Þegar hausta tekur og hið daglega líf kemst í fastar skorður, börnin í skólann eftir sumarfrí og vinnan verður aftur að daglegri rútínu byrjar gjarnan þorri landsmanna í ræktinni og setur sér það markmið að ná árangri. Oftar en ekki gefast margir hverjir upp og ná ekki að klára markmið sín. Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, þekkir þetta vel en hún hefur rekið heilsurækt í áratugi. Hún hefur áralanga reynslu af því að hvetja fólk til dáða og veit um árangursríkar leiðir til að tileinka sér heilbrigðari lífsstíl.
Margir byrja í ræktinni á haustin og gefast fljótt upp, hvað er best að gera til að koma veg fyrir það?
„Já, það er rétt. Margir kannast við að byrja og hætta í ræktinni, ná einhvern veginn ekki að koma reglulegri þjálfun inn sem föstum lífsstíl. En þannig þarf það að vera. Rétt eins og að þú þrífur þig ekki bara í smáskorpum í fimm til sex vikur og tekur þér svo hlé frá sturtunni í nokkra mánuði. Líkamsþjálfun er á sama hátt eitthvað sem við getum ekki birgt okkur upp af, heldur ættum að stunda allan ársins hring, alla ævi svo fremi sem við höfum heilsu til. Til að svo megi verða er hugarfarið númer eitt, sem þarf að stilla af. Þú þarft að taka ákvörðun um að byrja að stunda heilsurækt og finna pláss fyrir það í þinni dagskrá og standa við það. Ég mæli alltaf með því að fólk komi sér í eitthvað prógram, námskeið, einkaþjálfun eða æfi með félaga. Í Hreyfingu bjóðum við upp á geysilega fjölbreytt og vel skipulögð námskeið fyrir konur og karla á öllum aldri og þau hafa verið gríðarlega vinsæl því fólk kann því vel að hafa sitt pláss á föstum tímum og hitta sama hópinn. Það verður til mikil orka þegar æft er saman í hóp og mikil hvatning og gleði. Fyrir þá sem hentar ekki að æfa í hóp er tilvalið að prófa einka- eða paraþjálfun og einnig bjóðum við í Hreyfingu upp á frábæra nýja leið sem er Besta aðild. Meðlimir í Bestu aðild hafa ávallt aðgang að þjálfara, fá æfingaáætlanir og ástandsmælingar eftir þörfum og hvatningu og eftirlit. Besta aðild er í raun hagstæðasti kosturinn, svo mikið er innifalið í mánaðargjaldinu.“
Margir finna einnig fyrir stöðnun árum saman og ná ekki árangri þrátt fyrir að stunda ræktina. Hvað er þá til ráða?
„Líkaminn er svo ótrúlega magnaður, hann aðlagar sig að því álagi sem við bjóðum honum upp á. Því er hann fljótur að venjast nýjum æfingum og það þarf stöðugt að vera að koma honum á óvart með fjölbreyttum æfingum og mismunandi álagi. Það er nauðsynlegt að stokka reglulega upp æfingakerfið, breyta til og aðlaga. Ég mæli einnig með því að nota púlsmæli til að setja sér markmið, til dæmis Myzone, Fitbit eða annað slíkt. Við í Hreyfingu erum búin að Myzone-væða stöðina og það er gríðarlega hvetjandi að nota Myzone og hafa alltaf mælikvarða á öllum æfingum og samanburð við aðra.
Munum að ef við gerum alltaf það sama er líklegt og næstum öruggt að við fáum alltaf sömu niðurstöðu.“
Hverjar eru helstu áherslurnar hjá ykkur núna?
„Það má segja að aðaláherslan sé á fjölbreytni. Þarfir fólks eru æði misjafnar og einnig finnum við á okkar gestum í Hreyfingu að fólk vill fjölbreytni. Eitt af okkar gildum er fagmennska sem er rauði þráðurinn í öllu því sem við gerum. Þjálfarar okkar viða sífellt að sér þekkingu samkvæmt nýjustu vísindum og þeim fleygir fram í heilsuræktinni eins og öðru. Nýjustu námskeiðin okkar eru til dæmis Hörkuform þar sem unnið er markvisst að því að gefa vöðvunum nýjar áskoranir með afar krefjandi æfingakerfi. Barre-námskeiðin okkar bjóðum við í nokkrum ólíkum útfærslum, Hot Barre Fit, Barre & Buttlift og Barre Burn. Barre-námskeiðin byggjast á þrautreyndu og afar áhrifaríku æfingakerfi dansara, æfingarnar unnar að miklu leyti við ballettstöng. Ekki er um að ræða ballett, langt frá því, en mikið er unnið með að styrkja líkamann frá miðjunni, kjarnanum, sem hefur mikil og góð áhrif á líkamsstöðuna. Líkaminn er svo tónaður til á allan hátt með verulega góðum alhliða styrktaræfingum við stöngina. Konur sem prófa þessa tíma verða alveg heillaðar og koma á námskeið eftir námskeið.
Cyclothon er annað virkilega spennandi námskeið fyrir konur og karla sem hafa áhuga á útihjólreiðum og vilja þjálfa sig markvisst með þjálfara sem þekkir hjólreiðar út og inn, enda tvöfaldur Íslandsmeistari í götuhjólreiðum.
Önnur nýjung hjá okkur er námskeiðið Sterkar konur sem er einfaldlega verulega markvisst lyftinganámskeið sérstaklega samansett fyrir konur sem vilja verða stæltar og sterkar. Það eru ekki allir sem átta sig á því að með því að stunda styrktarþjálfun með skipulögðum hætti byggir þú upp líkama sem er ekki aðeins sterkur og stæltur, heldur einnig eykur þú verulega grunnbrennslu líkamans svo mun auðveldara er að halda sér í kjörþyngd. Þú gerir líkama þinn að sjálfvirkri brennsluvél ef þú stundar lyftingar.“
Hjá Hreyfingu bjóðið þið einnig upp á ýmiskonar dekur sem er kærkomið í bland við æfingarnar. Er ekki galdurinn einmitt sá, að vera með hörkupúl og verðlauna sig síðan með dekri og lúxus þegar vel gengur? „Það er engin spurning að hluti af heilsuræktinni er slökun og vellíðan. Slaka á í heitu pottunum, fara í nuddmeðferð og gefa sér einfaldlega tíma fyrir vellíðan.“
Lykilþættir heilsuræktar byggjast á eftirfarandi þáttum:
- Regluleg hreyfing – alhliða þol, styrktar- og liðleikaþjálfun.
- Hollar neysluvenjur – fjölbreytt mataræði með áherslu á óunnin matvæli og að sneiða sem mest hjá sætindum, reykja ekki og neyta áfengis í hófi.
- Góður svefn, hvíld og slökun – forðast streitu.
Myndir / Unnur Magna