Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Elskar hús með gamla sál

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hrafnhildur Björk Baldursdóttir, stjórnmálafræðingur og löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali hjá 101 Reykjavík fasteignasölu, er mikill bókaormur og hannyrðakona sem hefur óbilandi áhuga á að reyna skilja hvers vegna við erum eins og við erum. Aðaláhugamál hennar síðustu ár hefur verið að afla sér þekkingar og reynslu um sálfræði, starfsemi heilans, taugalíffræði, lífefnafræði, næringu, núvitund og alls kyns hreyfingu.

Hvað heillar þig mest við starfið? „Það er hversu fjölbreytt og lifandi það er. Það er frábær tilfinning að geta aðstoðað fólk við að skipta um húsnæði. Eins stressandi og margir sem standa í því ferli upplifa það, og við eins ólíkar aðstæður fólks sem við fasteignasalar eigum við, þá er ljúft að sjá þegar allir eru komnir á nýja staðinn, glaðir, ánægðir og þakklátir. Það heillar mig einnig hversu starfið er sveigjanlegt hvað varðar tíma og hvaðan maður vinnur, þau þrjú tól sem eru ómissandi eru síminn, tölvan og bíllinn. Og hversu mörgu góðu fólki maður kynnist og á samskipti við. Ég segi oft að um 90% af starfinu felist í mannlegum samskiptum.“

Það heillar mig einnig hversu starfið er sveigjanlegt hvað varðar tíma og hvaðan maður vinnur, þau þrjú tól sem eru ómissandi eru síminn, tölvan og bíllinn.

Getur lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér? „Ég byrja daginn almennt á að lesa yfir tölvupóstinn, svara pósti og senda þau erindi sem ég þarf að senda frá mér. Svo er gott að nota fyrrihluta dags í gagnaöflun, ýmsa eftirfylgni og að skrá eignir. Seinnihlutinn getur svo verið alls konar, skoða eignir og veita seljendum ráðleggingar um söluferlið, vinna með tilboðsmál, alls konar símtöl, svara fyrirspurnum, benda fólki á eignir, sýna eignir og vera með opin hús. Ég vinn oft til sirka sjö á kvöldin og oft á sunnudögum en er nú markvisst að reyna að þjálfa mig í að svara ekki vinnutengdum símtölum eftir klukkan sjö á kvöldin en fólk getur treyst því að ég hringi til baka svari ég ekki símtalinu. Í þessu starfi er nauðsynlegt að reyna að skilja að vinnutímann og tímann sem maður sinnir einkalífinu þó svo að það hafi oft reynst mér nokkuð erfitt.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili? „Fólk gerir heimili að heimili, í því felst fjölbreytileikinn.“

Geturðu lýst þínum stíl? „Hlýlegur. Ég hef losað mig við mikið af óþarfadóti á síðustu árum og er nú bara með hluti í kringum mig sem mér þykir á einhvern hátt vænt um, þykja fallegir og mér líður vel með að hafa í kringum mig.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? „Ég á engan uppáhaldsarkitekt.“

Hver er þinn uppáhaldshönnuður? „Ég á engan uppáhaldshönnuð.“

- Auglýsing -

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Eins og ég nefndi áðan hef ég meira verið í að reyna að losa mig við hluti en að fá mér nýja en mig hefur þó um tíma langað í málverk eftir Guðmundu Kristinsdóttur, í bláum tónum, og ullarflosteppi sem setu á kringlóttan koll, og einnig gólfmottu, eftir Þóru Björk Schram, líka í bláum tónum, og svo langar mig í húsamynd úr gamla bænum í Reykjavík, eftir Sigurð Sævar Magnúsarson.“

Ég hef losað mig við mikið af óþarfadóti á síðustu árum.

Uppáhaldsliturinn þinn? „Hvítur og alls konar bláir tónar og út í sægrænan í stofunni. Hvítt, ljósbleikt og dökkbleikt í eldhúsinu. Einhvern veginn hef ég laðast mikið að þessum litum en ég get ekki málað veggina í dökkum litum, það á ekki við mig. Hvað fatnað varðar þá er það aðallega svart, grátt, beige, blátt og aðeins út í græna tóna.“

Hvar líður þér best? „Mér líður best heima hjá mér. Heimilið er minn griðastaður.“

- Auglýsing -

Hvað heillar þig mest við haustið? „Litirnir á gróðrinum. Litasamsetningarnar geta gjörsamlega töfrað mig upp úr skónum. Svo heillar myrkrið mig og það að geta kveikt á kertum.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Mér finnst Grandi mathöll svalur, þar hef ég fengið mjög góðan mat og finnst gaman að horfa út á höfnina. Ég vona að „mathallardæmið“ sé komið til að vera hér í borg.

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira en annar? „Gömul hús fá hjarta mitt oft til að slá hraðar, ég elska hús með gamla sál. Mér finnst til dæmis mörg húsin í Þingholtunum, á svæðinu á milli Njarðargötu og Barónstígs upp að Eiríksgötu, auk Fjólu-, Sóleyjar- og Tjarnargötu vera dásamlega tignarleg og sjarmerandi.“

Að lifa lífinu lifandi er að … „njóta stundarinnar hér og nú.“

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -