Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Leyndardómar súkkulaðiverksmiðjunnar OMNOM

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Við litum inn í súkkulaðiverksmiðjuna OMNOM sem staðsett er við Hólmaslóð 2 í Reykjavík í glæsilegum húsakynnum. Þar hittum við stofnandann og einn af eigendunum súkkulaðiverksmiðjunnar, Kjartan Gíslason, sem bauð okkur í draumaferðina um verksmiðjuna þar sem leyndarmál súkkulaðsins eru geymd. Súkkulaðiilmurinn sem tók á móti okkur var ómótstæðilegur.

Hvernig kviknaði áhuginn á súkkulaðigerðinni?
„Omnom-ævintýrið byrjaði af einskærri forvitni um hvernig súkkulaði væri gert. Ég reifaði þessa hugmynd við æskuvin minn, Óskar Þórðarson, og saman fórum við að pæla í þessu. Við erum báðir miklir sælkerar og finnst gaman að fara út að borða og velta fyrir okkur mat. Við fórum í það að kanna mögleika á tólum og tækjum til súkkulaðigerðar og eftir nokkrar misgóðar tilraunir vorum við komnir með eitthvað sem hægt er að kalla súkkulaði. Þetta ferli var svo spennandi og skemmtilegt að við vildum fara í framleiðslu og fengum til liðs okkur hönnuð sem á heiðurinn af hönnun umbúðanna. Þegar það var tilbúið sáum við að við vorum með eitthvað sérstakt í höndunum.“

Getur þú sagt okkur aðeins frá tilurð súkkulaðigerðarinnar og framkvæmdinni?
„Við byrjuðum heima hjá mér að rista og mala baunir og búa til súkkulaði, þangað til við fundum yfirgefna bensínstöð á Seltjarnarnesi. Þar héldum við starfinu áfram þangað til fyrsta varan okkar var tilbúin. Það fóru margar næturvinnustundir og margar kaffikönnur í að koma framleiðslunni af stað. Í dag starfa yfir tuttugu manns hjá Omnom. Við verðum með okkar eigin verslun og bjóðum upp á súkkulaðitúr á hverjum einasta degi. Við finnum fyrir miklum áhuga á Omnom og súkkulaðinu okkar.“

Hvað er erfiðast við að framleiða gott súkkulaði?
„Að bíða eftir því að súkkulaðiblanda verði tilbúin. Súkkulaðigerð er tímafrek og stundum þurfum við að bíða í þrjá daga þar til að uppskrift er tilbúin.“

„Við bjóðum upp á súkkulaðitúra á hverjum einasta degi. Við finnum fyrir miklum áhuga á hvernig súkkulaði er búið til, eins og í víngerð og ostagerð.“

Hvernig fer vöruþróunin fram?
„Ég fæ að leika mér í tilraunaeldhúsinu eins og snarbrjálaður vísindamaður í kvikmyndunum. Nei, en að öllu gamni slepptu er það stundum þannig. Black n Burnt Barley varð til þannig. Það var upprunalega hvítt súkkulaði sem varð svart því við prófuðum að bæta brenndu byggi út í súkkulaðið. Fyrir jólin í fyrra efndum við til keppni innanhúss fyrir vetrarsúkkulaðið okkar. Það var mjög skemmtileg tilraun og allir fengu að leggja sitt af mörkum. Allir sem starfa hérna fá að búa til sitt eigið súkkulaði. Það hafa margar mjög góðar súkkulaðitegundir lent inn á borði hjá mér í þessum tilraunum – reyndar líka mjög sérstakt súkkulaði.“

Umbúðirnar eru einstaklega vel útfærðar og lógóið hefur vakið athygli, hver er hönnuðurinn og hvaðan kemur innblásturinn?
„André Visage hönnuður bjó til lógóið og hönnun umbúðanna. Við vildum að útlit umbúðanna væri í anda súkkulaðisins. Litríkt og skemmtilegt og útkoman var sú sem við þekkjum í dag. Í dag er Veronica Filippin hönnuðurinn okkar. Allt sem að hún gerir er gull.“

Bjóðið þið upp á heimsóknir og kynningar í súkkulaðiverksmiðjunni að hætti Kalla, það er segja að fyrirmynd „Charlie and the Chocolate Factory“ ?
„Heldur betur og erum með Oompa Loompas í fullu starfi,“ segir Kjartan hlæjandi. „Við bjóðum upp á súkkulaðitúra á hverjum einasta degi. Við finnum fyrir miklum áhuga á hvernig súkkulaði er búið til, eins og í víngerð og ostagerð. Við höldum einnig allskyns skemmtileg námskeið, eins og í til dæmis súkkulaði- og bjórpörun. Næsti viðburður okkar er haldinn í samstarfi við Reykjavík Roasters þar sem við ætlum að bjóða upp á súkkulaði- og kaffipörun. Það verður mjög skemmtileg stund sem haldin verður 6. október næstkomandi og ég hvet sem flesta til þess að skrá sig.“

- Auglýsing -

Framtíðin er björt hjá fyrirtækinu og það blómstrar og dafnar vel. Eru einhver ný framtíðarplön?
„Helsta markmið okkar er að halda áfram að búa til hágæða súkkulaði og gera lífið skemmtilegra fyrir fólk.“

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Mini.

- Auglýsing -

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -