Sunnudagur 27. október, 2024
-0.9 C
Reykjavik

Forréttindi að vera í draumastarfinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þórey Ólafsdóttir er viðskiptafræðingur og löggiltur fasteignasali, framkvæmdastjóri og einn af eigendum LANDMARK fasteignasölu. Þórey býr í notalegu raðhúsi í Garðabænum ásamt börnum sínum þremur, Andra Má, 18 ára, Arnari Má, 16 ára og Thelmu Lind, 13 ára, ásamt schnauzer-hundinum Skugga.

Hvað heillar þig mest við starfið?

„Það má kannski segja að það sem heilli mig mest við starfið séu þessi mannlegu samskipti, ánægjuleg upplifun viðskiptavina, gleði og einlægt þakklæti í lok fasteignaviðskipta. Það eru forréttindi að vera í draumastarfinu og hlakka til þess að mæta til vinnu á hverjum degi. Fasteignaviðskipti eru oftar en ekki þau stærstu sem fólk ræðst í og fáar fjárfestingar sem standa fólki nær.“

Getur þú lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?

„Dagarnir eru nú mjög fjölbreyttir og því kannski enginn hefðbundinn vinnudagur sem slíkur. Ég byrja flesta daga í ræktinni, fer út að hlaupa eða hjóla til að næla mér í orku fyrir daginn. Skipulag dagsins ræðst svo af þeim verkefnum sem liggja fyrir hverju sinni, hvort sem það er daglegur rekstur stofunnar, móttaka viðskiptavina, tölvupóstsamskipti, verðmat, sölusýningar eða tilboðsgerð. Hjá LANDMARK starfar mjög öflugur og þéttur hópur sem í sameiningu gerir vinnudaginn með eindæmum skemmtilegan og litríkan.“

Hvað finnst þér gera heimili að heimili?

„Heimilið er griðastaður fjölskyldunnar og á að endurspegla þá sem þar búa. Heimilið tekur breytingum eftir tímabilum, aldri fjölskyldumeðlima og þarfa þeirra hverju sinni en þar á alltaf að ríkja gagnkvæmt traust og einlæg vinátta.“

Getur lýst þínum stíl?

„Ég veit ekki hvort ég fylgi ákveðnum stíl en mér finnst gaman að blanda saman gömlu og nýju, klassíku og módern hvort sem það er í umgjörð heimilisins eða fatavali. Ég er þó fremur minimalísk og vil frekar eiga fáa og vandaða muni eða flíkur sem ég vel af kostgæfni.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt?

„Ég held að Sigvaldi Thordarson sé nú efstur á blaði hjá mér en hann var sannkallaður listamaður á sínu sviði. Stílhreinar línur, fallegir litir og frábært skipulag einkennir öll hans verk.“

Hver er þinn uppáhaldshönnuður?

„Ég er alltaf mjög hrifin af allri skandinavískri hönnun, Design by us og HAY sem dæmi en þegar kemur að innanhússhönnun þá er það klárlega æskuvinkona mín og innanhússarkitektinn hún Thelma Björk Friðriksdóttir.“

- Auglýsing -

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast?

„Ég er mjög ánægð og þakklát með allt mitt og mína, frekar nægjusöm og vil hafa fáa en vandaða hluti í kringum mig. En það er kannski helst pottur á pallinn og útisturta sem kemur upp í hugann þar sem það er efst á óskalista barnanna um þessar mundir.“

Uppáhaldsliturinn þinn?

„Ég er frekar stílhrein, vel gjarnan ljósa tóna og held að það endurspegli bæði litapallettu heimilisins og fataskápsins.“

Hvar líður þér best?

„Þegar ég þarf að hreinsa hugann og sækja mér orku fer ég yfirleitt eitthvað út að hreyfa mig og líður einstaklega vel á hlaupum, hjóli eða uppi á fjalli. Annars líður mér klárlega best í stofunni heima, helst umkringd börnunum mínum og vinum. Samverustundir fjölskyldunnar mættu þó vera fleiri en eftir því sem krakkarnir eldast virðist vera minni tími með mömmu þar sem dagskrá þeirra er þéttskipuð íþróttaæfingum, vinnu og tíma með vinunum.“

Er eitthvað sem þig langar að eignast í garðinn?

„Mér finnst alltaf gaman að stússast úti við og setja niður sumarblómin en að teknu tilliti til fjölda sólarstunda þetta sumarið þá væri það helst ein risamarkísa, öflugur hitalampi og spurning um heita pottinn fyrir krakkana.“

- Auglýsing -

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?

„Við erum ótrúlega lánsöm að búa í borg þar sem fjölbreytni og úrval framúrskarandi veitingastaða er jafnmikið og raun ber vitni. Ég er mjög dugleg að fara út að borða og mínir uppáhaldsstaðir í dag eru Rok, Sumac og Apótekið en auk þess heimsæki ég Mathús Garðabæjar auðvitað mjög reglulega.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar?

„Ég held að hver stíll hafi sinn sjarma en það er kannski helst módernisminn sem heillar mig perónulega.“

Að lifa lífinu lifandi er að …

„… setja sjálfa sig í forgang og gefa sér tíma til að rækta sjálfa sig. Verja góðum gæðastundum með börnum, fjölskyldu og vinum sem laða fram það besta í okkar fari því það gerir lífið svo skemmtilegt.“

Mynd / Hallur Karlsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -