Hjónin Ágústa Magnúsdóttir og Gústav Jóhannsson kyntust í Danmörku þar sem þau stofnuðu fyrirtæki sitt AGUSTAV sem sérhæfir sig í framleiðslu húsgagna með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
Frá Danmörku fluttu þau til Ítalíu þar sem fyrirtækið blómstraði en þegar börnunum fór að fjölga fluttu þau heim til Íslands, héldu áfram að þróa framleiðslu sína og stefna nú ótrauð að Bandaríkjamarkaði.
„Við stofnuðum fyrirtækið 2011 í Danmörku, fluttum það svo milli landa og komum heim 2014,“ útskýrir Ágústa. „Gústav er húsgagnasmiður og saman hönnum við öll húsgögn AGUSTAV.
Ég vinn svo að markaðshliðinni á meðan Gústav sér um verkstæðið.“
Húsgögn AGUSTAV hafa töluverða sérstöðu einkum hvað varðar áhersluna á umhverfisvæna framleiðslu, um hvað snýst það?
„Það skiptir okkur miklu máli að framleiða vöru með það að leiðarljósi að hún endist,“ segir Ágústa. „Við eigum svolítið erfitt með þá þróun að húsgögn séu að miklu leyti til orðin einnota og að þeim sé skipt út þegar næsti bæklingur kemur út, þannig að við reynum að framleiða húsgögn sem endast og hafa hátt endursölugildi, vilji maður losa sig við þau. Þar að auki nýtum við allan efnivið sem við fáum inn á verkstæðið alveg í þaula og erum komin með línu sem er bara byggð á afgöngum sem falla til á verkstæðinu. Svo gróðursetjum við tré fyrir hverja vöru sem við seljum, ýmist í regnskógum Brasilíu eða hér á Íslandi.“
„Það skiptir okkur miklu máli að framleiða vöru með það að leiðarljósi að hún endist.“
Ágústa og Gústav sérsmíða líka húsgögn eftir óskum viðskiptavina, ýmist í samstarfi við innanhússarkitekta og arkitekta, eða í beinu samstarfi við viðskiptavinina, en þau einskorða sig þó ekki við það.
„Í vor opnuðum við sýningarrými á Funahöfða 3 í Reykjavík þannig að nú er loksins hægt að koma til okkar og skoða húsgögn, fá að prófa þau eða fá lánuð heim til að sjá hvernig þau passa inn í rýmið á heimilinu. Það er innangengt úr sýningarrýminu inn á verkstæðið svo fólk getur líka kynnt sér hvernig varan er búin til og hvaðan efniviðurinn kemur.“
Sérsmíðuðu allt í fyrstu íbúðina
Ágústa og Gústav kynntust þegar þau bjuggu bæði í Danmörku og eiga nú tvö börn, þriggja og sex ára, og það þriðja er á leiðinni. Ágústa segir að augljóslega séu þau of ung til að taka þátt í vinnunni enn sem komið er, en það standi vonandi til bóta. En hvaðan kom hugmyndin að fyrirtækinu?
„Strax og við kynntumst byrjuðum við að innrétta heimilið okkar og þar sem íbúðin sem við bjuggum í á þeim tíma var dálítið undarlega löguð enduðum við á því að sérsmíða allt inn í hana,“ segir Ágústa og hlær. „Bókasnagi sem við smíðuðum þá var fyrsta varan sem við komum út með og viðtökurnar voru vonum framar þannig að þetta vatt mjög hratt upp á sig og varð að þessu fyrirtæki sem það er í dag.“
Ísland opnaði ný tækifæri
Árið 2013 ákváðu þau Gústav og Ágústa að hætta að vinna annars staðar, flytja til Ítalíu og beina öllum sínum kröftum að uppbyggingu fyrirtækisins. Það var kominn tími til að víkka sjóndeildarhringinn og Ítalía hentaði vel því sem þau voru að gera á þeim tíma, að sögn Ágústu, og þau leigðu sér hús uppi í fjöllum á Norður-Ítalíu þar sem pláss var fyrir verkstæðið í kjallaranum og fyrirtækið hélt áfram að blómstra. Þar komust þau líka í beina tenginu við viðinn og komust nær uppruna efniviðarins sem þau nota. En hvernig datt þeim í hug að flytja aftur heim til Íslands?
„Það kom til af því að ég átti von á barni númer tvö og á Ítalíu, alla vega þarna sem við vorum, var litla aðstoð að fá við barnapössun,“ útskýrir Ágústa. „Elsta barnið var þá tveggja og hálfs og við höfðum engin önnur úrræði en að hafa hana með okkur við vinnuna. Ég sá fyrir mér að hafa lítinn tíma til að sinna vinnunni þegar komið væri annað barn og við ákváðum að koma heim þar sem tengslanetið okkar er, ömmur og afar og ættingjar, dagheimilispláss og svo framvegis. Það var algjört lán í óláni að við skyldum enda hér aftur því hér hafa opnast mörg tækifæri sem voru okkur lokuð áður.“
Eru einhverjar nýjungar fram undan hjá fyrirtækinu?
„Það er alltaf eitthvað,“ segir Ágústa leyndardómsfull. „Við erum alltaf með einhverjar nýjar vörur í kollinum sem líta dagsins ljós þegar þeirra tími kemur. Svo fórum við núna í maí á sýningu í New York þar sem við sýndum vörurnar okkar og það gekk alveg rosalega vel. Við hlutum svo styrk úr Hönnunarsjóði til markaðssetningar í Bandaríkjunum sem hjálpar virkilega til við að halda fókus á þann markað það sem eftir er árs. Við fengum mjög góð viðbrögð og mikinn áhuga og erum núna að vinna í því að greiða okkur leið inn á þann markað. Við erum bara mjög spennt fyrir því og höldum ótrauð áfram okkar stefnu.“
Myndir / Aldís Pálsdóttir og úr safni AGUSTAV