Kathiravan Narayanan hefur blómstrað í starfi og einkalífi síðan hann tók atvinnutilboði hjá líftæknifyrirtækinu Alvotech og settist að á Íslandi ásamt fjölskyldu sinni árið 2017. Í byrjun gegndi hann stöðu deildarstjóra fyrirtækisins en starfar nú sem aðstoðarforstjóri yfir lyfjaframleiðslu Alvotech.
„Ég er virkilega ánægður, bæði í vinnu og einkalífi, þannig að ég er mjög ánægður að hafa fengið hér vinnu,“ segir Kathiravan Narayanan, eða Kathir eins og hann er gjarnan kallaður í daglegu tali.
Kathir starfar sem aðstoðarforstjóri yfir lyfjaframleiðslunni hjá líftæknifyrirtækinu Alvotech. Hann ólst upp í bænum Rayakottai á Indlandi og starfaði í rúman áratug hjá indverskum stórfyrirtækjum á sviði lífttækni, áður en hann tók starfstilboði hjá Alvotech árð 2017 og flutti hingað til lands með fjölskyldu sína, eiginkonu sinni, Priya Jayaraman, og tveggja ára dóttur þeirra, Deekshita Kathiravan. Fyrir tæpum þremur mánuðum eignuðust þau síðan sitt annað barn, soninn Shaam Kathiravan og líður vel á Íslandi.
„Ég hef kunnað því mjög vel að starfa þar og það er ánægjulegt hversu vel er hugsað um starfsfólk hér á landi.“
Vilja hvergi annars staðar búa
Kathir segir að hann og fjölskylda hans hafi líka aðlagast vel íslensku samfélagi og vilji nú hvergi annars staðar búa en á Íslandi. „Þegar við fluttum hingað þá var breytingin fyrir okkur mikil. Þetta eru gjörólíkir menningarheimar. Á Indlandi er líka mjög heitt en hér er kalt og miklar breytingar á birtuskilyrðum eftir árstíðum. En við hjónin völdum að láta veðrið ekki trufla okkur. Þess vegna vorum við ekki kvíðin fyrir flutningnum. Litum hann bara jákvæðum augum. Hér er allt svo hreint og ferskt, til dæmis vatnið, og manni finnst heilsusamlegt og mjög gott að búa hér. Fólkið er líka mjög almennilegt. Það er bara mjög ánægjulegt að búa á Íslandi. Fyrir utan fjölskylduna á Indlandi þá er ekkert sem við söknum þaðan,“ segir hann.
Vel hugsað um starfsfólkið
Í upphafi gegndi Kathir deildarstjórastöðu hjá Alvotech en er nú eins og áður segir aðstoðarforstjóri yfir lyfjaframleiðslunni hjá fyrirtækinu sem er með fjölda líftæknilyfja í þróun og stefnir á að koma fyrsta lyfinu á markað á næsta ári. Hann segist vera mjög ánægður með þann árangur sem deildin hefur náð. „Framleiðsludeildin hefur náð mjög góðum árangri og fyrir það er ég bæði stoltur og þakklátur. Ég hef kunnað því mjög vel að starfa þar og það er ánægjulegt hversu vel er hugsað um starfsfólk hér á landi,“ segir hann glaðlega.
Flestir vilja vera til frambúðar
Hjá Alvotech á Íslandi starfa vísindamenn og sérfræðingar af 50 ólíkum þjóðernum. Fyrstu tvö árin hjá var Kathir hluti af fámennum hópi Indverja hjá fyrirtækinu en nú eru Indverjarnir sem þar starfa orðnir yfir 40 talsins. „Það hefur auðvitað haft jákvæð félagsleg áhrif því þessi stóri hópur er mér beintengdur. Þau hafa öll komið hingað því við tölum svo vel um Ísland. Þá hefur þetta líka haft jákvæð félagsleg áhrif fyrir konuna mína sem hefur getað hjálpað konunum í hópnum að koma sér fyrir hér. Allur hópurinn er mjög ánægður hér og ég er sannfærður flestir úr hópnum komi til með að vilja vera hér áfram til framtíðar.“
Langar að verða Íslendingur
Sjálfur stefnir Kathir á að sækja um íslenskan ríkisborgararétt innan fárra ára. Hann segist líka ætla sér að ná betri tökum á íslenskunni. „Í hreinskilni sagt hef ég ekki haft nógu mikinn tíma til að læra íslenskuna,“ játar hann, „en ég er með það markmið að bæta þar úr því eftir nokkur ár stefni ég á að sækja um ríkisborgararétt. Mig langar til að verða Íslendingur. Eftir að ég kom hingað hef ég bæði þroskast mjög á mínu atvinnusviði en ég hef líka þroskast sem fjölskyldufaðir. Það er mjög ánægjulegt að búa á Íslandi. Það er pínu kalt þar sem veðrið breytist mjög hratt en hér er samt mjög gott að búa,“ segir hann og brosir.
Alvotech í samstarfi við Stúdíó Birtíng.