Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Dreymir um lítinn fiskibát með stórri vél

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bárður Hreinn Tryggvason er sölustjóri hjá Gimli fasteignasölu og er tveggja barna faðir. Hann á þau Silju Rún sem er tvítug og er að ljúka stúdentsprófi um áramótin og Tryggva Snæ, fimmtán ára nemanda við Sjálandsskóla. Kærasta Bárðar er Lilja Hildur Hannesdóttir hjúkrunarfræðingur og er verkefnisstjóri á menntasviði Landspítalans. Hún er einnig með meistarapróf í mannauðsstjórnun. Hildur á þrjú börn, á aldrinum átta ára, sextán ára og tuttugu og fimm ára, og eitt barnabarn. Bárður og Hildur búa hvort í sínu lagi eins og er, bæði í Kópavogi.

Bárður Tryggvason, sölustjóri hjá Gimli fasteignasölu.

Hvað heillar þig mest við starfið? „Það sem mér finnst skemmtilegast við þessa vinnu eru samskipti við fólkið sem stendur í fasteignaviðskiptum á hverjum tíma. Í flestum tilvikum er um að ræða stærstu samninga þess á lífsleiðinni. Mestu skuldbindingarnar sem eru lánin sem það tekur og þá er í flestum tilvikum um að ræða lánagjörning í fjörutíu ár sem er um það bil hálf mannsævi, það segir allt sem segja þarf um hversu stór þessi ákvörðun er að að taka lán og kaupa íbúð. Það er svo gefandi þegar vel tekst til og allt gengur upp og allir ganga ánægðir og sáttir frá borði. Ég hef alla tíð tekið starfið mikið inn á mig, ef svo má að orði komast. Síðan eru það vinnufélagarnir og umhverfið, að geta nýtt keppnisskapið sem er mikið hjá mér, að ég ætla og veit að ég hef, þó að ég segi sjálfur frá. En mesta ánægjan eru ánægðir viðskiptavinir.“

Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér? „Hefðbundinn vinnudagur hjá mér er frá klukkan 9.00 – 17.00 á daginn og oft lengur, en fyrstu tuttugu og fimm árin gæti ég trúað að þetta hafi verið ekki undir 60-70 tímum á viku. Í dag er þetta öðruvísi, ég fer þrisvar í viku í fótbolta í hádeginu í 1,5 klst, en það hef ég gert síðustu tíu árin og eru ómissandi fyrir mig, því að þetta útheimtir oft mikið álag.“

Hvað finnst þér gera heimili að heimili? „Fallega samsett húsgögn og hlutir sem passa saman og umfram allt eru þægileg. Svo ekki sé minnst á fallega myndlist á veggjum. Ég hef safnað að mér fallegri myndlist undanfarin ár og hef komið inn á glæsileg heimili en það er eitthvað sem vantar og það er eitthvað fallegt á veggina. En það er bara mín skoðun.“

Geturðu lýst þínum stíl? „Minn stíll er einfaldleikinn, ekki vera með of mikið af húsgögnum/hlutum og láta hlutina passa saman og mynda fallegt og notalegt heimili.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? „Pálmar Kristmundsson er minn uppáhalds, hann hefur teiknað falleg hús og byggingar sem ég hef hrifist af í gegnum tíðina.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð? „Gæti nefnt Alvar Aalto hinn finnska sem var bæði húsgagnahönnuður og arkitekt, svo ég nefni nú einhvern.“

- Auglýsing -

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Það er lítill fiskibátur með stórri vél og kemst hratt, en það er draumurinn einhvern tímann. Ég er frá Hellissandi og uppalinn þar við sjóinn. Var á skaki þrjú sumur með mági mínum. En það sem skýrir það er að þegar að þú ert kominn út á sjó í góðu veðri, þá hverfur allt sem að heitir stress. Þú ferð að slaka á og gleymir þér.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Uppáhaldsliturinn minn er brúnn.“

Hvar líður þér best? „Ég held að ég geti sagt að mér líði best með fjölskyldunni og að atast með henni í einhverju. Síðan að fara vestur á Snæfellsnes á æskuslóðirnar í fallegu veðri. Fara í fótbolta með stákunum en ég spila með Luns United í hádeginu og Svíkingum vinum mínum á mánudögum. Það er svo margt sem að ég gæti talið upp.“

- Auglýsing -

Hvað heillar þig mest við haustið? Er eitthvað sem þú vilt bæta við í garðinn eða inn á heimilið þegar haustið gengur í garð?
„Fallegur dagur að hausti, kaldur og sólin á lofti á sér engan sinn líka, síðan haustlitirnir þegar að þeir birtast í sínu fegursta formi. Vantar heita pottinn.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Veit ekki, en gæti nefnt Bautann á Akureyri, alltaf sérstök stemning að borða þar. Var á Akureyri í menntaskóla í fjóra vetur.“

Heillar einhver byggingarstíll þig meira en annar? „Já, það eru lítil falleg einbýlishús í grónum hverfum eins og hægt er að sjá til dæmis fyrir norðan á Akureyri. Hvaða stíll það er, veit ég ekki.“

Að lifa lífinu lifandi er að … „vera meðvitaður um stað og stund og láta ekkert fara í taugarnar á sér, lífið er svo stutt. Halda síðan vel utan um fjölskylduna og vinina, ekkert gefur lífinu meira gildi en það að hafa gott fólk í kringum sig.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -