Þriðjudagur 24. september, 2024
5.1 C
Reykjavik

17. júní hátíðarræða á Ísafirði

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Í dag á íslenska lýðveldið afmæli. 80 ára. Stórafmæli. Miklu merkilegra afmæli en 81, hvað þá 77. Í dag hefði einnig 500 kallinn Jón Sigurðsson, fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð árið 1811, orðið hvorki meira né minna en 213 ára gamall. Tíminn líður hratt. Það var bara í gær að húsið hér fyrir aftan mig (Safnahúsið á Ísafirði) bauð nýja Ísfirðinga velkomna í heiminn og í fyrradag sem séra Jón Magnússon þumlungur vildi ólmur láta varpa Jónum og Þuríði á bál fyrir galdra. Ekki virðist heldur svo langt síðan Þorbjörn og menn hans drápu nafna minn Ólaf, son Hávarðs Ísfirðings. 

Þannig týnist tíminn og kann og að framkalla þá tilfinningu að maður hafi upplifað flest og að litlu sé hægt að breyta, að hlutirnir séu meitlaðir í stein, orðnir að eðlislögmáli og að maður sé áhorfandi fremur en þátttakandi.

En þrátt fyrir að tíminn líði á ógnarhraða og flest verði forgengileikanum að bráð eins og sjá má ykkur hér á hægri hönd (kirkjugarður), þá eru okkur náttúrlega afrek sveitunga óþekktrar konu, þess hins sama og „sigldi til Hafnar að nema þar einhver fræði“, í fersku minni. Og í hátíðarræðu sem þessari ber 

ræðurápara að minnast á téðan Jón forseta Sigurðsson í það minnsta sjö sinnum, á Íslands sóma, sverð og skjöld, mann sem við ræðum á helgum þegar vér gluggum í Hugvekju hans til Íslendinga frá byltingarárinu mikla 1848 og miklumst yfir þeirri óvéfengjanlegu staðreynd að hann hafi verið Vestfirðingur, enda ól hann manninn á Vestfjörðum í heil 17 ár, og því megi að sjálfsögðu þakka Vestfirðingum öðrum fremur fyrir sjálfstæði landsins, fyrir lýðveldið, fyrir kandíflossið, hoppu-kastalana, karamelluregnið og sölutjöldin.

Vissulega kann hér að vera um smávægilega einföldun að ræða, um túlkunaratriði, eða spurningu um tilfinningu. Annar vestfirskur forseti, Túngötuforsetinn, bjó hér umtalsvert skemur en spyrðir sig samt einarðlega við Vestfirði eins og reyndar fyrrum stéttbróðir hans á sviði stjórnmálanna og sérlegur forvígismaður hins vestfirska einhljóðaframburðar. Má því einnig þakka Vestfjörðum og Vestfirðingum veru Íslands í ESB, sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna svo og andstöðuna við ICESave. 

Verðum við ekki að sjá í gegnum fingur okkar með smá einfaldanir?  Í hátíðarræðum þarf ekki að fara ofan í kjölinn á hvorki einu né neinu. Þar eru hólar hrikaleg fjöll og skítalækir stórfljót, vatnið hreinast, fólkið „bezt“, menningin mögnuðust. Við tölum um okkur og það sem er okkar, við sláum okkur á brjóst og spyrðum okkur við víkinga og boltasparkara og hundsum þá staðreynd að víkingar voru vart til staðar á Fróni auk þess sem þeir voru misyndismenn sem áttu það til að ræna, rupla og ríða án samþykkis, ásamt því að myrða mann og annan. Maður er nú ekkert að pæla í slíku í hátíðarræðu. 

Í hátíðarræðu er allt umvafið bjartsýni og við alltaf, ávallt, ætíð og áreiðanlega að gera betur en í gær og gott betra; við elskum náungann, tökum flóttafólki fagnandi; drekkum freyðivín með fjölbreytileikanum við undirspil níundu sinfóníu Beethoovens; sólin er allsráðandi og baðar geislum sínum á öll Guðs börn á meðan stormurinn stælir þjóðarlíkamann og mannsandann. 

Og nú skal vitna í þjóðskáld. Þjóðskáld sem má alveg titla Vestfirðing, þótt hann hafi litið dagsins ljós einhvers staðar fyrir norðan á 19. öld. 

Ég elska þig stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir, um leið og þú þýtur.

Já, veðrið, náttúran og allt það „stöff“ mótar og stælir vora lund, gerir oss að því sem við erum. Það fyrirfinnast allavega sjaldnast hlandbrunnin „braggabörn í barnavagni“ í hátíðarræðum og því síður engisprettufaraldur; mannkynið „það elskar frið og hatar Rudolf Hess og „þorpin eru að hjarna við“ sem „eilífðar smáblóm“ og „óréttlæti mótmælum vér allir“.

Við sammælumst í andakt um allskonar ágæti og menningarhnoss, við bendum á íslenskan sagnaarf, þrautseigju undangenginna kynslóða, stærum okkar af tungunni, sem er ekki síður einkennismerki íslenskrar þjóðar en alþýðu-vagg og veltu-hljómsveitarinnar engilsaxnesku The Rolling Stones. Og ekki erum við allskostar laus við voðalega saklausan, sárameinlausan, lítilsháttar 17. júní 

þjóðernisbelging. Já, tunga vor hefir þjónað íslenskri þjóð frá örófi alda í fallegum fjallasal undir heiðbláum himni hvar fegurðin ein ríkir.

EN! Nú ber að víkja málinu að stöðluðu atriði allra hátíðarræðna. Það er viðtekin venja að leiða talið að áskornum, að þrátt fyrir almenna velsældarvímu sé víða pottur brotinn, að sumir hafi ekki efni á nýjum síma eða áskrift að Stöð 2, að fitusmánun feitustu þjóðar Evrópu sé óbærileg; að vinna verði meinbug á loftmengun bílalýðveldisins; að fordómar grasseri innan fornbílaklúbba; að hvítir miðaldra karlpungar séu svo illa haldnir af forréttinda blindu að Jesús fái ekki rönd við reist. Svo er það kynlega málið, trans, BDSM og hvaðeina. Ekki hefði nú Jón okkar Sigurðsson þurft ekki að „díla“ við viðlíka mál og hafði hann nú ærinn starfa samt. 

Það er um auðugan garð að gresja, nóg af áskorunum til að bragðbæta svona ræðu umhugsandi smekkbæti mitt í gleðiærslum ísfirskra ungmenna. Verkefni það sem hér verður fært í tal ætti ekki að koma á óvart og liggur máske algerlega í augum „úti“ hvað suma viðstadda áhrærir.

Our great language, our nations pride and joy: Icelandic

Vitanlega er síð-sígilt að lýsa yfir áhyggjum yfir stöðu íslenskunnar, að klifa á því að nú megi ekki sitja við orðin tóm, að málið sé vort dýrasta djásn, ástæða sjálfstæðis okkar, það sem aðgreindi okkur frá Dönum, skilgreindi og skilgreinir okkur sem þjóð, er okkar aðgangur að nið og aldanna svo og kastalar og dómkirkjur landsins. Íslenskan er aðgangur vor að hugsun forfeðranna. 

Já, og svo mærir maður bókmenntirnar og orðsins fólk, rithöfundana og allt það slekt. Og væri maður pólitíkus myndi maður næsta víst lofa endalausu fjármagni til að kippa þessu og öllu öðru mögulegu og ómögulegu í liðinn og láta svo mynda sig í gríð og erg með réttum aðilum að ræðu lokinni. 

Ástand tungunnar er mega „tough“! Ástand hvar hrútspungar rata trauðla á trant lengur og fólk rappar fremur en fer með rímur og styttir sér fremur stundir með Netflix en Íslendinga sögunum, Biblíunni eða Kiljan að ekki sé talað um Guðmund Hagalín, Njörð P. Njarðvík, Eyvind P. Eiríksson, Rúnar Helga, Jón Thoroddsen og fleiri af því sauðahúsi. Ungmenni eru því sem næst ólæs eftir 10 ára grunnskólagöngu og eiga í mestu erfiðleikum með að skilja íslensku liðins tíma og eru svo, að eigin mati, klárari á ensku en móðurmálið að maður tali nú ekki um ef hluteigandi aðili hefir annað móðurmál en íslensku, börnin okkar klæmast ótt og títt á engilsaxnesku, eru föst í viðjum tik-tok á meðan þeir sem líkamlega ekki teljast til barna eða ungmenna eru njörvaðir niður í hlekki Flettismettisins. 

-skjárinn er ópíum fólksins-

Viðtengingarhátturinn er að deyja, þjónusta kaffihúsa, veitingahúsa, spítala fer fram á ensku, allra handa skilti eru einvörðungu á ensku, enskan er sett ofar íslenskunni á skiltum, afþreyingin er á ensku, samfélagsmiðlarnir á ensku, draumarnir eru á ensku, gott ef lóan er bara ekki byrjuð að syngja sínar vorvísur á ensku. Tæknibyltingar, búsetubyltingar og hugarfarsbyltingar sækja að íslenskunni.

Þið þekkið þennan barlómssöng, ekki satt?

Og svo bara allt í einu og óforvarandis gerist það að fjöldi fólks með erlent ríkisfang rýkur upp úr 1,8%, ESB-árið 1994, upp í hartnær 20% anno domini 2024 og samhliða því eykst, eins og gefur að skilja, herskari þeirra sem eigi hafa íslensku að móðurmáli og umtalsverður hluti þeirra kann jafnvel ekki stafkróf fyrir sér í íslensku og hefir ekki hugmynd um hver Jón Sigurðsson var eða hvaða hlutverki hann gegndi í sjálfstæðisbaráttu íslenskrar þjóðar og þaðan af síður hverjir Fjölnismenn, Baldvin Einarsson eða Ásgeir Ásgeirsson voru. Eitthvað sem … allir Íslendingar þekkja auðvitað eins og hnakkasvip ömmu sinnar við eldavélina.

Já, tilfinnanlegar breytingar hafa sannlega átt sér stað. Og sama hve sterk þráin eftir þeim tíma „er hetjur riðu um héruð“ kann að vera er leiðin til baka ófær. Sama hversu afturhaldssamar þið kunnið að vera þá er sá tími liðin er hér bjó einungis fólk á borð við: Jón Sigurðsson og Ingibjörgu Einarsdóttur, fólk næpuhvítt á hörund, bláeygt, ljóshært og stælt með kjarnyrta íslensku á vör allan liðlangan daginn, mælandi ódauðleg gullkorn af jafnmiklum krafti og hrímhvítt jökulfljót. 

Ísland, farsældarfrón

Og hagsælda, hrimhvíta móðir!

Hvar er þín fornaldarfrægð,

frelsið og manndáðin bezt?

Við endurheimtum ekki liðna tíð enda hlýtur og slíkt að bera vott um hugmyndarfæð. Nei, við verðum að „díla“ við nýjan veruleika og hluti þess er að leiða hugann að því hvort við viljum að íslenska verði áfram ríkjandi mál á 

Íslandi, að íslenska verði málið sem sameinar, sem veitir aðgang að sögu lands og þjóðar ásamt því að búa til nýja og sameiginlega. Og ef svarið við þeirri spurningu er jákvætt verðum við að leiða hugann að því hvernig við viljum standa að því, hvernig við viljum miðla málinu, hvernig við viljum styrkja það í sessi og ekki síst svara þeirri spurningu af hverju svo ætti að vera. Er það vegna þess að málið varðveitir menningarlega samfellu landsins? Er það vegna þess að málið er verðmæti í sjálfu sér? Eða er það vegna þess að málið er það sem sameinar, skapar öllum þeim sem hafa það ágætlega á valdi sínu aukin tækifæri? Málum er nefnilega enn svo háttað að flest allt sem hér máli skiptir fer fram á íslensku: leikskólinn, grunnskólinn, framhaldsskólinn og helstu stofnanir brúka íslensku. Ætli maður sér frama er það auðveldara með íslensku á sínu valdi, íslenskan veitir hlutdeild og hvort sem okkur líkar betur eða verr brúar enskan ekki bilið, því tíð og sjálfsögð notkun ensku býr til aðgreiningu þegar til kastanna kemur. 

Aðgreiningu á milli þeirra sem tala og skilja íslensku og þeirra sem tala hana ekki og skilja hana ekki. 

Og þá er ekki einu sinni horft til þeirra sem hafa hvorugt málið, hvorki ensku né íslensku, almennilega á valdi sínu. Við skulum bara orða þetta sem svo að það sé oft og tíðum misskilin kurteisi að ætla að allt sé auðveldara með ensku þegar átt er í samskiptum við þá sem vilja setjast hér að til lengri eða skemmri tíma, burtséð frá þeim skilaboðum sem það sendir: að íslenskan sé óþörf sem sannlega ekki er raunin … 

Við tölum jú ensku við túrhesta, erum við því ekki að koma fram við fólk sem hér býr eins og túrista með því að tala við það á ensku? 

Og ef til vill kann að vera að við sem samfélag „fungerum“ enn best með íslensku að vopni, með íslenskuna sem sameiningarafl, ekkert ósvipuð nálgun Jóns okkar Sigurðssonar. Hans helsta vopn í baráttunni fyrir sjálfstæði Íslands var jú, tungan og menningararfleifðin. 

Eitt er allavega kristaltært! Íslenska lærist ekki sé enska ætíð notuð, íslenska lærist ekki sé henni ekki haldið að fólki, íslenska lærist ekki geri samfélagið ekki kröfu um að málið sé notað, íslenska lærist ekki búi samfélagið ekki til góðan grundvöll fyrir íslenskunám og máltileinkun og taki þátt í ferlinu, með bros á vör. Íslenskan lærist best sé fólki veitt tækifæri til að nota hana með allslags hreim og hugsanlega misgóðri málfræði. Það þarf að gera mistök til að geta lært af þeim. Og við, sem höfum íslensku að móðurmáli, getum verið þátttakendur í þessu ferli ekki bara áhorfendur. Kannski er það meira að segja skylda okkar að taka þátt.

Jæja, nú er tími til kominn að ljúka þessu raupi og gaspri. Hér hefir verið farið út og suður í sjálfshælni þess sem telur sig hafa málið, íslenska tungu, sómasamlega á valdi sínu. Endum þetta yfirlætistal á smá áeggjan, á fleygum orðum. Það er klassík þegar kemur að hátíðarræðum. 

Við sammælumst, allavega 17. júní, um ágæti Vestfirðinga, um ágæti íslenskra fjallasala og jafnvel veðurfars, um að tungumálið sé okkar dýrasta djásn og sameiningartákn … EN hvað segir það um samfélag sem gerir ekki allt sem í þess valdi stendur til að auðvelda aðgengi þeirra sem hér vilja setjast að, sem vilja læra málið, sem ættu að læra málið, að því menningarlega hjartfólgnasta, sem Íslendingar eiga, tungumálinu? Að kjarna þess að vera íslenskur.

Er ekki kominn tími til að Gefa íslensku, í breyttum veruleika, séns!?

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, höfundur er verkefnastjóri Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag (www.gefumislenskusens.is

Vísað er til ýmissa skálda í ræðunni. Bubbi Morthens, Bjartmar Gunnlaugsson, Einar Benediktsson, Hannes Hafstein, Jónas Hallgrímsson, Matthías Jochumson, Megas og Mugison, 

Mótmæla brottvísun 11 ára drengs með alvarlega vöðvarýrnun: „Mál upp á líf og dauða fyrir Yazan“

Alþingishúsið. Ljósmynd: Sikeri
Boðað hefur verið til mótmæla vegna fyrirhugaðrar brottvísunar 11 ára drengs, sem greindur er með alvarlega vöðvarýrnun. Drengurinn er á flótta frá Palestínu.

Samtökin No Borders og fólkið sem stóð fyrir Samstöðutjaldinu á Austurvelli í byrjun árs standa fyrir mótmælum á sunnudag klukkan 15:00 á Austurvelli. Fyrirhuguð er brottvísun hins 11 ára gamla Yazan, sem er hér á landi á flótta frá hryllingnum á Gaza. Yazan er greindur með Duchenne vöðvarýrnun, sem er einn alvarlegasti arfgengi sjúkdómurinn af þessari gerð.

Í lýsingu á mótmælaviðburðinum á Facebook segir eftir farandi:

„Þrátt fyrir yfirgnæfandi læknisfræðileg gögn sem sýna fram á alvarleika sjúkdóms Yazan og hversu lífshættuleg brottvísun getur verið honum, þá hefur Kærunefnd útlendingamála vísað máli Yazan frá og endanlega neitað honum um vernd á Íslandi.

Til stendur að brottvísa Yazan og fjölskyldu í júlí. Viljum við sem samfélag vera ábyrg fyrir því að stytta líf 11 ára drengs?!
Mætum öll! Brottvísanir eru ofbeldi!“
Þá er þar einnig frekari lýsing á Yazan:
„BROTTVÍSUN ÓGNAR LÍFI YAZAN:
Yazan er 11 ára drengur sem er greindur með Duchenne vöðvarýrnun, en Duchenne er einn alvarlegasti arfgengi vöðvarýrnunarsjúkdómurinn. Sjúkdómurinn er hrörnunarsjúkdómur þar sem allir megin vöðvar líkamans smám saman rýrna, þar á meðal hjarta- og öndunarvöðvar. Lífslíkur þeirra með sjúkdóminn eru verulega skertar en án þjónustu er meðalaldur í kringum 19 ár. Sjúkdómurinn krefst stöðugrar umönnunar og er aðgangur að sérhæfðri læknisþjónustu nauðsynlegur til að lengja lífslíkur sem mest.
Með því að vera brottvísað til Spánar, lands sem fjölskyldan hefur aldrei dvalið í, gæti orðið hlé á þjónustu í allt að 18 mánuði. „18 mánuðir án meðferðar munu valda óafturkræfum skaða sem mun verulega minnka lífsgæði drengsins og stytta líf hans,“ segir helsti sérfræðingur Íslands í Duchenne. Þar að auki gerir hvert einasta áfall geri sjúkdóminn verri og slíkur skaði er kominn til að vera, en sjúkdómurinn gengur ekki til baka.
Yazan og foreldrar hans flúðu heimili sitt í Palestínu í leit að skjóli og öryggi á Íslandi fyrir ári síðan. Frá komu þeirra hafa þau orðið hluti af samfélagi okkar og lagt sitt af mörkum þrátt fyrir að standa frammi fyrir fjölmörgum hindrunum. Áður en Yazan kom til Íslands hafði hann ekki aðgang að almennilegri læknisþjónustu né fékk að taka þátt í skóla- og frístundastarfi.

Að veita honum vernd hérlendis er ekki aðeins aðkallandi mannúðarskylda heldur einnig mál upp á líf og dauða fyrir Yazan. Stuðningskerfin og læknishjálpin sem er í boði á Íslandi er lífsnauðsynleg fyrir Yazan og hans heilsu. Með því að rífa Yazan upp úr núverandi umhverfi sínu og taka af honum viðeigandi læknisaðstoð og stuðning, er ekki einungis verið að svipta hann þeim stöðugleika sem hann nauðsynlega þarf til að lifa bærilegu lífi heldur er verið að ógna lífi hans og dæma hann til óþarfa þjáninga og erfiðleika.

Duchenne samtökin, Landssamtökin Þroskahjálp, Einstök börn, ÖBÍ réttindasamtök, Réttur barna á flótta og Tabú hafa einnig fordæmt áform stjórnvalda um að brottvísa Yazan og fjölskyldu hans.
Viljum við í alvöru vera ábyrg fyrir því að stytta líf 11 ára drengs, sem er nú þegar verulega stytt?“

Unglingurinn á Tenerife fór heim með dulurafullum Bretum: „Hann þekkti þá ekki neitt“

Jay Slater

Lögreglan, með hjálp þyrlu, leitarhunda og dróna, ásamt fjallabjörgunarsveita, hefur leitað að hinum 19 ára Jay Slater, nærri Airbnb-húsnæði sem hann fór í ásamt tveimur breskum karlmönnum.

Airbnb-húsið er einangrað bóndabýli sem staðsett er í 30 kílómetra fjarlægð frá hinu vinsæla Play des Los Americas, amerísku ströndinni, í suðurhluta Tenerife í þorpinu Masca.

Jay kom til Tenerife 12. júní með tveimur vinum sínum, Brad og Lucy Mae Law, sem var síðasta manneskjan sem Jay var í sambandi við áður en hann hvarf.

Vinahópurinn mætti svo á tónlistarhátíðina NRG festival sem byrjaði síðasta föstudag og endaði á eftirpartýi árla morguns á Papagayo á hinni alræmda Playa des Los American ströndinni.

Tónlistarhátíðin sem vinirnir fóru á, auk hundruði annarra gesta, var auglýst sem „helgi af rafmagnaðri tónlist, töfrandi myndefni og nýstárlegri framsetningu.“

Myndband sem tekið var í partýinu sýnir Jay brosa og dansa en það var þá sem Lucy og Brad sáu vin sinni í síðasta skipti en þau yfirgáfu bæði partýið í kringum klukkan tvö en Jay varð eftir ásamt tveimur breskur mönnum sem hann hafði hitt.

Það er vitað að í kringum fjögur, þegar partýið var við það að hætta, hafi lögreglan verið kölluð á Veronica-ströndina til að bregðast við „atviki“ en ekkert bendir til þess að Jay hafi verið viðriðinn það mál.

Vitað er að Jay hafi um fimmleytið farið með Bretunum tveimur í Airbnb-húsnæði sem þeir höfðu leigt, sem kallast Casa Abuele Tina, en mikið er um hlykkjótta fjallvegi á leiðinni þangað.

Lucy sagði MailOnline að Jay hefði sagt henni að hann ætlaði með Bretunum en hún hvatti hann til „koma aftur“ í herbergi þeirra á Paloma Beach-hótelinu en hann neitaði því og sagðist ætlaði með mönnunum.

„Ég skil bara ekki af hverju hann fór til þeirra, hann var bara nýbúinn að hitta þá og þekkti þá ekki neitt. Við Brad sögðum honum að koma aftur en hann gerði það ekki, ef hann hefði gert það, væri hann ekki horfinn,“ sagði Lucy.

Lítið er vitað um Bretana tvo en Lucy lýsti þeim sem „hörundsdökkum og breskum“ en bareigandi í næsta húsi við sveitabýlið sagði MailOnline að hún hefði heyrt í fólki í húsinu klukkan sex um morguninn.

Þegar Jay var enn í húsinu sendi hann móður sinni og Lucy tvær ljósmyndir á Snapchat en önnur þeirra sýndi útsýnið frá húsinu yfir nærliggjandi dal og hin sýndi hann með sígarettu í hendinni á planinu fyrir utan húsið.

Hér er tímalínan yfir málið:

12. júní – Jay lendir á Tenerife síðasta miðvikudag með vinum sínum, til að fara á NRG, sem er þriggja daga reif tónlistarhátíð frá 14 til 16. júní á Los Cristianos.

17. júní – Snemma nætur næst myndband af Jay njóta sín í eftirpartýi á Xanadu-skemmtistaðnum, ásamt vinkonu sinni, Lucy Mae West.

Klukkan 02:00 – Lucy og Brad ákveða að yfirgefa partýið og fara aftur í íbúð sem þau leigðu en Jay verður áfram í partýinu og spjallar við tvo Breta sem hann hitti þar.

Klukkan 05:00 – Jay og Bretarnir tveir yfirgefa svæðið og fara í klukkutíma bílaferð um hlykkjóttan fjallveg að AirBnB-sveitabýli í Masca, þar sem hinir dularfullu Bretar dvelja.

Klukkan 06:00 – Nágrannar heyra hávaða frá húsinu.

Klukkan 07:40 – Jay sendir mynd af útsýninu frá húsinu og mynd af sér haldandi á sígarettu á stéttinni fyrir utan húsið.

Í kringum 08:00 – Jay spyr konu sem býr á svæðinu hvernig hann geti komist aftur til Los Cristianos með rútu. Hún segir honum að næsta rúta fari ekki fyrr en klukkan 10:00.

Klukkan 8:15 – Sama kona sér Jay ganga upp fjallið og í ranga átt.

Klukkan 08:50 – Jay hringir í Lucy til að segja henni að hann sé aðeins með eitt prósent eftir að batterýi í símanum og að hann sé villtur og hafi enga hugmynd hvar hann sé en að hann sé að reyna að ganga aftur til Los Cristianos.

Stuttu síðar tengist sími Jay við símamastur nærri Mirador La Cruz De Hilda veitingastaðinn en þar nærri er stærðarinnar gljúfur en þar leitar lögreglan að honum.

Una breytist seint

Una Schram var að gefa út nýtt lag

Fátt er skemmtilegra en íslensk tónlist og það er vegna þess að Íslendingar eru ótrúlega hæfileikaríkir á þessu sviði. Eina sem er betra en íslensk tónlist er ný íslensk tónlist og hefur Mannlíf valið fimm nýleg íslensk lög sem allir þurfa að hlusta á um helgina.

Una Schram – Breytist seint
Gravity is Optional – Kaupa Kaupa Kaupa
Röggi – Bíða og sjá
SiGRÚN – Monster Milk
ELVAR, Logi Pedro og Daniil – Ekkert Vandamál





Það rignir og rignir

Skýjað og rigning með köflum næstu daga,

Landsmenn þurfa að bíða eftir sumarsólinni enn um hríð. Veðurstofan spáir norðaustan fimm til þrettán metrum á sekúndu í dag. Rigning verður um landið suðaustan- og síðar austanvert, en skýjað og úrkomulítið vestanlands. Hiti fimm til fjórtán stig. Hlýjast verður suðvestanlands.

Næstu dagar munu bera í skauti sér svipað veður þar sem norðaustan átt verður ríkjandi. Helgin verður ekkert sérstök í veðurfarslegu tilliti. Allt að 13 metrar á sekúndu verða norðvestan til á landinu á morgun. Rigning verður með köflum, en úrkomulítið á Austurlandi. Hiti fimm til tólf stig.

Á sunnudag er útlit fyrir ákveðna suðvestan- og vestanátt með skúrum, einkum um landið vestanvert. Hiti sjö til sextán stig. Hlýjast verður fyrir austan. Sólarglennur verða inn á milli og það stefnir í rjómablíðu á Austfjörðum á miðvikudaginn.

Gjaldþrotahrina hjá Davíð sem stendur á rústum félaga sinna

Davíð Viðarsson eða Quang Lé, áður eigandi Wok On og fjölda annarra félaga.

Athafnamaðurinn Quang Le, öðru nafni Davíð Garðarsson, stendur nú á rústum fyrirtækja sinna eftir að hann hafði verið handtekinn í rassíu yfirvalda fyrir meint mansal og önnur broyt í atvinnurekstri, Félög hans,  Wokon ehf. og EA17, hafa verið úrskurðuð gjaldþrota, samkvæmt Lögbirtingablaðinu. Quang Lé sat í gæsluvarðhaldi í rúma þrjá mánuði eftir að rannsókn hófst á rekstri hans. Vika er síðan hann var látinn laus. Þá reyndi hann að ná sambandi við meint fórnarlömb sín.

Gjaldþrotin gengu yfir eftir að lögregla frysti bankareikninga og kyrrsetti aðrar eignir og fjármuni vegna rannsóknar á fyrirtækjum sem tengd eru honum. Samtals voru félögin með um 175 milljónir í eignir samkvæmt ársreikningi 2022, samkvæmt frétt á Vísi. Þá var Wokon ehf. með jákvætt eigið fé um 60 milljónir en EA17 neikvætt eigið fé upp á sex milljónir. Félögin hafa þó ekki skilað ársreikningum fyrir árið 2023.
Vietnam Cuisine ehf. er á meðal þeirra fjölmörgu veitinga- og fasteignafélaga sem voru í eigu Quangs Lés. Það var félag var tekið til skipta fyrir rúmum tveimur vikum.
Meðal annarra félaga í eigu Quang  voru Vietnam market ehf., NQ fasteignir, Vietnam Restaurant og Vy-þrif.
Það er til marks um stærðagráðu gjaldþrotanna að Wokon ehf. var með rekstur á sjö
veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Auk þess sáu utanaðkomandi rekstraraðilar um rekstur Wok On í Vík í Mýrdal og Hveragerði.
Sakborningar í málinu gegn Quang Le eru nú alls tólf.

Spegill Óla

Óli Björn Kárason.

Eftir stórkarlalegar yfirlýsingar um brot ráðherra Vinstri-grænna í andófi sínu gegn hvalveiðum komst Óli Björn Kárason að þeirri niðurstöðu að best væri að vera stilltur og styðja ekki tillögu Berþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra. Óli Björn hefur, allt frá því Svandís Svavarsdóttir, þáverandi matvælaráðherra bannaði hvalveiðar, fordæmt ráðherra VG og hótað illu vegna brota flokksins gegn Hvali hf.

Margir voru þeir sem veltu vöngum yfir því hvað Óli Björn myndi gera í núverandi stöðu. Sjálfur var hann þöguill sem gröfin þar til kom að atkvæðagreiðslunni. „Ég mun aldrei vera í liði með þeim sem reyna að fella ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ég mun, þegar ég vakna í fyrramálið, líta glaður í spegil og nokkuð sáttur við sjálfan mig, eftir að hafa sagt nei,“ sagði Óli Björn þegar hann studdi VG og sló líklega met í hræsni og yfrborðspólitík. Spegill, spegill herm þú mér …

Enn ein kisan sem lendir í minkagildru: „Fóturinn mölbrotinn og það þarf að fjarlægja hann“

Jacobina Joensen – sem er formaður Villikatta – segir einfaldlega:

„Nú er nóg komið!“

Bætir þessu við:

„Rétt eftir hádegi í dag fengum við símtal frá manni sem var við Sorpu í Gufunesi. Það hafði leitað til hans kisa sem var með minkagildru fasta um fótinn á sér. Kisan er í lífshættu, fóturinn er mölbrotinn og þarf fjarlægja hann.“

Hún bætir því við að „enn einu sinni slasast kisa lífshættulega vegna minkagildru sem sett er út af meindýraeyði, eftirlitslaus og óvarin gildra svo önnur dýr komast í hana. Gildran var fest niður með bandi sem kisa gat slitið og þar sem þetta er gæf kisa þá leitaði hún sér hjálpar hjá mannfólkinu.“

Jacobina segir að „ef um vergangs- eða villikött hefði verið að ræða þá hefði hann falið sig og dáið hægum, kvalarfullum dauðdaga af sárum sínum. Það er óskiljanlegt að svona gildrur, sem hannaðar eru til að meiða dýr, séu enn leyfðar á Íslandi. Þessu verður að breyta!“

Félagið Villikettir fordæmir einstaklinga, sveitarfélög og félagasamtök sem koma fyrir svona gildrum til að losna við ketti og minka. það eru til mannúðlegri leiðir.“

Baltasar Kormákur fann þrjú illa farin hross í útihúsi sínu: „Þetta eru bara sjúklingar núna“

Baltasar Kormákur Ljósmynd: Instagram-skjáskot

Árið 1994 fann Baltasar Kormákur, leikari og leikstjóri þrjú illa farin hross í útihúsi á nýrri jörð sem hann hafði keypt sér ásamt öðru fólki.

Lögreglan rannsakaði málið en í ljós kom að hrossin voru af næstu jörð, Hrafnhólum í Mosfellsbæ. Eigandi þeirra, Kristján Guðmundsson hafði saknað þeirra í þrjár vikur. Hrossin voru illa á sig komin þegar þau fundust en til stóð að selja eitt þeirra til útlanda en sú sala komst í uppnám vegna málsins. Grunaði Kristjáni að þeim hefði verið stolið.

DV fjallaði um málið á sínum tíma:

Lögreglan rannsakar dularfull hvarf þriggja hrossa í Mosfellsbæ:

Hrossin fengu hvorki vott né þurrt í 3 vikur

– fundust innilokuð og orðin grindhoruð í útihúsi í nágrenninu

„Þetta eru bara sjúklingar núna. Ég hef hrossin í húsi og gef þeim meðal annars vítamín. Fyrst fengu þau sprautu og þeim var gefið reglulega. Ég er ekki viss um að þau fari úr hesthúsi fyrr en í vor. Þau verða jafnvel ekki búin að ná sér fyrr,“ sagði Kristján Guðmundsson á Hrafnhólum í Mosfellsbæ í samtali við DV. Lögreglan rannsakar hvarf þriggja af hrossum Kristjáns sem talin eru hafa verið lokuð inni í útihúsi skammt frá í þrjár vikur. Næsta jörð er Skeggjastaðir og þar fundust hrossin. Nýir eigendur þar, meðal annars Baltasar Kormákur leikari, fundu hrossin þar sem þau voru illa á sig komin í einu af útihúsunum en þar eru hús sem eitt sinn voru notuð undir minkabú. Lögreglan var látin vita og eigandinn í framhaldi af því.

Kristján með hrossin

„Ég var búinn að leita hrossanna og var farinn að hallast að því að þeim hefði verið stolið,“ sagði Kristján. Óljóst er hvemig hrossin komust inn í framangreint útihús. Aðrar dyr hússins eru innkeyrsludyr en hinar eru með renniloku. Því er alls ekki talið útilokað að hrossin hafi verið lokuð inni af mannavöldum. Þau höfðu verið í girðingu ásamt fleiri hrossum og því var því ekki veitt sérstök eftirtekt þegar þau hurfu. Mögulegt er að hrossin þrjú hafi farið að útihúsunum þegar hópurinn slapp út fyrir girðingu. Kristján sagði að eitt af hrossunum, Hnokki, hefði verið selt til útlanda en af því gæti ekki orðið með sama hætti og áætlað hefði verið. Hin hrossin voru talin efnileg eins og Kristján orðaði það.

Baksýnisspegill þessi birtist fyrst á vef Mannlífs 12. maí 2023.

Jóhann Páll segir að markmiðið sé að „enginn öryrki verði skilinn eftir“

Jóhann Páll Jóhannsson – þingmaður Samfylkingarinnar – segir að „stjórnarandstaðan [sé] sameinuð um breytingar í þágu öryrkja“ og að málið snúist „um að enginn öryrki verði skilinn eftir.“

Hann bætir því við að „það gleður mig að greina frá því að fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokka í velferðarnefnd Alþingis standa saman að breytingartillögum við frumvarp ríkisstjórnarinnar um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu.“

Jóhann Páll segir að „markmiðið er að knýja fram breytingar í krafti samstöðu. Það eru ýmis skref í rétta átt í frumvarpinu – en ég hef einnig bent á stórhættulega ágalla sem verður að laga.

Með aðstoð ÖBÍ og Þroskahjálpar höfum við þegar náð fram ákveðnum breytingum. En margt stendur út af og breytingartillögur okkar snúa að fimm atriðum:

(1) Fjárhæð heimilisuppbótar hækki svo enginn öryrki verði skilinn eftir.

(2) Öryrki í atvinnuleit fái aukið svigrúm til að finna starf við hæfi án þess að virknistyrkur falli niður.

(3) Skerðing á örorkulífeyri vegna fjármagnstekna maka verði afnumin.

(4) Hafið verði yfir allan vafa að enginn sem þegar hefur fengið örorkumat verði þvingaður í hið nýja „samþætta sérfræðimat“.

(5) Alþingi fái skýrslu frá ráðherra um útfærslu á samþættu sérfræðimati – sem á að koma í stað örorkumats en er enn algjörlega óútfært.“

Jóhann Páll færir í tal að hann hafi nýverið boðið „öryrkjum Íslands til Alþingis til að ræða örorkufrumvarpið og þessar tillögur voru smíðaðar í kjölfarið. Meðflutningsmenn eru þau Arndís Anna K. Gunnarsdóttir í Pírötum, Bergþór Ólason í Miðflokki, Guðbrandur Einarsson í Viðreisn og Guðmundur Ingi Kristinsson í Flokki fólksins.“

Segir að endingu:

„Um er að ræða eins konar lágmarkskröfur – sem eru svo hófstilltar og í raun sjálfsagðar að við trúum ekki öðru en að meirihlutinn á Alþingi geti fallist á þær. Þetta er risastórt velferðarmál sem varðar ekki aðeins alla öryrkja Íslands heldur einnig vinnandi fólk sem getur misst starfsgetu í framtíðinni, ef það veikist til dæmis eða lendir í slysi.“

Útgáfutónleikar Sverris Norland í kvöld á Röntgen – Óformleg og létt stemning

Útgáfutónleikar fyrir plötuna „Mér líður best illa“ með Sverri Norland fara fram þann 20. júní kl. 20 á Röntgen (efri hæð), Hverfisgötu 12.

Um tónleikana segir í fréttatilkynningu:

Stemningin á tónleikum verður óformleg og létt, eins og við séum stödd heima í stofu hjá Sverri. Hann segir frá tilurð laganna og fléttar sögur saman við tónlistina. Með Sverri spila Humi (Ragnar Jón Ragnarsson) á píanó, hljómborð og syntha og Birkir Blær Ingólfsson á saxófón. Hugsanlega stökkva fleiri gestir upp á svið. Ókeypis inn. 

Um „Mér líður best illa“

„Mér líður best illa“ kom út í maí og er önnur breiðskífa Sverris Norland. Hún geymir fimmtán grípandi popplög af ólíkum toga, þar sem áherslan er ekki síst á skemmtilega og hugmyndaríka textagerð á íslensku.  

Með Sverri spila á plötunni:

– Agnes Björgvinsdóttir, bakraddir

– Birkir Blær Ingólfsson, saxófónn

– Helgi Egilsson, bassi og bakraddir (Fjallabræður, Albatross, fleiri)  

– Óskar Þormarsson, trommur (Fjallabræður, Albatross, fleiri)

– Ragnar Jón Ragnarson, eða Humi, hljómborð, synthar og bakraddir (Urmull & Kraðak)

Upptökustjórn var í höndum Ólafs Daðasonar. Jón Skuggi hljóðblandaði plötuna en Halldór Gunnar Pálsson hljóðblandaði eitt lag („Mér líður best illa“).

Um Sverri Norland:

Fyrsta hljómplata hans, Sverrir Norland, kom út árið 2008.

Sverrir Norland hefur einnig gefið út fjölmargar bækur, þ.m. talið lofuð verk á borð við Klettinn (2023), Stríð og klið (2021) og Fyrir allra augum (2016). Hann starfar einnig sem útgefandi, við dagskrárgerð í sjónvarpi og útvarpi og sem handritshöfundur og sem sérfræðingur í samskiptum hjá Arion banka.

 

Katrín gefur ríkisstjórninni ókeypis ráð: „Vöndum okkur – náttúra Íslands er hér að veði!“

Ríkisstjórn Íslands 2024.
Lögmaðurinn Katrín Oddsdóttir gefur ríkisstjórninni ókeypis hugmynd varðandi lagareldi en afgreiðslu frumvarps um slíka starfsemi var í dag frestað til hausts .

|
Katrín Oddsdóttir lögfræðingur, segir lagareldi rústa íslenskri náttúru.

Frumvarpi um lagareldi var í dag frestað afgreiðslu þar til í haust en frumvarpið er afar umdeilt en þau sem eru andvígir því hafa sagt það gefa norskum auðjöfrum heilu firðina undir mengani iðnað sem lagareldi sé.

Baráttukonan og lögmaðurinn Katrín Oddsdóttir, sem gagnrýnt hefur frumvarpið hvað harðast, skrifaði færslu í dag á Facebook þar sem hún gefur ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar ráð, sem hún ætlar ekki að rukka neitt fyrir.

Hér má lesa færsluna í heild sinni:

„ÓKEYPIS HUGMYND:

Nú hefur hinu meingallaða frumvarpi um lagareldi verið frestað enda geta ríkisstjórnarflokkarnir ekki komið sér saman um það.
Það er gott en líka slæmt því stjórnsýslan sem er viðhöfð á grundvelli gildandi laga er hörmuleg! Þetta er meðal annars vegna þess að ábendingar Ríkisendurskoðunar um skipulagningu, forsamráð og samþættingu á leyfisveitingum hafa verið hunsaðar.
Hér er því ókeypis hugmynd fyrir ríkisstjórnina: Öll leyfi til sjókvíaeldis verði stöðvuð þar til ný lög um málaflokkinn hafa tekið gildi.
Vöndum okkur – náttúra Íslands er hér að veði!“

Lætur þingkonur Vinstri Grænna hafa það óþvegið: „Sorglegar fyrirmyndir ungra kvenna á Íslandi“

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir lætur þingmenn Vinstri Grænna fá það óþvegið í kjölfar atkvæðagreiðslu á vantrauststillögu á hendur matvælaráðherra.

„Hvað á að segja við embættismenn eins og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sem fékk á sig vantrauststillögu í morgun. Sem samþykkir að gerast vikastúlka og bera á borð fyir þjóðina lagareldisfrumvarp úr ranni Katrínar Jakobsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur. VG hafa aldri verið annað en leiktjöldin ein, flokkur sem hefur skreytt sig með dyggðum og vinsældalíklegum málum. Engar efndir, bara svik. “Þannig hefst rassskellur, í formi Facebook-færslu, Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur, leikkonu og fyrrum forsetaframbjóðanda. Og hún var hvergi nærri hætt:

„Steingrímur J. Sigfússon guðfaðir flokksins og stefnu hans vandlega falinn í skugga kvenna sem hafa felulitað flokkinn með kvenleika sínum. Nú er hann loks farinn glansinn af holum ,,kvenskörungum“ í VG. Og mættum við vinsamlegast frétta minna af vanlíðan Jódísar og ,,mennsku“ sem engu skilar í þingstörfum hennar.“

Segir hún þingkonur Vinstri Grænna allar „vonlausar“:

„Vonlausir stjórnmálamenn allar sem ein því miður og sorglegar fyrirmyndir ungra kvenna á Íslandi. Ísland þarf ekki á svona stjórnmálakonum að halda. Konum sem með fylgispekt í hræðslu tryggja völd þeirra sem eiga og ráða í okkar landi.“

Að endingu hvetur hún Íslendinga til að afþakka „gervimennskuna“ á þinginu:

„Það voru konur sem tryggðu borgaraleg réttindi allra á Íslandi byggðu upp velferðakerfi á íslandi, konur sem tryggðu hér byggingu landspítala og konur sem settu á laggirnar fátækraaðstoð. Þær konur finnast enn á Íslandi og á óstarfhæfu alþingi sem með víðsýni, skilningi, greind og sjálfstæði er treystandi til að vinna fyrir almenning. Hömpum þeim en afþökkum gervimennskuna.“

Vantraustið var fellt – Jón Gunnarsson kaus ekki

Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Bjarni Benediktsson eru báðir í nauðvörn.

Vantrauststillaga Miðflokksins á hendur matvælaráðherra var rétt í þessu felld á Alþingi.

Stór orð féllu í umræðunni áður en gengið var til atkvæðagreiðslunnar en stjórnarmeðlimir kölluðu tillöguna meðal annars „lýðskrum“ og „leikrit fáránleikans“ á meðan stjórnarandstæðuþingmenn töluðu um „lögbrot“

Alls kusu 23 með tillögunni en 35 kusu gegn henni og einn greiddi ekki atkvæði. Var hún því felld.

Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins gerði sérstaklega grein fyrir atkvæði sínu en hann hefur verið afar gagnrýninn á matvælaráðherra Vinstri grænna. Þar gagnrýndi hann áfram Vinstri græna og tilkynnti svo að hann myndi ekki greiða atkvæði í málinu.

Óli Björn Kárason, sem einnig hefur gagnrýnt matvælaráðherra vegna málsins, steig í pontu og gerði grein fyrir atkvæði sínu. Þar sagði hann meðal annars: „Ég mun aldrei vera í liði með þeim sem vilja fella ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.“

Bjarni pirraður og vill kjósa um vantraustið: „Vonandi finnum við botninn og spyrnum okkur upp“

Bjarni Benediktsson Mynd: RÚV-skjáskot

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra Íslands er afar hneikslaðust á ræðuhaldi stjórnarandstöðunnar og vill að gengið sé strax til kosninga um vantrauststillögu á hendur Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur.

Í þessum töluðu orðum stendur yfir umræður á Alþingi varðandi vantrauststillögu Miðflokksins á hendur matvælaráðherra. Bjarni Benediktsson er afar hneikslaður á umræðunni og vill að kosið verði strax um vantraustið, sem hann segir að verði felld. Vitnaði hann svo í Þráinn Bertelson, rithöfund og fyrrverandi þingmann, sem kallaði dagskrárliðinn störf þingsins „hálftími hálfvitanna“.

Segir hann að nú sé botninum náð á þinginu en segir að þá sé þó hægt að spyrna sér aftur upp. „Vonandi finnum við botninn og spyrnum okkur upp og hefjum virðingu Alþingis aftur upp.“ Úr salnum heyrðist þá „Heyr, heyr,“ frá nokkrum þingmönnum.

Segir sögusagnir um ánægðju með lagareldisfrumvarpið ósannar: „Þetta má aldrei verða að lögum!“

Lagareldi Ljósmynd: stjornarradid.is

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir segir orðróm í gangi um að náttúru- og landverndarsamtök séu ánægð með breytingar sem gerðar hafi verið á lagareldisfrumvarpinu, ósannan. Hvetur hún Íslendinga til að skrifa nafn sitt á undirskriftarlista gegn frumvarpinu.

„Tæplega 7000 manns hafa skrifað undir og nú verður fólk að spíta í lófana og skrifa undir og deila eins og mest það má. Undirskriftalista má finna efst undir færslunni.“ Þetta skifaði leikkonan Steinunn Ólína á Facebook í gær.

Í færslunni hefur hún orð á ákveðnum orðrómi sem hún segir ósannan:

„Heyrst hefur að keyra eigi þetta í gegnum þingið og sá orðrómur gengur meðal stjórnarandstöðu að náttúru- og landverndarsamtök séu ánægð með breytingar þær sem kynntar verði. Það er ósatt með öllu.“

Að lokum hvetur hún alla til að skrifa undir og birtir textann sem fylgir undirskriftarsöfnuninni.

„Þetta má aldrei verða að lögum! Ég hvet alla til að áframsenda á vini og þingmenn alla sem þið getið taggað.

„Við undirrituð skorum á Alþingi Íslendinga að hafna frumvarpi ríkisstjórnarinnar um lagareldi sem kveður á um gefa ótímabundin leyfi til nýtingar auðlinda okkar í íslenskum fjörðum endurgjaldslaust. Frumvarpið heimilar mengandi iðnaðarframleiðslu með sjókvíeldi á viðkvæmustu svæðum við strendur Íslands undir litlu eftirliti og hefur hagsmuni leyfishafa í fyrirrúmi á kostnað almannahagsmuna og náttúru landsins.“.“

Undirskriftarsöfnunin.

Ríflega helmingur ökumanna notar síma undir stýri – Sláandi niðurstöður Samgöngustofu

Rúmlega fjórðungur Íslendinga lætur símanotkun annarra í umferðinni trufla sig mikið en nota samt sjálf símann undir stýri. Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallup fyrir Samgöngustofu sem framkvæmd var í júní 2024. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Samgöngustofu.

Í maí ýttu Sjóvá og Samgöngustofa úr vör herferðinni Ekki taka skjáhættuna. Markmið hennar er að vekja athygli á þeirri hættu sem skjánotkun skapar í umferðinni. Töluverð umfjöllun hefur verið um herferðina og ákvað Samgöngustofa því að láta kanna aftur viðhorf ökumanna til farsímanotkunar undir stýri.

Samkvæmt fréttatilkynningunni eru niðurstöður könnunarinnar þær að næstum helmingur ökumanna segir farsímanotkun annarra í umferðinni trufla sig mjög mikið eða frekar mikið, eða 45,7 prósent, og 30 prósent segja hana trufla sig lítið sem ekkert. Um 60 prósent af þeim 45,7 prósentum sem truflast mikið af símanotkun annarra nota símann sjálf við akstur og því er rúmlega fjórðungur Íslendinga í þeim hópi fólks sem truflast af símanotkun annarra í umferðinni en notar þó símann sjálft undir stýri.

Rúmlega helmingur ökumanna á það til að nota farsímann undir stýri.

54,1 prósent eiga það til að nota farsímann á ferð og 55,4 prósent eiga það til að nota hann á rauðu ljósi sem bendir til að nánast allir sem eiga það til að nota símann á rauðu ljósi gera það líka á ferð. Athygli vekur að mjög fáir eru með harða afstöðu gagnvart því að nota símann aðeins á rauðu ljósi en aldrei á ferð.

Í ljós kom að 10,6 prósent nota alltaf akstursstillingu á farsíma, fáir nota hana stundum, sjaldan eða oft. Einnig kom fram að 23,8 prósent vita af henni en nota hana ekki og 56,1 prósent hafa ekki heyrt um hana. Hér er því rými til úrbóta en akstursstilling er góð leið til að hafa hemil á símanotkun undir stýri.

Fram kemur í fréttatilkynningunni að herferð Sjóvá og Samgöngustofu, Ekki taka skjáhættuna varpi ljósi á þá símanotkun sem á sér stað undir stýri í dag og er henni líkt við sambærilega notkun tækja sem frekar voru notuð á síðustu öld. Sem dæmi hefði engum dottið í hug, hvorki á síðustu öld né núna, að skrifa bréf á ritvél samhliða því að aka bíl en sú hegðun er í raun sambærileg við að skrifa skilaboð á síma. Truflunin er sú sama, það er að segja, hugurinn snýr sér að skilaboðunum og við erum ekki með athyglina við aksturinn. Hættan er sambærileg en af einhverjum ástæðum samþykkjum við aðra hegðunina en ekki hina.

Hægt er að kynna sér átakið á vefsíðunni https://skjahaetta.is/. Þar má nálgast góð ráð og upplýsingar til að sporna gegn akstri undir skjáhrifum en þar er einnig að finna fræðslumyndbönd sem sýna hvernig setja á upp akstursstillingu fyrir farsíma. Þannig má forðast það að taka skjáhættu í umferðinni og stuðla með því að eigin öryggi og annarra.

 

Unglingurinn á Tenerife skarst á löpp rétt fyrir hvarfið: „Það er eitthvað skrítið í gangi“

Jay Slater með móður sinni, Debbie Duncan

Vinkona hins 19 ára Jay Slater, sem týndur er á Tenerife, segir hann hafa slasaði sig á fæti og hafi verið með ofþornun og villtur, áður en hann hvarf á eyjunni.

Sjá einnig: Leitin að týnda unglingnum á Tenerife breytt: „Ég held að hann hafi verið tekinn gegn vilja sínum“

Lucy Law, vinkona Jay, segir að hvarf hans sé „grunsamlegt og skrítið“ en hann ætlaði sér að ganga í 11 klukkutíma, frekar en að bíða eftir rútu.

Síðast heyrðist frá hinum 19 ára Breta klukkan 08:15 á mánudagsmorgun eftir að hann hafði dvalið hjá fólki sem hann hitti á NRG tónlistarhátíðinni, fyrr um daginn.

Staðirnir á Tenerife sem Jay dvaldi á.

Í samtali við The Sun, sagði Lucy að Jay hafi ekki verið „heimskur“ og bætti við: „Það er eitthvað skrítið í gangi. Þetta er grunsamlegt. Ekki sjens að enginn hafi séð hann í tvo daga.“

„Það er veitingastaður í 10 mínútna fjarlægð, sem hann hefði séð eða gengið framhjá. Þetta er grunsamlegt og skrítið,“ sagði Lucy.

Hrjóstrugt svæði

Jay sást síðast klæddur í hvítan stuttermabol, stuttbuxum og íþróttaskóm. Símagögn sýna að síðasta þekkta staðsetning hans hafi verið í Rural de Teno-garðinum, sem er vinsælt göngusvæði.

Svæðið er ansi torfært.Breski blaðamaðurinn Chris Elkington, ritstjóri Canarian Weekly, sagði BBC að svæðið þar sem síðast er vitað af Jay, sé „torfært“. „Þetta er svæði sem inniheldur margar gönguleiðir, þar er mikil fjalllendi, nokkuð strjált, frekar hrjóstrugt,“ sagði hann og hélt áfram: „Nokkuð eyðimerkurlegt svæði á marga vegu, með djúpum giljum og dölum. Þetta er svæði sem þú vilt pottþétt ekki vera á án almennilegs skófatnaðar, sérstaklega ef þú ert vatnslaus.“

Skar sig á kaktus

Stuttu áður en sími hans varð batterísaus, sagði Jay vinkonu sinni, Lucy, að hann hefði „skorið legginn á kaktusi“ á göngu sinni í átt að dvalarstað sínum.

Lucy sagði Sky News að hann hafi hringt í sig kortér yfir átta á mánudagsmorgun og sagt henni að hann væri villtur og vatnslaus og að batteríið á símanum hans ætti bara eitt prósent eftir. Þrátt fyrir það tókst honum að senda vinkonu sinni ljósmynd af staðsetningu sinni og hún sagði honum að ganga til baka þaðan sem hann kom. Jay hafi hins vegar ekki verið viss hvaðan hann hafði gengið og var aðeins klæddur í stuttermabol og stuttbuxur.

Fljótlega eftir að Jay týndist bauðst bandarísk kona til að keyra Lucy að fjallendinu. „Það voru bókstaflega engin merki um hann neins staðar, Við keyrðum um allan daginn,“ sagði Lucy.

 

Kraftaverk Helgu Rakelar

Skjáskot: ruv.is

Baráttukonan og kvikmyndagerðarmaðurinn, Helga Rakel Rafnsdóttir, hefur háð harða baráttu við MND-taugahrörnunarsjúkdóminn undanfarin ár. Helga Rakel hefur ekkert verið á vík að gefast upp fyrir vágestinum arfgenga sem kostaði föður hennar, Rafn Jónsson tónlistarmann, lífið þegar hann var aðeins 49 ára. Helga, sem verður 49 ára á þessu ári, barðist fyrir því að fá lyfið Tofersen sem ekki var á lyfjaskrá. Hún fékk undanþáguna og nú, ári síðar, er líf hennar allt annað og betra. Hægt hefur á sjúkdómnum.

Helga greindist með MND-sjúkdóminn fyrir þremur árum síðan og barðist hún fyrir því að fá undanþágubeiðni samþykkta hjá Lyfjaeftirlitinu til að geta fengið að taka lyfið. Helga Rakel ræddi málið í Mannlega þættinum á Rás 1 þar sem  hún segist vera mun sterkari en fyrir ári síðan sem gerist venjulega ekki í þessum sjúkdómi. „Mikill léttir að hafa vonina,“ segir Helga Rakel um kraftaverkið sem fylgir lyfinu. Hún upplýsti jafnframt að hún væri með áform um að gera nýja kvikmynd …

Vantrausti á Bjarkeyju verður hafnað: „Trúverðugleiki þingflokks Sjálfstæðismanna í holræsið“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra. Ljósmynd: Facebook

Vantrauststillaga á hendur Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra verður afgreidd og væntanlega felld á Alþingi í dag. Ráðherrann hefur líkt og forverar hans í embætti, Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir sætt fordæmingu fyrir stjórnsýslu og brellur sínar í málinu.

Nokkrir Sjálfstæðismenn hafa haft sig í frammi og lýst andúð sinni á vinnubrögðum Vinstri-grænna. Teitur Björn Einarsson, alþingismaður Norðvesturkjördæmis, hefur verið þar fremstur í flokki. Nú liggur fyrir að Teitur mun ekki taka þátt í afgreiðslunni þar sem hann er á sjúkrabeði. „Verð ég nú frá þingstörfum þar til ég kemst almennilega á fætur og ról,“ svaraði Teitur fyrirspurn Mannlífs í gær.

Teitur Björn Einarsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins hvílir á sjúkrabeði. Mynd: Facebook.

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaðpur Sjálfstæðisflokksins, fullyrti í gær að flokkurinn hefpui fulla stjórn á sínu fólki sem myndi greiða atkvæði gegn vantrausti. Samkvæmt því munu Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason lúta fullri stjórn í málinu.

Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsformaður af Akranesi, er á sama máli og telur að þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem lýst hafa óánægju muni fela sig á bak við varamenn.

„Ætla að spá að það verði nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem muni kalla inn varamenn eða boða forföll til að forða sér frá því að það sjáist að þeir þori ekki að styðja við vantraust á matvælaráðherra. Veit að það þýðir ekki að elta ólar við þingmenn Framsóknar enda búinn að sjá að sá flokkur virðist ekki standa fyrir neitt annað en sjálfan sig,“ segir Vilhjálmur á Facebook.

Vilhjálmur Birgisson.

Vilhjálmur furðar sig á yfirlýsingu Hildar um að vantrauststillagan sé pólitískt leikrit.

„Mér sýnist að trúverðugleiki þingflokks sjálfstæðismanna verði endanlega sturtað niður í holræsið þegar þeir munu sjá til þess að matvælaráðherra þurfi ekki að bera neina ábyrgð,“ skrifar Vilhjálmur.

17. júní hátíðarræða á Ísafirði

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Í dag á íslenska lýðveldið afmæli. 80 ára. Stórafmæli. Miklu merkilegra afmæli en 81, hvað þá 77. Í dag hefði einnig 500 kallinn Jón Sigurðsson, fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð árið 1811, orðið hvorki meira né minna en 213 ára gamall. Tíminn líður hratt. Það var bara í gær að húsið hér fyrir aftan mig (Safnahúsið á Ísafirði) bauð nýja Ísfirðinga velkomna í heiminn og í fyrradag sem séra Jón Magnússon þumlungur vildi ólmur láta varpa Jónum og Þuríði á bál fyrir galdra. Ekki virðist heldur svo langt síðan Þorbjörn og menn hans drápu nafna minn Ólaf, son Hávarðs Ísfirðings. 

Þannig týnist tíminn og kann og að framkalla þá tilfinningu að maður hafi upplifað flest og að litlu sé hægt að breyta, að hlutirnir séu meitlaðir í stein, orðnir að eðlislögmáli og að maður sé áhorfandi fremur en þátttakandi.

En þrátt fyrir að tíminn líði á ógnarhraða og flest verði forgengileikanum að bráð eins og sjá má ykkur hér á hægri hönd (kirkjugarður), þá eru okkur náttúrlega afrek sveitunga óþekktrar konu, þess hins sama og „sigldi til Hafnar að nema þar einhver fræði“, í fersku minni. Og í hátíðarræðu sem þessari ber 

ræðurápara að minnast á téðan Jón forseta Sigurðsson í það minnsta sjö sinnum, á Íslands sóma, sverð og skjöld, mann sem við ræðum á helgum þegar vér gluggum í Hugvekju hans til Íslendinga frá byltingarárinu mikla 1848 og miklumst yfir þeirri óvéfengjanlegu staðreynd að hann hafi verið Vestfirðingur, enda ól hann manninn á Vestfjörðum í heil 17 ár, og því megi að sjálfsögðu þakka Vestfirðingum öðrum fremur fyrir sjálfstæði landsins, fyrir lýðveldið, fyrir kandíflossið, hoppu-kastalana, karamelluregnið og sölutjöldin.

Vissulega kann hér að vera um smávægilega einföldun að ræða, um túlkunaratriði, eða spurningu um tilfinningu. Annar vestfirskur forseti, Túngötuforsetinn, bjó hér umtalsvert skemur en spyrðir sig samt einarðlega við Vestfirði eins og reyndar fyrrum stéttbróðir hans á sviði stjórnmálanna og sérlegur forvígismaður hins vestfirska einhljóðaframburðar. Má því einnig þakka Vestfjörðum og Vestfirðingum veru Íslands í ESB, sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna svo og andstöðuna við ICESave. 

Verðum við ekki að sjá í gegnum fingur okkar með smá einfaldanir?  Í hátíðarræðum þarf ekki að fara ofan í kjölinn á hvorki einu né neinu. Þar eru hólar hrikaleg fjöll og skítalækir stórfljót, vatnið hreinast, fólkið „bezt“, menningin mögnuðust. Við tölum um okkur og það sem er okkar, við sláum okkur á brjóst og spyrðum okkur við víkinga og boltasparkara og hundsum þá staðreynd að víkingar voru vart til staðar á Fróni auk þess sem þeir voru misyndismenn sem áttu það til að ræna, rupla og ríða án samþykkis, ásamt því að myrða mann og annan. Maður er nú ekkert að pæla í slíku í hátíðarræðu. 

Í hátíðarræðu er allt umvafið bjartsýni og við alltaf, ávallt, ætíð og áreiðanlega að gera betur en í gær og gott betra; við elskum náungann, tökum flóttafólki fagnandi; drekkum freyðivín með fjölbreytileikanum við undirspil níundu sinfóníu Beethoovens; sólin er allsráðandi og baðar geislum sínum á öll Guðs börn á meðan stormurinn stælir þjóðarlíkamann og mannsandann. 

Og nú skal vitna í þjóðskáld. Þjóðskáld sem má alveg titla Vestfirðing, þótt hann hafi litið dagsins ljós einhvers staðar fyrir norðan á 19. öld. 

Ég elska þig stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir, um leið og þú þýtur.

Já, veðrið, náttúran og allt það „stöff“ mótar og stælir vora lund, gerir oss að því sem við erum. Það fyrirfinnast allavega sjaldnast hlandbrunnin „braggabörn í barnavagni“ í hátíðarræðum og því síður engisprettufaraldur; mannkynið „það elskar frið og hatar Rudolf Hess og „þorpin eru að hjarna við“ sem „eilífðar smáblóm“ og „óréttlæti mótmælum vér allir“.

Við sammælumst í andakt um allskonar ágæti og menningarhnoss, við bendum á íslenskan sagnaarf, þrautseigju undangenginna kynslóða, stærum okkar af tungunni, sem er ekki síður einkennismerki íslenskrar þjóðar en alþýðu-vagg og veltu-hljómsveitarinnar engilsaxnesku The Rolling Stones. Og ekki erum við allskostar laus við voðalega saklausan, sárameinlausan, lítilsháttar 17. júní 

þjóðernisbelging. Já, tunga vor hefir þjónað íslenskri þjóð frá örófi alda í fallegum fjallasal undir heiðbláum himni hvar fegurðin ein ríkir.

EN! Nú ber að víkja málinu að stöðluðu atriði allra hátíðarræðna. Það er viðtekin venja að leiða talið að áskornum, að þrátt fyrir almenna velsældarvímu sé víða pottur brotinn, að sumir hafi ekki efni á nýjum síma eða áskrift að Stöð 2, að fitusmánun feitustu þjóðar Evrópu sé óbærileg; að vinna verði meinbug á loftmengun bílalýðveldisins; að fordómar grasseri innan fornbílaklúbba; að hvítir miðaldra karlpungar séu svo illa haldnir af forréttinda blindu að Jesús fái ekki rönd við reist. Svo er það kynlega málið, trans, BDSM og hvaðeina. Ekki hefði nú Jón okkar Sigurðsson þurft ekki að „díla“ við viðlíka mál og hafði hann nú ærinn starfa samt. 

Það er um auðugan garð að gresja, nóg af áskorunum til að bragðbæta svona ræðu umhugsandi smekkbæti mitt í gleðiærslum ísfirskra ungmenna. Verkefni það sem hér verður fært í tal ætti ekki að koma á óvart og liggur máske algerlega í augum „úti“ hvað suma viðstadda áhrærir.

Our great language, our nations pride and joy: Icelandic

Vitanlega er síð-sígilt að lýsa yfir áhyggjum yfir stöðu íslenskunnar, að klifa á því að nú megi ekki sitja við orðin tóm, að málið sé vort dýrasta djásn, ástæða sjálfstæðis okkar, það sem aðgreindi okkur frá Dönum, skilgreindi og skilgreinir okkur sem þjóð, er okkar aðgangur að nið og aldanna svo og kastalar og dómkirkjur landsins. Íslenskan er aðgangur vor að hugsun forfeðranna. 

Já, og svo mærir maður bókmenntirnar og orðsins fólk, rithöfundana og allt það slekt. Og væri maður pólitíkus myndi maður næsta víst lofa endalausu fjármagni til að kippa þessu og öllu öðru mögulegu og ómögulegu í liðinn og láta svo mynda sig í gríð og erg með réttum aðilum að ræðu lokinni. 

Ástand tungunnar er mega „tough“! Ástand hvar hrútspungar rata trauðla á trant lengur og fólk rappar fremur en fer með rímur og styttir sér fremur stundir með Netflix en Íslendinga sögunum, Biblíunni eða Kiljan að ekki sé talað um Guðmund Hagalín, Njörð P. Njarðvík, Eyvind P. Eiríksson, Rúnar Helga, Jón Thoroddsen og fleiri af því sauðahúsi. Ungmenni eru því sem næst ólæs eftir 10 ára grunnskólagöngu og eiga í mestu erfiðleikum með að skilja íslensku liðins tíma og eru svo, að eigin mati, klárari á ensku en móðurmálið að maður tali nú ekki um ef hluteigandi aðili hefir annað móðurmál en íslensku, börnin okkar klæmast ótt og títt á engilsaxnesku, eru föst í viðjum tik-tok á meðan þeir sem líkamlega ekki teljast til barna eða ungmenna eru njörvaðir niður í hlekki Flettismettisins. 

-skjárinn er ópíum fólksins-

Viðtengingarhátturinn er að deyja, þjónusta kaffihúsa, veitingahúsa, spítala fer fram á ensku, allra handa skilti eru einvörðungu á ensku, enskan er sett ofar íslenskunni á skiltum, afþreyingin er á ensku, samfélagsmiðlarnir á ensku, draumarnir eru á ensku, gott ef lóan er bara ekki byrjuð að syngja sínar vorvísur á ensku. Tæknibyltingar, búsetubyltingar og hugarfarsbyltingar sækja að íslenskunni.

Þið þekkið þennan barlómssöng, ekki satt?

Og svo bara allt í einu og óforvarandis gerist það að fjöldi fólks með erlent ríkisfang rýkur upp úr 1,8%, ESB-árið 1994, upp í hartnær 20% anno domini 2024 og samhliða því eykst, eins og gefur að skilja, herskari þeirra sem eigi hafa íslensku að móðurmáli og umtalsverður hluti þeirra kann jafnvel ekki stafkróf fyrir sér í íslensku og hefir ekki hugmynd um hver Jón Sigurðsson var eða hvaða hlutverki hann gegndi í sjálfstæðisbaráttu íslenskrar þjóðar og þaðan af síður hverjir Fjölnismenn, Baldvin Einarsson eða Ásgeir Ásgeirsson voru. Eitthvað sem … allir Íslendingar þekkja auðvitað eins og hnakkasvip ömmu sinnar við eldavélina.

Já, tilfinnanlegar breytingar hafa sannlega átt sér stað. Og sama hve sterk þráin eftir þeim tíma „er hetjur riðu um héruð“ kann að vera er leiðin til baka ófær. Sama hversu afturhaldssamar þið kunnið að vera þá er sá tími liðin er hér bjó einungis fólk á borð við: Jón Sigurðsson og Ingibjörgu Einarsdóttur, fólk næpuhvítt á hörund, bláeygt, ljóshært og stælt með kjarnyrta íslensku á vör allan liðlangan daginn, mælandi ódauðleg gullkorn af jafnmiklum krafti og hrímhvítt jökulfljót. 

Ísland, farsældarfrón

Og hagsælda, hrimhvíta móðir!

Hvar er þín fornaldarfrægð,

frelsið og manndáðin bezt?

Við endurheimtum ekki liðna tíð enda hlýtur og slíkt að bera vott um hugmyndarfæð. Nei, við verðum að „díla“ við nýjan veruleika og hluti þess er að leiða hugann að því hvort við viljum að íslenska verði áfram ríkjandi mál á 

Íslandi, að íslenska verði málið sem sameinar, sem veitir aðgang að sögu lands og þjóðar ásamt því að búa til nýja og sameiginlega. Og ef svarið við þeirri spurningu er jákvætt verðum við að leiða hugann að því hvernig við viljum standa að því, hvernig við viljum miðla málinu, hvernig við viljum styrkja það í sessi og ekki síst svara þeirri spurningu af hverju svo ætti að vera. Er það vegna þess að málið varðveitir menningarlega samfellu landsins? Er það vegna þess að málið er verðmæti í sjálfu sér? Eða er það vegna þess að málið er það sem sameinar, skapar öllum þeim sem hafa það ágætlega á valdi sínu aukin tækifæri? Málum er nefnilega enn svo háttað að flest allt sem hér máli skiptir fer fram á íslensku: leikskólinn, grunnskólinn, framhaldsskólinn og helstu stofnanir brúka íslensku. Ætli maður sér frama er það auðveldara með íslensku á sínu valdi, íslenskan veitir hlutdeild og hvort sem okkur líkar betur eða verr brúar enskan ekki bilið, því tíð og sjálfsögð notkun ensku býr til aðgreiningu þegar til kastanna kemur. 

Aðgreiningu á milli þeirra sem tala og skilja íslensku og þeirra sem tala hana ekki og skilja hana ekki. 

Og þá er ekki einu sinni horft til þeirra sem hafa hvorugt málið, hvorki ensku né íslensku, almennilega á valdi sínu. Við skulum bara orða þetta sem svo að það sé oft og tíðum misskilin kurteisi að ætla að allt sé auðveldara með ensku þegar átt er í samskiptum við þá sem vilja setjast hér að til lengri eða skemmri tíma, burtséð frá þeim skilaboðum sem það sendir: að íslenskan sé óþörf sem sannlega ekki er raunin … 

Við tölum jú ensku við túrhesta, erum við því ekki að koma fram við fólk sem hér býr eins og túrista með því að tala við það á ensku? 

Og ef til vill kann að vera að við sem samfélag „fungerum“ enn best með íslensku að vopni, með íslenskuna sem sameiningarafl, ekkert ósvipuð nálgun Jóns okkar Sigurðssonar. Hans helsta vopn í baráttunni fyrir sjálfstæði Íslands var jú, tungan og menningararfleifðin. 

Eitt er allavega kristaltært! Íslenska lærist ekki sé enska ætíð notuð, íslenska lærist ekki sé henni ekki haldið að fólki, íslenska lærist ekki geri samfélagið ekki kröfu um að málið sé notað, íslenska lærist ekki búi samfélagið ekki til góðan grundvöll fyrir íslenskunám og máltileinkun og taki þátt í ferlinu, með bros á vör. Íslenskan lærist best sé fólki veitt tækifæri til að nota hana með allslags hreim og hugsanlega misgóðri málfræði. Það þarf að gera mistök til að geta lært af þeim. Og við, sem höfum íslensku að móðurmáli, getum verið þátttakendur í þessu ferli ekki bara áhorfendur. Kannski er það meira að segja skylda okkar að taka þátt.

Jæja, nú er tími til kominn að ljúka þessu raupi og gaspri. Hér hefir verið farið út og suður í sjálfshælni þess sem telur sig hafa málið, íslenska tungu, sómasamlega á valdi sínu. Endum þetta yfirlætistal á smá áeggjan, á fleygum orðum. Það er klassík þegar kemur að hátíðarræðum. 

Við sammælumst, allavega 17. júní, um ágæti Vestfirðinga, um ágæti íslenskra fjallasala og jafnvel veðurfars, um að tungumálið sé okkar dýrasta djásn og sameiningartákn … EN hvað segir það um samfélag sem gerir ekki allt sem í þess valdi stendur til að auðvelda aðgengi þeirra sem hér vilja setjast að, sem vilja læra málið, sem ættu að læra málið, að því menningarlega hjartfólgnasta, sem Íslendingar eiga, tungumálinu? Að kjarna þess að vera íslenskur.

Er ekki kominn tími til að Gefa íslensku, í breyttum veruleika, séns!?

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, höfundur er verkefnastjóri Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag (www.gefumislenskusens.is

Vísað er til ýmissa skálda í ræðunni. Bubbi Morthens, Bjartmar Gunnlaugsson, Einar Benediktsson, Hannes Hafstein, Jónas Hallgrímsson, Matthías Jochumson, Megas og Mugison, 

Mótmæla brottvísun 11 ára drengs með alvarlega vöðvarýrnun: „Mál upp á líf og dauða fyrir Yazan“

Alþingishúsið. Ljósmynd: Sikeri
Boðað hefur verið til mótmæla vegna fyrirhugaðrar brottvísunar 11 ára drengs, sem greindur er með alvarlega vöðvarýrnun. Drengurinn er á flótta frá Palestínu.

Samtökin No Borders og fólkið sem stóð fyrir Samstöðutjaldinu á Austurvelli í byrjun árs standa fyrir mótmælum á sunnudag klukkan 15:00 á Austurvelli. Fyrirhuguð er brottvísun hins 11 ára gamla Yazan, sem er hér á landi á flótta frá hryllingnum á Gaza. Yazan er greindur með Duchenne vöðvarýrnun, sem er einn alvarlegasti arfgengi sjúkdómurinn af þessari gerð.

Í lýsingu á mótmælaviðburðinum á Facebook segir eftir farandi:

„Þrátt fyrir yfirgnæfandi læknisfræðileg gögn sem sýna fram á alvarleika sjúkdóms Yazan og hversu lífshættuleg brottvísun getur verið honum, þá hefur Kærunefnd útlendingamála vísað máli Yazan frá og endanlega neitað honum um vernd á Íslandi.

Til stendur að brottvísa Yazan og fjölskyldu í júlí. Viljum við sem samfélag vera ábyrg fyrir því að stytta líf 11 ára drengs?!
Mætum öll! Brottvísanir eru ofbeldi!“
Þá er þar einnig frekari lýsing á Yazan:
„BROTTVÍSUN ÓGNAR LÍFI YAZAN:
Yazan er 11 ára drengur sem er greindur með Duchenne vöðvarýrnun, en Duchenne er einn alvarlegasti arfgengi vöðvarýrnunarsjúkdómurinn. Sjúkdómurinn er hrörnunarsjúkdómur þar sem allir megin vöðvar líkamans smám saman rýrna, þar á meðal hjarta- og öndunarvöðvar. Lífslíkur þeirra með sjúkdóminn eru verulega skertar en án þjónustu er meðalaldur í kringum 19 ár. Sjúkdómurinn krefst stöðugrar umönnunar og er aðgangur að sérhæfðri læknisþjónustu nauðsynlegur til að lengja lífslíkur sem mest.
Með því að vera brottvísað til Spánar, lands sem fjölskyldan hefur aldrei dvalið í, gæti orðið hlé á þjónustu í allt að 18 mánuði. „18 mánuðir án meðferðar munu valda óafturkræfum skaða sem mun verulega minnka lífsgæði drengsins og stytta líf hans,“ segir helsti sérfræðingur Íslands í Duchenne. Þar að auki gerir hvert einasta áfall geri sjúkdóminn verri og slíkur skaði er kominn til að vera, en sjúkdómurinn gengur ekki til baka.
Yazan og foreldrar hans flúðu heimili sitt í Palestínu í leit að skjóli og öryggi á Íslandi fyrir ári síðan. Frá komu þeirra hafa þau orðið hluti af samfélagi okkar og lagt sitt af mörkum þrátt fyrir að standa frammi fyrir fjölmörgum hindrunum. Áður en Yazan kom til Íslands hafði hann ekki aðgang að almennilegri læknisþjónustu né fékk að taka þátt í skóla- og frístundastarfi.

Að veita honum vernd hérlendis er ekki aðeins aðkallandi mannúðarskylda heldur einnig mál upp á líf og dauða fyrir Yazan. Stuðningskerfin og læknishjálpin sem er í boði á Íslandi er lífsnauðsynleg fyrir Yazan og hans heilsu. Með því að rífa Yazan upp úr núverandi umhverfi sínu og taka af honum viðeigandi læknisaðstoð og stuðning, er ekki einungis verið að svipta hann þeim stöðugleika sem hann nauðsynlega þarf til að lifa bærilegu lífi heldur er verið að ógna lífi hans og dæma hann til óþarfa þjáninga og erfiðleika.

Duchenne samtökin, Landssamtökin Þroskahjálp, Einstök börn, ÖBÍ réttindasamtök, Réttur barna á flótta og Tabú hafa einnig fordæmt áform stjórnvalda um að brottvísa Yazan og fjölskyldu hans.
Viljum við í alvöru vera ábyrg fyrir því að stytta líf 11 ára drengs, sem er nú þegar verulega stytt?“

Unglingurinn á Tenerife fór heim með dulurafullum Bretum: „Hann þekkti þá ekki neitt“

Jay Slater

Lögreglan, með hjálp þyrlu, leitarhunda og dróna, ásamt fjallabjörgunarsveita, hefur leitað að hinum 19 ára Jay Slater, nærri Airbnb-húsnæði sem hann fór í ásamt tveimur breskum karlmönnum.

Airbnb-húsið er einangrað bóndabýli sem staðsett er í 30 kílómetra fjarlægð frá hinu vinsæla Play des Los Americas, amerísku ströndinni, í suðurhluta Tenerife í þorpinu Masca.

Jay kom til Tenerife 12. júní með tveimur vinum sínum, Brad og Lucy Mae Law, sem var síðasta manneskjan sem Jay var í sambandi við áður en hann hvarf.

Vinahópurinn mætti svo á tónlistarhátíðina NRG festival sem byrjaði síðasta föstudag og endaði á eftirpartýi árla morguns á Papagayo á hinni alræmda Playa des Los American ströndinni.

Tónlistarhátíðin sem vinirnir fóru á, auk hundruði annarra gesta, var auglýst sem „helgi af rafmagnaðri tónlist, töfrandi myndefni og nýstárlegri framsetningu.“

Myndband sem tekið var í partýinu sýnir Jay brosa og dansa en það var þá sem Lucy og Brad sáu vin sinni í síðasta skipti en þau yfirgáfu bæði partýið í kringum klukkan tvö en Jay varð eftir ásamt tveimur breskur mönnum sem hann hafði hitt.

Það er vitað að í kringum fjögur, þegar partýið var við það að hætta, hafi lögreglan verið kölluð á Veronica-ströndina til að bregðast við „atviki“ en ekkert bendir til þess að Jay hafi verið viðriðinn það mál.

Vitað er að Jay hafi um fimmleytið farið með Bretunum tveimur í Airbnb-húsnæði sem þeir höfðu leigt, sem kallast Casa Abuele Tina, en mikið er um hlykkjótta fjallvegi á leiðinni þangað.

Lucy sagði MailOnline að Jay hefði sagt henni að hann ætlaði með Bretunum en hún hvatti hann til „koma aftur“ í herbergi þeirra á Paloma Beach-hótelinu en hann neitaði því og sagðist ætlaði með mönnunum.

„Ég skil bara ekki af hverju hann fór til þeirra, hann var bara nýbúinn að hitta þá og þekkti þá ekki neitt. Við Brad sögðum honum að koma aftur en hann gerði það ekki, ef hann hefði gert það, væri hann ekki horfinn,“ sagði Lucy.

Lítið er vitað um Bretana tvo en Lucy lýsti þeim sem „hörundsdökkum og breskum“ en bareigandi í næsta húsi við sveitabýlið sagði MailOnline að hún hefði heyrt í fólki í húsinu klukkan sex um morguninn.

Þegar Jay var enn í húsinu sendi hann móður sinni og Lucy tvær ljósmyndir á Snapchat en önnur þeirra sýndi útsýnið frá húsinu yfir nærliggjandi dal og hin sýndi hann með sígarettu í hendinni á planinu fyrir utan húsið.

Hér er tímalínan yfir málið:

12. júní – Jay lendir á Tenerife síðasta miðvikudag með vinum sínum, til að fara á NRG, sem er þriggja daga reif tónlistarhátíð frá 14 til 16. júní á Los Cristianos.

17. júní – Snemma nætur næst myndband af Jay njóta sín í eftirpartýi á Xanadu-skemmtistaðnum, ásamt vinkonu sinni, Lucy Mae West.

Klukkan 02:00 – Lucy og Brad ákveða að yfirgefa partýið og fara aftur í íbúð sem þau leigðu en Jay verður áfram í partýinu og spjallar við tvo Breta sem hann hitti þar.

Klukkan 05:00 – Jay og Bretarnir tveir yfirgefa svæðið og fara í klukkutíma bílaferð um hlykkjóttan fjallveg að AirBnB-sveitabýli í Masca, þar sem hinir dularfullu Bretar dvelja.

Klukkan 06:00 – Nágrannar heyra hávaða frá húsinu.

Klukkan 07:40 – Jay sendir mynd af útsýninu frá húsinu og mynd af sér haldandi á sígarettu á stéttinni fyrir utan húsið.

Í kringum 08:00 – Jay spyr konu sem býr á svæðinu hvernig hann geti komist aftur til Los Cristianos með rútu. Hún segir honum að næsta rúta fari ekki fyrr en klukkan 10:00.

Klukkan 8:15 – Sama kona sér Jay ganga upp fjallið og í ranga átt.

Klukkan 08:50 – Jay hringir í Lucy til að segja henni að hann sé aðeins með eitt prósent eftir að batterýi í símanum og að hann sé villtur og hafi enga hugmynd hvar hann sé en að hann sé að reyna að ganga aftur til Los Cristianos.

Stuttu síðar tengist sími Jay við símamastur nærri Mirador La Cruz De Hilda veitingastaðinn en þar nærri er stærðarinnar gljúfur en þar leitar lögreglan að honum.

Una breytist seint

Una Schram var að gefa út nýtt lag

Fátt er skemmtilegra en íslensk tónlist og það er vegna þess að Íslendingar eru ótrúlega hæfileikaríkir á þessu sviði. Eina sem er betra en íslensk tónlist er ný íslensk tónlist og hefur Mannlíf valið fimm nýleg íslensk lög sem allir þurfa að hlusta á um helgina.

Una Schram – Breytist seint
Gravity is Optional – Kaupa Kaupa Kaupa
Röggi – Bíða og sjá
SiGRÚN – Monster Milk
ELVAR, Logi Pedro og Daniil – Ekkert Vandamál





Það rignir og rignir

Skýjað og rigning með köflum næstu daga,

Landsmenn þurfa að bíða eftir sumarsólinni enn um hríð. Veðurstofan spáir norðaustan fimm til þrettán metrum á sekúndu í dag. Rigning verður um landið suðaustan- og síðar austanvert, en skýjað og úrkomulítið vestanlands. Hiti fimm til fjórtán stig. Hlýjast verður suðvestanlands.

Næstu dagar munu bera í skauti sér svipað veður þar sem norðaustan átt verður ríkjandi. Helgin verður ekkert sérstök í veðurfarslegu tilliti. Allt að 13 metrar á sekúndu verða norðvestan til á landinu á morgun. Rigning verður með köflum, en úrkomulítið á Austurlandi. Hiti fimm til tólf stig.

Á sunnudag er útlit fyrir ákveðna suðvestan- og vestanátt með skúrum, einkum um landið vestanvert. Hiti sjö til sextán stig. Hlýjast verður fyrir austan. Sólarglennur verða inn á milli og það stefnir í rjómablíðu á Austfjörðum á miðvikudaginn.

Gjaldþrotahrina hjá Davíð sem stendur á rústum félaga sinna

Davíð Viðarsson eða Quang Lé, áður eigandi Wok On og fjölda annarra félaga.

Athafnamaðurinn Quang Le, öðru nafni Davíð Garðarsson, stendur nú á rústum fyrirtækja sinna eftir að hann hafði verið handtekinn í rassíu yfirvalda fyrir meint mansal og önnur broyt í atvinnurekstri, Félög hans,  Wokon ehf. og EA17, hafa verið úrskurðuð gjaldþrota, samkvæmt Lögbirtingablaðinu. Quang Lé sat í gæsluvarðhaldi í rúma þrjá mánuði eftir að rannsókn hófst á rekstri hans. Vika er síðan hann var látinn laus. Þá reyndi hann að ná sambandi við meint fórnarlömb sín.

Gjaldþrotin gengu yfir eftir að lögregla frysti bankareikninga og kyrrsetti aðrar eignir og fjármuni vegna rannsóknar á fyrirtækjum sem tengd eru honum. Samtals voru félögin með um 175 milljónir í eignir samkvæmt ársreikningi 2022, samkvæmt frétt á Vísi. Þá var Wokon ehf. með jákvætt eigið fé um 60 milljónir en EA17 neikvætt eigið fé upp á sex milljónir. Félögin hafa þó ekki skilað ársreikningum fyrir árið 2023.
Vietnam Cuisine ehf. er á meðal þeirra fjölmörgu veitinga- og fasteignafélaga sem voru í eigu Quangs Lés. Það var félag var tekið til skipta fyrir rúmum tveimur vikum.
Meðal annarra félaga í eigu Quang  voru Vietnam market ehf., NQ fasteignir, Vietnam Restaurant og Vy-þrif.
Það er til marks um stærðagráðu gjaldþrotanna að Wokon ehf. var með rekstur á sjö
veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Auk þess sáu utanaðkomandi rekstraraðilar um rekstur Wok On í Vík í Mýrdal og Hveragerði.
Sakborningar í málinu gegn Quang Le eru nú alls tólf.

Spegill Óla

Óli Björn Kárason.

Eftir stórkarlalegar yfirlýsingar um brot ráðherra Vinstri-grænna í andófi sínu gegn hvalveiðum komst Óli Björn Kárason að þeirri niðurstöðu að best væri að vera stilltur og styðja ekki tillögu Berþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra. Óli Björn hefur, allt frá því Svandís Svavarsdóttir, þáverandi matvælaráðherra bannaði hvalveiðar, fordæmt ráðherra VG og hótað illu vegna brota flokksins gegn Hvali hf.

Margir voru þeir sem veltu vöngum yfir því hvað Óli Björn myndi gera í núverandi stöðu. Sjálfur var hann þöguill sem gröfin þar til kom að atkvæðagreiðslunni. „Ég mun aldrei vera í liði með þeim sem reyna að fella ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ég mun, þegar ég vakna í fyrramálið, líta glaður í spegil og nokkuð sáttur við sjálfan mig, eftir að hafa sagt nei,“ sagði Óli Björn þegar hann studdi VG og sló líklega met í hræsni og yfrborðspólitík. Spegill, spegill herm þú mér …

Enn ein kisan sem lendir í minkagildru: „Fóturinn mölbrotinn og það þarf að fjarlægja hann“

Jacobina Joensen – sem er formaður Villikatta – segir einfaldlega:

„Nú er nóg komið!“

Bætir þessu við:

„Rétt eftir hádegi í dag fengum við símtal frá manni sem var við Sorpu í Gufunesi. Það hafði leitað til hans kisa sem var með minkagildru fasta um fótinn á sér. Kisan er í lífshættu, fóturinn er mölbrotinn og þarf fjarlægja hann.“

Hún bætir því við að „enn einu sinni slasast kisa lífshættulega vegna minkagildru sem sett er út af meindýraeyði, eftirlitslaus og óvarin gildra svo önnur dýr komast í hana. Gildran var fest niður með bandi sem kisa gat slitið og þar sem þetta er gæf kisa þá leitaði hún sér hjálpar hjá mannfólkinu.“

Jacobina segir að „ef um vergangs- eða villikött hefði verið að ræða þá hefði hann falið sig og dáið hægum, kvalarfullum dauðdaga af sárum sínum. Það er óskiljanlegt að svona gildrur, sem hannaðar eru til að meiða dýr, séu enn leyfðar á Íslandi. Þessu verður að breyta!“

Félagið Villikettir fordæmir einstaklinga, sveitarfélög og félagasamtök sem koma fyrir svona gildrum til að losna við ketti og minka. það eru til mannúðlegri leiðir.“

Baltasar Kormákur fann þrjú illa farin hross í útihúsi sínu: „Þetta eru bara sjúklingar núna“

Baltasar Kormákur Ljósmynd: Instagram-skjáskot

Árið 1994 fann Baltasar Kormákur, leikari og leikstjóri þrjú illa farin hross í útihúsi á nýrri jörð sem hann hafði keypt sér ásamt öðru fólki.

Lögreglan rannsakaði málið en í ljós kom að hrossin voru af næstu jörð, Hrafnhólum í Mosfellsbæ. Eigandi þeirra, Kristján Guðmundsson hafði saknað þeirra í þrjár vikur. Hrossin voru illa á sig komin þegar þau fundust en til stóð að selja eitt þeirra til útlanda en sú sala komst í uppnám vegna málsins. Grunaði Kristjáni að þeim hefði verið stolið.

DV fjallaði um málið á sínum tíma:

Lögreglan rannsakar dularfull hvarf þriggja hrossa í Mosfellsbæ:

Hrossin fengu hvorki vott né þurrt í 3 vikur

– fundust innilokuð og orðin grindhoruð í útihúsi í nágrenninu

„Þetta eru bara sjúklingar núna. Ég hef hrossin í húsi og gef þeim meðal annars vítamín. Fyrst fengu þau sprautu og þeim var gefið reglulega. Ég er ekki viss um að þau fari úr hesthúsi fyrr en í vor. Þau verða jafnvel ekki búin að ná sér fyrr,“ sagði Kristján Guðmundsson á Hrafnhólum í Mosfellsbæ í samtali við DV. Lögreglan rannsakar hvarf þriggja af hrossum Kristjáns sem talin eru hafa verið lokuð inni í útihúsi skammt frá í þrjár vikur. Næsta jörð er Skeggjastaðir og þar fundust hrossin. Nýir eigendur þar, meðal annars Baltasar Kormákur leikari, fundu hrossin þar sem þau voru illa á sig komin í einu af útihúsunum en þar eru hús sem eitt sinn voru notuð undir minkabú. Lögreglan var látin vita og eigandinn í framhaldi af því.

Kristján með hrossin

„Ég var búinn að leita hrossanna og var farinn að hallast að því að þeim hefði verið stolið,“ sagði Kristján. Óljóst er hvemig hrossin komust inn í framangreint útihús. Aðrar dyr hússins eru innkeyrsludyr en hinar eru með renniloku. Því er alls ekki talið útilokað að hrossin hafi verið lokuð inni af mannavöldum. Þau höfðu verið í girðingu ásamt fleiri hrossum og því var því ekki veitt sérstök eftirtekt þegar þau hurfu. Mögulegt er að hrossin þrjú hafi farið að útihúsunum þegar hópurinn slapp út fyrir girðingu. Kristján sagði að eitt af hrossunum, Hnokki, hefði verið selt til útlanda en af því gæti ekki orðið með sama hætti og áætlað hefði verið. Hin hrossin voru talin efnileg eins og Kristján orðaði það.

Baksýnisspegill þessi birtist fyrst á vef Mannlífs 12. maí 2023.

Jóhann Páll segir að markmiðið sé að „enginn öryrki verði skilinn eftir“

Jóhann Páll Jóhannsson – þingmaður Samfylkingarinnar – segir að „stjórnarandstaðan [sé] sameinuð um breytingar í þágu öryrkja“ og að málið snúist „um að enginn öryrki verði skilinn eftir.“

Hann bætir því við að „það gleður mig að greina frá því að fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokka í velferðarnefnd Alþingis standa saman að breytingartillögum við frumvarp ríkisstjórnarinnar um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu.“

Jóhann Páll segir að „markmiðið er að knýja fram breytingar í krafti samstöðu. Það eru ýmis skref í rétta átt í frumvarpinu – en ég hef einnig bent á stórhættulega ágalla sem verður að laga.

Með aðstoð ÖBÍ og Þroskahjálpar höfum við þegar náð fram ákveðnum breytingum. En margt stendur út af og breytingartillögur okkar snúa að fimm atriðum:

(1) Fjárhæð heimilisuppbótar hækki svo enginn öryrki verði skilinn eftir.

(2) Öryrki í atvinnuleit fái aukið svigrúm til að finna starf við hæfi án þess að virknistyrkur falli niður.

(3) Skerðing á örorkulífeyri vegna fjármagnstekna maka verði afnumin.

(4) Hafið verði yfir allan vafa að enginn sem þegar hefur fengið örorkumat verði þvingaður í hið nýja „samþætta sérfræðimat“.

(5) Alþingi fái skýrslu frá ráðherra um útfærslu á samþættu sérfræðimati – sem á að koma í stað örorkumats en er enn algjörlega óútfært.“

Jóhann Páll færir í tal að hann hafi nýverið boðið „öryrkjum Íslands til Alþingis til að ræða örorkufrumvarpið og þessar tillögur voru smíðaðar í kjölfarið. Meðflutningsmenn eru þau Arndís Anna K. Gunnarsdóttir í Pírötum, Bergþór Ólason í Miðflokki, Guðbrandur Einarsson í Viðreisn og Guðmundur Ingi Kristinsson í Flokki fólksins.“

Segir að endingu:

„Um er að ræða eins konar lágmarkskröfur – sem eru svo hófstilltar og í raun sjálfsagðar að við trúum ekki öðru en að meirihlutinn á Alþingi geti fallist á þær. Þetta er risastórt velferðarmál sem varðar ekki aðeins alla öryrkja Íslands heldur einnig vinnandi fólk sem getur misst starfsgetu í framtíðinni, ef það veikist til dæmis eða lendir í slysi.“

Útgáfutónleikar Sverris Norland í kvöld á Röntgen – Óformleg og létt stemning

Útgáfutónleikar fyrir plötuna „Mér líður best illa“ með Sverri Norland fara fram þann 20. júní kl. 20 á Röntgen (efri hæð), Hverfisgötu 12.

Um tónleikana segir í fréttatilkynningu:

Stemningin á tónleikum verður óformleg og létt, eins og við séum stödd heima í stofu hjá Sverri. Hann segir frá tilurð laganna og fléttar sögur saman við tónlistina. Með Sverri spila Humi (Ragnar Jón Ragnarsson) á píanó, hljómborð og syntha og Birkir Blær Ingólfsson á saxófón. Hugsanlega stökkva fleiri gestir upp á svið. Ókeypis inn. 

Um „Mér líður best illa“

„Mér líður best illa“ kom út í maí og er önnur breiðskífa Sverris Norland. Hún geymir fimmtán grípandi popplög af ólíkum toga, þar sem áherslan er ekki síst á skemmtilega og hugmyndaríka textagerð á íslensku.  

Með Sverri spila á plötunni:

– Agnes Björgvinsdóttir, bakraddir

– Birkir Blær Ingólfsson, saxófónn

– Helgi Egilsson, bassi og bakraddir (Fjallabræður, Albatross, fleiri)  

– Óskar Þormarsson, trommur (Fjallabræður, Albatross, fleiri)

– Ragnar Jón Ragnarson, eða Humi, hljómborð, synthar og bakraddir (Urmull & Kraðak)

Upptökustjórn var í höndum Ólafs Daðasonar. Jón Skuggi hljóðblandaði plötuna en Halldór Gunnar Pálsson hljóðblandaði eitt lag („Mér líður best illa“).

Um Sverri Norland:

Fyrsta hljómplata hans, Sverrir Norland, kom út árið 2008.

Sverrir Norland hefur einnig gefið út fjölmargar bækur, þ.m. talið lofuð verk á borð við Klettinn (2023), Stríð og klið (2021) og Fyrir allra augum (2016). Hann starfar einnig sem útgefandi, við dagskrárgerð í sjónvarpi og útvarpi og sem handritshöfundur og sem sérfræðingur í samskiptum hjá Arion banka.

 

Katrín gefur ríkisstjórninni ókeypis ráð: „Vöndum okkur – náttúra Íslands er hér að veði!“

Ríkisstjórn Íslands 2024.
Lögmaðurinn Katrín Oddsdóttir gefur ríkisstjórninni ókeypis hugmynd varðandi lagareldi en afgreiðslu frumvarps um slíka starfsemi var í dag frestað til hausts .

|
Katrín Oddsdóttir lögfræðingur, segir lagareldi rústa íslenskri náttúru.

Frumvarpi um lagareldi var í dag frestað afgreiðslu þar til í haust en frumvarpið er afar umdeilt en þau sem eru andvígir því hafa sagt það gefa norskum auðjöfrum heilu firðina undir mengani iðnað sem lagareldi sé.

Baráttukonan og lögmaðurinn Katrín Oddsdóttir, sem gagnrýnt hefur frumvarpið hvað harðast, skrifaði færslu í dag á Facebook þar sem hún gefur ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar ráð, sem hún ætlar ekki að rukka neitt fyrir.

Hér má lesa færsluna í heild sinni:

„ÓKEYPIS HUGMYND:

Nú hefur hinu meingallaða frumvarpi um lagareldi verið frestað enda geta ríkisstjórnarflokkarnir ekki komið sér saman um það.
Það er gott en líka slæmt því stjórnsýslan sem er viðhöfð á grundvelli gildandi laga er hörmuleg! Þetta er meðal annars vegna þess að ábendingar Ríkisendurskoðunar um skipulagningu, forsamráð og samþættingu á leyfisveitingum hafa verið hunsaðar.
Hér er því ókeypis hugmynd fyrir ríkisstjórnina: Öll leyfi til sjókvíaeldis verði stöðvuð þar til ný lög um málaflokkinn hafa tekið gildi.
Vöndum okkur – náttúra Íslands er hér að veði!“

Lætur þingkonur Vinstri Grænna hafa það óþvegið: „Sorglegar fyrirmyndir ungra kvenna á Íslandi“

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir lætur þingmenn Vinstri Grænna fá það óþvegið í kjölfar atkvæðagreiðslu á vantrauststillögu á hendur matvælaráðherra.

„Hvað á að segja við embættismenn eins og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sem fékk á sig vantrauststillögu í morgun. Sem samþykkir að gerast vikastúlka og bera á borð fyir þjóðina lagareldisfrumvarp úr ranni Katrínar Jakobsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur. VG hafa aldri verið annað en leiktjöldin ein, flokkur sem hefur skreytt sig með dyggðum og vinsældalíklegum málum. Engar efndir, bara svik. “Þannig hefst rassskellur, í formi Facebook-færslu, Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur, leikkonu og fyrrum forsetaframbjóðanda. Og hún var hvergi nærri hætt:

„Steingrímur J. Sigfússon guðfaðir flokksins og stefnu hans vandlega falinn í skugga kvenna sem hafa felulitað flokkinn með kvenleika sínum. Nú er hann loks farinn glansinn af holum ,,kvenskörungum“ í VG. Og mættum við vinsamlegast frétta minna af vanlíðan Jódísar og ,,mennsku“ sem engu skilar í þingstörfum hennar.“

Segir hún þingkonur Vinstri Grænna allar „vonlausar“:

„Vonlausir stjórnmálamenn allar sem ein því miður og sorglegar fyrirmyndir ungra kvenna á Íslandi. Ísland þarf ekki á svona stjórnmálakonum að halda. Konum sem með fylgispekt í hræðslu tryggja völd þeirra sem eiga og ráða í okkar landi.“

Að endingu hvetur hún Íslendinga til að afþakka „gervimennskuna“ á þinginu:

„Það voru konur sem tryggðu borgaraleg réttindi allra á Íslandi byggðu upp velferðakerfi á íslandi, konur sem tryggðu hér byggingu landspítala og konur sem settu á laggirnar fátækraaðstoð. Þær konur finnast enn á Íslandi og á óstarfhæfu alþingi sem með víðsýni, skilningi, greind og sjálfstæði er treystandi til að vinna fyrir almenning. Hömpum þeim en afþökkum gervimennskuna.“

Vantraustið var fellt – Jón Gunnarsson kaus ekki

Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Bjarni Benediktsson eru báðir í nauðvörn.

Vantrauststillaga Miðflokksins á hendur matvælaráðherra var rétt í þessu felld á Alþingi.

Stór orð féllu í umræðunni áður en gengið var til atkvæðagreiðslunnar en stjórnarmeðlimir kölluðu tillöguna meðal annars „lýðskrum“ og „leikrit fáránleikans“ á meðan stjórnarandstæðuþingmenn töluðu um „lögbrot“

Alls kusu 23 með tillögunni en 35 kusu gegn henni og einn greiddi ekki atkvæði. Var hún því felld.

Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins gerði sérstaklega grein fyrir atkvæði sínu en hann hefur verið afar gagnrýninn á matvælaráðherra Vinstri grænna. Þar gagnrýndi hann áfram Vinstri græna og tilkynnti svo að hann myndi ekki greiða atkvæði í málinu.

Óli Björn Kárason, sem einnig hefur gagnrýnt matvælaráðherra vegna málsins, steig í pontu og gerði grein fyrir atkvæði sínu. Þar sagði hann meðal annars: „Ég mun aldrei vera í liði með þeim sem vilja fella ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.“

Bjarni pirraður og vill kjósa um vantraustið: „Vonandi finnum við botninn og spyrnum okkur upp“

Bjarni Benediktsson Mynd: RÚV-skjáskot

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra Íslands er afar hneikslaðust á ræðuhaldi stjórnarandstöðunnar og vill að gengið sé strax til kosninga um vantrauststillögu á hendur Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur.

Í þessum töluðu orðum stendur yfir umræður á Alþingi varðandi vantrauststillögu Miðflokksins á hendur matvælaráðherra. Bjarni Benediktsson er afar hneikslaður á umræðunni og vill að kosið verði strax um vantraustið, sem hann segir að verði felld. Vitnaði hann svo í Þráinn Bertelson, rithöfund og fyrrverandi þingmann, sem kallaði dagskrárliðinn störf þingsins „hálftími hálfvitanna“.

Segir hann að nú sé botninum náð á þinginu en segir að þá sé þó hægt að spyrna sér aftur upp. „Vonandi finnum við botninn og spyrnum okkur upp og hefjum virðingu Alþingis aftur upp.“ Úr salnum heyrðist þá „Heyr, heyr,“ frá nokkrum þingmönnum.

Segir sögusagnir um ánægðju með lagareldisfrumvarpið ósannar: „Þetta má aldrei verða að lögum!“

Lagareldi Ljósmynd: stjornarradid.is

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir segir orðróm í gangi um að náttúru- og landverndarsamtök séu ánægð með breytingar sem gerðar hafi verið á lagareldisfrumvarpinu, ósannan. Hvetur hún Íslendinga til að skrifa nafn sitt á undirskriftarlista gegn frumvarpinu.

„Tæplega 7000 manns hafa skrifað undir og nú verður fólk að spíta í lófana og skrifa undir og deila eins og mest það má. Undirskriftalista má finna efst undir færslunni.“ Þetta skifaði leikkonan Steinunn Ólína á Facebook í gær.

Í færslunni hefur hún orð á ákveðnum orðrómi sem hún segir ósannan:

„Heyrst hefur að keyra eigi þetta í gegnum þingið og sá orðrómur gengur meðal stjórnarandstöðu að náttúru- og landverndarsamtök séu ánægð með breytingar þær sem kynntar verði. Það er ósatt með öllu.“

Að lokum hvetur hún alla til að skrifa undir og birtir textann sem fylgir undirskriftarsöfnuninni.

„Þetta má aldrei verða að lögum! Ég hvet alla til að áframsenda á vini og þingmenn alla sem þið getið taggað.

„Við undirrituð skorum á Alþingi Íslendinga að hafna frumvarpi ríkisstjórnarinnar um lagareldi sem kveður á um gefa ótímabundin leyfi til nýtingar auðlinda okkar í íslenskum fjörðum endurgjaldslaust. Frumvarpið heimilar mengandi iðnaðarframleiðslu með sjókvíeldi á viðkvæmustu svæðum við strendur Íslands undir litlu eftirliti og hefur hagsmuni leyfishafa í fyrirrúmi á kostnað almannahagsmuna og náttúru landsins.“.“

Undirskriftarsöfnunin.

Ríflega helmingur ökumanna notar síma undir stýri – Sláandi niðurstöður Samgöngustofu

Rúmlega fjórðungur Íslendinga lætur símanotkun annarra í umferðinni trufla sig mikið en nota samt sjálf símann undir stýri. Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallup fyrir Samgöngustofu sem framkvæmd var í júní 2024. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Samgöngustofu.

Í maí ýttu Sjóvá og Samgöngustofa úr vör herferðinni Ekki taka skjáhættuna. Markmið hennar er að vekja athygli á þeirri hættu sem skjánotkun skapar í umferðinni. Töluverð umfjöllun hefur verið um herferðina og ákvað Samgöngustofa því að láta kanna aftur viðhorf ökumanna til farsímanotkunar undir stýri.

Samkvæmt fréttatilkynningunni eru niðurstöður könnunarinnar þær að næstum helmingur ökumanna segir farsímanotkun annarra í umferðinni trufla sig mjög mikið eða frekar mikið, eða 45,7 prósent, og 30 prósent segja hana trufla sig lítið sem ekkert. Um 60 prósent af þeim 45,7 prósentum sem truflast mikið af símanotkun annarra nota símann sjálf við akstur og því er rúmlega fjórðungur Íslendinga í þeim hópi fólks sem truflast af símanotkun annarra í umferðinni en notar þó símann sjálft undir stýri.

Rúmlega helmingur ökumanna á það til að nota farsímann undir stýri.

54,1 prósent eiga það til að nota farsímann á ferð og 55,4 prósent eiga það til að nota hann á rauðu ljósi sem bendir til að nánast allir sem eiga það til að nota símann á rauðu ljósi gera það líka á ferð. Athygli vekur að mjög fáir eru með harða afstöðu gagnvart því að nota símann aðeins á rauðu ljósi en aldrei á ferð.

Í ljós kom að 10,6 prósent nota alltaf akstursstillingu á farsíma, fáir nota hana stundum, sjaldan eða oft. Einnig kom fram að 23,8 prósent vita af henni en nota hana ekki og 56,1 prósent hafa ekki heyrt um hana. Hér er því rými til úrbóta en akstursstilling er góð leið til að hafa hemil á símanotkun undir stýri.

Fram kemur í fréttatilkynningunni að herferð Sjóvá og Samgöngustofu, Ekki taka skjáhættuna varpi ljósi á þá símanotkun sem á sér stað undir stýri í dag og er henni líkt við sambærilega notkun tækja sem frekar voru notuð á síðustu öld. Sem dæmi hefði engum dottið í hug, hvorki á síðustu öld né núna, að skrifa bréf á ritvél samhliða því að aka bíl en sú hegðun er í raun sambærileg við að skrifa skilaboð á síma. Truflunin er sú sama, það er að segja, hugurinn snýr sér að skilaboðunum og við erum ekki með athyglina við aksturinn. Hættan er sambærileg en af einhverjum ástæðum samþykkjum við aðra hegðunina en ekki hina.

Hægt er að kynna sér átakið á vefsíðunni https://skjahaetta.is/. Þar má nálgast góð ráð og upplýsingar til að sporna gegn akstri undir skjáhrifum en þar er einnig að finna fræðslumyndbönd sem sýna hvernig setja á upp akstursstillingu fyrir farsíma. Þannig má forðast það að taka skjáhættu í umferðinni og stuðla með því að eigin öryggi og annarra.

 

Unglingurinn á Tenerife skarst á löpp rétt fyrir hvarfið: „Það er eitthvað skrítið í gangi“

Jay Slater með móður sinni, Debbie Duncan

Vinkona hins 19 ára Jay Slater, sem týndur er á Tenerife, segir hann hafa slasaði sig á fæti og hafi verið með ofþornun og villtur, áður en hann hvarf á eyjunni.

Sjá einnig: Leitin að týnda unglingnum á Tenerife breytt: „Ég held að hann hafi verið tekinn gegn vilja sínum“

Lucy Law, vinkona Jay, segir að hvarf hans sé „grunsamlegt og skrítið“ en hann ætlaði sér að ganga í 11 klukkutíma, frekar en að bíða eftir rútu.

Síðast heyrðist frá hinum 19 ára Breta klukkan 08:15 á mánudagsmorgun eftir að hann hafði dvalið hjá fólki sem hann hitti á NRG tónlistarhátíðinni, fyrr um daginn.

Staðirnir á Tenerife sem Jay dvaldi á.

Í samtali við The Sun, sagði Lucy að Jay hafi ekki verið „heimskur“ og bætti við: „Það er eitthvað skrítið í gangi. Þetta er grunsamlegt. Ekki sjens að enginn hafi séð hann í tvo daga.“

„Það er veitingastaður í 10 mínútna fjarlægð, sem hann hefði séð eða gengið framhjá. Þetta er grunsamlegt og skrítið,“ sagði Lucy.

Hrjóstrugt svæði

Jay sást síðast klæddur í hvítan stuttermabol, stuttbuxum og íþróttaskóm. Símagögn sýna að síðasta þekkta staðsetning hans hafi verið í Rural de Teno-garðinum, sem er vinsælt göngusvæði.

Svæðið er ansi torfært.Breski blaðamaðurinn Chris Elkington, ritstjóri Canarian Weekly, sagði BBC að svæðið þar sem síðast er vitað af Jay, sé „torfært“. „Þetta er svæði sem inniheldur margar gönguleiðir, þar er mikil fjalllendi, nokkuð strjált, frekar hrjóstrugt,“ sagði hann og hélt áfram: „Nokkuð eyðimerkurlegt svæði á marga vegu, með djúpum giljum og dölum. Þetta er svæði sem þú vilt pottþétt ekki vera á án almennilegs skófatnaðar, sérstaklega ef þú ert vatnslaus.“

Skar sig á kaktus

Stuttu áður en sími hans varð batterísaus, sagði Jay vinkonu sinni, Lucy, að hann hefði „skorið legginn á kaktusi“ á göngu sinni í átt að dvalarstað sínum.

Lucy sagði Sky News að hann hafi hringt í sig kortér yfir átta á mánudagsmorgun og sagt henni að hann væri villtur og vatnslaus og að batteríið á símanum hans ætti bara eitt prósent eftir. Þrátt fyrir það tókst honum að senda vinkonu sinni ljósmynd af staðsetningu sinni og hún sagði honum að ganga til baka þaðan sem hann kom. Jay hafi hins vegar ekki verið viss hvaðan hann hafði gengið og var aðeins klæddur í stuttermabol og stuttbuxur.

Fljótlega eftir að Jay týndist bauðst bandarísk kona til að keyra Lucy að fjallendinu. „Það voru bókstaflega engin merki um hann neins staðar, Við keyrðum um allan daginn,“ sagði Lucy.

 

Kraftaverk Helgu Rakelar

Skjáskot: ruv.is

Baráttukonan og kvikmyndagerðarmaðurinn, Helga Rakel Rafnsdóttir, hefur háð harða baráttu við MND-taugahrörnunarsjúkdóminn undanfarin ár. Helga Rakel hefur ekkert verið á vík að gefast upp fyrir vágestinum arfgenga sem kostaði föður hennar, Rafn Jónsson tónlistarmann, lífið þegar hann var aðeins 49 ára. Helga, sem verður 49 ára á þessu ári, barðist fyrir því að fá lyfið Tofersen sem ekki var á lyfjaskrá. Hún fékk undanþáguna og nú, ári síðar, er líf hennar allt annað og betra. Hægt hefur á sjúkdómnum.

Helga greindist með MND-sjúkdóminn fyrir þremur árum síðan og barðist hún fyrir því að fá undanþágubeiðni samþykkta hjá Lyfjaeftirlitinu til að geta fengið að taka lyfið. Helga Rakel ræddi málið í Mannlega þættinum á Rás 1 þar sem  hún segist vera mun sterkari en fyrir ári síðan sem gerist venjulega ekki í þessum sjúkdómi. „Mikill léttir að hafa vonina,“ segir Helga Rakel um kraftaverkið sem fylgir lyfinu. Hún upplýsti jafnframt að hún væri með áform um að gera nýja kvikmynd …

Vantrausti á Bjarkeyju verður hafnað: „Trúverðugleiki þingflokks Sjálfstæðismanna í holræsið“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra. Ljósmynd: Facebook

Vantrauststillaga á hendur Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra verður afgreidd og væntanlega felld á Alþingi í dag. Ráðherrann hefur líkt og forverar hans í embætti, Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir sætt fordæmingu fyrir stjórnsýslu og brellur sínar í málinu.

Nokkrir Sjálfstæðismenn hafa haft sig í frammi og lýst andúð sinni á vinnubrögðum Vinstri-grænna. Teitur Björn Einarsson, alþingismaður Norðvesturkjördæmis, hefur verið þar fremstur í flokki. Nú liggur fyrir að Teitur mun ekki taka þátt í afgreiðslunni þar sem hann er á sjúkrabeði. „Verð ég nú frá þingstörfum þar til ég kemst almennilega á fætur og ról,“ svaraði Teitur fyrirspurn Mannlífs í gær.

Teitur Björn Einarsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins hvílir á sjúkrabeði. Mynd: Facebook.

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaðpur Sjálfstæðisflokksins, fullyrti í gær að flokkurinn hefpui fulla stjórn á sínu fólki sem myndi greiða atkvæði gegn vantrausti. Samkvæmt því munu Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason lúta fullri stjórn í málinu.

Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsformaður af Akranesi, er á sama máli og telur að þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem lýst hafa óánægju muni fela sig á bak við varamenn.

„Ætla að spá að það verði nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem muni kalla inn varamenn eða boða forföll til að forða sér frá því að það sjáist að þeir þori ekki að styðja við vantraust á matvælaráðherra. Veit að það þýðir ekki að elta ólar við þingmenn Framsóknar enda búinn að sjá að sá flokkur virðist ekki standa fyrir neitt annað en sjálfan sig,“ segir Vilhjálmur á Facebook.

Vilhjálmur Birgisson.

Vilhjálmur furðar sig á yfirlýsingu Hildar um að vantrauststillagan sé pólitískt leikrit.

„Mér sýnist að trúverðugleiki þingflokks sjálfstæðismanna verði endanlega sturtað niður í holræsið þegar þeir munu sjá til þess að matvælaráðherra þurfi ekki að bera neina ábyrgð,“ skrifar Vilhjálmur.

Raddir