Korthafar Visa geta nú með einföldum hætti skráð bæði debet- og kreditkort í Apple Pay en Valitor hefur í samvinnu við Arion banka, Landsbankann, Visa og Apple innleitt þessa spennandi og þægilegu greiðslulausn.
Apple Pay er hraðvirk og örugg lausn sem byggir á sýndarnúmeratækni Visa sem Valitor hefur innleitt. Sýndarnúmer kemur í stað kortnúmers og kortaupplýsingar eru ekki vistaðar í snjalltækjunum. Korthafar auðkenna sig í þeim þegar greiðsla er framkvæmd. Það kostar ekkert að nota Apple Pay, færslugjöld eru þau sömu og á því korti sem tengt er við Apple Pay.
Mögulegt er að nota Apple Pay í öllum posum sem bjóða upp á snertilausar greiðslur bæði á Íslandi og erlendis og einnig er hægt að nota Apple Pay til að greiða á Netinu og í öppum. Apple Pay er aðgengilegt fyrir allar gerðir Apple-snjalltækja með fingrafaraskanna eða andlitsskanna. Apple Pay virkar á allar kynslóðir af Apple Watch og á MacBook Pro og -Air með Touch ID.
Aðferðir til að borga
Nokkrar aðferðir eru mögulegar til að borga með Apple Pay. Til að borga með andlitsskanna, Face ID, tvísmellir þú á hliðarhnappinn, horfir á skjáinn og heldur símanum svo upp að posanum. Með fingrafaraskanna, Touch ID, heldur þú símanum að posanum með fingur á fingrafaraskanna. Á Apple Watch tvísmellir þú á hliðarhnappinn og leggur úrið að posanum. Til að borga í öppum og á netsíðum í Safari-vafra í iPhone eða iPad velurðu Apple Pay við kassann og staðfestir greiðsluna með Face ID eða Touch ID. Til að borga á netsíðum í Safari-vafra í Mac-tölvum (2012 eða nýrri) velurðu Apple Pay og staðfestir greiðsluna með iPhone eða Apple Watch. Á MacBook-fartölvum framkvæmir þú greiðslu með því að nota Touch ID á skannanum.
Auðvelt að tengja kortin
Hægt er að bæta kortunum við Apple Pay beint úr bæði Landsbanka- og Arion banka-öppunum. Áður er gott að ganga úr skugga um að þið hafið nýjustu útgáfuna að öppunum. Opnið svo appið, veljið kort og ýtið á „bæta korti í Apple Wallet“. Fylgið síðan virkjunarferlinu og samþykkið skilmála. Einnig er hægt að skrá kortin beint í gegnum Apple Wallet. Þá opnið þið Apple Wallet-appið í iPhone, veljið plústáknið efst í hægra horninu og fylgið leiðbeiningunum sem birtast. Skráið kortið annaðhvort handvirkt eða lesið það inn með myndavélinni. Til að tengja kort við Apple Watch þá er Apple Watch-appið í símanum opnað og þar valið „Wallet & Apple Pay“ og síðan „Add Credit or Debet Card“.
Aukið öryggi
Þegar greiðsla er framkvæmd notar Apple Pay sértækt númer fyrir tækið þitt og einkvæmt númer fyrir greiðsluna. Kortanúmerið er ekki vistað á tækinu eða á netþjónum Apple og því er aldrei deilt með seljandanum. Apple Pay geymir engar upplýsingar um viðskiptin sem hægt er að rekja til þín, sem tryggir öryggi kaupanna. Ef síminn týnist er ekki þörf á að loka kortunum þar sem engar kortaupplýsingar eru geymdar í símtækinu en það þarf að loka fyrir stafrænu kortin í símanum sem þú tapaðir. Hægt er að loka þeim með því að hafa samband við þjónustuver bankanna eða með því að nota „Find my iPhone“.