Föstudagur 24. janúar, 2025
-0.6 C
Reykjavik

Samfélagið býr til skömm í börnunum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Gísladóttir, varaformaður Geðhjálpar, segir eitt brýnasta verkefni samtakanna vera að efla fræðslu og stuðning við börn sem alast upp hjá foreldrum með geðrænan vanda. Nánast engin úrræði séu í boði fyrir þann hóp. Sigríður ólst sjálf upp hjá móður með geðrænan vanda og þekkir því af eigin raun áhrif þess að alast upp við slíkar aðstæður.

Sigríður segir mikilvægt að ná til barnanna eins ungra og mögulegt er þar sem þau læri smám saman að skammast sín fyrir ástandið. „Mér finnst samfélagið vera að búa til skömm í börnum foreldra með geðrænan vanda,“ segir hún. „Þess vegna skiptir svo miklu máli að við styðjum við þau í æsku, kennum þeim að það sé í lagi að tala um þetta svo við aukum ekki líkurnar á því að veikindin fari áfram til næstu kynslóðar. Ég upplifði það sem barn að það fylgdi því mikil skömm að tala um sjúkdóm mömmu og mér fannst ég vera algjörlega ein í þessari stöðu, það hefur mikil áhrif á líðanina bæði í æsku og á fullorðinsárum.“

Spurð hvernig samstarfi Geðhjálpar við skólana sé háttað í þessu verkefni segir Sigríður að það sé á byrjunarstigi, en sé næsta skref á leiðinni að úrbótum. „Samtökin sem við erum í samstarfi við, Our time, eru með prógramm fyrir skólana sem gengur meðal annars út á að tala við kennarana og útskýra hvernig eigi að tala við börn um geðrænan vanda og hvernig sé hægt að aðstoða þau. Í þessum aðstæðum á skólinn að vera griðastaður, börn eiga að geta leitað til kennara eða einhvers í skólanum sem þau geta talað við. Ég upplifði mikinn kvíða í skólanum sem barn. Mamma hringdi mig oft inn veika þegar að það voru miklir erfiðleikar hjá henni. Skólasókn og einkunnir mínar voru mér ekki mikilvægar í þeim aðstæðum. Það hefði skipt miklu máli fyrir mig að upplifa öryggi og stuðning í skólanum, en í staðinn var ég skömmuð fyrir slæma mætingu og frammistöðu. Ég var aldrei spurð um mína líðan eða ástandið heima. Þess vegna kveið ég því mikið að mæta í skólann því þar upplifði ég að ég væri óþekk og lélegur nemandi. Stuðningur og fræðsla fyrir börn sem eiga foreldri með geðrænan vanda er bæði réttur barnanna og foreldra.“

Börnin hafa enga rödd

Þú segir að þegar þú komst inn í stjórn Geðhjálpar hefðirðu byrjað á því að leita svara við því hvort einhverjar úrbætur hefðu orðið í þessum málaflokki síðan þú varst barn, hver er niðurstaðan, hefur eitthvað breyst? „Nei,“ segir Sigríður ákveðin. „Þetta hefur ekkert breyst, því miður, ég vildi að svo væri en ástandið er enn það sama. Það er ekkert úrræði fyrir þessi börn og fólk virðist ekki setja börnin í fyrsta sæti. Þau hafa engan talsmann, þau hafa enga rödd og það hlustar enginn á þau. Það var alla vega mín upplifun og þess vegna finnst mér svo mikilvægt að ég nýti röddina mína, núna þegar ég er orðin fullorðin. Nú er hlustað á mig en það hlustar enginn á börnin þegar þau eru lítil. Það er líka mjög algengt í þessum aðstæðum að börn verndi foreldrið, vilji ekki segja frá og séu hrædd um að verða tekin frá foreldrinu. Þess vegna er svo mikilvægt að búa til umhverfi þar sem þau upplifa að þau geti talað um þetta, fengið ráð, fengið stuðning og finni ekki fyrir þessari skömm og hræðslu. Það er umhverfi sem ég tel að sé bara alls ekki til staðar á Íslandi og því þarf að breyta.“

Viðtalið í heild er að finna í blaði Geðhjálpar

- Auglýsing -

Á www.39.is getur þú skrifað undir áskorun þess efnis að setja geðheilsu í forgang í samfélaginu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna og síminn opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -