunum saman eftir að þær hafa spreyjað ilmvatni á sig en það eru mikil mistök. Það verður til þess að toppnótur ilmsins hverfa hraðar og ilmurinn endist skemur á úlnliðnum. Ef þú vilt aðeins fá léttan ilm eða ert að bæta á þig örlítið meira ilmvatni fyrir kvöldið er sniðugt að spreyja ilmvatninu létt upp í loftið og ganga inn í mistrið. Margar konur spreyja ilmvatni í hárið á sér milli þvotta, enda er mikil uppgufun sem fer fram í gegnum höfuðið, ilmvatn sem inniheldur alkahól getur þó þurrkað hárið óþarflega mikið og þá er betra að spreyja ilmvatninu í hárbursta og renna honum svo í gegnum hárið.

4. Það getur reynst flókið að finna sér nýjan ilm og nauðsynlegt að vera með helstu hugtök á hreinu. Eau de toilette er með léttari ilm en Eau de parfum og er þar af leiðandi yfirleitt aðeins ódýrari. Ilmnótur skiptast niður í grunn-, mið- og toppnótur en ilmur getur ýmist verið blómlegur, sætur, kryddaður eða sítrus- og ávaxtakenndur. Einnig er hægt að fá ilm í föstu formi eða sem hreina ilmolíu, en slíkur ilmur er oftar en ekki kröftugri en sá sem er spreyjaður.

est er að spreyja á sig ilmvatni þegar maður er nýkominn úr sturtu og áður en maður klæðir sig því þá er húðin rök og grípur frekar ilminn.

5. Það er mjög misjafnt hvernig ilmvötn lykta á fólki. Í flestum verslunum er að finna þar til gerðan pappír sem þú getur spreyjað á áður en þú reynir eitthvað á eigin skinni. Ef þú hins vegar lendir í því að þú spreyjar á þig ilmvatni sem hentar þér alls ekki er gott að strjúka meikhreinsiklút yfir svæðið til að fjarlægja ilminn. Sniðugt er að blanda ólíkum ilmvötnum saman til að fá einstakan ilm sem einkennir þig. Þá er sniðugt að nota prufupappírinn til að prófa ólíkar blöndur. Þumalputtareglan segir að þú eigir að byrja á þyngri ilmi og enda á léttari, því annars er hætta á að sá léttari kæfist. Til að finna sanna lykt ilmvatnsins verður að spreyja því á húð og leyfa því að bíða í nokkrar mínútur á meðan það rýkur aðeins og aðlagast þér.

6. Ilmvötn má nota á fjölmarga vegu, til dæmis er sniðugt að spreyja uppáhaldsilmvatninu þínu á sængurfötin þín. Einnig er hægt að spreyja því á tissjúpappír sem þú setur í skúffurnar þar sem þú geymir fötin þín þannig að þau dragi í sig örlítinn ilm. Góð leið til að nýta síðustu dropana af ilmvatni sem leynist á botni glassins er að hella því út í lyktarlaust body lotion og gefa því þannig ilm.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Smár en knár fataskápur

Nokkur ráð til að koma upp hinum fullkomna fataskáp.

Á áttunda áratugnum bjó verslunareigandinn Susie Faux, sem átti litla tískufataverslun í London, til nýyrðið capsule wardrobe fyrir fataskáp sem hefur verið skorinn niður þannig að aðeins allra nauðsynlegustu flíkur séu eftir. Um er að ræða þrjátíu til fjörtíu klassískar, hágæða flíkur sem hægt er að blanda saman eftir þörfum. Þetta á að einfalda þér lífið og morgnanna sem þú stendur fyrir framan fataskápinn og veist ekkert í hverju þú átt að fara. En hvernig setur maður saman svona fataskáp og hverjar eru reglurnar?

Margar konur eiga allt of mikið af skóm. Fimm skópör er í raun allt sem þú þarft.

Skór
Margar konur eiga allt of mikið af skóm. Fimm skópör er í raun allt sem þú þarft – til dæmis háhæla skó, regnstígvél, sportlega götuskó, fallega flata skó og kannski ökklastígvél, einfalt og auðvelt. Töskur eru annað sem konur eiga of mikið af en af einhverjum ástæðum eru töskur ekki með í þessum lista þannig að þú getur átt eins margar og þú vilt.

Buxur og/eða pils
Misjafnt er milli kvenna hvort þær klæðast oftar pilsum eða buxum. Ekki er þörf á því að eiga meira en fjóra neðri hluta og þú mátt ráða hvort það séu buxur, pils eða hvoru tveggja. Mundu að þú getur alltaf poppað upp með fallegu belti.

Hér á landi er mikilvægt að eiga góðar og fjölbreyttar yfirhafnir því veðrið er allskonar. Miðaðu við að eiga fimm yfirhafnir; blazer-jakka, dúnúlpu, ullarkápu, leðurjakka og svo framvegis.

Kjólar og samfestingar
Það koma reglulega upp tilefni sem krefjast þess að við klæðum okkur upp á og þá er gott að eiga nokkra kjóla eða jafnvel samfesting. Reyndu að takmarka þig við fjórar flíkur í þessum flokki og velja flíkur sem passa við ólík tækifæri. Svartur kjóll er klassísk eign og alltaf hægt að lífga upp á hann með töff hálsmeni.

Blússur, bolir og peysur
Það mun eflaust reynast mörgum erfitt að fækka efri hlutum, en þeir mega aðeins vera tólf. Tólf flíkur hljómar kannski mikið í fyrstu en miðað er við fjórar blússur eða skyrtur, þrjár peysur, þrjá stuttermaboli, eina golftreyju og einn hlýrabol, sem er þegar öllu er á botninn hvolft alls ekki nóg.

Yfirhafnir og jakkar
Hér á landi er mikilvægt að eiga góðar og fjölbreyttar yfirhafnir því veðrið er allskonar. Miðaðu við að eiga fimm yfirhafnir; blazer-jakka, dúnúlpu, ullarkápu, leðurjakka og svo framvegis. Ef þú velur vel, og ert tilbúin að borga örlítið meira fyrir gæði, geta þessar flíkur enst þér í áratug eða jafnvel meira. Fallegur klútur getur svo gert gamla kápu að nýrri.

Ef þú velur yfirhöfn vel, og ert tilbúin að borga örlítið meira fyrir gæði, geta þessar flíkur enst þér í áratug eða jafnvel meira.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Eftirtektarverðar forsíður

Fagleg og falleg vinna liggur að baki hverri forsíðu Vikunnar.

Að baki hverri forsíðu Vikunnar liggur mikil vinna. Fyrst er að finna viðmælanda, setja sig inn í hugarheim hans og sögu en síðan að kalla viðkomandi í myndatöku. Reynt er af fremsta megni að laða fram persónuleikann í myndinni og ljósmyndari, stílisti, förðunarfræðingur og blaðamaður vinna saman til að ná því marki. Stundum tekst óvenjulega vel til og hér eru nokkrar eftirtektarverðar forsíður.

„Ástin kviknaði í Sjallanum“

Salka Sól Eyfeld er flestum Íslendingum kunn. Hún hefur verið reglulega í sjónvarpi landsmanna undanfarnar vikur í þættinum The Voice Ísland og um þar síðustu helgi sigraði hennar keppandi, Karitas Harpa Davíðsdóttir.

Hún er sannkallaður þúsundþjalasmiður; söngkona, lagahöfundur, rappari, útvarpskona, dómari, kærasta og svo margt fleira.

Forsíðumynd: Aldís Pálsdóttir
Förðun, hár og stílisering: Herdís Mjöll Eiríksdóttir

________________________________________________________

„Húmor er vanmetið vopn”

Ágústa Eva Erlendsdóttir var í óða önn að gera upp æskuheimili sitt í Hveragerði þegar Vikan sótti hana heim. Hún er hér í einlægu og fallegu viðtali um húsaviðgerðir, keppnisskap, ástina og velgengni.

Ágústa Eva hefur glímt við vanheilsu í kjölfar alvarlegs slyss sem hún varð fyrir á bílaþvottastöð en er nú að ná sér á strik aftur og tilkynnti stuttu eftir að viðtalið fór fram að hún bæri barn undir belti.

Hún býr nú í Barcelona ásamt ástinni sinni og tveimur börnum.

Forsíðumynd: Íris Dögg Einarsdóttir
Förðun og stílisering: Helga Kristjáns

________________________________________________________

„Við höfum sofið hjá sama fólkinu trekk í trekk”

Hinar stórskemmtilegu Reykjavíkurdætur létu gamminn geisa í hressilegu forsíðuviðtali þar sem allt var látið flakka. Síðastliðið vor stigu þær á svið í Borgarleikhúsinu og fengu þar að leika þar lausum hala.  Sýningin var skemmtileg blanda af rappi og einlægum frásögnum rappettnanna en von er á að hópurinn endurtaki leikinn í ár og stigi aftur á litla svið Borgarleikhússins.

Forsíðumynd: Hallur Karlsson
Förðun: Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir og Natalie Hamzehpour
Stílisering: Jóhanna Rakel Jónasdóttir

________________________________________________________

„Harmleikur færði fjölskylduna saman”

Aníta Ísey Jónsdóttir lærði snemma að taka stórar ákvarðanir. Fimmtán ára stýrði hún fyrstu uppskerusýningu ballettskóla fjölskyldu sinnar og hefur undanfarin tvö ár séð um sviðsframkomu keppenda í Miss Universe Iceland en keppin var haldin í september síðastliðnum. Fyrr á árinu missti Aníta ungan bróður sinn í hörmulegu slysi í Hveragerði og segir dauða hans hafa fært fjölskylduna saman.
Forsíðumynd og myndvinnsla: Aldís Pálsdóttir
Förðun: Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir

________________________________________________________

„Mér hefur alltaf verið skítsama um kynlíf”

Sonja Bjarnadóttir hefur aldrei skilgreint sig út frá kynhneigð. Hún hafnar því að kynhvöt sé ákvörðun en segist hafa lært að skilgreina sig rétt. Sonja er eikynhneigð en segir hugtakið vefjast fyrir flestum. Hún steig fram í opinskáu viðtali og útskýrði sína hlið.

Forsíðumynd og myndvinnsla: Aldís Pálsdóttir
Förðun: Helga Sæunn Þorkelsdóttir

 

Ostabakki í partýið

|
|

Fullkomnaðu ostabakkann með þessu góðgæti.

Smjörkurnar eru fyrir miðju. Vínberin neðst til vinstri og kryddmaukið efst til hægri.

ANANAS-KRYDDMAUK

Ananas kryddmauk er mjög gott með ostum, það passar líka vel sem meðlæti með kjöti og indverskum mat. Prófið að setja svolítið af ananaskryddmauki á skinkupítsu, það smakkast mjög vel.

olía til steikingar

4-6 skalotlaukar, smátt saxaðir

2 rauð chili-aldin, smátt skorin

1 ferskur ananas, afhýddur, kjarnhreinsaður og skorinn í bita

1 1/2 dl púðursykur

1 dl hrísgrjónaedik

1 msk. ferskt engifer, fínt rifið

1 1/2 tsk. karríduft

3-4 dl vatn, meira ef þarf

1/2 tsk. gróft sjávarsalt

nýmalaður svartur pipar

Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn við meðalhita þannig að hann verði mjúkur og glær, en brenni ekki. Bætið chili saman við ásamt ananas. Steikið í 5-10 mín. Setjið þá púðursykur og hrísgrjónaedik saman við ásamt engifer og karrídufti. Bætið vatni út í og látið sjóða í 30-40 mín. Eða þar til ananasinn er orðinn vel mjúkur og allt vatnið gufað upp. Mögulega þarf að bæta vatni á pönnuna til þess að maukið nái að sjóða nógu lengi. Bragðbætið með salti og pipar.

KRYDDLEGIN VÍNBER

u.þ.b. 400 g steinlaus vínber

3 dl hvítvín

2 msk. ljóst balsamedik

1 msk. sykur

3 greinar ferskt rósmarín

3-4 greinar ferskt tímían

Skolið vínberin og þerrið. Setjið þau í krukku með restinni af hráefninu og látið standa í kæli í 1-2 sólarhringa. Berin geymast í allt að viku í kæli. Þegar búið er að borða öll berin má gjarnan nota kryddlöginn í sósur eða súpur eða setja hann í frystipoka og nota síðan í matargerð.

SMJÖRKEX MEÐ DÖÐLUM OG PEKANHNETUM

u.þ.b. 30 stk.

Mjög fljótlegt er að skella í þetta kex, sérstaklega ef notað er ófrosið smjördeig sem hægt er að kaupa útflatt og upprúllað. Það er best nýbakað eða samdægurs því það geymist ekkert sérstaklega vel.

270 g smjördeig

6 döðlur, smátt skornar

20-30 g pekanhnetur, gróft skornar

1 eggjarauða

gróft sjávarsalt

Stillið ofn á 180°C. Hitið pönnu og ristið pekanhneturnar. Fletjið deigið út ef þarf, stráið döðlum og pekanhnetum yfir og brjótið í tvennt. Rúllið létt með kökukefli yfir deigið þannig að það festist vel saman. Pikkið með gaffli og skerið út kexkökur. Penslið með eggjarauðu, stráið svolitlu salti yfir og bakið í u.þ.b. 10 mín. eða þar til kökurnar hafa tekið fallegan lit.

Texti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Bragi Jósefsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Nýr kisi

Hvaða ráðstafanir þarf að gera þegar köttur er tekinn inn á heimilið?

Í kattasamþykkt höfuðborgarinnar er ákvæði um að allir kettir skulu merktir með örmerki.

Bólusetning
Við fæðingu eru kettlingar verndaðir gegn mörgum smitsjúkdómum með mótefnum, sem þeir fá í gegnum broddmjólk móðurinnar fyrstu klukkutímana eftir fæðingu. Mótefnin frá móðurinni lækka smám saman í blóði kettlingsins uns eigin mótefnamyndun hans tekur alfarið yfir. Við 8-12 vikna aldur hafa mótefnin lækkað það mikið að kominn er tími fyrir fyrstu bólusetningu. Til að örva mótefnamyndun kettlingsins eins mikið og hægt er skal endurtaka bólusetninguna 3-4 vikum síðar. Bólusett er við kattafári, kattainflúensu og klamidíu.

Örmerking
Í kattasamþykkt höfuðborgarinnar er ákvæði um að allir kettir skulu merktir með örmerki. Örmerki er örlítill kubbur sem er settur undir húð og virkar líkt og strikamerki. Örmerking er ávallt gerð af dýralæknum og best er að láta framkvæma hana um leið og gelding eða ófrjósemisaðgerð er gerð.

Ormahreinsun
Nauðsynlegt er að ormhreinsa ketti reglulega, helst tvisvar á ári, því ormar geta smitast í önnur gæludýr á heimilinu og jafnvel heimilisfólk. Kettlinga þarf skilyrðislaust að ormahreinsa jafnvel með styttra millibili en fullorðna ketti. Einnig er vert að benda á að mikla veiðiketti þarf að ormahreinsa með skemmra millibili heldur en ketti sem eru friðarsinnar eða innikisar. Best er að hafa samráð við dýralækni um skipulagningu ormahreinsunar fyrir köttinn þinn.

Ófrjósemisaðgerð
Þeir sem eiga læður þurfa að láta framkvæma slíka aðgerð á henni ef þeir vilja ekki að hún verði óvænt kettlingafull. Með nútímatækni og -deyfingaraðferðum við skurðaðgerðir eru ófrjósemisaðgerðir yfirleitt öruggar og án vandkvæða. Nokkrum dögum eftir aðgerðina eru flestir kettir farnir að hegða sér eins og ekkert hafi í skorist. Þó að það sé ekki jafnbrýnt þá er líka mælst til þess að gerðar séu ófrjósemisaðgerðir á fressum.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Ilmandi vellíðan

Ilmolíur eru notaðar bæði til yndisauka og til að bæta andlega og líkamlega heilsu.

Lavender, eða lofnarblóm eins og það heitir á íslensku, hefur róandi áhrif á líkama og sál.

Auk ilmsins eru þær sagðar bera með sér eiginleika plöntunnar sem þær eru unnar úr. Þær hafa því marga mismunandi eiginleika og eru notaðar til að meðhöndla ýmsa ólíka kvilla. Þó vissulega megi deila um virkni eða lækningarmátt ilmolía er vert að hafa í huga að þær auka einnig vellíðan og róa hugann sem er alls ekkert sjálfgefið. Ilmolíur geta hentað misvel fyrir hvern og einn, því er best að prófa sig áfram og finna hvað hentar sér. Gæta þarf að nota eingöngu náttúrulegar ilmkjarnaolíur (e. essential oils) en ekki olíur með ilmefnum, því þær hafa ekki sömu virkni. Hér eru nokkrar ilmolíur sem geta komið að góðu gagni í vetur og til hvers má nota þær.

Lavender
Lavender, eða lofnarblóm eins og það heitir á íslensku, hefur róandi áhrif á líkama og sál. Gott er að setja nokkra dropa undir koddann til að tryggja væran nætursvefn en einnig er hægt að bæta henni í baðið, í bland við aðra góða olíu, til að eiga slakandi og endurnærandi stund. Lavender er einnig talin bakteríu- og sveppadrepandi svo hún getur reynst góð fyrir þá sem eiga við einhvers konar húðvandamál að stríða en ekki má nota hana óþynnta beint á húð.

Eucalyptus-plantan virkarvel á vöðva- og liðverki og er oft meðal innihaldsefna í hitakremum og bólgudrepandi krem.

Eucalyptus
Eucalyptus-plantan frá Ástralíu er talin bæði bólgueyðandi og stíflulosandi. Hún virkar því vel á vöðva- og liðverki og er oft meðal innihaldsefna í hitakremum og bólgudrepandi krem.
Hún getur einnig verið góð fyrir lungu og kinnholur; til dæmis til að anda að sér og losa um stíflur. Settu þrjá til sex dropa í skál af heitu vatni, breiddu handklæði yfir höfuðið og andaðu gufunni að þér í nokkrar mínútur.

Kamilla
Kamilluolía er best þekkt fyrir róandi og slakandi áhrif sín en er mildari en lavender og má því nota á börn.
Gott er að setja dropa undir koddann hjá börnunum fyrir svefn eða jafnvel nokkra dropa í baðvatnið eftir langan skóladag.
Kamilla er einnig sögð hafa slakandi áhrif á meltingarkerfið og því er mælt með því að drekka kamillute þegar maður þjáist af magakveisu eða gubbupest.

Origanóolía er sannkallað þarfaþing yfir vetrartímann.

Frankincense
Frankincense er kraftaverkaolía sem hefur verið notuð svo öldum skiptir. Hún er sótthreinsandi, bakteríudrepandi, samandragandi, vindeyðandi, örvar meltingu, vökvalosandi, slímlosandi, róandi, kemur jafnvægi á estrogen framleiðslu líkamans og hjálpar sárum að gróa hraðar.
Frankincense-olía er mjög góð fyrir kvíða, streitu og þunglyndi því hún lyftir andanum og róar um leið. Hún er einnig mjög góð til að koma jafnvægi á blæðingar og minnkar fyrirtíðarspennu, tíðarverki og er góð á breytingaskeiðinu.
Olían er hóstastillandi og slímlosandi og því góð í allar kvefblöndur.
Olían er mjög góð fyrir feita húð og eldri húð þar sem hún minnkar hrukkur, minnkar fituframleiðslu húðarinnar og minnkar sár og ör af völdum bóla.

Origanó
Origanóolía er sannkallað þarfaþing yfir vetrartímann. Hún er mjög breiðvirkt bakteríudrepandi, sveppadrepandi og veirudrepandi auk þess sem hún er bólgueyðandi, andoxandi, hormónajafnandi og bætir meltingu.
Hún góð við myglu, hvers kyns sýkingum, örvar blóðflæðið, styrkir ónæmiskerfið og er talin virkja serótónín viðtaka í frumum.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / www.pixabay.com

Mjúkar en sterkar fyrirmyndir

Flottar konur á samfélagsmiðlum sem gaman er að fylgjast með.

Sýnt hefur verið fram á að mörgum konum líður verr með sjálfar sig eftir að hafa flett í gegnum tískublöð. Fyrirsætur í minnstu stærðum prýða síður þeirra í miklum meirihluta og þar sem meðalkonan er talsvert stærri er kannski ekki skrítið að fyrirmyndirnar séu örlítið á skjön við raunveruleikann og augljóslega erfitt að samsama sig hinni hefbundnu ofurfyrirsætu. Við fögnum fjölbreytileikanum h og mælum með nokkrum dásamlega mjúkum en sterkum fyrirmyndum sem gaman er að fylgjast með á samfélagsmiðlunum.

Nadia Aboulhosn
Nadia Aboulhosn er líbansk-amerískur tískubloggari og fyrirsæta sem virðist vera að minnka gjána á milli fyrirsætna í minnstu stærðum og svokallaðri yfirstærð (sem við á ritstjórn Vikunnar köllum bara eðlilega stærð!).

Hún hefur unnið að fatalínum fyrir boohoo.com, Addition Elle og Lord & Taylor og birst í stærstu tískublöðum heims á borð við ítalska Vogue.

Nadia er mikil talskona jákvæðrar líkamsvitundar og sjálfssáttar og hefur smám saman byggt upp ný viðmið og nýja fegurðarímynd innan tískubransans. Fylgist með dívunni á Nadiaaboulhosn.com.

________________________________________________________________

Tara Lynn
Hægt er að finna Töru Lynn á Instagram undir @taralynn en hún er ein frægasta yfirstærðarfyrirsæta heims í dag. Hún er hvað þekktust fyrir undirfatafyrirsætustörf sín en hún hefur einnig meðal annars setið fyrir á forsíðum ítalska Vogue og Elle.

________________________________________________________________

Franceta Johnson
Tískubloggarinn Franceta Johnson er frábær tískufyrirmynd og fyrirmynd kvenna almennt og þá sérstaklega þeirra sem eru í stærri stærðum. Hægt er að finna hana á Instagram undir @francetajohnson.

________________________________________________________________

Denise Bidot
„There is no wrong way to be a woman,“ segir á forsíðunni á vefsíðu fyrirsætunnar Denise Bidot og gætum við ekki verið þeim orðum meira sammála. Gullfalleg og klár kona með guðdómlegar mjúkar línur sem hægt er að líta upp til. Denisebidot.com og @denisebidot á Instagram.

________________________________________________________________

Ashley Graham
Nafn Ashley Graham er á allra vörum en hún er fyrsta fyrirsætan í yfirstærð til að prýða forsíðu tímaritsins Sports Illustrated. Þá hefur hún einnig birst á síðum Vogue, Harper´s Bazaar, Glamour og Elle. Nýverið höfum við einnig séð hana í herferð fyrir sænska fataframleiðandann Lindex. Líklega stærsta nafnið í „mjúku konu bransanum“ í dag og virkilega þess virði að fylgjast með ævintýrum hennar á Instagram, hvort sem það er til að fá stíl- eða förðunarinnblástur eða til að fá pepp almennt. @theashleygraham.

________________________________________________________________

Candice Huffine
Candice Huffine er andlit sem margir ættu að kannast við en hún hefur unnið fyrir mörg stærstu nöfnin í bransanum og meðal annars pósað fyrir hið víðfræga Pirelli-dagatal. Candice er mjúk fyrirsæta í hörkuformi sem gaman er að fylgjast með á samfélagsmiðlunum. Hana má finna á Instagram, @candicehuffine.

________________________________________________________________

Gabi Fresh
Gabi Fresh byrjaði með tískublogg árið 2008 þar sem áhugasvið hennar, tíska og blaðamennska, kom að góðum notum. Síðan þá hefur bloggið orðið að hennar aðalstarfi og hún áhrifamikil tískufyrirmynd fyrir konur af mýkri gerðinni. Við mælum með vefsíðunni hennar Gabifresh.com.

Texti / Helga Kristjáns

Helsinki – margbreytileg og skemmtileg borg

Helsinki er frábrugðin öðrum höfuðborgum Norðurlandanna.

Dómkirkjan í Helsinki er glæsileg bygging.

Helsinki er nútímaleg og heillandi evrópsk borg, gædd ríkulegri sögu, menningarlegri fjölbreytni, glæsilegri byggingarlist, fallegum grænum svæðum og öllu þar á milli. Hún er frábrugðin öðrum höfuðborgum Norðurlandanna vegna þess að rússnesk áhrif eru áberandi þar. Arkitektúrinn ber þess líka merki því hann er blanda úr ýmsum áttum, byggingarnar eru bæði innblásnar af sænskum og rússneskum stíl.

Temppeliaukion kirkko, eða klettakirkjan, eins og hún er stundum kölluð, er staðsett í hjarta borgarinnar og var hönnuð af bræðrunum Timo og Tuomo Suomalainen seint á sjöunda áratugnum. Þegar inn í hana er komið er líkt og maður sé kominn inn í helli því veggirnir eru bæði úr heilli klöpp og hlöðnum grjóthnullungum og dagsbirta streymir inn í gegnum þakglugga á koparhvelfingunni.

Arkitektúrinn ber þess líka merki því hann er blanda úr ýmsum áttum, byggingarnar eru bæði innblásnar af sænskum og rússneskum stíl.

Á ráðhústorginu eru fallegt um að lítast.

Hakaniemen Kauppahalli er markaður í miðbæ borgarinnar í fallegu sögufrægu húsi. Innandyra úir og grúir af girnilegum matvælum í bland við finnskt handverk og hönnun. Það er vel þess virði að þræða gangana, sérstaklega ef maður hefur áhuga á að bragða finnskt góðgæti, eins og til dæmis rúgbrauð, hreindýrakjöt, kaalikääryleet, sem eru fylltir hvítkálsbögglar, eða mustikkapulla, sem er sætabrauð fyllt með bláberjum.

Það er að sjálfsögðu ekki hægt að heimsækja Finnland án þess að fara í sána. Mörg hótel og gististaðir bjóða upp á sána og einnig eru fjölmörg baðhús úti um alla borg.

Kulttuuri-sána er almenningssána við sjóinn sem var reist þegar Helsinki hélt heimshönnunarsýninguna árið 2012. Sánað er opið frá miðvikudegi til sunnudags, frá kl. 16 til 20.

Linnanmäki-skemmtigarðurinn er nokkurn veginn í miðri Helsinki og er mjög áberandi í sjóndeildarhring borgarinnar.

Þar standa stórkostlegir rússíbanar, fallturnar, veitingastaðir og ýmsar sýningar gestum til boða.

Garðurinn var fyrst opnaður árið 1950 en alla tíð síðan hafa eigendurnir unnið stöðugt að bótum, breytingum og viðhaldi.
Verð og dagskrá garðsins er breytileg yfir árið og því sniðugt að kíkja á vefsíðuna: https://www.linnanmaki.fi/

Í Linnanmäki-skemmtigarðinum eru stórkostlegir rússíbanar, fallturnar, veitingastaðir og ýmsar sýningar.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / www.pixabay.com

Vinsælar jólaborgir

Þó að mörgum finnist best að vera heima hjá sér á aðventunni og um jólin eru alltaf einhverjir sem nota þennan árstíma til ferðalaga.

Við Effel-turninn er skautasvell fyrir fjölskylduna.

París – trjágöngin töfrum líkust
París er ein rómantískasta borg heims, ekki síst yfir jólatímann þegar hún er böðuð í ljósum og skreytingum. Þar er mikið um að vera fyrir fólk á öllum aldri, fjölbreyttir tónleikar eru víða um borgina, kórar syngja og ýmsir viðburðir. Jólin eiga það til að kalla fram börnin í okkur öllum þannig að hvort sem þú ferðast með börn eða ekki þá skaltu njóta alls sem borgin hefur upp á að bjóða. Við Effel-turninn er skautasvell fyrir fjölskylduna, markaðir eru víðs vegar um borgina og jólaljósin sem prýða Effel-turninn, Sigurbogann og brýr og fleiri mannvirki lýsa svo sannarlega upp skammdegið. Ljósin á trjánum á götunni Champs Elysees eru töfrum líkust og gaman að fara hring í stóra parísarhjólinu og virða útsýnið fyrir sér. Stórverslunin Galeries Lafayette er ein af þeim byggingum sem böðuð er ljósum að utan og innan og hana er mjög gaman að skoða, Notre Dam-kirkjan er afar hátíðleg og ef þið eruð svöng þá skuluð þið endilega fá ykkur heita pönnuköku með Nutella hjá götusölunum.

New York – borgin sem aldrei sefur
New York er virkilega jólaleg allt frá miðjum nóvember og óhætt að segja að borgin sé sveipuð mikilli ljósadýrð og fallegum jólaskreytingum. Mikið er um að vera bæði á götum úti og innandyra þar sem ýmsir viðburðir eru í boði. Líf og fjör er í verslunum og hægt að gera fínustu kaup eða njóta þess einfaldlega að ganga niður Fifth Avenue og skoða í gluggana. Alger skylda er að fara á skauta á skautasvellinu í Rockefeller Center undir hinu dásamlega himinháa jólatré og ekki má heldur missa af því að hitta jólasveininn. Svo er bara að njóta þess að fá sér gott að borða og fara inn á lítil sæt kaffihús og fá sér góðan kaffibolla eða heitt súkkulaði. Passið bara að vera vel klædd því það getur verið kalt á þessum árstíma.

New York er virkilega jólaleg allt frá miðjum nóvember og óhætt að segja að borgin sé sveipuð mikilli ljósadýrð og fallegum jólaskreytingum.

Akureyri – litla, vinalega „stórborgin“
Þó að Akureyri teljist ekki til borga þá hefur hún allt til alls eins og stórborg en er á sama tíma svo agnarlítil og krúttleg. Þar er hægt að fara á tónleika og í leikhús, njóta lífsins á vinalegum kaffihúsum, fara út að borða á veitingastöðum á heimsklassa og rölta um og njóta fallegra jólaljósa. Stróka í búðir og þá sérstaklega í gamla Bókval, snuðra í bókum og kaupa sér nokkrar, fara í Bakaríið við brúna og fá sér gott brauð að borða.

Borgin er mjög jólaleg í desember og yndislegt að fara á Strikið, borða eplaskífur og njóta þess að rölta um og skoða jólaljósin.

Kaupmannahöfn – jólin byrja í Tívolí
Kaupmannahöfn er í uppáhaldi hjá mörgum enda vinaleg og heillandi borg sem er mörgum Íslendingum hugleikin en margir þeirra hafa búið þar í lengri eða skemmri tíma. Borgin er mjög jólaleg í desember og yndislegt að fara á Strikið, borða eplaskífur og njóta þess að rölta um og skoða jólaljósin. Nauðsynlegt er að fara í Tívolíið, það er einstaklega jólalegt og fallegt frá miðjum nóvember og fram yfir áramót. Það var árið 1994 sem farið var að opna Tívolíið á þessum tíma en áður hafði það aðeins verið opið yfir sumartímann, eða í 151 ár. Þar sem Danir eru þekktir fyrir bjórmenningu þá er ekki amalegt að skella sér inn á nærliggjandi veitingastað og fá sér gott að borða og ískaldan jólabjór.

Berlín – paradís jólamarkaðanna
Berlín er æðisleg í desember, fallega skreytt og dásamlegir jólamarkaðir um allt eins og venja er í þýskum borgum. Í Berlín er meiri nútímabragur yfir jólamörkuðunum en annars staðar í Þýskalandi og þeir eru staðsettir um alla borgina. Sá vinsælasti og mest heimsótti er í kringum Kaiser Wilhelm Gedächtniskirche og flott að sjá alla básana í kringum kirkjuna. Kirkjan varð fyrir árás í síðari heimsstyrjöldinni og rústir hennar standa enn til minningar um stríðið. Fjölbreyttir viðburðir eru í boði og borgin angar af ristuðum möndlum, heitu súkkulaði og jólaglöggi.

Berlín er æðisleg í desember, fallega skreytt og dásamlegir jólamarkaðir um allt eins og venja er í þýskum borgum.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / www.pexels.com

Gagnleg ráð fyrir húðina í kuldanum

Mikilvægt er að hugsa vel um húðina á veturna.

Hjá mörgum framkalla kaldir vetrardagar meira en rósrauðan roða í kinnar, þeir gera húðina líka mjög þurra, ekki síst í andliti, á höndum og fótum. Hjá sumum verður þetta mun meira en tilfinningin ein, þessi þurrktilfinning, þurrkurinn getur orðið til þess að húðin flagnar, springur og stuðlað að exemi. Hér eru nokkur góð ráð til að undirbúa húðina fyrir veturinn.

Veldu rakakrem sem eru með olíu sem undirstöðu frekar en vatn en olían myndar verndandi hjúp á húðina og heldur eftir meiri raka en kremin sem byggja á vatni.

Leitaðu ráða hjá sérfræðingi
Skelltu þér í næstu lyfjaverslun eða snyrtivörubúð og fáðu álit hjá sérfræðingi í kremum. Hann getur sagt þér hvaða tegund af húð þú ert með, greint vandamálin sem eru kannski í gangi þessa stundina og ráðlagt þér hvaða vörur er best að nota. Það þýðir samt ekki að þú þurfir að kaupa allt það dýrasta sem verslunin hefur upp á að bjóða því vörurnar sem henta þér gætu verið þessar  allra ódýrustu. Það sem mestu máli skiptir er hvernig húðin bregst við vörunum og hvernig þér líður með að bera þær á þig – ekki hversu mikið þú borgaðir fyrir þær.

Gefðu húðinni meiri raka
Þú átt kannski rakakrem sem hentar þér fullkomlega á vorin og sumrin. En á haustin og á vetrum þarf oft að breyta um vörur í takt við veðrabreytingarnar. Veldu rakakrem sem eru með olíu sem undirstöðu frekar en vatn en olían myndar verndandi hjúp á húðina og heldur eftir meiri raka en kremin sem byggja á vatni. Vandaðu samt valið því sum olíukennt krem henta ekki fyrir andlit; veldu til dæmis krem með avókadóolíu, mineral-olíu, primrose-olíu eða almond-olíu. Sjávarolíur og „butter“ er meira bara fyrir líkama. Þess má geta að mörg krem sem merkt eru sem næturkrem eru olíukennd.

Sólarvörn er ekki bara til notkunar á sumrin. Vetrarsólin í bland við glampann af snjónum getur líka haft slæm áhrif á húðina. Ekki hika við að bera sólarvörn á andlit og hendur … áður en þú ferð út í vetrarsólina.

Notaðu sólarvörn
Sólarvörn er ekki bara til notkunar á sumrin. Vetrarsólin í bland við glampann af snjónum getur líka haft slæm áhrif á húðina. Ekki hika við að bera sólarvörn á andlit og hendur, ef þær eru berar, áður en þú ferð út í vetrarsólina. Gott er að vera búinn að bera hana á sig um þrjátíu mínútum áður en farið er út og bera svo á sig reglulega ef maður er lengi úti.

Passaðu upp á hendurnar
Húðin á höndunum er þynnri en á flestum öðrum líkamshlutum og að auki með færri olíukirtla. Þess vegna er erfiðara að halda réttu rakastigi á höndunum, ekki síst í köldu og þurru veðri sem getur framkallað kláða og sprungur. Vertu því sem mest með hanska og vettlinga þegar þú ferð út, ekki síst úr ull.

Forðastu blauta sokka og hanska
Ef þú blotnar í fæturna eða hendurnar blotna þá skaltu reyna að skipta um sokka eða hanska eins fljótt og mögulegt er, annars getur þú fengið kláða, sprungur, sár og jafnvel exem.

Vertu þér úti um rakatæki
Ofnar og það sem notað er til upphitunar eykur oft þurrt loft á heimilum og vinnustöðum. Rakatæki dreifa raka út í andrúmsloftið og hjálpa til við að koma í veg fyrir að húðin þurrkist upp. Vertu því með rakatæki á nokkrum stöðum á heimili þínu og í vinnunni.

Gefðu fótunum extra mikið af raka
Fótakremin með mintulyktinni eru indæl yfir sumarmánuðina en á veturna þarftu eitthvað miklu áhrifaríkara. Reyndu að finna lotion sem inniheldur jarðolíuhlaup eða glyserín. Svo er gott að nota andlits- og líkamsskrúbb reglulega til að losna við dauðar húðfrumur en með því hefur rakakremið líka greiðari aðgang að húðinni.

Vatnsdrykkja er mjög góð fyrir heilsuna almennt og húðin nýtur sannarlega góðs af þótt vatnsdrykkjan

Drekktu nóg af vatni
Þú hefur líklega heyrt þetta margoft en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Vatnsdrykkja er mjög góð fyrir heilsuna almennt og húðin nýtur sannarlega góðs af þótt vatnsdrykkjan ein og sér sé ekki nóg til að koma í veg fyrir mesta húðþurrkinn.

Hvíldu kornamaskann
Ef húðin í andlitinu er mjög þurr þá skaltu forðast að nota grófa kornamaska, leirmaska eða andlitsvatn með alkóhóli því þetta þurrkar húðina.
Í staðinn getur þú notað hreinsimjólk eða mildan froðuhreinsi, andlitsvatn án alkóhóls eða maska með djúpnæringu.

Forðast skal mjög heitt bað
Þótt unaðslegt sé að skella sér í heitt bað, sturtu eða heitan pott á köldum vetrardögum þá getur það haft þau áhrif að húðin missi raka. Þið eruð betur sett í volgu vatni og passa þarf að dvelja ekki of lengi. Volgt bað með haframjöli eða bökunarsóda getur linað kláða á þurri húð.

Ef þessi atriði virka ekki þá skaltu ekki hika við að fara til húðsjúkdómafræðings.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Gömlu góðu súpurnar

||
||

Einfaldir réttir sem öllum finnst góðir.

Á mínu æskuheimili var gjarnan aspassúpa í forrétt á aðfangadagskvöld og var þá borið nýbakað brauð með. Ég hafði það hlutverk þennan dag að útvega brauðið, snittubrauð, sem var búið að panta í hverfisbakaríinu og fannst mér það mikilvægt verkefni. Sumir eru að stíga sín fyrstu skref í að skapa jólahefðirnar og uppbökuð súpa er réttur sem einfalt er að laga og öllum finnst góður. Súpa er líka góður kostur sem forréttur þegar veislan er stór.

Aspassúpa gæti verið málið á aðfangadagskvöld.

ASPASSÚPA

fyrir 6

30 g smjör

3 msk. hveiti

12 dl grænmetis- eða kjúklingasoð

2 aspasdósir ( u.þ.b. 600 g samtals)

salt eftir smekk

pipar eftir smekk

2 dl rjómi, þeyttur

2 msk. söxuð steinselja (má sleppa)

Bræðið smjör í potti, hrærið hveiti út í þar til úr verður smjörbolla og þynnið síðan út með soðinu. Byrjið að setja 1 dl af soðinu og síðan smátt og smátt svo súpan verði vel samlöguð og fari ekki í kekki, bætið soðinu af aspasnum út í í restina. Sjóðið súpuna í 3-5 mín., bætið þá aspas út í og látið allt sjóða saman við vægan hita í 4-5 mín. Saltið og piprið eftir smekk. Hellið súpunni í diska og setjið rjómatopp á hvern disk. Fallegt er að skreyta ofan á með steinselju.

Ef ferskur aspas er notaður í súpuna í staðinn fyrir aspas úr dós þá er neðsti hlutinn af stönglinum flysjaður létt, aspasinn skorinn í bita og soðinn í soðinu í nokkrar mínútur á sama hátt og gert er í blómkálssúpunni.

BLÓMKÁLSSÚPA

fyrir 4

Nota má sömu aðferð við að gera spergilkálssúpu.

1 stórt blómkálshöfuð, skorið í 4 hluta

12 dl grænmetis- eða kjúklingasoð

30 g smjör

3 msk. hveiti

salt eftir smekk

pipar eftir smekk

2 dl rjómi, þeyttur

2 msk. söxuð steinselja (má sleppa)

Sjóðið blómkálið í soðinu þar til það er næstum meyrt. Sigtið soðið frá og geymið. Skiptið blómkálsbitunum í greinar í munnbitastærð. Bræðið smjör í potti, hrærið hveiti út í þar til úr verður smjörbolla og þynnið síðan út með kjötsoðinu. Byrjið að setja 1 dl af soðinu og síðan smátt og smátt svo súpan verði vel samlöguð og fari ekki í kekki. Sjóðið súpuna í 3-5 mín. og bætið síðan blómkáli út í og látið sjóða aðeins áfram. Saltið og piprið eftir smekk. Hellið súpunni í diska og setjið rjómatopp á hvern disk. Fallegt er að skreyta ofan á rjómann með steinselju eða tímíangrein.

BRAUÐBOLLUR

24 stk.

Blómkálssúpa og brauðbollur er fyrirtaks máltíð.

500 g hveiti

1 tsk. salt

1 tsk. sykur

100 g smjör

½ pk. þurrger

3 dl mjólk

1 egg

Blandið hveiti, salti og sykri saman í skál og myljið smjörið í blönduna. Hitið mjólkina þar til hún er fingurvolg og stráið þurrgerinu úr í, látið standa í 2-3 mín. Sláið eggið út í mjólkurblönduna og hellið þessu síðan út í hveitið. Hnoðið saman í sprungulaust deig. Látið deigið í skál og látið lyfta sér á hlýjum stað, undir klút eða plastfilmu, í 30 mín. Hnoðið deigið á ný og skiptið í tvo hluta. Rúllið hvorn hluta í pylsu og skiptið í 12-14 bita. Hnoðið bollur og raðið á ofnplötur. Látið lyfta sér aftur í 30 mín. og penslið með eggi eða mjólk. Hitið ofninn í 225°C. Bakið bollurnar í 10-15 mín. Má frysta og hita upp aftur við 100°C. Í 10-15 mín.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Jólasveinar einn og átta

Í kvikmyndum er að finna alls kyns áhugaverðar útfærslur á jólasveininum.

Þó að við á Íslandi séum vön bræðrunum þrettán sem við köllum jólasveina þekkjum við samt öll káta, rauðklædda jólasveininn sem á hug og hjörtu barna um allan heim. Í kvikmyndum er að finna alls kyns útfærslur á sveinka, bæði góðar og slæmar, og hér eru nokkrar þeirra.

Myndirnar um Bad Santa segja frá Willie Stokes sem flakkar, ásamt félaga sínum, á milli verslanamiðstöðva og ræna hvern einasta stað sem þeir koma á.

Vondi jóli

Myndirnar um Bad Santa segja frá svikahrappinum Willie Stokes sem flakkar, ásamt félaga sínum, á milli verslanamiðstöðva klæddur sem jólasveinn en í staðinn fyrir að breiða út fagnaðarerindi jólanna er markmið tvíeykisins að ræna hvern einasta stað sem þeir koma á. Í fyrri myndinni kynnist Willie átta ára gömlum krakka sem flækir svo sannarlega hlutina fyrir honum. Önnur myndin var frumsýnd í lok nóvember. Í henni nálgast jólin á ný og Willie er við sama heygarðshornið og áður, nú safnar hann peningum fyrir bágstadda en hirðir svo peningana sjálfur. Willie vill samt enn meira, fégráðugur sem hann er, og því ákveður hann að ræna velstæð góðgerðarsamtök í slagtogi við smávaxna félaga sinn, Marcus, og móður sína, Sunny.

Nýr jólasveinn

Í myndinni The Santa Clause, sem er fyrsta myndin í þríleik, er sagt frá Scott Calvin. Hann er bara venjulegur maður sem lendir í því óhappi að jólasveinninn dettur af þaki hans og slasast á aðfangadagskvöld. Scott og sonur hans, Charlie, finna 8 hreindýr á þakinu og þeir ákveða að klára að sendast með pakkana fyrir sveinka. Að ferðinni lokinni fara þeir til Norðurpólsins þar sem Scott er tjáð að hann verði að gerast nýi jólasveinnin og hafi því 11 mánuði til að ganga frá sínum málum og mæta aftur á pólinn á þakkargjörðardaginn.

Í Miracle on 34th Street virðast öll börn New York-borgar sannfærð um að Kris Kringle, nýi jólasveinninn í Cole’s-stórversluninni, sé hinn raunverulegi jólasveinn.

Kraftaverkajól

Í Miracle on 34th Street virðast öll börn New York-borgar sannfærð um að Kris Kringle, nýi jólasveinninn í Cole’s-stórversluninni, sé hinn raunverulegi jólasveinn. Vinsældir Kris vekja bæði tortryggni og afbrýðisemi meðal annarra jólasveina og verslunareigenda. Þeir reyna að taka hann úr umferð með því að höfða dómsmál gegn honum. Þá kemur lögmaðurinn Bryan Bedford og reynir að sanna tilvist jólasveinsins og vinna málið. Það reynist auðvitað ekki einfalt mál en eins og allir vita þá gerast kraftaverk á jólunum.

Yngri sonur jólasveinsins

Í teiknimyndinni Arthur Christmas fáum við loks svar við ráðgátunni um hvernig jólasveininum tekst að afhenda allar gjafirnar á einni nóttu. Starfsemin á Norðurpólnum einkennist af útpældu skipulagi og mikilli hátækni sem er vel falin fyrir okkur hinum. En undir niðri leynist venjuleg fjölskylda sem fer á kostum í góðlátlegum deilum og valdabaráttu. Yngri syni jólasveinsins, Arthur, er enn mjög annt um anda jólanna og þegar hann fær óvænt upp í hendurnar óendanlega mikilvægt verkefni leggur hann allt í sölurnar til þess að klára það áður en jólin renna upp.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Góð ráð til að auka gleði og orku í skammdeginu

Eitt og annað sem kemur sér vel í mesta skammdeginu.

Veturinn er erfiður tími fyrir marga og sumir þjást jafnvel af svokölluðu skammdegisþunglyndi, einkenni þess geta verið allt frá sleni og afkastaleysi til depurðar. Hér eru nokkur góð ráð til að auka gleði og orku.

Ein besta leiðin til að hrista af sér vetrarslen er að flýja veturinn alveg, þó það sé ekki nema í nokkra daga.

Meira ljós
Á veturna minnkar dagsbirta til muna og það getur haft áhrif á líðan okkar. Til eru sérstakir dagsbirtulampar til að reyna að vinna á móti áhrifum skammdegisþunglyndis. Jafnvel þótt þú þjáist ekki af skammdegisþunglyndi er mikilvægt að huga að birtunni á heimilinu, því það er svo dimmt hér á veturna. Hengdu upp ljósaseríur, kveiktu á kertum og lýstu upp heimilið.

Skrepptu í frí
Besta leiðin til að hrista af sér vetrarslen er augljóslega að flýja veturinn alveg, þó það sé ekki nema í nokkra daga. Ef þú hefur tök á ættir þú að reyna að bóka þér ferð í örlítið hlýrra loftslag, annars getur ferð í sumarbústað með góðum mat og víni gert kraftaverk.

Veturinn og aðdragandi jólanna getur verið mjög stressandi og því er um að gera að reyna að takmarka streituna eftir bestu getu.

Passaðu stressið
Veturinn og aðdragandi jólanna getur verið mjög stressandi og því er um að gera að reyna að takmarka streituna eftir bestu getu. Það er líffræðilega sannað að við erum orkuminni á veturna, þannig að vinnuálag sem okkur finnst ekkert mál á sumrin verður okkur offviða. Reyndu að taka tillit til þín og ekki hlaða á þig of mörgum verkefnum eða skiladögum.

Skelltu einhverju skemmtilegu „á fóninn“.

Ekki gleyma að hlæja
Hlátur er besta meðalið. Horfðu á uppáhaldsgamanmyndina þína, lestu fyndnar sögur í bókum og blöðum eða skipstu á bröndurum við vini þína.
Allt eru þetta góðar leiðir til að tryggja að þú hlæir nóg og takir lífinu ekki of alvarlega.

Spilaðu tónlist
Tónlist getur veitt mikla gleði og þess vegna er gott að safna öllum uppáhaldslögunum sínum á einn lista, til dæmis á tónlistarveitunni Spotify. Þá getur þú spilað þau hvenær sem þú þarf á að halda.
Nú getur þú til dæmis spilað jólalögin, þau hjálpa þér að halda í gleðina sem á að fylgja hátíðinni.

Láttu heyra frá þér
Við mannfólkið erum félagsverur að eðlisfari og þurfum á félagskap að halda. Rannsóknir hafa sýnt að samvistir við sína nánustu getur dregið svo um munar úr streitu.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Göngum við í kringum …

Fyrstu þekktu heimilidir um jólatré frá 16. öld.

Þetta er fyrsta myndin af jólatré sem birtist á prenti, nánar tiltekið á bókakápu The Strangers Gift eftir Hermann Bokum árið 1836.

Sumir geta ekki hugsað sér að vera með annað en lifandi jólatré á meðan aðrir eru alsælir með gervitré.

Svo er til fólk sem sættir sig alveg við lítið jólatré úr vírherðatrjám með jólaseríu, keramíkjólatré, eða jafnvel ekkert tré.

Fyrstu þekktu heimildir um einskonar jólatré eru frá Strassburg og þar um kring á 16. öld.

En hinn fyrsti sem getur um ljósum prýtt jólatré er Goethe, í sögu frá 1774.

Fyrsta mynd af jólatré með ljósum er hins vegar frá Zürich árið 1799.

Nokkrum árum síðar, árið 1807, voru til sölu á markaði í Dresden í Þýskalandi fullbúin jólatré, meðal annars skreytt gylltum ávöxtum og kertum.

Greinilegt er, að siðurinn var þá búinn að ná öruggri fótfestu þar um slóðir. Hann fór svo að berast til Norðurlanda eftir 1800.

Til Íslands munu fyrstu jólatrén hafa komið um 1850, í kaupstaði, aðallega hjá dönskum fjölskyldum.

En fæstir landsmenn áttu þess kost að eignast grenijólatré á þeim tíma. Málið var leyst með því að smíða gervijólatré og klæða það með sortulyngi, beitilyngi eða eini. Elstu heimildir um slíkt eru frá 1880-1890.

Til Íslands munu fyrstu jólatrén hafa komið um 1850, í kaupstaði, aðallega hjá dönskum fjölskyldum. En fæstir landsmenn áttu þess kost að eignast grenijólatré á þeim tíma.

Fleira áhugavert

– Það tekur jólatré að meðaltali 7-10 ár að vaxa í rétta stærð.

– Notkun á sígrænu tré til að halda upp á vetrarsólstöður var við lýði löngu áður en talið er að Jesús hafi fæðst.

Fyrstu heimildir um skreytt jólatré eru frá Riga í Lettlandi árið 1510.

– Jólatré hafa verið seld í Bandaríkjunum síðan um 1850. Þar til nýlega komu öll jólatré úr skógum en nú eru yfir 21 þúsund aðilar sem rækta jólatré. Hálfur milljarður trjáa er í ræktun.

– Fyrstu heimildir um skreytt jólatré eru frá Riga í Lettlandi árið 1510.

– Jólatré eyða ryki og ögnum úr loftinu.

– Franklin Pierce, 14. forseti Bandaríkjanna, var fyrsti forsetinn til að láta setja upp jólatré í Hvíta húsinu (1856).

– Þegar Teddy Roosevelt var í forsetastól mátti jólatré ekki koma inn fyrir dyr Hvíta hússins af umhverfisástæðum.

– Aðstoðarmaður Edisons, Edward Johnson, átti hugmyndina að því að setja rafmagnsljós á jólatréð. Átta árum síðar, eða 1882, komu þau á markað fyrir almenning.

– Lítil kertaljós á greinar jólatrés var almennt strax í kringum miðja 17. öld.

– Árið 2002 voru 21 prósent Bandaríkjamanna með alvörujólatré, 48 prósent með gervitré og 32 prósent með ekkert jólatré.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Kaldur og ljúffengur súkkulaðimöndludrykkur

Bragðgóður og fljótlegur drykkur.

Súkkulaðimöndludrykkur
fyrir 2
100 g súkkulaði
4 dl matreiðslurjómi
6 msk. möndlulíkjör, t.d. Amaretto
500-600 ml súkkulaðiís, t.d. frá Ekta

Hitið súkkulaði í matreiðslurjómanum og kælið blönduna. Skiptið henni í 2 glös, skiptið möndlulíkjör á milli og setjið ískúlur ofan á.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir
Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Ef maður tengir við RIE tengir maður svo sterkt

Kristín Maríella Friðjónsdóttir segir að þörfin fyrir nýjar uppeldisaðferðir sé mikil hér á landi.

Kristín Maríella Friðjónsdóttir kynntist RIE eða Respectful Parenting-uppeldisaðferðinni fyrir tæpum þremur árum og hefur síðan þá haldið fjölmörg námskeið sem notið hafa mikilla vinsælda. Kristín sem er búsett í Singapúr segir greinilegt að þörfin fyrir nýjar uppeldisaðferðir sé mikil hér á landi.

Kristín Maríella Friðjónsdóttir kynntist RIE eða Respectful Parenting-uppeldisaðferðinni fyrir tæpum þremur árum og hefur síðan þá haldið fjölmörg námskeið sem notið hafa mikilla vinsælda.

„Við fluttum hingað fyrir þremur árum þegar maðurinn minn stundaði masters-nám hér. Eftir útskrift fékk hann atvinnutilboð og því ílengdumst við. Okkur líður mjög vel í Singapúr og höfum komið okkur vel fyrir hérna hinum megin á hnettinum.“

Kristín er menntaður fiðluleikari og lærði einnig á víólu í Bandaríkjunum. Eftir það nám tóku við fjölbreytt störf tengd tónlistinni en á sama tíma stofnaði hún skartgripamerkið Twin Within ásamt systur sinni, Áslaugu Írisi. Fljótlega tók hönnunin yfir en eftir að fjölskyldan flutti til Singapúr hefur Kristín haldið rekstrinum áfram auk þess að kenna ungum börnum á fiðlu og miðla fræðslutengdu efni um uppeldisaðferðina RIE eða Respectful Parenting. „Ég kýs að kalla þessa uppeldisstefnu Virðingarríkt tengslauppeldi en ég kynntist RIE fyrir þremur árum. Þá var Ylfa, eldri dóttir mín, um 6 mánaða. Ég hef alltaf verið mjög áhugasöm um allt sem viðkemur uppeldi, meðgöngu, fæðingu, þroska barna og samskiptum. Stuttu eftir að við fluttum til Singapúr fékk ég réttindi í fæðingarhjálp (e. doula) og óhætt að segja ég eyði öllum frítíma mínum í að lesa um allt sem viðkemur börnum. Í einhverjum rannsóknarham á Internetinu rambaði ég inn á bloggsíðu Janet Lansbury, sem er helsta talskona RIE í heiminum, og þá var ekki aftur snúið. Ég tengdi strax mjög sterkt við það sem ég las frá henni og fékk bara ekki nóg. Það er nefnilega þannig með RIE, ef maður tengir, þá tengir maður svo sterkt.“

Virðingin, traustið og tengingin

Kristín segir erfitt að útskýra stefnuna í stuttu máli því hún sé í raun heill heimur af fróðleik. „Að mínu mati er RIE byggt upp á þremur grunnhugtökum en þau eru virðing, traust og tenging. Mér finnst það vera eins konar kjarni RIE sem stefnan gengur alltaf út frá. Við komum fram við börn af virðingu frá fæðingu. Við lítum á þau sem heila einstaklinga sem eiga rétt á því að komið sé fram við þau eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Við reynum eftir fremsta megni að sjá hlutina frá þeirra sjónarhorni og bjóðum þeim að taka þátt í lífinu strax frá fyrsta degi. Við tölum eðlilega við börnin okkar, sleppum öllu leikritum, erum hreinkilin, örugg og róleg. Eins er mikil virðing borin fyrir mikilvægi leiks og við reynum að trufla ekki barn sem er niðursokkið í leik. Börn eru studd til að leika sér sjálfstætt og á sínum forsendum frá upphafi. Við treystum líka barni til þess að þroska hreyfigetu sína á sínum hraða með sínum leiðum og hjálpum eða kennum þeim til dæmis ekki að snúa sér, setjast eða ganga.

„Við leyfum barni að tjá allar tilfinningar sínar og styðjum börnin í gegnum grátköst með því að viðurkenna tilfinningar þeirra og sýna þeim þolinmæði.“

Við trúum því að börn séu alltaf góð og vitum að þegar þau sýna óæskilega hegðun sé það vegna þess að þau eigi erfitt og vanti aðstoð frá okkur. Við leyfum börnum að tjá allar tilfinningar þeirra og styðjum þau í gegnum grátköst með því að viðurkenna tilfinningar þeirra og sýna þeim þolinmæði. Þannig myndum við sterk tengsl við barnið og það byrjar að taka mörkunum sem við setjum betur.  Við setjum tilfinningum ekki mörk en við setjum hins vegar hegðun mörk. Við trúum á mikilvægi þess að setja skýr mörk en við setjum þau samt alltaf á rólegan hátt. Það má segja að helsta markimið RIE sé að byggja upp heilbrigt samband á milli foreldris og barns, samband sem báðir aðilar geta notið sín í og þar sem þörfum beggja er mætt af samkennd og virðingu.“

Námskeiðin seldust upp á örfáum klukkustundum

Kristín hafði skrifað um RIE inn á samfélagsmiðlum í rúmt ár þegar hún fór fyrst að fá fyrirspurnir um að halda námskeið á Íslandi. „Nánast allt efni sem til er um Respectful Parenting er á ensku og ég fann fyrir mikilli vöntun á íslensku efni. Þegar ég var síðan á leiðinni heim til Íslands um síðustu jól ákvað ég að mæta eftirspurninni og halda nokkur námskeið. Það gekk rosalega vel og ég fann strax að þetta átti vel við mig, mér leið vel upp á „sviði“ og fæ mikið út úr því að miðla á þennan hátt.“ Eftir námskeiðin var enn mikil eftirspurn og því ákvað Kristín að koma heim nú í sumar og halda fleiri. Viðtökurnar voru gríðarlegar og undir lokin seldust síðustu aukanámskeiðin upp á örfáum klukkutímum. „Það var eins og fólk hefði verið að bíða eftir einhverju svona. Ég hélt fjórtán námskeið í heildina og það var greinilegt að fólk er mjög áhugasamt og þráir að komast á betri stað í samskiptum við börnin sín. Það finnst mér frábær þróun enda hlýtur foreldrahlutverkið að vera mikilvægasta hlutverk okkar allra sem eigum börn.“

Aðspurt hvort hún veiti foreldrum ráð óumbeðið segist Kristín hafa það fyrir reglu að koma ekki með athugasemdir við uppeldisaðferðir annarra.

Kristín segir fyrirspurnirnar sem henni berist óteljandi og vandamálin fjölbreytt. Hún hafi þó aldrei rekist á vegg heldur komi svörin oftast fyrirhafnarlaust til sín. „Þegar maður gefur ráð er mikilvægast að setja sig almennilega í aðstæðurnar. Þá bið ég iðulega um meiri upplýsingar og nánar lýsingar á vandamálinu. Hvenær kemur hegðunin upp? Hvernig hefur foreldrið brugðist við hingað til? Hvernig bregst barnið við? Hvað annað er að gerast í lífi barnsins? Eftir að hafa fengið þessar upplýsingar koma svörin til mín. Ég myndi segja að óöryggi foreldra þegar kemur að því að setja mörk sé eitt algengasta vandamálið. Hvaða mörk má setja og hvernig. Hræðsla við grátur og viðbrögð barnanna sinna og síðan óraunhæfar væntingar í sambandi við það hvers er hægt að ætlast til af börnunum sínum og hvenær.“

Þegar talið berst að hennar eigin uppeldi segir Kristín stærstu áskorunina liggja í að veita hvoru barni fyrir sig fulla athygli í kringum umönnunarverkefni en það er stór partur af RIE. „Það er hugsað þannig að í öllum hversdagslegum ummönnunarverkefnum eins og t.d. að skipta á bleiu, klæða í föt, baða eða gefa að borða reynum við að vera með fulla athygli á barninu. Það er erfitt þegar þú ert komin með tvö eða fleiri börn því að oftar en ekki vill hitt barnið líka fá athygli á sama tíma. Í RIE tölum við um að hefðbundin sanngirni (þar sem allt er 100% jafnt) er í raun ekki sanngirni heldur líður báðum börnum eins og þau fái ekki nóg.

Við reynum ekki að keppast við að gefa allt jafnt heldur gefum við eftir þörfum og það sama gildir um tímann okkar eða athyglina. Þá skiptir máli að vera skýr í sambandi við það hvar athyglin okkar er og oft setjum við mörk í kringum það. Við segjum eitthvað eins og „Ég heyri í þér, Ylfa, þú vilt að ég komi og sjái myndina sem þú varst að teikna, þú vilt að ég komi núna strax, ég skil, en ég get ekki komið strax, nú er ég að skipta á bleiunni hanns Breka og ætla að einbeita mér að því. Þegar ég er búin, þá ætla ég að koma til þín og vera bara með þér.“
Það sem gerist er að bæði börnin slaka meira á því þau vita að hvort um sig fá þau 100% athygli þegar „þeirra tími“ kemur. Svo virkar það líka þannig að þegar við hægjum á og gefum fulla athygli í gegnum ummönnunarverkefni, þó að það sé ekki nema í nokkrar mínútur í senn, þá er barnið líka miklu líklegra til að geta sleppt okkur þess á milli og fer frekar að leika sér sjálft því það er sátt eftir tímann sem við áttum saman.“

Að hjálpin komi frá hjartanu

RIE-fræðsla byggjast mikið á langtímamarkmiðum en þátttaka barna í heimilisstörfum gegnir veigamiklu hlutverki innan stefnunnar. Kristín segir markmiðið vera að barnið sjái mikilvægi þess að hjálpa til inni á heimilinu en sömuleiðis finni hjá sér þörfina að hafa hreint í kringum sig. „Þetta snýst auðvitað um að líða vel í umhverfi sínu. Ég vil að barnið mitt hjálpi til því það vilji vera partur af heildinni, en að hjálpin komi frá hjartanu, ekki út frá hræðslu eða skyldu. Það er ekki hægt að pína barn í að vera hjálplegt. Heimilisverk fellur undir það sem við köllum „modeling“ í RIE. Þá skyldum við ekki barn til þess að hjálpa til á neinn hátt en bjóðum því þátttöku. Við pössum að vera góðar fyrirmyndir og treystum því að þegar barn er tilbúið þá mun það vilja hjálpa til því að börn vilja í grunninn öll standa sig vel, vera partur af heildinni og líkjast foreldrunum.“

Þegar kemur að ósamkomulagi barna styðst Kristín mikið við að lýsa aðstæðum. „Ég geri alltaf það sama þegar barn grætur eða er ósátt. Ég hægi á og segi eitthvað eins og „hmm … ég heyri grátur, það eru allir að gráta, allir eru ósáttir“ og síðan myndi ég skoða hvað væri í gangi og gefa hverju barni rödd fyrir sig með því að segja upphátt það sem ég sæi, án þess að dæma. Dvel jafnvel í ósættinu og bæti svo við, „hvað getum við gert?“ Síðan bíð ég með opinn arminn því það mega allir alltaf fá knús sem vilja og það mega allir gráta sem vilja en við reynum að styðja börn í að finna sjálf lausnir á vandamálunum. Þannig er best stutt við þroska og getu í samskiptum.“

„Þetta snýst auðvitað um að líða vel í umhverfi sínu. Ég vil að barnið mitt hjálpi til því það vilji vera partur af heildinni, en að hjálpin komi frá hjartanu, ekki út frá hræðslu eða skyldu. Það er ekki hægt að pína barn í að vera hjálplegt.“

Aðspurt hvort hún veiti foreldrum ráð óumbeðið segist Kristín hafa það fyrir reglu að koma ekki með athugasemdir við uppeldisaðferðir annarra. „Ég ráðlegg fólki eindregið að skipta sér ekki af uppeldi annarra nema um eitthvað alvarlegt sé að ræða. Það hefur mjög lítið upp á sig að skipta sér af öðrum. Sannleikurinn er sá að flestir eru að reyna sitt besta. Það eru allir á sinni einstöku vegferð í foreldrahlutverkinu og það besta sem maður getur gert er að vera góð fyrirmynd sjálfur. Það er nefnilega þá sem maður fær spurningar frá áhugasömum og fólkið í kringum mann vill fá að vita meira um hvað maður er að gera. Það sér að eitthvað er að virka vel og verður forvitið. Foreldrahlutverkið og allt í sambandi við börnin okkar er eitthvað sem er mjög nálægt okkur, mjög persónulegt og fólk tekur því persónulega ef það upplifir að verið sé að dæma það. Þá fer fólk frekar í vörn. Fólk þarf að vera tilbúið að fara í gegnum ákveðna sjálfskoðun ef það ætlar að tileinka sér uppeldisaðferð eins og RIE og það eru einfaldlega ekki allir tilbúnir í það.“

Kristín segir fyrirspurnirnar sem henni berist óteljandi og vandamálin fjölbreytt. Hún hafi þó aldrei rekist á vegg heldur komi svörin oftast fyrirhafnarlaust til sín.

Ofbeldi gegn börnum óhugnalega algengt

Kristín segir það áhugaverða upplifun að ala upp börn hinum megin á hnettinum þar sem margir menningarheimar koma saman en Singapúr er einstaklega fjölbreytt samfélag. „Þetta hefur verið mjög þroskandi ferli og áhugavert. En þó að Singapúr sé í Asíu er hér að finna mjög sterk vestræn áhrif. Mikið er lagt upp úr því að bjóða fjölskyldum upp á ríka barnamenningu og það er alltaf nóg af mjög metnaðarfullu starfi í boði fyrir börn og fjölskyldur, allskonar sýningar á listasöfnum, viðburðir í görðunum og mikið lagt upp úr vönduðum leikvöllum og svæðum fyrir börn. Singapúr er mjög örugg borg, næstum því öruggari en Reykjavík og alveg frábært að vera hérna með börn, borgin er þekkt fyrir það. Að því sögðu er hér að finna sterk áhrif frá Asíu, Malasíu og Kína og uppeldislega má segja menninginuna skiptist svolítið í tvennt. Hér er að finna stórt samfélag fólks frá Vesturlöndum, Evrópu og Bandaríkjunum, uppeldi sem rímar við það sem við þekkjum frá Íslandi. Foreldrar sem leita frekar að frjálsari aðferðum í skólakerfinu svipað og stefnurnar í leik- og grunnskólum standa fyrir heima, þetta „play-based“ módel sem er auðvelt að finna í flestum leikskólum landsins. Skólakerfið hér skiptist því í tvennt, annars vegar hverfisskóla og svo alþjóðlega skóla, þarna er mikill áherslumunur. Í hverfisleikskólum eru börnin frá 7 á morgnanna til 19 á kvöldin, fólk vinnur svo langa vinnudaga. Mikið er lagt upp úr aga og þurfa leikskólabörn að sitja kyrr við borð og læra, hlusta á kennarann og gera svo heimavinnu fyrir næsta leikskóladag. Ég er auðvitað svakalega mikið á móti þessu því þetta stríðir gegn því sem er eðlislægt fyrir börn á þessum aldri. Það er margsannað að börn læri best í gegnum leik og helst frjálsan leik sem þau fá að stjórna sjálf.

Alþjóðlegu skólarnir eru skárri en þeir eru mjög dýrir. Ég var svo heppin að finna lítinn leikskóla sem er virkilega „play-based“ og skólastýran les bloggið hennar Janet Lansbury og er mjög vel að sér. Hér í Singapúr er líka óhugnalega algengt að foreldrar leggi hendur á börnin sín í refsingarskyni, það er meira að segja ákveðinn stafur sem einungis er notaður í hýðingarskyni og þá er talað um „caning“. Þetta á að aga börnin og láta þau hlýða. Mér fallast oft hendur yfir þessu og finnst svo langt í land en þetta er samt smátt og smátt eitthvað að breytast, maður getur ekki breytt heiminum einn en maður breytir samt sem áður heiminum á sinn hátt þegar maður vandar sig vel í uppeldinu, börnin okkar eru auðvitað framtíðin og því hvergi betri staður til að hafa mikil og góð áhrif.“

Texti / Íris Hauksdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Poppaðu upp áramótin

|||
|||

Stundum getur verið skemmtilegt að breyta til um áramótin og prófa eitthvað nýtt.

Ef þú átt börn þá er upplagt að plana gamlárskvöld með þeim.

Planaðu gamlárskvöld með krökkunum
Ef þú átt börn þá er upplagt að plana gamlárskvöld með þeim. Búa til leiki, spila, horfa á Áramótskaupið og skemmtilegar myndir, borða smákökur og læra áramótahefðir annarra landa. Það er hægt að gera svo margt skemmtilegt saman.

Haltu þemapartí
Haltu fjölmennt partí með því að hóa saman fjölskyldu, vinum og kunningjum og hafðu skemmtilegt þema. Hægt er að hafa hlaðborð og biðja alla um að koma með eitthvað gómsætt á borðið. Hver veit, ef vel tekst til gæti þetta jafnvel orðið árlegur viðburður.

Það er alltaf hægt að njóta sín í rólegheitum heima í kvöld.

Njóttu þess að vera heima
Svo er alltaf hægt að njóta sín í rólegheitum heima um kvöldið.
Hafa það til dæmis gott undir hlýju teppi upp í sófa og horfa á Áramótaannálinn og Skaupið, annað hvort ein/n eða í góðum félagsskap.
Fara til dæmis í skemmtilega leiki, spjalla og fara saman yfir árið sem er að líða.

Finndu gott útsýni
Hvernig væri að prófa að upplifa áramótin í nýju ljósi. Ganga til dæmis upp í hlíðar Esjunar og horfa á ljósadýrðina þaðan. Nú eða fara upp í Öskjuhlíð eða að Kópavogskirkju. Þessir staðir eru uppi á hæð þaðan sem fínt útsýni er yfir borgina.

Á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess eru margir fallegir útsýnisstaðir sem hægt er að velja um.

Myndir / www.pixabay.com

Stællegar mömmur

Mömmubloggarar hafa aldrei verið vinsælli en nú.

Svokallaðir mömmubloggarar hafa aldrei notið jafn mikilla vinsælda og nú, enda frábært að geta fengið stílráð og mömmumola á sama stað. Hér eru bloggsíður fantaflottra mæðra sem við mælum með að þið smellið á í næsta netrúnti.

Ruth Crilly (mynd að ofan)
Ruth Crilly er fyrirsæta og móðir sem á von á sínu öðru barni. Hún hefur lengi haldið úti „bjútí“bloggsíðu og vinsælli YouTube-stöð en eftir að hún varð móðir stofnaði hún bloggið TheUpphill.com þar sem hún fjallar um allt sem snýr að móðurhlutverkinu. Hún er sjarmatröll mikið með einstaklega smitandi húmor, við mælum með henni heilshugar.

_______________________________________________________________

Bloggsíðan hennar Joönnu var einungis hobbí en er nú orðið að hennar aðalatvinnu.

Joanna Goddard
Joanna byrjaði feril sinn hjá Cosmopolitan og þekkir því fjölmiðlabransann inn og út. Hún hefur einnig skrifað fyrir Elle, Glamour, New York, Condé Nast Traveler og Martha Stewart Living. Bloggsíðan hennar, sem í byrjun var einungis hobbí, er nú orðið að hennar aðalatvinnu. Fylgist með ævintýrum hennar og fjölskyldunnar á CupOfJo.com.

_______________________________________________________________

Síðan bloggsíðan hennar Anh fór á flug hefur hún birst í Elle og Glamour.

Anh Sundstrom
Anh Sundstrom er mamma hennar litlu Luciu og fáránlega smart markaðsstýra en hún heldur úti mömmutískublogginu 9to5Chic.com. Síðan bloggsíðan hennar fór á flug hefur hún birst í Elle og Glamour, meðal annars.

_______________________________________________________________

Sofi heldur úti gríðarvinsælu bloggsíðunni Sofi´s Snapshots (Sofissnapshots.com).

Sofi Fahrman
Hin sænska Sofi heldur úti gríðarvinsælu bloggsíðunni Sofi´s Snapshots (Sofissnapshots.com), hún hefur gefið út fjórar bækur sem farið hafa beint á topp vinsældarlista, og stjórnað sænsku útgáfunni af Project Runway. Talandi um mömmuinnblástur!

_______________________________________________________________

Rachel Parcell hefur grætt á tá og fingri síðan hún stofnaði vefsíðuna sína Pink Peonies.

Rachel Parcell
Rachel Parcell hefur grætt á tá og fingri síðan hún stofnaði vefsíðuna sína Pink Peonies og meðal annars hannað sína eigin skartgripalínu. Hægt er að fylgjast með þessari sjarmerandi tveggja barna móður á Pinkpeonies.com.

_______________________________________________________________

Hin hrikalega smarta Anjelica Lorenz.

Anjelica Lorenz
Við mælum með því að þið kíkið á bloggsíðu hinnar hrikalega smörtu Anjelica Lorenz, Modejunkie.com, hvort sem það er til að fá stílinnblástur eða hugmyndir fyrir næsta barnaafmæli.

_______________________________________________________________

Emily Schuman spreytir sig í mömmuhlutverkinu á www.cupcakesandcashmere.com

Emily Schuman
Cupcakes and Cashmere hefur lengi verið vinsælt tískublogg en nýverið hafa lesendur þess fengið að fylgjast með hvernig Emily Schuman spreytir sig í mömmuhlutverkinu. Bollaköku- og kasmírblanda klikkar seint! Cupcakesandcashmere.com

_______________________________________________________________

Tveggja barna móðirin Charlotte birtist reglulega á síðum tímarita á borð við Vogue Paris, InStyle, Nylon og W Magazine.

Charlotte Groeneveld-Van Haren
Tveggja barna móðirin Charlotte er þekkt fyrir frábæran stíl og birtist reglulega á síðum tímarita á borð við Vogue Paris, InStyle, Nylon og W Magazine. Mömmustílinnblástur beint í æð! Thefashionguitar.com

Texti / Helga Kristjáns

Ást við fyrsta bita

Prýðilegir partýréttir eða „daginn-eftir-partý-réttir“ úr smiðju Önnu Bjarkar Eðvarðsdóttur.

Anna Björk Eðvarðsdóttir töfrar fram hvert lostætið á fætur öðru.

Anna Björk Eðvarðsdóttir lærði fyrst að elda egg í brauði og segir það hafa verið ást við fyrsta bita. Hún segir árstíðirnar ráða því hvaða matreiðsluhefð sé í uppáhaldi en réttirnar sem hún býður lesendum upp á að þessu sinni eru hver öðrum girnilegri.

Hvað starfarðu og hvaða verkefni fæstu við um þessar mundir? Ég er bloggari, sjálfboðaliði, eiginkona, mamma og amma. Það sem ég hef verið að dunda mér við undanfarið er að gera upp 34 feta seglskútu sem við Guðjón eigum. Hún stóð á landi í nokkur ár og þurfti á ást og umhyggju að halda þegar við sjósettum hana aftur. Við erum að klára það og vonum að við náum að sigla eitthvað áður en haustlægðirnar hellast yfir okkur.

Hvað var það fyrsta sem þú lærðir að elda? Egg í brauði, það er sem sagt brauðsneið sem miðjan er skoinn úr. Ytra lagið af sneiðinni er steikt á pönnu og egg brotið ofan í holuna og þegar eggið hefur tekið sig í smástund á pönnunni er miðjan sett ofan á eggið án þess að sprengja rauðuna og svo er sneiðinni snúið við og hún steikt áfram á hinni hliðinni. Þessi dásemd er svo borin fram með tómatsósu og sinnepi, til hliðar. Þetta varð ást við fyrsta bita, ást sem varir enn.

Ertu jafnvíg á bakstur og matseld? Mér finnst miklu skemmtilegra að elda en baka. Ég baka ekki mikið af hnallþórum en ég hef gaman af því að baka brauð og allskonar bökur. Ég hef ekki lagt mikla rækt við bakasturinn. Ég hef alltaf haldið því fram að það sé mömmu að kenna, hún er svo frábær bakari að ég hef ekki nennt að reyna eins mikið fyrir mér í þeim efnum.

Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín? Nei, alls ekki. Mér finnst það fara eftir árstíðunum hvað höfðar til mín á hverjum tíma. Hvaða hráefni er ferskast, veðrið og hitastigið skiptir máli og svo auðvitað hvað er til í ísskápnum. Ég er mjög nýtin og þoli ekki að henda mat.

Mér finnst það fara eftir árstíðunum hvað höfðar til mín á hverjum tíma. Hvaða hráefni er ferskast, veðrið og hitastigið skiptir máli og svo auðvitað hvað er til í ísskápnum. Ég er mjög nýtin og þoli ekki að henda mat.

Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu? Örugglega nokkur en ég er með nokkuð gott valminni á svoleiðis og sigta það frá og nenni ekki mikið að pæla í því. En ef þú pressar mig þá rámar mig óljóst í fyllingu í sítrónu-marensböku sem vildi ekki láta að stjórn, ójá, oftar en einu sinni.

Hefur þú uppgötvað einhverja snilld í matseld nýlega? „Low and slow“, eða hægeldaður matur. Það er ekkert nýtt við það en mikil snilld sem minnir á sig aftur og aftur. Aðferðin gefur hráefninu tíma svo það njóti sín sem best og maður þarf ekki að standa yfir pottunum lengi. Þá er t.d. hægt að kaupa ódýrari bita af kjöti sem eru oft vannýttir og útbúa stórkostlega veislu. Ég á mér uppáhaldsmeðlæti sem eru hægeldaðir smátómatar í góðri ólífuolíu með sneiddum hvítlauk og tímíani, dásamlegir.

Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku? Það var eflaust að sjá um veitingarnar í vígslu reiðhallarinnar í Mosfellsbæ hjá Hestamannafélaginu Herði en þá var Guðjón formaður Harðar. Annars er það þetta venjulega, eins og hjá flestum, að elda hátíðarmatinn um jól og áramót, að allt lukkist sem best. Maturinn er svo stór hluti af upplifuninni á jólunum, ilmurinn sem læðist í gegnum húsið eftir því sem líður á daginn kemur með hátíðarstemninguna. Í sumar var skírnarveisla yngri dóttursonarins heima hjá okkur Guðjóni. Það var hádegisverður fyrir stórfjölskylduna og vini sem ég naut að elda eins og alltaf þegar maður eldar fyrir þá sem hafa gaman af því að borða góðan mat.

Uppáhaldsmatreiðsluþættir? Þættir sem fara nánar í efnð, eins og hvaðan hráefnið kemur, hvernig það er alið eða ræktað. Þættir sem eru um hvernig matur var eldaður hér áður fyrr. Mér finnst það allt svo forvitnilegt hvernig farið var að áður en öll nútímaþægindin komu til sögunnar. Hið blómlega bú er t.d. þáttur sem ég naut að horfa á og breskir þættir sem heita Food Unwrapped eru uppáhaldsþættir. Annars finnst mér alltaf gaman að horfa á matreiðsluþætti.

Bloggsíða: annabjork.is.

____________________________________________________________

Cheddar- og parmesanbitar með reyktri papriku og rósmaríni

45 stykki

125 g mjúkt smjör

1 msk. flórsykur

1 tsk. kummin

1 tsk. reykt paprikuduft

80 g sterkur cheddar-ostur

50 g rifinn parmesanostur

2 tsk. kúmenfræ

2 tsk. saxað ferskt rósmarínlauf

110 g hveiti

50 g maísmjöl (gróft eins og polenta)

salt á hnífsoddi

 Ofan á kökurnar

1 egg, þeytt

rósmaríngreinar

gróft sjávarsalt

Ofninn er hitaður í 160°C á blæstri. Smjör, flórsykur, kummin og paprika er þeytt létt og ljós. Hrærið svo báða ostana varlega út í ásamt kúmeni og rósmaríni.

Að lokum er hveiti og maísmjöli ásamt salti bætt út í og hrært í samfellt deig. Deigið er sett á bökunarpappír og annað lag af pappír lagt ofan á deigið og það er svo flatt út þar á milli með kökukefli þar til það er eins og 100 kr. peningur. Sett í kæli og kælt. Þegar deigið er tilbúið til að baka eru stungnar út kökur sem eru um 5 cm í þvermál, penslaðar með þeyttu eggi og söxuðu rósmaríni og grófu sjávarsalti dreift yfir.

Kökunum er raðar á pappírsklædda bökunarpötu og þær bakaðar í 16-17 mínútur. Hægt er að frysta óbakað deigið.

____________________________________________________________

Fyllt frönsk samloka með saltkaramellu-bananasósu

fyrir 6

12 sneiðar af hvítu samlokubrauði

250 g rjómostur, við stofuhita, í bláu boxunum

125 g mascarpone-ostur, við stofuhita

½ bolli ristaðar pekanhnetur, saxaðar

2 msk. púðursykur, þjappaðar

1 tsk. kanill

½ tsk. salt

6 egg, léttþeytt

3 bollar mjólk

¼ tsk. salt

Ofninn er hitaður í 180°C.  Sex brauðsneiðum er raðað á stóran djúpan disk.  Hrærið saman í skál rjómaost, mascarpone, pekanhnetur, púðursykur, kanil og salt. Maukinu er smurt á sneiðarnar og hinar sex sneiðarnar eru lagðar ofan á. Þeytið saman í annarri skál egg, mjólk og salt. Hrærunni er hellt jafnt yfir sneiðarnar svo hún þeki allt yfirborðið og látin bíða í smástund svo þær drekki í sig vökvann. Bökunarpappír er settur í ofnskúffu og samlokunum raðað ofan í.  Bakaðar í 1 klukkustund en snúið á 15 mínútna fresti svo þær bakist jafnt.

Saltkaramellu-bananasósa

¾ bollar dökkur púðursykur, þéttpakkaður

½ bolli rjómi

½ bolli smjör

2 msk. síróp

1 tsk. vanilludropar

½ tsk. gróft sjávarsalt

1 banani

Púðursykur, rjómi, smjör og síróp er hitað í potti á rúmlegum meðalhita. Suðan er látin koma upp og hitinn lækkaður og þetta látið malla í 3-4 mínútur. Tekið af hitanum, vanillu og salti bætt út í. Hellt í skál og látið kólna niður í stofuhita í um klukkustund. Bananinn er skorinn í sneiðar og hann hrærður varlega út í. 

Sósan er borin fram með brauðinu.

____________________________________________________________

Harissa-lamborgarar með feta og klettasalati

fyrir 2

250 lambahakk

½ tsk. kummin

cayanne-pipar eftir smekk (sterkur)

2 msk. harissa-mauk

sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

60 g fetaostur

ólífuolía til að pensla með

2 pítubrauð

klettasalat

grísk jógúrt

Hakkinu og kryddinu ásamt harissa-maukinu og salti er hnoðað vel saman. Deiginu er skipt í tvo jafna hluta. Fetaosturinn er mulinn í miðjuna á hvorum borgara og deiginu vafið utan um ostinn og lokað vel. Grillpanna er hituð á meðalhita, borgararnir penslaðir með olíu og steiktir í 5-6  mínútur. Pítubrauðin eru hituð í brauðristinni. Þau eru svo fyllt með grískri jógúrt, klettasalati og lamborgara. Þessi borgari er frábær á útigrillið.

____________________________________________________________

Pylsur með bjórsoðnum sætum lauk og chili-salsa

fyrir 4

pylsur að eigin vali

brioch-pylsubrauð

mjúkt smjör

sterkt sinnep

Pylsurnar eru grillaðar eða steiktar. Brauðin eru opnuð og þunnu lagi af smjöri er smurt inn í þau og þau grilluð eða ristuð, bara að innan, á þurri pönnu á háum hita. Brauðið smurt að innan með sterku sinnepi, síðan er pylsa lögð í brauðið ásamt lauk og salsa.

Bjórsoðinn sætur laukur

2 tsk. ólífuolía

2 tsk. smjör

3 stórir laukar í þunnum sneiðum

1 tsk. kúmenfræ

2 msk. dökkur muscavado-sykur eða dökkur púðursykur

2 hvítlauksrif, marin

1 flaska ljós bjór

sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

Olía og smjör er hitað á pönnu og lauk, kúmeni og salti er bætt út í og steikt á meðalhita í u.þ.b. 10 mínútur og hrært í við og við. Sykrinum er dreift yfir ásamt hvítlauk og látið mallað áfram þar til laukurinn fer að karamelliserast. Þá er bjórnum hellt yfir og látið mallað áfram í um 15 mínútur, eða þar til bjórinn er gufaður upp og laukurinn er dökkur á litinn. Smakkað til með salti og pipar.

Chili-salsa

2 vorlaukar, í þunnum sneiðum

1 rautt chili, fínsaxað (fræin með ef þú vilt salsað sterkt)

2 msk. söxuð steinselja

2 tsk. ólífuolía

Öllu blandað saman í skál.

____________________________________________________________

Rækjur með smjör- og blóðbergsbollubrauði

forréttur fyrir 4 eða kvöldveður fyrir 2

20 tígrisrækjur

2 msk. Shriracha Hot Sauce

2 msk. olía

¼ tsk. salt

2 tsk. sykur

5 hvítlauksrif, marin

Útbúið marineringuna og látið rækjurnar marinerast í nokkra tíma. Þær eru svo þræddar á grillpinna en ekki henda marineringunni. Rækjurnar eru grillaðar þar til þær eru orðnar bleikar og gegnsteiktar en passið að ofelda þær ekki. Marineringin er sett í lítinn pott og látin malla í nokkrar mínútur, síðan er henni hellt yfir grillaðar rækjurnar.

 

Smjör- og blóðbergsbollubrauð

2 öskjur tilbúið pizzudeig, ekki útrúllað

50 g smjör, brætt

blóðbergs- eða rósmaríngreinar

1-2 msk. polenta

gróft sjávarsalt

Smyrjið 20 cm lausbotna kökuform að innan með olíu og polentan er hrist innan í forminu svo hún þeki botn og hliðar. Deiginu er skipt í u.þ.b. 14 jafnstóra hluta og þeir hnoðaðir létt í litlar bollur sem er jafnað í formið. Þær þekja ekki botninn en fylla vel út í eftir hefingu. Mér finnst fínt að láta deigið hefast í 1-2 klukkustundir undir plastfilmu áður en ég baka það. Ofninn er hitaður í 200°C.  Smjörið er brætt og kælt aðeins, svo er því penslað yfir brauðið. Að lokum er blóðbergi og grófu salti dreift yfir og brauðið bakað í 30-35 mínútur. Tekið úr forminu um leið og það hefur kólnað aðeins og borið fram með rækjunum og auka smjöri.

Umsjón / Íris Hauksdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Partí ársins

Nú eru áramótin á næsta leiti og þá fara flestir í einhvers konar veislu eða partí.

Það er því við hæfi að skoða nokkrar bestu og frægustu partímyndir allra tíma.

Í kvikmyndinni Animal House fer allt úr böndunum.

Á æskuslóðum
Eins og nafnið gefur til kynna fjallar kvikmyndin Sisters um systurnar Kate og Mauru Ellis (mynd hér að ofan). Þegar þær komast á snoðir um áform foreldra sinna um að selja æskuheimili þeirra ákveða þær að halda kveðjuhóf á meðan foreldrarnir bregða sér frá. Þetta partí skal toppa öll partí sem áður hafa verið haldin í þessu húsi. Félögum þeirra úr gagnfræðiskóla er öllum boðið. Þrátt fyrir að meirihluti þeirra sé nú orðinn ráðsettur og með börn kunna þeir enn að djamma. Tina Fey og Amy Poehler, sem leika systurnar, eru kómískir snillingar. Í myndinni fylgjumst við með kostulegum undirbúningi og auðvitað veislunni sjálfri sem eins og flestir ættu að geta giskað á fer heldur betur úrskeiðis með verulega skondnum afleiðingum.

Tryllt tógapartí
Animal House (hér til hliðar) gerist árið 1962 í Faber-framhaldsskólanum. Delta Tau Chi-bræðralagið er illa þokkað og hver sem er getur fengið inngöngu á meðan Omega Theta Pi-bræðralagið er ekki opið hverjum sem er og í raun stútfullt af ríkum, hvítum strákum sem enginn þolir nema skólastjórinn. Skólastjórinn leitar til þeirra til að hrekja fyrrnefnda bræðralagið úr skólanum. Alls kyns bellibrögðum er beitt og skólastjórinn nær vilja sínum næstum fram. Delturnar halda risastórt tóga-partí með hljómsveit og öllu klabbinu. Ýmistlegt skrautlegt gerist í partíinu, meðal annars sefur einn bræðranna hjá eiginkonu skólastjórans.

________________________________________________________________

Thomas lætur orðið ganga að öllum sé boðið heim til hans í partí ársins – og enginn lætur segja sér það tvisvar.

Sögulegt partí
Í Project X á Thomas afmæli og eins og alla unga menn dreymir hann um að halda besta og flottasta afmælispartí sem haldið hefur verið. Til allrar lukku verða foreldrar hans ekki heima svo Thomas lætur slag standa og fær félaga sína, J.B. og Costa, í lið með sér. Hann lætur orðið ganga að öllum sé boðið heim til hans í partí ársins – og enginn lætur segja sér það tvisvar. Allir mæta og upphefst einhver svakalegasta veisla sem sögur fara af. Það skemmir auðvitað ekki fyrir að Thomas á ríka foreldra sem búa í stóru húsi með sundlaug og alls konar fíneríi. Auðvitað reynast nágrannarnir ekki alveg sáttir við lætin en það bíttar engu.

________________________________________________________________

Lúðarnir í Superbad eyða heilum degi í að komast yfir nægt áfengi fyrir partý.

Þrautaganga
Lúðarnir og bestu vinirnir Evan og Seth í myndinni Superbad gera hér um bil hvað sem er til að vinna sér hylli kvenpeningsins. Þegar þeir komast óvænt yfir heimboð í partí eyða þeir heilum degi, ásamt vini sínum Fogell, í að komast yfir nægt áfengi fyrir partíið. Þeir ætla að deila áfenginu með tveimur stelpum, Jules og Beccu, í þeirri von að þeir missi loksins sveindóminn og geti farið í framhaldsskóla eftir viðburðaríkt sumar. Áætlun þeirra flækist þegar Fogell lendir upp á kant við tvær klaufskar löggur sem hægja á þeim en jafnframt aðstoða þá um leið. Komast þeir einhvern tímann í partíið og með nægilegt áfengi?

________________________________________________________________

Can‘t Hardly Wait gerist nær eingöngu í einu partíi.

Óþreyjufull ungmenni
Can‘t Hardly Wait er klassísk partímynd í þeim skilningi að hún gerist nær eingöngu í einu partíi. Eftir brautskráningu nemenda í Huntington Hill-skólanum er komið að lokapartíinu. Þar er samankomin hin skrautlega nemendaflóra sem þrifist hefur í skólanum undanfarin fjögur ár – nördar, íþróttagarpar, fegurðardísir og hornrekur. Öll eru þau staðráðin í að sleppa fram af sér beislinu og gera upp þær tilfinningar sem legið hafa bældar alla skólagönguna, enda ekki seinna vænna áður en þau halda sína leið.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Ljúfur angan

Nokkur góð ráð varðandi val á ilmvatni til að auka endingu.

Hvernig við skynjum ilm og hvaða ilmur okkur þykir góður er afar persónubundið. Þess vegna er mjög áhættusamt að gefa einhverjum ilmvatn að gjöf, það er, ef viðkomandi hefur ekki valið sér það sjálfur. En þegar við höfum loksins fundið rétta ilminn fyrir okkur þá viljum auðvitað að hann endist sem lengst á okkur. Hér eru nokkur góð ráð varðandi val á ilmvatni til að auka endingu og hvernig sé best að geyma þau.

Yfirleitt er mikil vinna lögð í hönnun ilmvatsnglasa og því er tilvalið að stilla þeim fallega upp á snyrtiborði eða kommóðu.

1. Ilmvötn hafa takmarkaðan líftíma síðan fer lyktin að breytast og dofna. Ákveðnir þættir geta haft áhrif á og takmarkað líftímann, þá sérstaklega hiti, birta og raki. Þess vegna er óráðlegt að geyma ilmvötn inni á baðherbergi eða úti í gluggakistu og mælst er til að geyma þau frekar á þurrum og skuggsælum stað. Það þýðir þó ekki að þú þurfir að geyma þau inni í skáp. Yfirleitt er mikil vinna lögð í hönnun ilmvatsnglasa og því er tilvalið að stilla þeim fallega upp á snyrtiborði eða kommóðu, margir hafa til dæmis notað fallega bakka eða kökudiska.

2. Ilmur endist skemur á þurri húð og þess vegna er mikilvægt að bera krem á húðina ef þú vilt að hann endist lengur. Mörg ilmvatnsmerki framleiða body lotion með sama ilmi sem vissulega eykur áhrif hans en það er ekkert síðra að nota gott ilmlaust krem. Einnig mæla sumir sérfræðingar með því að bera vaselín á þá staði sem þú spreyjar ilmvatninu á því það myndar nokkurs konar hjúp á milli ilmvatnsins og húðarinnar og eykur þannig endingu.

Algengt er að sjá konur nudda úlnliðunum saman eftir að þær hafa spreyjað ilmvatni á sig en það eru mikil mistök. Það verður til þess að toppnótur ilmsins hverfa hraðar og ilmurinn endist skemur á úlnliðnum.

3. Spreyjaðu ilmvatni á helstu púlsstaði líkamans, það er úlnliði, háls og olnboga- og hnésbætur, því það tryggir að ilmurinn dreifist vel. Best er að spreyja á sig ilmvatni þegar maður er nýkominn úr sturtu og áður en maður klæðir sig því þá er húðin rök og grípur frekar ilminn. Þetta kemur líka í veg fyrir að ilmvatnið liti viðkvæm föt eða skartgripi. Algengt er að sjá konur nudda úlnliðunum saman eftir að þær hafa spreyjað ilmvatni á sig en það eru mikil mistök. Það verður til þess að toppnótur ilmsins hverfa hraðar og ilmurinn endist skemur á úlnliðnum. Ef þú vilt aðeins fá léttan ilm eða ert að bæta á þig örlítið meira ilmvatni fyrir kvöldið er sniðugt að spreyja ilmvatninu létt upp í loftið og ganga inn í mistrið. Margar konur spreyja ilmvatni í hárið á sér milli þvotta, enda er mikil uppgufun sem fer fram í gegnum höfuðið, ilmvatn sem inniheldur alkahól getur þó þurrkað hárið óþarflega mikið og þá er betra að spreyja ilmvatninu í hárbursta og renna honum svo í gegnum hárið.

4. Það getur reynst flókið að finna sér nýjan ilm og nauðsynlegt að vera með helstu hugtök á hreinu. Eau de toilette er með léttari ilm en Eau de parfum og er þar af leiðandi yfirleitt aðeins ódýrari. Ilmnótur skiptast niður í grunn-, mið- og toppnótur en ilmur getur ýmist verið blómlegur, sætur, kryddaður eða sítrus- og ávaxtakenndur. Einnig er hægt að fá ilm í föstu formi eða sem hreina ilmolíu, en slíkur ilmur er oftar en ekki kröftugri en sá sem er spreyjaður.

est er að spreyja á sig ilmvatni þegar maður er nýkominn úr sturtu og áður en maður klæðir sig því þá er húðin rök og grípur frekar ilminn.

5. Það er mjög misjafnt hvernig ilmvötn lykta á fólki. Í flestum verslunum er að finna þar til gerðan pappír sem þú getur spreyjað á áður en þú reynir eitthvað á eigin skinni. Ef þú hins vegar lendir í því að þú spreyjar á þig ilmvatni sem hentar þér alls ekki er gott að strjúka meikhreinsiklút yfir svæðið til að fjarlægja ilminn. Sniðugt er að blanda ólíkum ilmvötnum saman til að fá einstakan ilm sem einkennir þig. Þá er sniðugt að nota prufupappírinn til að prófa ólíkar blöndur. Þumalputtareglan segir að þú eigir að byrja á þyngri ilmi og enda á léttari, því annars er hætta á að sá léttari kæfist. Til að finna sanna lykt ilmvatnsins verður að spreyja því á húð og leyfa því að bíða í nokkrar mínútur á meðan það rýkur aðeins og aðlagast þér.

6. Ilmvötn má nota á fjölmarga vegu, til dæmis er sniðugt að spreyja uppáhaldsilmvatninu þínu á sængurfötin þín. Einnig er hægt að spreyja því á tissjúpappír sem þú setur í skúffurnar þar sem þú geymir fötin þín þannig að þau dragi í sig örlítinn ilm. Góð leið til að nýta síðustu dropana af ilmvatni sem leynist á botni glassins er að hella því út í lyktarlaust body lotion og gefa því þannig ilm.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Smár en knár fataskápur

Nokkur ráð til að koma upp hinum fullkomna fataskáp.

Á áttunda áratugnum bjó verslunareigandinn Susie Faux, sem átti litla tískufataverslun í London, til nýyrðið capsule wardrobe fyrir fataskáp sem hefur verið skorinn niður þannig að aðeins allra nauðsynlegustu flíkur séu eftir. Um er að ræða þrjátíu til fjörtíu klassískar, hágæða flíkur sem hægt er að blanda saman eftir þörfum. Þetta á að einfalda þér lífið og morgnanna sem þú stendur fyrir framan fataskápinn og veist ekkert í hverju þú átt að fara. En hvernig setur maður saman svona fataskáp og hverjar eru reglurnar?

Margar konur eiga allt of mikið af skóm. Fimm skópör er í raun allt sem þú þarft.

Skór
Margar konur eiga allt of mikið af skóm. Fimm skópör er í raun allt sem þú þarft – til dæmis háhæla skó, regnstígvél, sportlega götuskó, fallega flata skó og kannski ökklastígvél, einfalt og auðvelt. Töskur eru annað sem konur eiga of mikið af en af einhverjum ástæðum eru töskur ekki með í þessum lista þannig að þú getur átt eins margar og þú vilt.

Buxur og/eða pils
Misjafnt er milli kvenna hvort þær klæðast oftar pilsum eða buxum. Ekki er þörf á því að eiga meira en fjóra neðri hluta og þú mátt ráða hvort það séu buxur, pils eða hvoru tveggja. Mundu að þú getur alltaf poppað upp með fallegu belti.

Hér á landi er mikilvægt að eiga góðar og fjölbreyttar yfirhafnir því veðrið er allskonar. Miðaðu við að eiga fimm yfirhafnir; blazer-jakka, dúnúlpu, ullarkápu, leðurjakka og svo framvegis.

Kjólar og samfestingar
Það koma reglulega upp tilefni sem krefjast þess að við klæðum okkur upp á og þá er gott að eiga nokkra kjóla eða jafnvel samfesting. Reyndu að takmarka þig við fjórar flíkur í þessum flokki og velja flíkur sem passa við ólík tækifæri. Svartur kjóll er klassísk eign og alltaf hægt að lífga upp á hann með töff hálsmeni.

Blússur, bolir og peysur
Það mun eflaust reynast mörgum erfitt að fækka efri hlutum, en þeir mega aðeins vera tólf. Tólf flíkur hljómar kannski mikið í fyrstu en miðað er við fjórar blússur eða skyrtur, þrjár peysur, þrjá stuttermaboli, eina golftreyju og einn hlýrabol, sem er þegar öllu er á botninn hvolft alls ekki nóg.

Yfirhafnir og jakkar
Hér á landi er mikilvægt að eiga góðar og fjölbreyttar yfirhafnir því veðrið er allskonar. Miðaðu við að eiga fimm yfirhafnir; blazer-jakka, dúnúlpu, ullarkápu, leðurjakka og svo framvegis. Ef þú velur vel, og ert tilbúin að borga örlítið meira fyrir gæði, geta þessar flíkur enst þér í áratug eða jafnvel meira. Fallegur klútur getur svo gert gamla kápu að nýrri.

Ef þú velur yfirhöfn vel, og ert tilbúin að borga örlítið meira fyrir gæði, geta þessar flíkur enst þér í áratug eða jafnvel meira.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Eftirtektarverðar forsíður

Fagleg og falleg vinna liggur að baki hverri forsíðu Vikunnar.

Að baki hverri forsíðu Vikunnar liggur mikil vinna. Fyrst er að finna viðmælanda, setja sig inn í hugarheim hans og sögu en síðan að kalla viðkomandi í myndatöku. Reynt er af fremsta megni að laða fram persónuleikann í myndinni og ljósmyndari, stílisti, förðunarfræðingur og blaðamaður vinna saman til að ná því marki. Stundum tekst óvenjulega vel til og hér eru nokkrar eftirtektarverðar forsíður.

„Ástin kviknaði í Sjallanum“

Salka Sól Eyfeld er flestum Íslendingum kunn. Hún hefur verið reglulega í sjónvarpi landsmanna undanfarnar vikur í þættinum The Voice Ísland og um þar síðustu helgi sigraði hennar keppandi, Karitas Harpa Davíðsdóttir.

Hún er sannkallaður þúsundþjalasmiður; söngkona, lagahöfundur, rappari, útvarpskona, dómari, kærasta og svo margt fleira.

Forsíðumynd: Aldís Pálsdóttir
Förðun, hár og stílisering: Herdís Mjöll Eiríksdóttir

________________________________________________________

„Húmor er vanmetið vopn”

Ágústa Eva Erlendsdóttir var í óða önn að gera upp æskuheimili sitt í Hveragerði þegar Vikan sótti hana heim. Hún er hér í einlægu og fallegu viðtali um húsaviðgerðir, keppnisskap, ástina og velgengni.

Ágústa Eva hefur glímt við vanheilsu í kjölfar alvarlegs slyss sem hún varð fyrir á bílaþvottastöð en er nú að ná sér á strik aftur og tilkynnti stuttu eftir að viðtalið fór fram að hún bæri barn undir belti.

Hún býr nú í Barcelona ásamt ástinni sinni og tveimur börnum.

Forsíðumynd: Íris Dögg Einarsdóttir
Förðun og stílisering: Helga Kristjáns

________________________________________________________

„Við höfum sofið hjá sama fólkinu trekk í trekk”

Hinar stórskemmtilegu Reykjavíkurdætur létu gamminn geisa í hressilegu forsíðuviðtali þar sem allt var látið flakka. Síðastliðið vor stigu þær á svið í Borgarleikhúsinu og fengu þar að leika þar lausum hala.  Sýningin var skemmtileg blanda af rappi og einlægum frásögnum rappettnanna en von er á að hópurinn endurtaki leikinn í ár og stigi aftur á litla svið Borgarleikhússins.

Forsíðumynd: Hallur Karlsson
Förðun: Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir og Natalie Hamzehpour
Stílisering: Jóhanna Rakel Jónasdóttir

________________________________________________________

„Harmleikur færði fjölskylduna saman”

Aníta Ísey Jónsdóttir lærði snemma að taka stórar ákvarðanir. Fimmtán ára stýrði hún fyrstu uppskerusýningu ballettskóla fjölskyldu sinnar og hefur undanfarin tvö ár séð um sviðsframkomu keppenda í Miss Universe Iceland en keppin var haldin í september síðastliðnum. Fyrr á árinu missti Aníta ungan bróður sinn í hörmulegu slysi í Hveragerði og segir dauða hans hafa fært fjölskylduna saman.
Forsíðumynd og myndvinnsla: Aldís Pálsdóttir
Förðun: Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir

________________________________________________________

„Mér hefur alltaf verið skítsama um kynlíf”

Sonja Bjarnadóttir hefur aldrei skilgreint sig út frá kynhneigð. Hún hafnar því að kynhvöt sé ákvörðun en segist hafa lært að skilgreina sig rétt. Sonja er eikynhneigð en segir hugtakið vefjast fyrir flestum. Hún steig fram í opinskáu viðtali og útskýrði sína hlið.

Forsíðumynd og myndvinnsla: Aldís Pálsdóttir
Förðun: Helga Sæunn Þorkelsdóttir

 

Ostabakki í partýið

|
|

Fullkomnaðu ostabakkann með þessu góðgæti.

Smjörkurnar eru fyrir miðju. Vínberin neðst til vinstri og kryddmaukið efst til hægri.

ANANAS-KRYDDMAUK

Ananas kryddmauk er mjög gott með ostum, það passar líka vel sem meðlæti með kjöti og indverskum mat. Prófið að setja svolítið af ananaskryddmauki á skinkupítsu, það smakkast mjög vel.

olía til steikingar

4-6 skalotlaukar, smátt saxaðir

2 rauð chili-aldin, smátt skorin

1 ferskur ananas, afhýddur, kjarnhreinsaður og skorinn í bita

1 1/2 dl púðursykur

1 dl hrísgrjónaedik

1 msk. ferskt engifer, fínt rifið

1 1/2 tsk. karríduft

3-4 dl vatn, meira ef þarf

1/2 tsk. gróft sjávarsalt

nýmalaður svartur pipar

Hitið olíu á pönnu og steikið laukinn við meðalhita þannig að hann verði mjúkur og glær, en brenni ekki. Bætið chili saman við ásamt ananas. Steikið í 5-10 mín. Setjið þá púðursykur og hrísgrjónaedik saman við ásamt engifer og karrídufti. Bætið vatni út í og látið sjóða í 30-40 mín. Eða þar til ananasinn er orðinn vel mjúkur og allt vatnið gufað upp. Mögulega þarf að bæta vatni á pönnuna til þess að maukið nái að sjóða nógu lengi. Bragðbætið með salti og pipar.

KRYDDLEGIN VÍNBER

u.þ.b. 400 g steinlaus vínber

3 dl hvítvín

2 msk. ljóst balsamedik

1 msk. sykur

3 greinar ferskt rósmarín

3-4 greinar ferskt tímían

Skolið vínberin og þerrið. Setjið þau í krukku með restinni af hráefninu og látið standa í kæli í 1-2 sólarhringa. Berin geymast í allt að viku í kæli. Þegar búið er að borða öll berin má gjarnan nota kryddlöginn í sósur eða súpur eða setja hann í frystipoka og nota síðan í matargerð.

SMJÖRKEX MEÐ DÖÐLUM OG PEKANHNETUM

u.þ.b. 30 stk.

Mjög fljótlegt er að skella í þetta kex, sérstaklega ef notað er ófrosið smjördeig sem hægt er að kaupa útflatt og upprúllað. Það er best nýbakað eða samdægurs því það geymist ekkert sérstaklega vel.

270 g smjördeig

6 döðlur, smátt skornar

20-30 g pekanhnetur, gróft skornar

1 eggjarauða

gróft sjávarsalt

Stillið ofn á 180°C. Hitið pönnu og ristið pekanhneturnar. Fletjið deigið út ef þarf, stráið döðlum og pekanhnetum yfir og brjótið í tvennt. Rúllið létt með kökukefli yfir deigið þannig að það festist vel saman. Pikkið með gaffli og skerið út kexkökur. Penslið með eggjarauðu, stráið svolitlu salti yfir og bakið í u.þ.b. 10 mín. eða þar til kökurnar hafa tekið fallegan lit.

Texti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Bragi Jósefsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Nýr kisi

Hvaða ráðstafanir þarf að gera þegar köttur er tekinn inn á heimilið?

Í kattasamþykkt höfuðborgarinnar er ákvæði um að allir kettir skulu merktir með örmerki.

Bólusetning
Við fæðingu eru kettlingar verndaðir gegn mörgum smitsjúkdómum með mótefnum, sem þeir fá í gegnum broddmjólk móðurinnar fyrstu klukkutímana eftir fæðingu. Mótefnin frá móðurinni lækka smám saman í blóði kettlingsins uns eigin mótefnamyndun hans tekur alfarið yfir. Við 8-12 vikna aldur hafa mótefnin lækkað það mikið að kominn er tími fyrir fyrstu bólusetningu. Til að örva mótefnamyndun kettlingsins eins mikið og hægt er skal endurtaka bólusetninguna 3-4 vikum síðar. Bólusett er við kattafári, kattainflúensu og klamidíu.

Örmerking
Í kattasamþykkt höfuðborgarinnar er ákvæði um að allir kettir skulu merktir með örmerki. Örmerki er örlítill kubbur sem er settur undir húð og virkar líkt og strikamerki. Örmerking er ávallt gerð af dýralæknum og best er að láta framkvæma hana um leið og gelding eða ófrjósemisaðgerð er gerð.

Ormahreinsun
Nauðsynlegt er að ormhreinsa ketti reglulega, helst tvisvar á ári, því ormar geta smitast í önnur gæludýr á heimilinu og jafnvel heimilisfólk. Kettlinga þarf skilyrðislaust að ormahreinsa jafnvel með styttra millibili en fullorðna ketti. Einnig er vert að benda á að mikla veiðiketti þarf að ormahreinsa með skemmra millibili heldur en ketti sem eru friðarsinnar eða innikisar. Best er að hafa samráð við dýralækni um skipulagningu ormahreinsunar fyrir köttinn þinn.

Ófrjósemisaðgerð
Þeir sem eiga læður þurfa að láta framkvæma slíka aðgerð á henni ef þeir vilja ekki að hún verði óvænt kettlingafull. Með nútímatækni og -deyfingaraðferðum við skurðaðgerðir eru ófrjósemisaðgerðir yfirleitt öruggar og án vandkvæða. Nokkrum dögum eftir aðgerðina eru flestir kettir farnir að hegða sér eins og ekkert hafi í skorist. Þó að það sé ekki jafnbrýnt þá er líka mælst til þess að gerðar séu ófrjósemisaðgerðir á fressum.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Ilmandi vellíðan

Ilmolíur eru notaðar bæði til yndisauka og til að bæta andlega og líkamlega heilsu.

Lavender, eða lofnarblóm eins og það heitir á íslensku, hefur róandi áhrif á líkama og sál.

Auk ilmsins eru þær sagðar bera með sér eiginleika plöntunnar sem þær eru unnar úr. Þær hafa því marga mismunandi eiginleika og eru notaðar til að meðhöndla ýmsa ólíka kvilla. Þó vissulega megi deila um virkni eða lækningarmátt ilmolía er vert að hafa í huga að þær auka einnig vellíðan og róa hugann sem er alls ekkert sjálfgefið. Ilmolíur geta hentað misvel fyrir hvern og einn, því er best að prófa sig áfram og finna hvað hentar sér. Gæta þarf að nota eingöngu náttúrulegar ilmkjarnaolíur (e. essential oils) en ekki olíur með ilmefnum, því þær hafa ekki sömu virkni. Hér eru nokkrar ilmolíur sem geta komið að góðu gagni í vetur og til hvers má nota þær.

Lavender
Lavender, eða lofnarblóm eins og það heitir á íslensku, hefur róandi áhrif á líkama og sál. Gott er að setja nokkra dropa undir koddann til að tryggja væran nætursvefn en einnig er hægt að bæta henni í baðið, í bland við aðra góða olíu, til að eiga slakandi og endurnærandi stund. Lavender er einnig talin bakteríu- og sveppadrepandi svo hún getur reynst góð fyrir þá sem eiga við einhvers konar húðvandamál að stríða en ekki má nota hana óþynnta beint á húð.

Eucalyptus-plantan virkarvel á vöðva- og liðverki og er oft meðal innihaldsefna í hitakremum og bólgudrepandi krem.

Eucalyptus
Eucalyptus-plantan frá Ástralíu er talin bæði bólgueyðandi og stíflulosandi. Hún virkar því vel á vöðva- og liðverki og er oft meðal innihaldsefna í hitakremum og bólgudrepandi krem.
Hún getur einnig verið góð fyrir lungu og kinnholur; til dæmis til að anda að sér og losa um stíflur. Settu þrjá til sex dropa í skál af heitu vatni, breiddu handklæði yfir höfuðið og andaðu gufunni að þér í nokkrar mínútur.

Kamilla
Kamilluolía er best þekkt fyrir róandi og slakandi áhrif sín en er mildari en lavender og má því nota á börn.
Gott er að setja dropa undir koddann hjá börnunum fyrir svefn eða jafnvel nokkra dropa í baðvatnið eftir langan skóladag.
Kamilla er einnig sögð hafa slakandi áhrif á meltingarkerfið og því er mælt með því að drekka kamillute þegar maður þjáist af magakveisu eða gubbupest.

Origanóolía er sannkallað þarfaþing yfir vetrartímann.

Frankincense
Frankincense er kraftaverkaolía sem hefur verið notuð svo öldum skiptir. Hún er sótthreinsandi, bakteríudrepandi, samandragandi, vindeyðandi, örvar meltingu, vökvalosandi, slímlosandi, róandi, kemur jafnvægi á estrogen framleiðslu líkamans og hjálpar sárum að gróa hraðar.
Frankincense-olía er mjög góð fyrir kvíða, streitu og þunglyndi því hún lyftir andanum og róar um leið. Hún er einnig mjög góð til að koma jafnvægi á blæðingar og minnkar fyrirtíðarspennu, tíðarverki og er góð á breytingaskeiðinu.
Olían er hóstastillandi og slímlosandi og því góð í allar kvefblöndur.
Olían er mjög góð fyrir feita húð og eldri húð þar sem hún minnkar hrukkur, minnkar fituframleiðslu húðarinnar og minnkar sár og ör af völdum bóla.

Origanó
Origanóolía er sannkallað þarfaþing yfir vetrartímann. Hún er mjög breiðvirkt bakteríudrepandi, sveppadrepandi og veirudrepandi auk þess sem hún er bólgueyðandi, andoxandi, hormónajafnandi og bætir meltingu.
Hún góð við myglu, hvers kyns sýkingum, örvar blóðflæðið, styrkir ónæmiskerfið og er talin virkja serótónín viðtaka í frumum.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / www.pixabay.com

Mjúkar en sterkar fyrirmyndir

Flottar konur á samfélagsmiðlum sem gaman er að fylgjast með.

Sýnt hefur verið fram á að mörgum konum líður verr með sjálfar sig eftir að hafa flett í gegnum tískublöð. Fyrirsætur í minnstu stærðum prýða síður þeirra í miklum meirihluta og þar sem meðalkonan er talsvert stærri er kannski ekki skrítið að fyrirmyndirnar séu örlítið á skjön við raunveruleikann og augljóslega erfitt að samsama sig hinni hefbundnu ofurfyrirsætu. Við fögnum fjölbreytileikanum h og mælum með nokkrum dásamlega mjúkum en sterkum fyrirmyndum sem gaman er að fylgjast með á samfélagsmiðlunum.

Nadia Aboulhosn
Nadia Aboulhosn er líbansk-amerískur tískubloggari og fyrirsæta sem virðist vera að minnka gjána á milli fyrirsætna í minnstu stærðum og svokallaðri yfirstærð (sem við á ritstjórn Vikunnar köllum bara eðlilega stærð!).

Hún hefur unnið að fatalínum fyrir boohoo.com, Addition Elle og Lord & Taylor og birst í stærstu tískublöðum heims á borð við ítalska Vogue.

Nadia er mikil talskona jákvæðrar líkamsvitundar og sjálfssáttar og hefur smám saman byggt upp ný viðmið og nýja fegurðarímynd innan tískubransans. Fylgist með dívunni á Nadiaaboulhosn.com.

________________________________________________________________

Tara Lynn
Hægt er að finna Töru Lynn á Instagram undir @taralynn en hún er ein frægasta yfirstærðarfyrirsæta heims í dag. Hún er hvað þekktust fyrir undirfatafyrirsætustörf sín en hún hefur einnig meðal annars setið fyrir á forsíðum ítalska Vogue og Elle.

________________________________________________________________

Franceta Johnson
Tískubloggarinn Franceta Johnson er frábær tískufyrirmynd og fyrirmynd kvenna almennt og þá sérstaklega þeirra sem eru í stærri stærðum. Hægt er að finna hana á Instagram undir @francetajohnson.

________________________________________________________________

Denise Bidot
„There is no wrong way to be a woman,“ segir á forsíðunni á vefsíðu fyrirsætunnar Denise Bidot og gætum við ekki verið þeim orðum meira sammála. Gullfalleg og klár kona með guðdómlegar mjúkar línur sem hægt er að líta upp til. Denisebidot.com og @denisebidot á Instagram.

________________________________________________________________

Ashley Graham
Nafn Ashley Graham er á allra vörum en hún er fyrsta fyrirsætan í yfirstærð til að prýða forsíðu tímaritsins Sports Illustrated. Þá hefur hún einnig birst á síðum Vogue, Harper´s Bazaar, Glamour og Elle. Nýverið höfum við einnig séð hana í herferð fyrir sænska fataframleiðandann Lindex. Líklega stærsta nafnið í „mjúku konu bransanum“ í dag og virkilega þess virði að fylgjast með ævintýrum hennar á Instagram, hvort sem það er til að fá stíl- eða förðunarinnblástur eða til að fá pepp almennt. @theashleygraham.

________________________________________________________________

Candice Huffine
Candice Huffine er andlit sem margir ættu að kannast við en hún hefur unnið fyrir mörg stærstu nöfnin í bransanum og meðal annars pósað fyrir hið víðfræga Pirelli-dagatal. Candice er mjúk fyrirsæta í hörkuformi sem gaman er að fylgjast með á samfélagsmiðlunum. Hana má finna á Instagram, @candicehuffine.

________________________________________________________________

Gabi Fresh
Gabi Fresh byrjaði með tískublogg árið 2008 þar sem áhugasvið hennar, tíska og blaðamennska, kom að góðum notum. Síðan þá hefur bloggið orðið að hennar aðalstarfi og hún áhrifamikil tískufyrirmynd fyrir konur af mýkri gerðinni. Við mælum með vefsíðunni hennar Gabifresh.com.

Texti / Helga Kristjáns

Helsinki – margbreytileg og skemmtileg borg

Helsinki er frábrugðin öðrum höfuðborgum Norðurlandanna.

Dómkirkjan í Helsinki er glæsileg bygging.

Helsinki er nútímaleg og heillandi evrópsk borg, gædd ríkulegri sögu, menningarlegri fjölbreytni, glæsilegri byggingarlist, fallegum grænum svæðum og öllu þar á milli. Hún er frábrugðin öðrum höfuðborgum Norðurlandanna vegna þess að rússnesk áhrif eru áberandi þar. Arkitektúrinn ber þess líka merki því hann er blanda úr ýmsum áttum, byggingarnar eru bæði innblásnar af sænskum og rússneskum stíl.

Temppeliaukion kirkko, eða klettakirkjan, eins og hún er stundum kölluð, er staðsett í hjarta borgarinnar og var hönnuð af bræðrunum Timo og Tuomo Suomalainen seint á sjöunda áratugnum. Þegar inn í hana er komið er líkt og maður sé kominn inn í helli því veggirnir eru bæði úr heilli klöpp og hlöðnum grjóthnullungum og dagsbirta streymir inn í gegnum þakglugga á koparhvelfingunni.

Arkitektúrinn ber þess líka merki því hann er blanda úr ýmsum áttum, byggingarnar eru bæði innblásnar af sænskum og rússneskum stíl.

Á ráðhústorginu eru fallegt um að lítast.

Hakaniemen Kauppahalli er markaður í miðbæ borgarinnar í fallegu sögufrægu húsi. Innandyra úir og grúir af girnilegum matvælum í bland við finnskt handverk og hönnun. Það er vel þess virði að þræða gangana, sérstaklega ef maður hefur áhuga á að bragða finnskt góðgæti, eins og til dæmis rúgbrauð, hreindýrakjöt, kaalikääryleet, sem eru fylltir hvítkálsbögglar, eða mustikkapulla, sem er sætabrauð fyllt með bláberjum.

Það er að sjálfsögðu ekki hægt að heimsækja Finnland án þess að fara í sána. Mörg hótel og gististaðir bjóða upp á sána og einnig eru fjölmörg baðhús úti um alla borg.

Kulttuuri-sána er almenningssána við sjóinn sem var reist þegar Helsinki hélt heimshönnunarsýninguna árið 2012. Sánað er opið frá miðvikudegi til sunnudags, frá kl. 16 til 20.

Linnanmäki-skemmtigarðurinn er nokkurn veginn í miðri Helsinki og er mjög áberandi í sjóndeildarhring borgarinnar.

Þar standa stórkostlegir rússíbanar, fallturnar, veitingastaðir og ýmsar sýningar gestum til boða.

Garðurinn var fyrst opnaður árið 1950 en alla tíð síðan hafa eigendurnir unnið stöðugt að bótum, breytingum og viðhaldi.
Verð og dagskrá garðsins er breytileg yfir árið og því sniðugt að kíkja á vefsíðuna: https://www.linnanmaki.fi/

Í Linnanmäki-skemmtigarðinum eru stórkostlegir rússíbanar, fallturnar, veitingastaðir og ýmsar sýningar.

Texti / Hildur Friðriksdóttir
Myndir / www.pixabay.com

Vinsælar jólaborgir

Þó að mörgum finnist best að vera heima hjá sér á aðventunni og um jólin eru alltaf einhverjir sem nota þennan árstíma til ferðalaga.

Við Effel-turninn er skautasvell fyrir fjölskylduna.

París – trjágöngin töfrum líkust
París er ein rómantískasta borg heims, ekki síst yfir jólatímann þegar hún er böðuð í ljósum og skreytingum. Þar er mikið um að vera fyrir fólk á öllum aldri, fjölbreyttir tónleikar eru víða um borgina, kórar syngja og ýmsir viðburðir. Jólin eiga það til að kalla fram börnin í okkur öllum þannig að hvort sem þú ferðast með börn eða ekki þá skaltu njóta alls sem borgin hefur upp á að bjóða. Við Effel-turninn er skautasvell fyrir fjölskylduna, markaðir eru víðs vegar um borgina og jólaljósin sem prýða Effel-turninn, Sigurbogann og brýr og fleiri mannvirki lýsa svo sannarlega upp skammdegið. Ljósin á trjánum á götunni Champs Elysees eru töfrum líkust og gaman að fara hring í stóra parísarhjólinu og virða útsýnið fyrir sér. Stórverslunin Galeries Lafayette er ein af þeim byggingum sem böðuð er ljósum að utan og innan og hana er mjög gaman að skoða, Notre Dam-kirkjan er afar hátíðleg og ef þið eruð svöng þá skuluð þið endilega fá ykkur heita pönnuköku með Nutella hjá götusölunum.

New York – borgin sem aldrei sefur
New York er virkilega jólaleg allt frá miðjum nóvember og óhætt að segja að borgin sé sveipuð mikilli ljósadýrð og fallegum jólaskreytingum. Mikið er um að vera bæði á götum úti og innandyra þar sem ýmsir viðburðir eru í boði. Líf og fjör er í verslunum og hægt að gera fínustu kaup eða njóta þess einfaldlega að ganga niður Fifth Avenue og skoða í gluggana. Alger skylda er að fara á skauta á skautasvellinu í Rockefeller Center undir hinu dásamlega himinháa jólatré og ekki má heldur missa af því að hitta jólasveininn. Svo er bara að njóta þess að fá sér gott að borða og fara inn á lítil sæt kaffihús og fá sér góðan kaffibolla eða heitt súkkulaði. Passið bara að vera vel klædd því það getur verið kalt á þessum árstíma.

New York er virkilega jólaleg allt frá miðjum nóvember og óhætt að segja að borgin sé sveipuð mikilli ljósadýrð og fallegum jólaskreytingum.

Akureyri – litla, vinalega „stórborgin“
Þó að Akureyri teljist ekki til borga þá hefur hún allt til alls eins og stórborg en er á sama tíma svo agnarlítil og krúttleg. Þar er hægt að fara á tónleika og í leikhús, njóta lífsins á vinalegum kaffihúsum, fara út að borða á veitingastöðum á heimsklassa og rölta um og njóta fallegra jólaljósa. Stróka í búðir og þá sérstaklega í gamla Bókval, snuðra í bókum og kaupa sér nokkrar, fara í Bakaríið við brúna og fá sér gott brauð að borða.

Borgin er mjög jólaleg í desember og yndislegt að fara á Strikið, borða eplaskífur og njóta þess að rölta um og skoða jólaljósin.

Kaupmannahöfn – jólin byrja í Tívolí
Kaupmannahöfn er í uppáhaldi hjá mörgum enda vinaleg og heillandi borg sem er mörgum Íslendingum hugleikin en margir þeirra hafa búið þar í lengri eða skemmri tíma. Borgin er mjög jólaleg í desember og yndislegt að fara á Strikið, borða eplaskífur og njóta þess að rölta um og skoða jólaljósin. Nauðsynlegt er að fara í Tívolíið, það er einstaklega jólalegt og fallegt frá miðjum nóvember og fram yfir áramót. Það var árið 1994 sem farið var að opna Tívolíið á þessum tíma en áður hafði það aðeins verið opið yfir sumartímann, eða í 151 ár. Þar sem Danir eru þekktir fyrir bjórmenningu þá er ekki amalegt að skella sér inn á nærliggjandi veitingastað og fá sér gott að borða og ískaldan jólabjór.

Berlín – paradís jólamarkaðanna
Berlín er æðisleg í desember, fallega skreytt og dásamlegir jólamarkaðir um allt eins og venja er í þýskum borgum. Í Berlín er meiri nútímabragur yfir jólamörkuðunum en annars staðar í Þýskalandi og þeir eru staðsettir um alla borgina. Sá vinsælasti og mest heimsótti er í kringum Kaiser Wilhelm Gedächtniskirche og flott að sjá alla básana í kringum kirkjuna. Kirkjan varð fyrir árás í síðari heimsstyrjöldinni og rústir hennar standa enn til minningar um stríðið. Fjölbreyttir viðburðir eru í boði og borgin angar af ristuðum möndlum, heitu súkkulaði og jólaglöggi.

Berlín er æðisleg í desember, fallega skreytt og dásamlegir jólamarkaðir um allt eins og venja er í þýskum borgum.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / www.pexels.com

Gagnleg ráð fyrir húðina í kuldanum

Mikilvægt er að hugsa vel um húðina á veturna.

Hjá mörgum framkalla kaldir vetrardagar meira en rósrauðan roða í kinnar, þeir gera húðina líka mjög þurra, ekki síst í andliti, á höndum og fótum. Hjá sumum verður þetta mun meira en tilfinningin ein, þessi þurrktilfinning, þurrkurinn getur orðið til þess að húðin flagnar, springur og stuðlað að exemi. Hér eru nokkur góð ráð til að undirbúa húðina fyrir veturinn.

Veldu rakakrem sem eru með olíu sem undirstöðu frekar en vatn en olían myndar verndandi hjúp á húðina og heldur eftir meiri raka en kremin sem byggja á vatni.

Leitaðu ráða hjá sérfræðingi
Skelltu þér í næstu lyfjaverslun eða snyrtivörubúð og fáðu álit hjá sérfræðingi í kremum. Hann getur sagt þér hvaða tegund af húð þú ert með, greint vandamálin sem eru kannski í gangi þessa stundina og ráðlagt þér hvaða vörur er best að nota. Það þýðir samt ekki að þú þurfir að kaupa allt það dýrasta sem verslunin hefur upp á að bjóða því vörurnar sem henta þér gætu verið þessar  allra ódýrustu. Það sem mestu máli skiptir er hvernig húðin bregst við vörunum og hvernig þér líður með að bera þær á þig – ekki hversu mikið þú borgaðir fyrir þær.

Gefðu húðinni meiri raka
Þú átt kannski rakakrem sem hentar þér fullkomlega á vorin og sumrin. En á haustin og á vetrum þarf oft að breyta um vörur í takt við veðrabreytingarnar. Veldu rakakrem sem eru með olíu sem undirstöðu frekar en vatn en olían myndar verndandi hjúp á húðina og heldur eftir meiri raka en kremin sem byggja á vatni. Vandaðu samt valið því sum olíukennt krem henta ekki fyrir andlit; veldu til dæmis krem með avókadóolíu, mineral-olíu, primrose-olíu eða almond-olíu. Sjávarolíur og „butter“ er meira bara fyrir líkama. Þess má geta að mörg krem sem merkt eru sem næturkrem eru olíukennd.

Sólarvörn er ekki bara til notkunar á sumrin. Vetrarsólin í bland við glampann af snjónum getur líka haft slæm áhrif á húðina. Ekki hika við að bera sólarvörn á andlit og hendur … áður en þú ferð út í vetrarsólina.

Notaðu sólarvörn
Sólarvörn er ekki bara til notkunar á sumrin. Vetrarsólin í bland við glampann af snjónum getur líka haft slæm áhrif á húðina. Ekki hika við að bera sólarvörn á andlit og hendur, ef þær eru berar, áður en þú ferð út í vetrarsólina. Gott er að vera búinn að bera hana á sig um þrjátíu mínútum áður en farið er út og bera svo á sig reglulega ef maður er lengi úti.

Passaðu upp á hendurnar
Húðin á höndunum er þynnri en á flestum öðrum líkamshlutum og að auki með færri olíukirtla. Þess vegna er erfiðara að halda réttu rakastigi á höndunum, ekki síst í köldu og þurru veðri sem getur framkallað kláða og sprungur. Vertu því sem mest með hanska og vettlinga þegar þú ferð út, ekki síst úr ull.

Forðastu blauta sokka og hanska
Ef þú blotnar í fæturna eða hendurnar blotna þá skaltu reyna að skipta um sokka eða hanska eins fljótt og mögulegt er, annars getur þú fengið kláða, sprungur, sár og jafnvel exem.

Vertu þér úti um rakatæki
Ofnar og það sem notað er til upphitunar eykur oft þurrt loft á heimilum og vinnustöðum. Rakatæki dreifa raka út í andrúmsloftið og hjálpa til við að koma í veg fyrir að húðin þurrkist upp. Vertu því með rakatæki á nokkrum stöðum á heimili þínu og í vinnunni.

Gefðu fótunum extra mikið af raka
Fótakremin með mintulyktinni eru indæl yfir sumarmánuðina en á veturna þarftu eitthvað miklu áhrifaríkara. Reyndu að finna lotion sem inniheldur jarðolíuhlaup eða glyserín. Svo er gott að nota andlits- og líkamsskrúbb reglulega til að losna við dauðar húðfrumur en með því hefur rakakremið líka greiðari aðgang að húðinni.

Vatnsdrykkja er mjög góð fyrir heilsuna almennt og húðin nýtur sannarlega góðs af þótt vatnsdrykkjan

Drekktu nóg af vatni
Þú hefur líklega heyrt þetta margoft en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Vatnsdrykkja er mjög góð fyrir heilsuna almennt og húðin nýtur sannarlega góðs af þótt vatnsdrykkjan ein og sér sé ekki nóg til að koma í veg fyrir mesta húðþurrkinn.

Hvíldu kornamaskann
Ef húðin í andlitinu er mjög þurr þá skaltu forðast að nota grófa kornamaska, leirmaska eða andlitsvatn með alkóhóli því þetta þurrkar húðina.
Í staðinn getur þú notað hreinsimjólk eða mildan froðuhreinsi, andlitsvatn án alkóhóls eða maska með djúpnæringu.

Forðast skal mjög heitt bað
Þótt unaðslegt sé að skella sér í heitt bað, sturtu eða heitan pott á köldum vetrardögum þá getur það haft þau áhrif að húðin missi raka. Þið eruð betur sett í volgu vatni og passa þarf að dvelja ekki of lengi. Volgt bað með haframjöli eða bökunarsóda getur linað kláða á þurri húð.

Ef þessi atriði virka ekki þá skaltu ekki hika við að fara til húðsjúkdómafræðings.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Gömlu góðu súpurnar

||
||

Einfaldir réttir sem öllum finnst góðir.

Á mínu æskuheimili var gjarnan aspassúpa í forrétt á aðfangadagskvöld og var þá borið nýbakað brauð með. Ég hafði það hlutverk þennan dag að útvega brauðið, snittubrauð, sem var búið að panta í hverfisbakaríinu og fannst mér það mikilvægt verkefni. Sumir eru að stíga sín fyrstu skref í að skapa jólahefðirnar og uppbökuð súpa er réttur sem einfalt er að laga og öllum finnst góður. Súpa er líka góður kostur sem forréttur þegar veislan er stór.

Aspassúpa gæti verið málið á aðfangadagskvöld.

ASPASSÚPA

fyrir 6

30 g smjör

3 msk. hveiti

12 dl grænmetis- eða kjúklingasoð

2 aspasdósir ( u.þ.b. 600 g samtals)

salt eftir smekk

pipar eftir smekk

2 dl rjómi, þeyttur

2 msk. söxuð steinselja (má sleppa)

Bræðið smjör í potti, hrærið hveiti út í þar til úr verður smjörbolla og þynnið síðan út með soðinu. Byrjið að setja 1 dl af soðinu og síðan smátt og smátt svo súpan verði vel samlöguð og fari ekki í kekki, bætið soðinu af aspasnum út í í restina. Sjóðið súpuna í 3-5 mín., bætið þá aspas út í og látið allt sjóða saman við vægan hita í 4-5 mín. Saltið og piprið eftir smekk. Hellið súpunni í diska og setjið rjómatopp á hvern disk. Fallegt er að skreyta ofan á með steinselju.

Ef ferskur aspas er notaður í súpuna í staðinn fyrir aspas úr dós þá er neðsti hlutinn af stönglinum flysjaður létt, aspasinn skorinn í bita og soðinn í soðinu í nokkrar mínútur á sama hátt og gert er í blómkálssúpunni.

BLÓMKÁLSSÚPA

fyrir 4

Nota má sömu aðferð við að gera spergilkálssúpu.

1 stórt blómkálshöfuð, skorið í 4 hluta

12 dl grænmetis- eða kjúklingasoð

30 g smjör

3 msk. hveiti

salt eftir smekk

pipar eftir smekk

2 dl rjómi, þeyttur

2 msk. söxuð steinselja (má sleppa)

Sjóðið blómkálið í soðinu þar til það er næstum meyrt. Sigtið soðið frá og geymið. Skiptið blómkálsbitunum í greinar í munnbitastærð. Bræðið smjör í potti, hrærið hveiti út í þar til úr verður smjörbolla og þynnið síðan út með kjötsoðinu. Byrjið að setja 1 dl af soðinu og síðan smátt og smátt svo súpan verði vel samlöguð og fari ekki í kekki. Sjóðið súpuna í 3-5 mín. og bætið síðan blómkáli út í og látið sjóða aðeins áfram. Saltið og piprið eftir smekk. Hellið súpunni í diska og setjið rjómatopp á hvern disk. Fallegt er að skreyta ofan á rjómann með steinselju eða tímíangrein.

BRAUÐBOLLUR

24 stk.

Blómkálssúpa og brauðbollur er fyrirtaks máltíð.

500 g hveiti

1 tsk. salt

1 tsk. sykur

100 g smjör

½ pk. þurrger

3 dl mjólk

1 egg

Blandið hveiti, salti og sykri saman í skál og myljið smjörið í blönduna. Hitið mjólkina þar til hún er fingurvolg og stráið þurrgerinu úr í, látið standa í 2-3 mín. Sláið eggið út í mjólkurblönduna og hellið þessu síðan út í hveitið. Hnoðið saman í sprungulaust deig. Látið deigið í skál og látið lyfta sér á hlýjum stað, undir klút eða plastfilmu, í 30 mín. Hnoðið deigið á ný og skiptið í tvo hluta. Rúllið hvorn hluta í pylsu og skiptið í 12-14 bita. Hnoðið bollur og raðið á ofnplötur. Látið lyfta sér aftur í 30 mín. og penslið með eggi eða mjólk. Hitið ofninn í 225°C. Bakið bollurnar í 10-15 mín. Má frysta og hita upp aftur við 100°C. Í 10-15 mín.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Jólasveinar einn og átta

Í kvikmyndum er að finna alls kyns áhugaverðar útfærslur á jólasveininum.

Þó að við á Íslandi séum vön bræðrunum þrettán sem við köllum jólasveina þekkjum við samt öll káta, rauðklædda jólasveininn sem á hug og hjörtu barna um allan heim. Í kvikmyndum er að finna alls kyns útfærslur á sveinka, bæði góðar og slæmar, og hér eru nokkrar þeirra.

Myndirnar um Bad Santa segja frá Willie Stokes sem flakkar, ásamt félaga sínum, á milli verslanamiðstöðva og ræna hvern einasta stað sem þeir koma á.

Vondi jóli

Myndirnar um Bad Santa segja frá svikahrappinum Willie Stokes sem flakkar, ásamt félaga sínum, á milli verslanamiðstöðva klæddur sem jólasveinn en í staðinn fyrir að breiða út fagnaðarerindi jólanna er markmið tvíeykisins að ræna hvern einasta stað sem þeir koma á. Í fyrri myndinni kynnist Willie átta ára gömlum krakka sem flækir svo sannarlega hlutina fyrir honum. Önnur myndin var frumsýnd í lok nóvember. Í henni nálgast jólin á ný og Willie er við sama heygarðshornið og áður, nú safnar hann peningum fyrir bágstadda en hirðir svo peningana sjálfur. Willie vill samt enn meira, fégráðugur sem hann er, og því ákveður hann að ræna velstæð góðgerðarsamtök í slagtogi við smávaxna félaga sinn, Marcus, og móður sína, Sunny.

Nýr jólasveinn

Í myndinni The Santa Clause, sem er fyrsta myndin í þríleik, er sagt frá Scott Calvin. Hann er bara venjulegur maður sem lendir í því óhappi að jólasveinninn dettur af þaki hans og slasast á aðfangadagskvöld. Scott og sonur hans, Charlie, finna 8 hreindýr á þakinu og þeir ákveða að klára að sendast með pakkana fyrir sveinka. Að ferðinni lokinni fara þeir til Norðurpólsins þar sem Scott er tjáð að hann verði að gerast nýi jólasveinnin og hafi því 11 mánuði til að ganga frá sínum málum og mæta aftur á pólinn á þakkargjörðardaginn.

Í Miracle on 34th Street virðast öll börn New York-borgar sannfærð um að Kris Kringle, nýi jólasveinninn í Cole’s-stórversluninni, sé hinn raunverulegi jólasveinn.

Kraftaverkajól

Í Miracle on 34th Street virðast öll börn New York-borgar sannfærð um að Kris Kringle, nýi jólasveinninn í Cole’s-stórversluninni, sé hinn raunverulegi jólasveinn. Vinsældir Kris vekja bæði tortryggni og afbrýðisemi meðal annarra jólasveina og verslunareigenda. Þeir reyna að taka hann úr umferð með því að höfða dómsmál gegn honum. Þá kemur lögmaðurinn Bryan Bedford og reynir að sanna tilvist jólasveinsins og vinna málið. Það reynist auðvitað ekki einfalt mál en eins og allir vita þá gerast kraftaverk á jólunum.

Yngri sonur jólasveinsins

Í teiknimyndinni Arthur Christmas fáum við loks svar við ráðgátunni um hvernig jólasveininum tekst að afhenda allar gjafirnar á einni nóttu. Starfsemin á Norðurpólnum einkennist af útpældu skipulagi og mikilli hátækni sem er vel falin fyrir okkur hinum. En undir niðri leynist venjuleg fjölskylda sem fer á kostum í góðlátlegum deilum og valdabaráttu. Yngri syni jólasveinsins, Arthur, er enn mjög annt um anda jólanna og þegar hann fær óvænt upp í hendurnar óendanlega mikilvægt verkefni leggur hann allt í sölurnar til þess að klára það áður en jólin renna upp.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Góð ráð til að auka gleði og orku í skammdeginu

Eitt og annað sem kemur sér vel í mesta skammdeginu.

Veturinn er erfiður tími fyrir marga og sumir þjást jafnvel af svokölluðu skammdegisþunglyndi, einkenni þess geta verið allt frá sleni og afkastaleysi til depurðar. Hér eru nokkur góð ráð til að auka gleði og orku.

Ein besta leiðin til að hrista af sér vetrarslen er að flýja veturinn alveg, þó það sé ekki nema í nokkra daga.

Meira ljós
Á veturna minnkar dagsbirta til muna og það getur haft áhrif á líðan okkar. Til eru sérstakir dagsbirtulampar til að reyna að vinna á móti áhrifum skammdegisþunglyndis. Jafnvel þótt þú þjáist ekki af skammdegisþunglyndi er mikilvægt að huga að birtunni á heimilinu, því það er svo dimmt hér á veturna. Hengdu upp ljósaseríur, kveiktu á kertum og lýstu upp heimilið.

Skrepptu í frí
Besta leiðin til að hrista af sér vetrarslen er augljóslega að flýja veturinn alveg, þó það sé ekki nema í nokkra daga. Ef þú hefur tök á ættir þú að reyna að bóka þér ferð í örlítið hlýrra loftslag, annars getur ferð í sumarbústað með góðum mat og víni gert kraftaverk.

Veturinn og aðdragandi jólanna getur verið mjög stressandi og því er um að gera að reyna að takmarka streituna eftir bestu getu.

Passaðu stressið
Veturinn og aðdragandi jólanna getur verið mjög stressandi og því er um að gera að reyna að takmarka streituna eftir bestu getu. Það er líffræðilega sannað að við erum orkuminni á veturna, þannig að vinnuálag sem okkur finnst ekkert mál á sumrin verður okkur offviða. Reyndu að taka tillit til þín og ekki hlaða á þig of mörgum verkefnum eða skiladögum.

Skelltu einhverju skemmtilegu „á fóninn“.

Ekki gleyma að hlæja
Hlátur er besta meðalið. Horfðu á uppáhaldsgamanmyndina þína, lestu fyndnar sögur í bókum og blöðum eða skipstu á bröndurum við vini þína.
Allt eru þetta góðar leiðir til að tryggja að þú hlæir nóg og takir lífinu ekki of alvarlega.

Spilaðu tónlist
Tónlist getur veitt mikla gleði og þess vegna er gott að safna öllum uppáhaldslögunum sínum á einn lista, til dæmis á tónlistarveitunni Spotify. Þá getur þú spilað þau hvenær sem þú þarf á að halda.
Nú getur þú til dæmis spilað jólalögin, þau hjálpa þér að halda í gleðina sem á að fylgja hátíðinni.

Láttu heyra frá þér
Við mannfólkið erum félagsverur að eðlisfari og þurfum á félagskap að halda. Rannsóknir hafa sýnt að samvistir við sína nánustu getur dregið svo um munar úr streitu.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Göngum við í kringum …

Fyrstu þekktu heimilidir um jólatré frá 16. öld.

Þetta er fyrsta myndin af jólatré sem birtist á prenti, nánar tiltekið á bókakápu The Strangers Gift eftir Hermann Bokum árið 1836.

Sumir geta ekki hugsað sér að vera með annað en lifandi jólatré á meðan aðrir eru alsælir með gervitré.

Svo er til fólk sem sættir sig alveg við lítið jólatré úr vírherðatrjám með jólaseríu, keramíkjólatré, eða jafnvel ekkert tré.

Fyrstu þekktu heimildir um einskonar jólatré eru frá Strassburg og þar um kring á 16. öld.

En hinn fyrsti sem getur um ljósum prýtt jólatré er Goethe, í sögu frá 1774.

Fyrsta mynd af jólatré með ljósum er hins vegar frá Zürich árið 1799.

Nokkrum árum síðar, árið 1807, voru til sölu á markaði í Dresden í Þýskalandi fullbúin jólatré, meðal annars skreytt gylltum ávöxtum og kertum.

Greinilegt er, að siðurinn var þá búinn að ná öruggri fótfestu þar um slóðir. Hann fór svo að berast til Norðurlanda eftir 1800.

Til Íslands munu fyrstu jólatrén hafa komið um 1850, í kaupstaði, aðallega hjá dönskum fjölskyldum.

En fæstir landsmenn áttu þess kost að eignast grenijólatré á þeim tíma. Málið var leyst með því að smíða gervijólatré og klæða það með sortulyngi, beitilyngi eða eini. Elstu heimildir um slíkt eru frá 1880-1890.

Til Íslands munu fyrstu jólatrén hafa komið um 1850, í kaupstaði, aðallega hjá dönskum fjölskyldum. En fæstir landsmenn áttu þess kost að eignast grenijólatré á þeim tíma.

Fleira áhugavert

– Það tekur jólatré að meðaltali 7-10 ár að vaxa í rétta stærð.

– Notkun á sígrænu tré til að halda upp á vetrarsólstöður var við lýði löngu áður en talið er að Jesús hafi fæðst.

Fyrstu heimildir um skreytt jólatré eru frá Riga í Lettlandi árið 1510.

– Jólatré hafa verið seld í Bandaríkjunum síðan um 1850. Þar til nýlega komu öll jólatré úr skógum en nú eru yfir 21 þúsund aðilar sem rækta jólatré. Hálfur milljarður trjáa er í ræktun.

– Fyrstu heimildir um skreytt jólatré eru frá Riga í Lettlandi árið 1510.

– Jólatré eyða ryki og ögnum úr loftinu.

– Franklin Pierce, 14. forseti Bandaríkjanna, var fyrsti forsetinn til að láta setja upp jólatré í Hvíta húsinu (1856).

– Þegar Teddy Roosevelt var í forsetastól mátti jólatré ekki koma inn fyrir dyr Hvíta hússins af umhverfisástæðum.

– Aðstoðarmaður Edisons, Edward Johnson, átti hugmyndina að því að setja rafmagnsljós á jólatréð. Átta árum síðar, eða 1882, komu þau á markað fyrir almenning.

– Lítil kertaljós á greinar jólatrés var almennt strax í kringum miðja 17. öld.

– Árið 2002 voru 21 prósent Bandaríkjamanna með alvörujólatré, 48 prósent með gervitré og 32 prósent með ekkert jólatré.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Kaldur og ljúffengur súkkulaðimöndludrykkur

Bragðgóður og fljótlegur drykkur.

Súkkulaðimöndludrykkur
fyrir 2
100 g súkkulaði
4 dl matreiðslurjómi
6 msk. möndlulíkjör, t.d. Amaretto
500-600 ml súkkulaðiís, t.d. frá Ekta

Hitið súkkulaði í matreiðslurjómanum og kælið blönduna. Skiptið henni í 2 glös, skiptið möndlulíkjör á milli og setjið ískúlur ofan á.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir
Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Raddir