Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

Náttúruvæn og vistvæn lúxusafurð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslenski æðardúnninn er einstök náttúruafurð en stór hluti heimsframleiðslunnar er tíndur hér á landi og fluttur úr landi óunninn. Fyrirtækið Íslenskur dúnn ætlar að breyta því.

Heimsókn eitt sumarið til Borgarfjarðar eystri fyrir nokkrum árum átti heldur betur eftir að reynast afdrifarík fyrir Rögnu S. Óskarsdóttur og sambýlismann, Þóri Guðmundsson. Í kjölfarið festu þau kaup á húsi þar, í magnaðri náttúrufegurð og einstöku samfélagi manna eins og hún orðar það, og gerðu að sínu öðru heimili.

Það var í heimsókn til Ólafs Aðalsteinssonar, æðarbónda í Loðmundarfirði, og eiginkonu hans, Jóhönnu Óladóttur, síðasta sumar sem hugmyndin fæddist hjá þeim; að kaupa æðardún af bændum, framleiða úr honum og selja innanlands og erlendis í gegnum Netið. „Við vörðum deginum með þeim heiðurshjónum og Ólafur leiddi okkur í allan sannleika um æðardúninn auk þess að ganga með okkur um varpstöðvarnar, en það eitt og sér er ævintýri út af fyrir sig. Ólafur hafði þá miklar áhyggjur af því að megnið af þessum dásamlega dúni væri fluttur út óunninn ár hvert. Þær áhyggjur og samræður okkar á milli í kjölfarið kveiktu heldur betur í okkur og allt fór í gang.“

„Því er afurðin eins náttúruvæn og vistvæn og hugsast getur. Að auki er dúnninn náttúrulegt undraefni sem á sér ekki hliðstæðu.“

Vilja breyta ferlinu
Ragna segir að frá þeirri stundu, þegar þau keyrðu úr hlaði frá þeim hjónum, hafi ekki verið aftur snúið. „Veturinn hefur farið í alls kyns pælingar og áætlanagerð. Nú erum við fimm í hópnum, öll með ólíka styrkleika sem hentar verkefninu vel.

Að meðaltali flytja Íslendingar út um þrjú tonn af dúni á ári sem er um ¾ heimsframleiðslunnar. Dúnninn er að mestu leyti fluttur út hreinsaður, en að öðru leyti óunninn og eru helstu viðtökulönd Japan og Þýskaland. Þessu viljum við hjá Íslenskum dún breyta, við viljum þvo og fullvinna æðardúninn hér heima.“

Auk Rögnu og Þóris skipa hópinn fyrrnefndur Ólafur æðarbóndi, Kristján Már Gunnarsson og Guðrún Ástrós Bergsveinsdóttir. „Ég stýri verkefninu og Kristján sér um vefsíðugerð og markaðssetningu á Netinu. Óli safnar dúninum og er auk þess sérfróður í öllu sem viðkemur vinnslu æðardúns. Þórir sér um uppbyggingu verkferla og verkstæðis. Síðast en ekki síst sér Ástrós um efniskaup og samsetningu værðarvoða.“

Einstök náttúruafurð
Það sem er mest spennandi við verkefnið, að hennar sögn, er sú staðreynd að Íslendingar eru nánast með einokunaraðstöðu á heimsins besta dúni, sem er æðardúnninn. „Hann er algjörlega einstök náttúruafurð. Frá landnámi hafa þeir bændur sem höfðu æðarvarp á jörðum sínum, vakað yfir varpinu á vormánuðum, stuggað burt vargfugli og tófu, ásamt því að hjálpa fuglinum við hreiðurgerð og umönnun eggja og unga. Þegar æðarkollan verpir tætir hún dúninn af bringu sinni til að halda hita á eggjunum. Ef bóndinn myndi ekki hirða dúninn úr hreiðrunum myndi hann aðeins fjúka í burtu, engum til gagns. En í stað þess hafa bændur í gegnum aldirnar nýtt þessa einstöku auðlind til að halda hita á sér og sínum.“

- Auglýsing -

Algjört undraefni
Ragna segir æðarfuglinn vera eina fuglinn sem fellir dún í þessu magni í hreiður sín. „Annar dúnn sem við þekkjum er reyttur af fuglunum. Því er afurðin eins náttúruvæn og vistvæn og hugsast getur. Að auki er dúnninn náttúrulegt undraefni sem á sér ekki hliðstæðu.

Eiginleikar hans eru einstakir því hann er þakinn örfínum, mjúkum, króklaga þráðum sem valda samloðun hans. Hann er loftmikill sem veldur einstökum léttleika, háu einangrunargildi og góðri öndun. Úr hverju hreiðri safnast um 15-17 g af dúni og því þarf um 60-80 hreiður til að safna 1 kg af dúni.“

Hún minnir á að flestir verji um þriðjungi ævinnar umvafðir sæng. „Því eigum við aðeins að sætta okkur við það besta þegar kemur að vali hennar. Það má því segja að viðskiptavinir okkar séu þeir sem vita hvers virði góður svefn er.“

- Auglýsing -

Vilja fullvinna innanlands
Teymið stefnir að því að leggja sitt á vogarskálarnar til að draga úr útflutningi á óunnum æðardúni. „Við viljum róa að því öllum árum að fullvinna þessa dásamlegu og einstöku afurð innanlands. Með stofnun fyrirtækisins viljum við líka fjölga störfum í heimabyggð, en Borgarfjörður eystri tekur þátt í verkefni Byggðastofnunar sem kallast Brothættar byggðir. Markmið þess er að styrkja atvinnusköpun í sveitarfélögum sem hafa átt undir högg að sækja á undanförnum árum.“

Bera saman bækur
Markmið þeirra með þátttöku í viðskiptahraðlinum er fyrst og fremst að koma verkefninu í gegnum þá þeytivindu sem viðskiptahraðall af þessu tagi er. „Fjöldi sérfræðinga úr atvinnulífinu, bæði sem fyrirlesarar og ráðgjafar, koma með hafsjó af ábendingum og athugasemdum sem nýtast okkur til að gera hugmyndirnar okkar enn betri. Ekki má síðan gleyma hinum teymunum sem taka þátt í verkefninu, það er ómetanlegt að geta borið saman bækur og miðlað reynslu á milli teymanna. Sem betur fer er stuðningur bæði einkaaðila og yfirvalda við íslenska frumkvöðla alltaf að aukast enda sjáum við urmul spennandi fyrirtækja spretta upp víðs vegar um landið. Við hlökkum sannarlega til að slást í hóp þessara fyrirtækja.“

Myndatexti: Guðrún Ástrós Bergsveinsdóttir, Ragna S. Óskarsdóttir og Kristján Már Gunnarsson.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Til sjávar og sveita.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -