Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, stórsöngkona er samkvæmt Fréttablaðinu, gengin út á nýjan leik. Ku sá heppni vera fyrrverandi kærasti hennar, Ólafur Friðrik Ólafsson en þau áttu í ástarsambandi fyrir rúmum áratugi síðan sem entist í tvö ár.
Eins og alþjóð veit skildi Jóhanna við eiginmann sinn, gítarleikarann Davíð Sigurgeirsson nýlega en saman eiga þau tvö börn. Unnu þau mikið saman í tónlistinni undanfarin ár, meðal annars komið fram saman á hinum ýmsu viðburðum.
Jóhanna Guðrún hefur verið ein vinsælasta söngkona landsins síðan hún var barnastjarna á tíunda áratug síðustu aldar. Hún er önnur tveggja sem hafa náð þeim merka áfanga að lenda í öðru sæti í Eurovision-keppninni en það var árið 2009 með lagið Is it true?