Miðborgin mun iða af jazztónum dagana 5.-9. september þegar fram fer Jazzhátíð Reykjavíkur 2018.
Íslenskt jazzlíf hefur aldrei staðið styrkari fótum en nákvæmlega núna og á hátíðinni gefst færi til að hlýða á framvarðarsveitir í faginu en ekki síður er spennandi samstarf íslenskra flytjenda og erlendra sem er fyrirferðamikið að þessu sinni. Sunna Gunnlaugsdóttir skipuleggur Jazzhátíðina ásamt Leifi Gunnarssyni en þau hafa gert það frá árinu 2015 og eru bæði jazzleikarar og tónlistarkennarar. Við hittum Sunnu á dögunum og forvitnuðumst um dagskrá hátíðarinnar.
Geturðu aðeins sagt okkur frá tilurð Jazzhátíðar Reykjavíkur og hversu oft hún hefur verið haldin? „Jazzhátíð var fyrst haldin árið1990 sem framlag RÚV til norrænna útvarpsdaga. Hún heppnaðist svo vel að ákveðið var að halda árlega hátíð á vegum RÚV og Reykjavíkurborgar og var kölluð RÚREK. Á einhverjum tímapunktu drógu þessir aðilar sig út og FÍH tók að sér umsjón Jazzhátíðar Reykjavíkur og er hún, að ég held, elsta tónlistarhátíð landsins.“
Segðu okkur aðeins frá Jazzgöngunni og setningu hátíðarinnar? „Jazzgangan hefur verið fastur liður í nokkur ár og er einstaklega skemmtileg. Hljóðfæraleikarar og aðrir áhugamenn safnast saman við Lucky Records og stilla saman strengi og svo er marserað niður Laugaveg að Borgarbókasafni við fjöruga tóna hópsins.“
Eigum við von á athyglisverðum böndum og einstaklingum í ár? „Jazzhátíð leggur metnað sinn í að fá framúrskarandi listamenn erlendis frá. Í ár fáum við að upplifa bandaríska gítarsnillinginn Ralph Towner á einleikstónleikum með klassískan gítar, tríó spánska kontrabassaleikarans Giulia Valle sem hefur verið á hraðri uppleið, tíu kvenna norræna sveit Marilyn Mazur, dúóið Skeltr frá Bretlandi og síðast en ekki síst frá Póllandi, Marcin Wasilewski Trio sem hefur verið ein af skrautfjöðrum ECM-útgáfunnar í yfir áratug. Svo koma frábærir einstaklingar í samstarfsverkefnum við Íslendinga, eins og Lage Lund, Lars Jansson, Verneri Pohjola, Pierre Perchaud, Nico Moreaux, Richard Anderson, Miro Herak og Bárður Reinert Poulsen.“
Verður einhver nýbreytni frá fyrri árum hátíðarinnar? „Hátíðin hefur fært sig úr Hörpu þar sem við höfum verið síðustu ár og verður nú í ár í Tjarnarbíói, Iðnó, Hannesarholti, Grand Hótel, Borgarbókasafni og Gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsholti sem nú hafa verið uppfærðar í prýðilegan vettvang fyrir tónlistarflutning. Það gefur okkur kost á að selja inn á staka viðburði í stað passans sem var. Það nýjasta hjá okkur er að bjóða upp á svona late night-viðburð á laugardagskvöldið í Gömlu kartöflugeymslunum. Þar verður partístemning með Skeltr og Una Stef Band frá 23 til 01 og fyrr um daginn eru Andrés Þór & Miro Herak og svo DOH trio með útgáfutónleika.“
Hver er helstu númerin á Íslandi, okkar frægustu jazzarar og jazzbönd? „Jazzsenan okkar er ótrúlega fjölbreytt og því getum við teflt fram mjög fjölbreyttri dagskrá frá ári til árs. Á Jazzhátíð reynum við að tefla fram bæði gömlu kempunum og þeim ungu og fersku. Í Hannesarholti verða kempurnar Agnar Már annars vegar ásamt Lage Lund og hins vegar Sigurður Flosason með Lars Jansson. Óskar Guðjónsson og Matthías Hemstock fagna nýjum diski með Richard Andersson í Iðnó, Scott McLemore með Hilmar Jensson innanborðs er með útgáfutónleika í Tjarnarbíói, og tríó mitt ásamt Verneri Pohjola fagnar einnig nýrri útgáfu á sama stað. Svo eru þessi ungu og fersku, eins og Ingi Bjarni Trio og Sigmar Matthíasson, báðir með útgáfufögnuð í Tjarnarbíó og Þórdís Gerður sextett í Iðnó auk fyrrnefndra atriða í Gömlu kartöflugeymslunum.“
Hver verður hátindur hátíðarinnar, að þínu mati? „Það er ómögulegt að velja eitthvert eitt atriði fram yfir annað en það hlýtur að teljast sérstakt að fá hingað tíu kvenna sveit slagverksleikarans Marilyn Mazur. Hún er eina konan sem átti sæti í sveit Miles Davis, frægasta jazzara fyrr og síðar: Ég sá þessa sveit á sviði fyrir rúmu ári og það voru sannkallaðir töfrar sem umluktu þá tónleika. Sama kvöld leikur svo tríó Marcin Wasilewski sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér lengi og á hádegistónleikunum þann daginn syngur Katrín Halldóra sem var svo frábær í hlutverki Ellýjar Vilhjálms ásamt sveit Hauks Gröndal.“
Verða margir útgáfutónleikar í tilefni þessa? „Í ár eru sjö útgáfutónleikar sem ber vitni um mikla grósku í íslensku jazzlífi. Fimm af þessum sjö eru með erlenda samstarfsmenn innanborðs og því er augljóst að jazzfólkið okkar stefnir út fyrir landsteinana með verkefnin sín og þar er Jazzhátíð mikilvægur hlekkur í að skapa tækifæri og greiða leið þessa metnaðarfulla fólks.“
Hvert er markmið ykkar með hátíðinni? „Hátíðin er vettvangur alls þess helsta sem er að gerast á sviði innlendrar jazztónlistar og er í raun hápunktur jazzlífsins á Íslandi og árleg uppskeruhátíð innlendra jazztónlistarmanna. Auk þess stendur hátíðin að komu fjölmargra erlendra tónlistarmanna á ári hverju, bæði evrópskra og bandarískra. Hátíðin leitar einnig tækifæra til að koma íslenskum jazzi á framfæri erlendis í gegnum samstarfsvettvang evrópskra jazzhátíða Europe Jazz Network,“ segir Sunna og er mjög spennt fyrir því sem koma skal.
Vert er að geta þess að þeir sem ætla að sækja marga tónleika á Jazzhátíðinni geta nálgast afsláttarpakka, á ferna, sex og átta tónleika. Mikilvægt er að skoða dagskrána vandlega til tryggja að ekkert fari fram hjá manni. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.reykjavikjazz.is og www.tix.is.