Laugardagur 16. nóvember, 2024
-0.6 C
Reykjavik

„Yfirgnæfandi meirihluti krakkana segist geta verið meira þeir sjálfir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sjötíu prósent aukning í þjálfun á ungu fólki hjá Dale Carnegie undanfarna mánuði.

Sylvia Briem Friðjónsdóttir, þjálfari hjá Dale Carnegie. Mynd / Aðsend

„Það hefur verð gríðarleg eftirspurn og við búin að setja á laggirnar aukanámskeið. Það virðist vera eins og ungt fólk hafi meiri tíma núna í þessu ástandi til að velta fyrir sér lífinu og þess vegna hefur það snúið sér af einhverjum ástæðum til okkar til þess að bæta sig og fá tæki og tól til að ná lengra,“ segir Sylvía Briem Friðjónsdóttir, þjálfari og verkefnastjóri hjá Dale Carnegie, þegar hún er spurð út í ástæðuna fyrir þessari aukningu.

Hún segir að ýmsar ástæður séu fyrir því að ungt fólk leiti til Dale Carnegie. Margir vilji efla sjálfstraust sitt og sjálfsöryggi til að takast á við áskoranir daglegs lífs. „Það er auðvitað misjafnt eftir aldurshópum,“ tekur hún fram. „Hluti af krökkunum sem koma til okkar eru til dæmis afrekskrakkar sem gengur vel í skóla og íþróttum og að sinna sínum áhugamálum og vilja leggja sig svo mikið fram í einu og öllu að þau eru orðin stressuð og kvíðin og jafn vel farin að sýna merki um kulnun. Það góða er að þau átta sig sjálf á þessu og vilja gera eitthvað í málunum. Svo er annar vinkill og þar eru krakkar sem vilja verða frambærilegri og takast á við sjálfa sig til að ná lengra.“

„Það er einmitt svo mikilvægt að krakkar haldi félagsfærni og dampi í þessum breyttu aðstæðum, hvort sem það er í námi eða öðru.“

Hjá Dale Carnegie gefist þessu unga fólki tækifæri á því. „Eins og við vitum þá eru miklar breytingar í gangi sem valda til dæmis streitu, kvíða og fleiru og við hjálpum krökkunum að takast á við þær,“ segir Sylvia. „Krakkar í dag eru miklu meira í tölvum en áður og nú eiga þau jafnvel enn minna samneyti við aðra, í hefðbundnum skilningi, vegna áhrifa COVID-19 og eiga erfiðara með að setja sér markmið og ná þeim en það er einmitt svo mikilvægt að krakkar haldi félagsfærni og dampi í þessum breyttu aðstæðum, hvort sem það er í námi eða öðru. Á námskeiðunum hjálpum við þeim að vinna í sjálfstraustinu og kennum aðferðir til að efla framtakssemi og klára hlutina.“

Sylvia segist sjálf hafa sótt námskeið hjá Dale Carnegie þegar hún var unglingur og það hafi reynst sér mjög vel. „Þarna var ég sextán ára, þrátt fyrir að vera sterk félagslega og í handbolta þá hafði ég ekki nógu mikla trú á sjálfri mér stundum og þorði ekki að láta skoðanir mínar í ljós af því ég var svo upptekin af því að þóknast öðrum. Nema hvað þarna fékk ég tól sem hjálpuðu mér að takast á við þetta, öðlast betra sjálfstraust og framkvæma hluti sem ég hafði ekki þorað að gera. Stóra hindrunin í lífinu er nefnilega oft okkar eigið hugarfar og skortur á sjálfstrausti. Þetta eru þættir sem við hjálpum krökkunum að vinna með og það er gaman að segja frá því að yfirgnæfandi meirihluti, eða 98 prósent þeirra sem að koma á námskeiðin okkar, segjast geta verið meira þau sjálf. Það er auðvitað gríðarlegur árangur.“

„98 prósent þeirra sem að koma á námskeiðin okkar, segjast geta verið meira þau sjálf. Það er auðvitað gríðarlegur árangur.“

Spurð hvernig fyrirkomulagið sé á námskeiðunum segir Sylvia þau miðast við fjóra mismunandi aldurshópa. Krakka á aldrinum 10 til 12 ára, 13 til 15 ára, 16 til 19 ára og svo fyrir 20 til 25 ára. Þátttakendur ráði sjálfir hvort þeir taki námskeiðin rafrænt eða mæti á staðinn. „Við pössum auðvitað upp á að allir fái sitt svigrúm og eins að tveggja metra reglan sé virt,“ segir Sylvia létt í bragði og getur þess að allar nánari upplýsingar um námskeiðin sé að finna á www.dale.is/ungtfolk/

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -