Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Hársnyrting og góður dreitill að hætti villta vestursins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á Laugaveginum er að finna einstaklega frumlega og skemmtilega hársnyrtistofu sem hefur vakið athygli fyrir að vera svo miklu meira en hársnyrtistofa. Stíllinn á stofunni minnir óneitanlega á villta vestrið og aðkoman heillar.

Hjónin Jón A. Sveinsson meistari í hársnyrtiiðn, ávallt kallaður Nonni Quest, og Guðrún Elísabet Ómarsdóttir heildsali.

Okkur lék forvitni að vita nánar hvers konar hársnyrtistofa Quest – Hair, Beer & Whisky Saloon er og hvað hún hefur upp á að bjóða. Við hittum eigendur hársnyrtistofunnar margbrotnu, hjónin Jón A. Sveinsson, meistara í hársnyrtiiðn, og er ávallt kallaður Nonni Quest, og Guðrúnu Elísabetu Ómarsdóttur heildsala, en hún er kölluð Beta, og fræddust við frekar um tilurð fyrirtækisins og hugmyndafræðina bak við stofuna.

Nonni er fæddur og uppalinn í faginu og fór að læra háriðn árið 1993 og opnaði Quest í apríl 1999. Beta var að vinna í snyrtivörugeiranum þar til þau tóku við stofu foreldra Nonna árið 2007. Hjónin eru að eigin sögn bæði miklir sælkerar og njóta þess að ferðast, hlusta, skoða, neyta og njóta saman.

Segið okkur aðeins frá hugmyndinni bak við Quest – Hair, Beer & Whisky Saloon og tilurð? „Hugmyndin varð bara til og er í raun enn að verða til. Við erum alltaf saman og eiginlega alltaf í vinnunni og stofan í raun sameiginlegt áhugamál okkar. Okkur datt í hug að gera bara allt sem okkur finnst skemmtilegt og setja það undir sama þakið.“

Hvernig mynduð þið lýsa hársnyrtistofunni í einni málsgrein? „Góð tónlist, ljúffengir drykkir, skemmtilegt fólk og þægilegt andrúmsloft.“

Á hársnyrtistofan sér fyrirmynd úti í heimi? „Nei, í rauninni ekki. Það var engin ein stofa sem við höfðum í huga. Þetta bara gerðist mjög lífrænt. Gamlar bækur og bíómyndir um sögu rakarans eru okkar helstu fyrirmyndir.“

Hársnyrting og viskíbar er skemmtileg samsetning og minnir á villta vestrið. Stofan hlýtur að vera vinsæl meðal viðskiptavina og laða þá að. Eru ekki margir fastakúnnar sem njóta þess að láta dekra við sig og fá smávegis viskídreitil? „Jú, svo sannarlega. Þetta smellpassar saman. Fólk kemur og nærir sig að innan og utan. Seinnipartstímar dagsins eru orðnir ansi fljótir að fyllast og menn eru yfirleitt með tímana sína fastbókaða langt fram í tímann og reyna oft að koma með vinum sínum og halda fundi,“ segir Nonni og brosir.

- Auglýsing -

Við höfum heyrt að þið bjóðið einnig upp á smakkanir sem hafa notið mikilla vinsælla. Frumleikinn er við völd og þið hafið verið með ýmsar samsetningar. Okkur langar að heyra aðeins meira af því. „Við erum sérlegt áhugafólk um lífsins lystisemdir, til að mynda mat og vín. Við höfum sankað að okkur yndislega ljúffengu og spennandi úrvali af viskíi sem okkur fannst við verða að deila með öðrum. Þannig að við settum saman nokkrar smakkferðir þar sem við höfum tekið saman, til dæmis nokkur viskí sem okkur finnst lýsa vel þeirri miklu flóru sem bragðheimur viskís hefur upp á að bjóða. Einnig höfum við verið að para saman viskí og bjór og það kemur ótrúlega skemmtilega á óvart. Við höfum stúderað aðeins sögu kokteilsins og hvernig hugsanlega fyrstu viskíkokteilarnir hafi smakkast.“

Þið hafið boðið upp á fjölmarga viðburði af ýmsu tagi, getur þú sagt okkur aðeins frá því konsepti? „Við höfum haldið listsýningar, verið með ljóðaupplestur, einkapartí og mikið af tónleikum. Við erum til dæmis búin að vera Off-Venue á Airwaves þrjú ár í röð og svo fengum við að hýsa tónleikaröð Sofar Sound í eitt skipti sem var frábært. Okkur finnst alveg nauðsynlegt að brjóta upp daglegu rútínuna svona endrum og sinnum.“

Hvar getur fólk fylgst með því sem er í boði hjá ykkur að hverju sinni? „Við reynum að vera dugleg á samfélagsmiðlum, t.d. er www.questsaloon.is síðan okkar á Facebook og þar er hægt að fylgjast með og senda okkur fyrirspurnir. Svo erum við á Instagram, VK og Twitter sem #questsaloon eða #nonniquest.“

- Auglýsing -

Einnig er hægt að kaupa ýmsan varning hjá ykkur, ýmis konar hársnyrtivörur og fylgihluti, ekki satt? „Við erum líka með heildsölu á hárlitum og hárefnum frá Goldwell, DENMAN og KMS California sem við seljum á aðrar stofur og einnig til viðskiptavina okkar. Á barnum/afgreiðslunni er skemmtilega fjölbreytt flóra af hárefnum, skeggvörum, burstum, bjór, viskíi og ýmsu öðru skemmtilegu.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Mini. 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -