Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Töfraseyði og ætileg blóm á nýjum bar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hjónin Íris Ann Sigurðardóttir og Lucas Keller létu drauma sína rætast þegar þau ákváðu að opna veitinga- og sælkerastaðinn Coocoo´s Nest út á Granda og bráðum munu þau einnig opna spennandi og sérstæðan bar. Hjónin kynntust á Ítalíu á sínum tíma. Lucas er frá Kaliforníu og var að læra matreiðslu og Íris Ann var að læra ljósmyndun og sjónlist. Saman eiga þau tvo dásamlega stráka, Indigo, þriggja ára og Sky, fimm ára.

Íris Ann Sigurðarsdóttir og Lucas Keller, eigendur Coocoo´s Nest, ásamt sonum sínum Indigo, þriggja ára og Sky, fimm ára.

Hver er sagan að bak við tilurð fyrirtækisins ykkar og vali á staðsetningunni? „Við vorum með svipaða drauma um að opna svona „konsept“ sem við sameinuðum. Einn af draumum Lucasar var meðal annars að taka þátt í uppbyggingu á nýju hverfi og því gat þessi staðsetning ekki verið betri.“

Þið hafið skapað ykkur ákveðna sérstöðu með ykkar framreiðslu á Coocoo´s Nest og vakið athygli fyrir, hver eru ykkar áherslur og markmið? „Það skiptir okkur miklu máli að vera samkvæm sjálfum okkur og svo erum við mjög meðvituð um að vera eins vistvæn og hægt er. Lucas er mjög ástríðufullur kokkur og sleppur engum skrefum í sinni framleiðslu. Gæðahráefni og að vinna hráefni frá grunni er okkar sérstaða á The Coocoo’s Nest.

Hvernig myndir þú lýsa staðnum og framtíðarsýn ykkar? „Við myndum lýsa staðnum sem samastað þar sem allir eru velkomnir og allir eru jafnir. Við elskum að láta okkur dreyma enda var það byrjunin á þessu ævintýri að lofa okkur að dreyma, meira segja þegar maður vissi ekki hvernig maður myndi framkvæma þá drauma, það er partur af galdrinum.“

Á þessum bar verða seld blóm, plöntur og önnur fallega smávara eins og kristallar og annað úr kuklheiminum.

Við höfum heyrt að þið hafið hug á því að stækka? „Það er langþráður draumur að rætast en við erum að fara opna bar í blóma sem heitir Luna Flórens – þar munu ýmis persónuleg áhugamál mín fá að blómstra. Á þessum bar verða seld blóm, plöntur og önnur fallega smávara eins og kristallar og annað úr kuklheiminum. Við verðum með holla spírusafa og ætileg blóm – við munum svo túlka í kokteilana okkar þegar líða fer að kveldi. Vinkona okkar, matarstílisti með meiru, hún Áslaug Snorra mun koma til með að aðstoða okkur við að undirbúa töfraseyðin sem verða í boði. Þessi staður verður tengdur núverandi rekstri og mun því styðja við hann og bjóða upp á ýmsa möguleika. Svo erum við með nokkrar aðrar hugmyndir sem okkur langar að framkvæma en þá er alltaf spurning um stað og stund.“

Coocoo´s Nest er hlýlegur veitingastaður úti á Granda.

Leggið þið sérstaka áherslu á umhverfisvæna framreiðslu? „Takk fyrir þessa spurningu. Við erum mjög meðvituð um okkar kolefnisspor og þá ábyrgð sem fylgir því að eiga fyrirtæki. Við erum sífellt að læra eitthvað nýtt hvað það varðar og reyna taka fleiri skref í rétta átt. Við flokkum flestallt plast og pappír og erum með lífræna tunnu fyrir matarafganga og fyrir lífrænu servíetturnar okkar. Við flokkum einnig sprittkerti, málmtappana sem fylgja gosinu, allt gler og erum með maís rör í staðinn fyrir plast. Öll þessi litlu skref telja. Einnig lærði Lucas ýmislegt þegar hann vann um tíma á Michelin-stjörnu grænmetisstað á Ítalíu þar sem var lítil sem engin matarsóun og lögð áhersla á að nýta alla matarafganga á frumlegan og bragðgóðan hátt.“

Flest starfsfólk þeirra Írisar Ann og Lucasar hefur verið með þeim meira og minna frá upphafi.

Staðurinn ykkar heillar, er afar sjarmerandi og fangar augað. Getur þú sagt okkur aðeins frá hugsjónum ykkar og lífsstíl? „Okkar hugsjón og lífsstíll er bara að lifa í núinu og njóta augnabliksins.“

- Auglýsing -

Vinsælasti rétturinn? „Það fer alveg eftir því hvern þú spyrð. Brunchinn okkar er sívinsæll en svo eru súrdeigs-pizzurnar okkar, Deli hádegiseðillinn okkar eða Taco Tuesday ekki síðri. Einnig bjóðum við upp á skemmtilegt Happy Hour sem kallast Aperitivo og virkar þannig að þú færð smásmakk með drykknum þínum. Þeir sem þekkja vel til Ítalíu finnst mjög gaman að finna þessa hefð líka hér á landi.“

Framtíðarsýn ykkar? „Á meðan við látum draumana rætast í vinnuheiminum þá er framtíðarsýn okkar að skapa einnig þannig umhverfi að maður geti notið þess að lifa þessu lífi. Mikið er rætt um kulnun þessa dagana og við teljum það mikilvægt að jarðtengja okkur og eyða meiri tíma saman og í náttúrunni. Það er því í framtíðarplaninu að eignast smávegis land þar sem við getum komist meira í kyrrðina og jafnvel þróað sjálfbæran lífsstíl á þeim stað. Við Lucas erum bæði listamenn og myndum vilja hafa svigrúm til að sinna því meira.“

Það er gaman að nefna það að flest starfsfólk þeirra Írisar Ann og Lucasar hefur verið með þeim meira og minna frá upphafi. „Við erum ótrúlega þakklát það. Svo vil ég gjarnan senda kærleikskveðju á fastakúnna okkar og bestu nágranna sem hægt er að hugsa sér. The Coocoo’s Nest er miklu meira en bara rekstur, við erum ein stór fjölskylda,“ segir Íris Ann með bros á vör.

- Auglýsing -

Myndir/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -