Fimmtudagur 23. janúar, 2025
-0.9 C
Reykjavik

Hvernig hlúi ég að geðheilsunni?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands
„Geðheilsa er gulli betri. Sjálfum líður mér best þegar ég ofgeri mér ekki í vinnu, fylgi eigin skipulagi og reyni að hreyfa mig – fer út að ganga, hlaupa eða hjóla. Ég nýt þess líka að vera með fólkinu mínu, fjölskyldu og vinum, en mætti vera duglegri við að leita þar stuðnings þegar svo ber undir. Maður reynir að láta gott af sér leiða og sömuleiðis að láta ekki það sem maður ræður litlu eða engu um slá sig út af laginu ‒ óréttlæti heimsins, ósanngirni annarra og annan ósóma. Þetta getur verið erfitt. En þannig er þetta blessaða líf.“

Helena Sverrisdóttir körfuknattleikskona
„Til að stuðla að góðri geðheilsu að mínu mati er mikilvægt að þekkja sjálfan sig vel, að kunna að vera einn með sjálfum sér og hugsa um heilsuna sína – líkamlegu og andlegu. Að hafa góðar og traustar manneskjur í kringum sig sem styðja mann og maður getur leitað til er einnig mikilvægt.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra
„Útivist og hreyfing skiptir mig höfuðmáli þegar kemur að því að rækta andlegu hliðina. Mér finnst best að reyna að skynja náttúruna í kringum mig og hleyp til dæmis aldrei með neitt í eyrunum, heldur hlusta á umhverfið og sjálfan mig erfiða. Ég stunda líkamsrækt reglulega og mér hefur gefist best að hafa þjálfara og æfingafélaga. Ég sæki einnig bæði ró og útrás í allra handa útivist, fer reglulega í gönguferðir og veiði. Í sumar fór ég í stórkostlega hestaferð á Snæfellsnesi, gekk á jökul og fór í óbyggðirnar á Hornströndum. Þegar álagið verður mikið leita ég stundum í hugleiðslu, það þarf ekki að vera flókið, því allt sem þarf er við höndina í símanum. Það er ótrúlegt hvað nokkrar mínútur í ró og íhugun geta hlaðið geyminn.“

- Auglýsing -

GDRN tónlistarkona
„Fyrir mér skiptir miklu máli að vera hreinskilin við sjálfan mig og fólkið í kringum sig um hvernig manni líður. Ekki fela eða birgja það inni þegar það er erfitt og manni líður illa. Við búum í samfélagi þar sem við fáum oft skilaboðin um að við þurfum að vera sterk og fullkomin, en við þurfum að minna okkur á að allir og þar með talið við sjálf erum ófullkomin, við munum gera mistök og við munum vera brothætt á tímum. Þá er mikilvægt að tala við sína nánustu og leita sér hjálpar þegar maður þarf á því að halda og aldrei nokkurn tímann skammast sín fyrir það, því það er ekkert sem sýnir meiri styrkleika en þegar maður tekur skrefið til að fá viðeigandi hjálp.“

Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir, jógakennari og sálfræðinemi
„Ég næ bestu tengslunum við sjálfa mig á flakki úti í náttúrunni. Þar næ ég að skilja verkefnin eftir heima í borginni og að setja hlutina svolítið í samhengi. Auk þess finn ég að það styrkir bæði líkama og hug að takast á við þær krefjandi aðstæður sem náttúran hefur upp á að bjóða.“

- Auglýsing -

Bubbi Morthens tónlistarmaður
„Til að næra geðið mitt rækta ég rósir, fer í veiði og ver miklum tíma með fólkinu mínu. Ég drekk ekki og reyki ekki og borða frekar hollt og ég passa upp á svefninn. Ég stunda líkamsrækt fimm sinnum í viku og les mikið. Ég reyni að vera jákvæður alla daga og hvern dag byrja ég á að hugleiða og passa þannig upp á geðið mitt. Ég þarf að leggja inn til þess að uppskera.“

Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachmann, laganemi og ein af skipuleggjendum Druslugöngunnar
„Ég elska að vera í vatni og hita, þannig að ég reyni að fara í sund, gufu, hot-jóga, langa sturtu eða gott bað þegar ég finn að ég þarf að rétta mig af (auka plús að maður fær hvíld frá símanum á meðan). Annars finnst mér allt jóga hjálpa mér almennt mjög mikið, sérstaklega jóga-nidra þegar ég finn að ég er að keyra mig út og það hjálpar mér líka að koma svefninum í lag. Svo er alltaf einfalt og þægilegt að fara í göngutúr (eða liggja heima í slökun ef ég kem mér ekki út) með hlaðvarp sem kemur hugsununum í jafnvægi, eins og t.d. Normið með Sylviu og Evu eða viðtöl við fólk með skemmtilegar pælingar. Uppáhaldsskyndilausnin mín til að rétta mig af verður samt alltaf sú að kveikja á góðri tónlist og dansa hugsunarlaust a.m.k. við heilt lag.“

Fanney Ómarsdóttir verkefnastjóri
„Sofa vel, ekki bara lengi heldur reyna að auka gæði svefnsins. Tala við sálfræðing af og til. Tala við vini og fjölskyldu. Hreyfa mig með leikfimi (hóptími með teygjum og öllu). Taka kvíðalyf. Slappa af. Reyna að borða vel og fjölbreytt, en ekki fara í megrunarkúra. Fara út að ganga og hlusta á hlaðvarp. Reyna að minnka stress ef það fer vaxandi.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi
„Ég hlúi að geðheilsunni með því að hlusta á tónlist, horfa á þætti og fara út að hlaupa. Stundum ýti ég á „truflið ekki“ í símanum svo að ekkert utanaðkomandi áreiti nái til mín. Mér finnst mjög gott að hlaupa með fram sjónum og finnst best þegar ég fatta allt í einu að ég er ekki að hugsa um neitt. Ég hlúi líka að geðheilsunni með því að tala við vini og mömmu mína og borða góðan mat. Það er nærandi fyrir líkama og sál.“

Greinina er að finna í blaði Geðhjálpar

Á www.39.is getur þú skrifað undir áskorun þess efnis að setja geðheilsu í forgang í samfélaginu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna og síminn opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -