Á hverju ári velur Skógræktarfélag Reykjavíkur hverfistré Reykjavíkur í öllum hverfum borgarinnar og er valið erfitt enda mörg mjög falleg tré í borginni.
HVERFISTRÉ ÁRBÆJAR er trjálundur í Árbæjarlaug. Lundurinn fegrar umhverfið, rammar inn svæðið og eykur ánægju sundgesta, sem eru ófáir. Þá lét fólk þess getið hve hlýlegt er að hafa sígrænan gróður, einkum að vetrarlagi. Lóðin við Árbæjarlaug var hönnuð samhliða hönnun og byggingu laugarinnar sem var opnuð árið 1994. Suðurhluti lóðarinnar nær að hluta inn í gamalt sumarbústaðaland sem þá þegar var skógi vaxið. Það er hái og þétti trjálundurinn sem er sunnan við laugina.
HVERFISTRÉ BREIÐHOLTS er ilmreynir (Sorbus aucuparia) við Vesturberg 29. Reynirinn var gróðursettur árið 1976, skömmu eftir flutt var inn í nýbyggt íbúðarhúsið. Síðan þá hefur reynirinn vaxið og dafnað. Tréð er vel staðsett í garði við hlið göngustígs.
HVERFISTRÉ GRAFARHOLTS-ÚLFARSÁRDALS er garðahlynur (Acer pseudoplatanus) við Ólafsgeisla 17. Hlynurinn er afar fallegur og þrífst vel. Hann er á fallegum stað, sést langt að og eins og horfir yfir skóglendið og Grafarholtsvöll fyrir neðan. Tréð var gróðursett árið 2004, þegar það hafði náð um 1,5 metra hæð. Það hefur gott rými til að vaxa og hefur fengið ágæta umhirðu. Hlynurinn hefur verið snyrtur reglulega til að stýra vexti og þolir það greinilega ágætlega. Það hve vel þessum hlyn líður í hlíðum Grafarholtsins, gefur góð fyrirheit fyrir vöxt trjágróðurs í þessu unga hverfi á næstu árum og áratugum.
HVERFISTRÉ GRAFARVOGS er garðahlynur (Acer pseudoplatanus) við Reykjafold 12. Hlynurinn er ekki nema 37 ára en hefur nýtt tímann vel. Tréð er þegar orðið hið glæsilegasta, þótt það sé barn að aldri á mælikvarða garðahlyna sem verða 500 ára. Tréð sést vel frá göngustíg í hverfinu og greinilegt að það hefur heillað vegfarendur, enda bárust nokkrar tilnefningar á því til félagsins.
HVERFISTRÉ HÁALEITIS-BÚSTAÐA er evrópulerki (Larix decidua) við Grundargerði 19. Í Háaleitis- og Bústaðahverfi er mikið um glæsilegt tré — seljur, reynitré, hlyni og svo mætti lengi telja. Valnefnd félagsins var því nokkur vandi á höndum, eins og gildir reyndar um fleiri hverfi. Evrópulerkið er hávaxið, kræklótt og bogið en jafnfram hið glæsilegasta með sterkan karakter sem setur skemmtilegan svip á götuna.
HVERFISTRÉ HLÍÐA er garðahlynur (Acer pseudoplatanus), Reykjahlíð 8. Margar ábendingar bárust um hlyninn enda er þetta glæsilega tré staðsett við göngustíg að leikskólanum Hlíð, svo að margt fólk nýtur þess þegar það á leið hjá. Tréð er stórt með voldugan stofn og íburðarmikla krónu. Hlynurinn er með nægt pláss í kringum sig og fær því að njóta sín að fullu. Íbúar lýsa trénu sem „prýði hverfisins“ og oft heyrist til borgarbúa og ferðamanna stoppa og dást að því hvað hlynurinn er fallegur.
HVERFISTRÉ KJALARNESS er gullregn (Laburnum x watereri) við Esjugrund 34. Gullregnið er fallegt og hefur blómstrað fallega í sumar, líkt og gullregn víðar í borginni eftir góðviðrasumarið 2023. Tréð hefur notið alúðar í uppeldinu og er vel haldið í einkagarði. Jafnframt sést það vel frá göngustíg í miðju Grundarhverfi og því margir sem geta notið þess.
HVERFISTRÉ LAUGARDALS er gullregn (Laburnum x watereri) í garði Ásmundarsafns. Eins og segir í tilnefningu er tréð „afar fagurt og myndar stórfenglega hvelfingu yfir útilistaverkum í garði safnsins sem er öllum opinn.“ Gullregn eru falleg úr fjarlægð en ekki síður þegar nær er komið enda geta greinarnar myndað fallega hvelfingu líkt og í Ásmundarsafni.
HVERFISTRÉ VESTURBÆJAR er álmur (Ulmus glabra) við Stýrimannastíg 9. Álmurinn er sérlega stór og glæsilegur. Hugsað hefur verið vel um tréð síðustu ár, meðal annars tvö önnur tré sem voru komin til ára sinna verið felld. Ekki er vitað hvenær álmurinn var gróðursettur, en húsið að Stýrimannastíg 9 var reist árið 1906. Til gamans má geta þess að það var í þessum sama garði sem fyrsti körfuvíðirinn var ræktaður upp á Íslandi, um aldamótin 1900. Teinungur úr tágakörfu frá Þýskalandi var gróðursettur í garðinu. Á næstu árum og áratugum fengu borgarbúa svo víðigræðlinga af þessari plöntu sem varð þekkt undir heitinu Vesturbæjarvíðir og er nú að finna víða um land.
HVERFISTRÉ MIÐBORGAR eru gráeldritré (Alnus incana) á Austurvelli sem voru gróðursett 1963. Falleg einstofna tré með fallegum krónum. Vaxtarlagið á tegundinni getur verið misjafnt – runni, margstofna tré eða einstofna tré með krónu. Trén njóta sín vel með öðrum fjölbreyttum gróðri og umvefja Austurvöll einstakri grænni hlýju.
Mörg falleg tré eru í hverfinu — birki, silfurreynar, hrossakastaníur, garðahlynir og svo mætti lengi telja. Þá eru í Miðborginni margir almenningsgarðar með fallegum og fjölbreyttum gróðri. Allt frá Alþingisgarðinum, einum fyrsta skrúðgarði landsins (1894) til kirsuberjalundsins sem var gróðursettur í Hljómskálagarðinum árið 2011.