Mánudagur 18. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Seyðfirðingar syngja gegn fiskeldi: „Fífl og fávitar fá ekki frið“

Seyðfirðingar sem eru á móti laxeldi í firðinum birtu í dag lag og myndband sem birtist á Þorrablóti bæjarins í fyrra og er til höfuðs fiskeldishugmyndum Fiskeldis Austfjarða og Laxa fiskeldis ehf.

Myndbandið birtist á Facebook-síðu VÁ- Félag um verndun fjarðar er ekki langt en þar er sungið gegn fiskeldishugmyndum á Seyðifirði en 75 prósent bæjarbúa hafa kosið gegn slíkum hugmyndum. Upprunalegt lag er eftir Reykjavíkurdætur og heiti Bad bitch. Eftirfarandi texti var ritaður við færsluna:

„Gleðilegar sumarsólstöður frá firðinum fagra ❤ Við deilum hér myndbandi frá Þorrablóti Seyðfirðinga 2023 en þar eru skilaboðin skýr og við treystum því að Jens og fiskeldisfélagar hans leggi við hlustir og taki boðskapinn inn !

Við viljum ekkert fiskeldi í Seyðisfjörðinn ! ÁST og FRIÐUR.“

Í texta lagsins segir meðal annars:

„Bad fish, ég er gella,
náttúran mín, ég ætla ekki að velja
sama þó þau
ætli ekki að kvelja.
Vil ekki laxinn sem þau
reyna að selja.
Fífl og fávitar
fá ekki frið.
Ég gefst ekki upp
ég gef ekki grið
illska í hjartanu

ruglaða lið
reyni að snúa

þessu við.“

Hér má sjá myndbandið.

 

Vilhjálmur prins hristi á sér bossann á Swift-tónleikum: „Díana hefðir verið svo stolt af honum“

Popp-prinsessan með Bretaprinsunum og prinsessunni.

Krónprins Breta, Vilhjálmur vakti gríðarlega athygli á tónleikum Taylor Swift í London þar sem hann dansar ákaft við tóna hinnar vinsælu söngkonu.

Eras-tónleikaferðalag Taylor Swift er að gera allt vitlaust í London og hafa aðdáendur verið að njóta hverrar mínútu. Margir ráku þó upp stór augu þegar Vilhjálmur Bretaprins sást í stúkunni á troðfullum Wembley-tónleikunum, dansandi af sér rassgatið en þar var hann mættur ásamt börnum sínum.

Einn tónlistagestanna tók myndskeið af prinsinum og birti á samfélagsmiðlunum en þar sést hann dansa og hreyfa varirnar við Shake it Off-slagarann. Hið bráðskemmtilega myndskeið hefur verið skoðað að minnsta kosti 915 þúsund sinnum og fengið 4400 athugasemdir. Hinn 42 ára krónprins var klæddur í sömu föt og hann var í á ljósmynd sem tekin var af honum og börnunum, Georgi og Karlottu, sem hann á með Katrínu Middleton, og Taylor Swift eftir tónleikana, í hnepptri skyrtu, dökkbláum jakka og buxum. Sonur þeirra, Lúðvík var einnig á tónleikunum en vantaði á ljósmyndina.

Popp-prinsessan með Bretaprinsunum og prinsessunni.

Fregnir af dansinum bárust nokkrum klukkutímum eftir sæta ljósmynd frá Katrínu sem birtist á Instagram í gær, þar sem afmæli Vilhjálms var tilkynnt. Á myndinni sést krónprinsinn hoppa upp í loft með börnunum þremur.

Vilhálmur og börnin

Aðdáendur fjölskyldunnar skrifuðu margir hverjir fallegar athugasemdir við myndina en einn þeirra skrifaði: „Frábær fjölskyldumynd, elska hana. Díana hefðir verið svo stolt af þeim föður sem Vilhjálmur er. Hann setur fjölskylduna í fyrsta sætið og það er það sem við ættum öll að gera. Katrín og Vilhjálmur eru svo elskuleg.“
Annað skrifaði: „Þessi ljósmynd er stórkostleg! Afmæliskveðjur til prinsins!“

Hér má svo sjá hið bráðskemmtilega myndskeið:

@kkinldn Shake it off Prince William #princewilliam #erastourtaylorswift #erastour #whiteclawuk ♬ original sound – KK

Gosinu líklegast lokið

Flygildamynd Almannavarna

Svo virðist sem eldgosinu sem hófst við Sundhnúk 29. maí sé lokið, að því er fram kemur á Facebook-síðu Veðurstofu Íslands.

Litla virkni var að sjá í gær í eldgosinu og þegar Almannavarnir flugu flygildi yfir gíginn í hádeginu, sást þar engin virkni. Þá hefur aukreitis órói á nálægum jarðskjálftamælum dottið niður. Samkvæmt Veðurstofunni mælist hann nú svipað og fyrir gos.

Þó má búast við að eldra hraun haldi áfram í svolítinn tíma að skríða hægt meðfram Sýlingarfelli norðanverðu og við L1 varnargarðinn, þar sem spýjur hafa runnið yfir.

Þar hafa vinnuhópar unnið hörðum höndum að því að hamla framgangi hraunsins með því að setja upp jarðvegsgarða og beita vatnskælingu.

Prestur, harðstjóri og morðingi – Fórnarlömbin voru meðal annars eiginkonur, synir og dætur sérans

Séra Andras Pandy var ekki allur þar sem hann var séður. Hann naut hylli sem prestur ungverskra mótmælenda í Belgíu, en heima fyrir var hann harðstjóri sem þoldi engum að setja sig upp á móti honum. Þeir sem það gerðu áttu ekki langra lífdaga auðið og skipti engu hver í hlut átti.

 

Séra Andras Pandy hafði ákveðnar skoðanir á því í hverju skyldur sínar sem föður væru fólgnar. Ef einhver í fjölskyldunni setti sig upp á móti á honum molaði hann höfuð viðkomandi með járnröri, hlutaði líkið í sundur og kastaði líkamshlutunum í úrgang hjá nálægu sláturhúsi. Allt sem hægt var að bera kennsl á, til dæmis höfuð, leysti Pandy upp í sýru. Tvær eiginkonur, tveir synir og tvær dætur féllu fyrir banvænni reiði hins harðúðuga prests, en aldrei fannst tangur né tetur af líkamsleifum þeirra.

Heillandi prestur

Andras Pandy fæddist í Ungverjalandi 1927. Hann hóf nám í guðfræði í Sviss tuttugu og níu ára að aldri. Meðan á námi hans stóð kvæntist hann ungverskri flóttakonu, Ilonu Sortes, og eignuðust þau dótturina Agnesi. Þegar hann var þrjátíu og tveggja fluttu þau til Belgíu þar sem Pandy þjónaði samfélagi ungverskra mótmælenda. Þess var ekki langt að bíða að hagur Pandys vænkaðist, hann var heillandi prestur, og varð brátt eigandi þriggja heimila í Brussel. Fjölskyldan stækkaði og 1961 fæddist sonurinn Daníel, og þremur árum síðar annar sonur, Zoltan.

Timea skyldi drepin

Hjónaband Pandys og Ilonu var stormasamt, og þau skildu. Pandy kvæntist að nýju og fyrir valinu varð Edit Fintor. Hún átti þrjár dætur á táningsaldri og Pandy hoppaði upp í rúm hjá einni þeirra, Timeu. Timea varð barnshafandi, og tímabært fyrir Pandy að yfirgefa aðra eiginkonu sína. En Timea átti í vandræðum með sérann. Henni lærðist smám saman að honum líkaði ekki ef einhver fór í bága við óskir hans. Til að fyrirbyggja allan misskilning sagði hún Pandy að halda sig fjarri Mark, ávexti samruna þeirra, og að hún hugðist flytja til annars lands til að þurfa ekki að hafa neitt saman að sælda við barnsföður sinn. Slík áform hugnuðust Pandy engan veginn og lagði hann á ráðin, ásamt Agnesi dóttur sinni, sem nú var fulltíða, um að drepa Timeu. Agnes sat fyrir Timeu og sló hana í höfuðið með járnröri, en fyrir kraftaverk lifði Timea tilræðið af og þegar hún hafði náð sér flúði hún ásamt syni sínum til Kanada. Pandy var ekkert á því að gefast upp, og fóru hann og Agnes nokkrar ferðir til Kanada til að fullkomna verkið. En að lokum urðu fleiri ferðir ekki nauðsynlegar því Timea ákvað að setjast að í Ungverjalandi.

Uppreisnargjörn dóttir barin til dauða

En þætti Edit Fintor var ekki lokið. Hún var bálreið Pandy fyrir að hafa dregið Timeu á tálar með þessum afleiðingum og að hann vildi hana feiga var meira en Edit þoldi. Hún og ein dætra hennar fóru ekki í launkofa með stuðning sinn við Timeu, og þá skoðun sína að Pandy gengi ekki heill til skógar. Þetta var meira en sérann lét bjóða sér, að hans mati var um að ræða hreina og klára uppreisn og það yrði ekki liðið. Í júlílok 1986 barði hann hina uppreisnargjörnu dóttur til dauða á meðan Agnes lét hamar vaða í höfuð Edit. Að morðunum loknum fór Pandy til lögreglunnar og tilkynnti að Edit, eiginkona hans, væri horfin. „Hún hvarf fyrir um mánuði. Allt sem ég hef fengið er bréf frá henni, póstlagt í Þýskalandi, og nokkur símskeyti,“ sagði hann. Eðli málsins samkvæmt bar rannsókn lögreglunnar í Þýskalandi ekki árangur.

Morð á báða bóga

Ilona, fyrsta kona Pandys, var þegar hér var komið sögu orðin honum óþægur ljár í þúfu. Hennar sök var ekki stór, hún hafði látið í ljósi óánægju sína með samband Pandys og Timeu. Með óánægju sinni undirritaði hún eigin dauðadóm. Pandy lét verkið í hendur Agnesar, dóttur Ilonu, og 28. mars 1988 fór Agnes auðsveip heim til móður sinnar og myrti hana. Til að fullkomna áhrifin skaut hún einnig til bana bróður sinn, Daníel, sem þá var tuttugu og sex ára. Pandy lét sitt ekki eftir liggja, því skömmu síðar myrti hann hinn son sinn, Zoltan, sem var orðinn frekar hnýsinn vegna hvarfs móður sinnar og bróður. Reyndar fannst Pandy líka að önnur af sínum ættleiddu dætrum væri orðin helst til sjálfstæð. Hún hafði fengið þá flugu í höfuðið að konur hefðu rétt og ætlaði að flytjast á brott og búa í óvígðu sambandi með einhverjum karlmanni. Það leist Pandy ekki meira en svo á, þannig að hann drap hana.

Bein tuttugu kvenna

Eftir því sem tíminn leið urðu reiðiköst Pandys hinni annars tryggu Agnesi ofviða. Fjórum árum eftir morðin á Ilonu og Daníel fór Agnes til lögreglunnar, ekki síst af ótta við að hún væri næst á lista fórnarlamba hans. „Faðir minn hefur átt í kynferðislegu sambandi við mig. Einnig hafa sex fjölskyldumeðlimir horfið með frekar undarlegum hætti. Faðir minn hefur líka átt í kynferðislegu sambandi við hálfsystur mína,“ sagði hún lögreglunni. En þar sem engin lík var að finna gat lögreglan lítið aðhafst á grundvelli frásagnar Agnesar einnar. En 1997 fór Timea til ungversku lögreglunnar og lagði fram kvartanir. „Agnes reyndi að myrða mig og faðir minn nauðgaði mér,“ sagði hún. 20. október sama ár gerði lögreglan húsleit á öllum heimilum Pandys í Belgíu. Í kjallara eins þeirra fundust mannabein sem steypt hafði verið yfir. Rannsókn leiddi í ljós að þau voru ekki ýkja gömul og tilheyrðu um tuttugu manneskjum. Sjö eða átta þeirra höfðu verið konur á aldrinum fjörutíu til fimmtíu ára. Engin þeirra hafði verið skyld Pandy.

Vægir dómar og engin iðrun

Á öllum heimilum Pandys var að finna fölsk loft og felustaði sem erfitt var að koma auga á og komast að. Á sumum þeirra fundust skotvopn. Einnig fann lögreglan eftirlitsmiðstöðvar sem gerðu Pandy kleift að fylgjast náið með því sem átti sér stað í flestum herbergja heimilisins. Andras Pandy var handtekinn mánuði síðar. Hann neitaði ásökunum um sifjaspell og nauðgun, og sagði að enginn fjölskyldumeðlimur hefði verið myrtur. Þeir sem horfnir voru hefðu einfaldlega tekið sig upp og lent í slagtogi með sértrúarsöfnuði, hann hefði meira að segja heimsótt þá endrum og sinnum. Þá staðreynd að erfðasýni sannaði að hann væri faðir Marks útskýrði hann á þann hátt að Timea hefði fengið sæði hans í sig fyrir slysni því þau hefðu deilt rekkju. Hvað varðaði skotvopnin og mannabeinin, sagði Pandy að hann hefði ekki minnstu hugmynd um hvernig stæði á þeim í hans híbýlum. Andras Pandy fékk lífstíðardóm fyrir sex morð og fyrir að nauðga þremur dætra sinna. Agnes var ákærð fyrir fimm morð og hlaut tuttugu og eins árs dóm. Hún sagðist vera leið vegna alls sen gerst hafði og geðlæknar komust að þeirri niðurstöðu að hún ætti við persónuleikavandamál að stríða, þjáðist af minnimáttarkennd á háu stigi og hafi verið fullkomlega á valdi föður síns. Andras Pandy sýndi enga iðrun, hvorki við réttarhöldin né þegar dómur var kveðinn upp.

Landsréttur þyngdi refsingu í Dubliners-málinu

Í gær þyngdi Landsréttur dómi yfir Fannari Daníel Guðmundssyni í hinu svokallaða Dubliners-máli, úr átta ára fangelsi í tíu ár. RÚV segir frá málinu.

Fannar Daníel var dæmdur fyrir kynferðisbrot, rán, tilraun til manndráps og frelsissviptingu. Var hann handtekinn í mars á síðasta ári eftir að hann mætti á skemmtistaðinn Dubliner í miðbæ Reykjavíkur vopnaður haglabyssu sem hann hleypti úr. Skotið hæfði vegg og særðist enginn en tveir fengu þó aðhlynningu. Flúði Fannar af vettvangi og losaði sig við byssuna en hún fannst skömmu síðar. Sólarhring síðar handtók sérsveitin hann.

Árið 2022 var Fannar einnig dæmdur fyrir kynferðisbrot, frelsissviptingu og rán gegn manni. Ari Ívars, annar gerandi í því máli, var dæmdur fyrir frelsissviptingu, rán og sérstaklega hættulega líkamsárás og nytjastuld í málinu. Þyngdi Landsréttur einnig dómi yfir honum úr tveimur og hálfu ári upp í þrjú ár.

Síðan 14. mars 2023 hefur Fannar setið í gæsluvarðhaldi, sem dregst sá tími frá refsingunni.

Ísraelsher festi særðan Palestínumann við húdd brynvarins bíls – Myndband

Myndskeið frá Jenin á Vesturbakkanum í Palestínu, sýna brynvarinn bíl ísraelska hersins keyra framhjá sjúkrabílum með særðan Palestínumann fastann við húdd bílsins. Svo virðist sem hann hafi verið notaður sem mennskur skjöldur.

„Það virðist ekki vera nein önnur rökrétt skýring á því að binda mann sem er sýnilega slasaður og sárþjáður við vélarhlíf brynvarins farartækis þegar hann fer í gegnum Jenin eftir að hafa setið um að minnsta kosti tvö heimili, leitað inni í þeim og haldið fjölda fólks í haldi,“ sagði Nour Odeh, palestínskur stjórnmálafræðingur og baráttukona, í samtali við Al Jazeera frá Ramallah.

„Þessi átakanlega mynd af jeppanum … er eitthvað sem endurtekur sig á ýmsa vegu á Vesturbakkanum og það er það sem mannréttindasamtök kalla notkun mennskra skjalda. Það hefur verið gert í fjölda skipta.“

Samkvæmt Odeh er verið að meðhöndla tvo slasaða einstaklinga á spítala í Jenin.

DJ Margeir og Karen hætt saman

Margeir og Karen á góðri stundu. Ljósmynd: Instagram-skjáskot

Plötusnúðarnir Margeir Steinar Ingólfsson og Karen Grétarsdóttir Serafini eru hætt saman, samkvæmt Smartlandi á mbl.is.

Parið fyrrverandi fagnaði árs sambandsafmæli um árámótin en nú ástin slokknað.

Dj Margeir er einn vinsælasti plötusnúður landsins sem komið hefur að ýmsum tónlistarveislum á borð við götupartý á Menningarnótt en hann rekur einnig fyrirtækið Hugsmiðjan. Karen er bæði plötusnúður og lögfræðinemi.

 

Doddi litli er ósáttur við auglýsingar um sjókvíeldi: „Ekkert annað en pjúra áróðurs auglýsingar“

Þórður Helgi Ljósmynd: Ruv.is

Þórður Helgi Þórðarson, eða Doddi litli eins og hann er kallaður, er síður en svo sáttur við auglýsingar um fiskeldi í sjó sem nú herja á landsmenn í gegnum sjónvarpsskjáinn um þessar mundir.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hefur sett mikla ímyndarherferð í gang þar sem meintir kostir fiskeldis í sjó eru tíundaðir í sjónvarpsauglýsingum sem sýndar eru á besta tíma, í kringum leiki Evrópumótsins í knattspyrnu. Fiskeldið hefur verið gríðarlega umdeilt en í gær var frumvarp um lagareldi sett í salt fram á haust á þingi, eftir að það mætti mikilli andstöðu stjórnarandstæðunnar sem og úti í samfélaginu.

Útvarpsmaðurinn ástsæli á Rás 2, Doddi litli er einn af þeim sem hneikslast hefur á hinum nýju sjónvarpsauglýsingum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi en hann skrifaði færslu á X-inu (áður Twitter) sem hljóðaði eftirfarandi:

„Af hverju er fiskeldi að auglýsa á em? Breytir maður um skoðun á þessu sulli þegar maður sér íslendinga dásama þetta sport? Ekki er ég að hoppa út í búð og kaupa mér sullandi fínan eldis lax.“

Gunni nokkur svaraði Dodda um hæl:

„Er ekki eðlilegt að vilja auglýsa þar sem áhorf er mikið? Ekkert allir sem tengja en örugglega einhverjir.“

Útvarpsmaðurinn svaraði þessu:

„Hvað eru þeir að auglýsa? Það er spurningin! Ekki nýa sendingu af spruðandi ferskum eldislaxi, þetta er imyndarbull.“

Siggeir nokkur var sammála Dodda:

„Þetta eru ekkert annað en pjúra áróðurs auglýsingar til að reyna að hvítþvo þennan rekstur í augum almennings.“

Sem og Björn:

„Áróðursstríð. Óvinsæl grein að koma sér í mjúkin hjá fólki með því að tengja sjókvíareldið við náttúru og hreinleika.“

Gylfi nokkur benti á áhugaverðan punkt:

„Eftir að hið umdeilda frumvarp um sjókvíaeldið komst í hámæli hefur greinilega verið ákveðið að henda slatta af milljónum í ímyndar herferð fyrir atvinnugreinina. Ætti að segja okkur hversu mikla hagsmuni menn telja sig vera að verja.“

Sömdu rokklag um fáránlegar afsakanir trommarans: „Það þarf að berja hann.“ „Já, bláberja hann!“

Pétur, Halli & Ásgeir

Árið 2005 var tónlistarmaðurinn Guðlaugur Hjaltason staddur í Danmörku ásamt vinum sínum Jóni Magnúsi Sigurðssyni (Chernobil) og Þór Sigurðssyni (Deep Jimi and the Zep Creams), þar sem þeir höfðu stofnað hljómsveitina Tundur. Með dönskum trommuleikara fæddi samvinna þeirra skemmtilega eftirminnilegt lag, Bláberja Tom, innblásið af kómískum lélegum afsökunum trommuleikarans fyrir að hafa misst af æfingum.

„Eitt kvöldið sagði hann okkur að sonur hans væri veikur og hann gæti ekki mætt,“ rifjar Guðlaugur upp. „Við tilfinninga kögglarnir í bandinu sýndum því samúð þar til við komumst að því að sonur hans var 16 ára og var með smá kvef,“ lýsir Guðlaugur með glott á vör.

Þessar áframhaldandi afsakanir urðu að hlaupandi brandari innan hljómsveitarinnar. Á einni æfingu þar sem trommuleikarinn lét ekki sjá sig sagði Guðlaugur gamansamur: „Það þarf að berja hann.“ „Já, bláberja hann!“ Hrópaði Þór þá og þannig fæddist Bláberja Tom.

Guðlaugur fór heim um kvöldið með Bláberja Tom fast í huganum og endaði á því að semja lag um trommuleikarann. Hann kom með það aftur til hljómsveitarinnar og saman tóku þeir það upp í hljóðveri T.C Electronic. „Ég verð að viðurkenna að ég sagði Tom aldrei um hvað lagið væri og við elskuðum að hafa þennan kjánalega litla húmor til að hlæja að í hvert skipti sem Tom byrjaði að syngja lagið með okkur,“ segir Guðlaugur.

Pétur, Halli & Ásgeir

Nú, 19 árum síðar, er Bláberja Tom loksins að líta dagsins ljós, endurupptaka með nokkrum af bestu tónlistamönnum Íslands. Harald Þorsteinsson, með bestu bassa leikurum landsins og traustur vinur Guðlaugs, bætir sérþekkingu sinni við lagið. Ásgeir Óskarsson, með fremstu trommuleikurum landsins, kemur með hæfileika sína og snilli en Pétur Hjaltested, sem sér um hljómborð og upptökustjórn, fullkomnar sveitina.

Lagið er gefið út af Lýðskrum, sem hefur tekið tónlistarsenuna með stormi árin 2023 og 2024 með lögunum „Dagskrá,“ „Fjandinn laus“ og „Verðbólguvandinn“ sem öll hafa sinn einstaka hljóm og kraftmikinn texta.

Guðlaugur Hjaltason, sem spilaði á gítar, söng og samdi lagið, veltir fyrir sér gleðinni í kringum „Bláberja Tom“: „Enginn slasaðist við gerð þessa lags og enginn trommari var barinn.“

Mynd: Guðlaugur Hjaltason – Ljósmyndari: Maggi Gnúsari

„Bláberja Tom“ stendur sem vitnisburður um húmor og sköpunargáfu Tundurs, umbreytir fáránlegum afsökunum trommara í ástsælan rokksöng. Hlusta má á lagið á Spotify.

 

Vopni beitt í alvarlegri líkamsárás í gærkvöldi – Hópslagsmál í miðborginni

Lögreglan að störfum. Mynd: Lára Garðarsdóttir

Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru æði mörg í gærkvöldi og í nótt en alls voru 104 mál skráð frá 17:00 til 05:00. Sex voru vistaðir í fangageymslu lögreglunnar.

Klukkan 00:43 barst tilkynning um búðarþjóf í miðbænum en þjófurinn réðist á öryggisverði í versluninni þegar hann var að staðinn að verki. Lögreglan var send á staðinn.

Upp úr eitt í nótt var svo tilkynnt um innbrot á veitingastað í miðborginni en gluggi hafði verið spenntur upp og einhverjum fjármunum stolið. Ríflega klukkutíma síðar var brotist inn á annan veitingastað í miðbænum en málið er í rannsókn.

Um klukkan þrjú í nótt barst tilkynning um hópslagsmál í miðbænum og voru fjórir aðilar grunaðir um líkamsárás í þeim slagsmálum. Lögreglan telur sig hafa upplýsingar um alla þá sem stóðu að áflögunum og mun taka skýrslu af þeim síðar.

Kortér í fjögur var bílaþjófur handtekinn en kauðinn sat í stolinni bifreið þegar lögreglan hafði af honum afskipti. Gat hann ekki gefið nein svör um hvers vegna hann væri staddur í stolnum bíl og var því handtekinn á staðnum.

Hálf fimm í morgun barst tilkynning um innbort í heimahús þar sem reiðhjóli var stolið. Lögreglan fann þrjótinn skammt frá og handtók hann og vistaði hann í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.

Lögreglunni sem sér um Kópavoginn og Breiðholtið barst tilkynning klukkan 22:33 í gærkvöldi um alvarlega líkamsárás, þar sem sagt var að vopni hafi verið beitt. Vegna málsins var lögreglan með mikinn viðbúnað og var gerandinn handtekinn skammt frá vettvangi og miðar rannsókn málsins vel.

Sara Lind á lausu

Halla Hrund Logadóttir. Mynd: Skjáskot af RÚV.

Allt er að falla í sömu skorður hjá frambjóðendum í forsetakosningum. Þeir sem urðu undir hafa flestir snúið til fyrra lífs en sigurvegarinn, Halla Tómasdóttir, undirbýr að taka við embætti í byrjun ágúst. Nafna hennar, Halla Hrund Logadóttir, mætti þann 1. júní til að halda áfram starfi sínu sem orkumálstjóri. Hermt er að allir starfsmenn hafi fagnað leiðtoga sínum. Afleysingamaður Höllu, Sara Lind Guðbergsdóttir, hvarf á braut þegar í stað. Sara Lind hefur undanfarin ár verið í vinnu hjá ríkinu án þess að störf hennar hafi verið auglýst. Þannig varð hún framkvæmdastjóri Ríkiskaupa og var starf hennar ítrekað framlengt af fjármálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins.

Á starfstíma sínum hjá Ríkiskaupum vakti hún helst athygli fyrir að vilja taka á því að ríkisstarfsmenn fengju vildarpunkta án þess að greiða af þeim skatta. Ríkiskaup voru lögð niður og Sara Lind er á lausu eftir að orkumálastjóri sneri aftur. Vonast er til þess að Sjálfstæðisflokkurinn finni henni starf við hæfi …

Árni Johnsen bjargaði fjórum börnum frá drukknun: „Aldrei hlotið viðurkenningu fyrir afrek sín“

|
Vestamannaeyjar - myndin tengist fréttinni ekki beint - Mynd: vestmannaeyjar.is

Árni J. Johnsen, afi hins þekkta blaða- og alþinigismanns, Árna Johnsen, var sannkölluð hetja. Ekki bjargaði hann einu barni frá drukknun í Vestmannaeyjum, heldur fjórum, yfir nokkurra ára tímabil. Alls bjargaði hann átta manns frá drukknun um ævina.

Bæjarblaðið Þór, Vestmanneyjum skrifaði um afrek Árna og var hneikslast á því að maðurinn hafi aldrei fengið nokkra viðurkenningu fyrir lífsbjargirnar. Í blaðinu er sagt frá því að barn hafi fallið í sjóinn, 25. september árið 1924 og að Árni J. hafi gert sér lítið fyrir og kastað sér á eftir barninu og bjargað því frá drukknun. Segir að þetta hafi verið í fjórða skiptið sem Árni bjargaði börnum frá drukknun. Alls bjargaði Árni átta mönnum frá drukknun á ævinni en hann lést árið 1963.

Hér má lesa skrifin í Þór frá árinu 1924, í óbreyttri mynd:

Vel gert. 25. þ. m, fjell barn í sjóinn af bæjarbryggjunni. Nærstaddur var þar Árni J. Johnsen kastaði sjer á eftir barninu og bjargaði því frá druknun. þetta er fjórða skiftið sem Árni J. Johnsen bjargar börnum á þennan hátt. 1913 6. janúar bjargaði hann barni Sveins Scheving, 1. júní 1915 bjargaði hann barni Antoníusar Baldvinssonar og öðru barni sama manns 21. júní 1919. Aldrei hefir Árni hlotið opinbera viðurkenningu fyrir þessi afrek sin og er það hneyksli, því hvar sem verið hefði annars staðar hefði maðurinn verið búinn að fá opinberlega viðurkenningu stjórnarvaldanna og jafnvel verðlaun úr Carnegie-sjóðnum. Hr. Árni J. Johnsen sækir nú um hafnarvarðarstöðuna og væri það ekki nema makleg viðurkenning frá bæjarins hendl, að honum yrði veitt staðan.

Nektarjóga kynnt á Íslandi: „Tæklum þetta með nærgætni og fagmennsku í fyrirrúmi“

Glæný tegund af jóga, að minnsta kosti hér á landi, verður kennd á næstunni en það er svokallað nektarjóga.

Í dag er Alþjóðlegi jógadagurinn og því ekki úr vegi að segja frá tegund jógakennslu sem ekki hefur verið áður kennd hér á landi. Um er að ræða nektarjóga en það eru nokkrir jógakennarar sem stofnuðu verkefnið Naked Yoga Reykjavík, sem standa fyrir þessari nýstárlegu jógakennslu.

Mannlíf ræddi við Svetlönu Álfheiði Malyutinu, sem er einn af stofnendum verkefnisins Naked Yoga Reykjavík, og forvitaðist um þessa tegund jóga.

Svetlana Álfheiður Malyutina

Af hverju nektarjóga?

Svetlana: „Af því að okkur finnst það algjörlega fráleitt að nútímafólk skammist sín fyrir sinn eigin líkama og reynir stöðugt að breyta útliti sínu eða lögun, á kostnað geðheilsunnar – bara af því að einhver sniðug auglýsing eða áhrifavaldur á TikTok segir að líkaminn okkar er ekki nógu góður eins og hann er.

Við trúum því líka að ef maður er sáttur við sjálfan sig, ber virðingu fyrir líkama sínum og líður vel í honum þá mun hann hafa sömu viðhorf til fólks í kringum sig og mun ef til vill síður fara illa með, til dæmis tilfinningar eða líkama annarra. Svo þegar allt kemur til alls þá er tilgangur með þessu verkefni að sjá meiri kærleik og minna ofbeldi í heiminum.“

Hvernig datt ykkur þetta í hug?

Svetlana: „Þetta byrjaði í raun út frá því að ég fór að stúdera jógíska heimspeki sem hvetur mann til að berhátta huga sinn, horfa fram hjá sögunum sem maður trúir um sjálfan sig og afhjúpa sitt innra eðli. Þegar maður sekkur sig í þetta og beitir jógaaðferðum í hversdagslífinu þá finnst manni oft skrýtið að sjá hið tvöfalda siðgæði í samfélaginu. Allir eru sammála um að hver og einn eigi að vera alveg frjáls – að tjá sig, að hafa skoðanir, að lifa eins og hann vill, svo lengi sem hann takmarkar ekki frelsi annarra, en þegar kemur að manni sjálfum þá vill helst enginn skera sig úr. En til hvers að hafa skoðanir ef maður lifir ekki samkvæmt þeim sjálfur?“

Svetlana bætti við:

„Við erum reyndir jógakennarar og náttúrubörn og við tókum eftir því að klæðalaus jógaiðkun hefur talsvert dýpri áhrif, eykur vellíðan og styrkir tengingu manns við eigin líkama. Þannig að við ákváðum að blása lífi í myndlíkinguna og bjóða upp á jógaæfingar þar sem fólk berar sig bæði bókstaflegan og á myndrænan hátt.“

Hvað nákvæmlega er nektarjóga?

Svetlana: „Klæðalaus iðkun (nagna yoga) þekkist frá fornum tíma sem partur af meinlætalifnaði hjá þeim sem fylgdu jógískri hugmyndafræði þegar jóga var ekki nema ein af stefnum fornrar heimspeki. Í stórum dráttum snýst jóga um það að tengjast sínu ekta eðli og losa sig við blekkingar hugans. Ein af aðferðum til að komast undan truflandi áhrifum reynsluheims er hófsemi eða aðhald (austerity). Í andlegum skilningi þýðir það að skilja við allar utanaðkomandi hugmyndir sem hindra beina skynjun en í efnislegum að losa sig við allar eignir sem eru ekki bráðnauðsynlegar – að fötunum meðtöldum.“

Eru æfingarnar kynferðislegar?

Svetlana: „Alls ekki. Þetta er einstaklingsmiðuð jógaiðkun ætluð þeim sem vilja bæta samband sitt við líkama sinn, byggja upp jákvæða líkamsímynd og vinna úr áföllum sem höfðu áhrif á samband líkamans og hugans. Þess vegna höldum við stemningunni eins hlutlausri og hægt er og bjóðum fólki að víkka sjóndeildarhringinn sinn, endurskilgreina hugmynd sína um nekt og upplifa nekt á mjög persónulegan en ekki kynferðislegan hátt. Við höfum mjög strangar þátttökureglur sem allir verða að samþykkja áður en þeir mæta í tímana til okkar, til að forðast allan misskilning um hvað nektarjóga snýst um.“

 

Hvað ætlið þið að bjóða upp á?

Svetlana: „Fyrst og fremst ætlum við að bjóða upp á venjulega klæðalausa jógatíma (kynjaskipta og blandaða) í stúdíóum í bænum, netttíma og einkatíma fyrir þá sem þora ekki að æfa í hóp strax. Fyrir þá sem vilja vita meira um heimspekina á bak við nektarjóga áður en þeir fækka klæðum, höldum við sérstakar vinnustofur sem skiptast í kynningu, umræðu og stuttan klæðalausan prufutíma, fyrir þá sem þora. Svo er annar stór partur af verkefninu okkar núna í sumar að bjóða upp á náttúruferðir fyrir litla hópa þar sem æft er úti, ef veður leyfir.

Til að gera iðkunina eins vandaða og hægt er og auka uppbyggjandi áhrif hennar til lengri tíma, erum við líka að bjóða upp á ýmsar aðrar líkamlegar og andlegar upplifanir eins og hugleiðslu, öndunaræfingar, kakó athöfn, sauna, nudd og hljóðheilun.“

Af hverju myndi maður vilja prófa þetta?

Svetlana: „Klæðalausar jógaæfingar geta haft víðtæk jákvæð áhrif bæði á andlega og líkamlega líðan og farið með samband líkamans og hugans í nýjar hæðir. Í þessum tímum ertu laus við takmarkandi klæði og tilbúin(n/ð) að upplifa algjört hreyfifrelsi og kynnast líkama þínum á nýjan hátt. Með því að æfa í hóp og anda í gegnum óttann, losar þú þig einnig við takmarkandi hugmyndir um útlitið þitt og annarra sem og neikvæða sjálfsgagnrýni. Með tímanum munt þú finna fyrir dýpri tengingu við sjálfan þig, verða hamingjusamari og öðlast innri ró og sátt.

Ef þú vilt bæta sjálfstraustið eða leitar að sátt við sjálfa(n/t) þig, ef þú vilt vera laus(t) við líkamsskömm og niðurrífandi sjálfstal, ef þú vilt bæta geðheilsu þína samhliða líkamlegri heilsu og þú ert tilbúin(n/ð) til að mæta sjálfum þér alveg berskjölduðum, í þágu geðheilsunnar og innri hamingju – þá eru nektarjógatímarnir kannski eitthvað sem þú ættir að prófa.“

 

Eruð þið ekki hrædd við gagnrýni? Nekt er frekar viðkvæmt efni.

Svetlana: „Nei! Við erum tilbúin til að sæta gagnrýni! Verkefnið okkar byggist á mjög sterkum hugmyndalegum grunni sem vegur á móti þeim gömlum úreltu hugmyndum sem gagnrýnendur okkar munu væntanlega sækja rökin sín í og sem okkur dreymir um að breyta. 

Okkur finnst mikils virði að opna þessa umræðu og breyta viðhorfi samfélags til mannlegs líkama og nektar.

Þetta er vissulega viðkvæmt efni og þess vegna höfum við vandað okkur mjög vel. Ég fékk hugmyndina fyrir meira en ári síðan en síðan þá höfum við legið yfir henni í marga mánuði. Við höfðum jafnvel heyrt í bandarískum félögum okkar sem eru að kenna nektarjóga í New York og Boston, til að fá ráðgjöf um hvernig er best að hátta málum – en nektarjóga þekkst miklu meira þar. Svo við tæklum þetta krefjandi verkefni með mikilli nærgætni og fagmennsku í fyrirrúmi.“

 

Einhver lokaorð?

Svetlana: „Við viljum hvetja alla, hvort sem þau hafa æft jóga eða ekki, að æfa sjálfsskoðun, að lifa lífi sínu með fullri eftirtekt og í sátt við sjálfa sig og vinna að andlegu og líkamlegu jafnvægi. Það mun ýta okkur, djúpþenkjandi mannverunum í átt að sameiningu í stað aðskilnaðar, bæta samskipti fólks á milli og stuðla að hollara samfélagi – hér á landi og út um allan heim. 

Það er stóri draumurinn. En við erum alveg sátt við að byrja smátt, til þess að sjá hann rætast. Við erum spennt að sjá hvern og einn nemanda á dýnunni hjá okkur og erum tilbúin til að hjálpa þér að taka fyrstu skrefin og kynnast sjálfum þér á nýjan hátt.

Við ætlum að hafa opna kynningu um verkefnið okkar næsta fimmtudag kl. 16:00 á Loft Hostel – komdu endilega, þú getur kynnst okkur kennurunum, spurt okkur spurninga og nýtt þér gott byrjenda tilboð í tímana okkar í leiðinni – ef þú þorir að byrja að lifa eftir eigin sannfæringu. Athugið, kynningin fer fram í fötum.“

Hér má svo sjá kynningarmyndband:

Steinunn og Egill innsigluðu sambandið á siglingu: „Ákváðum að nú væri tími til að byrja saman“

Steinunn Einarsdóttir

Steinunn Einarsdóttir er nýjasti gestur Reynis Traustasonar í hlaðvarpsþættinum Sjóarinn. Steinunn var sjómaður um árabil á báti foreldra sinna.

Steinunn hætti á sjó eftir að hún eignaðist seinni son sin, árið 2015, eftir að hafa verið á sjó í 12 ár. Hún segir Reyni frá því hvernig hún og eiginmaður hennar, skipstjórinn Egill Ólafsson, innsigluðu samband sitt.

„Hann er skipstjóramenntaður og var alltaf á sjó,“ segir Steinunn og er að tala um eiginmann sinn. „Okkar saga eiginlega hefst svolítið þannig, þegar ég sigldi með honum út súgandaförðinn, þegar við byrjuðum saman,“ hélt Steinunn áfram og hló.

Reynir, uppveðraður: „Bíddu, varst þá á sjó með honum, sem háseti?“

Steinunn: „Nei, þá var ég bara að fara með honum, fékk far og við ákváðum að nú væri tími til að byrja saman. Og við siglum yfir á Patró.“

Reynir rómantískur: „Þannig að ástin kviknaði á firðinum?“

Steinunn hlæjandi: „Já, eða skrefið var allavega tekið.“

Hægt er að hlusta á allt viðtalið hér.

Sænsk Jónsmessuhátíð á Árbæjarsafni á sunnudaginn: „Ég finn fyrir miklum stuðningi“

Á sunnudaginn 23. júní verður boðið upp á Jónsmessufagnað að hætti Svía á Árbæjarsafninu.

Þær Anneli Schöldström og Rebecku Karlsson, skipuleggja sænskan Jónsmessufagnað í samstarfi við Árbæjarsafn, Þjóðdansafélags Reykjavíkur, Cornelis Vreeswijk-félagið og Sænska félagið á Íslandi, sunnudaginn 23. júní.

Í viðburðalýsingu á skemmtuninni á Facebook segir eftirfarandi:

„Komdu og fagnaðu „svensk midsommar“/ Jónsmessu með okkur! Í samstarfi við Árbæjarsafn og Þjóðdansafélag Reykjavíkur efnum við til fjölskylduhátíðar með miðsumarsþema! Fyrir ykkur sem viljið hjálpa til við að skreyta stöngina byrjum við kl. 11 og miðsumarstöngin verður reist klukkan 12.

Hátíðin hefst kl. 13, á dagskrá eru þjóðtónlist og þjóðdansar samanber hefðbundnir sænskir hringdansar þar sem við syngjum Små Grodorna og fleira. Við skipuleggjum fimm-þrautaleik og í safnhúsinu Lækjargata er sýningin „Midsommar för Dummies“. Einnig verður hægt að búa til sinn eiginn miðsumarkrans.

Frítt inn fyrir öll þau sem koma í þjóðbúning og svo er að sjálfsögðu frítt fyrir börn að 17 ára aldri. Engin forskráning er nauðsynleg.“

Til viðbótar við þetta má taka fram að á efnisskránni eru líka sænsk lög með áherslu á sænska þjóðskáldið Cornelis Vreeswijk.

Mannlíf rætti stuttlega við Anneli Schöldström, eins af skipuleggjendum fagnaðarins en hún segir Jónsmessufögnuðinn vera stærstu hátíð Svíþjóðar.

„Sem upphafsmaður Jónsmessuhátíðar á Árbæjarsafni er það mikið heiðursverkefni að stýra þjóðdönsunum með bæði Íslendingum og Svíum,“ segir Anneli og heldur áfram: „Að löndin okkar tvö geti hist í gleði með dansi og söng á hefðbundinni sænskri miðsumarhátíð með íslenskum dönsurum og dönsum er frábært!“

Að lokum þakkar hún samstarfið: „Samstarfið við Árbæjarsafn, Þjóðdansafélag Reykjavíkur og Sænska félagið á Íslandi hefur verið uppbyggilegt og spennandi. Ég finn fyrir miklum stuðningi frá þessum þremur samstarfsaðilum!“

Rebecka Karlsson og Anneli Schöldström í hefðbundnum sænskum þjóðbúningum.

 

Dagur svarar Hildi fullum fetum: „Ég vinn frítt sem formaður borgarráðs á biðlaunatímanum“

Dagur B. Eggertsson og Hildur Björnsdóttir,

Dagur B. Eggertsson skýtur föstum skotum á Sjálfstæðisflokkinn í borginni í nýrri Facebook-færslu.

Morgunblaðið gerði frétt í morgun þar sem fram kemur að borgastjóraskiptin í upphafi árs, hafi kostað borgarsjóð 25 milljónir króna. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, sagðist ætla að krefjast frekari útskýringa á málinu:

„Ef í ljós kem­ur að Dag­ur hef­ur fengið full borg­ar­stjóra­laun greidd, ofan á laun for­manns borg­ar­ráðs, lít ég það mjög al­var­leg­um aug­um. Ekki síst þar sem málið kom aldrei til kynn­ing­ar í borg­ar­ráði og var laumað gegn­um borg­ar­stjórn í gagnapakka sem ekki var sér­stak­lega til umræðu né kynn­ing­ar.“ Þetta sagði Hildur í samtali við mbl.is.

Þessu svarar Dagur B. í færslu á Facebook og segir það óþarfa að gefa í skyn að hann sé á tvöföldum launum. Í raun sé hann að vinna frítt sem formaður borgarráðs á biðlaunatímanum. Notar hann svo tækifærið og skýtur bylmingsfast á Sjálfstæðisflokkinn. Hér má sjá færslu borgarstjórans fyrrverandi:

„Alveg finnst mér einstakur óþarfi af Hildi Björnsdóttur og Mogganum að gefa til kynna að ég sé á tvöföldum launum þann tíma sem ég er á biðlaunum sem borgarstjóri. Það er í raun réttara að segja að ég vinni frítt sem formaður borgarráðs á biðlaunatímanum, sem er bara hið besta mál. Fyrir nú utan hvað mörg biðlaun hafa sparast með því að skipta ekki sífellt um borgarstjóra þau tíu ár sem ég var í embætti…“

17. júní hátíðarræða á Ísafirði

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Í dag á íslenska lýðveldið afmæli. 80 ára. Stórafmæli. Miklu merkilegra afmæli en 81, hvað þá 77. Í dag hefði einnig 500 kallinn Jón Sigurðsson, fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð árið 1811, orðið hvorki meira né minna en 213 ára gamall. Tíminn líður hratt. Það var bara í gær að húsið hér fyrir aftan mig (Safnahúsið á Ísafirði) bauð nýja Ísfirðinga velkomna í heiminn og í fyrradag sem séra Jón Magnússon þumlungur vildi ólmur láta varpa Jónum og Þuríði á bál fyrir galdra. Ekki virðist heldur svo langt síðan Þorbjörn og menn hans drápu nafna minn Ólaf, son Hávarðs Ísfirðings. 

Þannig týnist tíminn og kann og að framkalla þá tilfinningu að maður hafi upplifað flest og að litlu sé hægt að breyta, að hlutirnir séu meitlaðir í stein, orðnir að eðlislögmáli og að maður sé áhorfandi fremur en þátttakandi.

En þrátt fyrir að tíminn líði á ógnarhraða og flest verði forgengileikanum að bráð eins og sjá má ykkur hér á hægri hönd (kirkjugarður), þá eru okkur náttúrlega afrek sveitunga óþekktrar konu, þess hins sama og „sigldi til Hafnar að nema þar einhver fræði“, í fersku minni. Og í hátíðarræðu sem þessari ber 

ræðurápara að minnast á téðan Jón forseta Sigurðsson í það minnsta sjö sinnum, á Íslands sóma, sverð og skjöld, mann sem við ræðum á helgum þegar vér gluggum í Hugvekju hans til Íslendinga frá byltingarárinu mikla 1848 og miklumst yfir þeirri óvéfengjanlegu staðreynd að hann hafi verið Vestfirðingur, enda ól hann manninn á Vestfjörðum í heil 17 ár, og því megi að sjálfsögðu þakka Vestfirðingum öðrum fremur fyrir sjálfstæði landsins, fyrir lýðveldið, fyrir kandíflossið, hoppu-kastalana, karamelluregnið og sölutjöldin.

Vissulega kann hér að vera um smávægilega einföldun að ræða, um túlkunaratriði, eða spurningu um tilfinningu. Annar vestfirskur forseti, Túngötuforsetinn, bjó hér umtalsvert skemur en spyrðir sig samt einarðlega við Vestfirði eins og reyndar fyrrum stéttbróðir hans á sviði stjórnmálanna og sérlegur forvígismaður hins vestfirska einhljóðaframburðar. Má því einnig þakka Vestfjörðum og Vestfirðingum veru Íslands í ESB, sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna svo og andstöðuna við ICESave. 

Verðum við ekki að sjá í gegnum fingur okkar með smá einfaldanir?  Í hátíðarræðum þarf ekki að fara ofan í kjölinn á hvorki einu né neinu. Þar eru hólar hrikaleg fjöll og skítalækir stórfljót, vatnið hreinast, fólkið „bezt“, menningin mögnuðust. Við tölum um okkur og það sem er okkar, við sláum okkur á brjóst og spyrðum okkur við víkinga og boltasparkara og hundsum þá staðreynd að víkingar voru vart til staðar á Fróni auk þess sem þeir voru misyndismenn sem áttu það til að ræna, rupla og ríða án samþykkis, ásamt því að myrða mann og annan. Maður er nú ekkert að pæla í slíku í hátíðarræðu. 

Í hátíðarræðu er allt umvafið bjartsýni og við alltaf, ávallt, ætíð og áreiðanlega að gera betur en í gær og gott betra; við elskum náungann, tökum flóttafólki fagnandi; drekkum freyðivín með fjölbreytileikanum við undirspil níundu sinfóníu Beethoovens; sólin er allsráðandi og baðar geislum sínum á öll Guðs börn á meðan stormurinn stælir þjóðarlíkamann og mannsandann. 

Og nú skal vitna í þjóðskáld. Þjóðskáld sem má alveg titla Vestfirðing, þótt hann hafi litið dagsins ljós einhvers staðar fyrir norðan á 19. öld. 

Ég elska þig stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir, um leið og þú þýtur.

Já, veðrið, náttúran og allt það „stöff“ mótar og stælir vora lund, gerir oss að því sem við erum. Það fyrirfinnast allavega sjaldnast hlandbrunnin „braggabörn í barnavagni“ í hátíðarræðum og því síður engisprettufaraldur; mannkynið „það elskar frið og hatar Rudolf Hess og „þorpin eru að hjarna við“ sem „eilífðar smáblóm“ og „óréttlæti mótmælum vér allir“.

Við sammælumst í andakt um allskonar ágæti og menningarhnoss, við bendum á íslenskan sagnaarf, þrautseigju undangenginna kynslóða, stærum okkar af tungunni, sem er ekki síður einkennismerki íslenskrar þjóðar en alþýðu-vagg og veltu-hljómsveitarinnar engilsaxnesku The Rolling Stones. Og ekki erum við allskostar laus við voðalega saklausan, sárameinlausan, lítilsháttar 17. júní 

þjóðernisbelging. Já, tunga vor hefir þjónað íslenskri þjóð frá örófi alda í fallegum fjallasal undir heiðbláum himni hvar fegurðin ein ríkir.

EN! Nú ber að víkja málinu að stöðluðu atriði allra hátíðarræðna. Það er viðtekin venja að leiða talið að áskornum, að þrátt fyrir almenna velsældarvímu sé víða pottur brotinn, að sumir hafi ekki efni á nýjum síma eða áskrift að Stöð 2, að fitusmánun feitustu þjóðar Evrópu sé óbærileg; að vinna verði meinbug á loftmengun bílalýðveldisins; að fordómar grasseri innan fornbílaklúbba; að hvítir miðaldra karlpungar séu svo illa haldnir af forréttinda blindu að Jesús fái ekki rönd við reist. Svo er það kynlega málið, trans, BDSM og hvaðeina. Ekki hefði nú Jón okkar Sigurðsson þurft ekki að „díla“ við viðlíka mál og hafði hann nú ærinn starfa samt. 

Það er um auðugan garð að gresja, nóg af áskorunum til að bragðbæta svona ræðu umhugsandi smekkbæti mitt í gleðiærslum ísfirskra ungmenna. Verkefni það sem hér verður fært í tal ætti ekki að koma á óvart og liggur máske algerlega í augum „úti“ hvað suma viðstadda áhrærir.

Our great language, our nations pride and joy: Icelandic

Vitanlega er síð-sígilt að lýsa yfir áhyggjum yfir stöðu íslenskunnar, að klifa á því að nú megi ekki sitja við orðin tóm, að málið sé vort dýrasta djásn, ástæða sjálfstæðis okkar, það sem aðgreindi okkur frá Dönum, skilgreindi og skilgreinir okkur sem þjóð, er okkar aðgangur að nið og aldanna svo og kastalar og dómkirkjur landsins. Íslenskan er aðgangur vor að hugsun forfeðranna. 

Já, og svo mærir maður bókmenntirnar og orðsins fólk, rithöfundana og allt það slekt. Og væri maður pólitíkus myndi maður næsta víst lofa endalausu fjármagni til að kippa þessu og öllu öðru mögulegu og ómögulegu í liðinn og láta svo mynda sig í gríð og erg með réttum aðilum að ræðu lokinni. 

Ástand tungunnar er mega „tough“! Ástand hvar hrútspungar rata trauðla á trant lengur og fólk rappar fremur en fer með rímur og styttir sér fremur stundir með Netflix en Íslendinga sögunum, Biblíunni eða Kiljan að ekki sé talað um Guðmund Hagalín, Njörð P. Njarðvík, Eyvind P. Eiríksson, Rúnar Helga, Jón Thoroddsen og fleiri af því sauðahúsi. Ungmenni eru því sem næst ólæs eftir 10 ára grunnskólagöngu og eiga í mestu erfiðleikum með að skilja íslensku liðins tíma og eru svo, að eigin mati, klárari á ensku en móðurmálið að maður tali nú ekki um ef hluteigandi aðili hefir annað móðurmál en íslensku, börnin okkar klæmast ótt og títt á engilsaxnesku, eru föst í viðjum tik-tok á meðan þeir sem líkamlega ekki teljast til barna eða ungmenna eru njörvaðir niður í hlekki Flettismettisins. 

-skjárinn er ópíum fólksins-

Viðtengingarhátturinn er að deyja, þjónusta kaffihúsa, veitingahúsa, spítala fer fram á ensku, allra handa skilti eru einvörðungu á ensku, enskan er sett ofar íslenskunni á skiltum, afþreyingin er á ensku, samfélagsmiðlarnir á ensku, draumarnir eru á ensku, gott ef lóan er bara ekki byrjuð að syngja sínar vorvísur á ensku. Tæknibyltingar, búsetubyltingar og hugarfarsbyltingar sækja að íslenskunni.

Þið þekkið þennan barlómssöng, ekki satt?

Og svo bara allt í einu og óforvarandis gerist það að fjöldi fólks með erlent ríkisfang rýkur upp úr 1,8%, ESB-árið 1994, upp í hartnær 20% anno domini 2024 og samhliða því eykst, eins og gefur að skilja, herskari þeirra sem eigi hafa íslensku að móðurmáli og umtalsverður hluti þeirra kann jafnvel ekki stafkróf fyrir sér í íslensku og hefir ekki hugmynd um hver Jón Sigurðsson var eða hvaða hlutverki hann gegndi í sjálfstæðisbaráttu íslenskrar þjóðar og þaðan af síður hverjir Fjölnismenn, Baldvin Einarsson eða Ásgeir Ásgeirsson voru. Eitthvað sem … allir Íslendingar þekkja auðvitað eins og hnakkasvip ömmu sinnar við eldavélina.

Já, tilfinnanlegar breytingar hafa sannlega átt sér stað. Og sama hve sterk þráin eftir þeim tíma „er hetjur riðu um héruð“ kann að vera er leiðin til baka ófær. Sama hversu afturhaldssamar þið kunnið að vera þá er sá tími liðin er hér bjó einungis fólk á borð við: Jón Sigurðsson og Ingibjörgu Einarsdóttur, fólk næpuhvítt á hörund, bláeygt, ljóshært og stælt með kjarnyrta íslensku á vör allan liðlangan daginn, mælandi ódauðleg gullkorn af jafnmiklum krafti og hrímhvítt jökulfljót. 

Ísland, farsældarfrón

Og hagsælda, hrimhvíta móðir!

Hvar er þín fornaldarfrægð,

frelsið og manndáðin bezt?

Við endurheimtum ekki liðna tíð enda hlýtur og slíkt að bera vott um hugmyndarfæð. Nei, við verðum að „díla“ við nýjan veruleika og hluti þess er að leiða hugann að því hvort við viljum að íslenska verði áfram ríkjandi mál á 

Íslandi, að íslenska verði málið sem sameinar, sem veitir aðgang að sögu lands og þjóðar ásamt því að búa til nýja og sameiginlega. Og ef svarið við þeirri spurningu er jákvætt verðum við að leiða hugann að því hvernig við viljum standa að því, hvernig við viljum miðla málinu, hvernig við viljum styrkja það í sessi og ekki síst svara þeirri spurningu af hverju svo ætti að vera. Er það vegna þess að málið varðveitir menningarlega samfellu landsins? Er það vegna þess að málið er verðmæti í sjálfu sér? Eða er það vegna þess að málið er það sem sameinar, skapar öllum þeim sem hafa það ágætlega á valdi sínu aukin tækifæri? Málum er nefnilega enn svo háttað að flest allt sem hér máli skiptir fer fram á íslensku: leikskólinn, grunnskólinn, framhaldsskólinn og helstu stofnanir brúka íslensku. Ætli maður sér frama er það auðveldara með íslensku á sínu valdi, íslenskan veitir hlutdeild og hvort sem okkur líkar betur eða verr brúar enskan ekki bilið, því tíð og sjálfsögð notkun ensku býr til aðgreiningu þegar til kastanna kemur. 

Aðgreiningu á milli þeirra sem tala og skilja íslensku og þeirra sem tala hana ekki og skilja hana ekki. 

Og þá er ekki einu sinni horft til þeirra sem hafa hvorugt málið, hvorki ensku né íslensku, almennilega á valdi sínu. Við skulum bara orða þetta sem svo að það sé oft og tíðum misskilin kurteisi að ætla að allt sé auðveldara með ensku þegar átt er í samskiptum við þá sem vilja setjast hér að til lengri eða skemmri tíma, burtséð frá þeim skilaboðum sem það sendir: að íslenskan sé óþörf sem sannlega ekki er raunin … 

Við tölum jú ensku við túrhesta, erum við því ekki að koma fram við fólk sem hér býr eins og túrista með því að tala við það á ensku? 

Og ef til vill kann að vera að við sem samfélag „fungerum“ enn best með íslensku að vopni, með íslenskuna sem sameiningarafl, ekkert ósvipuð nálgun Jóns okkar Sigurðssonar. Hans helsta vopn í baráttunni fyrir sjálfstæði Íslands var jú, tungan og menningararfleifðin. 

Eitt er allavega kristaltært! Íslenska lærist ekki sé enska ætíð notuð, íslenska lærist ekki sé henni ekki haldið að fólki, íslenska lærist ekki geri samfélagið ekki kröfu um að málið sé notað, íslenska lærist ekki búi samfélagið ekki til góðan grundvöll fyrir íslenskunám og máltileinkun og taki þátt í ferlinu, með bros á vör. Íslenskan lærist best sé fólki veitt tækifæri til að nota hana með allslags hreim og hugsanlega misgóðri málfræði. Það þarf að gera mistök til að geta lært af þeim. Og við, sem höfum íslensku að móðurmáli, getum verið þátttakendur í þessu ferli ekki bara áhorfendur. Kannski er það meira að segja skylda okkar að taka þátt.

Jæja, nú er tími til kominn að ljúka þessu raupi og gaspri. Hér hefir verið farið út og suður í sjálfshælni þess sem telur sig hafa málið, íslenska tungu, sómasamlega á valdi sínu. Endum þetta yfirlætistal á smá áeggjan, á fleygum orðum. Það er klassík þegar kemur að hátíðarræðum. 

Við sammælumst, allavega 17. júní, um ágæti Vestfirðinga, um ágæti íslenskra fjallasala og jafnvel veðurfars, um að tungumálið sé okkar dýrasta djásn og sameiningartákn … EN hvað segir það um samfélag sem gerir ekki allt sem í þess valdi stendur til að auðvelda aðgengi þeirra sem hér vilja setjast að, sem vilja læra málið, sem ættu að læra málið, að því menningarlega hjartfólgnasta, sem Íslendingar eiga, tungumálinu? Að kjarna þess að vera íslenskur.

Er ekki kominn tími til að Gefa íslensku, í breyttum veruleika, séns!?

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, höfundur er verkefnastjóri Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag (www.gefumislenskusens.is

Vísað er til ýmissa skálda í ræðunni. Bubbi Morthens, Bjartmar Gunnlaugsson, Einar Benediktsson, Hannes Hafstein, Jónas Hallgrímsson, Matthías Jochumson, Megas og Mugison, 

Mótmæla brottvísun 11 ára drengs með alvarlega vöðvarýrnun: „Mál upp á líf og dauða fyrir Yazan“

Alþingishúsið. Ljósmynd: Sikeri
Boðað hefur verið til mótmæla vegna fyrirhugaðrar brottvísunar 11 ára drengs, sem greindur er með alvarlega vöðvarýrnun. Drengurinn er á flótta frá Palestínu.

Samtökin No Borders og fólkið sem stóð fyrir Samstöðutjaldinu á Austurvelli í byrjun árs standa fyrir mótmælum á sunnudag klukkan 15:00 á Austurvelli. Fyrirhuguð er brottvísun hins 11 ára gamla Yazan, sem er hér á landi á flótta frá hryllingnum á Gaza. Yazan er greindur með Duchenne vöðvarýrnun, sem er einn alvarlegasti arfgengi sjúkdómurinn af þessari gerð.

Í lýsingu á mótmælaviðburðinum á Facebook segir eftir farandi:

„Þrátt fyrir yfirgnæfandi læknisfræðileg gögn sem sýna fram á alvarleika sjúkdóms Yazan og hversu lífshættuleg brottvísun getur verið honum, þá hefur Kærunefnd útlendingamála vísað máli Yazan frá og endanlega neitað honum um vernd á Íslandi.

Til stendur að brottvísa Yazan og fjölskyldu í júlí. Viljum við sem samfélag vera ábyrg fyrir því að stytta líf 11 ára drengs?!
Mætum öll! Brottvísanir eru ofbeldi!“
Þá er þar einnig frekari lýsing á Yazan:
„BROTTVÍSUN ÓGNAR LÍFI YAZAN:
Yazan er 11 ára drengur sem er greindur með Duchenne vöðvarýrnun, en Duchenne er einn alvarlegasti arfgengi vöðvarýrnunarsjúkdómurinn. Sjúkdómurinn er hrörnunarsjúkdómur þar sem allir megin vöðvar líkamans smám saman rýrna, þar á meðal hjarta- og öndunarvöðvar. Lífslíkur þeirra með sjúkdóminn eru verulega skertar en án þjónustu er meðalaldur í kringum 19 ár. Sjúkdómurinn krefst stöðugrar umönnunar og er aðgangur að sérhæfðri læknisþjónustu nauðsynlegur til að lengja lífslíkur sem mest.
Með því að vera brottvísað til Spánar, lands sem fjölskyldan hefur aldrei dvalið í, gæti orðið hlé á þjónustu í allt að 18 mánuði. „18 mánuðir án meðferðar munu valda óafturkræfum skaða sem mun verulega minnka lífsgæði drengsins og stytta líf hans,“ segir helsti sérfræðingur Íslands í Duchenne. Þar að auki gerir hvert einasta áfall geri sjúkdóminn verri og slíkur skaði er kominn til að vera, en sjúkdómurinn gengur ekki til baka.
Yazan og foreldrar hans flúðu heimili sitt í Palestínu í leit að skjóli og öryggi á Íslandi fyrir ári síðan. Frá komu þeirra hafa þau orðið hluti af samfélagi okkar og lagt sitt af mörkum þrátt fyrir að standa frammi fyrir fjölmörgum hindrunum. Áður en Yazan kom til Íslands hafði hann ekki aðgang að almennilegri læknisþjónustu né fékk að taka þátt í skóla- og frístundastarfi.

Að veita honum vernd hérlendis er ekki aðeins aðkallandi mannúðarskylda heldur einnig mál upp á líf og dauða fyrir Yazan. Stuðningskerfin og læknishjálpin sem er í boði á Íslandi er lífsnauðsynleg fyrir Yazan og hans heilsu. Með því að rífa Yazan upp úr núverandi umhverfi sínu og taka af honum viðeigandi læknisaðstoð og stuðning, er ekki einungis verið að svipta hann þeim stöðugleika sem hann nauðsynlega þarf til að lifa bærilegu lífi heldur er verið að ógna lífi hans og dæma hann til óþarfa þjáninga og erfiðleika.

Duchenne samtökin, Landssamtökin Þroskahjálp, Einstök börn, ÖBÍ réttindasamtök, Réttur barna á flótta og Tabú hafa einnig fordæmt áform stjórnvalda um að brottvísa Yazan og fjölskyldu hans.
Viljum við í alvöru vera ábyrg fyrir því að stytta líf 11 ára drengs, sem er nú þegar verulega stytt?“

Unglingurinn á Tenerife fór heim með dulurafullum Bretum: „Hann þekkti þá ekki neitt“

Jay Slater

Lögreglan, með hjálp þyrlu, leitarhunda og dróna, ásamt fjallabjörgunarsveita, hefur leitað að hinum 19 ára Jay Slater, nærri Airbnb-húsnæði sem hann fór í ásamt tveimur breskum karlmönnum.

Airbnb-húsið er einangrað bóndabýli sem staðsett er í 30 kílómetra fjarlægð frá hinu vinsæla Play des Los Americas, amerísku ströndinni, í suðurhluta Tenerife í þorpinu Masca.

Jay kom til Tenerife 12. júní með tveimur vinum sínum, Brad og Lucy Mae Law, sem var síðasta manneskjan sem Jay var í sambandi við áður en hann hvarf.

Vinahópurinn mætti svo á tónlistarhátíðina NRG festival sem byrjaði síðasta föstudag og endaði á eftirpartýi árla morguns á Papagayo á hinni alræmda Playa des Los American ströndinni.

Tónlistarhátíðin sem vinirnir fóru á, auk hundruði annarra gesta, var auglýst sem „helgi af rafmagnaðri tónlist, töfrandi myndefni og nýstárlegri framsetningu.“

Myndband sem tekið var í partýinu sýnir Jay brosa og dansa en það var þá sem Lucy og Brad sáu vin sinni í síðasta skipti en þau yfirgáfu bæði partýið í kringum klukkan tvö en Jay varð eftir ásamt tveimur breskur mönnum sem hann hafði hitt.

Það er vitað að í kringum fjögur, þegar partýið var við það að hætta, hafi lögreglan verið kölluð á Veronica-ströndina til að bregðast við „atviki“ en ekkert bendir til þess að Jay hafi verið viðriðinn það mál.

Vitað er að Jay hafi um fimmleytið farið með Bretunum tveimur í Airbnb-húsnæði sem þeir höfðu leigt, sem kallast Casa Abuele Tina, en mikið er um hlykkjótta fjallvegi á leiðinni þangað.

Lucy sagði MailOnline að Jay hefði sagt henni að hann ætlaði með Bretunum en hún hvatti hann til „koma aftur“ í herbergi þeirra á Paloma Beach-hótelinu en hann neitaði því og sagðist ætlaði með mönnunum.

„Ég skil bara ekki af hverju hann fór til þeirra, hann var bara nýbúinn að hitta þá og þekkti þá ekki neitt. Við Brad sögðum honum að koma aftur en hann gerði það ekki, ef hann hefði gert það, væri hann ekki horfinn,“ sagði Lucy.

Lítið er vitað um Bretana tvo en Lucy lýsti þeim sem „hörundsdökkum og breskum“ en bareigandi í næsta húsi við sveitabýlið sagði MailOnline að hún hefði heyrt í fólki í húsinu klukkan sex um morguninn.

Þegar Jay var enn í húsinu sendi hann móður sinni og Lucy tvær ljósmyndir á Snapchat en önnur þeirra sýndi útsýnið frá húsinu yfir nærliggjandi dal og hin sýndi hann með sígarettu í hendinni á planinu fyrir utan húsið.

Hér er tímalínan yfir málið:

12. júní – Jay lendir á Tenerife síðasta miðvikudag með vinum sínum, til að fara á NRG, sem er þriggja daga reif tónlistarhátíð frá 14 til 16. júní á Los Cristianos.

17. júní – Snemma nætur næst myndband af Jay njóta sín í eftirpartýi á Xanadu-skemmtistaðnum, ásamt vinkonu sinni, Lucy Mae West.

Klukkan 02:00 – Lucy og Brad ákveða að yfirgefa partýið og fara aftur í íbúð sem þau leigðu en Jay verður áfram í partýinu og spjallar við tvo Breta sem hann hitti þar.

Klukkan 05:00 – Jay og Bretarnir tveir yfirgefa svæðið og fara í klukkutíma bílaferð um hlykkjóttan fjallveg að AirBnB-sveitabýli í Masca, þar sem hinir dularfullu Bretar dvelja.

Klukkan 06:00 – Nágrannar heyra hávaða frá húsinu.

Klukkan 07:40 – Jay sendir mynd af útsýninu frá húsinu og mynd af sér haldandi á sígarettu á stéttinni fyrir utan húsið.

Í kringum 08:00 – Jay spyr konu sem býr á svæðinu hvernig hann geti komist aftur til Los Cristianos með rútu. Hún segir honum að næsta rúta fari ekki fyrr en klukkan 10:00.

Klukkan 8:15 – Sama kona sér Jay ganga upp fjallið og í ranga átt.

Klukkan 08:50 – Jay hringir í Lucy til að segja henni að hann sé aðeins með eitt prósent eftir að batterýi í símanum og að hann sé villtur og hafi enga hugmynd hvar hann sé en að hann sé að reyna að ganga aftur til Los Cristianos.

Stuttu síðar tengist sími Jay við símamastur nærri Mirador La Cruz De Hilda veitingastaðinn en þar nærri er stærðarinnar gljúfur en þar leitar lögreglan að honum.

Una breytist seint

Una Schram var að gefa út nýtt lag

Fátt er skemmtilegra en íslensk tónlist og það er vegna þess að Íslendingar eru ótrúlega hæfileikaríkir á þessu sviði. Eina sem er betra en íslensk tónlist er ný íslensk tónlist og hefur Mannlíf valið fimm nýleg íslensk lög sem allir þurfa að hlusta á um helgina.

Una Schram – Breytist seint
Gravity is Optional – Kaupa Kaupa Kaupa
Röggi – Bíða og sjá
SiGRÚN – Monster Milk
ELVAR, Logi Pedro og Daniil – Ekkert Vandamál





Seyðfirðingar syngja gegn fiskeldi: „Fífl og fávitar fá ekki frið“

Seyðfirðingar sem eru á móti laxeldi í firðinum birtu í dag lag og myndband sem birtist á Þorrablóti bæjarins í fyrra og er til höfuðs fiskeldishugmyndum Fiskeldis Austfjarða og Laxa fiskeldis ehf.

Myndbandið birtist á Facebook-síðu VÁ- Félag um verndun fjarðar er ekki langt en þar er sungið gegn fiskeldishugmyndum á Seyðifirði en 75 prósent bæjarbúa hafa kosið gegn slíkum hugmyndum. Upprunalegt lag er eftir Reykjavíkurdætur og heiti Bad bitch. Eftirfarandi texti var ritaður við færsluna:

„Gleðilegar sumarsólstöður frá firðinum fagra ❤ Við deilum hér myndbandi frá Þorrablóti Seyðfirðinga 2023 en þar eru skilaboðin skýr og við treystum því að Jens og fiskeldisfélagar hans leggi við hlustir og taki boðskapinn inn !

Við viljum ekkert fiskeldi í Seyðisfjörðinn ! ÁST og FRIÐUR.“

Í texta lagsins segir meðal annars:

„Bad fish, ég er gella,
náttúran mín, ég ætla ekki að velja
sama þó þau
ætli ekki að kvelja.
Vil ekki laxinn sem þau
reyna að selja.
Fífl og fávitar
fá ekki frið.
Ég gefst ekki upp
ég gef ekki grið
illska í hjartanu

ruglaða lið
reyni að snúa

þessu við.“

Hér má sjá myndbandið.

 

Vilhjálmur prins hristi á sér bossann á Swift-tónleikum: „Díana hefðir verið svo stolt af honum“

Popp-prinsessan með Bretaprinsunum og prinsessunni.

Krónprins Breta, Vilhjálmur vakti gríðarlega athygli á tónleikum Taylor Swift í London þar sem hann dansar ákaft við tóna hinnar vinsælu söngkonu.

Eras-tónleikaferðalag Taylor Swift er að gera allt vitlaust í London og hafa aðdáendur verið að njóta hverrar mínútu. Margir ráku þó upp stór augu þegar Vilhjálmur Bretaprins sást í stúkunni á troðfullum Wembley-tónleikunum, dansandi af sér rassgatið en þar var hann mættur ásamt börnum sínum.

Einn tónlistagestanna tók myndskeið af prinsinum og birti á samfélagsmiðlunum en þar sést hann dansa og hreyfa varirnar við Shake it Off-slagarann. Hið bráðskemmtilega myndskeið hefur verið skoðað að minnsta kosti 915 þúsund sinnum og fengið 4400 athugasemdir. Hinn 42 ára krónprins var klæddur í sömu föt og hann var í á ljósmynd sem tekin var af honum og börnunum, Georgi og Karlottu, sem hann á með Katrínu Middleton, og Taylor Swift eftir tónleikana, í hnepptri skyrtu, dökkbláum jakka og buxum. Sonur þeirra, Lúðvík var einnig á tónleikunum en vantaði á ljósmyndina.

Popp-prinsessan með Bretaprinsunum og prinsessunni.

Fregnir af dansinum bárust nokkrum klukkutímum eftir sæta ljósmynd frá Katrínu sem birtist á Instagram í gær, þar sem afmæli Vilhjálms var tilkynnt. Á myndinni sést krónprinsinn hoppa upp í loft með börnunum þremur.

Vilhálmur og börnin

Aðdáendur fjölskyldunnar skrifuðu margir hverjir fallegar athugasemdir við myndina en einn þeirra skrifaði: „Frábær fjölskyldumynd, elska hana. Díana hefðir verið svo stolt af þeim föður sem Vilhjálmur er. Hann setur fjölskylduna í fyrsta sætið og það er það sem við ættum öll að gera. Katrín og Vilhjálmur eru svo elskuleg.“
Annað skrifaði: „Þessi ljósmynd er stórkostleg! Afmæliskveðjur til prinsins!“

Hér má svo sjá hið bráðskemmtilega myndskeið:

@kkinldn Shake it off Prince William #princewilliam #erastourtaylorswift #erastour #whiteclawuk ♬ original sound – KK

Gosinu líklegast lokið

Flygildamynd Almannavarna

Svo virðist sem eldgosinu sem hófst við Sundhnúk 29. maí sé lokið, að því er fram kemur á Facebook-síðu Veðurstofu Íslands.

Litla virkni var að sjá í gær í eldgosinu og þegar Almannavarnir flugu flygildi yfir gíginn í hádeginu, sást þar engin virkni. Þá hefur aukreitis órói á nálægum jarðskjálftamælum dottið niður. Samkvæmt Veðurstofunni mælist hann nú svipað og fyrir gos.

Þó má búast við að eldra hraun haldi áfram í svolítinn tíma að skríða hægt meðfram Sýlingarfelli norðanverðu og við L1 varnargarðinn, þar sem spýjur hafa runnið yfir.

Þar hafa vinnuhópar unnið hörðum höndum að því að hamla framgangi hraunsins með því að setja upp jarðvegsgarða og beita vatnskælingu.

Prestur, harðstjóri og morðingi – Fórnarlömbin voru meðal annars eiginkonur, synir og dætur sérans

Séra Andras Pandy var ekki allur þar sem hann var séður. Hann naut hylli sem prestur ungverskra mótmælenda í Belgíu, en heima fyrir var hann harðstjóri sem þoldi engum að setja sig upp á móti honum. Þeir sem það gerðu áttu ekki langra lífdaga auðið og skipti engu hver í hlut átti.

 

Séra Andras Pandy hafði ákveðnar skoðanir á því í hverju skyldur sínar sem föður væru fólgnar. Ef einhver í fjölskyldunni setti sig upp á móti á honum molaði hann höfuð viðkomandi með járnröri, hlutaði líkið í sundur og kastaði líkamshlutunum í úrgang hjá nálægu sláturhúsi. Allt sem hægt var að bera kennsl á, til dæmis höfuð, leysti Pandy upp í sýru. Tvær eiginkonur, tveir synir og tvær dætur féllu fyrir banvænni reiði hins harðúðuga prests, en aldrei fannst tangur né tetur af líkamsleifum þeirra.

Heillandi prestur

Andras Pandy fæddist í Ungverjalandi 1927. Hann hóf nám í guðfræði í Sviss tuttugu og níu ára að aldri. Meðan á námi hans stóð kvæntist hann ungverskri flóttakonu, Ilonu Sortes, og eignuðust þau dótturina Agnesi. Þegar hann var þrjátíu og tveggja fluttu þau til Belgíu þar sem Pandy þjónaði samfélagi ungverskra mótmælenda. Þess var ekki langt að bíða að hagur Pandys vænkaðist, hann var heillandi prestur, og varð brátt eigandi þriggja heimila í Brussel. Fjölskyldan stækkaði og 1961 fæddist sonurinn Daníel, og þremur árum síðar annar sonur, Zoltan.

Timea skyldi drepin

Hjónaband Pandys og Ilonu var stormasamt, og þau skildu. Pandy kvæntist að nýju og fyrir valinu varð Edit Fintor. Hún átti þrjár dætur á táningsaldri og Pandy hoppaði upp í rúm hjá einni þeirra, Timeu. Timea varð barnshafandi, og tímabært fyrir Pandy að yfirgefa aðra eiginkonu sína. En Timea átti í vandræðum með sérann. Henni lærðist smám saman að honum líkaði ekki ef einhver fór í bága við óskir hans. Til að fyrirbyggja allan misskilning sagði hún Pandy að halda sig fjarri Mark, ávexti samruna þeirra, og að hún hugðist flytja til annars lands til að þurfa ekki að hafa neitt saman að sælda við barnsföður sinn. Slík áform hugnuðust Pandy engan veginn og lagði hann á ráðin, ásamt Agnesi dóttur sinni, sem nú var fulltíða, um að drepa Timeu. Agnes sat fyrir Timeu og sló hana í höfuðið með járnröri, en fyrir kraftaverk lifði Timea tilræðið af og þegar hún hafði náð sér flúði hún ásamt syni sínum til Kanada. Pandy var ekkert á því að gefast upp, og fóru hann og Agnes nokkrar ferðir til Kanada til að fullkomna verkið. En að lokum urðu fleiri ferðir ekki nauðsynlegar því Timea ákvað að setjast að í Ungverjalandi.

Uppreisnargjörn dóttir barin til dauða

En þætti Edit Fintor var ekki lokið. Hún var bálreið Pandy fyrir að hafa dregið Timeu á tálar með þessum afleiðingum og að hann vildi hana feiga var meira en Edit þoldi. Hún og ein dætra hennar fóru ekki í launkofa með stuðning sinn við Timeu, og þá skoðun sína að Pandy gengi ekki heill til skógar. Þetta var meira en sérann lét bjóða sér, að hans mati var um að ræða hreina og klára uppreisn og það yrði ekki liðið. Í júlílok 1986 barði hann hina uppreisnargjörnu dóttur til dauða á meðan Agnes lét hamar vaða í höfuð Edit. Að morðunum loknum fór Pandy til lögreglunnar og tilkynnti að Edit, eiginkona hans, væri horfin. „Hún hvarf fyrir um mánuði. Allt sem ég hef fengið er bréf frá henni, póstlagt í Þýskalandi, og nokkur símskeyti,“ sagði hann. Eðli málsins samkvæmt bar rannsókn lögreglunnar í Þýskalandi ekki árangur.

Morð á báða bóga

Ilona, fyrsta kona Pandys, var þegar hér var komið sögu orðin honum óþægur ljár í þúfu. Hennar sök var ekki stór, hún hafði látið í ljósi óánægju sína með samband Pandys og Timeu. Með óánægju sinni undirritaði hún eigin dauðadóm. Pandy lét verkið í hendur Agnesar, dóttur Ilonu, og 28. mars 1988 fór Agnes auðsveip heim til móður sinnar og myrti hana. Til að fullkomna áhrifin skaut hún einnig til bana bróður sinn, Daníel, sem þá var tuttugu og sex ára. Pandy lét sitt ekki eftir liggja, því skömmu síðar myrti hann hinn son sinn, Zoltan, sem var orðinn frekar hnýsinn vegna hvarfs móður sinnar og bróður. Reyndar fannst Pandy líka að önnur af sínum ættleiddu dætrum væri orðin helst til sjálfstæð. Hún hafði fengið þá flugu í höfuðið að konur hefðu rétt og ætlaði að flytjast á brott og búa í óvígðu sambandi með einhverjum karlmanni. Það leist Pandy ekki meira en svo á, þannig að hann drap hana.

Bein tuttugu kvenna

Eftir því sem tíminn leið urðu reiðiköst Pandys hinni annars tryggu Agnesi ofviða. Fjórum árum eftir morðin á Ilonu og Daníel fór Agnes til lögreglunnar, ekki síst af ótta við að hún væri næst á lista fórnarlamba hans. „Faðir minn hefur átt í kynferðislegu sambandi við mig. Einnig hafa sex fjölskyldumeðlimir horfið með frekar undarlegum hætti. Faðir minn hefur líka átt í kynferðislegu sambandi við hálfsystur mína,“ sagði hún lögreglunni. En þar sem engin lík var að finna gat lögreglan lítið aðhafst á grundvelli frásagnar Agnesar einnar. En 1997 fór Timea til ungversku lögreglunnar og lagði fram kvartanir. „Agnes reyndi að myrða mig og faðir minn nauðgaði mér,“ sagði hún. 20. október sama ár gerði lögreglan húsleit á öllum heimilum Pandys í Belgíu. Í kjallara eins þeirra fundust mannabein sem steypt hafði verið yfir. Rannsókn leiddi í ljós að þau voru ekki ýkja gömul og tilheyrðu um tuttugu manneskjum. Sjö eða átta þeirra höfðu verið konur á aldrinum fjörutíu til fimmtíu ára. Engin þeirra hafði verið skyld Pandy.

Vægir dómar og engin iðrun

Á öllum heimilum Pandys var að finna fölsk loft og felustaði sem erfitt var að koma auga á og komast að. Á sumum þeirra fundust skotvopn. Einnig fann lögreglan eftirlitsmiðstöðvar sem gerðu Pandy kleift að fylgjast náið með því sem átti sér stað í flestum herbergja heimilisins. Andras Pandy var handtekinn mánuði síðar. Hann neitaði ásökunum um sifjaspell og nauðgun, og sagði að enginn fjölskyldumeðlimur hefði verið myrtur. Þeir sem horfnir voru hefðu einfaldlega tekið sig upp og lent í slagtogi með sértrúarsöfnuði, hann hefði meira að segja heimsótt þá endrum og sinnum. Þá staðreynd að erfðasýni sannaði að hann væri faðir Marks útskýrði hann á þann hátt að Timea hefði fengið sæði hans í sig fyrir slysni því þau hefðu deilt rekkju. Hvað varðaði skotvopnin og mannabeinin, sagði Pandy að hann hefði ekki minnstu hugmynd um hvernig stæði á þeim í hans híbýlum. Andras Pandy fékk lífstíðardóm fyrir sex morð og fyrir að nauðga þremur dætra sinna. Agnes var ákærð fyrir fimm morð og hlaut tuttugu og eins árs dóm. Hún sagðist vera leið vegna alls sen gerst hafði og geðlæknar komust að þeirri niðurstöðu að hún ætti við persónuleikavandamál að stríða, þjáðist af minnimáttarkennd á háu stigi og hafi verið fullkomlega á valdi föður síns. Andras Pandy sýndi enga iðrun, hvorki við réttarhöldin né þegar dómur var kveðinn upp.

Landsréttur þyngdi refsingu í Dubliners-málinu

Í gær þyngdi Landsréttur dómi yfir Fannari Daníel Guðmundssyni í hinu svokallaða Dubliners-máli, úr átta ára fangelsi í tíu ár. RÚV segir frá málinu.

Fannar Daníel var dæmdur fyrir kynferðisbrot, rán, tilraun til manndráps og frelsissviptingu. Var hann handtekinn í mars á síðasta ári eftir að hann mætti á skemmtistaðinn Dubliner í miðbæ Reykjavíkur vopnaður haglabyssu sem hann hleypti úr. Skotið hæfði vegg og særðist enginn en tveir fengu þó aðhlynningu. Flúði Fannar af vettvangi og losaði sig við byssuna en hún fannst skömmu síðar. Sólarhring síðar handtók sérsveitin hann.

Árið 2022 var Fannar einnig dæmdur fyrir kynferðisbrot, frelsissviptingu og rán gegn manni. Ari Ívars, annar gerandi í því máli, var dæmdur fyrir frelsissviptingu, rán og sérstaklega hættulega líkamsárás og nytjastuld í málinu. Þyngdi Landsréttur einnig dómi yfir honum úr tveimur og hálfu ári upp í þrjú ár.

Síðan 14. mars 2023 hefur Fannar setið í gæsluvarðhaldi, sem dregst sá tími frá refsingunni.

Ísraelsher festi særðan Palestínumann við húdd brynvarins bíls – Myndband

Myndskeið frá Jenin á Vesturbakkanum í Palestínu, sýna brynvarinn bíl ísraelska hersins keyra framhjá sjúkrabílum með særðan Palestínumann fastann við húdd bílsins. Svo virðist sem hann hafi verið notaður sem mennskur skjöldur.

„Það virðist ekki vera nein önnur rökrétt skýring á því að binda mann sem er sýnilega slasaður og sárþjáður við vélarhlíf brynvarins farartækis þegar hann fer í gegnum Jenin eftir að hafa setið um að minnsta kosti tvö heimili, leitað inni í þeim og haldið fjölda fólks í haldi,“ sagði Nour Odeh, palestínskur stjórnmálafræðingur og baráttukona, í samtali við Al Jazeera frá Ramallah.

„Þessi átakanlega mynd af jeppanum … er eitthvað sem endurtekur sig á ýmsa vegu á Vesturbakkanum og það er það sem mannréttindasamtök kalla notkun mennskra skjalda. Það hefur verið gert í fjölda skipta.“

Samkvæmt Odeh er verið að meðhöndla tvo slasaða einstaklinga á spítala í Jenin.

DJ Margeir og Karen hætt saman

Margeir og Karen á góðri stundu. Ljósmynd: Instagram-skjáskot

Plötusnúðarnir Margeir Steinar Ingólfsson og Karen Grétarsdóttir Serafini eru hætt saman, samkvæmt Smartlandi á mbl.is.

Parið fyrrverandi fagnaði árs sambandsafmæli um árámótin en nú ástin slokknað.

Dj Margeir er einn vinsælasti plötusnúður landsins sem komið hefur að ýmsum tónlistarveislum á borð við götupartý á Menningarnótt en hann rekur einnig fyrirtækið Hugsmiðjan. Karen er bæði plötusnúður og lögfræðinemi.

 

Doddi litli er ósáttur við auglýsingar um sjókvíeldi: „Ekkert annað en pjúra áróðurs auglýsingar“

Þórður Helgi Ljósmynd: Ruv.is

Þórður Helgi Þórðarson, eða Doddi litli eins og hann er kallaður, er síður en svo sáttur við auglýsingar um fiskeldi í sjó sem nú herja á landsmenn í gegnum sjónvarpsskjáinn um þessar mundir.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hefur sett mikla ímyndarherferð í gang þar sem meintir kostir fiskeldis í sjó eru tíundaðir í sjónvarpsauglýsingum sem sýndar eru á besta tíma, í kringum leiki Evrópumótsins í knattspyrnu. Fiskeldið hefur verið gríðarlega umdeilt en í gær var frumvarp um lagareldi sett í salt fram á haust á þingi, eftir að það mætti mikilli andstöðu stjórnarandstæðunnar sem og úti í samfélaginu.

Útvarpsmaðurinn ástsæli á Rás 2, Doddi litli er einn af þeim sem hneikslast hefur á hinum nýju sjónvarpsauglýsingum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi en hann skrifaði færslu á X-inu (áður Twitter) sem hljóðaði eftirfarandi:

„Af hverju er fiskeldi að auglýsa á em? Breytir maður um skoðun á þessu sulli þegar maður sér íslendinga dásama þetta sport? Ekki er ég að hoppa út í búð og kaupa mér sullandi fínan eldis lax.“

Gunni nokkur svaraði Dodda um hæl:

„Er ekki eðlilegt að vilja auglýsa þar sem áhorf er mikið? Ekkert allir sem tengja en örugglega einhverjir.“

Útvarpsmaðurinn svaraði þessu:

„Hvað eru þeir að auglýsa? Það er spurningin! Ekki nýa sendingu af spruðandi ferskum eldislaxi, þetta er imyndarbull.“

Siggeir nokkur var sammála Dodda:

„Þetta eru ekkert annað en pjúra áróðurs auglýsingar til að reyna að hvítþvo þennan rekstur í augum almennings.“

Sem og Björn:

„Áróðursstríð. Óvinsæl grein að koma sér í mjúkin hjá fólki með því að tengja sjókvíareldið við náttúru og hreinleika.“

Gylfi nokkur benti á áhugaverðan punkt:

„Eftir að hið umdeilda frumvarp um sjókvíaeldið komst í hámæli hefur greinilega verið ákveðið að henda slatta af milljónum í ímyndar herferð fyrir atvinnugreinina. Ætti að segja okkur hversu mikla hagsmuni menn telja sig vera að verja.“

Sömdu rokklag um fáránlegar afsakanir trommarans: „Það þarf að berja hann.“ „Já, bláberja hann!“

Pétur, Halli & Ásgeir

Árið 2005 var tónlistarmaðurinn Guðlaugur Hjaltason staddur í Danmörku ásamt vinum sínum Jóni Magnúsi Sigurðssyni (Chernobil) og Þór Sigurðssyni (Deep Jimi and the Zep Creams), þar sem þeir höfðu stofnað hljómsveitina Tundur. Með dönskum trommuleikara fæddi samvinna þeirra skemmtilega eftirminnilegt lag, Bláberja Tom, innblásið af kómískum lélegum afsökunum trommuleikarans fyrir að hafa misst af æfingum.

„Eitt kvöldið sagði hann okkur að sonur hans væri veikur og hann gæti ekki mætt,“ rifjar Guðlaugur upp. „Við tilfinninga kögglarnir í bandinu sýndum því samúð þar til við komumst að því að sonur hans var 16 ára og var með smá kvef,“ lýsir Guðlaugur með glott á vör.

Þessar áframhaldandi afsakanir urðu að hlaupandi brandari innan hljómsveitarinnar. Á einni æfingu þar sem trommuleikarinn lét ekki sjá sig sagði Guðlaugur gamansamur: „Það þarf að berja hann.“ „Já, bláberja hann!“ Hrópaði Þór þá og þannig fæddist Bláberja Tom.

Guðlaugur fór heim um kvöldið með Bláberja Tom fast í huganum og endaði á því að semja lag um trommuleikarann. Hann kom með það aftur til hljómsveitarinnar og saman tóku þeir það upp í hljóðveri T.C Electronic. „Ég verð að viðurkenna að ég sagði Tom aldrei um hvað lagið væri og við elskuðum að hafa þennan kjánalega litla húmor til að hlæja að í hvert skipti sem Tom byrjaði að syngja lagið með okkur,“ segir Guðlaugur.

Pétur, Halli & Ásgeir

Nú, 19 árum síðar, er Bláberja Tom loksins að líta dagsins ljós, endurupptaka með nokkrum af bestu tónlistamönnum Íslands. Harald Þorsteinsson, með bestu bassa leikurum landsins og traustur vinur Guðlaugs, bætir sérþekkingu sinni við lagið. Ásgeir Óskarsson, með fremstu trommuleikurum landsins, kemur með hæfileika sína og snilli en Pétur Hjaltested, sem sér um hljómborð og upptökustjórn, fullkomnar sveitina.

Lagið er gefið út af Lýðskrum, sem hefur tekið tónlistarsenuna með stormi árin 2023 og 2024 með lögunum „Dagskrá,“ „Fjandinn laus“ og „Verðbólguvandinn“ sem öll hafa sinn einstaka hljóm og kraftmikinn texta.

Guðlaugur Hjaltason, sem spilaði á gítar, söng og samdi lagið, veltir fyrir sér gleðinni í kringum „Bláberja Tom“: „Enginn slasaðist við gerð þessa lags og enginn trommari var barinn.“

Mynd: Guðlaugur Hjaltason – Ljósmyndari: Maggi Gnúsari

„Bláberja Tom“ stendur sem vitnisburður um húmor og sköpunargáfu Tundurs, umbreytir fáránlegum afsökunum trommara í ástsælan rokksöng. Hlusta má á lagið á Spotify.

 

Vopni beitt í alvarlegri líkamsárás í gærkvöldi – Hópslagsmál í miðborginni

Lögreglan að störfum. Mynd: Lára Garðarsdóttir

Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru æði mörg í gærkvöldi og í nótt en alls voru 104 mál skráð frá 17:00 til 05:00. Sex voru vistaðir í fangageymslu lögreglunnar.

Klukkan 00:43 barst tilkynning um búðarþjóf í miðbænum en þjófurinn réðist á öryggisverði í versluninni þegar hann var að staðinn að verki. Lögreglan var send á staðinn.

Upp úr eitt í nótt var svo tilkynnt um innbrot á veitingastað í miðborginni en gluggi hafði verið spenntur upp og einhverjum fjármunum stolið. Ríflega klukkutíma síðar var brotist inn á annan veitingastað í miðbænum en málið er í rannsókn.

Um klukkan þrjú í nótt barst tilkynning um hópslagsmál í miðbænum og voru fjórir aðilar grunaðir um líkamsárás í þeim slagsmálum. Lögreglan telur sig hafa upplýsingar um alla þá sem stóðu að áflögunum og mun taka skýrslu af þeim síðar.

Kortér í fjögur var bílaþjófur handtekinn en kauðinn sat í stolinni bifreið þegar lögreglan hafði af honum afskipti. Gat hann ekki gefið nein svör um hvers vegna hann væri staddur í stolnum bíl og var því handtekinn á staðnum.

Hálf fimm í morgun barst tilkynning um innbort í heimahús þar sem reiðhjóli var stolið. Lögreglan fann þrjótinn skammt frá og handtók hann og vistaði hann í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.

Lögreglunni sem sér um Kópavoginn og Breiðholtið barst tilkynning klukkan 22:33 í gærkvöldi um alvarlega líkamsárás, þar sem sagt var að vopni hafi verið beitt. Vegna málsins var lögreglan með mikinn viðbúnað og var gerandinn handtekinn skammt frá vettvangi og miðar rannsókn málsins vel.

Sara Lind á lausu

Halla Hrund Logadóttir. Mynd: Skjáskot af RÚV.

Allt er að falla í sömu skorður hjá frambjóðendum í forsetakosningum. Þeir sem urðu undir hafa flestir snúið til fyrra lífs en sigurvegarinn, Halla Tómasdóttir, undirbýr að taka við embætti í byrjun ágúst. Nafna hennar, Halla Hrund Logadóttir, mætti þann 1. júní til að halda áfram starfi sínu sem orkumálstjóri. Hermt er að allir starfsmenn hafi fagnað leiðtoga sínum. Afleysingamaður Höllu, Sara Lind Guðbergsdóttir, hvarf á braut þegar í stað. Sara Lind hefur undanfarin ár verið í vinnu hjá ríkinu án þess að störf hennar hafi verið auglýst. Þannig varð hún framkvæmdastjóri Ríkiskaupa og var starf hennar ítrekað framlengt af fjármálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins.

Á starfstíma sínum hjá Ríkiskaupum vakti hún helst athygli fyrir að vilja taka á því að ríkisstarfsmenn fengju vildarpunkta án þess að greiða af þeim skatta. Ríkiskaup voru lögð niður og Sara Lind er á lausu eftir að orkumálastjóri sneri aftur. Vonast er til þess að Sjálfstæðisflokkurinn finni henni starf við hæfi …

Árni Johnsen bjargaði fjórum börnum frá drukknun: „Aldrei hlotið viðurkenningu fyrir afrek sín“

|
Vestamannaeyjar - myndin tengist fréttinni ekki beint - Mynd: vestmannaeyjar.is

Árni J. Johnsen, afi hins þekkta blaða- og alþinigismanns, Árna Johnsen, var sannkölluð hetja. Ekki bjargaði hann einu barni frá drukknun í Vestmannaeyjum, heldur fjórum, yfir nokkurra ára tímabil. Alls bjargaði hann átta manns frá drukknun um ævina.

Bæjarblaðið Þór, Vestmanneyjum skrifaði um afrek Árna og var hneikslast á því að maðurinn hafi aldrei fengið nokkra viðurkenningu fyrir lífsbjargirnar. Í blaðinu er sagt frá því að barn hafi fallið í sjóinn, 25. september árið 1924 og að Árni J. hafi gert sér lítið fyrir og kastað sér á eftir barninu og bjargað því frá drukknun. Segir að þetta hafi verið í fjórða skiptið sem Árni bjargaði börnum frá drukknun. Alls bjargaði Árni átta mönnum frá drukknun á ævinni en hann lést árið 1963.

Hér má lesa skrifin í Þór frá árinu 1924, í óbreyttri mynd:

Vel gert. 25. þ. m, fjell barn í sjóinn af bæjarbryggjunni. Nærstaddur var þar Árni J. Johnsen kastaði sjer á eftir barninu og bjargaði því frá druknun. þetta er fjórða skiftið sem Árni J. Johnsen bjargar börnum á þennan hátt. 1913 6. janúar bjargaði hann barni Sveins Scheving, 1. júní 1915 bjargaði hann barni Antoníusar Baldvinssonar og öðru barni sama manns 21. júní 1919. Aldrei hefir Árni hlotið opinbera viðurkenningu fyrir þessi afrek sin og er það hneyksli, því hvar sem verið hefði annars staðar hefði maðurinn verið búinn að fá opinberlega viðurkenningu stjórnarvaldanna og jafnvel verðlaun úr Carnegie-sjóðnum. Hr. Árni J. Johnsen sækir nú um hafnarvarðarstöðuna og væri það ekki nema makleg viðurkenning frá bæjarins hendl, að honum yrði veitt staðan.

Nektarjóga kynnt á Íslandi: „Tæklum þetta með nærgætni og fagmennsku í fyrirrúmi“

Glæný tegund af jóga, að minnsta kosti hér á landi, verður kennd á næstunni en það er svokallað nektarjóga.

Í dag er Alþjóðlegi jógadagurinn og því ekki úr vegi að segja frá tegund jógakennslu sem ekki hefur verið áður kennd hér á landi. Um er að ræða nektarjóga en það eru nokkrir jógakennarar sem stofnuðu verkefnið Naked Yoga Reykjavík, sem standa fyrir þessari nýstárlegu jógakennslu.

Mannlíf ræddi við Svetlönu Álfheiði Malyutinu, sem er einn af stofnendum verkefnisins Naked Yoga Reykjavík, og forvitaðist um þessa tegund jóga.

Svetlana Álfheiður Malyutina

Af hverju nektarjóga?

Svetlana: „Af því að okkur finnst það algjörlega fráleitt að nútímafólk skammist sín fyrir sinn eigin líkama og reynir stöðugt að breyta útliti sínu eða lögun, á kostnað geðheilsunnar – bara af því að einhver sniðug auglýsing eða áhrifavaldur á TikTok segir að líkaminn okkar er ekki nógu góður eins og hann er.

Við trúum því líka að ef maður er sáttur við sjálfan sig, ber virðingu fyrir líkama sínum og líður vel í honum þá mun hann hafa sömu viðhorf til fólks í kringum sig og mun ef til vill síður fara illa með, til dæmis tilfinningar eða líkama annarra. Svo þegar allt kemur til alls þá er tilgangur með þessu verkefni að sjá meiri kærleik og minna ofbeldi í heiminum.“

Hvernig datt ykkur þetta í hug?

Svetlana: „Þetta byrjaði í raun út frá því að ég fór að stúdera jógíska heimspeki sem hvetur mann til að berhátta huga sinn, horfa fram hjá sögunum sem maður trúir um sjálfan sig og afhjúpa sitt innra eðli. Þegar maður sekkur sig í þetta og beitir jógaaðferðum í hversdagslífinu þá finnst manni oft skrýtið að sjá hið tvöfalda siðgæði í samfélaginu. Allir eru sammála um að hver og einn eigi að vera alveg frjáls – að tjá sig, að hafa skoðanir, að lifa eins og hann vill, svo lengi sem hann takmarkar ekki frelsi annarra, en þegar kemur að manni sjálfum þá vill helst enginn skera sig úr. En til hvers að hafa skoðanir ef maður lifir ekki samkvæmt þeim sjálfur?“

Svetlana bætti við:

„Við erum reyndir jógakennarar og náttúrubörn og við tókum eftir því að klæðalaus jógaiðkun hefur talsvert dýpri áhrif, eykur vellíðan og styrkir tengingu manns við eigin líkama. Þannig að við ákváðum að blása lífi í myndlíkinguna og bjóða upp á jógaæfingar þar sem fólk berar sig bæði bókstaflegan og á myndrænan hátt.“

Hvað nákvæmlega er nektarjóga?

Svetlana: „Klæðalaus iðkun (nagna yoga) þekkist frá fornum tíma sem partur af meinlætalifnaði hjá þeim sem fylgdu jógískri hugmyndafræði þegar jóga var ekki nema ein af stefnum fornrar heimspeki. Í stórum dráttum snýst jóga um það að tengjast sínu ekta eðli og losa sig við blekkingar hugans. Ein af aðferðum til að komast undan truflandi áhrifum reynsluheims er hófsemi eða aðhald (austerity). Í andlegum skilningi þýðir það að skilja við allar utanaðkomandi hugmyndir sem hindra beina skynjun en í efnislegum að losa sig við allar eignir sem eru ekki bráðnauðsynlegar – að fötunum meðtöldum.“

Eru æfingarnar kynferðislegar?

Svetlana: „Alls ekki. Þetta er einstaklingsmiðuð jógaiðkun ætluð þeim sem vilja bæta samband sitt við líkama sinn, byggja upp jákvæða líkamsímynd og vinna úr áföllum sem höfðu áhrif á samband líkamans og hugans. Þess vegna höldum við stemningunni eins hlutlausri og hægt er og bjóðum fólki að víkka sjóndeildarhringinn sinn, endurskilgreina hugmynd sína um nekt og upplifa nekt á mjög persónulegan en ekki kynferðislegan hátt. Við höfum mjög strangar þátttökureglur sem allir verða að samþykkja áður en þeir mæta í tímana til okkar, til að forðast allan misskilning um hvað nektarjóga snýst um.“

 

Hvað ætlið þið að bjóða upp á?

Svetlana: „Fyrst og fremst ætlum við að bjóða upp á venjulega klæðalausa jógatíma (kynjaskipta og blandaða) í stúdíóum í bænum, netttíma og einkatíma fyrir þá sem þora ekki að æfa í hóp strax. Fyrir þá sem vilja vita meira um heimspekina á bak við nektarjóga áður en þeir fækka klæðum, höldum við sérstakar vinnustofur sem skiptast í kynningu, umræðu og stuttan klæðalausan prufutíma, fyrir þá sem þora. Svo er annar stór partur af verkefninu okkar núna í sumar að bjóða upp á náttúruferðir fyrir litla hópa þar sem æft er úti, ef veður leyfir.

Til að gera iðkunina eins vandaða og hægt er og auka uppbyggjandi áhrif hennar til lengri tíma, erum við líka að bjóða upp á ýmsar aðrar líkamlegar og andlegar upplifanir eins og hugleiðslu, öndunaræfingar, kakó athöfn, sauna, nudd og hljóðheilun.“

Af hverju myndi maður vilja prófa þetta?

Svetlana: „Klæðalausar jógaæfingar geta haft víðtæk jákvæð áhrif bæði á andlega og líkamlega líðan og farið með samband líkamans og hugans í nýjar hæðir. Í þessum tímum ertu laus við takmarkandi klæði og tilbúin(n/ð) að upplifa algjört hreyfifrelsi og kynnast líkama þínum á nýjan hátt. Með því að æfa í hóp og anda í gegnum óttann, losar þú þig einnig við takmarkandi hugmyndir um útlitið þitt og annarra sem og neikvæða sjálfsgagnrýni. Með tímanum munt þú finna fyrir dýpri tengingu við sjálfan þig, verða hamingjusamari og öðlast innri ró og sátt.

Ef þú vilt bæta sjálfstraustið eða leitar að sátt við sjálfa(n/t) þig, ef þú vilt vera laus(t) við líkamsskömm og niðurrífandi sjálfstal, ef þú vilt bæta geðheilsu þína samhliða líkamlegri heilsu og þú ert tilbúin(n/ð) til að mæta sjálfum þér alveg berskjölduðum, í þágu geðheilsunnar og innri hamingju – þá eru nektarjógatímarnir kannski eitthvað sem þú ættir að prófa.“

 

Eruð þið ekki hrædd við gagnrýni? Nekt er frekar viðkvæmt efni.

Svetlana: „Nei! Við erum tilbúin til að sæta gagnrýni! Verkefnið okkar byggist á mjög sterkum hugmyndalegum grunni sem vegur á móti þeim gömlum úreltu hugmyndum sem gagnrýnendur okkar munu væntanlega sækja rökin sín í og sem okkur dreymir um að breyta. 

Okkur finnst mikils virði að opna þessa umræðu og breyta viðhorfi samfélags til mannlegs líkama og nektar.

Þetta er vissulega viðkvæmt efni og þess vegna höfum við vandað okkur mjög vel. Ég fékk hugmyndina fyrir meira en ári síðan en síðan þá höfum við legið yfir henni í marga mánuði. Við höfðum jafnvel heyrt í bandarískum félögum okkar sem eru að kenna nektarjóga í New York og Boston, til að fá ráðgjöf um hvernig er best að hátta málum – en nektarjóga þekkst miklu meira þar. Svo við tæklum þetta krefjandi verkefni með mikilli nærgætni og fagmennsku í fyrirrúmi.“

 

Einhver lokaorð?

Svetlana: „Við viljum hvetja alla, hvort sem þau hafa æft jóga eða ekki, að æfa sjálfsskoðun, að lifa lífi sínu með fullri eftirtekt og í sátt við sjálfa sig og vinna að andlegu og líkamlegu jafnvægi. Það mun ýta okkur, djúpþenkjandi mannverunum í átt að sameiningu í stað aðskilnaðar, bæta samskipti fólks á milli og stuðla að hollara samfélagi – hér á landi og út um allan heim. 

Það er stóri draumurinn. En við erum alveg sátt við að byrja smátt, til þess að sjá hann rætast. Við erum spennt að sjá hvern og einn nemanda á dýnunni hjá okkur og erum tilbúin til að hjálpa þér að taka fyrstu skrefin og kynnast sjálfum þér á nýjan hátt.

Við ætlum að hafa opna kynningu um verkefnið okkar næsta fimmtudag kl. 16:00 á Loft Hostel – komdu endilega, þú getur kynnst okkur kennurunum, spurt okkur spurninga og nýtt þér gott byrjenda tilboð í tímana okkar í leiðinni – ef þú þorir að byrja að lifa eftir eigin sannfæringu. Athugið, kynningin fer fram í fötum.“

Hér má svo sjá kynningarmyndband:

Steinunn og Egill innsigluðu sambandið á siglingu: „Ákváðum að nú væri tími til að byrja saman“

Steinunn Einarsdóttir

Steinunn Einarsdóttir er nýjasti gestur Reynis Traustasonar í hlaðvarpsþættinum Sjóarinn. Steinunn var sjómaður um árabil á báti foreldra sinna.

Steinunn hætti á sjó eftir að hún eignaðist seinni son sin, árið 2015, eftir að hafa verið á sjó í 12 ár. Hún segir Reyni frá því hvernig hún og eiginmaður hennar, skipstjórinn Egill Ólafsson, innsigluðu samband sitt.

„Hann er skipstjóramenntaður og var alltaf á sjó,“ segir Steinunn og er að tala um eiginmann sinn. „Okkar saga eiginlega hefst svolítið þannig, þegar ég sigldi með honum út súgandaförðinn, þegar við byrjuðum saman,“ hélt Steinunn áfram og hló.

Reynir, uppveðraður: „Bíddu, varst þá á sjó með honum, sem háseti?“

Steinunn: „Nei, þá var ég bara að fara með honum, fékk far og við ákváðum að nú væri tími til að byrja saman. Og við siglum yfir á Patró.“

Reynir rómantískur: „Þannig að ástin kviknaði á firðinum?“

Steinunn hlæjandi: „Já, eða skrefið var allavega tekið.“

Hægt er að hlusta á allt viðtalið hér.

Sænsk Jónsmessuhátíð á Árbæjarsafni á sunnudaginn: „Ég finn fyrir miklum stuðningi“

Á sunnudaginn 23. júní verður boðið upp á Jónsmessufagnað að hætti Svía á Árbæjarsafninu.

Þær Anneli Schöldström og Rebecku Karlsson, skipuleggja sænskan Jónsmessufagnað í samstarfi við Árbæjarsafn, Þjóðdansafélags Reykjavíkur, Cornelis Vreeswijk-félagið og Sænska félagið á Íslandi, sunnudaginn 23. júní.

Í viðburðalýsingu á skemmtuninni á Facebook segir eftirfarandi:

„Komdu og fagnaðu „svensk midsommar“/ Jónsmessu með okkur! Í samstarfi við Árbæjarsafn og Þjóðdansafélag Reykjavíkur efnum við til fjölskylduhátíðar með miðsumarsþema! Fyrir ykkur sem viljið hjálpa til við að skreyta stöngina byrjum við kl. 11 og miðsumarstöngin verður reist klukkan 12.

Hátíðin hefst kl. 13, á dagskrá eru þjóðtónlist og þjóðdansar samanber hefðbundnir sænskir hringdansar þar sem við syngjum Små Grodorna og fleira. Við skipuleggjum fimm-þrautaleik og í safnhúsinu Lækjargata er sýningin „Midsommar för Dummies“. Einnig verður hægt að búa til sinn eiginn miðsumarkrans.

Frítt inn fyrir öll þau sem koma í þjóðbúning og svo er að sjálfsögðu frítt fyrir börn að 17 ára aldri. Engin forskráning er nauðsynleg.“

Til viðbótar við þetta má taka fram að á efnisskránni eru líka sænsk lög með áherslu á sænska þjóðskáldið Cornelis Vreeswijk.

Mannlíf rætti stuttlega við Anneli Schöldström, eins af skipuleggjendum fagnaðarins en hún segir Jónsmessufögnuðinn vera stærstu hátíð Svíþjóðar.

„Sem upphafsmaður Jónsmessuhátíðar á Árbæjarsafni er það mikið heiðursverkefni að stýra þjóðdönsunum með bæði Íslendingum og Svíum,“ segir Anneli og heldur áfram: „Að löndin okkar tvö geti hist í gleði með dansi og söng á hefðbundinni sænskri miðsumarhátíð með íslenskum dönsurum og dönsum er frábært!“

Að lokum þakkar hún samstarfið: „Samstarfið við Árbæjarsafn, Þjóðdansafélag Reykjavíkur og Sænska félagið á Íslandi hefur verið uppbyggilegt og spennandi. Ég finn fyrir miklum stuðningi frá þessum þremur samstarfsaðilum!“

Rebecka Karlsson og Anneli Schöldström í hefðbundnum sænskum þjóðbúningum.

 

Dagur svarar Hildi fullum fetum: „Ég vinn frítt sem formaður borgarráðs á biðlaunatímanum“

Dagur B. Eggertsson og Hildur Björnsdóttir,

Dagur B. Eggertsson skýtur föstum skotum á Sjálfstæðisflokkinn í borginni í nýrri Facebook-færslu.

Morgunblaðið gerði frétt í morgun þar sem fram kemur að borgastjóraskiptin í upphafi árs, hafi kostað borgarsjóð 25 milljónir króna. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, sagðist ætla að krefjast frekari útskýringa á málinu:

„Ef í ljós kem­ur að Dag­ur hef­ur fengið full borg­ar­stjóra­laun greidd, ofan á laun for­manns borg­ar­ráðs, lít ég það mjög al­var­leg­um aug­um. Ekki síst þar sem málið kom aldrei til kynn­ing­ar í borg­ar­ráði og var laumað gegn­um borg­ar­stjórn í gagnapakka sem ekki var sér­stak­lega til umræðu né kynn­ing­ar.“ Þetta sagði Hildur í samtali við mbl.is.

Þessu svarar Dagur B. í færslu á Facebook og segir það óþarfa að gefa í skyn að hann sé á tvöföldum launum. Í raun sé hann að vinna frítt sem formaður borgarráðs á biðlaunatímanum. Notar hann svo tækifærið og skýtur bylmingsfast á Sjálfstæðisflokkinn. Hér má sjá færslu borgarstjórans fyrrverandi:

„Alveg finnst mér einstakur óþarfi af Hildi Björnsdóttur og Mogganum að gefa til kynna að ég sé á tvöföldum launum þann tíma sem ég er á biðlaunum sem borgarstjóri. Það er í raun réttara að segja að ég vinni frítt sem formaður borgarráðs á biðlaunatímanum, sem er bara hið besta mál. Fyrir nú utan hvað mörg biðlaun hafa sparast með því að skipta ekki sífellt um borgarstjóra þau tíu ár sem ég var í embætti…“

17. júní hátíðarræða á Ísafirði

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Í dag á íslenska lýðveldið afmæli. 80 ára. Stórafmæli. Miklu merkilegra afmæli en 81, hvað þá 77. Í dag hefði einnig 500 kallinn Jón Sigurðsson, fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð árið 1811, orðið hvorki meira né minna en 213 ára gamall. Tíminn líður hratt. Það var bara í gær að húsið hér fyrir aftan mig (Safnahúsið á Ísafirði) bauð nýja Ísfirðinga velkomna í heiminn og í fyrradag sem séra Jón Magnússon þumlungur vildi ólmur láta varpa Jónum og Þuríði á bál fyrir galdra. Ekki virðist heldur svo langt síðan Þorbjörn og menn hans drápu nafna minn Ólaf, son Hávarðs Ísfirðings. 

Þannig týnist tíminn og kann og að framkalla þá tilfinningu að maður hafi upplifað flest og að litlu sé hægt að breyta, að hlutirnir séu meitlaðir í stein, orðnir að eðlislögmáli og að maður sé áhorfandi fremur en þátttakandi.

En þrátt fyrir að tíminn líði á ógnarhraða og flest verði forgengileikanum að bráð eins og sjá má ykkur hér á hægri hönd (kirkjugarður), þá eru okkur náttúrlega afrek sveitunga óþekktrar konu, þess hins sama og „sigldi til Hafnar að nema þar einhver fræði“, í fersku minni. Og í hátíðarræðu sem þessari ber 

ræðurápara að minnast á téðan Jón forseta Sigurðsson í það minnsta sjö sinnum, á Íslands sóma, sverð og skjöld, mann sem við ræðum á helgum þegar vér gluggum í Hugvekju hans til Íslendinga frá byltingarárinu mikla 1848 og miklumst yfir þeirri óvéfengjanlegu staðreynd að hann hafi verið Vestfirðingur, enda ól hann manninn á Vestfjörðum í heil 17 ár, og því megi að sjálfsögðu þakka Vestfirðingum öðrum fremur fyrir sjálfstæði landsins, fyrir lýðveldið, fyrir kandíflossið, hoppu-kastalana, karamelluregnið og sölutjöldin.

Vissulega kann hér að vera um smávægilega einföldun að ræða, um túlkunaratriði, eða spurningu um tilfinningu. Annar vestfirskur forseti, Túngötuforsetinn, bjó hér umtalsvert skemur en spyrðir sig samt einarðlega við Vestfirði eins og reyndar fyrrum stéttbróðir hans á sviði stjórnmálanna og sérlegur forvígismaður hins vestfirska einhljóðaframburðar. Má því einnig þakka Vestfjörðum og Vestfirðingum veru Íslands í ESB, sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna svo og andstöðuna við ICESave. 

Verðum við ekki að sjá í gegnum fingur okkar með smá einfaldanir?  Í hátíðarræðum þarf ekki að fara ofan í kjölinn á hvorki einu né neinu. Þar eru hólar hrikaleg fjöll og skítalækir stórfljót, vatnið hreinast, fólkið „bezt“, menningin mögnuðust. Við tölum um okkur og það sem er okkar, við sláum okkur á brjóst og spyrðum okkur við víkinga og boltasparkara og hundsum þá staðreynd að víkingar voru vart til staðar á Fróni auk þess sem þeir voru misyndismenn sem áttu það til að ræna, rupla og ríða án samþykkis, ásamt því að myrða mann og annan. Maður er nú ekkert að pæla í slíku í hátíðarræðu. 

Í hátíðarræðu er allt umvafið bjartsýni og við alltaf, ávallt, ætíð og áreiðanlega að gera betur en í gær og gott betra; við elskum náungann, tökum flóttafólki fagnandi; drekkum freyðivín með fjölbreytileikanum við undirspil níundu sinfóníu Beethoovens; sólin er allsráðandi og baðar geislum sínum á öll Guðs börn á meðan stormurinn stælir þjóðarlíkamann og mannsandann. 

Og nú skal vitna í þjóðskáld. Þjóðskáld sem má alveg titla Vestfirðing, þótt hann hafi litið dagsins ljós einhvers staðar fyrir norðan á 19. öld. 

Ég elska þig stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir, um leið og þú þýtur.

Já, veðrið, náttúran og allt það „stöff“ mótar og stælir vora lund, gerir oss að því sem við erum. Það fyrirfinnast allavega sjaldnast hlandbrunnin „braggabörn í barnavagni“ í hátíðarræðum og því síður engisprettufaraldur; mannkynið „það elskar frið og hatar Rudolf Hess og „þorpin eru að hjarna við“ sem „eilífðar smáblóm“ og „óréttlæti mótmælum vér allir“.

Við sammælumst í andakt um allskonar ágæti og menningarhnoss, við bendum á íslenskan sagnaarf, þrautseigju undangenginna kynslóða, stærum okkar af tungunni, sem er ekki síður einkennismerki íslenskrar þjóðar en alþýðu-vagg og veltu-hljómsveitarinnar engilsaxnesku The Rolling Stones. Og ekki erum við allskostar laus við voðalega saklausan, sárameinlausan, lítilsháttar 17. júní 

þjóðernisbelging. Já, tunga vor hefir þjónað íslenskri þjóð frá örófi alda í fallegum fjallasal undir heiðbláum himni hvar fegurðin ein ríkir.

EN! Nú ber að víkja málinu að stöðluðu atriði allra hátíðarræðna. Það er viðtekin venja að leiða talið að áskornum, að þrátt fyrir almenna velsældarvímu sé víða pottur brotinn, að sumir hafi ekki efni á nýjum síma eða áskrift að Stöð 2, að fitusmánun feitustu þjóðar Evrópu sé óbærileg; að vinna verði meinbug á loftmengun bílalýðveldisins; að fordómar grasseri innan fornbílaklúbba; að hvítir miðaldra karlpungar séu svo illa haldnir af forréttinda blindu að Jesús fái ekki rönd við reist. Svo er það kynlega málið, trans, BDSM og hvaðeina. Ekki hefði nú Jón okkar Sigurðsson þurft ekki að „díla“ við viðlíka mál og hafði hann nú ærinn starfa samt. 

Það er um auðugan garð að gresja, nóg af áskorunum til að bragðbæta svona ræðu umhugsandi smekkbæti mitt í gleðiærslum ísfirskra ungmenna. Verkefni það sem hér verður fært í tal ætti ekki að koma á óvart og liggur máske algerlega í augum „úti“ hvað suma viðstadda áhrærir.

Our great language, our nations pride and joy: Icelandic

Vitanlega er síð-sígilt að lýsa yfir áhyggjum yfir stöðu íslenskunnar, að klifa á því að nú megi ekki sitja við orðin tóm, að málið sé vort dýrasta djásn, ástæða sjálfstæðis okkar, það sem aðgreindi okkur frá Dönum, skilgreindi og skilgreinir okkur sem þjóð, er okkar aðgangur að nið og aldanna svo og kastalar og dómkirkjur landsins. Íslenskan er aðgangur vor að hugsun forfeðranna. 

Já, og svo mærir maður bókmenntirnar og orðsins fólk, rithöfundana og allt það slekt. Og væri maður pólitíkus myndi maður næsta víst lofa endalausu fjármagni til að kippa þessu og öllu öðru mögulegu og ómögulegu í liðinn og láta svo mynda sig í gríð og erg með réttum aðilum að ræðu lokinni. 

Ástand tungunnar er mega „tough“! Ástand hvar hrútspungar rata trauðla á trant lengur og fólk rappar fremur en fer með rímur og styttir sér fremur stundir með Netflix en Íslendinga sögunum, Biblíunni eða Kiljan að ekki sé talað um Guðmund Hagalín, Njörð P. Njarðvík, Eyvind P. Eiríksson, Rúnar Helga, Jón Thoroddsen og fleiri af því sauðahúsi. Ungmenni eru því sem næst ólæs eftir 10 ára grunnskólagöngu og eiga í mestu erfiðleikum með að skilja íslensku liðins tíma og eru svo, að eigin mati, klárari á ensku en móðurmálið að maður tali nú ekki um ef hluteigandi aðili hefir annað móðurmál en íslensku, börnin okkar klæmast ótt og títt á engilsaxnesku, eru föst í viðjum tik-tok á meðan þeir sem líkamlega ekki teljast til barna eða ungmenna eru njörvaðir niður í hlekki Flettismettisins. 

-skjárinn er ópíum fólksins-

Viðtengingarhátturinn er að deyja, þjónusta kaffihúsa, veitingahúsa, spítala fer fram á ensku, allra handa skilti eru einvörðungu á ensku, enskan er sett ofar íslenskunni á skiltum, afþreyingin er á ensku, samfélagsmiðlarnir á ensku, draumarnir eru á ensku, gott ef lóan er bara ekki byrjuð að syngja sínar vorvísur á ensku. Tæknibyltingar, búsetubyltingar og hugarfarsbyltingar sækja að íslenskunni.

Þið þekkið þennan barlómssöng, ekki satt?

Og svo bara allt í einu og óforvarandis gerist það að fjöldi fólks með erlent ríkisfang rýkur upp úr 1,8%, ESB-árið 1994, upp í hartnær 20% anno domini 2024 og samhliða því eykst, eins og gefur að skilja, herskari þeirra sem eigi hafa íslensku að móðurmáli og umtalsverður hluti þeirra kann jafnvel ekki stafkróf fyrir sér í íslensku og hefir ekki hugmynd um hver Jón Sigurðsson var eða hvaða hlutverki hann gegndi í sjálfstæðisbaráttu íslenskrar þjóðar og þaðan af síður hverjir Fjölnismenn, Baldvin Einarsson eða Ásgeir Ásgeirsson voru. Eitthvað sem … allir Íslendingar þekkja auðvitað eins og hnakkasvip ömmu sinnar við eldavélina.

Já, tilfinnanlegar breytingar hafa sannlega átt sér stað. Og sama hve sterk þráin eftir þeim tíma „er hetjur riðu um héruð“ kann að vera er leiðin til baka ófær. Sama hversu afturhaldssamar þið kunnið að vera þá er sá tími liðin er hér bjó einungis fólk á borð við: Jón Sigurðsson og Ingibjörgu Einarsdóttur, fólk næpuhvítt á hörund, bláeygt, ljóshært og stælt með kjarnyrta íslensku á vör allan liðlangan daginn, mælandi ódauðleg gullkorn af jafnmiklum krafti og hrímhvítt jökulfljót. 

Ísland, farsældarfrón

Og hagsælda, hrimhvíta móðir!

Hvar er þín fornaldarfrægð,

frelsið og manndáðin bezt?

Við endurheimtum ekki liðna tíð enda hlýtur og slíkt að bera vott um hugmyndarfæð. Nei, við verðum að „díla“ við nýjan veruleika og hluti þess er að leiða hugann að því hvort við viljum að íslenska verði áfram ríkjandi mál á 

Íslandi, að íslenska verði málið sem sameinar, sem veitir aðgang að sögu lands og þjóðar ásamt því að búa til nýja og sameiginlega. Og ef svarið við þeirri spurningu er jákvætt verðum við að leiða hugann að því hvernig við viljum standa að því, hvernig við viljum miðla málinu, hvernig við viljum styrkja það í sessi og ekki síst svara þeirri spurningu af hverju svo ætti að vera. Er það vegna þess að málið varðveitir menningarlega samfellu landsins? Er það vegna þess að málið er verðmæti í sjálfu sér? Eða er það vegna þess að málið er það sem sameinar, skapar öllum þeim sem hafa það ágætlega á valdi sínu aukin tækifæri? Málum er nefnilega enn svo háttað að flest allt sem hér máli skiptir fer fram á íslensku: leikskólinn, grunnskólinn, framhaldsskólinn og helstu stofnanir brúka íslensku. Ætli maður sér frama er það auðveldara með íslensku á sínu valdi, íslenskan veitir hlutdeild og hvort sem okkur líkar betur eða verr brúar enskan ekki bilið, því tíð og sjálfsögð notkun ensku býr til aðgreiningu þegar til kastanna kemur. 

Aðgreiningu á milli þeirra sem tala og skilja íslensku og þeirra sem tala hana ekki og skilja hana ekki. 

Og þá er ekki einu sinni horft til þeirra sem hafa hvorugt málið, hvorki ensku né íslensku, almennilega á valdi sínu. Við skulum bara orða þetta sem svo að það sé oft og tíðum misskilin kurteisi að ætla að allt sé auðveldara með ensku þegar átt er í samskiptum við þá sem vilja setjast hér að til lengri eða skemmri tíma, burtséð frá þeim skilaboðum sem það sendir: að íslenskan sé óþörf sem sannlega ekki er raunin … 

Við tölum jú ensku við túrhesta, erum við því ekki að koma fram við fólk sem hér býr eins og túrista með því að tala við það á ensku? 

Og ef til vill kann að vera að við sem samfélag „fungerum“ enn best með íslensku að vopni, með íslenskuna sem sameiningarafl, ekkert ósvipuð nálgun Jóns okkar Sigurðssonar. Hans helsta vopn í baráttunni fyrir sjálfstæði Íslands var jú, tungan og menningararfleifðin. 

Eitt er allavega kristaltært! Íslenska lærist ekki sé enska ætíð notuð, íslenska lærist ekki sé henni ekki haldið að fólki, íslenska lærist ekki geri samfélagið ekki kröfu um að málið sé notað, íslenska lærist ekki búi samfélagið ekki til góðan grundvöll fyrir íslenskunám og máltileinkun og taki þátt í ferlinu, með bros á vör. Íslenskan lærist best sé fólki veitt tækifæri til að nota hana með allslags hreim og hugsanlega misgóðri málfræði. Það þarf að gera mistök til að geta lært af þeim. Og við, sem höfum íslensku að móðurmáli, getum verið þátttakendur í þessu ferli ekki bara áhorfendur. Kannski er það meira að segja skylda okkar að taka þátt.

Jæja, nú er tími til kominn að ljúka þessu raupi og gaspri. Hér hefir verið farið út og suður í sjálfshælni þess sem telur sig hafa málið, íslenska tungu, sómasamlega á valdi sínu. Endum þetta yfirlætistal á smá áeggjan, á fleygum orðum. Það er klassík þegar kemur að hátíðarræðum. 

Við sammælumst, allavega 17. júní, um ágæti Vestfirðinga, um ágæti íslenskra fjallasala og jafnvel veðurfars, um að tungumálið sé okkar dýrasta djásn og sameiningartákn … EN hvað segir það um samfélag sem gerir ekki allt sem í þess valdi stendur til að auðvelda aðgengi þeirra sem hér vilja setjast að, sem vilja læra málið, sem ættu að læra málið, að því menningarlega hjartfólgnasta, sem Íslendingar eiga, tungumálinu? Að kjarna þess að vera íslenskur.

Er ekki kominn tími til að Gefa íslensku, í breyttum veruleika, séns!?

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, höfundur er verkefnastjóri Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag (www.gefumislenskusens.is

Vísað er til ýmissa skálda í ræðunni. Bubbi Morthens, Bjartmar Gunnlaugsson, Einar Benediktsson, Hannes Hafstein, Jónas Hallgrímsson, Matthías Jochumson, Megas og Mugison, 

Mótmæla brottvísun 11 ára drengs með alvarlega vöðvarýrnun: „Mál upp á líf og dauða fyrir Yazan“

Alþingishúsið. Ljósmynd: Sikeri
Boðað hefur verið til mótmæla vegna fyrirhugaðrar brottvísunar 11 ára drengs, sem greindur er með alvarlega vöðvarýrnun. Drengurinn er á flótta frá Palestínu.

Samtökin No Borders og fólkið sem stóð fyrir Samstöðutjaldinu á Austurvelli í byrjun árs standa fyrir mótmælum á sunnudag klukkan 15:00 á Austurvelli. Fyrirhuguð er brottvísun hins 11 ára gamla Yazan, sem er hér á landi á flótta frá hryllingnum á Gaza. Yazan er greindur með Duchenne vöðvarýrnun, sem er einn alvarlegasti arfgengi sjúkdómurinn af þessari gerð.

Í lýsingu á mótmælaviðburðinum á Facebook segir eftir farandi:

„Þrátt fyrir yfirgnæfandi læknisfræðileg gögn sem sýna fram á alvarleika sjúkdóms Yazan og hversu lífshættuleg brottvísun getur verið honum, þá hefur Kærunefnd útlendingamála vísað máli Yazan frá og endanlega neitað honum um vernd á Íslandi.

Til stendur að brottvísa Yazan og fjölskyldu í júlí. Viljum við sem samfélag vera ábyrg fyrir því að stytta líf 11 ára drengs?!
Mætum öll! Brottvísanir eru ofbeldi!“
Þá er þar einnig frekari lýsing á Yazan:
„BROTTVÍSUN ÓGNAR LÍFI YAZAN:
Yazan er 11 ára drengur sem er greindur með Duchenne vöðvarýrnun, en Duchenne er einn alvarlegasti arfgengi vöðvarýrnunarsjúkdómurinn. Sjúkdómurinn er hrörnunarsjúkdómur þar sem allir megin vöðvar líkamans smám saman rýrna, þar á meðal hjarta- og öndunarvöðvar. Lífslíkur þeirra með sjúkdóminn eru verulega skertar en án þjónustu er meðalaldur í kringum 19 ár. Sjúkdómurinn krefst stöðugrar umönnunar og er aðgangur að sérhæfðri læknisþjónustu nauðsynlegur til að lengja lífslíkur sem mest.
Með því að vera brottvísað til Spánar, lands sem fjölskyldan hefur aldrei dvalið í, gæti orðið hlé á þjónustu í allt að 18 mánuði. „18 mánuðir án meðferðar munu valda óafturkræfum skaða sem mun verulega minnka lífsgæði drengsins og stytta líf hans,“ segir helsti sérfræðingur Íslands í Duchenne. Þar að auki gerir hvert einasta áfall geri sjúkdóminn verri og slíkur skaði er kominn til að vera, en sjúkdómurinn gengur ekki til baka.
Yazan og foreldrar hans flúðu heimili sitt í Palestínu í leit að skjóli og öryggi á Íslandi fyrir ári síðan. Frá komu þeirra hafa þau orðið hluti af samfélagi okkar og lagt sitt af mörkum þrátt fyrir að standa frammi fyrir fjölmörgum hindrunum. Áður en Yazan kom til Íslands hafði hann ekki aðgang að almennilegri læknisþjónustu né fékk að taka þátt í skóla- og frístundastarfi.

Að veita honum vernd hérlendis er ekki aðeins aðkallandi mannúðarskylda heldur einnig mál upp á líf og dauða fyrir Yazan. Stuðningskerfin og læknishjálpin sem er í boði á Íslandi er lífsnauðsynleg fyrir Yazan og hans heilsu. Með því að rífa Yazan upp úr núverandi umhverfi sínu og taka af honum viðeigandi læknisaðstoð og stuðning, er ekki einungis verið að svipta hann þeim stöðugleika sem hann nauðsynlega þarf til að lifa bærilegu lífi heldur er verið að ógna lífi hans og dæma hann til óþarfa þjáninga og erfiðleika.

Duchenne samtökin, Landssamtökin Þroskahjálp, Einstök börn, ÖBÍ réttindasamtök, Réttur barna á flótta og Tabú hafa einnig fordæmt áform stjórnvalda um að brottvísa Yazan og fjölskyldu hans.
Viljum við í alvöru vera ábyrg fyrir því að stytta líf 11 ára drengs, sem er nú þegar verulega stytt?“

Unglingurinn á Tenerife fór heim með dulurafullum Bretum: „Hann þekkti þá ekki neitt“

Jay Slater

Lögreglan, með hjálp þyrlu, leitarhunda og dróna, ásamt fjallabjörgunarsveita, hefur leitað að hinum 19 ára Jay Slater, nærri Airbnb-húsnæði sem hann fór í ásamt tveimur breskum karlmönnum.

Airbnb-húsið er einangrað bóndabýli sem staðsett er í 30 kílómetra fjarlægð frá hinu vinsæla Play des Los Americas, amerísku ströndinni, í suðurhluta Tenerife í þorpinu Masca.

Jay kom til Tenerife 12. júní með tveimur vinum sínum, Brad og Lucy Mae Law, sem var síðasta manneskjan sem Jay var í sambandi við áður en hann hvarf.

Vinahópurinn mætti svo á tónlistarhátíðina NRG festival sem byrjaði síðasta föstudag og endaði á eftirpartýi árla morguns á Papagayo á hinni alræmda Playa des Los American ströndinni.

Tónlistarhátíðin sem vinirnir fóru á, auk hundruði annarra gesta, var auglýst sem „helgi af rafmagnaðri tónlist, töfrandi myndefni og nýstárlegri framsetningu.“

Myndband sem tekið var í partýinu sýnir Jay brosa og dansa en það var þá sem Lucy og Brad sáu vin sinni í síðasta skipti en þau yfirgáfu bæði partýið í kringum klukkan tvö en Jay varð eftir ásamt tveimur breskur mönnum sem hann hafði hitt.

Það er vitað að í kringum fjögur, þegar partýið var við það að hætta, hafi lögreglan verið kölluð á Veronica-ströndina til að bregðast við „atviki“ en ekkert bendir til þess að Jay hafi verið viðriðinn það mál.

Vitað er að Jay hafi um fimmleytið farið með Bretunum tveimur í Airbnb-húsnæði sem þeir höfðu leigt, sem kallast Casa Abuele Tina, en mikið er um hlykkjótta fjallvegi á leiðinni þangað.

Lucy sagði MailOnline að Jay hefði sagt henni að hann ætlaði með Bretunum en hún hvatti hann til „koma aftur“ í herbergi þeirra á Paloma Beach-hótelinu en hann neitaði því og sagðist ætlaði með mönnunum.

„Ég skil bara ekki af hverju hann fór til þeirra, hann var bara nýbúinn að hitta þá og þekkti þá ekki neitt. Við Brad sögðum honum að koma aftur en hann gerði það ekki, ef hann hefði gert það, væri hann ekki horfinn,“ sagði Lucy.

Lítið er vitað um Bretana tvo en Lucy lýsti þeim sem „hörundsdökkum og breskum“ en bareigandi í næsta húsi við sveitabýlið sagði MailOnline að hún hefði heyrt í fólki í húsinu klukkan sex um morguninn.

Þegar Jay var enn í húsinu sendi hann móður sinni og Lucy tvær ljósmyndir á Snapchat en önnur þeirra sýndi útsýnið frá húsinu yfir nærliggjandi dal og hin sýndi hann með sígarettu í hendinni á planinu fyrir utan húsið.

Hér er tímalínan yfir málið:

12. júní – Jay lendir á Tenerife síðasta miðvikudag með vinum sínum, til að fara á NRG, sem er þriggja daga reif tónlistarhátíð frá 14 til 16. júní á Los Cristianos.

17. júní – Snemma nætur næst myndband af Jay njóta sín í eftirpartýi á Xanadu-skemmtistaðnum, ásamt vinkonu sinni, Lucy Mae West.

Klukkan 02:00 – Lucy og Brad ákveða að yfirgefa partýið og fara aftur í íbúð sem þau leigðu en Jay verður áfram í partýinu og spjallar við tvo Breta sem hann hitti þar.

Klukkan 05:00 – Jay og Bretarnir tveir yfirgefa svæðið og fara í klukkutíma bílaferð um hlykkjóttan fjallveg að AirBnB-sveitabýli í Masca, þar sem hinir dularfullu Bretar dvelja.

Klukkan 06:00 – Nágrannar heyra hávaða frá húsinu.

Klukkan 07:40 – Jay sendir mynd af útsýninu frá húsinu og mynd af sér haldandi á sígarettu á stéttinni fyrir utan húsið.

Í kringum 08:00 – Jay spyr konu sem býr á svæðinu hvernig hann geti komist aftur til Los Cristianos með rútu. Hún segir honum að næsta rúta fari ekki fyrr en klukkan 10:00.

Klukkan 8:15 – Sama kona sér Jay ganga upp fjallið og í ranga átt.

Klukkan 08:50 – Jay hringir í Lucy til að segja henni að hann sé aðeins með eitt prósent eftir að batterýi í símanum og að hann sé villtur og hafi enga hugmynd hvar hann sé en að hann sé að reyna að ganga aftur til Los Cristianos.

Stuttu síðar tengist sími Jay við símamastur nærri Mirador La Cruz De Hilda veitingastaðinn en þar nærri er stærðarinnar gljúfur en þar leitar lögreglan að honum.

Una breytist seint

Una Schram var að gefa út nýtt lag

Fátt er skemmtilegra en íslensk tónlist og það er vegna þess að Íslendingar eru ótrúlega hæfileikaríkir á þessu sviði. Eina sem er betra en íslensk tónlist er ný íslensk tónlist og hefur Mannlíf valið fimm nýleg íslensk lög sem allir þurfa að hlusta á um helgina.

Una Schram – Breytist seint
Gravity is Optional – Kaupa Kaupa Kaupa
Röggi – Bíða og sjá
SiGRÚN – Monster Milk
ELVAR, Logi Pedro og Daniil – Ekkert Vandamál





Raddir