Sunnudagur 22. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Bláber munu vaxa á þökum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gríðarleg uppbygging hefur verið í Dalskóla í Úlfarsárdal og umhverfi hans. Skólinn blómstrar þessa dagana og nemendur vaxa og dafna þar sem fjölbreyttir starfshættir eru hafðir að leiðarljósi. Við hittum á dögunum Hildi Jóhannesdóttur skólastjóra og fengum innsýn í skólastarfið og umhverfi hans í þessu einstaka umhverfi Úlfarársdals.

Hildur Jóhannesdóttir skólastjóri með nemendum við skólann.

Segðu okkur örlítið frá skólastarfinu í Dalskóla. „Dalskóli leggur áherslu á að öllum líði þar vel, að börnin okkar fái að dafna, nema og blómstra. Skólinn er samrekinn leik-, grunn og frístundaskóli sem byggir á fjölbreyttum starfsháttum í hverri stoð hans. Við eflum sjálfstæð vinnubrögð í nemendahópum með sveigjanlegum kennslu- og starfsháttum. Lögð er áhersla á þemabundna smiðjuvinnu þar sem samþætting námsgreina og námssviða á sér stað innan árganga og á milli árganga í hluta starfsins. Skólinn er menningarskóli sem gerir listgreinum hátt undir höfði. List er kennd listarinnar vegna og aðferðum listgreina er beitt í smiðjustarfi samofið bóknámsgreinum. Skólinn ræktar lærdómsmenningu meðal starfsmanna og við erum að innleiða leiðsagnarnám í kennslustundum í grunnskólahluta skólans. Í leikskólahluta skólans er börnum gefið tækifæri til þess að byggja ofan á fyrri reynslu og þekkingu í námi og starfi og er leikurinn og uppgötvunarnámið það sem gengið er út frá. Í frístundahluta skólans er barnalýðræði gert hátt undir höfði ásamt samtakamætti og gleði.“

Við eflum sjálfstæð vinnubrögð í nemendahópum með sveigjanlegum kennslu- og starfsháttum. Skólinn er menningarskóli sem gerir listgreinum hátt undir höfði.“

Nú er mikil uppbygging í kringum skólann, getur þú aðeins sagt okkur frá uppbyggingunni sem fram undan er? „Það er mikið starf í gangi til þess að búa hverfinu góðan kjarna. Í þessum kjarna fyrir botni dalsins rís skólahúsnæði sem hýsa mun nemendur á aldrinum fjögurra til sextán ára auk frístundaheimilis og frístundamiðstöðvar. Í kjarnanum verða almenningsbókasafn, sundlaugar og menningarsalir. Aðstaða fyrir tónlistarnám verður góð og  hátíðarsalur verður staðsettur miðja vegu í húsinu. Samtengt kjarnanum austan megin mun rísa íþróttahús en Fram er hverfisfélagið okkar og verður aðstaðan þar til mikillar fyrirmyndar. Nú þegar eru komnir góðir sparkvellir sem eru vel nýttir alla daga.  Haustið 2010 tókum við í notkun fyrsta áfangann í þessari miklu uppbyggingu en það er mjög vel heppnað leikskólahúsnæði, þar starfa í dag 100 börn á aldrinum tveggja  til fimm ára.“

Haustið 2016 var tekinn í notkun fyrsti áfangi nýja skólahúsnæðisins og á næstu dögum verður næsti áfangi þess húsnæðis afhentur. „Þennan veturinn munu nemendur í 4. bekk og upp úr starfa í Móanum okkar en nýja húsnæðið fékk það gælunafn á sínum tíma. Í Hlíðinni, sem er gælunafn fyrir lausu kennslustofurnar okkar, verða nemendur í 1.-3. bekk í vetur, auk list- og verkgreina. Næsta haust mun langþráður draumur rætast þegar skólahúsnæðið verður afhent og skólinn kemst undir eitt þak, undir eitt fallegt þak þar sem birta mun flæða niður í húsnæðið okkar og bláber vaxa á þökum.“

Fyrir botni Úlfarsárdals rís skólahúsnæði sem hýsa mun nemendur á aldrinum fjögurra til sextán ára auk frístundaheimilis og frístundamiðstöðvar. Í kjarnanum verða almenningsbókasafn, sundlaugar og menningarsalir.

Hvað laðar fjölskyldufólk að Úlfarsárdal? „Þetta eru síðustu hlíðarnar innan borgarmarkanna sem snúa í suður, ef Esjuhlíðar eru frátaldar. Maður sér fyrir sér afskaplega hlýlegt og fallegt hverfi þegar gróðurinn nær að potast upp. Þessar hlíðar eru í útjaðri borgarinnar, stutt í náttúruna, stutt í góða þjónustukjarna. Á Höfðanum og hér í kring eru mjög mikilvæg þjónustufyrirtæki og fólk þarf ekki að fara niður í bæ nema til hátíðarbrigða. Það er líka jákvætt að það er mjög stutt að fara út úr bænum, en hér í dalnum okkar er margar útivistar-, sumarbústaða- og fjallgöngufjölskyldur. Það að taka þátt í að byggja upp nýtt hverfi er forréttindaverkefni fyrir alla sem í dalnum búa. Fólkið á hverfið og fólkið hér stendur mjög vel saman. Vinarþel ríkir á milli manna og ég held að leitun sé að jafngóðu stuðningsliði við skólastarf eins og hér. Við höfum verið án húsnæðis í mörg ár og hvernig foreldrar hafa með ráðum og dáð verið okkar bakhjarlar er ómetanlegt,“ segir Hildur og er full tilhlökkunar.

Eru samgönguleiðir góðar og öruggar? „Skólinn er í botni dalsins og má segja að allar ár renni til skólans. Úlfarsbrautin sem liggur hér samsíða skólanum er hugsanlega hættulegasta braut dalsins að því leyti að til hennar liggja allar götur og allir stígar. Yfir hana liggja gangbrautir og dalbúar fara hér ofur varlega en brautin er hægakstursbraut. Það er ljóst að umferð mun vaxa við hana í framtíðinni þegar allt er fullbyggt og Fram verður komið með sína íþróttaaðstöðu í gagnið. Auðvitað munum við, í samvinnu við borgina, halda áfram að gera þetta hverfi öruggt og tryggt hvað öll ferlimál snertir. Þannig er það hannað.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -