Fimmtudagur 26. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Framtíðarlausnir sem geta breytt heiminum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Til sjávar og sveita er fyrsti viðskiptahraðalinn hérlendis sem einblínir á nýjar lausnir og sjálfbæra verðmætasköpun í landbúnaði og sjávarútvegi. Tíu spennandi teymi frumkvöðla voru valin úr hópi rúmlega sjötíu umsókna.

Á Íslandi má finna ótrúlega hugmyndauðgi í nýsköpun í landbúnaði og sjávarútvegi, tveimur af grunnstoðum íslensks atvinnulífs, að sögn Melkorku Sigríðar Magnúsdóttur, verkefnastjóra hjá Icelandic Startups.

Til sjávar og sveita er fyrsti viðskiptahraðalinn hérlendis sem einblínir á nýjar lausnir og sjálfbæra verðmætasköpun í landbúnaði og sjávarútvegi en tíu teymi frumkvöðla voru valin úr hópi rúmlega sjötíu umsókna. „Við val á teymum skiptu tveir þættir mestu máli, nýnæmi vörunnar eða þjónustunnar og teymið sjálft. Það er nefnilega ekki nóg að vera með góða hugmynd heldur skiptir öllu að hafa gott þverfaglegt teymi á bak við hugmyndina svo hún vaxi, dafni og verði að veruleika.“

Stífar vikur fram undan

Viðskiptahraðallinn hófst í lok mars og stendur yfir til loka maí. „Þetta eru stífar níu vikur hjá frumkvöðlunum okkar sem innihalda m.a. sjö lotur af vinnusmiðjum og fundi með yfir 40 mentorum en þann hóp skipa stjórnendur, frumkvöðlar, fjárfestar og aðrir sérfræðingar úr atvinnulífinu. Auk þess fá hóparnir fyrsta flokks vinnuaðstöðu í Íslenska ferðaklasanum úti á Granda. Hraðlinum lýkur svo 24. maí með uppskerudegi í Tjarnarbíói þar sem hóparnir munu kynna viðskiptahugmyndirnar sínar. Allt þetta, og raunar meira til, er þátttakendum að kostnaðarlausu.“

Fjölbreyttar lausnir

Icelandic Startups keyrir sambærilega viðskiptahraðla er snúa að stórum atvinnugreinum. „Þar er Startup Reykjavík sennilega sá þekktasti en hann einblínir á tækni og skapandi greinar. Einnig höldum við Startup Energy Reykjavik fyrir frumkvöðla í orkugeiranum og Startup Tourism fyrir frumkvöðla í ferðaþjónustu. Það lá því beinast við að setja á fót sams konar hraðal fyrir þessar tvær höfuðatvinnugreinar þjóðarinnar, sjávarútveg og landbúnað. Það var krefjandi verkefni að velja úr þeim fjölda góðra umsókna sem við fengum en loks voru tíu teymi valin til þátttöku. Þrjú þeirra vinna að tæknilausnum en hin sjö eru afurðartengd og koma bæði úr landbúnaði og sjávarútvegi. Mér finnst ótrúleg breidd í þessum hópi og það verður sannarlega spennandi að sjá hvernig teymunum tíu tekst til.“

- Auglýsing -

Öllu ferlinu hraðað

Til sjávar og sveita á að vera uppspretta nýrra vara og þjónustu og varpa ljósi á tækifærin sem felast í sjálfbærri nýtingu auðlinda á Íslandi að sögn Melkorku. „Helsta markmið hraðalsins er að hraða ferlinu frá hugmynd til fyrirtækis og hjálpa við að fullvinna vöru eða þjónustu. Það er mjög mikilvægt að hlúa að frumkvöðlum á þessu stigi en margir sprotar þurfa langan þróunartíma sökum nýnæmis hugmyndanna, jafnvel 5-10 ár. Með því að hraða og einfalda þetta ferli, sem er oft nógu flókið fyrir, leggjum við okkar að mörkum við að styðja við framtíðarlausnir sem sumar hafa jafnvel möguleika á að breyta heiminum.“

Djarfar hugmyndir virka vel

- Auglýsing -

Það kemur vafalaust mörgum á óvart hversu mikil nýsköpun er í landbúnaði og sjávarútvegi hér á landi segir Melkorka. „Þar má m.a. nefna Jurt Hydroponics sem er að rækta íslenskt wasabi á Austfjörðum, Lava cheese er að framleiða lágkolvetna ostasnakk, Havarí býr til vegan-pulsur úr byggi og Kerecis er að nýta fiskiroð til að græða sár. Hér má finna mikið af ótrúlega spennandi hráefnum í bland við áræðna frumkvöðla með djarfar hugmyndir.“

Þýðir ekki að missa af byltingunni

Auk þess búum við yfir svo mörgu hér á landi til að geta brugðist við breyttum neysluvenjum bætir hún við. „Nýjar kynslóðir ýta á breytingar í neyslu á mat og matarvenjum sem hafa áhrif á framleiðslu um allan heim. Þar má nefna auknar kröfur um gegnsæi í framleiðslu og flutningsferli, minni neyslu á dýraafurðum út af umhverfissjónarmiðum, meiri sjálfbærni, áherslu á vörur úr nærumhverfi, lóðrétta ræktun og margt fleira. Ég vil líta á þetta sem ótrúlega spennandi tíma og við Íslendingar verðum að taka þátt og vera samkeppnishæfir á erlendum grundvelli. Það þýðir ekki að missa af þeirri tækni- og matvælabyltingu sem á sér stað um allan heim, við höfum nefnilega alla burði til að vera í fararbroddi þegar kemur að nýjungum og lausnum í þessum atvinnugreinum.“

Til sjávar og sveita viðskiptahraðallinn er haldinn í samstarfi við Íslenska Sjávarklasann og með stuðningi frá IKEA á Íslandi, Matarauði Íslands, HB Granda og Landbúnaðarklasans.

Nánari upplýsingar má finna á tilsjavarogsveita.is.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Til sjávar og sveita

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -